Færslur

Húshólmi

Nú nýverið lauk Landgræðsla ríkisins verkefni sem miðar að því að loka slóðum í fjallendi Grindavíkur, Hrauns og Ísólfsskála. Settar voru lokanir við allar helstu leiðir þar sem torfærutæki hafa verið að fara inn á viðkvæm svæði og valdið þar skaða á gróðri. Fyrst og fremst eru þessar lokanir í Reykjanesfólkvangi sem er að mestu í landi Grindavíkur, en einnig í landi Ísólfsskála og Hrauns. Í vettvangsferð kom í ljós að fólk hefur að mestu virt þessar lokanir og virðist hafa skilning á málinu. Með þessu verkefni vill Landgræðslan tryggja að gróðurverndar átak sem þegar er hafið og mun halda áfram á næstu árum skili árangri. Vonandi verður í framhaldi hægt að hafa þessar leiðir opnar yfir sumartímann og komi til lokunar haust vetur og vor. Lykklar eru á hliðum á hverri lokun og hafa hagsmunaðilar þegar fengið lykkla. Með þessum aðgerðum ætti störf löggæslu á svæðinu að verða mun auðveldara í framtíðinni sem og starf landvarðar í fólkvanginum.
Þess má geta að Landgræðslan hefur unnið með FERLIR að uppgræðslu í Húshólma með góðum árangri. Sáð var í hólmann s.l. sumar og aftur í sumar (2006). Svo virðist sem tekist hafi að hefta gróðureyðinguna og auka þannig líkur á varðveislu hinna ómetnalegu minja, sem þar er að finna.

Heimild:
-www.grindavik.is

Húshólmi

Grindavík

Jarðskjálftar á Íslandi verða á brotabelti á flekaskilum. Tvö slík belti eru á landinu: Á Suðurlandi, frá Ölfusi til Landssveitar og á Norðurlandi, kennt við Tjörnes. Öflugustu jarðskjálftar á Íslandi eru um 7 að stærð og geta valdið töluverðu tjóni. Þeir eru tíðir undir brotabeltunum og undir megineldstöðvum.

Grindavík

Þórkötlustaðaréttin eftir jarðskjálftann 31. júlí 2022.

Reykjanesskaginn er umorpin eldsumbrotum frá fyrri tíð. Elstar eru dyngjurnar s.s. Þráinsskjöldur og Hrútargjárdyngja, þá stakir gígar s.s. Stóra-Eldborg og Búrfell og loks gígaraðir á sprungureinum, s.s. Eldvörp og Sundhnúkar. Öllum þessum umbrotum fylgja ógrynnin öll af misstórum jarðskjálftum, líkt og íbúar Grindavíkur og nágrennis hafa áþreifanlega orðið varir við í aðdraganda eldgossins í Geldingadölum í Fagradalsfjalli í aprílmánuði árið 2021.

Grindavík

Þórkötlustaðarétinn 1. ágúst 2022.

Enn og aftur, nú í júlílok og byrjun ágústmánaðar árið 2022 skelfur jörð í umdæmi Grindavíkur með tilherandi óróa. Óvenjustór jarðskjálfti varð síðdegis þann 31. júlí, eða 5.5 á Richter. Skjálftinn felldi m.a. nokkar vörður og auk þess hluta af fjárrétt Grindvíkinga í Þórkötlustaðahverfi líkt og sjá má á meðfylgjandi myndum.

Í sögulegu samhengi hefur orðið manntjón, en það hefur breyst með betri byggingu húsa skv. stöðlum sem eiga að standast skjálfta sem vænt er í Íslandi.

Grindavík

Þórkötlustaðaréttin 1. ágúst 2022.

Reykjanesskagi

Málfríður Ómarsdóttir skrifaði í apríl 2007 ritgerð með yfirskriftinni; Reykjanesskagi – náttúrusaga og eldvörp. Þar sem efnið er vel unnið og á brýnt erindi til áhugafólks um Reykjanesskagann verður hluti textans birtur hér.
Jarðfræðikort af Reykjanesskaga

“Reykjanesskagi er hluti af gosbeltinu sem liggur þvert í gegnum Ísland og er í raun ofansjávarhluti af Reykjaneshryggnum en hann liggur neðansjávar suðvestur í haf. Hann er hluti af Atlantshafshryggnum og hefur um langt skeið dregið að sér athygli náttúrufræðinga og hefur hún aðallega beinst að þeim þáttum sem mest setja svip sinn á landslagið eins og eldvörp, gígar, hraun, sprungur, jarðhiti og misgengi.
Eldstöðvarkerfi á Reykjanesskaga eru fjögur talsins og eru þekkt tvö gosskeið á síðustu tvö þúsund árum þar sem öll eldstöðvarkerfin urðu virk. Töluvert mikið er um eldvörp á svæðinu og er náttúrufar Reykjanesskaga afar sérstætt og því ekki furða að áform séu uppi um að auka náttúruverndargildi hans og jafnvel að gera Reykjanesskaga að eldfjallagarði.

Eldvirkni
Eldstöðvakerfin fjögur (ATG)

Reykjanesskagi, ásamt Íslandi, liggur á Atlantshafshryggnum en hann er mörk plötuskila Evrasíuflekans og Norður-Ameríkuflekans sem mjakast í sitthvora áttina. Þessi hreyfing veldur tíðum umbrotahrinum á hryggnum sem einkennast af jarðskjálftum og eldgosum. Hryggurinn brotnar upp í rekbelti sem tengjast um þverbrotabelti. Slíkt rekbelti er að finna við suðvesturhorn Íslands og nefnist Reykjanesrekbeltið (Ari Trausti Guðmundsson, 2001). Reykjanesrekbeltið tengist Atlantshafsrekbeltinu beint og er um 30 km að breidd (Jón Jónsson, 1967). Framhald rekbeltisins er á landi og liggur eftir Reykjanesskaganum (Ari Trausti Guðmundsson, 2001) en hann er einn af tveimur stöðum í heimum þar sem hafshryggur rís úr sjó (mynd 1) en það gerir hann að kjöraðstæðum til að rannsaka myndun og mótun hafshryggja á landi (Ármann Höskuldsson, Richard Hey, Einar Kjartansson & Gunnar B. Guðmundsson, 2007).
Reykjanesskagi er afar sérstakur hluti af Atlantshafshryggnum því hann er tengiliður milli heits reits og djúpsjávarhryggs (Fleischer, 1974).
Reykjanesrekbeltið er einkennandi fyrir Reykjanesskaga og þar er að finna fjölmargar sprungur, misgengi og mjóa sigdali sem stefna í norðaustur-suðvestur átt (Jón Jónsson, 1967). Á Reykjanesskaganum beygja plötuskilin til austurs en það eru fjögur eldsstöðvarkerfi sem liggja skálægt á plötuskilunum (Ari Trausti Guðmundsson, 2001).
Eldborg í Kristnitökuhrauni (Svínahrauni)

Þekkt eru tvö gosskeið á síðustu tvö þúsund árum þar sem öll eldstöðvarkerfin urðu virk. Hvert gosskeið stóð í allt að fjórar aldir með um þúsund ára hléi á milli. Í ljósi þeirrar vitneskju og rannsóknum á eldri gosum, er líklegt að eldvirkni hafi verið svipuð, á fyrri hluta nútíma (Magnús Á. Sigurgeirsson, 2004). Þessi eldstöðvarkerfi eru Reykjaneskerfið, Trölladyngjukerfið, Brennisteinsfjallakerfið og Hengilskerfið (Ari Trausti Guðmundsson, 2001).
Reykjaneseldstöðvarkerfið liggur í suðvestur-norðaustur stefnu frá Reykjanesi og inn að Vatnsleysuströnd. Neðan sjávarmáls suðvestur af Reykjanesi er það um 9 km langt en í heildina er það um 45 km langt og um 5-15 metra breitt (Magnús Á. Sigurgeirsson, 2004). Það tilheyrir vestara rek- og gosbeltinu eins og öll kerfin á Reykjanesskaga. Það hafa komið um 50 rek- og goshrinur úr því ásamt 14 dyngjum. Síðast gaus í kerfinu í Reykjaneseldunum frá 1211-1240 en þar síðast sennilega fyrir um 1500-1800 árum (Ari Trausti Guðmundsson, 2001). Eldvirkni er takmörkuð við syðstu 15 km kerfisins. Þótt Reykjanesið sé að mestu leyti þakið úfnum hraunum og fokösku þá ber það þess skýr merki að eldgos hafa verið tíð. Yngstu hraunin þekja meginhluta Reykjaness og því erfitt að áætla fjölda gosa sem orðið hafa frá myndun þess.

Stampar

Eldvirkni er mikil á þessu svæði vegna plötuskilanna sem eru mörkuð af gjám og misgengjum. Talið er að gliðnunin sé um 2 cm á ári (Magnús Á. Sigurgeirsson, 2004). Trölladyngju-eldstöðvarkerfið er um 40-50 km langt og 4-7 km breitt. Úr kerfinu hafa komið um 40-50 rek- og goshringur og 3 dyngjur. Síðast gaus í því 1151-1180 sem í gosi sem kallaðist Krísuvíkureldarnir en þar á undan fyrir um 2000 árum (Ari Trausti Guðmundsson, 2001).
Brennisteinsfjallaeldstöðvarkerfið er næst austasta kerfið á Reykjanesskaganum.
Það er 45 km langt og 5-10 km breitt. Það hafa komið um 30-40 rek- og goshrinur úr því ásamt 3 dyngjum. Það varð einnig virkt, á sama tíma og Reykjaneskerfið, í Reykjaneseldunum árin 1211-1240.
Hengilseldfjallakerfið er austasta eldstöðvarkerfið og er sérstætt að því leyti að þar eru vísbendingar um þrjú kvikuhólf þ.e. tvö virk og eitt gamalt og óvirkt. Hengilseldstöðvarkerfið er 100 km langt og 3-16 km breitt. Úr því hafa komið 20 rek- og goshrinur og 6 dyngjur. Síðast gaus í Hengli fyrir um 2000 árum í svokölluðum Nesjavallaeldum (Ari Trausti Guðmundsson, 2001).

Háleyjarbunga

Á sama tíma myndaðist Sandey í Þingvallavatni (Orkuveita Reykjavíkur, 2006). Þar áður gaus fyrir um það bil 5000 árum (Ari Trausti Guðmundsson, 2001). Hengilssvæðið er með stærstu háhitasvæðum á Íslandi (Orkuveita Reykjavíkur, 2006).
Eldstöðvarkerfin fjögur raðast skástígt með stefnu í norðaustur, á bogin plötuskilin. Innan þeirra finnast misgengi og gígaraðir. Plötuskilin eru í raun samblanda af gliðnun og sniðgengishreyfingum. Sniðgengið verður öflugra eftir því sem austar dregur. Norður- og suðurhluti hvers eldstöðvarkerfis einkennist af eingöngu af brotalínum en mesta eldvirknin er þar sem plötuskilin liggja um miðbik hvert þeirra. Þess vegna er upphleðsla þar hröðust og þar hafa myndast hálendi. Hálendið verður hærra eftir því sem austar dregur.
Reykjaneshryggurinn hækkar almennt til norðausturs vegna þess að gosefnaframleiðsla á Íslandi eykst eftir því sem nær dregur heita reitnum á miðju landsins. Um miðbik eldstöðvakerfanna eru háhitasvæðin að finna og hitagjafar þeirra eru grunnstæð innskot (Ari Trausti Guðmundsson, 2001).
GunnuhverÞað má skipta bergtegundum, bæði nútíma og eldri bergmyndanna, á Reykjanesskaga í þrjá meginflokka eftir samsetningu þeirra. Landslag á Reykjanesskaga hefur að nokkru leyti mótast af þessum flokkum. Sýni, úr eldri bergmyndunum frá jökultíma og síðjökultíma, benda til þess að engin breyting hafi orðið á eldvirkninni á Reykjanesskaga frá myndun hans og til dagsins í dag. Erfitt er þó að segja til um hvort skipst hafi á tímabil með dyngjugosum og önnur með sprungugosum eins og komið hefur í ljós um eldvirknina á nútíma. Sprungugosin, sem áttu sér stað á jökulskeiðum og mynduðu móbergshryggina Sveifluháls og Núpshlíðarháls, hefðu eflaust myndað dyngjur ef landið hefði verið íslaust. Þess í stað mynduðust stapar (Jón Jónsson, 1978).
Nútímahraunum og gosstöðvum má skipta í þrjá flokka þ.e. gossprungur og dyngjur en dyngjunum má svo skipta aftur skipta í tvo flokka eftir samsetningu hraunanna. Þessa flokka má svo nánar aðgreina út frá aldri og stærð.
Jón Jónsson (1978) telur að hraun runnin á nútíma á Reykjanesskaga nái yfir 1064 km2 og rúmmál þeirra sé um 42 km 3. Af því nái hraun runnin eftir landnám yfir 94 km2 og hafa um 1,8 km3 rúmmál. Nánar verður fjallað um hraun á Reykjanesskaga hér á eftir í kaflanum um hraun.

Eldvörp

Í Eldvörpum

Eldstöðvakerfin á Reykjanesskaga framleiða öll þóleískt berg og aðeins kemur þar upp basalt að Hengilseldstöðinni slepptri. Á Hengilssvæðinu er að finna súrt og ísúrt berg en annars er mest berg á Reykjanesskaganum ólivínþóleít.
Eldstöðvar eru ýmist dyngjur eða gjall- og klepragígaraðir ásamt nokkrum gjósku- og sprengigígum. Telja má 26 dyngjur frá nútíma en ekki er vitað um heildarfjölda þeirra þar sem ummerki sjást ekki lengur. Elstu og minnstu dyngjurnar eru úr ólivín pikríti sem runnið er á miklu dýpi og nær yfir 80-200 km.
Stærri og yngri dyngjurnar eru úr ólivín þóleíti og eru þær allt að 6-7 km3 hver. Aldur allra dyngjanna er yfir 4500 ár. Myndunartíminn gæti tengst hröðu landrisi eftir hvarf ísaldarjökulsins (Ari Trausti Guðmundsson, 2001). Gígaraðir á Reykjanesskaga liggja á tveimur gosreinum og hafa sprungugos orðið á sitt hvorri þeirra, um þrisvar sinnum á síðustu 10.000 árum. Síðustu 2000 árin hefur gosvirknin þó takmarkast við vestari gosreinina sem liggur til sjávar við Kerlingarbás en það hefur ekki gosið á eystri gosreininni, sem liggur inn að hraundyngjunni Skálafelli, í 3000 ár. Skjálftavirkni er einnig einskorðuð við vestari gosreinina (Magnús Á. Sigurgeirsson, 2004). Gossprungur eru hátt á annað hundrað talsins ef hver sprunguhluti er talinn sér (Ari Trausti Guðmundsson, 2001). Neðansjávargos hafa verið allnokkur við Reykjanesið og má þar finna 11 gjóskulög úr slíkum gosum. Út frá þessum gjóskulögum má fá mikilvægar upplýsingar um gossögu eldstöðvakerfisins síðustu sex þúsund árin.
Sandfellshæð

Við langvarandi neðansjávargos þá myndast gjóskugígar en einnig getur gjóska myndast þegar goshrinur á landi verða og hraunið rennur til sjós. Þá verða miklar gufusprengingar (Magnús Á. Sigurgeirsson, 2004). Við Reykjanes hafa oft orðið til gígeyjar en þær eru einkar viðkvæmar fyrir rofafli sjávar og eyðast því fljótt en eftir standa sker og boð til vitnis um fyrrum tilveru þeirra. Sem dæmi um gígey má nefna Eldey sem er rétt suðvestur af Reykjanesskaganum.
Jarðfræðilega séð er Reykjanesskaginn enn að byggjast upp til suðvesturs og þó nokkur neðansjávargos hafa orðið suðvestur af honum á sögulegum tíma (Jón Jónsson, 1967). Á yngstu hraunflóðunum eru hvergi sprungur né misgengi sýnileg sem virðist benda til þess að tektónískar hreyfingar á þessu svæði gerast með ákveðnu millibili. Þetta gæti einnig átt við eldvirknina. Ekki er almennt vitað hvaða kraftar eru að baki sprungunum og misgengjunum og er vafasamt að áætla að það sé einungis spenna í jarðskorpunni sem orsaki það (Jón Jónsson, 1967).
Það eru tvær gerðir af eldfjöllum á Reykjanesskaga, þ.e. dyngjur og gossprungur. Dyngjurnar eru eldri og hafa ekki gosið á sögulegum tíma, þ.e. síðan um 800 AD. Stærstu dyngjurnar eru Sandfellshæð og Langhóll. Þær hafa gosið gráu dólerít, ólivín basalti svipuðu og finnst á Miðnesi og á Vogastapa en þau mynduðust á hlýskeiði. Það er einnig mögulegt að dyngjurnar hafi byrjað sem gos á gossprungu því þær eru staðsettar á rekbelti. Það virðist jafnframt sem það hafi orðið breyting á eldvirkni á einhverju tímabili því dyngjur hættu að myndast og gos á sprungum tóku við. Nokkrar af gossprungunum hafa líklega verið virkar á sögulegum tíma eins og Eldvörp og Stampar. Gos á sprungum tengjast með beinum hætti plötuskilunum og sum staðar hefur hraunið einfaldlega runnið út án þess að mynda gíga. Þar sem kvikan storknar og hleðst upp í kringum gosopið þá kallast það eldvörp og við endurtekin gos kallast það eldfjöll. Til eru margs konar eldvörp en flokkun þeirra fer eftir lögun gosops, gerð gosefna, tala gosa og magn og hættir gossins.
ReykjanesvitiDyngjur myndast við flæðigos þegar þunnfljótandi kvika rennur stanslaust upp um kringlótt gosop mánuðum eða jafnvel árum saman en einnig er líklegt að þær myndist við síendurtekin gos. Hlíðarhalli er oftast minni en 8°. Efst í dyngjunni er gígketill með lágum gígrimum. Eins og áður segir þá er einnig mögulegt að dyngjugos hafi fyrst myndast á sprungu en svo hafi eldvirknin færst á einn stað er leið á gosið (Þorleifur Einarsson, 1968).
Stærsta dyngja innan Reykjaneseldstöðvarkerfisins er Sandfellshæð og er um 12500- 13500 ára gömul. Skálafell og Háleyjar eru yngri en þó forsögulegar. Ofan á Skálafelli er lítil eldborg. Þráinsskjaldardyngja er flöt og breið dyngja og er um 12500-13500 ára eins og Sandfellshæð (Ari Trausti Guðmundsson, 2001).
Eldborgir myndast í þunnfljótandi gosum á kringlóttu gosopi í stuttum gosum án kvikustrókavirkni. Umhverfis gosopið hleðst svo upp gígveggur úr örþunnum hraunskánum eftir að það skvettist úr kvikutjörn upp á vegginn. Hraun rennur hinsvegar um göng neðarlega í gígveggnum og streymir langar leiðir undir hraunhellu eða í tröðum á yfirborðinu. Umkringis eldvarpið verður til flöt hraunbunga úr apal- eða helluhrauni. Eldborg undir Geitahlíð fyrir austan Krýsuvík er dæmigerð eldborg (Þorleifur Einarsson, 1968).
Þríhnúkar

Þegar kvikustrókavirkni verður á sprungugosum þá hlaðast gjallrimar eða eldvörp upp á stangli yfir sprungurásinni og mynda gígaraðir. Ef það kemur upp þunnfljótandi kvika stöku sinnum með millibili án kvikustrókavirkni þá verða til eldborgarraðir eins og Eldvörp og Stampar á Reykjanestánni. Algengast er að kvikustrókavirkni eða þeytigos samfara hraunrennsli úr sprungum myndi gjall- og klepragígaraðir. Eldvörpin eru þá samvaxin eftir sprungunni eða með mislöngum millibilum. Einstakir gjall- og klepragígar verða til við blönduð gos á kringlóttum gosopum. Upp þeytast svo hraunklessur sem annað hvort hálfstorkna í loftinu og fletjast svo út þegar þeir lenda og mynda sambrædda klepragígveggi eða þeir fullstorkna og mynda gjallhrúgöld. Eldkeilur myndast hins vegar við síendurtekin gos á kringlóttu gosopi en með mislöngum hléum á milli. Þau eru hlaðin upp úr hraun- og gosmalarlögum til skiptis.
Erlendis eru eldkeilur algengastar allra eldfjalla en þær eru afar sjaldgæfar á Íslandi eða aðeins um þrjár talsins þ.e. Öræfajökull, Snæfellsjökull og Eyjafjallajökull. Efst á eldkeilu er stór gígur. Eldhryggir myndast þegar gos verður á sömu sprungunni oftar en einu sinni sem er frekar óvenjulegt. Þá myndast þeir eftir sprungustefnunni og strýtulaga þvert á hana. Þekktasti eldhryggurinn á Íslandi er Hekla (Þorleifur Einarsson, 1968).
HraunÖsku- og sprengigígar myndast í sprengi- og þeytigosum. Upp hlaðast nær eingöngu laus gosefni eins og vikur og aska eða eingöngu bergmolar. Á kringlóttu gosopið hlaðast upp fagurlagaðir öskugígar en við þeytigos á sprungum myndast öskugígaraðir. Í sprengigosum eru megingosefnin vatnsgufa og gosgufur. Gígkatlarnir verða oft mjög djúpir þannig að þeir ná niður fyrir grunnvatnið og myndast því vatn innan í gígnum. Gott dæmi um sprengigíg er Grænavatn í Krýsuvík. Eldstöðvar sem gjósa líparítösku eru sjaldgæfari en þær sem nefndar voru hér að framan. Líparítkvika er seigari og því hrúgast hún oft upp yfir gosrásinni og rennur lítið til þaðan. Þannig gos eru nefnd troðgos og í þeim myndast hraungúlar sem geta verið mjög stórir.
Troðgos verða á stuttum sprungum eða kringlóttum gosopum og verða hraungúlarnir því oftast nær hringlaga. Eldvörp mynduð við gos í sjó eru svipuð móbergsfjöllum og verða þau ýmist hrygg- eða keilulaga í samræmi við lögun gosopanna og hlíðarbrattinn um 20-35%. Þegar hraunbunga hefur svo myndast ofan á gosmalarbinginn þá verður eldvarpið mjög álíkt móbergsstapa (Þorleifur Einarsson, 1968).

Hraun
Hraunakort (ATG)Flest helluhraun á Reykjanesskaga eru frá fyrri hluta nútíma og eru flest komin frá dyngjum eins og Skálafell og Háleyjarbunga. Frá síðari hluta nútíma en fyrir landnám eru til dæmis Eldborg og Búrfell. Nokkur stór og viðamikil hraun hafa runnið á Reykjanesskaga eftir landnám.
Á meðan kristnitakan fór fram árið 1000 þá rann mikið hraun úr gossprungu á vestanverðri Hellisheiði og hefur það verið nefnt Kristnitökuhraun. Yst á Reykjanesi eru tvö hraun sem koma frá gígaröðunum Eldvörpum og Stömpum. Þau þekja stórt svæði milli Reykjanestár og Grindavíkur (Ari Trausti Guðmundsson, 2001). Ögmundarhraun vestan Krísuvíkur er frá 1151 og rann í svokölluðum Krísuvíkureldum (Sigmundur Einarsson, Haukur Jóhannesson & Árný Erla Sveinbjörnsdóttir, 1991). Hraunið rann úr gígaröðum rétt austan undir Núpshlíðarhálsi og er samanlögð lengd þessara gíga um 5 km (Jón Jónsson, 1983). Í Krísuvíkureldum rann einnig Kapelluhraun, sunnan Hafnarfjarðar, sama ár og Ögmundarhraun. Þessi eldgosahrina er talin hafa komið úr Trölladyngjum og hefur henni lokið líklega árið 1188 með myndun Mávahlíðarhrauns (Sigmundur Einarsson o.fl., 1991). Oftast hefur þó gosið í sjó undan Reykjanesskaganum á sögulegum tíma. Síðast gaus þar 1879. Aðalgoshrinan í Reykjaneseldstöðvar-kerfinu hófst sennilega í sjó árið 1211 og stóð til 1240 og nefnist hún Reykjaneseldar.

HraunYngra-Stampahraunið rann í Reykjaneseldunum og mynduðust þar tvær eldborgir sem nefnast Stampar Yngri (Ari Trausti Guðmundsson, 2001). Yngra Stampagosið hefur sennilega orðið á 12-13. öld. Sérstætt við þetta gos er að gossprunga þess lá bæði í sjó og á landi og eru þeir yngsta myndunin á Reykjanesi og gígaraðirnar standa á um 4,5 km langri gossprungunni (Magnús Á.Sigurgeirsson, 1995).
Stampar Eldri mynduðust í Eldra-Stampahrauni fyrir 1500-1800 árum. Það gos byrjaði sennilega í sjó (Ari Trausti Guðmundsson, 2001). Eldri Stampagígaröðin liggur til norðausturs og er mjög slitrótt vegna þess að hún kaffærist á stöku stað af Yngra Stampahrauninu. Skammt austan við Eldra Stampahraun er víðáttumesta hraun á Reykjanesi sem nefnist Tjaldstaðagjárhraun. Það er úr 1 km langri sprungu sem liggur í norðaustur í framhaldi af Stampagígaröðinni og er það aðeins yngra en Stampahraunið (Jón Jónsson, 1983). Um 1227 aðeins austar við Stampa Yngri gaus í gígaröðinni Eldvörp. Þaðan rann Eldvarparhraun (Ari Trausti Guðmundsson, 2001). Eldvarparhraunið er talið vera um 2100 ára gamalt (Jón  Jónsson,1983).
Elstu hrauninTrölladyngjueldstöðvar-kerfið hefur tvö háhitasvæði þ.e. Krísuvík og Trölladyngja. Dyngjur eru aðeins þrjár en tvær þeirra, sem eru jafnframt nafnlausar, hverfa í skuggann af Hrútagjárdyngjunni sem er stærst þeirra. Hún myndaðist fyrir um 5000 árum. Gjall- og klepragígar eru algengastu gígarnir innan kerfisins. Hjá suðvesturenda Sveifluhálsar eru sprengigígarnir Grænavatn og Gestsstaðarvatn ásamt Augum. Þar hefur verið snörp eldvirkni
með mikilli gufu og gastegundum. Í mörgum hraunkúlum við Grænavatn eru hnyðlingar úr gabbrói sem bendir til slíks innskots í berggrunninum (Ari Trausti Guðmundsson, 2001) og gerir það svæðið afar merkilegt því gabbró hefur ekki fundist annars staðar á Suðvesturlandi. Grænavatn fékk nafnið sitt af græna litnum sem er tilkominn vegna brennisteinssambanda. Þetta vatn er meðal merkustu náttúrufyrirbrigða í sinni röð (Sigurður Þórarinsson, 1950).
Frægasta eldstöðin úr Trölladyngju er sennilega Eldborg sem reyndar er nú sundurgrafin. Í Brennisteinseldstöðvarkerfinu er Eldborg undir Geitahlíð en hún er stærsti gígurinn á þessari stuttu gossprungu sem gaus rétt fyrir landnám. Hún er djúpur og reisulegur gígur ásamt nokkrum minni. Nokkru sunnan við miðju kerfisins er að finna Brennisteinsfjöll sem draga nafn sitt af brennisteinsnámum sem þar voru á háhitasvæði sem hefur varma sinn frá innskotum í jarðskorpunni. Það eru þrjár dyngjur í kerfinu þ.e. Heiðin há við suðurenda MóbergBláfjalla og er langstærst með 3,6 km í þvermál og 516 metrar að hæð. Hún er sennilega um 7000-9000 ára. Hvirfill er dyngja frá síðasta frá síðasta jökulskeiði og Leitin er yngsta dyngjan og er um 4700 ára. Í Leitarhrauninu mynduðust Rauðhólar einnig. Fyrir um 2000 árum reið goshrina yfir Reykjanesskagann og myndaðist þá gígaröðin með Stórabolla og Eldborg við Drottningu (mynd 6) sem er einkar glæsileg eldborg og stendur hún við Bláfjallaveginn (Ari Trausti Guðmundsson, 2001).
Í Hengilseldstöðvarkerfinu er að finna þrjár dyngjur frá fyrrihluta nútíma. Stærst þeirra er Selvogsheiði sem er úr ólivínþóleíti en hinar eru minni og kannski eldri og nefnast þær Búrfell við Hlíðarenda og Ásadyngjan hjá Breiðabólsstað og eru þær úr pikríti. Gossprungur frá nútíma ná frá Stóra-Meitli í suðri að Sandey í Þingvallavatni í norðri og kerfið er stærsta eldstöðvarkerfið á Reykjanesskaganum. Margir gjall- og klepragígar liggja á gossprungunum og eru goseiningarnar um 20 talsins. Stærsti gjallgígurinn er Eldborg undir Meitli en hún er um 2000 ára. Gossprungurnar í Hengilseldstöðvarkerfinu eru yfirleitt þó ekki afkastamiklar (Ari Trausti Guðmundsson, 2001).
Samkvæmt Jóni Jónssyni (1983) þá hefur gosið á Reykjanesskaga allt að 12-13 sinnum frá því að landnám hófst en eins og áður segir þá hefur oftast gosið í sjó (Ari Trausti Guðmundsson, 2001).

Lokaorð
Reykjanesskagi er afar merkilegur jarðfræðilega, sögulega og náttúrufarslega séð.
• Þar má finna flestar gerðir eldfjalla, mörk Evrasíu- og Norður Ameríkuflekanna, háhitasvæði, sögulegar minjar
og fjögur eldstöðvarkerfi.
• Þar hafa orðið tvö gosskeið á síðustu tvö þúsund árum þar sem hvert stóð í um fjórar aldir og með þúsund ára hléi á milli. Oftast hefur þó gosið í sjó.
• Náttúrufar á Reykjanesskaga er afar viðkvæmt og jarðvegur sérstaklega opinn fyrir rofi sem, meðal annarra þátta, má mögulega rekja til mikillar beitar á svæðinu áður fyrr. Svæðið er einnig einkar opið fyrir vindi. Verndun svæðisins er því einkar mikilvægt málefni sem krefst brýnnar úrlausnar sem fyrst. Það er víst að á Reykjanesskaga myndi eldfjallagarður sóma sér vel og varla annað svæði sem myndi henta betur til þess þótt víða væri leitað. Á Reykjanesskaga má finna flestar tegundir eldfjalla og einstakt tækifæri til þess að skoða myndun og mótun hafshryggja á landi, ásamt því að hann er nálægt þéttbýlasta svæði landsins, sem gerir hann tilvalinn kost til frekari náttúruverndar og útivistarmöguleika. Eldvirknin með þessum stóru háhitasvæðum gerir hann jafnframt að eftirsóknarverðum kosti fyrir jarðhitavirkjanir. En það er stór og ekki síður mikilvæg spurning, hvor kosturinn sé meira virði, þegar til lengri tíma er litið.”

Heimildir:
Andrés Arnalds (1987). Ecosystem disturbance and recovery in Iceland. Arctic and Alpine Research, 19, 508-513.
Ari Trausti Guðmundsson (2001). Íslenskar eldstöðvar. Reykjavík: Vaka-Helgafell.
Ármann Höskuldsson, Richard Hey, Einar Kjartansson & Gunnar B. Guðmundsson (2007). The Reykjanesæ
Ridge between 63°10’N and Iceland. Journal of Geodynamics, 43, bls 73-86.
Fleicher, U. (1974). The Reykjanes Ridge – A Summary of Geophysical Data. Í Kristjansson, L. (ritstj.),
Geodynamics of Iceland and the North Atlantic Area (bls. 17-32). Dordrecht: D. Reidel Publishing
Company.
Guðrún Gísladóttir (1998). Environmental Characterisation and Change in Southwestern Iceland. Doktorsritgerð, Stockholm University, Stockholm.
Jón Jónsson (1967). The rift zone and the Reykjanes peninsula. Í Sveinbjörn Björnsson (ritstj.), Iceland and
mid-oceanic ridges (bls. 142-150). Reykjavík: Prentsmiðjan Leiftur h.f.
Jón Jónsson (1978). Jarðfræðikort af Reykjanesskaga – I. Skýringar við jarðfræðikort. II. Jarðfræðikort (Rit
Orkustofnunnar – Jarðhitadeild. OS JHD 7831). Reykjavík: Orkustofnun.
Jón Jónsson (1983). Eldgos á sögulegum tíma á Reykjanesskaga. Náttúrufræðingurinn, 52(1-4), 127-
139.
Landvernd (2007). Reykjanesskagi – Framtíðarsýn Landverndar um eldfjallagarð. Skoðað 8. apríl 2007 á
http://www.landvernd.is/flokkar.asp?flokkur=1776

Keilir

Keilir.

 

Ferlir

Í Morgunblaðið árið 2008 er fróðleg grein undir fyrirsögninni “Í fótspor fjár og feðra“.

Lögreglumennirnir og -konurnar eru ekki á slóðum afbrotamanna, heldur forfeðranna þegar þau ganga á Reykjanesinu. Þar njóta þau líka útiverunnar, lesa í minjar lífs- og atvinnuhátta og kynnast kostum landsins frá nýju sjónarhorni.
Hallgrímur Helgi Helgason fór um Reykjanesskagann með göngugarpnum Ómari Smára Ármannssyni og Gönguhópnum Ferli.

Ferlir

Hraun, mosi og kargaþýfi Þegar gengið er utan troðninga liggur leiðin yfir hraun, mosa og kargaþýfi. Í hópnum voru að þessu sinni Ómar Smári Ármannsson, Jóhann Davíðsson, Jón Svanþórsson, Jóhanna Sveinsdóttir, Birgir Bjarnason og Eyþór Borgþórsson, auk blaðamanns. (Ljósm. Júlíus)

Gönguhópurinn Ferlir var stofnaður 1999 fyrir ferðahóp rannsóknardeildar Lögreglunnar í Reykjavík, en síðan hafa margir slegist í hópinn. Reykjanesskaginn varð snemma fyrir valinu, bæði vegna nálægðar og þess að þorri fólks er þar ókunnugur. Þótt mörgum finnist svæðið bert og ófýsilegt, er reynsla hópsins sú að Reykjanesið sé einkar gjöfult og fjölbreytilegt til útivistar. Hópurinn hefur farið rúmlega 1.200 gönguferðir um skagann, sem markast af hinu forna landnámi Ingólfs, vestan línu milli Hvalfjarðarbotns og Ölfusárárósa.

Selvogsgata

Selvogsgatan á Hellunum. Helgafell fjær.

Göngufólk hefur safnað þar kynstrum af efni, ekki síst um fornar götur sem liggja þar þvers og kruss og vitna um lífshætti og kjör fyrr á öldum, fornar byggðir og umferð sem þeim fylgdi. Slóðirnar sjást þó misvel í úfnu landslaginu; sumar eru löngu grónar en aðrar hafa lent undir hrauni eða síðari tíma framkvæmdum og raski.
Ómar Smári Ármannsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn í Reykjavík, hefur verið í gönguhópnum Ferli frá upphafi. Hann segir að þeim sem gangi um fornar götur Reykjaness opnist einkar rík saga allt aftur til landnáms – og jafnvel lengur.

Listin að lesa veg

Skógfellavegur

Skógfellastígur.

„Götur hafa myndast hér frá fyrstu tíð manna og búfénaðar og er oft erfitt að greina á milli, hvaða götur voru notaðar af hverjum, hvenær og í hvaða tilgangi. Sumar göturnar eru nú horfnar, en aðrar hafa verið endurheimtar. Á seinni tímum hefur gróður náð að hylja slóðirnar eða gróðureyðing hefur afmáð þær, jarðvegur hefur færst til, skriður og snjóflóð hlaupið, ár og lækir breytt farvegi sínum, vatn runnið í þeim og breytt, eldgosaaska hulið þær og hraun runnið yfir þær. Dæmi eru líka um að gamlar leiðir hafi færst til.“

Sandakravegur

Sandakravegur.

Allur gangur er á því hver lagði göturnar í upphafi: „Þegar við endurrekjum gamla leið setjum við okkur iðulega í spor þeirra sem fóru hana áður,“ segir Ómar Smári. „Það má greina götur eftir fólk frá götum eftir búfénað þótt stundum hafi leiðirnar legið saman. Kindurnar leita bithaga og skjóls og því liggja kindagötur eða fjárgötur oft utan í hlíðum, hæðum og hólum eða í lægðum. Þar sem féð hefur unað hag sínum vel er jafnan vel gróið. Fólk fór hins vegar greiðfærustu leiðina og hugsaði um að „halda hæð“. Þá var ekki farið upp og niður hæðir og dali að óþörfu. Þótt fólk þyrfti að taka á sig krók var það gert, því „betri var krókur en kelda“.
Um allt land má finna mikilvægar þjóðleiðir frá liðnum öldum, sem sumum hefur verið haldið við. Þá hafa verið búnar til nýjar gönguleiðir um fallega náttúrustaði. Nokkrar slíkar má finna á Reykjanesskaganum. Mikilvægustu leiðirnar áður fyrr eru ekki endilega vinsælustu gönguleiðirnar í dag. Sumar eru nýlegar, eins og Reykjavegurinn svonefndi milli Reykjaness og Nesjavalla.“

Til ýmiss brúks

Kapella

Alfaraleiðin við kapelluna.

Ómar Smári segir að reyna megi að flokka leiðirnar eftir sennilegu notagildi þeirra áður fyrr. „Þjóðleiðir lágu milli byggðalaga, eins og Alfaraleiðin eða Almenningsleiðin milli Innnesja, nú Hafnarfjarðar, og Útnesja, þar sem nú er Reykjanesbær. Hún sést að mestu ennþá frá jaðri Brunans (Kapelluhrauns) til Innri-Njarðvíkur. Selvogsvegur eða Suðurfararvegur lá milli Hafnarfjarðar og Selvogs. Hann sést vel frá Lækjarbotnum í Hafnarfirði að Strönd í Selvogi.

Skálavegur

Gamli vegurinn að Skála um Siglubergsháls – nú horfinn vegna framkvæmda.

Þessar leiðir voru fjölfarnar allt til þess að vegagerðin fór að miðast við bifreiðar. Verleiðir má sjá við verin á norðan- og sunnanverðum Reykjanesskaganum. Leiðirnar ofan við Selatanga, verstöð, sem notuð var allt til byrjunar 20. aldar eru þrjár, hvort sem var heim til bæja, Skála og Krýsuvíkur, eða inn á þjóðleiðirnar. Byggðakjarnar á landsvæðinu, svo sem Grindavík, Garður, Hafnir og Vatnsleysuströndin, voru mikilvægar verstöðvar.
Lengri aðalleiðirnar lágu milli stjórnsýslustofnana, höfuðbóla og byggðakjarna, verstöðva, verslunarmiðstöðva, náttúrustaða, þingstaða eða kirkna, hvort sem var með ströndum landsins, yfir fjallgarða, heiðar, ása eða úfin eða slétt hraun. Leiðirnar voru mjög mislangar. Segja má að fyrrum hafi allar leiðir um tíma legið til og frá Þingvöllum. Við þessar leiðir finnast víða misgamlar minjar, svo sem hlaðin skjól, sæluhús, bæli í hellum og skútum eftir menn og hreindýr, og vörður, bæði sem leiðarmerki og til minningar um fólk, sem varð úti, eða sögulega atburði. Dauðsmannsvörðurnar og dánarstaðir eru ófáir við og hjá götunum, en sem betur fer sluppu margir lifandi þrátt fyrir miklar raunir, eins og Prestsvarðan ofan við Leiru er til vitnis um.

Árnastígur

Árnastígur.

Leiðir á milli bæja eru jafnmargar og bæirnir voru margir – og þeir voru miklu fleiri en fólk gerir sér í hugarlund, t.d. voru 28 bæir í Staðarhverfi, sem er vestast Grindarvíkurhverfanna, en nú standa þar tóftir einar. Í Staðarhverfi var millilandaverslun um tíma, kirkjustaður og hreppstjórasetur. Frá hverfinu lágu samskiptagötur til Hafna, Njarðvíka og hinna byggðarkjarnanna í Grindavík. Þær sjást enn vel.

Fornaselsstígur

Fornasels og Gjálselsstígur.

Selstígar lágu upp í selstöðurnar, sem voru fjölmargar í landnámi Ingólfs. T.a.m. má sjá leifar af um 250 slíkum á svæðinu.
Kirkjugötur voru mikilvægar menningarleiðir og er Hvalsnesleiðin milli Ytri-Njarðvíkur og Hvalsness ágætt dæmi, en gatan var jafnframt notuð sem þjóðleið milli byggðakjarna og sem verslunarleið. Líklega er hluti leiðarinnar sá best varðveitti hér á landi því varnargirðing Varnarliðsins umlukti hana.“
Sumar slóðir frá því fyrir landnám Ómar Smári segir að sumar leiðirnar séu áfangaleiðir og tengist öðrum eða greinist út frá þeim. Dæmi um vinsæla gönguleið hópsins er leið í Ögmundarhrauni á suðurströnd nessins austur af Grindavík, en hraunið hefur runnið yfir bæ, garða og umlukið önnur mannvirki, s.s. fjárborg og grjótgarða, sem sjást í hraunjaðrinum.
„Víða eru gömlu þjóðleiðirnar klappaðar í harða hraunhelluna, svo sem sjá má á Sandakra- og Skógfellaveginum eða á Hellunum vestan Hlíðarvatns. Þar hefur yngra hraun runnið yfir eldra hraun, sem gatan er í. Gatan er ágætt dæmi um hversu mikil umferð hefur verið hér allt frá fyrstu tíð, sem reyndar gæti þess vegna hafa verið eldri en norrænt landnám segir til um.“
Hefurðu sjálfur mótað þér skoðanir á lífi í landinu fyrir landnám?

Húshólmi

Skálatóft í Húshólma í Gömlu-Krýsuvík.

„Vísbendingar gefa til kynna að hér kunni að hafa verið önnur byggð en rannsóknir hafa enn ekki staðfest það með óyggjandi hætti. T.d. á eftir að rannsaka mannvistarleifar í og við Húshólma og Óbrennishólma í Ögmundarhrauni.“
En auðvitað hefur þróun byggðar og lífshátta í landinu leikið hina fornu vegi með ýmsum hætti. „Leiðakerfið hefur þróast og götur hafa verið lagfærðar eða færst til,“ segir Ómar Smári. „Þegar ferðast var á fótum, eigin eða hestsins, mótuðust göturnar af sjálfu sér. Á fjölfarnari leiðum var kastað úr hluta gatnanna og leiðarmerki reist. Um tíma varð það hluti af þegnskylduvinnu eða atvinnubótavinnu.

Ögmundarstígur

Ögmundarstígur – vagnvegurinn.

Með tilkomu vagnsins voru gerðar vegabætur á mikilvægustu leiðunum og með bílnum mótuðust nýjar leiðir yfir holt og mela, og eldri leiðirnar voru lagfærðar. Þegar leiðin milli Grindavíkur og Krýsuvíkur var gerð ökufær 1932 var hin forna þjóðleið yfir Ögmundar-hraun, þar með talinn Ögmundarstígur, bæði breikkuð og lögð ofaníburði. Í dag er gjarnan farið beint af augum, ekki bara yfir fjöll og hálsa, heldur í gegnum hvort tveggja. “

Varðveisla mikilvæg
fótsporÓmar Smári segir mikilvægt að varðveita gömlu leiðirnar, en með því að ganga þær eru minni líkur á að þær falli í gleymsku. En hvaða hætta steðjar þá einkum að þeim?
„Það er áhugaleysi sveitarstjórnarfólks, skipulagsaðila og verktaka. Við nýtt hverfi í Sandgerði var ekkert tillit tekið til þess að Sandgerðisvegurinn gamli liggur um svæðið og er enn mjög greinilegur. Grindvíkingar ákváðu hins vegar að hafa göngustíg í gegnum Hópshverfið nýja og leyfðu Skógfellaleiðinni þannig að halda sér um bæjarhlutann. Í Reykjavík og víða eru dæmi um að hús hafi verið byggð á gömlum þjóðleiðum, en fólki ekki orðið svefnsamt í þeim vegna mikillar umferðar fólks að næturlagi.“
Í ljósi þess að saga Reykjanessins er átakamikil, fá frásagnir af slysum, mannsköðum og afturgöngum nýtt líf í ferðum ykkar?
„Sérhver saga og sérhvert atvik tengist óhjákvæmilega ákveðnum leiðum og stöðum. Merking þeirra verður önnur fyrir vikið líkt og leiðin og/eða staðurinn. Helsti skaðvaldur þessara gömlu leiða er virðingarleysið sem birtist m.a. í vegagerð og utanvegaakstri. Nýrri vegir hafa af misgáningi verið lagðir yfir þær og stórvirkum vinnutækjum ekið eftir og yfir leiðirnar, rusli hent á þær, námur settar þvert á leiðirnar og trjám plantað í þær. Með svolítilli hugsun mætti koma í veg fyrir þessa eyðileggingu.“

Að aka minna en ganga meira

Ferlir

FERLIRsganga að vetrarlagi.

Farið þið annars á Reykjanesið á öllum árstímum og í öllum veðrum?
„Veðrið hefur aldrei stöðvað för. Hægt er að undirbúa og velja göngustað á Reykjanesskaganum eftir áttum og veðri. Hálsarnir skipta oft veðrum. Þótt það sé rigning og rok hér þá getur verið sól og jafnvel logn handan við hæðina.“
Eru hraunsprungurnar ekki varasamar ef snjór er yfir jörðu?
„Við förum ekki um sprungusvæði þar sem snjór þekur jörð og ekki er augljóst hvernig landið liggur. Enda óþarfi þar sem nægir aðrir kostir eru í boði. Svæðið býður upp á ótrúlega útivistarmöguleika. Fólk getur gengið hinar gömlu leiðir, skoðað landmótun á flekaskilunum og jarðmótunina frá upphafi með a.m.k. 15 hraun frá sögulegum tíma, gengið um hraunhellana, virt fyrir sér litaskrúð hverasvæðanna og notið ómótstæðilegrar náttúrufegurðar. Fótspor
Fána og flóra eru fjölbreyttari en ætla mætti.
Það er mjög gott fyrir byrjendur að ganga með öðrum sem geta leiðbeint þeim til að glöggva sig á umhverfinu og lesa það. Síðan fer fólk að rekast á minjar við hvert fótmál.
Á þessum síðustu tímum aðhalds og ráðdeildar ættu áhugasamir borgarbúar að spyrja sig: Hvers vegna ekki að aka í 15 mínútur og nýta svo 1-5 tíma til göngu í þessu margbreytilega og stórkostlega umhverfi í stað þess að aka í 1-5 klukkustundir og hafa síðan einungis tíma til að ganga í 15 mínútur?“
Gönguhópurinn heldur úti vefsíðunni ferlir.is.

Heimild:
-Morgunblaðið, 162. árg. 15.06.2008, Í fótspor fjár og feðra, bls. 24-25.

FERLIR

FERLIRsfélagar í Bálkahelli. (Ljósm. Júlíus)

Gullkollur
Gróður á Reykjanesskaganum er að mörgu leyti líkur gróðri annars staðar á landinu. Af öllum plöntum á landinu má finna á honum rúmlega 60% af þeim. Gamburmosinn er einkennisplantan, enda víða nýlega hraun. Ferskvatnstjarnir í bland við saltan sjóinn er og meðal einkenna svæðisins.
Valllendi er víða. Allir þekkja grundir, þurra bala, brekkur og ræktuð tún, sem er að finna hvarvetna á skaganum. Á þessum stöðum eru grastegundir mest áberandi og setja sterkan svip á landið.
Fjara nefnist svæðið þar sem láð og lögur mætast. Breidd fjörunnar er mjög mismunandi og fer eftir staðháttum, aðallega þó halla lands. Við klettótta strönd er breiddin nær engin en við árósa og í grunnum víkum getur hún orðið nokkuð löng. Neðri mörk fjörunnar eru oft miðuð við mestu stórstraumsfjöru og efri mörkin við hæsta stórstraumsflóð, en einnig er hægt að fara eftir útbreiðslu ákveðinna lífvera. Fjara er mjög sérstætt búsvæði. Það stafar einkum af því að flestar lífverur eru ýmist á kafi í sjó eða á þurru eftir því hvernig sjávarföllum er háttað. Í annan stað hefur öldurót mikil áhrif á lífverurnar. Þar sem er mjög brimasamt og undirlagið óstöðugt ná engar lífverur fótfestu, eins og víða við suðurströnd landsins.
Þær plöntur sem eru einskorðaðar við fjöru eru aðallega þörungar en efst í henni eru líka nokkrar eiginlegar fjörutegundir eins og hin svarta fjöruskóf, sem er fléttutegund, og grastegundin sjávarfitjungur. Þá er að geta þess að allmargar landplöntur vaxa eingöngu við efstu fjörumörk og ná oft talsvert niður í fjöru. Af þeim má nefna blálilju, hrímblöðku, skarfakál, fjöruarfa og fjörukál, sem allar hafa tiltölulega þykk og safamikil, blágræn blöð. Þessar tegundir þola háan saltstyrk og á stundum stirnir á saltkrystalla í blöðum þeirra.
Því ofar sem dregur við strönd bætast sífellt fleiri tegundir í hóp strandplantna. Oft ber þar mikið á baldursbrá, tágamuru, kattartungu, holurt og geldingahnappi auk ýmissa grastegunda, einkum melgresi, ef sandur er laus í sér.
Víða flæðir sjór yfir annað votlendi og þá myndast mjög sérstakt gróðurlendi, svo kallaðar sjávarfitjar. Langmest ber á grasleitum tegundum á þessum svæðum, grösum og hálfgrösum (einkum störum), en þó leynast smáar og fagrar jurtir inni á milli, eins og stjörnuarfi, strandsauðlaukur, kattartunga og sandlæðingur.
Til eru ýmsar gerðir af valllendi. Séu grastegundir nær einvörðungu drottnandi í svip landsins kallast það graslendi. Aðrar blómplöntur, eins og fíflar, brennisóley, hvítsmári og gulmaðra, vaxa jafnan inni á milli grasanna, ef vel er að gáð, einkum ef örlítil rekja er í rót eða landið smáþýft.
Stundum eru aðrar blómplöntur miklu meira áberandi í valllendinu til að sjá en grösin og þá kallast það blómlendi eða jurtastóð. Blómlendið er sjaldnast mjög víðáttumikið en er einkum neðst í brekkum, meðfram ám og lækjum eða í lautadrögum. Víða þar sem valllendi er hefur það orðið til úr mólendi við það að vera beitt. Hinar ýmsu gerðir af valllendi voru oft nýttar til slægna fyrr á öldum og síðar var farið að rækta þar tún.
Ekki er til neinn algildur mælikvarði á hvað kalla skal votlendi. Flestum er þó tamt að nota það orð um gróður, þar sem jarðvegur er blautur nær árið um kring, en sumir nota það einnig um tjarnir, læki og vötn. Oft er erfitt að draga þarna skýr mörk á milli.
Algengustu gerðir votlendis eru flói og mýri. Vatnsstaða í votlendi er ærið breytileg en í megindráttum eru skilin á milli flóa og mýrar þessi: Í flóanum flýtur vatn oftast yfir grassverðinum, hann er nær hallalaus og rennsli á vatni er lítið sem ekkert. Í mýrinni stendur vatn sjaldnast yfir grassverðinum, henni hallar oftast nær og vatnið er jafnan á hægri hreyfingu; að jafnaði ber talsvert á þéttum mosa í rót. Af þessu sést að oft getur verið skammt á milli tjarnar og flóa annars vegar og mýrar og þurrlendis hins vegar.
Flóar eru víðáttumiklir, bæði á láglendi og í hálendinu. Brokflói er afar útbreiddur og einkennistegund hans er klófífa en blöð hennar nefnast brok. Síðla sumars er brokflói hvítur yfir að líta, þegar fífan er í algleymingi, en á haustin setur rauðbrúnt brokið sterkan svip á hann. Ýmsar starir eru einnig mjög algengar í flóum. Ljósustararflói kemur næst brokflóa að víðáttu og er allalgengur víða um land og er hann blágrænn til að sjá. Einnig má nefna gulstararflóa, er sker sig úr sem gulgrænar rákir, sem er víða algengur á láglendi. Þessar þrjár af gerðir flóum er mjög auðvelt að greina úr fjarlægð á litnum einum saman.
Mýrar er hvarvetna að finna, frá ystu annesjum til hæstu hæða, þar sem samfelldur gróður nær. Einkennistegundir mýrarinnar eru ýmsar starir, eins og mýrarstör, stinnastör og hengistör. Mýrar eru oft þýfðar og vaxa ýmsar lyngtegundir á þúfnakollum.
Fyrr á árum var víða heyjað í votlendi.
Á eftirstríðsárum heimsstyrjaldarinnar síðari hófst verulegt átak í því að ræsa fram votlendi til að auðvelda ræktun túna. Það leiddi til þess að víðlend votlendi voru eyðilögð. Því hefur nú verið hætt og jafnvel hefur verið reynt að endurheimta það votlendi sem tapaðist með því að fylla upp í skurði.
Venja er að fjalla um kjarr- og skóglendi sem eina heild, þó að á þessu tvennu sé þó nokkur munur.
Birki er eina íslenska trjátegundin sem myndar skóga. Hæstu birkitré verða rúmir 10 metrar á hæð, s.s. við Kerið í Undirhlíðum, og á ýmsum stöðum eru 5 -10 metra háir skógar. Mörg tré í skógum eru einkar fögur, beinvaxin með ljósan börk. Í gömlum bókum, eins og fornsögum, annálum og ferðabókum, eru víða til frásagnir um mjög vöxtulega skóga fyrr á öldum. Eyðing skóga á að verulegu leyti rót sína að rekja til ágengni manna og búsmala hans.
Birki myndar einnig víðáttumikið kjarr, sem er að stærstum hluta innan við tveir metrar á hæð og oft mjög kræklótt og margstofna. Margir álíta að kjarrlendið sé leifar af fornum birkiskógum og er það án efa rétt. Á hinn bóginn verður birki sem vex á útkjálkum vart miklu hærra. Meginhluti alls kjarr- og skóglendis er fyrir neðan 250 metra hæð yfir sjó en þó hefur birki fundist í um 600 metrum ofan sjávarmáls.
Aðrar trékenndar tegundir, eins og gulvíðir og loðvíðir, mynda sums staðar kjarr einnig. Botngróðri í kjarr- og skóglendi svipar oft til gróskumikils valllendis eða mólendis.
Mólendi er yfirleitt þýft þurrlendi, vaxið grasleitum plöntum eða lágvöxnum runnagróðri.
Ein algengasta planta landsins er af hálfgrasaætt og nefnist þursaskegg. Hver planta lætur mjög lítið yfir sér og fáir þekkja hana en samfelldar breiður þursaskeggs varpa sérstökum móleitum blæ á óræktarmóa vítt um land.
Auk þursaskeggsmós eru lyngmóar allalgengir. Flestar einkennistegundir mólendisins eru mjög auðþekktar og dregur mólendið oftast nafn sitt af þeim. Algengustu lyngmóarnir eru krækilyngs-, bláberjalyngs-, sortulyngs- og beitilyngsmór. Oft vaxa þessar tegundir saman að meira eða minna leyti.
Af öðrum gerðum mólendis má nefna fjalldrapamó, hrísmó öðru nafni, og sauðamergsmó.
Vel gróið mólendi þykir með fegurstu gróðurlendum landins og sérstaklega síðla sumars og fram eftir hausti skartar mórinn sínum fallegustu litum.
Mólendi er jafnan mjög ríkt af tegundum en á stundum hleypur svo mikill mosi í svörðinn að blómplöntur láta undan síga. Þá nefnist gróðurlendið mosamór og líkist hann þá mosaþembu sem algeng er í hraunum. Mosaþemba er þó sjaldnast talin til mólendis heldur litið á hana sem sérstakt gróðurlendi.
Berangur setur sterkan svip á landið. Í kjölfar búsetunnar átti sér stað mikil eyðing jarðvegs og gróðurs sem erfitt hefur verið að hemja allt til þessa dags. Auðnir landsins eru samt ekki með öllu gróðurlausar þó að jarðveg skorti. Plönturnar búa yfir sérstökum hæfileikum til þess að ræta sig og kljást við óblíð skilyrði.
Á bersvæði mynda plöntur sjaldnast samfellda gróðurþekju heldur vaxa þær jafnan strjált. Á melum ræðst þéttleiki plantna einkum af hversu rakaheldnir melarnir eru og hvernig yfirborðsgerð þeirra er háttað. Á vorin eru miklar hreyfingar í yfirborði melanna, þegar klaki fer úr jörð, og þá er hætta á að plöntur missi rótfestuna.
Af algengum melaplöntum má nefna geldingahnapp, lambagras og holurt eða fálkapung öðru nafni. Á síðari árum hefur innflutt plöntutegund, alaskalúpína, náð að breiðast verulega út á melum, einkum á Reykjanesskaganum.
Lítinn vind þarf til þess að hreyfa við yfirborði sanda. Plöntum reynist því talsvert erfitt að festa þar rætur. Sumar tegundir eiga þó auðveldara en aðrar með að vaxa þar. Dæmi um slíka tegund er melgresi eða melur. Nokkurt skjól myndast í vari af stórvöxnum blöðum melgresis og því safnast sandur þar fyrir og háir hólar myndast. Ávallt er þó nokkur hreyfing á sandinum svo að melgresishólarnir flytjast úr stað með tímanum.
Nokkuð hefur verið gert af því að rækta upp mela og sanda á undanförnum áratugum. Sums staðar hefur sú uppgræðsla lánast allvel en ekki gengið sem skyldi annars staðar.
Ekki eru skörp mörk á milli gróðurs á láglendi og í hálendi landsins. Samfelldur gróður nær vart hærra en í tæpa 500 metra.
Þar sem snjór liggur lengi fram eftir vori þekur snjómosi svörð og myndar harða skorpu.
Fjallað er um gróðureyðingu á öðrum stað á vefsíðunni.

Heimildir m.a.:
-http://www1.nams.is/

Sóley

Sóley við Miðsel.

Reykjanesvirkjun

“Efsta gjóskulagið víðast hvar á Reykjanesskaganum er Kötlulag sem talið er vera frá lokum 15. aldar (Guðrún Larsen 1978). Þetta lag hefur gjarnan verið nefnt K-1500 og er þykkast gjóskulaga á svæðinu frá því eftir landnám.
Gjoskulog-21Næstefsta lagið er orðið til við gos í sjó skammt undan Reykjanesi á þriðja áratug 13. aldar, sennilega árið 1226 (Magnús Á. Sigurgeirsson 1992a, 1992b). Þetta lag samsvarar því gjóskulagi sem almennt hefur verið nefnt miðaldalagið (ML).
Næst kemur auðþekkjanlegt tvílitt gjóskulag, með ljósan neðri hluta og dökkan efri hluta, svonefnt Landnámslag (LNL eða Vö~900). Efnagreiningar sýna að neðri hlutinn er úr súrri gjósku en sá efri úr basískri. Landnámslagið varð til í miklu gjóskugosi á Veiðivatna- og Torfajökulssvæðinu um 900 e.Kr. (Guðrún Larsen 1984). Nærri miðju sniðsins er ljóst gjóskulag sem gjarnan hefur verið tengt Heklulaginu H3. Athuganir Bryndísar G. Róbertsdóttur (1992a) á gjóskulögum á Suðurlandsundirlendinu benda til að hér sé um Heklulagið HA að ræða, sem hún telur vera 2400-2600 ára gamalt.
Neðan Heklulagsins koma svo þrjú svört Kötlulög með stuttu millibili. Efri lögin tvö eru um hálfur sentímetri að þykkt en það neðsta 5-6 sentímetrar og jafnframt þykkast gjóskulaga. Í frjórannsóknum sínum hefur Þorleifur Einarsson (1956, 1961) talið þetta þykka lag vera 4000-5000 ára gamalt. Bryndís G. Róbertsdóttir (1992b) hefur leitt rök að því að hér sé um 3200-3400 ára gamalt Kötlulag að ræða. Þá kemur grágrænt þunnt gjóskulag sem samkvæmt efnagreiningum er frá Heklu komið. Ekki er vitað með vissu um hvaða Heklulag hér er að ræða. Ljós gjóskudreif er í mónum nokkru neðan Heklulagsins, en þar sem fullnægjandi efnagreiningar fengust ekki er uppruni óviss. Þorleifur Einarsson (1961, 1962) hefur merkt þessa dreif með „S” í sniðum á Reykjavíkursvæðinu. Neðst, skammt ofan ísaldarleirsins, koma síðan svörtu gjóskulögin tvö sem hér verða til umfjöllunar. Milli þeirra er tæplega eins sentímetra þykkur mór og er efra lagið um þriggja sentímetra þykkt en það neðra tæpur sentímetri.”

Heimild:
-Náttúrufræðingurinn, 62. árg. 1992, 3.-4.tbl. bl.s 130-131.
Önglabrjótsnef

Bálkahellir

Svæði Reykjanesskagans búa yfir miklum verðmætum, hvort sem horft er til orku eða annarra náttúruauðlinda. Mörg svæðanna eru enn að mestu óröskuð. Þau geyma ótal mannvistarleifar er endurspegla búsetu- og atvinnusöguna frá upphafi Forn tóftlandnáms hér á landi. Flestir landsmenn búa nú á skaganum, en hann spannar hið forna landnám Ingólfs, vestan línu frá Ölfusárósum í Hvalfjarðarbotn.
Reykjanesskaginn telst til landnáms þessa fyrsta norræna landnámsmanns hér á landi. Eftir að hafa dvalið um tíma á Austurlandi, þangað sem flestir verðandi landnámsmannanna komu reyndar í fyrstu frá Suðureyjum, færði hann sig um set og taldi loks ákjósanlegri búsetukosti vera við heitavatnslindir ofan víkur þeirrar, er hann lagði loks við skipi sínu. Landnámið hefur verið nefnt eftir manninum og getið er um í Landnámu. Hóf hann, ásamt þrælum sínum, að byggja sér bæ og önnur nauðsynleg mannvirki. Landnámið færðist síðan smám saman yfir á frændur og búalið. Þegar minjar nátengdra afkomenda Ingólfs voru grafnar upp við byggingu húss Happdrættis Háskólans við Tjarnargötu og Herkastalans tæplega 1100 árum seinna var rótað í ummerkjum elstu mannvistarleifa á svæðinu og síðan húsin reist á grunni þeirra. Enginn hafði þá áhuga á hinum fornu og hinum augljósu tengslum þeirra við hinn fyrsta landnámsmann. Auðveldlega hefði verið hægt, með svolítilli umhugsun, að byggja húsin spölkorn frá og geyma svæðið til seinni tíma rannsókna. Nú eru þessar merku minjar glataðar og verða ekki endurheimtar – því miður. Svona er og hefur reyndar verið um margt það sem merkilegt hefur getað talist, hvort sem um er að ræða minjar eða einstök náttúrufyrirbæri. Það er þó bót í máli að á fyrrnefndu svæði eiga eftir að finnast fornleifar er gefa munu til kynna mannvist hér á landi löngu fyrir hið “opinbera norræna landnám”.
VegaframkvæmdirAf og til, einkum við hátíðleg tækifæri, og af gefnu tilefni eru mörg orð höfð um umhverfismál, mikilvægi verndunar, verðmæti umhverfis og náttúru, gildi hvorutveggja fyrir ferðaþjónustuna (hinnar sívaxandi atvinnugreinar) sem og nauðsynleg skil núverandi kynslóða til afkomendanna. Á milli orðanna er vaðið yfir stór áður óspillt svæði með stórvirkum vinnuvélum, jarðýtum og skurðgröfum í nafni arðbærar atvinnusköpunnar og aukningar á vergri þjóðarframleiðslu, framfara og “mikilvægrar nauðsynjar”, án þess að sú nauðsyn hafi yfirleitt verið útskýrð fyrir fólki. Gleymst hefur, að ekkert af því sem glatast, verður nokkurn tíma endurheimt – hvorki til handa komandi kynslóðum né öðrum.
En hér er í rauninni alls ekki um einfalt mál að ræða. Staðreyndin er þó auðvitað sú að huga þarf að skynsamlegu meðalhófi, annars vegar að varðveislu verðmætra náttúru- og minjasvæða, og hins vegar að arðsemi og nauðsynlegri nýtingu. Hingað til hefur fulltrúum síðarnefndu sjónarmiðanna verið gefinn um of laus taumur, með sárgrætilegum afleiðingum. Þeir hafa fengið, þegjandi og hljóðlaust, að sóða út dýrmæt svæði, jafnvel án nokkurrar skynsamlegrar ástæðu. Þegar horft er á loftmyndir eða svæði gengin og skoðuð, má vel sjá hvar farið hefur verið yfir landið á “skítugum skónum”. Mestu sóðarnir eru orkufyrirtækin og sjálf sveitarfélögin, sem einna helst hefðu átt að spyrna við fótum og gæta varúðar.
Utanvegaakstur Fjárhagslegir hagsmunir hafa því miður fengið að ráða um of ferðinni – hingað til a.m.k. Fjármagn og möguleg arðsemi (í peningum talið) hefur jafnan ráðið afstöðu manna til fyrirsjáanlegrar eyðileggingar á umhverfinu.
Fólk, sem ber umhyggju fyrir landinu, hefur mótmælt óhóflegri röskun þess. En hversu víðtækur er landverndaráhuginn? Takmarkast hann einungis við ákveðna staði af tilteknum ástæðum? Endurspeglar hann afstöðu fjöldans, eða er hann bara bergmál hrópandans í eyðimörkinni? Langflestir vita mjög lítið um umhverfisvernd, örfáir svolítið meira og til eru þeir sem bulla um eitthvað sem skiptir engu máli. Stjórnmálamenn vita sennilega minnst um efnið þótt þeir tali mest um það – og þá jafnan um ekkert sem skiptir máli.
Tiltölulega auðvelt ætti að vera að samhæfa nýtingu og meðferð verðmætra náttúruauðlinda. Til þess þarf þó meira en menn sem horfa ekki til mögulegrar aðrsemi þeirra sjálfra – í aurum talið. Fólk með heilbrigða skynsemi kann og getur gætt að samræmi þess sem í raun skiptir máli.
Á hverju hefur fólk yfirleitt áhuga? Kannanir hafa sýnt að áhugi á óspilltri náttúru og menningartengdum svæðum séu áhugaverðastar. Þótt langflestir íbúar á Reykjanesskaganum sæki í ósnortna náttúru og nálægð við söguminjar í öðrum og fjarlægari landnámssvæðum eru möguleikar skagans nær óþrjótandi í þeim efnum. Og hvers vegna að aka í þrjár klukkustundir til að geta skoðað eitthvað á fimmtán mínútum þegar hægt er að aka í fimmtán mínútur til að geta skoðað sig um í þrjár klukkustundir? Allflest það er finna má í öðrum landshlutum er einnig að finna á Reykjanesskaganum. Fólk hefur hins vegar tilhneiginu til að horfa langt fyrri skammt.
Háspennumöstur Óyggjandi þörf er fyrir að varðveita landið sem mest ósnortið svo komandi kynslóðir og gestir þeirra geti notið þess sem skyldi. Líklegra má telja að fólk beri virðingu fyrir landinu meðan það er enn fallegt og jafnvel einstakt – telur sig tilheyra því. En um leið og búið er að raska eða eyðileggja hluta þess, minnkar áhuginn svo og virðingin í réttu hlutfalli við skemmdirnar. Enginn hefur t.a.m. áhuga á brotnum stól eða götóttum hjólbarða. Hvers vegna ætti fólk þá að hafa áhuga á eldborg, sem búið er að skemma og fjarlægja að hluta, eða fallegum dal, sem hefur verið sléttaður út til að koma fyrir stórvirkum bortækjum?
Mikilvægt er að þeir, sem fá leyfi til framkvæmda, standi þannig að málum að sem minnst röskun verði vegna þeirra. Öllum er ljóst að byggja þarf nýja vegi, virkja jarðorkuna, ná í sand, möl og grjót, en það er hægt að gera það að yfirlögðu ráði og með fullri meðvitund.
Eitt þeirra svæða, sem enn er ósnortið á Reykjanesskagnum eru Brennisteinsfjöll. Þar er jarðsagan og –myndunin líkt og opin fræðibók, bæði með litmyndum og augljósum skýringum; fallegar eldborgir, hrauntraðir, hellar og gígar, einstakri fánu og flóru ásamt einu frábærasta útsýni sem hægt er að hugsa sér – í friði fyrir háspennulínum. Minjar námuvinnslu eru í fjöllunum og gamlar þjóðleiðir liggja um þau, þvert yfir Reykjanesskagann, milli suður- og norðurstrandar hans.
Svæði Reykjanesskagans mynda bæði sjálfstæð og heilstætt búsetuminjasvæði. Þau hafa að geyma tæplega 260 selstöðuminjar, yfir 100 hlaðin fjárskjól, meira en 100 réttir og stekki, um 80 fjárborgir, ótal vörður tengdar sögulegum atburðum, a.m.k. 32 hlaðnar refagildrur, yfir 100 brunna og vatnsstæði, ótal gamlar götur þar sem fætur, hófar og klaufir liðinna kynslóða hafa markað djúp för í hraunhelluna, allnokkrar verminjar, varir naust og lendingar, fiskverkunarminjar Gömul þjóðleiðog aðrar þær mannvistarleifar sem maðurinn hefur skilið eftir sig á löngum tíma. Minjar þessar lýsa m.a. hvernig forfeður og –mæður lifðu, við hvaða aðstæður og hversu aðdáunarvert megi telja að við, sem nú lifum, skulum yfirleitt geta orðið til. Fyrir það ber okkur að sjálfsögðu að þakka, t.d. með því að bera umhyggju fyrir því sem þetta fólk skildi eftir sig, hvort sem um er að ræða minjar, líkar þeim er byggt var á við Tjarnargötu, eða landið sjálft.
Mikið hefur verið rætt um mikilvægi eftirlits í samfélaginu – til að auka öryggið. Þær hugmyndir eru að mörgu leyti góðra gjalda verðar, en í umræðunni gleymist að helstu “skemmdarvargarnir”, sem fólki og landi stafar hvað mest hætta af um þessar mundir eru stjórnmálamenn og embættismenn tengdir ýmiss konar framkvæmdum, s.s. virkjanagerð, álversframkvæmdum og öðru því sem til þarf, s.s. vegagerðaraðilar. Utanvegaakstur spillir og landinu, malartaka ýmiss konar, íbúðabyggð o.fl. Engum hefur hins vegar látið sér detta í hug sérstakt eftirlit með aðilum er telja sig hjafa fengið leyfi til framkvæmda. Eitt nýlegt dæmi um slíkt er frá Heiðmörk. Annað frá Reykjanesbraut. Fáum dettur í hug að bæði sé hægt að vera með framkvæmdir og varðveita þau svæði, sem framkvæmdir ná yfir, en með svolítilli hugsun, eins og áður segir, þar sem varfærni er höfð til hliðsjónar og virðing fyrir umhverfinu er meðvituð, ættu verðmæti náttúrunnar sem og sögulegar minjar sér meiri möguleika til lengri framtíðar en hingað til, sbr. minjar hins fyrsta landnámsmanns við Tjarnargötu í Reykjavík. Einnig gamla gatan yfir Siglubergsháls, sem fór að óþörfu undir Suðurstrandarveginn.
Malargryfjur Ef einhverjum hefði þá dottið í hug að leggja til að færa áætlaðar byggingar í miðborginni á sjötta áratug 20. aldar eða hnika til skipulagi um nokkra metra, væru nú, hálfri öld seinna, til sögulegasta minjasvæði landsins, og þótt víðar væri leitað – um upphaf landnámsbúsetu heillrar þjóðar. En það var bara ekki gert – því miður.
Náttúru- og söguminjar Íslands eru bæði einstakar og fjölmargar. En þær eru hvorki ótakmarkaðar né óaðgengilegar fyrir stórhuga framkvæmdamenn í arðsemisleit. Létttifandi lækur, fiðraður vorboði á hreiðri, háreistur álfaklettur, vel hlaðið fjárskjól í hrauni frá sögulegum tíma, tímalaus vör eða brönugras í júní með undirspil golunnar virðist allt fátæklegt í fyrstu. En þegar betur er að gáð er allt þetta, hver einstakt, margfalt verðmætara en t.d. ipot, tölvuleikir, gargandi tónlist, pizza eða samfelldur umferðarniður frá morgni til kvölds. Jafnvel verðmætara en suðið í háspennulínum hinna óteljandi mastra með undirliggjandi slóðum er hlykkjast nú þvers og kurs um landið.
Virðing fyrir landinu kostar ekkert. Eyðilegging náttúru- eða menningarminja verða aldrei bætt. Með ákvörðun um varðveislu og skynsamlegri nýtingu landsins er hægt að koma í veg fyrir óþarfa eyðileggingu, auka vitund fyrir raunverulegum verðmætum og skapa sátt. Og allir græða – a.m.k. eitthvað.

Hraun

Nútímahraun á Reykjanesskaga.

Ferlir

Nokkrar mistækar gönguleiðabækur hafa verið gefnar út um möguleika Reykjanesskagans, s.s. “Náttúran við bæjarvegginn – 25 gönguleiðir á Reykjanesskaga” eftir Reynir Ingibjartsson, “Átta gönguleiðir í nágrenni Reykjavíkur” eftir Einar Skúlason, og “Gönguleiðir á Reykjanesi”  eftir Jónas Guðmundsson. Síðastnefnda bókin byggir titil sinn reyndar á hugtakaruglingi því Reykjanesskaginn er svo miklu umfangsmeiri en Reykjanesið yst á skaganum.

Jónas Guðmundsson

Jónas Guðmundsson.

Í auglýsingu um bókina “Gönguleiðir á Reykjanesi” segir m.a.: “Gönguleiðir á Reykjanesi hefur að geyma lifandi leiðarlýsingar tæplega 30 áfangastaða á Reykjanesskaga, fjársjóðskistu útivistarfólks. Sumar leiðirnar eru á fjöll, aðrar um hraun og dali og margar eru hringleiðir. Allar eru lýsingarnar innblásnar af þeim miklu jarðumbrotum sem hafa einkennt svæðið alla tíð. Margar leiðirnar henta fyrir fjallahjól, aðrar fyrir utanvegahlaup og enn aðrar til að kynna yngstu kynslóðina fyrir töfrum fjallaferða og eru þær merktar sérstaklega.

Jónas Guðmundsson er leiðsögumaður, landvörður og ferðamálafræðingur sem varið hefur ótal stundum á fjöllum. Reykjanes skipar sérstakan sess í huga hans og þangað leitar hann aftur og aftur til að njóta, upplifa og endurhlaða rafhlöður líkamans og sálartetursins.

Gönguleiðir á ReykjanesiÞessi bók hentar öllum þeim sem ætla að leggja land undir fót. Hverri leið fylgir leiðarlýsing, kort og GPS-hnit, fjöldi ljósmynda og upplýsingar um staðhætti og aðstæður. Auk þess er settur fram sögulegur og landfræðilegur fróðleikur um þær leiðir sem gengnar eru hverju sinni. Í bókinni er einnig hagnýtur kafli um undirbúning og fjölda góðra ráða sem varða fjallgöngur og útivist.”

Í inngangi bókarinnar segir m.a.: ” Sem fyrr er bók þessi aldrei eins manns verk því allnokkrir lögðu hönd á plóginn og að góðum íslenskum sið er rétt að þakka þeim… Otti Rafn Sigmarsson í Grindavík varpaði ljósi á nokkra þætti og hið sama gerði Ásta Þorleifsdóttir, jarðfræðingur með meiru, og nokkrar heimildir voru sóttar í vefsíðuna ferlir.is sem er hafsjór af fróðleik. Allir þessir og þeir sem ekki er hér minnst á fá þakkir fyrir sitt.” Nefndur Jóns bað hvorki svo lítið sem um leyfi né heimild til að nota efni af vefsíðunni í bók sína.

Allar framangreindar bækur eiga a.m.k. eitt sameiginlegt; þ.e. að hafa sótt a.m.k. hluta fróðleiksins á vefsíðuna www.ferlir.is, sem er reyndar ágætt því markmið hennar er er fyrst og fremst að miðla fróðleik um svæðið til áhugasamra. Á þeirri síðu er reyndar að finna endurgjaldslaust alla eiginlega leiðsögn um dásemdir Reykjanesskagans á einum stað frá upphafi til nútíma – langt umfram allar útgefnar göngubækur og villulýsingarnar, sem þar er að finna.

Hellugatan

Hellugatan í Selvogi.

Trölladyngja

Ólafur Jónsson skrifaði um “Trölladyngjur” í Náttúrufræðinginn árið 1941. Trölladyngjur eru tvær á landinu, önnur norðan Vatnajökuls og hin ofan Vatnsleysustrandar. Hér er grein Ólafs lítillega stytt:

Trölladyngja

Trölladyngja nyrst á Núpshlíðarhálsi.

“Íslenzkir annálar og árbækur geta 6 sinnum eldgosa í Trölladyngjum, en þar sem fjöll með þessu nafni eru tvö á landi hér, annað í Ódáðahrauni, hitt á Reykjanesskaga, hafa fræðimenn ekki orðið á eitt sáttir um það, hvoru beri að telja þessi gos. Trölladyngja í Ódáðahrauni er hraunbunga mikil í suðurhluta hraunsins, formfögur og regluleg. Trölladyngja á Reykjanesi er röð af óreglulegum móbergshnjúkum, skammt vestur af Sveifluhálsi.
Þorvaldur Thoroddsen telur líklegt, að Trölladyngjugosin hafi orðið í Trölladyngju á Reykjanesi og nágrenni hennar, því Trölladyngja í Ódáðahrauni hafi ekki gosið síðan land byggðist. Þó viðurkennir hann, að Trölladyngja á Reykjanesi hafi tæplega gosið nema einu sinni síðan á landnámstíð, en hyggur að önnur gos þar í nágrenninu hafi verið við hana kennd. Rök þessi eru ákaflega veik, því með sama rétti má segja, að gos í nágrenni Trölladyngju í Ódáðahrauni hafi verið við hana kennd, en þess mun þó ekki við þurfa, því hægt er að færa sterk rök að því, að gos þessi, flest eða öll, hafi orðið í Trölladyngjum í Ódáðahrauni. Það, sem fyrst vekur athygli við rannsókn þessa máls, er sú staðreynd, að tvö fjöll, gerólík að uppruna og útliti, bera sama nafnið. Þetta er vafalaust mjög sjaldgæft, þegar um forn nöfn er að ræða og getur aðeins byggst á því, að þeir, sem nöfnin gáfu, hafi lagt ólíkan skilning í nafnið. Nú er aðeins notuð eintölumynd nafnsins; hvort fjallið sem í, hlut á, en í eldri ritum er fleirtölumyndin langalgengust og er það réttmætt, þegar Trölladyngja á Reykjanesi á í hlut, því hún er ekkert einstakt fjall, heldur safn af óreglulegum hnjúkum, en jafn fráleitt væri að tala um reglulegt og einstakt fjall í fleirtölu, eins og Trölladyngju í Ódáðahrauni. Þetta hvorutveggja stangast svo óþægilega, að varla getur dulizt, að eitthvað sé nú orðið bogið við notkun þessara örnefna.

Trölladyngja

Trölladyngja norðan Vatnajökuls.

Á uppdrætti Knopfs af Íslandi frá 1734, og kortum þeim, sem gerð eru eftir honum í ferðabókum ýmsum, sjáum við, að Trölladyngjur í Ódáðahrauni eru ýmist sýndar, sem mikið óreglulegt fjall, eða þyrping af fjöllum, skammt suðvestur af Herðubreið. Á uppdrætti Björns Gunnlaugssonar, frá 1844, er hraunbungan Trölladyngja nefnd Skjaldbreiður eða Trölladyngja, en milli Herðubreiðar og Bláfjalls eru Dyngjufjöll hin nyrðri, eða Trölladyngjur. Þessi fjöll munu nú heita Herðubreiðarfjöll.

Björn Gunnlaugsson

Björn Gunnlaugsson.

Í bók Kaalunds (Bidrag til en historisk-topografisk Beskrivelse af Island) er kort af Þingeyjarsýslu, gert eftir uppdrætti Björns Gunnlaugssonar, með leiðréttingum Prof. Jonstrups frá 1876. Þar eru Dyngjufjöll syðri og Dyngjufjöll nyrðri nefnd einu nafni Trölladyngjur. Sé þetta rétt, er fullt samræmi fengið. Þessar stóru fjallþyrpingar eru einmitt safn af óreglulegum hæðum og hnjúkum, eins og Trölladyngja á Reykjanesi, og þess vegna er vel til fundið að nota fleirtölumynd nafnsins og nefna þær Trölladyngjur. Það er auðgert að finna þessari skoðun stuðning í ýmsum heimildum.
Í bók Eggerts Ólafssonar frá 1751, (Disquisitio antiquario etc.) stendur þessi klausa, eftir að rætt hefir verið um Herðubreið: “Ekki langt þaðan liggur vatn (Lacus), sömuleiðis eldspúandi, Trölladyngjur, nefndar svo af þeim öskuhæðum, sem í því og kringum það rísa.” Lýsing þessi er að vísu öfgakennd, en getur þó á vissan hátt átt við Dyngjufjöll. Austan við fjöllin hefir til skamms tíma verið stórt vatn, Dyngjuvatn, sem nú er horfið. Líklega hafa menn haft veður af þessu vatni og sett gosin í samband við það. Það er að minnsta kosti ljóst, af þessari lýsingu, að á tíð Eggerts, eru þyrpingar af hólum og hæðum nefndar dyngjur.

Björn Gunnlaugsson

Björn Gunnlaugsson – kort af svæðinu norðan Vatnajökuls 1831.

Þyngri á metunum verður þó lýsingin á Trölladyngjum í Ódáðahrauni í ferðabók þeirra Eggerts Ólafssonar og Bjarna Pálssonar frá 1772 (Reise igennem Island, bls. 752). Þar segir, er lokið hefir verið að lýsa Herðubreið: „Trolddynger er derimod et lavt Bjerg med nogle og især 3de Afdelinger og forbrændte Spidser, men rundagtige Knolde der imellem.” (Trölladyngjur eru hins vegar lágt fjall, er skiptist í nokkra en aðallega 3 hluta, með brunatindum og ávölum hæðum á milli.) Þetta er lýsing sjónarvotta á Trölladyngjum og getur hún prýðilega átt við Dyngjufjöll.

Björn Gunnlaugsson

Björn Gunnlaugsson – kort af Trölladyngju á Reykjanesskaga 1831.

Níutíu árum síðar lýsa þeir Preyer og Zirkel Trölladyngju mjög á sama veg og þeir Eggert og Bjarni gerðu. Í bók þeirra (Reise nach Island) segir svo: „Trölladyngja zwischen dem Ódáðahraun und dem Vatnajökull gelegen, ein nicht besonders hoher Berg mit drei Hauptgipfeln”. (Trölladyngja milli Ódáðahrauns og Vatnajökuls, ekki mjög hátt fjall með þrem aðaltindum). Bezta heimildin um það, að Dyngjufjöll og Trölladyngjur séu eitt og sama, er ritgerð Jónasar Hallgrímssonar frá 1839, „De islandske Vulkaner” (Rit J.H., IV., bls. 163). Þar segir svo: „Inde i Landet, syd for Myvatnsfjældene findes en stor Bjærgklynge, som af Myvatnsbeboerne kaldes Dyngjufjöll, men den hedder ogsaa Trölladyngjur og har en Række af Vulkaner, som har avgivet Materialet til en stor Del af Ódáðahraun o.s.v.” (Inn til landsins, sunnan við Mývatnsfjöllin, er mikil fjallþyrping, sem Mývetningar nefna Dyngjufjöll, en hún heitir líka Trölladyngjur. Þar eru margar gosstöðvar, sem hafa lagt til efnið í mikinn hluta Ódáðahrauns.) Þessi frásögn sýnir, að um 1840 er Trölladyngjunafnið ennþá loðandi við Dyngjufjöll, en það síðara þó orðið algengara, að minnsta kosti sums staðar.

Eggert og Bjarni

Eggert og Bjarni – Íslandskort þeirra um 1770.

Að lokum skal þess getið, sem séra Sigurður Gunnarsson segir um þetta í grein sinni: „Miðlandsöræfi Íslands” (Norðanfari, 16. ár, bls. 28). Hann telur örnefni í Ódáðahrauni þannig, að fyrst sé Trölladyngja skammt frá jöklinum, þá Dyngjufjöll með Dyngjufjalladal eða Öskjunni. Síðan segir orðrétt: „Norðanmegin ganga út frá þessu hraunfjallahálendi hæðir miklar- og fjalldyngjuklasar, vestur og norðvestur af Herðubreið. Þar eru Trölladyngjur eða Dyngjufjöll hin ytri og engin mjög há eða þá nokkuru lægri en hraunfjöllin innfrá”. Þessi frásögn sýnir prýðilega þann rugling, sem kominn er á örnefnin. Trölladyngjur heita nú bara Dyngjufjöll. Trölladyngjunafnið hefir klofnað í tvennt, eintölumynd, sem hefir færzt suður á hraunbungu, sem áður hét Skjaldbreiður, og fleirtölumynd, sem flutzt hefir norður í Herðubreiðarfjöll.

Eggert og Bjarni

Eggert og Bjarni – kort þeirra af norðanverðum Vatnajökli.

Það er því líkast, sem þessi örnefnaflutningar haldist í hendur með mælingum og rannsókn á landinu og er slíkt skiljanlegt. Alþýða manna lét sig öræfin, sem lágu utan við takmörk afréttanna, litlu skipta, og auðvitað hafa þessi örnefni verið orðin á talsverðu reiki, þegar fræðimennirnir komu til skjalanna. Rannsóknir og mælingar landsins þarfnast fastra örnefna og hefir því gömlu örnefnunum, sem orðin voru á reiki, verið slengt niður eftir ágizkun, eða að minnsta kosti án ýtarlegrar rannsóknar. Þetta er í raun og veru ekki verra en viðgengizt hefir fram á þennan dag. Erlendir og innlendir fræðimenn og ferðalangar fara fram og aftur um óbyggðir landsins og ausa örnefnum, af miklu örlæti, á báðar hendur. Sum þessi örnefni eru jafnvel útlend eða þá mjög vanhugsuð og ósmekkleg. Önnur lenda á stóðum, sem áður höfðu prýðileg nöfn, og getur það kostað töluverða fyrirhöfn að losna aftur við þessi uppnefni.

Eggert og Bjarni

Eggerts og Bjarni – kort þeirra af Reykjanesskaga um 1770.

Af framanrituðu má draga þá ályktun og telja fullvíst, að Dyngjufjöll hafi heitið Trölladyngjur og mun enginn, sem þar er kunnugur, vilja neita því, að þau hafi gosið oft síðan land byggðist. Það var Thoroddsen líka fullkomlega ljóst og má því furðulegt kalla, að hann, sem var kunnari gömlum heimildum en flestir aðrir, skyldi ekki koma auga á örnafnaflutning þann, sem þarna hefir átt sér stað. Líklega hafa Herðubreiðarfjöll líka verið kölluð dyngjur, því svo virðist, sem það hafi verið málvenja að nefna þyrpingar af óreglulegum móbergsfjöllum dyngjur eða fjalldyngjur. Nú hefir þetta heiti algerlega skipt um merkingu, svo það er notað um regluleg einstök bungumynduð eldfjöll, sem sameiginlegt, fræðilegt nafn, ekki aðeins í íslenzkum fræðum, heldur líka í sumum erlendum jarðfræðiritum.

Trölladyngja

Trölladyngja og Dyngjufjöll.

Trölladyngja hefir líklega ekki gosið eftir að sögur hófust, en Trölladyngjur, þ.e. Dyngjufjöll, hafa vafalaust gosið oft eftir að landið byggðist. Þótt það sé merkilegt, að Thoroddsen skyldi ekki sjá þetta, þá er það ennþá furðulegra, að Jónas Hallgrímsson, sem vissi að Dyngjufjöll voru sama og Trölladyngjur, skuli fullyrða, að öll Trölladyngjugosin hafi verið á Reykjanesi. Þessa niðurstöðu reynir hann að byggja á frásögnum annálanna af gosunum, en tekst ákaflega óhönduglega og virðast mér rök hans stundum sanna alveg hið gagnstæða. Vil ég nú rekja ummæli annálanna um þessi gos og draga af þeim þær ályktanir, sem auðið er.

Trölladyngja

Trölladyngja á Reykjanesskaga.

1. Árið 1151 er í fyrsta sinn getið um gos í Trölladyngjum (Isl. ann.). Frásögnin er mjög stuttorð og hljóðar svo: „Eldur í Trölladyngjum. Húsrið og mannskaði.” Hannes Finnsson segir í ritgerðinni Mannfækkun á Íslandi af hallærum, (Lærdómslistafélagsrit 1793) að Trölladyngjur hafi gosið 1152 og nefnir eftirfarandi vetur sóttarvetur. Jónas Hallgrímsson telur (Rit J. H. IV. bls. 164) að klausan: “Húsrið og manndauði”, sé óræk sönnun þess, að gosið hafi verið í suðvesturhluta landsins, því þeim gosum fylgi mestir landskjálftar og óhollnusta. Þessi rök eru ákaflega hæpin. Í hinni fáorðu frásögn þarf ekkert beint samband að vera milli setninganna: „Eldur í Trölladyngjum” og „Húsrið og manndauði.” Landskjálfti og manndauði hafa oft gert usla hér á landi, þótt ekki hafi valdið eldgos, og óhollusta og tjón af gosum mun venjulega hafa farið meira eftir því, hvort um öskugos eða hraungos var að ræða, heldur en hinu, hvar á landinu gosin voru. Frásögnin er ákaflega fáorð, sem bendir til þess, að gosið hafi verið fjarri mannabyggðum og því lítið um það vitað. Það er ósennilegt, að ekki hefði verið sagt fleira frá gosi á Reykjanesi, eða einhver örnefni nefnd í sambandi við það. Mér virðist því sennilegast, að gos þetta hafi verið í Trölladyngjum í Ódáðahrauni.

Trölladyngja

Trölladyngja norðan Vatnajökuls ofar, Urðarháls og gígur neðar.

2. Árið 1188 segir svo (Isl. ann.): „Eldsuppkoma í Trölladyngjum”. Lengri er frásögn þessi ekki og því ósennilegt, að gos þetta hafi verið á Reykjanesi.
3. Árið 1340 hefjast hér mikil eldgos. Um það segir Annáll Gísla Oddssonar (Analium in islandia farago. Islandica vol. X), það, sem hér fer á eftir í íslenzkri þýðingu: “Á árunum 1340 og tveimur eftirfylgjandi tók fjallið Hekla að brenna í sjötta sinn með hræðilegum dunum og dynkjum. Sömuleiðis fjallið Lómagnúpur. Jafnframt kastaði úr sér byrðinni annað fjall nokkurt, Trölladyngjur, allt til hafsins hjá héraði því við sjóinn, sem nefnt er Selvogur. Sömuleiðis var skaginn Reykjanes meira en hálfur eyddur eldi og sjást merki hans í opnu hafi, háir drangar þar úti, kallast Eldeyjar (eða eins og hinir gömlu segja Drifarsteinn. Sömuleiðis Geirfuglasker þar sem flestir steinar til þessa sjást vera útbrunnir. Á sama tíma brann einnig fjall á suðurhluta Íslands, Síðujökull og mörg önnur fjöll eyðandi heil héruð, einhverju sinni einnig í hafinu eldur brennandi auðsénn, og hin logandi fjöll steyptust frá meginlandinu fram í sjó. Slíkar breytingar á þeim tíma, sénar á Íslandi, höfðu í för með sér ósambærilegt tjón fyrir landið, og hefir það aldrei beðið þess bætur.” Ég tek hér alla þessa klausu til samanburðar við annað gosár, sem sagt verður frá hér á eftir og ranglega hefir verið talið eitt hið mesta gosár hér á landi.

Trölladyngja

Trölladyngja norðan Vatnajökuls.

Thoroddsen sá aldrei Annál Gísla Oddssonar, sem var geymdur í Englandi, en hafði fréttir af honum. Í Lýsing Íslands (II., bls. 125) heldur hann, að hér sé átt við gos í Brennisteinsfjöllum, því auðvitað hafi hraun frá Trölladyngju ekki getað runnið yfir tvo fjallgarða, niður í Selvog. Á öðrum stað (De Gesch. d. isl. Vulk., bls. 185) gizkar hann á, að Ögmundarhraun, vestan við Krýsuvík, hafi runnið þetta ár, en það hraun er hvorki runnið úr Trölladyngju né niður í Selvog.

Trölladyngja

Trölladyngja norðan Vatnajökuls.

Jónas Hallgrímsson fer aðra leið; hann heldur því fram, að frásögn annálsins sanni, að Trölladyngjur hafi verið samnefni fyrir mörg fjöll, líka fjöllin upp úr Selvogi, en færir engin rök fyrir þessu, og vitanlega nær þetta engri átt.
Frásögn Gísla Oddssonar er þannig, að mjög örðugt er að sanna við hvorar Trölladyngjurnar er átt, en þó virðist mér allt eins mikið styðja þá skoðun, að átt sé við Trölladyngjur í Ódáðahrauni. Orðalagið: „Kastaði úr sér byrðinni” gæti átt við ösku- eða vikurgos, og má þá skilja frásögnina þannig, að aska hafi borizt allt suður í Selvog. Ég veit ekki hvort nokkuð bendir til þess, að Trölladyngja á Reykjanesi hafi gosið vikri, en ef svo hefði verið, gat það varla verið í frásögur færandi, þótt vikurinn bærist í Selvog. Frásögnin er öll ruglingsleg og hlaupið úr einu í annað; gæti vel verið, að frásögnin hefði eitthvað brjálazt í meðferð, ef við t.d. setjum orðin: “Hraun rann” á undan setningunni: „allt til hafsins” þá hefir Selvogur sitt gos, óháð Trölladyngju og er það sízt meiri skáldskapur, heldur en tilgátur þeirra Jónasar og Thoroddsens.

Trölladynggja

Trölladyngja norðan Vatnajökuls – hraun.

Það vekur líka grunsemd um, að gos þetta hafi ekki verið á Reykjanesi, hve ókunnuglega er frá því sagt. Frá gosunum á Reykjanesskaganum er sagt af miklu meiri kunnugleik, og mætti því halda, að annálshöfundurinn hafi ekki verið eins ókunnugur á Reykjanesi og ætla mætti af frásögninni af Trölladyngjugosinu. Öll væru þessi rök þó veigalítil á báðar hliðar, ef ekki væri fleira við að styðjast, en nú vill svo vel til, að frá þessum gosum er skýrt á öðrum stað (Isl. ann.). Þar segir svo um árið 1341: „Eldur í Heklufjalli með svo miklu sandfoki um vorið, að dó fénaður, naut og sauðir, um Rangárvelli eyddust nálægt 5 hreppar, annar eldur í Hnappavallajökli, þriðji í Herðubreið yfir Fljótsdalshéraði og vóru allir jafnsnemma uppi. Eldsuppkoma með þeim fádæmum, að eyddust margar nálægar sveitir. Öskufall um Borgarfjörð og Skaga svo fénaður féll og hvarvetna þar á milli.”

Trölladyngja

Trölladyngja á Núpshlíðarhálsi.

Hér er sagt frá gosi í Herðubreið. Auðvitað hefir Herðubreið ekki gosið svona seint, en vel gat gosið borið svo við, eða verið í nágrenni Herðubreiðar og var þá eðlilegt að kenna það við þetta nafnkunna fjall. Heklugos hafa ekki öll verið í Heklu sjálfri og Kröflugosin 1725—30 voru ekki í Kröflu, heldur í nágrenni hennar. Sennilegt er, að þetta Herðubreiðargos hafi verið í Herðubreiðarfjöllum, en þau hafa vafalaust verið nefnd dyngjur og ef til vill Trölladyngjur ytri og getur þá vel staðizt, að gosið sé ýmist talið í Herðubreið eða Trölladyngjum. Svo er ekki heldur ósennilegt, að samtímis gosi í Herðubreiðarfjöllum, hafi gosið í Trölladyngjum, þ.e. Dyngjufjöllum. Árið 1875 gýs til dæmis bæði í Dyngjufjöllum og í Sveinagjá, sem er miklu norðar á öræfunum. Öll þrjú gosin, sem Isl. ann. segja frá 1341, hafa líklega verið ösku- eða vikurgos. Heklugosið gerði mestan usla um Rangárvelli, en langsennilegast er, að askan, sem féll um Borgarfjörð og Skaga og allt þar á milli, hafi komið frá Trölladyngjum í Ódáðahrauni. Að öllu þessu athuguðu, er það ákaflega sennilegt, að Trölladyngjur í Ódáðahrauni hafi gosið 1340 eða 1341, að minnsta kosti má fullyrða, að þessi ár hafi gosið einhversstaðar í nágrenni þeirra.

Trölladyngja

Trölladyngja og Grænadyngja á Núpshlíðarhálsi. Spákonuvatn og Sesseljupollur fyrir miðri mynd.

4. íslenzkir annálar skýra frá mikilli eldsuppkomu í Trölladyngjum á tímabilinu 1354—1360, en frásagnirnar um gos þetta eru mjög á reiki og ónákvæmar og hafa gefið tilefni til ýmiskonar ágizkana. Tel ég því rétt að rekja hér umsagnir heimildanna hverja fyrir sig. Skálholtsannáll 1354 segir svo: „Eldsuppkoma í Trölladyngjum og eyddust margir bæir í Mýdal af öskufallinu, en vikurinn rak vestur á Mýrar og sá eldinn af Snæfellsnesi.”
Gottskálksannáll 1357: „Eldsuppkoma í Trölladyngjum, leiddi þar af ógnir miklar og dunur stórar, öskufall svo mikið að nær alla bæi eyddi í Mýdalnum og víða þar nálægt gerði mikinn skaða. Vikurreki svo mikill austan til, að út frá Stað á Snæfellsnesi rak vikurinn og enn utar.” Flateyjarannáll 1360: „Eldsuppkoma í Trölladyngjum og eyddust margir bæir í Mýdal af öskufalli, en vikurinn rak allt vestur á Mýrar, en sá eldinn af Snæfellsnesi. Mannfall við Mývatn, hálfur 9 tugur manns í þremur kirkjusóknum.”

Björn Gunnlaugsson

Björn Gunnlaugsson – kort af Reykjanesskaga 1831.

Í Árbókum Espólíns 1354 stendur þetta: „Þá var eldur uppi í Trölladyngjum, eyðilögðust margir bæir í Mýdal af öskufalli og sá eldinn af Snjófellsnesi”, og ennfremur 1360: „Þá var eldur uppi í Trölladyngjum.”
Hannes Finnsson segir um árið 1357 í grein sinni: Mannfækkun af hallærum o.s.frv.: „Var eldsuppkoma í Trölladyngjum, eyddust margir bæir í Mýdal af öskufalli og sá eldinn af Snæfellsnesi,” og um árið 1360: „Mannfall mikið við Mývatn í harðrétti dóu þar um 170 manneskjur.”
Hér eru þá taldar þær heimildir, sem við höfum um þetta gos, og mun mörgum virðast, að örðugt sé að finna þann samnefnara, sem öll þessi brot gangi upp í. Jónas Hallgrímsson segir, að þar sem vikur hafi rekið á Mýrum og eldarnir sézt af Snæfellsnesi, sé það augljóst, að gos þetta hafi verið á Reykjanesi. Með Mýdalinn er hann í nokkurum vanda, en hyggur þó, að það sé misritun fyrir Mýrdal, en þar sem sá dalur hafi oft orðið fyrir þungum búsifjum af völdum eldgosa, hafi annálsritarinn, vegna landfræðilegrar fákænsku, sett þetta gos í samband við hann (Rit J. H., IV., bls. 165—166). Thoroddsen segir, að hér sé að líkindum átt við Trölladyngju á Reykjanesi, en ef til vill hafi samtímis verið eldur uppi í Austurjöklum. Báðir telja þeir, Jónas og Thoroddsen, að eldgosið hafi orðið árið 1360.

Jónas Hallgrímsson

Jónas Hallgrímsson.

Ég vil strax taka það fram, að mér virðast öll rök hníga í þá átt, að gos þetta hafi verið í Trölladyngjum í Ódáðahrauni. Þegar skýrt er frá eins miklu gosi, eins og ætla má, að þetta hafi verið, gat það ekki verið neitt tiltökumál, þótt eldar sæjust á Snæfellsnesi og vikur ræki á Mýrum, ef gosið var á Reykjanesi. Hins vegar var það í frásögur færandi, ef gosið var inn í Ódáðahrauni. Þetta er einmitt tekið fram til þess að gefa frásögninni kraft og sýna, hve stórfenglegt gosið var. Það eru nokkur dæmi til þess, að vikurhrannir hafa rekið óraleiðir með ströndum landsins og leiftur frá sumum eldgosum sést um land allt.
Auðsjáanlega styðjast flestar þessar frásagnir við sameiginlega heimild, en þess vegna er einkennilegt, hve tímasetningin er ósamhljóða. Þó gæti þetta verið gostímabil og eldarnir verið uppi öðru hvoru allt tímabilið, en einhverntíma á þessu tímabili hefir komið mikið vikurgos, sem svo er mismunandi árfært af höfundum annálanna. Nafnið Mýdalur er vafalaust sótt í sameiginlega heimild. Hugsanlegt er, að það sé misritun fyrir Mýrdal og vel gat gosmökk frá Dyngjufjöllum lagt þannig, að mest tjón yrði í Mýrdal, en sennilegasta skýringin er, að með Mýdal sé átt við byggðina kringum Mývatn, en vegna ókunnugleika hefir annálsritarinn haldið, að vatnið lægi í dal og gefið dalnum nafn. Þá er líka fengin góð skýring á mannfalli því við Mývatn, sem Flateyjarannáll skýrir frá, en Hannes Finnsson telur þar hálfu meira. Aðeins með þessari skýringu er hægt að láta frásagnirnar allar falla í ljúfa löð.
5. Þá er komið að árinu 1390, sem talið hefir verið mjög mikið gosár, en um öll þau gos, að Heklugosinu undanskildu, er Espólín einn til frásagnar (Árb. Esp.). Frásögn Espólíns hljóðar svo: „Logaði Hekla með miklum undrum og Lómagnúpur og Trölladyngja, allt suður í sjó og vestur að Selvogi og allt Reykjanes, brann þar hálft og stendur þar eftir í sjó fram Dýptarsker og Fuglasker og er það allt eldbrunnið grjót síðan, einnig logaði Síðujökull og mörg önnur fjöll og sveitir heilar eyddust af eldgangi.” Espólín segir ennfremur, að eldurinn hafi haldizt í Heklu og fleiri jöklum hinn sami árið eftir.

Trölladyngja

Trölladyngja norðan Vatnajökuls – gígurinn.

Engum getur dulizt, að hér er á ferðinni frásögn Gísla Oddssonar af eldgosunum 1340. Isl. ann. nefna aðeins Heklugos þetta ár (1390), en engin önnur. Það er því augljóst, að frásögn þessi er komin á rangan stað hjá Espólín og er vafalaust mislestri á ártölum um að kenna. Við getum því með góðri samvizku strikað út eitt mesta gosárið í sögu landsins. Mér hefir verið þetta ljóst alllengi og sé, að Matthías Þórðarson þjóðskjalavörður hefir komizt að sömu niðurstöðu. (Athugas. við Rit J. H. IV., bls. 314—315). Nauðsynlegt er að benda sem rækilegast á þessa villu, sem gengur í gegnum flest eða öll meginrit okkar um jarðelda, og er meðal annars tekin athugasemdalaust upp í Sögu Íslendinga í Vesturheimi, sem er nýútkomin.

Trölladyngja

Trölladyngja norðan Vatnajökuls.

6. Árið 1510 segir Biskupsannáll, að eldur hafi verið uppi bæði í Trölladyngjum og Herðubreið (Safn. t, s. Isl. I., bls, 44), Engin ástæða er til að rengja þetta, þótt aðrar heimildir geti þess eigi. Af því má ráða, að gos þessi hafi verið fjarri mannabyggðum og ekki valdið tjóni. Samtímis er mikið Heklugos, sem vitanlega dró að sér mesta athygli. Þá eru Trölladyngjugosin talin og er hér litlu við að bæta.
Þó má geta þess, að þeir Eggert og Bjarni telja, í ferðabók sinni, Trölladyngjur og Herðubreið í Ódáðahrauni, mikil eldfjöll: „Der har sprudet en forfærdelig Ild i gamle Dage.” Þetta hefðu þeir tæplega gert, ef ekki hefðu farið sögur af gosum þessara fjalla.

Eggert og Bjarni

Eggert og Bjarni – kort um 1770.

Við megum ekki gleyma því, að þeir Eggert og Bjarni eru um 200 árum nær hinum sögulegu frásögnum um þessi gos heldur en við og gátu því betur dæmt um þetta. Það væri líka dálítið kynlegt, ef Trölladyngjur á Reykjanesi hefðu gosið hvað eftir annað, á tímabilinu 1150—1510, en svo hætt með öllu, en Dyngjufjöll, sem nú gjósa með litlu millibili og öll bera augljós merki eldsumbrota frá fyrri tímum, hefðu aldrei bært á sér allan þennan tíma svo í frásögur þætti færandi.

Trölladyngja

Trölladyngja og Sogaselsgígur nær.

Þótt Þorv. Thoroddsen hallist á þá sveif, að Trölladyngjugosin hafi verið á Reykjanesi, þá gerir hann það auðsjáanlega hikandi og ég hygg, hann hefði litið öðruvísi á það mál, ef honum hefði verið ljóst, að Trölladyngjur í Ódáðahrauni voru sama og Dyngjufjöll. Ég tel þetta mikilsvert atriði og hefi álitið rétt að benda rækilega á það, þótt ég telji ekki æskilegt, að nöfnum verði breytt á ný í hið upprunalega horf á þessum slóðum.
Sumum kann að virðast, að ekki skipti miklu máli í hvorri Trölladyngjunni gos þessi hafi verið, en þetta skiptir einmitt miklu máli. Það hefir nokkura almenna sögulega þýðingu og getur haft verulega þýðingu fyrir jarðfræði landsins, og auk þess er ætíð skylt að leita hins rétta og hafa það er réttara reynist.”

Heimild:
-Náttúrufræðingurinn, 1.-2. tbl. 01.04.1941, Trölladyngjur – Ólafur Jónsson, bls. 76-88.

Eldborg

Eldborg undir Trölladyngju í dag.

Reykjanes - göngukort

Árið 2005 gáfu Landmælingar Íslands út nýtt sérkort yfir Suðvesturland.
Í framhaldi af því skrifaði
Sesselja GudmundsdottirSesselja Guðmundsdóttir gagnrýni um kortaútgáfuna í Morgunblaðið. Gagnrýni Sesselju er upp tekin hér sem dæmi um mikilvægt viðmót þeirra er til þekkja þann fróðleik er um er höndlað, en fá jafnan ekki eðlilega aðkomu að undirbúningi slíkrar mikilvægrar vinnu.
Nýlega kom út sérkort af Suðvesturlandi frá Landmælingum Íslands í mælikvarðanum 1:75 000. Í kápukynningu segir m.a.: „Á kortinu er fjöldi örnefna, upplýsingar um vegi og vegalengdir, göngu- og reiðleiðir auk helstu upplýsinga sem útivistarfólk þarf á að halda.“ Hér koma nokkrar athugasemdir sem snerta Reykjanesskagann: Þorpið Hafnir í Reykjanesbæ var byggt út úr höfuðbólunum Kirkjuvogi og Kotvogi en þau örnefni sjást ekki. Í Höfnum stendur Kirkjuvogskirkja sem á sér merka og langa sögu en hún er ekki sett inn, aðeins kirkjugarðstáknið (þrír krossar). Þarna mætti ætla að kirkja væri aflögð sem er rangt.
sulur-101Suður undir Reykjanesi er örnefnið Tjaldstaðagjá sem vísar til bæjarnafns (-staðir) en á kortinu stendur Tjaldstæðagjá. Til eru skrif um byggð úti á Reykjanesi og örnefnið Tjaldstaðagjá styður þær sagnir, nafnið er rétt á eldri kortum. Súlnagjá er sett suðaustan við fjallið Súlur austan Hafna en gjáin er vestan (neðan) við fjallið og hefur verið rétt staðsett á eldri kortum. Gamli-Kirkjuvogur (nefndur Vogur í Landnámu, seinna kirkjustaður) stóð handan við Ósana norðan Hafna en var fluttur til Hafna líklega vegna landbrots og landeyðingar á 16. öld. Á kortinu er Gamla-Kirkjuvogs ekki getið en hann er á eldri kortum. Á Grímshól á Vogastapa er hringsjá en hún er ekki sýnd (var á korti frá 1989).Þorpið Vogar var byggt út úr höfuðbýlinu Stóru-Vogum en það nafn er ekki inni nú, aðeins Minni-Vogar. Örnefnin Stapaþúfa, Gjásel og Brunnastaðasel í Strandarheiði eru sett niður á röngum stöðum.

Brunnastadasel-101

Stapaþúfa er suðvestan við Gjásel og Gjásel norðan Brunnastaðasels. Enn og aftur er bæjarnafnið Auðnar á Vatnsleysuströnd rangt skráð á kort, sagt Auðnir, en í Jarðabókinni 1703 og í öðrum gömlum heimildum er alltaf sagt Auðnar. Höskuldarvallastígur er settur á núverandi göngustíg sem liggur frá Oddafelli að Keili en örnefnið á aðeins við gömlu götuna sem liggur yfir hraunið næst Oddafelli en sú lá yfir í selin austan við. Sandakravegur (gömul lestaleið að austan til Suðurnesja) hefur alla tíð verið rangt staðsettur á kortum og er enn. Yngstu reiðgötuna um Herdísarvíkurhraun vantar á kortið en sú elsta (?) er sýnd þó óljós sé. Yngsta reiðgatan er djúp og vörðuð og fær bæði hestum og fólki og ætti frekar heima á kortinu en sú eldri. Sláttudalur austan Geitahlíðar (fjall, 384 m) í Krýsuvíkurlandi er á röngum stað nú en var réttur á korti 1989.
Örnefnið Meltunnuklif-101Geitahlíð hefur aldrei fyrr teygt sig austur með hlíðinni frá fjallinu Geitahlíð. Samkvæmt örnefnaskrám heitir fjallið sjálft (hnjúkurinn) Geitahlíð og efst á því tróna Æsubúðir. Örnefnið Drumsdalavegur er sett á vellina sunnan við Vigdísarvallaeyðibýlið en á heima á fjallveginum yfir Sveifluhálsinn sunnarlega en þar er kletturinn Drumbur. Reykjavegur (stikuð gönguleið) er rangur að hluta á kortinu, villa sem hver apar eftir öðrum. Hann liggur EKKI um Méltunnuklif og svo austan við Höfða heldur niður Brattháls norðan klifsins og svo vestan Höfðans og gengur um skarðið milli hans og Sandfells. Þeir sem stofnuðu til Reykjavegarins ættu að koma upplýsingum um legu hans í rétt horf sem fyrst. Fyrrnefnd villa er ekki sú eina á þessari leið.

Raudholssel-101

Rauðhólssel – uppdráttur ÓSÁ.

Í kynningu kortsins er sagt að það hafi að geyma „helstu upplýsingar sem útivistarfólk þarf á að halda.“ Því miður er ekki svo. Á svæðinu eru margar rústir sem útivistarfólk hefur ánægju af að skoða en eru ekki settar inn, ekki einu sinni merktar með rústakrossi (x). Hér má nefna selrústir í Hafnaheiði, Merkinessel og Möngusel; selrústir við Seltjörn við Grindavíkurveg; Nýjasel við Skógfellaveg; Hvassahraunssel og Lónakotssel; selrústirnar við og í Núphlíðarhálsinum, þ.e. Rauðhólssel, Oddafellssel og Sogasel svo ekki sé talað um selrústirnar á Selsvöllum.

Flestar fyrrnefndar rústir liggja við merktar gönguleiðir á kortinu. Gvendarhellir í Krýsuvíkurhrauni er merkilegur vegna mannvistarleifa og sagna en hann er ekki á kortinu en er á eldri kortum. Elsta (?) þjóðleiðin með Suðurströndinni er sýnd um Herdísarvíkurhraun eins og fyrr segir en nálægt henni eru selrústir sem og gömul fjárrétt á Seljabótarnefi sem er við það að hverfa í hafið. Þessar rústir eru ekki settar inn.

Suðvesturland

Suðvesturland – kort.

Sumar gönguleiðirnar á kortinu enda að því er virðist í öngstræti og ekkert sem segir að við lok þeirra sé eitthvað áhugavert, t.d. er einn slíkur leggur í Geldingahrauni austan Afstapahrauns og annar ofan Draugahlíða í átt að Brennisteinsfjöllum. Sú leið hefði átt að liggja alla leið að námunum en þar eru merkar mannvistarleifar í og við hverasvæði. Flest þarf gagnrýni við. Ef enginn gagnrýnir birtast sömu villurnar aftur og aftur eins og illgresi í túni.
Landakortaútgáfa virðist varðveita villur af kerfislegri íhaldssemi og heimur versnandi fer þrátt fyrir sérfræðinga út og suður. Atlaskortin eru vönduð sem og kort frá 1989 og mættu kortagerðarmenn hafa þau meira til hliðsjónar við gerð nýrri korta. Sögufalsanir eru nógu slæmar þó ekki séu þær skjalfestar um aldur og ævi.”
Framangreint kort er langt í frá að vera gallalaust líkt og gerist með slík kort nú til dags. Sennilega kemst ekki skikk á ágreiningis- og deilumál um örnefni og minjar á Reykjanesskaganum fyrr en væntanleg “Reykjanesskinna” kemur út seint á öðru áratug þessarar aldar.
Til upplýsinga og fróðleiks um framangreint Rauðhólssel, svo dæmi sé tekið, má t.d. geta heimildar í Jarðabók ÁM og PV 1703: Stóra-Vatnsleysa; “Selstöðu á jörðin þar sem heitir Rauðhólssel, eru þar hagar viðsæmandi, en stórt mein á vatnsskorti”.

Heimild:
-Morgunblaðið 16. júlí 2005, bls. 30.
-Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns, 3. b. 1923. S. 152.

Gvendarborg

Gvendarborg.