Á vef Fornleifastofnunar Íslands er fjallað um merkileg fornfræðileg efni – flest þó fjarri Reykjanesskaganum. Eitt verkefnanna sem finna má á www.menningarminjar.is og á www.menningarsaga.is. „Þegar minnast þarf glataðra menningarminja er ágætt að horfa til Reykjavíkur með það í huga að „fortíðin er ekki „hughrif“ – hún er áþreifanlegur raunveruleiki“.
Reykjavík ber hin mestu verðmæti sögunnar ekki vel. Á rústum hinnar fyrstu byggðar þreytir fólkið hennar nú ýmist drykkju eða hjálpræði, boðar til þings og syngur skaparanum lof. Flest var þetta iðkað á sama stað þegar fyrstu kynslóðir Íslendinga reistu þar bú sín. Á svæðinu kringum Austurvöll og Aðalstræti hafa fundist menjar um þúsund ára gamla byggð, fornan bæ að þess tíma sið. Þar eru einnig leifar af fyrstu verulegu byggingum Reykjavíkur sem kaupstaðar, Innréttingarnar sem Skúli Magnússon fógeti lét reisa af stórhug hins upplýsta manns um miðja 18. öldina.
Og enn ber borgin merki hins fyrsta sæðis: Hún er stórhuga í smæð sinni og smá í sinni víðáttu. Gamla þorpið sem hún var, er varðveitt að hluta í miðborginni, og undir grunni nýrra bygginga búa rústir hinna gömlu – og jafnvel elstu, þar sem fornir andar landnema emja við söngva núlifandi kynslóða.
Vitaskuld er erfitt um vik að kanna til hlýtar fornleifar í miðborg nokkurrar höfuðborgar. Þó hefur þetta verið gert að talsverðu leyti í Reykjavík, einkum á umræddu svæði kringum Aðalstræti. Þar var fyrst komið niður á fornleifar við byggingaframkvæmdir á lýðveldisárinu 1944 en síðan var staðið fyrir umtalsverðum fornleifauppgrefti á svæðinu í byrjun áttunda áratugarins.
Í þessum uppgrefti og öðrum sem gerður var á níunda áratugnum komu í ljós leifar af tveimur 10. aldar skálum. Annar þeirra hefur staðið neðst við Grjótagötuna, þar sem Aðalstræti og Suðurgata mætast en hinn þar sem nú er Suðurgata 7. Elsta byggð í Reykjavík hefur því verið á svæðinu frá suðurhluta Ingólfstorgs og suður að Vonarstræti. Á torginu þar sem nú stendur stytta af Skúla Magnússyni hafa fundist leifar af mjög gömlum kirkjugarði. Hvíla þar griðkonur Ingólfs og Hjörleifs? – eða jafnvel þeir sjálfir? Eins og gefur að skilja er ógjörningur að fullyrða um slíkt og í raun erfitt að draga upp heildstæða mynd af byggðasögu Reykjavíkur. Þær takmörkuðu fornleifarannsóknir sem gerðar hafa verið sanna þó svo ekki verður um villst að byggð í Reykjavík er jafnvel jafngömul landnáminu.
Árið 1993 var grafið í Arnarhól vegna fyrirhugaðra framkvæmda um að breyta hólnum. Var þá komið niður á bæ frá 17. öld en öruggt er talið að neðan hans séu leifar af eldri byggingum. Við uppgröftinn fannst rómverskur peningur.
Það gefur auga leið að á miðöldum hefur byggð ekki verið samfelld á Reykjavíkursvæðinu eins og nú er, og fornleifar sem fundist hafa á öðrum stöðum, eins og í Laugarnesi, hafa tilheyrt annarri sveit. Frá vegarstæðinu þar sem Kleppsvegur beygir í átt að Sæbraut má greina til norðurs óljós merki fornleifa. Þar hefur verið kirkjugarður til forna en ekki hefur gefist færi á að kanna hversu umfangsmikill hann hefur verið. Vitneskja manna um byggðasögu Reykjavíkur er því jafn sundurlaus og svipur hennar.
Við vitum að hér settust landnemar að mjög snemma, og að einhver byggð hélst fram eftir öldum í kvosinni. Um miðja átjándu öldina má greina fyrstu merki þess hlutverks sem Reykjavík fékk síðar sem höfuðstaður Íslendinga. En nær allar lýsingar frá þeim tíma og 19. öldinni bera borginni slæmt orð. Hún er sóðalegt og drungalegt smáþorp, byggð af ólánsmönnum, þurrabúðarmönnum og sjógörpum í sambúð við örfáa danska embættismenn sem hingað hafa hrakist fyrir tilstilli illra örlaga. Og dágóður hluti íbúanna voru fangar og ræfilsmenn sem hafast við í húsinu þar sem ríkisstjórnin situr nú – litlu betri segja sumir.
Þegar söguleg vitund íslenskra menntamanna vaknar af löngum svefni á fyrstu áratugum 19. aldar finnst mörgum þeirra óhugsandi að velja Alþingi stað í þessu ljóta þorpi. Jónas Hallgrímsson fer fyrir hópi rómantískra hugsuða sem vilja setja þingið á sínum forna stað við Öxará. En eitthvað segir það okkur um stöðu Reykjavíkur á þessum tíma að Jón Sigurðsson og hans menn vilja setja þingið í reykjavík, af þeim sökum að þar muni þegar tímar renna rísa sá höfuðstaður sem við þekkjum nú. Hér eru æðstu menntastofnanir landsins, Reykjavíkurskóli og Prestaskólinn. Hér er dómkirkjan. Hér skulum við byggja okkar borg. Vegur Reykjavíkur vex smám saman þegar líður á nítjándu öldina og upp úr aldamótum búa hér um 6.000 manns, þar af nýfenginn ráðherra Íslendinga. Frá þessum tíma eru flest þau lágreistu hús sem nú setja svip sinn á miðborgina. En yfirbragð hennar er enn í mótun. Það er í raun aðeins nýlega sem sæst hefur verið á gildi þessara litli húsa fyrir svip borgarinnar og minna kapp lagt á að ryðja þeim burt eða kaffæra bak við reisulegri minnisvarða. En þegar slíkt hendir er mikilvægt að kann allar aðstæður frá sjónarhóli fornleifafræðinnar. Varðveisla sögulegra minja í Reykjavík felst þó kannski ekki síður í að hlúa að þessum gömlu húsum og tryggja þeim góða sambúð við síðari tíma byggingar. Sundurleysið í svip borgarinnar ber í sér töfra hennar. Og eins er um söguna. Við getum ekki státað af stórkostlegri sögu þar sem uppgangur og harðræði takast á og skilja eftir minnisvarða síðari kynslóðum til handa. Fáeinir húsagrunnar í sverði kvosarinnar og á einstaka stöðum í borginni eru einu leifar um byggð hér í fornöld. En þó hefur það ekki verið rannsakað að fullu.
Tign Reykjavíkur er af allt öðrum toga en útlendra stórborga, í stórhuga hógværð sinni ber hún skammri sögu okkar einstakt vitni og gerir enn í sinni stöðugu mótun þegar ný öld er um það bil að hefjast. Fornleifarannsóknir hafa þó fært henni sama tilverurétt og annarra höfuðborga, að því leyti að hún byggir þrátt fyrir allt á mjög gömlum grunni og er jafngömul sögu þjóðarinnar. Og hver veit nema að í framtíðinni gefist þess kostur að grafa frekar í svörð hennar þar sem vitað er um leifar fyrstu íbúanna, svo sem í kvosinni, við Alþingishúsið, á Arnarhóli og í Laugarnesi. Slík heildarathugun á byggðasögu henanr mun ekki gera Reykvíkingum fært að bera sig saman við Parísarbúa eða Lundúnarverja, en hún myndi án efa varpa frekara ljósi á uppvöxt Reykjavíkur, þann vöxt sem enn á sér stað og er samofinn lífi fólksins í borginni.
Byggðasaga Reykjavíkur og fornleifarannsóknir í Kvosinni
Þegar Skúli Magnússon stofnaði Innréttingarnar árið 1751 var Reykjavík aðeins venjulegur sveitabær. Verksmiðjunum var valinn staður við hliðina á bæjarhúsunum. Bærinn er talinn hafi staðið þar sem Hjálpræðisherinn er nú og byggðust því Innréttingarnar út af Aðalstræti, sem hafði verið sjávargata Reykjavíkurbóndans. Fljótlega byggðist upp hið gamla tún Reykjavíkurbæjar og er Austurvöllur leifar þess. Búskapur lagðist fljótlega af.
Reykjavíkurkirkja stóð þar sem núna er Fógetagarðurinn og hefur verið kirkjugarður kringum hana, allt þar til Dómkirkjan var byggð árið 17… Kirkjugarðurinn var þó áfram í notkun þar til kirkjugarðurinn við Suðurgötu var opnaður um miðja 19. öld. Frá upphafi samfelldrar byggðar í Reykjavík hafa menn því alltaf vitað um menjar gamla Reykjavíkurbæjarins og kirkjugarðsins. Allar götur síðan á 18. öld hafa menn rekist á fornar minjar: hleðslur, öskur, bein osfrv, við byggingaframkvæmdir frá Vonarstræti og norður undir Hallærisplanið.
Í tilefni af 1100 ára afmæli Íslandsbyggðar var ákveðið að ráðast í meiriháttar fornleifauppgröft á gamla bæjarstæðinu. Þá var grafið á lóðunum Aðalstræti 14 og 18, Suðurgötu 5 og Tjarnargötu 6. Við þennan mikla uppgröft komu í ljós bæði leifar af húsum innréttinganna í Aðalstræðti en einnig miklu eldri leifar frá því að menn fyrst tóku land í Reykajvík. Að minnsta kosti tveir skálar hafa verið við Aðalstrætið og sá þriðji við Suðurgötuna. Ekkert virðist byggt í Aðalastræti eftir að fyrstu skálarnir þar fara í eyði. Byggðin heldur eingöngu áfram á svæðinu milli Suðurgötu, Vonarstrætis og Kirkjustrætis. Síðar hefur einnig verið grafið á lóðinni á Suðrgötu 7 og þar komu í ljós byggingar tengdar Reykjavíkurbænum. Síðast var grafið 1999 í miklum ruslalögum á bílastæðinu á móti húsi Happrættis Háskólans. Þar hefur verið mýri við nyrstu mörk Tjarnarinnar. Allt sem fannst við þann uppgröft reyndist vera yngra en frá 1500.
Hinn 9. september s.l. [2005] lauk vettvangsrannsókn á fornleifum undir húsinu í Aðalstræti 10, sem er talið elsta hús í Reykjavík. Rannsóknin fór fram vegna viðgerða og endurbyggingar á húsinu. Lækka átti jarðveg undir gólfi vegna einangrunar og lagna og einnig að grafa niður til að styrkja undirstöður hússins. Því þurfti að kanna hvort fornleifar væru þar fyrir.
Bæði var talið að þar gætu verið leifar eldri húsa frá 18. öld og jafnvel eldri ummerki um mannvist. Á ýmsum nálægum lóðum, Aðalstræti 12, 14, 16 og 18, höfðu áður fundist minjar frá fyrstu öldum Íslandsbyggðar.
Húsið Aðalstræti 10 er byggt upp úr miðri 18. öld. Undir mestum hluta gamla hússins sjálfs hafði ekki verið kjallari og því voru þar óröskuð jarðvegslög. En viðbygging við húsið að vestan hafði verið grafin dýpra niður.
Minjar þær er fundust undir gólfi í Aðalstræti 10 reyndust vera frá 18. öld. Þar voru steinundirstöður undan timburstokkum eða plönkum sem borið hafa uppi fjalagólfið í húsinu. Þar undir voru ýmis lög með ummerkjum um umsvif manna á staðnum, m.a. töluverð lög af móösku úr eldstæðum nálægra bygginga. Nokkuð fannst af glerbrotum, einkum rúðugleri, einnig nokkuð af dýrabeinum. Meðal tímasetjanlegra gripa var nokkuð af brotum úr leirílátum, postulíni og tóbakspípum úr leir. Ekki fundust ummerki um eldri byggingar sem kann að benda til þess að hér sé komið norður fyrir bæjarstæði Reykjavíkurbæjarins gamla.
Helstu heimildir um Reykjavík:
-Kristín H. Sigurðardóttir – Fornleifarannsókn að Suðurgötu 7 í Reykjavík. Árbók hins íslenzka fornleifafélags 1986.
-Kristján Eldjárn – Hann byggði suður í Reykjarvík. Reykjavík í 1100 ár, Helgi Þorláksson ritstj., (Safn til sögu Reykjavíkur), Reykjavík 1974.
-Matthías Þórarson – Fundnar fornleifar í Reykjavík, 15. júní 1944.
-Else Nordahl – Landnámstid i Reykjavík. Hus, gård och bebyggelse, Guðmundur Ólafsson ritstj. Reykjavík 1983.
-Else Nordahl – Reykjavík from the Archaeological Point of View, Uppsala 1988.
-Ragnar Edvardsson – Fornleifar á Arnarhóli. Árbók hins íslenzka fornleifaféalgs 1994, 17-28.
-Þorkell Grímsson – Reykvískar fornleifar. Reykjavík í 1100 ár, Helgi Þorláksson ritstj. (Safn til sögu Reykjavíkur), Reykjavík 1974, 53-74.
-Þorleifur Einarsson og Þorkell Grímsson – Ný aldursgreining úr rannsókninni Aðalstræti 14, 16 og 18, 2000 – 2003. Árbók hins íslenzka fornleifafélags 1968.