Þegar ekið var að Þorlákshöfn tóku íbúar vel á móti FERLIRsþátttakendum. Fornbílum hafði verið stillt upp við bæjarmörkin, öllum boðið þar í sæti og síðan ekið sem leið lá austur að Ölfusárósum – endamörkum FERLIRssvæðisins á Reykjanesskaganum.
Brimaldan lamdi sendna ströndina, en þó ljúfmannlega að þessu sinni. Eftir að góða innöndun sjávarangansins var ekið í inn í bæinn þar sem fjölmennur flokkur fólks á óráðnum aldri beið göngufólksins.
Sagnir herma, að þarna hafi áður staðið bærinn Elliðahöfn, en bóndinn hafi eitt sinn heitið á Þorlák biskup að breyta nafni jarðarinnar þegar hann og áhöfn hans lentu í sjávarháska. Eftir undraverða björgun breytti hann hafninu í Þorlákshöfn. Kirkja heilags Þorláks stóð þar í katólskum sið og þar var öldum saman kunn verstöð.
Undir leiðsögn heimamanna var gengið austur með þorpinu (sem reyndar er orðið að myndarlegum bæ) þar sem gömlu Þorlákshafnarhúsin voru, en var rutt um koll illu heilli vegna hafnarframkvæmda og nýmóðins fiskverkunarhúsa, sem fæstum þykja ásýnileg. Raktar voru sögu og sagnir tengdar hafnarsvæðinu. Gengið var til baka mót vestri hafnarmegin, að – Hraunverbúðunum hinum gömlu. Sést þar móta fyrir tóftum og Þorlákshafnarbrunninum. Gengið var að Ingimundarbyrgi – hól með minjum – og hið mörgum eftirminnilega tún barið augum. Á þeim bletti unnu lítt undirbúnir Þorlákshafnarbúar frækilegan sigur á KR-ingum á sjötta áratugnum. KR-ingunum var vorkunn því þeir höfðu ekki áður spilað á velli alsettum hæðum og hólum og þar sem hallaði undan í allar áttir. Áttavilltir töpuðu þeir leiknum, eins og áður sagði, og þóttust bara sleppa vel frá þeirri raun.
Gengið var að hákarlabyrgi skammt vestar. Þar bar vel í veiði því enn mátti finna þar lykt og leifar af hákarli og brennivíni frá kaupmanninum í Þorlákshöfn – gamalt orðið – en sumum fannst það bara betra þannig.
Haldið var niður fjöruklappir og að Lat. Deilt hefur löngum verið um hvort Latur væri horfinn eður ei. Átti hann að vera stórt bjarg upp á rönd (gömul ljósmynd) í fjörukambinum. FERLIRsþátttakendum fannst ástæðulaust að draga úr þeim skemmtilegu deilum, enda þótt Latur sé nú vel merktur, eins og sést á meðfylgjandi mynd. Hafði hann fallið yfir sig til að auðvelda fjöldamyndatökur.
Gengið var vestur Hafnarberg, framhjá fyrrum sorplosunarstað
Hafnarbúa og síðan áfram vestur Háaberg að Hlein. Þyrsklingsnef bar fyrir sjónir á göngunni – gat í bergið. Segir sagan að menn er réru fyrsta sinni hafi þeir, er komið var á móts við nefið, að sýna hvers kyns þeir væru – með brókarniðurgangi.
Hlein er klettagjá þar sem smáfuglar verpa, auk þess sem gjáin var áður kjörinn staður fyrir ungt fólk er stinga vildi saman nefnjum. Eldra yngra fólkið í ferðinni kunni eflaust sögur af veru sinni á Hlein, en vildi ekki opinbera það – a.m.k. ekki að þessu sinni. Þess í stað var rifjuð upp saga af franskri skútu, sem strandaði þar utan við og “stríð” um strandgóssið hlaust af milli Frakka og Hafnarbúa. Hafnarbúar komust um borð í skútuna undir berginu þegar Frakkar sendu menn úr öðrum nálægum skútum til að reyna að komast aftur upp í hana, en heimamenn hrundu þeirri “árás”, enda þá þegar búnir að slá eign sinni á “rekann”.
Í sagnastundinni var borið fram kaffi og mikið af meðlæti á dúkaðar klappir – allsnægtir af öllu. Örlæti Þorlákshafnabúa og gestrisni verður seint lýst af verðleikum. Reyndar var tekin mynd við Hlein, en á henni sést einungis matur.
Sögð var sagan af því er kvennabósi einn barnaði stúlku í Hlein. Hafði það þann eftirmála að barnið fæddist í Nesi í Selvogi og er eftirminnileg vísa tengt atburðinum. Hún verðu ekki rakin hér, enda verið gert annars staðar. FERLIR endurtekur yfirleitt ekki skráðar heimildir – eltir þær hins vegar einungis uppi og reynir að sannreyna.
Í ferðunum rifjast oft margt upp meðal fróðra. Í þessari ferð var m.a. rifjað upp að kjölfestan (ca. 10 steinar) af danska herskipinu Giöteborg, er standaði á Hraunskeiði árið 1718, væri svo til við dyrnar á Egilsbraut 9 í Þorlákshöfn (þar sem aldnir verða ungir), án þess svo sem að fólkið þar tæki sérstaklega eftir því. Giötheborg var stærsta herskip danska flotans á þeim tíma. Fylgdi það dönskum kaupskipum hingað til lands þeim til varnar. Um 190 manna áhöfn lét úr höfn í þeim guðveiginsbæ Hafnarfirði 15. nóv. þetta árið, en ferðin endaði sem fyrr sagði á Hraunskeiði utan við Þorlákshöfn. Eftir það rak skipið á land. Um 170 mönnum af herskipinu var bjargað og er það talin mesta mannbjörg í sjóskaða á Íslandi fyrr og síðar. Skipverjum var komið á ýmsa bæi um nágrannasveitir. Árið eftir (1719) voru skipverjar sendir utan, en um það leyti urðu ýmsar heimasætur á bæjum þeim, sem skipverjar höfðu dvalið, miklu mun léttari. Hefur danskt blóð jafnan einkennt margan sveitamanninninn þar síðan. A.m.k. hefur Gammel dansk oftlega verið þar í hávegum hafður – þegar hann hefur fengist.
Ljóst er að Þorlákshafnarbúar er miklir höfðingjar heim að sækja.
Veðrið stórkostlegt – lygnt og bjart. Elstu menn (og konur reyndar líka þótt þær sú nú meira inni við) höfðu á orði að slíkt dásemdisveður hafi varla komið áður á svæðinu og þykir það þó með þeim veðursælli á gjörvöllu landinu.
Stórkostlegur dagur með stórkostlegu fólki.
Sjá meira um Þorlákshöfn HÉR.