Í Reykjanesbæ er nú búið að leggja göngustíg með strandlengjunni allri frá Helguvík að Stapanum. Ef hann er genginn allur varir gangan í 2 klst og 2 mín.
Á leiðinni er búið að merkja nokkra staði og koma fyrir fróðlegum upplýsingaspjöldum. Reyndar er stígurinn ekki alveg samfelldur því milli Kirkjuvíkur í Ytri-Njarðvík og Víkingaheima í Innri-Njarðvík er krækt um eldri stigu. Á Fitjunum eru t.d. Njarðvíkurtjarnir, ríkar af fuglalífi sem og Tjörnin í Innri-Njarðvík. Þegar gengið er frá Grófinni verður fyrst fyrir (við upphaf stígsins) svonefndur Skessuhellir. Frá og með honum má lesa eftirfarandi upplýsingar í þessari röð:
1. Skessan í fjallinu.
Hér býr skessan í fjallinu. Til eru margar bækur um skessuna og vinkonu hennar Siggu sem hafa notið mikilla vinsælda. Eðli þessarar stóru skessu er ljúft. Hún er alla vinur og boðin og búin til að nota stærð sína og krafta til hjálpar í vanda smákrílanna, vina sinna.
Hönnun hellisins og framkvæmd við gerð skessunnar var í höndum listahópsins Norðurbáls.
Keflavík – Skessuhellir.
Við undirbúning verkefnisins leituðu þeir ráða hjá skessunni sem kom með ábendingar um gerð hellisins en í hann er notað efni úr nálægu umhverfi sem gerir hann samofinn landinu. Hellisveggirnir er hlaðanir upp að skúta í berginu og er hellirinn alls 150 fermetrar að stærð.
Við hleðsluna var smíðuð þakgrind úr rekaviðarbjálkum og á gólfinu er grjóthleðsla með völum sem skassan hefur dundað sér við að leggja. Hellirinn er skreyttur að hætti skessunnar með allskonar glingri, gærum, skeljum, netabobbingum o.fl.
Skessan er í fullri stærð og situr sofandi í ruggustól í eldhúsinu.
2. Iðandi líf Stakksfjarðar.
Stakksfjörðurinn er matarkista fyrir sjófugla og hvali. Ef horft er til hafs má sjá sjófugla um allan fjörð. Þar sem síli leita upp í yfirborðið má sjá hópa máfa, eins og ritur, sílamáfa, silfurmáfa og svartbaka steypa sér í sjóinn eftir sílinu. Og krían blandar sér einnig í hópinn. Svartfuglar sitja á sjónum milli þess sem kafa undir yfirborðið til að ná sér í bita úr sílatorfunni. Pípunefirnir, fýllinn og skrofan, sveima um hafflötinn í leit að æti í yfirborðinu. Drottning hafsins, súlan, er sjaldan langt undan, komin úr Eldey að sækja sér fæðu. Það er mikilfenglegt að horfa á súlukastið, takið eftir því hvernig hún leggur aftur vængina rétt áður en hún rýfur vatn til að komast dýpra eftir fiskinum. Undir yfirborðinu má stundum greina hvali eins og hrefnur, sem renna sér með opið ginið inn í sílatorfuna. Háhyrningar og smærri tannhvalir sækja oft líka í sílatorfur.
3. Baldur.
Baldur er fyrsti frambyggði alhliða fiskibáturinn, sem byggður var fyrir íslenskar aðstæður. Hann er 40 tonn. Egill Þorfinnsson, skipasmiður í Keflavík, teiknaði Baldur en Ólafur Björnsson réði fyrirkomulagi, stýrishúsi o.fl.. Baldur hf í Keflavík lét byggja Baldur í Djupvig Varv í Svíþjóð, hann kom til Keflavíkur í fyrsta sinn 19. mars 1961 og hóp þegar veiðar.
Baldur KE 97.
Á aAldri voru stundaðar veiðar með línu, net, humartroll og dragnót, sem hann er frægastur fyrir. Á Baldri var nota skuttog, í fyrsta sinn á íslensku skipi, vorið 1961 við humartroll, það sannaði strax yfirburði umfram síðutog. Á Baldri voru fyrst notaðir vírar í stað tóga við dragnót. Það dró mikið úr slysahættu, létti vinnu og dró úr kostnaði.
Baldur var alla tíð mikil happafleyta, fékk t.d. viðurnefninn „Gullmolinn“. Þegar honum var lagt eftir 42 ár, þann 28. febr. 2003, hafði hann fært að landi tæp 28 þúsund tonn, auk sandkola o.fl. Aldrei henti nokkurt slys bát eða menn öll þessi ár.
4. Ankeri Brúarfoss.
Þetta ankeri er af Brúarfossi sem HF Einskipafélag Ísands lét smíða í Danmörku 1927. Félagið átti Brúarfoss í 30 ár enda eitt af farsælustu skipum félagsins fyrr eða síðar.
5. Keflavík.
Gamalt heiti á víkinni og bóndabænum Keflavík.
Jörðin Keflavík komst snemma í konungseign þótt hvorki væri hún stór né kostamikil en allt frá miðöldum var hún eftirsótt vegna nálægðar við fiskimiðin og sem heppileg verslunarhöfn. Undir lok 18. aldar hófst nýtt skeið í sögu jarðarinnar þegar kaupmaðurinn og fjölskylda hans ásamt starfsfólki flutti á staðinn.
Hver verslun fékk úthlutað ákveðnu svæði við ströndina og út frá verslunarhúsunum gegnu síðan bryggjur eins og sjá má á teikningunni hér fyrir ofan. Á 20. öld hafa sjóvarnargarðar og landfyllingar breytt landslaginu töluvert en að vísu má enn sjá leifar af miðbryggjunni.
Húsunum fjölgaði í þorpinu eftir því sem leið á 19. öldina. Hús dönsku verslunarinnar voru fremst meðfram ströndinni og eru sum þeirra enn uppistandandi. Upp af þeim var fyrst þyrping toprfbæja þar sem bjuggu Íslendingar. Uppúr aldamótunum 19. og 20. aldar tóku bárujárnsklædd hús við og upp úr miðri 20. öld tók við tími steinsteypunnar auk þess sem húsin stækkuðu og hverfunum fjölgaði.
6. Keflavík á 19. öld.
Myndin hefur verið tekin undir lok 19. aldar. Á henni má sjá árabáta fjær í Stokkavör og nær í uppsátri Fischerverslunar. Líklegast eru þetta uppskipunarbátar sem notaðir voru til að ferja varning í og úr skipum sem lágu utar þar sem hafnaraðstæður voru ekki fyrir hendi.
Stokkavör er í landi Keflavíkurjarðarinnar. Þar voru árabátar dregnir á land en verðmæti jarðarinnar var alla tíð nátengt fiskveiðum. Uppúr miðri 18. öld var kaupmönnum leyft að setjast að á verslunarstöðum og þá hófts eiginleg þéttbýlismyndun á Íslandi.
Fyrsti kaupmaðurinn sem settist að í Keflavík var Holger Jacobæus árið 1766. Síðar áttu fleiri kaupmenn eftir að setjast hér að. Öflugasta verslunin framan af var Duusverslun sem var rekin frá 1848 til 1920.
Húsið til vinstri er Miðpakkhúsið, við hliðina er geymsluskúr og til baka verslunar- og ibúðarhús Fischerverslunar en öll þessi hús tilheyrðu henni. Gamla búð var byggð fyrir Duusverslun árið 1870, þar fyrir ofan má sjá hólinn þar sem bændabýlið Keflavík stóð en túnið er nú friðlýst.
Til hægri á myndinni má sjá tvö af verslunarhúsum Duusverslunar.
Húsið sem stendur þvert á núverandi Duusgötu og var byggt fyrir Holger Jakobæus og fjölskyldu, var rifið. Lengst til
hægri aðeins neðar sést í gaflinn á Bryggjuhúsi Duusverslunar sem enn stendur.
7. Keflavík 1920.
Undir lok 19. aldar hafði íslenskt samfélag breyst varanlega. Þéttbýlið hafði skotið rótum og landsmenn gátu nú eflt sjávarútveg með margvíslegum hætti til dæmis með útgerð þilskipa og saltfiskverkun. Margvíslegum höftum hafði verið létt af versluninni, til dæmis var hægt að flytja saltfisk beint á Spánarmarkað sem skipti miklu máli.
Örnefnið Myllubakki er ungt en það tengist myllu sem P.C. Knutszon lét reisa í Keflavík um 1833 til kornmölunar. Myllan var þó fljótlega tekin úr notkun.
Örnefnið gekk svo í endurnýjun lífdaga þegar grunnskólinn við Sólvallagötu fékk nafnið Myllubakkaskóli að undangenginni hugmyndasamkeppni hjá nemendum og kennurum.
Myndin er tekin á Framnesi um 1920 um það bil á því svæði sem þú stendur. Næst eru íbúðar- og verslunarhús Edinborgarverslunarinnar, nú Hafnargata 31, þar niður af er Edinborgarbryggjan. Verslun Edinborgar var stofnuð í Reykjavík árið 1895 í félagi við tvo skoska athafnamenn. Verslunin var með útibú víðar en í Keflavík.
Stóra húsið aðeins fjær er læknishúsið, Hafnargata 26, þá kemur hús Ingibergs Ólafssonar, hafnargata 24, og síðan koma hús við Hafnargötu 16, 18 og 29. Þrír bátar sjást í Nástrandarvör og utar sést Myllubakkinn.
8. Jarðfræði – Örnefni.
Sjóvarnargarðurinn er úr grágrýti sem rann fyrir 200.000 árum. Grjótið er sprengt úr hraunlagastabbanum í Helguvík. Á stöku stað í þessu stórgrýti eru þær frumeindir sem bergið er gert úr það stórar að auðvelt er að greina þær.
Ólivínið sem er grænt á litinn myndar græna flekki á sumum steinanna og ef betur er að gáð má sjá þar ljósa eða glæra plagíóklasa og dökka ágit kristalla.
Einnig má sjá rauðar járnútfellingar sem myndast hafa á yfirborðum einstaka hrauntaums og jafnvel bregður fyrir hraunreipum sem eru kólnunarfyrirbæri á dyngjuhraunum.
Víða má sjá blöðrur sem myndast hafa í hrauninu þegar það afgasaðist og sumstaðar sést hvernig gasi hefur skilið eftir sig rákir eða rör þegar það steig upp í gegnum hálfstorknaða hraunkvikuna.
Örnefni er sérnafn á tilteknum stað. Nöfnin lýsa stöðum, t.d. sérkennum hvers staðar, eða bera vitni um minnistæða atburði eða þjóðsögur.
Íslensk örnefni hafa fylgt landnámsmönnum. Þeir hafa snemma gefið stöðum í landnámi sínu nöfn. Þessi nöfn geta tekið breytingum með breyttum staðháttum og búsetu.
Örnefni á stærstu stöðunum urðu almannaeign en örnefni á smáum stöðum í einstökum landareignum voru aðeinns þekkt af heimamönunnum ein sog er enn í dag. Örnefnin eru vegvísar í landinu. Nauðsynlegt var að þekkja þau til að vita hvar maður var staddur.
9. Básinn.
Vélvæðing bátaflotans hófst á Íslandi í byrjun 20. aldar. Þá áttfaldaðist afli landsmanna og þjóðartekjur margfölduðust á nokkrum áratugum.
Víða um land hafði verslunin forgöngu um vélvæðinguna. Í Keflavík var Duusverslunin öflugust en kraftar hennar beindust á þessum tíma að skútuútgerð í Reykjavík. Það kom í hlut einstaklinga að byggja upp vélbátaútgerðina hér.
Á þriðja áratugnum tóku forvígismenn fjögurra útgerða sig til og komu sér upp aðstöðu í Básnum á Vatnsnesi. Þar byggðu þeir bryggju og reistu hús upp af henni, þannig að hægt var að keyra aflann beint frá borði inn í hús. Aðstaðan var komin í gagnið fyrir vetrarvertíðina árið 1929. Frumkvöðlar frystiiðnaðarins í Keflavík komu m.a. úr þessum hópi en honum var ýtt úr vör á Vatnsnesi á 4. og 5. áratug 20. aldar.
Á myndinni hér fyrir ofan má sjá Básbryggjuna. Upp af bryggjunni má sjá fjölda fiskvinnsluhúsa. Til vinstri er Röstin, fiskvinnsluhús og verbúðir, lengst í eigu Margeirs Jónssonar. Fyrir miðri myndi sést í gaflinn á íbúðarhúsi Vatnsnesjarðarinnar. Jóhann Guðnason, eigandi jarðarinnar, lét reisa húsið á fjórða áratug 20. aldar. Hann var einn margra frumkvöðla á fyrri hluta aldarinnar.
Árið 1969 var húsið gefið til Byggðasafns bæjarfélagsins af Bjarnfríði Sigurðardóttur, ekkju Jóhanns, til minningar um hann og foreldra þeirra beggja.
10. Sjávarföllin.
Á hverjum sólarhring er tvisvar flóð og þar af leiðandi tvisvar fjara. Það eru að meðaltali 12 klukkustundir og 25 mínútur á milli tveggja flóða og færist tími háflóðs aftur um 50 mínútur á hverjum sólarhring. Sjávarföllin byrja við suðurströndina og fara svo réttsælis um landið. Flóð við sunnanverða Austfirði verður 10 klukkutímum seinna en í Reykjavík.
Ýmsar veiðar hafa tengst beint flóði og fjöru bæði varðandi lögn og drátt veiðarfæra. Þá er liggjandinn eða ögustundnin milli flóðs og fjöru þekktur þáttur í vinnuferli til sjós. Flóð og fjara hefur löngum skipt máli við hafnir landsins, sérstaklega með tilliti til hæðarmunar við bryggju. Hæðarmunur á flóði og fjöru geta orðið allt að 5 metrar hér um slóðir.
11. Vatnsnesvitinn – Slysavarnir við Íslandsstrendur.
Til forna höfðu menn margvísleg ráð til að rata á úthafinu en oft reyndist hættulegasti kaflinn vera sá sem næstur var landi, þá skipti miklu máli að vera staðkunnugur.
Þegar siglingar milli landa urðu tíðari fóru menn að skoða leiðir til að leiðbeina sæfarendum t.d. með ljósmerkjum.
Fyrsti ljósvitinn sem reistur var á Íslandi var Reykjanesviti, reistur 1878. Í kjölfarið komu svo aðrir vitar einn af öðrum eftir strandlengjunni. Vatnsnesvitinn var reistur árið 1920 til að leiðbeina sæfarendum sem sigldu hér inn til hafnar.
Sjóslys voru alla tíð algeng við Íslands strendur. Á tímabilinu 1881 til 1930 drukknuðu til dæmis 3442 sem er að meðaltali 70 manns á ári. Það var mikil blóðtaka fyrir fámenna og fátæka þjóð. Þessi kafli í sögu Íslands er átakanlegur og harmur þeirra sem misstu ástvini sína mikill. Sjóslysið varð oft upphafið af enn meiri harmi þegar heimili voru leyst upp og fjölskyldur sundruðust.
Oddur V. Gíslason prestur í Grindavík vann ötullega að öryggismálum sjómanna og hvatti menn mjög til dáða á 19. öld.
Árið 1928 var Slysavarnarfélag Íslands stofnað. Deildir þess störfuðu um allt land, m.a. í Keflavík og Njarðvík. Síðar sameinuðust öll björgunarfélög landsins í félagið Landsbjörg. Þessar fjöldahreyfingar hafa lyft grettistaki í björgunarmálum þjóðarinnar.
12. Reykjanesbær – bærinn minn.
Lag og texti Gunnars Þórðarsonar og Þorsteins Eggertssonar; Hvergi í heiminum er ég sáttari en í bænum sem fóstraði mig…
13. Keflavíkurhöfn.
Á tímum bátaútvegsins þurfti ekki að hafa mikið fyrir hafnarframkvæmdum þótt fyrir kæmi að menn löguðu til lendingar og varir til að auðvelda sér athafnir eins og þær að draga báta á land. Kaupmenn höfðu bryggjur við verslunarhús sín en þær voru einungis notaðar fyrir uppskipunarbáta en ekki fyrir stór hafskip.
Þegar siglingar til landsins urðu tíðari í kjölfar iðnbyltingarinnar var ljóst að þeir staðir sem ekki gátu boðið upp á þokkalega hafskipahöfn myndu dragast aftur úr og jafnvel leggjast í eyði. Bygging slíks manvirkis verður þó seint talin einföld eða ódýr aðgerð og víst að margvísleg sjónarmið geta tekist á.
Í Keflavík vildi það þannig til að maður að nafn Óskar Halldórsson, síldarspekúlant og athafnamaður, hóf árið 1933 að byggja hafskipahöfn í landi Vatnsness á eigin reikning. Síðar keypti Keflavíkurbær eignirnar hans og Keflavíkurhöfn, fyrsta hafskipahöfnin á Suðurnesjum, varð til.
Framtak Óskars skipti miklu máli varðandi viðgang byggðarinnar og hvatti menn til frekari framkvæmda í Keflavíkurhöfn og á fleiri stöðum á Suðurnesjum.
Enn má sjá leifar af hafskipabryggju Óskars en Keflavíkurhöfn hefur byggst upp á löngum tíma og eru þar núna nokkrar bryggjur. Ein þeirra er kölluð Kraftaverkið en sjá má að hún er hlaðin og er hún að öllu leyti handgerð.
14. Stekkjarhamar – holótt grjót.
Örnefnið á hamrinum bendir til að hér hafi veriðs tekkur sem minnir á þá tíð þegar lömb voru færð frá ánum til að hægt væri að mjólka þær.
Sagnir eru einungis um að fjárrétt hafi verið í lautinni. Hér voru haldnar samkomur og hingað naut fólk þess að koma í lautarferð. Ástarlautin er líka vel þekkt heiti á svæðinu. Staðurinn er friðlýstur.
Holótt grjót getur myndast þegar bráðið gosberg storknar svo hratt að gasgufum vinnst ekki tími til að losna úr kvikunni áður en hún stirðnar.
Víða myndast líka holótt grjót við saltveðrun nálægt sjávarströnd. Þar smýgur sjávarlöður inn í smágerðar holur í frauðkenndu bergi eða holur eftir gosgufubólur í storknuðu bergi.
Síðan kristallast saltið út úr vatninu. Þá þenst saltið út, sprengir út frá sér og myndar með tíð og tíma enn stærri og dýpri holur inn í bergið. Þéttari lög í berginu taka síðan til sín vatn og lenda því eftir sem hryggir á milli holanna.
Holótt grjót við sjávarströnd getur þannig upphaflega átt rætur sínar að rekja til gasgufubóla eða saltveðrunar. Sandur sem blæs til í holunum getur síðan stækkað þær enn meir.
15. Berggrunnur.
Berggrunni norðanverðs Reykjanesskaga má skipta í tvennt. Annars vegar eru hraun sem hafa brunnið á nútíma og þekja allt svæðið frá Hvaleyrarholti við Hafnarfjörð að Vogastapa hér í austri. Hins vegar eru hlýskeiðshraun (grágrýtishraun) sem einkenna svæðið hér um kring og á Rosmhvalanesi.
Talið er að dyngjuhvirfill sé á Háaleiti á flugvallarsvæðinu og hafi hraunin á öllu Rosmhvalanesinu runnið þaðan bæði vestur til Sandgerðis, norður til Garðs og yfir Keflavíkursvæðið og norðanverða Njarðvík. Sunnar tekur við Njarðvíkurhraunið.
Þetta Háaleitisgrágrýti virðist vera eitt hraun á yfirborðinu en allmikið rofið t.d. er áberandi brún ofan við gömlu hitaveitugeymana í Njarðvík. Þykkt hraunanna er óljós en í holum sem boraðar hafa verið í Helguvík nær það 40 metra niður fyrir núverandi sjávarmál. Ef hraunið á upptök í Háaleiti er það talið vera allt að 90 metra þykkt.
16. Smiðshúsavör.
Vör er sá staður þar sem róið var til fiskjar út frá verstöð þangað sem menn fóru með báta sína og skipshafnir þegar notaðir voru árabátar til fiskveiða. Vör er stytting á orðum eins og lendingarvör eða róðrarvör.
Menn ýttu árabátum sínum úr vör. Þeir lögðu af stað í róður frá þeim stað því þar var jafnan lítil vík og minni öldugangur. Þannig var auðveldara að ýta bátum út í sjó eða leggja þeim aftur í fjöruna. Í dag ýta menn ýmsu úr vör. Þannig hefur tenging við að ýta úr vör færst yfir á ýmsi verkefni sem menn eru að byrja. Þá er þeim ýtt úr vör.
Jörðin Ytri-Njarðvík var einkar verðmæt sökum útræðis frá henni eins og tíðkaðist á Suðurnesjum. Í aldaraðir byggðist upp hverfi kotbýla á sjávarjörðum en byggðin var ótraust, óx á góðum tímum en lá í dvala þegar illa áraði. Varanlegt þéttbýli myndaðist í Ytri-Njarðvík í upphafi tuttugustu aldar með því að kotbýlin náðu að skjóta rótum og vaxa vegna framfara í sjávarútvegi. Landbúnaður var ávallt stundaður samhliða sjósókninni langt fram á 20. öld.
17. Ytri-Njarðvík – sjósókn, höfnin og fólkið.
Á 19. öld hófst salfiskverkun með miklum krafti hér á landi. Fólkið sóttist eftir að flytja á sjávarsíðuna. Fjölskyldur sem bjuggu í kotum, eins og Þórukoti og Höskuldarkoti, gátu komið undir sig fótunum með því að veiða þorsk og verka hann sjálft í saltfisk.
Með vélvæðingu bátaflotans í upphafi 20. aldar urðu bátarnir fljótari á miðin og gátu sótt lengra. Fiskafli margfaldaðist og lagði grunn að varanlegu þéttbýli víðs vegar við ströndina.
Eftir því sem leið á 20. öldina skipti góð hafnaraðstaða sköpum um það hvort byggðin þróaðist eða lagðist af. Njarðvíkingar börðust lengi fyrir höfn en þrátt fyrir loforð ríkisvaldsins gekk ekki þrautarlaust að koma verkefninu af stað.
Karvel Ögmundsson, útvegsmaður í Njarðvík, tók þá til sinna ráð, fjármagnaði og sá um fyrstu framkvæmdir við Njarðvíkurhöfn. Hann fékk síðar greitt í ríkisskuldabréfum. Karvel sem var heiðursborgari Njarðvíkur koma víða við, byggði m.a. fyrsta frystihúsið í Njarðvík árið 1938.
Skipasmíðar eiga sér langa sögu í Njarðvík. Fyrsta skipasmíðastöðin ásamt dráttarbraut var reist í Innri-Njarðvík árið 1935 af Eggerti Jónssyni frá Nautabúi.
Eggert var mikill athafnamaður með töluverð umsvif í Innri-Njarðvík. Allmargir vélbátar voru smíðaðri í stöðinni og gekk reksturinn vel.
Eftir rétt um áratugar starf kom upp ágreiningur milli Eggerts og skipasmiða sem unnu hjá honum, þeir vildu eignast hlut í fyrirtækinu. Þegar Eggert neitaði þessari hugmynd, sögðu þeir upp störfum og stofnuðu árið 1945 Skipasmíðastöð Njarðvíkur í Ytri-Njarðvík. Stöðin er starfrækt enn í dag og er sú eina sem eftir er í bæjarfélaginu.
18. Ytri-Njarðvík – þróun byggðar.
Skipulagt mála á Íslandi allt fram á 20. öld var með þeim hætti að landinu var skipt upp í bændajarðir, lögbýli. Allt var skilgreint út frá þeim. Hvort sem það voru afréttarlönd eða lendingarstaðir báta (varir). Fjöldi lögbýla á Íslandi hefur verið nokkuð stöðugur allt fram á 20. öld eða rúmlega 4000. Frá miðöldum og fram undir lok 18. aldar voru flestir ábúendur lögbýla leiguliðar ríkra landeiganda, þeirra strærstir voru kirkjan og krúnan.
Til að standa skil á leigugjöldum af jörðunum gripu margir, einkum við sjávarsíðuna, til þess ráðs að leigja út part af jörðinni, sem hjáleigur eða tómthús, til að efla tekjur sínar.
Fjölskyldan sem bjó á hjáleigunni mátti stunda landbúnað og halda skepnur en tómthúsfólkið mátti bara stunda sjóinn.
Ytri-Njarðvík var eitt þessara lögbýla og henni tilheyrðu nokkur kot sem voru hjáleigur eða tómthús. Með eflingu sjávarútvegs efldist byggðakjarninn og ekki síst minnstu einingarnar, kotin. Þórukot og Höskuldarkot er góð dæmi um þessa þróun.
Fjölskyldurnar er nýttu sér nálægðina við sjóinn og gátu byggt upp efnahag sinn. Búskapur bar nokkur framan af, til dæmis áttu margir eina kú en einkum ræktaði fólk matjurtir, s.s. kál og kartöflur við hús sín.
Þéttbýlið í Ytri-Njarðvík á sér ævarfornar rætur í þessu gamla íslenska kerfi. Eftir því sem leið á 20. öldina urðu jarðirnar að lóðum og lóðirnar minnkuðu. Smám saman hætti heimilið að verða sjálfstæð eining og varð hluti af stærra samfélagi, bæjarsamfélaginu.
19. Bolafótur – Hallgrímur Pétursson.
Ævi skáldsins var viðburðarík, hann ólst upp á biskupsetrinu á Hólum en rúmlega tvígugur var hann við nám í Kaupmannahöfn þegar hópur Íslendinga kom þangað frá Alsírborg. Hann var hluti af hóp sem sjóræningjar höfðu rænt í Tyrkjaráninu um áratug fyrr og selt í ánauð til Norður-Afríku.
Í hónum var Guðríður Símonardóttir og tókust með þeim heitar ástir. Vorið 1637 birtust þau í Keflavík og var hún þá langt gengin með fyrsta barn þeirra, Eyjólf. Framundan var ótrúlega erfiður tími fyrir þetta langt að komna par. Hér á þessu túni hefur kotbýlið Bolafótur verið, þar sem þau hjón bjuggu um einhvern tíma á fyrstu búskaparárum sínum.
Á Suðurnesjum bjuggu þau líklega í um 14 ár. Hallgrímur vann við það sem til féll, m.a. fyrir kaupmann í Keflavík og við sjósókn. Þrátt fyrir mikla erfiðleika kom náungakærleikurinn þeim til hjálpar. Grímur Bergsson í Njarðvík, lagði á sig að aðstoða þau með því að borga sektargjöld vegna þess að barnið þeirra fæddist utan hjónabands.
Hallgrímur gerðist prestur á Hvalsnesi. hagurinn vænkaðist en þó var harmurinn ekki langt undan. Dóttir þeirra Steinunn dó aðeins nokkurra ára gömul. Á Hvalsnesi er legsteinn hennar sem talið er að Hallgrímur hafi sjálfur gert og er hann einn mesti dýrgripur í eigu kirkna á Suðurnesjum.
Pretsembættið á Hvalsnesi var upphaf á farsælum ferli Hallgríms í prestastétt en lengst þjónaði hann í Saurbæjarkirkju á Hvalfjarðarströnd. Þar samdi hann Passíusálmana. Um miðjan aldur veiktist Hallgrímur af holsveiki eða líkþrá og dó árið 1674 sextugur að aldri en Guðríður lifði mann sinn og lést í hári elli árið 1681.
20. Stekkjarkot 1855-1924.
Endurbygging Stekkjarkots var afmælisverkefni í tilefni af 50 ára afmæli Njarðavíkurkaupstaðar 1992. Stekkjarkot var opnað af forseta Íslands, frú Vigdísi Finnbogadóttur í ágúst 1993.
Stekkjarkot var þurrabúð og gefur hugmynd um bústað sem algengir voru á þessum slóðum á 19. öld. Þurrabúð merkti að íbúarnir máttu ekki halda skepnur s.s. kýr eða kindur. Slík kot voru ávallt byggð í landareign annarra og borguðu kotbúar fyrir afnotin til dæmis með sjávarfangi eða þeir réru á bátum landeigandans. Þurrabúðafólkið varð þannig að treysta algerlega á það sem hafið gaf.
Stekkjarkot á sér slitrótta sögu en fyrst er það byggt á árunum 1855-1857 sem vitað er. Búsetan þar lagðist síðan af 1887. Kotið var byggt upp aftur árið 1971 en 1924 var kotið komið í eyði. Stekkjarkot náði því að verða grasbýli um 1921 sem hefur gefið kotverjum rétt á að hafa einhverjar skepnur. Kotið sem við sjáum núna er byggt upp með stuðningi endurminninga eins af síðustu íbúunum. Eldri hlutinn á rætur aftur til 19. aldar þar er hlóðaeldurinn. Yngri hlutinn er frá síðari búsetudögum. Baðstofa og eldhús eru alþiljuð, komin kolaeldavél og ekki virðist hafa farið illa um heimilisfólkið. Saga Stekkjarkots er ekki löng eins og við þekkjum hana en gefur innsýn í þennan síðasta hluta merkilegrar sögu kotbyggða við ströndina.
21. Hvað heitir landslagið – Örnefni.
Til að vita um hvaða stað verið er að tala þarf allt að heita eitthvað. En hvað ræður för þegar nöfn eru valin á landið? Nöfn á stöðum eru kölluð örnefni. Í örnefninu gefur verið falin mikil saga, stórkostlegar hugmyndir og jafnvel draumsýnir.
Hvað merkir til dæmis örnefnið Njarðvík? Vísar það til Norrænna goðsins Narðar eða er það lýsing á þeirri staðreynd að víkin Njarðvík er nær, Nærvík?
Sé víkin kennd við fyrrnefndan Njörð er frá honum að segja að hann var með svo fallega fætur að Skaði valdi sér hann sem mannsefni. Hún hélt reyndar að hún væri að velja Baldur og kannski þess vegna varð upphafstónninn í hjónabandi þeirra fremur leiðinlegur.
Njörður gat hins vegar ekki hugsað sér að sofa uppi í fjöllunum í Þrymheimum vegna ýlfurs frá úlfum.
Samkomulag þeirra hjóna varð því á þann hátt að hún svaf níu nætur í Nóatúnum og hann síðan níu nætur í Þrymheimum.
Á Njörð var oft heitið af sæfarendum þar sem hann réð vindum og gróðri jarðar. Upphaflega hafði hann verið dýrkaður sem frjósemisguð en börn hans, Freyja og Freyr tóku nær alfarið við því hlutverki.
22. Eldhúsið í Stapakoti – matur áður fyrr.
Skúli Magnússon landfógeti skrifaði áhugaverða ritgerð árið 1785 um margt það sem skiptir máli um íslenskt samfélag. Suðurnesjamönnum lýsti hann þannig að þeir væru yfirleitt geðgóðir, guðhræddir, hreinskilnir og góðir gestgjafar.
Enskur ferðamaður að nafni Henry Holland kom hingað til lands árið 1810. Njarðvíkingum lýsti hann svo að þeir væru áhugasamir og forvitnir án þess að vera frekir og að karlmenn væru líkir öðrum íslenskum körlum, hávaxnir, rjóðir í kinnum og með sítt ljóst hár.
Þessi glæsimenni sem lifðu hér um slóðir nærðust fyrst og fremst á fiskmeti hvers konar, ásamt mjöl- og mjólkurmat. Morgunmaturinn var mjöl- eða rúggrautur með mjólk eða smjöri út á. Síðar um daginn fékk fólkið sér harðfisk eða herta þorskhausa. Kjöt var bara til hátíðabrigða, kjötsúpa að hausti og reykt eða vindþurrkað kjöt er leið á veturinn.
Elstu byggingar sem fundist hafa á Íslandi eru kallaðar „skálar“. Í skálunum var sofið, unnið, eldaður matur og borðað. Við slíkar aðstæður getur myndast mikill reykur sem ekki er heilsusamlegur.
Þegar byggðin þróðist má sjá að upp af skálanum eða nágrenni hans fóru menn að byggja sérstök hús þar sem matur var eldaður, eldhús. Þar inni voru hlóðirnar. Slík eldhús voru í notkun allt fram á 19. öld er byrjað var að flytja inn kolaeldavélar. Hlóðirnar voru þó áfram í notkun hjá þeim fátækari og einnig á stærri heimilum þegar mikið stóð til, t.d. þegar soðið var slátur.
Eggert Guðmundsson listmálari fæddist í Stapakoti í Innri-Njarðvík árið 1906. Hann var alla tíð þjóðlegur listamaður, myndefni hans voru fornsögur, ljóð, þjóðsögur og saga þjóðarinnar. Hann hélt fjölda málverkasýninga á Íslandi og erlendis. Verk eftir hann prýða mörg heimili á Suðurnesjum og víðar, einnig eru nokkur verk í listasafna. Hann lést árið 1983.
23. Kópa – Harðfiskur og skreið.
Stutt er á fengsæl fiskimið frá Njarðvík. Mest fiskaðist á fyrst mánuðum ársins þegar þorskurinn gekk á grunnmið til að hrygna. Vetrarvertíð kallast veiðitímabilið frá kyndilmessu til lokadags (2. febrúar til 11. maí). Fjöldi fólks kom á vertíð suður með sjó.
Lengst framan af var afli vetrarvertíðar verkaður í skreið. Skreið var þurrkaður og hertur fiskur. Hún var verkuð þannig að fyrst var fiskurinn slægður (tekin úr honum innyflin) og hann síðan látinn þorna í stæðum eða kös fram undir miðjan aprílmánuð.
Síðan var fiskurinn þurrkaður (hertur) með því að láta hann liggja á grjótgörðum helst þar sem vindur gat leikið um hann.
Fiskurinn var yfirleitt orðinn fullharnaður í lok júnímánaðar og tilbúinn til sölu hjá kaupmanni eða sem vistir til vetrarins á heimilum landsmanna.
Fiskur var alla tíð mikilvægur hluti af fæðu landsmanna og enn í dag borðar fólk harðfisk með smjöri sem minnir á þann tíma þegar hvers konar brauðmatur var hátíðisfæða en „brauð“ Íslendinga var harðfiskur með smjöri.
Málverkið gerði Eggert Guðmundsson listmálari fyrir Margeir Jónsson, útgerðarmann, en báðir voru fæddir í Stapakoti. Á því má sjá Stapakot og víkina Kópu í Innri-Njarðvík, en þar var útræði og uppsátur fyrir árabátana. Í Stapakoti var þríbýli. Á vetrarvertíðum voru allt að 40 sjómenn víðs vegar af landinu sem réðu sig í skipsrúm frá Stapakoti. Húsin hægra megin á myndinni voru að sögn geymsluhús fyrir net og sjávarfang.
Nú tekur við Stapinn. Ekki er ólíkleg að fleiri upplýsingaskilti verði sett upp við strandstíginn. Við hann auk þessa eru ýmis listaverk og minningarmerki, s.s. um Jón Þorkelsson Thorchellius skólameistara í Skálholti, um Sveinbjörn Egilsson, fyrsta rektor Lærða skólans, um staðsetningu fyrstu þjóðhátíðar fjögurra innstu hreppa Gullbringusýslu 15.-16. ágúst 1874, auk þess ýmiss mannvirki á leiðinni megi vel telja til minnisvarða um liðna tíð.
Innan við Grófina er t.d. minnismerki sjómanna eftir Ásmund Sveinsson til minningar um drukknaða og horfna sjómenn. Verkið var keypt að frumkvæði Verkalýðs- og sjómannafélags Keflavíkur með framlagi úr sjóði um minnismerki sjómanna auk fjárstyrks frá nokkrum útgerðum og Keflavíkurbæ.
Skessuhellir.