Tag Archive for: Ölfus

Strandarkirkja

„Einn rigningardag fyrir skemmstu ákvað ég að heimsækja Strandarkirkju og kíkja á Herdísarvík í leiðinni. Er ég renndi þar í hlað var rigningin orðin svakaleg og lamdi bílinn utan. Eins og sannur Íslendingur (eehemm) skoðaði ég nágrennið fyrst, varð hundblautur og veðurbarinn en eftir nokkurn tíma varð ég að láta rigningunni eftir ströndina og kirkjugarðinn og hraðaði mér inn í hlýjuna í kirkjunni.

Strandarkirkja 2007

Strandarkirkja er í Engilsvík í Selvogi. Hún er þjóðfræg vegna almennra áheita og sumir segja ein ríkasta kirkja landsins. Að minnsta kosti hefur hún efnast vel. Prestsetrið var fyrrum í Vogsósum uns brauðið var lagt niður 1907. Kirkjan stendur í landi höfuðbólsins Strandar en það fór í eyði á 17 öld vegna sandfoks. Elstu lýsingar um kirkju á nákvæmlega þessum stað eru frá 15. öld en sú sem nú stendur er frá 1887, en hún hefur verið endurbyggð og er því  nokkuð breytt.

Sú saga er til að sjómenn nokkrir í lífsháska hétu því að gera kirkju þar sem þeir næðu landi ef þeir bara héldu lífi. Þeir komu auga á ljós og er þeir nálguðust land sáu þeir bjarta og fagra veru í flæðarmálinu. Þannig hófst saga Strandarkirkju í Engilsvík. Við kirkjuna stendur nú minnismerki eftir Gunnfríði Jónsdóttur um þennan atburð.

Bjallan í Strandarkirkju

Er ég kom í kirkjuna var mér heilsað á norsku. Þar voru þá staddar norskar mæðgur að bíða af sér rigninguna, verst að ég skil ekki hót í norsku og tala hana enn síður. Það var þó kinkað vingjarnlega kolli og skifst á óskiljanlegum orðum. Dóttirin (sennilega 8-9 ára) skoppaði glaðlega um kirkjuna og dáðist upphátt að öllum fallegu verkunum sem þarna voru. Hún rann upp í kór og kallaði þaðan niður á móður sína, ?hvað allt væri fallegt?, en það skildist mér naumlega á látbragðinu.

Selvogur og Herdísarvík eru vestustu byggðir Árnessýslu. Fjölmenn byggð og útræði var fyrrum í Selvogi. Þangað þyrptust Norskir lausakaupmenn um 1790 til að versla við landsmenn.  Þeir fengu fyrir sig umboðsmenn og einn þeirra var Bjarni Sigurðsson (1763-1833) í Selvogi. Hann kallaði sig seinna Bjarna Sívertsen uppá dönsku og þar hófst kaupmannsferill hans. Hann var sæmdur riddarakrossi í Danmörku fyrir dug og framkvæmdasemi árið 1812. Viti byggður 1919 er í Selvogi.

Til er gömul sögn um risastóran helli, Strandarhelli suðaustan af Vogsósum og var seinast kunnur 1931 er Guðmundur G. Bárðarson greinir frá honum í dagbók sinni. Hann er nú týndur en heimamenn kalla nú hellisskúta einn um 20 metra langan, Strandarhelli. Til eru sagnir um fleiri hella en flestir eru nú týndir.

StaðarkirkjaVestan við Selvog er Hlíðarvatn og úr því fellur ós til sjávar, Vogsós. Við upptök Vogsós eru rústir prestseturins Vogsósa en þar bjó jafnoki Sæmundar Fróða ?séra Eiríkur á Vogsósum? sá landsfrægi og fjölkunnugi klerkur.

Næst brenndi ég til Herdísarvíkur sem er fyrir vestan Hlíðarvatn og var fyrrum stórbýli og fjölmenn verstöð en er nú í eyði. Enn sjást rústir verbúðanna. Þar bjó skáldið Einar Benediktsson (1864-1940) sín síðustu ár eða frá 1932 til 1940. Hann reisti sér þar hús, gaf Háskóla Íslands síðan Herdísarvík 1935 og hefur hún nú verið friðlýst. Hús þetta er nú notað sem orlofshús Félags Háskólakennara.

Ég ók þarna um og skoðaði rústirnar. Stoppaði svo bílinn og steig út. Og varð strax blautur í fæturna enda á götutúttum. Hafði ekki reiknað með vel sprottnu grasinu en það var hundblautt því það gengu skúrir yfir öðru hvoru. Það er sagt að þarna í grenndinni sé ágætt berjaland en ég hafði minnstan áhuga á því, útaf fótrakanum. Ég fékk loks nóg af vatnsgutlinu í skónum, hoppaði upp í bílinn minn og ók í bæinn. Næst ætla ég að hafa sól er ég fer þarna aftur sem vonandi verður fljótlega.“

Hafa ber í huga að hér er um mjög saldgæfa frásögn að ræða – um rigningu á Reykjanesskaga, og það að sumalagi.

Framundan er FERLIRsferð með einum þeim staðkunnugasta í Selvogi. Tilgangurinn er að ganga um svæðið og rissa upp örnefna- og minjakort af svæðinu í heild sinni.

Heimild:
-Skrifað 1.8.2007 kl. 13:10 af Vilmundi Kristjánssyni.

Selvogur - örnefna- og minjakort

Selvogur – örnefna- og minjakort – ÓSÁ.

Kögunarhóll

Gengið var um söguslóðir Ingólfs Arnarssonar á og við Ingólfsfjall.
Kögunarhóll, stundum nefndur Knarrarhóll, er í landi Hvols. Hann er hólstrýta úr móbergi suður af Ingólfsfjalli að vestanverðu. Suðurlandsvegurinn liggur um skarðið milli hóls og fjalls. Þjóðsaga hermir að Kögunarhóll sé haugur sem Ingólfur Arnarson hafi orpið yfir skip það er hann sigldi á hingað til lands. Nafnið Kögunarhóll mun merkja útsýnishóll.

Ingólfsfjall

Ingólfsfjall.

Í heimild frá árinu 1821 segir að “… hier nærst ma teliast Knarar eda Kogunarholl, ad mestu allt um kring grasivaxinn mikid stór holl sem stendur framan undir landsudurs horni a firrnefndu Jngolfs fialli, inn i þennan hól er sagt ad Ingolfur hafi att ad lata skip sitt.” Árið 1840 var sagt að “Í útsuður fyrir neðan fjallið stendur upphár, ávalur, graslaus hóll, aðeins laus við það, en nú nefnist Kögunarhóll, en að fornu var kallaður Knörhóll, og lætur alþýða sér um munn fara, að Ingólfur hafi þar í sett skip sitt.”
Af hólnum er mjög gott útsýni til flestra átta. Sérstaklega hefur vel sézt til mannaferða um Ölfusið, eins og leiðir lágu, áður en gerðir vegir komu.
Gengið var á Ingólfsfjall upp skarð austan Þórustaðanámunnar. Leiðin var greið. Á skarðsbrúninni er varða sem ofar á fjallsbrúninni. Gangan inn eftir fjallinu var nokkuð slétt í brúnum brekkna. Framundan blasti Inghóll við ásamt Leirdalahnúkum.

Ingólfsfjall

Ingólfsfjall.

Inghóll hefur jafnan verið tilnefndur sem legstaður Ingólfs Arnarssonar, hins fyrsta skráða landnámsmanns. Hóllinn er efst á fjallinu, á mörkum Hvamms og Alviðru. Hann er hár, sérkennilegur, jafn vaxinn. Er af sumum hefur hann verið talinn 200 faðmar að ummáli við rætur. Hann er í laginu sem uppmokaður haugur, ólíkur öllum hólum og hæðum sem eru á Ingólfsfjalli. Það er hlaðin grjótvarða á kolli hans. Hann er gerður að mestu úr klöppum og urðargrjóti og ekki líklegt, að menn hafi hlaðið hann upp nema að litlu leyti. Ýmislegt hefur verið skráð og ritað um Inghól.

Ölfus

Inghóll á Ingólfsfjalli.

Árin 1641-42 er skrifað að “kveðið ex tempore yfir haug Ingólfs landnámsmanns, að skipun biskups Brynjólfs, meðan hinir aðrir þénarar hlóðu vörðu yfir haugnum: Stóð af steindu smíði/staður fornmanns hlaðinn/hlóðu af herrans boði/heiðiteikn yfir leiði;/haugur var hár og fagur/hrundin saman á grundu,/en draugur simmur og magur/drundi björgum undir.”
Árið 1703 segir að Inghóll sé þar sem “fjallið er hæst, þó nokkuð norðar en á því miðju, sé haugur Ingólfs Arnarsonar, fyrsta landnámsmanns, mældur við jarðveginn tvö hundruð faðmar í kring, nú graslaus með stórum hellum og mel, sums staðar mosa vaxinn.

Ingólfsfjall

Ingólfsfjall.

Haugurinn sést á allar síður á fjallinu nema að norðan. Magister Brynjólfur Sveinsson reið þangað eitt sinn norðan á fjallið að skoða hauginn, hvern hann lét mæla.”
Um 1750 er ritað að: “Udi Arness-Syssel imod Sydost paa Ingolfsfjeld ligger Ingolf den forste Landnamsmand begraven. Hans Hoj og Gravsted er hojt og stort, som klarligen kan sees af omrejsende Folk, so færdes om Olveset, eller og osterlig i Flooen.”
1821: “Ingholl eda Ingolfs Arnarsonar Haugur; kallast mikid stór griothóll sem stendur nockud vestar enn uppa midiu sokólludu Ingolfsfialli; og er þess hærsti toppur. Vic: lógmadur E. Olafsson, hefr i hans R[ejse]besk[rivelse] sídara parti p:849 skrifad umm þessa Holls stærd. Líkur eru a því; eptir þvi sem su annars mistriggilega Ármans Saga ummgietur; ad Jngolfur Arnarson, sem bio a Reikium i Ólvesi; gamall og blindur þegar Armann kom ut hingad – hafi utvalid sér Legstad i þessum efsta toppi Jngolfsfialls sem Sionar holi; hvadann hann gat yferlitid allt Olvesid og miklu fleiri Hieród; um Jngolf Singur Egiert i Mánamali – “nemur hatt vid Ský haugnuandi –

Ingólfsfjall

Ingólfsfjall – varða

… Sógusógn almuga umm Jngolf er su ad hann hafi latid þræla sina tvo sem nefndust Kagi og Kallbakur og þionustu Stulku sem nefndist Ýma bera giersemar sínar og fiarmuni skómmu fyrir sitt andlat uppi Jnghól og grafa þær þar inni. – hafi sidann drepid óll þessi hiu so þau ecki giætu fra sagt ecki er ad óllu olíkleg sagann; þvi Órnefni ber Jngolfsfiall eptir þessumm Hiuumm, þarsem Jngolfur Hefdi att ad fyrirkoma þeim t d Jmu Skard, Kaga Gil og Kallbakur.“ FF I, 223-24.

Ölfus

Inghóll.

Árið 1840 segir að “Uppi á norðanverðu fjalli þessu er hóll, er kallast Inghóll, og er það almæli, að þar sé heygður Ingólfur landnámsmaður, er fjallið dregur nafn af. Hóllinn er ei mjög stór ummáls og ei merkilegur, ei heldur auðsén á honum mannaverk.”
Árið 1873 segir að “á miðri langri bungu háfjallsins er hóll, – sjáanlegur frá öllum hliðum fjallsins nema að norðan – alveg eins og fornmannshaugur að lögun og einnig stærð að því er virðist; tilsýndar er útlitslíking furðulega mikil; hóllinn nefnist Inghóll. Segir almenn sögn að þar sé heygður Ingólfur fyrsti landnámsmaður Íslands. Sögnin er allgömul, Þórðarbók – og eitthvað svipað virðist gefið í skyn í Hauksbók – bætir viðtexta Landnámu um Ingólf: “Hann var hinn þriðja vetur undir Ingólfsfelli fyrir vestan Ölfusá”, orðunum “þar sem sumir menn segja að hann sé heygður”; … Auðvelt er að komast á fjallið að norðan og að hólnum, og er talið að þá megi sjá, að hann er aðeins gerður af klöpp, grjóti og möl, og öll gerð hans sýnir að hann er náttúrusmíð.”

Ingólfsfjall

Ingólfsfjall og nágrenni – loftmynd.

Brynjúlfur Jónsson ritar um Inghól árið 1898. Þar segir hann að “Inghóll, eða eiginlega Ingólfshóll, heiti hóll sá á Ingólfsfjalli, sem almennt hefir verið álitinn haugur Ingólfs. Á hann að hafa sagt fyrir að jarða sig þar … bað eg Kolbein bónda Guðmundsson í Hlíð í Grafningi, sem eg vissi að hafði skoðað hólinn, að láta mig fá lýsingu á honum, og gjörði hann það góðfúlsega. Svo segir í bréfi hans: “Hóllinn er sporöskjumyndaður, flatur að ofan og liggur í norður og suður. hann er um 55 fet á lengd og 35 fet á breidd að ofan. Á hæð er hann um 40 fet. Alstaðar hallar því nær jafnt út af honum. Mannaverk verða engin séð á hólnum nema varða á suðurenda hans, og virðist mér undirstaðan mjög forn. Efnið í hólnum er mest smágrjót, mosavaxið, þó er norðaní honum stórgrýti nokkuð. Að eins á litlum bletti uppá honum gengur járn nokkuð til muna í hann (um 1 ½ al. þar sem ég komst dýpst). Það var norðan til á honum miðjum, og þar var mosalaust. Hvergi gat ég séð merki þess, að grafið hefði verið í hann. – Inghóll liggur hér um bil á miðju Ingólfsfjalli, og enginn hóll honum líkur að lögun er þar nálægt. Í hólum umhverfis hann er tómt blásið stórgrýti og klappir. Alt fyrir það er Inghóll auðsjáanlega verk náttúrunnar.” Nú hefir mér sjálfum auðnast að koma upp á fjallið og sjá hólinn. Heg eg mjög litlu við lýsingu Kolbeins að bæta. Það er víst að hóllinn er verk náttúrunnar. … En varðan á hólnum er mannaverk, sem ef til vill hefir í fyrstu átt að vera minnisvarði Ingólfs – öllu fremur en leiði hans? – Hún er ferskeitt, nál. 1 fðm. á hvern veg, en nú er hún ekki hærri en manni undir hönd. Auðséð er, að hún hefir hrunið ofan til og hrapað til norðurs, en lausagrjót er þó ekkert utan með henni. Er því líkast að hún hafi fallið ofan í sjálfa sig, og hefir hún þá verið hol innan. Grjótið í henni er fremur stórt. Um vörðu þessa mun séra Stefán Ólafsson hafa kveðið vísuna: “Stóð af steindu smíði”, og hefir hann þá álitið hana leiði Ingólfs. Nú er hún landamerkjavarða.”

Ölfus

Kögunarhóll – Collingvood 1896.

„Styrmir fróði, sem var uppi á 12. öld, segir, að sumir menn segi, að Ingólfur hafi verið heygður í Inghól. Brynjólfur biskup í Skálholti fór upp á Inghól með menn með sér. Þar með Stefán Ólafsson skáld í Vallanesi. Hann orti vísu uppi á hólnum, sem er svona: „Stóðu að steindu smíði, staður fornmanns hlaðinn, hlóðu að herrans boðiheiða teikn yfir leiði. Haugur var hár og fagurhrundin saman á grundu. Draugur dimmur og magurdrundi í björgum undir.“
Einar Arnórsson prófessor heldur því fram, að lærðir menn hafi, allt fram á 17. öld, trúað því, að Ingólfur hafi verið heygður í Inghól. Aldrei hefur annar staður verið nefndur legstaður hans. Er því allt, sem bendir til þess að þar hafi hann verið heygður. Því hafi verið um annan stað að ræða, hefðu þær sagnir að sjálfsögðu getað geymzt, þar sem var um frægasta landnámsmann Íslands að ræða. Bendir því allt til þess, að Ingólfur hafi verið heygður í hólnum.“
Tóftir bæjarins Fjalls eru við suðausturhorn Ingólfsfjalls, en þar á Ingólfur að hafa haft vetursetu á leið sinni vestur með suðurströnd landsins þar sem hann settist að í Reykjavík.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 33 mín.

Heimild m.a.:
-http://www.bokasafn.is/byggdasafn/fornleifaskra
-Stefán Ólafsson: Kvæði I, Kaupmannahöfn 1885, s. 73.
-Halfdan Jónsson, Lýsing Ölfushrepps, SSÁ, 245.
-Jón Ólafsson frá Grunnavík, Antiqvariske Annaler II, 185-86.
-Brynjúlfur Jónsson 1899, 14-15.

Inghóll

Inghóll.

Ferjukot
Gengið var um Kirkjuferju á norðurbakka Ölfusár.
Ölfusá er algerlega vaðlaus, þannig að fyrrum varð að sundríða hana eða nota ferjur. Á 19. öld voru einnig ferjustaðir við Laugardæli og við Óseyrarnes. Kotferjuslysið 1627 er eitt mesta ferjuslys hérlendis. Þá drukknuðu 10 manns. Ferjað var víðar yfir ána og eru fleiri sagnir til um slys og óhöpp á ferðum fólks yfir ána.

Kirkjuferja

Kirkjuferja – loftmynd.

Íslendingar hafa frá upphafi ferðast um land sitt þvert og endilangt. Þau ferðalög hafa oft verið erfið, einkum þar sem torleiði eins og vatnsföll urðu á leið manna. Þá minntust þeir þess gjarnan að oft er betri krókur en kelda og lögðu lykkju á leið sína þar sem því var við komið. Seinna komu fram uppfinningar eins og ferjur og kláfar til að stytta mönnum leið yfir erfiðustu vatnsföllin, sem varasamt eða ómögulegt var að sundríða.
Kaldaðarnes er og var stórbýli austan Ölfusár í Flóa. Ein elzta heimild um staðinn er ferjumáldagi Kaldaðarness frá aldamótunum 1200. Þar er kveðið á um einkarétt Kaldaðarness til ferjuflutninga yfir ána og tvær ferjur voru í rekstri. Önnur var á heimajörðinni gegnt Arnarbæli og hin efri var í ferðum milli Kotferju og Kirkjuferju.

Ölfus

Ölfus umhverfis Ölfusá.

Kaldaðarnes varð snemma kirkjustaður, helgaður heilögum krossi. Kirkjan átti kross, sem mikill átrúnaður hvíldi á. Vegna þessa kross var ævinlega margmenni á staðnum, þó flest á krossmessum vor og haust. Fólkið kom með gjafir með sér sem áheit. Sagnir segja frá því, að pílagrímar hafi flykkzt 50 saman út í ferjuna í einu og hún hafi sokkið í miðri á og allir farizt.
Kirkjuferja er norðan Ölfusár, en Kotferja sunnan hennar. Þegar gengið var um Kirkjuferju var Kirkjuhóll, Völukirkja og Ferjunefið (Ferjunes) skoðað sérstaklega. Handan árinnar heitir Hraknes. Kotferja var við víkina austan þess. Þar má sjá tóftir bæjarins.
Völukirkja er strýtumyndaður hóll, að hluta úr stuðlabergi, með fuglaþúfu á. Kirkjan er kunn úr þjóðsögum sem álfakirkja. Haft er fyrir satt að kona frá Kirkjuferju var á leið til kirkju að Arnarbæli. Átti hún leið fram hjá Völukirkju. Settist hún þar niður til að fara í sokkana. Hún hafði gengið berfætt yfir mýrina og Rauðukeldu. Heyrði hún þá sungið inni í Völukirkjunni. Sálmaversið nam hún, og var það ekki í sálmabók hinnar íslenzku þjóðkirkju. Hjá Völukirkju gengu menn ávallt með mestu virðingu við huldufólkið.

Kirkjuferja

Völvukirkja.

Kirkjuhóllinn er austur á túninu, sunnan vegar. Utan í honum er tún huldufólksins, sem í hólnum bjó.
Ferjunef er klettanef, sem skagar út í ána við mörk Þórustaða. Í skjóli við það var ferjunni lent, þegar ferjað var. Þar sjást enn kengir í klöppum, leifar frá tímum ferjunnar. Einnig eru uppi á bakkanum (á Ferjuvöllum), eða var til langs tíma, einhverjar leifar af byggingum, ef til vill skýli fyrir þá, sem biðu eftir ferjunni.
Segja má að fyrirrennarar nútímasjálfseignarstofnana á Íslandi megi finna allt aftur í fornöld. Þá voru brýr og ferjustaðir stundum eins konar sjálfseignarstofnanir. Ferjur hafa verið notaðar á Íslandi frá örófi alda. Nú hafa brýr víðast gert þær óþarfar.
Frábært veður.

Kirkjuferja

Kirkjuferja Ölfushreppur Árnessýsla – túnakort 1914.

Hellisheiði

Eftirfarandi lýsing á leiðinni frá Reykjavík um Hellisheiði birtist í Eimreiðinni árið 1928:
„Þegar erindum var lokið í Hafnarfirði eða Reykjavík og nógu lengi búið að liggja, var lagt upp og haldið af stað austur upp hjá Lækjarbotnum. Þar mátti fá kaffi — og í það. Síðan var haldið um Vötnin, sem var áfangastaður góður, og annað hvort um hið þá illfæra Svínahraun eða Bolavelli til kolvidarholl-saeluhusidKolviðarhóls. En það var krókur að fara vellina, og þar gengu þá á sumrum mörg og stór naut þeirra Ölfusbænda. Eru til ýmsar sögur af viðureign ferðamanna við þau, því sum þeirra voru allmannýg.
Á Kolviðarhóli hafði verið bygt svo kallað sæluhús haustið 1843, af samskotum úr næstliggjandi héruðum, fyrir forgöngu Jóns bónda á Elliðavatni og fleiri. Hús þetta var kofi bygður úr torfi og grjóti og þakinn torfi. Loft var í honum og á því nokkur flet til þess að liggja í. Niðri var húsið óskift ætlað hestum. Naumast var hús þetta annað en nafnið. Á loftinu var alt skemt, sem hægt var að skemma, áhaldalítið, súð og annað útskorið og krassað, með rispuðum skammaryrðum og klámi, en niðri var aldrei hreinsað, svo hreinasta neyð var að láta þar inn nokkra skepnu.
hellisheidi-221Annars er það mjög furðulegt, hvað ferðamönnum var hætt við að skemma það, sem þeim átti að vera og var til þæginda svo sem þarna átti sér stað, og til skamms tíma hefur borið á, – svo sem að fella niður merkisteina og steina af hættuleg um vegabrúnum. Þegar Guðni bóndi Þorbergsson bjó á Kolviðarhóli, varðaði hann alla Hellisheiði og lét af nærgætni sinni tréhæl norðan í hverja vörðu og festi á hælinn tréplötu með raðartölu, varðanna frá Kolviðarhóli austur á Kambabrún. Var það hinn allra bezti leiðarvísir í dimmviðri, svo menn gátu glöggt vitað, hvar þeir voru staddir, þó viltir væru, ef þeir fundu einhverja vörðuna. En því miður leið ekki á löngu þangað til búið var að kroppa þetta merki úr hverri einustu vörðu.
Árið 1879 var búið að byggja steinhús á Kolviðarhóli, og fenginn maður til að setjast þar að með fjölskyldu. Skyldi hann sjá ferðamönnum fyrir húsnæði og greiða eftir föngum. Fyrsti bóndi þar var Ebeneser gullsmiður Guðmundsson.

Hellisskarð

Gengið um Hellisskarð ofan Kolviðarhóls.

Frá Kolviðarhóli var lagt á Hellisheiði — eða Fjallið, eins og það var venjulega kallað. Afarbratt var upp Hellisskarð, þar sem leiðin lá upp á fjallið að vestan, eins var niður Kamba, niður af því að austan, þar sem vegnefnan hlykkiaðist í ótal krókum niður að Hveragerði. Sjálfsagt var að gera vel að áður en lagt var á þessa kafla. Þótti það snildarlega gert, ef ekki þurfti að gera að aftur á leiðinni, upp eða niður, en langoftast fór annað hvort aftur af eða fram af einhverjum hesti á þessum köflum. Yfir Ölfusið var ekki mjög vondur vegur og ferjan á Laugardælum allgóð. En vegurinn yfir Flóann, eða réttara sagt vegleysan þar, var býsna slæm, sérstaklega kring um Krók og fyrir neðan Vælugerði, eintóm fen og foræði, og stór svæði útvaðin.“

Heimild:
-Eimreiðin, 34. árg. 1928, 1. hefti, bls. 31-32.
Kolviðarhóll

Grænaflöt

Eftirfarandi er úr viðtali sem Jóhann Davíðsson tók við Lárus getur sá síðarnefndi m.a. um svonefndan Sængurkonuhellir í Herdísarvíkurlandi.
Þar segir Lárus: “Ég er fæddur 03.01.1931 í Stakkavík, flutti að GrænaflötBrunnastöðum 29. ágúst 1944. Dótinu var jafnað á hestana, sem voru 6 að tölu. Erfiðlega gekk að koma þessu öllu á hestana því þetta var svo mikið drasl. Við vorum t.d. með 50 hænur. Um 100 kg. fóru á hvern hest. Reiðhestur Einars Ben og farskjóti Elínar, Faxi, voru m.a. notaðir. Ekkert var skilið eftir, en þetta var alls um 300 kg, sem tínt var til. Lagt var af stað frá Stakkavík kl. 10:00 að morgni. Þrjú korter tók að komast upp á Selstíg, en farið var yfir fjöllin og um Grindarskörð. Ekkert var tekið af hestunum á leiðinni, þeir einungis hvíldir á leiðinni. Ferðin gekk mjög vel. Allir báru líka eitthvað. Mamma var t.d. með rokkinn sinn. Pabbi reiddi tveggja ára son Elínar, Svavar. Þegar komið var í Hafnarfjörð kl. 20.00 um kvöldið var staðnæmst á Öldugötunni þar sem tekið var af. Lagt var stað aftur kl. 11:00 morgunin eftir og komið að Brunnastöðum kl. 22:15. Búfénaðurinn var hins vegar rekin út með hlíðunum, um Kerlingadal, Eldborgarskarð, með Veggjum og um Kálfadali uns komið var að Lambatjörn. Þar var hann tekinn á bíl.

Rót

Það var stúlka í Selvogi, líklega í Bartakoti, Litla-Leðri eða  Stóra-Leðri. Hún var mjög lagin við að hjálpa dýrum. Maður kom til hennar í svefni og vakti hana og bað hana að fylgja sér vestur í Herdísarvík til að hjálpa konunni sinni því hún væri þar í barnsnauð, þar í Sængurkonuhelli sem talin var vera í Herdísarvíkurlandi. Hún var í fyrstu hrædd, en þegar hún kom út og sá tvo gráa hesta brá af henni. Fylgdi hún manninum vestur að Grænulaut og gekk þar inn í hellinn. Bjart var þar í stóru herbergi. Þar lá konan sem hafði legið þar í tvo sólrahringa, illa farin. Hún gat bjargað bæði konu og barni vegna þess hversu lagin hún var. Að launum fékk hún skartklæðnað, skautbúning, sem margar konur i Selvogi öfunduðu hana af. Konurnar vildu gjarnan fá klæðin lánuð hjá henni, en hún var nísk á þau. Fór hún jafnan í þeim til Strandarkirkju.
Opið er skammt vestan við Grænuflöt, utan í fjallhlíðinni, þúfa út úr hlíðinni svona ójöfnun, opið blasir við. Hellirinn er mjög gróinn því hann var notaður af útigangsfé sem var mikið notað á veturnar. Opið snýr að sjó. Það sést vel, 1 m á hæð og 1/2 m á vídd. Ég hef ekki farið inn í hann sjálfur. En margir hafa farið inn í hann og þóttu hann rúmgóður.“

MosatáknÍ örnefnalýsingum fyrir Herdísarvík er getið um Sængurkonuhelli, sbr. hjá Gísla Sigurðssyni: „Á brunanum voru svo Ingimundarhæðir og þar upp af Hrísbrekkur, Litla-Hrísbrekka og Stóra-Hrísbrekka. Litlu vestar en Sýslusteinn lá alfaraleiðin gamla um Klifið, sem eiginlega var vestan landamarka. Það nefndist ýmsum nöfnum, svo sem Háaklif, Illaklif og Vondaklif. Nú hefur verið hlaðin varða í Illaklifi, nefnist Klifsvarða. Sunnan yngra hraunsins er hellisskúti, nefnist Sængurkonuhellir. Þar leitaði kona einu sinni skjóls og fæddi þar barn.“
Í annarri lýsingu eftir Gísla segir: „Alfaravegurinn gamli liggur þarna um hraunið um Klifhæð, sem einnig ber eftirtalin nöfn: Klifið, Háaklif, Illaklif og Vondaklif. Nú hefur mikil og stæðileg varða verið hlaðin í Klifið, Klifsvarða, og ofan hennar er svo Sýslusteinn, og liggur (svo) þar um landa- og sýslumörk. Austur af Klifhæð er lítill hellisskúti, nefndur Sængurkonuhellir. Þar var eitt sinn förukona á ferð, dró sig inn í skútann og eignaðist barn.“

Heimild:
-Viðtal Jóhanns Davíðssonar við Lárus Kristmundsson 1. febr. 2006.

Sængurkonuhellir

Herdísarvíkurhraun – Sængurkonuhellir.

Stakkavíkurhraun

Gengið var um Stakkavíkurhraun milli Herdísarvíkurvegar (þjóðvegarins) og strandar.
Áður höfðu Herdisarvikurvegurhinar fornu djúptklöppuðu götur verið skoðar þar sem þær liggja um Hellurnar vestur að Háahrauni. Í örnefnalýsingum er götunum lýst, bæði neðri leiðinni með sjónum og hinni efri. Í annarri lýsingunni er efri leiðin nefnd Herdísarvíkurvegur og sú neðri Stakkavíkurvegur.
Þegar neðri leiðin var skoðuð núna hafði sjórinn sópað stórgrýtinu af hraunhellunni ofan við ströndina svo sjá mátti hvar gamla gatan, ennþá mörkuð í helluna, hefur legið svo til á núverandi bjargbrún áleiðis að Mölvíkurvatni. Þeirri leið er lýst svo: „Milli sjávar og Hlíðarvatns, þar vestur af, liggur klapparhraun mikið og slétt, kallast Hellur. Um Hellur liggja gamlar reiðgötur, enda var þarna um hinn gamla alfaraveg að ræða. Reyndar eru þeir tveir; liggur annar neðar. Alfaravegurinn neðri liggur um klappirnar því nær niður við sjó, og eru markaðar götur í klappirnar allt vestur að Draugagjám, þar hverfa þær undir brunahraun.  Svo segja Selvogsingar, að götur þessar stefni í sjó fram í Draugagjár og liggi upp á Alboga.
Við götur þessar upp af Happasælaviki er Hundaþúfuhóll, sem allt eins er kallaður Hulduþúfuhóll.  Þaðan liggur gatan um klappirnar ofan við Bergdali. Alfaravegurinn efri liggur um Hellurnar upp á brunann allmiklu ofar.  Gata þessi er ekki eins glögg og hin neðri, en aftur á móti er hún vörðuð Helluvörðum allt austur á Víðisand.“
MolvikurvatnEfri leiðinni, Herdísarvíkurvegi er lýst svo: „Frá bæjarhliðinu lá vegurinn heiman frá bæ og um hlið þetta, austur með Túngarði, framhjá Kátsgjótu, með Langagarði, um Herdísarvíkurbruna og áfram austur, milli Fiskigarðanna á Brunanum, um Mölvíkurklappir, yfir Háa-Hraun vestra og yfir brunann og niður á Hellurnar ofarlega og austur þær, upp Sandhlíð og upp á Háahraun eystra (sem er annað nafn á Stakkavíkurhrauni), um gróna sléttu litla í Hrauninu, Hvítubakka, um Borgartungur ofanvert við Fjárborgina og niður á Flötina og á Stakkavíkurveg.“

Herdísarvíkurgötur

Herdísarvíkurgötur. ÓSÁ

Báðar göturnar, sú neðri og sú eftir, eru mjög vel greinilegar enn þann dag í dag. Greinilegt er að báðar hafa í fyrstu þjónað fótgangandi vegfarendum, en síðar hafi efri leiðin verið gerð vagnfær. Enn má sjá sporrennuna í henni víðast hvar. Þá sést hvar Borgin hefur verið í Borgartungum. Slóði liggur að svæðinu þar sem Borgin var, notaður til að fjarlægja grjótið úr henni, væntanlega undir þjóðveginn.
Gengið var fram á greni austan við Háa-Hraun. Nýleg tófuspor voru allt umleikis.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 3 mín.

Herdísarvíkurleið

Herdísarvíkurvegir. ÓSÁ

 

Raufarhólshellir

Í MBL 16. jan. 1955 lýsir prófessor Harold H. Munger ferð í „Raufarhólshelli við Þrengsli„: „Mætti útlendingi leyfast að lýsa einu af náttúruundrum Íslands, sem er ekki eins vel þekkt og það verðskuldar? Ég hef átt því láni að fagna að geta farið víða og líta augum fjölmargar af dásemdum Íslands, þau tæp 2 ár, sem ég hef dvalizt hér á landi. Á feralögum mínum, frá Siglufirði til Hornafjarðar, frá Keflavík til Neskaupstaðar, frá Mývatni til Vestmannaeyja, hef ég litið augum náttúrufegurð, sem ekki á sinn líka í nokkru öðru landi. Af öllu því, sem ég hef séð, er mér gleggst í minni furðuleg fjölbreytni og fegurð dökkglitrandi hraunstöngla og storkinna hraunflóða, sem fólgin eru í djúpum Raufarhólshellis.

Greinin 1954

Í ágúst 1953, var ég í hópi skemmtiferðamanna, sem heimsóttu þennan helli, og fannst mér þá þegar mikið til um einkennilega fegurð hans. Ég spurðist fyrir um uppdrátt af hellinum, en var sagt, að enginn uppdráttur væri til af honum. Síðar heimsótti ég aftur Raufarhólshelli í hópi ungra manna sem voru óðfúsir að hjálpa til við að mæla hann. Uppdrátturinn og myndirnar, sem með fylgja, gætu ef til vill orðið til fróðleiks mönnum, sem ekki hafa komið í hellinn. Vegalengdir voru mældar með fjarlægðarmæli og áttir voru teknar með vasaáttavita. Hvorugt tækið er sérlega nákvæmt, en uppdrátturinn, sem gerður var eftir þessum mælingum, ætti þó að geta gefið sæmilega góða hugmynd um lögun og stærð hellisins. Vegalengin frá hellismunna til innsta enda hans mældist vera 850 metrar, þó þeim, sem brotizt hafa alla þess leið, muni flestum virðast hún vera a.m.k. helmingi lengri.
Raufarhólshellir er hraunhellir um 15 km suðvestur frá Hveragerði í landareign Vindheima. Akvegur liggur að Vindheimum, sem einnig er skólasetur Adventista, og þaðan er gengið upp fjallshlíðina til norðurs. Bezt er að hafa leiðsögumann, því að fátt er um kennileiti. Leiðin er greiðfær og hallinn er ekki nema 150 metrar á 2 km.
Hraunfossinn í RaufarhólshelliHellirinn er 1-10 metra breiður og víðast um 10 m á hæð. Hellisgólfið er víðast þakið grjóti, sem fallið hefur úr þakinu, sennilega í jarðskjálftum. Sums staðar eru grjóthrúgurnar svo háar, að þær ber hærra en upprunalegt þak hellisins. Leiðin liggur þar um hvolf, sem myndazt hafa við hrunið.
Farið er inn í hellinn sunnanverðan um op, þar sem þakið hefur fallið niður. Sennilegt er að hraunstraumurinn, sem rann um þessi gömlu hraungöng, hafi komið fram á yfirborðið í fjallshlíðinni suður eða suðaustur frá opinu. Hraunið hlýtur að vera mörg þúsund ára gamalt, því að það er víða þakið allþykkum jarðvegi og vaxið lynggróðri. Þar sem hraunið er bert, er hvergi að sjá merki þess, að ís hafi gengið yfir það, svo að það hlýtur að hafa runnið eftir jökultímann, sem var á enda fyrir um það bil 10.000 árum.
Vott er í hellinum. Hellisþakið er óþétt og vatn drýpur úr þúsundum sprungna- og hola. Þegar við gengum í hellinn, 14. febr. 1954, var hellisgólfið þakið ís, 200 metra inn frá opinu. Sums staðar höfðu myndast þyrpingar af íssúlum, er sumar voru 40 cm langar. Erfitt er að klifra eftir ísuðum steinum og ekki alveg hættulaust. Hvergi er hægta ð drepa niður fæti nema á hálan ísinn, og hvergi er hægt að taka til hendi, nema á svellótta steinana. Slys gæti fljótlega viljað til, fótbrot eða annað, sem ekki væri auðgert að flytja slasaðan mann e ftir íshálum og ósléttum hellinum. Ísströnglar hanga frá þaki og sillum, sumir allt að 3 metrar á lengd. Á einum stað, meðfram hliðarveggnum, mynduðu þeir samfellt ístjald, 6-7 metra breitt.
Uppdrátturinn 1954Í ágúst 1953 bar lítill ís í hellinum. Ís var einungis næst opinu og víðast hægt að kærækja fram hjá honum. Jafnvel þótt ísinn sé horfinn er erfitt að fara um hellinn fyrri þá, sem ekki eru vanir fjallgöngum. Yfir eintómar grjóturðir er að fara, og víða er svo bratt, að erfitt er að klifra upp. Í hellinum eru yfir 20 stallar, 1-10 metra háir. Margir hafa komið í Raufarhólshelli. Aðeins fáir hafa gengið hann á enda.
Efst greinist hellirinn í þrennt. Auk þess eru á honum smá afkomar, sem viið ekki athuguðum nánar, vegna tímaskorts, Í botni austurgreinarinnar getur að líta óvenjulega sýn, hraunfoss, 2 metra háan og rúmelga 1 meters breiðan, sem virðist hafa storknað snögglega í fullu rennsli. Ekki er auðséð, hvenrig þetta furðuverk hefur myndazt. Ef til vill hefur hraunflóðið kólnað smám saman og ledleðjan orðið seigari og seigari, þangað til hún gat naumast hnigið. Að lokum hefur þunn slæða af seigfljótandi hrauni hangið fram af brúninni og storknað þannig, sums staðar aðeins 5 cm á þykkt. Hér er eins og máttugir töfrar hafi verið að verki, eins og voldug völva hafi galið sinn galdur og „fryst“ eldfljótið í einu vetfangi.
Miðgrein hellisins er ekki merkileg. Suðurgreinin er því undursamlegri. Þúsundir grannra hraunkerta hanga úr þakinu í beinum röðum, þar sem yfirborð eldleðjunanr hefur staðið umstund, þegar hraunflóðið minnkaði smám saman í hellinum. Hrífandi feguðr þessa töfrahellis veður ekki með orðum lýst. Straumar og bárur og iður eldflóðsins hafa bókstaflega steinrunnið og geymzt þannig um þúsundir ára til augnayndis þeim, sem hafa djörfung og dugnað til að koma og sjá.
Rauf-7Einhvern tíma verður hellirinn mældur nákvæmlega, en ekki verður það auðvelt verk. Það verður að gerast í a.m.k. 20 áföngum og víðast verður að ryðja burt grjóti uk að koma fyrir þrífótum undir mælingatæki. Sum staðar verður erfitt að verja tækin fyrir lekavatni. Þrír til fjórir menn gætu lokið þessu veki á viku. Þegar þetta hefur verið gert, mun koma í ljós, að meðfylgjandi uppdráttur er ekki alveg réttur, en hann mun þó gefa sæmilega hugmynd um lögun og stærð hellisins.“
Í stórvirki Björns Hróarssonar, „Íslenskir hellar“ frá árinu 2006, bls. 279-283, er m.a. fjallað um Raufarhólshelli. Við mælingu enskra hellarannsóknarmanna reyndist hann vera 1360 metrar. Leitarhraunið, sem hellirinn er í, rann fyrir u.þ.b. 5000 árum. Hellirinn dregur nafn sitt af hól skammt ofan hans, Raufarhól.

Heimild:
-Harold H. Munger, rófessor – Raufarhólshellir – Lesbók Mbl. 16. jan. 1955.Rauf-10

Heiðin há

Í Lesbók Mbl 7. nóv. 1954 er fjallað um „Heiðina há“ í svonefndu Fjarðafoki:  „Upp af Selvogsheiði er fjarska mikil hraunbunga, sem kölluð er Heiðinhá. Er hún 2030 fet á hæð, geisimikil flatvaxin eldfjallsbunga, lík í lögun og Skjaldbreiður. Hún er hlaðin upp úr óteljandi gömlum hraunalögum suður af Bláfjallahlíðum. Efst á heiðinni markar fyrir gígum, sem öll þau fjarskalegu hraun hafa komið úr. ÚtsýniGígurinn er nú fullur af hrauni, em hefir verið afar stór, sem sjá má af leifum þeim, sem standa af gígröndinni. Það eru dálitlir hraunhnúkar sem standa í hring og hefir gígurinn verið allt að 100 faðmar að þvermáli.
Við riðum upp á sjálfa heiðarbunguna og útsjónin var ágætlega fögur. Landið lá eins og uppdráttur fyrir fótum okkar, allt austur í Eyjafjöll og norður yfir Faxaflóa. Sunnanlands undirlendið allt og stórárnar sáust einkar vel, eins og grænn dúkur með silfruðum hríslum. Vestmannaeyjar lyftust upp af hyllingunni og Snæfellsjökull norðan við flóðann blasti við eins og fagur og hann er vandur. Langt uppi í landi „rís Skjaldbreiður við himin og jöklarnir með hvítleitum bjarma“. (Þorv. Thoroddsen)“
Eldstöðin Heiðin há er af dyngjuætt og er mest eldstöðva á Reykjanesskaganum. Hraun frá henni þekja um 170 ferkíómetra og rúmmál þeirra um 6,8 rúmkílómetrar, en það er ríflega helmingur af hrauninu sem rann í Skaftáreldum 1783. Ekki ber mikið á gígnum sjálfum en þó eru á börmum hans háar hraunstrýtur sem sýna nokkurn vegin útlínur hans. Hæðin er 613 m.y.s.

Efsti hlutinn á Heiðinni há

Auk Brennisteinsfjalla sjálfra, tekur Brennisteinsfjallakerfið yfir Bláfjöll og Heiðina há en sprungurein þess nær til sjávar austan Krýsuvíkur. Norðan Bláfjalla ná sprungur og misgengi langt inn á Mosfellsheiði. Meðal myndana frá jökulskeiðum eru Langahlíðin sem er að stofni til gríðarstór stapamyndun. Brennisteinsfjöllin og framhald þeirra til norðausturs, hryggur sem nær norður í Kristjánsdalahorn, eru móbergsmyndanir. Bláfjöllin sjálf eru að verulegu leiti úr bólstrabergi og breksíu en víða með grágrýtishettu (Jón Jónsson, 1978). Hvalhnúkur, Austurásar og Vesturásar ná 7-8 km til suðausturs út frá Bláfjöllum og virðast vera framhald þeirra, að miklu leyti grafið í yngri hraun. Eldvirkni á nútíma hefur verið allmikil. Stóru dyngjurnar Heiðin há og Leitin tilheyra Brennisteinsfjallakerfinu. Veruleg eldvirkni varð á fyrstu öldum Íslandsbyggðar og runnu þá m.a. hraun niður í Selvog og niður í átt að Heiðmörk auk þess sem Svínafellsbruni varð til. Mikil misgengi eru norðan Brennisteinsfjalla en mun minna ber á þeim í Bláfjöllum.
Dyngjan, sem heiðin há, stendur á, liggur utan í Bláfjöllunum og hefur á kafla kaffært framhald þeirra til suðvesturs að Austurásum. Mögulegt er að hraun frá Heiðinni há hafi fyllt 100-200 m dæld í landið umhverfis Geitafell en það mun vera þykkt hraunanna við fjallið. Eldri hraun, nú grafin, kunna að hafa fyllt slíka dæld við upphaf nútíma áður en Heiðin há varð til.“

Heimild:
-Lesbók Mbl. 7. nóv. 1954.
-raunvís.hi.is

Brennisteinsfjöll

Meitlar

Sigurður Kristinsson skrifaði um „Meitlana“ í Morgunblaðið árið 1990:
meitlar - kort„Séður norðaustan frá, t.d. frá Hveradölum, virðist Stórimeitill (521 m) vera töluvert hamrafjall, en svo er þó aðeins á þá hlið, því hann er aðliðandi til annarra hliða. Suður frá honum er lægri háls (360 m) sem tengir hann við Litlameitil (467 m). Þeir eru báðir úr móbergi. Líta má á þá ásamt Stakahnúk og Gráuhnúkum sem einstakt fjall umlukið hraunum. Vestan að þeim öllum er samhangandi brekka um 80 m há. Undir henni miðri heitir Stórihvammur. Vestan í Litlameitli er klettur sem heitir Votaberg, oft dökkur af raka á sumrin. Við suðurenda hans eru friðlýstar rústir af seli frá Þorlákshöfn.
En Stórimeitill er allt öðruvísi en fjöllin í kring og á vart sinn líka. Gígur er ofan í koll hans a.m.k. 50 m djúpur og er snarbratt nema þar sem skarð er að norðanverðu. Sést gígurinn hvergi fyrr en komið er á brún hans. Skarð er í norðurbrún gígsins og virðist sem hraun hafi runnið þar út. Þetta gefur Stórameitli vissan eldborgarsvip að hluta. En hann er til orðinn á ísöld og því er hvergi laust gjall þar að finna. Fyrir neðan skarðið í gígnum er lítill dalur og nær hann að Gráuhnúkum. Hann heitir því einkennilega nafni Stóridalur, en réttara væri að nefna hann Stórahvamm.
Besta gönguleiðin á Stórameitil er að fara upp eftir dálitlu viki sem gengur inn í brekkuna áðurnefndu skammt fyrir sunnan Stakahnúk.“

Heimild:
-Morgunblaðið 17. mars 1990, bls. 12.

Litli-Meitill

Litli-Meitill.

Kambar

Steindór Björnsson frá Gröf skrifaði í Tímann 1958 um „Gamla veginn um Kamba„:

Hellisheiðarvegur-221

„Um all-langt árabil, máske aldabil, hefur vegur legið yfir Hellisheiði, en lengst af, allt þar til lagður var akvegur yfir heiðina á síðasta tug 19. aldar, lá hann norðar en nú er yfir heiðina, þar sem snjór var lítið til farartálma. Kom sá, vegur austur af heiðinni- rétt norðan við norðari Kambinn. En Kambar heita 2 hamra-hnúskar í norður af hamrabeltunum í  Núpafjalli. Síðan lá þessi gamli vegur nærri því beint niður Kambabrekkurnar. Akvegurinn var látinn koma fram á norðari Kambinn, — á þeim kambinum stendur nú útsýnisskífa Ferðafélags Íslands —, og síðan lagður í smáum, kröppum krákustíg niður brekkurnar rétt sunnan við gamla veginn. Nú er búið að taka af mestu smáhlykkina ofantil, en við það liggur vegurinn, þegar neðst í efsta sniðinu, norður á Mosana, það heitir hraunhallinn allt frá því skammt norðan við nyrðri kambinn og norður að Hengildalsánni, sem þar fellur austur af fjallinu. Eftir syðstu rönd Mosanna liggur svo vegurinn (þar til hann beygir beint í suður af Ásnum).

Hveragerði

Hveragerði – Hamrinn.

Ásinn er í Ölfusinu (og Hveragerði) kallaður: Hamarinn. Austast undir endanum á Hamrinum voru beitarhús frá Vorsabæ, fyrsta bænum vestan við Varmá. Niðri á lítið eitt bungumynduðum mel neðan við hallann frá fjárhúsunum, var stór hver nokkuð hringmyndaður, en þó ílangur, líkl. um 15—20 x 30 metrar, sporöskjulaga. Vatnið í honum var kyrrt og bláleitt, aðeins komu upp úr því loftbólur öðru hvoru. Vatnið í hvernum hækkaði og lækkaði á víxl með sem næst jöfnu milliibili. Þegar það var hæst, rann austur úr hverum lækur og austur í Varmá, en þegar vatnið lækkaði, þornaði lækurinn. Í hallanum norður af þessum hver, — mig minnir að hann væri kallaður Bláhver, — var eitthvað af litlum hverholum, og dálítið vestur fyrir stóra hverinn, sem sauð og kraumaði í, en ekki man ég til þess að ég sæi þær spýta vatninu upp. Þetta litla hverasvæði hét Hveragerði. Sunnanvert meðfram þessu hverasvæði lá gamli vegurinn yfir lækinn við Blálhver og á vaði yfir Varmá skammt fyrir ofan Reykjafoss. Þaðan um túnið, hlaðið á Reykjum og suður með Reykjafjallinu, rétt ofan við bæjarhúsin í Reykjahjáleigu, og svo áfram austur með fjallinu, alltaf með fjalla-rótunum, því mýrarnar voru ófærar hestum sem vegur.

Hveragerði

Geysir í Hveragerði.

Upp með Varmá í gilinu austan við Hamarinn, var þá, líkt og nú, talsvert af stærri og smærri hveraholum, svo og upp hjá Reykjum (þar sem Litli-Geysir var stærstur og merkastur, þótt lítt sjái fyrir honum nú) og allt inn að Reykjakoti. Á leiðinni til Reykjakots er gosholan Grýta norðan undir austurendanum á Hamrinum. Ekkert af þessum hverum tilheyrðu því svæði, sem þá hét Hveragerði. Þegar menn nú á 3. og 4. tug þessarar aldar fóru að reisa sumarbústaði þarna við jarðhitann og nota sér hveravatnið og gufuna til húsahitunar, voru sumarbústaðirnir sóttir þarna í kringum Bláhver, mest sunnan og austan við hann. Síðan var meira farið að grafa og enn síðar bora eftir meiri hita, eftir því sem byggðin óx og færðist i það að vera fastir bústaðir, þótt byggðin færðist smátt og smátt langt út fyrir takmörk hins upphaflega Hveragerðis, var nafnið teygt út yfir hana.

Hveragerði

Í Kömbum.

Fyrir fáum árum var – þessi nýja byggð klofin út úr Ölfushreppi og gerð að sérstökum hreppi: Hveragerðishreppi. Mun hið litla land, sem hann nær yfir, vera allt tekið úr landi Vorsabæjar (kannske eitthvað lítið eitt, vestast sé frá Yxnalæk mér er ókunnugt um landamerki þeirra bæja), en hvar mörkin eru milli Hveragerðishrepps annars vegar, en Yxnalækjar og Vorsabæjar hins vegar, veit ég ekki. Hitt veit ég, að Varmá skilur Hveragerðishrepp að austan frá Ölfushreppi og að norðan líklegast gömlu landamerkin milli Vorsabæjar og Reykjakots, því að bæirnir Reykir (þar er Garðyrkjuskóli ríkisins),

Kambar

Gamli vegurinn um Kamba.

Gufudalur (sem er fárra áratuga gamalt nýbýli úr Reykjakotslandi), og Reykjakot (þar er Menntaskólaselið) eru allir enn í Ölfushreppi — (ekki í Hveragerði). Þær boranir með stóra bornum, sem nú hafa verið framkvæmdar, eru því í Ölfusi en ekki í Hveragerði. Hitt er önnur saga að eðlilegt er að ókunnugir haldi að öll kvosin þarna á milli fjalla, heyri undir Hveragerðishrepp og taki því svona til orða. Skiptingin, sem nú er, er svo aftaka heimskuleg frá landfræðilegu (og landslagslegu) sjónarmiði. – Reykjavík, 23. sept. Steindór Björnsson.“

Heimild:
-Tíminn 2. október 1958, bls. 6 og 8.

Hveragerði

Hveragerði.