Tag Archive for: Reykjavík

Úlfarsá

Í „Fornleifaskráningu Úlfarsárdals, Reykjavík 2017„, segir m.a. um Úlfarsá:

Úlfarsá

Úlfarsá – tóftir gamla bæjarins nær.

„Úlfarsá telst vera hluti af víðáttumiklu landnámi Ingólfs Arnarsonar en hann nam land milli Ölfusár og Hvalfjarðar fyrir utan Brynjudalsá. Samkvæmt þessu hefur landnám Ingólfs náð yfir alla Gullbringu- og Kjósarsýslu, ef frá er talið svæðið sem liggur milli Brynjudalsár og Botnsár, og Árnessýslu vestan við Ölfusá. Ingólfur gaf svo vinum og vandamönnum er síðar komu hluta af landnámi sínu.1 Svæðið sem jörðin Úlfarsá tilheyrir var því síðar land Þórðar skeggja Hrappssonar en hann hafði fyrst numið land austur í Lóni og búið þar í um tíu ár. Þegar Þórður skeggi frétti að öndvegissúlur hans hafði rekið á land í Leiruvogi seldi hann land sitt Úlfljóti sem þekktur var fyrir að hafa komið með lögin til Íslands. Þórður flutti svo suður og settist að, með ráði Ingólfs, á svæðinu milli Úlfarsár og Leiruvogs.

Úlfarsá

Úlfarsá – gatan að nýjasta bænum.

Við siðbreytinguna urðu þær jarðir sem áður höfðu tilheyrt kirkjunni eign konungs. Úlfarsá er ekki að finna í fógetareikningum, jarðaskiptabréfum né jarðaskrám kirkjunnar frá miðöldum. Jarðarinnar er fyrst getið í jarðabók 1584 og þá undir nafninu Kálfastaðakot og telst jörðin þá vera konungseign. En hvernig má það vera? Ólafur Lárusson hefur komið með skýringu á þessu. Hann taldi víst að jörðin hafi farið undir konung á árunum 1552-1584. Flestar jarðirnar í kringum Kálfakot tilheyrðu Viðeyjarklaustri á miðöldum og því nokkuð líklegt að það hafi einnig átt við Kálfakot. Ólafur bendir á að algengt hafi verið að bæjarnöfn fengju endinguna – kot við það að leggjast í eyði. Jörðin hafi því áður heitið Kálfastaðir en það gæti verið afbökun úr enn eldra nafni, Kálfarrstaðir sem sé þá dregið af karlmannsnafninu Kálfarr.
Hannes Þorsteinsson gerði nafn jarðarinnar einnig að umtalsefni í skrifum sínum um 1923. Hann benti á að jörðin nefnist Kálfastaðakot í jarðabókum frá 1639 og 1696 “og getur vel verið, að það sé upphaflega heitið, kennt við einhverja Kálfa(r)sstaði (eða Kálfsstaði), en nafnið horfið fyrir ævalöngu og Kálfakot komið í staðinn, sem heiti jarðarinnar.” Ólafur Lárusson taldi sennilegt að Kálfastaðir hafi lagst við nágrannajörðina Lambhaga þegar jörðin fór í eyði. Lambhagi tilheyrði Viðeyjarklaustri og fór svo undir konung og þannig hafi Kálfakot komist undir konungshendur. Þegar jörðin var aftur byggð þá var það undir nafninu Kálfastaðakot. Upp úr 1590 er farið að nefna jörðina Kálfakot og árið 1925 er jörðin nefnd Úlfarsá, þá átti hana Sigurjón Einarsson.

Úlfarsá

Úlfarsá (Kálfakot) – tóftir.

Samkvæmt jarðabókinni 1704 var jörðin þá konungseign. Ábúendur voru tveir, Salbjörg Gunnlaugsdóttir sem bjó á helmingi jarðar og Einar Sveinbjörnsson sem bjó á hinum helmingnum. Landskuld af allri jörðinni voru xl álnir og skiptist til helminga á milli ábúenda. Landskuld skyldi borgast í fríðu með sama taxta og gilti um Helliskot. Ábúendur skyldu leggja fram við til húsabóta. Kúgildi voru þrjú, eitt og hálft hjá hvorum ábúanda. Leigur skyldu borgast í smjöri heim til Bessastaða eða í Viðey eftir því sem fyrirmæli voru. Ábúendum bar að yngja upp kúgildin. Á jörðinni voru sömu kvaðir og á Reynisvatni nema hvað hestlán varðar en hestlán höfðu ekki verið á kvöð á jörðinni þar sem ábúendur voru svo fátækir að þeir áttu annað hvort engan hest eða einn og þá „lítt eður ekki færan, og fóður minnast menn ei að verið hafi kýr að fullu“. Engjar voru taldar „ærið“ litlar, útigangur lakur og landþröng mikil. Kvikfénaður Salbjargar voru tvær kýr en Einar var með fjórar kýr, eina kvígu veturgamla, einn hest, sjö ær með lömbum, tvær geldar ær, tvo veturgamla sauði og einn tvævetur. Talið var að á allri jörðinni gætu fóðrast sex kýr, 10 lömb og einn hestur. Tveir voru til heimilis hjá Salbjörgu og þrír hjá Einari. Torfskurður til húsagjörðar og eldiviðar var talinn nægilegur.

Úlfarsá

Úlfarsá – fjárborg.

Árið 1882 var jörðin í eigu Jóns Péturssonar „háyfirdómara” og Tómasar Hallgrímssonar „læknaskólakennara” sem bendir til þess að þá hafi eigendur ekki búið á sjálfir jörðinni allt árið. Árið 1909 þegar Herforingjaráðskortið var gert af svæðinu, er Úlfarsáin nefnd Korpúlfsstaðaá og Úlfarsfell Hamrafell. Frá Vesturlandsvegi sem þá var orðinn vagnavegur liggja tveir vegir inn Úlfarsárdalinn að norðan, en við Lambhaga greinast þeir í tvær leiðir, önnur fer upp að hryggnum sunnan við Leirtjörn að Úlfarsfelli og áfram að Reykjarkoti og Syðri-Reykjum, en neðri leiðin fer beint að Kálfakoti.
Samkvæmt manntali frá árinu 1703 til 1920 bjuggu í Kálfakoti ein til tvær fjölskyldur frá 1703 til 1920, fæst fimm manneskjur en flest nítján.

Kálfakot

Kálfakot – túnakort 1916.

Túnakort var gert af jörðinni Kálfakot árið 1916, af Vigfúsi Guðmundsyni frá Keldum. Aðalbærinn er á miðju kortinu undir „Fellinu“ og samanstendur hann af sjö húsum sem hafa verið torfhús með standþili og snúa þau suður. Á hlaðinu eru auk þess tveir stórir kálgarðar, bæjartröðin lá í austur frá bænum. Norðaustur af bænum í Fellinu hefur verið annar bústaður, tvö hús og annað þá greinilega orðið tóft, en við það var lítill kálgarður.
Austur af bænum voru tvö útihús og hefur anað þeirra verið tóft. Suður af bænum neðst í túninu hefur verið lítið timburhús, þar suður af var skeifulaga skjólgarður og lítill kálgarður. Í athugasemdum við kortið kemur fram að timburhúsið neðst í túninu hafi verið byggt til íbúðar (Margrét Zoega) árið 191?, og rifið aftur (Jón Kr.) 1917 og selt til Reykjavíkur. Jaðar túnsins er markaður en einungis hefur verið hlaðinn túngarður frá Gili í austur að bústaðnum en þar hefur tekið við girðing. Í Gilinu hefur verið girðing eða aðhald. Túnið telst vera 3,2 teigar (hektarar) og er um helmingur sléttaður nýlega og kálgarðar hafa verið um 950 m2.

Úlfarsá

Úlfarsá – stekkur.

Á árunum 1915-17 bjó Margrét Zoëga í Kálfakoti, en hún flutti þangað í kjölfar brunans á Hótel Reykjavík, en hún var þá orðiðn ekkja (Einar Zoëga). Margrét átti þá tvær jarðir, Einarsstaði á Grímstaðholti og Kálfakot. Sjálf ræktaði hún garðávexti að Einarstöðum en hafið ráðsmann í Kálfakoti. Margrétt lét byggja lítið timburhús fyrir sig í túnfætinum á Kálfakoti trúlega árið 1915, en þar var síðar reist steinhús á Úlfarsá (1930). Árið 1918 reisti Margrét Zoëga síðan húsið Þrúðvang við Laufásveg 7 og flutti þangað í kjölfarið.
Í framhaldi eignast Jón Kristjánsson prófessor í Reykjavík jörðina árið 1918 og lætur hann rífa hús Margrétar og selur það til Reykjavíkur. Hann var stórhuga í búskapnum, og árið 1918 lét hann þurrka upp tjörn fyrir utan og ofan bæinn (Leirtjörn), sem var 18 dagsláttur að stærð. Þar ætlaði hann, ef honum hefði enst aldur til, að sá í hana höfrum. Að meðaltali fengust 18 hestar af hafragrasi af dagsláttunni hér á landi þá. Auk þess byggði hann, ásamt eiganda Reynisvatns, vatnsveitugarða og ætluðu þeir að veita Úlfarsá yfir allar engjarnar, sem liggja með fram henni.

Úlfarsá

Úlfarsá – stífla.

Í Fasteignamatsbók Kjósarsýslu frá 1918 er jörðin nefnd Kálfá en svo innan sviga (=rkot) þannig að bæði nöfnin hafa verið þekkt á þeim tíma. Að auki hefur nafninu Úlfarsá verið bætt við fyrir aftan og er það líklega gert árið 1930, þegar athugasemdum var bætt inn í bókina. Í matsbókinni kemur fram að jörðin sé norðanvert í Úlfarsdalnum, um 11 km frá Reykjavík, eigandi og notandi sé Jón Kristjánsson. Jörðin er skattsett 200 krónur. Svo virðist sem enginn búi á jörðinni á veturna. Tún voru 3,2 teigar, hölluðu til suðurs og tæplega helmingur var sléttaður og taða var um 130 hestburðir. Sáðreitir voru 800 m2 og uppskeran um 12-15 tunnur. Miðað við stærð sáðreita hefur þetta verið lítill hluti af Leirtjörninni sem sáð var í. Útslægjur voru taldar fremur þýfðar en nokkuð samfelldar og mest var af þeim hafa um 300 hestburði. Land var ekki mikið, og fremur rýrt, sunnan í Úlfarsfelli. Tún var girt á tvo vegu, mest var notast við þriggja strengja vír en restin var grjótgarður. Aðrir kostir eða ókostir voru „varla teljandi“ en mótak talið sæmilegt, vatnsból gott, byggingarefni lélegt og „hægt um tún útfærslu“. Bent er á að foss sé í ánni á merkjum og mögulegt væri að veita á slægjublett. Árið 1918 er engin áhöfn á jörðinni um veturinn en talið að hún fóðri þrjár kýr og einn vetrung, þrjú hross og 100 fjár. Hvað húsakost varðar var hann metinn á 1100 krónur en hann samanstóð af timburhúsi í smíðum úr fremur lélegu efni, 4,4 x 6,9 m metið á 500 krónur, hlaða fyrir 250 hesta metin á 300 krónur, fjós fyrir tólf nautgripi (sumarfjós) metið á 160 krónur, hesthús fyrir fimm hross metið á 40 krónur. Jarðabætur voru metnar á 300 krónur og heildarmat var því um 6000.

Úlfarsá

Úlfarsá – stíflugarður fyrir vorflæðið.

Björn Bjarnason segir svo í riti sínu Sagnir, ljóð o.fl. frá 1931: „Úlfarsá (áður Kálfakot). Þar bjó lengi Guðm. Jónsson á síðari hluta 19. aldar. Síðan hafa ýmsir búið þar, sumir eigendur, þar á meðal Margrét (Tómasd.) Zoega. Hún færði bæinn, er var ofarlega í túni, á lítinn bala neðst í því. Byggði þar timburh. og leiddi vatn inn. Það hús var síðar rifið, og byggt annað minna. Síðar var annað íbúðarhús byggt við það, en eldra húsið gert að geymslu. Fjós og hlaða er nú steypt. Eig. + ábúandi nú Jón Guðnason hefur gert nýrækt allmikla. Túnið að mestu sléttað. Var 3 kúa tún, nú 10-12. Talsvert sauðfé. Girðingar miklar.“
Ljóst er af þessum lýsingum að staðsetning bæjarins hefur ekki verið samfelld á einum bæjarhól. Bærinn var að hluta færður um 1916 þar sem síðar var steypt hús á Úlfarsá. Þar byggði Margrét Zoega fyrst 1915 það hús var síðan rifið og nýtt í byggingu 1918 þegar úttektin fór fram, sjá hér að framan, sama ár létust hjónin Jón Kristjánsson lagaprófessor og kona hans Þórdís T. Benedikts. Jörðin var síðan auglýst til sölu í desember 1918 metin á 12,2 hr. að dýrleika og átti að seljast hvort sem er með eða án áhafnar. Þá virðist ekki hafa fundist kaupandi, því jörðin var boðin upp 8. maí árið eftir og þá eru þar 6 kýr 25 kindur, 2 vagn hestar og 6 hænsni auk vagna, plóga, herfis, reipa og annarra húsmuna.

Úlfarsá

Úlfarsá – kennileiti.

Jón Guðnason og Jóna Þorbjarnardóttir bjuggu á Úlfarsá frá 1927-1944 og byggðu þau upp jörðina. Árið 1930 var búið að byggja tvö íbúðarhús annað úr timbri en hitt steypt, auk steyptar hlöðu og fjóss. Vatnleiðsla lá heim að bænum og búið að stækka túnin frá fyrra mati.
Fjárhús var á jörðinni auk þess sem búið var að ryðja bílfæra braut að bæjarstæðinu. Úlfarsá var í ábúð til ársins 1953.
Á árunum 1948-50 fékk Atvinnudeild Háskólans að gera ræktunartilraunir á Úlfarsá og var dr. Áskell Löve þar fremstur í flokki með ræktun, t.d. á jarðaberjum, eplatrjám ásamt 97 afbrigðum af kartöflum.
Upp úr 1950 var farið að huga að byggingu fyrir drykkjumannahæli í nágrenni Reykjavíkur og árið 1979 var Gæsluvistarsjóður orðinn eigandi Úlfarsár. Jörðin var þá nýtt sem útibú frá Kleppspítala og var drykkjumannahæli þar til ársins 1962. Gestur Björnsson forráðamaður vistheimilisins var skráður fyrir nokkrum skepnum á jörðinni 1980.
Jörðin tilheyrði Mosfellssveit til ársins 2001, þegar sveitafélagsmörkum var breitt. Uppbygging á íbúðahverfi innan jarðamarka Úlfarsár hófst í kjölfar samþykktar á deiliskipulags fyrir Úlfarsárdal árið 2006.“

Heimild:
-Fornleifaskráning Úlfarsárdals, Reykjavík 2017.

Úlfarsá

Úlfarsá – brunnur.

Grafarkot

Í Örnefnalýsingu fyrir Grafarholt, Björn Bjarnason 1967, er getið um sel frá Árbæ á Nónhæð, „austanverðum ásnum“ ofan Grafar, suðaustan Grafarvogs. Í þá daga hafði jörðin Gröf ekki verið byggð eftir að hafa verið í eyði um tíma. Sömu sögu var að segja um Grafarholt og Grafarkot (Holtastaði).

Grafarkot

Grafarkot, Grafarholt og Gröf – kort 1908.

„Um Grafarkot segir í A.M. 1703; „byggð upp að nýju fyrir 50 árum, þar menn meina, að forn eyðijörð verið hafi og hún fyrir svo löngum tíma í auðn komin, að fæstir vita, hvað hún hafi til forna kölluð verið; eftir sögn eins gamals manns þykjast nokkrir heyrt hafa, að þessi jörð hafi heitið að fornu Holtastaðir“. Fornu rústirnar eru miklar um sig. Túnið hefur verið mikið stærra fyrrum og girt, en utan við það afar fornir (alsokknir) garðar og fjárbyrgi. Borgir og byrgi hafa víða verið hér, enda ætíð fremur á beit en gjöf að byggja fyrir sauðfé.

Grafarkot

Grafarkot 2022.

Á sauðaútflutningsárunum vóru hér geymdir 2200 sauðir um tíma, gerði næturbyrgingar búið til á þann hátt, að í túninu var rist ofan af löngum flögum og þökunum hlaðið í garða á ytri brúninni.
Sel hefur verið suðaustan undir ásnum [Nónhæð]. Það er í Árbæjarlandi.“

Gröf var við Grafará. Ofar var Grafarholt, eða Suður-Gröf. Enn ofar í hallanum var Grafarkot. Tóftir þeirra fyrstnefndu og síðastnefndu sjást að hluta til enn.

Árbæjarsel

Árbæjarsel í Nónhæð.

Í annars óaðgengilegri fornleifaskráningu Bjarna Einarssonar fyrir Reykjavík 1995 segir m.a. um fornleif í Nónæð, skammt vestan mýrarlækjar, sem rennur í Grafarlæk:

„Sel; 7x5m (A-V). Veggir úr torfi og grjóti, br. 0,6-1,3m og h. 0,2-0,5m. Fornleifarnar samanstanda af 2 hólfum (A og B). Dyr á báðum hólfum í N. Við NA- horn, er rúst 4x 3m (N – S).
Veggir úr torfi, dyr trúlega í N. Í A-vegg er stór steinn, 0,3×0,8 m. Nýlegur troðningur liggur yfir NA-horn hólfsins. 5m S af selinu er vegur (A-V), br. 2,5 m (gróinn) og l. 4 m.“

Árbæjarsel

Árbæjarsel – stekkur í Nónhæð.

Hér þrennu við að bæta; í fyrsta lagi er þriðja tóftin ekki við NA-horn selsins. Hún er við SV-horn þess. Í öðu lagi vantar í skráninguna forna fjárborg eða aðhald SV við selið. Og í þriðja lagi vantar stekkinn, sem tillheyra öllum öðrum selstöðum á Reykjanesskaganum. Hann er að finna á grónu svæði skammt vestan við selið.

Grafarsel

Grafarsel.

Í Örnefnalýsingunni segir auk þess: „Gröf/Grafarholt er býli sunnanvert við botn Grafarvogs. Það hét áður Gröf en þegar bæjarstæðið var flutt á núverandi stað árið 1907 var nafninu breytt. Gröf er eign Viðeyjarklausturs árið 1395 og varð konungseign við siðaskipti. Um 1840 var jörðin sel en árið 1943 var hún lögð undir Reykjavík og meginhluti hennar tekinn eignarnámi 1944. Í landi Grafar voru meðal annars Baldurshagi, Engi, Rauðavatn, Selás og Smálönd.144 Í Jarðabók Árna og Páls segir um selstöðu Grafar; „Selstöðu á jörðin í heimalandi, sem nauðsynleg er, því jörðin stendur á horni landsins, en er mjög landljett heima.“ Í örnefnalýsingu fyrir Gröf segir; „Djúpidalur er suðvestur af Grenisás, djúpur dalur. Hann er lokaður inni, en opnast suður að Hvömmum, skáhalt að svonefndum Selbrekkum. … .Þá eru Selbrekkur, er ná alveg frá Rauðavatni upp að Tvísteinum. Þar sér fyrir seltóftum efst í aðalbrekkunni.“ Grafarsel er enn vel sýnilegt ofarlega í grasigróinni brekku norðaustur af Rauðavatni.“

Árbæjar er ekki getið í Jarðabókinni 1703.

Árbær

Árbær – fornleifauppgröftur.

Í „Byggðakönnun – Árbær – 2017“ segir: „Elsta heimild um Árbæ er í skjali frá 31. júlí 1464. Þar votta Steinmóður ábóti í Viðey og Jón Narfason að Ólöf ríka Loptsdóttir hafi látið Gerrek gullsmið í Hafnarfirði fá silfur sem greiðslu fyrir jarðir Guðmundar Arasonar, sem hún og hennar maður Björn Þorleifsson höfðu keypt af konungi en Gerrekur átti að koma silfrinu til konungs fyrir þeirra hönd.

Saga Árbæjar er hins vegar mun eldri en þekktar heimildir gefa til kynna því árið 2016 leiddu fornleifarannsóknir á bæjarstæðinu í ljós að þar var búið á 11. öld og jafnvel þeirri tíundu. Leiða má að því líkur að það sama eigi við um búsetu á öðrum þeim jörðum sem hér eru til umfjöllunar.“

Heimildir:
-Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns. III: 296
-Bjarni F. Einarsson 1995, Fornleifaskrá Reykjavíkur.
– Örnefnalýsingu fyrir Grafarholt, Björn Bjarnason 1967.
-Byggðakönnun – Árbær – 2017.

Árbæjarsel

Árbæjarsel á Nónhæð – uppdráttur ÓSÁ.

Elliðakot

Í „Skráningu fornleifa í Mosfellsbæ 2006“ segir m.a. um Elliðakot (Helliskot):
Ellidakot-222
Saga Kotsins er fyrst getið árið 1395 í skrá um kvikfé og leigumála á jörðum Viðeyjarklausturs. Þá er jörðin í eyði og kallast „Hellar“ (Dipl. Isl. III, bls. 598). Í heimild frá 1704 er svo talað um „Hellirs Kot“ og virðist líklegt að um sömu jörð sé að ræða (sbr. Ólaf Lárusson 1944). Hún er þá í eigu konungs með tvo ábúendur sem búa hvor á sínum helmingi hennar (Jarðabók Árna og Páls III, bls. 288-9). Árið 1847 er jörðin hins vegar orðin bændaeign og býr eigandinn þar einn (J. Johnsen, bls. 96). Nafnið Elliðakot var tekið upp um 1883. Að sögn Karls Nordahls (f. 1898) hafði jörðin verið í eyði þegar afi hans byggði þar timburhús til íbúðar árið 1887. Samkvæmt fasteignabókum hefur kotið lagst í eyði aftur á árunum 1938-1957 (Fasteignabók) en í heimild frá 1978 kemur fram að húsið hafi brunnið árið 1949 (Guðlaugur R. Guðmundsson, bls. 1) Samkvæmt Eyðijarðaskrá 1963 er jörðin þá í eigu dánarbús Gunnars Sigurðssonar í Gunnarshólma en þar eru engin nothæf hús og hæpið talið að leggja í kostnað til búsetu (Skýrsla um eyðijarðir 1963). Gamli húsgrunnurinn stóð þó enn þá 1978 (Guðlaugur R. Guðmundsson).

Ellidakot-229

Náttúrufar og jarðabætur Í eyðijarðaskránni frá 1963 segir nánar tiltekið að á jörðinni séu hvorki íbúðarhús né peningshús, ekkert hesthús, en fjárhús og heygeymsla „…gömul, mjög léleg, ónothæf.“
Önnur útihús eru ekki á jörðinni. Þar er gamalt tún, 2-3 ha., og nýrækt, ræktuð og nytjuð frá Gunnarshólma en ræktunarskilyrði léleg, „…flatlendar mýrar, óhentugar til nýræktar“. Um beitiland segir að sumarbeit sé góð í Mosfellsheiði og einnig vetrarbeit þegar snjólétt er og er þess getið að jörðin hafi síðustu árin verið notuð til slægna og beitar frá Gunnarshólma.
Samgönguaðstaða:
Ellidakot-224„Léleg heimreið frá Suðurlands-braut“ (Skýrsla um eyðijarðir 1963). Í Landamerkjabók Elliðakots frá 1890 segir að mörk jarðarinnar að sunnanverðu séu „…frá Vífilfelli niður Sandskeiðið niður fyrir Vatnasæluhús og svo eptir árfarinu fyrir súnnan Neðrivötn niður að þúfu sem stendur á Holtstanga fyrir neðan Neðrivötn, þaðan eins og ræður syðsta kvíslin af Fossvallaánni niður hjá Lækjarbotni fyrir sunnan Tröllbörn hjá Lækjarmóti niður hjá Hraúnsnefi og þaðan eptir sömú kvísl þar til hún fellur [í] Elliðaána við svokallað Heiðartagl.“
Að V- og N-verðu ræður síðan „Elliðaáin… …til austurs þar til Gudduós fellur í hana, og svo ósinn sem hann nær uppí Selvatn, og svo Selvatnið, sem það nær lengst til austurs þar sem Sellækurinn fellur í það, þaðan beina stefnu til suðausturs yfir heiðina í Lyklafell sem það er hæðst, og svo eptir árfari nú frá Lyklafelli til austurs uppað stefnú beint frá Borgarhólum í Vífilfell sem er takmörk Árnessýslu“.

Ellidakot-225

Ein tóft við Elliðakot er að öllum líkindum merkilegri an aðrar, sbr.: „Tóftir í hólnum voru skráðar árið 1982. Þær voru þá mjög ógreinilegar en skrásetjara virtist þær vera af húsum, görðum og jafnvel vegi. Þarna voru a.m.k. tóftir tveggja mannvirkja en að öðru leyti var erfitt að greina minjarnar eða sjá á þeim nokkra heildarmynd (Bjarni F. Einarsson).
Á Túnakorti Elliðakots frá 1916 eru útlínur bæjarrústa merktar inn á mitt túnið. Skrásetjari sem skoðaði gamla bæjarhólinn árið 1982 sagði hann vera um 130 m NNA vegarins (Bjarni F. Einarsson).
Í Örnefnalýsingu 1978 segir að bærinn hafi staðið undir Dyngju, norðan Lækjarbotna, í hvilft eða lægð sem heitir Nátthagi. Þar virðist að vísu vera átt við yngri bæinn sem var úr timbri og ekki er ljóst hvort hann hafi verið byggður á sama stað og gamli torfbærinn (Guðlaugur R. Guðmundsson).

Ellidakot-226

Tóftir í hólnum voru skráðar árið 1982. Þær voru þá mjög ógreinilegar en skrásetjara virtist þær vera af húsum, görðum og jafnvel vegi. Þarna voru a.m.k. tóftir tveggja mannvirkja en að öðru leyti var erfitt að greina minjarnar eða sjá á þeim nokkrar minjar. Af Túnakortinu má ráða að bærinn hafi verið byggður úr torfi og grjóti. Að sögn Karls Nordahls (f. 1898) var Elliðakot í eyði þegar afi hans byggði þar íbúðarhús úr timbri árið 1887 og hefur því verið hætt að nota gamla torfbæinn fyrir þann tíma.“

Ljóst er að nefnd fornleifaskráning er fyrir margra sakir ónákvæm og margt á eftir að koma í ljós varðandi Elliðakot við nánari rannsóknir á vettvangi; einkum það er lítur að upphaflegri nýtingu svæðisins (sjá nánar síðar).
Í Árbók Hins íslenska Fornleifafélags 1914, segir m.a.: „Nú veit enginn hvar Viðeyjarsel hefir verið, þar sem þeir, er sendir voru úr Hafnarfirði eftir Ögmundi biskupi að Hjalla, áðu áður en þeir lögðu á Ólafsskarð.

Ellidakot-233

En mér þykir líklegt að það hafi verið við Selvatn, rétt hjá þessum vegi, sem þar er sameiginlegur fyrir allar áðurnefndar leiðir, og að Elliðárkot  Helliskot (Elliðakot), hafi þá verið lítt bygt eða í eyði, og hið góða og mikla sumarbeitarland þess notað til beitar fyrir selfénað klaustursins“. Þess má geta að nefnt Viðeyjarsel var í Lækjarbotnum ásamt Örfiriseyjarseli. Sjást tóftir þeirra enn greinilega. Lækjarbotnaselið var um tíma notað frá Bessastöðum svo ekki er ólíklegt að Viðey hafi jafnframt haft selstöðu í Helliskoti.
Í Árbókinni 1923 segir um nafnið: „
Elliðákot (Helliskot). Nafnið Elliðakot er tekið upp fyrir nál. 40 árum, og nefna nú allir svo. Mun því réttast að láta það standa óhaggað, enda segja kunnugir menn, að enginn hellir sé þar nálægt, sem kotið gæti verið við kennt. Má vera, að Hellis- sé afbökun úr Elliða-, eins og Elliðaár afbökuðust í Hellirár“.

Heimildir:
-sbr. Skráningu fornleifa í Mosfellsbæ, Þjóðminjasafnið 2006.
-Árbók Hins íslenska fornleifafélags 1914, bls. 13-14.
-Árbók Hins íslenska fornleifafélags 1923, bls. 33.

-Dipl. Isl. III: Diplomatarium Islandicum.
-Íslenskt fornbréfasafn, sem hefir inni að halda bréf, gjörnínga, dóma og máldaga og aðrar skrár, er snerta Ísland og íslenzka menn. Kaupmannahöfn og Reykjavík 1857 og áfr.
Fasteignabók. Löggilt af fjármálaráðuneytinu samkvæmt lögum nr. 3, 6. jan. 1938. Reykjavík 1942-1944.
-Fasteignabók I. Mat fasteigna í sýslum samkv. lögum nr. 33 frá 1955. Öðlast gildi 1. maí 1957. Reykjavík 1956-1957. Guðlaugur R. Guðmundsson.
-Örnefnalýsing Elliðakots og Vilborgarkots. Örnefnastofnun Íslands 1978.
-Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns. Gullbringu-og Kjósarsýsla. Þriðja bindi. Reykjavík 1982.
-J. Johnsen. Jarðatal á Íslandi, með brauðalýsingum, fólkstölu í hreppum og prestaköllum, ágripi úr búnaðartöflum 1835-1845, og skýrslum um sölu þjóðjarða í landinu. Kaupmannahöfn 1847.
-Landamerkjabók í afsals- og veðmálsbók fyrir Gullbringu-og Kjósarsýslu 1890. Ólafur Lárusson. „Nokkur byggðanöfn“. Byggð og saga. Reykjavík 1944.
-Skýrsla um eyðijarðir skv. fyrirmælum 53. gr. laga nr. 75 frá 1962, um Stofnlánadeild landbúnaðarins, landnám, ræktun og byggingar í sveitum. – Ópr. 31.12.1963.
-Fornleifaskráning í Mosfellssveit 1980-1982. Skráningarbækur Þjóðminjasafns Íslands.
-Guðlaugur R. Guðmundsson. Örnefnalýsing kots og Vilborgarkots. Örnefnastofnun Íslands 1978.
-Túnakort Elliðakots í Mosfellssveit frá 1916.

Elliðakot

Elliðakot 2009.

Kolviðarhóll

Í Tímanum 1977 er fjallað um „Kolviðarhól 1877-1977, fyrsta gisti og veitingahúsið á Hellisheiði…„:

Kolviðarhóll
„Í byrjun júlí síðastliðins var gamla gistihúsið að Kolviðarhóli, sem nú er eign Reykjavíkurborgar rifið til grunna.

Kolviðarhóll

Kolviðarhóll.

Fyrsta gistihúsið á þessum stað var reist 1877, en áður var sæluhús á Kolviðarhóli og var það orðið léleg vistarvera þeim, sem þangað leituðu í vondum veðrum. Þetta fyrsta gistihús var lengi eina húsið á staðnum. Oft var þröngt setinn bekkurinn og þúsundir manna munu hafa gist þar. Matthías Jochumson, þá prestur i Odda, kom þar í janúar 1884 og hitti 40 ferðamenn, sem voru veðurtepptir. Og á loftinu í þessu húsi gisti í rúmi með mosadyngju sr. Bjarni Jónsson vígslubiskup, lítill drengur í fyrstu ferð sinni til sumardvalar austur í Ölfus.
Kolviðarhóll
Þriðja og síðasta gistihúsið að Kolviðarhóli, sem nú er horfið, reisti Sigurður Daníelsson gestgjafi 1929 og var það með öllu nýtízku þægindum, sem þá þekktust hér á landi, m.a. ljósavél og raflýsingu.

Draugatjörn

Draugatjörn – sæluhúsið.

Þjóðvegurinn forni milli Árnessýslu og Mosfellssveitar lá nokkru norðar en nú er farið og skammt frá Kolviðarhóli. Sæluhús var fyrst reist á þessum slóðum 1703 við svonefnda Draugatjörn fyrir framan Húsmúlann, og var það eina vistarveran milli byggða fram til 1844, að sæluhús var reist á Kolviðarhóli. Sumarið 1877 sama ár og fyrsta gistihúsið var reist að Kolviðarhóli hófst vegagerð yfir Svínahraun sem var lokið sumarið eftir.
Hellisheiði var um aldir og er enn einn fjölfarnasti fjallvegur landsins. Við sem ökum þessa leið í upphituðum bílum höfum litla hugmynd um þá baráttusem forfeður okkar háðu hér í vetrarferðum. Mannskaðar voru tíðir á þessum slóðum, þótt engar tölur séu til um hversu margir hafa látið þar líf sitt. Trúlegt er að flestir hafi orðið úti á þessum slóðum á 18. öld, einkum eftir móðuharðindin 1784. Fólk flúðu heimili sín og reikaði allslaust undan hörmungunum í vesturátt.

Hellisheiði

Hellsiheiði – forna leiðin um helluna.

Skjalfestar heimildir eru um manntjón á Hellisheiði á 130 ára timabili frá 1792-1922. Í bók sinni Sögu Kolviðarhóls greinir Skúli Helgason frá 24, sem urðu úti á heiðinni á þessu tímabili, en getur þess að ekki sé víst að þar séu allir upp taldir.

Kolviðarhóll

Kolviðarhóll 1910.

Einn þeirra fyrstu sem vakti máls á að reist skyldi veitingahús á Kolviðarhóli var Sigurður Guðmundsson málari á fundi í „Kveldfélaginu“ svonefnda sem var e.k. leynifélag í Reykjavík árið 1871.
„Þar mætti hafa hvers kyns veitingar. Þar þyrfti að blása í lúðra svo sem þriðja hvérn tíma til að leiðbeina villtum ferðamönnum, sömuleiðis hafa alpahunda og fl.“ Í fundargerðinni, sem virðist rituð af Sigurði sjálfum, er rissmynd af þessu fyrirhugaða húsi. Er á miðju þaki þess turn mikill með gluggum, sem ætlazt var til að ljós logaði í, þá er dimma tæki, en upp af honum var stöng með flaggi. Þar sem Sigurður talar um „alpahunda“, á hann við að þeir gætu orðið til bjargar villtum ferðamönnum, er úti lægju í illviðrum og ekki næðu til mannabyggða.

Kolviðarhóll

Kolviðarhóll.

Hugmynd Sigurðar málara um veitingahúsbyggingu á Kolviðarhóli virðist þó hafa þótt ærið loftkastalakennd, eins og flest annað hjá honum á þeim tíma, og var henni víst lítill gaumur gefinn. Þegar hann lézt þrem árum síðar sá hann ekki votta fyrir framkvæmdum á þessari hugmynd sinni fremur en öðrum hugsjónum sínum, þótt margar ættu þær eftir að verða að veruleika i einhverri mynd.
Fyrsti gestgjafi að Kolviðarhóli var Ebernezer Guðmundsson frá Minna-Hofi á Rangárvöllum, en kona hans var Sesselja Ólafsdóttir frá Geldingaholti. Þau voru þar hálft annað ár, en þá tók við Ólafur Arnason frá Hlíðarendakoti, og heitkona hans Málfríður Jónsdóttir af Vatnsleysuströnd.
KolviðarhóllBjuggu þau við harðindi og fátækt og höfðu sama og engar tekjur af ferðamönnum. Frumburður þeirra fæddist að Kolviðarhóli og var skírður eftir staðnum, en andaðist fimm vikna gamall. Ólafur og Málfríður fóru til Ameríku 1886 og komust þar vel af. Næsti gestgjafi, Sigurbjörn Guðleifsson, var kunnur fyrir lækningar. Sambýliskona hans var Soffía Sveinsd. Þau bjuggu einnig við kröpp kjör að Kolviðarhóli og voru þar aðeins í eitt ár í nábýli við Jón Jónsson, sem tók við Sigurbirni, en þeir eltu grátt silfur saman. Kona Jóns var Kristin Daníelsdóttir. Guðni Þorbergsson tengdasonur þeirra og Margrét dóttir þeirra tóku síðan við, en í tíð þeirra jókst umferð mjög. Nýr akvegur var lagður á svipuðum slóðum og farið er enn í dag. Hestavagnaöldin hófst og samgöngur urðu meiri. Guðni lét reisa nýtt gistihús á Kolviðarhóli aldamótaárið.
Sá gestgjafi sem lengst sat að Kolviðarhóli og varð viðkunnastur þeirra allra var Sigurður Danlelsson 1906-1935. Valgerður Þórðardóttir hafði verið vinnukona að Kolviðarhóli um þriggja ára skeið þegar Sigurður kom þangað ókvæntur maður, og gengu þau í hjónaband ári síðar. Sigurður og kona hans voru mikið fyrirhyggju- og framtaksfólk og unnu margvíslegar framkvæmdir á staðnum.
KolviðarhóllSigurður hafði jafnan margt hesta og var fylgdarmaður og vann oft björgunarstarf í illviðrum. „Það var gömul hefð á Kolviðarhóli, að húsinu var aldrei lokað um nætur. Þar voru opnar dyr allan sólarhringinn, svo að ferðamenn, sem bæri þar að garði um nætur í vonskuveðri, gætu tafarlaust komizt í húsaskjól. Enda var það almenn venja ferðamanna, er komu þar eftir háttatíma að þeir gengu inn og kveddu þar nauðþurfta sinna. Þar var alla jafna allt til reiðu. Þar var matur og drykkur veittur, þó um hánótt væri, og þar var fylgdarmaður og hestur til taks, ef með þurfti, á hvaða tíma sólarhrings sem var, hvort heldur var austur yfir fjall eða suður yfir Svínahraun. Þetta var erilssöm og erfið þjónusta, en hún var álitin næstum sjálfsögð og ekki talin eftir. Hún var ávallt seld við vægu verði og margur var sá, er lítið gat goldið fyrir sig fyrr á árum og sumir ekki neitt. Þannig gekk starfið á Kolviðarhóli ár eftir ár, gestastraumarnir komu og fóru, en mitt í þeirri miklu mannös stóð gestgjafinn sjálfur, Sigurður Danlelsson, alltaf samur og jafn, veitti öllum fyrirgreiðslu og leysti úr vandkvæðum manna, sem gátu verið mörg. Þar komu menn af öllum stéttum þjóðfélagsins og var það stundum hnöttóttur lýður, er hafði á sér litla háttvísi né siðmenningarbrag. Þangað komu oft ölvaðir menn, er höfðu í frammi heimtufrekju og ódámshátt. Slíkum gestum sýndi Sigurður fulla einurð og mælti þá stundum til þeirra ekki með neinni silkitungu. En svo var það búið, og enginn erfði slíkt við hann, enda lá það orð á að hann ætti engan óvildarmann.“ (Úr sögu Kolviðarhóls).
KolviðarhóllSíðasta árið sem Sigurður lifði, sumarið 1935 hófst hann handa um að láta búa til heimagrafreit í túninu á Kolviðarhóli. Það gerði fornkunningi hans Erasmus Gíslason úr Reykjavík. Legstaður þessi er þannig byggður, að grafhvelfing var gerð í jörð niður, steypt í hólf og gólf, með opi á lofti, svo að líkkista mætti komast niður um. Yfir opið var steinhella gerð. Grafhvelfingin er það há undir loftað hún er manngeng. Er þar rúmgott fyrir þrjár líkkistur. Ofanjarðar eru veggir steyptir umhverfis á alla vegu, á annan metra á hæð, og á vesturhlið eru dyr með hurð fyrir. Í grafhvelfingunni hvíla jarðneskar leifar Sigurðar Daníelssonar, Valgerðar Þórðardóttur og sonar þeirra Davíðs Sigurðssonar, járnsmíðs, sem lézt af slysförum 25 ára gamall.
Valgerður kona Sigurðar, var annáluð fyrir hjálpfýsi og margar sögur fóru af viðbrögðum hennar við veikt og hrakið ferðafólk. Hún var mikill dýravinur, og henni var ekki nóg að gera gestunum gott heldur þurftu hestar og hundar þeirra að fá sitt. Valgerður bjó í tæp þrjú ár að Kolviðarhóli eftir að hún missti mann sinn 1935.

Kolviðarhóll

Kolviðarhóll um 1930.

Haustið 1938 seldi hún Íþróttafélagi Reykjavíkur Kolviðarhól með öllum mannvirkjum. Hún lét þó ekki af störfum þar heldur veitti gistihúsinu áfram forstöðu næstu 5 ár eða til 1943. Var hún þá orðin 72 ára, hafði hana ekki grunað 40 árum áður, er hún fyrir tilviljun réðst að Kolviðarhóli, að hún ætti þar svo langan starfsdag framundan. Bjó hún síðan í þrjú ár í litlu húsi skammt frá sem Sigurður maður hennar hafði látið byggja og svo 10 ár í Hveragerði unz hún lézt í Landakotsspítala eins og maður hennar.
KolviðarhóllTignir menn og tötrum búnir hafa haft viðkomu að Kolviðarhóli og um síðustu aldamót settu förumennirnir svip á staðinn, svo sem Jón Repp, Bréfa-Runki, Jón söðli, Guðmundur dúllari, Eyjðlfur ljóstollur, Símon Dalaskáld, Guðmundur kíkir, Óli prammi, Gvendur blesi, Árni funi og Langstaða-Steini.
Margar sagnir eru af minnisverðum atburðum á Hellisheiði, svo sem þegar Þuríður formaður átti þar leið um og síðar er Indriði Einarsson skáld lá þar úti, eða barnsfæðing, sem átti sér þar stað sumarið 1890 og loks eru allar draugasögurnar.
KolviðarhóllÍþróttafélag Reykjavíkur ætlaði að gera Kolviðarhól að miðstöð vetraríþrótta og eftirsóttum hvíldarstað á sumrin. Félagið átti einnig að halda uppi greiðasölu fyrir ferðamenn. Áhugamenn unnu að ýmsum framkvæmdum, byggður var pallur framan við húsið, upplýst og hituð skíðageymsla, skíðabrekkur lagfærðar og byggðir stökkpallar.
Þegar Valgerður Þórðard. fór frá Kolviðarhóli var sem brotið blað í sögu Kolviðarhóls.
Veitingamennirnir, sem komu eftir hana urðu ekki „mosavaxnir“ á staðnum. Í nóvember 1951 kemst Kolviðarhóll á síður Reykjavíkurblaðanna vegna veru varnarliðsmanna og íslenzkra stúlkna þar.

Kolviðarhóll

Kolviðarhóll.

Á vordögum 1952 var svo komið um stjórn og starfsemi Kolviðarhóls, að enginn fékkst til þess að vera þar, og ferðafólk virtist forðast staðinn. Var þá húsunum lokað og enginn maður hafði þar aðsetur lengur. Strax á fyrsta ári fór að bera á því að óheiðarlegir vegfarendur legðu þangað leið sína. Rúður voru brotnar í gluggum, ruplað og rænt úr stofum, og þessi saga endurtók sig æ ofan í æ. Loks var staðurinn viðurstygging og eyðileggingin uppmáluð og var svo síðustu tvo áratugina eða meir.
„Hvort Kolviðarhóll á eftir að rísa úr auðn og niðurlægingu skal engu um spáð“, segir Skúli Helgason í bók sinni 1959. „En eitt er víst: hann verður aldrei aftur það, sem hann einu sinni var. Því valda fyrst og fremst breyttir tímar og allt viðhorf þjóðlífsins.“
Kolviðarhóll
„Guð gaf okkur Hólinn til hjálpar hröktum ferðamönnum af fjallvegum, en ekki til leikaraskapar“. Þessa látlausu setningu mælti Valgerður Þórðardótur, þegar hún var flutt af Kolviðarhóli fyrir fullt og allt. Þessi orð hins síðasta fulltrúa staðarins fela í sér stærri staðreyndir en í fljótu bragði kann að virðast. Líf og starf þeirra gestgjafa, sem lengst og bezt sátu Kolviðarhól var enginn leikaraskapur.

Kolviðarhóll

Kolviðarhóll.

Með þrotlausu starfi, þrautseigju og fórnfýsi unnu þeir sig upp og gerðu þannig „garðinn frægan“. Þeir gerðu jafnan fyrr kröfu til sjálfra sín en annarra. Þeir vissu það, að lífinu varð ekki lifað þar, svo yrði með sæmd á værðarsvæflum við sukk og sællífi. Þess vegna gátu þeir haldið uppi reisn staðarins svo lengi, sem þeirra naut við. En þegar þeir hurfu þaðan á braut, komu „nýir siðir með nýjum herrum.“ Tíminn er búinn að skera úr því, hvernig þau siðaskipti reyndust. Máltækið segir, að „maður komi manns í stað“, og er það að vissu leyti sannleikur. Er þar átt við það að þótt einn hverfi frá athöfn og ævielju, þá komi aðrir og taki við. En svo bezt getur það gengið, að þeir, sem eftir lifa og áfram halda, hafi manndóm til þess að halda í horfinu. Því eins og segir í Hávamálum: „Bautasteinar standa í brautu nær, nema reisi niður að níð.“
Með þeim orðum skal sögunni lokið.“ SJ tók saman.

Í Lesbók Morgunblaðsins 2001 fjallar Gísli Sigurðsson um „Kolviðarhól – Athvarf á leið yfir Hellisheiði, tímabil Sigurðar og Valgerðar á hólnum„:

Kolviðarhóll
„Gistihúsbygging þeirra Sigurðar Daníelssonar og Valgerðar Þórðardóttur á Kolviðarhóli árið 1929 var afreksverk og húsið sjálft byggingarlistaverk Guðjóns Samúelssonar. Umsvifin á Kolviðarhóli urðu mest í tíð Sigurðar og Valgerðar, enda bílaöld gengin í garð. Með breyttum Suðurlandsvegi varð Kolviðarhóll ekki lengur í þjóðbraut, þar var ekki lengur þörf á gististað. Hugmyndir og dug vantaði til að finna húsinu nýtt hlutverk. Skemmdarvargar unnu á því tjón, en bæjarstjórn Reykjavíkur gekk í lið með þeim og lét mola húsið mélinu smærra.
Kolviðarhóll
Fáar ljósmyndir eru til frá tímaskeiði lestaferðanna sem vonlegt er. Þó hefur ein verið tekin við Kolviðarhól 1904 og sýnir hún Hannes póst Hannesson, annálaðan ferðagarp, leggja upp í dumbungsveðri af Hólnum. Hann er með sex hesta undir koffortum og sjálfur blæs pósturinn í lúður í nafni embættisins. Á mynd sem tekin er líklega áratug síðar sést að tæknileg umskipti hafa orðið; þá er póstvagnalest á ferð suður með Reykjafellinu; póstvagnarnir með háu þaki og sýnilegt að þeir hafa getað tekið farþega.

Kolviðarhóll

Kolviðarhóll.

Þægindin eru komin til sögunnar, bílaöldin rétt handan við hornið. Þriðja myndin sem varðveizt hefur er tekin á Kolviðarhólshlaði í tíð Guðna og Margrétar um aldamótin 1900. Þetta hefur verið snemma vors og enn mikill snjór norður í Skarðsmýrarfjalli… Ferðamenn hafa brugðið sér inn til að fá sér hressingu og hefur ekki þótt taka því að spenna frá vagnhesta eða taka ofan koffort af baggahestum. Á myndinni sem birtist í síðustu Lesbók er fortíðin að syngja sitt síðasta og millistigið, hestvagninn, er kominn til sögu; fyrsti bíllinn þó ókominn til landsins. Enn er til ljósmynd, tekin tveimur áratugum síðar. Þá hafði verið ekið upp að Kolviðarhóli á virðulegri, svartri drossíu eins og þessi farartæki voru gjarnan kölluð þá. Hún er með bílnúmerið RE 85 og bílstjórinn er Vígmundur Pálsson úr Mosfellssveit. Bíllinn var orðinn þarfasti þjónninn.

Teningunum kastað og örlög ákveðin

Kolviðarhóll

Landpóstur á ferð með lúður sinn.

Gestgjafarnir á Hólnum, Sigurður Daníelsson frá Herríðarhóli og Valgerður Þórðardóttir frá Traðarholti, voru í rauninni fulltrúar nýrrar aldar og gerbreyttra samgangna sem gerðu hvorttveggja, að umferðin að Kolviðarhóli margfaldaðist, en kipptu líka fótum undan þessum rekstri með tímanum.

Kolviðarhóll

Kolviðarhóll.

Menn urðu fljótir í förum og sífellt færri þurftu á gistingu að halda. Óhætt er að segja að Sigurður og Valgerður á Kolviðarhóli hafi orðið þjóðkunnar persónur, enda bæði afburðafólk fyrir áræði og dugnað. Þau voru gestgjafar á Kolviðarhóli frá 1906 til 1935 og Valgerður var þar lengur, eða til 1943.
Sigurður Daníelsson var Holtamaður að uppruna, kominn af Torfa sýslumanni í Klofa á Landi. Hálfbróðir hans var Daníel bóndi í Guttormshaga, faðir Guðmundar rithöfundar. Sigurður þótti bráðþroska ungur maður og var fljótt talinn óvenjulegt mannsefni, hjálpsamur og ljúfur og ávann sér alls staðar traust.

Kolviðarhóll

Kolviðarhóll – loftmynd.

Eftir 1902 er Sigurður skráður í Reykjavík og stundar þá ýmsa vinnu til sjós og lands; þar á meðal voru fjárkaupaferðir fyrir ýmsa kaupmenn á haustin. Mikilvægasti vendipunkturinn í lífi hans var hinsvegar þegar hann réðst í að kaupa Kolviðarhól, þá 37 ára og ókvæntur. Um þriggja ára skeið hafði Valgerður Þórðardóttir frá Traðarholti í Stokkseyrarhreppi verið vinnukona hjá Guðna og Margréti á Hólnum. Hún var öllum hnútum kunnug í rekstrinum og Sigurði þótti fengur í að fá hana sem ráðskonu. Raunar voru þau orðin hjón eftir fyrsta árið. Hjónaband þeirra varð barnlaust, en áður hafði Sigurður eignast soninn Davíð.
Kolviðarhóll
Sigurður Daníelsson þótti „réttur maður á réttum stað“ á Kolviðarhóli, öflugur arftaki þeirra Jóns Jónssonar og Guðna Þorbergssonar. Í þau 30 ár sem hann var gestgjafi á Hólnum gerði hann stórfelldar umbætur í ræktun og byggingum; menn kölluðu það þrekvirki.

Kolviðarhóll

Kolviðarhóll.

Hann varð meðal hinna allra fyrstu meðal bænda til að fá þúfnabana til að slétta og brjóta land og jók svo túnrækt á Kolviðarhóli að töðufengur margfaldaðist og fór yfir 400 hestburði um það er lauk. Á síðasta áratugnum sem hann lifði lét hann vinna á fjórða þúsund dagsverk að túnrækt og fénaðarhúsbyggingum og gat þá losað sig við jörð austur í Ölfusi sem hann hafði nýtt til heyskapar.
Sigurður Daníelsson var meðalmaður á hæð en þrekinn. Hann var svipsterkur maður, hærður vel með dökkar og miklar augabrúnir og yfirskegg. Á yngri árum var hann með glóbjart hár. Aldrei kvartaði hann þótt móti blési, æðraðist ekki yfir því sem orðið var, áreiðanlegur í viðskiptum, reglusamur og gerði vel við sitt fólk, höfðingi í lund.
KolviðarhóllValgerður Þórðardóttir var ekki síður framúrskarandi og þótti bera af ungum stúlkum í sinni sveit. Ung fór hún að heiman til vinnumennsku á Háeyri og á Stokkseyri. Þar kynntist hún ungum manni frá Ísafirði og átti með honum tvær dætur. En sambúð þeirra varð ekki til framtíðar. Maðurinn flutti til Noregs og Valgerður átti ekki annarra kosta völ en að koma dætrum sínum í fóstur. Ætlun hennar var að fara í atvinnuleit til Austfjarða og ásamt vinkonu sinni lagði hún af stað fótgangandi til Reykjavíkur. Veður var vont og þung færð á leiðinni yfir heiðina. Þær stöllur náðu samt að Kolviðarhóli og gistu þar. Matreiðslukona sem verið hafði í vinnu hjá Guðna og Margréti var þá á förum og Guðna leizt strax vel á þessa kraftmiklu, ungu konu úr Flóanum og falaði hana umsvifalaust. En Valgerður setti þá upp mun hærra kaup en þekktist og Guðni kvaðst ekki geta gengið að því. „Gott og vel, þá er því sleppt,“ svaraði Valgerður og bjóst til brottferðar með vinkonu sinni. En ekki voru þær komnar lengra en niður af hólnum þegar Guðni kom hlaupandi og vildi ganga að kröfum Valgerðar. Hún sneri við; teningunum hafði verið kastað, örlög ráðin. Upp frá því var hún kennd við Kolviðarhól. Í fjögur ár var Valgerður í þjónustu Guðna og Margrétar og svo tók hún við gestgjafahlutverkinu sem eiginkona Sigurðar Daníelssonar eins og áður var sagt.

Kolviðarhóll

Saga Kolviðarhóls.

Í Kolviðarhólssögu sinni segir Skúli Helgason, að aldrei verði hægt að lýsa ævistarfi Valgerðar á Kolviðarhóli svo að glögg mynd fáist af því: „Allar frásagnir verða eins og veikt bergmál af því sem hún var. Henni er svo lýst, að skapgerðin var sterk, viljaþrekið óbilandi, framkoman uppörvandi og hressileg, hjálpfýsin með afbrigðum og velviljinn einstæður, hver sem í hlut átti. Hún krafðist mikils af starfsfólki sínu og þoldi illa sérhlífni. En hjúum sínum reyndist hún ævinlega hin ágætasta húsmóðir.“ Björgunarstörf Sigurðar fólust í að koma örmagna mönnum inn úr dyrum á Kolviðarhóli. Þar tók Valgerður við þeim, dró af þeim vosklæði, háttaði þá ofan í rúm og hjúkraði þeim eins og með þurfti. Þegar þeir fóru að skjálfa kvaðst hún hafa hætt að óttast um líf þeirra.

Stórvirki á Kolviðarhóli

 

Árið 1929 réðst Sigurður Daníelsson í að byggja 140 fermetra steinhús, kjallara hæð og ris. Megineinkenni hússins voru þrjár svipmiklar burstir. Þetta hús reis tignarlega á Hólnum, byggingarlistaverk Guðjóns Samúelssonar, húsameistara ríkisins, sem var einmitt á þessu tímaskeiði að gera athyglisverðar tilraunir til að endurvekja burstabæjarstílinn með nýju byggingarefni, steinsteypunni. Laugarvatnsskólinn er til dæmis frá sama tíma.
Kolviðarhóll
Margir hafa tekið eftir því að burstir fara vel undir fjallshlíðum og sannaðist það bæði á Laugarvatni og Kolviðarhóli. Þetta svipmót fær líka aukinn styrk sé húsið hátt. Sérkennilegt var, að miðburstin var mjórri en hinar og ögn lægri og í öðru lagi það, að kvistur gekk í gegnum burstirnar þrjár. Þá lausn notaði Guðjón ekki annarsstaðar.
Nú varð heldur betur staðarlegt heim að líta á Hólinn; „skýjaborgir“ Sigurðar málara orðnar að veruleika og gott betur. Í húsinu voru 20 vistarverur, 6 herbergi í kjallara, önnur 6 herbergi og 2 stofur á hæðinni og 8 herbergi undir súð í burstunum. Húsið var allt steinsteypt, miðstöðvarhitun frá kolakatli í kjallara og raflýsing frá stórri ljósavél. Byggingarkostnaðurinn nam 70 þúsundum sem var stórfé á árunum 1929–30. Úr ríkissjóði fékkst 12 þúsund króna styrkur; hitt kostuðu þau Sigurður og Valgerður sjálf.

Ekki allar ferðir til fjár

Kolviðarhóll

Kolviðarhóll – grafhýsi Sigurðar, Valgerðar og Davíðs.

Hér var gengið fram af miklu áræði og ekki vissu menn þá að heimskreppan mikla var framundan. Nú var sú aðstaða fengin sem lengi hafði verið nauðsynleg og þau hjón urðu þekkt sem afburða gestgjafar. En ekki voru allar ferðir til fjár og enn sem fyrr var Kolviðarhóll björgunarstöð við alfaraleið í óbyggðum. Fyrir mikla og óhemju erfiða vinnu við hjálparstarf og björgun mannslífa var einskis krafizt.
Þó að vegum sé nú haldið opnum með snjómokstri þekkja margir þann ótrúlega mun sem orðið getur á veðri í Reykjavík og uppi í Svínahrauni. Hæðarmunurinn er þó ekki ærinn. Fyrsti vegurinn upp eftir Svínahrauni var lítið sem ekki neitt upphlaðinn og hann varð ófær í fyrstu snjóum.

Símastaurar

Símastaurar við fjallveg.

Árið 1907 var sími lagður austur yfir Hellisheiði og sími kom þá að Kolviðarhóli. Eftir það varð föst venja Sigurðar að nota símann til að fylgjast með mannaferðum ef illa leit út með veður og færð. Þá hafði hann annarsvegar samband við Lögberg, efsta byggða ból ofan Reykjavíkur og hinsvegar við Kotströnd í Ölfusi. Þegar Sigurður frétti að einhver hefði lagt af stað í tvísýnu veðri og skilaði sér ekki á eðlilegum tíma, fór hann óbeðinn af stað til leitar og aðstoðar þó ekki sæist út úr augum, ýmist einn eða með einhvern með sér. Aftur og aftur kom hann að mönnum sem voru búnir að gefa allt frá sér og lagstir fyrir. Alltaf tókst Sigurði að bjarga þeim. Á verstu snjóavetrunum kom fyrir að hann færi tvær eða þrjár björgunarferðir sama daginn, ýmist upp á Hellisheiði eða fram í Svínahraun Þegar heilsu Sigurðar fór að hraka 1935 lét hann það verða sína síðustu framkvæmd á Kolviðarhóli að útbúa heimagrafreit með steinsteyptu grafhýsi. Þarna vildi hann bera beinin og nú er þetta grafhýsi eina mannvirkið sem uppi stendur á staðnum fyrir utan nokkra grjótgarða. Krabbamein í hálsi dró Sigurð til dauða. Hann var þá 67 ára og fylgdi honum mikill mannfjöldi til grafar.

Frægir menn og flakkarar

Einar Benediktsson

Einar Benediktsson gat kvartað yfir verðskránni á Kolviðarhóli.

Förumenn, eða flakkarar eins og þeir voru nefndir, áttu vísan næturstað á Kolviðarhóli og ekki gátu þeir borgað fyrir sig. Einn þeirra, sem margoft hafði gist á Hólnum og þegið matarbita, kom þangað aldraður og þrotinn að kröftum með þá ósk eina að hann mætti fá að deyja hjá Valgerði. Honum varð að ósk sinni. „Ég saknaði þessara manna þegar þeir hættu að koma,“ sagði Valgerður, „þó að mér væri alltaf illa við sóðaskapinn sem þeim fylgdi.“ Meðal förumanna sem oft komu að Kolviðarhóli voru Jón Repp, Bréfa-Runki, Jón söðli, Guðmundur dúllari, Eyjólfur ljóstollur, Símon Dalaskáld, Guðmundur kíkir, Óli prammi, Gvendur blesi, Árni funi og Langstaða-Steini.

En þjóðskáld, stjórnmálamenn og frægir erlendir ferðamenn gistu líka á Kolviðarhóli. Á gestalistanum eru ýmis þjóðkunn nöfn: Sigurður Breiðfjörð skáld, Þuríður formaður og séra Matthías Jochumsson.

Matthías Jockumsson

Matthías Jockumsson.

Hann segir frá því í ævisögu sinni, að hann gisti á Hólnum 1884 á austurleið. Ófærð var og hríðarveður og 40 ferðamenn höfðu þá verið hýstir á Hólnum. Þeim gaf séra Matthías öllum staup af brennivíni og síðan gengu menn til náða.
Hannes Hafstein skáld og ráðherra kom oft á Hólinn og gisti þar tvívegis. Í eitt skiptið var hann á ferð þeirra erinda að vígja Sogsbrúna. Þótti heppilegt að skipta þeirri löngu leið austur að Sogi í tvo áfanga og gista á Kolviðarhóli. Annað skáld, Einar Benediktsson, gisti þar ásamt konu sinni þegar hann var sýslumaður í Rangárvallasýslu. Það var ólíkt Einari sem að jafnaði jós út fé, að hann kvartaði yfir háu verði á gistingunni. Gott hjá Guðna, að hann bauðst þá til að gefa honum gistinguna eins og flökkurunum, en ekki þáði skáldið það. Eitt skáldið enn, Grímur Thomsen, hafði sérstaklega stutt húsbygginguna á Hólnum 1877 og gisti þar löngu síðar og bað um tvennt: Þrjú staup af brennivíni og að hestur hans yrði látinn í hús og breitt yfir hann. Grímur átti þá fá ár eftir.
Daniel Bruun.Íslandsvinurinn Williard Fiske gisti á Kolviðarhóli 1879 ásamt séra Matthíasi. Daniel Bruun gisti þar oft og baróninn á Hvítarvöllum hafði þar viðkomu þegar hann fór til að athuga ölkelduvatn í Hengli, sem hann hugðist nýta. Áður var minnst á Friðrik kóng VIII sem kom að Kolviðarhóli í Íslandsförinni 1907.
Hnignun og fall á Kolviðarhóli Eftir lát Sigurðar bjó Valgerður áfram á Kolviðarhóli til ársins 1938 og sinnti gestgjafahlutverki. En 10. apríl 1938 seldi hún Íþróttafélagi Reykjavíkur Kolviðarhól ásamt öllum mannvirkjum. Þá var sá skilningur ríkjandi að ÍR ætti að annast áfram greiðasölu og gistingu og Valgerður var ráðin næstu 5 árin til að veita gistihúsinu forstöðu.
Í fardögum 1943 lét hún starf sitt laust, þá orðin 72 ára. Á þriðja ár bjó hún áfram í litlu timburhúsi sem Sigurður hafði byggt norður á völlunum. Þar bjó öldruð kona með henni sem lengi hafði starfað á Hólnum og saman hugsuðu þær um nokkrar kindur og hænsni. Þær fóru alfarnar 1946 og settust að í Hveragerði. Þar bjó Valgerður til dauðadags 13. júní 1946, þá orðin 86 ára. Þá var aðeins eftir síðasta ferðin á Hólinn þar sem kistu hennar var komið fyrir í grafhýsinu.

KolviðarhóllHjá Íþróttafélagi Reykjavíkur voru uppi stór áform um að Kolviðarhóll skyldi verða miðstöð vetraríþrótta. Breyta átti húsinu svo það rúmaði a.m.k. 100 næturgesti. Í sjálfboðavinnu átti að fegra staðinn, planta trjám, hreinsa skíðabrekkur, hlaða stökkpall og undirbúa gott skautasvell á vetrum. Á sumrin átti Kolviðarhóll að vera hvíldar- og skemmtistaður fyrir Reykvíkinga.
Í Alþýðublaðinu sagði svo 1. september 1938: „25 piltar við vinnu og vinnunám á Kolviðarhóli. Miklar framkvæmdir á hinum nýja skíðastað Reykvíkinga. Unglingavinna byrjar að líkindum uppúr næstu mánaðamótum.“

Kolviðarhóll

Kolviðarhóll – skíðasvæði.

Piltarnir unnu m.a. að því að byggja pall á hlaðinu. „Hefur verið gerð mikil og rammleg upphækkun fyrir framan húsið og hefur það verið mikið verk og vandasamt. Grjót hafa piltarnir sprengt upp í hrauninu og flutt það á bíl þaðan. Þá vinna þeir að gerð skíðastökkbrautar við Búastein þar sem skilyrði eru sögð mjög góð fyrir stökkpall.“
Skemmst er frá því að segja að pallurinn sem gerður var við húsið sumarið 1938 var það eina af þessu sem komst í framkvæmd. Hlaðinn kantur hans að framanverðu er nánast það eina sem ekki var eyðilagt og sést enn. Trjárækt varð aldrei að veruleika; ekki skautasvellið heldur. Talsverð vinna var lögð í lagfæringar á skíðabrekkum og sumarið 1945 lagði ÍR nýja vatnsveitu heim í hús og byggði skíðageymslu. Um 30 manns unnu að þessu í sjálfboðavinnu.

Kolviðarhóll 1910

Kolviðarhóll 1910.

ftir að Valgerður hætti umsjón með veitingarekstri gekk á ýmsu og alls komu níu menn að rekstrinum á tímabili sem lauk 1948, þegar Kolviðarhóll var leigður Rauða krossi Íslands fyrir barnaheimili. Það stóð í ár og eftir það var ekki um neinn samfelldan rekstur að ræða. Síðastur til þess að bjóða gestum veitingar á Kolviðarhóli varð Guðni Erlendsson sem einnig rak veitingaskála við Gullfoss.
Pólitískur hanaslagur varð til þess að flýta fyrir endalokunum á Kolviðarhóli. Hann varð með þeim hætti að dagblöð í Reykjavík, Alþýðublaðið og Þjóðviljinn, birtu æsifréttir um að bandarískir hermenn hefðu sést með íslenzkum stúlkum á Kolviðarhóli. Þær áttu að hafa verið drukknar. Einkanlega var það Þjóðviljinn sem gerði sér mat úr þessu og var þar talað um Kolviðarhólshúsið sem aðstöðu fyrir „telpnaveiðar hernámsins“. Formaður ÍR lofaði að láta stöðva meintan ósóma, en Morgunblaðið taldi að þessi umræða væri byggð á ýkjum.
Kolviðarhóll
Vorið 1952 var hún Snorrabúð sannarlega orðin stekkur; enginn fékkst þá til að vera á staðnum og um líkt leyti fór að bera á því að skemmdarvargar og bullur legðu leið sína á Hólinn til þess eins að skemma húsið. Rúður voru brotnar, hurðir sprengdar upp og húsbúnaði, sem þar hafði orðið eftir, var stolið.

Kolviðarhóll

Kolviðarhóll.

Árin liðu og á síðari hluta sjötta áratugarins leit hin glæsta burstabygging Sigurðar og Valgerðar á Kolviðarhóli út eins og þau hús sem orðið hafa fyrir árásum í stríði. Búið að brjóta allar rúður, jafnvel karmana með og hnullungar lágu um öll gólf, svo stórir að fíleflda karlmenn hefur þurft til að kasta þeim inn af þvílíku afli að þeir moluðu bæði rúður og gluggapósta. Allur húsbúnaður var sömuleiðis í méli og með mikilli fyrirhöfn höfðu miðstöðvarofnar jafnvel verið slitnir frá. Umhverfis húsið var allt í braki, útihúsin fallin og túnið í órækt.
Kolviðarhóll
æjarráð Reykjavíkur samþykkir að brjóta húsið niður Hjá öllu þessu hefði mátt komast með því einu að ráða húsvörð og halda húsinu við. Það hefði kostað einhverjar krónur en við ættum í staðinn hús sem væri byggingarsögulegt verðmæti og því hefði verið fundið nýtt hlutverk við hæfi.. Þar hefði til að mynda getað orðið miðstöð gönguferða um Hengilssvæðið eða safn um samgöngur og flutningatækni fyrr á tímum. Ekkert slíkt safn er til. Þeir tímar þegar ekkert var hægt að flytja nema lyfta því á klakk, svo og hestvagnaöldin, eru ungu fólki jafnfjarlægir og söguöldin og samt er ekki lengra síðan en svo að reiðingar og hestvagnar tilheyrðu daglegum veruleika þegar elzta kynslóðin í landinu var ung. Jafnvel þótt skemmdarvargar brytu allt á Kolviðarhóli sem brotnað gat og fátt væri óskemmt innanstokks, þá stóð þetta sögulega hús eftir sem áður. Það var ekki fyrir neinum.
Einhverntíma hefði komið að því að framsýnir menn tækju til hendinni og þá hefði húsið gengið í endurnýjun lífdaganna. En því miður réð sú skammsýni ferðinni sem telur fara bezt á því að brjóta allt niður sem er gamalt og slétta yfir öll gengin spor.
Kolviðarhóll
Tímanum 22. janúar 1960 segir svo í fyrirsögn: „Aldargamall gististaður lagður undir fallhamar.“ Og í frétt blaðsins er m.a. eftirfarandi: „Sl. þriðjudag kl. 16 gerði bæjarráð Reykjavíkurbæjar samþykkt um að fela bæjarverkfræðingi að fjarlægja húsin að Kolviðarhóli. Þá er lokið langri og litríkri sögu. Þegar starfsmenn bæjarverkfræðings hafa brotið þar gömlu húsin sem eftir standa, mun þögnin geyma Kolviðarhól.
Íþróttafélag Reykjavíkur hafði selt Reykjavíkurbæ húsin á Kolviðarhóli og höfðu áhugasamir menn gert tilraun til endurbóta; skipt um glugga og ýmislegt fleira.“
En það var ekki fyrr en 12. júlí 1977 að menn á vegum bæjarverkfræðingsins komu að Kolviðarhóli með járnkúlu til að mola steinveggina.. Ekki hafa allir verið sannfærðir um réttmæti þess, því málið var borið undir Þór Magnússon þjóðminjavörð, en hann beitti sér að minnsta kosti ekki gegn eyðingunni. Tíminn er eina blaðið sem ýjar að því að þetta sé vafasamur verknaður og segir í fréttinni um niðurbrotið 14. júlí 1977: „Umhugsunarefni er hvort ekki sé þar verið að brjóta niður minjar sem eftirsjá er í.“
Í Morgunblaðinu er smáfrétt 28. júlí 1977 með ljósmynd sem Ragnar Axelsson hefur tekið og sýnir hún þegar verið er að skófla því síðasta af steinhúsinu upp á vörubíl.
Síðan hefur þögnin ríkt á Kolviðarhóli – og skömmin.“

Í Óðni  1923 er fjallað um „Ebenesar Guðmundsson, gullsmið„, en hann réði húsum á Kolviðarhóli fyrstur ábúenda:

Kolviðarhóll

Kolviðarhóll 2010. Horft frá Hellisskarði.

Vorið 1878 flutti Ebeneser með fjölskyldu sinni á Kolviðarhól og varð þannig hinn fyrsti maður er gerði þann stað að bygðu bóli. En brátt fóru frumbýliserfiðleikarnir að gera vart við sig; hússkrokkurinn bláber og að vetrarlagi mjög kaldur, engar slægjur, erfiðir aðdrættir; engin eldiviður nema grámosi, og það sem verst var, vatnsleysi — að eins regnvatn.
— Veitingarnar miklu rýrari en búist var við, sumpart sökum þess að ferðamenn voru þá óvanir að kaupa greiða, höfðu nóg nesti sjálfir, enda samkvæmt leyfisbrjefinu skylt að hýsa þá og hesta þeirra ókeypis í nokkrum hluta húsanna, og aukakostnaður talsverður að hafa ljós að jafnaði allar nætur að vetri til í gluggum íbúðarhússins, þar að auki voru þau hjónin alt of gestrisin og góðgerðasöm til að geta haft á hendi greiðasölu með nokkrum ágóða, og gestnauðin tafði húsbóndan frá handverkinu.
Loks þreyttist Ebeneser á öllum þeim erfiðleikum er þarna voru, auk þess sem heilsuleysi og óyndi fjölskyldunnar bættist ofan á, flutti hann því frá Kolviðarhóli haustið 1879 og settist að á Eyrarbakka og rak þar iðn sína til dauðadags; hann ljetst af lifrarkrabba 12. des 1921. Mjög voru þau hjón vel þokkuð þegar þau voru á Kolviðarhóli, fyrir greiðvikni sína og góðgerðasemi við þurfandi ferðamenn, og margra góðra gesta myntust þau einnig frá þeim tíma, sjerstaklega Jóns landæknis Hjaltalín, sem þar var tíður gestur sökum ölkelduvatnsins í Henglafjöllum, sem hann notaði allmikið.“

Í Lesbók Morgunblaðsins 1972 er „100 ára minning Valgerðar Þórðardóttur frá Kolviðarhóli“:

Kolviðarhóll

Valgerður Þórðardóttir.

„Valgerður fœddist 30. jún i 1871 að Traðarholti í Stokkseyrarhreppi. Foreldrar hennar voru Þórður bóndi Þorvarðsson frá Brattsholti í Flóa og kona hans Guðríður Jónsdóttir, komin af Bergsætt.
Átján ára fór hún í vist til Jóns ríka í Móhúsum á Stokkseyri og var þar um skeið ásamt nokkurri dvöl heima í Traðarholti.
Það var vorið 1902, að hún ætlaði sér að breyta um störf og þá fór hún að heiman. Leiðin lá um Kolviðarhól, sem var gististaður. Gestgjafinn naut þá lítillega fjárhagsstuðnings frá sýslumanni. Það var áskilið að þar væri höfð stúlka, er kynni til matreiðslustarfa.
Guðni Þorbergsson og kona hans Margrét bjuggu þar, er Valgerður og önnur stúlka með henni gistu þar umrætt vor. Guðni hafði haft spurnir af Valgerði og verið bent á að hún hentað í vel í starf þetta. Hann falaði hana því til þjónustu, en hún setti upp óvenju hátt kaup á þeirra tíma mælikvarða. Fór svo, að Guðni veigraði sér við að ganga að kröfu hennar. Lagði Valgerður þá úr hlaði. Ekki var hún langt komin, er gestgjafinn kallaði á eftir henni til frekara viðtals. Sagðist hann ganga að skílmálum hennar og sneri hún þá aftur heim með honum.

Kolviðarhóll - Guðni og Margrét

Margrét og Guðni.

Urðu þau Guðni og Margrét, ásamt börnum þeirra, tryggir vinir Valgerðar alla tíð. Það má með sanni segja að þessi næturgisting varð afdrifarík, því Valgerður átti heima á Kolviðarhóli í nærri hálfa öld, og þar varð hennar lífsstarf.
Nafn hennar er þekkt um land allt. Þessari sérstöku ágætiskonu hefur verið þakkað af almenningi og hinu opinbera. Hennar óvenjulega erfiða starf krafðist mikilla hygginda og framsýni til þess að geta rækt það grundvallaratriði að hlúa að öðrum. Hún sagði: „Guð gaf okkur „Hólinn“ (svo var Kolviðarhóll oft nefndur) til þess að hlúa að hröktum og þreyttum ferðamönnum, en ekki til leikaraskapar.“ Sýna þessi orð að hún hefur tekið starf sitt alvarlega og skilið tilgang veru sinnar í þessum fjallasal, sem svo sannarlega gaf ekki mikinn tíma til frjálsræðis. Geysilega vandasamt verk hvíldi á henni, þegar á það er litið, að hún var í þessari stöðu til sjötíu og tveggja ára aldurs, og mörg ár með fullri reisn eftir að hún missti mann sinn. Til gamans má geta þess, að árið sem Valgerður fæddist var haldinn fundur í Reykjavík um þá nauðsyn að veitingahús væri rekið á Kolviðarhóli. Sigurður Guðmundsson málari bar þá hugmynd fram á fundi 26. janúar 1871 í „Leynifélaginu“ svokallaða.

Sigurður Guðmundsson

Sigurður Guðmundsson, málari.

Árið 1905 seldi Guðni Kolviðarhól Sigurði Daníelssyni frá Herríðarhóli í Holtum. Þann 16. apríl 1906 giftust þau Sigurður og Valgerður og hófu þar búskap sama vor, og bjuggu þar til ársins 1935, er Sigurður lézt. Hann var mesti myndar- og ágætismaður og góður gestgjafi.
Varla verður annars þeirra hjóna minnzt án þess að hins sé getið, því að svo var starf þeirra samofið. Sigurður var framkvæmdasamur dugnaðarmaður. Hann byrjaði á því að rækta þar jörðina, sem var mjög erfitt og dýrt, vegna þess hversu hátt hún liggur yfir sjávarmáli, 200 m. Árið 1929 var húsið á Kolviðarhóli byggt og stendur enn. Það var stórt og vandað þriggja hæða hús með miðstöðvarhitun og rafmagni frá olíukyntri ljósavél, sem sérstakt hús var byggt yfir. Vatnsleiðsla var lögð, svo rennandi vatn var þar. Áður var vatni dælt úr brunni með dælu, en síðar með vatnshrút frá uppistöðu. Var þetta mikil hagræðing frá því, er vatni var ekið heim á vagni í tunnum, og þó var erfitt að ná því. Sigurður byggði líka votheysgryfjur með allra fyrstu bændum; var að þeim nokkurt öryggi. Ekki veitti af, fjallaskúrir komu skyndilega og gegnvættu nærri þurrt hey. Um langan veg þurfti að fara til þess, að afla heyfanga; alla leið austur í Ölfus. Þar átti Sigurður jörð, sem nýtt var til slægna.“

Í Vísi 1977 er sagt frá „Veislunni á Kolviðarhól“:

Halldór Laxness

Halldór Laxness.

„Halldór Laxness segir á einum stað um Kolviðarhól: Þar ætti að vera viðboð handa prestum/mikið voðalega er skemmtilegt á Hólnum. Og satt er það, að Kolviðarhóll er kunnur aö skemmtilegheitum. Um mitt sumar árið 1907 kom Friðrik konungur áttundi í heimsókn hingað, og meðal annarra ágætra verka gaf hann út á fyrsta degi heimsóknarinnar konunglega tilskipun, þar sem sagði að samkvæmt óskum forsætisráðherra beggja landanna „höfum vér með allra hæstum úrskurði, dagsettum í dag (þ.e. 30. júlí), skipað nefnd alþingismanna“ og ríkisdagsmanna til þess að undirbúa ráðstafanir til nýrrar löggjafar um stjórnskipulega stöðu Íslands í veldi Danakonungs.“ Að líkindum mun Friðrik áttunda varla hafa órað fyrir því að sú sambandslaganefnd, sem hann var að stofna til, yrði upphafið að lokasprettinum í sjálfstæðismálum Íslendinga. Hins vegar hafði konungur þær artir til landsins, að hann hefði eflaust látið kyrran liggja slíkan grun.
En viðbrögð við frægri ræðu, sem konungur flutti, kominn austan frá Gullfossi og Geysi, benda eindregið til þess að hið danska fylgdarlið hafi um margt talið að einungis væri verið að sinna daglegu nuddi um sífeldar athuganir á réttarstöðu landsins innan veldis Danakonungs.

FriðrikSamtímaheimildir skýra frá því að konungur hafi fengið gott veður í austurreisunni, heiðan himinn og sólskin frá morgni til kvölds. Og ekki skemmdi að töluvert var af kampavíni með í förinni. Svo fóru leikar, þegar komið var að Kolviðarhóli undir kvöld, áður en lagt var upp í síðasta áfangann til Reykjavíkur að Friðrik konungur flutti stutta tölu yfir nærstöddum, hrifinn eftir velheppnaða ferð, hýr af freyðandi veigum, og þess fullviss að allir konungar og keisarar Evrópu mundu öfunda sig af þeirri för, sem var að ljúka.
Í hinni stuttu ræðu talaði hann um ríkin tvö, þ.e. Ísland og Danmörku. Lengi hefur verið deilt um það, hvort konungi hafi orðið á mismæli, eða hvort hann var með vilja að ýta bæði við Íslendingum og Dönum með því að tala um hin tvö ríki. Of seint er að spyrja Friðrik, en eftir þessa ræðu óx Íslendingum ásmegin, enda liðu ekki nema ellefu ár þangað til þessi hugsun Danakonungs var orðin að veruleika með sambandslögunum. En þetta orðalag konungs var merkilegt að öðru leyti, og má Kolviðarhóll vel njóta þess, það benti viðstöddum á, að utanríkismál, eða öllu heldur milliríkjamál, eru flókin og vandasöm og þeirra verður varla gætt sem skyldi yfir glösum af freyðivíni á sólskinsstund. Orðræðan um ríkin tvö var því nokkur kennslustund jafnframt því að vera fagnaðarefni þeim, sem lengi höfðu beðið eftir skilningi á þörfum og vilja eyþjóðarinnar.“

Í Vísi 1976 er sagt að „Húsið á Kolviðarhóli [sé] nær ónýtt vegna vanhirðu og skemmdarverka“. „Ætti að brjóta húsið niður“, segir borgarverkfræðingur.

Kolviðarhóll
„Þeir sem lagt hafa leið sina upp að Kolviðarhóli hin síðustu misseri hafa varla komist hjá að taka eftir því hve hroðalega illa útleikið hið stóra og fyrrum glæsilega húsa þar er. Í öllu húsinu er ekki ein einasta heil rúða, allar hurðir hafa verið rifnar af hjörum, ofnar, kranar, vaskar og annað þess háttar liggur ýmist brotið um öll gólf, eða þá að því hefur verið stolið. Fyrir nokkrum mánuðum kviknaði í efstu hæðinni í austurhluta hússins, og hefur engin viðgerð farið fram ennþá.

Kolviðarhóll

Kolviðarhóll.

Saga Kolviðarhóls er bæði löng og merkileg, og þar var um áratuga skeið rekin veitingasala og gistihús. Er ekki að efa að margur ferðalangurinn hafi rennt hlýjum og þakklátum augum heim að Kolviðarhóli í frosti og kafaldsbyl á ferðum sínum milli þéttbýlisins við Faxaflóa og sveitanna austur í Árnessýslu. Þó Hellisheiði þyki nú ekki erfið yfirferðar né hættuleg ferðamönnum, þá hafa sennilega fleiri orðið þar úti en á nokkrum öðrum fjallvegi á Íslandi. Stafar það trúlega bæði af því hve umferð um hana hefur jafnan verið mikil, og ekki síður vegna þess hve leiðin er stutt. Þá ber allt húsið þess merki, að sauðfé getur gengið þar um að vild sinni, því sum gólfin eru verr útlítandi en mörg fjárhús sem ekki hefur verið stungið út úr lengi.

Kolviðarhóll

Kolviðarhóll 1957.

Þannig er í stuttu máli útlits í þessu stóra húsi, sem eitt sinn var ein glæsilegasta bygging í allri Árnessýslu, og þó víðar væri leitað.
Jörðin Kolviðarholl hefur verið í eigu Reykjavíkurborgar í nokkur ár, en jörðin er í Ölfushreppi í Árnessýslu. Hjón úr Reykjavík bjuggu þar með börnum sínum fyrir örfáum árum.

Draugatjörn

Draugatjörn – sæluhústóftin.

Áður en hús var reist á Kolviðarhóli var um langan aldur sæluhús þar skammt frá, við svonefndan Húsmúla, sem dregur nafn af sæluhúsinu sem þar stóð undir múlanum. Eru til heimildir um hús þar allt frá árinu 1703, og vafalaust hefur sæluhús verið löngu áður þó ekki finnist um það skriflegar heimildir.
Fljótlega mun það þó hafa þótt ófullnægjandi að hafa sæluhúsið undir Húsmúlanum, og því var það að menn úr Reykjavik og Ölfusi tóku sig saman um að byggja sæluhús á Kolviðarhóli við, Hellisskarð. Var fyrsta sæluhús á þeim stað reist árið 1844.
KolviðarhóllStarfræksla gistihúss á Kolviðarhóli hófst síðan árið 1878, og var frá þeim tíma rekið þar gistihús og greiðasala með stuttum hléum allt fram til ársins 1952, en síðustu árin var gistihúsið og greiðasalan rekin af Íþróttafélagi Reykjavíkur (ÍR).
Sögu Kolviðarhóls verða gerð nánari skil hér í blaðinu á næstunni, en vert er að hafa það í huga er menn leggja leið sina að Kolviðarhóli að þar var eitt sinn rekið glæsilegt gistihús, og staðurinn er þess alls ómaklegur að hann verði látinn grotna niður eins og nú er að gerast. Betur hefði þá farið að húsið brynni niður á einni nóttu, og hyrfi þar með niðurlægingarlaust af sjónarsviðinu. Það væri vissulega verðugt verkefni fyrir Reykjavíkurborg, Ölfushrepp og Árnesingafélagið að stuðla að því í sameiningu að reisa staðinn til fornrar virðingar að nýju.
Eins og er eru þó ekki miklar líkur á að svo verði, því samkvæmt upplýsingum borgarverkfræðings í gær eru ekki uppi neinar áætlanir um að gera við húsið, enda sé það í lakara ástandi en fokhelt hús. „Ef ég mætti ráða myndi ég láta kúluna á húsið og brjóta það niður“, sagði borgarverkfræðingur.“ -AH

Í Tímanum  segir; „Rifið niður á Kolviðarhóli“:

Kolviðarhóll
„Þriðjudag sl. var hafizt handa um að brjóta niður gamla gistihúsið á Kolviðarhóli, sem er í eigu Reykjavíkurborgar. Ekki er liðinn nema rétt rúmur áratugur síðan húsið var lagfært mjög, skipt um glugga í því og ýmislegt fleira. Voru þar á ferðinni áhugasamir menn um framtíð staðarins og er nú verk þeirra að engu að verða. Spellvirkjar ýmsir hafa að vísu lagt gjörva hönd á niðurrif hússins, brotið allar rúður og hurðir og jafnvel kveikt í húsinu. Er þetta starf þeirra nú fullkomnað og verið að rifa niður húsið. Umhugsunarefni er hvort ekki sé þar verið að brjóta niður minjar sem eftirsjá er af. Kolviðarhóll er sögufrægur staður og lá þar gamla þjóðleiðin um Hellisskarð fram til þess að akvegur var lagður yfir Hellisheiði. Leiðin frá Lögbergi að Kolviðarhóli, eða austan úr Ölfusi var hér áður drjúgur spotti, sem menn nú aka á rúmum stundarfjórðungi.
Þegar hin „græna bylting“ hefur lokið sínu verki, mun heimagrafreitur síðustu gestgjafanna á Kolviðarhóli, Valgerðar Þórðardóttur og Sigurðar Danlelssonar, verða einu minjarnar á þessum sögufræga stað.“

Sjá meira um Kolviðarhól HÉR.

Heimildir:
-Tíminn, 158. tbl. 24.07.1977, Kolviðarhóll 1877-1977, fyrsti gisti og veitingahúsið á Hellisheiði…, bls. 2-3.
-Lesbók Morgunblaðsins 07.04.2001, Kolviðarhóll – Athvarf á leið yfir Hellisheiði, tímabil Sigurðar og Valgerðar á hólnum, – Gísli Sigurðsson, bls. 10-12.
-Óðinn, 7.-12. tbl. 01.07.1923, Ebenesar Guðmundsson, gullsmiður, bls. 56-57.
-Lesbók Morgunblaðsins, 16. tbl. 30.04.1972, 100 ára minning Valgerðar Þórðardóttur frá Kolviðarhóli, bls. 8-9 og 16.
-Vísir, 5. tbl. 07.01.1977, Veislan á Kolviðarhól, bls. 10-11.
-Tíminn, 149. tbl. 14.07.1977, Rifið niður á Kolviðarhóli, bls. 1.

Kolviðarhóll

Kolviðarhóll 28. júlí 1977.

Grafarsel

Í Örnefnalýsingu Björns Bjarnasonar fyrir Grafarholt nefnir hann m.a. fjárbyrgi í Byrgisholti er hafi verið frá Grafarkoti (bærinn Gröf var við Grafará ofan Grafarvogs, Grafarholt var þar sem er núverandi Vesturlandsvegur (bærinn var færður þar sem nú eru leifar Grafar 1907) og Grafarkot (Holtastaðir) var rétt norðan við golfskálann , en tóftir kotsins sjást þar enn):

Byrgisholt

Byrgisholt – fjárborg.

„Um Grafarkot segir í A.M.: „byggð upp að nýju fyrir 50 árum, þar menn meina, að forn eyðijörð verið hafi og hún fyrir svo löngum tíma í auðn komin, að fæstir vita, hvað hún hafi til forna kölluð verið; eftir sögn eins gamals manns þykjast nokkrir heyrt hafa, að þessi jörð hafi heitið að fornu Holtastaðir“. Fornu rústirnar eru miklar um sig. Túnið hefur verið mikið stærra fyrrum og girt, en utan við það afar fornir (alsokknir) garðar og fjárbyrgi. Borgir og byrgi hafa víða verið hér, enda ætíð fremur á beit en gjöf að byggja fyrir sauðfé.
Milli Selhóls og Úlfhildarholts gengur dalur, Moldardalur og Moldardalsgeirar upp af honum. Þá erum við komin að Byrgisholti en fyrir sunnan holtið er Trippadalur.“ (Ö. Graf 2, s.27). Sunnan í Byrgisholti um 300 m frá spennivirki sem er efst í Almannadal, 100 m fyrri vestan við veginn sem gengur upp Tryppadal er fjárbyrgi – í grjótholti.“

Byrgisholt

Byrgisholt – fjárborg.

Í Jarðabók Árna og Páls segir um selstöðu Grafar; „Selstöðu á jörðin í heimalandi, sem nauðsynleg er, því jörðin stendur á horni landsins, en er mjög landljett heima.“ 145 Í örnefnalýsingu fyrir Gröf segir; „Djúpidalur er suðvestur af Grenisás, djúpur dalur. Hann er lokaður inni, en opnast suður að Hvömmum, skáhalt að svonefndum Selbrekkum. … .Þá eru Selbrekkur, er ná alveg frá Rauðavatni upp að Tvísteinum. Þar sér fyrir seltóftum efst í aðalbrekkunni.“

Grafarsel er enn vel sýnilegt ofarlega í grasigróinni brekku norðaustur af Rauðavatni. Fjárborgin er á ás allnokkuð suðaustan við selið. Hún er í jaðri skógræktar og hefur furutrjám bæði verið plantað við hana og í.

Heimild:
-Örnefnalýsing fyrir Grafarholt, Björn Bjarnason 1967.
-Jarðabók ÁM og PV 1703; Gröf.

Byrgisholt

Byrgisholt og Grafarsel – loftmynd.

Kolviðarhóll

Þorsteinn Bjarnason frá Háholti skrifar í Örnefnalýsingum um „Sögu Kolviðarhóls„:

„Hinn forni vegur yfir fjallgarðinn milli Ölfuss og Mosfellssveitar lá af Kambabrún sjónhending í skarðið milli vesturenda Skarðshlíðar og norðurenda Reykjafells. Lá vegurinn þar niður af Hellisheiði um Hellisskarð, yfir Bolavelli, vestur með Húsmúla, niður Norðurvelli með norðurbrún Svínahrauns hjá Lyklafelli, og var þá komið í byggð hjá Helliskoti í Mosfellssveit.

Draugatjörn

Sæluhúsið við Draugatjörn.

Á þessari löngu leið voru sama sem engar vörður. Austast á Hellisheiði voru vörðubrot og önnur vörðubrot vestast á heiðinni. Í ekkert hús var að venda nema smákofa, er var í Svínahraunstöglum, sem ganga út á Norðurvellina. Kofi þessi var illa ræmdur fyrir draugagang, og mynduðust meðal manna hinar fáránlegustu sögur um kofa þennan; munu nú flestar þessar draugasögur gleymdar. Heyrði ég í ungdæmi mínu haft eftir grobbnum karli, sem náttaði í kofa þessum, að hann sagðist hafa verið í áflogum við draug alla nóttina. „Hafði ég draugsa stundum undir, en hann slapp alltaf úr höndum mér, af því hvergi var eiginlega hægt að festa höndur á honum.“ Slíkar og þvílíkar sögur hafa skotið mönnum skelk í bringu, því draugatrú var á þessum tímum bráðlifandi. Forðuðust menn því kofann, og hefir óefað margur af því orðið úti. Í Þjóðólfi er þess getið, að svo megi telja, að á þessari leið hafi orðið úti maður annað hvort ár. Fóru menn nú að sjá, að þetta ástand var óþolandi.
Kolviðarhóll
Árið 1845 var nú kofinn í Svínahrauni fluttur upp á Kolviðarhól. Hvatamenn þess voru þeir séra Páll Matthíasson, prestur í Arnarbæli, Ölfusi, og Jón Jónsson, bóndi á Elliðavatni. Var að þessu mikil bót, fækkaði nú slysförum, því nú var hægara að finna kofann. Draugatrúin hvarf að mestu leyti; sagt var, að mörgum hafi verið illa við, að spýtur úr Svínahraunskofanum voru látnar í nýja kofann.
Nú liggur þetta sæluhúsmál niðri í 28 ár, en árið 1873 er það aftur vakið upp af þessum þrem mönnum; Guðmundi Thorgrímssen, verzlunarstjóra á Eyrarbakka, séra Jens Pálssyni, presti að Arnarbæli í Ölfusi, og Randrup lyfsala og konsúl í Reykjavík. Í örnefnaskrá frá því um 1700 í Þjóðskjalasafninu er Hellisskarð nefnt Nautaskarð, Bolavellir nefndir Hvannavellir, en Bolavellir strekki sig út frá Norðurvöllum. Þannig til orða tekið. Þ.B. þeirra er, að á Kolviðarhóli sé byggt svo veglegt hús, að í því geti búið gestgjafi, sem geti veitt móttöku vegfarendum og látið þeim í té rúm, mat og kaffi, ef með þarf. Ennfremur hey og hús handa hestum þeirra.
Kolviðarhóll
Hófu þeir nú fjársöfnun, en svo virðist sem undirtektir væru daufar, því ekki höfðu safnazt nema 10 rd. og 18 sk., þegar komið er langt fram á árið 1874. Þó ekki blási byrlega, gefast þeir ekki upp. Árið 1876 rita þeir enn um málið og skora nú fastlega á menn að gangast fyrir samskotum. Við árslok 1876 eru komnar í samskotasjóðinn 1378 krónur, 35 aurar.
Nú snúa þeir máli sínu til landshöfðingja og sækja um 1500 króna tillag úr landssjóði. Landshöfðingi svarar beiðni þeirra svo, að hann lofar 1000 króna framlagi úr landssjóði, þó með því skilyrði, að húsið væri byggt á næsta vori (þ.e. 1877). Því þora þeir ekki að lofa, því þeir álíta, að samskotaféð og þetta tillag landssjóðs verði of lítið, þar eð þeir höfðu einsett sér, að útveggir hússins yrðu byggðir úr steini. Skrifa þeir enn um þetta mál í Þjóðólfi og fara þungum orðum um undirtektir landshöfðingja í þessu máli.

Kolviðarhóll

Kolviðarhóll – loftmynd.

Árið 1877 eru samskotin orðin 2600 krónur. Þá eru þeir Björn Guðmundsson múrari og Helgi Helgason trésmiður fengnir til þess að gjöra áætlun um, hvað húsið muni kosta, og um leið að ákveða stærð hússins í samráði við séra Jens. Áætlunin varð 3600 krónur. Nú koma þeir landshöfðingja inn í málið í staðinn fyrir Randrup. Eflaust hefir landshöfðingi lagt fram fé úr landssjóði, sem á vantaði, því nú er ákveðið að byggja húsið, og er það fullgjört árið 1878. Húsinu er lýst þannig: Tvö herbergi niðri og annað með ofni, ennfremur eldhús með suðuvél. Uppi tvö herbergi, annað til geymslu, en hitt fyrir ferðamenn. Er nú loksins húsið komið upp eftir 5 ára látlausa baráttu. 27. ágúst 1878 er húsið auglýst til leigulausrar ábúðar. Þá flutti sig þangað frá Hreiðurborg í Flóa Ebeneser gullsmiður, sonur Guðmundar bókbindara og bónda á Minna-Hofi á Rangárvöllum, Péturssonar bónda s.st. Einarssonar bónda í Litla-Klofa á Landi, síðar á Minna-Hofi, Bergsteinssonar.

Kolviðarhóll
Á Kolviðarhóli átti Ebeneser við erfiðleika að stríða, og er það skiljanlegt, þar sem ekki var á öðru að lifa en greiðasölu til ferðamanna, sem ekki höfðu gjaldeyri nema af skornum skammti. Sezelja, kona Ebenesers, sagði sér hefði hvergi liðið eins illa um ævina. Þar hefði hún liðið bæði hungur og kulda. Vorið 1879 flytur Ebeneser frá Kolviðarhóli suður á Eyrarbakka.
KolviðarhóllÁrið 1879 sést enginn skrifaður á Kolviðarhóli, en 1880 flytur á Hólinn Ólafur bókbindari Árnason frá Eyrarbakka. Á Kolviðarhóli er hann til vorsins 1883. Ferðamenn gera það að blaðamáli, hve ófullkominn sé viðurgjörningur hjá Ólafi, þar fáist ekkert nema kuldi. Hóf nú Jón Jónsson ritari fjársöfnun í Reykjavík til hjálpar gestgjafanum á Kolviðarhóli. Safnaði hann 64 krónum og keypti nú mat, olíu og kol fyrir peningana, en Ölfusmenn fluttu vöruna upp á Kolviðarhól. Um vorið 1883 flytur Ólafur burtu, en þá tekur Kolviðarhólinn Sigurbjörn trésmiður Guðleifsson. Sama vorið sezt líka að á Kolviðarhóli Jón bóndi frá Stærribæ í Grímsnesi. Byggði hann sér bæ framan í hólnum.
Jón náði fljótt hylli ferðamanna, svo Sigurbirni var ekki viðvært; flúði hann burtu eftir 3ja mánaða dvöl á Kolviðarhóli við lítinn orðstír. Jón var af traustu bergi brotinn, og yfirvann hann erfiðleikana með dugnaði. Hann var fæddur á Minna-Mosfelli árið 1838; var Jón bróðir Arnórs föður prófessors Einars hæstaréttardómara; voru þeir bræður synir Jóns bónda á Minna-Mosfelli, fæddur 1810, Jónssonar bónda á Reykjanesi, Grímsnesi, fæddur 1771, Sigurðssonar bónda í Miðdalskoti, Laugardal, fæddur 1722, Sigurðssonar Skíðastöðum, Tungusveit, og Hofi í Skagafjarðardölum, fæddur 1670, Jónssonar Flatatungu, fæddur 1633, Sigurðssonar Flatatungu Jónssonar. Kona Jóns á Minna-Mosfelli, móðir Jóns á Kolviðarhóli, fædd 1804, var dóttir Jóns bónda á Neðra-Apavatni, dáinn 1839, Jónssonar og Ingveldar Jónsdóttur.
KolviðarhóllÞegar Sigurbjörn fór frá Kolviðarhóli, flutti Jón í nýja húsið, en lét þó bæinn standa fyrst og hýsti ferðamenn í honum. Jón fór nú að græða út tún og girti með grjótgarði. Mótak fann hann í gilskorningi við austurenda Húsmúlans. Slægjur keypti hann austur í Ölfusi; fluttu ferðamenn oft hey fyrir hann á hestum sínum út á Hól, naut hann þar vinsældar sinnar.
Eftir að þau hjón Jón og Kristín – var hún dóttir Daníels bónda á Hæðarenda í Grímsnesi – komu að Kolviðarhóli, heyrðust aldrei neinar kvartanir koma frá vegfarendum yfir því, að ekki fengist það, sem um var beðið. Þó kröfurnar væru ekki gjörðar háar af þeim vegfarendum, sem þá komu oftast að Kolviðarhóli, hefir þurft mikla fyrirhyggju til að sjá um, að undan engu væri að kvarta. Næturgreiði var mjög sanngjarn. Rúm kostuðu frá 25 aurum upp í 50 aura, kaffibolli brauðlaus 10 aura, með brauði 25 aura. Hey var dýrast, og var það að vonum, því dýr var flutningur á því austan úr Ölfusi. Jón og Kristín mörkuðu fyrstu sporin til þess, sem Kolviðarhóll varð síðar.
Kolviðarhóll
Árið 1895 fór Guðni, tengdasonur Jóns, að búa á Kolviðarhóli, hann átti Margréti Jónsdóttur. Guðni var fæddur á Arnarstöðum í Flóa 1863, sonur Þorbergs bónda þar, fæddur 1829, Helgasonar bónda á Lambastöðum hjá Hraungerði, fæddur 1795, Jónssonar bónda í Ölvisholti, Flóa, fæddur 1766, Einarssonar bónda í Götu, Selvogi, Jónssonar. Guðni og Margrét kona hans voru mjög vinsæl og hinir mætustu gestgjafar.

Guðni var dugnaðarmaður. Sótti hann um nýbýlarétt á Kolviðarhólnum til Ölfushrepps, sem honum var veittur. Innti hann af hendi allar þær skyldur, sem nýbýlaréttur áskilur. Stækkaði túnið og afgirti stórt land undir suðurhlíð Húsmúlans. Bætti húsakynni mikið. Eftir að Guðni tók við gistihúsinu, sótti hann um styrk af opinberu fé, til þess að afla heyja handa hestum ferðamanna. Mælti sýslunefnd Árnessýslu með því. Árið 1900 fékk Guðni 150 krónur úr jafnaðarsjóði. Síðar fékk hann 200 krónur úr amtsjóði, sem viðurkenningu fyrir jarðabætur. Árið 1906 selur hann jörðina Kolviðarhól Sigurði Daníelssyni, og flytur Sigurður þangað.

Kolviðarhóll

Kolviðarhóll – bæjarhóllinn 2008.

Brátt áunnu þau hjón sér virðingu og traust ferðamanna. Voru nú húsakynni orðin allgóð. 1910 voru tvö hús á Hólnum, timburhús og steinhús, þar að auki næg búpeningshús. Ég læt það öðrum eftir, að skrifa um þær miklu endurbætur, sem Sigurður gjörði á Kolviðarhóli, í jarðrækt og húsabyggingum.
Svo enda ég þessar línur með því að segja, að Suðurlandsundirlendið ásamt Reykjavík eru í mikilli þakkarskuld við þá menn, sem börðust fyrir því, að svo veglegt hús var byggt á Kolviðarhóli, að menn gátu búið í því, og þá ekki síður í þakkarskuld við þá þrjá búendur á Kolviðarhóli, Jón, Guðna og Sigurð, ásamt konum þeirra, sem gjörðu garðinn frægan. Nú taka aðrir við. „Eftir er yðvar hluti“, sagði Skarphéðinn.“

Heimild:
-Örnefnastofnun, Árnessýsla Saga Kolviðarhóls, Ölfushreppur – Saga Kolviðarhóls eftir Þorstein Bjarnason frá Háholti.

Kolviðarhóll

Kolviðarhóll 1914.

Þerneyjarsel

Þrjú sel eru innan og ofan við Tröllafoss í Leirvogsá. Varmársel er efst. Skammt þar frá er Þerneyjarsel. Esjubergssel er ofan við Rauhólsgil, innan við Esjubergsflóa. Þar er hæðin Skopra. Tóftir eru greinilegar.

Tröllafoss

Tröllafoss.

Gengið var upp með norðanverðri Leirvogsá áleiðis að framangreindum seljum. Einnig var ætlunin að skoða tóftir Sámsstaða og jafnvel leifar bæjar Halls goðlausa Helgasonar er nam land að ráði Ingólfs millum Mógilsár og Leirvogsár og bjó í Múla.
Esjubergsflói er dalverpi sem skilur að Haukafjöll og Stardalshnúka. Vestan við flóann eru þrír stakir grágrýtishnúkar í Haukafjöllum og nefnast Þríhnúkar. Esjubergsflói hefur nafn sitt af því að forðum var þangað selför frá Esjubergi á Kjalarnesi; má enn líta tóftir selsins austast í honum undir strýtumynduðum hnúk sem heitir Skopra. Úr flóanum fellur lækur suður til Leirvogsáar um svonefnt Rauðhólsgil.
Stefnan var tekin upp Rauðhólsgil. Gilið er djúpt neðst, en lagast vel að landinu ofar. Haldið var upp í Esjubergsflóa og þaðan í Svartaflóa. Mikið gras er þarna og mýrlendi. Útsýnið er fallegt yfir hæðir og hnúka. Esjubergssel kúrir þarna undir nefndri klettahæð norðan við Esjubergsflóa. Sér í vesturöxl Skálafells til austurs.
Haldið var yfir að Stiftamti neðan við Amtið (eða Ömtin), sem er áberandi stuðlabergshæð, einkum mót suðri. Undir hæðinni hefur verið gerð tilraun til ræktunar og þar er gamalt sumarhús, eyðilegt. Þetta er örskammt norðan við vegslóða og vað á Leirvogsá. Þarna rís lág klettarhæð eins og hús að líta frá götunni. Hún heitir Rípur. Neðan (suðvestan) við Ríp, rétt ofan við Leirvogsá, eru miklar tóftir.
Norðan við Ríp gnæfir Stiftamtið fyrrnefnda með lóðréttum hamraveggjum eins og gríðarstór bergkastali. Vestan við það er hnúkaþyrping sem nefnist Amtið. Í því má vel sjá ummerki eftir jökulinn, sem hefur skafið svo duglega ofan af stuðlabergsendunum þarna í hæðunum. Í giljum má sjá fallega bólsta og aðrar kvikustorknunarmyndir jarðsögunnar.

Varmársel

Varmársel.

Þarna fyrir austan er skarð inn í hnjúkaþyrpinguna, sem heitir Sámsstaðaklauf, en neðan hennar sér enn þá tún og rústir gamals eyðibýlis, sem heitir Sámsstaðir.
Tóftin er vestast í túnbleðli við lítinn sumarbústað. Í tóftunum er staur með málmplötu á. Líklega hefur einhvern tímann staðið þar: „Friðlýstar fornleifar“. Fyrir áhugasamt fólk segir áletrunin ekki neitt, ekki einu sinni að þarna séu friðlýstar minjar. Munnmæli eru um að þarna hafi fyrrum verið kirkjustaður en legið í auðn síðan drepsótt var hér á landi, þ.e. Plágan mikla 1402, eða svo er hermt eftir elstu mönnum í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín. Um eigendur þeirrar kirkjujarðar vissi enginn neitt að segja enda vart von á því þeirrar kirkju getur hvergi í skjölum. Nafnið bendir til þess að þarna hafi fremur verið bær en selstaða. Þarna er hlýlegt og skjól fyrir flestum áttum.
Ef „bæjarstæðið“ er skoðað mætti ætla að þarna hafi verið sel, a.m.k. eru tóftirnar „seljalegar“; tvö til þrjú hús að svipaðri stærð og sjá má í seljum á þessu svæði. Vitað er að margir bæir í Kjósinni áttu fyrrum selstöðu í núverandi Stardalslandi. Tóftirnar miklu suðvestan undir Ríp gætu hugsanlega hafa tengst einhverjum bæjanna, Sámstöðum, Múla eða Rauðhólum, sem þarna áttu að hafa verið.

Stardalsmúli

Stardalhnúkur.

Stardalshnúkur er áberandi kennileiti til norðurausturs. Hann myndaðist við að hraunkvika tróðst upp í móberg inni í í Stardalsöskjunni. Móbergið er enn hægt að skoða í giljum upp af Sámsstöðum, sem koma niður úr fyrrnefndu skarði, Sámsstaðaklauf, austan við Stiftamt og Ríp.
Víða er fallegt stuðlaberg á þessu svæði og há lóðrétt bergþil. Basaltinnskotið var lengi að kólna þarna og náði því að mynda gilda stuðla.
Stuðlaberg er notað um storkuberg þar sem stuðlar blasa við; [columnar basalt]. Stuðlar í bergi myndast við storknun þegar bergið dregst saman við að kólna og myndar margstrenda stuðla hornrétt á kólnunarflötinn. Stuðlað storkuberg verður til þegar kvika storknar og kólnar minnkar rúmtak efnisins. Kraftarnir, sem myndast við þessar rúmmálsbreytingar, losna á auðveldastan hátt með því að mynda marghyrnt sprungumynstur, oftast sex- eða fimmhyrnt. Neðst í hraununum eru stuðlarnir sem myndast á þennan hátt reglulegir og ávallt hornréttir á kólnunarflötinn. Ofar og nær yfirborði hraunanna er lag smágerðra óreglulegra stuðla sem mynda kubbaberg.  Þetta óreglulega lag er víða horfið á gömlum hraunum vegna rofs, samanber Kirkjugólfið á Kirkjubæjarklaustri.

Sámsstaðir

Sámsstaðir.

Víða sjást mjög sérkennilegar myndanir stuðla eins og til dæmis í gömlum gígfyllingum þar sem gjallkápa gígsins hefur máðst burtu við rof eins og t.d. í Hljóðaklettum. Þekktar stuðlabergsmyndanir hérlendis eru t.d.: Gerðuberg í Hnappadal, Kirkjugólfið að Klaustri, Dverghamrar á Síðu, við Svartafoss í Skaftafelli og við Litlanefsfoss í Hengifossá í Fljótsdal.

Í landnámsbókum er greint frá manni sem hét Hallur goðlausi Helgason og sagður venslaður eða skyldur ýmsum kunnum landnámsmönnum, t.a.m. Þórði skeggja, sem nam Skeggjastaði, og Ketilbirni gamla að Mosfelli í Grímsnesi. Hallur nam land að ráði Ingólfs í Reykjavík allt millum Mógilsár og Leirvogsár og bjó í Múla. Bæjarnafnið Múli er nú týnt og kann enginn að segja hvar sá bær hefur staðið. Í túni núverandi býlis Stardals undir Múlanum eru margar rústir eftir forna byggð, segja heimildir a.m.k.
Hús var tekið á Magnúsi bónda í Stardal. Hann tók vel á móti göngufólkinu, benti m.a. á hinn gamla bæjarhól Stardals norðan núverandi húss. Þar má enn sjá leifar hlaðinna túngarða. Magnús sagði að þar hafi jafnan verið snjóþungt og því hafi húsin verið færð svolítið lengra til suðurs. Ekki kannaðist hann við leifar fornra bæjarstæða undir Múlanum, en hann væri þó eina örnefnið með því nafni á þessum slóðum. Magnús sagði að Esjubergsselið væri enn greinilegt undir Skopru. Hann hefði sjálfur margoft komið í þessi sel við leitir. Þá væru hin tvö augljós, 30-40 metrum ofan við norðurbakka Leirvogsár, skammt ofan við Tröllafoss.
Haldið var niður með Leirvogsá, áleiðis niður að Tröllagljúfrum.

Þerneyjarsel

Þerneyjarsel.

Á leiðinni var komið við í einni seltóftinni, Varmárseli. Hún er skammt ofan við bakka árinnar að norðanverðu, í fallegu gróðurverpi. Gömul reiðgata liggur svo til alveg við tóftirnar. Þær eru dæmigerðar fyrir sel á Reykjanesskagagnum; tvö rými saman og eitt til hliðar (eldhúsið).
Gerð var leit að annarri tóft, Þerneyjarseli, sem átti að vera þarna nálægt, en hún vildi ekki láta sjá sig í fyrstu atrennu. Hún mun örugglega koma í ljós síðar.
Í Tröllagljúfrum er sérkennilegt landslag berghóla með grösugum lægðum á milli og heita þær Tröllalágar. Þar segir sagan að enn megi sjá rústir fornra selja sem nefnast Varmársel og Þerneyjarsel. Segja nöfnin til um hvaða bæir áttu þangað selför. Líklegt er að selið, sem skoðað var hafi verið Varmársel.
Tröllafoss setur mikinn svip á gljúfrin. Skammt neðar er miklu mun minni foss, nafnlaus.
Tröllalágar bera nafn með réttu. Í gilinu neðan við Tröllafoss eru hrikaleg ummerki vatnsgraftar í 11000 ár.

Svæðið er vel fallið til gönguferða. Gömul reiðleið liggur norðan með ánni og er ákjósanlegast að fylgja henni. Af götunni er hið fegursta útsýni og alltaf tekur við ný sýn á landið umhverfis. Rétt er að njóta þess áður en áin verður virkjuð varanlega.
Móskarðshnúkar „brostu“ sínu bjartasta, hnúkarnir lögðu sig fram við að sýna kolla sína og stuðlabergsdranga og Skálafell vildi alls ekki verða neinn eftirbátur þeirra. Lognið og blíðan í febrúar undirstrikuðu gildi svæðisins til útvistar.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 33. mín.

Heimild m.a.:
-Árbók FÍ 1985.
-http://www.ismennt.is/not/gk/jfr/ordskyr/

Esjubergssel-401

Esjubergssel.

 

Landnámssýning

Eftirfarandi umfjöllun um fyrirhugaða sýningu á víkingaaldarskála við Aðalstræti í Reykjavík er byggt á fyrirlestri OV í fornleifafræði við Háskóla Íslands 2006.

Fornminjar hafa fundist við Aðalstræti og næsta nágrenni. Forsaga staðarins er nokkur sem og eldri rannsóknir á svæðinu. Hér verður m.a. fjallað um sannfræði upplýsinganna, upprunaleika minja og helgi þeirra.
Fornleifar í Kvosinni fundust þegar fyrir 1950. Áður var vitað að slíkar minjar kynnu að leynast á svæðinu m.a. vegna texta Landnámu um búsetu Ingólfs Arnarssonar og síðari tíma texta um að „öndvegissúlur hafi sést í eldhúsi í Reykjavíkurbænum“ fram á 19. öld. Örnefnin Ingólfsnaust og Ingólfsbrekka bentu m.a. til staðsetningar bæjar Ingólfs, elsta bæjar Reykjavíkur. Þegar grafið var fyrir Tjarnargötu 4 (Happrætti Háskóla Íslands) á fimmta áratug 20. aldar, komu í ljós miklar fornminjar, dýrabein o.fl., en fáir voru upprifnir af því sem þá bar fyrir augu. Þá var líkt og nú gerist. Matthías Þórðarson skoðaði svæðið, en ekki var gerð gagnmerk rannsókn á leifunum, sem þá fundust, enda enginn sérstakur áhugi þá á að varðveita minjar tengdar Ingólfi heitnum, hvað þá að varðveita þær til sýningarhalds. Sennilega hefur mest af gamla bænum verið mokað burtu umrætt sinni – því miður.
Áskorun embættismönnum borgarinnar kom fram árið 1959 um að friða svæði á horni Túngötu og Aðalstræti – „því þar væri að finna leifar af bæ Ingólfs, hins fyrsta landnámsmanns“. Helgi Hjörvar gaf m.a. út bók með greinum þar sem fram kom að hann vildi staðsetja Alþingi Íslendinga á fyrrgreindum stað, „enda vel við hæfi“.
Fornleifarannsóknir fóru fram á svæðinu 1962. Við C14 greiningar komu í ljós mjög gamlar minjar. Uppgröftur Else Nordahl í Aðalstræti 14 og 18 og jafnframt Suðurgötu 3 og 5 fóru fram á árunum 1971-75. Hún var mjög varfærin í túlkun niðurstaðna sinna og þær skyldu því lítið eftir sig. Málið í heild hlaut litla athygli og engir minnisvarðar voru reistir á vettvangi, þrátt fyrir tilefni til þess. Ummerki fundust um landnámsbyggð.
Uppgreftir í Aðalstræti 12 og 8 og Suðurgötu 7 gáfu einnig til kynna ummerki eftir landnámsbyggð á svæðinu.
Ummerki um landnámsbyggð, allt frá elstu tíð, s.s. leifar af skálum, en fáir gripir. Skálarnir voru litlir, 12-14 m langir og eldri byggingar höfðu greinilega raskað þeim eldri.
Útbreiðsla minjanna má greina með lagni. Elstu minjar eru þar sem nú er Herkastalinn og hús Happdrættis Háskóla Íslands. Meginsvæðið nær þó lengra til norðurs að Ingólfstorgi og jafnframt lengra til suðurs. Lýsingar Matthíasar eru slíkar að líkur benda til þess að þarna hafi elstu minjarnar verið. Herkastalinn er grunnt grafinn svo ekki er með öllu útilokað að þar undir kunni að leynast minjar er gætu gefið bæjarstæðið til kynna. Hér er þó ekki komin endanleg mynd á svæðið því enn eru reitir á svæðinu, sem enn hafa ekki verið grafin upp, bæði lóðir og götur.
Alls staðar þar sem grafið hefur verið hafa fundist einhverjar minjar frá fyrstu tíð. Hið merkilega er að eftir rannsóknina á 8. áratugnum var mokað yfir rústirnar og hvergi sjást ummerki eftir uppgötvanir þær, sem þá voru gerðar.
Endurbygging Aðalstrætis 16 og uppbygging á reitnum Aðalstræti 14-18 hafa nú að mestu farið fram. Áður voru gerðar fornleifarannsóknir á útmánuðum 2001. Í ljós komu minjar frá Innréttingatíma og síðar, auk skála frá 10. öld. Skálinn var nánast heill og dæmigerður fyrir sinn tíma. Það gerði hann hentugan til sýningarhalds. En var hann “Ingólfsbær”? Fjölmiðlar voru a.m.k. upprifnir af þeirri mögulegu staðreynd. Því verður þó ekki hnikað að skálatóftin getur ekki verið eldri en frá miðbiki 10. aldar og síðar. Við norðurenda skálans fundust veggjabrot er bendir til að sé eldra en textalandnám segir til um, þ.e. fyrir 870. Því er hér um að ræða einn tveggja staða á landinu, sem benda til eldra landnáms en textaheimildir kveða á um. Hinn er Húshólmi í Ögmundarhrauni, í umdæmi Grindavíkur.
Einkenni skálans voru bogadregnir útveggir, langeldur í miðju hans, inngangur á öðrum langvegg og þrískipting byggingarinnar. Hið óvenjulega voru bakdyr og forskáli til hliðar er síðar kom í ljós. Langeldurinn er óvenju vel hannaður. Það bendir til þess að fólkið hafi litið stórt á sig. Skálinn er hins vegar lítill á íslenskan fornaldaskálamælikvarða. Um hefur verið að ræða meðalheimili og þar hefur verið búið í u.þ.b. 70 ár. Skálinn hefur að öllum líkindum verið yfirgefinn um 1000.
Þrjár rostungstennur fundust í skálanum. Fleiri slíkar hafa fundist í Reykjavík. Þessum var stungið undir hellu og geymdar þar. Hafa ber í huga að fyrst var, skv. heimildum, farið til Grænlands 983 svo rostungurinn gæti hafa verið veiddur hér á landi. Það eitt ætti að vera nokkuð merkilegt.
Glerbort úr litlum bikar fannst í tóftinni. Það á sér hliðstæðu úr öðrum víkingaaldargripum. Þetta mun þó vera elsta glerbrot úr uppgrefti á Íslandi. Glerið gæti verið stöðutákn og til merki um sambönd og ríkidæmi ábúandans.
Borgarstjórn ákvað að varðveita skálann. Rökin voru afgerandi, en ekki einhlít. Hönnun fyrirhugaðs hótels var því breytt og gert ráð fyrir að hægt væri að sýna þessar minjar. Sumir vildu þó ganga lengra og byggja sérstaka sýningaraðstöðu þeim til handa. Það þótti hins vegar of dýr framkvæmd. Því varð þessi málamiðlun niðurstaðan. Borgarsjóður ber kostnað af sýningarrýminu, en hann má áætla um 500 milljónir króna.
Rústin var hulin eftir uppgröftin og framhaldsrannsókn síðan gerð 2003. Sýningarundirbúningurinn hófst 2004, en sýningin er í rauyn tækifæri til að upplýsa hvernig fornleifar líta út. Með því er ekki verið að útiloka að eldri minjar kunni að leynast á svæðinu, jafnvel undir skálanum, þótt litlar líkur bendi þó til þess.
Forvarsla skálans varð erfitt viðfangsefni því ekki hafði verið tekist á við slíkt viðfangsefni hér á landi fyrr. Áætlað var að þurrka tófina, en hún myglaði. Í ljós kom að vatnslind er undir henni miðri. Efnið er í rauninni mold, sem verður að ryki við þornun. Niðurstaðan var að baða hana í sílikoni. Það hefur ekki verið gert áður svo hér er um tilraun að ræða. Óvíst er hver árangurinn kann að verða. Forvarslan nær í fyrstu til ytri gerðar tóftarinnar, en síðar verður hugað að miðju hennar.
Sérsýning verður því í fyrirhöguðu hóteli um landnám í Reykjavík.
Skálinn verður aðalsýningargripurinn. Áhersla verður lögð á fornleifarnar fremur en söguskýringu. Skýr aðgreining verður milli hefðar (sagnfræði) og fornleifaupplýsinga. Um er að ræða málamiðlanir.
En fyrir hvern er sýningin? Erlenda eða innlenda ferðamenn?, skólabörn? eða alla? Er hún samkeppni eða viðbót við Þjms og aðrar sýningar? Líklega verður hún samkeppni þar sem ferðamenn í miðborginni munu geta á einum stað og á skömmum tíma geta kynnt sér upphaflega búsetu norrænna manna hér á landi, án þess að þurfa að fara í Þjms.
En hvað um Hallveigu og Ingólf? Í Íslendingabók Ara fróða frá því um 1130 segir að Ingólfur, maður norrænn, hafi fyrstur sest að í Reykjavík um 870. Yngri heimildir segja að afkomendur Ingólfs og Hallveigar konu hans hafi búið hér mann fram af manni. Þorkell máni, sonarsonur Ingólfs og Hallveigar gæti samkvæmt því hafa búið í skálanum, sem hér var reistur um 930.
Niðurstöður fornleifarannsóknarinnar varpa engu ljósi á sannleiksgildi hinna rituðu heimilda. Mörgum þykir hins vegar athyglisvert að fornleifafundurinn hér stangast ekki á við frásögn Ara fróða af landnámi Ingólfs í Reykjavík. En hafa ber í huga, að þótt elstu mannvistarleifarnar á þessum stað geti ekki verið yngri en frá því um 870 þá gætu þær vel verið nokkrum áratugum eldri.
Hugsanlega eiga líka eftir að finnast ennþá eldri merki um búsetu manna á Íslandi, því margt er enn órannsakað, bæði í Reykjavík og annars staðar á landinu, s.s. í Húshólma.
Yfirskrift sýningarinnar í kjallara hótelsins verður: Reykjavík 871±2 – Landnámssýning / The settlement exhibition.
En af hverju að sýna þessar fornleifar? Og það á þessum stað? Og með þessum tilkostnaði?
Í rauninni er þetta „helgur“ staður í augum Reykvíkinga? Fyrirhuguð sýning er áhersla á fornleifarnar frekar en söguna. Skálinn er aðalsýningargripurinn og sýningin snýst um hann. Um er að ræða skýr aðgreining hefðar (sagnfræði) og fornleifaupplýsinga. Það er sérstakt.
Sýningin er fremur lítil. Tekur um 10-15 mínútur að ganga í gegnum hana, en möguleiki er á lengri viðdvöl. Fyrst, á leið niður, verður kynnt landnám á Íslandi í alþjóðlegu samhengi. Svolítill texti verður um Ingólf Arnarsson til þessa dags. Móttaka, sölubúð og tölvuver með ítarupplýsingum taka á móti gestum í kjallara. Sagt verður frá ritheimildum áveggjum, auk „panaorama“ myndum er sýna umhverfið við landnám. Vandamálið er hversu lágt er til lofts. Það verður stærsti ókostur sýningarinnar. Við enda tóftarinnar verður lítil upphækkun, en þar verður möguleika að horfa yfir „sviðið“. Klefi verður þar sem hægt er að horfa í skjá og skoða endurgerð af rústinni. Hægt verður að fara í gegnum hana og skoða sig um. Margmiðlunarborð með líkan af rústinni leiðir gestina í gegnum hana. Skýringar og textar segja til um einstaka hluta hennar. Þarna gæti fólks staldrað við í allt að klukkustund.

Fimmtán textar verða á veggjum. Síðasti textinn fjallar um framangreindan texta um Hallveigu og Ingólf.
Nokkur umfjöllun hefur verið um þessa fyrirhugaða sýningu. Þráinn Bertelsson, dálkahöfundur, sagði m.a. í Fréttablaðinu 29. 08. 2001 eftirfarandi: „Ekkert land í veröldinni er svo ríkt af fornminjum að þar geti að líta bústað fyrsta nafngreinda fólksins sem tók sér bólfestu í landinu. Bæjarrústir Ingólfs og Hallveigar eru fornleifafundur sem er einstæður ekki bara á Íslandi heldur í veröldinni. … Ingólfsbær er þjóðargersemi og þjóðargersemar á að varðveita með öðrum og myndarlegri hætti heldur en í hótelkjallara, jafnvel þótt með því sé hægt að harka inn fáeinar krónur. Þarna á að rísa safn einstakt í Evrópu og minna á landnám Íslands, landkönnun í vesturátt, íslenska þjóðveldið og þróun víkingasamfélagsins til okkar daga. Þjóð sem misbýður sögu sinni með því að vísa fyrstu landnámsfjölskyldunni til dvalar í hótelkjallara verður aumkunarverð í augum alls heimsins.”
Um svipað leyti fór fram umleitan og skoðanakönnun á nýtingu fornleifanna við Aðalstræti. Spurt var: Á að byggja yfir landnámsbæinn í Aðalstræti? Já sögðu 33%, nei sögðu 67%.
Skoðanakönnun þessi var birt á www.visir.is og í Fréttablaðinu 12.11.2001.
Gunnar Smári Egilsson, dálkahöfundur, skrifaði eftirfarandi um sýninguna í DV þann 15.01. 2002: „Það hefur heldur enginn efast um að landnámsskáli hafi verið í Aðalstræti. Þær rústir sem menn hafa nú grafið upp bæta þar engu við – það er líklegra að þær skyggi á hugmyndir okkar af bænum en auðgi þær.
GrafiðOg þótt við drögum túrista að rústunum mun það ekki auðga líf þeirra – eða skilning þeirra á sjálfum sér eða okkur. Það er því óþarfi að byggja viðhafnarskála kringum heimsókn túristanna að rústunum. Eðlilegast er að moka yfir grjótið og halda lífinu áfram.”
Varðveisla skálans er véfengjanleg sem og túlkun fornleifafræðinga. Skörð hafa myndast í veggi tóftarinnar, hún varð hvít að lit, kostnaður varð mikill, lágt er til lofts og erfitt er fyrir gesti að skynja tóftina. Til hvers er þá sýningin? Forvarsla varð bæði kostnaðarsöm og hæpin þar sem umbreyting á eðli efnisins (torf í plast) er að ræða. Önnur áferð og litbrigði gefa varla rétta sýn á minjarnar sem slíkar. Og hvað er þá upprunalegt? Staðurinn, formið, steinefnin? Nóg er eftir til að hægt sé að halda því fram að tóftin sé upprunaleg. En hvers vegna ekki að hlaða veggina á nýtt og jafnvel skipta um þá reglulega? Hversvegna ekki að lækka rústina svo hægt verði að sjá yfir hana? Hér er einungis fárra álitamála getið.
Ljóst er að fornleifar frá landnámsöld í Kvosinni eru helgistaðir íslensks þjóðernis. Helgin er aðdráttarafl. Fjármagn skortir ei. Áhugi ferðamanna mun vissulega verða fyrir hendi – a.m.k. sumra.
Hvert er þá hlutverk fornleifafræðinga í þessu öllu saman? Hver er ábyrgð þeirra? Fornleifafræðingar hljóta að spyrja sig; hvað er hægt að tala um og hvað ekki? Sýningin opnar a.m.k. á aðrar túlkanir og aðra sýn á landnámið en tíðkast hefur. Hugsanlega gæti hún breytt ríkjandi skoðunum. Fleira kemur og til greina.
Hið sérstæða, og þó, er að enginn höfundur er að fyrirhugaðri sýningu í kjallara hótelsins. Leiktjaldahönnuður sér um útlit og verkefnastjóri stýrir hópi vísindamanna um álitamál og textagerð. Enginn ber heildarábyrgð á sýningunni sem slíkri. Ritstjóri er yfir sýningarbók og bæklingi (textum) og umskrifari fer yfir og gengur frá textum. Ljóst er að vandað verður til útlits og allra formlegheita. Forðast þarf alla meinbugi því þeir munu verða öðrum eftirminnilegri en kostirnir og megináherslur.
Segja má að í gegnum tíðina, m.a. vegna meðvitunar- og eftirtektarleysis, hafi Reykvíkingar gloprað niður tækifærinu til að uppgötva að nýju hinn raunverulega forna landnámsskála Ingólfs Arnarssonar.
Gaman verður að sjá hvernig til tekst.

Framangreint er byggt á fyrirlestri OV í fornleifafræði við Háskóla Íslands 2006. Texti er á ábyrgð ritara.

Landnámssýning

Landnámsýningin.

Reynisvatnsheiði

Fá skrif eru til um jafn nærtæka heiði og Reynisvatnsheiðin er. Reyndar hefur heiðin sú ekki verið nærtæk öðrum en sumarbústaðaeigendum og tímabundum hernámsmönnum fyrr en allra síðustu árin. Eftir að Morgunblaðið byggði prentsmiðju og flutti síðan ritstöðvar sínar í Hádegismóa á Grafarheiðinni norðan Rauðavatns varð Reynisvatnsheiðin skyndilega í örskotsfjarlægð.
Miðjan í minjasvæðinu á ReynisvatnsheiðiAð vísu var skógræktarfólk búið að undirbúa jarðveginn með því að planta trjám við Rauðavatn og utan í sunnanverða heiðina, gera göngustíga og reyna að laða fólk að útivistarmöguleikum hennar, en árangurinn skilaði sér ekki að ráði fyrr en byggðin fór að teygja sig áleiðis. Rauðavatnið sjálft varð aðalaðdráttarafl 
skautafólks, skaflskeiðunga og smábátaunnenda, en lengra náði áhugi þangaðleitenda tæpast – með örfáum undantekningum þó. Með byggðaaðþrengingunni jókst nýtingin svo að jafnvel þaulsetið listafólk sýndi því áhuga. Svæðið var síðan fornleifaskráð og því fékkst staðfest að búsetuminjar frá fyrri tíð leyndust í heiðunum. Einna merkilegust þeirra eru líklega leifar  Grafarsels, fjárhústóft frá Hólmi, tvær fjárborgsleifar austan Rauðavatns og myndarleg fjárborg norðaustan á hæð austan vatnsins. Þá verður hlaðin ferköntuð rétt austan Rauðavatns að teljast til merkilegra fornleifa á svæðinu. Gömul gata liggur og ofan Rauðavatns áleiðis til austurs, að Lyklafelli, en utan í hana hafa myndast seinni tíma sumarhúsagötur. Nú eru til viðbótar komnir þar betrumbættir göngustígar, malbornir.
Reynisvatnsheiðin er spölkorn austar, eða millum Rauðavatns og Reynisvatns sem og Langavatns skammt austar. Austar er Miðdalsheiði.
Einn FERLIRsfélaga fór nýlega um Reynisvatnsheiðina og rak þá þjálfuð augun í umtalsverðar hleðslur sunnan í grónu holti. Þær eru tæpast numdar með venjulegum augum. Um er að ræða nánast ferkantað gerði, 10×12 m, með grónum jöðrum, en í því miðju eru tveir hlaðnir þverveggir, líkt og undirstöður eða hrófl að göflum. Grjótið í hleðslunum hefur þó verið með stærra móti. Skammt sunnar eru sprengiefnageymslur. Austan þeirra eru leifar af götu og steyptum grunni mannvirkis, líklega frá Seinni heimsstyrjöldinni. Þær virðast þó ekkert hafa með fyrrgreint mannvirki að ræða, sem virðist mun eldra.
Haft var samband við fulltrúa Minjasafns Reykjavíkur og athygli hans vakin á mannvirkinu.
Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 11 mín.
Minjar á Reynisvatnsheiði - hoft til suðurs

 

Kjalarnes

Í Fréttabréfi Ættfræðifélagsins árið 2000 má lesa eftirfarandi frásögn um „Kjalarnes og Kjós„:
„Esjan er fjall sem allir Reykvíkingar og fleiri hafa fyrir sjónum nær alla daga.Uppi í hlíðum þess var unnið kalk og flutt til Reykjavíkur. Brennsluofhinn stóð þar sem nú heitir Kalkofnsvegur og eru enn til hús sem kalkið var notað í. Á Esjuna eru margar góðar og frekar auðveldar gönguleiðir, t.d á Þverfellshorn, um Gunnlaugsskarð, úr Blikdal og margar fleiri. Á Esjubergi var fyrsta kirkja á Íslandi reist og þar bjó Búi Andríðsson, aðalsöguhetja Kjalnesingasögu.
Esja-221Á Móum bjó séra Matthías Jochumsson þegar hann var prestur í Saurbæ á Kjalarnesi 1867-73 og þar þýddi hann leikritin Hamlet, Othello og Rómeó og Júlíu.
Um Brautarholt segir í Kjalnesingasögu að Helgi bjóla, sem nam land á Kjalarnesi fengi Andríði, írskum manni, bústað. Þar fæddist Bjarni Thorarensen, 1786-1841, skáld og amtmaður. Helgi bjóla bjó á Hofi, en Þorgrímur goði reisti þar hof mikið.
Saurbær á Kjalarnesi er kirkjustaður og höfuðból. Árið 1424 rændu enskir víkingar staðinn og stálu vopnum, hestum og fleiru.
Tíðaskarð innan við Saurbæ heitir svo því að þar fóru kirkjugestir um á leið til tíða og þegar til þeirra sást, þótti tími til að hringja til tíða. Fyrir um 15-20 árum var farið að brotna mikið úr sjávarbakkanum fyrir neðan kirkjugarðinn og komu þá í ljós bein úr garðinum.
Hvalfjarðareyri, löng og flöt eyri er gengur út í Hvalfjörðinn. Þar var verslunarstaður um tíma á seinni hluta 17. aldar eftir að Maríuhöfn eyðilagðist. Rétt innan eyrarinnar heitir Naust. Þaðan gekk ferja um tíma yfir að Katanesi. Þar er og elsti vegarkafli í Kjósinni, sem enn er notaður.
Laxárvogur (Laxvogur) er grunnur en þótti góður beitutínslustaður.
mariuhofn-221Maríuhöfn var verslunarstaður á miðöldum og sjást þar rústir, sem eru að mestu ókannaðar. Árið 1402 kom Hval-Einar Herjólfsson skipi sínu í Maríuhöfn og flutti með sér svarta dauða, mannskæðustu drepsótt er hingað hefur komið. Þegar Alexíus prestur Svarthöfðason á Saurbæ reið frá skipi, komst hann ekki nema í Botnsdal og andaðist hann þar og sjö fylgdarmenn hans. Svo bráð var sóttin.
Árið 1387 kom Björn Einarsson Jórsalafari skipi sínu í Hvalfjörð.
Hvammur, þar bjó Hvamm-Þórir er land nam milli Laxár og Fossár.
Steðji, Karlinn í Skeiðhól, Staupasteinn, sem allt eru nöfn á sama steininum, en þar er forn áningarstaður.
glymur-221Í Landnámu segir að Ávangur hinn írski hafi reist bú að Botni. Um Botnsdalinn rennur Botnsá, en hún skiptir löndum milli Kjósarsýslu og Borgarfjarðarsýslu. Í henni er Glymur, 198 m hár, talinn hæsti foss á Íslandi. Botnsá fellur úr Hvalvatni, sem er næst dýpsta vatn landsins, um 160 m djúpt. Inn af dalnum er Hvalfell, móbergsfjall, sem hlóðst upp í gosi undir jökli síðla á ísöld. Grágrýtiskollur er á fjallinu, sem bendir til að gosið hafi náð upp úr jöklinum. Sagt er að Arnes Pálsson hafi hafst við í hellisskúta við vatnið á árunum 1750-57.
Botnssúlur, einstakir tindar, sá hæsti 1095 m. talið er að um gamla eldstöð sé að ræða og tindarnir séu rústir af gömlum gíg. Þyrill er 358 m hátt hömrum girt fjall úr basalti, þar finnast margar tegundir sjaldgæfra geislasteina. Nafnið mun vera dregið af þyrilvindum þeim, sem eru svo algengir fyrir botni Hvalfjarðar. Í Þyrli er klauf, Helguskarð, sem sagan segir að Helga jarlsdóttir klifi upp með syni sína, Björn og Grímkel, á flótta eftir víg Hólmverja á leið sinni yfir að Indriðastöðum í Skorradal.
Í Geirshólma höfðust við Hólmverjar undir forustu Harðar Grímkelssonar, sem frá segir í Harðar sögu og Hólmverja. Þar hafðist við flokkur Sturlu Sighvatssonar undir forustu Svarthöfða Dufgussonar og fóru með ránum þaðan um hríð.
Bessastaðir, kirkjustaður og fornt höfuðból á Álftanesi. Bessastaða er fyrst getið í Íslendingasögu Sturlu Þórðarsonar og eru þá í eigu Snorra Sturlusonar. Eftir dráp Snorra sló Noregskonungur eign sinni á Bessastaði og eru þeir fyrsta jörðin í konungseign á íslandi. Frá 1867 voru Bessastaðir í eigu Gríms Thomsen, en faðir hans bjó bar áður. Grímur var fæddur á Bessastöðum 1820. Á Bessastöðum fæddist einnig skáldið Benedikt Sveinbjarnarson Gröndal 1826. Þar var Bessastaðaskóli, arftaki Hólavallaskóla, frá 1805 og í um 40 ár. Þá var hann fluttur til Reykjavíkur aftur og nefndist þá Lærði skóli og síðar Menntaskólinn í Reykjavík. Bessastaðir voru gefnir íslenska ríkinu 1941, með því skilyrði að þar yrði setur ríkisstjóra og forseta. Gefandinn var Björgúlfur Ólafsson, læknir á Bessastöðum og síðar í Kópavogi. Hús þar eru í elstu röð húsa í landinu, reist á árunum 1761-66 sem amtmannssetur. Kirkja var reist þar á árunum 1777-1823. Þar var gert virki á 17. öld, Skansinn, til varnar sjóræningjum og óvinaherjum.“

Heimild:
-Fréttabréf Ættfræðifélagsins, 18. árg. 2000, 4. tbl., bls. 1 og 3.

Esjuberg

Esjuberg á Kjalarnesi.