Tag Archive for: Reykjavík

Kirkjusandur

Samkvæmt sumum heimildum náði Kirkjusandur frá Laugarnesi að Fúlalæk en aðrar heimildir segja að hann hafi náð allt vestur að Rauðarárvík.

Kirkjusandur

Kirkjusandur.

Fúlilækur var þar sem Kringlumýrarbrautin er nú og er hann með öllu horfinn eins og reyndar sandfjaran sem Kirkjusandur dregur nafn sitt af en hún er komin undir uppfyllinguna sem Sæbrautin er er á. Kirkja var í Laugarnesi allt frá árinu 1170 og til loka 18. aldar og ef til vill er sandurinn kenndur við hana en hann gæti líka dregið nafn af kirkjunni í Vík. Sú kirkja stóð þar sem nú er Fógetagarðurinn við Aðalstræti og var hún undanfari Dómkirkjunnar. Í Oddgeirsmáldaga frá árinu 1379 segir að Jónskirkja í Vík eigi allan  reka á Kirkjusandi.
Útræði hefur líklega verið frá fornu fari frá Kirkjusandi og á tuttugustu öldinni voru þar fiskverkunarhús. Um aldamótin 1900 voru Th. Thorsteinsson og Íslandsfélagið með fiskverkun á sandinum og voru þar tvær bryggjur. Seinna voru Júpiter og Mars með frystihús þar en Ísfélagið frá Vestmannaeyjum keypti húseignir þeirra og tók við rekstrinum eftir gosið í Heimaey. Á Kirkjusandi eru einnig bækistöðvar strætisvagna höfuðborgarsvæðisins og Sambands íslenska samvinnufélaga var þar með mikil umsvif þar eftir miðja síðustu öld. Þar voru aðalskrifstofur SÍS í byggingu þar sem nú eru aðalstöðvar Glitnis og þar var einnig byggt stórhýsi sem átti að verða sláturshús og kjötvinnsla en hýsir nú myndlistadeild Listaháskóla Íslands.
Á meðfylgjandi mynd má m.a. sjá holdsveikraspítalann á Laugarnesi (lengst til vinstri) og Laugarnesbæinn, fjærst.

Heimild:
-Hverfablaðið Laugardalur 2007.

Hús á Kirkjusandi og í Laugarnesi á fyrri hluta síðustu aldar

Kollafjarðarrétt

Kollafjarðarrétt er hlaðin fjárrétt ofan Kollafjarðar á Kjalarnesi. Auk gerðis eru þar 15 dilkar. Þegar FERLIR heimsótti réttina [2007] var ekki að sjá að hún hafi verið notuð um skeið. Veggir eru hlaðnir úr mógrjóti af vettvangnum, vel þykkir og standa enn vel.

Kollafjarðarrétt

Kollafjarðarrétt – loftmynd.

Ekki er kunnugt um aldur réttarinnar,  Steinunn Guðmundsdóttir, húsfreyja á Heiðarbæ í Þingvallasveit, fæddist í Kollafirði, en flutti þaðan árið 1961. Hún kvaðst muna eftir réttinni, en líklega væri Magnús í Stardal fróðari um hana.  Aðspurður kvaðst Magnús Jónasson muna eftir því að réttin lagðist af um það  leiti sem Kjalarnes sameinaðist Reykjavík [1998]. Faðir hans, Jónas Magnússon, hefði verið þar réttarstjóri og auk þess Oddur gamli í Þverákoti (kom þangað 1916- eða ’17). Kjalarnesrétt hefði legið mjög vel við Mosfellsbæ, Kjalarnesi og Kjós, auk þess sem bændum úr Þingvallasveit hafi verið skipað til réttar þar. Magnús kvaðst ekki vita hversu gömul réttin væri, en hún væri a.m.k. frá 19. öld. Eftir að hætt var að rétta þar hefðu hestamenn notað réttina og hefðu þá hleðsluveggirnir skemmst talsvert vegna ágangs hrossanna. Vonaðist hann til að réttin yrði einhvern tímann hlaðin upp að nýju.
Úr KollafjarðarréttUndir réttarveggnum voru rifjuð upp skáldsöguleg tengsl hennar við frumburð skáldsögunnar hér á landi. Rétt þessi þykir nefnilega ekki síst merkileg fyrir það að hún kemur fyrir í skáldsögunni Piltur og stúlka eftir Jón Thoroddsen (1818-1868) frá árinu 1850, sbr. meðfylgjandi: „
Það var einn dag um þetta leyti og skömmu eftir að Ormur var suður kominn, að veður var fagurt, en vegir þurrir, og var réttað upp í Kollafjarðarrétt, og reið margt fólk úr Víkinni sér til skemmtunar upp í réttirnar, bæði konur og flestar gervistúlkur bæjarins, svo og margir karlmenn, sem við voru látnir. Gjörðist þá mikill skortur reiðskjóta í bænum, og urðu margir að setjast aftur, sem höfðu ætlað að fara. Kaupmaður Á. og kona hans fóru. Guðrún hafði einhvers staðar getað aflað sér hests, en Sigríði vantaði reiðskjóta, og leit út fyrir, að hún yrði heima að sitja, en þó langaði hana til að fara, því hún hafði aldrei komið þar upp eftir. Möller átti hest gráan, það var gæðingur, norðlenskur að kyni, af Bleikáluætt úr Skagafirði, er þá var mest orðlögð um landið. Hesturinn var stríðalinn á hverjum vetri, en lítið riðið á sumrin, því sjaldan kom nokkur annar maður honum á bak en eigandi, og ekki hlýddi nokkrum að biðja um hann til láns, hvað sem við lá. Líður nú fram að hádegi, og ríða allir á stað, sem hesta höfðu fengið, en ekki hafði Sigríður enn getað útvegað sér neinn reiðskjóta, en Guðrún beið hennar þó, ef verða mætti, að eitthvað réttist úr fyrir henni.

Kollafjarðarrétt

Í Kollafjarðarrétt.

Nú er hvergi fyrir sér að leita, Sigríður mín! Ég býst við, að þú verðir að sitja kyrr, nema þú viljir biðja hann kaupmann Möller um hann Grána hans; ég held það sé eini hesturinn, sem til er hérna eftir í Víkinni, sagði Guðrún.
Það gjöri ég ekki, og ég get ekki ætlast til þess, að hann ljái mér hann, þar sem hann vill ekki ljá nokkrum öðrum hann.
Veit ég það, að hann hefur afsagt þeim þremur eða fjórum hérna í morgun um hann, en hvar kemur það þá fram, sem hann segir um þig, ef hann gjörir sér ekki mannamun? Og farðu, Sveinki litli, og skilaðu við hann kaupmann Möller, að hún Sigríður, sem er hjá honum kaupmanni Á., biðji hann að ljá sér hann Grána sinn upp að réttunum í dag.

Sveinn litli fór og kom aftur að lítilli stundu liðinni og teymdi þá Grána og sagði, að kaupmaður hefði beðið sig að skila, að hann hefði ekki vitað, að hún ætlaði að fara, ella mundi hann hafa boðið henni hann að fyrra bragði.
KollafjarðarréttSér þú nú, góða mín, sagði Guðrún, hvernig Möller er, þar sem hann tekur því, enda vissi ég það, hvernig fara mundi, ef hann fengi boð frá þér, en ekki hefði hann gjört það fyrir aðrar hérna í Víkinni; því það er eins og ég segi þér, þó þú trúir því ekki.
Ekki trúi ég því nú heldur fyrir að tarna, sagði Sigríður, en nú er þá best að ríða á stað, fyrst reiðhesturinn er fenginn.
Síðan ríða þær stöllur, og með því hestarnir voru góðir, náðu þær flokknum, sem á undan var riðinn, skammt fyrir innan Hellisárnar; og brá þá mörgum í brún, er þeir sáu Sigríði koma þeysandi á Grána Möllers og varð mönnum harla fjölrætt um það, hverju það sætti, að Sigríður hefði orðið fyrir þeirri mildi að fá hann. Um daginn skemmtu menn sér við réttirnar, en sneru heim um kvöldið, og var þá komið fram á nótt, er menn komu aftur til Reykjavíkur.“
Svo mörg voru þau orð, en myndirnar segja kannski svolítið meira um það sem allflestir eru ómeðvitaðir um í „örskotsfjarlægð“ frá fjölmennstu byggðasvæði landsins.

Heimild m.a.:
-Piltur og stúlka – skáldsaga – Jón Thoroddsen.

Kollafjarðarrétt

Kollafjarðarrétt – uppdráttur ÓSÁ.

Breiðagerðisskóli

Í Mbl árið 1984 birtist svonefnd umfjöllun um álfhól við Breiðagerðisskóla í Reykjavík:
Breiðagerðisskóli„Árið 1956 var hafin bygging barnaskóla við Breiðagerði og fékk nafnið Breiðagerðisskóli. Arkitektarnir Einar Sveinsson og Gunnar Ólafsson teiknuðu húsið. Á þeirri lóð, sem húsinu var valinn staður, var hóll, sem margir kölluðu Alkhól, en það nafn var af sumum talin afbökun úr Álfhól. Hins vegar bendir margt til þess að hóllinn hafi heitið Borgarhóll og var oft miðstöð fyrir vetrarleiki barna frá Bústöðum og síðar. Allt í kringum hólinn voru grösug tún, en ekki var hóllinn sleginn þar sem talið var að hann væri bústaður álfa. Sagt var að ljós sæjust þar stöku sinnum.
Það var því ýmissa manna mál að við hólnum mætti ekki hrófla, þetta væri álagahóll. En hver sem trú ráðamanna var um byggingu skólans var húsið þannig teiknað að ekki var í fyrstu við hólnum hreyft. Var skólinn byggður og var allt kyrrt um sinn.
En þegar kom að því, að leggja þurfti heimkeyrslu að dyrum á norðvesturhorni skólans, þurfti aðeins að skerða jaðar hólsins og var það talið fljótunnið verk. En það fór á aðra leið.
Starfsmönnum leikvalla var falið að vinna verkið og hafði Bjarnhéðinn Hallgrímsson, sem hafði og hefur umsjón með framkvæmdum á leikvöllum borgarinnar, umsjón með verkinu.
ÁlfhóllinnHann segir svo frá:
Kristínus Arndal var þá einn af flokkstjórum vallanna. Hann taldi þetta létt og fljótunnið verk en reyndin varð hins vegar önnur. Varla var verkið hafið og Kristínus að stíga sín fyrstu skref inn á vinnusvæðið er hann missteig sig illa og brákaðist á fæti og gekk haltur lengi eftir það en hélt þó áfram stjórn verksins. Var nú fengin vinnuvél til að grafa út úr hólnum, en þegar hún tók fyrstu fylli úr hólnum kvað við brestur og hafði eitthvað brostið í lyftubúnaði tækisins. Varð að fara með tækið til viðgerðar og tafðist verkið í einn dag. Þegar verkið gat hafist á ný reyndist tækið ekki betur en svo, að skiptibúnaður þess bilaði það alvarlega að verkfærðið var úr sögunni um langa hríð. Var þá fengin til verksins öflug og spánný vélgrafa af stærstu gerð sem þá hafði komið til landsins. Hún virtist ætla að fara létt með verkið, en fljótlega brast eitthvað í nýja tækinu og þótti þá mörgum furðu gegna og kunnu engar skýringar á.
Var eftir það ógerlegt að fá verkfæri til að vinna verkið. Var þar látið við sitja og jafnað undir malbik með handverkfærum. Síðan var ákveðið að taka ekki meira úr hólnum og hann jafnaður í það horf sem hann er í dag og hefur ekki borið þar á fleiri furðum eða óhöppum síðan.“

Heimild:
Mbl, lesbók, laugardaginn 7. júlí 1984 – Sigurður Þór Salvarsson.

Breiðagerðisskóli

Glóra

Á Álfsnesi á Kjalarnesi eru tóftir þriggja bæja, Álfsness, Glóru og Niðurkots. Lítið er til af heimildum um þessi gömlu kot, en talsverðar leifar sjást enn eftir búsetu á Nesinu.
Bæði Glóra og Niðurkot eru í raun ágæt dæmi um heilstæðar

Álfsnes

Álfsnes – loftmynd.

búsetuminjar, annars vegar frá 19. öld og hins vegar frá 17. öld. Flestar eldri minjar við bæinn Álfsnes eru horfnar undir núverandi íbúðar- og útihús, en þessar minjar hafa fengið að vera svo til óraskaðar allt fram á þennan dag.
SORPA er með urðunarstað á Álfsnesi, en ekki er að sjá að þar hafi verið hróflað við minjum. Þær minjar, sem næst standa, eru 19. aldar fjárhústóft frá Álfsnesi. Háir moldarbakkar eru fast við tóftina, en hún hefur fengið að standa vestan í Háheiðarmýrinni, austan við Álfsnesbæjarins.

Nýr Vesturlandsvegur; Sundabrautin svonefnda, á að liggja um þetta svæði. Við það mun verða verulegt rask og ef ekki verður að gætt munu minjar framangreindra bæja (hjáleiga), hverfa eins og aðrar slíkar á Stór-Reykjavíkursvæðinu.

Álfsnes

Álfsnes – Glóra / Urðarkot; loftmynd.

Segja má að minjar nær allra bæja, sem núverandi byggð stendur á, hafi verið þurrkaðar út (að Árbæ undanskyldum). Dýrmætustu minjasvæðin, sem eftir eru næst höfðuborgarsvæðinu, eru Þorbjarnarstaðir í Hraunum, sunnan Hafnarfjarðar, og þessir bæir, sem hér er fjallað um. Stundum þarf einungis örlitla hugsun og frumkvæði til að koma í veg fyrir varanlegan skaða. Ágætt dæmi voru framkvæmdirnar við Tjarnargötu í Reykjavík á fimmta áratug síðustu aldar. Ef einungis einn maður hefði staðið keikur gegn byggingaráformum Hjálræðishersins og húss Happdrættis Háskólans; og sagt sem svo: „Færum okkur 50 metra ofar í landið“ þá ættu landsmenn nú elstu minjar búsetu hér á landi (talið er víst að bær Ingólfs hafi verið þar sem fyrrnefnd hús standa nú).

Brunnur Glóru

Oft munar ekki meiru milli feigs og framtíðar þegar minjarnar eru annars vegar. Allt og oft hafa misvitrir forsvarsmenn skipulagsmála fengið að ráða ferðinni. Þeir hinir sömu virðast, af dæmum að meta, hvorki hafa þekkingu né áhuga á fortíðinni og hafa því, hingað til a.m.k., komist upp með að eyðileggja ómetanlega sögulega verðmætasköpun framtíðarinnar.
Þegar FERLIR kom á svæðið var dagsbirtan u.þ.b. að sigra næturmyrkrið á einum dimmasta degi ársins. Við blöstu urðunarhaugarnir og lyktin var eftir því. Loftmyndir af svæðinu voru dregnar fram og líkleg mannvirki áætluð.

Álfsnes

Niðurkot / Sundakot – loftmynd.

Minjasvæðin virtust aðallega tvö; Glóra og Niðurkot. Ofarlega á túnum Víðinsess vitist móta fyrir tóftum. Annars er það kapítuli út af fyrir sig hversu erfitt það getur verið fyrir áhugasama einstaklinga að nálgast upplýsingar og fróðleik hjá annars kostnaðarsömum ríkisfyrirtækjum. Að vísu er Örnefnastofun Íslands (Svavar og Jónína) alger undantekning þar frá, en aðrar opinberar stofnanir og fyrirtæki virðast „gleypa“ allar upplýsingar og leggja sig fram við að torvelda öðrum aðgengi að þeim. Rándýrar fornleifaskráningar eru sumar hverjar ekki aðgengilegar nema gegn gjaldi og ef fá á eina loftljósmynd frá Landmælingum Íslands þá kostar hún þúsundir króna.

Túngarður Glóru

Að vísu hefur þetta ekki bitnað svo mjög á FERLIR því á þeim bænum hafa þeir einkaðailar, sem leitað hefur verið til, verið einkar hjálpsamir, auk þess sem þátttakendur hafa jafnan verið sjálfum sér nægir, þ.e. þeir hafa leitað og lesið úr torveldum landfræðilegum upplýsingum líkt og aðrir lesa texta í bókum. Aukinheldur hafa þeir sýnt frábæran árangur, bæði í starfi og námi. Einn nemanna fékk t.a.m. 10.0 í fornleifaskráningu við HÍ. Hinar fjölmörgu lýsingar á vefsíðunni eru ágætt dæmi um þetta. Í dag er svo komið að fornleifafræðingar nota vefsíðuna við störf sín og vita til hennar, bæði í myndum og texta.
Áður en lagt hafði verið af stað var leitað til Bjarka Bjarnasonar, höfundar Sögu Mosfellsbæjar. Hann er auk þess sá aðili er hvað best gjörþekkir sögu og minjar bæjarlandsins. Reyndar tilheyrir svæðið nú sameinuðu Kjalarneshreppi og Reykjavík (frá árinu 1998).

Álfsnes

Tóftir Glóru.

Bjarki Bjarnason svaraðir fyrirspurninni eftirfarandi: „Ég kannast við bæjarnafnið Glóru en hins vegar er hvorki Glóra né Niðurkot nefnt í Jarðabókinni [1703] og hafa væntanlega ekki verið í byggð þá. Aftur á móti eru tvær hjáleigur nefndar í jarðabókinni, annars vegar Landakot, sem þá var nýfarið í eyði, og hins vegar Sundakot. Þessi kot virðast hafa verið hjáleigur frá Þerney“.
Þegar lengra er haldið virðist ljóst að Landakot var hjáleiga Þerneyjar í eyjunni sjálfri. Sundakot virðist að öllum líkindum hafa verið umrætt Niðurkot enda benda tóftirnar til þess að þar hafi verið byggð áður en Jarðábókin var skrifuð (sjá uppdrátt).
Minjar á Glóru - gervitunglamynd
Í Jarðabókinni 1703 er getið um Landakot, Sundakot, Vidernes, Alsnes (Alfsnes), Urðarkot (Hallsneshjáleiga/Glóra) og Háheide, auk Þerneyjar. Um síðastnefndu jörðina segir m.a.: „…Hestlán eitt til alþingiss. Dagslættir tveir til Viðeyjar hvort sem á býr einn eður fleiri, og fæðir bóndinn sig sjálfur síðan í tíð Jóhanns Klein; alt þángað til var þar matur gefinn þrímælt, en nú alleina lítilsháttar af mjólk, tveimur eður þrem, sem lítt mætti einum nægja í senn. Hrísshestar tveir og kann bóndinn þeirra ekki að afla nær en suður í Almenningum, og kostar það þriggja daga tíma.

Þerney

Þerney – bæjarstæðið.

Móhestar oftast tveir, skjaldan einn. Móskurður til eldiviðar, síðan aflögðust skipaferðir í Heidemanns tíð; skal bóndinn skera tíu fóta breiða gröf og þrjátíu fóta lánga… Torfrista og stúnga er eydd í eyjunni að mestu og því sókt á fastaland, og liggur þar annar helmingur þessarar jarðar… Heimræði er árið um kring þegar fiskur gekk til sunda, en verstaða hefur hjer aldrei verið fyrir aðkomandi sjófólk… Selstöðu hefur jörðin til forna um lánga æfi brúkað í Stardal, og fæst hún nú ekki síðan þar var bygð sett… Kirkjuvegur lángur og erfiður.“

Uppdráttur af Glóru

Um Landakot segir: „Hjáleiga, nú í auðn og hefur so verið í 3 ár. Hún var bygð að nýju, þar sem ei hafði fyr býli verið fyrir vel þrjáríi árum… Kvaðir voru mannslán ár um kring og dagsláttur einn, hvortveggja til heimabónda. Item að styrkja til móskurðar á Bessastöðum bóndans vegna… Þessi hjáleiga stendur á eyjunni.“
Um Sundakot segir: „Önnur hjáleiga á fastalandi… Ábúandinn Magnús Hákonarson… Kvaðir eru mannslán árið um kring utan sláttar. einn dagsláttur. Hvortveggja til heimabóndans… Sjávarhlunnindi hefur hjáleigan engin. Átroðningur er mikill. Þessi hjáleiga er eldri en menn til minnast.“
Um Vidernes (Víðines) segir: „Heimræði árið um kring þegar fiskur gekk til sunda, en skipgata löng.“ Víðines er á sunnanverðu Álfsnesi. Bendir þetta til þess að gert hafi verið út frá Þerney þó svo að lending sé víða góð við vestanvert Álfsnes. enda voru kvaðir á jörðinni sbr.: „Kvaðir eru mannslán um vertíð og hálfur skiphlutur utan vertíðar, ella mannslán árið um kring utan sláttar…“

Kjalarnes

Kjalarnes – bæir.

Um Alsnes (Alfsnes/Álfsnes) segir: „Tún og engi meinþýft… Landþröng eru mikil og því er þessari jörð til beitar og annara nytja forn eyðijörð hjer nær, sem kallast Háheiði, segja menn, að þá hafi hjer landskuld aukin verið til helminga fyrir þessarar eyðijarðar brúkun. Stórviðri skaðar stundum hús og hey. Kirkjuvegur er lángur og erfiður. Vatnsból er slæmt en skortir þó ekki fyrir pening. Neysluvatn þarf annarstaðar að sækja.“
Um hjáleiguna Urðarkot (Glóru) segir: „Jarðardýrleiki reiknast með heimajörðinni… Vatnsból er á heimajörðinni. (Í Jarðabókinni er á lausu blaði brjef um Urðarkot og hljóðar svo:
Landskuld í Hallsnesshjáleigu, sem kölluð er Urðarkot eður Glóra, betalast með fiski ef til er eður peningum uppá fiskatal).
Glóra - Álfsnes fjærHér virðist Urðarkot, Hallsneshjáleiga og Glóra vera ein og sama bújörðin, auk þess sem Niðurkot og Sundakot virðast vera þær sömu. Af landamerkjavörðum að dæma er að sjá að Niðurkot hafi tilheyrt Þerney sem og Gunnunes. Þá er ljóst að Víðines hafi verið þess megin fyrrum.
Allt eru þetta hinar merkilegustu upplýsingar í ljósi þeirra minja, sem enn má finna á vestanverðu Álfsnesinu.
Við Glóru má sjá bæði tvöfalda fjárhústóft með miðjugörðum, sauðakofa, matjurtargarða o.fl. Af ummerkjum að dæma virðist Glóra hafa verið byggð upp úr eldri hjáleigu (Urðarkoti og Hallsneshjáleigu), en öll núverandi ummerki benda til 19. aldar býlis (reglulaga með fjórum stöfnum mót vestri), auk þess sem túngarðurinn er enn „reisulegur“ á köflum. Hlaðið er um brunnstæðið norðaustan bæjarins og matjurtargarður gefa góða vísbendingu um síðaldur bæjarins.

Rétt suðvestan Niðurkots

Niðurkot (Sundakot) er augljóst dæmi um 17. aldar bæ, sem fyrr segir. Hann er ekki óreglulegur, en ekki heldur reglurlegur. Fjós er norðan í húsaþyrpingunni, sem er af einfaldri gerð. Baðstofa og búr eru mót vestri, þótt dyr baðsofunnar snúi að Þerney. Lendingin er og var neðan bæjarins, sem bendir til þýðingu hjáleigunnar sbr. Jarðabókina 1703. Haðinn garður og gerði eru vestan, sunnan og austan bæjarins. Tóft, sennilega sauðakofi, er skammt suðaustar (innan túngarðs), og einfalt fjárhús sunnar. Það virðist byggt eftir seinni tíma forskrift og hefur því væntanlega tilheyrt Niðurkoti frekar en Sundakoti. Norðvestar virðist vera hleðsla af fiskgeymsluhúsi og mun vestar er hlaðin rétt í gróningum ofan við ströndina. Vörin og aðallending Þerneyjar er neðan við bæinn, malarfjara, sem enn er notuð til flutnings fólks út í Þerney. Bæjarstæðið þar „kallar“ á lendinguna, enda hefur bæði þörfin og mikilvægið augljóslega verið mikið fyrrum. 

Niðurkot

Í Þerney var kirkja á 13. öld. Á 18. öld var leiguliði bóndans verðlaunaður með konungsúrskurði fyrir haglega gerða garðhleðslu.
Sigurður Sigurðarson dýralæknir, Keldum, hefur m.a. skrifað um „Uppruna íslensku kýrinnar og innflutning á lifandi nautgripum og erfðaefni“. Þar segir kemur Þerney við sögu sbr.: „Um landnám mun svipaður nautgripastofn hafa verið á öllum Norðurlöndunum. Samkvæmt tiltækum upplýsingum, sem greint er frá hér á eftir, virðist íslenska kúakynið vera af norskum uppruna. Það er trúlega eitt af örfáum eða jafnvel eina kynið í heiminum sem haldist hefur lítt eða ekki blandað öðrum kynjum jafn lengi eða allt frá því á landnámsöld.
Í Íslandslýsingu sinni frá því um 1590 getur Oddur Einarsson biskup þess, að flestir nautgripir á Íslandi séu hyrndir en kollótt naut komi þó fyrir. Nautgripir frá Danmörku voru nokkrum sinnum fluttir til landsins á 19. öld. Áhrif þess Uppdráttur af Niðurkotiinnflutnings eru talin mjög lítil. Norskur fræðimaður, O. Bæröe, sem ferðaðist um Ísland árið 1902, taldi íslenska nautgripi líkjast mest nautgripum á Þelamörk og í Austurdal í Noregi. Umfangsmiklar blóðrannsóknir voru gerðar á íslensku nautgripunum árið 1962 og samanburður gerður við nautgripakyn í Noregi. Niðurstaðan var sú að íslenskir nautgripir höfðu mjög svipaða blóðflokkagerð og gömlu landkynin í Noregi, þ.e. Þelamerkur-, Dala- og Þrændakýr.
Í „Lýsingu Íslands“, sem út kom árið 1919, getur Þorvaldur Thoroddsen þess að lengi hafi verið talað um nauðsyn þess að bæta kúakynið, en ekki hafi orðið af framkvæmdum nema það að menn fengu sér við og við útlendar kýr á 18. og 19. öld. Innflutningur á 19. öld, sem Þorvaldur nefnir er þessi: 1816 fékk Magnús Stephensen frá konungsbúum Sjálandi rauða kvígu og bola. 1819. Fékk hann veturgamlar 2 kvígur frá Holtsetalandi (óvíst um innfl. M.Steph. 1831).

Túngarðurinn við Niðurkot

Magnús gerði tilraunir með dönsku nautgripina í Viðey. Fyrir 1840 voru danskar kýr fluttar til nokkurra staða á Íslandi skv. sóknarlýsingum. 1933 komu til landsins frá Skotlandi 5 nautgripir af 4 mismunandi holdakynjum. Sagt er frá þessum innflutningi í bókinni „Þættir um innflutning búfjár og Karakúlsjúkdóma“, sem út kom 1947. Gripirnir komu með Brúarfossi til Reykjavíkur hinn 4. júlí 1933 og voru fluttir samdægurs í einangrun til Þerneyjar, en þá var þar bóndi, Hafliði að nafni, með fjölskyldu sína og hafði búið þar m.a. við nautgripi og sauðfé.

Álfsnes

Álfsnes og nágrenni.

Dýralæknirinn í Reykjavík var fjarverandi vegna framboðs til Alþingis, þegar gripirnir komu og var aðstoðarmaður hans Guðmundur Andrésson (ekki dýralæknislærður) fenginn til að skoða nautgripina áður en þeir voru teknir úr skipinu. Taldi hann þá heilbrigða, en ekkert vottorð var gefið út um það. Hinn 10. júlí sama ár voru fluttar til Þerneyjar 20 Karakúlkindur frá Þýskalandi. Ásgeir Þ. Ólafsson dýralæknir í Borgarnesi var fenginn til að gera læknisskoðun á fénu og framkvæmdi hann skoðunina þegar kindurnar voru teknar í land í Þerney og síðan skoðaði hann tarfana, sem þangað voru komnir áður, en kvíguna náðist ekki í til skoðunar. Ásgeir taldi tarfana heilbrigða og hina prýðilegustu að útliti. Samkvæmt skýrslu Hannesar Jónssonar dýralæknis fóru að koma hrúðraðir hárlausir blettir á eitt nautið u.þ.b. einni viku eftir að gripirnir komu til Þerneyjar og fylgdi því mikill kláði.

Þerney - loftmynd

Eftir 3-4 vikur voru allir gripirnir komnir með útbrot. Hannes taldi sjúkdóminn vera Hringorm (Hringskyrfi, Herpes tonsurans) og var sú sjúkdómsgreining seinna staðfest á Rannsóknarstofu Háskólans. Eftir að upplýsingar höfðu fengist erlendis frá og talsverðar vangaveltur var ákveðið að lóga gripunum. Heimanautgripir í Þerney smituðust einnig og voru felldir vorið eftir. Fólk í Þerney smitaðist einnig af hringskyrfi en hvorki sauðfé né hross, sem þar voru. Lógað var öllum innfluttu gripunum 5 að tölu og var það gert hinn 9. janúar 1934, en kálfur undan Gallowaykúnni þá tæplega vikugamall hafði verið tekinn úr karinu og fluttur inn í eldhús. Galloway-kálfurinn í Þerney var fluttur samkvæmt leyfi stjórnvalda í land hinn 16. febrúar 1934. Hann var hafður í einangrun í kjallara á bænum Blikastöðum til 27. apríl sama ár. Hann sýktist ekki og hringskyrfi var upprætt í Þerney.
Glóra (Urðarkot) fór í eyði 1896, tíu árum á eftir Niðurkoti (Sundakoti).
Gengið var um Gunnunes og til baka. Í bakaleiðinni voru m.a. ígrunduð landamerki Þerneyjar o.fl. (3:03).

Heimildir m.a.:
-Jarðabókin 1703, bls. 329-335.
-Sigurður Sigurðarson dýralæknir, Keldum.
-Bjarki Bjarnason.
-Kjalnesingar, 1989.

Álfsnes

Álfsnes – Glóra.

Oddur sterki

Sigurbjörn Hjaltason, bóndi á Kiðafelli í Kjós, vakti fyrir nokkru athygli FERLIRs á steini nokkrum er vera átti í Reykjavík og minna átti á Odd sterka af Skaganum. Skv. hans upplýsingum gæti steinninn verið á fyrrum athafnasvæði Glóbus við Lágmúla. Ábendingin virtist lítt áhugaverð í fyrstu, en þegar betur var að gáð reyndist hún hin markverðasta – eins og svo oft vill verða.
Oddur sterkiMagnús Ingþórsson, framkvæmdarstjóri Glóbus, nú Vélaver, var spurður um steininn. Hann kannaðist strax við „Odd sterka“, stein í porti ofan og innan við þar sem Glóbus var við Lágmúla, aftan við Ármúla 5. Líklega hefði verið um að ræða álfabyggð og þess vegna hefði steininum verið þyrmt. Annars kynnu gamalreyndir starfsmenn Samvinntrygginga(VÍS) að kunna betri skil á steininum og sögu hans. Við umleitan hjá tryggingarfélaginu var gefið samband við Svein nokkurn. Hann sagði Benedikt Sigurðsson, þáverandi fjármálastjóra Samvinnutrygginga, hafa bannað að hróflað yrði við steininum þegar hús félagsins var í byggingu. Ástæðan hafi sennilega verið sú að um væri að ræða einn álfasteininn af nokkrum í röð þarna í holtunum.

Áletrunin

Benedikt sagði hins vegar aðspurður að ekki hefði verið um að ræða álagastein eða álfabyggð, a.m.k. ekki svo honum væri kunnugt um. Hins vegar hefði Hákon Hertervig, arkitekt, sagt honum að Oddur sterki af Skaganum, þekkt persóna í Reykjavík, hafi sofið undir steininum eina nótt eða fleiri. Sá hefði og klappað nafn sitt á steininn svo og ártal. Hákon þessi hafi verið merkilegur arkitekt og lagt áherslu á önnur gildi en bara peninga. T.d. fékk hann verðlaun fyrir arkitektúrinn að Ármúla 3, sem þótti framúrstefnulegur. Sjálfur hefði Benedikt lagt áherslu á að steininum yrði hlíft. T.a.m. hefði hann sett inn í leigusamning við Vélaver, sem þarna hefði haft aðstöðu, að hreyfa mætti við öllu á svæðinu, en bara ekki steininum þeim. Ekki mundi hann hver áletrunin hefði verið á steininum, en ártalið hafi líklega verið 1931. Taka yrði það þó með fyrirvara.
Áletrun á steininum er augljóslega „Oddur Sigurgeirsson“. Undir nafninu er orð og ártal. Ártalið er 1927. Erfitt er að segja með vissu fyrir hvað neðri áletrunin stendur nákvæmlega. Fjarlægja þarf mosa og skófir við hagstæðari aðstæður svo ganga megi úr skugga um úrlæsið.
Í endurminningum nokkrum um Odd sagði m.a.: „Hásetar Stjána bláa voru líka nafnkunnir menn. Annar var Sæmundur sífulli. Nafnið þótti hann bera með rentu. Hinn hásetinn var Oddur sterki af Skaganum. Einnig hann kafnaði ekki undir nafni. Hann þekkti ég persónulega, því að hann hafði róið áður með fóstra mínum eitt vor. Bezti karl, en dyntóttur, tortrygginn og skrítinn, enda heyrnardaufur og heyrði því ekki alltaf, hvað sagt var í kringum hann. Hann átti það til að fá æðisköst. Þá steytti Ártalið hann stundum hnefa að okkur strákunum og froðufelldi. Þá vorum við fljótir að ,,missa niður hjartað“ og „hverfa ofan í skóna okkar“. Þegar Oddur var fullur, var hann kunnur að sníkjum sínum: „Gef mér 10 aura, greyið, ég ætla að kaupa mér brennivín fyrir þá“.“
Í kvæðinu „Níu litlir jólasveinar“ segir m.a. í einu erindinu:
„Allir eru á kúskinnsskóm, já, það er segin saga, sumir hafa meira skegg en Oddur sterki af Skaga.“
En hver var þessi Oddur sterki af Skaganum?
Guðjón Friðriksson skrifaði um Odd sterka í Lesbók Mbl. 1995. Hér er úrdráttur úr greininni. Inn í hana eru fléttaðar frásagnir og tilkynningar úr öðrum blöðum: „Oddur ssterki af Skaganum var einn hinna kynlegu kvista í Reykjavík á fyrri hluta aldarinnar. Bágindi hans voru afleiðing af slysi en samtíðin áleit hann hálfgerðan vanvita og börn gerðu at í honum.
Eitt af því sem setti mestan svip á mannlífið í Reykjavík á árum áður vour einkennilegir menn og konur, fátæklingar sem voru sérkennilegir að einhverju leyti eða höfðu orðið Bakkusi að bráð. Oftar en ekki urðu þessir einstaklingar fyrir aðkasti og voru lagðir í einelti af krökkum sem eltu þá með ópum, hæðisorðum og óhljóðum. Sjálfum er mér í barnsminni hending sem ég lærði á götunni og hljóðaði svo: „Oddur af Skaganum með rauða kúlu á maganum“.
Þekktasta myndinÞetta var ómur af því sem krakkarnir sungu yfir hausamótunum á einni þekktustu persónu bæjarins, Oddi Sigurgeirssyni, sem kallaður var „hinn sterki af Skaganum“.
Oddur var fæddur í Pálshúsum við Bræðraborgarstíg í Reykjavík 29. október 1879 og var launbarn. Faðir hans var Sigurgeir Guðmundsson, giftur á Akranesi, sem var á vetrarvertíð í Reykjavík er Oddur kom undir. Móðir hans var Jórunn Böðvarsdóttir vinnukona. Þegar Oddur var á þriðja ári dó móðir hans og var barnið þá flutt til föður síns sem kom því fyrir hjá bróður sínum, Kristjáni Guðmundssyni á Sólmundarhöfða á Akranesi. Þar ólst Oddur upp en varð fyrir því slysi rúmlega þriggja ára gamall að fá högg á höfuðið þannig að hann missti heyrnina um tíma og var heyrnardaufur æ síðan. Þetta setti mark sitt á drenginn. Þegar hann óx upp hlógu menn að honum og héldu sumir að hann væri aumingi vegna þess hve erfitt hann átti um mál. Á efri árum notaði Oddur þar til gert látúnshorn sem hann stakk í eyrað þegar hann þurfti að heyra hvað aðrir sögðu.“
Í Alþýðublaðinu 15. apríl 1935 mátti lesa eftirfarandi tilkynningu: „Ég tapaði hlustarhorninu mínu silfurbúna, sem Ólafur Porsteinsson læknir gaf mér í vetur. Það hefir hlotið að vera í morgun þegar ég fór út úr strætisvagni á Hringbrautinni milli Hverfisgötu og Pólanna, á staðnum, þar sem maðurinn drap manninn um árið. Númerið á vagninum var 977 og ég er búinn að fara ’50 ferðir með; honum, en hefi aldrei tapað horninu mínu áður. Finnandinn er beðinn að skila horninu á Alþýðublaðið. Oddur Sigurgeirsson af Skaganum.
Aðeins fimmtán ára gamall fór Oddur út á lífið á eigin vegum. Það var töggur í honum þrátt fyrir allt. Hann var afbragðs sjómaður. Hann reri fyrst á opnum bátum en var síðan á skútum árum saman og var þá ýmist kallaður Oddur sjómaður eða Oddur sterki. Oft leitaði hann huggunnar hjá Bakkusi á skútuárum sínum og drakk þá illa.

Oddur

Einn vetur reru þeir saman í Kotvogi hann og Stjáni blái (Kristján Sveinsson). Þessa menn gerði Örn Arnarson skáld síðar ódauðlega, annars vegar í kvæðinu um Stjána bláa og hins vegar í Odds rímum.
Áður en Oddur náði fertugsaldri gjörbreyttist líf hans. Hann veiktist, var lagður á skurðarborð og mikill holskurður gerður á honum. Eftir það þoldi hann ekki strit og vosbúð og varð hálfgerður flækingur á götum Reykjavíkur. Hann átti hest og stundum fór hann í ferðalög og heimsótti gamla skútufélaga sína út um sveitir.
Oddur var smámæltur og hafði skrýtinn talanda, lá hátt rómur eins og títt er um suma menn sem heyra illa. Hjartalag hans var gott og samstöðu sýndi hann með fátækum verkamönnum og sjómönnum. Hann fylgdist með baráttu þeirra fyrir betri kjörum og gekk sjálfur í Sjómannafélag Reykjavíkur og Alþýðuflokkinn.
OddurÁrið 1924 bjó Oddur Sigurgeirsson í dimmu kjallaraherbergi á Spítalastíg 7. Uppi á lofti bjó Hallbjörn Halldórsson prentari, einn af leiðtogum Alþýuflokksins. Oddur var dubbaður upp í að gefa út blöð og hét annað þeirra Harðjaxl réttlætis og laga en hitt Endajaxl, tímarit gefið út af Hjarðjaxlaflokknum. Íhaldinu var sendar svæsnar pillur undir nafnleynd. Fór brátt að  hitna í kolunum. Haustið 1924 birtist leiðari í Morgunblaðinu sem hét Skúmaskotsmenn. Þar voru menn skammaðir fyrir að nota Odd sem skálkaskjól. Sjálfur var Oddur hrekklaus maður.
Nokkru fyrir Aþingishátíðina 1930 gáfu nokkri vina hans honum formannsbúning, eftirlíkingu af búningi landnámsmanna ásamt tilheyrandi vopnabúnaði. Oddi þótti mikið til koma og var tekin mynd af honum í búningnum ásamt Kristjáni konungi X. á Alþingishátíðinni. Síðan sýndi hann sig iðulega á götum Reykjavíkur í honum og bar þá tré-atgeir og skjöld, íklæddist rauðum kyrtli, var með rautt sítt herðaslá og hjálm, líklega ú blikki.“
„Tildrögin voru þau að „Lárus Jóhannesson hafði að sögn, ákveðið með sjálfum sér, að koma í veg fyrir það áform ungmennafélaga að karlmenn tækju upp þann hátt að klæðast litskrúði. Er mælt að hann hafi kallað Odd Sigurgeirsson á fund sinn og falið klæðskera að sníða honum litklæði og sæma hann vopnum og skildi. Var honum jafnframt fenginn góðhestur með vænum reiðtygjum. Steig nú riddarinn á bak fáki sínum og þeysti sem hann mátti um malargötur höfuðstaðarins. Taldi Lárus að með þessu væri tryggt að enginn úr flokki betri borgara léti sér til hugar koma að klæðast slíkum búningi sem Oddur af Skaganum skrýddist nú á þeysireið sinni um götur Reykjavíkur.

Oddur

Þegar nær leið Alþingishátíðinni óttuðust góðborgarar og embættismenn að Oddur Sigurgeirsson eða aðrir af kynlegum kvistum höfuðstaðarins kynnu að valda veisluspjöllum eða aðhafast eitthvað það í návist erlendra þjóðhöfðingja, sem ekki sæmdi slíkum mannfagnaði. Var því brugðið á það ráð að koma Oddi fyrir í gæslu utanbæjar. Oddur hafði átt það til að hrópa háðsyrði um Kristján Danakonung hinn níunda og jafnframt hyllt róttæka foringja jafnaðarmanna, Ólaf Friðriksson og Hendrik J. Ottósson.“ Allt kom þó fyrir ekki, þeir hittust og vel fór á með þeim. Oddur sagði frá því að kóngurinn hefði gefið sér 10 krónur.
„Á árunum í kringum 1930 og 1934 bjó Oddur í litlum steinbæ sem Höfn nefndist og var þar sem hús Fiskifélagsins við Skúlagötu stendur nú. Þegar Höfn var rifin ákváðu vinir hans að reisa honum nýtt hús við flughöfnina inn við Klepp. Var húsið kallað Oddhöfði og í því var ein stofa með eldavél. Þar hafði blaðamaður Alþýðublaðsins viðtal við hann haustið 1935. Þar sagðist hann una hag sínum velk, vera sjálfs síns herra og þykja vænst um hundinn sinn og hestinn.
Og í lok viðtalsins segir; „Það er Odduráreiðanlegt, að þegar Oddur Sigurgeirsson kveður okkur og flytur til Valhallar til Þórs, en hann er upppáhald gmla mannsins, þá sjá margir eftir honum, miklu fleiri en menn gera sér nú grein fyrir.“ Í tilkynningu í blaðinu 19. september þetta ár mátti lesa eftirfarandi: „Nú er ég búinn að fá nýtt hús, Oddhöfða við Kleppsveg. En mig vantar ráðskonu frá 1. okt. Hún verður að vera bráðmyndarleg en má ekki vera yngri en 45 ára. Oddur Sigurgeirsson af Skaganum.
„Þess ber að geta að Oddur ánafnaði samtökum sjómanna digrum sjóði í erfðaskrá sinni. Lét hann Hrafnistu njóta eigna sinna.“
Margar skoplegar lýsingar Odds voru hafðar eftir honum um afreksverk hans og hreysti. Hann á að hafa sagt um áflog sem hann lenti í. „Þá kom hann á móti mér með hnífinn í annarri og hnefann í hinni. Svo lagði hann á flótta. Ég á undan og hann á eftir.“
Í Alþýðublaðinu 29. okt. 1949 var afmælisgrein um Odd sjötugan. Í niðurlagi hennar sagði: „Já, þannig var æska hans, hún var hörð fyrir veikan drenginn móðurlausan á hörðum árum. Og nú er drengurinn orðinn sjötugur, gengur um stræti stórrar borgar, lágur, þrekinn, síðhærður og skeggprúður, hreinlegur og góðlegur – og bókstaflega öllum þykir vænt um hann.“
Síðasta árið sem Oddur sterki af Saganum lifði var hann á Elliheimilinu Grund og þar lést hann 7. maí 1953.“

Grafsteinn

Steinninn „Oddur sterki“ milli Lágmúla og Ármúla í Reykjavík er nú eini áþreifanlegi minnisvarðinn um Odd Sigurgeirsson, þennan merka mann er setti svo sterkan svip á Reykjavík á fyrri hluta 20. aldar. Líklega hefur hann sjálfur klappað letrið á steininn er hann dvaldi undir honum forðum daga. Hann er ágætur minnisvarði um þau fágæti sem „minni máttar“ eru jafnan álitnir í samfélaginu hverju sinni. Í dag er gerð krafa um að allir séu steyptir í sama svart/hvíta mótið. Hin skrautlegu litbrigði mannlífsins fyrrum hafa verið gerð burtræk – því miður. Litlausi steinninn milli Lágmúla og Ármúla er áþreifanlegur vottur um það.
Fyrir skömmu [febr. 2010] barst FERLIR eftirfarandi ábending:
Ég las greinina um Odd sterka af Skaganum með ánægju. Ég fann svo litla grein í Alþýðublaðinu frá 1927 sem varpar kannski einhverju ljósi á málið.“
Litla greinin í Alþýðublaðinu hljóðar svo: „Oddur Sigurgeirsson tilkynnir: Hefi látið gera mér grafarmerki á klappirnar fyrir innan Lækjarhvamm; þessi er áletrunin: Oddur Sigurgeirsson ritstjóri, 1927. Letrið er mjög greinilegt, höggvið djúpt á klöppina, sem er hér með friðlýst á meðan ég lifi. En þá er ég hefi verið grafinn, bið ég velunnara mína og flokksbræður að kljúfa það stykki af klöppinni, sem letrið er á, og færa það á gröf mína. Þar fyrir skulu koma allir mínir eftirlátnu fjármunir, bæði í föstu og lausu. Ef þessari beiðni minni verður ekki sinnt, mun ekki heiglum hent að hitta mig á kvöldgöngu minni þeirri, er ég rölti þegar þar að kemur. Oddur Sigurgeirsson, Sólmi, Bergþórugötu 18.“
Oddur Sigurgeirsson fæddist 29.10.1979 og dó 07.05.1953. Hann er grafinn í Fossvogskirkjugarði (H-19-0003).

Heimild:
-Guðjón Friðriksson, Mbl. 5. mars 1994 – lesbók.
-Mbl. 17. ágúst 2003.
-Alþýðublaðið 29. okt. 1949.
-Alþýðublaðið 19. sept. 1935.
-Alþýðublaðið 9. mars 1927.

Neðri

Heiðarvegur

Gengið var frá Bláfjöllum í vesturátt. Eftir að hafa gengið tæpan kílómetra á helluhrauni og á jeppaslóð, var komið að hraunhól sem á var varða.

Heiðarvegur

Heiðarvegur.

Sprunga er í hólnum með gras í botni og líklega gott skjól í henni. Að vestan er líkt og dyraop og er hægtað ganga á jafnsléttu inn í sprunguna. Punktur tekinn. Áfram var gengið í vesturátt í stefnu á Grindaskörð, á helluhrauni nokkuð grónu, með leirsléttum. Á vinstri hönd er eldborg og gróft hraun í kring, á hægri hönd er Strompahraunið og er um 300 metrar á milli hraunanna. Að gengnum 1.655 metrum (í beina loftlínu) var komið að tveimur vörðum sín á hvorum hólnum og er slakki á milli hólanna. Greinileg gata var á milli hólanna. Þegar horft var til baka sást á áframhaldandi vörðu í austurátt. Á leiðinni eftir jeppaslóðinni, var varðaða leiðin á vinstri hönd suður). Varða er einnig sjáanleg héðan í vestur átt og voru tekin hnit á hana. Næsta varða þar á eftir er að mestu hrunin en sést þó enn.

Heiðarvegur

Heiðarvegur.

Komið var að hraunbrún. Framundan er úfnara hraun, en mjög stutt er yfir það að hlíðum (Stórkonufells?). Í suður í átt að Litla-Kóngsfelli og var stæðileg varða í þá áttina. Hún gæti verið við vegamót. Önnur leiðin liggur þá suður með hraunbrúninni og suður fyrir Stórkonugjá við Litla-Kóngsfell og hin leiðin liggur áfram í stefnu yfir hraunhaftið.

Gengið var áfram í sömu stefnu yfir hraunhaftið, nokkra tugi metra og kom á Reykjaveginn við hlíðar Stórkonufells og síðan yfir nyrðri enda Stórkonugjár og er greinileg gata þar og nokkuð breið. (Reykjavegurinn stefnir vestur yfir og suður með Stórkonugjá í stefnu á veg í Kerlingaskarð). Síðan var gengið norðvestur með hlíðunum í átt að skarðinu norðan við Stórabolla.
Þegar komið er að þar sem farið er upp í skarðið norðan við Stórabolla er myndarleg varða þar, niður undir jafnsléttu og hálfhruninn varða er rétt þar neðar í stefnu á hraunbrún á hrauninu sem er sunnan við bollana. Þegar horft er úr brekkunni undir Stórabolla og vörðurnar bera hver í aðra, má sjá góðan veg með hraunbrúninni.

Heiðarvegur

Heiðarvegur – varða.

Þegar komið var neðarlega í brekkurnar norðan skarðs og gengið eftir jeppaslóða, var fyrir varða í 336 m hæð. Punktur tekinn.
Neðst í brekkunum komu saman jeppaslóðinn og reiðvegur og eða fjárgata í 276 metra hæð. Þegar gengið var áfram með hlíðum undir Kristjánsdalahorni, sást greinileg gata upp og bak við smá hnjúk sem sker sig frá fjalllendinu. Þegar komið var norður fyrir hnjúkinn sást gatan greinilega þar sem hún skáskar brekkuna niður á jafnsléttu. Neðar eru vatnsstæði.
Aftur var farið upp að Bláfjöllum og gengið frá þeim í suður. Eftir að hafa gengið um 800 metra frá horninu, var komið að vörðu. Þaðan var gengið í norðvestur og eftir að hafa gengið um 500 metra sást hraunhóll og var steinn á toppi hans.

Heiðarvegur

Heiðarvegur – vörður.

Hóllinn er holur að innan og er þar sæmilegur skúti og geta nokkrir menn haft þar skjól. Svo virðist sem brotið hafi verið úr munanum niður við jörð og er hægt að ganga inn líkt og um dyraop. Punktur tekinn. Skúti þessi er í beinni línu við næstu vörðu sem komið var að. Um 500 metrar eru frá skútanum að henni. Vestan við vörðuna er grasivaxin dæld og þegar horft er í norðvestur á næstu vörðu blasir við greinileg gata í grasinu, nokkra tugi metra. Þessi gata er ekki fjárgata, einn og hálfur til tveir metrar á breidd þar sem hún er breiðust.

Heiðavegur

Varða á Heiðarveginum.

Síðan var gengið að næstu vörðu sem blasti við. Eru um 220 metrar að henni. Hæð y.s.m. eru 515 m. Þegar nær var komið sást að vörðurnar eru tvær. Sú sem fyrr er komið að, er hálf hruninn en nokkrum metrum frá er stæðileg varða. Vörðurnar eiga líklega að bera hvor í aðra til að fá stefnu á næstu vörðu. (Eða að vísa á sprungna hraunhólinn með vörðunni sem sást í fyrri ferð í um 20-30 metra fjarlægð).
Ekki sást til næstu vörðu í norðvestur eða vesturátt en í vestur er varða sem áður hafði verið komið að og er um 1.600 metrar í hana. Enn styttra er að aðra vörðuna.

Heiðarvegur

Heiðarvegur – Geitafell fjær.

Hér er ágætis útsýni yfir landið frammundan, það fer lækkandi í norðvestur og vestur og er vegur ágætur um helluhraun.
Í vestur er nokkuð stór nafnlaus eldborg sem áður er getið með grófu hrauni umhverfis en hraunið úr henni nær ekki langt norður fyrir hana. Heiðarvegurinn liggur því norðan við eldborgina, um nokkurskonar hlið á milli úfinna hrauna.
Því miður var ekki hægt að skoða meira í bili en klára þarf að staðsetja vörður á 1.600 metra kafla og athuga hvort gatan greinist austan við Stórkonugjá. Þá er eftir að staðsetja vörður austur um heiðina niður Hrossahryggi eða um Guðrúnarbotna að Ólafsskarðsvegi.
Frábært veður í frábæru landslagi.

Heiðarvegur

Varða á Heiðarveginum – Geitafell framundan.

Innstidalur

Gengið var Sleggjubeinsskarð á milli Skarðsmýrarfjalls og Húsmúla og inn Innstadal að Vörðu-Skeggja. Farið var yfir hrygginn niður í Marardal, gengið þaðan í Múlasel (sæluhús) í Engidal og meðfram Húsmúla með viðkomu að Draugatjörnum.

Innstidalur

Innstidalur.

Innstidalur er innilyktur af Henglinum, grasi gróinn að miklu leyti og fallegur umgöngu. Innst í honum er hver og heit laug. Hverinn er einn af mestu gufuhverum landsins. Útilegumannahellir er í klettunum.
Allnokkru norðar niðurundir Skeggja er Marardalur. Dalur þessi er umluktur hömrum á alla vegu, gróðursæll og marflatur í botninn eftir framburð lækja úr fjallinu. Í honum er haglendi gott enda notaður til beitar fyrir geldneyti hér áður fyrr. Innst í dalnum er hellir, en um hann má lesa í útilegumannasögum. Grjótgarður, sem hlaðinn hefur verið fyrir eina sæmilega útganginn úr honum sunnanverðum, ber vitni um þetta. Þetta eru nautaréttir, sem lögðust af 1860. Syðst gengur þröngt gil vestur úr dalum.

Engidalur

Engidalur – kort.

Engidalur er grösugur og mýrlendur. Úr norðri kemur Engidalshvísl, sem er samsafn lækja úr vesturhlíðum Hengils. Hana er oftast hægt að stikla. Við suðurenda Þjófahlaups, vestan Engidalshvíslar er nýlegt hús sem Orkuveita Reykjavíkur á. Það er til afnota fyrir gesti og gangandi sem gera vilja stuttan stans á leið sinni um svæðið. Austan árinnar, langleiðina uppi við Hengil, rís upp úr grónu landinu sérkennilegur klettadrangur sem minnir á risavaxna höggmynd af skepnu einni mikilli og er vel þess virði að staldra við og skoða.

Þjófahlaup

Þjófahlaup.

Leiðin lá norður með Þjófahlaupi eftir dal eða lægð vestan undir Hengli. Við Draugatjörn er sæluhúsatótt. Elstu heimildir um hana eru frá 1703. Þá er þar Húsmúlarétt vestan tjarnanna, gömul rétt hlaðin úr hraungrýti. Mikill draugagangur var jafnan í og við sæluhúsið og mun vera enn.Í leiðinni var litið á Hellukofann á Hellisheiði, við gömlu þjóðleiðina. Hann var hlaðinn 1830 og stendur enn.
Frábært veður – Gangan var löng, en eftirminnileg – 4 klst og 44 mín.

Marardalur

Marardalur.

Sjálfkvíar

Gerð var leit að Sjálfkvíum á Kjalarnesi.
Í örnefnalýsingu fyrir Esjuberg segir frá því að; „einu sinni endur fyrir löngu stálu tveir strákar messuklæðum úr Móakirkju og skáru þau niður í skóna sína. Þeir voru síðan hengdir í Sjálfkvíum í Móanesi og dysjaðir þar allri alþýðu til viðvörunar. Sjálfkvíar eru klettar niður við sjó [skammt neðan við núverandi þjóðveg]. Dálítið bil er á milli þeirra, og fellur sjór þar inn um flóð.“
SjálfkvíarStröndin á þessu svæði er við skorin og því erfitt að staðsetja Sjálfkvíarnar utan við Leiðhamra. Þá kom bargvættur skyndilega til sögunnar, Sigurður Einarsson, ábúandi á svæðinu. Hann sagðist vel þekkja til staðarins. Hann væri skammt vinstra megin við yfirgefinn sumarbústað er verið væri að endurbyggja ofan við ströndina. Um væri að ræða klof eða klettaskorning, sem tré hefði verið látið yfir og staðurinn notaður sem aftökustaður – að því er heimildir herma.
Eftir þessa lýsingu var auðvelt að staðsetja Sjálfkvíar. Þær eru ómerktar líkt og önnur merkisörnefni á Kjalarnesi.
Heitið Sjálfkvíar er þekkt víðar á Suðvesturlandi, t.d. í Leirunni við Garð og Innri-Hólm við Akranes og þá ekki alltaf í sömu merkingu orðsins. „Svo virðist sem lífsviðurværi fólksins í Leirunni hafi að langmestu leyti verið sótt til sjávar, en fátt verið af skepnum. Sel frá bæjunum voru engin, enda kannski heiðarlandinu ekki fyrir að fara. Skepnuhaldið fór því nær eingöngu fram við bæina, fjöruna og næsta nágrenni.
Á Leirunni mátti hafa sauðfé með Innri-Hólmurnákvæmri aðgæslu fyrir sjó. Misstu bændur  oft fé sitt í sjóinn, því fyrir utan Hólm og innan Gufuskála er bás, sem Sjálfkvíar heita, er fé vildi oft flæða, en ómögulegt að bjarga, því þverhnýptir klettar eru fyrir ofan.“ Hér eru Sjálfkvíar notaðar í merkingu „sjálfhelda“.
Innri-Hólmur var einnig nefndur Ásólfshólmur. Þar bjó fyrstur írskur maður, Þormóður Bersason. Hann byggði líklega kirkju á staðnum. Árið 1096, þegar tíundarlögin voru sett, var þar kirkja. Illugi rauði, sem bjó á Hofsstöðum í Hálsasveit, skipti á búi, fé og konu við bóndann að Innra-Hólmi. Þetta féll konu hans, Sigríði svo illa, að hún hengdi sig í hofinu. Konan, sem hann fékk í skiptum, entist ekki lengi og hann kvæntist Þurðíði, systur Harðar Grímkelssonar, sem varð góður vinur mágs síns framan af eða þar til Illuga fékk nóg af yfirgangi Harðar. Eitt sinn lenti Hörður við 23. mann í Sjálfkvíum í landi Illuga og smöluðu Akrafjallið. Illugi safnaði liði og barðist við Hólmverja á meðan þeir slátruðu fénu og fluttu á skip. Svo sagði a.m.k. í Harðar sögu og Hólmverja, 28. kafla.
Frábært veður. Gangan tók 10. mín.

Leiðhamrar

Kort af svæðinu frá 1903.

 

Fóelluvötn

Leitað var að 180 ára gömlu sæluhúsi undir Eystri-Vatnsási við Fóelluvötn.

Guðrúnartóft

Guðrúnartóft.

Ritað hefur verið um sögu hússins í gömlu tímariti. Verður saga þess og aðdragandi rakin hér síðar. Gerður var út leiðangur fyrir allmörgum árum að leita að tóftunum og fundust þær þá. Farið var eftir þeirri lýsingu við leitina núna. Talað var um tóftir mót norðvestri í grónum klapparhrygg, en þegar komið var á vettvang reyndust þær nokkrar á svæðinu. Sagt er frá minjunum í annarri FERLIRslýsingu þar sem reyndist vera um að ræða, við nánari athugun, minjar nýbýlis í heiðinni. Tóftirnar gætu hafa eftirá um stund verið notaðar sem skjól fyrir ferðamenn á Austurleiðinni sunnan Lyklafells

Guðrúnartóft

Guðrúnartóft á Vatnaási við Fóelluvötn.

Ákveðið var að beita útilokunaraðferðinni, nýta reynsluna og möguleg kennileiti á svæðinu.
Fóelluvötnin teygja sig yfir nokkuð stórt svæði, þ.e. þegar eitthvað er í vötunum, en að þessu sinni var mjög lítið vatn í þeim. Líklegasta þjóðleiðin ofan við vötnin var rakin. Sæluhúsið fannst þá eftir tíu mínútna göngu. Um er að ræða tvær tóftir undir klapparhryggnum. Sáust þær vel í kvöldsólinni.
Tíminn vekur vitund um hversu vel FERLIRsfólk er orðið þjálfað í að finna það sem leitað er að. Þá var Vatnakofinn við Sandskeið skoðaður, gamalt sæluhús á gömlu leiðinni austur.

Guðrúnartóft

Guðrúnartóft – uppdráttur.

Gvendarbrunnar
Gvendarbrunnar eru kenndir við Guðmund Arason biskup hinn góða (1203-1237).
Inntak Gvendarbrunnavatnsins frá 1908-1980Vatnið sem Guðmundur góði vígði var talið heilnæmt með afbrigðum og búa ygir margvíslegum yfirnáttúrlegum eiginleikum. Hinsvegar hafa engar heimildir fundist um sérstök tengsl Guðmundar góða við Gvendarbrunnasvæðið.
Árið 1906 átti Jón Þorláksson, þáverandi landsverkfræðingur, frumkvæðið að því að gera Gvendarbrunna að vatnstökusvæði Reykvíkinga.
Á árunum 1904-1905 hafði bæjarstjórn fjármagnað boranir í Vatnsmýrinni sem reyndust árangurslausar. Vatnið sem upp kom reyndist heitt og óhæft til drykkjar. Við boranir fannst einnig gull og samkvæmt efnarannsóknum var þar að finna ágætis gullnámu.
Guðllæðið í Reykjavík var skammlíft en áfram hélt undirbúningsvinna að vatnsveitu sem markaði tímamót með kaupum bæjarstjórnar á Elliðaánum.
Árið 1908 hófust framkvæmdir á vatnsleiðslu frá Elliðaánum og Gvendarbrunnum. Ári síðar voru leiðslurnar tengdar og vatnsveita í Reykjavík orðin að veruleika.

Gvendarbrunnar

Gvendarbrunnar – flugmynd.