Tag Archive for: Selvogsgata

Selvogsgata

 “Þetta var æði”. Svona hljómaði ein lýsingin á ferðinni að henni lokinni.

Grindarskörð

Grindarskörð.

Gengið var inn á Selvogsgötu við Bláfjallaveg, en beygt út af henni til austurs skömmu síðar. Ætlunin var að feta Grindarskarðsgötuna upp að Stórabolla og síðan áfram áleiðis til suðurs. Venjan er að ganga Selvogsgötuna upp Kerlingarskarð og síðan áfram hana með Draugahlíðum, niður með Austurásum og síðan niður Hlíðarskarð. Þetta var ekki ferð um hefðbundna leið. Þetta var ferð um gömlu Selvogsgötuna eða Suðurfararleiðina eins og Selvogsbúar nefndur hana, en hún er liggur austar en Selvogsgata sú (stundum nefnd Hlíðarvegur) er kemur upp úr Kerlingarskarði og liggur niður með Draugahlíðum, að Hlíðarskarði.

Selvogsgata

Selvogsgatan áleiðis að Grindarskörðum.

Þegar komið var að jeppaslóðinni neðst í Grindarskörðum sást hvar hann liggur á gömlu götunni að hluta. Þegar komið var u.þ.b. þriðjung upp hlíðina beygði gamla gatan til hægri og síðan í hlykki upp hana. Auðvelt var að fylgja henni í hlíðinni því hún var mjög greinileg á köflum. Auðsýnt var að um hestagötu var að ræða. Gatan liggur að vörðu á hraunöxl svo til í miðri hlíðinni og síðan liðast hún áfram upp hana.

Gatan hverfur þar sem vatn hefur lekið niður hlíðina og rutt með sér möl og grjóti, en kemur síðan í ljós í næst efstu brekkunni undir Stórabolla. Skammt neðar er varða. Þar liggur hún á ská upp hana og hefur greinilega verið löguð til. Efst við rætur Stórabolla er skarð í klöppina þar sem gatan liggur í gegn. Við skarðið er varða.

Grindarskörð

Selvogsgatan efst í Grindarskörðum.

Gangan upp í skarðið var auðveld, tók u.þ.b. 35 mín. í stað 50 mín. upp Kerlingarskarðið. Þaðan liggur gatan með gígnum að austanverðu og beygir með honum að sunnanverðu. Þar liggur hún til vesturs um gróna velli. Leifar gamallar girðingar er sunnan við Stórabolla. Hún liggur til vesturs og hefur verið hlaðið undir hana á kafla. Skömmu síðar var komið að gatnamótum.

Selvogsgata

Selvogsgata ofan Grindarskarða.

Vörðuð leið lá til suðausturs að Stórkonugjá og önnur til suðurs. Eystri gatan er að öllum líkindum Heiðarvegurinn er liggur þaðan um Heiðina há og yfir á Ólafsskarðsveg. Vestari götunni var fylgt yfir slétt helluhraunið áleiðis að Litla-Kóngsfelli.
Veður hafði hangið þurrt þangað til komið var suður fyrir Stórabolla. Þá léku litlir regndropar sér að því að falla ofurvarlega lóðrétt til jarðar. Golan virtist hafa gufað upp. Stillilogn og bráðfallegt veður. Miðbolli og Kóngsfellið böðuðu sig í heiðskírunni og dulrænum bjarma sló á Draugahlíðarnar. Spóavellingur fyllti loftið. Kistufellið vildi greinilega ekki láta sitt eftir liggja til að gera þennan dag ógleymanlegan. Hvítur snjókollurinn reis hæst upp úr nágrannahlíðunum, eins og hann vildi að eftir honum væri tekið. Svona eiga háir tindar að haga sér.
Komið var að hárri vörðu. Við hana voru greinileg gatnamót. Gata lá við hana frá Selvogsgötunni og áleiðis yfir á Heiðarveginn.

Selvogsgata

Selvogsgata milli hlíða.

Grindarskarðsgatan hélt áfram frá henni til suðurs. Hún var æ meir áberandi. Kastað hafði verið úr götunni á köflum – greinilega hesta- og lestargata. Hún lá niður með Litla-Kóngsfelli. Suðvestan við fellið, þar sem suðurgígur þess opnast, var komið að mótum þriggja gatna. Þrjár vörður voru við þau. Ein gatan lá áleiðis til norðvesturs að Selvogsgötu þar sem hún liggur efst við Draugahlíðar, önnur lá til suðausturs og sú þriðja til suðurs. Síðastnefnda gatan var greinilega framhald af þeirri, sem fylgt hafði verið ofan frá Grindarskörðum. Hún var mjög áberandi og greinilega mikið notuð fyrrum. Kastað hafði verið upp úr götunni svo djúp för höfðu myndast. Tekið hafði verið úr hraunhöftum og gatan greinilega gerð eins greiðfært og unnt var. Henni var fylgt niður með hraunkanti sunnan Litla-Kóngsfells.

Selvogsgata

Gengið um Selvogsgötu.

Komið var að talsvert miklu gili í hlíðinni á vinstri hönd, sem vatn hafði mótað. Lækjarfarvegurinn var nú þurr, en einhvern tímann hefur verið þarna mikill lækur er streymt hafði niður með austanverðu apalhrauni, sem þarna er á hægri hönd. Loks hefur vatnið staðnæmst í krika og væntanlega myndað þar talsverða tjörn. Moldarbotn benti til þess að þarna hafi verið allnokkurt vatn fyrir ekki svo löngu síðan. Á kortum heitir þarna Stóri-Leirdalur. Gatan lá niður með lækjarfarveginum.

Selvogsgata

Á Selvogsgötu ofan Hvalskarðs.

Nokkru neðan við gilið skiptist hún í tvennt. Stígur lá til vesturs í gegnum apalhraunið þar sem það var mjóst og yfir á Selvogsgötuna (Hlíðarveg, einnig nefndur vetrarvegur)) þar sem hún krækir fyrir nef hrauns er runnið hefur úr Draugahlíðargígnum skammt þar fyrir ofan.
Varða er við hraunið þar sem stígurinn kemur út úr því. Hestagatan lá hins vegar áfram niður með hraunkantinum, fyrir hraunrana og síðan skiptist hún í tvennt; annars vegar liggur hún vestur og niður með Hvalhnúk og Austurásum og hins vegar áfram um Hvalskarð, með fallegum sneiðingi niður Litla-Leirdal, niður í Hlíðardal, um Strandardal, framhjá Kökuhól og áfram áleiðis niður í Selvog.

Selvogsgata

Hvalskarð.

Fyrrnefnda gatan kom inn á Selvogsgötuna (Hlíðarveg) efst við vestanverða Austurása. Tvær vörður eru þar sem göturnar koma saman. Þaðan í frá liggur Selvogsgatan niður heiðina, áleiðis niður að Hlíðarskarði, vel vörðuð. Svo er að sjá sem Selvogsgata, eins og hún er vörðuð í dag, sé önnur og nær Draugahlíðum en sú, sem sýnd er á gömlum uppdráttum. Sú mynd, sem þeir sýna, fellur betur að þeirri götu, sem lýst er hér að framan. Áður en komið er niður brekkuna vestan Austurása liggur gata þar til vesturs. Þrjár vörður eru þar við og ein þeirra fallin. Þarna gæti verið um að ræða Stakkavíkurselstíginn er liggur væntanlega út með Vesturásum sunnanverðum og síðan til suðurs að Selsstíg ofan við Höfða norðvestan við Hlíðarvatn.

Selvogsgata

Selvogsgata – kort ÓSÁ.

Í stað þess að fylgja Selvogsgötunni (Hlíðarvegi, vetrargötunni) áleiðis niður að Hlíðarskarði var gömlu hestagötunni fylgt niður Hvalskarð og áfram niður í Strandardal. Lítið er um vörður á þeirri leið, en hins vegar liggur gatan nokkuð vel við landslaginu. T.d. er um gróna velli er að fara í Litla-Leirdal. Suðvestur af Hvalskarði er Hvalhnúkur, mjór og allhár. Ólafur Þorvaldsson segir þjóðsöguna kveða á um að tröllkona norðan af fjalli hafi farið til fanga í Selvog og komið þar á hvalfjöru og haft þaðan með sér það, sem hún treysti sér til að komast með, en til hennar sást og hún elt. Varð henni allerfið undankoman, og náðist hún í skarði því, sem síðan er nefnt Hvalskarð og hnúkurinn þar suður af Hvalhnúkur.

Dísurétt

Dísurétt.

Undir hraunklettum vestan við götuna er komið er niður í Strandardal er Dísurétt. Slóði liggur upp í Strandardal, en gatan er liggur niður úr dalnum skammt vestan hans. Þar liggur hann áfram áleiðis niður að Strandarheiði, en girt hefur verið þvert fyrir hann.
Í fyrri FERLIRsferðum, þar sem gatan var rakin neðan frá Selvogi og áleiðis upp að dalnum, sést hún vel þar sem hún liggur upp heiðina. Við hana á einum stað er tóft, sem ekki er vitað hvaða tilgangi hefur þjónað.

Hlíðarborg

Hlíðarborg.

Gengið var til vesturs með girðingunni þegar niður úr dalnum var komið. Valgarðsborg er innan girðingar svo hún var ekki “heimsótt” að þessu sinni. Hlíðarsel er norðan borgarinnar. Hlíðarborg er hinsvegar “réttu megin” girðingar svo hún var barin augum. Frá borginni liggur gata. Við hana eru litlar gamlar vörður, sumar fallnar. Gatan sést vel af og til þars em hún liggur til vesturs niður heiðina, áleiðis að Hlíð. Henni var fylgt, m.a. framhjá hellinum Ána. Talsverðar hleðslur eru umhverfis opið. Einnig eru hleðslur sunnan við opið og norðan. Ekki er vitað annað en að hlaðið var um opið til þess að varna því að fé leitaði skjóls niður í hellinum.

Borgarskörð

Fjárborg undir Borgarskörðum.

Gatan liggur áleiðis að borginni undir Borgarskörðum, svonefnd Hlíðargata skv. örnefnalýsingu. Hún hefur verið vegleg á sínum tíma. Bæði hún og Hlíðarborgin eru hlaðnar vestan undir hraunkletta í heiðinni. Neðan borgarinnar undir Borgarskörðum eru tóftir tveggja húsa utan í klettum, sennilega beitarhúsa frá Hlíð.

Gangan endaði síðan við einn bæjarhól bæjarins að Hlíð. Eldri tóftir eru norðan við þjóðveginn sem og á tanga sunnan við veiðihús SVFH, en útihús eru vestar með vatninu og hafa þau sennilega tilheyrt bænum, sem var við núverandi veiðihús.

Hlíðarsel

Hlíðarsel – uppdráttur ÓSÁ.

Í örnefnalýsingu segir að Hlíð hafi verið fyrr góðbýli og landnámsjörð í Selvogi. Var hún um aldaraðir eign Strandakirkju og er það enn. Jörðin hefur verið í eyði nú um 60 ára skeið. Þar eru nú rústir einar. Gamli bærinn stóð á Bæjarhól eða lágum hrygg, er lá fram í Hlíðarvatn.
Þessi ganga var á Jónsmessunni. Þjóðtrúin kveður á um um ýmsa dytti henni samfara. Án þess að ætla að fjalla í löngum texta um álfa og huldufólks, ekki sést á nefndu kvöldi, er rétt að geta þess, að sá sem ekki trúði á álfa og huldufólk áður en hann lagði af stað í þessa ferð, gerir það núna. Borgarskörð draga ekki nafn sitt af fjárborginni undir Skörðunum heldur háum og virðulegum klettastandi skammt ofan við skörðin. Hann sést vel þegar gengið er að skörðunum ofan frá, en gæta þarf þess vel að fylgja kennileitum því annars…
Í lýsingu einni um þennan áfanga Selvogsgötunnar kemur eftirfarandi m.a. fram til frekari glöggvunar:

Hlíðargata

Hlíðargata.

„Selvogsgatan er gömul leið á milli Hafnarfjarðar og Selvogs og hefur líklega verið farin frá því að menn settust að í Selvogi. Þetta er skemmtileg leið um áhugavert landsvæði og hollt er að leiða hugann að þeim aðstæðum sem forfeður okkar þurftu að takast á við til þess að draga björg í bú.
Áfram er haldið um skýra götu sem hófar hestanna hafa markað í tímans rás. Framundan eru Lönguhlíðar og Grindaskörð. Stóribolli og fleiri bollar blasa við en þeir hafa verið notaðir sem mið af sjó. Þegar í Grindaskörð kemur er gott að líta til baka og horfa yfir leiðina sem lögð hefur verið að baki og sjá hvað gatan er mörkuð í mosann og klöppina.
Frá Grindaskörðum er stefnt að litlu fjalli með stórt nafn, Kóngsfell, en það mun bera nafn af fjallkóngi þeirra í Selvogi. Þarna greinist leiðin og kallast vestari leiðin Hlíðarvegur sem skiptist síðar í Stakkavíkurveg. Haldið verður austustu leiðina sem er hin eiginlega Selvogsgata eftir greinilegum götum um Grafning og Stóra-Leirdal þar sem menn áðu ávallt þegar þeir áttu þarna leið um og fengu sér nesti og kannski smá brjóstbirtu. Síðan verður gengið upp í Hvalskarð eftir Hvalskarðsbrekkum með Urðarfelli að Hlíðarvatni.

Hlíð

Hlíð – uppdráttur ÓSÁ.

Tröllkona ein nappaði sér hval í Selvogi en til ferða hennar sást. Hún var elt og náðist þarna í skarðinu. Af fjallinu fyrir ofan Hlíðarvatn er fagurt útsýni. Þaðan sér yfir þessa afskekktu byggð Selvoginn, til Strandarkirkju og vitans. En það sem fangar augað er djúpblátt og óravítt hafið“ – (úr leiðarlýsingu Útivistar).
Við leiðarlýsinguna er rétt að bæta við ferðum námumanna í Brennisteinsfjöllum. Þeir munu hafa farið ýmist um Grindarskörðin Eða Kerlingaskarð með hestalestir sínar. Leiðir liggja frá skörðunum að námunum, bæði ofan við Draugahlíðar og neðan.

Frábært veður. Gangan tók 5 klst og 5 mín.

Selvogsgata

Lagt á Skörðin.

Brennisteinsfjöll

Gengið var frá Bláfjallavegi suður Selvogsgötu áleiðis upp Kerlingarskarð. Við götuna, þegar komið er svo til miðja vegu upp í skarðið, eru nokkrir hellar, hér nefndir Hallahellar eftir einum þáttttakenda, sem var hvað áhugasamastur um leitina.

Kerlingarskarð

Tóft brennisteinsvinnslumanna undir Kerlingarskarði,

Einn þeirra (vinstra megin við götuna) er í sæmilegu jarðfalli og gengið inn í hann til suðurs. Þegar inn er komið liggja rásir bæði til hægri og vinstri. Hægri rásin opnast út en sú vinstri lokast fljótlega. Í loftinu er einstaklega fallegt rósamynstur. Skammt norðar er mjög stórt jarðfall, sem band þarf til að komast niður í. Það hefur ekki verið kannað, svo vitað sé.
Rúst af búðum brennisteinsnámumanna er norðan til undir Kerlingarskarði. Efst í skarðinu (vinstra megin) er drykkjarsteinn, sem ferðalangar hafa löngum stólað á að væri vatn í. Svo reyndist vera að þessu sinni. Fokið hafði í skálina og var tækifærið notað og hreinsað upp úr henni. Drykkjarsteinn átti einnig að hafa verið í Grindarskörðum, en hann virðist hafa verið fjarlægður.

Brennisteinsfjöll

Kistufellsgígur.

Gengið var til vesturs ofan við Bolla, framhjá fallegum hraungígum, inn eftir tiltölulega sléttum helluhraunsdal og áleiðis að Kistufelli. Staðnæmst var við Kistufellsgíginn og litið yfir hann, en gígurinn er einn sá fallegasti og stórbrotnasti hér á landi. Vestan við gíginn eru nokkur stór jarðföll og í þeim hellahvelfingar. Í sumum þeirra er jökull á botninum og í jöklinum pollar eftir vatnsdropa. Þegar droparnir falla í pollanna mynda þeir taktbundna hljómkviðu í geimunum.

Brennisteinsfjöll

Brennisteinsfjöll – tóft af húsi námumanna í Námuhvammi.

Haldið var undan hlíðum, niður í brennisteinsnámurnar í Brennisteinsfjöllum. Ofan þeirra er tóft af búðum námumanna. Sést vel móta fyrir henni. Neðar er námusvæðið. Þar má sjá hvar brennisteinninn var tekinn úr kjarnaholum, en gjall og grjót forfært og sturtað í hauga. Sjá má móta fyrir götum við haugana, sem og nokkrum múrsteinum frá námuvinnslunni. Undir bakka er hægt að sjá einn ofninn, ef vel er að gáð.
Gengið var niður með suðurenda Draugahlíða. Þar fyrir ofan er gígur, sem mikið úfið hraun hefur runnið úr áleiðis niður í Stakkavík. Selvogsgatan var gengin upp að Kóngsfelli, en frá því má sjá a.m.k. tvö önnur fell með sama nafni, þ.e. Stóra-Kóngsfell austar (Kóngsfell) og Litla-Kóngsfell sunnar. Stóra-Kóngsfell er á mörkum þriggja sýslna og er sagt að þar í skjóli gígsins hafi fjárkóngar hist fyrrum og ráðið ráðum sínum.

Tvíbolli

Tvíbolli (Miðbolli).

Til baka var gengið austur og norður með Mið-Bolla og fyrir Stóra-Bolla og niður Grindarskörðin. Á sumum kortum er gamla gatan sýnd liggja milli Bollanna. Mið-Bolli er með fallegustu eldgígum á landinu. Reyndar er allt Brennisteinsfjallasvæðið mikið ævintýraland fyrir áhugafólk um útivist, jarðfræði og stórbrotið ósnert umhverfi. Varða er efst á hálsinum og síðan nokkrar á stangli á leið niður mosahlíðina. Þegar niður er komið má sjá vörðubrot og gömlu götuna markaða á kafla áleiðis að Selvogsgötunni þar sem hún liggur yfir Bláfjallaveginn og áfram áleiðis niður í Mygludali.
Veður var frábært. Gangan tók 5 klst og 2 mín.

Drykkjarsteinn

Drykkjarsteinn efst í Kerlingarskarði.

Selvogsgata

Gengið var frá Bláfjallavegi áleiðis í Kristjánsdali. Á leiðinni eru tvær vörður. Á milli þeirra er markaður gamall stígur í klöppina. Sést hann vel á nokkrum kafla. Þarna mun vera um að ræða þann hluta Selvogsgötu er lá að veginum um Grindarskörð, en á seinni tímum hefur legið beinna við að fylgja stígnum upp Kerlingarskarð.

Kristjánsdalir

Tóft í Kristjánsdölum.

Skömmu áður en komið er í sjálfa dalina er komið að vatnsstæði. Í dalverpi eru síðan tvær tóttir. Önnur er húslaga en hin virðist vera hleðslur beggja vegna veggja timburhúss. Þarna var lengi sæluhús Selvogsmanna áður en þeir lögðu á heiðina í misjöfnum veðrum. Lengi vel voru hús þessi notuð af rúpna- og refaskyttum, sem þá höfðust við um skamman tíma í Kristjánsdölum þegar þeir voru við veiðar í Hlíðunum. Þegar haldið er upp krikann í dalbotninum er eins og ruddur stígur á ská upp hlíðina. Stígnum var fylgt upp, en áður en brúninni er náð virtist stígurinn enda. Ástæðan gæti verið hrun að ofan efst við brúnina eða hreinlega að engin stígur hafi verið þarna.

Bollar

Kóngsfell.

Haldið var áfram á ská upp brúnina og var þá komið að Stórabolla, einum bollanna sem Tvíbollahraun er komið úr og sjá má fyrir neðan. Varða var á brúninni norðan Bollans. Gengið var inn og niður með honum og inn að Kóngsfelli. Fellið er nokkuð sérstakt. Bæði stendur það eitt og sér austan við Grindarskörðin og í því miðju er hvilft þar sem fjárkóngar fyrrum hittust og réðu ráðum sínum. Í hvilftinni er gott skjól og því góður samkomustaður. Haldið var í suður frá fellinu og inn á Selvogsgötuna (Hlíðarveg). Nokkrar vörður eru á þeirri leið.

Stakkavíkurstígur

Á Stakkavíkurstíg efst í Selsskarði.

Selvogsgötunni var síðan fylgt niður með Draugahlíðum og í gegnum skarðið vestan Austurása. Þar skammt sunnar eru gatnamót. Í stað þess að vinda um og fylgja götunni áfram niður í Strandardal eða áfram niður að Hlíðarskarði var ákveðið að beygja til hægri og halda niður Stakkavíkurselsstíg. Gengið var vestur með Vesturásum og síðan niður með Dýjabrekkum og áfram niður með Grænubrekkum. Ofan þeirra er Stakkavíkurselið. Við stíginn eru einnig tóttir af enn eldra seli. Þegar komið var niður á brún Stakkavíkurfjall ofan við Hlíðarvatn tók Selsstígurinn við niður hlíðina. Þá var komið á Herdísarvíkurveg, u.þ.b. fjórum klukkustunum eftir að lagt var af stað frá Bláfjallavegi.
Veður var frábært – logn og sól.

Selvogsgata

Selvogsgatan.

Valaból

Gengið var norður gömlu Selvogsgötuna frá Bláfjallavegi neðan Grindarskarða.

Rauðshellir

Hleðslur í Rauðshelli.

Haldið var niður Hellurnar þar sem gatan er klöppuð í bergið á kafla undan fótum, klaufum og hófum liðinna alda. Litið var á Strandartorfur (Kaplatóur) og gengið um Mygludali að Valabóli þar sem áð var í Músarhelli.
Að því búnu var haldið að opi Fosshellis og hann þræddur undir sauðfjárveikigirðinguna. Kíkt var á op Hundraðmetrahellis austan Helgadals og síðan á stekki norðaustan við Rauðshelli. Þá var haldið í hellinn og hann skoðaður.

Rauðshellir

Helgadalur – Í Rauðshelli.

Í Rauðshelli er allnokkrar hleðslur, bæði utan hans og innan. Hangikjötslyktin leyndi sér enn í hellinum, en hann er talinn hafa hýst margan manninn í gegnum aldirnar. Um tíma var hellirinn nefndur Pólverjahellir eftir pólskri áhöfn báts, sem dvaldist um tíma í Hafnarfjarðarhöfn, en fengu ekki inni í bænum. Þá er talið að um tíma hafi verið sel í og við hellinn, auk þess ekki er ólíklegt að álykta að hann sé sá hellir þar sem 12 þjófar voru handteknir um 1440 og síðan hengdir.

Rauðshellir

Í Rauðshelli.

Í lýsingu Gísla Sigurðssonar, forstöðumanns Minjasafns Hafnarfjarðar, segir hann í lýsingu sinni um Selvogsgötuna að þeir hafi hafst við í helli í hraunrima austan við Helgadal. Um þá hugmynd er m.a. fjallað í öðrum FERLIRslýsingum eftir nokkrar ferðir um svæðið til að reyna að finna umrætt skjól. Rauðshellir liggur vel við vatni, hann hefur verið í hæfilegu skjóli frá mannabyggð, en þó nálægt skjólgóðum högum sauðfjárins. Þá hefur hann verið það nálægt þjóðleið að hægt hefur verið að fylgjast með mannaferðum og hugsanlega ræna þá, sem þar áttu leið um. Þess skal getið að útilegumenn dvöldu sjaldnast lengi á sama stað.

Valaból

Valaból.

Þá var haldið áfram norður Mosana yfir að Smyrlabúðum. Þar var staldrað við og skoðuð gömul vegghleðsla utan í Smyrlabúðahrauni þar sem ætla mætti að gæti hafa verið hinn gamli áningastaður Selvogsmanna eða viðstaldur brennisteinslestarmanna á leið þeirra úr Grindarskörðum.
Kíkt var inn í Ketshelli og hann skoðaður að hluta. Þá var Setbergsselið skoðað, litið á stekkinn og gengið í gegnum Kershelli, fjárskjól í selinu þar sem einnig er fyrir aðstaða Hamarskotssels og litið í skjól norðan selsins. Haldið var áfram niður með Setbergshlíð og litið eftir gömlu hlöðnu fjárhúsi frá Setbergi er byggt var 1906 er féð var flutt úr fjárhellinum í selinu upp í hlíðina. Staldrað var við fjárskjól undir Gráhellu í Gráhelluhrauni og síðan skoðuð vatnsvirkjunin og stíflurnar í Lækjarbotnum áður en ferðinni lauk við kirkjugarðinn.
Veður var frábært – sól og blanka logn. Gangan tók um 5 og ½ klst því áningartíminn í Músarhelli var óvenjulangur að þessu sinni.

Valaból

Valaból.

Húsfell
Í Þjóðviljanum sunndaginn 15. júlí 1973 fjallar Gísli Sigurðsson, umsjónarmaður Minjasafns Hafnarfjarðar, um Selvogsgötuna.
Leiðinni frá Helgadal upp fyrir Hellur lýsir hann svo: “Leiðin úr dalnum liggur í troðningum tveim megin við rúst, sem ég hygg að sé fjárhúsarúst. Hún stendur nú undir vernd fornminjavarðar, allt frá því að Brynjólfur fræðimaður Jónsson frá Minna-Núpi var hér á ferð 1897”.

Helgadalur

Tóftir í Helgadal.

[Innskot: Samkvæmt þessu virðist rústin í sunnanverðum Helgadal, við götuna upp úr dalnum, sú sem FERLIR leitaði að og skoðaði á sínum tíma og taldi gamla, vera einmitt þessi rúst].
Gísli heldur áfram: “En hraunriminn austur frá Helgadal geymir sína sögu. Í Setbergsannál segir svo frá við árið 1474: “Þjófnaðaröld mikil um Suðurland. Voru 12 þjófar í einu teknir syðra í helli þar sem nefnt er Húsfell. Voru þeir allir hengdir um sumarið”. [Í annarri heimild er sagt að þjófarnir hafi verið handteknir 1633]. Í hraunrima þessum er hellir og hygg ég, að þar sé hellir sá, sem um getur í annálum. Kannske getum við giskað á hvar þjófar þessir voru réttaðir þegar við komum lengra….. Þegar kemur suður fyrir [Strandartorfur] taka við Hellurnar….

Gálgaklettar

Gálgaklettar við Selvogsgötu.

Þegar við höfum farið um 10 mín. gang upp Hellurnar eru á hægri hönd klettar, sem heita Gálgaklettar. Mér er að detta í hug, að þegar Álftnesingar hafi verið búnir að fanga útileguþjófana í heimahögum sínum hafi þeir farið með þá að klettum þessum og hengt þá þar. Þegar komið er eftir hellunum upp þar sem aðalbrekkan byrjar, er þar jarðfall mikið. Þar í eru hellar nokkrir. 1927 eða 8 var einn þessara hella notaður af rjúpnaskyttum, sem stunduðu veiði upp um fjöllin og lágu þarna um nætur…”.

Gengið var suður Selvogsgötu frá línuveginum ofan við Helgafell. Farið var eftir ruddri götunni í gegnum mjótt hraunhaft og henni fylgt áfram upp fyrir Strandartorfur á hægri hönd.

Selvogsgata

Selvogsgata ofan Helgafells.

Þegar komið var að Hellunum var gengið upp þær þangað til komið var upp fyrir “aðalbrekkuna”. Þar eru að vísu klettar, en þeir hafa varla dugað til að hengja þar mann, nema hann hafi verið þess styttri í annan endann. Jarðfallið, sem nefnt er að framan var ekki skoðað að þessu sinni, en ætlunin er að fara fljótlega aftur þessa leið. Hins vegar var gengið til norðausturs frá stígnum að grágrýtisklettum, sem þar eru. Ekkert forvitnilegt sást þar.

Hins vegar, eftir um 500 metra göngu frá stígnum, í stefnu til austurs frá klettunum, blasti forvitnilegur staður við. Þar eru klettar, eftirlíking af Gálgaklettunum í Gálgahrauni og álíka háir. Góð aðkoma er að klettunum úr norðri og sjást þeir mjög vel frá Húsfelli. Klofið í klettunum er svo til alveg eins, þó ekki jafnvel gróið og í þeim nyrðra. Roðagylltur himininn skapaði fallega umgjörð um dökka klettana. Hafa ber í huga að þjófarnir þurfa ekki endilega hafa verið hengdir eftir handtökuna. Hins vegar gætu þessir klettar hafa fengið nafngiftina Gálgaklettar vegna þess hversu líkir þeir eru nöfnum sínum í Gálgahrauni, nánast eftirlíking.

Rauðshellir

Í Rauðshelli.

Hraunið þarna, Húsfellsbruni er hrikalegt á köflum, en hvylftir eru inni í því á stangli. Þær virðast vera eldra hraun. Gengið var í átt að Húsfelli, en enginn hellir fannst að þessu sinni. Þarna eru þó víða op og gjár. Ef 12 menn hafa hafst við í helli þar sem nefnt er Húsfell má telja líklegt að hellirinn sé í eða nálægt fellinu. Í honum ættu að sjást ummerki og í honum eða við hann gætu verið hleðslur eftir fjárhald. Slík ummerki eru reyndar í og við Rauðshelli norðaustan við Helgadal. Ekki er vitað hvert nafnið er á fellinu sunnan hans.
Svæðið við Húsfell er mjög lítið gengið og hefur lítt verið skoðað. Ákveðið hefur verið að ganga næst um sunnanvert Húsfellið og síðan frá því að “Gálgaklettum”, upp á Hellurnar og skoða betur jarðfallið, sem Gísli skrifar um. Það gæti leynt á sér.
Veður var með miklum ágætum – sól og stilla. Gangan tók 3 klst og 14 mín.

Helgadalur

Tóftir í Helgadal.

Selvogsgata

Gengin var gamla Selvogsgatan frá Lækjarbotnum upp með austurbrún Gráhelluhrauns að Gráhellu milli Svínholts og hraunbrúnarinnar, í Kershelli, þaðan að vörðunni í Smyrlabúðahrauni og síðan Setbergshlíðin og Vatnshlíðin til baka.

Gráhella

Gráhella.

Skoðuð var hlaðin stífla og hleðslur undir vatnsveituhúsið í Lækjarbotnum. Vegna þess hve vatnið var slétt mátti vel greina síðasta bútinn af gömlu tréleiðslunni neðan við upptökin.
Norðan undir Gráhellu í Gráhelluhrauni er hlaðið fjárskjól. Uppi í Setbergshlíðinni, ofan við stóra vörðu skammt austan við Gráhellu, má enn sjá háar hleðslur af gömlum fjárhúsum, sem byggð voru þar árið 1904 þegar Setbergsbóndi flutti fé sitt úr Setbergsseli, sem er þarna skammt ofar. Gott útsýni er til selsins frá fjárhúsinu. Góðir hagar eru ofar í hlíðinni. Húsið hefur verið nokkuð stórt á þeirra tíma mælikvarða. Í miðjunni er hlaðinn garður og minna hús hlaðið við endann.

Markasteinn

Markasteinn – huldufólkshús.

Eftir að hafa farið í gegnum Setbergsselið var beygt til austurs og gengin gömul leið í gegnum gjá norðvestast í Smyrlabúðahrauni og stefnan tekin á stóru vörðuna inni í hrauninu. Farið var yfir gamla landamerkjagirðingu Setbergs. Ekki er ólíklegt að varðan geti verið leiðarmerki að helli, sem var á í hrauninu. Leitað var vel og vandlega á leiðinni, en án árangurs í þetta sinnið. Þá var stefnan tekin á Markastein, en í hann liggur landamerkjagirðingin úr vörðunni ofan við op Kershellis. Steinninn stendur syðst í Fremstahöfða með smágrasstúf á toppi. Að sögn mun Urriðakotsbóndi fyrrum hafa heyrt úr honum rokkhljóð og dregið þá ályktun að í honum byggju huldufólk. Fylgdi sögunni að allt þrek eigi að þverra þeim er nálgast steininn.

Refagildra

Refagildra á Tjarnholti.

Ákveðið var að láta huldufólkið í friði að þessu sinni í tilefni hátíðarinnar. Af ummerkjum að dæma hefur steinninn einhvern tímann verið girtur af, enda lá markagirðingin við hann.
Gengið var eftir Seljahlíðinni og upp á Tjarnholtið með útsýni til allra átta. Sást vel yfir að Trölladyngju og allt yfir að Þorbjarnarfelli ofan við Grindavík. Sólin hafði teygt sig yfir Lönguhlíðar og roðagyllti Esjuna.
Neðar, í norðvestri, sást vel til leifa herbragganna í Camp Russel á Urriðakotshæð (sjá HÉR). Hú hefur hæðinni verið umturnað vegna nýrrar byggðar á hæðinni.

Flóðahjalli

Virki á Fjóðahjalla.

Nikulás Jónsson bóndi á Norðurkoti í Vogum lýsti svæðinu 1834 hér á millum með eftirfarandi hætti: „Milli dala lá troðningurinn niður á Neðri-Flatir, Dalinn neðra eða Dalinn og Urriðakotsdalinn neðri, en svæði þetta sem nú hefur verið lýst nefndist einu nafni Urriðakotsdalir [þar sem nú er golfvöllur] og lá stígurinn hér um miðjan dal í Gjárréttarstíginn og síðan yfir á Hálsinn, Flóðahjallaháls eða Urriðakotsháls sem fyrr er talinn og síðan niður til bæjar. Urriðakot hefur verið í eyði nú um árabil. Þá var tekið upp á því að kalla jörðina Urriðavatn.

Flóðahjalli

Letur á Flóðahjalla.

Svanur Pálsson lýsti svæðinu á eftirfarandi hátt, en heimildarmaður hans var móðir hans, Guðbjörg Guðmundsdóttir sama stað. Hún er fædd í Urriðakoti 1906 og átti þar heima til 1939. Örnefnin nam hún af föður sínum, Guðmundi Jónssyni bónda í Urriðakoti, en á uppvaxtarárum sínum vann hún mikið með honum við útistörf. Guðmundur var fæddur í Urriðakoti 1866 og átti þar heima til 1941, en foreldrar hans bjuggu þar á undan honum og mun faðir hans hafa flust þangað 1846, en móðir hans nokkru síðar.

Hádegisholt

Varða á Hádegisholti.

„Til suðurs frá traðahliði lá svonefndur Urriðakotsvegur eldri ofan við mýrina. Hann beygði síðan vestur með Hádegisholti, öðru nafni Flóðahjalla, sem er stórt holt suður af Urriðakotsvatni. Síðan lá vegurinn norðvestur eftir Setbergsholti norðaustanverðu, meðfram túngarði á Setbergi, norðvestur fyrir Setbergshamar og síðan til suðurs niður á Setbergsveg, sem lá til Hafnarfjarðar.“
Á hæstu bungu Hádegisholts (Flóðahjalla) var komið við í stóru hlöðnu virkisskjól frá stríðsárunum. Á einn steininn þar er klappað ártalið 1940 auk nokkurra upphafsstafa. Ef vel er að gáð má sjá að virkið gæti áður hafa verið hluti af gamalli fjárborg eða gerði, vandlega hlaðinni, en grjótið hefur síðan verið tekið úr henni í virkishleðslur.

Oddsnýjardalur

Oddnýjardalur – gata.

Niðri í dalnum til suðurs, Oddnýjardal, mátti sjá gerði og líklega tóft, sem þarf að skoðast betur síðar. Að sögn Friðþjófs bónda á Setbergi mun þarna upphaflega hafa verið hús frá hernum, en síðar verið notað sem skjól fyrir skepnur frá Setbergi. Gengið var niður á Flóttamannaveg og hringnum lokað.
Veður var frábært – logn og bjart. Gangan tók nákvæmlega 3 klst.
Þess skal getið að á leiðinni þóttust einhverjir þátttakenda sjá litskrúðuga álfa á ferð nálægt Markasteini, en enginn sagðist vera tilbúinn að staðfesta það ef spurt væri.

Setbergssel

Setbergssel og Hamarkotssel.

 

Valaból

Gengið var um gömlu Selvogsgötuna frá Helgadal, upp með Valahnjúkum án viðkomu í Valabóli og Músarhelli, en þess í stað haldið áfram upp Mygludali (sem sumir segja að heiti eftir hryssu Ingólfs Arnarssonar, en aðrir að þeir dragi nafn sitt af myglunni, sem þarna legst yfir sem grá slæða á ákv. árstímum), inn með Kaplatór, öðru nafni Strandartorfum og áfram upp hraunið. Gatan er þarna mjög skemmtileg á köflum. Markað er ofan í klappirnar eftir hófa, klaufir og fætur margra alda.

Selvogsgata

Selvogsgatan.

Um þennan veg (nefndur Suðurfararvegur af Selvogsbúum) fór meginumferðin til og frá Selvogi, Hlíð og Herdísarvík, auk þess sem lestarferðirnar ofan úr Brennisteinsfjöllum á seinni hluta 19. aldar fóru um götuna. Gatan er vel vörðuð og greinileg alveg upp í Kerlingarskarð.
Þegar komið var á Bláfjallaveginn var vent til suðausturs, upp í Tvíbollahraunið í átt að Stórabolla. Þar hefur gömul leið legið upp hraunið og má sjá markað þar í klappirnar á nokkrum stöðum. (Síðar kom í ljós að þar gæti verið um gömlu leiðina áleiðis upp í Grindarskörð að ræða). Gatan liggur að Vatnsstæði vestast í Kristjánsdölum, undir Lönguhlíðinni. Þaðan liggur svo gata til suðvesturs í átt að Kerlingaskarði. Birtan var slík að mosinn var grænni en ella og ýmsar fallegar myndanir birtust í hlíðunum. Vegna hitans frá sólinni liðuðust gufur upp frá honum í logninu.

Kristjánsdalir

Tóft í Kristjánsdölum.

Nokkru frá vatnsstæðinu var gengið fram á sást greinilegt uppstreymi úr gati í mosanum. Þegar stungið var þar niður höfði sást að þar undir er djúpur gígur, annað hvort hraungígur eða gasuppstreymisgígur. Hann virtist ósnertur með öllu og ekki var að sjá að þarna hafi verið gengið um áður. Dýpið í holunni er a.m.k. 6-7 metrar, en ljós, sem notað var til að lýsa niður í það, náði ekki botninum. Veggirnir voru sléttir að sjá. Nánari skoðun mun verða verkefni fyrir Hellarannsóknarfélagið. Mun sérstök ferð verða farin þangað á allra næstu dögum.

Selvogsgata

Gengið um Selvogsgötu.

Norðaustar með hlíðum Kristjánsdala, í átt að Krisjánsdalahorni, í dalverpi, sem þar er, var gengið fram á gamla tótt. Þarna eru leifar húss, sem refa- og rjúpnaskyttur höfðust við í á sínum tíma. Þarna skammt frá eru nokkur greini, sem gaman er að sjá. Norðar er gamalt hlaðið skotbyrgi refaskyttu, en um mosana liggja víða slóðir refsins og sjást margar þeirra ennþá. Svo var að sjá að grenin í Kristjánsdölum væru flest yfirgefin, en í bakaleiðinni sást grár skolli skjótast yfir Bláfjallaveginn – með hertan fiskhaus í kjaftinum. Hann virðist því hafa farið um langan veg eftir æti, eða alla leið niður í trönurnar niður við Krýsuvíkurveg.
Gangan tók 4 klst og 2 mín. Frábært veður.

Mygludalir

Mygludalir.

Kristjánsdalir

Ekið var að Kristjánsdalahorni og þaðan gengið til suðurs inn með hlíðinni, inn Kristjánsdalina.

Kristjánsdalir

Tóft ofan Kristjánsdala.

Þegar komið var í dalverpi fyrir miðjum dölum blöstu við tvær tóttir. Sú nyrðri er hlaðið hús, greinilega gamal. Hin syðri eru tveir veggjastubbar og hleðsla bakvið. Á milli þeirra hefur sennilega staðið timburhús. Skv. upplýsingum Ólafs Guðmundssonar og Sigurðar Arnórssonar voru þessi hús notuð ar- og rjúpnaskyttum er lágu þarna úti við veiðar. Hlaðið byrgi refaskyttu er norðar í hrauninu, en þarna eru augsjáanlega nokkur greni í hrauninu. Nyrðri tóttin gæti einnig verið frá tímum brennisteinsnámsins því þarna eru ágætir bithagar. Vatnsstæði er norðvestar, en frá því liggur stígur á ská niður að Selvogsgötu.

Grindaskarðavegur

Selvogsgatan um Grindarskörð.

Á miðri þeirri leið er gatan klöppuð í bergið, greinilega fjölfarin eða farin um langan tíma. Líklega er þarna um hluta af svonefndum Grindarkarðsvegi að ræða, en hann lá norðar en Kerlingarkarðsvegurinn, sem nú er svo til eingöngu farinn.
Kerlingaskarðið er við Grindarskarðshnúka, en Grindarskarðsvegur nokkru norðar. Grindarkarðsvegur virðist liggja þarna á ská niður hlíðina og því gæti staðsetningin á þessum götustubb vel passað við lýsingu á þeim gamla vegi. Hann er varðaður á þessum kafla með tveimur vörðum, sem virðast standa einar sér. Á milli þeirra er þó þessi sýnilegi vegur, sem fyrr segir. Efst á brúninni er varða.
Við Kerlingarskarðsveg er hlaðið skýli brennisteinsnámumanna, sem skiptu þar á hestum. Annars vegar var lest, sem kom neðan úr Brennisteinsfjöllum með brennistein, og hins vegar var lest, sem kom frá Hafnarfirði og sótti brennisteininn upp í þessa skiptistöð. Meira síðar.
Gengið var til baka um Kerlingarskarðsleið að upphafsstað.
Gangan tók 2 klst og 11 mín.
Fábært veður.

Selvogsgata

Gengið um Selvogsötu.

Kerlingarskarð

Gengið var suður Selvogsgötu frá Bláfjallavegi með stefnu á Kerlingarskarðið. Á leiðinni eru nokkrir smáhellar, sem gaman var að kíkja í. Í einum þeirra er t.d. fallegt rósaloft. Austan við götuna er mikil hrauntröð er myndast hefur í hraunstraumum úr Miðbolla (Tvíbollum).

Brennisteinsfjöll

Horft niður í Námuhvamm.

Á brúninni var staldrað við drykkjarsteininn áður en gatan var rakin áfram niður með Draugahlíðum. Við suðurenda þeirra var beygt að námusvæðinu í Brennisteinsfjöllum. Eftir stutta göngu blasti svæðið við, neðarlega í hlíðum fjallana. Ljósleitur liturinn sker sig úr umhverfinu. Ofan þess stígur enn gufa upp úr jörðinni. Í hvammi ofan og undir grónum hlíðum eru tóftir af búðum brennisteinsmámumanna, á einu afskekktasta svæði Reykjanessins.

Gengið var upp úr hlíðunum og til norðurs ofan Draugahlíða. Þá sést hinn fallegi Draugahlíðagígur vel. Stórborið útsýni er þaðan að Kistufelli og yfir að Hvirfli. Dalurinn ofan hlíðanna er sléttur og auðveldur göngu. Gamla gatan liggur norðan með dalnum. Áður en komið var að Kerlingarskarði var beygt vestan við vestasta hnúkinn og haldið niður með honum að norðanverðu. Um er að ræða stórbrotið skarð. Gömul gata liggur niður eftir því. Skömmu síðar var komið á Selvogsgötuna á ný.
Frábært veður. Gangan tók 4 klst og 4 mín.

Námuhvammur

Tóft í Námuhvammi.

Kerlingarskarð

„Reykjavík hefir þá sérstöðu fram yfir margar aðrar höfuðborgir heims, að í hæsta nágrenni eru stór óbyggð svæði, sem eru tilvalin leikvangur þeirra, sem unna útiveru og gönguferðum. T.d. er svæðið frá Sandskeiði og suður að Keflavíkursvæðinu, svo óbyggt, að ekki er um að ræða einu sinni sumarbústaði. Að vísu er svæðið víða gróðurlítið, en sums staðar er líka mjög gróðurmikið, jafnvel kjarr. Sérkennileg fjöll og eldstöðvar frá fyrri tíð eru þarna margar, og er landið svo ósnortið, að glögglega má gera sér grein fyrir, hvernig þessar hroðalegu hamfarir eldsumbrotanna hafa farið fram.

Jón Kristinn

Jón Kristinn.

Óskandi er, að þessi stóru svæði fái að verða ósnortin af mannavöldum, svo að við útivistardýrkendur fáum að njóta lengi enn.
Ein af ákjósanlegri gönguleiðum á þessum slóðum er leiðin úr Kaldárseli og suður til Selvogs, eftir gamalli hestagötu, sem er rudd og óslitin frá Setbergshlíðinni fyrir ofan Hafnarfjörð og alla leið suður úr, til Selvogs. Leið þessi er vörðuð svo að segja alla leiðina, og standa flestar þeirra enn, þó að vafalaust séu mörg ár síðan þær voru hlaðnar.
Fyrir nokkru lögðum við þrír göngufélagar land undir fót og fórum þessa leið frá Kaldárseli, en þangað létum við aka okkur. Ferðafélagarnir voru, auk mín, þeir Björn Þorsteinsson sagnfræðingur og Gísli Sigurðsson lögregluvarðstjóri í Hafnarfirði, sem safnað hefir örnefnum á þessum slóðum, svo að báðir þekktu þessir menn svo að segja hvert fótmál.
Vegarslóðinn frá Hafnarfirði liggur í gegnum Helgadal, og gengum við þangað frá Kaldárseli, og síðan með Valahnúkum, en þar er hellir einn, sem Farfuglar hafa gert að bústað sínum með því að innrétta hellinn og setja í hann trégólf að nokkru. Fyrir nokkrum árum var þarna mannaferð um hverja helgi, en nú hefir þessi annars ágæti útilegubústaður verið vanræktur að nokkru. Farfuglar kalla þetta „hreiður“ sitt Valaból og er hin gamla Selvogsgata rétt við hellinn.
Frá Valahnúkum liggur leiðin nokkurn veginn beint yfir hraunið og í áttina að Grindaskörðum Við gefum okkur góðan tíma til að skoða okkur um, því að leiðin þarna suður um er skemmtileg, margir hellar og skútar, sumir mjög forvitnilegir. Og sumir eiga jafnvel sína sögu í fórum Björns og Gísla. Ekki er vitað, hvenær ferðir hófust þessa leið, en vafalaust er langt síðan, því að útræð; var snemma frá Selvogi og Herdísarvík. en kaupskip komu oft í Hafnarfjörð. Ennfremur var þessi leið farin til að sækja brennistein í námurnar í Brennisteinsfjöllum en á árunum 1860—1890 var unninn brennisteinn á þessum slóðum til útflutnings. Var brennisteininum mokað í poka, en síðan tóku ýmsir hestaeigendur að sér að reiða brennisteininn til Hafnarfjarðar fyrir eina krónu hestburðinn. Í Hafnarfirði var brennisteininum skipað um borð í kaupskip til útflutnings. En nú er umferðin minni þarna um slóðir, og segir Gísli okkur, en hann er oft þarna á ferðinni, að það teljist til tíðinda, ef að fólk sjáist á ferð um þessar slóðir. Til sanninda um, hversu fjölfarin leið hefir verið þarna áður fyrr, má sjá, að hestarnir hafa markað með hófunum djúpar hvilftir í harðar klappirnar.
Á meðan við erum á gangi yfir hraunið finnst okkur hann gerast rigningarlegur í lofti. Það þótti góður og gegn siður, áður fyrr, að heita á helga menn og kirkjur sér til fulltingis, ef á lá, og finnst okkur það vel við eiga, eins og á stendur að gera áheit, ef veður haldist bjart og rigningarlaust á ferð okkar suður yfir fjöllin. Ekki kemur okkur saman um á hverja sé bezt að heita, en við ákveðum að heita tuttugu og fimm krónum hver. Gísli telur Strandakirkju öruggasta, en ég hafði áður heitið á heilagan Þorlák með góðum árangri undir svipuðum kringumstæðum. Taldi Gísli þá, að ekki lægi á að ákveða til hverra áheitið skyldi renna, en það tók Björn af, því að það gæti kostað átök á himnum, ef við ákvæðum ekki sjálfir fyrirfram, hverjir skyldu fá krónurnar. Varð það að samkomulagi, að við Björn skyldum heita á heilagan Þorlák, en Gísli skyldi senda sínar tuttugu og fimm krónur til Strandakirkju, ef við fengjum sólskin.
Vegarslóðinn upp í Kerlingarskarðið er í ótal krákustígum vegna brattans. örnefni eru þarna mörg, enda blasa hnúkarnir og skörðin vel við frá Stór-Reykjavík. Flestar eru hæðirnar gamlar dyngjur og eldfjöll, sem gosið hafa fyrr á öldum, sum jafnvel fyrir ísöld. Örnefni eins og Bollarnir, þeir eru einir sex, Kerlingarskarð, Draugahlíð, og mörg fleiri heyrast af vörum Björns og Gísla, þegar við göngum suður í gegnum skarðið.
grindarskord-322En hnúkarnir blasa einnig við langt utan af sjó, og sjómennirnir þekktu þá ekki alltaf til sömu örnefna og þeir, sem á landi ferðuðust. Höfðu þeir sinn hátt á í nafngiftum og til útskýringar góðum fiskimiðum. Sem dæmi má nefna, að utan úr Faxaflóa þóttust þeir sjá Þykkvalæri og Þunnalæri, en á milli þeirra var auðvitað Klofið. Þetta voru hnúkarnir í Grindaskörðum, en hins vegar var einn Valahnúka öðrum meiri, frá þeim að sjá, enda er hann mörgum kílómetrum nær sjó. Var sá kallaður Drellir á sjómannamáli. Þegar Drellir bar neðan til í Þykkvalærið, töldu sjómenn sig vera á öruggri fiskibleyðu út í Faxaflóa, í rennunnii á milli hrauna, eins og það var kallað. Þarna voru fengsæl togaramið, og fengu margir glöggir fiskimenn á togaratímanum góða afladaga á þessum slóðum, fyrr á árum. En tímarnir breytast og örnefnin á þessum slóðum hætta að hafa þá þýðingu í daglegu starfi manna, sem þau höfðu.
Ofanvert í Grindaskörðum [Kerlingaskarði] skiptist vegurinn, en slóðinn suður í Brennisteinsfjöllin liggur til vesturs, en leiðin til Selvogs áfram í suður. Við höldum áfram til suðurs.
Þrátt fyrir áheitin hafði Björn verið svo hygginn að hafa með sér feikimikla regnhlíf af enskri gerð, forláta grip, sem spannaði faðm eða meira í þvermál. Við Gísli efuðumst um, að slíkir gripir heyrðu ferðaútbúnaði til, en Björn taldi einmitt slíkan grip skara fram úr öðrum að notagildi, og það sannaði hann, þegar viö settumst til að borða nesti okkar, en þá spennti hann út regnhlífina góðu og snæddi í skjóli. En Björn hefir aldrei verið talinn feta troðnar slóðir í ferðamennsku.
Við félagarnir fórum okkur heldur hægt, þurftum margt að athuga á leiðinni, og margt að ræða, enda var okkur fæst mannlegt óviðkomandi. Þeir Gísli og Björn vitnuðu gjarnan til fyrri tíma og fornra heimilda, en þá varð ég að hafa mig allan við því að þar stóð ég svo langt að baki, hvað allan fróðleik snertir. En á söguslóðum eru sagnfróðir menn í essinu sínu, svo að þessu sinni skipaði ég sæti hins forvitna hlustanda.

Stóri-Bolli

Stóri-Bolli í Kóngsfelli.

Við gengum á Kóngsfell [Litla-Kóngsfell], sem er þarna á miðri heiði. Það er gamall reglulaga gígur, sem hefur merkilegu hlutverki að gegna að vera landamerki á milli Krýsuvíkur, Herdísarvíkur og á milli sýslnanna, Árnessýslu og Gullbringusýslu. Þaðan var gott útsýni yfir heiðina, en ekki er Kóngsfell svo tígulegt, að það veiti manni útsýn til höfuðborgarinnar, enda sést Kóngsfellið ekki frá Reykjavík. Á þessum slóðum er margt furðulegra steina, sem gaman er að skoða, en gjallið úr gígnum hefir tekið á sig hinar furðulegustu myndir. Ég vildi að ég hefði getað borið með mér helmingi meira en ég gerði.
Viö félagarnir komum víða við í umræðunum okkar í millum. Við ræðum um steina, jurtir og sagnfræði, en allt þetta freistar ferðalangsins. Einhvern tíma hefi ég lesið og ég sé nú, að í því er fólgin mikill sannleikur, að þegar maður ferðaðist til staðar í fyrsta sinn, að þá geri maður það einungis til að viðra sig og til að hafa komið á staðinn, en í annað sinn geri maður það til að glöggva sig enn betur á náttúrunni og fegurð hennar, en í þriðja sinn og fjórða fer maður að kafa dýpra og byrjar að forvitnast um sögu staðarins. Ef maður er í góðum félagsskap getur maður því gert sér það til erindis að ferðast um sömu staði aftur og aftur til aukinnar ánægju, vegna þess að maður sér ekki sama staðinn alltaf í sama ljósi. Þegar maður hefir kannað einn stað frá hinu náttúrufegurðar- eða frá jarðfræðilegu sjónarmiði, fer forvitnin að leiða mann inn á hin sögulegu sjónarmið, sem jafnvel eru óendanleg, því að ímyndunin getur leitt mann þangað, sem staðreyndirnar geta ekki. Þess vegna er líka gaman að sögunni.

Dauðsmannsskúti

Dauðsmannsskúti.

Sunnan Kóngsfells tekur við sérkennilegt landslag, gróðurmelar og brunnið hraun á víxl. Við komum að Dauðsmannsskúta, en þar áttu að hafa orðið úti menn í vetrarferð, og kann Gísli að segja fornar sögur um þá harmaatburði.
Nú tekur að halla á móti suðri, gróðurinn tekur að aukast, jarðvegurinn að verða meiri, og götuskorningurinn tekur að verða jafnvel dýpri, því að hestarnir ganga niður á fast jarðlag með tímanum.
Áheitin virðast hafa komið að fullkomnu gagni því að gott skyggni hélzt. Brátt kemur Selvogsviti í ljós, og suður á Selvogsbanka sjáum við óljóst togbátana vera að draga björg í bú, hvort sem þeir nú eru innan eða utan hinnar svokölluðu landhelgi.
Uppi á heiðinni hafði maður vart heyrt fuglakvak, enda gjörsamlega gróðurlaust, en eftir því sem sunnar dregur, heyrir maður fjölbreytilegar til fuglanna, og við heiðarbrún er samfelldur fuglaniður, enda horfir þarna á móti suðri og nýtur vel sólar. Við fylgjum hestagötunni alveg að þjóðveginum, enda bíður þar bíllinn, sem átti að flytja okkur heim aftur. Við höfum staðizt áætlun, því að við höfðum reiknað með sjö tíma hægri ferð og það reynist standa heima. Bíllinn reyndist ekki hafa þurft að bíða lengi.
Kaffisopi ferðalok er alltaf kærkominn, áður en við höldum í bæinn aftur, en elskuleg eiginkona beið með sopann í bílnum, enda átti hún í vændum miklu frískari eiginmann en þann, sem hún skildi við í Kaldárseli fyrir sjö tímum. – Jón Kristinn.

Heimild:
-Vísir, 18. júlí 1967, bls. 9-10.

Kerlingaskarð

Kerlingaskarð framundan.