Tag Archive for: Reykjanesviti

Reykjanesviti

Í minnum manna skartaði Reykjanesviti skjaldarmerki Danakonungs – allt frá víxlu hans hinn 20. mars 1908 og fram til um 1970, eða í rúm 60 ár.
Reykjanesviti-fyrsti vitinn 1878Merkið þótti bæði stórt og myndarlegt, enda bæði góður vitnisburður um tilvist konungs og viðurkenningu hans á mikilvægi mannvirkisins. Hjá sumum hefur jafnvel sú minning lifað að konungur hafi sjálfur komið hingað til lands og verið viðstaddur afhendingu skjaldarmerkisins. Fyrir því stendur þó enginn stafur í skráðum heimildum. Í dag er ekki að sjá ummerki eftir skjaldarmerkið á vitahúsinu. Í ljósi þess er nauðsynlegt að skoða eftirfarandi skrif. –
Í „Sjómannablaðinu“ árið 1998 má lesa eftirfarandi um fyrsta vitann á Íslandi: „Fyrsti viti á Íslandi var byggður á Valahnúk á Reykjanesi. Það var hinn 1. desember 1878 að kveikt á Reykjanesvitanum og hann þar með tekinn formlega í notkun. Árið 1897 voru gerðar endurbætur á Reykjanesvita, en hann var orðinn illa farinn, einkum vegna jarðhræringa.
Jarðhræringarnar urðu það afdrifaríkar fyrir Reykjanesvitann að árið 1907 var svo komið, að verulega hafði hrunið úr Valahnúknum og ekki nema 10 m frá vitanum fram á brún, en holt undir og allt sundursprungið. Neitaði vitavörðurinn að vaka í vitanum, og var úr því ákveðið að byggja nýjan vita á Bæjarfelli [Vatnsfelli], sem er hóll nokkru ofar en Valahnúkur. Var nýi vitinn var reistur árið 1908, úr grjóti og steinsteypu, 22 m á hæð upp á pall, sívalur að innan, 2.5 m í þvermál, en keilumyndaður að utan, 9 m í þvermál neðst en 5 m efst. Er því veggþykktin 3.25 m neðst og 1.25 m efst“.
Í „Sjómannablaðinu Víkingur“ árið 1978 var þetta skrifað: „Fyrsti vitinn hér við land var Reykjanesviti, en hann var byggður 1878 og var kveikt á honum 1. desember það ár.
Síðan gerðist ekkert fyrr en 1897, en þá voru byggðir þrír Reykjanesviti 1944vitar. Þeir voru Garðskagaviti, Gróttuviti og vitinn sem stóð í Skuggahverfinu í Reykjavík. Upp úr aldamótunum fer svo þróunin að verða nokkuð hröð. Á þessum upphafsárum voru olíulampar ljósgjafinn í vitunum og brenndu þeir steinolíu.
Olíulamparnir kröfðust mikillar natni af vitavörðunum, sem auk þess að sjá um að næg olía væri fyrir hendi urðu að gæta þess að halda kveiknum og lömpunum hreinum og svo framvegis. En þess ber að geta að um aldamótin var ljósabúnaðurinn sérlega vandaður og mikið í hann lagt. Þetta var hreinasta völundarsmíð. Allt gler var handslípað, svo sem ljósakrónurnar og ljósbrjóturinn sem magnar upp ljósið. Þessi tæki eru enn í notkun sums staðar úti á landi, orðin hátt í aldargömul, en tvö þau elstu eru geymd sem safngripir á Siglingastofnun. Annað er úr eldri Garðskagavita og er frá 1897, en að sjá sem nýtt væri.“
Reykjanesviti-sjoldur-2Í „Óðni“ árið 1907 er sagt frá konungsskiptum í Danmörku: „Fyrir rjettu ári flutti »Óðinn« mynd Kristjáns konungs IX., sem, eins og kunnugt er, andaðist 29. jan. síðastl. og blöð okkar hafa einróma talið Íslandi allra konunga bestan. Friðrik konungur er fæddur 3. júní 1843, en Lovísa drotning 31. okt. 1851.“
Í „Skólablaðinu“ árið 1912 er þess getið að Friðrik VIII hafi dáið þann 14. maí 1912.
Í „Bjarma“ árið 1907 segir: „Hans hátign Kristján X. tók við konungdómi 15. maí 1912, þegar hinn vinsæli konungur Friðrik VIII. féll svo sviplega frá.
Fyrstur konunga vorra hafði faðir hans, Kristján IX., heimsótt land vort, á þjóðhátíðinni 1874, þegar hann kom með frelsisskrá í föðurhendi. Enginn Danakonungur hafði fyr stigið fæti á frónska grund. Friðrik VIII. heimsótti land vort, sumarið 1907. Þá voru sjálfstæðismál þjóðarinnar efst á baugi. Þá voru ungmennafélögin í uppsiglingu og fánamálið framarlega á dagskrá. Friðrik VIII. talaði í veizlu á Kolviðarhóli, um »ríkin tvö«, og þótti Íslendingum það vel mælt, en Dönum miður. Friðrik konungur hafði mikinn áhuga fyrir því, að látið væri að óskum Íslendinga um meira frelsi. En tilraunir þær, sem gerðar voru í hans tíð, mishepnuðust, og svo féll hann sviplega frá 1912.“
„Heimilisblaðið“ 1937: „Hinn 10. þ. m. kemur Friðrik IX. Danakonungur og Ingiríður drottning hans í opinbera heimsókn til Íslands, og er þetta sjöunda konungskoman í sögu landsins, en FReykjanesviti-skjoldur-3riðrik IX er fjórði konungurinn, sem sækir landið heim. Fyrstur kom langafi hans, Kristján IX., á þúsund ára afmæli byggðar landsins 1874; þá afi hans, Friðrik VIII., árið 1907 og loks faðir hans, Kristján X., en hann kom fjórum sinnum til Íslands í valdatíð sinni, árin 1921, 1926, 1930 og 1936.“
Í „Sunnudagsblaðinu“ árið 1956 er sagt frá því að „þann 20. mars 1908 var kveikt á núverandi Reykjanesvita sem er 73 metra yfir sjávarmáli“.
Loks segir frá byggingu þriðja vitans á Reykjanesi í „Morgunblaðinu“ árið 1998: „Árið 1947 var síðan Litliviti byggður á bjargbrúninni skammt austan við Blásíðubás. Sama ár voru ný hús byggð yfir vitavörðinn í stað þeirra eldri, sem ummerki sjást ekki eftir í dag“.
Ekki er getið um skjöldinn í bókinni „Vitar á Íslandi“ frá árinu 2002. Hann (þeir) hangir uppi á vegg Siglingastofnunar að Vesturvör 2 í Kópavogi, tignarlegir á að líta og greinilega vel um haldið. Þegar FERLIR hafði samband við stofnuna brást starfsmaður hennar, Baldur Bjartmarsson, mjög  vel við; upplýsti um tilvist skjaldarins og gaf góðfúslega kost á ljósmyndun hans.
Skjöldurinn sjálfur, sem er úr pottjárni og nánast mannhæðar hár, er með skjaldarmerki Kristjáns IX. og kórónu að ofan. Undir er spjald með áletrunni 1908 (MCMVIII). Til hliðar er annar skjöldur, minni, einnig úr pottjárni, með skjaldarmerki Friðriks VIII., en sá skjöldur hafði verið skrúfaður hafði verið yfir hinn.
Reykjanesviti-skjoldur-4Spjald við skjöldinn á vegg Siglingastofnunar: „Fyrsti viti á Íslandi var byggður á Reykjanesi 1878 og endurbyggður á öðrum stað 1908. Þetta konungsmerki var sett á seinni bygginguna. Eftir að Friðrik VIII. tók við stjórnartaumunum var neðra merkið sett yfir það fyrra“.
Hafa ber í huga, samanber ofangreint, að Friðrik VIII. var konungur yfir Íslandi þegar vitinn var vígður, en ekki faðir hans Kristján IX., sem dó 1907. Líkast til hefur skjöldurinn þegar verið mótaður í tíð Kristjáns, en honum síðan breytt viðeigandi eftir andlát hans.
Að sögn Konráðs Óla Fjeldsteds man vel eftir skildinum á vitanum. Hann hefði verið settur upp í tilefni af víxlu hans 1908. Flaggað hafði verið með hárri flaggstöng og stórum dönskum fána á Stanghól gegnt vitavarðarhúsinu af því tilefni. Sjálfur hefði hann haldið að konungur, Friðrik VIII., hefði komið til landsins af því tilefni, en þó hafi það ekki verið víst, sjálfur væri hann fæddur 1943. Skjöldurinn hefði síðan hangið uppi allt þangað til vitinn var múraður síðast, líklega um 1970. Þá hafi skjöldurinn verið færður inn eftir og ekki sést síðan. Skjaldarmerki konungs hefði einnig verið á ljósakúplinum í vitanum. Áður hefði verið þar gaslukt, en konungur hefði einnig gefið nýtt ljósker í tilefni víxlunnar.
Þarna er kominn skýringin á skjaldarmerkinu sem og á þeim tveimur merkjum konunga Íslands sem og tilvist þess á nýjum stað.
Skjaldarmerkið verður 105 ára á þessu ári (ef miðað er við uppruna þess). Því má með sanni telja það til fornminja sbr. ákvæði þjóðminjalaga. Lagt er þó til að skjaldarmerkið (skjaldarmerkin) umrædda verði fært aftur á upprunalega sögustaðinn – á Reykjanesvitann, þar sem það myndi sóma sér vel og vekja forvitni og aðdáun ferðamanna á svæðinu um ókomna tíð.

Heimild:
-Sjómannablaðið, 61. árg. 1998, 1. tbl., bls. 119.
-Baldur Bjartmarsson, Siglingastofnun.
-Sjómannablaðið Víkingur, Steingrímur Jónsson, 40. árg. 1978, 11.-12. tbl. bls. 21-26.
-Óðinn, 2. árg. 1906-1907, 1. tbl. bls. 2.
-Skólablaðið, 6. árg. 1912, 6. tbl., bls. 81.
-Bjarmi, 1. árg. 1907, 14. tbl., bls. 105.
-Heimilisblaðið, 26. árg. 1937, 5. tbl. bls. 67.
-Sunnudagsblaðið, 8. apríl 1956, bls. 129.
-Morgunblaðið 1. des. 1998, bls. 78.
-Vitar á Íslandi, Leiðarljós á landsins ströndum 1878-2002, Guðmundur Bernódusson, Guðmundur L. Hafsteinsson og Kristján Sveinsson, Siglingastofnun, 2002.
-Konráð Óli Fjeldsted, f. 1943, Reykjanesbæ, sonur Sigurjóns Ólafssonar vitavarðar í Reykjanesvita.

Reykjanesviti

Reykjanesviti.

Reykjanesviti

Þótt í dag liggi malbikaður vegur út að Reykjanesvita, bæði frá Grindavík og Höfnum, er alls ekki svo langt síðan að þangað var gerður akvegur.
Reykjanesvegir-22Áður lá reið- og samliggjandi vagnvegur frá Kalmannstjörn allnokkuð ofan Hafnarbergs út á Reykjanes, en það var ekki fyrr en á árunum 1926-1928 að ruddur var vegur frá Reykjanesvita að Stað við Grindavík. Eftirfarandi má t.d. sjá í Alþýðublaðinu árið 1926 undir fyrirsögninni „Vegarbætur“:
„Umhverfis Reykjanessvita eru, eins og mörgum er kunnugt, mestmegnis hraun og sandar. Götutroðningarnir þangað úr Grindavík og Höfnum hafa og lengi lélegir verið. Nú hefir Ólafi Sveinssyni vitaverði tekist að fá 500 kr. af fjallvegafé til að ryðja veg til Grindavíkur, og hafa orðið ótrúlega mikil not af þeim krónum í höndum hans. Hann hefir í sumar gert akfæran veg eftir sandinum austur á móts við vík þá, er Mölvík heitir. Var þar áður talin hálfnuð leið að Stað í Grindavík, en ruddi kaflinn er nú allmiklu styttri, því að hann er ólíku beinni en gamla gatan og liggur miklu lengra frá sjó. Því er honum og óhætt fyrir sjávarágangi, þar sem sjór flæðir í hafróti á köflum yfir gömlu götuna.
Reykjanesvegir-23Þó hefir ólafur enn eigi notað nema 300 kr., en býst við að koma brautinni nokkuð austur í Grindavíkurhraunið fyrir þær 200 kr., sem eftir eru, — austur fyrir svo nefnda Hróabása. Er ólíkt að ferðast ríðandi eftir rudda kaflanum eða hinum, sem óruddur er, ellegar gömlu götunni – vestur frá Mölvík, svo sem þeir, er ferðast þar um, geta komist að raun um. Þeir, sem fara út á Reykjanes nú næstu daga Grindavíkurleiðina, ættu að skygnast. eftir brautinni þegar aðalhrauninu lýkur. Hún er lengra upp til heiðarinnar en gamla gatan, en blasir við í nokkrum fjarska. Er hestum fært þangað upp eftir frá Mölvíkinni, ef gætni er við höfð, þó að ógreitt sé, eins og víða á þeim slóðum, og ekki verra en sums staðar eftir gömlu götunni.
Reykjanesvegir-24Ólafur býst við, að geta gert veg að Stað í Grindavík, svo að fær sé bifreiðum, fyrir 2 þúsund krónur, þ. e. 1500 kr. í viðbót við þá fjárveitingu, sem þegar er fengin. Væri það mikið hagræði ferðamönnum, sem fara til Reykjaness, og þeir eru talsvert margir, að komast alla Ieiðina í bifreið í stað þess að verða að ganga langa leið eða fá hesta og ferðast á þeim eftir ógreiðum hrauntroðningi. Sá hlutinn, sem hær er Grindavík, er næstum óslitið hraun, og því er seinlegra og erfiðara að ryðja þar braut en eftir sandinum, þó að miklu grjóti hafi orðið að ryðja þar burtu; en Ólafur Sveinsson hefir sýnt, að honum er trúandi bæði fyrir verkinu og peningunum. Alt of seinlegt er að draga vegarbótina í fjögur ár, með einna 500 kr. fjárveitingu á ári. Þær 1500 kr., sem eftir eru, þurfa að fást að vori, svo að brautin verði fær alla leiðina haustið 1927.

Reykjanesvegir-25

Það eitt er hagkvæmt í þessu máli. — Enn fremur hefir Ólafur Sveinsson gert akfæra braut frá vitavarðarhúsinu út að svo nefndum Kerlingarbási, sem er nálægt sjávarklettinum Karli —, og niður í básinn, og lagað þar svo til við sjóinn, að þar má lenda báti. Hygst hann að nota básinn fyrir vör. Annar lendingarstaður, sem áður hefir verið lagður vegur að, — á Kistu —, er miklu lengra burtu, og einnig hagar svo til, að Ól. Sv. býst við, að oft megi lenda á öðrum þeim stað, þótt ófært sé á hinum.“
Í Lesbók Morgunblaðsins 1960 er einnig fjallað um framangreinda vegagerð: „Við göngum upp á hæð fyrir ofan bæinn og horfum til hafs. Það brimar fyrir Stað þótt logn sé undan Grindavík. — Við okkur blasir nokkurra kílómetra löng strandlengja, suðurströnd Reykjanesskagans…. Við erum að leggja upp í leiðangur eftir tröllaveginum út að vita…

Reykjanesvegir-26

Erindið hingað var meðal annars að kanna veginn út að vita, og jafnframt að njóta leiðsögu hins örnefnafróða Staðarbónda, sem jafnframt kann öðrum fremur að segja sögu sjóslysanna hér um slóðir, því hann hefur um áratugi verið ekki aðeins áhorfandi harmleikanna, heldur líka og oftar virkur þátttakandi í baráttunni milli manns og hafs um líf einstaklinganna. Manni [Gamalíal Jónsson] er nefnilega fæddur í Reykjanesvita sama árið, sem kveikt var á nýja vitanum. Það mun hafa verið árið 1908. Faðir hans var þriðji vitavörðurinn á Reykjanesi og gegndi þeim starfa um tuttugu ár. Á þessari strönd sleit Manni barnsskónum og stælti manndómsþrek sitt.
Reykjanesvegir-27Þorvaldur Thoroddsen var á ferð hér á þessum slóðum árið 1883, og segir hann í ferðabók sinni: „Af Reykjanesi fórum við 11. ágúst inn í Grindavík. Þar er enginn vegur, en eintóm hraun yfir að fara. Alls staðar liggur hér mesti urmull af rekatrjám í fjörunni, og heyrir það allt undir kirkjuna að Stað í Grindavík.“ Síðan eru liðnir röskir þrír aldarfjórðungar, og hálfgerð vegleysa er þetta enn.
…Nú er að hyggja að öðru og þá fyrst og fremst veginum til vitans. Vegalengdin frá Grindavík út á Reykjanes, að vita, mun vera um 10 kílómetrar. Frá Stað til Reykjaness er í sæmilegu gangfæri tveggja tíma gangur. Sá, sem gerði þann veg, sem nú er notazt við, var Ólafur Sveinsson, vitavörður á Reykjanesi. Var það á árunum 1926—’28. Bar hann að mestu grjótið í veginn. Ólafur er sagður hafa verið mikill atorkumaður. Veginn lagði hann til þess að komast með hestvagn til Grindavíkur og auðvelda sér þannig aðdrættina. Það mun hafa verið haustið 1928, sem fyrsti bíllinn fór út í Mölvík. Lengra komst hann ekki. „Vitasjóður lagði svo eitthvað í veginn á hverju hausti, en þetta var svo lítið, að það var svona viku tíma á ári, sem unnið var fyrir tillag hans“, bætir Staðarbóndinn við.
Lagt er í torleiðið á tveggja drifa bíl, og við höldum áfram að spyrja um veginn, hvort nokkurn tíma hlaði snjó á hann að ráði. Ekki er það talið vera og oftast hægt að komast hann. þótt fenni. Það er á tveim stöðum, sem hættast er við snjóþyngslum. „Það er hérna austur undir Stað í gjá,“ segir Manni, „en þar mætti breyta veginum, leggja hann uppi á barðinu í stað þess að fara ofan í gjána, og svo er það Lynghólahraunið sem er farartálmi.
En það ætti ekki að vera mikið að ryðja það með þessum stórvirku tækjum. Þetta er ekki nema örstuttur Reykjanesvegir-28spotti,“ bætir hann við.
Framundan er nú óbyggð eyðimörk, allt út að vita. Þetta er ábyggilega ein mesta grjótkista landsins. Við rétt sníglumst áfram. Umhverfis er bara hraun og hraun og aftur hraun. Ekkert lífsmark, enginn fugl, enginn hrafn og ekki einu sinni tófa. En jafnvel í þessari auðn ríkir máttur vanans, því að hinn ágæti bílstjóri kveikir á stefnuljósi, þegar hann skrönglast fyrir hraunbeygjurnar. Eina kennimerkið eftir nokkuð kvikt eru spor í snjónum í vegarhvörfunum, en þau spor eru bara eftir Manna og hundana hans… Bíllinn tekur geisilegan hnykk. Það hefur verið þarna gjóta í vegarhvarfi, sem bílstjórinn hafði ekki komið auga á, því varð hann að snarbeygja. Það var auk þess runnið svo úr veginum, að önnur vegbrúnin var gersamlega horfin og skriðin í burtu. Ég spyr, hvort ekki hafi neitt verið unnið að lagfæringu vegarins í haust. „Það var ekið í hann einn dag á leiðinni út til mín,“ svarar Manni stuttaralega.

Reykjanesvegir-29

Við ræðum vegarspursmálið fram og aftur, nauðsyn vegarbótar, og Manni lýsir, með hvaða hætti skuli framkvæma hana, og honum farast orð eitthvað á þessa leið: „Það mesta, sem þarf að laga, er bara að aka ofan í veginn frá Reykjanesi og austur á Bása. Það er búið að aka ofan í að Hveravöllum, og það þarf að halda því áfram frá Hveravöllum austur á Bása. Svo er eins og kílómeterslengd, sem þarf að gera eitthvað meira við. Það eru sléttar klappir og vont að aka þær. Það þarf annað hvort að taka þar horn af og láta stórýtu vaða yfir hraunhornið ofar en vegurinn er og austur yfir Lynghólahraunið, en úr því þarf ekkert annað en aka ofan í það. Það er ódýrast.“ Ég finn, að Manna liggur þessi vegagerð mjög á hjarta, svo ég geng hreint til verks og spyr: „Og þú heldur sem sagt, að það hefði getað munað mannslífum, ef þessi vegur hefði verið gerður?“

Reykjanesvegir-30

Brosmilt andlit Staðarbóndans verður mjög alvörugefið, og það kemur djúp hrukka milli augnanna og aðrar skáhallt upp af hvoru auga, er hann segir með þunga: „Já. Það er ábyggilegt, að ef það hefði verið brim, þegar Jón Baldvinsson fórst, þá hefði það getað munað miklu að vera kominn hálftíma eða klukkutíma fyrr út eftir. Í stað þess að við vorum, ég man ekki með vissu, víst eitthvað á þriðja klukkutíma á vörubíl… Eins var það með Clam, þá urðum við líka að aka þessa vegleysu með fullan bíl af fólki. Vörubílarnir urðu að taka ytri barðana af sér til þess að komast áfram. Allt tafði þetta. Við urðum líka að bíða til þess að hafa nógan liðsafla, ef ýta þyrfti bílunum. Ég er alveg viss um, að þetta hefur allt tekið eina þrjá klukkutíma. Það hefði verið munur að geta stokkið strax, nokkrir menn, með slysavarnartækin og skotizt út eftir á góðum vegi.

Reykjanesvegir-31

Þeir fórust 27 á Clam eins og þú veizt,“ bætir hann við.
„Já. Ég gæti sagt þér eitt og annað af sjóslysunum hérna fyrr og síðar. Það hefur oft munað mjóu, og þó ekki alltaf nógu. Fyrsta sjóslysið, sem ég man eftir, var 1916. Þeim hafði borizt á í Katrínarvíkinni. „Resolut“ hét það víst skipið. Einn synti í land með spotta, og hinir voru dregnir á eftir. — Þrímöstruð skúta, saltskip, strandaði skömmu síðar við Þorkötlustaðanesið. — Svo var það franski togarinn Cap Fagnet, sem fór upp á Hraunsfjörum í marz 1931, og þá var í fyrsta sinn skotið af línubyssu við björgunarstarf. Hann hét Guðmundur Erlendsson, sem skaut. Sjálfur drukknaði hann fáum árum síðar í róðri á trillu, en þarna björguðust 38 menn af franska togaranum. Svo strandaði Skúli fógeti hér á Staðarmölum… Eitt árið strandaði færeysk skúta á Ræningjaskeri framan við endann á Staðarhrauni og öll áhöfnin fórst. Þá var það Clamslysið. Það var hinum megin á nesinu, rétt innan við litla vitann. Ég kom með þeim fyrstu þarna að. Skipið hefur ekki verið nema svona 30 faðma frá landi. Hann var suðlægur, nokkurt brim. Þeir fóru í bátana, svo liggur hann niðri og svo slepptu þeir og ætluðu sér að róa upp að landinu, en þá er straumur þarna í röstinni svo mikill, að hann kastaði þeim og bara hvolfdi bátunum strax.
Við sáum það, þegar við vorum að koma Reykjanesvegir-32að, við Björn heitinn, sem var skipstjóri á Grindvíking, Hann fór með mér. Það var komið fljótlega með tvo skipbrotsmenn á jeppa. Ég fór að Reykjanesi til þess að hjálpa konu vitavarðarins með þá. Bar þá inn og skar utan af þeim fötin. Það var svo mikil bakkerolía í þeim, að þau voru alveg límd við skrokkinn. Þetta voru Kínverjar. Þegar ég kom með hnífinn og risti utan af, greip hann ofsahræðsla, og hann veinaði upp, því að hann hefur víst haldið, að ég ætlaði að gera á sér kviðristu. Frúin helt, að Kínverjinn væri að geispa golunni, enda hafði hann ekki meiri mátt en svo, að ég gat haldið honum með annarri hendi í klofinu, á meðan eg risti utan af honum tuskurnar. Þeir lifnuðu svo við.“
Og Gamaliel Jónsson bóndi á Stað lýkur máli sínu með að segja: „Ég tel það hreinan glæp, að ekki skuli vera lagður þarna góður vegur. Hvert eitt mannslíf, sem bjargast, borgar þann veg að fullu.“
Þetta sagði hann bóndinn á Stað, sem í áratugi hefur skimað til hafs, þegar stormarnir æða fyrir suðurströndinni og jötuneflt brimrótið molar björgin á Reykjanesi… Við skulum nefna þenna veg, sem lagður verður frá Oddsvita að Reykjanesvita, og fyrst og fremst á að hafa þann tilgang að bjarga mönnum úr sjávarháska: „Oddsbraut“, í minningu hins mikla brautryðjanda slysavarnanna á Íslandi, séra Odds Gíslasonar að Stað í Grindavík.“
Frábært veður. Gangan tók 6 klst og 6 mín.

Heimild:
-Alþýðublaðið, 20. ágúst 1926, bls. 2.
-Lesbók Morgunblaðsins, Birgir Kjaran: „Svipast um á Suðurnesjum“, 8. maí 1960, bls. 245-249.

Reykjanesviti

Reykjanesviti.

Vatnshólavarða

Gengið var eftir Melabergsleið (Hvalsnesleið), upp að Vatnshólavörðu og síðan var leiðinni fylgt áfram um Miðnesheiðina að hringtorginu austan við Leifsstöð.

Melaberg

Melaberg.

Vatnshólavarðan sést vel frá Melabergsvötum. Þegar komið var framhjá þeim blasti Leifsstöðin við – inngöngudyr ferðamanna til Íslands. Á leiðinni var tækifærið notað og vöngum velt yfir stöðu og framtíð ferðaþjónustunnar á svæðinu.
Undanfarin ár hefur ferðamönnum fjölgað verulega hér á landi. Fjöldi þeirra er nú um 360.000 á ársgrundvelli og hefur verið að fjölga um 12-14% að jafnaði á milli ára. Ekki er því langt að bíða þangað til fjöldi þeirra verður kominn í milljónamarkið. Áður en það verður þurfa hagsmunaðilar ferðaþjónustunnar þó væntanlega að vera búnir að ákveða hvernig þeir vilja stýra ferðamennskunni og ferðum gestanna hér um land með hliðsjón að undirbúningi á einstökum svæðum.

Keflavíkurflugvöllur

Keflavíkuflugvöllur.

Í ljósi breytinga í atvinnumálum og nær ótæmandi möguleikum á Suðurnesjum er ljóst að mikilvægt er að stuðla að eflingu atvinnulífsins t.d. með verulega aukinni þjónustu. Það er m.a. hægt að gera með því að nýta þá ótrúlegu kosti sem svæðið býður upp á. Aðstaðan er einnig mjög góð til fiskeldis, og svo er nauðsynlegt að hlúa að þeirri starfsemi sem fyrir er, þ.á.m. sjávarútvegi og iðnaði. Til að mæta samdrætti í starfsemi á Keflavíkurflugvelli þarf að skapa ný störf í öðrum greinum, einkum iðnaði og þjónustu, ekki síst ferðaþjónustugreinum.

Melabergsleið

Melabergsleið – vörður.

Eitt af forgangsverkefnunum er að að skapa Suðurnesjum jákvæða ímynd í hugum fólks og nýta vel þá kosti sem svæðið hefur upp á bjóða, s.s. alþjóðaflugvöllinn og nágrenni hans, orkulindir til iðnaðarframleiðslu, ágæta hafnaraðstöðu og hina einstöku sagnfræðilegu, náttúru- og jarðfræðilegu möguleika til að stórefla ferðaþjónustu, helsta vaxtarbroddinn í íslensku atvinnulífi.
Hingað til hefur mikið verið fjallað um vilja til aðgerða. Sumu hefur og verið komið í framkvæmd. Í skýrslum, sem gerðar hafa verið og gefnar út á undanförnum árum um þetta efni, má t.d. lesa um;
a) hugleiðingar Samgönguráðuneytisins frá árinu 2002 þar sem fjallað er um framtíðarsýn í íslenskri ferðaþjónustu og m.a. fjallað um ímynd Íslands, umhverfismál, gæða- og öryggismál, menntamál, samgöngumál, byggðamál, skipulag ferðamála, rekstrarumhverfi og markaðsmál. Þá segir að meginþættir ferðaþjónustu séu fjórir: ferðafólkið, fyrirtæki og stofnanir, opinber þjónusta og áfangastaðurinn. Hugmyndafræði sjálfbærrar þróunnar er lögð til grundvallar framtíðarsýninni.

Brimketill

Brimketill.

b) efni Ferðamálaráðs Íslands 2002 um Auðlindina Ísland með hliðsjón af ferðaþjónustusvæðum þar sem markaðssvæðin eru skilgreind, sérstaða þeirra dregin fram, teknar saman fyrirliggjandi upplýsingar, seglar skilgreindir og tillögur gerðar.
c) framsetningu Samgönguráðuneytisins um íslenska strandmenningu árið 2004 þar sem er fjallað um gæðaferðaþjónustu, markaðsrannsóknir og frumkvöðlastarf.
d) fróðleik frá samgönguráðuneytsiins um menningartengda ferðaþjónustu 2002 þar sem er fjallað um íslenska menningu og ferðaþjónustu sem og nútímamenningu Íslendinga og nauðsyn stefnumörkunar.
e) tillögur samgönguráðuneytisins um stefnumörkun íslenskrar ferðaþjónustu 1996 þar sem er kannað með áhuga og möguleika hinna einstöku þjóða að nýta sér Ísland sem ferðamannaland.
f) og einnig má sjá rit frá ferðamálaráðstefnu Reykjavíkurborgar 2004 þar sem ræddir voru styrkleikar og veikleikar Reykjavíkur skilgreindir og gerðar tillögur um markaðassetningu borgarinnar til ferðamanna.

Melabergsvegur

Melabergsvegur.

En svo virðist sem eitt nærtækasta, en jafnframt eitt áhugaverðasta ferðamannasvæðið (a.m.k. fyrir Íslendinga), hafi orðið mikið til útundan, þ.e. Suðurnesin og Reykjanesskaginn allur. Yfirleitt er getið um að þar sé „útsýni mikið og fagurt“, þar megi finna „áhugaverða staði“ og eru þrír slíkir jafnan nefndir til sögunnar, þ.e. Svartsengi, Bláa lónið og Reykjanesviti. Jafnframt að á svæðinu sé fuglalíf og strandir.
Í raun býður svæðið upp á allflest það sem aðrir landshlutar hafa upp á að bjóða, hvort sem lýtur að jarðfræði, náttúru, menningu eða sögu. Dvalartími útlendinga er að styttast og margir koma hingað í öðrum tilgangi en áður, þ.e. til ráðstefnu eða fundarhalda eða í viðskiptaerindum. Þetta fólk þarf oft að bíða hálfan eða heilan dag eftir flugi. Hvaða svæði er þá nærtækara til að nota því til handa en Suðurnesin? Þar er hægt að fara í stuttar ferðir, hvort sem er akandi eða gangandi, skoða fallega hraunhella, þjóðsagnakennda staði, ómótstæðilega náttúru, fuglabjörg, minjar frá upphafi búsetu, nútímahraun, gamlar leiðir markaðar í bergið, eldgíga, atvinnu- og byggðasöguna, verstöðvar, sjóslys, drauga- og huldufólksstaði og svona mætti lengi telja – eða einfaldlega njóta útiveru í fallegu umhverfi. Þá eru afþreyingarmöguleikar sennilega hvergi meiri en á þessu svæði.
En þetta er s.s. allt vitað – og meira til – og eflaust munu hlutaðeigandi aðilar ætla að nýta sér þetta allt til handa framtíðargestunum að utan sem og landsmönnum öllum.
Umhverfið rann saman við vangavelturnar og ferðahugleiðingarnar á leiðinni, en veðrið var frábært.
Gangan tók 1 klst og 11 mín.

Reykjanes

Á Reykjanesi.

Valahnúkur

Í bókinni „Sjómannasaga“ eftir Vilhjálm Þ. Gíslason er m.a. sagt frá gamla Reykjanesvitanum: „Ein af helstu framfaramálum þessara umbrotaára fyrir aldamótin [1900], voru vita og hafnamál. Alla tíð hafði Íslandsströnd verið dimm og vitalaus, enda hafði einlægt verið reynt að haga millilandasiglingum svo, að þær lentu í langdegi og björtum nóttum.
Reykjanesvitinn 1878En vitanlega bar skip oft að landi í skammdegi og myrkri. Fiskimenn á vetrarvertíðum áttu oft harða sókn gegn hættum myrkursins. Þegar siglingar aukast og  skipaferðir með ströndum fram, vex vitanlega þörfin á því að fá ljósmerki og vita. Danska stjórnin tók fyrst þunglega óskum Íslendinga um vita. Undireins og Íslendingar fá sjálfir stjórn fjármála sinna, fara þeir að hugsa um vitabyggingar. Halldór Kr. Friðriksson og Snorri Pálsson hreifa málinu á Alþingi 1874 og Grímur Thomsen ljet þessi mál einnig til sín taka. Fyrsti vitinn var reistur á Reykjanesi, bygður af Rothe, og var fyrst kveikt á honum 1. des. 1878. Vitinn kostaði tæpar 3 þús. krónur, en ljóstækin voru gefin frá Danmörku.
Arnbjörn Ólafsson var fyrsti vitaðvörðurinn og hafði hann kynt sjer vitavörslu í Danmörku. Vitavarðarlaunin voru 900 kr. á ári, en voru brátt hækkuð upp í 1200 kr. Síðan var Jón Gunnlaugsson lengi vitavörður (1884-1902). Nýr viti var reistur á Reykjanesi 1907-08. Reykjanesviti var lengi eini viti landsins. Upp úr 1880 er farið að veita 500 til 1000 kr. á ári til þess að koma upp ljósvörðum, en ekki var framkvæmdin meiri en svo, að þessar fjárveitingar voru ekki einægt notaðar. Árið 1884 var reist ljósvarða á Garðskaga. Einstakir útgerðarmenn beittu sjer fyrir framkvæmdum eða reistu vita á sinn kostnað eins og Otto Wathne á Dalatanga. Árið 1897 voru reistir vitar á Garðskaga, í Gróttu og í skuggahverfinu í Reykjavík. Jón Helgason var lengi vitaðvörður á Garðskaga, og síðan Ísak Sigurðsson, en Þorvarður Einarsson í Gróttu.“

Heimild:
-Vilhjálmur Þ. Gíslason, Sjómannasaga, 1945, bls. 476-470.

Reykjanesviti í byrjun aldar

Reykjanesviti

Áhugaverðri sýningu um Reykjanesvita og sögu sjóslysa á Reykjanesi hefur verið komið upp í „Radíóhúsinu“ neðan við vitann undir yfirskriftinni „Leiðarljós í lífhöfn„.

Reykjanesviti

Reykjanesviti – upplýsingaskilti.

Eftirfarandi umfjöllun um sýninguna birtist í Víkurfréttum 23. okt. 2021:
„Þetta er skemmtilegt verkefni sem við byrjuðum á árið 2018 þegar við settum upp skjöldinn á Reykjanesvita og í framhaldi af því tókum við þetta húsnæði á leigu og höfum verið að taka það í gegn. Það hefur verið málað að utan sem innan og skipt um glugga.

Hallur J. Gunnarsson

Hallur J. Gunnarsson við nafnatöflu þeirra u.þ.b. 3400 Íslendinga, sem fórust á sjó á 20. öld.

Það er alveg draumur að sjá að þetta sé að smella,“ segir Hallur J. Gunnarsson sem fer fyrir Hollvinasamtökum Reykjanesvita. Félagsskapurinn opnaði sýninguna Leiðarljós í lífhöfn – Saga Reykjanesvita og sjóslysa í gamla vélarhúsinu við Reykjanesvita á safnahelgi á Suðurnesjum. Sýningin er samstarfsverkefni Hollvinasamtaka Reykjanesvita og nágrennis og Byggðasafns Reykjanesbæjar. Sýningarstjóri og hönnuður er Eiríkur P. Jörundsson.

Reykjanesviti

Upplýsingar um nöfn látinna Íslendinga á sjó á 20. öldinni.

Hallur bauð FERLIRsfélögum að skoða sýninguna, en hann fékk m.a. til liðs við Hollvinasamtök Reykjanesvita við uppsetningu sýningarinnar.

Reykjanesviti

Reykjanesviti – sýningin er í húsinu lengst t.h.

Sýningin á Reykjanesi er í húsi sem var byggt 1936 sem radíóviti en hefur lengi vel verið kallað vélarhús. Nú stendur til að merkja húsið sem radíóvita en auk sýningarrýmis er í húsinu salernisaðstaða fyrir ferðafólk sem leggur leið sína að Reykjanesvita.

Gríðarlegur tollur til Ægis konungs

Reykjanesviti

Reykjanesviti.

Eiríkur P. Jörundsson kom að uppsetningu sýningarinnar um Reykjanesvita og sögu sjóslysa við Reykjanesskagann. Hann segir efnið vera á sínu áhugasviði en Eiríkur skrifaði meistararitgerð um fiskveiðar við Faxaflóa og vann í áratug á Sjóminjasafninu í Reykjavík. „Ég þekki þessi mál vel og hef kynnst þeim og það hefur verið mjög gaman að taka þátt í þessu verkefni. Þetta er svo gríðarlega mikil saga þegar við tökum sjóslysin inn í þetta og tengjum það við samfélagið sem er að breytast og uppbygging á þessu neti vita í kringum landið og hvernig menn hafa verið að bæta öryggi sjófarenda. Þetta var rosalegt á síðustu öld og reyndar um aldir. Árabátarnir fórust hér alveg umvörpum og þetta var mikið högg fyrir þessi litlu samfélög.

Reykjanesviti

Reykjanesviti – fjölmargir sjóskaðar hafa orðið við Reykjanesið í gegnum tíðina.

Á vegg hér á sýningunni verðum við með nöfn allra þeirra sem fórust í sjóslysum við Íslandsstrendur ár 20. öldinni. Það er gert sem virðingarvottur og að fólk átti sig á því hvað þetta er mikið fyrir þessa litlu þjóð. Megnið af þessum sjósköðum urðu á fyrri hluta aldarinnar. Þetta eru um 3.400 manns sem fórust á síðustu öld en það eru að jafnaði 35 manns á ári alla síðustu öld og þætti mikið í dag. Á fyrri hluta síðustu aldar voru þetta 54 sem fórust að meðaltali á ári á árunum 1900 til 1950 og þá var íslenska þjóðin innan við 180.000 manns. Þetta voru gríðarlegir tollar sem við vorum að greiða Ægi konungi fyrir afnot af hafinu og fiskimiðunum.“

Engum datt í hug að sigla til Íslands á veturna

Reykjanesviti

Reykjanesviti. Efnisöflun fór landleiðina. Gjótið í fyrsta vitann, sem og í þann síðari, var unnið úr hraunhellu vestan Valahnúks.

Hversu mikið mál var það árið 1878 að reisa fyrsta vita landsins hér á Reykjanesi og af hverju var hann staðsettur hér?

Reykjanesviti

Reykjanesviti – Valahnúkur.

„Það er gaman að segja frá því að þegar Íslendingar fengu sjálfstjórn og sitt eigið löggjafarþing og fjárveitingarvald árið 1874, þá var þetta eitt af fyrstu málunum á fyrsta þinginu að samþykkja byggingu vita. Fram að þeim tíma höfðu bara verið siglingar til landsins á sumrin og það datt engum í hug að sigla hingað frá Evrópu á veturna. Með vaxandi kaupmannastétt í lok 19. aldar þá fer að koma þörf fyrir vita því það vildi enginn sigla hingað yfir vetrarmánuðina nema það væri viti og í raun kom hvergi annars staðar til greina að setja vita en hér á Reykjanestánni. Hér koma menn upp að landinu og mikilvægt að það sjáist strax hér hvað þú ert staddur. Það var því ráðist í það strax að koma upp þessum vita því þessi siglingaleið fyrir Reykjanesið er hættuleg og flest skip sem voru að koma frá Evrópu voru á leið til Reykjavíkur. Menn fóru því í þetta brölt og fengu Dani með sér í lið. Danskur verkfræðingur hannaði vitann og sá um framkvæmdir hérna 1878 en þeir voru hérna allt sumarið og fram á haust. Þetta var gríðarlega erfitt. Þetta var afskekkt og hér var ekkert nálægt. Það var ekki hægt að lenda bátum í fjörunni og hestar þurftu að fara yfir úfið hraun. Það var ekki hægt að nota neitt grjót hér í kring því hér er bara hraun. Það þurfti því að flytja allt um langan veg. Það sem kom að utan var sett á land í Keflavík. Það var flutt á litlum bátum í land í Keflavík og þar dröslað upp á hesta sem fluttu það hingað á Reykjanes. Hér hýrðust menn í tjöldum, hátt í tuttugu manns allt sumarið, og sá danski kvartaði yfir því meira og minna allt sumarið að það væri alltaf kolvitlaust veður. Þetta gekk því ekki eins hratt og menn ætluðu sér en þetta tókst og það var kveikt á vitanum 1. desember 1878 og þá var fyrsti viti landsins kominn í gagnið,“ segir Eiríkur.

Margir að uppgötva þetta svæði í dag

Reykjanesviti

Reykajnesviti 1915.

Hallur fer fyrir Hollvinasamtökum Reykjanesvita og segist hafa haft áhuga á sögu og minjum allt frá barnæsku. Í gegnum Sögu- og minjafélag Grindavíkur hafi áhuginn á Reykjanesvita vaknað. Fyrir nokkrum árum hafi hann, ásamt Ólafi Sigurðssyni, farið og skoðað konungsskildina sem voru á Reykjanesvita á Bæjarfelli þegar hann var reistur. Þar hafi boltinn farið að rúlla og ákveðið að stofna sérstakt félag um verkefnið á Reykjanesi, sem var uppsetning á konungsskjöldunum, sýningin í radíóvitanum og framtíðardraumurinn er, að sögn Halls, að semja við Vegagerðina, sem á og rekur Reykjanesvita, um að þar verði leyfilegt að taka á móti fólki og hleypa því upp í vitann.

Reykjanesviti

Reykjanesviti – grjóthleðsla neðan Valahnúks.

„Svo vitum við að Reykjanes Geopark er búinn að undirbúa gönguleiðir um svæðið en á þessu svæði er hægt að gera svo margt skemmtilegt. Það eru til dæmis ennþá til steinar hérna úr fyrsta vitanum sem mætti færa til, raða upp og gera eitthvað skemmtilegt með,“ segir Hallur og Eiríkur bætir við: „Það eru margir að uppgötva þetta svæði í dag. Við erum hérna í október og það er stöðugur straumur af fólki hérna, ferðamönnum. Þegar við fórum að grúska í þessari sögu þá kemur í ljós að vitinn hérna varð strax vinsæll til heimsókna. Menn voru að koma hérna á sumrin og fá að skoða vitann. Ásóknin var svo mikil að vitaverðir voru farnir að kvarta undan þessu því það tók frá þeim tíma að vera alltaf að taka á móti gestum og svo þurfti að bjóða uppá kaffi og með því, þannig að þetta voru heilmikil útgjöld fyrir vitaverðina. Vitaverðir sóttu því um heimild fyrir því að selja inn í vitana. Það var leyft og jafnframt var sett reglugerð hvernig á að meðhöndla þessa gesti.“

Í gegnum tíðina hafa orðið hér mörg alvarleg sjóslys.
„Já og við verðum með sjóslysakort hérna sem var unnið fyrir okkur og munum sýna alla sjóskaða sem orðið hafa við Reykjanesið og þeir eruu gríðarlega margir því ég held að það hafi hvergi á landinu orðið fleiri sjóskaðar en við Reykjanes. Þetta var algeng siglingaleið og svo var vetrarvertíðin hér í skammdeginu og versta veðrinu,“ segir Eiríkur.

Stórslys á forsíðum blaðanna

Reykjanesvit

Reykjanesviti – Frásögn af slysi Jóns forseta.

Á sýningunni í Radíóvitanum á Reykjanesi eru m.a. forsíður dagblaða frá síðustu öld þar sem sagt var frá stórum sjóslysum. Meðal annars er sagt frá strandi Jóns forseta á Stafnesi. Þar fórst öll áhöfnin en í landi stóðu menn og horfðu á og gátu ekkert gert. Slysið við Stafnes varð endanleg kveikja þess að stofnaðar voru slysavarnadeildir um allt land.

Reykjanesviti

Fróðleikur um fyrrum vitaverði á Reykjanesi.

Á sýningunni á Reykjanesi er fjöldi ljósmynda og upplýsandi og fróðlegur texti. Sýndar eru myndir af fyrsta vitanum á Valahnúk og einnig frá byggingu vitans á Bæjarfelli. Eins og í dag þá höfðu jarðskjálftar áhrif á Reykjanesi í gamla daga. Fljótlega, eða um ttuttugu árum síðar, var farið að huga að nýjum vita á Bæjarfelli því jarðskjálftar og brim höfðu áhrif á Valahnúk. Hrunið hafði úr klettinum og ef ekkert hefði verið að gert þá hefði vitinn fallið fyrir björg og í hafið.

Fyrsti vitavörðurinn

Reykjanesviti

Reykjanesviti – fyrsti vitavörðurinn.

Reykjanesviti þurfti mikla umhirðu fyrstu áratugina eins og vitar almennt á þeim tímum. Þar að auki var hann byggður á afskekktum stað og torfarið að komast að og frá vitanum. Því var ekki annað til ráða en að hafa starfandi vitavörð í fullu starfi sem byggi á staðnum og sinnti vitanum.

Reykjanesviti

Reykjanesviti 1910.

Þar sem vitagæslan þurfti að vera stöðug varð ekki komist hjá því að hafa þar a.m.k. tvo menn að störfum. Arnbirni Ólafssyni, fyrsta vitaverðinum, var skylt að halda aðstoðarmann og greiða honum kaup af árslaunum sínum. Honum þótti hins vegar launin lág og þegar haustið 1879 var kominn í hann brottfararhugur. Í bréfi hans til Jóns Jónssonar landritara segir hann að hann sé alltaf að sjá betur og betur að ómögulegt sé að „komast af með 2 menn til að gæta vitans, vegna þess að verði eitthvað að öðrum þeirra, eða þurfi að leita til byggða einhverra orsaka vegna, þá er ef til vill ekki fært öðrum en fullröskum karlmanni og þó valla að komist verði til baka aptur sama dag þegar stuttur er dagur. Þess vegna er óumflýjanlega nauðsynlegt að hafa 3ja mann yfir veturinn …“.

Þá féll Arnbirni illa að búa í þeirri miklu einangrun sem fylgdi vistinni. Þegar við bættist að brunnurinn varð stundum vatnslaus á veturna svo heimilisfólkið varð að láta sér nægja „klaka og skítugan snjó“ svo dögum skipti og torfþakið á vitavarðabænum lak svo hann varð fullur af sagga varð vistin lítt eftirsóknarverð. Arnbjörn sagði endanlega upp og fékk lausn frá embættinu 1. ágúst 1884. Við stöðunni tók Jón Gunnlaugsson skipasmiður og gegndi starfinu til ársins 1902.

Reglur um heimsóknir gesta í vita

Reykjanesviti

Í Stjórnartíðindum frá 1897 eru birtar reglur um heimsóknir í vita. Þar segir m.a.: „Vitavörður verður að leggja ríkt að við aðkomendur að snerta ekki á nokkrum áhöldum vitans, gæta þess að þeir séu ekki í votum klæðum, taki ekki með sjer göngustafi eða regnhlífar í vitann. Tóbaksreyking er öllum fyrirboðin í vitanum, bæði vitamönnum og öðrum; vitavörður skal biðja menn um að þurka af sjer á gólfmottunum, áður en þeir ganga um vitann, og brýna fyrir þeim að þeir megi ekki hrækja á gólfin, og hundar mega alls ekki koma í vitann. Það er fyrirboðið að leyfa nokkrum ölvuðum manni að ganga í vitann, eða þeim, sem eru ræflalega til fara.“

Veturnir voru oft langir og tilbreytingasnauðir á afskekktum vitastöðum líkt og lengi var á Reykjanesvita – en vitarnir urðu fljótt vinsælir til heimsókna á sumrin og jafnvel svo að vörðum þótti nóg um. Vitaverðir við Faxaflóavitana kvörtuðu undan því að þeir yrðu fyrir umtalsverðum töfum frá vinnu og hefðu þar að auki „eigi allsjaldan önnur óbeinlínis útgjöld við slíkar gestakomur samkvæmt gamalli íslenskri siðvenju“. Þeir fóru fram á heimild til að taka gjald af gestum og var það samþykkt árið 1910. Nokkrum árum fyrr höfðu verið gefnar út sérstakar reglur varðandi heimsóknir gesta í vitana, eins og fram kemur í Stjórnartíðindum frá 1897. Þar segir m.a.:

Reykkjanes

Skipsströnd utan við Reykjanes.

„Aðkomumenn skulu rita nöfn sín, stöðu og heimili í þar til gjörða bók, áður en þeim er sýndur vitinn. Ekki má hleypa fleirum inn í vitann en rúm leyfir. Vitavörður verður að leggja ríkt að við aðkomendur að snerta ekki á nokkrum áhöldum vitans, gæta þess að þeir séu ekki í votum klæðum, taki ekki með sjer göngustafi eða regnhlífar í vitann. Tóbaksreyking er öllum fyrirboðin í vitanum, bæði vitamönnum og öðrum; vitavörður skal biðja menn um að þurka af sjer á gólfmottunum, áður en þeir ganga um vitann, og brýna fyrir þeim að þeir megi ekki hrækja á gólfin, og hundar mega alls ekki koma í vitann. Það er fyrirboðið að leyfa nokkrum ölvuðum manni að ganga í vitann, eða þeim, sem eru ræflalega til fara. Vitavörður skal vera þægilegur í viðmóti við þá, sem óska að sjá vitann, og skýra þeim frá ásigkomulagi allra vitafæranna. Á þeim tíma, er logar á vitanum, leyfist engum aðkomandi manni að ganga í vitann.“

Um sýninguna á Reykjanesi

Reykjanesviti

Reykjanesviti ~1960.

Um aldir, líkast til alveg frá landnámi, hafa Íslendingar þurft að færa Ægi konungi miklar fórnir. Annars vegar veitti hafið landsmönnum greiða för milli staða og landa og í djúpin sóttu menn í gullkistuna sem fiskimiðin hafa ætíð verið hér við land. Hins vegar voru siglingar og veiðar hættuspil, ekki síst yfir skammdegið þegar allra veðra var von. Sjóskaðar og manntjón voru daglegt brauð og oft voru hoggin stór skörð í lítil samfélög þegar skip og bátar fórust.

Bygging Reykjanesvita á Valahnúk árið 1878 markaði tímamót í siglingsögu landsins. Það sýnir vel þá þörf sem landsmenn höfðu fyrir vita og öruggari siglingar að og umhverfis Ísland að frumvarp um byggingu vita var lagt fyrir á fyrsta löggjafarþinginu árið 1874, eftir að Íslendingar fengu stjórnarskrá og Alþingi fékk löggjafar- og fjárveitingavald. Ekki er að sjá að komið hafi til greina að reisa fyrsta vita á Íslandi annars staðar en á Reykjanesi, enda munu langflest skip sem til Íslands komu hafa átt erindi fyrir Reykjanes og leituðu því upp að suðvesturhorni landsins.

Reykjanesviti

Reykjanesviti í dag, okt 2021, „Radíohúsið“ t.h.

Þúsundir og aftur þúsundir Íslendinga hafa farist á sjó í gegnum aldirnar og sjómenn eiga skilið að þeirra fórna sé minnst. Þessi saga er hrikaleg og erfið oft á tíðum að meðtaka en um leið er þetta saga hugrekkis og krafta sem tekst að leysa úr læðingi þegar aðstæður krefjast og menn þurfa að snúa bökum saman.

Reykjanesviti

Árið 1905 var svo komið að jarðskjálftar og brim höfðu brotið svo mikið úr Valahnúk að hætta var talin á að Reykjanesviti félli í hafið. Var því ákveðið að reisa nýjan vita. Á árunum 1907-1908 var byggður nýr viti á Bæjarfelli á Reykjanesi. Gamli vitinn var felldur með sprengingu þann 16. apríl 1908. Alþingi veitti fé til byggingar vitans til að flýta fyrir framkvæmdum.
Vitinn er byggður úr tilhöggnu grjóti og steinsteypu. Þeir Frederik Kiørboe arkitekt og Thorvald Krabbe verkfræðingur teiknuðu vitann. Framkvæmum lauk á Þorláksmessu 1907 og kveikt var á vitanum 20. mars 1908.

Sýningunni er ætlað að veita örlitla innsýn í mikla og mikilvæga sögu sjóslysa og uppbyggingar á vitum til að auka öryggi sjófarenda. Um leið gera aðstandendur hennar sér vonir um og fyrirætlan að sýningin vaxi og geri sögunni betri skil til lengri tíma. Til stendur að reisa þjónustu- og upplýsingamiðstöð í því magnaða umhverfi og náttúru sem umlykur Reykjanesvita og þangað á slík sýning mikið erindi.“

Heimild:
-Víkurfréttir – Laugardagur 23. október 2021 kl. 06:03; Leiðarljós í lífhöfn, Áhugaverð sýning um Reykjanesvita og sögu sjóslysa á Reykjanesi.
-Hallur J. Gunnarsson.

Reykjanesviti

Reykjanesviti – upplýsingaskilti.

Reykjanes

Í Faxa árið 2020 er fjallað um „Skáldin í vitanum„:

Reykjanesviti
„Á Reykjanesi má finna þrettán vita. Þeir eru ekki einungis sögulegt kennileiti heldur leiðarminni í sögu þjóðar sem allt fram á þennan dag hefur átt afkomu sína undir því að draga fisk úr sjó. Vitarnir voru logandi líflína til lands, ljósberar sem leiddu menn heim af hafi.
Með tilkomu vita varð til starf vitavarðar sem gat verið einmanalegt. Svo hagaði til að tvö skáld gegndu starfi aðstoðarvitavarðar þessum elsta vita landsins en það eru atómskáldið Steinn Steinar og Hannes Sigfússon.

Reykjanesviti

Reykjanesviti

Reykjanesviti, byggður 1908 – nýrri vitavarðarhúsin nær.

Reykjanesviti var reistur árið 1878 og var þá fyrsta stórframkvæmdin sem ráðist var í eftir að Íslendingar fengu heimastjórn frá Dönum. Vitinn laskaðist í jarðskjálfta en sá viti sem nú stendur var tekinn í notkun 1908. Vitinn stendur á Bæjarfelli upp af Valahnjúk, þar sem fyrsti vitinn stóð.
Reykjanesviti var eini viti landsins um nærri tveggja áratuga skeið og hafði vitavörður aðsetur á Reykjanesi sem var víðs fjarri mannabyggð þar sem enginn vegur lá yfir auðnina. Það var langur spölur frá vitavarðarhúsinu að gamla vitanum og þurfti hetjudug til starfsins.

Steinn Steinarr

Steinn Steinarr

Steinn Steinarr (fæddur Aðalsteinn Kristmundsson, 13. október 1908, dáinn 25. maí 1958) var íslenskt ljóðskáld og meðal áhrifamestu ljóðskálda Íslendinga á 20. öld.

Starf vitavarðarins gat verið einmanalegt en hann hafði þó með sér aðstoðarvitavörð og skiptu þeir með sér verkum. Það var héraðslæknir Keflvíkinga, Sigvaldi Kaldalóns, sem útvegaði ungum vini sínum Steini Steinari starf aðstoðarvitavarðar á Reykjanesi en þá var vitavörður Jón Ágúst Guðmundsson.

Reykjanes - viti

Yngri Reykjanesvitinn á Vatnsfelli.

Steinn hafði oft dvalist í Grindavík hjá tónskáldinu ásamt helstu listamönnum þess tíma. Steinn var þá aðeins 22 ára gamall og ekki gerður fyrir erfiðsvinnu vegna vöðvarýrnunar í handlegg. Framtíðarhorfur hans virtust því ekki glæsilegar enda hafði skólaganga hans verði stutt. Í misjöfnum vetrarveðrum þurfti oft að hafa mann næturlangt uppi í vitanum til að hreinsa af snjó sem vildi festast á rúðurnar í ljósaklefanum, Kom það gjarnan í hlut Steins. Má gera sér í hugarlund að þar hafi orðið til ljóð þegar leiðindi sóttu að honum á þessum löngu og köldu vetrarnóttum og hann þurfti að halda á sér hita. Steinn starfaði í vitanum einn vetur frá 1930 til 1931 en hans fyrsta ljóðabók Rauður loginn brann kom út þremur árum síðar eða 1934. Þar mátti finna róttæk ljóð um hlutskipti lítilmagnans og bar mikið á vonleysi og trega enda þjóðin í kreppu og atvinnuleysi mikið.

Hannes Sigfússon

Hannes Sigfússon

Hannes Sigfússon skáld fæddist í Reykjavík 2. mars 1922. Foreldrar hans voru Sigfús Sveinbjarnarson, f. 11.3. 1866, d. 11.9. 1931, prentari og fasteignasali í Reykjavík, og Kristín Jónsdóttir, f. 22.4. 1887, d. 19.3. 1970, húsfreyja.

Rithöfundurinn Hannes Sigfússon var aðstoðarmaður vitavarðarins, Sigurjóns Ólafssonar, þegar olíuskipið Clam fórst við Reykjanes þann 28. febrúar árið 1950. Starfið hafði hann fengið í gegnum gott orð frá vini sínum og læriföður, Steini Steinarr.
Hannes var þá 28 ára gamall og hafði gefið út sína fyrstu bók, Dymbilvöku, árinu áður sem er eitt hans þekktasta verk. Skipið var það stærsta til þess að stranda við Íslandsstrendur og voru 50 menn í áhöfn þess þegar það strandaði þétt upp við hamravegginn sunnan Valahnúks. Hluti áhafnarinnar sem var að mestum hluta Kínverjar fór í björgunarbáta sem ýmist brotnuðu við skipshlið eða hvolfdu í briminu. Af þeim fórust 27 manns en fjórum mönnum skolaði upp í klettana þaðan sem þeim var bjargað. Þeim mönnum sem héldu kyrru fyrir um borð í skipinu var öllum bjargað af björgunarsveitinni Þorbirni frá Grindavík, en skipið brotnaði fljótlega í spón á staðnum. Hannes bjargaði sjálfur tveimur mönnum úr flæðarmálinu og skrifaði síðar um atburðinn í skáldsögu sinni Strandið 1955. Þar segir frá olíuskipinu Atlantis sem rekur stjórnlaust undan veðri og straumum að hrikalegri klettaströnd. Við kynnumst áhöfn skipsins, Kínverjum, Evrópubúum og Bandaríkjamanni og við kynnumst vitaverðinum á Reykjanesi sem rækir einmanaleg skyldustörf í vetrarmyrkri og bíður þess sem verða vill. Bókin fékk ekki góða dóma en Hannes var eitt helsta ljóðskáld sinnar kynslóðar og brautryðjandi í íslenskri ljóðagerð.
Ekki er vitað hvaða áhrif myrkrið og víðáttan á Reykjanesi hafði á skáldin og vinina Stein og Hannes en báðir voru þeir byltingarmenn og ortu um manninn í óræðri og dularfullri veröld þar sem vitundin ein er gegn alheiminum. Í miðju svartnætti ljóðanna leiftra óræðar blikur um mannlega reisn og jafnvel hina innstu vitund.“

Heimild:
-Faxi, 1. tbl. 2020, Skáldin í vitanum. bls. 29.

Clam

Mynd frá vettvangi er [..] olíuskipið Clam strandaði við Reykjanes árið 1950. Af 50 manna áhöfn fórust 27 en 23 tókst að bjarga.

Tag Archive for: Reykjanesviti