Tag Archive for: Ölfus

Hveragerði

Hveragerði er að mörgu leyti sérstakt samfélag – svo að segja í miðju öðru sveitarfélagi. Í Sveitarstjórnarmálum 1986 fjallar Karl Guðmundsson um „Hveragerðishrepp fjörutíu ára„. Þar segir m.a.:

Hveragerði

Elsti uppdráttur af byggðinni í Hveragerði. Í skjalasafni Búnaðarfélags Íslands sem varðveitt er í Þjóðskjalasafni Íslands er að finna elsta uppdrátt af byggðinni í Hveragerði, líklega frá árinu 1930. Á uppdrættinum má sjá fjögur hús, Mjólkurbú Ölfusinga (Breiðamörk 26), Varmahlíð (Breiðamörk 31), Egilsstaði (Skólamörk 4, gamli barnaskólinn) og rafstöðvarhúsið í Varmárgili.

„Á árinu 1946 var Hveragerðishreppur stofnaður með skiptingu úr Ölfushreppi. Dómsmálaráðuneytið gaf út tilskipun hinn 13. marz það ár þess efnis, að frá og með 1. janúar sama ár væri Hveragerði sjálfstætt sveitarfélag. Í framhaldi þessa var fyrsta hreppsnefnd hins nýja hrepps kjörin hinn 28. apríl, og kom hún saman til fyrsta fundarsins hinn 29. apríl. Hreppsnefndin var skipuð 5 fulltrúum.“

Í Sveitarstjórnarmálum 2016 segir af „Hveragerðisbæ 70 ára„:

Hveragerði

2016 – Hveragerði 70 ára; „Í ár eru 70 ár síðan íbúar í Hveragerði klufu sig úr Ölfushreppi og stofnuðu sérstakt sveitarfélag, Hveragerðishrepp. Ágreiningur um stækkun á þinghúsi hreppsins (nú Skyrgerðin) hrundi af stað atburðarrás sem varð til þess að 24. júlí 1945 fór fram atkvæðagreiðsla um skiptingu Ölfushrepps í tvo hreppa og var hún samþykkt með 95 atkvæðum gegn 85. Skipting Ölfushrepps í tvö sveitarfélög var svo samþykkt af ráðherra 13. mars 1946. Fyrstu kosningar í hinu nýja sveitarfélagi fóru fram 28. apríl 1946. Fyrsti fundur nýrrar hreppsnefndar var haldin daginn eftir 29. apríl 1946 og var því nýtt sveitarfélag orðið til. Hér má sjá mynd af fundargerð fyrsta fundar hreppnefndarinnar en Héraðsskjalasafn Árnesinga varðveitir frumritið.“

„Byggðar við Varmá mun fyrst getið í Fitjaannál fyrir 1700 þar sem sagt er frá tilfærslu goshvers í jarðskjálfta árið 1597. Í lýsingum Hálfdáns Jónssonar, lögréttumanns á Reykjum um Ölfushrepp frá árinu 1703, kemur fram að fólk hafi nýtt hverahitann til þvotta, suðu matvæla og jafnvel baða á þeim tíma. Á fyrsta áratug 20. aldar var nokkuð um svonefnt þurrabúðarlíf eða býli án mjólkurframleiðslu við Varmá. Þessi fyrsta byggð tengdist ullarverksmiðju sem var byggð 1902 og drifin var af vatnshjóli og reimdrifi virkjunar sem byggð var við Reykjafoss. Ullarverksmiðja þessi starfaði fram til 1912 en var þá rifin að öðru leyti en því að grunnur hennar stendur enn. Fyrsta raunverulega byggðin sem um getur varð til um 1929 ef frá er talið þurrabúðarlífið í kringum Varmá. Á þeim grunni var Hveragerðishreppur stofnaður 1946 sem sjálfstætt sveitarfélag út úr Ölfusinu og hreppnum var síðan breytt í bæjarfélag 1987.“

Í Morgunblaðinu 1987 segir Sigurður Jónsson um Hveragerði: „Stöðug fjölgun íbúa síðastliðin 20 ár„:

Hveragerði

Þann 24. júlí 1945 fór fram atkvæðagreiðsla um skiptingu Ölfushrepps í tvo hreppa og var hún samþykkt með 95 atkvæðum gegn 85. Skipting Ölfushrepps í tvö sveitarfélög var svo samþykkt af ráðherra 13. mars 1946. Fyrstu kosningar í hinu nýja sveitarfélagi fóru fram 28. apríl 1946. Fyrsti fundur nýrrar hreppsnefndar var haldin daginn eftir 29. apríl 1946 og var því nýtt sveitarfélag orðið til. Hér má sjá mynd af fundargerð fyrsta fundar hreppnefndarinnar en Héraðsskjalasafn Árnesinga varðveitir frumritið. Framhald fundargerðarinnar má sjá á næstu mynd.

Hveragerði

Framhald fundargerðarinnar er lesa má undir mynd hér að ofan.

„Hveragerði öðlaðist bœjarréttindi miðvikudaginn 1. júlí 1987, samkvæmt nýjum sveitarstjórnarlögum. Hveragerði varð sjálfstætt sveitarfélag 13. mars 1946. Íbúafjöldi í Hveragerði þann 1. desember 1986 var 1462. Íbúafjöldi í Hveragerði hefur aukist jafnt og þétt síðastliðin ár en 1970 bjuggu þar um 800 manns.

Hveragerði

Mjólkurbú Ölfusinga tók til starfa 1. apríl 1930 og því eru 90 ár síðan það hóf starfsemi en það var stofnað árið 1928. Stofnun Ölfusbúsins markaði upphaf byggðar í Hveragerði. Myndin er frá ágúst 1930 og sýnir Mjólkurbú Ölfusinga ásamt þinghúsi Ölfusinga í byggingu, nú Skyrgerðin. – Ljósmynd: Magnús Ólafsson, Ljósmyndasafn Reykjavíkur.

Upphaf byggðar í Hveragerði er rakin til þess að Ölfusingar stofnuðu með sér samvinnufélag um mjólkurbú sem reist var í Hveragerði. Mjólkurbúið lét gera drög að skipulagi og leigði mönnum lóðir. Vorið 1929 voru reist tvö íbúðarhús, Sigurður Sigurðarson búnaðarmálastjóri reisti hús sitt, Fagrahvamm, við Varmá þar sem er elsta gróðarstöðin í Hveragerði. Bóndi úr Ölfusi Guðmundur Gottskálksson reisti hús undir brekkunni og nefndi Varmahlíð og stendur það hús enn. Hann reisti sér þar hús til elliáranna en hann gekk ekki heill til skógar. Í árslok var fjölskylda Guðmundar, 5 manns, sú eina sem skráð var á manntal 1929.
Segja má að upphaf byggðarinnar sé táknrænt fyrir þá byggð sem þróaðist í Hveragerði annars vegar garðyrkjan og hins vegar áhugi að búa sér í haginn á þægilegum stað.

Hveragerði

Ullarverksmiðjan Reykjafoss var starfrækt við samnefndan foss á árunum 1902-1914 og sjást sökklar hússins enn. Verksmiðjunni var valinn þessi staður svo nýta mætti fossaflið til að knýja vélar verksmiðjunnar. Með ullarverksmiðjunni bárust jafnframt ýmsar nýjungar sem ekki höfðu áður sést í sveitum austan fjalls. Árið 1906 var tekin í notkun lítil vatnsaflsrafstöð til lýsingar og árið eftir var sett upp götulýsing frá heimreiðinni og út að þjóðveginum við gömlu Ölfusréttir. Verksmiðjan var reist til þess að vinna afurðir úr íslenskri ull og var tilraun til þess að auka arðsemi ullarinnar og íslensks landbúnaðar.  Ullarverksmiðjunni var valinn þessi staður svo nýta mætti fossaflið til að knýja vélar verksmiðjunnar en einnig vegna þess að Varmá frýs aldrei, sem var mikilsvert fyrir verksmiðju sem átti að starfa allan ársins hring. Framleiðslan gekk þó ekki eins vel og vonir höfðu staðið til en lopi, sem var aðalframleiðsluvaran, þótti ekki henta nógu vel til tóskapar. Þann tíma sem fyrirtækið starfaði var því fremur haldið uppi af framfararhug og góðum vilja manna úr héraðinu en fjárhagslegri getu. Fór svo að lokum að verksmiðjan varð gjaldþrota og var húsið rifið í maí 1915 og selt á uppboði ásamt vélum.

Garðyrkjan og gróðurhúsin hafa verið vaxtarbroddur Hveragerðis. Í kringum gróðurhúsin og blómaræktina hefur þróast mikill ferðamannastraumur sem nú er vaxandi atvinnugrein. Einnig er þjónusta í kringum dvalarheimili og heilsuhæli stór þáttur í atvinnulífinu. Þó undarlegt megi virðast var það ekki jarðhitinn sem laðaði menn að Hveragerði í fyrstu heldur fossinn í Varmá, Reykjafoss. Þar var reist ullarþvottastöð og vatn leitt úr fossinum til að knýja vélarnar. Grunnur stöðvarinnar sést ennþá, einnig stíflan í ánni og rústir fyrstu rafstöðvarinnar sem sett var upp austan fjalls, 1906. Í ullarþvottastöðinni var og greiðasala fyrir ferðamenn, fyrsti vísir þess sem koma skyldi.

Hveragerði

Virkjunin í Varmá. Fyrsta rafstöðin austan fjalls 1906.

Athafnasemin í kringum Reykjafoss stóð í 12 ár og var byggðin í kring alltaf kennd við fossinn. Hús Ullarþvottastöðvarinnar voru rifin 1915.
Meginatvinnuvegur í Hveragerði hefur ávallt verið garðyrkja. Gert er ráð fyrir að hlutfall garðyrkjunnar í atvinnulífinu sé nú 15%. Gróðurhúsin eru hituð upp með gufu sem fengin er frá hverasvæðinuí miðju bæjarins. Þar og í hverasvæðum í kring er gífurleg orka til staðar.

Hveragerði

Konur við þvotta við Bakkahver í Hveragerði árið 1934. Bakkahver var virkjaður árið 1930 fyrir Mjólkurbú Ölfusinga. Steypt var yfir hverinn nokkurs konar hjálmur og hann þannig virkjaður. Tvö fjögurra tommu rör lágu frá hvernum og í mjólkurbúið, annað fyrir heitt vatn sem lá neðst á hjálminum og hitt fyrir gufu sem var efst. Voru rörin vel einangruð með samtals um 30 cm lagi af hveraleir, mómylsnu, tjörupappa og koltjöru til að sem minnstur hiti tapaðist á leið í búið. Hveravatnið var notað ásamt upphituðu köldu vatni til að gerilsneyða mjólk. Gufan var notuð til þess að sjóða mysuost. Vatnið í Bakkahver var nálægt 100° C heitt á yfirborðinu og um 102° C á 1,5 m. dýpi. Rennsli Bakkahvers var um 2 lítrar á sekúndu. Steypuhjálmurinn er nú horfinn og Bakkahver ekki lengur virkur. Ljósmyndin er úr Þjóðskjalasafni Hollands.

Þjónusta á heilsuhælum og við elliheimili er um 15% í atvinnulífinu en Hveragerðis hefur lengi verið getið í tengslum við náttúrulækningar og þjónustu elliheimilisins. Hlutur iðnaðar í atvinnulífinu er um 15%. Aðallega er um að ræða minni fyrirtæki. Eitt öflugasta og þekktasta iðnfyrirtækið er Kjörís sem verið hefur í stöðugum vexti undanfarin ár.

Hveragerði

Barnaskólinn í Hveragerði.

Opinber þjónusta hefur farið vaxandi í Hveragerði og staðurinn fyrir löngu orðinn þjónustubær. Hlutfall opinberrar þjónustu nemur 35% í atvinnulífinu og önnur þjónusta svo sem þjónusta við ferðamenn er um 20%. Ferðaþjónustan hefur vaxið gífurlega í Hveragerði og eru þar öflugir máttarstólpar, Eden, Tívolíið, Blómaborg, Hótel Ljósbrá og nú síðast Hótel Örk.

Hveragerði

Hveragerði – mörk umdæmisins 2020.

Hjá hinu nýja bæjarfélagi sem er í örum vexti eru mörg verkefni framundan. Það helsta er nýbygging við Grunnskólann sem hýsa mun alla starfsemi skólans. Gagnfræðaskólinn í Hveragerði hefur verið í leiguhúsnæði og mun nýja húsnæðið leysa mikinn vanda. Áformað er að koma skólanum í notkun fyrir haustið 1988. Hann á allur að geta hýst 500 nemendur í 10 bekkjardeildum.

Hveragerði

Hveragerði á efri frumbýlisárunum.

Átak í gatnagerð er meðal þess sem framundan er. Gatnakerfið í Hveragerði er óvenju langt, rúmir 16 kílómetrar. Ástæða þess eru hverasvæðin og gróðurhúsabyggðin í bænum sem taka mikið landrými. Til samanburðar má nefna að í Þorlákshöfn er gatnakerfíð í kringum 8 kílómetrar. Búið er að leggja bundið slitlag á helming gatnanna í Hveragerði og verður ein gata tekin fyrir í sumar. Þá er verið að gera nýja knattspyrnuvöll í Reykjadal en uppgangur er í Hveragerði á íþróttasviðinu.“

Skáldagatan hefur aðdráttarafl
Kristmann Guðmundsson„Andans gata er til í Hveragerði og ber hún nafnið Frumskógar. Þar hafa margir andans menn átt heima, má þar nefna skáldin Jóhannes úr Kötlum, Kristmann Guðmundsson, Kristján frá Djúpalæk, sr. Helga Sveinsson, Gunnar Benediktsson og Ólaf Jóhann Sigurðsson.
Aðrir, sem búið hafa við götuna, eru Gunnlaugur Scheving listmálari og Ríkharður Jónsson átti þar sumarbústað. Þessi gata er gjarnan kölluð Skáldagata og hverfið listamannahverfi Hveragerðis. Í næstu götum bjuggu til dæmis Höskuldur Björnsson listmálari, Arni Björnsson tónskáld, Hannes Sigfússon og Kári Tryggvason. Einnig ólst Bergþóra Arnadóttir lagasmiður og söngkona upp í þessu hverfi.
Gatan hefur mikið aðdráttarafl og er snyrtileg. Gísli Sigurbjörnsson, forstjóri Grundar, hefur látið sér annt um viðhald húsa þar en Grund á velflest húsin við götuna.
Hópar, sem leið eiga um Hveragerði, vilja gjarnan fara um þessa götu og hópur kvenna kom þar við fyrir skömmu og gerði sérstaka kröfu um að sjá hús Kristmanns Guðmundssonar.“

Í Sunnudagsblaði Vísis 1942 skrifar Kristmann Guðmundsson um „Hveragerði, Sveitarþorpið, sem vísir til framtíðar hins nýja Íslands„:

Hveragerði

Séð yfir Fossflöt við Reykjafoss um 1940. Tjaldbúðir hermanna í forgrunni, líklega kanadísku hersveitarinnar Fusiliers Mont Royal sem hafði aðsetur í Hveragerði á bökkum Varmár sumarið 1940.

„Einu sinni s.l. sumar gekk eg með miðaldra manni, útlendum, um Hveragerði. Hann var hugsjónamaður mikill, og hafði fest yndi við þetta land, sem er erlendu fólki oftast erfitt í fyrstu, sökum auðna og hrjósturs. „Í þessum fjallkrika“, sagði hann, „í þessu „alpvesi“ er framtíð hins nýja Íslands að bruma.“

Hvveragerði

Hveragerði á hernámsárunum.

Hann hafði rétt fyrir sér. Hér í Hveragerði mun upp rísa fyrsta og mesta landhúnaðarborg Íslands. Og að fimmtíu árum liðnum mun hún ná alla leið til Þorlákshafnar, sem þá verður stærsta höfn landsins, og miðstöð allra viðskipta við útlönd; en óslitið þéttbýli nær þá yfir alla Rangárvallasýslu! Dagar hirðingjabúskapar á Íslandi munu senn taldir. Á næstunni munu tugir þúsunda af ungu fólki leita úr andstyggð borgarlífsins. og vígja líf sitt gróandanum, í tvennum skilningi! Vér höfum nú um skeið verið á bullandi „túr“ í annarlegri kvikmyndamenningu, pólitískum grillum, búðarlokufínheitum, og öðrum óþverra sem hingað hefir skolast. Gleði- og menningarþorsti margra gáfaðra hirðingjakynslóða hefir farið með oss í allskonar gönur. Vér stigum úr móbíl miðaldanna, upp í nýtízku flugvél framtíðarinnar, og því engin furða þó á oss rynni, fyrst í stað. En vér höfum fyrr siglt krappan sjó, og náð þó höfn, heilir að mestu.

Hveragerði

Hveragerði 1967.

Svo mun enn verða. Eg sé ekki ástæðu til að bera kvíðboga fyrir framtíð íslenzks kyns, og íslenzkrar tungu, þó að nokkur þúsund erlendir hermenn dvelji hér með oss um hríð. Sú raun, sem vér nú þolum, er ekki meiri en það, að hún mun verða oss til blessunar, ef vér erum þeir menn, sem vér sjálfir höfum lengi gumað af. Og ef svo er ekki, ef vér erum lubbar og aumingjar, þá er ekki nema vel farið að vér hverfum í deiglu sköpunarinnar! En það er undir oss sjálfum komið, og því má enginn ábyrgur Íslendingur gleyma!

Hveragerði

Sundlaug í Laugaskarði – Sundlaugin í Laugaskarði um 1940. Sundlaugin var byggð eftir teikningum Jóns Gunnarssonar verkfræðings en búningsklefarnir sem sjást á myndinni eftir teikningum Þóris Baldvinssonar, en nokkru seinna var byggð lítil íbúð fyrir forstöðumann vestanmegin við klefana. Sundlaugin var í fyrstu rekin sem sjálfseignarstofnun á vegum Ungmennafélags Ölfushrepps með styrk frá ríki og sveitarfélögum. Ölfushreppur og Hveragerðishreppur tóku síðar við rekstrinum en lengstum hafa Hvergerðingar annast rekstur og viðhald laugarinnar. Þegar Hveragerðishreppur var stofnaður út úr Ölfushreppi árið 1946 var sundlaugin látin fylgja Hveragerði.

Eg vil leyfa mér að skjóta hér inn atriði, sem er ekki beinlínis tilheyrandi því efni sem þetta greinarkorn á að fjalla um. Ef menning vor þolir ekki þá þrekraun, sem sambúðin við erlent setulið, og allt sem stríðinu fylgir, hlýtur að hafa í för með sér, þá skulum vér að minnsta kosti ekki láta eftir oss þann lúalega ræfilsskap, að kenna kvenfólkinu um það! Ef piltar vorir hefðu ahnennt tamið sér prúðmennsku og siði hvítra manna, í stað allskonar hornrónaháttar, sem hér er landlægur, þá hefði vissulega aldrei þurft að skipa neina nefnd til viðreisnar íslenzku kvenfólki!
Nei, vinir góðir, skipið heldur nefndir sem vinna að því, að gera mönnum kleift að græða og rækta þetta óviðjafnanlega fagra land! Einblínið ekki á hættur og erfiðleika, skapið yður umfram allt ekki grýlur, málið ekki andskotann á vegginn! Segið við sjálfa yður hið sama og engillinn sagði við kerlinguna, sem horfði hugstola á ljá þá hina miklu, er hún skyldi raka:
„Horf þú ekki á ljá þína langa,
láttu heldur hrífuna ganga!“

Hveragerði
Hér er yfrið nóg að vinna. Setjið þennan margumtalaða stríðsgróða í ræktun og uppbyggingu nýrra sveitabýlahverfa, fyrst ekki er hægt að kaupa fyrir hann skip! Stríðsgróðinn verður yður hvort sem er því aðeins til blessunar, að hann sé notaður í þjónustu gróðurs og lífs! Annars verður hann ólánið einbert! — Fylgið dæmi Hveragerðinga, og skapið ný verðmæti handa framtíðinni, fyrir það fé, sem berst yður í hendur sökum niðurrifs og eyðilegginga annarsstaðar í heiminum. Þá mun það aldrei svíða hendur yðar, og þér finnið aldrei af því þann þef blóðs og tára, sem við það er bundinn!
Hér í Hveragerði er handagangur í öskjunni. Eftir því sem eg kemst næst, á að byggja hér 25—30 gróðurhús á þessum vetri og 20 íbúðarhús. Illlendismóar, sem legið hafa gagnslitlir um þúsundir ára, eru rifnir sundur með traktorum, og úr þeim skal á sumri komanda vaxa lífsþróttur og hamingja til handa börnum þessa lands!

Hveragerði

Hverahvammur – Einstök mynd af Hverahvammi í Hveragerði, þar sem nú er hótelið Frost og funi og veitingastaðurinn Varmá. Óljóst er hvenær myndin er tekin, en ekki er ólíklegt að hún sé tekin snemma á fjórða áratug 20. aldar.

Jarðhitinn, sem allt fram að þessu hefir unnið óbundinn í þjónustu eyðingarinnar, er færður í fjötra og látinn mala gull og gæfu bornum og óbornum. Á hrjóstrum íslenzkra móa vaxa rósir og nytjajurtir, sem auka fegurðina og efla lífskraftinn. Þetta er að vinna í þjónustu lífsins, mínir elskanlegir, þetta er að byggja upp án hiks og æðru, hvað sem hrynur og brotnar í kringum mann. Í þessu starfi liggur einn af sterkustu þáttum framtíðar vorrar, heilla og hags. Í móðurfaðm náttúrunnar eigum vér að sækja endurnýjungu kraftarins, gleðinnar, ástarinnar, alls þess sem gerir oss heila og sterka, og veitir oss þrótt til að vinna bug á hverju því mótlæti sem oss er ætlað.

Hveragerði

Fagrihvammur – Fagrihvammur í ágúst 1930. Íbúðarhúsið á myndinni brann en núverandi íbúðarhúsi í Fagrahvammi var reist árið 1933. Við árbakkann sést fyrsta gróðurhúsið í Hveragerði en það var alls 45 fermetrar og í því voru fyrst um sinn ræktaðir tómatar og blóm.

Lífskjör þjóðarinnar þurfa að komast sem fyrst í heilbrigðara horf. Vér erum bændaþjóð, en búskapur vor er orðinn á eftir tímanum, og vér flykktumst í kaupstaðina úr fátækt og fásinni sveitanna. Vér fórum þangað í gæfuleit; manneskjan er ávallt að leita að gæfu sinni. En grunur minn er sá, að almenningur íslenzkur finni ekki gæfu sína í borgum, og hvar er hennar þá að leita? Ætli hún sé ekki einmitt í sveitunum semvér yfirgáfum, í samstarfinu við hið skapandi líf, í hollu erfiði daganna og draumlausri hvíld næturinnar? Ef til vill er hún í því fólgin að sjá börn vor vaxa upp í félagsskap við jurtir og dýr, og sjá á andlitum þeirra hinn hreina svip heilbrigðinnar?

Hveragerði

Spegillinn – Forsíða skoptímaritsins Spegilsins frá júní 1947. Á myndinni er gert góðlátlegt grín að fjölda hvera sem mynduðust í Hveragerði í kjölfar eldgoss í Heklu sama ár. Á myndinni má sjá nokkra þjóðþekkta menn sem bjuggu í Hveragerði á þeim tíma. Talið frá vinstri Jónas Jónsson frá Hriflu sem átti sumarbúðstað á Reykjum, Kristmann Guðmundsson, Jóhannes úr Kötlum, Kristinn Pétursson og sr. Helgi Sveinsson.

Mér hefir þótt það sérstaklega eftirtektarvert hvað fólkið hérna í Hveragerði er ánægt að sjá. Það á sér efalaust sínar sorgir, hjá því verður ekki komizt í henni veröld, en almennt séð, virðist vera meiri vellíðan hér en annarsstaðar, þar sem eg þekki til. Skyldi það ekki koma til af því, að menn eru hér í starfi sínu sifellt í nánu sambandi við móður Náttúru?

Hveragerði

Berklahæli – Í þessu húsi á Reykjum í Ölfusi var starfrækt heilsuhæli fyrir berklasjúklinga árin 1931-1938. Samhliða því var rekið stórt kúabú og garðyrkjustöð. Eftir að berklahælið hætti var húsið notað undir starfsemi Garðyrkjuskóla ríkisins sem tók til starfa árið 1939. Á sjöunda og áttunda áratug síðustu aldar voru tekin í notkun ný hús undir starfsemi Garðyrkjuskólans og var því húsið ekki lengur í daglegri notkun. Árið 2005 var gamla berklahælið notað fyrir slökkviliðsæfingar og brennt til grunna.

Hveragerði er ekki staður fyrir svokallaða „snobba“. Hér þrífst engin „buxnavasamenning“, eins og einn Hveragerðingur hefir komizt að orði. Hér er unnið, og unnið vel! Aðra eins blómgun í einu þorpi hefi eg aldrei séð. Þetta er góður staður fyrir skáld, sem vilja vera í stöðugu sambandi við hið lifandi líf! Enda eru nú skáld og aðrir listamenn sem óðast að flytja hingað búferlum, og vel sé þeim! Hér ríkir andi samstarfs og hjálpsemi; vér erum allir verkamenn í víngarði Drottins, og skiljum nauðsyn hvors annars. Þeir, sem ætla sér að okra á náunganum, eru hér illa séðir og munu aldrei þrífast. Enda höfum við ekki haft marga þesskyns fugla hérna. Sá eini, sem mér vitanlega hefir reynt það, komst skjótlega að því, að almenningsálitið var honum ekki hliðhollt!

Hveragerði

Garðyrkjuskólinn gamli.

Það eru ekki nema tólf ár síðan fyrsta býlið var reist í Hveragerði. Þá byggði Sigurður heitinn Sigurðsson búnaðarmálastjóri Fagrahvamm. Þar situr nú sonur hans, Ingimar, og er garðyrkjustöð hans hin stærsta innan þorpsins: fimmtán hundruð fermetrar undir gleri. Enn stærri garðyrkjustöðvar eru þó á Reykjabúinu, og í Gufudal. Pálmi Hannesson réktor hefir og snotra garðyrkjustöð í Reykjakoti, þar sem Menntaskólaselið er. Í Gufudal býr Guðjón Sigurðsson, mikill dugnaðarmaður; eru þar um álján hundruð fermetrar undir gleri, og hefir hann byggt það allt upp á fimm árum. Í Fagrahvammi er trjáræktarstöð blómleg, hjá Ingimar Sigurðssyni, og er mikil prýði að henni í þorpinu.

Hveragerði

Hellisheiði – Snjóþyngsli á Hellisheiði, líklega á fjórða áratug síðustu aldar. Oft var Hellisheiði lokuð frá nóvember fram í maí vegna ófærðar. Snjór var mokaður í fyrsta skipti á Hellisheiði vorið 1927, með handskóflum, en ruðningur með stórtækari vinnuvélum hófst ekki fyrr en á árum síðari heimsstyrjaldar.

Auk þess, sem eg þegar hefi nefnt, eru 14 garðyrkjustöðvar í Hveragerði, og útlit fyrir að annað eins verði byggt á næstunni, eða meira. Þorpsbúar eru nú þegar á þriðja hundrað, en þeim mun fjölga talsvert á næstunni, því margir eru í þann veginn að flytja hingað.

Hveragerði

Kambar.

Kaupfélag Árnesinga á grunninn sem þorpið stendur á, en það er almennur vilji Hvergerðinga að ríkið eignist staðinn, og heyrst hefir, að ekkert sé því til fyrirstöðu frá kaupfélagsins hendi. Væri það líka eðlilegast að svo yrði, og að lóðirnar fengjust á erfðafestu. Þá þyrfti einnig sem fyrst að leggja götur og ræsi, því að enn er frumbýlingsháttur á slíku.

Hveragerði

Hveragerði – ferðamannhver.

Hverir og laugar eru nær óteljandi í Hveragerði. Mestir eru Bláhver, Bakkahver og Sandhólahver, en í kringum þá er allstórt svæði óbyggilegt, og hefir það verið afgirt. Goshverir eru nokkrir; þekktastur þeirra er Grýla, sem gýs 20—30 metra i loft upp, en henni miklu meiri er Svaði, er á það til að gjósa all stórkostlega. Hann er uppi í hlíðinni fyrir ofan og austan Varmá. Jarðhitinn er mjög mikill, og skorpan ofan á honum sumstaðar nokkuð þunn, að því er bezt séð verður. Hefir víða verið borað eftir gufu með jarðborum, og tekist vel. Jarðskjálftar eru tíðir en sjaldan verulegir, hverakippir svokallaðir. S.l. sumar voru þeir þó all snarpir og komu með stuttu millibili í nokkra daga.

Hveragerði

Í Hveragerði má sjá fjórar kynslóðir af þjóðvegum. Núverandi þjóðvegur var tekinn í notkun 1972, þjóðvegur sem var í notkun 1894-1972, Eiríksvegur sem var lagður 1880-1881 og svo gamla þjóðleiðin sem sést á þessari mynd. Gamla þjóðleiðin er aldagömul. Hún er sérstaklega merkjanleg í Hrauntungu fyrir ofan Hveragerði en ágangur í margar aldir hefur grafið djúpa rák í hraunið eins og sjá má.

Náttúrufegurð er mikil í Hveragerði. Úr þorpinu blasir við Ölfusið allt, og ósar Ölfusár, sést þar á sjó fram. Húsin standa skammt frá hlíðum Reykjafjalls, en fagur klettahjalli vestan við þorpið, og fyrir innan hann dalur grösugur og ljúfur.

Hveragerði

Eiríksvegur – lagður um 1880.

Fram úr honum rennur Varmá, en við hana hefir verið byggð rafstöð sem lýsir upp þorpið. Foss er i ánni, fagur mjög, í sjálfu Hveragerði, og er mikil bæjarprýði að honum. Undir klettahjallanum, sem að ofan er nefndur, er falleg hlíð, vaxin víði og blágresi, og mun þar verða lystigarður þorpsins innan tíðar.

Hveragerði

Kvennaskólinn á Hverabakka.

Í Hveragerði er barnaskóli, garðyrkjuskóli og kvennaskóli. Garðyrkjuskólinn er rekinn fyrir ríkisfé, í sambandi við Reykjabúið, og læra unglingarnir þar að yrkja og græða land sitt. Kvennaskólanum veitir forstöðu stofnandi hans og eigandi, Árný Filipusdóttir, sem mörgum er að góðu kunn, fyrir gestrisni, listfengi og fádæma dugnað í starfi sínu. Þá er í Hveragerði stærsta sundlaug landsins. Stjórnandi hennar er þjóðkunnur ágætismaður, Lárus Rist sundkennari.

Hveragerði

Jónas Jónason frá Hriflu 1934.

Uppi í hlíðinni, undir Reykjafjalli á Jónas Jónsson frá Hriflu sumarbústað, ásamt fleiri góðum mönnum. Annar alþingismaður er nýbúinn að byggja sér hús í Hveragerði: Jóhannes úr Kötlum, sem er þjóðinni reyndar kunnari fyrir skáldskap sinn en þingmensku, að hvorutveggja ólöstuðu. Fleiri listamenn eru hér búsettir, og í ráði að enn nokkrir flytjist hingað, og er það vel. Einn dýrmætasti auður íslenzku þjóðarinnar eru listamenn hennar, og hefir aldrei verið meiri nauðsyn til að hlúa vel að þeim en nú. Og hér í Hveragerði myndi þeim líða vel, ef þeim væri gert kleift að eignast hér heimilL og lifa sæmilegu lífi. Vonandi þekkir nú þjóðin sinn vitjunartíma, og sér sóma sinn í því að reisa nú þegar þetta listamannahús, sem lengi hefir verið um talað! Því væri hvergi betur í sveit komið en í Hveragerði, og nú eru til nógir peningar að byggja það fyrir, svo hvað dvelur orminn langa? Er ekki sífellt verið að prédika í blöðum og útvarpi, að oft hafi verið þörf, en nú sé nauðsyn, að styðja og styrkja íslenzka menningu af fremsta megni, vernda málið, og útbreiða þekkinguna á landinu? Hverjir haldið þér að séu líklegastir til alls þessa? Hverjum eiga Íslendingar að þakka tungu sína og þjóðerni, og þar með líf sitt og tilveru? Hverjir hafa verið inn – og útverðir íslenzkrar menningar gegnum aldirnar? Hverjum er það að þakka að Íslendingar njóta þó nokkurrar virðingar meðal þjóðanna? Sérhver dómbær útlendingur myndi svara: Skáld, fræðimenn og listamenn! En farið þér nú að svara því sjálfir, mínir elskanlegir, og svarið því þannig, að yður sé heldur sómi að en skömm.

Hveragerði

Jóhannes úr Kötlum.

Það kveður nú við úr öllum áttum, að nú séu myrkir tímar og kvíðvænlegir, og er það ekki of sagt. En „él eitt mun vera“, eins og Njáll gamli á Bergþórshvoli sagði. Aftur mun Birta, og vér fáum að sjá „upp rísa, öðru sinni, jörð úr ægi iðjagræna“. En á þeirri jörð mun Hveragerðis oft verða að góðu getið, því að hér er framtíð hins nýja Íslands að rísa úr grasi.“

Heimildir:
-Sveitarstjórnarmál. 2. tbl. 01.04.1986, Hveragerðishreppur fjörutíu ára – Karl Guðmundsson, bls. 66.
-Sveitarstjórnarmál, 5. tbl. 01.09.2016, Hveragerðisbær 70 ára, bls. 8.
-Morgunblaðið, 145. tbl. 01.07.1987, Stöðug fjölgun íbúa síðastliðin 20 ár, bls. 26.
-Vísir Sunnudagsblað, 8. blað 12.04.1942, Hveragerði, Sveitarþorpið, sem vísir til framtíðar hins nýja Íslands – Kristmann Guðmundsson, bls. 1-3.
https://www.facebook.com/HveragerdiSightseeing/photos/

Hveragerði

Merki bæjarins – Hreppsnefnd Hveragerðis ákvað haustið 1982 að efna til samkeppni um gerð byggðamerkis fyrir sveitarfélagið. Um 80 tillögur bárust frá 27 aðilum. Í nóvember sama ár var efnt til sýningar á tillögunum og gátu þá allir íbúar, 12 ára og eldri, tekið þátt í skoðanakönnun um val á merki. Hreppsnefnd valdi síðan merki úr hópi tillagna sem flest atkvæði fengu. Höfundur vinningstillögunar var Helgi Grétar Kristinsson málarameistari í Hveragerði. Skjaldarflötur merkisins er í þremur bláum litum. Merkið sýnir gufustrók sem er táknrænn fyrir jarðhitann í Hveragerði. Einnig myndar gufustrókurinn lauf eða smára sem er tákn fyrir garðyrkju- og blómarækt sem sveitarfélagið er þekkt fyrir. Fuglinn í merkinu vísar í þjóðsögu um hverafugla sem syntu á sjóðheitum hverum. Merkið var tekið í notkun árið 1983.

Hlíðarborg
Lengi hefur verið leitað að Selhellum í Selvogi. Ekki hefur verið vitað um staðsetningu þeirra, en í örnefnalýsingu fyrir Hlíð í Selvogi segir m.a.: „Hlíðarsel – heimild um sel – …suður frá [Selvogs]réttunum eru Selbrekkur. Þar á að hafa verið sel frá Hlíð eða Hlíðarsel; ber þó ekki öllum saman. Við Selbrekkur eru Stekkjardældir.“
Sel er undir suðausturhorni Svörtubjarga, sennilega Strandarsel [Staðarsel]. Enn sunnar eru týndar seltóftir og fjárborg. Neðan þessa eru Selbrekkur. Framundan þeim er stór hraunhóll, einn af nokkrum. Við hann eru Selhellar, að sögn heimildarmanns, sem telur sig hafa séð þá af tilviljun er hann var þar á ferð eitt sinn í leit að fé. Hellarnir eru vandfundnir, en við þá má greina mannvistarleifar ef vel er að gáð. Selhellar eru einnig nefndir hellarnir ofan við Stakkavíkursel, en við þá eru hleðslur.
Einnig var ætlunin að skoða óþekktar mannvistarleifar undir Strandardal, hugsanlega hluti tófta bæjar Erlends lögmanns Jónssonar frá 17. öld.
Gengið var austur Hlíðargötu frá Hlíð, áleiðis austur vestanverða Selvogsheiðina undir Hlíðarfjalli. Heimildarmaðurinn, Snorri Þórarinsson frá Vogsósum, var með í för.
Hin gamla Hlíðargata liggur upp á Selvogsgötu (Suðurfararveg) með Kötlubrekkur á vinstri hönd, þar sem Kötluhraun kemur niður hlíð fjallsins.
Í örnefnalýsingu Gísla Sigurðssonar fyrir Hlíð segir m.a. um þetta svæði austur með Hlíðarfjalli:
„Hlíðarfjall byrjar við Urðarskarð, og eru þar landamerki Hlíðar og Stakkavíkur, og nær inn að Katlabrekkuhrauni. Hlíðin, Brekkur, Hlíðarbrekkur og Hlíðarfjallsbrekkur eru brekkurnar inn með fjallinu kallaðar. Einnig eru brekkurnar nefndar Urðin eða Stórurð, en rétt mun vera, að hluti sá, sem stórgrýttastur er, heitir svo, en það er mikil og stórgrýtt urð ofan frá brúnum niður í vatn, nær miðju. Slóðir tvær liggja eftir Brekkunum og eru nefndar Slóðin neðri og Slóðin efri (fyrir vegagerð).
Sprungnaflöt lá milli rústa og Hvolpatjarnar ofan Malarinnar. Skjólbrekka var vestan Hlíðarskarðs. Hlíðarfjallsbrúnir voru brúnir fjallsins nefndar, en þær byrjuðu við Urðarskarð.
Á brúnunum norður og upp frá bænum voru Hamrarnir og voru fjórir móbergsstallar. Hinn vestasti hét Arnarsetur og hinn austasti Skjólbrekkuhamar upp frá Skjólbrekku. Þá tók við Hlíðarskarð með Hlíðarskarðsstíg.
Skútar nokkrir, sem fé leitaði skjóls í, voru uppi undir Hömrunum. Helgutorfa var flöt austan við Hlíðarskarð. Borgaskörð voru skörð í Hlíðarfjall austarlega. Á einum stað milli þeirra var Háhamar. Stekkatúnsbrekkur voru brekkur í fjallinu vestan við Háhamar, og þar hafði verið Stekkur og Stekkatún.
Hlíðargata lá frá Hlíð austur og inn með fjallinu.“
Hlíðargata er enn greinileg skammt austan þjóðvegarins. Skömmu eftir að lagt var stað var komið að tvískiptu heykumli vinstra megin götunnar. Hlaðnar eru tvær tóftir utan í stóran stein, önnur til vesturs og hin til suðurs. Í fyrstu mætti ætla að þarna hafi verið sauðakofar eða -kofi, en þegar fjárskjólið Áni, sem er þarna skammt suðsuðaustar, er skoðað liggur beinast við að tengja rústirnar því. Um opið á Ána er hlaðið á alla vegu. Ef grannt er skoðað í kring má sjá hluta af leiðigarði norðan opsins og sunnan þess. Hleðslan vestan við opið er nýlegri og ein við endann að norðanverðu. Líklegt má því telja að grjótveggurinn að austanverðu við opið hafi verið hafi verið hluti leiðigarðsins og fé þá runnið auðveldlega niður í fjárskjólið. Seinna, eftir að hætt var að nýta skjólið fyrir fé, hefur grjót verið tekið úr leiðigarðinum og hlaðið í vegginn að vestan- og norðanverðu svo fé færi ekki niður í hellinn, enda fyrrum hlaðinn stígur niður í hellinn þá verið farinn að láta á sjá. Leifar þessa stígs eða stéttar sjást vel þegar komið er niður í Ána.
Hleðslan hefur hrunið fremst, en sjá má grjót úr honum neðan við opið. Veruleg grjóthleðsla er niðri og vestan við opið, til að varna fé að fara innfyrir og norður með innganginum. Annars liggur meginrásin til suðausturs. Undarlegt þykir að ekki skuli vera fyrirhleðsla þar innar í hellinum, en líklegt má telja að þar hafi rásin verið lokað fyrir með trégrind til að varna því að fé færi innar í hana. Sjá má leifar af tré í hellinum. Í vesturveggnum er lítið gat og rás þar fyrir innan, lág. Áni hefur verið gott fjárskjól og það tiltölulega nálægt bænum.
Næst var komið að fjárborginni undir Borgarskörðum. Skörðin eru tvö (Háhamar, skilur þau að) og er borgin neðan þeirra, í Stekkatúnsbrekkum. Borgin er vel gróin og ferköntuð hlaðin rúst, heilleg, inni í henni. Í framangreindri örnefnalýsingu segir að þarna hafi verið stekkur og Stekkatún. Ekki er ólíklegt að borginni hafi verið breytt í stekk. Hún er sjálf hringlaga, en ferköntuð rústin inni í henni er svipuð og í Hlíðarborginni, en minni.
Hlíðarborgin er hægra megin götunnar, hlaðin vestan undir hraunhól líkt og borgin undir Borgarskörðum. Hún hefur verið allstór, tvíhlaðin, en síðan verið breytt í stekk með hús eða kró á milli, inni í borginni. Hlíðarborgin er enn eitt dæmið um breytta nýtingu á mannvirkjum í vestanverðri Selvogsheiði.
Suðaustan við Hlíðarborg, sunnan girðingar er umlykur beitarhólf þeirra Selvogsmanna, er Valgarðsborg. Hún er minni en hinar fyrrnefndu. Norðvestan við borgina, í lægð undir grónum hól, má vel greina mjög gamlar tóftir a.m.k. tveggja húsa. Allt bendir til að þarna hafi fyrrum verið selstaða og Hlíðarborgin þó nýtt sem hluti af því, Valgarðsborgin mun líklega hafa þjónað sem aðhald eða skjól því líklegt má telja að hún hafi verið yfirbyggð. Marka má það af því hversu lítil hún er og auk þess hafa veggir hennar verið nokkuð háir.
Þá var stefnan tekin upp heiðina, áleiðis að Strandarseli suðaustan undir Svörtubjörgum. Framundan þeim eru nefndar Selbrekkur. Bæði ofan þeirra og neðan má sjá minjar nokkurra selja, sem flest hafa gleymst mönnum. Þau virðast hafa týnst líkt og svo margt annað í Selvogsheiðinni, en ef vel er að gáð má varla þverfóta fyrir óskráðum minjum í henni, enda verið drjúgum nýtt fyrr á öldum frá bæjunum í Selvogi.
Svörtubjörg blasa við sjónum alls staðar úr Selvogi, bæði af sjó og landi. Þau eru oft í daglegu tali kölluð Björgin. Vestari endi Bjarganna er mið af sjó. Kindaslóði er alveg niður í Björgin. Þar fóru kindur niður og í Stígshellra, sem eru smáskútar fyrir neðan. Fyrir þá fennti í norðanbyljum, og fé tepptist þar.
Vestarlega á Björgunum ber Grágæsanípu hátt. Það er klettur, sem slútir fram. Þar var oft hrafn. Eiríksvarða er því sem næst á Björgunum miðjum. Sagt er, að Eiríkur prestur á Vogsósum hafi hlaðið hana til varnar gegn Tyrkjum. Eitt fet er frá Eiríksvörðu fram á brún. Austast í Björgum er Gatahóll. Geta bæði menn og skepnur gengið í gegnum hann.
Þegar gengið hafði verið yfir Hraunhóla var skömmu síðar komið á svæðið undir Selbrekkum og sáust þegar tóftir húsa. Þær eru reyndar ógreinilegar og að öllum líkindum mjög gamlar. Svæðið er að öllu jöfnu utan göngu- og alfaraleiða. Tvær rústir eru vestast. Norðaustan við þær er hlaðinn gangur, fallinn. Hann hefur áður verið reftur og sennilega legið í tvær áttir, suðurog norður, eftir að inn var komið. Þegar gangurinn féll saman opnaðist niður í syðri hluta hellisins, sem þarna er undir. Hellirinn er stór, ca. 100m2, gólfið slétt og hátt til lofts. Fyrirhleðsla er austan við niðurganginn, stór. Hægt er að komast yfir hana til norðurs og er þá farið framhjá miklum hleðslum á vinstri hönd, sem hafa verið hluti gangsins. Þar liggur hellirinn til norðausturs, en er miklu mun lægri en suðurhlutinn. Vegna þess hversu hreint gólfið er í suðurhlutanum virðist sá hluti hans annað hvort verið notaður sem búr og geymsla eða einungis verið notaður í skamman tíma. Norðurhlutinn gæti hins vegar hafa verið notaður undir fé. Ofan á suðurhlutanum er hlaðin kví. Skammt norðaustan við hellisopið er annað op, langt og ílangt.
Norðan við skjólið er tóft. Austan hennar er annað fjárskjól, slétt í botninn og rúmgott (ca. 60m2). Opið er í gegnum skjólið, en inngangurinn hefur verið að sunnanverðu því hlaðið er þvert fyrir nyrðra opið.
Tóftir eru norðan við síðarnefnda fjárskjólið og hlaðin kví norðan þeirra. Svo virðist sem þær hafi verið hlaðnar fyrir op á enn einum hraunssalnum, en fallið saman og lokað opinu. Þó má sjá að rými er þar fyrir innan.
Fjárskjól er í hattslaga hraunhól nálægt minjunum. Einnig í litlum hraunhól norðan þeirra (varða ofanb á) og auk þess er enn eitt fjárskjólið skammt norðaustan við tóftirnar. Það er rúmgott rými með sléttu gólfi og fyrirhleðslu svo fé kæmist ekki nema takmarka inn í hraunsrásina, sem það er í.
FERLIR hefur áður skoðað þetta svæði, s.s. með Guðmundi Þorsteinssyni, hellamanni frá Þorlákshöfn, en þá var fyrstnefnda fjárskjólið nefnt Bólið til aðgreiningar. Ekki er ólíklegt að ætla að þarna sé komið hið eiginlega Vogsósasel, enda í landi Vogsósa.
Ljóst er að þetta svæði hefur að geyma miklu mun fleiri minjar og væri ástæða til að gaumgæfa það betur. Ferðin var notuð til að rissa upp þær minjar, sem bornar voru augum.
Efst í Hlíðardal var bær Indriða lögréttumanns Jónssonar. Hann var þar á fyrri hluta 17. aldar, merkur maður, góður skrifari og smiður. Ekki er með öllu útilokað að tengja óljósar hleðslur uppi á hraunhól vestan Svörtubjarga veru manna í dölunum (Strandardal og Hlíðardal) fyrrum. Þó gæti þarna hafa verið um aðstöðu til að ná fé að ræða. Þá er og mjög sennilegt að grónar hlíðar og sléttur undir björgunum hafi verið slegnar til að afla viðbótartöðu þegar þannig áraði. Grjót virðist hafa verið tekið úr mannvirkinu í undirhleðslu girðingar, sem legið hefur niður með vestanverðum Björgunum.
Gengið var til baka vestur með og undir hlíðunum, um Suðurfaraleiðarhliðið á Suðurfaraleið og vestur Hlíðargötu. Þokan sveipaði umhverfið dulúðlegu yfirbragði.
Frábært veður. Gangan tók 4 klst og 4 mín.

Hlíðarborg

Hlíðarborg.

Strandarkirkja

Í Lesbók Mbl 20. febr. 1993 ritar Konráð Bjarnason grein,  „Sending af hafi jarðskjálftasumarið 1896„. Greinin fjallar m.a. um hús í Selvogi, sem voru byggð úr einstakri himnasendingu – strandreka. Konráð var áður búsettur í Hafnarfirði, ættfræðingur og fræðimaður, en hefur leitað heimaslóðanna á efri árum.

Arnarbæli

„Þann 13. nóv. sl. gaf að líta eftirfarandi fyrirsögn og frétt í MBl: „Prestsbústaðurinn á Arnarbæli í Ölfusi var brenndur til grunna fyrir skömmu. Það voru slökkviliðsmenn í Þorlákshöfn sem stóðu að brunanum og notuðu tækifærið til æfinga í slökkvistörfunum. Eldurinn sást víða að enda stóð húsið á hæð og var hið reisulegasta. Það var byggt upp úr aldamótunum síðustu og var tvílyft hús á háum grunni.“ Svo mörg voru þau orð. Ekki svo ókunnugleg þó í ljósi reynslunnar síðustu aldarmisserin.
Á náttúruhamfaraárinu 1896 riðu skelfingar yfir að kvöldi hins 26. ágúst með ógurlegum jarðskjálfta er lét eftir sig í fyrstu lotu mörg hundruð hruninna bæja, einkum í uppsveitum Rangár- og Árnesþings. ekki var þetta nóg því nýjar skelfingar dundu yfir Skeið, Holt og Flóa, en minni háttar í Ölfussveit.. Um kl 2 aðfaranótt sunnudagsins 6. september reið yfir Ölfussveit voðalegur kippur sem felldi til grunna 24 bæi og 20 stórskemmdust. Meðal þeirra bæja var prestsetursbærinn að Arnarbæli.“
NeshúsUm þetta leyti strandaði skip utan við Selvog. Nær hádegi hafði drifið að strandstað flestalla vinnufæra menn í byggðalaginu, en þeir voru allmargir um þessar mundir. Það bakti mikla forvitni Selvogsmanna á leið til strandsstaðar með hvaða hætti strand þetta hafði borið að í nær dauðum sjó og góðviðri… að þessu sinni var sýnt að ævintýri hafði gerst á strandstað. Skip hafði komið af hafi undir fullum seglum hlaðið unnum góðviði til húsagerðar fyrir hina fjölmörgu nærsveitunga er stóðu yfir föllnum bæjarhúsum sínum niður í grunn sinn. Skipverjar gengu nær þurrum fótum til lands eftir flúðum er komu upp á fjöru…
Þegar Gísli hreppstjóri hafði rætt við skipsstjóra farskipsins var Selvogsmönnum sagt eftirfarandi: Skipið hét „Andrés“ og var frá Mandal í Noregi, á leið til Reykjavíkur með timburfarm til húsagerðar þar. Var þetta stórfarmur af unnum við, einkum panelefni. Þegar skipið nálgaðist Ísland kom mikill leki að því sem jókst og varð óstöðvandi þrátt fyrir að handdælur væru nýttar til hins ýtrasta. Skipverjar voru komnir að niðurlotum þegar þeir voru á móts við Selvog og vonlaust að n´fyrir Reykjanes. Tók skipstjóri til þess örþrifaráðs að sigla skipi sínu á grunn með stefnumið á Strandarkirkju þar sem sjór sýndist kyrrastur. Háflæði var og kenndi skipið grunns á flúðunum vestanmegin Strandarsunds.“
HlíðarendiByrjað var á því að færa skipshöfnina til lands og hlúa að henni. Þá tóku við björgunaraðgerðir farmsins. „Farmur á þilfari var fyrst borinn upp fyrir fjörukamb vestan Vindásbæjarrústa. Þar voru einkum tré er voru borin á öxlum tveggja manna. Þá komu plankar sem tveir báru og smáplankar, gólfborð, skífuborð, listar og mikið magn af plægðum viði eða panel. Svo virðist sem mestum hluta farmsins hafi verið bjargað óskemmdum á fyrstu dögum eftir strandið vegna þess hversu ládautt var. Á sama tíma var einnig bjargað silgingarbúnaði, áhöldum, tækjum og kosti. Honum uppborna viðarfarmi var staflað í aðgreind búnt eftir tegundum og síðan breitt yfir hann. Nokkuð af viði laskaðist í strandinu og var því safnað í hrúgur og selt samkvæmt sölunúmeri eins og annar viður. Hið verst farna fékk söluheitið hrak.“

Hlíðarendi í Selvogi - sögufrægt mannvirki

Uppboðið á varningnum var haldið 5. nóvember 1896. „Þegar uppboðsþing var sett var ljóst að fjölmargir væntanlegir kaupendur voru mættir á uppboðsstað. Þeir hafa komið úr mörgum hreppum Árnessýslu og víðar að en flestir úr Ölfushreppi. Þeir hafa þegar kynnt sér það sem í boði var og við blasti á malarkambi. Þeri hafa komist að raun um að hér var í boði nýr girnilegur húsbyggingarviður unninn til uppbyggingar á hærri, rýmri og betri húsakosti, en dreifbýlisfólk hafði átt að venjast hingað til. Timbrið var auk þess líklegt til að standa af sér eyðingaröfl þau er nýgengin voru yfir. Þeir sem komnir voru á strandstað með það í huga að byggja hús, allt að tveggja hæða, hafa tekið með sér smið og vinnumenn. Og þeir væntu þess óefað að gera góð kaup á rekafjörunni… Þeir sem stórtækastir voru á uppboðinu, sem stóð í tvo daga, voru stórhúsbyggjendurnir Þorbjörn í Nesi í Selvogi, séra Ólafur í Arnarbæli, Jón hrepstjóri á Hlíðarenda og Jakob í Auðsholti…“ Þessi menn byggðu tvílyft hús úr nefndum húsagerðarviði. „Hús þessi vitnuðu um stórhug og metnað byggjenda sinna og gegndu menningarhlutverki hvert á sínum stað. Þau eru nú fallin, utan eitt, Hlíðarendahús.

Heimild:
-Konráð  Bjarnason – Sending af hafi jarðskjálftasumarið 1896 – Lesbók MBL 20. febr. 1993.

Selvogur - örnefna- og minjakort

Selvogur – örnefna- og minjakort – ÓSÁ.

Kögunarhóll

Gengið var frá Kögunarhól og austur með sunnanverðu Ingólfsfjalli að Fellstúni við suðausturhorn þess. Sú örnefnaskýring hefur snemma komist á kreik að nafnið Kögunarhóll sé afbökun úr Knörrhóll og að í honum sé skip Ingólfs heygt.

Ingólfsfjall

Ingólfsfjall.

Í Landnámu segir frá því að þriðja vetur sinn á Íslandi hafði Ingólfur Arnarson vetursetu undir Ingólfsfelli fyrir vestan Ölfusá. Næsta vor fundu þrælar hans, þeir Vífill og Karli, öndvegissúlur hans við Arnarhvol fyrir neðan heiði og settist Ingólfur þar að og nefndi bæ sinn Reykjavík. Þrællinn Karli mælti þá: „Til ills fóru vér um góð héruð, er vér skulum byggja útnes þetta.“ Strauk hann síðan frá Ingófi og sneri tilbaka í Ölfusið ásamt ambátt. Ingólfur fann þræl sinn aftur en ekki fylgir sögunni hvort hann fékk að vera í friði eða var neyddur til að flytja á „útnesið“. Ölfusið hefur æ síðan heillað “afkomendur” þrælsins.

Kögunarhóll

Kögunarhóll 1897 – Collingwood.

Í Laxdælu segir að Auður djúpúðga hafi brotið skip sitt við Ölfusárósa en annars fer engum öðrum sögum af héraðinu á landnámsöld. Líklegt er þó að það hafi byggst snemma vegna landkosta þess. Land til beitar hefur verið gott við Ölfusárósa og á fjalli, selveiði í ósnum og fiskur í sjó og vötnum. Auk þess voru ágætar lendingar í ósnum, Þorlákshöfn og Selvogi sem hefur ekki haft lítið gildi á hafnlausri suðurströndinni.
Á göngunni frá Kögunarhól, skipshaug Ingólfs, með Ingólfsfjalli, gafst góður tími til að rifja upp söguna sem og áætlunum tengdum járnbrautarlagningu frá Reykjavík austur í Árnessýslu eða til Hafnar við Eyrarbakka. Járnbrautin átti að koma niður austan við Fellstúnið á leið sinni niður að Eyrabakka.

Kögunarhóll

Kögunarhóll.

Hr. Þorvaldur Krabbe mannvirkjafræðingur skoðaði leiðina austur í Árnessýslu með járnbrautarlagningu í huga. Vandlega rannsókn og mælingar gerði hann ekki á svo skömmum tíma, „heldur aðeins kynnti sér lauslega og til bráðabirgða, hvernig til hagar um fjallleiðina austur og byggðina næstu.“
Fundið var að báðum þessum leiðum, „hve mikið af þeim er um óbyggðir, um fjöll og firnindi.“ Talið var að jafnan „eigi að hyllast til að láta járnbrautir liggja, um byggð, ef auðið er, eða þá byggilegt land, þótt óbyggt sé.“

Í Þjóðólfi, 41. tbl. árið 1906 er fjallað um járnbrautarlagningu austur í Árnessýslu og um stöðu þeirra mála. Þar segir að Þorvaldi Krabbe hafi litist best á leiðina upp Mosfellsdal nálægt Gullbringum og þaðan austur yfir þvera Mosfellsheiði fyrir norðan Borgarhóla og um Jórukleif ofan í Grafning nálægt Jórutindi, til Hagavíkur, þaðan nálægt bænum Króki og suður dalverpið þar bak við Bíldsfell, milli þess og Hlíðar, og svo þaðan nálægt Torfastöðum, suður að Ingólfsfjalli og meðfram því um Alviðru hjá Sogsbrúnni og niður að Ölfusá, annaðhvort móts við Laugardælur eða Selfoss.

Ingólfsfjall

Ingólfsfjall.

Sérstaka járnbrautarbrú kvað hann eflaust mundi þurfa að byggja yfir Ölfusá, en það væri aukaatriði, sem ekki snerti lagning brautarinnar í sjálfu sér.

Í Ísafold, 66. tbl. árið 1906, er fjallað um Suðurlandsveg í tilefni af umræðu um járnbrautarlagningu frá Reykjavík til Árnessýslu. Þar segir að “nú, þegar hugmyndin um járnbraut hér á landi hefir hlotið þann þroska, að landsstjórnin er búin að láta verkfræðing skoða járnbrautarstæði frá Reykjavík til Árnessýslu, þá virðist ástæða til að fara að ræða málið frá ýmsum hliðum.
Flutningsþörfin hefir aukist mjög mikið á síðustu árum hér sunnanlands, svo þörfin hefir nú loks knúð bændur nokkuð almennt til að nota vagna (kerrur) á flutningabrautunum, og auk þess æðivíða yfir vegleysur, færar og ófærar.

Blákollur

Blákollur undir Ingólfsfjalli.

Vagnarnir létta mikið flutninginn og auka vörumagnið sem flutt verður, en þeir fullnægja ekki þörfinni nema fá ár, þótt allir noti þá og ýmsir eigi 2, 3 eða 4 vagna. Smávagnarnir eru of mannfrekir í fólksfæðinni, og ferhjólaðir vagnar verða ekki notaðir á vegleysunum, eru líka of dýrir fyrir bændur almennt. Mörg heimili þurfa nú að flytja frá verslunarstöðunum því nær eins mörg vagnhlöss og marga þurfti hestburði fyrir 20 árum, og flutningsþörfin mun enn aukast, að líkindum örara en áður.

Hellisheiði

Hellisheiði – seinni tíma fararmáti.

Varla er von á góðri afkomu meðan dugandi karlmenn og einyrkjar verða að vera í ferðalögum mestallt vorið, auk haustferða, vetrarferða og ferðanna, sem bændur neyðast til að fara á miðjum slætti, dögum saman.
Efnaðir menn í Reykjavík og þeir, sem lifa eins og auðmenn, gera æ stærri kröfur til fæðisins, vilja hafa nýtt og gott kindakjöt árið um kring, nýja mjólk, nýtt smjör, nýtt skyr o. s. frv.

Hellisheiði

Almannagjá 1913.

Bændur hefðu mestan hag af því, ef þeir gætu ávalt fullnægt þörf kaupendanna á óskum þeirra. Nú er þetta ókleift, því næstu sveitir hafa hálfu minna af slíku en þörfin krefur. Og þó dregið sé strik yfir alla erfiðleikana og kostnaðinn við flutningana úr fjarlægum sveitum, þá er bændum ekki unnt að taka sláttinn til ferðalaga meir en nú er gert, og oft verða fjallvegir ófærir á vetrum.
Hvað mundi nú járnbraut greiða fyrir bændum hér austan fjalls og íbúum Reykjavíkur? Bætt gæti hún úr samgönguleysinu um sláttinn og mikið létt undir flutninga vor og haust; en hætt er við að hún kæmi að litlum notum, eða jafnvel alls engum á vetrum – þegar ófært er með kerrurnar.“
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 3 mín.

Heimild m.a.:
-http://www.olfus.is/template1.asp?mode=sub&id=555
-http://www.vegag.is/vefur2.nsf/pages/ve_saga_bladaefni_1906allt3.html
-Ísafold, 13. september 1906, 33.árg., 39. tbl.

Kögunarhóll

Við Kögunarhól.

Gapi

„Í landnorður frá Vogsósum er hellisskúti í hrauninu, skamt frá alfaravegi; hann er kallaður Gapi. Ferðamenn liggja opt í helli þessum, eins og í sæluhúsi. Í helli þessum leyndi Eiríkur prestur sekum manni heilt sumar. Maðurinn var austan af Síðu, og hafði þar orðið mannsbani, svo það átti að drepa hann. þeir sem um veginn fóru sáu aldrei hellinn Gapa þetta sumar; því Eiríkur hafði brugðið yfir hann hulu, og eins vöröu þá, sem stóð á hólnum hjá honum, og mundu þó margir eptir hvorutveggju. gapi-22Sakamaðurinn hafðist þarna við í hellinum um sumarið, og geingu lýsingar á honum um allar sveitir, og skipun, að taka hann fastan, hvar sem hann næðist. Eiríkur prestur fékk einn af seðlum þessum. Sendi hann þá manninn sjálfan með hann austur á Síðu, en einginn gat þekt hann. Eiríkur lét hann skila því með, að maðurinn heíði náðzt í Selvogi, og sæti hann nú í fjötrum, og væri geymdur í Strandarkirkju. þángað skyldu þeir sækja hann hið allra fyrsta. Maðurinn fór, lauk erindi sínu, og sneri svo suður aptur í helli sinn. En Síðumenn brugðu við, og fóru suóur i Strandarkirkju. þar fundu þeir manninn í fjötrum. Var hann þá fluttur austur, og átti nú aö höggva höfuðið af honum; því svo hafði hann dæmdur verið. En þegar til kom beit ekki öxin, og beyglaðist eggin í hverju höggi. Hættu þá Síðumenn, og fluttu hann á skip, og ætluðu að senda hann til Danmerkur; því þar ætluðu þeir öxunum að bíta. En þegar þeir komu með hann út á skipiö, hvarf hann, og var þar þá steindrángi einn með böndum á. Urðu skipverjar þá æfir við Síðumenn, og ráku þá burtu með sneypu, en vörpuðu sökudólgi þeirra fyrir borð. Síðumenn sáu nú, hversu Eiríkur hafði gabbað þá, og vildu hefna sín. Feingu þeir til þess mann á Vestfjöröum, og sendi hann Eiríki kött. Stóð Eiríkur Þá úti á hlaði, þegar kisa kom, og ætlaði hún að hlaupa um háls honum, og drepa hann. En þá var hjá Eiríki maður sá, sem forðum sókti kverið, og hjálpaði hann Eiríki til að drepa köttinn. Sagt er, að Eiríkur hafi sent Vestfirðingnum draug, sem honum hafi orðið að bana.“

Heimild:
-Íslenskar þjóðsögur og æfintýri, Jón Árnason, 1862, bls. 571.

Gapi

Í Gapa.

Hjallakirkja

Að Hjalla í Ölfusi er Ólafskirkja, kennd við Ólaf helga Noregskonung.
Núverandi kirkja er byggð 1928. Talið er að kirkja hafi staðið á Hjalla í Ölfusi frá um 1000, trúlega alltaf á sama staðnum, nema Hjalli-1e.t.v. í upphafi. Hjalli í Ölfusi kemur mjög við sögu kristnitökunnar því að þar bjuggu þeir feðgar Þóroddur Eyvindsson goði og Skafti Þóroddsson lögsögumaður.
Ofan Hjalla stöðvaðist kristnitökuhraunið. Þá komst Hjalli aftur í fréttir sögunnar þegar síðasti kaþólski biskupinn í Skálholti, Ögmundur Pálsson, leitaði þar skjóls hjá systur sinni árið 1541. Gafst hann upp fyrir dönskum hermönnum gegn því að fá að fara frjáls maður. Þeir handtóku hann hins vegar og fluttu um borð í skip áleiðis til Kaupmannahafnar. En biskupinn aldni hlaut samt sitt frelsi því að hann dó í hafi.

Heimild:
-Morgunblaðið, 14. nóvember 1998, bls. 72.

Ölfus

Hjallakirkja 1927.

Ferlir

Í Morgunblaðinu 2006 fjallar Örlygur Steinn Sigurjónsson um „Hellana í Brennisteinsfjöllum„:

„Í Brennisteinsfjöllum á Reykjanesi er áhugavert útivistarsvæði sem státar af fjölmörgum hraunhellum, skrifar Örlygur Steinn Sigurjónsson að lokinni gönguferð um svæðið í fylgd kunnugra.

Brennisteinsfjöll

Ofan Fagradals.

Það er alltaf sérstök og dulúðug stemmning að fara í hellaferð og hvernig gat mann grunað að hin margumræddu Brennisteinsfjöll lumuðu á talsverðum fjölda hella sem vert er að skoða? Fróðir ferðafélagar á borð við Ómar Smára Ármannsson frá gönguhópnum FERLIR og Einar Júlíusson frá Hellarannsóknafélagi Íslands eru nauðsynlegir á ferðum sem þessum en einnig má þess geta að bæði umrædd félög halda úti heimasíðu, www.ferlir.is og www.speleo.is. Ekki er úr vegi að geta þess einnig að Hellarannsóknafélagið hefur á heimasíðu sinni lýst yfir stuðningi við framtíðarsýn Landverndar undir yfirskriftinni „Reykjanesskagi – eldfjallagarður og fólkvangur“. Segir ennfremur að
framtíðarsýnin grundvallist á náttúruvernd samhliða fjölbreyttri nýtingu á auðlindum Rekjanesskagans.
Hellarannsóknafélag Íslands lýsir yfir fullum stuðningi við þetta verkefni og telur það sérstaklega ánægjulegt að vernda eigi stór hraun, hraunmyndanir og gíga sem eru einstakir á heimsvísu. Segir Hellarannsóknafélagið að Brennsteinsfjöllin og næsta nágrenni við þau sé stærsta ósnortna landsvæðið á Reykjanesskaganum og hafi að geyma ótal marga hella sem hafa verið lítt rannsakaðir. Gígarnir og hraunin séu ótalmörg og hvert og eitt einstakt út af fyrir sig og mikil þörf á að vernda þetta svæði í heild sinni.
Undir þetta getur hver sá sem skoðar sig um á svæðinu tekið heilshugar og víst er að af nógu er að taka. Bara í þeirri ferð sem farin var að þessu sinni var í senn farið í þekkta hella og leitað nýrra.

Rannsóknarlögreglan neðanjarðar

FERLIR

FERLIR – húfa, sem þaulsetnir þátttakendur fengu sem viðurkenningarvott.

Um gönguhópinn FERLIR er það að segja að hann stóð upphaflega fyrir Ferðahóp rannsóknardeildar lögreglunnar í Reykjavík og hefur vaxið fiskur um hrygg frá stofnun árið 1999. Segja má að félagsskapurinn sé nú orðinn ein helsta uppspretta þekkingar á hellum, seljum, letursteinum, skútum, fjárborgum og fleiru á Reykjanesskaganum. Lögð er nokkur áhersla á að fá staðkunnuga á hverjum stað til að fræða þátttakendur í hverri ferð og eru

Lýðveldishellir

Við op Lýðveldishellis.

Ferlisferðirnar nú orðnar vel yfir eitt þúsund talsins. Því fylgir nokkuð sérstök tilfinning að ferðast með rannsóknarlögreglumönnum í leit að hellum og guð hjálpi þeim heimska bófa sem dytti í hug að ramba inn á Reykjanesið með ránsfeng eða fíkniefni og telja góssið öruggt í fyrsta hellisskúta sem hann fyndi. Með þeirri aðferðafræði myndi skrattinn aldeilis hitta ömmu sína en það er önnur saga. Ferlisfélagar eru heldur ekki eingöngu rannsóknarlögreglumenn heldur fólk úr lögreglunni almennt og allir þeirra vinir eða vandamenn. Sérstök derhúfa er veitt sem viðurkenning fyrir fimm Ferlisferðir. En gönguhópurinn hefur nú nýtt undanfarin misseri til að ganga um hin einstöku svæði á Reykjanesi og var upphaflegt markmið að fara eitt hundrað ferðir um svæðið til að skoða það helsta. En þrátt fyrir ferðirnar þúsund eru enn stór svæði ókönnuð. Hafa Ferlismenn nú skoðað á fjórða hundrað hella og nafngreinda skúta svo fátt sé talið.

Kistuhellar

Í Kistuhellum.

Finna má urmul leiðarlýsinga á heimasíðu Ferlis og má samsinna fullyrðingum um að svæðið á Brennisteinsfjöllum, þ.e. Kistufell, Kista og Eldborg, sé ótrúlegur undraheimur með ósnertum litskrúðugum hellum og einstökum náttúrufyrirbærum er nauðsynlegt er að standa vörð um þessa einstöku veröld, segir þar.
Á liðnum árum hafa uppgötvast þarna langir hellar og enn er svæðið langt í frá fullkannað. Gangan yfir að hellasvæðinu í Brennisteinsfjöllum tekur 2–3 klukkustundir og er haldið frá bílunum við Breiðdal við Kleifarvatn. Upp úr Hvammadal er fylgt gömlum stíg sem áður var genginn milli Kaldársels og Krýsuvíkur. Þegar upp á brúnina er komið er beygt til vinstri til að fylgja stíg austur með brúninni yfir á slétta hraunhellu Kistuhrauns, sem liggur þar milli Kistufellshraunsins í austri og Eldborgarhraunsins í vestri. Undir hinu síðarnefnda og vestar sjást fleiri Eldborgarhraun. Gangan getur talist löng og sjálfsagt er að reikna með heilum degi í hana fram og tilbaka að meðtöldum hellaferðunum.

Duttu niður í Lýðveldishellinn

Ferlir

Í hellinum FERLIR í Brennisteinsfjöllum.

Í vesturhlíðum Kistu er svokallaður Lýðveldishellir sem dregur nafn sitt af því að þann 17. júní árið 1994 fundu Guðmundur Löve og Þröstur Jónsson hellinn. Samkvæmt frásögn Ferlis voru þeir þarna á ferð í mikilli þoku og rigningu þegar þeir svo til „duttu“ niður um opið á hellinum. Er hann um 200 metra langur. Ferlismenn leituðu þessa hellis á sínum tíma en við þá leit uppgötvaðist annar hellir, sem fékk heitið Þjóðhátíðarhellir Norðmanna því hellisfundinn bar einmitt upp á 17. maí. Hellisopin eru ekki langt hvort frá öðru, en reyndar sinn í hvoru hrauninu, segir á Ferlisvef.
FerlirAð þessu sinni var farið ofan í annan helli sem Ferlismenn fundu líka og heitir sá FERLIR og er þarna í nágrenninu. Er þetta með litskrúðugri hellum landsins og ógleymanlegur þeim sem niður í hann fara. Lítil hraunbreiða sem þar er að finna er svo óveðruð að halda mætti að hraunið væri nýrunnið og -storknað. Þótt aldur þess sé talin í mörgun öldum virðist það samt svo glænýtt og það er töfrum líkast og horfa á þetta fyrirbæri sem gæti jafnast á við að hitta fyrir ungbarn úr grárri forneskju.
Í raun jafnast fátt á við góða hellaferð. Ljóst er að margfalt fleiri hellar en eingöngu Raufarhólshellir standa fólki til boða. Sjálfsagt er að taka með góð ljós og hlýjan fatnað sem má skemmast við mögulegan núning í hellunum. Nesti og ferðatilhögun þarf að ganga frá og sýna góða umgengni hvar sem farið er.“

Heimild:
-Morgunblaðið, 350 tbl. 24.12.2006. Hellarnir í Brennisteinsfjöllum, bls. 52.

Ferlir

Skrautlegar jarðmyndanir í hellinum FERLIR.

Hrútafellshraun

Nýlega barst FERLIR eftirfarandi póstur:
„Sæl og blessuð. Datt í hug að senda þessar myndir sem ég tók í síðustu viku þegar ég fór að finna ratleiksmerki 27 við Búðavatnsstæðið.
Á göngu eftir Hrauntungustíg sá ég hvar slétt Hrútagjárdyngjuhraunið var eins og upprétt eða uppsprengt á talsvert löngum kafla. Getur þú útskýrt fyrir mér hvaða fyrirbæri er þetta sem var þarna í gagni á sínum tíma?
Það er alveg meirihátta að sjá hraunið svona. Hef prufað að ganga yfir það og langar ekki að reyna það aftur.
Með bestu kveðju, Guðmundur Gunnarsson.“

Hrútafellshraun

Hrútafellshraun.

Svar FERLIRs var: Sæll Guðmundur, þetta er bæði sérstakt og merkilegt hraunhaft í Hrútargjárdyngjuhrauninu, sem rann fyrir ca. 7000 árum. Þegar hraun rann síðar til norðurs frá gígum norðan við Hrútafell náði það að lyfta upp hraunhellunni í jöðrum þess þannig að hraunflekar risu upp og mynduðu þessar stórbrotnu hraunmyndanir.
Eldsumbrotaskeiðið, sem stóð í um 450 ár, hófst um 800 e.Kr. í Brennisteinsfjöllum og í Krýsuvíkurkerfinu. Í Brennisteinsfjöllum rann Hvammahraun og í Móhálsadal rann Hrútafellshraunið fyrrnefna. Síðastnefnda hraunið rann niður með Hrútagjárdyngjunni, sem fyrr sagði. Um 1151 rann svo Ögmundarhraun (sem heitir ýmsum nöfnum) á þessum kafla, frá Lat í suðri að Helgafelli í norðri. Það hraun setti einnig svip sitt á landslagið, en þó einkum austan Dyngjunar.“

Hrútargjárdyngja

Hrútargjárdyngja.

Guðmundur svaraði: Sæl, Takk kærlega fyrir greinagóða lýsingu á fyrirbærinu. Það hefur myndast gríðarlegur þrýstingur á hraunið þarna svo það brotnaði „mélinu smærra“ ef svo má að orði komast.
Mér finnst allt umhverfi Hrútagjárdyngunnar alveg einstakt og gaman að horfa á gjárnar miklu sem hafa líklega myndast við jarðsig þegar toppur dyngjunnar brotnar niður. Það er einnig gaman að ganga með henni að „utanverðu“ alveg til móts við Fjallið eina og raunar allan norðurkantinn líka.
Þakka fyrir frábæran vef, Ferlir. Hann er gríðarlega mikil þekkingarbanki um eiginlega allan Reykjanesskagann og þar hef ég leitað að upplýsingum um hitt og þetta um langt skeið. Ég byrjaði óvart í ratleiknum árið 2006 þegar ég rakst á merki við Undirhíðarnar og datt þá inn á þinn frábæra vef og hef margoft notað hann síðan mér til fróðleiks og skemmtunar.“

Á Haustráðstefnu Jarðfræðafélags Íslands 26. nóvember 2010 var m.a. fjallað um Hrútafellshraun, sem hingað til hefur flestum verið hulið:

Landnámslagið

Landnámslagið (Settlement) í sniði.

„Kortlagning og aldursgreiningar á hraunum á Reykjanesskaga hefur leitt í ljós að eldvirknin síðustu 10.000 árin einkennist af gosskeiðum sem vara í 400-600 ár. Á milli gosskeiðanna eru um 600-800 ára goshlé.

Jón Jónsson

Jón Jónsson – jarðfræðikort af Hrútagjárdyngju og nágrenni.

Á hverju gosskeiði verða flest eða jafnvel öll eldstöðvakerfin á skaganum virk. Gossaga síðustu tveggja gosskeiða er allvel þekkt og myndin af því þriðja síðasta óðum að skýrast. Um eldri gosskeið liggja fyrir takmarkaðar upplýsingar enn sem komið er, þó bætist smám saman við ný vitneskja. Tímasetning hrauna á Reykjanesskaga byggir annars vegar á C-14 aldursgreiningum á gróðurleifum undan hraunum og hins vegar á gjóskulagatímatali.
Gjóskutímatalið byggir á Heklu- og Kötlulögum ásamt gjóskulögum sem eiga upptök í sjó við Reykjanes. Landnámslagið (LNL), frá því um 870 e.Kr. (Karl Grönvold o.fl. 1995), finnst um allan skagann og er eitt mikilvægasta leiðarlagið. Á seinni hluta nútíma, síðustu 4500 árin, er stutt á milli gjóskulaga í jarðvegssniðum og tímatalið því notadrjúgt en neðar verður það hins vegar mun gisnara, sem takmarkar notagildi þess (Magnús Á. Sigurgeirsson og Árný Erla Sveinbjörnsdóttir 2000).

Kristnitökuhraun

Jarðfræðikort.

Frá síðasta gosskeiði eru þekktir þrennir eldar, þeir fyrstu á 10. öld og hinir síðari á 12. og 13. öld. Hraun frá fyrstu eldunum eru í Brennisteinsfjallakerfinu, s.s. Tvíbollahraun, Breiðdalshraun, Húsfellsbruni, Selvogshraun og Kristnitökuhraunið. Þrjú fyrstnefndu hraunin hafa verið aldursgreind (Jón Jónsson 1983). Mögulegt verður að teljast að einhver þessara hrauna hafi brunnið á 11. öld. Öll liggja þessi hraun ofan á Landnámslaginu og undir Miðaldalaginu (ML) frá 1226.
Við kortlagningu hrauna í Brennisteinsfjöllum og í Krýsuvíkurkerfinu síðustu tvö sumur kom í ljós að þar er að finna hraun sem liggja fast undir Landnámslaginu. Lítill sem enginn jarðvegur er sjáanlegur þar á milli. Næsta þekkjanlega gjóskulag undir þessum hraunum, eða gjalli frá upptakagígum þeirra, er Heklulag sem er 1400-1500 ára gamalt (kallað „Gráa lagið“ vegna sérstaks litar). Yfirleitt er nokkur jarðvegur á milli „Gráa lagsins“ og hraunanna. Út frá afstöðu hraunanna til gjóskulaga teljum við að þau séu frá 8.-9. öld. Ljóst er að hraunin tilheyra síðasta gosskeiði en ekki því næsta á undan sem varð fyrir um tvö þúsund árum. Síðasta gosskeið lengist því um allt að 200 ár og spannar tímabilið frá um 750-1240 e.Kr., eða um 500 ár.

Gjóskulög

Gjóskulög í jarðvegssniði.

Hraunin sem um ræðir er annars vegar að finna í Brennisteinsfjallakerfinu og hins vegar í Krýsuvíkurkerfinu. Í Brennisteinsfjöllum eru það Hvammahraun og Vörðufellsborgahraun. Upptök þess fyrrnefnda eru í gígaröð efst í Brennisteinsfjöllum. Stærsti gígurinn heitir Eldborg. Síðarnefnda hraunið kemur frá gígaröð nokkru sunnar, vestan undir Vörðufelli, sem nefnd er Vörðufellsborgir. Skammur tími hefur liðið á milli gosanna. Hraunin eru ungleg og hafa stundum verið talin meðal sögulegra hrauna. Jón Jónsson (1978, 1983) taldi þau ekki með í þeim hópi en þó vera mjög ung. Hraunin þekja til samans ríflega 40 km2 og runnu ofan úr fjöllunum á nokkrum stöðum, s.s. um Hvamma í átt að Kleifarvatni og fram af Herdísarvíkurfjalli um Lyngskjöld og nokkur fjallaskörð þar fyrir austan.

Móhálsadalur

Móhálsadalur.

Í Krýsuvíkurkerfinu er hraun frá líkum tíma í Móhálsadal. Upptök þess eru á um sjö kílómetra langri gígaröð, talsvert slitróttri. Á nýlegu jarðfræðikorti af Reykjanesskaga er hraunið nefnt Hrútafellshraun (hrf) (Kristján Sæmundsson o. fl. 2010). Stærstu gígarnir eru Lækjarvallagígar austan við Djúpavatn. Lítill hraunfláki sem aðgreinist frá meginhrauninu er á risspildu Hrútagjárdyngju. Ofan á henni, skammt norðvestur af gíg dyngjunnar, hefur opnast tveggja kílómetra löng gossprunga sem gefið hefur frá sér hraun sem er um 0,66 km2 að flatarmáli. Meginhraunið er hins vegar um 6,8 km2 að lágmarki en syðsti hluti þess er hulinn af Ögmundarhrauni, sem er frá 12. öld (Sigmundur Einarsson o.fl. 1991).

Sogin

Hraun norðan Soga.

Út frá afstöðu hraunanna til gjóskulaga verður ekki annað séð en að þau séu öll mynduð á mjög svipuðum tíma. Ekki er þó víst að eldar hafi verið uppi í báðum eldstöðvakerfunum samtímis, en skammt hefur liðið á milli þeirra. Úr þessu mætti mögulega fá skorið með aldursgreiningum á koluðum gróðurleifum og mó undan hraunum og gjalli. Slík sýni hafa nýverið náðst frá tveimur stöðum. Annar staðurinn er norðan við rissvæði Hrútagjárdyngju og hinn í Sogum. Sýnin hafa verið send til greiningar.
Á báðum svæðunum, þ.e. í Móhálsadal og í Brennisteinsfjöllum, hafa hlaðist upp stórir gjall- og klepragígar sem bendir til að gosin hafa verið kröftug og staðið nokkuð lengi.

Hvammahraun

Hvammahraun.

Hraunin í Brennisteinsfjöllum ná yfir stórt svæði. Gosvirknin þar hefur smám saman færst í einn megingíg sem gefið hefur frá sér mikið af hrauninu. Hvammahraun er að mestu úfið og illfært apalhraun en umhverfis gígasvæðið er helluhraun. Talsverð hraunbunga með dyngjulögun er við aðalgíginn. Bergfræðirannsókn hefur ekki farið fram á hraununum, en samkvæmt athugunum Jóns Jónssonar (1978) er Hvammahraun fremur ólivínríkt.
Eldarnir á 8.-9. öld bæta nokkru við þá mynd sem við höfum af eldvirkni á Reykjanesskaga. Til dæmis er nú ljóst að á sama gosskeiðinu hefur gosið tvisvar í sama eldstöðvakerfi. Einnig bendir nú flest til að gosskeiðin séu nokkru lengri en talið hefur verið, en vísbendingar um það hafa einnig komið fram varðandi gosskeiðið fyrir um 2000 árum.“

Ögmundarhraun

Ögmundarhraun – loftmynd.

Á síðasta gosskeiði hófst gosvirknin um 800 e.Kr. í Brennsteinsfjöllum og í Krýsuvíkurkerfinu. Rannsóknir benda til að þar hafi gosið samtímis eða því sem næst. Í Brennisteinsfjöllum rann Hvammahraun og í Móhálsadal rann Hrútafellshraun. Um hálfri annarri öld eftir að þessum eldum lauk hófst gos í Krýsuvíkurkerfinu um miðja 12. öld, líklega árið 1151. Nefnast þessir eldar Krýsuvíkureldar. Ritaðar heimildir benda til að þeim hafi lokið árið 1188. Hraun sem runnu í Krýsuvíkureldum eru Ögmundarhraun, sem er þeirra syðst, Mávahlíðahraun og Kapelluhraun.

Vörðufellsborgir

Vörðufellsborgir.

Hraunin sem um ræðir er annars vegar að finna í Brennisteinsfjallakerfinu og hins vegar í Krýsuvíkurkerfinu. Í Brennisteinsfjöllum eru það Hvammahraun og Vörðufellsborgahraun. Upptök þess fyrrnefnda eru í gígaröð efst í Brennisteinsfjöllum. Stærsti gígurinn heitir Eldborg. Síðarnefnda hraunið kemur frá gígaröð nokkru sunnar, vestan undir Vörðufelli, sem nefnd er Vörðufellsborgir. Skammur tími hefur liðið á milli gosanna. Hraunin eru ungleg og hafa stundum verið talin meðal sögulegra hrauna. Jón Jónsson (1978, 1983) taldi þau ekki með í þeim hópi en þó vera mjög ung. Hraunin þekja til samans ríflega 40 km2 og runnu ofan úr fjöllunum á nokkrum stöðum, s.s. um Hvamma í átt að Kleifarvatni og fram af Herdísarvíkurfjalli um Lyngskjöld og nokkur fjallaskörð þar fyrir austan.

Hrútafellshraun

Hrútafellshraun.

Í Krýsuvíkurkerfinu er hraun frá líkum tíma í Móhálsadal. Upptök þess eru á um sjö kílómetra langri gígaröð, talsvert slitróttri. Á nýlegu jarðfræðikorti af Reykjanesskaga er hraunið nefnt Hrútafellshraun (hrf) (Kristján Sæmundsson o. fl. 2010). Stærstu gígarnir eru Lækjarvallagígar austan við Djúpavatn. Lítill hraunfláki sem aðgreinist frá meginhrauninu er á risspildu Hrútagjárdyngju. Ofan á henni, skammt norðvestur af gíg dyngjunnar, hefur opnast tveggja kílómetra löng gossprunga sem gefið hefur frá sér hraun sem er um 0,66 km2 að flatarmáli. Meginhraunið er hins vegar um 6,8 km2 að lágmarki en syðsti hluti þess er hulinn af Ögmundarhrauni, sem er frá 12. öld (Sigmundur Einarsson o.fl. 1991).
Út frá afstöðu hraunanna til gjóskulaga verður ekki annað séð en að þau séu öll mynduð á mjög svipuðum tíma. Ekki er þó víst að eldar hafi verið uppi í báðum eldstöðvakerfunum samtímis, en skammt hefur liðið á milli þeirra. Úr þessu mætti mögulega fá skorið með aldursgreiningum á koluðum gróðurleifum og mó undan hraunum og gjalli. Slík sýni hafa nýverið náðst frá tveimur stöðum. Annar staðurinn er norðan við rissvæði Hrútagjárdyngju og hinn í Sogum. Sýnin hafa verið send til greiningar.

Jarðfræðikort

Jarðfræðikort ÍSOR af Reykjanesskaga.

Jarðskjálftabelti liggur eftir skaganum og markar flekaskilin. „Ef byrjar að gjósa væri það líklega byrjun á svona skeiði, í nokkrar aldir myndi ég halda. Það hefur allavega verið þannig í síðustu þrjú skipti, og lengra aftur reyndar, en það eru ekki til jafn nákvæm gögn um það,“ segir Magnús Á. Sigurgeirsson, jarðfræðingur hjá ÍSOR, í samtali við mbl.is í dag. Hann tók saman upplýsingar um síðustu gosskeið á Reykjanesskaganum og þau hraun sem runnu í hvert skipti. Aðalatriði samantektarinnar má lesa hér: „Allgóð þekking er til staðar um síðustu þrjú gosskeiðin á Reykjanesskaga sem stóðu yfir fyrir 3.000-3.500 árum, 1.900-2.400 árum og svo 800-1240 e.Kr. er kemur fram í samantektinni. Hana byggir Magnús á jarðfræðikortum af Reykjanesskaga og bókinni Náttúruvá á Íslandi, eldgos og jarðskjálftar.
Rannsóknir hafa leitt í ljós að á seinni hluta Hólósen ([nútíminn í jarðfræðilegu samhengi] sem nær yfir síðustu 11.700 árin) hefur gosið í kerfunum á 900-1.100 ára fresti. Um fyrri hluta Hólósen er meiri óvissa sem orsakast af færri og ónákvæmari aldursgreiningum.
Hvert gosskeið virðist standa yfir í um 500 ár en á þeim þeim tíma verða flest eldstöðvakerfin virk en þó yfirleitt ekki á sama tíma. Einkennist gosvirknin af eldum sem standa í nokkra áratugi hver. Hraunin renna frá gossprungum sem geta orðið allt að 12 kílómetra langar.

Jarðfræðikort

Jarðfræðikort af Reykjanesskaga.

Á Reykjanesskaga eru sex eldstöðvakerfi sem raða sér skáhallt eftir honum í NA-SV stefnu. Vestast er Reykjaneskerfið og austar koma kerfi kennd við Svartsengi, Fagradalsfjall, Krýsuvík, Brennisteinsfjöll og að síðustu Hengil.
Síðasta eldsumbrotaskeið stóð í um 450 ár. Á síðasta gosskeiði hófst gosvirknin um 800 e.Kr. í Brennisteinsfjöllum og í Krýsuvíkurkerfinu. Í Brennisteinsfjöllum rann Hvammahraun og í Móhálsadal rann Hrútafellshraun.
Á 10. öld gaus síðan aftur í Brennisteinsfjallakerfinu og runnu þá m.a. Svínahraunsbruni (Kristnitökuhraun) í Þrengslum, Húsafellsbruni í Heiðmörk, Breiðdalshraun, Selvogshraun og Tvíbollahraun/Hellnahraun.
Um hálfri annarri öld eftir að þessum eldum lauk hófst gos í Krýsuvíkurkerfinu um miðja 12. öld, líklega árið 1151. Nefnast þessir eldar Krýsuvíkureldar. Ritaðar heimildir benda til að þeim hafi lokið árið 1188. Hraun sem runnu í Krýsuvíkureldum eru Ögmundarhraun, sem er þeirra syðst, Mávahlíðahraun og Kapelluhraun. Ögmundarhraun eyddi a.m.k. einu býli sem sjá má merki um í óbrennishólmum.

Stampar

Stampar.

Eftir um 20 ára hlé hefjast síðan Reykjaneseldar sem stóðu yfir á tímabilinu 1210-1240 og marka lok um 450 ára langs eldsumbrotaskeiðs. Allgóð vitneskja er fyrir hendi um framgang Reykjaneselda 1210-1240. Eldarnir hófust með gosi í sjó við Kerlingarbás á Reykjanesi (skammt norður af Valahnúk). Eftir þetta færist gosvirknin á land og rann þá Yngra-Stampahraun frá 4 kílómetra langri gígaröð, líklega árið 1211. Samkvæmt rituðum heimildum gaus að minnsta kosti sex sinnum í sjó í Reykjaneseldum. Gjóskulög má merkja frá Reykjaneseldum í Þingvallasveit og í Borgarfirði frá um 1226 og á Álftanesi frá um 1231. Um tuttugu árum eftir Yngra-Stampagosið hófst sprungugos í Svartsengiskerfinu og á tímabilinu 1230-1240 runnu Eldvarpahraun, Illahraun og Arnarseturshraun. Eftir það lýkur eldunum og hefur ekki orðið hraungos á Reykjanesskaga síðan – eða í u.þ.b. 800 ár.“
Sjá þó MYNDIR af gosinu í Geldingadölum árið 2021…“.

Heimildir:
-Tölvupóstar.
-Haustráðstefna Jarðfræðafélags Íslands 26. nóvember 2010
-Eldgos á Reykjanesskaga á 8. og 9. öld Magnús Á. Sigurgeirsson og Kristján Sæmundsson Íslenskar Orkurannsóknir, Grensásvegi 9, 108 Reykjavík.

Brennisteinsfjöll

Eldborg í Brennisteinsfjöllum.

Raufarhólshellir

Um „Raufarhólshelli„, stærsta hraunhellinn á Suðurlandi, er nánast þrjár samhljóma frásagnir í Ísafold 1909, Fjallkonunni sama ár og í Lögberg 1933. Hér er frásögnin úr síðastnefna blaðinu:

„Allir kannast við stærstu hella landsins, Surtshelli, Stefánshelli og Víðgelmi, en það eru ótrúlega fáir Sunnlendingar, sem kannast við, eða hafa komið í stærsta hellinn hér sunnanlands: Raufarhólshelli í Ölfusi.
Hér skal sagt nokkuð frá helli þessum og því, sem um hann hefir verið skrifað, en jafnframt bent á þær leiðir, sem bestar eru að honum.

Raufarhólshellir

Raufarhólshellir.

Raufarhólshellir er í Eldborgarhrauni skamt frá bænum Vindheimm í Ölfusi. Þangað er akfært á bílum. Leiðin frá Reykjavík liggur um þjóðveginn austur, en skamt fyrir austan Kamba er beygt út af þjóðveginum til suðurs út á braut þá er liggur um Hjallahverfið og að Vindheimum. Frá Vindheimum er gengið til norð-vesturs um hálfrar stundar gang, og e r þá komið að hellinum.

Raufarhólshellir

Í Raufarhólshelli.

Hellirinn er ekki auðfundinn og er því betra að spyrja vel til vegar á Vindheimum, en þeir sem vanir eru að ferðast eftir landabréfum munu þó geta fundið hellinn tilsagnarlaust, eftir hinum nýja uppdrætti Herforingjaráðsis af SV-landi; þar er hellirinn greinilega merktur. Aðra leið en þessa má og fara að hellinum. Ef farið er á bílum t. d. að Kolviðarhóli eða Hveradölum og síðan gengið um Lágaskarð til suðausturs út í Eldborgarhraun. Leiðin frá Hveradölum að hellinum er um 10 km. Báðar þessar leiðir eru bráðskemtilegar.

En þeim, sem fara hina síðarnefndu leið, vildi eg benda á, að til þess að fara ekki alveg sama veg til baka frá hellinum er mjög skemtilegt að ganga lítið eitt vestur, um hin svo nefndu Þrengsli. Þá sjá menn um leið hið fyrirhugaða vegstæði nýja þjóðvegarins austur, því hann á að liggja um Þrengslin fram með Raufarhólshelli og niður í Ölfusið.
Hellirinn dregur nafn sitt af hól nokkrum skamt frá hellismunnanum, sem Raufarhóll heitir. Grasi gróin lág liggur að hellismunnanum og gengur hellirinn ofan í hraunið úr norðurenda lágarinnar. Raufarhólshellir er um 1 km. að lengd.
Víðast er hátt undir loft í hellinum og fallegar hvelfingar sumsstaðar. Marga einkennilega dropasteina er þar að sjá bæði í lofti og á gólfi. En það skemtilegasta, sem þarna er að sjá, eru íssúlurnar, sem standa á víð og dreif um hellisgólfið. Þær eru gildar mjög og margar um mannhæðar háar og gætu verið verðir hinna huldu vætta, sem hellinn byggja.
– Þegar liður á sumarið minka íssúlur þessar mikið vegna hitans.

Raufarhólshellir

Raufarhólshellir.

Þótt merkilegt megi virðast hafði hellir þessi aldrei verið neitt rannsakaður fyr en árið 1909 að 5 ungir og röskir Reykvíkingar hjóluðu austur í Hveradali, en gengu síðan þaðan um Lágaskarð að Raufarhólshelli. Þeir rannsökuðu hellinn rækiliega; mældu og tóku myndir.

Raufarhólshellir

Í Raufarhólshelli.

Frásögn um ferðalag þeirra birtist í Ísafold þ. 21. júli 1909. Hér skal birtur hluti af þeirri frásögn: „Þjóðsögur hafa gengið um þenna hellir (þ. e. Raufarhólshelli) að hann sé eitthvert feiknaflæmi. Þær sögur kveiktu fyrir tveim árum forvitni í þrem mönnum hér, svo að þeir lögðu upp til að kanna hellinn. Einn þeirra var Sveinn Guðmundsson járnsmiður hér í bænum. Þeir komust 300 faðma inn í hellinn. Þá brast þá ljós, svo þeir urðu frá að hverfa. ‘
Á sunnudaginn var (þ.e. 18. júlí 1009) lögðu fimm piltar upp héðan úr bænum, til þess að kanna hellinn að nýju: Sveinn Guðmundsson, sá er nú var nefndur, Guðbrandur Magnússon prentari (nú forstjóri Áfengisverslunar ríkisins), Carl Ólafsson ljósmyndari, Páll Magnússon járnsmiður og Stefán Guðmundsson trésmiður. Þeir voru vel búnir að ljósfærum, höfðu með sér þrjú karbid-ljósker, og 10 faðma langt snæri til mælinga. Þeir komust inn um allan hellinn. Hann reyndist 508 faðma langur, um 10 faðma breiður að jafnaði og 10—35 álna hár, á að giska. Lengdin er álíka mikil eins og frá Læk (Lækjartorgi mundi nú vera sagt) hér í bænum austur að Mjölni (gamla mulningsverksmiðjan rétt fyrir innan vatnsþró).

Raufarhólshellir

Raufarhólshellir.

Auk þess eru þrír afhellar út úr honum, einn 26 faðma langur, annar 37 faðma, og þeir báðir allháir. Hinn þriðji er 50 faðma langur, en ekki nema um 2 álnir á hæð. Jarðföll eru þrjú, en öll á fyrstu 30 föðmum, þegar þeim sleppir, er myrkurgeymurinn óslitinn inn í botn. Einn þessara félaga (G.M.) hefir farið um Surtshelli — Honum fanst meira um Raufarhólshelli að ýmsu leyti.“
Tiltölulega fáir hafa farið í hellinn síðan að þessir framtakssömu Reykvíkingar rannsökuðu hann.
Þess má þó geta að árið 1915 gengu nokkrir menn frá Eyrarbakka í hellinn. Fóru þeir um hann allan og tóku þar margar myndir. í fyrravor fór Jón Víðis mælingam. í hellinn ásamt starfsfólkinu á Vegamálaskrifstofunni og tók hann þá ágæta mynd við eitt jarðfallið í hellinum. Einnig höfum við Skátarnir farið í hann nokkrum sinnum.
Og nú á næstunni mun Ferðafélag Íslands efna til farar í hellinn og ættu þá sem flestir Reykvíkingar að nota það ágæta tækifæri til að skoða hann.

Raufarhólshellir

Raufarhólshellir.

Hellirinn er ekki greiðfær. Stórgrýti og urð þekur botninn og verður því að gæta hinnar mestu varúðar þegar í hann er gengið. Einkum er nauðsynlegt að hafa góð ljós og vcra vel skóaður, því vei þeim, sem hætta sér á lágum götuskóm í slíkar göngur, því þeir munu misstíga sig og meiða.

Raufarhólshellir

Í Raufarhólshelli.

Eins og áður er minnst á, heitir hraun það, sem Raufarhólshellir er í Eldborgarhraun. Um það segir Þorv. Thoroddsen meðal annars í bók sinni „Lýsing Íslands, 2. b. bls. 129: Ýms líkindi eru til þess, að þetta hraun sé það, sem getið er um að hafi runnið árið 1000, þegar kristni var lögtekin á Íslandi. „Þá kom maðr laupandi, ok sagði, at jarðeldr var upp kominn í Ölfusi, og mundi hann laupa á bæ Þórodds goða. Þá tóku heiðnir menn til orðs: „Eigi er undr í at guðin reiðist tölum slíkum.“ Þá mælti Snorri goði; „Um hvat reiddust guðin þá, er hér brann hraunit, er nú stöndum vér á?“ Áður var það ætlun manna, að það hefði verið Þurárhraun, sem þá myndaðist, en hitt er líklegra, að það hafi einmitt verið Eldborgarhraun, sem þá brann.“ – Jón Oddgeir Jónsson —Lesb.
Sjá MYNDIR af Raufarhólshelli.

Heimild:
-Fjallkonan, 28. tbl. 24.07.1909, Raufarhólshellir, bls. 110.
-Ísafold, 46. tbl. 21.07.19.0, Raufarhólshellir, bls. 182.
-Lögberg, 26. tbl. 29.06.1933, Raufarhólshellir, bls. 2.

Raufarhólshellir

Raufarhólshellir.

Geitafellsrétt

Geitafellsrétt (Selsvallarétt/Gjáarrétt) er undir Réttargjá suðaustan við Heiðina há, þar sem gjáin rís hæst. Um er að ræða nokkra dilka og almenning, auk leiðigarðs. Veggirnir standa nokkuð heillegir. Þegar Geitafellsrétt var aflögð um aldamótin 1900 var hlaðin rétt á Vörðufelli í Strandarheiði. Hún þótti erfið til rekstrar svo Selvogsréttin nýrri (Girðingarrétt) var hlaðin í heiðinni milli Hnúka og Urðarfells (Svörtubjarga). Réttin sú hefur einnig verið nefnd Gamlarétt, en hún var aflögð árið 1957.

Geitafellsrétt

Geitafellsrétt – uppdráttur ÓSÁ.

Í Örnefnaskráningu Gísla Sigurðssonar, yfirfarinni af Eyðþóri Þórðarsyni frá Torfabæ í Selvogi, fyrir Nes segir m.a.:
„Austur af Hnúkunum er komið á svæði, sem einu nafni er kallað Gjárnar eða Á Gjánum. Þetta svæði er milli Hnúka og Geitafells. Um það liggja gjár, sem það dregur nafn af. Þær liggja allar í sömu átt, frá Geitafelli. Austust og næst landamerkjum er Nesgjá. Vestar og nær Geitafelli er Réttargjá. Við hana var áður fyrr rétt, Geitafellsrétt, austur undir Geitafelli. Það var fyrrum aðalrétt Selvogsmanna og Ölfusinga. Við
austurenda Réttargjár eru Selsvellir alveg inn undir Geitafelli. Það var slægjuland frá Nesi. Þar fékkst gott hestahey. Götugjá er neðsta gjáin“.
Götugjá hefur einnig verið nefnd Nesgjá. Milli hennar og Geitafells eru tóftir sels vestan undir hraunhól.

Í Örnefnaslýsingu Gísla um Selvogsafrétt, einnig yfirfarinni af Eyþóri, segir:

Geitafellsrétt

Geitafellsrétt.

„Nesgjá er austust af gjánum, næst hreppamörkum. Réttargjá er vestar og nær Geitafelli Þar austur undir fellinu er Geitafellsrétt, en þar var fyrrum aðalrétt Selvogsinga og Ölfusinga“.

Í Þjóðólfi 1875 eru „Auglýsingar„. Þar er getið um Geitafellsrétt sbr:
„Um leið og eg geri almenningi kunnugt, að eg samkvæmt tilmælum amtmannsins yfir suðr- og vestrumdœminu hafi verið skipaðr lögreglustjóri til upprœtingar fjárklábans í suðurhluta Gullbringusýslu, í Selvogi og í Út-Ölfusinu inn fyrir Hjallahverfið, skal hér með skorað á fjáreigendr þá, sem kindr kynnu að eiga í réttum þeim, sem sótt er að úr þessu lögsagnarumdœmi mínu, að koma sem tímanlegast, að réttunum og hirða kindr sínar. Mun almenn skoðun á réttarfenu, fyrr en er dregið, fara fram í Gjáarrétt mánudaginn 20. p.m., í Geitafellsrétt þriðjudaginn 21. s. m. og í Hveragerðisrétt miðvikudaginn 22. s.m. Allar kindr þær, sem þá finnast með kláða eðr kláðavotti, munu samkvæmt 4. gr. tilsk. frá 5. jan. 1866 verða stranglega aðskildar frá hinu fénu og skornar þegar stað við réttina, ef eigandinn er ekki við til að hirða þær á tryggjandi hátt, svo að þær ekki nái samgöngum við annað fé, eða ef enginn annar vill taka þær að sér til hirðingar…“. – Reykjavík 15. september 1875, Jón Jónsson.

Í „Aðalskráningu fornleifa í sveitarfélaginu Ölfusi, Áfangaskýrsla I“, segir um Geitafellsrétt:

Geitafellsrétt

Geitafellsrétt – uppdráttur í Aðalskráningu fornleifa í Ölfusi.

„Geitafellsrétt er rúma 11,5 km norðaustan við [Nes í Selvogi]. Á heimasíðu FERLIS segir: „Geitafellsrétt (Selsvallarétt) er undir Réttargjá þar sem hún rís hæst. Um er að ræða nokkra dilka og almenning. Veggirnir standa nokkuð heillegir. Þegar Geitafellsrétt var aflögð um aldamótin 1900…“.
Umhverfis réttina er grasivaxið svæði. Til vesturs rís hamraveggur gjárinnar. Mosavaxið hraun er til austurs. Réttin er 34×20 m að stærð, snýr norðursuður og er í aflíðandi halla til austurs. Hún skiptist í fimm hólf og aðrekstrargarð. Réttin er sem fyrr segir hlaðin upp við vesturvegg Réttargjár og er grjóthlaðin. Veggirnir eru 0,5-1,2 m á hæð og má sjá 3-5 umför grjóthleðslu í þeim. Lýsingin hefst nyrst, í hólfi 1. Það er 15×7 m að innanmáli og snýr norðursuður. Tvö op eru inn í hólfið, eitt til norðurs inn í hólfið en hitt til suðvesturs, yfir í hólf 2. Réttargjá afmkar hluta af vesturvegg og er bjargið um 10 m hátt. Þetta er líklega almenningurinn. Hólf 2 er vestan við hólf

Réttargjá

Varða á Réttargjá.

1. Það afmarkast af hamravegg gjárinnar til vesturs, stórgrýti til austurs en hlaðnir veggir eru til suðurs. Hólfið er þríhyrningslaga, 12×6 m að stærð og snýr norður-suður. Op er sem fyr segir til austurs yfir í hólf 1 og annað til suðurs, yfir í hólf 4. Hólf 3 er sunnan við hólf 1. Það er minnst í réttinni og ekki sér móta fyrir opi þar inn. Hóflið er 7×7 m að stærð og er einnig þríhyrningslaga. Það mjókkar til vesturs. Hólf 4 er sunnan við hólf 2 og 3. Það er 14×8 m að innanmáli og snýr norðvestur-suðaustur. Op er á miðri suðurhlið, annað til norðurs, yfir í hólf 2 og hið þriðja til vesturs í hólf 5. Suðurhlið hólfsins er hrunin að mestu. Hólf 5 er vestan við hólf 4. Það er undir klettavegg gjárinnar og inn á milli bjarga sem þar eru. Hólfið er 4×1 m að innanmáli og snýr austur-vestur. Til norðausturs frá hólfi 3 er 35 m langur aðrekstrargarður. Hann er grjóthlaðinn, 1 m á breidd og 0,3-0,6 m á hæð.“

Heimildir:
-Nes- Örnefnaskrá, Gísli Sigurðsson og Eyðþór Þórðarson frá Torfabæ í Selvogi.
-Selvogsafréttur, Örnfanaskrá, Gísli Sigurðsson og Eyðþór Þórðarson.
-Þjóðólfur, 27. tbl. 20.09.1875, Auglýsingar, bls. 109-110.
-Aðalskráning fornleifa í sveitarfélaginu Ölfusi – Áfangaskýrsla I, Fornleifastofnun Íslands 2015, bls. 108-109.

Geitafellsrétt

Geitafellsrétt. Geitafell fjær.