Tag Archive for: Reykjanesbær

Gunnuhver

„Ekki er það ný bóla, að eldur komi upp í sjé úti í grennd við Ísland, og telur Þorvaldur Thoroddsen, að það hafi komið níu sinnum fyrir, sem sögur fari af, fyrst árið 1211 og síðast 1879, þangað til nú Sögulegast var það gosið, er eyja reis úr sjó undan Reykjanesi, en hvarf áður en langt leið. Þegar átti að fara að kanna eyna var hún horfin.
Reykjanes-991Langoftast urðu neðansjávareld gosin út af Reykjanesi, flest á svipuðum slóðum. Í eldgosatali Þorvalds Thoroddsens er nokkrum sinnum aðeins sögð þessi orð: Eldur fyrir Reykjanesi. En fyrst 1226 segir þó fleira: Eldur í sjó fyrir Reykjanesi. Myrkur um miðjan dag. Sandfellsvetur á Íslandi. — Árið 1422 kom upp eldur útsuður undan Reykjanesi og skaut upp landi, sem nú er horfið. Árið 1830: Eldur fyrir Reykjanesi. Hann sást fyrst hinn 6. og 7. marz (aðrir segja 13.), og var uppi þangað til í maímánuði, þá rak mikið af vikri að næstu ströndum. Uppvarpið var nærri Eldeyjarboðum. Árið 1879: Gos fyrir Reykjanesi. Hinn 30. maí sáu menn frá Kirkjuvogi í Höfnum eldsuppkomu nálægt Geirfuglaskerjum hér um bil 8 mílur undan landi og eins sást til hennar næsta dag, en fjórtán daga framan af júlí var svört þoku bræla yfir sjónum út af Reykjanesi, en þokulaust alls staðar fyrir innan. Rétt áður en þokan hvarf, Kom öskufall, sem sá vel á grasi, en ekki urðu menn eldsins varir eftir það. Vikur sást heldur ekki, og engir jarðskjálftar fundust.
Vorið 1733 gerðist það, sem þóttu teikn mikil, að alldjúpt út af Reykjanesi reis rjúkandi eyja úr sænum, og gizkuðu menn ýmist á, að hún hafi verið ein míla eða míluþriðjungur ummáls. Annars beið hún ekki eftir því að vera mæld eða rannsökuð nánar, sem áður segir, heldur hvarf aftur í hafið. Skipverjar á húkkortunni Boesand komu fyrstir auga á eyjuna, og gerði skipstjórinn, Jörgen Mindelberg, teikningu af henni. Eftir honum eru höfð þessi orð í sambandi við gos þetta: „Það var guðs undur, sem við höfðum ekki fyrr séð, að sjór logaði!“
Ey - JorgenÍ Öldinni átjándu stendur eftirfarandi um gosið 1783, dagsett í maímánuði: „Um síðustu mánaða mót urðu menn þess áskynja, að eldur er uppi í hafi djúpt út af Reykjanesi. Stigu þar reykjarmekkir úr sjó og nú hafa áhafnir þriggja kaupskipa séð þar rjúkandi eyju rísa úr sæ, en stórt svæði umhverfis hana er þakið vikri og ösku. Mönnum ber saman uim það, að þarna sé komið upp allhátt hraunhrúgald, með úfnum klettum, en þá greinir á um stærð hínnar nýju eyjar. Telja sumir, að hún sé míla ummáls, en aðrir hafa orpið á, að svo sem þriðjungur mílu muni umhverfis hana. Sævardýpi hefur breytzt til muna umhverfis eyna, og nýr boði, sem mjög brýtur á, er kominn upp alllangt frá henni í norðvesturátt. Það voru skipverjar á húkkortunni Boesand, sem fyrst sáu eyna.
Klukkan þrjú að morgni hins fyrsta dags maímánaðar bar fyrir augu þeirra sjón, sem fyllti þá undrun og skelfingu: Reykjarmekkir miklir stigu upp af sjónum. „Það var guðs undur, sem við höfðum ekki fyrr séð, að sjór logaði“, segir reykjanes-kort-IIskipstjórinn, Jörgen Mindelberg.
Klukkan sjö var skútan komin svo nærri gosstöðvunum, að skipverjar sáu rjúkandi eyju í hafinu hálfa níundu mílu suðvestur af Geirfuglaskeri. Lét skipstjóri sigla í námunda við hana, en sneri frá, er hann átti ófarna hálfa mílu að henni, því að gosfýlan var orðin svo megn, að hann sveðsí hafa óttazt að áhöfnin félli í öngvit. Var þá og sjór allur þakinn vikri.

Nú síðar í maímánuði komu Hans Petersen á Hvíta svaninum og Peder Pedersen á Þorskinum, til hafnar við Faxaflóa, og höfðu þeir báðir séð þessa nýju eyju, er hlaðizt hefur upp úr rjúkandi eimyrkju og gjallstorku út af Reykjanesi“.
Sex vikum síðar hófust Skaftáreldar. Í júlí segir: „Konungurinn hefur mælt svo fyrir að eyjan út af Reykianesi skuli Nýey heita og falið stiftamtmanni að fara hið fyrsta út í hana á einhverju af skipum konungsverzlunarinnar, draga danskan fána að húni á henni og helga hana veldi Dana. Til frekara öryggis skal reisa þar stein og höggva á hann nafn konungs og ártal, og verður steinn sá, sem til þessa er ætlaður, sendur hingað með póstskipinu“.
Í ágúst 1784 segir: „Það fórst fyrir, að stiftamtmaður helgaði Danakonungi Nýey í fyrra og voru boð stjórnvalda um þetta ítrekuð í vetur. Var svo fyrir mælt, að Hafnarfjarðarskip sem flytja átti Levetzov kammerherra og Magnús stúdent Stephensen til Kaupmannahafnar, kæmi við á eynni, ef þess væri nokkur kostur, eða sigla að minnsta kosti svo nærri henni, að viðhlítandi athugun gæti farið fram á henni. En mönuum brá nokkuð í brún, þegar átti að fara að kanna Nýey. Hún var nefnilega hvergi sýnileg, þegar gera átti gangskör að því að helga hana konungi“.

Heimild:
-Tíminn 15. nóvember 1963, bls. 8-9.

Stampahraun

Stampahraun. Í dag má sjá leifar hraunsins undan ströndinni, þ.e. Karlinn. Strákur, Stelpa og Kerling eru horfin í sjáinn. Þó má enn sjá móta fyrir gíg Kerlingar í Kerlingarbás.

Hafnavegur

Hin forna þjóðleið milli Rosmhvalaness (Keflavíkur) og Hafna lá um Hafnaveg. Enn í dag má sjá götuna þar sem hún liggur frá Höfnum austan þorpsins neðan við eyðibýlið Teig, út með Ósabotnum, um Bringur áleiðis upp í Ketilsbrekku og að varnargirðingunni. Innan hennar voru gerðir sorphaugar svo gatan hverfur þarna undir þá.
HafnavegurHafnavegur er mjög greinilegur. Kastað hefur verið upp úr götunni svo hún sést vel þar sem hún liðast upp lágheiðina (Bringurnar). Nokkrar heilar vörður (sennilega endurhlaðnar) eru við götuna og auk þeirra má víða sjá fallnar vörður. Herkampur, Camp Hopkins, var settur yfir götuna á kafla. Má enn sjá ummerki eftir mannvirkin.
Tvær vörður hafa nýlega verið hlaðnar á kampssvæðinu. Á þær eru fest upplýsingaspjöld um tilkomu Bandaríkjahers hér á landi 1941 er þeir tóku við af breska hernámsliðinu. Ýmsir kampar voru vítt og breitt um Suð-Vesturland. Í fyrstu var búið í skálum Bretanna. Bandaríkjamenn reistu síðan aðra tegund af bröggum, Nissen-bragga, sem þóttu bæði reisulegri og betri mannabústaðir.
Um Ketilsbrekku segir m.a. í gamalli þjóðsögu: „Eitt sumar var Ketill í Kotvogi á heimleið frá Keflavík. Hann hvíldi sig í brekku einni á Hafnaheiði, sem kölluð er Ketilsbrekka. Þar hafði hann skamma viðdvöl en lagði síðan af stað aftur.
Skömmu áður en að hann kom að Þrívörðum á miðri heiðinni, sá hann stúlku koma gangandi móti sér sunnan að. Honum varð nokkuð starsýnt á stúlkuna, af því að búnaður hennar allur og fas var með nokkurum öðrum hætti en þá tíðkaðist. Litla tágakörfu hafði hún í hendi, fulla af margvíslega litum, skrautlegum blómum. Stúlka þessi var svo grönn í vexti að það vakti sérstaka athygli Ketils. Er hún varð Ketils vör virtist koma á hana hik og ókyrrð nokkur. Hún hélt þó áfram eftir veginum þar til á að giska 30 metrar voru á milli þeirra. Þá nam hún skyndilega staðar og blíndi á hann, en vék síðan af vegi og gekk á svig við hann svo að alltaf var jafn langt á milli.

Hafnavegur

Katli fannst kona þessi undarleg mjög og þegar hún vék úr vegi kallaði hann til hennar og heilsaði henni. Ekki svaraði hún einu orði, en hélt áfram að stara unz hún var komin jafn langt aftur fyrir og hún hafði verið fyrir framan hann er hún fór út af veginum. Gekk hún þá aftur inn á götuna og hélt áfram austur eftir henni. Alltaf horfðumst þau í augu, en eftir að hún kom á þjóðveginn aftur virtist hún ekki hafa eins mikinn beyg honum. Þó leit hún oft um öxl. Ketill reyndi ekki frekara að ná tali af henni eða grennslast eftir hver hún væri. En ekki kannaðist hann við hana úr nærsveitunum því að þar þekkti hann hvert mannsbarn.“
Á leiðinni frá Höfnum er farið fyrir ofan Stekkjarnes og framhjá Hunangshellu. Um hana segir ein þjóðsagan: „Finngálkn er það dýr kallað sem köttur og tófa geta saman. Er það grimmt mjög og öllum vargi skaðlegri fyrir sauðfé manna og skotharðast allra dýra. Vinnur engin kúla á finngálknið og verður það ekki skotið nema með silfurhnapp eða silfurkúlu. Það er og styggt mjög og ákaflega frátt á fæti.

Hunangshella

Einu sinni lagðist finngálkn á sauðfé Hafnamanna og annara þar nærlendis. Hélt það sig mest umhverfis Ósana, sem kallaðir eru og gjörði tjón mikið. Reyndu menn á allar lundir að drepa finngálknið en það tókst ekki. Gekk svo lengi þangað til loksins að maður einn sem vissi jafnlangt nefi sínu hitti upp á því að hann makaði hellu eina við Ósabotnana með hunangi. Vissi hann að finngálkn er mjög sólgið í sætindi, helzt hunang. Síðan lagði maðurinn sig í leyni skammt frá hellunni. Dýrið rann á hunangslyktina og fór að sleikja helluna. Skaut þá maðurinn dýrið og hafði silfurhnapp af bol sínum fyrir kúlu. Þótti öllum mjög vænt um verk þetta.
Hellan er síðan kölluð Hunangshella og er hún við landsuður-horn Ósanna hjá alfaraveginum milli Keflavíkur og Hafna.“
Ofar, ofan núverandi þjóðvegs, eru Þríhólar og Strokkhóll vestar. Í honum eru álfar eða huldufólk sagt búa. Hæðin norðar, þaðan sem fyrst sést að Höfnum er núverandi þjóðvegur er ekinn, heitir Þrívörðuhæð – Þrívörður skv. örnefnalýsingu fyrir Hafnir.

Heimild m.a.:
-Rauðskinna I 4, Þjóðsagnabókin I 30.
-Jón Árnason I 611.
-Örnefnalýsing fyrir Hafnir.

Fallin varða

Prestastígur

Nafnið Prestastígur er nýlegt heiti á fornri og fyrrum fjölfarinni þjóðleið á Reykjanesi. Sú skýring á nafninu er þó líkleg að með prestakallalögum frá 1907 var Kirkjuvogssókn í Höfnum lögð til Staðarprestakalls í Grindavík og hefur því Staðarprestur oft átt erindi um þessa fornu leið.

Prestastígur

Upphaf Prestastígs ofan Hundadals.

Þegar þessi forna þjóðleið er farin frá Höfnum liggur leiðin frá Kalmanstjörn um Hafnarsand fyrir norðan Presthól og um Kinn, þar sem farið er ofan í sigdalinn upp af Stóru Sandvík, þaðan hjá Haug og yfir Haugsvörðugjá og síðan með rótum Sandfellshæðar. Þar fylgir gatan hraunjaðri Eldvarpahrauns. Á vegi okkar verður þá nýlegur vegaslóði sem er tilkominn vegna lagningar ljósleiðara. Þegar kemur á móts við Rauðhól er farið yfir hraunhaft að hólnum og síðan hjá Eldvörpum og yfir Hrafnagjá og þaðan að Húsatóftum í Staðarhverfi.
Öll þessi leið er vel vörðuð og ber þess merki að þar hefur verið fjölfarið um aldir. Víða sést hvar umferðin hefur markað alldjúpar götur í hraunið og lausagrjót hefur verið tínt úr götunni og lagt til hliðar.

Prestastígur

Prestastígur – varða.

Þetta var aðalleið vermanna af Suðurlandi, sem sóttu sjó frá Höfnum og af Rosmhvalanesi og þar hafa skreiðarlestir verið á ferð. Eins hafa Grindvíkingar lagt leið sína þarna um á þeim tíma sem þeir þurftu að sækja verslun til Básenda, þótt þeir hafi einnig farið sjóleiðina, en á 17. og 18. öld urðu þeir að sæta því í nokkra áratugi að sækja verslun þangað sökum þess að kaupmenn treystu sér ekki til að sigla til Grindavíkur vegna skipskaða sem urðu þar á fyrri hluta 17. aldar. Þá hefur Sigvaldi Sæmundsson póstur verið þarna á ferð á leið sinni milli Básenda og Grindavíkur en hann var fyrsti póstur sem ráðinn var með skriflegum samningi til póstferða árið 1785.
Hafnir voru fyrr á öldum blómlegur útgerðarstaður og var þar stundaður umfangsmikill búskapur bæði til lands og sjávar. Vermenn fjölmenntu þangað á vertíðum og eru sagnir til um stórfellda útgerð Ketils Ketilssonar í Kotvogi, en hann gerði út þrjú skip á árunum 1870 – 1880 og voru þá um 50 sjómenn á hans vegum auk 22 annarra heimilismanna. Ketill var meðal auðugustu manna landsins á sínum tíma. Hann byggði steinkirkju þá sem enn stendur á Hvalsnesi, en Ketill átti m.a. alla Hvalsnestorfuna og Járngerðarstaði í Grindavík.

Prestastígur

Prestastígur – Eldvörp.

Landkostum hefur á síðari árum hrakað mjög í Höfnum vegna sandágangs og margir bæir farið í eyði af þeim sökum, þar á meðal Haugsendar, sem fóru snemma í eyði. Haugsendar voru milli Kirkjuvogs og Merkisness, tún þar voru mikil, húsaskipan vegleg og myndarlega búið. Sagnir um mannlíf þar lifa í gömlum húsgangi:

Á Haugsendum er húsavist
sem höldar lofa.
Þar hefur margur glaður gist,
og gleymt að sofa.

Í seinni tíð er farið að nefna þessa fornu þjóðleið Prestastíg en hvergi finnast þess merki í gömlum heimildum. Geir Bachmann lýsir þeim þjóðleiðum sem frá Grindavík liggja í sóknarlýsingu frá 1840. Hann nefnir með nafni fyrstu þrjá aðalvegi yfir hraunin en segir svo: „Sá fjórði og síðasti vegur sem úr sókninni liggur og alþjóðarvegur má kallast, liggur upp frá Húsatóftum í útnorður ofan í Hafnirnar og er hann sá einni sem héðan farinn verður þangað“. Þetta er eini vegurinn frá Grindavík sem Geir nefnir ekki með nafni.

Prestastígur

Prestastígur ofan Húsatófta.

Prestastígur liggur milli tveggja heimsálfa þar sem hann liggur yfir flekaskilin milli Evrópu- og Norðurameríkuflekanna, sem svo eru nefndir. Því má segja, að þegar Prestastígur er genginn, þá fari ferðalangar frá Ameríku og til Evrópu. Reykjanes er að vissu leyti einstakt í sinni röð þar sem þar er eini staðurinn á jarðríki þar sem sést greinilega hvernig úthafshryggur gengur á þurrt land. Best er að skoða sprungukerfið í Stóru-Sandvík eða sunnan við Valahnúk.
Þegar farið er frá Kalmanstjörn er gengið yfir nokkuð slétt, uppblásið helluhraun. Helluhraun þetta er hluti af stórri dyngju sem jarðfræðingar nefna Sandfellshæð. Í Sandfellshæð er stór gígskál, Sandfellsdalur, og þar á hraunið upptök sín. Hraunið er talið hafa runnið fyrir um 12 þúsund árum. Þegar norrænir menn komu til Íslands, síðla á níundu öld, var svæði þetta allt vel gróið en eftir mikil eldsumbrot og öskufall á Reykjanesi á öðrum fjórðungi þrettándu aldar hófst uppblástur á svæðinu. Ef grafið er niður í sandbollana í hrauninu þá er komið niður í jarðveg. Í hrauninu ber mikið á hraunhólum sem eru sprungnir í kollinn.
Þar sem Prestastígur liggur hæst er komið fram á gjábrún. Þar heitir Haugsvörðugjá. Uppi á bakkanum vestan megin eru gjallgígahrúgöld og nefnist þar Haugur. Í kringum gígana er þunnt gjallkennt hraun og er það eldra en 8000 ára.

Ef veður er gott er þess virði að taka stuttan útúrdúr og ganga á Einiberjahól sem er ævagamall, stakur gígur skammt sunnan við Prestastíg, suðvestur af Sandfellshæð.
Sunnan undir Sandfellshæð er stakur gíghóll, Rauðhóll og frá honum hefur runnið hraun til suðurs og suðvesturs og er Prestastígur milli hrauns og hlíðar, þ.e. liggur um slakkann þar sem Rauðhólshraunið rennur upp að Sandfellshæð. Rauðhólshraun er 2000-3000 ára.

Prestastígur

Prestastígur – brú yfir Hrafnagjá.

Gengið er framhjá Rauðhól og austan við hann tekur við mosagróið apalhraun. Það er yngsta hraunið á svæðinu og rann árið 1226. Þá opnaðist liðlega 10 km löng gossprunga og nefnist hún Eldvörp. Meðal jarðfræðinga er hraunið nefnt einu nafni Eldvarpahraun en í tali heimamanna hétu einstök svæði þess ýmsum nöfnum, m.a. Sundvörðuhraun. Gígarnir í Eldvörpum eru fjölmargir og margir þeirra fallegir. Flestir eru gjall- eða klepragígar og eru nær allir óskertir og er gígaröðin ein af fáum á Reykjanesskaganum sem hefur verið hlíft við efnistöku. Um tveimur kílómetrum norðar en þar sem Prestastígur fer yfir gígaröðina er allnokkur jarðhiti og þar hefur verið borað á vegum Hitaveitu Suðurnesja. Eldsumbrotin á þrettándu öld yst á Reykjanesskaganum stóðu með hléum frá um 1210 til 1240. Mest gekk á árið 1226. Þessi hrina er nefnd Reykjaneseldar af fræðimönnum.
Þar sem Prestastígur fer yfir þetta sögulega hraun er það um 1,5 km á breidd. Þá er komið ofan í kima upp í hraunið og fyrst ber þar við stór og mikil gjá er nefnist Hrafnagjá og er hún í svonefndum Tóttarkrókum. Hraunið sem tekur við er blásið helluhraun og úr Sandfellshæð eins og vestar. Í Tóptarkrókum eru forn hlaðin byrgi sem menn vita nú ekki til hvers voru notuð. Austan við Eldvarpahraunið og niður að Húsatóftum ber mikið á stórum opnum gjám. Fyrst er nefnd Hrafnagjá. Ofan hennar er svonefnt Sauðabæli. Neðar er Miðgjá og næst Húsatóftum er Hjálmagjá. Komið er inn á vestanvert heimatúnið (golfvöllinn) í skarð á gjánni.

Heimild um jarðfræði:
-Kristján Sæmundsson. Jarðfræðikort af Svartsengi, Eldvörpum og Reykjanesi.

Ólafur Sigurgeirsson tók saman.

Á Prestastíg

Hafnir

Á haustmánuðum árið 2002 var ákveðið af Byggðasafni Reykjanesbæjar og Umhverfis- og skipulagssviði bæjarins að ráðast í fornleifaskráningu fyrir bæjarfélagið. En skylt er samkvæmt skipulagslögum að vinna slíkt verkefni.

Skálinn

Í október var hafist handa og dr. Bjarni F. Einarsson fornleifafræðingur sem rekur Fornleifafræðistofuna ráðinn til þess að stýra verkefninu og Sandra Sif Einarsdóttir þjóðfræðingur til að sinna skráningunni. Við fornleifaskráningu er mikið notast við loftmyndir. Þegar ein slík var skoðuð í nóvember 2002 sá Bjarni form landnámsskála í túninu fyrir aftan Kirkjuvogskirkju í Höfnum og styrktist sá grunur þegar hann fór og kannaði svæðið. Í lok nóvember gerði Bjarni prufuholur í miðju hins meinta skála. Það  var gert í von um að finna langeld til þess að staðfesta að hér væri um skála að ræða (langeldar finnast einungis í skálum). Gerðar voru tvær holur og í þeirri seinni fannst langeldurinn á tæplega 1 m dýpi. Bjarni tók viðarkolasýni sem send voru í C-14 aldursgreiningu. Niðurstaðan úr þeirri greiningu var sú að það er hægt að segja með 95% vissu að skálinn sé frá árunum 690-900 e. Kr. Með öðrum orðum skálinn var við lýði á því tímabili.
Í Landnámu segir að Herjólfur Bárðarson, frændi og fóstbróðir Ingólfs Arnarssonar hafi fengið land á milli „Vágs ok Reykjaness“, sem þýðir líklegast að Herjólfur hafi átt land frá Ósum í Höfnum og alveg að Reykjanestá. Vegna þessara tengsla við orðið „vágr“ og nálægðar skálans við Kirkjuvogskirkju, Kirkjuvog og Kotvog var ákveðið að kalla bæjarstæðið Vog. Í skýrslu sem Bjarni skrifaði svo um niðurstöður sínar segir hann frá þeim gruni sínum að fleiri rústir séu í kringum skálann, bæði vegna hóla á svæðinu sem gætu verið merki um rústir og vegna þess að í kringum skála frá þessum tíma eru gjarnan fleiri byggingar og aðrar mannvistarleifar, t.d. fjós, jarðhýsi og öskuhaugar.

Landnámsbærinn

Til þess að fá þetta staðfest var ákveðið að jarðsjámæla svæðið. Þær aðferðir á jarðsjámælingum sem í boði eru á Íslandi henta fornleifafræðirannsóknum ekki alltaf nógu vel og eru viðnáms- og segulmælingar venjulega notaðar við slíkt erlendis. Tim Horsley doktorsnemi í jarðeðlisfræði á fornleifafræðisviði háskólans í Bradford, Englandi var því fenginn til þess að framkvæma viðnáms- og segulmælingar á svæðinu. Rannsókn Tim á svæðinu í Höfnum ásamt öðrum sem hann hefur framkvæmt á Íslandi verða hluti af doktorsritgerð hans. Ritgerð hans fjallar um hvort hægt sé að framkvæma slíkar mælingar á Íslandi, en það hefur lengst af ekki verið talið hægt vegna sérstakrar jarðfræði landsins. Rannsóknir Tim hafa hins vegar leitt annað í ljós, þó verða svona mælingar líklega alla tíð mjög erfiðar sökum jarðfræði landsins. Þar sem að frekar djúpt er á fornleifarnar í Höfnum, eða tæpur 1 m þá var ákveðið að fara tvær umferðir með mælitækjunum og eftir þá fyrri taka u.þ.b. 0.5 m ofan af svæðinu til þess að nákvæmari niðurstöður gætu fengist úr rannsókninni og hægt yrði að bera saman niðurstöðurnar úr báðum mælingunum.

Kirkjuvogskirkja

Tim viðnáms- og segulmældi 60 x 60 m stórt svæði í kringum landnámsskálann. Niðurstöðurnar sem Tim fékk úr mælingunum voru að auk skálans eru trúlega fimm rústir á svæðinu sem mælt var. Þrjú lítil „hús“ austan við skálann og tvær ógreinanlegar rústir vestan og norðvestan við skálann Eftir að mælingum Tims var lokið var hafist handa við að tyrfa yfir svæðið sem opnað var. Þar sem skálinn liggur var hlaðið upp nokkrum lögum af torfi til þess að líkja eftir útlínum hans. Hraunhellur voru settar nálægt miðju skálans til þess að tákna langeldinn og ein hraunhella sem táknar bæjarhelluna sett við hugsanlegan inngang. Þannig geta gestir og gangandi virt fyrir sér hvernig skálinn getur hafa litið út.
Vogur - tilgátaÁ skilti við minjarnar stendur: „Árið 2003 fundust á þessum stað tóftir langhúss sem er 18m að lengd og 8 m að breidd. Þá eru greinilegar tóftir fleiri smáhýsa á svæðinu. Við C14 aldursgreiningu fornleifasýna kom fram sterk vísbending um að bærinn hafi verið reistur fyrir árið 900. Frekari rannsóknir eiga eftir að fara fram á svæðinu. Mögulega er hér kominn bústaður Herjólfs Bárðarsonar.
Svo segir í Landnámu: „Herjólfr… var frændi Ingólfs ok fóstbróðir. Af því haf Ingólfs honum land millum Reykjaness og Vágs. Hann sonr var Bárðr, faðir Herjólfs, þess er fór til Grænlands ok kom í hafgreningar.“. Herjólfur, landnámsmaður í Vogi, hefur því verið langafi Bjarna Herjólfssonar sem fyrstur Evrópumanna sá meginland Ameríku.
Reykjanesskaginn allur fellur undir Landnám Ingólfs Arnarssonar. Síðar gaf hann þeim sem hann vildi úr landnámi sínu. Þannig hefur landið sem Herjólfur fékk náð yfir allan Hafnahrepp.
Örnefnið „Vogur“ er væntanlega eldri mynd af „Kirkjuvogi“. Einnig er þekkt örnefnið „Lögrétta“ úr nágrenninu sem talið er að sé undir norðaustur horni kirkjugarðsins.“
Við Kirkjuvogskirkju er annað ankerið af Jamestown, sem náðst hefur upp af strandstaðnum við Ósa. Austan þess var Lögréttan.

Heimild:
-Sigrún Ásta Jónsdóttir forstöðumaður Byggðasafns Reykjanesbæjar.
-Upplýsingaskilti við „landnámsbæinn“ í Vogi (Höfnum).

Hafnir

Skilti við „Vog“ í Höfnum.

Reykjanesviti

Fyrsti vitinn við strendur Íslands var byggður á Valahnúki á Reykjanesi árið 1878. Ljós hans var fyrst tendrað þann fyrsta desember. Um aldarmótin 1900 voru vitar landsins orðnir 5 að tölu.

Reykjanesviti

Reykjanesviti 1910.

Talsvert hefur verið fjallað um fyrsta vitann sem og aðra er síðar voru byggðir við strandir landsins. Uppbyggingu vitakerfisins lauk með byggingu Hrollaugseyjavita árið 1954, en þá var ljósvitahringnum um landið lokað. Í dag er fjöldi ljósvita við strendur landsins alls 104, þar af 17 á Reykjanesskaganum.
Í dag sjást einungis leifar þessa fyrsta vita, neðan Valahnúks. Einungis fáum árum eftir að ljós hans var tendrað fyrsta sinni kom í ljós að hann hafði verið settur niður á röngum stað.
Nýr viti var því byggður á Vatnsfelli og tekin í notkun árið 1908. Vitinn er að flestu leyti eins í dag og upphaflega, nema hvað efsta ásýnd hans hefur tekið svolitlum breytingum í gegnum tíðina. Þá hafa vitavarðahúsin einnig verið endurnýjuð.

Reykjanesviti

Árið 1905 var svo komið að jarðskjálftar og brim höfðu brotið svo mikið úr Valahnúk að hætta var talin á að Reykjanesviti félli í hafið. Var því ákveðið að reisa nýjan vita. Á árunum 1907-1908 var byggður nýr viti á Bæjarfelli á Reykjanesi. Gamli vitinn var felldur með sprengingu þann 16. apríl 1908. Alþingi veitti fé til byggingar vitans til að flýta fyrir framkvæmdum.
Vitinn er byggður úr tilhöggnu grjóti og steinsteypu. Þeir Frederik Kiørboe arkitekt og Thorvald Krabbe verkfræðingur teiknuðu vitann. Framkvæmum lauk á Þorláksmessu 1907 og kveikt var á vitanum 20. mars 1908.

Yfirleitt er sagt að núverandi viti standi á Bæjarfelli, en þar er um miskilning að ræða. Hæðin heitir Vatnsfell, enda dregur fellið nafn sitt af vatni undir hlíðum þess. Leó M. Jónsson segir m.a. um þetta á vefsíðu sinni þar sem hann lýsir svo ágætlega Höfnum og landssvæði, sem tilheyra þeim: „Fyrsti ljósviti á Íslandi var reistur á Valahnjúki 1878. Í miklum jarðskjálftum 8-9 árum síðar hrundi úr hnjúknum og sprungur mynduðust ofan á honum. Var þá talið að reisa yrði vitann á öruggari stað og var þá núverandi viti á Vatnsfelli (nefnt eftir litlu vatni/uppsprettu sem er norðan þess – reyndar eru þeir til sem fullyrða að heitið Vatnsfell sé dregið af eimingartækjum sem þar voru sett upp og áttu að sjá vitavarðarhúsinu fyrir drykkjarvatni en sem ekki reyndist svo þörf fyrir) byggður og tekinn í notkun 1908.“

Gott útsýni er af fellinu yfir nágrennið. Í vestri blasa við Valahnúkar og Eldey úti í hafi. Í suðri Vatnsfell og Reykjanestá en dyngjurnar Skálafell og Háleyjabunga í austri. Norðar í hrauninu er Sýrfell.
Hóllinn sem er á móti Vatnsfelli og er á vinstri hönd þegar ekið er fram hjá vitavarðarhúsinu á leið út að Valahjúk nefnist Bæjarfell. Sunnan undir því eru leifar útihúsa fyrsta vitavarðarins sem og brunnur, sem hlaðin var í tilefni byggingar fyrsta vitans hér á landi.
Leó fjallar jafnframt um nýjasta vitann á Reykjanesi, vitann á Austurnefi eða ofan við Skarfasker: „Annar viti, minni, var reistur sunnar á svokölluðu Austurnefi og er ástæðan sú að lítið fell, sem nefnist Skálarfell, skyggir á ljósið frá stóra vitanum á nokkru svæði þegar siglt er úr suðri.“
Vitinn, sem teljast verður til „hálfvita“ var byggður sem aukaviti árið 1909, endurgerður árið 1914 og síðast endurgerður árið 1947. Fyrsti vitinn á Skarfasetri gekk fyrir gasi og var einn fyrsti sjálfvirki vitinn við Íslandsstrendur.

Þegar gengið er um Reykjanesvitasvæðið er ágætt að byrja gönguna við vitann á Vatnsfelli. Þaðan er hægt að ganga eftir gömlum flóruðum stíg, sem enn er nokkuð greinilegur og liggur frá Vatnsfelli að Valahnúk.

Reykjanesviti

Reykjanesviti.

Þessi stígur var notaður af vitaverðinum þegar vitja þurfti gamla vitans.
Í umfjöllun um samgöngumál á vefsíðu samgöngumálaráðu-neytisins og einstök tímamót á þeim vettvangi er m.a. fjallað um „Þjóðveginn yfir sjóinn“. Þar segir m.a. að „í raun komu strandsiglingar í stað járnbrautarsamgangna sem tíðkuðust í öðrum og þéttbýlli löndum. Slíkt lá í raun beint við því langflestir Íslendingar hafa ávallt búið nálægt strandlengju landsins, en miðja landsins óbyggð sem kunnugt er. Ennfremur þurfti mikil útgjöld og erfiði til þess að ryðja vegi á landi, enda stóðu ansi margar ár, heiðar og fjöll fyrir ferðum fólks, einkanlega á vetrum. En á sjó voru allar götur greiðar svo lengi sem veður og ísalög voru ekki til tafar.

Reykjanesviti

Reykjanesviti.

Fjárfestingar í siglingamannvirkjum –höfnum og vitum – voru einnig sérstaklega fýsilegar fyrir þá sök að þær nýttust einnig fyrir ferðir fiskiskipa. Þannig var búið í haginn fyrir samgöngur og fiskveiðar á sama tíma. Samt sem áður voru Íslendingar seinir til þess að byggja upp innviði sjósamgangna. Fyrsti vitinn var byggður á Reykjanesi 1878 og um aldamótin 1900 voru aðeins fjórir [aðrir] vitar hérlendis. Á þeim tíma voru engar hafnir við landið, utan þess að kaupmenn reistu trébryggjur við verslanir sínar. Til að mynda voru fjórar trébryggjur í Reykjavík, en höfn kom þar ekki fyrr en árið 1912. Vitaskuld skorti peninga til framkvæmda, en einnig mátti um kenna doða hjá opinberum aðilum. Strandferðaskipin lögðu því hvergi að landi áhringferð sinni, heldur sáu léttabátar og breið bök íslenskra dagvinnumanna um að flytjafólk og vöru á milli skips og lands þar sem stöðvað var hverju sinni.“
Öðrum þræði segir að það sem knúið hafi mest á um vitagerð hér á landi hafi verið millilandasiglingarnar. Kaupmenn og útgerðarmenn hafi haft áhyggjur af skipum sínum eftir að þau nálguðust landið, einkum að vetrarlagi. Sigla þurfti fyrir Reykjanesið og þar var ekki síst þörf á leiðarmerkjum svo auka mætti öryggi siglingaleiðarinnar og fá þar með skipstjóra til siglinga með vörður þessa leið.
SVFÍ hafði skömmu fyrir 1950 komið fyrir björgunarbúnaði í Reykjanesvita og var haft eftirlit með honum, að sögn Vilhjálms Magnússonar, þótt vitinn hafi ekki verið á skrá sem björgunarstöð á þeim tíma. Sá búnaður var síðar aukinn og endurbættur (1966).
Þrátt fyrir vitana á Reykjanesi var ströndin þar ekki óhappalaus. Leó segir svo frá „Þegar eitt stærsta skip, sem strandað hefur við Ísland, olíuskipið Clam, fór upp í klettana sunnan við Valahnjúk á Reykjanesi, að morgni 28 febrúar 1950, drukknuðu 27 sjómenn. Björgunarsveit úr Grindavík tókst með harðfylgi að bjarga 23 mönnum.

Rafnskelsstaðaberg

Viti á Rafnkelsstaðabergi.

Björgunarsveitarmenn úr Höfnum komust ekki til hjálpar vegna þess að enginn vegur hafði ekki enn verið lagður út á Reykjanes sunnan Kalmanstjarnar. Sjálfvirkur sími kom ekki í Hafnir fyrr en seint á 8. áratugnum; fram að því var símstöðin opin á ákveðnum tímum dags eins og tíðkaðist víða annars staðar á landinu og nefndist kerfið ,,sveitasími.“
Í marsmánuði 1954 strandaði togarinn Jón Baldvinsson undir svörtum hamravegg Reykjaness. Svo giftusamlega tókst til að björgunarsveitarmönnum úr Grindavík tókst að bjarga allri áhöfninni. Enn vantaði veginn úr Höfnum, en um 3 km styttri leið er út á Valahnjúk á Reykjanesi úr Höfnum en úr Grindavík. Í bók Jónasar Guðmundssonar, Togaramaðurinn Guðmundur Halldór, er áhrifarík lýsing á þessu strandi og því hvernig einstaklingur, bjargarlaus um borð í strönduðu skipi, og sem veit að um líf eða dauða er að tefla, sér allt í einu ljós frá bílum björgunarsveitarmanna birtast uppi á bjargbrúninni í sortanum framundan. Guðmundur Halldór (faðir Guðmundar ,,Jaka“ Guðmundssonar) var einn af skipverjum á bv. Jóni Baldvinssyni.“
Kristján Sveinsson skrifar nokkuð ítarlega um fyrsta vitann á Íslandi í Lesbók Morgunblaðsins 30. nóv. 2003. Þá voru liðin 125 ár frá því að fyrst var kveikt vitaljós á vitanum á Valahnúk á Reykjanesi. Kristján segir m.a. frá tildrögum vitabyggingarinnar og fólki sem við þá sögu kom, reyndar stundum með dramatískum hætti.
Í umfjölluninni segir Kristján m.a. frá því að það hafi verið Arnbjörn Ólafsson, vitavörður, sem tendraði ljós á vitanum fyrsta sinni, „einni klukkustund eftir sólarlag þegar hann stóð í ljóshúsi hins nýbyggða Reykjanesvita og kveikti á olíulömpunum 15 í ljóstæki hans, hverjum á eftir öðrum“.

Reykjanes

Gata vestan Valahnúks.

Líklegt má þó telja að hann hafi við það notið dyggrar aðstoðar umsjónarmanns byggingarinnar, hins danska Alexanders Rothes, sem einmitt hafði leiðbeint Arnbirni um vitavörsluna. Vígsludagur vitans á Valahnúk markaði formlegt upphaf vitaþjónustu á Íslandi.
Stöðulögin árið 1871 og stjórnarskrán þremur árum síðar (1874) færðu Alþingi fjárveitingarvald. Í skjölum Alþingis kemur fram að þingmennirnir Snorri Pálsson og Halldór Kristján Friðriksson hafi þá flutt frumvarp til laga um vitagjald hér á landi – þótt enginn væri vitinn. Þeir virtust vilja tryggja fjárhagslegan grundvöll til vitabygginga og reksturs vitanna, þegar þeir yrðu byggðir.
Kristján lýsir m.a. í grein sinni hvernig Vitagjaldsfrumvarpið varð til þess að farið var að huga að byggingu vita á Íslandi fyrir alvöru. „Ekki er að sjá að komið hafi til álita að byggja fyrsta vitann annars staðar en á Reykjanesinu, enda koma langflest skip úr hafi upp að suðvesturhorni landsins.“ Reyndar þarf varla að taka fram að svo hafi verið, enda Reykjanesið og Röstin nær ávallt fyrstu nálgunarstaðir verslunar- og farskipa á leið til landsins.
Eftir umræður við Dani var af fyrrgreindum ástæðum talið mikilvægt að hefja vitavæðingu Íslands á Reykjanesinu.
Eftir að Danir höfðu boðist til að lá í té ljósahús og vitatæki var ákveðið að vitabygginguna sjálfa myndu Íslendingar kosta. Sumarið 1876 var farið að kanna væntanlegt vitastæði og aðstæður til byggingar þar. Varð niðurstaðan sú að best væri að byggja vitann á Valahnúk. Þar hjá var nóg af hraungrjóti til byggingarinnar og auk þess rekaviður í fjörum, sem bæði mátti nota við vitasmíðina og til eldsneytis. Ekki er að sjá að leitað hafi verið eftir formlegu samþykki landeigenda, enda menn kannski ekki á eitt sáttir hverjum það tilheyrði.

Reykjanesviti

Leifar gamla vitans á Valahnúk.

Að sögn Helga Gamalíelssonar frá Stað hétu malirnar austan Valahnúks Staðarmalir og tilheyrðu Stað, en Reykjanesmalir að vestanverðu. Nú eru Staðarmalir jafnan nefndar Valahnúkamalir (í fleirtölu). Líklegast er að landamerkin fyrrum hafi legið um Valahnúk, annað hvort í hábrúnina eða í vikið vestan hennar. Sjórinn hefur verið iðinn við að breyta ásýnd strandarinnar og hefur Valahnúkur ekki farið varhluta af því.
Vorið 1877 tilnefndi flotamálaráðuneytið nefndan Alexander Rothe, danskan verkfræðing, til að undirbúa byggingu vitans. Herma sagnir að hann hafi þá um sumarið farið til Íslands og síðan í tvær rannsóknarferðir á Reykjanesið áður en hann afhenti tillögu sína að vita og vitavarðabústað ásamt hlöðnum brunni á Reykjanesi. Bæði Alþingi og danska þingið samþykktu fjárframlög til verksins og samið var við Rothe um byggingu steinhlaðins vita og vitavarðabústaðar.
Hafist var handa við verkið í júní 1878. Með verkfræðingnum kom danskur múrarameistari (Lüders), en hann hafði m.a. annast byggingu Hegningarhússins við Skólavörðustíg árið 1872, en aðrir starfsmenn voru Íslendingar. Rothe gerði ráð fyrir að nota hraungrjótið sem þarna er, en Lüders leist ekki vel á það. Reyndist það líka við athugun vera hið lélegasta byggingarefni.
Þá var tekið til þess bragðs að flytja stuðlaberg neðan úr fjörunni um alllangan veg. Það, ásamt ýmsum öðrum töfum, varð til þess að vitabyggingin gekk nokkuð hægar en Rothe hafði gert ráð fyrir. Vinnukrafturinn reyndist óáreiðanlegur því karlarnir áttu það til að þjóta fyrirvaralaust úr steinhögginu í fiskiróður eða heyskap. Og svo var veðurfarið þarna yst á nesinu bæði örðugt og óhagstætt þetta sumar og um haustið.
Rothe tókst þó að ljúka þeim um haustið og „var þá risinn á Valahnúknum steinhlaðinn viti, límdur saman með steinlími sem í var Esjukalk og brennsluofn í Reykjavík sem Kalkofnsvegur dregur nafn sitt af.“ Einnig hafði verið byggður þar skammt frá bær fyrir vitavörðinn og fjölskyldu hans.

Reykjanesviti

Reykjanesviti – fyrsti vitinn.

„Reykjanesvitinn frá 1878 var áttstrendur, um 4,5 m í þvermál og 6,2 m á hæð. Turninn skiptist í tvær hæðir, jarðhæð og efri hæð þar sem vaktherbergi vitavarðarins var. Ljóshúsið var úr steypujárni og umhverfis það svalagólf sem girt var með járnhandriði. Ljóstæki vitans var upphaflega samansett úr 15 olíulömpum og að baki hverjum þeirra var holspegill úr messing sem magnaði ljósið. Þremur lömpum með speglum var bætt í ljóstækið árið eftir að vitinn var tekinn í notkun til að bæta lýsingu hans. Þetta ljóstæki var í vitanum fram til ársins 1897, en þá var sett í hann 500 mm snúningslinsa, sem enn er til, og steinolíulampi með tveimur hringlaga kveikjum.“
Vitinn stóð fram til ársins 1908, sem fyrr segir. Jarðskjálftar og ágangur sjávar á Valahnúkinn urðu til þess að laska svo vitann og undirstöðu hans að talin var hætta á að hann félli í hafið og vitavörður hafði neitað að standa þar vaktir. Nýr viti, sá sem enn stendur, var reistur veturinn 1907-1908 og þann 16. apríl 1908 var gamli vitinn felldur með sprengingu.

Reykjanesviti

Arinbjörn og Þórunn.

Árið 1884 hafði Arnbjörn og eiginkona hans, Þórunn Bjarnadóttir, fengið nóg eftir sex ára dvöl á Reykjanesinu og Arnbjörn sagði upp vitavörslunni. Hann fluttist til Reykjavíkur og síðar til Keflavíkur þar sem hann stundaði verslunarstörf og rak bakarí, auk annarra umsvifa. Þórunn lést árið 1912 og Arnbjörn árið 1914.
Eftir standa vitarnir tveir; á Vatnsfelli og á Austurnefi. Nú eru tvö ár í að fyrrnefndi vitinn, á Vatnsfelli, verði fornleif skv. gildandi þjóðminjalögum. Hins vegar má ekki gleyma því að ýmsar fornleifar má finna í nágrenni við vitann, s.s. hlaðna garða, brunninn (sem hlaðinn var úr tilhöggnum steinum), stíg vitavarðarins frá Vatnsfelli/Bæjarfelli að Valahnúk, flóraða götu vestan Valahnúks o.fl. Sjá má enn móta fyrir grunni geymsluhúss þess er varningi í 1908 vitann var skipað upp í ofan við Kistu, hlaðið hús skammt austar, vörður með gamalli leið, hlaðin byrgi, áletranir á klappir sem og nokkra þjóðsagnakennda staði, sem ber að varðveita. Reykjanesvirkjunin nýja sækir að þessum fyrrum mannvirkjum, sem í raunininni gefur enga ástæðu til að spilla þeim. Ef það gerist verður það einungis fyrir einskæran klaufaskap.

Reykjanes

Brunnur neðan Reykjanesvita.

Vegna framkominna upplýsinga um Reykjanesvitann og annað honum tengt vildi Kristján Sveinsson geta þess að “það er full ástæða til að taka það fram að ekki var sjálfgefið að reisa fyrsta vita Íslands á Reykjanesi. Skip sem koma að landinu úr suðaustri (þaðan koma skip frá Danmörku og Noregi) hafa landkenningu mun fyrr og það hlaut auðvitað að koma til greina að hefja vitavæðingu Íslands á því að byggja landtökuvita austar á suðurströndinni. Á tímum seglskipanna var alengt að halda skipum á leið inn í Faxaflóa langt af suðurströndinni og svo djúpt til vesturs til að forðast hina hættulegu strönd enda sigling meðfram ströndum þeim hættuleg. Með tilkomu gufuskipa breyttist þetta, þau voru ekki eins háð veðri og vindum eins og gefur að skilja og farið var að sigla nær landi en áður hafði verið gert og skip sem komu úr hafi fyrir sunnan land héldu nærri Reykjanesi á leið sinni til hinna vaxandi þéttbýlisstaða við Faxaflóa. Það voru forsendurnar fyrir byggingu Reykjanesvitans. En landtökuvitann vantaði eftir sem áður og oft var um það rætt. Danska vitamálastjórnin gerði seint á 19. öld hátimbraðar og kostnaðarsamar áætlanir um byggingu slíkra vita á Íslandi sem ekkert varð úr og þegar Stórhöfðaviti á Heimaey var byggður árið 1906 fóru fram umræður um það hvort gera ætti hann að landtökuvita með því að útbúa hann með sterku ljósi. Danska vitamálastjórnin lagðist eindregið gegn því vegna þess hversu skerjótt er við Eyjar og hefur sjálfsagt gert rétt með því.
Dyrhólaeyjavitinn (sá sem nú stendur) sem reistur var 1927 er fyrsti raunverulegi landtökuvitinn. Hann var og er ljóssterkasti viti landsins. Vitinn sem stóð í Dyrhólaey frá árinu 1910 dugði ekki sem landtökuviti vegna þess hve lítið ljós hans var. Ísland fékk sem sagt ekki sinn landtökuvita fyrr en 1927 og þá var tæknin svo langt á veg komin að árið eftir var settur þar upp radíóviti, sá fyrsti sinnar tegundar á Íslandi.

Reykjanesviti

Reykjanesviti á Vatnsfelli.

Samkvæmt fyrirmælum um vitavörslu voru ljós vitans ætíð tendruð klukkustund eftir sólarlag. Það gerði Arnbjörn Ólafsson þann 1. des. 1878 án nokkurrar aðstoðar frá Alexander Rothe sem var þá farinn úr landi. En auðvitað hafði hann kennt Arnbirni að meðhöndla vitatækin áður en hann fór.
Haustið 2002 kom út bókin Vitar á Íslandi. Leiðarljós á landsins ströndum 1878–2002 eftir Guðmund Bernódusson, Guðmund L. Hafsteinsson og undirritaðan. Þar er á bls. 29–41 greint frá byggingu eldri Reykjanesvitans og tildrögum hennar.
Því má svo bæta við að Reykjanesvitinn sem byggður var veturinn 1907–08 er miklu merkilegri í sögu þjóðarinnar en flestir vita af. Hann var stór og viðamikil framkvæmd á sinni tíð á íslenskan mælikvarða. Ákvörðun um byggingu hans var tekin af Íslendingum einum og forræði Dana hafnað (danska vitamálastjórnin hafði áform um að reisa þarna járngrindarvita) og enda þótt hönnuðir vitans, Thorvald Krabbe verkfræðingur og Frederik Kiørboe arkitekt, væru báðir Danir var vitabyggingarverkefnið sönnun þess að Íslendingar væru fullfærir um að taka ákvarðanir varðandi tæknimál sín og fylgja þeim eftir. Eins og gefur að skilja tengdist þetta heimastjórninni árið 1904 og er til marks um aukið sjálfstraust og áræði sem fylgdi þeim pólitísku tímamótum. Stjórnsýsluhættir í kringum málið voru kannski ekkert til fyrirmyndar eins og hægt er að lesa um í fyrrnefndu riti tveggja, Guðmunda og undirritaðs, bls. 55–56, en það var alveg heilmikill kraftur í mönnum að koma þessu verkefni í kring og þar sem það tókst svo vel er ekki vafi að það efldi kjarkinn og áræðið til frekari verka á tæknisviði.
Þá má loks geta þess að í framangreindum fróðleik um Reykjanesvitann og umhverfi hans kemur fram að Reykjavíkurhöfn hafi verið gerð árið 1912. Hið rétta mun vera að hafnargerðin í Reykjavík hófst árið 1913 og stóð um fjögurra ára skeið, til 1917.”

Heimildir m.a.:
-leoemm.com
-Samgönguráðuneytið – skalasafn.
-Alþingi – skjalasafn.
-Þjóðskjalasafnið.
-Kristján Sveinsson – Lesbók Morgunblaðsins 30. nóv. 2003.
-Kristján Sveinsson.

Reykjanes

Við Reykjanesvita – uppdráttur ÓSÁ.

Háaleiti

„Að undanförnu hefur Háaleiti á Miðnesi oft borið á góma og varðan Kalka, sem þar stóð.
Hafa komið fram ýmsar sagnir í sambandi haaleiti-231við það, en hjer kemur ein, sem ekki hefur verið minst á og mun fáum kunn. Er hún tekin eftir frásögn Stefáns Filippussonar, en hann hefur hana eftir ömmu sinni, Þórunni Sigurðardóttur frá Steig.
Þegar Gísli Jónsson frá Hlíð í Skaftártungu og Þórunn Sigurðardóttir frá Steig bjuggu á Býarskerjum á Suðurnesjum, tóku sig til tveir menn að grafa í Háaleitisþúfu, því að almannarómur var, að þar væri fjársjóður fólginn. — Gengu og þær sögur, að þangað sæi stundum eld, og ekki þótti fýsilegt að vera þar einn á ferð í myrkri vegna reimleika. — Annar þessara manna var úr Höfnum, en hinn úr Keflavík. Sagt er að þeir hafi fundið í þúfunni kút með peningum. En áður en þeir kæmist á brott með kútinn kom að þeim draugur og rjeðist á þá. Varð þar harður aðgangur, en Keflvíkingurinn komst þó undan með kútinn meðan Hafnamaður var að glíma við draugsa. Leikar fóru svo að Hafnamaður komst úr klóm afturgöngunnar, en þá á hún að hafa sagt: „Jeg skal hitta þig þótt seinna verði.“
Leið nú og beið. En eitt sinn var þessi maður staddur í Keflavík, og ætlaði heim til sín suður í Hafnir undir kvöld. Var orðið dimmt af nótt áður en hann komst á stað, en nokkurt tunglsljós. Kunningi hans bauðst þá til að fvlgja honum suður á heiðina. Lögðu þeir svo á stað, en ekki höfðu þeir langt gengið er Hafnamaður sagði:
bolafotur-234„Nú þarftu ekki að fylgja mjer lengra. Jeg sje að maður er hjer á undan okkur. Mun jeg ná honum og fæ þá samfylgd.“ Við þetta skildu þeir og fór Keflvíkingurinn heim til sín. En nokkuru seinna þetta sama kvöld voru drengir tveir frá Bolafæti í Ytri-Njarðvíkum sendir til að reka fje upp úr fjöru. Heyra þeir þá neyðaróp og að einhver biður guð ákaft að hjálpa sjer. Þetta heyrðu þeir hvað eftir annað. Urðu þeir þá hræddir og flýttu sjer heim, en þorðu ekki að segja frá þessu, því að þeir óttuðust að þeir yrðu þá sendir til að grenslast um þetta.
Þessa sömu nótt var Erlingur Benediktsson, hálfbróðir mömmu og stjúpsonur Gísla á Býjaskerjum, sendur til Reykjavíkur eltir meðulum. Var hann kominn inn fyrir Keflavik áður en dagur rann. Gekk hann þar með sjónum, því að þar var betri færð. Á leið hans varð síki eða grafningur, sem hann stökk yfir. En um leið og hann stekkur sjer hann að maður liggur þar í niðri. Erlingur dró hann þá upp úr og var maðurinn steindauður og allur rifinn og kraminn. — Lagði Erlingur líkið til og breiddi klút sinn yfir andlitið. Fór hann svo til næsta bæjar og sagði hvað hann hefði fundið.

baejarsker-231

Helt hann svo áfram för sinni til Reykjavíkur. En líkið, sem hann fann þarna, var af Hafnamanninum. Var það mál manna að Háaleitis-draugurinn hefði vilt um fyrir honum og elt hann þarna niður að sjó og drepið hann þar til að launa fyrir peningaránið.
Nú er að segja frá Erlingi að næstu nótt í sama mund kemur hann á heimleið að þessum stað. Var þá draugsi þar fyrir. En vegna þess að Erlingur var ramskygn gat draugurinn ekki vilt um fyrir honum, en elti hann fram á bjartan dag. Og upp frá þessu sótti draugurinn jafnan að Erlingi þegar skyggja tók. Sagði hann þá móður sinni frá þessu, þótt ekki væri vandi hans að segja mönnum frá því, sem fyrir hann bar. Þórunn amma mín sagði þá:
„Jeg skal láta þig fá tvo silfurhnappa, sem jeg á. Með þeim skaltu hlaða byssu þína. Og þegar dimmt er orðið skaltu fara út, og þar sem draugurinn getur ekki dulist fyrir þjer, skaltu skjóta á hann silfurhnöppunum og sjá hvernig fer.“
Erlingur var góð skytta og hafði margan sel skotið á Býaskerjum. Fór hann nú að ráðum móður sinnar og hlóð byssuna með silfurhnöppunum.
Var þess þá skammt að bíða að hann hitti draugsa og skaut á hann. En við það brá svo að kalka-243draugurinn hvarf og varð Erlingur hans aldrei var framar.“

Í örnefnaskrá frá Keflavík segir um vörðuna á Háaleiti: „Það voru til ýms örnefni hérna í heiðinni, nálægt þar sem Flugturninn er, þar var kallað Háaleiti og Ameríkanarnir þýddu þetta á sitt tungumál og kölluðu það High Lady, en þar var varða í gamla daga, sem kölluð var Kalka, hún var hvít á litinn. Hennar er getið í þjóðsögum, því þar voru peningar grafnir, m.a., og þar sáu menn loga og loga, þar sem peningarnir voru. Þegar að var komið, þá var allt slokknað“.

Heimildir:
-Lesbók Morgunblaðsins, 12. júní 1949, bls. 290.
-Örnefnaskrá Keflavík. Viðtal við Þorgrím Eyjólfsson um örnefni og fleira í Keflavík og nágrenni. Flutt 4. ágúst 1978.

Háaleiti

Háaleiti – Áki Granz.

Camp Turner

„Nálægt þrem kílómetrum í suðvestur frá Ytri-Njarðvíkum er melhrygur einn langur og lágur, sem kallaður er Háaleiti. Austan til á mel þessum er grasi gróin þúfa, og í kringum þúfuna er dálítil grasflöt.

haaleiti-233Eitt sinn bjó í Höskuldarkoti í Ytri-Njarðvíkum maður, sem Erlendur hét. Þetta ár var hjá Erlendi haustmaður og vetrarmaður Guðmundur nokkur Guðmundsson. Var hann sagður ógurlegt heljarmenni að burðum, að minnsta kosti þriggja til fjögra manna maki. Hann var kallaður Guðmundur klárt, en viðurnefni sitt fékk hann af því, sem nú skal greina. Þá er Guðmundur var ungur, gerðist hann eitthvað lítilsháttar brotlegur við friðhelgi eignarréttarins, en þó að brotið væri lítið, þá varð Guðmundur að hlíta dómi réttvísinnar og í orðsins fyllsta skilningi að kenna á vendi laganna. Var honum á manntalsþingi klappað 27 sinnum, en er því var lokið, sagði Guðmundur þessi minnilegu orð: „Þá er það nú klárt á þessari jörð, piltar“.

Upp frá því var hann alltaf kallaður Guðmundur klárt. En þá er Guðmundur minntist þessa atburðar síðar, fórust honum svo orð, að þetta hefðu verið mjúk meyjarklöpp, og mun það hafa verið sannleikur, því að sá, er verkið innti af hendi, sagði síðar svo frá, að hann hefði ekki þorað annað en haga því að vilja Guðmundar. Haust þetta gætti Guðmundur sauðfjár fyrir Erlend, húsbónda sinn; varð hann daglega að sækja féð seinni hluta dags suður í Hafnaheiði og Miðnesheiði, og varð hann því oft seinn fyrir um heimreksturinn.

haaleiti-234

Eitt kvöld snemma á jólaföstu var Guðmundur ekki kominn heim, þá er komið var langt fram á vöku. Fór Erlendur þá út að vita, hvort hann yrði ekki hans var, en er hann kom út fyrir túngarðinn, sér hann að allt féð er komið heim að görðum, en Guðmund sér hann hvergi. Hrópar Erlendur þá og kallar á hann en fær ekkert svar. Þykir Erlendi þetta kynlegt mjög, og telur víst, að eitthvað hafi orðið að honum. Bregður hann sér heim örskamma stund og leggur því næsta af stað að leita Guðmundar.
Tungl óð í skýjum, en jörð var alauð, svo að dimmt var úti og draugalegt. En er Erlendur kemur suður undir Háaleiti, sér hann í myrkrinu hilla undir mann, sem er að glíma við eitthvað. Erlendur gengur nú nær og sér, að þetta er Guðmundur, en ekki getur hann greint þann, sem hann var að glíma við; stóð hann þó á grasflötinni örskammt frá þeim. Verður Erlendi nú ósjálfrátt litið niður fyrir fætur sér og sér hann þá, að öll grasflötin er ein silfurpeningabreiða. Verður honum það nú, sem mörgum myndi verða, að honum þótti féð fýsilegt. Gleymir hann því alveg að hnýsast frekara í hagi Guðmundar og sópar saman peningunum í mesta ofboði, fyllir alla vasa og flýtir sér að því búnu sem mest hann má heim til bæjar aftur.

Bolafotur-2231

En nú er að segja frá Guðmundi klárt. Þá er hann kemur sunnan úr Stafnesshrauni, sér hann í myrkrinu einhverja hrúgu á Háaleitisþúfunni; dettur honum fyrst í hug, að þetta sé örn, en er hann er rétt kominn að þessu, hverfur það sjónum hans, en er í sama vetfangi komið upp á herðar honum. Nær Guðmundur samt handfestu á fjanda þessum, og kastar honum fram fyrir sig, en samstundis er hann kominn upp á herðar Guðmundi aftur. Á þessu gengur þannig alla nóttina, að jafnharðan sem Guðmundur kastar draugnum af sér, er hann kominn upp á herðar honum aftur. Loks er komið var að dögun, getur Guðmundur kastað óvætti þessari á klett einn, er áflogin höfðu borist að. Þar hvarf hún honum niður í jörðina, en sagði um leið með dimmri og draugslegri rödd: „Þig skal aldrei bresta peninga fyrir vín, fyrir brennivín“.
Þetta var það eina, sem Guðmundur heyrði til draugsins allan þann tíma, er þeir áttust við. Þá er Guðmundur var búinn að jafna sig eftir öll áflogin, var orðið bjart; tíndi hann þá saman nokkuð af peningunum, aðallega smápeningum, er Erlendur hafði skilið eftir í flýtinum. En seinna mun Erlendur þó hafa orðið að skila Guðmundi aftur nokkuru af peningunum.

haaleitisþufa-231

Guðmundur klárt var eftir þetta mörg ár í Kotvogi í Hafnahreppi. Sagðist honum svo frá viðureign sinni við drauginn að hann hefði verið háll eins og áll, – „en út yfir tók þó ólyktin; hún ætlaði mig alveg að drepa“, sagði Guðmundur.
Aldrei virtist Guðmundur eiga neina peninga til og jafnan var hann fátækur, en samt gat hann alltaf keypt vín. Meðan hann var í Kotvogi fór hann á hverjum laugardegi til Keflavíkur og koma þaðan alltaf klyfjaður af víni.
„Ketill, má eg skreppa inn fyrir móann, að sækja í einn ask?“ sagði Guðmundur á hverjum laugardegi. Guðmundur drakk aldrei annað en 16 gráða romm, og blandaði það í púns í grautaraski sínum. Því talaði Guðmundur um að sækja í einn ask.
Guðmundur dó 1869, og sögðu menn, að vínnautn hefði flýtt fyrir dauða hans.“

Heimild:
-Rauðskinna I 23, Jón Thorarensen, bls. 42-46.

Háaleiti

Tröllin á Háaleiti.

Keflavík

Reykjanesbær.
ReykjanesbærReykjanesbær varð til við sameiningu sveitarfélaganna Keflavíkur, Njarðvíkur og Hafna 11. júní 1994.
Í desember árið 2005 búa í Reykjanesbæ 11 þúsund íbúar á landsvæði sem nær frá norðurmörkum Keflavíkur og út á Reykjanestá.
Keflavík, Njarðvík og Hafnir byggðust í kringum sjósókn og fiskverkun sem var meginstoð atvinnulífsins.

Keflavík.
Reykjanesbaer-50Mikil verslun var stunduð í Keflavík sem gerði hana að stærsta þorpinu á Suðurnesjum, höfuðstað svæðisins. Má rekja verslunarsögu Keflavíkur allt til upphafs 16. aldar og er vitað um þýska kaupmenn þar árið 1518. Undir lok 16. aldar komu Hamborgarkaupmenn til Keflavíkur en þegar Danir settu einokunarverslunina á 1602 féll Keflavík í hendur Kaupmannahafnar. Þessi dönsku áhrif í verslun í bænum héldust svo alveg fram á 20. öld, þó svo að Einokunarverslunin hafi um síðir liðið undir lok. Keflavíkurhreppur var stofnaður 1908 og þann 22. mars 1949 fékk Keflavík kaupstaðaréttindi.

Njarðvík.
Reykjanesbaer-51Njarðvík er breið vík sem gengur til suðurs úr Stakksfirði. Byggðin í Njarðvík skiptist í Ytri – og Innri-Njarðvík. Ekki er ljóst hvenær sú skipting varð en það var snemma á öldum. Talið er að kirkja hafi verið reist í Njarðvík á 11. öld. Njarðvík var fyrrum hluti af Vatnsleysustrandarhreppi en fékk sjálfstæði sem sveitarfélag 1889. 1908 rann Keflavík saman við Njarðvík undir merkjum Keflavíkurhrepps en Njarðvíkingar klufu sig frá á ný 1942 og tóku á ný að starfa sem sjálfstætt sveitarfélag og fékk Njarðvík kaupstaðarréttindi 1. jan 1976. 

Hafnir.
Hafnir-110Hafnir eru annað landstærsta sveitarfélagið á Reykjanesi en byggð þar er fámenn nú miðað við það sem áður var. Hafnir byggðust upp í kring

um mikið útræði.
Kirkjuvogshverfið nefnist Hafnir í daglegu tali en þar hafa búið 80-120 manns sl. 2 áratugi. Fyrr á öldum voru Hafnir ein af stærstu verstöðvum landsins en þær eru samheiti fyrir 3 hverfi (lendingar), þ.e. Kalmanstjörn, Merkines og Kirkjuvog. Nú er byggðin öll í gamla Kirkjuvogshverfinu auk íbúðarhúss í Merkinesi og í Junkaragerði. Á 19. öld var Kotvogur í Höfnum eitt stærsta býli landsins. Var fjölmenn byggð í Höfnum og útræði mikið á stórum bátum allt fram til aldamótanna 1900.

Landnám.

Fornmannaskáli

Land það sem nú er Reykjanesbær hefur verið í byggð allt frá landnámstíð. Landnáma getur þess að Ingólfur Arnarson hafði látið frændkonu sína, Steinunni gömlu, hafa mikið land í landnámi sínu, m.a. land Keflavíkur og Njarðvíkur. Land Hafna gaf hann frænda sínum og fóstbróður, Herjólfi Bárðarsyni. Þess má til gamans get

a að langafabarn þessa Herjólfs, Bjarni Herjólfsson, sigldi fyrir slysni til Norður-Ameríku frá Grænlandi og er talinn hafa verið fyrsti víkingurinn til að gera það. Félagi hans Leifur Eiríksson kannaði svo síðar þessa siglingaleið eins og frægt er orðið.
Í augum okkar nútímamanna eru gjafir Ingólfs vægast sagt í stærri kantinum. Bjarni Guðmarsson lýsir samskiptum þeirra Ingólfs og Steinunnar gömlu á skemmtilegan hátt í bókinni
Saga Keflavíkur 1766-1890: Sagan segir að á öndverðri landnámstíð hafi Ingólfur landnámsmaður Arnarson viljað gefa frænku sinni, Steinunni gömlu, Rosmhvalanes allt fyrir utan Hvassahraun. Þætti það líklega rausnarleg tækifærisgjöf nú á dögum sem innihéldi m.a. Voga, Njarðvíkur, Keflavík, Garð og Sandgerði. Steinunn sá hins vegar skemmst í hendi sér að gjöfin var að vísu góð en böggull fylgdi skammrifi. Æ sér gjöf til gjalda eru forn sannindi og það gæti verið vandkvæðum bundið að endurgjalda gjöf Ingólfs. Þá kynni frændanum að snúast hugur ef örlætið rjátlaðist af honum. Steinunn gamla virðist hafa borið talsvert skyn á fasteignaviðskipti. Hún brá nú á það ráð að leggja flekkótta enska kápu, heklu sem kölluð var, á móti Rosmhvalanesi Ingólfs. Með því móti mátti kalla viðskipti þeirra kaup en ekki gjöf; þau voru ,,kvitt” og engin hætta á að Ingólfur hætti við allt saman. Eftir þessu fyrsta fasteignamati á Suðurnesjum, sem sögur fara af hefur Keflavík varla verið metin meira en sem nam einu hnappagati á enskri kápu eða í mesta lagi vasa.

Þróun byggðanna.
KeflavikÓvíst er um upphaf fastrar byggðar í Keflavík, Njarðvík og Höfnum, því heimildir eru af skornum skammti þegar sögunum af Steinunni gömlu sleppir. Þó eru menn nokkuð vissir um að
kotið Keflavík, sem staðurinn hefur síðan alltaf verið kenndur við, hafi verið þar sem nú er tún, beint á móti Duushúsunum. Á þessu túni er hóll sem talinn er vera rústir þessa kotbýlis, sem að öllum líkindum var torfbær en slík híbýli voru lang algengust á Íslandi áður fyrr. Gömlu Duushúsin voru aftur á móti fyrstu timburhúsin í Keflavík.

Duushúsin.
DuusTalið er að það hafi ekki myndast fastur byggðarkjarni í Keflavík fyrr en komið var fram á 16. öld en þá var hún í eigu Danakonungs sem réði yfir Íslandi. Það voru Njarðvíkurjarðirnar
sömuleiðis og íbúar greiddu landsskuldina, sem var einskonar húsaleiga, með fiski.
Árið 1889 varð Njarðvíkurhreppur til en það má segja að hreppur sé það sem kallað er sveitafélag í dag. Fyrir þann tíma hafði Njarðvík verið hluti af Vatnsleysustrandarhreppi. Árið
1908 varð Njarðvík aftur hluti af öðrum hrepp en í þetta sinn Keflavíkurhrepp. Sameiningartímabilið varði í 34 ár en Keflavíkurhreppi var skipt upp árið 1942. Ástæðan var sú að Njarðvíkingar voru ósáttir við ýmislegt, t.d. fannst þeim rafveitu og hafnarmálum þeirra illa sinnt en raflýsing frá Rafveitufélagi Keflavíkur náði ekki til Njarðvíkur.
Þann 22. mars 1949 fékk Keflavík svo kaupstaðarréttindi og Njarðvík 27 árum síðar eða árið 1976.
Engar heimildir eru til um það hvenær sérstök stofnun Hafnahrepps hafi átt sér stað en líklegt er að hreppurinn hafi frá upphafi verið með þeim minnstu á landinu. Árið 1703 voru íbúar
Hafna 91 og eru það elstu íbúafjöldatölur byggðarlagsins. Síðan þá hefur íbúafjöldinn verið á bilinu 100-200. Það er talið líklegt að hreppsmörkin hafi breyst lítið síðan Herjólfur Bárðarson nam þar land.
Á góðum árum fjölgaði fólki í þorpunum Keflavík, Njarðvík og Höfnum, en um leið og fiskaðist illa fækkaði að nýju. Eftir 1820 er fyrst hægt að tala um þéttbýlismyndun í Keflavík en þá
fjölgaði íbúum nokkuð mikið. Árið 1920 var Keflavík orðið hið myndarlegasta kauptún og voru langflest íbúðarhúsin byggð úr timbri.
Án efa hafa fengsæl fiskimið verið helsta ástæða þess að

 menn fluttust fyrst til Keflavíkur, Njarðvíkur og Hafna en Suðurnesjamenn voru þekktir fyrir sjósókn sína eins og textinn „Suðurnesjamenn” eftir Ólínu Andrésdóttur við lag Sigvalda Kaldalóns gefur til kynna.

Fast þeir sóttu sjóinn.
duus-3Í margar aldir byggðu Íslendingar afkomu sína á landbúnaði og þá sérstaklega fjárbúskap. Þar af leiðandi þótti landsmönnum Suðurnesin ekkert sérstaklega spennandi staður að búa
á vegna þess að þar var ræktunarland mjög lélegt og landbúnaður þess vegna hafður sem aukabúgrein. Það var ekki fyrr en á fyrri hluta 20. aldarinnar að þjóðin gerði sér grein fyrir gildi fisksins, sem hafði haldið lífinu í Suðurnesjamönnum, þ.m.t. Keflvíkingum, Njarðvíkingum og Hafnamönnum, frá ómunatíð. Sjósókn og fiskverkun litaði því lífið í þessum þorpum mjög. Fjörunytjar voru líka mikilvægar. Þá nýttu menn sér ýmislegt sem var að finna í fjörunni. Við skulum því kanna nánar hvernig lífið í þessum sjávarþorpum var hér áður fyrr þegar menn reru til sjós á opnum árabátum.

Haldið til sjós.
Á fyrri hluta 19. aldar og fram yfir aldamótin 1900 jókst þilskipaútgerð í Faxaflóa en árabátar voru Kopaþó áfram algengastir eins og hafði verið á öldunum áður. Á áraskipum réru menn
aldrei það langt að ekki sást til lands, nema ef fiskaflinn brást eða að menn leituðu að sérstökum fiskitegundum. Þá voru stundaðir dagróðrar og tíminn sem veiða mátti á miðunum var takmarkaður.

Sjómenn í árabát.
Þilskipin (skúturnar) voru með þili (dekki) eins og nafnið bendir til, þau voru stærri og með meiri seglum og gátu því komist lengra út á sjó. Áður fyrr var mjög algengt að þeim hafsvæðum þar sem fiskinn var að finna eða hinum svokölluðu fiskimiðum væri lýst í bundnu máli til að muna staðsetningu þeirra betur. Dæmi um slíka vísu er eftir feðgana Vilhjálm H. Ívarsson og Þórodd Vilhjálmsson frá Merkinesi í Höfnum:
Önglabrjóts er erfitt mið,
sem ekki gefur neinum frið, 
gr
unnt í Norðurstrengnum stendur,
steingarður í eldi brenndur.
HafnirUpp úr miðri 19. öld var mikil útgerð í Höfnum enda fluttu þangað á þessum tíma metnaðarfullir og duglegir ríkisbændur. Þeir voru þekktir fyrir að sækja sjóinn fast, í öllum veðrum og
þóttu miklir sjógarpar. Þetta hafði maður sem kallaður var Finnur á Kjörseyri að segja um Hafnamenn skömmu eftir 1860: Ég man vel, þegar ég var á Hvalsnesi að Hafnamenn reru oft í rokveðri um norðursjóinn, sem er undan Miðnesinu, þegar norðanáttir voru,

 þótt engum Nesmanni dytti í hug að fara á flot, enda áttu þeir ekki eins hægt aðstöðu vegna veðurstöðu. Manni datt oft í hug, þegar Hafnaskip mörg og stór sigldu fyrir framan nesið, skip Ólafs Tryggvasonar, er þau sigldu fyrir Svoldur. Sjómönnum þótti upphefð í því að róa hjá sjógörpunum í Höfnum.
Sjóslys voru ekki óalgeng. Það gat verið mikil blóðtaka fyrir svo lítil samfélög að missa menn í sjóinn. Það gat orðið til þess að heilu fjölskyldurnar urðu bjarglausar sem varð til þess 

að sundra þurfti fjölskyldunni og fólkið að segja sig til sveitar, sem þýðir að fólkið varð háð greiðslum frá sveitarfélaginu til að hafa í sig og á. 

Sjómenn – Sjóklæði.
Minnismerki um horfna sjomennÞegar sjómenn reru til sjós klæddust þeir skinnbuxum úr sauðskinni, kálfskinni eða hrosshúðum. Þær náðu upp á nafla og voru bundnar með snæri eða skinnól. Skórnir voru úr sútuðu leðri. Síðan voru þeir í skinnstökkum úr kindaskinni, með ermum úr lambsskinnum og vöfðu að sér um úlnliði. Hálsmálið drógu þeir saman og höfðu ullartrefla um hálsinn. Innanundir voru þeir í strigastakki og strigabuxum yfir vaðmálsföt eða prjónuð ullarnærföt. Loks voru þeir með sjóhatta og sjóvettlinga.

Vertíð, verkun og útflutningur.
Í Gullbringusýslu veiddu menn mest á milli 2. febrúar og 12. maí. Þetta var hin svokallaða vertíð, sem var og er sá veiðitími sem menn veiddu og verkuðu fisk. Í heild sinni var Gullbringusýsla eitt mesta útróðrasvæði landsins á 18. öld.
Þegar Íslendingar voru undir Danaveldi setti danski konungurinn ákveðnar verslunarreglur á Íslandi sem var þannig að bara Danir máttu selja Íslendingum vörur sem ekki voru
framleiddar á Íslandi og aðeins Danir máttu kaupa varning af Íslendingum. Þessi tími er kallaður einokunartíminn því svona verslunarbann heitir einokun. Á einokunartímanum var mestallur fiskur sem seldur var úr landi verkaður í skreið en það var tímafrek og vandasöm vinnsluaðferð.Á seinni hluta 18. aldar breyttust þó aðferðir við að veiða fisk og verka nokkuð mikið. Þá var byrjað að nota þorskanet og Íslendingum kennd saltfiskverkun. Saltfiskurinn var að mestu 

leyti seldur til Miðjarðarhafsins, aðallega Spánar. Eftir að netaveiðar urðu almennar á Suðurnesjum varð það algengara að bændur úr öðrum landshlutum sendu vinnumenn sína þangað til að vinna á vertíð.

Salftfiskkonur í Keflavík í byrjun 20. aldar.
Duus-2Í fiskiþorpunum Höfnum, Njarðvík og Keflavík voru svokallaðar verstöðvar en það voru útgerðarstaðir. Þaðan sigldu bátar út á sjó og komu með fiskinn að landi til verkunar. Verstöðvar voru tvennskonar: útver og heimræði. Í útver komu menn utan af landi með báta og búnað og dvöldu þar aðeins á meðan á tímabundinni sjósókn st

óð. En það hét aftur á móti heimræði þegar fiskveiðar voru stundaðar frá heimili heimamanna.
Það er óhætt að segja að alla 19.öldina hafi lífið verið saltfiskur í Keflavík, Njarðvík og Höfnum. Menn verkuðu afla sinn sjálfir og fluttu tilbúna vöru í verslunarstaðinn, en kaupmennirnir í
Keflavík voru líka umsvifamiklir útgerðarmenn og höfðu því mikla fiskverkun í nágrenni við sig.

Breyttir útgerðarhættir.Fyrstu vélbátarnir sigldu úr Njarðvíkur- og Keflavíkurhöfn í byrjun 19. aldar. Þá komu þangað margir sjómenn annars staðar frá en samt voru engar verbúðir reistar. Aðkomusjómenn fengu þess í stað að búa í útihúsum en það hefur sjálfsagt ekki verið neitt sérstaklega skemmtilegur húsakostur! Þetta var eflaust gert svo að menn hefðu ekki ákveðið að setjast að í verbúðunum.
Þessir breyttu útgerðahættir urðu til þess að fólki fór stigfækkandi í Höfnum. Vélbátarnir rúmuðu ekki alla þá sjómenn sem höfðu haft pláss á árabátunum. Menn leituðu því annað eftir
atvinnu, margir til annarra sveitarfélaga á Suðurnesjum, aðallega Keflavíkur.

Daglegt líf áður fyrr.
KeflavíkSamfélagið í þessum sjávarþorpum litaðist allt af atvinnulífi þess. Á vertíð snerist allt um sjóróðra og útgerð. Flestir vinnufærir karlmenn sóttu sjóinn en konur, börn og eldri menn
hjálpuðu til með fiskverkun og sáu um húsdýrin. Á vorin og sumrin vann fólk við heyskap og önnur nauðsynleg verk og sumir fóru burt í verkavinnu. Á haustin voru sjómenn í raun atvinnulausir því þá var hvorki veitt né verkað. Fólk var þó önnum kafið við færaspuna, önglasmíði og skinnklæðagerð. Þó að mest hafi verið fiskað á vertíð þá veiddu menn sér að sjálfsögðu í soðið allan ársins hring.
Þó að vinnan hafi skipt mestu máli í svona strandarsamfélögum þá kunni fólk líka að skemmta sér. Kirkjuhátíðir, afmæli, brúðkaup, barnsfæðingar og tyllidagar gáfu fólki tilefni til að
gera sér glaðan dag og lokadagur vertíðar var hátíðisdagur.
Á seinni hluta 18. aldar borðaði fólk á Suðurnesjum aðallega fisk með smjöri, mjólk og kornvöru. Við sjávarsíðuna var algengt að menn fengu sér þunnan rúg- eða bygggraut með
örlítilli mjólk eða mysu út á. Um miðjan dag borðuðu menn harðfisk eða herta þorskhausa og smjör með og á kvöldin var yfirleitt soðinn fiskur með smjöri á boðstólnum. Á tyllidögum á haustin var boðið upp á kjötsúpu en um og eftir jól var vindþurrkað kjöt algengt á Suðurnesjum en ekki reykt.
Fram yfir seinni heimsstyjöld var t.d. Njarðvík sambland af fiskimannabyggð og sveitaþorpi og þar ægði öllu saman. Búfjárhald tíðkaðist fram eftir síðustu öld, sérstaklega í
Innri-Njarðvík. Á flestum lóðum stóðu misgóð íbúðarhús, fiskverkunarhús, geymsluhús, gripahús, útieldhús og útikamrar en fólk losaði þó sums staðar úrgang sinn í gripahúsum. Vatnið var sótt í brunna og í þá var hægt að fá þokkalegt vatn allan ársins hring. Sums staðar var vatnið þó saltblandað. Vatnið var takmarkað og olli vatnsskortur íbúum oft miklum óþægindum. Búfjárhald tíðkaðist fram eftir síðustu öld, aðallega í Innri-Njarðvík.

Verslun í Keflavík.
KeflavíkMikil verslun var stunduð í Keflavík sem gerði hana að stærsta þorpinu á Suðurnesjum, höfuðstað svæðisins. Saga Keflavíkur skilur sig að því leyti örlítið frá sögu Njarðvíkur og Hafna,
þar sem nær eingöngu var róið til fiskjar. Fyrstu viðskipti Keflvíkinga við útlendinga hófust í byrjun 16. aldar en þá komu þangað þýskir kaupmenn til að versla við heimamenn. Undir lok 16. aldar komu Hamborgarkaupmenn  til Keflavíkur en þegar Danir settu einokunarverslunina á árið 1602 féll verslunarstaðurinn Keflavík í hendur danska konungsins í Kaupmannahöfn. Þegar einokunarverslunin komst á varð Keflavík ein af 20 höfnum sem versla átti á hér á landi. Keflvíkingar seldu fyrst og fremst fisk.

Saltfiskurinn þurrkaður í fjörunni í Keflavík.
GamliHolger Jacobeus, síðasti einokunarkaupmaðurinn, hafði mikinn áhuga á þessari fiskverslun og var í fararbroddi. Hann eignaðist t.d. hlut í fiskiduggu, stærra skipi en hér tíðkuðust, og hvatti hann til þess að menn tækju upp netaveiðar o.fl. Holger var fyrsti einokunarkaupmaðurinn sem settist að í Keflavík. Segja má að þar með hafi hann lagt hornstein að myndun þorpsins Keflavík. Dönsk áhrif á verslun í bænum héldust svo alveg fram á 20. öld, þó svo að einokunarverslunin hafi liðið undir lok.
Á seinni hluta 19. aldar breyttist Keflavík úr verslunarþorpi í útgerðarþorp og flestir íbúarnir byggðu afkomu sína á því sem sjórinn gaf. Rétt fyrir miðja 20. öld urðu þó gífurlegar
breytingar á atvinnulífi Suðurnesjamanna og þá sérstaklega Keflvíkinga, Njarðvíkinga og Hafnamanna.

Sjávarútvegur um og eftir stríð.
KeflavíkLjóst er að öll atvinnan sem skapaðist við komu bandaríska hersins var og er mikil. En hvaða áhrif ætli þessi nýju atvinnutækifæri hafi haft á sjávarútveginn í Njarðvík og Keflavík sem
hafði áður mótað allt samfélag bæjanna? Eins og áður hefur komið fram einkenndi það sjósókn Suðurnesjamanna að mest var veitt á vetrarvertíð og var hún svo sannarlega annatími þeirra. Vertíðarnar voru þó misjafnar en árið 1942 var gósenár, sem þýðir að þá fiskaðist einstaklega vel. Það ár var vertíðin sem sagt mjög góð og Bretar borguðu vel fyrir fiskinn. Peningar voru bæjarbúum kærkomnir.
Þetta var árið sem Njarðvíkurhreppur var stofnaður á ný og maður sem kallaður var Kristinn Reyr setti Bókabúð Keflavíkur á laggirnar. Lífinu í Keflavík og Njarðvík á þessu ári lýsti maður sem hét Albert K. Sanders svona: „Allt dafnaði þá. Börn keyptu sér buddu, unglingar ilmandi, marghólfa veski, sem marraði í. Fullorðnir fengu sér nýja og stærri peningakassa og fyrirtæki eldtrausta og þjófhelda skápa á stærð við símaklefa. Og bækur birtust, komu og fóru. Fólk sem lengi hafði lifað á brauði einu saman – og illa það á stundum – gat loksins látið eftir sér að kaupa brauð og bók.

Hvorttveggja í senn.
Reykjanesbaer-34Þrátt fyrir að góðæri væri til sjávar og mikið að gerast var engu að síður erfitt að manna bátana því nú var setuliðsvinna í boði og hún heillaði miklu meira heldur en þorskveiðistrit.
Margir minni bátar lágu auðir í höfnum og sumir stærri bátar önnuðust flutninga fyrir breska hersetuliðið. En þó svo að stríðinu lyki varð ekkert aftur eins.

Keflavíkurhöfnin full af skipum.
Á sjöunda áratug síðustu aldar breyttist bátafloti Keflvíkinga og Njarðvíkinga þannig að stálbátar komu í stað trébáta. Þeir voru miklu stærri og betur búnir. Á 8. áratugnum dofnaði
mjög yfir útgerð í Keflavík og Njarðvík. Þeir menn sem gert höfðu út allt frá því á millistríðsárunum höfðu nú hætt störfum eða snúið sér að öðru.
Vinnuaflsskortur var ekki eina vandamál útgerðamanna á Suðurnesjum. Fiskvinnslustöðvarnar voru orðnar of margar og fengu ekki nóg hráefni til vinnslu, verðbólga varð meiri og þar
sem vetrarvertíðin krafðist bara vinnuafls á ákveðnum tíma árs leitaði fólk í aðra vinnu sem það hafði allt árið. Þessi hnignun sjávarútvegsins varð hvað mest í Keflavík og Njarðvík af landinu í heild.

Heimildir m.a.:
-VÍSIR Föstudagur 2. júni 1978, bls. 5.
-Upplýsingaskilti í Reykjanesbæ.

Reykjanesbær

Reykjanesbær.

Kalmannstjörn

Um skipstapann frá Galmannstjörn 10. þ. mán. 1865, (eptir kandid. Odd V. Gíslason).
Hafnir-spil-221Þann 10. þ. m. milli dagmála og hádegis, fórst skip á Gálmatjörn í Hafnahrepp með 15 manns, af hverjnm að 7 náðust lifandi, en 8 drukknuðu og vorn þeir: 1. Formaðurinn Þorgils Eiríksson frá Kambi í Holtum, 2. Hannes Ólafsson, vinnumaður á Gálmatjörn, 3. Ólafr Snjólfsson vinnumaður á Gálmatjörn, 4. og 5. bræðurnir Sigurður og Ísleifur Árnasynir vinnum. frá Garðsauka í Hvolhrepp, 6. Guðmundur Sigurðsson frá Götu í Holtum, 7. Jón Hinriksson frá Ölversholti í Holtum, 8. Jón Vigfússon vinnumaður í Miðkrika í Hvolhrepp. Allir þessir menn voru í bezta aldri frá 20 — 50 ára og voru allir ókvæntir.
Skipstapinn orsakaðist þannig, að sjó tók að brima, og þegar á sund það kom, sem farið var inn um á lendingu, varð frákastið að norðanverðu svo mikið í ólaginu að eigi neitti stjórnar og barst skipið að nefinu, sem er að sunnanverðu við sundið, stóð þar og hvolfdi allt í einu; komust nokkrir á kjöl, og nokkrum varð náð úr landi og á áttæring sem fram var settur, því eigi höfðu aðrir róið þennan dag, og náðust allir.
Þeir sem dauðir voru, voru bornir heim að bæ og var nú óðar sent til Vilhjálms bónda Hákonarsonar í Kirkjuvogi, og brá hann við snögglega, þótt hann væri sjálfur nýkominn úr skinnklæðunum, hljóp suður að Gálmatjörn og að hans tilstuðlan var allt það reynt sem unnt var, til að endurlífga hina drukknuðu, opnuð æð á handlegg, lagðir á tunnur til þess að ná úr þeim sjónum; þarnæst voru spenntir handleggir þeirra fram og upp með höfðinu og svo niður aptur til þess að hleypa lopti í lungun, burstaðir á fótinn, handleggjum og herðum og var þessum tilraunum haldið áfram allan daginn en allt til einskis. Ekki varð vart við nokkurt lífsmark.“

Heimild:
-Þjóðólfur, 18. árg. 1865-1866, bls. 103.

Junkaragerði

Junkaragerði og Kalmanstjörn.

Kirkjuvogskirkja

„Hafnir eru á vestanverðu Reykjanesi, sunnan Miðness. Í bókinni „Landið þitt Ísland„, eftir Þorstein Jósepsson og Steindór Steindórsson segir að Hafnir skiptist í þrjú hverfi, Kirkjuvogshverfi, Merkineshverfi og Kalmans-tjarnarhverfi. 

Kirkjuvogur 1900

Einnig segir í sömu bók að stórbýli sveitarinnar hafi verið þrjú, Kirkjuvogur, Kotvogur og Kalmanstjörn. Sandhöfn og Kirkjuhöfn voru einnig stórbýli á árum áður og mun nafnið Hafnir vera dregið af þeim.
Vitað er að kirkja var í Kirkjuhöfn um 1350 en talið er að hún hafi lagst af nokkru síðar. Síðar var sóknarkirkja Hafnanna að Vogi. Þegar Svarti dauði geisaði 1402 var kirkja í Vogi. Heimildir herma að kirkjan hafi verið flutt að Kirkjuvogi laust fyrir 1575 en frá því ári eru heimildir um að Gísli biskup hafi vísiterað þar. Þegar kirkjan var flutt frá Vogi að Kirkjuvogi voru bein flutt frá Kirkjuhöfn í Kirkjuvogsgarð. Þegar Brynjólfur biskup í Skálholti vísiteraði í Höfnum árið 1642 segir hann að kirkjan í Kirkjuvogi sé að mestu ný, með sex stafgólfum og kapellu inn af. Þá áttu sókn að kirkjunni nokkur stórbýli sem mest hlunnindin höfðu eins og Vogar, Ytri-Njarðvík, Innri-Njarðvík, Narfakot, Merkines, Gálmatjörn, Sandhöfn og Kirkjuhöfn.
Hákon Vilhjálmsson fæddist í Kotvogi árið 1753, sonur Vilhjálms Hákonarsonar og Ingiríðar Tómasdóttur sem ólst upp í Miðbænum í Kirkjuvogi. Hann var hreppstjóri og hafnsögumaður á Básendum. Hann byggði nýja kirkju í Kirkjuvogi árið 1805 fyrir 239 ríkisdali. Í ofsaveðrinu mikla 1799 þegar Bátsendakaupstað  ók af, skemmdist kirkjan í Kotvogi mikið sem líklega hefur orðið til þess að ný kirkja var reist.
Kirkjan í Höfnum var annexía frá Útskálum, áður lá hún til Hvalsnesprestakalls. Prófasturinn á Kjalarnesi skoðaði kirkjuna 24. ágúst árið 1862. Þá er byggingu hennar lokið og tekið fram að hún sé öll máluð að innan. Árið 1866 Iét Vilhjálmur byggja kór og fordyri við kirkjuna.“

Heimild:
-Dagur, 18. desember 1999, bls. 1 og 3.

Kirkjuvogskirkja

Kirkjuvogskirkja – Jón Helgason 1920.