Tag Archive for: Selvogsheiði

Selvogsheiði

Gengið var um Selvogsheiði frá Svarthól, um selin í heiðinni, upp í Hellholt, í fallega hlaðið skjól með miklum mannvistarleifum í, á Vörðufell, í Ólafarsel og síðan niður á Strandarhæð, þar sem litið var í Strandarhelli, Bjargarhelli og Gap áður staðnæmst var við Árnavörðu.

Hásteinar

Hásteinar.

Fylgdarmaður í ferðinni var Guðmundur kokkur Óskarsson, uppalinn í Þorkelsgerði í Selvogi og því gamalreyndur á svæðinu. Segja má að hann hafi etið hundasúru af svo til hverri þúfu í heiðinni er hann ráfaði þar um í leit að fjallagrösum á sínum berskuárum.
Lagt var af stað frá Svarthól, ofan við eyðilegan sumarbústað undir Hásteinum. Á klöpp í Stóra-Hásteini er klappað LM, mörk Ness og Bjarnastaða.

Hásteinar

Hásteinar – letur.

Undir austanverðum Svarthól sést móta fyrir tóftum á tveimur stöðum. Merkjagirðingin liggur þarna áleiðis upp í heiðina. Henni var fylgt eftir áleiðis að vörðu í hæðinni fyrir ofan. Undir henni er Bjarnastaðaból, talsverðar tóftir og stekkur mót vestri. Selið er í raun inni á núverandi Neslandi, en óvíst er hvort þessi mörk hafi verið í gildi þarna fyrrum. Húsin fimm í selinu er vel merkjanleg sem og önnur mannvirki. Það stendur hátt í heiðinni og má sjá frá því niður að Þorkelsgerðisseli í suðvestri, lægra í heiðinni.

Þorkelsgerðisból

Þorkelsgerðisból.

FERLIR hafði áður verið bent á að Bjarnastaðasel (-ból) væri við Hásteina, þ.e. tóftirnar þar, en hér er greinilega um hið rétta sel að ræða. Nessel er suðaustan við Hnúkana.
Þorkelsgerðissel hefur einnig að geyma nokkrar tóftir og stekk utan í hraunhól skammt norðar. Eimuból er norðan við Vörðufell. U.þ.b. 10-15 mínútna gangur er á milli seljanna í heiðinni. Bæði er seltóft ofan við gróið jarðfall og niður í því.

Eimuból

Stekkur í Eimubóli.

Hellholtshellir

Hellholtshellir.

Í Eimuhelli í jarðfallinu er hlaðinn stekkur. Umhverfis jarðaflið er hlaðið gerði. Kví er og ofan við það. Í örnefnaskráningu fyrir Eimu segir m.a.: “Fyrir norðan [Vörðu]fellið er Eimuból alveg við mörkin. Þar eru hellar með húsveggjum.“ Vindássel er skammt vestar, nokkur tóft og stekkur.
Haldið var upp eftir heiðinni, á Hellholt. Í því er Hellholtshellir, stór inngöngu en frekar stuttur. Botninn er flóraður að hluta.
Nokkir smáhellar er undir Hellholti, flestir með mannvistarleifum í. Líkast til hafa þeir verið notaðir sem fjárskjól í gegnum tíðina. Ofan við Hellholtið er Girðingarréttin (Selvogsréttin nýrri). Gamla réttin er á Vörðufelli, stór og dilkrík með löngum leiðigarði til norðurs. Á leiðinni niður að fellinu var komi við í Skjólinu, merkilegu fyrirbæri.

Skjólið

Skjólið – op, hleðslu fyrir framan.

Það er hellisskúti að sjá, en þegar að er komið eru miklar hleðslur, grónar, fyrir munnanum. Gangur liggur niður og þegar þangað er komið tekur við slétt hellisgólf, salur. Varla er arða á gólfi, utan eitt bein inn undir skilum lofts og veggjar. Þarna sést hin mikla hleðsla vel. Hægt er að fara inn fyrir hana hægra megin og inn í afhelli, sem þar er. Ekki er vitað hvaða tilgangi þetta mannvirki hefur átt að þjóna í heiðinni, nema ef vera skyldi forðabúr eða geymsla. Strandarsel er þarna skammt vestar oh fyrrnefnd sel sunnar. Fjárskjól er skammt austar. Ofan við opið er hlaðinn stekkur. Þarna gæti hugsanlega hafa átt að vera selstaða frá einhverjum bænum ef tekið er mið af mannvirkjunum næst Skjólinu.
Á Vörðufelli er, auk réttarinnar, Smalavörður og Vörðufellsvarðan. Smalavörður voru hlaðnar af smölum. Segir sagan að það hafi verið vís leið til að finna eitthvað týnt að hlaða vörðu þarna því þá kom hluturinn óðar í leitirnar. Undir Vörðufellsvörðunni er klappað krossmark á jarðfasta klöpp. Efsti hluti hans hefur brotnað af.

Strandarhaed-34

Hleðslur í Bjargarhelli.

Ólafarsel er skammt sunnan við Vörðufelli, neðan nýrra hrauns, Vörðufellshrauns, sem liggur sunnan fellsins. Það er ein tóft og stekkur skammt austar, undir hraunkletti. Segir sagan að þar hafi áður komið volgt vatn upp úr hraunkantinum. Leiðin upp heiðina, yfir að Hlíðarenda, Litlalandi o.fl. bæjum undir bergbrúnunum, liggur skammt austan við selið.

Strandarhellir

Strandahellir.

Strandarhellir er fornt fjárskjól í jarðfalli. Samkvæmt gömlum heimildum er hann sagður hafa rúmað 200 fjár. Hlaðið er umhverfis ofanvert jarðfallið líkt og í Eimubóli. Skammt norðvestan við það er hlaðið gerði umhverfis hraunhól.
Bjargarhellir er skammt sunnar, fallegur fjárhellir, með sína leyndardóma. Sagt er að í hellinn hafi Selvogsbúar ætlað að flýja ef Tyrkirnir kæmu aftur, en af því varð ekki. Sögnin er sú að við opið hafi átt að vera hraunhella, sem hægt var að láta yfir og loka. Það gengur ekki upp hvað varðar Bjargarhelli.
Skammt suðvestar er hins vegar op í grónum hraunhól. Þegar komið er niður er þar nokkuð rúmgott skjól. Hraunhella gæti auðveldlega lokað opinu. Skammt suðvestar eru Stóri-Skolli og Litli-Skolli, hraunskjól undir Hellholti.
Gapstekkur er skammt vestar. Inni í honum er Gapi eða Gaphellir, einnig fjárskjól. Nafnið er tilkomið vegna þess að þegar komið er að hellinum úr suðri gapir opið við viðkomandi. Gapi var einnig áningarstaður fyrir ferðamenn á leið um Fornugötu. Nokkur önnur mannvirki eru í hæðinni, en þau voru ekki skoðuð að þessu sinni.

Vörðufellsrétt

Vörðufellsrétt á Vörðufelli.

Staðnæmst var við Árnavörðu á Dalhólum er Kristófer Bjarnason og fleiri endurhlóðu fyrir ekki svo löngu síðan. Hún var lengi eitt af kennileitum hæðarinnar. Skammt norðan við hana liggur gamla þjóðleiðin, Fornugata, sem enn má sjá móta fyrir. sunnar er Dalurinn. Vestar er varða (vörður), nefnd Dalhólabyrgi. Skammt vestar er stór ferhyrnd varða, nefnd „Skálinn“. Umleikis hana eru hleðslur. Þórður Sveinsson telur að þarna hafi fyrrum verið skáli, afdrep, t.d. fyrir smala í heiðinni. Líklegra má þó telja að þarna hafi fyrrum verið gatnamót, annars vegar Selvogsgötu og hins vegar Fornugatna og Útvogsgötu (niður í Selvog).
Af Strandarhæð er ágætt ústýni upp að Svörtubjörgum og inn Strandardal þar sem Selvogsgatan liðast um hann áleiðis að Hvalskarði. Á Svörtubjörgum er Eiríksvarðan. Þótt hún sé ekki nema tæplega mannæða há sést hún vel þar sem hún trjónir efst á fjallinu.
Frábært veður. Gangan tók 4 klst og 44 mín.

Selvogsheiði

Selvogsheiði – uppdráttur.

Gapi

Gengið var á Strandarhæð ofan við Selvog að Gaphelli. Heimildir herma að hann hafi rúmað sex tugi fjár. Framan við hann er Gapstekkur. Þaðan var haldið að Strandarhelli austan í hæðinni.

Ólafarsel

Ólafarsel.

Í hellinum, sem er vel rúmur að innanmáli, var haldið fé á öldum fyrrum. Sunnar er Bjargarhellir.
Þá var gengið mót Vörðufelli. Á fellinu er gamla lögrétt Selvogsbúa, Vörðurétt eða Selvogsrétt. Hún er fallega hlaðin, almenningur austast, innan dráttur og dilkar um kring. Notkun hennar var hætt árið 1924. Syðst á fellinu er Markavarða og undan henni klöpp með áklöppuðu krossmarki.

Vörðufell

Vörðufell – LM/krossmark?

Í örnefnaskrá Ölfushrepps er sagt að þar eigi að vera stafurinn M, en um krossmarkið eru greinilegar gamlar sprungur beggja vegna. Efsti hluti steinsins hefur brotnað frá. Krossinn er greinilega áklappaður. Á fellinu eru einnig urmull smávarða, en sagt er að smalar hefðu hlaðið vörðurnar og áttu þær að uppskera fundvísi að launum. Víðsýnt er af fellinu þótt það sé ekki hátt.
Suðaustan við Vörðufell er sel. Það er, skv. gömlum heimildum, Ólafarsel. Tóttirnar er mjög vel greinilegar. Stekkur er austan við tóftirnar. Enn austar eru tóftir Eimubóls og hellar. Hlaðið er fyrir op þeirra. Í einu jarðfallinu eru greinilegar gamlar tóttir tveggja húsa, sennilega eldri en selstóttirnar ofan þeirra. Hægt er að ganga í gegnum og á milli hellanna.

Vindássel

Vindássel í Strandarheiði.

Vestar eru tóftir Vindássels. Norðar er Hellholt. Efst á því er fallegur hellir, stór og mikill. Utan í holtinu eru margir aðrir hellar. Vestan við holtið, suðaustan Svörtubjarga, eru greinilegar tóttir tveggja selja eða heiðarbæjar. Utan í hól eru a.m.k. þrjú fjárhús og annað langhús að auki. Ekki eru til heimildir um sel eða bæ þennan, en líklegt má telja að þarna hafi verið selstaða frá Strönd eða Strandarbæjunum (Strandarsel/Staðarsel).

Eiríksvarða

Eiríksvarða á Svörtubjörgum.

Útsýni vestur með Svörtubjörgum og áfram með Herdísarvíkurhlíðum er ægifagurt. Í hæðinni suðvestan undan selinu eru fallegir hellar og ofan á Svörtubjörgum trjónir Eiríksvarða, reist af Eiríki, presti og galdramanni, í Vogsósum árið 1710. Hann lést árið 1716. Á meðan hún stendur á Selvogi að vera óhætt fyrir ránsmönnum. Varðan er fjórar steinaraðir, fallega hlaðin og stendur reisuleg fremst á björgunum.

Girðingarrétt

Girðingarrétt.

Sunnan við selið er hellir með miklum hleðslum. Ofan við opið er hlaðin stekkur. Austan hans má sjá móta fyrir tóft undir hraunhól. Suðaustar í heiðinni er Girðingarréttin, öðru nafni Selvogsréttin eldri eða Gamlarétt.
Á bakaleiðinni sást til refa við leik á Selvogsheiðinni. Heiðin lætur ekki mikið yfir sér, en í henni má finna fjölmargar minjar, sem áhugavert er að halda til haga.
Frábært veður – Gangan tók 3 klst og 33 mín.

Girdingarrett-1

FERLIRsfélagar í Girðingarrétt með Þórarni Snorrasyni.

Eimuból

Gengið var að Hásteini þar sem Kristófer Bjarnason, kirkjuvörður í Strandarkirkju, tók á móti þátttakendum. Með í för var einnig Guðmundur G. Þorsteinsson, hellafræðingur með meiru.

Áni

Áni – fjárhellir.

Kristófer vísaði m.a. á Svarthól, sem er þarna vestan við Hástein (Hásteina). Undir Svarthól eiga að vera tóttir. Ætlunin er að skoða þær síðar. Þá lýsti hann landamerkjum og fl. með vísan til væntanlegra selfunda á og við Selvogsheiði. Þessi ferð var sérstök að því leyti að ætlunin var að finna nokkra staði, sem hingað til hafa ekki verið merktir inn á kort og aðeins örfáir núlifandi menn vita hvar eru.

Bjarnastaðasel

Bjarnastaðaból – uppdráttur ÓSÁ.

Gengið var eftir leiðarlýsingu Snorra með stefnu til norðausturs að Hnúkunum, en þar undir brekkunum, u.þ.b. kílómeter ofan við Háststein, átti Bjarnastaðaból að vera. Það reyndist líka vera þar. Uppi á og vestan undir hól áður en komið var að efsta hólinn undir brekkunum var stórt sel með allmörgum tóttum. Hlaðinn stekkur var vestan af selinu, einnig á hól.

Þorkelsgerðissel

Þorkelsgerðissel – uppdráttur ÓSÁ.

Suðvestan við Bjarnastaðaból, í svipaðri fjarlægð frá Hásteini, í norður frá honum, var gengið fram á Þorkelsgerðisból, einnig stórt sel með mögum tóttum.
Stekkurinn var á hól skammt norðan við selið. Á kortum hefur Þorkelsgerðissel ranglega verið sýnt norðan til við Vörðufell, nálægt Eimubóli.

Selvogsheiði

Selvogsheiði – sel.

Línan var tekin norður fyrir Vörðufell, um tveggja kílómetra leið, þar sem komið var að Eimubóli. Tóttirnar eru austan við stórt gróið jarðfall, en í því eru hellisop til suðurs og norðurs. Hlaðinn gerður er ofan og umhverfis opið. Í öðru jarðfalli skammt sunnar er gömul tótt og kví. Hellir þar í suður hefur verið notaður sem fjárhellir. Hleðsla er inn í honum miðjum. Op er upp úr þeim helli skammt sunnar. Að sögn Guðmundar eru Eimuhellar, eða Eimuhellir því um eina sundurslitna hraunrás er að ræða, um 400 metrar í heildina. Norðan við stóra jarðfallið er hlaðinn stekkur og einnig er hlaðinn lítill stekkur ofan á syðsta opinu, ofan við fjárhellinn.
Tóttir eru skammt austan við Eimuból, Vindássel. Landamerki Eimu og Vindáss liggja í vörðu syðst á Vörðufelli og í vörðu á Hellholti. Frá Vindásseli mátti vel sjá gömlu réttina ofan á Vörðufelli.

Hlíðarborg

Hlíðarborg

Gengið var að Einbúa vestan Vörðufells. Um 200 metrum vestan við hólinn er gróið jarðfall. Niður í því er gamalt tófugreni. Guðmundur kannaði hraunrás, sem þar er og virtist hún ná eitthvað til norðurs og einnig til suðurs. Rásin mun verða skoðuð nánar síðar. Botninn í rásinni er hrjúfur. Loftið innan við munnann stendur á hraunsúlum.
Þá var gengið til norðurs í átt að Hraunhól í mið Svörtubjörg, vestan við Hellholt. Á meðan aðrir leituðu að tóttum, sem áttu að vera þar í slakka miðsvæðis, en þó vestar, kíkti Guðmundur í Bólið, helli austan í Hellholti. Við opið er lítil tótt og inni í hellinum eru litlar hleðslur. Í leiðinni var litið ofan í hraunrás suðvestan Hellholts, en hún reyndist vera um 10 metra löng.
Eftir nokkra leit fannst tóttin, sem nefnd hefur verið Strandarsel uns annað vitnast. Stór varða er á hæð austan við tóttina og liggur gömul leið úr suðri í átt að vörðunni, en sunnan hennar beygir gatan til vesturs að selinu. Suðvestan við tóttina er fallega hlaðinn stekkur.

Hlíðarborg

Hlíðarborg í Selvogi – síðar stekkur.

Gengið var í átt að Hlíðarborg, en þar sunnan borgarinnar átti skv. lýsingu að vera önnur hlaðinn fjárborg, svonefnd Valgarðsborg. Hún var þar líka, hringlaga og hefur verið allnokkuð mannvirki á sínum tíma.

Hlíðarsel

Hlíðarsel – uppdráttur ÓSÁ.

Svo gerðist hið furðulega. Á leið frá Valgarðsborg að Hlíðarborg í norðvestri gengu þátttakendur fram á stórt sel. Það er að öllum líkindum Hlíðarsel, en bein sjónlína er að frá selinu að bænum Hlíð norðan við Hlíðarvatn. Selið er efst í brúninni í austur séð frá Hlíð.
Skammt norðan við selið, handan girðingarinnar, er Hlíðarborg, mikið mannvirki vestan undir háum hraunhól.
Frá Hlíðarborg var gengið að hellinum Ána, en við op hans eru talsverðar hleðslur. Ennig er hlaðinn lágur garður skamma leið til suðurs frá hleðslunum.
Loks var haldið yfir að Vogsósaseli, sem er skammt austan við Vogsósaréttina. Selið eru tvær tóttir efst á hraunhrygg sunnan Vatnaása.

Valgarðsborg

Valgarðsborg í Hlíðarseli.

Herdísavíkursel

Sel ofan Selvogs. Byggt á Fornleifaskráningu Hildar Gestsdóttur og Orra Vésteinssonar um sel í Selvogi.

Herdísarvíkursel

Herdísarvíkursel.

Um Herdísarvíkursel segir: “Á Seljabót er landa- og sýslumörk. Landamörk milli Herdísarvíkur og Krýsuvíkur og sýslumörk milli Gullbringu- og Árnessýslu. Seljabótanef er þessi staður nefndur. Þarna má sjá selrústir gamlar…” [Tóftirnar eru undir sunnanverðum hraunkantinum ofan Seljabótar, skammt austan sýslugirðingarinnar. Vatnsstæðið er skammt vestar, í krika svo til alveg við girðinguna. Í Seljabótinni má sjá hlaðið gerði og skammt ofan hennar var selshellir, sem nú er að mestu fylltur af sandi].

Eimuból

Stekkur í Eimubóli.

Fyrir norðan Vörðufell er Eimuból, alveg við mörkin. Þar eru hellar með húsveggjum. [Eimuból er greinilega mjög gömul selstöð. Bæði er tóft á bakka gróins jarðfalls sem og í jarðfallinu sjálfu. Inn úr því er fjárskjól með allnokkrum hleðslum í].
Austan við Strandarhæð eru miklar lægðir, kallaðar Djúpudalir, og tilheyra Útvogi. Norðaustur af þeim er Þorkelsgerðisból eða –sel. Við Þorkelsgerðissel er Skyrhóll, hellisskúti, þar sem skyrið átti að hafa verið geymt. [Margar tóftir eru í Þorkelsgerðisseli].

Vogsósasel

Vogsósastekkur (heimasel).

Ekki er getið heimilda um Sel frá Vogsósum, en Þórarinn Snorrason sýndi ritgerðarhöfundi það árið 2000. Það sem skammt austan við þjóðveginn, sunnan fjárgirðingarinnar upp frá réttinni, ofan við svonefnda Grænudali. Þar er tóft á hæðinni. Á hæðinni er varða. Seldalur heitir gróin lægð norðan selsins. Vestan hæðarinnar, handan þjóðvegarins, á hól eru þrjár fjárborgir (Borgirnar þrjár). Borgirnar  gætu að hluta verið leifar nýrra heimasels frá Vogsósum, enda bærinn aldagamall – þjónaði m.a. sem prestssetur Selvogsbúa um tíma. Verður því að telja líklegt að þá hafi verið vel búið að Vogsósum.

Ólafarsel

Ólafarsel.

Í örnefnalýsingu fyrir Selvog, er m.a. fjallað um Ólafarsel. Þar segir m.a.: “ Í örnefnalýsingu fyrir Ölfuss má m.a. sjá eftirfarandi: Ólafarsel er austan og sunnan við Vörðufell í Vörðufellshrauni. Í því er hiti og rýkur úr hólnum. Framan í hrauninu er Ólafarsel, er enn sér fyrir. Það tilheyrði um tíma Eimu.
Ekki er getið um heimildir fyrir sel frá Strönd, þeirri stóru jörð. Selsins undir suðausturhorni Svörtubjarga er heldur hvergi getið og gæti það verið ástæðan. Þar er nokkuð stórt sel með lambastekk, fjárskjóli í helli og vatnsbóli í skúta.
Í heimildum um Nessel segir: “Spölkorn fyrir ofan Kvennagönguhóla eru aðrir hraunhólar og kringum þá grösugar flatir. Þarna var Nessel, og sést enn fyrir tóftum þess. Selið er innan sandgræðslugirðingarinnar. Nú hafa verið reist fjárhús á móti selinu”.

Nessel

Nessel.

[Nessel er nú vel gróið. Tóftir eru í selinu og gróið jarðfall. Líklegt er að reft hafi verið yfir það því það er hálffullt].
Litlalandssel er “uppi á fjallinu, ofan Lyngbrekkna og Grislingahlíðar, er hraun austur frá Búrfelli. Það heitir Litlalandshraun. Í því austarlega er Litlalandssel, í stefnu frá Búrfelli á Kerlingarberg. [Selið er utan í grónum hraunhól í hrauninu. Hóllinn er holur innan og á honum dyr. Annars er vel gróið í kringum selið].

Bjarnastaðaból

Bjarnastaðaból.

Um Bjarnstaðasel segir: “Norður eða norðvestur af Klöppinni Fótalaus í Neslandi er Bjarnastaðaból eða –sel. Uppi í heiðinni voru sel eða ból frá flestum bæjum”. [Þrjár hjáleigur voru frá Bjarnastöðum og ber selið þess merki. Margar tóftir eru þar og greinilega verið haft í seli frá fleiri en einum bæ. Þar er og að finna a.m.k. tvo stekki].
Ekki er getið heimilda um sel frá Breiðabólstað, en það er í Krossfjöllum. Ekki heldur er getið heimilda um sel frá Götu, en ekki er ólíklegt að Gata og Eima hafi annað hvort haft saman í seli eða í nálægð.

Hlíðarendasel

Hlíðarendasel.

Hlíðarendasel er “á miðri leið fá Búrfelli inn að Geitafelli, í stefnu af Búrfelli á Hrútagil. [Selið er ofarlega í grónu hrauninu og gengur Ólafsskarðsvegur um það mitt. Þrjár tóftir eru í því auk stekkjar á hraunhól].
Skammt austar er Litlalandssel; þrjár tóftir og stekkur í kringum hraunsskúta.
Ekki er getið heimilda um sel frá Vindheimum (Vindási), en grónar tóftir selsins má sjá vestan við Eimuból [Kristófer Bjarnason]. Vindásselið er gróinn upphækkaður hóll svo telja má að þarf hafi verið selsstaða um alllangt skeið; endurgerð ítrekað.

Bjarnastaðasel

Bjarnastaðasel – uppdráttur ÓSÁ.

Geitafellsrétt

Gengin var óhefðbundin leið frá Þrengslavegi að Strandarhæð. Leiðin er greiðfær og auðveld yfirferðar. Hallar undan, einkum seinni hlutann.

Selvogsheiði

Gengið um Selvogsheiði.

Byrjað var á því að ganga að Sandfelli og áfram yfir slétt mosahraunið að Geitafelli, með því að austan og sunnanverðu uns komið var að Seljavöllum. Þaðan var haldið suðvestur með Réttargjá að gömlu hlöðnu Geitafellsréttinni. Geitafellsréttin var frádráttarrétt Ölfus- og Selvogsbúa. Réttin hefur ekki verið notuð lengi, en stendur þarna heilleg og löngum einmana undir gjáarveggnum. Umhverfið er allt hið fegursta og skjólgott undir gjáarveggnum. Skömmu áður en komið var að réttinni mátti sjá gamlar hleðslur utan í hraunhól.

Geitafellsrétt

Geitafellsrétt (Gjáarrétt).

Í auglýsingu í Ísafold 22.09.1875, bls. 143-144 er m.a. minnst á Geitafellsréttina: „Um leið og eg geri almenningi kunnugt, að eg samkvæmt tilmælum amtmannsins yfir suðr- og vestrumdæminu hafi verið skipaðr lögreglustjóri til upprætingar fjárklaðans í suðrhluta Gullbringusýslu, í Selvogi og í Út-Ölfusinu inn fyrir Hjallahverfið, skal hér með skorað á fjareigendr þá.. sem kindr kynnu að eiga í réttum þeim, sem sótt er úr þessu lögsagnarumdæmi mínu, að koma sem tímanlegast, að réttunum og hirða kindr sínar.

Geitafellsrétt

Geitafellsrétt (Gjáarrétt).

Mun almenn skoðun á réttarfénu, fyrren það er dregið, fara fram í Gjáarrétt mánudaginn 20. þ. m., í Geitafellsrétt þriðjudaginn 21. s. m. og í Hveragerðisrétt miðvikudaginn 22. s. m. Allar kindr þær, sem þá finnast með kláða eðr kláðavotti, munu samkvæmt 4. gr. tilsk. frá 5. jan. 1866 verða stranglega aðskildar frá hinu fénu og skornar þegar í stað við réttina, ef eigandinn er ekki við til að hirða þær á tryggjandi hátt, svo að þær ekki nái samgöngum við annað fé, eða ef enginn annar vill taka þær að sér til hirðingar.“

Strandarhæð

Við Gapa.

Gengið var með Merarbrekkum að slysavarnarskýlinu undir Heiðinni há og kíkt á Kjallarahelli, sem er skammt ofan við það. Ekki var gengið á Svörtubjörg og komið við Eiríksvörðu að þessu sinni (hlaðin árið 1710), en þess í stað var haldið í átt að Staðarsel (Strandarseli), fráfæruseli við efri rætur þeirra. Leiðin lá framhjá hlöðnu Selvogsréttinni norðan við Hnúkana með viðkomu í Hellholti og Hellholtshellir skoðaður, Hafri, Hruni svo og nokkrir aðrir. Áður höfðu ferðalangar áð í Selvogsréttinni þar sem gangnamenn fyrrum höfðu verið svo vinsamlegir að skilja eftir svolítið af kjarngóðum hákarli, reyktum rauðmaga og brennivíni fyrir ferðalúna vegfarendur.

Eimusel

Eimusel (Eimuból).

Þá var haldið niður að Eimubóli (Eimustekkur er í Eimuhelli) og Vindásseli, gengið yfir Vörðufell og skoðuð hlaðna Vörðufellsréttin (hætt að nota 1924) og Markavarðan með krossmarkinu (landamerkjavarða), auk litlu smalavarðanna, sem tengjast þjóðsögunni um endurheimtur.
Á þessu svæði eru miklar og merkilegar mannvistaleifar, ekki síst í hellum og skútum. Hafa þær væntanlega tengst seljabúskapnum í heiðinni, sem hefur skilið eftir sig miklar og merkilegar minjar.

Eimusel

Hleðslur í Eimuseli (Eimubóli).

Þarna er fjölmargt að skoða þótt ekki virðist það vera við fyrstu sýn, a.m.k. ekki séð neðan frá þjóðveginum.

Ólafarsel

Ólafarsel.

Á leiðinni að Strandarhelli var komið við í Ólafarseli, sem liggur undir hraunkrikanum syðst í Vörðufellshrauni. Skammt austar liggur gömul þjóðleið. Loks var skoðað í Strandarhelli, Bjargarhelli og í Gaphelli (Gapstekk).
Gangan tók u.þ.b. 8 klst. Veður var frábært og björt júlínóttin gaf ferðinni skemmtilegt yfirbragð.

Selvogsheiði

Selvogsheiði – uppdráttur ÓSÁ.

Selvogsheiði

Þegar gengið er um Selvogsheiði ofan gömlu Fornugötu má sjá a.m.k. 15 selstöður í 25 seljum. Selstöðurnar eru greinilega mismunandi gamlar. Í þremur seljum eru nokkrar kynslóðir selja, allt frá fyrstu til loka seljabúskaparins í lok 19. aldar. Nokkrar eru óþekktar.
gotusel-21Í örnefnalýsingu fyrir Bjarnastaði segir m.a.: „Fyrir ofan þjóðveg: Austur af Strandarhæð, sem er norður af vegamótunum, eru miklar lægðir, sem heita Djúpudalir og tilheyra Útvogi. Þeir eru við mörk Götu og Útvogs.  Austur og upp af þeim eru þrír lágir hólar, sem heita Karlshólar og eru fyrir ofan Fornugötu. Fremsti-Karlshóll er næstur þjóðvegi, þá Mið-Karlshóll og loks Efsti-Karlshóll.
Norður eða norðvestur af klöppinni Fótalaus í Neslandi er Bjarnastaðaból eða -sel. Það er austur af Stebbasteini (sjá Þorkelsgerði). Uppi í heiðinni voru sel eða ból frá flestum bæjum. Mörkin móti Nesi eru alveg við bólið.  Hásteinar eru þrír hraunhólar við þjóðveginn. Fyrir ofan veg er Stóri-Hásteinn, og liggja mörk Ness og Bjarnastaða um hann, alveg vestan við Kárabrekkuhól í Neslandi.“
Hér að framan er ekki getið um litla selstöðu undir Hásteini. Hún gæti hafa verið frá Götu, en í Jarðarbókinni 1703 er þess getið að Gata hafi átt selstöðu í Bjarnastaðamannalandi án skatta og skyldna. Hins vegar liggja mörk götu vestar en Bjarnastaðaland með sameiginleg mörk alla leið í Kálfahvamm í Geitafelli.
gotusel-uppdratturÍ örnefnalýsingu fyrir Götu segir m.a.: „Mörkin milli Útvogs og Götu eru úr Markhól austan Stóraklifs í Þorkelsgerðislandi í miðjan Gjáardal, sem er kringlótt ker ofan við ferðamannaveginn [Fornugötu] út að Vogsósum, austur af Bjargarhelli. Milli Gjáardals og Torfdals er mjótt haft, líklega tíu metrar. Þar er Miðvogsstekkur í Götulandi. Línan liggur úr Gjáardal um þúfu á Götugjá. Götugjá er ein af mörgum gjám, sem eru milli Hnúka og Geitafells. Hún kemur upp aftur niðri í heiði, og er sagt, að hún liggi niður í Götutún. Þaðan er línan í Svarthól, sem er einstakur hóll úti í svonefndum Móa (eða Móum) suðaustur frá Vörðufelli. Mörk Götulands að austan eru 40 faðma fyrir austan Svarthól, en ekkert merki er þar. Í landamerkjaskrá segir, að þau séu í vörðu 40 faðma fyrir austan Svarthól.“
Hér er getið um Svarthól. Þegar FERLIR skoðaði hólinn eftir vísan Kristófers Bjarnasonar heitins, en hann hafði í fyrri ferðum um svæðið bent á þar væru mannvistarleifar, komu í ljós selsminjar; þrjú rými og stekkur, auk vörðu. Tóftirnar eru heillegar, veggir fallnir og grónir. Þó má lesa rýmin; stakt eldhús og sameiginlegur inngangur í baðstofu og búr.

skyrhellir-21

Tóftin er ekki stór, en þó engu minni en nánast helmingur af 310 selstöðum, sem FERLIR hefur skoðað á Reykjanes-skaganum. Líklegt má telja að selstaða þessi hafi verið frá Götu, sennilega á 15. öld. Hugsanlega hefur þá kastast í kekki með Bjarnastaðamönnum og Götufólkinu á einhverju tímaskeiði, líkt og þekkist, og selstaðan þá orðið til.
Í örnefnalýsingu fyrir Þorkelsgerði, sem á land vestan við Götu segir m.a.: „Austan við Strandarhæð eru miklar lægðir, kallaðar Djúpudalir, og tilheyra Útvogi. Norðaustur af þeim er Þorkelsgerðisból eða -sel. Við það er Skyrhóll, hellisskúti, þar sem skyrið átti að hafa verið geymt. Neðar er Þorkelsgerðisvatnsstæði. Vatn er í því lengi vel fram eftir vori. Bólið er inn af því, vestar en Hásteinar, en austur af Vörðufelli.“
skyrhellir-22Skyrhellir er reyndar ekki við selið, en þó ekki langt frá. Hellirinn er í raun skúti, sem hægt er að fara niður í. Á „hellisgólfinu“ eru beinaleifar. Framan við opið á hólnum er stök tóft. Hún gæti þó reynst stærri ef staðurinn yrði rannsakaður betur. Ferhyrnt gróið gerði er einnig í hólnum svo ekki er ólíklegt að þarna hafi fyrrum verið lítil selstaða.
Þá segir ennfremur til nánari upplýsinga í örnefnalýsingu fyrir Þorkelsgerði: „Hrakningshæð er hæðardrag í Vörðufellshrauni í suðaustur frá Vörðufelli. Ef fé hrakti  undan veðrum, hafði það afdrep undir hæðinni. Hæðin er líklega í Eimulandi eða við mörkin. Brekkuhalli er upp undir Hnúkana. Þær brekkur heita Hallandar. Í Eimulandi er Eimuhallandi og þar í Eimuhallandasteinn. Það er töluvert stór steinn, vænt Grettistak. Austan til við hann er Stebbasteinn, ekki stór steinn, stakur. Hann er fyrir ofan Móana. Brekkur eru í hallandanum fyrir neðan. Stebbasteinn dregur nafn af Stefáni í Götu, sem tyllti sér við steininn í smalamennskum og hætti til að sitja of lengi og dragast aftur úr.  Hér er heiðin farin að hækka. Leynir er lægð austan Hellholta og liggur niður með Hallanda, alla leið niður að Eimuhallandasteini. Leynir er gott beitiland, ekki uppblásið. Hann er austan við Eimuból. Fram af Eimuhallandasteini er Leturhóll. Um hann liggur merkjalínan milli gata - markavarðaÞorkelsgerðis og Eimu. Þaðan er bein lína í Kálfahvamm.
Austan við Leyni, vestur og fram (þ.e. suður) af Vesturhnúkum (í Neslandi) eru Hrómundartindar (112), einstakir klettar. Ekki er kunn nein sögn um nafnið. Þar eru góðar brekkur, sem slegnar voru frá bæjum í Útvogi.“
Landamerkjavörður
má sjá víða í Selvogsheiðinni.
Frábært veður.

Heimildir:
-Örnefnalýsing fyrir Bjarnastaði – ÖÍ.
-Örnefnalýsing fyrir Götu – ÖÍ.
-Örnefnalýsing fyrir Þorkelsgerði – ÖÍ.
-Jarðabókin 1703.
-Kristófer Bjarnason.

Strandarhellir

Í Strandarhelli.

Girðingarrétt

Ætlunin var að ganga frá Strandarhæð (Strandarhelli og Bjargarhelli) að Ólafarseli, upp á Vörðufell að Vörðufellsréttinni, í Vindássel og Eimuból, upp í Hellholt og að Girðingarréttinni (Selvogssréttinni gömlu). Þaðan var ætlunin að halda niður í Staðarsel undir Svörtubjörgum og skoða nokkrar óþekktar tóftir í bakaleiðinni um heiðina. Séra Eiríkur Magnússon á Vogsósum fylgdi ferðalöngunum um heiðina.
Vordufellsgata-21Á 
 leiðinni var gengið fram á óþekktar mannvistarleifar á nokkrum stöðum og þó einkum á einum milli Vindássels og Staðarsels. Þar reyndust vera hús, líklega selstöður, á fjórum stöðum, stórt fjárskjól með miklum fyrirhleðslum og stór hellir með hlöðnum niðurgangi og fyrirhleðslu er niður var komið. Botninn var rennisléttur svo sæmandi væri hverju öðrum samkomustað. Telja verður að þarna hafi 2-3 bæir (hjáleigur) frá Strönd hafst sameiginlega selstöðu í heiðinni um skamman tíma fyrir nokkrum öldum.
Strandarhelir-21Sama verður sagt um Staðarselið. Í því eru fimm  hús; eitt greinilega stærst og annað greinilega nýjast. Alllangur stekkur er þar til hliðar, fjárhellir sunnar og fleiri minni tóftir og brunnstæði vestar. Telja verður líklegt að þarna hafi prestssetrið haft selstöðu undir það síðasta. Annað hvort eru þetta hús frá mismunandi tíma eða að fleiri Strandarbæir hafi haft þarna selstöðu, sem telja verður líklegt, en á Strandartorfunni voru allnokkrar hjáleigur á síðari öldum.
Strandarselið (sem jafnan hefur verið Olafarsel-21nefnt Staðarsel, væntanlega eftir prestsstaðnum) er á mjög fallegu, sléttu og grónu graslendi efst og suðaustan undir Svörtubjörgum. Þaðan er víðsýnt til vesturs sem og heim að bæ í suðsuðvestri.
Í Hellholti eru greinilega smalaskjól. Gólf hafa verið slétt og hlaðið fyrir op skúta (hella). Varða er á norðvesturbrún Hellholts, greinilega markavarða.

Suðvestan undir Vörðufelli er greinilega gleymd forn fjölfarin gata. Hún mætir Selvogsgötunni (Suðurferðavegi) milli Strandarhæðar og Selvogsheiðar (Strandarheiðar). Þessi gata virðist hafa verið fjölfarnari en hin, en ástæðan gæti hafa verið fjárrekstrar frá réttum þeim er hér koma við sögu.

Hnúkar rísa eins og steingerð tröll efst á Selvogsheiði. Heiðin er dyngja en erfitt er að átta sig á því Vordufell-22nema með því að skoða landakort. Á Vörðufelli er gamla lögrétt Selvogsbúa, Vörðurétt eða Selvogsrétt. Hún er fallega hlaðin, hringlaga almenningur austast, innan dráttur og dilkar um kring. Notkun hennar var hætt árið 1924.
Suðvestan undir Vörðufelli er Ólafarsel, mjög gamalt sel í grónum hraunkrika Vörðufellshrauns. Skammt suðaustan við selið er hlaðinn stekkur utan í kletti.
Í þjóðsögunni „Vörðurnar á Vörðufelli“ segir m.a.: „Sagt er að ræningjar hafi komið á land ekki langt frá Krýsuvík. Komu þeir gangandi og stefndu fram til Krýsuvíkur, en er til þeirra sást var sendur maður til séra Eiríks prests, sem fór með honum og er þeir sáu heim að bænum þá hafði ræningjaflokkurinn numið staðar á hóli nokkrum fyrir sunnan kirkjuna í Krýsuvík og börðust í ákafa svo þeir drápust fyrir vopnum sjálfra sín, en komust aldrei heim að bænum.
Nokkru Vordufell-21seinna fór prestur austur á Selvogsheiði og nam staðar á felli einu lágu, hann byggði upp margar vörður og sagði að meðan nokkur varðan stæði mundi Selvogurinn ekki verða rændur. Heitir fellið síðan Vörðufell.“

Í þjóðsögunni „Eiríksvarða og Vörðufell“ segir m.a.: „Eiríkur prestur hlóð vörðu þá sem við hann er kennd og kölluð Eiríksvarða, hún stendur fyrir ofan Hlíð á Hellisheiði. Eiríkur sagði að Selvogur mundi ekki verða rændur á meðan varðan stæði. Margar vörður hlóð hann á hæð þeirri er heitir Vörðufell, ránsmönnum þeim sem fóru um landið sýndist að herflokkar væru þar sem vörðurnar voru, en þær standa í röðum og eru um þrjátíu talsins og allar eru þær með klofi.“

Vordufell-23Margt hefur verið ritað um séra Eirík. M.a. skrifaði Konráð Bjarnason eftirfarandi um hann í Lesbók Morgunblaðsins 1997: „Séra Eiríkur Magnússon varð eftirmaður séra Gríms Ingimundarsonar að Strönd, en með búsetu að Vogsósum. Um hann þyrlaðist upp mikið moldviðri þjóðsagna, sem erfitt hefur reynst að kveða niður.
Séra Eiríkur Magnússon var fæddur 1638, sonur Magnúsar Eiríkssonar lögréttumanns að Njarðvíkum í Gullbringusýslu og konu hans Guðrúnar Jónsdóttur bónda í Reykjavík á Seltjarnarnesi, Oddssonar. Yngri bróðir séra Eiríks var Jón Magnússon lögréttumaður að Marteinstungu í Holtum fæddur l642. Afi þeirra var Eiríkur Magnússon lögréttumaður að Djúpadal í Skagafirði fæddur um 1575. En langafi hans var Jón Arason skáld og biskup að Hólum í Hjaltadal fæddur 1484. Séra Eiríkur á Vordufell-24Vogsósum var því í beinan karllegg frá Jóni biskupi Arasyni kominn.
Öllum ber saman um að séra Eiríkur hafi frá unga aldri alist upp og lært undir Skálholtsskóla hjá séra Jóni Daðasyni í Arnarbæli Ölfusi. Séra Jón Daðason í Arnarbæli var maður vel að sér, lögvís, náttúrufróður, búhöldur góður og eignaðist fjölda jarða. En hann var haldin þeim veikleika margra sautjándu-aldarmanna, að hægt væri að virkja ill öfl og senda þau óvildarmönnum. Séra Jón Daðason varð bráðkvaddur á túninu í Arnarbæli 13. janúar 1676, þá sjötugur að aldri.
Þann 31. maí 1668, var séra Eiríkur Magnússon vígður af Brynjólfi biskupi í Skálholti Sveinssyni aðstoðarprestur séra Jóns Daðasonar í Arnarbæli, samkvæmt kappelláns köllun frá honum og var vígslubréf séra Eiríks gefið út samdægurs, 31. maí 1668 í Skálholti.
Selvogsmönnum var fullljóst við áramót 1676-7, að þeir þyrftu nú þegar prest til Strandar- og Krýsuvíkursókna, vegna þess hve séra Grímur prestur þeirra að Strönd Ingimundarson var langt leiddur í ólæknandi sjúkdómi sínum. Þeir hafa þegar notið þjónustu séra Eiríks Magnússonar og þekktu mannkosti hans og sækja fast og með lagni að koma honum til embættis að Strönd, með því að fá prófastinn í Gaulverjabæ séra Torfa Jónsson til liðs við sig. En honum er það ljúft, einkum vegna þess að hann nýtur nú Selvogssveitar eftir að frændi hans Brynjólfur biskup arfleiddi hann að skipi sínu og sjóbúð innan við malarkamp Strandar, ásamt uppsátri.

Vindassel-21

Þann 25. febrúar 1677 var að Strönd í Selvogi séra Eiríkur Magnússon kallaður til prests að Strönd og Krýsuvík. Veitingabréf séra Eiríks fyrir Selvogsþingum var gefið út af Þórði Þorlákssyni biskupi og dagsett í Skálholti 5. mars 1677.
Þegar séra Eiríkur tekur við embætti sínu í Selvogssveit fer hann að Vogsósum við Hlíðarvatn. Þar hafa Selvogsprestar haft ábýlisréttindi frá trúarsiðskiptum, en jarðareigendur eru kirkjustaðurinn að Strönd og Strandarkirkja á meðan Strönd er enn í byggð.
Séra Eiríkur verður því ábúandi að Vogsósum, en vegna þess að hann er einhleypur og lítt gefin fyrir búskaparvafstur leigir hann í ábúandarétti sínum fjölskyldubónda, næra allan búskaparmöguleika jarðarinnar með sérsamningi þeirra í millum. Þegar séra Eiríkur kemur i Selvogsbyggð eru þar 42 búendur (vegna gjöfulla fiskislóða upp að sjávarströnd með lendingarvörum). Þá enn 7 búendur á höfuðbólinu Strönd. Það kom í hlut séra Eiríks að jarðsyngja starfsbróður sinn séra Grím Ingimundarson á árinu 1678.

Eimubol-21

Séra Eiríkur verður þolandi þess að sjá höfuðbólið Strönd fara í eyði á tíunda áratug 17. aldar og sandágang teygja sig upp að Strandarkirkjugarði. En án vafa hefur séra Eiríkur notið kyrrðar og friðar á bökkum hins gjöfula veiðivatns og við mófugla- og beitilandsheiðina, er teygðist upp að Hlíðarfjalli og brekkum. Hann er afkomutryggður emættismaður í húsmennsku og nýtur góðhesta sinna á reiðgötu undir Herdísarvíkurfjalli og Geitahlíð á leið til útkirkju sinnar í Krýsuvík, sem og hinnar litríku kaupstaðarleiðar yfir Grindarskörð til Hafnarfjarðar.
Árið 1688, þann 20. maí, fól Þórður biskup séra Eiríki á Vogsósum, að taka út Stað í Grindavík af séra Rafni Ólafssyni og setja þar inn séra Stefán Hallkelsson.

Hellholt-21

Þetta verk leysti séra Eiríkur fljótt og vel af hendi. En frá þessu verki hafði biskup orðið að ganga árið áður, með því að séra Rafn neitaði að láta af hendi kirkjulyklana við biskup sjálfan. En séra Rafn hafði það eitt brotið af sér við kirkjuvald að hann neitaði að halda kóngsbænadag sem lögboðinn var á árinu 1686.
Með tilliti til manntalsins 1703 er sýnt að laust fyrir aldamót 1700 hafa ung hjón í frumbúskap sínum tekið við Vogsósabúi í ábúð séra Eiríks. Þau voru Jón Jónsson fæddur 1677 og kona hans Helga Gísladóttir honum fjórum árum eldri. Yngri dóttir þeirra Vigdís var fædd 1700 og varð móðir Jóns Halldórssonar lögréttumanns að Nesi, fyrri manns Rannveigar Filippusdóttur, er átti að seinni manni Bjarna Sívertsson dbrm. og kaupmann í Hafnarfirði.
Hellholt-22Samkvæmt jarðabók Árna og Páls 1706 er ljóst að Jón bóndi að Vogsósum hefur gott kúa- og fjárbú, ásamt hlunnindum jarðar í selveiði, fjörureka og eggjatöku. Þar kemur fram, að jörðinni fylgja þrjú leigukúgildi og af þeim greiðir bóndi með smjöri til prests og að hluta til jarðareigenda, en landskuld af allri jörðinni greiðist til prests inná reikning jarðeiganda. Bóndinn hefur þá sjö kýr, kvígu og kálf, að auki prestsins tvær eigin kýr. Þá hefur sóknarpresturinn séra Eiríkur Magnússon herbergi fyrir sjálfan sig og einn þjónustukvenmann og forsorgar sig og hana á eigin kosti (þjónustustúlka séra Eiríks árið 1703 var Oddný Ólafsdóttir þá 29 ára en, séra Eiríkur 65 ára).

Girdingarrett-23

Meðal hinna mörgu sjávar- og landbænda í Selvogssveit fyrir aldamót 1700 voru Páll Björnsson bóndi og lögréttumaður að Bjarnastöðum, fæddur að Teigi í Fljótshlíð og afkomandi Önnu á Stóruborg. Dóttir hans Guðrún átti Bjarna Sigurðsson bónda í Nesi albróður Péturs einnig bónda þar afa Bjarna riddara í Hafnafirði. Svo og Jón Jónsson óðalsbóndi og skáld að Nesi, fæddur laust fyrir 1630. Hann orti „Sveitarbrag“ á árabilinu 1677­80, og margt sálma, kvæða og gátna. Hann var vel metinn maður á sinni tíð, átti Nes og bjó þar til dánardægurs. Hann var talinn fornlyndur og trygglyndur og hélt við hinni fornu Neskirkju. Um hana segja þeir Árni og Páll í jarðabók l706, að enn fari þar fram altarisþjónusta fyrir heimilisfólk í Nesi, en tíundir allar komnar undir Strönd. Embættisgerðir þessar í hinni fornu Neskirkju hafa því komið í hlut séra Eiríks að Vogsósum, enda bað Jón óðalsbóndi séra Eirík um að sjá til þess að hann yrði jarðsettur í Neskirkjugarði.

Svortubjorg-21

Í byrjun mars 1702, lést Jón skáld og óðalsbóndi að Nesi í hárri elli. Skrifar séra Eiríkur þá Jóni biskupi Vídalín bréf og skýrir honum frá því að Jón hafi beiðst þess að vera grafinn í Nesi. Í svarbréfi Jóns biskup til séra Eiríks 23. mars 1702. Kemur fram eftirfarandi: „Þar er nú enginn nýlega greftraður (í Neskirkjugarði), og engin skikkun (regla) finnst fyrir um kirkjugarðinn.“ Leyfir Jón biskup að „sá erlegi heiðursmann Jón Jónsson, sem var að Nesi, megi grafast þar innan kirkju á sinni heimilis- og eignarjörð.“ Þar undir kirkjugólfi í Neskirkju jarðsetti séra Eiríkur Jón Jónsson vin sinn og þar var síðar við hlið hans lögð til hinstu hvíldar Guðrún Jónsdóttir, ekkja hans.

Eiríksvarda-2

Skömmu síðar sama árs bar það til tíðinda á Nesþingi í Selvogi 15. maí 1702, að þar var hýddur N.N. meðal annnars fyrir stuld frá séra Eiríki á Vogsósum á hálfum fjórðungi smjörs, tvennum leðurskæðum og malpoka, er hann hafði tekið úr læstu húsi gegnum vindauga (loftop). Staðreynd þessi er ekki hliðholl þjóðsögum um að séra Eiríkur á Vogsósum hafi skotið hlífiskildi yfir sakamenn. Eftir 1708 er séra Eiríkur á áttræðis aldri og gegnir án aðstoðar báðum sóknum sínum.
Síðasta vitneskja um séra Eirík á lífi er samkvæmt dr. Hannesi Þorsteinssyni 1. desember 1716. Þá bað Jón Vídalín biskup séra Árna Þorleifsson prest í Arnarbæli að messa á Strönd einhvern hátíðisdaginn á jólum með því að hann hafi heyrt, að séra Eiríkur væri lasburða af elliburðum og tilfallandi veikleika. Þann 14. desember 1716 segir Jón biskup í bréfi til séra Árna Þorleifssonar í Arnarbæli (hann varð prófastur í Árnesþingi) að nú sé séra Eiríkur á Vogsósum látinn og sjái hann um hinstu athöfn.

Eirksvarda-3

Dr. Hannes Þorsteinsson ályktar því að séra Eiríkur hafi dáið snemma í desember fremur en síðast í nóvember, ókvæntur og barnlaus.
Séra Eiríkur Magnússon var að áliti greindra manna fyrst og fremst mannþekkjari, sálfræðingur og mannvinur, sem beitti þekkingu sinni í þágu meðbræðra sinna, svo sem í hlutrænum verndartáknum. Hafa Selvogsmenn enn munnlega geymd og tákn þessu til staðfestingar þegar séra Eiríkur létti af sóknarbörnum sínum viðvarandi ótta við landgöngu erlendra ránsmanna á úthafsströnd með því, að taka með sér hleðslumenn upp á Svörtubjörg. Hann lætur þá bera hleðslusteina langt að svo varða hans njóti uppstreymis vindbrots á ystu bjargbrún. Hún er ílöng eftir bjargbrún og gengur upp til einhleðslu efst. Að verki loknu afhendir séra Eiríkur Selvogsbyggð í votta viðurvist vörðuna, sem verndartákn með eftirfarandi orðum: „Meðan enn stendur steinn yfir steini í vörðu þessari verður ekki aðsteðjandi ófriður í Selvogi.“

Stadarsel-21

Þar með blasti Eiríksvarða á ystu brún Svörtubjarga við augum Selvogsmanna á úthafsströnd frá morgni til kvölds, ásamt með vitneskjunni um verndarhlutverk það er hún skyldi þjóna. Og sóknarbörnin minnast sálusorgara síns í þakklátum huga, leyst úr hlekkjum óttanns. Að 300 árum liðnum, stendur Eiríksvarða enn í fullri reisn sinni og aldrei á hinum mörgu liðnu árum steðjaði ófriður að Selvogsbyggð.“

Í riti um galdrapresta frá 1882 er getið um lokadægur séra Eiríks: „Svo er sagt, að fyrir andlát sitt hafi Eiríkur prestur dysjað forneskjubækur sínar í Kálfsgili í Urðarfellum; þau eru norður af Svörtubjörgum. Áður Eiríkur dó, bað hann færa líkama sinn í kirkju, þegar er hann dæi, og leggja í kistu, og bað menn vaka yfir líkinu hina fyrstu nótt og kveikja 3 ljós á kistulokinu, og mundu þau ekki leingi lifa; en þess bað hann þá gæta, að kveikja jafnskjótt aptur, ef eitt dæi, svo ávalt væri eitt lifandi; því ella mundu illir andar taka sig. En ef ljós lifði alla hina fyrstu nótt á kistu sinni, þá hefðu þeir ekkert vald yfir sér. þetta var gjört, og lifði ávalt eitthvert ljósið alt til dags. Svo hafði Eiríkur sagt, að ef hann yrði sáluhólpinn, þá mundu daggardropar koma úr heiðu lopti, á meðan lík hans væri lesið til moldar, og er sagt, að svo hafi orðið.

Stadarsel-22

Það er önnur sögn um dauða Vogsósa-Eiríks, að þegar hann var að bana kominn, tiltók hann, hverjir vera skyldu líkmenn að sér. Sagði hann, að gjöra mundi haglél mikið, þegar hann væri borinn út til kirkjunnar, en bað, að ekki væri kistan sett niður, frá því hún væri tekin upp, fyrr en í kirkjunni. Sagði hann, að þá mundi upp stytta élinu. En þá mundu sjást fuglar tveir, annar hvítur, en annar svartur, yfir kirkjunni, og mundu þeir rífast mjög. Bað hann þess, að ef hvíti fuglinn sigraði, og næði að setjast á kirkjubustina, þá græfu menn sig í kirkjugarði, en ef sá svarti hefði sigurinn, og settist á kirkjuna, þá skipaði hann að dysja sig utangarðs; því þá væri úti um sig. Þetta kom alt fram, þegar Eiríkur prestur dó, bæði um élið og fuglana, og vann hinn hvíti fuglinn sigur á þeim svarta, svo Eiríkur var grafinn í kirkjugarði.“

othekkt sel i selvogsheidi-2Í örnefnalýsingu fyrir Þorkelsgerði segir að Vörðufellsvörður hafi verið hlaðnar af unglingum. „Það brást þeim aldrei, er þeir voru að leita að skepnum, að þeir fundu það, sem leitað var að, ef þeir settu stein í vörðu eða hlóðu nýja.“
Skv. örnefnalýsingum á stafurinn M að vera markaður á jarðfastan stein sunnan við Markavörðuna syðst á fellinu. Þegar betur er að gáð er þar um að ræða kross, en sprungur beggja vegna Efri hluti steinsins hefur brotnað af skammt ofan við krossinn. Á fellinu eru enn urmull smávarða, en sagt er að smalar hefðu hlaðið vörðurnar og áttu þær að uppskera fundvísi að launum.

othekkt sel i selvogsheidi

Austan við Vörðufell eru þrjú sel. Fyrst er komið að Vindásseli, miklum tóttum á hól. Ofar er Eimuból á bakka jarðfalls. Hefur hellir, sem þar er verið nýttur sem fjárhellir, enda má sjá hringlaga hleðslur á og ofan við opið. Skammt sunnar, í grónu ílöngu jarðfalli, er forn tóft. Við það er fjárhellir. Í honum er hlaðinn stekkur. Skammt austar er Skyrhellir í hraunhól, en þar var skyr seljafólks geymt fyrrum.

othekkt sel i selvogsheidi-3

Eimuból er norðan við Vörðufell. U.þ.b. 10-15 mínútna gangur er á milli seljanna í heiðinni. Bæði er seltóft ofan við gróið jarðfall og niður í því. Í Eimuhelli í jarðfallinu er hlaðinn stekkur. Umhverfis jarðaflið er hlaðið gerði. Kví er og ofan við það. Í örnefnaskráningu fyrir Eimu segir m.a.: “Fyrir norðan [Vörðu]fellið er Eimuból alveg við mörkin. Þar eru hellar með húsveggjum.“ Vindássel er skammt vestar, nokkur tóft og stekkur.
Haldið var upp eftir heiðinni, á Hellholt. Í því er Hellholtshellir, stór inngöngu en frekar stuttur. Botninn er flóraður að hluta. Nokkir smáhellar er undir Hellholti, flestir með mannvistarleifum í. Líkast til hafa þeir verið notaðir sem fjárskjól í gegnum tíðina. Ofan við Hellholtið er Girðingarréttin (Selvogsréttin nýrri). Gamla réttin er á Vörðufelli, stór og dilkrík með löngum leiðigarði til norðurs sem fyrr er lýst. Á leiðinni niður að fellinu var komi við í Skjólinu, merkilegu fyrirbæri. Það er hellisskúti að sjá, en þegar að er komið eru miklar hleðslur, grónar, fyrir munnanum. Gangur liggur niður og þegar þangað er komið tekur við slétt hellisgólf, salur. Varla er arða á gólfi, utan eitt bein inn undir skilum lofts og veggjar. Þarna sést hin mikla hleðsla vel. Hægt er að fara inn fyrir hana hægra megin og inn í afhelli, sem þar er. Ekki er vitað hvaða tilgangi þetta mannvirki hefur átt að þjóna í heiðinni, nema ef vera skyldi forðabúr eða geymsla. Strandarsel (Staðarsel) er þarna skammt vestar og fyrrnefnd sel sunnar. Fjárskjól er skammt austar. Ofan við opið er hlaðinn stekkur. Þarna gæti hugsanlega hafa átt að vera selstaða frá einhverjum bænum ef tekið er mið af mannvirkjunum næst Skjólinu.

Strandarheidi - tankurFrá Hellholti var stefnan tekin í austurátt að Girðingar-réttinni við enda Strandargjár, sem einnig hefur verið nefnd Gamlarétt eða Selvogsréttin eldri. Hún var aflögð árið 1957.

Vestan við holtið, suðaustan Svörtubjarga, eru greinilegar fyrstnefndar tóftir selstöðva. Utan í hól eru a.m.k. tvö fjárhús, stakt hús (að sjá nýjast) og eitt tvískipt. Ekki eru til heimildir um sel þetta, en líklegt má telja að þarna hafi verið selstaða frá Strönd eða Strandarbæjunum sem fyrr sagði. Bæði er staðurinn í Strandarlandi og selstaðan virðist fyrir margt veglegri en aðrar selstöður í heiðinni.

Selvogsheiðin virðist geyma ótrúlega margar mannvistarleifar frá fyrri tíð. Minjarnar eru arfleifð fyrri búskaparhátta og ætti hiklaust að umgangast þær sem slíkar.

Frábært veður. Gangan tók 5 klst og 5 mín.

Heimildir m.a.:
-Vörðurnar á Vörðufelli, Jón Árnason, Íslenzkar þjóðsögur og ævintýri (Reykjavík, 1954-61), III, 505.
-Eiríksvarða og Vörðufell, Jón Árnason, Íslenzkar þjóðsögur og ævintýri (Reykjavík, 1954-61), III, 505.
-Örnefnalýsing fyrir Þorkelsgerði.
-Örnefnalýsing fyrir Eimu.
-Lesbók Morgunblaðsins 26. júlí 1997, séra Eiríkur á Vogósum, Konráð Bjarnason,bls. 4-5.
-Íslenskar þjóðsögur og ævintýri, J.C. Hinrichs, 1882, bls. 580-581.

Vörðufellsrétt

Vörðufellsrétt.

Selvogsgata

Í Lesbók Morgunblaðsins árið 1938 segir Ólafur Jóhannsson úr Ólafsey frá „Selvogi og umhverfi hans„. Lýsingin er áhugaverð miðað við þess tíma ferðamáta og auk þess góð ábending um að óþarfi er að burðast með pólitískar „byrgðar í bakpokanum“ á slíkum ferðalögum:

„Í góðviðriskaflanum í sept. fór jeg til Selvogs, í erindum fyrir fjelag hjer í Reykjavík. Jeg fór með bíl, sem leið liggur, að Hveragerði í Ölfusi. Þaðan hafði jeg hugsað mjer að flytjast á hinum meðfæddu flutningatækjum. Heiðríkja og blíðskaparveður var þá, og alla dagana er jeg var í ferðinni.

Hlíðarendi

Hlíðarendi í Ölfusi.

Frá Hveragerði fór jeg eftir hinum nýja vegi, sem verið er að leggja út Ölfushrepp, og er hann kominn út á móts við Þóroddsstaði. Þaðan er slarkfær bílvegur út að Hraunum. Þegar þangað kemur beygist vegurinn dálítið til norðurs, út með fjallinu, áleiðis til Selvogsheiðar, og liggur vegurinn þar um helluhraun og aurflög, og er ekki fær bílum í rigningartíð. Tveir bæir eru þar út með fjallinu, og liggja þeir allfjarri hvor öðrum, og er þangað nær tveggja tíma gangur frá næstu bæjum í Ölfusi. Sá þeirra, er liggur næst Selvogsheiði, og er ysti bær í Ölfushrepp, heitir Hlíðarendi, og gisti jeg þar um nóttina.

Selvogsviti

Selvogsviti.

Morguninn eftir, um kl. 9, lagði jeg á Selvogsheiði, áleiðis til Selvogs. Vegurinn liggur fyrst út með alllöngu hamrabelti, og verður hann víða að liggja í gegnum slæm aurflög, eða um helluhraun, eða laust hraungrjót.
Heiðin smállækkar nokkuð vestur fyrir miðju, og liggur vegurinn á þeim kafla víða um mýrlendi og móa, og víðast mjög lágt, og er vegurinn ófær bílum á austanverðri heiðinni í rigningartíð, en hinsvegar myndi ekki þurfa að kosta mjög mikið fje að gera þar allgóðan sumarveg fyrir bíla. Þar á austurheiðinni er kjarngott beitiland, enda var þar allmargt sauðfje á víð og dreif.

Strandarkirkja

Strandarkirkja 1940.

Þegar komið er um 2/3 vegar innanfrá, eða hæst á heiðina — en hún er hvergi há — sjest Selvogsþorp, og ber þar mest á vitanum og hinni oftnefndu Strandarkirkju. Leiðin lækkar fljótara og með jafnari halla að vestanverðu og er þar landslag fallegt, víða hallandi grundir, og því að miklu leyti sjálfgerður bílvegur, þar til fer að nálgast þorpið, þá fer að bera allmikið á foksandi og uppblæstri, og hefir foksandurinn gert Selvogsbúum mikið tjón, og sjást sandskaflar þar víða, t.d. er allhár grjótgarður um austanvert túnið í Nesi, og náðu þó sandskaflarnir upp fyrir miðju á honum, en samt sem áður hlífir garðurinn túninu mikið.
Jeg kom í Selvog eftir 4 tíma gang yfir heiðina. Jeg var þar öllum ókunnur, og ákvað að finna fyrst vitavörðinn að máli, og bað hann um gistingu meðan jeg dveldi í þorpinu, og var það strax til reiðu.
Guðmundur Jónsson vitavörður er vel greindur maður, fróður og athugull um margt í fortíð og nútíð, og dugnaðarmaður í búskap og hvívetna.

Selvogur

Nes – loftmynd 1958.

Þegar jeg hafði lokið erindi mínu, fór jeg að skoða hina nafnkendu Strandarkirkju, sem svo margra hugur virðist hvarfla til í andstreymi lífsins. Kirkjan er utanvert við þorpið, og nálægt sjó. Það er lagleg og vel hirt timburkirkja, og stendur hún, og grafreitur umhverfis, á sandhól. Stormarnir hafa um aldaraðir sorfið úr hólnum, en til þess að stöðva það, hefir verið hlaðinn allhár grjótgarður, að miklu leyti umhverfis hólinn, en hann er nú farinn að hrörna, og ætti að sjálfsögðu, að steypa þarna varnargarð um kirkju og grafreit, enda hefir Strandarkirkja ærið fje til að hlúa að sjer og sóknarbörnum sínum, lífs og liðnum. Talsvert hefir verið unnið að því að græða upp land kirkjunnar með góðum árangri.

Strandarkirkja

Kirkjan á Strönd.

Mjer fanst eins og yfir þessari yfirlætislausu, snotru timburkirkju hvíla þögul, tignarleg ró. Má vera að það hafi verið af því, að jeg vissi, að samstiltur hugur margra Íslendinga hefir oft kvarflað til hennar til áheita í mótblæstri lífsins, og hinar miklu gjafir til hennar sýna, að oft hefir mönnum orðið að ósk sinni í því sambandi. Jeg ætla ekki að fara fleiri orðum um þessa hlið málsins, en „ef þjer hafið trúna, megnið þjer fjöllin úr stað að færa“, og „harla margt er á himni og jörð, er heimspekina dreymir ei um“.
Strandarkirkja hvað eiga í sjóði um 150 þús. kr. er gera verður ráð fyrir að sje í reiðufje. Þetta er meira fje en kirkjan þarf sjer til viðhalds. Mjer finst, að kirkjan — eða forráðendur hennar, sem hvað vera hlutaðeigandi sóknarnefnd, ríkisstjórn og biskup — ættu að verja nokkru af fje hennar til andlegra og líkamlegra hagsbóta fyrir sóknarbörn kirkjunnar.
Jeg vjek dálítið að þessu máli við Guðmund vitavörð. Hann sagði að sú hugsun hefði gert vart við sig þar, að gera Selvog að sjerstöku prestakalli. Kirkjan ætti að nokkru eða öllu leyti að leggja fram fje til þess að jafntímis yrði reist hæfilegt skólahús fyrir barna- og unglingakenslu, og íbúð fyrir prestinn, sem jafnframt væri aðalkennari. Líklegt þykir mjer að Selvogsbúar myndu sjá um, að í þann starfa slysaðist ekki hempukommúnisti, heldur maður, sem hefði áhuga fyrir að þroska ungmenni andlega og líkamlega á þjóðræðisgrundvelli. Margt fleira mætti nefna, er ætti vel við að kirkjan legði fje fyrir sóknarbörn sín, svo sem til bókasafns o.fl.

Nes

Nes í Selvogi.

Húsakynni í Selvogi eru yfirleitt góð, þar eru nokkur mjög snotur íbúðarhús úr timbri og steini. Garðrækt er þar töluverð, enda góð skilyrði fyrir henni. Tún eru furðanlega grasgefin, þrátt fyrir sandfok. Nautgriparækt getur ekki orðið þar mikil, en aftur á móti hafa Selvogsbúar allmargt sauðfjár, enda er þar snjóljett, og kjarngóð beit á heiðunum. Guðm. vitavörður í Nesi hefir, að sögn, um 800 sauðfjár, og mun það vera langflest hjá honum, enda er Nes aðaljörðin. Í jarðamatinu frá 1860 er Nes metið 55 hundruð.
Íbúar þorpsins virðast, að framkomu og yfirbragði, ekki standa að baki annara í kauptúnum og kaupstöðum. Menn skiftast, þar sem annarsstaðar, í pólitíska flokka. Þó heyrði jeg þess ekki getið, að einræðis- og kúgunarstefna kommúnista — og hinna dulbúnu fylgjenda þeirra — væri farin að gera vart við sig. Það ber vott um mikið andlegt þroskaleysi hjá þjóðinni, og andvaraleysi með frelsi sitt, ef hún uggir ekki að sjer fyr en hún hefir verið hnept í fjötra ófrelsis og kúgunar, ef til vill undir yfirstjórn erlendrar harðstjórnar.
Blóðferill komúnismans — bæði beint og óbeint — er að verða drepsóttum verri í heiminum. Nú á þjóðin engan Einar Þveræing, og því síður nokkurn Jón Sigurðsson. Þjóðin sjer, og horfir með kvíða á hættuna, en hefst ekki að. Sumir af sinnuleysi. Nokkrir trúa, ef til vill, ekki að hætta sje á ferðum. Aðrir ef til vill af því, að þeir vænta sjer hagnaðs af því að viðhafa „hin þöglu svik, að þegja við öllu röngu“.

Selvogsheiði

Selvogsheiði – gata.

Guðmundur vitavörður álítur, að ekki muni verða ábyggilegur bílvegur suðurleiðina sakir snjóþyngsla er oft komi bæði á svæðinu frá Krýsuvík að Selvogi, og engu síður á austanverðri Selvogsheiði, sem liggur víðast mjög lágt, og virðist mjer það mjög líklegt, en sumarveg fyrir bíla má gera um heiðina, til Selvogs, með fremur litlum kostnaði. Vetrarvegur frá Reykjavík, um Krýsuvíkurheiði og Selvogsheiði, mun ekki reynast ábyggilegri, sjerstaklega í suðvestan snjó komu, en Hellisheiði. Ef Hellisheiðarvegurinn væri endurbættur, þannig, að hækka hann mjög víða upp, og færa hann upp úr lautunum (t.d. skamt frá Kolviðarhóli), er ástæða til að ætla, að hann yrði engu síður ábyggilegur en hinn, en svo miklum mun styttri og því ódýrari til notkunar. En Íslendingar þurfa að muna það, og vera við því búnir, að oft hafa komið þau fannalög, að bílvegir myndu hafa farið í kaf allvíða, og til þess að rökstyðja það, þarf ekki lengra aftur í tímann, en um og eftir síðustu aldamót.

Strandardalur

Strandardalur.

Frá Selvogi ákvað jeg að fara skemstu leið til Hafnarfjarðar, og er það rúmir 40 km., og liggur leiðin yfir háa heiði, og mun hún vera um 20 km., og endar að norðanverðu í Grindaskörðum.
Jeg lagði af stað frá Selvogi kl. 9, og ljet Guðmundur vitavörður mjer í tje hest og fylgdarmann upp að heiðinni, sem er rúmur klukkutíma gangur. Heiðarbrúnin er fremur lág að sunnanverðu, en svo smáhækkar hún upp að miðju, og liggur mjög hátt alla leið norður á brún. Á miðri heiðinni er mikið og fagurt víðsýni austur til Eyjafjalla, Vestmannaeyja og á haf út, og var sjerstaklega aðdáunarvert, að sjá lífgeislaflóð „Almættisins erindreka“ leika um hafflötinn. Suðurhluti heiðarinnar er mestmegnis vaxinn mosa og lyngi, en þegar norðar kemur er fjölbreyttari gróður, og er kjarngóð beit þar allvíða. Norðanverð heiðin er hallalítil, þar skiftast á „fjallshnúkaraðir“ og dalir.

Selvogsgata

Selvogsgata.

Í dölunum skiftast á, gamalt hraunflóð og valllendisgróður, og liggur leiðin um þetta.
Þegar maður er staddur á fjöllum uppi, verður maður best var við alvöru- og tignarsvip náttúrunnar, og þar „þagnar dagur þras og rígur“, og eins og Gestur Pálsson segir: „Rekur sig þar ekki á nein mannaverk“, og jeg vil bæta við: Þar blasa við stórvirki náttúrunnar, er Jónas Hallgrímsson minnist á í hinu lotningarfulla erindi: „Hver vann hjer svo að með orku“.

Selvogsgata

Selvogsgata.

Vegurinn um heiðina er slæmur, lítið annað en margra alda hestatroðningar, víða með lausu hraungrjóthröngli, og lítur út fyrir, að þar hafi ekki verið hreinsuð gata á þessari öld, og er vegurinn þó líklega í tölu fjallvega.
Um eitt er ferð um þessa heiði varhugaverð að sumarlagi. Það er vatnsleysið. Jeg varð ekki var við nokkurt vatn frá því jeg lagði á heiðina, og þar til jeg kom niður undir Hafnarfjörð, að vatnslæk bæjarins, er kemur undan hrauninu. Jeg bjóst við vatnsleysi á þessari leið, þar sem þetta er alt brunnið land, er gleypir fljótlega alt yfirborðsvatn. Til þess að mig þyrsti síður, borðaði jeg einnngis skyr og mjólk áður en jeg lagði á heiðina, og nesti þorði jeg ekki að smakka fyr en við Hafnarfjarðarlækinn, af sömu ástæðu, enda bar þetta hvorttveggja tilætlaðan árangur.
Á norðurbrún heiðarinnar eru Grindaskörð. Um för Repps um Grindaskörð 1867 orti Kristján Jónsson skopkvæði, og þar meðal annars þetta:

Yfir geigvænleg Grindaskörð geystist fárramur ofurhugi;
með galdrakyngi og gneistaflugi dundi á jöklum hríðin hörð.
Höfuðskepnurnar hömuðust, hamaðist Repp þó engu miður.
Alteins og háreist bæjarbust er bugast ei neina storma viður.

Selvogsgata

Selvogsgata að Grindarskörðum.

Þegar komið er fram úr Grindaskörðum, á norðurbrún heiðarinnar, opnast fljótlega fagurt útsýni. Fyrir neðan heiðina liggur víðáttumikið mosavaxið helluhraun. Niður við sjóinn sjest Reykjavík, og sýnist hún liggja allnærri, af því að hæð fjallsins dregur eins og að sjer. Víðáttumikið útsýni er yfir Faxaflóann. Í þetta sinn lagði inneftir honum dálitla útrænu. Þá er fjallahálfhringurinn svipmikill, einkum Akrafjall, Hafnarfjall og Esjan, sem framverðir, og Snæfellsfjallgarðurinn með hinn tignarlega útvörð, Snæfellsjökul.
Þegar komið er niður af heiðinni, liggur vegslóðinn um helluhraun, vaxið grámosa á alllöngu svæði, og er mosalagið víða um 30 sm. á þykt, og var mýkri en nokkur fjaðrasófi að leggjast á. Leiðin frá heiðinni til Hafnarfjarðar mun vera um 20 km., og er um helmingurinn flatneskja, og því mjög villugjarnt í dimmviðri. Vegarslóðinn hefir, fyrir löngu síðan, verið varðaður, en vörðurnar eru að mestu hrundar, og því ekki vegvísir þegar þeirra er þörf.

Selvogsgata

Selvogsgatan neðanverð.

Sumsstaðar sjest fyrir götunni á þann hátt, að laut er troðin í hraunhellurnar eftir hestafætur, og hefir það sína sögu að segja.
Þegar komið er niður fyrir Hafnarfjarðargirðingu, liggur vegurinn eftir þröngum skorningum um hraunið, og er mjög vont yfirferðar, gatan mjög víða þakin af hraunmulning, og væri full þörf á, og kostnaðarlítið, að hreinsa götuna, þótt líklega sje þar ekki fjölfarið.“

Heimild:
-Lesbók Morgunblaðsins, 3. tbl. 23.01.1938, Selvogur og umhverfi hans – Ólafur Jóhannson frá Ólafsey, bls. 17-19.

Grindarskörð

Grindarskörð.

Hlíðarborg
Lengi hefur verið leitað að Selhellum í Selvogi. Ekki hefur verið vitað um staðsetningu þeirra, en í örnefnalýsingu fyrir Hlíð í Selvogi segir m.a.: „Hlíðarsel – heimild um sel – …suður frá [Selvogs]réttunum eru Selbrekkur. Þar á að hafa verið sel frá Hlíð eða Hlíðarsel; ber þó ekki öllum saman. Við Selbrekkur eru Stekkjardældir.“
Sel er undir suðausturhorni Svörtubjarga, sennilega Strandarsel [Staðarsel]. Enn sunnar eru týndar seltóftir og fjárborg. Neðan þessa eru Selbrekkur. Framundan þeim er stór hraunhóll, einn af nokkrum. Við hann eru Selhellar, að sögn heimildarmanns, sem telur sig hafa séð þá af tilviljun er hann var þar á ferð eitt sinn í leit að fé. Hellarnir eru vandfundnir, en við þá má greina mannvistarleifar ef vel er að gáð. Selhellar eru einnig nefndir hellarnir ofan við Stakkavíkursel, en við þá eru hleðslur.
Einnig var ætlunin að skoða óþekktar mannvistarleifar undir Strandardal, hugsanlega hluti tófta bæjar Erlends lögmanns Jónssonar frá 17. öld.
Gengið var austur Hlíðargötu frá Hlíð, áleiðis austur vestanverða Selvogsheiðina undir Hlíðarfjalli. Heimildarmaðurinn, Snorri Þórarinsson frá Vogsósum, var með í för.
Hin gamla Hlíðargata liggur upp á Selvogsgötu (Suðurfararveg) með Kötlubrekkur á vinstri hönd, þar sem Kötluhraun kemur niður hlíð fjallsins.
Í örnefnalýsingu Gísla Sigurðssonar fyrir Hlíð segir m.a. um þetta svæði austur með Hlíðarfjalli:
„Hlíðarfjall byrjar við Urðarskarð, og eru þar landamerki Hlíðar og Stakkavíkur, og nær inn að Katlabrekkuhrauni. Hlíðin, Brekkur, Hlíðarbrekkur og Hlíðarfjallsbrekkur eru brekkurnar inn með fjallinu kallaðar. Einnig eru brekkurnar nefndar Urðin eða Stórurð, en rétt mun vera, að hluti sá, sem stórgrýttastur er, heitir svo, en það er mikil og stórgrýtt urð ofan frá brúnum niður í vatn, nær miðju. Slóðir tvær liggja eftir Brekkunum og eru nefndar Slóðin neðri og Slóðin efri (fyrir vegagerð).
Sprungnaflöt lá milli rústa og Hvolpatjarnar ofan Malarinnar. Skjólbrekka var vestan Hlíðarskarðs. Hlíðarfjallsbrúnir voru brúnir fjallsins nefndar, en þær byrjuðu við Urðarskarð.
Á brúnunum norður og upp frá bænum voru Hamrarnir og voru fjórir móbergsstallar. Hinn vestasti hét Arnarsetur og hinn austasti Skjólbrekkuhamar upp frá Skjólbrekku. Þá tók við Hlíðarskarð með Hlíðarskarðsstíg.
Skútar nokkrir, sem fé leitaði skjóls í, voru uppi undir Hömrunum. Helgutorfa var flöt austan við Hlíðarskarð. Borgaskörð voru skörð í Hlíðarfjall austarlega. Á einum stað milli þeirra var Háhamar. Stekkatúnsbrekkur voru brekkur í fjallinu vestan við Háhamar, og þar hafði verið Stekkur og Stekkatún.
Hlíðargata lá frá Hlíð austur og inn með fjallinu.“
Hlíðargata er enn greinileg skammt austan þjóðvegarins. Skömmu eftir að lagt var stað var komið að tvískiptu heykumli vinstra megin götunnar. Hlaðnar eru tvær tóftir utan í stóran stein, önnur til vesturs og hin til suðurs. Í fyrstu mætti ætla að þarna hafi verið sauðakofar eða -kofi, en þegar fjárskjólið Áni, sem er þarna skammt suðsuðaustar, er skoðað liggur beinast við að tengja rústirnar því. Um opið á Ána er hlaðið á alla vegu. Ef grannt er skoðað í kring má sjá hluta af leiðigarði norðan opsins og sunnan þess. Hleðslan vestan við opið er nýlegri og ein við endann að norðanverðu. Líklegt má því telja að grjótveggurinn að austanverðu við opið hafi verið hafi verið hluti leiðigarðsins og fé þá runnið auðveldlega niður í fjárskjólið. Seinna, eftir að hætt var að nýta skjólið fyrir fé, hefur grjót verið tekið úr leiðigarðinum og hlaðið í vegginn að vestan- og norðanverðu svo fé færi ekki niður í hellinn, enda fyrrum hlaðinn stígur niður í hellinn þá verið farinn að láta á sjá. Leifar þessa stígs eða stéttar sjást vel þegar komið er niður í Ána.
Hleðslan hefur hrunið fremst, en sjá má grjót úr honum neðan við opið. Veruleg grjóthleðsla er niðri og vestan við opið, til að varna fé að fara innfyrir og norður með innganginum. Annars liggur meginrásin til suðausturs. Undarlegt þykir að ekki skuli vera fyrirhleðsla þar innar í hellinum, en líklegt má telja að þar hafi rásin verið lokað fyrir með trégrind til að varna því að fé færi innar í hana. Sjá má leifar af tré í hellinum. Í vesturveggnum er lítið gat og rás þar fyrir innan, lág. Áni hefur verið gott fjárskjól og það tiltölulega nálægt bænum.
Næst var komið að fjárborginni undir Borgarskörðum. Skörðin eru tvö (Háhamar, skilur þau að) og er borgin neðan þeirra, í Stekkatúnsbrekkum. Borgin er vel gróin og ferköntuð hlaðin rúst, heilleg, inni í henni. Í framangreindri örnefnalýsingu segir að þarna hafi verið stekkur og Stekkatún. Ekki er ólíklegt að borginni hafi verið breytt í stekk. Hún er sjálf hringlaga, en ferköntuð rústin inni í henni er svipuð og í Hlíðarborginni, en minni.
Hlíðarborgin er hægra megin götunnar, hlaðin vestan undir hraunhól líkt og borgin undir Borgarskörðum. Hún hefur verið allstór, tvíhlaðin, en síðan verið breytt í stekk með hús eða kró á milli, inni í borginni. Hlíðarborgin er enn eitt dæmið um breytta nýtingu á mannvirkjum í vestanverðri Selvogsheiði.
Suðaustan við Hlíðarborg, sunnan girðingar er umlykur beitarhólf þeirra Selvogsmanna, er Valgarðsborg. Hún er minni en hinar fyrrnefndu. Norðvestan við borgina, í lægð undir grónum hól, má vel greina mjög gamlar tóftir a.m.k. tveggja húsa. Allt bendir til að þarna hafi fyrrum verið selstaða og Hlíðarborgin þó nýtt sem hluti af því, Valgarðsborgin mun líklega hafa þjónað sem aðhald eða skjól því líklegt má telja að hún hafi verið yfirbyggð. Marka má það af því hversu lítil hún er og auk þess hafa veggir hennar verið nokkuð háir.
Þá var stefnan tekin upp heiðina, áleiðis að Strandarseli suðaustan undir Svörtubjörgum. Framundan þeim eru nefndar Selbrekkur. Bæði ofan þeirra og neðan má sjá minjar nokkurra selja, sem flest hafa gleymst mönnum. Þau virðast hafa týnst líkt og svo margt annað í Selvogsheiðinni, en ef vel er að gáð má varla þverfóta fyrir óskráðum minjum í henni, enda verið drjúgum nýtt fyrr á öldum frá bæjunum í Selvogi.
Svörtubjörg blasa við sjónum alls staðar úr Selvogi, bæði af sjó og landi. Þau eru oft í daglegu tali kölluð Björgin. Vestari endi Bjarganna er mið af sjó. Kindaslóði er alveg niður í Björgin. Þar fóru kindur niður og í Stígshellra, sem eru smáskútar fyrir neðan. Fyrir þá fennti í norðanbyljum, og fé tepptist þar.
Vestarlega á Björgunum ber Grágæsanípu hátt. Það er klettur, sem slútir fram. Þar var oft hrafn. Eiríksvarða er því sem næst á Björgunum miðjum. Sagt er, að Eiríkur prestur á Vogsósum hafi hlaðið hana til varnar gegn Tyrkjum. Eitt fet er frá Eiríksvörðu fram á brún. Austast í Björgum er Gatahóll. Geta bæði menn og skepnur gengið í gegnum hann.
Þegar gengið hafði verið yfir Hraunhóla var skömmu síðar komið á svæðið undir Selbrekkum og sáust þegar tóftir húsa. Þær eru reyndar ógreinilegar og að öllum líkindum mjög gamlar. Svæðið er að öllu jöfnu utan göngu- og alfaraleiða. Tvær rústir eru vestast. Norðaustan við þær er hlaðinn gangur, fallinn. Hann hefur áður verið reftur og sennilega legið í tvær áttir, suðurog norður, eftir að inn var komið. Þegar gangurinn féll saman opnaðist niður í syðri hluta hellisins, sem þarna er undir. Hellirinn er stór, ca. 100m2, gólfið slétt og hátt til lofts. Fyrirhleðsla er austan við niðurganginn, stór. Hægt er að komast yfir hana til norðurs og er þá farið framhjá miklum hleðslum á vinstri hönd, sem hafa verið hluti gangsins. Þar liggur hellirinn til norðausturs, en er miklu mun lægri en suðurhlutinn. Vegna þess hversu hreint gólfið er í suðurhlutanum virðist sá hluti hans annað hvort verið notaður sem búr og geymsla eða einungis verið notaður í skamman tíma. Norðurhlutinn gæti hins vegar hafa verið notaður undir fé. Ofan á suðurhlutanum er hlaðin kví. Skammt norðaustan við hellisopið er annað op, langt og ílangt.
Norðan við skjólið er tóft. Austan hennar er annað fjárskjól, slétt í botninn og rúmgott (ca. 60m2). Opið er í gegnum skjólið, en inngangurinn hefur verið að sunnanverðu því hlaðið er þvert fyrir nyrðra opið.
Tóftir eru norðan við síðarnefnda fjárskjólið og hlaðin kví norðan þeirra. Svo virðist sem þær hafi verið hlaðnar fyrir op á enn einum hraunssalnum, en fallið saman og lokað opinu. Þó má sjá að rými er þar fyrir innan.
Fjárskjól er í hattslaga hraunhól nálægt minjunum. Einnig í litlum hraunhól norðan þeirra (varða ofanb á) og auk þess er enn eitt fjárskjólið skammt norðaustan við tóftirnar. Það er rúmgott rými með sléttu gólfi og fyrirhleðslu svo fé kæmist ekki nema takmarka inn í hraunsrásina, sem það er í.
FERLIR hefur áður skoðað þetta svæði, s.s. með Guðmundi Þorsteinssyni, hellamanni frá Þorlákshöfn, en þá var fyrstnefnda fjárskjólið nefnt Bólið til aðgreiningar. Ekki er ólíklegt að ætla að þarna sé komið hið eiginlega Vogsósasel, enda í landi Vogsósa.
Ljóst er að þetta svæði hefur að geyma miklu mun fleiri minjar og væri ástæða til að gaumgæfa það betur. Ferðin var notuð til að rissa upp þær minjar, sem bornar voru augum.
Efst í Hlíðardal var bær Indriða lögréttumanns Jónssonar. Hann var þar á fyrri hluta 17. aldar, merkur maður, góður skrifari og smiður. Ekki er með öllu útilokað að tengja óljósar hleðslur uppi á hraunhól vestan Svörtubjarga veru manna í dölunum (Strandardal og Hlíðardal) fyrrum. Þó gæti þarna hafa verið um aðstöðu til að ná fé að ræða. Þá er og mjög sennilegt að grónar hlíðar og sléttur undir björgunum hafi verið slegnar til að afla viðbótartöðu þegar þannig áraði. Grjót virðist hafa verið tekið úr mannvirkinu í undirhleðslu girðingar, sem legið hefur niður með vestanverðum Björgunum.
Gengið var til baka vestur með og undir hlíðunum, um Suðurfaraleiðarhliðið á Suðurfaraleið og vestur Hlíðargötu. Þokan sveipaði umhverfið dulúðlegu yfirbragði.
Frábært veður. Gangan tók 4 klst og 4 mín.

Hlíðarborg

Hlíðarborg.

Heiðin há

Í Andvara 1884 er frásögn Þorvaldar Thoroddsens af ferð hans á Heiðina há ásamt séra Ólafi, presti á Vogsósum, undir fyrirsögninni „Ferðir á Suðurlandi sumarið 1883„:

Heiðin há

Heiðin há – gígurinn (loftmynd).

„Upp af Selvogsheiði er fjarskamikil hraunhunga, sem kölluð er »Heiðin há«. þangað fórum við með sjera Ólafi frá Vogsósum. Heiðin há er 2030 fet á hæð, goysimikil flatvaxin eldfjallsbunga, lik í lögun og Skjaldbreiður; hún er hlaðin upp úr óteljandi, gömlum hraunlögum suður af Bláfellshlíðum ; hallast hún jafnt og pjett niður að Selvogsheiði (3°), og eru margar og langar gjár í lægðinni, þar sem þær mætast. Efst er Hrossagjá; hún er styzt, og er utan í heiðarhlíðinni sjálfri; þar næst Strandagjá, mjög löng, nær frá Svörtubjörgum upp undir Geitafell; svo er Rjettargjá ; hún byrjar í slakkanum milli heiðanna, og nær upp í Geitafell; og syðst er Götugjá (eða Nesgjá); hún nær frá sjó yfir hlíðina á Selvogsheiði upp í Lambafellshraun fyrir noðan og austan Geitafell; neðri (syðri) brúnin, sem er utan í Heiðinni há, er lægri, svo landið hefir auðsjáanlega sigið í slakkanum milli heiðanna.

Heiðin há

Heiðin há – gjár.

Þegar við fórum upp á »Heiðina há«, fórum við upp Grindaskarðaveg upp að Hvalhnúk, og riðum svo þar upp á sjálfa heiðarbunguna. Efst á heiðinni markar fyrir gígnum, sem öll þau fjarskalegu hraun hafa komið úr, sem mynduðu heiðina. Gígurinn er nú fullur af hrauni, en hefir verið afarstór, sem sjá má af leifum þeim, sem eptir standa af gígröndinni; það eru dálitlir hraunhnúkar, sem standa í kring; gígurinn hofir verið allt að 100 faðmar að þvermáli; sunnanverðu við þenna gíg er að auki 2 eða 3 bollar miklu minni, hálffullir af hrauni. Sjálf er heiðin mjög stór um sig; eintóm gömul hraun, með holum og gjótum og hallast lítið, 2°, til vosturs, og 3° til austurs.

Heiðin há

Heiðin há – jarðfræðikort Ísor.

Heiðasljetturnar milli »Heiðarinnar há» og Brennisteinsfjalla eru einn storkinn hraunsjór; hafa þessi hraun flest fallið ofan úr austurhallanum á Brennisteinsfjöllunum, því þar eru stórir gígir svo tugum skiptir allt norður fyrir Grindaskörð: Úr þessum hraunum hafa straumarnir komið, er fjellu niður hjá Stakkavík og Herdísarvík. Gömlu hraunin í Selvogi, sem víðast eru nú mjög sandorpin, eru flest komin úr Selvogsheiði, og saman við þau hafa að ofan runnið hraun úr Heiðinni há. Austan við Heiðina há, milli hennar og Meitla og Geitafells að austan, tekur við vestri armurinn af Lambafellshrauni. Við fengum bezta veður, og útsjónin var ágætlega fögur; landið lá eins og uppdráttur fyrir fótum vorum, allt austur í Eyjafjöll og norður yfir Faxaflóa.

Heiððin há

Heiðin há – jarðfræðikort.

Sunnanlandsundirlendið allt og stórárnar sáust einkar vel, eins og grænn dúkur með silfruðum hríslum; Vestmannaeyjar lyptust upp af hyllingunni, og Snæfellsjökull norðan við flóann blasti við eins fagur og hann er vanur; langt upp á landi rís Skjaldbreiður við himin, og jöklarnir með hvítleitum bjarma. Norðan við Heiðina há eru Bláfjöll, eða rjettara sagt; norðurbrún hennar styðst upp að Bláfjöllum. Það er mikill og langur fjallgarður og hár (um 2200 fet); frá þeim gengur hálsarani suður lægðina milli Heiðarinnar há og Brennisteinsfjalla, sem heitir Ásar; Hvalhnúkur er einn af þeim ásum.“

Ólafur Þorvaldsson skrifaði um Grindarskarðsveginn í Árbók Hins íslenska fornleifafélags 1943. Frásögn hans tekur við þar sem lýsing Þorvaldar sleppti:

Heiðin há

Í Heiðinni há  – Bláfjöll fjær.

„Þegar lagt er upp úr Stóra-Leirdal, er strax farið upp allbrattan háls, með nokkrum aðdraganda austur af. Er þetta Hvalskarð.
Suðvestur af Hvalskarði er Hvalhnjúkur, mjór og allhár, en frekar þunnur. Ekki þætti mér ólíklegt, að nafnið sé dregið af lögun hnjúksins, svo mjög minnir hann á bak stórhvelis að allri lögun. Annars segir þjóðsagan, að tröllkona norðan af fjalli hafi farið til fanga í Selvog og komið þar á hvalfjöru og haft þaðan með sér það, sem hún treysti sér til að komast með, en til hennar sást og hún elt. Varð henni allerfið undankoman, og náðist hún í skarði því, sem síðan er nefnt Hvalskarð og hnjúkurinn þar suður af Hvalhnjúkur, sem fyrr er getið.

eiðin há

Efst í Heiðinni há.

Þegar austur úr Hvalskarði er komið, taka við Hvalskarðsbrekkur til vinstri handar, en Lágahraun, með háum, strjálum hólum, til hægri handar. Hvalskarðsbrekkur liggja í suður- og suðvesturdrögum víðáttumikillar heiðarbungu, er nefnist Heiðin há. Ekki er mikill gróður uppi á Heiðinni há. Grámosi er þar fyrirferðarmestur, og liggur hann yfir hálfbrenndum grjóturðum.

Fjallið eina

Fjallið eina.

Mishæðalaus má heiðin teljast, en dregst að toppi á alla vegu, og heitir efsti toppur hennar Kerlingarhnjúkur og er 62 6 m hár. Útsýni í björtu er allmikið og oft fagurt af heiðartoppnum, en þó sést ekki það fegursta, sem Heiðin há hefur að bjóða, — en menn vita aðeins af því kringum sig — það er nafn heiðarinnar, það er einkennilega fagurt, í senn fornlegt og skáldlegt. Að velja einmitt þetta nafn, en ekki t.d. Háaheiði eða eitthvað þvílíkt, lýsir því, hvað sá, sem skírði, hefur verið mikill snillingur í nafngiftum á örnefni, og sennilegt er, að fleiri fögur og sérkennileg örnefnaheiti um þessar slóðir eigi til sama manns að telja. Má þar nefna Fjallið eina, sem sver sig greinilega í sömu ætt.

Þegar Hvalskarðsbrekkum sleppir og komið er nokkuð austur með heiðarbrekkunum, er stór, stakur hraunhóll vestur við veginn, Þorvaldshóll. Litlu austar, þegar brekkunum sleppir, eða þær lækka svo, að útsýn opnast til norðausturs, blasir við í þeirri átt allstórt fell, Urðarfell.“

Sjá einnig HÉR.

Heimildir:
-Andvari, 1. tbl. 01.01.1884, Ferðir á Suðurlandi sumarið 1883, Þorvaldur Thoroddsen, bls. 23-24.
-Árbók Hins íslenska fornleifafélags 01.01.1943, Grindaskarðavegur – Ólafur Þorvaldsson, bls. 102-103.

Heiðin há

Kerlingarhnúkur – Geitafell fjær.