Tag Archive for: Reykjanesskagi

Jarðfræði

Jón Jónsson, jarðfræðingur, vitnaði um gosvirkni Reykjanesskagans í viðtalsgrein í Morgunblaðinu 1965 undir fyrirsögninni „Gosið gæti hvenær sem er á Reykjanesskaga„:

Reykjanesskagi „Jón Jónsson, jarðfræðingur, hefur að undanförnu unnið að því að rannsaka sprungukerfin og misgengið á Reykjanesskaga, sem er eitt af mestu jarðeldasvæðum landsins, og er að gera jarðfræðikort í stórum mælikvarða af því svæði. Rannsóknir á sprungukerfinu þarna hafa líka hagnýta þýðingu vegna staðsetningar á köldum uppsprettum og heitavatnsæðum, en vatn kemur mest fram í sambandi við sprungurnar. Varla var hægt að drepa niður fæti í skrifstofu Jóns hjá Jarðhitadeild raforkumálaskrifstofunnar, þegar við komum þangað í þeim tilgangi að eiga við hann viðtal um rannsóknir hans á Reykjanesskaga og það sem hann hefur orðið vísari með þeim. En hvar er betri staður til að ræða hraun og eldfjallamyndanir en innan um hauga af grjóti og alls kyns jarðfræðikortum?
Fyrst skulum við kynna Jón Jónsson fyrir lesendum. Hann er Vestur-Skaftfellingur, frá Kársstöðum í Landbroti, og því alinn upp við að hlaupa illfær hraun, án þess að láta sér verða það að fótakefli. Á Kársstöðum var fátækt, og Jón átti því ekki kost á langskólanámi. Eftir að hann hafði verið á Eiðaskóla, hélt hann utan til að freista þess að bæta við menntun sína. Fór til Svíþjóðar, þar sem hann ílengdist í 25 ár. Hann gekk í alþýðuskóla í Svíþjóð, tók ýmis fög í bréfaskólum og las og tók próf í þeim menntaskólagreinum, sem hann hafði áhuga á og vann alltaf fyrir sér jafnhliða náminu.

Jón Jónsson

Jón Jónsson, jarðfræðingur.

— Þegar ég þóttist slarkfær með stúdentsmenntun, lagði ég inn umsókn í Uppsalaháskóla um að fá undanþágu frá stúdentsprófi, segir Jón. Slíkar umsóknir ganga til háskólakanzlara, sem sendir þær til háskólaráðs. en það er skipað 9 prófessorum. Þeir fóru í gegnum vottorð mín og próf, sem voru eitthvað um 30 talsins. Þar með voru próf í mörg um menntaskólagreinum, en þó ekki öllum. Mér fannst þar svo margt innan um, sem ekkert mundi gera nema tefja mig. Og ég fékk sem sagt undanþáguna og innritaðist í Uppsalaháskóla sem sænskur stúdent haustið 1954.
— Var ekki erfitt að taka þetta svona?
— Jú, að vísu. En það hefði verið léttara ef maður hefði vitað að þetta var í rauninni hægt. Þá hefði ég getað skipulagt þetta betur. En auk jarðfræðinnar hafði ég ýms önnur áhugamál, las t.d. mikið í bókmenntum.
Vorið 1958 tók Jón svo lokapróf sín í jarðfræði við Uppsalaháskóla, lauk bæði kandidatsprófi og „licentiat“-prófi á sama degi. Þá munaði minnstu að hann færi í olíujarðfræði og réði sig hjá sænsku olíufyrirtæki. Gert var ráð fýrir því að hann yrði í Bandaríkjunum við framhaldsnám í eitt ár og síðan í 3 ár við störf í Portúgal. Olíujarðfræðingar voru á þeim árum hæst launuðu jarðfræðingarnir og mikill skortur á þeim, þó nú hafi það margir lagt þessa grein fyrir sig að þeir fylla nokkuð vinnu markaðinn.
Jón Jónsson— En um þetta leyti opnaðist möguleiki til að koma heim og fá starf á Raforkumálaskrifstofunni, segir Jón, og ég tók það. Ég var búinn að lesa jarðfræðina með það fyrir augum að starfa heima á Íslandi og átti erfitt með að hugsa mér að flytja með fjölskyldu mína til Portúgal, þó það gæfi meira í aðra hönd. Heitt og kalt vatn kemur upp með sprungunum.
— Tókstu þá strax til við þessar rannsóknir á Reykjaneshluti jarðfræðikortsins af Reykjanesskaga, sem Jón er búinn að vinna. Það er „hællinn“ á skaganum. Þar sjást m.a. Eldvörpin, sem örugglega hafa gosið eftir landnámstíð og þar sem enn er hiti í einum gígnum (hægra megin) og Stamparnir, sem líklega hafa líka gosið eftir að land byggðist. Og sprungurnar hafa allar sömu stefnu.
— Áður en ég flutti heim vann ég að kortagerð yfir Reykjavík og nágrenni með Tómasi Tryggvasyni, jarðfræðingi. Það kom í minn hlut að kortleggja syðri hluta svæðisins. Þá lenti ég á sprungusvæðinu og áhuginn vaknaði. Þegar ég kom heim, ætlaði ég svo strax að taka Krýsuvíkursvæðið. Og út frá því leiddist ég yfir á allan Reykjanesskagann, því þetta er svo mikið eldfjalla- og jarðhitasvæði og mér fannst að þetta verk þyrfti að vinna. Einkum þá sprungukerfin þar og missigið, því það hefur beinlínis hagnýta þýðingu.
Það er greinilegt að lindirnar eru tengdar bergsprungum og misgengissprungum. T.d. koma bæði Gvendarbrunnarnir og Bullaugun upp við sprungur. Sprungurnar við Bullaugun var ég reyndar búinn að skoða áður en borað var þar. Ég ætlaði sem sagt að vinna þetta strax þegar ég kom heim 1958, en svo mikið hefur hlaðizt á mig af aðkallandi skyldustörfum í sambandi við boranir eftir köldu og heitu vatni, að það hefur orðið verulega minna en til stóð. Það hefur allt verið unnið meira og minna í íhlaupum.
— Hve stórt svæði ertu búinn að taka fyrir?
— Ég hefi tekið heilt svæðið fremst á Reykjanesskaga austur að Grindavík að sunnan og Vogarstapa að norðan og að auki sneið frá Hafnarfirði suður undir Krýsuvík og ýmsa bletti annars staðar og er ætlunin að tengja þá saman og fá af þessu heillegt jarðfræðikort í mælikvarðanum einn á móti 25 þús., sem hlýtur að verða nokkuð nákvæmt, en á minni kortum er ekki hægt að koma öllu fyrir.
— Og þetta er allt eitt jarðeldasvæði, þakið hraunum?

Jón Jónsson

Jarðfræðikort Jóns Jónssonar – eldgos og hraun á Reykjanesskaga.

— Já, það væri hægt að fara fótgangandi alveg utan frá Reykjanestá og að Þingvallavatni, án þess að stíga af hrauni. Þetta er eitt af mestu jarðeldasvæðum landsins. Á þessum skika, mem ég hefi verið með, eru 24 mismunandi jarðeldastöðvar. Þær eldstöðvar hafa allar gosið eftir ísöld og einhverjar þeirra væntanlega eftir að ísland byggðist. Eldvörpin við Grindavík hafa örugglega gosið eftir landsnámstíð og kannski líka Stamparnir, sem eru tvær sprungur á Reykjanesinu og hefur hraunið úr annarri horfið undir hraun úr hinni.
— Er engar heimildir að finna um þessi eldgos?

Eldvörp

Í Eldvörpum.

— Um slíkt eru aðeins óljósar sagnir. Espólín tilfærir, að hálft Reykjanes hafi brunnið árið 1389—1390. Nú er óvíst hvað hann hefur átt við, en um tvennt er að ræða, gos í Eldvörpum eða Stömpum. Ég tel Eldvörpin líklegri, því þá hefur gosið úr um 8 km. langri sprungu, og t.d. séð frá Snæfellsnesi, hefði getað litið svo út sem hálfur Reykjanesskaginn brynni. Þá eru sagnir um að Ögmundarhraun hafi runnið um árið .1340. Og þar höfum við sannanir, því leifar eru til af bæ, sem hraunið hefur runnið að nokkru yfir. Þarna heitir Húshólmi, en hugsanlegt er að það hafi verið Krýsuvíkurbærinn á þeim tíma. Þarna þyrfti að grafa upp.
— Heldurðu að enn sé hætta á eldgosum á Reykjanesskaga?
— Já, ég hefi enga trú á að þetta jarðeldasvæði sé útdautt.
— Og hvar gæti helzt gosið?
Reykjanes - hraun

— Maður gæti búizt við eldgosi á öllu svæðinu frá Þingvallavatni út á Reykjanestá, því það er eldbrunnið alla leiðina. Ef maður tekur t.d. svæðið frá Selfjalli, sem er upp af Lækjarbotnum og vestur undir Húsfell, sem er austur af Helgafelli, þá eru þar a.m.k. á annan tug hrauna, sem öll hafa runnið eftir ísöld. Nú, Elliðaárhraunið sem hefur komizt næst Reykjavík, er samkvæmt aldursákvörðun ekki nema 5300 ára gamalt.

Hólmshraun

Hólmshraun – uppdráttur Jón Jónsson.

Rétt austan við Heiðmörkina er líka nokkuð stór hraunbreiða, Hólmshraun, þar sem eru fimm mismunandi hraunstraumar og sá elzti rennur þvert yfir Elliðaárhraunið. Þau eru þá öll yngri en það og við höfum þarna 6 hraun, sem eru yngri en 5300 ára gömul. Engar sagnir eru til um myndun þessara hrauna, hvort sem þau eru nú forsöguleg eða ekki. Annars er enn hiti sums staðar á eldstöðvunum, svo sem í einum gígnum í Eldvörpunum.
— Þá gæti þéttbýlinu hugsanlega stafað hætta af gosum?
— Já, hugsanlega gæti byggð stafað hætta af slíku, svo og ýmsum mannvirkjum, eins og vatnsbólum. Þó mundi ég telja að Bullaugun yrðu aldrei í hættu og ekki heldur sjálf Reykjavík. En hluti af Hafnarfirði aftur á móti.
— En hvað um jarðskjálftahættu?
— Vúlkaniskir jarðskjálftar eru nú yfirleitt ekki eins voðalegir og jarðskjálftar í t.d. háfjallahéruðum, þó þeir geti verið snöggir. Og þetta hafa ekki verið neinir stórfelldir jarðskjálftar hér.

Reykjanes

Dyngjur Reykjanesskagans fyrir meira en 3000 árum.

Þegar mest hrundi af húsum árið 1896, voru byggingar svo lélegar, að enginn samanburður fæst af því. Þó er sjálfsagt nauðsyn á traustum byggingum. Annars tel ég að hreyfingar séu ekki hættar á sprungusvæðunum hér, þó hægt fari. Enda standa þessar sprungur allar í sambandi við stóra Atlantshafshrygginn.
—Og þessar sprungur hafa hagnýta þýðingu fyrir okkur vegna kalda vatnsins, sagðirðu okkur áðan. En hvað um heita vatnið?

Kaldárbotnar

Kaldárbotnar – vatnslindin.

— Það er greinilegt að heita vatnið er tengt sprungulínunum á Hengilsvæðinu og reyndar á Reykjanesfjallgarðinum öllum.
Hvernig samhengið er djúpt niðri veit maður ekki, en heitt vatn kemur upp með sprungunum. Nóg kalt vatn, enginn veit um heita vatnið.
— Er nægilegt vatn hér á Reykjanesfjallgarðinum, bæði kalt og heitt, svo við þurfum ekki að hafa áhyggjur af því í framtíðinni hér í þéttbýlinu?
— Já, nóg er af köldu vatni fyrir Reykjavík, Hafnarfjörð og nágrenni. Við boruðum t.d. við Kaldársel niður á 860 m. dýpi og þar var kalt vatn alla leið niður. Erfiðara er að svara þessari spurningu um heita vatnið. Enginn getur sagt um hvort nóg er af því, eða hve mikið.

Reykjanesskagi

Reykjanesskagi – jarðfræði. ISOR

— Koma allar þessar boranir þér ekki að miklu gagni fyrir almenna jarðfræðilega rannsókn á Reykjanesskaganum?
— Jú, að vísu, en það er orðið svo mikið um þær, að enginn hefur tíma til að vinna úr þeim.
Þegar aðkallandi er að finna kalt eða heitt vatn á einhverjum stað, verður maður að fara á þann stað og athuga næsta nágrenni og segja svo sitt álit. Ef um heitt vatn er að ræða, gerir Guðmundur Pálmason jarðeðlisfræðilegar mælingar. En svo mikill tími fer orðið í slíka bráðabirgðarannsókn, að maður hefur orðið að láta sér nægja bráðabirgðayfirlitið eitt. Auðvitað hefði verið æskilegt að hafa þetta ýtarlegra, en við erum svo fáliðaðir að það hefur ekki getað orðið eins og ég hefði helzt kosið. En það stendur vonandi til bóta. Hér er nú kominn jarðfræðingur, Jens Tómasson, sem hefur verið að vinna úr gögnum frá Vestmannaeyjum og er að byrja á efnivið frá Húsavík. Og mikið magn af efni til úrvinnslu er í höndum Atvinnudeildarinnar.

Reykjanesskagi

Reykjanesskagi – jarðfræðikort; nútímahraun.

Svo þetta lagast vonandi í framtíðinni.
— Nú er komið jarðfræðikortið þitt af „hælnum“ á Reykjanesskaganum. Hefurðu áætlun um hvenær tilbúið verður kort af öllum skaganum?
— Ég geri mér vonir um að fá betri tíma næsta sumar og geta snúið mér eindregnar að Reykjanesskaganum en ég hefi hingað til getað. Svo bætir það mikið úr, að búið er að vinna gott verk á austurenda skagans, eem er Hengilssvæðið. Þar hefur Kristján Sæmundsson, jarðfræðingur, unnið að rannsóknum undanfarin sumur og kortlagt sprungukerfin um leið. Einnig hefur Þorleifur Einarsson, jarðfræðingur, kortlagt Hellisheiðina, þar á meðal sprungusvæðin.

Reykjanesskagi

Kortið sýnir þau hraun sem runnu á Reykjanesskaga í síðustu eldgosahrinu frá 9. öld og fram á 13. öld.

Þetta hvort tveggja flýtir fyrir mér og gerir auðveldara að fylla í á milli. Svo þar ætti verkið að ganga fljótar. En hvenær því verður lokið þori ég ekkert að segja um. — E. Pá.“

Sjá meira um jarðfræði Reykjanesskagans HÉR.

Heimild:
-Morgunblaðið – 35. tölublað (11.02.1965), Jón Jónsson (Rannsóknir á Íslandi); Gosið gæti hvenær sem er á Reykjanesskaga, bls. 13 og 17.

Hraun

Hraun runnin úr sprungugosum á Reykjanesskaga á 13. öld.

Heiðmörk

Í Morgunblaðinu 1997 fjallar Andrés Arnalds um „Endurheimt landkosta á Reykjanesskaga„:

„Það dylst fáum sem fara um Reykjanesskaga að þar hefur mikil landhnignun átt sér stað í aldanna rás. Í stað grænna grunda og vöxtulegs birkikjarrs blasa víða við gróðurtötrar ogjafnvel auðnir, skrifar Andrés Arnalds. Afieiðingamar em víðtækar, en koma e.t.v. hvað skýrast fram í skjólleysi og auknum skafrenningi. Skaginn, sem er heimkynni mikils hluta þjóðarinnar, er ekki nærri því eins byggilegur og hann ætti að vera.

Horfnir landkostir

Andrés Arnalds

Andrés Arnalds.

Þrátt fyrir berangurslega ásýnd landsins eru raunveruleg gróðurskilyrði góð víðasthvar á Reykjanesskaga. Til forna þótti þar mikil veðursæld, samanber þá frásögn Sturlungu að á Reykjanesi hafi aldrei orðið „ófrjóvgir akrar“.
Heimildum um gróðurfar á Reykjanesskaga ber öllum saman um að nær allar þær auðnir, melar og jarðvegssár, sem svo víða blasa við, hafi fyrrum verið grónar. Ástæðurnar fyrir því hve ástand þessa landssvæðis er slæmt eru margar. Mestu munar þó um aldalanga rányrkju liðinna kynslóða, toll sem landið galt við að framfleyta þjóðinni á tímum fátæktar og vanþekkingar á takmörkunum landsins. Einnig hafa hraun lagt undir sig stór svæði á sögulegum tíma.
Lítill vafi leikur á því að meginhluti Reykjanesskagans, að undanskildum yngstu hraunum og ystu annnesjum, hefur verið vaxinn skógi fyrrum, og lengi fram eftir öldum. Það sýna annars vegar kjarrleifar þær sem enn standa eftir, en hins vegar má ráða hið sama af vitnisburðum skráðra heimilda.
Reykjanesskagi - GeitahlíðÍ Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns kemur fram að um 1700 voru enn miklir skógar á Reykjanesskaga. Þá áttu 8 jarðir úr Grindavík og 23 jarðir úr Rosmhvalaneshreppi kolagerðarskóg í Suðurnesjaalmenningum. Í Vatnsleysustrandarhreppi áttu 20 jarðir og í Álftaneshreppi 22 jarðir kolagerðarskóg í almenningum. Á sumum jörðum, t.d. Krýsuvík, var þá enn nokkurt kjarr í heimalöndum en er að eyðast. Athyglisvert er að ekki er getið um að skógur til kolagerðar í almenningum fari þverrandi. Það undirstrikar stærð þeirra á þessum tíma, því yfirleitt var reynt að gera sem minnst úr öllum hlunnindum í þessari úttekt. Lyngrif segir líka sína sögu. Það er að vísu talið til hlunninda á fjölda jarða, en er þverrandi í heimalöndum og langsótt fyrir marga.

Krýsuvík

Krýsuvík – mógrafir.

Mótekja var víða lítil á skaganum. Lyng og hrís var eftirsótt til eldiviðar og af mörgum býlum varð að gjalda hríshesta, einn eða fleiri, til Bessastaða.
Fjöruþang var helsta eldsneytið á Vatnsleysuströndinni og víðar, en „þurrabúðarhyskið“ átti lítinn eða engan rétt á þangtöku. Því urðu margir að leita í úthagann eftir eldivið. Þegar búið var að eyða birkinu, var einirinn og lyngið rifið.
Sauðfé og annar búsmali átti að sjálfsögðu sinn þátt í eyðingunni og hindraði eðlilega endurnýjun gróðursins með því að bíta nýgræðinginn jafnharðan og hann óx.
Rányrkjan hélt áfram allt fram á þessa öld. Ástand gróðurs og jarðvegs er víða slæmt, eða jafnvel mjög slæmt ef tekið er tillit til gróðurfarslegra skilyrða. Breytir þar litlu þótt ástand lands hafi nokkuð batnað á síðari árum, m.a. vegna fjárfækkunar, ef litið er á skagann í heild.

Spyrnt við fótum

Krýsuvík

Gróðureyðing á Krýsuvíkurheiði.

Nokkuð er nú umliðið síðan augu manna tóku að opnast fyrir því að nauðsynlegt væri að grípa til aðgerða til að sporna gegn frekari eyðingu.
Haustið 1952 tóku Árni G. Eylands og Sæmundur Friðriksson saman einkar fróðlega „greinargerð um athugun á að friða Reykjanesskaga ásamt Reykjavík, Hafnarfirði og nágrenni bæjanna fyrir ágangi búfjár“, en sauðfé á þessu svæði hafði verið fargað vegna mæðiveiki haustið 1951. Úr þessum áformum varð ekki að sinni, sem er önnur saga, en þar birtist m.a. úttekt á gróðri á Reykjaneskaga, sem Steindór Steindórsson samdi.
í lok úttektar sinnar víkur Steindór að endurheimt gróðurs á Reykjanesskaga: „En eru þá hraunbreiður þessar dæmdar til eilífðrar auðnar og að vera eitt ófrjósamasta og ömurlegasta svæði á öllu landinu? Naumast mun svo vera. Þau hafa einu sinni verið skógi klædd, og það geta þau aftur orðið, ef mannshöndin leggur þeim lið, og tekur nú til að græða það sem áður var eytt.“

Gömlu-Hafnir

Landgræðslugarðar við Gömlu-Hafnir.

Fyrstu landgræðsluframkvæmdir á Reykjanesskaga hófust 1938 með uppsetningu 20 km girðingar og stöðvun sandfoks vestast á skaganum. Ýmsir fleiri áfangasigrar hafa náðst í verndun landkosta á liðnum áratugum. Árin 1977-1978 var girt þvert yfir Reykjanesskagann og var þá allt land vestan Grindavíkurvegar, um 35.000 hektarar, friðað fyrir beit. Síðan hefur áburði og fræi verið dreift víða á því svæði. Ýmsar aðrar girðingar hafa verið settar upp, m.a. til að friða höfuðborgarsvæðið, og auðvelt að skoða árangur friðunar við fjölbreyttar aðstæður, bæði með og án uppgræðslu. Mikil reynsla hefur aflast sem unnt er að byggja á enn stærri áfanga í endurheimt landkosta á Reykjanesskaga.

Vatnshlíð

Vatnshlíð við Hvaleyrarvatn 1960 – hús Hákons Bjarnasonar.

Á miklum hluta skagans mun gróður taka framförum ef hann fær algjöran frið fyrir búfjárbeit um nokkurn tíma. Fé er orðið fátt og mörg sveitarfélaganna hafa nú þegar bannað lausagöngu sauðfjár, en ekki öll og því fer féð víða um. Komin er góð reynsla af beitarhólfum, þannig að auðvelt á að vera að koma til móts við þá sem vilja stunda einhvern sauðfjárbúskap þótt tekið sé með öllu fyrir lausagöngu. Slík friðun er langódýrasta og mikilvirkasta leiðin til að bæta ástand gróðurs og jarðvegs sé til lengri tíma er litið. Jafnframt væri þá unnt að fjarlæga mikið af girðingum, sem margar hveijar eru komnar til ára sinna og þurfa mikið viðhald.

Hvaleyrarvatn

Vatnshlíðin 2022.

Þar sem uppblásturinn hefur hvað harðast unnið sín spellvirki mun friðunin ein ekki duga. Nakið land grær yfirleitt hægt án aðstoðar. Fyrir því eru ýmsar ástæður, en veigamestar eru e.t.v. skortur á raka- og næringarheldni, erfiðar spírunaraðstæður og hin gífurlega holklakamyndun sem er í ógrónu landi. Uppgræðsla með grasfræi og áburði, eða öðrum aðferðum, miðar að því að koma gróðurþróun af stað eða flýta fyrir henni, um áratugi eða aldir eftir aðstæðum. Þetta á ekki hvað síst við um Miðnesheiðina, Krýsuvík og reyndar mörg önnur svæði.

Hvaleyrarvatn

Hvaleyrarvatn um 1960 – Skátalundur nýbbyggður. Mynd ÓKG.

Reynslan sýnir að áburður og grasfræ geta víða gert kraftaverk. Þar sem jarðveginn vantar er þó langbest að nota lífrænan áburð, s.s. hey úr görðum eða úrgangshey, hrossatað, svína- og hænsnaskít til uppgræðslunnar. Mikið fellur til af slíkum efnivið á Reykjanesskaga, en hann fer að miklu leyti til spillis, svo skiptir þúsundum tonna árlega. Þar sem birki, víðir og fleiri tegundir hafa horfið úr landinu getur verið langt í frægjafa. Þar þarf að sá eða gróðursetja.

Margar hendur vinna létt verk

Hvaleyrarvatn

Hvaleyrarvatn 2020.

Áhugamannasamtök, einstaklingar og sveitarstjórnir hafa lengi unnið að landbótum á Reykjanesskaga í samvinnu við Landgræðsluna og Skógrækt ríkisins. Þetta samstarf hefur aukist mjög á síðustu árum og endurspeglar vaxandi þörf almennings fyrir gróðursælt umhverfi. Skógræktarfélögin, Lionsklúbbar og Landvernd hafa verið þar ötul, en ástæða væri til að nefna miklu fleiri, t.d. hestamannafélagið Mána í Reykjanesbæ sem hefur grætt mikið af örfoka landi til beitar. Nýlega voru stofnuð samtök, Gróður fyrir fólk, sem hafa á stefnuskrá gróðurbætur í öllu Landnámi Ingólfs. Vonandi tekst þeim að fá miklu áorkað í þessu brýna hagsmunamáli.

Guðmundarlundur

Guðmundarlundur í Gráhelluhrauni – minningarskjöldur.

Í þéttbýlinu á Reykjanesskaga býr fjöldinn allur af fólki sem beinlínis þráir að sækja sér lífsfyllingu í það að hlúa að gróðri úti í náttúrunni. Með góðu skipulagi og aðgengi að friðuðu landi geta hópar áhugamanna unnið stórvirki við uppgræðslu og notið síðan ánægjunnar af árangrinum. Gróðursælt og vistlegt umhverfi er sameiginlegt markmið okkar allra.“ – Höfundur er fagmálastjóri landgræðslu ríkisins

Heimild:
-Morgunblaðið 01.06.1997, „Endurheimt landkosta á Reykjanesskaga“, Andrés Arnalds, bls. 14-15 E.

Guðmundarlundur

Guðmundarlunur í Kópavogi.

Eldgos

Í Morgunblaðinu 2018 mátti lesa eftirfarandi viðtal við Þóru Björg Andrésdóttur; „Gerir hættumat vegna eldgosa„. Þóra var að leggja lokahönd á meistaraprófsverkefni við Háskóla Íslands. Þar reyndi hún að meta hvar líklegast væri að eldos geti orðið í Reykjaneskerfinu, sem er yst á Reykjanesskaganum.

EldgosÍ yfirskrift greinarinnar segir; „Eldvirknihætta á Reykjanesi metin og kortlögð eftir nýjustu aðferðum. Eldgos gæti ógnað nauðsynlegum innviðum samfélagsins. Upphafið að hættumati fyrir öll eldfjallasvæði landsins“.

„Hættan á eldgosi á Reykjanesi er til staðar. Þar eru 4-5 þekkt eldgosakerfi, þeirra helst eru Reykjaneskerfið, Krýsuvíkurkerfið, Bláfjallakerfið og Hengilskerfið. Eldgos á þessu svæði gætu mögulega ógnað innviðum á borð við vegi, raflínur, lagnakerfi, ljósleiðara og einnig vatnsbólum að ekki sé talað um byggingar.
HúsfellsbruniHættumatið er unnið á grundvelli jarðfræðilegra, landfræðilegra og skipulagsfræðilegra gagna. Þóra Björg teiknar upp líklegustu svæðin, eins og sést á meðfylgjandi korti, og eins hvar mikilvægt mannvirki eru á svæðinu. Hún ver verkefnið sitt í júní. Leiðbeinendur hennar eru Ingibjörg Jónsdóttir, dósent við Jarðvísindadeild, og Ármann Höskuldsson, vísindamaður við Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands.

Sefur vært á Völlunum
EldgosÞóra Björg býr á Völlunum í Hafnarfirði og kveðst sofa alveg róleg, þrátt fyrir að hafa sökkt sér niður í sögu eldvirkni á Reykjanesi vegna vinnunnar við hættumatið. Hún kveðst treysta því að nútímatækni og þekking tryggi það að nægur fyrirvari gefist til að vara fólk við ef líkur á eldgosi aukast. Því séu litlar líkur á manntjóni vegna mögulegs eldgoss. Tekið skal fram að ekkert bendir til þess að eldgos á þessu svæði sé í aðsigi.
Þessi vinna er hins vegar mikilvæg til að auka viðbúnað áður en og ef til eldgoss kemur. Þá er dýrmætt að vera vel undirbúinn og geta gripið til viðbragðs- og almannavarnaáætlana sem byggðar hafa verið á vísindalega unnu hættumati.
Bent er á að komi upp eldgos á Reykjanesi geti eitt helsta viðfangsefnið orðið að stýra umferð þeirra sem skoða vilja gosið og um leið beina þeim frá hættum, t.d. af mögulegri gasmengun.

Nýjustu aðferðum beitt

Ármann Höskuldson

Ármann Höskuldsson.

Ármann sagði að vinnan við hættumatið á Reykjanesi væri afleiðing af evrópskum samstarfsverkefnum í eldfjallafræði á borð við verkefnin Futurevolc, Vetools og nú Eurovolc. Evrópusambandið hefur styrkt öll þessi verkefni.
„Við beitum nýjustu aðferðum til að meta eldfjallavá á svæðum. Við þurfum að geta stutt niðurstöður okkar með tölulegum gildum. Vandinn við jarðfræði er að tímaskalinn er svo afskaplega langur miðað við mannsævina. Þegar tölfræði er beitt reynum við að hafa gagnasafnið eins stórt og hægt er. Í því sambandi hafa verið þróaðar nýjar aðferðir á Ítalíu, Spáni, í Frakklandi og nú hér á Íslandi sem snúa að eldfjöllum.

Kapelluhraun

Kapelluhraun – jarðfræðikort Ísor.

Hér hafa orðið um 260 eldgos á sögulegum tíma. Þau eru ekki stórt úrtak og til að reyna að skilja íslenska eldfjallafræði þurfum við að fara minnst tíu þúsund ár til baka þegar fjöldi eldgosa er að nálgast þrjú þúsund til að gagnasafnið verði nógu traust,“ sagði Ármann. Mikið af hraunum sem komu upp í eldgosum fyrir löngu síðan eru komin langt undir hraun sem síðar runnu.
Eldfjallafræðin hefur þróast hratt á undanförnum aldarfjórðungi. Ármann segir að með því að skoða gömul öskulög sé hægt að leggja mat á hve lengi sprengigos sem enginn sá stóð lengi yfir. Einnig hve hátt gosmökkurinn fór. Þannig er hægt að fá mynd af því hvað gerðist í löngu liðnum eldgosum. Þessari þekkingu er síðan hægt að beita til að segja fyrir um hvernig eldgos í
framtíðinni kunna að haga sér.

Gögnin verða aðgengileg

Jarðfræði

Hraun á sögulegum tíma.

Ármann segir að fyrsta skrefið í heildaráhættumati sé að greina svæði þar sem líklegt þykir að eldsumbrot geti orðið. Það er mikilvægt t.d. vegna skipulagsmála. Hvar þykir óhætt að reisa mannvirki í sæmilegu skjóli frá mögulegum eldgosum. Gögnin úr hættumatinu verða aðgengileg fyrir t.d. sveitarfélög sem fara með skipulagsmál og almannavarnir.
Næsta skref er að meta hvað mögulega gerist verði eldgos. Hvort það verði sprengigos og þá hvernig askan frá því dreifist. Verði það hraungos, hvert hraunið muni þá líklega renna og hvert gas gæti borist. Hraunstraumur er flókið fyrirbæri og getur verið erfitt að segja til um hvert hann fer. Hann nefnilega breytir landslaginu jafnóðum og hann rennur. Þegar þessar greiningar liggja fyrir er hægt að leggja línur um skammtímalíkön fyrir öskudreifingu eða hraunrennsli.

Helga þarf hættusvæðin

Reykjanesskagi

Eldstöðvakerfi á Reykjanesskaga (bleik). Jarðskjálftabelti liggur eftir skaganum og markar flekaskilin (rauð). Jarðhitasvæði eru einnig sýnd (gul). Sprungusveimar Hengils til norðausturs og Reykjaness til suðvesturs eru svartir.

Ármann segir að nú sé hægt að sjá eldgos fyrir með betri fyrirvara og meira öryggi en áður. Dæmi um það er gosið í Eyjafjallajökli sem sást að var í aðsigi um þremur vikum fyrir gosið 2010. Einnig þurfi að vera hægt að sjá fyrir hvað gerist næst og búa sig undir það. Hann segir að helga þurfi þau svæði þar sem eldgosavá er meiri en annars staðar svo þar séu ekki skipulögð mannvirki. Undantekningin eru jarðhitaver sem eðli málsins samkvæmt þurfa að vera ofan á svona svæðum.
Eldstöðvakerfin á Reykjanesi teygja sig út í sjó. Verði gos úti í sjó gæti það líkst Surtseyjargosinu með gosmekki upp í 10-12 km hæð. Verði gosið kröftugt mun askan dreifast víða með veðri og vindum. Eldgos á landi verður líklega hraungos.
Reykjanesskaginn er eldvirkt svæði og eldvirknin hefur komið í hrinum.

Reykjanes

Reykjanes – jarðfræðikort ISOR.

Líklegt er að í framtíðinni eigi eftir að gjósa í sprungusveimnum sem tekur land við Reykjanestána og teygir sig austur eftir og inn á nesið. Sprungusveimurinn teygir sig austur að Grindavík. Í framtíðinni gæti komið upp hraungos sem stefndi í átt til Grindavíkur.
Ármann minnti á að menn hefðu öðlast dýrmæta reynslu af hraunkælingu í Heimaeyjargosinu 1973. Það sé því hægt að stjórna því hvert hraun rennur.
Einnig mun líklega gjósa í Krýsuvíkurkerfinu sem gengur þar á land og teygir sig norður undir Hafnarfjörð. Sama má segja um Bláfjallakerfið og Hengilskerfið ofan höfuðborgarsvæðisins. Ómögulegt er að segja hvenær það gerist. Síðasta gos í Henglinum var fyrir tæplega 2.000 árum, í Bláfjallakerfinu um landnám og á svipuðum tíma í Krýsuvíkurkerfinu. Ekki hefur gos komið upp á landi síðan á 13. öld að gaus í Reykjaneskerfinu.

Neðansjávareldgos algeng

Reykjaneshryggur

Um miðjan september 2013 lauk mánaðarlöngum rannsóknarleiðangri á Reykjaneshrygg með rannsóknarskipinu Marcus G. Langseth. Í leiðangrinum var syðsti hluti Reykjaneshryggjar kortlagður með fjölgeislamælitækni í fyrsta sinn.Reykjaneshryggur er lengsti samfelldi rekhryggur jarðar.
Það er því heimsviðburður að í lok leiðangurs er hryggurinn að fullu kortlagður.

Neðansjávareldgos hafa verið algeng við Reykjanes og á Reykjaneshrygg. Talið er að a.m.k. tvö eldgos hafi orðið hryggnum á síðustu öld, 1926 og líklega einnig 1973. Þau náðu ekki upp úr hafinu. Það gerði hins vegar eldgos á 19. öld sem m.a. stráði ösku yfir Keflavík. Samkvæmt sögulegum heimildum hafa orðið 1-2 eldgos á öld á Reykjaneshrygg, að sögn Ármanns. Minnt var á að ekki væri langt síðan ástand var sett á gult vegna skjálftahrina út af Reykjanesi.
Ákveðið hefur verið að kortleggja allt landgrunnið með fjölgeislamælingum. Vísindamennirnir sögðust bíða spenntir eftir niðurstöðum slíkra mælinga suður af Reykjanesi. Búið er að kortleggja botninn út af hælnum á Reykjanesi. Atlantshafshryggurinn sem liggur á landgrunninu er lítið þekktur í þessu tilliti og sama er að segja um hafsbotninn suður af Reykjanesi.
Mikilvægt er að vita hvað eldvirknin hefur náð langt út í sjó. Verði þar eldgos á sjávarbotni þá verður það sprengigos.

Áframhaldandi gerð hættumats
Hraun ofan höfuðborgarsvæðisins

Vinnan við hættumat á Reykjaneskerfinu er fyrsta skrefið í gerð slíks hættumats fyrir öll eldstöðvakerfi á landinu, að sögn. Sömu aðferðum verður beitt þar og á Reykjanesi. Þau sögðu rökrétt að gera næst sambærilegt hættumat fyrir hin eldstöðvakerfin á Reykjanesinu.“

Omar

Við mikilvæga útskrift í Háskóla Íslands; stofnun www.ferlir.is í framhaldi af námi í Menningarmiðlun; eitt verkefnanna, sem ekki fór í „glatkistuna“ fyrir síðustu aldarmót.

Bent skal á að langflestar ritgerðir og verkefni, sem varið hefur verið drjúgum tíma og erfiðsmunum í fullri alvöru af hálfu nemenda í Háskólum landsins, hafa hingað til dagað uppi niður í skúffum leiðbeinendanna og nánast aldrei orðið til neins gangs, hvorki nemendunum né öðrum.

FBI

Útkrift úr skóla FBI árið 1995. Þar lærðist margt um mannlega hegðun, langt umfram afbrot og glæpi hversdagsins…

Myrkrar gamlar skúffur Hákólanna eru nú nánast að verða fullar af fjölmörgum aldargömlum mikilvægum verkefnum, sem hafa beðið þar þögul, en nauðsynlega þurfa að sjá dagsins ljós – samfélaginu til gagns…

Heimild:
-Morgunblaðið, 111. tbl. 12.05.2018, Guðni Einarsson, „Gerir hættumat vegna eldgosa“, bls. 18.

Eldgos

Eldgos ofan Grindavíkur 14. janúar 2014.
Seinni tíma eldgos á Reykjanesskaga jafa jafnan verið lítil og varið í skamman tíma.

Eldgos

Augu allra beinast nú sem oftar að Reykjanesskaga og margt og mikið hefur verið ritað um gosið í Geldingadölum og Meradölum. Nú beinum við sjónum okkar vestar á skagann að eldstöðvakerfunum tveimur, Reykjanesi og Svartsengi, en þar lauk síðasta gosskeiði á Reykjanesskaga 1240.

Reykjanesskagi

Reykjanesskagi – jarðfræðikort; nútímahraun.

Hér verður sérstaklega fjallað um síðustu eldana sem urðu innan Reykjanes- og Svartsengis-kerfanna sem ýmist eru talin eitt kerfi eða tvö. Þess má þó geta að þau sameinast til norðurs þar sem erfitt er að greina sprungureinar kerfanna í sundur.

Eldarnir, sem nefnast gjarnan Reykjaneseldar, stóðu yfir frá árinu 1210–1240. Með eldum er átt við hrinur af eldsumbrotum sem standa yfir í lengri eða skemmri tíma á sama svæðinu. Í Reykjaneseldum urðu nokkur gos úti fyrir Reykjanestá og mynduðu þau gjóskulög á landi. Einnig runnu fjögur hraun úr sprungugosum á landi en þau eru Yngra Stampahraun, Eldborgarhraun yngra, Illahraun og Arnaseturshraun.

Reykjanes

Reykjanes – jarðfræðikort.

Í Heimildinni má lesa eftirfarandi um „„Sandsumar“ í kjölfar eldgosa úti fyrir Reykjanesi„:
„Í kvikugangi þeim sem myndast hefur og liggur frá Sundhnúkagígum í norðri, undir Grindavík og jafnvel á haf út, er umtalsvert meira af kviku en sést hefur í stærstu innskotum sem urðu í tengslum við eldgosin þrjú við Fagradalsfjall. Enn er óvíst hvort að kvika nái til yfirborðs svo úr verði eldgos en ef það gýs á hafsbotni, sem ekki er útilokað, yrði svokallað þeytigos, sprengigos sem verða þegar heit kvika kemst í snertingu við vatn. Við slíkar aðstæður myndast mikil aska og öskufallið getur náð langar leiðir og haft ýmsar afleiðingar.

Reykjanes

Reykjanes – loftmynd.

Öskugos urðu við upphaf Reykjaneseldanna á fyrstu áratugum þrettándu aldar. Eldar þeir stóðu yfir á árunum 1210–1240 en áður höfðu önnur gostímabil einnig orðið og á einu slíku mynduðust Sundhnúkagígar, líklega fyrir um 2.400 árum. Það er á þeim slóðum, undir þeim og suður undir Grindavík, sem kvikugangur hefur nú myndast að mati Veðurstofu Íslands.

Í Reykjaneseldum á 13. öld urðu nokkur gos úti fyrir Reykjanestá og mynduðu þau gjóskulög á landi. Eldarnir hófust að því er talið er á „surtseyísku eldgosi“ í fjöruborðinu undan Reykjanestá. Að því er segir á vef Náttúruminjasafns Íslands er talið að eldsumbrotin hafi stöðvast í einhvern tíma en nokkrum mánuðum síðar hafist að nýju en þá utar. Tveir gígar hlóðust upp í hafinu, m.a. Karlinn svokallaði sem er hluti gígbarms þessa síðara goss á hafsbotni.

Miðaldarlagið mikla

Landnámsöskulagið

Dökka lagið með ljósum botni þar fyrir neðan er Landnámsöskulagið. Ofan þess má m.a. sjá Miðaldaöskulagið.

Finna má fjögur gjóskulög á Íslandi sem tengjast Reykjaneseldum en heimildir geta að minnsta kosti sex gosa úti fyrir ströndum Reykjaness á þessum tíma. Árið 1226 myndaðist svonefnt miðaldarlag, sem er svart, sendið gjóskulag sem notað hefur verið til aldursgreininga hrauna á svæðinu. Annálar greina frá „sandsumri“ það ár og einnig „sandvetrinum mikla“ í kjölfarið.

Miðaldarlagið hefur verið rannsakað töluvert á síðustu áratugum og það þannig staðsett í öskulagatímatali jarðfræðinnar, en „faðir“ þess er Sigurður Þórarinsson náttúrufræðingur.

Reykjanesskagi

Kortið sýnir þau hraun sem runnu á Reykjanesskaga í síðustu eldgosahrinu frá 9. öld og fram á 13. öld.

Ritaðar heimildir hafa einnig verið notaðar til að varpa ljósi á áhrif sprengigosanna sem mynduðu miðaldarlagið. Annálar, Biskupasögur og Sturlungasaga Sturlu Þórðarsonar eru nokkuð samhljóða um þessa atburði.

Rauð sól og myrkur um miðjan dag

Reykjanes

Reykjanes – jarðfræðikort ISOR.

„Þetta var kallat sandsumar, því at eldr var uppi í sjónum fyrir Reykjanesi, ok var grasleysa mikil,“ segir til dæmis í Sturlungasögu. Um „sandvetur“ eftir þetta sumar er svo fjallað í ýmsum annálum s.s. Oddverjaannál. „Þessi vetr var kallaðr sandvetr ok var fellivetr mikill, ok dó hundrað nauta fyrir Snorra Sturlusyni út í Svignaskarði,” segir í Íslendinga Sögu. „Sandvetr hinn mikle ok fjárfellir,” segir í Guðmundar sögu Arasonar. „Vetur markverður vegna skaðlegs sandfoks; einnig myrkvi á hádegi. Eldgos úr hafi við Reykjanes,“ stendur svo í Annálabrotum Gísla Oddssonar. „Sol raud sem blod: Elldur wpi fyrir Reykianesi,“ segir í Oddverjaannál.

Krýsuvíkureldar

Krýsuvíkureldar – kort jarðfræðinga lagt yfir loftmynd.

Í langtímahættumati Reykjanesskaga, skýrslu sem unnin var hjá Veðurstofu Íslands, er fjallað um mögulegt gjóskufall vegna eldgosa í hafi. Þar er t.d. bent á að Keflavíkurflugvöllur gæti orðið fyrir gjóskufalli sem gæti valdið röskun á starfsemi. Hversu mikil sú röskun yrði færi eftir stærð gosa og hversu lengi það myndi vara. „Dekksta sviðsmynd gjóskufalls á Keflavíkurflugvöll sýnir 45 mm þykkt lag,“ segir í skýrslunni. Töluverðar líkur séu á að skyggni spillist í gjóskufalli og jafnvel eftir að því lýkur af völdum gjóskufoks. Aðrir fjölfarnir ferðamannastaðir eru álíka líklegir til að verða fyrir gjóskufalli en gjóskufall hefur ekki almenn áhrif á þá að öðru leyti en að aðgengi að þeim verður erfiðara og skyggni spillist.“

Grindavík - jarðfræði

Grindavík – eldgos 2021-2024.

Halldór Geirsson, jarðeðlisfræðingur hjá Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands, sagði í viðtali við Stöð 2 vorið 2022 að eldgos í sjó út af Reykjanesi gæti sent ösku yfir höfuðborgarsvæðið. Það hafi orðið raunin í gosinu sem myndaði miðaldarlagið. „Ef slíkur atburður myndi endurtaka sig, þá væri það eitthvað sem höfuðborgarbúar myndu klárlega taka eftir.““

Reykjaneseldar

Reykjanesskagi

Eldstöðvakerfi á Reykjanesskaga (bleik). Jarðskjálftabelti liggur eftir skaganum og markar flekaskilin (rauð). Jarðhitasvæði eru einnig sýnd (gul). Sprungusveimar Hengils til norðausturs og Reykjaness til suðvesturs eru svartir.

„Reykjaneseldar hófust á surtseyísku eldgosi í fjöruborðinu undan Reykjanestá er þar byggðist upp gígur sem nefndur er Vatnsfellsgígur. Talið er að eldsumbrotin hafi stöðvast í einhvern tíma en nokkrum mánuðum síðar hófust þau að nýju utar, þar sem Karlinn stendur nú, en hann mun vera hluti gígbarms síðara gossins. Um 500 m voru á milli gíganna en nú þegar brimið hefur unnið á þeim um aldir sjást einungis ummerki eftir þá. Karlsgígur hefur verið mun stærri en Vatnsfellsgígur en hægt er að sjá ummerki um að gosefni úr honum hafi lagst yfir Vatnsfellsgíginn.

Ummerki eru um gígaröð sem liggur um 4 km inn eftir skaganum í stefnu SV-NA og nefnist hraunið úr henni Yngra Stampahraun. Stærstu gígarnir eru tveir og nefnast Stampar og er gígaröðin öll kennd við þá. Gígarnir eru að mestu klepragígar sem byggst hafa upp af hraunslettum frá kvikustrókum. Hraunið frá gígaröðinni rann upp að Karlsgíg og Vatnsfellsgíg sem staðfestir að hraunið rann eftir að þeir mynduðust.

Landnámsöskulagið

Dökka lagið með ljósum botni þar fyrir neðan er Landnámsöskulagið. Ofan þess má m.a. sjá Miðaldaöskulagið.

Finna má fjögur gjóskulög sem tengjast Reykjaneseldum en heimildir geta að minnsta kosti sex gosa úti fyrir ströndum Reykjaness á þessum tíma. Árið 1226 myndaðist svonefnt miðaldalag, sem er svart, sendið gjóskulag (R-9) sem notað hefur verið til aldursgreininga hrauna á svæðinu. Annálar greina frá „sandsumri“ það ár og einnig sandvetrinum mikla veturinn á eftir.

Ofan á Yngra Stampahrauni má finna miðaldalagið og er því talið að Stampagígaröðin hafi verið virk á fyrri hluta eldanna. Gossprungurnar, sem mynduðu Eldvarpahraun yngra, Illahraun og Arnaseturshraun, hafa verið virkar eftir að miðaldalagið myndaðist þar sem öll hraunin liggja ofan á því gjóskulagi.

Reykjanesskagi

Reykjanesskagi – jarðfræðikort.

Eldvarpahraun yngra rann úr samnefndri gígaröð sem er um 8–10 km löng og nær næstum því til sjávar þó engin gos séu þekkt í sjó frá sama tíma á þessu svæði. Gossprungan sjálf er mjög löng en gígaröðin er fremur slitrótt. Hraun úr syðsta enda sprungunnar rann í sjó fram. Marga formfagra gíga er að finna í Eldvörpum og um hluta þeirra liggur skemmtileg gönguleið. Ekki er síðra að horfa á gígana úr lofti.

Illahraun myndaðist úr stuttri samsíða sprungu austan við Eldvörp. Á norðurjaðri hraunsins er nú Bláa lónið. Illahraun er frekar torfært uppbrotið helluhraun. Gígaröðin er einungis um 200 m að lengd og á henni má finna nokkra gíga, einn gígurinn er stærri en hinir og er sá gígur tvöfaldur.

Arnarsetur

Arnarsetur.

Úr 500 m langri gossprungu við Gígahæð rann Arnaseturshraun. Stuttu austar má finna 700 m langa sprungu sem virðist einungis hafa verið virk í stuttan tíma.

Við Bláa lónið er Illahraun áberandi úfið og grófgert.“

Ítarefni;

Kristján Sæmundsson & Magnús Á. Sigurgeirsson. 2013. Reykjanesskagi. Bls. 379–401 í: Náttúruvá á Íslandi: Eldgos og jarðskjálftar (ritstj. Júlíus Sólnes, Freysteinn Sigmundsson & Bjarni Bessason). Háskólaútgáfan, Reykjavík.

Kristján Sæmundsson, Magnús Á. Sigurgeirsson & Guðmundur Ómar Friðleifsson. 2020. Geology and structure of the Reykjanes volcanic system, Iceland. Journal of Volcanology and Geothermal Research 391. 1–13.

Magnús Á. Sigurgeirsson. 1995. Yngra-Stampagosið á Reykjanesi. Náttúrufræðingurinn 64(3). 211–230.

Magnús Á. Sigurgeirsson & Sigmundur Einarsson. 2019. Reykjanes og Svartsengi. Í: Bergrún A. Óladóttir, Guðrún Larsen & Magnús T. Guðmundsson. Íslensk eldfjallavefsjá. VÍ, HÍ og Avd-RLS. Sótt 2. mars 2021 af http://islenskeldfjoll.is/?volcano=REY#

Sveinn P. Jakobsson, Jón Jónsson & Shido, F. 1978. Petrology of the Western Reykjanes Peninsula, Iceland. Journal of Petrology 19(4). 669–705.

Heimildir:
-Sunnudagur 4. febrúar 2024, Heimildin, Sunna Ósk Logadóttir, „Sandsumar“ í kjölfar eldgosa úti fyrir Reykjanesi.
-https://nmsi.is/molar/eldfjall/reykjaneseldar/

Arnarseturshraun

Illahraun og nágrenni – (Jarðfr.glósur GK).

Selatangar

Í Morgunblaðinu 14. júlí 1987 skrifaði fréttaritari þess í Vogum; „70 refir felldir í vor„. Af fréttinni að dæma virðist sem ör fjölgun hafi orðið á tófu á vestanverðum Reykjanesskaganum þetta árið.

Refur

Refur.

„Tófu fjölgar ört í Gullbringusýslu að sögn refaskyttu sem fréttaritari Morgunblaðsins hefur rætt við. Refaskytturnar hafa fellt um 70 tófur í vor, og virðast tófurnar vera um allt.
Einar Þórðarson refaskytta í Vatnsleysustrandarhreppi segir til dæmis að tófurnar séu við bæjardyrnar hjá sér á Vatnsleysu. Tófur hafa verið felldar við Innri-Njarðvík, úti á Reykjanesi og víðar. Þá hafa tófur sést víða, t.d. innan Varnarliðsstöðvarinnar á Keflavíkurflugvelli.

Refur

Refur.

Einar Þórðarson og Lárus Kristmundsson refaskyttur í Vatnsleysustrandarhreppi hafa fellt 22 tófur í vor, sem er mesti fjöldi að minnsta kosti um langt skeið. Á síðasta ári felldu þeir 16 tófur alls. Í vor fundu þeir tvöfalt greni í Hvassahrauni, það er að þar voru tvær læður í greninu. Á Vatnsleysuströnd hafa dauð lömb fundist við tófugreni.
Ísólfur Guðmundsson, bóndi í Ísólfsskála, refaskytta í Grindavíkurlandi, hefur fellt 17 tófur í vor. Hann skaut 3 tófuyrðlinga í einu skoti við tófugreni á Vatnsheiði.
Í landi Hafnarfjarðar, Garðabæjar og Kópavogs að hluta hafa verið felldar 10 tófur úr 2 grenjum í vor að sögn Sigurðar Erlendssonar refaskyttu. Hermann Ólafsson og Sveinbjörn Guðmundsson, refaskyttur í Hafnahreppi, hafa fellt samtals 20 tófur í vor, þar af um 3 tófur er voru felldar í Njarðvíkurlandi.

Refur

Dauður refur.

Samtals hafa því 6 tófur verið felldar í ár, sem er svipaður fjöldi og á síðastliðnu ári. Að sögn Páls Hersteinssonar veiðistjóra voru felldar samtals 38 tófur í Gullbringusýslu árið 1985 og 31 árið 1984. Samkvæmt upplýsingum frá veiðistjóra var veiðin frá árinu 1975 eftirfarandi: Árið 1975 voru felldar 8 tófur í sýslunni, en árið 1976 voru þær 5, árið 1977 var engin tófa veidd, en þær urðu samtals 7 árið 1978, 1979 var engin tófa felld, en árið 1980 voru þær 2, árin 1981 og 1982 voru engar tófur veiddar í sýslunni en árið eftir hófst fjölgun, þá voru veiddar 11 tófur, árið eftir 31.“ – EG

Hryggjargreni

Refaskyttubyrgi við Hryggjargrenin.

Til fróðleiks má geta þess að refir hafa verið veiddir á Reykjanesskaganum allt frá landnámi. U.þ.b. 100 hlaðnar refagildrur bera þess glöggt vitni sem og hlaðin skjól refaskyttna. Margar sagnir eru til um þrautseigju skyttnanna er lágu úti daga og nætur í öllum veðrum, en minna hefur farið fyrir skráðum heimtum. Þó er vitað að refaskinn þóttu verðmæt verslunarvara fyrr á öldum.
Í dag má enn víða sjá minjar, bæði eftir veiðimennina sem og grenin, sem jafnan voru merkt með stein á steini. Glerbrotin benda til þess að þeir hafi jafnan haft með sér eitthvað til drykkjar!?

Heimild:
-Morgunblaðið 14. júlí 1987, „70 refir felldir í vor“, bls. 26.

Þrætugreni

Skjól refaskyttu við Þrætugrenin.

Eldgos

Á vefsíðu ÍSOR er m.a. fjallaðum „Eldgos á Svartsengis/Sundhnúksgosreininni eftir ísöld„:

„Svartsengiskerfið er um 30 km langt og 6-7 km breitt. Eftir að jökla ísaldar leysti fyrir um fimmtán þúsund árum hefur gosvirknin í kerfinu einskorðast við Eldvarpa-gosreinina annars vegar og Svartsengis/Sundhnúks-gosreinina hins vegar.

Þorbjarnarfell

Þorbjarnarfell (Þorbjörn).

Sú síðarnefnda liggur skammt austan móbergsfjallanna Þorbjarnar, Sýlingarfells (einnig nefnt Svartsengisfell) og Stóra-Skógfells. Þótt ýmislegt sé vitað um sögu gosvirkni á Sundhnúksgosreininni er margt enn óljóst, einkum um elstu hraunin. Á það reyndar við um allan Reykjanesskaga.
Hraunum sem eiga upptök á gosreininni verður lýst stuttlega hér að neðan í aldursröð. Í umfjölluninni er vísað er í kenni á meðfylgjandi korti.

Grindavík

Grindavík – eldgos 2021-2024 (ÍSOR).

Bleðla af máðum og fornlegum hraunum má finna víða utan í móbergsfjöllum austan Svartsengis, s.s. í austan- og norðanverðum Þorbirni, við Sýlingarfell og Stóra-Skógfell (s.s. ks, sb, mk á korti). Á láglendi eru þessi hraun hulin yngri hraunum og útbreiðsla því óþekkt. Þessi hraun eru að mestu samsett úr sambræddum kleprum, sem bendir til að þau hafi myndast við ákafa kvikustrókavirkni. Hraun af þessu tagi má kalla kleprahraun. Eru þau líklega frá því snemma á eftirjökultíma, jafnvel síðjökultíma. Engar aldursgreiningar liggja fyrir á hraununum enn sem komið er. Vísbending um aldur eins þeirra kemur þó fram í grjótnámu við Hagafell, en þar liggur það vel undir 8000 ára gömlu hrauni (sjá neðar) og er áætlaður aldur þess um 10.000 ár (Magnús Á. Sigurgeirsson, óbirt gögn).

Hagafell

Hagafell.

Bæði suðvestan og austan megin í Hagafelli eru stuttar fornlegar gígaraðir. Hraunið frá þeim hefur verið nefnt Hópsheiðar- og Hópsnesshraun (hh á korti). Aldursgreining C-14 á gróðurleifum undan hrauninu leiddi í ljós að þær eru um 8000 ára gamlar og líklegt að hraunið sé af líkum aldri. Stærstu flákarnir í þessu hrauni koma fram á Hópsheiði og Hópsnesi við Grindavík. Einnig kemur hraunið fram í hraunhólmum við Sundhnúk, um 500-700 m norðan Hagafells, sem sýnir að gossprungan hefur verið a.m.k. 1,5 km löng.
Við norðurenda Sundhnúkshrauns má sjá fjögur hraun sem koma undan því (merkt kh, ed, hf og da). Aldur þessara hrauna er óljós en þau eru þó talsvert meira en 4000 ára gömul. Einnig má nefna fornt hraun með upptök í Lágafelli vestan Þorbjarnar (lf á korti). Þarna er verk að vinna við nákvæmari aldursgreiningar.

Sundhnúkur

Sundhnúkagígaröðin að Stóra-Skógfelli.

Sundhnúksgígaröðin er ein af lengri gígaröðum Reykjanesskaga, alls um 11,5 km löng og þekur hraunið um 22 km2 lands. Aldursgreining á koluðum kvistum undan hrauninu gaf aldurinn 2300-2400 ár. Hins vegar benda gjóskulagarannsóknir til að hraunið sé nær 2000 áum í aldri (Magnús Á. Sigurgeirsson, óbirt gögn). Gígaröðin liggur vestan með Hagafelli og áfram sundurslitin 3 km til suðvesturs. Syðstu gígarnir eru á 250 m langri gígaröð, sem er aðskilin frá megingígaröðinni (á afgirtu svæði fjarskiptastöðvarinnar norðan Grindavíkur). Þessir gígar liggja rúma 400 m frá næstu húsum í Grindavík og er hraunjaðarinn mun nær, við Nesveg. Athyglivert er að í gosinu 14. janúar hófst gos á stuttri gígaröð 600 m sunnan megingígaraðarinnar líkt og gerðist fyrir 2000 árum. Mörg dæmi mætti nefna um goshegðun af þessu tagi, þ.e. þar sem gýs á stuttri gígaröð sem er aðskilin megingígaröðinni.

ReykjanesskagiÁ tímabilinu 1210-1240 e.Kr. voru eldgos tíð í Reykjanes- og Svartsengiskerfunum, gjarnan nefnt Reykjaneseldar 1210-1240. Sundhnúksgosreinin var ekki virk á þeim tíma en þá gaus hins vegar á Eldvarpagosreininni 4 km vestar. Rannsóknir á hraunum og gjóskulögum benda til að virknin á 13. öld hafi byrjað á Reykjanesi en síðan færst til austurs yfir á Svartsengiskerfið um 1230 og síðan lokið árið 1240 þegar Arnarseturshraun rann. Ritaðar heimildir eru rýrar en nefna þó a.m.k. sex eldgos á þessum 30 árum, flest í sjó við Reykjanes. Telja má líklegt að gosin hafi verið fleiri sé tekið mið af þeim tíðu eldgosum sem nú ganga yfir á Reykjanesskaga.

Reykjanes

Reykjanes – jarðfræðikort (ÍSOR).

Í ljósi sögunnar má telja líklegt að yfirstandandi virkni á Sundhnúksreininni geti dregist á langinn, í nokkur ár að minnsta kosti. Í undangengnum eldum, á síðustu 2000 árum, hefur verið algengast að hraun þeki um 40-50 km2 í hverjum eldum, eða meira, sem styður frekar þá ályktun að eldvirkni í Svartsengiskerfinu gæti staðið yfir eitthvað lengur.“

Helstu heimildir:
Kristján Sæmundsson og Magnús Á. Sigurgeirsson (2013). Reykjanesskagi. Í: Náttúruvá á Íslandi, eldgos og jarðskjálftar. Viðlagatrygging Íslands og Háskólaútgáfan.
Kristján Sæmundsson, Magnús Á. Sigurgeirsson, Árni Hjartarson, Ingibjörg Kaldal, Sigurður Garðar Kristinsson og Skúli Víkingsson (2016). Jarðfræðikort af Reykjanesskaga, 1:100 000 (2. útgáfa). Íslenskar orkurannsóknir.

Heimild:
-https://isor.is/eldgos-a-svartsengis-sundhnuksgosreininni-eftir-isold/

Reykjanesskagi

Reykjanesskagi – nútímahraun.

Eldgos

Á vefsíðu ÍSOR er m.a. fjallað um „Yfirlit um jarðfræði Reykjanesskaga„:
„Jarðfræðilega nær Reykjanesskagi austur að þrígreiningu plötuskilanna sunnan Hengils. Reykjanesskagi er svokallað sniðrekbelti og fer gliðnunin fram í NA-SV-eldstöðvakerfum, sem eru tugir kílómetra að lengd, með misgengjum, gjám og gígaröðum.

ReykjanesskagiÁ kortinu eru sýndir helstu hnikþættir á Íslandi. Rekbeltin á Íslandi (svört) hliðrast til austurs frá Reykjaneshrygg (RH) og Eyjafjarðarál (EÁ). Það gerist um Suðurlands-þverbrotabeltið (SB) og annað þverbrotabelti kennt við Tjörnes (HF) milli Húsavíkur og Flateyjar. Brotabelti á Arnarvatnsheiði (A) og í Borgarfirði (B) eru sama eðlis. Þau tengja á milli Vestra rekbeltisins (VR) og Snæfellsness-hliðarbeltisins (SN). Vestra (VR), Eystra (ER) og Norðurrekbeltið (NR) eru sýnd svört. VR og ER eru sýnd sem fleygar. Það á að gefa til kynna vaxandi gliðnun annars vegar til suðvesturs í VR og hins vegar til norðaustusr í ER. Yfir Mið-Ísland liggja eldstöðvakerfi. Þau helstu eru gefin til kynna með H (Hofsjökull) og GK (Grímsvötn-Kverkfjöll). Sniðrekbelti eru sýnd í bleikum lit, annars vegar Reykjanesskagi (RN) og hins vegar spegilmynd hans, Grímseyjar-Axarfjarðarbeltið (GR). Hliðarbelti Snæfellsness (SN), Suðurlands (SH) og Öræfajökuls-Snæfells eru sýnd í bláum lit. Sveru örvarnar sýna rekstefnuna. Rekhraði er um 1 cm á ári í hvora átt.

ReykjanesskagiÁ Reykjanesskaga kemur sniðgengisþátturinn fram í nokkurra kílómetra löngum norður-suður sprungum með láréttri færslu og sprunguhólum. Þær eru á mjóu belti sem liggur eftir skaganum endilöngum. Þar verða tíðum jarðskjálftar. Þeir koma í hrinum og eru flestir litlir. Sá öflugasti hefur verið um 6 stig að stærð. Tímabil eldgosa og gliðnunarhreyfinga annars vegar og sniðgengishreyfinga hins vegar skiptast á og standa hvor um sig í 6-8 aldir. Tímabil sniðgengishreyfinga hefur staðið yfir síðustu aldirnar en vísbendingar eru um að því sé að ljúka.

Jarðfræði

Reykjanesskagi – nútímahraun.

Á Reykjanesskaga eru sex eldstöðvakerfi. Miðstöð þeirra ákvarðast af mestri hraunaframleiðslu í sprungugosum. Sprungusveimar eldstöðvakerfanna, með gjám og misgengjum, eru miklu lengri en gossprungureinarnar. Þar hafa kvikuinnskot (berggangar) frá megineldstöðvunum ekki náð til yfirborðs. Í fimm af eldstöðvakerfunum er háhitasvæði. Hitagjafi þeirra eru innskot ofarlega í jarðskorpunni. Boranir á háhitasvæðunum hafa sýnt að 20-60% bergs neðan 1000-1600 m eru innskot. Súrt berg og öskjur eru ekki í eldstöðvakerfum skagans. Veik vísbending er þó um kaffærða öskju á Krýsuvíkursvæðinu, og í Hengli kemur fyrir súrt berg í megineldstöðinni, en það er norðan þrígreiningar plötuskilanna (gosbeltamótanna). Bergfræði gosbergsins í eldstöðvakerfunum spannar bilið frá pikríti til kvarsþóleiíts.

Eldvirkni og gliðnunartímabil
ReykjanesskagiRannsóknir sýna að eldvirkni- og gliðnunartímabil (gosskeið) verða á 6-8 alda fresti á Reykjanesskaga. Gosvirknin einkennist af eldum sem geta staðið í nokkra áratugi, með hléum. Eldstöðvakerfin hafa yfirleitt ekki verið virk samtímis heldur hefur gosvirkni flust á milli þeirra eitt af öðru. Hvert eldstöðvakerfi verður virkt á 900-1100 ára fresti. Um 950 ár eru frá síðasta gosi í Brennisteinsfjallakerfinu en 780-830 ár í vestari kerfunum. Rannsóknir benda til að síðasta gosskeið hafi byrjað með eldum í Brennisteinsfjöllum og á Trölladyngjurein Krýsuvíkurkerfisins laust fyrir árið 800.

Festisfjall

Festisfjall – Kristján Sæmundsson, jarðfræðingur, að störfum.

Eftir þá hrinu kom um 150 ára hlé þar til eldvirkni tók sig upp aftur í Brennisteinsfjallakerfinu á 10. öld. Þar á eftir fylgdi Krýsuvíkurkerfið á 12. öld. Að síðustu gaus á vestustu kerfum skagans, Reykjanes- og Svartsengiskerfunum, á 13. öld. Þeim eldum lauk um árið 1240. Brennisteinsfjallakerfið hefur verið virkast af eldstöðvakerfum Reykjanesskaga eftir ísöld og framleitt mest hraun, bæði að flatar- og rúmmáli.

Tímabil eldgosa eru fundin með aldursgreiningu hrauna með hjálp öskulaga og C14- aldursgreiningum, auk skráðra heimilda um gos eftir landnám. Tvö síðustu gosskeiðin eru vel þekkt og það þriðja fyrir um 3000 árum að nokkru leyti. Vísbendingar eru um fleiri gosskeið þar á undan en aldursgreiningar eru of fáar enn sem komið er til að tímasetja þau af nákvæmni.

Samantekt árið 2010: Kristján Sæmundsson jarðfræðingur ÍSOR. Uppfært árið 2021: Magnús Á. Sigurgeirsson jarðfræðingur ÍSOR.“

Heimild:
-https://isor.is/jardhiti/yfirlit-um-jardfraedi-reykjanesskaga/
Reykjanesskagi

Kristján Sæmundsson

Kristján Sæmundsson, jarðfræðingur, skrifar grein í Náttúrufræðinginn 1983 um „Hálfrar aldar þögn um merka athugun“. Þar segir hann m.a.:

Kristján Sæmundsson

Kristján Sæmundsson í FERLIRsfer undir Festisfjalli.

„Einhvers staðar í ritum sínum segir Helgi Péturss, að ekki sé nóg að gera uppgötvun, heldur þurfi aðrir líka að uppgötva að uppgötvun hafi verið gerð. Hér skal getið um eitt slíkt tilfelli, þar sem mér og fleirum hefur sést yfir snjalla ályktun um eldvirkni á Reykjanesskaga.
Síðustu æviár sín vann Guðmundur G. Bárðarson að jarðfræðirannsóknum þar, en féll frá í miðju verki.
Hálfkarað handrit af jarðfræðikorti (í vörslu Náttúrufræðistofnunar) er til frá hans hendi og auk þess nokkrar prentaðar ritgerðir og greinar í blöðum um Reykjanesskagann. Á „18. Skandinaviske Naturforskermöde“ í Kaupmannahöfn 1929 lagði Guðmundur kortið fram og flutti um það erindi, sem seinna var prentað í skýrslu fundarins undir heitinu „Geologisk Kort over Reykjanes-Halv0en’ (Guðmundur G. Bárðarson 1929). Þar er höfundi ljós aldursmunur dyngjuhrauna og sprunguhrauna og fjallar niðurlag greinarinnar um sprunguhraunin undir yfirskriftinni „De yngste Lavadoekker“. í lýsingu sinni á sprungugosunum aðgreinir Guðmundur fjögur belti (Vulkanbælter) sem hann gerir síðan nánari grein fyrir. Belti þessi svara nákvæmlega til eldstöðvakerfanna, sem við yngri mennirnir höfum verið að vekja máls á næstliðinn áratug.

Kristján Sæmundsson

Kristján skoðar berggang undir Lyngfelli.

Beltin sem Guðmundur aðgreinir á Reykjanesskaga ná (1) frá Reykjanesi norðaustur fyrir Grindavík. – (2) Yfir Vesturháls og Austurháls. Nefnt er, að hverirnir í Mosfellssveit séu í norðaustur framhaldi þess. — (3) Yfir Brennisteinsfjöll og Grindaskörð. — (4)  Frá Selvogsheiði norðaustur yfir Hengil og áfram norðaustur um gjárnar á Þingvöllum. Seinni höfundar, sem lýstu jarðfræði skagans, virðast ekki hafa haft sama skilning á aðskiljanlegum eldvirknibeltum. Svo er t. d. um Kuthan (1943), sem gekk þó fram úr hófi langt í túlkun sinni á jarðfræði Reykjanesskaga. Skipan eldsprungna, gjásvæða og móbergshryggja fangar þó augað strax og litið er á kort hans. Sama gildir um jarðfræðikort Guðmundar Kjartanssonar (1960). Sjálfur vakti ég upp hugmyndina um stórar einingar í gosbeltinu þ. á. m. á Reykjanesskaga kringum 1970 (Kristján Sæmundsson 1971a og b) og hélt þá í barnaskap mínum að ég væri að benda á eitthvað nýtt. Veifaði ég á fundi í Jarðfræðafélagi Íslands korti Kuthans og jarðfræðikorti Guðmundar Kjartanssonar framan í viðstadda félagsmenn til að þeir mættu sjá einingar þessar ljóslifandi á eldri kortum þótt enginn hefði bent sérstaklega á þær fyrr. Hefði ég þá betur verið búinn að lesa grein Guðmundar G. Bárðarsonar, því hann hafði sagt 40 árum fyrr aðalinntakið í því, sem ég var að boða kollegum mínum á þessum fundi.

Reykjanesskagi

Reykjanesskagi – eldstöðvakerfi; sveimar.

Það kom fljótlega fram, að fleiri jarðfræðingar lögðu sama skilning í byggingu Reykjanesskagans og raunar landsins alls (Eysteinn Tryggvason 1973, G. P. L. Walker 1975, Sveinn Jakobsson o. fl. 1978). Almennt er nú farið að kalla einingar þessar eldstöðvakerfi, en það er bein þýðing á „volcanic system“ sem ameríkumenn nota um sömu fyrirbæri. Amerískur jarðfræðingur, J. G. Moore, benti hérlendum á enska heitið og er það fyrst notað af Sveini Jakobssyni (1979a) og í sérhefti Jökuls um jarðfræði íslands (1979b).
Eldstöðvakerfin eru í mörgum tilfellum saman sett af einni megineldstöð og gossprungum og gjám sem liggja í gegnum hana. Megineldstöð er þýðing á ensku „central volcano“ og mun fyrst koma fyrir hjá Þorleifi Einarssyni í 1. útg. jarðfræðibókar hans (1968). Bæði þessi orð voru innleidd um rofin eldfjöll í tertíera bergstaflanum. Í rofnum bergstafla koma gossprungur og gjár fram sem berggangar.

Kristján Sæmundsson

Kristján skoðar bergganga í Hraunsfjöru.

Gangasveimur var það kallað er margir gangar lágu því sem næst í sömu stefnu út frá megineldstöð og mynduðu aflanga heild. Orðið kemur einnig fyrst fyrir hjá Þorleifi í áður tilvitnaðri jarðfræðibók (1968). Það er bein þýðing á ensku „dyke swarm“. Þegar farið var að draga fram hliðstæður í virku gosbeltunum voru þessi heiti yfirfærð með þeirri breytingu einni, að í stað gangasveims var talað um sprungusveim (fissure swarm) (Kristján Sæmundsson 1971a og b). Hliðstæð fyrirbæri við eldstöðvakerfin í virku gliðnunarbeltunum hér á landi eru eldstöðvakerfin á Hawaii. Þar heitir megineldstöðin „shield volcano“ en sprungusveimurinn „rift zone“. Íslensk þýðing á shield volcano er eiginlega ekki til*, en um „rift zone“ hefur verið haft orðið gjástykki (Kristján Sæmundsson 1979). Bæði ensku og íslensku heitin hafa hér þrengri merkingu en felst í orðunum megineldstöð (central volcano) og sprungusveimur (fissure swarm). Margir eru þeir sem ekki fella sig við orðið sveimur, og því mjög á reiki hvað einstakir höfundar nefna þessi fyrirbæri á íslensku. Um þetta hafa sést á prenti eftirtalin orð: þyrping (Sveinn Jakobsson 1979b, Ari T. Guðmundsson 1982), belti (Oddur Sigurðsson 1976), belti eða rein (Freyr Þórarinsson o. fl. 1976), kerfi (Guðmundur E. Sigvaldason 1982, Guðrún Larsen, 1982), stykki (Axel Björnsson, í fyrirlestrum).

Isor

Jarðfræðikort ISOR af Suðvesturlandi.

Sjálfum er mér tamast að nota orðið sveimur og sama gera þeir Sigurður Þórarinsson, Sigurður Steinþórsson og Sveinbjörn Björnsson og Páll Einarsson í ritgerðum sínum á 2. útg. af Náttúru Íslands (1981). Orðin sveimur og þyrping missa að nokkru marks, vegna þess að þau gefa ekki til kynna að regla sé í dreifingu sprungnanna. Það undirstrika hins vegar orðin belti og kerfi. Hér skal ekki tekin afstaða til þess hvert af þessum orðum sé skárst.
Framar í þessum greinarstúf var þess getið að sá maður sem fyrstur kom auga á og lýsti eldstöðvakerfunum á Reykjanesskaga hafi verið Guðmundur G. Bárðarson. Notaði hann um þau orðið belti. Eitt framantaldra orða var haft til að lýsa skyldu fyrirbæri rúmum þremur öldum fyrr: „Frá Eldeyjum og Geirfuglaskeri grynnra og nyrðra skal telja 7 smásker og sést hvert frá öðru á sömu rein rétt í haf frá Reykjanesi“. Þannig komst Jón lærði að orði í riti sínu „Ein stutt undirrjetting um Íslands aðskiljanlegar náttúrur“ (tilvitnað eftir útg. Halldórs Hermannssonar 1924). Kannske er þar komið heitið, sem allir hefðu getað fellt sig við.“

Heimild:
-Náttúrfræðngurinn, Kristján Sæmundsson, „Hálfrar aldar þögn um merka athugun“, 52. árg. 1-4 tbl, 01.05.1983, bls, 102 -103.

Kristján Sæmundsson

Í Hraunsfjöru.

Reykjanesskaginn

Eftirfarandi grein um „Eldgos á Reykjanesi á sögulegum tíma er eftir Jón Jónsson, jarðfræðing, og birtist í Náttúrufræðingum árið 1983.

Isor

Jarðfræðikort ISOR af Suðvesturlandi.

„Reykjanesskagi er hluti af gosbeltinu, sem liggur um Ísland þvert og er í beinu framhaldi af Reykjaneshryggnum, sem neðansjávar teygir sig langt suðvestur í haf og raunar er hluti af Atlantshafshryggnum mikla. Frá því að síðasta kuldaskeiði lauk hefur mikil eldvirkni verið á þessu svæði bæði ofansjávar og í hafi. Sú eldvirkni hefur á umliðnum öldum byggt upp Reykjanesskaga og verður ekki enn séð nokkurt lát á þeirri starfsemi. Er það efni þessarar greinar að draga saman nokkrar staðreyndir í því sambandi.
Jarðvísindalega séð er Reykjanesskagi hreinasti dýrgripur því hann er einn aðgengilegasti hluti hins virka gosbeltis og dæmi um það hvernig slíkir hryggir byggjast upp.

Heimildir um eldgos á Reykjanesskaga

Gvendarselsgígar

Gvendarselsgígar.

Fyrsta heimild um gos á umræddu svæði er hin alkunna frásögn Kristnisögu: „Þá kom maðr hlaupandi ok sagði að jarðeldr var upp kominn í Ölfusi ok mundi hann hlaupa á bæ Þorodds goða“ (Kristnisaga, bls. 270). Kristnisaga er talin vera „að stofni til frá 12. öld“ (sama heimild bls. 29) og gæti því verið rituð rösklega öld eftir að atburðir þessir áttu sér stað.

Eldborg

Eldborgin syðri í Svínahrauni.

Hér er að sjálfsögðu látið liggja milli hluta hvort kristnitakan hafi verið árið 1000 eða 999. Lengi hefur verið fullyrt að gos þetta hafi verið í gígaröð austan við Hveradali. Svo gerir Hálfdán Jónsson (1703, útg. 1979), Sveinn Pálsson (1945) og svo hver af öðrum, m. a. hefur það slæðst inni í sögu Íslands I (Sigurður Líndal 1974, bls. 241) og er þar til áréttingar sýnd mynd af hrauntungu þeirri sem „mundi hlaupa á bæ Þórodds goða“ að Hjalla. Síðari heimildir um eldgos á Reykjanesskaga eru með afbrigðum óljósar og torráðnar.
NýmyndunÞannig er t. d. getið um gos í Trölladyngju eða Trölladyngjum 1151, 1188, 1340, 1360 og 1389-90 og um hraun, sem runnið hafi niður í Selvog 1340 (Þorvaldur Thoroddsen 1925, 1958). Líkur eru til að það, sem nú er nefnt Brennisteinsfjöll hafi áður fyrr verið nefnt Trölladyngjur, en sannanlega hefur þar verið eldvirkni mikil — og líka á sögulegum tíma og verður að því vikið síðar.
Ljóst er að Ögmundarhraun hefur runnið á sögulegum tíma þar eð það hefur runnið yfir bæ og hluti af rústum hans sést ennþá, en skráðar heimildir um það gos munu ekki vera fyrir hendi.
GjóskusniðVafalaust hafa skráðar heimildir um ýmsa atburði á þessum landshluta, þar á meðal eldgos, glatast í aldanna rás. Má í því sambandi minna á afdrif bóka Viðeyjarklausturs (Árni Óla 1969).
Nú hefur, eftir mismunandi leiðum, verið mögulegt að sýna fram á, að a. m. k. 12 eða 13 eldgos hafa átt sér stað á Reykjanesskaga frá því að norrænt landnám hófst hér. Þekktan aldur hafa einnig verið mjög til hjálpar eins og sýnt verður hér á eftir. Einkum eru það tvö öskulög, sem hafa haft mikla þýðingu í þessu sambandi, en þau eru landnámslagið frá því um 900 (Sigurður Þórarinsson 1968, Jón Jónsson 1978) og öskulag frá Kötlu um 1495 (Jón Jónsson 1978). Bæði eru þessi öskulög auðþekkt séu þau á annað borð sæmilega greinileg. Landnámslagið er tvílitt, ljóst að neðan en svart að ofan. Öskulagið frá Kötlu er svart og þykkara en nokkurt annað öskulag í jarðvegssniðum á þessu svæði ofar en landnámslagið.

Aldursákvarðanir
Aðferðum, sem notaðar hafa verið til þess að flokka aldur hrauna á Reykjanesskaga má skipta í 4 flokka:
1) Sögulegar heimildir.
2) Geislakolsákvarðanir, C14.
3) Öskulög.
4) Afstaða til hrauna með þekktan
aldur.

Nyrðri-Eldborg

Eins og áður er sagt, eru sögulegar heimildir um eldgos á þessum landshluta bæði mjög fátæklegar og auk þess svo ruglingslegar að vant er að vita hverju má treysta. Örnefnið Nýjahraun (Kapelluhraun) bendir til þess að það hafi orðið til á sögulegum tíma.
Bæjarrústirnar í Ögmundarhrauni tala sínu máli, en þar með eru sannanir á þrotum. Um vitnisburð annála er áður getið. Ákvarðanir aldurs gróðurleifa (C14) hafa reynst notadrjúgar þar sem þeim verður við komið. Öskulög með þekktan aldur hafa einnig verið mjög til hjálpar eins og sýnt verður hér á eftir. Einkum eru það tvö öskulög, sem hafa haft mikla þýðingu í þessu sambandi, en þau eru landnámslagið frá því um 900 (Sigurður Þórarinsson 1968, Jón Jónsson 1978) og öskulag frá Kötlu um 1495 (Jón Jónsson 1978). Bæði eru þessi öskulög auðþekkt séu þau á annað borð sæmilega greinileg.

Landnámsöskulagið

Dökka lagið með ljósum botni þar fyrir neðan er Landnámsöskulagið.

Landnámslagið er tvílitt, ljóst að neðan en svart að ofan. Öskulagið frá Kötlu er svart og þykkara en nokkurt annað öskulag í jarðvegssniðum á þessu svæði ofar en landnámslagið.

Söguleg hraun á Reykjanesskaga
Svínahraun — Kristnitökuhraunið
MelhóllSýnt hefur verið fram á að yngsta hraunið austan við Hveradali getur ekki verið frá gosi því, er Kristnisaga getur um, ekki heldur hraunið úr Eldborg undir Meitli, er runnið hefur þannig, að það stefnið á Hjalla í Ölfusi og kemur að því leyti vel heim við söguna. Hins vegar er landnámslagið ofan á Eldborg, og mosakol undan hrauninu við Hveradali sýna að það er um 800 árum eldra en kristnitakan (Jón Jónsson 1977). Þetta leiddi til þess að gerðar voru athuganir á yngsta hrauninu milli Lambafells og Bláhnúks, en það er augljóslega yngra en það, sem talið var vera Kristnitökuhraunið. Kom brátt í ljós að landnámslagið er undir þessu hrauni, en Kötlulagið frá um 1495 ofan á því (Sigurður Þórarinsson 1968, Jón Jónsson 1979). Endurteknar athuganir í óbrennishólmanum í Svínahrauni leiddu í ljós, að ekki verður greindur minnsti vottur af jarðvegi eða gróðurleifum milli öskulagsins og hraunsins. Það, sem hér er nefnt Svínahraun, er hraunið úr Nyrðri Eldborg, en hraunið úr Syðri Eldborg er nefnt Lambafellshraun. Það hraun er eitthvað yngra, en talið vera nær samtíma, þ. e. úr sömu goshrinu. Þó er þetta enn ekki sannað mál. Bæði þessi hraun ná yfir 11,9 km2 svæði (Þorleifur Einarsson 1960, Jón Jónsson 1978) og teljast um 0,24 km Þetta eru ólivínþóleíthraun og innihalda rösklega 14% ólivín.

Rjúpnadyngnahraun
RjúpnadyngjaÍ nær miðjum Húsfellsbruna milli Þríhnúka og Sandfells er eldstöð, sem mjög lítið ber á, en nefnist Rjúpnadyngjur. Húsfellsbruni er örnefni, sem nær til margra hrauna, sem flest eru runnin fyrir landnám, en einnig eru þar yngri hraun. Naumast verður það talið, að augljóst sé við fyrstu sýn, að Rjúpnadyngjur séu eldvörp. Þarna er óvenju stórbrotið hraun með djúpum sprungum og illfærum gjám. Eitt hringlaga niðurfall er á þessu svæði og er talið líklegast að það sé yfir uppvarpinu. Gjall kemur aðeins fyrir á litlum hól miðsvæðis. Við nánari athugun sést að þarna er um eldstöð og um dæmigert hraungos að ræða, en yngri hraun hafa runnið upp að henni sunnan frá og verið langt komin með að færa hana í kaf.

Rjúpnadyngjuhraun

Í Rjúpnadyngjuhrauni.

Hraun frá Rjúpnadyngjum hefur runnið norður og norð-vestur. Nyrsti tangi þess endar í allhárri brún rétt austan við Búrfell og hefur þar runnið út á Búrfellshraun. Leysingavatn hefur grafið dálítinn farveg meðfram hraunröndinni norðaustur af Búrfelli og þar reyndist mögulegt að grafa inn undir hraunið. Komu þá í ljós bæði öskulögin, sem áður var minnst á.
Landnámslagið liggur inn undir hraunið, en svarta Kötlulagið er ofan á því. Þar með er ljóst að þarna hefur gosið eftir 900. Annað, sem sannar þetta, er að hraunið hefur á einum stað runnið út á Tvíbollahraun, en það var áður aldursákvarðað (sjá síðar). Gróðurleifar undir þessu hrauni eru afar fátæklegar og því hefur enn ekki verið hægt að koma C14 athugunum við.

Kóngsfellshraun
Stóra-KóngsfellVestan við Stóra Kóngsfell er stutt gígaröð, sem nær upp í fellið og er á sprungu, sem gengur gegnum það. Þarna hafa einkum tveir gígir verið virkir. Hraunið hefur runnið báðum megin við Kóngsfell norður og niður á við. Það hefur runnið upp að Rjúpnadyngjum og báðum megin við þær og er því yngra en sú gosstöð og þar með frá sögulegum tíma. Nánari aldursákvörðun á þessu gosi liggur ekki enn fyrir.

Breiðdalshraun

Kistufellsgígur

Kistufellsgígur.

Á Brennisteinsfjöllum er feiknamikil eldstöð, sem ég hef nefnt Kistu og sem sent hefur hraunstrauma bæði suður og norður af fjallinu. Það hraun, sem til norðurs rann, er dæmigert helluhraun. Unun er að ganga þessar svörtu klappir, sem bjóða upp á hin furðulegustu mynstur í formi straumgára, fellinga og hraunreipa. Það hefur runnið í fremur mjóum straumi norðvestur fjallið milli eldri hrauna og fallið í bröttum fossi ofan í Fagradal, þar sem það hefur hrifið með sér stór björg og steina úr brúninni og liggja þeir nú í tugatali ofan á hrauninu í dalnum, meðal grjóts sem síðar hefur hrunið úr fjallinu út á hraunið.

Breið

Það hefur svo haldið áfram allt að Undirhlíðum og loks staðnæmst í Breiðdal og þekur allan dalbotninn með sléttu hrauni. Þar sem það fellur niður í dalinn austan við Breiðdalshnjúk er það örþunnt. Leysingavatn hefur þar grafið sér farveg meðfram því og nokkuð inn undir rönd þess. Þar má sjá jarðveg þann, sem hraunið rann yfir og finna leifar þess gróðurs, sem þar var þá og raunar liggja þær gróðurleifar í sjálfu landnámslaginu. Liggur því tvöföld sönnun fyrir aldri þessa hrauns, enda gaf C“ ákvörðun um ár 910. Meðal gróðurleifa virtist vera beitilyng, víðir, bláberjalyng og einír, en þetta allt vex á staðnum enn í dag.

Selvogshraun

Herdísarvíkurfjall

Herdísarvíkur- og Hlíðarfjall – sjá má hrauntauma ofan frá Brennisteinsfjöllum.

Skammt eitt austan við hina fornu brennisteinsnámu, sem raunar mun hafa gefið þessum fjallaslóðum nafn, rís á fjallsbrún hár og brattur gígur, sem ég í dagbókum mínum hef nefnt Gráfeld. Hljóti það nafn viðurkenningu, skal hraun þetta Gráfeldshraun heita, en fram til þess nota ég hitt nafnið enda hef ég áður notað það (Jón Jónsson 1978).

Draugahlíðar

Gráfeldur á Draugahlíðum.

Þessi gígur er á sprungu og smágígir eru vestan við hann. Auðsætt er að hann hefur þegar í upphafi tekið völdin og sent hraunflóð mikið niður í dalinn, þar sem fleiri hraun voru þegar fyrir og fylla hann nú fjalla milli. Meðal þeirra er áðurnefnt Breiðdalshraun, sem hverfur inn undir þetta hraun, sem þannig örugglega er yngra, enda yngst í dalnum og samkvæmt þessu frá sögulegum tíma. Annálar geta þess að hraun hafi runnið niður í Selvog 1340 og 1389 (Þorvaldur Thoroddsen 1925, bls. 188-189). Mjög trúlegt sýnist að Selvogshraun sé frá öðru hvoru þessu gosi, en vel gætu hafa orðið enn fleiri gos í Brennisteinsfjöllum á sögulegum tíma og vafalaust hafa bæði þessi gos orðið þar, en tímasetning er óljós. Hraunið hefur fallið fram af Herdísarvíkurfjalli við Hlíðarvatn, en staðnæmst neðan við brekkurætur aðeins norðan við núverandi þjóðveg. Hraun það er fallið hefur niður í Kleifarvatn sunnanvert og Hvammahraun nefnist er mjög ungt og gæti jafnvel verið frá sögulegum tíma.

Tvíbollahraun
TvíbollahraunVið Grindaskörð eru gígaraðir á sprungubelti og hefur þar verið mikil eldvirkni. Meðal þessara gíga eru Tvíbollar, en það eru gígir tveir, sem gnæfa á norðurbrún fjallsins og hef ég áður fjallað um þá (Jón Jónsson 1977). Eins og nafnið bendir til eru gígir þessir samvaxnir og sést það vel neðan úr byggð. Aðalgígurinn er 40 – 60 m hár en minni gígurinn tæplega þriðjungur þess. Gígirnir eru hlaðnir úr gjalli og hraunkleprum og hraunstraumurinn hefur fallið norður og mest um undirgöng, sem enn má sjá. Lengst norður nær hraun þetta að Helgafelli og hefur runnið í örþunnum straumi vestur með því að sunnan en hverfur loks undir Gvendarselshraun við suðvesturhornið á fellinu. Rétt þar hjá hefur leysingavatn grafið fornan jarðveg undan hrauninu svo það hefur á kafla fallið niður. Kemur við það í ljós jarðvegslag, sem er rösklega 1,2 m þykkt og í því m. a. eitt ljóst öskulag, sem talið er að sé H3 (frá Heklu fyrir 2.800 árum), en næst hrauninu eru kolaðar gróðurleifar, sem aldursákvarðaðar hafa verið og reynst 1075±60 C’4 ár, (Jón Jónsson 1977) en það þýðir að hraunið gæti hafa runnið árið 875 og er því frá sögulegum tíma.

Tvíbolli

Tvíbolli (Miðbolli).

Jafnframt fannst landnámslagið undir þessu hrauni, aðeins ofan við áðurnefnt niðurfall. Þrjú hraun hafa síðar runnið út á þetta hraun og eru því yngri, en þau eru Rjúpnadyngnahraun, Kóngsfellshraun og svo það litla hraun, sem næst verður fjallað um í þessari grein.

Gvendarselshraun
GvendaselsgígarNorðurendi Undirhlíða er nefndur Gvendarselshæð. Hún endar við Kaldárbotna. Austan í hæðinni gegnt Helgafelli er gígaröð, sem ég hef nefnt Gvendarselsgígi. Þeir eru á misgengi því, sem liggur eftir endilöngum Undirhlíðum, klýfur Kaldárhnúk, myndar vesturbrún Helgadals og klýfur Búrfellsgíginn um þvert og heldur áfram um Heiðmörk. Hraun frá þessari litlu gígaröð þekur allt svæðið milli Gvendarselshæðar og Helgafells. Víðast er það dæmigert helluhraun. Það hefur runnið niður í Kaldárbotna að norðaustan í smátotu, sem hangir þar níður, en hefur staðnæmst neðan við hjallann.

Gvendarselsgígar

Gvendarselsgígaröðin og Gvendarselshraun.

Annar straumur hefur fallið vestur um skarðið milli Kaldárbotna og Hlíðarhorns og nær nokkuð vestur fyrir Kaldársel. Vestast er það svo þunnt að talsverða nákvæmni þarf til þess að rekja ystu mörk þess. Þriðja hraunkvíslin hefur svo fallið um Kýrskarð við suðurenda megin gígaraðarinnar, og út á Óbrinnishólahraun, og myndar smá hraunbleðil vestan undir hæðinni. Eins og áður er sagt hverfur Tvíbollahraun inn undir Gvendarselshraun við suðurenda Helgafells. Gvendarselshraun er því yngra. Auk þess grófum við Sigmundur Einarsson jarðfræðingur inn undir hraunið syðst og fundum þar bæði landnámslagið og gróðurleifar, sem aldursákvarðaðar hafa verið og reynst vera frá því um 1075.

Nýjahraun — Kapelluhraun
KapelluhraunEins og áður er sagt bendir upprunalegt nafn þessa hrauns ótvírætt til þess að það hafi orðið til á sögulegum tíma. Um aldur þess hefur að öðru leyti ekki verið vitað. Í sambandi við rauðamalarnám við gígina, sem hraunið er komið úr, opnaðist möguleiki til þess að komast að jarðvegslögum undir því og ná þar í kolaðar gróðurleifar. Þar voru tekin alls 3 sýni á jafnmörgum mismunandi stöðum. Aldursákvarðanir á þeim sýndu að gosið hafi þarna um 1005. Þrátt fyrir þær skekkjur, sem loða við þessar aldursákvarðanir er með þeim staðfest að hraunið er frá sögulegum tíma og næsta ljóst að gosið hafi orðið snemma á 11. öld.

Ögmundarhraun
ÖgmundarhraunEkki er kunnugt um uppruna nafnsins á hrauni þessu, en langt er síðan að ljóst var að það hafði runnið á sögulegum tíma. Það sanna rústir bæjar, sem eyðst hafði í gosinu. Ögmundarhraun er komið úr gígaröðum austan í og austanundir Vesturhálsi (Núpshlíðarhálsi). Samanlögð lengd þessara gígaraða er nær 5 km.
Næsta ljóst er að allar hafa þær verið virkar aðeins í byrjun gossins, en fljótlega hefur hraunrennslið færst yfir í, einkum þrjá gígi, nálægt austurenda gígaraðarinnar og þaðan hefur megin hraunflóðið runnið suður dalinn milli Krýsuvíkurmælifells og Latsfjalls alla leið í sjó fram. Þarna hefur það farið yfir gróið land og eyðilagt a. m. k. eitt býli eins og rústirnar sanna, en vel gætu þau hafa verið fleiri og raunar ekki ólíklegt að svo hafi verið (Jón Jónsson 1981).

Ögmundarhraun

Ögmundarhraun – yfirlit.

Hraunið hefur fallið í sjó fram á um 7,5 km strandlengju og hugsanlegt gæti verið að þar hafi sú vík verið, sem Krýsuvík er kennd við — sé það á annað borð nauðsynlegt að skýra nafnið svo – og hafi hraunið fyllt hana. Um þetta skal ekkert fullyrt. Lengi hefur því verið haldið fram að þetta gos hafi orðið árið 1340. Þetta ártal er komið frá Jónasi Hallgrímssyni, en ekki getur hann heimilda fyrir því. Á öðrum stað hef ég rakið það, sem vitað er um aldur hraunsins og er ekki ástæða til að endurtaka það hér (Jón Jónsson 1981). Því má aðeins bæta við hér að engar mannvistarleifar er að finna í tveim smá óbrennishólmum ofar í hrauninu. Þess skal hér einnig getið að svo virðist sem Ögmundarhraun, Nýjahraun (Kapelluhraun) og Gvendarselshraun hafi öll orðið í einni goshrinu, sem þá hafi orðið á fyrri hluta 11. aldar. Því má svo bæta við, að vel gætu fleiri gos hafa orðið um svipað leyti eða samtímis víðar á Reykjanesskaga og skal nánar að því vikið síðar. Sjá ennfremur töflu I hér á eftir.

 

Afstapahraun
AfstapahraunÁður hef ég leitt nokkur rök að því (Jón Jónsson 1978) að nafnið á þessu hrauni sé afbökun úr Arnstapa — enda er hitt nafnið lítt skiljanlegt. Ekkert hefur verið vitað með vissu um aldur þessa hrauns. Þorvaldur Thoroddsen (1925, bls. 187) segir raunar að það sé „in aller Wahrscheinlich
nach bei Ausbrúcken in historischer Zeit hervorgebrochen“, en ekki fer hann í þessu eftir öðru en unglegu útliti hraunsins. Í norðanverðu hrauninu eru nokkrir óbrennishólmar og eftir að athuganir meðfram vesturbrún hraunsins höfðu ekki borið árangur, leituðum við Sigmundur Einarsson jarðfræðingur fyrir okkur nyrst í einum þessara hólma. Eftir að hafa grafið á nokkrum stöðum við hraunröndina töldum við okkur hafa fundið landnámslagið, sem liggur inn undir hraunið. Þar eð ég var ekki fyllilega ánægður með sniðið fór ég aftur á staðinn og gróf lengra inn undir hraunið. Þar fann ég landnámslagið mjög greinilegt með þess einkennum, ljóst að neðan en dökkt að ofan. Þetta má vel greina á ljósmyndinni ef hún prentast sæmilega. Þar með er ljóst að Afstapahraun er runnið á sögulegum tíma. Ekki heppnaðist að finna gróðurleifar nothæfar til aldursákvörðunar.

Arnarseturshraun
ArnarseturshraunHraun þetta hefur komið upp í tveim gígum og ber sá þeirra sem hæstur er nafnið Arnarsetur. Hraunið hefur ótvíræða dyngjulögun, einkum séð vestan frá, en bergfræðilega er það skyldara sprunguhraunum. Þetta hefur verið allmikið gos. Hraunið þekur sem næst 22 km2 og telst samkvæmt
því 0,44 km en sennilega er sú tala talsvert of lág því hraunið er greinilega mjög þykkt á stóru svæði kringum eldvarpið. Eldra hraun, sem aðeins sést í smá óbrennishólma bendir til þess að áður hafi gosið á þessum sama stað. Í sambandi við jarðfræðikortlagningu kom í ljós að Arnarseturshraun hlaut að vera yngst allra hrauna á þessu svæði. Það vakti grun um að það gæti verið frá sögulegum tíma.

Litla-Skógfell

Út frá þeím skráðu heimildum, sem til eru, virtist liggja beinast fyrir að ætla að gos þetta hafi orðið 1660 og sé það, sem getið er um í annál Gunnlaugs Þorsteinssonar fyrir árið 1661, Vallholtsannál, (Annálar 1400-1800) sem getur um eldgos í Grindavíkurfjöllum þetta ár. Sú var og niðurstaða mín (Jón Jónsson 1978, bls. 258-9). Hins vegar hafa nú rannsóknir leitt í ljós að svo getur ekki verið, og er hraunið talsvert eldra, en eigi að síður frá sögulegum tíma. Óbrennishólmi einn lítill er skammt fyrir neðan Litlaskógfell og eftir árangurslausa leit á nokkrum stöðum fórum við Sigmundur Einarsson jarðfræðingur og grófum þar við hraunröndina. Fundum við þar bæði landnámslagið og Kötlulagið, hið fyrra undir, hið síðara ofan á hrauninu. Af jarðvegssniðinu má ráða að talsvert lengri tími hafi liðið frá því að landnámslagið féll til þess að hraunið rann, en frá því til þess að Kötlulagið féll. Sýnist því að þetta gos gæti vel hafa orðið eitthvað nálægt 1300, samanber töflu I.

Eldborg við Trölladyngju
EldborgÞess skal og getið að gos það er orðið hefur rétt norðan við Trölladyngju og myndað gíginn Eldborg sýnist hafa orðið um líkt leyti og Afstapahraun rann. Ég hef áður talið þetta hraun yngra en Afstapahraun (Jón Jónsson 1978) en ekki treysti ég mér til að telja þá niðurstöðu með öllu ótvíræða. Vel gætu þessi gos bæði hafa verið svo að segja samtímis og mætti þá raunar um það deila hvort um er að ræða eitt gos eða tvö. Einar Gunnlaugsson (1973) fann öskulag ofan við landnámslagið í Hörðuvallaklofa og er líklegt að það sé af þessum slóðum komið. Ekki verður hins vegar í það ráðið hvort það kann að vera úr Eldborg eða öðru eldvarpi í nágrenninu.

Traðarfjöll
TraðarfjöllEftir að þessi grein var búin til prentunar, fannst enn ein eldstöð, sem telja verður óvéfengjanlegt að sé frá sögulegum tíma. Þessi eldstöð er sunnan í Traðarfjöllum, skammt sunnan við Djúpavatn. í riti mínu um jarðfræði Reykjanesskaga (Jón Jónsson 1978, bls. 165-166) er eldstöðvum á þessu svæði nokkuð lýst og hraunið nefnt Traðarhraun, en réttara væri e. t. v. að nefna það Traðarfjallahraun. Þegar vegur var lagður gegnum Reykjanesfólkvang var hann skorinn inn í gíg sunnan í Traðarfjöllum. Við það kom í ljós allþykkt moldarlag undir gjallinu og reyndist þar auðvelt að grafa fram jarðvegssnið, sem nær frá því og niður á fast berg, sem þarna er móberg. Undir gjallinu er fyrst 9 cm þykkt moldarlag en þá kemur ljósleitt (nánast gulleitt) öskulag, sem ekki getur annað verið en landnámslagið margumtalaða.

Reykjanesskagi

Reykjanesskagi – jarðfræðikort; nútímahraun.

Sýnir þetta að þarna hefur gosið, að líkindum þó nokkru eftir árið 900 þar eð um 9 cm jarðvegur hefur verið kominn ofan á öskulagið áður en gosið varð. Vel gæti þetta hafa verið um sama leyti og Ögmundarhraun rann, þótt ekkert sé um það hægt að fullyrða. Eins og teikningin sýnir er annað ljóst öskulag neðar í sniðinu og ætti það samkvæmt reynslu að vera H3. Ekki hefur enn gefist tími til að rekja útbreiðslu hraunsins frá þessu gosi, enda er það ekki auðvelt. Hitt er ljóst að með þessu bætist við enn eitt gos, sem örugglega hefur orðið á sögulegum tíma á Reykjanesskaga. Þykir þetta renna enn einni stoð undir það að meiriháttar goshrina hafi þar orðið snemma á landnámsöld. Ekki var mögulegt að greina neinar gróðurleifar undir gjallinu. Nægilega mikið loft hefur þarna komist að til þess að gras hefur brunnið til ösku en ekki kolast. Því má bæta hér við að þar eð svona þykkt jarðvegslag er komið ofan á landnámslagið, gæti þetta verið það gos sem Jónas Hallgrímsson talar um og Þorvaldur Thoroddsen (1925) vitnar í. Gæti þetta verið skýringin á því að ártalið 1340 hefur verið tengt Ögmundarhrauni.

UMRÆÐA
Eldborg 3Af því sem hér hefur verið rakið er ljóst að gos hafa orðið á Reykjanesskaga a. m. k. 12 sinnum eða 13 frá þeim tíma að norrænt landnám hófst. Mjög sennilegt virðist að Eldborg við Bláfjöll hafi gosið á sögulegum tíma endanlegar. Svo virðist sem eldvirkni hafi verið mikil á tímabilinu 1000-1400 og raunar eins skömmu fyrir landnám. Hraun frá sögulegum tíma þekja um 143 km2 og rúmtak þeirra ætti að vera um 2,3 km. Einnig þetta eru lágmarkstölur. Það skal tekið fram að enda þótt hraunin 6, sem talin eru í efri hluta töflunnar, séu sett í ákveðna aldursröð er engan veginn víst að hún sé rétt.

Stóri-Bolli

Stóri-Bolli, Kóngsfellsgígur, í Kóngsfelli.

Ljóst er að Kóngsfellshraun er yngra en Rjúpnadyngjur, en þær aftur yngri en Tvíbollahraun. Arnarseturshraun og Afstapahraun gætu vel verið frá sama tíma. Spursmál sem þessi hljóta að bíða úrlausnar. Af sumum hraunanna eru til nokkrar aldursákvarðanir gerðar með nokkurra ára millibili, aðrar samtímis. Af Leitahrauni eru til 4 ákvarðanir, af Óbrinnishólum 4, Reykjafellshrauni 3 og af Ögmundarhrauni 5. í töflu I er gefið meðaltal.

Hraunmyndun

Nokkrum sinnum hafa verið gerðar tvær ákvarðanir á efni frá sama stað. Er þá annað sýnið að jafnaði leifar kolaðs kvistgróðurs, stöku sinnum örugglega leifar birkikjarrs, en hins vegar kolaðar leifar gróðurs, sem ekki verður nánar ákvarðaður, væntanlega einkum leifar mosa og grasa. Ófrávíkjanlega hefur slíkt efni sýnt hærri – stundum verulega hærri aldur. Hefur það því ekki verið notað við gerð töflunnar, enda oft í ósamræmi við staðreyndir fengnar frá öskulögunum eða hreint jarðfræðilegum staðreyndum (t. d. jarðlagafræðilegum „stratigrafiskum“). Þessi mismunur er ofur eðlilegur þar eð lífrænar leifar efst í jarðveginum hafa líka náð að kolast, þegar hraunið rann yfir gróið land. Slíkt lag er 3 – 4 cm þykkt eða meir. Þess má geta að hraunið úr Eldborgum undir Meitlum, það er runnið hefur niður í Ölfus og bæði ég (Jón Jónsson 1977) og Þorleifur Einarsson (1960) höfum talið vera nær samtíma gosinu í Reykjafellsgígum (Hellisheiðarhraun IV hjá Þorleifi), er samkvæmt C14 ákvörðuninni verulega eldra.

Hrútagjá

Hrútagjárdyngja.

Af innbyrðis afstöðu hraunanna er ljóst að hraunið úr Eldborgum er eldra. Af innbyrðis afstöðu annarra hrauna til þeirra, sem aldursákvörðuð hafa verið, má nokkuð ráða um lágmarksaldur þeirra. Sem dæmi má nefna að hraunin frá Hrútagjárdyngjunni, en þau þekja svæðið frá Hvaleyrarholti vestur að Vatnsleysuvík, eru yngri en Búrfellshraun, þ. e. minna en ca. 7000 ára. Sama gildir um hraun það er ég hef kennt við Helgadal, en það hefur runnið út á Búrfellshraun, er brotið af misgengi eins og það og því sennilega óverulega yngra.
Margt fleira mætti telja, en hér skal nú staðar numið.“

Heimild:
-Náttúrufræðingurinn, Jón Jónsson, Eldgos á sögulegum tíma á Reykjanesskaga, 54. árg, 1-4 tbl, 01.05.1983, bls. 127 – 138.Aldur

Eldgos

Á vefsíðu ÍSOR fjallar Kristján Sæmundsson, jarðfræðingur, um „Jarðfræði Reykjanesskagans“ (upphaflega frá 2010 og uppfært (MÁS) 2021):

Kristján Sæmundsson

Kristján Sæmundsson, jarðfræðingur, með drög að jarðfræðikorti ÍSOR af Reykjanesskaganum í FERLIRsferð undir Festisfjalli/Lyngfelli.

„Jarðfræðilega nær Reykjanesskagi austur að þrígreiningu plötuskilanna sunnan Hengils. Reykjanesskagi er svokallað sniðrekbelti og fer gliðnunin fram í NA-SV-eldstöðvakerfum, sem eru tugir kílómetra að lengd, með misgengjum, gjám og gígaröðum.

Á kortinu eru sýndir helstu hnikþættir á Íslandi. Rekbeltin á Íslandi (svört) hliðrast til austurs frá Reykjaneshrygg (RH) og Eyjafjarðarál (EÁ). Það gerist um Suðurlands-þverbrotabeltið (SB) og annað þverbrotabelti kennt við Tjörnes (HF) milli Húsavíkur og Flateyjar. Rekhraði er um 1 cm á ári í hvora átt.

Á Reykjanesskaga kemur sniðgengisþátturinn fram í nokkurra kílómetra löngum norður-suður sprungum með láréttri færslu og sprunguhólum. Þær eru á mjóu belti sem liggur eftir skaganum endilöngum. Þar verða tíðum jarðskjálftar. Þeir koma í hrinum og eru flestir litlir. Sá öflugasti hefur verið um 6 stig að stærð. Tímabil eldgosa og gliðnunarhreyfinga annars vegar og sniðgengishreyfinga hins vegar skiptast á og standa hvor um sig í 6-8 aldir. Tímabil sniðgengishreyfinga hefur staðið yfir síðustu aldirnar en vísbendingar eru um að því sé að ljúka.

Jarðfræðikort

Reykjanesskagi  og hestu hnikþættir landsins.

Á Reykjanesskaga eru sex eldstöðvakerfi. Miðstöð þeirra ákvarðast af mestri hraunaframleiðslu í sprungugosum. Sprungusveimar eldstöðvakerfanna, með gjám og misgengjum, eru miklu lengri en gossprungureinarnar. Þar hafa kvikuinnskot (berggangar) frá megineldstöðvunum ekki náð til yfirborðs. Í fimm af eldstöðvakerfunum er háhitasvæði. Hitagjafi þeirra eru innskot ofarlega í jarðskorpunni. Boranir á háhitasvæðunum hafa sýnt að 20-60% bergs neðan 1000-1600 m eru innskot. Súrt berg og öskjur eru ekki í eldstöðvakerfum skagans. Veik vísbending er þó um kaffærða öskju á Krýsuvíkursvæðinu, og í Hengli kemur fyrir súrt berg í megineldstöðinni, en það er norðan þrígreiningar plötuskilanna (gosbeltamótanna). Bergfræði gosbergsins í eldstöðvakerfunum spannar bilið frá pikríti til kvarsþóleiíts.

Eldvirkni og gliðnunartímabil

Reykjanesskagi

Reykjanesskagi – eldstöðvakerfi.

Rannsóknir sýna að eldvirkni- og gliðnunartímabil (gosskeið) verða á 6-8 alda fresti á Reykjanesskaga. Gosvirknin einkennist af eldum sem geta staðið í nokkra áratugi, með hléum. Eldstöðvakerfin hafa yfirleitt ekki verið virk samtímis heldur hefur gosvirkni flust á milli þeirra eitt af öðru. Hvert eldstöðvakerfi verður virkt á 900-1100 ára fresti. Um 950 ár eru frá síðasta gosi í Brennisteinsfjallakerfinu en 780-830 ár í vestari kerfunum. Rannsóknir benda til að síðasta gosskeið hafi byrjað með eldum í Brennisteinsfjöllum og á Trölladyngjurein Krýsuvíkurkerfisins laust fyrir árið 800. Eftir þá hrinu kom um 150 ára hlé þar til eldvirkni tók sig upp aftur í Brennisteinsfjallakerfinu á 10. öld. Þar á eftir fylgdi Krýsuvíkurkerfið á 12. öld. Að síðustu gaus á vestustu kerfum skagans, Reykjanes- og Svartsengiskerfunum, á 13. öld. Þeim eldum lauk um árið 1240. Brennisteinsfjallakerfið hefur verið virkast af eldstöðvakerfum Reykjanesskaga eftir ísöld og framleitt mest hraun, bæði að flatar- og rúmmáli.

Reykjanesskagi

Reykjanesskagi – eldvirkni og gliðnunartímabil.

Tímabil eldgosa eru fundin með aldursgreiningu hrauna með hjálp öskulaga og C14- aldursgreiningum, auk skráðra heimilda um gos eftir landnám. Tvö síðustu gosskeiðin eru vel þekkt og það þriðja fyrir um 3000 árum að nokkru leyti. Vísbendingar eru um fleiri gosskeið þar á undan en aldursgreiningar eru of fáar enn sem komið er til að tímasetja þau af nákvæmni.“

Kristján Sæmundsson fjallar einnig um jarðfræði Reykjanesskagans á Vísindavef Háskóla Íslands:
„Gosbeltið á Reykjanesskaga er sniðreksbelti, það er að segja í senn þverbrota- og gliðnunarbelti. Stefna þess er 70-80 gráður austur, en það sveigir til norðaustlægari stefnu allra vestast. Þarna munar 25-35 gráðum frá rekstefnu. Þáttur þverbrotabeltisins kemur fram í norður-suður sniðgengjum með hægri hliðrun. Sniðgengin eru minni háttar skástígar gjár, oft samtengdar með sprunguhólum.

Reykjanesskagi

Gliðnunarbelti millum Lönguhlíðar og Geitahlíðar – sigdæld.

Gliðnunarbeltin koma fram sem gígar og gígaraðir, gjár og misgengi í eldstöðvarkerfum skagans. Þau eru sex, að meðtöldu Hengilskerfinu, og liggja norðaustur-suðvestur, skáhallt á gosbeltið. Eldstöðvakerfin eru flest hver miklu lengri en gosmenjar á yfirborði gefa til kynna. Eldvirkni nær yfir stóran hluta þeirra, en á norðausturhlutanum eru svo til eingöngu gjár og misgengi. Þar hefur hraunkvika sjaldan náð til yfirborðs en setið eftir í berggöngum.
Eldstöðvakerfin mynda grunneiningar í jarðfræði Reykjanesskaga. Þau eru fimm til átta kílómetra breið og flest 30 til 50 kílómetra löng. Í hverju þeirra eru tvær eða fleiri gos- og sprungureinar. Fullmótuð kerfi með háhitasvæði og sprungusveim eru fimm. Þau eru kennd við Reykjanes, Svartsengi, Krýsuvík, Brennisteinsfjöll og Hengil. Sjötta eldstöðvakerfið, sem kenna má við Fagradalsfjall, er ólíkt hinum að gerð. Þar er hvorki jarðhiti né sprungusveimur.

Reykjanes

Jarðfræði Reykjanesskaga – sveimar.

Skil milli kerfanna eru oftast skýr, en þau skarast þegar kemur norðaustur á gjásvæðin. Milli Reykjaness- og Svartsengiskerfanna er einföld röð dyngna og bólstrabergsfella úr ólivínríku basalti, Háleyjabunga yst og Stapafell innst. Mörk Fagradalsfjallskerfisins við þau næstu markast af löngum gossprungum beggja vegna. Skil Krýsuvíkur- og Brennisteinsfjallakerfanna eru í Kleifarvatnslægðinni með stapana Lönguhlíð og Geitahlíð að austanverðu. Skil Brennisteinsfjalla- og Hengilskerfis eru hér sett við Þrengsli.

Reykjanesskagi

Reykjanesskagi – sprungureinar.

Á Reykjanesskaga skiptast á gos- og gliðnunartímabil á sprungusveimum með stefnu norðaustur-suðvestur og skjálftatímabil með virkni á norður-suður sprungum. Það er afleiðing af því að Reykjanesskagi liggur skáhallt á rekstefnuna og spennusviðið sveiflast á milli lóðréttrar mestu bergspennu og láréttrar með suðvestur-norðausturstefnu. Í báðum tilvikum er minnsti þrýstingur í stefnu reksins. Kvikuinnskot þarf til að gjárnar gliðni, en það getur gerst án þess að gjósi. Gos- og gliðnunartímabilin, hér nefnd gosskeið, standa yfir í nokkrar aldir hvert.

Grindavík

Grindavík – gjár, sprungur og misgengi.

Á síðasta gosskeiði fluttist gosvirknin milli eldstöðvakerfanna með 30-150 ára millibili. Gosvirknin einkennist af sprungugosum sem vara í nokkra áratugi, en með hléum á milli gosa. Goshrinur af þessu tagi eru kallaðar eldar. Á milli gosskeiðanna eru löng skjálftatímabil án kvikuvirkni og þá væntanlega eins og á síðustu áratugum með ótal snöggum hrinum sem standa daglangt eða í fáar vikur. Gosskeið síðustu 3500 ára eru þrjú, og vísbendingar eru um fleiri þar á undan. Í Fagradalsfjallskerfinu hefur ekki gosið á þessu tímabili og aðeins einu sinni í Hengilskerfinu.

Bólstrar

Bólstri í Lambatanga í Krýsuvík.

Á Reykjanesskaga hefur aðeins gosið basalti eftir að land varð jökullaust. Dyngjuhraun eru úr pikríti og ólivínþóleiíti en hraun frá gossprungum yfirleitt úr þóleiíti. Súrt berg er ekki að finna á skaganum nema í Hengilskerfinu. Þar spannar samsetning bergsins allt bilið frá pikríti í ríólít. Í hinum kerfunum nær það einungis yfir í þróað basalt.
Aldursdreifing sprungugosa sem vitað er um á Reykjanesskaga síðustu 3500 árin má sjá á meðfylgjandi mynd. Tímasetning er byggð á sögulegum heimildum, aldursgreiningu með geislakoli (C-14) og öskulagsrannsóknum.

Reykjanesskagi

Reykjanesskagi – jarðfræðikort nútímahrauna.

Af „eldvirknismyndinni“ hér að ofan má ráða að skipst hafi á gosskeið sem stóðu í 400-500 ár, og goshlé í 600-800 ár. Núverandi hlé er nálægt efri mörkum. Sé hins vegar litið á eldstöðvakerfin ein og sér, verða hléin mun lengri, að meðaltali nálægt 1000 árum. Í engu eldstöðvakerfanna er komið fram yfir lágmarkslengd fyrri hléa, nema ef til vill í Brennisteinsfjöllum. Allt að fjórar aldir þurfa að líða þar til lengstu hléunum er náð. Í Hengilskerfinu varð eina kvikuhlaupið án goss sem vitað er um. Þá er átt við Þingvallasigið árið 1789.

Reykjaneskagi - jarðfræði

Jarðfræðikort af Reykjanesskaga. Dyngjurnar eru gular.

Eldri hraun eru of fá tímasett til að rekja söguna lengra aftur. Segja má þó að grilli í fleiri gosskeið, svo sem fyrir 4000 og 8000 árum. Eins og sjá má á myndinni hefur eldvirkni á hverju gosskeiði oftast hafist í Brennisteinsfjallakerfinu og síðan færst vestur.

Að frátöldum dyngjunum hefur upphleðsla gosefna í eldstöðvakerfum Reykjanesskaga, öðrum en Henglafjöllum, verið mest þar sem sprungusveimar liggja yfir flekaskilin. Þau markast af skjálftabelti skagans, og þar eru einnig háhitasvæðin. Segja má að þar séu vísar að megineldstöðvum. Ætla má að í rætur þeirra geti safnast kvika sem síðan leitar út í sprungusveimana, myndar ganga og kemur upp í sprungugosum.

Jón Jónsson

Jón Jónsson – jarðfræðikort af Hrútagjárdyngju og nágrenni.

Hnyðlingar í gjalli og úrkasti sprengigíga í Krýsuvík eru vísbending um að grunnstæð gabbróinnskot, það er kvikuhólf sem voru eða eru þar undir, en greinast ekki í skjálftum.

Á Reykjanesskaga eru dyngjur í þyrpingum, ýmist í virknimiðjum eldstöðvakerfanna, svo sem í Hengils-, Brennisteinsfjalla- og Fagradalsfjallskerfunum, eða utan þeirra. Stærstu dyngjurnar ná yfir 200 ferkílómetra og áætlað rúmmál þeirra stærstu er fimm til sex rúmkílómetrar. Alls eru þekktar um tuttugu dyngjur á Reykjanesskaga. Af þeim eru 12 úr ólivínþóleiíti, hinar úr pikríti.“

Sjá einnig Jarðfræði Reykjanesskaga I, meira HÉR og HÉR.

Heimildir:
-https://isor.is/jardhiti/yfirlit-um-jardfraedi-reykjanesskaga/
-https://www.visindavefur.is/svar.php?id=65699

Reykjanesskagi

Reykjanesskgai – jarðfræðikort ÍSOR.