Tag Archive for: Ölfus

Raufarhólshellir

Um „Raufarhólshelli„, stærsta hraunhellinn á Suðurlandi, er nánast þrjár samhljóma frásagnir í Ísafold 1909, Fjallkonunni sama ár og í Lögberg 1933. Hér er frásögnin úr síðastnefna blaðinu:

„Allir kannast við stærstu hella landsins, Surtshelli, Stefánshelli og Víðgelmi, en það eru ótrúlega fáir Sunnlendingar, sem kannast við, eða hafa komið í stærsta hellinn hér sunnanlands: Raufarhólshelli í Ölfusi.
Hér skal sagt nokkuð frá helli þessum og því, sem um hann hefir verið skrifað, en jafnframt bent á þær leiðir, sem bestar eru að honum.

Raufarhólshellir

Raufarhólshellir.

Raufarhólshellir er í Eldborgarhrauni skamt frá bænum Vindheimm í Ölfusi. Þangað er akfært á bílum. Leiðin frá Reykjavík liggur um þjóðveginn austur, en skamt fyrir austan Kamba er beygt út af þjóðveginum til suðurs út á braut þá er liggur um Hjallahverfið og að Vindheimum. Frá Vindheimum er gengið til norð-vesturs um hálfrar stundar gang, og e r þá komið að hellinum.

Raufarhólshellir

Í Raufarhólshelli.

Hellirinn er ekki auðfundinn og er því betra að spyrja vel til vegar á Vindheimum, en þeir sem vanir eru að ferðast eftir landabréfum munu þó geta fundið hellinn tilsagnarlaust, eftir hinum nýja uppdrætti Herforingjaráðsis af SV-landi; þar er hellirinn greinilega merktur. Aðra leið en þessa má og fara að hellinum. Ef farið er á bílum t. d. að Kolviðarhóli eða Hveradölum og síðan gengið um Lágaskarð til suðausturs út í Eldborgarhraun. Leiðin frá Hveradölum að hellinum er um 10 km. Báðar þessar leiðir eru bráðskemtilegar.

En þeim, sem fara hina síðarnefndu leið, vildi eg benda á, að til þess að fara ekki alveg sama veg til baka frá hellinum er mjög skemtilegt að ganga lítið eitt vestur, um hin svo nefndu Þrengsli. Þá sjá menn um leið hið fyrirhugaða vegstæði nýja þjóðvegarins austur, því hann á að liggja um Þrengslin fram með Raufarhólshelli og niður í Ölfusið.
Hellirinn dregur nafn sitt af hól nokkrum skamt frá hellismunnanum, sem Raufarhóll heitir. Grasi gróin lág liggur að hellismunnanum og gengur hellirinn ofan í hraunið úr norðurenda lágarinnar. Raufarhólshellir er um 1 km. að lengd.
Víðast er hátt undir loft í hellinum og fallegar hvelfingar sumsstaðar. Marga einkennilega dropasteina er þar að sjá bæði í lofti og á gólfi. En það skemtilegasta, sem þarna er að sjá, eru íssúlurnar, sem standa á víð og dreif um hellisgólfið. Þær eru gildar mjög og margar um mannhæðar háar og gætu verið verðir hinna huldu vætta, sem hellinn byggja.
– Þegar liður á sumarið minka íssúlur þessar mikið vegna hitans.

Raufarhólshellir

Raufarhólshellir.

Þótt merkilegt megi virðast hafði hellir þessi aldrei verið neitt rannsakaður fyr en árið 1909 að 5 ungir og röskir Reykvíkingar hjóluðu austur í Hveradali, en gengu síðan þaðan um Lágaskarð að Raufarhólshelli. Þeir rannsökuðu hellinn rækiliega; mældu og tóku myndir.

Raufarhólshellir

Í Raufarhólshelli.

Frásögn um ferðalag þeirra birtist í Ísafold þ. 21. júli 1909. Hér skal birtur hluti af þeirri frásögn: „Þjóðsögur hafa gengið um þenna hellir (þ. e. Raufarhólshelli) að hann sé eitthvert feiknaflæmi. Þær sögur kveiktu fyrir tveim árum forvitni í þrem mönnum hér, svo að þeir lögðu upp til að kanna hellinn. Einn þeirra var Sveinn Guðmundsson járnsmiður hér í bænum. Þeir komust 300 faðma inn í hellinn. Þá brast þá ljós, svo þeir urðu frá að hverfa. ‘
Á sunnudaginn var (þ.e. 18. júlí 1009) lögðu fimm piltar upp héðan úr bænum, til þess að kanna hellinn að nýju: Sveinn Guðmundsson, sá er nú var nefndur, Guðbrandur Magnússon prentari (nú forstjóri Áfengisverslunar ríkisins), Carl Ólafsson ljósmyndari, Páll Magnússon járnsmiður og Stefán Guðmundsson trésmiður. Þeir voru vel búnir að ljósfærum, höfðu með sér þrjú karbid-ljósker, og 10 faðma langt snæri til mælinga. Þeir komust inn um allan hellinn. Hann reyndist 508 faðma langur, um 10 faðma breiður að jafnaði og 10—35 álna hár, á að giska. Lengdin er álíka mikil eins og frá Læk (Lækjartorgi mundi nú vera sagt) hér í bænum austur að Mjölni (gamla mulningsverksmiðjan rétt fyrir innan vatnsþró).

Raufarhólshellir

Raufarhólshellir.

Auk þess eru þrír afhellar út úr honum, einn 26 faðma langur, annar 37 faðma, og þeir báðir allháir. Hinn þriðji er 50 faðma langur, en ekki nema um 2 álnir á hæð. Jarðföll eru þrjú, en öll á fyrstu 30 föðmum, þegar þeim sleppir, er myrkurgeymurinn óslitinn inn í botn. Einn þessara félaga (G.M.) hefir farið um Surtshelli — Honum fanst meira um Raufarhólshelli að ýmsu leyti.“
Tiltölulega fáir hafa farið í hellinn síðan að þessir framtakssömu Reykvíkingar rannsökuðu hann.
Þess má þó geta að árið 1915 gengu nokkrir menn frá Eyrarbakka í hellinn. Fóru þeir um hann allan og tóku þar margar myndir. í fyrravor fór Jón Víðis mælingam. í hellinn ásamt starfsfólkinu á Vegamálaskrifstofunni og tók hann þá ágæta mynd við eitt jarðfallið í hellinum. Einnig höfum við Skátarnir farið í hann nokkrum sinnum.
Og nú á næstunni mun Ferðafélag Íslands efna til farar í hellinn og ættu þá sem flestir Reykvíkingar að nota það ágæta tækifæri til að skoða hann.

Raufarhólshellir

Raufarhólshellir.

Hellirinn er ekki greiðfær. Stórgrýti og urð þekur botninn og verður því að gæta hinnar mestu varúðar þegar í hann er gengið. Einkum er nauðsynlegt að hafa góð ljós og vcra vel skóaður, því vei þeim, sem hætta sér á lágum götuskóm í slíkar göngur, því þeir munu misstíga sig og meiða.

Raufarhólshellir

Í Raufarhólshelli.

Eins og áður er minnst á, heitir hraun það, sem Raufarhólshellir er í Eldborgarhraun. Um það segir Þorv. Thoroddsen meðal annars í bók sinni „Lýsing Íslands, 2. b. bls. 129: Ýms líkindi eru til þess, að þetta hraun sé það, sem getið er um að hafi runnið árið 1000, þegar kristni var lögtekin á Íslandi. „Þá kom maðr laupandi, ok sagði, at jarðeldr var upp kominn í Ölfusi, og mundi hann laupa á bæ Þórodds goða. Þá tóku heiðnir menn til orðs: „Eigi er undr í at guðin reiðist tölum slíkum.“ Þá mælti Snorri goði; „Um hvat reiddust guðin þá, er hér brann hraunit, er nú stöndum vér á?“ Áður var það ætlun manna, að það hefði verið Þurárhraun, sem þá myndaðist, en hitt er líklegra, að það hafi einmitt verið Eldborgarhraun, sem þá brann.“ – Jón Oddgeir Jónsson —Lesb.
Sjá MYNDIR af Raufarhólshelli.

Heimild:
-Fjallkonan, 28. tbl. 24.07.1909, Raufarhólshellir, bls. 110.
-Ísafold, 46. tbl. 21.07.19.0, Raufarhólshellir, bls. 182.
-Lögberg, 26. tbl. 29.06.1933, Raufarhólshellir, bls. 2.

Raufarhólshellir

Raufarhólshellir.

Geitafellsrétt

Geitafellsrétt (Selsvallarétt/Gjáarrétt) er undir Réttargjá suðaustan við Heiðina há, þar sem gjáin rís hæst. Um er að ræða nokkra dilka og almenning, auk leiðigarðs. Veggirnir standa nokkuð heillegir. Þegar Geitafellsrétt var aflögð um aldamótin 1900 var hlaðin rétt á Vörðufelli í Strandarheiði. Hún þótti erfið til rekstrar svo Selvogsréttin nýrri (Girðingarrétt) var hlaðin í heiðinni milli Hnúka og Urðarfells (Svörtubjarga). Réttin sú hefur einnig verið nefnd Gamlarétt, en hún var aflögð árið 1957.

Geitafellsrétt

Geitafellsrétt – uppdráttur ÓSÁ.

Í Örnefnaskráningu Gísla Sigurðssonar, yfirfarinni af Eyðþóri Þórðarsyni frá Torfabæ í Selvogi, fyrir Nes segir m.a.:
„Austur af Hnúkunum er komið á svæði, sem einu nafni er kallað Gjárnar eða Á Gjánum. Þetta svæði er milli Hnúka og Geitafells. Um það liggja gjár, sem það dregur nafn af. Þær liggja allar í sömu átt, frá Geitafelli. Austust og næst landamerkjum er Nesgjá. Vestar og nær Geitafelli er Réttargjá. Við hana var áður fyrr rétt, Geitafellsrétt, austur undir Geitafelli. Það var fyrrum aðalrétt Selvogsmanna og Ölfusinga. Við
austurenda Réttargjár eru Selsvellir alveg inn undir Geitafelli. Það var slægjuland frá Nesi. Þar fékkst gott hestahey. Götugjá er neðsta gjáin“.
Götugjá hefur einnig verið nefnd Nesgjá. Milli hennar og Geitafells eru tóftir sels vestan undir hraunhól.

Í Örnefnaslýsingu Gísla um Selvogsafrétt, einnig yfirfarinni af Eyþóri, segir:

Geitafellsrétt

Geitafellsrétt.

„Nesgjá er austust af gjánum, næst hreppamörkum. Réttargjá er vestar og nær Geitafelli Þar austur undir fellinu er Geitafellsrétt, en þar var fyrrum aðalrétt Selvogsinga og Ölfusinga“.

Í Þjóðólfi 1875 eru „Auglýsingar„. Þar er getið um Geitafellsrétt sbr:
„Um leið og eg geri almenningi kunnugt, að eg samkvæmt tilmælum amtmannsins yfir suðr- og vestrumdœminu hafi verið skipaðr lögreglustjóri til upprœtingar fjárklábans í suðurhluta Gullbringusýslu, í Selvogi og í Út-Ölfusinu inn fyrir Hjallahverfið, skal hér með skorað á fjáreigendr þá, sem kindr kynnu að eiga í réttum þeim, sem sótt er að úr þessu lögsagnarumdœmi mínu, að koma sem tímanlegast, að réttunum og hirða kindr sínar. Mun almenn skoðun á réttarfenu, fyrr en er dregið, fara fram í Gjáarrétt mánudaginn 20. p.m., í Geitafellsrétt þriðjudaginn 21. s. m. og í Hveragerðisrétt miðvikudaginn 22. s.m. Allar kindr þær, sem þá finnast með kláða eðr kláðavotti, munu samkvæmt 4. gr. tilsk. frá 5. jan. 1866 verða stranglega aðskildar frá hinu fénu og skornar þegar stað við réttina, ef eigandinn er ekki við til að hirða þær á tryggjandi hátt, svo að þær ekki nái samgöngum við annað fé, eða ef enginn annar vill taka þær að sér til hirðingar…“. – Reykjavík 15. september 1875, Jón Jónsson.

Í „Aðalskráningu fornleifa í sveitarfélaginu Ölfusi, Áfangaskýrsla I“, segir um Geitafellsrétt:

Geitafellsrétt

Geitafellsrétt – uppdráttur í Aðalskráningu fornleifa í Ölfusi.

„Geitafellsrétt er rúma 11,5 km norðaustan við [Nes í Selvogi]. Á heimasíðu FERLIS segir: „Geitafellsrétt (Selsvallarétt) er undir Réttargjá þar sem hún rís hæst. Um er að ræða nokkra dilka og almenning. Veggirnir standa nokkuð heillegir. Þegar Geitafellsrétt var aflögð um aldamótin 1900…“.
Umhverfis réttina er grasivaxið svæði. Til vesturs rís hamraveggur gjárinnar. Mosavaxið hraun er til austurs. Réttin er 34×20 m að stærð, snýr norðursuður og er í aflíðandi halla til austurs. Hún skiptist í fimm hólf og aðrekstrargarð. Réttin er sem fyrr segir hlaðin upp við vesturvegg Réttargjár og er grjóthlaðin. Veggirnir eru 0,5-1,2 m á hæð og má sjá 3-5 umför grjóthleðslu í þeim. Lýsingin hefst nyrst, í hólfi 1. Það er 15×7 m að innanmáli og snýr norðursuður. Tvö op eru inn í hólfið, eitt til norðurs inn í hólfið en hitt til suðvesturs, yfir í hólf 2. Réttargjá afmkar hluta af vesturvegg og er bjargið um 10 m hátt. Þetta er líklega almenningurinn. Hólf 2 er vestan við hólf

Réttargjá

Varða á Réttargjá.

1. Það afmarkast af hamravegg gjárinnar til vesturs, stórgrýti til austurs en hlaðnir veggir eru til suðurs. Hólfið er þríhyrningslaga, 12×6 m að stærð og snýr norður-suður. Op er sem fyr segir til austurs yfir í hólf 1 og annað til suðurs, yfir í hólf 4. Hólf 3 er sunnan við hólf 1. Það er minnst í réttinni og ekki sér móta fyrir opi þar inn. Hóflið er 7×7 m að stærð og er einnig þríhyrningslaga. Það mjókkar til vesturs. Hólf 4 er sunnan við hólf 2 og 3. Það er 14×8 m að innanmáli og snýr norðvestur-suðaustur. Op er á miðri suðurhlið, annað til norðurs, yfir í hólf 2 og hið þriðja til vesturs í hólf 5. Suðurhlið hólfsins er hrunin að mestu. Hólf 5 er vestan við hólf 4. Það er undir klettavegg gjárinnar og inn á milli bjarga sem þar eru. Hólfið er 4×1 m að innanmáli og snýr austur-vestur. Til norðausturs frá hólfi 3 er 35 m langur aðrekstrargarður. Hann er grjóthlaðinn, 1 m á breidd og 0,3-0,6 m á hæð.“

Heimildir:
-Nes- Örnefnaskrá, Gísli Sigurðsson og Eyðþór Þórðarson frá Torfabæ í Selvogi.
-Selvogsafréttur, Örnfanaskrá, Gísli Sigurðsson og Eyðþór Þórðarson.
-Þjóðólfur, 27. tbl. 20.09.1875, Auglýsingar, bls. 109-110.
-Aðalskráning fornleifa í sveitarfélaginu Ölfusi – Áfangaskýrsla I, Fornleifastofnun Íslands 2015, bls. 108-109.

Geitafellsrétt

Geitafellsrétt. Geitafell fjær.

Heiðin há

Í Andvara 1884 er frásögn Þorvaldar Thoroddsens af ferð hans á Heiðina há ásamt séra Ólafi, presti á Vogsósum, undir fyrirsögninni „Ferðir á Suðurlandi sumarið 1883„:

Heiðin há

Heiðin há – gígurinn (loftmynd).

„Upp af Selvogsheiði er fjarskamikil hraunhunga, sem kölluð er »Heiðin há«. þangað fórum við með sjera Ólafi frá Vogsósum. Heiðin há er 2030 fet á hæð, goysimikil flatvaxin eldfjallsbunga, lik í lögun og Skjaldbreiður; hún er hlaðin upp úr óteljandi, gömlum hraunlögum suður af Bláfellshlíðum ; hallast hún jafnt og pjett niður að Selvogsheiði (3°), og eru margar og langar gjár í lægðinni, þar sem þær mætast. Efst er Hrossagjá; hún er styzt, og er utan í heiðarhlíðinni sjálfri; þar næst Strandagjá, mjög löng, nær frá Svörtubjörgum upp undir Geitafell; svo er Rjettargjá ; hún byrjar í slakkanum milli heiðanna, og nær upp í Geitafell; og syðst er Götugjá (eða Nesgjá); hún nær frá sjó yfir hlíðina á Selvogsheiði upp í Lambafellshraun fyrir noðan og austan Geitafell; neðri (syðri) brúnin, sem er utan í Heiðinni há, er lægri, svo landið hefir auðsjáanlega sigið í slakkanum milli heiðanna.

Heiðin há

Heiðin há – gjár.

Þegar við fórum upp á »Heiðina há«, fórum við upp Grindaskarðaveg upp að Hvalhnúk, og riðum svo þar upp á sjálfa heiðarbunguna. Efst á heiðinni markar fyrir gígnum, sem öll þau fjarskalegu hraun hafa komið úr, sem mynduðu heiðina. Gígurinn er nú fullur af hrauni, en hefir verið afarstór, sem sjá má af leifum þeim, sem eptir standa af gígröndinni; það eru dálitlir hraunhnúkar, sem standa í kring; gígurinn hofir verið allt að 100 faðmar að þvermáli; sunnanverðu við þenna gíg er að auki 2 eða 3 bollar miklu minni, hálffullir af hrauni. Sjálf er heiðin mjög stór um sig; eintóm gömul hraun, með holum og gjótum og hallast lítið, 2°, til vosturs, og 3° til austurs.

Heiðin há

Heiðin há – jarðfræðikort Ísor.

Heiðasljetturnar milli »Heiðarinnar há» og Brennisteinsfjalla eru einn storkinn hraunsjór; hafa þessi hraun flest fallið ofan úr austurhallanum á Brennisteinsfjöllunum, því þar eru stórir gígir svo tugum skiptir allt norður fyrir Grindaskörð: Úr þessum hraunum hafa straumarnir komið, er fjellu niður hjá Stakkavík og Herdísarvík. Gömlu hraunin í Selvogi, sem víðast eru nú mjög sandorpin, eru flest komin úr Selvogsheiði, og saman við þau hafa að ofan runnið hraun úr Heiðinni há. Austan við Heiðina há, milli hennar og Meitla og Geitafells að austan, tekur við vestri armurinn af Lambafellshrauni. Við fengum bezta veður, og útsjónin var ágætlega fögur; landið lá eins og uppdráttur fyrir fótum vorum, allt austur í Eyjafjöll og norður yfir Faxaflóa.

Heiððin há

Heiðin há – jarðfræðikort.

Sunnanlandsundirlendið allt og stórárnar sáust einkar vel, eins og grænn dúkur með silfruðum hríslum; Vestmannaeyjar lyptust upp af hyllingunni, og Snæfellsjökull norðan við flóann blasti við eins fagur og hann er vanur; langt upp á landi rís Skjaldbreiður við himin, og jöklarnir með hvítleitum bjarma. Norðan við Heiðina há eru Bláfjöll, eða rjettara sagt; norðurbrún hennar styðst upp að Bláfjöllum. Það er mikill og langur fjallgarður og hár (um 2200 fet); frá þeim gengur hálsarani suður lægðina milli Heiðarinnar há og Brennisteinsfjalla, sem heitir Ásar; Hvalhnúkur er einn af þeim ásum.“

Ólafur Þorvaldsson skrifaði um Grindarskarðsveginn í Árbók Hins íslenska fornleifafélags 1943. Frásögn hans tekur við þar sem lýsing Þorvaldar sleppti:

Heiðin há

Í Heiðinni há  – Bláfjöll fjær.

„Þegar lagt er upp úr Stóra-Leirdal, er strax farið upp allbrattan háls, með nokkrum aðdraganda austur af. Er þetta Hvalskarð.
Suðvestur af Hvalskarði er Hvalhnjúkur, mjór og allhár, en frekar þunnur. Ekki þætti mér ólíklegt, að nafnið sé dregið af lögun hnjúksins, svo mjög minnir hann á bak stórhvelis að allri lögun. Annars segir þjóðsagan, að tröllkona norðan af fjalli hafi farið til fanga í Selvog og komið þar á hvalfjöru og haft þaðan með sér það, sem hún treysti sér til að komast með, en til hennar sást og hún elt. Varð henni allerfið undankoman, og náðist hún í skarði því, sem síðan er nefnt Hvalskarð og hnjúkurinn þar suður af Hvalhnjúkur, sem fyrr er getið.

eiðin há

Efst í Heiðinni há.

Þegar austur úr Hvalskarði er komið, taka við Hvalskarðsbrekkur til vinstri handar, en Lágahraun, með háum, strjálum hólum, til hægri handar. Hvalskarðsbrekkur liggja í suður- og suðvesturdrögum víðáttumikillar heiðarbungu, er nefnist Heiðin há. Ekki er mikill gróður uppi á Heiðinni há. Grámosi er þar fyrirferðarmestur, og liggur hann yfir hálfbrenndum grjóturðum.

Fjallið eina

Fjallið eina.

Mishæðalaus má heiðin teljast, en dregst að toppi á alla vegu, og heitir efsti toppur hennar Kerlingarhnjúkur og er 62 6 m hár. Útsýni í björtu er allmikið og oft fagurt af heiðartoppnum, en þó sést ekki það fegursta, sem Heiðin há hefur að bjóða, — en menn vita aðeins af því kringum sig — það er nafn heiðarinnar, það er einkennilega fagurt, í senn fornlegt og skáldlegt. Að velja einmitt þetta nafn, en ekki t.d. Háaheiði eða eitthvað þvílíkt, lýsir því, hvað sá, sem skírði, hefur verið mikill snillingur í nafngiftum á örnefni, og sennilegt er, að fleiri fögur og sérkennileg örnefnaheiti um þessar slóðir eigi til sama manns að telja. Má þar nefna Fjallið eina, sem sver sig greinilega í sömu ætt.

Þegar Hvalskarðsbrekkum sleppir og komið er nokkuð austur með heiðarbrekkunum, er stór, stakur hraunhóll vestur við veginn, Þorvaldshóll. Litlu austar, þegar brekkunum sleppir, eða þær lækka svo, að útsýn opnast til norðausturs, blasir við í þeirri átt allstórt fell, Urðarfell.“

Sjá einnig HÉR.

Heimildir:
-Andvari, 1. tbl. 01.01.1884, Ferðir á Suðurlandi sumarið 1883, Þorvaldur Thoroddsen, bls. 23-24.
-Árbók Hins íslenska fornleifafélags 01.01.1943, Grindaskarðavegur – Ólafur Þorvaldsson, bls. 102-103.

Heiðin há

Kerlingarhnúkur – Geitafell fjær.

Gapi

Í Árbók Hins íslenska fornleifafélags 1930 er hluti „Úr lýsingu Strandarkirkju- og Krýsuvíkursókna eftir séra Jón Vestmann, 1840“ undir fyrirsögninni „Skýrslur um hella, teknar úr sóknalýsingum presta, frá þvi um 1840“. Þar fjallar Jón um fjárhellana ofan Selvogs, í Selvogsheiði (Strandarhæð), Sængurkonuhelli í Herdísarvíkurhrauni og fjárskjólin í Krýsuvíkurhrauni austan Krýsuvíkur:

Sængurkonuhellir

Sængurkonuhellir í Herdísarvíkurhrauni.

„Herdísarvíkurhraun kemur úr Brennisteinsfjöllunum , engir eru þar hellirar eður stórgjár; — þó er þar 1 hellir, kallaður Sængurkonuhellir, því kvenpersóna hafði einhvern tíma alið þar barn; þessi hellir er annars ekki stór.

Strandarhellir

Strandarhellir.

Í Selvogsheiði eru 3 hellrar: a. Strandarhellir, rúmar 200 fjár. b. Bjargarhellir, álíka stór. c. Gapi, tekur um 60 kindur. d. Vestan undir Krýsuvíkurhrauni er stór hellir, og bezta hagaland í kring, í og með hrauninu, samt víðar út um heiðina, svo alltíð má beita fé undir vind, af hverri átt, sem hann er. Hellir þessi er langt frá bæjum; er því erfitt að nota hann í vetrarharðindum. Fyrir hér um bil 100 árum, eður má ske nokkuð meir, var bóndi í Krýsuvík, að nafni Arngrímur, mig minnir: Jónsson. Hann tíundaði jafnan 50 hndr. Hann hafði fé sitt við hellir þennan. Hann skyldi hafa átt 99 ær grákollóttar. Systir hans átti eina á, eins lita, og hætti hann ei fyr að fala hana af systur sinni en hún yfirlét honum ána, sárnauðug. Sama veturinn, seint, gjörði áhlaupsbil, sem stóð 6 dægur. Hrakti þá allt hans fé fram af Krýsuvíkurbergi, hér og þar til dauðs og algjörlegs taps, því sjórinn tók við fyrir neðan bergið, en vindurinn rak til hafs. —

Gvendarhellir

Gvendarhellir – Hús Krýsuvíkur-Gvendar framan við hellismunnann.

Í hengisfönninni framaní bergbrúninni stóð Grákolla alein, er hann fékk hjá systur sinni, þegar hann eftir bylinn fór að leita að fénu. Tekur hann ána þá og reynir í þrígang að kasta henni framaf berginu, en gat aldrei kastað henni svo langt, að hún færi niðurfyrir, en jafnótt og hún losnaði í hvert sinni við hendur hans, brölti hún upp að hnjám honum. Loksins gaf hann frá sér, og skal hafa sagt löngu seinna, að útaf á þessari hefði hann eignazt 100 fjár. — Þetta hefi ég að sögusögn og gef það ei út sem áreiðanlegan sannleik. —

Gvendarhellir

Í Arngrímshelli (Gvendarhelli).

Ævilok Arngríms urðu þau, að steinn datt á hann úr Krýsuvíkurbergi og murði hann í sundur, og 2 manneskjur aðrar. Þetta er víst.
Árið 1827 kom gamall bóndi til Krýsuvíkursóknar, Guðmundur Bjarnason, byggði nýbýlið Læk, aldeilis að stofni, átti margt fé, hélt því við áðurnefndan hellir, en þar honum þótti langt að hirða það þar, byggði hann þar annan bæ, dásnotran sem hinn, með glergluggum, sængurhúsi, af- og al-þiljuðu, með 2 rúmum; í hinum karminum geymsluhús. Byggði hann hús þetta framan við hellirsdyrnar og rak féð gegnum göngin útúr og inní hellirinn. Hlóð af honum með þvervegg. Bjó til lambastíu með öðrum; gaf þeim þar, þá henta þótti; bjó til jötur úr tilfengnum hellum allt í kring í stærri parti hellirsins; gaf þar fullorðna fénu í innistöðum (sem verið mun hafa allt að 200m eftir ágetskun manna). Flutti þangað talsvert hey og smiðju sína, og mun hafa starfað þetta að mestu, ef ei öllu leyti, aleinn, á einu ári. Þarna var hann 10 vetur samfellt yfir kindum sínum, aleinn, en á sumrum heima. Loks gafst hann upp, yfir sjötugt, og sagðist hafa verið smali síðan hann hafði 6 ár á baki.“

Fjárskjólshraun

Fjárskjólið í Fjárskjólshrauni.

Einhverra hluta vegna gat Jón Vestmann ekki um fjárskjólið góða skammt suðaustan við nefndan helli Arngríms og Guðmundar í Fjárskjólshrauni. Ekki er útilokað, vegna þess hversu stutt er á milli fjárskjólanna, að það austara hafi verið athvarf Arngríms, enda mun nær Krýsuvíkurbergi og aðgengilegra að því þaðan og aðgengi að berginu auðveldara. Inni í fjárskjólinu ú Fjárskjólshrauni er hlaðið athvarf fyrir smala, sem nú hefur að nokkru fallið saman.

Heimild:
-Árbók Hins íslenska fornleifafélags 01.01.1930, Skýrslur um hella, teknar úr sóknalýsingum presta, frá þvi um 1840 – Úr lýsingu Strandarkirkju- og Krýsuvíkursókna eftir séra Jón Vestmann 1840, bls. 76.

Fjárskjólshraun

Í Fjárskjólshraunsskjóli í Fjárskjólshrauni.

Herdísarvík

Einar Þorsteinsson frá Hreiðuborg skrifar um „Verbúðalíf í Herdísarvík og Selvogi“ á seinni hluta 19. aldar í Sunnudagsblað Alþýðublaðsins árið 1939:

Einar Þorsteinnson„Ég, Einar Þorsteinsson, er fæddur 8. desember 1870 í Móakoti hjá Hjalla í Ölfusi. Faðir minn var Þorsteinn Teitsson, sonur Teits Helgasonar hafnsögumanns á Eyrarbakka, er bjó í Einarshöfn. Móðir mín var Guðlaug Hannesdóttir frá Hjalla. Faðir hennar, Hannes Guðmundsson, var lengi bóndi á Hjalla og víðar í Ölfusi. Er ég var 6 ára að aldri var ég tekinn til uppfósturs af Ólafi Jóhannessyni og Ragnhildi Ísleifsdóttur, sem þá bjuggu á Mosastöðum í Kaldaðanesshverfi. Þegar ég var 16 ára, fluttu fósturforeldrar mínir að, Hreiðurborg í Kaldaðarnesshverfi — og bjuggu þar frá því.
Veturinn 1887 var farið að tala um, að ég færi eitthvað á vertíðinni, til að læra sjóstörf, og ná í einhvern afla. Var þá leitað til föður míns, hvort hann myndi ekki geta komið mér fyrir á sama skipi og hann réri á, og var talað um hálfdrætti. — Þá voru mikið notuð handfæri í Herdísarvík, en þar réri faðir minn. Þetta gekk vel, ég fékk að vera í skjóli föður míns, sem kallað er. Skyldi ég hafa helming af því sem ég drægi á færi og svo hálfan hlut — þegar fiskað var á línu (lóð).

Krýsuvík

Í Krýsuvík 1887. Árni Gíslason lengst t.h.

Svo leið að vertíð. Þá fór ég til föður míns, en hann bjó þá í Hraunshól hjá Hrauni í Ölfusi. Það var áður búið að fara með útgerð mína, skrínu með kæfu og smjöri. Það var væn kind í kæfu og 2—3 fjórðungar af smjöri og hangikjöt. Svo voru skinnklæði, brók og skinnstakkur, og hey í poka á bálkinn, í rúmstæðið — og ekki má gleyma harðfiskinum, sem hafður var líka.
Eins og fyrr segir, fór ég til föður míns, og gengum við svo til Herdísarvíkur, beint út sanda og hraun til Vogsósa. Stönzuðum þar, og svo áfram til Herdísarvíkur. Formaður okkar var Þorkell Jónsson vinnumaður hjá Árna Gíslasyni fyrrverandi sýslumanni í Skaftafellssýslu, sem þá bjó í Krýsuvík. Árni átti skipið og tvö önnur, sem gengu þarna á vertíðinni. Formenn fyrir þeim hétu Einar frá Nýjabæ og Guðmundur, sem kallaður var ráðsmaður.

Herdísarvík

Herdísarvík 1940-1950. Krýsuvíkursjóbúðin var heima við bæ.

Þessa vertíð voru þarna 6 skip. Árni átti 3. Bjarni Hannesson bjó þá í Herdísarvík, bróðir Guðmundar, sem lengi var í Tungu í Flóa. Hann átti víst 2 skip — eða þeir mágar í félagi, Björn Eyjólfsson og Bjarni. Björn Eyjólfsson var bróðir Sólveigar konu Bjarna. Þau systkini voru börn Eyjólfs frá Þorlákshöfn — Björnssonar frá Þúfu í Ölfusi. En móðir þeirra var Sigríður Jónsdóttir, Geirmundarsonar, þess sem getur um í Kambránssögu. Sjötta skipið var með að mig minnir Sæmundur Ingimundarson frá Stakkarvík, og held ég að Bjarni hafi átt það. Flest af þessum skipum hafði víst smíðað Björn Eyjólfsson. Hann var smiður mikill bæði á járn og tré. Var til þess tekið, hvað hann var mikilvirkur og vandvirkur, alltaf var hann í smiðjunni, þegar landlegur voru á vertíðinni. Meira um Björn segir síðar.
Nú var ég kominn í útver og leið vel. Ekki gaf nú strax á sjó, og hafði ég lítið að gjöra, enn faðir minn var ekki iðjulaus. Hann var alltaf að smíða ýms búsáhöld, fötur, bala, tunnur o.m.fl. Hann var smiður með afbrigðum, smíðar voru hans aðalatvinna — nema um sláttinn var hann oftast við heyvinnu.

Herddísarvík

Herdísarvík – vörin.

Nú byrjuðu róðrar, og man ég vel eftir fyrsta róðrinum. Það var gott sjóveður og verið með færi. Ég hafði aldrei á sjó komið fyrr, en ég kunni áralagið, hafði lært það á Ölfusá. Það var tregur fiskur — og dró ég einn fisk. Ekki var ég sjóveikur, hefi enda aldrei til sjóveiki fundið. Svo lagaðist með dráttinn. ég dró töluvert, þó dálítið misjafnt. Stundum dró ég hlutinn, það er að segja eins og þeir fengu í hlut, stundum minna.

Herdísarvík

Herdísarvík; sjóbúðir – kort ÓSÁ.

Einu sinni dró ég 40 fiska. Þá fékk skipið 24 í hlut. Voru þá teknir af mér 16 fiskar. Það stóð svoleiðis á skiptum — og hafði ég þá jafnan hlut og hinir. Það kom mikið undir því hvernig stóð á skiptum, hvað formaður tók mikið af mér, stundum tók hann lítið, stundum meir en helming. Svo var farið að fiska með línu, þá fékk ég hálfan hlut. Línan var stutt, 2 bjóð með 6 strengjum, 60. faðma löngum í hvoru bjóði, og ein og hálf alin á milli króka.
Þegar fiskirí var, þá stóð þétt á línunni á löngum kafla, oft á hverju járni. Línan var dregin í austurrúmi og dregin hægt. Þá lét formaður mig vera með færið mitt aftur í skut, og þar dró ég oft töluvert þó ferð væri á skipinu. Náttúrulega var drift á færinu líkt og á seglskipi, sem liggur á fiskiríi, tökum t.d. kútter. Þegar komið var inn á legu, skammt undan lendingunni, var stanzað og farið að seila, og var andæft þar meðan seilað var. Svo var seilunin hnýtt saman og þeim síðan hnýtt í 60 faðma langt kaðaltó, sem kallað var hlaupató. Tóið var undið í hnykil, sem látinn var velta í skutnum, og skyldi bitamaður gæta þess, að ekki stæði við eða tefði fyrir tóinu að rekjast fljótt, og eins að gæta að því að hnykillinn færi ekki upp úr skutnum. Ef brim var, þá var beðið eftir lagi, og kallaði formaður lagið og sagði: — Róið nú vel, piltar! Svo var róið hart upp í fjöru, og stökk hver út við sinn keip og skipinu kippt upp þangað til því var borgið fyrir eða bjargað frá sjó. Síðan voru seilarnar dregnar upp. Svo ef róið var aftur, fóru sumir að beita þessi tvö bjóð, en hinir að bera upp fiskinn, og þurfti stundum að ná úr honum beitu, því að beitt var gotu (hrognum).

Seil

Sjómenn með seilaðan fisk – Bjarni Jónsson.

Fiskurinn var borinn upp á byrðarólum. Það var dregið af seilarólinni á byrðarólina, og svo lyfti vanalega annar upp á axlir hins. Var svo hringur af fiski allt í kring, bæði bak og fyrir. Fiskurinn var borinn á skiptavöll og skipt þar í köst, sem kallað var, tveir hlutir saman í kasti. Vanalega skipti formaður. Þarna á skiptavellinum var gert að, hausað og flatt. Fiskurinn svo borinn inn á tún og lagður þar í kös, raðað þétt hverjum við annan. Svo löngu seinna borinn upp fyrir tún og lagður þar á grjótgarða í hrauninu til herzlu. Mest af fiskinum var hert þessa vertíð, eitthvað víst saltað af skipshlutunum. Ekki man ég hvaða verð var á fiski þessa vertíð eða vorið eftir, en 2 eða 3 árum seinna var verðið á harðfiski 160 krónur skippundið (160 kíló).

Herdísarvík

Herdísarvík og Stakkavík – kort.

Allt var hirt, hausar hertir, hrogn söltuð, svil söltuð, sundmagi og kútmagi saltað. Sundmaginn svo verkaður á vorin og lagður inn í verzlanir, en stundum fluttur heim og étinn. Allt hitt raskið notað til heimilis uppi í sveitunum, og töluvert flutt oft heim af harðfiskinum. Það má ekki gleyma að skýra frá því, að alltaf var lesin sjóferðabæn. Og fyrstu vertíðina, sem ég reri í útveri, var lesin föstuhugvekja og lesnir Passíusálmar, ekki sungnir. Það var sama þótt seint væri komið til búðar að kveldi, þá var það ekki vanrækt. Það er nú lítið að segja meira frá þessari vertíð, sem ég var fyrst í Herdísarvík.
Veturinn 1888 fór ég ekkert til sjós, varð að vera heima af því að fóstri minn réðist til Eyrarbakka til aðgerðar á fiski á vertíðinni, svo ég varð að vera heima við skepnuhirðingu, svokallaðar gegningar.
Veturinn 1889 reri ég í Selvogi hjá gömlum manni, sem Guðni Ásmundsson hét. Hann átti heima í Austurnesi í Voginum. Frá þeirri vertíð er lítið að segja. Það fiskaðist lítið vegna ógæfta, því að brimasamt er í Selvogi þegar sunnanátt er, og þessa vertíð hamlaði veðurátta sjógæftum og afla. Þá bjó í Nesi í Selvogi Guðmundur Ólafsson, þá orðinn gamall maður, faðir Þorbjarnar, sem bjó í Nesi eftir föður sinn. Þorbjörn reri í Þorlákshöfn margar vertíðir og var þar formaður. Um hann gerði Brynjólfur frá Minna-Núpi þessa formannsvísu:

Sjóbúð

Sjóbúð í Þorlákshöfn 1910.

Þreytir halur þorskveiði,
Þorbjörn alinn Guðmundi
Nes- frá -sal í Selvogi,
sá er talinn hraustmenni.
Þegar ég reri í Nesi í Selvogi, bjó í Ertu rétt fyrir norðan Nes Húnbjörg Hannesdóttir móðursystir mín. Nikulás sonur hennar var þá formaður með skip, sem þau áttu. Hjá henni var líka annar sonur hennar, sem Símon hét, og þriðja son átti hún, sem Þórður hét og bjó þá í Torfabæ í Selvogi. Þessir fyrverandi bræður voru synir Erlendar Símonarsonar, sem átti heima í Torfabæ, en Húnbjörg og Erlendur voru þá skilin að samvistum. Þarna kynntist ég frændfólki mínu og réði mig hjá Nikulási næstu vertíð. Þá um vorið 1889 flutti Húnbjörg með sonum sínum, Nikulási og Símoni, að Hlíð í Selvogi. Hlíð er uppi við fjallið við norðausturhorn Hlíðarvatns, en er nú komin í eyði fyrir löngu. Þá flutti líka Nikulás skipið út til Herdísarvíkur og reri því þaðan. þangað til það fórst, sem síðar segir.

Seil

Seilaður fiskur í vör.

Svo kemur vertíðin 1890. — Það var oftast kominn þorri þegar ég flutti færur mínar úteftir; reiddi ég á hesti og var eina nótt og tvo daga í ferðinni. Þegar ís var á Ölfusá, mátti fara alveg beina leið að sjá fyrir sunnan Selvogsheiði, sem maður segir sjónhending frá Hreiðurborg, annars varð að fara yfir ána í Óseyrarnesi. Svo fór ég aftur alfarinn föstudaginn síðastan í þorra, og það var farið að róa í fyrstu viku góu, ef gæftir voru.

Herdísarvík

Herdísarvík – uppdráttur ÓSÁ.

Nú er að segja frá sjóbúðinni, sem Nikulás byggði. Hún var úr snyddu og grjóti veggir og gaflar, svo timburþak með spón yzt, svo hún lak ekki í rigningum, en hún var mjög köld þegar frost voru, sem oft var á þessum árum. Viðvíkjandi kuldanum í búðinni get ég sagt sögu, sem þykir ótrúleg nú á tímum. Í landlegum þegar var norðanrok og gaddar, rokið svo mikið, að ekki var viðlit að fara á sjó, þá var það eina vertíð að það kom fyrir að við fórum fjórir upp í eitt rúmið og breiddum ofan á okkur upp að mitti teppi og það, sem til var, og sátum svo réttbeinis með loðhúfur á höfði og máske líka vöttu á höndum og spiluðum svo á spil. Svo þegar okkur varð of kalt, fórum við að hita okkur á því að fara í tusk, fyrst inni, svo kannske úti í glímu og tusk, og þegar við vorum búnir að fá í okkur hita, þá var farið að spila aftur. Það var engin búð eins köld og þessi, því hinar voru allar með snyddu- eða torfþökum. Það var ekki verið að hafa ofna í svona húsum í þá daga. Kaffið var hitað á olíuvél og hún hitaði nú heldur lítið. Sumar búðir höfðu smiðjukofa til að hita í rétt við búðina. Í þessari búð var ég í 5 vertíðir. Ekki man ég hvenær það var, sem kaldast var. Það hefir verið á árunum milli 1890—94.

Verbúð

Verbúð á sunnanverðum Reykjanesskaga.

— Þessa vertíð, sem frostin voru mest, voru aðallega notuð færi við fiskirí, að minnsta kosti í Herdísarvík og Selvogi. Það var mikið fiskirí í Herdísarvík í eina viku, það voru þrí- og fjórhlaðin skipin á dag. Ég man það alveg víst, að Nikulás fékk einn daginn í þeirri viku 120 í hlut í 12 eða 13 staða skipti. Þó voru sumir hærri, mig minnir að Björn Eyjólfsson fengi þann dag 140 til hlutar.

Sjóbúð

Sjóbúð í Herdísarvík.

Þetta stóð eina viku. Við fengum í þeirri viku um 600 til hlutar, og það varð lítið meira. Mig minnir að við fengjum tæp 7 hundruð hlutar alla vertíðina. — Fiskurinn var mjög feitur, svo að það urðu vandræði með ílát undir lifrina, því að svoleiðis hagaði til, að útgerðarmaður átti að útvega hlutaflamönnum kagga eða tunnu undir lifrina. Það komu kaggar austan úr Ölfusi, og svo var lifur látin í þvottakör, en úr svoleiðis ílátum rann lýsið og fór mikið til spillis. Frostið var svo mikið, að við naumast gátum náð innan úr fiskinum, drifum svo mikið af honum í fönn óflöttum, þangað til seinna. — Þessa miklu fiskiviku var það eitt kvöld, að við vorum að gera að fiski, og ég var að bera í slorskrínu á bakinu eitthvert rask. Það var band í báðum göflum, og var því smeygt á aðra öxlina, en það var dimmt orðið og ósléttur vegur, svo ég datt og rak niður aðra hendina og meiddi mig mikið á þumalfingri, sintognaði og leið illa um nóttina og gat ekki róið morguninn eftir, og þótti mér heldur dauflegt einum í búðinni. Ekki tapaði ég hlutnum, þeir gáfu mér hlut.

Sjóbúð

Sjóbúð.

Morguninn eftir fór ég með á sjóinn, og var haft til styrktar hendinni, svokallað róðrarbelti, og var ég í andófi, því að ég gat ekki dregið fisk. Veður var gott, hér um bil logn, svo að það var lítið andóf. Fiskur var nógur, svo að þeir fylltu skipið á stuttum tíma. Síðan var róið til lands. Sjór var svo ládauður, að ekki var nokkur hreyfing við land, svokölluð ládeyða. Nú gat ég ekki seilað, svo að ég var látinn halda skipinu meðan seilað var (þegar svona ládeyða var, var ekki seilað úti á legu eins og fyr segir). Í þetta sinn var um stórstraumsfjöru, og voru stórir steinar þar úti, sem ekki sást á, svo að skipið tók niðri og vildi standa, svo að ég fór að færa mig dýpra, en gætti ekki nógu vel að mér, og fór sjór upp fyrir brókina; en það var óþægilegt, því að frost var mikið.

Verbúð

Sjómaður með fisk á herðum – Bjarni Jónsson.

Þegar búið var að seila, hellti ég úr brókinni og fór út aftur í annan róður. Það var sama fiskiríið og frekar fljótt verið að hlaða skipið, en mér varð töluvert kalt svona votum. Þegar komið var til lands aftur, hafði ég orð á því við formanninn, að bezt væri að ég yrði eftir í landi með manninum, sem bar upp fyrri farminn, því að þá hitnaði mér og allt hefði beztu endalok. Og það varð úr, að ég varð eftir og fór að bera upp og lyfti félagi minn á mig byrðunum, en hann lyfti sjálfur á sig, því að hann var heilhentur. Ég fór þrjár ferðir í brókinni, þá var mér farið að hitna og fór svo úr henni, en var í skinnstakknum. Þetta hafði góðan enda, mér varð ekkert meint við, en svona lagað þyrfti ég ekki að bjóða mér nú á dögum. Við vorum margir vel upp aldir á þeim dögum ungu mennninir og klæddir hlýjum íslenzkum ullarfötum, sem við hjálpuðum til að vinna sjálfir, að minnsta kosti margir. Oftast yar ég búinn að sitja í vefstól frá því á jólaföstu og þar til ég fór í útver, og svo var um fleiri, sem ég þekkti. Svo reri ég daglega eftir þetta meðan gæftir héldust, en eins og ég hefi áður sagt, stóð mesta fiskiríið eina viku eða vel það.
Svo er ekki meira markvert að segja af þessari vertíð, það gekk allt sinn vanagang, vertíðarnar voru flestar líkar hver annarri. Það var oftast nóg að gera seinni partinn þegar fisklaust var orðið við að herða og hagræða harðfiskinum.

Herdísaarvík

Herdísarvík um 1900.

Um þessar mundir verður vart breytinga í Herdísarvík. Bjarni Hannesson deyr, sem var þaf bóndi- og formaður lengi. Þá bætist við skip frá Hjálmholti í Flóa. Formaður á því var Sveinbjörn Ólafsson frá Hjálmholti, og annað úr Selvogi, formaður Guðmundur Sigurðsson. Auk þessara tveggja voru þar þá formenn: Guðmundur Jónsson, sem kenndur var við Hlíð í Selvogi, ættaður frá Keldum á Rangárvöllum, bjó tæp 40 ár í Nýja-bæ við Krýsuvík. Kona hans er Kristín Bjarnadóttir frá Herdísarvík. Búa nú í Hafnarfirði. 4. formaður Jóhann Níelsson, 5. Nikulás Erlendsson, 6. Björn Eyjólfsson, 7. Ingimundur Jónsson.

Herdísarvík

Herdísarvík. Gamli bærinn framar.

Nú er næsta vertíð eftir frostavertíðina. Þá var byrjað með handfæri, og skyldi nú fiska með sama lagi og síðast liðna vertíð, en það brást. Það var verið með færi nokkra daga og fiskaðist lítið sem ekkert. Svo er það einn dag, að allir eru á sjó og ekkert fékkst — 2—3 í hlut. En svo er það rétt fyrir hádegi þenna dag, að eitt skipið tekur sig upp og fer í land, mig minnir það væri Guðmundur Jónsson. Hann fór í land til að reyna að beita línu með slógi og hrognum úr þessum fiskum, sem þeir drógu á færin. Hann rær svo aftur og leggur línuna, en það kom heldur skriður á hina, þegar þeir sáu að fiskur kom á hverju járni þegar hann fór að draga línuna. Það ruku „allir“ í land og beittu línu og reru út aftur og fengu hleðslu. Svo stóð hlaðfiski meðan gaf, ég man ekki hvað það voru margir dagar. Nú var fiskurinn lifrarminni og rýrari en vertíðina næstu á undan, en það mun hafa náðst líkt fiskatal, og segir svo ekki meira af þessari vertíð.

Herdísarvík

Herdísarvík.

Þá ætla ég að segja dálítið frá vertíðinni 1895. Þá var ég með Birni Eyjólfssyni, það var síðasta vertíðin, sem ég reri í Herdísarvík og sú sjöunda. Björn hafði alltaf verið þar hæstur með hlut. Nú var hann orðinn heilsulaus, en það var samt betra að hafa hann með á sjóinn. Einu sinni gat hann ekki farið með okkur á sjó í 3 daga, og var þá einn hásetinn formaður, en þá daga gekk ekki vel að fiska. Svo hresstist Björn aftur og tók við formennsku, en hann kom eftir þetta alltaf ríðandi á hesti til skips heiman frá bænum, en verbúðirnar voru skammt frá þar, sem skipin stóðu. Svo hjálpuðum við honum eða réttara sagt létum hann upp í skipið á þurru áður en við settum á flot, svo stýrði hann og sagði fyrir og réði sjóferðinni. Það fiskaðist töluvert þessa vertíð framan af á vanalegum miðum, og um miðjan marz var frekar gott fiskirí.

Herdísarvík

Herdísarvík.

Svo kom 16. marz, sá eftirminnilegi dagur. Gott veður um morguninn og enda allan daginn. Allir réru. Svo komu skipin að nokkuð snemma; ég man ekki hvað klukkan var. Björn kom með þeim fyrstu og um sama leyti önnur skip.

Seilað

Seilar í vör.

Það var seilað og lítið staðið við í landi. Björn hafðði það lag, að láta okkur vera til skiptis í landi, að bera upp fiskinn, og þennan dag var komið að mér, og skyldi ég bera upp og annar með mér, og svo gerðu hinir líka; þeir skildu eftir menn í landi. Þegar við rérum í land, var komin töluvert þykk alda í sjóinn. Um sama leyti og þessi 5 skip voru að fara, komu þau tvö, sem eftir voru, og þau fóru ekki út aftur, því það brimaði svo fljótt, að það varð ófært að heita mátti á svipstundu. Þennan dag nauðlentu í Þorlákshöfn um 60 róðrarskip af Eyrarbakka, Stokkseyri og Loftsstöðum. Þar var þá hvergi lendandi fyrir brimi. Selvogsskipin lentu við illan leik í Selvognum. Barst þar einu skipi á í lendingunni, og drukknaði einn maður. Það var eina manntjónið, sem af brimi þessu hlauzt, og þótti það sérstakt lán, að það varð ekki meira, eins og á stóð þá.
Formenn á skipunum, sem landi náðu þennan dag, voru Guðmundur Jónsson og Ingimundur Jónsson, en skipin átti Sólveig Eyjólfsdóttir, sem þá bjó ekkja í Herdísarvík. Þegar hin skipin 5, sem úti voru, leituðu lands, var komið stórveltubrim, svo að þau lögðu öll frá, settu upp segl og sigldu til hafs.

Það sáust nokkrar franskar skonnortur úti fyrir, og skipin héldu til þeirra. Tvær voru næstar, og komu skipin fyrst öll að annarri, og Frakkar fóru að taka á móti þeim, en Björn sá, að þarna yrði þröngt fyrir skip og menn, og þó verst fyrir skipin, svona mörg aftan í einu stórskipi, og fór í annað, sem var skammt frá. Þar var þeim vel tekið og skipið sett aftan í skonnortuna.

Herdísarvík

Herdísarvík – sjóbúðirnar.

Skipið, sem Björn komst í hélt sér við á seglum um nóttina og sigldi svo með róðrarskipið austur og inn á leið þar til komið var hér um bil móts við Herdísarvík, þá var brimið lægt, og leiðin fær inn, og Björn lenti heilu og höldnu fyrir hádegi. Skonnortan, sem hafði fjögur skipin, sigldi vestur fyrir Reykjanes og missti tvö skip aftan úr sér undan Grindavík og hin tvö í Reykjanesröst. Skilaði svo af sér öllum mönnunum í Höfnunum, og komu þeir gangandi til Herdísarvíkur eftir nokkra daga. Þetta var mikið tjón fyrir þá, sem áttu skipin, sem töpuðust. Það voru fengin lánuð eða leigð skip austur á Eyrarbakka og flutt til Herdísarvíkur, svo hægt væri að halda áfram róðrum.

Herdísarvík

Herdísarvík – sjóbúðir.

Skipin töpuðust ekki öll. Þau, sem slitnuðu aftan úr skonnortunni undan Grindavík, sáust þaðan, þegar birti af degi, og Grindvíkingar sóttu þau, og voru þau óskemmd. Annað var skip Nikulásar Erlendssonar; það keyptu Grindvíkingar. Hitt var skip Guðmundar Sigurðssonar og var flutt til Herdísarvíkur aftur. Hin tvö klofnuðu í Reykjanesröst, Hjálmholtsskipið og Krýsuvíkurskipið, Þorlákshafnar og Selvogs.

Róður

Róður – Bjarni Jónsson.

Nú fóru skipin úr Herdísarvík að róa austur á Forir; en þá var ekki hægt að fara nema einn róður á dag; en þá var línan beht á sjó, ef ekki fékkst nóg í skipið í kastinu. Svona langan veg var ekki hægt að fara, nema gott sjóveður væri. Það var svo langt og erfitt, ef norðaustan vindur var, að komast þangað austur eftir, því að oftast er þarna með suðurströndinni einstreymis vesturfall eða straumur. Við fengum þarna töluverðan afla.
— Alltaf var Birni heldur að versna, en þó var hann formaður okkar vertíðina út. Það var dæmafátt, að svona veikur maður færi á sjó dag eftir dag. Það mátti segja um hann, að þar væri verið að til hinztu stundar. Hann lézt 3. júní um vorið, og mun banamein hans hafa verið krabbamein. Björn Eyjólfsson hafði verið sjósóknari mikill um sína daga. Var lengi formaður í Þorlákshöfn, í Vogum við Faxar flóa, og síðast í Herdísarvík, þar sem hann hvíldist eftir vel unnið starf. Hann var líka skipasmiður og hafði smíðað fjölda róðrarskipa, stór og smá. Svo þegar ekki var trésmíði, þá var hann í smiðju við járnsmíði, og þar mátti sjá röskleg og lagleg handtök, á meðan hann hafði heilsu.

Herdísarvík

Herdísarvík – sjóbúðir.

Með svona mönnum eins og Birni, höfðu verið margir dugnaðarsjómenn, frá því að hann byrjaði sjómennsku á unglingsárum til þess síðasta. Það hefir verið mikils virði í peningalegu tilliti, sem Björn flutti í land á sinni löngu formannstíð, náttúrlega með hjálp háseta sinna; — en það er ekki sama, hver ræður á sjó.

Verstöð

Báti ýtt úr vör – Bjarni Jónsson.

Ég ætla að greina hér frá atviki, sem sýnir sjósókn Björns nokkrum vertíðum áður en síðast segir frá. Þá réri hann einskipa; hinum þótti ekki fært, og var víst ekki álitlegt. Þá réri ég hjá Nikulási. Björn réri þessa vertíð tvisvar einskipa, og í báðum róðrum fiskaði hann veL Í annað skiptið brimaði meðan hann var úti, og það var mikið brim þegar hann fór. Þegar sást til hans koma, þá skinnklæddu sig allar skipshafnir, sem í landi voru, til þess að taka á móti honum. Þegar hann sá fólkið í fjörunni, hleypti hann upp á hæsta sjó, og skipið var tekið með öllu saman, fiski og mönnum, og drifið upp, svo brimið næði því ekki. Svo var stanzað og farið að tala við karlana, og allir voru glaðir og kátir yfir að allt skyldi fara vel. Við sem í landi vorum, urðum hálfsmeikir um skip og menn í svona miklu brimi.
Það var oft mikið um hval á þessum árum. Man ég þó sérstaklega eftir einni vertíð, sem óvenjulega mikið var af honum. Sáum við þá stundum stórar vöður af hval skammt þar frá, sem við lágum við færin. Þá var það stundum, ef fiskur var tregur, að Björn Eyjólfsson tók sig upp og kippti rétt að hvalagerinu og dró þar nógan fisk.

Ég réri hjá Nikulási, þegar þetta var, en honum var hálfilla við að vera nærri stórfiskavöðum og notaði ekki þessa aðferð, og það gerðu held ég ekki aðrir en Björn.
Ekki var Björn aðgerðarlaus þegar legið var yfir fiski. Færi hans var alltaf úti, og hann dró manna mest á skipi sínu. Einu sinni var talað um, að hann myndi hafa dregið nærri því helminginn af fiski þeim sem á skip kom, en þá fékk hann 20 í hlut. Þetta hefir kannske ekki verið bókstaflega rétt, en það sýndi hvaða álit haft var á dugnaði hans. Einu sinni síðustu vertíðina, sem hann lifði, 1895, var sótt austur í Forir eins og fyrr er ritað.

Verbúð

Verbúðir – Bjarni Jónsson.

Það var einn laugardagsmorgun norðaustan stormur, og var að sjá sandrok austur á sandi fyrir neðan Selvogsheiði, svo það þýddi ekki að leggja á stað austur í Forir, svo þeir fóru út í leirinn, skammt út fyrir sundið um morguninn, allir nema Björn af því að laugardagur var til að afbleyta línuna. Svo klukkan 10 fyrir hádegi voru þeir komnir aftur. En rétt umsama leyti sást ekkert sandrok austur á sandi, því þá var að lægja vindinn. Rétt í þessum svifum kemur þá félagi okkar inn í búðina og segir að Björn sé að koma ríðandi ofan eftir frá bænum.
Björn hafði þá séð að veður fór batnandi, enda verið að bíða eftir því. Svo var lagt á stað og gekk vel. Við fengum bezta veður og vorum víst 12— 13 tíma í túrnum gg lentum í myrkti um kvöldið. Svo á sunnudaginn fórum við að slægja og fletja fiskinn. Svona túrar þóttu góðir í þá daga. —Við sjómenn í Herdísarvik, sem áttum heima í Ölfusi og Flóa, fórum vanalega heim einu sinni á vertíð, og helzt um bænadagana eða páskana. Það var eina vertíð (þá reri ég hjá Nikulási) að við fórum nokkuð margir á miðvikudaginn fyrir skírdag, því að þá var ekki sjóveður. Það þekktist ekki í þá daga að róið væri á helgum dögum, þó var nú brugðið út af því í þetta sinn, því þegar við komum til Herdísarvíkur um kvöldið á föstudaginn langa, þá voru þeir að gera að fiski, sem ekki fóru heim, þeir höfðu sameinað sig og róið þremur skipum og fiskað töluvert. Við gátum lítið sagt við þessu, þó þótti okkur þetta atvik leiðinlegt, og töluvert undarlegt, af því að þetta var alveg nýtt fyrirbrigði, að róa á helgum degi.

Herdísarvík

Herdísarvík – fiskigarðar.

Svo kemur atvik fyrir haustið eftir, sem lyfti undir þjóðtrúna, eða þessa vanalegu trú fólksins í þá daga, og sem máske er til enn. Það sem vildi til haustið eftir var það að tvö af þessum skipum, sem róið var á föstudaginn langa, fuku og brotnuðu. Skipin voru höfð í veggjahárri rétt og bundin niður á hvolfi, tog í þeirri rétt voru hin skipin líka en þau sakaði ekki. Í Herdísarvík er mikið hvassviðri, þegar hann er hánorðan, þá stendur veðrið af fjallinu, og eru þá feikna sviptir, sem allt rifa upp sem ekki er reglulega gengið frá.

Kerlingarskarð

Kerlingarskarð framundan.

Þegar vetrarvertið var úti, fóru oft margir okkar til Faxaflóa, til að róa þar á vorvertíðinni. Við lögðum af stað 10.—11. maí með pjönkur okkar á bakinu. Fórum upp svokallað Mosaskarð, og svo beina línu yfir Lönguhlíðarfjall, og niður Kerlingarskarð, og fyrir vestan Helgafell, um Vífilstaði til Reykjavíkur.

Brennisteinsfjöll

Brennisteinsfjöll – Mosaskarð neðst t.v.

Þetta var 7—8 tíma gangur ef gott færi var en um þetta leyti árs var oft ófærð á fjallinu. — Þá var ekki atvinnuleysi, ég held að orðið atvinnuleysi hafi ekki verið til, og ekki einu sinni í Reykjavík, enda var Reykjavík ekki stór bær þá.
Nú eru vertíðarhugleiðingar mínar frá Herdísarvík að þrotum komnar. Eftir þetta réri ég á Eyrarbakka, og fór svo til austfjarða laust eftir aldamótin, og segir ekki af því í þetta sinn, og víst aldrei, nema þetta: að ég var þá 24 ára að aldri til 55 ára alltaf á sjó mikið til af árinu, á ýmsum förum og fleytum, róðraskipum, kútterum, vélbátum, fiskveiðaskipinu Súlunni samfleytt í 9 mánuði. Og fyrir innan 24 ára aldur á vetrar- og vorvertíðum við róðra á áraskipum eins og fyr er ritað. Þessum fyrnefndu árum var ég 16 úthöld, sumar og haust formaður hjá Konráði Hjálmarssyni í Mjóafirði. Ef ég færi að skrifa um öll þessi ár, allt miðbik ævinar yrði það stór bók, sem sagt heil ævisaga. Ég er ekki fær til þess – og kemur því ekki til mála.

Greni

Grenið í Lönguhlíðum.

Að lokum ætla ég að gjöra svolítinn útúrdúr og segja frá refaveiðum. Vorið 1894 var ég vormaður í Herdísarvík. Fór ekki þaðan um lokin. Var við fiskverkun og smalamennsku, en svo þurfti líka að veiða refi alveg eins og þorsk, því refir eru slæðir í sauðfé. Það fannst refagreni í Herdísarvíkurlandi um vorið. Þá bjó á Vogsósum Þórður Eyjólfsson, ættaður frá Grímslæk í Ölfusi, síðar kenndur við Vindheima. Hann var refaskytta í Selvogshreppi. Þórður var látinn vita af gneninu, og svo fór hann tilbúinn til að liggja við það. Ábúandi í Herdísarvík átti að láta mann með skyttunni, svo ég var látinn fara með nesti og nýja skó.

Lyngskjöldur

Lyngskjöldur – þrætugrenið.

Grenið var uppi í Lönguhlíðarfjalli í norðaustur af Geitahlíð. Þegar við komum að greninu, sá Þórður fljótt hvar aðaldyrnar voru, sem refahjónin gengu helzt um. Svo fundum við okkur stað í leyni, en sáum þó til dyranna. Þegar við vorum búnir að liggja þarna eins hálfan tíma, kom refurinn út úr greninu og Þórður hleypti af byssunni og rebbi steinlá. Stór og mikill grár refur. Svo lágum við áfram, í tvö dægur, og sáum aldrei læðuna eða heyrðum í henni. Svo fórum við heim, og Þórður fór til Vogsósa, svo kom hann aftur eftir tvo daga. Þá sagði hann að bezt væri að nesta sig vel, því nú bjóst hann við að verða lengi, 5—7 dægur, því að nú skyldi til skarar skriða við grenlæðuna. Við fórum með dýraboga og yrðling, sem Þórður hafði veitt á öðru greni, og skyldi kvelja hann til þess að narra læðuna að. Svo var hann með línu, öngla og hrátt kjöt til að beita fyrir yrðlingana, sem enn voru í greninu. Þegar við vorum búnir að liggja og sitja langan tíma heyrðum við læðuna gagga og orga langt frá. Þórður sagði, að hún hefði ekki að greninu komið síðan refurinn var skotinn, og væri nú júgrið farið að harðna. Hann sagði mér að kvelja yrðlinginn, sem við vorum með, það þótti mér leitt verk. Svo fórum við að veiða yrðlingana, sem inni voru í greninu, og náðum 5, enn ekki sást læðan enn, við heyrðum oft í henni, og heldur var hún að færa sig nær.
Þarna lágum við í fimm dægur í seinna sinnið. Var nú Þórði farin að þykja löng biðin. Lítið var sofið, við reyndum þó að sofna til skiftis. Þegar langt var liðið á fimmta dægur segir Þórður við mig, að ég skuli liggja kyr, og láta lítið bera á mér. Hann kvaðst ætla að ganga í kring og vita hvað hann sjái. Svo ligg ég nokkuð langan tíma, þangað til ég heyri skot, svo ligg ég enn litla stund, þá kemur Þórður með læðuna dauða. Hann hafði þá mætt henni á bak við stóran klett og var þá ekki lengi að miða á hana, og hún lá. Nú var Þórður búinn að vinna grenið, 2 dýr og 5 hvolpa. Svo var haldið heim.“

Heimild:
-Alþýðublaðið – Sunnudagsblað, 40. tbl. 05.10.1939, Verbúðalíf í Herdísarvík og Selvogi, Einar Þorsteinnson frá Hreiðuborg, bls. 4-5 og 8.
-Alþýðublaðið – Sunnudagsblað, 41. tbl. 08.10.1939, Verbúðalíf í Herdísarvík og Selvogi, Einar Þorsteinsson frá Hreiðuborg, bls. 4-5.

Herdísarvík

Herdísarvík – uppdráttur ÓSÁ.

Herdísarvík

Þorvaldur Thoroddsen fjallar um „Ferðir sínar á Suðurlandi sumarið 1883“ í Andvara 1884. Hér segir af aðbúnaði vermanna í sjóbúðum í Selvogi og víðar á sunnanverðurm Reykjanesskaganum, sem og ágangi tófunnar, sem fæstir virtust sýna athygli þrátt fyrir ærið tilefni:

Sjóbúð

Sjóbúð í Herdísarvík.

„Selvogur er allmikið fiskipláss, þó æði sje þar brimasamt og skerjótt fyrir landi; graslendi er sáralítið, en beit allgóð í heiðunum; sandfok gjörir mikinn skaða, enda er lítið gjört til að hepta það, nei, pvert á móti, melgrasið er rifið upp og notað í meljur, og lyngið og víðirinn í heiðunum er rifinn í eldinn, og svo blæs náttúrlega hinn sendni jarðvegur allur í sundur, og þaðan fýkur svo yfir betri blettina. Það er hjer sem víða annarstaðar á Íslandi, par sem land gengur úr sjor, að það er mest mönnunum að kenna; hugsunarleysi og stundarhagnaður hafa gjört landinu mikinn skaða. Víða má sjá, að miklu meid byggð hefir verið í Selvogi fyrrum; stórkostlegar garðhleðslur sjást því nærri alstaðar í sandinum, en nú er par allt blásið upp, og ekkert stingandi strá; mest kveður að þessum garðhleðslum fram með ströndinni milli Strandakirkju og Vogsósa, og nálægt kirkjunni eru rústir og garðar af bænum Strönd, sem fyrir löngu er kominn í eyði.

Strandarkirkja

Strandarkirkja 1884.

Strandakirkja, sem svo margir heita á, stendur nú ein fjarri byggð á kringlóttum grasfleti (kirkjugarði), sem vindurinn hefir rifið sandinn frá, svo hátt er niður af honum til allra hliða, en enginn garður í kring. Fyrir framan Hlíðarvatn er sandrif og fellur sjór inn í vatnið um ósa hjá Vogsósum, en í útsynningi skefur sandinn svo upp af grandanum, að ósinn fyllir, svo þar verður þurrt; vatnið er því alltaf að grynnka að framanverðu og að austanverðu, en vestanmegin jetur það sig alltaf meir og meir inn í hraunið; tveir hólmar kváðu hafa verið í því, Hlíðarhólmi og Strandarhólmi, sem eru nú horfnir.

Hlíðarvatn

Horft á Hlíðarvatn úr Hlíðarskarði.

Á Vogsósum er töluverð selveiði. Bygging er mjög ljeleg í Selvogi, eins og í Grindavík, og allt öðruvísi en í verstöðunum norðan á nesinu. Í sjóplássum þessum sunnanfjalls liggja vermenn í sjóbúðum, og eru flestar þeirra miklu líkari peningshúsum en mannahíhýlum. Vanalega eru stein- og torfbálkar beggja megin, og á þeim reistar stoðir upp í ræfrið; milli stoðanna hafa sjómenn flet sín, en á stoðirnar hengja þeir skinnklæðin. Sumstaðar er lítil skvompa fyrir endanum, og er hún kölluð »kór«. Þar hvílir vanalega einhver hálfdrættingurinn. Mismunur er náttúrlega á því, hve hreinlega er um gengið í búðum þessum, en sumstaðar er það fremur sóðalegt, eins og við er að búast, þar sem svo mörgum mönnum er kasað saman; gluggar eru vanalega engir, nema lítil vindaugu með rúðubroti í; verður loptið því eigi gott. ef ekki er haft því meira hreinlæti, þar sem allt hlandast saman: svitalyktin af fólkinu og lyktin af grútmökuðum skinnklæðum. Betur færi, að menn færi að leggja þessar sjóbúðir niður, en höguðu heldur til eins og í sjóplássunum norðan á nesinu.

Tófa

Tófa.

Það stendur sauðfjárrækt mjög fyrir þrifum í þessum byggðarlögum, hve tóur eru fjarska algengar; í hraununum eru svo óteljandi holur, að mjög illt er að vinna grenin, enda er víðast lítið gjört að því; frá Vogsósum hefir nú á seinni árum verið töluvert unnið af grenjum, on það er til lítils gagns, úr því nábúarnir ekkert gjöra. Í sumum sveitum á Reykjanesi drepur tóan nærri hvert lamb, þannig t. d. í Höfnum, og þó eru menn svo rænulausir, að engin samtök oru gjörð til að eyða þessum ófögnuði.
Tvisvar í sumar reið jeg á förnum vegi fram á tóur, sera voru að drepa kind. Tóurnar eru líka víða svo spakar, að þær hlaupa um eins og hundar, og horfa grafkyrrar á ferðamenn, sem um voginn fara.“

Heimild:
-Andvari, 1. tbl. 01.04.1884, Ferðir á Suðurlandi sumarið 1883, Þorvaldur Thoroddsen, bls 21-24.

Selvogur - örnefna- og minjakort

Selvogur – örnefna- og minjakort – ÓSÁ.

Hengill

Í Vísi 1966 fjallar Þorsteinn Jósepsson um „Hengil – fjallbáknið við Hellisheiði„:

Hengill
„Um það bil 30 kílómetra í austur frá Reykjavík rís fjallsbákn mikið upp frá Hellisheiði og svæðunum þar í kring. Það heitir Hengill, en Henglafjöll er oft einu nafni nefndur fjallaklasinn sem umlykur það, að meira eða minna leyti á þrjá vegu.

Hæsta gnípan á Hengli er rösklega 800 metra há, og enda þótt þar sé ekki um ýkja mikla hæð að ræða, er útsýn það víð, og það sem meira er um vert, óvenjulega fögur.
Henglafjöllin eru sundurskorin af giljum og dalskorningum, þaðan koma lækir og ár, heitar uppsprettur, gufuhverir og ölkeldur. Við jarðborun sem gerð var á Hengilssvæðinu í sumar sem leið, mældist meiri jarðhiti en til þessa hefur fundizt hér á landi.
Hengill
Allt er landsvæði þetta fjölbreytilegra og forvitnilegra en önnur í jallasvæði í námunda við Reykjavík. Þar er tilvalinn vettvangur fyrir göngufólk og náttúruskoðendur, enda af miklu að taka því víðáttan er mikil, og hvarvetna eitthvað nýtt og nýstárlegt að sjá.

Hengill

Hengill.

Í allt aftan úr forneskju hefur varðveitzt þjóðsagan um kvenskassið Jóru sem lagðist út í Henglafjöll, lá fyrir ferðamönnum, rændi þá og drap og eyddi byggðina umhverfis sig. Þjóðsagan er á þessa leið:
Jórunn hét stúlka ein. Hún var bóndadóttir einhvers staðar úr Sandvíkurhrepp i Flóanum.
Ung var hún og efhileg, en heldur þótti hún skapstór. Hún var matselja hjá föður sínum. Einhvern dag bar svo við, að hestaat er haldið skammt frá bæ Jórunnar. Átti faðir hennar annan hestinn er etja skyldi og hafði Jórunn miklar mætur á honum. Hún var viðst. hestaatið og fleiri konur en er atið byrjaði sá hún að hestur föður hennar fór heldur halloka fyrir. Varð Jórunn svo æf við það og tryllt, að hún óð að hinum hestinum og reif undan honum lærið. Hljóp hún þegar með það, svo ekki festi hönd á henni upp Ölfusá hjá Laxfossi, þreif þar upp bjarg eitt mikið úr hömrunum við ána, og kastaði því nálega út í miðja á. Síðan hljóp hún yfir á stillum þessum og mælti um leið:
Mátulegt er meyjarstig
mál mun vera að gifta sig„.

Ölfusá

Jórusteinn í Ölfusá (Jóruhlaup/Tröllkonuhlaup).

Heitir þar síðan Tröllkonuhlaup, aðrir segja Jóruhlaup. Þar hélt hún upp Ölfus, austan undir Ingólfsfjalli, og upp í Grafning, unz hún kom að hamragili því, sem liggur vestur úr Grafningi skammt frá Nesjum. Eftir því fór hún, og linnti ekki fyrr en hún kom upp í Hengil. Þar tók hún sér bólfestu, og er þar síðan kallaður Jóruhellir og varð hið versta tröll, og grandaði bæði mönnum og málleysingjum; Þegar Jóra var setzt að í Henglinum var það siður hennar, að hún gekk upp á hnjúk einn í Henglafjöllum, og sat löngum þar, sem síðan heitir Jórusöðull. Er hann skammt frá sjónarhól hennar á háfjallinu.

Jórutindur

Jórutindur (Jórusöðull).

Af sjónarhól skyggndist hún um eftir ferðamönnum, sem um veginn fóru, bæði um Grafning fyrir vestan Þingvallavatn, og um Dyraveg norðan undir Henglinum, sem liggur skammt frá hamragili því, sem áður er nefnt og heitir enn í dag Jórukleif, af því að órunn lá þar oft fyrir ferðamönnum til að ræna þá eða drepa eftir að hún var búin með hestlærið. Þar með gerðist hún svo ill og hamrömm að hún eyddi byggðina í nánd við sig, en vegir lögðust af. Þótti byggðamönnum svo mikið mein að þessari óvætt að þeir gerðu mannsöfnuð til að ráða hana af dögum, en engu fengu þeir áorkað að heldur.
Á þessa lund er þjóðsagan um kvenskassið mikla í Henglinum.

II.
Vera má að framangreind þjóðsaga hafi fengið byr undir vængi er ferðamenn týndust eða urðu úti í vetrarveðrum bæði á Hellisheiðarleið og öðrum slóðum í námunda við Hengilinn. Þarna er villugjarnt, leiðirnar fjölfarnar, en menn oft af vanefnum útbúnir, bæði hvað fatnað og nesti snertir og urðu því hríðunum fyrr að bráð en ella.

Dyradalur

Dyradalur – dyrnar.

Á öndverðri 17. öld, eða nánar tiltekið 1621, var norðlenzkur prestur, Jón Gíslason að nafni, á leið suður til Bessastaða, en týndist á leiðinni. Jón þessi gekk ýmist undir nafninu Jón Maríulausi eða „gamli Adam“. Hann var lengi prestur á Melstað í Miðfirði og hafði Jón biskup Arason vígt hann sumarið 1550, enda þótt prestlingurinn hefði þá litla undirbúningsmenntun hlotið og var aðeins venjulegur „fatabúrspiltur“ á Hólum. En biskupi þótti þá í óefni komið með trúarbrögðin á Suðurlandi og vígði ýmsa til prests þótt ekki hefðu hlotið tilskilda menntun, og meðal þeirra var séra „gamli Adam“.

Sporhella

Sporhella ofan Dyradals.

Þegar séra Jón týndist í Bessastaðaför sinni 1621 var hann orðinn farlama gamalmenni, 87 ára að aldri og í rauninni furðulegt að hann skyldi takast svo langa ferð á hendur án fylgdar. Séra Jón þurfti að reka einhver erindi á alþingi, en að því búnu hélt hann frá Þingvöllum suður til Bessastaða. Þangað komst hann þó aldrei, en nokkru síðar fannst reiðhestur hans mannlaus í Dyrfjöllum. Leit var gerð að presti, en gjörsamlega árangurslaust — hann hefur aldrei fundizt.
Þjóðtrúin var ekki í neinum vafa um hvað af presti hafði orðið, því enda þótt hann væri seigur undir tönn, sakir elli, hafði hann samt orðið kvenskassinu Jóru að bráð.

III.
Þjóðsaga er til um það, enda þótt hún fái ekki við neitt að styðjast, að Halla fylgikona Fjalla-Eyvindar hafi borið bein sín í Henglafjöllum. Sú munnmælasögn hermir aö þegar Halla náðist síðast og átti að setja hana með öðrum þjófum í Reykjavíkurtukthús, hafi hún verið svo illa á sig komin að ekki þótti fært að loka hana inni og hafi henni þess vegna verið gefið frelsi. Var hún sett niður á kot eitt í Mosfellssveit, en dag nokkurn er hausta tók og Höllu varð litið til Hengilsins, vaknaði hjá henni fjallaþráin að nýju og nóttina eftir hvarf hún.

Engidalur

Engidalur – bæli.

Nokkrum árum seinna fannst konulík uppi í Henglafjöllum og tveir sauðaræflar hjá, sem hún hafði krækt á hornunum undir styttuband sitt. Gizkuðu menn á að það væri lík Höllu, enda hafði veður spillzt skömmu eftir að hún hvarf úr byggð.

IV.
En hvað sem öllum þjóðsögum um útilegumannabyggð í Henglafjöllum líður, er það stað reynd að þar héldust útilegumenn við, meira að segja oftar en einu sinni.
Í Fitjaannál er getið um mann að nafni Eyvindur. Var hann kvæntur, en hefur sennilega ekki geðjazt að konu sinni, því austur í Ölfusi tældi hann stúlku til samlags við sig. Fluttu þau vestur á land og létust vera hjón. Þetta tiltæki þeirra þótti samt af einhverjum ástæðum ekki gott, voru skötuhjúin því leituð uppi, handtekin og flutt til sýslumanns. Þar voru þau bæði húðstrýkt og að því loknu stíað súndur og send sitt í hvora áttina.

Engidalur

Tóftir útilegumanna í Engidal.

Árangurinn varð þó ekki betri en það, að þau náðu saman aftur, og til þess að ekkert yfirvald stíaði þeim í sundur á nýjan leik, lögðust þau út í Hengli og lifðu um stund á hnupli. Hvort dvöl þeirra þar varð löng eða skömm er ekki vitað ,en 1678 náðust þau, og voru flutt til Alþingis og réttuð á þinginu. Þannig sameinuðust þau í dauðanum.
Annálar geta þess ennfremur að árið 1703 höföu 3 útileguþjófar verið gripnir í Henglinum. Voru 2 þeirra settir án frekari umsvifa í snöruna á Þingvöllum enda stutt að fara. Sá þriðji var kagstrýktur, en látið þar við sitja vegna þess hve ungur hann var.
Í Píslarsögu sinni kemst séra Jón þumlungur þannig að orði, að sá sem fóstrast í Henglafjöllum mun ekki haldinn vitnisbær, því þar er þjófabæli.
Þetta skrifar maður lengst norður á Vestfjörðum og bendir það því ótvírætt til að það orð hafi legið á Henglafjöllum að þar héldu sig þjófar og illþýði.

V.
Á seinni hluta 18. aldar voru hreindýr flutt frá Finnmörk og sleppt á Reykjanesi. Þar tímguðust þau vel og rásuðu vítt og breitt um Reykjanesskagann, Hellisheiði og Mosfellsheiði og m.a. í Henglafjöll.

Marardalur

Marardalur.

Í 2. árgangi „Náttúrufræðingsins“ lýsir Guðmundur G. Bárðarson náttúrufræðingur hreindýraveiðum í Marardal nokkru fyrir miðja 19. öld. Marardalur liggur norðan Hengilsins, hann er klettum girtur á allar hliðar en graslendi í botninum og þar er oft hin ákjósanlegasta beit. Einstigi er inn í dalinn gegnum gildrag sem úr dalnum fellur.
Á árunuum 1830-40 bjó bóndi sá á Elliðavatni sem Guðmundur hét Jakobsson afkomandi Snorra prests Björnssonar á Húsafelli. Guðmundur var rammur að afli og skytta með ágætum. Lagði hann sig m.a. eftir hreindýraveiðum og var í frásögur fært að í einni slíkri veiðiferð hafi hann borið fullorið hreindýr austan úr Bláfjöllum og heim til sín á Elliðavatni.
En frækilegasta veiðisagan af Guðmundi var þegar hann rakst á 11 hreindýr saman í Marardalnum. Það var í svartasta skammdeginu, rétt fyrir jól.

Marardalur

Marardalur – fyrirhleðslur.

Guðmundur varð á undan dýrunum að einstiginu og varði þeim undankomu úr dalnum. Féllu dýrin fyrir skothríð Guðmundar hvert af öðru, og í hvert skipti sem dýr féll fyrir skoti, hlupu hin dýrin hring í dalnum. Gafst Guðmundi á meðan gott tóm til að hlaða byssu sína og hafði hana jafnan hlaðna þegar dýrin bar að. Loks hafði hann skotið öll dýrin nema eitt, en það var mikill og stór tarfur með geysistór horn.

Bolasteinn

Bolasteinn.

Þegar tarfurinn sá sér ekki undankomu auðið réðist hann af heift á skyttuna, en hún kom byssunni ekki við og varð því að takast á við bola. Hvort sá bardagi verði lengur eða skemur lyktaði honum þó með sigri Guðmundar sem gekk af hreininum dauðum, enda var Guðmundur sagður hafa þriggja manna afl.
Fram til 1918-20 sáust hreindýr á ferð bæði í Henglafjöllum og víðar um Reykjanesskaga, en þá tekið að fækka til muna, enda sóttust skyttur mjög eftir þeim, ekki aðeins vegna kjötsins heldur og einnig vegna skinnanna og skrautlegra horna. En á þessum árum gerði mjög harða vetur og þá er sennilegt að flest dýranna, sem eftir lifðu, hafi fallið úr harðrétti og hor, a.m.k. sást lítið til þeirra eftir það. Þó er um það vitað, að síðasta hreindýrið sem sást á Suðvesturlandi, var unnið á svokölluðum Bolavöllum, skammt frá Hengli rétt fyrir 1930. Það var vesæl kýr, aflóga af elli, tannlaus og kollótt. Hafði einhver riðið hana uppi og handsamað. Þar fór síðasti útvörður þessara tígulegu og reisulegu dýra á Hengilssvæðinu og Reykjanesskaganum öllum.

VI.
Á síðustu árum 18. aldar var maður sá ráðinn til póstferða milli Reykjavíkur og Árnessýslu sem Klemenz Þorsteinsson hét. Þann 29. desember 1791 lagði Klemenz upp í síðustu póstferð sína austur yfir fjall og hafði þá m.a. meðferð is 300 sendibréf, þar af var meira en helmingurinn konungleg afsalsbréf fyrir seldum Skálholtsjörðum. Þetta var í allra svartasta skammdeginu, þung færð af snjó og allra veðra von.

Jórugil

Í Jórugili.

En samgöngur voru þá allar aðrar en nú og enda þótt ferðalangar kæmu ekki á tilteknum tíma á ákvörðunarstað, var sjaldnast undrazt um þá fyrr en á síðustu stundu.
Og þannig var það í þetta skipti. Enginn vissi f rauninni hvernig Klemenz póstur ætlaði að haga ferðum sfnum né hvar hann myndi fyrst bera niður austur í Árnessýslu. En þegar Klemenz var ekki kominn til sýslumanns Ámesinga, sem þá bjó í Oddgeirshólum um miðjan janúar, taldi sýslumaður að ekki gæti verið einlelkið um ferðir hans og hófst þá handa um eftirgrennslanir og síðan leit.

Jórutindur

Jórutindur.

Leitað var víðs vegar um allan Reykjanesskagann og tók fjöldi manns þátt í henni. En þegar hún hafði engan árangur borið var henni hætt, enda þýðingarlaus talin, þar sem snjóað hafði meira og minna frá því er pósturinn lagði upp.
Í maímánuði um vorið var leit hafin að nýju og fannst þá lík Klemenzar pósts í Jórugili við rætur Hengilsins. Fannst það í djúpri gjá fullri af vatni, en pósttaskan var horfin. Vakti þetta þegar grun um að dauðdaga Klemenzar hafi ekki borið að með felldu, heldur mundi hann hafa verið rændur og myrtur. Þetta þótti og þeim mun grunsamlegra, sem líkið var algerlega nakið þegar það fannst. En aldrei vitnaðist neitt frekar í því máli.

VII.
Og að lokum er hér saga um Jón tófuspreng, sem var eins konar dæmigervi af Vellygna-Bjarna eða Munchausen barón hinum þýzka. Jón hafði róið suður í Garði og í einum róðrinum brast á snarvitlaust veður svo að bátnum hvolfdi í lendingunni og allir bátsverjar drukknuðu. Jón tófusprengur líka. Líkið af honum hafði rekið upp á malarrif, en litlu seinna skolaði sálinni úr Jóni þar framhjá svo að hann gat ekki á sér setið að gleypa hana og þar með lifnaði hann við á ný.

Henglafjöll

Henglafjöll.

Þegar Jón var lifnaður við, tók hann seil með 20-30 fiskum og lagði á bak sér, en ár notaði hann fyrir göngustaf, tók síðan stefnu á Henglafjöll og ætlaði heim til sín austur í Gnúpverjahrepp. Blindhríð var alla leiðina og botnlaus ófærð, sem sí og æ versnaði og þegar Jón var kominn norður í Henglafjöll var snjórinn svo djúpur að hann botnaði ekki með árinni. Samt hélt hann áfram og vissi varla hvað hann fór þvf ekki sá hann út úr augunum. Loks hrapaði hann og þegar hann raknaði við eftir fallið, sá hann að hann hafði dottið niður um eldhússtromp móður sinnar austur í Hreppum.

VIII.
Og loks, lesandi góður ef þér kæmi til hugar að skreppa úr Reykjavík austur yfir fjall skaltu staldra við uppi í Svínahrauni og mæna litla stund á þetta tígulega fjall, sem við þér blasir og Hengill heitir. Og láttu það engin áhrif hafa á þig þótt ferðafélagar þínir haldi þig hengil-mænu fyrir bragðið. Það borgar sig samt.“

Heimild:
-Vísir, 214. tbl. 20.09.1966, Hengill – fjallbáknið við Hellisheiði, Þorsteinn Jósepsson, bls. 8-9 og 6.
-https://timarit.is/page/2387230?iabr=on#page/n7/mode/2up/search/hengill

Hengill

Hengill – ölkelda.

Hlíð

Í Örnefnalýsingu fyrir Hlíð (höfundur ónafngreindur) segir m.a.: „Hlíð var fyrr góðbýli og landnámsjörð í Selvogi. Var hún um aldaraðir eign Strandarkirkju og er það enn. Jörðin hefur verið í eyði nú um 60 ára skeið. Þar eru nú rústir einar.

Bærinn stóð á Bæjarhól eða lágum hrygg, er lá fram í Hlíðarvatn.
Hlíðartún er nú óræktarskiki, en hafði verið mun stærra í eina tíð. Auk Bæjarhólsins eru í túninu Kirkjuhóll eða Bænhúshóll, en þar á hafa staðið bænhús í katólskri tíð. Fornmannshóll er í túninu norðaustan og ofan bæjarins.
Hlíðarvatn liggur undan túnfætinum og voru mikil hlunnindi að, enda galt Hlíðarbóndinn þangskurð og reka með silungi til annarra jarða í Selvogi.“

Hlíð

Hlíð – bæjarminjar.

Síðan er örnefnum við vatnið lýst, en auk þess segir: „Vestast voru mörkin milli Hlíðar og Stakkavíkur um vik niður undan Urðarskarði. Innar eða fyrir miðri Urðinni er Bleikjunef; þar var góður veiðistaður. Handan við Vondavik er Réttartangi, og eru þar Selvogsréttir, með safngirðingu, almenningi og dilkum. Í Réttartanga skerst vik, sem sumir kalla Selvik, en suður frá réttunum eru Selbrekkur.

Hlíðarsel

Hlíðarsel – uppdráttur ÓSÁ.

Þar á að hafa verið sel frá Hlíð eða Hlíðarsel; ber þó ekki öllum saman.“ Þórarinn Snorrason á Vogsósum upplýsti FERLIR um að ofan við Selbrekkur hafi fyrrum verið heimasel frá Vogsósum, enda í þeirra landi. Selið hafi jafnan verið nefnt Vogsósastekkur, enda voru yfirleitt ekki önnur mannvirki í heimaseljum.
„Skútar nokkrir, sem fé leitaði skjóls í, voru uppi undir Hömrunum. Helgutorfa var flöt austan við Hlíðarskarð. Borgaskörð voru skörð í Hlíðarfjall austarlega. Á einum stað milli þeirra var Háhamar. Stekkatúnsbrekkur voru brekkur í fjallinu vestan við Háhamar, og þar hafði verið Stekkur [Hlíðarsel] og Stekkatún.“ Í Hlíðarseli eru greinilegar selminjar, nokkur hús, hlaðið smalaskjól og stekkur, sem stundum hefur verið nefnd Valgarðsborg, en hún ber öll einkenni stekks, þ.e. tvískipt aðhald. Skammt norðar er Hlíðarborgin, stekkkur, sem væntanlega hefur tekið við af selinu eftir að það lagðist af. Hlíðarsel er í landi Hlíðar. Þórarinn ók FERLIRsfélögum upp að Híðarborginni fyrir allnokkrum árum og benti þeim þá m.a. á seltóftirnar sunnan heiðargirðingarinnar.
„Hlíðargata lá frá Hlíð austur og inn með fjallinu.“

Hlíð

Hlíð, bæjarminjar.

Gísli Sigurðsson skráði örnefnalýsingu í landi Hlíðar. Þar kemur m.a. eftirfarandi fram:
„Hlíð var fyrr góðbýli og landnámsjörð í Selvogi. Var hún um aldaraðir eign Strandarkirkju og er það enn. Jörðin hefur verið í eyði nú um 60 ára skeið. Þar eru nú rústir einar.
Bærinn stóð á Bæjarhól eða lágum hrygg, er lá fram í Hlíðarvatn.
Hlíðartún er nú óræktarskiki, en hafði verið mun stærra í eina tíð. Auk Bæjarhólsins eru í túninu Kirkjuhóll eða Bænhúshóll, en þar á hafa staðið bænhús í katólskri tíð. Fornmannshóll er í túninu norðaustan og ofan bæjarins. Hlíðargata lá frá Hlíð austur og inn með fjallinu.“
Gísli Sigurðsson skráði einnig örnefni á Selvogsafrétti.

Aðalskráning fornleifa í Selvogi 2015.Í „Aðalskráningu fornleifa í sveitarfélaginu Ölfusi – Áfangaskýrsla I“, sem Fornleifastofnun Íslands gerði 2015, segir m.a: um einstakar minjar í landi Hlíðar:
[Hafa þarf í huga að talsvert virðist vanta í skráninguna og hún lítt gaumgæfð. Svo virðist sem ef örnefna eða minja sé ekki getið í örnefnalýsingum þá eru þær ekki til. Lítið sem ekkert virðist hafa verið gert til að rýna svæðið á vettvangi, t.d. út frá heilbrigðri skynsemi].

Hlíð

Hlíð

Hlíð – uppdráttur ÓSÁ.

Í Jarðabók Árna og Páls 1706 segir: „Jarðardýrleiki xx að sögn manna, en engin geldst hjer tíund af.“ JÁM II, 463 Ekki til túnakort. Í Jarðabók Árna og Páls 1706 segir: „Lyngrif til eldiviðar bjarglegt. Silúngsveiðivon er góð og hefur oft að merkilegu gagni verið. Eggver í vatnshólmum hefur að nokkru gagni verið, en fer mjög til þurðar. Sölvafjöru og grasafjöruítak á jörðin fyrir Vogshúsalandi sem áður segir, vide Vogshús. Túnunum grandar fjallsskriður og landbrot, sem Hlíðarvatn gjörir að neðan. Engjar, sem áður voru litlar með vatninu, hefur sama vatn eyðilagt.“ JÁM II, 464

Bæjarhóll – bústaður

Ölfus

Hlíð- minnismerkií bæjarhólnum.

„Hlíð var fyrr góðbýli og landnámsjörð í Selvogi. Var hún um aldaraðir eign Strandakirkju og er það enn. Jörðin hefur verið í eyði nú um 60 ára skeið. Þar eru nú rústir einar. Bærinn stóð á Bæjarhól eða lágum hrygg, er lá fram í Hlíðarvatn,“ segir í örnefnalýsingu. Bærinn fór í eyði árið 1906.
Slétt grund sem nær allt frá vatnsborðinu og upp að fjallsrótum. Þjóðvegurinn liggur um túnið um 70 m norðan við bæjarrústirnar. Enn er nokkur rækt í túninu. Það er ekki slegið, ógirt og sækja kindur í það. Veiðihús stendur á vesturenda bæjarrústanna og hefur sennilega raskað þeim að litlum hluta en miklar rústir eru á hólnum austan við húsið. Hefur bæjarröðin legið frá austri til vesturs og bærinn snúið með framhlið í suður.

Kirkjuhóll – bænhús

Kirkjuhóll

Kirkjuhóll (Bænhúsahóll).

„Auk Bæjarhóls eru í túninu Kirkjuhóll eða Bænhúshóll, en þar á hafa staðið bænhús í katólskri tíð,“ segir í örnefnalýsingu. Nú er ekki vitað hvar Bænhúshóll var. Yfirleitt voru kirkjur og bænhús í næsta nágrenni við bæjarhóla og með hliðsjón af því er helst að giska á ávalan hól í túni fast austan við bæjarhól. Óslegið tún. Hóllinn er sporöskjulaga og nokkuð ávalur en ekkert rústalag á honum, 15-20 m í þvermál. Enginn annar hóll virðist líklegri.

Hlíðarsel – sel [Vogsósasel]

Vogsósasel

Vogsósastekkur  ofan við Selbrekkur (heimasel).

„…suður frá [Selvogs]réttunum eru Selbrekkur. Þar á að hafa verið sel frá Hlíð eða Hlíðarsel; ber þó ekki öllum saman,“ segir í örnefnalýsingu. Í annarri lýsingu segir: „Selbrekkur. Á þeim stað könnuðust þeir [heimildamenn í Stakkavík] við Stekkjardældir.“ Engar dældir eru suður frá Selvogsréttum en hins vegar eru grösugar brekkur og dældir um 300 m austur af þeim og hlýtur að vera átt við þann stað. Þetta er rétt tæpan 1 km SA af bæjarhól. Vel grónar og fallegar valllendisbrekkur og -dældir mót vestri og gróin grund þar niður af.
Eina tóftin sem þekkt er á þessum slóðum er sú sem Þórarinn Snorrason í Vogsósum nefnir Vogsósastekk. Þess má geta að Ómar Smári Ármannsson hefur kallað aðrar tóftir Hlíðarsel. Sú túlkun er ekki útilokuð þótt tóftirnar teljist of langt í burtu til að passa við lýsingu örnefnaskrár.
[Þeir, sem lesið og metið hafa örnefnalýsingar, vita að þær eru takmarkandi, misvísandi og jafnvel rangar. Þær ber ávallt að taka með fyrirvara, þ.e. ekki allt of bókstaflega. Í heimildum eru framangreindar Selbrekkur nefndar Vatnsdalur upp af Selvik, ofan Réttartanga. Gísli minnist ekki á Hlíðarborg, einungis Hlíðafjallsbrekkur og Hlíðargil, sem þar eru efra. „Sunnan undir þeim eru Selbrekkur. Skammt suðaustar er Hlíðarsel“. Þ.S.]

Borgaskörð – fjárskýli

Borgarskarðsborg

Borgarskarðaborg – neðri fjárborgin.

„Borgaskörð voru skörð í Hlíðarfjall austarlega. Á einum stað milli þeirra var Háhamar,“ segir í örnefnalýsingu. Undir skörðunum er tóft sem skörðin gætu hafa dregið nafn sitt af, um 130 m austur af stekk. Hlíðarborg og Valgarðsborg eru sunnar.
Lyngmói, sumsstaðar með hraunnibbum og -hólum. Hlíðargata liggur áfram til austurs fast sunnan við tóftina.
Tóftin er í háum og gróskumiklum valllendishól sem er nokkuð áberandi og sést vel að. Hún er lítið uppbyggð en að mestu leyti grafin niður í hólinn. Hann sjálfur er nokkuð hringmyndaður en hólfið er aftur næstum ferkantað. Mögulegt er að byggingin hafi upphaflega verið fjárborg en síðan verið endurbyggð sem fjárhús.

Hlíð

Borgarskarðaborgin efri.

[Önnur fjárborg, miklu mun eldri, er skammt ofar, enda jafnan talað um Borgarskarðaborgir. Hún er nánast jarðlæg, en þó má enn sjá móta fyrir hringlaga hleðslum í henni.]

Stekkatúnsbrekkur – stekkur

Stekkur

Stekkur í Sekkjatúnsbrekkum.

„Stekkatúnsbrekkur voru brekkur í fjallinu vestan við Háhamar, og þar hafði verið Stekkur og Stekkatún,“ segir í örnefnaská. Stekkjartóft er einmitt á þessum stað, undir Hlíðarfjalli um 600 m ANA af bæjarhól. Smákvos í lyngmóa sem víða er grasi gróinn. Hraunnibbur stingast upp úr hér og þar og talsvert er um stórgrýti. Hraunhólar eru suðaustan við stekkinn. Varla er hægt að segja að túnblettur sé kringum stekkinn. Ljómandi falleg tóft, byggð utan í jarðfasta kletta. Hún er tvískipt og L-laga, alls um 9×8 m stór.
Rekið hefur verið inn að sunnanverðu í dálitla rétt sem er um 7×5 m stór frá norðri til suðurs að utanmáli. Klettarnir mynda norðurgafl réttarinnar. Úr henni er svo op til vesturs, nyrst við klettana, í heldur þrengri kró sem er rúmlega 4×3 m stór frá austri til vesturs. Mikið grjót sést í innanverðum veggjum sem eru mest um 1 m háir.

[Sagan segir að þarna hafi hokrað maður stuttan tíma og að Borgarskarðaborgirnar hafi tengst búrekstrinum – ÞS.]

Hlíðargata – leið

Hlíðargata

Varða við Hlíðargötu.

„Hlíðargata lá frá Hlíð austur og inn með fjallinu,“ segir í örnefnaskrá. Gatan sést enn vel austan túns, t.d. um 390 m austur af bæ en einnig fast við stekkjartóftina. Grónar valllendiskvosir eru næst fjallinu en síðan tekur við lyngmói í gömlu hrauni. Greinilegur kindatroðningur liggur til austurs inn með fjallinu og sést vel víðast hvar. Sennilega eru það leifar af gömlu Hlíðargötunni. Að sögn Þórarins Snorrasonar var ekki fært með hesta upp Hlíðarskarðið og því oft farið inn með fjallinu og síðan til norðurs.

Dísurétt

Dísurétt.

[Ofan við Borgarskörðin er Dísurétt í hraunkvos, fallega hlaðin og hefur haldið sér nokkuð vel frá árinu 1938. Erfitt er þó að finna réttina vegna legu hennar í hrauninu. Frá henni er ágætt útsýni upp Strandardal og yfir víðan Hliðardalinn vestan Svörtubjarga. Dísurétt var nefnd eftir stúlkubarni er fæddist í Torfabæ 2. október 1937 og síðar var skírð Eydís Eyðþórsdóttir. Hún lést í Reykjavík 2. apríl 2010. Faðir hennar var Eyþór Þórðarson í Torfabæ.]

Hlíðarborg – fjárskýli

Hlíðarborg

Hlíðarborg.

Hlíðarborg er fjárborg úti í hrauninu 1,7 km austan bæjarhóls. Hún er um 150 m norðan við girðingu sem liggur frá skilaréttinni við Hlíðarvatn og austur fyrir Urðarfell. Borgin er byggð vestan í hraunhól, sem er klofinn eftir endilöngu, og þjónar hraunið sem austurveggur. Umhverfis er hálfgróið hraun og sumstaðar valllendisblettir. Borgin sjálf er nokkurn veginn hringlaga, alls um 13×14-15 m að stærð. Veggir eru allir hrundir og mikið grjót í þeim, einna minnst þó að norðanverðu og þar er hleðslan best gróin. Ekki sjást dyr á borginni. Mannvirkið er mjög óvenjulegt að því leyti að tóft, sennilega af fjárhúsi, er inni í borginni og fyllir út í hana að mestu, alls um 6×5 m stór frá NA-SV. Sennilega er hún yngri en borgin og heldur meiri gróska er í veggjum hennar en borgarinnar. Hleðsla er fyrir húsdyrum, um 3 umför af stórum og þykkum hellum og er það að heita má eina heillega hleðslan í tóftinni. Hlaðið hefur verið frá norðausturhluta hústóftarinnar að klettinum sem er austar og er hleðslan um 3-4 m löng. Hvorki sést garði né jötur í fjárhúsinu og ekki hlaða heldur.

Valgarðsborg – sel [Hlíðarsel]

Valgarðsborg

Valgarðsborg í Hlíðarseli.

Tóftir eru tæpa 300 m suður af Hlíðarborg, á allgrösugum bletti vestan í klettahól. Sennilega eru þær nálægt mörkum móti Vogsósum en þau liggja úr Nefjavörðu austur í Hellholt. [Línan í Hellholt er mun sunnar]. Umhverfis er hálfgróið hraun og sumstaðar valllendisblettir. Milli Hlíðarborgar og umræddra tófta liggur girðing allt frá skilarétt við Hlíðarvatn og austur fyrir Urðarfell. Tóftirnar eru a.m.k. þrjár [dæmigert fyrir sel á þessu landssvæði] og ná yfir svæði sem er rúmlega 30×30 m stórt. Nyrst er greinileg en vallgróin tóft, dálítið grafin inn í brekkuna. Hún er einföld, um 7×5 m stór frá norðri til suðurs og dyr heldur sunnar en fyrir miðjum vesturvegg. Dýpt nemur allt að rúmum 1 m. Nokkrar dældir eru norðan og norðvestan við tóftina og gætu þar leynst fleiri mannvirki eða útbyggingar. Um 8 m austar, uppi á hól, er hleðsla, sem gæti verið yngri, sennilega refagildra. [Hleðslan ber engin einkenni refagildru]. Þetta er grunnur að hlöðnu hólfi sem er um 1,5 x 0,8 m stórt NA-SV og snýr op í SV. Hleðslan er aðeins eitt umfar og um 0,2 m há.

Hellir – fjárskýli [Áni]

Áni

Áni – fjárskjól.

Fjárhellir er úti í hrauni undir Borgarskörðum og um 1 km austur af bæjarhól. Hann er um miðja vegu milli Hlíðarfjalls og girðingar sem liggur frá Hlíðarvatni og austur fyrir Urðarfell. Hálfbert hraun. Hellisopið snýr mót norðaustri. Það er einfaldlega skúti, fyrst nánast beint niður og svo innundir hraunhelluna til suðvesturs. Laglega hefur verið hlaðið um munnann á allar hliðar en þó er hægt að komast að honum úr austri. Hleðslan er úr hraungrýti og myndar hólf sem er hér um bil ferkantað og um 4,5×3 m að stærð SV-NA. Hleðslan er hæst að suðvestan, allt að tæpur 1 metri. Lítil varðaer á hleðslunni að suðvestan og að auki liggur einföld hleðsla um 3 m til suðvesturs frá hólfinu. Ekki var farið niður í hellinn en hann sýnist manngengur.

Hellir

Fjárskjól ofan Ána.

[Annar svipaður fjárhellir er skammt norðar. Hleðslur eru við opið.]

[Hlíðardalur – tóft

Hlíðardalur

Tóft í Hlíðardal.

Í heimildum er getið um Sælubunu við Selvogsgötuna (Suðurferðaveginn). Þar segir m.a.: „Hlíðardalur stendur Strandardal ofar mót hækkandi heiðlendi. Hann er hvammslaga og vel grösugur upp á brún. Efst í dalnum stóð eitt sinn bær Indriða lögréttumanns, Jónssonar.“
Í Hlíðardal er greinileg tóft. Sjá má móta fyrir grunnsteinhleðslum í grónum aflíðandi hvammi.]

Heimildir:
-Aðalskráning fornleifa í sveitarfélaginu Ölfusi – Áfangaskýrsla I, Fornleifastofnun Íslands 2015, bls 240-250.
-Selvogsafréttur, Árnessýsla – Selvogshreppur, Örnefnalýsing
-Hlíð – Örnefnalýsing.
-Hlíð í Selvogi, Gísli Sigurðsson, Örnefnalýsing.

Hlíðarsel

Hlíðarsel.

Nessel

Fyrst var skoðuð Breiðagerðisborg á hól norðan þjóðvegarins skammt austan Breiðagerðis. Þá var gengið upp með Búrfelli vestan Hlíðarenda og Ólafsskarðsvegi (eins og hann er í dag) fylgt áleiðis að Geitafelli. Gamli Ólafskarðsvegurinn (ómerktur) lá upp frá Litlalandi og kom að norðausturhorni Geitafells þar sem hann liggur áfram upp heiðina.

Nessel

Nessel – uppdráttur ÓSÁ.

Þegar farin hafði verið ca. 2/3 af leiðinni (u.þ.b. ½ klst) birtist Hlíðarendaselið á milli hóla þar sem leiðin ber efst í brúnina. Um er að ræða tvær tóttir sitt hvoru megin og síðan er hlaðinn stekkur norðan þeirra. Á bak við selið að au er skúti, sem líklega hefur verið notaður sem geymslustaður.

Litlalandssel

Litlalandssel – uppdráttur ÓSÁ.

Haldið var til austurs yfir heiðina og síðan hallað aðeins til suðurs. Eftir u.þ.b. 25 mín gang var komið að Liltalandsseli. Það er utan í hól þar sem heiðina tekur að halla verulega til suðurs. Tóttin er norðvestan í hólnum og við hlið hennar er stekkur. Hóllinn sjálfur er holur innan og er hægt að ganga í gegnum hann. Hann hefur líkast til verið hluti af selbúskapnum. Selið sker sig nokkuð úr umhverfinu því meira gróið er í kringum hólinn er annars staðar á svæðinu. Það sést þó betur þegar komið er neðan frá Litlalandi. Ætlunin var að leita einnig að Breiðagerðisseli, sem er þarna undir klettavegg nokkru austar, en ákveðið var að láta það bíða og reyna fremur að nálgast það frá Hlíðardalsskóla við tækifæri.
Komið var við í Nesseli og stöðvað við Impólaréttina. Réttin, sem greinilega er mjög gömul er í Imphólum neðan Hellisþúfu. Þjóðvegurinn liggur nú í gegnum hólana og eru meginummerkin eftir réttina sunnan vegar.
Frábært veður.

Hlíðarendasel

Hlíðarendasel – uppdráttur ÓSÁ.

Stakkavík

Í Árbók Hins íslenska fornleifafélags 1943 fjallar Ólafur Þorvaldsson um „Grindaskarðaveg – Selvogsleiðir„:

Stakkavíkurvegur

Stakkavíkurvegur út frá Grindarskarðavegi t.v.

„Leiðin til Stakkavíkur og Herdísarvíkur liggur frá fyrrnefndum vörðum, suðaustur á slétt hraun, og eru smávörður með fram veginum yfir hraunið. Þegar á mitt hraunið kemur, er úfinn bruni suðvestan vegar, og er farið yfir mjótt haft af honum við suðurtagl Hvalhnjúks. Þegar austur fyrir Hvalhnjúk kemur, taka við Vestur-Ásar.
Fyrst til hægri handar nokkrir gróðurlausir og dökkir hólar, Svörtu Ásar. Nokkru suðaustur af þeim úti við brunann er Urðarás, og er hann auðþekktur af mikilli grágrýtisurð sunnan megin. Neðarlega í Ásunum eru austan vegar grasbrekkur allstórar, og heita þær Dýjabrekkur. Þar sér enn leifar þess, að þar hefur fyrir löngu verið leitað eftir mó, en ekki mun það hafa þótt svara kostnaði. Litlu neðar eru Selbrekkur. Þar hefur, þegar það tíðkaðist almennt, verið haft í seli frá Stakkavík. Úr Selbrekkum er stutt fram á fjallsbrún. Þegar á brún kemur, hýrnar svipur útsýnisins og breytist nokkuð. Það hefur líka hýrnað yfir mörgum vegfaranda þarna, sem kemur úr svartaþoku eða vondu veðri af fjallinu, því að oft er mikill munur veðurfars uppi á fjalli og neðan fjalls. Á brúninni stingum við því við fótum og rennum augum yfir það helzta, sem við blasir. Fyrst skulum við líta niður fyrir fætur okkar, svo að við blátt áfram dettum ekki fram af fjallinu, svo er það snarbratt. Af brúninni blasir við hafið, svo langt sem augað eygir til austurs, suðurs og nokkuð til vesturs, og sjaldan er sjór svo kyrr hér, að ekki kögri hvítu við sanda og hleinar. Héðan sjáum við til Selvogs, og ber þar hæst á vitanum á Selvogstöngum, og kirkjunni á Strönd — Strandarkirkju. Neðan fjallsins er allstórt vatn, Hlíðarvatn. Við austurenda þess, uppi við fjallið, er jörðin Hlíð, bær Þóris haustmyrkurs, þess er nam Selvog.

Stakkavíkursel

Í Stakkavíkurseli eldra.

Fyrir nokkrum árum var Hlíð lögð undir Stakkavík, en nú eru báðar í eyði, sorgleg saga, sem gerist víða nú. Við vesturenda Hlíðarvatns er Stakkavík.

Þar sem hús og tún jarðarinnar var fyrir 70—80 árum, er nú allt í vatni, og sést aðeins smáhólmi, þar sem bærinn stóð.

Nú stendur bærinn í hraunjaðrinum við vatnið og má heita túnlaus. Þess vegna var Hlíðin lögð undir Stakkavíkina, því að allgott tún er í Hlíð, en sami eigandi að báðum jörðunum, sem sé Strandarkirkja.
Úr vatninu rennur ós til sjávar, Vogsósaós. Í Hlíðarvatni er allmikil silungsveiði, og eru það Hlíð og Stakkavík, sem eiga beztu lagnirnar.

Stakkavíkurstígur

Á Stakkavíkurstíg efst í Selsskarði.

Af brúninni sjáum við ekki til Herdísarvíkur, þar eð Stakkavíkurfjall byrgir útsýn þangað. Ef við ætlum okkur heim á annan hvorn víkurbæinn, förum við að feta okkur niður stíginn, sem liggur í mörgum krókum og sveigum niður fjallið og heitir Selstígur. Frá fjallinu er aðeins steinsnar heim að Stakkavík. Vestur að Herdísarvík er um þriggja stundarfjórðunga gangur frá Stakkavík.“

Heimild:
-Árbók Hins íslenska fornleifafélags 01.01.1943, Grindaskarðavegur – Selvogsleiðir, Ólafur Þorvaldsson, bls. 100-102.

Grindaskarðavegur

Stakkavík í og við Hlíðarvatn.

Tag Archive for: Ölfus