Tag Archive for: Reykjanesskagi

Hafnarfjörður

Á vefnum „Íslandskort.is“ má lesa eftirfarandi fróðleik um Björn Gunnlaugsson og Íslandskortagerð hans á árunum 1831-1843. Hér verður lögð áhersla á vinnu hans við kortlagninu Reykjanesskagans.

Björn Gunnlaugsson

Björn Gunnlaugsson – myndin er unnin af Sigurði Guðmundssyni málara.

Björn Gunnlaugsson (28. september 1788 – 17. mars 1876) var landmælingamaður og höfundur stjörnufræðirita. Hann starfaði þó mestan hluta ævinnar sem kennari, fyrst við Bessastaðaskóla, en fluttist með skólanum til Reykjavíkur og varð síðar yfirkennari.
Björn Gunnlaugsson er þekktastur fyrir uppdrátt sinn af Íslandi en hann ferðaðist um landið til mælinga sumurin 1831–1843, að frátöldu sumrinu 1836. Mælingar Björns urðu undirstaðan að Íslandskorti sem Hið íslenska bókmenntafélag gaf út árin 1844 og 1849. Mælingar Björns lögðu einnig grunninn að öðrum Íslandskortum næstu áratugina fram til þess að dönsk herforingjaráðskort tóku við á fyrstu árum tuttugustu aldar.

Gullbringa- og Kjósarsýsla med nokkrum parti af Árnesssýslu

Björn Gunnlaugsson

Uppdráttur Björns Gunnlaugssonar af Reykjanesskaga 1831, fyrsta útgáfa.

Þegar Björn Gunnlaugsson hóf landmælingar sínar á Íslandi var ákveðið að fjárveiting hans yrði aðeins til eins árs til að byrja með og bundin því skilyrði að hann byrjaði á Gullbringu- og Kjósarsýslu. Um áframhald verksins átti svo að fara eftir árangri fyrsta sumarsins.
Björn hófst strax handa um leið og hann fékk mælingatækin í hendurnar og tókst að ljúka mælingu Gullbringu- og Kjósarsýslu um sumarið 1831 þrátt fyrir ýmsa byrjunarörðugleika. Eftir að kortið var tilbúið sendi Björn það til Kaupmannahafnar.

Björn Gunnlaugsson

Uppdráttur Björns Gunnlaugssonar af Reykjanesskaga 1831, önnur útgáfa.

Stjórn Bókmenntafélagsins leist vel á það og ákveðið var að styrkja Björn áfram. Við áframhald verksins þurfti Björn að fá kortið af Gullbringu- og Kjósarsýslu aftur vegna tengingar þess við síðari kort. Í stað þess að fá sent frumkortið fékk hann hins vegar í hendur handdregnar eftirmyndir þess. Ekki er vitað til annars en að kortin séu nákvæm eftirgerð af korti Björns. Ef litið er nánar á þau sést vel hvernig Björn hefur lagt sig fram um draga upp sem flest fjöll inn til landsins en þau höfðu strandmælingamenn alveg skilið eftir.

Uppdráttur Íslands

Björn Gunnlaugsson

Uppdráttur Íslands, 1. útg. eftir Björn Gunnlaugsson.

Þó að strandmælingarnar hefðu verið merkur áfangi var enn langt í land að komið væri viðunandi kort af landinu í heild, byggðum þess og óbyggðum. Strandkortin nægðu farmönnum en fyrir landsmenn komu þau að litlu gagni hvort sem litið var til almennrar þekkingar á landinu sjálfu eða til annarra nota. Eftir að strandmælingunum lauk varð ekki vart neinna tilburða til þess að hrinda verkinu lengra áleiðis.
Nú vildi svo vel til að til var Íslendingur er lokið hafði háskólaprófi í stærðfræði við mjög góðan orðstír og unnið um skeið að landmælingum erlendis. Hann hét Björn Gunnlaugsson, kennari við latínuskólann á Bessastöðum.

Björn Gunnlaugsson

Uppdráttur Íslands eftir Björn Gunnlaugsson á árunum 1849-1850.

Árið 1829 ritaði Björn stiftsyfirvöldum og mæltist til að Danir létu Íslendingum eftir landmælingaáhöld þau er notuð voru við strandmælingarnar. Í bréfinu segist hann oft vera beðinn um að mæla ýmislegt og þægilegt væri að hafa áhöldin við höndina. Þessari ósk Björns var ekki sinnt. Hið íslenska bókmenntafélag skarst þá í leikinn og ákvað eftir nokkuð hik árið 1831 að verja ákveðinni upphæð til mælinga á landinu öllu. Stiftamtmaður var beðinn um að hlutast til um það að mælingatækin og eftirmyndir strandkortanna yrðu látin af hendi og varð hann við því. Birni Gunnlaugssyni var falið verkið en fjárveitingin var aðeins til eins árs til að byrja með og bundin því skilyrði að mælingin hæfist í Gullbringu- og Kjósarsýslu. Um áframhald verksins skyldi svo fara eftir árangri fyrsta sumarsins.

Björn Gunnlaugsson

Uppdráttur Íslands – 1. hluti.

Björn hófst strax handa um leið og hann fékk mælingatækin í hendurnar og tókst að ljúka mælingu Gullbringu- og Kjósarsýslu um sumarið 1831 þrátt fyrir ýmsa byrjunarörðugleika. Eftir að kortið var tilbúið sendi Björn það til Kaupmannahafnar til þess að hægt yrði að gera myndamót af því. Stjórn Bókmenntafélagsins leist vel á kortið og ákveðið var að halda mælingunum áfram. Björn vann að verkinu árin 1831-1843 að sumrinu 1836 undanskildu. Hann mun hafa ferðast rúma 700 daga í mælingaleiðöngrum sínum. Árið 1836 rættist úr fjárhagsáhyggjum þeirra er stóðu að mælingunum er rentukammerið ákvað að veita Birni árlegan styrk.

Björn Gunnlaugsson

Uppdráttur Íslands, 2. hluti.

Í upphafi hafði áætlunin verið sú að mæla hverja sýslu fyrir sig og búa til sérkort af þeim en vegna mikils kostnaðar var hætt við það og ákveðið að búa til heildarkort af landinu á fjórum blöðum. Forstöðumanni landmælingadeildar herforingjaráðsins, Olaf Nikolas Olsen, var falið að sjá um útgáfu kortsins í Danmörku. Í hans hlut kom að taka við svæðakortum frá Birni, tengja þau saman og minnka þau síðan í rétta stærð. Vegna minnkunarinnar varð að fella niður fjölda örnefna sem Björn hafði tekið til, velja úr þeim og bæta inn nýjum nöfnum ef ástæða þótti til. Á kortinu stendur að það sé gefið út 1844 en það varð líklega ekki tilbúið fyrr en fjórum árum síðar.

Björn Gunnlaugsson

Uppdráttur Íslands, 3. hluti.

Kortið er gert í keiluofanvarpi, mælikvarðinn er 1:480.000 og lengdarbaugar miðaðir við Kaupmannahöfn. Nafnið stendur á suðausturkortinu en á titilblaði sem fylgir er það nokkuð stytt. Þar eru einnig skýringar á merkjum, stutt greinargerð um útgáfuna og frönsk þýðing.
Þegar Olsen fór að sjá fyrir endan á vinnunni við fjögurra blaða kortið byrjaði hann á öðru og handhægara Íslandskorti í helmingi minni mælikvarða. Kortið kom sennilega ekki út fyrr en 1850 þó á því standi útgáfuárið 1849. Mælikvarði er 1:960.000 og ofanvarp hið sama og á stærra kortinu. Uppdrátturinn er aðeins minnkuð eftirmynd stærra kortsins með færri nöfnum.

Björn Gunnlaugsson

Uppdráttur Íslands, 4. hluti.

Þó að sami maður hafi séð um eirstunguna á báðum kortunum er hinn minni lakar gerður. Þar veldur mestu um að Olsen hefur leitast við að taka upp það marga landslagsþætti frumgerðarinnar að öllu hættir til að renna saman. Nöfn eru líka oft með það smáu letri að erfitt er að lesa þau. En kortið kostaði hins vegar aðeins þriðjung af verði stóra kortsins. Útgáfa kortanna var mjög dýr, kostnaðurinn mun hafa numið tífaldri þeirri upphæð sem Bókmenntafélagið greiddi Birni Gunnlaugssyni í beinan ferðakostnað á tólf árum.

Björn Gunnlaugsson

Björn Gunnlaugsson – Reykjanesskagi.

Mæling og kortagerð Björns Gunnlaugssonar var mikið vísindalegt afrek. Í fyrsta skipti var fenginn sæmilegur uppdráttur af landinu öllu. Þó að eldri heildaruppdrættir, byggðir að nokkru leyti á mælingum, væru til voru þeir oft fjarska handahófskenndir og ónákvæmir. Björn studdist við strandkortin eins langt og þau náðu. Hann fór um allar byggðir landsins í mælingaleiðöngrum sínum en ferðaðist hins vegar lítið um óbyggðir. Um sum svæði varð hann að treysta frásögnum kunnugra. Miðhálendið hefur mætt afgangi en útlit þess er þó mikil framför frá fyrri kortum. Kortið var hið fyrsta sem menn gátu notað til þess að gera sér sæmilega grein fyrir staðsetningu byggða og útbreiðslu jökla, hrauna og fjallþyrpinga. Meiri háttar fljót voru rakin til upptaka og stöðuvötn mörkuð af meira raunsæi en áður.

Björn Gunnlaugsson

Uppdráttur Björns Gunnlaugssonar af miðlendi Skagans.

Kort Björns Gunnlaugssonar er ekki laust við villur en við öðru var ekki að búast miðað við að hann fór ekki um allt landið og vann verkið einn og aðstoðarlítið með frumstæðum tækjum. Við bágar aðstæður lagði Björn undirstöðu sem aðrir byggðu á uns skipulegar mælingar hófust upp úr aldamótum og þá í miklu stærra sniði.

Í Ísafold, föstudaginn 24. mars 1876, er fjallað um lát Björns Gunnlaugssonar og eftirmæli skrifuð:
„Björn bjó að Sviðholti meðan hann kenndi við Bessastaðaskóla og vann að „Uppdrætti Íslands„. Á því starfi byrjaði hann árið 1831, eptir tilmælum bókmenntafjelagsins, fyrst eingöngu á þess kostnað, en síðan styrkti stjórnin. Verkið var mikið og vandasamt, en launin lítil, og óhætt að fullyrða, að engin nema Björn hefði ekizt það á hendur fyrir svo lítið.

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður – herforingjaráðsuppdráttur 1903.

Haun ferðaðist á sumrin, tók fyrir stærri eða minni kafla landsins, mældi þá í krók og kring og gjörði uppdrætti yfir, þegar hann var kominn heim og hafði tómstundir til, og hjelt því starfi fram þangað til sumarið 1843, að hann hafði yfirfarið landið, eins og hann segir í brjefi til bókmenntafjelagsdeildarinnar í Kaupmannahöfn, dagsettu f Sviðholti 10. febr. 1844: «Nú er eg þá loksins búinn að yfir fara allt landið, eins og kostur er á, þó sumstaðar sje ekki svo vel skoðað sem skyldi,; en það mundi kosta óþolandi tímalengd og peninga útlát fyrir fjelagið, að láta skoða hvert einstakt fjall, þar sem þau standa mjög þjett saman, álíkt og hús í stórum og þjettbyggðum borgum».
Landsuppdrættir þessir voru síðan steinprentaðir eins og kunnugt er, og hafa þeir flutt frægðarorð Bjarnar út um allan hinn menntaða heim. Í summar sem leið fjekk bókmenntafjelagið heiðurspening frá París fyrir þenna landsuppdrátt.“

Nágrenni Reykjavíkur og Hafnarfjarðar

Hafnarfjörður

Herforingjaráðskort; Hafnarfjörður og Álftannes 1903.

Á síðasta áratug 19. aldar varð dönskum yfirvöldum ljóst að þau kort sem til voru af Íslandi stæðust ekki þær kröfur sem gera þyrfti í samfélagi þess tíma. Bestu kort af Íslandi sem buðust voru í stórum dráttum byggð á strandmælingum danska sjóhersins sem fram fóru á árunum 1801-1818 annars vegar og hins vegar á kortum Björns Gunnlaugssonar sem byggð voru á fyrrnefndum strandmælingum og eigin mælingum Björns á árunum 1831-1843.
Á fjárlögum 1899 voru veittar 5000 krónur og skyldi hefja nýjar þríhyrninga- og strandmælingar á Reykjanesi.

Bessastaðir

Herfirngjaráðsuppdráttur 1908; Bessastaðir og Lambhús.

Árið 1900 var gefin út í Danmörku tilskipun um að sendur skyldi leiðangur til Íslands til að mæla hér grunnlínu og hnattstöðu. Síðan var ætlunin að mæla þríhyrninganet út frá nýju grunnlínunni. Hingað voru sendir danskir liðsforingjar og sumarið 1900 var unnin ýmis undirbúningsvinna. Árið 1902 höfðu fjárveitingar verið auknar svo að rétt þótti að hefjast handa. Byrjað var á Hornafirði og mælt vestur ströndina og um lágsveitir Suðurlands en uppsveitum og hálendi frestað.

Ás

Herforingjaráðsuppdráttur; Ás ofan Hafnarfjarðar.

Verkinu var svo haldið áfram tvö næstu árin en féll niður 1905 vegna fjárskorts og annarra anna hjá Landmælingadeild danska herforingjaráðsins (Generalstabens topografiske Afdeling) er tókst verkið á hendur. Eftir eins árs bið var þráðurinn tekinn upp að nýju enda bættist nú við fjárstyrkur úr ríkissjóði Dana. Á árunum 1906-1914 var unnið öll sumur, nema 1909, þegar ekkert var aðhafst. Var þá lokið byggðamælingum sunnanlands og mælt um Vesturland, norður og austur um Húnaflóa. Árangurinn var 117 kortblöð af þriðjungi landsins, suður- og vesturhluta, í mælikvarða 1:50.000 (auk nokkurra sérkorta af afmörkuðum svæðum). Þau eru gjarnan nefnd herforingjaráðskortin í höfuðið á þeim sem stóðu fyrir gerð þeirra.

Heimildir:
-https://is.wikipedia.org/wiki/Bj%C3%B6rn_Gunnlaugsson
-https://islandskort.is/map/126#?c=0&m=0&s=0&cv=0&r=0&xywh=32%2C710%2C15103%2C8277
-https://islandskort.is/map/599#?c=0&m=0&s=0&cv=1&r=0&xywh=780%2C3052%2C7177%2C3933
-https://islandskort.is/map/1135#?c=0&m=0&s=0&cv=0&r=0&xywh=1012%2C4663%2C3138%2C1327
-Íslandskort.is – sótt 27.04.2023.
-https://timarit.is/files/9289295
-Ísafold, föstudaginn 24. mars 1976, Björn Gunnlaugsson, bls. 1-2.

Herforingjaráðskort

Reykjanesskagi – samsett herforingjaráðskort.

Litla-Botnssel

FERLIR hefur löngum fjallað um seljabúskap á Reykjanesskaganum – m.a. lýst öllum 401 seljunum, sem þar er að finna, gerð þeirra og sérstöðu, aldri m.t.t. heimilda o.s.frv.

Knarrarnessel

Knarrarnessel – uppdráttur ÓSÁ.

Í riti Landbúnaðarháskóla Íslands nr. 131 skrifar Bjarni Guðmundsson um seljabúskap, bæði út frá staðbundinni athugun hans á seljum í Dýrafirði sem og almenn út frá sögum og sögnum. Þar segir m.a.:

„Dalabotnarnir voru alsettir seljum“, fyrirlas Páll Zóphóníasson nemendum sínum á Hvanneyri veturinn 1919-1920, „og enn má sjá þess ljós merki af tóftunum sem nú standa sem menjar um horfna frægð, því frægð var það að hafa manndóm í sjer til að hafa fjenað í seljum.“

Seljahugtakið hefur með árunum fengið á sig eilítið rómantískan blæ, ef til vill vegna ýmissa þjóðsagna sem seljum eru tengdar, legu þeirra í víðernum og frjálsræði fjarri byggð en sjálfsagt einnig vegna erlendra áhrifa, einkum frá Noregi, þar sem þessi búskaparháttur tengist í hugum margra fögru landslagi og sællegum selstúlkum. Ýmsir kannast t. d. við lag Ole Bull, Sunnudagur selstúlkunnar, leikrit Riis: Upp til selja, sem mjög var vinsælt hérlendis á fyrri hluta síðustu aldar, og fleira mætti nefna úr flokki rómantískra lýsinga. Skáldið Snorri Hjartarson orti til dæmis kvæði sem er verðugur fulltrúi þeirra, kvæði sem hann nefndi „Mig dreymir við hrunið heiðarsel“:

Nærsel

Nærsel – uppdráttur ÓSÁ.

Mig dreymir við hrunið heiðarsel: heyri ég söng gegnum opnar dyr, laufþyt á auðum lágum mel? Líf manns streymir fram, tíminn er kyr. Allt sem var lifað og allt sem hvarf er, það sem verður dvelur fjær ónuminn heimur, hulið starf; hús þessa dags stóð reist í gær.

Við göngum í dimmu við litföl log í ljósi sem geymir um eilífð hvað sem er, og bíður. Fuglinn sem flaug framhjá er enn á sama stað. Veruleiki selfólksins hérlendis og sennilega einnig í nágrannalöndum okkar mun þó ekki aðeins hafa verið gleði og rómantík. Víða var seljabúskapurinn hluti þess að komast af við þröng kjör og óblíða náttúru fyrri alda; enginn leikur heldur bláköld og oft mjög erfið lífsbarátta.

Selin í sögu og lögum
Seljabúskapur er eitt af einkennum fornrar norrænnar kvikfjárræktar. Sel og selför voru hluti hins dreifbæra (extensive) búskapar sem einkenndi hana. Hann var og er einnig þekktur í Alpahéruðum Evrópu, í Skotlandi, Írlandi og raunar í fleiri hornum heimsins (summer farming). Seljabúskapur var leið til þess að nýta fjarlæg en oft kostamikil beitilönd, gjarnan ofan skógarmarka, til framleiðslu mjólkur á hásumri með sauðfé, kúm og geitum. Mjólkin var unnin í ýmsar afurðir til heimaneyslu um ársins hring en gat einnig verið liður í öflun nauðsynlegs gjaldmiðils t. d. smjörs upp í land- og gripaleigu. Seljabúskapur á einu eða öðru formi á sér fornar rætur er rekja má langt aftur til járnaldar. Þrennt mótaði seljabúskapinn: búfé, fólk og landkostir, einkum beitarkjörin.

Hraunssel

Hraunssel – stekkur.

Margar rannsóknir hafa verið gerðar á seljum og seljabúskap. Það eru ekki síst Norðmenn sem þar hafa verið afkastamiklir enda búhátturinn mjög algengur þar í landi. Hér verða þeim rannsóknum ekki gerð sérstök skil heldur látið nægja að vísa til yfirlitsverka, svo sem þriggja binda verks Lars
Reinton um sel og selfarir; skipulag, verklag og lið í framfærslu. Þá hefur Karoline Daugstad fjallað um sel og selfarir í margbreytilegum formum sem mótandi þátt menningarlandslags svo og vitundar fólks og viðhorfa frá starfrænum og ekki síst fagurfræðilegum sjónarmiðum í listum og menningu.
Reinton skilgreindi hinn norræna seljabúskap (sæterbruk) þannig: „Sæterbruk er det når ein gard (ein fast vinterbustad) har krøtera sine i sumarbeite på ein stad eit stykke frå garden der det er husvære og fast personale, så ein kan nytta ut større vidder til beite, som regel òg til slått og onnor fórsanking, og så ein kan spara på heimemarkene og nå i betre beite, føde fleire krøter over vinteren og skaffe forråd til levemåten på den faste bustaden (garden)“.

Hraunssel

Hraunsselsstígur.

Með nokkurri einföldun má segja að tvær kenningar hafi einkum staðið um upphaf og þróun hins norræna seljabúskapar: Fyrst sú að seljabúskapurinn hafi þróast úr hjarðmennsku (nomadism) og eigi sér rætur í hinum indóevrópska frumbúskap og fyrstu búsetu jarðyrkjufólks. Reinton var einkum talsmaður þeirrar kenningar en verk hans var lengi vel miðlægt í norrænni seljaumræðu. Hin kenningin er sú að seljabúskapur hafi á löngum tíma einkum þróast sem svæðabundið svar við breytilegri þörf fyrir beitilönd og fóður. Svo virðist sem síðari kenningin njóti nú meira fylgis þótt í raun séu þær sprottnar af sömu rót – þörfinni fyrir hagkvæma nýtingu takmarkaðra beitilanda til öflunar lífsnauðsynlegs matarforða. Þótt álitið sé að vestur-norskir landnámsmenn hafi fært seljabúháttinn með sér til Íslands og mótað hann í fyrstu með hliðsjón af eigin reynsluheimi og áþekkum umhverfisaðstæðum virðist hátturinn hafa þróast með ólíkum hætti í löndunum tveimur.

Arahnúkasel

Arahnúkasel.

Cabouret segir Frostaþingslög geyma orðið sel í sömu merkingu og hin 200 árum yngri lög nota orðið setur/sætr. Upphaflega merkti sel aðeins lítið einsrýmis hús en setur dvalarstað. Það síðara taldi hann fela í sér hlutverkaskiptara mannvirki fyrir fólk og fé og til framleiðslu mjólkurafurða. Ennfremur að það benti til þess að það hafi fyrst verið á hámiðöldum sem norski seljabúskapurinn var fullþróaður. Að baki því áleit Cabouret liggja byggðaþróun sem ýtti búfjárhaldi að sumarlagi það langt frá býlinu að hverfa varð frá mjaltastað svo nærri býli að í mesta lagi þurfti dálítið sel til næturhvíldar, ef fjarlægðin heim var þá ekki orðin það mikil að frágangssök var að fara heim á milli morgun- og kvöldmjalta.

Vífilsstaðasel

Vífilsstaðasel – uppdráttur ÓSÁ.

Cabouret benti á að það var aðeins heitið sel sem fluttist til Íslands, og að þess vegna megi reikna með því að þetta form seljabúskapar hafi verið hið algenga í Vestur Noregi við landnám Íslands. Þegar støl/stöðull varð algengt heiti selja í Vestur Noregi bendir það til hins sama. Orðið táknar mjaltastað, upphaflega án búsetu. Á Íslandi er orðið aðeins þekkt í hinni upphaflegu merkingu, sem mjaltastaður. Það taldi Cabouret benda til þess að merkingar-breytingin hafi fyrst orðið í Noregi eftir fólksflutningana til Íslands.

„Hve afarmikla þýðingu selin hafa haft á fyrri öldum, sést af hinum óteljandi seljarústum, sem eru dreifðar um afdali og heiðar um alt Ísland“, skrifaði Þorvaldur Thoroddsen árið 191912 en hann er líklega sá, ásamt þjóðverjanum Hitzler, sem lengi vel átti rækilegasta yfirlitið um sel og selstöður á Íslandi.

Kolhólasel

Kolhólasel – uppdráttur ÓSÁ.

Annars eru innlendar heimildir eru býsna ríkulegar. Þær byggjast bæði á sérstökum sagnfræði- og fornleifarannsóknum, sem gerðar hafa verið, sem og almennum frásögnum af seljum og seljabúskap í einstökum sveitum. Til viðbótar þeim heimildum, sem þegar hafa verið nefndar, má úr fyrri hópnum sérstaklega nefna rannsóknir þeirra Guðrúnar Ólafsdóttur og Guðrúnar Sveinbjarnardóttur en úr þeim síðari til dæmis verk Eyfirðingsins Hólmgeirs Þorsteinssonar og Skaftfellingsins Einars H. Einarssonar. Þá ber úr þeim flokki að nefna afar athyglisverða heimasíðu með fróðleik um sel, selstöður og seljabúskap á Reykjanesskaganum. Þá birti Benedikt Eyþórsson samantekt um seljabúskap á Íslandi og í norrænu ljósi í tengslum við rækilega rannsókn sína á búskap og rekstri Reykholtsstaðar fyrr á öldum. Beitarbúskapurinn, sem var grunnur að rekstri seljanna, gegndi miklu hlutverki í norrænum heimi, jafnvel svo að á vissum tíma sögunnar, svo sem á víkingaöld, hafa fræðimenn talið að [góðir] hagar hafi verið meginuppspretta auðs og valda.

Njarðvíkursel

Njarðvíkursel.

Höfundur Laxdæla sögu notar heitið sel um hin einstöku hús svo sem talin er hafa verið hin upphaflega merking orðsins. Við stympingar í Vatnshornsseli rifu árásarmenn „ræfrit af selinu“ en „selit var gert um einn ás, ok lá hann á gaflhlöðum, og stóðu út af ásendarnir, og var einart þak á húsinu ok ekki gróit.“ Orðalagið einart þak má í þessu samhengi skilja sem þak einfaldrar gerðar. Frásögnin bendir til þess að yfir selhússveggina hafi verið reft með einföldum hætti, hugsanlega aðeins til sumars í senn. Ekki er fráleitt að takmörkuð árleg notkun selhúsanna, og það á hlýjasta tíma sumars, hafi ýtt undir það að húsagerðin væri höfð einföld og að efni til þeirra væri sparað, til dæmis hvað snerti burðarviði þaks og árefti.

Hlíðarsel

Hlíðarsel – uppdráttur ÓSÁ.

Í lögbókunum fornu, Grágás, lagasafni íslenska þjóðveldisins, og Jónsbók, sem samþykkt var á Alþingi árið 1281, er allvíða vikið að seljum og selförum. Er það mjög til marks um mikilvægi seljanna á gildistíma lögbókanna. Lögin geyma ýmis atriði varðandi umgengni um sel og selstöður svo og selfarir, atriði sem varpa gagnlegu ljósi á forsendur og framkvæmd þessa búháttar. Hér verður því nokkurra ákvæða lögbókanna getið með beinum tilvitnunum í texta þeirra:

Úr Grágás (tölur vísa til blaðsíðu)

20: Manni er rétt að fara, þótt drottinsdagur sé, til sels með byttur . . .

319: OF SELFÖR. Ef maður hefir lönd fleiri undir bú sitt en eitt, og vill hann fara þar í sel yfir annars manns land, og á hann þar að fara með fé sitt tysvar á sumri til sels, en því aðeins oftar ef þar verða misgöngur fjár, þá á hann að reka heim smala sinn. Hann á fornar götur að fara, ef þær eru til.

Nessel

Nessel – uppdráttur ÓSÁ.

Ef hann fer of engi manns, þá skal hann í togi hafa hið lausa hross. Ef þar eru keldur á götu hans, og á hann að gera brúar þar yfir og vinna þau áverk á annars manns landi. Ef maður fer yfir engi annars, og hlýtur hinn af því skaða, þá varðar honum það útlegð, enda skal hann bæta honum skaða, svo sem búar fimm virða við bók.

320: ENN OF SELFÖR. Ef maður fer annan veg til sels of annars manns land með smala sinn eða klyfjahross en áðan var tínt, og verður hann útlagur of það þrem mörkum, og bæta auvisla sem búar virða við bók.

Ef fimm aura skaði verður að eða meiri, þá varðar fjörbaugsgarð. . .

330: . . . Eigi skal sel gera í afrétt. Ef gert er, þá er sel óheilagt, og eigu þeir að brjóta sel er afrétt eigu, enda verður sá útlagur er sel gerði eða gera lét við þá alla er afrétt eigu, og sinni útlegð við hvern þeirra.

Úr Jónsbók (tölur vísa til blaðsíðu):

Bjarnastaðasel

Bjarnastaðaból – uppdráttur ÓSÁ.

146: . . . þá skal það boð hver bera en engi fella, og á það að fara með veturhúsum eftir boðburð réttum en eigi með sætrum. . .

147: Sá skal boð bera bæja í milli . . . En ef hjú eru öll af bæ gengin, þá skal ganga í seturhús bónda ef það er opið og setja niður í öndugi svo að eigi falli.

186: [Hvervetna þar sem sætur eru til bæja manna, þá skulu menn fara með búfé sitt yfir annars land til sætra, fornar götur ef til eru, og hafa í togi laus hross ef yfir eng er að fara. En ef keldur eru á leið hans, þá má hann gjöra þar brú yfir og vinna þann áverka á jörðu hins]. Menn skulu fara úr húshaga með fé sitt þá er tveir mánaðir eru af sumri, utan þeim þikki öllum annað hentara er brottfærslu eigu.

En ef einhver situr lengur niðri, þá skal sá er að telur fyrirbjóða honum þarsetu. Nú situr hann heima eigi að síður, þá skal hann stefna honum héraðsþing fyrir rán og þarsetu. Þá eiga þingmenn að dæma konungi hálfa mörk fyrir grasrán en grönnum hans hálfa mörk fyrir grasverð þeim er gras missa. Nú skal hann æsta svo marga bændur liðs sem hann þarf að færa fé hins úr haga sínum. Sekur er sá hver tveimur aurum við konung er eigi fer, ef hann er til krafður. Slíkt hið sama liggur við ef maður fer heim í húshaga fyrir tvímánuð.

186: [Nú skal til sætra á fjöll upp vera merki sem að fornu fari hefir verið og færa sætur eigi úr stað utan hann færi öngum manni til skaða, og svo skulu þeir hið sama sætrum halda. Engi maður skal setja sætur sitt við annars land eður haga, þar sem eigi hefir að fornu verið. Þar skal mæta horn horni og hófur hófi.]

Arasel

Ara(hnúka)sel – uppdráttur ÓSÁ.

186: Þjóðgata og sæturgata og allir rekstrar skulu vera sem að fornu fari hafa legið . . . [187] . . . Ef maður rænir annan mann sæturgötu eður rekstri þeim sem að fornu fari hefir verið, bæti konungi hálfri mörk fyrir vegarán og hafi hinn þó götu sem áður.

198: . . . Sætur má hver maður gjöra er þann almenning á ef hann vill þar sitja í sumarsetri, ef það er.“

Á vef HÍ 2020 má lesa eftirfarandi frétt:
„Flest þekkjum við og höfum sungið þetta kvæði Sveinbjarnar Egilssonar, fyrrverandi rektors Menntaskólans í Reykjavík. Kvæðið vísar til horfins tíma á Íslandi, tíma þar sem kindur og kýr voru reknar á afskekkta staði fjarri bóndabæjum, í svokölluð sel, yfir sumartímann. Þar voru dýrin á beit og smalar eða vinnukonur höfðu það hlutverk að mjólka skepnurnar og hirða um þær.

Seljabúskapur tíðkaðist á Íslandi frá landnámi og fram á 19. öld líkt og víða í Evrópu. Þess konar búskapur er viðfangsefni Árna Daníels Júlíussonar, sérfræðings hjá Sagnfræðistofnun Háskóla Íslands, og erlendra samsstarfsfélaga hans í rannsóknarverkefninu PECUS sem hlotið hefur styrk frá Erasmus+ áætlun Evrópusambandsins.

Stakkavíkursel

Stakkavíkursel.

„Markmið PECUS-verkefnisins er tvíþætt: Annars vegar er viðfangsefni og hins vegar aðferð sem beitt verður til að fást við það. Viðfangsefnið er seljabúskapur í löndum Evrópu. Með í verkefninu eru sérfræðingar sem hafa rannsakað seljabúskap á Íslandi, Bretlandi, Alpafjöllum, á Spáni, Ítalíu og Grikklandi, og markmiðið er að kynna þessar rannsóknir og leggja þær fram þannig að þær nýtist sem viðfangsefni í verkefninu. Aðferðin sem unnið verður með heitir á ensku „Fuzzy Cognitive Mapping“ og felst í að nota tölvuforrit til að greina og bera saman seljabúskap í löndunum fimm. Unnið verður með ókeypis forrit að svokallaðri „huglægri líkanagerð“ (e. mental modelling) með hin ýmsu seljakerfi sem viðfangsefni,“ útskýrir Árni Daníel sem hefur sérhæft sig í sögu íslenska bændasamfélagsins í rannsóknum sínum.

Nemendur og kennarar starfa saman að verkefninu

Lónakotssel

Lónakotssel.

Árni Daníel segir að frumkvæðið að rannsóknarverkefninu hafi komið frá Ítalíu, frá stofnun sem hefur sinnt ýmsum samevrópskum verkefnum á sviði skipulagsmála, landfræði og sögulegrar landfræði og nefnist U-space. Fulltrúar hennar hafi haft samband við rannsóknasamfélög í Grikklandi, Spáni, Bretlandi og Íslandi og leitað samstarfs og byggður hafi verið upp verkefnishópur.

Verkefnið hófst síðastliðið haust og stendur í tvö ár. „Hugmyndin er að fá kennara og nemendur til samstarfs í verkefninu. Nokkur námskeið og ráðstefnur verða haldin, í Newcastle á Englandi og Valencia og Sevilla á Spáni, og þangað verður kennurum og nemendum úr viðkomandi háskólum boðið til að vinna með viðfangsefni verkefnisins,“ segir Árni Daníel.

Hamrasel

Hamrasel – uppdráttur ÓSÁ.

„Með í verkefninu eru sérfræðingar sem hafa rannsakað seljabúskap á Íslandi, Bretlandi, Alpafjöllum, á Spáni, Ítalíu og Grikklandi, og markmiðið er að kynna þessar rannsóknir og leggja þær fram þannig að þær nýtist sem viðfangsefni í verkefninu. Aðferðin sem unnið verður með heitir á ensku „Fuzzy Cognitive Mapping“.

Seljabúskap hnignaði eftir Stórubólu
Ritaðar heimildir um seljabúskap er að sögn Árna Daníels að finna í íslenska fornbréfasafninu og víða í fornritum, eins Íslendingasögum og öðrum sögum. Þá megi finna ýmislegt um síðari alda seljabúskap mjög víða í ritheimildum og bendir Árni Daníel sérstaklega á Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns sem gefi mjög nákvæmt yfirlit um ástandið í upphafi 18. aldar.

Viðeyjarsel

Viðeyjarsel.

Hins vegar segir hann að seljabúskapur á Íslandi sé lítt rannsakaður. „Þó hefur ýmislegt komið í ljós um seljabúskap fyrr á tímum við fornleifaskráningu á síðustu áratugum og til er þýskt doktorsrit um seljabúskap á Íslandi frá 1979. Fornleifaskráning leiðir í ljós að seljabúskapur var miklu mun útbreiddari fyrr á öldum en t.d. 1702-1714 þegar miklar heimildir um seljabúskap voru skráðar í Jarðabók Árna og Páls. Við Eyjafjörð hefur komið í ljós að sel var nánast við hvert lögbýli til forna en þegar Jarðabókin var tekin hafði seljunum fækkað mjög mikið. Aðeins voru fá sel eftir í sýslunni miðað við það sem verið hafði. Svo er ekki vitað á hvaða tíma þessi sel störfuðu, hvort það var um skamman tíma eftir landnám eða hvort það var allar miðaldir. Þetta er mjög spennandi viðfangsefni sem vonandi verður unnt að ræða innan ramma þessa verkefnis,“ segir hann enn fremur.

Mjóanessel

Mjóanessel – uppdráttur ÓSÁ.

Ekkert er vitað um hvort íslenskum seljabúskap hafi svipað eitthvað til sams konar búskapar við Miðjarðarhaf en sá íslenski á rætur sínar að rekja til Noregs. „Norskur seljabúskapur er ekkert sérlega gamall í samhengi landbúnaðarsögunnar. Hann hófst þegar farið var að nýta land betur, að líkindum vegna aukinnar fólksfjölgunar um 200–300 e.Kr. Það kerfi var síðan flutt nær óbreytt hingað til lands en það liggur s.s. nær ekkert fyrir um það hversu lengi því var haldið við. Egon Hitzler gerir í doktorsritgerð sinni frá 1979 ráð fyrir að seljabúskap hafi hnignað eftir plágur 15. aldar og greinilegt er að seljabúskap hnignaði mjög eftir Stórubólu 1707. Þar var frekar um að ræða aðlögun að aðstæðum en hnignun því gróðurlendi á hvern íbúa er það mikið hér á landi að í rauninni var ekki þörf á seljabúskap eins og hann var stundaður í Noregi þar sem gróðurlendi er minna á hvern íbúa og þörf á að þaulnýta allan gróður,“ bendir Árni á.

Verkefnið tengir íslenskt fræðasamfélag við Miðjarðarhafssvæðið
Aðspurður segist Árni Daníel vona að verkefnið skili þekkingu á og færni í nýrri aðferðafræði í félags- og hugvísindum, sem hægt er að nota á breiðu sviði, ekki einungis í tengslum við seljabúskap. „Mikilvægt er þó að fjalla um og búa til gagnagrunn um rannsóknir og þekkingu á seljabúskap hérlendis sem gæti nýst til rannsókna á því sviði.“

Selvogsheiði

Selvogsheiði – sel. Uppdráttur ÓSÁ.

Alþjóðlegt samstarf verður sífellst stærri þáttur í starfi fræðimanna Háskólans sem skilar í senn nýjum hugmyndum inn í íslenskt vísindasamfélag og nýrri þekkingu og vinnuaðferðum innan fræðigreina eða í tengslum við afmörkuð viðfangsefni. „Verkefnið tengir íslenskt fræðasamfélag við lönd sem eru ekki svo nálægt okkur og tilheyra öðru svæði Evrópu, Miðjarðarhafssvæðinu. Nýjar aðferðir í akademískri vinnu eru alltaf velkomnar og mikil nauðsyn er á að kanna betur seljabúskap hér á landi“, segir Árni Daníel að endingu.“
Ástæða er til að vekja athygli á að „hnignun seljabúskapar í kjölfar farsótta fyrr á öldum“ verður að teljast eðlileg í ljósi aðstæðna á hverjum tíma. Hins vegar munu breyttir búskaparhættir hafa haft mun meiri áhrif en hingað til hefur verið gert ráð fyrir.

Á vef Fornleifastofnunar Íslands 6. desember 2022 má lesa eftirfarandi:

Flekkuvíkursel

Flekkuvíkursel – uppdráttur ÓSÁ.

„Í ár styrkti Rannís verkefnið „Þróun seljabúskapar á Íslandi 800-1800“ til þriggja ára. Í rannsókninni verður leitast við að svara spurningum um upphaf og hnignum seljabúskapar hér á landi og kannað hvaða vísbendingar seljabúskapur fyrri alda getur gefið um vist-, félags-, hag- og landbúnaðarkerfi á Íslandi frá 800 til 1800. Til að svara þessum spurningum verða nýtt ýmis verkfæri fornvistfræði, fornleifafræði og sagnfræði og eru aðferðir landsháttafornleifafræði í forgrunni. Sel voru eins konar útstöðvar frá bæjum. Þau voru gjarnan nokkurn spöl frá bæjum, inn til dala eða upp til fjalla og þar voru mjólkandi skepnur voru hafðar yfir sumartíma.

Hvassahraunssel

Hvassahraunssel – tilgáta.

Á Íslandi voru vinna í seljum yfirleitt talin til kvennastarfa, a.m.k. á seinni öldum, en víða annars staðar í heiminum voru og eru það gjarnan karlar sem sjá um þessi verk, því þótt seljabúskapur hafi að mestu lagst af á Íslandi á 18.-19. öld er hann enn stundaður víðs vegar í heiminum. Margvíslegar athuganir hafa verið unnar á þessu fyrsta ári rannsókna.“
Framangreindar athuganir virðast ekki hafa skilað sér til áhugasamra um verkefnið.

Heimild:
-https://issuu.com/landbunadarhaskoli_islands/docs/rit_lbhi_nr_131_sel_og_selstodur_vid_dyrafjord_lok/s/17199734
-https://www.hi.is/frettir/sameinast_um_ad_rannsaka_seljabuskap_i_evropu
-https://www.facebook.com/people/%C3%9Er%C3%B3un-seljab%C3%BAskapar-%C3%A1-%C3%8Dslandi-Transice/100083391214649/

Litla-Botnssel

Litla-Botnssel – tilgáta.

ísólfs

Nútíminn hefur vaxandi áhuga á umhverfi og umhverfisvernd, útivist og ódýrri heilsueflingu, ekki síst nú á tímum hækkandi eldsneytisverðs og kröfu um ráðdeild.

Selatangar

Selatngar – verkhús.

En hvað með söguna, varðveislu og nýtingu hinna áþreifanlegu minja?
Á Reykjanesskaganum býr yfir helmingur Íslendinga, á einu fjölbreyttasta útivistarsvæði landsins, en jafnframt því vannýttasta. Á svæðinu er mikill fjöldi sögulegra minja. Lítill hluti þeirra hefur þó verið skráður og örfáar áhugaverðar minjar hafa beinlínis verið varðveittar með markvissum aðgerðum eða áætlunum um að gera þær aðgengilegar fólki. 

Flestar lýsa minjarnar sögu þjóðarinnar frá upphafi norræns landnáms, stig af stigi, menningu og búskaparháttum liðinna alda, t.a.m. tóttir gamalla bæja, sjóbúðir, sel og selstöður, stekkir, kvíar, nátthagar, hleðslur, fjárborgir og hellar, fjárskjól, þjóðleiðir, mörk og merkingar auk dysja, brunna, flórgólf, naust og varir.

Gíghæð

Vegavinnubúðir á Gíghæð.

Hvert sem farið er liggur sagan geymd – en ekki öllum gleymd. Ótaldar eru náttúruminjarnar á Reykjanesskagnum, sem margar hverjar eiga hvergi sína líka, svo og umhverfið og náttúrúran sjálf í hraunum, hlíðum, dölum, fjöllum, hálsum og við læki og vötn.
Lítill áhugi virðist hafa verið fyrir því að rannsaka og/eða endurgera minjar á svæðinu svo gera megi söguna aðgengilegri og um leið nýtanlegri.

Gvendarhellir

Í Gvendarhelli (Arngrímshelli).

Allir hafa í raun gott af því að vita af uppruna sínum og fá tækifæri til að gera sér grein fyrir hvar rætur þeirra liggja, hvernig forfeðurnir lifðu og við hvaða aðstæður þeir komust af. Jafnframt hvernig nýta megi arfinn sem best komandi kynslóðum til heilla.

Minjasagan lýsir ekki síst einkennum þjóðarinnar og hvernig hún nýtti landkosti og efni öðruvísi en aðrar þjóðir, hvernig dreifing útvegsbændabyggðarinnar var með ströndum landsins, nýting innlandsins og önnur hagnýting landsgæðanna. Hver var t.a.m. ástæðan fyrir því að landsmenn bjuggu í „moldarhólum“ og hlöðnum byrgjum langt fram eftir öldum á meðan fólk víðast hvar annars staðar í Evrópu hafði búið í steinhúsum um árþúsundir?

Flekkuleiði

Flekkuleiði.

Á Reykjanesskaganum er hægt að sjá bæði þróun híbýlanna hér á landi og upphaf steinhúsabygginganna á 19. öldinni – ef vel er að gáð. Fyrsti viti landsins var reistur á Valahnjúk á Reykjanesi og svo mætti lengi telja. Um hann og ótalmargt annað, bæði fyrst og merkilegast, er fjallað á vefsíðu þessari.

Algengara er í seinni tíð að hópar eða jafnvel vinnustaðafélagar taki sig saman og skipuleggi stuttar gönguferðir starfsmanna. Um er að ræða ódýrt en hollt ráð til að bæta heilsu og líðan þeirra, sem hlut eiga að máli, en jafnframt kjörið tækifæri til að kynnast sögu, minjum og umhverfi svæðisins. Stutt er á þau mið sem og allt, sem til þarf. Frá Reykjavík tekur t.a.m. ekki nema innan við stundarfjórðunga að komast á flest áhugaverðustu svæði Reykjanessins.

Garður

Gengið um Garð.

Ástæða er til að hvetja fólk til að hreyfa sig umfram hið venjubundna og að áhugasamt fólki nýti sér nálægðina til að kynna sér hið margvíslega sem umhverfið og svæðið allt hefur upp á að bjóða.

Gönguhópurinn FERLIR hefur nýtt undanfarin misseri til að ganga um einstök svæði á Reykjanesskaganum. Upphaflega var markmiðið að fara eitt hundrað ferðir um svæðið til að skoða það helsta, en þrátt fyrir tæplega 1260 ferðir, sem að jafnaði hafa tekið 1-5 klst hver, eru enn stór svæði ógengin og óskoðuð.

Keflavík

Í Keflavík.

Hópurinn hefur á ferðum sínum um Reykjanesskagann leitað til fólks, sem fætt er eða uppalið á hinum ýmsu svæðahlutum. Hvarvetna hefur hópnum verið vel tekið og fólk verið ótrúlega áhugasamt og viljugt að miðla af fróðleik sínum og þekkingu. Berlega hefur komið í ljós að þetta fólk býr yfir bæði mikilli og ómetanlegri vitneskju um minjar og sögu staðanna. Þessu fólki fer því miður fækkandi og líklega kemur að því að margt af því, sem vitneskja er um í dag, hverfi með tímanum – nema eitthvað verði að gert til að varðveita það (umfram það ágæta sem þegar hefur verið gert).

Hrútagjárdyngja

Gengið um Hrútagjárdyngju.

Komið hefur á óvart hversu ótrúlega mikið og margt Reykjanesskagasvæðið, bæði ofan og utan höfuðborgarsvæðisins, hefur upp á að bjóða útivistarfólki eða öðru því fólki, sem nennir að leggja svolítið á sig eða hefur áhuga á að fræðast, hreyfa sig eða skoða sig um.

Í ferðum FERLIRs hefur oft verið um að ræða gönguferðir utan alfararleiða og þá tækifærið verið notað og skoðaðar jarðmyndanir á svæðinu, fjöll, dalir, hæðir og lægðir, hellar, minjar, s.s. sel, fjárskjól og brunnar, nátthagar, gjár, gamlar þjóðleiðir, vötn, námur, hverir, brunnar, flugvélaflök, eldgígar, eldborgir, vitar, hleðslur og skógræktir. Jafnframt hefur verið reynt að setja sig í spor og kynnast lífi fólks og aðstæðum þess á öldum áður.

Festarfjall

FERLIRsfélgar ferðast um neðsta hluta „Festarinnar“ undir Festarfjalli.

Sumir staðanna, sem gengið hefur verið á, eru mjög viðkvæmir fyrir átroðningi og því kannski ekki beinlínis æskilegt að hvetja margt fólk til að fara þangað, en ef það er gert þarf ávallt að gæta þess að fara um með varkárni og af tillitssemi. Ósnert náttúran verður æ verðmætari og á nokkurs vafa munu verðmætin margfaldast þegar fram líða stundir.

Til gaman má geta þess að þátttakendur hafa fram að þessu skoðað um fjögur hundruð selstöður á svæðinu frá Hvalfjarðarbotni að Reykjanestá (landnámi Ingólfs), auk allra mannvirkjanna, sem þeim fylgja, s.s. stekkir, kvíar, fjárskjól, gerði, brunnar, vatnsstæði og leiðir, gamlar hlaðnar réttir, um 600 hella og nafngreinda skúta, fjölmargar gamlar leiðir, gamla hlaðna brunna, letursteina og áletranir, vörður, sem tengdar eru einhverjum sögum, um 60 hlaðnar refagildrur, flugvélaflök frá stríðsárunum sem og margt annað er ætti að þykja áhugavert.

Ferlir

FERLIRsfélagar á göngu um Almenningsveginn á Vatnsleysuströnd.

Mest um verð er þó sú innsýn, sem þátttakendur hafa öðlast á landssvæðið, breytingar á því í gegnum aldirnar, aðstæður fólksins og dugnað þess við takmarkaða möguleika og erfiðan kost. Þetta fólk á skilið mikla virðingu frá okkur afkomendunum. Mikilvægt er og að láta vitundina um það lifa áfram á meðal þeirra sem eiga að erfa landið – og umgangast með með sómasamlegum hætti.

Eldvörp

Gengið um Eldvörp.

Litluborgir

Hér á eftir eru nokkur atriði varðandi jarðmyndanir, hraun og jarðsyrpur á Reykjanesi.

-Jarðmyndanir:

Reykjanes

Reykjanes – jarðfræði

Eldstöðvarkerfin á Reykjanesi eru fimm talsins og liggja frá norðaustri til suðvesturs. Á þeim hafa myndast gossprungur og gos hraun komið upp á nútíma (frá því fyrir 12-13 þús. árum). Áður var til grágrýtismyndunin úr fornum dyngjum, sem Rosmhvalanesið, Njarðvík, Stapinn, Löngubrekkur og Fagradalsfjall hvíla á.

-Jarðsyrpur:
Rosmhvalanesið er dæmi um fornar dyngjur á Reykjanesinu (eldri en 120 þús ára). Jökullinn hefur hefur sorfið klappir og mótað landið. Hann hopaði fyrir 12-13 þús. árum á Reykjanesi. Sjá má merki þess einnig á Lönguhlíðum, á Krýsurvíkurheiði í Fagradalsfjalli og ofan við Húsatóftir.

Sveifluháls

Sveifluháls.

Helstu fjöll og fjallgarðar verða til á síðasta jökulskeiði, áður en jökullinn hopaði, s.s. Austurháls (Sveifluháls), Vesturháls (Núpshlíðarháls), Keilir, Trölladyngja, hluti Fagradalsfjalls, Þorbjörn, Lágafell, Þórðarfell, Stapafell og Súlur.
Nútímahraun renna eftir að ís leysti. Verða þá sprungugos (apal- og helluhraun) þar sem má þekkja eldri og grónari hraunin, s.s. Katlahraun, Skógfelllahraun, Sundhnúkahraun, Hvassahraun, Helluhraunið eldra, Dyngnahraun, Stampahraunið eldra, Eldvarpahraunin eldri o.fl.

Skálafell

Skálafell á Reykjanesi.

Meginhluti skagans er þakin nútímahraunum, þ.e. hraunum er runnu eftir að jökul leysti (12-13 þúsund ára).
Nokkrar litlar dyngjur hafa gosið eftir síðasta kuldaskeið, s.s. Háleyjarbunga, Skálafell, Vatnsheiðagígar, Lágafell og Hraunsfell-Vatnsfell (pikrít).
Þrjár til fjórar stórar dyngjur hafa einnig gosið á nútíma, s.s. Sandfellshæð, Þráinsskjöldur og Hrútargjárdyngja. Þá má nefna heiðina há og Strandarheiði. Mikil gos er skilað hafa miklu hraunmagni. Þessi hraun, auk sprunguhraunanna, hafa fyllt duglega inn á milli móbergssfjallanna og myndað skagann smám saman.

Jarðfræðikort

Jarðfræðikort.

Sprunguhraun héldu áfram að renna á sögulegum tíma (um og í kringum 1000 (Kristnitökuhraun), 1151 (Ögmundarhraun), 1188 (Afstapahraun) og 1226 (Stampahraun yngra). Þetta voru aðallega apalhraun, en þó einnig helluhraun (Arnarseturshraun).
Gjár og sprungur (NA-SV) einkenna Reykjanesskaga. Misgengi má sjá víða, s.s. við Snorrastaðatjarnir. Einnig þversprungur og misgengi (NS), s.s. í Þorbirni.
Víða má sjá einstakar og fallegar hraunmyndanir, s.s. gjall- og klepragíga, dyngjur og móbergs- og bólstramyndanir.

Jarðfræði, jarðasaga, jarðlagagerð og nokkur örnefni:

Jarðfræði

Jarðfræðikort.

Reykjanes-Langjökulssvæðið varð virkt fyrir um 7 milljónum ára þegar suðurhluti rekhryggjarins er lá um Snæfellsnesið dó út. Eldvirknin byrjaði nyrst en færði sig smám saman til suðurs og hlóð upp skagann.
Yfirborðbergið er grágrýti (dyngjuhraun), móberg og bólstraberg (Stapafell, Keilir) og nútímahraun, bæði frá því er ísa leysti fyrir 12-14 þús. árum (dyngjuhraun og sprunguhraun) og hraun frá sögulegum tíma. Forsögulegu hraunin eru runninn á nútíma, áður en landnáms hefst, en sögulegu hraunin eftir landnám. Stóru dyngjurnar eru Sandfellshæðin, Þráinsskjöldur og Hrútargjárdyngja (og jafnvel Strandarhæð), en auk þeirra eru nokkrar minni og eldri (pikrít-dyngjur), s.s. Háleyjarbunga, Skálafell, Vatnsheiðargígar, Hraunsfells-Vatnsfell og Lágafell.

Hellisheiði

Hellisheiði – efri hluti (jarðfræðikort Ísor).

Frá ísaldarlokum hafa komið upp um 42 km3 af hraunum að flatarmáli um 1100 km2 frá yfir 200 eldstöðvum í 4 (5 eða 6) eldstöðvakerfum. Megineldstöð er aðeins að finna í Henglinum.
Jarðskjálftarenna liggur eftir miðjum skaganum og markar líklega mót plantnanna. Þar sem hún sker eldstöðvakerfin eru háhitasvæðin.
Síðasta kuldaskeið (ísöld) hófst fyrir um 120.000 árum þegar um 20.000 ára hlýskeiði lauk. Móbergsstapar gefa þykkt jökulsins til kynna, þ.e.a.s. hæð hraunhettu þeirra yfir umhverfið.
Grindavíkurfjöllin hafa þau sérkenni að berg þeirra hefur öfuga segulstefnu miðað við þá sem er í dag. Aldur þeirra er um 40.000 ár (sjá Siglubergsháls hér á eftir).

Hraunakort

Útbreiðsla hrauna frá 8. og 9. öld á Reykjanesskaga. Einnig eru sýnd hraun frá sögulegum
tíma (heimild: Kristján Sæmundsson o. fl. 2010).

Gosbeltin, sem marka skilin á milli skorpuflekanna eru 24-50 km breið. Eldvirknin innan þeirra er ekki jafn dreifð heldur raðast gosstöðvar og sprungur á nokkrar vel afmarkaðar reinar með mestri virkni um miðbikið. Eldstöðvakerfi skagans hliðrast til austurs. Stefna þeirra er NA-SV, en gosbeltið stefnir lítið eitt norðan við austur.
Margt bendir til að eldgos á Reykjanesskaga verði í hrinum eða lotum á um það vil 1000 ára fresti. Gos á sögulegum tíma urðu t.d. árið 1000 (Hellnahraun), 1151 (Ögmundarhraun, Astapahraun), 1188 (Mávahlíðarhraun), 1211 (Yngra Stampahraun) og 1226 (gígar utan við Reykjanesið).

-Einstök fjöll, fjallshryggir, gígar og hraun:

Valahnúkur

Valahnúkur.

Grágrýtismyndunin á Rosmhvalanesi og Stapanum svo og upp af Krýsuvíkurbjargi er 120-220 þúsund ára.
Valahnjúkur er úr móbergi, en alláberandi er brotaberg, bólstraberg og grágrýtisinnskot.
Bæjarfell/Vatnsfell eru úr bólstrabergi eins og Litlafell. Mynduð á svipuðum tíma og Valahnúkur.
Sýrfell er ú móbergstúffi og móbergsbrotabergi.
Miðaldarlagið (aska frá 1126) er leiðarlag á Reykjanesskaga upp í Hvalfjörð, Þingvallasveit og Ölfus. Kom líklega úr tveimur gígum, 2-3 km SV af Reykjanesi, sem náða hafa upp úr sjó og gosið surtseysku gosi. Nú eru þar 40-60 m háir hólar á um 20 m dýpi á sjávarhrygg.

Stampar

Gígar í Yngra- Stampahrauni.

Eldra Stampahraunið er rúmlega 1500 ára. Gígaröðin er um 5 km að lengd og samanstendur af nokkrum allstórum gjallgígum og ótalsmáum kleprahrúgöldum. Einn gíganna ber þess glögg merki að hafa gosið í fjöruborði og þá hlaðist upp öskukeila en gosið breyst í hraungos líkt og með með mörg sprunguhraunanna á Reykjanesi.
Yngra Stampahraunið er frá 1211 og fyrsta gosið í Reykjaneseldum. Gígaröðin er um 4 km að lengd og endar í tveimur klepra- og gjallgígum, sem rísa um 20 m upp úr hrauninu. Gígar þessir nefnast Stampar og tekur hraunið nafn af þeim.
Haugshraun er kennt við gíginn Haug, sem stendur á vesturbarmi sigdals, sem nefnist Haugsvörðugjá. Prestastígurinn liggur m.a. um dalverpið.

Háleyjarbunga

Háleyjarbunga.

Skálafell og Háleyjabunga eru gamlar dyngjur (pikrít), eð aum 14.000 ára. Háleyjabungan er eldri en Skálafellið. Í toppi hennar er hringlaga, skjólgóður og snotur gígur.
Sandfellshæðin er dyngja. Úr henni er komið langmesta magn hrauna á utanverðum skaganum. Yngri hraunin hafa runnið yfir stóra hluta hennar. Gígurinn er um 450 m að þvermáli og rúmlega 20 m djúpur.
Klofningshraun og Berghraun eru frá um 1211. Komin að mestu leyti úr Rauðhól, sem er nyrst í hrauninu.

Eldvarpahraun

Eldvarpahraun – Blettahraun.

Eldvarpahraun er hluti Reykjaneseldanna. Aðal gígaröðin er um 8,5 km að lengd, en þó ekki samfelld. Í henni eru allstórir gjall- og klepragígir, oftast nokkrir saman, sem tengjast næstu fylkingu með röð smágíga. Sundvörðuhraun nefnist austasti hluti þess, eftir hraunstrýtu sem notuð var sem siglingamerki.

Eldvörp

Eldvarpahraun.

Lambagjárhraun er smá hraunbleðlar í Eldvarpahrauni. Í því eru allmörg misgengi.
Eldvarpahraun eldra er um 2200 ára. Upptökin eru ókunn, en þó líklega í grennd við Eldvörpin.
Sundhnúkahraun er um 2400 ára. Norðaustur af Hagafelli er áberandi hnúkur, sem heitir Sundhnúkur (innsiglingamerki) og þaðan er nafnið komið af reyndar röð lítilla gíga. Skógfellavegurinn liggur meðfram hluta eldvarpanna. Hraunin eru dreifð víða um Grindavíkursvæðið og m.a. byggt upp Þórkötlustaðanesið og myndað þannig brimbrjót fyrir Grindavík.

Skipsstígur

Gengið um Rauðamel. Varða við Skipsstíg.

Hrólfsvíkurhraun er pikrít-hraun og líklega frá Vatnsheiði.
Húsafell og Fiskidalsfjall eru móbergsstapar, sem líklegast eru frá síðari hluta síðasta jökulsskeiðs. Undir þeim að sunnan eru miklar öskjudyngjur, sem gosið hafa á grunnsævi.
Rauðimelur er setmyndun, úr sandi og möl, sem teygir sig 2.5 km norðaustur frá Stapafelli. Setmyndun þessi er víða vel lagskipt og er 6-7 m þykk. Myndunin hvílir á jökulbergslagi,sem liggur ofan á grágrýti en um miðbik melsins kemur um 2 m þykkt jökulbergslag. Myndunin er að öllum líkindum sjávargrandi sem myndast hefur við rof á Stapafelli og Súlum. Grandinn er eldri en 40.000 ára og eftir því hvernig myndun jökulbergsins er túlkuð, jafnvel frá næstsíðasta jökulskeiði. Stapafellið er mun eldri en grandinn, senniega frá næstsíðasta eða snemma á síðasta jökulskeiði.

Þórðarfell

Þórðarfell.

Stapafellið og Súlur eru að mestu byggt upp úr bólstrabergi og öskulögum, en berglag, stuðlað og án bólstramyndana, finnst líka. Lag þetta má túlka sem innskot eða jafnvel hraunlag.
Þórðarfell er úr bólstrabergi, en gæti verið yngra en Stapafellið.
Lágafell er hæðarbunga úr móbergi. Gígurinn bendir til þess að jökull hafi gengið yfir það.

Þorbjörn

Þorbjörn.

Þorbjörn er hlaðið upp úr bólstrabergi og móbergsþurs með bólstrum og bólstrabrotum á víð og dreif. Í toppi fjallsins er mikill sigdalur og er vestari stallurinn (Þjófagjá) tugir metra á hæð. Utan á fjallinu er kápa úr jökulbergi og bendir hún ásamt misgengjunum til nokkurs aldurs, jafnvel frá næstsíðasta jökulskeiði.
Selháls, Hagafell og Svartengisfjall eru aðallega úr bólstrabergi, sem sést vel í Gálgaklettum. Þar er misgengisstallur sem klýfur fellið.
Stóra-Skógfell er úr bólstrabergi sf svipaðri gerð og Sandfell.

Sandfellshæð

Sandfellshæð.

Lágafell er eldra en Sandfellshæð. Það er lítil og nett pikrít dyngja. Klifgjá, 6-8 m hátt misgengi, sem gengur upp í Þórðarfell, sker dyngjuna um þvert og þar sjást hraunlög hennar ágætlega og hversu ólívínríkt bergið er.
Vatnsheiði myndaðist snemma á nútíma. Þrjár samvaxnar pikrít-dyngjur eða pikrítdyngja með þrjá samvaxna gíga (svæðisgos). Nyrsti gígurinn er stærstur og hæstur og nær hringlaga, líklega um 200 m að þvermáli.
Illahraun rann um 1226. Það hefur runnið úr fimm gígum á um 200 m gígaröð. Nyrsti gígurinn er stærstur og í rauninni tvöfaldur. Fyrst hefur myndast allstór gígur, en þegar virknin minnkaði hefur myndast nýr gígur á vesturbarmi þess eldri.

Arnarseturshraun

Hrauntjörn í Arnarseturshrauni.

Arnarseturshraun rann um 1226. Hraunið er aðallega komið frá 400 m langri gígaröð um 500 m austan við grindavíkurveginn. Nyrstu og syðstu gígarnir hafa aðallega gosið hrauni, en á milli þeirra hlóðust upp gjallgígar, sem risið hafa um 25 m yfir hraunið, en nú hafa þeir verið að mestu brottnumdir. Hraunið er helluhraun næst gígunum, en frauðkennt og blöðrótt og brotnar gjarnan undan fæti. Í hrauninu er nokkrir allstóri hellar, s.s. Kubbur, Hnappur og Hestshellir.

Skála-Mælifell

Skála-Mælifell.

Dalhraun er allgamallt og hugsanlega úr gíg er stendur upp úr Sundhnúkahrauni.
Hrafnshlíð/Siglubergsháls er móbergsstapi, bólstraberg, móbergsþurs og túff, þakið grágrýti, sem komið er úr Bleikhól, áberandi gíg nyrst í fjallinu. Grágrýti þetta er öfugt segulmagnað og runnið á segulmund sem kennd er við Laschamp í Frakklandi. Fleiri slíkar basalthettur er á þessum slóðum, t.d. á Skála-Mælifelli, Hraunsels-Vatnsfellum og Bratthálsi. Aldur bergsins er um 42.000 ár. Fyrir rúmum 40.000 árum lá þunnur jökull yfir Grindavíkurfjöllunum sem teygði sig um 4 km vestur og norður frá norðurhorni Fagradalsfjalls.

Festarfjall

Festarfjall og Hraunsvík.

Festarfjall og Lyngfell eru stapar sem rof sjávar hafa klofið í herðar niður og myndað hæstu sjávarhamra á Rekjanesi. Einnig sjást innviðir þess, m.a. berggangur.
Fagradalsfjall er dæmi um móbergsstapa á utanverðum skaganum. Neðst er bólstraberg, síðan túff og brotaberg og efst er myndarleg hraunhetta, sem komin er frá dyngjugíg nyrst í fjallinu.

Slaga

Slaga – berggangur.

Slaga er mynduð úr bólstrum og bólstrabrotum svo og hraunklessum og upp í þessar myndanir liggur gangur. Neðar við þær tekur við jökulriðið grágrýtislag, sem einnig nær undur Langahrygg og Fagradalsfjall.
Skála-Mælifell er móbergsfjall með rauðu gjalllagi undir hraunhettu á toppi fellsins.
Núpshlíðarháls er úr móbergi sem hefur myndast undir jökli í mörgum gosum, sem ekki hafa náð upp úr jöklinum. Meginþorri hans er frá síaðsta jökulskeiði, en í grunni hans geta verið eldri myndanir.
Latur, Latstögl og Latfjall eru röð móbergshnúka, aðallega móbergsbrotaberg.

Bólstri

Stærsti bólstri í heimi í Stapafelli.

Méltunnuklif er misgengisstallur rétt austan við Skála-Mælifell. Í klettanefi yst á því lesa upphleðslusögu svæðisins. Neðst er jökulrákað grágrýti, en ofan á það kemur þunnt jökulbergslag, því næst allþykk grágrýtislög (efra lagið er rispað af jökli) og ofan á þau nokkuð þykkt jökulbergslag sem hulið er móbergi.
Borgarhraun gæti hafa komið upp í gígum í sunnanverðu Fagradalsfjalli.
Höfðahraun er m.a. komið úr Höfðagígum og Moshólum, sem vegurinn liggur um. Hefur það runnið í sjó fram og myndað nokkra gervigíga og einnig er forn malarkambur í því rétt austan við Ísólfsskála.

Méltunnuklif

Méltunnuklif.

Misgengið Méltunnuklif nær út í hraunið.
Það nær að Ögmundarhrauni. Þunnfljótandi hraunið hefur runnið út í grunna vík. Í stað hefðbundinna gervigíga úr gjalli mynduðust niðurföll, hraunborgir, hraunrásir, hellar, sappar (hraunsveppir) og holar súlur þegar heitt hraunið snöggkólnaði og breytti vatninu í háþrýsta gufu. Litluborgir, austan Helgafells, og jafnvel Dimmuborgir eru taldar hafa myndast á svipaðan hátt.

Ögmundarhraun rann um 1151. Hraunið rann frá Krýsuvíkureldum (1151-1188). Það þekur botn Móhálsadals sunna Djúpavatns, allt til sjávar. Inni í hrauninu eru Húshólmi og Óbrennishólmi í eldra hrauni, báðir með fornum minjum í frá upphafi landsnáms.

Helgafell

Nyrsti gígurinn í gígröð Ögmundarhrauns vestan Helgafells.

Krýsuvíkurbjarg er aðallega byggt upp af hraunlögum (grágrýti) og gjalllög Skriðunnar ljá berginu rauðan blæ. Skriðan og Selalda eru eldstöðvar sem gosið hafa í sjó og byggt upp eyjar úr gosmöl (virki og ösku) og hraunlögum. Grágrýtsihraunin hafa síðan tengt eyjar við fastalandið og kaffært þær að mestu. Strákar er ung móbergsmyndun vestan Selöldu. Hraunlögin í syllum Krýsuvíkurbergs eru sennilega komin frá Æsubúðum í Geitahlíð og eru frá síðasta hlýskeiði eða eldri en 120.000 ára.

Stóra-Eldborg

Stóra-Eldborg.

Stóra-Eldborg er formfagur klepragígur, sem rís um 50 metra yfir umhverfið og er um 30 metra djúpur. Hraunin, sem runnu frá honum hafa myndað margar hrauntraðir.
Sveifluháls líkist Núpshlíðarhálsi, en er eldri og myndaður í fjölmörgum gosum, bæði á hlýskeiði- og kuldaskeiði. Upp úr honum ganga margir tindar, s.s. Hellutindar, sem er gosgangur. Sprengigígurinn Arnarvatn er upp á hálsinum þvert upp af Seltúninu, en þar er öflugt háhitasvæði.

Litluborgir

Í Litluborgum.

Reykjanesskagi

Hér á eftir eru nokkur helstu atriði varðandi gróðurfar á Reykjanesskaga.

1. Sérkenni gróðurfars:

Hvasahraun

Strokkamelar – hraundríli.

Á miklum hluta láglendisins eru eldhraun. Eldhraunin eru hriplek. Vindasöm sumur – umhleypingasamir vetur.
Gamburmosinn er einkennisplanta Reykjanesskagans því gamburmosi er einkennisgróðurlendið. Nánast allur annar gróður í hraununum, nema fléttur, á gamburmosanum tilveru sína að þakka, því hann myndar smám saman jarðveg sem plönturnar festa rætur í. Mosaþemba útbreiddasta gróðurlendið. Skiptist í fernt: mosaþemba í einföldustu mynd, mosaþemba með lyngi, mosaþemba með lyngi og kjarri og mosaþemba með grasi. Mólendi austast á svæðinu. Graslendi á köflum. Kjarrlendi í Almenningum. Votlendi við Kleifarvatn. Ógróið land (meirihluti Reykjanesskagans er gróinn þótt gróðurþekjan geti oft verið lítil). Ógróið á melum, skriðum, úfnum hraunum, efri brúnum fjalla og á uppblásnu landi.
Skipa má Reykjanesskaganum í þrjá aðallhluta eftir gróðurfari og fer það saman við bergmyndun hans: Móbergssvæði, grágrýtissvæði og Miðnesheiðina.

2. Helstu orsakir gróðureyðingar:

Rofabarð

Rofabarð á Krýsuvíkurheiði.

Ofnýtt af mönnum og af skepnubeit. Ástæður einnig sandfok, kuldi, vatns- og vindrof, frost, gos og jökull. Mest er jarðvegseyðingin í mólendi og grasbrekkum. Um Reykjanesfóksvang má segja að landeyðing sé eitt af höfuðeinkennum gróðurfarsins. Jarðvegur er rýr og að mestu myndaður úr gosefnum og því fokjarn. Veðrátta jafnan óhagstæð og umhleypingasöm veður.

3. Landgræðsla og skógrækt:

Stóra-Sandvík

Stóra-Sandvík – Tjörnin manngerða.

1938 var sáð í sandinn í Stóru-Sandvík, uppsprettu sandfoksins á vestanverðum skaganum. Girðingar voru settar upp. Skógræktarfélag Suðurnesja hefur stuðlað mjög að landgræðslumálum. Grindavíkurgirðingin (landgræðslugirðing) varð til þess að stemma stigum við ágangi búfjár handan hennar. Gróður tók fljótlega við sér. Uppgræðsla innan landgræðslugirðingarinnar á Reykjanesi var algerlega uppblásið. Nú endurgrætt. Ýmis áhugamannafélög og fyrirtæki hafabeitt sér í landgræslu, einnig einstaklingar. Flugvél landgræðslunnar hefur verið notuð af og til frá 1975. Skógræktarfélag Suðurnesja frá 1950 (Sólbrekkur) og Skógræktarfélag Grindavíkur (Selskógur). Auk þess Háibjalli og Álaborg.

4. Friðlýstir staðir:

Stóra-Eldborg

Stóra-Eldborg.

Eldey og Stóra-Eldborg – Reykjanesfólkvangur.
Náttúrminjaskrá: Reykjanesið sjálft, Ósar, Sandgerði og Garður, Vatnsleysuströndin, Seltjörnin og Snorrastaðatjarnir, Sundhnúkar, Staðarhverfi, Þórkötlustaðahverfi, Katlahraun, Keilissvæðið að austanverðu.
Svæðið er auðugt af menningarminjum, fágætum jarðfræðifyrirbrigðum og merkilegt með hliðsjón af gróðurfari.

5. Sérkenni dýralífs:

Eldborg

Eldborg undir Meitlum – hrauntröð.

Refur og minkur – mýs og rottur, hreindýr, selir, fuglar í fjörum, vötnum, skerjum, móum og björgum. Fimm meginkjörlendi; hraun, heiðar, tjarnir, klettar og fjörur.

6. Jarðmyndanir:
Eldstöðvarkerfin á Reykjanesi eru fimm talsins og liggja frá norðaustri til suðvesturs. Á þeim hafa myndast gossprungur og hraun komið upp á nútíma (frá því fyrir 12-13 þús. árum). Áður var til grágrýtismyndunin úr fornum dyngjum, sem m.a. Rosmhvalanesið, Njarðvík, Stapinn, Löngubrekkur og Fagradalsfjall hvíla á.

7. Jarðsyrpur:

Brennisteinsfjöll

Eldborg í Brennisteinsfjöllum.

Rosmhvalanesið er dæmi um fornar dyngjur á Reykjanesinu (eldri en 120 þús ára). Jökullinn hefur hefur sorfið þar klappir og mótað landið áður en hann hopaði.

Helstu fjöll og fjallgarðar verða til á síðasta jökulskeiði, áður en jökullinn hopaði, s.s. Austurháls, Vesturháls, Keilir, Trölladyngja, hluti Fagradalsfjalls, Þorbjörn, Lágafell, Þórðarfell, Stapafell og Súlur.
Nútímahraun renna eftir að ís leysti. Verða þá sprungugos (apal- og helluhraun) þar sem má þekkja eldri og grónari hraunin, s.s. Katlahraun, Skógfellahraun, Sundhnúkahraun, Hvassahraun, Hellnahraunið eldra, Dyngnahraun, Stampahraunið eldra, Eldvarpahraunin eldri o.fl. Meginhluti skagans er þakin nútímahraunum, þ.e. hraunum er runnu eftir að jökul leysti (12-13 þúsund ára).

Háleyjabunga

Háleyjabunga.

Nokkrar litlar dyngjur hafa gosið eftir síðasta kuldaskeið, s.s. Háleyjarbunga, Skálafell, Vatnsheiðagígar, Lágafell og Hraunsfell-Vatnsfell (pikrít). Þrjár til fjórar stórar dyngjur hafa einnig gosið á nútíma, s.s. Sandfellshæð, Þráinsskjöldur og Hrútargjárdyngja. Þá má nefna Heiðina há og Strandarheiði. Þetta voru mikil gos er skiluðu miklu hraunmagni. Grágrýtishraunin (þóeilít), auk sprunguhraunanna, hafa fyllt duglega inn á milli móbergssfjallanna og myndað skagann smám saman.

Húshellir

Við Húshelli við Hrútagjárdyngju.

Sprunguhraun héldu áfram að renna á sögulegum tíma (um og í kringum 1000 (Kristnitökuhraun), 1151 (Ögmundarhraun), 1188 (Afstapahraun) og 1226 (Stampahraun yngra). Þetta voru aðallega apalhraun, en einnig helluhraun (Arnarseturshraun).

Gjár og sprungur (NA-SV) einkenna Reykjanesskaga. Misgengi má sjá víða, s.s. við Snorrastaðatjarnir. Einnig þversprungur og misgengi (NS), s.s. í Þorbirni.
Víða má einnig sjá einstakar og fallegar hraunmyndanir, s.s. gjall- og klepragíga, dyngjur og móbergs- og bólstramyndanir, auk dropasteina og hraunstrá í hellum.

Fyrir áhugasamt fólk um gróður, dýralíf og jarðfræði er Reykjanesskaginn kjörinn nærtækur vettvangur.

Afstapahraun

Hraunbátur í Afstapahrauni.

 

Selsvellir

Gengið var inn á Selsvelli til suðurs með vestanverðum Núpshlíðarhálsi. Fagurt umhverfið allt um kring. Trölladyngjan að baki, Keilir og Moshóll á hægri hönd, Kúalágar og Selsvallafjall á þá vinstri og Hraunsels-Vatnsfell framundan.

Selsvellir

Á Selsvöllum.

Í samantekt Orra Vésteinssonar um menningaminjar í Grindavík segir að “í bréfi sr Geirs Backmanns til biskups árið 1844 hafi hann notað sér selstöðuna á Selvöllum ásamt tveimur hjáleigubændum. Það hafi forverar sínir líka gert þegar þeir hafi verið það fénaðarmargir, að þeim hafi fundizt það borga sig. Þegar prestur notaði sér ekki selið, fóru sóknarbændur að fara með fénað sinn á Selvelli, í fyrstu með leyfi sóknarprests og keyptu þá af honum selhúsin. Vogamenn ásældust Selsvellina, en Grindavíkurprestur var einarður um að Vellirnir væru Grindavíkurbænda.

Selsvellir

Gömlu selin á Selsvöllum.

Í tíð sr. Geirs var svo komið, að ásamt honum höfðu 6 bændur í seli á Selvöllum. Áttu þeir allir selhús þar og var fénaður þeirra um 500 fjár, ungt og gamalt, og um 30 naugripir. Kvartar prestur yfir því, hve lítil not honum séu að selinu þegar slíkur skepnugrúi gangi á Selvöllum. Þeta valdi því líka, að reka verði allan selfénaðinn horaðan og nytlausan heim að bæjum einatt í 17. viku sumars (fyrir miðjan ágúst). Þessir bændur töldu sig eiga jafnan rétt til selstöðu eins og Staðarprestur, sumir jafnvel meiri. Var nú svo komið, að í stað þess, að Staðarprestur hefði átt að hafa talsverðan arð af selstöðu þessari hafði hann, að dómi sr. Geirs, af henni óbætanlegan skaða vegna þess hve nytlítill og rýr peningur hans verður meðan slíkur fjöldi fjár er á Selvöllum og fyrr er lýst. Þannig var selstaða prestsetursins “leyfis- og borgunarlaust brúkuð eins og almennings eða allra selstaða væri þeirra hér í sókn, sem hana nýta vildu”. Ef þessu héldi áfram, yrði selstaðan ekki einungis arðlaus fyrir Stað heldur ónýt með öllu fyrir “óhemju átroðning og yfirgang”.

Selsvellir

Selsvellir – uppdráttur ÓSÁ.

Ennfremur segir og er þá vísað í skýrslu Guðrúnar Gísladóttur frá árinu 1993: “Á Selsvöllum eru rústirnar mjög fallnar en má þó vel sjá þær enn. ..Þarna eru rústir í hraunjaðrinum, sem liggur vestan Selsvalla og uppi undir hlíðinni. Haft var í sel á Selsvöllum þegar á 17. öld og jafnvel fyrr. Selstaðan tilheyrði prestsetrinu á Stað í Grindavík. Um miðja 19. öldina var gróður og jarðvegseyðing þó orðin svo alvarleg að bændur í Grindavík höfðu nánast allir í seli á Selsvöllum við fátæklegar undirtektir Staðarprests”. – Árið 1703 höfðust útileguþjófað við í helli við Selsvelli og í helli hjá Hvernum eina í nokkrar vikur – þeir voru gripnir og hengdir á alþingi sama ár [Ólafur Briem í Útilegumenn og auðar tóttir].
Á tveimur stöðum á Völlunum er miklar selsrústir. Allir Grindavíkurbæirnir nema Hraun höfðu þar selstöðu. Hraunsselið er nokkru sunnar með hálsinum, neðan svonefndra Þrengsla. Þar var síðast haft í seli á Reykjanesi eða til ársins 1914. Sogavallalækirnir tveir renna um sléttuna.

Selsvellir

Rétt á Selsvöllum.

Austan á Völlunum, upp undir Selsvallafjalli eru tóttir eldri seljanna. Ein er þeirra stærst, en neðan hennar eru allnokkrar húsatóttir. Gengið var spölkorn áfram til suðurs og síðan beygt eftir gamalli götu svo til þvert á Vellina. Gatan, sem hefur verið nokkuð breið, liggur að nýrri seljunum suðvestast á Völlunum. Þar eru a.m.k. selstóttir á þremur stöðum, auk stekkja og kvía. Miðstekkurinn, sem er einna heillegastur, mun hafa verið notaður sem rétt af Vogamönnum, nefnd Vogarétt.

Selsvellir

Selsvallaselsstígur.

Selsstígnum til vesturs frá seljunum var fylgt inn í hraunið. Eftir u.þ.b. 500 metra kom hann inn á gömlu leiðina frá Hraunssels-Vatnsfelli.
Þeirri götu var fylgt áfram til vesturs, en hún greinist fljótlega í tvennt. Einn hópurinn fylgdi gömlu slóðinni að fellinu, en annar fór slóð er lá til vinstri. Sú gata liggur inn á breiðan stíg er liggur frá Hraunssels-Vatnsfelli nokkru sunnar en hinn og áfram austur yfir tiltölulega slétt helluhraun. Þessi gata er mun greiðfærari en sú nyrðri, en ekki eins klöppuð. Vestast í hrauninu nær slétt mosavaxið helluhraunið til suðurs með fellinu.
Engar vörður voru við þessa stíga. Syðri stígnum var fylgt til austurs og var þá komið inn á Selsvellina u.þ.b. 500 metrum sunnan við selstóttirnar.

Selsvellir

Gengið um selsstíginn að Selsvöllum.

Ljóst er að vestanverð nyrsta gatan hefur verið mest farin.
Syðsta leiðin liggur beinast við Grindavík, en sú nyrsta liggur beinast við vatnsstæðinu á Hraunssels-Vatnsfelli. Selstígurinn í miðjunni er greinilega leiðarstytting á þeirri götu að og frá seljunum. Tvennt kemur til er skýrt gæti hversu nyrsta gatan er meira klöppuð en hinar. Gatan er einungis meira klöppuð að vestanverðu eftir að selsstígurinn kemur inn á hana. Í fyrsta lagi gæti það verið vegna þess að gatan var notuð til að komast að og frá vatnsstæðinu. Vesturendi hennar bendir til þess að hún hafi einungis legið upp að því. Þegar 500 fjár og 30 naugripir arka sömu götuna fram og til baka sumarlangt í nokkur hundruð ár eru ummerkin eðlileg. Aðdrættir og fráflutningur hefur líklega farið um hluta götunnar, en þá verið beygt út af henni á tengigötuna inn á þá syðri og áfram suður með austanverðu Hraunssels-Vatnsfelli. Til stendur að fara fljótlega upp Drykkjarsteinsdal og áfram á leið að vestanverðum hraunkantinum og fylgja honum þar til suðurs. Í öðru lagi gæti þarna verið um gamla þjóðleið að ræða og gæti stígurinn þvert á Selsvellina gegnt henni skýrt það. Sú gata liggur í áttina að grónum sneiðing í Núpshlíðarhálsi, en þar virðist hafa verið gata upp hálsinn. Þetta þarf allt að skoða betur í enn betra tómi síðar.
Sjá MYNDIR.

Selsvellir

Selsvellir – uppdráttur ÓSÁ.

Lónakotssel

Hér að framan hefur verið reynt að geta þeirra helstu upplýsinga, sem tiltækar eru um sel á Reykjanesi.

Straumssel

Straumssel – uppdráttur ÓSÁ.

Ekki verður sagt með fullkominni vissu hvenær selbúskapur hófst hér á landi, en líklegt má þó telja að hann hafi fylgt fyrstu norrænu ábúendunum hingað til lands í kringum árið 870, en slíkur fjár- og kúabúskapur mun hafa verið vel þekktur í Noregi og á Suðureyjum á þeim tíma. Þó svo að sum mannvirkin, einkum fjárborgirnar, hafi fyrirmynd af írskum eða jafnvel skoskum hringlaga mannvirkjum, sbr. fjárborgina í Óbrennishólma í Ögmundarhrauni, er erfitt um sannanir í þeim efnum. Aðalatriðið er þó að selbúskapur var hluti af atvinnusögu landsins frá öndverðu og fram að aldarmótunum 1900, en um það leyti lögðust slíkir búskaparhættir af á Reykjanesi. Selbúskapurinn er því hluti af þjóðlífi og atvinnusögu landsins í u.þ.b. eittþúsund ár. Ástæða er til að varðveita og halda á lofti þessum þætti búskaparháttanna þar sem allt snérist um að halda lífi í sauðkindinni svo sauðkindin gæti haldið lífi í landsmönnum. Hinar fjölmörgu minjar og selsmannvirki á Reykjanesi bera þess glöggt vitni.

Óttarsstaðasel

Óttarsstaðasel.

Guðrún Sveinbjarnardóttir ritaði grein í Acta Archaeologica 62 árið 1991, sérhefti um rannsóknir á Norður Atlantshafssvæðinu. Þar fjallar hún um einstök sel í Eyjafjallasveit, Skagafirði og Berufirði í tengslum við önnur verkefni. Hún kemst að þeirri niðurstöðu að sel á Íslandi hafi sérkenni sem eru ekki endilega þau sömu og sel frá heimalandi landnámsmanna, Noregi. Meginmunurinn er sennilega vegna ólíks landslags sem kröfðust ólíks skipulags. Af athugun hennar sé ljóst að meiri rannsóknar er þörf á seljum á Íslandi, bæði fornleifafræðilega og fornfræðilegra.

Orra Vésteinssyni, kennara, er sérstaklega þökkuð aðstoð við undirbúning samantektarinnar. – ÓSÁ

Selsvellir

Selsvellir – uppdráttur ÓSÁ.

Straumssel

Á vefsíðunni má fræðast um yfir 414 sel, sem skráð hafa verið eða hafa fundist á umliðnum árum á Reykjanesskaga. Hægt er að ganga að tóftum þeirra allra, utan þriggja, sem horfin eru (Reykjavíkursel í Ánanaustum, Hraunsholtssel við Flatahraun og Kalmannstjarnarsel undir Stömpum). Þá eru tilgreind selstaða á a.m.k. þremur stöðum, sem ekki hefur verið skráð hingað til (við Selöldu, í Húshólma og við Hraunsnes vestan við Lónakot).

Selsvellir

Selsvellir – uppdráttur ÓSÁ.

Yfirlitið segir til um 401 sel á 202 stöðum. Ef það er borið saman við Jarðabók Páls Vídalíns og Árna Magnússonar frá árinu 1703 kemur í ljós að getið er 63 bæja, sem höfðu selstöðu í Gullbringusýslu, auk þriggja bæja í Ölfusi, sem eru vestan við línu þá sem dregin var, þ.e. Hlíðarenda, Litlalands og Breiðabólstaðar. Ekki er t.d. getið selja frá Hrauni og Þorlákshöfn, auk fjölda annarra.

Hlíðarendasel

Hlíðarendasel.

Innan við 66 sel hafa því verið í notkun á um aldramótin 1700 á þessu svæði, en ekki er getið um önnur jafnmörg, sem sannarlega hafa þá verið í notkun. Verður það að skrifast á ónákvæma skráningu hlutaðeigandi. Margt bendir til að mörg sel hafi verið aflögð þegar upplýsingum var safnað, s.s. Fornusel í Sýrholti. Þá er líklegt að selstaða hafi verið færð til eftir landkostum eða af hagkvæmisástæðum og eldri selin þá yfirgefin. Einhver seljanna gætu hafa verið í notkun um stuttan tíma, en síðan verið aflögð og einnig gætu bændur hafa tekið sig saman um selstöðu, þ.e. að fé (og jafnvel kýr) frá fleiri en einum bæ hafi verið haft í sama selinu.

Urriðavatn

Frá uppgreftri við Urriðavatn.

Í heimildum um sel á Reykjanesi virðist lítið hafa verið um kýr í seljum. Ef þær hafa verið þar er þess jafnan getið sérstaklega, s.s. á Selsvöllum og við Snorrastaðatjarnir. Landfræðilega aðstæður á Nesinu hafa ekki beinlínis þótt heppilegar til kúabeitar. Hins vegar eru nokkur örnefni og mannvirki ekki fjarri bæjum er benda til þess að kúm hefur verið beitt þar um tíma, s.s. Kúadalur við Grindavík, Kúadalur ofan Kaldársels og Kúadalur ofan við Brunnastaðahverfið á Vatnsleysuströnd. Þar er hlaðin rétt. Við Urriðavatn í Garðabæ hefur verið garfið upp kúasel, væntanlega frá Hofstöðum.

Stakkavíkursel

Stakkavíkursel.

Í Jarðabókinni er ekki alltaf getið um staðsetningu seljanna, en reynt að lýsa kostum þeirra. Þannig segir frá selstöðu frá Hrauni (Grindavík): “Selstaða langt í frá og þó sæmilega góð”. Þórkötlustaðir eru sagðir brúka selstöðu í Krýsuvíkurlandi [Vigdísarvöllum]. Hóp þurfti að kaupa út selstöðu. Á á “selstöðu í heimalandi”. Ummerki eru eftir hana í Dalnum norðan við Hamranes, en þar má sjá hrunið fjárskjól með hlöðnum inngangi og grasi gríð dalverpi. Hlíðar Dalsins eru grasi grónar og seljalegar á að líta. Krýsuvík er sögð hafa tvær selstöður; “aðra til fjalls en aðra nálægt sjó, báðar merkilega góðar”. Þannig virðist Krýsuvík bæði hafa haft selstöðu á Vigdísarvöllum og líklega austan við Selöldu (eða í Húshólma).

Borgarhraun

Sel við Selskál.

Ísólfsskáli á ekki að hafa haft selstöðu, en nafnið Selskál í Fagradalsfjalli bendir til einhverra selnota þar. Hóp er sagt hafa þurft að kaupa út selstöðu, en tóftir nýrra sels frá Hópi er norðvestan undir Selshálsi vestan Hagafell. “Gálmatjörn” (Kalmannstjörn) er sögð hafa átt selstöðu, en “nú að mestu eyðilögð fyrir sandi”. Á Stafnesi er ekki minnst á selstöðu, en þó er vitað að bærinn hafði selstöðu skammt ofan við Djúpavog við Ósa. Vindás er sagt eiga “selstöðu í heiðinni”. Stakkavík “á jörðin yfrið erfiða, svo varla er hestum fært á fjöll upp, þarf og vatn til að flytja, nema votviðri gángi því meiri, og er hún fyrir þessara ókosta sakir í margt ár ekki brúkuð”.
Yfirleitt er þess getið að selstaða sé annað hvort vatnslaus eða “stórt mein af vatnsskorti”. Í Jarðabókinni er þess jafnan getið hvort selstaðan hafi haft aðgang að vatni, það slæmt eða alls ekkert. Er að sjá sem vatnið hafi verið ein af forsendunum fyrir vali á góðu selstæði.

Blikdalur

Selin í Blikdal – uppdráttur ÓSÁ.

Landnám

Í Hauksbók Landnámu og Sturlubók Landnámu er sagt frá því að Steinunn gamla hafi fengið Romshvalanesið í kaup við Ingólf frænda sinn. Hún bjó í Hólmi. Herjólfur Bárðason fékk land hjá

Landnám

Ingólfi milli Vogs og Reykjaness og hafði bú í Gamla-Kirkjuvogi við Ósabotna utanverða. Lönd Steinunnar og Herjólfs lágu því saman við Ósabotna. Land Steinunnar náði að Hvassahrauni, en hún gaf frænda sínum Eyvindi land á milli þess og Kvíguvogsbjarga (Voga) þar sem líklega hefur verið miðað við Innri-Skoru. Eyvindur bjó í Kvíguvogum. Hann skipti síðan á því landi við Hrolleif Einarsson á landi í Þingvallasveit þar sem hann bjó að Heiðarbæ, en flutti síðan að Bæjarskerjum á Romshvalanesi. Ásbjörn Özurarson fékk land frá Hvassahrauni að Álftanesi og Þórður skeggi fékk land norðan við Ingólf þar sem nú er Mosfellsveit. Herjólfur fékk land frá Kotvogi að Reykjanestá, en Molda-Gnúpur þaðan að Selatöngum. Austar var Þórir haustmyrkur (Krýsuvík) og Álfur Egzki austan Selvogs að Ölfusárósum.

Gufuskálar

Gufuskálar – bæjarstæði Steinunnar gömlu!? – uppdráttur ÓSÁ.

Gullkollur

“Þar sem hraun þekur mest af yfirborði Reykjanesskagans og lítið er um jarðvatn er fjölbreytni gróðursins ekki mikil. Mikil úrkoma nægir ekki til að mynda þykkan jarðveg ofan á hrauninu vegna þess hve það er ungt. Dæmigert úthafsloftslag og veturnir sem eru yfirleitt mildir eru plöntum í hag en hins vegar blæs mikið og lítið er um heita og sólríka sumardaga sem rýrir vaxtarskilyrði gróðursins verulega.

Heiðmörk

Blandaður gróður á Reykjanesskaganum.

Algengasta plantan er gamburmosi, síðan koma krækilyng og beitilyng. Nokkuð má sjá af birki sérstaklega við Straumsvík, í Almenningum og í Herdísarvíkurhrauni. Votlendisgróður finnst aðeins á smá blettum fyrir utan mýrarnar við Kleifarvatn og í við Krýsuvík. Hér eru engin há og stór fjöll sem mynda skjól fyrir vindi svo að trén nái að vaxa vel. Því er gróðurinn mjög lágvaxinn á Reykjanesinu”.

Heiðmörk

Nýsprottinn gróður upp úr gömlu hrauni.

Stór samfelld grassvæði eru t.d. á Selsvöllum, Vigdísarvöllum, Krýsuvík, Baðsvöllum og víða með ströndinni.

Krýsuvík

Gróðureyðing á Krýsuvíkurheiði.

Birki og kjarr er víða í hraunum, sem mynda gott skjól víða á Reykjanesinu. Þess nýtur sá best, sem gengur um um þau í norðannæðingi eða austanágjöf. Þá er víða snjólétt í hraunum og snjó tekur fljótt upp vegna sólarhitans frá dökku grjótinu.

Sum svæðin hafa látið mjög á sjá á seinni öldum vegna gróðureyðingar, s.s. Vatnsleysustrandarheiðin, Selvogsheiðin og Krýsuvík, og uppblásturs. Þá hefur orðið verulegt sandfok í Selvogi og á Hafnaheiði. Eitt seljanna, sem þar var tilgreint [frá Gálmatjörn (Kalmannstjörn)], undir Stömpum, er t.d. með öllu horfið. Sum selin á Vatnsleysustrandarheiði sjást enn vel frá Reykjanesbrautinni þar sem þau kúra á gróðurtorfum, sem þráast enn við fyrir áburðinn frá selstímanum.

Lyklafellsleið

Gróður á Mosfellsheiði.

Tag Archive for: Reykjanesskagi