Tag Archive for: Seltjarnarnes

Seltjarnarnes

Hér á eftir verður fjallað um helstu minnismerkin á Seltjarnarnesi:

Ásmundur Sveinsson – Trúarbrögðin

Seltjarnarnes

Seltjarnarnes – minnismerki; Trúarbrögðin.

Frummynd þessa járnskúlptúrs er frá 1956. Árið 1975 var hún stækkuð og reist á núverandi stað í tilefni 100 ára afmælis Mýrarhúsaskóla.

Ár: 1965/1975.
Efni: járn.

Trúarbrögðin eru frá því skeiði í list Ásmundar (1893-1982) þegar járnið leysti stein og tré af hólmi sem aðal efniviður listamannsins. Jafnframt urðu viðfangsefni hans óhlutbundin, oft sótt í heim tækni og geimvísinda. Í þessu verki notar Ásmundur geómetrísk form og tákn sem vísa til ýmissa trúarbragða og andlegra minna. Hálfmáninn er tákn múhameðstrúar, utan hans stendur kross sem tengist öðrum hlutum verksins með járngeislum. Margs konar þríhyrnd form vísa til heilagrar þrenningar en einnig til viðleitni alls til æðri upphafningar og sameiningar. Hringurinn er tákn eilífðar og einingar. Við fyrstu sýn líkist verkið skipi, með stefni, möstrum og segli. Má skilja það svo að hin ýmsu trúarbrögð og andleg leit mannsins séu á sama fleyi, siglandi hraðbyri inn í framtíð einingar og andlegs þroska.

Minnismerki er staðsett við Kirkjubraut, á holtinu skammt vestan Seltjarnarneskirkju.

Bjarni Pálsson (1719-1779)

Seltjarnarnes

Seltjarnarnes – minnismerki; Bjarni Pálsson.

Minnisvarði um Bjarna Pálsson landlækni stendur við Nes við Seltjörn á Seltjarnarnesi.

Bjarni var skipaður fyrsti landlæknir á Íslandi 17. mars 1760 og sat að Nesi við Seltjörn 1763-1779.

Minnisvarðinn er reistur af Seltjarnarneskaupstað á 200 ára ártíð Bjarna Pálssonar 8. september 1979.

Bjarni fæddist að Upsum á Upsaströnd við Dalvík. Foreldrar hans voru hjónin séra Páll Bjarnason prestur á Upsum og Sigríður Ásmundsdóttir. Bjarni missti föður sinn tólf ára að aldri og fluttist þá með móður sinni að Stað í Hrútafirði. Hann hóf nám í Hólaskóla 1734 en hætti vorið 1736 til að gerast fyrirvinna móður sinnar. Hann hóf þó nám að nýju síðar og lauk stúdentsprófi frá Hólaskóla 1745, þá 26 ára að aldri. Hann innritaðist í Kaupmannahafnarháskóla 1746 og lagði þar stund á læknisfræði og náttúruvísindi.

Seltjarnarnes

Seltjarnarnes – minnismerki; Bjarni Pálsson.

Bjarni lauk læknanámi í september 1759 fyrstur Íslendinga og var þá orðinn fertugur. Hann var skipaður fyrsti landlæknir Íslands 18. mars 1760 og bjó eftir það á Bessastöðum og síðan á Nesi við Seltjörn þar sem nú er Nesstofa á Seltjarnarnesi. Hann kenndi nokkrum mönnum læknisfræði og veitti sumum þeirra lækningaleyfi eftir að hafa prófað þá en aðrir sigldu til Kaupmannahafnar og luku þar læknanámi.

Kona Bjarna var Rannveig Skúladóttir (1742-1803), dóttir Skúla Magnússonar landfógeta. Sveinn Pálsson læknir skrifaði ævisögu Bjarna og var hún gefin út í Leirárgörðum árið 1800.

Seltjarnarnes

Seltjarnarnes – minnismerki; Bjarni Pálsson.

Minnismerkið, þrír stuðlabergsstandar, er skammt norðan við Nes. Á þeim hæsta, í miðið, er tákn lækna, á þeim til vinstri handar er áletrunin „Reist af Seltjarnarkaupstað á 200 ára ártíð Bjarna Pálssonar 8. sept. 1979“ og á þeim til hægri handar er áletrunin „Bjarni Pálsson f:17. maí 1719, d: 8. sept 1779. Skipaður fyrsti landlæknir á íslandi 18. mars 1760. Sat að Nesi við Seltjörn 1763-1779“.

Björn Jónsson í Nesi (1772-1798)
Fyrsti lyfjafræðingurinn og apótekarinn á Íslandi.

Minnisvarðinn var afhjúpaður 24. september 2021 og stendur í Urtagarði apótekarans við Nes á Seltjarnarnesi, en urtagarðurinn var gerður árið 2010 í minningu Björns Jónssonar, Bjarna Pálssonar landlæknis og Hans Georg Schierbeck, landlæknis með jurtum sem vitað er að apótekarar og lyfjafræðingar notuðu 1763-1834.

Seltjarnarnes

Seltjarnarnes – minnismerki; Björn Jónsson í Nesi.

Upphaflega er talið að Urtagarðurinn hafi staðið suður af Nesstofu, en nýi garðurinn er suðaustur af Nesstofu og stendur minnisvarðinn í garðinum.
Minnisvarðinn er grágrýtisbjarg með áletruninni „Björn Jónsson, lyfjafræðingur. Apótekari í Nesi 1772-1798“.

Georg Schierbeck (1847-1911)
Í Urtagarðinum er gulmálaður garðbekkur, að baki minnismerkinu um Björn Jonsson í Nesi.. Á honum er áletrun: „Georg Schoerbeck landlæknir, f. 24.02.1847, d. 07.09.1911. Græðandi og heiðursfélagi Garðyrkjufélags Íslands“.

Ankeri
Norðan Norðurstrandar gegnt gatnamótum Sefgarða er ankeri. Á því er skjöldur með eftirfarandi áletrun: „Akkeri við Nýjabæjarvör. Ekki er vitað um uppruna þess akkeris, sem fannst í Súgandafirði um 19160. Akkerið er gjöf Jóns Snæbjörnssonar til Seltjarnarnesbæjar.

Seltjarnarnes

Seltjarnarnes – minnismerki; Skilti á Ankeri við Nýjabæjarvör.

Amma Jóns, Bryndís Ó. Guðmundsdóttir f. 20.06.1900, d. 23.06.1966 og afi, Jón Guðmundsson f. 14.031899, d. 27.07.1964 voru síðustu ábúendur Nýjabæjar.
Akkerið stendur hér við Nýjabæjarvör í landi sem áður tilheyrði Nýjabæ“.

Ankeri
Sunnan Suðurstrandar, skammt ofan við Björgunarmiðstöð bæjarins, er ankeri við grágrýtisbjarg. Einhver gömul, ryðbrunnin, áletrun er á ankerinu, en engar aðrar skýringar er þar að finna.

Björn Jónsson (1932-2010)
Björnslundur

Seltjarnarnes

Seltjanarnes – minnismerki; Björnslundur.

Gróðursettur af félögum Rotaryklúbbs Seltjarnarness í minningu Björns Jónssonar (1932-2010) skólastjóra og skógræktarfömuðar 2019.

Gróðurlundurinn er í útivistarsvæði norðan við Suðurströnd á Seltjarnarnesi, skammt vestan við íþróttasvæði bæjarsins. Við hann er lítið skilti, sem á stendur: „Björnslundur – Gróðursettur af félögum Rótarýklúbbs Seltjarnarness í minningu Björns Jónssonar (1932-2010) skólastjóra og skógræktarfrömuðar 2019“.

Friðartré

Seltjarnarnes

Seltjarnarnes – minnismerki; Friðartré.

Á útivistarsvæðinu, þar sem Björnslundur er, hefur verið komið fyrir skilti við hálfdauða hríslu. Á því stendur: „Friðartré – Gróðursett 5. júlí 2011. Augnabliks friður getur og mun bjarga heiminum. -Sri Chinmoy stofnandi Friðarhlaupsins (Wold Harmony Run)“.

Nes við Seltjörn

Hér stóð kirkja til ársins 1799.

Minnisvarðinn um kirkju í Nesi við Seltjörn er skammt sunnan Ness.

Rotaryklúbbur Seltjarnarness reisti minnisvarðan.

Heimildir m.a.:
-https://www.seltjarnarnes.is/is/mannlif-nattura/menning/listaverk-baejarins
-https://eirikur.is/minnisvardar/vesturland/reykjavik-minn/#selt
-https://is.wikipedia.org/wiki/Bjarni_P%C3%A1lsson

Seltjarnarnes

Seltjarnarnes – minnismerki; Neskirkja.

Nes

Eftirfarandi frásögn um kirkjur við Nes á Seltjarnarnesi birtist í Lesbók Morgunblaðsins 1995:
„Einn dag í lok júní árið 1791 var Hannes Finnsson Skálholtsbiskup á vísitasíuferð í Nes-22Seltjarnarneshreppi og hinum nýja kaupstað Reykjavík, sem aðeins var tæplega fimm ára. Biskup hafði verið í Laugarnesi og skoðað þar kirkju, skoðað framkvæmdirnar við Reykjavíkurkirkjuna nýju, sem nú átti að verða dómkirkja landsins. Þeim framkvæmdum miðaði svo hægt, að veggirnir voru ekki komnir upp að þakbrún, þó að liðin væru nú tvö ár frá því að þær hófust. Vorið hafði verið svo kalt, að frost fór ekki úr jörðu um sumarið. Það voru því víða forarvilpur á leið biskups og sveina hans fram á Nesið að læknissetrinu. Hannes biskup hafði haft spurnir af því, að þar á staðnum væri fyrir 6 árum risin ágæt ný kirkja og hann vissi einnig að þeir konunglegu embættismenn, sem þar bjuggu, hðfðu verið örlátir í gjöfum sínum til byggingar þessa góða guðshúss.
Neskirkja hin nýja var í 8 stafgólfum, öll gerð af timbri, en fram af henni var klukknaport, sem átti fáa sína líka og bar það hæst, þegar menn komu að staðnum. Það var litlu minna að formi en kirkjan sjálf, þrjár hæðir og toppur upp af, alls vel á 16. alin á hæð.

Nes-8

Uppi á klukknaportinu blasti við vindhani, úthöggvinn í kopar og sat á járnstöng, sem þrjár kúlur eða smáhnettir voru festir við. Inni í portinu var stigi til þess að ganga upp í neðstu etagu portsins og þaðan frá annar laus til þess að stíga hærra. Fyrir portinu voru vængjahurðir á hjörum með skrá, lykli og sterkum, löngum járnkrókum og lykkjum til að skorða hurðarvængina með, þegar þeir stóðu opnir.
Í ársreikningum fyrir 1790 sá biskup, að kirkjan hafði enn tekjur af þriðjungi heimalands í Nesi og af jörðunum Bakka og Bygggarði svo sem verið hafði frá því um daga Vilchins biskups að minnsta kosti. Hún hafði einnig tekjur af ljóstollum og legkaup hafði verið greitt fyrir 3 fullorðna og 9 börn á þessu ári. Tekjustofnar kirkjunnar voru því traustir sem fyrr, en hún hafði safnað nokkrum skuldum vegna byggingar nýju kirkjunnar. Þá hafði ekkert komið á reikning kirkjunnar vegna byggingar klukknaportsins, heldur var hann að öllu leyti reistur á kostnað sóknarfólksins. Portið kostaði 79 rd. og 52 sk. og af því greiddi Björn Jónsson apótekari helminginn. Skuldir kirkjunnar námu alls um 200 ríkisdölum.
Nes-24Eftir að hafa litið yfir reikningana lá næst fyrir að ganga til kirkju og skoða hana að innan. Og hér sýndist allt í góðu ástandi. Kirkjudyrnar voru með stórri panelhurð á hjörum og annarri minni að innan. Í framkirkjunni var fjalagólf á öllum gangveginum en hellulagt til hliðar undir þversætunum, sem voru 9 að sunnan og 10 að norðan, öll með bekkjum, bríkum og þverslám. Allbjart var í kirkjunni, því að á framkirkjunni eru 3 gluggar á hvora hlið með sex rúðum hver og uppi yfir hverjum þeirra er annar minni með fjórum rúðum hver. Milli kirkju og kórs gat að líta hálfþil með pílárum yfír og á því dyr með súluformuðum dyrastöfum, allt málað. Þegar horft var yfir hálfþilið blasti altarið við og var það gert af panelverki með gráður fyrir og grindverki í kring. Yfir altarinu var prédikunarstóll, einnig af panelverki, málaður og gylltur og með himni yfir.

LOK KIRKJUHALDS Í NESI

Nes

Nesstofa 1925, Fyrir framan húsið er frúin í Nesi, Kristín Ólafsdóttir, dóttir hennar Ásta Guðmundsdóttir (1895-1976), sonur Kristínar, Einar Guðmundsson skipstjóri (1891-1971) og Tryggve Bergström (1922-2012) sem var sonur dóttur hennar Guðrúnar Guðmundsdóttur (1893-1988) og sænska þingmannsins Karl Bergström (1888-1965).

Í kórnum voru 4 gluggar, tveir á hvora hlið. Innan af kórnum var skrúðhús í einu stafgólfi og lágu úr því dyr út til norðurs, en glergluggi var til hliðar með 4 rúðum. Biskup sá, að hálfþil, altari og prédikuarstóll höfðu verið í gömlu kirkjunni og fleira hafði verið notað úr henni.
Biskup gat séð af eldri vísitasíum, að kirkjan hafði verið allvel búin skrauti og skrúða og var það flest á sínum stað. Sumt hafði verið endurbætt frá síðustu vísitasíu eins og yfirdekkið á prédikunarstólsröndinni, sem danska yfirsetukonan hafði látið lagfæra á sinn kostnað. Frá síðustu vísitasíu hafði kirkjunni svo bætzt ágætur gripur, skírnarfontur með himni yfir, ágætt snikkaraverk og fylgdi útskorin dúfa. Þennan grip hafði velgjörðarmaður kirkjunnar, Björn Jónsson apótekari, gefið henni.
Síðasta verk Hannesar biskups í Nesi þennan júnídag 1791 var að skoða kirkjugarðinn og þar gat hann fundið að við sóknarbörnin, því að þau höfðu vanrækt að halda honum við og var veggur hans allur fallinn nema til vesturáttar og í útsuður, þar sem hann var nýuppbyggður af steini. Setti biskup sóknarmönnum það verk fyrir næstu Jónsmessu, að byggja upp kirkjugarðinn sómasamlega og hótaði sektum, ef ekki yrði að gert. Lauk svo þessari vísitasíu og þar með síðustu opinberu heimsókn biskups á hinn forna kirkjustað í Nesi við Seltjörn.

ELDRI KIRKJUR í NESI
Nes-9Í kirknatali Páls biskups Jónssonar í Skálholti frá því um 1200 er fyrst getið um kirkju í Nesi við Seltjörn og var hún helguð heilögum Nikulási. Kirkjan var prestsskyldarkirkja sem kallað var, en það þykir sýna, að Nes hafi verið í tölu stórbýla og kirkjan þá væntanlega átt einhverjar eignir, e.t.v. þriðjung úr landi Ness eins og hún átti samkvæmt fyrsta máldaga hennar, sem kunnur er, en það er Vilchinsmáldagi frá 1397. Nes var að fornu talin 120 hundraða jörð. Afar lítið má ráða af máldaganum frá 1397 um kirkjubygginguna í Nesi í lok 14. aldar. Þar er aðeins talað um tvo glerglugga á henni og hinn þriðja, sem sé brotinn. Hörður Ágústsson telur gluggafjöldann benda til þess, að kirkjan í Nesi þá hafi verið timburkirkja. Það vekur athygli, að samkvæmt þessum eina máldaga, sem til er úr kaþólskum sið, hefur Neskirkja verið mun auðugri að jörðum en kirkjan í Reykjavík. Þykir það benda til þess, að lengi hafi mun ríkari höfðingjar búið að Nesi en í Vík.
Í fyrstu máldagabók, sem til er í Skálholtsbiskups-dæmi eftir siðaskipti, og kennd er við Gísla biskup Jónsson, kemur fram, að jarðeignir kirkjunnar í Nesi eru hinar sömu og voru fyrir siðaskiptin. Hins vegar vekur athygli, að Neskirkja virðist nú fátæk orðin af skrúða og áhöldum (ornamenta og instrumenta). Aðeins eru nefnd fern messuklæði, tveir kaleikar og tvö altarisklæði.

Nes

Nesstofa 2015.

Kirkjan í Vík var í lok 16. aldar orðin auðugri af þessum lausu munum en Neskirkja. Við þetta vakna ýmsar spurningar eins þær, hvort Nes hafi orðið sérlega hart úti við eignaupptöku siðaskiptanna. Brynjólfur Sveinsson var biskup í Skálholti á 17. öld og hann vísiteraði kirkjuna í Nesi fjórum sinnum. Nes var þá restssetur og þar bjó séra Stefán Hallkelsson. Kirkjunni er svo lýst 1642, að hún sé stæðileg að máttarviðum í 6 stafgólfum, en vafalaust hefur hún að mestu verið úr torfi og grjóti. Tuttugu árum seinna var meistari Brynjólfur enn á ferðinni í Nesi og nú voru þau umskipti orðin, að séra Stefán Hallkelsson var andaður, en ekkja hans, Úlfhildur Jónsdóttir, hafði ábúð á jörðinni. Í vísitasíugerðinni kemur fram, að séra Stefán hafi látið byggja kirkjuna upp „sterka og stæðilega“. Segir biskup, að svo myndarlega hafi verið að uppbyggingunni staðið, að kirkjan sé fremur skuldug erfingjum séra Stefáns en þeir henni. Úlfhildur bætti síðan um betur árið 1675 og lét stækka kirkjuna og endurbyggja. Þórður biskup Þorláksson segir í vísitasíu sinni 1678, að kirkjan hafi fyrir þremur árum verið „uppsmíðuð af nýjum viðum og góðum kostum uppá kostnað Úlfhildar Jónsdóttur“. Þessari nýuppsmíðuðu kirkju er svo lýst, að hún sé í átta stafgólfum og hafi verið stækkuð um tvö. Má vera að kirkjan hafi verið svonefnd útbrotakirkja, en þær voru mjög fáar í landinu.
Utan að sjá hefur Úlfhildarkirkja verið stæðileg, því að sagt er, að grjótveggir hafi verið utan um hana „uppað miðjum hliðum allt annað torflaust“. Þá er þess getið, að vindskeiðar hafi sett svip sinn á húsið „bak og fyrir“.
Nes-10Árið 1703 var margt manna í Nesi. Þar bjó þá sýslumaðurinn Jón Eyjólfsson og hafði mikið umleikis. Ekki færri en 12 hjáleigur voru þá í byggð í Neslandi. Þetta ár manntalsins fræga vísiteraði Jón Vídalín Nes og segir um kirkjuna, að hún sé stæðilegt hús en „nokkuð tilgengin suður“. Næstu áratugi hrakaði kirkjunni smám saman og kemur þetta glöggt fram í hverri vísitasíunni á fætur annarri. Fyrsta heimsókn biskups í Nes, eftir að staðurinn varð landlæknissetur, var árið 1769, en þá var Finnur Jónsson á ferðinni. Sér þess stað í því, áð Bjarni Pálsson landlæknir hefur gefið kirkjunni skírnarfat úr messing „vel sæmilegt“ og einnig Þorláksbiblíu í sæmilegu bandi. Annars er hann nú ábúandi í Nesi og því umsjónarmaður kirkjunnar. Segir biskup, að hann verði að láta endurbæta syðri kirkjuvegginn, sem nú sé að falli kominn.
Árið 1780 var Hannes Finnsson orðinn biskup í Skálholti. Hann vísiteraði Nes í ágúst þetta ár og kallar reyndar staðinn Læknisnes í vísitasíugerð sinni. Nú var Bjarni Pálsson dáinn, en nýr landlæknir var ekki tekinn við. Hins vegar var kominn apótekari í Nes, Björn Jónsson, og hann er sagður hafa gefið kirkjunni brauð og ljósmeti. Þá segir einnig frá því, að danska yfirsetukonan, mad. Margarete Cathrine Magnussen, hafi „þessu guðshúsi til prýði gefið … skírnarvatnskönnu af eingelsku tini“.

Torfkirkja

Torfkirkja.

Það kemur því greinilega fram, að kirkjan í Nesi hafði fengið góða styrktarmenn í embættisfólkinu á staðnum. Og fleiri höfðu styrkt hana síðustu árin, því að Hans Klog, kaupmaður í Vestmannaeyjum, hafði gefið málaða altaristöflu prýðilega með 2 colonner. Hannes biskup taldi upp það, sem kirkjunni hafði verið gefið og var auðvitað ánægður með það. En hann var ekki eins ánægður með ástand kirkjunnar sjálfrar, Úlfhildarkirkju frá 1675. Um það segir hann: „Húsið er víða gallað og aungvan vegin stæðilegt, hallt að veggjum,“ og hann bætir við, að það þurfi að „uppbyggjast“ svo stórt er hæfi söfnuðinum. Þá er hann einnig óánægður með ástand kirkjugarðsins og segir, að veggir
hans séu víða gjörfallnir. Við þetta bætist, að garðurinn sé of lítill „handa sóknarinnar
framliðnum til greftrunar“ og þurfi að víkka hann út á næstunni. Þetta var skrifað um kirkju og kirkjugarð árið 1780. Nú er ekki nákvæmlega vitað um viðbrögð safnaðarins við þessum áminningum biskups, en árið eftir, 1781, tók Jón Sveinsson við embætti landlæknis. Hann og Björn Jónsson apótekari urðu fjárhaldsmenn kirkjunnar og þeir höfðu forystu um að reisa nýja kirkju í Nesi, þá sem kölluð var einhver prýðilegasta kirkja í Skálholtsstifti og áður var fjallað var um.

Nes-11Síðasta kirkja í Nesi, timburkirkjan góða, ein af fáum timburkirkjum á landinu, stóð aðeins í 14 ár, 1785-1799, og var síðustu tvö árin rúin helgi og að líkindum gripum sínum. Til þess að finna skýringar á þessu, verður að leita allt aftur til ársins 1784. Þá hrundu byggingar í Skálholti í jarðskjálfta og ákveðið var að flytja biskupsstól og skóla þaðan. Áðurnefndur biskup, Hannes Finnsson, bjó þó áfram í Skálholti til dauðadags 1796, en gert var ráð fyrir því, að biskup kæmi til með að búa í Reykjavík eða nágrenni. Því var ákveðið, að Reykjavíkurkirkja yrði dómkirkja, en hún var eigna- og tekjulítil kirkja og því þróaðist sú hugmynd hjá Ólafi Stefánssyni stiftamtmanni og Hannesi Finnssyni biskupi að leggja niður kirkjurnar í Laugarnesi og Nesi og láta eignir þeirra og tekjur af sóknarbörnum renna til dómkirkjunnar í Reykjavík. Sá var þó munur á þessum kirkjustóðum, að í Laugarnesi var gömul kirkja, komin að falli en í Nesi var ný kirkja. Það er 1793, sem þessi hugmynd kemur fram og í bréfi biskups til stiftamtmanns 5. september það ár segir, að leggja beri Laugarneskirkju niður og svo stutt sé á milli Neskirkju og dómkirkjunnar í Reykjavík, að hætta megi helgihaldi í Nesi. Segir biskup, að stiftamtmaður megi ráða ferðinni í þessu máli. Ekki verður vart mikilla bréfaskrifta um þetta mál næstu ár, en þó lætur Magnús Stephensen í það skína í Minnisvérðum tíðindum að íbúar í Nesi og aðrir hafi haft uppi einhver mótmæli. Á það ber raunar að líta, að Jón Sveinsson landlæknir hafði nokkru fyrr komið fram með þá hugmynd, að eignir Neskirkju rynnu til spítalahalds þar og Nesbúar sæktu kirkju í Reykjavík.

Timburkirkja

Timburkirkja.

Ákvörðunin um lok kirkjuhalds í Nesi kom í formi konungsbréfs 26. mai 1797. Þar sagði, að Neskirkja á Seltjarnarnesi skuli afleggjast. Húsið skuli selja á uppboði og skuld kirkjunnar borgast af andvirðinu, en það sem umfram verði skuli leggjast til Reykjavíkurdómkirkju. Skrúði og áhöld kirkjunnar skuli gefin næstu fátækum kirkjum eftir ákvörðun biskups, en þá var Geir Vídalín, sem reyndar bjó á Lambastöðum, orðinn biskup. Sérstaklega er tekið fram, að klukkur kirkjunnar skuli selja á uppboði og andvirði þeirra renna til hjálpar fátækustu prestaköllum í stiftinu. Eignir Neskirkju og gjöld renni til dómkirkjunnar sem og sóknarmenn allir.
Ekki leið langur tími, þangað til farið var að framkvæma þetta konungsbréf og hefur síðasta guðsþjónustan væntanlega verið haldin í Neskirkju um mitt sumar 1797, því að 14. ágúst þetta ár var kirkjan seld á uppboði í Reykjavík. Það var Sigurður Pétursson sýslumaður og skáld, sem bauð upp tvær kirkjur þennan dag, því að hann seldi bæði Laugarneskirkju og Neskirkju. Fyrrnefnda kirkjan seldist á aðeins 17 ríkisdali og 56 skildinga, en Neskirkja á 125 ríkisdali og 48 skildinga. Það var Magnús Ormsson lyfjafræðingur og frá 1798 apótekari í Nesi, sem keypti kirkjuna. Skuld hennar við fjárhaldsmennina Jón Sveinsson og Björn Jónsson var þá 91 ríkisdalur og 72 skildingar og fengu þeir það fé greitt, en afgangurinn, 33 ríkisdalir og 72 skildingar, rann til dómkirkjunnar í Reykjavík, eins og mælt var fyrir um í konungsbréfi. Sigurður Pétursson afhenti fjárhaldsmönnum dómkirkjunnar þessa peninga. Hvergi er getið um uppboð á klukkum kirkjunnar og ekki verður séð, hvað orðið hefur um skrúða hennar og áhöld.

Seltjarnarnes

Nes og Neskirkja fyrrum.

En hvað ætlaði Magnús Ormsson sér með kirkjuna? Þetta er ekki ljóst, en gott timbur mátti auðvitað nota til margs. Hins vegar er þess getið í bréfum Magnúsar og Jóns Sveinssonar til stiftamtmanns um lyfjamál í ágúst 1798, ári eftir að kirkjan var seld, að hún hafi verið notuð til þess að þurrka lækningajurtir fyrir apótekið.
En nú leið aðeins tæpt hálft ár, þar til æðri máttarvöld bundu enda á niðurlægingu Neskirkju við Seltjörn og það með eftirminnilegum hætti. Þetta gerðist aðfaranótt 9. janúar 1799, en þá brast á ofsaveður fyrst á landsunnan en síðan á útsunnan. Í þessu svokallaða Bátsendaveðri urðu gífurlegar skemmdir af völdum sjávarflóða og tvær kirkjur fuku, Hvalsneskirkja og Neskirkja, sem er sögð hafa fokið í heilu lagi af grunni sínum og dreifðist brakið viða um Framnesið. Það er óneitanlega dálítið skrítið, að það er fyrst tveimur dögum eftir veðrið mikla, 9. janúar, sem Ólafur Stefánsson stiftamtmaður í Viðey sezt niður og skrifar yfirvöldum í Kaupmannahöfn um það, að búið sé að framkvæma þann vilja þeirra að selja Neskirkju. Hitt er svo annað mál, að auðvitað voru það íslenzk yfirvöld, Ólafur sjálfur og biskuparnir Hannes Finnsson og Geir Vídalín, sem réðu því, að þetta ágæta guðshús var selt og lenti síðan í niðurníðslu.

EFTIRMÁLI
Nes-12Nú skortir aðeins tæp tvö ár í það, að 200 ár séu liðin frá því að síðast var messað kirkjunni í Nesi við Seltjörn. Eftir að hún var horfin, fóru Nesbúar að sjálfsögðu að sækja messur til Reykjavíkur og Seltirningar áttu þar lengi sæti í sóknarnefndum. Þeir héldu þó um hríð tryggð við kirkjugarð sinn í Nesi og voru menn greftraðir þar að minnsta kosti til 1813. Meðal þeirra, sem bornir voru þar til grafar, eftir að helgihaldi lauk í Nesi, var Björn Jónsson apótekari, velgerðarmaður kirkjunnar. Hann var jarðsettur í Neskirkjugarði í október 1798. Er hann er í kirkjubók sagður hafa verið „góður maður og guðhræddur“ og því bætt við með nokkurri lotningu, að hann hafi verið „fyrsti Apótekari
Íslendinga“.
Eftir því sem leið á 19. öld hefur fyrnzt yfir minjar um Nes sem kirkjustað. Árið 1890 segir Jónas Jónassen landlæknir, að kirkjugarðurinn gamli sé orðinn að kálgarði. Þegar að því dró um 1975, að í Nesi yrði safnsvæði helgað læknisfræði og lyfjafræði, vissu fróðustu menn, eins og Jón Steffensen prófessor og velgjörðarmaður Ness, ekki um staðsetningu síðustu kirkjunnar þar eða umfang kirkjugarðsins, þar sem forvígismenn þessara fræða beggja á Íslandi, Bjarni Pálsson, fyrsti landlæknirinn og Björn Jónsson, „fyrsti Apótekari Íslendinga“, liggja grafnir. Vitað er, að Bjarni Pálsson var grafinn innan við kirkjudyr í síðustu kirkjunni í Nesi. Auðvelt er því að merkja og kynna
legstað hans, ef síðasta kirkjustæðið fyndist.

Nes

Nes – loftmynd; fornleifaskráning.
Kirkjugarðurinn í Nesi er á austanverðum bæjarhólnum. Um 1890 er sagt að mestallur gamli kirkjugarðurinn sé kálgarður og sagt að þar undir ætti að leynast steinhleðslan sem kirkjan var reist á (sbr. Seltirningabók). Stærstur hluti hans er inni á lóðinni Neströð 7, vestan við húsið sem á henni stendur. Grafir komu í ljós við SV-horn þess húss þegar tekið var fyrir grunni þess. Hluti garðsins er einnig undir Neströð og hlaði sunnan við Lyfjafræðisafn. Grafir komu í ljós á tveimur stöðum meðfram Neströð þegar grafið var fyrir leiðslum 1979 og einnig var grafið niður á kistur í vesturjaðri garðsins við rannsókn 1995. Mögulegt er að garðurinn hafi færst til norðurs með tímanum en grafir gæti verið að finna allt frá norðurmörkum lóðarinnar Nesbala 34 og norður að suðurhlið Lyfjafræðisafns, en vestan við húsið á Neströð 7 og austan við línu 30 m austan við Nesstofu. Lengi mátti sjá móta fyrir kirkjutóft á yfirborði fast vestan við lóðamörk Nestraðar 7 . Á 10. áratug 20. aldar keyptu lóðareigendur Nestraðar 7 spildu vestan við þáverandi lóðamörk og við það lenti kirkjutóftin innanlóðar á Neströð. Á yfirborði má enn sjá móta óljóst fyrir kirkjutóft í norðvesturhorni lóðarinnar Nestraðar 7. Tóftin snýr austur-vestur og sýnist vera 6×4 m.

Til þess að leggja traustari grunn að minjasvæðinu í Nesi, gekkst Rótarýklúbbur Seltjarnarness fyrir því, með stuðningi bæjarsjóðs Seltjarnarness og Læknafélags Íslands, að reyna með nýtízku aðferðum að finna kirkjustæðið. Klúbburinn hugðist síðan merkja það og láta umfang kirkjugarðsins koma fram með viðeigandi hætti. Minningu kirkjuhalds í Nesi og kirkjuhaldara þar úr hópi lækna og apótekara yrði því haldið á loft.
Vorið 1994 fékk Rótarýklúbburinn fyrirtækið Línuhönnun til þess að framkvæma þessa rannsókn með svokallaðri jarðsjá, en sérfræðingar í notkun hennar eru Þorgeir Helgason jarðfræðingur og Sigurjón Páll Ísaksson mælingamaður. Er skemmst frá því að segja, að rannsókn þeirra félaga leiddi til mjög ákveðinnar niðurstöðu um staðsetningu síðustu kirkjunnar í Nesi og sterkra ábendinga um umfang kirkjugarðs. Vakti rannsókn þessi töluverða athygli og þótti gefa vonir um, að jarðsjárrannsóknir mundu framvegis hjálpa fornleifafræðingum til þess að komast á sporið til frekari kannana á fornum minjasvæðum víðs vegar um land. Í framhaldi af þessu veitti bæjarsjóður Seltjarnarness fjármunum til þess að vinna að fornleifarannsóknum í Nesi og þá m.a. að því að athuga þann stað, þar sem jarðsjárrannsóknin benti til, að undirstöður síðustu kirkjunnar væru og þar með legstaður fyrsta landlæknisins. Þessi staður reyndist vera inni á einkalóð.
En nú bar ýmislegt til tíðinda. Áhugi fornleifafræðinganna reyndist takmarkaður á þessu verkefni, enda virðist algengt nú um stundir, þeirra á meðal, að ekki megi leita að einhverju ákveðnu, heldur eigi fræðimenn í þessari stétt ávallt að koma að óplægðum akri, ef svo mætti segja.
Rothöggið á framhald leitarinnar að kirkjustæðinu í Nesi kom svo með þeim hætti, að landeigandi neitaði um leyfi til þess að grafa könnunarskurð inni á lóð sinni og bætti síðan um betur með því að flytja til grjótgarð einn gamlan og þar með girða kirkjustæðið og legstað fyrsta landlæknisins frá safnasvæðinu í Nesi. Hvorttveggja er þannig nú í einkaeign og almenningi óaðgengilegt.“
Grein þessi er að hluta áður birt í Seltirningabók.
Þessa dagana (jan. 2012) er verið að „endurgera“ svonefnda Þorláksbúð í Skálholti. Ef sanngirnis væri gætt mætti vel hugsa sér að endurgera Úlfhildarkirkju sem og nokkrar tugi annarra sambærilegra á landinu, ekki síður merkilegar.

Heimildir:
-Lesbók Morgunblaðsins, Heimir Þoreifsson, 18. des. 1995, bls. 40-41.
-Kristín Halla Baldvinsdóttir, Búseta í Nesi 1760-1900. Miðlun rannsókna (Seltjarnarnes, 2009).
-Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson, Fornleifarannsókn við Nesstofu 1989 Þjóðminjasafn 1989.
-Margrét Hrönn Hallmundsdóttir, Uppmælingar á fornleifum við bæjarhólinn á Nesi á Seltjarnarnesi vegna deiliskipulags á vestursvæðunum  Náttúrustofa Vestfjarða NV nr. 02-10 (mars 2010).
-Þorgeir S. Helgason og Sigurjón Páll Ísaksson, Kirkjan í Nesi við Seltjörn. Jarðsjármælingar austan Nesstofu og yfir hringa í túni (Reykjavík, 1994).
-Fornleifaskráning Seltjarnarness 2006.
Seltjarnarnes

Hafravatnsrétt

Hafravatnsrétt er ein af 222 skráðum fjárréttum FERLIRs í landnámi Ingólfs fyrrum. Þær eru að öllum líkindum miklu mun fleiri þegar upp verður staðið.

Hafravatnsrétt

Hafravatnsrétt 1911.

Í „Örnefnalýsingu fyrir Þormóðsdal„, skráða af Tryggva Einarssyni frá Miðdal, segir m.a. um Hafravatnsrétt og nágrenni (heimildarmaður og skrásetjari er gagnkunnugur í Þormóðsdal, sem er næsta jörð norðan Miðdals. Tryggvi er fæddur í Miðdal árið 1901 og hefur átt þar heima alla sína tíð. Hann skráði lýsinguna veturinn 1976-77):

„Við Hafravatn er Hafravatnsrétt. Sunnan við réttina er fallegur klettahóll, sem Stekkjarhóll heitir. Skammt austan við Stekkjarhól er Stekkjarás. Vestan undir Stekkjarás er stekkur ásamt beitarhúsum frá Þormóðsdal.
Norðaustur af Hafravatnsrétt er Stekkjargil. Upp af áðurnefndum Torfum eru smágrasblettir, er Blettir heita. Frá Hafravatnsrétt, norður með Hafravatni, er Hafrahlíð. Þar sem Hafrahlíð beygir í norðaustur, heitir Hlíðarhorn.“

Hafravatnsrétt

Hafravatnsrétt 1952.

Í Tímanum 1957 er grein um Hafravatnsrétt; „rétt Reykjavíkurbarna“ eftir Guðna Þórðarson:

„Reykvíkingar fjölmenntu í rétfirnar í fyrradag. Enda þótt tilvera réttanna séu mörgum Reykjavíkurbörnum aðeins óljós þjóðsaga, gefst þeim þó mörgum tækifæri til að fara í réttir, þegar réttað er í Hafravatnsrétt í Mosfellssveit. Þær eru stærstu réttirnar í nágrenni Reykjavíkur og eru því öðrum réttum framar réttir Reykvíkinga, að minnsta kosti Reykjavíkurbarna, sem ekki komast í sveit. En sá hópur fer stækkandi með hverju árinu sem líður og borgin vex.
Snemma morguns var orðið mikið annríki í Hafravatnsrétt. Frá Reykjavík komu bílar í löngum lestum með fullorðna og börn, og tveir lögregluþjónar höfðu ærinn starfa við að stjórna umferð mannfólksins fyrir utan réttarveggina, og á flötnum niður með vatninu, þar sem ökutækjum var fundinn staður.

Engir rekstrar en margir fjárbítar

Hafravatnsrétt

Hafravatnsrétt 1957.

Margir komu líka ríðandi í réttirnar. Leitarmenn höfðu flestir komið daginn áður, enda var vakað yfir safninu við réttina í fyrrinótt, þar til réttarstörfin hófust með birtnggu að kalla. Flestir bændanna lögðu flutningabílum að útvegg réttar hjá dilk sínum og fluttu féð jafnóðum heim á bílunum.

Ónæðisamt er að vera á ferð með fjárrekstra á þjóðvegunum í næsta nágrenni Reykjavíkur. Fæstir bændanna, sem sækja fé sitt til Hafravatnsréttar eru líka stórbændur á sauðfjárræktarsviðinu, enda búskapur þeirra rekinn í höfuðsveitum mjólkurframleiðslunnar. Engu að síður er fjáreign bænda í nágrenni Reykjavíkur nokkuð almenn og fer heldur vaxandi. Sauðfjárræktarbændurnir eru samt ekki fleiri en svo, að erfitt er fyrir þá eina að standa að smölun á öllum afréttarlöndum. Þau eru ótrúlega víðáttumikil og erfið til smölunar. Féð gengur saman allt austur í Grafning og heiðarnar eru stórar og margar hæðir og lautir, þar sem kindur géta leynzt vökulum augum leitarmanna.

Börnin ekki færri en lömbin
Hafravatnsrétt
Réttarstjórinn í Hafravatnsrétt er Kristinn bóndi á Mosfelli, skörulegur og geðgóður réttarstjóri, sem oft þarf að taka á þolinmæðinni allri, þegar annríkið stendur sem hæst. Þá kemur stundum fyrir að réttarstjórinn stígur upp á réttarvegginn, gætilega svo að grjót hrynji ekki úr hleðslunni og heldur hóflega orðaða ræðu til háttvirtra réttargesta. Hann biður þá með góðum orðum og fögrum að sýna sveitamönnum miskunnsemi og rýma til í réttinni sjálfri, í almenningnum, þar sem skilamenn þurfa að finna sitt fé og draga það í dilka.

Fyrst í stað gengur allt að óskum og fleira er af kindum en börnum í almenningnum, en börnunum fjölgar meir en kindunum fækkar, og þá þarf réttarstjórinn aftur að stíga í stólinn og gera ráðstafanir til þess að hægt sé að halda áfram störfum í réttum Reykjavikurbarnanna.

HafravatnsréttSveitin tæmist, er fólkið fer í réttir En það eru fleiri en börnin, sem fjölmenna í Hafravatnsrétt, þangað koma svo til allir vopnfærir menn og konur úr Mosfellssveit og dvelja lengi dags, svo að símstöðin á Brúarlandi nær varla í nokkurn mann, þegar kvaðning kemur frá landssímanum. Óvíða er svarað hringingu, því að allir ungir og gamlir eru í Hafravatnsrétt.
Réttin stendur skammt frá vatninu undir hlíðinni, þar sem margir sitja og fylgjast með réttarstörfum.
Þegar líður á réttardaginn, fara menn að gera nestinu einhver skil, en kvenfélagið sér fyrir góðum veitingum, heitu kaffi, pönnukökum og smáréttum.

Hafravatnsrétt

Mörgum er það svo mikið ævintýri að komast þarna í lifandi samband við kindurnar, að því fá engin orð lýst.
Fjögurra ára Reykjavíkurtelpa stóð við hliðina á átta ára bróður sínum fast við hliðgrindina og horfðu heilluð á fallegt lamb, sem stóð skorðað með höfuðið upp að grindinni. Þau höfðu aldrei séð lifandi kind fyrr. — Verst, að við skyldum ekki hafa með okkur brauðmola, sagði telpan við bróður sinn.
Þannig gerðust fjölmörg ævintýri í lífi Reykjavíkurbarna við Hafravatnsrétt í gær. Fyrsti réttardagurinn verður flestum ógleymanlegur, ekki sízt kaupstaðarbörnunum, sem vaxið hafa upp í faðmi borgarinnar, þar sem fá tækifæri gefast til náinna kynna við lifandi dýr. Og einhvern veginn er það svo, að lömbin eru í meira uppáhaldi hjá börnunum en flest önnur húsdýr, þó að oft séu kynnin stutt. Þau hverfa til fjalla, þegar þau eru fallegust á vorin og koma svo ekki aftur fyrr en í réttirnar á haustin. En ef til vill er það þessi langa eftirvænting sumarsins um samfundi í réttum að hausti, sem heillar hugi barnanna.
Og Reykjavíkurbörnin mörgu, sem í fyrsta sinn komust í lifandi snertingu við kindur í Hafravatnsrétt í fyrradag, munu heldur ekki gleyma því strax, að fundum bar þar saman. Þau hafa fengið í blóðið þann óróleika, sem verður þess valdandi að réttirnar gleymast ekki, þegar að þeim kemur á haustin. Vafalaust hafa mörg börn og jafnvel fullorðnir, sofnað út frá kindajarmi að loknum löngum og viðburðaríkum réttardegi, dreymt um fangbrögð við frískar kindur, draumar, sem verða að veruleika, þegar aftur verður enn á ný farið í réttir.“

Í Vísi 1964 er grein; „Í Hafravatnsrétt„:
Hafravatnsrétt
„Það var mikið um að vera í Hafravatnsrétt í gær. Bændur og búalið kepptust við að draga og fleiri tugir Reykvíkinga komu þangað í gær, með börn sin til þess að fylgjast með réttarstörfunum. Gizkað er á, að um fimm þúsund fjár hafi verið réttað núna í Hafravatnsrétt, og er það færra fé en nokkru sinni fyrr.
„Fénu er alltaf að fækka, og nú eru margir bæir hér að verða fjárlausir,“ sagði Kristinn Guðmundsson, réttarstjóri, þegar við litum inn í skúrinn til hans í gær.

Hafravatnsrétt

Kristinn Guðmundsson (1893-1976), réttarstjóri um árabil (mynd frá 1963).

Réttarstjórinn í Hafravatnsrétt hefur það fram yfir flesta réttarstjóra á landinu, að hann hefur sérsakan skúr, eða skýli, við almenninginn, þar sem hann heldur til og stjórnar réttarstörfunum með kalllúðri.
Mikið kapp var lagt á að draga fyrir hádegi, vegna þess að eftir hádegi kemur margt aðkomumanna, einkum frá Reykjavík, og vilja þá réttarstörfin ganga nokkuð seint fyrir sig. Í Hafravatnsrétt hittum við bæði alvörubændur og sportbændur, og allir virtust vera í góðu skapi og menn voru komnir í réttarstemmningu síðdegis. — Kvenfélagskonurnar í Lágafellssókn sáu um veitingasölu í bragganum og tveimur tjöldum, þar sem fólki var gefinn kostur á að kaupa sér kaffisopa með gómsætu heimabökuðu meðlæti.
Mjög margt barna var í Hafravatnsrétt og mátti sjá flest andlit þeirra ljóma af ánægju, enda er þetta í eina skiptið, sem mörg reykvísk börn komast í snertingu við kindur. — Og það voru fleiri andlit, sem ljómuðu í Hafravatnsrétt. Þegar bændurnir voru búnir að draga og fá sér góða lögg af réttarpelanum mátti sjá ánægju svip á andlitum þeirra, þegar þeir litu yfir fjárhópinn sinn, sem þeir höfðu fengið heim af afrétt.“

Í Vísi 1965 er aftur fjallað um „Hafravatnsrétt“:
Hafravatnsrétt
„Það þykir ævinlega stór dagur til sveita, þegar réttað er. Þessi dagur er sannkallaður hátíðisdagur og ætti vitanlega að vera „rauður dagur“ á almanakinu.
Það má líkja réttardeginum við uppskeruhátíðir erlendis, enda er alltaf haldið upp á réttardaginn og réttarskálin sopin.
Blaðamaður Vísis kom við í Hafravatnsrétt í gær, þar sem allt var á ferð og flugi. Í almenningnum í miðri réttinni voru bændur úr Mosfellssveit í óðaönn að draga fé sitt í dilkana og úr dilkunum var farið með féð á vörubílana sem biðu þess.

Hafravatnsrétt

Í Hafravatnsrétt.

Það var feitt fé og fallegt sem kom af Mosfellsheiði núna eftir gott sumar. Við sögðum í gær í frétt að það hefði verið um 1000 fjár, en það var vissulega sök prentvillupúkans, en í Hafravatns rétt munu um 5000 fjár væntanlega koma til skila eftir fyrstu leit og er það svipað og í fyrra.
Réttarstemningin var ekki byrjuð ennþá, þegar blaðamaðurinn fór af staðnum, — enginn réttarpeli var a.m.k. réttur að honum, — en í nefið fékk hann og það var allt i áttina.
Í dag verður brugðið upp svipmyndum af Hafravatnsrétt, rétt Mosfellinga, Kópavogsbúa, Seltirninga, þeirra fáu sem þar eiga enn kindur og svo þeirra Reykvíkinga, sem eru fjáreigendur, en reykvísku kindurnar munu vera á 4. þús. talsins. Segið svo að höfuðborgin eigi ekki álitlegan fjárstofn. Að vísu kemur ekki nema hluti fjárstofns Reykvíkinga í Hafravatnsrétt, en það mun samt vera álitlegur hluti hans.“

Í Morgunblaðinu 1982 er frétt; „Réttað í Hafravatnsrétt í síðasta sinn?“:
Hafravatnsrétt
„Sennilega var réttað í síðasta skipti í Hafravatnsrétt í gær, því nú er fyrirhugað að reisa fjárhelda girðingu umhverfis Stór-Reykjavíkursvæðið frá Straumsvík og upp að Kiðafellsá í Kjós. Fjárhald innan girðingar verður ekki leyft nema undir eftirliti, þannig að rekstur á heiði innan girðingar leggst fyrirsjáanlega af. Ekki er að efa að mörgum verður eftirsjá að réttinni ef hún hverfur, því að hana hafa margir sótt heim, enda sú rétt sem næst hefur verið þéttbýlustu svæðum landsins.

Hafravatnsrétt

Hafravatnsrétt 2023.

Að sögn Hreins Ólafssonar, bónda í Helgadal, sem var leitarstjóri í leitunum, voru það ekki nema um 600 fjár, sem nú voru réttuð í Hafravatnsrétt, en undanfarin ár hafa það verið 1.500—2.000. Ástæða þess að það var svo fátt nú, er kuldinn sem verið hefur undanfarið, svo margt fé hafði sjálft skilað sér heim, enda um 10 sentimetra snjór á heiðinni á sunnudag, þegar smalað var. Fyrir 20 árum voru það 12—15.000 fjár sem réttuð voru í Hafravatnsrétt, svo að umskiptin hafa verið mikil, en fé hefur farið fækkandi ár frá ári. Eins og fyrr sagði var réttað í gær og tók það ekki langan tíma eins og gefur að skilja, þar sem féð var svo fátt. Til Hafravatnsréttar var smalað á sunnudaginn og taka leitirnar einn dag, en réttað er daginn eftir.“

Í Bændablaðinu 2017 er skemmtilega söguleg umfjöllun dr. Ólafs R. Dýrmundssonar undir fyrirsögninni „Reykjavík er eina höfuðborgin í heiminum með fjárhúsahverfi, afrétt og löggskilarétt„:

Ólafur R. Dýrmundsson

Dr. Ólafur R. Dýrmundsson. „Ég held að það blundi sveitamaður í fjölda þéttbýlisbúa,“ segir Ólafur Dýrmundsson sem heldur 12 kindur, og forystusauðinn Hring, í fjárhúsi við heimili sitt í Breiðholti. Ólafur býr efst í Seljahverfinu, þar sem hann og fjölskylda hans voru frumbyggjar á sínum tíma. Hluti hverfisins var byggður upp með stórum lóðum með það fyrir augum að íbúar gætu haldið hesta og jafnvel önnur dýr og þar hefur Ólafur stundað fjárbúskap, eða það sem hann kallar örbúskap.
„Þetta er horfið að mestu, þannig að ég er einn af þeim sem held þessu vakandi. En ég held að það sé talsvert af ungu fólki sem hefði áhuga á því að byggja þetta upp aftur en þá þarf að skipuleggja það.“

„Sauðfjárbúskapurinn í Reykjavík er nú eitt af því fáa í höfuðborginni sem enn minnir á sveitabúskap. Liðin eru 90 ár síðan sauðfjárbændur í Reykjavík, bæði á lögbýlum og utan þeirra, stofnuðu fyrsta félag fjáreigenda í þéttbýli hér á landi, Fjáreigendafélag Reykjavíkur.
Fénu hefur fækkað mikið og þeir borgarbúar sem eiga þar kindur eru orðnir fáir. Engu að síður hefur kindaeignin menningarlegt, félagslegt og uppeldislegt gildi.

Fjáreigendafélagið stofnað 2. desember 1927
Fjárborg
Fyrir 90 árum var töluverður fjárbúskapur í Reykjavík og vel fram yfir miðja liðna öld var fé haldið á ýmsum stöðum í öllum hverfum hennar.
Þéttbýlismyndunin var ör, sveitaumhverfi var að breytast í borgarumhverfi og á meðal helstu hagsmunamála fjárbænda var að koma betri skipan á fjallskil í samvinnu við nágrannasveitarfélögin og fá nægilega stóra girðingu til vor- og haustbeitar til þess að koma í veg fyrir árekstra við garð- og trjárækt í Reykjavík. Þetta kom m.a. skýrt fram á fundi fjáreigenda 15. nóvember 1927 þar sem grunnur var lagður að stofnun Fjáreigendafélags Reykjavíkur rúmum tveim vikum síðar, 2. desember.

Helsti forvígismaður og fyrsti formaður félagsins var Maggi Júl, Magnús læknir á Klömbrum. Þann vetur voru 123 skráðir fjáreigendur í Reykjavík með samtals 1357 kindur á fóðrum og var fjárflest á Bústöðum, 164 kindur, en næst komu Breiðholt, Kleppur og Klambrar með fjártölu á bilinu 50–80 vetrarfóðraðar kindur. Sögulegt hámark fjárfjölda í Reykjavík var um 1960, nær 4.000 fjár í eigu vel á 2. hundrað manns.
Nú eru fjárhjarðirnar í Reykjavík aðeins 12 að tölu og 250 kindur settar á vetur. Svipuð þróun hefur verið í kaupstöðum og kauptúnum um land allt, jafnvel alveg fjárlaust í nokkrum þeirra.

Fjárborg

Fjárborg var byggð 1959, þarna voru reist rúmlega 30 fjárhús sem stóðu til 1968, var þar sem nú er stórhýsi Tengis.

Breiðholtsgirðingin og Breiðholtsréttin
Breiðholtsrétt
Á meðal helstu verkefnanna fyrst eftir stofnun félagsins var að semja við bæjarstjórnina um Breiðholtsgirðinguna og Breiðholtsréttina, hvort tveggja mikil mannvirki ofan við Blesugróf, tekin í notkun haustið 1933. Girðingin og réttin komu að miklu gagni allt til haustsins 1965 þegar stórfelldar byggingaframkvæmdir hófust í Breiðholtinu. Þangað var safnað fjölda fjár á haustin, einnig af Seltjarnarnesi og úr Kópavogi, bæði rekið úr Hafravatnsrétt og bílflutt úr ýmsum útréttum í Landnámi Ingólfs Arnarsonar.

Ólafur Dýrmundsson

Ólafur Dýrmundsson – síðasti fjárbóndinn í Reykjavík.

Oft var mannmargt og ágæt réttastemning í Breiðholtsrétt, bæði við rúning á vorin og í réttum á haustin en einnig notuðu hestamenn hana töluvert sem áningarstað. Réttin var ferhyrnd, vel viðuð, með háa veggi og klædd refaneti.
Almenningurinn var mjög stór og var safnið rekið beint inn í hann yfir Vatnsveituveginn í norðvesturhorni Breiðholtsgirðingar, skammt frá þeim stað þar sem mislægu gatnamótin eru á Stekkjarbakka. Breiðholtsgirðingin, sem var vönduð og vel strengd net- og gaddavírsgirðing, var í grófum dráttum á því svæði sem Stekkir, Bakkar, Hólar, Berg og Fell standa á en sunnan girðingarinnar var ógirt land Breiðholtsjarðarinnar þar sem Skógar og Sel eru núna.

Afréttur Seltjarnarneshrepps hins forna smalaður vor og haust

Fossvallarétt

Fossvallarétt ofan Lækjarbotna.

Eftir að Fjáreigendafélag Reykjavíkur var stofnað fór það að annast öll fjallskil í umboði Reykjavíkur samkvæmt afréttarlögum en Reykjavík hefur nýtingarrétt til sauðfjárbeitar í afrétti Seltjarnarneshrepps hins forna ásamt Kópavogi og Seltjarnarnesi, að jöfnum hluta hvert sveitarfélag. Afrétturinn er allur innan lögsagnarumdæmis Kópavogs og telst nú þjóðlenda.
Þar sem sauðfjáreigendur á Seltjarnarnesi voru í Fjáreigendafélagi Reykjavíkur gætti það einnig hagsmuna þeirra en Nesið hefur verið fjárlaust síðan 1966. Seltjarnarnes heldur þó fullum beitarrétti í afréttinum og hefur alltaf átt góð samskipti við Fjáreigendafélag Reykjavíkur og Sauðfjáreigendafélag Kópavogs sem var stofnað 1957. Fram til þess tíma voru nokkrir fjárbændur í Kópavogi í Reyjavíkurfélaginu. Í Kópavogi er nú aðeins eftir ein hjörð, á Vatnsendabýlinu.

Fossvallarétt

Fossvallarétt.

Allt til 1987 var allur afrétturinn smalaður til rúnings og á haustin voru þrennar göngur til 1985, en síðan er gengið tvisvar haust hvert. Eftir að vörslugirðingar voru reistar 2001 gengur Reykjavíkur- og Kópavogsféð allt norðan Suðurlandsvegar, samtals um 300. Eftir að Árnakróksrétt við Selvatn var aflögð varð Hafravatnsrétt í Mosfellssveit lögskilarétt frá 1903–1985, bæði fyrir Mosfellsbæ og sveitarfélögin þrjú sem eiga aðild að afrétti Seltjarnarneshrepps hins forna.
Leiðir skildu haustið 1986 þegar Fossvallarétt við Lækjarbotna var gerð að lögskilarétt fyrir Reykjavík, Kópavog og Seltjarnarnes. Mikil og góð samvinna er við önnur sveitarfélög sem hafa afréttarnot í svokölluðu Norðurhólfi, þ.e.a.s. Mosfellsbæ, Þingvallasveit, Grafning og Ölfus, og skilamenn eru sendir í helstu útréttir, þó færri en áður þegar féð var margt og fór víða um Landnám Ingólfs Arnarsonar.

Sauðfjárstríðið í Reykjavík og Fjárborgirnar
Fjárrekstur
Á seinni hluta 7. áratugar liðinnar aldar urðu mikil átök á milli ráðamanna Reykjavíkur og fjáreigenda þar með Fjáreigendafélag Reykjavíkur í broddi fylkingar.
Reykjavík stækkaði ört, allt sem tengdist búskap var á undanhaldi og félagið fékk spildu sumarið 1959 undir fjárhúsabyggingar á afgirtri mýrarspildu upp af Blesugróf, í tungu sem myndaðist á milli Nýbýlavegar (nú Smiðjuvegur) og Breiðholtsbrautar (nú Reykjanesbraut). Nú stendur þar stórhýsi Tengis. Þarna voru reist rúmlega 30 fjárhús og stóð þessi byggð til haustsins 1968 þegar reynt var að útrýma sauðfjárbúskap í Reykjavík með markvissum hætti.

Almannadalur

Fjárborg í Almanndal.

Svikið hafði verið samkomulag um aðstöðu fyrir fjárhúsabyggð og beitarhólf í Hólmsheiði frá 1964 og reyndist þetta tímabil í sögu félagsins mjög erfitt.
Með seiglu sauðkindarinnar að leiðarljósi lét stjórn félagsins ekki bugast og tókst að ná samkomulagi haustið 1970 við Reykjavíkurborg um 5 hektara spildu fyrir allt að 40 hús upp af Almannadal, neðst í Hólmsheiðinni, á móts við Rauðhóla. Þá lauk stríðinu með farsælum hætti og strax um haustið risu fyrstu fjárhúsin.
Þegar fénu fækkaði fóru hestamenn að kaupa og byggja hús í hinni nýju Fjárborg. Nú eru flestir fjáreigendur líka með hesta. Þar eru nú mun fleiri hross en kindur.
Allt Reykjavíkurféð er þar til húsa utan ein hjörð en samtals telur vetrarfóðrað fé í Reykjavík 250 kindur í 12 hjörðum eins og áður hefur verið greint frá. Þar hafa orðið litlar breytingar á síðan um aldamót.

Landakaup í Hvassahrauni

Hvassahraun

Kind í Hvassahrauni.

Eftir fjárskiptin, sem fólu í sér allsherjar niðurskurð fjár í Reykjavík og öðrum sveitarfélögum í Landnámi Ingólfs Arnarsonar haustið 1951, fjölgaði fénu ört eftir að vestfirsku lömbin komu, flest haustið 1952 og nokkur 1954. Þá reyndi mikið á Fjáreigendafélag Reykjavíkur, bæði við fjárskiptin sjálf og einnig vegna þess að mun meira land vantaði til haustbeitar en tiltækt var í Breiðholtsgirðingunni þótt margir fjáreigendur væru að nýta afgirt tún og bletti á ýmsum stöðum í bænum. Reyndar heyjuðu þeir mikið á slíku landi á sumrin og notuðu jafnvel líka til beitar á vorin. Þá voru sinubrunar fátíðir.
Eftir miklar kannanir og umræður ákvað stjórnin 1957 að stofna félagið Sauðafell hf um kaup á rúmlega 2000 hektara landi í Hvassahrauni á Vatnsleysuströnd.
Fjáreigendafélagið átti og á enn rúmlega 45% hlut en erfingjar 25 einstakra fjáreigenda, sem keyptu misstóra hluti á sínum tíma, samtals tæplega 55%. Síðan 2004 hefur félagið verið skráð sem Sauðafell sf. Þetta víðáttumikla, ógirta land nýttu sumir reykvískir fjáreigendur til haustbeitar og á sauðfjárstríðsárunum byggðu tveir þeirra myndarleg fjárhús þar, fluttu þangað féð ásamt nokkrum öðrum, aðallega úr gömlu Fjárborg, og höfðu fé sitt þar líka á sumrin. Þeir síðustu sem það gerðu voru reyndar úr Kópavogi og Hafnarfirði, fram yfir 1990, þegar mest allur Reykjanesskaginn var beitarfriðaður.“

Hafravatnsrétt

Skilti við Hafravatnsrétt.

Skilti við Hafravatnsrétt stendur m.a.:
„Um aldamótin 1900 var Hafravatnsrétt hlaðin og leysti af hólmi fjárréttina í Árnakrók við Selvatn. Hingað var rekið fé af Mosfellsheiði og var hún skilarétt Mosfellinga fram eftir allri 20. öld.“

Í „Skrá um friðlýstar fornleifar 1990“ segir um Þormóðsdal: „Hafravatnsrétt, hin gamla skilarétt við austurenda Hafravatns. Skjal undirritað 14.07.1988. Þinglýst 20.07.1988.“

Heimildir:
-Örnefnalýsing fyrir Þormóðsdal – Tryggvi Einarsson Miðdal.
-Tíminn, 214. tbl. 26.09.1957, Hafravatnsrétt; rétt Reykjavíkurbarna – Guðni Þórðarson, bls. 7.
-Vísir, 218. tbl. 23.09.1964 – Í Hafravatnsrétt, bls. 3.
-Vísir, 215. tbl. 22.09.1965 – Hafravatnsrétt, bls. 3.
-Morgunblaðið, 208. tbl. 21.09.1982, Réttað í Hafravatnsrétt í síðasta sinn?, bls. 3.
-Bændablaðið, 23. tbl. 30.11.2017, Reykjavík er eina höfuðborgin í heiminum með fjárhúsahverfi, afrétt og löggskilarétt dr. Ólafur R. Dýrmundsson, bls. 36-37.
-Skrá um friðlýstar fornleifar 1990.
-https://www.ruv.is/frett/2020/07/07/sidasti-fjarbondinn-i-borginni-0

Hafravatnsrétt

Hafravatnsrétt.

Seltjarnarnes

Sunnan við Nes á Seltjarnarnesi er garður, nefndur „Urtagarður„. Á tveimur upplýsingaskiltum við garðinn má lesa eftirfarandi; annars vegar:

Saga Urtagarðsins

Seltjarnarnes

Seltjarnarnes – urtagarður.

Garðurinn var opnaður árið 2010 í minningu þriggja mann sem tengdu saman ræktun og heilsubót í lífi og starfi. þeir voru Bjarni Pálsson (1719-1779) landlæknir, Björn Jónsson (1738-1798) lyfjafræðingur og lyfsali og Hans Georg Schierbeck (1847-1911) landlæknir. Árið 2010 voru liðin 250 ár frá skipun Bjarna Pálssonar í nýstofnað embætti landlæknis (1760) og 125 ár frá stofnun Garðyrkjufélags Íslands (1885). Fyrsti formaður þess var Hans Georg Schierbeck þáverandi landlæknir.

Nesstofa og nytjagarðurinn

Seltjarnarnes

Seltjarnarnes – minnismerki; Björn Jónsson.

Stofnun landlæknisembættisins með konunglegri tilskipun Friðrik V. Danakonungs árið 1760 markaði tímamót í sögu opinberrar heilbrigðisþjónustu á íslandi. Í tengslum við embættið var rekið apótek og seld lyf undir umsjón menntaðs lyfjafræðings. Voru lækningajurtir m.a. ræktaðar í hluta allstórs matjurtagarðs við Nesstofu. Björn Jónsson var fyrsti menntaði lyfjafræðingur landsins og byggði hann upp og annaðist þennan matjurta- og lækningajurtagarð í Nesi frá 1768. Björn vann fyrst sem aðstoðarmaður Björn Pálssonar landlæknis en var síðan skipaður fyrsti lyfsali á Íslandi árið 1772. Sama ár kom fyrsta útgáfa af Lyfjaskrá Danska ríkisins, Pharmacopea Danica, út. Apótek var rekið í Nesi til ársins 1834 er það flutti til Reykjavíkur. Má þá ætla að ræktun lækningajurta hafi lagst af.

Framlag til heilsubótar
Lyflækningar hafa löngum byggst á notkun jurta sem taldar eru hafa áhrif á heilsu fólks og jafnvel einstaka sjúkdóma.

Seltjarnarnes

Seltjarnarnes – minnismerki; Bjarni Pálsson.

Ofangreindir heiðursmenn höfðu allir frumkvæði að nýtingu og ræktun nytjajurta, hver á sinn hátt enda var þekking á jurtum og lækningarmætti þeirra mikilvægur hluti menntunar þeirra. Bjarni Pálsson landlæknir (1719-1779) hvatti ráðamenn holdsveikraspítala til að rækta kál og kartöflur handa sjúklingum sínum. Skyldi gefa sjúklingum kál og ferskar jurtir úr íslenskri náttúru minnst tvisvar í viku (fjallagrös, skarfakál, hrafnaklukku, njólablöð og Ólafssúrur). Björn Jónsson (1738-1798) kynntist lækningajurtagörðum við apótek á námsárum sínum í Danmörku.

Seltjarnarnes

Seltjarnarnes – Urtagarður.

Við suðurgafl Nesstofu útbjó hann stóran jurtagarð með hlöðnu torfgerði í kring og nýttist hann vel til ræktunar. Auk lækningajurta, ræktaði Björn matjurtir, reyndi kornrækt og var einna fyrstur til að reyna trjárækt hér á landi. Hans Georg Schierbeck (1847-1911) sameinaði læknisstarfið og garðyrkjuháhugann með því að hafa forgöngu um eflingu og útbreiðslu garðyrkju og ræktun matjurta, almenningi til heilsubótar. Ekki var vanþörf á, enda voru margir Íslendingar vannærðir og þjáðir af skortssjúkdómum vegna einhæfs mataræðis. Með stofnun Garðyrkjufélags íslands var hafin skipuleg fræðsla almennings um garðyrkju og útveguð aðföng til ræktunarinnar.

Seltjarnarnes

Seltjarnarnes – bekkur sem minnisvarði um Georg Schierbeck í Urtagarðinum.

Schierbeck hafi lagt stund á garðyrkjunám í Danmörku og nýttist það vel við fjölbreyttar tilraunir á ræktun korns, matjurta og ýmiss konar skrautjurta, runna og garðtrjáa. Elsta innflutta garðtré á íslandi sem enn lifir er silfurreynirinn í Fógetagarðinum við Aðalstræti í Reykjavík og er það gróðursett af Schierbeck árið 1884.

Urtirnar í garðinum

Seltjarnarnes

Seltjarnarnes – Urtagarðurinn.

Garðurinn skiptist í tvo meginhluta, efri garð og neðri garð auk áningar- og fræðslusvæðis við hlið neðri garðsins sem hefur fengið nafnið Björngerði til heiðurs Birni Pálssyni, apótekara í Nesi. Í efri garðinum eru alls um 130 tegundir jurta og finnast um 70 þeirra í íslenskri flóru. Við val á jurtum í garðinn var tekið mið af heimildum um ræktun hér á landi og í garðinum í Nesi á árunum 1768 til 1834. Takmarkaðar heimildir eru fyrir því hvaða lækningajurtir Björn mun hafa ræktað. Í garðinum eru því einungis nokkur dæmu um jurtir sem voru skráðar í dönsku lyfjaskránni, Pharmacopoea Danica, fra 1772 og gætu hafa verið reyndar hér á landi. Aðrar jurtir sem hér eru sýndar voru ekki ræktaðar hér fyrr en síðar. Til dæmis eru ekki til heimildir fyrir því hvenær rabarbari kom til landsins.

Seltjarnarnes

Seltjarnarnes – Nes.

Ýmsar jurtir úr íslenskri flóru voru nýttar á þessum tíma og einnig hafa fundist merki um þekktar, fornar lækningajurtir við fornleifarannsóknir á klausturstæðum frá miðöldum á íslandi. Nokkrar slíkar eru til sýnis í garðinum og eru þær sérstaklega merktar með mynd af heilagari Dóróteu. Heimildir varðandi matjurtir og kornrækt eru ítarlegastar. Jurtir þær sem sýndar eru í garðinum eru merktar og fylgja upplýsingar hverri plöntu. Staðsetning jurta í garðinum tekur bæði mið af flokkun og vaxtarskilyrðum plantnanna. margar plönturnar tilheyra fleiri en einum flokki. Sérstakir sýngareitir eru í görðunum fyrir jurtir sem nýnæmi þykir að sýna á hverjum tíma.

Plöntunum í görðunum má skipta í fimm flokka eftir eiginleikum og heimildum um nýtingu þeirra.

Í efri garði eru:

Seltjarnarnes

Seltjarnarnes – Urtagarður; skilti I.

Lækningajurtir, alþýðulækningajurtir, matjurtir, korn og krydd.

Urtagarðurinn í Nesi
er samstarfsverkefni Seltjarnarnesbæjar, Garðyrkjufélags Íslands, Embættis landlæknis, Læknafélags íslands, Lyfjafræðingafélags Íslands, Þjóðminjasafns Íslands og Lyfjafræðisafnsins. garðurinn er rekinn sem hluti af starfsemi safnanna í nesi og þar má nálgast upplýsingar um leiðsögn og plöntuvísi Urtagarðsins með fróðleik um plönturnar og nýtingu þeirra.

Og hins vegar:

Lyfjagerð fyrr og nú
SeltjarnarnesLengi hefur maðurinn nýtt jurtir og jurtahluta til þess að lina þrautir og lækna mein. Bakstrar, smyrsl og seyði voru unnin úr villtum jurtum sem var safnað sérstaklega til þess að nýta til lækninga. Þekking á virkni jurtanna og hvernig þær megi best nýta til lækninga gekk mann fram af manni. Með stofnun landlæknisembættisins árið 1760 varð breyting á þessari hefð. Lyfjagerð og lyfsala var viðfangsefni yfirvalda. Jurtir og steinefni voru undirstaða allrar lyfjaframleiðslu á þessum tíma og í fyrst hefur fremur lítill munur verið á þeim lyfjum sem unnin voru á hefðbundinn hátt og þeim sem unnin voru í nesi. Þá má ætla að einhver munur hafi verið á því hvernig og hvaða lyfjum var beitt í lækningaskyni þar sem notast var við fjölbreytt úrval ýmiss konar innfluttra jurta og steinefna í apótekinu í Nesi.

SeltjarnarnesÁrið 1772 urðu nokkur vatnaskil í sögu lyfsölu og lyfjaframleiðslu á Íslandi. Þá var embætti lyfsala stofnað. Í árslok 1771 sigldi Björn Jónsson til Danmerkur og lauk kandídatsprófi í lyfjafræði fyrstur Íslendinga. Hann var skipaður lyfsali á íslandi 18, mars 1772 og tók við rekstri apóteksins í Nesi úr hendi landlæknis. Sama ár kom út fyrsta lyfjaskráin Pharmacopoea Danica. Hún gilti fyrir öll apótek í ríki Danakonungs og innihélt 640 staðlaðar lyfjauppskriftir sem öllum bar að fylgja við blöndun lyfja. Einungis örfáar af þeim jurtum sem eru tilgreindar í lyfjaskránni vaxa villtar á Íslandi.

SeltjarnarnesMeð aukinni þekkingu á lyfjafræði og auknum kröfum um gæði lyfjanna fækkaði jurtalyfjunum ört. Þess í stað var farið að framleiða lyf úr hreinum efnum sem ýmist voru unnin úr plöntum eða framleidd á annan hátt. Á íslandi hurfu jurtalyfin alveg þegar framleiðslu lyfja í apótekum var hætt í lok síðustu aldar. Þá var enda orðið erfitt að útvega jurtir sem stóðust kröfur lyfjafræðinnar um gæði og virkni. Í Evrópsku lyfjaskránni er enn nokkur jurtalyf skráð enda ríkari hefð fyrir jurtalyfjum í Mið-Evrópu þar sem gróður er fjölbreyttari.

Seltjarnarnes

Seltjarnarnes – Urtagarðurinn neðri.

Nokkur náttúrulyf eru skráð á Íslandi nú til dags og fullnægja þau þar með kröfum Evrópsku lyfjaskrárinnar og íslenskrar reglugerðar. Það er ljóst að í upphafi var aðeins lítill hluti landsmanna, sem átti þess kost að leita til lærðra lækna og kaupa lyf í apóteki. Flestir treystu á húsráð og kunnáttu vísra manna á notkun þeirra villtu jurta sem uxu í nágrenninu. Þetta breyttist mjög á 20. öld. Þekkingu á nýtingu jurtanna hefur þó verið viðhaldið innan lyfjafræðinnar og á vettvangi alþýðulækninga.

Í neðri garði eru:

Seltjarnarnes

Seltjarnarses – skilti II.

Berjarunnar og epli. Villiepli þóttu mikilvæg hollustufæða til forna áður en matarepli frá Austur-Asíu komu til sögunnar.

Hvannir og laukar. Hvannir og laukar voru mikilvægar lækninga- og heilsujurtir til forna a Norðurlöndum og má vísa til íslensks og latnesks heitir á ætishvönninni – Angelica Archangelica L, eða erkiengisjurt, til marks um það. Ætihvönnin vakti athygli sem lækningajurt og barst frá Noregi til Mið-Evrópu á síðari hluta Miðalda.

Seltjarnarnes

Seltjarnarnes – Nesstofa 2024.

Sogin

„Reykjanesfólkvangur“ hefur verið með kennitöluna 581280-0419 og póstfang að Borgartúni 12-14, 105 Reykjavík í tæplega hálfa öld. Fulltrúar Reykjavíkur áttu á sínum tíma frumkvæði að stofnun fólkvangsins. Nú virðist ætla að verða breyting þar á.

Reykjanesfólkvangur

Reykjanesfólkvangur.

Þann 19. apríl 2024 birtist frétt í Fjarðarfréttum undir fyrirsögninni; „Sveitarfélög á leið út úr samstarfi um Reykjanesfólkvang„.
Þar segir m.a. að „Stjórn Reykjanesfólkvangs fjallaði á síðasta fundi sínum um stöðuna sem er komin upp við úrsögn Reykjavíkurborgar úr fólkvanginum. Á fundinum kom fram að einnig Reykjanesbær teldi það ekki þjóna tilgangi né hag sveitarfélagsins að vera inni og muni því segja sig úr fólkvanginum. Bæjarráð Voga hefur lagt til við bæjarstjórn að Sveitarfélagið Vogar fari að fordæmi Reykjavíkurborgar og segi sig frá þátttöku í Reykjanesfólkvangi. Þá kom fram að Seltjarnarnes hefði ekki tekið formlega ákvörðun en líklega yrði úrsögn niðurstaðan.

Reykjanesfólkvangur

Reykjanesfólkvangur – kort.

Fram kom að Reykjavík stefni á að ganga út 30. júní 2024 og greiða þá hálft gjald fyrir 2024 sem lokagreiðslu. Miðað við núverandi inneign í sjóði, og að Garðabær, Hafnarfjörður og Grindavík haldi áfram og að hin sveitarfélögin greiði að minnsta kosti hálft gjald þá kemur fram að mögulegt væri reka fólkvanginn út árið 2024 með sama hætti og fram að þessu. Einnig að svigrúm gæfist til að ákveða framtíðarfyrirkomulag.
Fyrir liggur að verkefni í Seltúni hafa vaxið mikið og tekið æ meiri tíma landvarðar og þarf að mati stjórnarinnar að taka það upp við Hafnarfjarðarbæ hvernig bregðast ætti við því. Einnig var nefnt að lista þyrfti upp verkefni landvarðar ef til þess kæmi að fela þyrfti nýjum aðila landvörsluna.“

Bláfjalla- og Reykjanesfólkvangur

Bláfjalla- og Reykjanesfólkvangur.

Eins og margir íbúar Reykjanesskagans vita er „Reykjanesfólkvangur ekki á Reykjanesi.
Fólkvangurinn er á sunnanverðum Reykjanesskaga og nær milli Vesturháls í vestri og að sýslumörkum Árnessýslu í austri og niður að sjó. Norðan megin liggja mörk hans meðfram Heiðmörk og Bláfjallafólkvangi. Að honum standa 8 sveitarfélög; Reykjavík, Seltjarnarnes, Kópavogur, Garðabær, Hafnarfjörður, Grindavík, Vogar og Reykjanesbær. Fólkvangurinn er um 300 km2 að stærð, langstærsta friðlýsta svæðið sinnar tegundar. Þar er meiri gróður en víðast hvar annars staðar á Reykjanesskaga og er landið kjörið til útivistar og náttúruskoðunar.

Krýsuvík

Krýsuvík seinni tíma – uppdráttur ÓSÁ.

Innan fólkvangsins eru þessir helstu staðir Krýsuvík, Seltún, Kleifarvatn, Grænavatn, Krýsuvíkurberg, Vesturháls (Núpshlíðarháls) og Austurháls (Sveifluháls), Búrfell og Búrfellsgjá, Stóra-Eldborg og Brennisteinsfjöll. Upp á hálsunum eru nokkur smá vötn, Grænavatn, Gestsstaðavatn, Arnarvatn og Spákonuvatn. Í Djúpavatni er silungsveiði eins og í Kleifarvatni. Möguleikar til gönguferða í fólkvanginum eru nánast ótakmarkaðar.

Stærð fólkvangsins er 29.262,7 ha., þ.e. er um 300 km2 að stærð, langstærsta friðlýsta svæðið sinnar tegundar hér á landi.

Reykjanesfólkvangur var stofnaður sem fólkvangur með auglýsingu í Stj.tíð. B, nr. 520/1975 sbr. „Auglýsingu um fólkvang á Reykjanesi„:
Að tillögu borgarstjórnar Reykjavíkur, bæjarstjórna Kópavogs, Seltjarnarness, Hafnarfjarðar, Keflavíkur og Grindavíkur, hreppsnefnda Garðahrepps, Njarðvíkurhrepps og Selvogshrepps hefur [Umhverfisstofnun] ákveðið að stofna fólkvang á Reykjanesskaga skv. 26. gr. laga nr. 47/1971.

Reykjanesfólkvangur

Reykjanesfólkvangur – friðlýsing.

Takmörk svæðisins eru sem hér segir:
Lína dregin frá punkti í Heiðmerkurgirðingu undir Vífilsstaðahlíð (X-hnit 689007.0 m.) í punkt á mörkum Garðahrepps og Hafnarfjarðar við Kershelli. Þaðan eftir þeim mörkun inn fyrir sumarbústaðahverfi í Sléttuhlíð á hæð er Klifsholt heitir, þaðan beint í Steinshús sem er glöggt og gamalt eyktarmark. Frá Steinshúsi liggur línan beint í norðurhorn Skógræktargirðingarinnar undir Undirhlíðum. Síðan eftir norðvesturhlið girðingarinnar að suðurhorni hennar. Þaðan beint í punkt á mörkum Hafnarfjarðar- og Grindavíkurbæjar undir Markargili með X-hnit 692297.0 m. Síðan eftir mörkum í Markhelluhól.

Markhella

Markhella.

Frá Markhelluhól stefna mörkin til suðurs eftir mörkum Vatnsleysustrandarhrepps eins og þau eru sýnd á korti gefnu út af U.S. Army Corps of Engineers og Landmælingum Íslands (mælikv. 1:50000), í punkt á þeim mörkum sem er suður af Höskuldarvöllum og austur af Oddafelli, X-hnit 701782.0 m og Y-hnit 388243.0 m. Þaðan beina línu undir Núpshlíðarháls í punkt vestan við Núpshlíð, X-hnit 707653.0m, Y-hnit 379312.0m. Frá þeim punkti beint í Dágon sem er klettur á Seltöngum við sjó fram vestan við Krýsuvíkurberg. Að austanverðu fylgja mörkin sýslumörkum úr Seljabót um Sýslustein og þangað norður sem markalína fólkvangsins í Bláfjöllum sker sýslumörk, þaðan norðvestur eftir mörkum þess fólkvangs í horn Heiðmerkurgirðingar við Kolhól og síðan réttsælis eftir Heiðmerkurgirðingunni að upphafspunkti lýsingar þessarar.

Hraunhóll

Hraunhóll – varða á mörkum Reykjanesfólksvangs.

Um fólkvanginn gilda eftirtaldar reglur:
1. Fótgangandi fólki er heimil för um allt svæðið og má ekki hindra slíka för með girðingu nema stigar til yfirferðar séu með hæfilegu millibili. Reiðgötum má ekki loka með girðingum. Þessi ákvæði eiga þó ekki við girðingar um vatnsból og ræktað land enda er umferð óheimil innan slíkra girðinga. Á skógræktargirðingu skulu einungis vera stigar.

Seltún

Seltún – orkuvinnsla.

2. Allt jarðrask er bannað innan fólkvangsins nema leyfi [Umhverfisstofnunar] komi til. Undanskilin er hagnýting jarðhita, t.d. í Krýsuvík, og mannvirkjagerð í því sambandi, sbr. þó 29. gr. laga nr. 47/1971. Jafnframt verði ekki haggað þar eðlilegri nýtingu til búrekstrar, réttur til beitar er ekki skertur innan fólkvangsins og áskilinn er í Krýsuvík réttur til starfsemi í almannaþágu (svo sem heilsuhæli, skólar, gistihús o.þ.u.l.).
Skipulegur námurekstur, sem rekinn er innan fólkvangsins þegar auglýsing þessi verður birt í Stjórnartíðindum, má þó haldast, enda sé umgengni í samræmi við 18. gr. laga nr. 47/197.
Tekið er fram af hálfu sveitarfélaganna allra að með stofnun fólkvangsins telja þau ekki á neinn hátt raskað eignarrétti að landi því sem fólkvangurinn tekur til.
Vafi er talinn leika á hver séu mörk Grindavíkurkaupstaðar og Vatnsleysustrandarhrepps. Þegar úr þessum vafa hefur verið skorið með samkomulagi eða dómi verða mörk fólkvangsins færð til í samræmi við það.

Trölladyngja

Trölladyngja á Reykjanesskaga.

Samvinnunefnd sveitarfélaganna allra fer með stjórn fólkvangsins og er hún skipuð einum fullrúa frá hverjum aðila.
Ráðuneytið er samþykkt stofnun fólkvangsins og tekur stofnun hans gildi við birtingu þessarar auglýsingar í Stjórnartíðindum. – Menntamálaráðuneytið, 1. desember 1975 – Vilhjálmur Hjálmarsson.

Árið 2011 var auglýst breyting á framangreindri auglýsingu:

Búrfell

Búrfell í Garðabæ.

Á eftir 1. mgr. auglýsingarinnar kemur ný málsgrein sem orðist svo: „Umhverfisráðherra hefur ennfremur að tillögu borgarstjórnar Reykjavíkur, bæjarstjórna Kópavogs, Hafnarfjarðar, Garðabæjar, Seltjarnarness, Reykjanesbæjar og Grindavíkur ákveðið að Sveitarfélagið Vogar verði einnig aðili að stofnun og rekstri fólkvangs á Reykjanesi með þeim skuldbindingum sem í því felast, þ. á m. hafi fulltrúa í samvinnunefnd sveitarfélaganna um stjórn fólkvangsins“. – Umhverfisráðuneytinu, 6. desember 2011 – Svandís Svavarsdóttir.

Sog

Í Sogum.

Reykjanesfólkvangur er:
• Fólkvangur sem samkvæmt samkvæmt náttúruverndarlögum er friðlýst sem útivistarsvæði í samvinnu við hlutaðeigandi sveitarfélög. Fólkvangar eru stofnaðir að frumkvæði sveitarfélaga og sjá þau einnig um reksturinn. Tilgangurinn með fólkvöngum er að tryggja almenningi aðgang að svæðum til þess að njóta útivistar.“
• Var stofnaður 1975 – Með undanþágu vegna jarðvarmanýtingar.

Spákonuvatn

Spákonuvatn – Keilir fjær.

• Fólkvangur í lögsögu Garðabæjar Grindavíkur og Hafnarfjarðar. Stærsti hluti fólkvangsins er í umdæmi Grindavíkur.
• Samstarf sveitarfélaga, sem nú standa að rekstri hans, eru Reykjavík, Seltjarnarnes, Kópavogur, Garðabær, Hafnarfjörður, Grindavík, Vogar og Reykjanesbær.

Arnarvatn

Arnarvatn á Sveifluhálsi.

Í fundargerð stjórnar Reykjanesfólksvangs þann 3. feb. 2021 segir:
Fundurinn var fjarfundur kl. 16.00
Mættir: Líf Magneudóttir, formaður, Andri Steinn Hilmarsson, Þorvaldur Örn Árnason, Þórður Ingi Bjarnason, Jóna Sæmundsdóttir, Sigurgestur Guðlaugsson, Guðmundur Grétar Karlsson og
Steinunn Árnadóttir.
Einnig sátu fundinn Óskar Sævarsson, René Biazone og Þórólfur Jónsson sem ritaði fundargerð.

Kleifarvatn

Kleifarvatn.

„Þetta gerðist:
1. Starfið í fólkvanginum 2020
Rætt um það helsta í starfsemi fólkvangsins á síðasta ári (ÓS). Mikið af Íslendingum á ferðinni. Mikið álag í vor sem var ekki gott fyrir svæðið. Rúturnar vantaði en mikil umferð bílaleigubíla í sumar. Nýtt salernishús sett upp í vor. Vinnuhópur kom í 2 vikur á vegum Umhverfisstofnunar. Unnið var við Eldborg í samvinnu við skipulagssvið Grindavíkur, loka slóða og afmarka bílastæði.

Krýsuvíkurberg

Krýsuvíkurberg – Eystri-Lækur fellur fram af berginu, nafnlaus.

Sinna þurfti kvikmyndaverkefni. Í jarðskjálftanum í okt. urðu skemmdir á Djúpavatnsleið. Einnig hrundi fylla úr Krýsuvíkurbjargi og komu sprungur. Sett var bráðabirgðalokun. Bláfjallavegi verið lokað en samt hægt að komast fram hjá. Þarf að klára frágang á bílastæði. Dreift var moltuefni í fólkvanginum sem var plastmengað á vegum Terra í samvinnu við Gróður fyrir fólk. Fara þarf betur yfir.
Skýrsla landvarðar verður lokið fyrir næsta fund.
Fundi slitið 17:20.“

Valahnúkar

Valahnúkar og Helgafell.

Í fundargerð stjórnarinnar 24. apríl 2023 segir:
Mættir: Kristinn Jón Ólafsson, Stella Stefánsdóttir, Ásrún Kristinsdóttir (fyrir Sigurveigu M. Önundardóttur), Sverrir B. Magnússon, Ingimar Ingimarsson.
Einnig sátu fundinn René Biasone UST, Óskar Sævarsson landvörður og Þórólfur Jónsson sem ritaði fundargerð.

Sveifluháls

Sveifluháls.

„Þetta gerðist:
1. Yfirferð um landvörslu
• Óskar Sævarsson kom á fundinn og kynnti helstu verkefni landvarðar.
• Samningur hefur verið um landvörslu frá 15. apríl til 1. nóv. ár hvert.
• Mikil aukning varð á fjölda ferðamanna 2019 og er ekkert lát á því. Það sést skýrt í talningum Ferðamálastofu sem er með teljara í Seltúni.

Helgadalur

Helgadalur – Rauðshellir.

• Undanfarin ár hefur landvörður þurft að sinna mörgum verkefnum utan hefðbundins tímabils, t.d. kvikmyndaverkefni, viðvarandi ferðamannastraumur, eldgos o.fl., og því hefur verið greidd viðbótargreiðsla.

Seltún

Seltún.

• Landvörður er tilbúinn til að sinna verkefnum áfram á þessu ári.
• Stjórnin samþykkti að gera samning við landvörð á sömu nótum og verið hefur að teknu tilliti til verðlagshækkunar.

2. Aðkoma Umhverfisstofnunar (UST)
• René Biasone fór yfir lagalega umgjörð Reykjanesfólkvangs, aðkomu UST sem m.a. gerir ástandsskoðun á friðlýstum svæðum og tekur saman í skýrslu árlega. Þar kemur m.a. fram slæmt ástand á Djúpavatnsleið.

Stóra-Eldborg

Stóra-Eldborg og Geitahlíð.

• Samkvæmt náttúruverndarlögum gerir UST stjórnunar- og verndaráætlanir fyrir friðlýst svæði, en ekki hefur farið af stað vinna fyrir Reykjanesfólkvang. Stjórnin hefur áður skorað á UST að hefja slíka vinnu og var samþykkt að senda fyrirspurn til UST um
hvenær hægt verði að hefja vinnu við og ljúka stjórnunar- og verndaráætlun fyrir fólkvanginn.

3. Áform Reykjavíkur
• Kjörnir fulltrúar Reykjavíkur hafa tekið ákvörðun um að skoða grundvöll þess að Reykjavík dragi sig út úr rekstri Reykjanesfólkvangs frá árinu 2024.

Vetrarblóm

Vetrarblóm við Kleifarvatn.

• Rætt var um hvort að fólkvangurinn eða hlutar hans ættu að falla í annan friðlýsingarflokk, jafnvel að verða þjóðgarður eða eitthvað annað fyrirkomulag. Rifjað var upp samtal við Reykjanes Geopark sem laut að því að skoða samstarf á sínum tíma.
• Ákveðið var að stjórnarmenn opnuðu samtal hver í sínu sveitarfélagi um ofangreint og kalla eftir kynningu á Reykjanes Geopark.

Fundi slitið 17:30. Stefnt á að næsti fundur yrði í Grindavík seinni hluta maí.“

Í „Lögum um náttúruvernd“ segir m.a. um landverði: „Á náttúruverndarsvæðum starfa landverðir og aðrir starfsmenn. Hlutverk landvarða er m.a. að sjá um eftirlit og fræðslu.
Umhverfisráðherra setur í reglugerð, að fengnum tillögum Náttúruverndar ríkisins, nánari ákvæði um menntun og starfsskyldur þeirra sem starfa á náttúruverndarsvæðum.“

Selatangar

Gengið um Selatanga á afmælishátíð Grindavíkur 2009.

Um Samvinnunefnd um rekstur fólkvangs segir í sömu lögum: „Sveitarfélög, sem standa að rekstri fólkvangs, skulu stofna með sér samvinnunefnd sem starfar í samráði við Náttúruvernd ríkisins. Í samvinnusamningi skal kveðið á um fjölda nefndarmanna og starfshætti nefndarinnar. Ef ekki er öðruvísi ákveðið ræður afl atkvæða. Þegar um er að ræða atriði sem hafa sérstakan kostnað í för með sér fer þó um atkvæðisrétt eftir greiðsluhlutföllum aðila, sbr. 56. gr.“

Húshólmi

Húshólmi – skáli.

Líklega færi vel á því að þau sveitarfélög, sem eftir verða, þ.e. Garðabær, Hafnarfjörður og Grindavík er munu annast rekstur „Reykjanesskagafólkvangs“ skipi nýja samvinnunefnd, skipaða einum fulltrúa frá hverju sveitarfélagi, nefndarmenn verði ólaunaðir en hafi bæði áhuga og sérþekkingu á fólkvanginum sem slíkum. Fjárveitingum og styrkjum verði varið til landvörslu, einstakra uppbyggjandi verkefna og kynningar á gildi svæðisins.

Sjá meira um Reykjanesfólkvang HÉR, HÉR, HÉR og HÉR.

Kringlóttagjá

Kringlóttagjá.

Bollasteinn

Úti við Gróttu á Seltjarnarnesi er útilistaverk Ólafar Nordal (fædd 1961); Bollasteinn. Það er gert úr heilum grágrýtissteini sem í er sorfin hringlaga fótbaðs- eða vaðlaug. Listaverkið var sett upp um 2005 og er á svonefndum Kisuklöppum.

Bollasteinn

Bollasteinn.

„Laugin er lýst upp með mildu rafljósi að innanverðu og í hana rennur stöðugt óblandað, forkælt jarðhitavatn úr borholum Seltjarnarness, en það hefur einstaka samsetningu og jafnvel lækningamátt.

Ólöf er fjölhæfur listamaður sem hefur unnið með margs konar efni. Viðfangsefni sín sækir hún gjarnan í þjóðlega arfleifð og menningarleg minni sem hún setur í nútímalegt samhengi. Náttúran og tengsl okkar við landið eru henni einnig hugleikin.

Þúfa

Þúfa – listaverk Ólafar Nordal í Örfirisey.

Í Bollasteini vísar hún til fornrar laugarhefðar Íslendinga um leið og hún hvetur fólk til að upplifa hita og kraft jarðar með því að fara úr sokkum og skóm og verða eitt með náttúrunni í fjöruborðinu. Þannig verður það þátttakendur í eins konar gjörningi „á mörkum byggðar og náttúru, lands og sjávar, himins og jarðar”, segir listakonan. „Með heita fætur streymir blóðið um kroppinn, líkamleg og andleg skynjun vex, næmi fyrir umhverfinu vaknar og tengsl við náttúruöflin myndast.”

Heimild:
-Texti eftir Ásdísi Ólafsdóttur, listfræðing – https://www.seltjarnarnes.is/is/mannlif-nattura/menning/listaverk-baejarins/olof-nordal-bollasteinn.

Alþingi

Alþingi – Vituð ér enn – eða hvat? Grásteinn og hljóð. Alþingi. Reykjavík. 2002; listaverk Ólafar Nordal.

Hernám

Herminjar eða stríðsminjar eru fjölmargar á höfuðborgarsvæðinu – og víðar. Á Valhúsahæð á Seltjarnarnesi eru þær fjölmargar, s.s. grunnar undan bröggum og varðskýlum, götur, byssuhreiður, skotgrafir og -byrgi, auk hins forna Þvergarðs yfir hæðina.

Valhúsahæð

Á Valhúsahæð 1910.

Í „Fornleifaskráningu á Seltjarnarnesi“ frá 2006 segir m.a. um Valhúsahæð: „Umsvif hersins á Seltjarnarnesi voru töluverð og einna mest á Valhúsahæð. Á hæðinni voru settar upp
loftvarnabyssur til þess að verja innsiglingu Reykjavíkur. Af loftmyndum má m.a. sjá að talsverðar herminjar hafa verið þar sem núverandi kirkja Seltirninga stendur. Samkvæmt upplýsingum Þór Whitehead var þetta svæði við Nesveg nefnt Grotta Camp. Valhúsahæð hefur verið umturnað talsvert þar sem kirkjan var byggð. Engar herminjar sjást nú þar sem kirkjan stóð en reyndar virðist stærstur hluti herminjanna hafa verið norðar og NNV við kirkjuna. Kirkjan var reist snemma á 9. áratugnum. Í fornleifaskráningu frá 1980 voru allar
herminjarnar á þessu svæði skráðar saman undir einu númeri og þeim ekki lýst að ráði.

Valhúsahæð

Á Valhúsahæð 2020.

Árið 1906 var vígð ný skólabygging fyrir Mýrarhúsaskóla á Seltjarnarnesi. Húsið stendur enn. Það er sunnan við Kirkjubraut þar sem hún beygir frá norðvestri til VSV. Skólinn varð aðsetur hermanna fyrst eftir hernámið um vor og sumar 1940. Á sama stað, nánar tiltekið við skólahúsgirðinguna, var rekin veitingakrá fyrir hermenn, á hernámsárunum. Kráin var fyrst rekin án leyfis frá hreppnum en síðar var veitt leyfi til veitingasölu meðan brezka setuliðið hafði búsetu á Nesinu. Lýsing á skólahúsinu er að finna í Seltirningabók.

Valhúsahæð

Varðskýli á Valhúsahæð.

Á hernámsárunum reis talsvert stórt íbúðarhverfi hermanna á og við Valhúsahæð. Hverfið var nefnt Grótta kamp. Það var þar sem nú er skóla og íbúðarhverfi milli gatnanna Suðurstrandar og Kirkjubrautar, vestan Nesvegar. Hverfið var að stórum hluta innan þess lands sem tilheyrði Mýrarhúsum en hefur líklega náð inn í landareign Hrólfsskála.

Valhúshæð

Skotbyrgi á Valhúsahæð.

Í Seltirningabók segir: “ Í Grotta Camp, sem var stærsta braggahverfið, var 536. brezka stórskotaliðssveitin staðsett, en hún var sérhæfð í strandvörnum. Þar voru líka menn úr verkfræðingasveitinni Det. Renfrewshire Fortress. Samkvæmt Þór Whitehead má tala um a.m k. tvö hverfi á þessum slóðum, annars vegar sk. RAF Camp sem var á Valhúsahæð suðvestanverðri og hins vegar Keighly (sem kallað var Adams Camp frá júlí 1943) var syðst í braggabyggðinni við Mýrarhúsaskóla. Samkvæmt Þór var RAF Camp vestan við Keighly/Adams Camp og varð síðar hluti af því. Í RAF Camp bjuggu liðsmenn ratsjárstöðvarinnar bresku frá 1941. Á þessum slóðum hefur nú byggst upp íbúðarhúsahverfi, þarna er grunnskóli o.fl. stofnanir.

Valhúsahæð

Skotbyrgi á Valhúsahæð.

Inn á örnefnaloftmynd frá 1978 er merkt varða á hæsta punkti Valhúsahæðar, þar sem nú er útsýnisskífa og steinsteypt merki dönsku landmælingamannanna. Samkvæmt Guðrúnu Einarsdóttir sem gerði B.S. ritgerð um örnefni á Seltjarnarnesi 1979 og ræddi við fjölda heimildamanna, gat enginn þeirra staðsett þessa vörðu nákvæmlega, né höfðu um hana heyrt. Ekki er ólíklegt að hún hafi verið landamerkjavarða þar sem merkin lágu um háholtið. Hugsanlegt er og að svonefnd „Litlavarða“ hafi einnig verið landamerkjavarða, litlu norðvestar. Um þetta verður þó ekkert fullyrt enda eru vörðurnar löngu hrundar og horfnar. Á svipuðum stað og varðan á háholtinu, eða jafnvel á sama stað, var einnig ljósker fyrir sjófarendur, sett upp síðla á 19. öld.

Valhúsahæð

Ummerki efst á Valhúsahæð.

Varðan hefur verið á hæstu hæðinni en engin merki sjást um hana nú. Um ljóskerið er fjallað í Seltirningabók. Þar segir: „Ljóskerið var sett upp árið 1883 og kostuðu bændurnir það fyrstu tvö árin en bæjarfógeti í Reykjavík tók að sér að greiða kostnaðinn 1885.“ Árið 1892 eru varðveitt bréf um að staðið hafi til að setja upp kúlumyndað ljós á Valhúsahæð í stað þess gamla. Líklega hefur af því orðið en það ljós mun ekki hafa logað í mörg ár, aðeins fram til 1895 þegar farið var að huga að ljósi og síðar vita í Gróttu.

Valhúsahæð

Skotbyrgi og skotgrafir á Valhúsahæð.

„Valhúsahæð nefnist hæsta hæðin á Seltjarnarnesi. Sagt er að þar hafi verið hús fyrir fálka konungs. … Varða, sem nefndist Litlavarða, var ofan við Skólabraut 1. Laut var sunnan undir henni. Þar var hleðsla, og þar var talið, að fálkahúsið hefði verið. Nú hefur verið ýtt ofan í lautina,“ segir í örnefnaskrá. Engin ummerki sjást nú um Valhús né heldur Litluvörðu sem miðað er við í örnefnalýsingu. Svæðinu hefur mikið verið rótað.

Hér verður lýst þremur mannvirkjum af mörgum á norðvestanverði Valhúsahæð:

Valhúsahæð

Skotbyrgi og skotgrafir á Valhúsahæð.

„Leifar [fyrstu] húsarústar sem hér er lýst eru á norðvestanverðri hæðinni. Rústin er um 270 m vestur af merki dönsku landmælingamannanna (sem er á hæsta punkti Valhúsahæðar), beint suðaustur af Vesturströnd 31 og fast austan við Þvergarð. Í kringum húsarústina er melur sem er að hluta gróinn, en mjög stórgrýttur. Mannvirkið var skráð í fornleifaskráningu frá 1980. Í henni segir: “ Varðhús? Húsið skiptist í tvo hluta, 3×5 m og 4×5 m. Í öðrum hlutanum eru uppistandandi veggir, 1-2 m háir. Þeir eru hlaðnir úr grjóti og límdir með steypu.“ Húsarústin er tvískipt og hefur hús þetta því að líkindum haft tvö herbergi þegar það var undir þaki. Alls er rústin um 7×5 m að stærð og snýr norður-suður. Veggir syðri hlutans eru hrundir og hafa sennilegast verið rifnir. Eftir stendur steyptur grunnur. Nyrðri hlutinn er mun heillegri, veggir hans standa mest í 2 m hæð og eru um 0,5 m þykkir. Veggirnar eru hlaðnir úr litlu og meðalstóru grjóti og er steypt á milli umfara, sem eru mest um 9 talsins. Í norðausturhorni nyrðra herbergisins stendur steyptur stöpull upp úr gólfinu. Stöpullinn er 1,4 m á hæð og er 0,3 x 0,3 m að þvermáli. Hlutverk stöpulsins er óljóst.

Valhúsahæð

Landamerkjasteinn á Valhúsahæð.

Leifar [annars] mannvirkis sem hér er lýst eru á norðvestanverðri hæðinni. Tóftin er um 26 m suðaustan við framangreinda rúst og um 80 m norðaustan af landamerkjasteini. Stórgrýti er á melnum í kringum tóftina.
Mannvirkið var skráð í fornleifaskráningu frá 1980. Í henni segir: „Skotbyrgi? Rúst, um 9×9 m. Veggir hlaðnir úr torfi og grjóti, hæstir um 50 cm. Dyr virðast snúa í austur og vestur.“ Nyrðri hluti rústarinnar er hringlaga tóft með tveim hólfum, en syðri hlutinn er þverþveggur sem virkar líkt og skjól fyrir tóftina. Vestara hólfið í tóftinni er opið til suðurs, að þverveggnum, en ekkert op er hægt að greina á eystra hólfinu.

Valhúsahæð

Þvergarður á Valhúsahæð.

Leifar þess [þriðja] mannvirkis sem hér er lýst eru á norðvestanverðri hæðinni. Tóftin er 50 m norðaustan við landamerkjasteininn. Mannvirkið var skráð í fornleifaskráningu frá 1980. Í henni segir: „Skotbyrgi? Rústin er U-laga um 5 x 6 m, og þverveggur fyrir. Undirstöður úr torfi og grjóti, hæð veggja mjög óregluleg, en þykkt um 1 m. Tvennar dyr eru á rústinni þar sem langveggir og þverveggur mætast. Dyrnar eru um 0,5 m á breidd og snúa í NNV og SSA.“

Skotgröfunum umleikis minjarnar á norðvestanverðri hæðinni er ekki lýst sérstaklega.

Þór Whitehead hefur það eftir Friðþóri Eydal að kampur, kallaður Curtis Bay Beach, hafi verið í landi Mýrarhúsa, á milli þeirra og Nýjabæjar. Samkvæmt upplýsingum Þór kannaðist Skúli Ólafsson, sem vel er kunnugur á Nesinu, ekki við kampinn. Hann er horfinn í íbúðarhúsabyggð og ekki reyndist unnt að staðsetja hann nákvæmlega.“

Valhúsahæð

Varðskýli á Valhúsahæð.

Í frétt MBL 5. júní 2012 segir: „Stríðsminjar gerðar upp á Seltjarnarnesi – Var ætlað að koma í veg fyrir innrás Þjóðverja – Merkileg byggingaraðferð“.

„Bæjarstjórn Seltjarnarness hefur hafist handa við að endurreisa gamlar stríðsminjar á Valhúsahæð. Er um að ræða tvenn mannvirki, byrgi á Valhúsahæð og ljóskastarahús í Suðurnesi.
Mannvirkin voru hluti af stjórnstöð strandvarna Reykjavíkur í síðari heimsstyrjöld en Bretar létu reisa það ásamt tveimur fallbyssum um sumarið 1940. Stjórnstöðinni var ætlað að verja innsiglinguna að Reykjavíkurhöfn og flotastöð Breta í Hvalfirði fyrir skipum og kafbátum Þjóðverja.

Stærstu byssur Breta á Íslandi

Seltjarnarnes

Ljóskastarahús á Suðurnesi.

Þór Whitehead, prófessor í sagnfræði við Háskóla Íslands, fagnar því að Seltjarnarnesbær ætli sér að varðveita þessar minjar, þar sem nær skipulega hafi verið gengið fram í því að eyðileggja stríðsáraminjar í landinu á umliðnum áratugum. Hann segir að sérstök byggingardeild úr landgönguliði breska flotans hafi verið send til landsins til þess að gera smíði þeirra sem best úr garði. Þór segir að eitt það merkilegasta við mannvirkin hafi verið byggingaraðferðin en virkjagerðarmennirnir reistu byrgin á Valhúsahæð úr höggnu grjóti og steinsteypu og var þar fylgt sérstökum byggingarstaðli við virkjagerð sem ekki sást annars staðar á landinu. Þessi deild ferðaðist svo um landið og reisti önnur sambærileg mannvirki fyrir stöðvar Breta á landsbyggðinni, til dæmis í Hvalfirði og Eyjafirði.

Seltjarnarnes

Hernaðarmannvirki á Seltjarnarnesi.

Fallbyssurnar tvær sem reistar voru á Valhúsahæðinni voru, ásamt samskonar byssum í Hvalfirði, þær stærstu sem Bretar létu reisa á Íslandi, með sex þumlunga (15 cm) í hlaupvídd. Þær drógu um 12 kílómetra út á haf, og var ætlað að reyna að koma í veg fyrir að Þjóðverjar myndu gera hér innrás. Þrátt fyrir það þóttu byssurnar heldur lítilfjörlegar, og segir Þór ljóst að líklega hefðu byssurnar ekki haldið innrásarflota Þjóðverja lengi frá og hér hefði orðið fátt um varnir. Þegar Bandaríkjamenn tóku við hervörnum hér sumarið 1941 kom í ljós að þeim þótti lítið til koma til bresku byssanna. Bættu þeir þó sjálfir ekki úr bót, þar sem innrásarhættan frá Þjóðverjum minnkaði eftir því sem leið á stríðið.

Stundum skotið á vinveitt skip

Valhúsahæð

Herminjar ofan við kirkjuna á Valhúsahæð.

Ljóskastararnir á Seltjarnarnesi lýstu upp skip að nóttu til, svo að auðgreina mætti hvort þar væri vinur eða fjandmaður á ferð. Einnig var strengdur sérstakur strengur, sem nam breytingar á segulsviði, frá stjórnstöð í Bollagörðum á Seltjarnarnesi og yfir til Akraness. Var þannig hægt að vara við ferðum kafbáta og annarra skipa sem sigldu óboðin yfir strenginn. Vinveittum skipum var hins vegar gert að sýna sérstakar veifur að degi til og ljósmerki að nóttu til, sem höfðu verið ákveðin þann daginn.

Valhúsahæð

Skotbyrgi á vestanverðri Valhúsahæð.

Gerðist það að minnsta kosti tvisvar sinnum að íslensk skip hafi gleymt að sinna þessum fyrirmælum, og fengu þau að launum viðvörunarskot þvert yfir stafninn. Lá við stórslysi af þessum völdum að sögn Þórs. Kom þó sem betur aldrei til þess að vinveittu skipi væri sökkt af þessum völdum.“

Framangreindar stríðsminjar hafa enn ekki verið gerðar upp, ellefu árum eftir áætlun. Og svona, í sögulegu samhengi; ekki væri úr vegi að „Háhæðarvarðan“ og „Litlavarða“ yrðu hlaðnar upp að nýju á Valhúsahæð – þótt ekki væri fyrir annað en að varðveita hin sögulega gildi.

Heimild:
-Fornleifaskráning á Seltjarnarnesi, Elín Ósk Hreiðarsdóttir og Rúnar Leifsson, Fornleifastofnun Íslands, 2006.
-https://www.mbl.is/greinasafn/grein/1424488/

Valhúsahæð

Valhúsahæð að NV – herminjar.

Suðurnesvarða

Kjartan Einarsson, Tjarnarbóli 4, Seltjarnarnesi, gerði örnefnalýsingu fyrir Seltjarnarnes. hann er fæddur í Reykjavík 15. febrúar 1914, en fluttis að Bakka á Seltjanarnesi í október 1914 og átti þar heim atil 1961. Hann hefur verið búsettur á Seltjarnarnesi síðan. Kona hans, Unnur Óladóttir, er fædd og uppalin á Nesi…

Seltjarnarnes

Seltjarnarnes – örnefni.

Grótta

Gengið var um Seltjarnarnes umhverfis Bakkatjörn og skoðaðir hringirnir á túninu, sem sjást vel úr flugvél, einkum er sól er lágt á lofti.

Seltjarnarnes

Mörk Seltjarnarness og Reykjavíkur árið 1700. 

Þarna er um nokkra misstóra hringi að ræða. Á teiknuðu korti af Seltjarnarnesi frá árinu 1802 er einn þeirra nefndur Nesborg. Stekkur er í holtinu vestan Valhúsahæðar og ekki er ólíklegt að sel hafi verið þar áður frá öðrum Reykjavíkurbænum og dragi nesið nafn sitt af því. Hitt var í Ánanaustum og var nefnt Reykjavíkursel. Seltjörn sést ekki lengur, en þó má grilla í umgjörð hennar utan við ströndina milli Suðurness og Gróttu. Mikið landrof hefur orðið þarna á síðustu öldum.
Grótta er fyrst nefnd í fógetareikningum frá árunum 1547-52. Nafnið þykir fornlegt og benda til þess að þar hafi lengi verið búið. Á fyrri árum stóð bærinn

Grótta ekki á eyju heldur á breiðu nesi. Árið 1703 er talin hjáleiga frá Nesi. Er jörðin alla öldina nefnd meðal átta bestu jarða Framnessins.

Grótta

Grótta.

Í Básendaflóðinu 1799 varð Grótta að eyju og var jörðin talin óbyggileg eftir það. Kveikt var á fyrsta vitanum í Gróttu þann 1. september 1897 og síðan var núverandi viti reistur árið 1947 og hefur lýst sjófarendum æ síðan.
Landslæknisembætti Íslands var stofnað með konunglegri tilskipan árið 1760. Í framhaldi af því var Nesstofa byggð 1761-63, sem læknissetur, lyfjaverslun og vísir að fyrsta læknaskóla landsins. Landlæknar gegndu þá einnig uppfræðslu yfirsetukvenna og tilvonandi læknisefna.

Grótta

Grótta.

Landlæknar og lyfsalar sátu um lengri tíma í Nesi og meðal annars fyrsti apótekarinn, Björn Jónsson. Oddur Thorarensen var síðastur lyfsala í Nesi en hann flutti apótekið með sér til Reykjavíkur árið 1834. Eftir það var Nes í einkaeign fram til 1975 er ríkið keypti húsið og gerði að lækningaminjasafni.
Byggð á Seltjarnarnesi er vafalaust frá þjóðveldisöld, en athafna manna í Seltjarnarneshreppi hinum forna er fyrst getið árið 1851. Seltjarnarneshreppur hinn forni náði yfir allt nesið, sem liggur milli Kollafjarðar og Skerjafjarðar og allt til fjalla. Austasta jörðin var Kópavogur.

Elliðarár

Elliðaár 1946.

Elliðaárnar mörkuðu skil við Mosfellssveit. Eyjarnar Örfirisey og Engey voru í Seltjarnarneshreppi árið 1703 og Viðey bættist við seinna. Margar jarðir voru smám saman teknar undir Seltjarnarneshrepp og kom hluti jarðarinnar Reykjavík þar fyrst ásamt Arnarhóli og Örfirisey. Landamörk milli jarða í Seltjarnarneshreppi hinum forna hafa síðan orðið að mörkum sveitarfélaga og má í því sambandi minna á mörk Reykjavíkur og Seltjarnarneskaupstaðar. Þau munu að verulegu leiti markast af landamerkjadómi, sem dæmdur var um 1600 um mörk Víkur annars vegar og Eiðis og Lambastaða hins vegar.

Reykjavík

Seltjarnarnes 1943.

Margir útvegsbændur voru á Seltjarnarnesi og árið 1884 áttu Seltirningar 40 sexæringa og 9 áttæringa, en eiginlegt upphaf þilskipaútgerða hófst 1883-84. Fyrstu þilskipin voru skonnortur og á árunum 1884-85 eignuðust Seltirningar 8 skonnortur. Árið 1897 er tímamótaár í sögu þilskipaútgerðar á Seltjarnarnesi því þá komu tveir fyrstu enskbyggðu kútterarnir í eigu Nesbúa. Skútu- og þilskipaútgerð frá Seltjarnarnesi náði hámarki 1904. Eftir það fækkaði skipum sem gerð voru út frá Seltjarnarnesi og má segja að árið 1908 hafi verið síðasta árið í sögu skútuútgerðar á Nesinu. Ástæður þess, að skútuútgerð Seltirninga fékk svo skjótan endi, eru efalaust ýmsar, en stór verslunarfyrirtæki í Reykjavík keyptu skútur Seltirninga og héldu áfram útgerð þeirra.

Seltjarnarnes

Landamerkjasteinn á Nesinu – áletrun.

Að lokum skal á það minnst að hafnleysi og annað aðstöðuleysi í landi var útgerð Seltirninga ávallt erfitt og erfiðara eftir því sem skipin urðu stærri.
Vegna landsigs á síðari öldum hafði sjór brotið land við Gróttu og árið 1788 segja danskir mælingamenn að 5 álnir séu milli flóðafara á nyrðri grandanum og hafa því náttúruhamfarir á borð við Básendaflóðið átt hægt um vik að eyða landinu við Gróttu á þann hátt að hér eftir varð hún eyja í hafi, að vísu landtengd með granda sem stendur upp úr á fjöru.
Þessu ógurlega sjávarflóði; Básendaflóðinu er lýst svo: Aðfaranótt 9. janúar brá til útsuðuráttar um allt Suður- og Vesturland, með þeim býsnum, sem fæstir höfðu áður lifað. Um öll Suðurnes, allt austur að Eyrarbakka, gerði feikna hafrót og stórflóð sem olli gífurlegum skemmdum.

Seltjarnarnes

Útsýni af Seltjarnarnesi.

Básendakauptún á Miðnesi lagðist af með öllu, því að sjór og veður braut þar öll bæjar- og verslunarhús; fékk kaupmaðurinn með naumindum forðað lífi sínu og fjölskyldu sinnar að Loddu á Stafnesi. Fiskgarðar og túngarðar þar syðra sópuðust heim á tún, sumstaðar tók jafnvel af túnin, skipauppsátur og brunnar. Tvær kirkjur fuku, Hvalneskirkja og kirkjan að Nesi við Seltjörn sem sögð hafa fokið í heilu lagi af grunni sínum.

Hvalreki

Hvalreki á Seltjarnarnesi 1955.

Á Seltjarnarnesi gerði óveður þetta mikinn usla og olli miklum skemmdum. Um 18 skip og minni róðrarbátar brotnuðu, svo að sum fóru í spón, en önnur löskuðust svo, að ekki gátu sjófær talist. Fyrir innan Lambastaði gekk sjór yfir þvert nesið milli Skerjafjarðar og Eiðsvíkur, svo að ekki var fært mönnum né hestum. Er haft eftir jafnathugulum heimildarmanni og biskupinum á Lambastöðum, að 5 álnum hefði sjór gengið hærra, þverhníptu máli, en í öðrum stórstraumsflóðum.
Í Örfirisey spilltist land svo af sand- og malarburði, að eyjan mátti lítt byggileg teljast, enda lögðust býli þar úti í eyði.

Hernám

Fallbyssa á verði á Valhúsahæð.

Undir lok seinni heimsstyrjaldarinnar var farið að huga því að gera skipulagsuppdrætti að landi vestan í Valhúsahæð, þ.e. landi Bakka og Bygggarðs. Var þetta land í eigu Neskirkju og skyldi það selt undir íbúðarhús til fjáröflunar fyrir kirkjuna. Flestir fundir hreppsnefndar vour um þetta leyti haldnir á heimili oddvita i Kópavogi. Um sumarið 1947 gengu undirskriftarlistar um Nesið, þar sem farið var fram á skiptingu hreppsins í tvo hreppi. Sýslunefnd Kjósarsýslu var hlynnt skiptingu hreppsins í tvo hreppi og lá stefnumarkandi ákvörðun Félagsmálaráðuneytis um skiptingu í nóvember 1947 sem tók gildi á áramótum sama ár.

Heimild m.a.:
-http://www.seltjarnarnes.is/

Seltjarnarnes

Brunnur á Seltjarnarnesi.

Grótta

Fyrst var byggður viti í Gróttu árið 1897 að fyrirsögn starfsmanna dönsku vitastofnunarinnar.
grotta-22Núverandi viti var reistur hálfri öld síðar, árið 1947, sívalur kónískur turn úr steinsteypu með ensku ljóshúsi, 24 m að hæð, hannaður af Axel Sveinssyni verkfræðingi. Upphaflega var vitinn húðaður utan með ljósu kvarsi en hefur nú verið kústaður með hvítu þéttiefni.
Linsan sem sett var í vitann frá 1897 er enn í notkun í Gróttuvita. Gastæki var sett í vitann er hann var tekinn í notkun en hann var rafvæddur árið 1956.
Vitavörður var búsettur í Gróttu frá 1897 til 1970. Vitaverðirnir voru aðeins tveir, Þorvarður Einarsson og Albert sonur hans. Vitavarðarhúsin hafa nú verið gerð upp og eru í eigu Seltjarnarnesbæjar.
Grótta er fyrst nefnd í fógetareikningum frá árunum 1547 til 1552, en nafnið þykir fornlegt og benda til að þar hafi lengi verið búið.
Glöggt má sjá af elstu kortum af Seltjarnarnesi að Grótta var ekki eyja heldur breiður nyrsti hluti nessins.
Árið 1703 er hún talin hjáleiga frá Nesi. Það er þó tekið fram, að hjáleigumaður megi hafa sína eigin skipaútgerð og virðist það hafa verið svo ábatasamt, að þar bjuggu menn góðu búi á 18. öld.

grotta-23

Er jörðin alla öldina nefnd meðal hinna 8 bestu jarða á Framnesi og þar bjó um tíma lögréttumaðurinn Ólafur Jónsson. Grótta er þó áfram hjáleiga frá Nesi, en er kölluð hálflenda 1755. Eftir Básendaflóðin miklu 1799 hallar undan fæti, enda var jörðin þá um tíma talin óbyggileg.
Vegna landsigs á síðari öldum hafði sjór brotið land við Gróttu og árið 1788 segja danskir mælingamenn að 5 álnir séu milli flóðafara á nyrðri grandanum og hafa því náttúruhamfarir á borð við Básendaflóðið átt hægt um vik að eyða landinu við Gróttu á þann hátt að hér eftir varð hún eyja í hafi, að vísu landtengd með granda sem stendur upp úr á fjöru.
Þessu ógurlega sjávarflóði; Básendaflóðinu er lýst svo:  Aðfaranótt 9. janúar brá til útsuðuráttar um allt Suður- og Vesturland, með þeim býsnum, sem fæstir höfðu áður lifað.  Um öll Suðurnes, allt austur að Eyrarbakka, gerði feikna hafrót og stórflóð sem olli gífurlegum skemmdum.  Básendakauptún á Miðnesi lagðist af með öllu, því að sjór og veður braut þar öll bæjar- og verslunarhús;  fékk kaupmaðurinn með naumindum forðað lífi sínu og fjölskyldu sinnar að Stafnesi.

grotta-24

Fiskgarðar og túngarðar þar syðra sópuðust heim á tún, sumstaðar tók jafnvel af túnin, skipauppsátur og brunnar.  Tvær kirkjur fuku, Hvalneskirkja og og kirkjan að Nesi við Seltjörn sem sögð hafa fokið í heilu lagi af grunni sínum.
Á Seltjarnarnesi gerði óveður þetta mikinn usla og olli miklum skemmdum.  Um 18 skip og minni róðrarbátar brotnuðu, svo að sum fóru í spón, en önnur löskuðust svo, að ekki gátu sjófær talist.  Fyrir innan Lambastaði gekk sjór yfir þvert nesið milli Skerjafjarðar og Eiðsvíkur, svo að ekki var fært mönnum né hestum.  Er haft eftir jafnathugulum heimildarmanni og biskupinum á Lambastöðum, að 5 álnum hefði sjór gengið hærra, þverhníptu máli, en í öðrum stórstraumsflóðum.
grotta-25Á fyrri hluta 19. aldar var Grótta í eyði.  Á seinni hluta aldarinnar bjuggu þar útvegsbændur og skipasmiðir en árið 1897 var risinn þar viti og varð Þorvarður Einarsson vitavörður þar.
Þorvarður og kona hans Guðrún Jónsdóttir hófu búskap í Gróttu árið 1895.  Í tíð þeirra var túnið í Gróttu stækkað til muna, en sjór braut land og brotnaði úr sjógarði þar veturinn 1926 /1927 en hann var hlaðinn upp myndarlega.  Síðar var svo ekið stórgrýti á grandann milli Snoppu og Gróttu til að verja hann frekari niðurbroti.

Er Þorvarður lést 1931 tók sonur hans Jón Albert  við vitavörslunni og gengdi þeim starfa til dauðadags, en hann drukknaði í róðri 12. júní 1grotta-26970.  Síðan þá hefur íbúðarhúsið í Gróttu verið í eyði.  Albert stundaði mest sjó á meðan hann bjó í eynni en hafði lítilsháttar búskap með útgerðinni.
Nýr viti var sem fyrr sagði reistur í Gróttu eftir síðari heimstyrjöld, allnokkru austar en gamli vitinn og voru ljós nýja vitans tendruð í nóvember 1947.  Lendingaraðstaða í eynni var bætt á búskaparárum Alberts í Gróttu og var gerð bryggja framan við sjóbúð hans og við hlið hennar dráttarbraut og gat Albert þar dregið bát sinn upp.
Á árinu 1978 var sjóbúðin í Gróttu að falli komin, en þá fékk Rótaryklúbbur Seltjarnarness hana til eignar og lét gera hana upp.
Hinn 8. nóvember 1994 komust húsin í Gróttu í eigu Seltjarnarneskaupstaðar og tóku bæjaryfirvöld ákvörðun um að koma upp fræðasetri í eynni og hefur síðan verið unnið markvisst að endurnýjun húsa með þetta markmið í huga.
Seltjarnarneskaupstaður hefur lagt mikinn metnað í verkefnið, endurgert húsin á myndarlegan hátt.  Þann 23. október árið 2000 var formlega opnað Fræðasetur í Gróttu.

Byggt er á eftirfarandi heimildum:
-Heimir Þorleifsson; Seltirningabók 1991.
-Dr. Jón Helgason; Árbækur Reykjavíkur 1786 – 1936.
-Fræðasetur í Gróttu. Tillögur undirbúningsnefndar 1999.
-Munnleg heimild; Sigurgeir Sigurðsson, bæjarstjóri.

Heimild:
-seltjarnarnes.is

Grótta

Gróttuviti.