Tag Archive for: Selvogur

Strandarkirkja

„Einn rigningardag fyrir skemmstu ákvað ég að heimsækja Strandarkirkju og kíkja á Herdísarvík í leiðinni. Er ég renndi þar í hlað var rigningin orðin svakaleg og lamdi bílinn utan. Eins og sannur Íslendingur (eehemm) skoðaði ég nágrennið fyrst, varð hundblautur og veðurbarinn en eftir nokkurn tíma varð ég að láta rigningunni eftir ströndina og kirkjugarðinn og hraðaði mér inn í hlýjuna í kirkjunni.

Strandarkirkja 2007

Strandarkirkja er í Engilsvík í Selvogi. Hún er þjóðfræg vegna almennra áheita og sumir segja ein ríkasta kirkja landsins. Að minnsta kosti hefur hún efnast vel. Prestsetrið var fyrrum í Vogsósum uns brauðið var lagt niður 1907. Kirkjan stendur í landi höfuðbólsins Strandar en það fór í eyði á 17 öld vegna sandfoks. Elstu lýsingar um kirkju á nákvæmlega þessum stað eru frá 15. öld en sú sem nú stendur er frá 1887, en hún hefur verið endurbyggð og er því  nokkuð breytt.

Sú saga er til að sjómenn nokkrir í lífsháska hétu því að gera kirkju þar sem þeir næðu landi ef þeir bara héldu lífi. Þeir komu auga á ljós og er þeir nálguðust land sáu þeir bjarta og fagra veru í flæðarmálinu. Þannig hófst saga Strandarkirkju í Engilsvík. Við kirkjuna stendur nú minnismerki eftir Gunnfríði Jónsdóttur um þennan atburð.

Bjallan í Strandarkirkju

Er ég kom í kirkjuna var mér heilsað á norsku. Þar voru þá staddar norskar mæðgur að bíða af sér rigninguna, verst að ég skil ekki hót í norsku og tala hana enn síður. Það var þó kinkað vingjarnlega kolli og skifst á óskiljanlegum orðum. Dóttirin (sennilega 8-9 ára) skoppaði glaðlega um kirkjuna og dáðist upphátt að öllum fallegu verkunum sem þarna voru. Hún rann upp í kór og kallaði þaðan niður á móður sína, ?hvað allt væri fallegt?, en það skildist mér naumlega á látbragðinu.

Selvogur og Herdísarvík eru vestustu byggðir Árnessýslu. Fjölmenn byggð og útræði var fyrrum í Selvogi. Þangað þyrptust Norskir lausakaupmenn um 1790 til að versla við landsmenn.  Þeir fengu fyrir sig umboðsmenn og einn þeirra var Bjarni Sigurðsson (1763-1833) í Selvogi. Hann kallaði sig seinna Bjarna Sívertsen uppá dönsku og þar hófst kaupmannsferill hans. Hann var sæmdur riddarakrossi í Danmörku fyrir dug og framkvæmdasemi árið 1812. Viti byggður 1919 er í Selvogi.

Til er gömul sögn um risastóran helli, Strandarhelli suðaustan af Vogsósum og var seinast kunnur 1931 er Guðmundur G. Bárðarson greinir frá honum í dagbók sinni. Hann er nú týndur en heimamenn kalla nú hellisskúta einn um 20 metra langan, Strandarhelli. Til eru sagnir um fleiri hella en flestir eru nú týndir.

StaðarkirkjaVestan við Selvog er Hlíðarvatn og úr því fellur ós til sjávar, Vogsós. Við upptök Vogsós eru rústir prestseturins Vogsósa en þar bjó jafnoki Sæmundar Fróða ?séra Eiríkur á Vogsósum? sá landsfrægi og fjölkunnugi klerkur.

Næst brenndi ég til Herdísarvíkur sem er fyrir vestan Hlíðarvatn og var fyrrum stórbýli og fjölmenn verstöð en er nú í eyði. Enn sjást rústir verbúðanna. Þar bjó skáldið Einar Benediktsson (1864-1940) sín síðustu ár eða frá 1932 til 1940. Hann reisti sér þar hús, gaf Háskóla Íslands síðan Herdísarvík 1935 og hefur hún nú verið friðlýst. Hús þetta er nú notað sem orlofshús Félags Háskólakennara.

Ég ók þarna um og skoðaði rústirnar. Stoppaði svo bílinn og steig út. Og varð strax blautur í fæturna enda á götutúttum. Hafði ekki reiknað með vel sprottnu grasinu en það var hundblautt því það gengu skúrir yfir öðru hvoru. Það er sagt að þarna í grenndinni sé ágætt berjaland en ég hafði minnstan áhuga á því, útaf fótrakanum. Ég fékk loks nóg af vatnsgutlinu í skónum, hoppaði upp í bílinn minn og ók í bæinn. Næst ætla ég að hafa sól er ég fer þarna aftur sem vonandi verður fljótlega.“

Hafa ber í huga að hér er um mjög saldgæfa frásögn að ræða – um rigningu á Reykjanesskaga, og það að sumalagi.

Framundan er FERLIRsferð með einum þeim staðkunnugasta í Selvogi. Tilgangurinn er að ganga um svæðið og rissa upp örnefna- og minjakort af svæðinu í heild sinni.

Heimild:
-Skrifað 1.8.2007 kl. 13:10 af Vilmundi Kristjánssyni.

Selvogur - örnefna- og minjakort

Selvogur – örnefna- og minjakort – ÓSÁ.

Strandarkirkja

Í Lesbók Mbl 20. febr. 1993 ritar Konráð Bjarnason grein,  „Sending af hafi jarðskjálftasumarið 1896„. Greinin fjallar m.a. um hús í Selvogi, sem voru byggð úr einstakri himnasendingu – strandreka. Konráð var áður búsettur í Hafnarfirði, ættfræðingur og fræðimaður, en hefur leitað heimaslóðanna á efri árum.

Arnarbæli

„Þann 13. nóv. sl. gaf að líta eftirfarandi fyrirsögn og frétt í MBl: „Prestsbústaðurinn á Arnarbæli í Ölfusi var brenndur til grunna fyrir skömmu. Það voru slökkviliðsmenn í Þorlákshöfn sem stóðu að brunanum og notuðu tækifærið til æfinga í slökkvistörfunum. Eldurinn sást víða að enda stóð húsið á hæð og var hið reisulegasta. Það var byggt upp úr aldamótunum síðustu og var tvílyft hús á háum grunni.“ Svo mörg voru þau orð. Ekki svo ókunnugleg þó í ljósi reynslunnar síðustu aldarmisserin.
Á náttúruhamfaraárinu 1896 riðu skelfingar yfir að kvöldi hins 26. ágúst með ógurlegum jarðskjálfta er lét eftir sig í fyrstu lotu mörg hundruð hruninna bæja, einkum í uppsveitum Rangár- og Árnesþings. ekki var þetta nóg því nýjar skelfingar dundu yfir Skeið, Holt og Flóa, en minni háttar í Ölfussveit.. Um kl 2 aðfaranótt sunnudagsins 6. september reið yfir Ölfussveit voðalegur kippur sem felldi til grunna 24 bæi og 20 stórskemmdust. Meðal þeirra bæja var prestsetursbærinn að Arnarbæli.“
NeshúsUm þetta leyti strandaði skip utan við Selvog. Nær hádegi hafði drifið að strandstað flestalla vinnufæra menn í byggðalaginu, en þeir voru allmargir um þessar mundir. Það bakti mikla forvitni Selvogsmanna á leið til strandsstaðar með hvaða hætti strand þetta hafði borið að í nær dauðum sjó og góðviðri… að þessu sinni var sýnt að ævintýri hafði gerst á strandstað. Skip hafði komið af hafi undir fullum seglum hlaðið unnum góðviði til húsagerðar fyrir hina fjölmörgu nærsveitunga er stóðu yfir föllnum bæjarhúsum sínum niður í grunn sinn. Skipverjar gengu nær þurrum fótum til lands eftir flúðum er komu upp á fjöru…
Þegar Gísli hreppstjóri hafði rætt við skipsstjóra farskipsins var Selvogsmönnum sagt eftirfarandi: Skipið hét „Andrés“ og var frá Mandal í Noregi, á leið til Reykjavíkur með timburfarm til húsagerðar þar. Var þetta stórfarmur af unnum við, einkum panelefni. Þegar skipið nálgaðist Ísland kom mikill leki að því sem jókst og varð óstöðvandi þrátt fyrir að handdælur væru nýttar til hins ýtrasta. Skipverjar voru komnir að niðurlotum þegar þeir voru á móts við Selvog og vonlaust að n´fyrir Reykjanes. Tók skipstjóri til þess örþrifaráðs að sigla skipi sínu á grunn með stefnumið á Strandarkirkju þar sem sjór sýndist kyrrastur. Háflæði var og kenndi skipið grunns á flúðunum vestanmegin Strandarsunds.“
HlíðarendiByrjað var á því að færa skipshöfnina til lands og hlúa að henni. Þá tóku við björgunaraðgerðir farmsins. „Farmur á þilfari var fyrst borinn upp fyrir fjörukamb vestan Vindásbæjarrústa. Þar voru einkum tré er voru borin á öxlum tveggja manna. Þá komu plankar sem tveir báru og smáplankar, gólfborð, skífuborð, listar og mikið magn af plægðum viði eða panel. Svo virðist sem mestum hluta farmsins hafi verið bjargað óskemmdum á fyrstu dögum eftir strandið vegna þess hversu ládautt var. Á sama tíma var einnig bjargað silgingarbúnaði, áhöldum, tækjum og kosti. Honum uppborna viðarfarmi var staflað í aðgreind búnt eftir tegundum og síðan breitt yfir hann. Nokkuð af viði laskaðist í strandinu og var því safnað í hrúgur og selt samkvæmt sölunúmeri eins og annar viður. Hið verst farna fékk söluheitið hrak.“

Hlíðarendi í Selvogi - sögufrægt mannvirki

Uppboðið á varningnum var haldið 5. nóvember 1896. „Þegar uppboðsþing var sett var ljóst að fjölmargir væntanlegir kaupendur voru mættir á uppboðsstað. Þeir hafa komið úr mörgum hreppum Árnessýslu og víðar að en flestir úr Ölfushreppi. Þeir hafa þegar kynnt sér það sem í boði var og við blasti á malarkambi. Þeri hafa komist að raun um að hér var í boði nýr girnilegur húsbyggingarviður unninn til uppbyggingar á hærri, rýmri og betri húsakosti, en dreifbýlisfólk hafði átt að venjast hingað til. Timbrið var auk þess líklegt til að standa af sér eyðingaröfl þau er nýgengin voru yfir. Þeir sem komnir voru á strandstað með það í huga að byggja hús, allt að tveggja hæða, hafa tekið með sér smið og vinnumenn. Og þeir væntu þess óefað að gera góð kaup á rekafjörunni… Þeir sem stórtækastir voru á uppboðinu, sem stóð í tvo daga, voru stórhúsbyggjendurnir Þorbjörn í Nesi í Selvogi, séra Ólafur í Arnarbæli, Jón hrepstjóri á Hlíðarenda og Jakob í Auðsholti…“ Þessi menn byggðu tvílyft hús úr nefndum húsagerðarviði. „Hús þessi vitnuðu um stórhug og metnað byggjenda sinna og gegndu menningarhlutverki hvert á sínum stað. Þau eru nú fallin, utan eitt, Hlíðarendahús.

Heimild:
-Konráð  Bjarnason – Sending af hafi jarðskjálftasumarið 1896 – Lesbók MBL 20. febr. 1993.

Selvogur - örnefna- og minjakort

Selvogur – örnefna- og minjakort – ÓSÁ.

Herdísarvík

Hér rifjar Páll Sigurðsson upp „Útræði í Herdísarvík í Selvogi„. Frásögnin birtist í Morgunblaðinu árið 2000:
herdisarvik-930„Útræði var mikið frá Herdísarvík, enda fengsæl fiskimið steinsnar frá landi að kalla má, og sóttu þangað margir tugir manna víða að, einkum frá Suðurlandi en einnig úr nágrenninu. Lágu útróðrarmennirnir við í verbúðum, meðan á vertíð stóð, eins og venja var. Eru enn sjáanlegar miklar minjar um sjávarútveg og ýmis önnur umsvif í Herdísarvík fyrr á tíð. Innsti hluti víkurinnar sjálfrar, er liggur að kambi þeim, sem er milli tjarnarinnar og sjávar, nefnist Bót, en austast í henni var Vörin, þar sem útróðraskipin voru fyrrum dregin á land. Milli vertíða voru þau geymd þar nærri, í svokallaðri Skiparétt, þar sem hlaðnir grjótveggir héldu að þeim. Fyrir ofan Vörina stóðu margar sjóbúðir og má enn sjá glöggar tóttir sumra þeirra. Vitað er um nöfn margra búðanna, svo sem Landeyingabúð, Fljótshlíðingabúð, Símonarbúð, Bjarnabúð, Gíslabúð og Halldórsbúð, en það efni þarfnast þó nánari athugunar.

herdisarvik 931

Nær Herdísarvíkurbænum voru síðan m.a. Ólabúð og Hryggjabúð og að síðustu Krýsuvíkurbúð heim undir bænum, en frá höfuðbólinu Krýsuvík voru löngum gerð út tvö skip í Herdísarvík – en þar að auki var verstöðin að Selatöngum í landi Krýsuvíkur (rétt við vesturmörk þeirrar jarðar). Afla þeim, sem á land barst í Vörinni, var skipt á Skiptivellinum rétt ofan hennar. Enn má sjá mikla garða, er hlaðnir hafa verið í hrauninu austan og norðaustan Gerðistúnsins, þar sem fiskur var fyrrum þurrkaður eftir að hafa áður legið í „kös“ sem kallað var. Má ætla að samanlagt séu garðarnir nokkrir kílómetrar að lengd. Á svonefndum Básum austan Vararinnar (og niður undan Gerðistúni) var einnig gömul lendingarvör, sem kallaðist Skökk. Róið var með fornu lagi frá Herdísarvík fram á þriðja tug þeirrar aldar, sem nýliðin er. Ljóst er, að landið hið næsta Herdísarvíkurbæ hefur löngum legið undir ágangi sjávar, og fyrrum stóð mikill sjóvarnargarður, handhlaðinn úr stórgrýti, á kambinum milli Tjarnar og sjávar, en hann hrundi eftir að byggð var þar af lögð. Hefur sjór síðan valdið stórtjóni á túninu norðan Tjarnarinnar og virðist hafa komið fyrir lítið þótt vinnuvél ýtti upp nýjum garði fyrir fáum misserum; sá garður er nú einnig að hverfa. Að sumu leyti má rekja spjöllin til þess að landið sígur á þessum slóðum eins og víðar á Suð-Vesturlandi.
HerdísarvíkGamli bærinn í Herdísarvík stóð við vesturenda Herdísarvíkurtjarnar. Var hann löngum vel húsaður, m.a. baðstofa stór og góð, alþiljuð, og vandað stofuhús – og valinn rekaviður úr fjörunni að sjálfsögðu notaður í allt tréverk. Hið næsta bænum voru síðan ýmis útihús, sum þeirra einnig vönduð timburhús. Bærinn stóð lágt og varð því stundum fyrir ágangi sjávar í aftakaveðrum af suðri með hásævi, þegar Tjörnina fyllti og sjór gekk einnig upp frá henni. Bærinn var rifinn að hluta til árið 1934, eftir að nýtt íbúðarhús hafði verið reist, en þó má enn greina ummerki hans, undir klöppinni Skyggni. Vatnshólmi nefnist lítill hólmi í Tjörninni fram undan gamla bæjarstæðinu. Þar var tekið allt vatn til daglegrar neyslu, en það bullar þar upp um tjarnarbotninn fast við hólmann.“

Heimild:
-Morgunblaðið 15. janúar 2000, bls. 34-35.

Herdísarvík

Herdísarvík – gamli bærinn.

Við Torfabæ í Selvogi, skammt frá Strandarkirkju, er fallegur gamall sjógarður, sem Eyþór Þórðarson hlóð á árunum 1926-1934, eins og stendur á skilti á garðinum.
Sjovarnargardur í SelvogiGarðurinn er um 2 m hár og um 30 m langur en var áður mun lengri, sjórinn hefur tekið sinn skerf. Nú eru aðstæður þannig að sjórinn hefur dregið út hnullungafjöruna framan við garðinn svo að sums staðar sér undir undirstöðusteinana. Ef varðveita á þessar menningarminjar þarf að setja vörn framan við.
Framangreindar línur svonefndrar „Sjóvarnarskýrslu“ frá árinu 2004 voru skrifaðar í tilefni að fyrirhuguðum sjóvörnum landsins. Þrátt fyrir að sjóvarnir hafi verið bættar, t.d. neðan við Strandarkirkju, er framangreindur kafli Eyþórs frá Torfabæ, enn óvarinn. Ástæða er til að bæta um betur því minjar þessar eru þær einu er enn má sjá á handhlöðnum sjóvarnargarði í Selvogi. Að vísu má sjá stutta búta af garðinum hér og þar, t.d. neðan við Nes og Þorkelsgerði, en enga heillega sem þennan.

Hlínargarður

Hlínargarður í Herdísarvík.

 

Herdísarvík

Eftirfarandi fróðleikur um örnefni í Herdísarvíkurlandi eftir Ólaf Þorvaldsson birtist í Árbók Hins íslenska fornleifafélags árið 1948:
Herd-994„Austasta örnefni í Herdísarvík með sjó er Breiðibás. Hann er að finna með því, að ganga um 8 mínútur austur með sjó frá eystra túninu. Vestar en í miðjum Breiðabás, sem er allvítt malarvik milli hraunflúða, sem ganga í sjó fram beggja megin, er steinn í lögun svipaður saumhöggi á steðja, með sýlingu í miðju. Steinn þessi er á þurru með lágum sjó, og er landamerkjasteinn milli Herdísarvíkur og Stakkavíkur, úr honum bein lína í vörðu á brún Mosaskarðs, austarlega, sem síðar mun getið verða. Af Breiðabás er haldið vestur á bóginn, og verður þá fyrst fyrir eyðibýlið Herdísarvíkurgerði. Þar á túninu stóðu fram á seinustu ár tvö stór fjárhús, Langsum og Þversum, nú sennilega rústir einar. Eystra húsið snéri gaflhlöðum til austurs og vesturs, hitt til suðurs og norðurs. Niður undan miðju túninu eru malarvik í flúðirnar, og heita þau Básar. Vestast í fyrrnefndum flúðum er gömul vör (lending), Skökk. Ekki var hægt að fara í vör þessa nema ládautt væri. Þar má enn sjá kjalarför í klöppunum eftir setningu skipa. Í norður frá Gerðistúninu, ofan garðs, er Sundvarða eystri, og átti hún, þegar sundið var tekið, að bera í Sundhamar, sem er austast í Herdísarvíkurfjalli, og síðar mun nefndur (á austanverðu sundinu er blindsker, sem Prettur heitir og brýtur á í brimi).

Herd-995

Vestan við Gerðistúnið er Dalurinn, gamall skiptivöllur, þar sem formenn skiptu afla í ,“köst“. Norðan við hann voru sjóbúðir, byggðar hlið við hlið. Símonarbúð, þá Bjarnabúð og austast Gíslabúð. Þá vestar og nær sjó Hryggjabúð. Búðir þessar eru víst engar uppi standandi lengur. Vestur af síðast talinni búð var Skiparéttin, umgirt háum og þykkum grjótveggjum á fjórar hliðar. Þar gengu sjómenn frá skipum sínum milli vertíða. Framan undan búðunum er Bótin, aðallending Herdísarvíkur, en upp af henni er hár og þykkur malarkambur, Herdísarvíkurkambur. Liggur hann sem gleiður bogi um Bótina, en svo lágur er hann vestan til, að í aftakaveðrum af hafi gengur sjór yfir hann og fyllir tjörnina, sem er innan við og liggur upp að túninu, svo að stundum fyllti öll hús, sem við tjörnina stóðu, svo að úr þeim varð að flýja með allt, sem komizt varð með, lifandi og dautt. Aldrei mun þetta hafa valdið slysum á mönnum eða skepnum, en tjóni olli það oft bæði á húsum og munum, svo og matbjörg.
Herd-996Nú fyrir nokkrum árum hafa öll hús verið flutt efst á túnið, en þar eru þau í minni hættu. Innan við Kambinn er, eins og fyrr segir Herdísarvíkurtjörn. Milli heimatúns og Gerðistúns er grjótgarður mikill, Langigarður, ætlaður sem aðhald fyrir stórgripi Herdísarvíkur á graslendi því, sem er milli túna. Sá garður mun hafa verið hlaðinn af sjómönnum í landlegum. Við hlið, austur úr heimatúninu, við tjörnina, var sjóbúð, Ólabúð, nú sennilega ekki lengur til. Austarlega í túninu er klettastapi, sem gengur fram í tjörnina, Hestaklettur, austan við hann Hestavik.

Herdísarvík

Sjóbúðir í Herdísarvík.

Vestast og efst í túninu, þar sem nú eru gripahús og heyhlaða, var Krýsuvíkurbúð, en hún var, eins og nafnið bendir til, sjóbúð Krýsuvíkurmanna. Heimajarðarbændur í Krýsuvík gerðu þar (í Herdísarvík) út tvö skip og áttu því sem aðrir útgerðarmenn sína búð. Sunnan undir heyhlöðu og gripahúsum er Urðin. Þar er sem saman hafi verið safnað á lítinn blett mikilli dyngju af lábörðum steinum, nokkuð misstórum, en mest af þeim má teljast björg svo stór, að enginn mun hafa fært þau þar saman nema Ægir karl, en athyglisvert virðist það, að þau skuli hafa hlaðizt þarna upp í mörg lög á smábletti, en sjást hvergi svipuð, fyrr en niður við sjó. Milli Urðarinnar og gamla bæjarstæðisins er smátjörn, Kattartjörn. Þornar hún upp að mestu á sumrin; sést þá, að botninn er að mestu gróinn; vex þar upp þétt og kröftug gulstör, og stingur þessi stararblettur mjög í stúf við annan gróður þar og allt umhverfi. Bendir þessi litli stararblettur á, að þarna hafi starengi verið áður en elzta hraunið rann? Sem fyrr er sagt, stóð gamli bærinn á tjarnarbakkanum, nærri vestast í túninu. Framan undan bænum er smáhólmi í tjörninni, Vatnshólmi. Lítil trébrú var út í hólmann, og var vatn sótt þangað fyrir bæ og fjós, þar sem vatnið bullaði upp undan hólmanum á alla vegu, kalt og ferskt úr iðrum jarðar. Suðvestur af Vatnshólmanum gengur smátangi út í tjörnina, Sauðatangi. Þá eru talin örnefni í næsta umhverfi bæjarins og austan við hann. Suðvestur af Herdísarvíkurtjörn eru nokkrar smátjarnir og heita Brunnar. Milli þeirra og tjarnarinnar er Steinboginn, steinstillur, sem settar hafa verið þarna niður til að stytta leið niður á vesturkambinn, ef hátt var í tjörnunum. Spölkorn suður af Brunnum, nær sjó, er Sundvarða vestri. – Reykjavík, síðasta vetrardag 1948. Ólafur Þorvaldsson.“

Heimild:
-Árbók Hins íslenska fornleifafélags, 49. árg. 1943-1948, bls. 129-139.

Herdísaarvík

Herdísarvík um 1900.

Herdísarvík

Eftirfarandi frásögn Ólafs Þorvaldssonar um jörðina Herdísarvík birtist í Árbók Hins íslenska fornleifafélags árið 1948:
Herd-991„Jörðin Herdísarvík er vestasti bær í Selvogshreppi og þar með vestasti bær í Arnessýslu með sjó fram. Jörðin liggur fyrir botni samnefndrar víkur, og er hún vestast í vogi þeim, er Selvogur heitir, allvíður og bogamyndaður, gengur inn í landið frá suðri. Takmörk hans eru: Selvogstangar að austan, en Olnbogi, austan Háabergs í Herdísarvíkurlandi, að vestan. Tún jarðarinnar er í suðurjaðri Herdísarvíkurhrauns, hólótt og dældótt, jarðvegur grunnur því að víðast er grunnt á hrauni. Með beztu umhirðu gefur túnið (heimatúnið) af sér um tvö kýrfóður, ca 80 hesta. Fyrir öllu túninu að sunnan er smátjörn, og er dálítil silungsveiði í henni, fáu fólki til smekkbætis og nokkurra búdrýginda, en skynsamlega verður að fara að þeirri ve;ði, ef ekki á að uppræta stofninn, þar sem líka utanaðkomandi, óviðráðanleg atvik geta stórfækkað silungnum á nokkrum klukkutímum, og er það
þegar stórflóð koma í tjörnina af völdum stórviðra af hafi, en þeim fylgir þá ævinlega stórbrim.
Herd-993Annars er saga Herdísarvíkur-silungsins þannig: Fyrir um sjötíu árum lét Árni Gíslason, fyrrv. sýslumaður í Skaftafellssýslum, sem þá bjó í Krýsuvík og átti báðar jarðirnar, flytja um eða innan við 100 silunga, fullþroskaða, sem hann fékk úr Hlíðarvatni, út í Herdísarvíkurtjörn. Voru þeir bornir í bala og fötum með vatni í. Flestir munu þessir silungar hafa komizt lifandi í tjörnina, og kona, sem þá var unglingur í Herdísarvík, sagði þeim, er þetta ritar, að morguninn eftir hefðu nokkrir silungar legið dauðir við landið, þar sem þeim var sleppt í tjörnina, en hinir verið horfnir út í vatnið. Eftir nokkur ár fór að veiðast þarna við og við silungur til matar fyrir heimafólk. Þegar fram liðu stundir, kom í ljós, að þarna náði silungurinn miklu meiri þroska en hann nær yfirleitt í Hlíðarvatni, og mun aðalorsök þess vera meira og betra æti, t. d. er þar um mikla marfló að ræða, svo og mikinn botngróður.
Spölkorn fyrir austan túnið var áður fyrr hjáleiga, Herdísarvíkur-gerði, og sjást nú fáar minjar þess, að þar hafi bær verið, en tún er þar nokkurt enn; þó hefur sjór brotið eitthvað af því. Tún þetta mun aðallega hafa gróið upp undan sjófangi; fiskur borinn þangað upp til skipta, kasaður þar áður en upp var borinn til herzlu; þorskhöfuð og hryggir þurrkaðir þar, og öðrum fiskúrgangi kastað þar út, — en undan honum grær jörð fljótast. Útræði var mikið úr Herdísarvík og hafði verið öldum saman, og var talið með beztu verstöðvum austanfjalls, og við og við var gert út þaðan fram á þriðja tug tuttugustu aldar.
Herd-992Fiskisælt var þar í bezta lagi og lending góð; þó var oft nokkur lá í bótinni, þar sem lent var, þótt útsjór væri allgóður. Fiskurinn var yfirleitt hertur til útflutnings, og má enn sjá þurrkgarða á allstóru svæði í brunabelti uppi undir fjalli. Var fiskurinn, eftir að hafa legið í kös, jafnvel í fleiri vikur, borinn á bakinu eða í laupum eða kláfum til þurrkgarða. Þetta, að kasa fisk undir herzlu, var talsvert vandaverk, enda formenn vandlátir þar um, því að ef illa var gert, gat meira eða minna af fiski, sem í kösinni var, stórskemmzt, en þetta er önnur saga og því ekki sögð nánar hér.

Hlunnindi Herdísarvíkur voru talin: Sauðfjárbeit góð, svo að af bar, bæði til fjalls og fjöru. Útræði ágætt, og er þá aðallega átt við góða lendingu og fiskisæld. Viðarreki var, þegar reka-ár komu, oft allmikill, og nú, um síðastliðin 50—60 ár, silungsveiði til skemmtunar og nokkuð til búdrýginda. Fiski og hrognkelsum skolaði þar stundum á land til muna seinni part vetrar, þegar fiskur var í göngu.
Herdísarvík
Flæðihætta við sjó engin fyrir sauðfé, og er það mjög mikill kostur, þar sem fé gekk svo mikið sjálfala allan ársins hring. Fjöruskjögur í unglömbum þekktist ekki, og mun þar um valda, að fjaran er ekki mjög sölt sökum vatna, sem um hana renna, — en sér í lagi þó kjarnamikill gróður til landsins, strax upp frá fjörunni, og í þriðja lagi mætti nefna, að fjörubeitin er fyrir það mesta bitfjara, en ekki rekafjara.
Til galla má helzt telja, að mjög sterk veður af norðri koma þar stundum, og kom fyrir, að skaði hlytist af, ef hey voru á túnum, og máttu búendur illa við, þar eð heyskapur er enginn utan túns, en þau heldur lítil. – Reykjavík, síðasta vetrardag 1948. Ólafur Þorvaldsson.“

Heimild:
-Árbók Hins íslenska fornleifafélags, 49. árg. 1943-1948, bls. 129-139.

Herdísarvík

Herdísarvík um 1950.

Ólafur Þorvaldsson

Ólafur Þorvaldsson lýsir hýsingu jarðarinnar Herdísarvík í Árbók Hins íslenska fornleifafélags árið 1948:
Herd-998„Nú skal minzt gömlu bæjarhúsanna, ásamt útihúsum, sem stóðu vestast á túninu á bakka tjarnarinnar. Öll eru hús þessi nú horfin. Á þessum umgetna stað við tjörnina mun Herdísarvíkurbærinn, ásamt fleiri og færri útihúsum hafa verið búinn að standa um aldir. Þess sjást hvergi merki, að bærinn hafi annars staðar verið, en vitað er, að byggð í Herdísarvík er mjög gömul. A þessum staö í túninu við tjörnina var Herdísavík. Á þessum stað lifði og starfaði fólkið, — og dó, kynslóð eftir kynslóð. Þarna bjó fólkið í nýjum bæ eða gömlum bæ, byggði upp og endurbætti. Þarna bjuggu oft stórbændur til lands og sjávar, og flestum mun hafa vegnað þar vel efnalega, enda var haft að orðtaki austur þar, að „Herdísarvíkin fæddi sofandi sína.“
Mun ég nú lýsa bæjar- og útihúsum, sem á áðurnefndum stað stóðu, eins og þau litu út, þegar ég tók við þein 1927, og voru svo, þar til þau voru rifin eða féllu, eftir að ég fór þaðan 1933. herd-1000
Bæjarhúsin þrjú snéru stöfnum mót suðri. Vestast stóð baðstofan, hliðarveggir úr grjóti, hlaðin undir syllur, framslafn úr timbri nokkuð niður fyrir glugga, sem var með sex rúðum, norðurstafn úr timbri, jafn risi, en sléttur grasbali fyrir neðan í tóftarstað, á þeim stafni gluggi með fjórum, stórum rúðum, annar helmingur hans á lömum. Þessi gluggi var, auk þess sem opnanlegir gluggar eru ætlaðir til, öryggis-útkomustaður fyrir fólkið, þegar svo bar við, að sjór gekk á land og fyllti svo bæjarhús, að útgöngu var ekki auðið um bæjardyr, þar eð þær ásamt frambænum öllum lágu mun lægra en baðstofa. Öll var baðstofan þiljuð í hólf og gólf, skarsúð úr þykkum og breiðum borðum á sperrum, þiljur og gólf sömuleiðis af breiðum og plægðum borðum. Þessi baðstofa var rifin 1934, þá um sjötíu ára gömul, ófúin, nema eitthvað af undirviðum, sem sjór var svo oft búinn að leika um öll þessi ár. Inni var baðstofunni skipt í þrennt: til endanna afþiljuð herbergi, tveggja rúma lengd hvort, en í miðju var gangur, sem svaraði til einnar lengdar, var þar lítill kvistur á vestursúð, undir honum stór skápur, á honum var tekinn til matur og kaffi skenkt. Úr þessum gangi lágu fjórar tröppur til bæjardyra. Austan við baðstofu var frambærinn, með heilu þili.
Vestast á þilinu voru háar dyr og inn af þeim afþiljaður gangur, og úr honum miðjum göng til baðstofu, en innst úr ganginum var gengið inn í stórt eldhús, og var í því stór eldavél. herd-1001Utarlega í ganginum voru dyr til hægri, sem lágu til stofu, stóð þar alltaf uppbúið gestarúm. Loft var uppi yfir frambænum, vel til hálfs. Fjögurra rúðna gluggi var á stafni ofarlega fyrir loftið, en sex rúðna niðri fyrir stofu. Þriðja húsið, með stafni mót suðri, var búrið, með litlu hálfþili, og tók ekki eins langt fram og hin húsaþilin. Öll voru hús þessi byggð af rekaviði að öllu leyti, öll voru þau járnvarin utan, en torf á járni á frambæ og búri. Veggir allir þykkir, hlaðnir úr grjóti. Þá voru aðeins sunnar á hlaðinu, nær tjörninni, tvö hús, sem snéru stöfnum til vesturs. Var syðra húsið smiðja, en hið nyrðra hjallur; hliðarveggir hlaðnir af grjóti, þiljaðir stafnar jafnt sperrum, en minna klæddir hið neðra. Loft var yfir hjallinum óllum: Norðan við hjallinn var stór grunnur undan húsi, hlaðinn af grjóti, og stóð þar áður geymsluhús, venjulega nefnt „pakkhús“. Eitt milliþil var í húsi þessu og var minni karmurinn notaður sem smíðahús, en sá stærri fyrir matarforða heimilisins, aðallega kaupstaðarvarning, sem oft var nokkuð mikill, þar eð venja var að fara aðeins eina kaupstaðaríerð á ári. Hús þetta tók af grunni með öllu sem í var í aftaka sunnanveðri með óvenjulega miklu stórbrimi hinn 25. febrúar 1925, og var talið, að sjór hefði ekki í marga áratugi, jafnvel frá því er Bátsenda tók af, gengið svo á land hér sunnanlands sem í þessu flóði. Sjórinn tók húsið í heilu lagi af grunni, því að vel var viðað og traustlega byggt, og setti niður fyrir fjósdyrum úti (fjósið stóð þá austan undir bænum), svo að ekki var hægt að koma kúnum úr fjósinu, fyrr en út féll og hægt var að fara með þær út um bæjardyr. Það, sem bjargaði kúnum frá drukknun, var það, að þær náðu fótfestu með framfótum uppi í veggnum, fyrir básunum, og stóðu þar með upp úr sjó að framan, en svo mikill var sjór í fjósinu, að á básunum náðu þær ekki niðri, og var svo meira en eina stund. Semi dæmi þess, hve hafrótið var mikið og að sjór, sem á land gekk, hefur átt rætur langt undan landi, má geta þess, að þegar sjór féll út, kom í ljós, að mikið af smákarfa og keilu, hafði skolað á land, og keila fannst í bæjardyrum og öðrum húsum, sem sjór braut upp og flæddi inn í.
herd-1002Eftir þetta flóð var „pakkhúsið“ flutt upp og norður fyrir tún og sett á sléttan hraunbala og stóð þar enn fyrir fáum árum, en mun hafa lítið verið notað nú í seinni tíð. Nýtt fjós var byggt næsta vor og fært vestast á túnið, fjær tjörninni.
Vestan undir baðstofunni var matjurtagarður, annars voru kartöflur aðallega ræktaðar í gömlum fjárréttum og borgum, svo og í Skiparéttinni, sem nefnd er í örnefnalýsingunni. Eins og fyrr segir, eru öll þessi hús, sem hér hafa verið talin, rifin eða fallin, en rústir sumra þeirra munu lengi enn sjást.

Hið nýja íbúðarhús, sem byggt var á jörðinni 1932, var sett niður, ekki „utan garðs“, en nyrzt og efst á túnið, mjög skammt frá útihúsum, sem þar voru fyrir. Í þessu nýja húsi dó skáldið Einar Benediktsson eftir nokkurra ára veru þar, farinn mjög að heilsu og kröftum.
Hér hefur náttúran skrifað sína sögu sem annars staðar, hér hefur hún mótað myndir og rúnir á steintöflur sínar, og hér hefur fólkið, öld eftir öld, lesið og ráðið þær rúnir og lifað eftir. Hér hefur fjármaðurinn reikað með hjörð sína um haga úti, talað við fé sitt og talað við náttúruna, og oft fengið svar við hljóðum spurningum. Nú er svo komið hér sem víða annars staðar á afskekktum jörðum, að nú er enginn orðinn eftir til að tala við náttúruna, svo að nú talar hún „ein við sjálfa sig.“ – Reykjavík, síðasta vetrardag 1948. Ólafur Þorvaldsson.“

Heimild:
-Árbók Hins íslenska fornleifafélags, 49. árg. 1943-1948, bls. 129-139.

Herdísarvík

Herdísarvík – byggt 1932.

Herdísarvík

Geitafellsrétt

Geitafellsrétt (Selsvallarétt/Gjáarrétt) er undir Réttargjá suðaustan við Heiðina há, þar sem gjáin rís hæst. Um er að ræða nokkra dilka og almenning, auk leiðigarðs. Veggirnir standa nokkuð heillegir. Þegar Geitafellsrétt var aflögð um aldamótin 1900 var hlaðin rétt á Vörðufelli í Strandarheiði. Hún þótti erfið til rekstrar svo Selvogsréttin nýrri (Girðingarrétt) var hlaðin í heiðinni milli Hnúka og Urðarfells (Svörtubjarga). Réttin sú hefur einnig verið nefnd Gamlarétt, en hún var aflögð árið 1957.

Geitafellsrétt

Geitafellsrétt – uppdráttur ÓSÁ.

Í Örnefnaskráningu Gísla Sigurðssonar, yfirfarinni af Eyðþóri Þórðarsyni frá Torfabæ í Selvogi, fyrir Nes segir m.a.:
„Austur af Hnúkunum er komið á svæði, sem einu nafni er kallað Gjárnar eða Á Gjánum. Þetta svæði er milli Hnúka og Geitafells. Um það liggja gjár, sem það dregur nafn af. Þær liggja allar í sömu átt, frá Geitafelli. Austust og næst landamerkjum er Nesgjá. Vestar og nær Geitafelli er Réttargjá. Við hana var áður fyrr rétt, Geitafellsrétt, austur undir Geitafelli. Það var fyrrum aðalrétt Selvogsmanna og Ölfusinga. Við
austurenda Réttargjár eru Selsvellir alveg inn undir Geitafelli. Það var slægjuland frá Nesi. Þar fékkst gott hestahey. Götugjá er neðsta gjáin“.
Götugjá hefur einnig verið nefnd Nesgjá. Milli hennar og Geitafells eru tóftir sels vestan undir hraunhól.

Í Örnefnaslýsingu Gísla um Selvogsafrétt, einnig yfirfarinni af Eyþóri, segir:

Geitafellsrétt

Geitafellsrétt.

„Nesgjá er austust af gjánum, næst hreppamörkum. Réttargjá er vestar og nær Geitafelli Þar austur undir fellinu er Geitafellsrétt, en þar var fyrrum aðalrétt Selvogsinga og Ölfusinga“.

Í Þjóðólfi 1875 eru „Auglýsingar„. Þar er getið um Geitafellsrétt sbr:
„Um leið og eg geri almenningi kunnugt, að eg samkvæmt tilmælum amtmannsins yfir suðr- og vestrumdœminu hafi verið skipaðr lögreglustjóri til upprœtingar fjárklábans í suðurhluta Gullbringusýslu, í Selvogi og í Út-Ölfusinu inn fyrir Hjallahverfið, skal hér með skorað á fjáreigendr þá, sem kindr kynnu að eiga í réttum þeim, sem sótt er að úr þessu lögsagnarumdœmi mínu, að koma sem tímanlegast, að réttunum og hirða kindr sínar. Mun almenn skoðun á réttarfenu, fyrr en er dregið, fara fram í Gjáarrétt mánudaginn 20. p.m., í Geitafellsrétt þriðjudaginn 21. s. m. og í Hveragerðisrétt miðvikudaginn 22. s.m. Allar kindr þær, sem þá finnast með kláða eðr kláðavotti, munu samkvæmt 4. gr. tilsk. frá 5. jan. 1866 verða stranglega aðskildar frá hinu fénu og skornar þegar stað við réttina, ef eigandinn er ekki við til að hirða þær á tryggjandi hátt, svo að þær ekki nái samgöngum við annað fé, eða ef enginn annar vill taka þær að sér til hirðingar…“. – Reykjavík 15. september 1875, Jón Jónsson.

Í „Aðalskráningu fornleifa í sveitarfélaginu Ölfusi, Áfangaskýrsla I“, segir um Geitafellsrétt:

Geitafellsrétt

Geitafellsrétt – uppdráttur í Aðalskráningu fornleifa í Ölfusi.

„Geitafellsrétt er rúma 11,5 km norðaustan við [Nes í Selvogi]. Á heimasíðu FERLIS segir: „Geitafellsrétt (Selsvallarétt) er undir Réttargjá þar sem hún rís hæst. Um er að ræða nokkra dilka og almenning. Veggirnir standa nokkuð heillegir. Þegar Geitafellsrétt var aflögð um aldamótin 1900…“.
Umhverfis réttina er grasivaxið svæði. Til vesturs rís hamraveggur gjárinnar. Mosavaxið hraun er til austurs. Réttin er 34×20 m að stærð, snýr norðursuður og er í aflíðandi halla til austurs. Hún skiptist í fimm hólf og aðrekstrargarð. Réttin er sem fyrr segir hlaðin upp við vesturvegg Réttargjár og er grjóthlaðin. Veggirnir eru 0,5-1,2 m á hæð og má sjá 3-5 umför grjóthleðslu í þeim. Lýsingin hefst nyrst, í hólfi 1. Það er 15×7 m að innanmáli og snýr norðursuður. Tvö op eru inn í hólfið, eitt til norðurs inn í hólfið en hitt til suðvesturs, yfir í hólf 2. Réttargjá afmkar hluta af vesturvegg og er bjargið um 10 m hátt. Þetta er líklega almenningurinn. Hólf 2 er vestan við hólf

Réttargjá

Varða á Réttargjá.

1. Það afmarkast af hamravegg gjárinnar til vesturs, stórgrýti til austurs en hlaðnir veggir eru til suðurs. Hólfið er þríhyrningslaga, 12×6 m að stærð og snýr norður-suður. Op er sem fyr segir til austurs yfir í hólf 1 og annað til suðurs, yfir í hólf 4. Hólf 3 er sunnan við hólf 1. Það er minnst í réttinni og ekki sér móta fyrir opi þar inn. Hóflið er 7×7 m að stærð og er einnig þríhyrningslaga. Það mjókkar til vesturs. Hólf 4 er sunnan við hólf 2 og 3. Það er 14×8 m að innanmáli og snýr norðvestur-suðaustur. Op er á miðri suðurhlið, annað til norðurs, yfir í hólf 2 og hið þriðja til vesturs í hólf 5. Suðurhlið hólfsins er hrunin að mestu. Hólf 5 er vestan við hólf 4. Það er undir klettavegg gjárinnar og inn á milli bjarga sem þar eru. Hólfið er 4×1 m að innanmáli og snýr austur-vestur. Til norðausturs frá hólfi 3 er 35 m langur aðrekstrargarður. Hann er grjóthlaðinn, 1 m á breidd og 0,3-0,6 m á hæð.“

Heimildir:
-Nes- Örnefnaskrá, Gísli Sigurðsson og Eyðþór Þórðarson frá Torfabæ í Selvogi.
-Selvogsafréttur, Örnfanaskrá, Gísli Sigurðsson og Eyðþór Þórðarson.
-Þjóðólfur, 27. tbl. 20.09.1875, Auglýsingar, bls. 109-110.
-Aðalskráning fornleifa í sveitarfélaginu Ölfusi – Áfangaskýrsla I, Fornleifastofnun Íslands 2015, bls. 108-109.

Geitafellsrétt

Geitafellsrétt. Geitafell fjær.

Heiðin há

Í Andvara 1884 er frásögn Þorvaldar Thoroddsens af ferð hans á Heiðina há ásamt séra Ólafi, presti á Vogsósum, undir fyrirsögninni „Ferðir á Suðurlandi sumarið 1883„:

Heiðin há

Heiðin há – gígurinn (loftmynd).

„Upp af Selvogsheiði er fjarskamikil hraunhunga, sem kölluð er »Heiðin há«. þangað fórum við með sjera Ólafi frá Vogsósum. Heiðin há er 2030 fet á hæð, goysimikil flatvaxin eldfjallsbunga, lik í lögun og Skjaldbreiður; hún er hlaðin upp úr óteljandi, gömlum hraunlögum suður af Bláfellshlíðum ; hallast hún jafnt og pjett niður að Selvogsheiði (3°), og eru margar og langar gjár í lægðinni, þar sem þær mætast. Efst er Hrossagjá; hún er styzt, og er utan í heiðarhlíðinni sjálfri; þar næst Strandagjá, mjög löng, nær frá Svörtubjörgum upp undir Geitafell; svo er Rjettargjá ; hún byrjar í slakkanum milli heiðanna, og nær upp í Geitafell; og syðst er Götugjá (eða Nesgjá); hún nær frá sjó yfir hlíðina á Selvogsheiði upp í Lambafellshraun fyrir noðan og austan Geitafell; neðri (syðri) brúnin, sem er utan í Heiðinni há, er lægri, svo landið hefir auðsjáanlega sigið í slakkanum milli heiðanna.

Heiðin há

Heiðin há – gjár.

Þegar við fórum upp á »Heiðina há«, fórum við upp Grindaskarðaveg upp að Hvalhnúk, og riðum svo þar upp á sjálfa heiðarbunguna. Efst á heiðinni markar fyrir gígnum, sem öll þau fjarskalegu hraun hafa komið úr, sem mynduðu heiðina. Gígurinn er nú fullur af hrauni, en hefir verið afarstór, sem sjá má af leifum þeim, sem eptir standa af gígröndinni; það eru dálitlir hraunhnúkar, sem standa í kring; gígurinn hofir verið allt að 100 faðmar að þvermáli; sunnanverðu við þenna gíg er að auki 2 eða 3 bollar miklu minni, hálffullir af hrauni. Sjálf er heiðin mjög stór um sig; eintóm gömul hraun, með holum og gjótum og hallast lítið, 2°, til vosturs, og 3° til austurs.

Heiðin há

Heiðin há – jarðfræðikort Ísor.

Heiðasljetturnar milli »Heiðarinnar há» og Brennisteinsfjalla eru einn storkinn hraunsjór; hafa þessi hraun flest fallið ofan úr austurhallanum á Brennisteinsfjöllunum, því þar eru stórir gígir svo tugum skiptir allt norður fyrir Grindaskörð: Úr þessum hraunum hafa straumarnir komið, er fjellu niður hjá Stakkavík og Herdísarvík. Gömlu hraunin í Selvogi, sem víðast eru nú mjög sandorpin, eru flest komin úr Selvogsheiði, og saman við þau hafa að ofan runnið hraun úr Heiðinni há. Austan við Heiðina há, milli hennar og Meitla og Geitafells að austan, tekur við vestri armurinn af Lambafellshrauni. Við fengum bezta veður, og útsjónin var ágætlega fögur; landið lá eins og uppdráttur fyrir fótum vorum, allt austur í Eyjafjöll og norður yfir Faxaflóa.

Heiððin há

Heiðin há – jarðfræðikort.

Sunnanlandsundirlendið allt og stórárnar sáust einkar vel, eins og grænn dúkur með silfruðum hríslum; Vestmannaeyjar lyptust upp af hyllingunni, og Snæfellsjökull norðan við flóann blasti við eins fagur og hann er vanur; langt upp á landi rís Skjaldbreiður við himin, og jöklarnir með hvítleitum bjarma. Norðan við Heiðina há eru Bláfjöll, eða rjettara sagt; norðurbrún hennar styðst upp að Bláfjöllum. Það er mikill og langur fjallgarður og hár (um 2200 fet); frá þeim gengur hálsarani suður lægðina milli Heiðarinnar há og Brennisteinsfjalla, sem heitir Ásar; Hvalhnúkur er einn af þeim ásum.“

Ólafur Þorvaldsson skrifaði um Grindarskarðsveginn í Árbók Hins íslenska fornleifafélags 1943. Frásögn hans tekur við þar sem lýsing Þorvaldar sleppti:

Heiðin há

Í Heiðinni há  – Bláfjöll fjær.

„Þegar lagt er upp úr Stóra-Leirdal, er strax farið upp allbrattan háls, með nokkrum aðdraganda austur af. Er þetta Hvalskarð.
Suðvestur af Hvalskarði er Hvalhnjúkur, mjór og allhár, en frekar þunnur. Ekki þætti mér ólíklegt, að nafnið sé dregið af lögun hnjúksins, svo mjög minnir hann á bak stórhvelis að allri lögun. Annars segir þjóðsagan, að tröllkona norðan af fjalli hafi farið til fanga í Selvog og komið þar á hvalfjöru og haft þaðan með sér það, sem hún treysti sér til að komast með, en til hennar sást og hún elt. Varð henni allerfið undankoman, og náðist hún í skarði því, sem síðan er nefnt Hvalskarð og hnjúkurinn þar suður af Hvalhnjúkur, sem fyrr er getið.

eiðin há

Efst í Heiðinni há.

Þegar austur úr Hvalskarði er komið, taka við Hvalskarðsbrekkur til vinstri handar, en Lágahraun, með háum, strjálum hólum, til hægri handar. Hvalskarðsbrekkur liggja í suður- og suðvesturdrögum víðáttumikillar heiðarbungu, er nefnist Heiðin há. Ekki er mikill gróður uppi á Heiðinni há. Grámosi er þar fyrirferðarmestur, og liggur hann yfir hálfbrenndum grjóturðum.

Fjallið eina

Fjallið eina.

Mishæðalaus má heiðin teljast, en dregst að toppi á alla vegu, og heitir efsti toppur hennar Kerlingarhnjúkur og er 62 6 m hár. Útsýni í björtu er allmikið og oft fagurt af heiðartoppnum, en þó sést ekki það fegursta, sem Heiðin há hefur að bjóða, — en menn vita aðeins af því kringum sig — það er nafn heiðarinnar, það er einkennilega fagurt, í senn fornlegt og skáldlegt. Að velja einmitt þetta nafn, en ekki t.d. Háaheiði eða eitthvað þvílíkt, lýsir því, hvað sá, sem skírði, hefur verið mikill snillingur í nafngiftum á örnefni, og sennilegt er, að fleiri fögur og sérkennileg örnefnaheiti um þessar slóðir eigi til sama manns að telja. Má þar nefna Fjallið eina, sem sver sig greinilega í sömu ætt.

Þegar Hvalskarðsbrekkum sleppir og komið er nokkuð austur með heiðarbrekkunum, er stór, stakur hraunhóll vestur við veginn, Þorvaldshóll. Litlu austar, þegar brekkunum sleppir, eða þær lækka svo, að útsýn opnast til norðausturs, blasir við í þeirri átt allstórt fell, Urðarfell.“

Sjá einnig HÉR.

Heimildir:
-Andvari, 1. tbl. 01.01.1884, Ferðir á Suðurlandi sumarið 1883, Þorvaldur Thoroddsen, bls. 23-24.
-Árbók Hins íslenska fornleifafélags 01.01.1943, Grindaskarðavegur – Ólafur Þorvaldsson, bls. 102-103.

Heiðin há

Kerlingarhnúkur – Geitafell fjær.

Herdísarvík

Einar Þorsteinsson frá Hreiðuborg skrifar um „Verbúðalíf í Herdísarvík og Selvogi“ á seinni hluta 19. aldar í Sunnudagsblað Alþýðublaðsins árið 1939:

Einar Þorsteinnson„Ég, Einar Þorsteinsson, er fæddur 8. desember 1870 í Móakoti hjá Hjalla í Ölfusi. Faðir minn var Þorsteinn Teitsson, sonur Teits Helgasonar hafnsögumanns á Eyrarbakka, er bjó í Einarshöfn. Móðir mín var Guðlaug Hannesdóttir frá Hjalla. Faðir hennar, Hannes Guðmundsson, var lengi bóndi á Hjalla og víðar í Ölfusi. Er ég var 6 ára að aldri var ég tekinn til uppfósturs af Ólafi Jóhannessyni og Ragnhildi Ísleifsdóttur, sem þá bjuggu á Mosastöðum í Kaldaðanesshverfi. Þegar ég var 16 ára, fluttu fósturforeldrar mínir að, Hreiðurborg í Kaldaðarnesshverfi — og bjuggu þar frá því.
Veturinn 1887 var farið að tala um, að ég færi eitthvað á vertíðinni, til að læra sjóstörf, og ná í einhvern afla. Var þá leitað til föður míns, hvort hann myndi ekki geta komið mér fyrir á sama skipi og hann réri á, og var talað um hálfdrætti. — Þá voru mikið notuð handfæri í Herdísarvík, en þar réri faðir minn. Þetta gekk vel, ég fékk að vera í skjóli föður míns, sem kallað er. Skyldi ég hafa helming af því sem ég drægi á færi og svo hálfan hlut — þegar fiskað var á línu (lóð).

Krýsuvík

Í Krýsuvík 1887. Árni Gíslason lengst t.h.

Svo leið að vertíð. Þá fór ég til föður míns, en hann bjó þá í Hraunshól hjá Hrauni í Ölfusi. Það var áður búið að fara með útgerð mína, skrínu með kæfu og smjöri. Það var væn kind í kæfu og 2—3 fjórðungar af smjöri og hangikjöt. Svo voru skinnklæði, brók og skinnstakkur, og hey í poka á bálkinn, í rúmstæðið — og ekki má gleyma harðfiskinum, sem hafður var líka.
Eins og fyrr segir, fór ég til föður míns, og gengum við svo til Herdísarvíkur, beint út sanda og hraun til Vogsósa. Stönzuðum þar, og svo áfram til Herdísarvíkur. Formaður okkar var Þorkell Jónsson vinnumaður hjá Árna Gíslasyni fyrrverandi sýslumanni í Skaftafellssýslu, sem þá bjó í Krýsuvík. Árni átti skipið og tvö önnur, sem gengu þarna á vertíðinni. Formenn fyrir þeim hétu Einar frá Nýjabæ og Guðmundur, sem kallaður var ráðsmaður.

Herdísarvík

Herdísarvík 1940-1950. Krýsuvíkursjóbúðin var heima við bæ.

Þessa vertíð voru þarna 6 skip. Árni átti 3. Bjarni Hannesson bjó þá í Herdísarvík, bróðir Guðmundar, sem lengi var í Tungu í Flóa. Hann átti víst 2 skip — eða þeir mágar í félagi, Björn Eyjólfsson og Bjarni. Björn Eyjólfsson var bróðir Sólveigar konu Bjarna. Þau systkini voru börn Eyjólfs frá Þorlákshöfn — Björnssonar frá Þúfu í Ölfusi. En móðir þeirra var Sigríður Jónsdóttir, Geirmundarsonar, þess sem getur um í Kambránssögu. Sjötta skipið var með að mig minnir Sæmundur Ingimundarson frá Stakkarvík, og held ég að Bjarni hafi átt það. Flest af þessum skipum hafði víst smíðað Björn Eyjólfsson. Hann var smiður mikill bæði á járn og tré. Var til þess tekið, hvað hann var mikilvirkur og vandvirkur, alltaf var hann í smiðjunni, þegar landlegur voru á vertíðinni. Meira um Björn segir síðar.
Nú var ég kominn í útver og leið vel. Ekki gaf nú strax á sjó, og hafði ég lítið að gjöra, enn faðir minn var ekki iðjulaus. Hann var alltaf að smíða ýms búsáhöld, fötur, bala, tunnur o.m.fl. Hann var smiður með afbrigðum, smíðar voru hans aðalatvinna — nema um sláttinn var hann oftast við heyvinnu.

Herddísarvík

Herdísarvík – vörin.

Nú byrjuðu róðrar, og man ég vel eftir fyrsta róðrinum. Það var gott sjóveður og verið með færi. Ég hafði aldrei á sjó komið fyrr, en ég kunni áralagið, hafði lært það á Ölfusá. Það var tregur fiskur — og dró ég einn fisk. Ekki var ég sjóveikur, hefi enda aldrei til sjóveiki fundið. Svo lagaðist með dráttinn. ég dró töluvert, þó dálítið misjafnt. Stundum dró ég hlutinn, það er að segja eins og þeir fengu í hlut, stundum minna.

Herdísarvík

Herdísarvík; sjóbúðir – kort ÓSÁ.

Einu sinni dró ég 40 fiska. Þá fékk skipið 24 í hlut. Voru þá teknir af mér 16 fiskar. Það stóð svoleiðis á skiptum — og hafði ég þá jafnan hlut og hinir. Það kom mikið undir því hvernig stóð á skiptum, hvað formaður tók mikið af mér, stundum tók hann lítið, stundum meir en helming. Svo var farið að fiska með línu, þá fékk ég hálfan hlut. Línan var stutt, 2 bjóð með 6 strengjum, 60. faðma löngum í hvoru bjóði, og ein og hálf alin á milli króka.
Þegar fiskirí var, þá stóð þétt á línunni á löngum kafla, oft á hverju járni. Línan var dregin í austurrúmi og dregin hægt. Þá lét formaður mig vera með færið mitt aftur í skut, og þar dró ég oft töluvert þó ferð væri á skipinu. Náttúrulega var drift á færinu líkt og á seglskipi, sem liggur á fiskiríi, tökum t.d. kútter. Þegar komið var inn á legu, skammt undan lendingunni, var stanzað og farið að seila, og var andæft þar meðan seilað var. Svo var seilunin hnýtt saman og þeim síðan hnýtt í 60 faðma langt kaðaltó, sem kallað var hlaupató. Tóið var undið í hnykil, sem látinn var velta í skutnum, og skyldi bitamaður gæta þess, að ekki stæði við eða tefði fyrir tóinu að rekjast fljótt, og eins að gæta að því að hnykillinn færi ekki upp úr skutnum. Ef brim var, þá var beðið eftir lagi, og kallaði formaður lagið og sagði: — Róið nú vel, piltar! Svo var róið hart upp í fjöru, og stökk hver út við sinn keip og skipinu kippt upp þangað til því var borgið fyrir eða bjargað frá sjó. Síðan voru seilarnar dregnar upp. Svo ef róið var aftur, fóru sumir að beita þessi tvö bjóð, en hinir að bera upp fiskinn, og þurfti stundum að ná úr honum beitu, því að beitt var gotu (hrognum).

Seil

Sjómenn með seilaðan fisk – Bjarni Jónsson.

Fiskurinn var borinn upp á byrðarólum. Það var dregið af seilarólinni á byrðarólina, og svo lyfti vanalega annar upp á axlir hins. Var svo hringur af fiski allt í kring, bæði bak og fyrir. Fiskurinn var borinn á skiptavöll og skipt þar í köst, sem kallað var, tveir hlutir saman í kasti. Vanalega skipti formaður. Þarna á skiptavellinum var gert að, hausað og flatt. Fiskurinn svo borinn inn á tún og lagður þar í kös, raðað þétt hverjum við annan. Svo löngu seinna borinn upp fyrir tún og lagður þar á grjótgarða í hrauninu til herzlu. Mest af fiskinum var hert þessa vertíð, eitthvað víst saltað af skipshlutunum. Ekki man ég hvaða verð var á fiski þessa vertíð eða vorið eftir, en 2 eða 3 árum seinna var verðið á harðfiski 160 krónur skippundið (160 kíló).

Herdísarvík

Herdísarvík og Stakkavík – kort.

Allt var hirt, hausar hertir, hrogn söltuð, svil söltuð, sundmagi og kútmagi saltað. Sundmaginn svo verkaður á vorin og lagður inn í verzlanir, en stundum fluttur heim og étinn. Allt hitt raskið notað til heimilis uppi í sveitunum, og töluvert flutt oft heim af harðfiskinum. Það má ekki gleyma að skýra frá því, að alltaf var lesin sjóferðabæn. Og fyrstu vertíðina, sem ég reri í útveri, var lesin föstuhugvekja og lesnir Passíusálmar, ekki sungnir. Það var sama þótt seint væri komið til búðar að kveldi, þá var það ekki vanrækt. Það er nú lítið að segja meira frá þessari vertíð, sem ég var fyrst í Herdísarvík.
Veturinn 1888 fór ég ekkert til sjós, varð að vera heima af því að fóstri minn réðist til Eyrarbakka til aðgerðar á fiski á vertíðinni, svo ég varð að vera heima við skepnuhirðingu, svokallaðar gegningar.
Veturinn 1889 reri ég í Selvogi hjá gömlum manni, sem Guðni Ásmundsson hét. Hann átti heima í Austurnesi í Voginum. Frá þeirri vertíð er lítið að segja. Það fiskaðist lítið vegna ógæfta, því að brimasamt er í Selvogi þegar sunnanátt er, og þessa vertíð hamlaði veðurátta sjógæftum og afla. Þá bjó í Nesi í Selvogi Guðmundur Ólafsson, þá orðinn gamall maður, faðir Þorbjarnar, sem bjó í Nesi eftir föður sinn. Þorbjörn reri í Þorlákshöfn margar vertíðir og var þar formaður. Um hann gerði Brynjólfur frá Minna-Núpi þessa formannsvísu:

Sjóbúð

Sjóbúð í Þorlákshöfn 1910.

Þreytir halur þorskveiði,
Þorbjörn alinn Guðmundi
Nes- frá -sal í Selvogi,
sá er talinn hraustmenni.
Þegar ég reri í Nesi í Selvogi, bjó í Ertu rétt fyrir norðan Nes Húnbjörg Hannesdóttir móðursystir mín. Nikulás sonur hennar var þá formaður með skip, sem þau áttu. Hjá henni var líka annar sonur hennar, sem Símon hét, og þriðja son átti hún, sem Þórður hét og bjó þá í Torfabæ í Selvogi. Þessir fyrverandi bræður voru synir Erlendar Símonarsonar, sem átti heima í Torfabæ, en Húnbjörg og Erlendur voru þá skilin að samvistum. Þarna kynntist ég frændfólki mínu og réði mig hjá Nikulási næstu vertíð. Þá um vorið 1889 flutti Húnbjörg með sonum sínum, Nikulási og Símoni, að Hlíð í Selvogi. Hlíð er uppi við fjallið við norðausturhorn Hlíðarvatns, en er nú komin í eyði fyrir löngu. Þá flutti líka Nikulás skipið út til Herdísarvíkur og reri því þaðan. þangað til það fórst, sem síðar segir.

Seil

Seilaður fiskur í vör.

Svo kemur vertíðin 1890. — Það var oftast kominn þorri þegar ég flutti færur mínar úteftir; reiddi ég á hesti og var eina nótt og tvo daga í ferðinni. Þegar ís var á Ölfusá, mátti fara alveg beina leið að sjá fyrir sunnan Selvogsheiði, sem maður segir sjónhending frá Hreiðurborg, annars varð að fara yfir ána í Óseyrarnesi. Svo fór ég aftur alfarinn föstudaginn síðastan í þorra, og það var farið að róa í fyrstu viku góu, ef gæftir voru.

Herdísarvík

Herdísarvík – uppdráttur ÓSÁ.

Nú er að segja frá sjóbúðinni, sem Nikulás byggði. Hún var úr snyddu og grjóti veggir og gaflar, svo timburþak með spón yzt, svo hún lak ekki í rigningum, en hún var mjög köld þegar frost voru, sem oft var á þessum árum. Viðvíkjandi kuldanum í búðinni get ég sagt sögu, sem þykir ótrúleg nú á tímum. Í landlegum þegar var norðanrok og gaddar, rokið svo mikið, að ekki var viðlit að fara á sjó, þá var það eina vertíð að það kom fyrir að við fórum fjórir upp í eitt rúmið og breiddum ofan á okkur upp að mitti teppi og það, sem til var, og sátum svo réttbeinis með loðhúfur á höfði og máske líka vöttu á höndum og spiluðum svo á spil. Svo þegar okkur varð of kalt, fórum við að hita okkur á því að fara í tusk, fyrst inni, svo kannske úti í glímu og tusk, og þegar við vorum búnir að fá í okkur hita, þá var farið að spila aftur. Það var engin búð eins köld og þessi, því hinar voru allar með snyddu- eða torfþökum. Það var ekki verið að hafa ofna í svona húsum í þá daga. Kaffið var hitað á olíuvél og hún hitaði nú heldur lítið. Sumar búðir höfðu smiðjukofa til að hita í rétt við búðina. Í þessari búð var ég í 5 vertíðir. Ekki man ég hvenær það var, sem kaldast var. Það hefir verið á árunum milli 1890—94.

Verbúð

Verbúð á sunnanverðum Reykjanesskaga.

— Þessa vertíð, sem frostin voru mest, voru aðallega notuð færi við fiskirí, að minnsta kosti í Herdísarvík og Selvogi. Það var mikið fiskirí í Herdísarvík í eina viku, það voru þrí- og fjórhlaðin skipin á dag. Ég man það alveg víst, að Nikulás fékk einn daginn í þeirri viku 120 í hlut í 12 eða 13 staða skipti. Þó voru sumir hærri, mig minnir að Björn Eyjólfsson fengi þann dag 140 til hlutar.

Sjóbúð

Sjóbúð í Herdísarvík.

Þetta stóð eina viku. Við fengum í þeirri viku um 600 til hlutar, og það varð lítið meira. Mig minnir að við fengjum tæp 7 hundruð hlutar alla vertíðina. — Fiskurinn var mjög feitur, svo að það urðu vandræði með ílát undir lifrina, því að svoleiðis hagaði til, að útgerðarmaður átti að útvega hlutaflamönnum kagga eða tunnu undir lifrina. Það komu kaggar austan úr Ölfusi, og svo var lifur látin í þvottakör, en úr svoleiðis ílátum rann lýsið og fór mikið til spillis. Frostið var svo mikið, að við naumast gátum náð innan úr fiskinum, drifum svo mikið af honum í fönn óflöttum, þangað til seinna. — Þessa miklu fiskiviku var það eitt kvöld, að við vorum að gera að fiski, og ég var að bera í slorskrínu á bakinu eitthvert rask. Það var band í báðum göflum, og var því smeygt á aðra öxlina, en það var dimmt orðið og ósléttur vegur, svo ég datt og rak niður aðra hendina og meiddi mig mikið á þumalfingri, sintognaði og leið illa um nóttina og gat ekki róið morguninn eftir, og þótti mér heldur dauflegt einum í búðinni. Ekki tapaði ég hlutnum, þeir gáfu mér hlut.

Sjóbúð

Sjóbúð.

Morguninn eftir fór ég með á sjóinn, og var haft til styrktar hendinni, svokallað róðrarbelti, og var ég í andófi, því að ég gat ekki dregið fisk. Veður var gott, hér um bil logn, svo að það var lítið andóf. Fiskur var nógur, svo að þeir fylltu skipið á stuttum tíma. Síðan var róið til lands. Sjór var svo ládauður, að ekki var nokkur hreyfing við land, svokölluð ládeyða. Nú gat ég ekki seilað, svo að ég var látinn halda skipinu meðan seilað var (þegar svona ládeyða var, var ekki seilað úti á legu eins og fyr segir). Í þetta sinn var um stórstraumsfjöru, og voru stórir steinar þar úti, sem ekki sást á, svo að skipið tók niðri og vildi standa, svo að ég fór að færa mig dýpra, en gætti ekki nógu vel að mér, og fór sjór upp fyrir brókina; en það var óþægilegt, því að frost var mikið.

Verbúð

Sjómaður með fisk á herðum – Bjarni Jónsson.

Þegar búið var að seila, hellti ég úr brókinni og fór út aftur í annan róður. Það var sama fiskiríið og frekar fljótt verið að hlaða skipið, en mér varð töluvert kalt svona votum. Þegar komið var til lands aftur, hafði ég orð á því við formanninn, að bezt væri að ég yrði eftir í landi með manninum, sem bar upp fyrri farminn, því að þá hitnaði mér og allt hefði beztu endalok. Og það varð úr, að ég varð eftir og fór að bera upp og lyfti félagi minn á mig byrðunum, en hann lyfti sjálfur á sig, því að hann var heilhentur. Ég fór þrjár ferðir í brókinni, þá var mér farið að hitna og fór svo úr henni, en var í skinnstakknum. Þetta hafði góðan enda, mér varð ekkert meint við, en svona lagað þyrfti ég ekki að bjóða mér nú á dögum. Við vorum margir vel upp aldir á þeim dögum ungu mennninir og klæddir hlýjum íslenzkum ullarfötum, sem við hjálpuðum til að vinna sjálfir, að minnsta kosti margir. Oftast yar ég búinn að sitja í vefstól frá því á jólaföstu og þar til ég fór í útver, og svo var um fleiri, sem ég þekkti. Svo reri ég daglega eftir þetta meðan gæftir héldust, en eins og ég hefi áður sagt, stóð mesta fiskiríið eina viku eða vel það.
Svo er ekki meira markvert að segja af þessari vertíð, það gekk allt sinn vanagang, vertíðarnar voru flestar líkar hver annarri. Það var oftast nóg að gera seinni partinn þegar fisklaust var orðið við að herða og hagræða harðfiskinum.

Herdísaarvík

Herdísarvík um 1900.

Um þessar mundir verður vart breytinga í Herdísarvík. Bjarni Hannesson deyr, sem var þaf bóndi- og formaður lengi. Þá bætist við skip frá Hjálmholti í Flóa. Formaður á því var Sveinbjörn Ólafsson frá Hjálmholti, og annað úr Selvogi, formaður Guðmundur Sigurðsson. Auk þessara tveggja voru þar þá formenn: Guðmundur Jónsson, sem kenndur var við Hlíð í Selvogi, ættaður frá Keldum á Rangárvöllum, bjó tæp 40 ár í Nýja-bæ við Krýsuvík. Kona hans er Kristín Bjarnadóttir frá Herdísarvík. Búa nú í Hafnarfirði. 4. formaður Jóhann Níelsson, 5. Nikulás Erlendsson, 6. Björn Eyjólfsson, 7. Ingimundur Jónsson.

Herdísarvík

Herdísarvík. Gamli bærinn framar.

Nú er næsta vertíð eftir frostavertíðina. Þá var byrjað með handfæri, og skyldi nú fiska með sama lagi og síðast liðna vertíð, en það brást. Það var verið með færi nokkra daga og fiskaðist lítið sem ekkert. Svo er það einn dag, að allir eru á sjó og ekkert fékkst — 2—3 í hlut. En svo er það rétt fyrir hádegi þenna dag, að eitt skipið tekur sig upp og fer í land, mig minnir það væri Guðmundur Jónsson. Hann fór í land til að reyna að beita línu með slógi og hrognum úr þessum fiskum, sem þeir drógu á færin. Hann rær svo aftur og leggur línuna, en það kom heldur skriður á hina, þegar þeir sáu að fiskur kom á hverju járni þegar hann fór að draga línuna. Það ruku „allir“ í land og beittu línu og reru út aftur og fengu hleðslu. Svo stóð hlaðfiski meðan gaf, ég man ekki hvað það voru margir dagar. Nú var fiskurinn lifrarminni og rýrari en vertíðina næstu á undan, en það mun hafa náðst líkt fiskatal, og segir svo ekki meira af þessari vertíð.

Herdísarvík

Herdísarvík.

Þá ætla ég að segja dálítið frá vertíðinni 1895. Þá var ég með Birni Eyjólfssyni, það var síðasta vertíðin, sem ég reri í Herdísarvík og sú sjöunda. Björn hafði alltaf verið þar hæstur með hlut. Nú var hann orðinn heilsulaus, en það var samt betra að hafa hann með á sjóinn. Einu sinni gat hann ekki farið með okkur á sjó í 3 daga, og var þá einn hásetinn formaður, en þá daga gekk ekki vel að fiska. Svo hresstist Björn aftur og tók við formennsku, en hann kom eftir þetta alltaf ríðandi á hesti til skips heiman frá bænum, en verbúðirnar voru skammt frá þar, sem skipin stóðu. Svo hjálpuðum við honum eða réttara sagt létum hann upp í skipið á þurru áður en við settum á flot, svo stýrði hann og sagði fyrir og réði sjóferðinni. Það fiskaðist töluvert þessa vertíð framan af á vanalegum miðum, og um miðjan marz var frekar gott fiskirí.

Herdísarvík

Herdísarvík.

Svo kom 16. marz, sá eftirminnilegi dagur. Gott veður um morguninn og enda allan daginn. Allir réru. Svo komu skipin að nokkuð snemma; ég man ekki hvað klukkan var. Björn kom með þeim fyrstu og um sama leyti önnur skip.

Seilað

Seilar í vör.

Það var seilað og lítið staðið við í landi. Björn hafðði það lag, að láta okkur vera til skiptis í landi, að bera upp fiskinn, og þennan dag var komið að mér, og skyldi ég bera upp og annar með mér, og svo gerðu hinir líka; þeir skildu eftir menn í landi. Þegar við rérum í land, var komin töluvert þykk alda í sjóinn. Um sama leyti og þessi 5 skip voru að fara, komu þau tvö, sem eftir voru, og þau fóru ekki út aftur, því það brimaði svo fljótt, að það varð ófært að heita mátti á svipstundu. Þennan dag nauðlentu í Þorlákshöfn um 60 róðrarskip af Eyrarbakka, Stokkseyri og Loftsstöðum. Þar var þá hvergi lendandi fyrir brimi. Selvogsskipin lentu við illan leik í Selvognum. Barst þar einu skipi á í lendingunni, og drukknaði einn maður. Það var eina manntjónið, sem af brimi þessu hlauzt, og þótti það sérstakt lán, að það varð ekki meira, eins og á stóð þá.
Formenn á skipunum, sem landi náðu þennan dag, voru Guðmundur Jónsson og Ingimundur Jónsson, en skipin átti Sólveig Eyjólfsdóttir, sem þá bjó ekkja í Herdísarvík. Þegar hin skipin 5, sem úti voru, leituðu lands, var komið stórveltubrim, svo að þau lögðu öll frá, settu upp segl og sigldu til hafs.

Það sáust nokkrar franskar skonnortur úti fyrir, og skipin héldu til þeirra. Tvær voru næstar, og komu skipin fyrst öll að annarri, og Frakkar fóru að taka á móti þeim, en Björn sá, að þarna yrði þröngt fyrir skip og menn, og þó verst fyrir skipin, svona mörg aftan í einu stórskipi, og fór í annað, sem var skammt frá. Þar var þeim vel tekið og skipið sett aftan í skonnortuna.

Herdísarvík

Herdísarvík – sjóbúðirnar.

Skipið, sem Björn komst í hélt sér við á seglum um nóttina og sigldi svo með róðrarskipið austur og inn á leið þar til komið var hér um bil móts við Herdísarvík, þá var brimið lægt, og leiðin fær inn, og Björn lenti heilu og höldnu fyrir hádegi. Skonnortan, sem hafði fjögur skipin, sigldi vestur fyrir Reykjanes og missti tvö skip aftan úr sér undan Grindavík og hin tvö í Reykjanesröst. Skilaði svo af sér öllum mönnunum í Höfnunum, og komu þeir gangandi til Herdísarvíkur eftir nokkra daga. Þetta var mikið tjón fyrir þá, sem áttu skipin, sem töpuðust. Það voru fengin lánuð eða leigð skip austur á Eyrarbakka og flutt til Herdísarvíkur, svo hægt væri að halda áfram róðrum.

Herdísarvík

Herdísarvík – sjóbúðir.

Skipin töpuðust ekki öll. Þau, sem slitnuðu aftan úr skonnortunni undan Grindavík, sáust þaðan, þegar birti af degi, og Grindvíkingar sóttu þau, og voru þau óskemmd. Annað var skip Nikulásar Erlendssonar; það keyptu Grindvíkingar. Hitt var skip Guðmundar Sigurðssonar og var flutt til Herdísarvíkur aftur. Hin tvö klofnuðu í Reykjanesröst, Hjálmholtsskipið og Krýsuvíkurskipið, Þorlákshafnar og Selvogs.

Róður

Róður – Bjarni Jónsson.

Nú fóru skipin úr Herdísarvík að róa austur á Forir; en þá var ekki hægt að fara nema einn róður á dag; en þá var línan beht á sjó, ef ekki fékkst nóg í skipið í kastinu. Svona langan veg var ekki hægt að fara, nema gott sjóveður væri. Það var svo langt og erfitt, ef norðaustan vindur var, að komast þangað austur eftir, því að oftast er þarna með suðurströndinni einstreymis vesturfall eða straumur. Við fengum þarna töluverðan afla.
— Alltaf var Birni heldur að versna, en þó var hann formaður okkar vertíðina út. Það var dæmafátt, að svona veikur maður færi á sjó dag eftir dag. Það mátti segja um hann, að þar væri verið að til hinztu stundar. Hann lézt 3. júní um vorið, og mun banamein hans hafa verið krabbamein. Björn Eyjólfsson hafði verið sjósóknari mikill um sína daga. Var lengi formaður í Þorlákshöfn, í Vogum við Faxar flóa, og síðast í Herdísarvík, þar sem hann hvíldist eftir vel unnið starf. Hann var líka skipasmiður og hafði smíðað fjölda róðrarskipa, stór og smá. Svo þegar ekki var trésmíði, þá var hann í smiðju við járnsmíði, og þar mátti sjá röskleg og lagleg handtök, á meðan hann hafði heilsu.

Herdísarvík

Herdísarvík – sjóbúðir.

Með svona mönnum eins og Birni, höfðu verið margir dugnaðarsjómenn, frá því að hann byrjaði sjómennsku á unglingsárum til þess síðasta. Það hefir verið mikils virði í peningalegu tilliti, sem Björn flutti í land á sinni löngu formannstíð, náttúrlega með hjálp háseta sinna; — en það er ekki sama, hver ræður á sjó.

Verstöð

Báti ýtt úr vör – Bjarni Jónsson.

Ég ætla að greina hér frá atviki, sem sýnir sjósókn Björns nokkrum vertíðum áður en síðast segir frá. Þá réri hann einskipa; hinum þótti ekki fært, og var víst ekki álitlegt. Þá réri ég hjá Nikulási. Björn réri þessa vertíð tvisvar einskipa, og í báðum róðrum fiskaði hann veL Í annað skiptið brimaði meðan hann var úti, og það var mikið brim þegar hann fór. Þegar sást til hans koma, þá skinnklæddu sig allar skipshafnir, sem í landi voru, til þess að taka á móti honum. Þegar hann sá fólkið í fjörunni, hleypti hann upp á hæsta sjó, og skipið var tekið með öllu saman, fiski og mönnum, og drifið upp, svo brimið næði því ekki. Svo var stanzað og farið að tala við karlana, og allir voru glaðir og kátir yfir að allt skyldi fara vel. Við sem í landi vorum, urðum hálfsmeikir um skip og menn í svona miklu brimi.
Það var oft mikið um hval á þessum árum. Man ég þó sérstaklega eftir einni vertíð, sem óvenjulega mikið var af honum. Sáum við þá stundum stórar vöður af hval skammt þar frá, sem við lágum við færin. Þá var það stundum, ef fiskur var tregur, að Björn Eyjólfsson tók sig upp og kippti rétt að hvalagerinu og dró þar nógan fisk.

Ég réri hjá Nikulási, þegar þetta var, en honum var hálfilla við að vera nærri stórfiskavöðum og notaði ekki þessa aðferð, og það gerðu held ég ekki aðrir en Björn.
Ekki var Björn aðgerðarlaus þegar legið var yfir fiski. Færi hans var alltaf úti, og hann dró manna mest á skipi sínu. Einu sinni var talað um, að hann myndi hafa dregið nærri því helminginn af fiski þeim sem á skip kom, en þá fékk hann 20 í hlut. Þetta hefir kannske ekki verið bókstaflega rétt, en það sýndi hvaða álit haft var á dugnaði hans. Einu sinni síðustu vertíðina, sem hann lifði, 1895, var sótt austur í Forir eins og fyrr er ritað.

Verbúð

Verbúðir – Bjarni Jónsson.

Það var einn laugardagsmorgun norðaustan stormur, og var að sjá sandrok austur á sandi fyrir neðan Selvogsheiði, svo það þýddi ekki að leggja á stað austur í Forir, svo þeir fóru út í leirinn, skammt út fyrir sundið um morguninn, allir nema Björn af því að laugardagur var til að afbleyta línuna. Svo klukkan 10 fyrir hádegi voru þeir komnir aftur. En rétt umsama leyti sást ekkert sandrok austur á sandi, því þá var að lægja vindinn. Rétt í þessum svifum kemur þá félagi okkar inn í búðina og segir að Björn sé að koma ríðandi ofan eftir frá bænum.
Björn hafði þá séð að veður fór batnandi, enda verið að bíða eftir því. Svo var lagt á stað og gekk vel. Við fengum bezta veður og vorum víst 12— 13 tíma í túrnum gg lentum í myrkti um kvöldið. Svo á sunnudaginn fórum við að slægja og fletja fiskinn. Svona túrar þóttu góðir í þá daga. —Við sjómenn í Herdísarvik, sem áttum heima í Ölfusi og Flóa, fórum vanalega heim einu sinni á vertíð, og helzt um bænadagana eða páskana. Það var eina vertíð (þá reri ég hjá Nikulási) að við fórum nokkuð margir á miðvikudaginn fyrir skírdag, því að þá var ekki sjóveður. Það þekktist ekki í þá daga að róið væri á helgum dögum, þó var nú brugðið út af því í þetta sinn, því þegar við komum til Herdísarvíkur um kvöldið á föstudaginn langa, þá voru þeir að gera að fiski, sem ekki fóru heim, þeir höfðu sameinað sig og róið þremur skipum og fiskað töluvert. Við gátum lítið sagt við þessu, þó þótti okkur þetta atvik leiðinlegt, og töluvert undarlegt, af því að þetta var alveg nýtt fyrirbrigði, að róa á helgum degi.

Herdísarvík

Herdísarvík – fiskigarðar.

Svo kemur atvik fyrir haustið eftir, sem lyfti undir þjóðtrúna, eða þessa vanalegu trú fólksins í þá daga, og sem máske er til enn. Það sem vildi til haustið eftir var það að tvö af þessum skipum, sem róið var á föstudaginn langa, fuku og brotnuðu. Skipin voru höfð í veggjahárri rétt og bundin niður á hvolfi, tog í þeirri rétt voru hin skipin líka en þau sakaði ekki. Í Herdísarvík er mikið hvassviðri, þegar hann er hánorðan, þá stendur veðrið af fjallinu, og eru þá feikna sviptir, sem allt rifa upp sem ekki er reglulega gengið frá.

Kerlingarskarð

Kerlingarskarð framundan.

Þegar vetrarvertið var úti, fóru oft margir okkar til Faxaflóa, til að róa þar á vorvertíðinni. Við lögðum af stað 10.—11. maí með pjönkur okkar á bakinu. Fórum upp svokallað Mosaskarð, og svo beina línu yfir Lönguhlíðarfjall, og niður Kerlingarskarð, og fyrir vestan Helgafell, um Vífilstaði til Reykjavíkur.

Brennisteinsfjöll

Brennisteinsfjöll – Mosaskarð neðst t.v.

Þetta var 7—8 tíma gangur ef gott færi var en um þetta leyti árs var oft ófærð á fjallinu. — Þá var ekki atvinnuleysi, ég held að orðið atvinnuleysi hafi ekki verið til, og ekki einu sinni í Reykjavík, enda var Reykjavík ekki stór bær þá.
Nú eru vertíðarhugleiðingar mínar frá Herdísarvík að þrotum komnar. Eftir þetta réri ég á Eyrarbakka, og fór svo til austfjarða laust eftir aldamótin, og segir ekki af því í þetta sinn, og víst aldrei, nema þetta: að ég var þá 24 ára að aldri til 55 ára alltaf á sjó mikið til af árinu, á ýmsum förum og fleytum, róðraskipum, kútterum, vélbátum, fiskveiðaskipinu Súlunni samfleytt í 9 mánuði. Og fyrir innan 24 ára aldur á vetrar- og vorvertíðum við róðra á áraskipum eins og fyr er ritað. Þessum fyrnefndu árum var ég 16 úthöld, sumar og haust formaður hjá Konráði Hjálmarssyni í Mjóafirði. Ef ég færi að skrifa um öll þessi ár, allt miðbik ævinar yrði það stór bók, sem sagt heil ævisaga. Ég er ekki fær til þess – og kemur því ekki til mála.

Greni

Grenið í Lönguhlíðum.

Að lokum ætla ég að gjöra svolítinn útúrdúr og segja frá refaveiðum. Vorið 1894 var ég vormaður í Herdísarvík. Fór ekki þaðan um lokin. Var við fiskverkun og smalamennsku, en svo þurfti líka að veiða refi alveg eins og þorsk, því refir eru slæðir í sauðfé. Það fannst refagreni í Herdísarvíkurlandi um vorið. Þá bjó á Vogsósum Þórður Eyjólfsson, ættaður frá Grímslæk í Ölfusi, síðar kenndur við Vindheima. Hann var refaskytta í Selvogshreppi. Þórður var látinn vita af gneninu, og svo fór hann tilbúinn til að liggja við það. Ábúandi í Herdísarvík átti að láta mann með skyttunni, svo ég var látinn fara með nesti og nýja skó.

Lyngskjöldur

Lyngskjöldur – þrætugrenið.

Grenið var uppi í Lönguhlíðarfjalli í norðaustur af Geitahlíð. Þegar við komum að greninu, sá Þórður fljótt hvar aðaldyrnar voru, sem refahjónin gengu helzt um. Svo fundum við okkur stað í leyni, en sáum þó til dyranna. Þegar við vorum búnir að liggja þarna eins hálfan tíma, kom refurinn út úr greninu og Þórður hleypti af byssunni og rebbi steinlá. Stór og mikill grár refur. Svo lágum við áfram, í tvö dægur, og sáum aldrei læðuna eða heyrðum í henni. Svo fórum við heim, og Þórður fór til Vogsósa, svo kom hann aftur eftir tvo daga. Þá sagði hann að bezt væri að nesta sig vel, því nú bjóst hann við að verða lengi, 5—7 dægur, því að nú skyldi til skarar skriða við grenlæðuna. Við fórum með dýraboga og yrðling, sem Þórður hafði veitt á öðru greni, og skyldi kvelja hann til þess að narra læðuna að. Svo var hann með línu, öngla og hrátt kjöt til að beita fyrir yrðlingana, sem enn voru í greninu. Þegar við vorum búnir að liggja og sitja langan tíma heyrðum við læðuna gagga og orga langt frá. Þórður sagði, að hún hefði ekki að greninu komið síðan refurinn var skotinn, og væri nú júgrið farið að harðna. Hann sagði mér að kvelja yrðlinginn, sem við vorum með, það þótti mér leitt verk. Svo fórum við að veiða yrðlingana, sem inni voru í greninu, og náðum 5, enn ekki sást læðan enn, við heyrðum oft í henni, og heldur var hún að færa sig nær.
Þarna lágum við í fimm dægur í seinna sinnið. Var nú Þórði farin að þykja löng biðin. Lítið var sofið, við reyndum þó að sofna til skiftis. Þegar langt var liðið á fimmta dægur segir Þórður við mig, að ég skuli liggja kyr, og láta lítið bera á mér. Hann kvaðst ætla að ganga í kring og vita hvað hann sjái. Svo ligg ég nokkuð langan tíma, þangað til ég heyri skot, svo ligg ég enn litla stund, þá kemur Þórður með læðuna dauða. Hann hafði þá mætt henni á bak við stóran klett og var þá ekki lengi að miða á hana, og hún lá. Nú var Þórður búinn að vinna grenið, 2 dýr og 5 hvolpa. Svo var haldið heim.“

Heimild:
-Alþýðublaðið – Sunnudagsblað, 40. tbl. 05.10.1939, Verbúðalíf í Herdísarvík og Selvogi, Einar Þorsteinnson frá Hreiðuborg, bls. 4-5 og 8.
-Alþýðublaðið – Sunnudagsblað, 41. tbl. 08.10.1939, Verbúðalíf í Herdísarvík og Selvogi, Einar Þorsteinsson frá Hreiðuborg, bls. 4-5.

Herdísarvík

Herdísarvík – uppdráttur ÓSÁ.