Færslur

Bjarnastaðir

Í Náttúrufræðingnum árið 1958 má lesa eftirfarandi eftir Finn Guðmundsson eftir að leðublaka hafði verið fönguð við Bjarnastaði í Selvogi árið áður:
“Laust fyrir kl. 6 síðdegis þriðjudaginn 8. þ. m. (okt. 1957) var Helgi Guðnason, Þorkelsgerði í Selvogi, að hyggja að fé sínu, og lá leið hans þá um túnin hjá Bjarnastöðum, en sá bær er nokkru austar í Selvogi en Þorkelsgerði. Gekk Helgi þá fram á kvikindi eitt allófrýnilegt, sem lá í grasinu fyrir fótum hans. Þar sem Helgi bar ekki kennsl á dýr þetta, hélt hann rakleitt heim að Bjarnastöðum og gerði Sigurlaugi bónda Jónssyni á Bjarnastöðum aðvart um meinvætt þenna. Brá Sigurlaugur skjótt ledurblaka-221við og hélt á vettvang og tókst honum að handsama dýrið. Varð honum þegar ljóst, að þetta var leðurblaka, og bar hann hana inn í bæ og setti í fötu með heyi og strengdi dúk yfir. Síðdegis næsta dag tilkynnti Sigurlaugur mér símleiðis um fund þenna, og á fimmtudaginn hélt ég suður í Selvog til að sækja dýrið. Það hafði í fyrstu verið blautt og alldasað, en hresstist brátt, og þegar ég kom að Bjarnastöðum síðdegis á fimmtu daginn og fór að athuga dýrið, flaug það upp úr fötunni og flaug stundarkorn fram og aftur um stofuna á Bjarnastöðum, áður en okkur tókst að ná því aftur.
Nánari athugun hefur leitt í ljós, að þetta er amerísk leðurblökutegund. Hið vísindalega heiti hennar er Lasiurus cinereus, en enska (ameríska) heiti hennar er Hoary Bat. Háralitur dýrsins er gulbrúnn, en hárin eru hvít eða hvítgrá í oddinn, og dýrið sýnist því vera hélugrátt. Af þessu er enska nafn tegundarinnar dregið, en hoary þýðir hélugrár eða hæruskotinn. Mætti því kalla tegund þessa hrímblöku á íslenzku. Hrímblakan er fremur stór leðurblökutegund eða á stærð við stærstu leðurblökur Evrópu. Lengd Selvogsblökunnar mældist 13.6 cm (þar af halinn 6.1 cm) og vængjahafið 38.5 cm. Hrímblakan er norræn tegund, sem í Ameríku ei algengust í Kanada og norðurríkjum Bandaríkjanna. Hún er fardýr, sem leitar suður á bóginn á veturna, jafnvel suður til Mexíkó. Þetta er ekki í fyrsta skipti, sem leðurblaka hefur náðst hér á landi. Um miðjan október 1943 var leðurblaka handsömuð á Hvoli í Mýrdal, og önnur náðist við höfnina í Reykjavík í ágúst 1944 (sbr. Náttúrufr., 1943, bls. 153, og 1944, bls. 143). Í bæði skiptin var um amerískar tegundir að ræða, og sú sem náðist í Mýrdalnum var sömu tegundar og Selvogsblakan. Líklegt hefur verið talið, að leðurblökur geti ekki borizt hingað nema með skipum (eða flugvélum?), og leðurblakan, sem náðist við höfnina í Reykjavík, hefur eflaust komið hingað með þeim hætti. Hins vegar er ekki með öllu hægt að fortaka, að jafn stór og flugþolin fardýr og hrímblakan geti hrakizt hingað undan veðrum eins og margir amerískir hrakningsfuglar, sem hér hafa komið fram. Næstu daga áður en Selvogsblakan fannst var veðurfar líka með þeim hætti, að nærri liggur að ætla, að slíkt hafi getað átt sér stað. – Finnur Guðmundsson.”

Heimild:
-Náttúrufræðingurinn, 27. árg. 1957-1958, 3. tbl. bls. 143-144.

Bjarnastaðir

Bjarnastaðir í Selvogi.

Strandarkirkja

“Einn rigningardag fyrir skemmstu ákvað ég að heimsækja Strandarkirkju og kíkja á Herdísarvík í leiðinni. Er ég renndi þar í hlað var rigningin orðin svakaleg og lamdi bílinn utan. Eins og sannur Íslendingur (eehemm) skoðaði ég nágrennið fyrst, varð hundblautur og veðurbarinn en eftir nokkurn tíma varð ég að láta rigningunni eftir ströndina og kirkjugarðinn og hraðaði mér inn í hlýjuna í kirkjunni.

Strandarkirkja 2007

Strandarkirkja er í Engilsvík í Selvogi. Hún er þjóðfræg vegna almennra áheita og sumir segja ein ríkasta kirkja landsins. Að minnsta kosti hefur hún efnast vel. Prestsetrið var fyrrum í Vogsósum uns brauðið var lagt niður 1907. Kirkjan stendur í landi höfuðbólsins Strandar en það fór í eyði á 17 öld vegna sandfoks. Elstu lýsingar um kirkju á nákvæmlega þessum stað eru frá 15. öld en sú sem nú stendur er frá 1887, en hún hefur verið endurbyggð og er því  nokkuð breytt.

Sú saga er til að sjómenn nokkrir í lífsháska hétu því að gera kirkju þar sem þeir næðu landi ef þeir bara héldu lífi. Þeir komu auga á ljós og er þeir nálguðust land sáu þeir bjarta og fagra veru í flæðarmálinu. Þannig hófst saga Strandarkirkju í Engilsvík. Við kirkjuna stendur nú minnismerki eftir Gunnfríði Jónsdóttur um þennan atburð.

Bjallan í Strandarkirkju

Er ég kom í kirkjuna var mér heilsað á norsku. Þar voru þá staddar norskar mæðgur að bíða af sér rigninguna, verst að ég skil ekki hót í norsku og tala hana enn síður. Það var þó kinkað vingjarnlega kolli og skifst á óskiljanlegum orðum. Dóttirin (sennilega 8-9 ára) skoppaði glaðlega um kirkjuna og dáðist upphátt að öllum fallegu verkunum sem þarna voru. Hún rann upp í kór og kallaði þaðan niður á móður sína, ?hvað allt væri fallegt?, en það skildist mér naumlega á látbragðinu.

Selvogur og Herdísarvík eru vestustu byggðir Árnessýslu. Fjölmenn byggð og útræði var fyrrum í Selvogi. Þangað þyrptust Norskir lausakaupmenn um 1790 til að versla við landsmenn.  Þeir fengu fyrir sig umboðsmenn og einn þeirra var Bjarni Sigurðsson (1763-1833) í Selvogi. Hann kallaði sig seinna Bjarna Sívertsen uppá dönsku og þar hófst kaupmannsferill hans. Hann var sæmdur riddarakrossi í Danmörku fyrir dug og framkvæmdasemi árið 1812. Viti byggður 1919 er í Selvogi.

Til er gömul sögn um risastóran helli, Strandarhelli suðaustan af Vogsósum og var seinast kunnur 1931 er Guðmundur G. Bárðarson greinir frá honum í dagbók sinni. Hann er nú týndur en heimamenn kalla nú hellisskúta einn um 20 metra langan, Strandarhelli. Til eru sagnir um fleiri hella en flestir eru nú týndir.

StaðarkirkjaVestan við Selvog er Hlíðarvatn og úr því fellur ós til sjávar, Vogsós. Við upptök Vogsós eru rústir prestseturins Vogsósa en þar bjó jafnoki Sæmundar Fróða ?séra Eiríkur á Vogsósum? sá landsfrægi og fjölkunnugi klerkur.

Næst brenndi ég til Herdísarvíkur sem er fyrir vestan Hlíðarvatn og var fyrrum stórbýli og fjölmenn verstöð en er nú í eyði. Enn sjást rústir verbúðanna. Þar bjó skáldið Einar Benediktsson (1864-1940) sín síðustu ár eða frá 1932 til 1940. Hann reisti sér þar hús, gaf Háskóla Íslands síðan Herdísarvík 1935 og hefur hún nú verið friðlýst. Hús þetta er nú notað sem orlofshús Félags Háskólakennara.

Ég ók þarna um og skoðaði rústirnar. Stoppaði svo bílinn og steig út. Og varð strax blautur í fæturna enda á götutúttum. Hafði ekki reiknað með vel sprottnu grasinu en það var hundblautt því það gengu skúrir yfir öðru hvoru. Það er sagt að þarna í grenndinni sé ágætt berjaland en ég hafði minnstan áhuga á því, útaf fótrakanum. Ég fékk loks nóg af vatnsgutlinu í skónum, hoppaði upp í bílinn minn og ók í bæinn. Næst ætla ég að hafa sól er ég fer þarna aftur sem vonandi verður fljótlega.”

Hafa ber í huga að hér er um mjög saldgæfa frásögn að ræða – um rigningu á Reykjanesskaga, og það að sumalagi.

Framundan er FERLIRsferð með einum þeim staðkunnugasta í Selvogi. Tilgangurinn er að ganga um svæðið og rissa upp örnefna- og minjakort af svæðinu í heild sinni.

Heimild:
-Skrifað 1.8.2007 kl. 13:10 af Vilmundi Kristjánssyni.

Selvogur - örnefna- og minjakort

Selvogur – örnefna- og minjakort – ÓSÁ.

Strandarkirkja

Í Lesbók Mbl 20. febr. 1993 ritar Konráð Bjarnason grein,  “Sending af hafi jarðskjálftasumarið 1896”. Greinin fjallar m.a. um hús í Selvogi, sem voru byggð úr einstakri himnasendingu – strandreka. Konráð var áður búsettur í Hafnarfirði, ættfræðingur og fræðimaður, en hefur leitað heimaslóðanna á efri árum.

Arnarbæli

“Þann 13. nóv. sl. gaf að líta eftirfarandi fyrirsögn og frétt í MBl: “Prestsbústaðurinn á Arnarbæli í Ölfusi var brenndur til grunna fyrir skömmu. Það voru slökkviliðsmenn í Þorlákshöfn sem stóðu að brunanum og notuðu tækifærið til æfinga í slökkvistörfunum. Eldurinn sást víða að enda stóð húsið á hæð og var hið reisulegasta. Það var byggt upp úr aldamótunum síðustu og var tvílyft hús á háum grunni.” Svo mörg voru þau orð. Ekki svo ókunnugleg þó í ljósi reynslunnar síðustu aldarmisserin.
Á náttúruhamfaraárinu 1896 riðu skelfingar yfir að kvöldi hins 26. ágúst með ógurlegum jarðskjálfta er lét eftir sig í fyrstu lotu mörg hundruð hruninna bæja, einkum í uppsveitum Rangár- og Árnesþings. ekki var þetta nóg því nýjar skelfingar dundu yfir Skeið, Holt og Flóa, en minni háttar í Ölfussveit.. Um kl 2 aðfaranótt sunnudagsins 6. september reið yfir Ölfussveit voðalegur kippur sem felldi til grunna 24 bæi og 20 stórskemmdust. Meðal þeirra bæja var prestsetursbærinn að Arnarbæli.”
NeshúsUm þetta leyti strandaði skip utan við Selvog. Nær hádegi hafði drifið að strandstað flestalla vinnufæra menn í byggðalaginu, en þeir voru allmargir um þessar mundir. Það bakti mikla forvitni Selvogsmanna á leið til strandsstaðar með hvaða hætti strand þetta hafði borið að í nær dauðum sjó og góðviðri… að þessu sinni var sýnt að ævintýri hafði gerst á strandstað. Skip hafði komið af hafi undir fullum seglum hlaðið unnum góðviði til húsagerðar fyrir hina fjölmörgu nærsveitunga er stóðu yfir föllnum bæjarhúsum sínum niður í grunn sinn. Skipverjar gengu nær þurrum fótum til lands eftir flúðum er komu upp á fjöru…
Þegar Gísli hreppstjóri hafði rætt við skipsstjóra farskipsins var Selvogsmönnum sagt eftirfarandi: Skipið hét “Andrés” og var frá Mandal í Noregi, á leið til Reykjavíkur með timburfarm til húsagerðar þar. Var þetta stórfarmur af unnum við, einkum panelefni. Þegar skipið nálgaðist Ísland kom mikill leki að því sem jókst og varð óstöðvandi þrátt fyrir að handdælur væru nýttar til hins ýtrasta. Skipverjar voru komnir að niðurlotum þegar þeir voru á móts við Selvog og vonlaust að n´fyrir Reykjanes. Tók skipstjóri til þess örþrifaráðs að sigla skipi sínu á grunn með stefnumið á Strandarkirkju þar sem sjór sýndist kyrrastur. Háflæði var og kenndi skipið grunns á flúðunum vestanmegin Strandarsunds.”
HlíðarendiByrjað var á því að færa skipshöfnina til lands og hlúa að henni. Þá tóku við björgunaraðgerðir farmsins. “Farmur á þilfari var fyrst borinn upp fyrir fjörukamb vestan Vindásbæjarrústa. Þar voru einkum tré er voru borin á öxlum tveggja manna. Þá komu plankar sem tveir báru og smáplankar, gólfborð, skífuborð, listar og mikið magn af plægðum viði eða panel. Svo virðist sem mestum hluta farmsins hafi verið bjargað óskemmdum á fyrstu dögum eftir strandið vegna þess hversu ládautt var. Á sama tíma var einnig bjargað silgingarbúnaði, áhöldum, tækjum og kosti. Honum uppborna viðarfarmi var staflað í aðgreind búnt eftir tegundum og síðan breitt yfir hann. Nokkuð af viði laskaðist í strandinu og var því safnað í hrúgur og selt samkvæmt sölunúmeri eins og annar viður. Hið verst farna fékk söluheitið hrak.”

Hlíðarendi í Selvogi - sögufrægt mannvirki

Uppboðið á varningnum var haldið 5. nóvember 1896. “Þegar uppboðsþing var sett var ljóst að fjölmargir væntanlegir kaupendur voru mættir á uppboðsstað. Þeir hafa komið úr mörgum hreppum Árnessýslu og víðar að en flestir úr Ölfushreppi. Þeir hafa þegar kynnt sér það sem í boði var og við blasti á malarkambi. Þeri hafa komist að raun um að hér var í boði nýr girnilegur húsbyggingarviður unninn til uppbyggingar á hærri, rýmri og betri húsakosti, en dreifbýlisfólk hafði átt að venjast hingað til. Timbrið var auk þess líklegt til að standa af sér eyðingaröfl þau er nýgengin voru yfir. Þeir sem komnir voru á strandstað með það í huga að byggja hús, allt að tveggja hæða, hafa tekið með sér smið og vinnumenn. Og þeir væntu þess óefað að gera góð kaup á rekafjörunni… Þeir sem stórtækastir voru á uppboðinu, sem stóð í tvo daga, voru stórhúsbyggjendurnir Þorbjörn í Nesi í Selvogi, séra Ólafur í Arnarbæli, Jón hrepstjóri á Hlíðarenda og Jakob í Auðsholti…” Þessi menn byggðu tvílyft hús úr nefndum húsagerðarviði. “Hús þessi vitnuðu um stórhug og metnað byggjenda sinna og gegndu menningarhlutverki hvert á sínum stað. Þau eru nú fallin, utan eitt, Hlíðarendahús.

Heimild:
-Konráð  Bjarnason – Sending af hafi jarðskjálftasumarið 1896 – Lesbók MBL 20. febr. 1993.

Selvogur - örnefna- og minjakort

Selvogur – örnefna- og minjakort – ÓSÁ.

Herdísarvík

Hér rifjar Páll Sigurðsson upp útræði í Herdísarvík í Selvogi. Frásögnin birtist í Morgunblaðinu árið 2000:
herdisarvik-930“Útræði var mikið frá Herdísarvík, enda fengsæl fiskimið steinsnar frá landi að kalla má, og sóttu þangað margir tugir manna víða að, einkum frá Suðurlandi en einnig úr nágrenninu. Lágu útróðrarmennirnir við í verbúðum, meðan á vertíð stóð, eins og venja var. Eru enn sjáanlegar miklar minjar um sjávarútveg og ýmis önnur umsvif í Herdísarvík fyrr á tíð. Innsti hluti víkurinnar sjálfrar, er liggur að kambi þeim, sem er milli tjarnarinnar og sjávar, nefnist Bót, en austast í henni var Vörin, þar sem útróðraskipin voru fyrrum dregin á land. Milli vertíða voru þau geymd þar nærri, í svokallaðri Skiparétt, þar sem hlaðnir grjótveggir héldu að þeim. Fyrir ofan Vörina stóðu margar sjóbúðir og má enn sjá glöggar tóttir sumra þeirra. Vitað er um nöfn margra búðanna, svo sem Landeyingabúð, Fljótshlíðingabúð, Símonarbúð, Bjarnabúð, Gíslabúð og Halldórsbúð, en það efni þarfnast þó nánari athugunar.

herdisarvik 931

Nær Herdísarvíkurbænum voru síðan m.a. Ólabúð og Hryggjabúð og að síðustu Krýsuvíkurbúð heim undir bænum, en frá höfuðbólinu Krýsuvík voru löngum gerð út tvö skip í Herdísarvík – en þar að auki var verstöðin að Selatöngum í landi Krýsuvíkur (rétt við vesturmörk þeirrar jarðar). Afla þeim, sem á land barst í Vörinni, var skipt á Skiptivellinum rétt ofan hennar. Enn má sjá mikla garða, er hlaðnir hafa verið í hrauninu austan og norðaustan Gerðistúnsins, þar sem fiskur var fyrrum þurrkaður eftir að hafa áður legið í „kös” sem kallað var. Má ætla að samanlagt séu garðarnir nokkrir kílómetrar að lengd. Á svonefndum Básum austan Vararinnar (og niður undan Gerðistúni) var einnig gömul lendingarvör, sem kallaðist Skökk. Róið var með fornu lagi frá Herdísarvík fram á þriðja tug þeirrar aldar, sem nýliðin er. Ljóst er, að landið hið næsta Herdísarvíkurbæ hefur löngum legið undir ágangi sjávar, og fyrrum stóð mikill sjóvarnargarður, handhlaðinn úr stórgrýti, á kambinum milli Tjarnar og sjávar, en hann hrundi eftir að byggð var þar af lögð. Hefur sjór síðan valdið stórtjóni á túninu norðan Tjarnarinnar og virðist hafa komið fyrir lítið þótt vinnuvél ýtti upp nýjum garði fyrir fáum misserum; sá garður er nú einnig að hverfa. Að sumu leyti má rekja spjöllin til þess að landið sígur á þessum slóðum eins og víðar á Suð-Vesturlandi.
Gamli bærinn í Herdísarvík stóð við vesturenda Herdísarvíkurtjarnar. Var hann löngum vel húsaður, m.a. baðstofa stór og góð, alþiljuð, og vandað stofuhús – og valinn rekaviður úr fjörunni að sjálfsögðu notaður í allt tréverk. Hið næsta bænum voru síðan ýmis útihús, sum þeirra einnig vönduð timburhús. Bærinn stóð lágt og varð því stundum fyrir ágangi sjávar í aftakaveðrum af suðri með hásævi, þegar Tjörnina fyllti og sjór gekk einnig upp frá henni. Bærinn var rifinn að hluta til árið 1934, eftir að nýtt íbúðarhús hafði verið reist, en þó má enn greina ummerki hans, undir klöppinni Skyggni. Vatnshólmi nefnist lítill hólmi í Tjörninni fram undan gamla bæjarstæðinu. Þar var tekið allt vatn til daglegrar neyslu, en það bullar þar upp um tjarnarbotninn fast við hólmann.”

Heimild:
-Morgunblaðið 15. janúar 2000, bls. 34-35.

Herdísarvík

Herdísarvík – gamli bærinn.

Við Torfabæ í Selvogi, skammt frá Strandarkirkju, er fallegur gamall sjógarður, sem Eyþór Þórðarson hlóð á árunum 1926-1934, eins og stendur á skilti á garðinum.
Sjovarnargardur í SelvogiGarðurinn er um 2 m hár og um 30 m langur en var áður mun lengri, sjórinn hefur tekið sinn skerf. Nú eru aðstæður þannig að sjórinn hefur dregið út hnullungafjöruna framan við garðinn svo að sums staðar sér undir undirstöðusteinana. Ef varðveita á þessar menningarminjar þarf að setja vörn framan við.
Framangreindar línur svonefndrar “Sjóvarnarskýrslu” frá árinu 2004 voru skrifaðar í tilefni að fyrirhuguðum sjóvörnum landsins. Þrátt fyrir að sjóvarnir hafi verið bættar, t.d. neðan við Strandarkirkju, er framangreindur kafli Eyþórs frá Torfabæ, enn óvarinn. Ástæða er til að bæta um betur því minjar þessar eru þær einu er enn má sjá á handhlöðnum sjóvarnargarði í Selvogi. Að vísu má sjá stutta búta af garðinum hér og þar, t.d. neðan við Nes og Þorkelsgerði, en enga heillega sem þennan.

Hlínargarður

Hlínargarður í Herdísarvík.

 

Herdísarvík

Eftirfarandi fróðleikur um örnefni í Herdísarvíkurlandi eftir Ólaf Þorvaldsson birtist í Árbók Hins íslenska fornleifafélags árið 1948:
Herd-994“Austasta örnefni í Herdísarvík með sjó er Breiðibás. Hann er að finna með því, að ganga um 8 mínútur austur með sjó frá eystra túninu. Vestar en í miðjum Breiðabás, sem er allvítt malarvik milli hraunflúða, sem ganga í sjó fram beggja megin, er steinn í lögun svipaður saumhöggi á steðja, með sýlingu í miðju. Steinn þessi er á þurru með lágum sjó, og er landamerkjasteinn milli Herdísarvíkur og Stakkavíkur, úr honum bein lína í vörðu á brún Mosaskarðs, austarlega, sem síðar mun getið verða. Af Breiðabás er haldið vestur á bóginn, og verður þá fyrst fyrir eyðibýlið Herdísarvíkurgerði. Þar á túninu stóðu fram á seinustu ár tvö stór fjárhús, Langsum og Þversum, nú sennilega rústir einar. Eystra húsið snéri gaflhlöðum til austurs og vesturs, hitt til suðurs og norðurs. Niður undan miðju túninu eru malarvik í flúðirnar, og heita þau Básar. Vestast í fyrrnefndum flúðum er gömul vör (lending), Skökk. Ekki var hægt að fara í vör þessa nema ládautt væri. Þar má enn sjá kjalarför í klöppunum eftir setningu skipa. Í norður frá Gerðistúninu, ofan garðs, er Sundvarða eystri, og átti hún, þegar sundið var tekið, að bera í Sundhamar, sem er austast í Herdísarvíkurfjalli, og síðar mun nefndur (á austanverðu sundinu er blindsker, sem Prettur heitir og brýtur á í brimi).

Herd-995

Vestan við Gerðistúnið er Dalurinn, gamall skiptivöllur, þar sem formenn skiptu afla í ,”köst”. Norðan við hann voru sjóbúðir, byggðar hlið við hlið. Símonarbúð, þá Bjarnabúð og austast Gíslabúð. Þá vestar og nær sjó Hryggjabúð. Búðir þessar eru víst engar uppi standandi lengur. Vestur af síðast talinni búð var Skiparéttin, umgirt háum og þykkum grjótveggjum á fjórar hliðar. Þar gengu sjómenn frá skipum sínum milli vertíða. Framan undan búðunum er Bótin, aðallending Herdísarvíkur, en upp af henni er hár og þykkur malarkambur, Herdísarvíkurkambur. Liggur hann sem gleiður bogi um Bótina, en svo lágur er hann vestan til, að í aftakaveðrum af hafi gengur sjór yfir hann og fyllir tjörnina, sem er innan við og liggur upp að túninu, svo að stundum fyllti öll hús, sem við tjörnina stóðu, svo að úr þeim varð að flýja með allt, sem komizt varð með, lifandi og dautt. Aldrei mun þetta hafa valdið slysum á mönnum eða skepnum, en tjóni olli það oft bæði á húsum og munum, svo og matbjörg.
Herd-996Nú fyrir nokkrum árum hafa öll hús verið flutt efst á túnið, en þar eru þau í minni hættu. Innan við Kambinn er, eins og fyrr segir Herdísarvíkurtjörn. Milli heimatúns og Gerðistúns er grjótgarður mikill, Langigarður, ætlaður sem aðhald fyrir stórgripi Herdísarvíkur á graslendi því, sem er milli túna. Sá garður mun hafa verið hlaðinn af sjómönnum í landlegum. Við hlið, austur úr heimatúninu, við tjörnina, var sjóbúð, Ólabúð, nú sennilega ekki lengur til. Austarlega í túninu er klettastapi, sem gengur fram í tjörnina, Hestaklettur, austan við hann Hestavik.

Herdísarvík

Sjóbúðir í Herdísarvík.

Vestast og efst í túninu, þar sem nú eru gripahús og heyhlaða, var Krýsuvíkurbúð, en hún var, eins og nafnið bendir til, sjóbúð Krýsuvíkurmanna. Heimajarðarbændur í Krýsuvík gerðu þar (í Herdísarvík) út tvö skip og áttu því sem aðrir útgerðarmenn sína búð. Sunnan undir heyhlöðu og gripahúsum er Urðin. Þar er sem saman hafi verið safnað á lítinn blett mikilli dyngju af lábörðum steinum, nokkuð misstórum, en mest af þeim má teljast björg svo stór, að enginn mun hafa fært þau þar saman nema Ægir karl, en athyglisvert virðist það, að þau skuli hafa hlaðizt þarna upp í mörg lög á smábletti, en sjást hvergi svipuð, fyrr en niður við sjó. Milli Urðarinnar og gamla bæjarstæðisins er smátjörn, Kattartjörn. Þornar hún upp að mestu á sumrin; sést þá, að botninn er að mestu gróinn; vex þar upp þétt og kröftug gulstör, og stingur þessi stararblettur mjög í stúf við annan gróður þar og allt umhverfi. Bendir þessi litli stararblettur á, að þarna hafi starengi verið áður en elzta hraunið rann? Sem fyrr er sagt, stóð gamli bærinn á tjarnarbakkanum, nærri vestast í túninu. Framan undan bænum er smáhólmi í tjörninni, Vatnshólmi. Lítil trébrú var út í hólmann, og var vatn sótt þangað fyrir bæ og fjós, þar sem vatnið bullaði upp undan hólmanum á alla vegu, kalt og ferskt úr iðrum jarðar. Suðvestur af Vatnshólmanum gengur smátangi út í tjörnina, Sauðatangi. Þá eru talin örnefni í næsta umhverfi bæjarins og austan við hann. Suðvestur af Herdísarvíkurtjörn eru nokkrar smátjarnir og heita Brunnar. Milli þeirra og tjarnarinnar er Steinboginn, steinstillur, sem settar hafa verið þarna niður til að stytta leið niður á vesturkambinn, ef hátt var í tjörnunum. Spölkorn suður af Brunnum, nær sjó, er Sundvarða vestri. – Reykjavík, síðasta vetrardag 1948. Ólafur Þorvaldsson.”

Heimild:
-Árbók Hins íslenska fornleifafélags, 49. árg. 1943-1948, bls. 129-139.

Herdísaarvík

Herdísarvík um 1900.

Herdísarvík

Eftirfarandi frásögn Ólafs Þorvaldssonar um jörðina Herdísarvík birtist í Árbók Hins íslenska fornleifafélags árið 1948:
Herd-991“Jörðin Herdísarvík er vestasti bær í Selvogshreppi og þar með vestasti bær í Arnessýslu með sjó fram. Jörðin liggur fyrir botni samnefndrar víkur, og er hún vestast í vogi þeim, er Selvogur heitir, allvíður og bogamyndaður, gengur inn í landið frá suðri. Takmörk hans eru: Selvogstangar að austan, en Olnbogi, austan Háabergs í Herdísarvíkurlandi, að vestan. Tún jarðarinnar er í suðurjaðri Herdísarvíkurhrauns, hólótt og dældótt, jarðvegur grunnur því að víðast er grunnt á hrauni. Með beztu umhirðu gefur túnið (heimatúnið) af sér um tvö kýrfóður, ca 80 hesta. Fyrir öllu túninu að sunnan er smátjörn, og er dálítil silungsveiði í henni, fáu fólki til smekkbætis og nokkurra búdrýginda, en skynsamlega verður að fara að þeirri ve;ði, ef ekki á að uppræta stofninn, þar sem líka utanaðkomandi, óviðráðanleg atvik geta stórfækkað silungnum á nokkrum klukkutímum, og er það
þegar stórflóð koma í tjörnina af völdum stórviðra af hafi, en þeim fylgir þá ævinlega stórbrim.
Herd-993Annars er saga Herdísarvíkur-silungsins þannig: Fyrir um sjötíu árum lét Árni Gíslason, fyrrv. sýslumaður í Skaftafellssýslum, sem þá bjó í Krýsuvík og átti báðar jarðirnar, flytja um eða innan við 100 silunga, fullþroskaða, sem hann fékk úr Hlíðarvatni, út í Herdísarvíkurtjörn. Voru þeir bornir í bala og fötum með vatni í. Flestir munu þessir silungar hafa komizt lifandi í tjörnina, og kona, sem þá var unglingur í Herdísarvík, sagði þeim, er þetta ritar, að morguninn eftir hefðu nokkrir silungar legið dauðir við landið, þar sem þeim var sleppt í tjörnina, en hinir verið horfnir út í vatnið. Eftir nokkur ár fór að veiðast þarna við og við silungur til matar fyrir heimafólk. Þegar fram liðu stundir, kom í ljós, að þarna náði silungurinn miklu meiri þroska en hann nær yfirleitt í Hlíðarvatni, og mun aðalorsök þess vera meira og betra æti, t. d. er þar um mikla marfló að ræða, svo og mikinn botngróður.
Spölkorn fyrir austan túnið var áður fyrr hjáleiga, Herdísarvíkur-gerði, og sjást nú fáar minjar þess, að þar hafi bær verið, en tún er þar nokkurt enn; þó hefur sjór brotið eitthvað af því. Tún þetta mun aðallega hafa gróið upp undan sjófangi; fiskur borinn þangað upp til skipta, kasaður þar áður en upp var borinn til herzlu; þorskhöfuð og hryggir þurrkaðir þar, og öðrum fiskúrgangi kastað þar út, — en undan honum grær jörð fljótast. Útræði var mikið úr Herdísarvík og hafði verið öldum saman, og var talið með beztu verstöðvum austanfjalls, og við og við var gert út þaðan fram á þriðja tug tuttugustu aldar.
Herd-992Fiskisælt var þar í bezta lagi og lending góð; þó var oft nokkur lá í bótinni, þar sem lent var, þótt útsjór væri allgóður. Fiskurinn var yfirleitt hertur til útflutnings, og má enn sjá þurrkgarða á allstóru svæði í brunabelti uppi undir fjalli. Var fiskurinn, eftir að hafa legið í kös, jafnvel í fleiri vikur, borinn á bakinu eða í laupum eða kláfum til þurrkgarða. Þetta, að kasa fisk undir herzlu, var talsvert vandaverk, enda formenn vandlátir þar um, því að ef illa var gert, gat meira eða minna af fiski, sem í kösinni var, stórskemmzt, en þetta er önnur saga og því ekki sögð nánar hér.

Hlunnindi Herdísarvíkur voru talin: Sauðfjárbeit góð, svo að af bar, bæði til fjalls og fjöru. Útræði ágætt, og er þá aðallega átt við góða lendingu og fiskisæld. Viðarreki var, þegar reka-ár komu, oft allmikill, og nú, um síðastliðin 50—60 ár, silungsveiði til skemmtunar og nokkuð til búdrýginda. Fiski og hrognkelsum skolaði þar stundum á land til muna seinni part vetrar, þegar fiskur var í göngu.
Herdísarvík
Flæðihætta við sjó engin fyrir sauðfé, og er það mjög mikill kostur, þar sem fé gekk svo mikið sjálfala allan ársins hring. Fjöruskjögur í unglömbum þekktist ekki, og mun þar um valda, að fjaran er ekki mjög sölt sökum vatna, sem um hana renna, — en sér í lagi þó kjarnamikill gróður til landsins, strax upp frá fjörunni, og í þriðja lagi mætti nefna, að fjörubeitin er fyrir það mesta bitfjara, en ekki rekafjara.
Til galla má helzt telja, að mjög sterk veður af norðri koma þar stundum, og kom fyrir, að skaði hlytist af, ef hey voru á túnum, og máttu búendur illa við, þar eð heyskapur er enginn utan túns, en þau heldur lítil. – Reykjavík, síðasta vetrardag 1948. Ólafur Þorvaldsson.”

Heimild:
-Árbók Hins íslenska fornleifafélags, 49. árg. 1943-1948, bls. 129-139.

Herdísarvík

Herdísarvík um 1950.

Ólafur Þorvaldsson

Ólafur Þorvaldsson lýsir hýsingu jarðarinnar Herdísarvík í Árbók Hins íslenska fornleifafélags árið 1948:
Herd-998“Nú skal minzt gömlu bæjarhúsanna, ásamt útihúsum, sem stóðu vestast á túninu á bakka tjarnarinnar. Öll eru hús þessi nú horfin. Á þessum umgetna stað við tjörnina mun Herdísarvíkurbærinn, ásamt fleiri og færri útihúsum hafa verið búinn að standa um aldir. Þess sjást hvergi merki, að bærinn hafi annars staðar verið, en vitað er, að byggð í Herdísarvík er mjög gömul. A þessum staö í túninu við tjörnina var Herdísavík. Á þessum stað lifði og starfaði fólkið, — og dó, kynslóð eftir kynslóð. Þarna bjó fólkið í nýjum bæ eða gömlum bæ, byggði upp og endurbætti. Þarna bjuggu oft stórbændur til lands og sjávar, og flestum mun hafa vegnað þar vel efnalega, enda var haft að orðtaki austur þar, að „Herdísarvíkin fæddi sofandi sína.”
Mun ég nú lýsa bæjar- og útihúsum, sem á áðurnefndum stað stóðu, eins og þau litu út, þegar ég tók við þein 1927, og voru svo, þar til þau voru rifin eða féllu, eftir að ég fór þaðan 1933. herd-1000
Bæjarhúsin þrjú snéru stöfnum mót suðri. Vestast stóð baðstofan, hliðarveggir úr grjóti, hlaðin undir syllur, framslafn úr timbri nokkuð niður fyrir glugga, sem var með sex rúðum, norðurstafn úr timbri, jafn risi, en sléttur grasbali fyrir neðan í tóftarstað, á þeim stafni gluggi með fjórum, stórum rúðum, annar helmingur hans á lömum. Þessi gluggi var, auk þess sem opnanlegir gluggar eru ætlaðir til, öryggis-útkomustaður fyrir fólkið, þegar svo bar við, að sjór gekk á land og fyllti svo bæjarhús, að útgöngu var ekki auðið um bæjardyr, þar eð þær ásamt frambænum öllum lágu mun lægra en baðstofa. Öll var baðstofan þiljuð í hólf og gólf, skarsúð úr þykkum og breiðum borðum á sperrum, þiljur og gólf sömuleiðis af breiðum og plægðum borðum. Þessi baðstofa var rifin 1934, þá um sjötíu ára gömul, ófúin, nema eitthvað af undirviðum, sem sjór var svo oft búinn að leika um öll þessi ár. Inni var baðstofunni skipt í þrennt: til endanna afþiljuð herbergi, tveggja rúma lengd hvort, en í miðju var gangur, sem svaraði til einnar lengdar, var þar lítill kvistur á vestursúð, undir honum stór skápur, á honum var tekinn til matur og kaffi skenkt. Úr þessum gangi lágu fjórar tröppur til bæjardyra. Austan við baðstofu var frambærinn, með heilu þili.
Vestast á þilinu voru háar dyr og inn af þeim afþiljaður gangur, og úr honum miðjum göng til baðstofu, en innst úr ganginum var gengið inn í stórt eldhús, og var í því stór eldavél. herd-1001Utarlega í ganginum voru dyr til hægri, sem lágu til stofu, stóð þar alltaf uppbúið gestarúm. Loft var uppi yfir frambænum, vel til hálfs. Fjögurra rúðna gluggi var á stafni ofarlega fyrir loftið, en sex rúðna niðri fyrir stofu. Þriðja húsið, með stafni mót suðri, var búrið, með litlu hálfþili, og tók ekki eins langt fram og hin húsaþilin. Öll voru hús þessi byggð af rekaviði að öllu leyti, öll voru þau járnvarin utan, en torf á járni á frambæ og búri. Veggir allir þykkir, hlaðnir úr grjóti. Þá voru aðeins sunnar á hlaðinu, nær tjörninni, tvö hús, sem snéru stöfnum til vesturs. Var syðra húsið smiðja, en hið nyrðra hjallur; hliðarveggir hlaðnir af grjóti, þiljaðir stafnar jafnt sperrum, en minna klæddir hið neðra. Loft var yfir hjallinum óllum: Norðan við hjallinn var stór grunnur undan húsi, hlaðinn af grjóti, og stóð þar áður geymsluhús, venjulega nefnt „pakkhús”. Eitt milliþil var í húsi þessu og var minni karmurinn notaður sem smíðahús, en sá stærri fyrir matarforða heimilisins, aðallega kaupstaðarvarning, sem oft var nokkuð mikill, þar eð venja var að fara aðeins eina kaupstaðaríerð á ári. Hús þetta tók af grunni með öllu sem í var í aftaka sunnanveðri með óvenjulega miklu stórbrimi hinn 25. febrúar 1925, og var talið, að sjór hefði ekki í marga áratugi, jafnvel frá því er Bátsenda tók af, gengið svo á land hér sunnanlands sem í þessu flóði. Sjórinn tók húsið í heilu lagi af grunni, því að vel var viðað og traustlega byggt, og setti niður fyrir fjósdyrum úti (fjósið stóð þá austan undir bænum), svo að ekki var hægt að koma kúnum úr fjósinu, fyrr en út féll og hægt var að fara með þær út um bæjardyr. Það, sem bjargaði kúnum frá drukknun, var það, að þær náðu fótfestu með framfótum uppi í veggnum, fyrir básunum, og stóðu þar með upp úr sjó að framan, en svo mikill var sjór í fjósinu, að á básunum náðu þær ekki niðri, og var svo meira en eina stund. Semi dæmi þess, hve hafrótið var mikið og að sjór, sem á land gekk, hefur átt rætur langt undan landi, má geta þess, að þegar sjór féll út, kom í ljós, að mikið af smákarfa og keilu, hafði skolað á land, og keila fannst í bæjardyrum og öðrum húsum, sem sjór braut upp og flæddi inn í.
herd-1002Eftir þetta flóð var „pakkhúsið” flutt upp og norður fyrir tún og sett á sléttan hraunbala og stóð þar enn fyrir fáum árum, en mun hafa lítið verið notað nú í seinni tíð. Nýtt fjós var byggt næsta vor og fært vestast á túnið, fjær tjörninni.
Vestan undir baðstofunni var matjurtagarður, annars voru kartöflur aðallega ræktaðar í gömlum fjárréttum og borgum, svo og í Skiparéttinni, sem nefnd er í örnefnalýsingunni. Eins og fyrr segir, eru öll þessi hús, sem hér hafa verið talin, rifin eða fallin, en rústir sumra þeirra munu lengi enn sjást.

Hið nýja íbúðarhús, sem byggt var á jörðinni 1932, var sett niður, ekki “utan garðs”, en nyrzt og efst á túnið, mjög skammt frá útihúsum, sem þar voru fyrir. Í þessu nýja húsi dó skáldið Einar Benediktsson eftir nokkurra ára veru þar, farinn mjög að heilsu og kröftum.
Hér hefur náttúran skrifað sína sögu sem annars staðar, hér hefur hún mótað myndir og rúnir á steintöflur sínar, og hér hefur fólkið, öld eftir öld, lesið og ráðið þær rúnir og lifað eftir. Hér hefur fjármaðurinn reikað með hjörð sína um haga úti, talað við fé sitt og talað við náttúruna, og oft fengið svar við hljóðum spurningum. Nú er svo komið hér sem víða annars staðar á afskekktum jörðum, að nú er enginn orðinn eftir til að tala við náttúruna, svo að nú talar hún “ein við sjálfa sig.” – Reykjavík, síðasta vetrardag 1948. Ólafur Þorvaldsson.”

Heimild:
-Árbók Hins íslenska fornleifafélags, 49. árg. 1943-1948, bls. 129-139.

Herdísarvík

Herdísarvík – byggt 1932.

Herdísarvík

Selvogur
Gengið var um Nes í Selvogi í fylgd Kristófers Bjarnasonar, kirkjuvarðar í Strandarkirkju, til vesturs með ströndinni og yfir að Bjarnastöðum.
Nes er austasta býli í Selvogi. Neshverfi eða Nestorfa var sameiginlegt heiti á Nesi og hjáleigum þar. Einnig var hverfið nefnt Austurvogur eða Austurvogshverfi.

Nes

Nes – legsteinn.

Landnámsmaður í Selvogi var Þórir Haustmyrkur, sem hafði bú í Hlíð. Konráð Bjarnason úr Selvogi segir í Lesbók MBL 17. des. 1991 að hann telji að sonur hans, Böðmóður, hafi fengið hinn víðáttumikla eystri hluta landnáms föðurs síns og orðið fyrsti bóndinn í Nesi. Heggur, annar sonur Þóris, er sagður hafa búið í Vogi, sem getið er til að hafi verið Vogsósar.
Í Selvogi virðast hafa verið tvö hverfi, í kringum Nes og Strönd, og þéttbýli var mikið, svo að tún flestra eða allra jarðanna lágu saman. Á 11. öld er vitað um kirkju á Nesi. Kirkjurnar, sem vitað er um, eru á öllum dýrustu jörðunum. Þess hefur verið getið til að undir lok 13. aldar hafi Nes í Selvogi orðið bústaður höfingja. Maður að nafni Finnur Bjarnason byggði þar nýja kirkju á seinni hluta 13. aldar og var hann af höfðingjaættum. Eftir hann bjó í Nesi Erlendur sterki Ólafsson (d. 1312), faðir Hauks lögmanns og bókagerðarmanns. Það að Erlendur hafi valið sér Nes til bústaðar hefur verið tekið til marks um aukið mikilvægi sjávarútvegs frá því um 1300 og að höfðingjar hafi þá kosið frekar að búa við sjávarsíðuna til að geta auðgast á sjávarfangi en í miðju fjölbyggðra landbúnaðarhéraða.

Nes

Nesbrunnur.

Næsta lítið er vitað um byggð í Selvogi á síðmiðöldum, en margar jarðir þar komust í eigu Erlendunga; Þorvarðar Erlendssonar lögmanns (d. 1513) og afkomenda hans, sem margir bjuggu á þessum slóðum. Synir Þorvarðar, Vigfús og Erlendur áttu fjölda jarða á þessu svæði og bjó Erlendur (d. 1576) á Strönd og Guðbjörg dóttir hans (d. 1596) eftir hann. Sextánda öldin var einskonar blómaskeið Selvogs. Þá bjuggu þar stórhöfðingjar áratugum saman og mjög mikið fer fyrir útgerð Skálholtsbiskupa frá Þorlákshöfn, Selvogi og Herdísarvík í skjölum frá þessum tíma. Byggð í Selvogi fór hinsvegar mjög hnignandi í kjölfar 17. aldar. Þar eyddist land vegna sandfoks, tún Strandar og nærliggjandi jarða voru smátt og smátt beinlínis kaffærð í sandi og var öll byggð eydd í Strandarhverfi um 1750.

Nes

FERLIRsfélagar í Nesi.

Jarðabók Árna og Páls sem tekin var saman á árunum 1706 og 1708 á þessu svæði er víða getið um hjáleigur og afbýli sem höfðu byggst á seinni hluta 17. aldar. Margar fóru fljótlega í eyði aftur í harðindunum um 1700 eða í kjölfar Stórubólu 1707, en önnur héldust í byggð. Ekki er ástæða að í Selvogi hafi orðið verulegar breytingar í skipulagi byggðar í Selvogi fyrr en á þessari öld.

Bærinn í Nesi stóð á Bæjarhól neðan við mitt tún. Þegar tvíbýli var í Nesi, voru bæirnir nefndir Austurnes og Vesturnes. Fyrrum mun kirkjan í Nesi hafa staðið, þar sem nú er braggabygging, notuð síðast sem heygeymsla. Legsteinar komu upp, þegar grafið var fyrir þessu húsi, og munu þeir vera þarna á hlaðinu. Kirkjan var lögð niður 1706.

Selvogur

Selvogur – Nesborgir.

Síðustu sjóbúðir í Nesi voru niðri á kampinum, og sér fyrir þeim enn. Nesbrunnur eða Austurnesbrunnur er í Suðurtúni, beint suður af tröðunum. Hann er alltaf fullur af vatni. Þaðan lágu götur til bæjanna og allra hjáleiganna.
Vestar á kampinum ofan við vörina voru Nesborgir, þrjár fjárborgir. Vestasta borgin fór í flóðinu mikla 25. febr. 1925. Enn sést hluti af hinum tveimur.
Í austri blasir Selvogsviti við, en hann var reistur fyrst framarlega á klöppunum, en síðar færður ofar, þangað sem hann stendur nú. Eldri vitinn (1919) var stálgrindarviti, en nýi vitinn er steyptur. Hann var byggður 1931 og er 18 m hár.

Selvogur

Selvogur – Nesborgir.

Gísli Sigurðsson tók saman örnefnaskrá um Nes. Þar kemur m.a. fram að af bæjarstæðinu í Nesi hafi verið eitthvert fegursta útsýni í Selvogi. Í Austurtúni neðst var hjáleigan Litla-Leður. Tóftir Litla-Leðurs hafa nú verið sléttaðar út. Austast í Hátúni var Stóra-Leður. Þar sjást enn tóftir, upp við túngarðinn. Í Vesturtúni voru þrjár hjáleigur: Neðst var Bartakot í miðju túni, og Erta var ofar og austar, rétt vestan við traðirnar. Þessi kot hafa bæði verið sléttuð út. Þórðarkot var norðvestur af Ertu, vestur undir mörkum. Það er nokkurn veginn uppistandandi enn. Beitarland frá Nesi, eins og öðrum bæjum í Selvogi, er í Selvogsheiði. Hún liggur neðan frá túngörðum allt vestur að Hlíðarfjalli, neðan Svörtubjarga, um Hnúkana og austur að hreppamörkum.

Nesborg

Nesborg.

Ofan byggðarinnar er heiðinni skipt í Austurheiði, sem er Nesland, Miðheiði, sem er upp frá Bjarnastöðum og vestur um Torfabæjarland, og Vesturheiði eða Útheiði, sem er land Eimu og Vogsósa.
Frá túngarði í Nesi liggur sjávarkampur austur að vita. Hlaðinn garður er á honum, en hann nær ekki alla leið. Austast á kampinum var bær, sem hét Snjóhús
Gengið var að brunninum, niður að sjóbúðunum og síðan út með ströndinni að fjárborgunum, sem enn standa að hluta. Gengið var framhjá Guðnabæ, kíkt í brunninn í túninu og síðan haldið áfram yfir að Bjarnastöðum.
Þorkelsgerði

Bjarnastaðir

Bjarnastaðir í Selvogi.

Á túngarði austan Bjarnastaða var hlið, og lá þar um kirkjugatan frá Nesi og vestur um hjá Bjarnastöðum. “Kirkjugatan lá neðan við Harðhaus og ofan við Mosaflöt og Víðavöll”, eins og segir í örnefnaskrá.
Í fornleifakönnun um Bjarnastaði koma m.a. fram upplýsingar um Fornagarð í gegnum Selvog, ofan bæjarins. Árið 1821 segir að “máské mætti telia Meniar-Fornaldar: Sýnishorn af þeim stóra Vördslu gardi, úr Hlídar-Vatni, allt framm ad Strónd og einlægum Túngardi þadan, austur ad Snióthúsa vórdu, fyrir óllum Túnum sveitarinnar / sem óll skyldu þá hafa samfóst verid / med læstu Hlidi ad Lógbýli hvóriu.”

Fornigarður

Fornigarður í Selvogi.

Einnig segir í sömu lýsingu að “eignad er verk þetta Erlendi Þorvardssyni sem hér var lógmadur sunnan og austan, frá 1520, til 1554; bió léngi sin efri ár ad Strónd i Selvogi og Deidi þar 1576. … Þessum nausynlegu Túna og Vórdslu Górdum verdur hér ei vidhaldid, vegna sandfoks, sem þegar hefur eydilagt, þetta, i Fyrndinni góda og Prídilega Pláts, er þá nefndist Sæluvogur, ad sógn Manna.”
Árið 1840 segir að “engar fornleifar eru hér af neinu merkilegu, nema garðlag eftir stóran varnargarð frá tíð Erlendar lögmanns Þorvarðssonar, sem liggur úr Hlíðarvatni og austur að Snjóthúsavörðu, fyrir ofan alla byggðina.

Fornigarður

Selvogur – Fornigarður. Nesviti fjær.

Var þá hagalandið milli garðs og fjalls, en tún og engjar milli garðs og sjóar, allt sjálfvarið. Mælt er, að læst hlið hafi verið fyrir hverju lögbýli, og átti hvör heimabóndi að passa sitt hlið, að ei stæði opið, og þessvegna læst, að enginn gæti opnað hliðið óforvarandis.” Samkvæmt þessu voru læst hlið á vörslugarðinum að hverjum bæ.
Bjarnastaðavörin er neðan bæjarins. Þar er merki á klöpp, sem og “bindisteinar” við lendingu.
Fáir staðir við ströndina eru skemmtilegri til göngu en Selvogur. Þarna er sagan svo að segja við hvert fótmál. Í dag er Selvogur lifandi minjasafn – óspillt af mannanna hendi.
Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 11 mín.

Selvogur - örnefna- og minjakort

Selvogur – örnefna- og minjakort – ÓSÁ.

Þórarinn Snorrason
Gengið var frá Hlíð við Hlíðarvatn, að Vogsósum, Fornagarði fylgt upp túnið og síðan haldið áfram eftir Kirkjugötunni að Strönd í Selvogi.
Skoðaðar voru tóftirnar í Hlíð, sem mun hafa verið landnámsbær Þóris haustmyrkurs. Reyndar er talið að rústir þær hafi verið á tanga eða hólma, sem er út í vatninu fram undan bænum; Hjalltangi eða Hjallhólmi er hann nefndur. Þar á bærinn að hafa staðið upphaflega. Eftir að hækkaði í vatninu hafa möguleikar á að skoða þær farið minnkandi.

Borgirnar þrjár

Borgirnar þrjár ofan Vogsósa.

Konráð Bjarnason úr Selvogi segir í Lesbók MBL 17. des. 1991 að hann telji að sonur hans, Böðmóður, hafi fengið hinn víðáttumikla eystri hluta landnáms föðurs síns og orðið fyrsti bóndinn í Nesi. Heggur, annar sonur Þóris, er sagður hafa búið í Vogi, sem getið er til að hafi verið Vogsósar.

Hlíð

Hlíð – uppdráttur ÓSÁ.

Ofan Malarinnar eru rústirnar, en þar segja fróðir menn og konur, að bærinn hafi staðið, eftir færslu úr Hjalltanga. Auk Bæjarhóls eru í túninu Kirkjuhóll eða Bænhúshóll, en þar á hafa staðið bænhús í katólskri tíð. Frá rústunum liggur Hlíðargata austur og inn með fjallinu, framhjá fjárborginni og tóftunum undir Borgarskarði, Hlíðarborg og Hlíðarseli áleiðis upp á Suðurferðaveg (Selvogsgötu).
Gengið var suður með austanverðu Hlíðarvatni, um Réttartanga og síðan beygt upp á gróna hraunhóla þar austur af, vestan þjóðvegarins. Á þeim eru Borgirnar þrjár, eða Vogsósaborgir eins og þær hafa einnig verið nefndar. Borgir þessar eru nokkuð heillegar. Ekki er vitað hver hlóð þær, en eflaust hafa þær átt að skýla fé svo sem meginhlutverk fjárborganna var. Ekki er ólíklegt að þær hafi verið frá fleiri en einu koti, sem voru þarna skammt frá. Skammt austar, austan þjóðvegarins eru tóftir Vogsósasels.

Hlíð

Hlíðarkot – tóftir.

Frá Borgunum er ágætt útsýni yfir Hlíðarvatn, hólmana, Víðisand sunnar og Alnboga, vestan fráfallsins úr vatninu. Þar lá gamla þjóðleiðin frá Strönd yfir ósana og áfram áleiðis að Herdísarvík. Jörðin þar fór í eyði árið 1957 eftir að Hlín flutti burt 17 árum eftir andlát Einars Benediktssonar.

Gengið var að enda Fornagarðs (Strandargarðs) neðan við túnið á Vogsósum og honum fylgt áleiðis upp túnið. Vogsósar var stórbýli og prestsetur á fyrri tíð. Þar bjó galdrapresturinn Eiríkur Magnússon á ofanverðri sautjándu öld og fram á þá átjándu. Margar sögur eru til af Eiríki og göldrum hans. Aldrei notaði hann galdur sinn til ills en gerði mönnum glettur og aðallega ef á hann var leitað að fyrra bragði.

Vogsósar

Vogsósar – uppdráttur ÓSÁ.

Árið 1840 segir að Vogsósaland sé “allt að framan gjörspillt af sandágangi, verr en Austurvogurinn, því að sönnu fýkur hann af austur- og landnyrðingsáttum eins á þetta land og Austurvoginn. En þar að auki líka því meir af útnorðri og til með af vestri, sem það er nær Víðasandi. Þegar ósinn er undir ís, fær túnið á Vogsósum óbætanleg áföll af sandi í vestanstormum, t.d. næstliðinn vetur.”
Árið 1847 voru Strönd og Vindás komnar í eyði og eru taldar með Vogsósum sem eru beneficium og liggja Hlíð og Stakkavík og 3 ½ hdr í Þorkelsgerði undir kirkjuna. “Prestsetrinu fylgja 2 ásauðar kúgildi og 1 veiði- og heyflutníngsbátur. Tún er lítið mjög og hætt við sandfoki, og utantúns slægjum eins, en landkostir eru góðir og útibeit góð. Jarðarhlynnindi eru hér að auki talin, þó mínkandi fari; sela- og silúngsveiði og sölvatak, sem líka gengur af sér, einkum af sandfoki, en höfuðkosturinn er trjáreki. Selvogs kirkja á ítak í Krýsuvíkur fuglbergi.

Vogsósar

Vogsósar – kirkjugatan að Strönd.

Mest hefir sandurinn borist austur yfir ósinn er hann var lagður með ís, hefir svo borist austur og upp í heiðina fyrir suðaustan Vogsósa og umlukið þar bæ er nefndur er Vogshús, enda er hann nefndur svo í fornbréfum. Þá er sandgeirinn var kominn upp í heiðina, fór hann breikkandi suður og austur á við, og eyðilagði smám saman jarðirnar: Strönd, Vindás og Eimu með afbýlum þeirra.”
Þess má geta að suðaustan við túnið á Vogsósum eru óþekktar rústir, fast austan við Fornagarð.

Eiríksvarða

Eiríksvarða á Svörtubjörgum.

Frá Vogsósum er ágætt útsýni upp að Svörtubjörgum. Á þeim er Eiríksvarðan. En “þó Eiríksvarða sé ekki frá forntíð, er það samt ekki ómerkilegt, að hún skuli enn nú standa óröskuð eftir svco langa tíð. Hún er einhlaðin á mjög hárri fjallsbrún; 1 fet er fyrir framan hana að skörpustu brúninni. Hún er 1 faðmur að neðan, lík einhlöðnum steingarðsparti. Er svo hvör steinn lagður yfir annan. Flatir og ílangir eru þeir; allir snúa endar þeirra til beggja hliða. Allir eru þeir smáir sem lítilfjörlegir utanveggs hleðslusteinar. Hún er smáaðdregin frá báðum endum, ávöl að ofan og á hæð meðalmanni neðanvert á síðu, snýr austur og vestur til endanna, en flöt við norðan og sunnan átt. Þessi Eiríkur Magnússon … dó 1716 … og skyldu menn setja, að hann hefði vörðuna hlaðið 6 árum fyrir afgang sinn, þá er hún búin að standa í 123 ár.”
Margar sögur eru til af Eiríki, presti á Vogsósum. Eftir að Eiríkur var orðinn prestur í Selvogi komst það orð á að hann væri göldróttur. Kallaði þá Skálholtsbiskup hann á sinn fund og sýndi honum Gráskinnu og bað hann að gera grein fyrir því hvort hann kynni eitthvað úr þeirri bók. Eiríkur fletti upp bókinni og sagði; “Hér þekki ég ekki einn staf”! Og sór fyrir það. Síðar sagði hann að þetta þýddi ekki að hann þekkti engan staf í bókinni heldur að hann þekkti alla stafi bókarinnar nema einn.

Fornigarður

Fornigarður.

Fornigarðs er getið í heimildum. Segir m.a. að “Vogósatúngarður var girtur aðeins á suðurhlið, en að austan Fornagarði, garði sem getið er í máldaganum frá 1275 á þennan hátt: “Sex vætter aa huertt fyrer garde enn fiorar utan gardz…” (DI, II,124). Er því þarna að sjá eitthvert elzta mannvirki á landi hér.”
Stefnan var tekin suður yfir heimatúnið, að Kirkjugötunni, sem liggur yfir að Strönd. “Kirkjugatan lá frá Hlíð suður með vatninu um Vondavik að Vogósum og áfram suður að Strandarkirkju.” Hún sést enn vel þar sem hún liggur um sandinn, enda ávallt mikið farin þangað til fyrir tiltölulega stuttu síðan.

Strandarkirkja

Minnismerki um Strönd í Selvogi – einnig nefndur “Staður”.

Selvogur er vestasta byggð í Árnessýslu og var lengst af fremur afskekkt og einangrað byggðarlag. Rafmagn kom ekki í sveitina fyrr en eftir 1970 og vegamál hafa verið í ólestri fram undir þetta. Á fyrri tíð voru í Selvogi margar jarðir og víða stórbúskapur og gjöful fiskimið undan landi. Síðast var gert út á vetrarvertíð úr Selvogi árið 1950 og eftir það hafa bændur lifað eingöngu af landbúnaði og einkum sauðfjárbúskap því mjólk var ekki sótt á bæi í Selvogi til að flytja í mjólkurbú. Í byrjun tuttugustu aldar eru um 20 býli í Selvogi en nú mun búskapur lítill í sveitinni.

Strandarkirkja

Kirkjan á Strönd.

Sagan segir frá sjómönnum sem fyrir langa löngu villtust í hafi og hétu því að byggja kirkju þar sem að þeir kæmu að landi ef þeir lifðu af. Eftir áheitið leiddi engill þá heila á húfi að landi í Engilsvík og þeir byggðu kirkju að Strönd. Kirkjan sem nú stendur að Strönd var reist seint á nítjándu öld og endurbyggð árið 1967. Í henni er gömul altaristafla frá 1865 og kaleikur kirkjunnar er merkilegur en hann er forn gefinn kirkjunni af Ívari Hólm lögmanni og hirðstjóra sem sat á Strönd en einnig á Bessastöðum. Kaleikur þessi er eini gullkaleikurinn sem til er hér á landi og því mikil gersemi. Síðasti prestur sem bjó í Selvogi var séra Eggert Stefánsson merkur maður en hann þjónaði Strandarkirkju á árunum 1884 til æviloka 1908. Þá var prestakallið lagt niður sem sérstakt prestakall.

Vogsós

Vogsósaborgir.

Helgi og átrúnaður á Strandarkirkju virðist hafa komið upp mjög snemma eins og sagan af áheiti skipshafnarinnar sýnir og væntanlega fylgt henni alla tíð. Öldum saman hefur verið heitið á kirkjuna í lífsnauð og hvers kyns öðrum erfiðleikum. T.d. munu norskir sjómenn snemma hafa heitið á kirkjuna og eignaðist hún skógarhögg í Noregi. Í gegnum aldirnar hefur kirkjunni því safnast mikill auður, bæði dýrmætir gripir og peningar. Hluta af því hefur verið varið til endurbóta á kirkjunum en einnig hefur þetta fé verið lánað til kirkjubygginga víða um land.

Þórarinn Snorrason

Þórarinn Snorrason og Ómar spá og spekulera um fyrirhugaðn uppdrátt af Selvogi.

Stórbýli var á Strönd og á staðurinn sér mikla sögu frá fornu fari þótt þar sé ekki lengur búið og vafalítið eitt af elstu býlum sveitarinnar. Fram yfir aldamótin sextán hundruð voru 7 eða 8 býli á Strönd en hverfa úr byggð á 17. öld og árið 1696 fer höfuðbólið sjálft í eyði. Því olli uppblástur og sandfok sem gerði jörðina óbyggilega, sem fyrr sagði.
Eftir að Strönd fór í eyði var um það rætt að flytja kirkjuna en fólkið var á móti því þar sem það taldi hættu á að við það glataði kirkjan mætti sínum og helgi. Hún stendur því enn á sama stað og í upphafi.
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 22 mín.

Heimildir m.a.:
-http://www.bokasafn.is/byggdasafn
-http://www.utivist.is

Selvogur - örnefna- og minjakort

Selvogur – örnefna- og minjakort – ÓSÁ.