Tag Archive for: Reykjavík

Keldur

Eftirfarandi fróðleikur um örnefni í Keldnalandi eru tekin saman af Halldóri Vigfússyni laugardaginn 27. ágúst 1949 í viðræðum við við Björn gamla Bjarnarson (93 ára) í Grafarholti. Þar kemur m.a. fram staðsetning á hringmyndaðri rúst er nefnd hefur verið Helguhjáleiga, Helgustekkur eða Helgutóft.
Síldarmannagarður„Um þann stað er sú þjóðsaga, að þar hafi búið Helga Bárðardóttir Snæfellsáss og sótt sér í soðið með því að renna færi fram af Helgukletti, nyrst á Geldinganesi“. Helgusel í Helguhvammi neðan við Helgufoss undir Bringum heitir einnig eftir henni. Auk þess Helguhóll í Viðey og Helgusker í Kollafirði. Helgustekkur hefur verið látinn óáreittur og er nú við göngustíg er liggur aftan (austan) við háu fjölbýlishúsin við Frostafold. Fleiri minjar, sem minnst er á, má enn sjá í Keldnalandi. Þá kemur fram að Kaldá sé afrennsli Kleifarvatns.
„Slöðrið eða slakkinn milli holtanna Grafarholts og Keldnaholts heitir Klofningur. Þar niður vildi Einar skáld Benediktsson veita Úlfarsá [þetta er hið forna og upphaflega nafn árinnar (sbr. Landnámu) en hún er nú oftast nefnd Korpólfsstaðaá, Korpa, eða eftir öðrum bæjum sem eiga land að henni, einkum þar sem vöð voru á ánni.
GröfBjörn segist hafa átt hlut að því að nafni Kálfakots var breytt í Úlfarsá til þess að festa hið forna nafn], svo að hún félli í Grafarvog og mætti verða að góðri laxveiðiá í líkingu við Elliðaárnar. Einar eða faðir hans hafði keypt lönd á þessu svæði (Gröf og Keldur) og fengu þeir feðgar Björn, sem var þá ekki enn farinn að búa í Gröf, til að mæla fyrir þessari vatnsveitingu. Birni mældist að skurðurinn þyrfti að vera 11 feta djúpur, þar sem þurfti að grafa dýpst. Var verkið hafið og nokkur dagsverk unnin, en aðrir, sem lönd áttu að Úlfarsá, munu hafa amast við þessari röskun og bannaði Benedikt þá frekari framkvæmdir.

 

Gröf-2

Áður en sneiðin norðan af Keldnalandi var seld undir Korpólfsstaði (Thor Jensen), áttu Keldur slægjuland uppi við Úlfarsá, sem hét Tjarnengi [samnefnt slæguland var einnig frá Grafarholti litlu ofar. Á þeim slóðum byggði tengdasonur Bjarnar (Hreiðar Gottskálksson) nýbýlið Engi. Þar er hvylft mikil, sem heitir Flykkisgróf, og segir Björn, að hún sé norðaustur endinn á langri gjá, sem muni mega rekja við og við allt suðvestur að Kleifarvatni. Í gjá þessari hyggur Björn að vera muni afrennsli Kleifarvatns og komi fram í Kaldá. (Hann hefur þó að vísu ekki komið lengra suður en í Gjárétt)] .
Lautin austan [vestan] við túnið á Keldum, þar sem sumarhús Einars Pálssonar stendur nú, heitir Kúalág. Það nafn er frá þeim tímun er kýr voru látnar liggja úti á nóttum og lágu þær þá einna helst þar.

 

Keldur

Keldnakot.

Fyrir norðan Keldnabæinn og upp af honum er Keldnaholt. Vestan í því er Keldnakot. Þar var búið fram á seinni hluta síðastliðinnar aldar. Utan í Keldnaholti, norður af Kotinu, er hóll sem heitir Skyggnir [enn má sjá hlaðinn garð, nú kominn inn í skógrækt, frá Keldnakoti, allstóra tvískipta fjárhústóft og fleiri mannvirki skammt þar frá sem kotið var].
Suðvestur af kotinu gengur grjóthóll út úr holtinu. Suður og niður af honum var svo kallaður Lambarimi, nú sléttaður og ræktaður í tún, nyrsta nýræktin. Nafnið kom til af því að riminn var áður sleginn næst á eftir túninu og þótti hey af honum gott og var ætlað lömbum.
Gröf-3Mýrardragið upp með Keldnaholti að vestan heitir Keldnasund eða Sundið.
Á hábungunni beint vestur af Keldum er hringmynduð rúst, kölluð Helguhjáleiga, Helgustekkur eða Helgutóft. Um þann stað er sú þjóðsaga, að þar hafi búið Helga Bárðardóttir Snæfellsáss og sótt sér í soðið með því að renna færi fram af Helgukletti, nyrst á Geldinganesi.
Niðri við Grafarvog, í mörkum Keldna- og Gufunesslands, heitir Kattarnef. Góðan spöl innar gengur lítil og lág eyri út í voginn. Hún heitir Naustatangi. Þar höfðu Keldnamenn lendingarstað og uppsátur fyrir báta, sem voru aðallega notaðir til hrognkelsaveiða. Voru þær veiðar stundaðar nokkuð frá bæjunum við Grafarvog, þó óhentugt væri vegna útfiris, en netalagnir voru út undan Gufuneshöfða.
Gröf-4Í fjöruborði milli Kattarnefs og Naustatanga skagar allmikil eyri út í voginn frá suðurlandinu (Grafarholtslandi). Á þessari eyri og síðan þvert yfir voginn er gamall grjótgarður, sem sést vel um fjöru. Þetta mannvirki segir Björn, að heiti frá fornu fari Síldarmannagarður. En síðustu not, sem hann veit til, að menn hafi reynt að hafa af garðinum, voru þó til laxveiði. Um það hafði hann fyrir sér frásögn Ólafs Stephensens frá Viðey, sem hafði sjálfur verið við þá veiðitilraun. Það mun hafa verið á árunum 1870-80.

 

Um flóð eða með byrjandi útfalli var dregið net í hlið, sem var á garðinum, og var ætlunin að króa fiskinni inni, svo að hann fjaraði uppi. Var mikill lax fyrir innan og enda selur. En undan útfallinu settist slý og þaraslæðingur í netið, og fiskurinn lagðist fast á, og undan þessum þunga öllum sprakk netið, svo að afli varð lítill eða enginn. Þessi garður er nú allmikið raskaður af sjávarfangi og af völdum veiðimanna, er voru þar með laxakláfa um og eftir síðustu aldamót. [Sem hliðstæðu við þennan garð bendir Björn á, að inni í Hvalfjarðarbotni er til örnefnið Vogargarðslág, þó að garður sjáist þar nú enginn. Þar eru og Síldarmannagötur. Garður þessi virðist nú alveg horfinn í leirunar í voginum].
KeldnakotÍ botni Grafarvogs eru grjótgarðar, sem mynda litla kví við ós Grafarlækjar. Þar hagar þannig til, að Keldnamegin við ósinn gengur fram smáeyri eða hryggur, og þar hefur því ekki þurft mikla hleðslu, aðeins að raða steinum ofan á. Grafarholtsmegin hefur hleðslan þurt að vera hærri, og þar er mjótt hlið á garðinum fyrir lækjarrennslið og sjávarföll. Þetta heitir Króargarður og mun hafa verið gerður kringum 1870 til laxveiði.
Landarmerki milli Grafarholts og Keldna segir Björn, að sé bein lína frá Grafarvaði á Úlfarsá í Grafarlæk, þar sem hann beygir fyrir Svartabakka. Þaðan ræður lækurinn til sjávar.
Örnefnatalningunni má ljúka með því að geta þess, að holtið þar sem nýi vegurinn að Keldum kemur á aðalveginn, heitir Nónholt og var eyktarmark frá Gröf. En ekki kvaðst Björn kunna að skilgreina með vissu eyktarmörk frá Keldum.“

Heimildir m.a.:
-http://www.keldur.hi.is/um_ornefni.htm?detail=1003119&name=frettasida

Grafarkot

Grafarkot, Grafarholt, Gröf og Keldur – kort 1908.

Arnarhóll

Arni Óla skrifar í Lesbók Morgunblaðsins árið 1958 um „Úr sögu Arnarhóls„:

Arnarhóll

Arnarhóll – fornleifarannsókn 1955.

„Nú er byrjað að grafa upp gömlu traðirnar í Arnarhólstúni. Er því ekki úr vegi að rifja upp gamlar minningar frá þessum stað.
Arnarhóls er fyrst getið í Landnámu, ekki sem jarðar, heldur sem örnefnis. Ingólfur Arnarson varpaði öndvegissúlum sínum fyrir borð, er hann var kominn í landsýn, og hét að byggja þar sem þær kæmi á land. Öndvegissúlurnar fundust síðar reknar „við Arnarhvol fyrir neðan heiði“. Heiðin, sem hér er átt við, er Mosfellsheiði.

Arnarhóll

Arnarhóll og nágrannajarðir 1703.

Út af orðalagi frásagnar Landnámu hafa ýmsir haldið því fram, að Ingólfur muni hafa reist bæ sinn á Arnarhóli. En það getur ekki verið rétt. Ari fróði kallar bæ hans Reykjavík, og það er sami bærinn, sem lengi var aðeins kallaður Vík og stóð undir brekkunni syðst í Aðalstræti, sem nú er. Auðvitað hefir bær Ingólfs verið höfuðbólið hér, og það sem tekur af allan vafa hér, er það, að Vík átti allt landið upphaflega. Af vitnisburði um landamerki Víkur, teknum um 1500, má glögglega sjá að bæirnir Hlíðarhús, Sel, Skildinganes og Arnarhóll voru allir byggðir í Víkurlandi. Hitt er ekki vitað hvenær þeir voru reistir, né heldur hvenær þeir urðu sjálfstæðar jarðir. En það hefir verið löngu fyr en þetta var og þó var enn óskipt beitiland.
Arnarhóll
Af Vík og bæunum þar um kring fara engar sögur um aldir. Veit því enginn hvernig stendur á því, að jörðin var brytjuð niður í mörg býli. En Arnarhóls er næst getið í gjafabréfi, dagsettu í Engey 27. marz 1534. Það bréf er svo: „Það geri eg, Hrafn Guðmundsson, heill að viti, en krankur á líkama, góðum mönnum kunnugt með þessu mínu opnu bréfi, að eg gef jörðina alla Arnarhól, er liggur á Seltjarnarnesi í Víkur kirkjusókn, heilögu klaustri í Viðey til ævinlegrar eignar, en mér til eilífs bænahalds, með þeim skilmála, að jörðin skal hvorki seljast né gefast frá klaustrinu, en tíundast ævinlega þar sem hún liggur, þeim mönnum hjáveröndum: húsfrúnni Þórey Narfadóttur, Guðbrandi Jónssyni og Ingjaldi Jónssyni. En ef guð gefur mér minn bata, heilsu og styrk, þá er fynefnd jörð, Arnarhóll, mín eign og í minni umsjá svo lengi sem guð gefur mér lífdagana, en eftir mína framferð skal hún klaustursins eign vera, sem fyr segir“.

Arnarhóll

Arnarhóll – býli 1787.

Ekki er víst að Hrafn hafi búið á Arnarhóli, en hann er seinasti bóndinn, sem á þá jörð. Nokkrum árum seinna kastaði konungur eign sinni á allar jarðir Viðeyarklausturs, og þá hafa verið rofnir þeir skilmálar, sem Hrafn setti fyrir gjöfinni, því að þá mun hafa verið lokið hinu „eilífa bænahaldi“ fyrir sál hans. Um hitt skilyrðið, að jörðin mætti hvorki gefast né seljast, er að vísu það að segja, að hún var hvorki gefin né seld, heldur var henni bókstaflega rænt. Húsfrú Þórey Narfadóttir, sem var vitundarvottur að gjöf Hrafns, hefir sennilega verið mágkona Orms sýslumanns Jónssonar í Vík og móðursystir Narfa Ormssonar sýslumanns, sem var seinasti sjálfseignarbóndi í Vík. Narfi sýslumaður lét dóttur sína heita Þórey, og bendir það til skyldleikans.

Arnarhólsland

Reykjavík

Reykjavík 1801.

Það mun sennilega hafa verið um þetta leyti, eða þó öllu heldur fyr, að Arnarhólslandi var skipt úr Víkurlandi. Þykir líklegast að það hafi verið gert um leið og hjáleigurnar Skálholtsskot og Stöðlakot byggðust. Nafnið Stöðlakot bendir til þess, að þar hafi verið stöðull. Nokkru ofar, eða þar sem nú er lóð Ingólfsstrætis 9, var þá varða, sem kölluð var Stöðulvarða og bendir það nafn til hins sama. Efst á holtinu, þar sem minnisvarði Leifs heppna stendur nú, voru beitarhús frá Arnarhvoli, og allt holtið var þá kallað Arnarhólsholt, en Öskjuhlíðin Víkurholt. Þegar landamerki voru nú ákveðin milli Víkur og Arnarhóls, voru þau úr Stöðulvörðu og vestanhalt við beitarhúsin og þaðan upp í Breiðamýri að Rauðarárlæk, en síðan réði lækurinn landamerkjum til sjávar. Þetta var þá allt Arnarhólsland.

Skólavarðan

Skólavarðan á Arnarhólsholti.

Þegar beitarhúsin voru reist, hefir bóndinn á Arnarhóli sjálfsagt átt allmargar kindur. En nokkuru eftir að skiptin fóru fram, munu húsin hafa verið lögð niður, því að þess er getið 1777, að þau sé ekki annað en gamlar rústir. En upp úr þessum rústum munu skólapiltar hafaa tekið efni í Skólavörðuna, sem hlaðin var á árunum 1785—86. Þannig hafa beitarhúsin horfið. Og þær eru einnig horfnar Skólavarðan og Stöðulvarðan.
Arnarhóll hefir eflaust misst spón úr askinum sínum þegar landinu var skipt. Áður hefir hann haft kúahaga og hrossahaga suður í Vatnsmýri, í sameiginlegu beitilandi, en eftir það ekki aðra haga heldur en meðfram Rauðarárlæknum. Sennilega hafa þó verið sæmilegir sauðfjárhagar í holtinu um þær mundir. Annars missti Arnarhóll ekki öll sín hlunnindi af sambýli við Vík, því að hann átti enn um langt skeið torfristu, stungu og móskurð til eldiviðar í Víkurlandi, og er þess getið í Jarðabókinni 1703.

Arnarhóll um 1700

Arnarhóll

Arnarhóll – kaupstaðalóðin 1787.

Fyrstu glöggvar upplýsingar um Arnarhól er að fá í Jarðabókinni. Þá er þar tvíbýli og búa þar bræður tveir, Tómas og Jón Bergsteinssynir. Var heimilisfólk hjá öðrum 6 manns, en hjá hinum 5. En auk þess var hjá Tómasi tómthúsmaður, Guðni Eyólfsson að nafni, með konu og barn, og þar að auk húsmaður, sem Klemens Jónsson hét. Hjá Jóni var og tómthúsmaður, sem Guðlaugur Höskuldsson hét, og bjó hann með öðrum manni í kofa heima við bæinn. Heimilisfólk hefir því verið 17 manns. En svo voru löngum aðkomumenn þar, því að þaðan gengu 1—3 kóngsskip og fylgdi þeim engin verbúð, svo að bændur voru skyldaðir til að hýsa skipshafnirnar, hvort sem voru ein eða fleiri, og fengu ekkert fyrir nema soðningarkaup. Á þessu má sjá, að þarna hafa þá verið allmikil húsakynni.

Arnarhóll

Arnarhóll 1787.

Vatnsból var talið slæmt á Arnarhóli. Það var brunnur neðst í túninu rétt þar hjá sem Söluturninn stendur nú. Margir Reykvíkingar muna eflaust eftir honum, því að hann var þarna til skamms tíma, en nú hefir verið steypt stétt yfir hann. Við vitum ekki hve mikil eftirsjá er að þessum brunni, en þessi hafa orðið örlög margra gamalla minja hér — þær hafa verið afmáðar þegjandi og athugalaust. Það var ekki eina kvöðin á bændum að hýsa sjómenn kóngs, heldur urðu þeir sjálfir að kosta viðhald bygginga. Auk þess urðu þeir að flytja Bessastaðamenn, hvenær sem þeir kölluðu, annaðhvort sjóveg út í Viðey, eða upp á Kjalarnes, og svo landveg til Skildinganess. Enn urðu þeir að slá einn dag hvor úti í Viðey og gjalda tvo heyhesta til fálkanna, eftir að farið var að flytja þá út í Hólmi.

Arnarhóll

Arnarhóll 1850.

Bessastaðavaldið var sjaldan nærgætið við landseta konungs. Það hafði þó átakanlegast komið í ljós í fardögum 1681. Þá kom maður frá Bessastöðum og krafðist þess af einum ábúanda Arnarhóls, Ásbirni Jóakimssyni (sem líklega hefir búið á Litla-Arnarhóli en var þá að flytja sig búferlum þaðan), að hann ferjaði sig yfir Kollafjörð (eða inn í sund). Ásbjörn þóttist ekki skyldugur til þess, þar sem hann var að flytja burt af jörðinni. En fyrir þessa neitun var hann hýddur á Kópavogsþingi stórhýðingu, er næst gekk lífi hans. Og aldrei fékk hann leiðrétting sinna mála.

Tukthúsið kemur

Arnarhóll

Arnarhóll og tukthúsið um 1820.

Árið 1759 olli straumhvörfum í sögu Arnarhóls. Þá gaf konungur út skipun um að þar skyldi reist tukthús. Er mælt að Skúli Magnússon landfógeti hafi verið hvatamaður þess, og hafði hann ráðlagt stjórninni að leggja eignir Þingeyraklausturs til stofnunarinnar. Stjórnin fellst á þetta á þann hátt, að tekjur Þingeyraklausturs og Arnarhóll skyldi lagt tukthúsinu þangað til það gæti séð um sig sjálft. Þótti henni sem tukthúsið væri vel sett þarna, því að það gæti alltaf fengið ull hjá iðnstofnununum og látið fangana tæta úr henni, og þar að auki lægi jörðin svo vel við sjó, að ætíð væri hægt að fá fisk handa föngunum.

Arnarhóll

Arnarhóll 1874.

Magnús Gíslason amtmaður fann upp á því snjallræði, að nota skyldi íslenzka afbrotamenn til þess að vinna að byggingu tukthússins, og skyldu þeir með því kaupa sig undan Brimarhólmsvist. Þetta þótti stjórninni fyrirtak, því að með þessu móti mundi kostnaður við bygginguna verða minni. Var svo byrjað á því 1762 að láta hina sakfelldu grafa fyrir grunni og draga að grjót.
Tukthúsið mun hafa verið talið fullsmíðað árið 1764. Þótti þetta furðumikið hús, 44 alna langt og 16 alna breitt. Það hafði líka kostað 700—800 ríkisdali. Til tukthússins voru ráðnir tveir embættismenn, ráðsmaður (kallaður ökonomus) og fangavörður. Skyldu þeir hafa hálfar tekjur hvor af Arnarhóli, auk launa sinna.

Arnarhóll

Arnarhóll 1882.

Fyrsti „ökonomus“ varð Guðmundur Vigfússon lögréttumanns Sigurðssonar í Hjörsey. Hafði hann stundað lögfræðinám við háskólann í Kaupmannahöfn í fjögur ár, en ekki lokið prófi. Var talið að hann hefði hlotið þetta embætti vegna þess, að hann var systursonur Þórunnar konu Magnúsar amtmanns Gíslasonar. Hann gegndi þessu starfi í 22 ár, eða fram til 1786.
Um þessar mundir bjó á Arnarhóli Gissur Jónsson lögréttumaður. Hann var kvæntur Silfu dóttur Jóns Oddssonar Hjaltalíns sýslumanns, sem var seinasti ábúandi í Vík (Reykjavík). Gissur var talinn meðal fremstu manna hér um slóðir á sinni tíð. Var hann hreppstjóri um 25 ára skeið og meðhjálpari í 20 ár. Hann var fæddur á Arnarhóli, ólst þar upp og fékk byggingarbréf fyrir jörðinni 1744, líklega lífstíðar ábúð.

Arnarhóll

Arnarhóll – Hafnarstræti og Reykjavíkurhöfn 1931.

Vorið 1768 byggði Guðmundur „ökonomus“ honum út af jörðinni. Gissuri kom þetta mjög á óvart, og þóttist hart leikinn. Leitaði hann þá á náðir stiftamtmanns, ritaði honum bréf á alþingi við Öxará þá um sumarið og bað hann að styrkja sig til þess að hann fengi haldið jörðinni. En það bar engan árangur. Gissur varð að flæmast þaðan. Fluttist hann þá suður með sjó. Silfa kona hans var enn á lífi 1777 og átti þá heima í Kirkjuvogi í Höfnum.

Arnarhóli hrakar

Traðarkot

Traðarkot.

Nú tók Guðmundur „ökonomus“ undir sig túnið á Arnarhóli, sem var stórt og gott og girt með ramefldum grjótgarði. Náði garður sá utan frá sjó um það bil er Klapparstígur kemur nú niður á Skúlagötuna og lá svo skáhalt uppeftir um það bil er nú stendur hús prentarafélagsins við Hverfisgötu, neðan við Traðarholt og að Laugavegi 3 sem nú er, en þaðan beint niður að læk, eins og gangstéttin norðan Bankastrætis liggur nú. En tún þetta skiptist í tvennt af tröðunum miklu, sem náðu frá Traðarkoti niður að lækjarósnum, og voru aldar 120 faðmar á lengd. Eftir að Gissur var hrakin frá Arnarhóli bjuggu þar tómthúsmenn, fyrst Sigurður Magnússon smiður frá Skálabrekku. Hann var jafnan kallaður timburmaður, og við hann var kenndur Timburmannsbærinn, nú Tjarnargata 5 B.

Traðarkot

Traðarkot.

Húsakosti jarðarinnar tók mjög að hnigna upp úr þessu, því að þurrabúðarmenn voru ekki skyldugir að sjá um viðhald húsa, og ekki mun Guðmundur „ökonomus“ hafa hugsað um það. Þegar hann lét af ráðsmennsku tukthússins, voru húsin tekin út og voru „í mestu niðurlægingu“ Baðstofan þar er þá talin 10 alnir á lengd, en ekki nema 3 3/4 alin á breidd. Þetta ár fluttist þangað Ólafur Valdason frá Rauðará og átti þar lengi heima. Hann var faðir Hróbjartar í Traðarkoti, sem var hinn efnilegasti maður í æsku, heljarmenni að burðum og syndur sem selur. En hann lagðist í óreglu og gat sér það orð, að hann væri mesti brennivínsberserkur bæarins. Ólafur Valdason drukknaði í mannskaðaveðrinu mikla 6. apríl 1830. Vegna þess manntjóns, sem þá varð, var efnt til samskota. En samskotafénu var ekki öllu úthlutað, heldur sumt af því sett á vöxtu, og síðan myndaður af því Fiskimannasjóður Kjalnesinga.

Málfríður Sveinsdóttir

Málfríður Sveinsdóttir.

Árið 1828 var bærinn á Arnarhóli orðinn svo hrörlegur, að hann gat naumast talizt mannabústaður. Þá lét Hoppe stiftamtmaður rífa hann og slétta yfir rústirnar. Sá, sem seinastur átti heima í þessu greni, hét Sveinn Ólafsson. En þótt vistarverurnar væri lélegar, ólst þarna upp sú stúlka, er talin var fegurst allra kvenna í bænum á sinni tíð. Hún hét Málfríður og var dóttir Sveins. Hún var framreiðslustúlka á klúbbnum þegar Gaimards-leiðangurinn var hér, og virðist svo sem þeim Frökkunum hafi litizt mætavel á hana, því að málarinn Auguste Mayer gerði af henni mynd í viðhafnarbúningi, en Xavier Marmier, sem þá var aðeins 26 ára, eignaðist barn með henni. Var það drengur og hét Sveinn Xavier. —

Marmier Xavier

Marmier Xavier.

Þegar Sveinn Ólafsson varð að fara frá Arnarhóli, reisti hann sér bæ, er hann kallaði Þingvöll, þar sem nú er Skólastræti. Á Arnarhóli var hjáleiga 1703 og nefndist Litli-Arnarhóll, stundum nefnd Arnarhólskot. Það fór í eyði um 1800. En þá var komið annað tómthúsbýli í túninu og hét Sölvahóll. Það reisti Einar Eiríksson, sem áður var í Þingholti. Sölvahól endurreisti Jón hreppstjóri Snorrason 1834, og var það talið snotrasta tómthúsmannsbýli í bænum um þær mundir. Seinna reyndu stiftamtmenn að koma Sölvahól burt, en þar var ekki hægt um vik, því að Hoppe hafði gefið lífstíðar ábúð. Seinna reisti Benedikt sótari bæ í Arnarhólstúni (1886) og kallaði Höfn. Stóð hann þar sem nú er hús Fiskifélags Íslands.

Tukthúsið verður að kóngsgarði

Tukthús

Tukthúsið – teikning. (Teikningin virtist glötuð, en fannst síðar á Þjóðskajalasafninu.)

Um sögu tukthússins er óþarft að skrifa, því að það hefir verið gert áður. Þess má aðeins geta, að árið 1813 rak Castenskjöld stiftamtmaður fangana burt og heim á sínar sveitir, en 1816 var tukthúsið lagt niður. Árið 1819 kom Moltke stiftamtmaður hingað og settist að í tukthúsinu; var því þá breytt svo sem hæfði bústað svo virðulegs embættismanns. Og þá skipti það auðvitað um nafn. Áður hafði það í daglegu tali verið nefnt „Múrinn“, en nú var farið að kalla það Kóngsgarð. Þarna var svo bústaður stiftamtmanna hvers fram af öðrum fram til 1873 og síðan bústaður landshöfðingja fram til ársins 1904, er innlend stjórn tók við. Þá var húsið gert að skrifstofu stjórnarinnar og hefir síðan verið kallað Stjórnarráð.

Helgi G. Thordersen

Helgi G. Thordersen, biskup.

Þess má ef til vill geta, að í tukthúsinu fæddist einn af nafnkenndustu mönnum þjóðarinnar. Þá var þar ráðsmaður Guðmundur Þórðarson frá Sámsstöðum, alltaf nefndur „Thordersen í Múrnum“ á þeirrar tíðar reykvísku. Árið 1794 fæddist honum sonur, og var það Helgi Thordersen dómkirkjuprestur og síðar biskup. Eftir að tukthúsið lagðist niður höfðu stiftamtmenn og síðar landshöfðingjar Arnarhólstún til eigin nota endurgjaldslaust. Þóttu það mikil hlunnindi. Var þeim sárt um túnið og vildu ekki missa neitt af því undir byggingar. Aftur á móti leyfðu þeir tómthúsmönnum að reisa býli ofan garðs, og munu elztu býlin þar hafa verið Traðarkot og Skuggi. En við hið síðarnefnda býli var svo hverfið þarna kennt og kallað Skuggahverfi. Sjálfsagt má þakka það fastheldni stiftamtmanna í Arnarhólstún, að Arnarhóll er enn óbyggður. En á hinn bóginn varð þessi fastheldni Reykjavíkurbæ til mikils tjóns, eins og nú skal sagt.

Arnarhólstún lagt til Reykjavíkur

Sölvhóll

Sölvhóll mun hafa staði austan við húsið Sölvhólsgötu 4. Hjáleigan Sölvhóll mun hafa byggst úr landi Arnarhóls laust fyrir 1780. Nafnið Sölvahóll er einnig til í gömlum heimildum og kann að vera dregið af því að söl hafi verið breidd til þerris á hólnum. Upphaflega eru ábúendur tveir “grashúsmenn” en 1801 er Einar Eiríksson talinn einn ábúandi.
Ábúendur í Sölvhóli stunduðu útræði og var Sölvhólsvör beint niður undan bænum. Lítil vör var nokkru austar, nefnd Krummaskuð, var nauðlendingarvör. 

Fyrir 170 árum var ákveðið að stækka kaupstaðarlóðina og gæfi konungur land til þess. Hinn 12. febrúar 1789 framkvæmdi svo Vigfús Thorarensen sýslumaður útmælingu á þessum viðauka við kaupstaðarlóðina, ásamt Jóni Guðmundssyni hreppstjóra og Pétri Bárðarsyni vefara og í viðurvist Lewetzows stiftamtmanns. Sést á útmælingunni hvaða land það er sem konungur hefir ákveðið að gefa Reykjavík, en það er m.a. allt Arnarhólstúnið fyrir norðan traðirnar (því að tukthúsið mátti ekki missa þá lóð, sem það stóð á). Þessi hluti Arnarhólstúns mældist 12.000 ferfaðmar. Segir í útmælingargerðinni að þetta land sé Reykjavík mjög hagkvæmt, einkum vegna þess að þá fái hún meira athafnasvæði við höfnina, góðar lendingar, nóg rúm fyrir sjóbúðir og fiskreita. Síðar segir: „Þar sem allt þetta áðurnefnda land, sem bætast á við kaup staðarlóð Reykjavíkur, er eign hans hátignar konungsins og hann hefir allra mildilegast gefið Reykjavík það, án þess að nokkuð komi í staðinn, þá verður hér ekki heldur um neina greiðslu til annara að ræða“.

Stöðlakot

Stöðlakot 1876.

Þessi útmæling var send Rentukammeri þá um veturinn, ásamt uppdrætti eftir R. Lievog stjörnumeistara, er hann hafði gert af kaupstaðnum og hinni fyrirhuguðu viðbót kaupstaðarlóðarinnar. Jafnframt var því skotið til stjórnarinnar hvort ekki væri rétt að allir úthagar væri lagðir undir bæinn, svo að íbúarnir bætti nota þá eftir þörfum. Stjórnin gaf þann úrskurð árið eftir, að úthagar skyldu fylgja bænum til sameiginlegra afnota. Þetta hefir líklega þótt ráðgjöf, því að stjórnin tekur Örfirisey af bænum aftur 1791. En þar er ekkert minnzt á Arnarhól og hann var aldrei tekinn aftur.

Stöðlakot

Arnarhóll – Stöðlakot. Tukthúsið er nr. 3.

Árið 1792 var svo kaupstaðarlóðin stækkuð þannig, að við hana var bætt Skálholtskoti og Stöðlakoti. Er þá tekið fram í útmælingu, að þetta sé viðbót við kaupstaðarlóðina, eins og hún var ákveðin 1787. Þar má sjá, að Reykjavík hafði eignazt Arnarhólstúnið. En Reykjavík fékk það aldrei. Fyrst mun hafa verið þumbast við að afhenda það, vegna þess að tugthúsið hafði nytjar þess. En eftir að tukthúsið var lagt niður, og stiftamtmenn sölsuðu undir sig túnið, mun það ekki hafa legið lausara fyrir. Um þetta segir Jón biskup Helgason (1916): „Afleiðingin hefir því orðið sú, að kaupstaður vor hefir nú í senn 130 ár verið látinn kaupa háu verði af landstjórninni hverja feralin í þessu túni, sem sannanlega var honum í upphafi gefið af konungi, og því kaupstaðarins ótvíræð eign“.

Mannvirki á Arnarhóli

Arnarhóll

Arnarhóll – virki um 1880.

Einn kaflinn í sögu Arnarhóls er um Batteríið. Honum hefi eg áður gert skil í greininni „Víggirðingar Reykjavíkur“ (í bókinni Fortíð Reykjavíkur). En oft hefir verið talað um að byggja stórhýsi á Arnarhóli. Þegar latínuskólinn skyldi flytjast frá Bessastöðum til Reykjavíkur, vildu margir að hús yrði reist handa honum þar. Ýmsir smámunir réðu, að ekki varð úr því Þegar reisa skyldi alþingishúsið, var talsverður áhugi fyrir því, að það skyldi standa á Arnarhóli, og var fyrst ákveðið að setja það þar, en hætt við „eftir allskonar þref, deilur og undirróður“, segir Klemens Jónsson. Var svo byrjað á byggingu þess rétt fyrir ofan Stjórnarráðið, en þegar Bald yfirsmiður kom, harðneitaði hann að reisa það í halla. Varð það því úr, að því var „holað niður í kálgarð“ niðri í miðbænum. Og þegar rætt var um byggingu landspítala, vildu sumir að hann stæði á Arnarhóli, en ekkert varð úr því.

Arnarhóll

Arnarhóll – stytta af Ingólfi Arnarssyni.

Það mun hafa verið í janúar 1863, að Jón Árnason þjóðsagnaritari hreyfði því fyrstur manna, að Íslendingar ætti að reisa Ingólfi Arnarsyni minnismerki, og skyldi það standa á Arnarhóli, þar sem öndvegissúlur hans komu á land. Þetta líkneski kom 1931 og stendur nú þar sem gamli bærinn var. Traðirnar og túngarðurinn Arnarhólstraðir og garðurinn mikli umhverfis túnið, eru samstæður, og verður ekki um annað skrifað án þess minnzt sé á hitt.

Arnarhóll

Arnarhóll – upplýsingaskilti um Arnarhólstraðir.

Í Grágás er svo fyrirmælt, að hver maður skuli gera löggarð um töðuvöll sinn. Og í Jónsbók segir: „En það er löggarður, er 5 feta þykkur er við jörð niðri, en þriggja ofan; hann skal taka í öxl þeim manni af þrepi, er hann er hálfrar 4. alnar hár“. Björn M. Ólsen færði rök að því í grein í Árbók Fornleifafélagsins 1910, að forn íslenzk alin hafi samsvarað 49.143 sentimetrum. Sá maður, sem var hálf fjórða alin á hæð, hefir því verið 172 sm hár, og mun þar vera miðað við meðalmann. En sé gert ráð fyrir að hæðin frá öxl á hvirfil sé 28 sm, þá hefir löggarður átt að vera 144 sm á hæð. Og slíkur garður hefir eflaust einhvern tíma verið um Arnarhólstún.
Nú segir enn í Jónsbók, að ef þjóðgata liggi um bæ manns, eða að garði, þá megi maður færa hana frá bæ sínum og gera aðra jafngóða, ef hún sé ekki lengri en 240 faðmar. En ef þjóðvegur liggur að garði, og verður ekki færður, þá á þjóðhlið að vera á garðinum, 4 1/2 alin á breidd, en þjóðgata er 5 alnir. Fyrir hliðinu skal vera hjaragrind og rimar í, svo að fé smjúgi ekki á milli, okar tveir á endum og krossband á. Það er löggrind og skal setja hana svo að hún falli sjálf aftur, ef ríðandi maður opnar hana. Ekki verður nú vitað hvort slík grind hefir verið í þjóðhliðinu á Arnarhólsgarði, né hvenær traðirnar hafa verið gerðar. En þær voru til þess að fé og gripir kæmist ekki í túnið, enda þótt inn fyrir hliðið færi. Traðirnar skiptu sem sé túni Arnarhóls í tvo afgirta hluta, eða svo hefir verið á seinni öldum. En auðvitað gat grind líka verið þar í þjóðhliði.

Arnarhóll

Arnarhóll – upplýsingar um elstu götu Reykjavíkur.

Engar upplýsingar eru til um það hvenær vörzlugarður var settur þarna fyrst, en það getur verið nógu gaman að reyna að geta í eyðurnar stundum. Og þá finnst mér líklegt, að mikið æðarvarp hafi verið á Arnarhóli, er Ingólfur kom hingað, eða eggver, eins og það var kallað. Reykjavíkurbændum hafi snemma þótt nauðsyn til bera að friða þetta eggver, einkum þar sem um það lá eina leiðin til bæarins. Eggver verður líka að friða fyrir búfé, ef varp á að haldast þar. Er því ekki ósennilegt, að þegar á fyrstu árum byggðarinnar í Reykjavík hafi verið hlaðinn vörzlugarður umhverfis hólinn og hafi hann náð utan frá sjó upp að þjóðveginum, og síðan meðfram honum niður að lækjarósnum. Þegar fram í sótti hefir svo varpið gengið úr sér, því að forfeðrum vorum hætti við að stunda rányrkju. Og eftir svo sem 100—200 ár, er svo komið, að varpinu er lokið, og þá hefir einhverjum litist það heillaráð að reisa bæ þarna innan girðingar og á túni, sem fuglinn hafði ræktað. Síðan bætir bóndinn við sig annarri skák og girðir hana löggarði frá þjóðveginum suðvestur að læknum og hleður svo garð samhliða þeim garði er lá meðfram þjóðveginum og þó svo langt frá, að þjóðvegarbreidd sé á milli. Hann mátti ekki loka þjóðgötunni, og ekki gat hann heldur fært hana. Þess vegna varð hann að hafa tvöfalda girðingu meðfram henni. Við þetta myndast svo traðirnar í gegn um Arnarhólstún.

Arnarhóll

Arnarhóll – Arnarhólstraðir á miðri mynd h.m.

Það þarf ekki að fara í neinar grafgötur um, að vegurinn um þessar traðir er elzti þjóðvegur á Íslandi. Þessa leið hefir Ingólfur Arnarson komið til hins fyrirheitna staðar. Lækurinn úr Reykjavíkurtjörn, sem kallaður var Arnarhólslækur, hefir þá máske verið vatnsmeiri heldur en síðar varð, og hann var ófær alls staðar nema á vaðinu við ósinn. Þjóðleiðin til Reykjavíkur og vestur á Seltjarnarnes lá því þarna um nær 1000 ára skeið, eða frá landnámstíð fram til ársins 1866, þegar steinbrú var gerð á lækinn og Bankastræti rutt, svo að þar varð fær vegur.“ – Á.Ó.

Í „Húsakönnun og fornleifaskráningu vegna fyrirhugaðs tónlistar- og ráðstefnuhúss við Reykjavíkurhöfn„, Minjasafn Reykjavíkur 2005, er fjallað um Arnarhól:

Arnarhóll

Arnarhóll – Arnarhólstraðir v.m.

„Arnarhóllinn hefur í gegnum aldirnar verið einn af miðpunktum Reykjavíkur. Sunnan í hólnum liggur fyrsti þjóðvegurinn til Reykjavíkur, Arnarhólstraðirnar. Af þykkum mannvistarlögum, sem er að finna á stórum hluta hólsins, má draga þá ályktun að þar hafi verið búið fljótlega eftir að Ísland byggðist. Elstu jarðlög sem gefa til kynna byggð á hólnum eru eldri en gjóska sem féll 1226.
Í rituðum heimildum er Arnarhóls og byggðarinnar þar sjaldan getið. Elsta frásögn af hólnum er frá 16. öld og virðist Arnarhólsjörðin þá vera sjálfstæð eign. Í heimildum kemur fram að jörðin er í eigu Hrafns Guðmundssonar bónda í Engey. Árið 1534 gaf Hrafn síðan Viðeyjarklaustri jörðina.

Reykjavík

Reykjavík 1936.

Þegar Brynjólfur biskup Sveinsson skoðaði kirkjuna í Reykjavík og áhöld hennar árið 1642 kemur fram að Arnarhóll tilheyrði Reykjavíkursókn og að jörðin var þá eign konungs. Þetta kemur einnig fram í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá árinu 1703.
Árið 1786 var stofnaður kaupstaður í Reykjavík og uppmæling gerð á Reykjavíkurlóðinni 1787. Í skjalinu vegna uppmælingarinnar kemur fram að konungur hefur ætlast til að Arnarhóllinn skuli leggjast til kaupstaðarlóðarinnar. Þetta fórst þó fyrir og Arnarhóll lenti fyrir utan Reykjavíkurlóðina. Upp kom deilumál og þurfti Reykjavíkurborg síðar meir að kaupa jörðina. Bæjarlandið var stækkað í febrúar 1835 er ýmsum bújörðum í nágrenninu, þar á meðal Arnarhóli, var bætt við það. Upp frá því hefur Arnarhóll tilheyrt Reykjavík.

Arnarhóll

Klöpp.

Ábúendur Arnarhóls hafa verið margir í gegnum tíðina. Arnarhóll þótti hið myndarlegasta býli þar til tukthúsið var reist syðst á Arnarhólstúninu á árunum 1759-64. Þá fór að halla undan fæti og um það bil hálfri öld síðar var býlið orðið mjög hrörlegt. Ástæðurnar má rekja til þess að tekjur Arnarhóls voru lagðar til reksturs tukthússins og smám saman fengu einnig hinir ýmsu embættismenn tukthússins jörðina til eigin afnota.
Arnarhóll
Fyrstu ábúendur Arnarhóls, sem getið er í rituðum heimildum, voru Tómas Bergsteinsson, f. 1652 og Guðrún Símonardóttir. Þau bjuggu þar árið 1703 ásamt bróður Tómasar, Jóni Bergsteinssyni. Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns bjó Tómas á hálfri jörðinni og Jón hálfri. Heimilsmenn hjá Tómasi voru sex og fimm hjá Jóni. Innibúandi hjá Tómasi voru einhleypur húsmaður og tómthúsmaður með konu og barni. Hjá Jóni bjuggu tveir tómthúsmenn og húsi þeirra hélt Jón við. Samkvæmt þessu voru því íveruhúsin að minnsta kosti tvö á býlinu.
Kvaðir Arnarhólsbænda voru að flytja Bessastaðamenn til Viðeyjar og til baka hvenær sem þeim þóknaðist, jafnt á nóttu sem degi. Þessu til viðbótar komu tvær dagsláttur í Viðey á ári, einn á hvorn bónda, og skyldi bóndinn fæða sig sjálfur í þessum ferðum. Við til húsagerðar áttu bændur að útvega sér sjálfir en torf og eldivið sóttu þeir í land Reykjavíkur.

Arnarhóll

Arnarhóll – 17. júní 1948.

Sonur Tómasar og Guðrúnar, Jón Tómasson (f. 1687, d. 1754), bjó á Arnarhóli um nokkurt skeið eftir að foreldrar hans brugðu búi. Gissur lögréttumaður Jónsson (sonur Jóns Tómassonar), bjó síðan á Arnarhóli eftir föður sinn. Hann fluttist nauðugur af jörðinni árið 1768 að beiðni Guðmundar Vigfússonar, ráðsmanns í tukthúsinu, en eins og áður sagði fengu embættismenn fangelsisins býlið til ábúðar sem launauppbót. Fyrir utan embættismenn bjuggu ýmsar fjölskyldur á Arnarhóli upp frá þessu. Ábúendur sátu þar yfirleitt skamma hríð eftir þetta og voru fjölskyldurnar sjaldnast tengdar innbyrðis eins og áður. Guðmundur Vigfússon lét af ráðsmennsku tukthússins árið 1786 og við starfinu tók Gunnar Sigurðsson til bráðabirgða í eitt ár. Henrik Scheel tók síðan við ráðsmannstarfinu árið 1787.

Arnarhóll

Sölvhóll – teikning Jóns Helgasonar, biskups. Klöpp fjær.

Við ráðsmannsskiptin voru gerðar úttektir á Arnarhólsbýlinu, sú fyrri í maí 1786 og sú seinni í júní 1787. Úttektunum ber nokkurn veginn saman hvað varðar innihald en í þeim kemur fram að býlið var í mikilli niðurníðslu og ítrekað nefnt að viðgerð sé nauðsynleg. Baðstofan mældist við úttektina aðeins 10 álna löng og 3 3/4 álna breið. Göng frá baðstofu voru 3 álna löng og 2 álna breið. Skálinn mældist 12 álna langur og 4 álna breiður. Eldhúsið var 8 álna langt og 4 álna breitt, nokkuð viðgert. Íbúðarhúsið virðist því samkvæmt þessu hafa verið gangabær, sem var ráðandi byggingarstíll á Íslandi fram á 18. öld. Síðasti ábúandinn á Arnarhóli var Sveinn Ólafsson. Þar bjó hann til ársins 1828. Hann var faðir Málfríðar, sem þótti fríðust kvenna í Reykjavík um 1830 og er talin hafa verið fyrsta fyrirsæta á Íslandi.

Arnarhóll

Sölvhóll 1843.

Við upphaf 19. aldar þótti Reykjavík ekki bera neinn sérstakan höfuðborgarsvip og lítið bar einnig á fegurð staðarins. Landslagið þótti þó bjóða upp á ýmsa möguleika en húsakynni íbúa voru aftur á móti í mikilli vanhirðu. Fegrunarátak var þá sett í gang og eitt af byrjunarverkefnum var að rífa Arnarhólsbýlið. Það var Peter Fjelsted Hoppe stiftamtmaður sem stóð fyrir því árið 1828 og þótti það mikið og gott framlag til fegrunar Reykjavíkur. Arnarhólsbýlinu er lýst þar sem kofaþyrpingu eða rústum, sem voru til mikillar óprýði, þannig að ekki hafa bæjarhúsin verið ásjáleg þau seinustu ár sem þau voru í notkun. Oft var rætt um það í skipulagsnefnd Reykjavíkur hvort nota ætti Arnarhólinn sem byggingarlóð eða hvernig mætti nota svæðið.

Ingólfur Arnarsson

Ingólfur Arnarsson – stytta Einars Jónssonar.

Árið 1916 kom Guðmundur Hannesson með þá hugmynd að reisulegar byggingar nytu sín vel efst á hólnum. Þessi hugmynd fékk lítinn hljómgrunn hjá bæjaryfirvöldum í Reykjavík á þeim tíma. Um svipað leyti kom danski arkitektinn Alfred Raavad með þá hugmynd að reisa útsýnisskála á hólnum, áþekkum þekktum skála í Kaupmannahöfn. Þessi hugmynd fékk einnig litlar sem engar undirtektir. Ákveðið var síðan að stytta Ingólfs Arnarsonar landnámsmanns skyldi standa efst á hólnum. Haustið 1923 var hafist handa við að reisa stall undir styttuna og í febrúar 1924 var styttan afhjúpuð að viðstöddu miklu fjölmenni. Styttuna gerði Einar Jónsson myndhöggvari. Hugmyndin var þó ekki ný því á fundi Kvöldfélagsins árið 1863 lagði Jón Árnason fram tillögu þess efnis að Ingólfi Arnarsyni yrði reistur minnisvarði á Arnarhóli. Sigurður Guðmundsson, málari vakti einnig máls á þessu í Þjóðólfi árið 1864 og vildi hann að þetta yrði framkvæmt árið 1874 í minningu þúsund ára byggðar á Íslandi.“

Heimildir:
-Lesbók Morgunblaðsins, 34. tbl. 21.09.1958, Úr sögu Arnarhóls, bls. 457-462.
-Húsakönnun og fornleifaskráning vegna fyrirhugaðs tónlistar- og ráðstefnuhúss við Reykjavíkurhöfn, Minjasafn Reykjavíkur 2005.

Arnarhóll

Arnarhóll um 1930.

Öskjuhlíð

Í Morgunblaðinu árið 1997 er fjallað um „Öskjuhlíð – margþætta útivistarperlu„:

Öskjuhlíð

Öskjuhlíð og nágrenni – örnefni.

Öskjuhlíðin er ein meginprýði Reykjavíkur, en samt mun staðreynd að tvö orð munu öðrum fremur koma upp í huga margra er nafnið ber á góma: Perlan og ólifnaður. Það er mikil einföldun, því Öskjuhlíðin er ein glæsilegasta útivistarperla höfuðborgarbúa, auk þess að vera lifandi og nærtæk kennslustofa í jarðfræði, fuglafræði og grasafræði íyrir fólk á öllum aldri. Guðmundur Guðjónsson fletti upp á ýmsum staðreyndum um Öskjuhlíðina.

Öskjuhlíð

Öskjuhlíð.

„Ímynd Öskjuhlíðarinnar hefur farið batnandi hin síðustu ár og má segja að ekki hafi veitt af, en margt hefur verið gert til að laða fremur fólk að í stað þess að fæla frá sem orðsporið gerði um skeið.
Ef litið er fram hjá Perlunni, er það skógurinn sem við mönnum blasir í Öskjuhlíð og gefur henni þann sterka svip sem raun ber vitni. Það er og skógurinn sem laðar að borgarbúa til útivistar, auk þess að þar er afar skjólsælt í sólaráttinni úr norðri.

Öskjuhlíð

Öskjuhlíð.

Skógurinn er síðari tími fyrirbæri, en Öskjuhlíðin sjálf á sér allmiklu lengri sögu, en í rúnum hennar er rist fjölbreytt jarðsaga seinni hluta ísaldar á Íslandi. Þannig var Öskjuhlíðin eyja fyrir 10.000 árum er sjávarstaða var hærri en hún er í dag. Sæbarðir og slípaðir hnullungar og jökulurð sem liggur eins og baugur á þykkum fingri í 43 metra hæð yfir sjó er til vitnis um þær umbyltingar og breytingar sem orðið hafa á landinu í aldanna rás.
Bergrunnur Öskjuhlíðar er hið svokallaða Reykjavíkurgrágrýti sem er hraun sem rann úr eldstöðvum á Mosfellsheiði á síðari hluta ísaldar. Síðar meir sótti kuldinn í sig veðrið og jöklar huldu landið á nýjan leik og er þeir hopuðu með hlýnandi veðri skapaðist Öskjuhlíðin í þeirri mynd sem þekkt er í dag.

Jökulrispur

Jökulrispur.

Jökulskrapaðar grágrýtisklappir víða á svæðinu segja þessa sögu og annað kennileiti er til marks um nýjar breytingar með hlýnandi veðri. Þá hopaði jökullinn og elti. Mynduðust þá Fossvogsbakkarnir við norðanverðan Fossvog, en í þeim eru steingerðar leifar skelja, kuðunga og fleiri sjávardýra er þá voru uppi. Yfirleitt lifa sömu tegundir enn í dag þannig að ástandið til lands og sjávar á þessum tíma hefur verið líkt og nú. Álitamál er hins vegar hvort að þessi lög hafi orðið til á síðasta hlýskeiði ísaldar eða í lok síðasta jökulskeiðs sem hófst fyrir 70.000 til 120.000 árum og lauk fyrir um 10.000 árum. Land reis þegar jökullinn gaf eftir og þá færðust fjörumörkin heldur betur upp á við eins og frá var greint hér áðan.
Það hefði verið fróðlegt yfir Reykjavíkursvæðið að líta á þessum tímum. Þá voru Öskjuhlíð og Háaleyti eyjar og topparnir á Laugarási og Rauðarárholti sker! Á næstu þúsund árum lækkaði sjór hins vegar á ný og núverandi fjörumörk náðust. Við erum ekki að tala um langan tíma í jarðsögulegum skilningi þó mannsaldrarnir séu óteljandi og því er óhætt að segja að mikið hafi gengið á.

Tré, plöntur og fuglar

Öskjuhlíð

Öskjuhlíð 1946.

Á fimmta áratugnum fór að vakna til vitundar með þjóðinni nauðsyn á opnum svæðum, útivistarsvæðum, þar sem menn gætu unað, enda færðist mjög í aukana nokkuð sem áður var framandi með mönnum hér norður í höfum, þ.e.a.s. frístundir.
Heiðmerkursvæðið var friðað árið 1948 og menn létu ekki þar við sitja, heldur litu í kring um sig eftir fleiri valkostum. Ræktunarsaga Öskjuhlíðar hófst um þetta leyti og árið 1950 fór Einar G.E. Sæmundsson, framkvæmdastjóri Skógræktarfélags Reykjavíkur, með tilbúinn áburð og mokaði honum á melkoll einn ofarlega í Öskjuhlíðinni. Árangurinn lofaði góðu og í kjölfarið var farið að sá grasfræi og gera hinar og þessar athuganir á svæðinu. 1951 kom fyrsta ákvörðunin um ræktun trjáa og þá í norður- og vesturhlíðum Öskjuhlíðar. Fleira var og í farvatninu, m.a. göngustígagerð og verndun svæðisins. Frá upphafi hefur Hitaveita Reykjavíkur staðið straum af kostnaði við ræktunina, en Skógræktarfélag Reykjavíkur haft umsjón með henni.

Öskjuhlíð

Öskjuhlíð.

Hundruð þúsunda trjáa hafa verið gróðursett í Öskjuhlíð sem er að stórum hluta skógi vafin. Skilyrði virðast góð, enda reyndust hæstu plöntur við mælingu árið 1991 vera yfir 9 metrar. Var það sitkagreini, en bergfurur voru þá um 5 metrar og aspir um 7 metra háar. Auk þess er birki algengt og í góðri grósku. Alltaf eru að finnast nýjar plöntur í Öskjuhlíð, svona ein og ein, en árið 1993 höfðu fundist 135 tegundir háplantna sem er um þriðjungur íslensku flórunnar.

Brandugla

Brandugla.

Mikið fuglalíf þrífst einnig í hlíðinni, bæði í skóginum og á annars konar búsvæðum sem þar er einnig að finna. Hátt í 100 tegundir fugla hafa sést í Öskjuhlíð og um tugur verið árvissir varpfuglar. Sumir varpstofnarnir eru mjög stórir, s.s. stofnar skógarþrastar og auðnutitlings. Þannig voru um 120 þrastarpör er skarinn var talinn af kunnáttumönnum sumarið 1992. Þá voru auðnutitlingspör um 60 talsins. Sama sumar voru talin vera 5 stokkandarpör verpandi, tvö tjaldspör, þrjú sandlóupör, þrjú heiðlóupör, sjö til tíu stelkspör, tíu til fimmtán hrossagaukspör, fimmtán til tuttugu þúfutitlingspör og tvö til fimm starapör, auk þrasta og auðnutitlinga sem áður er getið um. Þá hefur hrafn oft verpt eða reynt varp. Hann er þó ekki árviss varpfugl.
Auk varpfugla má sjá margt skrítið og skemmtilegt. Þannig vita trúlega fáir að allt að 3-4 branduglur veiða mýs í Öskjuhlíð á vetrum, einkum í skóginum vestan í hlíðinni og algengt er að sjá kanínur á flækingi. Uppruni þeirra mun sá að gæludýraeigendur missa áhugann eða sjá aumur á dýrunum í prísundinni og gefa þeim frelsi með það að leiðarljósi að betra sé að lifa skemur í frelsi en lengi í prísund.

Minjar

Öskjuhlíð

Öskjuhlíð.

Auk skóglendis með tilheyrandi fuglalífi og tækifæri til náttúruskoðunar á mjög víðu sviði er að finna á þessum slóðum margskonar minjar, ekki síst frá dögum síðari heimsstyrjaldarinnar. Má þar nefna skotgrafir, víghreiður og fleira sem átti að skjóta þýska hernum skelk í bringu ef hann vogaði sér að renna hýru augu hingað norður. Á þennan hátt mætti lengi halda áfram, því það er í raun ótæmandi að nefna hvað hægt er að skoða í Öskjuhlíð. Það er því ekki að undra þótt þeim fjölgi mjög frá ári til árs sem eyða æ fleiri auðnustundum í og við Öskjuhlíð.“

Í Morgunblaðinu árið 2013 er fjallað um „Stríðsminjar á hverju strái“:

Öskjuhlíðin er ævintýraland;  menningarsaga frá merkum tímum, skotbyrgi og niðurgrafin stjórnstöð. Hlíðin er vinsælt útivistarsvæði.

„Í Reykjavík eru sérstæðar söguslóðir inni í miðri borg. Stundum þarf nefnilega ekki að leggja land undir fót eða heimsækja staði þar sem hin opinbera saga hefur gerst eða er uppfærð á safni svo hverfa megi inn í nánast aðra og framandi veröld. Og það er gott innlegg í græna framtíð að labba um fallega staði í næsta nágrenni við sig og hverfa aftur til fortíðar og forvitnilegra sagna.

Til að verjast Þjóðverjum

Öskjuhlíð

Öskjuhlíð – skotbyrgi.

Þeir sem fara um Bústaðaveginn veita líklega ekki mikla athygli tveimur steyptum skotbyrgjum skammt fyrir vestan Veðurstofuna. En þarna blasa þau við og eru um 100 metra frá vegarbrún. Eru að hálfu niðurgrafin en undir steyptu skyggni er allstór rauf, þar sem byssumenn búnir til bardaga höfðu gott útsýni út yfir Fossvog og Skerjafjörð.
Bretar hernámu Ísland 10. maí 1940. Herliðið með þúsundum dáta tók brátt til óspilltra mála við framkvæmdir, meðal annars við flugvallargerð í Vatnsmýri. Völlurinn var tekinn í notkun sumarið 1941 og hafði mikla þýðingu fyrir breska herliðið. Hlutverk þess var fyrst og síðast að verjast Þjóðverjum og í því efni var flugvöllur nauðsyn. Þó sást á stríðsárunum aðeins tvisvar til þýskra flugvéla frá Reykjavík. Eigi að síður þótti allur varinn góður. Því voru reist skotbyrgi víða um Öskjuhlíð og raunar víðar um bæinn.

Flóð brennandi eldsneytis

Öskjuhlíð

Öskjuhlíð – veggur til varnar olíuleka.

Á tveimur stöðum í Öskjuhlíð eru sérstaklega eftirtektarverðar stríðsminjar. Skammt fyrir ofan Keiluhöllina er stór steinsteypt virkisborg, að mestu niðurgrafin. Borgin er átta metrar á hvern kant og inn í byrgið er gengt um yfirbyggðar töppur sem eru hvorar á sínum gafli. Og þar inni ætlaði yfirstjórn herliðs Breta að hafast við ef kæmi til stórfelldrar árásar á flugvöllinn. Svo fór ekki, en rammgert byrgið stendur þó enn. Betra er þó að fara með gát smokri fólk sér þar niður og þá er nauðsynlegt að hafa vasaljós.

Öskjuhlíð

Öskjuhlíð – neyðarstjórnstöð.

Stærsta mannvirkið frá stríðstímum, sem enn stendur í Öskjuhlíðinni, er grjótveggur sem er vestarlega í hlíðinni, út undir Nauthólsvík. Hann var reistur árið 1944, er nokkuð á annað hundrað metrar á lengd og tveir til þrír metrar á hæð. Er úr hlöðnu grjóti og steypt er milli steina. Virkið þurfti líka að vera traust, að baki því voru þrír stórir eldsneytisgeymar og áttu veggir þessir að koma í veg fyrir flóð brennandi eldsneytis niður hlíðina ef loftárás yrði gerð á takana. Þeir voru teknir niður fyrir margt löngu, en veggurinn stendur enn falinn inni í þykku skógarrjóðri. Væri vel þess virði að við hann yrði komið upp merkingum eða söguskilti sem og við aðrar stríðsminjar í Öskjuhlíð.“

Heimildir:
-Morgunblaðið 01.06.1997, Öskjuhlíð – margþætt útivistarperla, bls. 6B-7B.
-Morgunblaðið 25.04.2013, Stríðsminjar á hverju strái, bls. 9.

Öskjuhlíð

Öskjuhlíð – upplýsingaskilti.

Keldnasel
Í Jarðabókinni 1703 er Keldur sagðar hafa selstöðu við Sólheimatjarnir. Sólheimatjörn, sem nú heitir svo, er ofan við Geitháls. Af umhverfinu að dæma er ekki ólíklegt að tjarnirnar hafi stundum verið fleiri en ein, einkum eftir miklar rigningar eða snjóalög.
TóftJarðabókin segir jafnframt frá því að Gufunes, kirkjustaður (annexia með Mosfelli), „item [sé] kirkjunni eignuð mánaðarbeit fyrir kvikfjenað allan heimabóndans, þar sem heita Sólheimatjarnir og nú er kallað Keldnasel, fyrir þá orsök að bóndinn á Gufunesi skal hafa fyrir mörgum árum ljeð ábúandanum á Keldum þetta ítak til selstöðu“. Annars hefur „selstaða [frá Gufunesi] til forna verið brúkuð í Stardal, þar sem nú stendur býli það, er Stardalur kallast, eftir sögu þeirra manna, er að undirrjettingu foreldra sinna vita til yfir hundrað ár:“
Í fornleifaskráningu Fornleifastofnunar Íslands árið 2003 um þetta svæði vegna virkjunar á Hellisheiði (línulagningar) segir m.a. um hugsanlegar minjar við Sólheimakot:
“Skammt suður af Fífikrók er Sólheimakot, hjáleiga frá Miðdal, sést þar vel fyrir veggjum,” segir í örnefnaskrá. Sólheimakot er rúma 700 m NV af Elliðakoti og beint sunnan undir Sogslínu 2. Þar stendur nú rautt timburhús sem Hundaræktarfélag Íslands er með á leigu. Það er á einni hæð. Húsið stendur á sléttu malarplani á hæð. Framaf því er brekka mót suðri og þar fyrir neðan mýri. Upp eða norður af húsinu er melur.
Brekkan framaf húsinu er gróðurrýr og þar er skammt niður á mel og víða rof. Þar hefur verið plantað trjám. Engar minjar eru sjáanlega eftir kotið og heldur ekkert Fjárhústófttúnstæði. Það virðist mjög hæpið að nokkrar mannvistaleifar sé ofan/norðan við húsið þar sem nýja æðin á að liggja.“
Framangreint rautt timburhús stendur utan í hæð u.þ.b. 1 km suðaustan Sólheimatjarnar. Norðaustan við tjörnina, rétt ofan við hana, undir gróinni brekku, stóð hús, sem nú er horfið, en var nefnt Sólheimar.
Í lýsingunni er gata nefnd til sögunnar. Þá segir að: „270 metra A af götunni og 85 metra N við Búrfellslínu 2 er mjög óljós tóft. Í lyngivöxnum hvammi móti SV. Alls er tóftin 9×4 m að stærð og snýr NA-SV. Suðvesturhlutinn er mjög ógreinilegur, vart nema þúst. Í NA enda vottar hins vegar fyrir hólfi, um 4×2 m NA-SV. Tóftin er algróin og hvergi sjást veggjaskil nema nyrst og eru grjóthleðslur hvergi sjáanlegar. Veggjahæð mest 0,2 m.“
Við skoðun á svæðinu, einkum vegna framkominna upplýsinga um forna selstöðu við „Sólheimatjarnir“, komu m.a. í ljós gróin tóft vestur undir lágu melholti, í skjóli fyrir austanáttinni, skammt austan tjarnarinnar. Tóftin er ferhyrnd, ca. 2×3 m að innanmáli. Dyr vísa til vesturs, að tjörninni. Gróið er milli hennar og tóftarinnar. Augnlækur rennur úr tjörninni skammt sunnan við tóftina.
Norðan við tóftina, efst undir gróinni hlíð, er ílöng tóft, gæti hafa verið stekkur. Vestan við tjörnina, skammt frá Lynghól, er allstór og -löng tóft á lágum klapparhól. Þarna hefur að öllum líkindum verið beitarhús. Heytóft er vestan við rústina, fast við hana. Vel hefur blásið um húsið þarna á hólnum. Norðaustan við hólinn mótar fyrir uppþornuðu, nokkuð stóru, vatnsstæði.

Tóftir Keldnasels

Lítið er hægt að fullyrða um minjar eftir selstöðu við Sólheimatjörnina því líklegt má telja að svæðið hafi breyst talsvert eftir að föst búseta var tekin þar upp, bæði varðandi ræktun, sléttun o.fl., auk þess sem mýrin norðan og sunnan við tjörnina hefur verið ræst fram. Enn má þó sjá móta fyrir gamalli götu norðan við tjörnina er liggur síðan áfram til suðausturs (getið hér að framan), en ofan hennar er nýrri vegur, sem væntanlega hefur legið heim að Sólheimum.
Rústin fjær, norðaustan við tjörnina, er nokkuð stór og áberandi í landslaginu. Hún er u.þ.b. 1 km norðaustan við Sólheimakot. Enn önnur rúst er á grónum hól norðvestan hennar. En þarna er alllangt í Sólheimatjörnina.
Ábending hafði komið um að Keldnasel væri í gróinni kvos suðaustan við Langavatn, heldur nær því vatni en Sólheimatjörn. Þar er gróin tvískipt tóft, orðin nær jarðlæg. Tvö hús eru í tóftinni og snúa dyr til vesturs, mót Langavatni. Ekki var stekk að sjá nálægt tóftinni, en norðaustan hennar er klapparholt. Miklir grasgróningar eru allt í kring. Slóði liggur svo til alveg við tóftina, en hann er greinilega eftir þá sem lögðu loftlínuna, sem liggur þarna rétt hjá. Tilraun til skógræktar hefur verið gerð austan við selskvosina.
Í örnefnalýsingu fyrir Miðdal segir m.a.: “Suður af austurenda Langavatns er Keldnaselshæð. Vestanundir háhæðinni er Keldnasel, sést vel móta fyrir selstóftum. Milli Höfðans og Keldnaselshæðar eru valllendislágar er Keldnaselslágar heita.“
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 3 mín.Heimild m.a.:
-Jarðabókin 1703.
-Fornleifakönnun á Hellisheiði vegna virkjunar Birna Lárusdóttir og Sædís Gunnarsdóttir – 2003.
-Örnefnaskrá fyrir Miðdal.

Keldnasel

Keldnasel.

Klofasteinn

Eftirfarandi umfjöllun er dæmi um hversu litla virðingu nútímafólkið ber fyrir fortíðinni. Á einum mannsaldri hafa sögulegar minjar verið nánast afmáðar, ýmist vegna vanþekkingar og/eða hugsunarleysis:

Í „Fornleifaskrá Kópavogs – Endurskoðuð“, skráð af Bjarna F. Einarssyni 2019 segir m.a. um landamerkjasteininn Klofastein:

Klofasteinn vestri

Klofasteinn

Klofasteinn.

„Vestan í malarstíg, um 14 m N af Fossvogslæk. Innan skógræktargirðingar Skógræktarfélags Reykjavíkur.
Steinn, um 1×1,6 m stór og 0,9 m hár. Mosavaxinn. Steinninn liggur í vegkanti og hefur efni í veginum runnið að steininum austanverðum.
Um 10 m N af steininum er austasti hluti Faxakeldu (Faxafens), sem teygir sig svo nokkra tugi metra til vesturs. Hún er um 50 m löng og 5 m breið það sem hún er breiðust í vestri. Skurðir hafa verið grafnir við kelduna og einkenna þeir hana nú. Mætast tveir skurðir þar sem hún er breiðust. Einnig kallaður Norðlingasteinn, Klofningssteinar og Klofningur.“
Klofasteinn er í skóglendi skammt norðan Fossvogslækjar.

Í Örnefnaskrá – Örnefni í heimalandi Kópavogskaupstaðar og næsta nágrennis þess; safnað hefur Adolf J.E. Petersen – Handrit. Örnefnastofnun segir um Klofastein:
„Er í beinni merkjalínu milli Kópavogs – og Digranesjarða, þó innan skógræktargirðingarinnar“.

Faxafen

Faxafen (Faxakelda).

Í „Örnefni í bæjarlandi Kópavogs. Jarðirnar Digranes, Fífuhvammur, Kópavogur og Vatnsendi, eftir Guðlaug R. Guðmundsson segir: „Kaupmannsklettur (Kaupmannaklettur): „Er nefndur í landamerkjalýsingu Eggerts Guðmundssonar frá 1826: „Þessum læk (Fossvogslæk) er fylgt og keldu þeirri sem gengur fram allt á móts við Kaupmannsklett á Bústaðamelnum.“ Keldan er að líkindum Faxakelda (Faxafen). Svo virðist sem Kaupmannsklettur sé annað nafn á svokölluðum Klofasteinum eystri sem Benedikt Grönddal sýnir á korti sínu um landamerki Bústaða, en kort hans er gert samkvæmt mælingum og teikningu Sveins Sveinssonar búfræðings, dagsettri 17. júlí 1891.“
Faxafen (Faxakelda) hefur nú að mestu verið þurrkuð upp með fráveituskurði og fyllt upp með afklippungum frá Skógræktarstöðinni.

Kaupmannsklettur (Kaupmannaklettur)

Klofningssteinn

Klofningssteinn eystri.

„Er nefndur í landamerkjalýsingu Eggerts Guðmundssonar frá 1826: „Þessum læk (Fossvogslæk) er fylgt og keldu þeirri sem gengur fram allt á móts við Kaupmannsklett á Bústaðamelnum.“ Keldan er að líkindum Faxakelda (Faxafen). Svo virðist sem Kaupmannsklettur sé annað nafn á svokölluðum Klofasteinum eystri sem Benedikt Grönddal sýnir á korti sínu um landamerki Bústaða, en kort hans er gert samkvæmt mælingum og teikningu Sveins Sveinssonar búfræðings, dagsettri 17. júlí 1891. Á kortinu eru klofasteinar eystri sýndir norðan við Fossvogslæk, rétt sunnan við núverandi Haðaland.“
Klofninssteinninn eystri er enn sunnan fráveituskurðar neðan Hörgslands. Skammt norðvestar eru svonefndir „Klofningar“.

Klofasteinar eystri

Benedikt Gröndal

Bendikt Grönddal (1826-1907).

Eru merktir á kort Benedikts Gröndals frá 1891 (sjá Klofastein vestri) um landamerki Bústaða, við Fossvogslæk, rétt sunnan við núverandi Haðaland. Hér gæti verið um sama landamerki að ræða og Eggert Guðmundsson nefnir í landamerkjalýsingu sinni árið 1826: „Þessum læk (Fossvogslæk) er fylgt og keldu þeirri sem gengur fram allt á móts við Kaupmannsklett á Bústaðamelum.“ Vorið 1856 fluttist biskupsetrið frá Laugarnesi aftur til Reykjavíkur. Þá var gerð landamerkjalýsing jarðarinnar og segir þar m.a.: „…úr Hanganda uppí Faxakeldu; úr Faxakeldu uppí Klofningssteina, þaðan og í stein þann, sem stendur fyrir vestan og sunnan Bústaðaborg og þaðan í Bústaðaborg.“ Nær samhljóða [er] landamerkjalýsing í Skjalas. Reykjav. aðfnr. 1359 með hendi Péturs Guðjónssonar. Þessar lýsingar hafa ættarmót landamerkjalýsinga 1605, 1747 og 1785. Vel má álykta af þessu að Klofasteinar eystri, Kaupmannsklettur og Klofningssteinar séu á svipuðum slóðum ef ekki sömu steinarnir.

Klofastein vestri

Klofningsstein

Klofningssteinn vestari.

„Er sýndur á korti Benedikts Gröndals frá árinu 1891 við Fossvogslæk neðanverðan, líklegast gamla landamerki Kópavogs og Digraness. Í flestum merkjalýsingum liggur línan frá Tjaldhóli fyrir austan Norðlingavað á Fossvogslæk og í stein þann sem er inni í Skógræktargirðingunni. Steinninn eða steinarnir sem miðað var við hafa fengið mörg nöfn í landamerkjadeilum. Ditlec Thomsen keypti Bústaði árið 1840. Sonur hans H.Th.A. Thomsen vildi færa sér í nyt hinar óljósu landamerkjalýsingar og stækka Bústaðaland. Hann hóf deilur um landamerki við bæjarstjórn Reykjavíkur árið 1890. Í því máli fullyrtu vitni að steininn við vaðið á Fossvogslæk héti Norðlingasteinn og vaðið Norðlingavað. Thomsen taldi aftur á móti að steininn héti Klofningssteinn (Skjalas. Reykjavíkur. aðfnr. 1366). Bæjarstjórn Reykjavíkur dró fram fornar heimildir um landamerki, vitnisburði Örnólfs Sturlaugssonar og Þórhalls Odssonar frá 9. og 25. febrúar 1605. Samkvæmt þeim var Klofningssteinn fyrir norðan Faxakeldu, í Fossvogsmýri þar sem fer að halla upp hinum megin. (Skjalas. Reykjav. aðfnr. 1359). Í landamerkjadeilunum 1891-1893 er landamerki þetta einnig nefnt Klofningar og Klofningssteinar. Benedikt Gröndal teiknaði og lagði fram uppdrátt þar sem þrætulandið er sýnt samkvæmt mælingum og teikningum Sveinssonar búfræðings, dagsettri 17. júlí 1891. Á kortinu er Klofasteinn sýndur neðarlega við Fossvogslæk en Klofasteinar eystri ofar og austar. Til þess að rugla málið enn meira má geta þess að bræðurnir Guðmundur og Kristján Ísakssynir töldu að Tvísteinar innan skógræktargirðingarinnar væru hið forna landamerki. Í örnefnaskrá Adolfs J.E.P segir að Klofasteinn sé í beinni merkjalínu milli Kópavogs og Digranesjarðar, þó innan skógræktargirðingar.“

Klofasteinn (Klofningssteinar) – Klofasteinn vestri

Einbúi

Einbúi.

Í skrá Adolfs J.E.P. er fullyrt að Klofningssteinar séu nú horfnir en hafi verið austantil við Borgarspítalann. Á korti Benedikts Gröndals frá 1891 er merktur steinn á svipuðum slóðum og nefndur Einbúi.

Faxakelda (Faxafen) er í Fossvogsmýri“. Samkvæmt lýsingu Eggerts Guðmundssonar frá 1826 (Skjalas. Reykjav.m aðfnr. 1359) nær keldan frá læknum vestanverðum að Kaupmannskletti (líklega Klofasteinum eystri). Um Faxakeldu segir Adolf J.E.P.: „Líka nefnd Faxafen. Það er lítil tjörn í Fossvogsdal, norðan við býlið Lund.“

Einbúi

Einbúi.

„Einbúi er austarlega í Fossvogsdal, miðja vegu milli gróðrarstöðvarinnar Merkur og Smiðjuvegar, gefur að líta sérkennilegar grjóthrúgur. Við nánari skoðun sést að steinarnir eru kantaðir og hafa verið klofnir með fleygum og höggnir til. Þetta eru minjar um tíma þegar hugmyndir voru stórar en atvinna lítil. Upp úr 1930 hafði heimskeppan mikil áhrif á Íslandi og margir misstu vinnu sína. Ríki og sveitarfélög réði þá menn í s.k. atvinnubótavinnu, einkum að vetrarlagi. Á þessum tíma voru uppi hugmyndir um að leggja járnbraut milli Reykjavíkur og Hafnarfjarðar, á svipuðum slóðum og Reykjanesbrautin liggur nú. Steinunum var ætlað að vera undirstöður fyrir járnbrautarteinana sem aldrei voru lagðir. Sambærilegt grjótnám fór fram við Einbúa við Skemmuveg, en atvinnubótavinnunni var hætt árið 1936″.

Í Byggðakönnun Minjasafns Reykjavíkur fyrir Háleiti 2014 segir m.a.:

Bústaðir

Bærinn Bústaðir (túnakort frá 1916) staðsettur á nýlega loftmynd.

„Bústaðaborg: Samkvæmt gömlum landamerkjalýsingum lágu vesturmörk jarðarinnar [Laugarness] frá steini nokkrum á Kirkjusandi að Ámundaborg, sem talin er hafa verið fjárborg milli Grensáss og Rauðarárholts, og þaðan suður yfir Kringlumýri og Mjóumýri ofan í klettinn Hanganda í botni Fossvogs. Þaðan munu mörkin hafa legið til austurs um Fossvogsmýri að upptökum Fossvogslækjar í Faxakeldu svokallaðri og þaðan til norðausturs eftir Bústaðamelum að Bústaðaborg, sem var fjárborg í lægðinni milli Bústaðaholts og Grensáss. Frá Bústaðaborg lá landamerkjalínan norður um Sogamýri í svonefnda Þrísteina, sem munu hafa verið skammt frá þar sem nú eru gatnamót Suðurlandsbrautar og Skeiðarvogs, og þaðan fram eftir Laugarási í Líkavörðu skammt sunnan við Vatnagarð.“
„Bústaðaborg, var fjárborg í lægðinni milli Bústaðaholts og Grensáss. Talið er líklegt að býlið Brekka hafi verið síðar á sama stað“.

Í Landsyfirréttardómi og hæstaréttardómi í íslenskum málum 01.01.1895 má dóm nr. 47/1892: H. Th. A. Thomsen gegn bæjarstjórn Reykjavíkur:

Fossvogur

Fossvogur – landamerki.

„Mál þetta, sem er út af ágreiningi um landamerki milli Bústaða, eignarjarðar áfrýjandans, og Laugarness, er Reykjavíkurkaupstaður á, var dæmt í landamerkjadómi Kjósar- og Gullbringusýslu 7. desembr. 1891.
Samkvæmt fornum skjölum, lögfestum og vitnisburðarbrjefum, er legið hafa fyrir merkjadóminum og málsaðilar hafa báðir tekið gildi í því efni, eiga landamerki milli Laugarness og Bústaða að vera þessi: úr Þrísteinum sjónhending í Bústaðaborg, þaðan í stein fyrir vestan og sunnan Bústaðaborg og þaðan í Klofningssteina. Málsaðilar hafa einnig verið sammála um pað, hvar Þrísteinar sjeu og Bústaðaborg, en ágreiningurinn er um, hvar merkjasteinninn fyrir vestan og sunnan Bústaðaborg sje og hvar Klofningssteinar sjeu, og vill áfrýjandinn telja merki þessi töluvert vestar en hin stefnda bæjarstjórn. Merkjadómurinn hefur nú dæmt merkin vera um Klofningssteina þá, er hin stefnda bæjarstjórn telur vera hina rjettu Klofningssteina, þannig, að þeir myndi hornmark Laugarnesslands að sunnan og austan gegnt Bústaðalandi, og verður það ákvæði dómsins eigi átalið, þar sem full vitnasönnun virðist framkomin í málinu fyrir því, að örnefnið Klofningssteinar, sem er hið viðurkennda hornmark Laugarness að sunnan gegn Bústöðum, sje þar, sem dómurinn setur það.

Fossvogur

Fossvogur – Klofasteinn.

Að því er snertir hitt markið, sem þrætan er um, steininn fyrir vestan og sunnan Bústaðaborg, þá hefur merkjadómurinn eigi getað fundið neinn stein í þeirri stefnu frá Bústaðaborg, er eðlilega geti talizt merkjasteinn, og áleit því eigi hægt að miða merkin við neinn slíkan stein, en þar sem byggja þótti mega á því, hvar Klofningssteinar hinir rjettu væru og hver væri aðalstefna markalínunnar upp úr voginum norður eptir, þá áleit merkjadómurinn rjettast, að draga stefnuna úr tjeðum Klofningssteinum, sem eru fyrir sunnan girðingar áfrýjandans, beint norður í Bústaðaborg.
Umboðsmaður hinnar stefndu hæjarstjórnar krafðizt þess fyrir merkjadóminum, að merkin væru ákveðin úr Bústaðaborg í stein, er hann tiltók og áleit vera fyrir vestan og sunnan borgina, og úr steininum í Klofningssteina. Áfrýjandinn heldur því nú, samkvæmt því sem áður er sagt, fram, að bein lína úr Bústaðaborg falli töluvert austar en um tjeðan markastein hinnar stefndu, og þannig liggi merkjalína dómsins lengra inn í sitt land heldur en krafa stefndu hafi verið til, en þessu er mótmælt af hálfu stefndu.

Fossvogur

Fossvogur – Klofningar.

Um afstöðu hjerumræddra örnefna og merkja sín á milli verður engin ályktun dregin af legu þeirra á uppdráttum þeim, er fram hafa komið í málinu, því að þeir hafa eigi verið álitnir nákvæmir að þessu leyti, hvorki af málsaðilum eða dómendum; en merkjadómendurnir hafa vottað það í dómi sínum 28. júní 1890, er þetta sama mál var fyrr dæmt, að steinn sá, er bæjarstjórnin miðaði merkin við og átti að hennar áliti að vera fyrir vestan og sunnan Bústaðaborg, væri því nær í hásuður frá borginni, og eptir uppdráttum beggja málsaðila, einkanlega uppdrætti þeim, er áfrýjandinn hefur lagt fram eru Klofningsteinar (eystri) nokkuð vestar en í hásuður frá Bústaðaborg; en ef þetta hvorttveggja er rjett, leiðir þar af, að bein lína úr Bústaðaborg í Klofningssteina verður fremur fyrir vestan en fyrir austan optnefndan markastein bæjarstjórnarinnar. Þegar á þetta er litið, og Þar sem áfrýjandinn hefur ekki fært neinar sannanir fyrir þessu kæruatriði sínu, verður eigi álitið sannað, að merkjadómurinn hafi gjört sig sekan í lögleysu í þessu efni, og með því að eigi eru aðrar ástæður til að ónýta dóminn, ber að staðfesta hann í öllum greinum.“

Trjáræktarsvæðið í Fossvogsdal

Fossvogur

Skógrækt Reykjavíkur í Fossvogi.

Svæðið sem um ræðir er milli lands Lundar í Fossvogsdal og svæðis sem Skógræktarfélag Reykjavíkur átti til skamms tíma. Erfðafestusamningur fyrir þetta land sem nefnt var Digranesblettur 8 var undirritaður árið 1945 af Geir Gunnlaugssyni í Eskihlíð (síðar Lundi) og Hermanni Jónassyni fyrrverandi forsætisráðherra. Áður hafði landið verið nytjað frá kaupstað og er þess getið í fasteignamati árið 1940. Hlutur Geirs var 10,98 ha en Hermanns 2,25 ha. Síðar eignaðist Skógræktarfélag Reykjavíkur hlut Hermanns, norðurhluta svæðisins, en landið er nú í einkaeign. Á þessum slóðum rennur Fossvogslækurinn að mestu í sínum náttúrulega farvegi, en á kafla hafa bakkar hans verið hlaðnir úr grjóti. Umtalsverð trjárækt er á svæðinu, elsti hlutinn er verk Hermanns frá 5. áratug síðustu aldar.

Sem fyrr segir er Klofasteinn vestri sýndur á korti Benedikts Gröndals frá 1891 við Fossvogslæk neðanverðum (Skjalas. Reykjav. aðfnr. 1366). FERLIR óskaði eftir afriti af uppdrættinum við skjalas. Reykjavíkur fyrir nokkrum mánuðum síðan, en svar hefur enn borist.

Heimildir:
-Örnefnaskrá. Örnefni í heimalandi Kópavogskaupstaðar og næsta nágrennis þess. Safnað hefur Adolf J.E. Petersen. Handrit. Örnefnastofnun.
-Örnefni í bæjarlandi Kópavogs. Jarðirnar Digranes, Fífuhvammur, Kópavogur og Vatnsendi. Guðlaugur R. Guðmundsson skráði og staðsetti örnefnin. Handrit. Örnefnastofnun. 1990.
-Byggðakönnun – Borgarhluti 5 – Háaleiti, Reykjavík 2014. Minjasafn Reykjavíkur, Skýrsla nr. 164, bls. 10-11.
-Guðlaugur R. Guðmundsson: „Örnefnalýsing Laugarness, Klepps og Rauðarár“, Reykjavík: miðstöð þjóðlífs, bls. 295-302 – Þorgrímur Gestsson: Mannlíf við Sund, bls. 16. – https://www.sarpur.is/Adfang.aspx?AdfangID=1393650
-Landsyfirréttardómar og hæstaréttardómar í íslenskum málum 01.01.1895, bls. 346-349. – https://timarit.is/page/3524089?iabr=on#page/n385/mode/2up
-https://is.wikibooks.org/wiki/Fossvogur
-Axel Birgir Knútsson, starfsmaður Skógræktar Reykjavíkur í Fossvogi.

Klofasteinn

Klofasteinn – Axel Birgir Knútsson, starfsmaður Garðræktar Reykjavíkur við steininn 2022.

Álfhóll

Draugaklettar eru í Breiðholsthvarfi á móts við Árbæinn, ekki háir en dökkir að lit. Þar fer ekki sögum af draugum; hins vegar átti huldufólk að búa í þeim.
Einnig er talað um DraugasteinarDraugasteina skammt frá suðurenda Árbæjarstíflu.
Uppi á Breiðholtshvarfinu, eða við fjölbýlishúsið Vesturberg 2-6, er önnur álfabyggð í hól einum, skv. Fornleifaskrá Reykjavíkur. Trúin á hana lifir svo sterkt að þegar byggja átti fjölbýlishús þar sem hóllinn var, í samræmi við skipulag annarra húsa við götuna, þótti það óráðlegt. Var ákveðið að hrófla ekki við hólnum heldur víkja frá skipulagi og byggja húsið fyrir framan hann.

Sæskrímsli í Elliðavogi.
Árið 1883 var maður að nafni Guðmundur Guðbrandsson staddur við Elliðarvog. Ekki er getið um erindi hans þar, en líklegt er að það hafi verið að tína krækling á leirunni til beitu eins og algengt var. Komst hann þarna í kast við ókennilega skepnu á stærð við veturgamlan kálf sem þakinn var skeljum að utan. Stóð hann í stimpingum við skepnuna í um tvær klukkustundir en komst á endanum að Bústöðum, blóðrisa og svo illa til reika að hann lá þar í tvo daga rúmfastur. Var hann þó annálað hraustmenni.

Með hausinn í hendinni.
ElliðaárdalurÖnnur saga tengist einnig ofanverðum Elliðaárdalnum og er sömuleiðins frá síðari hluta 19. aldar. Maður hét Guðmundur og bjó í Kópavogi. Var hann forn í skapi og hafði jafnvel í heitingum við menn um að leggja á þá eins og það var kallað. Eftir að hann dó urðu menn óþyrmilega varir við það. Reyndist hann mjög skæður, meðal annars Stefáni bónda í Hvammskoti sem var mesti sómamaður.
Það var á góðviðrisdegi haustið eftir að Guðmundur í Kópavogi andaðist að Stefán gekk upp að Vatnsenda og dvaldist hann þar fram undir sólsetur. Var honum síðan fylgt áleiðis til baka vestur að svonefndu Vatnsendahvarfi. Þá er fylgdarmaðurinn var nýskilin við Stefán sá hann man við hlið sér og þekkti hann strax, að þar var Guðmundur úr Kópavogi. Stefáni varð ekki um sel, en hann hélt þó áfram og alltaf var draugurinn á hlið við hann uns hann kom niður á móts við Breiðholt. Þá nam draugurinn allt í einu staðar, tók ofan hausinn og marghneigði sig fyrir Stefáni með hausinn í hendinni, og hvarf draugurinn eftir það. Skömmu síðar tók Stefán sótt og andaðist.
Guðmundur í Kópavogi sótti einnig að bóndanum í Breiðholti en hann stóð af sér allar skráveifur hans.

Heimildir m.a.:
-www.heimskringla.noÁlfhóll

Sandskeið

Í Sunnudagsblaði Tímans árið 1966 er m.a. fjallað um hellarásir á Mið-Bolöldu ofan Sandskeiðs:
bolalda„Sunnan við þjóðveginn á Mið-Bolaöldunni er hellir, sem ég veit ekki til, að hafi verið rannsakaður. Við, símalagningar-menn 1909, urðum til þess að sprengja göt tvö niður í gegnum þakhvelfingu hellisins og reistum síðan í þeim tvo símastaura með 50 metra millibili, en op hans, sem er mjög lítið og sést varla, er um 25 metra fyrir vestan vestara staurgatið. Hann náði fyrir víst um 30 m. austur fyrir eystra staurgatið. Þar beygði hann eitthvað til suðurs. Ljóslausir vorum við og gátum því ekki athugað hann lengra heldur en skíman frá stauragötunum í loftinu leyfði. Hann var nálægt mannhæðar hár, hvelfingarmyndaður til beggja hliða og virtist vera þannig alla leið þessa rúma 100 metra.
Þetta var nú innskot, sett hér til þess, að upplýsingar um helli þennan verði til handa einhverjum þeim, er sjá kynnu og vildu athuga hellinn nánar og vera útbúnir til þess.“
bololduhellir-1Einn FERLIRsfélaga hafði leitað nokkrum sinnum að framangreindum stauraopum eftir að honum hafði tekist að rekja leifar línunnar meðfram gamla þjóðveginum upp frá Sandskeiði um Mið-Bolöldu með Fossvallaklifi.
„Er ekki búinn að gefast upp að finna hellinn. Held að staurarnir sem ég fann í dag séu gamla línan það passar við Herforingjakortið og ef hann er að segja rétt um að hellirinn er fyrir sunnan veginn þarf ég að leita neðar því línan krossar veginn rétt fyrir neðan staurana og fer suður fyrir hann. Held ég sé líka búin að sjá á landslaginu hvar þessar öldur eru og þá ætti þetta að passa.“
Úr sömu lýsingu og sagt er frá hellinum segir:
Rétt er að minnast á það hér, að þar, sem lagði vegurinn lá, á sínum tíma, upp af Fossvöllunum, upp í Fossvallaölduna — dálítið sunnar (til hægri á austurleið)— stóð nokkuð stór steinn á klöppum,og var á hann höggvið (klappað) ártal það, þegar lagði þjóðvegurinn var kominn það langt frá Reykjavík.
Ekki man ég nú átalið, en minnir það vera 1884 eða 1886.
Heryði ég sagt, að  norskur verkstjóri, er stjórnað hafði vegarlagningunni þangað, hefði klappað ártalið á steininn, er hann hætti þarna það haust.
bololduhellir-2„Værir þú til í að tékka hvort fjallað er um þennan helli í stóru hellabókinn? Nyrðri endinn er það stór og rétt við þjóðveginn að hann hlýtir að heita eitthvað. Við opið á þakinu er lítil varða (og staur í) örugglega til að vara við þar sem gatið er ekki nema rúml meter í þvermál og svo eru e.t. v. þrír til fjórir metrar niður í botn hellisins. Það var líka vitað um þann syðri þegar síminn var lagður 1909 þannig mér finnst skrítið ef ekki er fjallað um hellana í þessari hraunrás. Samkvæmt lýsingu mundi ég halda að ég hefði fundið vestara stauragatið en það austara sennilega skemmt vegna vegarins upp í námurnar. Þætti ágætt ef þú mundir kíja á þetta með mér við tækifæri og þannig gætum við áttað okkur á þessu.“
Í stórvirkinu Íslenskir helllar segir Björn Hróarsson svo frá hellinum þegar hann fjallar um Leitarhraun (Skari (LET-07)): „Sunnan vegarins nær miðja vegu milli Sandskeiðs og Litlu-kaffistofunnar er yfir 300 metra langur hellir. Hann er mjög bololduhellir-3hruninn um miðbikið og efsti hluti hans er fylltur jarðvegi. Efsti og neðsti hluti hellsisins standa vel uppi. Í neðri hlutanum má skríða inn um þröngan munna nálægt gamla bílveginum. Fyrstu 40 metrarnir eru ógreiðfærir. Um 50 metrum innan við munnann er um þriggja metra djúpt niðurfall sem er um 2 metrar í þvermál. Staur er á brún niðurfallsins. Hellisgöngin neðan við niðurfallið eru lítið hrunin allt í botn en þangað er um 40 metrar og lofthæðin á þeim kafla er tveir til þrír metrar. Efsti hluti hellisins stefnir til suðvesturs frá munna og er mjög lítið hruninn. Framan til er hellirinn hálffullur af aur sem eykst eftir því sem innar dregur. Um 50 metrum innan við munnan er hann orðið svo lágt undir loft að ekki verður lengra skriðið. Göngin ná þó sýnilega miklu lengra og fyrir skófluglaða bíður því þarna pennandi verkefni. Hellisgólfið er hvergi sjáanlegt en breidd þess er vart undir tíu metrum. Faðir Inga Óskarssonar hellismanns sýndi Inga þennan helli fyrir margt löngu og nefndi Ingi hellinn Skara eftir karli föður sínum.“
Ef finnandinn hefði áttað sig á að „niðurföllin“ inni í hellinum væru eftir símastaura hefði hann án efa skírt hann „Staurahelli“. En honum til vorkunnar má geta þess að stauragötin sjást ekki ofanjarðar, þó svo sjá megi púkkið með staurunum, sem nú eru horfnir á þessum tilgreindu stöðum, en búta þeirra má sjá bæði ofar og neðar í stauralínunni.

Heimild:
-Tíminn Sunnudagsblað 30. okt. 1966, bls. 932-933.
-Íslenskir hellar, bls. 279.

Bolöldur

Bolöldur – kort. Lega gamla vegarins að Svínahrauni um Bolöldur.

Örfirisey

Laugardaginn 12. maí 2007, kl. 10:35, mátti sjá eftirfarandi bókin í Dagból lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu: „Útkall, óskaði P.G. útivarðstjóri eftir aðstoð TD vegna tilkynningar um fundar á hugsanlegum mannabeinum við olíutankana við Granda. Tilkynnandi vísaði okkur á staðinn sem merktur er á minjaskrá Árbæjarsafns og um var að ræða eitt langt og mjótt bein sem stóð út úr hól. Beinið aflaga og tilheyrir ekki skepnu sem gengur upprétt. Ekki frekari aðgerðir af hálfu lögreglu.“

Hóllinn í Örfirisey

Í framhaldi af því var lögð fram eftirfarandi fyrirspurn til Árbæjarsafnsins: „Getur þú sagt eitthvað um nefndan stað – hvers vegna hann er á minjaská Árbæjarsafns?“ Anna Lísa Guðmundsdóttir svaraði f.h. safnsins: „Þarna eru skráðar bergristur sem eru á klöppunum. Ef þetta eru dýrabein þá er örugglega eitthvað meira þarna í hólnum.“ Með fylgdu nánari upplýsingar úr SARPI: „Í minjaskrá Árbæjarsafns er getið um 3-4 m háa klöpp, um 100 m2, er skagar út í sjó norðan við olíugeymanna í Örfirisey. Þær eru frá ýmsum tímum og eru víða á klöppinni og nokkrum stórum steinum. Margar þeirra eru nú máðar af ágangi sjávar. Risturnar eru mjög misdjúpt ristar. Hér er ekki getið nafna eða ártala rista eftir síðustu heimsstyrjöld, en þær eru allmargar. Um 6-7 m. sunnan við flæðamálið er rista: HSH – 1828.“

Beinið í hólnum

Jafnframt kom fram að svokallaður Apótekarasteinn á að hafa verið fluttur á sínum tíma frá Örfirisey til Árbæjarsafns. Er hann við húsið Þingholtsstræti 9 á Árbæjarsafni. Á steininn er klappað HCB. A 1?91. Í Safni til sögu Reykjavíkur 1786-1836, bls. 64-65, er getið um Mimore Morti-steininn, en hann var fluttur úr Örfirisey í Árbæjarsafn 1977 og stendur nú vestan við Vopnafjarðarhúsin í safninu. Árið 1981 töldust 10-20 ristur vera á klöppunum í Örfirisey, en 1994 höfðu fundist a.m.k. 43 slíkar.
Þegar staðurinn var skoðaður nánar kom í ljós að honum hafði verið hlíft einhverra hluta vegna. Mikill sjóvarnargarður er með allri ströndinni, nema á stuttum kafla ofan við klappirnar. Í garðlínunni er gróinn lágur hóll með grasi efst og mold undir. Í hann er rekinn fótur með skilti frá Árbæjarsafni. Í moldinni vottar fyrir hleðslum að austanverðu. Bein stóð út úr hólnum, sem sjórinn hefur náð að naga.

Ristur á klöpp

Myndir voru teknar á vettvangi og ein þeirra send starfsmanni á Keldum með spurningu um af hvaða dýri beinið gæti verið.
Líklegt má telja að sléttur klapparhóllinn eigi sér einhverja sögu, auk þess sem gömul lending virðist vera þarna skammt austar. Önnu Lísu voru því sendar myndir af vettvangi með von um nánari upplýsingar. Þær komu líka um hæl: „Þetta var næstvestasta eyjan í Kollafirði, nú tengd með land fyllingu. Talið er að Örfirisey hafi allsnemma orðið sjálfstæð jörð en litlum sögum fer af henni framan af. Þess er þó getið í heimildum frá 1397 að Víkurkirkja hafi átt þar ,,landsælding“ og selalátur. Bendir hið fyrrnefnda til að kornyrkja hafi þá verið í eyjunni því landslæðingur mun þýða akurland. Örfirisey var eign klaustursins í Viðey en þó ekki fyrr en tiltölulega skömmu fyrir siðaskipti eftir því sem best er vitað. Síðan varð eyjan konungseign eins og aðrar klausturjarðir. Í Jarðarbókinni frá 1703 eru, auk aðalbýlisins sem stóð norðarlega á eyjunni, taldar fjórar hjáleigur. Þar kemur fram að vatnsból sé í ,,…lakasta máta, þrýtur bæði sumar og vetur og þarf þá að sækja vatn til lands á skipum að sækja eður sæta sjávarfalla að þurr megi ganga um fjörurif það sem kallað er Grandi“( Árni Magnússon og Páll Vídalín 255). Nokkru seinna eru býlin í Örfirisey orðin níu… Þegar hafnar gerðin Apótekarasteinninnhófst 1913 var lagður grjótgarður eftir Grandanum út í eyjuna. Var grjótið flutt á járnbraut sem lögð var sérstaklega í þessu skini frá Öskjuhlíð að Granda.“
Gróni hóllinn á klöppunum er ekki stór og væri tilvalið viðfangsefni fyrir fornleifafræðing að skoða hann nánar.
Elsta og fallegasta áletrunin er sennilega rituð af Hendrik Handsen sem var verslunarmaður í Örfirisey á dögum Kóngsverslunarinnar. Hendrik þessi hafði áður verið kaupmaður á Básendum en hraktist þaðan eftir sjávarflóðið 1799. (Skv. Árna Óla – Gamla Reykjavík)

Reykjavík

Skólavörðuholt og eyjarnar utan Reykjavíkur.

Reykjavík 1835

Eftirfarandi lýsing á húsum Reykjavíkur birtist í Lesbók Morgunblaðsins árið 1949:
Reykjavik-901„Þegar Reykjavík fekk kaupstaðar-rjettindi, fór fram útmæling á verslunarlóðinni, sem var aðeins „Kvosin“, milli sjávar og tjarnar, milli Grjótahæðarinnar og læksins. Auk þess voru henni lögð tún Hólakots og Melshúsa. En aðrar hjáleigur jarðarinnar Reykjavík: Landakot, Grjóti, Götuhús, Stöðlakot og Skálholtskot urðu utan við í útmælingargerðinni, sem er dagsett 12. febrúar 1787, segir svo um þessa ráðstöfun: — Þessar hjáleigur var ekki talið nauðsynlegt að leggja til kaupstaðarins, því að það sem honum hefur verið lagt virðist kappsamlega nóg. En skyldi svo ólíklega ske einhvern tíma, að Reykjavík þyrfti á meira landrými að halda, þá má bæta við þessum hjáleigum, með leyfi hins hátignar konungsins, sem er eigandi þeirra. —

reykjavik-902

Fljótlega kom upp óánægja út af því, að þeir, sem áttu heima innan kaupstaðar-lóðarinnar, skyldi ekki hafa neinar nytjar úthaga Víkurjarðar. Varð það til þess að fram fór mat á öllu landi jarðarinnar, og að þvi loknu lagði stiptamtmaður til, að úr því að nokkur hluti af Reykjavík hefði verið út lagður til kaupstaðar, yrði úthagar jarðarinnar að fylgja honum þannig, að íbúar kaupstaðarins hefði sameiginlegan afnotarjett þeirra eftir þörfum á borð við aðra landeigendur. Á þetta felst stjórnin með úrskurði 19. apríl 1788.
Upp úr 1790, þegar innrjettingarnar eru að syngja á sitt síðasta vers, fyrirskipaði Rentukammerið nýja útmælingu. Hún var framkvæmd í maí 1792, og var þá bætt við kaupstaðarlóðina Skálholts og Stöðlakots lóðum.

reykjavik-903

Með þessu var þá kaupstaðarlóðin endanlega ákveðin, og helst hún þannig óbreytt um heila öld, eða fram til 1892. Þannig var þá afmarkað það svæði, þar sem menn máttu versla. Utan við það mátti engin verslun vera. En þetta var ekki öll Reykjavík. — Eftir sem áður var kölluð Reykjavík öll sú bygð, sem var á landareign jarðanna Víkur, Arnarhóls og Hlíðarhúsa, og þar með talin kirkjujörðin Sel. Nyrst í Kvosinni (við Aðalstræti) voru þá kongsverslunarhúsin, nýlega flutt þangað utan úr Örfirisey. Þau voru öll úr timbri. Syðst við Aðalstræti var kirkjan, og umhverfis hana húsaþyrping innrjettinganna. Af nær 30 húsum og kofum þar voru aðeins sex úr timbri. Hin húsin voru úr torfi og grjóti.
Torfbæir reykjavik-904voru á öllum hjáleigunum og eins á Arnarhóli, Hlíðarhúsum og Sel. Þá voru og komnir nokkrir torfbæir tómthúsmanna í Grjótaþorpi, og einn, Þingholt, fyrir ofan læk. ÞESSI var þá stofninn að höfuðborg Íslands: 9 eða 10 timburhús, en allar aðrar byggingar úr torfi og grjóti. Þá voru íbúar Reykjavíkur taldir 167 alls, en í Reykjavíkurkirkjusókn (sem náði einnig yfir Nessókn og Laugarnessókn) voru alls 302 sálir, en íbúar landsins voru þá alls taldir 38.363. Móðuharðindin voru þá nýgengin um garð og árið 1785 höfðu látist 83 í Reykjavíkursókn, 36 í Nessókn og 33 í Laugarnessókn, ..flest úr vesöld, niðurgangi og kreppusótt“ eins og segir í kirkjubókinni. Hjer voru því óglæsilegir tímar er hin nýa borg reis á legg.
reykjavik-905Á næstu árum fjölgar þó mjög timburhúsum í kvosinni. Og á næstu áratugum fjölgar einnig mjög þurrabúðar-mönnum. Þeir reistu sjer torfbæi. flestir utan við Kvosina. Tók þá að myndast bygð í Skuggahverfi og Þingholtum og Grjótahverfið að stækka. Reykjavík varð þannig tvöföld í roðinu. Annars vegar voru timburhúsin í Kvosinni, flest eign erlendra kaupsýslumanna, en hins vegar torfbæir Íslendinga. Þegar þessa er gætt má segja að Íslendingar hafi upphaflega bygt höfuðborg sína úr torfi. Og þannig er hún álitum á 50 ára afmæli sinu.
Í Landsbókasafninu er geymt handrit að skrá um torfbæi í Rvík 1830 og bætt við nokkrum, sem bygðust á næstu árum, eða alt fram að 1840. Skrá þessi er samin af Jóni Jónssyni prentari í Stafni. Hefir hann tekið hana saman á gamals aldri (1866) og má því vera að einn og einn bær hafi gleymst, annaðhvort vegna þess. að höfund hafi mint að hann væri rifinn fyrir þennan tíma, eða bygður seinna. En skrá þessi sýnir þó greinilega hvernig Reykjavík hefur verið á svipinn þegar hún hafði náð fimmtugsaldri.

reykjavik-907

TORFBÆIRNIR í Reykjavík voru yfirleitt ljelegri heldur en sveitarbæir, enda var þeim venjulegast hrófað upp af litlum efnum. Til er lýsing á torfbæunum, er Þorbergur Þórðarson rithöfundur skrifaði eftir frásögn Ólafs Jónssonar fiskimatsmanns, sem fæddur var í Hlíðarhúsum 1856 og segir þar meðal annars svo: — Öll úthverfi Reykjavíkur voru langt fram eftir aldarhelmingnum eintómir torfbæir að heita mátti. Hver bær var tíðast tvö hús, er stóðu hlið við hlið. Annað húsið var til íbúðar, hitt til eldamensku og geymslu. Veggir voru hlaðnir úr torfi og grjóti, framstafnar sumstaðar úr torfi og grjóti, upp að glugga og þar fyrir ofan gerðir úr timbri, en annars voru þeir allir úr timbri.
Afturstafnar voru ýmist úr torfi og grjóti upp að glugga og efri hlutarnir úr timbri, eða þeir voru úr torfi og grjóti upp úr og þá gluggalqusir. Þá hjetu þeir gaflöð. Framstafnar sneru venjulega til sureykjavik-908ðurs, stundum til austurs. Sperrur voru að jafnaði krossreistar (mynduðu 90 stiga horn í mæni). Stundum voru þær með kalfa í mæni á sperrunum var skarsúð á íbúðarhúsunum, en refti á eldhúsi og geymslu. Þar ofan á kom torfþekja. Á milli þekjunnar og súðarinnar var hvorki tróð nje hella. Langt fram eftir aldarhelmingnum voru hjer til torfbæir, sem voru með moldargólfi og höfðu refti eitt og torf í stað súðar. Rúmstæðin voru bálkar, hlaðnir úr torfi og grjóti, og þá var dreift heyi undir sængurfötin. — Þrifnaður stóð á þessum tímum í flestum greinum að baki því, sem nú tíðkast, enda voru skilyrði flest til þrifnaðar þá margfalt verri en nú á tímum. Gólf voru venjulega þvegin tvisvar í viku, á miðvikudögum og laugardögum, en aðra daga voru þau oftast sópuð með fuglsvæng. Gólf voru aldrei þvegin úr sápu, heldur aðeins úr vatni og fínum sandi, sem sóttur var niður í fjöru. Eftir þvottinn var stráð á þau hvítum skeljasandi, sem fluttur var í pokum utan úr Örfirisey. Gólfdúkar eða teppi voru þá ekki til. Hvíti skeljasandurinn var því fyrsti vísir til dúka og teppa á gólfum. Honum var einnig stráð í ganga og bæjardyr, þótti það hreinlegra og fallegra.
reykjavik-909Sjaldnast voru vanhús við torfbæina. Karlmenn gengu örna sinna út um holt og niður að sjó, en börn og kvenfólk hægði sjer í næturgögn, sem tæmd voru í hlandforir eða á sorphauga, er voru heima við flesta bæi.
Þessu ber saman við lýsingu Mackenzie, sem hjer var á ferðalagi 1810. Hann kom að prestsetrinu Seli. Þar átti þá heima Brynjólfur Sigurðsson dómkirkjuprestur. Segir Mackenzie svo frá: — Presturinn mætti okkur við dyrnar á kofaræfli, og leiddi okkur inn löng, dimm og skítug göng framhjá allskonar drasli, fram hjá manni, sem var að berja harðfisk, og inn í dimt herbergi. Það var svefnherbergi fjölskyldunnar og hið besta á bænum. Þakið var svo lágt, að maður gat varla staðið upprjettur, og þar var tæplega rúm fyrir nokkurn hlut nema húsgögnin, en þau voru: rúm, klukka, lítil kommóða og glerskápur. — Jón Helgason biskup, sem mundi eftir flestum torfbæunum, segir svo á einum stað: — reykjavik-910
Fæstir hinnar uppvaxandi kynslóðar vorra tíma gera sjer í hugarlund, hve ljeleg húsakynni voru gömlu reykvísku torfbæirnir í úthverfum bæjarins, eða „kotin“, eins og algengast var að nefna þessa mannabústaði. Torfið á þekjunum reyndist alt annað en góður regnvari, er til lengdar ljet.
Snemma fór vætan að leita á súðina undir torfinu og áður en menn vissu af, var hún orðin svört af sagga undan þekjunni. Og þá leið sjaldnast á löngu áður en lekinn, versti óvinur góðra húsmæðra, færi að gera vart við sig.
Það varð löngum fangaráð húsmæðranna að hengja bjór undir lekann og veita úr honum vatninu þannig, að það færi ekki niður í rúmin. Annars höfðu þessir torfbæir þann stóra kost, að þeir voru hlýir þegar frost og hríðar gengu. Það næðir ekki í gegnum þykka moldarveggi nje þekjur, sem eru máske orðnar alt að þvíhálf alin á þykt vegna þess að altaf var verið að dytta að þeim og bæta torfi ofan á torf. Veðráttan hjer, umhleypingar og votviðri, hamlaði því að þekjur gæti orðið vallgrónar, og þess vegna var lekinn og þess vegna þurfti altaf að vera að bæta nýu torfi utan á hið gamla.“

Heimild:
-Lesbók Morgunblaðsins, 6. nóv. 1949, bls. 493-495.

Reykjavík

Reykjavík 1835 – Joseph Gaimard.

Fóelluvörn

Leiðir frá Fóelluvötnum að Lækjarbotnum.
Við Fóelluvötn (í Vötnum eða á Vatnavöllum) eru sléttir grösugir vellir og voru fyrrum áfangastaður ferðamanna og leiðir lágu að völlunum frá öllum áttum. Frá norðri af Alfaraveginum gamla og Laufdælingastíg. Frá austri af Dyravegi og frá Kolviðarhóli (Hellisheiðarvegi) og Ólafsskarði. Úr suðri kom leið frá Sandskeiði (Sæluhúsinu), úr vestri frá Lækjarbotnum og úr norð-vestri frá Elliðakoti.
Austirvegur-227Í lýsingu Ölveshrepps 1703 eftir Hálfdán Jónson lögréttumann á Reykjum segir: „Vestur af Hellisheiði liggur almennings vegurinn ofan Hellisskarð, vestur yfir Hvannavelli, um endilangt Svínahraun og á Bolavelli, þaðan fyrir sunnan Lyklafell og vestan til í Fóelluvötnum, síðan með þeirri á, er úr vötnunum rennur, allt á Fossvelli og að Tröllabörnum etc.“
Í Austantórum ll bls 148, lýsir Jón Pálsson lestarmannaleið úr Flóa til Reykjavíkur á þessa leið:“
1. Frá Þjórsá að Laugardælum, nálega 17 Km.
2. Frá Laugardælum eða Kotferju að Torfeyri, austan Varmár nálega 10 Km.
3. Frá Torfeyri að Bolavöllum við Kolviðarhól, nálega 17 Km.
4. Frá Kolviðarhóli að Fóelluvötnum, norðan Sandskeiðs og sunnan Lyklafells, nálega 7 Km.
5. Frá Fóelluvötnum að Hraunsnefi hjá Silungapolli, nálega 10 Km.
6. Frá Silungapolli að Fossvogi við Reykjavík, nálega 15 Km.
Alls 77 Km.“
Austurvegur-228Ég hef gengið og kannað leiðir frá Fóelluvötnum (Vötnum, Vatnavöllum) niður með Fossvallaá að Lækjarbotnum og eru leiðir bæði norðan og sunnan ár. Fossvallaá  á upptök sín á vestanverðum Efri vötnum sunnan Lyklafells og rennur þar með jaðri vallana og á milli Vatnahæðar og Vatnás og er þá komin í Neðri vötn og rennur svo með norðurjaðri vallana og síðan með mosavöxnu hrauni sem kallað er Mosar. Þegar komið er vestur fyrir Vatnás kemur árfarvegur í Fossvallaá frá suðri með hlíðum Vatnás er það farvegur Lyklafellsár sem á upptök í Engidal sem er í vesturhíð Hengilsins og heitir þar Engidalsá. Hún rennur síðan  niður um Norðurvelli og að Lyklafelli austanverðu og heitir þar Lyklafellsá. Síðan rennur hún suður um Efri vötn og síðan að Vatnási austanverðum í djúpum farvegi og síðan síðan suður með Vatnási og vestur fyrir hann og þaðan norður í Fossvallaá. Götur liggja nyrst yfir Vatnás af Efri völlum vestur á Neðri velli. Í krikanum sem myndast vestan við Vatnásinn er tjarnarstæði og norðan við það eru lágir klettar sem mynda horn  og stefna klettarnir sem eru líklega misgengi norður á Miðdalsheiði og eru líklega syðsti hluti Heiðargjár sem nær norður að Borgarhólum. Götur liggja upp af völlunum báðum meginn við klettana upp um Vatnahæð og sameinast í götu að Elliðakoti.

Austurvegur-229

Einnig eru götur eftir brúnum klettana. Skammt vestan hornsins fer Fossvallaáin í þröngan og djúpan  farveg sem er mjög grýttur og virðist áin hafa brotið upp hraunið í stógrýti. Ekki er fært yfir farveginn með skepnur nema á örfáum stöðum. Götur liggja niður með norðanverðri ánni og þegar komið er á móts við bug á henni til suðurs er gata upp til hægri á móti bugnum upp um móa (N6404352 W135646) Í bugnum er mögulegt að fara yfir árfarveginn. Göturnar stefna í norð vestur um móa. Á leiðinni þverar línuvegur götuna og þegar farinn hefur verið smá spölur er komið að gatnamótum (N6404425 W2136155). Gata liggur upp til hægri sem liggur í Leirdal fyrir ofan tjarnarstæðið  sem í honum er og svo áfram um Elliðakotsheiði en skiptist svo í tvær leiðir og sveigir síðan í suðvestur niður sitthvorn dalin niður  á Fossvelli. Í örnefnalýsingu fyrir Elliðakot og Vilborgarkot er svæðið norðan Fossvallaár kallað Fossvallaheiði en aðalheiti heiðarinnar er Elliðakotsheiði. Torfvarða er nú á vinstri hönd (6404416 W2136214). Leiðin liggur nú að öðrum gatnamótum til hægri (N6404408 W2136377).
Liggur sú leið í Leirdal neðst í dalnum og fer stuttan spöl með tjarnarstæðinu og síðan fram úr dalnum og á bakka Fossvallaár. Fallin varða Austurvegur-230(N6404393 W2136504) er á holti sem er á milli ár og dals og önnur minni nokkrum metrum austar á sama holti. Önnur fallin varða er á holti vestan við dalsmynnið (N6404412 W2136785). Ef ekki er farið um Leirdal eru leiðir yfir lágan háls (Styttingur) eða fyrir hálsinn á bakka árinnar og sameinast svo leiðinni um Leirdal. Síðan áfram niður með ánni hjá vörðu (N6404377 2137423) að gatnamótum og hér er hægt að komast yfir árfarveginn á leið sunnan árinnar. Ef ekki er farið yfir árfarveginn er sveigt með brekkum til hægri greinilegar götur sem liggja fram á Fossvallabrúnir og eru hér miklir vatnsfarvegir manngerðir  síðan nýjasti Suðulandsvegurinn var lagður en þá var Fossvallaánni sem áður rann suður fyrir Fossvallabrúnir og sameinaðist  Syðri Fossvallakvísl veitt fram af Fossvallabrúnum með fyrirhleðslu í gamla farveginn. Leiðin liggur svo niður Fossvallabrúnirnar norðan við nýja farveginn og síðan yfir hann og eftir götum um Fossvelli að farvegi Syðri Fossvallakvíslar þar sést hvar umferð um götuna hefur myndað rás í klöppina.
Nú er komið að fyrirhleðslu ofan við Fossvallaklif sem stíflar farveg  Bæjarkvíslar sem rann í gili niður hjá Austurvegur-231Lögbergi og beinir nú öllu vatni niður í Nátthagakvísl og þaðan í Nátthagavatn. Þegar yfir fyrirhleðsluna er komið  er haldið niður með gili Bæjarkvíslar og er gamla gatan greinileg niður í sveigum eftir gilbrúnini. Við neðanvert gilið er hleðsla fyrir vesturendan á gömlum vatnsfarveg úr gilinu og myndast þar gerði og er þar smá hellisskúti mjög lágur.
Ef farið er sunnan Fossvallaár sem er kölluð Heiðarbrúnarkvísl í örnefnalýsingu fyrir Elliðakot eftir Tryggva í Miðdal er um nokkrar götur að velja. Syðsta gatan þræðir óbrennishólma dálítin spotta vestur eftir Mosum og hefur verið mýkri undir fót en leiðir norðar. Gatan kemur svo saman við hinar göturnar sem liggja vestur eftir Mosum. Ekki sést til gatna á völlunum fyrr en við fjórar grasvörður (N6404260 2135667) á mörkum Vatnavalla við slétt mosavaxið hraunið sem þekur svæðið frá völlunum niður á móts við Holtstanga og er kallað Mosar. Göturnar sameinast síðan en hraunið er hér meira og minna bert eftir vatnsrof. Nú sést til vörðuna á nyrðri bakkanum sem stendur neðan við Leirdalsmynni er sveigt yfir fyrirhleðsluna á farvegi Fossvallaár sem áður var nefnd og kemur þá gata af nyrðri leiðinni saman við götuna. Nú sést vörðubrot niður við Suðurlandsveg (nýjasta) sem þverar götuna.  Farið  er austan við vörðuna (N6403335 W2137650) og yfir þjóðveginn og stefnt á hól með vörðubrot á toppi (N6404298 W2137840).

Austurvegur-232

Hér eru ógreinileg vegamót til vinstri á leið sem liggur um Sandskeið.  Áður en komið að hólnum sem fyrr var getið er farið yfir farveg Syðri Fossvallakvíslar-innar og eru þar á tveim stöðum djúp spor mörkuð í klöppina (N6404281 W2137811) með stuttu millibili og er efra sporið dýpra. Hér er allt þakið í stórgrýti og umbylt eftir vatnsflóð og þræðir leiðin á milli hnullunga. Farið er austan við hólinn á greinilegri götu og er þá næsta varða á hól framundan (N6403289 W2137151) og hann hafður á hægri hönd og beygt til hægri innan við hann upp lága brekku og þá er komið að girðingu  sem liggur með Suðurlandsvegi sem var sá þriðji sem lagður var. Þegar yfir hann er komið er stefnt að  klapparhól og farið sunnan í honum og svo yfir Suðurlandsveg númer tvö og stefnt að torfvörðu sunnan við veginn (N6404324 W2138504). Nú erum við komin á mikla afgirta grassléttu við Lögbergsrétt á Fossvöllum. Innan við girðinguna virðist vera hrunin hraungrýtisvarða. (N6404344 W2138548) Við erum nú komin á slóðir fyrsta Suðurlandsvegarins sem lagður var sem vagnavegur um árið 1887. Hann liðast upp á Lakheiðina hér skammt sunnar. Næst sjáum við lítið vörðubrot (N64340 W2138550) og förum svo framhjá réttinni og í gegnum hlið á Höfuðborgargirðingunni og sveigjum svo með hraunjaðri framhjá fallinni vörðu (N6404430 W2138800) og höfum hana á vinstri hönd og svo að annari fallinni vörðu. Líklega hefur gatan farið að klapparhæð ofan Lækjarbotna og svo stefnt á vörðu (fallin) (N6404618 W2138966) á hæð sem nefnist Klif norðan Bæjarkvíslar (norðan Fossvallaklifs) og sameinast þar götunni sem kemur austan frá Fossvallabrúnum. Norðan við Klifið eru Klofningar og rennur Fossvallaá þar fram af í fossi og þar norðanvið er annað Klif (Heiðartagl?)) samkvæmt örnefnaskrám fyrir Elliðakot og Lækjarbotna.

-10.maí 2013. Jón Svanþórsson.

Klifhæð

Ártalssteinn á Klifhæð.