Tag Archive for: Reykjanesskagi

Reykjanesskagi

Landnám Ingólfs Arnarssonar ofanvert er sagt hafa verið við línu dreginni frá Ölfusárósum í Hvalfjarðarbotn. Allt landið neðanvert eignaði landnámsmaðurinn sjálfum sér, þ.e. Reykjanesskagann allan.

Reykjanesskagi

Reykjanesskagi – örnefni.

“Um takmörk hans [Suðurkjálkans] eru “þeir lærður” ekki sammála. Sumir telja hann byrja, sunnan megin, við Hafnarskeið (Þorlákshafnarvíkina), en að norðan við Kollafjörð (Grafarvog) og við línu sem dregin er á milli þessara tveggja staða. Aðrir láta sér nægja að telja hann frá línu milli Selvogs að sunnan og Hafnarfjarðar að norðan, en hvorug þessara takmarka eru eðlileg og skýr”.
Misvísunin stafar af mismunandi eignaryfiráðum eftir að landnáminu lauk. Ættmenn, vandafólk og vinir Ingófs fengu að gjöf (eða kaups) einstaka hluta þess.
Um landnámið má t.d. lesa HÉR, HÉR, HÉR og HÉR.

Reykjanes

Reykjanes – kort 1952.

Fjölmiðlafólk skilgreinir jafnan Reykjanesskagann sem „Reykjanes„. Þrengri skilgreining á Reykjanesskaganum er til þar sem segir að Reykjanes sé skaginn vestan við línu á milli Stóru-Sandvíkur í norðri og Sandvíkur í suðri. Þá er Grindavík í seinni tíð skilgreint sem hluti Suðurnesja, sem er fjarri lagi skv. eldri skilgreiningum.

Landnám

Landnám Ingólfs – skipting.

Draugahlíðagígur

Á Haustráðstefnu Jarðfræðafélags Íslands árið 2010 til heiðurs Sigurði Steinþórssyni, prófessor í jarðfræði við Háskóla Íslands, á 70. afmælisári hans, fjölluðu Magnús Á. Sigurgeirsson og Kristján Sæmundsson hjá Íslenskum orkurannsóknum um „Eldgos á Reykjanesskaga á 8. og 9. öld„. Hér er ágrip af erindi þeirra:

Hraunakort

Útbreiðsla hrauna frá 8. og 9. öld á Reykjanesskaga. Einnig eru sýnd hraun frá sögulegum
tíma (heimild: Kristján Sæmundsson o. fl. 2010).

„Kortlagning og aldursgreiningar á hraunum á Reykjanesskaga hefur leitt í ljós að eldvirknin síðustu 10.000 árin einkennist af gosskeiðum sem vara í 400-600 ár. Á milli gosskeiðanna eru um 600-800 ára goshlé. Á hverju gosskeiði verða flest eða jafnvel öll eldstöðvakerfin á skaganum virk. Gossaga síðustu tveggja gosskeiða er allvel þekkt og myndin af því þriðja síðasta óðum að skýrast. Um eldri gosskeið liggja fyrir takmarkaðar upplýsingar enn sem komið er, þó bætist smám saman við ný vitneskja. Tímasetning hrauna á Reykjanesskaga byggir annars vegar á C-14 aldursgreiningum á gróðurleifum undan hraunum og hins vegar á gjóskulagatímatali.

Hraun - aldur

Jarðvegssnið í Móhálsadal, við Hrútagjá og í Brennisteinsfjöllum.

Gjóskutímatalið byggir á Heklu- og Kötlulögum ásamt gjóskulögum sem eiga upptök í sjó við Reykjanes. Landnámslagið (LNL), frá því um 870 e.Kr. (Karl Grönvold o.fl. 1995), finnst um allan skagann og er eitt mikilvægasta leiðarlagið. Á seinni hluta nútíma, síðustu 4500 árin, er stutt á milli gjóskulaga í jarðvegssniðum og tímatalið því notadrjúgt en neðar verður það hins vegar mun gisnara, sem takmarkar notagildi þess (Magnús Á. Sigurgeirsson og Árný Erla Sveinbjörnsdóttir 2000).

Brennisteinsfjöll

Brennisteinsfjöll – hraun.

Frá síðasta gosskeiði eru þekktir þrennir eldar, þeir fyrstu á 10. öld og hinir síðari á 12. og 13. öld. Hraun frá fyrstu eldunum eru í Brennisteinsfjallakerfinu, s.s. Tvíbollahraun, Breiðdalshraun, Húsfellsbruni, Selvogshraun og Kristnitökuhraunið. Þrjú fyrstnefndu hraunin hafa verið aldursgreind (Jón Jónsson 1983). Mögulegt verður að teljast að einhver þessara hrauna hafi brunnið á 11. öld. Öll liggja þessi hraun ofan á Landnámslaginu og undir Miðaldalaginu (ML) frá 1226.

Brennisteinsfjöll

Gígaröð í Brennisteinsfjöllum.

Við kortlagningu hrauna í Brennisteinsfjöllum og í Krýsuvíkurkerfinu síðustu tvö sumur kom í ljós að þar er að finna hraun sem liggja fast undir Landnámslaginu. Lítill sem enginn jarðvegur er sjáanlegur þar á milli. Næsta þekkjanlega gjóskulag undir þessum hraunum, eða gjalli frá upptakagígum þeirra, er Heklulag sem er 1400-1500 ára gamalt (kallað „Gráa lagið“ vegna sérstaks litar). Yfirleitt er nokkur jarðvegur á milli „Gráa lagsins“ og hraunanna. Út frá afstöðu hraunanna til gjóskulaga teljum við að þau séu frá 8.-9. öld. Ljóst er að hraunin tilheyra síðasta gosskeiði en ekki því næsta á undan sem varð fyrir um tvö þúsund árum. Síðasta gosskeið lengist því um allt að 200 ár og spannar tímabilið frá um 750-1240 e.Kr., eða um 500 ár.

Brennisteinsfjöll

Kistufellsgígur í Brennisteinsfjöllum.

Hraunin sem um ræðir er annars vegar að finna í Brennisteinsfjallakerfinu og hins vegar í Krýsuvíkurkerfinu. Í Brennisteinsfjöllum eru það Hvammahraun og Vörðufellsborgahraun. Upptök þess fyrrnefnda eru í gígaröð efst í Brennisteinsfjöllum. Stærsti gígurinn heitir Eldborg. Síðarnefnda hraunið kemur frá gígaröð nokkru sunnar, vestan undir Vörðufelli, sem nefnd er Vörðufellsborgir. Skammur tími hefur liðið á milli gosanna. Hraunin eru ungleg og hafa stundum verið talin meðal sögulegra hrauna. Jón Jónsson (1978, 1983) taldi þau ekki með í þeim hópi en þó vera mjög ung. Hraunin þekja til samans ríflega 40 km2 og runnu ofan úr fjöllunum á nokkrum stöðum, s.s. um Hvamma í átt að Kleifarvatni og fram af Herdísarvíkurfjalli um Lyngskjöld og nokkur fjallaskörð þar fyrir austan.

Móhálsadalur

Hraun við Móhálsadal.

Í Krýsuvíkurkerfinu er hraun frá líkum tíma í Móhálsadal. Upptök þess eru á um sjö kílómetra langri gígaröð, talsvert slitróttri. Á nýlegu jarðfræðikorti af Reykjanesskaga er hraunið nefnt Hrútafellshraun (hrf) (Kristján Sæmundsson o. fl. 2010). Stærstu gígarnir eru Lækjarvallagígar austan við Djúpavatn. Lítill hraunfláki sem aðgreinist frá meginhrauninu er á risspildu Hrútagjárdyngju. Ofan á henni, skammt norðvestur af gíg dyngjunnar, hefur opnast tveggja kílómetra löng gossprunga sem gefið hefur frá sér hraun sem er um 0,66 km2 að flatarmáli. Meginhraunið er hins vegar um 6,8 km2 að lágmarki en syðsti hluti þess er hulinn af Ögmundarhrauni, sem er frá 12. öld (Sigmundur Einarsson o.fl. 1991).

Brennisteinsfjöll

Vörðufellsborgir í Brennisteinsfjöllum.

Út frá afstöðu hraunanna til gjóskulaga verður ekki annað séð en að þau séu öll mynduð á mjög svipuðum tíma. Ekki er þó víst að eldar hafi verið uppi í báðum eldstöðvakerfunum samtímis, en skammt hefur liðið á milli þeirra. Úr þessu mætti mögulega fá skorið með aldursgreiningum á koluðum gróðurleifum og mó undan hraunum og gjalli. Slík sýni hafa nýverið náðst frá tveimur stöðum. Annar staðurinn er norðan við rissvæði Hrútagjárdyngju og hinn í Sogum. Sýnin hafa verið send til greiningar.
Á báðum svæðunum, þ.e. í Móhálsadal og í Brennisteinsfjöllum, hafa hlaðist upp stórir gjall- og klepragígar sem bendir til að gosin hafa verið kröftug og staðið nokkuð lengi.

Brennisteinsfjöll

Bláfeldur (Draugahlíðagígur) í Brennisteinsfjöllum. Hraun úr honum rann niður í Herdísarvík.

Hraunin í Brennisteinsfjöllum ná yfir stórt svæði. Gosvirknin þar hefur smám saman færst í einn megingíg sem gefið hefur frá sér mikið af hrauninu. Hvammahraun er að mestu úfið og illfært apalhraun en umhverfis gígasvæðið er helluhraun. Talsverð hraunbunga með dyngjulögun er við aðalgíginn. Bergfræðirannsókn hefur ekki farið fram á hraununum, en samkvæmt athugunum Jóns Jónssonar (1978) er Hvammahraun fremur ólivínríkt.

Draugahlíðagígur

Draugahlíðagígur í Brennisteinsfjöllum.

Eldarnir á 8.-9. öld bæta nokkru við þá mynd sem við höfum af eldvirkni á Reykjanesskaga. Til dæmis er nú ljóst að á sama gosskeiðinu hefur gosið tvisvar í sama eldstöðvakerfi. Einnig bendir nú flest til að gosskeiðin séu nokkru lengri en talið hefur verið, en vísbendingar um það hafa einnig komið fram varðandi gosskeiðið fyrir um 2000 árum.“

Heimild:
-Haustráðstefna Jarðfræðafélags Íslands árið 2010 til heiðurs Sigurði Steinþórssyni, prófessor í jarðfræði við Háskóla
Íslands, á 70. afmælisári hans. Ágrip erinda Magnús Á. Sigurgeirssoog Kristján Sæmundsson hjá Íslenskum orkurannsóknum um „Eldgos á Reykjanesskaga á 8. og 9. öld.

Móhálsadalur

Gígar við Lækjarvelli.

Reykjanesskagi

Eftirfarandi upplýsingar um Reykjanesskagann birtust í upplýsingariti Ferðamálasamtaka Íslands 2005: Suðurnes / Reykjanesskagi – MANNLÍF, NÁTTÚRA OG SAGA / SOCIETY, NATURE AND HISTORY.

Inngangur
„Þegar tímar jafnréttis eru runnir upp þá er ekki úr vegi að minna á að fyrsti femínistinn á Íslandi var frá Suðurnesjum. Það var landnámskonan Steinunn gamla sem vildi eiga sig sjálf og þáði því ekki að gjöf landið frá Hvassahrauni til Sandgerðis af frænda sínum Ingólfi Arnarsyni heldur greiddi fyrir með heklu flekkóttri.
Annar landnámsmaður á Suðurnesjum var Herjólfur Bárðarson fóstbróðir Ingólfs en hann fékk frá honum land frá Ósabotnum suður á Reykjanestá. Talið er að rústir sem fundust við kirkjuna í Höfnum árið 2003 séu hús Herjólfs sem hann reisti á 9. öld. Herjólfur var afi Bjarna Herjólfssonar þess sem fyrstur Evrópumanna barði Ameríku augum. Frá fornu fari hafa sjósókn og fiskverkun verið höfuðatvinnuvegir Suðurnesjamanna og byggðin og mannlífið mótast af sjónum kynslóð fram af kynslóð. Náttúran á Reykjanesinu býður upp á gróðurvinjar, fagrar strendur, náttúruperlur og hrífandi umhverfi. Við tökum vel á móti ferðamönnum og bjóðum öllum að kynnast sögu okkar, menningu og náttúru. Matsölustaðir og veitingahús bjóða bæði innlenda og erlenda rétti úr íslensku úrvals hráefni og gistihúsin eru af þeim gæðaflokki sem hver vill hafa. Vertu velkomin.“
Undir framangreint ritar Kristján Pálsson, formaður Ferðamálasamtaka Suðurnesja.

Náttúran og gönguleiðir
Náttúran er einstök. Nakin eldhraun í bland við gróðurvinjar, fuglabjörg, sandfjörur og ólgandi brim eru ferðamönnum áskorun um útivist. Hverasvæðin eru meðal öflugustu jarðhitasvæða landsins. Eldvörpin eru um tíu km löng gígaröð með jarðhita. Suður af Hafnarbergi eru skil Ameríku og Evrópu þar sem jarðflekarnir mætast. Fuglalíf er fjölbreytt. Stærstu fuglabyggðirnar eru í Hafnarbergi, Krýsuvíkurbergi og Eldey. Við Vogastapa og Hólmsberg eru brattar og brimasamar fjörur en sandfjörur eru m.a. í Sandvíkum og við Garðskagavita. Tilvalið er að bregða sér í göngutúr. Frá Keili er útsýni stórfenglegt, forn gönguleið liggur frá Vogum yfir Stapann til Njarðvíkur og önnur til Grindavíkur. Vinsælar gönguleiðir til fuglaskoðunar eru frá Garðskaga suður í Sandgerði, um Stafnes til Hafna. Og á Berginu í Keflavík hefur verið gerð skemmtileg gönguleið meðfram sjónum.

Kirkjurnar, söfnin og fornminjar
Saga kynslóðanna er heillandi. Tilvalið er að skoða fornminjar, söfn og gamlar kirkjur sem ilma af fortíðinni. Á Hafurbjarnarstöðum fannst konukumbl. Á Stóra-Hólmi var ein elsta verstöð landsins og Skagagarður er forn garðhleðsla. Stafnes var fjölmennur útgerðarstaður og að Básendum var rekin einokunarverslun til 1799.

Á skeri utan friðlýstra bæjarrústanna eru festarboltar sem kaupskipin voru bundin við. Í Þórshöfn var verslunarstaður Þjóðverja. Á Selatöngum eru forn fiskbyrgi. Á Reykjanesi eru fimm kirkjur frá 19. öld sem geyma gamla muni og sögu. Ógleymanlegt er að skoða Hvalsneskirkju þar sem séra Hallgrímur Pétursson þjónaði. Síðan er upplagt að koma við á einhverju safnanna. Í Garði er byggðasafn. Duushús er í Reykjanesbæ. Saltfisksetur er í Grindavík en Fræðasetrið í Sandgerði tengir saman umhverfi, náttúru og sögu. Þá eru í flestum bæjarfélögum lista- og handverksstaðir sem fróðlegt er að heimsækja.

Virkjun orku
Á Reykjanesi eru mikil jarðhitasvæði og er Reykjanesvirkjun sem nú er í byggingu til vitnis um hve Íslendingar standa framarlega í virkjun jarðvarma. Hitaveita Suðurnesja virkjar heitan jarðsjó í Svartsengi til húshitunar fyrir allt Reykjanes auk þess sem hún virkjar gufu á öðrum stö›um á nesinu og framleiðir rafmagn í gufuhverflum. Í Eldborg, sem staðsett er við virkjunina í Svartsengi, er Gjáin sem er upplýsingamiðstöð um jarðfræði Íslands. Þar er jarðfræði Íslands, framleiðsluferli rafmagns og hitaveituvatns kynnt á lifandi og skemmtilegan máta.

Jarðhitasvæði
Heilsulindin er vel þekkt víðs vegar um heiminn og hefur meðal annars fengið verðlaun fyrir að vera besta náttúrulega heilsulind heims, einn af tíu ótrúlegustu baðstöðum heims og ein af 25 bestu heilsulindum í heimi. Það er einstök upplifun að slaka á í hlýju lóninu (37 – 39°C) á meðan virku efni BLUE LAGOON jarðsjávarins, steinefni, kísill og þörungar, leika um húðina. Eimböð, sauna og foss sem tilvalið er að bregða sér undir er meðal þess sem bíður gesta heilsulindar. Úrval spa- og nuddmeðferða er í boði. Að lokinni slökun og endurnæringu er tilvalið að njóta veitinga í einstöku umhverfi.

Útivist
Möguleikar til útivistar og afþreyingar eru ótalmargir. Hafið út af Reykjanesi er eitt besta svæðið hér við land til hvalaskoðunar. Skip fer daglega á sumrin og haustin í hvalaskoðunarferðir út á dimmbláan sjóinn og leitar uppi hvali. Hvað er stórfenglegra en að sjá þessi tignarlegu dýr koma upp til að anda. Einnig er hægt að fara í sjóstangaveiði og skemmtisiglingu. Þetta eru öllum ógleymanlegar ævintýraferðir. Fjórir góðir golfvellir eru á Reykjanesi en þeir sem gefnir eru fyrir hraða og spennu heimsækja Go-Kart brautina í Njarðvík þar sem brunað er á litlum bílum á öruggri braut. Hægt er að skipuleggja keppni fyrir hópa. Tilvalið að reyna hæfileikana til kappaksturs við öruggar aðstæður.

Byggðirnar og mannlífið

Fyrrum var blómleg byggð á Vatnsleysuströnd, bændabýli og útræði. Töluverð byggð var á Leirunni en nú er þar einn besti golfvöllur landsins. Hafnir anga af sögu liðins tíma og Stekkjarkot, gömul endurbyggð þurrabúð, er minnisvarði um gamla búskaparhætti. Í sveitarfélögunum fimm: Grindavík, Vogum, Reykjanesbæ, Garði og Sandgerði byggist afkoman sem fyrr á sjávarútvegi en í Reykjanesbæ skiptir þjónusta og upplýsingatækni líka miklu máli.
Mannlífið er fjölbreytt og blómlegt. Á Suðurnesjum er fjöldi kaffihúsa og veitingastaða og glæsileg hótel. Sjóarinn síkáti í Grindavík er vinsæl sjómanna- og fjölskylduhátíð á sjómannadaginn. Sandgerðisdagar eru í ágúst og með Ljósanóttinni í Reykjanesbæ í september kveðja Suðurnesjamenn sumarið.

Íslendingur – Víkingaskipið – víkingasetur

Norrænir menn námu Ísland á ofanverðri 9. öld. Hingað komu þeir á knörrum og hraðskreiðum víkingaskipum. Árið 1996 smíðaði Gunnar Marel Eggertsson víkingaskipið Íslending sem er nákvæm eftirlíking Gaukstaðaskipsins sem var smíðað í Noregi um 870 og fannst árið 1882. Íslendingur er 23m á lengd, 5,25m á breidd og mælist 80 brúttótonn. Hann er miðlungsstórt víkingaskip og á slíkum skipum voru 70 manns í áhöfn. Gunnar sigldi Íslendingi til Ameríku og heim aftur árið 2000 til að minnast 1000 ára afmælis siglinga og landafunda Íslendinga í Ameríku. Reyknesingar vilja halda afrekum forfeðranna á lofti. Eftir heimkomuna keypti Reykjanesbær skipið. Nú er verið að vinna að því að koma því fyrir til frambúðar á glæsilegu víkingasetri.“

Framangreint lýsir vilja til að vekja athygli á því stóra er fólk gæti haft áhuga á þegar það vill sækja Reykjanesskagann heim, en allt hið smáa og merkilegra er látið ferðalöngunum eftir að finna að eigin frumkvæði – því sjaldnast er leiðbeinandi merkingum fyrir að fara.

Heimild:
-http://www.icetourist.is/upload/files/sudurnes.pdf21

Skoðað

Húshellir

Ólafur Briem skrifaði eftirfarandi um „Útilegumannaslóðir á Reykjanesskaga“ í Andvara árið 1959: „Fyrsti útilegumaður, sem vitað er um í Reykjanesfjallgarði, er Eyvindur Jónsson, sem kalla mætti hinn eldra til aðgreiningar frá Fjalla-Eyvindi. Hans er getið í alþingisbókinni 1678 og mörgum annálum. utilmhellir-2
Frásögn alþingisbókarinnar er á þessa leið: „Í sama stað og ár og dag (29. júní) auglýsti valdsmaðurinn Jón Vigfússon eldri þann héraðsdóm, sem hann hafði ganga látið í Bakkakoti í Ölvesi í Árnessýslu það ár 1677 2. novembris undir 12 manna útnefnd ákærandi þær stórbrotamanneskjur Eyvind Jónsson og Margrétu Símonardóttur, sem úr þeirri sýslu burthlaupið höfðu vel fyrir tveimur árum og í opinberum hórdómi brotleg orðið sín á millum með bameign, hann eigingiftur, en hún í einföldum hórdómi áður fundin. Höfðu téðar persónur á þessum tveggja ára tíma saman haldið sig fyrir ektahjón, sem héraðsdómurinn á vísar, urðu svo höndlaðar í einum hellir suður undir Erfiseyjarseli (svo) í Kjalarnesþingi og teknar þann 20. oktobris með fóla af nautakjöti og öðrum hlutum. Voru þá ofanskrifuðum Eyvindi og Margrétu dæmdar þrjár refsingar hvoru um sig á nefndum Bakkárholtsþingstað fyrir þeirra hórdómsbrot og burthlaup úr héraðinu sem og heilagrar aflausnar og sakramentis fortökun, hverjar þrjár refsingar valdsmaðurinn Jón Vigfússon rigtuglega bevísaði á þær lagðar vera. Einnig auglýsti velaktaður Oluf Jónsson Klou, að fyrrnefndar persónur, Eyvindur og Margrét, hefðu úttekið líkamlega refsing í Kópavogi 3. decembris 1677 fyrir útileguna og þar að hnígandi þjófnaðar atburði, svo sem dómur þar um auglýstur útvísar, og svo hefði kona Eyvindar Ingiríður hann til hjónabands aftur tekið.

utilmhellir-3

Að því gerðu voru þessar manneskjur afleystar af æruverðugum biskupinum mag. Þórði Þorlákssyni undir þeirra sakramentis meðtekning í dómkirkjunni að Skálholti. Nú er síðan svo til fallið upp á ný, að þessar vandræða persónur tóku sig aftur til útilegusamvista og fundust báðar í einni rekkju og einu hreysi undir bjargskúta í Ölvesvatnslandeign af Þorsteini Jónssyni og öðrum átta mönnum. Voru svo teknar og síðan í fangelsi forvaraðar á valdsmannsins heimili Stórólfshvoli og nú hingað til Öxarárþings í járnum færðar með fimm fiskum og tveim mathnífum, sem í hreysinu fundust“. Síðan voru þau bæði dæmd til dauða, og fór aftakan fram 3. júlí (Alþingisbækur VII. bls. 403—404).
Frásagnir annálanna eru að mestu leyti samhljóða. Þó segir í Setbergsannál, að þau Eyvindur hafi fundizt „við hellir á Mosfellsheiði fyrir ofan Mosfellssveit, og lifðu við kvikfjárstuld“ og í Fitjaannál, að þau hafi í síðara skiptið lagzt út í Henglafjöllum. Ekki hef ég fengið fregnir af neinum hellum á þeim stöðum, sem alþingisbækur og annálar nefna, og Halldór Kiljan Laxness, sem hefur manna bezt skilyrði til að þekkja staðhætti á þessum slóðum, segir svo í samantekt sinni um útilegumenn: „Staðir þar sem annálar telja aðsetur þeirra eru dálítið óljósir, t. d. eru aungvir hellar ,,á Mosfellsheiði fyrir ofan Mosfellssveit“, ekki vita menn heldur um bjargskúta í Ölvesvatnslandeign, en hellir er reyndar í Villingavatnslandi, að norðanverðu í höfðanum þar sem Sogið fellur úr Þingvallavatni, sömuleiðis ókunnugt um helli nálægt seli Örfiriseyjar hjá Selfjalli, suðrundan Lækjarbotnum. Eftir verða Henglafjöll“.
utilmhellir-4En sunnan í Henglinum eru einu menjar útilegumanna, sem mér er kunnugt um á þessum slóðum. Þar eru þrír dalir, hver vestur af öðrum. Heitir hinn austasti Fremstidalur, annar Miðdalur, en hinn vestasti Innstidalur. Þar á Varmá í Ölfusi upptök sín, og rennur hún austur gegnum dalina og heitir fyrst Hengladalsá. Innstidalur er litlu austar en í hánorður frá Kolviðarhól, og er ekki nema klukkutíma gangur þaðan upp Sleggjubeinsdal og yfir Sleggjuháls ofan í dalinn. Dalbotninn er grasi vaxinn og sléttur og nærri kringlóttur í lögun. Er dalurinn allur fjöllum luktur nema að austan, þar sem útrennsli Hengladalsár er, og sést þar aðeins út úr dalnum. Norðan við sléttuna í dalbotninum er einn af mestu gufuhverum landsins, og örskammt norðvestur af honum er hár móbergsklettur móti vestri. Ofarlega í klettinum er hellir og dálítil grastó fyrir framan hann, og sést hellismunninn strax og komið er yfir Sleggjuháls. Móbergið fyrir neðan hellinn er mjög bratt, en beint niður undan honum er dálítil skora í það, sem sennilega hefur verið rarin í þau fáu skipti, sem menn hafa klifrað upp í hellinn. En það er ekki fært öðrum en góðum klettamönnum.
Páll Jónsson bókavörður kom þangað eitt sinn á snjó og sá þar nokkuð af beinum og leifar af hleðslu í hellismunnanum. En ekki gat ég séð nein merki hennar í kíki neðan af sléttunni. Ekki þarf að efa, að utilmhellir-5menjarnar í hellinum eru eftir sakamenn. Engir aðrir en þeir, sem áttu hendur sínar að verja, hefðu búið um sig í litlum og lélegum skúta hátt uppi í illfærum kletti. En útilegumannabyggð í hellinum er hvergi nefnd í gömlum heimildum, og seinni tíma munnmæli, sem til eru um hann, benda til þess, að það hafi ekki verið Eyvindur Jónsson, sem leitaði þar hælis. Aðeins ein munnmælasaga er til um helli þennan. Hefur Þórður Sigurðsson á Tannastöðum fært hana í letur, og er hún prentuð í Lesbók Morgunblaðsins 1939. En miklu eldri sagnir eru til um útilegumenn í Hengli án þess að bæli þeirra sé nánar tilgreint. Jón Magnússon getur þess í Píslarsögu, að Henglafjöll séu þjófabæli og Jón Grunnvíkingur tilfærir setninguna: „Verðu þig Völustakkur“ og segir, að Völustakkur hafi verið útilegumaður í Hengli. Tilsvarið um Völustakk ber með sér, að náin tengsl hafa verið milli þjóðsögunnar um Hellismenn og sagna um útilegumenn í Hengli. Þau tengsl sjást einnig glögglega í frásögn Þórðar á Tannastöðum um íbúa hellisins sunnan í Henglinum. Þórði segist svo frá: „Þegar ég var unglingur heyrði ég sagt frá því, að útilegumenn hefðu verið í Henglinum; þeir hefðu haldið til í stórum helli og engin leið hefði verið að komast að þeim. Sagt var, að þeir hefðu komið sunnan úr Höfnum og væru þar skipshöfn, sem hefði gert einhver níðingsverk, en aldrei heyrði ég, hver þau hefðu átt að vera. Tóku þeir sér nú stöðu í þessum helli og höfðust þar við, sumir sögðu í tvö ár, aðrir aðeins eitt sumar, en hvort sannara er, verður ekki vitað. Og ekki vissu menn heldur, hve margir þeir voru, jafnvel 6 eða 7, og tvær hlutakonur voru með þeim, að því er sagt var, og eru ef til vill líkur fyrir því. Þeir höfðu með sér langan kaðal eða stjórafæri og drógu konurnar upp í hellirinn og föng sín, jafnóðum og þeir öfluðu þeirra, en það var mest sauðfé Ölfusinga eða Grafningsmanna.

utilmhellir-7

Nú þótti sveitamönnum hart á farið að verða að þola slíka óhæfu, en fengu ekki að gert um sinn. Er frá leið, þá gerðu þeir ráð sitt og tóku sig saman eitt haust litlu fyrir fjallreið og lögðust í leyni margir saman úr báðum sveitum, Ölfusi og Grafningi, sem að vísu var þá sama þingsóknin, og biðu þess, að hellisbúar færu úr hellinum í smalatúr, og ætluðu þeim svo stundirnar, og var þess skammt að bíða. Fóru nú allir úr hellinum, en sveitamenn skipuðu sér sem fljótast fyrir hellisbergið að neðan, og komu hellismenn innan skamms með fjárhóp. En nú var ekki greitt aðgöngu og enginn vegur að ná hellinum. Sveitamenn veittu strax svo harða aðsókn, að hinir héldust ekki við, enda var liðsmunur ákaflegur, því sveitamenn höfðu verið milli 50 og 60. Fjárrekstur útilegumannanna tvístraðist brátt, enda gáfu menn þá engan gaum að fénu. Hellismenn tóku nú að flýja, hver sem bezt mátti, en sveitamenn eltu þá af hinum mesta ákafa og mest þeir, sem fótfráastir voru. Allir komust hellismenn nokkuð langt undan, og vestan í Henglinum urðu mestar eltingar. Þar eru melar og skriður, segja kunnugir menn. Eru þar kölluð Þjófahlaupin enn í dag sem örnefni síðan.

utilmhellir-9

Allir voru hellismenn drepnir, ýmist vestan í Henglinum eða niður á Mosfellsheiði, því undan hlupu þeir slíku ofurefli, meðan þeir gátu uppi staðið sökum mæði. Nú voru hellismenn allir unnir, en fylgikonur þeirra voru enn í hellinum. Þær höfðu veitt hart viðnám, og svo er haft eftir þeim mönnum, sem í atförinni voru, að svo illt sem hefði verið að sigra hellisbúa, þá hefði þó hálfu verra verið að vinna fylgikonur þeirra. En samt að lokum urðu þær teknar og fluttar burtu, og er ekki getið, að þær sýndu neinn mótþróa, eftir að þær komu undir annarra manna hendur“.
Saga þessi er greinileg þjóðsaga, sem ber keim af farandsögum um útilegumenn. Til dæmis minnir frásögnin um viðureignina við konurnar á Hellismannasögu. En í lok sögunnar getur Þórður þess eftir gömlum manni úr Rangárvallasýslu, að verið hafi í Dalsseli undir Eyjafjöllum kerling ein, sem Vilborg hét, og hafi hún dáið um eða eftir 1800, hundrað ára gömul. Átti hún að vera fædd í hellinum og verið dóttir eins útilegumannsins. Eftir þessu að dæma, hefði útilegumannabyggðin í hellinum átt að vera laust eftir 1700, og nú vill svo til, að árið 1703 geta annálar um útilegumenn í Hengli. En hér kemur bobbi í bátinn. Samkvæmt manntalinu 1801 er í Dalsseli Vilborg Nicolaidóttir 59 ára, svo að ekki er hægt að samræma fæðingu hennar útilegumönnum annálanna. Frásagnir annálanna eru einnig tortryggilegar, því að þær minna svo mjög á útilegumenn á Selsvöllum og við Hverinn eina, sem samkvæmt öruggum heimildum voru teknir þar sama ár, að ekki getur hjá því farið, að hér séu aðeins missagnir um sömu mennina. Í Fitjaannál segir svo 1703: „Á alþingi hengdir fjórir þjófar. Höfðu tveir þeirra lagzt út í Henglinum. Þriðji af þeim kagstrýktur, náðaður af lífinu vegna ungdómsaldurs“.
marardalur-21Í Grímsstaðaannál er frásögnin á þessa leið: „Það ár var náð í Hengli suður þremur útileguþjófum. Sagt var, að Gísli Bjarnason, sem lengi var á Arnarstapa síðar, búðarmaður í Bjarnabúð, væri einn af þeim“.
í alþingisbókinni 1703 er einnig getið um refsingu þriggja útileguþjófa, og voru tveir bengdir, en einn aðeins látinn taka út stórfellda húðláts refsingu, og hét sá Gísli Oddsson. Hér er ekkert, sem milli ber, annað en föðurnafn Gísla þess, er sleppt var fyrir æsku sakir, og dvalarstaður útileguþjófanna í Reykjanesfjallgarði, sem var ekki í Hengb’, heldur hjá Selsvöllum og við Hverinn eina miklu vestar í fjallgarðinum.
En áður en vikið er nánar að þeim útilegumönnum og stöðvum þeirra, þykir rétt að birta tvær stuttar frásagnir um þjófa í Reykjanesfjallgarði, aðra frá 1703, en hina frá 1706: „Tveir þjófar höfðu teknir verið fyrr um baustið á Þingvelli, bét annar Bjarni S(igurðsson), annar Ingimundur E(inarsson). Þeir höfðu stolið kviku og dauðu af Mosfellsheiði og í Ölfusi, einkum frá Andrési Finnbogasyni á Kröggólfsstöðum og haft soðning og athvarf á Skálabrekku . . . En þeir sluppu frá þeim, er þá skyldi færa sýslumanni og hlupu vestur til Borgarfjarðar. Varð Ingimundur tekinn í Lundarreykjadal, en Bjarni strauk áfram. Var Ingimundur fluttur í Einarsnes, og síðan suður á Seltjarnarnes, því hann hafði stolið úr Kjósarsýslu“. (Vallaannáll 1703). „Varð vart við tvo útileguþjófa fyrir sunnan Hellisheiði, hverjir að vegfarandi menn fötum og mat rændu og einn mann, er rak tvær landsskuldarkýr frá Hjalla í Ölvesi og að Álftanesi í Borgarfirði til Guðmundar Sigurðssonar. Maður þessi sleppti kúnum, fundust þó síðar“. (Setbergsannáll 1706).
Hér bafa verið raktar þjóðsögur og frásagnir annála um útileguþjófa í grennd við Hengladali, en þær varpa engu ljósi á útilegumannabyggðina þar. Það er aðeins hellirinn sjálfur, sem skýrir frá því á sínu þögla máli, að þar hafi sakamaður (eða sakamenn) leitað athvarfs um stundarsakir.
Nokkru vestar en Sveifluháls eða Austurháls við Kleifarvatn er annar háls samhliða honum, sem heitir Núpshlíðarháls eða Vesturháls. Vestan við Núpshlíðarháls miðjan er víðáttumikið graslendi, sem heitir Selsvellir.

Innstidalur-21

Þar voru áður sel frá Grindavík, og sjást þar enn nokkrar seltóttir. Norðan við Selsvelli nær hraunið á kafla alveg upp að hálsinum. Þar er Hverinn eini úti í hrauninu. Hann er í botninum á kringlóttri skál, sem er alþakin hraunbjörgum, og koma gufur alls staðar upp á milli steinanna, en vatn er þar ekkert. Nú er hverinn ekki heitari en svo, að hægt er að koma alveg að honum án allra óþæginda og gufan úr honum sést ekki nema skamman spöl. En til skamms tíma hefur hann verið miklu beitari. Þorvaldur Thoroddsen lýsir honum sem sióðandi leirbver, þegar hann kom þangað 1883, og segir, að þar sjóði og orgi í jörðinni, þegar gufumekkirnir þjóta upp um leðjuna. Og lýsingunni á hvernum lýkur hann með þessum orðum: „Or Hvernum eina leggur stækustu brennisteinsfýlu, svo að mér ætlaði að verða óglatt, er ég stóð að barmi hans. Í góðu veðri sést gufustrókurinn úr þessum hver langt í burtu, t. d. glögglega frá Reykjavík“.
Fyrir sunnan Selsvelli og við Hverinn eina var athvarf þriggja útileguþjófa vorið 1703. Í alþingisbókinni það ár er skýrt frá dóminum yfir þeim, og talið upp það, sem þeir höfðu stolið og brotið af sér. Þeir eru þar nefndir útileguþjófar, en ekki nánar sagt frá útilegu þeirra. En saga þeirra er greinilegast rakin í Vallaannál, sem ritaður er af séra Eyjólfi Jónssyni á Völlum í Svarfaðardal. En séra Eyjólfur var um þessar mundir uppkominn maður á Nesi við Seltjörn hjá föður sínum, Jóni Eyjólfssyni, sýslumanni í Gullbringusýslu, sem rannsakaði mál þjófanna. Verður því vart á betri heimild kosið. Þar sem skýrt er frá störfum alþingis, segir á þessa leið: „Þennan sama dag voru hengdir þrír þjófar, hét hinn fyrsti Jón Þórðarson, ættaður úr Gnúpverjahrepp, annar Jón Þorláksson, ættaður úr Landeyjum. Þeim fylgdi piltungur nokkur, er Gísli hét Oddsson, ættaður úr Hrunamannahrepp. Þessir komu úr Gullbringusýslu. Það er af þeim framar að segja, að Jón Þórðarson fór austan úr Hrepp um allraheilagramessuleytið veturinn fyrir, og Gísli með honum, flökkuðu síðan vestur um sveitir, unz þeir komu í Hvamm. Þar aðskildi þá Jón Magnússon sýslumaður. Fór Jón einn upp þaðan, unz hann kom á Kvennabrekku, og fann þar á næsta bæ Jón Þorláksson. Gerðu þeir þá félag sitt og fóru báðir suður til Borgarfjarðar og yfir Hvítá í Bæjarhrepp. Þar kom Gísli til þeirra.

Hverinn eini

Hverinn eini.

Fóru síðan allir suður til Skorradals og hófu stuldi mikla; fóru þeir með þeim suður um HvalfjarÖarströnd, Kjós og Mosfellssveit, og svo suður á Vatnsleysuströnd. Þar stálu þeir síðast í Flekkuvík og fóru svo til fjalls upp og allt suður um Selsvöllu; þar tóku þeir sér hæli undir skúta nokkrum, en er þeir höfðu þar lítt staðar numið, kom til þeirra Hallur Sigmundsson, búandi í Ísólfsskála í Grindavík, og vandaði nokkuð svo um þarveru þeirra. Leizt þeim þá eigi að vera þar lengur og fóru norður aftur með fjallinu í hellj þann, er skammt er frá Hvernum eina. Voru þar síðan í þrjár vikur og tóku þrjá sauði þar á hálsunum, rændu einnin ferðamann, er Bárður hét Gunnarsson úr Flóa austan. Loksins í vikunni fyrir alþing fór Jón Árnason, búandi í Flekkuvík upp til hellisins við 12. mann, og hittu þá heima. Vildu þeir ei skjótt í ljós koma, unz Jón hleypti byssu af, er hann hafði, og bað hvern einn fylgdarmanna skjóta sinni byssu. Gerði hann það til skelks þjófunum, því eigi voru fleiri byssurnar en tvær. Hann skaut hettu af Jóni Þorlákssyni, svo að honum grandaði ekki. Féll þjófunum þá hugur og gengu í hendur þeim. Voru síðan allir teknir og fluttir inn til Bessastaða. Þar voru þeir þrjár nætur og á þeim tíma rannsakaðir á Kópavogsþingi, færðir síðan upp á þing og hengdir báðir Jónarnir, en Gísli hýddur sem bera mátti og rekinn svo til sveitar sinnar; var honum vægt fyrir yngis sakir“. Ekki hefur mér tekizt að fá vitneskju um hella á þeim slóðum, þar sem þjófarnir voru. Og vorið 1951 komum við Björn Þorsteinsson að Hvernum eina til að svipast um eftir hellum í hrauninu í kring. Við sáum nokkra örlitla skúta, en engan svo stóran, að okkur þætti hugsanlegur mannabústaður. En hraunið er þannig, að þar getur hellir lengi leynzt sjónum manna, og að sjálfsögðu hafa útilegumennirnir reynt að velja sér skúta, sem ekki var auðfundinn. Líklegt er og, að þeir hafi tekið sér bólstað þarna til þess að geta soðið mat sinn í Hvernum eina, því að ekki þarf að efa, að hann hefur þá verið nógu heitur til þess. Skammt er einnig þaðan að sækja vatn í læk nyrzt á Selsvöllum.“

Heimild:
-Andvari, 84. árg., 1. tbl. 1959, Ólafur Briem, bls. 100-104.

Selsvellir

Horft að Selsvöllum frá Trölladyngju.

Hvaleyrarvatn

Í ritgerð Daníels Páls Jónassonar; Hraunflæði á höfuðborgarsvæðinu – Saga hraunflæðis á svæðinu á nútíma og kortlagning mögulegra farvega til byggða“, hjá Háskóla íslands 2012 má m.a. lesa eftirfarandi um um jarðfræði Reykjanesskagans:

Reykjanesskagi

Reykjanesskagi vestanverður – jarðfræðikort.

„Reykjanesskagi er hluti af gosbeltinu, sem liggur um Ísland þvert og er í beinu framhaldi af Reykjaneshryggnum, sem neðansjávar teygir sig langt suðvestur í haf og raunar er hluti af Atlantshafshryggnum mikla. Frá því að síðasta kuldaskeiði lauk hefur mikil eldvirkni verið á þessu svæði bæði ofansjávar og í hafi. Sú eldvirkni hefur á umliðnum öldum byggt upp Reykjanesskaga og verður ekki enn séð nokkurt lát á þeirri starfsemi (Jón Jónsson, 1983, 127).

Jarðfræðikort

Jarðfræðikort ÍSOR af Reykjanesskaga.

Reykjanes er það svæði þar sem Reykjaneshryggurinn nær yfirborði en fyrir suðvestan skagann er hryggurinn undir sjávarmáli (Ármann Höskuldsson, Hey., Einar Kjartansson & Gunnar B. Guðmundsson, 2007). Jarðfræðileg lega skagans nær frá Reykjanestá í suðvestri og að þrígreiningu plötuskilanna fyrir sunnan Hengilinn (Kristján Sæmundsson, 2010a) en á því svæði mætast Reykjanesgosbeltið, Suðurlandsbrotabeltið og Vesturgosbeltið (Weir o.fl., 2001). Á skaganum er sniðrekbelti og fer gliðnunin fram í eldstöðvakerfum sem liggja frá suðvestri til norðausturs (Kristján Sæmundsson, 2010a). Heildarlengd þessa rekbeltis á skaganum eru um 65 kílómetrar (Peate o.fl., 2009).

Reykjanesskagi

Reykjanesskagi – gosskeið.

Allt eldgosaberg á yfirborði skagans er yngra en 700.000 ára (Peate o.fl., 2009) en stór hluti yfirborðs Reykjaness þakið hraunum frá nútíma. Hraunin eru ýmist úr dyngjugosum eða sprungugosum en móberg frá fyrri og seinni hluta síðasta jökulskeiðs mynda fjallgarða og hryggi á skaganum auk móbergs frá eldri jökulskeiðum Brunhes (Kristján Sæmundsson o.fl., 2010). Síðasta jökulskeið, Weichsel, er almennt talið hafa náð frá því fyrir um 10.000 til 100.000 árum en segulskeið Brunhes, sem nær yfir önnur jökulskeið, byrjaði fyrir um 780.000 árum (Elsa G. Vilmundardóttir, 1997).

Reykjanesskaginn

Reykjanesskaginn.

Líkt og á Íslandi öllu kemur nær eingöngu upp basaltkvika á Reykjanesi (Páll Imsland, 1998). Á skaganum hafa basalthraungos samtals verið um 111 á nútíma, og þar af 15 á sögulegum tíma, og 33 sprengigos. Úr öllum þessum gosum hafa samtals myndast 26 km3 af hrauni og 7 km3 af gjósku eða sem samsvarar 29 km3 af föstu bergi (e. Dry Rock Equivalent, DRE) (Þorvaldur Þórðarson & Ármann Höskuldsson, 2008). Sé gengið um Reykjanes sjást ummerki þessarar eldvirkni afar vel og mörg eldvörp eru í steinsnar frá byggð og samgöngum. Eru þessi eldvörp enn greinanleg meðal annars sökum þess að eftir að ísaldarjökullinn hvarf hefur rof á skaganum minnkað verulega. Mörg ummerki eldvirkni eru einnig undir nýrri hraunum sem sífellt mynda ný lög ofan á skaganum en sem dæmi má nefna að síendurtekin hraunflæði hafa fært ströndina í Straumsvík fram um 1,5 til 2 kílómetra frá ísaldarlokum. Þar að auki eru fjöldi hrauna grafin undir yngri hraunum og sjást þau því ekki á yfirborði en þeirra verður aftur á móti vart í borholum (Haukur Jóhannesson & Sigmundur Einarsson, 1998).“

Traðarfjöll

Reykjanesskagi – jarðfræðikort.

Á vefsíðunni ferlir.is segir auk þess um aðstæður á svæðinu: „Þar sem hraun þekur mest af yfirborði á sunnanverðum Reykjanesskagans er lítið um jarðvatn er fjölbreytni gróðursins ekki mikil. Mikil úrkoma nægir ekki til að mynda þykkan jarðveg ofan á hrauninu vegna þess hve það er ungt.
Algengasta plantan er gamburmosi, síðan koma krækilyng og beitilyng. Nokkuð má sjá af birki í hraununum. Hér eru engin há og stór fjöll sem mynda skjól fyrir vindi svo að trén nái að vaxa vel. Því er gróðurinn mjög lágvaxinn á Reykjanesinu.

Reykjanesskagi 1944.

Reykjanesskagi 1844.

Stór samfelld grassvæði eru t.d. á Selsvöllum, Vigdísarvöllum, Krýsuvík, Baðsvöllum og víða með ströndinni. Birki og kjarr er víða í hraunum, sem mynda dágott skjól víða á Reykjanesinu. Þá er víða snjólétt í hraunum og snjó tekur fljótt upp vegna sólarhitans frá dökku grjótinu. Sum svæðin hafa látið mjög á sjá á seinni öldum vegna gróðureyðingar, s.s. Vatnsleysustrandarheiðin, Selvogsheiðin og Krýsuvík, og uppblásturs. Þá hefur orðið verulegt sandfok í Selvogi og á Hafnaheiði. Eitt seljanna, sem þar var tilgreint [frá Gálmatjörn (Kalmannstjörn)], undir Stömpum, er t.d. með öllu horfið. Sum selin á Vatnsleysustrandarheiði (undir þráinskyldi) sjást enn vel frá Reykjanesbrautinni þar sem þau kúra á gróðurtorfum og þráast enn við fyrir áburðinn frá selstímanum.“
Um gróður á Reykjanesskaganum segir jafnframt: „Venja er að fjalla um kjarr- og skóglendi sem eina heild, þó að á þessu tvennu sé þó nokkur munur.
Birki er eina íslenska trjátegundin sem myndar skóga. Hæstu birkitré verða rúmir 10 metrar á hæð, s.s. við Kerið í Undirhlíðum, og á ýmsum stöðum eru 5 -10 metra háir skógar. Mörg tré í skógum eru einkar fögur, beinvaxin með ljósan börk. Í gömlum bókum, eins og fornsögum, annálum og ferðabókum, eru víða til frásagnir um mjög vöxtulega skóga fyrr á öldum. Eyðing skóga á að verulegu leyti rót sína að rekja til ágengni manna og búsmala hans.

Reykjanesskagi

Reykjanesskagi 1879 – Kålund.

Birki myndar einnig víðáttumikið kjarr, sem er að stærstum hluta innan við tveir metrar á hæð og oft mjög kræklótt og margstofna. Margir álíta að kjarrlendið sé leifar af fornum birkiskógum og er það án efa rétt. Á hinn bóginn verður birki sem vex á útkjálkum vart miklu hærra. Meginhluti alls kjarr- og skóglendis er fyrir neðan 250 metra hæð yfir sjó en þó hefur birki fundist í um 600 metrum ofan sjávarmáls.
Aðrar trékenndar tegundir, eins og gulvíðir og loðvíðir, mynda sums staðar kjarr einnig. Botngróðri í kjarr- og skóglendi svipar oft til gróskumikils valllendis eða mólendis. Mólendi er yfirleitt þýft þurrlendi, vaxið grasleitum plöntum eða lágvöxnum runnagróðri.

Reykjanesskagi

Reykjanesskagi – Innnes.

Berangur setur sterkan svip á landið. Í kjölfar búsetunnar átti sér stað mikil eyðing jarðvegs og gróðurs sem erfitt hefur verið að hemja allt til þessa dags. Auðnir landsins eru samt ekki með öllu gróðurlausar þó að jarðveg skorti. Plönturnar búa yfir sérstökum hæfileikum til þess að ræta sig og kljást við óblíð skilyrði.

Elliðaárdalur

Elliðaá og Blesaþúfa framundan.

Vötn, ár og lækir eru víðast hvar, hvort sem litið er á norðanverðan Skagann; Hvalvatn, Meðalfellsvatn, Fossá, Laxá,  Bleikdaslá, Bugðu, Köldukvís, Leirvogsá o.s.frv., eða á honum sunnanverðum; Ölfusá, Elliðaár, Rauðará, Rauðavatn, Elliðavatn, Urriðavatn, Hvaleyrarvatn, Ástjörn, Kaldá, Djúpavatn, Grænavatn, Gestsstaðavatn, Eystri-Lækur, vestri-Lækur, Seltjörn o.s.frv.
Seljabúkapurinn hefur ekki síst stuðlað að viðhaldi og útbreiðslu plantna sem og nýgróðurs. Þegar leitað er leifa fyrrum seljabúskapsins á Reykjanesskaganum má a.m.k. ganga út frá tvennu sem vísu; grasi í móa í skjóli við hól, hæð, misgengi eða gjá, fyrir austanáttinni (rigningaráttinni), og á, læk, vatni eða vatnsbóli. Báðir staðirnir bjóða því jafnan, auk minjanna, upp á fölskrúðuga flóru allt umhverfis.“

Heimildir:
-Hraunflæði á höfuðborgarsvæðinu – Saga hraunflæðis á svæðinu á nútíma og kortlagning mögulegra farvega til byggða; Daníel Páll Jónasson, Líf- og umhverfisvísindadeild Háskóli Íslands 2012.
-https://ferlir.is/grodur-a-reykjanesskaganum-2/
-https://ferlir.is/grodur-a-reykjanesskaganum/

Reykjanesskagi

Reykjanesskagi – örnefni.

Svartsengi

Eftirfarandi grein eftir Kára Jónasson birtist undir dálknum „Skoðun“ í Fréttablaðinu föstudaginn 8. september 2006:
„Landshættir hér á landi eru gjarnan þannig að á sömu stöðunum fara saman mikil náttúrufegurð og álitlegir virkjunarkostir. Á þetta bæði við um jarðvarmavirkjanir og vatnsaflsvirkjanir, eins og öllum ætti að vera kunnugt núorðið.

Nesjavallavirkjun

Nesjavallavirkjun.

Kárahnjúkavirkjun hefur mikið verið í umræðunni sem eðlilegt er, og þar sýnist sitt hverjum. Sú umræða hefur svo leitt til þess að augu manna hafa beinst að öðrum vatnsaflsvirkjunarkostum á landinu, sem reyndar er bæði gömul umræða og ný. Minna hefur hins vegar verið tekist á um jarðvarmavirkjanir fyrr en nú á allra síðustu misserum, en því er ekki að leyna að þær hafa einnig í för með sér breytingar á umhverfinu, þótt með öðrum hætti sé.

Í næsta nágrenni við höfuðborgina og nálægar byggðir eru mikil eldfjallasvæði, sem jafnframt eru upplögð útivistarsvæði, þótt þau sé mörgum íbúum á Suðvesturlandi ókunn. Það er oft þannig að menn leita langt yfir skammt til að komast í ósnortna náttúru.

Hellisheiðavirkjun

Hellisheiðarvirkjun.

Reykjanesskaginn allur býður upp á mikla möguleika bæði sem útivistar- og náttúrusvæði og svo virkjunarkosti fyrir jarðvarmaveitur. Nú þegar eru miklar virkjanir á vestasta hluta skagans og svo á Hengilssvæðinu. Stór svæði um miðbik hans eru hins vegar tiltölulega ósnert, utan þess að þar hafa á nokkrum stöðum verið boraðar tilraunaholur til að kanna hvað felst þar í iðrum jarðar, og síðan hefur verið óskað eftir að fara í frekari tilrauna- eða rannsóknaboranir, þar sem eru óspillt svæði. Það eru þessi ósnortnu svæði á Reykjanesskaganum, sem menn þurfa nú að fara að taka ákvörðun um hvað gert verður við. Þeim ætti eindregið að hlífa við hvers konar raski, nema að gera eitthvað til að þau verði aðgengilegri fyrir gesti og gangandi. Þeim má alls ekki spilla með virkjunum og því sem þeim fylgir.

Nesjavallavirkjun er austast á þessu svæði og með virkjun og vegalagningu þangað má segja að opnast hafi nýr heimur fyrir marga. Mikill fjöldi innlendra og erlendra ferðamanna leggur leið sína þangað árlega og það er eiginlega fastur liður að fara þangað með erlenda tignarmenn sem koma hingað í heimsókn, til að kynna fyrir þeim á auðveldan og aðgengilegan hátt þær orkulindir sem eru hér í jörðu.

Orkuver

Íslendingar gera sig nú æ meira gildandi varðandi nýtingu á jarðvarma í öllum heimshlutum og þar er byggt á reynslunni af slíkum verkefnum hér heima. Svipaða sögu er að segja af nýtingu jarðvarmans vestast á Reykjanesskaganum – það kemur varla nokkur útlendingur til landsins án þess að heimsækja Bláa lónið.

Það er því miðja skagans sem fyrst og fremst þarf að verja og vernda frá strönd til standar, jafnframt því að svæðið verði gert aðgengilegt fyrir þá sem vilja njóta þess. Þarna eru miklir möguleikar fyrir hendi til útivistar, ekki aðeins á þeim svæðum þar sem jarðhiti er talinn nýtanlegur heldur ekki síður við og upp af suðurströndinni. Nægir þar að nefna Krýsuvíkurbjarg, Ögmundarhraun og Seltanga, að ógleymdum Selvogi og svæðinu þar í kring.“

Ganga

Gengið um Reykjanesskaga.

Landnámsmenn

Hér á eftir fylgir listi yfir landnámsmenn á Reykjanesskagnum (landnámi Ingólfs) og landnám þeirra. Listanum fylgir upptalningu Landnámabókar sem byrjar á Ingólfi Arnarsyni í Reykjavík og telur þaðan réttsælis um skagann.

Letursteinn– Ingólfur Arnarson nam land milli Ölfusár og Brynjudalsár í Hvalfirði og öll nes út. Hann bjó í Reykjavík.
Ingólfur Arnarson (stundum nefndur Björnólfsson) er jafnan talin fyrsti landnámsmaður Íslands. Hann kom fyrst til Íslands ásamt fóstbróður sínum og mág, Hjörleifi Hróðmarssyni, til landkönnunar í kringum 867. Þeir komu svo til að nema land á Íslandi í kringum 870, þó hefð sé að miða við 874. Ingólfur hafði verið gerður útlægur frá heimkynnum sínum í Dalsfirði í Firðafylki á Noregi og ákvað því að flytja til Íslands. Ingólfur er sagður hafa haft vetursetu í Ingólfshöfða sinn fyrsta vetur á Íslandi. Sagan segir að hann hafi kastað öndvegissúlum sínum fyrir borð áður en hann kom að landi og svarið að setjast að þar sem þær kæmu að landi, vegna þess að þar myndu goðin vilja að hann byggi. Hann sendi svo þræla sína Karla og Vífil til að leita þeirra, og fundu þeir þær við Arnarhvol í Reykjavík. Sú leit tók 3 ár. Ingólfur settist að í Reykjavík en landnám hans náði á milli Ölfusár og Hvalfjarðar og öll nes út. Kona Ingólfs var Hallveig Fróðadóttir.

– Vífill, þræll Ingólfs. Ingólfur gaf honum frelsi og land og bjó hann á Vífilsstöðum.
Vífill var annar af tveimur nafngreindum þrælum Ingólfs Arnarsonar landnámsmanns. Að sögn Landnámabókar fundu þrælarnir Karli og Vífill öndvegissúlur Ingólfs við Arnarhvol í Reykjavík. Samkvæmt Landnámu hlaut Vífill síðar frelsi og setti niður bú sitt að Vífilsstöðum Vífilsgata í Reykjavík dregur nafn sitt af þrælnum Vífli.

– Þórður skeggi Hrappsson nam land með ráði Ingólfs milli Úlfarsár og Leiruvogs og bjó á Skeggjastöðum.
Þórður skeggi (fæddur um 839) nam að sögn Landnámabókar land milli Leirvogsár og Úlfarsár (Korpu), en hann hélt til Íslands að ráði Ingólfs Arnarsonar. Bú hans var að Skeggjastöðum. Þórður skeggi var sonur Hrapps Bjarnarsonar bunu. Þórður átti Vilborgu Ósvaldsdóttur, eldri dóttir þeirra hét Helga en hennar maður var Ketilbjörn hinn gamli. Yngri dóttirin hét Þuríður. Skeggjagata í Reykjavík er nefnd eftir honum.

– Hallur goðlaus Helgason nam land með ráði Ingólfs milli Leiruvogs og Mógilsár.

– Helgi bjóla Ketilsson nam Kjalarnes milli Mógilsár og Mýdalsár og bjó að Hofi.

Forn leið– Örlygur gamli Hrappsson nam land með ráði Helga bjólu frá Mógilsá til Ósvífurslækjar og bjó að Esjubergi.

– Svartkell nam land milli Mýdalsár og Eilífsdalsár, bjó fyrst á Kiðafelli en síðan á Eyri.

– Valþjófur Örlygsson nam Kjós og bjó á Meðalfelli.

– Hvamm-Þórir, nam land milli Laxár og Fossár og bjó í Hvammi.

– Þorsteinn Sölmundarson nam land milli Fossár og Botnsár.

– Ávangur byggði fyrst í Botni í Hvalfirði.
Þar var þá svo stór skógur, að hann gerði þar af hafskip.
Hans son var Þorleifur, faðir Þuríðar, er átti Þormóður Þjóstarsson á Álftanesi og Iðunnar Molda-Gnúpsdóttur. Sonur Þormóðar var Börkur, faðir Þórðar, föður Auðunar í Brautarholti.

– Þórir haustmyrkur nam Selvog og Krísuvík.

– Molda-Gnúpssynir byggðu í Grindavík.

– Steinunn gamla fékk Rosmhvalanes fyrir utan Hvassahraun af Ingólfi frænda sínum.

– Eyvindur fékk land af Steinunni frænku sinni milli Kvíguvogabjarga og Hvassahrauns.

– Herjólfur Bárðarson fékk land af Ingólfi frænda sínum milli Reykjaness og Vogs.

– Ásbjörn Össurarson nam land milli Hraunsholtslækjar og Hvassahrauns og bjó á Skúlastöðum.

Heimild:
-Landnáma (Sturlubók).

Landnámsmaður

Landnámsmaður í Einihlíðum.

Húshólmi

Nú nýverið lauk Landgræðsla ríkisins verkefni sem miðar að því að loka slóðum í fjallendi Grindavíkur, Hrauns og Ísólfsskála. Settar voru lokanir við allar helstu leiðir þar sem torfærutæki hafa verið að fara inn á viðkvæm svæði og valdið þar skaða á gróðri. Fyrst og fremst eru þessar lokanir í Reykjanesfólkvangi sem er að mestu í landi Grindavíkur, en einnig í landi Ísólfsskála og Hrauns. Í vettvangsferð kom í ljós að fólk hefur að mestu virt þessar lokanir og virðist hafa skilning á málinu. Með þessu verkefni vill Landgræðslan tryggja að gróðurverndar átak sem þegar er hafið og mun halda áfram á næstu árum skili árangri. Vonandi verður í framhaldi hægt að hafa þessar leiðir opnar yfir sumartímann og komi til lokunar haust vetur og vor. Lykklar eru á hliðum á hverri lokun og hafa hagsmunaðilar þegar fengið lykkla. Með þessum aðgerðum ætti störf löggæslu á svæðinu að verða mun auðveldara í framtíðinni sem og starf landvarðar í fólkvanginum.
Þess má geta að Landgræðslan hefur unnið með FERLIR að uppgræðslu í Húshólma með góðum árangri. Sáð var í hólmann s.l. sumar og aftur í sumar (2006). Svo virðist sem tekist hafi að hefta gróðureyðinguna og auka þannig líkur á varðveislu hinna ómetnalegu minja, sem þar er að finna.

Heimild:
-www.grindavik.is

Húshólmi

Grindavík

Jarðskjálftar á Íslandi verða á brotabelti á flekaskilum. Tvö slík belti eru á landinu: Á Suðurlandi, frá Ölfusi til Landssveitar og á Norðurlandi, kennt við Tjörnes. Öflugustu jarðskjálftar á Íslandi eru um 7 að stærð og geta valdið töluverðu tjóni. Þeir eru tíðir undir brotabeltunum og undir megineldstöðvum.

Grindavík

Þórkötlustaðaréttin eftir jarðskjálftann 31. júlí 2022.

Reykjanesskaginn er umorpin eldsumbrotum frá fyrri tíð. Elstar eru dyngjurnar s.s. Þráinsskjöldur og Hrútargjárdyngja, þá stakir gígar s.s. Stóra-Eldborg og Búrfell og loks gígaraðir á sprungureinum, s.s. Eldvörp og Sundhnúkar. Öllum þessum umbrotum fylgja ógrynnin öll af misstórum jarðskjálftum, líkt og íbúar Grindavíkur og nágrennis hafa áþreifanlega orðið varir við í aðdraganda eldgossins í Geldingadölum í Fagradalsfjalli í aprílmánuði árið 2021.

Grindavík

Þórkötlustaðarétinn 1. ágúst 2022.

Enn og aftur, nú í júlílok og byrjun ágústmánaðar árið 2022 skelfur jörð í umdæmi Grindavíkur með tilherandi óróa. Óvenjustór jarðskjálfti varð síðdegis þann 31. júlí, eða 5.5 á Richter. Skjálftinn felldi m.a. nokkar vörður og auk þess hluta af fjárrétt Grindvíkinga í Þórkötlustaðahverfi líkt og sjá má á meðfylgjandi myndum.

Í sögulegu samhengi hefur orðið manntjón, en það hefur breyst með betri byggingu húsa skv. stöðlum sem eiga að standast skjálfta sem vænt er í Íslandi.

Grindavík

Þórkötlustaðaréttin 1. ágúst 2022.

Reykjanesskagi

Málfríður Ómarsdóttir skrifaði í apríl 2007 ritgerð með yfirskriftinni; „Reykjanesskagi – náttúrusaga og eldvörp„. Þar sem efnið er vel unnið og á brýnt erindi til áhugafólks um Reykjanesskagann verður hluti textans birtur hér.
Jarðfræðikort af Reykjanesskaga

„Reykjanesskagi er hluti af gosbeltinu sem liggur þvert í gegnum Ísland og er í raun ofansjávarhluti af Reykjaneshryggnum en hann liggur neðansjávar suðvestur í haf. Hann er hluti af Atlantshafshryggnum og hefur um langt skeið dregið að sér athygli náttúrufræðinga og hefur hún aðallega beinst að þeim þáttum sem mest setja svip sinn á landslagið eins og eldvörp, gígar, hraun, sprungur, jarðhiti og misgengi.
Eldstöðvarkerfi á Reykjanesskaga eru fjögur talsins og eru þekkt tvö gosskeið á síðustu tvö þúsund árum þar sem öll eldstöðvarkerfin urðu virk. Töluvert mikið er um eldvörp á svæðinu og er náttúrufar Reykjanesskaga afar sérstætt og því ekki furða að áform séu uppi um að auka náttúruverndargildi hans og jafnvel að gera Reykjanesskaga að eldfjallagarði.

Eldvirkni
Eldstöðvakerfin fjögur (ATG)

Reykjanesskagi, ásamt Íslandi, liggur á Atlantshafshryggnum en hann er mörk plötuskila Evrasíuflekans og Norður-Ameríkuflekans sem mjakast í sitthvora áttina. Þessi hreyfing veldur tíðum umbrotahrinum á hryggnum sem einkennast af jarðskjálftum og eldgosum. Hryggurinn brotnar upp í rekbelti sem tengjast um þverbrotabelti. Slíkt rekbelti er að finna við suðvesturhorn Íslands og nefnist Reykjanesrekbeltið (Ari Trausti Guðmundsson, 2001). Reykjanesrekbeltið tengist Atlantshafsrekbeltinu beint og er um 30 km að breidd (Jón Jónsson, 1967). Framhald rekbeltisins er á landi og liggur eftir Reykjanesskaganum (Ari Trausti Guðmundsson, 2001) en hann er einn af tveimur stöðum í heimum þar sem hafshryggur rís úr sjó (mynd 1) en það gerir hann að kjöraðstæðum til að rannsaka myndun og mótun hafshryggja á landi (Ármann Höskuldsson, Richard Hey, Einar Kjartansson & Gunnar B. Guðmundsson, 2007).
Reykjanesskagi er afar sérstakur hluti af Atlantshafshryggnum því hann er tengiliður milli heits reits og djúpsjávarhryggs (Fleischer, 1974).
Reykjanesrekbeltið er einkennandi fyrir Reykjanesskaga og þar er að finna fjölmargar sprungur, misgengi og mjóa sigdali sem stefna í norðaustur-suðvestur átt (Jón Jónsson, 1967). Á Reykjanesskaganum beygja plötuskilin til austurs en það eru fjögur eldsstöðvarkerfi sem liggja skálægt á plötuskilunum (Ari Trausti Guðmundsson, 2001).
Eldborg í Kristnitökuhrauni (Svínahrauni)

Þekkt eru tvö gosskeið á síðustu tvö þúsund árum þar sem öll eldstöðvarkerfin urðu virk. Hvert gosskeið stóð í allt að fjórar aldir með um þúsund ára hléi á milli. Í ljósi þeirrar vitneskju og rannsóknum á eldri gosum, er líklegt að eldvirkni hafi verið svipuð, á fyrri hluta nútíma (Magnús Á. Sigurgeirsson, 2004). Þessi eldstöðvarkerfi eru Reykjaneskerfið, Trölladyngjukerfið, Brennisteinsfjallakerfið og Hengilskerfið (Ari Trausti Guðmundsson, 2001).
Reykjaneseldstöðvarkerfið liggur í suðvestur-norðaustur stefnu frá Reykjanesi og inn að Vatnsleysuströnd. Neðan sjávarmáls suðvestur af Reykjanesi er það um 9 km langt en í heildina er það um 45 km langt og um 5-15 metra breitt (Magnús Á. Sigurgeirsson, 2004). Það tilheyrir vestara rek- og gosbeltinu eins og öll kerfin á Reykjanesskaga. Það hafa komið um 50 rek- og goshrinur úr því ásamt 14 dyngjum. Síðast gaus í kerfinu í Reykjaneseldunum frá 1211-1240 en þar síðast sennilega fyrir um 1500-1800 árum (Ari Trausti Guðmundsson, 2001). Eldvirkni er takmörkuð við syðstu 15 km kerfisins. Þótt Reykjanesið sé að mestu leyti þakið úfnum hraunum og fokösku þá ber það þess skýr merki að eldgos hafa verið tíð. Yngstu hraunin þekja meginhluta Reykjaness og því erfitt að áætla fjölda gosa sem orðið hafa frá myndun þess.

Stampar

Eldvirkni er mikil á þessu svæði vegna plötuskilanna sem eru mörkuð af gjám og misgengjum. Talið er að gliðnunin sé um 2 cm á ári (Magnús Á. Sigurgeirsson, 2004). Trölladyngju-eldstöðvarkerfið er um 40-50 km langt og 4-7 km breitt. Úr kerfinu hafa komið um 40-50 rek- og goshringur og 3 dyngjur. Síðast gaus í því 1151-1180 sem í gosi sem kallaðist Krísuvíkureldarnir en þar á undan fyrir um 2000 árum (Ari Trausti Guðmundsson, 2001).
Brennisteinsfjallaeldstöðvarkerfið er næst austasta kerfið á Reykjanesskaganum.
Það er 45 km langt og 5-10 km breitt. Það hafa komið um 30-40 rek- og goshrinur úr því ásamt 3 dyngjum. Það varð einnig virkt, á sama tíma og Reykjaneskerfið, í Reykjaneseldunum árin 1211-1240.
Hengilseldfjallakerfið er austasta eldstöðvarkerfið og er sérstætt að því leyti að þar eru vísbendingar um þrjú kvikuhólf þ.e. tvö virk og eitt gamalt og óvirkt. Hengilseldstöðvarkerfið er 100 km langt og 3-16 km breitt. Úr því hafa komið 20 rek- og goshrinur og 6 dyngjur. Síðast gaus í Hengli fyrir um 2000 árum í svokölluðum Nesjavallaeldum (Ari Trausti Guðmundsson, 2001).

Háleyjarbunga

Á sama tíma myndaðist Sandey í Þingvallavatni (Orkuveita Reykjavíkur, 2006). Þar áður gaus fyrir um það bil 5000 árum (Ari Trausti Guðmundsson, 2001). Hengilssvæðið er með stærstu háhitasvæðum á Íslandi (Orkuveita Reykjavíkur, 2006).
Eldstöðvarkerfin fjögur raðast skástígt með stefnu í norðaustur, á bogin plötuskilin. Innan þeirra finnast misgengi og gígaraðir. Plötuskilin eru í raun samblanda af gliðnun og sniðgengishreyfingum. Sniðgengið verður öflugra eftir því sem austar dregur. Norður- og suðurhluti hvers eldstöðvarkerfis einkennist af eingöngu af brotalínum en mesta eldvirknin er þar sem plötuskilin liggja um miðbik hvert þeirra. Þess vegna er upphleðsla þar hröðust og þar hafa myndast hálendi. Hálendið verður hærra eftir því sem austar dregur.
Reykjaneshryggurinn hækkar almennt til norðausturs vegna þess að gosefnaframleiðsla á Íslandi eykst eftir því sem nær dregur heita reitnum á miðju landsins. Um miðbik eldstöðvakerfanna eru háhitasvæðin að finna og hitagjafar þeirra eru grunnstæð innskot (Ari Trausti Guðmundsson, 2001).
GunnuhverÞað má skipta bergtegundum, bæði nútíma og eldri bergmyndanna, á Reykjanesskaga í þrjá meginflokka eftir samsetningu þeirra. Landslag á Reykjanesskaga hefur að nokkru leyti mótast af þessum flokkum. Sýni, úr eldri bergmyndunum frá jökultíma og síðjökultíma, benda til þess að engin breyting hafi orðið á eldvirkninni á Reykjanesskaga frá myndun hans og til dagsins í dag. Erfitt er þó að segja til um hvort skipst hafi á tímabil með dyngjugosum og önnur með sprungugosum eins og komið hefur í ljós um eldvirknina á nútíma. Sprungugosin, sem áttu sér stað á jökulskeiðum og mynduðu móbergshryggina Sveifluháls og Núpshlíðarháls, hefðu eflaust myndað dyngjur ef landið hefði verið íslaust. Þess í stað mynduðust stapar (Jón Jónsson, 1978).
Nútímahraunum og gosstöðvum má skipta í þrjá flokka þ.e. gossprungur og dyngjur en dyngjunum má svo skipta aftur skipta í tvo flokka eftir samsetningu hraunanna. Þessa flokka má svo nánar aðgreina út frá aldri og stærð.
Jón Jónsson (1978) telur að hraun runnin á nútíma á Reykjanesskaga nái yfir 1064 km2 og rúmmál þeirra sé um 42 km 3. Af því nái hraun runnin eftir landnám yfir 94 km2 og hafa um 1,8 km3 rúmmál. Nánar verður fjallað um hraun á Reykjanesskaga hér á eftir í kaflanum um hraun.

Eldvörp

Í Eldvörpum

Eldstöðvakerfin á Reykjanesskaga framleiða öll þóleískt berg og aðeins kemur þar upp basalt að Hengilseldstöðinni slepptri. Á Hengilssvæðinu er að finna súrt og ísúrt berg en annars er mest berg á Reykjanesskaganum ólivínþóleít.
Eldstöðvar eru ýmist dyngjur eða gjall- og klepragígaraðir ásamt nokkrum gjósku- og sprengigígum. Telja má 26 dyngjur frá nútíma en ekki er vitað um heildarfjölda þeirra þar sem ummerki sjást ekki lengur. Elstu og minnstu dyngjurnar eru úr ólivín pikríti sem runnið er á miklu dýpi og nær yfir 80-200 km.
Stærri og yngri dyngjurnar eru úr ólivín þóleíti og eru þær allt að 6-7 km3 hver. Aldur allra dyngjanna er yfir 4500 ár. Myndunartíminn gæti tengst hröðu landrisi eftir hvarf ísaldarjökulsins (Ari Trausti Guðmundsson, 2001). Gígaraðir á Reykjanesskaga liggja á tveimur gosreinum og hafa sprungugos orðið á sitt hvorri þeirra, um þrisvar sinnum á síðustu 10.000 árum. Síðustu 2000 árin hefur gosvirknin þó takmarkast við vestari gosreinina sem liggur til sjávar við Kerlingarbás en það hefur ekki gosið á eystri gosreininni, sem liggur inn að hraundyngjunni Skálafelli, í 3000 ár. Skjálftavirkni er einnig einskorðuð við vestari gosreinina (Magnús Á. Sigurgeirsson, 2004). Gossprungur eru hátt á annað hundrað talsins ef hver sprunguhluti er talinn sér (Ari Trausti Guðmundsson, 2001). Neðansjávargos hafa verið allnokkur við Reykjanesið og má þar finna 11 gjóskulög úr slíkum gosum. Út frá þessum gjóskulögum má fá mikilvægar upplýsingar um gossögu eldstöðvakerfisins síðustu sex þúsund árin.
Sandfellshæð

Við langvarandi neðansjávargos þá myndast gjóskugígar en einnig getur gjóska myndast þegar goshrinur á landi verða og hraunið rennur til sjós. Þá verða miklar gufusprengingar (Magnús Á. Sigurgeirsson, 2004). Við Reykjanes hafa oft orðið til gígeyjar en þær eru einkar viðkvæmar fyrir rofafli sjávar og eyðast því fljótt en eftir standa sker og boð til vitnis um fyrrum tilveru þeirra. Sem dæmi um gígey má nefna Eldey sem er rétt suðvestur af Reykjanesskaganum.
Jarðfræðilega séð er Reykjanesskaginn enn að byggjast upp til suðvesturs og þó nokkur neðansjávargos hafa orðið suðvestur af honum á sögulegum tíma (Jón Jónsson, 1967). Á yngstu hraunflóðunum eru hvergi sprungur né misgengi sýnileg sem virðist benda til þess að tektónískar hreyfingar á þessu svæði gerast með ákveðnu millibili. Þetta gæti einnig átt við eldvirknina. Ekki er almennt vitað hvaða kraftar eru að baki sprungunum og misgengjunum og er vafasamt að áætla að það sé einungis spenna í jarðskorpunni sem orsaki það (Jón Jónsson, 1967).
Það eru tvær gerðir af eldfjöllum á Reykjanesskaga, þ.e. dyngjur og gossprungur. Dyngjurnar eru eldri og hafa ekki gosið á sögulegum tíma, þ.e. síðan um 800 AD. Stærstu dyngjurnar eru Sandfellshæð og Langhóll. Þær hafa gosið gráu dólerít, ólivín basalti svipuðu og finnst á Miðnesi og á Vogastapa en þau mynduðust á hlýskeiði. Það er einnig mögulegt að dyngjurnar hafi byrjað sem gos á gossprungu því þær eru staðsettar á rekbelti. Það virðist jafnframt sem það hafi orðið breyting á eldvirkni á einhverju tímabili því dyngjur hættu að myndast og gos á sprungum tóku við. Nokkrar af gossprungunum hafa líklega verið virkar á sögulegum tíma eins og Eldvörp og Stampar. Gos á sprungum tengjast með beinum hætti plötuskilunum og sum staðar hefur hraunið einfaldlega runnið út án þess að mynda gíga. Þar sem kvikan storknar og hleðst upp í kringum gosopið þá kallast það eldvörp og við endurtekin gos kallast það eldfjöll. Til eru margs konar eldvörp en flokkun þeirra fer eftir lögun gosops, gerð gosefna, tala gosa og magn og hættir gossins.
ReykjanesvitiDyngjur myndast við flæðigos þegar þunnfljótandi kvika rennur stanslaust upp um kringlótt gosop mánuðum eða jafnvel árum saman en einnig er líklegt að þær myndist við síendurtekin gos. Hlíðarhalli er oftast minni en 8°. Efst í dyngjunni er gígketill með lágum gígrimum. Eins og áður segir þá er einnig mögulegt að dyngjugos hafi fyrst myndast á sprungu en svo hafi eldvirknin færst á einn stað er leið á gosið (Þorleifur Einarsson, 1968).
Stærsta dyngja innan Reykjaneseldstöðvarkerfisins er Sandfellshæð og er um 12500- 13500 ára gömul. Skálafell og Háleyjar eru yngri en þó forsögulegar. Ofan á Skálafelli er lítil eldborg. Þráinsskjaldardyngja er flöt og breið dyngja og er um 12500-13500 ára eins og Sandfellshæð (Ari Trausti Guðmundsson, 2001).
Eldborgir myndast í þunnfljótandi gosum á kringlóttu gosopi í stuttum gosum án kvikustrókavirkni. Umhverfis gosopið hleðst svo upp gígveggur úr örþunnum hraunskánum eftir að það skvettist úr kvikutjörn upp á vegginn. Hraun rennur hinsvegar um göng neðarlega í gígveggnum og streymir langar leiðir undir hraunhellu eða í tröðum á yfirborðinu. Umkringis eldvarpið verður til flöt hraunbunga úr apal- eða helluhrauni. Eldborg undir Geitahlíð fyrir austan Krýsuvík er dæmigerð eldborg (Þorleifur Einarsson, 1968).
Þríhnúkar

Þegar kvikustrókavirkni verður á sprungugosum þá hlaðast gjallrimar eða eldvörp upp á stangli yfir sprungurásinni og mynda gígaraðir. Ef það kemur upp þunnfljótandi kvika stöku sinnum með millibili án kvikustrókavirkni þá verða til eldborgarraðir eins og Eldvörp og Stampar á Reykjanestánni. Algengast er að kvikustrókavirkni eða þeytigos samfara hraunrennsli úr sprungum myndi gjall- og klepragígaraðir. Eldvörpin eru þá samvaxin eftir sprungunni eða með mislöngum millibilum. Einstakir gjall- og klepragígar verða til við blönduð gos á kringlóttum gosopum. Upp þeytast svo hraunklessur sem annað hvort hálfstorkna í loftinu og fletjast svo út þegar þeir lenda og mynda sambrædda klepragígveggi eða þeir fullstorkna og mynda gjallhrúgöld. Eldkeilur myndast hins vegar við síendurtekin gos á kringlóttu gosopi en með mislöngum hléum á milli. Þau eru hlaðin upp úr hraun- og gosmalarlögum til skiptis.
Erlendis eru eldkeilur algengastar allra eldfjalla en þær eru afar sjaldgæfar á Íslandi eða aðeins um þrjár talsins þ.e. Öræfajökull, Snæfellsjökull og Eyjafjallajökull. Efst á eldkeilu er stór gígur. Eldhryggir myndast þegar gos verður á sömu sprungunni oftar en einu sinni sem er frekar óvenjulegt. Þá myndast þeir eftir sprungustefnunni og strýtulaga þvert á hana. Þekktasti eldhryggurinn á Íslandi er Hekla (Þorleifur Einarsson, 1968).
HraunÖsku- og sprengigígar myndast í sprengi- og þeytigosum. Upp hlaðast nær eingöngu laus gosefni eins og vikur og aska eða eingöngu bergmolar. Á kringlóttu gosopið hlaðast upp fagurlagaðir öskugígar en við þeytigos á sprungum myndast öskugígaraðir. Í sprengigosum eru megingosefnin vatnsgufa og gosgufur. Gígkatlarnir verða oft mjög djúpir þannig að þeir ná niður fyrir grunnvatnið og myndast því vatn innan í gígnum. Gott dæmi um sprengigíg er Grænavatn í Krýsuvík. Eldstöðvar sem gjósa líparítösku eru sjaldgæfari en þær sem nefndar voru hér að framan. Líparítkvika er seigari og því hrúgast hún oft upp yfir gosrásinni og rennur lítið til þaðan. Þannig gos eru nefnd troðgos og í þeim myndast hraungúlar sem geta verið mjög stórir.
Troðgos verða á stuttum sprungum eða kringlóttum gosopum og verða hraungúlarnir því oftast nær hringlaga. Eldvörp mynduð við gos í sjó eru svipuð móbergsfjöllum og verða þau ýmist hrygg- eða keilulaga í samræmi við lögun gosopanna og hlíðarbrattinn um 20-35%. Þegar hraunbunga hefur svo myndast ofan á gosmalarbinginn þá verður eldvarpið mjög álíkt móbergsstapa (Þorleifur Einarsson, 1968).

Hraun
Hraunakort (ATG)Flest helluhraun á Reykjanesskaga eru frá fyrri hluta nútíma og eru flest komin frá dyngjum eins og Skálafell og Háleyjarbunga. Frá síðari hluta nútíma en fyrir landnám eru til dæmis Eldborg og Búrfell. Nokkur stór og viðamikil hraun hafa runnið á Reykjanesskaga eftir landnám.
Á meðan kristnitakan fór fram árið 1000 þá rann mikið hraun úr gossprungu á vestanverðri Hellisheiði og hefur það verið nefnt Kristnitökuhraun. Yst á Reykjanesi eru tvö hraun sem koma frá gígaröðunum Eldvörpum og Stömpum. Þau þekja stórt svæði milli Reykjanestár og Grindavíkur (Ari Trausti Guðmundsson, 2001). Ögmundarhraun vestan Krísuvíkur er frá 1151 og rann í svokölluðum Krísuvíkureldum (Sigmundur Einarsson, Haukur Jóhannesson & Árný Erla Sveinbjörnsdóttir, 1991). Hraunið rann úr gígaröðum rétt austan undir Núpshlíðarhálsi og er samanlögð lengd þessara gíga um 5 km (Jón Jónsson, 1983). Í Krísuvíkureldum rann einnig Kapelluhraun, sunnan Hafnarfjarðar, sama ár og Ögmundarhraun. Þessi eldgosahrina er talin hafa komið úr Trölladyngjum og hefur henni lokið líklega árið 1188 með myndun Mávahlíðarhrauns (Sigmundur Einarsson o.fl., 1991). Oftast hefur þó gosið í sjó undan Reykjanesskaganum á sögulegum tíma. Síðast gaus þar 1879. Aðalgoshrinan í Reykjaneseldstöðvar-kerfinu hófst sennilega í sjó árið 1211 og stóð til 1240 og nefnist hún Reykjaneseldar.

HraunYngra-Stampahraunið rann í Reykjaneseldunum og mynduðust þar tvær eldborgir sem nefnast Stampar Yngri (Ari Trausti Guðmundsson, 2001). Yngra Stampagosið hefur sennilega orðið á 12-13. öld. Sérstætt við þetta gos er að gossprunga þess lá bæði í sjó og á landi og eru þeir yngsta myndunin á Reykjanesi og gígaraðirnar standa á um 4,5 km langri gossprungunni (Magnús Á.Sigurgeirsson, 1995).
Stampar Eldri mynduðust í Eldra-Stampahrauni fyrir 1500-1800 árum. Það gos byrjaði sennilega í sjó (Ari Trausti Guðmundsson, 2001). Eldri Stampagígaröðin liggur til norðausturs og er mjög slitrótt vegna þess að hún kaffærist á stöku stað af Yngra Stampahrauninu. Skammt austan við Eldra Stampahraun er víðáttumesta hraun á Reykjanesi sem nefnist Tjaldstaðagjárhraun. Það er úr 1 km langri sprungu sem liggur í norðaustur í framhaldi af Stampagígaröðinni og er það aðeins yngra en Stampahraunið (Jón Jónsson, 1983). Um 1227 aðeins austar við Stampa Yngri gaus í gígaröðinni Eldvörp. Þaðan rann Eldvarparhraun (Ari Trausti Guðmundsson, 2001). Eldvarparhraunið er talið vera um 2100 ára gamalt (Jón  Jónsson,1983).
Elstu hrauninTrölladyngjueldstöðvar-kerfið hefur tvö háhitasvæði þ.e. Krísuvík og Trölladyngja. Dyngjur eru aðeins þrjár en tvær þeirra, sem eru jafnframt nafnlausar, hverfa í skuggann af Hrútagjárdyngjunni sem er stærst þeirra. Hún myndaðist fyrir um 5000 árum. Gjall- og klepragígar eru algengastu gígarnir innan kerfisins. Hjá suðvesturenda Sveifluhálsar eru sprengigígarnir Grænavatn og Gestsstaðarvatn ásamt Augum. Þar hefur verið snörp eldvirkni
með mikilli gufu og gastegundum. Í mörgum hraunkúlum við Grænavatn eru hnyðlingar úr gabbrói sem bendir til slíks innskots í berggrunninum (Ari Trausti Guðmundsson, 2001) og gerir það svæðið afar merkilegt því gabbró hefur ekki fundist annars staðar á Suðvesturlandi. Grænavatn fékk nafnið sitt af græna litnum sem er tilkominn vegna brennisteinssambanda. Þetta vatn er meðal merkustu náttúrufyrirbrigða í sinni röð (Sigurður Þórarinsson, 1950).
Frægasta eldstöðin úr Trölladyngju er sennilega Eldborg sem reyndar er nú sundurgrafin. Í Brennisteinseldstöðvarkerfinu er Eldborg undir Geitahlíð en hún er stærsti gígurinn á þessari stuttu gossprungu sem gaus rétt fyrir landnám. Hún er djúpur og reisulegur gígur ásamt nokkrum minni. Nokkru sunnan við miðju kerfisins er að finna Brennisteinsfjöll sem draga nafn sitt af brennisteinsnámum sem þar voru á háhitasvæði sem hefur varma sinn frá innskotum í jarðskorpunni. Það eru þrjár dyngjur í kerfinu þ.e. Heiðin há við suðurenda MóbergBláfjalla og er langstærst með 3,6 km í þvermál og 516 metrar að hæð. Hún er sennilega um 7000-9000 ára. Hvirfill er dyngja frá síðasta frá síðasta jökulskeiði og Leitin er yngsta dyngjan og er um 4700 ára. Í Leitarhrauninu mynduðust Rauðhólar einnig. Fyrir um 2000 árum reið goshrina yfir Reykjanesskagann og myndaðist þá gígaröðin með Stórabolla og Eldborg við Drottningu (mynd 6) sem er einkar glæsileg eldborg og stendur hún við Bláfjallaveginn (Ari Trausti Guðmundsson, 2001).
Í Hengilseldstöðvarkerfinu er að finna þrjár dyngjur frá fyrrihluta nútíma. Stærst þeirra er Selvogsheiði sem er úr ólivínþóleíti en hinar eru minni og kannski eldri og nefnast þær Búrfell við Hlíðarenda og Ásadyngjan hjá Breiðabólsstað og eru þær úr pikríti. Gossprungur frá nútíma ná frá Stóra-Meitli í suðri að Sandey í Þingvallavatni í norðri og kerfið er stærsta eldstöðvarkerfið á Reykjanesskaganum. Margir gjall- og klepragígar liggja á gossprungunum og eru goseiningarnar um 20 talsins. Stærsti gjallgígurinn er Eldborg undir Meitli en hún er um 2000 ára. Gossprungurnar í Hengilseldstöðvarkerfinu eru yfirleitt þó ekki afkastamiklar (Ari Trausti Guðmundsson, 2001).
Samkvæmt Jóni Jónssyni (1983) þá hefur gosið á Reykjanesskaga allt að 12-13 sinnum frá því að landnám hófst en eins og áður segir þá hefur oftast gosið í sjó (Ari Trausti Guðmundsson, 2001).

Lokaorð
Reykjanesskagi er afar merkilegur jarðfræðilega, sögulega og náttúrufarslega séð.
• Þar má finna flestar gerðir eldfjalla, mörk Evrasíu- og Norður Ameríkuflekanna, háhitasvæði, sögulegar minjar
og fjögur eldstöðvarkerfi.
• Þar hafa orðið tvö gosskeið á síðustu tvö þúsund árum þar sem hvert stóð í um fjórar aldir og með þúsund ára hléi á milli. Oftast hefur þó gosið í sjó.
• Náttúrufar á Reykjanesskaga er afar viðkvæmt og jarðvegur sérstaklega opinn fyrir rofi sem, meðal annarra þátta, má mögulega rekja til mikillar beitar á svæðinu áður fyrr. Svæðið er einnig einkar opið fyrir vindi. Verndun svæðisins er því einkar mikilvægt málefni sem krefst brýnnar úrlausnar sem fyrst. Það er víst að á Reykjanesskaga myndi eldfjallagarður sóma sér vel og varla annað svæði sem myndi henta betur til þess þótt víða væri leitað. Á Reykjanesskaga má finna flestar tegundir eldfjalla og einstakt tækifæri til þess að skoða myndun og mótun hafshryggja á landi, ásamt því að hann er nálægt þéttbýlasta svæði landsins, sem gerir hann tilvalinn kost til frekari náttúruverndar og útivistarmöguleika. Eldvirknin með þessum stóru háhitasvæðum gerir hann jafnframt að eftirsóknarverðum kosti fyrir jarðhitavirkjanir. En það er stór og ekki síður mikilvæg spurning, hvor kosturinn sé meira virði, þegar til lengri tíma er litið.“

Heimildir:
Andrés Arnalds (1987). Ecosystem disturbance and recovery in Iceland. Arctic and Alpine Research, 19, 508-513.
Ari Trausti Guðmundsson (2001). Íslenskar eldstöðvar. Reykjavík: Vaka-Helgafell.
Ármann Höskuldsson, Richard Hey, Einar Kjartansson & Gunnar B. Guðmundsson (2007). The Reykjanesæ
Ridge between 63°10’N and Iceland. Journal of Geodynamics, 43, bls 73-86.
Fleicher, U. (1974). The Reykjanes Ridge – A Summary of Geophysical Data. Í Kristjansson, L. (ritstj.),
Geodynamics of Iceland and the North Atlantic Area (bls. 17-32). Dordrecht: D. Reidel Publishing
Company.
Guðrún Gísladóttir (1998). Environmental Characterisation and Change in Southwestern Iceland. Doktorsritgerð, Stockholm University, Stockholm.
Jón Jónsson (1967). The rift zone and the Reykjanes peninsula. Í Sveinbjörn Björnsson (ritstj.), Iceland and
mid-oceanic ridges (bls. 142-150). Reykjavík: Prentsmiðjan Leiftur h.f.
Jón Jónsson (1978). Jarðfræðikort af Reykjanesskaga – I. Skýringar við jarðfræðikort. II. Jarðfræðikort (Rit
Orkustofnunnar – Jarðhitadeild. OS JHD 7831). Reykjavík: Orkustofnun.
Jón Jónsson (1983). Eldgos á sögulegum tíma á Reykjanesskaga. Náttúrufræðingurinn, 52(1-4), 127-
139.
Landvernd (2007). Reykjanesskagi – Framtíðarsýn Landverndar um eldfjallagarð. Skoðað 8. apríl 2007 á
http://www.landvernd.is/flokkar.asp?flokkur=1776

Keilir

Keilir.