Tag Archive for: Reykjavík

Hellisheiðarvegur

Gengið var frá Draugatjörn, framhjá Kolviðarhól, upp Hellisskarð, litið á Búastein, haldið eftir Gamla veginum um Hellisheiði og áfram áleiðis niður Kambana. Austarlega á Hellisheiði eru gatnamót Skógarvegar (Skógarmannagötu) er liggur til suðurs um Stóradal og Háaleiti áleiðis niður að Hjalla í Ölfusi.

Hellukofinn

Hellukofinn.

Hellisheiði er heiðin sunnan Henglafjalla. Hellisheiði er mjög eldbrunnin en víða er mosagróður og lyng á hrauninu. Er talið að yngsta hraunið hafi runnið við eldgos á 6 km langri gossprungu um árið 1000. Heiðin hefur öldum saman verið mjög fjölfarin. Hin forna leið var kölluð Gamli vegurinn, en hún lá á öðrum stað en nú er farið. Að austan lá hún upp Kamba, yfir Hurðarás og þaðan sjónhendingu á Hellisskarð fyrir ofan Kolviðarhól. Síðan lá leiðin niður af heiðinni um Hellisskarð, þaðan um Bolavelli vestur með Húsmúla, um norðanvert Svínahraun hjá Lyklafelli og var oft komið í byggð hjá Elliðakoti í Mosfellssveit.

Hellisheiði

Hellisheiði – gömul gata.

Leiðin liggur um klappir vestan til á heiðinni og er gatan þar víða mörkuð allt að 20 sm djúp í stálhart hraungrjótið. Þessi leið var öll vörðuð og standa margar vörðurnar vel enn í dag. Þekkt er Biskupsvarða sem stóð á klapparhól vestarlega á heiðinni. Vörðunnar er getið í heimild frá 1703 og mun hún hafa verið ævaforn og mikið mannvirki, krosshlaðin svo að hafa mætti skjól við hana í öllum áttum. Hún stóð fram á 19. öld. Nálægt 1830 var byggður sæluhúskofi á sömu klöppinni og var grjótið úr Biskupsvörðu notað í hann.
Kofinn stendur enn, nefndur Hellukofi enda eingöngu byggður úr hellum. Er fullri vegghæð er náð dregst hleðslan saman og myndar þakið en efst er stór hella sem lokar opinu. Kofinn tók 4-5 menn. Hellukofinn var friðaður 1. janúar 1990. Þórður Erlendsson bóndi á Tannastöðum, d: 1872, reisti Hellukofann en hann var víst „snillingur í öllum handtökum“. Gamli þjóðvegurinn sker núverandi þjóðveg en stór hluti af þessari gömlu leið er enn vörðuð. Enn má sjá djúp för í jörðinni, um hraunklappirnar nálægt kofanum, því að á sumum stöðum hefur umferðin markað allt að 20 sm djúp för.

Hellisheiðarvegur

Austurvegurinn 1900.

Á árunum 1879-1880 var lagður upphlaðinn vegur upp Kamba og vestur Hellisheiði, nálægt hinni fornu þjóðleið, en á árunum 1895-1896 var lagður vagnfær vegur yfir Hellisheiði, nokkru vestar en eldri leiðir, niður í Hveradali og vestur fyrir Reykjafell en ekki niður Hellisskarð.

Gangan hófst við réttina sunnan við Draugatjörn, sunnan Húsmúla. Önnur rétt er þar skammt suðaustar, fast við gamla þjóðveginn upp að Kolviðarhól. Áður en haldið var inn á gömlu þjóðleiðna, sem liggur að Hellisskarði, var komið við í sæluhústóft austan við tjörnina.

Hellisheiði

Gata um Hellisheiði.

Árið 1703 var hún talin nauðsynleg á vetrartímanum til innivistar. “Er og lofsvert, að þetta sælhús skuli ei niður fallið (1793)”. Hann var ætlaður þeim, sem ferðast þarna á vetrardegi, og kallaðist sæluhús. Margir hafa dáið í þessum kofa, því oft hafa þeir ekki fundið hann fyrr en þeir voru örmagna af hungri og kulda. Í örnefnalýsingu segir að í ekkert hús var að venda [á leiðinni yfir Hellisheiði] nema smákofa, er var í Svínahraunstöglum, sem ganga út á Norðurvellina. Kofi þessi var illa ræmdur fyrir draugagang, og mynduðust meðal manna hinar fáránlegustu sögur um kofa þennan.

Draugatjörn

Draugatjörn – sæluhúsið.

Árið 1845 var nú kofinn í Svínahrauni fluttur upp á Kolviðarhól. Hafði nýtt sæluhús verið byggt á Kolviðarhóli 1844. Ýmsar sagnir eru um menn sem hafa tekist á við drauga í kofa þessum, t.d. um Grím á Nesjavöllum en hann var á ferð þar um 1820 og kljáðist við afturgöngur þriggja manna sem höfðu orðið þar úti nokkrum árum áður. Þar kemur fram að bálki hafi verið í suðurenda kofans.

Kolviðarhóll

Kolviðarhóll 1910.

Stuttur gangur er eftir gömlu götunni að Kolviðarhól. Áður var farið yfir læk úr Mógili í Húshólma og framhjá síðarnefndu réttinni, áfram eftir suðaustanverðum Bolavöllum og að hólnum. Bú var fyrst reist á Kolviðarhóli 1883. Um vorið settist þar að Jón bóndi frá Stærribæ í Grímsnesi. Byggði hann sér bæ framan í hólnum. Kolviðarhóll er 4-5 m hár, gróinn, melhóll við norðurenda á lágum rana eða ási sem gengur norður úr Reykjafelli, beint neðan (vestan) við Hellisskarð. Ekkert vatnsból er sýnilegt en hefur væntanlega verið í brunni.

Húsmúlarétt

Húsmúlarétt.

Undirstöður síðustu húsanna á Kolviðarhóli sjást enn vel og hafa sumar verið steyptar en aðrar eru úr tilhöggnum sandsteini, sem víða má finna í Reykjafelli beint ofan við hólinn. Framan í nyrðri hluta hólsins (norðan við bæjarstæðið) hefur verið hlaðinn pallur úr hraungrýti og er hann mjög heillegur að sunnanverðu og að vestan en norðurhornið er hálfhrunið. Lítill heimagrafreitur er þarna með steyptum veggjum. Árið 1910 voru tvö hús á Hólnum, timburhús og steinhús, þar að auki næg búpeningshús. Einu útihúsaleifarnar sem nú sjást er steypuhrúgald austan í norðanverðum hólnum. Þjóðsaga segir að “almenn sögn segi, að í þessum hól sé heygður Kolfinnur, sem nefndur er í Kjalnesinga sögu.”

Hellisskarð

Gengið um Hellisskarð.

Haldið var upp Hellisskarð. Í frásögn árið 1703 segir að „upp í hnúknum fyrir norðan fyrrnefnt Hellisskarð er sá stóri steinn einstakur, er Búasteinn kallast, við hvörn stein varðist Búi Esjufóstri, sem saga hans til vísar.“ Um það bil í miðri heiðarbrekkunni til vinstri, nokkuð hundruð fet uppi er stór teningslaga steinn; Búasteinn. Er hann settur í samband við frásögn Kjalnesinga. Stór þverhníptur sandsteinsklettur og er aðeins gengt upp á hann að ofan (austan). Talsvert rof er í kringum steininn af vatnsflaumi en einnig af mannaferð.
Ofan við Hellisskarðið eru gatnamót. Til norðausturs liggur leið er gekk undir nafninu “milli hrauns og hlíða”, um Skarðsmýri og upp á gömlu þjóðleiðina til norðurs frá Hveragerði.

Þegar komið er upp á heiðina úr Hellisskarði, verður fyrir samfelld hraunbreiða, og er aðeins eitt einstigi yfir hana.

Húsmúlarétt

Húsmúlarétt.

Hraunið er að mestu flatar og sléttar hellur, en grjót og melar hér og hvar. Svo mætti virðast, sem einstigi þetta væri höggvið af manna höndum í hraunstorkuna, því þar er svo beint og reglulegt. Víða mælist það allt að 1/2 feti, og má af því marka, hve geysigamall þessi vegur er og fjölfarinn. Rásin er misgreinileg. Samfellda kafla má rekja lengst um 50 metra en yfirleitt mun styttra en á milli liggur leiðin sumstaðar um djúpar rásir þar sem grjóti hefur verið rutt úr veginum en víðar gufar slóðin alveg upp á milli. Á nokkrum stöðum má greina að slóðin er tvö- eða jafnvel þreföld.

Hellisheiði

Hellisheiði – vörður.

Austur frá Reykjafelli (Stóru-Reykjafell) eru Hellurnar, eru þær sléttar klappir, liggja yfir þær djúpar götur eftir hestafætur. Sanna göturnar að yfir þessar sléttu klappir hefur umferð verið allt frá fyrstu byggð hér á landi.“ segir í örnefnalýsingu. Allt frá því að komið er upp úr Hellisskarði er hálfbert helluhraun austur að miðri heiðinni eða þangað til að fer að halla austur í Ölfus. Fleiri vörður eru og við veginn til leiðarvísis. Á Hellisheiði eru yfir 100 vörður. Vegir hafa legið yfir Hellisheiði frá ómunatíð. Gata lá upp Kamba, yfir Hurðará og í stefnu á Gíga ofan við Hellisskarð. Í klöppum á þeirri leið eru víða djúpar götur, gengnar á liðnum öldum.

Eiríksbrú

Eiríksbrú á Hellsiheiði.

Síðar var lagður upphlaðinn vegur, kenndur við Eirík í Grjóta, sömu leið.”Það mun hafa verið nálægt 1880-1881, að Eiríkur Ásmundsson í Grjóta lagði steinilagðan veg um Kamba, yfir allar hæðir og lautir, svo að hann yrði þráðbeinn. Vegna brattans víðast hvar og þess, að ekkert var borið ofan í veg þennan, var hann sjaldan eða aldrei farinn.
Framhald vegar Eiríks í Grjóta um Svínahraun, lagður 1877-78, lá upp um Hellisskarð fyrir ofan Kolviðarhól. Þar er enn efst í skarðinu lítt hrunin hleðslan í vegköntunum. Vegirnir voru lagðir á þann hátt, að þeir útilokuðu þann möguleika að menn hæfu vagnferðir eftir þeim. Til þess var brattinn í Hellisskarði og Kömbunum of mikill og einnig vantaði akfæran veg frá Reykjavík upp að Svínahrauni. Við þetta ástand sat að mestu fram yfir 1890.

Búasteinn

Búasteinn neðan Hellisskarðs.

Á herforingjaráðskorti frá 1909 liggur norðurendi Lágaskarðsleiðar útaf Hellisheiðarvegi undir neðstu brekkum Reykjafells og yfir hraunhólana neðan við Hveradalaflöt. Á kortinu kvíslast leiðin við Lönguhlíð og liggur ein slóð til Breiðabólstaðar en önnur til Hrauns. Um grasi grónar hlíðar og slétt helluhraun, mosagróið, mjög greiðfær leið. Vegurinn er lengstaf aðeins kindastígur en nokkur vörðutyppi eru í sjálfu skarðinu (á helluhrauninu) og gætu sum þeirra verið gömul. Á nokkrum stöðum má ímynda sér að hestaumferð hafi gert för í hraunhelluna, en hvergi er það skýrt. Þessi leið mun nú ganga undir nafninu Lákastígur. Steindór Sigurðsson lýsir Lágaskarðsleið í Árbók Ferðafélagsins 1936.

Grafningur

Ölfusvatnslaugar.

Margrét útilegumaður hafðist við í Nesjalaugum eða Ölfusvatnslaugum, en síðan í ýmsum stöðum nálægt þjóðveginum á Hellisheiði og stal þar af ferðamönnum. Um þá lýsingu má lesa annars staðar á vefsíðunni.

Lákastígur

Varða við Lákastíg.

Þegar gengin hafði verið 2/3 af leiðinni um Gamla veg var komið að gatnamótum Skógarvegar. Í örnefnaslýsingu segir að “á þessum fjallgarði, er fyrir norðan þessa byggð sveitarinnar liggur, eru þrír vegir vestur á Suðurnes, nefnilega Ólafsskarð, Lágaskarð og Sanddalavegur, hvorir allir saman koma í einn veg á vestanverðu fjallinu, þá byggðarlönd taka til Suðurnesjajarða. Sanddalir eru neðan og suðaustan við Lágaskarð og mætti ætla að um sömu leið væri að ræða, en hér mun sennilega verið átt við leið „frá Hjallahverfi um Kálfabergsstíg, Káfadali, Hálsa, Vegarbrekkur, Lakadal, Stóradal, á þjóðveg í Hveradölum.” Skógarvegur liggur hins vegar til suðurs af Hellisheiðavegi og niður að Hjalla um Stóradal og Háaleiti suðaustan undir Skálafelli (verður genginn síðar).

Skógargata

Skógargatan.

Í örnefnalýsingu 1703 segir að “upp á Hverahlíð er Skálafell, með vatnsstæði. Á þessu felli var skáli Ingólfs Arnarssonar, fyrsta landnámamanns, hvar af þetta fell hefur sitt nafn dregið, sem Landnáma á víkur. Skógarmannavegurinn austan Skálafells er frá þeim tíma, er Hjallamenn sóttu skógarnytjar í Nesjaskóg í Grafningi. Einnig nefnd Suðurferðagata, milli Háaleita, við Hlíðarhorn, – á þjóðveginn á Hellisheiði vestan við Loftið (40 km steininn).” Nefndur steinn er við Skógarveginn, eða Skógarmannaveginn, skammt sunnan núverandi þjóðvegar.

Frá þessum gömu gatnamótum sést vel niður að Kömbum sem og yfir Ölfusið allt – í góðu skyggni.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 33 mín.

Heimild m.a.:
-Bæjarbókasafn Ölfuss.

Reykjafellsrétt

Reykjafellsrétt í Dauðadal.

Rauðavatn

„Kveikjan að þessari frásögn er grein Sigurðar G. Tómassonar í síðasta Skógræktarriti. Árið 2007 var gerð úttekt á skerðingarsvæði Suðurlandsvegar við Rauðavatn vegna fyrirhugaðrar breikkunar vegarins þar. Í framhaldi af henni vakti úttektarmaður athygli á leifum girðingar sem þar væru að finna og gerði m.a. Landbúnaðarsafni Íslands á Hvanneyri viðvart um minjar þessar. Þann 11. september 2008 fórum við tveir félagarnir á vettvang með þau áform að Raudavatn-hornstaurbjarga frá áformuðum vegarframkvæmdum þeim girðingarstaur sem næstur var þjóðveginum og yrði í öllum tilvikum að víkja. Breikkun Suðurlandsvegar á þessum stað lenti í útideyfu en það er önnur saga.
Nú kann einhverjum að þykja sem hátt hafi verið reitt til höggs fyrir einn girðingarstaur, en svo einfalt er málið ekki því að girðingin um Rauðavatnsstöðina – hvað elstu minjar um skógrækt í Reykjavík – virðist á sínum tíma hafa verið svo vönduð að við fátt jafnast er síðar þekktist á því sviði. Áður en sagt verður frá minjabjörgunaraðgerðum okkar félaga er rétt að rifja upp nokkuð af því sem vitað er um sjálfa girðinguna – mannvirkið.
Frá fyrstu framkvæmdum skógræktarmanna við Rauðavatn er meðal annars sagt í skýrslu Flensborgs, hins danska skógræktarstjóra landsins, fyrir árið 1902. Við þýðum lauslega orð skógræktarstjórans: „Spildan við Rauðavatn var girt sams konar girðingu og hin nýfengnu svæði að Hálsi og á Hallormsstað… Spildan var girt með járnstaurum og gaddavír og sléttum vír til skiptis [afvekslende Pigtraad og glat Traad]. Ég legg með nánari upplýsingar um girðinguna, sem áhugaverð kann að þykja, þar sem hlutur girðinga mun skipta miklu fyrir skóga framtíðarinnar…“
Síðan lýsti Flensborg girðingarefni og -aðferð af mikilli nákvæmni; „hér er aðeins getið helstu atriða er vörðuðu undirbúning verksins: Finna þarf girðingarefni sem er ódýrt og auðvelt í flutningum og uppsetningu, er sterkt og heldur úti sauðfé og hrossum. Eikarstaurar og gaddavír duga vel, en hver hestur ber aðeins 4 staura, auk þess sem staurarnir taka mikið pláss í skipunum…“
Þar eð í ár skyldi girða um það bil 40 tunnur landsins á þremur stöðum var um að ræða mikið efni. Við leituðum því tilboða ýmissa framleiðenda í Kaupmannahöfn á grundvelli fastrar áætlunar. Athugað var hvort gömul gasrör kæmu til álita… Einnig var leitað til Englands… og fór svo að samið var við Jones & Bayliss í London um 4500 stika langa girðingu (um 4.100 m). Rækileg lýsing Flensborgs á hinni ensku girðingu er upplögð æfing í „ólesinni“ dönsku, svo við látum hana koma orðrétta: „Hegnet, som har 4 Pigtraade og 3 glatte Traade med 3–10 Tommers Afstand, tættest forneden, er 4 Fod højt over Jorden. Det opstaaende Materiel udgøres af: Hjørnestolper, massive, firkantede Jernstøtter, som forneden bærer en stor Plade og i Jordoverfladen et Kors af mindre Plader, og som støttes af 2 Skraastivere ligeledes med Jordplade paa den nederste Ende.
raudavatn-staur-1Dernæst Strammestolper, dannede af 2 Stkr. svært Pladejern og forsynede med Plader som Hjørnestolperne. Endvidere Mellemstolper af dobbelt T-Jern, hvorpaa der fæstes en Plade i Jordoverfladen, parallelt med Hegnslinien. Og
endelig Dropper, Vinkeljern, som kun gaar til Jordoverfladen. Der sættes en Hjørnestolpe i hvert vandret eller lodret skarpt Knæk paa Hegnslinien samt ellers for hver 6–800 Fod; en Strammestolpe indsættes for hver 3–400 Fod, en Mellemstolpe for hver 24 Fod og endelig for hver 6 Fod en Dropper. Paa Hjørne- og Strammestolper sidder der Strammeruller med Palhjul og Nøgletap; i Mellemstolper og Dropper er der Indsnit til Traaden, som fastholdes med drejelige Lukkehager og med Splitter. De fornødne Laager hænge mellem 2 Strammestolper med Skraastivere. Alle Stolper graves 2 Fod ned i Jorden.“
Og efnið kom frá Leith vorið 1902, sjóleiðis að sjálfsögðu. Flutningur þess til Norður- og Austurlands tafðist vegna hafísa, er bæði jók kostnað við efnisaðdrætti og seinkaði girðingavinnunni. En girðingin um gróðrarstöðina (planteskolen) við Rauðavatn komst upp og síðan liðu ein 106 ár. Segir nú af athugun okkar eins og frá henni var greint í verksskýrslu: „Í fyrsta lagi gengum við hluta hins gamla girðingarstæðis, austur og upp í holtið þar sem „Planteskolen“ á að hafa verið, sbr. loftmynd af svæðinu. Þar uppi er afar vandaður hornstaur. Staurinn er jarðfastur og hefur ekki gefið sig á neinn veg. Undir girðinguna virðist hafa verið hlaðið jarðvegi og þarna nærri má sjá skýran garð í girðingarstæðinu, sbr. lýsingu Flensborgs: „Planteskolen skal omgives med en 3 Fod Jordvold, af hvilken Allerede en Del er bygget“, Ákveðið var að láta borgarminjavörð vita um minjar þessar svo þær mætti færa á skrá. Þannig væri helst hægt að forða þeim frá eyðileggingu vegna mannvirkjagerðar síðari tíma. Sem stendur eru minjarnar það langt frá umferð að þeim er sennilega fremur lítil hætta búin. Vel mætti líka stinga þarna niður merki sem héldi til haga merkri skógræktar- og girðingasögu.
Í öðru lagi var það svo ´kraftstaur´ (strammestolpe) er varðveist hafði á girðingarlínunni meðfram Suðurlandsvegi, gengt bensínstöð Olís er þarna stendur. Þessi og áðurnefndur hornstaur virtust við fyrstu skoðun okkar félaganna vera einu staurarnir úr girðingunni, sem eftir eru. Kraftstaurinn stóð traustum fótum og hreyfðist lítt þótt skekinn væri. Við ákváðum að bjarga staurnum en ljóst var að hann myndi verða í vegi framkvæmda kæmi að þeirri breikkun Suðurlandsvegar sem áformuð var.
Sýnilega hafði verið grafið fyrir staurnum og púkkaraudavatn-girdingastaur-2ð vel að honum með hnullungsgrjóti. Eftir að hafa fjarlægt
nokkra steina úr púkkinu tókst okkur að hreyfa staurinn töluvert en upp vildi hann ekki. Fengum við þá dráttarvél Skógræktarfélagsins til aðstoðar. Reynt var að hífa staurinn lóðrétt upp en þá slitnaði borði, sem átti að sögn ekils dráttarvélarinnar, að þola fimm tonna átak. Fjarlægðum við þá enn meira grjót úr púkkinu. Tókst þá loks að lyfta staurnum. Kom þá í ljós hvað hélt honum niðri: Allstór platti sem boltaður var við staurinn en ofan á hann hafði grjótinu verið púkkað. Hefðum við betur kannað lýsingu Flensborgs nákvæmar áður en við vörðum öllum svitadropunum til verksins. Kraftstaurinn reyndist vera 222 cm langur. Á honum eru sjö strekkirúllur fyrir vír; um það bil 90 cm af staurnum voru neðanjarðar. Ber þessum málum vel saman við lýsingu Flensborgs nema hvað staurinn hefur sennilega verið settur dýpra í jörð en þar var sagt. Líka kann að gæta þar áhrifa áfoks. Áðurnefndur platti er um 45 x 31 cm að stærð og á langhlið hans er 11 cm hornrétt ´uppábrot´. Kraftstaurinn er, eins og hornstaurinn, ótrúlega heill eftir allan þennan tíma. Á málminum, sem að mestu virðist vera steypt járn, sá undralítið.
Það er af staurnum að segja að hann var tekinn til athugunar er í Landbúnaðarsafnið kom. Reyndist hann sáralítið ryðgaður, helst þó þar sem jarðaryfirborð hafði verið. Strekkihjól voru heil að mestu. Staurinn var forvarinn með Jóhannesar-olíu og honum síðan komið fyrir gestum safnsins til sýnis. Það er ljóst að mjög hefur verið vandað til þessarar fyrstu skógræktargirðingar á SV-landi. Minjarnar sýna líka að a.m.k. girðingarstaurum má koma þannig fyrir hérlendis, bæði um efni og frágang, að þeir standi lengur en í heila öld!
Við samningu þessarar greinar kom upp í huga höfunda hvort útséð væri með að fleiri staurar – hvort sem væru hornstaurar eða kraftstaurar – gætu leynst einhversstaðar í upprunalegu girðingarlínunni. Til að ganga úr skugga um það fór annar höfundur í reisu meðfram gömlu girðingunni núna í lok ágúst 2013. Og viti menn, í þéttum skógi ofan við gömlu gróðrarstöðina (planteskolen) fannst einn kraftstaur sem virðist vera alveg í jafngóðu ástandi og staurinn góði sem nú er á Landbúnaðarsafninu.
Ekki fundust fleiri staurar þrátt fyrir nokkra leit meðfram upprunalega girðingarstæðinu. Það er þó ekki hægt að útiloka að fleiri standi þarna enn, enda skógurinn mjög þéttur á köflum. Ekki er vafi á því að þessar minjar eru býsna merkilegar í ræktunarsögu þjóðarinnar. Girðingaöld Íslendinga var að hefjast á fyrstu árum tuttugustu aldar og það sama átti við um skógræktina. Minjarnar eru hluti af upphafi þeirrar sögu. Full ástæða er því til þess að gæta vel skógræktarminjanna þarna við Rauðavatn.“

Heimild:
-Skógræktarritið 2013 2. tbl.- Bjarni Guðmundsson og Jón Geir Pétursson – Rauðavatnsstöðin – sögubrot af vandaðri girðingu, bls. 68-71.

Rauðavatn

Rauðavatn.

Selbrúnir

Í „Skráning fornleifa í Mosfellsbæ 2006„, skráða af Þjóðminjasafni Íslands, segir eftirfarandi um sögu Miðdals:

Miðdalur

Miðdalur – kort 1908.

„Miðdalur hefur trúlega verið í eigu Viðeyjarklausturs en er fyrst getið í Fógetareikningum 1547-52 sem „Mýdall“ eða „Mijdall“, þá í eigu konungs. Árið 1704 er hún ennþá konungsjörð og ábúandi einn (Jarðabók Árna og Páls III, bls. 289-91). Árið 1847 er Mið­dalur hins vegar kominn í bændaeign og býr eigandinn þar sjálfur (J. Johnsen).
Einhvern tíma á árunum 1938-57 var jörðinni skipt í Miðdal I og II. Skv. Fasteignabók 1957 er Miðdalur II þó í eyði og nýtt frá Dallandi en í Eyðijarðaskrá 1963 kemur fram að Dalland var myndað úr Miðdal II og nýtt af eiganda. Jarðaskrá Landnáms ríkisins staðfestir að Miðdalur II var ekki í ábúð þegar byrjað var að halda jarðaskrár 1958 og hefur ekki verið síðan. Miðdalur I er hins vegar ennþá í ábúð.

Búrfellskot

Búrfellskot.

Þess ber að geta að fyrr á öldum hafa margar hjáleigur heyrt undir Miðdal.
Flestar virðast þó hafa farið í eyði snemma, jafnvel fyrir 1700. Má þar nefna Miðdalkot, Sólheimakot, Borgarholt eða Borgarkot, Búrfellskot og Búrfell.
Loks má nefna að sögu­legur viðburður átti sér stað í Efri-Djúpadal í landareign Miðdals, við konungsheimsóknina árið 1907, og segir Tryggvi Einarsson bóndi frá því í Örnefna­lýsingu: „…sá faðir minn Einar Guðmundsson í Miðdal að öllu leyti um aðbúnað og móttöku Friðriks VIII, Danakonuns á leið sinni til Þingvalla. Var dalurinn allur flöggum prýddur, byggður var eldhússkúr en matarveisla í tjaldbúðum. Fékk faðir minn lof fyrir stundvísi og aðbúnað allan“ (Tryggvi Einarsson).“

Í „Örnefnalýsingu fyrir Miðdal„, skráð af Tryggva Einarssyni Miðdal, segir um svæðið norðan og austan Selvatns:

Litla-sel

Tóft ofan við Litlu-Selsvík.

„Frá miðju Selvatni austan Sauðhúsamýrar er Langimelur, skammt austur af suðurenda Langamels rennur Hrútslækur í Selvatn. Hrútslækur á upptök austan við Löngubrekkuhorn, þarna er allstór mýri er Hrútslækjarmýri heitir. Austan við Hrútslæk skagar grýtt holt út í Selvatnið sem Bleikjunef heitir. Nokkru austar við Selvatn skagar annað holt út í vatnið, það heitir Urriðanef. Milli Bleikjunefs og Urriðanefs er vík er Litla-Selsvík heitir. Norður af Litlu-Selsvík er Litla-Sel, sést aðeins móta fyrir rústum þar. Ofan við Litla-Sel er Litlaselshæð. Austur af Selvatnsenda er Víkursel, talið vera frá Vík á Seltjarnarnesi, sést þar fyrir selstóftum. Norður af Víkurseli eru Selbrúnir.

Víkursel

Víkursel.

Austan við áðurnefndan Hrútslæk er Hrútslækjarmýri. Norður af upptökum Hrútslækjar er Langabrekka. Milli Löngubrekku og Langamels er Langamýri. Norður af Löngumýri er Borgarholt, þar var hjáleiga frá Miðdal. Austan við Borgarholt er mýrarkriki er Borgarholtsmýri heitir. Suðvestan við Borgarholt er mýrarsund er Borgarholtskelda heitir. Á Borgarholti er jarðfastur bergdrangur sem Borgarholt dregur nafn sitt af og heitir Borgin. Norðan við Borgarholt er stór hæð sem Hríshöfði heitir. Vestan í Hríshöfða er Hríshöfðabrekka. Vestur af norðvestur horni Hríshöfða er hringlaga holt sem Holtið-Eina heitir, þar er nú nýbýlið Dalland. Milli Einholts og Borgarholts er Borgarholtsmýri. Undir norðvestur horni Hríshöfða er uppsprettulind sem Kaldakvísl heitir, er Kaldakvísl raunveruleg upptök Bæjarlækjar. Norðan við Holtið-Eina og Hríshöfða er mýri sem Hríshöfðavik heitir. Austan við Hríshöfðavik undir smáhæð er Gamli-Stekkur, sést þar vel fyrir Stekkjartóftum. Austur af Gamla-Stekk er lágur ás, norður að gamla-Þingvallavegi er Rjúpnaás.

Djúpidalur

Djúpidalur.

Austur af Rjúpnaás er Efri-Djúpidalur. Sá konunglegi dalur, árið 1907 sá faðir minn Einar Guðmundsson í Miðdal að öllu leyti um aðbúnað og móttöku Friðriks VIII, Danakonungs á leið sinni til Þingvalla. Var dalurinn allur flöggum prýddur, byggður var eldhússkúr en matarveisla í tjaldbúðum. Fékk faðir minn lof fyrir stundvísi og aðbúnað allan.

Selbrúnir

„Borg“ í Selbrúnum.

Spölkorn suður af Djúpadal er Hríshöfðadalur. Austan við Víkurselsbrúnir er allstór ás, er Selás heitir. Norðvestur undir Selás er Seldalur. Austan við Selsás er tjörn er Helgutjörn heitir. Sunnan undir Selás er valllendislágar er Urðarlágar heita, þar eru upptök Urðarlágarlækjar sem rennur í austurenda Selvatns. Nokkru norðar rennur Sellækur í Selvatn. Úr eystri Selvatnsenda í Lykklafellskoll eru landamörk milli Miðdals og Elliðakots. Suðaustur af Urriðarlágarbotninum (svo) eru Vörðhólar. Vestan undir Vörðhólum er allstór dalur er Vörðhóladalur (heitir. Sunnan við Vörðhóla er greni með fallegu skotbyrgi. All langt norður af Lyklafelli eru Klettabrúnir sem Klettabelti heita, spölkorn austur af Klettabeltum er jarðfastur bergstöpull sem Litli-Klakkur heitir. Nokkru austar er stærri bergstöpull sem Stóri-Klakkur heitir.“

Selvatn

Selvatn – málverk Ásgríms Jónssonar 1956. Sjá myndina fyrir neðan.

Tryggvi Einarsson getur ekki um fjárborg í Selbrúnum. Borgarmynd er þó þarna í dag, árið 2021, ca. 15 metra frá sumarbústað, sem þar hefur verið byggður, allhrörlegur. Fjárborgin þessi kemur heldur ekki fram í „Skráning fornleifa í Mosfellsbæ“ 2006. Í Þjóðminjalögunum frá 2001 sagði í 11. grein: „Þeim minjum, sem friðlýstar eru, skal fylgja 20 metra friðhelgað svæði út frá ystu sýnilegu mörkum fornleifa og umhverfis nema kveðið sé á um annað.“ Fjárborgin hefur ekki verið friðlýst. Hennar er heldur ekki getið í „Skráningu fornleifa í Mosfellsbæ 2006“, skráð af Þjóðminjasafni Íslands.

Selvatn

Selvatn – steinn Ásgríms Jónssonar.

Í Minjalögum frá 2012 segir hins vegar í 22. grein: „Fornleifum sem eru friðlýstar skal fylgja 100 metra friðhelgað svæði út frá ystu sýnilegu mörkum þeirra og umhverfis nema kveðið sé á um annað. Hvers konar röskun, byggingarframkvæmdir eða aðrar framkvæmdir á friðhelguðu svæði umhverfis friðlýstar fornleifar eru óheimilar án leyfis Minjastofnunar Íslands. Friðhelgað svæði umhverfis aðrar fornleifar, sem ekki eru friðlýstar en njóta friðunar, skal vera 15 metrar nema annað sé ákveðið“. Sumarbústaðurinn hefur væntanlega verið byggður fyrir 2012.
Líklegasta skýringin á vanskráningu „fjárborgarinnar“ að hún hafi verið hlaðin eftir 2006. Handbragðið á hleðslunum bendir m.a. til þess. A.m.k. sést hún ekki á loftmynd af svæðinu frá 1954.

Árnakróksrétt

Árnakróksrétt.

Tryggvi Einarsson frá Miðdal skráði „Örnefni í landi Elliðakots í Mosfellssveit“. Þar getur hann um aðra fornleif skammt sunnar, þ.e. Árnakróksrétt: „Landamörk Elliðakots að norðan eru þar sem Dugguós rennur í Hólmsá.
Svo Dugguós í vesturenda Selvatn. Skammt vestan við mitt Selvatn eru stórgrýtisklettar, sem Veiðiklettar heita. Nokkru ofar við vatnið er Árnakrókslækur.
Austan við Sellækjarupptök er allstór klettahóll, sem Árnakrókshóll heitir. Austur af Árnakrókshól er allstór valllendiskriki, sem Árnakrókur heitir. Á klapparsvæði norður af Árnakrók er Árnakróksrétt (að mestu uppi standandi), var skilarétt Mosfellinga. Var flutt að Hafravatni um síðustu aldamót. Heitir nú Hafravatnsrétt. Árnakróksrétt var annáluð fyrir brennivínsþamb og hæfileg slagsmál. Sótti þar að fjölmenni úr Reykjavík og nágrenni og vakað alla réttanóttina.“ Í „Aldaskil“ eftir Árna Óla, á bls. 243, er minnst á tilurð nafnsins Árnakrókur. „Þarna fannst maður úr Laugardalum helfrosinn í Króknum svokallaða sem aftur breyttist í Árnakrók“.

Fossvallarétt

Fossvallarétt ofan Lækjarbotna.

Fossvallarétt ofan Lækjarbotna  tók við af Hafravatnsrétt fyrir afrétt Seltjarnarneshrepps hins forna haustið 1986 eftir að Hafravatnsrétt hafði verið lögð niður en hún hafði verið lögrétt allt frá 1902 þegar Árnakróksrétt, skammt frá Selvatni, var aflögð (skömmu eftir aldarmótin 1900).

Heimildir:
-Skráning fornleifa í Mosfellsbæ 2006, skráð af Þjóðminjasafni Íslands.
-Örnefnalýsing fyrir Miðdal – Tryggvi Einarsson.
-Örnefnalýsing fyrir Elliðakot – Tryggvi Einarsson.
-Þjóðminjalög 2001 nr. 107 31. maí.
-Minjalög frá 2012.

Selbrúnir

„Fjárborg“ í Selbrúnum.

Útvarp

Á RÚV þann 28. október 2021 ræddi Arnar Björnsson við Sigurð harðarsson, rafeindavirkja, um nýuppsett útvarps-  eða viðtækjasafn á Skógum. Saga útvarps á Íslandi er að verða eitt hundrað ára, en lítill áhugi annarra en örfárra áhugamanna hefur verið að viðhalda þeirri merku sögu til framtíðar:

Sigurður Harðarson
„Sigurður Harðarson rafeindavirki er áhugamaður um útvarp. Tólf ára gamall smíðaði hann sitt fyrsta útvarpstæki. Um síðustu áramót fór hann ásamt fleirum að safna gömlum útvarpstækjum. Draumur hans er að koma á laggirnar útvarpstækjasafni, sams konar safni og talstöðvarsafnið sem hann byggði upp og er á Skógum undir Eyjafjöllum.

Útvarp

Eitt fyrsta viðtækið.

„Eftir því sem ég best veit var fyrsta útvarpstækið flutt inn til landsins 1924 en ári áður smíðaði Þorsteinn Gíslason á Seyðisfirði fyrsta lampatækið sem vitað er. Hann var búinn að smíða sér viðtæki áður til að hlusta á erlendar stöðvar sem þá voru að senda út á morsi á neistasendum. 1923 heyrist fyrst í útvarpi talað mál eftir því sem ég best veit,“ segir Sigurður þegar við Karl Sigtryggsson kvikmyndatökumaður setjumst niður með honum í talstöðvasafninu í Skógum. „Eftir því sem ég kemst næst voru 475 tæki til í landinu þegar Ríkisútvarpið hóf starfsemi sína 1930.“

Útvarp
„Þau einföldustu kostuðu 175 krónur og upp í 550 krónur. Þetta voru hátalaralaus tæki þannig að þú þurftir að kaupa hátalara fyrir 90 krónur og rafhlöður fyrir 30 krónur. Þannig að ódýrasta tækið kostaði rúmlega 300 krónur. Þá hafði verkamaður um eina krónu á tímann þannig að hann var 3 mánuði að vinna sér fyrir útvarpi.“ Þannig að það hefur aðeins verið á færi ríka fólksins að kaupa sér útvarpstæki?. „Já bóndi þurfti að selja 7-800 kíló af gæða nautakjöti til þess að eiga fyrir útvarpi.“

Útvarp

Vestri og Sindri.

„Fyrsta gerðin sem var smíðuð var tveggja lampa einfalt tæki sem náði sendingum Ríkisútvarpsins. Sendingarnar komu frá Vatnsenda og náðust í Reykjavík og nágrenni en ekki úti á landi. Í framhaldi var tækið betrumbætt, gert næmara og einum lampa bætt við. Það tæki fékk nafnið „Vestri“ og eldri gerðin kölluð „Suðri“. Sigurður segir að 8 gerðir útvarpstækja hafi verið smíðaðar hjá Viðtækjasmiðju Ríkisútvarpsins sem sett var á laggirnar 1933. „Þar voru framleidd einföld og ódýr útvarpstæki.”

Grunnurinn er alltaf sá sami í raun og veru? „Alltaf sá sami, það er það sem við höfum séð með því að opna þessi tæki og rífa þau í sundur og gera við þau. Tækin eru öll í lagi og virka eins og þau eiga að gera.”

Útvarp

Austri.

Draumur þinn er að búa til safn hér í Skógum? „Já til dæmis. Það er eiginlega ekkert húsnæði á landinu sem hýst safnið því þetta er svo mikið magn. Við erum búnir að vera að vinna í því ég og félagar mínir í upp undir ár að flokka þetta eftir ártölum og sögu tækjanna. Sum eru ómerkileg og önnur merkileg. Það hefur farið í þetta mikill tími og næsta skref er að finna einhvern stað undir safnið, við þurfum 3-400 fermetra húsnæði.”

Hefði það ekki verið agalegt að vita til þess ef þessu hefði ekki verið sinnt? „Jú það var nú ástæðan fyrir því að við fórum í þetta ég og félagar mínir. Þetta eru verðmæti sem eru ómetanleg. Það eru víða til í heiminum svona útvarpssöfn en ég held að án þess að geti alveg fullyrt það í þessu tilfelli núna sennilega nokkurn veginn þróunarsögu Íslendinga í útvarpstækjum. Alveg frá fyrstu gerðum sem voru þá kristaltæki notuð hérna og upp í þessar lúxusbublur eins og þetta var víða á heimilum,” segir eldhuginn Sigurður Harðarson.“

Heimild:
-Arnar Björnsson; https://www.ruv.is/frett/2021/10/28/verkamadur-thrja-manudi-ad-vinna-ser-inn-fyrir-utvarpi

Útvarp

Suðri.

Garðhús

Í Morgunblaðinu 30. okt. 2021 er fjallað um „Alþýðustúlkuna sem varð greifaynja„. Það segir meira um frásegjandann en húsið þar sem alþýðustúlkan átti heima:
Húsið er steinbærinn nr. 9 við Bakkastíg í Reykjavík, nú við Lagargötu 2. Steinbærinn var friðaður af mennta- og menningarmálaráðherra 1. febrúar 2012, með vísan til 1. mgr. 4. gr. laga um húsafriðun, nr. 104/2001. Friðun nær til ytra byrðis hússins.

Garðhús

Garðhús – upplýsingaskilti.

Steinbærinn Garðhús var byggður af Bjarna Oddssyni hafnsögumanni árið 1884 en áður stóð þarna torfbær með sama nafni. Bærinn taldist lengst af til Bakkastígs, enda lá sú gata áður framhjá húsinu og niður að sjó, og var raunar einnig kölluð Garðhúsastígur. Um tíma taldist húsið til Lagargötu en nýlega fékk það staðfangið Mýrargata 24.

Lóðin var mæld út úr Ánanaustalandi. Hliðaveggir bæjarins eru hlaðnir úr höggnum grásteini, en stafnar eru úr bindingi sem í er hlaðið múrsteini. Litlar breytingar hafa verið gerðar á steinbænum, þó viðbyggingar hafi verið byggðar við hann, þeim breytt og teknar niður.

Garðhús

Garðhús 1948.

Árið 1903 keyptu hjónin Þorsteinn J. Sveinsson skipstjóri og hafnsögumaður og Kristín Tómasdóttir Garðhús. Eftir að Þorsteinn lést úr spænsku veikinni árið 1918 bjó Kristín ekkja hans áfram í Garðhúsum með börnum þeirra fimm. Hún hafði m.a. aðstöðu til fiskþurrkunar og matjurtaræktunar á lóðinni og leigði út hluta af húseigninni. Tvö herbergi og eldhús með kolaeldavél voru niðri í bænum og þrjú herbergi á loftinu. Inngönguskúr var byggður við vesturhlið hússins árið 1923. Kristín bjó í Garðhúsum allt til um 1941 er hún seldi Hraðfrystistöðinni eignina.

Önnur hús sem byggð höfðu verið við bæinn, lágreist íbúðarhús úr timbri sem byggt var við norðurgafl hans í lok 19. aldar (Bakkastígur 9b) og skrifstofu- og geymsluhús úr timbri sem byggt var vestan við inngönguskúrinn árið 1942 (Bakkastígur 9a), voru rifin fyrir um 20 árum og endurbætur gerðar á gamla bænum. Bærinn sjálfur er mjög upprunalegur að gerð. Hann hefur eins og aðrir steinbæir í Reykjavík sérstakt menningar- og byggingarsögulegt gildi

Þuríður Dýrfinna

Þuríður Dýrfinna.

Bjarni starfaði sem hafnsögumaður og stundaði því ekki búskap og var því tómthúsmaður. Eiginkona Bjarna var Þuríður Eyjólfsdóttir. Hún þótti hinn mesti skörungur, stórgáfuð og mikill persónuleiki. Hún var vel að sér í íslenskum fræðum og kunni býsn af ljóðum. Hún safnaði ljóðabókum, sem hún batt inn í gott band. Undir hennar verndarvæng áttu skáld og menntamenn athvarf og því fór oft fram lífleg umræða í Garðhúsum þar sem bókleg mennt var í hávegum höfð og mikið lesið. Eftir að eiginmaður hennar lést flutti hún í viðbyggingu við Garðhús, einlyft timburhús. Það hús var rifið árið 1997.
Hjónin Þorsteinn J. Sveinsson skipstjóri og hafnsögumaður og Kristín Tómasdóttir keyptu Garðhús árið 1903. Eftir að Þorsteinn lést úr spænsku veikinni árið 1918 bjó Kristín áfram í Garðhúsum með börnum þeirra fimm allt til áranna 1941-1942 þegar hún seldi Garðhúsaeignina.
Árið 1923 var búið að byggja inngönguskúr úr timbri við vesturhlið steinbæjarins.

Þurríður

Þurríður, lengst til vinstri í neðstu röð.

Tvær viðbyggingar voru við húsið, Bakkastígur 9a og 9b. Bakkastígur 9a stóð við vesturhlið hússins og var reist árið 1942.
Það var skrifstofu- og geymsluhús. Árið 1944 var virt undir br.nr. 264 í fyrsta sinn íbúðarhús við norðurgaflinn
(Bakkastígur 9b) og er stafl. b í virðingunni. Bakkastígur 9b var reistur í kringum 1896. Árið 1997 var óskað eftir leyfi til að
rífa viðbyggingarnar og lagðist Árbæjarsafn ekki gegn niðurrifi þeirra.
Árið 1942 var Garðhúsaeignin komin í eigu Hraðfrystistöðvarinnar hf. Það ár var byggt skrifstofu- og geymsluhús úr bindingi við vesturgafl steinbæjarins. Sú viðbygging var einnig rifin árið 1997. Nú eiga Faxaflóahafnir ehf. steinbæinn.
Bakkastígur var einnig nefndur Garðhúsastígur.
Árið 2002 hófust endurbætur á steinbænum.

Garðhús

Garðhús.

Garðhús tengjast íslenskri alþýðustúlku sem varð greifynja de Grimaldi, en sú saga er mörgum gleymd. Stúlkan hét Þuríður Þobjarnardóttir. Hún giftist Henri de Grimaldi, afabróður Alberts fursta af Mónakó.

„Þuríður fæddist 30. október 1891 en hún missti föður sinn ung og var fyrir vikið alin upp hjá einstæðri móður og afa sínum og ömmu, sem öll bjuggu í Garðhúsum í Reykjavík. Húsið stendur enn og er friðað, en þau eru ekki mörg húsin hér á landi sem enn standa og eru beintengd við sögu kvenna. Þetta er stein­bær sem var sjómannshús við sjávarsíðuna og byggt í anda torfbæjanna. Garðhús voru alþýðuheimili en mikið menningarhús. Þuríður ólst upp við mjög menningarlegar aðstæður á alþýðuvísu en amma hennar og nafna, Þuríður Eyjólfsdóttir, var hafjór af fróðleik og áberandi í bæjarlífi á þessum tíma sem ein helsta menningarkona bæjarins. Í Garðhús sóttu skáld og þar þótti líf og fjör. Af þessu sést í hvaða umhverfi hin unga Þuríður elst upp og hún fékk að fara í Kvennaskólann, tók tvo bekki saman á einum vetri, 1911-1912.“

Garðhús

Þuríður Þorbjarnardóttir Grimaldi og Henri de Grimaldi, afabróðir Alberts fursta af Mónakó. Myndin er tekin 1925, dánarár Þuríðar.

Þuríður hafði gott vald á tungumálum.
„Hún talaði dönsku, ensku og frönsku og hún starfaði um tíma í verslun á Búðum og í skartgripaverslun Jóns Sigmundssonar á Laugavegi. Eflaust hefur hún þurft að nota erlend tungumál í því sem hún sinnti fyrir þessi tvö fyrirtæki. Afi hennar var hafnsögumaður, en til að geta orðið slíkur í Reykjavík á þessum tíma þurftu menn að kunna hrafl í erlendum tungumálum, þeir þurftu að geta bjargað sér þegar erlend skip komu. Tungumál hafa því væntanlega ekki verið framandi í Garðhúsum, á æskuheimili Þuríðar.“

Þurríður

Morgunblaðið 23. ágúst 2005, bls. 9.

Sigrún seg­ir að þegar Þuríður var 29 ára hafi hún verið fengin til að starfa á Hótel Skjaldbreið, hið örlagaríka ár í lífi hennar fyrir hundrað árum, 1921.

„Þá var mikið að gerast í Reykjavík og fólk bjóst við erlendum ferðamönnum og þá veitti ekki af að hafa stúlku í móttöku hótelsins sem kunni erlend tungu­mál. Þar hitti hún markgreifann, Henri de Grimaldi, afabróður Alberts fursta af Mónakó, ekkjumann sem var þrjátíu árum eldri og tilheyrði elstu kon­ung­s­ætt Evrópu. Sagt er að hann hafi verið mjög háttprúður og stórgáfaður maður, hafi meðal annars haft þrettán tungumál á valdi sínu, en hann var mál­vís­indamaður og lagði meðal annars stund á norræn mál og talaði og skrifaði íslensku. Henri hafði kynnst Guðmundi Finnbogasyni landsbókaverði þegar hann var í Sorbonnehá­skóla í Frakklandi og fyrir hvatningu hans kom Henri til Íslands. Væntanlega hefur verið stórkostleg uppgötvun fyrir greifann að hitta fyrir á Hót­el Skjald­breið hana Þuríði, unga glæsilega reykvíska stúlku, sem var vel að sér í bókmenntum og menningu. Hún hafði gott menningarlegt nesti úr Garðhúsum, þar sem skáld voru fastagestir og amman lifði í fornum riddarasögum. Sagt er að greifinn hafi hrifist af glæsileika, menntun og háttvísi Þuríðar. Hann gisti á hótelinu og svo getum við í eyðurnar. Þetta er mikið ástarævintýri þar sem erlendur stórefnaður konungborinn greifi og alþýðustúlka á Íslandi verða ástfangin við upphaf tuttugustu aldar.“

Garðhús

Garðhús.

Þuríður sigldi með Gullfossi af landi brott með greifanum 23. október 1921, fyrir um 100 árum.
„Þau sigldu héðan með Gullfossi til Kaupmannahafnar og kannski hélt hún upp á þrítugsafmælið um borð í Gullfossi. Þau fóru svo frá Kaupmannahöfn til Hamborgar, þaðan til Parísar og að lokum til Lissabon þar sem greifinn bjó. Þeim auðnaðist því miður ekki að vera samvistum nema í fjögur ár og eignuðust engin börn, en Þuríður dó úr berklum í Brussel árið 1925, þá tæplega 34 ára. Hún hefur mögulega borið berklana með sér héðan frá Íslandi, því það var þó nokkuð um berkla í hennar móðurætt.“
„Þuríður skrifaði bréf heim til Íslands til vinkonu sinnar Ragnhildar Sigurðardóttur, öll þessi fjögur ár sem hún bjó erlendis. Fyrsta bréfið skrifaði hún rétt rúm­um mánuði eftir að hún fór héðan. Þar kemur fram að með þeim er ung stúlka, Gunnlaug Briem, 19 ára dóttir Valdimars Briem prests, en það voru tengsl á milli fjölskyldnanna. Gunnlaug var hjá þeim í Lissabon í heilt ár og Auður Finnbogadóttir, systurdóttir Þuríðar, kom eftir það og var líka ár hjá þeim sér til heilsubótar. Greifinn vildi gjarnan að Þuríður hefði íslenska konu sér til félagsskapar, til halds og trausts,“ segir Sigrún og bætir við að deilur hafi verið í fjölskyldu greifans um hver væri rétti prinsinn af Mónakó.

Garðhús

Garðhús.

„Um þetta skrifar Þuríður í einu bréfanna og þar segir orðrétt: „Hann er voða ríkur maður og það er gremjulegt að sjá allt hans skraut og auðæfi sem eru í kringum hann og hann á alls engan rétt á að hafa. Ekki svo að skilja að það sé leiðinlegt fyrir mig, því ef greifinn væri í rétti sínum að vera prins af Mónakó, væri ég að öllum líkindum ekki gift honum, sem í raun og veru er stórt lán fyrir mig, ekki satt.“

„Hún var alltaf að vonast til að komast aftur til Íslands í heimsókn. Í einu bréfinu segist hún því miður ekki komast það sumarið, því hún þurfi að fara á heilsuhæli í Belgíu. Hún segist vera mikið innan um hefðarfólk í fínum húsum, en að hana langi meira til að vera samvistum við alþýðufólk. Í einu bréfinu segir hún orðrétt: „Mikið vildi ég heldur vera í einhverju húsinu í Reykjavík.“

Íslensk kona í Íslendingafélaginu í Brussel, Guðrún Högnadóttir Ansiau, htók sig til og fór að grafast fyrir um líf Þuríðar eftir að hún fluttist út.
„Hún heimsótti ættingja greifans og hefur fengið margskonar upplýsingar frá Grimaldiættinni. Guðrún hefur lagt mikið á sig við þessa vinnu og hún hafði einnig uppi á legsteini Þuríðar þar sem hún er jarðsett í Brussel, undir kórónu Grimaldiættarinnar. Guðrún heillaðist af sögu Þuríðar og hefur annast um grafreit hennar af stakri prýði.“

Garðhús

Garðhús.

Á legsteini í Brussel í Belgíu er legsteinn og á honum er skjaldarmerki Grimaldi aðalsættarinnar, en undir hvílir greifynjan Þuríður Marquise de Grimaldi d´ Antibes et de Cagne. Í áletrunina er mörkuð sagan hennar.

Þuríður fæddist 30. október 1891 í Garðhúsum við Bakkastíg í Reykjavík; dóttir Guðbjargar Bjarnadóttur og Þorbjarnar Jónassonar. Þuríður þótti snemma efnileg stúlka og hneigð til bókar. Fer þó fáum sögum af uppvexti hennar fram til 1911, en þann vetur tók hún tvo efstu bekki Kvennaskólans og lauk prófi þaðan vorið 1912. Starfaði hún síðan ýmist við verslunarstörf eða kennslu og nýttist þar vel óvenjuleg hæfni hennar til að nema tungumál, einkum dönsku og ensku. Á sumrin dvaldi hún einatt við sveitastörf.

Sumarið 1921, þá er Þuríður stóð á þrítugu, brá hún út af föstum vana um störf í sveit, réði sig á Hótel Skjaldbreið, og varð fljótt altalandi á frönsku. Á hótelinu dvöldu oft útlendingar og kom í hlut Þuríðar að annast samskipti við þá. Meðal hótelgesta þetta sumar var markgreifinn Henri Charles Raoul Marquis de Grimaldi d´Antibes et de Cagne, stóreignamaður í Lissabon, afsprengi elstu konungsættar í Evrópu og náinn ættingi þjóðhöfðingjans í Mónakó. Greifinn, sem þá var liðlega sextugur ekkjumaður, heillaðist mjög af hinni ungu íslensku konu, glæsileik hennar, menntun og háttvísi. Var sú hrifning gagnkvæm, þótt aldursmunur væri vissulega mikill. Fór enda svo að Þuríður hét honum eiginorði, eftir mikil heilabrot, en hjúskapur við greifann boðaði gríðarleg umskipti í lífi hennar. Var hið lúthersk/kaþólska par gefið saman við borgaralega vígslu í Reykjavík 15. október 1921 og viku síðar veitt kirkjuleg vígsla í Landakotskirkju.

Garðhús

Brúðkaupið hlaut mikla umfjöllun reykvískra blaðamanna, enda fátítt að svo tignir menn sem markgreifinn heiðruðu höfuðstað Íslands með nærveru sinni, hvað þá að þeir kvæntust dætrum þjóðarinnar. Var annars lítið vitað um þennan tigna gest og ærið örðugt um heimildaöflun, ólíkt því sem nú er. Samtímaheimildir geta þess þó að hér hafi verið á ferð einstakt prúðmenni, víðförull, afburðagreindur og vel menntaður, sérlega mikill tungumálamaður og mikill áhugamaður um norræn fræði og kveðskap. Er hermt, að greifinn hafi verið talandi á 13 tungumál. Þess er og getið að greifinn hefði kynnst Guðmundi Finnbogasyni, dr. phil síðar landsbókaverði, þegar sá síðarnefndi var við nám í París um 1910 og hann kennt greifanum íslensku, enda hugur greifans staðið til þess að geta lesið hin fornu kvæði á frummálinu. Fór enda svo að greifinn náði góðu valdi á íslensku innan fárra ára og ritaði hana sem íslenskur væri. Liggja eftir greifann allmörg bréf þessu til staðfestu, sem hann sendi vinum og ættingjum Þuríðar greifynju, hið síðasta 11. maí 1940, skömmu fyrir andlát hans 10. desember sama ár.

Sunnudaginn 23. október 1921 lét Gullfoss úr höfn í Reykjavík, og með skipinu hin nýbökuðu hjón. Þuríður kvaddi föðurlandið íklædd dökkblárri dragt og ljósri blússu, með lítinn rósavönd í hendi; grönn og teinrétt, en alvörugefin á svip. Með í för var 19 ára snót, Gunnlaug Briem, sem greifinn hafði boðið henni að taka með sér til samfylgdar og samneytis á nýju heimili í Portúgal. Hefur Þuríði vart grunað, þá er Esjan hvarf henni sjónum, að hún myndi aldrei aftur fjallið líta.

Garðhús
Greifahjónin hófu búskap sinn í Lissabon, en þar hafði Henri greifi mikil umsvif, og undi Þuríður hag sínum vel. Var haft á orði, að einkennilegt þætti að greifynjan kynni bæði að baka smákökur og sauma kjóla, og hún spurð af ráðskonu sinni hvort hún hefði lært til slíkra verka sökum fátæktar á Íslandi. Má ætla, að dugur íslenskra kvenna hafi þá enn ekki borist mikið út fyrir landsteina. Vorið 1922 sneri Gunnlaug heim til Íslands og í hennar stað kom til hjónanna Auður Finnbogadóttir systurdóttir Þuríðar. Hafði þá harðnað mjög á dalnum sökum byltingar og síðar kreppu í Portúgal og greifahjónin misst lungann af eignum sínum. Lýsir Þuríður ástandinu glöggt í bréfum til góðvinar síns, sr. Friðriks Friðrikssonar; hefur helst áhyggjur af lasleika eiginmanns síns, en er æðrulaus um eigin krankleika, svo sem kvenna er gjarnan siður. Haustið 1923 fluttu greifahjónin til Frakklands, síðan til Spa í Belgíu, og þaðan aftur til Lissabon, áður en þau settust að í Brussel vorið 1925, við Avenue Montjoise í Uccle. Sama vor sneri Auður heim til Íslands og stóð til að greifahjónin myndu fylgja á eftir í kynnisför um landið, en þau höfðu yndi af því að ferðast og höfðu víða farið á hjúskaparárunum. En af Íslandsför varð ekki; Þuríður veiktist, líklega af berklum, sem voru tíðir í móðurætt hennar. Dvaldist hún síðan ýmist á heilsuhælum í Spa eða Brussel, uns hún lést 10. október 1925, aðeins 34 ára. Til eru bréf frá margreifanum til Auðar Finnbogadóttur, þar sem hann skýrir frá veikindum og síðar andláti konu sinnar og eru þau öll á vandaðri íslensku. Sá er þetta skrifar hefur lesið umrædd bréf, en af þeim er einsætt að greifinn hafi unnað Þuríði heitt og að sorgin yfir missi hennar hafi fylgt honum til æviloka. Segir þannig í bréfi 23. ágúst 1939 að greifinn sé „kraftlítill, gamall og sorgbitinn“ og skömmu síðar ritar hann að stríð sé að skella á og að nú vildi hann öllu helst vera búsettur á Íslandi, en hafi því miður ekki lengur fjárráð til. Minningu eiginkonu sinnar heiðraði greifinn með því að reisa veglegt minnismerki á gröf hennar og þar hvíla nú hjónin hlið við hlið.

Þuríður

Leiði Þuríðar Marquise de Grimaldi d´Antibes et de Cagne.

Víkur þá sögunni að Guðrúnu og Charles Ansiau, sem varið hafa ómældum tíma í að grafast fyrir um lífshlaup greifynjunnar og koma í veg fyrir að hjúpur gleymskunnar leggist yfir hið ljúfsára ævintýri hennar á erlendri grund. Er þeim rannsóknum hvergi nærri lokið, en við þær hafa Ansiau hjónin kynnst ættmennum markgreifans í Bretlandi, Frakklandi og Mónakó, sem deilt hafa sama eldmóði við að upplýsa um líf greifahjónanna. Meðal þess sem komið hefur í ljós er að markgreifinn var afabróðir Alberts Grimaldi fursta af Mónakó frá 1889-1922, en sonarsonur furstans var enginn annar en Rainier III, sá hinn sami og kvæntist leikonunni Grace Kelly 1956. Komið hefur og í ljós að markgreifinn hafi átt erfðarétt til furstadæmisins í Mónakó, en afsalað honum til yngri bróður síns, svo hann gæti helgað sig fræðistörfum í stað þess að annast um rekstur hins þjóðrekna spilavítis. Má því segja að brennandi áhugi markgreifans á Íslandi og íslenskri menningu hafi komið í veg fyrir að við eignuðumst okkar eigin furstaynju á borð við Grace Kelly.

Íslandsfélagið í Belgíu hyggst á vormánuðum 2013 heiðra minningu Þuríðar Marquise de Grimaldi d´Antibes et de Cagne, með því að boða til gönguferðar í kirkjugarðinn sem hún hvílir í, og munu félagsmenn njóta þar leiðsagnar hinna ágætu Ansiau hjóna. Er aldrei að vita nema hjónin verði þá búin að komast að því sem enn er sveipað dulúð, nefnilega hver eða hverjir leggi enn fersk blóm á grafreit greifynjunnar íslensku.

Heimildir:
-Jónas Jóhannsson forseti Íslandsfélagsins í Belgíu, Brussel, 9. janúar 2013.
-Björg Einarsdóttir, Úr ævi og starfi íslenskra kvenna II, Rvík 1984.
-Björg Einarsdóttir, Grimaldi Greifafrú, Húsfreyjan, Rvík, október-desember 1984, 4. tbl., 35. árg.
-Samtöl við Guðrúnu Ansiau og lestur bréfa greifahjónanna
-https://www.mbl.is/frettir/innlent/2021/10/30/althydustulkan_sem_vard_greifynja/

Garðhús

Garðhús, byggt 1884.

Esjuberg

Í skýrslu um „Breikkun Vesturlandsvegar á Kjalarnesi milli Varmhóla og vegamóta Hvalfjarðarvegar“ árið 2020 eru fornleifalýsingar. Ein þeirra getur um Esjuberg, sbr. eftirfarandi:

Esjuberg

Esjuberg – meintur kirkjugarður.

„Bærinn á Esjubergi stendur á skriðuvæng upp undir rótum Esju. Mörk jarðarinnar eru á móti Skrauthólum að vestan og Mógilsá að austan. Á Esjubergi voru áður fyrr samþykktir og kveðnir upp dómar. Finna má dóm í Íslensku fornbréfasafni sem kveðinn var upp 1480 og þar var þingstaður 1541 og 1746 þegar Jón Oddsson Hjaltalín gerði Lýsingu Kjósarsýslu.
Örnefnin Leiðhamar og Leiðvöllur, sem eru á mörkum Mógilsár og Esjubergs, benda til þess að þar hafi verið haldin leiðmót, leiðarþing eða héraðsþing sem haldið var að afloknu Alþingi þar sem greint var frá störfum þess og birtar tilkynningar. Fyrsta símstöðin í Kjalarneshreppi var á Esjubergi, sennilega komin 1912.

Esjuberg

Esjuberg – tóft á Bænhúshól.

Esjuberg var landnámsjörð Örlygs gamla Hrappssonar Bjarnarsonar bunu. Landnámabók segir frá því að Helgi bjóla Ketilsson hafi gefið frænda sínum, bræðrungi, Örlygi Hrappssyni hluta af landnámi sínu, frá Mógilsá að Ósvífslæk. Landnáma getur þess einnig að Örlygur hafi búið á Esjubergi og látið gera þar kirkju sem fóstri hans Patrekur biskup í Suðureyjum hafði sagt fyrir um, en Patrekur hafði sent hann með kirkjuviði, járnklukku, plenáinum og vígða mold til að setja undir hornstafina. Kirkjan gæti hafa verið tileinkuð heilögum Kolumba.
Kirkja Örlygs er talin vera fyrsta kirkjan á Íslandi. Kirkjunnar er einungis getið í kirkjuskrá Páls biskups frá því um 1200.
Esjuberg
Reyndar segir frá kirkjunni í Kjalnesingasögu sem er talin rituð á tímabilinu 1300-1320. Þar segir frá því að Helga Þorgrímsdóttir, eiginkona aðalsöguhetjunnar Búa, hafi látið grafa hann undir syðri kirkjuveggnum og segir „[þ]á stóð enn kirkja sú at Esjubergi, er Örlygr hafði látit gera“. Eftir þessu að dæma hefur kirkjan ekki verið uppistandandi á ritunartíma sögunnar um 1300 og gæti hafa verið niðurlögð á fyrri hluta 13. aldar. Hvers vegna er ekki vitað og margt getur komið til greina. Kirkjur voru stöðutákn svo höfðingi gæti hafa dáið eða misst stöðu sína til annars. Kirkjan gæti líka hafa verið lögð niður vegna skriðufalla.

Esjuberg

Esjuberg – meint kirkjutóft sunnan við bæinn.

Jarðarinnar er getið nokkrum sinnum í skjölum sem varða hvalreka Viðeyjarklausturs á milli Esjubergs og Valagnúpa, fyrst í skrá varðandi hvalskipti á Rosmhvalanesi um 1270, svo um 1270 í bréfi Runólfs ábóta í Viðey um hvalrekann, og aftur 1285 um skipti á hvalreka á milli Valagnúpa og Esjubergs. Esjuberg kemur fram í skrá um kvikfé og leigumála á jörðum Viðeyjarklausturs frá árinu 1395.
Esjuberg kemur fram í skýrslu Hannesar Pálssonar umboðsmanns og kapelláns Danakonungs, um allskonar óskunda og yfirgang, rán, vígaferli og löglausa verslun Englendinga á Íslandi á árunum 1420-1425.
Árið 1480 var úrskurðað í Esjubergsdómi í eignarmálum Soffíu Loftsdóttur og Gunnlaugs Teitssonar. Árið 1497 gaf Böðvar prestur Jónsson vitnisburð um reka Viðeyjarklausturs á milli Klaufar og Esjubergs. Á Esjubergsþingi þann 30. september 1541 var felldur dómur um lögmæti bréfs Alexíusar ábóta í Viðey um jarðirnar Skrauthóla og Bakka í Brautarholtssókn. Þá kemur jörðin fram í fógetareikningum 1547-1552. Á Esjubergi voru kveðnir upp dómar um beit og fjárrekstur 1565-1566.

Esjuberg

Esjuberg, kort frá 1908.

Jarðarinnar er getið á minnisblöðum Vigfúsar Jónssonar sýslumanns Kjalarnesþings árið 1569 og þjófnaðardómur var kveðinn upp þar 14. janúar 1657.
Jörðin var ein af jörðum Viðeyjarklausturs 1686-1695 og þá metin á 40 hundruð. Þegar Jarðabók Árna og Páls var gerð 1704 var Esjuberg í eigu konungs en jarðardýrleiki óviss. Kvaðir voru meðal annarra um mannslán á vertíð suður á Stafnes. Þá var hægt að fórðra sjö kýr, tólf lömb og þrjá hesta. Jörðin hafði þá haft til langs tíma fría afrétt fyrir hesta og geldnaut á Mosfellsheiði. Torfrista og stunga var góð en mótak til eldiviðar slæmt. Silungsveiði hafði jörðin í Leirvogsá lengst af. Rekavon var nokkur og skelfiskfjara var á Leiðvallargranda. Selstöðu átti jörðin undir Svínaskarði að sunnan og þar var berjalestur nokkur. Helstu ókostir voru að úthey voru lítil og skriður ógnuðu bæði mönnum, húsum og skepnum. Stórviðrasamt var á Esjubergi og stóð mönnum og skepnum ógn af skriðum sem ollu þar tjóni.

Esjuberg

Esjuberg – örnefni.

Tvær hjáleigur voru þá á Esjubergi. Litla Esjuberg sagt afbýli heima við bæ og Árvöllur önnur hjáleiga og reiknaðist jarðardýrleiki beggja með heimajörðinni. Þegar Jón Oddson Hjaltalín gerði lýsingu Kjósarsýslu 1746 var þingstaður á Esjubergi. Kaupverð Esjubergs með Grund (Austurbæ) og Árvöllum árið 1816 þegar jörðin var seld úr eigu konungs var 2100 ríkisdalir.

Esja

Meintur kirkjuhóll á „Kirkjuflöt“ ofan Leiðvalla.

Þegar Jarðatal Johnsens var tekið saman 1847 var Esjuberg í bændaeigu, metið á 40 hundruð og með einum ábúanda. Í neðanmálsgrein er sagt að jarðabækurnar geti ekki um hjáleigurnar nema árið 1802, en þá er getið Austurbæjar sem er líklega sama hjáleiga og sýslumaður og prestur kalla Grund. Jörðin var metin á 40 forn hundruð í Jarðarmati á Íslandi 1849-50. Hjáleigurnar lögðust báðar af eftir mikið ofanflóðaveður 2. september 1886.
Innan úttektarsvæðisins sem skráð er undir Esjuberg er einstakur minjastaður sem var þingstaður en hann er horfinn. Aðrar minjar eru herminjar á Leiðhömrum, ekki er talið líklegt að þær verði fyrir áhrifum framkvæmdarinnar.
Leiðvöllur er örnefni sem var á malarkambi við Kollafjörð norðanverðan. Ef loftljósmynd frá 1946 er borin saman við nýlegar loftmyndir má sjá að á svæðinu hafa orðið miklar breytingar vegna landsigs, sandnáms og vegagerðar. Vegna þessara þátta hafa grjóteyrin og tjörnin horfið.

Esjuberg
Staðhættir
: „Vestar er Leiðvöllur, sem talinn er vera hinn gamli þingstaður Kjalarnesþings. Nú er þar aðeins malareyri, sem fellur yfir í flóðum. Ofar var Leiðtjörn, en sandnámið hefur nú eyðilagt hana nema austast. Í hana rann Markagil.“ Leiðvöllur er örnefni sem var á malarkambi niður við sjó út með Kollafirði norðanverðum, á mörkum jarðanna Esjubergs og Mógilsár.

Esjuberg

Forn gata ofan Leiðvalla að Esjubergi.

Örnefnið bendir til þess að þarna hafi verið haldin héraðsþing að loknu alþingi. Ofar var Leiðtjörn og kirkjuflöt var ofan við hana en þar var sagt að hefði verið bænhús eða kirkja og viðirnir í hana verið fluttir um Leiðvöll. En talið hefur verið líklegra að sagnir eigi við um kirkjuna á Esjubergi.

Örnefnin Leiðvöllur, Leiðtjörn og Leiðhamrar sem þarna eru gefa vísbendingar um að þarna hafi verið haldin leiðamót, leiðaþing eða héraðsþing. Leiðvöllur er fornt nafn og merkir „völlur þar sem haldin eru leiðamót“. Staðurinn gæti því hafa dregið nafn sitt af leiðaþingi sem haldið var að loknu Alþingi til að greina frá störfum þess og birta tilkynningar.
Lengi hefur verið talið að Kjalarnesþing, sem var sett á fyrir stofnun Alþingis um 930, og talið undanfari þess, hafi fyrst verið á Leiðvelli. Fram kemur í Íslendingabók að fyrir stofnun Alþingis að áður „… vas þing á Kjalarnesi, þat es Þorsteinn Ingólfsson landnámamanns, faðir Þorkels mána lögsögumanns, hafði þar ok höfðingjar þeir es at því hurfu.“

Esja

Esja – stekkur ofan Leiðvalla.

Í Landnámu er tekið í sama streng og staðkunnugur höfundur Kjalnesinga sögu virðist hafa horft á tóftir búðanna sem sáust enn suður við sjóinn um 1300. Þorsteinn Ingólfsson var útnefndur allsherjargoði á Alþingi og báru afkomendur hans titilinn eftir það svo það er ekki ólíklegt að hann hafi sett það. Þegar kristni var lögfest árið 1000 var Þormóður Þorkelsson sonarsonur hans allsherjargoði.
Þegar Kristian Kålund kom á Leiðvöll 1873 taldi hann staðinn svara til lýsinga í Kjalnesinga sögu um Kjalnesingaþing, flöt og löng grasræma á norðurströnd Kollafjarðar. Eyrin var þá að mestu þakin sjávarmöl og sjór gekk stundum yfir hana. Kålund taldi lítil og óglögg merki búðartófta að sjá þar, helst vestast og innst á eyrinni undir hallanum. Þar voru ef til vill nokkrar lágar upphækkanir sem gátu líka verið grónar skriður eða þúfur.
Sigurður Vigfússon forngripavörður kom á Leiðvöll 20. júlí 1880. Þá blasti við honum breið grjóteyri sem gekk út í sjó með malarkamb fyrir framan og langs fyrir ofan eyrina lá síki. Austan og uppaf því var lítil graseyri sem hét Kirkjuflöt og þar sáust leifar af lítilli tóft. Það var eina mannvirkið sem hann fann þrátt fyrir mikla leit.“

Heimild:
-Breikkun Vesturlandsvegar á Kjalarnesi milli Varmhóla og vegamóta Hvalfjarðarvegar – fornleifalýsing; Esjuberg, 2020.

Esjuberg

Esjuberg neðan við Grund – útialtari; til minningar um fyrstu kirkjuna hér á landi.

Landnám

Í Lesbók Morgunblaðsins 1969 fjallar Árni Óla um „Kjalarnesþing og Alþingi hið forna“:

Árni Óla„Fundur landsins og landnám eru vitanlega að því leyti merkustu viðburðir í sögu landsins sem þeir eru nauðsynlegur undanfari alls þess, sem hér hefir síðar gerzt. Og vafalaust hafa margir landnámsmenn vorir unnið afreksverk um byggingu landsins. En landnámin eru þó eigi svo margþætt né svo mikil vitraun sem setning Alþingis var, stofnun allsherjarríkis og setning laga handa landsmönnum öllum. Það er hið ágætasta verk og hafa margir góðir menn að því unnið, enda þótt Úlfljótur hafi mest í því átt. Það hefir kostað mikinn tíma og fyrirhöfn, og hefir útheimt margar skýringar og fortölur. Hafa höfðingjar þeir, sem Úlfljótur ráðfærði sig við áður en hann sigldi, sennilega unnið nokkuð fyrir málið, og svo Grímur geitskör, er hann fór um landið. — Svo sagði Einar prófessor Arnórsson, (Skírnir 1930).

 

Ingólfur hét maður norrænn, er sannlega er sagt, að færi fyrstur þaðan til Íslands, þá er Haraldur hinn hárfagri var sextán vetra gamall, en í annað sinn fám vetrum síðar. Hann byggði suður í Reykjarvík. —

Þingvellir

Alþingi – þingstaðurinn á Þingvöllum.

Svo segir Ari ífróði í Íslendingabók. En í Hauksbók Landnámu segir svo: Ingólfur tók sér bústað, þar sem öndvegissúlur hans höfðu á land komið. Hann bjó í Reykjarvík. Þar eru enn öndvegissúlur þær í eldhúsi. En Ingólfur nam land milli Ölfusár og Hvalfjarðar og öll nes út. Hann var frægastur allra landnámsmanna, því að hann kom hér að auðu landi og byggði fyrst landið, og gerðu það aðrir landnámsmenn eftir hans dæmum síðan. Ingólfur átti Hallveigu Fróðadóttur, systur Lofts hins gamla. Þeirra son var Þorsteinn, er þing lét setja á Kjalarnesi, áður alþingi væri sett.
Ingólfur var frægastur allra landnámsmanna vegna þess að hann nam hér fyrstur land. En ekki ætti hann síður að vera frægur fyrir hitt, að afkomendur hans og venslamenn stjórnuðu landinu fram að kristnitöku, eins og enn mun sagt verða.
Dr. Guðbrandur Vigfússon leit svo á, að þótt talið væri að Ísland hefði byggzt úr Noregi, þá hefði komið hingað á landnámsöld álíka margt fólk af keltnesku kyni eins og norsku. En norska kynið var „herraþjóðin“ í landinu, eins og glöggt má sjá af fornsögunum, og þær sýna líka að norsk menning og norskur hugsunarháttur hefir verið hér yfirgnæfandi. Í Noregi var byggð hagað öðruvísi en í öðrum germönskum nágrannalöndum. Í Svíþjóð, Danmörku og Þýzkalandi bjuggu menn í þorpum, en í Noregi voru sérstök bændabýli, og sama varð reglan hér á landi.

Landnám

Ingólfur og öndvegissúlurnar í Reykjavík.

Þeir, sem fyrstir komu, námu mjög víð lönd, en byggðu þau svo skipverjum sínum og öðrum er seinna komu. Með þessu móti höfðu þeir nokkurn liðsstyrk, ef á þá yrði ráðizt og jafnframt voru þeir þá höfðingjar, hver í sínu landnámi. Vegna þessa stefndi allt að því, að hér risi upp smáríki, eins og var í Noregi áður en Haraldur hárfagri lagði land allt undir sig.

Esjuberg

Esjuberg – Leiðvöllur 1946.

Þessir fyrstu héraðshöfðingjar stjórnuðu svo landinu um hríð, án þess að nokkur sameiginleg lög væru hér gildandi. Að vísu komu þeir með nokkrar norskar venjur viðvíkjandi eignarhaldi einstaklinga, kaupskap, hjúskap, um erfðir, hefndir fyrir víg o.s.frv. En þetta gat orðið breytilegt eftir héruðum er fram í sótti og sáu framsýnir menn hver voði var búinn innanlandsfriði ef framvindan yrði slík. Nauðsyn væri að stofna hér þjóðfélag áður en í óefni væri komið. Þá var það, að Þorsteinn Ingólfsson stofnaði Kjalarnesþing og „höfðingjar þeir, er að því hurfu“, eins og Ari fróði kemst að orði. Tveir aðrir af stofnendum þingsins eru nefndir Helgi bjóla, tengdasonur Ingólfs og Örlygur gamli á Esjubergi, og voru þeir báðir kristnir. En svo hafa aðrir höfðingjar bætzt í hópinn og þeir hafa átt heima í Borgarfirði og Árnessýslu. Þetta þing skyldi setja lög er giltu á yfirráðasvæði þess og dæma um mál manna.

Hvenær var Kjalarnesþing stofnað?
Það skiptir nokkru máli ef unnt er að ákveða hvenær þing þetta var stofnað, því að með hverju ári fjölgaði mikið fólki í landinu og þá um leið ýfingum og ófriði milli manna. Meðan engar reglur voru til að fara eftir í viðskiptum manna, var óhægt um vik að setja niður deilur.
Leiðvöllur
Kjalarnessþings er getið í Íslendingabók, Landnámu Grettis sögu, Harðarsögu og Kjalnesingasögu, en hvergi er þess getið hvenær það var stofnað. Í Grettissögu segir, að skömmu eftir útkomu Önundar tréfótar, sem bjó í Kaldbaksvík á Ströndum, „hófust deilur þeirra Ófeigs grettis og Þorbjarnar jarlakappa og lauk svo, að Ófeigur féll fyrir Þorbirni í Grettisgeil hjá Hæli. Þar varð mikill liðsdráttur að eftirmáli með sonum Ófeigs. Var sent eftir Önundi tréfæti og reið hann suður um vorið“. Önundur var tengdasonur Ófeigs grettis. Á leiðinni suður gisti hann í Hvammi hjá Auði djúpúðgu. Hún bað að Ólafur feilan sonarsonur sinn mætti ríða með honum suður til að biðja Alfdísar hinnar barreysku, og að hann styddi það mál. Tók Önundur því vel. Þegar hann hitti svo vini sína og mága, var talað um vígamálin, „og voru þau lögð til Kjalarnessþings, því að þá var enn eigi sett alþingi. Síðan voru málin lögð í gerð, og komu miklar fébætur fyrir vígin, en Þorbjörn jarlakappi var sekur gerr. . . .Þetta haust fékk Ólafur feilan Alfdísar hinnar barreysku. Þá andaðist Auður hin djúpúðga, sem segir í sögu Laxdæla“.

Heiðni

Heiðnir víkingar og kristnir keltar virðast hafa lifað í sátt í upphafi landnámsins.

Í Tímatalsritgerð sinni telur dr. Guðbrandur Vigfússon, að Auður djúpúðga muni hafa andast á árunum 908—910. Nokkru fyrir þann tíma hlýtur Kjalarnesþing því að hafa verið stofnað. Af frásögn Ara fróða í Íslendingabók mætti ráða, að Kjalarnesþing hefði upphaflega aðeins verið fyrir landnám Ingólfs Arnarsonar, því að þar segir, að Þorsteinn Ingólfsson hafi haft þetta þing, „og höfðingjar þeir, er að því hurfu“. Er þar með gefið í skyn, að smám saman hafi honum bætzt samþingsmenn, og gat það vel tekið nokkur ár að þingháin næði alla leið austur að Þjórsá.
Hér verður því að álykta svo sem Kjalarnesþing hafi verið stofnað rétt upp úr aldamótum 900. Nú telur og dr. Guðbrandur Vigfússon að Ingólfur Arnarson muni hafa dáið um 900 og getur þess að menn ætli að þingið hafi verið stofnað eftir hans dag. Bendir það til þess, að þingstofnunin hafi verið fyrsta verk Þorsteins Ingólfssonar eftir að hann tók við mannafonnráðum í héraði. Þing þetta mun hafa verið stofnað að fyrirmynd norsku fylkjaþinganna á Frosta, Gula og Eiðsvelli, og það mun hafa verið orðið aldarfjórðungs gamalt þegar alþingi var stofnað.

Hvar var þingið háð?
Aðeins á einum stað er þess getið, hvar Kjalarnesþnig var háð. Nú þekkist þetta örnefni ekki lengur.
Landnám Ingólfs
Vegna nafns þingsins héldu menn lengi vel, að það hefði verið háð á Kjalarnesi. Jónas Hallgrímsson tók sér fyrir hendur sumarið 1841 að finna þingstaðinn og leitaði upplýsinga víða. Honum var bent á Leiðvöll, sem er skammt frá Móum á Kjalarnesi. Fór Jónas þangað, en sannfærðist fljótt um, að þar hefði aldrei verið háð þing, heldur hefði þar aðeins verið leið.
ÞingnesSvo fékk hann fregnir af því að í Þingnesi í Elliðarvatni væru margar og glöggvar búðatóftir, og þangað fór hann við áttunda mann til þess að rannsaka staðinn. Þar fann hann rúmlega 20 búðatóftir. Hann byrjaði á því að grafa upp stærstu tóftina, og segir hann að það hafi verið sú stærsta búðartóft, sem hann hafi séð á Íslandi, um 100 ferálnir að innanmáli. Veggir höfðu verið hlaðnir úr völdu grjóti og taldi hann að þeir mundu hafa verið um sex feta háir.
Því næst rannsakaði hann grjótdyngju nokkra utan við búðirnar, því að honum sýndist sem mannvirki mundi vera, en fann þar ekki annað en stóra steina og vissi ekki hvað þetta var. Þá réðist hann á merkasta staðinn, sjálfan dómhringinn. Þar var hringhlaðinn grjótgarður og taldi Jónas að hann mundi upphaflega hafa verið um tveggja álna þykkur neðst og álíka hár. Þvermál hringsins var 43 fet. Í miðjum hringnum var grjóthrúga og gat grjótið ekki verið komið úr hringgarðinum, og hélt hann því að þar mundu dómendur hafa setið.
Þingnes
Ekki var Jónas í nokkrum vafa um, að hér hefði hann fundið hinn gamla þingstað Þorsteins Ingólfssonar. Skammt þaðan voru einnig aðrar rústir, sem Jónas skoðaði ekki. Handan vatnsins, gegnt Þingnesi, undir holtinu sem Bugða rann fram með og heitir Norlingaholt, voru fram á þessa öld miklar búðatóftir og voru þær nefndar Norlingabúðir. Þarna hafa Borgfirðingar þeir, er þingið sóttu haft búðir sínar og bendir nafnið til þess, því að um aldir voru Borgfirðingar kallaðir Norlingar hér um nesin.
ÞingnesÞingnes heldur enn nafni sínu enda þótt það sé nú orðið að ey í vatninu, síðan vatnsborð Elliðavatns var hækkað vegna rafmagnsstöðvarinnar hjá ánum. Nesið gekk út í vatnið að sunnan, hér um bil miðja vegu milli bæjanna Elliðavatns og Vatnsenda. Var fyrrum aðeins mjótt sund milli þess og engjanna fyrir norðan.
Þarna er einn af sagnmerkustu stöðum Íslands, en þó hefir verið farið illa með hann. Laust eftir seinustu aldamót, þegar ræktunaráhugi vaknaði meðal manna hér á landi, var ráðizt á Þingnes með plógum og öðruum jarðræktarverkfærum, öllum búðatóftum byllt um og eins dómhringnum, svo að þar var ekkert að sjá nama moldarflag. Norðlingabúðir vonu seinna kaffærðar, þegar afrennsli vatnsins var stíflað og yfirborð þess hækkað. Og þar með voru þurrkaðar út seinustu sýnilegu minjarnar um Kjalarnesþing.

Kristið þing
Heimildir fornsagnanna herma, að Örlygur gamli og Helgi bjóla hafi verið aðalhvatamenn að stofnun þingsins með Þorsteini. Þeir voru báðir kristnir og trúræknir vel. Örlygur hafði verið sendur hingað af Patreki biskupi á Iona með trúboðserindum. „Biskup lét hann hafa með sér kirkjuvið og járnklukku og plenaríum og mold vígða, er hann skyldi leggja undir hornstafina“ (Landn). Örlygur bjó á Esjubergi og reisti þar þegar kirkju hina fyrstu er sögur fara af hér á landi.

Esjuberg

Esjuberg á Kjalarnesi.

Helgi bjóla átti Þórnýju dóttur Ingólfs Arnarsonar og var því mágur Þorsteins. Einn af sonum þeirra Þórnýjar var nefndur Kollsveinn og mun það bafa verið auknefni, því að svo voru kallaðir sveinar þeir er fareldrar færðu guði nýfædda.
ÞingnesÞeir Helgi hjóla og Örlygur eru taldir meðal göfugustu landnámsmanna í Sunnlendingafjórðungi. Er því líklegt að þeir hafi ráðið miklu við stofnun þingsins og hvernig það var helgað. Er þá líklegt að þeir hafi látið helga það með tákni krossins og þar af sé komið nafnið Krossnes á þingstaðnum. Og þá er eigi ólíklegt, að grjótdyngjan sem Jónas Hallgrímsson fann þar í nesinu og vissi ekki hvennig á stóð, hafi verið leifar af stöpli, sem hlaðinn hefir verið undir krossmerkið. En er þing lagðist niður á þessum stað, hafi Kristnesnafnið horfið úr mæltu máli, og nesið síðan verið kallað Þingnes, eins og það heitir enn í dag.
Um þær mundir er Kjalarnesþing var stofnað voru engar trúarbragðadeilur hér á landi. Kristnir menn og heiðnir höfðu dreifzt um land allt og bjuggu þar í nábýli og fyrst í stað bar þeim ekki á milli í trúmálum. Og hafi nú verið — sem allar líkur benda til — að kristnir mennn hafi ráðið miklu á fyrsta Kjalarnesþingi, þá er eðlilegt að þeir réðu því hvernig þingið var helgað. En um þinghelgun með krossi má lesa í Kristnisögu, þar sem sagt er frá krossunum á alþingi árið 1000.

Lagasetning og dómnefna
Ætla má að hlutverk þingsins hafi að upphafi verið tvíþætt: lagasetning og dómnefna.
Um lagasetningu hefir verið farið eftir þeim réttarfarsvenjum, en mennn hafa alizt upp við í Noregi, og þó með þeim breytingum, er hæfðu breyttum aðstæðum. Hafa svo ný lög verið sett smám saman, eftir því sem hentaði og reynslan kenndi mönnum að nauðsynlegt var. En engin lög þessa þings gátu gilt annars staðar en í þinghánni.
Þingnes
Um dómaskipan verður ekkert sagt með vissu. Líklegt er að dómendur hafi verið kosnir af þingheimi hverju sinni og menn valdir eftir metorðum og mannviti. Dómhringurinn í Þingnesi sýnir, að dómar hafa farið þar út, enda vitum vér um tvo dóma, sem þar voru kveðnir upp. Fyrri dómurinn vax í vígsmáli Ófeigs grettis og hefir þegar verið sagt frá honum, en því má við bæta, að þeim dómi hefur verið fullnægt. Þorbjörn jarlakappi varð að fara utan og mun ekki hafa komið til Íslands aftur, og ekki heldur Sölmundur sonur hans. En Kári sonur Sölmundar kom til Íslands og segir frá því í Njáls sögu.
Frá hinum dómnum segir Ari fróði í Íslendingabók: „Maður hafði orðið sekurr um þrælsmorð eða leysings, sá er land átti í Bláskógum. Hann er nefndur Þórir kroppinskeggi, en dóttursonur hans er nefndur Þorvaldur kroppinskeggi, sá er fór síðan í Austfjörðu og brenndi þar inni Gunnar bróður sinn. Svo sagði Hallur Órækjusonur. En sá hét Kolur er myrður var. Við hann er kennd gjá sú, er þar er kölluð síðan Kolsgjá, sem hræin fundust. Land það varð síðan allsherjarfé, en það lögðu landsmenn till alþingisneyslu. Af því er þar almenning að viða til allþingis í skógum og á heiðum hagi til hrossahafnar. Svo sagði Úlfheðinn oss“.
(Bláskógar kallast nú Þingvallasveit. Hallur Órækjuson var systursonur Kolskeggs hins fróða, sem margt sagði fyrir um landnám á Austurlandi.
Úlfljótsvatn
Nafnið Kolsgjá er nú týnt, en menn halda að gjáin sé uppi á Leirunum. Úlfheðinn mun vera Úlfhéðinn Gunnarsson lögsögumaður). Þessi dómur hefir verið kveðinn upp áður en það væri afráðið hvar alþingi skyldi háð, og því aðeins var hægt að leggja landið til allþingisneyzlu að það var áður orðið almenningseign. Þórir hefir verið dæmdur sekur á Kjalarnesþingi en landi hans ekki ráðstafað á annan hátt en þann, að það skyldi vera almenningur.
Nauðsynlegt hefir verið á Kjalarnesþingi, eins og á alþingi síðar, að velja mann til að segja upp lög þau er samþykkt höfðu verið, og sjá um að dómum væri fullnægt. Engar sagnir höfum vér um, hver sá lögsögumaður hafi verið, en eflaust hefir hann átt heima í landnámi Ingólfs Arnarssonar. Og engin goðgá er þótt gizkað sé á, að það hafi verið Úlfljótur, hinn sami og seinna samdi allsherjarlög fyrir Ísland.
Konrad Maurer hefir það eftir séra Símoni Beck á Þingvöllum, að þar í sveitinni lifi þau munnmæli, að Úlfjótur lögsögumaður hafi upphaflega átt heima á Úlfljótsvatni í Grafningi.
Í Landnámu og fornsögum er aðeins getið um tvo menn, er hétu þessu nafni. Annar er talinn landnámsmaður norður í Skagafirði, og ekkert fleira um hann sagt, en hinn er Úlfljótur lögsögumaður, en ekkert getið um bústað hans fyrr en hann keypti Bæ í Lóni af Þórði skeggja, eftir að Þórður fluttist hingað suður í Mosfellssveit.

Kjalarnesþing

Þingin voru fyrst fornfáleg – haldin undir berum himni.

Nafnið Úlfljótsvatn er gamalt, því að það kemur fyrir í Harðarsögu, og enginn vafi er á, að það hefir verið kennt við einhvern mann, sem ÚlfLjótur hét. Þessi bær var í landnámi Ingólfs.
Úlfljótur var kynborinn, sonur Þóru, dóttur Hörða-Kára, sem talinn var ágætur maður, og segir Snorri, að á dögum Ólafs konungs Tryggvasonar hafi ættbogi hans verið mestur og göfgastur á Hörðalandi. Hjörleifur fóstbróðir Ingólfs var einnig komimin af Hörða-Kára, og er því líklegt, að vinátta hafi verið með Úlfljóti og þeim feðgum Ingólfi og Þorsteini.

Skeggjastaðir

Skeggjastaðir og Hrafnhólar.

Forn munnmæli, sem engar öfgar fylgja skyldu menn ekki sniðganga. Ritaðar heimildir bera heldur ekki á móti því, að Úlfljótur hafi fyrst í stað átt heima á Úlfjótsvatni. Þeim ber aftur á móti saman um, að hann hafi keypt Lónslönd af Þórði skeggja þegar hann fluttist suður í Mosfellssveit, en Þórður hafi búið þar alt að 15 ár áður en hann fór hingað og þess vegna líklega ekki komið að Skeggjastöðum fyrr en eftir 900, eða í þann mund er Kjalarnesþing var stofnað. Þá hefði Úlfljótur enn átt að vera búandi á Úlfljótsvatni, og verið einn af þeim „vitru mönnum“, er stofnuðu þingið með Þorsteini Ingólfssyni.
Það getur varla talizt getgáta, að hugmyndin um stofnun allsherjarríkis á Íslandi og alþingis hafi verið frá Þorsteini runnin, því að engum manni er betur trúandi tii þess en honum að hugsa svo stórmannlega. Hugmyndina mun hann þá fyrst hafa borið fram er honum þótti Kjalarnesþing orðið nógu öflugt til þess að vera bakhjall hennar, og allir helztu höfðingjar frá Hvítá í Borgarfirði austur á Rangárvelli höfðu heitið stuðningi sínum. Hið fyrsta, sem þurfti að gera, var að finna hentugan stað fyrir allsherjarþingið. Þetta var nauðsynlegt til þess að ekki yrði reipdráttur um það um allt land, að hver höfðingi vildi hafa hann hjá sér. Það gat hæglega spillt því, að málið næði fram að ganga.

Almannagjá

Almannagjá 1862 – málað af Bayard Taylor, 1862.

Misskilningur er það að Grímur geitskör hafi valið þingstaðinn. Það hafa höfðingjar á Kjalarnesþingi gert. Og hafi Úifljótur verið lögsögumaður þingsins, þá virðast fyrstu ráðin um undirbúning að stofnun alþingis vera frá honum komin. Hann mun hafa ráðið því, þá er Þórir kroppinskeggi var gerður sekur og útlægur, að landið í Bláskógum væri ekki dæmt sektarfé handa einstökum mönnum (t.d. dómendum), heldur gert að almenningi. Það er skammt á milli Úlfljótsvatns og Þingvalla og hefir Últfljótur eflaust verið kunnugur staðháttum á Þingvöllum, og þess vegna lagt til að alþingi skyldi háð þar. Er líklegt að hann hafi dregið fram kosti landsins líkt og gert er í Íslendingabók og haft eftir Úlfhéðni Gunnarssyni lögsögumanni, að þar mættu allir „viða til alþingis í skógum, og á heiðum hagi til hrossahafnar“. Aðrir þingmenn fallast á þetta og svo er ákveðið að þingstaðurinn skuli vera þarna. Margt fleira hefir staðnum að vísu veriðfundið til ágætis, og þá ekki sízt það að hann var þegar orðinn almenningseign.
Úlfljótur hefir gert meira. Hann hefir fengið því framgengt að Grímur geitskör, fóstbróðir hans, væri sendur um land allt til þess að hafa tal af höfðingjum og fá þá til aðfallast á hugmyndina um stofnun allsherjarríkis á Íslandi og alþing í Bláskógum. Var nauðsynlegt að vita hug höfðingja tiL þessa máls áður en fullnaðaðarákvörðun um ríkisstofnun væri tekin. Sagt er að Grímur hafi verið þrjú ár í þessu ferðalagi um landið og kæmi hann aftur erindi feginn, því að flestir eða allir höfðingjar hefðu verið málinu fylgjandi.
Og nú var komið að því, sem vandasamast var, að semja stjórnarskrá fyrir hið tilvonandi ríki. Og þá er Úlfljóti falið þetta vandaverk. Enginn aðili annar en Kjalarnesþing, var fær um að fela honum það. Þetta þing hafði tekið að sér forustu um stofnun allsherjarríkis og unnið að undirbúningi þess máls og þingmenn sjálfsagt komið sér saman um hvernig stjórnarskráin ætti að vera í höfuðdráttum. Það hafði ekki öðrum á að skipa að svo komnu máli, heldur en einhverjum af þingmönnum sínum. Og hver var þá líklegri til þess að verða fyrir vailnu, heldur en sjálfur lögsögumaðurinn — Úlfljótur. Hér virðast allar líkur benda í eina átt að Úllfljótur hafi átt heima á Úlfljótsvatni, eins og munnmælin herma; að hann hafi verið einn af þingmönnum Þorsteins Ingólfssonar; og verið kjörinn lögsögumaður Kjalarnessþings. Þetta gæti einnig stuðst við þessa frásögn Íslendingabókar: „Því nær tók Hrafn lögsögu Hæings sonur landnámamanns, næstur Úlfljóti“, því að Úlfljótur var aldrei lögsögumaður alþingis og væri hér bent til þess að hann hefði verið lögsögumaður Kjalarnessþings. Samkvæmt lögsögumannatali Ara fróða í Ísendingabók, hefir fyrsta alþingi 930 kosið Hrafn lögsögumann þegar er þingstörf gátu hafizt.

Þingvellir

Kjalarnesþing fól Úlfljóti að semja stjórnarskrána, en enda þótt höfðingjarnir þar hefðu komið sér saman um hvernig hún ætti að vera í aðalatriðum, hefir þeim þótt réttara að hafa hliðsjón af norskri löggjöf. Þess vegna fór Úlfljótur utan og er þrjá vetur í Noregi, kemur svo út með allsherjarlögin 929 og voru þau fyrst kölluð Úlfljótslög „en þau voru flest sett að því, sem þá voru Gulaþingslög eða ráð Þorleifs spaka Hörða-Káraasonar voru til, hvar við skyldi auka eða af nema eða annan veg setja“. — Svo sagði Teitur Ísleifsson biskups (Ísl. bók).
Næsta sumar var „alþingi sett að ráði Úljóts og allra landsmanna, þar sem nú er, en áður var þing á Kjaiarnesi“ (Ísl. bók). Á þessu orðalagi má sjá, að Kjalarnesþing hefir verið talið upphaf, eða fyrirrennari alþingis og samband þessara þinga svo náið, að rétt var að segja að Hrafn Hængsson tæki lögsögu næstur Úlfljóti, því að lögsögu Úlfljóts var lokið með stofnun alþingis. Hann var þá 63 ára að aldri og mun hafa dregið sig í hlé eftir þetta afrek og farið austur í Lón.
Þingnes
Reykvíkingar fá æðstu völd Á þessu fyrsta allsherjarþingi var skipuð fyrsta embættismannastétt landsins. Þá var landinu skipt í 36 goðorð og goðarnir voru héraðsstjórar hver í sínu umdæmi; þeir voru einnig þingmenn og dómarar á alþingi. Eitt goðorðið var framar öllum hinum og kallað allsherjargoðorð. Það var goðorð Reykvíkinga og fylgdi því það heiðursstarf að helga alþingi.
Þorsteinn Ingólfsson mun hafa helgað þetta fyrsta alþing og hefir þótt sjálfkjörinn til þess sem stofnandi Kjalarnessþings og frumkvöðull að stofnun alþingis. Sést hér enn sambandið milli þessara tveggja þinga. Síðan fylgdi helgun alþingis goðorði Reykvíkinga og hefir það verið sérstakur virðingarvottur við minningu fyrsta landnámsmannsins og til heiðurs Þorsteini syni hans fyrir að vera stofnandi fyrsta þings á Íslandi og driffjöðrin í stofnun alþingis.
Með nýju allsherjarlögunum varð lögsögumaðurinn forseti alþingis og helzti embættismaður hins nýja ríkis, því að framkvæmdavaldið var í höndum hans, eins og sést á því, er Ari fróði segir um Skafta Þóroddsson lögsögumann: „Á hans dögum urðu margir höfðingjar og ríkismenn sekir eða landlótta of víg eða barsmíðar af ríkis sökum hans og landstjórn“.

Ingólfur

Ingólfur Arnarsson – minnismerki á Arnarhóli í Reykjavík.

Fyrsti lögsögumaður alþingis varð Hrafn Hængsson og hefir það ef til vill verið af því að faðir hans og bræður hafi stutt drengilega stofnum alþingis.
Jón Sigursson telur að Hrafn muni hafa verið fæddur 879 og „ef til vill fyrsti maður, sem fæddur er á Íslandi“ (Safn til sögu Íslands I). Hafi svo verið, gat það nokkru ráðið um lögsögumannskjör hans, að mönnum hafi þótt vel við eiga að fyrsti innborni Íslendingurinn skipaði æðsta embætti á hinu nýja alþingi, þar sem hann var líka göfugur höfðingi og ættstór. Hrafn gegndi embættinu um 20 ár, eða fram til 950, en eftir það ráða Reykvíkingar lögsögumannskjöri allt fram að kristniöku og hafa því verið valdamestu menn landsins á þeim tíma.
Árið 950 tekur Þórarinn Raga bróðir við lögsögu, en hann var mægður Reykvíkingum, því að Ragi bróðir hans mun hafa verið kvæntur systur Þorsteins Ingólfssonar og búið í Laugarnesi. Þórarinn gegndi embættinu í 20 ár, fram til 970, en þá tekur við Þorkell máni sonur Þorsteins Ingólfssonar og gegnir því um 15 ára skeið. Þá tekur við Þorgeir Ljósvetningagoði, en þeir Þorkell máni voru að öðrum og þriðja og er sú ættfærsla þannig: Þorkell máni var sonur Þóru dóttur Hrólfs rauðskeggs á Fossi á Rangárvöllum, en móðir Þorgeirs Ljósvetningagoða var Þórunn dóttir Ásu Hrólfsdóttur rauðskeggs. Þorgeir andaðist tveimur árum eftir kristnitöku og þá gekk lögsögumannsstarfið úr ættum Reykvíkinga, en goðorði þeirra fylgdi enn lengi helgun alþingis.“

Heimild:
-Lesbók Morgunblaðsins, 25. tbl. 06.07.1969, Kjalarnesþing og Alþingi hið forna, Árni Óla, bls. 6-7.
Þingnes

Esjuberg

Fyrir neðan bæinn Grund á Kjalarnesi, vestan Esjubergs, er „útialtari„. Á skilti við altarið má lesa eftirfarandi texta, auk svilitlum viðbótafróðleik:

„Þá stóð enn kirkja sú að Esjubergi er Örlygur hafði látið gera“.

Esjuberg

Esjuberg, kort frá 1908.

Hér í landi Esjubergs verður reist útialtari sem minnismerki um merkan kristinn kirkjustað. Sagnir herma að fyrsta kirkja á Íslandi fyrir kristnitöku hafi verið reist á Esjubergi á Kjalarnesi. Mun það hafa verið um árið 900. Ekki er vitað hvar í landi Esjubergs kirkjan stóð. Næsta líklegt er að skriðuföll í Esju hafi spill vegsummerkjum eftir hana en þau breyttu ásýnd jarðarinnar og huldu flestar minjar á Esjubergi sem þar höfðu staðið um aldir og m.a. svonefnda kirkjurúst.

Esjuberg

Esjuber – meint kirkjutóft sunnan við bæinn.

Fornleifarannsókn fór fram árið 1981 á þeim stað á Esjubergi þar sem menn töldu að kirkja hefði staðið og kirkjugarður. Ekkert fannst sem gat staðfest að kirkja hefði staðið á þeim stað.

Í Landnámu (Sturlubók) segir að Örlygur Hrappsson hafi fengið frá Patreki Suðureyjarbiskupi „kirkjuvið ok járnklukku ok penárium ok mold vígða“ til að nota í kirkju sem reisa skyldi þar [sem] hann næmi land og eigna hinum helga Kolumba. örlygur reisti kirkju á Esjubergi.

Esjuberg

Esjuberg – örnefni.

[Í 1, kafla Kjalnesingasögu segir: „Maður hét Örlygur. Hann var írskur að allri ætt. Í þann tíma var Írland kristið. Þar réð fyrir Konofogor Írakonungur. Þessi fyrrnefndur maður varð fyrir konungs reiði.

Esjuberg

Esjuberg – tóft á Bænhúshól.

Hann fór að finna Patrek biskup frænda sinn en hann bað hann sigla til Íslands „því að þangað er nú,“ sagði hann, „mikil sigling ríkra manna. En eg vil það leggja til með þér að þú hafir þrjá hluti. Það er vígð mold að þú látir undir hornstafi kirkjunnar og plenarium og járnklukku vígða. Þú munt koma sunnan að Íslandi. Þá skaltu sigla vestur fyrir þar til er fjörður mikill gengur vestan í landið. Þú munt sjá í fjörðinn inn þrjú fjöll há og dali í öllum. Þú skalt stefna inn fyrir hið synnsta fjall. Þar muntu fá góða höfn og þar er spakur formaður er heitir Helgi bjóla. Hann mun við þér taka því að hann er lítill blótmaður og hann mun fá þér bústað sunnan undir því fjalli er fyrr sagði eg þér frá. Þar skaltu láta kirkju gera og gefa hinum heilaga Kolumba. Far nú vel,“ sagði biskup, „og geym trú þinnar sem best þóttú verðir með heiðnum.“

Eftir það býr Örlygur ferð sína og er frá ferð hans það fyrst að segja að allt gekk eftir því sem biskup sagði. Hann tók í Þerneyjarsundi höfn. Síðan fór hann að finna Helga bjólu og tók hann vel við honum. Reisti Örlygur þar nú bú og kirkju og bjó þar síðan til elli.“]

Esjuberg

Esjuberg – uppfærð örnefni.

Í kirknaskrá Páls Jónssonar, biskups, frá 1200, er getið kirkju á Esjubergi: „Kirkja at Esjubergi.

Þá er og getið um kirkju á Esjubergi í Kjalnesingasögu frá 14. öld: „Þá stóð enn kirkja sú að Esjubergi er Örlygur hafði látið gera. Gaf þá engi maður gaum að henni.

Þrátt fyrir áþreifanleg ummerki um kirkju á Esjubergi hafi ekki enn fundist á Esjubergi hafa Kjalnesingar hin síðari ár haft um hönd helgihald á staðnum í júnímánuði ár hvert.

Tilgangurinn með uppsetningu útialtaris og minnismerkis í landi Esjuergs er að vekja verðskuldaða athygli á merkum kristnum sögustað. Útilaltarið verður notað við kristið helgihald og ýmsar athafnir eons og brúðkaup pg skírnir.

Esjuberg

Esjuberg – útialtari.

Fyrsta skóflustunga var tekin að altarinu 8. maí 2016 af biskupi Íslands, prófasti Kjalarnesprófastsdæmis, formanni Sögufélagsins Steina, formanni sóknarnefndar Brautarholtssóknar og einu fermingarbarni vorsins 2016.

Esjuberg

Esjuberg – útialtari.

[Biskup Íslands, frú Agnes M. Sigurðardóttir tók þar skóflustungu að útialtari ásamt sr. Þórhildi Ólafs. prófasti Kjalarnessprófastsdæmis, Hrefnu Sigríði formanni Sögufélagsins Steina, Birni Jónssyni formanni sóknarnefndar Brautarholtskirkju og fermingarbarninu Benedikti Torfa Ólafssyni.
Prófasturinn sr. Þórhildur Ólafs, leiddi helgistundina að keltneskum sið.]

Altarið sjálft verður sótt í Esjubergsnámur og upp úr því mun standa um tveggja metra hár keltneskur kross.

Sögufélagið Steini á Kjalarnesi hefur haft forystu í máli þessu í samvinnu við ýmsa aðila.

[Guðni Ársæll Indriðason smíðaði mót fyrir krossinn sem rísa mun í miðju útialtarisins. Ákveðið er að hafa þrenningartákn, keltneska fléttu öðru megin og þrjá fiska hinu megin. Bjarni hefur verið í sambandi við Steinsmiðjuna S. Helgason sem ætla að sjá um smíðina á plötunum sem síðan verða festar á krossinn.]

Þetta söguskilti er sett upp hér til bráðabirgða en veglegra skilti verður síðar komið fyrir.

Esjuberg
[Kirkja Örlygs hefur sennilega aldrei verið við bæinn Esjuberg, miklu frekar í landi Esjubergs, er náði allt vestur í Kolafjörð. Þegar möguleg staðsetning framangreindrar kirkju gæti hafa verið þarf því að líta gagnrýnum augum í fyrirliggjandi örnefnalýsingar m.t.t. áttalýsinga, og horfa sérstaklega til örnefnanna „Leiðhamar“ og „Leiðvöllur“, sbr.:

Esja

Meintur kirkjuhóll á „Kirkjuflöt“ ofan Leiðvalla.

Vesturmörkin [austurmörkin], milli Esjubergs og Skrauthóla, eru um Gvendarbrunn í Flóðará og beint upp Esju. Milli Móa og Saltvíkur eru merkin Móalækur um Gvendarbrunn og upp í há-Esju um Laugarnípu, sem er há nípa upp af Árvelli. Leiðvöllur hefur verið nefndur fyrr. Það er malarkambur niður við sjóinn. Áður var þar tjörn fyrir innan, en nú er þar sandnám. Vestan [austan] hans taka við hamrar, sem nefndir eru Leiðhamrar. Þeir eru þrír talsins. Austasti hluti þeirra tilheyrir Esjubergi, en hitt Móum. Úr honum er línan í Varmhóla, þar sem þeir eru hæstir, en það er hólaþyrping hér upp af. Upp af Leiðhömrum er mýri, þar sem tekinn var upp mór frá Esjubergi. Upp af Leiðvelli er flöt, er nefnist Kirkjuflöt. Þar var sagt, að hefði verið bænhús eða kirkja. Viðurinn í hana átti að hafa verið fluttur um Leiðvöll.)

Upp af Leiðvelli var Kirkjuflöt. Þar er líklegt að kirkja Örlygs hafi verið reist í árdaga, þ.e. á Kirkjuflöt. Nánast öllu svæðinu ofan Leiðvallar hefur nú verið raskað með námugreftri. Upp af  Kirkjuflöt var Kirkjunýpa, gamalt örnefni, sem nú virðist vera horfið.
Esjuberg

Helluvatn

Örnefni eru ekki bara örnefni. Þau geta einnig verið rangnefni í minni annarra er telja sig veita betur. Örnefni eiga það nefnilega til að breytast, bæði mann fram af manni sem og á milli manna í gegnum tíðina. Fólk flytur á brott og nýtt flytur að. Örnefni skráð á einum tíma af tilteknum aðila haft eftir öðrum slíkum geta haft gildi sem slík, en þau þurfa hvorki að vera hin einu réttu frá upphafi né endanleg. Þegar fjallað er opinberlega um örnefni á tilteknu landssvæði má telja víst að ekki verða allir sammála.

Í Morgunblaðinu í maí 1957 er grein; „Svipast um eftir sumrinu„, á bls. 5.:

„Sumrinu hefur dvalizt á leið sinni til Reykjavíkur. Tré standa nakin í görðum og knattspyrnuvellir nýorðnir færir.

Svipast um eftir sumrinu

Mynd með meðfylgjandi grein í Mbl.

Fréttamenn Morgunblaðsins ákváðu þess vegna að leggja land undir fót og svipast um eftir fyrsta þætti sumarsins. Ekki höfðu þeir lengi farið er vestanblærinn og fuglar sungu. Á lítilli tjörn í mýrinni austan Rauðhóla voru ung svanahjón á sundi og fögnuðu blíðunni. Þau voru feimin við gestkomuna, litust á, hófu sig af pollinum og flugu hratt til heiða.
Hretleifar í Hengli blikuðu í sólskini og bliknuðu. Skýjaslitur hurfu hvert af öðru austur fyrir fjall. Drengir stóðu að silungsveiðum í Hólmsá. Fiskurinn var latur í birtunni og sinnti ekki táli. Það lagast með kvöldinu.

Fé

Fé.

Árið er stór sólarhringur. Á morgni þess vaknar landið, skríður undan hvítum næturfeldi og klæðist gróðri, fuglum og ferðamönnum.
Fólkið í landinu hristir af sér skammdegisdrungann og fyllist verkmóði og lífsgleði á ný. Borgarbúar fara um helgar að dytta að sumarhreiðrinu síðan í fyrra eins og maríuerlan. Fátt bragðast þeim ljúfar en bröndur, sem þeir hafa veitt sjálfir, soðnar á primus uppi í hrauni og étnar með jurtum úr eigin garði. Lömbin fylgja sumrinu. Þau brölta klaufalega umhverfis mæður sínar, þegar nálin birtist í túnum, dafna með henni, verða stríðin og státa og hlaupa spretti í hóp um á lygnum síðkvöldum.
Þegar sumri lýkur eru þau ekki lengur lömb, þau eru vísast vaxin mæðrum sínum yfir höfuð. Þá fáum við dilka kjöt og sultu.
Engir fagna sumrinu jafnmjög og nautgipir. Rosknar kýr, síðvembdar og stirðfættar eftir kyrrsetur vetrarins taka á rás eftir gljúpum túnum og vita halar upp. Kálfar, sem aldrei hafa séð víðari veröld en fjósið, staðnæmast ráðvana og litast um áður en þeir hlaupa í fyrsta sinn. Eftir nokkra stund róast hópurinn og fer að bíta sinuvafinn nýgræðing.
Skuggar teygjast í austur þegar fréttamenn komu þreyttir úr sumarleit sinni. Þeir höfðu erindi sem erfiði.

Hrauntúnstjörn og nágrenni

Hrauntúnstjörn og nágrenni.

Í Morgunblaðinu í júní 1967 skrifaði Rg eftirfarandi í velvakanda, í framhaldi af framangreindri grein, undir fyrirsögninni „Litast um eftir réttu máli (íslensku) og réttum örnefnum“: „Í Morgunblaðinu í dag (11. maí) er á 5. síðu efst mynd af á og tveim lömbum hennar, sem horfa upp yfir skilrúm í kró. Undir er svo smágrein: „Svipast um eftir sumrinu“. Þar standa eftirfarandi setningarhlutar, sem ég gjarna ætla að gjöra við smá athugasemdir höfundi til athugunar, en þó aðallega honum og öðrum, sem lesa kunna þessi orð mín, til umhugsunar eftirleiðis og fróðleiks.
Því bæti ég við einu málfræðilegu hugtaksatriði, sem ég hjó eftir í upphafi greinar í fylgiriti, er lá innan í Morgunblaðinu. Þetta eru athugunarklausur mínar. Eru þær merktar bókstöfum a) til c). — Þær gefa aðallega tilefni til að skjalfesta til athugunar nokkur örnefni og notkun fárra orða og hugtaka.

Hólmur

Hólmur og nágrenni.

a) „Á lítilli tjörn í mýrinni austan Rauðhóla voru…svanahjón“. Eftir þessum orðum að dæma (og framhaldi þeirra) virðist greinarhöfundur hafa skroppið suður yfir Bugðu á brúninni, sem setuliðið — hér á árunum eftir 1940 — lagði yfir ána af Tryppanefsoddanum, og þá um leið veginn beggja vegna að brúnnni, og fluttu síðan eftir vegi og brú Rauðhólana burtu. (Því að nú er aðeins lítill hluti eftir af Rauðhólunum eins og þeir voru frá náttúruinnar hendi). Brú þessi er handriðalaus hleri, en slíkar trébrýr yfir smáár, læki og vegaræsi voru á áratugunum í kringum síðustu aldamót, nefndar: „hlemmur“. (Þaðan er nafnið: Hlemmtorg neðan við Laugarveginn, þar sem Rauðaráin féll niður áður en hún var leidd í rör neðanjarðar, því á henni var „hlemmur“ þar sem Laugavegurinn lá yfir ána (lækinn réttara).
Verið getur að „litla tjörnin“, sem höf. nefnir þarna, sé Hrauntúnsvatn, nema um smátjörn, nánast vorleysingapoll sé að ræða, en af þeim er venjulega töluvert þarna í Hólmsengjunum um þetta leyti árs og lengi fram – eftir, því alfestaðar er hraun undir.

Hrauntún

Hrauntúnsvatn – minjar eru við vatnið miðsvæðis.

Hrauntúnsvatn (Hrauntún mun hafa verið þarna — um eitthvert skeið — smáhjáleiga frá Hólmi) er stærst af vötnunum þarna og liggur rétt suður af austurenda Rauðhólanna. Í vatnið, og áður gegnum Helluvatn, rennur Suðurá (nafngift frá Hólmi). Hún kemur austan og ofan fyrir Silungapoll, og með afrennsli úr honum. Það kom einnig með vatnsmagnið úr Gvendarbrunnum áður en það var gert að neyzluvatni. Reykvík (ekki „vis“) inga, (sbr.: Reykvískur). Aðeins sunnan við Hrauntúnsvatn er Kirkjuhólmatjörn hjá Jaðri í Heiðmörk. Vatnsmagn það, er rann úr þessum vötnum, myndaði nokkuð vatnsmikla á, er hét „Dimma“ og fellur hún í Elliðavatn. Brúin á veginum að bænum Elliðavatni, að Jaðri og þeim megin í Heiðmörk, er yfir Dimmu. En nú er venjulega haft svo hátt í Elliðavatni (Rafmagnsupphitaða stífla), að árinnar gætir ekki.

Hólmur

Hólmur og nágrenni.

b) „Drengir stóðu að silungsveiðum í Hólmsá“. Hvorki af þessum orðum höf. né þeim, er á undan standa eða á eftir koma er hægt að sjá hvar þetta var. Þarna nálægt Rauðhólunum er engin á, sem heitir Hólmsá — réttu nafni. En norðan við hólana og fast norðan við túnið á bænum Hólmi rennur áin Bugða, sem ég hef nefnt hér á undan, og sem með einni af þeim óteljandi bugðum myndar Tryppanefið áður nefnda. — Áin er ekki löng. Hún var aðeins um 10 km. áður en Rafmagnsuppistöðustíflan var gerð fyrir neðan Elliðavatn, en við það var Bugða leidd inn í lónið, nú Elliðavatn, um tveim km. ofar.

Hólmsá

Hólmsá.

Bugða myndast af tveimur vatnsföllum: Fossvallaá, sem kemur alla leið austan undan Hengilfjöllunum, af Bolavöllum og víðar og fellur vestur og niður milli bæjanna Lækjarbotna í Seltjarnarnesshreppi, og Elliðakots í Mosfellssveit, síðast um skeið í tveimur kvíslum og rennur sú nyrðri í gegn um Nátthagavatn, lítið vatn skammt sunnan við túnið að Elliðakoti. Í einum farvegi mætir hún þó Selvatnslæk (öðru nafni: Selvatns-ÓS) beint norður af Neðrahraunsnefinu fyrir neðan Lækjarbotna, — en vestan í og á Neðra-Hrautjarnnefinu er nýbýlið (frá um 1925) Gunnarshólmi. — Um 2 km. neðar var vað á Bugðu, þar lá Suðurlands(Austurlands-) vegurinn yfir ána. Þeir ferðamenn, sem komu austan yfir „Heiði“ og ætluðu til Reykjavíkur, Bessastaða, Hafnarfjarðar og Suðurnesja, sáu aðeins einn bæ nokkurn spöl neðar með ánni, Hólm.

Hólmur

Hólmur og nágrenni.

Vaðið var því nefnt: Hólmsvað á Bugðu. En flestir létu sér nægja að segja aðeins: Hólmsá. Þannig er þetta ranga nafn komið inn í málið, og hefur því líka verið klínt inn á kortin. Brúin, sem vegurinn liggur nú um, var gerð á ána fast ofan við vaðið og sér enn fyrir vaðinu á árbökkunum beggja vegna. Neðri endi (ós) Bugðu mætti Dimmu þar neðan við er hún féll aftur úr Elliðavatni, rétt suður af suðurenda slakkans, sem liggur suður frá skörpu beygjunni á Rauðavatni, þar sem vegurinn liggur yfir vatnshlykkinn. Þar, sem árnar komu saman, stendur enn dálítil hraunstrýta; heitir hún Hólmaskyggnir. Er þar nú sumarbústaður og hafa verið gerðir stallar neðst um skyggninn og plantað í stallana. Það er vatnsmagin Dimmu og Bugðu, sem þarna myndar Elliðaárnar. Þarna féllu þær strax fram í tveimur kvíslum þegar ekki var sáralítið vatn í ánum, en þó aðalkvíslin að suðvestan. Sléttlendið, — upp gróið hraun, — á milli kvíslanna, heitir: Vatnsendahólmar; þaðan er nafnið á Hólmaskyggni. Rangnefnið á Bugðu mun líklega reynast nokkuð lífseigt eins og títt er um margar málvitleysur og drauga. En fáir munu veita því athygli að áin sýnir og skrifar sjálf með rennsli sínu að hún heitir Bugða.

Hólmur

Hólmur og nágrenni.

c) „Rosknar kýr, síðvembdar og stirðfættar eftir kyrrsetur (auðkennt hér) vetrarins“. Segið mér! Hefur nokkur séð kýr sitja? Ég man ekki til þess að ég hafi nokkru sinni séð kýr eða aðrar nautkindur sitja á rassinum — ótilneyddar. Man ekki betur en að þær leggist niður með því að krjúpa á kné framfóta og láti síðan afturhlutan hníga á eftir níður á aðrahvora hliðina. Og upp minnir mig að þær rísi aftur með afturhlutan á undan. Minnir að hitt sé undantekning og þá af einhverjum sérstökum ástæðum. Nei, Ég held að „kyrrsetakreppa“ (Stgr. Th.) mannfólksins eigi ekki við um húsdýrin — eða dýr yfirleitt — heldur kyrrstöðu stirðnun (sem kallað var: innistaða) vetrarins, og sé kyrrstaðan sízt betri, er til lengdar lætur. Munu ýmsir menn, bæði karlar og konur, geta um það borið, þeir er mikið verða að vinna standandi, — t.d. prentararnir, handsetjararnir við leturkassanna.
HólmurÞá vil ég loks benda á eitt orðatiltæki, sem ég aldrei get fellt mig við, en sem mikið kveður að bæði í ræðu og riti, og líklega hjá þorra manna, því að það mun vera orðið gamalt í málinu okkar. Eitt af því marga, sem við höfum látið okkur sæma að apa hugsunarlaust, og að óþörfu, eftir Dönum. Sannast hér sem jafnan að „auðlærð er ill danska“, og það bókstaflega.
Ég tek þetta hér með af því að ég hnaut um þetta orðatiltæki strax í annarri línu og efst á síðu í fjórblöðungi, er lá innan í Morgunbl. í dag (11/5) — (í réttri íslenzkri merkingu, en ekki í ensku merkingunni: today, sem flestir virðast nú hafa gleypt til notkunar bæði í ræðu og riti, íslenzku máli til stórskemmda af því að íslenzkan: „í dag“ þýðir alveg bundinn tíma, en ekki lítt takmarkaðan tíma, bæði fram og aftur, eins og enskan: „today“ gerir).
Orðatiltækið er: „menn og konur. “ Seg mér (og öðrum) hver þú, sem geitur: Hvaða dýrategund eru konurnar fyrst að taka þarf fram svona skýrt að þær séu ekki menn?
Ég þarf ekki að skrifa meira um þetta. Hver einasti heilvita og hugsandi maður, hvort sem er karl eða kona (orðin: karl þýðir ekki gamal karlmaður og kona þýðir ekki aðeins gift kona, slíkt eru síðari tíma rangtúlkanir orðanna) getur svarað spurningunni sjálfur rétt, ef hann aðeins vill hugsa út fyrir áunnin vanatakmörk, sem eru í raun og veru heimska.“
Vinsamlegast,
Rg“.

Í Morgunblaðinu nokkrum dögum síðar skrifar Karl E. Norðdahl, bóndi á Hólmi athugasemdir við áður fram komnar athugsasemdir undir fyrirsögninni „Ár, vötn og örnefni umhveris Hólm“:
„Velvakandi!

Hólmur

Hólmur – Karl E. Norðdahl lengst til hægri.

Í dálkum þínum fimmtudaginn 15. júní sl. er birt langt bréf frá bréfritara, sem nefnir sig Rg., og ber það yfirskriftina „Litazt um eftir réttu máli (íslenzku) og réttum örnefnum.“ Tilefni ritsmíðar Rg. er smágrein, sem birtist í Mbl. 11. maí sl. Rg. hefur fundið sig knúinn til að „fræða“ höfund þeirrar greinar sem og aðra lesendur Mbl. um ýmis örnefni umhverfis Hólm og gengur honum vafalaust gott eitt til. Því miður hefur Rg. þó ekki ekkert betur til en svo, að óhjákvæmilegt er að leiðrétta fjölmörg atriði í grein hans.

Bugða

Bugða.

Nafnið Hólmsá er mjög gamalt. Árið 1887 var fyrst byggð brú á Hólmsá, þar sem núverandi Hólmsárbrú er (og þjóðvegur austur fyrir fjall). Þá brú, sem var 18 álna löng, tók af í vetrarflóði 1888, sbr. Árferði Íslands í þúsund ár, eftir Þorvald Thoroddsen. Upptök Hólmsár eru við Elliðakotsbrekkur. Fossvallaá, sem Rg. talar um er nú ekki nema nafnið eitt.
Fyrir 1920 rann hún meiri hluta ársins en undanfarna áratugi hefur hún verið þurr nærri allt árið, rennur aðeins í stórleysingum.“ Upptök Fossvallaárinnar (hún hét reyndar Lyklafellsá austan Fóelluvatna) voru í Engidal og Marardal í Hengli (ekki á Bolavöllum) og heitir hún þar Mará. Sú á hverfur í jörð á Norðurvöllum.

Hólmur

Hólmur og nágrenni.

Rg. talar um Selvatnslæk (öðru nafni Selvatnsós). Þau örnefni eru ekki til og hafa aldrei verið það. Afrennsli Selvatns heitir einungis Ós og fellur um Gljúfur og Elliðakotsmýrar í Hólmsá, þar sem heitir Óskjaftur. Þaðan rennur Hólmsá norðan við bæinn Gunnarshólma (hann var byggður 1928) undir Hólmsárbrú suður um Heiðartagl. Þar féll Ármótakvísl (stífluð 1961) úr Hólmsá í Suðurá.

Hrauntúnstjörn og nágrenni

Hrauntúnstjörn og nágrenni.

Hólmsá fellur síðan sem leið liggur vestur með þjóðveginum norðan við bæinn Hólm. Áin heitir Hólmsá, ekki Bugða, allt vestur á móts við Baldurshaga. Síðan heitir hún ýmist Hólmsá eða Bugða þar til hún fellur í Rafveitulónið. Nafnið Bugða á þessum hluta árinnar var notað af ábúendum Elliðavatns og Grafar (Grafarholts). Vegagerð ríkisins brúaði Hólmsá og lagði veg af Suðurlandsvegi í Rauðhóla árið 1926, ekki „setuliðið hér á árunum eftir 1940″, eins og greinarhöfundur Rg. kemst að orði.
Rg. talar um vað á Hólmsá (eða Bugðu, eins og komizt er að orði) fast neðan við núverandi Hólmsárbrú, og að þar hafi þjóðleiðin áður legið. Þetta er rangt. Þarna befur aldrei verið vað. Þjóðleiðin lá hér áður fyrr yfir Ármótakvísl, sunnan við bæinn Hólm og yfir Hólmsá um 1/2 km neðan við Hólm.

Hólmur

Hólmur og nágrenni.

Hraunsnef er aðeins eitt, ekki tvö eins og greinarhöfundur telur. Í Silungapoll fellur Hraunlækur að norðan og kem ur upp í Hraunsnefi. Úr Silungapolli fellur Silungapollsá sunnan við Höfuðleðurhól, jökulnúna grágrýtisklettaborg. Silungapollsá sameinast Ármótakvísl við Ármót og heitir eftir það Suðurá. Stóra tjörnin vestur af Gvendarbrunnum heitir Hrauntúnsvatn og því síður Helluvatn eins og Rg. talar um.

Helluvatn

Helluvatn.

Helluvatn er vatnið sunnan Rauðhóla. Segja má að Rg. sé nokkur vorkunn að rugla saman örnefnunum Hrauntúnstjörn og Helluvatni, þar sem nafnavíxl hafa orðið á þessum vötnum á herforingjaráðskortinu frá 1908 af þessu svæði. Og enn gengur þessi sama vitleysa aftur á endurskoðuðu korti Landmœlinga Íslands frá útgefnu korti 1966 (blað 27, mælikvarði 1:100000). Má því segja, að erfiðlega ætli að ganga að kveða þennan draug niður. Suðurá féll áður í Hrauntúnstjörn í tveimur kvíslum um Hrauntúnshólma. Sunnan Hrauntúnstjarnar má enn sjá tóftarbrot af eyðibýlinu Hrauntúni. Úr Hrauntúnstjörn féll Krikjuhólmakvísl til norðvesturs í Helluvatn og Kirkjuhólmakvísl til norðvesturs í Helluvatn og Kirkjuhólmaá til suðvesturs í Kirkjuhólmatjörn og þaðan í norðvestur í Helluvatn. Á milli þessara kvísla er Kirkjuhólmi.

Hólmur

Hólmur og nágrenni.

Helluvatn (suður af Rauðhólum) dregur nafn af Hellunni, sléttri hraunklöpp í Helluvaði, sem er neðst í Kirkjuhólmaá. Þar sem sú á fellur í Helluvatn, er mjög djúpur
hylur (um 4:—5 faðmar á dýpt) og heitir Helluvatnsker eða Kerið, kunnur veiðistaður. Vatnsveita Reykjavíkur hefur nú „lokað“ Hrauntúnstjörn og hefur hún hvorki að- né frárennsli.

Suðurá

Suðurá.

Hefur Suðurá nú verið veitt beint í Helluvatn, Áin, sem fellur úr Helluvatni í Elliðavatn heitir alls ekki Dimma eins og Rg. heldur fram og hefur aldrei heitið, heldur Elliðavatnsáll oftast nær kölluð aðeins Állinn. Yfir hann liggur brú af Sundholti og þaðan vegur í Heiðmörk. Áður fyrr voru vötnin tvö, Elliðavatn og Vatnsendavatn. Tanginn Þingnes (nú eyja) skipti þeim að sunnan. Úr Vatnsendavatni féll Dimma og dró nafn af djúpum og dökkum hyljum. Nú er þetta breytt. Rafmagnsveita Reykjavíkur hefur gert stíflu þvert yfir Elliðavatnsengjar og báðar árnar (Dimmu og Bugðu) og myndað eitt stórt stöðuvatn núverandi Elliðavatn.
Greinarhöfundur Rg. virðist ekki vita, að slakkinn frá Rauðavatni til suðurs, þar sem vegurinn liggur yfir vatnshornið, heitir Margróf (það ðrnefni vantar rcyndar einnig á kort af Reykjavík og nágrenni, sem út kom í fyrra) og hann talar um dálitla hraunstrýtu með nafninu Hólmaskyggnir þar, sem árnar komu saman. Ekki er þetta hraunstrýta, heldur melhóll, og nafnið mun vera Vatnsendaskyggnir, en ekki Hólmaskyggnir.
Mun nú látið staðar numið að sinni, en margt er enn ósagt um örnefni á þessum slóðum.“
Með þökk fyrir birtinguna.“ – Karl E. Norðdahl – Hólmi.

Heimildir:
-Morgunblaðið, 133. tbl. 15.06.1967, Litast um eftir réttu máli (íslensku) og réttum örnefnum, Rg, bls. 4.
-Morgunblaðið, 143. tbl. 29.06.1967, Ár, vötn og örnefni umhveris Hólm – Karl E. Norðdahl, bls. 4.
-Morgunblaðið, 104. tbl. 11. 05. 1957, Svipast um eftir sumrinu, bls. 5.

Hrauntúnstjörn

Hrauntúnstjörn – minjar.

Viðey

Í Tímanum 1986 er umfjöllun Ingólfs Davíðssonar; „Hugsað til Viðeyjar„:

„“Víkur hann sér í Viðeyjarklaustur, víða eg trúi hann svamli sá gamli“. Svo kvað Jón biskup Arason árið 1550.
Langt er síðan munkar gengu þar um garða, en um skeið var Viðeyjarklaustur eitt hið auðugasta á Íslandi og átti jarðeignir miklar.

Skúli Magnússon

Skúli Magnússon.

Skúli Magnússon landfógeti, sem nefndur hefur verið faðir iðnaðar og þar með kaupstaðar í Reykjavík, bjó lengi í Viðey. Mætti segja að hann hafi þar reist sér minnisvarða með byggingu Viðeyjarkirkju og stofu. Mun Viðeyjarstofa elsta hús í lögsagnarumdæmi Reykjavíkur. Þrír frægir menntamenn þ.e. Bjarni Pálsson, Eggert Ólafsson og Sveinn Pálsson dvöldu oft á vetrum í Viðey hjá Skúla og unnu að hinum stórmerkilegu ferðabókum sínum.
Eftir Skúla tók við veldi Stefánsunga.

Löngum hefur verið rekið stórbú

Viðey

Viðey.

Í Viðey og um skeið var þar mikil útgerðarstöð. Þorsteinn Erlingsson kvað: „Í logninu fuglinn um fjörurnar þaut og flaug upp um engjar og tún. Hann veitti þar eggjunum unað og skraut og Ólafi Stephensen dún“.
Í jarðabók 1703 segir: „Engi yfirfljótanlega mikið og gott ef nýtt og ræktað er. Hagbeit um sumar og vetur hin allra besta.“ Og í sýslulýsingum 1852 stendur: „Viðey sögð öll grasivaxin, en mjög þýfð, einkar grasgefin. Æðarvarp mikið og afbragðsmikill heyskapur og einhver hinn besti heykostur.“
Nokkur tilraunastarfsemi var í Viðey á fyrr öldum. Voru nokkrar trjátegundir gróðursettar þar 1752, en allar dóu þær út á næsta ári. Grenifræi var sáð í óræktað land hingað og þangað, einkum í klettunum við sjóinn, en allar plönturnar dóu á þriðja ári. Telur Skúli tilraunirnar ekki hafa verið gerðar af nægilegri þekkingu.

Reynihríslur í Viðey

Viðey

Viðey.

Arthur Dillon lávarður, sem dvaldi í Reykjavík 1834-1835, getur um hríslur í Viðey. Hann ritar á þessa leið um för sína og franskra manna út í Viðey: „Við lentum við brattar steintröppur. Milli þeirra og hússins var grasflötur og þar voru gróðursett um 50 tré. Þó þau væru mjög ung voru þau orðin meira en 12 fet á hæð og munu sennilega dafna betur en flest önnur, þar sem þau vaxa í skjóli hússins og hæða til beggja handa. Húsið var á stærð við stiftamtmannshúsið og lítil kirkja við annan endann.“ Dillon nefnir ekki trjátegundina, en líklega hafa þetta verið reyniviðir eins og hjá stiftamtmanninum í landi á sama tíma.
Skyldi Magnús Stephensen hafa gróðursett þessi tré, eða Ólafur Stephensen? Sennilega hafa tré ekki haldist lengi við í Viðey.

Kornrækt í Viðey og Reykjavík

Skúli Magnússon

Skúli Magnússon.

Getið er kornræktar í Viðey á 12. öld og einu sinni kvað hafa þurft Þorlák helga til að setja niður músagang, sem át kornið! Í Sturlungu er sögð kornyrkja í Gufunesi árið 1220. Víkurkirkja átti akurlendi í Örfirisey 1397. Örnefnið Akurey er sennilega gamalt og segir sína sögu. Sennilega hefur einhver kornyrkja haldist allt frá landnámsöld og fram á síðari hluta 16. aldar. Kornyrkjan lagðist niður bæði vegna kólnandi veðurfars og innflutnings á ódýru korni.

Viðey

Nafnið Viðey bendir til þess að þar hafi verið skógur eða kjarr þegar eyjan fékk nafn. Fornleifarannsóknir á eyjunni hafa einmitt sýnt að þar hafi verið gróskumikið á landnámsöld og skógur eða kjarr hafi einkennt hana allt fram á 12. öld.

Upp úr miðri 18. öld var farið að reyna kornrækt aftur. Fyrir áeggjan Skúla Magnússonar o.fl. sendi Friðrik Danakonungur fimmti 15 jóskar og norskar bændafjölskyldur til landsins, einkum til að gera akuryrkjutilraunir á ýmsum stöðum, aðallega á árunum 1752-1757. Einn bóndinn var settur niður í Reykjavík, annar var í Viðey. Á báðum stöðum var brotið land til kornyrkju árið 1752 og stóðu tilraunir í 5 ár. Reyndar var vetrarrúgur og vorrúgur, bygg, hafrar og blendingskorn og óx það best, en þar næst bygg. Lítið af korninu náði fullum þroska og voru flestir kjarnar linir að hausti. Kornið var því ekki þreskt, en gefið skepnum eins og hvert annað hey. Þótti kornið þrífast heldur skár í Viðey en í Reykjavík.
Næst reyndi Schierbeck landlæknir kornrækt í Reykjavík og fékk m.a. sáðkorn frá nyrstu héruðum Noregs. Þroskaðist bygg sæmilega hjá honum sum árin (1884-1893). Síðan varð hlé uns Klemenz Kristjánsson hóf tilraunir í kornrækt í Gróðrarstöðinni í Reykjavík 1923-1927, og síðar lengi á Sámstöðum í Fljótshlíð. Prentsmiðja var í Viðey á vegum Magnúsar Stephensen 1819-1844. Sjaldgæfar eru Viðeyjarbækur nú og í fárra höndum.

Stórbúskapur í Viðey

Viðey

Austanverð Viðey á tímum Milljónafélagsins.

og mikil útgerð í byrjun þessarar aldar varð Viðey eign þeirra feðga séra Eiríks Briem og Eggerts sonar hans. Var þá umfangsmikill búskapur og búið í Viðeyjarstofu. Á árunum 1907-1914 voru mikil umsvif „Milljónafélagsins“ í Viðey, gerð hafnarmannvirki, rekin mikil útgerð og fiskvinnsla. Síðan tók við Kárafélagið fram að kreppuárunum; þá fjaraði atvinnulífið út og þorpið sem hafði myndast fór í eyði 1943. Þar höfðu búið um 100 manns og helmingi fleiri á vertíðinni þegar best lét.
Margir merkismenn hafa átt heima í Viðey Styrmir hinn fróði, vinur Snorra Sturlusonar, var ábóti í Viðey 1235-1245. Styrmir samdi Ólafs sögu helga, og mun hafa átt þátt í nú glataðri frumgerð Landnámabókar. Ögmundur Pálsson, síðar biskup í Skálholti, var ábóti í Viðey um skeið. Á síðari hluta 18. aldar bjó Skúli Magnússon í Viðey, áhrifamikill höfðingi. Hann stofnaði mikið iðnaðarfyrirtæki (Innréttingarnar) í Reykjavík og átti í stríði við einokunarverslunina og barðist fyrir bættri verslun.
Viðey
Við af honum tók í Viðey mikill rausnarmaður, Ólafur Stephensen. Er hans og lífsins í Viðey á þeim tíma, getið í ýmsum útlendum ferðabókum. Útlendum ferðamönnum var oft vísað til Viðeyjar og róma gestirnir höfðingsskap Ólafs og stórkostlegar veislur. Sonur Ólafs, Magnús Stephensen gerði og garðinn frægan í Viðey. Hann var valdamesti maður á Íslandi bæði í veraldlegum efnum og menningarmálum um sína daga.
Saga Viðeyjar er sannarlega viðburðarík. Byggð mun hafa lagst af í Viðey um 1970. Búsældarlegt og gróskumikið hefur jafnan verið í Viðey. Þar fann undirritaður 126 jurtategundir við lauslega athugun 1938. Sjá Náttúrufræðinginn 1939. Sennilega finnast fleiri tegundir við nákvæma leit. Nú er Viðey nýorðin eign Reykjavíkurborgar.“

Í Tímanum 1988 fjallar Ingólfur Davíðsson um „Viðey á dagskrá„:

Viðey
„Nú er Viðey eign Reykjavíkurborgar. Kirkja og stofa hafa verið lagfærð með myndarskap, o.fl. mun vera á prjónunum. Talsverðar fornleifarannsóknir hafa verið gerðar í Viðey hin síðustu ár og margt merkilegt komið í ljós, einkum frá klausturtímabilinu 1226-1550. Viðeyjarklaustur var lengi menntasetur og hafa margir merkismenn gengið þar um garða. Styrmir hinn fróði, vinur Snorra Sturlusonar, var ábóti í Viðey 1235-1245. Hann samdi Ólafs sögu helga og mun hafa átt þátt í nú glataðri frumgerð Landnámabókar. Ögmundur Pálsson hinn voldugi Skálholtsbiskup, samtíðarmaður Jóns biskups Arasonar, var ábóti í Viðey á yngri árum.
Í framtíðinni verður Viðey eflaust fjölsóttur ferðamannastaður, bæði vegna sögu sinnar og legu.“

Í Lesbók Morgunblaðsins 1996 fjallar Sigurlaugur Brynleifsson um „Viðeyjarklaustrið„:

Viðey„Þáttaskil í sögu Viðeyjar verða 1750, þegar Skúli Magnússon er skipaður landfógeti. Ætlunin var að stiptamtmaður og landfógeti sætu báðir í Viðey, en svo fór að. landfógeti sat þar. Efnt var til stórbyggingar sem ætluð var báðum, en byggingin var minnkuð nokkuð eftir að stiptamtmaður hvarf frá búsetu. Hafist var handa við byggingu Viðeyjarstofu 1753 og henni lokið 1755. Nefnt Slotið í Viðey – þá stærsta hús á Íslandi. Með þessum framkvæmdum og stórbúskap ásamt búnaðartilraunum, hefst Viðey til helstu stórbúa landsins á þeirra tíma mælikvarða. Samfara þessu var hafinn undirbúningur að viðreisn landsins með „Innréttingunum“ og margvíslegustu tilraunum til aukins afraksturs í landbúnaði og sjávarútvegi.
Með þessum áætlunum og framkvæmdum hófst nýr þáttur í atvinnusögu landsmanna. Og Viðey var höfuðstöð þessara umbreytinga hér á landi og önnur höfuðstöðin var Kaupmannahöfn, en þaðan barst meginhluti þess fjár sem varið var til viðreisnarinnar, úr sjóðum stjórnarinnar. Valdamiklir menn innan dönsku stjórnarinnar studdu Skúla í Viðreisnartilraunum hans, Thott greifi, Molkte og Rantzau stiptamtmaður voru stuðningsmenn hans.
Margt varð til þess að áætlanirnar um viðreisn landsins náðu ekki þeim árangri sem stefnt var að. Harðindi, Skaftáreldar 1783-84 og andúð úrtölumanna og fjandmanna Skúla meðal kaupmanna. En þrátt fyrir það urðu þessar tilraunir til þess að sanna landsmönnum að gjörlegt var að framkvæma það, sem áður var talið vonlaust.
Skúli Magnússon bjó í Viðey í um 40 ár.
Viðey
Ólafur Stephensen stiptamtmaður tók við Viðey og bjó þar við mikla rausn. Mikill munur var að litast um í Viðey í tíð Skúla og Ólafs eða árið 1703, þegar eyjan var í eyði, niðurnídd.
Magnús Stephensen keypti Viðey 1817 og flutti þangað Leirárgarða – og síðar Beitistaðaprentsmiðju 1819. Þar með hefst aftur bókagerð í Viðey. Magnús rak prentsmiðjuna til dánardags 1833 og sonur hans Ólafur sekreteri til 1844. Þeir ættmenn bjuggu í Viðey þar til 1901 og seldu þá eyna.“

Nokkur upplýsingaskilti eru í Viðey umleikis Viðeyjarstofu og Viðeyjarkirkju:

Viðeyjarstofa

Viðey

Viðeyjarstofa frá tíma Skúla Magnússonar.

„Skúli Magnússon landfógeti fékk eyna til aðseturs árið 1751. Skúli var merkisberi nýrra tíma á Íslandi. hann setti á stofn Innréttingarnar í Reykjavík og hugðist þannig koma á fót iðnaði á Íslandi. Hann hefur oft verið nefndur faðir Reykjavíkur en í kringum Innréttingarnar óx fyrst upp þéttbýli í Reykjavík

Viðeyjarstofa

Upprunaleg teikning að Viðeyjarstofu upp á tvær hæðir.

Skúli reisti Viðeyjarstofu sem embættisbústað landfógeta en stofan er fyrsta steinhúsið sem byggt var á Íslandi. Hún er að mestu úr grágrýti en einnig úr íslenskum sandsteini og var smíði hennar lokið árið 1755. Arkitekt stofunnar var Nicolai Eigtved en hann teiknaði margar sögufrægar byggingar í kaupmannahöfn og er Amalienborg þeirra þekktust.
ViðeyNæsti ábúandi Viðeyjar á eftir Skúla var Ólafur Sthephensen, fyrsti íslenski stiftamtmaðurinn. Ólafur bjó í Viðey frá 1794 til dauðadags 1812. Hann var merkur framfarasinni og með búsetu hans úi í eynni varð hún æðsta embættissetur landsins um níu ára skeið. hann hélt ófáar veislur í Viðey og eru til margar frásagnir af þeim.
Arftaki Ólafs í Viðey var sonur hans, Magnús Stephensen konferensráð og dómstjóri. Magnús var, eins og Skúli Magnússon, maður upplýsingar og framfara. Hann réð yfir prentsmiðju, hinni einu á landinu á þeim tíma. Hún var starfrækt í Viðey á árunum 1819-1844. Magnús bjó í Viðey til dauðadags 1833. Hann keypti eyjuna af Danakonungi árið 1817 fyrir stórfé og var hún í eigu ættarinnar út nítjándu öld“.

Viðeyjarkirkja
Viðey
„Viðeyjarkirkja var reist að frumkvæði Skúla Magnússonar landfógeta. Hún er byggð úr grágrýti úr Viðey og var vígð árið 1774 af sr. Árna Þórarinssyni, þá sóknarpresti í Reykjavík en síðar biskupi á Hólum. Arkitekt kirkjunnar er ókunnur en gæti hafa verið Georg David Anton, eftirmaður N. Eigtveds, höfunar Viðeyjarstofu. Viðeyjarkirkja er næst elsta kirkja landsins og geymir elstu upprunalegu kirkjuinnréttingu, sem hér er til. Hóladómkirkja er elst, vígð 1763, en þar er endirgerð innrétting.
Það er einkum þrennt, sem atgygli vekur í þessari gömlu innréttingu. Fyrst má nefna að prédikunarstóllinn stendur fyrir ofan altarið. Slíkt er sjaldgæft hérlendis, en var ekki óalgengt á Norðurlöndunum á þessum tíma. Þetta hefur þá táknrænu merkingu, að boðun Guðs skuli skipa hærri sess í guðsþjónustunni en altarissakramentið.

Viðey

Stóllinn í Viðeyjarkirkju.

Annað sem vekur athygli er stóllinn sem stendur hægra megin við altarið. Hann er einstæður gripur í lúterskri kirkju á Íslandi, eini skrifastóllinn frá gamalli tíð. Fram á miðja 19. öld fengu menn ekki að fara til altaris hér á landi nema þeir hefðu skriftað fyrst, Þeir, sem ætluðu til altaris, fóru út í kirkju með prestinum nokkru áður en messa skyldi hefjast. Presturinn settist í stólinn. En skriftabörnin krupu eitt í einu á knébeð, sem var fyrir framan stólinn og fóru þar með utanbókarlærða almenna syndajátningu og fengu þá aflausn hjá prestinum.
Þriðja atriðið varðar kirkjubekkina. Konur sátu fyrr vinstra megin í kirkju, þegar inn er horft, en karlar hægra megin, svo sem enn tíðkast við brúðkaup. Í Viðeyjarkirkju er bekkirnir kvennamegin 7 sendtimetrum lægri en bekkir karlanna“.

Fornleifarannsóknir á bæjarhól Viðeyjar
Viðey
„Í tilefni af 200 ára afmæli Reykjavíkurborgar árið 1986 fékk borgin að gjöf Viðeyjarstofu og Viðeyjarkirkju frá ríkinu. Við endurgerð Viðeyjarstofu var byggt stórt jarðhýsi við húsið norðanvert. Vegna þeirra framkvæmda hófst fornleifarannsókn á bæjarhólnum árið 1986. Í fyrstu var um björgunaruppgröft að ræða á um 400 fermetra svæði, en árið 1989 var rannsóknarsvæðið stækkað til norðurs um 600 fermetra og rannsóknaruppgröftur hafinn. Fornleifauppgröfturinn var á vegum Árbæjarsafns og stóð til ársins 1995.

Viðey

Dansleikir voru haldnir í Viðey líkt og annars staðar þar sem er byggð. Eitt sinn var haldið dansiball í þurrkhúsinu þegar danskt herskip lá við bryggju á þriðja áratug síðustu aldar. Á þessu skipi var Knútur prins, sonur Kristjáns X, sjóliðsforingi. Hann og aðrir áhafnarmenn tóku þátt í skemmtuninni en sagan segir að Knútur prins hafi dansað við einu og sömu stelpuna alla nóttina. Hann var svo hrifinn af henni að daginn eftir þegar hún hélt til vinnu að vaska fisk, þá stóð hann yfir henni og hélt henni félagsskap. Ólíklegt er að í þeim samkomutakmörkunum sem eru nú í gildi að einhver hitti sinn draumaprins, en það er þó aldrei að vita!

Fyrstu ritheimildir um byggð í Viðey eru frá 12. öld, þegar Þorlákur helgi Þórhallsson (1133-1193) var fenginn til að bregðast við músagangi í einni. „Hann vígði vatn og stökkti yfir eyna – uatn um eitt nes“. Á þeim tíma var komin kirkja í Viðey. Árið 1225 stofnaði Þorvaldur Gissurason, með stuðningi Snorra Sturlusonar, klaustur í Viðey af reglu heilags Ágústínusar. Viðeyjarklaustur var starfrækt til ársins 1539, en þá var það rænt af mönnum Danakonungs, munkarnir reknir á brott og Viðey lýst eign konungs.
Eftir að klaustrið var lagt niður var í Viðey rekið bú og „hospital“ sem var einskonar vistheimili fyrir farlama fólk, Hospitalið var síðan flutt til Gufuness, þegar Skúli Magnússon landfógeti settist að í Viðey árið 1751.
Uppgröfturinn í Viðey var einn sá viðarmesti sem farið hefur fram á Íslandi á sínum tíma og sá fyrsti sem gerður var á klaustursstað. Hluti af kirkju, kirkjugarði og klausturhúsunum voru rannsökuð. Jarðsjármælingar hafa sýnt að framan við Viðeyjarstofu og -kirkju hafa verið byggingar, sem trúlega voru hluti af klausturhúsunum. Í elstu jarðlögunum komu í ljós leifar bæjar frá 10. öld. Í honum var langeldur, um þriggja metra langur.
Við fornleifarannsóknina fundust um 20.000 gripir, margir athyglisverðir. Mannvistarlög í bæjarhól Viðeyjar eru 2-3 metra þykk og sýna að þar hefur verið byggð allt frá 10. öld fram til 20. aldar. Stór svæði á bæjarhólnum eru ókönnuð og munu rannsóknir í framtíðinni skýra enn betur uppbyggingu húsakosts og lifnaðarhætti Viðeyinga“.

Kúabúið í Viðey
Viðey
„Hér stóð það sem var á sínum tíma eitthvert stærsta og glæsilegasta fjós á Íslandi. Það var byggt skömmu fyrir aldamótin 1900, þegar hjónin Eggert Briem og Katrín Thorsteinsson Briem reistu stórbú í Viðey. Fjósið rúmaði 48 kýr og var sambyggt hlöðu sem tók um 3000 hestburði af heyi. Húsið var úr timbri og bárujárni, með steyptum og hlöðnum undirstöðum. Á hverjum degi var mjólkin flutt til Reykjavíkur og seld í mjólkurbúð Viðeyjarbændanna í húsinu Uppsölum á horni Túngötu og Aðalstrætis, en hún hefur verið nefnd fyrsta mjólkurbúðin í Reykjavík.
Viðey
Á Viðeyjarbúinu störfuðu aldrei færri en 20 manns yfir veturinn og enn fleiri þegar heyjað var á sumrin. Fjósverkin hófust klukkan sex á morgnanna. Fimm stúlkur sáu um mjaltirnar og mjólkuðu 10-12 kýr hver. Strax að loknum mjöltum var siglu með mjólkurbrúsana yfir sundið inn í Laugarnes og þeim ekið þaðan til Reykjavíkur.

Viðey

Fjósið sem sést hér til hægri á myndinni var eitt stærsta og nýtískulegasta fjós og heyhlaða landsins þegar það var byggt af Eggerti Briem stórbónda í byrjun 20. aldarinnar. Fjósið tók 48 kýr og var hægt að geyma gífurlegt magn af heyi í hlöðunni. Mjólkina frá kúnum flutti hann á hverjum degi á bátum yfir sundið til Reykjavíkur og svo á hestvögnum niður í Aðalstræti, þar sem hann var með mjólkurbú.

Mjólkin þurfti helst að vera komin í mjólkurbúðina fyrir klukkan tíu. Þar var einnig unnið úr henni smjör, rjómi og skyr. Viðeyjarmjólkin þótti góð, enda voru kýrnar vel hirtar og fyllsta hreinlætis gætt við alla mjólkurvinnsluna. Heimilisfólkið í Viðey var stolt af búskapnum og þegar frúr úr Reykjavík eða vestan af fjörðum heimsóttu húsmóðurina fór hún gjarnan með þær í skoðunarfeð út í fjós.
Mjólkurneysla var mun minni í Reykjavík í upphai 20. aldar en síðar varð. Mjólkin var dýr, kýr voru tiltölulegar fáar í bænum og samgöngur við nágrannasveitirnar torveldar. Mjólkurflutningarnir úr Viðey voru líka erfiðir, sérstaklega yfir háveturinn. Á öðrum áratug 20 aldar reisti Eggert Briem annað fjós í Reykjavík, þar sem nú mætast Njarðargata og Smáragata, hafði kýrnar í Viðey á sumrin en í Briemfjósi í Reykjavík á veturna.
Eggert Briem lést árið 1939, skömmu eftir að hann seldi Viðey nýjum eigendum. Seinni kona hans. Halla Briem, lifði hann, en Katrín Thorsteinsson Briem lést 1919. Fjósið og hlaðan í Viðey stóðu lengi enn, en byggingin var rifin um 1900 í kjölfar endurbóta á Viðeyjarstofu“.

Garðrækt Skúla Magnússonar
Viðey
„Á síðari hluta 18. aldar var Skúli Magnússon húsráðandi í Viðey. Hann fékk eina til aðseturs þegar hann var skipaður landfógeti á Íslandi árið 1750 og hér bjó hann til dauðadags árið 1794.
Skúli Magnússon var einn af frumkvöðlunum að stofnun Innréttinganna svokölluðu árið 1751, en það var félag um viðreisn landshaga á Íslandi. Innréttingarnar stóðu fyrir margvíslegri nýsköpun í íslensku atvinnulífi með stuðningi Danakonungs. Þar á meðal beindu forsvarsmenn þeirra augum sínum að möguleikum til aukinnar jarðræktar á Íslandi.
Almenningur var hvattur til þess að koma sér upp kálgörðum og stjórnvöld vildu líka stuðla að trjárækt í landinu. Embættismenn skyndu ganga á undan með góðu fordæmi. Þar lét Skúli Magnússon ekki sitt eftir liggja og ræktaði bæði tré og fjölbreyttar matjurtir við heimili sitt í Viðey.

Viðey

Heyskapur í Viðey 1906.

Árið 1753 pantaði Skúli ólíkar frætegundir til ræktunar. Þar voru til dæmis kastaníurunnar, átján askar, níu rifsberjarunnar, níu stikilsberjarunnar (fjórir að vísu dauðir, en fimm í góðu ástandi) og nokkur ávaxtatré, þar á meðal tvö perutré. Næstu ár voru hins vegar köld og þá er talið að flest trén hafi drepist.
Skúli gerði tilraunir með ræktun á hör og hampi, rúgi og höfrum. Hann freistaði þess að rækta baunir og tóbaksrækt reyndi nann í svokallaðri Tóbakslaut, en hvort tveggja bar lítinn árangur. Betur gekk honum að rækta kartöflur og kúmen. Kúmenið vex enn um alla Viðey og er tínt seint á hverju sumri, þegar það er orðið þroskað“.

Heimildir:
-Tíminn, 222. tbl. 30.09.1986, Hugsað til Viðeyjar, Ingólfur Davíðsson, bls. 12.
-Tíminn, 195. og 196. tbl. 27.08.1988, Viðey á dagskrá, Ingólfur Davíðsson, bls. 27.
-Lesbók Morgunblaðsins 28.09.1996, Viðeyjarklaustrið – Siglaugur Brynleifsson, bls. 5.
-Nokkur upplýsingaskilti eru í Viðey umleikis Viðeyjarstofu.

Viðey