Færslur

Fornigarður

Fornigarður í Selvogi er forn vörslugarður er náði milli Hlíðarvatns við Vogsósa og austur fyrir Nes, austasta bæinn í Selvogi, eða Sæluvogi, eins og hann áður var nefndur. Garðurinn mun ekki alltaf hafa heitið “Fornigarður”. Áður nefndist hann Strandargarður eða Langigarður, en nú á tímum er hann nefndur Fornigarður vegna þess að hann telst með elstu mannvirkjum hér á landi. Reyndar er um tvískiptan garð að ræða; annars vegar Langagarð og hins vegar Fornagarð.
Heimildir um Fornagarð eru t.d. eftirfarandi:
1821: “Máské mætti telia Meniar-Fornaldar: Sýnishorn af þeim stóra Vördslu gardi, úr Hlídar-Vatni, allt framm ad Strónd og einlægum Túngardi þadan, austur ad Snióthúsa vórdu, fyrir óllum Túnum sveitarinnar / sem óll skyldu þá hafa samfóst verid / med læstu Hlidi ad Lógbýli hvóriu; – Eignad er vrk þetta Erlendi Þorvardssyni sem Hér var Lógmadur sunnan og Austan, frá 1520, til 1554; bió léngi sin efri ár ad Strónd i Selvogi og Deidi þar 1576. … Þessum naudsynlegu Túna og Vórdslu Górdum verdur hér ei vidhaldid, vegna sandfoks, sem þegar hefur eydilagt, þetta, i Fyrndinni góda og Prídilega Pláts, er þá nefndist Sæluvogur, ad sógn Manna.”

Fornigarður

Fornigarður ofan Ness.

1840: “Engar fornleifar eru hér af neinu merkilegu, nema garðlag eftir stóran varnargarð frá tíð Erlendar lögmanns Þorvarðssonar, sem liggur úr Hlíðarvatni og austur að Snjóthúsavörðu, fyrir ofan alla byggðina. Var þá hagalandið milli garðs og fjalls, en tún og engjar milli garðs og sjóar, allt sjálfvarið. Mælt er, að læst hlið hafi verið fyrir hverju lögbýli, og átti hvör heimabóndi að passa sitt hlið, að ei stæði opið, og þessvegna læst, að enginn gæti opnað hliðið óforvarandis.”
1902: “Aðalgarður lá fyrir ofan alla bæi í Selvogi, frá Hlíðarvatni fyrir ofan Vogsósa í landsuður að Stórhól, og aftur í austur frá Stórhól austur fyrir Nes. Sést hann enn glögt víðast hvar. Fyrir austan Nes sér þó ekki garð austar en nú er túngarðurinn … Án efa hefir aðalgarðurinn legið fyrir austan Snjólfshús. En hann hefir líklegast verið færður þangað sem hann er nú, eftir að þau voru komin í eyði, og þá bygður aftur úr sama grjótinu, en sandur hulið það, sem eftir kann að hafa orðið.”

Fornigarður

Fornigarður – ÓSÁ.

“Ævagamall túngarður liggur fyrir ofan alla byggðina [í Selvogi]; hann nær alveg austur undir vita og vestur að Vogósum. Víða hefur fokið mjög að honum sandur, svo hann er nær á kafi, en þó sést hann sums staðar. Hlið voru á garðinum heim að hverjum bæ, gjarnan kennd við bæina. Sagt er að hliðin hefðu verið læst og grind í.”

Hægt er að ganga eftir garðinum frá Hlíðarvatni yfir að Nesi. Skammt ofan við túnið á Vogsósum eru tóftir og fjárborg (ekki vitað hvað er – ekki skráð). Ofan við Strönd kemur garðurinn saman við annan engu minni. Á loftmynd sést lögun hans vel. Austaqn Strandarkirkju beygir garðurinn til austurs, yfir veginn að kirkjunni og liðast síðan um Selvoginn austur fyrir nes, sem fyrr sagði.
Sjá lýsingu á hinum u.þ.b. 7 km langa garði í annarri FERLIRslýsingu er Þórarinn bóndi Snorrason á Vogsósum fylgdi þátttakendum úr hlaði við vesturenda garðsins.

Sjá meira um Fornagarð undir LÝSINGAR í Skrár (Fornigarður (Strandargarður – Langigarður)).

Heimildir:
FF, 228; SSÁ, 226-27; Brynjúlfur Jónsson 1903, 51-52; Ö-Þorkelsgerði, 1.

Vogsos-28

Herdísarvík

Herdísarbærinn er snotur, þótt ekki sé hann stór. Þar er stofa byggð forkunnar vel úr völdum viði að mestu. Er það unninn rekaviður úr fjörunni þar. Tvöföld súð er í baðstofunni og tróð á milli.

Herdísarvík

Sjóbúð í Herdísarvík.

Bærinn stendur á ofurlítilli flöt, rétt á tjarnarbakkanum, og stendur lágt. Hefur það oft hefnt sín, að hann stendur ekki hærra, því að þegar stormaflóð koma af hafi, gengur sjór yfir malarkambinn, inn í tjörnina og fyllir hana svo, að hún flóir yfir alla bakka og inn í bæ. Stórfenglegasta flóðið kom veturinn 1925. Þá gerði storm af hafi í stórstraum og belgdi sjórinn inn á víkina, svo að hann gekk yfir allan kambinn og langt út í hraun í allar áttir. Flóðið kom þegar inn í bæinn og varð fólkið að flýja þaðan.

Herdísarvík

Herdísarvík 1898.

Bóndi tók eitthvað af sængurfötum og batt þau upp í sperrukverk. Hafðist svo fólkið við í hlöðu uppi á túninu á meðan mesta flóðið var. Stóð hlaðan mikið hærra en bærinn, en þó komst flóðið þangað. Þegar fjaraði og fólkið leitaði til bæjarins, voru sængurfötin uppi í sperrukverkinni rennblaut og sást á því, að baðstofan hafi fylst af sjó upp í mæni. En þungi vatnsins inni í bænum hafði orðið svo mikill þegar fjaraði frá úti, að hann sprengdi gaflinn úr baðstofunni fram á hlað, svo skolaði vatnið þar út með sér körfustól og ýmsum öðrum húsgögnum, sem voru í baðstofunni. Austan við bæinn stóð stór timburskemma á háum grunni og var í henni geymt mikið af þungavöru. Þó var flóðið svo aflmikið, að það velti skemmunni um koll og setti hana rétt fyrir framan fjósdyrnar, svo að ekki varð komist í fjósið í nokkra daga.

Herdísarvík

Herdísarvíkurgata.

Eftir þetta mikla flóð hvarf silungsveiði úr tjörninni um nokkur ár. Ætla menn að ýmist hafi flóðið skolað silungnum til sjávar og víðsvegar upp um hraun. Eitthvað hefur þó orðið eftir af hrognum og seyðum, því að nú er veiðin orðin álíka mikil og hún var áður.
Herdísarvík er gæða jörð til lands og sjávar. Þar gengur sauðfé sjálfala allan ársins hring, ef ekki kemur þeim mun harðari klakavetur. Fjörubeit er góð og varla tekur fyrir beit í hrauninu, enda kemur það sér vel, því að engar eru engjarnar og ekki hægt að slá eitt ljáfar utan túngarða. En fjárgeymsla er mjög erfið.

Herdísarvík

Tjörn í Herdísarvíkurtjörn.

Ólafur Þorvaldsson, sem þar býr nú, hefur raunsnarbú, og er fyrirmyndar bragur á öllu hjá honum. Hann setur um 500 fjár á vetur hvern. En hann segir að ekki veiti af tveimur fullorðnum mönnum til þess að fylgja fénu allan veturinn, myrkranna á milli, bæði í fjöru og hrauni, að koma því í hús á kvöldin og til beitar snemma á morgnana. Hann kveðst þó oftast taka lömb á gjöf, og í vetur sem leið öll lömbin nema 20, sem gengu algerlega úti, en þau bera nú öllum hinum, enda munu þau hafa verið tápmest. En hér er sama sagan nú og annars staðar, að sauðfjárræktin er dýr, en veitir lítið í aðra hönd. Það er af sú tíðin er menn gátu fætt og klætt sig og sína með afurðum 50-60 fjár. Í haust varð Ólafur að borga 150 dilka í landskuld og kaup eins manns. Hugsið ykkur það, 150 dilka, fyrir utan allt það, sem þurfti til bús að leggja!

Herdísarvík

Herdísarvík – uppdráttur ÓSÁ.

Tún eru tvö í Herdísarvík og fást af þeim í meðal ári um 170 hestar. Ekki kemur til máls að tvíslá, því að kúnum þarf að beita á túnin undir eins og þau eru hirt, því kúahagar eru þar engir og hestahagar ekki heldur. Veitti ekki af að gefa kúm og hestum allan ársins hring. Hestar eru því verstu ómagar þarna, en ekki verður komist hjá því að hafa þá, vegna þess hve bærinn er afskekktur og langt til aðdrátta. Nú seinustu árin hefur Ólafur þó fengið vörur sínar með bíl til Grindavíkur og þaðan með “trillu”-báti til Herdísarvíkur. Er það kostnaðarsamt, en verður þó ódýrara heldur en að flytja allt á hestum þessa löngu leið, og verða fyrir vikið að hafa marga hesta á fóðrum.

Herdísarvík

Fiskgarðar við Herdísarvík.

Í Herdísarvík eru margar og merkilegar fornleifar frá þeim tímum er útgerð var stunduð þar í stórum stíl. Þar standa enn fornar sjóbúðatættur, og í brunahrauni austan við bæinn og alla leið upp undir fjall má líta óteljandi hraungarða hlaðna af mannahöndum, hvern við annan. Þetta er þurrkreiturinn, þar sem fiskurinn var hertur. Fiskverkunaraðferðin í þá daga var þannig, að fiskurinn var fyrst slægður og flattur og síðan kasaður. Þótti það mikill vandi að kasa vel og öll verkun komin undir því. Ekkert vatn mátti komast í fiskinn og hann varð að kasast þannig, að hann yrði ekki maltur við þurrkun, en til þess þurfti allur safi að síga úr honum áður en hann var breiddur til þerris.

Herdísarvík

Fiskigarðar.

Fiskurinn var kasaður þannig, að eftir að hann var flattur, var hann lagður utan á annan og stungið niður á hnakkakúluna, hver fiskur utan í annan, og skaraðir þannig, að vatn gæti ekki komist á milli þeirra. Í þessum kösum stóð svo fiskurinn allan veturinn, eða þangað til vorþurrkar komu. Þá var hann borinn á bakinu upp um allt hraun og breiddur á garðana. Varð þetta oft langur burður, en sá var kostur við það að hafa þyrrkgarðana úti í hrauninu, að minni hætta var á að fé færi í fiskinn, en það er sólgið í hann, ef það kemst á bragðið.
Af hinum fornu sjóbúðum er nú fátt eftir, en þær hafa verið rammbyggilega hlaðnar úr brimsorfnu hnullungagrjóti og standa þykkir veggirnir lítt hrundir enn í dag. Eru sumar búðirnar 30 fet á lengd að innanmáli og má á því sjá, að þar hafa verið stórar skipshafnir.

Herdísarvík

Fiskbyrgi við Herdísarvík.

Svo lagðist útgerð að mestu niður í Herdísarvík um all langt skeið, svo að þar var oft ekki nema eitt skip. En fyrir aldamótin hófst útgerð þar aftur með nýjum krafti. Veturinn 1896 gengu þaðan t.d. 8 skip. En þá var fiskverkunaraðferðin breytt og var þá farið að salta allan fisk. Nú risu þarna upp nýjar sjóbúðir, og standa tvær þeirra enn, en annarri hefur verið breytt í hlöðu og hinni í fjárhús og verður því ekki lengur séð hvernig umhorfs hefur verið þar inni á meðan þetta voru mannabústaðir.
Allir sjóbúðaveggir eru hlaðnir úr hnullungagrjóti og þykkir mjög. Búðirnar eru 30-40 fet að innamáli og munu oft hafa erið 15-16 manns í hverri, því þá var róið þarna á tíæringum og auk þess voru landmenn við aðgerð og söltun, og svo þjónusta.

Herdísarvík

Herdísarvík – sjóbúðirnar.

Búðirnar sneru frá norðri til suðurs og á suðurstafni eru dyr, og reft yfir með þrælsterkum viðum. Stafnar eru hlaðnir úr grjóti eins og veggir, og mæniás lagður á milli þeirra og nokkrar stoðir undir, og standa þær auðvitað á miðju gólfi. Í sumum sjóbúðum voru sperrur og skarsúð, en flestar munu hafa verið þannig, að síreft hefur verið báðum megin á mæniás úr klofnum rekaviði. Hafa raftarnir verið nokkuð mislangir og sköguðu því sumir út úr þekjunni, sitt á hvað. Heldur munu sjóbúðir þessar hafa verið óvistlegar, en sennilega hefur verið hlýtt í þeim.

Herdísarvík

Herdísarvík – gamli bærinn.

Frammi á sjávarkambi er þyrping af húsarústum. Nokkuð af þeim hefur sjór brotið, en sumar tætturnar standa óhaggaðar. Þarna var saltgeymsla og beitugeymsla, lýsisgeymsla o.s.frv., en úti munu menn hafa beitt, engu síður en einni. Er þar til marks um það, sem sagt er um áleitni sauðfjár við útróðrarmenn, að þeir máttu ekki víkja sér frá beitningartrogunum inn í sjóbúðirnar. Gerðu þeir það, þá var “kind á hverjum öngli” þegar þeir komu út aftur.

Herdísarvík

Herdísarvík – sjóbúðir.

Herdísarvík var löngum happasælt fiskver. Oftast nær var ekki róið lengra en út á víina, og fekkst oft góður afli. Á seinni árum voru menn farnir að róa í Selvogssjó. Fiskgöngur koma þarna oftast nær beint af hafi, og voru þær taldar bestar, þegar ekki fylgdi síli. Eftir sumarmál var fiskur vanur að draga sig frá landi út á svonefndar “Forir”, og aflaðist þá oft vel þar í vertíðarlok.

Herdísarvík

Guðrún Ásmundsdóttir afhjúpaði minja- og örnefnakort FERLIRs af Herdísarvík.

Nú hefur engin útgerð verið í Herdísarvík um mörg ár, en fiskur gengur þar að, ekki síður en áður. Er til marks um, að í vetur reru þar tveir menn um tíma á svolitlu bátkríli. Fóru þeir rétt fram fyrir landsteinana með handfæri og drógu þar bandóðan rígaþorsk. Voru þeir fljótir að hlaða, því að “báturinn lá með borðstokknum” þegar komnir voru í hann 100 fiskar. En alls fengu þeir um 1000 til hlutar – og allt fast uppi við landsteinana.

Úr Landið er fagurt og frítt – Árni Óla – 1944.

Herdisarvik-578

Herdísarvík – kvöld.

Svörtubjörg

“Einu sinni var Eiríkur í Vogsósum staddur í búð í Hafnarfirði. Hann leit út um gluggann og mælti til kaupmannsins: “Já, já, heillin góð, það eru ekki góðir gestir komnir í Selvog núna”, hleypur út síðan og á bak og ríður austur í Selvog.

Tyrkir

Tyrkir.

Í Selvogi var það til tíðinda, að tyrkneskt skip lendir þar, sem heitir Sigurðarhúsabót. Jón hét bóndi í Sigurðarhúsum (það er fyrir austan Strönd). Jón fór til fundar við hina útlendu. Þeir taka hann og afklæða, slógu hring um hann og otuðu að honum korðum sínu, en sköðuðu hann þó ekki. Nú tekur að hvessa, og fara Tyrkjar í bátinn og sleppa Jóni. Þeir róa út á Strandarsund. Þar stanga þeir um stund. Þá hefir skipið slitið upp og drífur til hafs. Bátsmenn róða síðan eftir skipinu og náðu því ekki, meðan til sást.

Jón fer í klæði sín og litast um. Hann sér þá Eirík prest vera að ganga um gólf í Strandarkirkjugarði. Jón fer þangað, og heilsast þeir. Segir Jón Eiríki hrakning sinn. Eiríkur mælti: “Þú áttir ekki að fara til þeirra, heillin góð. Þú áttir ekkert erindi til þeirra. En því drápu þeir þig ekki, að þeir mundu það ekki fyrr en þeir komu út á sund. Þá vildu sumir snúa aftur að drepa þig, og varð þaðþeim til sundurþykkju og dvalar. Um síðir réðu þeir af að halda áfram, en ekki er víst, þeir nái skipinu aftur. Farðu nú heim, heillin góð, og farðu ekki oftar á fund óþekktra útlendra”.

Eiríksvarða

Eiríksvarða á Svörtubjörgum.

Jón fer heim, en Eiríkur fer upp á Svörtubjörg og hleður þar vörðu og mælti svo fyrir, að meðan sú varða stæði, skyldu Tyrkjar aldrei gjöra grand í Selvogi. Þessi varða stendur enn á Svörtubjörgum, og er hún hlaðin að mynd sem lambhússgaflhlað og einhlaðin að ofanverðu úr óhentugu hleðslugrjóti. Snýr flatvegur hennar eftir bjargbrúninni og er tæpt mjög. Hún er mosavaxinn og lítur út fyrir að hafa staðið lengi, og er þar þó vindasamt, enda hafa Tyrkjar aldrei komið í Selvog síðan.”
Útsýni þaðan vestur með Svörtubjörgum og áfram með Herdísarvíkurhlíðum er ægifagurt. Vörðufell blasir við í Strandarheiðinni. Í hæðinni suðvestan undan selinu eru fallegir hellar. Eiríksvarða er sögð reist af séra Eiríki, galdramanni, í Vogsósum árið 1710. Hann lést árið 1716. Á meðan hún stendur á Selvogi að vera óhætt fyrir ránsmönnum. Varðan er fjórar steinaraðir, fallega hlaðin og stendur reisuleg fremst á björgunum.

Tillaga til alþýðlegra fornfræða – Brynjúlfur Jónsson – 1959.

Svörtubjörg

Við Stígshella í Svörtubjörgum.