Gengið var eftir Straumsselsstíg frá gamla Keflavíkurveginum áleiðis upp í Straumssel. Ætlunin var að ganga í gegnum það upp fyrir Almenning og síðan til baka um Bringur og Óttarsstaðasel.
Mannvistarleifar í helli.
Þegar komið var yfir Alfaraleiðina liggur stígurinn áfram til suðausturs vestan Miðmundarhæðar, yfir haft á hraunhrygg, áfram yfir Selhraun og síðan vestan Draughólshrauns, við vesturenda Straumselshæða og upp í selið. Draughóllinn sést vel efst í hrauninu, mosavaxinn. Hraunið virðist vera á litlum bletti í grónu Hrútargjárdyngjuhrauninu. Það er eitt af nokkrum svonefndum Selhraunum á þessu svæði. Straumsselið er skammt ofar.
Að þessu sinni var vikið út af selsstígnum ofan við fyrrnefnt haft á hraunhryggnum. Ofan þess er hlaðið skeifulaga byrgi refaskyttu. Frá því hefur hún hafu gott útsýni yfir slétt hraunflæmið. Gæsir, sem höfðu hópað sig saman á Tjörnunum milli Þorbjarnastaða og Gerðis, tóku sig á loft og virtust stefna til veturssetu sunnar í álfunni. Hraunin við Straumsvík og umhverfis Þorbjarnarstaði eru að mestu klædd gamburmosa en grónir grasbalar eru áberandi næst bújörðum sem og selstöðunum. Gróður við tjarnirnar er einstakur þar sem hann hefur þurft að aðlagast ísöltu vatni, aðlögun sem einungis hefur staðið í 5-7 þúsund ár, eða frá því hraunið rann.
Þorbjarnarstaðir, Péturskot og Gerði bera með sér búsetulandslag með hlöðnum veggjum, stekkjum, réttum, tröðum, brunngötum, alfaraleið og öðrum minjum. Þorbjarnarstaðatjarnir, Gerðistjarnir og umhverfi eru jafnframt á náttúruminjaskrá.
Gengið var til norðausturs yfir á selsstíg, sem gjarnan hefur verið nefndur Straumsselsstígur, en liggur frá Þorbjarnastöðum um Flárnar upp í Gjásel og Fornasel. Við norðanverða Katlana liggur síðan tengistígur af honum upp í Straumssel um Straumsselshæðir. Á kafla, þar sem hraunhellan er hvað sléttust, má sjá djúp för í klöppina. Líklega hefur þessi stígur legið upp í Fornasel og Gjásel. Þau lögðust af mun fyrr en t.a.m. Straumssel. Einhvern tímann hefur verið gerð hjáleið frá Straumsseli niður á stíginn og hann að öllum líkindum síðan notaður sem annar selstígur af tveimur upp í selið.
Þorbjarnastaðastekkur.
Á leiðinni var tækifærið notað og litið á Kápuhelli við vesturjaðar Laufhöfðahraunsins. Tiltölulega auðvelt var að rekja tengistíginn upp í Straumssel. Að vísu er hann merktur á kort of austarlega þannig að hætta er á að fólk geti lent í tímabundnum vandræðum, en ef farið er skammt vestar og hæðir skágengnar er leiðin greiðfær. Þá þarf hvergi að klöngrast yfir grjót og misfellur.
Hraunin í Almenningi (stundum nefndur Hraunskógur) eru að mestu klædd gamburmosa en er einnig víða vaxin kjarri. Í lok nítjándu aldar var kjarrið nánast eytt af hrístöku og fjárbeit, því sauðfé var öldum saman haft á útigangi í afréttum. Eftir að dró úr lausagöngu búfjár um aldamót 19. og 20. aldar hafa birki, víðir og einir tekið mikinn vaxtarkipp. Á stöku stað má nú sjá allt að fjögurra metra há birkitré, einkum norðan Óttarsstaðasels, ofan Meitlanna.
Almenningur hefur einkum í seinni tíð verið nefnd hraunhæðin efst á hraunbrúninni þar sem eru Stórhæðir, Hafurbjarnarholt, Skógarhæðir og jafnvel yfir í Einihlíðar. Áður var hann haunspildan milli Kapelluhrauns og Afstapahrauns á Vatnsleysuströnd. Var þar fyrrum skógi vaxið en hann eyddist af höggi og beit sem fyrr sagði. Á Almenningi er einn hinna mörgu Gvendarbrunna, við gömlu Alfaraleiðina ofan Gvendarbrunnshæðar og norðan við Löngubrekkur.
Straumsselsstígur.
Annars er Almenningur gamalt dyngjuhraun kennt við Hrútagjárdyngju. Það er sjálfvaxið mosaþembu og kjarrlendi en að hluta til er þar ræktaður skógur. Svæðið er að mestu innan vatnsverndarsvæðis eins og það er skilgreint í gildandi aðalskipulagi Hafnarfjarðar. Við norðurmörk afmörkunar á umhverfisverndinni eru þessar mannvistarminjar; Lónakotssel, Óttarsstaðsel, Straumssel, Gjásel, Fornasel og Fjárborgin. Fleiri mannvistarminjar, hleðslur, stekkir, gerði og fjárhellar með fyrirhleðslum eru á þessum slóðum. Um Almenning lágu alfaraleiðir til forna s.s. Rauðamelsstígur, Straumsselsstígur, Hrauntungustígur og Stórhöfðastígur. Auk þess eru aðrar leiðir sem tengdust hinum ýmist til styttingar eða þær voru valdar eftir veðurlagi hverju sinni.
Gamlar þjóðleiðir og fornir stígar liggja vítt og breitt um Reykjanesfólkvang. Þessar leiðir hafa gleymst eftir að ökuvegir voru lagðir og menn hættu að þræða gamlar slóðir á ferð sinni um nesið. Flestar leiðirnar tengja byggðahverfin gömlu við útverin á Suðurnesjum. Á milli Hafnarfjarðar og Krýsuvíkur lágu t.d. Undirhlíðaleið, Dalaleið, Vatnaleið, Stórhöfðastígur og Hrauntungustígur. Frá Hraunabæjunum við Straumsvík og Hvassahrauni lágu sem fyrr segir Straumsselsstígur, Rauðamelsstígur og Mosastígur til Krýsuvíkur, að Selatöngum eða Grindavíkur. Með Núpshlíðarhálsi lágu Hálsagötur og milli Vatnsleysustrandar og Vigdísarvalla lá Þórustaðastígur, sem nefnist Drumbsdalastígur þar sem hann þræðir sig frá völlunum austur að Krýsuvík. Fleiri leiðir mætti nefna, en göngufólki er ráðlagt að rýna ofan í svörðinn og skoða gamlar götur sem víða mótar fyrir þó þær séu ekki jafn augljósar og fyrrum.
Neðri-Straumsselshellar.
Straumsselið var skoðað. Selið er eitt örfárra á Reykjanesskaganum er óx og varð að bæ. Vel má sjá hvernig bæjarhúsin voru, kálgarður norðvestan við þau og garður umleikis. Norðar er vatnsstæðið, garður umlykur heimatúnið og hlaðið gerði er austan við bæjarhúsin. Gamla selið er skammt norðaustar.
Haldið var áfram og götu fylgt upp í Neðri-Straumsselshella. Fallegar hleðslur eru fyrir þremur opum hellanna. Þeir eru frekar lágir innvortis, en í þeim má sjá stuttar hleðslur út frá veggjum. Skammt norðan hellanna er hið ágætasta vatnsstæði.
Þegar komið var upp í Efri-Straumsselshella sáust vel hinar miklu hleðslur þar sem grunnt jarðfall hefur verið notað sem aðhald. Inn úr því er rúmgóður hellir með hleðslum við opið. Inni er gólfið sléttað. Ekki er að merkja að þar inni hafi verið haft fé. Líklega hefur hellirinn verið mannaskjól, en inni í því hafa sléttar hellur verið réttar upp til að loka fyrir að t.d. fé kæmist lengra inn eftir honum. Efri-Straumsselshellar voru notaðir sem rétt um tíma. Dilkur er norðvestan við gerðið. Úr veggjum þess hafa síðar verið tekið grjót og skjól hlaðið með norðurveggnum. Það munu refaskyttur hafa gert um miðja síðustu öld. Væntanlega hafa þeir einnig notað hellinn sem skjól á meðan dvalið var við veiðarnar í Almenningi.
Efri-Straumsselshellar.
Þá var ætlunin að rekja Straumsselsstíginn áfram upp Almenning, framhjá Gömluþúfu og áleiðis að Sauðabrekkum eins og hann hefur verið sýndur á uppdráttum. Almenningsnafnið mun dregið af því að þar var sameiginlegt beitiland Hraunbæjanna.
Auðvelt er að áætla stígsstæðið að skarði norðan við Gömluþúfu og síðan í sneiðin upp brekkuna að henni. Suðvestan Gömluþúfu er varða. Önnur varða er suðaustan hennar. Með jákvæðu hugarfari má rekja götuna upp að síðarnefndu vörðunni, en austan hennar tengist stígurinn inn á vestari leið Hrauntungustígsins er liggur áfram áleiðis að Fjallgrensvörðu og áfram að Sauðabrekkum.
Þegar horft er af brún Almennings yfir neðanvert hraunsvæðið, afurð Hrútargjárdyngju fyrir 5-7 þús. árum, á þessum árstíma (hausti) er litadýrðin óvíða meiri á landinu – og eru þá Þingvellir meðtaldir.
Víða má sjá vörður þarna efra. Flestar eru landamerkjavörður, ýmist á mörkum Þorbjarnastaða og Straums eða Straums og Óttarsstaða. Ein slík er á Klofakletti. Hann er á mörkum efst í svonefndum Bringum. Ofan hans heita Mosar. Skv. örnefnalýsingu eiga nöfn jarðanna er þarna koma saman að vera klöppið á bergvegg við vörðuna. Ekki var að sjá að svo væri.
Vatnsból í Óttarsstaðaseli.
Þá var Almenningur skágenginn til suðvesturs áleiðis að Óttarsstaðaseli. Á leiðinni voru vörður og önnur kennileiti skoðuð. M.a. var skoðuð varða ofan á hraunklofa ofarlega í heiðinni. Op er á henni neðanverðri svo refaskytta, sem setið hefur á bak við vörðuna, hefur haft hið ágætasta útsýni láglendið fyrir neðan þar sem tófan hefur átt leið um.
Annars má víða sjá ummerki eftir refaskyttur í Almenningi, sbr. byrgið við Efri-Straumsselshella svo neðan (norðvestan) við Búðavatnsstæðið.
Búðarvatnsstæðið mun vera þar sem Helguflöt norðan á Búðarhólum er, sbr. kort af Almenningsskógi Álftaneshrepps, dags. 20. apríl 2004. Sumir hafa viljað meina að Markhelluhóll hafi verið þar rétt ofan við stæðið, en síðar „færst“ lengra frá því til austurs þar sem nú eru áklappaðir stafir þeirra bæja er munu hafa átt landamerki að hólnum.
Þegar gengið var áleiðis niður að Óttarsstaðaseli mátti vel sjá hversu leiðin er greið ofan við það að Búðarvatnsstæðinu og áfram upp með Mávahlíðum. Til þeirra sést vel af hæðunum ofan við Óttarsstaðaselið. Komið var niður að Rauðhólsskúta og frá honum gengið að vatnsstæðinu norðaustan við selstöðuna. Í því var nægt vatn.
Óttarsstaðaselið er rýmra en margar aðrar selstöður í Almenningi og á Reykjanesskaganum. Rýmin eru þrjú líkt og hefðbundið er í seljum á þessu landssvæði. Íverurýmið og búrið (framar) hafa haft sama inngang (gengið inn að suðvestan) og eldhúsið, að norðaustanverðu, hefur haft sérinngang. Það er einnig óvenju rúmgott. Enn má sjá hlóðahleðslurnar. Selið er heillegt þótt vel gróið sé. Líklegt má telja að selstaðan hafi verið ein sú síðasta slíkra, sem lagðist af á þessu svæði.
Selsstígnum var fylgt áleiðis að Alfaraleiðinni. Á leiðinni var komið við í Meitlaskjóli undir Meitlum, Sveinsskúta og Bekkjaskúta, en allir þessir skútar eru einungis kippkorn frá stígnum.
Varða við Óttarsstaðaselsstíg.
Þegar komið var niður eftir var haldið að þeirri leið er jafnan (einkum upp á síðkastið) hefur verið nefnd Straumsselsstígur. Fyrst var þó komið við í Gránuskúta sunnan Miðmundarhæðar.
„Straumsselsstígurinn“ liggur nú um norðaustanverða Réttarhæð og kemur niður af henni suðvestan Þorbjarnarstaðaréttar (-stekks). Þaðan liggur leiðin áfram að austurgarð Þorbjarnarstaða. Sú leið virðist hins vegar ekki mjög sannfærandi, a.m.k. ekki sem tengileið fyrir Straumsselsstíginn er liggur upp frá Straumi. Sá stígur kemur beint inn á „austari“ leiðina sunnan Miðmundarhæðar og er hún beint framhald af honum alla leið upp í Straumssel.
Líklegt má telja að gata hafi legið frá Þorbjarnastöðum frá túngarðinum, yfir Alfaraleið og til austurs sunnan Réttarhæðar. Sú leið virðist eðlilegri og greiðfærari tenging við „Straumsselsstíginn“ vestari, sem að öllum líkindum hefur upphaflega verið selstígurinn upp í Fornasel og Gjásel, en þar voru einmitt selstöður frá Þorbjarnastöðum, miklu mun eldri en Straumsselið, svo og fjárskjólin sem þar eru í og við Brundtorfur (Brunatorfur). Gatan ber þess líka glögg merki á köflum.
Gengnir voru 17.7 km á 7 klst. og 7 mín. Frábært veður.
Heimildir m.a.:
-http://www.umhverfisstofa.is/reykjanesfolkvangur/gongu.htm
Óttarsstaðasel.