Tag Archive for: refir

Selatangar

Í Morgunblaðinu 14. júlí 1987 skrifaði fréttaritari þess í Vogum; „70 refir felldir í vor„. Af fréttinni að dæma virðist sem ör fjölgun hafi orðið á tófu á vestanverðum Reykjanesskaganum þetta árið.

Refur

Refur.

„Tófu fjölgar ört í Gullbringusýslu að sögn refaskyttu sem fréttaritari Morgunblaðsins hefur rætt við. Refaskytturnar hafa fellt um 70 tófur í vor, og virðast tófurnar vera um allt.
Einar Þórðarson refaskytta í Vatnsleysustrandarhreppi segir til dæmis að tófurnar séu við bæjardyrnar hjá sér á Vatnsleysu. Tófur hafa verið felldar við Innri-Njarðvík, úti á Reykjanesi og víðar. Þá hafa tófur sést víða, t.d. innan Varnarliðsstöðvarinnar á Keflavíkurflugvelli.

Refur

Refur.

Einar Þórðarson og Lárus Kristmundsson refaskyttur í Vatnsleysustrandarhreppi hafa fellt 22 tófur í vor, sem er mesti fjöldi að minnsta kosti um langt skeið. Á síðasta ári felldu þeir 16 tófur alls. Í vor fundu þeir tvöfalt greni í Hvassahrauni, það er að þar voru tvær læður í greninu. Á Vatnsleysuströnd hafa dauð lömb fundist við tófugreni.
Ísólfur Guðmundsson, bóndi í Ísólfsskála, refaskytta í Grindavíkurlandi, hefur fellt 17 tófur í vor. Hann skaut 3 tófuyrðlinga í einu skoti við tófugreni á Vatnsheiði.
Í landi Hafnarfjarðar, Garðabæjar og Kópavogs að hluta hafa verið felldar 10 tófur úr 2 grenjum í vor að sögn Sigurðar Erlendssonar refaskyttu. Hermann Ólafsson og Sveinbjörn Guðmundsson, refaskyttur í Hafnahreppi, hafa fellt samtals 20 tófur í vor, þar af um 3 tófur er voru felldar í Njarðvíkurlandi.

Refur

Dauður refur.

Samtals hafa því 6 tófur verið felldar í ár, sem er svipaður fjöldi og á síðastliðnu ári. Að sögn Páls Hersteinssonar veiðistjóra voru felldar samtals 38 tófur í Gullbringusýslu árið 1985 og 31 árið 1984. Samkvæmt upplýsingum frá veiðistjóra var veiðin frá árinu 1975 eftirfarandi: Árið 1975 voru felldar 8 tófur í sýslunni, en árið 1976 voru þær 5, árið 1977 var engin tófa veidd, en þær urðu samtals 7 árið 1978, 1979 var engin tófa felld, en árið 1980 voru þær 2, árin 1981 og 1982 voru engar tófur veiddar í sýslunni en árið eftir hófst fjölgun, þá voru veiddar 11 tófur, árið eftir 31.“ – EG

Hryggjargreni

Refaskyttubyrgi við Hryggjargrenin.

Til fróðleiks má geta þess að refir hafa verið veiddir á Reykjanesskaganum allt frá landnámi. U.þ.b. 100 hlaðnar refagildrur bera þess glöggt vitni sem og hlaðin skjól refaskyttna. Margar sagnir eru til um þrautseigju skyttnanna er lágu úti daga og nætur í öllum veðrum, en minna hefur farið fyrir skráðum heimtum. Þó er vitað að refaskinn þóttu verðmæt verslunarvara fyrr á öldum.
Í dag má enn víða sjá minjar, bæði eftir veiðimennina sem og grenin, sem jafnan voru merkt með stein á steini. Glerbrotin benda til þess að þeir hafi jafnan haft með sér eitthvað til drykkjar!?

Heimild:
-Morgunblaðið 14. júlí 1987, „70 refir felldir í vor“, bls. 26.

Þrætugreni

Skjól refaskyttu við Þrætugrenin.

Refur

„Byrjað var að eitra fyrir refi um miðja átjándu öld, eftir að innflutningur hófst á svokölluðum kransaugum eða refakökum öðru nafni. Kransaugu eru fræ austurlenskar trjátegundar. Aðaleitrið í þessu fræi er stryknin þótt magn þess sé ekki mikið, aðeins 1-2% af innihaldinu. Kransaugun voru mulin og hnoðuð inn í kjötbita.
Refaspor-221Fyrstu heimildir um víðtæka eitrunarherferð á vegum sveitarfélags eru frá 1837, en almennt taka sveitarfélög að eitra fyrir refi upp úr 1860. Hreint stryknin í duftformi kemur til sögunnar upp úr 1870, en er ekki komið í almenna notkun fyrr en undir aldamót. Trú manna á mátt eitursins var mikil, og þar að auki var eitrunin með ódýrustu veiðiaðferðum, svo að á þessu tímabili var mjög slakað á grenjavinnslu. Ekker bendir samt til þess að skaði af völdum refa hafi minnkað og árið 1913 skrifar Jón Guðmundsson frá Ljárskógum grein í Frey, þar sem hann bendir á þetta atriði og telur ástæðuna vera þá, að ,,vesælustu, úrræðaminnstu og einföldustu dýrin“ éti helst eitrið, en ,,athugulustu, harðgjörðustu og bestu veiðidýrin“ verði helst eftir. Hann setur fram þá kenningu, að þessir eiginleikar séu arfgengir og því fjölgi hlutfallslega þeim dýrum sem eiginleikana hafi, þ.e.a.s. að stofninn sé í rauninni kynbættur.
Árið 1949 samþykkir Alþingi lög um eyðingu refa og minka (nr. 56), og á þessum lögum eru gerðar breytingar 1955 (samþ. á Alþingi 10. marz ’55). í þessum síðustu breytingum er hin illræmda lagagrein: „Skylt er að eitra fyrir refi og minka ár hvert í afréttum og heimalöndum. Stýfa skal hægri væng fugla þeirra, sem eitraðir eru“.
Hinn 10. marz síðastliðinn [1955] voru samþykkt á Alþingi Íslendinga Lög um breytingu á lögum nr. 56 frá 1949 um eyðingu refa og minka. Í 3. grein laganna stendur: „Í stað 1. málsl. 10. gr. laganna komi: Skylt er að eitra fyrir refi og minka ár hvert í afréttum og heimalöndum. Stýfa skal væng fugla þeirra, sem eitraðir eru“. Lög þessi hafa verið samþykkt án þess að leitað hafi verið álits nokkurra þeirra, sem einkum láta sig varðar. Dýravernd í þessu landi og hafa vökulan áhuga og ábyrgðartilfinningu fyrir því, að dýraríki landsins sé ekki sneytt um fram það, sem orðið er.
Eins og menn geta séð af lagagreininni, sem hér er prentuð, er lögboðið að eitra í afréttum og heimalöndum. Nú er vitað mál, að hundar naga hvers konar hræ.
refur-221Í júní 1957 gengu í gildi ný lög um eyðingu refa og minka. Þar var ákveðið, að ríkissjóður skyldi borga framvegis tvo-þriðju hluta kostnaðar. Töldu allir það vel ráðið. Áður voru það hrepparnir, sem kostuðu refaeyðingu að mestu einir.
Í þessum lögum var aftur á móti annað, sem menn deildu um og ávallt síðan. Það var ákvæði 11. gr. um „að skylt væri að eitra fyrir refi og minka“. Þetta valdboð Kom í meira lagi illa við þá, sem höfðu — af áratuga reynslu — verið vitni að því, að bitdýrum fjölgaði stórlega á þeim svæðum, sem eitrað hafði verið að staðaldri fyrir refi, með stryknineitri. Og nú fengu þeir líka sitthvað að heyra.
19. marz 1964, var samþykkt á Alþingi að breyta ákvæði 11. gr. fyrrn. laga á þessa lund: „Fresta skal að framkvæma ákvæði 11. gr. laganna um eitrun fyrir refi og minka næstu fimm ár. Jafnframt er bannað að eitra fyrir þessi dýr á sama tímabili. Það er með öðrum orðum bannað að eitra fyrir refi til 19. marz 1969.
Ástæðan fyrir þessari lagabreyt ingu var fyrst og fremst sú, að náttúruunnendur, sem fylgdust vel með arnarstofninum íslenzka, sönnuðu, svo ekki varð um deilt, að eitruð hræ, sem fyrst og fremst voru ætluð refum, voru á góðri leið með að gjöreyða arnarstofninum. Með því að hætta að bera út eitruð dauðyfli, næstu fimm árin, var gerð mjög virðingarverð tilraun til að bjarga arnarstofninum.
refur-223Tillaga var lögð fram um breytingu á lögum nr. 52, 5. júní 1957, um eyðingu refa og minka.
11. grein laganna falli niður, en í stað komi: „Stjórnum sveitar- og bæjarfélaga er heimilt að eitra fyrir refi og minka, ef nauðsyn ber til, samkvæmt fyrirmælum veiðistjóra og stjórnar Búnaðarfélags Íslands. Óheimilt er að eitra í hræ eða dauðyfli á víðavangi. Hið eitraða agn skal vel falið í gjótum eða holum, þannig að ekki sjáist úr lofti eða þótt gengið sé nærri eiturstaðnum.
Grenjaskyttum er heimilt að eitra fyrir yrðlinga í grenjum, þó skal eigi gripið til þess ráðs, fyrr en önnur ráð hafa brugðizt.
Oddvitum og bæjarstjórum skal látið eitur í té gegn skriflegri umsókn samþykktri af veiðistjóra. Lyfjaverzlun ríkisins annist sölu (dreifingu) eitursins, samkvæmt fyrirmælum landbúnaðar- og heilbrigðismálaráðuneytisins.“ 7. grein reglugerðar um eyðingu refa og minka breytist í samræmi við ofanritað.
Greinargerð: Hinn 12. marz 1964 voru samþykkt á Alþingi lög um að fresta eitrun fyrir refi og minka næstu fimm árin. Eiturbannið fellur því úr gildi hinn 12. marz n. k. Í lögum og reglugerð um þessi mál, er sveitar- og bæjarstjómum gert skylt að eitra fyrir refi og minka.
Þessum lagaákvæðum er mjög hæpið og óvarlegt að framfylgja, og væri því æskilegra, að um eiturheimild væri að ræða, en ekki lögboðna skyldu.
Að fenginni 5 ára reynslu, sem eiturbannið hefur staðið, mælir margt á móti því að framlengja eiturbannið eða afnema með öllu eituraðgerðir fyrir refi og minka.“

Heimild m.a.:
-Landvernd, nr. 7 (1980) – Villt spendýr, bls. 70-73: Saga refaveiða, Páll Hersteinsson.

Refur

Ætlunin var að ganga frá Sýslusteini í Lyngskjöld og leita uppi greni, sem þar á að hafa verið.

Sýslusteinn

Sýslusteinn.

Á þeim slóðum átti svonefnt þrætugreni að vera, en það var nefnt svo vegna þess að hvorki Selvogsmenn né Grindvíkingar töldu grenið vera í þeirra landi. Heyrir það til undantekninga að bændur afneiti landi því oftar en ekki hafa þeir deilt um yfirráð á slíkum svæðum. Bréfaskrifti fóru á millum hreppsnefndanna vegna þessa þar sem ítrekaðar voru skyldur hvorrar fyrir sig að vinna grenið. Ástæðan var fyrst og fremst sú að grenið var á ystu mörkum sveitarfélaganna og langt að fara fyrir báða aðila, þó heldur lengra fyrir Grindvíkinga. Líklegt mátti því telja að Lyngskjaldargrenið hafi verið það greni er olli framangreindum deilum fyrrum, nefnt „Þrætugreni“. Hafa ber í huga að akvegur þarna var fyrst gerður um miðjan fimmta áratug síðustu aldar. Að sögn kunnugra er grenið við landamerkjavörðu á „Skildi“ og eiga hlaðin byrgi skyttu að vera nálægt greninu.

Lyngskjaldargreni-1

Ólafur Þorvaldsson, síðasti bóndinn í Herdísarvík, getur um Lyngskjaldargrenið í lýsingu sinni af Herdísarvík: „…Vestan Klifhæðar er geil af eldra hrauni með miklum lynggróðri, en vestan hennar samfelld brunabreiða, sem runnið hefur ofan af fjalli vestan Lyngskjaldar. Austarlega í þessari brunabreiðu, en ofan vegar, er stór, stakur hraungrýtissteinn, og er hér Sýslusteinn, auðþekktur sökum stærðar og einstæðingsskapar. Sýslusteinn er á mörkum milli Árnes- og Gullbringusýslu, og þá einnig merkjasteinn milii Herdísarvíkur og Krýsuvíkur. Úr Sýslusteini liggja sýslumerki yfir Lyngskjöld, sem er bunga í brún fjallsins, og hefur yngsta hraunið runnið ofan af fjallinu, austan hans og vestan. Gren er á Lyngskildi, austan marka, Lyngskjaldargren. Meiri gróður er í Lyngskildi en umhverfis hann, t. d. mikið um eini, og er oft á haustin gott þar til einiberja…“
Mosavaxið hraun liggur neðan, ofan og beggja vegna Lyngskjaldar. Hann er í eldra greiðfærara helluhrauni. Svæðið hallar snarlega upp á stall vestan Herdísarvíkurfjalls. Hallinn er lyng- og hrísvaxinn. Þegar upp á hann er komið tekur við fyrrnefnt tiltölulega slétt hellurhraun. Ofar eru rásir og í þeim nokkir litlir hellar. Stallurinn er kjörið grenjasvæði því alls staðar má sjá op á yfirborðsrásum.

Þrætugrenin

Hleðslur við Þrætugrenin.

Lyngskjaldargrenið (-grenin) er rétt fyrir ofan hallann, fremst á stallinum, vestast í honum. Lítil varða er ofan við brúnina og síðan má sjá hvert opið á greninu á fætur öðru. Þau eru öll merkt með tveimur steinum. A.m.k. tvö byrgi refaskyttu eru sitt hvoru megin við grenjasvæðið. Meginopið er í nokkurs konar „urð“ skammt suðaustan við efra byrgið. Innan við það var skít að sjá, en hvergi var fiður eða önnur nýleg ummerki eftir ref í eða við grenin. Talsvert var af rjúpu í nágrenninu, sem bendir fremur til þess að refur hafist ekki við í greninu um þessar mundir. Hnit voru tekin. Af afstöðunni má ætla að grenið sé nokkurn veginn á sýslumörkunum fyrrnefndu, en þó heldur innan Selvogslands ef eitthvað er.

Þrætugrenin

Eitt þrætugrenjanna.

Refur hefur löngum verið veiddur á Reykjanesskaga. Í frétt í Morgunblaðinu 1987 segir m.a. um tófuveiðar á Reykjanesskaganum: „Tófu fjölgar ört í Gullbringusýslu að sögn refaskyttu sem fréttaritari Morgunblaðsins hefur rætt við. Refaskytturnar hafa fellt um 70 tófur í vor, og virðast tófurnar vera um allt. Einar Þórðarson refaskytta í Vatnsleysustrandarhreppi segir til dæmis að tófurnar séu við bæjardyrnar hjá sér á Vatnsleysu. Tófur hafa verið felldar við Innri-Njarðvík, úti á Reykjanesi og víðar. Þá hafa tófur sést víða, t.d. innan Varnarliðs-stöðvarinnar á Keflavíkurflugvelli.
Einar Þórðarson og Lárus Kristmundsson refaskyttur í Vatnsleysustrandarhreppi hafa fellt 22 tófur í vor, sem er mesti fjöldi að minnsta kosti um langt skeið. Á síðasta ári felldu þeir 16 tófur alls. í vor fundu þeir tvöfalt greni í Hvassahrauni, það er að þar voru tvær læður í greninu. Á Vatnsleysuströnd hafa dauð lömb fundist við tófugreni.
MelrakkiÍsólfur Guðmundsson, bóndi í Ísólfsskála, refaskytta í Grindavíkurlandi, hefur fellt 17 tófur í vor. Hann skaut 3 tófuyrðlinga í einu skoti við tófugreni á Vatnsheiði. Í landi Hafnarfjarðar, Garðabæjar og Kópavogs að hluta hafa verið felldar 10 tófur úr 2 grenjum í vor að sögn Sigurðar Erlendssonar
refaskyttu. Hermann Ólafsson og Sveinbjörn Guðmundsson refaskyttur í Hafnahreppi hafa fellt samtals 20 tófur í vor, þar af eru 3 tófur er voru felldar í Njarðvíkurlandi.
Samtals hafa því 6 tófur verið felldar í ár, sem er svipaður fjöldi og á síðastliðnu ári. Að sögn Páls Hersteinssonar veiðistjóra voru felldar samtals 38 tófur í Gullbringusýslu árið 1985 og 31 árið 1984. Samkvæmt upplýsingum frá veiðistjóra var veiðin frá árinu 1975 eftirfarandi: Árið 1975 voru felldar 8 tófur í sýslunni, en árið 1976 voru þær 5, árið 1977 var engin tófa veidd, en þær urðu samtals 7 árið 1978, 1979 var engin tófa felld, en árið 1980 voru þær 2, árin 1981 og 1982 voru engar tófur veiddar í sýslunni en árið eftir hófst fjölgun, þá voru veiddar 11 tófur, árið eftir 31.“

Þrætugrenin

Skjól refskyttu við Þrætugrenin.

Og svolítill fróðleikur um tófuna: Talið er að tófan hafi sest að á Íslandi í lok ísaldar, fyrir um það bil 10 þúsund árum, en talið er að hún hafi komið hingað á hafís.
Fullvaxinn refur getur orðið tæpur metir á lengd, skrokkurinn ekki nema 56-60 cm. Og þyngdin getur orðið allt að 6 kg. Læðurnar eru yfirleitt léttari.
Til eru nokkur litarafbrigði af Íslenska heimskautarefnum en aðallitirnir eru mórautt og hvítt. Dýr af mórauðakyninu eru dökkbrún allt árið en geta verið með hvítan blett eða rák á bringu. Á sumum mórauðu dýrunum getur feldurinn orðið upplitaður á vorin, svo að hann sýnist ljósbrúnn eða grábrúnn. Dýr af hvíta afbrigðiðu eru aftur á móti grábrún á baki og ljósbrún á kvið á sumrin, en þau eru alhvít á vetrum. Mórauða afbrigðið er algengast á Íslandi þegar á heildina er litið. Trýni refsins er alltaf svart og eyrun upprétt. Refir ganga úr hárunum tvisvar á ári. Þeir skipta yfir í sumarfeldinn á tímabilinu frá miðjum maí til miðjan júní. Vetrarfeldur fullorðinna dýra vex út aftur í byrjun vetrar og er að vaxa eitthvað fram yfir áramót.

Þrætugreni

Skjól refaskyttu við Þrætugrenin.

Húsakynni tófunnar er kallað greni. Greni tófunnar eru margvísleg. Greni hennar eru víðast í stór-grýtisurðum neðarlega í fjallshlíðum eða í hraunrásum. Vitað er með vissu að mörg greni hafa verið notuð áratugum saman, þótt ekki sé það á hverju ári.
Tófan gýtur að jafnaði um miðjan maí eftir c/ 52 daga meðgöngu. Afkvæmi tófunnar kallast yrðlingar.
Meðal gotstærð íslensku tófunnar er 5-6 yrðlingar. Þeir fæðast blindir en augun opnast eftir 15 daga. Yrðlingarnir eru alveg háðir móðurmjólkinni fyrstu þrjár vikurnar en þá byrja þeir að éta kjöt. Læðan venur þá síðan af spena við 6-10 vikna aldur.
Báðir foreldrar hjálpast að við uppeldið. 

Vembla

Fyrstu þrjár vikurnar fer læðan lítið frá greninu og steggurinn sér að mestu einn um aðdrætti. Refaparið notar afmarkað heimasvæði sem það fer um í ætisleit og reynir að verja gegn öðrum refum. Heimasvæði sem varið er fyrir öðrum dýrum sömu tegundar er nefnt óðal. Bæði kynin merkja óðalið með þvagi á áberandi stöðum.
Yrðlingarnir taka smám saman að fara í stuttar og síðar lengri ferðir frá greninu. Þegar þeir eru orðnir um það bil tólf vikna gamlir, sem er venjulega snemma í ágúst, eru þeir oft farnir að dreifa sér og sofa á daginn í holum og glufum sem ekki teljast eiginleg greni. Næstu fjórar vikurnar eykst sjálfstæði þeirra og síðast er vitað til að refur hafi fært yrðlingum fæðu í lok ágúst þegar yrðlingarnir voru tæplega 14 vikna gamlir. Í byrjun september virðast þeir vera farnir að finna alla sína fæðu sjálfir.

Þrætugreni

Hleðslur við Þrætugrenin.

 Um miðjan september taka fyrstu yrðlingarnir að yfirgefa óðal foreldranna. Steggir virðast fara fyrr en læður.
Fæðan fer eftir aðstæðum, ýmislegt sjórekið, hrognkelsi, kræklingur, fuglar, egg, hreindýrahræ, rjúpur, þangflugnapúpur, ber, hagamýs o.fl.
Fá dýr eiga sér eins margar nafngiftir og refurinn á Íslandi.
Önnur Íslensk heiti eru: Djangi, djanki, dýr, dratthali, fjallarefur, fjallrefur, gráfóta, heimskautarefur, holtaþór, lágfóta, melrakki, melkraki, rebbali, rebbi, refur, skaufhali, skolli, tófa, tæfa, vargur og vembla.
Refaveiðar hafa verið stundaðar á Íslandi frá upphafi landnáms og refaskinn notuð sem verslunarvara.. Um tíma var bændum gert skylt að stunda grenjaleit á jörðum sínum og afréttum á eigin kostnað, þótt veiðimönnum væri greitt fyrir veiðina.“
Til baka var gengið eftir torsóttri fjárgötu undir Lyngskildi.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 3 mín.

Heimild:
-Árbók Hins íslenska fornleifafélags, 1943-1948. Herdísarvík í Árnessýslu, eftir Ólaf Þorvaldsson, bls. 134.
-Morgunblaðið 14.07.1987, bls. 26.
-Villt spendýr, bls. 74-85.

Þrætugreni

Hleðslur við Þrætugrenin.

Verbúð

„Bygging er mjög ljeleg í Selvogi, eins og í Grindavík, og allt öðruvísi en í verstöðunum norðan á nesinu. Í sjóplássum þessum sunnanfjalls liggja vermenn í sjóbúðum, og eru flestar þeirra miklu líkari peningshúsum en mannahýhýlum. Vanalega eru stein- og torfbálkar beggja megin, og á þeim reistar stoðir upp í ræfrið; milli stoðanna hafa sjómenn flet sín, en á stoðirnar hengja þeir sjobud-222skinnklæðin. Sumstaðar er lítil skvompa fyrir endanum, og er hún kölluð »kór«. Þar hvílir vanalega einhver hálfdrættingurinn. Mismunur er náttúrlega á því, hve hreinlega er um gengið í búðum þessum, en sumstaðar er það fremur sóðalegt, eins og við er að búast, þar sem svo mörgum mönnum er kasað saman; gluggar eru vanalega engir, nema lítil vindaugu með rúðubroti í; verður loptið því eigi gott, ef ekki er haft því meira hreinlæti, þar sem allt blandast saman: svitalyktin af fólkinu og lyktin af grútmökuðum skinnklæðum. Betur færi, að menn færi að leggja þessar sjóbúðir niður, en höguðu heldur til eins og í sjóplássunum norðan á nesinu.
Það stendur sauðfjárrækt mjög fyrir þrifum í þessum byggðarlögum, hve tóur eru fjarska algengar; í hraununum eru svo óteljandi holur, að mjög illt er að vinna grenin, enda er víðast lítið gjört að því; frá Vogsósum hefir nú á seinni árum verið töluvert unnið af grenjum, en það er til lítils gagns, úr því nábúarnir ekkert gjöra. Í sumum sveitum á Reykjanesi drepur tóan nærri hvert lamb, þannig t. d. í Höfnum, og þó eru menn svo rænulausir, að engin samtök eru gjörð til að eyða þessum ófögnuði.
Tvisvar í sumar reið jeg á förnum vegi fram á tóur, sem voru að drepa lömb. Tóurnar eru líka víða svo spakar, að pær hlaupa um eins og hundar, og horfa grafkyrrar á ferðamenn, sem um veginn fara.“

Heimild:
-Ferðir á Suðurlandi sumarið 1883 – eptir þorvald Thoroddsen, Andvari, 10. árg. 1884, 1. tbl. bls. 22-23.

Herdísarvík

Herdísarvík – sjóbúðir.

Refur

„Á Íslandi lifir ein tegund refa villt. Það er tófan eða melrakkinn, sem fengið hefur latneska heitið Alopex lagopus.
refur-221Tófan settist að á Íslandi í lok ísaldar, fyrir um það bil 10 þúsund árum, en hingað komst hún á hafís. Útbreiðslusvæði tegundarinnar er allt í kringum Norðurheim-skautið, bæði á meginlöndum og eyjum, en útbreiðslan er takmörkuð við svæði norðan og ofan barrskóga- og birkibeltisins. Af tófunni eru tvö meginlitarafbrigði, hið hvíta og hið mórauða. Auk þess er allmikill breytileiki í lit innan hvors afbrigðis um sig. Dýr af hvíta litarafbrigðinu eru hvít á vetrum en á sumrin eru þau dökkmógrá á baki og niður með síðum en ljósgrá á kvið og innan á útlimum. Mórauðu dýrin eru flest dökkbrún allt árið, þó heldur ljósari á veturna en sumrin. Sum virðast grásilfruð að vetrarlagi sem stafar af því að hluti vindhára eru með ljóst belti neðan við hárbroddinn.

Munurinn á litarafbrigðunum tveimur ræðst af einu geni og dýr af mismunandi litarafbrigðum æxlast innbyrðis án tillits til litar. Hvíti liturinn telst vera víkjandi sem þýðir að genið sem veldur hvítum lit þarf að vera í tvöföldum skammti, þ.e. hafa erfst frá báðum foreldrum, til þess að dýrið verði hvítt. Tófur með tvö gen fyrir mórauðum lit eða með eitt gen fyrir móraðum lit og annað fyrir hvítum eru ávallt af mórauða litarafbrigðinu.

yrdlingar-221Á Íslandi eru um það bil 2/3 allra refa af mórauða litarafbrigðinu en hlutföllin eru þó misjöfn eftir landshlutum. Á Vestfjörðum og Snæfellsnesi er hlutfallslega minnst um hvít dýr, eða innan við 20%, en sums staðar á miðhálendi Íslands og á Austurlandi er hlutfall hvítra dýra yfir 50%. Á freðmýrum Norður-Ameríku og Síberíu eru hins vegar yfir 99% melrakkanna af hvíta litarafbrigðinu, en víða á eyjum og á vestanverðu Grænlandi er meirihluti dýranna mórauður, eins og á Íslandi.

Ræktaða afbrigðið af tófu, sem oftast er nefnt blárefur, er innflutt og er uppruni þess blandaður. Upphaflega voru ræktaðir blárefir ættaðir frá Alaska en síðar var þeim blandað við refi frá Kanada, Grænlandi, Svalbarða og Síberíu. Þeir eru mun stærri en íslensku melrakkarnir, að jafnaði ljósari á lit og mun frjósamari. Auk þess er feldur þeirra nokkuð ólíkur sem stafar að einhverju leyti af ólíkum uppruna en að hluta af því að dýrin hafa verið ræktuð eftir feldeiginleikum. Þar sem blárefir og villta tófan eru sömu tegundar geta þau átt frjó afkvæmi innbyrðis.

Á Íslandi eru einnig ræktaðir silfurrefir, sem eru litarafbrigði af rauðref (Vulpes vulpes). Náttúruleg útbreiðsla rauðrefs er í Norður-Ameríku, Evrópu, Asíu og Norður-Afríku en auk þess fluttu menn hann til Ástralíu þar sem hann er nú algengur.
greni-221Silfurrefir, það er að segja rauðrefir, geta átt afkvæmi með melrökkum en þau eru ófrjó og þess vegna eru þetta aðskildar tegundir. Silfurrefir hafa sloppið út af refabúum hérlendis en aldrei í þeim mæli að þeir hafi náð að tímgast í náttúrunni, ef undanskilið er eitt tilvik þar sem vitað er að silfurrefstæfa æxlaðist með villtum, íslenskum melrakka.“

Þegar aldurinn fer að færast yfir villt dýr taka tennur að slitna og gulna og á það við um íslenska melrakkann sem önnur dýr. Þegar refir nálgast að fylla tug ára hefur tönnum fækkað og sérstaklega er algengt að framtennur vanti. Vígtennur eru orðnar slitnar og algengt er að krónan sé horfin við 10 ára aldur. Illa tenntur refur á sem von er mjög erfitt uppdráttar í lífsbaráttunni, bæði í samkeppni við aðra refi og við veiðar.

Afföll refa breytast lítið með aldri fram að 7 ára aldri en eftir þann aldur fækkar dýrum hlutfallslega hraðar. Refir í íslenskri náttúru sem komnir eru yfir áratuginn eru mjög sjaldgæfir. Gömlu dýrin verða yfirleitt undir í samkeppni við yngri dýr um maka og óðul. Að öllum líkindum er refurinn upp á sitt besta frá tveggja til sjö ára aldurs en síðan fer að halla hratt undan fæti.

Heimild:
-http://www.visindavefur.is/svar.php?id=109
-http://www.visindavefur.is/svar.php?id=1721

Refur

Refur.

refagildra

„HÉR segir frá einkennilegri aðferð til þess að ginna grenlægjur og veiða hvolpana: Hér skal sagt frá refagildru eða gothreiðri, sem ég hefi allmikla reynslu af. Í nágrenni gamalla urðargrenja útbýr maður gren, með einum útgangi, og í það er látið hræ af tófu. Upp úr greninu innst, þar sem tófunni er ætlað að hreiðra um sig, er gerður strompur eða gluggi og honum síðan lokað með seigum jarðvegshaus og nokkuð þung hella lögð ofan á.

Refagildra

Refagildra – teikning.

Tófur leggja gjarnan í slíkt  greni þegar á næsta vori. Áríðandi er að vitja um grenið á hæfilegum tíma. Þá er hægt að taka yrðlingana fyrirhafnarlaust upp um opið, og er það eitthvað annað en ná yrðlingunum úr urðargrenjum. Og þessu fylgir einnig sá kostur, að hægt er að vinna grenin áður en tófan er byrjuð að leggjast á lambfé.
Einu sinni þegar ég ætlaði að taka yrðlinga, greip ég í bakið á grenlægjunni, sem lá á þeim. Þá varð mér ljóst, að auðvelt er að hafa þarna þann útbúnað, að grenlægjan náist með yrðlingunum. Í eitt slíkt gren, sem ég bjó  til á þennan hátt, hefir tófan gotið 9 sinnum og allir yrðlingar náðst. Þótt ég telji það hafa mikla þýðingu að ganga vel frá þessum grenjum og hafa munnann vel falinn, þá tel ég samt að tófuhræið eigi mestan hátt í að hæna grenlægjur að þeim.“
Kristján Helgason

Heimild:
-Lesbók Morgunblaðsins, Kristján Helgason, 23. apríl 1961, bls. 226.

Sundvörðurhraun

Refagildra í Sundvörðuhrauni.

Húsatóftir

Eftirfarandi um sögu refaveiða er úr riti Landverndar 1980. Höfundur er Páll Hersteinsson:

Ref-1

Refagildra við Húsatóftir.

Forfeður okkar höfðu veitt loðdýr öldum saman, áður en þeir fluttust til Íslands fyrir 1100 árum. Það er því ekki að undra, að þeir skyldu veiða tófur hér frá upphafi. Refskinn voru líka löggiltur gjaldmiðill og talin jafnvirði lambagæra á þjóðveldistímanum og lengur. Einnig ber snemma á því, að refurinn hafi verið álitinn skaðvaldur. Í Grágás og Jónsbók er tekið fram að melrakkar séu á hvers mann jörðu óheilagir. Árið 1295 var samþykkt á Alþingi að hver sá maður sem hefði 6 sauði á vetri í sinni ábyrgð, skyldi veiða einn melrakka gamlan eða tvo unga á ári, ellegar greiða 2 álnir í mat fyrir fardaga. Það kallaðist dýratollur. Fjórar álnir skyldu greiðast í sekt ef ekki væri staðið í skilum, og átti helminginn hreppstjórinn, sem sótti skuldina, en hinn helmingurinn, ásamt dýratollinum, lagðist til að greiða kostnað við refaveiðar framvegis.
Alþingissamþykkt þessi var síðan endurnýjuð orðrétt árið 1485, og árið 1680 féll samhljóða alþingisdómur. Sennilega hefur verið talsverður misbrestur á að bændur stunduðu refaveiðar sem til var ætlast samkvæmt lögum. A.m.k. hefur verið talið nauðsynlegt að minna bændur á þetta við uppsögn leiðarþinga, eins og fram kemur í Formálabók Jóns lögmanns Jónssonar frá árabilinu 1570-1581: ,,Item minni eg bændur á, að þeir sig vel til temji að fara að dýraveiðum, eftir því, sem lögréttumenn hafa áður samþykkt“.
DyrabogarBændum var skylt að stunda grenjaleit á vorin á jörðum sínum og á afréttum á eigin kostnað, en tófuföngurunum sjálfum var greitt úr dýratollssjóði.
Árið 1809 gefa amtmenn út fyrirmæli til hreppstjóra um skyldur þeirra eftir konunglegri tilskipun frá árinu áður. Í meginatriðum er þar fylgt fyrrnefndum alþingissamþykktum, en hér eru samt nákvæm fyrirmæli um hvernig farið skuli að við refaveiðar, um laun tófufangara og um sektir, sé ekki farið eftir fyrirmælum.
Árið 1834 voru veigamiklar breytingar gerðar á fyrrnefndum reglugerðum. Mikilvægast var, að dýratollur féll ekki lengur niður þótt bændur veiddu refi, en öll grenjaleit, grenjavinnsla og veiðar voru launaðar úr dýratollsjóði. Þá var tollurinn hækkaður þannig að hann miðaðist við höfðatölu veturgamalla sauðkinda og eldri í ábyrgð hvers bónda. Að lokum var skýrt tekið fram, að hvorki andlegir nér veraldlegir embættismenn skyldu vera undanskildir dýratollinum.
Reglugerðir þessari stóðu óbreyttar að mestu næstu 50 árin. Árið 1890 samþykkir Kristján konungur níundi lög þar sem kveðið er á um að kostnað við eyðingu refa skuli greiða úr sveitarsjóði. Tveimur árum síðar var dýratollur innheimtur í síðasta sinn. Lýkur þar 6 alda sögu eins sérstæðasta skatts á Íslandi.

Ref

Tiltölulega litlar breytingar hafa orðið á lögum um refaveiðar síðan 1890 nema hvað að ríkið hefur smám saman tekið á sig stærri hlut af kostnaðinum. Árið 1930 voru sett lög, sem kváðu á um, að sýslusjóður greiði verðlaun fyrir veidda hlauparefi en sveitasjóðir skuli standa undir kostnaði við grenjavinnslu. Árið 1949 verður sú breyting samkvæmt lögum, að allur kostnaður við eyðingu refa skiptist jafnt á milli sveitarsjóðs, sýslusjóðs og ríkissjóðs. Loks verður sú lagabreyting árið 1957, að refaeyðingarkostnaður fellur að 2/3 á ríkissjóð, 1/6 á sýslusjóð og 1/6 á sveitarsjóð.
Ýmsar aðferðir hafa verið notaðar við refaveiðar á Íslandi. Algengast í upphafi byggðar mun hafa verið að bræla refi inni í grenjum á vorin og veiða þá í grjótgildrur á veturna. Hvorug aðferðin var samt líkleg til árangurs til fækkunar refa. Notkun grjótgildra virðist hafa lagst niður í upphafi 19. aldar. Um svipað leyti voru dýrabogar orðnir algengir, en tilkoma þeirra var sennilega aðalástæðan fyrir því, að hætt var að nota grjótgildrurnar. Hætt var að mestu að nota dýraboga við vetrarveiði um síðustu aldamót, en þeir eru enn notaðir við yrðlingaveiðar á grenjum. Um aldamótin 1700 voru byssur orðnar algengar við grenjavinnslu og í lok 18. aldar voru þær orðnar aðalvopnið við refaveiðar og hafa verið það síðan.
Byrjað var að eitra fyrir refi um miðja átjándu öld, eftir að innflutningur hófst á svokölluðum kransaugum eða refakökum öðru nafni. Kransuaugu eru fræ austurlenskar trjátegundar. Aðaleitrið í þessu fræi er stryknin þótt magn þess sé ekki mikið, aðeins 1-2% af innihaldinu. Kransaugun voru mulin og hnoðuð inn í kjötbita. Sumum fannst lítið gagn að kransaugunum, enda voru þau ekki mikið notuð fyrr en leið undir miðja 19. öld. Sennilega stendur sú aukning í sambandi við þá uppgvötun, að þau voru mun áhrifameiri ef mulið flöskugler var sett saman við þau til að særa meltingarveginn og auka þannig upptöku eitursins inn í líkamann.

Refs

Á 18. eða 19. öld voru einnig notaðar svokallaðir refaknettir. Það voru kjöt- eða mörbitar, sem inn í voru látin nálabrot eða þar til gerð agnjárn. Það voru tveir litlir pinnar, annar með gati í miðju og hinum smokkað þar í gegn svo að úr þeim myndast kross. Pinninn með gatinu í var um þumlungur á lengd, en hinn nokkuð styttri. Þessir pinnar festust í meltingarvegi dýrsins og drógu það til dauða.
Þá voru hundar stundum notaðir til að hlaupa uppi og drepa refi. Þeir voru kallaðir dýrhundar. Enn í dag er nokkuð algengt, að hundar drepi refi, þótt ekki séu þeir sérstaklega þjálfaðir til þess.

Grjótgildra-2

Refagildra ofan Staðarbergs.

Fyrstu heimildir um víðtæka eitrunarherferð á vegum sveitarfélags eru frá 1837, en almennt taka sveitarfélög að eitra fyrir refi upp úr 1860. Hreint stryknin í duftformi kemur til sögunnar upp úr 1870, en er ekki komið í almenna notkun fyrr en undir aldamót. Trú manna á mátt eitursins var mikil, og þar að auki var eitrunin með ódýrustu veiðiaðferðum, svo að á þessu tímabili var mjög slakað á grenjavinnslu. Ekkert bendir samt til þess að skaði af völdum refa hafi minnkað og árið 1913 skrifar Jón Guðmundsson frá Ljárskógum grein í Frey, þar sem hann bendir á þetta atriði og telur ástæðuna vera þá, að ,,vesælustu, úrræðaminnstu og einföldustu dýrin“ éti helst eitrið, en ,,athugulustu, harðgjörðustu og bestu veiðidýrin“ verði helst eftir. Hann setur fram þá kenningu, að þessir eiginleikar séu arfgengir og því fjölgi hlutfallslega þeim dýrum sem eiginleikana hafi, þ.e.a.s. að stofninn sé í rauninni kynbættur. Kenninng Jóns hlaut talsvert fylgi og hefur haft fram á þennan dag. Að mínum dómi á hún fullan rétt á sér, þótt seint verði hún sönnuð. Víst er, að fá hrædýr nálgast dauðyfli, sem borin hafa verið út af mönnum. Af slíkri varkárni sem íslenski refurinn, þrátt fyrir 16 ára eitrunarbann.

Refagildra

Refagildra í Slokahrauni oafn við Hraun. Sigurður Gíslason sýnir Sesselju Guðmundsdóttir fjögurra dyra gildru.

Það er augljóst, að menn hafa talið, að hægt væri að fækka refum svo með eyðingarherferðum, að skaði af þeirra völdum yrði óverulegur. En slíkar herferðir hafa verið stundaðar af misjafnri kostagæfni eftir landshlutum. Til dæmis var dýratollur ekki alltaf innheimtur alls staðar, sennilega vegna þess að hann var þung byrði og árangur af melrakkaveiðum talinn lítill. Þess er getið að á ofanverðri 18. öld hafi verið lítil brögð um refatoll í Barðastrandarsýslu og að svo muni hafa verið víðar vestanlands.
Þar sem dýratollur var greiddur á annað borð var kvartað undan honum. Á árunum 1832-34 neita Sléttungar að samþykkja reglugerð um refaveiðar og dýratoll og bera því við, að ómögulegt sé að vinna greni til fulls á Melrakkasléttu. Það var því ekki von, að refum fækkaði. En jafnvel þótt lögum og reglugerðum hefði verið framfylgt er ólíklegt, að náðst hefði sá árangur, sem menn vonuðust eftir. Það sést í ljósi þess, að aðeins með því gífurlega átaki, sem gert hefur verið undanfarin 20 ár og með því móti, að ríkissjóður taki á sig megnið af kostnaðinum hefur refum tekið að fækka. Slíkt átak hefði verið óhugsandi án þess.“
Á Reykjanesskaga eru þekktar um 100 grjótgildrur til refaveiða.

Refagildra

Refagildra í Skollahrauni austan Ísólfsskála.

Skrifað hefur verið um refaveiðar og -gildrur í gegnum tíðina. Arnheiður Sigurðardóttir skrifar t.d. um „Nokkra málshætti úr málsháttasöfnum dr. Hallgríms Schevings:

Húsatóftir

Refagildra ofan Húsatófta.

„Í riti séra Björns Halldórssonar, Atla, er svohljóðandi kafli um refagildrur:… „allra minst kostar þig at gera þer Toougilldru, vidiijka og þu getr sied uppaa bruuninni her fyrir ofan Bæinn, enn huun er giord eptir Forskript nockurs gamalls Prests, sem gaf mer hana, og med þvij saa umbuuningr er nu flestum okendr her i grend vil eg segia þer hana“. B.H. Atli, bls. 152.
Síðan kemur nákvæm lýsing af gerð gildrunnar, og sést af því, að hún hefur í aðalatriðum líkzt húskofa. Orðalag kaflans, sem hér fer á undan, sýnir, að það hefur verið forn venja, orðin litt þekkt á 18. öld, að hafa refagildrur yfirbyggðar eða eins konar byrgi.
Sú hugsun, sem upphaflega hefur falizt í málshættinum, virðist mér þessi: gildran er í augum refsins hið sama og gistihúsið ferðamanninum, þ. e. hæli, sem hann kemur að á förnum vegi, þar sem skjól og ríkuleg máltíð biður hans.
Bl. hefur málsháttinn og þýðir hann þannig: „Saksen er for Ræven som Gildeshus“.“

Kristján Helgason, frá Dunkárbakka, skrifar um refagildrur í Lesbók Morgunbalaðsins árið 1961 undir yfirskriftinni „Refagildrur eða tófuhreiður“:
„Hér segir frá einkennilegri aðferð til þess að ginna grenlægjur og veiða hvolpana: Hér skal sagt frá refagildru eða gothreiðri, sem ég hefi allmikla reynslu af.

Refagildra

Dæmigerð refagildra – ÓSÁ.

Í nágrenni gamalla urðargrenja útbýr maður gren, með einum útgangi, og í það er látið hræ af tófu. Upp úr greninu innst, þar sem tófunni er ætlað að hreiðra um sig, er gerður strompur eða gluggi og honum síðan lokað með seigum jarðvegshaus og nokkuð þung hella lögð ofan á. Tófur leggja gjarnan í slíkt greni þegar á næsta vori. Áríðandi er að vitja um grenið á hæfilegum tíma. Þá er hægt að taka yrðlingana fyrirhafnarlaust upp um opið, og er það eitthvað annað en ná yrðlingunum úr urðargrenjum. Og þessu fylgir einnig sá kostur, að hægt er að vinna grenin áður en tófan er byrjuð að leggjast á lambfé.
Einu sinni þegar ég ætlaði að taka yrðlinga, greip ég í bakið á grenlægjunni, sem lá á þeim. Þá varð mér ljóst, að auðvelt er að hafa þarna þann útbúnað, að grenlægjan náist með yrðlingunum. Í eitt slíkt gren, sem ég bjó til á þennan hátt, hefir tófan gotið 9 sinnum og allir yrðlingar náðst.
Þótt ég telji það hafa mikla þýðingu að ganga vel frá þessum grenjum og hafa munnann vel falinn, þá tel ég samt að tófuhræið eigi mestan hátt í að hæna grenlægjur að þeim. -Kristján Helgason, frá Dunkárbakka.“

Í skrifum GHj „Á slóðum Eskimóa með íslenskt blóð“,  í Vestfirska fréttablaðinu árið 1994 segir m.a.:
„Strax og kom yfir ána gat að líta litlar hleðslur á hverju holti. Minntu þessar hleðslur á hrundar vörður og hugði ég svo vera. Þegar svo þessar hleðslur voru skoðaðar nánar kom í ljós að þarna var um ótölulegan fjölda refagildra að ræða. Hleðslan er þannig uppbyggð, að í miðjunni er holrúm sem er nægjanlega stórt fyrir heimskautarefinn, sem er sama tegund og tófan á Íslandi, að komast inn í. Opið er inn í holrúmið og þar er agn, oft lítill kjöt- eða spikbiti. Agnið er fest við stein og þegar refurinn togar í það hrynur öll hleðslan yfir dýrið og drepur það. Er þetta mjög hugvitslega hlaðið. Svona refagildra er einnig rétt hjá Hvallátrum, eða undir Brunnanúp, rétt norðan við Bjargtanga á Íslandi. Virðist því þessi gerð af refagildrum einnig hafa verið notuð til forna á Íslandi. Eina veðrið sem við höfðum af ref var það að á nokkrum stöðum sást refaskítur og var hann auðþekktur því hann er eins á Íslandi og Grænlandi.“

Refagildra

Refagildra á Selatöngum.

Erik Knatterud segir lesendum Mbl frá lífinu á hjara veraldar, „Á Jan Maeyn höfum við allt – nema kvenfólk“ árið 1965. Þar getur hann um refagildrur:
„Dýralífið hér er fátæklegt miðað við það, sem var á dögum Hollendinga hér. Nú eru hér aðeins nokkrir heimskautsrefir og mávar, en allmikið er þó af hinum síðasttöldu. Einstaka sinnum má þó sjá hval eða sel, en ísbirnir sjást hér mjög sjaldan. En um alla eyna getur að líta gamlar refagildrur, rústir veiðikofa, og hvalbein á víð og dreif kringum Fuijama norðurslóða, hinar gömlu stöðvar Hollendinga hér. Frá því um 1600 og fram eftir öldum var nóg af hvölum, selum, rostungum og ísbjörnum meðfram ströndum Jan Mayens. Nú er stunduð áhugamannafornleifafræði í hinum gömlu bústöðum Hollendinga. Er það einkum í Rostungavík, sem fornleifar hafa fundizt, og hefur þeim verið komið fyrir í gömlum varðskúr
frá stríðsárunum.“
Sjá MYNDIR af refagildrum á Reykjanesskaganum.

Heimildir:
-Úr riti Landverndar, nr. 7 (1980) – VILLT SPENDÝR : Saga refaveiða, höfundur: Páll Hersteinsson, bls. 70-73.
-Skírnir – 1. tölublað (01.01.1957), Arnheiður Sigurðardóttir; Nokkrir málshættir úr málsháttasöfnum dr. Hallgíms Scheving, bls. 113-114.
-Lesbók Morgunblaðsins – 14. tölublað (23.04.1961), Kristján Helgason frá Dunkárbakka, Refagildrur eða tófuhreiður, bls. 236.
-Vestfirska fréttablaðið – 33. tölublað (31.08.1994), GHj „Á slóðum Eskimóa með íslenskt blóð“, bls. 7.
-Morgunblaðið – 246. tölublað (28.10.1965), Erik Knatterud, „Á Jan Maeyn höfum við allt – nema kvenfólk“, bls. 17.

Hraun

Refagildra.

Eitur

Í Dýraverndaranum árið 1957 er m.a. fjallað um þá umdeildu ráðstöfun að eitra fyrir refi:
„Hinn 9. nóvember 1956 birti Þorsteinn Einarsson, ritari Dýraverndunarfélags Íslands, grein í Morgunblaðinu um eitrun þá, sem fjáreigendur í Reykjavík og nágrenni hugðust stofna til í fullkomnu refagildra-339heimildarleysi og í vanþökk bænda í Gullbringu- og Kjósarsýslu. Þorsteinn benti þar meðal annars á, hver óhæfa væri að eitra, meðan leyfðar væru rjúpnaveiðar og búast mætti við, að skotmenn hirtu eitraðar rjúpur, legðu þær sér og sínum til munns eða seldu þær náunganum. Bændur virtu að vettugi fundarboðun fjáreigenda í Reykjavík og nágrenni, og fór ekki fram nein eitrun fyrr en nokkru eftir áramót. Grein Þorsteins vakti mikla og verðuga athygli.
Morgunblaðið birti, hinn 23. desember 1956, grein eftir Þórð bónda Halldórsson á Dagverðará í Breiðavíkurhreppi á Snæfellsnesi, og er fyrirsögn greinarinnar: AUir refirnir orðnir dýrbítir og minkaplágan brátt verri en mæðiveikin. Hann færir rök fyrir því, að með því að minkurinn eyði fuglum, þá hafi refurinn orðið að leita sér meira on áður bráðar í hjarðir bændanna. Hans reynsla er sú — eins og raunar allra annarra, sem ekki eru hreinir og beinir fáráðar í þessum sökum, að alls ekki allir refir hafi verið dýrbítir, og ræðir hann einkum ráð til útrýmingar minkunum, sem fengið hafa — að mestu í friði fyrir forsjármönnum búnaðarins í landinu — að auka kyn sitt og nema nýjar og nýjar lendur. Ráð hans eru sýklahernaður (minkapestarsýklar) og gildrur. Séu gildrurnar búr, þar sem hænsn séu agnið — og þannig um búið, ao hænsnin þurfi ekki að hungra eður þyrsta. Má af þessu marka, að Þórður leggur ekki mikið upp úr gagnsemi eitrunar fyrir refi eða minka.
refur-338Í Tímanum birtist 4. janúar þ. á. grein, sem Hinrik Ívarsson, bóndi í Merkinesi í Höfnum í Gullbringusýslu hefur skrifað. Greinin heitir Eitur eða skot. Hinrik er reyndur og slyngur veiðimaður, og kemur það fram í grein hans, að hann er á sömu skoðun og aðrir, sem bezt þekkja til tófunnar og háttalags henriar. Hann segir meðal annars: „Staðreyndin er, að við drepum ekki bitvargana á eitruðum hræjum.“ Það er með öðrum orðum skoðun hans, að eitrun fyrir refi nái alls ekki tilgangi sínum. Hann bendir á í grein sinni, að hæpið sé að þakka eitrun fækkun refanna um síðustu aldamót. Þá hafi gengið magnað hundafár, og muni það hafa átt drýgstan þáttinn í fækkuninni. Hinrik telur, að grein Þorsteins Einarssonar hafi frekar miðað að verndun manna en refa — og við eyðingu refa megi ekki gæta mannúðar, heldur grimmdar, því að refurinn berjist fyrir tilveru sinni með miskunnarlausu stríði. Þeir, sem draga í efa rök okkar dýraverndunarmanna fyrir gagnsleysi eitrunar gegn refum, ættu að mega treysta orðum Hinriks, sem sannarlega vill tæfu feiga, en er okkur þó fyllilega sammála.
refabyrgi-337Hinn 17. janúar 1957 var í Tímanum grein eftir Guðmund Þorsteinsson frá Lundi, sem hann kallar Eitrun fyrir tófur á víðavangi á eftir að hefna sín geipilega. Guðmundur skorar á fróða menn að upplýsa, „hvort nokkurn tíma hefir nokkur dýrbítur verið unninn með eitri.“ Hann segir það staðreynd í sínu byggðarlagi, „að aldrei voru skæðari dýrbítir en á meðan sem kappsamlegast var eitrað.“ Hann lýsir því og yfir, að hann telji eitrun ómannúðlega, og þar sem hún sé gagnslaus, eigi að leggja hana niður og beita skotvopnum við útrýmingu refa.
Í Morgunblaðinu 23. desember 1956 er grein, sem heitir Er konungur íslenzkra fugla að deyja út? Aðalþættir þessarar greinar eru umsagnir þeirra dr. Finns Guðmundssonar og Magnúsar Jóhannssonar útvarpsvirkja, en hann er frá Skjaldfönn á Langadalsströnd við Ísafjarðardjúp, og við Ísafjörðinn hafa ernir löngum orpið. Báðir þessir menn segja, að örninn sé að deyja út, sé að týnast íslenzkri náttúru eins og geirfuglinn. Orsakirnar eru þeir sammála um. Telja þeir þær vera:
1. Eitrun fyrir refi.
2. Fullorðnir fuglar hafi verið skotnir, eggjum verið rænt og ungar drepnir.
Magnús nefnir ákveðin dæmi þess, að ernir hafi drepizt af eitri, enda eru þeir hræætur. Grein þessi er mjög alvarleg aðvörun til þjóðarinnar um að standa vörð um þær litlu leifar arna, sem ennþá hjara hér á landi, og þá fyrst og fremst ásökunarþrungin áskorun um að hætta að eitra fyrir refi.
Guðmundur Einarsson málari og myndhöggvari birti í Tímanum 23. janúar s.l. grein, sem hann nefnir Eigum við að eitra fyrir landvætti? Feitletrað upphaf greinarinnar er þannig: „Enn sígur á ógæfuhliðina hjá erninum á Íslandi, og munu nú vart yfir 20 fuglar á lífi eða orpið í 7—8 hreiður.“ Ennfremur segir höfundur: „Ég hygg að almennt geri landsmenn sér ekki ljóst, hvað okkar fábreytta dýralíf hefur misst, ef örninn verður aldauða á Íslandi. Er hann þó einn landvættanna.“ Enn stendur í þessari grein: „Eitrun hreinræktar dýrbít, því það eru refirnir, sem sízt eru hræætur.“
Þessi mikilhæfi listamaður kann manna bezt að meta tign og fegurð íslenzkrar náttúru og hefur reynzt mjög áhugasamur um náttúruvernd. Hann er á sama máli og þeir menn í bændastétt, sem bezt þekkja refinn, eðli hans og lifnaðarhætti.“

Heimild:
-Dýraverndarinn 43. árg. 1957, 1. tbl., bls. 14-15.

Eldvörp

Leiðigarður fyrir tófu í Eldvörpum

Refagildra

Í Litla-Bergþór árið 1933 er m.a. fjallað um veiðar á „Holtaþór„:
„Þó lágfætt sé, þá er tófan afskaplega greint og útsjónarsamt dýr sem lætur ekki hvern sem er snúa á sig og því eru reynslan og þolinmæðin oft það sem miklu máli skiptir til að hafa vinninginn í skákinni. Venjulega tekur tvo til þrjá sólarhringa að vinna greni, en stundum kemur fyrir að það tekst á einum gangi sólar. En ef átt er við mjög stygg og erfið dýr sem kynnst hafa vondu af manninum og sloppið naumlega frá honum, þá getur þetta farið upp í allt að fimm sólarhringa. Margir þættir hafa áhrif á það hvernig gengur á grenjum og hefur veður mikið að segja. Best er að koma að greni í þurru og björtu veðri og góðu logni. í vætutíð er skyggni yfirleitt minna og vosbúðin meiri. Eins er rokið ekki mjög heppilegt því tófan er ákaflega lyktnæm og vindurinn getur borið með sér lykt af manni sem ofurnæmar nasir skolla skynja úr ótrúlega mikilli fjarlægð.
refabyrgi-221Alltaf er byrjað á að athuga þau greni sem næst eru byggð því þegar tófan heldur til svo nálægt sauðfé, þá er alltaf hætta á að hún fari að bíta þegar lambánum er sleppt út að vori. Ýmsar kenningar eru uppi um ástæður þess að rebbi færi bú sín svo niður í byggð sem raun ber vitni. Stór þáttur í því hlýtur að vera að búskaparhættir hafa breyst mikið. Nú er sauðfé haldið meira og lengur inni við, en áður fyrr voru ær kannski að bera í nálægð við grenin. Einnig hefur sauðfé fækkað og í kjölfar þess er minna um mannaferðir í högunum, svo tófan hættir sér nær en áður. Svo er miklu minna af rjúpu á hálendinu en áður var, en hún er ein aðalfæða tófunnar. Svo sjálfsbjargarviðleitnin og fæðuleitin eiga sinn þátt í þessu. Eins hefur öll umferð um hálendið stóraukist og friðurinn því ekki sá sami og áður fyrir hið villta dýr.“
Í Andvara árið 1900 er fjallað um refaveiðar á grenjum: „Refadráp á grenjum og ráð til að ná út yrðlingum. Á gren, er liggja í heimalöndum eða búfjárhögum, er ætíð bezt að fara síðla dags, og einkum um þann tima, sem fé er rekið saman; því oft skeður, er refir eru í slíkum grenjum orðnir svo hund- og mannvanir, að þeir hrökkva við smalamensku heim á grenin. Er þá oft heppilegt fyrir skyttuna, að vera komin á undan þeim, þar þau þá eru grunlaus um mannkomu heima, en hlaupa að greninu með hraða. Þá skyttan kemur á grenið, skal ætíð fara að öllu með mestu varúð. Láta engan hávaða heyrast heim á grenið, og koma ætíð móti vindi, svo enga lykt leggi heim. Skyldi svo leynast við stein eða harð ögn frá greninu og bíða lítið eitt til njósna. Verði skyttan einskis vör, gengur hún heim að greninu með þeirri varúð, að ekki heyrist fótatak, velti til steinn eða annar hávaði heyrist. refur-221
Leggjast síðan niður að þeim munnanum, sem mestur umgangur virðist um, en liggja þarf ætíð svo haganlega með hendur og fætur, að fljótlega verði gripið til ef með þarf í inngangsmunnanum skal skal gapa og hvæsa eftir móðum hundi, svo títt og þungt, sem unt er. Þetta líkist því, þá dýrið kemur hlaupmótt úr ferðalagi sínu. Takist þessi eftirherming, heyrist samstundis þrusk inni í greninu. Skal þá fara með hægð úr grenmunnanum, en láta þó sömu mæði heyrast inn, og blanda þar við eins konar vinahljóði, lágu, en skræku, til að herðaá yrðlingunum út. Koma þeir þá tíðast allir út ýlfrandi, og þarf þá að viðhafa snarræði að taka þá, því oftast er þá annað eða bæði dýrin samstundis komin í skotmál, ef þau hafa heyrt til yrðlingaima. Komi bæðidýrin í senn, er áríðandi að skjóta fyrst hið styggara, sem strax er augljóst, hvort er. Lendi skotið fyrst á gæfara dýrinu, er venjulegast mjög ilt að ná hinu á eftir. Þar á mót hefir oft lánast, að ná hinu gæfara samstundis á eftir með því að veita því litla eftirför, eða láta yrðlingana kalla það lieim, sem gerist þannig: Er yrðlingarnir hafa verið teknir, eru þeir látnir í poka, en gæta verður að þeir hafi nóg rúm. Síðan eru þeir bornir á þann stað, sem skyttan hefir aðsetur sitt. Þar eru þeir látnir i næði, meðan mesta hræðslan hverfur, svo þeir fái matarlyst. Þeim er þá gefið volgt fuglakjöt, sem þeir þó þvi að eins eta, að vel sé farið með þá og hræðslan sé litil. Sé þar á mót iíla farið með þá, verða þeir ónýtir til að kalla dýrið að, eða jafnvel drepast úr hræðslu. Lánist að fá þá til að eta, hverfur hræðslan svo, að hægt verður að ganga úr skugga um, hverjir eru kjarkbeztir. Hinir eru svo drepnir, en þessir eru æfðir við meðferðina, sem má eigi vera harðneskjuleg, heldur verður að fara að þeim með lagi. Loks skal taka í eyru þeim, og blása stutt og snögt framan í þá. Þegar þeir þá aðeins ljúka upp gininu, en þegja, skal klípa snögt í eyrun og blása títt framan júní þar til skrækur kemur. Á þessu verður svo að herða, þar til hljóðin verða jöfn. Rennur þá dýrið að með hraða, og oft svo, að það er í 4—5 faðma færi. Þessi aðferð mun oftast sjálfsögðust við að ná síðara dýrinu undir þessum kringumstæðum.
refur-222Vanalega má fara nærri um, hvaðan refir koma að grenjum, þótt logn sé, og fer þá eftir því, í hvaða átt frá greninu sýnist vænlegast til fanga fyrir þá. Sé t.d. bygð annars vegar við grenið, skal skyttan leynast í gagnstæðri átt. Oft ber við, að grenjadýr leggjast á lambfé, Þegar fram á vorið kemur, þá þau eiga gren nálægt hygðum, t. d. í fjallshlíðum; en við slík gren er oft ilt um fylgsni fyrir skyttu og vökumann á hentugum stað í nánd við grenið. Á slíkum grenjum verður ætíð að hafast við fyrir ofan grenið. Standi þar að auk svo á, að vindur standi á hlið eða logn sé, má telja þess konar gren auðunnið. Bólstaðurinn er þá tekinn við stein eða í laut í hæfilegri skotmálsfjarlægð. Skal svo hlaða veggur steinum og gamburmosa, og láta það snúa að greninu, er upp snýr á jörðunni, svo engin litbreyting sjáist á garðinum frá jörðinni í kring. Á sama hátt skulu öll skotvirki útbúin. Þá liggja þarf á grenjum eða við þau að bíða dýranna, skal varast að vera á flakki á nóttunni, fyr en vissa er fyrir, að þau hvarfli ekki heim fyr en eftir dagmál. Þótt vanalega megi hepnast að dýrin verði með þessari aðferð ekki mannvör á nóttunni, ber oft við, að slíkt kemur fyrir að degi. Verður skyttan þá að taka þau úrræði, að vera þar eftir sem mest á gangi, en vökumaður heima. Þegar svo líður á daginn og dýrið sér manninn smámsaman, fer það að öskra, sem á að merkja, ef það vill reka manninn á burtu. Við fyrsta hljóð skal hlaupa nokkur fet aftur á bak. Þegar svo dýrið hljóðar aftur og meira en áður, á maðurinn að kippast ætið lengra, og standa hálfboginn. Mun þá tæfa hlaupa spölkorn, og gribba sig betur. Þá skal stökkva lengra en áður og detta flatur; mun hún þá enn espa hljóðin. Þannig verður skyttan að smáfæra sig með sömu aðferð, og stöðugt undan vindi, en lengja sprettina eftir því, sem dýrið sækir fastara að, þar til færi gefst þannig, að leiti ber af, og að öðru leyti hentugast þykir. Skal þá skjótast með hraða áfram, og svo þvert til annarar hliðar, og leggjast þar í leyni undir steini eða í gjótu. Kemur svo dýrið á eftir með flýti, ýmist skimandi eða lyktandi, með trýnið niður við jörð, eftir mannsförunum. Þegar dýrið svo kemur á krókinn á slóðinni, verður skyttan að vera viðbúin að senda skotið.
refaspor-221Enn eru sum grendýr, sem liggja í leyni og láta ekki á sér bera. Þessi dýr eru auðfundin á fuglakvaki, því lóur og spóar fylgja þeim í flokkum, einkum þá egg þeirra fara að unga. Má þá heyra upp á hár, hvar dýrin leggjast, sem ætíð er undan vindi frá fuglakvakinu. Sömuleiðis má næstum ætíð í þoku vita um ferðalag dýranna, með því að veita öllu þessu nákvæma eftirtekt. Skal þá ætið hlaupa í tíma nógu langt undan vindi frá greninu, áður en dýrið kemur í ljós. Þar skal leggjast, þar til heyrist eða sést, hvert dýrið stefnir, því þar eftir verður að færa sig.
Enn er að minnast á þau dýr, sem styggust eru og verst viðureignar fyrir þá sök, að þau hafa sloppið af grenjum og mætt hvekni fyrirfarandi ár, og eru þau dýr vanalega hinir mestu bitvargar. Gren þeirra eru vanalega fjarlæg bygðum, og aldrei skyldi yfirgefa þau úr því fundin eru, sem bezt er og með öll gren, fyr en skytta er fengin, sé hún ekki með í fyrstu. Við þessi gren er það sérstakt, að leggjast skal heima á þau, því eigi þarf að vonast eftir dýrum þeim nær greninu en stekkjarveg eða stutta bæjarleið frá, hvar þau helzt staðnæmast á hólum og hábörðum. Þegar fyrstu nótt, sem legið er á greninu, heyrast óhljóð og öskur frá dýrunum, og verður þá að veita nákvæma eftirtekt, hvar þau hafa oftast viðnám, sem vanalega er við steina eða urðarhryggi. Þangað skal svo fara daginn eftir og hlaða upp mosabyrgi, sem áður er um getið, sem skotvígi. Þegar skyttan flytur í byrgið að kveldi, skal hún ásamt vökumanni ganga undir ábreiðu og hafa með sér yrðling. Skyttan legst svo í byrgið, en vökumaður snýr með yrðlinginn heim á grenið aftur þá leið, er honum er tilvísað, og hefir hávaða nokkurn á leiðinni. Bezt er að flytja með sér vanda yrðlinga á gren þessi, einkum ef mishepnast kynni að ná þeim úr greninu. Þegar svo yrðlingurinn hjá vökumanninum hljóðar dýrin að, þá náttar, munu þau vinnast úr byrginu, þótt eigi verði ætið bæði hina sömu nótt.“

Heimild:
-Litli-Bergþór, 14. árg. 1933, 3. tbl., bls. 11.
-Andvari, 25. árg. 1900, 1. tbl., bls. 129-133.

Klofningar

Klofningar – greni.

Refur

Refsnöfnin eru mörg, s.s. Djanki, Dratthali, Gráfóta, Holtaþór, Lágfóta, Melrakki, Refur, Skaufhali, Skolli, Tófa, Tæfa, Vargur og Vembla. Eftirfarandi frá Theodóri Gunnlaugssyni um „Lifnaðarhætti íslenska fjallarefsins“ birtist í Náttúrufræðingnum árið 1945:

ref-1

„Þær sögur, sem hér fara á eftir, eru teknar úr einkalífi refanna sjálfra, þegar ég hefi rakið slóðir þeirra á vetrum og einnig oft séð nákvæmlega athafnir þeirra. Betri heimildir get ég ekki fengið um eðli þeirra og lifnaðarhætti á þessum tíma árs. Síðar mun ég svo reyna að gefa þær skýringar, sem mér finnst sanni næst. Framan af vetri leita refir langt um minna á að grafa upp egg, fyrst og fremst vegna þess, að þá er oftast eitthvað og stundum mikið af dauðum kindum írá því síðla sumars og haustinu, skammt frá byggð og í óbyggðum. Á þann forða ganga refir fyrst, þar til er uppétinn að mestu og eru þá líka venjulega langfeitastir, sérstaklega hvolpar frá vorinu. Þeir eru líka að öðru jöfnu miklu gráðugri og leita því fyrr niður að byggðinni, enda hafa þeir stórum lakari afstöðu við eggjaleitina af þeirri ástæðu, að þar verða þeir eingöngu að treysta sínum næmu þeffærum, en eftir því, sem eggin geymast lengur, mun af þeim leggja sterkari þef og þá jafnframt auðveldara að finna þau. Þetta hef ég margsinnis séð, því að síðla vetrar í frostleysum, sólbráði eða þýðvindi mun vera kjörveður fyrir tófurnar að leita að eggjum, enda ber þá langmest á því, að þær grafi eftir þeim. Önnur ástæða er líka sú, að þá er oft orðið litið um annað ætilegt, sérstaklega í óbyggðum, eða réttara sagt annað, sem fullkomna næringu hefur og því leita refir þá meira eftir þeim. Kemur þá einmitt fram sá mikli aðstöðumunur, sem fullorðinn refur hefur fram yfir hvolpinn á fyrsta ári, að sá fyrrnefndi, sem grafið hefur sjálfur, í öllu falli, eitthvað af eggjunum, veit nákvæmlega, hvar helzt er eftir þeim að leita, því minni refanna bregzt ekki og þá enn síður hin viðkvæmu þeffæri,
ref-2Þegar ég var strákur heyrði ég gamla refaskyttu lýsa því, hvernig tófur næðu rjúpum á veturna. Hún sagði að bezt þætti tófunni að læðast að þeim í renningi. Fyist yrðu þær varar við hvar rjúpan kúrði sig eða lægi í bæli sínu. Þá færu þær veðurmegin að henni og nálguðust hana svo skríðandi og krafsandi, þannig, að golan tæki snjóinn er losnaði og feykti honum beint á rjúpuna og við það ykist renningskófið. Því meira sem tófan nálgaðist rjúpuna, því meiri renningur og því betur kúrði rjúpan sig aftur á móti niður og lokaði augunum. Svo vissi hún ekki fyrri til en tófan væri búin að hremma hana. Í sambandi við fuglaveiðar tófunnar hefir mér þótt eitt sérstaklega merkilegt. — Ég hefi oft séð á slóðum, bæði haust og vetur, hvar tófur hafa náð rjúpum, en aldrei hafa þær etið svo mikið sem hausinn af þeim. I þess stað hafa þær æfinlega borið þær lengri eða skemmri leið og grafið þær á hinum ólíklegustu stöðum. Svo hefi ég nokkrum sinnum rekið mig á, að þær hafa vitjað um rjúpurnar næstu nótt, flutt þær úr stað og grafið þær aftur ósnertar. Hversu lengi þetta getur gengið veit ég ekki. En þetta sýnir ljóst hversu ríkt þeim er í eðli að geyma sér forða þar til sverfur að og svo einnig hitt, að þær gruna vafalaust félaga sína um græsku, því að þar munu þjófarnir ekki sleppa góðum tækifærum frekar en í mannheimi.
Það, sem sagan ennfremur sýnir, eru hin alkunnu brögð ref-3tófunnar að villa á sér heimildir, þ. e. snúa á andstæðing sinn, og mun af því vera komið orðið „bragðarefur“, sem allar refaskyttur hafa átt erfiðast með að sigra í viðureign við tófurnar. Þar sem læðan fór að lokum út úr öllu slóðasparkinu til að grafa rjúpuna og gekk svo nákvæmlega ofan í sporin sín til baka, var aðeins gert í einum tilgangi. Hann var sá, að kæmi þarna önnur tófa og hlypi í slóðina eins og þær gera oft, — sérstaklega á útmánuðum, þá hefði hún hlaupið eftir henni eins og hún lá, þ. e. frá rjúpunni. Það kemur t. d. ekki fyrir að refir, sem hlaupa í nýja læðuslóð og ætla að veita læðunni eftirför, reki slóðina öfugt.
Tófa, sem verður fyrir skoti og særist, en kemst undan, annað hvort úti á víðavangi, og sér þá undir flestum kringumstæðum manninn á eftir sér, eða hún kemur út úr greni sínu að vetrarlagi, með grun um, að eitthvað sé óhreint í nágrenninu og verður þá fyrir kveðju byssunnar, og ef til vill sér manninn einnig, þá mun sú tófa áreiðanlega, ef hún lifir eftir skotsárið, muna slíka kveðju alla æfi og verður því þeim mun erfiðari viðureignar fyrir manninn, þegar hún hittir hann næst. Slíkur ótti mun einnig megna að skapa vaxandi varúð hjá afkvæmi hennar.
rebbi-2Út frá þessu finnst mér viðeigandi að minnast á eina aðferð, sem mjög oft hefir verið notuð til að eyða refum og einnig mjög mikið er um deilt. Er hún sú, að eitra fyrir þá. Ég ætla ekki að fara mörgum orðum um þá aðferð hér, því að til þess þyrfti langt mál, ef vel væri. En það þori ég að fullyrða, að með árlegri eitrun fyrir refi um iengri tíma, væri beint stefnt að því, að hreinrækta þá allra slyngustu, og þá jafnframt, hættulegustu einstaklingana í stofninum. Myndu þeir þá áreiðanlega komast fljótt upp á að gjalda manninum rauðan belg fyrir gráan. Reynslan er ólýgnust, og hún hefir þegar víða sýnt, að þar sem rækilegast hefir verið eitrað árlega fyrir refi, þar hafa einnig oftast komið fram hinir skæðustu dýrbítar, sem forðast að leggja sér til munns neitt annað en það, sem þeir eru vissir um að sé ósaknæmt.
Harla léleg fæða er það, sem tófur bera oft heim til yrðlinga sinna, þótt það sé á hinum mesta búsældartíma. Þó fer þetta aðallega eftir því, hve umhverfið, sem þær fara um til fanga, er auðugt eða snautt af dýralífi, og einnig líka, hve slungin veiðidýr þær eru. Það mesta, sem ég hefi séð eina læðu koma með í gininu heim til yrðlinga sinna af ungum, bæði möðkuðum, nýlega dauðum og nýdrepnum, voru: 4 rjúpuungar um viku gamlir, 3 lóuungar á svipuðum aldri, tveir stórir skógarþrastaungar, 2 urtandarungar nokkra daga gamlir, 2 þúfutittlingsungar hálfvaxnir, og einn hrossagauksungi, nýkominn úr eggi, eða alls 14 ungar.
Þessa unga bar læðan alla i kjaftinum, þannig, að uppi í sér hafði hún það, sem þar komst fyrir, og svo beit hún einhvers staðar utan um hina, er út úr henni löfðu. Mig furðaði mest á því, hvernig hún hefði farið að taka þá síðustu. Mun það hafa tekið hana talsverðan tíma, því að þegar hún tók upp ungann mun hún máske hafa misst niður tvo eða þrjá, en ekki þarf að efast um, að hún hefir ekki hætt, fyrr en allir tolldu uppi í henni.

rebbi-1

Margt bendir til þess, að refir grafi niður flest þau egg úr hreiðrum, sem þeir finna á víðavangi, ef þeim er það á annað borð mögulegt fyrir vörn eggjamóðurinnar. Ég hefi nokkrum sinnum séð refi finna hreiður og æfinlega hafa þeir tekið eggin eitt og eitt, borið þau burtu og grafið þau stundum í 50—100 m. fjarlægð frá hreiðrinu. Það hefir viljað til að þeir hafa einnig náð eggjamóðurinni, sérstaklega þó rjúpum.
Allir, sem náin kynni hafa haft af refaveiðum hér á landi, munu sammála um það, að því fleiri brögðum ,sem hann er beittur, því fleiri varnaraðferðir koma brátt í ljós hjá honum. Það, sem fyrst og fremst veldur þessu, er hið ríka eðli hans að beita brögðum sjálfur. Honum verður því fyrst fyrir, er hann lendir í háska af óaðgætni, að athuga það næst mjög nákvæmlega, og er þá oft óskiljanlega þolinmóður til þess eins að vara sig á því í annað sinn jafnframt því, sem hann brýtur heilann um að geta snúið á það.“

Heimild:
-Náttúrufræðingurinn 15. árg. 1945, 1. tbl., bls. 38-45.
-Náttúrufræðingurinn 15. árg. 1945, 3. tbl. bls. 136-144.

Yrðlingar

Yrðlingar.