Tag Archive for: Reykjavík

Gullbringu- og Kjósarsýsla

Í Wikipedia segir eftirfarandi um P.E. Kristian Kålund, en hann skrifaði m.a. „Bidrag til en historisk-topografisk Beskrivelse af Island – 1877„. Þar fjallar hann um helstu sögustaði Íslands. Einn þeirra er Reykjavík.

Kristian kålund

P.E. Kristian Kålund (1844-1919).

„Kristian Kaalund eða Kristian Kålund, fullu nafni Peter Erasmus Kristian Kaalund (19. ágúst 1844 – 4. júlí 1919) var danskur textafræðingur, lengst af bókavörður við Árnasafn (Den Arnamagnæanske Samling) í Kaupmannahöfn.
Kristian Kaalund fæddist í Søllested á Lálandi. Foreldrar hans voru Caspar Ernst Kaalund (1806–1853), sóknarprestur í Søllested, og kona hans Anna Helene Riedewaldt (1817–1888).
Kaalund var 9 ára þegar hann missti föður sinn. Hann varð stúdent frá Herlúfshólmsskólanum 1863, fór svo í Háskólann í Kaupmannahöfn og tók meistarapróf í norrænni textafræði 1869, með ritgerðinni: „Familielivet paa Island i den første sagaperiode (indtil 1030)“, sem birtist í Árbókum Fornfræðafélagsins 1870. Haustið 1872 fór Kaalund til Íslands og dvaldist þar í tvö ár. Hann ferðaðist um mestan hluta landsins sumrin 1873 og 1874 til þess að kynna sér sögustaði fornritanna.
KaalundÞessar rannsóknir, sem hann jók síðar með viðbótarefni úr prentuðum og óprentuðum ritum, birtust síðar í tveggja binda riti: Bidrag til en historisk-topografisk beskrivelse af Island, 1877–1882. Það er enn talið undirstöðurit um íslenskar fornleifar og ómissandi handbók fyrir þá sem lesa Íslendingasögurnar, vegna ítarlegra upplýsinga, sem hann fékk m.a. hjá staðkunnugu fólki. Ritið kom út í íslenskri þýðingu 1984–1986, undir heitinu Íslenskir sögustaðir 1–4. Kaalund fékk doktorsnafnbót 8. maí 1879 fyrir hluta þessa verks (kaflann um Norðlendingafjórðung).
Eftir að hann kom frá Íslandi, varð hann (1875) kennari við Metropolitanskólann í Kaupmannahöfn (aðjúnkt 1880), en lét af því starfi vorið 1883, þegar hann varð ritari Árnanefndar og bókavörður við Handritasafn Árna Magnússonar. Mikilvægasta verk hans þar, var heildarskrá um handritasafnið, sem kom út í tveimur bindum 1889–1894. Slíka skrá hafði sárlega vantað, og nokkrir gert atlögu að verkinu, m.a. Jón Sigurðsson forseti, en með verki Kaalunds varð safnið loks aðgengilegt fræðimönnum. Árið 1900 gaf hann út sambærilega skrá yfir forn íslensk og norsk handrit í Konungsbókhlöðu í Kaupmannahöfn og Háskólabókasafninu. Þar birti Kaalund ítarlega ritgerð um söfnun og varðveislu handritanna fornu.

Kålund

Kålund á efri árum.

Sem bókavörður við Árnasafn, og ritari í Samfund til udgivelse af gammel nordisk litteratur (frá stofnun þess 1879) og í Fornritanefnd Fornfræðafélagsins (eftir Konráð Gíslason 1891), hafði Kaalund mikil áhrif á útgáfustarfsemi á sviði íslenskra fornrita, og gaf sjálfur út nokkur rit. Mikilvægust er vönduð útgáfa hans á Sturlunga sögu 1906–1911. Útgáfa hans á Palæografisk Atlas, með fjölda sýnishorna af dönskum, norskum og íslenskum handritum, hafði mikla þýðingu fyrir rannsóknir á þróun skriftar á Norðurlöndum á fyrri öldum.
Á síðustu árum sínum fékkst Kaalund einkum við sögu Árnasafns, og gaf út heimildir um líf og starf stofnandans, Árna Magnússonar. Hefur hann eflaust ætlað að setja kórónuna á það verk með ítarlegri ævisögu Árna, en hann dó frá því verki.
Í Íslandsför sinni lærði Kristian Kaalund að tala íslensku, og bar síðan hlýjan hug til þjóðarinnar. Fékk hann brátt áhuga á sögu Íslands á síðari öldum, sem kom honum að gagni þegar hann skrifaði æviágrip fjölda Íslendinga í Dansk biografisk leksikon, 1887–1905, og greinar um Ísland i Nordisk konversations-leksikon, 3. útg.

Kaalund

Rit Kaalunds um Ísland.

Þegar Kristian Kaalund varð sjötugur, 1914, gaf Hið íslenska fræðafélag í Kaupmannahöfn út afmælisrit honum til heiðurs, með æviágripi hans eftir Finn Jónsson og greinum sex íslenskra fræðimanna. Afmælisrit til dr. Phil. Kr. Kålunds, bókavarðar við Safn Árna Magnússonar, 19. ágúst 1914, Kaupmannahöfn.
Kristian Kaalund var ógiftur og barnlaus. Við fráfall hans, 1919, arfleiddi hann Hið íslenska fræðafélag að öllum eigum sínum.
Hann varð félagi í Vísindafélaginu í Kristjaníu 1899, í Vísindafélaginu danska (Videnskabernes Selskab) 1900 og Sænska vísindafélaginu (Kungliga vitterhets-, historie- og antikvitets akademien) 1910. Hann varð riddari af Dannebrog 1907. Hið íslenska bókmenntafélag kaus hann heiðursfélaga 1897.
KaalundKristian Kaalund ferðaðist um allt Ísland til þess að skoða og skrá þekkta sögustaði og sögusvið Íslendingasagna. Í bók sinni, Bidrag til en topografisk-historisk Beskrivelse af Island eða Íslenskir sögustaðir, lýsir Kaalund landslaginu og fornum minjum sem hann taldi að tengdust Íslendingasögum eða vörpuðu ljósi á þær. Einnig skráði hann sagnir og munnmæli sem tengdust rústum og fornum grafhaugum. Hann notaði margskonar heimildir og studdist t.d. við örnefni og staðbundnar hefðir auk eigin athugana á rústum sem hann skoðaði. Hann bar vettvangsathuganir sínar saman við upplýsingar sem hann fann í sóknarlýsingum og gögnum frá Konunglegu fornminjanefndinni í Danmörku auk margvíslegra annarra heimilda. Árið 1882 gaf Kaalund út ritgerðina eða “Icelandic Antiquities”, þar sem að hann skráði niður alla þekkta heiðna grafstaði. Hann efaðist um að það væri mikill fjöldi af heiðnum grafreitum vegna þess að fyrstu landnámsmennirnir komu til landsins á seinni hluta 9. aldar og svo var kristnin tekin upp árið 1000, samkvæmt Íslendingabók og Landnámabók .

Kålund

Bók Kålunds um „Íslenska sögustaði“.

Í leiðangri sínum leitaðist Kaalund við að fara á alla þá staði sem getið er í Íslendingasögunum (nokkur svæði urðu þó útundan), lýsa þeim rústum sem taldar voru tengjast sögunum og átta sig á staðháttum m.a. með tilliti til þess hvort leiðalýsingar sagnanna væru raunhæfar. Hann taldi að með því að skoða staðhættina mætti varpa ljósi á óskýr atriði í sögunum og jafnvel skera úr um hvaða textar væru upprunalegastir þar sem sögurnar voru varðveittar í mismunandi gerðum. En hann hafði líka áhuga á því að varpa almennu ljósi á söguöldina með því að skoða staðhætti og fornleifar og lagði því líka áherslu á að skoða ummerki um stofnanir þjóðveldisins, hof og þing. Hann athugaði marga slíka staði þó þeirra væri ekki endlilega getið í sögunum og lagði víða grunninn að frekari rannsóknum. Hann skráði t.d. um 60 staði þar sem hann taldi að hof hefðu verið í heiðni, m.a. á Hofstöðum í Mývatnssveit þar sem Daniel Bruun átti seinna eftir að gera mkikinn uppgröft og þar sem mikla rannsóknir fóru aftur fram 1991-2002.

Íslandskort

Íslandskort.

Kaalund kom einnig á marga af þeim stöðum sem taldir eru hafa verið þingstaðir á þjóðveldisöld og tókst á við þann vanda að reyna að skilgreina slíka staði útfrá minjum sem sáust á yfirborði. Á mörgum slíkum stöðum fann hann þyrpingar af ferhyrndum rústum, sem hann taldi vera búðir, og svo annaðhvort ferhyrndar eða hringlaga rústir sem hann taldi vera dómhringa. Á sumum þingstaðanna taldi hann einnig hafa verið þingbrekku. Mjög oft voru það örnefni eins og „þing“ eða „búð“ sem komu honum á sporið þar sem hann leitaði þingstaða.
Kaalund beitti hvergi uppgrefti við rannsóknir sínar en lýsingar hans og skilgreiningar á minjastöðum lögðu grundvöllinn að frekari rannsóknum á næstu áratugum. Hið Íslenzka fornleifafélag var stofnað 1879 og áttu rannsóknarmenn þess, Sigurður Vigfússon og Brynjúlfur Jónsson frá Minna Núpi, eftir að heimsækja flesta þá staði sem Kaalund skráði, enduskoða sumar af túlkunum hans en þó oftar að bæta við ítarlegri lýsingum. Stórt hlutfall friðlýstra minjastaða í dag var fyrst lýst af Kristian Kaalund.“

Í ritinu um Íslenska Sögustaði (Bidrag til en historisk-topografisk Beskrivelse af Island – 1877), skrifar P.E. Kristian Kålund m.a. um Sunnlendingafjórðung. Þar getur hann um „sögustaðinn“ Reykjavík, sem fyrr segir:

Gullbringusýsla – Reykjavík

Reykjavík

Reykjavík 1935.

Þetta landsvæði er mestur hluti þess flæmis, er Ingólfur nam, fyrsti og frægasti landnámsmaðurinn. Settist hann að í Reykjavík, en næsta umhverfi bæjar varð búland hans. Land það er Ingólfur á eftir að lokum, er eigi mjög stórt miðað við hið mikla flæmi er hann nam í upphafi, þ.e. milli Hraunsholtslækjar og Úlfarsár. Hraunsholtslækur rennur úr Vífilsstaðavatni í Arnarnesvog. Úlfarsá kemur úr Hafravatni, rennur til vesturs sunnan við Úlfarsfell, beygir síðan til vesturs vestan við Lambhaga og fellur í litla vík sem nefnist Blikastaðakró. Úlfarsá breytir síðan um nafn, nefnist Korpustaðaá eða Korpa, fyrst sennilega aðeins neðri hlutinn í grennd við Korpúlfsstaði. Í þessu landi Ingólfs eru þó Vífilsstaðir, land það er hann gaf Vífli leysingja sínum.

Reykjavík 1874

Reykjavík 1874.

Reykjavík hét áður Reykjarvík, í Íslendingabók Raikjarvic. Vík nefnist staðurinn í Kjalnesinga sögu, sem er skáldsaga. Hér er einn merkasti staður landsins, það er óhætt að segja en þó einn af þeim sem sjaldnast er nefndur í fornum sögum.
Sennilega hefur ætt Ingólfs átt Reykjavík alllengi. Þorsteinn sonur Ingólfs var stofnandi Kjalarnesþings. Hans sonur var Þorkell máni, en Harðar saga Grímkelssonar segir að hann hafi búið þar. Hann lifði samkvæmt vitnisburði sgana svo hreinlega sem kristnir menn, er best eru siðaðir, og virðist helst hafa haft hugboð um kristnina. Síðan þegja allar heimildir um Reykjavík langan tíma. Árið 1616 fær Kristján IV jörðina ásamt kirkju í skiptum fyrir nokkrar aðrar jarðir. Var Reykjavík á allvænleg jörð. Magnús Ketilsson segir í Forordinger II, 265, að nokkurn hluta jarðarinnar virðist krúnan þó hafa átt síðan 1590 (sjá Finnur Jónsson Hist. eccl. III. 35), það ár flæmdi sem sé konunglegur befalingsmaður, Laurids Kruse, Orm Narfason frá nokkrum hluta jarðarinnar, Reykjavík, en við móður hans og þrjá bræður voru makaskiptin gerð árið 1616.

Ingólfsnaust

Ingólfsnaust.

Árið 1786 fékk Reykjavík kaupstaðaréttindi ásamt nokkrum öðrum verslunarstöðum, þegar verslun var gefin frjáls öllum dönskum þegnum.
Reistir höfðu verið veglegir bústaðir á landareignum umhverfis Reykjavík handa ýmsum hinna æðri embættismanna, en nú fluttust þeir smám saman til bæjarins, stiftamtmaðurinn þegar 1816, eftir að fangahúsinu hafði verið breytt í þeim tilgangi og samtímis fjölgaði íbúum bæjarins mjög hratt, miðað við aðstæður. Um aldmót voru íbúar Reykjavíkur 300, 1840 var íbúatalan um 900, 1870 var hún komin upp í 2000 og þessi aukning virðist ætla að halda áfram.

Reykjavík

Reykjavík 1876.

Nú er Reykjavík ekki svo lítilfjörlegur bær að sjá, húsin eru dreifð yfir tiltölulega stórt landsvæði, því þau eru ekki sambyggð, heldur standa stök og umhverfis þau er afgirtur blettur eða lítill garður; utan við bæinn sjálfan standa svo að segja á allar hliðar hópar af torfhúsum, svokallaðir bæir, en þetta eru bústaðir hinna mörgu fiskimanna. Húsin í bænum eru eru nær öll hin svokölluðu timburhús, þ.e. grindamúr og timburklædda að utan, en loft og skilrúm hið innra eru einnig úr tré. Þessi hús eru smekklega máluð og vel við haldið, geta þau verið snotur að sjá, þegar men hafa vanist timburklæðningunni.

Kaalund

Sturlungasaga – eitt handritanna sem Kaalund vann mikið með.

Samhliða stækkun bæjarins hefur fækkað arfsögnum um fornminjar. Í bréfi til Finns Magnússonar þegar 1821 kvartar presturinn t.d., sem þá var yfir því, að þar í sókn séu alls engar sögulegar minjar. E.Ó. (1041, bls.) skýrir frá, að enn megi sjá í Reykjavík tóftina (í sambandi við notkun orðsins „tóft“ er ef til vill ekki ónauðsynlegt að taka fram, að í þessu riti er það notað í íslenskri sérmerkingu; þýðir það sem sé veggur þaklaustar byggingar ásamt rýmingu innan þeirra, eða leifar húss, þar sem þakið er horfið) af skipsnausti Ingólfs, sem nefndist Ingólfsnaust, en um það veit nú enginn, ekki þekkist heldur nafnið Ingólfsbrunnur um vatnsbólið góða í Reykjavík, sem Skúli Magnússon minnist á í lýsingu sinni á Gullbringu- og Kjósarsýslu; miðað við legu legu hans og gæði vatnsins mætti ætla, að hann væri hinn sami og helsti brunnur bæjarins nú í hinni gömlu aðalgötu (Aðalstræti).“

Vatnspóstur

Vatnsberar í Reykjavík um aldamótin 1900.

  • -(Innskot; saga Reykjavíkur er ekki bara saga landnámsmanns, höfðingja og annarra stórbusa. Hún er ekki síður saga almúgans. Meðal þeirra var Sæfinnur Hannesson); Ingólfsbrunnur, milli húsanna Aðalstrætis 7 og 9, var eitt aðalvatnsból Reykjavíkur um langt skeið en þangað sóttu Víkurbæirnir og aðrir nálægir bæir vatn sitt. Brunnurinn hefur gengið undir ýmsum nöfnum eins og víkurpóstur, vatnspóstur og prentsmiðjupóstur. Heitið vatnspóstur kom til eftir að í hann var sett dæla og menn töluðu um að „pósta“ upp vatninu en nafnið prentsmiðjupóstur kom til eftir að Landsprentsmiðjan var flutt úr Viðey í næsta hús við brunninn. Notkun brunnsins lagðist af með lagningu vatnsveitunnar árið 1909. Talið er að um aldamótin 1900 hafi 34 brunnar verið í Reykjavík.
Sæfinnur

Sæfinnur Hannesson.

Með vaxandi þéttbýlismyndun varð til sérstök stétt fólks sem sá um að bera vatn í hús heldra fólks, svonefndir vatnsberar. Einn þessara vatnsbera var Sæfinnur Hannesson, betur þekkur sem Sæfinnur með sextán skó. Kemur nafngiftin til af því að það var siður Sæfinns að klæða sig í mörg lög af fötum og jafnvel mörg pör af skóm, sumir segja allt að átta pör! Eins og með aðra vatnsbera þá var litið niður á Sæfinn og sagt var að hópur krakka hafi gert sér það að leik að elta hann um bæinn og syngja þessa vísu:

Sæfinnur með sextán skó,
sækir vatn og ber heim mó.
Á ‘ann festir aldrei ló,
af því hann er gamalt hró.

Saga Sæfinns Hannessonar lýsir vel mannlegum harmleik og hversu stutt er á milli samfélagslegar viðurkenningar og útskúfunar. Sæfinnur var sagður hafa verið ósköp venjulegur unglingur, vel gefinn og myndarlegur. Hvað svo gerðist veit kannski enginn en sagan segir að stóra ástin í lífi hans hafi svikið hann í tryggðum með þeim afleiðingum að Sæfinnur beið hennar allt sitt líf og safnaði peningum til að undirbúa afturkomu hennar. Sæfinnur brotnaði endanlega þegar fleti hans og eigum var hent úr útihúsi við Glasgow-verslunina í nærliggjandi fjöru. Þetta gerðist 10. júlí 1890 en Sæfinnur lést árið 1896.

Ingólfsbrunnur

Ingólfsbrunnur.

„Reykjavík er, og ekki síst á Íslandi sjálfu, onlbogabarn náttúrunnar. Í nágrenni bæjarins er lítið um grösugt jafnlendi, sem er ímynd frjósemi og blómlegs landbúnaðar og íbúarnir telja fremsta skilyrðu fagurs landslags. Fyrir handan (þ.e. fyrir sunnan) tjörnina liggur mýrardrag þvert yfir nesið, en annars ber fyrir augu aðeins gróðurlausar hæðir þaktar stórgrýti og hnullungum, smáum og stórum, hin svonefndu „holt“ eða flöt malarflæði, sem nefnast „melar“, allt með moldarlit og ömurlegt útlits.
Til uppbótar fyrir óskemmtilegt útlit hið næsta, getur fjærsýnið aftur á móti verið miklu fallegra. Handan Kollafjarðar, innsta hluta Faxaflóa, sem er nokkurra mílna breiður, svífa sjónir til að festast þeim mun lengur við hinn hrífandi bogadregna fjallbálk, sem afmarkar útsýni til norðurs. Þar liggja eins og í boga þrjú fjöll, Esja, Skarðsheiði og Akrafjall og virðast mynda samfellda röð, enda þótt hin síðarnefndu séu aðskilin frá Esju með löngum og mjóum firði, Hvalfirði.

Heimildir:
-https://is.wikipedia.org/wiki/Kristian_Kaalund
-Íslenskir Sögustaðir Bidrag til en historisk-topografisk Beskrivelse af Island – 1877), P.E. Kristian Kålund, Sunnlendingafjórðungur I, Bókaútgáfan Örn og Örlygur Hf, 1984, bls. 1-15.
-https://afangar.com/atvinnusaga/ingolfsbrunnur/

Esja

Esja – örnefni: „Ein af fáum dásemdum Reykjavíkur“.

Gamli Þingvallavegur

Var fyrir stundu að grúska í hinum fjölmörgu gömlu uppdráttum mínum, sem ég hef aflað, ásamt félögum mínum,  á vettvangi í gegnum tíðina, með skýrskotun til gamalla skriflegra heimilda um fornar leiðir til og frá Reykjavík fyrrum. Skriflegar heimildir eru eitt; áþreifanlegar og sýnilegar minjar á vettvangi eru annað. Þess vegna fara „heimildirnar“ ekki alltaf saman við vettvangsstaðreyndirnar. Opinberar skráningar fornminja hafa hingað til alls ekki verið sérstaklega nákvæmar. Að ekki sé talað um fornar leiðir; þær hafa sjaldnast verið rétt skráðar af neinu viti í opinberum fornleifaskráningum.

Þingvallaleiðir

Þingvallaleiðirnar fyrrum og nálægar leiðir út frá Reykjavík til austurs…

Hafði gengið allar leiðirnar margsinnis, rissað upp jafnhraðan og sett jafnóðum í sérstakan rissbunka – til geymslu.
Niðurstaðan varð meðfylgjandi loftmynd af leiðunum (áður en ég þurfti að henda þeim í ruslið til að skapa rými fyrir nýrri áhugaverðari athuganir)… – ÓSÁ.

Gamli Þingvallavegur

Ræsi á Gamla Þingvallaveginum.

Elliðakot

Í Alþýðublaðinu 1. nóv. 1963 fjallar Hannes á horninu m.a. um „Elliðakot„.

Elliðakot

Elliðakot.

„Um daginn vakti ég máls á því, að nýju elliheimili yrði valinn staður við Rauðavatn, og ræddi ég um þetta af tilefni þeirrar hugmyndar Gísla Sigurbjörnssonar að reisa smáhýsi við stærri elliheimili, sem aldrað fólk gæti fengið leigt eða að einhverju leyti til eignar en notið aðstoðar og fyrirgreiðslu starfseminnar í aðalbyggingunni.

Rauðavatn

Rauðavatn.

Hugmynd Gísla hefur nokkrum sinnum verið rædd opinberlega og ég minnist þess, að fyrir um tveimur áratugum minntist ég á svipað og þetta eftir að hafa kynnzt starfsemi fyrir aldrað fólk erlendis. Nú hefur mér verið bent á annan stað, sem gæti reynzt alveg eins heppilegur og við Rauðavatn, en það er jörðin Elliðakot, sem nú hefur verið í eyði í nokkur ár. Það var ræktað land og þar er fallegt vatn, skjólsamt og mátulega langt frá Reykjavík. Gott væri ef ráðamenn vildu athuga þessi mál. Elliheimili eiga ekki að vera inni í miðbiki borga. Þau mega heldur ekki vera langt í burtu. Rauðavatn og Elliðakot, virðast uppfylla flest skilyrði.“

Elliðakot

Elliðakot.

Í Árbók Hins íslenska fornleifafélags árið 1914 fjallar Björn Bjarnason um örnefnin ofan Grafar, einkum þó hinar fornu þjóðleiðir.

Björn Bjarnason

Björn Bjarnason.

„Eg hefi gert skrá yfir örnefni sem nú eru kunn á jörð þeirri, er eg hefi búið á nú síðastliðin 16 ár. Hún er sýnishorn af örnefnafjölda á einni jörð. Alt landið er nöfnum stráð. Verða mætti þetta öðrum til hvatningar er rita vildu slíka skrá fyrir jörð sína og þannig geyma örnefni hennar frá röskun og ef til vill glötun. Um notkun fornveganna má fræðast af rúnum þeim, sem hestafæturnir hafa rist á jörðina, þar sem tönn tímans eigi hefir til fulls afmáð þær eða útskafið, og sumstaðar hjálpa örnefnin til að skilja. Greinilegastar eru rúnir þessar sem spor í klappir, gatnafjöldi í grónu valllendi, sem ekki hefir legið undir árensli, og troðningar í móum. Þó þeir sé grónir aftur sjást göturnar af því, að þar eru geilarnar dýpri og beinni í sömu stefnu, en annarsstaðar. Í melum og lausagrjótsholtum má einnig finna fornvegina, stundum sem laut eða skoru, en þó einkum með því að athuga grjótið. Í götunni er það troðið, máðar af því nybbur líkt og brimsorfnu grjóti. Af því stafa litaskifti, sem sjást á því, þar sem umferð hefir verið, þó hún sé hætt fyrir löngu.

Austurleið

Austurleið.

Alla tíð síðan landið var bygt hlýtur umferð að hafa verið mikil milli austurhéraðanna annars vegar og sveita og hafna við sunnanverðan Faxaflóa hins vegar. Uppsigling kaupmanna hefir verið þar tíðari og sjávarafli vissari en á brimströndunum ofanfjalls, en aftur á móti betri landbúnaður eystra, og vöruskifti þvi mikil milli þessara staða. Hestar voru einu flutningatækin.

Ferja

Ferja á Þjórsá um 1900.

Þó ferjur væru við stórárnar hafa menn heldur kosið að fara þær á vöðum, er þess var kostur. Flóann hafa menn forðast vegna foræðanna og hraunin vegna ógreiðfærni og járnafrekju. Aðalvegurinn austan að, úr Rangárvallasýslu, hefir verið fyrir ofan Flóann, Þjórsá farin á Nautavaði eða Kallaðarholtsferju. (Sá bær er nú nefndur Kaldárholt, sbr. Árbók Fornl.fl. 1907, bls. 36. Norðan við túnið þar er Naustanes og Skipaklettur við Þjórsá og bærinn er í stefnu við veginn norðan Flóans. Engin Kaldá er þar til, en hverir í Þjórsá við túnið). Síðan hefir vegurinn legið yfir Skeið, sunnan undir Vörðufelli, og þá ofan með Hvítá. Vegarskoran í Árhrauni og gatnafjöldinn á Brúnastaðaflötum ber vott um, að sá vegur hefir verið fjölfarinn, en nú er þar að eins bæjaslangurs-umferð. Hvítá hefur verið farin á ferjum eða vaðinu, sem Vaðnes dregur nafn af. En á Soginu var almenningsvað, oftast fært, yfir Álftavatn, fram um miðja næstliðna öld. Þaðan lá leiðin upp Grafning, Dyraveg og Mosfellsheiði til Almannadals. Þessi leið var einnig beinust fyrir þá, sem fóru Hvítá á Tunguvaði og út Tungur, eða á ferjum þar fyrir neðan alt að Laugardælum. Á allri þessari leið er aðeins ein brekka, svo teljandi sé, og hún ekki há, upp á Dyrafjöllin að austan hjá Nesjavöllum, lítið um votlendi og engin hraun nema stuttan spöl á tveim til þrem stöðum.

Sporið

Sporhellan ofan Dyradals.

Þenna veg hafa t. d. Skálholtslestirnar farið til Suðurnesja öldum saman, og hefir munað um sporin þeirra. Allstaðar er graslendi og hagar góðir með þessum vegi. Þar sem vegurinn liggur yfir Dyrafjöllin eru þau aðeins lítill háls með ásum og vellisdölum.

Sporhella

Sporhellan.

Á einum ásnum verður að fara yfir hallandi klöpp, sem nefnd er Sporhella. Hefir myndast sporaslóð i bergið, efst fyrst, en sporin síðan stigist niður eftir klöppinni. Eru nú sporarákarnar með bálkum á milli orðnar um 2 fðm. að lengd (líkist tönnum í greiðu). Vegur þessi hefir nú lengi verið sjaldfarinn. Dyrnar, sem nafnið er dregið af, eru á veginum milli Dyradals og Skeggjadals; er rétt klyfjagengt milli standklettanna. Af vestasta ásnum blasir við útsýn yflr Faxaflóa og Nesin. Vestur eftir Mosfellsheiði sést enn dökk, breið rák eftir umferðina. Þar eru víðir mosamóar, sem margar götur hafa myndast í, og eru enn ekki að fullu grónar. Og þessi vegur hefir á fyrri öldum legið um Hofmannaflöt til Almannadals.
Önnur aðalleiðin austanað hefur verið út með sjó, sunnan Flóa, um Sandhólaferju og Óseyrarferju, og þeir, sem áttu leið vesturyfir heiði, hafa einkum farið Ólafsskarðsveg. Hann er því nær brekkulaus og hrauna. Hellisheiði og Lágaskarð hafa verið sjaldfarnari. Þeir vegir koma saman á Bolavöllum, »Völlum hinum efri« liggja norðan Svínahrauns, um »Völlu hina neðri«, og saman við Dyraveg hjá Lykla (Litla-?) -felli, og þar litlu neðar hefir Ólafsskarðsvegur einnig komið saman við þá.

Viðeyjarsel

Viðeyjarsel.

Nú veit enginn hvar Viðeyjarsel hefir verið, þar sem þeir, er sendir voru úr Hafnarfirði eftir Ögmundi biskupi að Hjalla, áðu áður en þeir lögðu á Ólafsskarð. En mér þykir líklegt að það hafi verið við Selvatn, rétt hjá þessum vegi, sem þar er sameiginlegur fyrir allar áðurnefndar leiðir, og að Elliðárkot (sögn er sú, að Gizur biskup hafi átt samleið með þeim „upp undir Hellisheiði“ hendir til, að þangað hafi Dyra- og Ólafsskarðsvegir legið saman, eins og hefi hér bent á. Vegaskiftin eru vestast á heiðinni niður frá Lyklafelli; Viðeyjarsel hefir líklega verið litlu neðar, og þar gátu þeir hafa skilið) (Helliskot=Elliðakot), hafi þá verið lítt bygt eða í eyði, og hið góða og mikla sumarbeitarland þess notað til beitar fyrir selfénað klaustursins.

Austurleið

Austurleið.

Úr Almannadal hefir legið:
1) vegur til norðurs hjá Reynisvatni niður til veiðistöðvanna við sunnanverðan Kollafjörð, í Blikastaðagerði (þar sjást enn fiskbyrgin), Geldinganesi(?) og Gufunesi, og til verzlunar við kaupmenn, sem þar hafa legið á hinum góðu höfnum (t. d. Hallfreð vandræðaskáld á Leiruvogi), og til Viðeyjar;
2) vegur til vesturs um Árbæ til Seltjarnarness;
3) vegur til útsuðurs yfir Elliðaár á (Vatnsenda-) Skygnisvaði um Vatnsenda, Vífilsstaði til Hafnarfjarðar, Álftaness og suður með sjó;
4) vegur fyrir ofan Rauðhóla og sunnan Elliðavatn, er farinn hefir verið þá er Elliðaár þóttu torfærar á vöðunum fyrir neðan Vatn.

Hellisheiðarvegur

Hellisheiðarvegur – Lyklafell.

5) vegurinn austur frá öllum fyrrnefndum stöðum, sameiginlegur upp undir Lyklafell, hverja leið er svo skyldi fara austur yfir hálendið (= fjallið), eins og fyr segir. Einnig til selfara upp í heiðina; Nessel, frá Nesi við Seltjörn, var t. d. í Seljadal í Þormóðsdalslandi, Viðeyjarsel við Selvatn? o. s. frv. Þá hefir Almannadalur borið nafnið með réttu.

Seljadalur

Vegur um Seljadal.

En hvenær vegarstefnurnar hafa breyzt má sjálfsagt finna með sögurannsókn, sem eg hefi eigi hentugleika til. Það hefir líklega orðið um sama leyti sem stefnu Mosfellsheiðarvegarins var breytt og hann lagður um Seljadal. Þá hefir Dyravegur hallast norður saman við hann hjá Miðdal (Mýrdal?). Mosfellsheiðarvegur lá áður um Illaklyf sunnan við Leirvogsvatn og ofan Mosfellsdal. Í Illaklyfi eru djúp spor í klappirnar og vegurinn auðrakinn alla leið, þó sjaldan hafi farinn verið á síðari öldum. Á þeirri leið er Tjaldanes, þar sem Egill fyrst var heygður, (nú nefnt Víðiroddi).
Grafirnar, sem margt af bæjum á landi hér dregur nafn af, eru oft grónar, djúpar geilar eftir læki; svo er hér.

Bullaugu

Uppdráttur (hluti) af nágrenni Grafarholts
Uppdráttur frá 1963 sem sýnir örnefni á Grafarholtslandinu og nágrenni þess.

Það er allvítt svæði sem hér er kent við Hádegi, enda voru 4—5 bæir i »Grafarhverfinu« og hafa allir haldið hádegi þar, en lítið eitt mismunandi, sumir á hæðinni, aðrir á vörðunni, o. s. frv. Hér var bygt ból snemma á næstl, öld, og síðar fjárhús frá Gröf. Nú er þar greiðasöluhúsið »Baldurshagi«, er dálítill landblettur fylgir.
Hefir á síðari tímum verið nefnd Margróf (latmæli) og var ágreiningur um merki milli Grafar og Árbæjar. Nú er þetta lagfært og merkin ákveðin.
Norðlingaholt. Um uppruna þessa órnefnis er ókunnugt,  en mér þykir líklegt að það stafi af umferð Norðlinga þar. Þegar þeir fóru til Suðurnesja, lá leið þeirra um Mosfellsheiði og yfir Mosfellssveit. Á fyrri öldum var lítið að erinda til Reykjavíkur, sem þá var að eins eitt býli. Lá þá beinast við að slá sér á austanveginn hjá Rauðavatni; er örstutt úr Grafarvogi suður á hann, enda er enn sýnileg skýr fornvegarskora yfir Hádegismóa hjá Hádegisvörðu í þá stefnu, ótrúlega djúp til að geta verið heimilisgata frá Gröf, og að öllu leyti lítil ástæða til slíkrar umferðar þar þaðan.

Austurleið

Varða við Austurleið.

En hafi Norðlingar farið þá leið, lá vegur þeirra meðfram Norðlingaholti að austan og sunnan. Á suðurleið sást þar fyrst til ferða þeirra frá næstu bæjunum þar, Elliðavatni og Vatnsenda, Oddagerði (Oddgeirsnes ?) o. s. frv. Hér virðist reik og ruglingur kominn á örnefni. Oftast nefnt »suður í nesi« eða Odda. Í afskrift sem eg hefi af jb. Á. M. frá 1704 stendur: Oddageirsnes, forn eydi jörd, og hefur í auðn verið fyrir allra manna minni sem nú eru á life … . Meina menn ómögulegt aftur að byggja fyrer því að tún öll sem að fornu hafa verið eru upp blásin og komin í mosa«.

Oddagerðisnes

Oddagerðisnes – loftmynd.

Frá Klapparholtsmóum gengur þarna mishæðóttur lyngmóahryggur suður í flatlendið, sem Elliðavatnsengjar eru á, og beygist Bugða fyrir hann, rennur fram með honum, og myndar þannig langt og eigi breytt nes eða odda. Syðst á oddanum er stór hóll eða holt, en í lægð norðan við hann hefir bær verið og fleiri byggingar. Eru þær rústir mjög fornlegar. Vestur frá þessu aðalnesi gengur lítið nes, slægnablettur, sem enn er nefnt Oddagerðisnes.
Þvert yfir nesið er afarforn girðing, frá Bugðu austan við Skygnirinn, vestur yfir norðanvert við hann, lítið eitt á ská til norðurs og vestur í ána aftur fyrir norðan Oddagerðisnes. Bæjarrústirnar standa suð-vestan undir Skygninum upp frá Oddagerðisnesi. Er líklegt að býlið hafi heitið Oddagerði (af garðinum yfir Oddann?), og hefi eg hér ritað örnefnin að nokkru leyti samkvæmt því. Mannvirkin þarna eru jafn-fornleg eins og á þingstaðnum við Elliðavatn.

Keldur

Keldur og Grafarholt – loftmynd.

Um Grafarkot segir í A. M.: »bygð upp að nýju fyrir 50 árum, þar menn meina að forn eyðijörd verið hafi, og hún fyrir svo löngum tíma í audn komin að fæstir vita hvað hún hafi til forna kölluð verið; eftir sögn eins gamals manns þykjast nokkrir heyrt hafa að þessi jörd hafl heitið Holtastadir«. Forn-rústirnar eru miklar um sig. Túnið hefir verið mikið stærra fyrrum og girt. Eru utan (á því „byggði Bened. heit. Sveinsson í fyrstu flóðstíflu sína til að veita á Elliðavatnsengjarnar, en hún sprakk, og hraut um leið af nesinu) við það afar-fornir (alsokknir) garðar og fjárbyrgi. Borgir og byrgi hafa víða verið hér, enda ætíð fremur á beit en gjöf að byggja fyrir sauðfé.
Sel hefir verið suð-vestan undir ásnum. Það er í Árbæjarlandi. _ ;.  Garður mikill hefir verið bygður út í Grafarvog frá báðum löndum, en líklega hafðir kláfar í miðju; þar er grjótið í  hrúgum, með skörðum í milli. Nú hefir safnast eyri að syðri garðinum svo að þar er nú sandtangi, en garðurinn sokkinn. Brekkan er upp frá honum. Í stórstraum fjarar út fyrir hann.
Eins og venjulegt er um fjölda örnefna, eru þau flest hér leidd af staðháttum og auðskilin. En þau, sem kend eru við menn (mannanöfn), veit nú enginn hvernig til eru komin, nema fáein er nýlega hafa myndast. – Grafarholti, 9. des. 1914.“

Í Tímanum í maí 1948 segir um Elliðakot:

Elliðakot

Elliðakot.

„Bær brennur Á föstudagskvöldið brann bærinn Elliðakot í Mosfellssveit til kaldra kola. Nær því engu af húsmunum og fatnaði var bjargað úr eldinum. Útihúsin tókst að verja vegna fádæma snarræðis með því að bera á þau vatn, sem sótt var úr mýri, þaðan skammt frá.“

Heimildir:
-Árbók Hins íslenska fornleifafélags, 1914, Um örnefni eftir Björn Bjarnarson, bls. 9-16.
-Alþýðublaðið, 1. nóv. 1963, Hannes á horninu, bls. 2
-Tíminn, 103. tbl. 11.05.1948, bls. 8.

Elliðakot

Elliðakot.

Nátthagavatn

Í Skátablaðiðinu í febrúar 1939 er fjallað um húsbyggingarmál skáta, m.a. „Byggingu skátaskála við Nátthagavatn ofan Reykjavíkur„.

Arnarból

Arnarból – loftmynd 1954.

„Flest skátafélög á landinu, sem nokkrum aldri og þroska hafa náð, hafa ráðist í húsbyggingar af einhverri gerð.
Sum hafa byggt sumarskála, önnur funda og samkomuhús o. s. frv. Öllum hefir verið það ljóst, að með einhverjum samastað, hefir skapast festa í félögunum, og framtak og starfsþrek einstaklinga þeirra notið sín við byggingarnar, og fjáröflun til þeirra. Nægir að geta um í þessu sambandi byggingar skátafél. Væringja og Arna við Lækjarbotna og Elliðakot, skátafél Einherja á Ísafirði, skátafél. Fálkar á Akureyri og samskonarfundarhús skátafél. Væringjar á Akranesi, sem að mínum dómi hefir bezt náð tilgangi sínum, enda þótt jeg viðurkenni fyllilega þörf sumar- og skíðaskála.

Arnarból

Arnarból.

Hér í Reykjavík er nú vaknaður meðal skáta mikill áhugi fyrir húsbyggingu til afnota fyrir skátafélögin, enda mjög mikilsvert fyrir allan félagsskap skáta að ráða yfir heppilegu húsnæði til æfinga og fundarhalda.

Arnarból

Arnarból – loftmynd 2004.

Allir eldri skátar finna mjög til þess, hve ábótavant er í þessum efnum hér í bænum, og munu nú einhuga um að hrinda í framkvæmd hið allra fyrsta húsbyggingu, er orðið getur samastaður skáta og félagsskapar þeirra, auk þess ættu félagar utan af landi að geta átt þar örugt athvarf er þeir koma til Reykjavíkur.
Þegar velja á stað undir slíka hyggingu verður að taka tillit til tvenns, að staðurinn sé sem næst því í miðbænum, vegna fundarsókna og æfinga, og liggi vel við umferð, t.d. vegna verzlunar. Verði þessa gætt við ákvörðun staðar undir væntanlega húsbyggingu, er vel fyrir öllu séð, því ýmsar ráðagerðir eru uppi í sambandi við bygginguna og ákornast þá mjög sennilega í framkvæmd skátahreyfingunni til eflingar og þroska.

Arnarból

Arnarból.

Þann 10. nóv. síðastl. samþykkti stjórn B. í. S. að skipa bygginganefnd í samráði við skátafélögin í Reykjavík. Tók nefndin strax til starfa, við undirbúning fjáröflunar til lóðarkaupa, sem hraða ber, vegna þess að lóðunum fækkar óðum, sem nothæfar eru.

Arnarból

Arnarból – loftmynd 2019.

Byggingarnefndin hefir nú fengið leyfi dómsmálaráðuneytisins til þess að hafa happdrætti um sumarbústað „Arna“ við Nátthagavatn, sem að fasteignamati er, með stórri eignarlóð, metin á kr. 9500.00.

Arnarból

Arnarból, loftmynd 2022.

Er sumarbústaðurinn byggður á svo skemmtilegum stað og sjálfur svo eigulegur, að nefndin vonar að auðvelt verði að selja happdrættismiðana, þegar um svo stóran og glæsilegan vinning er að ræða og í annan stað stuðningur við félagsskap skáta, sem á almennum vinsældum að fagna.
Í Reykjavík eru nú starfandi um 8—900 skátar, að kvenskátunum meðtöldum. Ef allur sá hópur sameinar sig um, að koma sem fyrst upp veglegri húsbyggingu hér í bænuin, er vissa fengin um góðan árangur. Skátar, piltar og slúlkur, hugleiðið það, að væntanleg skátabygging á að vera ykkar annað heimkynni, æfingar og samkomustaður,  kynningastaður við skáta utan af landi, sem og aðsetur stjórnar skátamálanna og félaganna í bænum. Um þetta mál mætti margt segja fleira, en svo treysti ég á dómgreind og framtakssemi allra skáta, og er þess fullviss, að byggingarnefndin á í hverjum einstakling vissan stuðningsmann, enda er þá helzt von um fljótan og góðan árangur.
Byggingarnefndarmaður.“

Í dag má skálinn sá muna fífil sinn fegurri. Og svo virðist sem eignarlóðin verðmæta á svo frábærum stað ofan Nátthagavatns nýtist í dag skátastarfi reykvískra skáta í engu.

Heimild:
-Skátablaðið V. árgangur 1. tölublað febrúar 1939, – Húsbyggingarmál skáta, bls. 1.

Skátablaðið

Skátablaðið.

Rauðhólar

Rauðhólar eru þyrping gervigíga við Elliðavatn í útjaðri Reykjavíkur og tilheyra Heiðmerkursvæðinu. Upphaflega voru gígarnir um 80 talsins en hefur fækkað síðustu áratugi sökum efnistöku. Mestur hluti efnisins var nýttur í Reykjavíkurflugvöll á tímum heimstyrjaldarinnar síðari.

RauðhólarFyrir um 5200 árum varð eldgos í austanverðu Brennisteinsfjallakerfinu en þá rann mikið hraun frá gígnum Leitum austan undir Bláfjöllum (nefnt Leitahraun). Meginhraunstraumurinn fór til suðurs á milli Bláfjalla og Lambafells og niður á láglendið, allt til sjávar (þar sem nú er Stokkseyri). Önnur hraunkvísl rann til norðurs að Húsmúla og síðan til vesturs um Sandskeið, Lækjarbotna, Elliðavatnslægðina og síðan um farveg Elliðaár til sjávar. Á leið sinni fór hraunið um allvíðlent votlendi og grunnt stöðuvatn, forvera Elliðavatns. Gufusprengingar urðu í hrauninu þegar það rann yfir vatnssósa setlög og upp hlóðst þyrping gjall- og klepragíga. Hólarnir ná yfir um 1,2 ferkílómetra svæði. Annað minna gervigígasvæði er um 5 km austan Rauðhóla, svonefnd Tröllabörn.

Rauðhólar

Í Rauðhólum.

Rauðamalarnám var stundað af kappi úr Rauðhólum um miðja síðustu öld og var þá um þriðjungi hólanna spillt. Talið er að gíghólarnir hafi í upphafi verið um 150 talsins. Í sundurgröfnum gígunum gefst gott tækifæri til að skoða innri gerð gervigíga og sjá hvernig þeir hafa hlaðist upp

Gervigígar eru fyrirbæri sem sagt er að ekki hafi fundist annars staðar en á Íslandi og reikistjörnunni Mars. Önnur dæmi hér á landi eru Álftavershólar og Landbrotshólar í Skaftafellssýslu (hvoru tveggja taldir vera í Eldgjárhrauni frá 934) og gígarnir við Mývatn, til dæmis Skútustaðagígar.

Rauðhólar

Gervigígar myndast þegar hraun rennur út í grunnt vatn eða yfir votlendi. Um gervigíga er hægt að lesa meira í svari Ármanns Höskuldssonar við spurningunni Hvernig myndast gervigígar? Rauði liturinn stafar af örsmáum ögnum af hematíti sem myndaðist í gosinu við oxun járns í bráðinni af völdum gufu.

Gervigígar myndast einnig þegar helluhraun rennur í göngum út í vatn með vatnsósa seti. Kvikutotur þrýstast niður í setið, hvellsuða verður og gjall brýst gegnum þak hraungangsins upp til yfirborðsins. Kvika heldur áfram að streyma að og toturnar seylast æ dýpra niður í setið uns þær ná (í þessu tilviki) niður í jökulbergið undir.

Rauðhólar

Tjaldbúðir Komorowicz í Rauðhólum.

Rauðhólarnir urðu til fyrir 4700 árum þegar Leitahraun (Elliðavogshraun) rann frá gígnum Leiti hjá Bláfjöllum og allt til sjávar í Elliðavogi. Þar sem nú eru Rauðhólar var grunnt stöðuvatn sem hraunið varð að fylla áður en það héldi áfram þeirri ferð. Þýskur jarðfræðingur, Komorowitz, lýsti Rauðhólum árið 1912 og birti af þeim kort, hið eina sem til er af þeim óspilltum. Stærstu hólarnir voru 212 m að grunnþvermáli og risu 22 m yfir hraunið undir. Frá um 1940 og fram til 1960 voru þeir notaðir sem gjallnáma, einkum til að byggja Reykjavíkurvöll á stríðsárunum, en síðar í húsgrunna og vegi.

Rauðhólar

Sagt er að gervigígar hafi aðeins fundist á Íslandi og á reikistjörnunni Mars.

Sveinn Pálsson, læknir og náttúrufræðingur, áttaði sig fyrstur á því (1793) að gígar af þessu tagi eru myndaðir við gufusprengingar, en almennt var það ekki viðurkennt fyrr en Sigurður Þórarinsson lýsti gervigígunum við Mývatn um 1950. Áður töldu ýmsir þýskir eldfjallafræðingar þá vera sérstaka gerð af eldstöðvum, „svæðisgos“ (Aerialeruption), ólíka sprungugosum og gosum frá einstökum gíg.

Rauðhólar

Hús Vorboðans í Rauðhólum.

Á austur hluta hólasvæðisins var stór gígur sem hét Kastali. Vestur af honum var gígur sem nefndist Stóri-Rauðhóll og er hann að mestu leyti horfinn. Þaðan suðaustan af var Miðaftanshóll sem er einnig mikið raskaður.

Innan Rauðhólasvæðisins má í dag finna minjar um húsagrunna frá stríðsárunum. Með auknum athöfnum og ágangi á náttúruna sem fylgdi útþenslu borgarsamfélagsins jókst jafnframt meðvitund manna á því að vernda rétt náttúrunnar. Sumarið 1958 kvað Náttúruverndarnefnd Reykjavíkur upp úrskurð sinn um friðlýsingu á Rauðhólasvæðinu. Sama ár samþykkti bæjarráð bann við því að skertir yrðu fleiri hólar.

Rauðhólar

Herminjar í Rauðhólum.

Árið 1961 var sá hluti sem ekki var stórskemmdur friðlýstur sem náttúruvætti. Á fyrsta náttúruverndarþingi árið 1972 var hvatt til þess að gerð yrði náttúruminjaskrá undir forystu Náttúruverndarráðs og var lagt til að Náttúruverndarráð í samvinnu við Náttúruverndarnefnd og áhugamenn myndi kynna sér þær náttúruminjar sem ástæða þótti til að lýsa sem friðlönd, þjóðgarða eða fólkvanga. Það var svo árið 1973 á fundi Náttúruverndarnefndar sem samþykkt var að óska eftir fólkvangsfriðun Rauðhólasvæðisins. Að tillögu Náttúruvernarráðs og samþykki frá borgarstjórn Reykjavíkur ákvað Umhverfisstofnun að friðlýsa svæðið sem fólkvang skv. 24. gr. laga nr. 47/1972 (Borgarskjalasafn Reykjavíkur). Svæðið var svo friðlýst sem fólkvangur 12. mars árið 1974 með auglýsingu í Stjórnartíðindum B nr. 185/1974, án athugasemda (Umhverfisstofnun, á.á.c). Með friðlýsingu svæðisins sem fólkvangur var það komið í umsjá sveitarfélagsins.

Vorboðinn

Vorboðinn

Vorboðinn – barnaheimili í Rauðhólum.

Í Alþýðublaðinu 1953 fjallar Svava Jónsdóttir um barnaheimilið Vorboðann í Rauðhólum:
„Árið 1933 var Fulltrúaráði verkalýðsfélagannna í Reykjavík leigð spilda á vesturhluta Rauðhólasvæðisins. Á þeirra vegum og vegum Alþýðuflokksins var á sumrin um nokkurra ára skeið haldnar útisamkomur á svæðinu. Síðar afhenti Fulltrúaráð verkalýðsfélaganna, barnaheimilinu Vorboðanum leigulandið ásamt skála og var þar rekið um tíma sumardvalarheimili fyrir börn.

Rauðhólar

Rauðhólar – grunnur Vorboðans.

Árið 1986 var á svæðinu starfrækt útileikhús þar sem sett var á svið brot úr Njálssögu (Páll Líndal, 1985).
Hér langar mig til að segja frá merkri starfsemi, sem fram fer í bókstaflegum skilningi við bæjardyr okkar Reykvíkinga, en fjöldinn hefur litla hugmynd um.
Ég á við sumardvalarheimilið í Rauðhólum, sem „Vorboðinn“ hefur rekið með miklum myndarskap og þeirri atorku og alúð, sém jafnan mun segja til sín í störfum kvenna, þegar þær vilja beita sér fyrir góðu málefni.
En „Vorboðinn“ er samtök alþýðukvenna, og standa að honum Verkakvennafélagið Framsókn, Þvottakvennafélagið Freyja og Mæðrafélagið. Þessi samtök hafa um langt skeið rekið sumarheimili fyrir börn, og nú allmörg síðustu árin í Rauðhólum, þar sem alþýðusamtökin á sínuni tíma helguðu sér land, girtu það og reistu skála sinn, sem enn er aðalhúsið, þó að Vorboðinn hafi tvisvar byggt við hann.
Rauðhólar eru frá náttúrunnar hendi eitt hið heppilegasta land, sem hægt er að hugsa sér til slíkrar starfsemi, grónir hraunhólar, með dældum, bollum og slökkum, sem gefa skjól við veðrum allra átta, breytileiki og fjölbreytni í landslagi ótrúlega mikil, byggingarefni er þar nærtækt fyrir smáar hendur, vegagerð hægt að stunda þar sumarlangt. Ekki má svo gleyma blessuðu lynginu, sem býður berin sín strax og kemur fram í ágúst, enda eru þau þegin eins og við eigum að: þiggja allir góðar gjafir — með fögnuði hjartans, sem einskis spyr.“

Rauðhólar

Bátur við barnaheimili Vorboðans í Rauðhólum.

Í Morgunblaðinu 1950 er fjallað um barnaheimilið undir fyrirsögninni „Myndarlegur rekstur Barnaheimilisins Vorboðinn“.
„Barnaheimilsnefnd Vorboðans hafði boð inni í gær og sýndi gestum barnaheimilið að Rauðhólum og skýrði frá starfsemi þess. Forstöðukona heimilisins er Þuríður Hringsdóttir. — Heimilið starfar tvo mánuði á sumri hverju og eru þar nú 81 barn á aldrinum þriggja til sjö ára.

Rauðhólar

Rauðhólar – braggagrunnur.

Barnaheimilið Vorboðinn tók fyrst til starfa árið 1937. Gengust nokkrar konur úr Alþjóðasambandi Verkalýðsins fyrir stofnun þess, og leituðu til tveggja fjelaga, Þvottakvennafjelagsins „Freyju“ og Verkakvennafjelagsins „Framsókn“ um styrk í því sambandi. Var því vel tekið og seinna bættist Mæðrafjelagið í hópinn. Eru nú fimm konur úr hverju fjelagi í Barnaheimilisnefndinni.
Í byrjun var barnaheimilið rekið að Brautarholti í Skeiðum, síðan að Flúðum og svo eitt sumar að Þingborg í Flóanum. — Var þetta mjög erfitt fyrirkomulag, þar eð þurfti að fá lánaða heimavistarskóla, flytja þangað allt, sem með þurfti til heimilisins og síðan burtu aftur að haustinu.
Meðan á stríðinu stóð, annaðist Rauði Kross Íslands öll barnaheimili, en er því lauk, byrjaði Vorboðinn að nýju í smáum stíl í skóla að Ásum í Hreppum með 30—40 börn.
Fulltrúaráð Verkalýðsfjelaganna átti um þessar mundir skála í Rauðhólum, er notaður var fyrir skemmtistað, og var ákveðið að hann skyldi gefinn til reksturs Vorboðans það landrými er honum fylgdi, og hóf barnaheimilið starfsemi sína þar árið 1947. Var heimilinu veittur styrkur frá ríki og bæ, og í fyrra og hittiðfyrra var skálinn stækkaður og breytt svo sem með þurfti, og tekinn í algera notkun í fyrra.

Rauðhóla

Framnesvegur 66.

Rúmar hann nú 80 börn. Eru í honum tveir svefnskálar fyrir stúlkur og einn fyrir drengi, ásamt borðstofu, eldhúsi, herbergi fyrir forstöðukonu og starfsstúlkur, baðherbergi, þvottahúsi og ýmislegt annað. Er allt heimilið með miklum myndarbrag. Landrými er einnig mikið og gott.
Á barnaheimilinu vinna 13 stúlkur, að forstöðukonu meðtalinni. Meðlag með börnunum er mjög lágt og er markmið Vorboðans að taka einungis börn til sumardvalar frá þeim heimilum, sem örðugast eiga, og er von nefndarinnar að geta gert enn meira þeim til hjálpar í framtíðinni.
Árið 1933 var spilda í vesturhluta hólanna leigð fulltrúaráði verkalýðsfélaganna í Reykjavík til útisamkomuhalds. Síðar var spildan ásamt skála, sem hafði verið reistur þar afhentur borginni á ný. Þar var rekið um tíma barnaheimilið Vorboðinn sem sumardvalarheimili fyrir börn.“

Í „Húsaskrá 2004“ má lesa eftirfarandi um framangreint hús Vorboðans í Rauðhólum:
„Húsið er einlyft timburhús með risi. Það var flutt á lóðina við Framnesveg 66 árið 1982, en stóð upphaflega við Rauðhóla, austan við Reykjavík. Þar reisti fulltrúaráð verkalýðsfélaganna í Reykjavík og Alþýðuflokkurinn skála fyrir sumarsamkomur, á spildu sem fulltrúaráðið tók á leigu árið 1933. Síðar var leigulandið ásamt skálanum afhent undir starfsemi sumardvalarheimilis Vorboðans fyrir börn frá fátækum heimilum, sem stofnað var 1935 og rekið af kvenfélögum í Reykjavík með styrk frá bænum. Snemma á 9. áratugnum var ákveðið að rífa barnaheimili Vorboðans og fékkst þá leyfi til að flytja hluta þess, einlyftan skála með leikfimisal, á nýja lóð við Framnesveg og endurbyggja þar sem íbúðarhús. Við endurbygginguna var skálinn styttur um nokkra metra, gerðir á hann gluggar og byggt ris með kvistum ofan á hann, en gólf og veggir héldu sér. Við þetta var notað efni úr þeim hluta barnaheimilisins sem var rifinn. Í nóvember 1982 var húsið fullklárað í núverandi mynd og var flutt inn í það sama mánuð.
Engar minjar er að sjá á staðnum, nema timburbát sem hefur trúlega verið notaður sem leiktæki.“

Skáli/skóli

Rauðhólar

Meintur skáli í Rauðhólum.

Skammt norðan húsgrunns Vorboðans er aflöng tóft, u.þ.b. 12 metra löng; þrískipt. Tóftin er skálalöguð og veggir grónir en vel greinilegir í grasivöxnu umhverfinu. Á Herforingjaráðskorti frá árinu 1908 er þarna getið um „Skóla“ eða „Skála“. Kortið var gert löngu áður en Vorboðinn fékk úthlutaða lóð á nálægum slóðum (skammt vestar) og enn fyrr en hernaðarmannvirkin voru byggð í Rauðhólum.  Um athyglisverðar minjar er að ræða, en þeirra virðist hingað til ekki hafa verið getið í fornleifaskránigum af svæðinu.

Sumarskemmtun í Rauðhólum
Rauðhólar
Í Þjóðviljanum 1945 mátti lesa eftirfarndi um „Sumarskemmtun í Rauðhólum“.
„Sumarskemmtun í Rauðhólum í dag yerður fyrsta útihátíð Æskulýðsfylkingarinnar í Rauðhólum, og er það atburður, sem ástæða er til að reykvískir sósíalistar og allt reykvískt alþýðufólk, veiti athygli.

Rauðhólar

Í Rauðhólum.

Það var í mikið ráðizt þegar Æskulýðsfylkingin ákvað að taka Rauðhólaskálann á leigu og gera úr honum skemmtistað, eftir að hann hafði legið ónotaður um margra ára skeið og húsið drabbazt niður. Fylkingin hafði um langt skeið verið að svipazt um. eftir hentugum stað til sumarskemmtana í nágrenni bæjarins, og þegar Fulltrúaráð verkalýðsfélaganna gaf æskulýðsfélögum sósíalista og Alþýðuflokksmanna kost á að fá Rauðhólaskálann leigðan, tók Æskulýðsfylkingin boðinu tveim höndum.
„Þú spurðir hvort yið hefðum ekki álitið þetta fyrirtæki ofviða félagsskap okkar“, segir Lárus Bjarnfreðsson, einn ötulasti forgöngumaður Rauðhólamálsins, í viðtali við Þjóðviljann í fyrrahaust, og heldur áfram: „En nú skal ég segja þér nokkuð. Við hófum þetta verk með það fyrir augum, að skapa samastað fyrir alþýðuæskuna í bænum, þar sem hún gæti komið saman til útiskemmtana og hollra leikja, en á slíkum stað hefur verið tilfinnanleg vöntun hér. í öruggri vissu um skilning félaga á þessu mikla nauðsynjamáli, leituðum við til þeirra um að leggja fram vinnu sína til þeirra endurbóta, sem þurfti að gera á staðnum. Félagarnir brugðust ekki trausti okkar, og sýnir það bezt félagsþroska þeirra, er að kvöldi þess sama dags og samningarnir um leiguna gengu í gildi, mættu á skrifstofu Æskulýðsfylkingarinnar yfir 30 manns, piltar og stúlkur, tilbúin að hefja starf“.

Rauðhólar

Grunnur Rauðhólaskálans.

Og unga fólkið kom oftar en þetta kvöld. Kvöld eftir kvöld, sunnudag eftir sunnudag, fór hópur reykvískra æskumanna upp í Rauðhóla, og vann þar í sjálfboðavinnu mikið verk og gott. Laugardags- og sunnudagskvöld, að loknu dagsverki, undu kátir félagar við söng, upplestur og sögur. Þetta var Reykjavíkuræska að eyða tómstundum sínum, við erfitt starf, unnið af þegnskap, landnámsstarf, óeigingjarnt og seinunnið, eins og slík störf eru oftast. Það kom í ljós að til þess að Rauðhólar gætu talizt boðlegur skemmtistaður, þurfti svo mikla vinnu, að ekki tókst að ljúka henni nógu snemma til þess að sumarskemmtanir gætu hafizt þar í fyrrasumar. En öllum þeim, sem voru á vígsluhátíð Rauðhólaskálans í fyrrahaust, varð ljóst, að þar hafði gott verk verið unnið, sú skemmtun varð minnisstæð, og að góðu einu. Nú er komið til kasta reykvískrar alþýðu að sýna að hún kann að meta það starf, sem þarna hefur verið unnið, og er ekki að efa að margmennt verður í Rauðhólum í dag.“

Rauðhólar

Rauðhólar.

Í Þjóðviljanum í maí 1946 er sagt frá „Glæsilegri útiskemmtun Æskulýðsfylkingarinnar í Rauðhólum“.
„Á morgun býður Æskulýðsfylkingin Reykvikingum upp á einhverja fjölbreyttustu cg beztu skemmtun ársins.
Skemmtunin verður haldin uppi í Rauðhólum. Þessi atriði verða á. skemmtiskránni:
1. Ræða: Sigurður Þórarinsson jarðfræðingur.

Rauðhólar

Í Rauðhólum.

2. Upplestur: Elías Mar les kafla úr „Eldur í Kaupinhafn“, eftir Halldór Kiljan Laxness.
3. Söngur: Kátir sveinar, kvartett.
4. Glímusýning: Glímuflokkur frá KB sýnir.
5. Galdrasýningari Baldur Georgs.
Lúðrasveitin Svanur leikur milli skemmtiatriða.
6. Dans: Hljómsveit Björns R. Einarssonar leikur. Haukur Mortens og Alfreð Clausen syngja með hljómsveitinni. Þeir félagar eru vel þekktir fyrir söng sinn í útvarpinu nú fyrir skemmstu í tímanum „Lög og létt hjal“.
Auk þessara atriða mun Einar Arnórsson teikna skopmyndir af teim, sem þess óska, meðan á skemmtuninni stendur. Ennfremur fá mótsgestir að þreyta skotfimi sína og ýmsar aðrar listir í sérstöku tjaldi.
Æskulýðsfylkingin á þakkir skilið fyrir forgöngu sína í því að sjá Reykvíkingum fyrir góðum útiskemmtunum í nágrenni Reykjavíkur, enda mun æskulýður Reykjavíkur vafalaust kunna að meta þau fjölbreyttu skemmtiatriði, sem eru í boði í Rauðhólum á morgun.
Ferðir verða frá Bifreiðastöðinni Heklu eftir kl. 13 á morgun, en skemmtunin byrjar kl. 15.“

Rauðhólar

Rauðhólar.

Í Þjóðviljanum daginn eftir, 22. maí, er fjallað um skemmtanahaldið.
„Eins og sjá má af þessu, var hér um óvenju fjölbreytta og glæsilega skemmtun að ræða, enda hefur verið unnið af kappi að endurbótum á staðnum í vor, og er þeim framkvæmdum langt frá því að vera lokið.

Rauðhólar

Rauðhólar.

Tilhögun skemmtananna hefur verið breytt frá því sem var síðast liðið sumar. Öll skemmtiatriði nema íþróttir fara nú fram í stórum gíg norðan við skálann, og er þar skjól fyrir flestum áttum. Nýr danspallur hefur verið settur upp í laut suður af skálanum, og er hann alveg í skjóli.
Þrátt fyrir tvísýnt veður, einkum framan af degi, sóttu skemmtunina hátt á annað þúsund manns. Ölvunar varð lítið vart, en að því leyti eru Rauðhólaskemmtanir Æ.P.R. undantekning frá flestum öðrum útisamkomum.
Hollar útiskemmtanir eru sá þáttur skemmtanalífsins, sem Reykvíkingar hafa átt mjög lítinn kost á að kynnast.
Nafn Æskulýðsfylkingarinnar í Reykjavík er trygging fyrir góðum og vönduðum skemmtunum. Vonandi kunna bæjarbúar að meta þessa starfsemi félagsins, en það geta þeir bezt sýnt með því að sækja skemmtanirnar.
Hittumst heil á næstu Rauðhólaskemmtun!

Auk framangreinds var gerð tilraun til að reka leiksvið í Rauðhólum.

Njála í rauðum hlíðum

Rauðhólar

Frásögn af Rauðhóla-leiksviðinu í DV.

Í DV í júlí 1986 mátti lesa eftirfarandi um „Söguleikana“ í Rauðhólum.

Rauðhólar

Rauðhólar – loftmynd.

„Aðstandendur sýningarinnar á Njáls sögu lentu, sem kunnugt er, á nokkrum hrakhólum með stað fyrir leikritið eftir að endanlega hafði verið neitað um leyfi til að sýna það í Hvannagjá á Þingvöllum, þar sem óneitanlega hefði verið stórbrotið að sjá einmitt þetta verk leikið. En uppi í Rauðhólum fannst um síðir tilvalinn staður fyrir sýninguna, hraunhólamir mynda þarna litríka og sterka umgjörð um örlagasögu persónanna úr Njálu.
Þau Helga Bachmann og Helgi Skúlason hafa við gerð handritsins lagt leikrit Jóhanns Sigurjónssonar, Mörð Valgarðsson, til grundvallar, en hafa bæði skorið burt og annars staðar bætt inn í atriðum og tilsvörum beint úr Njálu sjálfri. Leiksýningin endar, eins og leikrit Jóhanns, á brennunni á Bergþórshvoli, en áður segir frá launráðum Marðar Valgarðssonar, sem með rógi og undirferlum kemur af stað þeirri óeiningu og hatri, sem leiðir til vígs Höskulds, og hefndarinnar, sem óhjákvæmilega hlýtur að koma fyrir það. Miðdepillinn er þannig Mörður, afbrýðisemi hans og öfund, en í kringum hann öðlast allar hinar þekktu persónur Njálu líf, Njáll og Berþóra, kona hans, synir þeirra, Skarphéðinn og Grímur, koma hér við sögðu, Kári, Höskuldur Hvítanesgoði og Hildigunnur, kona hans, Flosi föðurbróðir hennar og Þórkatla, eiginkona Marðar.
Leikritið gengur upp sem sjálfstæð heild, og hinn óvenjulegi sýningarstaður skapar mikla stemmningu.

Rauðhólar

Leiksviðið í Rauðhólum.

Upphafsatriði sýningarinnar er mjög eftirminnilegt, tónlist Leifs Þórarinssonar hljómar að hólabaki og fornkappar og konur þeirra birtast uppi á háum hólum og ber við loft. Þarna er umhverfið nýtt til hins ýtrasta á áhrifamikinn hátt. Annars fer mestöll atburðarásin fram á balanum fyrir framan áhorfendapallana, en þar hefur lítillega verið bætt um betur frá því að lið þeirra Helgu og Helga kom á vettvang.

Rauðhólar

Rauðhólar.

Balinn er ágætis leiksvið en atriðið með Valgarði gráa í forleiknum sýndi að stundum hefði mátt nýta sér kosti umhverfisins betur og færa fleiri atriði upp í brekkurnar.
Leikendur eru flestir af yngstu kynslóð leikara, en til liðs við þá koma nokkrar þaulreyndar kempur. Þau Erlingur Gíslason og Ásdís Skúladóttir eru ungleg og stillileg sem Njáll og Bergþóra. Friðarræða Njáls og lokaatriðið er þau Bergþóra leggjast til hinstu hvíldar eru sterk atriði og vel flutt. Öllu meiri tilþrif fær Valdimar Flygenring tækifæri til að sýna í hlutverki hetjunnar uppstökku, Skarphéðins. Bróðir hans, Grímur, er leikinn af Þresti Leó Gunnarssyni og mágur þeirra bræðra, Kári, er leikinn af Skúla Gautasyni. Þeir standa þétt saman, bundnir af hetjuhugsjón og hefndarskyldu síns tíma.
Jakob Þór Einarsson er í hlutverki Höskulds Hvítanesgoða, og konu hans, Hildigunni, leikur Bryndís Petra Bragadóttir, og komast bæði nokkuð vel frá sínu. Rúrik Haraldsson er höfðinglegur Flosi og hann leikur líka heiðingjann gamla, Valgarð, sem illu heilli egnir son sinn, Mörð, gegn Njálssonum.
Aðalsteinn Bergdal, sem leikur Mörð, lykilpersónuna í leiknum, skapa eftirminnilega persónu. Mörður verður í túlkun hans trúverðugur jafnt í öfugsnúinni aðdáun sinni á Skarphéðni, sem í afbrýðisemi sinni og öfund. Kona hans Þórkatla, björt yfirlitum og algjör andstæða Marðar, er leikin af Guðrúnu Þórðardóttur. Búningar eru ágætlega hannaðir, utan skófatnaðurinn, sem var eitthvað vandræðalegur.
Aðstandendum sýningarinnar má þakka fyrir góða og nýstárlega sýningu og tel ég að enginn sé svikinn af því að leggja leið sína upp í Rauðhóla á næstunni.“ – AE

Stríðsminjar

Rauðhólar

Rauðhólar – minjar bragga.

Í Rauðhólum voru herbúðirnar Thinker frá árinu 1943, það var miðstöð ratsjárkerfis, höfuðstöðvar stórfylkis, strandvarna og eða loftvarnastórskotaliðs. Fjölmargar minjar, einkum braggagrunna og vegi, má enn sjá í hólunum, einkum vestanverðum.

Heimildir:
-https://is.wikipedia.org/wiki/Rau%C3%B0h%C3%B3lar
-https://www.visindavefur.is/svar.php?id=11583
-https://www.isor.is/25-raudholar-gervigigar
-Rauðhólafólkvangur, saga, verndun og nýting, Lena Rut Kristjánsdóttir, BS-ritgerð, Landbúaðarháskóli Íslands, 2009.
-Alþýðublaðið, Konan og heimilið, Svava Jónsdóttir, laugardagur 8. ágúst 1953, bls. 5.
-Morgunblaðið fimmtudaginn 6. júlí 1950, Myndarlegur rekstur Barnaheimilisins Vorboðinn, bls. 8.
-https://www.sarpur.is/Adfang.aspx?AdfangID=567205
-Þjóðviljinn, sunnudaginn 8. júlí 1945, Sumarskemmtun í Rauðhólum, bls. 3.
-Þjóðviljinn, laugardaginn 18. maí 1946, Glæsileg útiskemmtun Æskulýðsfylkingarinnar í Rauðhólum á morgun, bls. 1.
-Þjóðviljinn 22. maí 1946, bls. 3.
-DV, lagardaginn 5. júlí 1986, Leiklist; Njála í rauðum hlíðum – Auður Eydal, bls. 15.

Rauðhólar

Herminjar í Rauðhólum.

Skólavarðan

Í Þjóðólfi 1868 má lesa eftirfarandi um „Skólavörðuna og hinn nýja aðalveg upp úr Reykjavík„:

Skólavarðan

Skólavarðan.

„Ferðamenn, er komu austan og norðan yfir heiðarnar síðan um mánaðamótin, furðaði á því, er þeir misstu af hæðunum suður af Grímmansfelli, (niðr af Seljadalnum) og af hæðunum ofaneptir Fóelluvötnunum, að allir sáu þeir hvítan dýl bera við vestrloptið hér fremst suðr á nesjunum, og engi sem ekki er áttaviltr, en veit góða grein á því að Álptanes er sunnar, en Seltjarnarnes norðar, og þekkir nokkuð afstöðu og kennileiti beggja nesjanna, gat verið í neinum vafa um það, að þessi hinn hvíti og bjarti dýll væri framarlega á Seltjarnarnesi. »En hvað er það, hvenær og hvernig er þetta komið þarna er ber svona skært við vestr-sjóndeildarhringinn á sama stað«?

Skólavarðan

Skólavarðan 1868.

Ekki er mann lengi að bera hvort heldr eptir alfaravegunum ofan Mosfellssveitina eða ofan úr Vötnunum, þó að fátt þyki gott eða greitt af þeim veginum að segja nú sem stendr, niðr á móts við Árbæ, og sér maðr þá, að þetta, er sýnist í fjarska sem að ljós dýll einn lítill beri við sjóndeildarhringinn,— að þetta er hin ný uppbygða skólavarða á Arnarhólsholtinu hér fyrir austan Reykjavíkr-bæinn.
Skólavarðan þó þó», sagði annar af 2 mönnum lausríðandi, á skinnsokkum og með keðjubeizli og króksvipu í hendi er hann stefndi út frá nára sér, er þeir komu ofan eptir hæðunum milli Rauðavatns og Árbæjar 29. þ. mán., — »Skólavarðan, laxi góðr, ekki vel; sú gamla, sem var vel stæðileg, var rifin í grunn niðr fyrir fám árum og það fyrir ekki neitt; var bygð upp aptr fyrir 200 —300 rd. samskot, og hrundi svo sjálf öldúngis órifin; það hrun var ekki af manna höndum gjört og kostaði ekki neitt, eins og þú og hver maðr hefir getað lesið í «Norðanfara, til mikils sóma fyrir hann og fyrir höfuðstað landsins« — svo eg held þú vaðir reyk; hver hefði kannske átt að slá þeim Mósis-sprota á helluna, að þaðan skyldi spretta upp slíkr almúraðr og fágaðr kastali er gnæfir við skýin? eða hvaða Jovis-almætti skyldi hafa megnað því, að þessi altýgjaða Minerva stendr þarna áðr en nokkurn varði og þar sem ekki var annað fyrir en sorgleg grjólhrúga ofaná grjóturð».

Skólavarðan

Skólavarðan.

Vér yfirgefum nú þetta «tveggja manna tal», og hverfum til sjálfrar hinnar nýu skólavörðu þar sem hún nú stendr albúin einsog nýbygðr nýuppmúraðr kastali, einsog fuglinn Fönix risinn úr öskunni. — það er ekki að undra, þóað detti ofanyfir ferðamenn að sjá þetta sannarlega vandaða og snotra steinsmíði svona allt í einu albúið áðr en nokkurn varði, og hafi ekki getað átt þess neina von, því Reykvíkínga sjálfa rekr þar í ramma stanz. Vér staðarbúar höfum að vísu séð menn standa þar að vinnu öðru hverju í sumar, séð þángað ekið kalki, séð verið að leggja þar stein og stein í veggina, en þetta virtist svo áhugalítið og sem í hjáverkum gjört, einkum fram eptir slættinum, að menn sögðu hér alment að þetta væri fremr gjört til dundrs sér, og til þess það skyldi sýnast sem hér stæði til að byggja eitthvað upp aptr svona til málamyndar, heldren hitt, að mönnum væri eðr gæti verið nokkur alvara með, að koma skólavörðunni upp að nýu; — því hvaðan ætti nú að taka fé til þess? — sögðu menn; ~ 2-300 rd. samskotin fyrri hefði gengið öll til að byggja upp hrundu vörðuna og hefði enda eigi hrokkið til; engin nefndi ný samskot, enda mundi það hafa lítið upp á sig, þegar svona hefði tekizt slysalega til fyrir hin; og hvaða Crösus mundi svo vekjast upp er vildi og gæti lagt í sölurnar jafnmikið fé og þyrfti til vandaðrar kalkmúraðrar vörðu? Þess vegna hugðu allir, að hér yrði ekkert úr; engi vissi heldr til að neinn væri forgaungumaðr verksins fremr einn en annar. Svona gekk fram yfir Ágúst-lok; að vísu smáhækkuðu múrveggirnir og fór að draga undir dyrahvelfinguna, og þá fóru menn þó smám saman, einkum eptir það verkamönnum var fjölgað þegar kom fram í f. mán. og farið var að leggjast fast á verkið, að gánga úr skugga um það, að hér hlyti að vera einhver hulin hönd og eigi févana, er bæði stjórnaði verkinu og hratt því svo áfram að stórum fór nú að muna með hverjum degi, og jafnan voru borguð tregðuð fyrirstöðulaust hin umsömdu verkalaun.

Skólavarðan


Fólk á gangi á Skólavörðuholti ca.árið 1926. Fyrir miðri mynd má sjá húsið að Njarðargötu 61.

Skólavarðan er nú albúin um þessa daga. Hún er ferstrend að utan og jafnbol, hátt á 9. alin utanmáls hver hlið, og stendr á stöpli; hún er hol eðr húsbygð innan, og eru portdyr á að vestan, bogadregnar eðr með hvelfingu að ofan, með traustri og vandaðri hurð fyrir; tvennir eru vænir gluggar á, annar á norðr hlið hinn á austr hlið. Innan er hver hlið að eins nökkuð á 5. alin, því veggirnir eru fullra fimm feta þykkir neðst og smá þynnast þegar ofar dregr, en þó hvergi þynnri en um 4 fet. Traust lopt er við efstu veggjabrúnir uppi yfir innra rúminu ; upp þángað liggja að innan þægir hliðarstigar, uppí uppgángsop á miðju lopti og er hetta yfir er upp undan má gánga og upp á loptið eðr »sjónarpallinn«, — því þaðan er næsta víðsýnt yfir allt, — og er hún til varnar því að niðr í húsið rigni eðr framan í þá er upp á pallinn gánga, en um hverfis hann allan efst á veggjunum og utan á ytri brún þeirra eru traust tréverks-handrið, til varnar því, að menn geti hrotið ofan fyrir. Varðan er 15 álnir á hæð frá stöpli, að meðtöldum handriðunum; til hennar kvað nú vera búið að kosta hátt á lOOO rd.

Skólavarðan

Skólavarðan.

Það er nú eigi orðið neitt launúngarmál, að bæjarfógeti vor herra A. Thorsteinson kanselíráð hefir einn gengizt fyrir byggingu þessari og lagt fyrir um alla tilhögun og fyrirkomulag, og lagt út allt fé til efnis og verkalauna; en hvort það er af hans ramleik sjálfs að nokkru eðr öllu, það er enn öllum hulið, en mun von bráðar opinbert verða.

Skólavörðurstígur

Skólavörðustígur.

Hinn nýi alfara vegr upp úr bænum eðr réttara sagt ofan í bæinn, af Öskjuhlíðarveginum ofan að bakarastígnum, er bæjarstjórnin hefir gjöra látið á þessu sumri, og búið er að vísu að fullgjöra svo, að hann er miklu færari og betri en hinn gamli vegrinn ofan hjá Vegamótum, er í öllu tilliti verðr þess að á hann sé minst, eigi sízt í sambandi með skólavörðunni, þar sem hvorttveggja er bæði nýsmíði og má segja fremr stórvirki eptir fámenni og fátækdóm þessa staðar, og af því að þessi hinn nýi vegr er nú lagðr upp holtið skamt eitt fyrir norðan troðningabrúna (hérna megin Öskjuhlíðar) í útnorðr til skólavörðunnar, og fast fram hjá sjálfri henni og þaðan ofan eptir öllu holtinu að bakarastígnum, rétt fyrir norðaustan vindmylnuna. Að þessu leyti má nú segja, að hvort vegsami annað: þessi hinn nýi, mikilfengi og breiði upphækkaði vegr skólavörðuna, og hún aptr veginn.

Skólavarðan

Skólavarðan 1902.

Engir ferðamenn, er fara þenna nýja veg, og það gjöra allir síðan hann varð vel fær með hesta, telja né geta talið nein tvímæli á því, að þetta sé nauðsynja-vegabót, eigi sízt í samanburði við gamla veginn, eins og hann var orðinn í rigninga sumrum. Nýi vegrinn er allr upphækkaðr með steinlögðum brúnum, vönduðum að verki og völdu grjóti, en vantar enn yfir-ofaníburðinn yfir allt frá skólavörðunni og ofaneptir; er hann samt þegar orðinn góðr vegr og verðr bezti vegr, þegar fullgyggðr er, til yfiferðar með hesta, en vagnvegr verðr hann aldrei nema erfiðr og óþægr bæði frá bæ og að, sakir brekkunnar bæði vestan og sannanvert í holtinn, eins og líka sýnir sig nú þegar.

Skólavarðan

Skólavarðan 1931-1932, – Skólavörðuholt. Menn við vinnu, verið að rífa Skólavörðuna og reisa stall undir styttu Leifs Eiríkssonar.

Þar sem varla nokkrn af hinum mörgu er þessi vegrinn liggr óneitanlega miklu beinna og betr við til mókeyrslu, heldren hinn gamli gjördii, hefir þókt annað fært en að reiða mó sinn á hestum austan úr mýrinni og af þerriholtunum, uppundir skólavörðuna, en hugsa sjálfsagt til að keyra hann þaðan á vagni ofaneptir öllum hallandanum í bæinn, en reynist brattan að austanverðu lítt fær eða ófær fyrir vagn, þó verður hún það þó margfalt fremr uppeptir héðan að neðan uppá móts við skólavörðuna; og virðist þetta hafa verið fremr vanhugað hjá bæjarstjórninni, við að ákveða þessa nýju vegarstefnu, svo framt menn vildi heldr styðja að því en nýða það úr, að þægir vagnvegir kæmist hér smám saman á sem víðast og þar með brúkun og afnot vagna til ómetanlegs léttis við alla flutninga, en til þess er þó og verðr einkaleiðin sú, að leggja vegina sem hagfeldast og sem kostr er á, með því að kasta af sér brekkunni eða draga úr henni sem mest hvar sem því verðr við komið; hér er gjört þvertímóti með þenna veg, það sjá allir; menn hafa stefnt honum uppá holtið, þar sem það einmitt er hæst og brettan er lengst og erfiðust uppá hæðina.

Skólavörðustígur

Skólavörðustígur.

Undanfarnar bæarstjórnir hafa allajafna verið samdóma þessari um það, að gamli vegrinn væri óbrúkandi, lægi illa og yrði aldrei endrbættr til hlítar, og að nýjan alfaraveg, upphækkaðan, þyrfti að leggja nokkuð við sunnar austr úr holtinu, frá sporði vegabótabrúarinnar (þess vegna einmitt var ný brú lögð þarna, þar sem hún er, með ærnum kostnaði þegar (1843—45) þar yfir norðrtaglið á holtinu, sem alls engi bratti er til, heldr allt sem næst lárétt norðrfyrir Steinkudys; þar suðrmeð hæðinni kemr nokkurra faðma slakki, sem auðgjört er að hlaða af sér með upphækkun vegarins; það er auðsætt, að þarna má leggja hinn hægasta og þægasta vagnveg og þar til svo, að miklu fleiri af bæjarmönnum gæti notað veginn þar heldren þarsem hann er nú lagðr. Og sú mun reyndin á verða, að aldrei mun sá vegrinn þurfa meira að kosta heldr að mun minna en þessi nýi, er þegar mun vera búið að kosta til um 1300 rd. Sú mun reyndin á verða, segjum vér, og það innan 20 ára hér frá, því hagsmunirnir af góðum og greiðum vagnvegum hér og almenn nauðsyn mun opna augu komandi bæjarstjórnar og knýa til, að kosta þar til alfara vagnvegar sem góðr vagnvegr getr orðið og sem flestum til gagns.“

Heimild:
-Þjóðólfur 08.10.1868, Skólavarðan og hinn nýi aðalvegr upp úr Reykjavík, bls. 178-180.

Skólavarðan

Skólavarðan 1926.

Hjólreiðar

Í Lesbók Morgunblaðsins árið 1993 fjallar Guðjón Friðriksson, sagnfræðingur, um „Hjólmannafélag Reykjavíkur„.

Reiðhjól„Um 1890 voru að sögn Knuds Zimsens borgarstjóra aðeins tvö reiðhjól í Reykjavík. Annað átti Guðbrandur Finnbogason, faktor Fishcersverslunar (Aðalstræti 2), en hitt Guðmundur Sveinbjörnsson, síðar skrifstofustjóri í Stjórnarráðinu. Hafa þau líklega verið einu reiðhjólin á landinu og voru merki um vaknandi borgarmenningu í höfuðstaðnum. Enda var það eins og við manninn mælt. Eftir því sem bærinn stækkaði eignuðust fleiri slík tæki og árið 1897 var stofnað Hjólmannafélag Reykjavíkur.
Ýmsar gerðir reiðhjóla voru prófaðar í heiminum á 19. öld, en það var ekki fyrr en keðjan, kúlulegan og loftdekkið voru fundin upp um 1880 að hjólið varð hagnýtt farartæki. Síðan liðu nokkur ár. Verð á þessum undratækjum fór lækkandi. Þegar kom undir aldamót sló reiðhjólið verulega í gegn í Bretlandi („the bicycle boom“) og víðar um lönd. Hjólið kom til móts við auknar þarfir borgarbúa um hreyfingu og frískt loft. Voru það ekki síður konur en karlar sem tileinkuðu sér reiðhjólið og var það m.a. merki um aukið kvenfrelsi. Fætur kvenna fóru nú að sjást undan dragsíðum pilsunum, er þær sátu á þessum nýju farkostum, og þær djörfustu .fóru meira að segja að klæðast pokabuxum. Það má segja að Reykvíkingar hafi verið furðu fljótir að tileinka sér hjólreiðar og þar komu konur líka við sögu.
Hjólmannafélag
Knud Zimsen segir frá fyrstu reiðhjólunum í bókinni „Við fjörð og vík“ á eftirfarandi hátt: „… var ein dægrastytting sem ég undi mér löngum við, enda fágæt í Reykjavík í þann tíma, en það var að fara á reiðhjóli. Hjól það sem ég hafði til afnota átti Guðbrandur Finnbogason. Hjólgrindin var úr járni, en hjólin úr tré með járngjörðum. Ekkert drif var á því og var aðeins hægt að stíga framhjólið. Það var því ekki auðvelt að fara hratt á því og ókleift mátti heita að hjóla á því upp nokkurn verulegan bratta. Ég gerði heldur ekki víðreist á því, hjólaði aftur og fram um Aðalstræti og renndi mér á því niður Fischersund.“ Þarna voru sem sagt keðjan, kúlulegan og loftdekkið ekki komin til sögu. Þá segir Knud að síðasta ár sitt í Latínuskólanum (1892-1893) hafi bæst við tvö önnur hjól { Reykjavík. Éignaðist Teitur Ingimundarson, úrsmiður í Suðurgötu 13, annað og var það hálfgerður garmur. Hitt fékk Elías Olsen, bókhaldari hjá Fischersverslun. Var framhjólið á því mjög stórt, en það aftara sáralítið. Segir Knud að hjól Olsens hefði tekið hinum mjög fram, enda hefði fólk safnast saman til að horfa á hann aka á því kringum Austurvöll. Þessi hjól voru ávallt nefnd „velociped“.
Reiðhjól
Árið 1894 birtust fyrstu reiðhjólaauglýsingarnar í íslenskum blöðum. H.J. Jörgensen á Hótel Íslandi auglýsir í febrúar þetta ár að hann vilji selja hjólhest sinn sem hann hafði keypt á 150 krónur með 50 króna afslætti. Sumarið 1894 birtist svo auglýsing frá Hans Andersen, skraddara og kaupmanni í Aðalstræti 16, þar sem hann býður reiðhjól til sölu frá Sylvester Hvids Cyklefabrik í Kaupmannahöfn. Er tekið fram í auglýsingunni, sem er á dönsku, að hver og einn geti lært á reiðhjól á þremur tímum og þeir sem vilji panta sér reiðhjól með næstu ferð Laura skuli hið snarasta snúa sér til Andersens.
Sumarið 1896 birti Ísafold þá frétt að franskur sjóliðsforingi, Maxime Delahet, hefði nýlega hjólað á hjólhesti, tvíhjólung, frá Reykjavík og austur að.Þingvöllum og hefði sú ferð gengið mjög greiðlega. Þarna er komin fram á Íslandi hin nýja gerð reiðhjóls sem enn er í grundvallaratriðum sú sama. Þannig var sagt frá för Frakkans: „Hann lagði af stað frá Reykjavík … kl. hálf tvö eftir hádegi og var kominn kl. hálf sjö þangað sem nýja veginn þrýtur, mjög austarlega á heiðinni. Þaðan varð hann að halda áfram fótgangandi, það sem eftir var, og bera reiðskjótann. … Það er leitt segir hann að vegurinn er ekki til gerður alla leið að Þingvöllum; þegar hann er fullgerður er lafhægt að fara á hjólhesti milli Reykjavíkur og Þingvalla á 5 klukkutímum. … HjólreiðarÞess má geta að sú slysni hafði viljað til þessum vaska manni daginn áður að hann villtist í meira lagi: ætlaði þá austur að Þingvöllum, en lenti austur í Ölfusi… En ótrúlega var hann fljótur í þeirri ferð; fór héðan kl. 2 og var kominn aftur kl. 11. Áður í sumar gerði annar frakkneskur liðsforingi tilraun að komast á hjólhesti austur að Þingvöllum, en reiðskjótinn bilaði sunnarlega á heiðinni, kom gat á hjólhringinn, lofthringinn, en ekki hægt að fá gert við það hér.“
Þá bætti Ísafold við: „Hjólreiðar eru, eins og menn vita“; mjög tíðkaðar í öðrum löndum og er alllíklegt að fleiri verði til að reyna sig á Þingvallaskeiðhlaupi þegar þeir frétta þetta ferðalag Delahets og vita að vegurinn þangað er fullgerður. Þeir spara sér íslenskan reiðhest eða reiðHjólreiðar.

ReiðhjólÞeir, sem vilja læra að fara á hjólum, snúi sjer til formanns »Hjólmannafjelags Reykjavíkur« konsúl G-Finnbogason. Hann vísar mönnum á kennslu og veitir áheyrn, þeim sem vilja ganga í hjólmannafjelagið. Cyclar (hjólhestar), nýir og brákaðir, nýkomnir til W. Fischer’s verzlunar.
Auglýsing úr Ísafold vorið 1897; „Hestar sem hleypa mjög fram ferðakostnaðinum og vinna sér ef til vill til frægðar í hóp vaskra hjólreiðamanna víðs vegar um lönd.“
Í desember 1896 tilkynnti Sigfús Eymundsson, ljósmyndari og bóksali, með auglýsingu að hann hefði fengið einkaumboð fyrir eina stærstu reiðhjólaverksmiðju á Englandi. Hann sagði í auglýsingunni að þeir sem vanir væru hjólreiðum gætu þreytulaust riðið danska mílu á 20 til 30 mínútum ef hjólin væru létt og liðug og vegurinn sléttur. Og ennfremur: „Hjólreiðin er ofur-auðlærð. Æfi menn sig eina stund á dág hafa þeir full not af hjólunum eftir vikutíma.“
Mánudaginn 24. maí 1897 komu fimm menn saman á Hótel íslandi samkvæmt fundarboði í ísafold. Stofnuðu þeir Hjólmannafélag Reykjavíkur og samþykktu lög fyrir það.
Í annarri grein laganna stóð að félagið væri stofnað til að auka og efla hjólreiðar með því að gefa mönnum hvort tveggja kost á að nema þessa list og með því að styrkja menn til að eignast reiðhjól með hægu móti. Stjórn félagsins skipuðu Guðbrandur Finnbogason konsúll, formaður, Pálmi Pálsson adjunkt, skrifari, og H. Andersen skraddari, féhirðir. Endurskoðendur voru kjörnir Guðmundur Björnsson héraðslæknir og Sigfús Eymundsson bóksali. Þess skal getið að Guðmundur notaði hjólið sem atvinnutæki, m.a. er hann fór í læknisvitjanir til Hafnarfjarðar.
Reiðhjól

Reiðhjóladeild Fálkans 1948.

Að ári liðnu var aðalfundur félagsins haldinn. Formaður þess skýrði þá frá því að kennari hefði verið útvegaður á síðastliðnu ári og mönnum gefinn kostur á að læra hjólreiðar gegn vægri þóknun. Þá tók hann fram að reiðhjól hefðu verið á boðstólum, bæði við námið og til kaups, ný og gömul. Nokkrir hefðu numið hjólreiðar árið sem leið, að nokkru teyti fyrir tilstuðlan félagsins. ReiðhjólÁkveðið var að félagið héldi áfram sams konar starfsemi næstu ár og talið æskilegt að félagsmenn gætu farið í kappreið á væntanlegri þjóðminningarhátíð næsta sumar. Þá segir í fundargerð félagsins að einn maður hefði beiðst inngöngu í félagið og væri það Gísli Finnsson járnsmiður, sem fyrir tilstilli þess hefði kynnt sér aðgerðir á reiðhjólum meðan hann var erlendis um veturinn.
Guðmundur Björnsson landlæknir sagði um þetta félag að það hefði starfað í nokkur ár en síðan hefði verið samþykkt að leggja það niður og éta upp félagssjóðinn á Hótel Íslandi.
Þegar kom fram um aldamót voru reiðhjól orðin nokkuð algeng í Reykjavík. Ísafold greindi svo frá sumarið 1904: „Þau eru orðin furðualgeng hér í bæ. Það fullyrða sumir að þau skipti hundruðum. Ungir og gamlir, karlar og konur, fara hér á hjólum nú orðið, alveg eins og í stórborgum erlendis. Færra kvenfólk’þó að tiltölu en þar gerist að svo komnu. Og færri rosknir menn sjálfsagt líka. Mest eru það unglingspiltar. Einnig nokkrir smásveinar. Það eru bæði lærðir menn og leikir, stúdentar og kandidatar, þar með einnig stöku embættismenn og búðarmenn, iðnaðarmenn o.fl. Hálf tylft kvenna er mælt að eigi sér reiðhjól hér í bæ og að dálítið fleiri kunni þær á þau. Það eru allt ungar stúlkur, heldri stúlkur sem kallað er. Meira er ekki um að vera þar. Þetta er mjög svo nýlega tilkomið. Það er nú fyrst að verða tíska hér að kvenfólk fari á hjólum.“
Á fyrsta áratugi 20. aldar sjást æ oftar auglýsingar um reiðhjól í íslenskum blöðum og vorið 1905 krafðist blaðið Ingólfur að settar yrðu reglur um hjólreiðar á götum bæjarins. Þá var öngþveitið orðið slíkt af hestvögnum, reiðhjólum og gangandi fólki. Reiðhjólið var orðið fastur liður í bæjarmynd Reykjavíkur.“ – Guðjón Friðriksson, höfundur er sagnfræðingur.

Heimild:
-Lesbók Morgunblaðsins, Hjólamannafélag Reykjavíkur, 1. tbl. 09.01.1993, bls. 2.
Hjólreiðar

Bíll

Vegir og vegagerð á Íslandi hafa þróast í gegnum tíðina. Þorvaldur Thoroddsen skrifaði t.d. um vegi á Íslandi í „Landfræðilýsingu Íslands“ árið 1898:

Hellugata

Forn gata um hraunhellu Reykjanesskaga.

„Vagnvegir eru engir á Íslandi og engir vagnar; vegirnir eru mjög vondir, og eru þeir til mikils trafala fyrir ferðamenn, og ekki síður hitt, að þar eru engin gistihús eða veitingahús. Af því vegirnir eru svo vondir, er ekkert hægt að fara gangandi, menn ferðast alltaf ríðandi, um fjöll og klungur, dali og mýrar, hestarnir eru svo fótvissir, þó þeir séu faltjárnaðir, að þeir komast yfir verstu ófærur, og aldrei fara Íslendingar af baki hvað vondur sem vegurinn er.

Skreiðarlest

Skreiðarlest í Ögmundarhrauni.

Sumstaðar eru brunahraun, sem mjög er hættulegt að fara yfir, þau eru að ofan þakin smágrjóti og sumstaðar eru undir því djúpir katlar, sem hestar og menn geta orðið fastir í; þegar menn ríða um slíka staði, bylur jörðin undir eins og trumba, svo það heyrist langar leiðir. Sumstaðar upp til fjalla eru hyldýpis gjár, sem eru svo djúpar, að ekki sést í botninn, í sumum þeirra er snjór, í sumum vatn, er andir synda á. Sumstaðar er jarðvegurinn hreifanlegur og vaggandi, en þó fagurlega grasi vaxinn, svo það sýnist alveg hættulaust að fara um hann, en þegar hesturinn kemur út á þennan jarðveg, dillar hann allur undir fæti, en ef hesturinn liggur í á slíkum stað, er mjög illt að bjarga honum.

Kjalarnes

Kjalarnes – brú frá u.þ.b. 1927.

Sumstaðar ganga langir firðir inn í landið, sem menn um fjöru riða yfir, eins fljótt og menn geta, svo flóðið ekki nái þeim. Hættulegastar eru þó árnar, og þegar farið er yfir þær, er áríðandi að hafa góðan hest, sem syndir vel; Íslendingar hughreysta ferðamenn, sem smeikir eru, og segja þeir þurfi ekkert að óttast, ef þeir haldi sér vel, klárinn muni koma þeim yfir. Brýr eru hvergi á Íslandi, enda er ekki gott að byggja þær, því þó grjót sé nóg, þá er þó alveg kalklaust.“

Í Reykvíkingi 2. apríl árið 1894 er fjallað um hugmyndir manna um vagnveg milli Reykjavíkur og Hafnarfjarðar:

Skólavarðan

Skólavarðan á Skólavörðuholti.

„Nú eru menn farnir að hugsa um það, hvar bezt mundi að leggja veg hjeðan úr bænum og suður í Hafnarfjörð, og munu margir hafa vagnveg í huganum.

Hafnarfjarðarvegur

Hafnarfjarðarvegur, lengst t.v., skv. herforngjakorti 1919.

Menn hafa eigi orðið á eitt sáttir um það, hvernig ætti að leggja hann; sumir hafa viljað leggja hann suður Skildinganesmela, og þaðan fram hjá Nauthól, sunnanvert við Öskjuhlíðina; aptur hefur öðrum komið til hugar að leggja hann úr Laugaveginum fyrir vestan Rauðará, suður og upp Rauðarárholt, suður yfir Norðurmýrina, beina stefnu austanvert við hlíðina á Fossvogsveginn; nú síðast mun Sigurður Þórðarson hafa stungið upp á því, að byrja þenna veg út af Laugaveginum, kippkorn fyrir vestan erfðafestuland Guðlaugs sýslumanns, suður með Skólavörðuholtinu að austan, suður á móts við Steinkudys, þaðan beina stefnu suður og upp Norðurmýrina, eptir Sigurlaugarstíg, eða í námunda við hann, skáhallt yflr Mjóumýri, austanvert við hlíðina og að Fossvogsveginum. — Flestir munu vera á því, að þegar í Fossvog kæmi, þyrfti stefna hins nýja vegar að verða á brúna á Fossvogslæk. Í tillögum sínum hafa menn sagt, að þyrfti að líta á ýmislegt, bæði stuttleika vegarins, hægðina að gjöra hann og kostnaðinn, sem hann hefði í för með sjer, og svo einnig gagnið, sem yrði af veginum fyrir alda og óborna.
Steinkudys
Þegar er að ræða um vagnveg suður í Hafnarfjörð, þá getum vjer alls ekki skilið, að hans sje svo brýn þörf, því að vjer getum eigi sjeð, hvaða umferð er eða muni verða í bráð milli Reykjavíkur og Hafnarfjarðar, svo að þyrfti að kosta upp á vagnveg.

Hafnarfjarðarvegur

Hafnarfjarðarvegur 1928 – Ásgrímur Jónsson.

Vjer getum hugsað oss, að það gæti komið fyrir, að menn úr Reykjavík þyrftu og vildu sækja síld suður í Hafnarfjörð, en að kosta upp á vagnveg í því skyni, sjáum vjer eigi að sje svo brýn þörf á; vjer getum einnig hugsað oss, að mönnum kynni að þykja gott að geta keyrt sjer til skemmtunar á vögnum milli umræddra staða, t. d. með tveimur gæðingum fyrir; en ættu nú tveir vagnar, með tveimur hestum fyrir hvor, að geta mætzt, án þess að viðstaða þyrfti að verða, þá þyrfti vagnvegurinn að vera breiður, breiðari en vegir gjörast almennt, og þó mönnum þætti nú girnilegt að fá slíkan veg, og vildu því sneiða hjá gamla Öskjuhlíðarveginum, þá eru svipaðir þröskuldar eins og Öskjuhlíðin eptir af veginum, t.d. upp úr Fossvogi og á Kópavogshálsi, þar sem ekki mundi síður þurfa sneiðinga við en á Öskjuhlíð. En svo er nú Hafnarfjarðarhraun; skyldi veita auðvelt að koma þar upp vagnvegi nægilega breiðum, eða skyldi vegurinn á hrauninu sjálfu vera svo breiður, að tveir stórir vagnar, með tveim hestum fyrir hvor, ættu þar gott með að mætast, án allrar tafar?
En eins og vjer áður höfum sagt, getum vjer eigi sjeð, að sem stendur þurfi að hugsa um vagnveg suður í Hafnarfjörð; en setjum nú svo, að Reykvíkingar vildu hafa hann í huga, og eigi láta sitt eptir liggja, í tilliti til undirbúnings undir hann, en hugsuðu þó eigi að fara lengra að sinni en svo, að það jafnframt og þegar í stað gæti orðið til mikils hagnaðar fyrir bæjarbúa, þá er nú vandinn að skera úr því, hvernig og hvar ætti að leggja þennan veg, svo gagnið af honum, auk annars, sem á þyrfti að líta, gæti orðið sem almennast, eða sem flestir gætu haft gagn af honum.“

Háaklif

Horft upp eftir Háaklifi, nú Reykjavíkurvegi – að Sjónarhóli.

Í Ísafold 26. apríl árið 1899 er skrifað um þegar áunna uppbyggingu vagnvegar milli Reykjavíkur og Hafnarfjarðar:

Hafnarfjarðarvegur

Hafnarfjarðarvegur 1947 – Arnarneshæð.

„Sumrin 1897 og 1898 lét sýslunefnd Kjósar- og Gullbringusýslu leggja mikið laglegan vagnveg milli Hafnarfjarðar og Reykjavíkur, frá Fossvogi, en þangað hafði bæjarstjórn Reykjavíkur lagt áður og hefir þessa ekki enn verið getið í blöðum vorum.
Vegur sá er sýslan lét byggja af nýju, er rúmar 5 rastir á lengd, einnig var borið ofan í og endurbættur gamall vegur (Hafnarfjarðarhraun) rúml. 1 ½ röst á lengd. Hver röst er 531 faðmur. Brýr voru gerðar yfir fjóra læki, og er ein þeirra þrjátíu áln. Lengd, með 50 álna löngum stöplum (þeir eru þrír) og 5 áln. Háum á fullum helmingi. Hinar eru 5-8 álna langar.
Til vinnu þessarar var varið 9.600 kr.
Brýrnar allar kostuðu 1.800 krónur. Aðgerð við gamla veginn um 800 kr. Kostar þá her um bil kr. 2,80 faðmurinn í hinum nýja vegi. Í gegnum veginn eru 16 rennur gerðar úr grjóti 50×100 cm., utan ein úr timbri 3×2½ alin. Mold og möl höfð undir í öllum veginum með torf og grjót á hliðunum, nema um 150 faðmar eru eingöngu úr grjóti (púkkvegur). Ofaníburður allstaðar frá 8-12 þuml. á þykkt. Við vinnuna voru 12 menn fyrra sumarið með 4 hestum, en 15 til 18 hið síðara með 6 og 8 hestum. Verkstjóri var bæði sumrin Sigurgeir Gíslason í Hafnarfirði.
Það var myndarlega til ráðist af sýslunefnd Kjósar- og Gullbringusýslu að leggja veg þennan, og væri óskandi að hún fengi styrk til þess að geta gert meira í líka átt sem þetta. Hefir talsverð vagnaferð verið eftir vegi þessum síðan hann var fullger, en talsverð óþægindi eru að því, að ógert er enn við hallann ofan í Hafnarfjörð [um Háklif], því þar er vegurinn mikils til of brattur fyrir vagna, og er vonandi að ekki bíði mjög lengi svo búið.“

Fyrsti bíllinn

Fyrsti bíllinn á Íslandi, sem kenndur er við Ditlev Thomsen, kaupmann og konsúl, var fransk-þýskur af svonefndri Cudell-gerð. Alþingi samþykkti árið 1903 að veita 2.000 kr. styrk til að flytja inn bifreið og taldi ráðlegast að einkaaðili stæði fyrir því. Thomsen kaupmaður varð fyrir valinu og sá hann um rekstur bifreiðarinnar. Thomsensbíllinn var smíðaður árið 1900 eða 1901 og var eiginlega orðinn úreltur þegar hann kom til landsins, í raun aðeins hestakerra með vél aftur í.

Árið 1918 var víða hægt að komast leiðar sinnar akandi á Íslandi, annaðhvort í hestvögnum eða bifreiðum. Bílaöld hófst hér árið 1913 í Hafnarfirði og Reykjavík en hestvagnar til farþegaflutninga voru eldri í hettunni.

Grindavíkurvegur

Gamli Grindavíkurvagnvegurinn.

Vegagerð á Íslandi var í bernsku á þessum árum og vegir víðast hvar vondir. Það tók lungann úr tuttugustu öldinni að teygja þá um landið og gera þá sæmilega greiðfæra. Árið 1918 var þó víða langt komið að leggja akfæra vagnvegi frá helstu verslunarstöðum eins og kveðið var á um í vegalögum frá 1894 eða „flutningabrautir“, eins og þeir voru kallaðir. Í upphafi var gert ráð fyrir að þessir vegir yrðu alls 375 km á lengd og „vel“ færir hlöðnum hestvögnum og kerrum. Við lagabreytingar varð lengdin 397 km. Áætlað var að lokið yrði að leggja þessa vegi 1923. Vegbreiddin var að jafnaði 3,75 m sem dugði til að hestvagnar gætu mæst. Bifreiðir þurftu fimm til sex metra breiða akbraut til að geta mæst.
Árið 1918 voru einnig komnar brýr á margar ár sem höfðu verið farartálmar um aldir. Sunnanlands var til dæmis búið að brúa Sogið, Ölfusá og Þjórsá, Ytri-Rangá og Eystri-Rangá, vestanlands Hvítá, Örnólfsdalsá, Gljúfurá og Norðurá, á Norðurlandi Miðfjarðará, Blöndu við Blönduós, Héraðsvötn eystri, Hörgá í Hörgárdal og Skjálfandafljót og á Austurlandi Eyvindará og Lagarfljót. Markarfljót og jökulár í Skaftafellssýslum voru enn óbrúaðar og sama átti við um Eyjafjarðará.

Gamli Þingvallavegur

Gamli Þingvallavegurinn.

Þjóðvegir voru nýr flokkur vega sem kveðið var á um í vegalögunum 1894 en samkvæmt nýjum vegalögum, sem staðfest voru 1907, skyldu þjóðvegir, sem tengdust kauptúnum eða flutningabrautum, einnig vera akfærir ef þess þótti þurfa. Þeir áttu að vera að jafnaði 3,15 m á breidd og voru orðnir 130 km 1915. Sýsluvegir voru þeir vegir sem lágu milli sýslna og um hverja sýslu þar sem var „mest þjóðbraut“, til dæmis í kauptún og fiskiver. Um þá gilti hið sama og um þjóðvegi. Þar sem þeir lágu út frá flutningabrautum eða akfærum þjóðvegum eða voru framhald þeirra skyldu þeir vera akfærir ef unnt var að koma því við.

Keflavíkurvegur

Hleðslur við gamla Suðurnesjaveginn gegnt Gerði ofan Péturskots, skammt vestan kapellunnar.

Vegurinn til Keflavíkur, sem tók tíu ár að leggja, var til dæmis sýsluvegur, 38 km langur og akfær árið 1918. Hreppsvegir voru þeir vegir milli hreppa og um þá sem voru hvorki flutningabrautir, þjóðvegir né sýsluvegir. Fjallvegir voru þeir vegir yfir fjöll og heiðar sem ekki töldust til neins annars vegaflokks. Þá átti einungis að varða og gera reiðfæra.
Flutningabrautin frá Reykjavík, Suðurlandsbraut, var lengst, teygði sig frá Laugavegi yfir Elliðaár allar götur austur í Rangárvallasýslu árið 1918 eða þangað sem nú er Hvolsvöllur. Við Geitháls hafði verið lögð út frá henni ný flutningabraut til Þingvalla eftir holtum og melum austan við Seljadal þar sem Þingvallavegur lá áður. Frá Eyrarbakka var flutningabraut lögð upp Flóann að Ölfusárbrú og önnur frá Ingólfsfjalli um Grímsnes að Geysi. Borgarfjarðarbraut lá frá Borgarnesi um Stafholtstungur og tengdist þjóðveginum norðan við brúna á Hvíta við Kljáfoss, Húnavatnssýslubraut frá Blönduósi vestur fyrir Víðidalsá, Skagafjarðarbraut frá Sauðárkróki fram Skagafjörð að þjóðveginum fyrir neðan Víðimýri, Eyjafjarðarbraut frá Akureyri að Saurbæ í Eyjafirði, Þingeyjasýslubraut frá Húsavík að Einarsstöðum í Reykjadal og Fagradalsbraut frá Búðareyri við Reyðarfjörð um Fagradal að Lagarfljóti hjá Egilsstöðum. Árið 1914 bættist vegurinn milli Hafnarfjarðar og Reykjavíkur við flokk flutningabrauta.

Suðurlandsvegur

Fyrsti Suðurlandsvegurinn 1887.

Þegar bílaöld hófst 1913 var lokið við að leggja 287 km af flutningabrautunum. Í árslok 1916 höfðu samkvæmt verslunarskýrslum verið fluttir til landsins 30 bílar. Engin bifreið var flutt inn árið eftir enda lögðu Þjóðverjar hafnbann á Bretland í byrjun þess árs og hófu jafnframt stórfelldan kafbátahernað á höfum úti til að fylgja banninu eftir. Hér varð því brátt skortur á ýmsum nauðsynjum, meðal annars eldsneyti. Árið 1918 voru hins vegar fluttar til landsins 27 bílar. Þeir voru allflestar suðvestanlands, í Reykjavík, Hafnarfirði og Árnessýslu. Akureyringar eignuðust fyrstu bifreið sína árið 1914 og Húsvíkingar sína ári síðar. Enn fremur höfðu Austfirðingar hafið tilraunir með rekstur bifreiðar.
Í höfuðstaðnum var ástand gatna bágborið í byrjun tuttugustu aldar. Árið 1912 var gerð sú bragarbót á gatnakerfinu að Austurstræti var „makademiserað“, með öðrum orðum malbikað enda hafði bærinn þá eignast gufuvaltara. Sumarið 1908 hafði portið við barnaskólann við Fríkirkjuveg, Miðbæjarskólann eins og hann hét síðar, verið „tjörusteypt“. Sú aðferð var einnig notuð við gatnagerð í Reykjavík.

Reykjavík

Mynd frá haustinu 1917 sem sýnir verkamenn tjörusteypa Pósthússtræti. Gufuvaltarinn „Bríet Knútsdóttir“ var notuð til að þjappa jarðefninu saman. Valtarinn dró nafn sitt af tveimur kröftugum bæjarbúum, Bríeti Bjarnhéðinsdóttur og Knut Zimsen.

Árið 1918 var lokið við að makademisera eða tjörusteypa þessar götur í höfuðstaðnum: Suðurgötu alla leið að sálarhliðinu á kirkjugarðshorninu sunnanverðu, Kirkjustræti frá Aðalstræti að Pósthússtræti og Pósthússtræti frá Kirkjustræti að Austurstræti, Lækjartorg að Stjórnarráðsblettinum, Lækjargötu frá Bankastræti að barnaskólanum við Fríkirkjuveg, Bankastræti og Laugaveg frá Skólavörðustíg að Frakkastíg. Sama átti við um gangstéttir á þessum stöðum. Sums staðar voru þær þó hellulagðar.

Björn Eiríksson

Bifreið með númerinu HF-1 og karlmaður í jakkafötum með kaskeiti.
„Maðurinn á myndinni er Björn Eiríksson, Björn á Sjónarhóli í Hafnarfirði. Kannski er þetta fyrsti bíllinn hans“. (Thorarinn Gudnason)

En bílferð var ekki ókeypis og því var haldið fram að það hafi einungis verið á færi hinna efnameiri að nota þá. Allur almenningur hefði naumast fé handa á milli til að eyða í skemmtanir eins og að ferðast í bifreiðum, allra síst fátæklingar. En þær stundir koma að nauðsyn brýtur lög. Margir áttu erindi til Vífilsstaða þar sem þeir lágu sem hvíti dauðinn, berklaveikin, hafði tekið heljartökum. Í laugardagsblöðum sumarið 1918 voru jafnan auglýstar ferðir þriggja bifreiða til Vífilsstaða á sunnudögum og kostaði sætið tvo þriðju af daglaunum verkamanns, eða 5 krónur báðar leiðir með klukkustundar ókeypis viðstöðu, 3 krónur aðra leiðina sem fyrir marga var kannski fyrsta og einasta bílferðin.
Prestar, læknar og sýslumenn nýttu bíla í embættiserindum og einnig til ferðalaga eins og þeir sem betur máttu sín. Sambandslaganefndin, sem kom saman hér á landi í lok júní 1918, gerði til dæmis hlé á störfum sínum sunnudaginn 7. júlí og brunaði sér til upplyftingar í mörgum bifreiðum sem leið lá eftir Suðurlandsbrautinni upp að Geithálsi og þaðan eftir flutningabrautinni til Þingvalla. Með í för voru meðal annars ráðherrarnir íslensku. Um viku síðar var farin önnur bílferð enda hafði nefndin þá lokið störfum og frumvarp til sambandslaga tilbúið á pappírnum. En nú var farið austur yfir Hellisheiði. Áð var á Kolviðarhóli þar sem hægt var að kaupa veitingar, snætt í Sigtúnum við Ölfusárbrú og síðan haldið austur að Sogi og á hestum upp með því og Sogsfossarnir skoðaðir. Þangað var ekki bílfær vegur þegar hér var komið. Flestir gistu um nóttina á Eyrarbakka, örfáir í Grímsnesi. Um nónbil á sunnudeginum var haldið af stað til Reykjavíkur og boðið upp á kaffi og pönnukökur á Kolviðarhóli. Um kvöldið var boð hjá forsætisráðherra.

Heimildir:
-Þorvaldur Thoroddsen – Landfræðilýsing Íslands, Hið íslenska bókmenntafélagr 1898, bls. 202-203.
-Reykvíkingur, Hafnarfjarðarvegurinn, 2. apríl 1894, bls. 1.
-Ísafold, Vagnvegur, 26. apríl 1899, 26. árg., 26. tbl., bls. 103.
-Alþingistíðindi 1893 A, 1914 B, 1907 A.
-Dagsbrún 23. september 1918.
-Framsókn 6. ár 1900.
-Guðlaugur Jónsson: Bifreiðir á Íslandi I-II.
-Ísafold 9. ágúst 1890, 3. ágúst 1912.
-Lögrétta 10. júlí, 17. júlí 1918, 123.
-Morgunblaðið 11. júlí 1917, 1. júní, 22. júní, 29. júní, 6. júlí og 13. júlí 1918.
-Óðinn 14. ár 1918.
-Stjórnartíðindi 1907 A-deild.
-Tímarit VFÍ 1917, 1918, 1919.
-Tíminn 20. júlí 1918.
-Verslunarskýrslur 1913–1918.
-Þjóðólfur 19. júlí 1918.
-https://www.visindavefur.is/svar.php?id=75182

Geitháls

Fjölskylda í bílferð við Geitháls.

Suðurlandsvegur

Hólmsá er í og ofan við Reykjavík. Upptök Hólmsár eru við Elliðakotsbrekkur og áin rennur í Elliðavatn og heitir þá Bugða. Árið 1887 var fyrst byggð brú á Hólmsá á þjóðveginum austur fyrir fjall. Sú brú sem var 18 álna löng, tók af í vetrarflóði 1888. Afrennsli Selvatns heitir einungis Ós og fellur um Gljúfur og Elliðakotsmýrar í Hólmsá, þar sem heitir Óskjaftur.

Suðurlandsvegur

Elsta leiðin er mörkuð í hraunhelluna.

Hólmsá rennur fyrir norðan við bæinnn Gunnarshólma undir Hólmsábrú suður um Heiðartagl. Þar fellur kvíslin Ármótakvísl úr Hólmsá í Suðurá en Hólmsá norðan við bæinn Hólm. Áin heitir Hólmsá þangað til hún er til móts við Baldurshaga en þá heitir hún ýmist Hólmsá eða Bugða. Vegagerð ríkisins brúaði Hólmsá árið 1926 og lagði veg frá Suðurlandsvegi í Rauðhóla. Fyrrum lá leiðin upp frá Árbæ, með Selási og sunnan Hólms þar sem hún greindist í tvennt skammt austar; annars vegar í Austurleiðir upp frá Elliðakoti að Lyklafelli norðan og sunnan þess og áfram um Hellisskarð og hins vegar um Lækjarbotna upp í Öldur þar sem sú leið greindist annars vegar inn með Svínahraunsbruna að Hellisskarði þar sem hún sameinaðist Austurleiðunum og hins vegar inn á Ólafsskarðsveg. Þessar götur sjást enn greinilega, einkum sporið á hellunni suðaustan Hólms.

Suðurlandsvegur

Elsta leiðin.

Vagnvegur var lagður frá Öldum um Klifheiði og suður fyrir Rauðavatn árið 1887. Þá var brú sett á vað yfir Hólmsá, en hún entist stutt. Vestan og ofan við vaðið er klappað í klöpp ártal (18?7) og nafn (Ágúst), líklega frá þeim tíma er vagnvegurinn var lagður þar árið 1887.

Brúin yfir Hólmsá var byggð samhliða veglagningu 1887. Hún var strax nefnd Rauða brúin vegna litarins. Árið 1888 tók brúna af í miklum vetrarflóðum. Hún var síðan endurnýjuð 1926. Gamla brúin var 18 álnir á lengd og voru 4 álnir upp í hana venjulega. Stöplarnir voru steinhlaðnir og skemmdust þegar brúna tók af í flóðunum. Brúin var brotin niður en hluta af stöplum hennar er að finna um 45 m vestan ár.
Suðurlandsvegur var lagður að grunni til (vagnvegurinn) árið 1886, í landi Geitháls. Grunnur gamla vegarins er enn sjáanlegur, þ.e.a.s. frá bæjarstæði Geitháls að Hólmsá. Vegurinn var upphaflega lagður 10 fet á breidd (3,13 m). Snemma á 20. öld var vegurinn breikkaður og aðlagaður að bílaumferð.

Suðurlandsvegur

Vaðið á Hólmsá. Letrið neðst.

Í Ísafold 1888 er fjallað um „Veginn nýja“, sem Norðmennirnir hafa verið við 2 sumur undanfarin, frá Fóelluvötnum niður í Reykjavík, og kominð var í haust nærri niður undir Hólm, með 18 álna brú yfir Hólmsá, hefir skemmzt stórkostlega í leysingunum vikuna sem leið, og brúna tekið af ánni aðfaranótt hins ll. Skemmdirnar eru mestar á hólmunum upp frá brúarstæðinu, og sömuleiðis mjög miklar upp á Sandskeiði : stórt haf brotið í brúna yfir það og klofinn frá annar jaðarinn vegarins þar á löngu bili. Nánari skýrsla um þetta ljóta áfall, sem líklega nemur 7—8000 kr. skaða, verður að bíða næsta blaðs.

Suðurlandsvegur

Áletrið við Hólmsá; 18?7 – Ágúst.

Þá segir undir fyrirsögninni „Skemmdir af vatnavöxtum“: Skemmdirnar á norska veginum*, milli Svínahrauns og Hólmsár, hafa þó ekki orðið eins miklar og fyrst var látið, þótt ærnar sjeu. Fyrst eru nokkrar skemmdir á Öldunum fyrir ofan Sandskeiðið. Svo er á Sandskeiðinu grafið skarð í veginn við efstu brúna og austurkampurinn undir henni fallinn, en brúin á því miðju öll á burt og vegurinn þar horfinn á 18 föðmum; enn fremur grafið djúpt ker ofan í gegnum hann neðst á skeiðinu, og loks jetin skörð inn í hann hingað og þangað að ofanverðu, til þriðjunga eða helminga inn í hann. Þá eru litlar skemmdir þaðan ofan að Lækjarbotnum. Hjá Lækjarbotnum hefir áin meðal annars numið burta vegiun á 20 faðma bili og brotið vesturkampinn undir brúnni þar.

Suðurlandsvegur

Letrið.

Fyrir neðan brúna er vegurinn gjörsamlega sópaður burtu ofan í klappir á löngu færi; við Hraunsnefið efra 3 faðma skarð í veginn; brotinn annar kampurinn af brúnni þar, en hinn hangir; og að öðru leyti talsverðar skemmdir á veginn um allt niður að aðalbrúarstæðinu á Hólmsá, en brúin yfir hana, 18 álna löng og 4 álna hátt yfir vatnið venjulega, öll á burtu, og kamparnir (rammgjörvir) skemmdir til muna: efsta lagið raskað á vesturstöplinum og hornsteinar í öðru, en 2 steinalögin efstu í þeim eystri mjög skemmd, og nokkuð neðar. Brúin sjálf í tvennu lagi: þriðjungur af henni rjett fyrir neðan brúarstæðið, en hitt langar leiðir niðar betur. Guðm. bóndi Magnússon í Elliðakoti, er þetta er haft mest eptir, samkvæmt skýrslu hans til amtmanns, með hliðsjón á skýrslu annara skoðunarmanna, fullyrðir, að 1871 hafi komið fullt eins mikið flóð í á þessa, og 1885 annað nokkuð minna.
— Í Ölvesá kom líka feiknaflóð í sömu leysingunni; hún flóði yfir mikið af Kaldaðarneshverfi í Flóa, bæði fjenaðarbús og bæi; allt fjeð á einum bænum, Lambastöðum, drukknaði í fjárhúsinu (30 kindur).

Heimildir:
Morgunblaðið, 143. tölublað (29.06.1967), bls. 4.
-Þorkell Jóhannesson og Óttar Kjartansson. „Elliðavatnsheiði og Hólmar“, 208.
-Ísafold 18. og 23. janúar 1888, 11, 15 og 16.
-Ísafold 24. ágúst 1926.
-Magnús Grímsson. „Um vegagerð og hestvagnaferðir á Suðvesturlandi“, 93.

Reykjavík

Austurvegir – herforingjaráðskort 1903.

Höfði

Höfði á sér merkilega sögu sem tengist samskiptum Íslendinga við aðrar þjóðir.

hofdi-2

Höfði 1919.

Húsið var reist á Félagstúni fyrir franska konsúlinn, Jean Paul Brillouin. Það var hannað í Austur-Noregi og flutt tilsniðið til Íslands. Í byggingunni má sjá áhrif frá júgendstíl, klassísku nýbarrokki og norskri þjóðernisrómantík. Í viðhafnarstofu er nafn Brillouins ritað gullnu letri yfir dyrum ásamt byggingarári hússins, 1909.
Mikill virðuleikablær ríkti yfir Höfða fyrstu áratugina. Eftir Brillouin hafði Einar Benediktsson, skáld og athafnamaður, aðsetur hér ásamt fjölskyldu sinni. Lengstu búsetu átti fjölskylda Matthíasar Einarssonar, læknis. Heimasætan, Louisa Matthíasdóttir, átti eftir að gera garðinn frægan með málaralist sinni.

hofdi-1

Höfði 1923.

Frá árinu 1938 og fram yfir stríð var Höfði aðsetur ræðismanns og síðar sendiherra Bretlands.
Hingað komu meðal annarra í heimsókn á stríðsárunum Winston Churchill forsætisráðherra Bretlands og söng- og leikkonan Marlene Dietrich. Frá miðri 20. öld bjó fjöldi manna í Höfða um lengri eða skemmri tíma og þar var einnig atvinnurekstur.

Höfði

Höfði – upplýsingaskilti.

Reykjavíkurborg keypti húsið árið 1958 og var það endurbætt og fært til fyrri glæsileika. Frá árinu 1967 hefur Höfði verið vettvangur fyrir gestamóttökur á vegum borgarinnar.
HöfðiFrægur er leiðtogafundur Reagans og Gorbatsjovs í Höfða í október 1986, sem talinn er marka upphafið að endalokum kalda stríðsins. Íslendingar viðurkenndu fyrstir þjóða endurheimt sjálfstæði Eystrasaltsríkjanna og var yfirlýsing þess efnis undirrituð í Höfða í ágúst 1991. Erlendir þjóðhöfðingjar sem sækja Ísland heim koma flestir í Höfða.
„Þetta er nú sennilega það hús í Reykjavík sem er frægast allra húsa,“ segir Guðjón Friðriksson sagnfræðingur.

Höfði

Höfði.