Gengið var um Eldborg, Drottningu og Stóra-Kóngsfell vestan Bláfjalla. Eyrað er fjær og væntanlega hluti af eldri gígaröð vestan í hálsunum.
Eldborg hangir utan í smáfjallinu Drottningu sem er svo aftur við hliðina á Stóra-Kóngsfelli. Eldborg er það fyrsta sem grípur augað, en hún mjög glæsileg á að líta, regluleg í lögun og með skarði sem hraunið hefur runnið út um og myndað glæsilega hrauntröð út frá henni. Rétt er að gefa sér tíma til að skoða þetta fyrirbæri, en ekki er svo ýkja langt síðan eldar brunnu þarna, eða svona ca. 1000 ár. Hraun það sem vall þarna út hefur runnið alla leið niður í Heiðmörk og myndar efsta lagið í s.k. Hólmshraunum. Þegar gengið er um hraunin umhverfis Drottningu og Stóra-Kóngsfell svo og litið yfir afurðir Þríhnúka má telja ljóst að þau hafi öll runnið á svipuðum, ef ekki sama, tíma. Þríhnúkar, gígarnir suðvestan Stóra-Kóngsfells og Eldborg eru augljóslega á sömu sprungureininni og því að öllum líkindum gosið á sama tíma. Út frá gígunum undir hlíðum Stóra-Kóngsfells, er og smáþvergígaröð yfir í vesturöxl fjallsins. Miklar og langar hrauntraðir liggja út frá öllum gígunum svo og margar aðrar grennri – og ekki síst tilkomuminni. Ein meginhrauntröðin liggur frá gígunum undir Stóra-Kóngsfelli til norðurs niður í Heiðmörk, alla leið að Hólshrauni, og önnur til austurs að miklu kvikuhólfi milli fellanna.
Áfram skal svo haldið upp með Stóra-Kóngsfelli að sunnanverðu og halda svo vestur frá því og í átt að Þríhnúkum. Þó er rétt að veita því athygli að uppi við Stóra-Kóngsfell vestanvert og skammt þar fyrir vestan eru gígar sem þónokkuð hraun hefur runnið úr, Kóngsfellshraun og Rjúpnadyngjuhraun. Þarna gaus skömmu á eftir Eldborg.
Þríhnúkar, eru eins og nafnið gefur til kynna, þrír hnúkar sem allir eiga það sameiginlegt að vera gígkeilur og eru um 1000 ára gamlir. Sá austasti geymir eitt sérstæðasta náttúrufyrirbrigði í nágrenni höfuðstaðarins, og jafnframt eitthvað það hrikalegasta. Óhætt er að segja að hægt sé að fá í hnén, bara við það eitt að standa við svart gímaldsop í toppi hnjúksins, vitandi það að það eru um 121 metrar niður á fast og það í frjálsu falli í 150.000 rúmmetra rými. Með öðrum orðum, það er rétt að fara ekki of nálægt.
Eldborg vestur af Bláfjöllum er einn þriggja gíga af eldborgargerð hjá Kóngsfelli. Friðlýst 1971. Um friðlýsinguna segir í Stjórnartíðindum B, nr. 121/1974:
„Auglýsing um náttúruvætti í Eldborg í Bláfjöllum:
Samkvæmt heimild í 22. gr. laga nr. 47/1971, um náttúruvernd, hefur [Umhverfisstofnun] ákveðið fyrir sitt leyti að lýsa Eldborg í Bláfjöllum náttúruvætti.
Mörk hins friðlýsta svæðis eru þessi: Að austan ræður (1) Bláfjallavegur eins og hann er nú. Að sunnan (2) hugsuð lína skemmst 200 m frá rótum Eldborgar frá vegi að suðurenda. Drottningar, (3) með hábrún hennar að norðurenda hennar og (4) þaðan til austurs að vegi, 200 m frá rótum hið næsta.
Um svæðið gilda eftirfarandi reglur:
1. Óheimilt er að ganga um hlíðar og barma gígsins utan merktra gönguslóða. Enn fremur er hvers konar akstur utan vega á hinu friðlýsta svæði bannaður.
2. Skylt er vegfarendum að sýna varúð, svo ekki spillist gróður eða aðrar minjar á hinu friðaða svæði í umhverfi eldstöðvarinnar.
3. Jarðrask allt og mannvirkjagerð á hinu friðaða svæði er háð leyfi [Umhverfisstofnunar]
4. Ekki má fara með hesta um svæðið utan vegar og stranglega er bannað að beita þeim innan þess.
Um viðurlög vegna brota á reglum þessum fer eftir ákvæðum náttúruverndarlaga.
Felld eru úr gildi eldri ákvæði um friðun svæðisins.
Ráðuneytið er samþykkt friðlýsingunni og birtist hún hér með með skírskotun til 32. og 33. gr. laga nr. 17/1971, um náttúruvernd, og tekur friðlýsingin gildi við birtingu þessarar auglýsingar í Stjórnartíðindum.
Menntamálaráðuneytinu, 3. apríl 1974.
Magnús T. Ólafsson.“
Þegar vegur var lagður að skíðalöndunum við Bláfjöll fyrir nokkrum árum [1982] opnaðist nýr og ókunnur heimur fyrir flestum. Til þess tíma höfðu fáir lagt leið sína um þær slóðir en vegurinn breytti öllum aðstæðum í einni svipan. Það sem áður var torsótt almenningi varð nú aðgengilegt. Má þar m.a. nefna hellana i hrauninu, gönguferðir á hæstu kolla Bláfjalla og vestur á Heiðina há svo eitthvað sé nefnt. Um þessar mundir er unnið að gerð vegar frá Krýsuvíkurveginum áleiðis að Bláfjöllum og þegar þeirri vegargerð er lokið opnast fjölbreytt og skemmtileg ökuleið um nýtt svæði, sem er fáum kunn, en mjög forvitnileg. Að vestan hefur vegurinn verið þegar lagður að Lönguhlíð, en eftir er að gera ca. 12-15 km langan kafla svo endar nái saman. En sá hluti leiðarinnar er mjög áhugaverður, einkum frá jarðfræðilegu sjónarmiði. Jón Jónsson jarðfræðingur hefur kannað þetta svæði manna mest og birt niðurstöður sínar bæði í ræðu og riti. Til hans er því sóttur mestur sá fróðleikur um hraun og eldgos sem getið verður um hér á eftir.
Skömmu áður en við komum áleiðis upp að skíðaskálanum í Bláfjöllum yfirgefum við bílinn við Eldborgina, en það er reglulega lagaður og mosavaxinn gígur vestan við veginn. Götuslóði liggur upp a gígbarminn og er sjálfsagt að ganga þangað upp að vestanverðu. Gígurinn er reglulega lagaður, um 200 m í þvermál og um 30 m djúpur.
Frá Eldborginni hafa runnið mikil hraun og munu lengstu hraunstraumarnir hafa runnið alla leið niður í Lækjarbotna. Eldborgin var friðlýst árið 1971 sbr. framangreint.
Eftir að hafa skoðað Eldborgina er stefnan tekin Drottningu. Uppgangan var auðveld sem framhald að aðkomunni að suðaustanverðu. Þegar upp var komið blasti við hið ágætasta útsýni yfir Eldborgina í austri og á háan „ektamakann“ í vestri. Gengið var niður af fellinu að vestanverðu og stefnan tekin yfir og upp hraunið á barmi hrauntraðar að Stóra-Skógfelli.
Stóra-Kóngsfell bar við loft í vesturátt. Við göngum fram hjá allstórum móbergshnúk, sem nefnist Drottning. Fær hann efalaust þetta nafn vegna nálægðar við Kóngsfellið, sem er miklu ábúðarmeira til að sjá. Stóra-Kóngsfell er um 602 m y.s. og þaðan er frábært útsýni yfir nágrennið og til strandarinnar við Faxaflóann. Fjallið er auðvelt uppgöngu og sjálfsagt að glíma við það en ekki er síður skemmtilegt að að ganga með því að vestan. Þar hafa hraunstraumar runnið upp að hlíðarrótum og þar sem hraun og malarskriður mætast eru jafnan gott að ganga.
Að þessu sinni var gengið á fellið að norðvestan. Uppgangan var auðveld og án vandræða. Þegar upp var komið blasti við hið mikla útsýni til allra átta; yfir að höfðuborgarsvæðinu, upp á Þríhnúkum, niður á hrauntraðir og yfir að Strompum, auk þess sem Rauðuhnúkar og og Vífilsfellið sáust baða sig í kvöldsólinni í norðaustri.
Efst á Kóngsfellinu er merkjavarða því þar koma saman landamerki fjögurra sveitafélaga þ.e. Reykjavíkur, Kópavogs, Selvogshrepps og Grindavíkur. Þegar gengið var í kringum vörðuna á fellinu má segja að gengið hafi verið um fjögur sveitarfélög á innan við 10 sekúndum. Þetta var þó skammvinn skmmtun því í raun og veru eru landamerkin alls ekki þarna heldur á Litla-Kóngsfelli sbr. eftirfarandi landamerkjalýsingu fyrir Ölvus og Selvog: ,,Að vestanverðu; Úr steyptum stöpul á Borgarhólum, þaðan beina línu í Sýsluþúfu, þaðan bein lína í Sýslustein austan Lyklafells, og þaðan bein lína í steyptan stöpul á Vífilsfelli. Úr stöpli á Vífilsfelli eftir hæstu tindum Bláfjalla í Bláfjallahorn, þaðan í Kóngsfell (Litla-Kóngsfell).
,,Að sunnanverðu; Úr Kóngsfelli (Litla-Kóngsfelli) beina línu í Kálfahvamm, vestan í Geitafelli, þaðan beina stefnu afur í Fálkakletta. (Ofangreind lína styðst við hrd. 1996:2848.)
Vestan við fellið eru nokkrir smágígar sem vekja forvitni, bæði sökum lögunar og fjölbreytni í litum. Aðalgígarnir eru þrír og sá vestasti þeirra er mestur. Hraunið úr þessum gígum þekur svæðið milli Kóngsfells og Drottningar og telur Jón það ljóst, að þarna hafi gosið á sögulegum tíma, eða eftir að norrænir menn settust að hér á landi. Gígarnir og þetta eldbrunna svæði umhverfis umhverfis Kóngsfellið er mjög áhugavert og væri unnt að dvelja þar lengi dags, en tíminn líður og gönguferðinni er ekki lokið enn. Vestan við Kóngsfellið eru Þríhnúkarnir og þeir verða næst á leið okkar.
Þríhnúkarnir eru fornar eldstöðvar og segir Jón Jónsson að þeir séu meðal “sérstæðustu eldstöðva á Reykjanesskaga bæði hvað snertir útlit eldstöðvanna sjálfra og eins hraun, sem frá þeim hafa komið”. Þar hafa orðið tvö gos að minnsta kosti og í síðara gosinu mun austasti hnúkurinn hafa myndast. Upp á þann hnúk munu allir ganga, sem eiga þarna leið um, því gígurinn er opinn og því skoðunarverður. Hann er lóðréttur, nokkuð á annað hundrað metra á dýpt eftir því sem best er vitað, en nokkrir fullhugar hafa sigið til botns í gígnum og kannað hann lauslega. Það er óhugnanleg tilfinning að standa á gígbarminum og horfa niður í kolsvart gímaldið. Er þá eins gott að gæta sín og kunna vel fótum sínum forráð.
Þegar hér er komið sögu geta menn valið um tvennt: að ganga sömu leið tilbaka að bílnum eða halda áfram, fram hjá Stóra-Bolla, niður Grindaskörðin og vestur að Lönguhlíð, að vegarendanum og láta sækja sig þangað. Ekki skiptir máli hvor kosturinn er valinn. Það sem fyrir augun hefur borið í þessari ferð ætti flestum að vera nægilegt umhugsunarefni eftir daginn. Fjölda margir gígar, stórir og smáir, hafa verið skoðaðir, og hvarvetna blasir við eldbrunnið, gróðursnautt land. Þetta tvennt er talandi tákn um þau reginöfl sem liggja dulin í undirdjúpunum og minnir okkur um leið á nálægð þeirra. En þeir sem hafa mesta unun af hressandi gönguferð með víðsýni til allra átta fá einnig nokkuð fyrir snúð sinn því útsýnið yfir strandlengjuna við Faxaflóann er frábært, hvort sem staðið er á Stóra-Kóngsfelli, Þríhnúkum eða Stóra-Bolla. Það þekkja þeir sem þangað hafa komið. HÉR má sjá myndband af svæðinu.
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 22 mín.
Heimild m.a.:
-Mbl. 7. ágúst 1982.