Færslur

Herdísarvík

Eftirfarandi fróðleikur um örnefni í Herdísarvíkurlandi eftir Ólaf Þorvaldsson birtist í Árbók Hins íslenska fornleifafélags árið 1948:
Herd-994“Austasta örnefni í Herdísarvík með sjó er Breiðibás. Hann er að finna með því, að ganga um 8 mínútur austur með sjó frá eystra túninu. Vestar en í miðjum Breiðabás, sem er allvítt malarvik milli hraunflúða, sem ganga í sjó fram beggja megin, er steinn í lögun svipaður saumhöggi á steðja, með sýlingu í miðju. Steinn þessi er á þurru með lágum sjó, og er landamerkjasteinn milli Herdísarvíkur og Stakkavíkur, úr honum bein lína í vörðu á brún Mosaskarðs, austarlega, sem síðar mun getið verða. Af Breiðabás er haldið vestur á bóginn, og verður þá fyrst fyrir eyðibýlið Herdísarvíkurgerði. Þar á túninu stóðu fram á seinustu ár tvö stór fjárhús, Langsum og Þversum, nú sennilega rústir einar. Eystra húsið snéri gaflhlöðum til austurs og vesturs, hitt til suðurs og norðurs. Niður undan miðju túninu eru malarvik í flúðirnar, og heita þau Básar. Vestast í fyrrnefndum flúðum er gömul vör (lending), Skökk. Ekki var hægt að fara í vör þessa nema ládautt væri. Þar má enn sjá kjalarför í klöppunum eftir setningu skipa. Í norður frá Gerðistúninu, ofan garðs, er Sundvarða eystri, og átti hún, þegar sundið var tekið, að bera í Sundhamar, sem er austast í Herdísarvíkurfjalli, og síðar mun nefndur (á austanverðu sundinu er blindsker, sem Prettur heitir og brýtur á í brimi).

Herd-995

Vestan við Gerðistúnið er Dalurinn, gamall skiptivöllur, þar sem formenn skiptu afla í ,”köst”. Norðan við hann voru sjóbúðir, byggðar hlið við hlið. Símonarbúð, þá Bjarnabúð og austast Gíslabúð. Þá vestar og nær sjó Hryggjabúð. Búðir þessar eru víst engar uppi standandi lengur. Vestur af síðast talinni búð var Skiparéttin, umgirt háum og þykkum grjótveggjum á fjórar hliðar. Þar gengu sjómenn frá skipum sínum milli vertíða. Framan undan búðunum er Bótin, aðallending Herdísarvíkur, en upp af henni er hár og þykkur malarkambur, Herdísarvíkurkambur. Liggur hann sem gleiður bogi um Bótina, en svo lágur er hann vestan til, að í aftakaveðrum af hafi gengur sjór yfir hann og fyllir tjörnina, sem er innan við og liggur upp að túninu, svo að stundum fyllti öll hús, sem við tjörnina stóðu, svo að úr þeim varð að flýja með allt, sem komizt varð með, lifandi og dautt. Aldrei mun þetta hafa valdið slysum á mönnum eða skepnum, en tjóni olli það oft bæði á húsum og munum, svo og matbjörg.
Herd-996Nú fyrir nokkrum árum hafa öll hús verið flutt efst á túnið, en þar eru þau í minni hættu. Innan við Kambinn er, eins og fyrr segir Herdísarvíkurtjörn. Milli heimatúns og Gerðistúns er grjótgarður mikill, Langigarður, ætlaður sem aðhald fyrir stórgripi Herdísarvíkur á graslendi því, sem er milli túna. Sá garður mun hafa verið hlaðinn af sjómönnum í landlegum. Við hlið, austur úr heimatúninu, við tjörnina, var sjóbúð, Ólabúð, nú sennilega ekki lengur til. Austarlega í túninu er klettastapi, sem gengur fram í tjörnina, Hestaklettur, austan við hann Hestavik.

Herdísarvík

Sjóbúðir í Herdísarvík.

Vestast og efst í túninu, þar sem nú eru gripahús og heyhlaða, var Krýsuvíkurbúð, en hún var, eins og nafnið bendir til, sjóbúð Krýsuvíkurmanna. Heimajarðarbændur í Krýsuvík gerðu þar (í Herdísarvík) út tvö skip og áttu því sem aðrir útgerðarmenn sína búð. Sunnan undir heyhlöðu og gripahúsum er Urðin. Þar er sem saman hafi verið safnað á lítinn blett mikilli dyngju af lábörðum steinum, nokkuð misstórum, en mest af þeim má teljast björg svo stór, að enginn mun hafa fært þau þar saman nema Ægir karl, en athyglisvert virðist það, að þau skuli hafa hlaðizt þarna upp í mörg lög á smábletti, en sjást hvergi svipuð, fyrr en niður við sjó. Milli Urðarinnar og gamla bæjarstæðisins er smátjörn, Kattartjörn. Þornar hún upp að mestu á sumrin; sést þá, að botninn er að mestu gróinn; vex þar upp þétt og kröftug gulstör, og stingur þessi stararblettur mjög í stúf við annan gróður þar og allt umhverfi. Bendir þessi litli stararblettur á, að þarna hafi starengi verið áður en elzta hraunið rann? Sem fyrr er sagt, stóð gamli bærinn á tjarnarbakkanum, nærri vestast í túninu. Framan undan bænum er smáhólmi í tjörninni, Vatnshólmi. Lítil trébrú var út í hólmann, og var vatn sótt þangað fyrir bæ og fjós, þar sem vatnið bullaði upp undan hólmanum á alla vegu, kalt og ferskt úr iðrum jarðar. Suðvestur af Vatnshólmanum gengur smátangi út í tjörnina, Sauðatangi. Þá eru talin örnefni í næsta umhverfi bæjarins og austan við hann. Suðvestur af Herdísarvíkurtjörn eru nokkrar smátjarnir og heita Brunnar. Milli þeirra og tjarnarinnar er Steinboginn, steinstillur, sem settar hafa verið þarna niður til að stytta leið niður á vesturkambinn, ef hátt var í tjörnunum. Spölkorn suður af Brunnum, nær sjó, er Sundvarða vestri. – Reykjavík, síðasta vetrardag 1948. Ólafur Þorvaldsson.”

Heimild:
-Árbók Hins íslenska fornleifafélags, 49. árg. 1943-1948, bls. 129-139.

Herdísaarvík

Herdísarvík um 1900.

Herdísarvík

Eftirfarandi frásögn Ólafs Þorvaldssonar um jörðina Herdísarvík birtist í Árbók Hins íslenska fornleifafélags árið 1948:
Herd-991“Jörðin Herdísarvík er vestasti bær í Selvogshreppi og þar með vestasti bær í Arnessýslu með sjó fram. Jörðin liggur fyrir botni samnefndrar víkur, og er hún vestast í vogi þeim, er Selvogur heitir, allvíður og bogamyndaður, gengur inn í landið frá suðri. Takmörk hans eru: Selvogstangar að austan, en Olnbogi, austan Háabergs í Herdísarvíkurlandi, að vestan. Tún jarðarinnar er í suðurjaðri Herdísarvíkurhrauns, hólótt og dældótt, jarðvegur grunnur því að víðast er grunnt á hrauni. Með beztu umhirðu gefur túnið (heimatúnið) af sér um tvö kýrfóður, ca 80 hesta. Fyrir öllu túninu að sunnan er smátjörn, og er dálítil silungsveiði í henni, fáu fólki til smekkbætis og nokkurra búdrýginda, en skynsamlega verður að fara að þeirri ve;ði, ef ekki á að uppræta stofninn, þar sem líka utanaðkomandi, óviðráðanleg atvik geta stórfækkað silungnum á nokkrum klukkutímum, og er það
þegar stórflóð koma í tjörnina af völdum stórviðra af hafi, en þeim fylgir þá ævinlega stórbrim.
Herd-993Annars er saga Herdísarvíkur-silungsins þannig: Fyrir um sjötíu árum lét Árni Gíslason, fyrrv. sýslumaður í Skaftafellssýslum, sem þá bjó í Krýsuvík og átti báðar jarðirnar, flytja um eða innan við 100 silunga, fullþroskaða, sem hann fékk úr Hlíðarvatni, út í Herdísarvíkurtjörn. Voru þeir bornir í bala og fötum með vatni í. Flestir munu þessir silungar hafa komizt lifandi í tjörnina, og kona, sem þá var unglingur í Herdísarvík, sagði þeim, er þetta ritar, að morguninn eftir hefðu nokkrir silungar legið dauðir við landið, þar sem þeim var sleppt í tjörnina, en hinir verið horfnir út í vatnið. Eftir nokkur ár fór að veiðast þarna við og við silungur til matar fyrir heimafólk. Þegar fram liðu stundir, kom í ljós, að þarna náði silungurinn miklu meiri þroska en hann nær yfirleitt í Hlíðarvatni, og mun aðalorsök þess vera meira og betra æti, t. d. er þar um mikla marfló að ræða, svo og mikinn botngróður.
Spölkorn fyrir austan túnið var áður fyrr hjáleiga, Herdísarvíkur-gerði, og sjást nú fáar minjar þess, að þar hafi bær verið, en tún er þar nokkurt enn; þó hefur sjór brotið eitthvað af því. Tún þetta mun aðallega hafa gróið upp undan sjófangi; fiskur borinn þangað upp til skipta, kasaður þar áður en upp var borinn til herzlu; þorskhöfuð og hryggir þurrkaðir þar, og öðrum fiskúrgangi kastað þar út, — en undan honum grær jörð fljótast. Útræði var mikið úr Herdísarvík og hafði verið öldum saman, og var talið með beztu verstöðvum austanfjalls, og við og við var gert út þaðan fram á þriðja tug tuttugustu aldar.
Herd-992Fiskisælt var þar í bezta lagi og lending góð; þó var oft nokkur lá í bótinni, þar sem lent var, þótt útsjór væri allgóður. Fiskurinn var yfirleitt hertur til útflutnings, og má enn sjá þurrkgarða á allstóru svæði í brunabelti uppi undir fjalli. Var fiskurinn, eftir að hafa legið í kös, jafnvel í fleiri vikur, borinn á bakinu eða í laupum eða kláfum til þurrkgarða. Þetta, að kasa fisk undir herzlu, var talsvert vandaverk, enda formenn vandlátir þar um, því að ef illa var gert, gat meira eða minna af fiski, sem í kösinni var, stórskemmzt, en þetta er önnur saga og því ekki sögð nánar hér.

Hlunnindi Herdísarvíkur voru talin: Sauðfjárbeit góð, svo að af bar, bæði til fjalls og fjöru. Útræði ágætt, og er þá aðallega átt við góða lendingu og fiskisæld. Viðarreki var, þegar reka-ár komu, oft allmikill, og nú, um síðastliðin 50—60 ár, silungsveiði til skemmtunar og nokkuð til búdrýginda. Fiski og hrognkelsum skolaði þar stundum á land til muna seinni part vetrar, þegar fiskur var í göngu.
Herdísarvík
Flæðihætta við sjó engin fyrir sauðfé, og er það mjög mikill kostur, þar sem fé gekk svo mikið sjálfala allan ársins hring. Fjöruskjögur í unglömbum þekktist ekki, og mun þar um valda, að fjaran er ekki mjög sölt sökum vatna, sem um hana renna, — en sér í lagi þó kjarnamikill gróður til landsins, strax upp frá fjörunni, og í þriðja lagi mætti nefna, að fjörubeitin er fyrir það mesta bitfjara, en ekki rekafjara.
Til galla má helzt telja, að mjög sterk veður af norðri koma þar stundum, og kom fyrir, að skaði hlytist af, ef hey voru á túnum, og máttu búendur illa við, þar eð heyskapur er enginn utan túns, en þau heldur lítil. – Reykjavík, síðasta vetrardag 1948. Ólafur Þorvaldsson.”

Heimild:
-Árbók Hins íslenska fornleifafélags, 49. árg. 1943-1948, bls. 129-139.

Herdísarvík

Herdísarvík um 1950.

Ólafur Þorvaldsson

Ólafur Þorvaldsson lýsir hýsingu jarðarinnar Herdísarvík í Árbók Hins íslenska fornleifafélags árið 1948:
Herd-998“Nú skal minzt gömlu bæjarhúsanna, ásamt útihúsum, sem stóðu vestast á túninu á bakka tjarnarinnar. Öll eru hús þessi nú horfin. Á þessum umgetna stað við tjörnina mun Herdísarvíkurbærinn, ásamt fleiri og færri útihúsum hafa verið búinn að standa um aldir. Þess sjást hvergi merki, að bærinn hafi annars staðar verið, en vitað er, að byggð í Herdísarvík er mjög gömul. A þessum staö í túninu við tjörnina var Herdísavík. Á þessum stað lifði og starfaði fólkið, — og dó, kynslóð eftir kynslóð. Þarna bjó fólkið í nýjum bæ eða gömlum bæ, byggði upp og endurbætti. Þarna bjuggu oft stórbændur til lands og sjávar, og flestum mun hafa vegnað þar vel efnalega, enda var haft að orðtaki austur þar, að „Herdísarvíkin fæddi sofandi sína.”
Mun ég nú lýsa bæjar- og útihúsum, sem á áðurnefndum stað stóðu, eins og þau litu út, þegar ég tók við þein 1927, og voru svo, þar til þau voru rifin eða féllu, eftir að ég fór þaðan 1933. herd-1000
Bæjarhúsin þrjú snéru stöfnum mót suðri. Vestast stóð baðstofan, hliðarveggir úr grjóti, hlaðin undir syllur, framslafn úr timbri nokkuð niður fyrir glugga, sem var með sex rúðum, norðurstafn úr timbri, jafn risi, en sléttur grasbali fyrir neðan í tóftarstað, á þeim stafni gluggi með fjórum, stórum rúðum, annar helmingur hans á lömum. Þessi gluggi var, auk þess sem opnanlegir gluggar eru ætlaðir til, öryggis-útkomustaður fyrir fólkið, þegar svo bar við, að sjór gekk á land og fyllti svo bæjarhús, að útgöngu var ekki auðið um bæjardyr, þar eð þær ásamt frambænum öllum lágu mun lægra en baðstofa. Öll var baðstofan þiljuð í hólf og gólf, skarsúð úr þykkum og breiðum borðum á sperrum, þiljur og gólf sömuleiðis af breiðum og plægðum borðum. Þessi baðstofa var rifin 1934, þá um sjötíu ára gömul, ófúin, nema eitthvað af undirviðum, sem sjór var svo oft búinn að leika um öll þessi ár. Inni var baðstofunni skipt í þrennt: til endanna afþiljuð herbergi, tveggja rúma lengd hvort, en í miðju var gangur, sem svaraði til einnar lengdar, var þar lítill kvistur á vestursúð, undir honum stór skápur, á honum var tekinn til matur og kaffi skenkt. Úr þessum gangi lágu fjórar tröppur til bæjardyra. Austan við baðstofu var frambærinn, með heilu þili.
Vestast á þilinu voru háar dyr og inn af þeim afþiljaður gangur, og úr honum miðjum göng til baðstofu, en innst úr ganginum var gengið inn í stórt eldhús, og var í því stór eldavél. herd-1001Utarlega í ganginum voru dyr til hægri, sem lágu til stofu, stóð þar alltaf uppbúið gestarúm. Loft var uppi yfir frambænum, vel til hálfs. Fjögurra rúðna gluggi var á stafni ofarlega fyrir loftið, en sex rúðna niðri fyrir stofu. Þriðja húsið, með stafni mót suðri, var búrið, með litlu hálfþili, og tók ekki eins langt fram og hin húsaþilin. Öll voru hús þessi byggð af rekaviði að öllu leyti, öll voru þau járnvarin utan, en torf á járni á frambæ og búri. Veggir allir þykkir, hlaðnir úr grjóti. Þá voru aðeins sunnar á hlaðinu, nær tjörninni, tvö hús, sem snéru stöfnum til vesturs. Var syðra húsið smiðja, en hið nyrðra hjallur; hliðarveggir hlaðnir af grjóti, þiljaðir stafnar jafnt sperrum, en minna klæddir hið neðra. Loft var yfir hjallinum óllum: Norðan við hjallinn var stór grunnur undan húsi, hlaðinn af grjóti, og stóð þar áður geymsluhús, venjulega nefnt „pakkhús”. Eitt milliþil var í húsi þessu og var minni karmurinn notaður sem smíðahús, en sá stærri fyrir matarforða heimilisins, aðallega kaupstaðarvarning, sem oft var nokkuð mikill, þar eð venja var að fara aðeins eina kaupstaðaríerð á ári. Hús þetta tók af grunni með öllu sem í var í aftaka sunnanveðri með óvenjulega miklu stórbrimi hinn 25. febrúar 1925, og var talið, að sjór hefði ekki í marga áratugi, jafnvel frá því er Bátsenda tók af, gengið svo á land hér sunnanlands sem í þessu flóði. Sjórinn tók húsið í heilu lagi af grunni, því að vel var viðað og traustlega byggt, og setti niður fyrir fjósdyrum úti (fjósið stóð þá austan undir bænum), svo að ekki var hægt að koma kúnum úr fjósinu, fyrr en út féll og hægt var að fara með þær út um bæjardyr. Það, sem bjargaði kúnum frá drukknun, var það, að þær náðu fótfestu með framfótum uppi í veggnum, fyrir básunum, og stóðu þar með upp úr sjó að framan, en svo mikill var sjór í fjósinu, að á básunum náðu þær ekki niðri, og var svo meira en eina stund. Semi dæmi þess, hve hafrótið var mikið og að sjór, sem á land gekk, hefur átt rætur langt undan landi, má geta þess, að þegar sjór féll út, kom í ljós, að mikið af smákarfa og keilu, hafði skolað á land, og keila fannst í bæjardyrum og öðrum húsum, sem sjór braut upp og flæddi inn í.
herd-1002Eftir þetta flóð var „pakkhúsið” flutt upp og norður fyrir tún og sett á sléttan hraunbala og stóð þar enn fyrir fáum árum, en mun hafa lítið verið notað nú í seinni tíð. Nýtt fjós var byggt næsta vor og fært vestast á túnið, fjær tjörninni.
Vestan undir baðstofunni var matjurtagarður, annars voru kartöflur aðallega ræktaðar í gömlum fjárréttum og borgum, svo og í Skiparéttinni, sem nefnd er í örnefnalýsingunni. Eins og fyrr segir, eru öll þessi hús, sem hér hafa verið talin, rifin eða fallin, en rústir sumra þeirra munu lengi enn sjást.

Hið nýja íbúðarhús, sem byggt var á jörðinni 1932, var sett niður, ekki “utan garðs”, en nyrzt og efst á túnið, mjög skammt frá útihúsum, sem þar voru fyrir. Í þessu nýja húsi dó skáldið Einar Benediktsson eftir nokkurra ára veru þar, farinn mjög að heilsu og kröftum.
Hér hefur náttúran skrifað sína sögu sem annars staðar, hér hefur hún mótað myndir og rúnir á steintöflur sínar, og hér hefur fólkið, öld eftir öld, lesið og ráðið þær rúnir og lifað eftir. Hér hefur fjármaðurinn reikað með hjörð sína um haga úti, talað við fé sitt og talað við náttúruna, og oft fengið svar við hljóðum spurningum. Nú er svo komið hér sem víða annars staðar á afskekktum jörðum, að nú er enginn orðinn eftir til að tala við náttúruna, svo að nú talar hún “ein við sjálfa sig.” – Reykjavík, síðasta vetrardag 1948. Ólafur Þorvaldsson.”

Heimild:
-Árbók Hins íslenska fornleifafélags, 49. árg. 1943-1948, bls. 129-139.

Herdísarvík

Herdísarvík – byggt 1932.

Herdísarvík

Selvogur
Gengið var um Nes í Selvogi í fylgd Kristófers Bjarnasonar, kirkjuvarðar í Strandarkirkju, til vesturs með ströndinni og yfir að Bjarnastöðum.
Nes er austasta býli í Selvogi. Neshverfi eða Nestorfa var sameiginlegt heiti á Nesi og hjáleigum þar. Einnig var hverfið nefnt Austurvogur eða Austurvogshverfi.

Nes

Nes – legsteinn.

Landnámsmaður í Selvogi var Þórir Haustmyrkur, sem hafði bú í Hlíð. Konráð Bjarnason úr Selvogi segir í Lesbók MBL 17. des. 1991 að hann telji að sonur hans, Böðmóður, hafi fengið hinn víðáttumikla eystri hluta landnáms föðurs síns og orðið fyrsti bóndinn í Nesi. Heggur, annar sonur Þóris, er sagður hafa búið í Vogi, sem getið er til að hafi verið Vogsósar.
Í Selvogi virðast hafa verið tvö hverfi, í kringum Nes og Strönd, og þéttbýli var mikið, svo að tún flestra eða allra jarðanna lágu saman. Á 11. öld er vitað um kirkju á Nesi. Kirkjurnar, sem vitað er um, eru á öllum dýrustu jörðunum. Þess hefur verið getið til að undir lok 13. aldar hafi Nes í Selvogi orðið bústaður höfingja. Maður að nafni Finnur Bjarnason byggði þar nýja kirkju á seinni hluta 13. aldar og var hann af höfðingjaættum. Eftir hann bjó í Nesi Erlendur sterki Ólafsson (d. 1312), faðir Hauks lögmanns og bókagerðarmanns. Það að Erlendur hafi valið sér Nes til bústaðar hefur verið tekið til marks um aukið mikilvægi sjávarútvegs frá því um 1300 og að höfðingjar hafi þá kosið frekar að búa við sjávarsíðuna til að geta auðgast á sjávarfangi en í miðju fjölbyggðra landbúnaðarhéraða.

Nes

Nesbrunnur.

Næsta lítið er vitað um byggð í Selvogi á síðmiðöldum, en margar jarðir þar komust í eigu Erlendunga; Þorvarðar Erlendssonar lögmanns (d. 1513) og afkomenda hans, sem margir bjuggu á þessum slóðum. Synir Þorvarðar, Vigfús og Erlendur áttu fjölda jarða á þessu svæði og bjó Erlendur (d. 1576) á Strönd og Guðbjörg dóttir hans (d. 1596) eftir hann. Sextánda öldin var einskonar blómaskeið Selvogs. Þá bjuggu þar stórhöfðingjar áratugum saman og mjög mikið fer fyrir útgerð Skálholtsbiskupa frá Þorlákshöfn, Selvogi og Herdísarvík í skjölum frá þessum tíma. Byggð í Selvogi fór hinsvegar mjög hnignandi í kjölfar 17. aldar. Þar eyddist land vegna sandfoks, tún Strandar og nærliggjandi jarða voru smátt og smátt beinlínis kaffærð í sandi og var öll byggð eydd í Strandarhverfi um 1750.

Nes

FERLIRsfélagar í Nesi.

Jarðabók Árna og Páls sem tekin var saman á árunum 1706 og 1708 á þessu svæði er víða getið um hjáleigur og afbýli sem höfðu byggst á seinni hluta 17. aldar. Margar fóru fljótlega í eyði aftur í harðindunum um 1700 eða í kjölfar Stórubólu 1707, en önnur héldust í byggð. Ekki er ástæða að í Selvogi hafi orðið verulegar breytingar í skipulagi byggðar í Selvogi fyrr en á þessari öld.

Bærinn í Nesi stóð á Bæjarhól neðan við mitt tún. Þegar tvíbýli var í Nesi, voru bæirnir nefndir Austurnes og Vesturnes. Fyrrum mun kirkjan í Nesi hafa staðið, þar sem nú er braggabygging, notuð síðast sem heygeymsla. Legsteinar komu upp, þegar grafið var fyrir þessu húsi, og munu þeir vera þarna á hlaðinu. Kirkjan var lögð niður 1706.

Selvogur

Selvogur – Nesborgir.

Síðustu sjóbúðir í Nesi voru niðri á kampinum, og sér fyrir þeim enn. Nesbrunnur eða Austurnesbrunnur er í Suðurtúni, beint suður af tröðunum. Hann er alltaf fullur af vatni. Þaðan lágu götur til bæjanna og allra hjáleiganna.
Vestar á kampinum ofan við vörina voru Nesborgir, þrjár fjárborgir. Vestasta borgin fór í flóðinu mikla 25. febr. 1925. Enn sést hluti af hinum tveimur.
Í austri blasir Selvogsviti við, en hann var reistur fyrst framarlega á klöppunum, en síðar færður ofar, þangað sem hann stendur nú. Eldri vitinn (1919) var stálgrindarviti, en nýi vitinn er steyptur. Hann var byggður 1931 og er 18 m hár.

Selvogur

Selvogur – Nesborgir.

Gísli Sigurðsson tók saman örnefnaskrá um Nes. Þar kemur m.a. fram að af bæjarstæðinu í Nesi hafi verið eitthvert fegursta útsýni í Selvogi. Í Austurtúni neðst var hjáleigan Litla-Leður. Tóftir Litla-Leðurs hafa nú verið sléttaðar út. Austast í Hátúni var Stóra-Leður. Þar sjást enn tóftir, upp við túngarðinn. Í Vesturtúni voru þrjár hjáleigur: Neðst var Bartakot í miðju túni, og Erta var ofar og austar, rétt vestan við traðirnar. Þessi kot hafa bæði verið sléttuð út. Þórðarkot var norðvestur af Ertu, vestur undir mörkum. Það er nokkurn veginn uppistandandi enn. Beitarland frá Nesi, eins og öðrum bæjum í Selvogi, er í Selvogsheiði. Hún liggur neðan frá túngörðum allt vestur að Hlíðarfjalli, neðan Svörtubjarga, um Hnúkana og austur að hreppamörkum.

Nesborg

Nesborg.

Ofan byggðarinnar er heiðinni skipt í Austurheiði, sem er Nesland, Miðheiði, sem er upp frá Bjarnastöðum og vestur um Torfabæjarland, og Vesturheiði eða Útheiði, sem er land Eimu og Vogsósa.
Frá túngarði í Nesi liggur sjávarkampur austur að vita. Hlaðinn garður er á honum, en hann nær ekki alla leið. Austast á kampinum var bær, sem hét Snjóhús
Gengið var að brunninum, niður að sjóbúðunum og síðan út með ströndinni að fjárborgunum, sem enn standa að hluta. Gengið var framhjá Guðnabæ, kíkt í brunninn í túninu og síðan haldið áfram yfir að Bjarnastöðum.
Þorkelsgerði

Bjarnastaðir

Bjarnastaðir í Selvogi.

Á túngarði austan Bjarnastaða var hlið, og lá þar um kirkjugatan frá Nesi og vestur um hjá Bjarnastöðum. “Kirkjugatan lá neðan við Harðhaus og ofan við Mosaflöt og Víðavöll”, eins og segir í örnefnaskrá.
Í fornleifakönnun um Bjarnastaði koma m.a. fram upplýsingar um Fornagarð í gegnum Selvog, ofan bæjarins. Árið 1821 segir að “máské mætti telia Meniar-Fornaldar: Sýnishorn af þeim stóra Vördslu gardi, úr Hlídar-Vatni, allt framm ad Strónd og einlægum Túngardi þadan, austur ad Snióthúsa vórdu, fyrir óllum Túnum sveitarinnar / sem óll skyldu þá hafa samfóst verid / med læstu Hlidi ad Lógbýli hvóriu.”

Fornigarður

Fornigarður í Selvogi.

Einnig segir í sömu lýsingu að “eignad er verk þetta Erlendi Þorvardssyni sem hér var lógmadur sunnan og austan, frá 1520, til 1554; bió léngi sin efri ár ad Strónd i Selvogi og Deidi þar 1576. … Þessum nausynlegu Túna og Vórdslu Górdum verdur hér ei vidhaldid, vegna sandfoks, sem þegar hefur eydilagt, þetta, i Fyrndinni góda og Prídilega Pláts, er þá nefndist Sæluvogur, ad sógn Manna.”
Árið 1840 segir að “engar fornleifar eru hér af neinu merkilegu, nema garðlag eftir stóran varnargarð frá tíð Erlendar lögmanns Þorvarðssonar, sem liggur úr Hlíðarvatni og austur að Snjóthúsavörðu, fyrir ofan alla byggðina.

Fornigarður

Selvogur – Fornigarður. Nesviti fjær.

Var þá hagalandið milli garðs og fjalls, en tún og engjar milli garðs og sjóar, allt sjálfvarið. Mælt er, að læst hlið hafi verið fyrir hverju lögbýli, og átti hvör heimabóndi að passa sitt hlið, að ei stæði opið, og þessvegna læst, að enginn gæti opnað hliðið óforvarandis.” Samkvæmt þessu voru læst hlið á vörslugarðinum að hverjum bæ.
Bjarnastaðavörin er neðan bæjarins. Þar er merki á klöpp, sem og “bindisteinar” við lendingu.
Fáir staðir við ströndina eru skemmtilegri til göngu en Selvogur. Þarna er sagan svo að segja við hvert fótmál. Í dag er Selvogur lifandi minjasafn – óspillt af mannanna hendi.
Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 11 mín.

Selvogur - örnefna- og minjakort

Selvogur – örnefna- og minjakort – ÓSÁ.

Þórarinn Snorrason
Gengið var frá Hlíð við Hlíðarvatn, að Vogsósum, Fornagarði fylgt upp túnið og síðan haldið áfram eftir Kirkjugötunni að Strönd í Selvogi.
Skoðaðar voru tóftirnar í Hlíð, sem mun hafa verið landnámsbær Þóris haustmyrkurs. Reyndar er talið að rústir þær hafi verið á tanga eða hólma, sem er út í vatninu fram undan bænum; Hjalltangi eða Hjallhólmi er hann nefndur. Þar á bærinn að hafa staðið upphaflega. Eftir að hækkaði í vatninu hafa möguleikar á að skoða þær farið minnkandi.

Borgirnar þrjár

Borgirnar þrjár ofan Vogsósa.

Konráð Bjarnason úr Selvogi segir í Lesbók MBL 17. des. 1991 að hann telji að sonur hans, Böðmóður, hafi fengið hinn víðáttumikla eystri hluta landnáms föðurs síns og orðið fyrsti bóndinn í Nesi. Heggur, annar sonur Þóris, er sagður hafa búið í Vogi, sem getið er til að hafi verið Vogsósar.

Hlíð

Hlíð – uppdráttur ÓSÁ.

Ofan Malarinnar eru rústirnar, en þar segja fróðir menn og konur, að bærinn hafi staðið, eftir færslu úr Hjalltanga. Auk Bæjarhóls eru í túninu Kirkjuhóll eða Bænhúshóll, en þar á hafa staðið bænhús í katólskri tíð. Frá rústunum liggur Hlíðargata austur og inn með fjallinu, framhjá fjárborginni og tóftunum undir Borgarskarði, Hlíðarborg og Hlíðarseli áleiðis upp á Suðurferðaveg (Selvogsgötu).
Gengið var suður með austanverðu Hlíðarvatni, um Réttartanga og síðan beygt upp á gróna hraunhóla þar austur af, vestan þjóðvegarins. Á þeim eru Borgirnar þrjár, eða Vogsósaborgir eins og þær hafa einnig verið nefndar. Borgir þessar eru nokkuð heillegar. Ekki er vitað hver hlóð þær, en eflaust hafa þær átt að skýla fé svo sem meginhlutverk fjárborganna var. Ekki er ólíklegt að þær hafi verið frá fleiri en einu koti, sem voru þarna skammt frá. Skammt austar, austan þjóðvegarins eru tóftir Vogsósasels.

Hlíð

Hlíðarkot – tóftir.

Frá Borgunum er ágætt útsýni yfir Hlíðarvatn, hólmana, Víðisand sunnar og Alnboga, vestan fráfallsins úr vatninu. Þar lá gamla þjóðleiðin frá Strönd yfir ósana og áfram áleiðis að Herdísarvík. Jörðin þar fór í eyði árið 1957 eftir að Hlín flutti burt 17 árum eftir andlát Einars Benediktssonar.

Gengið var að enda Fornagarðs (Strandargarðs) neðan við túnið á Vogsósum og honum fylgt áleiðis upp túnið. Vogsósar var stórbýli og prestsetur á fyrri tíð. Þar bjó galdrapresturinn Eiríkur Magnússon á ofanverðri sautjándu öld og fram á þá átjándu. Margar sögur eru til af Eiríki og göldrum hans. Aldrei notaði hann galdur sinn til ills en gerði mönnum glettur og aðallega ef á hann var leitað að fyrra bragði.

Vogsósar

Vogsósar – uppdráttur ÓSÁ.

Árið 1840 segir að Vogsósaland sé “allt að framan gjörspillt af sandágangi, verr en Austurvogurinn, því að sönnu fýkur hann af austur- og landnyrðingsáttum eins á þetta land og Austurvoginn. En þar að auki líka því meir af útnorðri og til með af vestri, sem það er nær Víðasandi. Þegar ósinn er undir ís, fær túnið á Vogsósum óbætanleg áföll af sandi í vestanstormum, t.d. næstliðinn vetur.”
Árið 1847 voru Strönd og Vindás komnar í eyði og eru taldar með Vogsósum sem eru beneficium og liggja Hlíð og Stakkavík og 3 ½ hdr í Þorkelsgerði undir kirkjuna. “Prestsetrinu fylgja 2 ásauðar kúgildi og 1 veiði- og heyflutníngsbátur. Tún er lítið mjög og hætt við sandfoki, og utantúns slægjum eins, en landkostir eru góðir og útibeit góð. Jarðarhlynnindi eru hér að auki talin, þó mínkandi fari; sela- og silúngsveiði og sölvatak, sem líka gengur af sér, einkum af sandfoki, en höfuðkosturinn er trjáreki. Selvogs kirkja á ítak í Krýsuvíkur fuglbergi.

Vogsósar

Vogsósar – kirkjugatan að Strönd.

Mest hefir sandurinn borist austur yfir ósinn er hann var lagður með ís, hefir svo borist austur og upp í heiðina fyrir suðaustan Vogsósa og umlukið þar bæ er nefndur er Vogshús, enda er hann nefndur svo í fornbréfum. Þá er sandgeirinn var kominn upp í heiðina, fór hann breikkandi suður og austur á við, og eyðilagði smám saman jarðirnar: Strönd, Vindás og Eimu með afbýlum þeirra.”
Þess má geta að suðaustan við túnið á Vogsósum eru óþekktar rústir, fast austan við Fornagarð.

Eiríksvarða

Eiríksvarða á Svörtubjörgum.

Frá Vogsósum er ágætt útsýni upp að Svörtubjörgum. Á þeim er Eiríksvarðan. En “þó Eiríksvarða sé ekki frá forntíð, er það samt ekki ómerkilegt, að hún skuli enn nú standa óröskuð eftir svco langa tíð. Hún er einhlaðin á mjög hárri fjallsbrún; 1 fet er fyrir framan hana að skörpustu brúninni. Hún er 1 faðmur að neðan, lík einhlöðnum steingarðsparti. Er svo hvör steinn lagður yfir annan. Flatir og ílangir eru þeir; allir snúa endar þeirra til beggja hliða. Allir eru þeir smáir sem lítilfjörlegir utanveggs hleðslusteinar. Hún er smáaðdregin frá báðum endum, ávöl að ofan og á hæð meðalmanni neðanvert á síðu, snýr austur og vestur til endanna, en flöt við norðan og sunnan átt. Þessi Eiríkur Magnússon … dó 1716 … og skyldu menn setja, að hann hefði vörðuna hlaðið 6 árum fyrir afgang sinn, þá er hún búin að standa í 123 ár.”
Margar sögur eru til af Eiríki, presti á Vogsósum. Eftir að Eiríkur var orðinn prestur í Selvogi komst það orð á að hann væri göldróttur. Kallaði þá Skálholtsbiskup hann á sinn fund og sýndi honum Gráskinnu og bað hann að gera grein fyrir því hvort hann kynni eitthvað úr þeirri bók. Eiríkur fletti upp bókinni og sagði; “Hér þekki ég ekki einn staf”! Og sór fyrir það. Síðar sagði hann að þetta þýddi ekki að hann þekkti engan staf í bókinni heldur að hann þekkti alla stafi bókarinnar nema einn.

Fornigarður

Fornigarður.

Fornigarðs er getið í heimildum. Segir m.a. að “Vogósatúngarður var girtur aðeins á suðurhlið, en að austan Fornagarði, garði sem getið er í máldaganum frá 1275 á þennan hátt: “Sex vætter aa huertt fyrer garde enn fiorar utan gardz…” (DI, II,124). Er því þarna að sjá eitthvert elzta mannvirki á landi hér.”
Stefnan var tekin suður yfir heimatúnið, að Kirkjugötunni, sem liggur yfir að Strönd. “Kirkjugatan lá frá Hlíð suður með vatninu um Vondavik að Vogósum og áfram suður að Strandarkirkju.” Hún sést enn vel þar sem hún liggur um sandinn, enda ávallt mikið farin þangað til fyrir tiltölulega stuttu síðan.

Strandarkirkja

Minnismerki um Strönd í Selvogi – einnig nefndur “Staður”.

Selvogur er vestasta byggð í Árnessýslu og var lengst af fremur afskekkt og einangrað byggðarlag. Rafmagn kom ekki í sveitina fyrr en eftir 1970 og vegamál hafa verið í ólestri fram undir þetta. Á fyrri tíð voru í Selvogi margar jarðir og víða stórbúskapur og gjöful fiskimið undan landi. Síðast var gert út á vetrarvertíð úr Selvogi árið 1950 og eftir það hafa bændur lifað eingöngu af landbúnaði og einkum sauðfjárbúskap því mjólk var ekki sótt á bæi í Selvogi til að flytja í mjólkurbú. Í byrjun tuttugustu aldar eru um 20 býli í Selvogi en nú mun búskapur lítill í sveitinni.

Strandarkirkja

Kirkjan á Strönd.

Sagan segir frá sjómönnum sem fyrir langa löngu villtust í hafi og hétu því að byggja kirkju þar sem að þeir kæmu að landi ef þeir lifðu af. Eftir áheitið leiddi engill þá heila á húfi að landi í Engilsvík og þeir byggðu kirkju að Strönd. Kirkjan sem nú stendur að Strönd var reist seint á nítjándu öld og endurbyggð árið 1967. Í henni er gömul altaristafla frá 1865 og kaleikur kirkjunnar er merkilegur en hann er forn gefinn kirkjunni af Ívari Hólm lögmanni og hirðstjóra sem sat á Strönd en einnig á Bessastöðum. Kaleikur þessi er eini gullkaleikurinn sem til er hér á landi og því mikil gersemi. Síðasti prestur sem bjó í Selvogi var séra Eggert Stefánsson merkur maður en hann þjónaði Strandarkirkju á árunum 1884 til æviloka 1908. Þá var prestakallið lagt niður sem sérstakt prestakall.

Vogsós

Vogsósaborgir.

Helgi og átrúnaður á Strandarkirkju virðist hafa komið upp mjög snemma eins og sagan af áheiti skipshafnarinnar sýnir og væntanlega fylgt henni alla tíð. Öldum saman hefur verið heitið á kirkjuna í lífsnauð og hvers kyns öðrum erfiðleikum. T.d. munu norskir sjómenn snemma hafa heitið á kirkjuna og eignaðist hún skógarhögg í Noregi. Í gegnum aldirnar hefur kirkjunni því safnast mikill auður, bæði dýrmætir gripir og peningar. Hluta af því hefur verið varið til endurbóta á kirkjunum en einnig hefur þetta fé verið lánað til kirkjubygginga víða um land.

Þórarinn Snorrason

Þórarinn Snorrason og Ómar spá og spekulera um fyrirhugaðn uppdrátt af Selvogi.

Stórbýli var á Strönd og á staðurinn sér mikla sögu frá fornu fari þótt þar sé ekki lengur búið og vafalítið eitt af elstu býlum sveitarinnar. Fram yfir aldamótin sextán hundruð voru 7 eða 8 býli á Strönd en hverfa úr byggð á 17. öld og árið 1696 fer höfuðbólið sjálft í eyði. Því olli uppblástur og sandfok sem gerði jörðina óbyggilega, sem fyrr sagði.
Eftir að Strönd fór í eyði var um það rætt að flytja kirkjuna en fólkið var á móti því þar sem það taldi hættu á að við það glataði kirkjan mætti sínum og helgi. Hún stendur því enn á sama stað og í upphafi.
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 22 mín.

Heimildir m.a.:
-http://www.bokasafn.is/byggdasafn
-http://www.utivist.is

Selvogur - örnefna- og minjakort

Selvogur – örnefna- og minjakort – ÓSÁ.

Selvogur

Jökull Jakobsson segist svo frá Selvogi í Fálkanum í nóvembermánuði 1964:
“Dálítil þyrping húsa stendur þarna á yztu strönd, þar sem Atlantshafið beljar ár og síð. Hins vegar eru gróðurlitlir melar, holt og heiðaflákar, sandar og hraun unz landið að lokum rífur sig upp úr flatneskjunni og rís upp í fjallshlíð, þar eru útbrunnir gígar og fornar eldstöðvar, sums staðar hefur hraunelfurinn fossað niður hlíðina og storknað og minnir á vatnsfall, sem óvænt og skyndilega umbreytist i höggmynd.
Herdísarvík - uppdrátturÞjóðvegurinn hlykkjast um sandflæmi og nakin holt, yfirlætislaus og mjósleginn að sjá ofan af hlíðarbrúninni eins og Drottinn allsherjar hafi fyrir vangá misst þráðarspotta ofan í steypuna, meðan hún var að kólna. Eldurinn hefur mótað þetta land og loftið ekki látið sitt eftir liggja, hér gnauða lotulangir vindar úr norðri. Fjórða höfuðskepnan hefur í fullu tré við hinar, sjálft Atlantshafið sverfur ströndina látlaust og eilíflega, oft getur að líta brimrótið líkast hækkandi brekkum svo langt sem augað eygir, brimgnýrinn öskrar í eyru svo ekki heyrist mannsins mál, oft rísa einstakir strókar upp með skerjunum eins og tröllaukinn geysir hafi gengið af göflunum. Og hér var þó útræði fram eftir öllum öldum. Það fer fjarska lítið fyrir þessum fáu húsum sem kúra þarna yzt á ströndinni í fullkomnu trássi við höfuðskepnurnar, einhvern veginn finnst aðkomumanninum, að hér sé þeirra leikvangur en ekki manna.
Við erum stödd í Selvogi.
Hér hefur verið byggð allt frá því norskir skattsvikarar tyggðu þetta land ásamt írskum þrælum, og því fer fjarri, að hér í Selvogi hafi þeir orðið að láta sér nægja að hokra, sem sem ekki tókst að ryðja lönd í breiðum dölum. Hér byggðu lögmenn og hirðstjórar fyrr á öldum og áttu þó völ á nafntoguðum höfuðbólum og kostaríkum héruðum sunnanlands og austan. í Selvogi hafði alþýða manna einnig nóg að bíta og brenna, þótt harðnaði í ári og kotbændur flosnuðu upp annars staðar ellegar bjuggu við sult og seyru, þegar harðindi og drepsóttir steðjuðu að.
— í Selvogi var alltaf hægt að lifa kóngalífi, sagði mér síðasti bóndinn í Herdísarvík, og þar er enn hægt að lifa kóngalífi, bætir hann við. Þó hefur Selvogur orðið að hlita þeim örlögum, sem dunið hafa á öðrum breiðari byggðum þessa lands undanfarna áratugi: fólki hefur fækkað svo nemur við landauðn og að sama skapi er kreppt að þeim, sem eftir eru. Selvogur hefur löngum verið talinn afskekkt sveit, en þó er þess að gæta, að fyrrum lá hún í þjóðbraut. Bændur af öllu Suðurlandi fóru skreiðarferðir í kaupstaðina suður með sjó, og þá lá leiðin um Selvog.
Selvogur - kortÁ Hlíðarenda í Ölfusi var löggiltur áfangastaður, og þaðan var talin dagleið að næsta áfangastað, Bleiksmýri í Krýsuvík. Og eftir að hinn sögufrægi og umdeildi Krýsuvíkurvegur varð að veruleika, þarf ekki að kvarta undan einangrun í Selvogi, hvort sem farið er austur eða vestur, er ekki nema þriggja stundarfjórðunga akstur til höfuðstaðarins og eru þó ýmis kauptún nær: Hafnarfjörður, Selfoss, Þorlákshöfn, nú er jafnvel hægt að aka sem leið liggur í Grindavík meðfram ströndinni. Hér ættu því ekki að ríkja nein vandkvæði um aðdrætti. Þó hefur fólki fækað svo í hreppnum, að nú eru ekki eftir nema 40 manns og ungur þingmaður Árnessýslu hefur gert að tillögu sinni að sameina hreppinn Ölfushreppi. Ýmislegt er gert í því skyni að viðhalda jafnvægi í byggð landsins og stuðla að því að fólki þyki hag sínum betur borgið í heimasveit en á mölinni. Því þótti Selvogsbændum skjóta skökku við, þegar kaupfélagsstjórinn á Selfossi neitaði að sækja til þeirra mjólk, nema þeir hefðu minnst 70 kýr mjólkandi í fjósi. Taldi hann ekki borga sig að sækja mjólkina svo langan veg að öðrum kosti. Þó lét hann sækja mjólk á bæ, sem ekki er nema 14 kílómetra frá Selvogi, og fór því fjarri, að þar væru 70 kýr í fjósi. En Selvogsbændur neyddust til að bjarga sér sjálfir, þeir reyndu á tímabili að koma þar upp mjólkurbúi sjálfir, en reyndust of fáliðaðir. Nú byggist búskapur þeirra nær eingöngu á sauðfjárrækt, enda eru skilyrði til þess ákjósanleg og raunar óvíða á landinu betri. Ólafur Þorvaldsson bjó síðastur bænda í Herdísarvík, sat jörðina frá 1927 til 1933, en varð þá að standa upp fyrir eigandanum. Einari skáldi Benediktssyni.
Herdísarvík— í Herdísarvík var gott að búa, sagði Ólafur mér, það er frábær útbeitarjörð, ég hika ekki við að segja langbezta beitarjörðin á Suðurlandi. Það er ekki nóg með, að það sé allt þetta land, heldur fjaran líka, og þarna er engin flæðihætta. Að öðrum kosti hefði jörðin verið óbyggjanleg. Þá hefði þurft að parraka féð. Þarna voru slægjur engar, nema túnið, raunar voru þau tvö, eystra túnið gróið upp af sjófangi. Og útræði var í Herdísarvík allt frá fyrstu tíð og allar götur fram til 1922. Þar voru sjómenn í veri og þótti slíkt hagræði, að jafnvel Landeyingar sóttu þangað til sjóróðra. Árni sýslumaður Gíslason átti jafnan tvö skip í Herdísarvík, og var verstöð hans kölluð Krýsuvíkurbúð. En Árni sat í Krýsuvík, og þar er hann grafinn í að [baki] kirkju, raunar sá eini í kirkjugarðinum sem hvílir undir steini. Önnur leiði eru þar gróin og nafnlaus.
Í Herdísarvík er fremur veðursælt nema í norðanátt og þá getur orðið landbrim. Nú er Herdísarvík í eyði og þögnin geymir gömlu bæjarrústirnar við veginn, enginn dyttar lengur að grjótgarðinum, enda er hann víða hruninn og túnið í órækt. Þar stendur enn uppi baðstofa í gömlum stíl og önnur hús úr torfi, fjós, hlaða og fjárhús. Athygli vegfarandans beinist þó fyrst að einlyftu timburhúsi, sem stendur þar í túninu og horfir til sjávar, nú er búið að negla hlera fyrir alla glugga og dyrnar eru harðlæstar. Viðirnir í húsinu eru sorfnir vindum og veðri. Í þessu húsi bjó skáldið Einar Benediktsson síðustu æviár sín.
HerdísarvíkMaðurinn, sem þeytzt hafði milli heimsborganna, ort suður í Afríku drápur á íslenzku, selt norðurljósin og fossana, efnt til stórvirkjana og gullgraftrar, búið í glæstum salakynnum og umgengizt höfðingja og baróna, látið að sér kveða í landsmálum og stórpólitík og tekið þátt í kóngsveizlum, þessi maður hreiðraði um sig hér í litlu húsi fjarri mannabyggð, en aðra hönd var beljandi hafið og á hina eyðileg fjöll og firnindi. Þá var hann kominn að fótum fram þegar hann settist hér að, Elli kerling hafði komið honum á kné. Hugur hans, sem forðum hafði flogið um ómælisgeim í ljóðum og ræðu, var nú tekið svo að förla, að hann þekkti ekki lengur suma vini sína nema endrum og eins. Hlín Johnson tók að sér hið aldna skáld og hlúði að honum, þegar skáldið og heimurinn höfðu skilið að skiptum. Hér í Herdísarvík veitti hún gömlum manni aðhlynningu. Það sagði mér kunnugur maður, að stundum hefði mátt sjá Einar Benediktsson staulast út úr húsinu á góðviðrisdegi og ganga fram á tún. Þar settist hann niður og tók upp úr vasa sínum blað og blýant, páraði á blaðið örfá orð og tók sér svo langa hvíld. Síðan skrifaði hann kannski eitt orð í viðbót, og enn varð langt hlé: Úr þessu urðu aldrei annað en hálfkveðnar vísur, vísnabrot, ef til vill hálf hending. Síðan reis skáldið upp af túninu, hægt og seinlega og staulaðist til bæjar . . .
En hafið beljaði við ströndina eftir sem áður. Einar Benediktsson dó árið 1940 og arfleiddi Háskólann að hinu mikla bókasafni sínu og svo jörðinni Herdísarvík. Ef til vill verður þar hressingarheimili fyrir prófessora, þegar fram líða stundir. Tæplega verður fitjað þar upp á búskap að nýju.
StrandarkirkjaÞótt byggð dragist saman í Selvogi, hækkar vegur Strandakirkju með hverju ári. Enginn veit með vissu, hvenær fyrst var tekið að heita á Strandakirkju en hitt er víst, að alla tíð hefur hún þótt bregðast vel við áheitum. Sagnir herma, að hún hafi upprunalega verið byggð fyrir áheit. Íslenzkir farmenn á heimleið úr Noregi á skipi hlöðnu húsaviði villtust i hafi og fengu réttu stóra. Hrakti þá lengi og voru vistir þrotnar, en leki kominn að skipinu, og fengu þeir ekki lengur varizt áföllum. Þá gerði formaðurinn það heit, að þeir skyldu byggja kirkju úr farviðnum, ef þeim auðnaðist að ná landi. Og leið nú ekki á löngu, áður en þeir fengu landkenning af Selvogi, en þar var foráttubrim með allri ströndinni. Þá sjá þeir veru alskínandi bera yfir brimgarðinn og sigldu þangað. Þar var sund og sjólaust að kalla, og lentu þeir skipi sínu heilu og höldnu. Formaðurinn og hásetar hans létu ekki sitja við orðin tóm, heldur reistu kirkju á staðnum, en víkina kölluðu þeir Engilsvík, og heitir hún svo enn í dag.
Rekamark Strandakirkju er A eða Á og hafa því ýmsir leitt að því getum, að formaðurinn hafi heitið Árni og sumir jafnvel haldið því fram, að hér hafi verið á ferð Árni biskup Þorláksson, Staða Árni. En allt er á huldu um menn þessa og þjóðsagan ein til frásagnar.
Hins vegar eSelvogurr heitið á Strandakirkju enn í dag, ef mikið liggur við, enda er þessi fátæklega kirkja á eyðilegri strönd orðin ein auðugasta kirkja landsins. Á hún nú á fjórðu milljón króna í sjóði, og er það fé notað til kirkjubygginga víðsvegar um land. í Strandakirkju eru ýmsir góðir gripir, kaleikur úr pápísku og messuhökull ævaforn. Þar er altaristafla máluð af Sigurði málara. Strandakirkja var annexía frá Vogósum. Þar sátu nafnkunnir klerkar á öllum öldum, en þekktastur var þó séra Eiríkur, galdrameistarinn mikli og eru af honum miklar sögur. Séra Eiríkur beitti þó aldrei galdrakunnáttu sinni til illverka, en ýmsar glettur gerði hann þó pörupiltum og þjófum. Flestir munu kannast við söguna af piltunum, sem tóku hesta prestsins ófrjálsri hendi, en festust á baki þeirra, og tóku klárarnir sprettinn heim í hlað á Vogósum. Síðastur  klerka í Vogósum var séri Eggert Sigfússon. Hann lifði alla ævi ókvæntur og barnlaus og þótti sérvitur og smáskrítinn. Til dæmis kom hann aldrei á hestbak í ein 40 ár. Á síðustu æviárum sínum flakkaði hann nokkuð um Árnessýslu og kom þá meðal annars að Kiðabergi í Grímsnesi. Þáði hann þar næturgreiða og kvaddi húsfreyju með þessum orðum um morguninn:
Skyrinu og grautnum skelf ég af,-
Brauðinu fæ ég brjótsviða af.
Lundabagginn of feitur.
Blóðmörinn of magur,
Svið vitið þér að ég vil ekki.
Og matarlaus má ég fara.
Séra Eggert fór jafnan fótgangandi, því ekki fékkst hann á hestbak eins og áður er getið. Nálægt Kiðabergi er lækur einn, og eru tvö skref yfir lækinn. Séra Eggert hafði einni skinnsokk sem hann braut saman og geymdi undir barðí við lækinn, fór hann í sokkinn þegar hann þurfti yfir, en skildi síðan sokkinn eftir þangað til næst hann þyrfti á að halda.
SelvogurEins og áður er getið, þótti Selvogur kostahérað mikið, enda bjuggu þar hirðstjórar og lögmenn og efldust til fjár og valda. Þar var gnótt sjávarfangs og annarra hlunninda eins og berlega kemur fram í vísu sem Vogsósaprestur einn orti fyrr á öldum þegar hann kvaddi héraðið sárum söknuði:
Sakna ég úr Selvogi
sauða minna og ánna,
silungs bæði og selveiði,
en sárast allra trjánna.
En ægilegur skaðvaldur átti eftir að eyða byggð í Selvogi, svo nærri stappaði, að hún lognaðist út af. Það var sandfok og uppblástur, sem fylgdi í kjölfar þess. Víðáttumikil graslendi urðu uppblástrinum að bráð, svo að til landauðnar horfði. Höfuðbólið Strönd lagðist í eyði og býli flest í kringum það, sumar hjáleigur þess tórðu þó. Nú er að mestu búið að hefta þetta gífurlega sandfok, en aldir munu renna, áður en jörðin er gróin sára sinna.
Annar óvinur var sífellt nálægur, sem þó um leið var lífgjafi byggðarinnar. Úr Selvogi var sjórinn sóttur af kappi, og til dæmis um það má nefna, að kringum 1770 gengu 50 skip úr Selvogi og Herdísarvík. Síðasta og mesta sjóslysið í Selvogi varð fyrir rúmri öld. Þá fórst Bjarni Pétursson bóndi í Nesi skammt undan lendingu ásamt hásetum sínum, þrettán að tölu. Í Þjóðólfi segir frá þessu slysi. Þar segir, að róið hafi verið í bezta veðri þann 19. marz og hafði verið setið stutta stund. Þá sjá þeir, er næstir voru landi, að blæjur eru dregnar upp til að vara róendur við því, að nú væri tekið að brima. Héldu menn nú að landi sem óðast. Allir í Vesturvognum náðu landi slysalaust, en úr Austurvognum engir. Hreppstjórinn kom fyrstur að sundi Austurvogsmanna, en sá sundið ófært og beið, ef hann sæi lag. í sömu andrá kom Bjarni frá Nesi og stefndi á sundið, hreppstjórinn varaði hann við og fleiri á skipi hans. Bregzt hverjum á banadegi, því Bjarni lagði óhikað á sundið, en allt í einu reis ógurlegur sjór, er hraut allt skipið í spón og kastaðist marga faðma fram yfir það. Er aðrir á sjó sáu, hvernig komið var, sneru þeir frá og náðu landi í Þorlákshöfn, því veður var stillt og tóku þegar lendingu slysalaust, því engin mannleg hjálp var spöruð af þeim, er þar voru fyrir. Þá voru þar komin tólf skip af Stokkseyri og tvö af Eyrarbakka.
SelvogurHér verður þetta látið nægja sem dæmi þess, að sjósókn úr Selvogi var enginn barnaleikur, og varð þó minna um slys í þeirri verstöð en víða annars staðar á landinu. Hins vegar eru það ekki einvörðungu Selvogsmenn, sem hafa átt undir högg ægis að sækja á þessum slóðum. Aðkomin fiskiskip hafa oft strandað þarna, útlend jafnt sem innlend, togarar og flutningaskip,
því ströndin er hættuleg, og þarf ekki að spyrja um örlög þeirra skipa sem steyta á skeri undan Selvogi. Oftast hefur þó giftusamlega tekizt um björgun áhafna, en einnig hafa orðið þar raunasögur.
Hér verður staðar numið og ekki sagt fleira frá þessu litla, en söguríka héraði við yzta haf. Þar sem áður bjuggu hirðstjórar og lögmenn á nafnfrægum höfuðbólum, eru nú aðeins eftir örfáir bændur og þrátt fyrir síma, véltækni, vegasamband og styrkjakerfi þykir örvænt um, að byggð haldist þar lengi enn. Þó skal engu u m það spáð hér, hver veit nema í náinni framtíð eflist Selvogur að nýju.
Jökull Jakobsson.”

Heimild:

-Fálkinn – Sakna ég úr Selvogi – Jökull Jakobsson – 44. tbl. 16. nóvember 1964, bls. 18-21 og 34-35.

Nesborgir

Nesborgir í Selvogi.

Bjargarhellir

Gengið var um Strandarhæð ofan við Selvog. Á hæðinni eru nokkrir skútar og smáhellar, auk ýmissa mannvistaleifa. Má þar m.a. nefna Gapa, Strandarhelli og Bjargarhelli.
Selvogsheiði er mikil hraundyngja, sem byggst hefur upp snemma á nútíma. Hraunin hafa breiðst út til allra hliða. Dyngjan er hallalítil og hraunin hafa verið þunnfljótandi, enda er flatamál dyngjunnar um 50 ferkílómetrar.

Gapi-21

Gapi.

Út úr dyngjunni hafa miklar hraunár runnið neðanjarðar og komið upp úr hrauntjörnum, sem nefnast Hellishæð, Vörðufell og Strandarhæð. Á þessa þrjá gíga lítur Jón Jónsson sem aukagíga frá Selvogsheiði, en ekki sem sjálfstæð eldvörp. Telur Jón líklegt að stórir og miklir hellar liggi frá Selvogsheiði og niður að þessum þrem eldvörpum.
Í örnefnaslýsingu fyrir bæi í Selvogi segir m.a. 1840 að “í Selvogsheiði eru 3 hellrar: … Gapi, tekur 60 kindur …” Fjárskjólið tilheyrði Þorkelsgerði. Fyrir framan það er hlaðinn stekkur; Gapastekkur. Mold er í botni fjárhellisins og bein á stangli. Nafnið er sennilega tilkomið vegna þess að opið gapir á móti þeim, sem það nálgast úr suðri, í átt frá Selvogi. Í örnefnaslýsingunni er einnig kveðið á um Gapstekk: “Við ferðamannaveginn sem lá vestur yfir Víðasand og til Herdísarvíkur, er hellir, sem heitir Gapi og var fjárhellir. Við Gapa er Gapastekkur. Þar var rekið að haust og vor úr Útvogi.”

Bjargarhellir

Innan við op Bjargarhellis.

Haldið var til austurs inn á hæðina, að Strandarhelli. Í sömu heimild frá 1840 er kveðið á um fjárskýli í hellinum. Þar segir að Strandarhellir, sem nú er í Eimulandi, hafi verið rúmgóður… Það var góður fjárhellir, tók um 200 fjár.” Hellirnn er í stóru grónu jarðfalli. Inni í fjárskjólinu eru fyrirhleðslur. Sagnir eru og um göng úr hellinum upp í Hlíðarendahelli undir Hellisbjörgum, en engin slík hafa fundist þrátt fyrir talsverða leit.
Nafngiftin Strandarhellir kemur víða við í rituðum heimildum og yfirleitt er talað um hann í lotningu eins og þar fari einn af stærstu hraunhellum landsins.

Bjargarhellir

Í Bjargarhelli.

Bjargarhellir er sunnan Strandarhellis. Í örnefnalýsingunni frá 1840 segir að Bjargarhellir rúmi 200 fjár…” Fjárskjólið tilheyrði Nesi, austast í Selvogi, miðað við örnefnalýsinguna, en á milli þess og t.d. Nessels undir Hnúkum er allnokkur vegalengd og skera t.d. lönd Eimu, Þorkelsgerðis og Bjarnastaða það svæði.
Jón Vestmann (1769-1959), prestur í Selvogi á árunum 811-1942, nefnir Bjargarhelli er hann svarar spurningum Hins íslenska bókmenntafélags um hella í Selvogsþingi. Jón segir Bjargarhelli álíka stóran og Strandarhelli, sem Jón segir taka 200 fjár.

Strandarhellir

Í Strandarhelli.

Engar fornleifar frá fyrstu öldum Íslandsbyggðar hafa komið í ljós í Selvogi. Erfitt er að spá um upphaf byggðar í Selvogi vegna hinna miklu landspjalla sem þar hafa orðið síðustu aldir. Þar virðast hafa verið tvö hverfi, í kringum Nes og Strönd, og þéttbýli mikið, svo að tún flestra eða allra jarðanna lágu saman. Í kringum Hlíðarvatn og í Herdísarvík eru svo stakar meðaljarðir sem sennilega hafa byggst ívið seinna en býli í Strandar- og Neshverfum.

Hlíðardalur

Tóft Erlends í Hlíðardal.

Á 11. öld reistu efnaðri bændur og höfðingjar kirkjur og bænhús á jörðum sínum, t.d. á Nesi og Strönd. Aðeins er vitað um eitt bænhús, í Herdísarvík, en líklegt má telja að þau hafi verið víðar. Kirkjurnar sem vitað er um eru á öllum dýrustu jörðunum og eru einnig með nokkuð jöfnu millibili en miðað við fjölda býla eru tiltölulega fáar kirkjur í kringum. Í kringum 1000 bjuggu höfðingjar á Hjalla, Þóroddur goði og sonur hans Skapti lögsögumaður, sem samkvæmt Ara fróða var mesti áhrifamaður á Íslandi í byrjun 11. aldar. Þess hefur verið getið til að undir lok 13. aldar hafi Nes í Selvogi orðið bústaður höfðingja. Maður að nafni Finnur Bjarnason byggði þar nýja kirkju á seinni hluta 13. aldar og var hann af höfðingjaættum: Eftir hann bjó í Nesi Erlendur sterki Ólafsson (d. 1312), faðir Hauks lögmanns og bókagerðarmanns. Það að Erlendur hafi valið sér Nes til bústaðar hefur verið tekið til marks um aukið mikilvægi sjávarútvegs frá því um 1300 – að höfðingjar hafi þá kosið frekar að búa við sjávarsíðuna til að geta auðgast á sjávarfangi en í miðju fjölbyggðra landbúnaðarhéraða. Næsta lítið er vitað um byggð í Selvogi á síðmiðöldum.

Bjargarhellir

Bjargarhellir – uppdráttur ÓSÁ.

Margra jarða í Ölfusi er hvergi getið í skjölum fyrr en í jarðabókum 17. aldar og er það óvenjulegt. Skýringin gæti legið í því að mjög margar af jörðunum í Ölfusi, einkum um austanverða sveitina, hafi snemma komist undir Skálholtskirkju – mögulega þegar á 12. eða 13. öld, en jarðabækur stólsins frá miðöldum hafa ekki varðveist. 16. öldin var einskonar blómaskeið Selvogs. Þá bjuggu þar stórhöfðingjar áratugum saman, einkum í Selvogi, og mjög mikið fer fyrir útgerð Skálholtsbiskupa frá Þorlákshöfn, Selvogi og Herdísarvík í skjölum frá þessum tíma. Byggð í Selvogi fór hinsvegar mjög hnignandi í kjölfar 17. aldar. Þar eyddist land vegna sandfoks, tún Strandar og nærliggjandi jarða voru smátt og smátt beinlínis kaffærð í sandi og var öll byggð eydd í Strandarhverfi um 1750. Í Jarðabók Árna og Páls sem tekin var saman á árunum 1706 og 1708 á þessu svæði er víða getið um hjáleigur og afbýli sem höfðu byggst á seinni hluta 17. aldar. Margar fóru fljótlega í eyði aftur í harðindunum um 1700 eða í kjölfar Stórubólu 1707 en önnur héldust í byggð. Engar heimildir eru til sem gefa ástæðu til að ætla að fyrir utan byggðaeyðingu í Selvogi hafi orðið neinar verulegar breytingar í skipulagi byggðar í Ölfusi eða Selvogi fyrr en á þessari öld.

Heimildir m.a.:
-http://www.bokasafn.is/byggdasafn/fornleifaskra/fornleifaskra_eima.htm
-Hraunhellar á Íslandi – Björn Hróarsson.

Strandarhaed-30

Herdísarvík

Eftirfarandi fróðleikur um Herdísarvík í Selvogi birtist í Morgunblaðinu í janúar árið 2000.
Herdisarvik-22“Þéttbýlisbúar á Suð-Vesturhorni landsins þurfa ekki að leita ýkja langt til að komast í snertingu við stórbrotið landslag. Að sumarlagi leggja m.a. ýmsir leið sína suður í Reykjanesfólkvang, þar sem hið mikla land, er liggur undir Krýsuvík, laðar til gönguferða og skoðunar. Getur þá jafnframt legið beint við að halda síðan sem leið liggur austur með ströndinni, áleiðis í Selvog. Á þeirri leið er hið forna góðbýli Herdísarvík, sem nú hefur reyndar verið í eyði um áratuga skeið. Herdísarvík var vestasti bær í Selvogi, þ.e. Selvogshreppi hinum forna (sem nú hefur verið sameinaður stærra sveitarfélagi) og þar með vestasti bær í Árnessýslu við sjó fram. Langt er þó frá Herdísarvík að hinni gömlu meginbyggð í Selvogi, sem nú er að vísu farin í eyði að mestu leyti. Jörðin, sem er alllandmikil, er í eigu Háskóla Íslands. Þar er nú friðland samkvæmt ákvæðum náttúruverndarlaga og er gangandi mönnum heimil för um allt Herdísarvíkurland.
Herdisarvik-23Er skemmst frá því að segja, að þetta landsvæði er sérlega vel fallið til útiveru og lengri sem skemmri gönguferða á öllum árstíðum, enda snjólétt, þótt sums staðar geti reyndar verið seinfarið um hraunin, sem setja mjög svip sinn á landið. Umhverfið er afar svipmikið og tignarlegt: Hömrum girt fjallið í norðri gnæfir yfir öllu láglendi jarðarinnar og gefur oft skjól, þegar þannig viðrar, hrikaleg strandlengjan á hinn veg en í millum skiptast á hraun og skjólsælir bollar, víða viði vaxnir, og fagrar gróðurræmur, m.a. milli hrauns og fjallshlíðar. Í suðri er útsærinn, sem oft bylur óvægilega á ströndinni, þegar blæs af hafi, en óvíða gefur að líta stórbrotnara brim en á þessum slóðum. Frá þessari strandlengju, réttleiðis í suðurátt, er ekkert land að finna fyrr en sjálft Suðurheimskautslandið!

Herdisarvik-24

Svipur landsins á þessum slóðum tekur mjög breytingum eftir veðri og birtu. Þegar sólar nýtur er hlýlegt í hrauninu, litir fjallsins eru þá mildir og heiðbirta yfir hafi og strönd, en óvíða verður landið dimmleitara á votum og sólarlausum dögum. Þó er það vissulega fagurt alla daga því að veðrabrigðin draga aðeins fram hina ólíku liti og mögn þess. Gróðurfar er um sumt sérstætt í Herdísarvík. Árið 1978 fannst í rótum Herdísarvíkurfjalls stör, sem áður var ekki vitað að væri á Íslandi. Hlaut hún heitið “vorstör” á íslensku. Fannst hún á skjólgóðum stað innan um mjaðjurt, garðabrúðu, blákollu, jarðarberjalyng og stúfu.

Herisarvik-25

Vesturmörk Herdísarvíkur, sem jafnframt eru frá fornu fari sýslumörk Árnessýslu á þessum slóðum, liggja um svokallaðan Sýslustein, mikið og auðkennilegt bjarg skammt frá þjóðveginum, sem fer um land jarðarinnar. Ná mörkin allt frá Seljabótarnefi við sjó fram. Í Seljabótinni var fyrrum selstaða frá Herdísarvík (Herdísarvíkursel) og má enn sjá ummerki þeirra mannvirkja, er selinu heyrðu til. Frá Sýslusteini liggja mörkin til norðurs, yfir Lyngskjöld, sem er bunga í brún fjallsins, og allt norður að Kóngsfelli “sem er gömul, en ekki há, grámosavaxin eldborg, umhverfis aflangan, djúpan gíg, til hægri handar við þjóðveginn úr Selvogi til Hafnarfjarðar, góðan spöl fyrir austan Kerlingarskarð, nálægt veginum” eins og segir í fornri landamerkjalýsingu, en þar er að sjálfsögðu vísað til hinnar gömlu þjóðleiðar Selvogsmanna yfir Grindaskörð til Hafnarfjarðar, þar sem þeir áttu löngum verslun sína. Að austanverðu eru mörk jarðarinnar frá sjó og norður í Mosaskarð austanvert en þaðan í áðurnefnt Kóngsfell.
Uppi á fjallinu er því land Herdisarvik-26Herdísarvíkur að lögun eins og mjög langur þríhyrningur. Fjallsrunan milli Lyngskjaldar og Mosaskarðs (sem er gamall og vel mosagróinn hraunfoss, er fallið hefur fram af brúninni) heitir einu nafni Herdísarvíkurfjall. Er það skriðurunnið neðan til en hömrum girt hið efra.
Um Herdísarvíkurland lá frá fornu fari leið milli Selvogs og Krýsuvíkur, en um hana fóru Sunnlendingar m.a. úr veri og í, en þeir sóttu um alda skeið sjó frá verstöðvum á sunnanverðum Reykjanesskaga. Enn má finna í hraunum Herdísarvíkur gamlar og vel troðnar götur frá fyrri tíð og er forvitnilegt að fylgja þeim. Gamla leiðin í Selvog lá ætíð yfir útfall Hlíðarvatns en ófært var norðan megin við vatnið. Það var ekki fyrr en um eða eftir heimstyrjaldarárin síðari að bílvegur var lagður vestan megin Kleifarvatns og síðan til Herdísarvíkur og áfram, norðan við Hlíðarvatn og austur yfir Selvogsheiði.

Herdisarvik-27

Fram að þeim tíma var Herdísarvík með afskekktustu býlum á Suð-Vesturlandi – og þótt víðar væri leitað – og aðdrættir allir örðugir. Verslun áttu Herdísarvíkurbændur fyrrum til Hafnarfjarðar eins og aðir Selvogsbúar og héldu þá yfir fjalllendið norður um Grindaskörð – ef þeir fóru þá ekki með klyfjahesta sína vestur um til Krýsuvíkur og þaðan yfir Sveifluháls, eftir Ketilstíg, áleiðis til Hafnarfjarðar. Úr Herdísarvík var að jafnaði farin ein kaupstaðarferð á ári hverju, með hesta, en menn sendir gangandi í kaupstað þess á milli vegna brýnna erinda.
Í Herdísarvík var löngum búið góðu búi, á forna vísu, meðan leitast var við að nýta til þrautar öll gögn og gæði jarðarinnar.

 

Herdisarvik-28

Á þessum slóðum, sunnan undir fjallinu, er með afbrigðum snjólétt, enda var Herdísarvík talin með bestu útigangsjörðum fyrir sauðfé. Þar mátti því hafa allstórt fjárbú, þótt samfelldir bithagar séu ekki miklir, en féð þurfti að vakta vel m.a. sökum þess að ella var því hætt við að týnast í hraungjótum, sem krökkt er af í landareigninni. Tún var að vísu lítið, með þunnum jarðvegi, og fóðraði vart meir en tvær kýr, en það kom lítt að sök vegna þess að sauðfé bóndans gekk úti mest allt árið, en fjörubeit er auk þess góð í Herdísarvík. Reki var allnokkur og gjarna vel nýttur til húsasmíða og annarra þarfa. Silungsveiði var lengi í Herdísarvíkurtjörn en hefur nú lagst af. Var sú veiði talin umtalsverð búbót á sínum tíma.
Útræði var mikið frá Herdísarvík, enda fengsæl fiskimið steinsnar frá landi að kalla má, og sóttu herdisarvik-29þangað margir tugir manna víða að, einkum frá Suðurlandi en einnig úr nágrenninu. Lágu útróðrarmennirnir við í verbúðum, meðan á vertíð stóð, eins og venja var. Eru enn sjáanlegar miklar minjar um sjávarútveg og ýmis önnur umsvif í Herdísarvík fyrr á tíð. Innsti hluti víkurinnar sjálfrar, er liggur að kambi þeim, sem er milli tjarnarinnar og sjávar, nefnist Bót, en austast í henni var Vörin, þar sem útróðraskipin voru fyrrum dregin á land. Milli vertíða voru þau geymd þar nærri, í svokallaðri Skiparétt, þar sem hlaðnir grjótveggir héldu að þeim. Fyrir ofan Vörina stóðu margar sjóbúðir og má enn sjá glöggar tóttir sumra þeirra. Vitað er um nöfn margra búðanna, svo sem Landeyingabúð, Fljótshlíðingabúð, Símonarbúð, Bjarnabúð, Gíslabúð og Halldórsbúð, en það efni þarfnast þó nánari athugunar. Nær Herdísarvíkurbænum voru síðan m.a. Ólabúð og Hryggjabúð og að síðustu Krýsuvíkurbúð heim undir bænum, en frá höfuðbólinu Krýsuvík voru löngum gerð út tvö skip í Herdísarvík – en þar að auki var verstöðin að Selatöngum í landi Krýsuvíkur (rétt við vesturmörk þeirrar jarðar).

herdisarvik-29

Afla þeim, sem á land barst í Vörinni, var skipt á Skiptivellinum rétt ofan hennar. Enn má sjá mikla garða, er hlaðnir hafa verið í hrauninu austan og norð-austan Gerðistúnsins, þar sem fiskur var fyrrum þurrkaður eftir að hafa áður legið í “kös” sem kallað var. Má ætla að samanlagt séu garðarnir nokkrir kílómetrar að lengd. Í svonefndum Básum austan Vararinnar (og niður undan Gerðistúni) var einnig gömul lendingarvör, sem kallaðist Skökk. Róið var með fornu lagi frá Herdísarvík fram á þriðja tug þeirrar aldar, sem nýliðin er.
Ljóst er, að landið hið næsta Herdísarvíkurbæ hefur löngum legið undir ágangi sjávar, og fyrrum stóð mikill sjóvarnargarður, handhlaðinn úr stórgrýti, á kambinum milli Tjarnar og sjávar, en hann hrundi eftir að byggð var þar af lögð. Hefur sjór síðan valdið stórtjóni á túninu norðan Tjarnarinnar og virðist hafa komið fyrir lítið þótt vinnuvél ýtti upp nýjum garði fyrir fáum misserum; sá garður er nú einnig að hverfa. Að sumu leyti má rekja spjöllin til þess að landið sígur á þessum slóðum eins og víðar á Suð-Vesturlandi.

Herdisarvik-30

Gamli bærinn í Herdísarvík stóð við vesturenda Herdísarvíkurtjarnar. Var hann löngum vel húsaður, m.a. baðstofa stór og góð, alþiljuð, og vandað stofuhús – og valinn rekaviður úr fjörunni að sjálfsögðu notaður í allt tréverk. Hið næsta bænum voru síðan ýmis útihús, sum þeirra einnig vönduð timburhús. Bærinn stóð lágt og varð því stundum fyrir ágangi sjávar í aftakaveðrum af suðri með hásævi, þegar Tjörnina fyllti og sjór gekk einnig upp frá henni. Bærinn var rifinn að hluta til árið 1934, eftir að nýtt íbúðarhús hafði verið reist, en þó má enn greina ummerki hans, undir klöppinni Skyggni. Vatnshólmi nefnist lítill hólmi í Tjörninni fram undan gamla bæjarstæðinu. Þar var tekið allt vatn til daglegrar neyslu, en það bullar þar upp um tjarnarbotninn fast við hólmann.
Austan við Vörina, sem fyrr var nefnd, er svonefnt Gerðistún, með vönduðum steingarði, sem enn stendur að hluta til – en athyglisverðar Herdisarvik-34garðhleðslur má reyndar sjá víða í Herdísarvíkurlandi. Talið er, að þar í túninu hafi fyrrum verið um nokkurt skeið hjábýli frá Herdísarvík, svonefnt Herdísarvíkurgerði. Í Gerðistúni má sjá til margra fornra tótta, en lengst stóðu þar fjárhús tvö, er nefndust Langsum og Þversum, og eru ummerki þeirra enn glögg.
Árið 1976 friðaði þjóðminjavörður allar gamlar mannaminjar á jörðinni Herdísarvík, svo sem fiskigarða, verbúðir, tættur af íveruhúsum og útihúsum, þar á meðal seljarústir í Seljabót. Væri vissulega mjög þarft og verðugt verk að kanna ítarlega, mynda, kortleggja og skrá allar mannaminjar í Herdísarvík, áður en um seinan verður, því að gróið land þar liggur undir skemmdum, eins og fyrr segir, ásamt mörgum og merkum fornminjum. Mættu forsvarsmenn Háskóla Íslands, sem er eigandi jarðarinnar, sannarlega huga að því máli, í samlögum með Þjóðminjasafni.

Einar Ben-21

Frá 1895 til 1927 bjó í Herdísarvík með fjölskyldu sinni Þórarinn Árnason, sonur Árna Gíslasonar stórbónda í Krýsuvík og fyrrum sýslumanns Skaftfellinga. Hafði Þórarinn gagnsamt bú og bjó við rausn að fornum hætti. Árið 1908 eignast Einar skáld Benediktsson Herdísarvík (ásamt Krýsuvík, sem hann átti þó með erlendum mönnum), en mun lítt hafa skipt sér af högum landseta sinna. Árið 1927 leigir hann jörðina Ólafi Þorvaldssyni, síðar kunnum fræðimanni og rithöfundi, sem þar bjó með sinni fjölskyldu fram til 1933 en leigumáli hans var ekki endurnýjaður eftir það. Hafði Ólafi búnast prýðisvel á jörðinni og hefði, að eigin sögn, feginn viljað vera þar lengur.
Í júlímánuði 1932 fluttist eigandi jarðarinnar, Einar Benediktsson, þá viðurkennt höfuðskáld þjóðarinnar með litríkan afhafna- og umsvifaferil að baki, til Herdísarvíkur ásamt sambýliskonu sinni, Hlín Herdisarvik-36Johnson. Hófst þá smíði nýs íbúðarhúss (járnvarins timburhúss) á jörðinni, norðarlega í túninu og allnokkurn spöl frá gamla bænum. Var húsið fullbúið snemma í septembermánuði það ár. Stendur það enn, nú uppgert, og hefur um allmörg ár verið notað sem sumarorlofshús háskólastarfsmanna. Meðan á byggingu hússins stóð höfðust Einar og Hlín við í gamla bænum ásamt fjölskyldu Ólafs, en fluttu síðan inn í húsið nýja jafnskjótt og það varð íbúðarhæft. Yfirsmiður hússins var Sigurður Halldórsson úr Reykjavík, en allt byggingarefni var flutt sjóleiðina frá Reykjavík að Herdísarvík á strandferðaskipinu Skaftfellingi, en síðan á opnum báti frá skipshlið í lendingarvör. Bjuggu þau Einar og Hlín síðan í húsi þessu þar til Einar andaðist 12. janúar 1940, þá farinn að heilsu og kröftum eins og kunnugt er, en Hlín síðan, mest ein en stundum með aðkeyptri hjálp, nokkuð á annan tug ára, þar til hún brá búi og byggð lagðist af í Herdísarvík.

Herdisarvik-38

Oft var þó sonur Hlínar, Jón Eldon (sem var hennar yngsta barn), þar með þeim Einari og síðan tímabundið með móður sinni. Mætti segja margar sögur af lífi þeirra þarna í einsemdinni, þótt ekki sé ráðrúm til þess hér, en staðfest er – og þarf engum að koma á óvart – að Hlín annaðist hinn aldna og þjóðfræga ástvin sinn mjög vel og af mikilli hlýju allt til hinstu stundar samvista þeirra og hlúði að honum með öllum tiltækum úrræðum. Eina utanför, til Kaupmannahafnar, fóru Einar og Hlín eftir að þau fluttu til Herdísarvíkur, og var það haustið 1934, en annars fór Einar lítið af þessu síðasta heimili sínu, enda var heilsu hans þegar farið að hnigna er hann flutti þangað og hrakaði henni síðan enn á næstu árum. Lítt orti Einar skáld eftir að til Herdísarvíkur var komið.

Herdisarvik-38

Í dagstofu hússins stóð bókasafn skáldsins, á annað þúsund bindi, einkum fáséð rit um fornklassísk efni, sum gömul og dýrmæt, mörg á latínu og grísku, þar á meðal eitt vögguprent, þýsk þýðing á Gesta Romanorum, prentað í Augsburg 1489, einhver elsta prentuð bók, sem til er á Íslandi. Þessu merka bókasafni, ásamt jörðinni sjálfri, ánafnaði Einar Háskóla Íslands með gjafabréfi árið 1935 og var safnið flutt í örugga geymslu í Háskólanum árið 1950.
Hlín Johnson hafði allnokkurt fjárbú í Herdísarvík, einkum þó eftir lát skáldjöfursins.
Svört ær í eigu hennar varð frægust íslenskra sauðkinda á síðari tímum. Hún gekk árum saman Herdisarvik-40sjálfala í Herdísarvíkurfjalli, uns boð kom frá yfirvöldum um að hún skyldi aflífuð eins og gert hafði verið við annað fé Hlínar og reyndar fjárstofninn allan í þeim landshluta, sökum sauðfjárveikivarna. Örðuglega gekk að handsama Surtlu og á árinu 1952 gerðu fjárskiptayfirvöld út marga leiðangra vopnaðra manna til að fella hana, og fé var einnig heitið til höfuðs henni. Surtla var kæn og fótfrá og varðist í fjallinu vikum saman áður en hún var loks lögð þar að velli. Mátti heita að öll þjóðin fylgdist af miklum áhuga með þessari baráttu, í dagblöðum og útvarpsfréttum, og átti ærin víst samúð flestra.”

Heimild:
-Morgunblaðið, laugardaginn 15. janúar, 2000. Höfundur er prófessor við Háskóla Íslands og fyrrverandi forseti Ferðafélags Íslands.

Herdísarvík

Herdísarvík.

Krýsuvíkurvegur

Þrætur hafa löngum sést í fjölmiðlum hér á landi um fyrirhugaðar vegalagningar í gegnum tíðina. Sumt hefur mönnum sýnst í þeim efnum.
Ákvörðun um lagningu Krýsuvíkurvegarins frá Hafnarfirði meðfram Kleifarvatni árið 1936 var þar engin undartekning, eins og sjá má:

Í Nýja dagblaðinu. 24.03.1936 má lesa eftirfarandi um “Vetrarleiðina austur um Krýsuvík – Rökstuðningur Jónasar Jónssonar og Jón Baldvinssonar fyrir vetrarveginum um Krýsuvík“:

Krýsuvíkurvegur

Krýsuvíkurvegir 2021.

“Alþingismennirnir Jónas Jónsson og Jón Baldvinsson lögðu í gær fram í efri deild frv. til laga um breytingu á vegalögum. Meginbreytingin, sem fellst í frv., er að tvískipta Suðurlandsveginum. Verður önnur leiðin um Lækjabotna, en hin um Hafnarfjörð, Krýsuvík og Selvog. Auk þess er lagt til að teknir verði í tölu þjóðvega ýmsir vegir, sem ekki hafa verið þar áður.
Í greinargerð frv. segir: „Stærsta breytingin í þessu frv. frá núverandi vegalögum, er sú, að Suðurlandsvegur verði tvískiptur austur í Ölfus, og ný leið valin um Hafnarfjörð, Krýsuvík og Selvog, aðallega sem vetrarvegur.

Lægsta leiðin

Krýsuvíkurvegir

Krýsuvíkurvegir 1996.

Höfuðtilgangurinn með lagningu þessarar nýju Suðurlandsbrautar, er að fá eins tryggt samband og unnt er milli Reykjavíkur og Suðurlandsundirlendisins, að vetrarlagi. Hefir þessi leið hin beztu skilyrði í því augnamiði, þar sem hún liggur aðeins 168 m. yfir sjó þar sem hún er hæst, en annars allmiklu lægra langsamlega mestan hluta leiðarinnar.
Til samanburðar má geta þess, að núverandi leið yfir Hellisheiði liggur hæst 370 m. yfir sjó, eða um 200 m. hærra, leiðin um Þrengslin kemst upp í rúmlega 260 m., eða 100 m. hærra, og Þingvallaleiðin kemst í svipaða hæð (260 m.). Það er því bert, að þetta er sú lang lægsta leið, sem hægt er að fá milli þessara tveggja staða, ef ekki er farið enn lengra vestur á Reykjanesið, en því fylgja aftur ókostir nokkrir, sem síðar mun lítillega verða vikið að. Vegalengdin frá Reykjavík að ölfusárbrú þessa leið er um 103 km. og því að vísu allmiklu lengri en núverandi vegur yfir Hellisheiði, sem mun vera um 60 km. (59 km.). En til samanburðar má geta þess, að Þrengslaleiðin mun vera um 70 km. og Þingvallaleiðin 93 km.

Tvær torfærur

Krýsuvíkurvegur

Krýsuvíkurvegurinn um austanvert Vatnsskarð 1961.

Vegarstæðið mun vera mjög svipað því, sem venjulega gerist hér á landi, hvorki verra né betra. Þó eru tvær torfærur á leiðinni, en hvorug stór. Hin fyrri er Kleifarvatn. Þar mun verða að fara með veginn norðvestan með vatninu, en á nokkrum hluta þess svæðis hagar svo til, að klettar ganga þverhnýpt niður í vatnið. Meðframhömrum þessum er vatnið mjög grunnt, 1—2 m., og getur stundum verið alveg á þurru, svo að sennilega má fá mjög ódýra fyllingu með því að sprengja úr berginu og láta grjótið detta niður fyrir. Ekki er þetta svæði heldur lengra en svo, að nema mun samtals tæpum 1 km. Hin torfæran er sandkamburinn fyrir framan Hliðarvatn, því að örðugt mjög mun að fara með veginn ofan við vatnið. Sandkambur þessi mun vera laus fyrir og breytast ef til vill eitthvað af ölduróti sjávar, og þyrfti því sennilega að tryggja hann eitthvað með sterkri steinsetningu. Ósinn þyrfti líka að brúa, en hvorugt þetta mun vera mjög kostnaðarsamt, þar sem lengd kambsins er ekki nema um 12—1300 m.

Kostir Krýsuvíkurleiðarinnar

Hellan

Krýsuvíkurvegur um Helluna undir Sveifluhálsi.

Einn höfuðkostur vegar þessa er sá, að hann liggur um ræktanlegt land og að nokkru leyti byggt, og bætir þar úr mjög brýnni þörf, auk þess að vera vetrarvegur fyrir Suðurlandsundirlendið. Neðsti hluti Ölfuss, Þorlákshöfn, Selvogur, Herdísarvík og Krýsuvík geta öll notað þennan veg, sér til mikils hagræðis, en sum þessi héruð eru nú að mestu og önnur að öllu leyti veglaus. Hinn nýi vegur um Þrengslin liggur aftur á móti algerlega um alls óræktanlegt og ónothæft land til nokkurs hlutar. — Þetta sjónarmið réði því og, að vegstæðið var valið um Krýsuvík en ekki vestar, þó að þar hefði sennilega mátt fá allgott vegstæði um eða undir 100 m. yfir sjó þar sem það var hæst, enda hefði vegalengdin líka vaxið þá um 5—10 km.”

Kleifarvatn

Krýsuvíkurvegurinn. Krýsuvík framundan.

Sama umfjöllun birtist í Alþýðublaðinu, 70. tbl. 24.03.1936, undir fyrirsögninni “Ný Suðurlandsbraut um Hafnarfjörð, Krýsuvík og Selvog“.

Í Nýja dagblaðinu 19.04.1936 birtist grein eftir Árna G. Eyland um efnið undir fyrirsögninni “Vanhugsað fálm“:

Krýsuvíkurvegur

Krýsuvíkurvegurinn gamli við Vellina.

“Hugmyndin, að leggja nýjan Suðurlandsveg um Hafnarfjörð, Krýsuvík og Selvog hefir mætt þeim þroskavænlegu móttökum manna á meðal og í blöðunum, að nú mun öruggt, að hún verði ekki þöguð í hel né falli í gleymsku. Síðast ritar Morgunblaðið um þessa Krýsuvíkurleið miðvikudaginn 15. apríl og talar þá um vanhugsað fálm samhliða því sem það dregur fram ýms atriði úr umsögn þeirri, er vegamálastjóri hefir sent Alþingi um málið. En í þeirri umsögn eru tvenn meginrök til framdráttar Krýsuvíkurleiðinni. Annað: að hún liggi svo lágt „að naumast er að óttast snjó þar”, en hitt: „að umferð verði mun meiri um Krýsuvíkurveg” — en Þrengslaveg, þrátt fyrir það, þótt Þrengslavegur yrði styttri! Góð rök og sterk þegar þau renna saman. Annmarkarnir sem verið er að draga fram, heldur af vanefnum, verða lítill í samanburði við meðmælin. Þó er rétt að athuga annmarkana suma hverja.
Fyrst er nú kostnaðurinn. Morgunblaðið telur Krýsuvíkurleiðina þrefalt dýrari, en þá gleymist aðeins að Krýsuvíkurvegurinn er áætlaður breiðari, og ennfremur gleymist, að taka með í samanburði 290 þús. króna kafla af Þrengslaveginum, frá Lækjarbotnum í ofanvert Svínahraun, en sá kafli verður að sjálfsögðu að teljast með þar sem sannað er að vegur gegnum Þrengslin kemur ekki að notum nema í snjóléttum vetrum, ef þeim kafla er ekki breytt, og jafnvel veginum alla leið niður að Baldurshaga.

Krýsuvíkurvegur

Krýsuvíkurvegurinn gamli norðan Rauðhóls.

Þá mun ekki tekið tillit til þess við samanburðinn, að vegur um hina snjóléttu Krýsuvíkurleið þarf ekki frekar en vill fyrst um sinn að vera eins hár eins og vegur á snjóþyngri slóðum. Hinsvegar dettur engum í hug að efa það, að góður vegur um Krýsuvík verði dýrari en vegur um Þrengslin, enda má fyr rota en dauðrota, eða ætlast til þess að betri vegur og nothæfari um lengri leið, verði ódýrari endanna á milli.
Aðeins nokkur orð um vegstæðið frá Hafnarfirði til Krýsuvíkur. Það er talað um rannsókn á vegstæðinu, sem framkv. hafi verið. Ég held það sé réttast að setja orðið rannsókn í gæsalappir í því sambandi, enda ætlast enginn til þess, að rannsókn er að gagni komi fáist á fáum dögum eða með örfáum dagsverkum.

Kleifarvatn

Kleifarvatn – Hellan.

Það er aukaatriði í þessu vegamáli, hvort betra þykir að ieggja veginn fyrir austan eða vestan Sveifluháls, þar ber að hafa það, er betra reynist að lokinni samvizkusamlegri og ýtarlegri rannsókn. En það er óþarfi að sjá drauga um hábjartan dag. Það ber ekki að telja leiðina um Kleifarvatn „algerlega óhæfa” á grundvelli misskilnings og „rannsóknar”, sem engin rannsókn er. Vegstæði um Kleifarvatn er talið til tormerkja: snjóþyngsli í Vatnsskarði „svo og víðast hvar á leiðinni frá brennisteinshverunum austan undir Sveifluhálsi og Undirhlíðum vestan Helgafells allt til Kaldárssels”, — svo orðrétt sé hermt. Þessi ummæli munu eiga að þýða, að það sé snjóþungt meðfram Undirhlíðum — og Helgafelli að norðvestan, og sömuleiðis meðfram Sveifluhálsi að suðaustan, frá Kleifarvatni suður að Krýsuvíkurbæjum. — Við þetta er að athuga að það kemur varla til mála að vegurinn liggi um Kaldársel eða meðfram Undirhlíðum, það er langtum eðlilegra, ef leiðin um Kleifarvatn verður valin, að vegurinn liggi sem beinast frá Hafnarfirði eða Hvaleyrarholti í hásuður suður hraunin, í stefnu á skarð það í Undirhlíðum, sem heppilegast reynist að lokinni rannsókn, að leggja veginn yfir hlíðarnar. Undirhlíðar eru löng hálsadrög með skörðum á milli, og það er um fleiri staði að ræða en Vatnsskarð (172 m.) sem vegstæði yfir þann þrepskjöld.

Krýsuvíkurvegur

Krýsuvíkurvegurinn í dag austan Krýsuvíkur. Gamli vegurinn var skammt austar.

Vegarstæðið frá Kleifarvatni til Krýsuvíkurbæja er um allbreiðan og jafnlendan dal, og því engin þörf að vegurinn liggi við hlíðarrætur Sveifluháls þar sem helzt er von snjóalaga. Á jafnlendinu miðdælis eru allar líkur til að vel upphlaðinn vegur verjist ágætlega. Yfirleitt bendir margt til þess að heppilega lagður vegur um Kleyfarvatn verði mun snjóléttari en leiðin frá Lækjarbotnum til Kolviðarhóls er nú.
Vegstæðið um Kleifarvatn hefir allverulega kosti fram yfir vegstæðið fyrir vestan Sveifluháls og um Mælifellsskarð: Það liggur lægra, það er styttri leið, og nemur sá munur sennilega 4—5 kílómetrum írekar en 2 eins og talið hefir verið. Ennfremur er gnótt af ágætum ofaníburði við Kleifarvatn, en ofaníburðarleysi hefir verið nefnt sem einn ókostur Krýsuvíkurleiðarinnar, en í því sambandi hefir gleymst að geta þess hvernig væri ástatt með Þrengslaleiðina að því leyti, en þar mun þurfa að sækja ofaníburð alla leið niður á Sandskeið ef vel á að vera. — Mest er þó um vert að vegur um Kleifarvatn kemur til að liggja í boga um allt hið bezta ræktunarland í Krýsuvíkurhverfinu og meðfram mestu jarðhitastöðunum.

Seltún

Seltún – hverasvæði við Krýsuvík.

Þótt þetta vegagjörðar glapræði, frá Hafnarfirði til Krýsuvíkur, sé nú svo langt komið, að trautt muni aftur snúið frá því, ætti samt að vera ámælislaust, að benda forkólfum þess — einu sinni enn á — þó ekki væri nema eitt — vegarstæði.
Þar sem bæði hefði orðið miklu ódýrara að leggja veg um og þar sem, þó sjaldnar, hefði orðið ófært sökum fannfergis en á hinni marg umtöluðu leið, sem meirihluti Alþingis lét ginnast til að lögbjóða.
Setjum svo, að afleggjarinn til Krýsuvíkur væri ekki lagður út af Suðurnesjaveginum fyrr en komið er suður að Hraunabæjunum, t.d. nálægt Þorbjarnarstöðum (h.u.b. 5 km. frá Hafnarfirði). Haldið síðan suður Almenninginn, framhjá Mávahlíðarhnjúk og svo suðvestur eftir hrauninu, miðsvæðis millum Vesturhálsins (Núphlíðarháls) og Austurhálsins (Sveifluháls), austan Vígdísarvalla, og allt þar til komið væri að hinum forna Drumbdalavegi, sem liggur yfir Sveifluháls örlítið vestar en bæjarstæðið í Krýsuvík er (því vart er nú unnt að kalla að þar sé bær lengur, heldur „Berurjóður” eitt).

Mælifell

Mælifell – gamla þjóðleiðin.

En einmitt í skarði því, er verður í Sveifluháls, hjá felli því er Drumbur heitir, er hálsinn lægstur og greiðfærastur yfirferðar. En þætti nú ekki tiltækilegt, að leggja leiðina þarna yfir hálsinn, sem varla kemur þó til, þá er hægurinn einn, að sveigja veginn vestur fyrir endann á Sveifluhálsi og mundi sá krókur varla lengja hann meira en 2 kílómetra; og brekkulaust alla leiðina.
Vegur sá, er leggja þyrfti frá Þorbjarnarstöðum, um Drumbdali og heim í tún í Krýsuvík, mundi verða um 22ja kílómetra langur, en vegur sá hinn nýi, (snjólausi vegurinn) um Vatnsskarð og fram með Kleifarvatni, sá er hér að framan hefir verið gjörður að umtalsefni, verður a. m. k. 25 km. langur.
Alla leið frá Þorbjarnarstöðum og suður að Drumbdalaveginum (18 til 19 km.) er hallalítil og mishæðalaus hraunbreiða, og mjög svipað vegarstæði því, sem afleggjarinn upp í Vatnsskarð liggur nú um.” – Janúar 1941; Þórir

Vegur til Krýsuvíkur var lagður 1937 að Kleifarvatni. Árið 1945 var hann kominn í Krýsuvík og hringtengingu frá Hafnarfirði að Herdísarvík og áfram austur var lokið árið 1949.

Heimildir:
-Nýja dagblaðið, 70. tbl. 24.03.1936, Vetrarleiðin austur um Krýsuvík – Rökstuðningur Jónasar Jónssonar og Jón Baldvinssonar fryir vetrarveginum um Krýsuvík, bls. 3.
-Alþýðublaðið, 70. tbl. 24.03.1936, “Ný Suðurlandsbraut um Hafnarfjörð, Krýsuvík og Selvog”, bls. 3.
-Nýja dagblaðið. 90. tbl. 19.04.1936, “Vanhugsað fálm”, Árni G. Eylands, bls. 3-4.
-Vísir, 29. tbl. 06.02.1941, Krýsuvíkurvegurinn er dýrasti og óheppilegasti vegur á landinu, Þórir, bls. 2.

Drumbdalastígur

Drumbdalastígur.

Strandarkirkja

Jón Helgason, biskup, skrifaði grein “Um Strönd og Strandarkirkju” í Lesbók Morgunblaðsins árið 1926:
strandarkirkja - jon helgason
Árni biskup á fyrstur að hafa vígt kirkju á Strönd. Hið sannasta, sem sagt verður um uppruna Strandarkirkju, er, að vjer vitum ekkert um hann með vissu. Má vel vera, að hún hafi verið reist þegar í fyrstu kristni, og eins má vel vera, að hún hafi ekki verið reist fyr en í tíð Árna biskups á síðari hluta 13. aldar. Um það verður ekkert fullyrt. En um máladag kirkju þessarar er ekki að ræða eldri en frá 13. öld. — Strönd í Sel-Selvogi er höfðingjasetur eins lengi og vjer höfum sögur af. Situr þar hver höfðinginn fram af öðrum að stórbúum af mestu rausn.
Í lok 13. aldar bjó þar Erlendur sterki lögmaður Ólafsson, og eftir hann mun sonur hans, sá ágæti fræðimaður Haukur Erlendsson lögmaður, hafa búið þar, uns hann fluttist búferlum til Noregs eftir 1308. Síðar á 14. öld kunnum vjer að nefna Ívar Vigfússon Hólm hirðstjóra sem búandi á Strönd og eftir hans dag Margrjeti Össurardóttur, ekkju hans. Vigfús hirðstjóri, sonur þeirra, hafði þar eitt af fjórum stórbúum sínum og með dóttur hans Margrjeti Vigfúsdóttur eignast Þorvarður Loftsson (ríka á Möðruvöllum) Strandar-eignina og varð Strönd eitt af höfuðbólum hans. Um aldamótin 1500 býr þar dóttursonur þeirra Þorvarðar og Margrjetar, Þorvarður lögmaður Erlendsson og eftir hann sonur hans Erlendur lögmaður Þorvarðarson (d: 1575), „stórgerðasti maðurinn, sem þar hefir búið. Var hann alt í senn yfirgangsmaður, ofstopamaður, vitur maður og þjóðrækinn maður” (dr. J. Þ.). Má að vísu telja, að Strönd hafi verið með helstu stórbýlum og höfðingjasetrum sunnanlands í fullar fjórar aldir og ef til vill lengur. En hafi þar stórbændur setið lengst af, mætti ætla, að þar hafi og kirkja verið lengst af, því að auk þess, sem hverjum, er vildi, var heimilt að gera kirkju á býli sínu, ef landeigandi legði fje til, „svo að biskup vildi vígja fyrir þeim sökum”, eins var það mörgum stórbónda nokkuð metnaðarmál að hafa kirkju reista á óðalsjörð sinni. Jafnsnemma og vjer vitum um kirkju á Strönd, er, eins og vikið var að, um aðra kirkju talað þar í Vognum, sem sje að Nesi. Hvor þeirra hefir talist höluðkirkja þar í sveit, vituni vjer ekki. En bent gæti það á Neskirkju sem höfuðkirkju, að Erlendur sterki fær leg í Nesi, en ekki á Strönd, þótt vitanlega hafi einhverjar aðrar orsakir getað verið því valdandi. En því meiri sem vegur Strandar varð, því eðlilegra varð og, að Strandarkirkja yrði höfuðkirkja bygðarinnar, enda er hún það lengstan tímann, sem vér þekkjum til.

Strandarkirkja

Strandarkirkja 1884.

En á síðari hluta 17. aldar tók Strandarland að eyðast af sandfoki og þar kom um síðir, að þessi gamla vildisjörð og höfðingjasetur lagðist algerlega í eyði. Og svo hefir verið um þessa jörð síðan. En þótt alt annað færi í svartan sandinn, fjekk kirkjan að standa þar áfram og með henni hefir nafn þessa forna stórbýlis varðveist frá gleymsku.
Elsta lýsing Strandarkirkju, sem til er, er frá dögum Odds biskups Einarssonar. Þar er kirkjunni lýst á þessa leið: „Kirkjan nýsmíðuð; fimm bitar á lofti að auk stofnbitanna, kórinn alþiljaður, lasinn prjedikunarstóll; óþiljuð undir bitana, bæði í kórnum og framkirkjunni, einnig fyrir altarinu utan bjórþilið. Þar fyrir utan blýþak ofan yfir bjórþilið — og ofan á öllum kórnum er sagt sje blýlengja hvoru megin og eins ofan yfir mæninum, líka svo á framkirkjunni.” Á þessari lýsingu má sjá, að kirkjan hefir verið vandað hús, en að sjálfsögðu torfkirkja eins og flestar kirkjur hjer á landi voru í þá daga.
Eftir að alt Strandarland var komið í sand, var eðljlegt að mönnum dytti í hug að flytja kirkjuna úr sandinum beim að prestsetrinu Vogsósum. En Selvogsmenn voru ekki á því, þótt hvað eftir annað yrði að byggja kirkjuna upp, svo illa sem fór um hana þar á svartri sandauðninni. Þó segir í vísitasíu Mag. Jóns biskups Árnasonar frá 1736, er kirkjan hafði verið endurreist fyrir einu ári, að nú sje kirkjan „betur á sig komin en hún hafi nokkurntíma áður verið,” og svo um hana búið að utan, að „sandurinn gangi ekki inn í hana.” En 15 árum síðar vísiterar Ólafur biskup Gíslason kirkjuna og er hvergi nærri jafnánægður með hana. „Húsið stendur hjer á eyðisandi, svo hjer er bágt að fremja guðsþjónustugerð í stormum og stórviðrum, er því mikið nauðsynlegt, hún sje flutt í annan hentugri stað.” Og haustið 1751 skipar biskup, með samþykki Pingels amtmanns, að kirkjan sje rifin og endurreist á Vogsósum, enda hafði óglæsileg lýsing hennar borist amtmanni í umkvörtunarbrjefi frá sóknarprestinum sjera Einari Jónssyni. Segir þar m. a. á þessa leið: „Hver sandur, sem í stórviðrum fýkur að kirkjunni af illum áttum engu minna foreyðir og fordjarfar bik, kirkjunnar, viði og veggi en vatnságangur, því það fer dagvaxandi, sjerdeilis á vetrartíma í snjófjúkum, að sandfannirnar leggjast upp á veggina því nær miðja. — — Eins fordjarfar sandurinn læsing, saura og hurðarjárn kirkjunnar, svo það er stórþungi hennar utensilía og ornaraenta að ábyrgjast og hirðing að veita á eyðiplássi. Til með er skaðvænleg þætta, helst á vetrartíma, í þessari kirkju að forrjetta kennannlegt embætti, einkanlega það háverðuga sacramentum (sem ekki má undan fellast), þá stórviðri upp á falla meðan það er framflutt. Fólkið teppist þá í kirkjunni ásamt prestinum, sem ekki kann við halda þar hesti sínum skýlislausum nær svo fellur, hvar fyrir, þá veðurlegt er á sunnu- eða helgidagsmorgni, ei vogar alt fólk til kirkjunnar að fara, helst heilsulint og gamalt fólk, ekki heldur ungdómurinn, sem uppfræðast skal í eatechisationinni og öðrum guðsorða lærdómi.”

Strandarkirkja

Strandarkirkja.

En ekkert varð úr kirkjuflutningnum. þeim mönnum, sem þar höfðu helst haft forgöngu, varð það atferli þá líka meira en dýrt spaug, því að „áður en sá frestur væri útrunninn er kirkjan skyldi flutt vera” hafði Pingel amtmaður hröklast úr embætti, Ólafur biskup og Illugi prófastur í Hruna orðið dauðanuni að herfangi og Einar Vogsósaprestur flosnað upp! Þótti mönnum sem þeim hefði komið greipileg hefnd fyrir afskifti sín af því flutningsmáli. Enda stóð kirkjan áfram á sama staðnum. Og heldur en að eiga það á hættu, að valdamenn kirkjunnar þröngvuðu sóknarmönnum til að flytja húsið, ljetu þeir um langt skeið ósint öllum skipunum frá hærri stöðum um að endurbyggja húsið, þótt hrörlegt væri orðið og lítt við unandi, en reyndu í þess stað að ditta að húsinu eftir þörfum. Fjekk það því að hanga uppi full 113 ár, eða þangað til 1848, er alt tal um flutning var löngu þagnað.
Hið síðasta, sem vjer vitum gjört hafa verið til þess að fá kirkjuna flutta, það gjörði sjera Jón Vestmann. Er að því vikið í vísum hans, sem áður eru nefndar: „Hann mig hafa vildi heim að Vogsósum og byggja í betra gildi, en bráðum mótsögnum hlaut hann mæta af hjátrúnni, meinar hún standi megn óheill af mínum flutningi.” Flutningurinn fórst þá líka fyrir. Varð prestur að láta sjer nægja að „setja kirkjuna í sæmilegra stand en fyr” og síðan hefir því, svo kunnugt sje, alls ekki verið hreyft, að kirkjan væri flutt burt úr sandinum.
Árið 1848 var gamla torfkirkjan (frá 1735) loks rifin til grunna af sjera Þorsteini Jónssyni frá Reykjahlíð (síðast presti að Þóroddsstöðum í Kinn) er fullgerð; þar nýja kirkju ..úr tómu timbri” og stóð sú kirkja til 1887. Mynd af þessari Strandarkirkju gefur að líta á póstkorti, sem Ísafoldar-bókaverslun hefir fyrir skemstu prenta látið.. En sú kirkja sem nú er á Strönd, mun myndarlegri. Ljet sjera Eggert Sigfússon, er varð síðastur prestur í Selvogsþingum, reisa hana 1887 og er það mynd af henni, eins og hún er nú, sem birtist hjer í blaðinu. Þá kirkju smíðaði Sigurður Árnason trjesmiður hjer í Reykjavík, en ættaður úr Selvogi.

Strandarkirkja

Strandarkirkja 1948.

Hve snemma tekið hefir verið að heita á Strandarkirkju, vita menn nú ekki. Áheit á kirkjur var mjög algeng í kaþólskum sið hjer á landi sem annarstaðar. En þegar í Vilkins-máldaga er beint tekið fram um þessa kirkju, að henni gefist „heitfiskar” og það tilfært sera tekjugrein, mætti sennilega af því ráða, að meiri brögð hafi verið að heitagjöfum til hennar en annara kirkna.
Hvort siðaskiftin kunna að hafa haft nokkur áhrif á trúnað manna á Strandarkirkju, um það verður ekkert sagt. Heimildir allar þegja um það. En ekkert er því til fyrirstöðu, að sá trúnaður alþýðu hjeldist áfram, ekki síður en margt annað, sem frá katólsku var runnið, þótt ekki hefði hátt um sig. Og áreiðanlega gerir sjera Jón gamli Vestmann ráð fyrir því í Strandarkirkju-vísunum, að áheitin sjeu ekki síður frá eldri tíð en yngri. Sjerstaklega álítur hann, að öllum þeim forsvarsmönnum kirkjunnar, sem bygðu hana eða bættu, hafi fyrir það borist „—. höpp og bjargir bú sem styrktu” mest” og lifað við hagsæld upp frá því, meðan þar dvöldust. Sjerstaklega þakkar presturinn mikla hagsæld Bjarna riddara Sívertsens (sem var upprunninn í Selvogi) því örlæti hans við kirkjuna, að hann 1778 gaf henni skriftastól. Víst má telja, að meðfram liggi leifar hins forna trúnaðar á kirkjuna tit grundvallar samúð sóknarmanna með kirkjunni, er þeir máttu ekki hugsa til þess að hún væri flutt burt úr sandinum við sjóinn. En til þess voru og þær raunhæfar ástæður, að þar hafði kirkjan staðið um aldaraðir, og af sjó að líta, var kirkjan þar á sandinum róðrarmönnum besta sjómerki, þegar leituðu lendingar. — Hins vegar kynnu líka tilraunir kirkjuvaldsins til að fá kirkjuhúsið flutt í óþökk sóknarmanna, hafa orðið til að auka og efla samúð þeirra með þessu gamla guðshúsi, er auk þess sem svo margar gamlar endurminningar voru tengdar við kirkjuna, stóð þarna svo sem minnisvarði fornrar frægðar höfuðbólsins og höfðingjasetursins á Strönd, en var nú orðin eins og einstæðingur þar á sandinum, eftir að alt annað, sem þar hafði áður verið, var horfið burtu. En með vaxandi samúð almennings með þessari kirkju sinni má gera ráð fyrir, að lifnað hafi aftur yfir gömlum trúnaði á hana, og sú sannfæring náð enn meiri festu með alþýðu manna að það, sem vel væri til kirkjunnar gert, yrði þeim til hagsældar og hamingju, sem gerði, af því að það væri gert til hans þakka, sem húsið var helgað. — Sá, er þetta ritar, lítur svo á, að með þessu sje gefin nægileg skýring þess, hversu trúnaðurinn á Strandarkirkju hefir haldist með alþýðu fram á vora háupplýstu daga. Mun engin ástæða til að setja það í nokkurt samband við trúnað manna á kyngikraft sjera Eiríks „fróða” á Vogsósum Magnússonar, sem var Selvogsþingaprestur 1677—1716 eða full 39 ár, þrátt fyrir allar þær sagnir, sem mynduðust um hann, enda er eftirtektarvert, að ekki er nein þjóðsaga kunn um sjera Eirík, þar sem Strandarkirkju sje að nokkru beint getið. Og sennilega hefir sjera Jóni Vestmann ekki verið neitt kunnugt um samband þar á milli; því að naumast hefði hann látið þess ógetið í vísum sínum, ef á hans vitorði hefði verið, svo víða sem hann kemur við; en sjera Jón var prestur þar eystra í 32 ár.

Strandarkirkja

Strandarkirkja.

Sjera Jón Vestmann var uppgjafaprestur í Kjalarnesþingabrauði er faðir minn sál. byrjaði þar prestskap 1855. Hafði sjera Jón setið að Móum, sem var ljensjörð prestsins í þingunum. Vildi faðir minn ekki hrekja hann burtu þaðan hálfníræðan og fjekk sjer því verustað á Hofi og dvaldist þar árin, sem hann var á Kjalarnesinu. Oft heyrði jeg föður minn sál. minnast á þessi gömlu prestshjón. Þótti honum þau ærið forn í framgöngu og háttum. En sjera Jón kunni frá mörgu að segja og þótt föður mínum því gaman og spjalla við hinn aldraða klerk, enda mun hann sjaldan hafa átt þar leið um svo að hann ekki skrippi af baki til að heilsa upp á gamla manninn. Sjera Jón dó 1859, en þá var faðir minn kominn að Görðum.
Átrúnaður manna á Strandarkirkju, er á allra vitorði, sem blöðin lesa, enda hafa verið svo mikil brögð að áheitunum á kirkju þessa hin síðari árin, að auðtrygni manna í sambandi við hana hefir aldrei komist á hærra stig. Kirkja þessi er nú orðin ríkust allra kirkna á þessu landi, á tugi þúsunda á vöxtum og er sjálf hið stæðilegasta hús, er getur enst lengi enn. Er því síst um gustukagjafir að ræða, þar sem áheitin eru. En svo er auðtrygnin rík, að kirkjunni berast áheit frá mönnum, sem ekki hafa hugmynd um hvar í landinu kirkja þessi er. Hingað hafa einatt borist áheit í brjefum, sem fyrst hafa farið — norður á Strandir, af því hlutaðeigandi áleit kirkju þessa vera þar nyrðra!
Þeim sem þetta ritar, er það síst á móti skapi, að gefið sje til guðsþakka og að einnig kirkjur hjer á landi njóti góðs af því örlæti manna. En þegar menn hugsa til þess, að annarsvegar á hjer í hlut ríkasta kirkja landsins, en hinsvegar eru hjer starfandi ýms nytsemdar fjelög og þarfan stofnanir, sem vegna fjárskorts eiga örðugt uppdráttar, þá er ekki að furða þótt þeim fyndist tími til þess kominn, að menn hættu að færa fórnir á altari auðtrygninnar með Strandarkirkju-áheitum sínum, en ljetu heldur örlæti sitt í tje stofnunum, sem áreiðanlega eru gjafaþurfar og starfa fyrir góð málefni í almennings þarfir og alþjóð til heilla. Það má vera auðtrygni á mjög háu stigi, sem álítur, að minni blessun fylgi því að lofa gjöfum til Stúdentagarðsins eða Elliheimilisins eða Sjómannastofunnar eða Sumargjafarinnar, svo að jeg nefni aðeins nokkur fyrirtæki frá allra síðustu árum, en að láta þær renna sem áheit til Strandarkirkju, sem alls ekki er neinn gjafaþurfi.”

Heimild:
Lesbók Morgunblaðsins 17. janúar 1926, bls. 1-4.

Strandarkirkja

Kirkjan á Strönd.