Tag Archive for: Sandgerði

Keflavík

Í Faxa 1991 er birt ritgerð Skúla Magnússonar um „Híbýli á Suðurnesjum fyrr á tíð„:

Skúli MagnússonHér á eftir mun verða brugðið nokkru Ijósi á híbýli Suðurnesjamanna á 18. og 19. öld, eftir því sem aðgengilegar heimildir leyfa. Reynt hefiir verið að leita í gögn samtímamanna og sjónarvotta, stuðst við lýsingar þeirra. Heimildirnar mega því yfirleitt teljast trúverðugar. Að visu rituðu þrír sögumenn frásagnir sínar á gamals aldri en ekki er þó ástœða til að rengja þœr að svo komnu. Þessir menn voru: Finnur Jónsson frá Kjörseyri (1842-1924), Kristleifur Þorsteinsson frá Stóra-Kroppi (1861-1952) og Ágúst Guðmundsson frá Halakoti (f. 1869, á lífi 1941).
Sjálfri ritgerðinni er skipt í tvo megin þœtti. Sá fyrri fjallar nokkuð um torfbæi og þurrabúðir á 18. öld. Síðari hlutinn segir einkumfrá upphafi timburhúsa og lítillega er minnst á steinhús á 19. öld. Kirkjum er sleppt. Eingöngu verður fjallað um híbýli til íbúðar.

Bæir og þurrabúðir á 18. öld – lýsingar húsa 1740
Jarðeignir á Suðurnesjum eyddust mjög er aldir liðu. Olli því geysilegt landbrot og foksandur sem bitnaði jafnt á býlum ríkra sem fátækra. Þess ber þó að geta að á sama tíma, frá 1300-1600, hækkuðu jarðirnar í verði vegna þess að gildi fiskveiða óx í hlutfalli við landbúnaðinn. Ríkismenn sóttust því eftir að koma ár sinni fyrir borð þar syðra.
Í byrjun 18. aldar átti konungur flestar jarðir frá Kirkjuvogi að Garðskaga og þaðan inn Vatnsleysuströnd allt að Sundum við Kollafjörð.
Þar sem jarðir þessar urðu mjög illa úti vegna eyðingar kvaddi amtmaður til 4 bændur á Miðnesi til að skoða þar 5 jarðir. Það var 1735. En ítarlegust var skoðunin 1740. Þá skoðuðu 6 menn 25 jarðir frá Stafnesi að Skaga og þaðan inn í Keflavík.
Gallinn á þessum úttektum er þó sá, að hjáleigum var að mestu sleppt, en stærri jarðir og höfuðból komust á blöð skoðunarmanna.

Bær

Innan við bæjardyr.

Alls staðar byrjuðu skoðunarmenn lýsingar sínar í bæjardyrum. Á flestum bæjum var skálinn þar fyrir innan, þá búr og eldhús, en baðstofan aftasta húsið að baki hinum. Þessi húsaskipan var á öllum bæjum sem skoðaðir voru, nema á Meiðastöðum í Garði. Þar var enginn skáli. Þar hafði um vorið 1740 verið reist nýtísku baðstofa sem var næst bæjardyrum. Á Stafnesi virðist baðstofan hafa verið á svipuðum stað.
Á þessum tíma var venja að gefa upp lengdir húsa í stafgólfum, þ.e. lengd á milli sperra eða bita, sem jafnvel gat verið ein rúmlengd í baðstofu. Svo einfalt var þetta byggingarlag í raun. Þetta bil var mælt í álnum og var hvert stafgólf 2-3 álnir, oftast 3 eða örlítið minna.

Bær

Þiljuð baðstofa.

Á mörgum bæjum voru bæjardyr ekki nema eitt stafgólf að lengd, en tvö til þrjú á sumum og fjögur á stærsta bænum. Skálar voru 3 eða 4 stafgólfa (8-10 álna langir) nema á Másbúðum á Miðnesi. Þar var skálinn 9 stafgólf og var trúlega ætlaður sjómönnum. Skálinn á Kirkjubóli virðist hafa verið að baki tveimur stofum er næstar voru taldar bæjardyrum. Á stöku bæ var og ein stofa. En bærinn á Kirkjubóli var þó bæði stærri og frágangur og efniviður í húsum þar mun betri en á öllum hinum bæjunum. Þar voru t.d. báðar stofur þiljaðar innan, 3 stafgólf hvor og með gluggum, sem voru á mjög fáum bæjum. Í fremri stofu var gluggi á hlið með karmi, en tveir á innri stofunni. Þar var líka háborð með sæti og pílárum. Enn fremur bekkir eins og hjá heldri mönnum. Á Kirkjubóli bjó þá Kort Jónsson lögréttumaður.
En skjótt bregður sól sumri. Árið 1837 var bærinn á Kirkjubóli færður af heimajörðinni á eina hjáleiguna. Svo mikið var landbrotið að þessi höfuðjörð Suðurnesja var að engu orðin.

Reykjavík 1835

Bær 1835.

Árið 1740 voru stofur og baðstofur yfirleitt óþiljaðar að innan að nokkru eða öllu leyti. Raftar en ekki súð var á þekjum. Þó var á nokkrum bæjum svokallað milliþil og á fáeinum bæjum alþiljaður endi í baðstofu.
Að Kirkjubóli frátöldu voru best húsakynni á Stóra-Hólmi í Leiru og á Bæjarskerjum á Miðnesi. Á síðari bænum var þiljuð stofa með glugga og tvær baðstofur.

Eggert og Bjarni lýsa þurrabúð

Torfbær

Torfbær frá 18. öld.

Árið 1755 ferðuðust Eggert Ólafsson og Bjarni Pálsson um Gullbringu-sýslu. Samkvæmt frásögn þeirra voru húsakynni við sjávarsíðuna yfirleitt „lélegri en í meðallagi“, en „lang lélegust og sóðalegust“ voru húsakynnin í verstöðvunum sunnan- og suð-vestanlands, þ.á m. á Suðurnesjum.
Meðal annars kvarta þeir Eggert og Bjarni undan ólykt sem hafi verið í þessum húsum, „einkum á vertíðinni…“. Eiga þeir félagar greinilega við fiskilykt sem gjarnan fylgir sjósókn og fískvinnslu. Hér, og að ofan, birtast m.a. hleypidómar og andúð þeira Eggerts og Bjarna gagnvart sjávarbændum. Viðhorf sem voru aldagömul og komu víða fram í hinu forna bændasamfélagi.

Verbúð

Verbúð á sunnanverðum Reykjanesskaga.

Í verstöðvunum voru víða verbúðir þar sem menn bjuggu á vetrarvertíðum, en á öðrum árstímum stóðu búðirnar auðar. Verbúðirnar voru oft í eign stórbænda er bjuggu á höfuðbóli þaðan sem útræði var stundað. Ennfremur fylgdu heimajörðunum oft kot eða hjáleigur. Ef hjáleigurnar höfðu ekki grasnyt voru þær kallaðar þurrabúðir. Þær voru víða á Suðurnesjum. Íbúar þeirra lifðu af afla er fékkst úr sjó. Ennfremur mikið á innfluttum vörum sem þeir fengu í skiptum fyrir fisk. Einnig á landbúnaðarafurðum er guldust með fiskmeti.
Þeir Eggert og Bjarni geta þess að þurrabúðir á Snæfellsnesi og á Suðumesjum hafi stundum verið 5 húsa. Göng í miðju en íveruhús út frá þeim til beggja handa. Næst dyrum voru skálar karlmanna og sjómanna, þá búr og eldhús. Innst og aftast var baðstofan. Hér er trúlega átt við þurrabúðir efnabetri manna en stærð búðanna fór að sögn eftir fátækt íbúanna.

Lýsing Skúla fógeta á betri býlum

Bær

Bæjargöng.

Á betri býlum í Gullbringusýslu voru bæjarhús oft 5 að tölu að sögn Skúla Magnússonar landfógeta. Göng voru í miðju á þeim bæjum, líkt og í þurrabúðum, en til beggja handa voru stofa og skáli, búr og eldhús, aftast var baðstofa.
Stundum var gler í gluggum en oftast líknarbelgir. Gler tíðkaðist einungis hjá mjög efnuðum bændum. Baðstofan var aftasta húsið svo þar héldist hiti, en göngin löng. Ofnar voru óþekktir. Hér er verið að lýsa eins konar gangabæ, forvera burstabæja, eins og þeir tíðkuðust síðará 19. öld.

Bæir og timburhús á 19. öld

Bær

Í bæjargöngum.

Árið 1880 skrifaði hinn aldurhnigni sveitarhöfðingi, Sigurður B. Sívertsen, þegar hann rifjar upp hvernig hfbýli manna voru 1830 er hann kom sem ungur prestur til Suðurnesja: „Húsakynni voru hörmuleg og engin herbergi í þeim er inn í væri bjóðandi. Allt torfbæir með löngum göngum og mjóum, eins og nú aumustu kotum (þ.e. árið 1880.).  Óþrifnaður átti sér víða stað og var eigi hægt annað, eins og átti sér stað í moldarkofum þessum. Voru forir þá víða fyrir utan bæjardyr hvar hellt var í skólpi og mykju undan kúm, einnig slori úr fiski. Í bæjardyrum var flórlagt gólf með hellum sem lagðar voru yfir forarræsi, sem lágu út í forina. Skinnklæði og færi voru látin hanga í bæjardyrum. Aðeins á Stafnesi var hreinlegur bær. Ekkert sást þá timburhús hjá bændum.“.

Grindavík

Bær

Timburhús.

Í Grindavík virtust ekki komin timburhús á helstu jarðirnar 1840-41 nema á Hrauni. Þar hafði Jón Jónsson hreppstjóri og eigandi hálfrar jarðarinnar „uppbyggt í seinni tíð þrjú stjór og reisuleg timburhús“. Rekaviður var mest notaður til húsagerðar en einnig borðviður úr kaupstað.

Hafnir

Bær

Samstæður bær frá 19. öld.

Þar virðast ekki komin timburhús 1839 þegar sr. Sigurður B. Sívertsen ritaði lýsingu Útskálaprestakalls.
Á höfuðbólinu Kirkjuvogi var þríbýli: Austur-, Mið- og Vesturbær. Sá austasti var næstur kirkjunni. Þar höfðu búið ríkir landsetar. Þarna var „reisulegur og vel húsaður bær“, segir sr. Sigurður. Fyrrum bjó þar Guðni Sigurðsson, (1714-80) sýslumaður og settur landfógeti 1749.

Hafnir

Kirkjuvogur 1873.

Árið 1859 kom Finnur Jónsson, fræðimaður, í Hafnirnar í fyrsta sinn, þá 17 ára. Þóttu honum hús þar reisuleg og einhver þau bestu er hann þekkti í sveitum hér á landi.
Vilhjálmur Kr. Hákonarson (1812-1869) bjó þá í „stóru og vönduðu tvílyftu timburhúsi, og annað minna timburhús var þar, sem var geymsluhús hans, enda var fjáður vel…“.“, en Vilhjálmur bjó í Austurbænum í Kirkjuvogi. Ekki verður sagt hvenær Vilhjálmur reisti þetta stóra timburhús, en hann hóf sjálfur búskap þarna 1841. Ekki er fjarri lagi að áætla að hann hafi reist húsið á árunum 1845-55.
Ketill Jónsson (1793-1869) flutti suður í Hafnir um 1829 og bjó lengst af í Kotvogi í „stórum torf- eða grjófbæ, en á hlaðinu var snoturt timburhús með málaðri stofu, voru í henni sum húsgögn dýrmæt..“.
Gunnar Halldórsson (1824-76) hreppstjóri hóf búskap í Kirkjuvogi 1848. Hann reisti „stórt tvíloftar timburhús…“ og bjó þar til dánardægurs. Í þessu húsi bjó Gunnar 1859.
Á Kalmanstjörn var þá hjá Stefáni Sveinssyni (d. 1864) „reisulegur torfbær og allstórt timburhús við, með stofu laglegri í öðrum enda þess“.

Rekatimbur til húsa

Valahnúkur

Valahnúkamöl.

Eins og víðar á Suðurnesjum nýttu bændur í Höfnum rekavið til húsa. Ráku t.d. oft stór tré á fjörur Kalmanstjarnar. Þótti sá reki „allarðsamur til húsabóta…“.
Um nýár 1836 gerði ofsaveður á Suðurnesjum. Rak þá á Valahnjúkamöl syðst við Reykjanestá, svo mikið timbur að fáheyrt þótti. Var talið að farmur þessi væri úr þrímöstruðu skipi sem fórst suður af Indinu. Ekki er þess getið í heimildum að viðurinn hafi verið almennt notaður til bygginga, en mjög trúlegt er það.

James Town strandar

Ásláksstaðir

Ásláksstaðir á Vatnsleysuströnd – eitt húsanna byggt úr timbri Jamestowns.

Að morgni 26. júní 1881, rak á land norðanvert við Ósabotna, stórt skip. Var það amerískt og hér James Town. Skipsstrand þetta markaði þáttaskil í sögu húsagerðar á Suðurnesjum og því er þess getið hér. James Town var upphaflega þriggja mastra, og allt úr timbri. Lestar og þrjú þilför voru full af alls lags viði. Heimildum ber ekki saman um stærð skipsins. Ólafur Ketilsson frá Kalmanstjörn í Höfnum, segir að skipið hafi verið 360 feta langt en 65 fet á breidd. (Gullfoss yngri, sem kom 1951, var 355 fet stafna á milli, en 47 1/2 fet á breidd.) SigurðurB. Sívertsen segir aftur á móti að James Town hafi verið 256 fet, en 54 fet á breidd jafnvel nokkru breiðari.™ Talið var að í skipinu væru alls um 100.000 plankar af öllum stærðum og gerðum. Auk plankabúta og borðviðar.

Sandgerði

Húsið Sandgerði (Sáðgerði) var byggt úr timbri úr Jamestown.

Björgun hófst strax og veður leyfði. Þann 10. ágúst var mikið selt á uppboði af timbri er á land var komið. En 9. september gerði SV-ofsaveður sem braut skipið og bar timbrið um allar fjörur. Mest af timbrinu kom í hlut Hafnamanna. Þeir reistu úr því a.m.k. 9 hús. En mikið timbur barst um allt Suð-Vesturland. Þorvaldi Thoroddsen fannst hús Hafnarmanna „mjög vönduð“, er hann var þar á ferð 1883.
Sama ár getur sr. Sigurður B. Sívertsen þess í annál sínum, að mörg hús væru í smíðum hjá bændum um haustið. „Þeirra mest í Sandgerði hjá Sveinbirni bónda.

Miðnes
Sandgerði
Árið 1859-60 bjó Ketill Ketilsson (1823-1902) á Hvalsnesi. Þar reisti hann „timburhús og stóra steintóft við sjóinn fyrir sjávarafla, sömuleiðis heim við bæinn stórt fjós úr steini“. Þá var á Stafnesi „reisulegur torfbær nokkuð forn, með timburhúsi“.
Óvíst er að þetta hafi verið fyrstu timburhúsin á Miðnesi, en ekki er það ólíklegt. Ketill reisti síðar steinkirkju á Hvalsnesi.
Eins og áður sagði reisti Sveinbjörn Þórðarson (1817-93) veglegt hús í Sandgerði 1883. Líklega af timbrinu úr James Town. Þarna fékk Sveinbjörn efnivið fyrir lítinn pening. en sjálfur var hann svo auðugur að aðeins Hafnamenn stóðu honum framar. Sandgerðishúsið stendur enn í dag.

Garðurinn

Útskálar

Útskálar 1920 – Jón Helgason.

Ekki getur Sigurður B. Sívertsen um timburhús á bæjum í Garði og Leiru í lýsingu Útskálaprestakalls 1839. Líklega hafa þau hvergi verið komin þá. Þó segir klerkur að að Útskálum sé „all snotur timburkirkja og vel húsaður bær“. En 1859 voru komin timburhús í Garðinum „á stöku stað…“.
Árið 1871 var reist í Gerðum skólahús fyrir almenn samskot. Og árið 1878 var húsið endurbyggt úr grjóti með kalklími. Líklega er skólahús þetta fyrsta steinhús á Suðurnesjum.
Athygli vakti 1873, þegar Einar Sigurðsson, bóndi í Vörum, reisti sér „mjög vandað timburhús með prýðilegum herbergjum, eins og best mátti verða…“. Þrátt fyrir hátt verð á timbri.

Meiðastaðir

Þorsteinn Gíslason 7. nóvember 1855 – 30. janúar 1931. Útvegsbóndi á Meiðastöðum, Gerðahr., Gull. Fósturmóðir: Kristín Magnúsdóttir, f. 23.3.1823, d. 19.6.1877.

Árni Þorvaldsson (1824-1901) á Meiðastöðum lengdi timburhús sitt 1874 og setti á það kvist „í gegn“. Um svipað leyti létu margir bændur í Garðinum endurnýja baðstofur. Þrifnaður fór þá vaxandi. Þeir Árni og Einar í Vörum voru meðal ríkustu bænda á Suðurnesjum. Hjá Árna voru t.d. 50 manns í heimili á vertíðum.™
Árið 1879 reisti Einar í Vörum „mikla og vandaða bekkbaðstofu úr tilhöggnu grjóti lukt í kalk…“.
Var talið að kostnaðurinn hefði numið nærri 2000 kr. Alls var talið að Einar hafi lagt a.m.k. 7000 kr. í byggingar í Vörum.

Keflavík
Keflavík
Keflavík hafði sérstöðu, þar var döns verslun og timburhús komin þegar á 18. öld. Tómthúsfólk þar bjó í litlum torfbæjum.
Árið 1839 voru í Keflavík fjögur verslunarhús „og hefur fjölgað þar timburhúsum á seinni árum. Þau eru nú 16″.
Árið 1859 voru auk þriggja verslana komin þar 5-6 lítil einlyft timburhús, en þorri fólks bjó í bæjum.
Árið 1871 byggði Skotfélagið í Keflavík samkomuhús er kostaði 900 dali. Svendsen byggði pakkhús. (Líklega svonefnt Miðpakkhús, sem nú er horfið.) Hans Duus byggði nýja sölubúð, er enn stendur endurbyggð eftir bruna. Húsið er sennilega fyrsta portbyggða húsið í Keflavík. Skammt frá reisti Duus tvílyft pakkhús 1877. Kostaði það a.m.k. 16.000 kr. Stendur það enn og er það fyrsta tvflyfta húsið í Keflavík, að höfundur þessarar ritgerðar telur.
Keflavík
Alls var talið að H.P. Duus hefði varið um 30.000 kr. fram til ársins 1880 til húsabóta á lóð sinni í Keflavík.
Sumarið 1881 lét Fischer kaupmaður reisa stórt tvflyft verslunarhús á lóð sinni. Talið eitt vandaðasta timburhús sunnanlands á þeim tíma. Kostaði það a.m.k. 20.000 rk. Stendur húsið enn í dag. Árið 1888 reisti Knudtzon kaupmaður nýtt einlyft verslunarhús á sinni lóð. Lét hann þá rífa gamalt verslunarhús, er líklega var reist snemma á 19. öld og því komið til ára sinna. Segir í Suðurnesjaannál að 1888 sé íbúðarhús Duus kaupmanns eina húsið í „fornum stíl“ sem eftir sé í Keflavík. Það er: Með háu risi og lágum veggjum. Um leið getur hann þess að nú séu öll hús í Keflavík „byggð í nýju formi eins og í Reykjavík“.
Keflavík
Ljóst er að mikið hefur verið byggt í Keflavík á 8. og 9. tug síðustu aldar. Þrjár aðalverslanir þorpsins endurnýjuðu húsakost sinn að mestu leyti.

Vatnsleysuströnd

Kálfatjörn

Kálfatjörn 1987.

Í sóknarlýsingu Njarðvíkur- og Kálfatjarnarsókna 1840 getur sr. Pétur Jónsson á Kálfatjörn þess að sléttun túna og hleðsla grjótgarða hafi smám saman aukist í sóknunum, svo og byggingar timburhúsa.
Mest notuðu bændur innflutt timbur til húsagerðar enda reki lítill á Ströndinni.
Munur ríkra og fátækra var mikill þar syðra á 19. öld. Kristleifur Þorsteinsson fullyrðir að allt fram á sjöunda tug 19. aldar hafi þar eingöngu verið búið í torfbæjum.
Brunnastaðaskóli
Finnur frá Kjörseyri segir að 1859-64 hafi timburhús í sveitum inn með Faxaflóa verið tiltölulega fá. Ágúst Guðmundsson staðhæfir að fyrsta timburhúsið hafi verið reist á Kálfatjörn, en getur ekki hvenær. Faðir Ágústs, Guðmundur Ívarsson, reisti á Neðri-Brunnastöðum, timburhús 1865 og annað jafnstórt“ 1869. Segir Ágúst að þessi hús hafi verið næst í röðinni á eftir húsinu á Kálfatjörn. Kristleifur segir að eftir 1865 hafi stöku bændur reist lítil og íburðarlaus timburhús.
Sumarið 1872 var reist skólahús úr timbri á Brunnastöðum. Lárus Pálsson, hómópati, reisti nýbýlið Hellur 1873. Varð það „loftbyggður bær úr grjóti og sementi…“.

Fyrsta húsið af því tagi á Ströndinni

Stóru-Vogar

Stóru-Vogar.

Um 1880 reisti Ari Egilsson frá Minni-Vogum fyrsta steinhúsið á Vatnsleysuströnd til íbúðar. Stóð það á hraunklöpp rétt inn við Vogabæina. Hét húsið Grænaborg. Það brann 1882 og urðu af því hörmuleg eftirmál sem ekki verða rakin hér. Líklega var þetta fyrsta húsið úr steini sem búið var í á Suðurnesjum.

Lokaorð

Bær

Þiljaður gangnabær með baðstofustiga.

Á 18. öld voru algengir svokallaðir gangabæir, forverar burstabæja á 19. öld. Báðar þessar húsagerðir tíðkuðust á Suðurnesjum. Á
milli 1835-40 komu fyrstu timburhúsin ef frá eru talin timburhúsin í Keflavík sem komin voru þegar á 18. öld. Um 1860-70 birtust fyrstu steinbæirnir. Á árunum 1880-90 náðu húsbyggingar á Suðurnesjum hámarki, ekki síst eftir að James Town strandaði við Ósabotna 1881. Það skipsstrand markar þáttaskil í sögu húsagerðar á Suðurnesjum. Þaðan fékk almenningur ódýrt timbur. Um þetta leyti endurnýjuðu kaupmenn í Keflavík húsakost sinn að mestu leyti. Farið var að reisa tveggja hæða timburhús. Á sama tíma var reist fyrsta steinhúsið til íbúðar. Tvær veglegar steinkirkjur voru reistar. Hér höfðu einstakir efnamenn oftast forystu, einkum í Höfnum og Garði. Virðist sem metnaður hafi ríkt á milli þeirra um að byggja sem veglegast. – Samið á Nýja-Garði (okt. 1990).

Heimild:
-Faxi, 5. tbl. 01.09.1991, Híbýli á Suðurnesjum fyrr á tíð – Skúli Magnússon, bls. 142-146.

Bær

Ljár ofan við hlóðir í eldhúsi.

Bæjarsker

Við Bæjarsker utan við Sandgerði eru Bæjarsker, Lönd og Bárugerði svo einhverja bæjanna sé getið.
BæjarskerÞessir gömlu bæir og leifar þeirra hafa þegar látið mjög á sjá, ekki síst vegna þess að þarna er um að ræða fyrirhugað byggingarsvæði Sandgerðis. Tökum t.a.m. eina tegund búsetuminjanna; garðana, sem enn eru greinanlegir.
Í örnefnaskrá segir: „Milli Sandgerðis- og Bæjarskershverfis eru, ofan við sandinn, stórar og fallegar sléttar flatir, kallaðar Löndin. Neðri hluti Landanna var að eyðast af sjávarágangi og hreinum uppblæstri. Fyrir nokkrum árum var girt fyrir Löndin skammt fyrir ofan sjávarmál. Er þar nú að gróa upp fagurt landsvæði, en til nokkurrar óprýði eru gömlu rofin, sem upp úr standa. Vegurinn með Miðnesi liggur um Löndin; eru nú risnar upp margar byggingar báðum megin við veginn og Löndin óðum að byggjast, en þar var ekkert býli um aldamótin.
BæjarskerEinn garðurinn liggur meðfram austuhlið skipulagssvæðsins á um 450 m kafla. Við vesturhlið húsanna Miðtún 2-4 er hann aðeins sýnilegur á 12 m kafla, en síðan er hann hulinn að mestu vegna jarðfyllingar sem komið hefur til við byggingu húsanna sem standa við Miðtún. Hann kemur svo aftur greinilega í ljós við Miðtún 12 sem er syðsta húsið, og er síðan mjög greinilegur neðan undan túninu á Býjaskeri. Hæð hleðslanna í garðinum er nyrst um 0.60 m en hann er allt að 1.50 m þar sem hann er hæstur. Ofan á garðinum er svo 0.40-1 m hár graskantur. Heimildir um garðinn er ekki að finna í Örnefnaskrá, en í viðtali við Halldóru Ingibjörnsdóttir á Flankastöðum telur hún að garðhleðslan sé ævaforn.
Vörslugarður er vestan við lóðir að Miðtúni 4-6. Garðurinn liggur suðvestur-norðuraustur, er um 15 m langur, og nokkuð óreglulegur í landinu. Hleðsluhæð er um 0.35 m. Garðurinn hefur trúlega verið hærri upphaflega.

Bæjarsker

Í viðtali við Halldóru sagði hún að grjót meðal annars úr þessum görðum hefði verið selt þegar framkvæmdir voru vegna hafnargerðar í Sandgerði fyrr á árum. Heimildir um garðinn er ekki að finna í Örnefnaskrá.
Sandvarnargarður var neðanvert til að hefta sandfok. Staðsetningin er n: 64,01,906 v: 22,42,647 Hættumat: Þar sem garðurinn er hlaðinn árið 1936 telst hann ekki fornleif samkvæmt þjóðminjalögum. Garðurinn liggur norður-suður frá suðurhluta hafnarinnar og út á sléttlendið út frá húsinu sem einu sinni var refabú. Garðurinn er um 500 m langur og all verulegur. Hleðslur garðsins eru allt að 1 m á hæð og 1 m á breidd. Þá hefur verið hlaðin utan í garðinn tvíhólfa tóft. Heimildir um garðinn er ekki að finna í Örnefnaskrá. Í viðtali við Halldóru sagði hún að garður þessi hafi verið hlaðinn árið 1936 til að hefta sandfok yfir svæðið sem þarna er austur og suður af.

Heimildir m.a.:
-Magnús Þórarinsson: „Leiðir, lendingar og örnefni á Miðnesi; – Melaberg“.
-Frá Suðurnesjum. Frásagnir frá liðinni tíð, Félag Suðurnesjamanna í Reykjavík, 1960, bls. 118-123.
Býjasker

Sandgerðissel
Athygli FERLIRs hafði fyrir nokkrum árum verið vakin á svonefndri „Grænulaut“ ofan við Sandgerði. Sá, sem það gerði, sagðist hafa leikið sér þar sem barn. Eftirtektarvert hefði verið að svæði í lautinni, sem raunar er aflíðandi breitt gróið gil, hefði jafnan grænkað fyrr á vorin en önnur svæði í nágrenninu.
SelstaðanLýsingin vakti strax forvitni því hér var komin vísbending um að þarna kynnu að leynast gamlar tóftir; beitarhús, kot eða jafnvel gömul selstaða.
Í gamalli lýsingu á Sandgerði segir m.a.: „Sandgerðisvík skerst inn í vestanvert Rosmhvalanes. Víkin afmarkast að sunnan og vestan af skerjaklasa sem nefnist einu nafni Bæjarskerseyri. Landið umhverfis Sandgerði er láglendi og að austan er Miðnesheiði, víða grýtt og gróðurlítil. Minjar eftir mikinn uppblástur sjást víða, stór rofabörð, sem sýna að fyrrum var jarðvegur mun meiri í heiðinni en nú er. Nú er sauðfjárhald að mestu afnumið en landið friðað. Norðan Sandgerðis eru Flankastaðir. Þar myndaðist snemma byggðarhverfi. En með vaxandi byggð hefur Sandgerði náð þangað og er nú skammt á milli hverfa. Að sunnan liggur land Bæjarskerja að Sandgerði. Seinustu árin hefur byggðin í Sandgerði teygt sig þangað og nú eru þessi gömlu hverfi sambyggð. Sjávarströndin er lág, víða sendin og mjög skerjótt. Sandfok herjaði áður á byggðina og eyðilagði oft fisk sem breiddur var til þurrkunar. En á árunum 1930-1950 var gert stórátak í baráttunni gegn sandfokinu og það heft með melgresi. Landbrot hefur verið geysimikið á Miðnesi. Sést það á hinu mikla útfirri meðfram landinu, t.d. fram undan Kirkjubóli skammt norðan Flankastaða.“

Tóftir

Um bæinn Sandgerði segir í sömu lýsingu: „Um 1935 var steyptur mikill sjóvarnargarður fyrir landi Sandgerðis. Bærinn Sandgerði stóð við litla tjörn norðan til í hverfinu sem myndaðist snemma upp af Sandgerðisvörinni. Er tjörnin kennd við bæinn og heitir Sandgerðistjörn. Á seinni hluta síðustu aldar var byggt stórt timburhús í stað gamla Sandgerðisbæjarins. Stendur húsið enn á tjarnarbakkanum. Þar bjó Sveinbjörn Þórðarson og seinna sonur hans, Einar. En þeir feðgar voru eigendur Sandgerðis.“
Í örnefnalýsingu fyrir Sandgerði segir m.a. um kotin: „Hjáleigur 1703 eru nefndar Bakkakot, sem einnig er til 1847; Krókskot, er einnig til enn; Landakot, er einnig til enn; Tjarnarkot, er einnig til enn; Harðhaus og Gata munu horfin. Stöðulkot var komið í eyði 1703, svo og Bakkabúð og Helgakot. Sums staðar er sagt frá því, að Sandgerði hafi heitið Sáðgerði. Má og sjá merki akurlanda í landi jarðarinnar.“

Tóftin

Þá segir í annarri örnefnalýsingu: „Í Sandgerðistúni útnorður frá Krókskoti suður af Sandgerðisbæ er stór hóll, grasi vaxinn, sem heitir Álfhóll. Á þessum hól eru rústir. Þetta er allmikið suður af Sandgerðisbæ. Þar upp af eru Uppsalir. Þar er sagt að hafi verið 18 hurðir á járnum. Þar voru rústir, sem nú hefur verið byggt á. Það er norðaustur frá Krókskoti. Þar er nú verið að byggja upp af Uppsölum, ofan við grænan hól, sem heitir Oddstóft. Þar suður af er gil eða melur, sem heitir Gulllág, líkast því að það sé farvegur eftir vatn og hafi runnið í sjó sunnan við Krókskot. Þar upp af, en ofan grjóthola, er varða, sem heitir Kríuvarða. Upp af henni er töluverður dalur með vatni í á vetrum og heitir Leirdalur.“
Álfhóll var talinn bústaður álfa og fullyrt var að þar hrektist aldrei hey. Gvendartóft er skammt frá Oddstóft, ofar í heiðinni, og var hún kennd við Guðmund í Tjarnarkoti.
Hvort fyrstnefnd tóft hafi verið svonefnd Gvendartóft eða Oddstóft er erfitt að segja nokkuð til um. Þó er það ósennilegt.
FuglTóftin í Grænulaut er aflöng með þremur rýmum. Hún er of lítil til að geta hafa verið bær og tæplega nógu stór til að geta hafa verið kot, en hæfileg sem selstaða. Miðað við stærð rýma og skipulag þeirra gæti þarna hafa verið sel frá Sandgerði (Sáðgerði). Fjórða rýmið, aflangt, vestast gæti þá hafa verið stekkur undir selhúsinu.
Auðvitað gæti þarna hafa byggst upp örkot eða önnur nytsöm mannvirki um skamman tíma, en þegar horft er til aðstæðna má leiða að því líkum að þarna hafi verið selstaða fyrrum. Reyndar er ekki minnst á selstöðu frá Sáðgerði í Jarðabókinni 1703, en það segir þó lítið um fyrri not.
Grasgróningar eru þarna í skjóli og lægðum, en hvergi er ræktaðan blett að finna. Það styrkir tilgátuna um selstöðu svo ofarlega í heiðinni.
Tóftin er í skjóli fyrir austanáttinni. Neðan við þær hefur runnið lækur fram á sumarið. Neðan við þær hafa myndast tjarnir, ákjósanlegar til beitar. Tóftin sjálf er gróin, en þó má sjá í henni grjóthleðslur í veggjum og lögun rýma. Lítill ágangur hefur verið á tóftina í seinni tíð.
Ef um selstöðu hefur verið að ræða er hún sambærileg við það sem sjá má í Bæjarskersseli undir Álaborginni og Fuglavíkurseli í Miðnesheiði, undir Selhólum. Hvalsnesselin tvö hafa enn ekki verið skoðuð, en það verður gert fljótlega.
Þarna gæti verið komin 253. selstaðan í fyrrum landnámi Ingólfs. Annars væri forvitnilegt að glugga í fornleifaskráningu, sem unnin var fyrir Sandgerðisbæ v/nýbyggingarsvæðis ofan bæjarins. Hún var lögð fram á fundi byggingarnefndar bæjarins 21. maí 2008.
Frábært veður. Gangan tók 12. mínútur.
Heimildir m.a.:
-Reynir Sveinsson.
-Jarðabók 1703.
-Örnefnalýsingar fyrir Sandgerði.

Efra-Sandgerði

Stafnes

Í Faxa 1993 er sagt frá gamalli sögn um Stafnes undir fyrirsögninni „Þú skalt Stafur heita og nesið Stafnes„:

Faxi 1993„Mælt er, að til forna hafi verið 24 hjáleigur og tómthús á Stafnesstorfunni. Taldi Jón Jónsson hreppstjóri frá Fuglavík, sem síðast bjó í Glaumbæ við Stafnes, mjög glöggur maður og fróður um margt, upp 14 af hjáleigum þessum, sem nú hafa verið fjölda mörg ár í eyði, og voru þær þessar: Nes, Hólmi (tvíbýli), Sandhús, Garðar, Rif, Refshalakot, Gosa, Hattakollur, Sveinshöfði, Vallarhús, Halakot, Lodda og Þemba.
Kvaðst hann á yngri árum sínum hafa heyrt fleiri bæjamöfn nefnd, en ekki muna þau. Sum af býlum þessum voru með vissu grasbýli frá Stafnesi, en þó flest þurrabúðir. Fiskveiðar munu óvíða hafa verið stundaðar með meiri dugnaði og betri hagnaði en frá Stafnesi, enda er þaðan örskammt að sækja á fiskimiðin. Fiskur var þá almennt hertur eða þá kasaður, svo sem skata og hákarl. Var fiskurinn hertur í grjótbyrgjum, sem byggð voru hingað og þangað upp um hraun, og sést þeirra víða merki enn í dag.
Stafnes
Á Stafnesi eru nú þessi býli: Stafnes, Glaumbær, Nýlenda, Bali, Litlibær, Hólakot og Grund, og eru hér talin 21 alls, ef byggð hinna síðarnefndu býla er svo gömul sem hinna. Er þá ekki nema þremur fátt í þá tölu, sem hin forna sögusögn greinir.
Svo er sagt, að endur fyrir löngu hét Stafnes ekki því nafni, heldur aðeins Nes. En sú saga er til þess, að nafnið breyttist, er hér fer á eftir, og er hún skráð eftir því, sem sagði Jón fyrrum hreppstjóri í Fuglavík árið 1888, og var hann þá um áttrætt.

Stafnesviti

Stafnesviti.

Í fyrndinni bjó maður nokkur í Nesi, og mun bærinn þá hafa staðið, þar sem nú er kallað Urð, og er þar nú rif, sem kemur aðeins upp með hálfföllnum sjó. Maður þessi var orðinn gamall og blindur, þegar þessi saga gerðist. Hann átti tvo sonu, er stunduðu sjómennsku og reru til fiskjar frá Nesi.

Einn dag að áliðnum vetri, er þeir voru á sjó að vanda, brimaði snögglega svo mikið, að ólendandi var talið. gerðist gamli maðurinn órór, gekk til smíðahúss og tegldi þar staf einn eða kelli, en bað vinnukonur sínar að vera á höttunum og tjá sér, hvers þær yrðu áskynja úm afdrif skipsins.
Um miðjan dag kemur ein þeirra inn til hans og segir, að ekki muni lengur þurfa að bíða þess, að synir hans lendi, því að þær stúlkurnar höfðu horft á þá bræður leggja í sundið, en þá hafði Boðinn komið og fallið á bátinn flatan; hafði honum þá þegar hvolft og hann borist upp á skerið. Gamla manninum sást lítt bregða og svo var að sjá, sem honum kæmi þetta ekki á óvart. Bað hann stúlkuna að koma aftur til smíðahússins eftir litla stund, og þá tvær saman.
Þegar stúlkumar komu til karls, hafði hann lokið við að smíða stafprik sitt, svo sem honum líkaði. Var stafurinn ekki mikill, en haglega gerður og með útskurði allmiklum.

Stafnes

Stafnes.

Stakk hann stafnum niður með vestisboðang sínum og biður stúlkurnar að leiða sig fram á nesið, þar sem Boðinn falli á land, segir þeim að leiða sig svo nærri sjónum, sem frekast sé fært og láta sig vita nákvæmlega, þegar Boðinn falli hæst á land við fætur sér.

Stafnes

Á Stafnesi.

Gera þær nú, sem karl leggur fyrir, og þegar Boðinn rís hæst, tvíhendir karl stafinn á loft, keyrir hann í ölduna og mælir: „Héðan í frá skaltu Stafur heita og nesið Stafnes. Aldrei skaltu framar mönnum að tjóni verða, sé rétt sundleið farin, og leiðið mig nú heim“.
Það fylgir sögu þessari, að ummæli karls hafi orðið að áhrínsorðum, því að í manna minnum hafi engir menn frá Stafnesi farist á sundinu, þó að jafnan hafi þaðan sjór verið sóttur djarflega og stundum brimað snögglega.
Á þeim tímum, er konungsútgerðin stóð í sem mestum blóma, fórst þó eitt skip þama með 20 manna áhöfn, en þeir voru komnir langt inn fyrir aðalsundið og boðann Staf. Hafði skipið ekki farið rétta sundleið og steytti á skeri því, sem Brúnkolla heitir, á gjánni rétt framan við aðallendinguna.“ – Eftir heimildum frá Vilhjálmi Kr. Hákonarsyni frá Stafnesi. – Rauskinna.

Stafnes

Stafnesviti.

Í Árbók Hins íslenska fornleifafélags 1923 skrifar Hannes Þorsteinsson um „Rannsókn og leiðréttingar á nokkrum bæjanöfnum á Íslandi“, þ.á.m. Stafnes:

Stafnes

Stafnes – örnefni. ÓSÁ.

„Starnes (Stafnes). Stafnes í A. M. og síðan, en Starnes í fjölda fornbréfa frá 1270 og fram á 17. öld eða lengur, og vafalaust hið rétta, upphaflega nafn; er og enn nefnt svo hjá A. M. (í jarðabókinni í Rangárvallasýslu undir Nefsholt). Stiernes nefnist jörðin í Jarðab. Bockholts c. 1600 (A. M. 459 fol.), og eru það leifar af hinum gamla framburði, en Starnes beinlínis í Jb. Jens Söffrenssonar 1639 (A. M. 460 fol.). í ritgerð eptir séra Sigurð Br. Sívertsen á Útskálum er þess getið, að á þeim slóðum hafi verið stör mikil, þótt nú 8é eydd. Starnes verður því að teljast sem aðalnafn, en Stafnes sem varanafn, þótt það reyndar ætti að falla alveg burtu.“

Heimildir:
-Faxi, 2. tbl. 01.02.1993, Gömul sögn um Stanes – „Þú skalt Stafur heita og nesið Stafnes“, Vilhjálmur Kr. Hákonarson, Stafnesi, bls. 57.
-Árbók Hins íslenska fornleifafélags 01.01.1923, Hannes Þorsteinsson – Rannsókn og leiðréttingar á nokkrum bæjanöfnum á Íslandi. Tileinkað minningu séra Guðmundar prófasts Helgasonar. Bls. 30.

Stafnes

Stafnes – örnefni. ÓSÁ.

Sandgerðistjörn

Ætlunin var að fara um dulheima Sandgerðis og m.a. leita uppi og skoða Álfhól (á hólnum eru rústir), tóftir Uppsala (þar er sagt að hafi verið 18 hurðir á járnum), Oddstóft, Gulllág, Kríuvörðu, Efra-SandgerðiSigurðarvörðu, Kumblhól (gæti verið haugur). Kumblhóll og Álfhóll voru báðir álagablettir, og eru margar sögur til af óhöppum þeirra, sem þeim raska. Oddstóft er kennd við Odd Jónsson í Landakoti. Hann hafði þar fé. Á Kumlhól hefur lengi hvílt sterk helgi. Álfhóll var talinn bústaður álfa og fullyrt var að þar hrektist aldrei hey. Gvendartóft er skammt frá Oddstóft, ofar í heiðinni, og var hún kennd við Guðmund í Tjarnarkoti.
Lagt var af stað Frá Efra-Sandgerði, elsta húsinu í bænum, byggt 1883. Viðirnir eru m.a. úr Jamestownstrandinu.
Reynir Sveinsson fylgdi FERLIR um svæðið. Hann er fæddur og uppalinn í Sandgerði, skammt frá Álfhól, og þekkir hvern krók og kima – og alla sem í hvorutveggja hafa dvalið.
Álfhóll„Okkur krökkunum var sagt að hrófla ekki við neinu í og við hólinn“, sagði Reynir er komið var á vettvang. „Þess var gætt að raska engu hér. Þó ætlaði fólk, tengt frystihúsarekstri hér neðar, að byggja hús á hólnum. Byrjað var að grafa fyrir húsinu, en þá urðu fjölskyldumeðlimir hver á fætur öðrum fyrir lasleika. Þá var hætt við að byggja á hólnum.“
Álfhóll er skammt sunnan við Brekkustíg. Sú gata heitir einnig Tjarnargata. Mætast þær niðri í brekku, sem var, en Sandgerðistjörnin lá þar inn í landið. Brött brekka var Brekkustígsmegin. Gatan var síðan hækkuð upp og brekkunni eitt. Tvínafnskipt gatan hefur þó haldist enn þann dag í dag.

Landakot

Í Sandgerðistjörninni er Veitan. Hún er stararengi. Það var slegið fyrrum. Austan við tjörnina var Sandgerðisskólinn, en hann var rifinn. Eftir að skólinn hætti að þjóna hlutverki sínu sem slíkur var þarna lítið býli, nefnt Tjörn. Sandgerðistjörnin var fyrrum einnig nefnd Skólatjörn. Eitt elsta húsið í Sandgerði, Efra-Sandgerði, stendur nú suðvestan við Sandgerðistjörnina. Vestan við húsið er Kettlingatjörn. Nafnið taldi Reynir vera komið af því að þar hafi kettlingum verið drekkt.
Kumblhóll

En fyrst svolítið almennt um Sandgerði – Sandgerðisvík skerst inn í vestanvert Rosmhvalanes. Víkin afmarkast að sunnan og vestan af skerjaklasa sem nefnist einu nafni Bæjarskerseyri. Landið umhverfis Sandgerði er láglendi og að austan er Miðnesheiði, víða grýtt og gróðurlítil. Minjar eftir mikinn uppblástur sjást víða, stór rofabörð, sem sýna að fyrrum var jarðvegur mun meiri í heiðinni en nú er. Nú er sauðfjárhald að mestu afnumið en landið friðað. Norðan Sandgerðis eru Flankastaðir. Þar myndaðist snemma byggðarhverfi. En með vaxandi byggð hefur Sandgerði náð þangað og er nú skammt á milli hverfa. Að sunnan liggur land Bæjarskerja að Sandgerði. Seinustu árin hefur byggðin í Sandgerði teygt sig þangað og nú eru þessi gömlu hverfi sambyggð. Sjávarströndin er lág, víða sendin og mjög skerjótt. Sandfok herjaði áður á byggðina og eyðilagði oft fisk sem breiddur var til þurrkunar. En á árunum 1930-1950 var gert stórátak í baráttunni gegn sandfokinu og það heft með melgresi. Landbrot hefur verið geysimikið á Miðnesi. Sést það á hinu mikla útfirri meðfram landinu, t.d. fram undan Kirkjubóli skammt norðan Flankastaða.
UppsalirUm 1935 var steyptur mikill sjóvarnargarður fyrir landi Sandgerðis. Bærinn Sandgerði stóð við litla tjörn norðan til í hverfinu sem myndaðist snemma upp af Sandgerðisvörinni. Er tjörnin kennd við bæinn og heitir Sandgerðistjörn. Á seinni hluta 20. aldar var byggt stórt timburhús í stað gamla Sandgerðisbæjarins. Stendur húsið enn á tjarnarbakkanum, sem fyrr er getið. Þar bjó Sveinbjörn Þórðarson og seinna sonur hans, Einar. En þeir feðgar voru eigendur Sandgerðis.
Mikið kargaþýfi er á Álfhól. Erfitt var að sannreyna hvort þar kynni að vera tóft. Hins vegar mótaði fyrir tóft eða tóftum á næsta hól, suðvestanvert. Líklegt má telja að þar kunni að vera fyrrnefndur Kumblhóll.
Í örnefnalýsingu Ara Gíslasonar eftir Berent Magnússyni, Krókskoti, og Magnúsi Þórarinssyni, segir m.a.: „
Í Sandgerðistúni útnorður frá Krókskoti suður af Sandgerðisbæ er stór hóll, grasi vaxinn, sem heitir Álfhóll.

Oddnýjartóft

Á þessum hól eru rústir. Þetta er allmikið suður af Sandgerðisbæ. Þar upp af eru Uppsalir. Þar er sagt að hafi verið 18 hurðir á járnum. Þar voru rústir, sem nú hefur verið byggt á. Það er norðaustur frá Krókskoti. Þar er nú verið að byggja upp af Uppsölum, ofan við grænan hól, sem heitir Oddstóft. Þar suður af er gil eða melur, sem heitir Gulllág, líkast því að það sé farvegur eftir vatn og hafi runnið í sjó sunnan við Krókskot. Þar upp af, en ofan grjóthola, er varða, sem heitir Kríuvarða. Upp af henni er töluverður dalur með vatni í á vetrum og heitir Leirdalur. Þar upp af hækkar landið, og er hér uppi nefnt Brúnir. Þar er stór hóll, sem heitir Grænhóll, grasi vaxinn og urð í kring. Þar austur af er melur, er liggur frá norðri til suðurs alla leið frá Digruvörðu og ofan undir Garð. Þessi melur heitir Langimelur. Hann er á mörkum móti Leirunni.“
GvendartóftHalldóra Ingibjörnsdóttir bar lýsingu Ara Gíslasonar undir Berent Magnússon í Krókskoti og Árna Jónsson á Flankastöðum. Skráði hún eftir þeim athugasemdir, sem hér fara á eftir, lítt breyttar: „Sigurðarvörðu hlóð Sigurður Magnússon frá Krókskoti, er hann var að smala fé (segir Berent bróðir hans).
Ekki er líklegt, að neinn hafi verið heygður í Kumblhól.
Ekki er vitað, hvenær hætt var að nota Stekki. Nú sjást engin merki þeirra.
Kumblhóll og Álfhóll voru báðir álagablettir, og eru margar sögur til af óhöppum þeirra, sem þeim raska.
Oddstóft er kennd við Odd Jónsson í Landakoti. Hann hafði þar fé.
Gulllág sagðist Berent ekki muna eftir í sínu ungdæmi og taldi þetta nýlegt nafn. En Halldóra man aldrei eftir, að þessi grunni dalur væri kallaður annað en Gulllág. Þar voru fiskreitir, þegar hún var að alast upp.
Kría verpir nálægt Kríuvörðu.“
Loftur Altice Þorsteinsson ritaði örnefnalýsingu Fiskreiturárið 1996: „Kumlhól getur hæglega verið kuml. Á hólnum hefur lengi hvílt sterk helgi. Stekki var hætt að nota fyrir 1900, Álfhóll var talinn bústaður álfa og fullyrt var að þar hrektist aldrei hey. Gvendartóft er skammt frá Oddstóft, ofar í heiðinni, og var hún kennd við Guðmund í Tjarnarkoti.“
Að sögn Reynis mun þrællinn Uppsali hafa verið fyrsti ábúandinn í Sandgerði og hefur hann búið að Uppsölum. Á bak við hús Reynis við Bjarmaland má sjá leifar Uppsala; litla tóft og aðra jarðlæga norðar, auk garða.
Skammt ofar má sjá leifar af Oddnýjartóft í garði eins hússins efst við Bjarmaland. Suðaustar eru tóftir; Gvendartóft. Um er að ræða tvö hús og ferkantað gerði að norðaustanverðu. Líklegt er að þarna hafi verið lítið kot um tíma. Myndarlegt vatnsstæði er suðvestan við tóftirnar. Ofar er varða, líklega landamerki. Hún gæti þess vegna hafa heitið Kríuvarða.
Í Gullág eru heillegir fiskreitir; stakkstæði, frá Miðnesi. Segja má með nokkrum sanni að of lítið hefur verið gert úr áþreifanlegum minjum í og við Sandgerði með hliðjón af sögu byggðalagsins um aldir.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 3 mín. Að henni lokinni bauð Reynir þátttakendum til stofu, bauð upp á kaffi og meðlæti, og fræddi þá um staðhætti og fólkið í Sandgerði fyrr á tímum.

Heimildir:
-Örnefnalýsingar fyrir Sandgerði.
-Reynir Sveinsson.

Efra-Sandgerði

Efra-Sandgerði.