Tag Archive for: Reykjanesbær

Helguvík

Gengið var upp á Keflavíkurbjarg norðan við Grófina og síðan sem leið lá yfir og framhjá Helguvík, yfir á Hólmsberg og að Stakksnípu. Þar undir er kletturinn Stakkur í sjónum, en af honum dregur fjörðurinn nafn sitt. Þjóðsaga tengist klettinum. Þá var gengið áfram til norðurs eftir bjarginu þangað til komið var að Helguvík.

Keflavíkurberg

Vatnsskál á Keflavíkurbergi.

Fremst á berginu, eftir að skoðaðir höfðu verið drykkjarsteinn og handgerður brunnur, tóftir og Stekkjarlág, fyrrum samkomustaður Keflvíkinga, var komið að Brennunípu. Líklegt er að nafnið sé tilkomið líkt og önnur brenninefni, s.s. Brennuhóll og Brenna, en slíkir staðir eru venjulega gegnt gömlum innsiglingum við varir eða lendingar. Kveikt var í bálkesti á þessum hólum þegar farið var að rökkva eða myrkur var skollið á til að leiðbeina þeim, sem enn voru á sjó og voru að róa í land, réttu leiðina. Einnig stærri skipum, sem enn var von á af hafi, við sömu aðstæður.
Stakksfjörður, sem er hafssvæðið utan við bergið (bergin), er breiður og djúpur fjörður sem gengur til suðurs úr Faxaflóa og afmarkast að austan af Keilisnesi á Vatnsleysuströnd en af Stakksnípu í Hólmsbergi að vestan.

Stakkur

Hellunef er skammt norðar. Þar eru mörk hinnar gömlu Keflavíkur. Náðu mörkin til suðurs að Stekkjarhamri þar sem Ytri-Njarðvík tók við. Gengið var áfram til norðurs á bjarginu, að Helguvík. Hún er lítil hamravík þar sem nú er ætlunin að byggja upp blómlegt atvinnulíf í kringum stórskipahöfn, loðnubræðslu, loðnuflokkunarstöð, sementssölu, steypustöð og malbikunarstöð. Til stendur að fjölga enn stórum fyrirtækjum í Helguvík. Víkin var áður falleg hömrum girt náttúruvík, sniðin af eðlilegum ástæðum, en nú er hún dæmi um niðurbrotna hugmyndastefnu.

Hólmsbergsviti

Stakksnípuviti.

Norðan við Helguvíkina tekur Hólmsbergið við. Syðst á því er Stakknsípa. Undir henni er klettadrangurinn Stakkur. Viti er á Stakksnípu, reistur 1958. Stakksfjörður dregur nafn af Stakki.
Í þjóðsögunni af Rauðhöfða, sem gerast á í fornöld, segir m.a. að löngum aðdraganda gegnum er gerist á Hvalsnesi og varðar afleiðingar hans í samskiptum við álfkonu í Geirfuglaskeri, að hann tók undir eins á rás og æddi sem vitstola norður eftir þangað til hann kom fram á Hólmsberg, en berg það er fram við sjó, býsna hátt og þverhnípt. Þegar hann kom fram á bergsbrúnina staldraði hann við.

Keflavíkurberg

Keflavíkurberg – Stekkjalág.

Varð hann þá allt í einu svo stór og þrútinn að bergið sprakk undir fótum honum og hljóp fram klettur mikill úr hamrinum. Stakkst maðurinn þar fram af í sjóinn og varð í sama augnabragði að feikilega stórum hvalfiski með rauðan haus því maðurinn hafði haft rauða húfu eða hettu á höfðinu þegar hann brást í hvalslíkið. Af þessu var hann síðan kallaður Rauðhöfði. En kletturinn sem fram hljóp með hann í sjóinn stendur enn fram í sjónum austarlega undir Keflavíkurbergi og er kallaður Stakkur. Eftirmálar af sögunni urðu síðan í Hvalfirði.
Önnur saga segir að þegar upp komust svik mannsins varð hann óður og steypti sér í sjóinn og breyttist í hrosshveli og kölluðu menn hann Faxa. Af því nafni dregur Faxaflói nafn sitt

Keflavíkurborg

Keflavíkurborg.

Í enn annarri frásögn segir að er upp komast svik mannsins, er hér nefnist Helgi, segir hann allt af létta og fer síðan inn þvera heiði og fram af Hólmsbergi. Um leið og hann stakk sér féll úr berginu klettur og er hann hér um 100 faðma fyrir framan bergið og heitir Stakkurinn til þessa dags.
Gangan endaði að þessu sinni við við vitann á Hellisnípu. Þar undir að norðanverðu er Selvík. Hægt er að ganga niður í víkina og er hún hin fallegasta – í góðu verði.
Ofan Grófarinnar er Keflavíkurborg, gömul fjárborg við Sandgerðisveginn fyrrum.
Í rauninni er þetta svæði ein hin dýrmætasta útivistarperla Keflvíkinga, en of fáir þeirra virðast því miður gera sér grein fyrir því. Fjölmargt er að skoða á annars ekki lengri leið.
Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 1 mín.

Heimildir m.a.:
-http://bokasafn.rnb.is/default.asp?cat_id=226
-Jón Árnason I 82.

Keflavíkurberg

Brunnur á Keflavíkurbergi.

Reykjanesviti

Utan við nýuppgerða upplýsingamiðstöð á jarðhæð vitavarðarbústaðarins á Vatnsfelli á Reykjanesi eru tólf skilti. Á þeim eru upplýsingar um jarðfræði Reykjaness, vitann og nágrenni. Reyndar eru upplýsingarnar misvísandi og í einstaka tilfellum beinlínis rangar, en á skiltunum má lesa eftirfarandi fróðleik:

Heimili vitavarða

Reykjanesviti

Reykjanesviti – skilti.

„Íbúðarhús vitavarða stóð alltaf hér á þessum stað frá því að fyrsti vitinn var reistur á Valahnúk árið 1878.

Núverandi hús var reist árið 1947 en hér stóð áður burstabær úr timbri og þar áður torfbær sem reistur var samhliða fyrsta vitanum. Það var langur spölur að fyrsta vitanum sem reistur var a Valahnúk. Enn síst héðan hlaðinn gönguleið vitavarðanna eftir hraunbreiðunni til suðvesturs að Valahnúk.

Reykjanesviti

Reykjanesviti.

Þangað þurftu þeir að ganga í öllum veðrum til að halda ljósinu lifandi. Þeir vissu hvað var í húfi ef ljósgeislinn brást. Þegar vitinn var reistur hér á Bæjarfelli [á að vera Vatnsfelli] árið 1907 voru gerðar tröppur upp frá vitavarðarhúsinu að vitanum, sem enn eru nothæfar.

Það þurfti hetjudug til að búa á Reykjanesi og gæta vitans, víðs fjarri mannabyggð, þegar enginn vegarspotti lá yfir hraunbreiðuna í att að næstu samfélögum í Grindavík og Höfnum (15 km). Hvorki vegir né sími. Hér í vitavarðarhúsinu er skyggnst inn í sögu vitavarðanna.“

Gunnuhver

Reykjanesviti

Reykjanesviti – Gunnuhver; skilti.

Gunnuhver er staðsettur austan við Reykjanesvita [og] er mikið jarðhitasvæði, eitt af mörgum á Reykjanesi.

Gunnuhver er þekktasti hverinn. Gunnuhver er talinn vera stærsti leirhver á Íslandi með gígop sem er 20 metrar í þvermál. Mikið gufuútstreymi er á háhitasvæðinu með fjölda gufu- og leirhvera sem hafa myndast. Gufan leitar til yfirborðsins í gufuaugum og hvínandi gufuhverum en þéttist líka í yfirborðsvatni og myndast með því leirhveri.

Gunnuhver

Gunnuhver á Reykjanesi.

„Gunnuhver“ mun draga nafn sitt af Guðrúnu nokkurri sem gekk aftur og olli miklum usla á svæðinu þar til að tókst að koma draugnum fyrir með því að senda hann í hverinn.

Jarðhitasvæðið er á hreyfingu. Á árinu 2006 hljóp mikill hamagangur í svæðið sem stækkaði mikið og eyðilagði þáverandi akveg og göngupalla. Nú hafa verið teknir í notkun nýri göngu- og útsýnispallar.

Reykjanesviti

Reykjanesviti.

Á svæðinu hafa dætur síðasta vitavarðarins sinnt hefðum vitavarðafölskyldna sem hafa í 140 ár grafið brauð í leirinn og bakað gott rúgbrauð. Hver veit nema þær eigi eitthvað til að smakka hér inni í vitavarðarhúsinu.“

Reykjanes Jarðvangur

Reykjanesviti

Reykjanesviti – Jarðvangur; skilti.

Í Reykjanes „Jarðvangi“ er að finna margar merkilegar jarðminjar og eru sumar þeirra einstakar í sinni röð.

Þar er m.a. að finna fjölmargar tegundir eldstöðva í a.m.k. fjórum aðskildum gosreinum, með hundruðum opinna sprunga og misgengja. Hið einstaka nábýli íbúa jarðvangsins við náttúruna hefur mótað þá og lifnaðarhætti þeirra síðan land byggðist. Víða má finna ummerki um fornar minjar tengdar samgöngum, sjósókn og landbúnaði. Þá leynast víða kennileiti sem tóku á sig ýmsar myndir í myrkri og þoku sem urðu uppsprettur sagna sem lifa enn með íbúum svæðisins.

Reykjanes

Gunnuhver.

Í Reykjanes jarðvangi er að finna talsverðan jarðhita. Jarðhitinn er jarðsjór sem streymir gegnum funheitt berg og kólnandi kvikuinnskot innan gosreina. Íbúar svæðisins hafa gegnum aldirnar notið góðs af honum og er hann í dag m.a. nýttur til húshitunar og raforkuframleiðslu.

Samspil jarðhitans, gufu-, vatns- og leirhvera, veðurfars, gróðurs og gróðurleysis skapar einstaka litadýrð sem yndi er á að horfa, þó rétt sé að gæta varúðar inni á sjóðandi hverasvæðum.

Jarðfræði

Gunnuhver

Gunnuhver.

Reykjanesskagi er framhald af Reykjaneshryggnum sem rís úr sæ yst á Reykjanesskaganum og liggur gegnum landið frá suðvestri til norðausturs.

Rekja má jarðsögu svæðisins nokkur hundruð þúsund ár aftur í tímann en flest jarðlög eru yngri en 100-200 þúsund ára. Síðasta goshrina á Reykjanesi hófst um árið 1000 og lauk um 250 árum síðar. Tíminn mun leiða í ljós hvort ný goshrina sé hafin þegar gaus í Fagradalsfjalli árið 2021 og 2022.

Móberg

Móberg.

Í Reykjanes jarðvangi má finna móbergsfjöll og móbergshryggi sem mynduðust í gosum undir jökli en einnig gígaraðir og stórar skjaldlaga dyngjur frá nútíma. Víða eru bergstaflar af hraunum sem mynduðust í sprungugosum þegar mikið magn hrauns kom upp úr gígum á sprungum. Gosum á Reykjanesi fylgir sjaldnast öskufall nema þar sem gossprungur lentu í vatni eða sjó.

Jarðskjálfar eru tíðir á svæðinu sökum landreks, en koma gjarnan upp í skjálftahrinum sem geta tekið nokkur ár. Flestir eru þeir smáir en stöku sinnum finnast þeir greinilega um allan Reykjanesskagann.“

Valahnúkur

Reykjanesviti

Reykjanesviti – Valahnúkur; skilti.

Valahnúkur er samsettur úr móbergstúfflögum, bólstrabergi og bólstrabrotabergi. Hnúkurinn myndaðist í einu gosi en sýnir mismunandi ásýndir í virkni gossins. Móbergstúffið myndaðist við sprengivirkni í gosinu en bólstrabergið við hraunrennsli í vatn.

Móbergstúff
Sambland af hraunmolum og harðnandi gosösku sem finnst í Valahnúk nefnist túff. Túff myndast þegar 1200°C heit bráð kólnar snögglega í vatni. Þá verður til glersalli þar sem kristallar hafa ekki tíma til að vaxa. Sallinn ummyndast fljótt í móberg.

Bólstrar

Bólstri.

Bólstrabrotaberg

Neðarlega í Valahnúk má sjá hallandi lag af bólstrabrotabergi. Bólstarbrotaberg myndast þegar gjall eða gjóska mynda skálaga hlíðar. Einstaka bólstrar eða brot úr þeim renna þá niður hallann, umlykjast gjóskusalla og mynda hið svokallað bólstabrotaberg.

Bólstaberg

Reykjanesviti

Valahnúkur.

Bólstraberg er algengasta hraunmyndun jarðarinnar þar sem hún er algengasta hraunmyndun úthafsskorpunnar. Þessir sérkennulegu bólstrar myndast í gosi undir vatni eða jökli. Oft er um að ræða gos þar sem þrýstingur er of mikill til að gufusprengingar verði. Einnig geta bólstrarnir myndast þegar lítið eða ekkert gas er í kviku sem þrýstir sér hratt út úr flæðandi hraunmassa. Þar sem kvikan kólnar snögglega myndast svört glerhúð utan á bólstrunum.

Oft eru þeir nokkrir metrar á lengd en einungis 10-30 sentimetrar í þvermál. Þegar horft er á klettavegg með þversnið af bólstrunum þá lítur hver bólstri út eins og bolti eða koddi. Bólstrabergið í Valahnúk hefur að öllum líkindum orðið til í gosi undir jökli.“

Vitagata

Reykjanesviti

Reykjanesviti – Vitagata; skilti.

„Þegar vitinn stóð á Valahnúk bjó vitavörðurinn við Bæjarfell [á að vera Vatnsfell], þar sem Reykjanesviti stendur í dag. Vitavörðurinn hlóð veg frá bústað sínum að vitanum.

Vegurinn var lagður í beinni stefnu frá bænum að turninum en þegar komið var að Valahnúk lá hann í krákustíg að turndyrunum,

Þeir sem þekkja íslenska veturinn vita að erfitt getur verið að fylgja slóðum í versu veðrum, sér í lagi þegar gengið er um hraun og sprungið væði.

Reykjanesviti

Flóraður stígur milli hús vitavarðar að vitanum á Valahnúk.

Veginum var ætlað að auðvelda vitaverðinum að komast í vitann hvenær sem var sólarhrings og í hvaða veðri sem var.“

Eldey

Reykjanesviti

Reykjanesviti – Eldey; skilti.

„Eldey er 77 metra há og þverhnípt gígey úr lagskiptu móbergi um 15 kílómetra frá landi. Eyjan myndaðist í gjóskugosi á Mið-Atlantshafshryggnum, en er mikið rofin og er í dag 0.03 km2. Eldey er jafnframt innsta skerið í skerjaklasa sem nær 95 km frá landi. Eldey var friðuð árið 1940 og síðan lýst friðland árið 1974 samkvæmt náttúruverndarlögum.

Fuglalíf í Eldey
Öldum saman var Eldey mikil matarkista. Þar er að finna bjargfugla í talsverðum mæli svo sem ritu, langvíu og stuttnefju, að ógleymdri súlunni sem stundum er nefnd drottning Atlantshafsins.

Eldey

Eldey.

Er horft er til Eldeyjar sést að hún er ljós í kollinn. Yfirborð eyjarinnar er þéttsetið af súluhreiðrum og milli þeirra er jörðin þakin gráleitu gúanói. Um 16.000 súlupör verpa í eyjunni sem gerir hana að einni stærstu súlubyggð við Atlantshafið.

Súlan er tignarlegur fugl og stærst sjófugla við Ísland. Hún heyrir ættbálki árfeta og hennar nánust ættingjar hér er skarfurinn. Súlan verpir einu eggi í apríl, útungun tekur 44 daga og er undinn í hreiðrinu í um 90 daga. Þeir yfirgefa eyjuna á hausti þegar þeir svífa fram af brúninni og þurfa að sjá um sig sjálfir þan í frá.“

Karlinn

Reykjanesviti

Reykjanesviti – Karlinn; skilti.

„Karlinn (Karl) er um 50-60 metra hár klettur eða forn gígtappi sem stendur tignarlegur í hafinu úti fyrir Valahnúk þar sem sjávaraldan hefur rofið klettinn í áranna rás.

Hann [er] mikilfenglegur og sérstaklega þega aldan skellur á með miklum ofsa. Þjóðsagan segir að tröllkarl og kerling sem bjuggu í Eldey hafi vaðið til lands og haldið á kú að leita til nauts. Tókst ekki betur til en svo að vegna tafa dagaði þau uppi og urðu að steini. Karlinn stendur þarna enn úti í sjó en Kerling, hátt eldvarp, sem stóð sunnar uppi á landi, brotnaði niður fyrir löngu.“

Valbjargargjá – siggengið

Reykjanesviti

Reykjanesviti – Valbjargargjá; skilti.

„Mið-Atlantshafshryggurinn er rekhryggur sem rís úr sæ hér á Reykjanesi. Stórar plötur sem nefnast jarðskorpuflekar skiljast að um rekhrygginn. vegna togkrafta og gliðnunar við plötuskrið myndast opnar gjár og misgengi (siggengi) á Reykjanesskagnum. Hér hefur að líta eitt þeirra, Valbjargargjá. Í gjánni er m.a. að finna frumstæða sundlaug frá 1930.

Við vestari enda gjárinnar rís Valahnúkur sem samsettur er úr móbergstúff[f]lögum, bólstrabergi og bólstrabrotsbergi. Hnúkurinn myndaðist í einu gosi en samsetning han sýnir ólíka virkni gossins á meðan það stóð yfir.

Valahnúkur

Valahnúkar og Valahnúkamöl.

Móbergstúffið myndaðist við sprengivirkni í gosinu en bólstrabergið við hraunrennsli í vatn. Hnúkurinn hefur myndast í sjó við hærri stöðu hans undir lok síðasta jökulskeiðs. Upp að Valahnúk hefur runnið hraun sem nefnist Yngra-Stampahraun og er eitt af hraunum Reykjaneselda sem stóðu yfir frá 1210 til 1240.

Neðan við Valahnúk er að finna Valahnúksmöl, 420 metra langa stórgrýttan sjávarkamb sem liggur þvert á siggengið. Mölin er 80 metra breið og 10 metra há. Flestir hnullungarnir sem mynda kambinn eru 30 til 90 sentimetrar í þvermál. Uppruna grjótsins er ap finna í sjávarklettum milli kambsins og Reykjanestáar. Ströndin hér um slóðir er brimsöm og ber skýr merki um þunga úthafsöldunnar.

Skálafell

Skálafell á Reykjanesi.

Gígurinn sem rís í fjarska nefnist Skálafell og hefur hann gosið a.m.k. fjórum sinnum á nútíma eða á síðustu 10.000 árum. Yngsta hraunið er um 3.000 ára gamalt út toppgígnum sm er eldborg, byggð úr hraunkleprum. Elsta hraunið er yfir 8.000 ára gamalt. Misgengin úr eldstöðinni marka austurjaðar sprungusveimsins á Reykjanesi, þ.e. þyrpingu af samsíða sprungum, en 5-6 km vestar marka siggegnin við Kinn hinn jaðarinn. Þar hefur verið reist táknræn göngubrú yfir eitt misgengið.“

Jarðskorpuflekar

Reykjanesviti

Reykjanesviti – Jarðskorpuflekar; skilti.

„Jarðskorpan skiptist í sjö stóra fleka og rúman tug smærri fleka. Flekarnir hafa móta yfirmorð jarðar frá árdögum hennar. Flekarnir er um 50-200 kílómetra þykkir og fljóta ofan á möttlinum.

Ísland er að hluta til á svokölluðum Norður-Atlantshafsfleka og að hluta til að svokölluðum Evarsíufleka Á Norður-Atlantshafsflekanum er heimsálfan Norður-Ameríka en á Evrasíuflekanum heimsálfurnar Evrópa og Asía. Það má því segja að hér skiljir að austur og vestur.

Brú milli heimsálfa

Brúin milli heimsálfa.

Flekarnir reka í gagnstæða átt, um 2 sentimetra á ári eða 2 metra á 100 árum. Þar sem flekarnir reka í sundur verða til rekbelti. Þessum átakasvæðum fylgja jarðskjálftar, myndun sigdala og fellingafjalla, eldgos og misgengi.

Flekaskil eru flest á botni úthafanna og mynda úthafshryggi, fjallgarða sem eru 2.000-4.000 metra háir og alls um 70.000 kílómetrar á lengd. Einn þessara hryggja, Mið-Atlantshafshryggurinn, rís úr sæ á Reykjanesi. Aðeins hér á Ísandi og í Austur-Afríku má sjá flekaskil á landi.“

Eldstöðvarkerfi

Reykjanesviti

Reykjanesviti – Eldstöðvarkerfi; skilti.

„Gosbeltið á Reykjaneskaga er beint framhald Atlantshafshryggjarins sem gengur hér á land. Á skaganum eru fjögur eldstöðvakerfi og verða eldgos þar í eldgosahrinum á um 1.000 ára fresti. Hver hrina stendur í 200-350 ár.

Vestast eldstöðvakerfið nefnist Reykjaneskerfið. Það ær frá vestanverðu Reykjanesi að Grindavík í suðri og þaðan norðaustur yfir skagann með fram Vogum að Kúagerði. Kerfið er um 35 km langt á landi (40-45 kílómetrar með neðansjávarhluta) og 5-15 km breitt, breiðast í suðri. talið er að kerfið nái 5-10 km til suðvesturs á sjávarbotni.

Reykjanesviti

Reykjanessveimar.

Reykjaneseldar voru síðasta gos í kerfinu og stóðu þeir yfir frá 1210 til 1240. Síðustu gos þar á undan urðu fyrir 1.500-1.800 árum.

Á milli 40 og 50 goseiningar finnast í kerfinu úr nokkrum rek- og goshrinum, auk 14 dyngja og dyngjuhvirfla. Merktar gönguleiðir liggja að Háleyjabungu og Skálafelli. Við fyrrnefndu dyngjuna má m.a. finna píkrit, fágætt frumstætt basaltafbrigði sem líkist þeirri frumbráð sem verður til í möttli jarðar.

Myrkur um miðjan dag
Veturinn 1226-1227 er nefndur í Sturlungu og sumum annálum „sandvetur“ og mikill „fellivetur“. Þá gaus í sjó úti fyrir Reykjanesi og var öskufall svo mikið að sums staðar er sagt hafa verið myrkur um miðjan dag. Fjöldi búfjár á Íslandi féll, ma. á sagnaritarinn Snorri Sturluson að hafa misst hundrað naut sem hann átti í Svignaskarði í Borgarfirði. Í þessu gosi myndaðist Karlinn, 51 metra hár sjódrangur úti fyrir Reykjanesi.“

Reykjanesviti

Reykjanesviti

Reykjanesviti – skilti.

„Reykjanesviti er einn elsti viti landsins sem nú stendur við Íslandsstrendur. Vitill var reistur árið 1907 og tekinn í notkun 20. mars 1908. Vitinn var fyrsta stórframkvæmdin sem ráðist var í eftir að Íslendingar fengu heimastjórn frá Dönum 1. desember 1904.

Vitinn er sívalur turn, 9 metrar í þvermál neðst en 5 metrar efst. Hæð hans er 20 metrar og stendur hann á breiðri 2.2 metra hárri undirstöðu. Ljóshúsið er 4.5 metrar á hæð og er heildarhæð vitans 26.7 metrar. veggirnir eru tvískiptir. Ytra byrði er úr tilhöggnu grjóti en innra byrði út steinsteypu. Þykkt þeirra við sökkul er 3.2 metrar en efst er veggþykktin 1.2 metrar.

Reykjanes

Reykjanesviti á Reykjanesi. Bæjarfell t.v., Vatnsfell t.h. og Valahnúkar framundan. Eldey við sjóndeildarhringinn.

Upphaflegur ljósgjafi vitans var steinolíulampi og var ljós hans magnað með 500 millimetra snúningslinsu. þetta var snúningstæki, knúið ag lóðum sem vitavörðurinn dró upp með reglulegu millibili. Gastæki var sett í vitann árið 1929 og var þá gasþrýstingurinn látinn snúa linsunni. Vitinn var rafvæddur árið 1957.

Vitavörður var búsettur á Reykjanesi frá upphafi vitareksturs árið 1878 fram til ársins 1999. Íbúðarhúsið sem nú stendur við vitann var byggt árið 1947. Vitaverðirnir stunduðu búskap samhliða stari sínu og má víða sjá ummerki um búsetu þeirra m.a. tóftir eldri húsa og hlaðna garða.

Clam

Clam á strandsstað.

Hannes Sigfússon skál var aðstoðarmaður vitavarðar á Reykjanesvita um skeið og skrifaði þar skáldsöguna „Strandið“ sem byggir á mannskæðu strandi olíuflutningaskipsins Clam árið 1950 austan við Valahnúk. Hannes kom þá að björgun skipverja ásamt vitaverðinum Sigurjón Ólafsson.“

Fyrsti ljósavitinn

Reykjanesviti

Reykjanesviti – Fyrsti ljósvitinn; skilti.

„Fyrsti ljósviti á Íslandi var reistur á Valahnúk árið 1878. Hann var tekinn í notkun 1. desember sama ár. Vitinn var áttstrendur, 4.5 metrar í þvermál og 6.2 metrar á hæð. Hann var hlaðinn úr tilhöggnum íslenskum grásteini. Þykkt veggjanna hefur verið um 1 metri. Ljóskerið á vitanum var áttstrent eins og vitinn með kopar-hvelfingu yfir. Neðan ljóskersins voru vistarverur fyrir tvo vitaverði sem gættu ljóssins á meðan logaði á honum, frá 1. ágúst til 15. maí ár hvert. Vitinn eyddi að meðaltali 16 tunnum af olíu á ári.

Reykjanes - valahnúkar

Gamli vitinn á Valahnúk.

Vitinn fór illa í jarðskjálfta 28. október 1887. Þá hrundi mikið úr Valahnúk og allir lampar o speglar í vitanum féllu í gólfið. Næstu nótt var ómögulegt að kveikja á vitanum. Árið 1905 höfðu jarðskjálftar og brim brotið það mikið úr hnúknum að hætta þótti á að vitinn myndi hrynja í sjóinn. Vitavörðurinn var einnig hræddur við að vera á vakt enda ekki nema 10 metrar frá vitanum að brúninni. Þá var ákveðið að reisa nýjan vita á Bæjarfelli [á að vera Vatnsfelli] og stendur hann enn. Gamli vitinn var hins vegar felldur með sprengingu 16. apríl 1908. Grjótið neðan Valahnúks eru leifar gamla vitans.“

Vélarhúsið

Reykjanesviti

Reykjanesviti – Vélarhúsið; skilti.

„Vélarhúsið, (Radíóvitinn) er elsta húsið á svæðinu fyrir utan vitann sjálfan. Húsið var byggt árið 1936 sem radíóviti en hefur gegnt ýmsum hlutverkum einnig, m.a. fyrir ljósavélar og rafhlöður til að tryggja rafmagn fyrir vitann. Þar er enn þá virk ljósavél ef rafmagn fer af svæðinu. Í húsinu var einnig aðstaða fyrir veðurathuganir sem vitaverðir sáu um fyrir Veðurstofuna.

Skipsströnd og mannskæð sjóslys voru forðum óhugnanlega tíð hér við strendur Reykjaness og Íslands í heild. Þúsundir og aftur þúsundir Íslendinga hafa farist á sjó í gegnum aldirnar og sjómenn eiga skilið að þeirra fórna sé minnst. Þessi saga er bæði hrikaleg og erfið að meðtaka. Hér í Vélarhúsinu hefur verið sett upp sýning sem veitir innsýn í sögu sjóslysa og uppbyggingar á vitanum til að auka öryggi sjófarenda.“

-ÓSÁ tók saman.

Reykjanesviti

Reykjanesviti – skilti við upplýsingamiðstöðina.

Fuglavíkursel

Friðþór Eydal leiðsagði hópnum um varnarliðssvæði Keflavíkurflugvallar og nágrennis árið 2004.

Hvalsnesleið

Varða við Hvalsnesleið.

Í maí s.l. (2004) voru liðin 53 ár frá undirritun varnarsamnings Íslands og Bandaríkjanna. Meðmælendur samningsins segja hann eina mikilvægustu ákvörðun íslenskra stjórnvalda á seinni tímum og eina þá heillavænlegustu. En hún átti sér nokkurn aðdraganda.
Alvarleg staða heimsmálanna á seinni hluta síðustu aldar hafði áhrif á íslensk stjórnvöld, m.a. valdataka kommúnista í Tékkóslóvakíu 1948, fyrsta kjarnorkusprenging Sovétríkjanna í september 1949 og upphaf Kóreustríðsins í júni 1950. Árið 1949 gerðist Ísland stofnaðili að Atlantshafsbandalaginu (NATO) og var varnarsamningurinn við Bandaríkin gerður á grundvelli Norður-Atlantshafssamningsins. Honum er ætlað að tryggja varnir Íslands og stuðla að friði og öryggi áþví svæði sem samningurinn tekur til.

Keflavíkurflugvöllur

Keflavíkurflugvöllur – framkvæmdir.

Varnarliðið samanstendur af mörgum aðskildum starfseiningum innan Bandaríkjahers, en þar starfa einnig hermenn og fulltrúar frá Hollandi, Noregi, Danmörku og Kanada. Um 750 Íslendingar starfa fyrir varnaliðið (en þeim fer fækkandi). Varnarliðið rekur ratsjárstöðvar, annast skipa- og kafbátaeftirlit, flugvallarekstur, þyrlubjörgunarflug, fjarskipti og landvarnir.
Það var árið 1941 að Ísland og Bandaríkin gerðu með sér herverndarsamning. Samningurinn batt í raun endi á þáverandi hlutleysisstefnu Íslands. Sama ár komu fjögur þúsund landgönguliðar til landsins.

Winston Churhill

Winston Churchill í Reykjavík.

Winston Churchill, forsætisráðherra Bretlands kom til landsins, en að því tilefni var haldin stærsta hersýning, sem um getur. Árið 1943 var bandaríski heraflinn á Íslandi hvað fjölmennastur, eða um 45.000 manns. Þá voru hér á landi um 50.000 hermenn (einnig frá Bretlandi og Kanada), eða álíka margir og allir fullorðnir karlmenn á Íslandi. Á haustdögum tók að fækka í heraflanum.

Keflavíkurflugvöllur var lagður af bandaríkjaher í heimstyrjöldinni síðari. Skömmu eftir hernám landsins hófu Bretar flug frá Kaldaðarnesi á bökkum Ölfusár og sumarið 1941 hófst flug þeirra frá Reykjavíkurflugvelli, þrátt fyrir að gerð hans væri ekki að fullu lokið. Jafnframt voru sléttaðir lendingarstaðir á nokkrum stöðum er nota mátti í neyð. Einn slíkur neyðarflugvöllur var útbúinn á Garðskaga og voru það fyrstu flugvallarframkvæmdir á Suðurnesjum.

Winston

Winston á Vellinum.

Bandaríska herráðið áætlaði lagningu stórs flugvallar fyrir sprengju- og eftirlitsflugvélar á suðvesturhorni landsins ásamt minni flugvelli fyrir orrustuflugsveit er þar höfðu aðsetur. Beindust augu Bandaríkjamanna strax að Suðurnesjum, enda Bretar þegar með vísi að flugvelli á Garðskaga og svæðið nánast hindrunarlaust til flugs.
Ljóst var að flytja þyrfti mikinn fjölda flugvéla frá Bandaríkjunum til Bretlands til þátttöku í styrjöldinni í Evrópu. Lagning flugvallanna tveggja, Patterson á Njarðvíkurfitjum og Meeks á Háaleiti hófst snemma árs 1942.
WinstonVar Patterson flugvöllur tilbúinn til takmarkaðrar umferðar strax um sumarið er flugvélum 8. flughersins bandaríska var flogið til Bretlands með viðkomu á Grænlandi og Íslandi. Meeks flugvöllur, er við þekkjum nú sem Keflavíkurflugvöll, var tekinn í notkun í apríl 1943 og framkvæmdum við flugvellina lokið þá um haustið.

Patterson flugvöllur þjónaði orrustuflugvélum Bandaríkjamanna sem önnuðust loftvarnir á suðvesturhorni landsins til stríðsloka, en Meeks var áningarstaður í millilandaflugi eins og æ síðan. Einu umsvif Breta á Keflavíkurflugvelli (Meeks) voru starfsemi Liberator flugvéla, sem flogið var til stuðnings skipalestum og aðgerðum gegn þýskum kafbátum. Þessar flugvélar, sem aðsetur höfðu í Reykjavík, voru stórar og þungar til að geta athafnað sig þar fullhlaðnar við allar aðstæður. Lögðu þær því gjarna upp í eftirlitsflug frá Keflavík, þar sem þær höfðu aðsetur í Geck flugskýlinu, en lentu í Reykjavík að ferðinni lokinni þar sem áhafnirnar höfðu aðsetur.

Keflavíkurflugvöllur

Braggar við Pattersonflugvöll.

Rekstri Pattersen flugvallar var hætt að styrjöldinni lokinni sumarið 1945, en fámennt herlið annaðist rekstur Meeks flugvallar til ársins 1947, en bandarískir borgarlegir starfsmenn tóku við rekstrinum samkvæmt Keflavíkursamningnum, sem gerður var milli Íslands og Bandaríkjanna haustið 1946. Nafnið á vellinum kom frá flugmanni, sem hafði farist í flugi frá Reykjavíkurflugvelli. Vél hans flæktist í vírum við brautarendann og skall í Skerjafjörðinn (SJ). Flugvöllurinn hlaut þá nafnið Keflavíkurflugvöllur og varð alþjóðaflugvöllur í eigu Íslendinga.

Keflavíkurflugvöllur

Minnismerki á Keflavíkurflugvallarsvæðinu.

Það var árið 1946 sem íslensk stjórnvöld höfnuðu beiðni Bandaríkjamann um afnot af landi undir herstöðvar til langs tíma. Keflavíkursamningurinn var undirritaður og ákveðið að bandarískt herlið yfirgefi landið, en Bandaríkjamenn hafi áfram tiltekin afnot af Keflavíkurflugvelli. Flugvöllurinn var síðan afhentur Íslendingum. Árið eftir yfirgáfu síðustu bandarísku hermennirnir svæðið.
Árið 1949 gerast Íslendingar stofnaðilar að Atlantshafsbandalaginu. Aðildin veldur innanlandsdeilum og óeirðum við Alþingishúsið.

Keflavíkurflugvöllur

Herstöðin á Miðnesheiði.

Fyrstu hersveitir Bandaríkjahers koma til landsins 7. maí 1951 og setja upp bækistöðvar á Keflavíkurflugvelli. Þær voru undir stjórn hershöfðingja í landhernum, sem laut stjórn Atlantshafsherstjórnar NATO og Atlantshafsherstjórnar Bandaríkjanna. Vallarsvæðið og nágrenni verður meginathafnasvæði varnarliðsins. 1955 var fjarskiptastöðin Broadstreet við Seltjörn flutt til Grindavíkur.

Keflavíkurflugvöllur

Keflavíkurflugvöllur – flugturninn er þar sem Kalka var.

Húsnæði varnarliðsins var mjög takmarkað í fyrstu. Þúsundir hermanna höfðu búið í braggahverfum í námunda við flugvöllinn á styrjaldarárunum, en flestar þessara bráðabirgðabygginga voru rifnar eða gengu úr sér á árunum eftir stríð. Þá þurfti flugvöllurinn, sem upphaflega var með þeim stærstu í heimi, allmikla endurbóta við.
Varnarliðið hefur allnokkrum sinnum komið við sögu björgunarmála. Má þar t.d. nefna Vestmannaeyjagosið 1973 og Goðastrandið 1994. Árið 2001 fékk þyrlubjörgunarsveitin viðurkenningu fyrir björgun um 300 mannslífa frá því að hún kom til landsins árið 1971.

Keflavíkurflugvöllur

Keflavíkuflugvöllur.

Í upphafi fimmta áratugar síðustu aldar var Háaleiti fyrir ofan Keflavík einungis sorfinn jökulruðningur. Efst á honum trjónaði háreist gígopið (þar sem flugstjórnarturninn á Keflavíkurflugvelli stendur nú). Norðan þess stóð Kalka, hvítkölkuð stór varða, áberandi landamerki og kennileiti á Miðnesheiði.
Allnokkrar minjar eru innan varnarsvæðisins. Má t.d. nefna Fuglavíkursel, gömlu Hvalsnesleiðina, Stafnessel, Gamla-Kirkjuvog, tóftir við Djúpavog og á Selhellu, Kaupstaðagötuna, Hansakaupmannaverslunarstaðinn við Þórshöfn og Kirkjuvogssel, auk þess sem svæðið sker í sundur Skipsstíginn, hina gömlu þjóðleið milli Njarðvíkur og Grindavíkur.

Varnarsvæði

Varnarsvæði Keflavíkurflugvallar – fylgir Tilkynningu frá ríkisstjórninni 21. maí 1942.

Mikilvægt er fyrir stolt okkar Íslendinga að endurheimta það svæði, u.þ.b. 50 metra breytt þar sem hitaveitulögnin liggur í gegn, sem fyrst. Bandaríkjamenn ættu að hafa skilning á því að ávallt er mikilvægt að halda þjóðleiðunum opnum, jafnvel á stríðstímum.
Annars hafa minjar innan svæðisins verið ágætlega varðveittar án þess að það hafi beinlínis verið ásetningur þeirra, sem með það höndla.
Þess má geta að lokum, til fróðleiks, að í aðalstjórnstöð NATO á Keflavíkurflugvelli hangir stórt spjald með tveimur myndum undir yfirskriftinni Wanted Dead and Alive; annars vegar er mynd af Bin Laden (dead) og hins vegar (alive) er mynd af hvíthærðri FERLIRsálfkonu. Svo virðist sem hermönnunum sé meira í mun að ná hinni síðarnefndu – alive.

-Upplýsingarnar eru m.a. úr riti um 50 ára afmæli varnarsamningsins 2001 og frá Friðþóri Eydal.

Hvalsnesleið

Hvalsnesleiðin innan varnarsvæðisins að Hvalsnesi.

Hafnir

Sveitarfélögin Keflavík, Njarðvík og Hafnir runnu saman í eitt sveitarfélag og nefnast nú einu nafni Reykjanesbær. Byggð í Keflavík og Njarðvík hefur lengi legið saman og voru bæjarmörk ekki ljós, nema tekið væri eftir landamerkjavörðum eða skiltum við vegarbrúnir, sem gáfu þau til kynna.

Keflavík

Gömlu-Hafnir

Gömlu-Hafnir; varnargarður.

Mikil verslun var stunduð í Keflavík sem gerði hana að stærsta þorpinu á Suðurnesjum. Má rekja verslunarsögu Keflavíkur allt til upphafs 16. aldar og er vitað um þýska kaupmenn þar árið 1518. Undir lok 16. aldar komu Hamborgarkaupmenn til Keflavíkur en þegar Danir settu einokunarverslunina á 1602 féll Keflavík í hendur Kaupmannahafnar. Þessi dönsku áhrif í verslun í bænum héldust svo alveg fram á 20. öld, þó svo að Einokunarverslunin hafi um síðir liðið undir lok.
Þekktasti kaupmaðurinn á árum áður var H. P. Duus og stendur enn hluti af húsum hans, svokölluð Duushús. Þar er nú mjög góður veitingastaður við smábátahöfnina með bergið andstpænis upplýst, þegar dimma tekur á kvöldin. Mikil útgerð og öflug fiskvinnsla var í Keflavík um áraraðir en nú er þjónusta og iðnaður burðarás atvinnulífs staðarins. Keflavík er nú hluti af sameinuðu sveitarfélagi, Reykjanesbæ.

Keflavík

Gamli Keflavíkurbærinn.

Ekki er vitað hvenær byggð hófst í Keflavík en fyrstu vitneskju um að byggð sé þar er að finna í annálum, þar sem segir frá Grími Bergssyni, sem vað þar bráðkvaddur árið 1649, en hann bjó þá í Ytri-Njarðvík. Talið er að verzlun hafi verið í Keflavík frá því um 1500, en árið 1518 er talað um þýzka kaupmenn þar. Hansarkaupmenn settust þar að 1579 og sama ár gaf Danakonungur út fyrsta verzlunarleyfið fyrir staðinn.
Við upphaf einokunarverslunar á Íslandi árið 1602 var kaupmönnum í Kaupmannahöfn afhent Keflavík og mynduðu þeir samlög um verzlunina. Fyrsti togarinn var keyptur til Keflavíkur árið 1944. Hét hann Hafsteinn. Hann var gerður út frá Hafnarfirði, vegna slæmra hafnarskilyrða í Keflavík.

Gamlabúð

„Bryggjuhúsið fékk nýtt hlutverk eftir að nýjir eig. tóku við Duus-eigninni 1920. Þurrkun saltfisks hófst þar (um 1930?) og þá var reikst ketilshús úr steypu sunnan við, hvítt að lit. Húsið var brotið nál. 1969 – 1970. Myndin tekin eftir lagningu Vesturbrautar nálagt 1941. Skífur úr steini á þaki gömlu búðar og bryggjuhúss. Skífur af bryggjuhúsi rafnar af og fleygt niður í fjöruna líkl.1968-1970 þegar ketilhúsið var rifið og þakið járnklætt í fyrsta sinn.“

Fyrsta íshúsið var byggt árið 1897 og fyrsta frystihúsið 1929.

Hröð aukning hefur verið í ferðaþjónustu og eru þar nú hótel í háum gæðaflokki og úrvals veitingastaðir sem og önnur gisting og tjaldsvæði. Keflavík hefur löngum verið nefndur bítlabærinn en þar má segja að sé vagga rokksins og bítlaæðisins hérlendis. Ein fyrsta, og vinsælasta, rokkhljómsveit landsins, Hljómar, var stofnuð í Keflavík og er ávallt kennd við staðinn. Hin árlega Ljósanótt í Reykjanesbæ nýtur sívaxandi vinsælda.
Keflavíkurhreppur var stofnaður 1908 og þann 22. mars 1949 fékk Keflavík kaupstaðaréttindi.

Stjáni blái

Verk Erlings Jónssonar keypt og sett upp í tilefni 40 ára afmælis Keflavíkurkaupstaðar árið 1989.
Það var frú Vigdís Finnbogadóttir forseti Íslands sem afhjúpaði verkið 1. apríl þetta sama ár. Kvæði Arnar Arnarsonar um Stjána bláa varð höfundi listaverksins tilefni til hugleiðinga, sbr. „austur af sól og suður af mána, sýður á keipum himinlind.”

Í Keflavík má m.a. sjá minnismerki um Stjána blá, eftir Erling Jónsson. Við Vatnsnes er samnefnt hús í eigu Byggðasafnsins. Bjarnfríður Sigurðardóttir gaf húseigina til eflingar safns á svæðinu og þar innan dyra er nú nokkuð hefðbundið byggðasafn með margvíslegum gripum. Gamli skólinn hýsir nú Miðstöð símenntunarr á Suðurnesjum. Við bygginguna er listaverkið Laxnesfjöðurin eftir Erling Jónsson. Í skrúðgarðinum er sérstakur skúlptúr er kallast “Hvorki fugl né fiskur”, eftir Erling Jónsson, þar sem greipt eru nöfn þeirra sem hafa hlotið menningarverðlaun Reykjanesbæjar.

Við Hafnargötuna er minnismerki íslenskra sjómanna eftir Ásmund Seinsson. Beint upp af minnismerkinu er Keflavíkurkirkja, vígð árið 1915. Rögnvaldur Ólafsson teiknaði hana. Við enda Hafnargötunnar er Grófin og jafnframt elsti hluti Keflavíkur. Hér má sjá nokkur merkileg hús. Fyrst er að telja hús byggt 1971, sem hlotið hefur nafnið Svarta Pakkhúsið. Það er skýrt í höfuðið á enn eldra húsi, sem var á þessum slóðum og minnir á þá tíð þegar pakkhús og bryggjur kaupmannanna í Keflavík einkenndu víkina auk stakkstæða til saltfiskþurrkunnar.
Leifar síðustu bryggjunnar má enn sjá beint framundan, og heitir sú bryggja Miðbryggja. Næst er svokallað Fischerhús, sem reist var árið 1881, sem verslunar- og íbúðarhús Fischers kaupmanns. Á hluta fyrstu hæðar hefur hópur handverksfólks hreiðrað um sig og rekur þar Galerý Björg.

Keflavík

Keflavík – listaverk.

Handan götunnar er lítið hús sem kallast Gamla búð, sem byggð var árið 1871 af Duus kaupmanni. Þar beint á móti er síðan Duushúsalengjan. Bryggjuhúsið var fyrst reist 1877 af sama manni, Bíósalurinn er byggður við og reistur 1890, en sagnir erum að þat hafi verið bíósýningar þegar um aldamót. Síðan er byggt við þessi hús upp úr 1950 þrjár einingar sem fiskverkunarhús. Búið er að gera upp tvær þeirra og eru þetta nú sýningarsalir.
Ofan við Duushúsin eru tóftir gamla Keflavíkurbæjarins. Jörðin Keflavík var konungseign, en var rýr bújörð og búskapur á jörðinni var alltaf smár. Upphaflega mun jörð þessi eða kot hafa verið í eigu Skálholtsstóls. Við siðaskiptin um 1550 verður hún eign konungsins eins og aðrar jarðir biskupsstóls.

Keflavík

Upplýsingaskilti við gamla Keflavíkurbæinn.

Ekki er vitað hvenær búskapur hefst í Keflavík, en hann er örugglega hafinn á 16. öld því árið 1587 greiðir bóndinn landsskuld sína til Bessastaða. Kvaðir á bóndann áttu að vera mannslán til Bessastaðavaldins, en féll niður, vegna bónar kaupmannsins í Keflavík, fyrir vöktun búðanna. Búskapur á jörðinni leggst niður fyrir 1780. Bæjarhúsin voru jöfnuð út rétt fyrir aldamótin 1900.

Í landi jarðarinnar eru eftirtaldar minjar friðlýstar ákvörðun þjóðminjavarðar árið 1987: Hið gamla bæjarstæði jarðarinnar Keflavík, sem afmarkast af Grófinni að norðan, af Duusgötu og lóð Duusgötu 5 að austan, af Vesturbraut að sunnan og lóðunum Vesturbraut 6 og Grófinni 5 að vestan. Ber eigendum að sjá til þess að ábúanda sé jafnan kunnugt um friðlýsinguna.
Fjölmörgu öðru má geta um Keflavík fyrrum, sem síðar verður lýst á vefnum.

Keflavík

Frá Keflavík fyrrum.

Keflavík byggðist upp við Grófina. Upp frá henni liggja gamlar leiðir til nágrannabyggðalaganna vestan og norðan á Nesinu. Ofan við Grófina er Keflavíkurborgin og Rósasel við Rósaselsvötn.
Sorphirðustöð Reykjanesbæjar heitir Kalka eftir kalkaðri vörðu, sem stóð utan í stórum fallegum eldgíg efst á Háaleiti. Þegar Keflavíkurflugvöllur var lagður var gígurinn flattur út, líkt og svo margt annað á þeim tíma.

Njarðvík

Njarðvík

Frá Innri-Njarðvík.

Njarðvík var fyrrum hluti af Vatnsleysustrandarhreppi en fékk sjálfstæði sem sveitarfélag 1889. 1908 rann Keflavík saman við Njarðvík undir merkjum Keflavíkurhrepps en Njarðvíkingar klufu sig frá á ný 1942 og tóku á ný að starfa sem sjálfstætt sveitarfélag og fékk Njarðvík kaupstaðarréttindi 1. jan 1976.

Njarðvík

Minnismerki um Thorkelli í Innri-Njarðvík.

Sveitarfélögin Njarðvík, Keflavík og Hafnir runnu saman í eitt sveitarfélag og nefnast nú einu nafni Reykjanesbær. Njarðvík var áður skipt í Innri- og Ytri Njarðvík, sem seinna mynduðu eitt sveitarfélag. Byggðin í Njarðvík og Keflavík hefur lengi legið saman og voru bæjarmörk ekki sjáanleg nema tekið væri eftir skiltum við vegarbrúnir, sem gáfu það til kynna. Aðalatvinnuvegur Njarðvíkinga hefur löngum verið sjósókn og fiskvinnsla en iðnaður hefur vaxið mjög sem og þjónusta við Keflavíkurflugvöll, stærsta flugvöll á landinu. Njarðvík er breið vík sem gengur til suðurs úr Stakksfirði. Byggðin í Njarðvík skiptist í Ytri – og Innri-Njarðvík. Ekki er ljóst hvenær sú skipting varð en það var snemma á öldum.

Njarðvíkurkirkja

Innri-Njarðvíkurkirkja.

Talið er að kirkja hafi verið reist í Njarðvík á 11. öld. Eftir það var víkin kölluð Kirkju-Njarðvík.
Fram til 1515 var Njarðvík í bændaeign en eftir það í eigu konungs að minnsta kosti til loka 18. aldar. Sveinbjörn Egilsson rektor bjó í Innri-Njarðvík. Fram til 1889 var Njarðvík hluti Vatnsleysustrandahrepps, en varð þá sjálfstætt sveitarfélag.
Árið 1908 var Njarðvíkurhreppur sameinaður Keflavíkurkauptúni, enda var þar hluti verzlunarlóðar Keflavíkur innan Njarðvíkurhrepps. Njarðvíkurnar fengu þá sjálfkrafa verzlunarréttindi og hreppurinn fékk nafnið Keflavíkurhreppur. Árið 1942 var hreppunum skipt og Njarðvík varð aftur sjálfstætt sveitarfélag. Í Njarðvík er byggðasafn staðarins og þar hefur þurrabúðin Stekkjarkot verið endurbyggð.

Bolafótur

Bolafótur í Njarðvík – bústaður Hallgríms Péturssonar.

Hallgrímur Pétursson, prestur í Hvalsnesi, bjó um tíma á Bolafæti þar sem nú er skipasmíðastöðin. Öllum minjum þar hefur verið spillt. Í Reykjanesbæ er mikil körfuboltaiðkun og lið Njarðvíkinga er talið eitt hið bezta á landinu og keppir nær alltaf um Íslandsmeitaratitilinn, oftast við sveitunga sína frá Keflavík og Grindavík. Ferðaþjónusta er mjög vaxandi og stærsta verzlun á Suðurnesjum er í Njarðvík. Vegalengdin frá Reykjavík er 47 km.

Stekkjarkot

Stekkjarkot.

Stekkjarkot er tilgátuhús, byggt eftir tilsögn konu, sem bjó þar í kringum 1920. En kotið er að stofninum til frá 19. Öld. Þetta er eitt af hinum fjölmörgu smákotum, sjávarbýlum, sem einkenndu byggðina hér áður fyrr. Kotbúar lifðu aðallega á sjósókn sinni, en flestir stunduðu einhvern búskap samhliða þótt eflaust hafi einnig verið svokallaðar þurrabúðir þar sem eingöngu var lifað af því sem sjórinn gaf.
Fitjarnar eru að ganga í gegnum umbreytingu þar sem stefnt er að gera þær aðlaðandi til útivistar og í framtíðinni mun Naust Íslendings rísa á þessum slóðum. En það er stefna bæjaryfirvalda að þessi staður verði fyrsti og síðasti viðkomustaður ferðamanna sem fara um leifsstöð.

Hafnir

Kotvogur

FERLIRsfélagar á ferð í Höfnum.

Hafnir byggðust upp í kringum mikið útræði. Hefur byggðin nafn sitt af tveimur fyrrum stórbýlum, Sandhöfn og Kirkjuhöfn, sem nú eru í eyði. Var fjölmenn byggð í Höfnum og útræði mikið á stórum bátum allt fram til aldamótanna 1900.
Hafnir, Keflavík og Njarðvík runnu saman í eitt sveitarfélag og nefnast nú einu nafni Reykjanesbær. Hafnir eru annað landstærsta sveitarfélagið á Reykjanesi en byggð þar er fámenn nú miðað við það sem áður var. Árið 1881 (26. júní) rak timburskip, Jamestown, upp við við Hvalsnes á milli Hestakletts og Þórshafnar í Ósunum gegnt Kotvogi (sjá nánar). Það var mannlaust og virtist hafa verið lengi á reki, því að reiði og seglbúnaður var horfinn.

Gömlu Hafnir

Gömlu Hafnir.

Fjölmargir húsbyggjendur á Suðvesturlandi nutu góðs af timburfarmi skipsins (sjá Sandgerði) og akkeri skipsins er nú varðveitt framan við fyrrum sæfiskasafn í Höfnum við Nesveg.
Hafnaberg er suður af Höfnum og er þar skemmtileg og vel vörðuð gönguleið en þar eru nokkrir af beztu stöðum til fuglaskoðunar á landinu. Frá Hafnabergi má einnig oft sjá smáhveli í ætisleit rétt við landsteina.

Kirkjuvogshverfið nefnist Hafnir í daglegu tali en þar hafa búið 80-120 manns sl. 2 áratugi. Fyrr á öldum voru Hafnir ein af stærstu verstöðvum landsins en þær eru samheiti fyrir 3 hverfi (lendingar), þ.e. Kalmanstjörn, Merkines og Kirkjuvog. Nú er byggðin öll í gamla Kirkjuvogshverfinu auk íbúðarhúss í Merkinesi og í Junkaragerði.
Á 19. öld var Kotvogur í Höfnum eitt stærsta býli landsins. Þar bjuggu m.a. 3 forríkir útvegsbændur mann fram af manni, þeir hétu allir Ketill og eru oftast nefndir Katlarnir þrír.

Kotvogur

Kotvogur og Kirkjuvogur.

Annað stórbýli var Kirkjuvogur í Höfnum þar sem búið hafa margir höfðingjar. Á 19. öldinni bjó í Kirkjuvogi dannebrogsmaðurinn Wilhjálmur (Christinn) Hákonarson (1812-1871), en þannig er nafn hans stafað á leiði hans í Kirkjuvogskirkjugarði. Vilhjálmur átti 2 dætur. Önnur þeirra hét Anna. Heimiliskennari í Kirkjuvogi var þá ungur menntamaður, Oddur V. Gíslason, og felldu þau Anna hugi saman. Þegar ungi maðurinn bað um hönd dótturinnar brást faðir hennar hinn versti við og þvertók fyrir ráðahaginn. Afleiðingin varð eitt frægasta og æsilegasta brúðarrán Íslandssögunnar. Sættir tókust þó síðar. Oddur varð prestur í Grindavík við mikinn orðstír og var m.a. upphafsmaður að sjóslysavörnum á Íslandi. Af honum er mikil saga sem endar í Bandaríkjunum.

Kirkjuvogskirkja

Kirkjuvogskirkja 1960.

Vilhjálmur Kr. Hákonarson reisti þá kirkju sem nú stendur í Höfnum. Hún er úr timbri og var vígð árið 1861. Vilhjálmur lést 10 árum seinna 59 ára að aldri. Ekkert er eftir af Kirkjuvogsbænum en kirkjan stendur nánast á bæjarhlaðinu enda nefnist hún Kirkjuvogskirkja og sóknin Kirkjuvogssókn. Ketill Ketilsson (1823-1902) dannebrogsmaður og útvegsbóndi í Kotvogi, stundum nefndur Mið-Ketill vegna þess að hann tók við búi af föður sínum og Ketill sonur hans tók svo við búi af honum, hefur ekki viljað vera minni maður en Vilhjálmur í Kirkjuvogi og byggði kirkju úr timbri á Hvalsnesi í Miðneshreppi, en þá jörð átti hann. Kirkjuna lét hann síðar rífa og byggja aðra stærri og íburðarmeiri úr tilhöggnu grjóti. Sú kirkja var vígð 1887 og stendur enn.

Hafnir

Kirkjuvogur 1873.

Sem dæmi um stærð Kotvogs á dögum Mið-Ketils á 19. öld má nefna að þá var bærinn alls 16 hús og mörg þeirra stór, 38 hurðir á lömum og 72 í heimili á vertíðinni. Bærinn í Kotvogi var enn reisulegur og stór um aldamótin 1899/1900. Hinn 3. apríl 1939 brann íbúðarhúsið og fórst þrennt í brunanum. Pakkhús úr timbri var austast og fjærst eldinum og skemmdist því ekki . Því var breytt í íbúðarhús og notað sem slíkt til 1984. Það stendur enn ásamt nokkrum útihúsum en allt er það illa farið og ekki svipur hjá sjón (stendur á kampinum strax vestan við Sæfiskasafnið). Stór grasi vaxinn hóll rétt hjá Kotvogi hægra megin götunnar þegar horft er í vestur nefnist Virkishóll.

Reykjanesbær

Reykjanesbær – kort.

Gamli Hafnahreppur var stærsta sveitarfélagið á Suðurnesjum mælt í ferkílómetrum – víðáttumikil hraunúfin flatneskja og sandflæmi að stórum hluta. Nyrðri hluti landsins er nokkuð gróið hraun en syðri hlutinn eldbrunnið, uppblásið og hrikalegt svæði. Strandlengjan er einn stærsti skipalegstaður landsins, hrikalegir klettar, sker og boðar þar sem þung úthafsaldan myndar oft tilkomumikið og rosalegt brim.

Á sl. 25 árum hefur hraunið ofan við Hafnir tekið stakkaskiptum vegna aukins grasvaxtar sem er árangur landgræðslu sem stunduð hefur verið með flugvélum á Reykjanesskaganum auk þess sem sáð hefur verið í vegkanta af starfsmönnum Vegagerðar ríkisins. Í hrauninu upp af Ósum má enn sjá leifar landgræðslugirðingar sem mun hafa verið lokið við um 1939 en hún skipti Reykjanesskaganum í 2 svæði. Girðingin lá eftir hrauninu og niður í Merkinesvör og hefur verið mikið mannvirki á sínum tíma. Sunnan hennar var sauðfé bannað. Síðar var svæðið stækkað með því að sett var horn á girðinguna uppi í hrauninu og girt norður að Ósum og sá hluti girðingarinnar sem lá fram í sjó að vestanverðu var lagður niður.

Gömlu-Hafnir

Gömlu-Hafnir; fiskbyrgi.

Mikið og fjölbreytt fuglalíf er í hrauninu, m.a. talsvert af rjúpu í góðum árum, talsvert af kjóa og einstaka smyrill. Nokkuð er um æðarfugl við Ósa en æðarvarp er ekki svipur hjá sjón eftir að minnkurinn kom á svæðið. Mikið er um sjófugl og mest byggð í Hafnabergi og Eldey.
Hafnir eru eitt af mestu veðravítum landsins og þar er sjaldan logn. Hvöss austanátt með rigningu getur staðið svo dögum og vikum skiptir, einkum á haustin og eirir engu sökum vindálags. Oft bresta stórviðri á fyrirvaralaust eins og hendi sé veifað. Mest og hættulegust veður nefna Hafnamenn ,,aftakastórveltu af suðvestri“ (í einni slíkri eyðulögðust tún að vestanverðu í Kirkjuvogshverfi og í Merkinesi). Hríðarbyljir og skafrenningur eru algengir að vetri – snjói á annað borð. Og þótt ekki séu nema 9 km frá Höfnum til Njarðvíkna er veðurfar gjörólíkt.
Kirkjuvogskirkja í Höfnum var vígð 1861. Á túninu fyrir aftan kirkjuna hafa nú fyrir skömmu fundist elstu mannvistarleifar bæjarfélagsins. Það er skáli (íbúðarhús). Við aldursgreiningu kom í ljós að skálinn er ekki yngri en frá árinu 900.

Kirkjuvogskirkja

Kirkjuvogskirkja.

Nýr uppbyggður vegur var lagður frá Höfnum út á Reykjanes um miðjan 9. áratug nýliðinnar aldar. Það tekur einungis um 10 mínútur að ganga yfir holtið frá bílastæðinu ofan Laxeldisstöðvarinnar og niður á gamla veginn skammt sunnan Kalmanstjarnartúns. Af gamla veginum þar sjást 5 áberandi stórir grasi vaxnir hólar. Þessir hólar koma við sögu í bókum Sr. Jóns Thorarensens, (Litla skinnið, Rauðskinna, Marína ofl.) en sögusvið þeirra er Hafnir (Jón var ættaður og ólst upp í Kotvogi). Nyrstur og næst Kalmanstjörn er Stekkhóll hægra megin vegarins. Annar stærri hóll er sunnar, einnig hægra megin vegarins. Sá heitir Kirkjuhafnarhóll. Vinstra megin vegarins er lægri hóll og sést garðhleðsla í jöðrum hans að norðan- og austanverðu. Þetta er talinn vera gamall kirkjugarður Kirkjuhafnar og mun hann hafa lagst af um miðja 14. öld. Suðvestan Kirkjuhafnarhóls, nær sjó, eru 2 graxi vaxnir hólar og eru sýnilegar rústir í syðri hólnum. Hólarnir nefnast Sandhafnarhólar. Sandhöfn og Kirkjuhöfn voru fyrr á öldum þekkt stórbýli og helsta útræði í Höfnum. Talið er að býlin hafi farið í eyði á 17. öld.

Kotvogur

Kotvogur.

Til eru heimildir um stærð Kirkjuhafnar sem segja að þar hafi verið miklar byggingar, m.a. 50 hurðir á hjörum, en sá mælikvarði var algengur áður. Umhverfis Sandhafnarhóla, en þar munu hús einnig hafa verið mörg og stór, eru bæði hleðslur og rústir.
Mikill útvegur var frá Höfnum. Fjöldi vermanna kom víðs vegar að af landinu á vetrarvertíð, sem hófst snemma árs á hverju ári um aldir. Verstöðvarnar voru fjölmargar á svæðinu öllu, en þar skipti mestu máli nálægðin við hin gjöfulu fiskimið.
Hafnahreppi er að venju skipt í þrjú svæði; Kirkjuvogshverfið, Merkineshverfið og Kalmannstjarnarhverfið. Sú skiptin markast af gömlu lögbýlunum. Þeim fylgdi síðan fjöldi hjáleiga, sem sumar hverjar áttu stutta lífdaga, en aðrar uxu höfuðbýlinu yfir höfuð, eins og t.d. Kotvogur. Það var talið fullvíst að lögbýlin hafi verið fleiri, enda mörg örnefni sem benda til þess að svo hafi verið. En með Reykjaneseldum á 13. öld eyddist byggðin sunnan Kalmannstjarnar.

Heimildir m.a.:
-www.nat.is
-www.leoemm.com
-Sigrún Ásta Jónsdóttir, Byggðasafni Reykjanesbæjar.

Keflavík

Frá Keflavík fyrrum.

Hafnarétt

Ekki er minnst á Hafnarétt í örnefnalýsingum, en hún er þó augljós á loftmyndum frá árinu 1954, auk þess sem minjar hennar sjás enn vel í dag norðvestan við Réttargötu í Höfnum.

Hafnarétt

Hafnarétt.

Byggð hefur lagst þétt að réttinni, en þess hefur verið gætt að forða henni frá eyðileggingu. Sjórinn er þó smám saman að eta landið undan henni.

Hafnarrétt

Hafnarrétt 2021.

Hvalsneskirkja

Jökull Jakobsson gengur með Sr. Jóni Thorarensen um „Hafnir á Suðurnesjum„. Seinni hluti – útvarpaður 28. apríl 1973.

„…Og við göngum yfir túnið og í átt til sjávar að dálítilli húsaþyrpingu sem stendur fremst á sjávarklöppunum. Og hér eru rústirnar að hinu forna Kotvogi. Það er lítið eftir hér nema rústirnar, Kotvoguren allt ber þess vott að hér hafi verið stórbýli, fallegar hleðslur og grónar þekjur. Stærstu húsin, timburhúsin, sem hér voru, eru þó horfi. Einhverju sinni hefur nú verið búsældarlegra hér, séra Jón?“
„Já, það má nú segja. Ég vil byrja með því að tala um elsta Ketil, sem var hér óðalsbóndi í Kotvogi. Hann var fæddur 1793. Hann var giftur Herdísi Steingrímsdóttur frá Álftanesi. Með hann átti hann son, Ketil og Jón. Seinni kona Ketils hét Anna Jónsdóttir og var hann þriðji maður hennar. Fyrsti maður hennar var Hákon Vilhjálmsson, lögréttumaður. Annar maður hennar var Halldór Gunnarsson, hrepsstjóri og síðasti maður hennar var Ketill elsti. Ketill Jónsson var indæll maður, skemmtilegur maður, glaðsinna, útvegsbóndi eins og þeir voru allir. Hann auðgaðist, ekki síst eftir að hann giftist Önnu. Þá fóru þeir að vinna fyrir hann bæði Vilhjálmur Hákonarson, sem þá var stjúpsonur hans, og Ketill sem hann átti með fyrri konu sinni.

Hvalsneskirkja

Þetta voru báðir miklir menn og ágætir formenn. Hann dó 1869. Sonur, elsti Ketill, hét Ketill Ketilsson. Hann var fæddur 1823. Hann dó 1902. Þessi miðketill var ágætur formaður, mikill söngmaður og t.d. Finnur á Kjörseyri og fleiri nafnkunnir menn sögðu hann hefi haft fallegustu karlmannsrödd sem hann hafði heyrt. Þessi Ketill bjó fyrst á Hvalsnesi og byggði þar timburkirkju. Honum líkaði hún ekki og lét rífa hana. Þá byggði hann steinkirkju þá sem stendur þar enn og mun lengi standa. Hún er tákn um höfðingsskap hans og stórhug. Mér er sagt, ég veit það ekki, að hún hafi kosta 3000 ríksidali. Hann byggði hana að mestu leyti sjálfur. Reikninga hef ég hvergi séð um þessa kirkju.
JamestownÞað er sagt eftir Katli Ketilssyni, eftir að hann hafði byggt Hvalsneskirkju, hefði honum orðið allt til fjár. Hann var nær orðinn öreigi við byggingu kirkjunnar, en eftir það hafi honum orð allt til láns og allt til peninga sem hann snerti. Hann varð ákaflega ríkur maður. Kona hans hét Vilborg Eiríksdóttir frá Litlalandi í Ölfusi. Það er til rómatísk saga er hann fór austur til að ná í hana og biðja hennar. Hann kom að Litlalandi í útsinnings rudda og krapahryðjum og það var stúlka úti á engjum sem var að raka ljá. Hún var í skinnstakk. Það var köld tíð. Hann fór til hennar, heilsaði henni og spurði hvað hún héti. Hún sagðist heita Vilborg. Hann spurði hvort faðir hennar væri heima. Hann fór síðan heim á bæinn. Þar tók Eiríkur á Litlalandi á móti honum vel, bauð honum til stofu og veittar velgjörðir. Þar gengu um beina tvær dætur Eiríks, voru þá búnar að búa sig upp á.

Skinnstakkur

Sagan segir að Ketill hafi spurt Eirík hvort hann ætti ekki fleiri dætur. Þá eyddi Eiríkur því. Ketill bar upp bónorð sitt. Þá vildi gamli maðurinn halda eldri dætur sína fram, en Ketill vildi biðja sér Vilborgu. Hann fékk hennar. Vilborg þessi var lítil kona, fíngerð með hvítt hár, elskuleg. Bestu kökupartar sem ég fékk á æfinni fékk ég frá henni. Ketill gaf henni 200 ríksidali í morgungjöf. Það þótti nú dálaglegur skildingur á þeim tíma. Þá fluttist hann að Kotvogi og byggði upp þennan mikla bæ. Þá rak hér skip. Jamestown, hlaðið úrvalstimbri. Það fór frá Bostin og átti að fara til Liverpool, átti að byggja þar járnbræðslu. en það lenti nú hér í Ósunum í stað þess að fara til Liverpool. Úr því byggði Ketill m.a. bæ sinn hér í Kotvogi, úr úrvals rauðavið, kvistalausum.
Þá voru hér 16 hús, allt í allt. Hér var geysilegur fjöldi af vermönnum. Ketill gerði út á árunum 1870-1880 tvo teinæringa og Þangeinn áttærin. Það voru 19 manns á einum teinræðing og 14 manns á áttæringi. Þetta voru 50 sjómenn alls, fyrir utan heimilsfólk. Þau hjónin eignuðust 6 börn, Ketil, sem var elsti sonur þeirra, fæddur 1860. Hann var bóndi hér í Kotvogi. Hann tók við af föður sínum. Hann giftist föðursystir minni, Hildi Jónsdóttir prests í Stórholti Dalasýslu. Þau ólu mig upp. Ég er fóstursonur þeirra.
Hér var róið á vertíð. heyskapur var aldrei mikill, tvær kýr og á annað hundrað fjár – allt byggðist á sjósókn. Róið var allan ársins hring nema kannski á sumrin. Á haustin var skorið þang, áll og blaðka borið upp á tún og látið rigna og rifjað eins og hey og flutt heim. Skornir voru svona 300 hestar á hverju hausti.
Það var náttúrulega á haustin, þegar ekki var róið, allskonar veiðarfæri gerð; línur og svo netin bætt og lóðarásar og netaásar og steinaásar lagaðir.
HallgrímurSvo var lesið, aðallega Vídalínspostula. Svo var Hallgrímur, Passíusálmar, lesnir á föstunni og á kvöldvökum á vetur þegar ekki var róið var alltaf vanur maður látinn lesa Þjóðsögur Jóns Árnasonar, Njálu, Grettissögu og Eyrbyggju. Kristín Gísladóttir hét kona sem las Guðsorð og gerði það snilldarlega, en það voru alltaf karlmenn sem lásu sögur..
Þegar Ketill, fósturfaðir minn, tók við var þetta ósköp líkt.“
„Þetta virðist hafa verið fremur fast skorðað samfélag hér á tiltölulega þröngum bletti. Var engin stéttarmunur hér áberandi…?“
„Hér voru ríkismenn og hér var fátækt fólk, en það var svo einkennilegt að á þessum árum fór þetta ákaflega saman. Þetta var allt rólegt og gott og ég held að bæði fóstri menn og aðrir menn hafi hjálpað oft. Ef einhver gat leyst úr vandkvæðum þá var það gert. Mér fannst fólkið hér í Höfnum ákaflega gott fólk og friðsælt. Ef eitthvað kom upp þá hjaðnaði það yfirleitt niður fljótt.
Hérna kom Símon Dalaskáld. Það rann upp úr honum kveðskapurinn. Hann sagði t.d. við eina vinnukonuna: „Helst vildi ég nú lúra hjá þér í nótt og fá hlýju frá þér. Ég held að ég yrði miklu betra skáld á eftir.“ Það var ekki látið eftir honum. Vinnukonan varð ókvæða við og vildi ekkert með hann hafa.
HvalsnesSvo var Guðmundur [Gvendur] dúllari. Hann kom og dúllaði. Það var ákaflega einkennlega persóna. Hann kvað m.a. dúllaði þetta lag m.a.: „Margt er skrýtið í náttúrunnar ríki, eins og t.d. með spóann – að hann skuli geta lifað eins og manni sýnist hann nú hafa mjóar fætur“.
„Hvað er þetta dúll? Hvað var að dúlla?“.
Minnsmerki um Stjána bláa„Hann stakk fingrinum upp í vinstri hlustina og hristi hann svo, hristi hendina svona: „dú, dú, dú, dúddúddúúú.“ Hann dúllaði og seldi þetta, ég held að það hafi verið fyrir 5 aura fyrir lagið. Hann ferðaðist og hafði mikla ánægju af þessu.
Og svo var það versti förumaðurinn. Það var Guðmundur kíkir. Það var ekki gott með blessaðan karlinn því það fylgdi fötunum hans svo illur yndi. Hann kom hingað oft, sagði að tekið væri svo vel á móti sér, aumingja karlinn.
Ég man eftir að Stjáni blái kom hingað oft, settist hér í baðstofuna og fór að leika við okkur krakkana. Hann tók með tveimur fingrum annað hvort í kinnina eða hnén og þá æpti ég. „Það er ekki gott með meyjarholdin þegar þau eru svona mjúk“, sagði hann þá. Hann var grínisti og barngóður, en ef hann fékk sér í staupinu þá náttúrulega gat hann verið mjög harðskeyttur. Þá hljóp í hann svokallaður grunnstingull og hann var ekki við alþýðuskap. Ef hann þurfti að slást var hann bæði snarhendur, handviss, fljótur, bæði að gefa högg og tögl. Það var ekki fyrir neinn að eiga við hann því hann var bæði karlmannlega liðugur og handviss.“
Hafnir„Við göngum stéttina hér í Kotvogi og yfirgefum rústirnar, göngum hér yfir vel sprottið túnið. Hér erum við komnir upp á aðalgötun aftur, að litlu húsi. Þú kannt nú skil á þessu, séra Jón?“.
„Þetta eru Hólshús. Hér var einn grásbýlisbóndinn áður. Hann hét Gunnlaugur og konan hans hét Fríður.“
„Við höldum áfram spölkorn til suðurs eftir mjóum stígnum hér á grasi grónu túninu og komum að…“
„…Garðhúsum. Þegar ég var að alast upp hér var bóndi hér Magnús Gunnlaugsson og konan hét Guðný Þórðardóttir. Magnús þessi var lítil maður en þrekinn. Hann var ágætur sjómaður og formaður um langa tíð. Merkilegast fannst mér hvað hann var mikill listamaður við sláttinn. Það var hreinasta listaverk að sjá hann slá. Hann sagði að það væri einkamál og tilfinningamál að brýna ljáinn, fara þyrfti að fara með ljáinn eins og lifandi skepnu. Hann gat dansað ágætlega, en hann var eins og flestir menn hér, sívinnandi.“
Kotvogur„Þá erum við komnir á leiðarenda, við enda byggðarinnar. Hér eru fáeinar rústir og hús í kringum okkur og skulum við biðja Jón að segja okkur deili á þeim.“
„Hér rétt fyrir aftan okkur voru Ragnheiðarstaðir. Þar bjó Guðmundur Salómonsson og kona hans Sigurlaug Þórðardóttir. Hann var ákafalega mikið karlmenni og besti maður sem hægt var að fá í skipsrúm, hafði ákaflega mikla krafta, skyldi alla sjávarhætti. Hann var auk þess merkur maður af öðru, hann vart.d. einn besti skinnklæðasaumari í þátíð, þekkti þetta eins og fingurnar á sér. Hann var meðhjálpari í Kirkjuvogskirkju alla tíð meðan hans naut við. Mér er minnistætt hversu vel hann gat lesið bænina, bæði á undan og eftir messu. Stundum var það eftir jól að krakkar komu til hans í kirkjuna þegar hann var að taka til að hann gaf þeim kertastubbana.“
„Þá höfum við lokið göngunni um Hafnir og ekki annað eftir en að þakka fyrir sig og kveðja séra Jón Thorarensen, sem gengið hefur hér með okkur um götu bernsku sinnar.“
Sjá einnig fyrri hlutann.

Heimild:
-ruv.is – Jökull Jakobsson gengur með Sr. Jóni Thorarensen um Hafnir á Suðurnesjum. Seinni hluti frá 28. apríl 1973.

Jón Thorarnesen

Jón Thorarensen.

Hafnir

Jökull Jakobsson gengur með sr. Jóni Thorarensen um „Hafnir á Suðurnesjum„. Fyrri hluti – útvarpaður 28. apríl 1973. Hér að neðan er viðtalið endurritað að hluta.
Sr. Jón Thorarensen var alinn upp í Höfnum hjá frænku sinni Hildi Thorarensen og Katli Ketilssyni, kallaður mið-Ketillinn. Margar sögur skrifaði Jón um lífið í Höfnum. Má þar nefna bækurnar Útnesjamenn og Litla skinnið. Einnig tók Jón saman þjóðsögur bæði af Suðurnesjunum og af landinu öllu í hefti sem kallað hefur verið Rauðskinna, mörg bindi.

Kotvogur„Við erum komnir suður í Hafnir og ætlum okkur að ganga hér götur með séra Jóni Thorarensen. Séra Jón er ekki fæddur hér. Þú sagðir mér aðþú hefði komið hér fimm ára gamall, séra Jón, og það lætur því nærri að liðin eru 65 ár síðan þú komst hingað fyrst, í Hafnir. Mig langar til að spyrja þig áður en við göngum hér götur í Höfnum; hvernig var fyrsti dagurinn þinn hér?“
„Ég kom hér um sumar með föður mínum og ég man það er ég kom að Kotvogi, sem varð æskuheimili mitt,  að puntstráin náðu mér í mitti. Annað man ég óglöggt.“
Hafnirnar hafa mikið breyst þótt puntstráin séu þau sömu. Hafnir voru mikið sjósóknarpláss. Getur þú lýst fyrir okkur þorpsbragnum eins og hann var á þínum uppvaxtarárum.“
Árabátur„Það var mikil útgerð þá, hér, í þessu plássi og feikilegur fjöldi vermanna kom hingað í vertíðarbyrjun. Sjómennrinir voru úr Dalasýslu, Húnavatnssýslu og Skagafirði, auk þess að sunnan; Rangáringar, Árnesingar og jafnvel austan úr Skaftafellssýslu. Sjósóknin var mikil, mörg stórskip gengu, þau voru nú yfirleitt áttæringar á meðan ég man eftir, en áður voru það teinræingar sem höfðu 19 manna skipshöfn og skipt í 22 staði, en eftir að ég man voru það áttæringar. Þeir voru mjög margir. Sjósóknin var árið um kring, sérstaklega frá 2. febrúar (kyndilmessu) til 11. maí. Nú þá fóru sjómennirnir heim og þá byrjuðu sumarróðarnir frá 11. maí til jónsmessu. Það var kallað vorvertíð. Svo var nú sjálft sumarið. Þá var nú róið dálítið, en ekki mikið, alltaf eitthvað.

Hafnir

En aftur um haustið, á Mikjálsmessu. Þann 29. september þá byrjaði haustvertíðin, sem stóð til Þorláksmessu, 23. desember. Þá var yfirleitt róið á fjögurramanna og aðallega sexmannaförum. Þetta var svona yfirleitt árið um kring. Þegar fiskur gekk inn á grunnið var róið meira en venjulega.
Ég var 9 ára þegar ég fór fyrst á sjó svona fyrir alvöru. Það var 18. maí, bjartur vormorgun. Þá fór ég með formanninum í Kotvogi sem var Bjarni Guðnason. Ég dró 17 ýsur. Fyrsti ýsan sem ég dró var Maríufiskurinn minn, sem ég skar í báðar kinnar krossmark og setti á sérstakan stað því þetta var heilagur fiskur. Þegar ég kom í land sagði formaðurinn mér að fara með fiskinn heim í ýsaVesturbæ. Þar var gömul kona í kör sem hét Ingigerður Ketilsdóttir. Ég labbaði með ýsuna formálalaust inn til hennar, alveg inn að rúmi, og sagði henni að ég væri að koma með Maríufiskinn minn. Hún reis upp í rúminu og lagði hendurnar báðar yfir höfuð mér og bað Guð fyrir mér að ég yrði fengsæll og lánsamur sjómaður og yfirleitt á öllum lífsleiðum mínum. Mér þótti þetta mjög hátíðleg stund.“
„Var þetta gamall siður?“
„Siðurinn var sá fyrrum að gefa alltaf kirkjunni fyrsta fiskinn, sem var Maríufiskur. Þegar var komið að því að ég man eftir var alltaf sú regla höfð að gefa fiskinn elstu konunni í sveitinni.“
Vermenn„Ef við kannski byrjum hér á fyrsta húsinu. Það stendur að vísu ekki lengur, sést einungis móta fyrir rústum þess…“.
„Hér bjó, hér austast í þorpinu, Ólafur Ormsson og kona hans hét Guðrún Ólafsdóttir. Bærinn eða parturinn þeirra var kallaður Hjalli. Þetta var hluti úr kirkjujörðinni. Ólafur þessi fluttist austan úr Skaftafells´sylum að mig minnir og hann var hér um nokkurt skeið í Höfnum. Hann var fyrir þeirri miklu reynslu að hann missti konuna s´na snemma þegar inflúensa gekk hér í Höfnunum. Hann fluttist síðan til Keflavíkur. Hann er forfaðir hinna frægu Ormsbræðra í Reykjavík. Ólafur hafði mikið yndi af bókum og bókmenntum og fylgdist vel með öllu. Hann hafði mikla tilfinningu fyrir góðu og hreinu íslensku máli.
Kotvogur 2Skammt frá Ólafi Ormssyni, á býli hér fram á bakkanum, sjávarbakkanum, bjó Magnús Ketilsson, útvegsbóndi. Hann var frá Vesturbæ hér í hverfinu. Faðir hans var Ketill Magnússon og móðir hans var Sigríður Björnsdóttir. Magnús þessi var kvæntur Guðbjörgu Friðriksdóttur frá Reykjavík, sem lifir enn og er búsett í Keflavík. Magnús þessi var snemma mjög duglegur og kappsamur og hann fór snemmma að stnda sjó og var formaður og formennskan fórst honum mjög vel úr hendi. Hann var fyrsti maður hér í hreppi sem fór að nota vélar í bátana, trillubátana. Hann sótti sjóinn mjög vel og var ákaflega heppinn og fylginn sér við allt sem hann gerði. Hann var glöggur maður og skynsamur. Hann var eiginlega af gömlum höfðingjaættum hér í sveitinni. Ingigerður, amma hans, var sú kona sem hann vék að Maríufiskinn, var dóttir Jóns Ketilssonar og faðir hans var elsti Ketillinn í Kotvogi. Magnús Ketilsson bjó síðast í Keflavík.
Þá kemur næsta býli, sem var nálægt Magnúsi Ketilssyni…“
„Það sést nú ekkert af þessum býlum lengur, þau eru öll horfin…“
„Nei, það var Búðarbakki. Það var sömuleiðis þurrabúð. Þetta voru þurrabúðir, nema Ólafur Ormsson var grasbýlisbóndi. Í Búðarbakka bjó Þorsteinn Árnson. Kona hans hét Gíslína Gísladóttir. Þorsteinn Árnason var gríðarstór maður og mikið karlmenni. Kona hans var í meðallagi Kotvogurhá og lagleg kona. Þau áttu mörg börn og ég kom oft að Búðarbakka. Ég var eiginlega alveg hissa hvað þau umbáru okkur þegar við komum með ærslum og látum. Þorsteinn þessi var formaður og ágætur sjómaður. Hann var hagur á tré og járn og mjög laginn við allt sem hann gerði. Hann var mikið karlmenni og sterkur maður. Ég man eftir því einu sinni að hann átti þurrkaðan labra niður á sjávarbakka. Hann hélt að sjórinn myndi fara yfir fiskstakkinn sinn svo hann stökk til og tók hann í fangið í tveimur ferðum og kom honum öllum á land. Hann gerði þetta allt svo léttilega.
Næst fyrir sunnan Búðarbakka, sem stóð í laut hér í inntúninu, var svo hóll fyrir framan eða sunnan. Þar var Staðarhóll. Þar bjó Magnús Pálsson, Kotvogurhreppsstjóri sveitarinnar.
Kona hans hét Kristín Jópsepsdóttir og var ljósmóðir sveitarinnar. Magnús þessi var mikill merkismaður, dugnaðargarpur og ágætur sjósóknari, snilldarlegur sláttumaður með vinnulagni og þrek. Kristín var hin prúðasta og elskulegasta kona. Þau bjuggu þarna lengi. Magnús ver gefinn fyrir söng. Þau hjónin áttu tvær dætur, önnur búsett í Reykjavík og hin í Keflavík. Ég reri hjá Magnúsi eina haustvertíð. Eitt reri há honum sá frægi maður, Stjáni blái.“
„Mannst þú eftir Stána bláa?“

Minnsmerki um Stjána bláa

„Ég man vel eftir honum. Hann var hár og grannur, klæddur í blá nankinsföt. Mér fannst honum alltaf vera hálfkalt því það var sultardropi í nefi hans. Eitt sinn voru þeir félagar að skemmta sér, höfðu náð í víntár í Keflavík og það var einhver maður með smáskeyting við Stjána. Hann hafði engin orð við það heldur tók manninn og stakk þumalfingur í vinstra munnvikið á honum og tók með puttunum fyrir kjálkabarðið og sneri hann niður…“
„Við höldum áfram röltinu um götuna í Höfnum. Nú eru við á móts við kirkjugarðinn (norðan ef ég þekki áttir rétt). Hér sést aðeins móta fyrir dálitum rústum.“
„Hér stóð stórt stórt timburhús sem hét Norðurhús. Hér bjó Friðrik Gunnlaugsson, útvegsbóndi. Foreldrar hans voru hér í Hólshúsum nokkru sunnar hér í sveitinni. Þeir hétu Gunnlaugur og Fríður. Friðrik var stór maður, hár og grannur, mjög myndarlegur maður. Kona hans hét Sigurveig Ketilsdóttir, myndarkona og ágæt í öllum húsfreyjustörfum. Friðrik gerði út áttæring og var mjög lánsamur og fiskisæll.“
Sexæringur„Við röltum í landsuður, segir séra Jón mér, frá kirkjugarðinum. Við komum að litlu og lágreistu býli, grænmáluðu og stendur stutt frá veginum. Það heitir Garðbær. Hér eru hjólbörur á hvolfi og tvær pútur að kroppa hér.“
„Hér bjó á sínum tíma Ólafur Einarsson, útvegsbóndi, og kona hans Gróa. Mér er það minnistætt að það var alltaf vaninn hjá Gróu að hún gaf mér alltaf rauðan kandísmola. Ólafur Einarsson var ágætur formaður. Hann stundaði sjóinn árið um kring og reri venjulega á sexmannafari. Þessi hjón voru ákaflega samtaka í allri lífsbaráttu. Ólafur var fámáll og fáskiptin, en honum féll aldrei verk úr hendi.“
„Við röltum aftur til baka, áleiðis að kirkjunni. Hér staðnæmust við andspænis kirkjudyrunum. Hér sést móta fyrir grasi grónum rústum.“
Kirkjuvogskirkja„Nú erum við komin að Kirkjuvogi, sem er höfuðbólið og aðaljörð sveitarinnar. Hann skiptist í Austurbæ, Miðbæ, vesturbæ og Kotvog. Hann fóðraði, torfan, 20 kýr þegar mest var. Hér hafa verið höfðingar á fyrri tíð og hér er margs að minnast. Nú eru hér grasi grónar rústir og byggingar horfnar. Hér var frægur maður, Hákon Vilhjálmsson, Hann var fæddur 1751, lögréttumaður og lögsagnari sýslumanna. Hann var hér útvegsbóndi, mikilsháttar maður. Hann giftist 1784 Ingveldi Guðnadóttur, sem var sýslumannsdóttir frá Stafnesi. Hákon komst í sögurnar árið 1809. Jörundur hundadagakonungur tók völdin og gerðist hæstráðandi til sjós og lands. Sumarið 1809 fór Jörundur með lífverði sínum suður til Keflavík að gera upptækar eignir danskra kaupmanna. Hákon frétti af þessu og reið til móts við hátignina.
Erindið var að biðja Jörund um Jörundurleyfi að mega eiga Önnu dóttir Jóns Sighvatssonar hins ríka, dannebrogsmanns, í Njarðvík án þess að skilja við eiginkonu sína. Hann veitti honum leyfið en gaf svo stuttu seinna út leyfsibréf til almúgans á Íslandi sem sagði að þótt hann hafi veitt þessum heiðursmanni þetta leyfi myndi hann ekki veita slíkt leyfi aftur því vafamál væri að breyta þeim hjúskaparböndum sem einu sinni væru vígð fyrir ásýnd Guðs. Hákon flutti Önnu sína heim að Kirkjuvogi. Hér var haldin veisla og sögusagnir segja nú að Ingveldur hafi stjórnað veislunni, kona nr. eitt. Þegar þau giftust var Anna 18 ára en Hákon 58 ára. Með Önnu eignaðist Hákon son sem hét Vilhjálmur Christian Hákonarson. Hann tók hér við búi eftir föður sinn, uppgangsmaður. Hann var ákaflega góður formaður. Hákon dío 1821. Anna lifði hann. Hún giftist síðan 1822 Halldóri Gunnarssyni, grepsstjóra í Höfnum. Loks giftist hún í þriðja skiptið Katli Jónssyni í Kotvogi, 1831. Þá var hún orðin eldri en brúðguminn. Allt bendir til þess að hún hafi bæði verið falleg og mikilfengleg kona.
Vilhjálmur var myndarlegur maður í sjón og að sama skapi ákaflega virtu maður. Hann var góður formaður og sjósóknari. Hann reri á stórskipum, teinæringum, á vetrarvertíð. Það þótti fínt hjá merkismönnum að koma ekki nálægt sjó nema á vetrarvertíðum. Hann komst snemma í góðar álnir, erfði m.a. föður sinn.

Kirkjuvogskirkja

Hann fékk orðu frá Danakonungi fyrir að bjarga sjómönnum og aðra frá Napóleoni Frakkakóngi. Með konu sinni eignaðist hann tvær dætur, Steinunni og Önnu. Hann byggði kirkjuna hér í Kirkjuvogi. Hann lagði til hennar sem svaraði 300 kýrverð.
Þegar ég var að alast hér upp bjó hér bróðir fóstra míns í Kotvogi, Vilhjálmur Christen Ketilsson. Hann skipti jörðinni og þá kom hingað maður, Ingibergur Þorkelson, trésmíðameistari úr Reykjavík. Kona hans hét Sigurdís, indælishjón.
Vilhjálmur Christen Ketilsson var idealisti frekar en búmaður. Hann var ljóðelskur og hafði gaman af söng. Hann var mikill húmanisti og mikill skepnuvinur. Seinasta árið sem ég var í barnaskóla kenndi Vilhjálmur mér. Það var í fyrsta skipið sem ég fékk nasasjón af bókmenntum. Hann var ágætur kennari, hann var stærðfræðingur og kenndi bæði dönsku og ensku….“
Sjá einnig seinni hlutann.
(Áhugavert væri að merkja öll gömlu bæjarstæðin í Höfnum og opinbera þannig sögu byggðalagsins öllu áhugasömu fólki.)

Heimild:
-ruv.is 2. jan. 2010 – Jökull Jakobsson gengur með sr. Jóni Thorarensen um Hafnir á Suðurnesjum. Fyrri hluti. Frá 28. apríl 1973.
Hafnir

Valahnúkur

Í bókinni „Sjómannasaga“ eftir Vilhjálm Þ. Gíslason er m.a. sagt frá gamla Reykjanesvitanum:

Reykjanesvitinn 1878

Eldri Reykjanesvitinn 1878.

„Ein af helstu framfaramálum þessara umbrotaára fyrir aldamótin [1900], voru vita og hafnamál. Alla tíð hafði Íslandsströnd verið dimm og vitalaus, enda hafði einlægt verið reynt að haga millilandasiglingum svo, að þær lentu í langdegi og björtum nóttum.
En vitanlega bar skip oft að landi í skammdegi og myrkri. Fiskimenn á vetrarvertíðum áttu oft harða sókn gegn hættum myrkursins. Þegar siglingar aukast og  skipaferðir með ströndum fram, vex vitanlega þörfin á því að fá ljósmerki og vita. Danska stjórnin tók fyrst þunglega óskum Íslendinga um vita. Undireins og Íslendingar fá sjálfir stjórn fjármála sinna, fara þeir að hugsa um vitabyggingar. Halldór Kr. Friðriksson og Snorri Pálsson hreifa málinu á Alþingi 1874 og Grímur Thomsen ljet þessi mál einnig til sín taka. Fyrsti vitinn var reistur á Reykjanesi, bygður af Rothe, og var fyrst kveikt á honum 1. des. 1878. Vitinn kostaði tæpar 3 þús. krónur, en ljóstækin voru gefin frá Danmörku.
Arnbjörn Ólafsson var fyrsti vitaðvörðurinn og hafði hann kynt sjer vitavörslu í Danmörku. Vitavarðarlaunin voru 900 kr. á ári, en voru brátt hækkuð upp í 1200 kr. Síðan var Jón Gunnlaugsson lengi vitavörður (1884-1902).

Reykjanesviti

Yngri Reykjanesvitinn á Vatnsfelli.

Nýr viti var reistur á Reykjanesi 1907-08. Reykjanesviti var lengi eini viti landsins. Upp úr 1880 er farið að veita 500 til 1000 kr. á ári til þess að koma upp ljósvörðum, en ekki var framkvæmdin meiri en svo, að þessar fjárveitingar voru ekki einægt notaðar. Árið 1884 var reist ljósvarða á Garðskaga. Einstakir útgerðarmenn beittu sjer fyrir framkvæmdum eða reistu vita á sinn kostnað eins og Otto Wathne á Dalatanga. Árið 1897 voru reistir vitar á Garðskaga, í Gróttu og í skuggahverfinu í Reykjavík. Jón Helgason var lengi vitaðvörður á Garðskaga, og síðan Ísak Sigurðsson, en Þorvarður Einarsson í Gróttu.“

Heimild:
-Vilhjálmur Þ. Gíslason, Sjómannasaga, 1945, bls. 476-470.

Reykjanes - viti

Yngri Reykjanesvitinn á Vatnsfelli.

Reykjanesbær- minnismerki; Baldur.

Eftirfarandi upplýsingar lögðust upp í meðfylgjandi handrit eftir leit að minnismerkjum í Reykjanesbæ:

17. júní flaggstöngin

Reykjanesbær

Reykjanesbær- Flaggstöngin; minnismerki.

Á fyrsta ári lýðveldisins var ákveðið að gera myndarlega fánastöng í Skrúðgarði Keflavíkur til minningar um lýðveldistökuna 17. júní 1944.

Séra Eiríkur Brynjólfsson á Útskálum vígði svo stöng á þjóðhátíðardaginn 1945 sem síðan var lengd og settur undir hana hærri fótstallur. Nú er heildarlengd stangarinnar með fótstalli um 17,5 metrar. Hönnuður fótstallsins var Helgi S. Jónsson og Sævar Helgason gerði landvættirnar eftir teikningum Helga. Framan á miðjum stöplinum sem snýr að Suðurgötu eru stafirnir 17. júní 1944 og á þeirri hlið sem snýr inn í garðinn er lágmynd af Jóni Sigurðssyni, gerð af Ríkarði Jónssyni. Á hverju horni eru súlur sem gnæfa upp fyrir stöpulinn og eiga að minna okkur á festu og óbilandi hugrekki þjóðarinnar og einnig tákna þær keflin sem staðurinn Keflavík heitir eftir. Út frá hverjum stöpli rísa svo landvættir Íslands.

Umhverfis stöpulinn er steypt blómaker sem táknar fósturjörðina og þar skal plantað hreinblárri íslenskri fjólu með umgjörð úr hreinhvítum lágum kantblómum; tákn hreinleikans og bláhvíta íslenska fánans í upphafi aldarinnar.

Reykjanesbær

Reykjanesbær – Flaggstöngin; minnismerki.

Á þessa stöng skal þjóðfáninn dreginn að húni 17. júní ár hvert og ekki við önnur tækifæri. Þessi regla hefur þó verið brotin í þrjú skipti, eða þegar forsetar lýðveldisins hafa komið í opinbera heimsókn til Keflavíkur.

Við minnismerkið standa tveir stuðlabergsstöplar. Á sitthvorum þeirra eru koparskildir. Á öðrum þeirra er eftirfarandi yfirskrift: „Til heiðurs þeim sem dregið hafa þjóðhátíðarfánann að hún 17. júni ár hvert“. Undir eru 49 nöfn einstaklinga, auk skátafélagsins Heiðabúa. Á hinum eru nöfn 31 einstaklings undir sömu yfirskrift, það nýjasta frá 2024, nafn Friðriks Georgssonar.

Koparskjöldur með vangamynd Jóns Sigurðssonar er á minnismerkinu vestanverðu.

Minnismerkið er í Skrúðgarðinum í Keflavík – gegnt Ráðhúsinu.

Ankerið við Ægisgötu

Reykjanesbær

Reykjanesbær – Ankerið; minnismerki.

Ankerið er af Brúarfossi og Karvel Ögmundsson flutti það til bæjarins. Það var sett upp við opnun Bátasafns Gríms Karlssonar í Duus Safnahúsum 2002.

Í frétt í Morgunblaðinu frá 6. apríl 2004 segir: Sögulegu ankeri hefur verið komið fyrir á landfyllingunni neðan við Ægisgötu í Keflavík. Ankerið er af Brúarfossi sem Eimskipafélag Íslands lét smíða í Danmörku árið 1927 og átti í 30 ár. Brúarfoss var eitt af farsælustu skipum félagsins fyrr og síðar. Í einni ferðinni fyrir vestan brotnaði önnur flaugin af ankerinu í blágrýtinu í Aðalvík. Karvel Ögmundsson, útgerðarmaður í Njarðvík, keypti síðar ankerið og notaði það sem legufæri í Njarðvíkinni, fyrir bátinn Vöggu GK 204. Karvel lét síðan taka ankerið á land og á síðustu árum hefur það legið við smábátahöfnina í Keflavík eða þar til því var komið fyrir á landfyllingunni. Ankerið er sannarlega þögull minnisvarði liðins tíma.

Minnismerkið er við ströndina neðanvið Duushús.

Askur Yggdrasils – Lífsins tré

Reykjanesbær

Reykjanesbær – Askur Yggdrasils; minnismerki.

Gjöf Iðnaðarmannafélags Suðurnesja til Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja á fimmtíu ára afmæli stofnunarinnar.

Verkið er eftir Erling Jónsson og er gefið til minningar um alla þá iðnaðarmenn sem fallnir eru frá og til að minna á að án iðnaðarmanna er ekki hægt að vera. Verkið var afhjúpað 18. nóvember 2004. Í hugleiðingu Konráðs Lúðvíkssonar, lækningaforstjóra HSS sem hann flutti í tilefni gjafarinnar segir m.a. “Heimstré Erlings Jónssonar tengist stofnun okkar á margan hátt. Hann kaus að skreyta greinar þess með þrastarpari sem bíður eftir að lífið birtist því úr innviðum fimm eggja sem snyrtilega eru lögð í fagurlega tilsniðið hreiður. Talan fimm er tákn þeirra skilningarvita sem dýrmætust eru manninum.“

Hvorki er til að dreifa skildi eða öðrum upplýsingum við minnismerkið.

Minnismerkið er á lóð Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja, Skólavegi 6.

Minning – Valgerður Halldórsdóttir og Kristján Sigurðsson

Reykjanesbær

Reykjanesbær – Valgerður Halldórsdóttir og Kristján Sigurðsson; minnismerki.

Minnismerkið er koparskjöldur á Stuðlabergsstöpli. Á honum stendur: „Til minningar um hjónin Valgerði Halldórsdóttur og Kristján Sigurðssom yfirlækni 1971-1992. 18.11.2004 – Styrktarfélag Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja“.

Minnismerkið er framan við Heilbrigðisstofnun Suðurnesja, skammt frá „Askur Yggdrasils“, minnismerki um alla þá iðnaðarmenn sem fallnir eru frá.

Flug

Reykjanesbær

Reykjanesbær – Flug; minnismerki.

Verk eftir Erling Jónsson sem fyrst var sýnt á Vindhátíð í Reykjavík haustið 2000

Verslunin Ný-ung keypti verkið og setti það upp fyrir framan verslunina að Hafnargötu 12 á Ljósanótt , 1. september 2001. Var það gert í minningu Steinþórs Júlíussonar, fyrrverandi bæjarstjóra. Þegar vindurinn blæs um verkið, hvín í pípunum eins og um lifandi veru sé að ræða.

Minnismerkið er á hringtorgi á mótum Iðavallar og Aðalgötu.

Hrafna-Flóki

Styttan af Hrafna-Flóka var afhent á sérstökum trjáræktardegi sem varnarliðsmenn á Keflavíkurflugvelli héldu hátíðlegan um nokkurra ára skeið í viðleitni til fegrunar umhverfisins

Reykjanesbær

Reykjanesbær – Hrafna-Flóki; minnismerki.

Þann 11. júní 1994 var auk hefðbundinnar gróðursetningar vígður reitur framan við gömlu flugstöðina þar sem um langt árabil stóðu stangir er báru fána Íslands, Bandaríkjanna og Norður-Atlantshafsbandalagsins. Þar var styttan afhjúpuð af forsætisráðherra Íslands, Davíð Oddssyni.

Styttan sem var höggvin úr marmara af bandaríska listamanninum Mark J. Ebbert var gjöf Varnarliðsins til íslensku þjóðarinnar í tilefni hálfrar aldar afmælis lýðveldisins. Listamaðurinn hafði þá dvalið hér á landi í tvö ár með eiginkonu sinni sem var sjóliðsforingi í Varnarliðinu. Sagan segir að listamanninum hafi unnist verkið svo seint að hann var langt frá því að vera búinn að höggva styttuna niður í fyrirhugaða stærð þegar hún þurfti að afhendast. Þess vegna er víkingurinn svo þykkur og pattaralegur. Styttan var flutt að Víkingaheimum árið 2010.

Reykjanesbær

Reykjanesbær – Hrafna-Flóki; minnismerki.

Minnismerkið var upphaflega á Ásbrú við Keflavíkurflugvöll, en hefur nú verið fært og staðsett við Víkingaheima í Njarðvík.

Hvorki fugl né fiskur

Reykjanesbær

Reykjanesbær – minnismerki.

Erlingur Jónsson var fyrstur til að fá útnefninguna Listamaður Keflavíkur og var það árið 1991.

Af því tilefni var ákveðið að reisa listaverk á stöpli í miðbæ Keflavíkur, þar sem ígreipt skyldu nöfn þeirra sem valdir eru listamenn bæjarins á hverju kjörtímabili. Listaverkið var svo sett upp sumarið 1992 í skrúðgarði Keflavíkur. Hugleiðing höfundar að verkinu er: “Þrívíð hugleiðing til heiðurs listafólki Keflavíkur. “Áttvís á tvennar álfustrendur, einbýl, jafnvíg á báðar hendur, situr hún hafsins höfuðmið.” Listafólk Keflavíkur hvorki sitji né standi stjarft í viðjum vanans, heldur leiti sem víðast jákvæðra fanga.”

Annars vegar á minnismerkinu er fimm koparskildir, hver upp af öðrum. Á þeim efsta; „Heiðurslistamenn Keflavíkur“, síðan „1991 – Erlingur Jónsson, myndhöggvari“, „1992 – Gunnar Þórðarson, tónlistarmaður“, „1998 Halla Haraldsdóttir, gler- og myndlistarkona“, og loks „Hilmar Jónsson, rithöfundur“.

Reykjanesbær

Reykjanesbær – minnismerki.

Hinsvegar eru sjö koparskildir undir skildi með áletruninni: „Heiðurslistamenn Reykjanesbæjar“. Neðsti skjöldurinn er frá 2022, tileinkaður „Karen I. Sturlaugsson, tónlistarmanni“.

Á meginlistaverkinu er einnig koparskjöldur með meðfylgjandi áletrun: „Þrívíð hugleiðing til heiðurs listafólki Keflavíkur – Áttvís á tvennar álfustrendur, einbýl, jafnvel á báðar hendur. Situr hún hafsins höfuðmið. – Einar Benediktsson; Sóley“.

Minnismerkið er í Skrúðgarðinum í Keflavík, við Sólvallagötu.

Jamestown ankerið

Í Höfnum varð uppi fótur og fit þegar það spurðist út í þorpinu að morgni 26. júní 1881 að risastórt seglskip væri að stranda við Hvalsnes, á milli Hestakletts og Þórshafnar í Ósunum gegnt Kotvogi. Þeir sem fyrstir komu á vettvang sáu að skipið var mannlaust og töldu ljóst að það hefði verið lengi á reki því allur seglbúnaður þess og reiði var horfinn. Þetta reyndist vera timburflutningaskipið Jamestown, gríðarstórt bandarískt seglskip (líklega um 4.000 tonn á núverandi mælikvarða), sem rekið hafði mannlaust um hafið í 4 mánuði áður en það strandaði.

Reykjanesbær

Reykjanesbær – Ankeri Jamestown; minnismerki.

Skipið brotnaði í spón á fáum dögum en það tókst að bjarga stórum hluta farmsins, um 100 þúsund plönkum, skv. sumum heimildum, af góðum borðviði sem nýttist til húsbygginga á Suðurnesjum og víðar. Ankerið var híft á land fyrir tilstilli Jóns Borgarssonar og fleiri íbúa Hafna árið 1989. Annað samsvarandi ankeri stendur á þurru landi í Sandgerði og tvö minni ankeri og keðja í Vestmannaeyjum.

Á skilti við ankerið stendur: „Ankerið er úr seglskipinu Jamestown sem rak mannlaust upp í fjöru við Hvalvíkk fyrir utan Hafnir 26. júní árið 1881. Talið er að skipið hafi verið á reki í fjóra mánuði mannlaust á Norður-Atlantshafi. Snemma árs 1881 kom eimskipið Ethiopia að Jamestown á reki illa leikið og bjargaði 27 manna uppgefinni áhöfn þess. Jamestown var 1889 tonn, 207 feta langt, 40,7 fet á breidd, 28,7 fet á dýpt og með þrjú þilför, smíðað 1879 í Richmond USA.
Jón Borgarson í Höfnum og vinir björguðu ankerinu á land 19.08.1989. Jamestown var eitt stærsta seglskip sem sigldi um heimshöfin á þessum tíma.
Að Jóni Borgarssyni látnum á Reykjanesbær ankerið“.

Reykjanesbær

Reykjanesbær – Jamestown; minnismerki.

Ankerið, minnismerkið um Jamestown, er norðan við Kirkjuvogskirkju, utan garðs.

Keflavíkurmerkið

Reykjanesbær

Reykjanesbær – Keflavíkurmerkið; minnismerki.

Bæjarstjórn Keflavíkur ákvað 12. maí 1966 að taka upp byggðarmerki fyrir Keflavíkurkaupstað.

Helgi S. Jónsson teiknaði merkið og hugsaði táknmál merkisins á þessa leið: “Blái liturinn er tákn himins og hafs. Súlurnar þrjár eru keflin sem Keflavík heitir eftir og þær eru líka þær þrjár meginstoðir sem bera Keflavík uppi; land, loft og sjór. Bárurnar eru tákn úthafsöldunnar sem berst að landi. Fuglinn er tákn hinna hvítu máva en einnig flugsins og ferðarinnar inn í framtíðina.” Fljótlega gerði Helgi S. tillögu að standmynd merkisins og árið 1976 vann Erlingur Jónsson standmyndina sem stóð fyrir framan bæjarskrifstofur Keflavíkur frá 1976 til 1991. Þá stóð það við Ráðhús Reykjanesbæjar að Tjarnargötu 12 til ársins 2002 þar til það var flutt á Ósnef og afhjúpað á nýjum stað á Ljósanótt.

Minnismerkið er við Ósnef (á Strandleiðinni), skammt vestan Duushúsa.

Laxnessfjöðrin

Reykjanesbær

Reykjanesbær – Laxnesfjöðrin; minnismerki.

Áhugahópur um listasafn Erlings Jónssonar undir forystu Birgis Guðnasonar, gaf Bókasafninu verkið á árið 2002.

LAXNESS-FJÖÐRIN, listaverk Erlings Jónssonar, var afhjúpuð við hátíðlega athöfn í Keflavík á Ljósanótt í Reykjanesbæ. Listaverkið er gjöf til Bókasafns Reykjanesbæjar frá stuðningshópi að listasafni Erlings Jónssonar. Viðstaddir afhjúpunina var m.a. Auður Laxnes.

Í ávarpi sínu við afhjúpunina líkti Erlingur Nóbelsskáldinu við örn og sagði: „Þannig var Halldór Laxness eins og haförn sem hafði íslenska þjóð undir áhrifavaldi sínu í sínum bókmenntum og dró ævinlega arnsúg á fluginu.”

Þegar ætlunin var að skoða minnismerkið stóðu yfir miklar framkvæmdir umleikis Skólaveg 1. Það hafði því verið fjarlægt um stundarsakir.

Minnismerkið hefur verið, og mun væntanlega verða, á lóð gamla barnaskólans við Skólaveg 1.

Merki Njarðvíkurkaupstaðar

Reykjanesbær

Reykjanesbær – Merki Njarðvíkur; minnismerki.

Verk Áka Gränz.

Afhjúpað 1992 á 50 ára afmæli Njarðvíkurkaupstaðar til að minnast endurreisnar Njarðvíkurhrepps og fyrstu hreppsnefndarinnar. Merkið sýnir stílfærðar línur sem höfða til víkinga og sjávarguðsins Njarðar. Í merkinu er höfuð sem vísar til fortíðar með tvo ölduborða sem kórónu, tákn tvískiptrar byggðar, Ytri- og innri Njarðvíkur. Yfir segli er þotumynd sem minnir á nútímann og lögun Reykjaness. Skrifstofur Njarðvíkur voru staðsettar á þessum stað fyrir sameiningu Keflavíkur, Njarðvíkur og Hafna árið 1994.

Minnismerkið er á augljósum stað á Fitjum.

Minningarsteinn um Sveinbjörn Egilsson

27. febrúar 1991 var minnisvarði um Sveinbjörn Egilsson afhjúpaður austan við Innri-Njarðvíkurkirkju.

Reykjanesbær

Reykjanesbær – Sveinbjörn Egilsson; minnismerki.

Þá voru liðin 200 ár frá fæðingu þessa merkismanns sem var fyrsti rektor við Lærða skólann í Reykjavík en hafði áður verið kennari um árabil við Bessastaðaskóla. Sveinbjörn var mikill fræðimaður og þýddi mörg af helstu bókmenntaverkum heims yfir á íslensku, s.s. Hómerskviður og Biblíuþýðingar hans þóttu frábærar. Hann orti líka talsvert og frægastur er eflaust sálmurinn Heims um ból. Sveinbjörn var fæddur á stórbýlinu Innri-Njarðvík árið 1791 og lést 1852. Minnisvarðinn er eftir Áka Gränz og var reistur að tilhlutan bæjarstjórnar Njarðvíkur.

Minnismerkið austan við Innri-Njarðvíkurkirkju, utan garðs.

Minnismerki um Krossinn

Krossinn í Ytri-Njarðvík var samkomuhús allra Suðurnesjamanna um tveggja áratuga skeið.

Reykjanesbær

Reykjanesbær – Krossinn; minnismerki.

Hann var upphaflega byggður sem hersjúkrahús og mun nafn hans af því dregið. Magnús í Höskuldarkoti gekk frá kaupum á byggingunni 1942. Kvenfélagið og Ungmennafélagið í Njarðvík ráku síðan bygginguna uns Stapinn var tekinn í notkun [Stapinn var vígður 23. október 1965]. Ýmis félög höfðu afnot af henni, þ.á.m. skátahreyfingin og æskulýðsráð. Sigtryggur Árnason, yfirlögregluþjónn, annaðist niðurrif Krossins 1979. Hann mundi eftir 18 dansleikjum einn vetrarmánuðinn og ávallt húsfyllir, um 400 manns.

Reykjanesbær

Reykjanesbær – Krossinn; minnismerki.

Minnismerkið er grágrýtisbjarg. Á því er koparskjöldur. Á honum stendur: „Hér stóð Krossinn, samkomuhús Njarðvíkinga 1947-1965“.

Minnismerkið er fast við Krossmóa. Sunnan þess standa yfir nýbyggingaframkvæmdir.

Minnismerki sjómanna

Reykjanesbær

Reykjanesbær – Minnismerki sjómanna; minnismerki.

Minnismerki sjómanna eftir Ásmund Sveinsson var afhjúpað á sjómannadaginn 4. júní 1978 í holtinu fyrir ofan Holtaskóla.

Sumarið 2000 var það flutt niður að sjónum, neðarlega við Hafnargötu. Í upphafi var það reist að frumkvæði Verkalýðs- og sjómannafélags Keflavíkur. Ásmundur gerði verkið 1973 og hjá Listasafni Reykjavíkur er það skráð undir heitinu Sjómannaminnismerki. Í bókinni um Ásmund (útg. 1999) eftir Matthías Johannessen segir á bls. 45: “Ásmundur klappaði lítilli gipsstyttu í safninu: Hérna er akkerið og þetta er björgunarhringurinn, sagði hann. Þeir vilja fá þetta til Keflavíkur. Það á að minna á sjómennina. Ég kalla það Fast þeir sóttu sjóinn og sækja hann enn, því ég var alltaf að raula það fyrir munni mér, meðan ég var að hugsa um styttuna.”

Reykjanesbær

Reykjanesbær – Minnismerki sjómanna; minnismerki.

Minnismerkið er á móts við Hafnargötu 6.

Minnisvarði horfinna

Reykjanesbær

Reykjanesbær – Minnisvarði horfinna; minnismerki.

Sóknarnefnd Keflavíkurkirkju lét reisa minnisvarðann og var hann vígður á sjómannadaginn 5. júní 1994.

Minnisvarðinn er gerður úr þremur stuðlabergssúlum og á honum stendur: „Allt megna ég fyrir hjálp hans, sem mig styrkan gjörir.“ Minnisvarðinn var unninn í Steinsmiðju S. Helgasonar hf.

Um er að ræða þrjá stuðlabergsstanda. Sá í miðið og þeirra hæstur inniheldur ofangreind minningarorð. Til beggja hliða er lægri standar. Á hvorum þeirra eru sex skildir með nöfnum horfinna sjómanna.

Minnisvarðinn er vestast í Keflavíkurkirkjugarði.

Minnisvarði um drukknaða skipsáhöfn

Aðstandendur reistu steininn til minningar um 4 unga skipverja sem fórust í lendingu við Stokkavör 6. apríl 1930

Reykjanesbær

Reykjanesbær – Minnisvarði um drukknaða skipsáhöfn; minnismerki.

Í tímaritinu Ægi 1930, 23. Árg, 4. tbl bls. 91 birtist eftirfarandi grein um atburðinn: Slys í Keflavík. 4 menn drukkna. Vélbáturinn Baldur réri úr Keflavík á laugardaginn 4. þ. m. og kom aftur daginn eftir. Þegar búið var að koma aflanum í land, fóru skipverjar með bátinn út á höfn til þess að leggja honum þar. Síðan fóru þeir allir 5 í land á stóru fjögra manna fari. En þá bar út af réttri leið, og lentu á flúð fyrir vestan bryggjuna og hvolfdi bátnum og brotnaði nokkuð. Drukknuðu 4 skipverjar en sá fimmti bjargaðist. Hékk hann á bátnum, en var þó búinn að sleppa honum, enda meðvitundarlaus, þegar hann náðist; það var vaðið út eftir honum.

Bátur var strax settur fram, en það kom að engu haldi. Þetta skeði um kl. 7 og var ekki orðið dimt. Þeir sem drukknuðu hétu: Guðjón Sigurðsson úr Keflavík, ógiftur, 23—24 ára.

Reykjanesbær

Reykjanesbær – Minnisvarði um drukknaða skipsáhöfn; minnismerki.

Stefán Jóhannesson úr Keflavík, milli þrítugs og fertugs (giftur Þórdísi Torfadóttur, þau eiga 2 eða 3 börn). Júlíus Hannesson, 18 eða 19 ára, á foreldra í Reykjavik, og Skafti Guðmundsson af Seyðisfirði, ógiftur, um þrítugt.

Þrír af þessum mönnum kunnu að synda. — Öll líkin hafa fundist. Fanst eitt um nóttina kl. 4, en tvö kl. 10 morguninn eftir. Sá skipverja, sem bjargaðist, var Arinbjörn Þorvarðarson formaður bátsins, maður á fertugsaldri (sonur Þorv. Þorvarðarsonar í Keflavík). Vélbáturinn Baldur er eitthvað innan við 12 smál. Þeir eiga hann Arinbjörn form., Valdimar Kristmundsson, Keflavík, og Ólafur Ásbjörnsson kaupmaður í Reykjavík.

Minnisvarðin er skammt frá suðurgafli Duus Safnahúsa.

Til minningar um drukknaða

Reykjanesbær

Reykjanesbær – Til minningar um drukknaða; minnismerki.

Í kirkjugarðinum í Innri-Njarðvík er fallegt minnismerki um drukknaða sjómenn. Um er að ræða áletrun á grágrýtisbjargi með ártalinu 1990. Austan við minnisvarðan eru nokkrir minni steinar í röð með áletruðum nöfnum sem minnst hefur verið.

Minnismerkið er norðan við Innri-Njarðvíkurkirkju.

Hólmfastur Guðmundsson

Suðvestan við Innri-Njarðvíkurkirkju, utan garðs er stuðlabergsstöpull með koparskildi. Á honum stendur: „Minning – Hólmfastur Guðmundsson Hólmfastskoti, fæddur 1647 – dæmdur 1698.

Reykjanesbær

Reykjanesbær – Hólmfastur; minnismerki.

Hólmfastur var dæmdur á Einokunartímabilinu fyrir það að selja í keflavík þrjár löngur, tíu ýsur og tvö sundmagabönd, sem Hafnarfjarðarkaupmaður, Knútur Storm, hafði ekki viljað veita viðtöku.
Hann var dæmdur í átta marka sekt, en hlíft við þrælkun fyrir bænastað dómsmanna.
Þegar í ljós kom að hann átti ekkert upp í sektina, nema gamalt og ónýtt bátskriflim var refsingunni breytt í sextán vandarhögg.
Var Hólmfastur færðru í tóft eina og hendur hans bundnar við tré, er lagt hafði verið um þvera tóftina, og hann síðan hýddur í viðurvist Knúts kaupmanns og Mullers amtmanns.
Þjóðinni ofbauð þessi málsmeðferð, en í kjölfarið var einokunni aflétt.“

Á stöplinum er merki Lionshreyfingarinnar.

Minnismerki um Helga S.

Reykjanesbær

Reykjanesbær – Helgi S.; minnismerki.

Merkið var reist af Keflavíkurbæ og nokkrum félagasamtökum og afhjúpað 21. ágúst 1985.

Lágmynd af Helga S, eins af stofnendum félagsins og foringja þess í yfir 30 ár, framan á vörðunni er eftir Erling Jónsson en hönnun vörðunnar og umhverfisins var í höndum garðyrkjumannanna Guðleifs Sigurjónssonar og Einars Þorgeirssonar. Grunnflötur verksins er helluhraun af Reykjanesi. Í það er lögð áttavitarós en innan rósarinnar rís lágur hraunhóll sem varðan stendur á. Merkið á að undirstrika einkunnarorð skátafélagsins Heiðabúa; “Heiðabúar, vísið veginn, vörðum hlaðið eyðisand.”

Minnismerkið er við Skátahús Skátafélagsins Heiðabúa, Hringbraut 101.

Jón Þorkelsson

Reykjanesbær

Reykjanesbær – Jón Þorkelsson; minnismerki.

Eitt af stærstu verkum Ríkarðs Jónssonar, afhjúpað í maí árið 1965.

Sýnir skólamanninn Jón Þorkelsson sitjandi með tvö börn. Jón Thorkillius fæddist í Innri-Njarðvík 1697 og dó í Kaupmannahöfn 1759. Hann var mikill lærdómsmaður og barðist fyrir endurbótum í fræðslumálum á Íslandi. Hann arfleiddi fátæk skólabörn í átthögum sínum, Kjalarnesþingi, að öllum eigum sínum. Stofnaður var sjóður, Thorkellisjóður og m.a. var fyrsti barnaskóli landsins starfræktur fyrir fé úr þessum sjóði.

Minnismerkið er suðvestan við Innri-Njarðvíkurkirkju, utan garðs.

Skjaldarbruninn

Reykjanesbær

Reykjanesbær – Skjaldarbruninn; minnismerki.

Aðstandendur fórnarlamba brunans 30. desember 1935 létu reisa steininn (í bæklingi er missagt 30. apríl) Afhjúpaður 24. nóvember 1991

Í sögu Keflavíkur 1920 – 1949 segir svo frá að um árlega jólatrésskemmtun ungmennafélagsins hafi verið að ræða í samkomuhúsi þess. Hátt jólatré stóð á miðju gólfi og loguðu vaxkerti á greinum þess. Á skemmtuninni voru um 200 manns, mestan part börn. Skyndilega varð eldur laus við jólatréð sem varð alelda á augabragði og húsið stóð í björtu báli á skammri stundu. Eldsvoðinn kostaði 10 mannslíf, þrátt fyrir hetjulega framgöngu ýmissa björgunarmanna. Sex fórust í brunanum sjálfum, fjögur börn og tvær konur. Þrír dóu af sáum daginn eftir og sá fjórði nokkrum vikum síðar. Þá lá fjöldi fólks á sjúkrastofum vegna brunasára og annarra meiðsla. Eftir harmleikinn mátti kalla að Keflavíkurkauptún væri lamað um hríð og áfallið snerti raunar við landsmönnum öllum. Árið 2010 gaf Dagný Gísladóttir út bókina Bruninn í Skildi árið 2010 þar sem m.a. má finna viðtöl við fólk sem upplifði þennan hörmungaratburð.

Minnismerkið er á auðu svæði austan Kirkjuvegar, skammt suðaustan Keflavikurkirkju.

Minnisvarði um Þjóðhátið 1874

Reykjanesbær

Reykjanesbær – Þjóðhátiðin 1874; minnismerki.

Árið 1874 var þjóðhátíð haldin á Þingvöllum til að fagna 1000 ára afmælis Íslandsbyggðar.

Þjóðhátíðarinnar var minnst á Suðurnesjum eins og víðast annars staðar á landinu. Í tilefni þessa var reistur minnisvarði við kirkjuna í Innri-Njarðvík árið 1974, en á þeim stað héldu fjórir innstu hreppar Gullbringusýslu þjóðhátíð sína dagana 15.-16. ágúst 1874. Áki Gränz og Ingvar Jóhannsson sáu um framkvæmdina að tilhlutan Byggðasafnsnefndar og hreppsnefndar Njarðvíkur.

Minnismerkið er að baki kirkjunnar í Innri-Njarðvík, utan garðs.

Paradís

Reykjanesbær

Reykjanesbær – Paradís; minnismerki.

Minningarreitur um látna Lionsfélaga.

Á grágrýtisbjargi er skjöldur. Þar kemur fram að árið 1984 hafi Loinsfélagar í Njarðvík að gróðursetja tré í Paradís. Um er að ræða skjólsælan stað undir hjöllunum.

Steinninn er vestan Njarðabrautar, skammt norðan enda Fitjaáss.

Nónvarða

Norðan og austan innst við götuna Nónvörðu.

Rótarýklúbbur Keflavíkur endurreisti vörðu þessa á holtinu ofan við götuna Nónvörðu árið 1973.

Reykjanesbær

Reykjanesbær – Nónvarða; minnismerki.

Holtið gekk ætíð undir nafninu Nónvarða og mundu menn vörðu er áður hafði staðið þarna. Varða sú var eyktamark frá Keflavíkurbæ og sýndi eyktamarkið nón, þ.e. um kl. 15:00. Eyktamark er fastur punktur í landslagi sem var til forna notaður sem viðmið við sólargang til að vita hvað tímanum líður. Til dæmis átti það við um fjallatoppa, hóla eða hæðir eða jafnvel hlaðnar vörður, sem sólina bar í séð frá ákveðnum bæ, á tilteknum tíma. Algengt var að slíkir staðir hétu eftir eyktamörkunum, svo sem eins og Nónvarða, Hádegishnúkur eða eitthvað slíkt.

Ólafur Thors

Reykjanesbær

Reykjanesbær – Ólafur Thors; minnismerki.

Fokkan, túnbali milli Hringbrautar og Brekkubrautar.

Fyrsta höggmyndin sem sett var upp í Keflavík.

Fyrsta höggmyndin sem sett var upp í Keflavík var af Ólafi Thors fyrrum þingmanni Sjálfstæðisflokksins og var hún afhjúpuð af ekkju hans Ingibjörgu Thors 12. október 1976. Áki Gränz hannaði listaverkið og undirstöðu þess að frumkvæði Sjálfstæðismanna á Suðurnesjum.

Á fótstalli styttunnar er skjöldur: „Ólafur Thors, 19.01.1892-31.12.1964. Forsætisráðherra. Formaður Sjálfstæðisflokksins. Alþingismaður Gullbringu- og Kjósarsýslu og Reykjaneskjördæmis 1926-1964“.

Undir kopaplötunni á framhliðinni er skjöldur. Á honum stendur: „Eftirfarandi aðilar stóðu að fegrun svæðis og lýsingu á styttu Ólafs Thors í október 2001; Sjálfstæðisfélögin í Reykjanesbæ, Sparisjórðurinn í Keflavík, Hitaveita Suðurnesja, ÍAV hf, Saltver, nesprýði, Áki Gränz og niðjar Ólafs Thors“.

Sólúrið

Reykjanesbær

Reykjanesbær – Sólarúrið; minnismerki.

Framan við Myllubakkaskóla við Sólvallagötu.

Sólúrið á lóð Myllubakkaskóla var afhjúpað 29. maí 2004.

Það var gjöf nemenda Barnaskóla Keflavíkur sem fæddir eru árið 1950, í tilefni af fjörutíu ára fermingarafmæli hópsins. Sólúrið er minnisvarði og tákn um sameiginlegt ferðalag nemendanna í gegnum skólann og tileinkað minningu Vilhjálms Ketilssonar, fyrrverandi skólastjóra Myllubakkaskóla, sem lést árið 2003 og annarra úr fermingarhópnum sem fallnir eru frá.

Reykjanesbær

Reykjanesbær – Sólarúrið; minnismerki.

Innan í sólúrinu er steyptur „hornsteinn” og í honum er geymdur undirskriftarlisti með nöfnum og hinstu kveðju allra nemenda, kennara og starfsfólks Myllubakkaskóla til Vilhjálms. Sólúrið er á skemmtilegan hátt táknrænt fyrir sköpunarkraft mannsandans og er hugsað sem hvatning nemendum til dáða í náttúruvísindum jafnframt því að vera til gleði og yndisauka. Þegar sólúr mælir hreyfingar sólar frá austri til vesturs vísar það á stundir dagsins með því að varpa skugga af priki á skífuna. Talið er að Babýloníumenn hafi fundið upp sólúrið a.m.k. 2000 árum fyrir Krist. Sólúr eiga sér um 4000 ára sögu en þetta sólúr er hannað og framleitt af hátækni nútímans. Sólúrið er þannig útbúið að sá sem ætlar að nota það til að sjá hvað tímanum líður verður að stíga á mánuðinn og sjá skugga sinn falla á klukkuna.

Vinabæjarsamskipti Norðurlandanna

Reykjanesbær

Reykjanesbær – Vinabæjarsamskipti; minnismerki.

Skrúðgarðurinn í Njarðvík, skammt vestan Ytri-Njarðvíkurkirkju.

Settur upp 18. júní 1998.

Settur upp til að minna á vinabæjarsamskipti Norðurlandanna.

Stjáni blái

Verk Erlings Jónssonar keypt og sett upp í tilefni 40 ára afmælis Keflavíkurkaupstaðar árið 1989.

Reykjanesbær

Reykjanesbær – Stjáni blái; minnismerki.

Það var frú Vigdís Finnbogadóttir forseti Íslands sem afhjúpaði verkið 1. apríl þetta sama ár. Kvæði Arnar Arnarsonar um Stjána bláa varð höfundi listaverksins tilefni til hugleiðinga, sbr. „austur af sól og suður af mána, sýður á keipum himinlind.”

Á koparskildi áföstum minnismerkinu má lesa: „Stjáni blái. Myndskreyting við kvæði Arnar Arnarssonar þar sem fjallað er um siglingu Stjána blá frá Hafnarfirði heim tl Keflavíkur og er um leið tákn íslenskra sjómanna.
Reist 1. sunnudag í júni 1988, en þá voru 50 ár liðin frá því að sjómannadagurinn var fyrst haldinn hátíðlegur hér á landi.
Að verkinu stóðu; Keflavíkurbær, Verkalýðs- og sjómannafélag Keflavíkur, Útvegsmannafélag Suðurnesja. Höfundur; Erlingur Jónsson“.

Minnismerkið er á móts við Hafnargötu 84.

Stjörnuspor

Reykjanesbær

Reykjanesbær – Stjörnuspor; minnismerki.

Stjörnuspor Reykjanesbæjar.

Hugmynd frá árinu 2003 sem Hilmar Bragi Bárðarson, blaðamaður Víkurfrétta, fékk að láni frá Los Angeles.

Hún var löguð að aðstæðum í Reykjanesbæ í samvinnu við Steinþór Jónsson þáverandi formann undirbúningsnefndar Ljósanætur. Hugmyndin var sú að allir sem skarað hafa fram úr og markað spor í bænum með einum eða öðrum hætti komi til greina og útfærslan á sporunum geti orðið mismunandi eftir tilefnum. Megin hugmyndin er þó sú að málmskildir tileinkaðir viðkomandi aðilum eru settir í gangstéttina víða við aðalgötu bæjarins, Hafnargötuna.

Reykjanesbær

Reykjanesbær – Stjörnuspor; minnismerki.

Stjörnusporin eru nú orðin fimm að tölu og má finna víða, beggja vegna, á gangstéttum miðbæjarins, þá helst er nær dregur til norðurs.

Súlan

Reykjanesbær

Reykjanesbær – Súlan; minnismerki.

Menningarverðlaun Reykjanesbæjar.

Menningarverðlaun Reykjanesbæjar eru veitt árlega einstaklingum eða fyrirtækjum sem unnið hafa vel að menningarmálum í bæjarfélaginu. Verðlaunagripurinn er eftir Elísabetu Ásberg og ber heitið Súlan.

Menningarráð Reykjanesbæjar lagði til á fundi sínum í apríl 2018 að gerð yrði eftirmynd af Súlunni og listaverkið sett upp í nágrenni Duus Safnahúsa. Tilefnið var afmæli þriggja menningarstofnana bæjarins á árinu. Bókasafn Reykjanesbæjar varð 60 ára, Byggðasafn Reykjanesbæjar 40 ára og Listasafn Reykjanesbæjar 15 ára. Bæjarstjórn samþykkti tillöguna.

Minnismerkið er skammt suðvestan við Duushús.

Togvíraklippur

Togvíraklippur, fallbyssa úr varðskipi og skel af tundurdufli

Reykjanesbær

Reykjanesbær – Togvíraklippur; minnismerki.

Á túninu eru hlutir frá Landhelgisgæslu Íslands, togvíraklippur, fallbyssa úr varðskipi, líklega Þór og skel af tundurdufli. Þegar í upphafi 15. aldar leituðu breskir fiskimenn á Íslandsmið og aðrar þjóðir fylgdu í kjölfarið. Margvíslegar deilur spruttu af þessum fiskveiðum og einnig verslun við landsmenn. Danska stjórnin reyndi að stjórna þessari umferð með misjöfnum árangri.

Árið 1952 var landhelgin færð í 4 sjómílur og jafnframt út fyrir grunnlínur til að loka fjörðum og flóum. Landhelgin var síðan færð út í nokkrum áföngum. Árið 1958 í 12 sjómílur, 1972 í 50 sjómílur og loks 1975 í 200 sjómílur eins og hún er í dag. Allar þessar aðgerðir ollu miklum deilum við nágrannaþjóðir, einkum Breta.

Ýmsum brögðum var beitt. Bretar settu hafnbann á fiskútflutning Íslendinga til Bretlands og sendu herskip á miðin til varnar fiskiskipum sínum. Íslensku varðskipin reyndu að stöðva og trufla veiðarnar. Þann 5. september 1972 var leynivopni, hönnuðu af Íslendingum, fyrst beitt en það voru togvíraklippur.

Reykjanesbær

Reykjanesbær – togvíraklippur; minnismerki.

Klippt var á togvíra um 100 breskra togara áður en yfir lauk. Bresku herskipin reyndu að trufla varðskipin með því að sigla á þau og einu sinni lá við að varðskipinu Tý yrði hvolft. Þann 11. september 1975, kærðu Íslendingar Breta til Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna og slitu stjórnmálasambandi við þá í nokkra mánuði árið 1976. Þessum deilum lauk með samningum. Þann 1. desember 1976 hurfu bresk fiskveiðiskip úr íslenskri lögsögu og allir útlendingar utan Færeyingar voru farnir ári seinna.

Klippurnar eru á Keflavíkurtúni vestan og gegnt Duus Safnahúsum.

Guðmundur Kr. Guðmundsson (1897-1946)

Reykjanesbær

Reykjanesbær – minnismerki; Guðmundur Kr. Guðmundsson.

Til minningar um Guðmund Kr. Guðmundsson, skipstjóra, f. 14. janúar 1897 og þá sem með honum fórust 9. febrúar 1946.
Pál Sigurðsson, f. 29. okt. 1915,
Ólaf Guðmundsson, f. 12. nóv. 1925,
Kristinn Ragnarsson, f. 23. okt. 1924,
Marías Þorsteinsson, f. 25. mars 1906.
Blessuð sé minning þeirra.

Í umfjöllun um slysið má lesa: „Geir frá Keflavík ferst – Síðastliðinn föstudag fóru Keflavíkurbátar almennt á sjó, og var veðurspá góð, en þó sneru þrír bátar aftur. Í birtingu fór að hvessa og um hádegi á laugardag var komið fárvirðri.
Um kl. 4 á laugardag fóru fyrstu bátarnir að koma að landi og um miðnætti voru allir Keflavíkurbátar komnir að nema v.b. Geir.
Strax morguninn eftir var hafin leit úr flugvél en hún reyndist árangurslaus.

Reykjanesbær

Reykjanesbær – minnismerki; Guðmundur Kr. Guðmundsson.

Fyrri hluta sunnudags bárust fregnir af Miðnesi að farið væri að reka brak, sem reyndist vera úr v.b. Geir.
Fimm menn voru á bátnum, Eigandi hans og skipstjóri var Guðmundur Kr. Guðmundsson, 49 ára, alþekktur afla- og dugnaðarmaður, hann lætur eftir sig konu og tvo uppkomna syni og unga fósturdóttur. Vélstjóri var Páll Sigurðsson, 30 ára, kvæntur og átti tvö börn. Aðrir skipverjar voru Kristinn Ragnarsson 21 árs, kvæntur en barnlaus, Ólafur Guðmundsson 20 ára, ókvæntur og Marías Þorsteinsson frá Ísafirði, 39 ára og ókvæntur.

V.b. Geir var 22 smálestir að stærð, smíðaður í Reykjavík 1938 og var mjög traustur bátur.

Minnisvarðinn stendur í kirkjugarðinum í Keflavík.

Bolafótur
Hallgrímur Pétursson (1614-1674)

Upp, upp mín sál og allt mitt geð
upp mitt hjarta og rómur með.
Hugur og tunga hjálpi til
herrans pínu ég minnast vil.

Reykjanesbær

Reykjanesbær – minnismerki; Bolafótur.

Svo hljóðar upphaf Passíusálma Hallgríms Péturssonar, eins mesta sálmaskálds allra tíma á Íslandi. Ævi skáldsins var viðburðarrík, hann ólst upp á biskupssetrinu á Hólum en rúmlega tvítugur var hann við nám í Kaupmannahöfn þegar hópur Íslendinga kom þangað frá Alsírborg. Hann var hluti hóps sem sjóræningjar höfðu rænt í Tyrkjaráninu um áratug fyrr og selt í ánauð til Norður-Afríku.

Í hópnum var Guðríður Símonardóttir og tókust með þeim heitar ástir. Vorið 1637 birtust þau í Keflavík og var hún þá langt gengin með fyrsta barn þeirra, Eyjólf. Framundan var ótrúlega erfiður tími fyrir þetta langt að komna par. Hér á þessu túni hefur kotbýlið Bolafótur verið, þar sem þau hjón bjuggu um einhvern tíma á fyrstu búskaparárum sínum.

Reykjanesbær

Reykjanesbær – minnismerki; Bolafótur – tóftir.

Á Suðurnesjum bjuggu þau líklega í um 14 ár. Hallgrímur vann við það sem til féll, m.a. fyrir kaupmenn í Keflavík og við sjósókn. Þrátt fyrir mikla erfiðleika kom náungakærleikurinn þeim til hjálpar. Grímur Bergsson í Njarðvík, lagði á sig að aðstoða þau með því að borga sektargjöld vegna þess að barnið þeirra fæddist utan hjónabands.

Hallgrímur gerðist prestur á Hvalsnesi. Hagurinn vænkaðist en þó var harmurinn ekki langt undan. Prestsembættið á Hvalsnesi var þó upphafið á farsælum ferli Hallgríms í prestastétt en lengst þjónaði hann í Saurbæjarkirkju á Hvalfjarðarströnd. Þar samdi hann Passíusálmana. Um miðjan aldur veiktist Hallgrímur af holdsveiki eða líkþrá og dó árið 1674.

Minnisvarðinn stendur norðan Sjávargötu í Njarðvík þar sem álitið að býlið Bolafótur hafi staðið.

Hafsteinn Guðmundsson (1923-2012)

Reykjanesbær

Reykjanesbær – minnismerki; Hafsteinn Guðmundsson.

Hafsteinn var hvalreki fyrir æskulýðs- og íþróttastarf í Keflavík. Hann var aðalhvatamaður þess að Íþróttabandalag Keflavíkur var stofnað árið 1956 og gegndi formennsku þess frá upphafi til 1975. Hann var spilandi þjálfari Keflavíkurliðsins á árunum 1958-1960. Í formannstíð Hafsteins var ÍBK fjórum sinnum Íslandsmeistari á mesta blómaskeiði knattspyrnunnar í Keflavík, fyrst 1964 og síðan 1969, 1971 og 1973 og ÍBK var einnig bikarmeistari 1975.
Hafsteinn er með réttu nefndur faðir knattspyrnunnar í Keflavík. Hann var formaður Ungmennafélags Keflavíkur 1978-1981, sat í stjórn KSÍ og var landsliðseinvaldur 1969-1973.

Reykjanesbær

Reykjanesbær – minnismerki; Hafsteinn Guðmundsson.

Hafsteinn var sæmdur riddarakrossi Hinnar íslensku fálkaorðu, heiðurskrossi ÍSÍ, heiðurskrossi KSÍ, gullmerki ÍBK, heiðursgullmerki Keflavíkur, gullmerki Knattspyrnudeildar Keflavíkur og hann var heiðursfélagi UMFK.

Þetta minnismerki var reist með stuðningi Íslandsmeistara Keflavíkur 1964, 1969, 1971 og 1973 og bikarmeistara 1975.

Nöfn 36 leikmanna eru á skildinum.

Einnig styrktu þessir aðilar verkið,
Reykjanesbær, Kaupfélag Suðurnesja, KSÍ, Samfylkingin, K. Steinarsson, Steinar Sigtryggsson, Knattspyrnudeild Keflavíkur.

Minnisvarðinn stendur á knattspyrnuvellinum í Keflavík.

Jón H. Jörundsson

Reykjanesbær

Reykjanesbær – minnismerki; Jón H. Jörundsson.

Stuðlabergsslysið er sjóslys sem varð að kvöldi 17. febrúar eða aðfaranótt 18. febrúar 1962. Síldarbátur frá Seyðisfirði Stuðlaberg NS 102 með 11 manna áhöfn fórst þá út af Stafnesi að talið er og rak brak úr bátnum á fjörur milli Garðskaga og Sandgerðis. Meðal þess sem rak á land var bjarghringur með nafni bátsins sem fannst hjá Þóroddstöðum. Stuðlaberg var á síldveiðum fyrir Suðurlandi. Síðast heyrðist í bátnum þar sem hann var staddur út af Selvogi á leið til Keflavíkur til löndunar og voru mörg skip á þeirri siglingaleið. Stuðlaberg kom hins vegar aldrei til Keflavíkur og var talið þar að báturinn hefði haldið til Hafnarfjarðar þar sem hann hafði áður landað. Vegna þessa varð bátsins ekki saknað fyrr en 21. febrúar er Slysavarnafélagi Íslands var gert viðvart. Eins og áður segir rak talsvert brak úr bátnum á fjörur milli Hafna og Garðskaga og fannst lík eins skipverja rekið undan bænum Fuglavík. Stuðlaberg NS 102 var 152 lesta stálbátur sem gerður var út frá Suðurnesjum.

Reykjanesbær

Reykjanesbær – minnismerki; Ólafur B. Ólafsson.

Til minningar um
Jón H. Jörundsson, f. 21. mars 1929,
Pétur Þorfinnsson f. 20. mars 1931,
Kristján Jörundsson, f. 9. nóv. 1927,
Karl G. Jónsson, f. 7. ágúst 1933,
Birgi Guðmundsson, f. 19. maí 1922,
Guðmund Ólason, f. 5. ágúst 1923,
Gunnar L. Hávarðarson, f. 5. júlí 1944,
Ingimund Sigmarsson, f. 23. maí 1930,
Kristmund Benjamínsson, f. 16. sept. 1929,
Stefán Elíasson, f. 8. júní 1922,
Örn S. Ólafsson f. 12. febr. 1940
Fórust með mb. Stuðlabergi, 17. febr. 1962.

Reykjanesbær

Reykjanesbær – minnismerki; Ólafur B. Ólafsson.

Minnisvarðinn stendur í kirkjugarðinum í Keflavík.

Ólafur B. Ólafsson (1945-1999)
Til minningar um Ólaf B. Ólafsson f. 10.7.1945 – d. 19.12.1999

Gefið af eiginkonu hans str. Hildi Guðmundsdóttur.

Minnisvarðinn stendur við Oddfellowhúsið í Keflavík.

Hafa ber í huga að eflaust eiga einhverjir minnisvarðar er leynast kunna í Reykjanesbæ að bætast við framangreinda upptalningu er fram líða stundir.

Reykjanesbær

Reykjanesbær – Stapakot og Víkingaheimar.

 

Hafnir

Vilhjálmur Hinrik Ívarsson skráði örnefnalýsingu fyrir Hafnahrepp. Hann var fæddur 12/8 1899 í Eyvík, Grímsnesi, Árnessýslu, og flytur að Merkinesi í Höfnum 1934. Heimildarmenn Vilhjálms Hinriks voru Guðmundur sál. Jósefsson, Staðarhóli, hreppstjóri og manna kunnugastur meðfram Ósum; Magnús Gunnlaugsson, Garðhúsum; Þorsteinn Árnason, Kirkjuvogi; allir látnir; og Ólafur Ketilsson, Kalmanstjörn, einnig látinn.

Vilhjálmur Hinrik Ívarsson

Vilhjálmur Hinrik Ívarsson í Merkinesi.

Hér verður fjallað um ströndina utan við Hafnir frá Eyjatanga að mörkum Merkiness. Auk þess verður fjallað um húsin í höfnum skv. örnefnalýsingu Hinriks Ívarssonar frá árinu 1978.

„Glöggt má sjá elju manna og tilraunir að hefta landbrot sjávarins, því víða má sjá grjóthleðslur fyrir vikum, en en allt hefur komið fyrir ekki.
Þá kemur breið vík, sem takmarkast af löngum sand- og malartanga og heitir hann Eyjartangi. Svo sem 150 metra frá landi liggur eyja frá austri til vesturs með gróðri. Eyju þessa áttu allir grasbýlismenn í Kirkjuvogshverfi. Þar var talsvert æðarvarp, sem var nytjað. (Eftir að minkurinn flæddi yfir, hefur þetta horfið að mestu.) Milli lands og eyjar þessarar liggur áll, sem fær er smærri skipum inn á Ósana um flóð, en sæta verður föllum, því strangur straumur verður þarna með fullu út- eða innfalli. Eyjan ber ekkert sérheiti – nema ef vera kynni Varpey. (Þannig nefnir Jón Víðis hana á mælingakorti af Ósum 1918.) Yzt á Eyjartanga er sundmerki Kirkjuvogssunds, hátt tré með rauðum þríhyrning. Vestan Eyjartanga er nokkuð breitt bogadregið vik, Stóra-Bót. Vestan hennar gengur löng klöpp þvert út í ósinn. Hún heitir Innri-Langaklöpp. Gegnt henni norðan við ósinn er skerjaklasi, sem fer í kaf um flóð. Er það kallað einu nafni Veggir, (líka Eggjar).

Hafnir

Á Hafnavegi 1952.

Þá tekur við mjótt vik, Svartaklettsbót, en vestan hennar er stór, nokkuð há sprungin klöpp, sem er umflotin um flóð. Hún heitir Svartaklöpp sumir Svartiklettur. Lítið vestar gengur löng, lág klöpp til norðvesturs. Hún heitir Ytri-Langaklöpp. Eftir þessari klöpp liggur hafnargarður öflugur með skjólvegg á vestari brún (allt sleipt), en beygir svo í horn til norðausturs. Móti enda þeirrar álmu garðsins er einstakt, kúpulagað sker, sem fer í kaf með hálfföllnu að. Á skeri þessu er stöng með rauðu varúðarmerki. Frá garðinum að skeri þessu munu vera um 100 metrar (nánar síðar). Vestan hafnargarðsins er talsvert sandvik nafnlaust, en afmarkast af löngum klapparana að vestan, sem heitir Þvottaklettar, og er þá komið að Kirkjuvogsvör. Þaðan hafa gengið opin skip til fiskveiða frá aldaöðli, en er nú með öllu lögð niður, eftir að aðstaða batnaði við hafnargerðina.

Örnefni með ströndinni frá Kirkjuvogsvör að hreppsmarki í Valahnjúksmöl á Reykjanesi

Hafnir

Hafnir – loftmynd 1954.

Þvert fyrir Kirkjuvogsvör liggur hátt sker, umflotið í stórstraumsflóði og fer þá í kaf. Það liggur frá norðaustri til suðvesturs og heitir Kirkjusker. Norður úr því gengur annað sker miklu lægra og heitir Flatasker. Suðvestan við Kotvog skagar stór, nokkuð há klöpp, Háaklöpp, og þar norður af Kotvogsklettar. Þá tekur við sjávarkambur, kallaður Garðhúsmöl. Þar, skammt sunnar, skagar rani fram í sjóinn, sem heitir Snoppa, og dálítið sunnar önnur klöpp, heitir hún Trollaraklöpp. Nafngift þessi gerist eftir síðustu aldamót (líklega 1912-14; vantar nákvæma heimild). Einn morgun, er fólk kom á fætur, sá það ljós fyrir neðan túnið í Réttarhúsum, og er að var gáð, stóð þar togari með öllum ljósum, stóð þar á réttum kili um háflóð. Sjór var frekar kyrr, en dimmviðri. Með útfallinu gengu skipsmenn þurrum fótum í land.
Skömmu síðar gerði mikið hafrót, og brotnaði skipið niður, en sumt var rifið. Skip þetta hét Grænland og var þýzkt – fyrsta ferð þess til veiða.

Hafnir

Frá Höfnum – Kotvogur t.v. og Kirkjuvogur t.h.

Þá tekur við lítið malarvik, sem heitir Bás. Næsta örnefni er Haugsendamöl, dálítið breitt malarvik niður undan Haugsendakampi. Svo sem 200 metrum frá ströndinni til suðvesturs er aflangt, nokkuð hátt sker frá austri til vesturs. Það heitir Markasker. Það er landamerki milli Kirkjuvogsjarða og Merkiness.

Merkines

Merkines (Steinunn Marteinsdóttir).

Aðeins suðvestar skagar langur, mjór klapparani til vesturs, ca. 600 m langur, með smáskorum yfir þvert og fer lækkandi allt í sjó fram. Þessi tangi heitir Hlein.
Skömmu eftir síðustu aldamót, 1908, vildi til það hörmulega slys, að togari strandaði í svartabyl að kvöldlagi rétt norðan nefndrar hleinar, en veður var í uppgangi á suðvestan. Um björgun var ekki að ræða, hvorki frá sjó né landi, og fórust þar allir menn. Þegar sá, er þetta ritar, kom fyrst í Hafnir, 1924, sást enn ofan á ketil skipsins um stórstraumsfjöru, og fram á þennan dag ber við, að kolamolar finnast í fjörunni. Sunnan við Hlein er lítið sandvik, Hleinarvik. Dálítið sunnar er vik inn í klappirnar. Það heitir Mönguhola. Munnmæli segja, að einsetukona hafi verið í Merkinesi (samanber síðar Möngusel), sem hélt kindum sínum þar til fjörubeitar.

Nöfn húsa, eyðibýlanöfn og afstöðulýsing í Kirkjuvogshverfi

Hafnir

Frá Höfnum.

Þegar komið er eftir þjóðveginum til Hafna, er fyrst farið framhjá býli á hægri hönd, sem heitir Teigur. Þetta er nýbýli úr landi Kirkjuvogs hins forna. Þá er Ósland á hægri, en Bræðraborg til vinstri. Þá er Sjónarhóll til hægri, en Brautarhóll til vinstri. Þar lítið sunnar var eitt sinn bær, sem hét Hraunprýði, og lítið eitt vestar var býli, sem hét Vífarskot. Á þeim rústum er nú hús, sem heitir Kalmanstunga. Móts við Brautarhól liggur vegur niður að höfninni.
Suðvestur frá Kalmanstungu er tún. Þar stóð bækorn, sem hét Bjarghús. Um 1930 og lengur var þarna fjárhús og hlaða, en allt hefur það verið jafnað út.
Samsíða veginum er markað fyrir tveimur vegastæðum og afmældar lóðir meðfram þeim fyrir smáíbúðir, og koma götur þessar til með að heita Seljavogur sú efri, en Djúpivogur hin lægri. Þrjú hús eru risin við Seljavog, en eitt við Djúpavog.

KalmannstjörnFrá vegamótum Reykjanessvegar ökum við að Kirkjuvogskirkju. Þá er fyrst við beygju vegarins á vinstri hönd Jaðar. Þá er Garðbær fjær veginum og Kirkjuvogur, en uppi á hæðinni móti kirkjunni er Traðhús. (Gamli Kirkjuvogur stóð gegnt kirkjudyrum, en var færður 1943 þangað sem hann stendur nú.) Meðfram norðursíðu kirkjugarðsins stóð nokkuð stórt timburhús, sem hét Norðurhús, en var rifið 1929 og endurbyggt í Keflavík.
Kirkjuvogskirkja var á öldum áður norðan við Ósa í Vogi, en sökum sjávarágangs og landbrots flutt á hól þann í Kirkjuvogi, sem hún stendur enn á. Ekki er öruggt með, hvaða ár þetta hefur verið gert, en sr. Jón Thorarensen fullyrðir, að það gerist fyrir 1575. (Vilhjálmur Hákonarson byggði þessa kirkju 1861).
Ef við erum stödd við höfnina, förum við veg, sem liggur eftir endilöngu hverfinu. Verður næsta hús Höfn, þá Bakki, Sólberg, Sólbakki, en Kirkjuból heitir húsið á götuhorninu og uppi á hólnum sjávarmegin (nú) Hóll (áður Staðarhóll).
Öll þau hús, sem nú hafa verið nefnd, eru byggð á landhluta, sem hét Búðabakki. Öll þessi hús eru á hægri hönd.
Til vinstri eru tún, sem skipt er í skákir. Austast er Hjallatún, þá Kotvogstún, en syðst gengur horn eða tunga, sem er hæst, og heitir það Akrar. Þar eru oft haldnar álfabrennur á gamlárskvöld eða þrettánda.

Hafnir

Kirkjuvogur og Kotvogur 1873.

Nú höldum við yfir vegamótin og eru þá miklar frystihúsbyggingar, þar á meðal geysistór bygging hlaðin úr holstein, en aðeins tóftin ein. Frystihús þetta hefir oft skipt um eigendur, en var byggt upphaflega 1943 af hreppsbúum. Síðasta nafn hlutafélags þess, er átti húsið, var Hafblik h/f.
Vestar á sjávarbakkanum er Kotvogur og er hann nú ekki nema svipur hjá sjón. Fyrr á tímum var þetta stórbýli. Hinn 5. apríl 1939 brann íbúðarhúsið í Kotvogi, sem var timburhús. Þar fórst í eldinum Helgi Jónsson, kenndur við Tungu, þáverandi eigandi Kotvogs, og dóttir hans 7 ára, ásamt Guðjóni Guðmundssyni, sem var vinnumaður Helga. Stórt timburpakkhús var austast og fjarst eldinum og sakaði ekki. Þetta hús var síðar innréttað og er enn í dag íbúðarhús.

Hafnarétt

Hafnarétt.

Nú ökum við áfram framhjá timburhúsi með kvist til suðvesturs. Þetta er á vinstri hönd og heitir Vesturhús. Þá er Staður og aðeins fjær Grund. Aðeins austar stóð lítið hús fram yfir 1940, sem hét Tunga.
Þegar við höldum áfram, er næst á vinstri hönd Sólvellir (steinhús), en á hægri hönd er nokkuð stórt steinhús. Það er Staðarhóll. Þá er næsta hús sama megin, steinhús, Garðhús, og aðeins nær sjónum timburhús, sem flutt var á þennan stað fyrir fáum árum. Það heitir Sólheimar og þar næst einnig aðflutt timburhús, sem heitir Garður. Tún liggur milli sjávar og þessara húsa, sem nefnt er Garðhúsatún, og milli þess og Kotvogs er túnspilda, sem nefnd er Danskhúsavöllur. Rétt á móti Staðarhól er rofið og ónýtt lítið timburhús, sem hét Klöpp, og tímaspursmál, nær það verður afnumið. Túnin á vinstri hönd eru í ótal skákum og breytast nöfn þeirra mjög eftir eigendum þeirra hverju sinni, en þó eru tvö nöfn, sem haldast enn, Skák, sem nær rétt að skólanum, sem var, heitir Faxagerði, og annað tún litlu vestar heitir Miðmundakrókur.

Hafnir

Hafnir – Kotvogur.

Nú eru þrjú hús ótalin á vinstri hönd. Þá er næst Hvammur, póst- og símstöð. Lítið eitt fjær veginum Nýlenda og þar rétt vestar Ragnheiðarstaðir. Þeir standa í samnefndu túni. Sjávarmegin við Garðhús er klapparhóll grasi vaxinn, sem heitir Bóndhóll. Fyrir tæpum mannsaldri byggðu sér bæ á hól þessum hjón þau, sem hétu Guðmundur Salómonsson og Sigurlaug Þórðardóttir. Settust þau þar að, en höfðu skamman tíma verið þar, er þau fluttu þaðan og gengu svo frá, að ekki sér verksummerki. Fátöluð voru þau hjón um orsök þess, en þeir, sem kunnugastir voru þeim hjónum, gáfu í skyn, að þeim hafi ekki verið vært þar, og ollu því draumar tveir og jafnvel sýnir. Síðan hefur aldrei verið hróflað við neinu á hól þessum.

Hafnir

Hafnir – Kotvogur.

Suðvestan við Garðhúsatún er talsverður túnblettur og vestan til í honum miðjum var bækorn fram yfir 1930. Þar bjó Vilhjálmur Jónsson. Bærinn hét Í Görðum, en í daglegu tali Villabær. Út við veginn innan túnsins var lægð ofan í klöpp og hélzt þar oft vatn í með ólíkindum, þó þurrkar væru. Þetta heitir Prettur. Enn er túnskák vestur af Villabletti. Hún tilheyrir Kotvogi, en er nafnlaus. Hér endar vegurinn, en við sjáum mikla grjótgarða og innan þeirra er tún.

Kirkjuvogskirkja

Kirkjuvogskirkja – Jón Helgason 1920.

Í því nær miðju var eitt sinn bær, sem hét Réttarhús. Jörð þessa keypti eigandi Nýlendu, en bæjarrústir jafnaðar út.
Þar skammt suðvestur af eru rústir af bæ, sem hét Vallarhús. Hann mun hafa farið í eyði upp úr aldamótum síðustu. Nú fyrir fjórum árum var byggður þarna sumarbústaður.
Vorhús voru rétt hjá Ragnheiðarstöðum; nú er þar skúr.
Þá taka við Haugsendar. Þar kvað hafa verið byggð fyrir ævalöngu, en enginn veit nú, hvar sá bær hefur verið. Máske sjór hafi brotið upp land, eins og víða gerist hér með ströndinni, en geta má þess, að svo sem 150 metrum suðvestur frá horni garðlags þess, er liggur frá Bræðrum og niður undir sjó, má sjá, sjávarmegin við veginn, litla rúst, svo sem grænan hrygg, og ef vel er gaumgæft, sést móta fyrir garðlagi niður að sjó.“

Heimild:
-Örnefnalýsing fyrir Hafnir – Merkinesi í Höfnum,17/4 1978, Vilhjálmur Hinrik Ívarsson.

Hafnir

Kirkjuvogskirkja 1970.