Tag Archive for: Reykjavík

Eldborg

Gengið var um Eldborg, Drottningu og Stóra-Kóngsfell vestan Bláfjalla. Eyrað er fjær og væntanlega hluti af eldri gígaröð vestan í hálsunum.
Eldborg hangir utan í smáfjallinu Drottningu sem er svo aftur við hliðina á Stóra-Kóngsfelli. Eldborg er það fyrsta sem Göngusvæðiðgrípur augað, en hún mjög glæsileg á að líta, regluleg í lögun og með skarði sem hraunið hefur runnið út um og myndað glæsilega hrauntröð út frá henni. Rétt er að gefa sér tíma til að skoða þetta fyrirbæri, en ekki er svo ýkja langt síðan eldar brunnu þarna, eða svona ca. 1000 ár. Hraun það sem vall þarna út hefur runnið alla leið niður í Heiðmörk og myndar efsta lagið í s.k. Hólmshraunum. Þegar gengið er um hraunin umhverfis Drottningu og Stóra-Kóngsfell svo og litið yfir afurðir Þríhnúka má telja ljóst að þau hafi öll runnið á svipuðum, ef ekki sama, tíma. Þríhnúkar, gígarnir suðvestan Stóra-Kóngsfells og Eldborg eru augljóslega á sömu sprungureininni og því að öllum líkindum gosið á sama tíma. Út frá gígunum undir hlíðum Stóra-Kóngsfells, er og smáþvergígaröð yfir í vesturöxl fjallsins. Miklar og langar hrauntraðir liggja út frá öllum  gígunum svo og margar aðrar grennri – og ekki síst tilkomuminni. Ein meginhrauntröðin liggur frá gígunum undir Stóra-Kóngsfelli til norðurs niður í Heiðmörk, alla leið að Hólshrauni, og önnur til austurs að miklu kvikuhólfi milli fellanna.
DrottningÁfram skal svo haldið upp með Stóra-Kóngsfelli að sunnanverðu og halda svo vestur frá því og í átt að Þríhnúkum. Þó er rétt að veita því athygli að uppi við Stóra-Kóngsfell vestanvert og skammt þar fyrir vestan eru gígar sem þónokkuð hraun hefur runnið úr, Kóngsfellshraun og Rjúpnadyngjuhraun. Þarna gaus skömmu á eftir Eldborg.
Þríhnúkar, eru eins og nafnið gefur til kynna, þrír hnúkar sem allir eiga það sameiginlegt að vera gígkeilur og eru um 1000 ára gamlir. Sá austasti geymir eitt sérstæðasta náttúrufyrirbrigði í nágrenni höfuðstaðarins, og jafnframt eitthvað það hrikalegasta. Óhætt er að segja að hægt sé að fá í hnén, bara við það eitt að standa við svart gímaldsop í toppi hnjúksins, vitandi það að það eru um 121 metrar niður á fast og það í frjálsu falli í 150.000 rúmmetra rými. Með öðrum orðum, það er rétt að fara ekki of nálægt.
Eldborg vestur af Bláfjöllum er einn þriggja gíga af eldborgargerð hjá Kóngsfelli. Friðlýst 1971. Um friðlýsinguna segir í Stjórnartíðindum B, nr. 121/1974:

 

Varða á Drottningu

„Auglýsing um náttúruvætti í Eldborg í Bláfjöllum:
Samkvæmt heimild í 22. gr. laga nr. 47/1971, um náttúruvernd, hefur [Umhverfisstofnun] ákveðið fyrir sitt leyti að lýsa Eldborg í Bláfjöllum náttúruvætti.
Mörk hins friðlýsta svæðis eru þessi: Að austan ræður (1) Bláfjallavegur eins og hann er nú. Að sunnan (2) hugsuð lína skemmst 200 m frá rótum Eldborgar frá vegi að suðurenda. Drottningar, (3) með hábrún hennar að norðurenda hennar og (4) þaðan til austurs að vegi, 200 m frá rótum hið næsta.
Um svæðið gilda eftirfarandi reglur:
1. Óheimilt er að ganga um hlíðar og barma gígsins utan merktra gönguslóða. Enn fremur er hvers konar akstur utan vega á hinu friðlýsta svæði bannaður.
2. Skylt er vegfarendum að sýna varúð, svo ekki spillist gróður eða aðrar minjar á hinu friðaða svæði í umhverfi eldstöðvarinnar.
Gígur suðvestan við Kóngsfell3. Jarðrask allt og mannvirkjagerð á hinu friðaða svæði er háð leyfi [Umhverfisstofnunar]
4. Ekki má fara með hesta um svæðið utan vegar og stranglega er bannað að beita þeim innan þess.
Um viðurlög vegna brota á reglum þessum fer eftir ákvæðum náttúruverndarlaga.
Felld eru úr gildi eldri ákvæði um friðun svæðisins.
Ráðuneytið er samþykkt friðlýsingunni og birtist hún hér með með skírskotun til 32. og 33. gr. laga nr. 17/1971, um náttúruvernd, og tekur friðlýsingin gildi við birtingu þessarar auglýsingar í Stjórnartíðindum.
Menntamálaráðuneytinu, 3. apríl 1974.
Magnús T. Ólafsson.“

 

Gígur suðvestan við Kóngsfell

Þegar vegur var lagður að skíðalöndunum við Bláfjöll fyrir nokkrum árum [1982] opnaðist nýr og ókunnur heimur fyrir flestum. Til þess tíma höfðu fáir lagt leið sína um þær slóðir en vegurinn breytti öllum aðstæðum í einni svipan. Það sem áður var torsótt almenningi varð nú aðgengilegt. Má þar m.a. nefna hellana i hrauninu, gönguferðir á hæstu kolla Bláfjalla og vestur á Heiðina há svo eitthvað sé nefnt. Um þessar mundir er unnið að gerð vegar frá Krýsuvíkurveginum áleiðis að Bláfjöllum og þegar þeirri vegargerð er lokið opnast fjölbreytt og skemmtileg ökuleið um nýtt svæði, sem er fáum kunn, en mjög forvitnileg. Að vestan hefur vegurinn verið þegar lagður að Lönguhlíð, en eftir er að gera ca. 12-15 km langan kafla svo endar nái saman. En sá hluti leiðarinnar er mjög áhugaverður, einkum frá jarðfræðilegu sjónarmiði. Jón Jónsson jarðfræðingur hefur kannað þetta svæði manna mest og birt niðurstöður sínar bæði í ræðu og riti. Til hans er því sóttur mestur sá fróðleikur um hraun og eldgos sem getið verður um hér á eftir.
Skömmu áður en við komum áleiðis upp að skíðaskálanum í Bláfjöllum yfirgefum við bílinn við Eldborgina, en það er reglulega lagaður og mosavaxinn gígur vestan við veginn. Götuslóði liggur upp a gígbarminn og er sjálfsagt að ganga þangað upp að vestanverðu. Gígurinn er reglulega lagaður, um 200 m í þvermál og um 30 m djúpur.

Hrauntröð vestan Stóra-Kóngsfells

Frá Eldborginni hafa runnið mikil hraun og munu lengstu hraunstraumarnir hafa runnið alla leið niður í Lækjarbotna. Eldborgin var friðlýst árið 1971 sbr. framangreint.
Eftir að hafa skoðað Eldborgina er stefnan tekin Drottningu. Uppgangan var auðveld sem framhald að aðkomunni að suðaustanverðu. Þegar upp var komið blasti við hið ágætasta útsýni yfir Eldborgina í austri og á háan „ektamakann“ í vestri. Gengið var niður af fellinu að vestanverðu og stefnan tekin yfir og upp hraunið á barmi hrauntraðar að Stóra-Skógfelli.
Stóra-Kóngsfell bar við loft í vesturátt. Við göngum fram hjá allstórum móbergshnúk, sem nefnist Drottning. Fær hann efalaust þetta nafn vegna nálægðar við Kóngsfellið, sem er miklu ábúðarmeira til að sjá. Stóra-Kóngsfell er um 602 m y.s. og þaðan er frábært útsýni yfir nágrennið og til strandarinnar við Faxaflóann. Fjallið er auðvelt uppgöngu og sjálfsagt að glíma við það en ekki er síður skemmtilegt að að ganga með því að vestan. Þar hafa hraunstraumar runnið upp að hlíðarrótum og þar sem hraun og malarskriður mætast eru jafnan gott að ganga.
GengiðAð þessu sinni var gengið á fellið að norðvestan. Uppgangan var auðveld og án vandræða. Þegar upp var komið blasti við hið mikla útsýni til allra átta; yfir að höfðuborgarsvæðinu, upp á Þríhnúkum, niður á hrauntraðir og yfir að Strompum, auk þess sem Rauðuhnúkar og og Vífilsfellið sáust baða sig í kvöldsólinni í norðaustri.
Efst á Kóngsfellinu er merkjavarða því þar koma saman landamerki fjögurra sveitafélaga þ.e. Reykjavíkur, Kópavogs, Selvogshrepps og Grindavíkur. Þegar gengið var í kringum vörðuna á fellinu má segja að gengið hafi verið um fjögur sveitarfélög á innan við 10 sekúndum. Þetta var þó skammvinn skmmtun því í raun og veru eru landamerkin alls ekki þarna heldur á Litla-Kóngsfelli sbr. eftirfarandi landamerkjalýsingu fyrir Ölvus og Selvog: ,,Að vestanverðu; Úr steyptum stöpul á Borgarhólum, þaðan beina línu í Sýsluþúfu, þaðan bein lína í Sýslustein austan Lyklafells, og þaðan bein lína í steyptan stöpul á Vífilsfelli. Úr stöpli á Vífilsfelli eftir hæstu tindum Bláfjalla í Bláfjallahorn, þaðan í Kóngsfell (Litla-Kóngsfell).
,,Að sunnanverðu; Úr Kóngsfelli (Litla-Kóngsfelli) beina línu í Kálfahvamm, vestan í Geitafelli, þaðan beina stefnu afur í Fálkakletta. (Ofangreind lína styðst við hrd. 1996:2848.)

Varða á Stóra-Kóngsfelli - Þríhnúkar fjærVestan við fellið eru nokkrir smágígar sem vekja forvitni, bæði sökum lögunar og fjölbreytni í litum. Aðalgígarnir eru þrír og sá vestasti þeirra er mestur. Hraunið úr þessum gígum þekur svæðið milli Kóngsfells og Drottningar og telur Jón það ljóst, að þarna hafi gosið á sögulegum tíma, eða eftir að norrænir menn settust að hér á landi. Gígarnir og þetta eldbrunna svæði umhverfis umhverfis Kóngsfellið er mjög áhugavert og væri unnt að dvelja þar lengi dags, en tíminn líður og gönguferðinni er ekki lokið enn. Vestan við Kóngsfellið eru Þríhnúkarnir og þeir verða næst á leið okkar.
Þríhnúkarnir eru fornar eldstöðvar og segir Jón Jónsson að þeir séu meðal “sérstæðustu eldstöðva á Reykjanesskaga bæði hvað snertir útlit eldstöðvanna sjálfra og eins hraun, sem frá þeim hafa komið”. Þar hafa orðið tvö gos að minnsta kosti og í síðara gosinu mun austasti hnúkurinn hafa myndast. Upp á þann hnúk munu allir ganga, sem eiga þarna leið um, því gígurinn er opinn og því skoðunarverður. Hann er lóðréttur, nokkuð á annað hundrað metra á dýpt eftir því sem best er vitað, en nokkrir fullhugar hafa sigið til botns í gígnum og kannað hann lauslega. Það er óhugnanleg tilfinning að standa á gígbarminum og horfa niður í kolsvart gímaldið. Er þá eins gott að gæta sín og kunna vel fótum sínum forráð.

Útsýni

Þegar hér er komið sögu geta menn valið um tvennt: að ganga sömu leið tilbaka að bílnum eða halda áfram, fram hjá Stóra-Bolla, niður Grindaskörðin og vestur að Lönguhlíð, að vegarendanum og láta sækja sig þangað. Ekki skiptir máli hvor kosturinn er valinn. Það sem fyrir augun hefur borið í þessari ferð ætti flestum að vera nægilegt umhugsunarefni eftir daginn. Fjölda margir gígar, stórir og smáir, hafa verið skoðaðir, og hvarvetna blasir við eldbrunnið, gróðursnautt land. Þetta tvennt er talandi tákn um þau reginöfl sem liggja dulin í undirdjúpunum og minnir okkur um leið á nálægð þeirra. En þeir sem hafa mesta unun af hressandi gönguferð með víðsýni til allra átta fá einnig nokkuð fyrir snúð sinn því útsýnið yfir strandlengjuna við Faxaflóann er frábært, hvort sem staðið er á Stóra-Kóngsfelli, Þríhnúkum eða Stóra-Bolla. Það þekkja þeir sem þangað hafa komið. HÉR má sjá myndband af svæðinu.
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 22 mín.

Heimild m.a.:
-Mbl. 7. ágúst 1982.

Göngusvæðið úr vestri

Austurleið

Ætlunin var að reyna að rekja syðri Austurleiðina (Hellisheiðargötuna) frá Elliðakoti upp fyrir sunnanvert Lyklafell að austan. Nyrðri leiðin var rakin nýlega, en bæði skv. heimildum og gömlum kortum lá gata einnig niður í Lækjarbotna frá gatnamótum Dyravegar norðaustan Lyklafells um svonefndan Strangarhól.

Varða

Gatan liggur upp sneiðing Elliðakotshlíða og liðast síðan upp heiðina með stefnu suður fyrir Stangarhól. Þar liggur gatan suður fyrir hólinn og ofan við hóla suðaustan við hann. Við Stangarhól koma nokkrar fjárgötur ofan af heiðinni með stefnu niður að Fóelluvötnum. Gatan liggur síðan norðan við Fóelluvötn með stefnu á suðaustanvert Lyklafell, norðan Lyklafellsáar. Þar skammt ofar sameinast hún Dyraveginum. Gatnamót eru bæði norðaustan við fellið og önnur skammt austar.
Gatan er vel greinileg, en greinilega hefur gróið yfir hana á köflum. Vörðubrot eru við götuna á nokkrum stöðum.
Á leiðinni var ástæða til að rifja upp fróðleik um Fóelluvötn sem og jarðsögu svæðisins.
Gatan
Efri- og Neðri-Fóelluvötn eru sunnan við Lyklafell og austan við Vatnaás í núverandi landi Kópavogs, samsafn smátjarna og polla í grennd við Sandskeið, kringum þjóðveg 1 ofan við Reykjavík. Vatnasvæðið virðist hafa tilheyrt Vilborgarkoti og Helliskoti (Elliðakoti) samkvæmt Jarðabók Árna og Páls en báðar þessar jarðir eru þar skráðar í Mosfellssveit. Í Jarðabókinni er talað um óvissu í þessum efnum, sérstaklega varðandi Vilborgarkot sem þá, í byrjun 18. aldar, hafði lengi verið í eyði. Ábúendur Helliskots (Hellirskots) í Mosfellssveit og Hólms í Seltjarnarneshreppi höfðu þá lengi nýtt land Vilborgarkots. Frá þessum tíma er því ruglingurinn kominn um nýtingu Vilborgarkotslands. Í Jarðabókinni er sagt að jörðin Vilborgarkot gæti aftur byggst upp og þyrfti þá greinilega að skoðast hve vítt landeign þessarar jarðar verið hefði sem kunnugir menn meina að ekki hafi verið alllítið (Jarðabók III:287-288).

Gatan

Þorvaldur Thoroddsen nefnir vötnin Fóelluvötn. Hann segir malar- og grjótfleti þar myndaða af vatnsrásum frá Lyklafelli. Fóelluvötn flæða yfir stórt svæði í leysingum en á sumrin er þar oftast þurrt. Sæluhús var byggt við Fóelluvötn um 1835 af Jóni hreppstjóra á Elliðavatni upp á eigin kostnað en síðan var skotið saman 50 ríkisdölum því til viðhalds (Þorvaldur Thoroddsen 1958 I:125). Tryggvi Einarsson frá Miðdal nefnir vatnið Tóhelluvatn (sjá örnefnalýsingu Elliðakots í Örnefnastofnun Íslands).

Gatan

Í Jarðabók Árna og Páls er Fóhölluvot nefnd (ritháttur óviss). Þar segir að engjar séu nær engar heima við bæinn Hólm í Seltjarnarneshreppi en útheyjaslægjur brúkaðar þar sem heita Fóhölluvot (Jarðabók III: 283). Aftur á móti nefnir Hálfdán Jónsson Fóelluvötn í lýsingu Ölfushrepps 1703.
Fóella er fuglsheiti, oftast kölluð hávella (Clangula hyemalis). Þessi mynd orðsins kemur fyrst fyrir á 17. öld í fuglaþulu: „Fóellan og hænan, hafa öndina væna.“ (Íslenzkar gátur, skemtanir vikivakar og þulur IV 1898:243). Aðrar myndir þessa orðs eru fóerla (Jónas Hallgrímsson), fóvella (Skýrslur Náttúrufræðifélagsins) og e.t.v. fleiri af svipuðum toga. Uppruni er óljós, e.t.v. ummyndun á hávella. Hugsanlegur er einnig skyldleiki við fó- eins og í fóarn. Kjörlendi fóellunnar er votlendissvæði og heiðavötn. Líklegt er því að vötnin séu kennd við fuglinn þótt hann sé þar ekki áberandi lengur. Myndin Tóhelluvatn er að líkindum afbökun, tilkomin sem skýringartilraun á nafni sem hefur annars þótt torkennilegt.

Gatan

Sömu sögu er að segja um Fóhölluvot. Sú þjóðtrú er enn lifandi að há vatnsstaða í Fóelluvötnum að vori boði mikið rigningasumar. Einnig er til sú sögn að til forna hafi runnið á mikil úr Þingvallavatni og hafi hún átt leið um þar sem Fóelluvötn eru nú og náð sjó á Reykjanesi. Kaldá mun eiga að vera leif af þeirri á.
Á Deildará í Múlahreppi A-Barð. er til Fóelluhólmi, einnig skrifað Fóetluhólmi. Fóellutjörn er til í Selvoginum.“ Við Fóelluvötn eru tóftir (sjá meira HÉR).
„Þegar gengið er um Miðdals- og Mosfellsheiði vakna óneitanlega spurningar um hvernig landið myndaðist upphaflega og mótaðist í kjölfarið. Á þessu svæði rís Esjan hæst svo nærtækast er að skoða myndun hennar.

Stangarhóll

Þegar gengið var um svæðið var kjörið tækifæri að taka Esjuna og nágrenni sem dæmi um myndun þess. Öll vötn og allar ár (lækir) í heiðinni voru þurrir.
„Esjan og berggrunnurinn undir Reykjavík, Mosfellssveit og Kjós myndaðist í gosbeltinu sem nú liggur frá Reykjanestá um Þingvallasveit og norður í Langjökul. Í Esju, á svæðinu frá Hvalfirði og austur fyrir Skálafell í Kjalarneshreppi, var eldvirknin stöðug í rúmlega eina Lyklafellmilljón ára frá því fyrir um 2,8 milljón árum. Á þessum tíma voru að minnsta kosti 10 jökulskeið með hlýskeiðum á milli.
Esjan myndaðist vestan til í gosbeltinu og ýttist smám saman frá því til vesturs. Rekhraðinn til vesturs frá flekaskilunum, sem nú liggja um Þingvallasveit, hefur um milljónir ára verið um einn cm á ári, enda stendur heima að vesturendi Esju er um 30 km norðvestan við vestustu virku sprungurnar (gjárnar) á Þingvöllum og í Hengli. Á sama tíma og berggrunnurinn undir Reykjavík, Mosfellssveit og Kjós var að myndast vestan til í gosbeltinu var berggrunnurinn undir Selfossi og Hreppum að myndast austan til í því. Auðvelt er að fá nútímasamlíkingu á Reykjanesskaga með því að hugsa sér að berggrunnurinn undir Reykjavík sé að myndast í Trölladyngju og Sveifluhálsi vestan við Kleifarvatn, og berggrunnurinn undir Selfossi framtíðarinnar sé að myndast í eldstöðvum milli Kleifarvatns og Herdísarvíkur.

Fóella

Einfaldaðar skýringarmyndir, sem sýna hvernig Esja hefur hlaðist upp við eldgos ýmist á hlýskeiðum (þá runnu hraun) eða á jökulskeiðum (þá mynduðust móbergsfjöll við gos undir jöklum). Á fyrstu myndinni renna hraun á þurru landi. Svörtu strikin tákna bergganga, sem eru aðfærsluæðar hraunanna. Eldstöðvarnar eru vestarlega (til vinstri) og lárétt hraunlög hlaðast upp. Á annarri mynd hefur gosvirknin færst austur, jökulskeið er gengið í garð og í stað láréttra hrauna hleðst nú upp móberg í geil í ísnum. Á næsta hlýskeiði hafa eldstöðvarnar enn færst austar. Lárétt hraunlög renna upp að móberginu frá næsta jökulskeiði á undan. Jarðlagastaflinn byrjar að hallast undan þunganum.

Varða

Enn kemur jökulskeið (4. mynd) og nýtt móbergsfjall hleðst upp. Á næsta hlýskeiði ná hraun að renna yfir móbergsfjöllin. Á 6. mynd sést að nú gýs ekki lengur, en rof af völdum ísaldarjökla og veðrunar hefur mótað Esju.
Fyrir tæpum þremur milljón árum var vestasti hluti Esju í vesturjaðri virka gosbeltisins (sem nú liggur um Þingvallasveit). Þetta virka gosbelti teygði sig til norðausturs meðfram Hvalfirði en til suðvesturs yfir Sundin og Vesturbæinn. Á þeim tíma voru þó hvorki Sundin né Hvalfjörður til. Samfellt fjalllendi náði frá hálendinu og miklu lenMyndunarsagangra í sjó fram en nes og eyjar við innanverðan Faxaflóa nú. Þá var stórt eldfjall í Sundunum, en gjástykki teygðust til norðurs um Kjós og suður yfir Mela.
Margt bendir til að stór askja hafi myndast í þessari megineldstöð, Kjalarneseldstöðinni, og mikill fjöldi innskota myndaðist í henni. Stærstu innskotin má nú sjá á yfirborði í Viðey, yst á Kjalarnesi og milli Skrauthóla og Mógilsár.
Gosvirknin færðist smám saman austar, Kjalarnesmegineldstöðin þokaðist til vesturs út úr gosbeltinu en gosvirknin varð mest þar sem Kistufell í Esju er nú. Þá fengu jarðlögin neðst í Kistufelli sinn mikla halla. En ekki leið á löngu þar til gosvirknin var komin austur fyrir Grafardal. Þar myndaðist stórt og myndarlegt eldfjall, Star-dalsmegineldstöðin. Í þeirri eldstöð myndaðist askja álíka stór og Kröfluaskjan. Í henni safnaðist vatn, svipað og síðar gerðist í Öskju í Dyngjufjöllum, en askjan fylltist síðan af gosefnum.

Hvítmura

Þunnfljótandi hraunlög runnu langt vestur úr virka gosbeltinu og mynduðu hinn reglulega hraunlagabunka, sem nú myndar topp Esjunnar allt frá Skálafelli vestur undir Hvalfjörð. Æviskeiði megineldstöðvarinnar í Stardal lauk með líparítgosum undir jökli á bogasprungum umhverfis öskjuna. Glæsilegustu menjar þeirra eldsumbrota eru Móskarðshnúkar, en aldursgreiningar benda til að líparítið í þeim sé um 1,8 milljón ára gamalt.
ELeirtjörnldvirkni færðist enn til austurs, eða öllu heldur megineldstöðina rak vestur úr gosbeltinu og upphleðslu jarðlaga lauk í Esju, Kjós og byggðum hluta Mosfellssveitar. Samfellt fjalllendi náði frá Akrafjalli og Skarðsheiði austur yfir Esju og fellin í Mosfellssveit. Yfir Sundunum og Reykjavík lá meira en þúsund metra þykkur stafli af hraunlögum og móbergi.
Í rúmlega milljón ár eftir að Móskarðshnúkar mynduðust skófu ísaldarjöklar fjalllendið og skáru út það landslag, sem við sjáum í dag. Ekki er vitað um eldvirkni á svæðinu þennan tíma. Ekki er heldur vitað um fjölda jökulskeiða á þessu tímabili, en margt bendir til að jökulskeið gangi yfir Ísland á um hundrað þúsund ára fresti.
Fyrir þrjú til fimm hundruð þúsund árum varð eldgos undir jökli í Mosfellssveit og þá myndaðist GataMosfell. Þá voru dalir Esju svipaðir og í dag og fellin í Mosfellssveit einnig. Á næstu hlýskeiðum runnu þunnfljótandi hraun úr grágrýtisdyngjum í jaðri virka gosbeltisins vestur yfir hið rofna land, þöktu mikið af láglendinu og runnu í sjó fram. Hraunstraumarnir runnu milli Mosfells og Esju, milli Úlfarsfells og Hafrahlíðar, en einkum þó vestur yfir láglendið sunnan Úlfarsfells. Þessi grágrýtishraun mynda Brimnes á Kjalarnesi, yfirborð eyjanna á Sundunum svo og flest klapparholt á höfuðborgarsvæðinu svo sem Grafarholt, Breiðholt, Öskjuhlíð, Valhúsahæð, Digranesháls, Hamarinn í Hafnarfirði og Hvaleyrarholt. Upptök grágrýtishraunanna eru fæst þekkt, en meðal þeirra hafa þó verið Borgarhólar, Lyklafell og Eiturhóll á Mosfellsheiði.
Ef skoðuð er brot af jarðsögu svæðisins má í stuttri samantekt sjá eftirfarandi:

Gata

10 000 ár – Nútími
Sjávarmál fellur úr +40m í –5m (a.m.k.). Land sígur eftir það. Leitahraun og Búrfellshraun renna.

120 000 ár – Síðasta kuldaskeið
Jökull er jafnan í 400-500 m hæð í hlíðum Esju. Jökuljaðar yst á Reykjanesi og úti í Faxaflóa. Móbergsfjöllin á Reykjanesi myndast. Sveiflu­kennd hlýnun í lokin og sjór flæðir á land.

130 000 ár – Síðasta hlýskeið
Dyngjugos á Mosfellsheiði og í Heiðmörk myndar grágrýti í Mosfellsbæ, Breiðholti, Garðabæ, Kópa­vogi og víðar.

Varða200 000 ár – Næst síðasta kuldaskeið
Móbergsfjöll sem nú eru utan gosbeltisins myndast (t.d. Lyklafell) ásamt jökulbergi (t.d. undir Höfðabakkabrú í Elliðaárdal).

210 000 ár – Næst síðasta hlýskeið
Í upphafi tímabilsins myndast setlög í Elliðavogi og víðar. Nokkur dyngjugos (e.t.v. á Valhúsahæð, Engey, Skóla­vörðuholti og Öskjuhlíð) mynda Reykja­víkurgrágrýtið ofan á setinu.“

LeiðinÍ leiðinni var leitað götu sunnar í heiðinni, frá Stangarhól áleiðis niður í Lækjarbotna. Vænlegar götur fundust á tveimur stöðum. Verða tengsl þeirra skoðuð fljótlega. Eða eins og maðurinn sagði: „Róm verður ekki skoðuð á einum degi“.
Ætlunin er og að skoða Dyraveginn á næstunni; frá Dyrafjöllum að Lyklafelli. Vegurinn sá mun torfarinn réttleiðis.
Frábært veður. Gangan tók 6 klst og 6 mín.

Heimildir m.a.:
-visindavefurinn.is
-arnastofnun.is

Lyklafell

Kolviðarhóll

Í sögunni um Skeiða-Otta segir að „Bolavellir og Bolasteinn minna á söguna um Skeiða-Otta og nautið ógurlega sem gekk í sumarhögum á völlunum við Kolviðarhól.

Bolasteinn

Bolasteinn.

Otti var bóndi austur á Skeiðum og átti erindi til Reykjavíkur þegar komið var að slætti og reið miklum kostahestum sem leið liggur vestur yfir Hellisheiði. Hann vissi um illræmdan griðung frá Viðey í högum hjá Kolviðarhóli og hafði hann orðið tveimur eða þremur mönnum að bana. Nautið lá við Bolastein og hóf þegar eftirför en Otti þeysti undan sem mest hann mátti. Samt dró saman með þeim og tók Otti þá það til ráðs að hann snaraðist af baki, tók upp hníf og lagðist niður milli krappra þúfna. Þar fleygði bolið sér yfir hann, en Otti skar hann á kvið og helltust yfir hann innyflin. Drapst bolinn þar en Otti gat haldið ferð sinni áfram“.
Bolavellir eru nálægt Draugatjörn. Bolalda er vestar, á sýslumörkum. En hvar er Bolasteinn nákvæmlega?

Bolasteinn þjóðsaga
„Á grænni flöt vestan við [Bolasteins]´rásina er stór steinn sem heitir Bolasteinn. Þar segjir sagan að kona hafi bjargast upp undan mannýgum bola. Og þegar boli vildi ekki hafa sig burt, gat hún hellt úr nálhúsi sínu upp í hann. Þá fór hann að lina aðsóknina.“

Heimild m.a.:
-Byggðasafn Ölfuss – fornleifaskráning

Draugatjörn

Draugatjörn – rétt.

Draugatjrön

Eftirfarandi er stytt grein eftir Gísla Sigurðsson í Lesbók Morgunblaðsins 31. mars 2001. Hún fjallar um „Kolviðarhól undir Hellisskarði„. Önnur grein Gísla um Kolviðarhól birtist í Lesbókinni 7. apríl 2001 og er hægt að sjá hana undir yfirskriftinni „Kolviðarhóll II“ hér á vefsíðunni.

Draugatjörn

Sæluhúsið við Draugatjörn.

„Það þótti mikil framför þegar frumstæður kofi á Bolavöllum var lagður niður og sæluhús reist á Kolviðarhóli 1844. Betra hús reis þar 1877 og þá var sæluhúsavörður ráðinn. Eftir 1883 og fram til 1938 var úrvalsfólk á Hólnum, fyrst við frumstæð skilyrði og starfið fólst m.a. í því að bjarga aðframkomnum ferðamönnum ofan af Hellisheiði og úr Svínahrauni. Drykkjuskapur var algengur á ferðalögum, einkum á leið úr kaupstað. Fyrst var tímaskeið lestarferða, síðan hestvagnatímabilið og loks bílaöldin.

Kolviðarhóll

Kolviðarhóll 1910.

„Á árabilinu frá 1877 og framundir 1940 vissi hvert mannsbarn í Reykjavík og á Suðurlandi um Kolviðarhól, áningar- og gististaðinn við brún Hellisheiðar. Aðstöðunni þar átti fjöldi manns líf að launa og þar leituðu skjóls háir sem lágir, allt frá flökkurum til Íslandsráðherra og Kolviðarhóll var jafnvel viðkomustaður Friðriks konunngs VIII í Íslandsför hans 1907.

Kolviðarhóll

Kolviðarhóll 2010.

Menn komu á Hólinn fótgangandi og stundum aðframkomnir; sumir voru frægir förumenn, aðrir á leið í verið með föggur sínar og skrínur á bakinu. Lengi vel voru þó flestir ríðandi með hesta undir böggum, ýmist í lest eða ráku þá lausa, uns hestvagnatímabilið hófst. Þá var ekki lengur hægt að fara brattan stíginn upp Hellisskarðið ofan Kolviðarhóls, heldur var þá rudd braut suður með Reykjafelli og upp á Hellisheiðina um Hveradalabrekkur. Lengi vel lá Suðurlandsvegurinn sömu leið framhjá Kolviðarhóli og þaðan vestur yfir Svínahraun. Gistihúsið á Hólnum, hátt og reisulegt með þremur burstum, var rekið löngu eftir að bílaöld gekk í garð. En eftir að krókurinn upp að Kolviðarhóli var tekinn af og vegurinn lagður skemmri leið, fór svo að þessi frægi gististaður varð utan við alfaraleiðina.

Kolviðarhóll

Kolviðarhóll um 1930.

Árið 1977 urðu þau tímamót að húsið var brotið niður og síðan hefur Kolviðarhóll svo að segja fallið í gleymsku og dá.
Sá skortur á menningarlegum metnaði, sem lýsir sér í því að brjóta niður eitt prýðilegasta verk Guðjóns Samúelssonar húsameistara, er ótrúlegur og efni í sérstaka umfjöllun.

Hellisheiði

Hellisheiðargata.

Húsráðendur á Kolviðarhóli, sem sinntu hjálparstarfi og sáu gestum jafnframt fyrir gistingu og veitingum voru framan af hjónin Jón Jónsson og Ksristín Daníelsdóttir, síðan Guðni Þorbergsson og Margrét Jónsdóttir fram til 1905 og þá tóku við frægustu gestgjafar staðarins; Sigurður Daníelsson og Valgerður Þórðardóttir, fólk sem allir Sunnlendingar vissu deili á.
Þjóðleiðin forna frá Árnessýslu til Mosfellssveitar lá úr Ölfusi upp Kamba og þaðan vestur á Hellisheiði, austan við Hurðarás ofan Kolviðarhóls. Upp og niður úr skarðinu var hægt að komast með klyfjahesta, en alls ekki með hestvagna. Þegar komið var niður úr Hellisskarði lá leiðin um Bolavelli, vestur með Húsmúla og síðan um norðanvert Svínahraun, framhjá Lyklafelli og oft var komið í byggð hjá Elliðakoti í Mosfellssveit. Þessi leið milli byggða var talin rösk þingmannaleið, eða um 35 km. Í lýsingu Ölfushrepps frá 1703 er leiðinni lýst. Þá voru hestagöturnar sagðar greinilegar á hraunhellunni.

Hellisheiði

Gata um Helluna á Hellisheiði.

Hestagöturnar, sem markast hafa í hraunhelluna á Hellisheiði af umferð járnaðra hesta sjást mjög greinilega á þriggja km kafla, en eftirtektarvert er, að þær skuli hafa verið orðnar svo greinilegar þegar fyrir 300 árum. Hurðarás var aftur á móti svo nefndur vegna þess, að þegar þangað kom á austurleið yfir heiðina var allt í einu eins og hurð væri opnuð og víðerni Suðurlands blöstu við, allt til Vestmannaeyja.
Kolviðarhóll var og er í Árnessýslu. Við Bolaöldu, vestan Svínahrauns eru sýslumörkin. Þótt Kolviðarhóll eigi sér alllanga sögu sem áningar- og gististaður er hann einnig sögustaður, svo nefndur eftir Kolviði á Vatni (Elliðavatni) sem barðist við þann mikla kappa Búa Anríðsson eftir því sem Kjalnesingasaga segir. Í sögunni er hann reyndar ýmist nefndur Kolfinnur eða Kolfiðr. Vildu báðir eiga Ólöfu hina vænu í Kollafirði og höfðu háð einvígi þar sem Búa veitti betur, en báðir lifðu. Ekki lét Kolviður sér það að kenningu verða og sat um líf Búa, sem var á heimleið frá Noregi og hafði gengið frá skipi sínu á Eyrum (Eyrarbakka).

Búasteinn

Búasteinn.

Kolviður á Vatni hafði spurn af útkomu Búa og lét njósna um ferðir hans. Reið hann við tólfta mann í fyrirsát í Öxnaskarði ofan við Kolviðarhól. Biðu þeir þar við stein, rétt við götuna, sem nú er kallaður Búasteinn. Búi varð var við fyrirsátina af skarðinu og reið að steini einum miklum; sneri hannbaki að steininum svo ekki varð komist aftan að honum. Skiptust þeir búi og Kolviður á orðum og kvaðst Kolviður ætla að njóta þess að vera með flokk manna á móti honum; „skal þá vel við því taka,“ sagði Búi.
Er skemmst frá því að segja, að Búa tókst að gera menn Kolviðar óvíga hvern á eftir öðrum og féllu sex, en sjálfur sparaði Kolviður sig uns ekki varð undan vikist. Hjó hann þá „hart og tíðum og sótti alldrengilega. Hjóst skjöldur Búa, en Kolviður tók að mæðast. Þurfti Búi þá ekki mörg högg; ónýtti hann skjöld Kolviðar og veitti honum síðan það slag að andstæðinginn tók sundur í miðju“. Búi var „ákaflega vígmóður og nokkuð sár“, en gat haldið ferð sinni áfram. Steinninn heitir síðan Búasteinn. En eftir honum ógæfusama Kolviði á Vatni er Kolviðarhóll nefndur.

Hellulofinn

Hellukofinn á Hellisheiði – byggður upp úr Biskupsvörðu.

Öldum saman höfðu menn farið alfaraleiðina yfir Hellisheiðina án þess að nokkuð væri um húsaskjól þar til 1830 að Þórður bóndi á Tannastöðum hlóð birgi uppi á heiðinni sem enn stendur. En elsta heimild um sæluhúskofa í námunda við Kolviðarhól er eftir Hálfdán Jónsson lögréttumann í lýsingu Ölfushrepps frá 1703. Þar er minnst á sæluhús á Hvannavöllum (nú Bolavöllum) og segir þar svo: „Á norðanverðum Hvannavöllum, er strax taka við fyrir neðan skarðið, stendur sæluhús (ei langt frá veginum) svokallað, hverju allt til þess tíma Ölvesbyggjarar hafa uppi haldið, vegfarandi fólki til innivistar, er og lofsvert að þetta sæluhús ei niður falli.“

Draugatjörn

Sæluhúsið við Draugatjörn.

Sveinn Pálsson, náttúrfræðingur, minnist á sama sæluhús hátt í öld síðar; segir að þar sé lítill kofi hlaðinn úr hraungrýti með torfþaki og að margir hafi dáið úr kulda í þessum kofa, örmagna af hungri og kulda.
Skammt frá kofanum var dálítil tjörn, nefnd Draugatjörn, og töldu margir svo reimt í kofanum að þar væri naumast vært. Hafði Magnús bóndi Pálsson á Fossi í Grímsnesi heldur betur fengið að kenna á því, annálað hraustmenni og gerði grín að draugatrú og myrkfælni. Gisti hann við annan mann í kofanum og brá sér út að tjörninni. Þar réðst að honum ófreskja og komst hann við illan leik, rifinn og tættur, inn í kofann. Sár á nefi greri aldrei, enda var það eðli sára sem draugar veittu, og Magnús varð aldrei samur maður eftir.

Kolviðarhóll

Kolviðarhóll 1907.

Eiríkur bóndi í Haga í Eystrihreppi komst mun betur frá viðskiptum við sæluhúsadrauginn. Hann var á ferð til skreiðarkaupa, hafði sest að í myrkri í kofanum og tók til matar síns. Þá fór hann að sjá eldglæringar í hinum enda kofans og sagði bara sísona: „Kvekið þið, kindur sælar, svo Hagakarlinn sjái til að rífa roðbitann sinn.“ Hættu þá glæringarnar og svaf Eiríkur þar rótt um nóttina. Svo skrái Brynjúlfur frá Minna-Núpi.
Sögur af þessu tagi urðu til þess að menn voru dauðsmeykir við að gista í kofanum, einkum ef þeir voru einir á ferð. Einu sinni hafði sú hræðsla alvarlegar afleiðingar. Gömul sögn úr Ölfusinu greinir frá því, að eitt sinn hafi ferðamaður leitað skjóls í kofanum og lokað kirfilega að sér að innanverðu. Um nóttina heyrði hann traðk utandyra og rjálað við hurðina eins og reynt væri að opna hana. Hirti hann ekki um það; hefur ugglaust búist þar við draugi og verið hræddur. Um morguninn brá þessum ferðalang ónotalega þegar hann opnaði og sá að utandyra lá dauður maður. Eftir það var gengið frá því að ekki væri hægt að loka kofanum að innanverðu með slagbrandi.

Kolviðarhóll.

Kofinn við Draugatjörn var ísköld og ömurleg vistarvera, en þó sá skúti sem betri var en úti. Lengdin að innanverðu var aðeins 2,5 m og breiddin 1,5 m. Við annað hlaðgaflið var hlaðinn grjótbálkur, mýktur með torfi. Yfir dyrum var lítil gluggabora með gleri. Tóftin sést enn ef vel er að gáð.
Fleira gat verið varasamt á þessari óbyggðaleið en illviðri og draugar. Bolavellir og Bolasteinn minna á söguna um Skeiða-Otta og nautið ógurlega sem gekk í sumarhögum á völlunum við Kolviðarhól. Otti var bóndi austur á Skeiðum og átti erindi til Reykjavíkur þegar komið var að slætti og reið miklum kostahestum sem leið liggur vestur yfir Hellisheiði. Hann vissi um illræmdan griðung frá Viðey í högum hjá Kolviðarhóli og hafði hann orðið tveimur eða þremur mönnum að bana.

Bolasteinn

Bolasteinn.

Nautið lá við Bolastein og hóf þegar eftirför en Otti þeysti undan sem mest hann mátti. Samt dró saman með þeim og tók Otti þá það til ráðs að hann snaraðist af baki, tók upp hníf og lagðist niður milli krappra þúfna. Þar fleygði bolið sér yfir hann, en Otti skar hann á kvið og helltust yfir hann innyflin. Drapst bolinn þar en Otti gat haldið ferð sinni áfram.

Þau tímamót urðu 1844 að þá reis í fyrsta sinn hús uppi á sjálfum Kolviðarhólnum. Þá hafði farið fram fjársöfnun austan heiðar og vestan, og þótti vænlegast að reisa húsið á hólnum neðan við Hellisskarð.

Kolviðarhóll

Kolviðarhóll – fyrsta sæluhúsið.

Séra Páll Matthíasson á Arnarbæli valdi staðinn og hafði forgöngu um málið ásamt Jóni Jónssyni á Elliðavatni. Nýja sæluhúsið var allt úr timbri og stóð á sökkli sem hlaðinn var úr grjóti. Grunnflöturinn var 16 fermetrar og loft yfir þars em viðbótargistirými fékkst. Járnrimlar voru fyrir gluggum, liklega til að koma í veg fyrir rúðubrot skemmdarvarga. 24 menn gátu gist í einu á loftinu og komið inn 16 hestum niðri.
Enn urðu tímamót 1876 þegar ákveðið var að hefja vegarlagningu um Svínahraun.Þremur árum síðar var tekið annað skref og segir svo í Þjóðólfi: „Vegagjörðin yfir Kamba á Hellisheiði skal byrja í sumar.“ Eiríkur í Grjóta fór með flokk manna sumarið 1880 og lagði veg vestur yfir Hellisheiði, nokkru norðar og nær hinni fornu þjóðleið en núverandi Suðurlandsvegur.

Kolviðarhóll

Garður við Kolviðarhól.

Áratugi síðar, eða um 1870, hafði sú vakningaralda risið að bæta húsakost á Kolviðarhóli, enda var sæluhúsið frá 1844 þá orðið lélegt. Sigurður Guðmundsson málari hafði forgöngu um að reist yrði veitingarhús á Kolviðarhóli, sem gæti fullnægt þörfum ferðamanna.
Enn var efnt til samskota og Matthías Jochumsson, þá ritstjóri Þjóðólfs, hvatti menn til „drengilegra samskota“. Hægt gekk að safna, en það var svo loks 1877 að framkvæmdir hófust og landshöfðinginn lagði þá fram það sem til þurfti til viðbótar. Veggir voru hlaðnir úr tilhöggnu grjóti, ris var yfir og þar voru tvö herbergi. Niðri var eldhús með eldavél og ofni. Eftir að aðrar byggingar risu á Kolviðarhóli var þetta hús áfram notað til geymslu og öðru hverju var sofið í því fram til 1930. Fyrsta veturinn var þetta hús án gæslu, en öllum opið.
Ekki verður sagt að hlaðið hafi verið undir fyrsta sæluhúsavörðin, en Ebeneser Guðmundsson gullsmiður var náðarsamlegast ráðinn. Bergur Thorberg amtmaður yfir Suðuramtinu gaf út leyfisbréf og þar er tekið fram að Bergur sé riddari dannebrogsorðunnar og dannebrogsmaður.

Kolviðarhóll

Kolviðarhóll – Konungskoman 1907.

Ebeneser var „veitt leyfi til að hafa um hönd gestaveitingar á greindum stað, þannig að hann, auk þess að láta mönnum í té mat og kaffi m.m. einnig má veita áfenga drykki“. Þar með hafði náðst fram krafa margra um áfengissölu á fyrirhuguðum veitingastað á Kolviðarhól „til að auðvelda mönnum ferðina yfir heiðina“. Með þetta leyfi í höndum gat Ebenser kallast gestgjafi. Tekið var fram að hann ætti að hirða húsið, en það gat verið erfitt þar sem engin vatnsuppsspretta var.
Vatnsleysið á Kolviðarhóli varð strax til vandræða og réðst Ebeneser í að grafa brunn neðan við bæjarhólinn. Fyrir þetta fékk hann smáþóknun frá Suðuramtinu „með eftirtölum og ónotum“.

Kolviðarhóll

Kolviðarhóll 1939.

Ólafur Árnason tók að sér gestgjafahlutverkið á Kolviðarhóli 1880 og gegndi því næstu 3 árin. Hann eignaðist son með Málfríði, bústýru sinni, og var hann skírður Búi Kolviður eftir köppunum tveimur í Kjalnesingasögu. Þetta fyrsta barn sem fæddist á hólnum dó aðeins 5 vikna gamalt. Vorið 1883 giftust Ólafur og Málfríður og fluttu til Ameríku. Þar eignuðust þau 10 börn.
Þá fluttu á Kolviðarhól Jón Jónsson og kristín Daníelsdóttir. Þau sinntu gestgjafahlutverkinu næstu 12 árin. Eitt meginvandamálið var að ferðamenn voru flestir auralitlir og allur viðurgjörningur varð að vera eins ódýr og framast var kostur. Drykkjuskapur ferðamanna, slæm umgegni og fleira þurfti gestgjafinn að glíma við.

Kolviðarhóll

Kolviðarhóll 1957.

Guðni Þorbergsson frá Starkaðarhúsum í Flóa réðst vinnumaður að Kolviðarhóli 1886. Þar krækti hann í heimasætuna. Þau tóku við gestgjafahlutverkinu 1895. Þá var nýtt tímabil í samgöngum og flutningatækni hafið; Íslendingar búnir að finna upp hjólið og hestvagnaöld gengin í garð Gamla húsið á Hólnum var nú orðið allt of lítið og aldamótaárið 1900 byggði Guðni nýtt íbúðar- og gistihús við hlið hins eldra. Það var allt úr timbri, en kjallari var úr steinsteypu. Þá höfðu aðeins örfá hús verið steinsteypt í Reykjavík. Líklega hefur verið farið yfir lækinn til að sækja vatnið því steypumöl var sótt í fjöru við Reykjavík og ekið á hestvögnum. Með túnsléttun og garðhleðslum varð til nýbýli að Kolviðarhóli. Þar með var staðurinn orðinn bújörð í Ölfushreppi, en það stóð þó aðeins til 1936.
Nú er Orkuveita Reykjavíkur allsráðandi á svæðinu – með tilheyrandi eyðingarmætti.

Heimild:
-Lesbók Morgunblaðsins – Gísli Sigurðsson – 31.03-2001.

Kolviðarhóll

Kolviðarhóll 1929.

Lyklafell

Frásögn þessi af Lyklafelli og nágrenni birtist í Mbl. árið 1979.
Lyklafell„Fyrrum lá leiðin milli Reykjavíkur og sveitanna fyrir austan fjall, yfir Hellisheiði, um Hellisskarð (Uxaskarð, Öxnaskarð), hjá Kolviðarhóli, meðfram Lyklafelli og niður hjá Elliðakoti í Mosfellssveit. Þetta var áður en akvegurinn var lagður um Lækjarbotna, Fossvelli, Sandskeið og Svínahraun að Kolviðarhóli. Það gerðist á síðustu áratugum 19. aldar. Í þetta sinn göngum við eftir þessari gömlu leið, frá Lyklafelli að Elliðakoti. Sjást vörðurnar með reglulegu millibili.
Við skulum fara úr bílnum nokkru fyrir vestan Litlu kaffistofuna, en hún stendur við mót gamla og nýja vegarins yfir Svínahraun. Frá veginum tökum við stefnuna í norður á Lyklafellið, sem blasir við beint framundan, kollótt og meira að ummáli en hæð. Hér er yfir gamalt hraun að fara, með grunnum en skjólgóðum lautum, þar er gott að tylla sér niður og slaka á. Við förum hægt yfir og notum tímann til að skoða umhverfið.

Lyklafell

Með hverju skrefi nálgumst við fellið og sú spurning vaknar hvernig standi á þessu nafni. Menn hafa greint á um það og þekki ég tvær sögur. Sú fyrri segir, að einhverju sinni hafi verið bryti í Skálholti er hét Ólafur. Bar hann alla lykla staðarins á sér, en þeir voru á einni kippu. Honum sinnaðist við ráðskonuna, en þar sem hún kunni nokkuð fyrir sér, tryllti hún Ólaf, svo hann tók á rás og hljóp vestur fyrir Hellisheiði að Lyklafelli með alla lykla staðarins á sér Þar týndi hann kippunni. Hún fannst þar löngu síðar og var fellið svo kennt við lyklana. Þaðan hljóp hann til baka um Jósefsdal og suður úr dalnum um skarð, sem síðar heitir Ólafsskarð. Eftir það linnti hann ekki sprettinum fyrr en austur á Mælifellssandi. Þar kom hann að vatnsfalli, er hann ætlaði að stökkva yfir. Stökkið mistókst, hann féll í ána og drukknaði. Hún heitir síðan Brytalækir.

Lyklafell

Hin sagan greinir frá því, að einhverju sinni áttu hungraðir förumenn leið um þennan veg að næturlagi og gengu þá fram á tjaldbúðir Skálholtsmanna, sem voru þar á ferð með marga hesta og mikinn farangur. Höfðu þeir valið sér þarna náttstað. Förumennirnir sáu, að bunga var á einni tjaldsúðinni og hugðu þeir að þar fyrir innan væri sekkur fullur af mat. Ákváðu þeir að ná honum. Tók einn þeirra upp hníf, og skar á tjaldið, þar sem bungan var. En um leið og hnífsblaðið skar á dúkinn, kvað við hátt og skerandi öskur innan úr tjaldinu.
Skófrós

Í stað þess að stinga í matarsekkinn, var hnífnum stungið í sitjandann á ráðsmanni Skálholtsstóls, sem svaf þar fyrir innan. Í fátinu og írafárinu sem varð nú í tjaldbúðunum við þetta óhappaverk, týndist lyklakippa ráðsmannsins og fannst ekki fyrr en löngu síðar. Þannig skýra sagnir nafnið á Lyklafellinu.
Við göngum upp á fellið. Áður höfum við gengið yfir farveg Lyklafellsár, sem fellur hér fram í leysingum á vorin, en síðla sumars er hann þurr að öllum jafnaði. Þetta minnir okkur á nauðsyn þess að hafa meðferðis drykkjarföng, því vatn er mjög af skornum skammti hér um slóðir í þurrkatíð.
Af Lyklafelli er gott útsýni yfir nágrennið þótt ekki sé það hátt yfir sjó (281 m) Eftir góða hvíld uppi á fellinu leggjum við aftur af stað í áttina að Elliðakoti. Er gott að hafa raflínuna til viðmiðunar. Við sjáum nokkur vörðubrot, sem vísa leiðina og svo hér og þar gróna götuslóða, sem lítt hafa verið troðnir í hartnær öld.

Klappir

Eftir drjúga göngu stöndum við á brekkubrúninni fyrir ofan Elliðakot, sem hét fyrrum Helliskot. Bærinn stóð í skeifulöguðum hvammi móti vestri í skjóli fyrir austanáttinni. Nú er  hann tóttir einar, því ekki hefur verið búið þar um árabil. Fyrrum var búið hér snotru búi, en mikil örtröð hefur örugglega verið af umferð ferðamanna árið um kring, ekki síst á vetrum þegar ofan af heiðinni komu lítt búnir, örþreyttir og hraktir ferðamenn og leituðu að húsaskjóli.
Hér fæddist Páll Jónsson vegagerðarmaður, sem Jón Helgason rithöfundur hefur gert verðug skil í bók sinni: Orð skulu standa.
Við skulum skreppa heim að þessum gömlu rústum og skoða þær vel, minnug þess, að þeir hnútar, sem traustast eru bundnir láta ávallt undan er tímans tönn tekur að sverfa að þeim. Ekki er þó tími til að dvelja hér lengi. Við göngum götuna niður á veg rétt fyrir austan Gunnarshólma. Þangað látum við sækja okkur eftir rúmlega 5 klst. rólega gönguferð.“
Nú er hægt að aka eftir malarvegi að rótum Lyklafells.

Heimild:
-Mbl. júlí-ágúst 1979.

Lyklafell

Bláfjöll

Í Sveitarstjórnarmál 1980 fjallar Kristján Benediktsson um „Bláfjallafólkvang„.

Bláfjallafólkvangur

Bláfjallafólkvangur – kort.

„Hinn 31. janúar 1973 samþykkti náttúruverndarráð stofnun fólkvangsins, og með auglýsingu í Stjórnartíðindum tveimur mánuðum síðar má segja, að hann hafi verið orðinn að raunveruleika. Þau sveitarfélög, sem í upphafi stóðu að Bláfjallafólkvangi, voru Reykjavík, Kópavogur, Seltjarnarnes og Selvogur. Síðar bættust í hópinn Hafnarfjörður, Garðabær og Keflavík.
Meðfylgjandi uppdráttur sýnir vel legu Bláfjallafólkvangs og veginn á skíðasvæðin, sem tengist Austurveginum víð Sandskeið. Austurhornið er Vífilfell. Þaðan liggur línan eftir háhrygg fjallgarðsins í Kerlingahnúk á Heiðinni há. Hæsti punkturinn á fjallshryggnum er Hákollur, 702 metrar, og er hann beint upp af Kóngsgili. Frá Kerlingahnúk liggja mörkin um Litla-Kóngsfell, Stóra-Bolla og í Heiðmerkurgirðinguna við Kolhól.
Síðan eru mörkin um Heiðmerkurgirðingu að punkti, sem skerst af línu, sem dregin er milli Stríps og Stóra-Kóngsfells. Síðan liggja mörkin um Sandfell, norðvestur af Rjúpnadölum, í koll Vífilfells.

Bláfjöll

Bláfjöll – Drottning.

Innan Bláfjallafólkvangs er mikið um hraun og eldstöðvar margar. Víða í hraununum eru op og hellar og vissara að fara með gát um þau svæði og fylgja merktum gönguleiðum.

Eldborg

Eldborg (Drottning) og Stóra-Kóngsfell við Bláfjöll.

Eldborg er friðlýst náttúruvætti rétt við veginn. Hún er falleg eldstöð, sem mikið hraun hefur komið frá. Vegurinn frá brekkubrúninni norðan Rauðuhnúka og upp á skíðaslóðirnar liggur mestan part á Eldborgarhrauni.
Skammt frá Eldborginni eru tvö fell, Stóra-Kóngsfell (596 m), þar sem fjallkóngar skipta leitum, og Drottningarfell, sem bæði er lægra og minna um sig. Hvergi hef ég séð nákvæma stærðarmælingu af Bláfjallafólkvangi. Ekki mun fjarri lagi að áætla, að hann sé 70—80 km2.“

Heimild:
-Sveitarstjórnarmál 01.02.1980, Bláfjallafólkvangur, Kristján Benediktsson, bls. 7-8.

Bláfjöll

Gengið um Bláfjallasvæðið.

Viðeyjareldstöð

Einar Gunnlaugsson, jarðfræðingur, leiddi FERLIR um Elliðaárdal og fræddi þátttakendur um jarðfræði dalsins.

Elliðaárdalur

Einar Gunnlaugsson.

Elliðaárdalurinn er eitt fjölsóttasta útivistarsvæði Reykvíkinga enda býður hann upp á fjölþætta möguleika til útivistar. Árnar eru kenndar við skip Ketilbjarnar gamla á Mosfelli, en hann kom hingað á skipi sínu Elliða og „kom í Elliðaárós“ að því er segir í Landnámu.
Í Elliðaárdal eru stígar og brautir og fræðsluskilti um jarðfræði og gróður dalsins.
Reykjavíkurborg keypti Elliðaárnar árið 1906 til beislunar vatnsafls en Elliðaárstöð hefur framleitt rafmagn frá árinu 1906. Um það leyti hefur líklega hafist trjárækt í Elliðaárdalnum og uppgræðslu verið haldið áfram sleitulaust síðan.
Jarðfræði Elliðaárdals er einstök vegna margbreytileika síns. Við Elliðaárósa eru merkileg setlög, kölluð Elliðavogslögin og má þar finna leifar ýmissa plantna sem uxu við Elliðavog fyrir nokkur hundruð þúsund árum og skeljar af grunnsævi.  Það má einnig finna jökulrákaðar grágrýtisklappir, hraun frá nútíma og sjávarhjalla. Þá má einnig finna jökulrákaðar grágrýtisklappir, hraun frá nútíma og sjávarhjalla. Í dalnum er jarðhitasvæði og eitt af vinnslusvæðum Orkuveitu Reykjavíkur.

Megineldstöð
MegineldstöðinEinar sagði m.a. frá myndun landsins í og utan Elliðaárdals. Elsta bergið væri um 3-4 milljón ára gamalt. Það fæddist í megineldstöð, sem reis úr sjó utan núverandi lands, þar sem nú eru Viðey og Engey. Eldstöðin var virk þar til fyrir um 2 milljón árum. Þá féll hún saman er kvikuþróin undir henni tæmdis og eftir stóð hluti af jöðrum hennar, þ.e. eru m.a. fyrrnefndar eyjar. Þar sem miðja eldstöðvarinnar var áður er nú um 50 metra dýpi. Þá var sjávarstaðan hærri og myndaðist t.d. vogur þar sem nú er Elliðaárdalur. Eftir að síðasta ísaldarskeiði lauk fyrir u.þ.b. 10.000 árum byrjaði landið að rísa hægt og bítandi. Dæmi um þáverandi sjávarstöðu má enn sjá í setlögum sunnan í dalnum.

Elliðavogslögin
FallBeggja vegna Elliðaárósa eru merkileg  setlög sem lengi hafa verið umtöluð meðal jarðfræðinga. Þetta eru Elliðavogslögin. Þau sjást undir grágrýtinu í Ártúnshöfða en þekktasti hluti þeirra er í Háubökkum við Elliðavog. Þar hafa Elliðaárnar með hjálp sjávarins sorfið fram allháa þverhnípta hamra við ströndina. Lögin voru rannsökuð í byrjun 20.aldar af jarðfræðingnum Helga Péturss. Neðst sá hann grófan harðan ruðning sem hann áleit vera jökulruðning, þar ofan á var sjávarset með skeljum, síðan annað jökulruðningslag eftir nýtt framgangsskeið jökla. Efst var Reykjavíkurgrágrýtið. Með þessari athugun komst Helgi að því að ísöldin hafi ekki verið einn samfelldur fimbulvetur heldur hefðu skipst á jökulskeið og hlýskeið.

Fornt

Þá má finna á stöku stað í Elliðavogslögunum skeljar sem eru af sömu tegundum og þær sem lifa við ströndina enn í dag. Í lögunum finnst einnig samanpressaður mór eða hálfgerður sultarbrandur. Talið er að skeljarnar séu um 300 þúsund ára gamlar en þá ríkti hlýskeið sem nefnt er Cromer. Yngra jökulbergslagið er hins vegar talið vera frá jökulskeiði sem nefnt er Holstein og ríkti fyrir um 250 þúsund árum. Sultarbrandurinn er yngsti hluti laganna og myndaður úr gróðri sem þarna óx á Elster-hlýskeiðinu fyrir nálægt 200 þúsund árum.

Elliðaárdalur

Einar Gunnlaugsson.

Myndunarsaga Elliðavogslaganna og Reykjarvíkurgrágrýtisins er í stuttu máli þannig: Meginjöklar gengu yfir Reykjarvíkursvæðið og mótuðu mishæðótt landslag á ár-kvarteran berggrunninn. Þegar jökullinn hopaði í lok þriðja síðasta jökulskeiðs fylgdi sjórinn honum eftir inn yfir láglendið. Sjávarset settist í allar lægðir í berggrunninum. Ofan á sjávarsetið lagðist síðan árset, landið var risið úr sjó. Þá tóku ár og lækir að grafa sér farvegi í setlögin, en jafnframt tóku plöntur að nema land en leifar þessa gróðurs er einmitt surtarbrandurinn í Háubökkum og undir grágrýtinu í Ártúnshöfða.

Elliðavogshraun

Leiti

Reykjavík er í næsta nágrenni við Reykjanesgosbeltið. Einungis eru um 7 km frá byggðamörkum að næsta eldgíg sem er í Búrfelli ofan Hafnarfjarðar.
Fyrir 5200 árum gaus í stórum dyngjugíg sem nefnist Leiti og er austan Bláfjalla. Miklir og breiðir hraunstraumar flæddu niður um sandskeið og niður í Lækjabotna. Þaðan rann eldáin að Elliðavatni, sem hefur verið mun stærra en það er í dag. Þegar glóandi hraunið flæddi út í vatnið og yfir það urðu miklar sprengingar og gufugos. Í þessum hamförum mynduðust Rauðhólar. Hólarnir eru svokallaðir gervigígar. Þegar hraunið hafði brotist yfir Elliðavatn féll það niður með Elliðaám allt til sjávar í Elliðavogi.
Hraunið er mjög greinilegt í Elliðaárdalnum sérstaklega þar sem áin hefur skorið sig í gegnum hraunið t.d. í kringum Elliðaárhólmann.

Ísaldarminjar
LeitarhraunÍ Elliðaárdal er nokkuð mikið af setmyndunum jökla frá lokum ísaldar, en henni lauk fyrir um 10 þúsund árum. Þá hófu jöklar að hörfa af Bláfjallahálendinu og Hengilsvæðinu þar sem skriðjökullinn, sem lá yfir Elliðaárdal, átti upptök sín. Á þessum tíma hafði þykkur jökulísinn myndað mikið farg á undirlag sitt sem olli því að land þrýstist niður um tugi metra. Þegar jökull loks hörfaði varð sjávarstaða til skamms tíma mun hærri en þekkt er í dag. Við árósa og annars staðar, þar sem mikill framburður lausra efna frá bráðnandi jöklinum hlóðst upp, Fróðleikurmynduðust malarhjallar og setfyllur. Í Elliðaárdal má finna minjar um hærri sjávarstöðu frá ísaldarlokum og setmyndanir tengdar henni og frárennsli bráðnandi jökuls. Víða má finna rispaðar grágrýtisklappir, jökulgrópir, hvalbök (ávalar jökulheflaðar klappir), grettistök (stórir steinar og björg sem jökull hefur rifið upp og flutt til) og jökulruðninga (blanda af sandi, urð og grjóti sem víða er í þykkum lögum ofan á berggrunninum). Á þessum tíma mynduðust sandfjörur og malareyrar sem teygðu sig út með Blesugróf og Árbæjarhverfi. Þessar myndanir, nefndar strandhjallar og óseyrar, benda til að sjávarmál hafi verið um 40 m hærra en nú er. Glöggt dæmi um fornar strandlínur má t.d. finna innan við Ártún. Á þessum tíma voru Elliðaár beljandi jökulfljót en ekki lindár eins og nú er. (Sjá má kortið af Elliðaárdalnum í stækkun HÉR.)

Leitarhraun
Gos með hraunrennsli um Elliðaárdalinn hefur aðeins einu sinni orðið frá því að ísa leysti fyrir um 10 þúsund árum. Það er Leitarhraun sem er nefnt eftir gíg sem það kom úr austan Bláfjalla. Hraunið rann fyrir um 5000 (5300) árum og flæddi niður Sandskeið og um Lækjarbotna. Þaðan rann það í Elliðavatn, sem hefur verið mun stærra en það er í dag, og myndaði Rauðhóla. Þaðan flæddi hraunið viðstöðulítið um Elliðaárdal í sjó fram við Elliðaárósa. Hraunið er mjög greinilegt í Elliðaárdalnum sérstaklega þar sem áin hefur skorið sig í gegnum hraunið t.d. kringum Elliðaárhólmann.
ElliðaáLeitarhraun á uppruna sinn í gígnum Leiti undir austanverðum Bláfjöllum. Frá honum streymdi mikill hraunmassi niður þar sem nú er Selvogur og Þorlákshöfn, auk fyrrnefnds hrauntaums er náði niður í Elliðavog. Hraunið liggur m.a. undir Kristnitökuhrauninu (Svínahrauni). Í því mynduðust Rauðhólar er glóandi hraunið rann yfir norðanvert Elliðavatn og áfram niður til sjávar í Elliðaárósum. Áin náði að renna ofan á heitu hrauninu, kæla og rífa sig inn í það á leið til sjávar.

Elliðaár
Elliðaárnar eru lindár en þær falla úr stöðuvatni og hafa tiltölulega jafnt og stöðugt rennsli, gróðurinn nær að vatnsborði, fiskigengd er mikil og fuglar una sér vel. Þær eru því sannkallaðir lífgjafar. Núverandi farvegir mótuðust eftir að Elliðavogshraunið rann. Talið er að áður fyrr hafi áin bara verið ein en eftir að hraunið fyllti hana þá hafi hún kvíslast í tvær.
Meðalrennsli Elliðaánna er um 5,5 m3 /sek.

Hamfaraflóð
SkessuketillAðfaranótt þriðjudagsins 15. desember 1998 brast aðveituæð Orkuveitu Reykjavíkur í Elliðaárdal með þeim afleiðingum að 12 m3 vatns á sekúndu streymdu niður í dalinn í rúmlega hálfa klukkustund. Ummerki flóðsins sjást á nærri 700 m2 svæði.
Þar sem flóðið reif með sér jarðveg og gróður í brekkunni við Rafveituheimilið opnuðust jarðvegssnið þar sem getur að líta áfoks-, gjósku- og mólög frá Nútíma (síðustu 10 þúsund ár), en þar sem jarðvegur skolaðist burtu má sjá berggrunn svæðisins og undirliggjandi jökulurð sem vitna til eldri hlýskeiðs og kuldaskeiðs.
Á svæðinu má sjá jarðvegsnið með öskulögum úr rofsárinu. Jarðvegurinn hefur verið að myndast í um 10-11 þúsund ár enda er elsta þekkta öskulagið svokallað Saksunarvatns-öskulag sem féll fyrir um 10200 árum síðan. Um miðbik jarðvegssniðsins má sjá mikla litabreytingu á jarðveginum. Neðarlega er dökkbrúnn mór en ofar er ljósbrúnn fokjarðvegur.

Leitarhraun

Leitarhraun í Elliðaárdal.

Þegar Leitahraunið rann fyrir um 5000 árum síðan hefur hraunstraumurinn ýtt Elliðaánum tímabundið úr þáverandi farvegi sínum út til jaðra dalsins. Á sama tíma var mýrarfláki staðsettur þar sem rofsárið er nú. Ummerki benda til þess að áin hafi náð að renna yfir mýrarflákann og rofið burt sem nemur um 2-3000 ára uppsöfnun af mó. Nokkru eftir þennan atburð hefur jarðvegur byrjað að safnast fyrir á ný. Vegna breyttra aðstæðna í umhverfinu hefur mýri ekki myndast líkt og áður heldur jarðvegur með meiri einkenni fokjarðvegs. Neðarlega í ljósbrúna fokjarðveginum má sjá svokallað landnámsöskulag sem féll árið 871 eða rétt áður en landnám hófst á Íslandi. Ofar í jarðveginum má greina svokallað Miðaldalag sem féll árið 1226. Efsta öskulagið í jarðveginum er frá Kötlu og féll í kringum árið 1500.
Í máli Einars kom fram að tveimur árum eftir „hamfara-flóðið“ höfðu 98 plöntutegundir fest rætur á fyrrum „hamfara-svæðinu“. Nú væri gróðurinn að taka yfir það sem áður virtist vera áhugaverð jarðfræðiyfirlit.

Fossarnir
SkessukatlarSelfoss er myndarlegur foss skammt neðan Höfðabakka-brúarinnar. Nokkru neðar er Stórifoss, sem er beint framundan félagsheimili Orkuveitu Reykjavíkur. Skáfossar eru varla sjáanlegir nema þegar vatn er með meira móti í Elliðaánum. Þá rennur vatn eftir klöppunum á syðri bakkanum við Stórafoss og í ána rétt neðan við fossinn. Getur þá að líta smáfossa sem falla á ská, miðað við straumstefnu, út í ána og draga nafn sitt af því. Framundan rafstöðinni er Ullarfoss. Nafn sitt dregur fossinn væntanlega af því að þar hefur verið þvegin ull, en fossa með þessu nafni má finna allvíða í íslenskum ám. Neðsti fossinn í eystri kvísl Elliðaánna er Sjávarfoss. Hann hefur frá öndverðu verið gjöfull á lax og þar veiðast yfirleitt fyrstu laxar sumarsins. Myndir eru til af Sjávarfossi frá ýmsum tímum með mörgu stórmenni. Áður fyrr, þegar yfirvöld lands eða borgar vildu sýna erlendum gestum sínum sóma, var farið með gestinn inn að Elliðaám og hann látinn renna fyrir lax í Sjávarfossi.

Elliðaárdalur

Elliðaárdalur – Búrfoss.

Í vestari kvíslinni eru fjórir nafngreindir fossar. Skorarhylsfoss, sem einnig er nefndur Kermóafoss, er efstur. Á þessum slóðum í árhólmanum heitir svæðið Kermói. Næst fyrir neðan er Arnarfoss, en hann er gegnt Kúavaði í eystri kvíslinni, nokkru ofan við Ullarfoss. Þar talsvert fyrir neðan, eða skammt ofan við hitaveitustokkinn sem er neðan rafstöðvarinnar er Búrfoss, rétt við Reykjanesbrautina, og skammt þar neðan við er Skötufoss.Við Skötufoss er Drekkjarhylur. Í Drekkjarhyl var konum drekkt, en ekki er vitað hve margar konur létu þar líf sitt.
Við Skötufoss eru fallegir skessukatlar.

Jarðhiti
ElstaElliðaárdalurinn er einn af þremur jarðhitasvæðum á Reykjarvíkursvæðinu. Hin tvö eru í Laugardalnum og á Seltjarnarnesi. Jarðhitasvæðin í Reykjavík eru tengd gamalli megineldstöð sem kennd hefur verið við Viðey. Elliðaársvæðið er við suðurjaðar eldstöðvarinnar. Ummerki um jarðhita finnast á 8-10 km2 svæði, allt frá Breiðholtsmýri og norður fyrir Grafarvog. Sjálft vinnslusvæðið er um 300 m frá austri til vesturs og um 250 m frá norðri til suðurs. Frá 1967 hafa verið boraðar 16 djúpar holur (600-2300 m) á jarðhitasvæðinu og eru 8 þeirra nýttar. Holurnar skera móberg og hraunlög en streymi vatnsins stjórnast af sprungum og misgengjum. Hiti vatnsins er 80-100°C. Heita vatnið streymir úr norðaustri en tunga með kaldara vatni streymir á móti úr suðvestri.

Gróðurfar

Eliðaárdalur

Elliðaárdalur – Kermóafoss.

Gróðurfar í Elliðaárdal er fjölbreytt. Fjölbreytileikinn ræðst af mismunandi gróðurlendum og ræktun. Helstu gróðurlendi eru: Mýrar, kvistlendi, valllendi, blómlendi, og skóglendi. Aðalsérkenni gróðurfarsins í dalnum eru slæðingar. En það eru plöntur sem hafa borist með manninum beint eða óbeint.
Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 11 mín.

Heimild m.a.:
-Einar Gunnlaugsson, jarðfræðingur.
-http://nemendur.khi.is
-www.or.is

Elliðaárdalur

Elliðaárdalur – Kermóafoss.

Skálafell

B.B. í Grafarholti skrifaði eftirfarandi í Lesbók Morgunblaðsins árið 1930 undir fyrirsögninni „Saga Reykjavíkur“ – Hvar var Víkursel?
Vikursel-322„Bls. 9-10: „….jörðin átti sel, Víkursel, er var notað með vissu ennþá um 16OO, en hvar það sel hafi verið, er óljóst…. hefir mjer helst dottið í hug, að það hafi verið upp í Seljadal…. Víkursel er á einum stað (A. M.) nefnt „undir Undirhlíðum“, og kynni það að benda á Öskjuhlíð. Eftir (Oddgeirsmáldaga átti kirkjan Víkurholt með skóg og selstöðu. Virðist það geta bent á, að selið hafi verið í nánd við holtið.“
Bls. 17: (úr Jb. Á. M.): „Selstaða er jörðinni eignuð þar sem heitir Víkursel undir Undirhlíðum. Sumir kalla það gamla Víkursel. Þar hefir jörðin brúkað hrís til eldiviðar fyrir selsins nauðsyn.“
Bls. 45: „Dóttir Narfa (Ormssonar bónda í Reykja-Vík) ein hjet Þórey; hún átti Gísla prest Einarsson, bróðir Odds biskups. „Þótti sú gifting af rasandi tilhlaupi sjálfs hans. Reið um Mosfellsheiði um sumarið, gisti í Víkurseli. Smalamaður reið heim um nóttina, sagði bónda gestkomuna. Hann brá skjótt við, kom að selinu óhentuglega, þótti fleira í sæng dóttur sinnar heldur en von átti á. Sýndist gestinum skárst afráðið, að lofa eiginorði. Síðan var hún sótt frá Skálholti til að læra siðu og sóma; veitti tregt, því samur er barns vani. —
Þetta síðasta er sjálfsagt prestatilbúningur frá þeim tíma: þeim hefir þótt bróðir biskupsins taka ógurlega niður fyrir Vikursel-323sig, að eiga selstúlkuna. En Þórey hefir verið mikilhæf, eins og hún átti kyn til snarráð og harðfylgin sjer).
Það kemur ekki til mála, sem höf. sögunnar þó virðist hugsa, að sel stórbýlisins Víkur hafi verið í heimalandi. Slík fjénaðarmörg bú, höfðu selin í nokkurri fjarlægð, þar sem sumarland var gott. Smærri býlin höfðu selin oft í útjöðrum heimalands, eins og að Hlíðarhús áttu sel sunnan undir Öskjuhlíð. En t. d. Se]tjarnar-Nes átti selið upp í Seljadal, fyrir ofan Kamb, þar sem heitir Nessel. Viðeyjarsel er enn svo nefnt við Fóelluvötn, uppi undir Lyklafelli (= Litlaf.). Esjuberg átti sel uppi við Svínaskarð, fyrir ofan Haukafell. Gufunes sel í Stardal, o. s. frv. Reykjavíkurkirkju-ítakið „Víkurholt með skógi og selstöðu“ hefir einnig verið í nokkurri fjarlægð. „Gamla Víkursel“ má telja víst að hafi verið þar sem enn heita Undirhlíðar (fornt. undir Hlíðum), sunnan Hafnarfjarðar, fyrir ofan hraun. Þar eru enn hrískjörr nokkur. Er líklegt, að kunnugir menn þar um slóðir geti vísað á seltóftirnar. Seljatófta er aðeins þar að leita, sem trygt vatnsból er í nánd. En Víkursel það hið yngra. eða síðari tíma sel Víkur — er Gísli gisti í, hefir verið selið við Selvatn, í vesturjaðri Mosfellsheiðar, milli Miðdals og Elliðakots.
Videyjarsel-321Það er eina selið nálægt þeim vegi, sem þá var farinn milli Skálholts og Inn-nesja (Álftaness og Seltjarnarness), 
annað en Grafarsel við Rauðavatn. Frá því Víkurseli (við Selvatn) er til Reykjavíkur ca. tveggja stunda reið, eins og vegurinn lá í þá daga. Það hefir því verið leikur einn fyrir Narfa, að ná Gísla í rúmi.
Þá, á ofanverðri 16. öld, lágu tveir vegir yfir Mosfellsheiði, hinn nyrðri nyrst um hana, úr Þingvallasveit um Vilborgarkeldu, Þrívörðuás, Moldbrekkur, Illaklif, sunnan Geldingatjarnar, niður með Köldukvísl, Langholt, Mosfollsdal, um Tjaldanes, um syðri Leirvogstungubakka, Hestaþingshól, og suður Mosfellssveit neðanverða (gamla voginn frá Korpúlfsstöðum).
Syðri Mosfellsheiðarvegurinn (Skálholtsmannaleið) lá: yfir Ölvesá á Álftavatnsvaði, upp eftir Grafningi, yfir Hengilhálsinn, um Sporhellu og Dyraveg, yfir Brekku og nyrðri Bolavelli, vestur heiðina hjá Sýsluþúfn, fyrir norðan Lykla- (Litla)-fell, sunnan Selvatn, um Sólheima, Hofmannaflöt, Hestabrekku, Almannadal, hjá Rauðavatni; þar skiftust leiðir eftir því, hvort fara skyldi til Hafnarfjarðar og Álftaness (þá farið hjá Vatnsenda, Vífilsstöðum) eða til Seltjarnarness og eyjanna.
Nessel-321Það var ekki fyr en ca. öld síðar, að nyrðri vegurinn var lagður um Seljadal. Syðri vegurinn var tíðfarinn fram á 18. öld.

Þórey Narfadóttir hefir verið eftirmynd föður síns, eftir því er sagan lýsir honum. Þegar hún varð þess vís, að Gísli ætlaði að gista í selinu hjá henni, hefir hún sjeð sér leik á borði að krækja þar í álitlegt gjaforð. En til þess hefir hún sjeð að nauðsynlegt var að hinn kappsfulli, harðdrægi karl faðir hennar kæmi til, og stæði Gísla að sök; því hefir hún sent smalamanninn. Og Narfi „brá við skjótt“ — og svo gekk alt eins og í sögu! Hún varð prófastsfrú í Vatnsfirði. — Einkennilegt er að sjá skapgerðareinkenni Narfa Ormssonar í Vík ósljófguð hjá afkomanda hans í 9. lið, þeim er sagan tilgreinir.
Þegar eftir útkomu „Sögu Reykjavíkur“, sendi jeg höfundinum athugasemdir um Víkursel og fleira, nokkru fyllri en hjer. En þar sem hann er nú látinn, býst ég ekki við, að þær komi þar til greina.“
Af framangreindu og að teknu tilliti til landræðilegra aðstæðna má ljóst vera að framangreint „Víkursel“ hafi verið Viðeyjarsel (Bessastaðasel) í Lækjarbotnum, sem hins vegar hefur fram að þessu ekki verið fornleifaskráð sem slíkt.

Heimild:
-Lesbók Morgunblaðsins, 26. október 1930, bls. 333-334.

Viðeyjarsel

Viðeyjarsel (Bessastaðasel) – uppdráttur ÓSÁ.

Þingvallavegur

Gamla reiðleiðin til Þingvalla frá Reykjavík lá um Seljadal.
Þar má enn sjá leifar götunnar. Vagnvegur var síðan lagður í og við reiðleiðina á síðari hluta 19. aldar. Árið 1901 var byrjað á vagnvegi upp frá Fridrik 8Reykjaveg ofan Seljadalsbrúna, sunnan Seljadals, og upp á Háamel þar sem göturnar mættust austan hans. Þeirri framkvæmd lauk 1906. Seljadalsleiðin var öll vel vörðuð, en hin ekki. Við Þrívörðuhæð skiptast aftur vagnvegirnir og gamla reiðleiðin. Árið 1906 var síðan byrjað á leið frá Þingvöllum að Geysi og Gullfossi – til handa voru danska kóngi.
Gamli Þingvallavegurinn, sem liggur yfir háheiðina, var lagður á árunum 1890-96. Byrjað var á honum af Suðurlandsvegi við Geitháls. Vegalagningin miðaðist þá að sjálfsögðu við umferð hestvagna og ríðandi fólks. Vegurinn var lagður nær á sömu slóðum sem hinar fornu ferðamannaslóðir lágu um, en þó ívið sunnar eins og fyrr sagði. Eftir lagningu hans beindist nær öll umferð um heiðina að þessum vegi. Vörður voru hlaðnar við hann á allri heiðinni til leiðbeiningar ferðamönnum.

Thingvallavegur gamli - 218

Byggt var nýtt sæluhús við veginn í stað gamla hússins, sem stóð talsvert austar og norðar, á sýslumörkunum. Talsverðar endurbætur voru gerðar á þessum vegi vegna konungskomunnar 1907. Sumarið 1913 var í fyrsta sinn ekið bifreið eftir þessum vegi til Þingvalla og var notast við hann sem bílveg eftir það í hálfan annan áratug.
Þegar fjallað er um Konungsveginn frá Reykjavík að Þingvöllum og áfram að Geysi og Gullfossi gleymst oft fyrrnefndur fyrsti hluti hans, þ.e. um Mosfellsheiði að Þingvöllum. Enn má glögglega sjá leifar vegarins. Leiðin frá Elliðakoti um Djúpadal að Vilborgarkeldu var genginn eitt kvöldið árið 2012, 105 árum eftir að Friðrik VIII. Vegarlengdin er um 21 km. Danakonungur reið þessa götu er sérstaklega hafði verið lögð af því tilefni. Ætlunin var m.a. að skoða handverkið við vegagerðina; vörður, ræsi, brýr, kanthleðslur, púkk, steinhlaðið sæluhús og leifar hins gamla veitingastaðar, Heiðarblómsins.

Thingvallavegur gamli - 202

Árið 1904, þegar Íslendingar fengu heimastjórn, má segja að hestvagnaöld hefjist; það sama ár fór sá þekkti vagnasmiður, Kristinn Jónsson á Grettisgötunni, að framleiða sína vagna. Tveimur árum síðar var lagt í stórvirki: Konungsvegurinn lagður með hökum og skóflum til Þingvalla og þaðan austur að Geysi, því von var á Friðriki konungi 8. sumarið eftir. Gert var ráð fyrir að kóngur kysi að aka í yfirbyggðum hestvagni, en svo fór að hann vildi heldur fara ríðandi og aðeins ferðakamarinn var á hjólum í konungsfylgdinni austur að Geysi. Nú sést lítið eftir af konungsveginum, sem var þó þjóðleið til Geysis og Gullfoss.
Lagning Konungsvegarins reyndi ekki aðeins á þolgæði og útsjónarsemi vegargerðarmanna sem unnu verk sitt með skóflu, haka og hestvagni heldur þurfti líka að seilast djúpt í landssjóðinn en sennilega er Konungsvegurinn dýrasti vegur sem lagður hefur verið á Íslandi ef miðað er við hlutfall af útgjöldum landssjóðsins.
Thingvallavegur gamli - 204Ráðist var í vegaframkvæmdina 1906 og lauk fyrir komu konungs 1907. Lög um landsreikning voru samþykkt fyrir árin 1906/07 í einu lagi og var kostnaður við vegabætur 220.257 krónur, stærsti hluti Konungsvegur en heildarútgjöld landssjóðs voru liðlega 3.1 milljón. Konungsvegurinn er sennilega ein dýrasta vegaframkvæmd Íslandssögunnar u.þ.b. 14% af ársútgjöldum ríkisins á þeim tíma og kostaði líka ómælt strit og dugnað vegagerðarmanna við frumstæð skilyrði.
„Erfitt er nútímamönnum að gera sér í hugarlund hvernig hingaðkoma konungs 1907 var. Gríðarlegt tilstand var: stór hluti af fjárlögum þessa árs var lagður í vegagerð um Suðurland en til stóð að konungur færi þar um í vagnalest. Var vögnum safnað af öllu landinu til að flytja föruneyti konungs.
Thingvallavegur gamli - 203Þegar til kom vildi Friðrik sitja hest og fór því föruneyti hans ríðandi að mestu. Hingað kom í sveit konungs mikill fjöldi danskra blaðamanna og fyrirmenna úr dönsku opinberu lífi. Alþingi bauð hingað 30 dönskum þingmönnum og endurgalt þar með heimboð íslenskra þingmanna frá árinu áður en þá fóru 35 af 40 alþingismönnum til Hafnar í heimsókn.
Hingað til lands kom konungur með föruneyti á þremur skipum. Var lagt upp frá Tollbúðinni hinn 21. júlí og var mikill mannfjöldi við strandlengjuna til að kveðja konung, þúsundir manna segja samtímaheimildir. Var sægur skipa sem fylgdi skipunum þremur, Birma, Atlanta og Geysi, á leið. Fyrri skipin voru fengin að láni frá Austur-Asíufélaginu, því aldna félagi sem hafði um aldaskeið einokun á viðskiptum Dana við Asíulönd. Birma var þeirra stærst, 5.000 smálestir að stærð. Tvö hundruð manns voru um borð, tuttugu þjónar, hljómsveitarmenn, kokkar auk gestanna og áhafnar.

Thingvallavegur gamli - 205

Fyrsti áfangi ferðarinnar voru Færeyjar og þangað kom konungsflotinn 24. júní. Reru heimamenn tugum báta undir flöggum til móts við flotann. Dvaldi konungur með fylgdarliði sínu í Færeyjum í þrjá sólarhringa, fór víða um eyjarnar, skoðaði atvinnulíf og híbýli manna. Lagt var upp til Íslands að morgni 27. júlí. Sóttist ferðin það vel að skip konungs máttu liggja heilan dag undan Akranesi til að ná réttum komudegi til Reykjavíkur.
Íbúar Reykjavíkur voru um tíu þúsund sumarið 1907. Þar var uppi fótur og fit hinn 29. júlí; menn voru þegar teknir að flagga og mátti víða sjá hvítbláinn við hún innan um Dannebrog. Konungur skyldi gista í húsi Lærða skólans, en gestum var víða komið niður; á Hótel Reykjavík og Hótel Íslandi. Móttökunefnd hafði aðsetur í Iðnaðarmannahúsinu. Skipað hafði verið við lægi undan landi en svo stór skip sem voru í fylgd konungs voru fátíð hér og engin höfn enn í bænum. Skyldi konungur stíga á land að morgni 30. júlí kl. 10 og skyldi bátur hans leggja að gömlu steinbryggjunni.
Thingvallavegur gamli - 206Þann dag voru allir í bænum í sparifötunum og komnir niður í Pósthússtræti þar sem nú er Tryggvagata að hylla konung.
Erlend fyrirmenni og innlend í einkennisbúningum, karlar í jakkafötum og sumir á fornklæðum, konur á skautbúningum, upphlut og dönskum búningum, börnin þvegin og snyrt og stóðu hvítklæddar ungmeyjar í röð sitthvorum megin við gönguleið konungs: pláss var tekið frá fyrir fimmtíu innlenda og erlenda ljósmyndara. Er skipafloti konungs seig inn sundin var skotið úr fallbyssum af frönsku herskipi er hér lág við festar. Hannes Hafstein hélt þegar til skips konungs og stundvíslega kl. 10 lagðist konungsbáturinn að steinbryggjunni, þeir konungur og Hannes stigu á land og Hannes bauð kóng sinn velkominn með handabandi: „Velkominn til þessa hluta ríkis yðar, herra konungur!“
„Hér á landi dvaldi konungur ásamt fylgdarliði til 15. ágúst. Hann fór um Suðurland ríðandi, sigldi síðan flota sínum vestur fyrir land, tók land á Ísafirði, fór síðan norður fyrir og kom við á Akureyri og loks austur um með lokaáfanga á Seyðisfirði.
Hvarvetna sem Friðrik áttundi fór kom hann fram við háa og lága sem jafningja sína, gaf sig að múgamönnum rétt sem embættismönnum. Hann var forvitinn um hagi fólks, alúðlegur og alþýðlegur. Víst er að móttökur þær sem hann fékk hér á landi hafa hlýjað honum um hjartarætur. Samtímaheimildir danskar eru fullar af hrifningu, geðshræringum, yfir viðtökum. Enda fór svo að konungur hreyfði í för sinni sjálfstæðismálum þjóðarinnar, nánast í blóra við ráðherra sína.“

Thingvallavegur gamli - 207

„En hann gaf íslenskum almenningi annað sjálfstæði ekki minna að virði: hann veitti þeim tækifæri í samtakamætti að skarta öllu sínu með þeim árangri að þeir fengu hrós fyrir og gátu verið stoltir af; bara konungsvegurinn austur var gríðarstórt afrek og synd að hann skuli ekki betur varðveittur og nýttur.
Margt af viðbúnaði hér var með séríslenskum hætti; til fundar við konung riðu bændur í Eyjafirði hópreið til Akureyrar og sátu einungis hvíta hesta. Er margt í lýsingum gestanna með sérstökum sakleysisbrag. Því heimsókn konungs var ekki síður landkynning sem beindist einkum gagnvart Dönum sjálfum og hefur vafalítið átt sinn þátt í hinni djúpstæðu lotningu sem hefur um langan aldur ríkt í Danmörku fyrir Íslandi, sögu og náttúru.“

Örn H. Bjarnason skrifaði m.a. um Konunsveginn:
 „Í lok júlí 1907, um miðjan þingtíma Alþingis, komu gestirnir til Reykjavíkur á tveimur skipum og herskip til fylgdar.

Thingvallavegur gamli - 208

Fyrir Íslendinga var konungskoman stór stund. Barnungur sjónarvottur minntist þess síðar hvað honum fannst „skrúðganga gegnum bæinn, með konung og Hannes Hafstein í fylkingarbrjósti, óumræðilega stórkostleg, og sólin aldrei hafa skinið yfir jörðina með þvílíkri birtu.“
Konungskoman var líka stórframkvæmd fyrir Íslendinga, sem vildu tjalda því sem til var að veita gestunum viðeigandi og eftirminnilegar móttökur. Frá Reykjavík var farið með gestina í vikuferð á hestum um Suðurland. Hátíð var haldin á Þingvöllum, líkt og við fyrstu konungsheimsókn til Íslands 1874, með nær sex þúsundum gesta.
Ferðin hófst 1. ágúst og var lagt af stað frá Latínuskólanum í Reykjavík. Konungur reið gráum hesti og var í búningi sjóliðsforingja með derhúfu að hætti aðmiráls og í uppháum leðurstígvélum. Hannes Hafstein Íslandsráðherra var á léttvígum, rauðskjóttum gæðingi Glæsir að nafni, kallaður Ráðherra-Skjóni. Seinna í ferðinni reið hann brúnum hesti en konungur hélt sig við gráa litinn enda hafði honum verið ætlaðir fjórir í þeim lit í ferðina. Þegar til kom líkaði honum aðeins við tvo þeirra. Mér skilst að Eggert Benediktsson bóndi í Laugardælum, stórbýli rétt fyrir austan Selfoss, hafi skaffað þessa gráu hesta.
Thingvallavegur gamli - 210Haraldur prins var í húsarabúningi. Þarna voru líka Axel Tulinius sýslumaður Suður-Múlasýslu, aðalskipuleggjari ferðarinnar, Rendtorff yfirhestasveinn konungs í rauðum búningi, J.C. Christensen forsætisráðherra og Rosenstand leyndaretatsráð svo að einhverjir séu nefndir. Leiðsögumenn voru m.a. þeir Guðmundur Björnsson landlæknir og Jón Magnússon skrifstofustjóri, síðar forsætisráðherra. Jón var hæglætismaður og frekar orðfár, en hvar sem hann sýndi sig fóru hjólin að snúast. Þannig var það einnig við undirbúning þessarar ferðar.
Það þurfti töluverða skipulagshæfileika til að henda reiður á öllu því hafurstaski sem fylgdi þessu liði, kerrur með tjöld og matföng og trússhestar, klyfsöðlar, hnakkar, beisli, lyfjaskrín, hattaöskjur og ferðakoffort. Þetta líktist meira innrásinni í Rússland eða herleiðingu eins og sagt er frá í Gamla testamentinu hjá Móse frá Egyptalandi eða Esekiel til Babylon, erillinn var svo mikill. Að morgni fyrsta dags voru allir að ganga af göflunum og þá var notalegt að hafa Jón Magnússon með sína góðu nærveru.
Thingvallavegur gamli - 211Hófaskellirnir á götum Reykjavíkur þennan dag komu öllum í ferðaham og góðhestarnir sem bændur sunnanlands og norðan höfðu lánað af þessu tilefni voru ekki af verri endanum. Flestar sýslur landsins lögðu til 18 hesta hver landssjóði að kostnaðarlausu, en einnig voru fjöldinn allur af leiguhestum.
Af lista yfir íslenska alþingismenn sem varðveist hefur er svo að sjá, að flestir þeirra hafi fengið tvo hesta til afnota. Númer 13 á listanum er Hannes Hafstein, 1. Þingmaður Eyfirðinga, Tjarnargötu. Hann fékk bara einn hest enda lagði hann sjálfur til Ráðherra-Skjóna. Björn M. Olsen, 3. Konungskjörinn þingmaður, Lækjargötu 8, fékk 3 hesta. Tryggvi Gunnarsson 1. Þingmaður Reykvíkinga fékk 2 hesta og sömuleiðis Þórhallur Bjarnarson þingmaður Borgfirðinga síðar biskup yfir Íslandi. Guðmundur Björnsson 2. Þingmaður Reykvíkinga, Amtmannsstíg 1, fékk engan hest enda hefur hann sjálfsagt verið með sína eigin hesta í ferðinni.

Thingvallavegur gamli - 212

Í bréfi dagsettu 7. febrúar 1907 býður Daniel Danielsson hinni háttvirtu Heimboðsnefnd vagnhesta til kaups á kr. 160 stykkið. Hann segir í bréfinu, að hann treysti sér ekki til að fara neðar þar sem hann telji að verð á hestum á sumri komandi verði mjög hátt. Þetta var svo sannarlega uppgripstími fyrir hestaspekúlanta.
Þar sem riðið var upp Hverfisgötu blakti danski fáninn við hún. Farið var upp hjá Rauðavatni og Geithálsi og síðan Hafravatnsveg í Djúpadal á Mosfellsheiði, en þar byrjar hinn eiginlegi gamli Þingvallavegur. Svipusmellir fylltu loftið og öllum mátti vera ljóst að þetta var enginn venjulegur reiðtúr. Á leiðinni bættust í hópinn bændur sem höfðu hlaupið frá búum sínum til að skoða kónginn. Þegar til kom gátu þeir ekki stillt sig um að slást í för á Þingvöll. Sumir voru ekki einir á ferð heldur með allt sitt hyski, konu og krakka.

Í Djúpadal var framreiddur hádegisverður. Eins og allir vita þá eru Danir fyrst í essinu sínu þegar matur er annars vegar. Þeir borða ekki eingöngu til að lafa á fótunum.

Thingvallavegur gamli - 209

Leifar Heiðarblómsins.

Matargerð er í þeirra augum listgrein og að skeggræða um mat umræðuefni sem stendur jafnfætis heimspekitali á gangstéttarkaffihúsum stórborganna.
Virkilega siðaður Dani getur rifjað upp matseðla áratugi aftur í tímann af jafn mikilli nákvæmni og veðurglöggur Íslendingur lýsir skýjafari. Danir eru heimsmenn.
Nema hvað í Djúpadal hafði Franz Håkansson, bakari og conditori, Austurstræti 17 látið senda 150 rúnstykki, 7 rúgbrauð og 12 franskbrauð. Pagh veitingastjóri var staðráðinn í því, að hvað sem öðru liði þá myndi Friðrik 8. Danakonungur ekki verða hungurmorða í ferðinni og þyrstur yrði hann ekki, enda sést í skjölum að Thomsens Magasin lét senda 4000 flöskur vestur að Rauðamel.
Thingvallavegur gamli - 213Þar var tappað ölkelduvatni á flöskurnar. Þetta ölkelduvatn var haft til hressingar í heimsókn konungs. Að loknum málsverði þumlungaðist hersingin áfram fyrir norðan Borgarhóla í áttina að Þrívörðum og sunnan við Vilborgarkeldu á Mosfellsheiði, sem er forn áningarstaður. Þaðan var ekki langt í Ferðamannahorn, en það heitir svo vegna þess að þar sést fyrst til langferðamanna að koma á Þingvöll. Svo lá leiðin um Kárastaðastíg og niður í Almannagjá. Þegar konungur reið niður gjána hrópaði fólkið sem hafði raðað sér þar upp nífalt húrra, ég endurtek nífalt, minna mátti ekki gagn gera.
En hver var þessi konungur sem verið var að hrópa húrra fyrir? Friðrik 8. var fæddur árið 1843 og dó árið 1912. Hann ríkti frá árinu 1906 til 1912. Faðir hans var Kristján 9. Þann stutta tíma sem Friðrik var við völd ferðaðist hann mikið um ríki sitt og komst í nána snertingu við þjóð sína. Hann beitti sér m.a. fyrir bættum samskiptum við Íslendinga. Árið 1869 gekk hann að eiga sænska prinsessu Louise að nafni.
Thingvallavegur gamli - 214Og þjóðin sem hann var að heimsækja hvernig var hún? Af því að maður er svolítið blindur á sitt eigið fólk þá gerði ég það að gamni mínu að fletta upp í Nordisk Konversasions Leksikon, 5. bindi, bls. 183. Þar stendur: “Íslendingar tilheyra hinum hvíta kynstofni, flestir eru háir, ljósir yfirlitum og langhöfðar. Þeir eru með blá augu og grannvaxnir.” Þetta fannst mér áhugaverð lesning, en meira hafði ég samt gaman af að koma út af bókasafninu og labba eftir Austurstræti og sjá margbreytileikann í útliti fólks enda er þjóðin örugglega ekki svona einslit eins og stendur í alfræðiritinu. Rannsóknir á blóðflokkum Íslendinga sýna raunar að þjóðin er af margvíslegum uppruna.
En við vorum stödd á Þingvöllum. Þar höfðu miklar vegabætur farið fram sem og annars staðar á leið konungs.

Thingvallavegur gamli - 215

Árið 2000 voru líka lagðir vegir á Þingvöllum. Það tengdist Kristnitökuhátíðinni. Þetta voru mjög snotrir vegir út um alla móa, en lágu svo sem ekkert sérstakt að mér fannst. Áhugavert þótti mér að sjá hvílíkri tækni vegakarlar bjuggu yfir þegar þeir mokuðu þessum sömu vegum upp á vörubíla aftur og keyrðu í burtu. Þarna hófst nýr kafli í samgöngusögu þjóðarinnar. Það er ekki enn búið að moka í burtu Kóngsveginum gamla en slitróttur er hann orðinn á köflum.“
Á háheiðinni er enn að finna tóftir veitingahússins Heiðarblómsins sem rekið var þarna á heiðinni á árunum 1925-1930. Rekstri þar var hætt um leið og vegurinn lagðist af í kjölfar Alþingishátíðarinnar 1930, en af því tilefni var nýr malarvegur lagður um Mosfellsdal til Þingvalla.
Frábært veður. Gangan tók 4 klst og 40 mín.

Heimildir m.a.:
-Lesbók Morgunblaðsins 7. september 1991, bls. 3.
-Morgunblaðið, 3. mars 2007, bls. 32.
-Morgunblaðið 15. júní 2007, bls. 40.
-Fréttablaðið, 31. maí 2007, bls. 64.
-heimastjorn.is/heimastjornartiminn/thingmannaforin-og-konungskoman/index.html
-hugi.is. Gamlar götur – Konungskoman 1907, Örn H. Bjarnason.

Þingvallavegur

Gamli Þingvallavegurinn – ræsi og varða framundan.

Esjuberg

Í Úrskurði Óbyggðarnefndar, máli nr. 3-4/2004 um  Kjalarnes og Kjós frá 31. maí 2006 má lesa eftirfarandi fróðleik um „Landnám í Kjós„:

Kjósarhreppur

Kjósarhreppur – bæir og mörk (rauð lína).

„Landnámabók getur ýmissa manna, sem námu land á þessu svæði. Fyrstur landnámsmanna var Ingólfur Arnarson: En Ingólfr nam land milli Ölfusár ok Hvalfjarðar fyrir útan Brynjudalsá, milli
ok Öxarár, ok öll nes út.
Eins og getið er um varðandi Kjalarnes var Mýdalsá (nú Miðdalsá og Kiðafellsá) takmark landnáms Helga bjólu. Norðan Mýdalsár var landnám Svartkels hins katneska: Svartkell hét maðr katneskr; hann nam land fyrir innan Mýdalsá milli <ok> Eilífsdalsár ok bjó at Kiðjafelli fyrst en síðan á Eyri.

Kiðafell

Kiðafell.

Svartkell hét maðr; hann fór af Englandi til Íslands ok nam land fyrir innan Mýdalsá ok millum Eilífsdalsár ok bjó at Kiðjafelli fyrst en síðan á Eyri. Eilífsdalá heitir nú Dælisá eða Bugða.
Gera má ráð fyrir að landnám Svartkels hafi náð upp í Esjuna, milli upptaka Mýdalsár og Eilífsdalsár. Valþjófr, son Örlygs hins gamla frá Esjubergi, nam Kjós alla ok bjó at Meðalfelli; frá honum eru Valþjóflingar komnir.

Esjuberg

Esjuberg á Kjalarnesi.

Valþjófr, er fyrr var getit, son Örlygs at Esjubergi, hann nam Kjós alla ok bjó at Meðalfelli. … Valbrandr hét annarr son Valþjófs, faðir Torfa, er fyrst bjó á Möðruvöllum. Þeir feðgar gerðu félag við Tungu-Odd; af því bjöggu þeir síðan á Breiðabólstað í Reykjardal hinum nörðra. Landnám Valþjófs hefur því náð yfir Kjós vestan Laxár og ofan Bugðu.
Þorsteinn, son Sölmundar Þórólfssonar smjörs, nam land milli Botnsár ok Forsár, Brynjudal allan. Hann átti Þorbjörgu kötlu, dóttur Helga skarfs; þeirra son var Refr enn gamli, er Bryndælir eru frá komnir.

Brynjudalur

Brynjudalur.

Son Þórólfs smjörs var Sölmundr, faðir Þorsteins, þess er land nam í Brynjudal á millim Bláskeggsár ok Forsár; hann átti Þorbjörgu kötlu, dóttur Helga skarfs Geirleifssonar, er nam Barðaströnd; þeira son var Refr í Brynjudal, faðir Halldóru, er átti Sigfúss Elliða-Grímsson.
Landnámugerðum ber ekki saman um mörk landnáms Þorsteins Sölmundarsonar, hvort þau miðast við Botnsá eða Bláskeggsá. Er hér komið út fyrir landnám Ingólfs Arnarsonar sem náði til Brynjudalsár eins og segir í upphafi.

Brynjudalur

Brynjudalur. Tóftir Múla.

Bústaður Þorsteins Sölmundarsonar er ekki nefndur, en í Þórðarbók Landnámu segir að Refur sonur hans hafi búið í Múla. Sá bær þekkist ekki og hafa menn velt vöngum yfir líklegum stað án niðurstöðu.
Maðr hét Ávangr, írskr at kyni; hann byggði fyrst í Botni; þar var þá svá stórr skógr, at hann gerði þar af hafskip.  Ávangr hét maðr írskr, er bjó í Botni fyrstr manna, ok bjó þar allan aldr sinn; þá var þar svá stórr skógr, at hann gerði þar hafskip af ok hlóð þar sem nú heitir Hlaðhamarr. Hér er átt við Stórabotn í Botnsdal, sem á land báðum megin Botnsár. Ekki kemur fram, hversu stórt land Ávangur hefur haft til umráða. Haraldur Matthíasson telur hann hafa numið allan Botnsdal.“

Heimild:
-Úrskurður Óbyggðarnefndar, mál nr. 3-4/2004 – Kjalarnes og Kjós; 31. maí 2006.

Brynjudalur

Í Brynjudal.