Tag Archive for: Selvogur

Brunnur

Nes í Selvogi var lengi höfuðból. Bjuggu þar oft gildir bændur og efnuðust stundum vel af sjávarútvegi og sauðfjárbúskap. Um 1830 bjó þar bóndi sá, er Gísli hét Þorláksson: fæddur var hann í Selvogi um 1774 og dvaldist þar ævilangt. Hann virðist hafa verið í góðu áliti og hreppstjóri var hann Selvogsmanna um nokkurt skeið. Gísli var þríkvæntur og átti börn nokkur, en eigi koma þau við þessa sögu nema dóttir ein, sem Ólöf hét. Hana átti Gísli með miðkonu sinni, sem Ingveldur hét Gísladóttir. Ólöf var fædd í Nesi 9. október 1813 og dvaldist þar til 27 ára aldurs. Við fermingu fær hún þann vitnisburð hjá presti sínum, að hún sé „meðallagi gáfuð, lærði allt kverið smátt og stórt og hegðun skikkanleg.“ Í æsku hafði hún þótt efnisstúlka, fríð sínum með mikið og glóbjart hár og hög vel til handa.

NesMilli Ness í Selvogi og Þorlákshafnar voru vináttubönd, hvorutveggja voru hreppstjóraheimili, að vísu var allt stærra og meira í sniðum í Þorlákshöfn, en þau áttu það sameiginlegt að bera af um alla alþýðumenningu.

Það mun hafa verið fastmælum bundið haustið 1834, að Ólöf í Nesi færi til dvalar að Þorlákshöfn. Var hún þá tvítug að aldri og átti að læra hannyrðir hjá maddömu Hólmfríði, konu Magnúsar Beinteinssonar. Mun Ólöf hafa dvalist í Höfninni vetrarlangt eða fram undir 1835.

Nes

Nes í Selvogi – túnakort.

Nú kemur ný persóna til sögunnar, og verður nokkuð greint frá henni. Bergur hét maður og var Guðmundsson, fæddur í Króki í Hraungerðishreppi 1797. Voru foreldrar hans Guðmundur Hannesson bóndi í Króki og kona hans Herdís Bergsdóttir frá Reynisvatni í Mosfellssveit. Bergur kvæntist 1823 Margréti Jónsdóttur frá Sandlækjarkoti og byrjuðu þau búskap í Hvammsvík í Kjós. Þar eru þau talin búandi til ársins 1826. Síðasta árið var í félagsbúskap við Berg bróðir hans, Hannes, er síðar bjó að Hjalla í Ölfusi. Um þessar mundir sótti Bergur um leyfi með Hannesi bróður sínum að reisa nýbýli suðaustan undir Esjunni, en því synjað á þeim forsendum, að býlið myndi liggja á afréttarlöndum tveggja sýslna, lá og eigi „allskostar gott orð á þeim bræðrum“. Bergur varð snemma drykkfelldur og eigi við eina fjöl felldur, einkum í kvennamálum, en dugandi maður var hann talinn til verka og smiður góður. Með Margréti konu sinni átti Bergur tvö börn, skildu þau hjón síðar að borði og sæng, það var árið 1827. Annað barn þeirra dó í bernsku, en hitt komst til aldurs. Það var Þorsteinn, skipstjóri í Ytri-Njarðvík, f. 1823, og er margt dugandi fólk frá honum komið.

Tóftir

Tóftir við Nes.

Er Bergur hafði látið af búskap í Hvammsvík og skilið við konu sína, mun hann hafa verið á ýmsum stöðum, ýmist sem lausamaður ella í vinnumennsku. Árið 1835 er hann vinnumaður í Helli í Ölfusi hjá þeim hjónum Þorleifi Sæfinnssyni og Aldísi Vigfúsdóttur frá Fjalli á Skeiðum, systur Ófeigs ríka. Aldís þótti kona mikil fyrir sér og mælt, að bóndi hennar hefði stundum fullmikið konuríki. Veturinn sem Bergur dvaldist í Helli, gerðist það, að hann barnaði húsmóður sína. Barnið var mær og komst til fullorðinsára. Það var Guðrún á Grímslæk, f. 20. febrúar 1836. Hún giftist og átti margt barna, meðal þeirra var Marteinn Einarsson stórkaupmaður í Reykjavík. Til er saga um það, þegar Aldís í Helli hafði alið barnið, þá hafi Þorleifur maður hennar komið inn í baðstofuna og viljað líta á afkvæmið nýfætt. Þá átti Aldís að hafa sagt þetta, sem var í minnum haft: „Skiptu þér nú ekkert af þessu, við Bergur eigum þetta barn!“ –

Veturinn 1835 um vertíðarbyrjun lagði Bergur leið sína út í Þorlákshöfn og falaðist eftir skipsrúmi. Samdist þá svo um, að hann gerðist háseti hjá hinum nafnkunna formanni Jóni Ólafssyni í Hraunshjáleigu, er stýrði einu af skipum Magnúsar Beinteinssonar. Lítt samdi þeim Bergi og Jóni formanni, og taldi Jón, að Bergur hefði ill áhrif á skipshöfnina. Þar kom, að Bergur stökk úr skiprúminu, en aðrir sögðu, að Jón formaður ræki hann, og var það óvanalegt í Þorlákshöfn. Mælt var, að Jón teldi sig feginn að vera laus við Berg, þótt dugandi sjómaður væri og allvel fiskinn, en vildi ekki vinna það fyrir, sökum ýmissa þverbresta í fari hans. Eigi hvarf Bergur úr Höfninni, þótt hann færi af skipi Jóns Ólafssonar. Gekk hann nú um sinn á milli formanna og fékk að róa hjá þeim einn og einn róður. Var margt um það skrafað, en Jón Ólafsson hafði í flimtingum við formenn þá, er leyfðu honum að fljóta með, sögðust þeir mundu það gera, meðan Magnús Beinteinsson gerði hann ekki „plássrækan“. Nokkru eftir að þessir atburðir gerðust, samdist svo á milli Bergs og Magnúsar bónda Magnússonar á Hrauni, að hann smíðaði veiðibát fyrir Magnús, en hann var sem kunnugt er sonur Magnúsar Beinteinssonar. En með því að í Þorlákshöfn var smíðahús og smiðja með nægum tækjum, bað Magnús á Hrauni föður sinn leyfis, að Bergur mætti vinna að smíðinni úti í Höfn. Gaf Magnús Beinteinsson leyfi til þess, þótt eigi væri honum um dvöl Bergs þar gefið, eftir að hann fór úr skiprúminu. Fékk Bergur nú að sofa á bæjardyralofti; voru þar tvö rúm ætluð ótignari gestum. Þar hafði Jón Ólafsson formaður sofið á vetrarvertíðum, áður en hann flutti að Hraunshjáleigu.

Selvogur

Vörður í fjörunni austan Nesvita í Selvogi.

Það var eitt sinn, er Bergur hafði hafið bátssmíðina, að Jóni Ólafssyni varð gengið fyrir smiðjudyrnar í Þorlákshöfn. Sá hann þá, að hurð hneig að stöfum, en rauk úr strompi. Fýsti hann að vita, hver væri þar að smíðum, því að mjög hugaði hann hvatvíslega að öllum hlutum þar á staðnum, og var sem hann hefði auga á hverjum fingri, hvort sem hann var á landi eða sjó. Opnaði Jón nú smiðjudyrnar og birtist honum þá sjón, er hann starði á um stundarsakir sem steinilostinn. Var Bergur þar að hita byrðingsborð til beygingar yfir eldinum, en undir glóðinni blés heimasætan Ólöf frá Nesi. – Jón formaður gekk snúðugt á brott, án þess að mæla nokkurt orð. En fréttir hafði hann að segja í verbúðum þetta kvöld, er þóttu tíðindi, að Ólöf frá Nesi væri jafnframt hannyrðanáminu farin að stunda smiðjuverk og aðstoða Berg við bátasmíði. Um sömu mundir kom upp vísa þessi í Þorlákshöfn:

Er að smíða Bergur bát, –
bragðvís öllum konum.
Undurblíð og eftirlát
Ólöf virðist honum.

Nes

Nesborgir.

Eins og áður segir, hafði Bergur fengið að sofa í bæjardyraloftinu, og var hann þar einsamall. Það var eitt kvöld um háttatíma, að Magnúsi Beinteinssyni varð gengið fram til dyra að loka bænum og signa útihurð, sem venja hans var. Er hann hafði litið til veðurs og lokað bænum, hélt hann inn göngin. Þegar hann kom á móts við stigann upp í dyraloftið, virtist honum heyrast mannamál þar uppi. Hann staldraði snöggvast við og gekk síðan upp stigann að hurð þeirri, er var að sængurhúsinu. Var hún læst með skrá og stóð lykillinn í að utan. Magnús lauk hurðinni fyrirvaralaust upp og litaðist um hálfrökkvað hús. Lá Bergur þar í sæng sinni, en á rúmstokknum fyrir framan hann sat Ólöf frá Nesi og létu þau dátt hvort að öðru. En er Ólöf sá Magnús birtast í dyrunum, skipti það engum togum, að hún vatt sér eldsnöggt út og ofan stigann, svo að Magnús gat naumast áttað sig á viðbrögðunum, er hún skaust framhjá honum. – Einhvern pata hafði Magnús verið búinn að fá af samdrætti þeirra Bergs og Ólafar, en lítt trúað þeim sögum, álitið þær vera verbúðaslúður, er þagga þyrfti niður, en nú fannst honum hann fá fullar heimildir að söguburðinum. Hafði hann nú flutt ávítunarræðu nokkra yfir Bergi þarna í loftinu fyrir táldrátt við meyjuna. Kvað hann Berg skyldi tafarlaust næsta morgunn úr húsum víkja og eigi skyldi hann fá í verbúðum að vera. En eigi vildi hann reka hann á brott undir nóttina, dyraloftinu kvaðst hann nú læsa, svo að Bergur mætti ekki þaðan út komast án sinnar vitundar. Að því búnu gekk Magnús út, læsti hurðu og hafði lykilinn með sér. Einhverjir höfðu verið enn á fótum, er atburður þessi gerðist, og heyrt á samtal Magnúsar við Berg og barst sagan því út og beint til verbúðarmanna og þaðan flaug hún víða.

Nes

Nesborgir.

Næsta morgunn var Magnús árla á fótum, og var þá Bergur ferðbúinn. Fátt var um kveðjur við heimamenn og var fullyrt, að eigi hefði hann fengið tækifæri til að kveðja Ólöfu. Hélt Bergur þaðan að Hrauni og dvaldist þar um stund; var nú sem enn meira los kæmi á hann og slangraði hann um milli bæja í Hjallasókn og var ekkert dulur á dvöl sína í Þorlákshöfn og viðskiptin við heimasætuna frá Nesi. Fór svo fram um nokkrar vikur.

En það er af Ólöfu að segja, að hún dvaldist í Höfninni fram yfir sumarmál, en fór þá aftur heim að Nesi. Mælt var, að Magnúsi yrði það hugraun mikil, að hún skyldi hafa komist í kynni við Berg, því að nokkuð þótti litföróttur ferill hans. Ræddi hann þetta við Ólöfu með skynsamlegum fortölum, átaldi hana ekki, taldi hana nú reyndar sloppna úr klóm flagarans. En þar missást hinum hyggna Þorlákshafnarhúsbónda, sem nú mun sagt verða.

Nes

FERLIRsfélagar í Nesi.

Nokkru eftir að Bergur hafði orðið að víkja svo sviplega úr Höfninni, urðu menn þess varir, að Ólöfu barst sendibréf ofan úr Ölfusi. Eigi fóru sögur af því, að fólk innti hana eftir, hvaðan henni hefði borist bréfið og lá svo kyrrt um sinn. – En hér var það raunar Bergur, sem hafði tyllt sér einhvers staðar niður á flandri sínu og ritað Ólöfu bréf. Var efni þess innfjálgun mikil og þar tjáði hann henni, að eigi mætti hann lifa, án þess að ná fundi hennar. Og nú voru góð ráð dýr, eins og oft vill verða, þegar málum er svona komið Tiltók Bergur nú stað og stund, hvar þau mættu ná fundum saman og átt sem kallast á nútímamáli „stefnumót“. Og hann tiltók staðinn, sem hann taldi ákjósanlegan og öruggastan til samfundanna, en það var í Hleininni vestan við Hafnarberg. Bjart var orðið á nóttum og um annan tíma sólarhringsins var auðvitað ekki að ræða vegna mannaferða til þessa stefnumóts.

Nes

FERLIRsfélagar við gamla Nesvita.

Um klukkutíma gangur er heiman frá Þorlákshöfn út í Hleinina. Hún er af landi séð klapparhólsbunga há og mikil, en að framan standberg niður í sjó. Í gegnum hana þvera frá austri til vesturs er gjásprunga djúp og mikil með grasigrónum botni. Einhvern tíma í fyrndinni hefur hraunbungan klofnað og fremri hlutinn sjávarmeginn sigið frá, og hafa þá myndast göng í gegnum hana, eru þau sums staðar meir en mannhæðarhá. Til beggja handa þá inn er komið, er bergið víða með smástöllum og kvosum, þar sem máríerlur og smáfuglar byggja hreiður sín um varptímann. Hleinin er einn af sérkennilegustu stöðum, hvort sem á er litið af landi en þó einkum af sjó og ekki síst, þegar komið er inn í hana. Óvíða vermir sumarsólin betur á lognværum degi og friðsælli stað er vart hægt að hugsa sér. Ekkert glepur þar hugann nema bylgjugjálfrið undir bergveggnum og einstaka sinnum sjómávar er flögra þar yfir. Hleinin var athyglisverð sjófarendum og fiskimönnum á fyrri tíð. Framundan henni nokkuð undan er dýpi mikið og fiskisælt, og þar hlóðu formenn skip sín á fyrri tíð oft á stuttum tíma.

Selvogur

Selvogur – grafsteinn við Nes.

Nokkru eftir að heimsætunni frá Nesi hafði borist hið umgetna bréf frá Bergi, var það nótt eina, sem tiltekin hafði verið, að hún reis hljóðlega úr rekkju. Hún hefur sennilega haft á sér andvara nokkurn, ætlað fólki stundirnar, er það væri nýsofnað og svæfi sem fastast eftir vinnulangan dag. Hún laumaðist fáklædd niður loftstigann og þreif til utanyfirfata, er hún hafði falið um kvöldið, og smeygði sér í þau. Síðan laumaðist hún út úr bænum. Veður var kyrrt og milt. Ef til vill hefur einhver óróleiki bærst í brjósti hennar. En stefnt var til þess fundar, sem flestum mannlegum tilfinningum getur orðið yfirsterkari. Hún hljóp við fót og þótt sandurinn væri sums staðar gljúpur og léttstígir fætur hennar sykkju nokkuð í hann, sóttist ferðin furðu vel. Og ekki stóð á móttökum, sá kominn, er stefnt hafði henni þangað. Trúlega hefur hann verið mættur nokkru fyrr, og verið á gægjum milli vonar og ótta, hvort bitið yrði á öngul þann, er hann hafði á sinn hátt rennt í djúpið. Og stund samfundanna hefur eflaust liðið fljótt. Ekkert hefur truflað hana, nema ef verið hefur bylgjuskvaldrið undir Hleininni, sem orðið hefur eins konar undirspil athafnanna, er þarna gerðust. En skjótt hefur komið skilnaðarstund. Enginn veit nú, með hvaða hætti hún hefur gerst. Ætluðu þessar tvær persónur, hinn veraldvani maður, sem átti sér að baki næsta brosfellda sögu í kvennamálum, og hin tvítuga mær frá Nesi, sem ætla má að verið hafi lítt spjölluð af veröldinni og viðsjám hennar, að halda ástarfundum sínum áfram? Vafalítð hefur hún hugsað til þess, öðru máli má ætla að hafi gegnt um hann. En eitt er víst, að í Hleininni hittust þau ekki oftar. Og fyrir rismál var Ólöf komin aftur heim til Þorlákshafnar. Með sömu varkárni og hún hafði farið út úr bænum, læddist hún upp á baðstofuloftið og smeygði sér ofan í rúm sitt. Við það urðu einhverjir þó varir, sem voru farnir að losa svefninn. En eigi var því gaumur gefinn. Næsta dag sáu menn, að Ólöf var eitthvað miður sín, og þegar hún var innt eftir, hverju það sætti, kvaðst hún vera lítilsháttar lasin og jafnaði það sig, er frá leið. Nokkru síðar lauk dvöl Ólafar í Þorlákshöfn. Öllum hafði hún kynnst vel þar í vistinni, og kvöddu heimilismenn hana með söknuði. En þá hafði hún í trúnaði sagt einni vinkonu sinni í Höfninni af næturferðinni út í Hleinina, en sú gat ekki þagað yfir leyndarmálinu, og þá barst sagan út síðar meir.

Nes

Nesviti/Selvogsviti gamli.

Leið svo sumarið, að ekkert bar til tíðinda, sem nú er lengur munað. En um haustið gengu Selvogsmenn til altaris í Strandarkirkju. Þá var sálnahirðir þeirra séra Jón Vestmann. Hann var maður gáfaður og mannskyggn, einarður, en þó mildur í skapi. Ólöf í Nesi kraup við drottins borð eins og annað sóknarfólk í Selvogi. Það vakti almenna athygli í kirkjunni, að þegar hún reis upp af knéfallinu við gráturnar og gekk til sætis, var sem nokkurt fát kæmi á klerkinn og hik yrði á embættisgjörðinni og beindust rannsakandi augu hans að Ólöfu. Eftir embættið gáfu kirkjugestir henni flestir auga. Og því varð ekki leynt, sem klerkur hafði séð við útdeilinguna, stúlkan var ekki kona einsömul. Atburðurinn flaug út um alla sveitina og sama spurning var á allra vörum: hver ætti þungann, er hún gengi með. Ekki höfðu langir tímar liðið, þegar fréttin var komin til Þorlákshafnar.

„Signorinn“, Magnús Beinteinsson, setti hljóðann við þessa fregn, en eftir nokkra umhugsun lét hann söðla reiðhest sinn og tygjaðist reiðfötum. Hann hefur þá sjálfsagt farið í „bláu kvaíuna“, viðhafnar yfirhöfn sína, er hann bar jafnan til mannfunda, og förinni var stefnt út að Nesi í Selvogi. Fátt vissu menn, hvað gerðist í þeirri för. Sat Magnús lengi dags á einmælum við Gísla hreppstjóra, föður Ólafar, og síðla um kvöldið kom hann heim til Þorlákshafnar. Næsta dag bar gest að garði í Þorlákshöfn, það var Jón Ólafsson, formaður í Hraunshjáleigu, en hann mat Magnús mann mest þeirra, er verið höfðu í þjónustu hans. Jón snaraðist að Magnúsi og spurði hann almennra tíðinda. Magnús bað hann að ganga með sér inn í stofuna og læsti hann hurðinni, er þeir voru inn komnir. Ræddust þeir við og sagði Magnús Jóni, hversu komið væri fyrir Ólöfu og Bergur ætti barn það, er hún gengi með. Tók Magnús þá fram tvö staup, hellti á, kvað þá Jón skyldu drekka af og dreifa um stund andstreymi lífins. Að því búnu kvaddi Jón formaður og hélt leiðar sinnar.

Tíminn leið með sínum vanagangi. Eftir áramótin 1836, hinn 13. janúar, varð Ólöf í Nesi léttari. Hún fæddi sveinbarn, og var það vatni ausið eftir tvo daga og nefnt Jón. En ævidagar þessa barns urðu ekki margir. – Sama ár, 1836, ritar séra Jón Vestmann í kirkjubókina eftirfarandi: „Dáinn 14. september Jón Bergsson, dóttursonur hreppstjóra Gísla Þorlákssonar í Nesi, 36 vikna, úr landfarsótt.“

Nesviti

Nesviti.

Nú liðu svo fjögur ár, að engar sögur fara af Ólöfu. Hún dvaldist heima í Nesi og giftist ekki og verður horfið frá henni um sinn. En af Bergi er það að segja, að hann fór víða vistum um skeið, uns hann árið 1843 fluttist að Hraukhlöðu í Stokkseyrarhreppi og bjó þar til 1851. Hann dó í Einkofa á Eyrarbakka 5. mars 1861, 63 ára gamall „úr uppstígandi fótaveiki“, eins og komist er að orði í kirkjubókinni. Sem áður getur, átti Bergur tvö börn með konu sinni. Þá átti hann óskilgetinn son með Ingibjörgu Jónsdóttur, vinnukonu á Langstöðum í Flóa, og hét hann Gunnlaugur. Hann komst til þroskaára, en varð lítill lánsmaður, þótti snemma brellinn og hvinnskur og varð uppvís að gripdeildum. Þegar hann var vinnumaður að Laugardælum í Flóa stal hann ásamt félaga sínum hestum o.fl; ætluðu báðir að flýja til fjalla og gerast útilegumenn. Voru gripnir og dæmdir til þrælkunar í Kaupmannahafnarfestingu. Þaðan kom Gunnlaugur ekki aftur, mun hafa dáið áður en refsitímanum var lokið.

Nú kemur nýr maður til sögunnar. Hann hét Guðbrandur Torfason, fæddur 11. ágúst 1804 að Klafastöðum í Skilmannahreppi í Borgarfirði. Þar bjuggu þá foreldrar hans, Torfi Sveinsson og Margrét Guðbrandsdóttir, og áttu þau fleiri börn. Árið 1816 eru þau hjón búandi að Dægru í Garðasókn á Akranesi. Það ár er Guðbrandur sonur þeirra fermdur, 14 ára gamall. Fær hann þá þann vitnisburð, að hann sé sæmilega að sér og hlýðinn. Þetta sama ár virðist hann flytjast úr foreldrahúsum og er síðan á annan áratug á ýmsum bæjum í Borgarfirði í vinnumennsku. Virðist heldur óstöðugur í vistum. Árið 1833 er hann sagður vinnumaður á Vatnshamri í Andakílshreppi. Þá lýsir Sigríður nokkur Jónsdóttir á Kollslæk hann föður að barni, sem hún ól og skírt var Guðmundur, og gekkst Guðbrandur við því. Næsta ár er hann kominn að Mávahlíð og þá fyrst talinn bóndi, ógiftur. Bústýra hans er þá talin Elín Sigurðardóttir, 25 ára gömul, er hjá þeim tveggja ára sonur Guðbrandar og dóttir, sem Elín átti, 7 ára gömul. Eigi mun búskapur þeirra Guðbrandar og Elínar hafa staðið nema um tvö ár. Þá flytja þau frá Mávahlíð og virðist samvistum þeirra þá lokið: börn munu þau eigi hafa átt saman.

Nes

Nesfjara.

Árið 1837 var Stóri-Núpur í Árnessýslu veittur Guðmundi presti Vigfússyni og fluttist hann þangað sama ár. Séra Guðmundur var fæddur að Gullberastöðum í Borgarfirði og var uppvaxtarár sín þar í héraði. Vel getur því verið, að þeir Guðbrandur Torfason hafi verið eitthvað kunnugir og fluttist hann nú með presti austur að Stóra-Núpi. En eigi dvaldist hann þar nema eitt ár. Þaðan fór hann austur að Þúfu í Landeyjum og virðist dveljast þar næstu tvö ár, en flytur þá suður í Útskálasókn. En um sömu mundir er hann kominn að Nesi í Selvogi. Þar mun hann hafa verið sjómaður vetrarvertíðina 1840 og þar verða kynni með þeim Ólöfu að Nesi og Guðbrandi. Um vorið, hinn 17. maí 1840, eru þau gefin saman í Strandarkirkju, að afstöðnum lýsingum af predikunarstóli, Guðbrandur Torfason, 36 ára, sjómaður í Nesi og Ólöf Gísladóttir, 26 ára á sama bæ. – Liðið höfðu um fjögur ár frá því að hún lenti í ævintýrunum með Bergi Guðmundssyni, þar til hún komst í höfn hjónabandsins.

Nes

Nes – legsteinn.

Þau Ólöf og Guðbrandur settust ekki að í Selvognum heldur fluttust þau sama vorið og þau giftust til Grindavíkur. Þar settust þau að í einu tómthúsbýlanna, er hét Vallarhús. Þau eignuðust tvö börn saman. Má nú fara fljótt yfir sögu. Þau Guðbrandur og Ólöf bjuggu saman til æviloka eða í næstum aldarfjórðung. Þau munu ávallt hafa hokrað í þurrabúðarkotum, lengstum í Garðinum og Vogunum, og að líkindum oftast við þröngan kost, eins og raunar allur þorri fólks við svipuð lífsskilyrði á 19. öld. Ólöf dó á Brekku í Kálfatjarnarsókn 10. júlí 1874, 61 árs, en Guðbrandur tæpu ári seinna, hinn 3. mars 1875 í Tumakoti, 70 ára gamall.

Aðalheimildamaður minn að þessum frásagnarþætti var Þórður hinn fróði á Tannastöðum. Hann festi sjálfur frásöguna aldrei á blað, svo að ég vissi, en ég hripaði hana eitt sinn á blöð eftir honum jafnóðum og hann sagði frá og hreinritaði að kveldi. Var það einkum um veru Bergs í Helli og í Þorlákshöfn og stefnumótið í Hleininni. Fæðingardagar, dánardagar og ártöl, sem viðkoma fólkinu í þættinum, eru að sjálfsögðu úr kirkjubókum og fleiri heimildarritum.

Heimild:
-Saga Þorlákshafnar.
-http://www.olfus.is/Default.aspx?ObjectId=1|2&id=221&p=1&idx=7

Selvogur - örnefna- og minjakort

Selvogur – örnefna- og minjakort – ÓSÁ.

Selvogsgata

Í Lesbók Morgunblaðsins árið 1938 segir Ólafur Jóhannsson úr Ólafsey frá „Selvogi og umhverfi hans„. Lýsingin er áhugaverð miðað við þess tíma ferðamáta og auk þess góð ábending um að óþarfi er að burðast með pólitískar „byrgðar í bakpokanum“ á slíkum ferðalögum:

„Í góðviðriskaflanum í sept. fór jeg til Selvogs, í erindum fyrir fjelag hjer í Reykjavík. Jeg fór með bíl, sem leið liggur, að Hveragerði í Ölfusi. Þaðan hafði jeg hugsað mjer að flytjast á hinum meðfæddu flutningatækjum. Heiðríkja og blíðskaparveður var þá, og alla dagana er jeg var í ferðinni.

Hlíðarendi

Hlíðarendi í Ölfusi.

Frá Hveragerði fór jeg eftir hinum nýja vegi, sem verið er að leggja út Ölfushrepp, og er hann kominn út á móts við Þóroddsstaði. Þaðan er slarkfær bílvegur út að Hraunum. Þegar þangað kemur beygist vegurinn dálítið til norðurs, út með fjallinu, áleiðis til Selvogsheiðar, og liggur vegurinn þar um helluhraun og aurflög, og er ekki fær bílum í rigningartíð. Tveir bæir eru þar út með fjallinu, og liggja þeir allfjarri hvor öðrum, og er þangað nær tveggja tíma gangur frá næstu bæjum í Ölfusi. Sá þeirra, er liggur næst Selvogsheiði, og er ysti bær í Ölfushrepp, heitir Hlíðarendi, og gisti jeg þar um nóttina.

Selvogsviti

Selvogsviti.

Morguninn eftir, um kl. 9, lagði jeg á Selvogsheiði, áleiðis til Selvogs. Vegurinn liggur fyrst út með alllöngu hamrabelti, og verður hann víða að liggja í gegnum slæm aurflög, eða um helluhraun, eða laust hraungrjót.
Heiðin smállækkar nokkuð vestur fyrir miðju, og liggur vegurinn á þeim kafla víða um mýrlendi og móa, og víðast mjög lágt, og er vegurinn ófær bílum á austanverðri heiðinni í rigningartíð, en hinsvegar myndi ekki þurfa að kosta mjög mikið fje að gera þar allgóðan sumarveg fyrir bíla. Þar á austurheiðinni er kjarngott beitiland, enda var þar allmargt sauðfje á víð og dreif.

Strandarkirkja

Strandarkirkja 1940.

Þegar komið er um 2/3 vegar innanfrá, eða hæst á heiðina — en hún er hvergi há — sjest Selvogsþorp, og ber þar mest á vitanum og hinni oftnefndu Strandarkirkju. Leiðin lækkar fljótara og með jafnari halla að vestanverðu og er þar landslag fallegt, víða hallandi grundir, og því að miklu leyti sjálfgerður bílvegur, þar til fer að nálgast þorpið, þá fer að bera allmikið á foksandi og uppblæstri, og hefir foksandurinn gert Selvogsbúum mikið tjón, og sjást sandskaflar þar víða, t.d. er allhár grjótgarður um austanvert túnið í Nesi, og náðu þó sandskaflarnir upp fyrir miðju á honum, en samt sem áður hlífir garðurinn túninu mikið.
Jeg kom í Selvog eftir 4 tíma gang yfir heiðina. Jeg var þar öllum ókunnur, og ákvað að finna fyrst vitavörðinn að máli, og bað hann um gistingu meðan jeg dveldi í þorpinu, og var það strax til reiðu.
Guðmundur Jónsson vitavörður er vel greindur maður, fróður og athugull um margt í fortíð og nútíð, og dugnaðarmaður í búskap og hvívetna.

Selvogur

Nes – loftmynd 1958.

Þegar jeg hafði lokið erindi mínu, fór jeg að skoða hina nafnkendu Strandarkirkju, sem svo margra hugur virðist hvarfla til í andstreymi lífsins. Kirkjan er utanvert við þorpið, og nálægt sjó. Það er lagleg og vel hirt timburkirkja, og stendur hún, og grafreitur umhverfis, á sandhól. Stormarnir hafa um aldaraðir sorfið úr hólnum, en til þess að stöðva það, hefir verið hlaðinn allhár grjótgarður, að miklu leyti umhverfis hólinn, en hann er nú farinn að hrörna, og ætti að sjálfsögðu, að steypa þarna varnargarð um kirkju og grafreit, enda hefir Strandarkirkja ærið fje til að hlúa að sjer og sóknarbörnum sínum, lífs og liðnum. Talsvert hefir verið unnið að því að græða upp land kirkjunnar með góðum árangri.

Strandarkirkja

Kirkjan á Strönd.

Mjer fanst eins og yfir þessari yfirlætislausu, snotru timburkirkju hvíla þögul, tignarleg ró. Má vera að það hafi verið af því, að jeg vissi, að samstiltur hugur margra Íslendinga hefir oft kvarflað til hennar til áheita í mótblæstri lífsins, og hinar miklu gjafir til hennar sýna, að oft hefir mönnum orðið að ósk sinni í því sambandi. Jeg ætla ekki að fara fleiri orðum um þessa hlið málsins, en „ef þjer hafið trúna, megnið þjer fjöllin úr stað að færa“, og „harla margt er á himni og jörð, er heimspekina dreymir ei um“.
Strandarkirkja hvað eiga í sjóði um 150 þús. kr. er gera verður ráð fyrir að sje í reiðufje. Þetta er meira fje en kirkjan þarf sjer til viðhalds. Mjer finst, að kirkjan — eða forráðendur hennar, sem hvað vera hlutaðeigandi sóknarnefnd, ríkisstjórn og biskup — ættu að verja nokkru af fje hennar til andlegra og líkamlegra hagsbóta fyrir sóknarbörn kirkjunnar.
Jeg vjek dálítið að þessu máli við Guðmund vitavörð. Hann sagði að sú hugsun hefði gert vart við sig þar, að gera Selvog að sjerstöku prestakalli. Kirkjan ætti að nokkru eða öllu leyti að leggja fram fje til þess að jafntímis yrði reist hæfilegt skólahús fyrir barna- og unglingakenslu, og íbúð fyrir prestinn, sem jafnframt væri aðalkennari. Líklegt þykir mjer að Selvogsbúar myndu sjá um, að í þann starfa slysaðist ekki hempukommúnisti, heldur maður, sem hefði áhuga fyrir að þroska ungmenni andlega og líkamlega á þjóðræðisgrundvelli. Margt fleira mætti nefna, er ætti vel við að kirkjan legði fje fyrir sóknarbörn sín, svo sem til bókasafns o.fl.

Nes

Nes í Selvogi.

Húsakynni í Selvogi eru yfirleitt góð, þar eru nokkur mjög snotur íbúðarhús úr timbri og steini. Garðrækt er þar töluverð, enda góð skilyrði fyrir henni. Tún eru furðanlega grasgefin, þrátt fyrir sandfok. Nautgriparækt getur ekki orðið þar mikil, en aftur á móti hafa Selvogsbúar allmargt sauðfjár, enda er þar snjóljett, og kjarngóð beit á heiðunum. Guðm. vitavörður í Nesi hefir, að sögn, um 800 sauðfjár, og mun það vera langflest hjá honum, enda er Nes aðaljörðin. Í jarðamatinu frá 1860 er Nes metið 55 hundruð.
Íbúar þorpsins virðast, að framkomu og yfirbragði, ekki standa að baki annara í kauptúnum og kaupstöðum. Menn skiftast, þar sem annarsstaðar, í pólitíska flokka. Þó heyrði jeg þess ekki getið, að einræðis- og kúgunarstefna kommúnista — og hinna dulbúnu fylgjenda þeirra — væri farin að gera vart við sig. Það ber vott um mikið andlegt þroskaleysi hjá þjóðinni, og andvaraleysi með frelsi sitt, ef hún uggir ekki að sjer fyr en hún hefir verið hnept í fjötra ófrelsis og kúgunar, ef til vill undir yfirstjórn erlendrar harðstjórnar.
Blóðferill komúnismans — bæði beint og óbeint — er að verða drepsóttum verri í heiminum. Nú á þjóðin engan Einar Þveræing, og því síður nokkurn Jón Sigurðsson. Þjóðin sjer, og horfir með kvíða á hættuna, en hefst ekki að. Sumir af sinnuleysi. Nokkrir trúa, ef til vill, ekki að hætta sje á ferðum. Aðrir ef til vill af því, að þeir vænta sjer hagnaðs af því að viðhafa „hin þöglu svik, að þegja við öllu röngu“.

Selvogsheiði

Selvogsheiði – gata.

Guðmundur vitavörður álítur, að ekki muni verða ábyggilegur bílvegur suðurleiðina sakir snjóþyngsla er oft komi bæði á svæðinu frá Krýsuvík að Selvogi, og engu síður á austanverðri Selvogsheiði, sem liggur víðast mjög lágt, og virðist mjer það mjög líklegt, en sumarveg fyrir bíla má gera um heiðina, til Selvogs, með fremur litlum kostnaði. Vetrarvegur frá Reykjavík, um Krýsuvíkurheiði og Selvogsheiði, mun ekki reynast ábyggilegri, sjerstaklega í suðvestan snjó komu, en Hellisheiði. Ef Hellisheiðarvegurinn væri endurbættur, þannig, að hækka hann mjög víða upp, og færa hann upp úr lautunum (t.d. skamt frá Kolviðarhóli), er ástæða til að ætla, að hann yrði engu síður ábyggilegur en hinn, en svo miklum mun styttri og því ódýrari til notkunar. En Íslendingar þurfa að muna það, og vera við því búnir, að oft hafa komið þau fannalög, að bílvegir myndu hafa farið í kaf allvíða, og til þess að rökstyðja það, þarf ekki lengra aftur í tímann, en um og eftir síðustu aldamót.

Strandardalur

Strandardalur.

Frá Selvogi ákvað jeg að fara skemstu leið til Hafnarfjarðar, og er það rúmir 40 km., og liggur leiðin yfir háa heiði, og mun hún vera um 20 km., og endar að norðanverðu í Grindaskörðum.
Jeg lagði af stað frá Selvogi kl. 9, og ljet Guðmundur vitavörður mjer í tje hest og fylgdarmann upp að heiðinni, sem er rúmur klukkutíma gangur. Heiðarbrúnin er fremur lág að sunnanverðu, en svo smáhækkar hún upp að miðju, og liggur mjög hátt alla leið norður á brún. Á miðri heiðinni er mikið og fagurt víðsýni austur til Eyjafjalla, Vestmannaeyja og á haf út, og var sjerstaklega aðdáunarvert, að sjá lífgeislaflóð „Almættisins erindreka“ leika um hafflötinn. Suðurhluti heiðarinnar er mestmegnis vaxinn mosa og lyngi, en þegar norðar kemur er fjölbreyttari gróður, og er kjarngóð beit þar allvíða. Norðanverð heiðin er hallalítil, þar skiftast á „fjallshnúkaraðir“ og dalir.

Selvogsgata

Selvogsgata.

Í dölunum skiftast á, gamalt hraunflóð og valllendisgróður, og liggur leiðin um þetta.
Þegar maður er staddur á fjöllum uppi, verður maður best var við alvöru- og tignarsvip náttúrunnar, og þar „þagnar dagur þras og rígur“, og eins og Gestur Pálsson segir: „Rekur sig þar ekki á nein mannaverk“, og jeg vil bæta við: Þar blasa við stórvirki náttúrunnar, er Jónas Hallgrímsson minnist á í hinu lotningarfulla erindi: „Hver vann hjer svo að með orku“.

Selvogsgata

Selvogsgata.

Vegurinn um heiðina er slæmur, lítið annað en margra alda hestatroðningar, víða með lausu hraungrjóthröngli, og lítur út fyrir, að þar hafi ekki verið hreinsuð gata á þessari öld, og er vegurinn þó líklega í tölu fjallvega.
Um eitt er ferð um þessa heiði varhugaverð að sumarlagi. Það er vatnsleysið. Jeg varð ekki var við nokkurt vatn frá því jeg lagði á heiðina, og þar til jeg kom niður undir Hafnarfjörð, að vatnslæk bæjarins, er kemur undan hrauninu. Jeg bjóst við vatnsleysi á þessari leið, þar sem þetta er alt brunnið land, er gleypir fljótlega alt yfirborðsvatn. Til þess að mig þyrsti síður, borðaði jeg einnngis skyr og mjólk áður en jeg lagði á heiðina, og nesti þorði jeg ekki að smakka fyr en við Hafnarfjarðarlækinn, af sömu ástæðu, enda bar þetta hvorttveggja tilætlaðan árangur.
Á norðurbrún heiðarinnar eru Grindaskörð. Um för Repps um Grindaskörð 1867 orti Kristján Jónsson skopkvæði, og þar meðal annars þetta:

Yfir geigvænleg Grindaskörð geystist fárramur ofurhugi;
með galdrakyngi og gneistaflugi dundi á jöklum hríðin hörð.
Höfuðskepnurnar hömuðust, hamaðist Repp þó engu miður.
Alteins og háreist bæjarbust er bugast ei neina storma viður.

Selvogsgata

Selvogsgata að Grindarskörðum.

Þegar komið er fram úr Grindaskörðum, á norðurbrún heiðarinnar, opnast fljótlega fagurt útsýni. Fyrir neðan heiðina liggur víðáttumikið mosavaxið helluhraun. Niður við sjóinn sjest Reykjavík, og sýnist hún liggja allnærri, af því að hæð fjallsins dregur eins og að sjer. Víðáttumikið útsýni er yfir Faxaflóann. Í þetta sinn lagði inneftir honum dálitla útrænu. Þá er fjallahálfhringurinn svipmikill, einkum Akrafjall, Hafnarfjall og Esjan, sem framverðir, og Snæfellsfjallgarðurinn með hinn tignarlega útvörð, Snæfellsjökul.
Þegar komið er niður af heiðinni, liggur vegslóðinn um helluhraun, vaxið grámosa á alllöngu svæði, og er mosalagið víða um 30 sm. á þykt, og var mýkri en nokkur fjaðrasófi að leggjast á. Leiðin frá heiðinni til Hafnarfjarðar mun vera um 20 km., og er um helmingurinn flatneskja, og því mjög villugjarnt í dimmviðri. Vegarslóðinn hefir, fyrir löngu síðan, verið varðaður, en vörðurnar eru að mestu hrundar, og því ekki vegvísir þegar þeirra er þörf.

Selvogsgata

Selvogsgatan neðanverð.

Sumsstaðar sjest fyrir götunni á þann hátt, að laut er troðin í hraunhellurnar eftir hestafætur, og hefir það sína sögu að segja.
Þegar komið er niður fyrir Hafnarfjarðargirðingu, liggur vegurinn eftir þröngum skorningum um hraunið, og er mjög vont yfirferðar, gatan mjög víða þakin af hraunmulning, og væri full þörf á, og kostnaðarlítið, að hreinsa götuna, þótt líklega sje þar ekki fjölfarið.“

Heimild:
-Lesbók Morgunblaðsins, 3. tbl. 23.01.1938, Selvogur og umhverfi hans – Ólafur Jóhannson frá Ólafsey, bls. 17-19.

Grindarskörð

Grindarskörð.

Selvogur

Í Selvogsheiðum er í örnefnalýsingum getið um Víghólsrétt, Nesstekk, Bjarnastaðastekk og Útvogsstekk, auk fleiri mannvirkja. Öll þessi mannvirki munu raða sér í svo til beina línu í heiðinni. FERLIR hefur þegar staðsett eitt þessarra mannvirkja og munu tilvist annarra ráðast af því.

Víghólsrétt?

Þórður Sveinsson sagði nýlega frá því að Selvogsbóndi einn hafi misst frá sér kind við Hásteina. Hún hafi síðan fundist í skúta skammt vestan við þá. Áður höfðu þrjár kindur horfið sporlaust á þessu svæði. Þær fundust síðar af tilviljun þegar maður einn var að ganga skammt vestan við girðinguna, sem þar er (var). Bein kindanna lágu framan við hellisop og virðast þær hafa fennt þar í kaf. Hvar opið er eða hvað er fyrir innan opið er ekki vitað. Ætlunin var m.a. að skoða svæðið.
Í Selvogsheiðum er í örnefnalýsingum getið um Víghólsrétt, Nesstekk, Bjarnastaðastekk og Útvogsstekk, auk fleiri mannvirkja. Öll þessi mannvirki munu raða sér í svo til beina línu í heiðinni. FERLIR hefur þegar staðsett eitt þessarra mannvirkja og munu tilvist annarra ráðast af því.
Í Örnefnaskrá fyrir Nes segir m.a.: „Nesstekkur var vestan við Víghólsrétt, en hún er austan við Stóruvörðu, sem er ofarlega á Bjarnastaðaflötum. Nesstekkur er við mörk Ness og Bjarnastaða. Víghólsrétt er við Víghól, sem er svolítil hæð.  Við Nesstekk er Nesstekkatún. Stekkir voru þarna í röð yfir landið, austast Nesstekkur, þá Bjarnastaðastekkur og Útvogsstekkur. Prestskrókur er milli Nesstekkjar og Víghólsréttar.  Það er slægjublettur, og hefur prestur slegið þar einhvern tíma. Þar var PrestGapiskróksvarða, nú dottin niður.
Ofar en Víghóll er Fornagata. Á Fornugötu mætast göturnar frá Vogsósum  og neðan úr Selvogi, s.s. frá Þorkelsgerði og Bjarnastöðum. Hún er við götuslóðann austur á Sand, í slægjulöndin. Fornagata er bæði í landi Ness og Bjarnastaða, liggur yfir mörkin.“
Í örnefnalýsingu fyrir Bjarnastaði segir um þetta svæði umhverfis Bjarnastaðaflatir: „Ofan Bjarnastaðatúns eru Bjarnastaðaflatir. Vestast á þeim ofan við hjáleiguna Klöpp var Litlavarða og Litluvörðuflöt. Eitthvað mun vera eftir af vörðunni. Ofar en Litlavarða var önnur varða ofarlega á Flötunum, kölluð Digravarða, Stóravarða eða Austurvogsvarða. Hún var Sundvarða fyrir Útvogssund.  Átti hana að bera í austustu Hnúkana. Við túngarðshlið Bjarnastaða byrjaði leiðin suður og lá upp heiðina.
Spölkorn upp frá Flötunum eru Bjarnastaðahólar kringum Digruvörðu. Það eru þrír lágir hraunhólar. Vestasti hóllinn er í Götulandi, Mið-Bjarnastaðahóll e.t.v. einnig, en Austasti-Bjarnastaðahóll er í Bjarnastaðalandi. Eitthvað er eftir af grónu landi milli hólanna, sandurinn er ekki kominn þangað.
Austur við Nesmörk er Fornagata, langur hraunhóll sprunginn eftir endilöngu. Á honum var Fornugötuvarða, sem nú er fallin, og kringum hann FRétt við Fornugötuornugötuflatir.“
Í örnefnalýsingu fyrir Götu er getið um Bjarnastaðastekk o.fl.: „Fyrir ofan Götutún halda áfram Bjarnastaðaflatir, og á þeim eru Bjarnastaðahólar. Vestasti-Bjarnastaðahóll er í Götulandi og e. t. v. einnig Mið-Bjarnastaðahóll. Ofan við hólana var lægð eða flöt, sem nefnd var Skjaldbreið, en er nú orðin uppblásin og nefnd Grjót (ft.). Þar ofar var Bjarnastaðastekkur, alveg við mörkin í Götu og e.t.v. í Útvogslandi. Sést fyrir honum enn. Við stekkinn var Stekkatún og Stekkatúnsflatir í kring. Þetta er við veginn niður að bæjunum.“
Að þessu sinni var lagt af stað frá Fornugötu sunnan Fornugötuhliðs, gengið suður fyrir klapparhæðina þar sem gatnamótin á götunni eru, annars vegar til vesturs og austurs og hins vegar til suðvesturs niður að Selvogi. Nokkru sunnar var stefnan tekin til vesturs, að Víghól og áfram inn á og yfir Bjarnastaðaflatir. Mikil landeyðing hefur orðið á neðanverðum flötunum og neðan þeirra. Ekki var unnt að greina mannvirki á þeirri leið, þ.e. frá svonefndri Víghólsrétt. Nokkrar grónar vörður, sem fyrrum hafa verið allstórar, eru á ofanverðum Bjarnastaðaflötum, s.s. Digravarða. Ekki er óvarlegt að ætla að Nesstekkur geti verið Fornagata við Strandarhæðtvískipt tóft norðan í Fornugötu, örskammt vestan við gatnamótin. Sú tóft hefur ekki verið skýrð og hennar virðist ekki vera getið í örnefnaskrám. Ef þetta er Nesstekkur er hann í Neslandi, svo til alveg við mörkin.
Komið var í fjárstekknum Gapa og haldið inn á Fornugötu ofan hans. Gatan sést þar vel í holtinu. Hún liggur skammt norðan við Bjargarhelli. Litið var inn í hellinn, en götunni síðan fylgt áfram til austurs. Komið var að grónum hvammi og liggur gatan norðan hans. Hlaðið er í götukantinn ofan við hvamminn. Skammt suðaustan við hann er annar gróinn hvammur, sem eflaust hefur verið ágætur áningarstaður fyrrum þegar langar lestir manna og skepna liðuðust um hæðina. Þarna sunnan við götuna er rétt. Líklega hefur hún verið notuð sem aðhald þegar reka þurfti fé þessa leið. Skammt austar og norðaustar eru allnokkrar vörður, líklega á landamerkjum.
Fornugötu var fylgt áfram til austurs, en stefnan síðan tekin upp með girðingunni fyrrnefndu á mörkum Ness og Bjarnastaða. Henni var fylgt upp að efstu Hásteinum. Ætlunin var að finna skúta þann eða helli sem Þórður Sveinsson hafði sagt frá vikunni áður. Þegar komið var upp fyrir Hásteina mátti sjá hlaðið aðhald norðvestan við þá. Tóftir eru og undir hæsta Hásteini. Eftir stutta göngu til vesturs var komið að litlu jarðfalli og skúta. Þar gæti verið um að ræða skúta þann sem fyrr var nefndur. Innihaldið gæti vel rúmað 10 kindur. Vestan við hann var hlaðið skjól, líklega refaskyttu. Varða var þar skammt frá, yfir greni. Á bakaleiðinni var gengið fram á nokkur merkt greni. Nýleg fótspor voru eftir ref frá vestanverðum Hásteinum með stefnu á Strandarkirkju.
Annað jarðfall fannst nokkuð suðvestar, í sömu fjarlægð frá girðingunni og sá efri. Gróið var umhverfis, en inni var rými fyrir 15-20 kindur. Engin bein sáust í eða við framangreinda skúta, en nokkur mold var á gólfum beggja.
Gangan tók 3 klst og 3 mín. Frábært veður.

Heimildir m.a.:
-Örnefnalýsingar fyrir Nes, Bjarnastaði, Þorkelsgerði og Götu.

Bjarnastaðastekkur

Bjarnastaðastekkur.

Selvogur

Farið var með Þórði Sveinssyni um Selvogssvæðið, en hann er (að öllum öðrum ólöstuðum) fróðastur núlifandi manna um minjar og sögu svæðisins. Ætlunin var m.a. að staðsetja Imphólaréttina, sem í fornleifaskráningu er sögð „horfin“, Fornugötu, Járnhellra, Víghól eða Dómshæð (dómsstað fyrrum), Víghólsrétt, Nesstekk og Bjarnastaðastekk o.fl.

Imphólarétt

Þórður les Selvogslandið eins og hverja aðra skruddu. FERLIRsfélagar höfðu örnefnalýsingar frá Nesi, Bjarnastöðum, Þorkelsgerði og Götu. Þær voru samdar með hliðsjón af skrám eftir Gísla Sigurðsson, sem lesnar voru yfir af Eyþóri Þórðarsyni. Eyþór fæddist í Torfabæ í Selvogi 1898 og ólst þar upp. Hann bjó í Torfabæ til 1962. Upplýsingarnar voru skráðar í okt. 1980. Eyþór var frændi Þórðar, en hann tók fram að lýsingarnar gætu mögulega verið misjafnlega nákvæmar og þyrfti að taka tillit til þess við leitir að minjum á svæðinu.
Byrjað var við Litlu-Hásteina og réttin skoðuð, haldið yfir í Imphólaréttina í Imphólum og síðan um Öldurnar í leit að framangreindum örnefnum og mannvirkjum. Þórður benti m.a. að austurmörk Bjarnastaða hafi legið austar en talið er, þ.e. um hólklöppina Fótalaus, sem hann tilgreindi skammt norðan þjóðvegarins, nokkur austan markagirðingarinnar, sem nú er að mestu horfin. Norðar er Sótahóll. Þá benti hann á þjóðleiðir, nýjar og gamlar; núverandi akveg og þann eldri sunnar og Fornugötu, enn sunnar. Hún er enn vel greinileg og má sjá vörður við hana, bæði endurreistar og fallnar fyrir löngu.
FornagataÍ lýsingum segir m.a. um Fornugötu: „Austur við Nesmörk er Fornagata, langur hraunhóll sprunginn eftir endilöngu.  Á honum var Fornugötuvarða, sem nú er fallin, og kringum hann Fornugötuflatir.“ Jafnframt að „ofar en Víghóll er Fornagata, klöpp með sprungu, sem líkist götutroðningi. Við Fornugötu mætast göturnar frá Vogsósum og neðan úr Selvogi. Hún er við götuslóðann austur á Sand, í slægjulöndin. Fornagata er bæði í landi Ness og Bjarnastaða, liggur yfir mörkin.“ Þórður sagði götuna liggja frá austri til vesturs. Gatan sést enn vel austan við Hlíðarenda í gegnum hraunið, um Djúpadalahraun sunnan við fjárborgina og ofan við Kvennagönguhól(a). Þar færi hún með Eggjunum neðan við Hellisþúfu, um Fornagötuklöpp eða – hæð, með stefnu á Fuglastapaþúfu og um Strandarhæð, sunnan Vogsósa, yfir ósinn og áfram í gegnum hraunið sunnan og vestan Stakkavíkur, um Herdísarvík og áfram til vesturs um slétt Herdísarvíkurhraunið. Víða sæist gatan greinilega, s.s. í Strandarhæð sunnan við Gap og á sléttu helluhrauninu suðvestan við Stakkavík. Þetta hefði verið hin forna gata með suðurströndinni. Faðir hans hefði getið þess að gatan suðvestan Stakkavíkur hefði áður sést sunnar en nú er og mun sjórinn hafa tekið þann kafla hennar.
FERLIR rakti þessa götu fyrir nokkrum árum frá Hlíðarenda og vestur yfir hraunið. Síðan í Djúpudalahrauni, ofan Kvennagönguhóls, á Strandarhæð og vestan Vogsósa. Gatan er vörðuð vestan Hlíðarenda óg um Djúpudali og víðar á leiðinni má sjá fallnar vörður. Hinn nýji Suðurstrandarvegur mun fara yfir þessa fornu götu á kafla þar sem hún er hvað mest mörkuð í harða hraunhelluna.
Þegar gatan var skoðuð núna má vel rekja sig eftir henni við flatirnar. Vörður sjást enn, sem fyrr sagði, sumar vel skófgrónar. Norðaustan við Fornugötu(hól) greinist gatan, annars vegar niður í Selvog og hins vegar eins og að framan er lýst. Norðan í Fornugötu(hól) er tvískipt hlaðin gróin tóft, gæti hafa verið stekkur.
Ef götunni er fylgt í átt að Selvogi er rétt (lík Imphólaréttinni) nokkur suðvestar. Hún er skammt Bjarnastaðamegin við gömlu girðinguna. Eyþór Þórðarson getur þess í sinni lýsingu að Víghóll hafi verið „Dómstaður [og] átti við Víghól að hafa farið fram víg eða aftökur.“ Er sagt, að Erlendur lögmaður Þorvarðarson hafi reiðst sveini sínum, er spáði því, að Strönd mundi eyðast af sandfoki. Hafi sveinninn flúið, en Erlendur elt hann upp að Víghól og drepið hann þar. Víghóll er skammt frá Fornugötu, hún liggur dálítið ofar en réttin. Gamla gatan lá framhjá Fornugötu. Ef þessi rétt er Víghólsréttin er gasi gróinn hóll örskammt norðaustan hennar umræddur Víghóll. Hafa ber í huga að mikla breytingar hafa orðið þarna á landsháttum frá því sem áður var því sandurinn fauk þar um fyrrum nánast óbeislaður. Þessi rétt er hins vegar mjög heilleg, en ekki auðfundin.
Víghólaréttin?Nefndir Hásteinar eru þrír hraunhólar við þjóðveginn. „Stóri-Hásteinn er efstur. Mörkin milli Ness og Bjarnastaða eru austan í honum. Þar er við hann klöpp, sem kölluð er Fótalaus, og var merki klappað í hana. [Hér virðist vera um misvísun að ræða hjá Eyþóri því ef þessi lína er notuð verður Bjarnastaðasel, sem er þarna ofan við, í Neslandi. Ef tekið er mið af eystri hólnum, sem Þórður benti á, þá er selið réttu megin við mörkin]. Ókunnugt er um tildrög þessa nafns. Litlu-Hásteinar eru tveir, og liggur vegurinn nú milli þeirra, utan í neðsta Hásteininum. Rétt var við neðsta Hásteininn. Hásteinahraun er milli Hásteina og kringum þá, og í því er Hásteinahellir. Það er smáskúti, kemst varla kind inn í hann. Hásteinsflag er fyrir neðan nýjasta veginn, undir neðsta Hásteininum. Það er gróið. Hásteinaflatir heita fyrir neðan Hásteina.
Austur með þjóðveginum eru Imphólar, lágir grashólar. Þar var Imphólarétt, sem nú er farin. Imphólaflatir og Klakksflatir ná saman, og Klakkur er þar fyrir austan.“ Imphólar eru grónir lágir hólar sunnan Litlu-Hássteina. Norðan utan í þeim vestari er falleg rétt með leiðigarði.
„Spölkorn fyrir ofan Kvennagönguhól eru aðrir hraunhólar og kringum þá grösugar flatir. Þarna var Nessel, og sést enn fyrir tóftum þess. Selið er innan sandgræðslugirðingarinnar. Nú hafa verið reist fjárhús á móti selinu (ofan vegar, í Austurslökkum). Norðan þjóðvegar, hærra í heiðinni, var Hafliðavarða, sem var smalavarða, þ. e. hlaðin af smala.
Hellisþúfa er hraunhóll mikill í vestur frá Háaleiti og í honum Hellisþúfuhellir. Í hellinum var eitt sinn búið, og er einhver hleðsla úti fyrir. Sá mun hafa heitið Gísli, er þarna bjó.“
Þórður sagðist hafa hafst við í tjaldi þegar hann var yngri skammt vestan við Kvennagönguhóla ásamt föður sínum og bróður. Þá hefðu þeir fundið tölur eða hnappa, sem taldar voru hafa komið upp úr dys í örfoka landi. Nú hefði sandurinn lagst yfir moldarflagið og hulið dysina. Hann vissi nokkurn veginn hvar hún væri. Hnapparnir væru enn til.
Mörk Ness og Bjarnastaða„Tveir brunnar voru á Bjarnastöðum. Eldri brunnurinn var í miðju Gerðinu, en annar yngri nær bæ, alveg við traðirnar.
Á sjávarkampinum niður af Bjarnastöðum, Bjarnastaðakampi, var hlaðinn sjóvarnargarður og hlið í hann niður af tröðunum. Garðbrot, sem lá frá bæjarhúsunum niður með sjávargötunni, var nefnt Bryggjan. Bryggjan var til að ganga eftir, því að tjörn myndaðist fyrir ofan kampinn. Þar yzt fyrir ofan kampinn var gömul sjóbúð, Þorsteinsbúð.  Tóftin af henni hefur staðið til skamms tíma og verið notuð sem kartöflugeymsla. Yngri brunnurinn var rétt við búðina.
Efst við traðirnar heim að Bjarnastöðum, vestan við þær, var Guðnabær, hjáleiga frá Bjarnastöðum, nú löngu komin í eyði.  Tún Guðnabæjar skiptist í tvennt, Austurgerði og Vesturgerði, og lágu traðirnar heim að Bjarnastöðum milli þessara stykkja. Efst í Austurgerði er Unhóll á landamerkjum móti Nesi, rétt innan við  eða í túngarðinum, sem liggur ofan við alla bæina. Alveg um landamerki Ness og Bjarnastaða, nokkru neðan við Unhól, var brunnur fyrir Guðnabæ og Þórðarkot, hjáleigu í Nesi.
Nokkru vestar en Guðnabær var þurrabúð, nefnd Klöpp, og stóð hún ofan garðs. Túnblettur var þar í kring og í honum vestast lítill hóll, Æshóll. Merkin milli Götu og Bjarnastaða liggja alveg um Æshól. Vestast í Bjarnastaðalandi var hjáleigan Beggjakot, nú í eyði. Sömu traðir voru að Götu og Beggjakoti. Tún Beggjakots lá upp með tröðunum, upp undir garð og spöl niður fyrir bæinn. Á því standa fjárhús á nokkrum stöðum. Neðst í túninu var brunnur fyrir kotið.
Nokkru vestar stóðu Bjarnastaðaborgir, tvær fjárborgir á kampinum, en þær tók af í flóðinu mikla 25. febr. 1925. Lítið vik milli klappa niður af þeim heitir Borga(r)vik, og vestur af því Borga(r)klettar. Þeir eru fram af borgunum. Þar var fjárrétt lengi. Á milli Borgaklettanna er Sandlón, og vestan Borgakletta er Djúpalón. U. þ. b. upp af Borgaviki er Bjarnastaðarétt eða Miðvogsrétt, neðst í Gerðinu innan við sjóvarnargarðinn.
Selvogsheiði tekur við ofan túngarða á Bjarnastöðum, og er kölluð Miðheiði upp frá Bjarnastöðum og vestur um Torfabæjarland, en Vesturheiði eða Útheiði þar fyrir vestan.
Ofan Bjarnastaðatúns eru Bjarnastaðaflatir. Vestast á þeim ofan við hjáleiguna Klöpp var Litlavarða og Litluvörðuflöt. Eitthvað mun vera eftir af vörðunni. Ofar en Litlavarða var önnur varða ofarlega á Flötunum (68), kölluð Digravarða, Stóravarða eða Austurvogsvarða. Hún var Sundvarða fyrir Útvogssund. Átti hana að bera í austustu Hnúkana.  Rúst við FornugötuVið túngarðshlið Bjarnastaða byrjaði leiðin suður og lá upp heiðina.
Spölkorn upp frá Flötunum eru Bjarnastaðahólar kringum Digruvörðu. Það eru þrír lágir hraunhólar. Vestasti hóllinn er í Götulandi, Mið-Bjarnastaðahóll e.t.v. einnig, en Austasti-Bjarnastaðahóll er í Bjarnastaðalandi.  Eitthvað er eftir af grónu landi milli hólanna, sandurinn er ekki kominn þangað.“ Ekki er fjallað um Bjarnastaðastekk í örnefnalýsingunni, en þar með er ekki sagt að hann hafi ekki verið til því hans er getið í lýsingu fyrir Götu.
„Á Nessandi er stórt svæði, nefnt Öldur. Sandurinn er þar gáróttur og lægðir á milli gáranna. Öldur liggja frá Flötum austur að landamerkjum, milli Heimasands og Sandamóta, en svo heitir, þar sem sandurinn mætir gróna landinu fyrir ofan og fer að hækka upp í heiðina.  Öldurnar voru slegnar frá Nesi og kotunum, hver hafði þar sitt stykki, en þetta var aðalslægjulandið utan túns. Vestust er Ertualda. Þá er Bartakotsalda. Á henni voru tættur, e.t.v. af býli.  Milli þessara tveggja eru Járnhellrar, sem svo voru nefndir. Járnhellrar eru klappir, og var í þær hellir, en hann fylltist af sandi.  Þarna voru jafnvel rústir gamlar. Járnhellrar fylgja aðallega Bartakotsöldu.“ Vegna framkominna upplýsinga um að hellirinn hafi lokast svo og vegna þess að Miðheiðin er einn sandur, var ekki gerð sérstök leit að honum að þessu sinni.
Farið var niður undir Strákhæðir. „Norður af þeim er Smalaskáli á Heimasandi. Þar var einhver hleðsla. Var talið, að þar hefði einhvern tíma verið búið. Þar norður af er Taðhóll. Ekki er vitað, hvers vegna hann heitir svo, e.t.v. hafa hross staðið í skjóli undir honum. Við Taðhól byrjar Ertualda, og þar eru takmörk Heimasands.
Vestur af Taðhól er Dómhæð.  Sagt var, að þar hefðu farið fram dómar.
Varða við FornugötuFrá túngarðshliði að austan lá gata upp í heiðina, upp hjá Víghólsrétt, upp á Klakksflatir. Tvær smávörður við götuna voru kallaðar Ljúf og Leið, ekki vitað hvers vegna. Ofar er klöpp, sem kallast Beð, og á henni Beðvarða. Vestan götunnar er Grænaskjól. Þar er hleðsla, hefur eitthvað verið byggt. Vestur og upp af Grænaskjóli eru Lambastekkshólar og Lambastekkur þar hjá.“ Vörður eru á þessari leið en erfitt er að sjá eftir lýsingunni hver hafi heitið hvað.
„Nesstekkur var vestan við Víghólsrétt, en hún er austan við Stóruvörðu, sem er ofarlega á Bjarnastaðaflötum. Nesstekkur er við mörk Ness og Bjarnastaða. Víghólsrétt er við Víghól, sem er svolítil hæð. Við Nesstekk er Nesstekkatún. Stekkir voru þarna í röð yfir landið, austast Nesstekkur, þá Bjarnastaðastekkur og Útvogsstekkur.“ Þessi lýsing frá Nesi gefur tilefni til að fara aftur á vettvang og gaumgæfa svæðið vestan við fyrrnefnda rétt (Víghólarétt), sem gæti einnig verið Bjarnastaðastekkur. Hins vegar var engar minjar að sjá austan við hana. Meira síðar.
„Fyrir ofan Götutún halda áfram Bjarnastaðaflatir, og á þeim eru Bjarnastaðahólar. Vestasti-Bjarnastaðahóll er í Götulandi og e. t. v. einnig Mið-Bjarnastaðahóll. Ofan við hólana var lægð eða flöt, sem nefnd var Skjaldbreið, en er nú orðin uppblásin og nefnd Grjót (ft.). Þar ofar var Bjarnastaðastekkur, alveg við mörkin í Götu og e.t.v.  í Útvogslandi. Sést fyrir honum enn. Við stekkinn var Stekkatún og Stekkatúnsflatir í kring. Þetta er við veginn niður að bæjunum.“ Þessi lýsing frá Götu bendir til að Bjarnastaðastekkurinn geti verið vestar en hér er tilgreind Víghólsrétt. Þá ætti Nesstekkur að vera á millum.
Ofar eru tveir hólar, Grænshólar (G.S. nefnir þá Grenshóla). Við þá mun áður fyrr hafa verið gren. Umhverfis hólana eru Grænshólaflatir. Þar austur af er Fornagata í Bjarnastaðalandi.“
Fornagata í MiðheiðinniÍ örnefnalýsingu fyrir Þorkelsgerði segir: „Áður fyrr var byggð í Selvogi skipt í Austurvog, sem var fyrir austan kirkjuna, og Vesturvog fyrir vestan kirkju, þ. e. frá kirkju og vestur að Vogsósum. Þá var Þorkelsgerði í Austurvognum. Í Þorkelsgerði voru Austurbær og Miðbær, sem var tómthús. Vestan við Þorkelsgerði er Torfabær. Hver bær átti sín tún, sem kennd voru við þá  og voru áður fyrr girt með görðum, en í seinni tíð eru komnar girðingar í þeirra stað. Traðir eða götur voru milli bæjanna. Ævagamall túngarður liggur fyrir ofan alla byggðina; hann nær alveg austur undir vita og vestur að Vogsósum. Víða hefur fokið mjög að honum sandur, svo að hann er nær á kafi, en þó sést hann sums staðar. Hlið voru á garðinum heim að hverjum bæ, gjarnan kennd við bæina.  Sagt er, að hliðin hefðu verið læst og grind í. Þorkelsgerðisbæir og Torfabær eiga hver sín tún, eins og fyrr segir, en land utan túns, í Selvogsheiði og fjalllendi er sameiginlegt.
Þorkelsgerði stóð áður neðarlega í túni, en var fært ofar undan sjó. Gömlu bæirnir sjást enn í Kampinum, svolítið uppi í túni, en nú standa bæirnir samhliða Torfabæ, sem var ofar. Sunnan eða framan við gamla bæinn hét Framtún eða Flötin. Í því var Þorkelsgerðisbrunnur, sem lengi vel var aðalbrunnur hverfisins. Síðar tók Eyþór brunn við Torfabæ einnig.  Frá brunninum lágu götur heim að bæjunum. Brunnurinn er til enn, en sjór fyllir hann í flóðum. Traðir fyrir kýr voru aðallega að austan, og var hlið á túngarðinum þar, rétt við hól, sem nefnist Kinn. Þaðan lágu traðir heim að bæ.
Þórður Sveinsson - t.h.Torfabær er vestan Þorkelsgerðis. Að sögn bjó þar Torfi lögréttumaður. Bærinn stendur uppi undir túngarði að norðan, það langt frá sjó, að hann var aldrei í hættu. Efst í norðvesturhorni túnsins er Mosakrókur, óræktarlaut vaxin mosa.  Þar voru tóttir, hefur e. t. v. verið þar býli. Neðst í túni er Krókur, þar stóðu fjárhúsin. Framtún var túnið neðan bæjar kallað, og í því var Torfabæjarbrunnur. Áður en hann var gerður, var sótt í Þorkelsgerðisbrunn.
Upp af Torfabæjartúni er Torfabæjarstekkur. Eyþór man ekki eftir fráfærum, þeim var hætt fyrir aldamót. Við stekkinn stendur Stekkjarvarða. Hún var mið fyrir Goltanga; átti hana að bera í Sundvörðuna á kampinum og í hæstu nípu á Björgunum (Svörtubjörgum).
Fyrir vestan Torfabæ var býli, sem hét Eima, komið í eyði fyrir löngu. Þar sem Eima stóð, heitir nú Eimuhóll.
Milli Torfabæjar og Eimu eru Útvogsréttir eða Þorkelsgerðisréttir, við túngarðinn í Torfabæ.
Ofan túngarða tekur við Selvogsheiði. Er kölluð Miðheiði upp frá Bjarnastöðum og vestur um Þorkelsgerðis- og Torfabæjarland, en Vesturheiði eða Útheiði er land Eimu og Vogsósa.
Ofan garðs er Gunnustekkur á merkjum Þorkelsgerðis og Eimu. Ormsstekkur var austarlega í Þorkelsgerðislandi, austur undir Götumörkum. Vestar og ofar var Brynkastekkur, sem nú er kominn í kaf. Þar nokkru ofar er Stekkjarvarðan, áður nefnd, mið á innra sundið.“
Af framangreindu má sjá að enn er að mörgu að hyggja á Selvogsheiðum.
Ferðin tók 3 klst og 3 mín. Frábært veður.

Heimildir m.a.:
-Þórður Sveinsson (f: 1930), mars 2007.
-Eyþór Þórðarson, (f: 1898), 30. okt. 1981.
-Örnefnalýsingar fyrir Bjarnastaði, Nes, Þorkelsgerði og Götu.
-Brynjúlfur Jónsson, 1903, bls. 51.

Strandarkirkja

Bjarnastaðir

Í Náttúrufræðingnum árið 1958 má lesa eftirfarandi eftir Finn Guðmundsson eftir að leðublaka hafði verið fönguð við Bjarnastaði í Selvogi árið áður:
„Laust fyrir kl. 6 síðdegis þriðjudaginn 8. þ. m. (okt. 1957) var Helgi Guðnason, Þorkelsgerði í Selvogi, að hyggja að fé sínu, og lá leið hans þá um túnin hjá Bjarnastöðum, en sá bær er nokkru austar í Selvogi en Þorkelsgerði. Gekk Helgi þá fram á kvikindi eitt allófrýnilegt, sem lá í grasinu fyrir fótum hans. Þar sem Helgi bar ekki kennsl á dýr þetta, hélt hann rakleitt heim að Bjarnastöðum og gerði Sigurlaugi bónda Jónssyni á Bjarnastöðum aðvart um meinvætt þenna. Brá Sigurlaugur skjótt ledurblaka-221við og hélt á vettvang og tókst honum að handsama dýrið. Varð honum þegar ljóst, að þetta var leðurblaka, og bar hann hana inn í bæ og setti í fötu með heyi og strengdi dúk yfir. Síðdegis næsta dag tilkynnti Sigurlaugur mér símleiðis um fund þenna, og á fimmtudaginn hélt ég suður í Selvog til að sækja dýrið. Það hafði í fyrstu verið blautt og alldasað, en hresstist brátt, og þegar ég kom að Bjarnastöðum síðdegis á fimmtu daginn og fór að athuga dýrið, flaug það upp úr fötunni og flaug stundarkorn fram og aftur um stofuna á Bjarnastöðum, áður en okkur tókst að ná því aftur.
Nánari athugun hefur leitt í ljós, að þetta er amerísk leðurblökutegund. Hið vísindalega heiti hennar er Lasiurus cinereus, en enska (ameríska) heiti hennar er Hoary Bat. Háralitur dýrsins er gulbrúnn, en hárin eru hvít eða hvítgrá í oddinn, og dýrið sýnist því vera hélugrátt. Af þessu er enska nafn tegundarinnar dregið, en hoary þýðir hélugrár eða hæruskotinn. Mætti því kalla tegund þessa hrímblöku á íslenzku. Hrímblakan er fremur stór leðurblökutegund eða á stærð við stærstu leðurblökur Evrópu. Lengd Selvogsblökunnar mældist 13.6 cm (þar af halinn 6.1 cm) og vængjahafið 38.5 cm. Hrímblakan er norræn tegund, sem í Ameríku ei algengust í Kanada og norðurríkjum Bandaríkjanna. Hún er fardýr, sem leitar suður á bóginn á veturna, jafnvel suður til Mexíkó. Þetta er ekki í fyrsta skipti, sem leðurblaka hefur náðst hér á landi. Um miðjan október 1943 var leðurblaka handsömuð á Hvoli í Mýrdal, og önnur náðist við höfnina í Reykjavík í ágúst 1944 (sbr. Náttúrufr., 1943, bls. 153, og 1944, bls. 143). Í bæði skiptin var um amerískar tegundir að ræða, og sú sem náðist í Mýrdalnum var sömu tegundar og Selvogsblakan. Líklegt hefur verið talið, að leðurblökur geti ekki borizt hingað nema með skipum (eða flugvélum?), og leðurblakan, sem náðist við höfnina í Reykjavík, hefur eflaust komið hingað með þeim hætti. Hins vegar er ekki með öllu hægt að fortaka, að jafn stór og flugþolin fardýr og hrímblakan geti hrakizt hingað undan veðrum eins og margir amerískir hrakningsfuglar, sem hér hafa komið fram. Næstu daga áður en Selvogsblakan fannst var veðurfar líka með þeim hætti, að nærri liggur að ætla, að slíkt hafi getað átt sér stað. – Finnur Guðmundsson.“

Heimild:
-Náttúrufræðingurinn, 27. árg. 1957-1958, 3. tbl. bls. 143-144.

Bjarnastaðir

Bjarnastaðir í Selvogi.

Strandarkirkja

„Einn rigningardag fyrir skemmstu ákvað ég að heimsækja Strandarkirkju og kíkja á Herdísarvík í leiðinni. Er ég renndi þar í hlað var rigningin orðin svakaleg og lamdi bílinn utan. Eins og sannur Íslendingur (eehemm) skoðaði ég nágrennið fyrst, varð hundblautur og veðurbarinn en eftir nokkurn tíma varð ég að láta rigningunni eftir ströndina og kirkjugarðinn og hraðaði mér inn í hlýjuna í kirkjunni.

Strandarkirkja 2007

Strandarkirkja er í Engilsvík í Selvogi. Hún er þjóðfræg vegna almennra áheita og sumir segja ein ríkasta kirkja landsins. Að minnsta kosti hefur hún efnast vel. Prestsetrið var fyrrum í Vogsósum uns brauðið var lagt niður 1907. Kirkjan stendur í landi höfuðbólsins Strandar en það fór í eyði á 17 öld vegna sandfoks. Elstu lýsingar um kirkju á nákvæmlega þessum stað eru frá 15. öld en sú sem nú stendur er frá 1887, en hún hefur verið endurbyggð og er því  nokkuð breytt.

Sú saga er til að sjómenn nokkrir í lífsháska hétu því að gera kirkju þar sem þeir næðu landi ef þeir bara héldu lífi. Þeir komu auga á ljós og er þeir nálguðust land sáu þeir bjarta og fagra veru í flæðarmálinu. Þannig hófst saga Strandarkirkju í Engilsvík. Við kirkjuna stendur nú minnismerki eftir Gunnfríði Jónsdóttur um þennan atburð.

Bjallan í Strandarkirkju

Er ég kom í kirkjuna var mér heilsað á norsku. Þar voru þá staddar norskar mæðgur að bíða af sér rigninguna, verst að ég skil ekki hót í norsku og tala hana enn síður. Það var þó kinkað vingjarnlega kolli og skifst á óskiljanlegum orðum. Dóttirin (sennilega 8-9 ára) skoppaði glaðlega um kirkjuna og dáðist upphátt að öllum fallegu verkunum sem þarna voru. Hún rann upp í kór og kallaði þaðan niður á móður sína, ?hvað allt væri fallegt?, en það skildist mér naumlega á látbragðinu.

Selvogur og Herdísarvík eru vestustu byggðir Árnessýslu. Fjölmenn byggð og útræði var fyrrum í Selvogi. Þangað þyrptust Norskir lausakaupmenn um 1790 til að versla við landsmenn.  Þeir fengu fyrir sig umboðsmenn og einn þeirra var Bjarni Sigurðsson (1763-1833) í Selvogi. Hann kallaði sig seinna Bjarna Sívertsen uppá dönsku og þar hófst kaupmannsferill hans. Hann var sæmdur riddarakrossi í Danmörku fyrir dug og framkvæmdasemi árið 1812. Viti byggður 1919 er í Selvogi.

Til er gömul sögn um risastóran helli, Strandarhelli suðaustan af Vogsósum og var seinast kunnur 1931 er Guðmundur G. Bárðarson greinir frá honum í dagbók sinni. Hann er nú týndur en heimamenn kalla nú hellisskúta einn um 20 metra langan, Strandarhelli. Til eru sagnir um fleiri hella en flestir eru nú týndir.

StaðarkirkjaVestan við Selvog er Hlíðarvatn og úr því fellur ós til sjávar, Vogsós. Við upptök Vogsós eru rústir prestseturins Vogsósa en þar bjó jafnoki Sæmundar Fróða ?séra Eiríkur á Vogsósum? sá landsfrægi og fjölkunnugi klerkur.

Næst brenndi ég til Herdísarvíkur sem er fyrir vestan Hlíðarvatn og var fyrrum stórbýli og fjölmenn verstöð en er nú í eyði. Enn sjást rústir verbúðanna. Þar bjó skáldið Einar Benediktsson (1864-1940) sín síðustu ár eða frá 1932 til 1940. Hann reisti sér þar hús, gaf Háskóla Íslands síðan Herdísarvík 1935 og hefur hún nú verið friðlýst. Hús þetta er nú notað sem orlofshús Félags Háskólakennara.

Ég ók þarna um og skoðaði rústirnar. Stoppaði svo bílinn og steig út. Og varð strax blautur í fæturna enda á götutúttum. Hafði ekki reiknað með vel sprottnu grasinu en það var hundblautt því það gengu skúrir yfir öðru hvoru. Það er sagt að þarna í grenndinni sé ágætt berjaland en ég hafði minnstan áhuga á því, útaf fótrakanum. Ég fékk loks nóg af vatnsgutlinu í skónum, hoppaði upp í bílinn minn og ók í bæinn. Næst ætla ég að hafa sól er ég fer þarna aftur sem vonandi verður fljótlega.“

Hafa ber í huga að hér er um mjög saldgæfa frásögn að ræða – um rigningu á Reykjanesskaga, og það að sumalagi.

Framundan er FERLIRsferð með einum þeim staðkunnugasta í Selvogi. Tilgangurinn er að ganga um svæðið og rissa upp örnefna- og minjakort af svæðinu í heild sinni.

Heimild:
-Skrifað 1.8.2007 kl. 13:10 af Vilmundi Kristjánssyni.

Selvogur - örnefna- og minjakort

Selvogur – örnefna- og minjakort – ÓSÁ.

Strandarkirkja

Í Lesbók Mbl 20. febr. 1993 ritar Konráð Bjarnason grein,  „Sending af hafi jarðskjálftasumarið 1896„. Greinin fjallar m.a. um hús í Selvogi, sem voru byggð úr einstakri himnasendingu – strandreka. Konráð var áður búsettur í Hafnarfirði, ættfræðingur og fræðimaður, en hefur leitað heimaslóðanna á efri árum.

Arnarbæli

„Þann 13. nóv. sl. gaf að líta eftirfarandi fyrirsögn og frétt í MBl: „Prestsbústaðurinn á Arnarbæli í Ölfusi var brenndur til grunna fyrir skömmu. Það voru slökkviliðsmenn í Þorlákshöfn sem stóðu að brunanum og notuðu tækifærið til æfinga í slökkvistörfunum. Eldurinn sást víða að enda stóð húsið á hæð og var hið reisulegasta. Það var byggt upp úr aldamótunum síðustu og var tvílyft hús á háum grunni.“ Svo mörg voru þau orð. Ekki svo ókunnugleg þó í ljósi reynslunnar síðustu aldarmisserin.
Á náttúruhamfaraárinu 1896 riðu skelfingar yfir að kvöldi hins 26. ágúst með ógurlegum jarðskjálfta er lét eftir sig í fyrstu lotu mörg hundruð hruninna bæja, einkum í uppsveitum Rangár- og Árnesþings. ekki var þetta nóg því nýjar skelfingar dundu yfir Skeið, Holt og Flóa, en minni háttar í Ölfussveit.. Um kl 2 aðfaranótt sunnudagsins 6. september reið yfir Ölfussveit voðalegur kippur sem felldi til grunna 24 bæi og 20 stórskemmdust. Meðal þeirra bæja var prestsetursbærinn að Arnarbæli.“
NeshúsUm þetta leyti strandaði skip utan við Selvog. Nær hádegi hafði drifið að strandstað flestalla vinnufæra menn í byggðalaginu, en þeir voru allmargir um þessar mundir. Það bakti mikla forvitni Selvogsmanna á leið til strandsstaðar með hvaða hætti strand þetta hafði borið að í nær dauðum sjó og góðviðri… að þessu sinni var sýnt að ævintýri hafði gerst á strandstað. Skip hafði komið af hafi undir fullum seglum hlaðið unnum góðviði til húsagerðar fyrir hina fjölmörgu nærsveitunga er stóðu yfir föllnum bæjarhúsum sínum niður í grunn sinn. Skipverjar gengu nær þurrum fótum til lands eftir flúðum er komu upp á fjöru…
Þegar Gísli hreppstjóri hafði rætt við skipsstjóra farskipsins var Selvogsmönnum sagt eftirfarandi: Skipið hét „Andrés“ og var frá Mandal í Noregi, á leið til Reykjavíkur með timburfarm til húsagerðar þar. Var þetta stórfarmur af unnum við, einkum panelefni. Þegar skipið nálgaðist Ísland kom mikill leki að því sem jókst og varð óstöðvandi þrátt fyrir að handdælur væru nýttar til hins ýtrasta. Skipverjar voru komnir að niðurlotum þegar þeir voru á móts við Selvog og vonlaust að n´fyrir Reykjanes. Tók skipstjóri til þess örþrifaráðs að sigla skipi sínu á grunn með stefnumið á Strandarkirkju þar sem sjór sýndist kyrrastur. Háflæði var og kenndi skipið grunns á flúðunum vestanmegin Strandarsunds.“
HlíðarendiByrjað var á því að færa skipshöfnina til lands og hlúa að henni. Þá tóku við björgunaraðgerðir farmsins. „Farmur á þilfari var fyrst borinn upp fyrir fjörukamb vestan Vindásbæjarrústa. Þar voru einkum tré er voru borin á öxlum tveggja manna. Þá komu plankar sem tveir báru og smáplankar, gólfborð, skífuborð, listar og mikið magn af plægðum viði eða panel. Svo virðist sem mestum hluta farmsins hafi verið bjargað óskemmdum á fyrstu dögum eftir strandið vegna þess hversu ládautt var. Á sama tíma var einnig bjargað silgingarbúnaði, áhöldum, tækjum og kosti. Honum uppborna viðarfarmi var staflað í aðgreind búnt eftir tegundum og síðan breitt yfir hann. Nokkuð af viði laskaðist í strandinu og var því safnað í hrúgur og selt samkvæmt sölunúmeri eins og annar viður. Hið verst farna fékk söluheitið hrak.“

Hlíðarendi í Selvogi - sögufrægt mannvirki

Uppboðið á varningnum var haldið 5. nóvember 1896. „Þegar uppboðsþing var sett var ljóst að fjölmargir væntanlegir kaupendur voru mættir á uppboðsstað. Þeir hafa komið úr mörgum hreppum Árnessýslu og víðar að en flestir úr Ölfushreppi. Þeir hafa þegar kynnt sér það sem í boði var og við blasti á malarkambi. Þeri hafa komist að raun um að hér var í boði nýr girnilegur húsbyggingarviður unninn til uppbyggingar á hærri, rýmri og betri húsakosti, en dreifbýlisfólk hafði átt að venjast hingað til. Timbrið var auk þess líklegt til að standa af sér eyðingaröfl þau er nýgengin voru yfir. Þeir sem komnir voru á strandstað með það í huga að byggja hús, allt að tveggja hæða, hafa tekið með sér smið og vinnumenn. Og þeir væntu þess óefað að gera góð kaup á rekafjörunni… Þeir sem stórtækastir voru á uppboðinu, sem stóð í tvo daga, voru stórhúsbyggjendurnir Þorbjörn í Nesi í Selvogi, séra Ólafur í Arnarbæli, Jón hrepstjóri á Hlíðarenda og Jakob í Auðsholti…“ Þessi menn byggðu tvílyft hús úr nefndum húsagerðarviði. „Hús þessi vitnuðu um stórhug og metnað byggjenda sinna og gegndu menningarhlutverki hvert á sínum stað. Þau eru nú fallin, utan eitt, Hlíðarendahús.

Heimild:
-Konráð  Bjarnason – Sending af hafi jarðskjálftasumarið 1896 – Lesbók MBL 20. febr. 1993.

Selvogur - örnefna- og minjakort

Selvogur – örnefna- og minjakort – ÓSÁ.

Geitafellsrétt

Geitafellsrétt (Selsvallarétt/Gjáarrétt) er undir Réttargjá suðaustan við Heiðina há, þar sem gjáin rís hæst. Um er að ræða nokkra dilka og almenning, auk leiðigarðs. Veggirnir standa nokkuð heillegir. Þegar Geitafellsrétt var aflögð um aldamótin 1900 var hlaðin rétt á Vörðufelli í Strandarheiði. Hún þótti erfið til rekstrar svo Selvogsréttin nýrri (Girðingarrétt) var hlaðin í heiðinni milli Hnúka og Urðarfells (Svörtubjarga). Réttin sú hefur einnig verið nefnd Gamlarétt, en hún var aflögð árið 1957.

Geitafellsrétt

Geitafellsrétt – uppdráttur ÓSÁ.

Í Örnefnaskráningu Gísla Sigurðssonar, yfirfarinni af Eyðþóri Þórðarsyni frá Torfabæ í Selvogi, fyrir Nes segir m.a.:
„Austur af Hnúkunum er komið á svæði, sem einu nafni er kallað Gjárnar eða Á Gjánum. Þetta svæði er milli Hnúka og Geitafells. Um það liggja gjár, sem það dregur nafn af. Þær liggja allar í sömu átt, frá Geitafelli. Austust og næst landamerkjum er Nesgjá. Vestar og nær Geitafelli er Réttargjá. Við hana var áður fyrr rétt, Geitafellsrétt, austur undir Geitafelli. Það var fyrrum aðalrétt Selvogsmanna og Ölfusinga. Við
austurenda Réttargjár eru Selsvellir alveg inn undir Geitafelli. Það var slægjuland frá Nesi. Þar fékkst gott hestahey. Götugjá er neðsta gjáin“.
Götugjá hefur einnig verið nefnd Nesgjá. Milli hennar og Geitafells eru tóftir sels vestan undir hraunhól.

Í Örnefnaslýsingu Gísla um Selvogsafrétt, einnig yfirfarinni af Eyþóri, segir:

Geitafellsrétt

Geitafellsrétt.

„Nesgjá er austust af gjánum, næst hreppamörkum. Réttargjá er vestar og nær Geitafelli Þar austur undir fellinu er Geitafellsrétt, en þar var fyrrum aðalrétt Selvogsinga og Ölfusinga“.

Í Þjóðólfi 1875 eru „Auglýsingar„. Þar er getið um Geitafellsrétt sbr:
„Um leið og eg geri almenningi kunnugt, að eg samkvæmt tilmælum amtmannsins yfir suðr- og vestrumdœminu hafi verið skipaðr lögreglustjóri til upprœtingar fjárklábans í suðurhluta Gullbringusýslu, í Selvogi og í Út-Ölfusinu inn fyrir Hjallahverfið, skal hér með skorað á fjáreigendr þá, sem kindr kynnu að eiga í réttum þeim, sem sótt er að úr þessu lögsagnarumdœmi mínu, að koma sem tímanlegast, að réttunum og hirða kindr sínar. Mun almenn skoðun á réttarfenu, fyrr en er dregið, fara fram í Gjáarrétt mánudaginn 20. p.m., í Geitafellsrétt þriðjudaginn 21. s. m. og í Hveragerðisrétt miðvikudaginn 22. s.m. Allar kindr þær, sem þá finnast með kláða eðr kláðavotti, munu samkvæmt 4. gr. tilsk. frá 5. jan. 1866 verða stranglega aðskildar frá hinu fénu og skornar þegar stað við réttina, ef eigandinn er ekki við til að hirða þær á tryggjandi hátt, svo að þær ekki nái samgöngum við annað fé, eða ef enginn annar vill taka þær að sér til hirðingar…“. – Reykjavík 15. september 1875, Jón Jónsson.

Í „Aðalskráningu fornleifa í sveitarfélaginu Ölfusi, Áfangaskýrsla I“, segir um Geitafellsrétt:

Geitafellsrétt

Geitafellsrétt – uppdráttur í Aðalskráningu fornleifa í Ölfusi.

„Geitafellsrétt er rúma 11,5 km norðaustan við [Nes í Selvogi]. Á heimasíðu FERLIS segir: „Geitafellsrétt (Selsvallarétt) er undir Réttargjá þar sem hún rís hæst. Um er að ræða nokkra dilka og almenning. Veggirnir standa nokkuð heillegir. Þegar Geitafellsrétt var aflögð um aldamótin 1900…“.
Umhverfis réttina er grasivaxið svæði. Til vesturs rís hamraveggur gjárinnar. Mosavaxið hraun er til austurs. Réttin er 34×20 m að stærð, snýr norðursuður og er í aflíðandi halla til austurs. Hún skiptist í fimm hólf og aðrekstrargarð. Réttin er sem fyrr segir hlaðin upp við vesturvegg Réttargjár og er grjóthlaðin. Veggirnir eru 0,5-1,2 m á hæð og má sjá 3-5 umför grjóthleðslu í þeim. Lýsingin hefst nyrst, í hólfi 1. Það er 15×7 m að innanmáli og snýr norðursuður. Tvö op eru inn í hólfið, eitt til norðurs inn í hólfið en hitt til suðvesturs, yfir í hólf 2. Réttargjá afmkar hluta af vesturvegg og er bjargið um 10 m hátt. Þetta er líklega almenningurinn. Hólf 2 er vestan við hólf

Réttargjá

Varða á Réttargjá.

1. Það afmarkast af hamravegg gjárinnar til vesturs, stórgrýti til austurs en hlaðnir veggir eru til suðurs. Hólfið er þríhyrningslaga, 12×6 m að stærð og snýr norður-suður. Op er sem fyr segir til austurs yfir í hólf 1 og annað til suðurs, yfir í hólf 4. Hólf 3 er sunnan við hólf 1. Það er minnst í réttinni og ekki sér móta fyrir opi þar inn. Hóflið er 7×7 m að stærð og er einnig þríhyrningslaga. Það mjókkar til vesturs. Hólf 4 er sunnan við hólf 2 og 3. Það er 14×8 m að innanmáli og snýr norðvestur-suðaustur. Op er á miðri suðurhlið, annað til norðurs, yfir í hólf 2 og hið þriðja til vesturs í hólf 5. Suðurhlið hólfsins er hrunin að mestu. Hólf 5 er vestan við hólf 4. Það er undir klettavegg gjárinnar og inn á milli bjarga sem þar eru. Hólfið er 4×1 m að innanmáli og snýr austur-vestur. Til norðausturs frá hólfi 3 er 35 m langur aðrekstrargarður. Hann er grjóthlaðinn, 1 m á breidd og 0,3-0,6 m á hæð.“

Heimildir:
-Nes- Örnefnaskrá, Gísli Sigurðsson og Eyðþór Þórðarson frá Torfabæ í Selvogi.
-Selvogsafréttur, Örnfanaskrá, Gísli Sigurðsson og Eyðþór Þórðarson.
-Þjóðólfur, 27. tbl. 20.09.1875, Auglýsingar, bls. 109-110.
-Aðalskráning fornleifa í sveitarfélaginu Ölfusi – Áfangaskýrsla I, Fornleifastofnun Íslands 2015, bls. 108-109.

Geitafellsrétt

Geitafellsrétt. Geitafell fjær.

Heiðin há

Í Andvara 1884 er frásögn Þorvaldar Thoroddsens af ferð hans á Heiðina há ásamt séra Ólafi, presti á Vogsósum, undir fyrirsögninni „Ferðir á Suðurlandi sumarið 1883„:

Heiðin há

Heiðin há – gígurinn (loftmynd).

„Upp af Selvogsheiði er fjarskamikil hraunhunga, sem kölluð er »Heiðin há«. þangað fórum við með sjera Ólafi frá Vogsósum. Heiðin há er 2030 fet á hæð, goysimikil flatvaxin eldfjallsbunga, lik í lögun og Skjaldbreiður; hún er hlaðin upp úr óteljandi, gömlum hraunlögum suður af Bláfellshlíðum ; hallast hún jafnt og pjett niður að Selvogsheiði (3°), og eru margar og langar gjár í lægðinni, þar sem þær mætast. Efst er Hrossagjá; hún er styzt, og er utan í heiðarhlíðinni sjálfri; þar næst Strandagjá, mjög löng, nær frá Svörtubjörgum upp undir Geitafell; svo er Rjettargjá ; hún byrjar í slakkanum milli heiðanna, og nær upp í Geitafell; og syðst er Götugjá (eða Nesgjá); hún nær frá sjó yfir hlíðina á Selvogsheiði upp í Lambafellshraun fyrir noðan og austan Geitafell; neðri (syðri) brúnin, sem er utan í Heiðinni há, er lægri, svo landið hefir auðsjáanlega sigið í slakkanum milli heiðanna.

Heiðin há

Heiðin há – gjár.

Þegar við fórum upp á »Heiðina há«, fórum við upp Grindaskarðaveg upp að Hvalhnúk, og riðum svo þar upp á sjálfa heiðarbunguna. Efst á heiðinni markar fyrir gígnum, sem öll þau fjarskalegu hraun hafa komið úr, sem mynduðu heiðina. Gígurinn er nú fullur af hrauni, en hefir verið afarstór, sem sjá má af leifum þeim, sem eptir standa af gígröndinni; það eru dálitlir hraunhnúkar, sem standa í kring; gígurinn hofir verið allt að 100 faðmar að þvermáli; sunnanverðu við þenna gíg er að auki 2 eða 3 bollar miklu minni, hálffullir af hrauni. Sjálf er heiðin mjög stór um sig; eintóm gömul hraun, með holum og gjótum og hallast lítið, 2°, til vosturs, og 3° til austurs.

Heiðin há

Heiðin há – jarðfræðikort Ísor.

Heiðasljetturnar milli »Heiðarinnar há» og Brennisteinsfjalla eru einn storkinn hraunsjór; hafa þessi hraun flest fallið ofan úr austurhallanum á Brennisteinsfjöllunum, því þar eru stórir gígir svo tugum skiptir allt norður fyrir Grindaskörð: Úr þessum hraunum hafa straumarnir komið, er fjellu niður hjá Stakkavík og Herdísarvík. Gömlu hraunin í Selvogi, sem víðast eru nú mjög sandorpin, eru flest komin úr Selvogsheiði, og saman við þau hafa að ofan runnið hraun úr Heiðinni há. Austan við Heiðina há, milli hennar og Meitla og Geitafells að austan, tekur við vestri armurinn af Lambafellshrauni. Við fengum bezta veður, og útsjónin var ágætlega fögur; landið lá eins og uppdráttur fyrir fótum vorum, allt austur í Eyjafjöll og norður yfir Faxaflóa.

Heiððin há

Heiðin há – jarðfræðikort.

Sunnanlandsundirlendið allt og stórárnar sáust einkar vel, eins og grænn dúkur með silfruðum hríslum; Vestmannaeyjar lyptust upp af hyllingunni, og Snæfellsjökull norðan við flóann blasti við eins fagur og hann er vanur; langt upp á landi rís Skjaldbreiður við himin, og jöklarnir með hvítleitum bjarma. Norðan við Heiðina há eru Bláfjöll, eða rjettara sagt; norðurbrún hennar styðst upp að Bláfjöllum. Það er mikill og langur fjallgarður og hár (um 2200 fet); frá þeim gengur hálsarani suður lægðina milli Heiðarinnar há og Brennisteinsfjalla, sem heitir Ásar; Hvalhnúkur er einn af þeim ásum.“

Ólafur Þorvaldsson skrifaði um Grindarskarðsveginn í Árbók Hins íslenska fornleifafélags 1943. Frásögn hans tekur við þar sem lýsing Þorvaldar sleppti:

Heiðin há

Í Heiðinni há  – Bláfjöll fjær.

„Þegar lagt er upp úr Stóra-Leirdal, er strax farið upp allbrattan háls, með nokkrum aðdraganda austur af. Er þetta Hvalskarð.
Suðvestur af Hvalskarði er Hvalhnjúkur, mjór og allhár, en frekar þunnur. Ekki þætti mér ólíklegt, að nafnið sé dregið af lögun hnjúksins, svo mjög minnir hann á bak stórhvelis að allri lögun. Annars segir þjóðsagan, að tröllkona norðan af fjalli hafi farið til fanga í Selvog og komið þar á hvalfjöru og haft þaðan með sér það, sem hún treysti sér til að komast með, en til hennar sást og hún elt. Varð henni allerfið undankoman, og náðist hún í skarði því, sem síðan er nefnt Hvalskarð og hnjúkurinn þar suður af Hvalhnjúkur, sem fyrr er getið.

eiðin há

Efst í Heiðinni há.

Þegar austur úr Hvalskarði er komið, taka við Hvalskarðsbrekkur til vinstri handar, en Lágahraun, með háum, strjálum hólum, til hægri handar. Hvalskarðsbrekkur liggja í suður- og suðvesturdrögum víðáttumikillar heiðarbungu, er nefnist Heiðin há. Ekki er mikill gróður uppi á Heiðinni há. Grámosi er þar fyrirferðarmestur, og liggur hann yfir hálfbrenndum grjóturðum.

Fjallið eina

Fjallið eina.

Mishæðalaus má heiðin teljast, en dregst að toppi á alla vegu, og heitir efsti toppur hennar Kerlingarhnjúkur og er 62 6 m hár. Útsýni í björtu er allmikið og oft fagurt af heiðartoppnum, en þó sést ekki það fegursta, sem Heiðin há hefur að bjóða, — en menn vita aðeins af því kringum sig — það er nafn heiðarinnar, það er einkennilega fagurt, í senn fornlegt og skáldlegt. Að velja einmitt þetta nafn, en ekki t.d. Háaheiði eða eitthvað þvílíkt, lýsir því, hvað sá, sem skírði, hefur verið mikill snillingur í nafngiftum á örnefni, og sennilegt er, að fleiri fögur og sérkennileg örnefnaheiti um þessar slóðir eigi til sama manns að telja. Má þar nefna Fjallið eina, sem sver sig greinilega í sömu ætt.

Þegar Hvalskarðsbrekkum sleppir og komið er nokkuð austur með heiðarbrekkunum, er stór, stakur hraunhóll vestur við veginn, Þorvaldshóll. Litlu austar, þegar brekkunum sleppir, eða þær lækka svo, að útsýn opnast til norðausturs, blasir við í þeirri átt allstórt fell, Urðarfell.“

Sjá einnig HÉR.

Heimildir:
-Andvari, 1. tbl. 01.01.1884, Ferðir á Suðurlandi sumarið 1883, Þorvaldur Thoroddsen, bls. 23-24.
-Árbók Hins íslenska fornleifafélags 01.01.1943, Grindaskarðavegur – Ólafur Þorvaldsson, bls. 102-103.

Heiðin há

Kerlingarhnúkur – Geitafell fjær.

Herdísarvík

Einar Þorsteinsson frá Hreiðuborg skrifar um „Verbúðalíf í Herdísarvík og Selvogi“ á seinni hluta 19. aldar í Sunnudagsblað Alþýðublaðsins árið 1939:

Einar Þorsteinnson„Ég, Einar Þorsteinsson, er fæddur 8. desember 1870 í Móakoti hjá Hjalla í Ölfusi. Faðir minn var Þorsteinn Teitsson, sonur Teits Helgasonar hafnsögumanns á Eyrarbakka, er bjó í Einarshöfn. Móðir mín var Guðlaug Hannesdóttir frá Hjalla. Faðir hennar, Hannes Guðmundsson, var lengi bóndi á Hjalla og víðar í Ölfusi. Er ég var 6 ára að aldri var ég tekinn til uppfósturs af Ólafi Jóhannessyni og Ragnhildi Ísleifsdóttur, sem þá bjuggu á Mosastöðum í Kaldaðanesshverfi. Þegar ég var 16 ára, fluttu fósturforeldrar mínir að, Hreiðurborg í Kaldaðarnesshverfi — og bjuggu þar frá því.
Veturinn 1887 var farið að tala um, að ég færi eitthvað á vertíðinni, til að læra sjóstörf, og ná í einhvern afla. Var þá leitað til föður míns, hvort hann myndi ekki geta komið mér fyrir á sama skipi og hann réri á, og var talað um hálfdrætti. — Þá voru mikið notuð handfæri í Herdísarvík, en þar réri faðir minn. Þetta gekk vel, ég fékk að vera í skjóli föður míns, sem kallað er. Skyldi ég hafa helming af því sem ég drægi á færi og svo hálfan hlut — þegar fiskað var á línu (lóð).

Krýsuvík

Í Krýsuvík 1887. Árni Gíslason lengst t.h.

Svo leið að vertíð. Þá fór ég til föður míns, en hann bjó þá í Hraunshól hjá Hrauni í Ölfusi. Það var áður búið að fara með útgerð mína, skrínu með kæfu og smjöri. Það var væn kind í kæfu og 2—3 fjórðungar af smjöri og hangikjöt. Svo voru skinnklæði, brók og skinnstakkur, og hey í poka á bálkinn, í rúmstæðið — og ekki má gleyma harðfiskinum, sem hafður var líka.
Eins og fyrr segir, fór ég til föður míns, og gengum við svo til Herdísarvíkur, beint út sanda og hraun til Vogsósa. Stönzuðum þar, og svo áfram til Herdísarvíkur. Formaður okkar var Þorkell Jónsson vinnumaður hjá Árna Gíslasyni fyrrverandi sýslumanni í Skaftafellssýslu, sem þá bjó í Krýsuvík. Árni átti skipið og tvö önnur, sem gengu þarna á vertíðinni. Formenn fyrir þeim hétu Einar frá Nýjabæ og Guðmundur, sem kallaður var ráðsmaður.

Herdísarvík

Herdísarvík 1940-1950. Krýsuvíkursjóbúðin var heima við bæ.

Þessa vertíð voru þarna 6 skip. Árni átti 3. Bjarni Hannesson bjó þá í Herdísarvík, bróðir Guðmundar, sem lengi var í Tungu í Flóa. Hann átti víst 2 skip — eða þeir mágar í félagi, Björn Eyjólfsson og Bjarni. Björn Eyjólfsson var bróðir Sólveigar konu Bjarna. Þau systkini voru börn Eyjólfs frá Þorlákshöfn — Björnssonar frá Þúfu í Ölfusi. En móðir þeirra var Sigríður Jónsdóttir, Geirmundarsonar, þess sem getur um í Kambránssögu. Sjötta skipið var með að mig minnir Sæmundur Ingimundarson frá Stakkarvík, og held ég að Bjarni hafi átt það. Flest af þessum skipum hafði víst smíðað Björn Eyjólfsson. Hann var smiður mikill bæði á járn og tré. Var til þess tekið, hvað hann var mikilvirkur og vandvirkur, alltaf var hann í smiðjunni, þegar landlegur voru á vertíðinni. Meira um Björn segir síðar.
Nú var ég kominn í útver og leið vel. Ekki gaf nú strax á sjó, og hafði ég lítið að gjöra, enn faðir minn var ekki iðjulaus. Hann var alltaf að smíða ýms búsáhöld, fötur, bala, tunnur o.m.fl. Hann var smiður með afbrigðum, smíðar voru hans aðalatvinna — nema um sláttinn var hann oftast við heyvinnu.

Herddísarvík

Herdísarvík – vörin.

Nú byrjuðu róðrar, og man ég vel eftir fyrsta róðrinum. Það var gott sjóveður og verið með færi. Ég hafði aldrei á sjó komið fyrr, en ég kunni áralagið, hafði lært það á Ölfusá. Það var tregur fiskur — og dró ég einn fisk. Ekki var ég sjóveikur, hefi enda aldrei til sjóveiki fundið. Svo lagaðist með dráttinn. ég dró töluvert, þó dálítið misjafnt. Stundum dró ég hlutinn, það er að segja eins og þeir fengu í hlut, stundum minna.

Herdísarvík

Herdísarvík; sjóbúðir – kort ÓSÁ.

Einu sinni dró ég 40 fiska. Þá fékk skipið 24 í hlut. Voru þá teknir af mér 16 fiskar. Það stóð svoleiðis á skiptum — og hafði ég þá jafnan hlut og hinir. Það kom mikið undir því hvernig stóð á skiptum, hvað formaður tók mikið af mér, stundum tók hann lítið, stundum meir en helming. Svo var farið að fiska með línu, þá fékk ég hálfan hlut. Línan var stutt, 2 bjóð með 6 strengjum, 60. faðma löngum í hvoru bjóði, og ein og hálf alin á milli króka.
Þegar fiskirí var, þá stóð þétt á línunni á löngum kafla, oft á hverju járni. Línan var dregin í austurrúmi og dregin hægt. Þá lét formaður mig vera með færið mitt aftur í skut, og þar dró ég oft töluvert þó ferð væri á skipinu. Náttúrulega var drift á færinu líkt og á seglskipi, sem liggur á fiskiríi, tökum t.d. kútter. Þegar komið var inn á legu, skammt undan lendingunni, var stanzað og farið að seila, og var andæft þar meðan seilað var. Svo var seilunin hnýtt saman og þeim síðan hnýtt í 60 faðma langt kaðaltó, sem kallað var hlaupató. Tóið var undið í hnykil, sem látinn var velta í skutnum, og skyldi bitamaður gæta þess, að ekki stæði við eða tefði fyrir tóinu að rekjast fljótt, og eins að gæta að því að hnykillinn færi ekki upp úr skutnum. Ef brim var, þá var beðið eftir lagi, og kallaði formaður lagið og sagði: — Róið nú vel, piltar! Svo var róið hart upp í fjöru, og stökk hver út við sinn keip og skipinu kippt upp þangað til því var borgið fyrir eða bjargað frá sjó. Síðan voru seilarnar dregnar upp. Svo ef róið var aftur, fóru sumir að beita þessi tvö bjóð, en hinir að bera upp fiskinn, og þurfti stundum að ná úr honum beitu, því að beitt var gotu (hrognum).

Seil

Sjómenn með seilaðan fisk – Bjarni Jónsson.

Fiskurinn var borinn upp á byrðarólum. Það var dregið af seilarólinni á byrðarólina, og svo lyfti vanalega annar upp á axlir hins. Var svo hringur af fiski allt í kring, bæði bak og fyrir. Fiskurinn var borinn á skiptavöll og skipt þar í köst, sem kallað var, tveir hlutir saman í kasti. Vanalega skipti formaður. Þarna á skiptavellinum var gert að, hausað og flatt. Fiskurinn svo borinn inn á tún og lagður þar í kös, raðað þétt hverjum við annan. Svo löngu seinna borinn upp fyrir tún og lagður þar á grjótgarða í hrauninu til herzlu. Mest af fiskinum var hert þessa vertíð, eitthvað víst saltað af skipshlutunum. Ekki man ég hvaða verð var á fiski þessa vertíð eða vorið eftir, en 2 eða 3 árum seinna var verðið á harðfiski 160 krónur skippundið (160 kíló).

Herdísarvík

Herdísarvík og Stakkavík – kort.

Allt var hirt, hausar hertir, hrogn söltuð, svil söltuð, sundmagi og kútmagi saltað. Sundmaginn svo verkaður á vorin og lagður inn í verzlanir, en stundum fluttur heim og étinn. Allt hitt raskið notað til heimilis uppi í sveitunum, og töluvert flutt oft heim af harðfiskinum. Það má ekki gleyma að skýra frá því, að alltaf var lesin sjóferðabæn. Og fyrstu vertíðina, sem ég reri í útveri, var lesin föstuhugvekja og lesnir Passíusálmar, ekki sungnir. Það var sama þótt seint væri komið til búðar að kveldi, þá var það ekki vanrækt. Það er nú lítið að segja meira frá þessari vertíð, sem ég var fyrst í Herdísarvík.
Veturinn 1888 fór ég ekkert til sjós, varð að vera heima af því að fóstri minn réðist til Eyrarbakka til aðgerðar á fiski á vertíðinni, svo ég varð að vera heima við skepnuhirðingu, svokallaðar gegningar.
Veturinn 1889 reri ég í Selvogi hjá gömlum manni, sem Guðni Ásmundsson hét. Hann átti heima í Austurnesi í Voginum. Frá þeirri vertíð er lítið að segja. Það fiskaðist lítið vegna ógæfta, því að brimasamt er í Selvogi þegar sunnanátt er, og þessa vertíð hamlaði veðurátta sjógæftum og afla. Þá bjó í Nesi í Selvogi Guðmundur Ólafsson, þá orðinn gamall maður, faðir Þorbjarnar, sem bjó í Nesi eftir föður sinn. Þorbjörn reri í Þorlákshöfn margar vertíðir og var þar formaður. Um hann gerði Brynjólfur frá Minna-Núpi þessa formannsvísu:

Sjóbúð

Sjóbúð í Þorlákshöfn 1910.

Þreytir halur þorskveiði,
Þorbjörn alinn Guðmundi
Nes- frá -sal í Selvogi,
sá er talinn hraustmenni.
Þegar ég reri í Nesi í Selvogi, bjó í Ertu rétt fyrir norðan Nes Húnbjörg Hannesdóttir móðursystir mín. Nikulás sonur hennar var þá formaður með skip, sem þau áttu. Hjá henni var líka annar sonur hennar, sem Símon hét, og þriðja son átti hún, sem Þórður hét og bjó þá í Torfabæ í Selvogi. Þessir fyrverandi bræður voru synir Erlendar Símonarsonar, sem átti heima í Torfabæ, en Húnbjörg og Erlendur voru þá skilin að samvistum. Þarna kynntist ég frændfólki mínu og réði mig hjá Nikulási næstu vertíð. Þá um vorið 1889 flutti Húnbjörg með sonum sínum, Nikulási og Símoni, að Hlíð í Selvogi. Hlíð er uppi við fjallið við norðausturhorn Hlíðarvatns, en er nú komin í eyði fyrir löngu. Þá flutti líka Nikulás skipið út til Herdísarvíkur og reri því þaðan. þangað til það fórst, sem síðar segir.

Seil

Seilaður fiskur í vör.

Svo kemur vertíðin 1890. — Það var oftast kominn þorri þegar ég flutti færur mínar úteftir; reiddi ég á hesti og var eina nótt og tvo daga í ferðinni. Þegar ís var á Ölfusá, mátti fara alveg beina leið að sjá fyrir sunnan Selvogsheiði, sem maður segir sjónhending frá Hreiðurborg, annars varð að fara yfir ána í Óseyrarnesi. Svo fór ég aftur alfarinn föstudaginn síðastan í þorra, og það var farið að róa í fyrstu viku góu, ef gæftir voru.

Herdísarvík

Herdísarvík – uppdráttur ÓSÁ.

Nú er að segja frá sjóbúðinni, sem Nikulás byggði. Hún var úr snyddu og grjóti veggir og gaflar, svo timburþak með spón yzt, svo hún lak ekki í rigningum, en hún var mjög köld þegar frost voru, sem oft var á þessum árum. Viðvíkjandi kuldanum í búðinni get ég sagt sögu, sem þykir ótrúleg nú á tímum. Í landlegum þegar var norðanrok og gaddar, rokið svo mikið, að ekki var viðlit að fara á sjó, þá var það eina vertíð að það kom fyrir að við fórum fjórir upp í eitt rúmið og breiddum ofan á okkur upp að mitti teppi og það, sem til var, og sátum svo réttbeinis með loðhúfur á höfði og máske líka vöttu á höndum og spiluðum svo á spil. Svo þegar okkur varð of kalt, fórum við að hita okkur á því að fara í tusk, fyrst inni, svo kannske úti í glímu og tusk, og þegar við vorum búnir að fá í okkur hita, þá var farið að spila aftur. Það var engin búð eins köld og þessi, því hinar voru allar með snyddu- eða torfþökum. Það var ekki verið að hafa ofna í svona húsum í þá daga. Kaffið var hitað á olíuvél og hún hitaði nú heldur lítið. Sumar búðir höfðu smiðjukofa til að hita í rétt við búðina. Í þessari búð var ég í 5 vertíðir. Ekki man ég hvenær það var, sem kaldast var. Það hefir verið á árunum milli 1890—94.

Verbúð

Verbúð á sunnanverðum Reykjanesskaga.

— Þessa vertíð, sem frostin voru mest, voru aðallega notuð færi við fiskirí, að minnsta kosti í Herdísarvík og Selvogi. Það var mikið fiskirí í Herdísarvík í eina viku, það voru þrí- og fjórhlaðin skipin á dag. Ég man það alveg víst, að Nikulás fékk einn daginn í þeirri viku 120 í hlut í 12 eða 13 staða skipti. Þó voru sumir hærri, mig minnir að Björn Eyjólfsson fengi þann dag 140 til hlutar.

Sjóbúð

Sjóbúð í Herdísarvík.

Þetta stóð eina viku. Við fengum í þeirri viku um 600 til hlutar, og það varð lítið meira. Mig minnir að við fengjum tæp 7 hundruð hlutar alla vertíðina. — Fiskurinn var mjög feitur, svo að það urðu vandræði með ílát undir lifrina, því að svoleiðis hagaði til, að útgerðarmaður átti að útvega hlutaflamönnum kagga eða tunnu undir lifrina. Það komu kaggar austan úr Ölfusi, og svo var lifur látin í þvottakör, en úr svoleiðis ílátum rann lýsið og fór mikið til spillis. Frostið var svo mikið, að við naumast gátum náð innan úr fiskinum, drifum svo mikið af honum í fönn óflöttum, þangað til seinna. — Þessa miklu fiskiviku var það eitt kvöld, að við vorum að gera að fiski, og ég var að bera í slorskrínu á bakinu eitthvert rask. Það var band í báðum göflum, og var því smeygt á aðra öxlina, en það var dimmt orðið og ósléttur vegur, svo ég datt og rak niður aðra hendina og meiddi mig mikið á þumalfingri, sintognaði og leið illa um nóttina og gat ekki róið morguninn eftir, og þótti mér heldur dauflegt einum í búðinni. Ekki tapaði ég hlutnum, þeir gáfu mér hlut.

Sjóbúð

Sjóbúð.

Morguninn eftir fór ég með á sjóinn, og var haft til styrktar hendinni, svokallað róðrarbelti, og var ég í andófi, því að ég gat ekki dregið fisk. Veður var gott, hér um bil logn, svo að það var lítið andóf. Fiskur var nógur, svo að þeir fylltu skipið á stuttum tíma. Síðan var róið til lands. Sjór var svo ládauður, að ekki var nokkur hreyfing við land, svokölluð ládeyða. Nú gat ég ekki seilað, svo að ég var látinn halda skipinu meðan seilað var (þegar svona ládeyða var, var ekki seilað úti á legu eins og fyr segir). Í þetta sinn var um stórstraumsfjöru, og voru stórir steinar þar úti, sem ekki sást á, svo að skipið tók niðri og vildi standa, svo að ég fór að færa mig dýpra, en gætti ekki nógu vel að mér, og fór sjór upp fyrir brókina; en það var óþægilegt, því að frost var mikið.

Verbúð

Sjómaður með fisk á herðum – Bjarni Jónsson.

Þegar búið var að seila, hellti ég úr brókinni og fór út aftur í annan róður. Það var sama fiskiríið og frekar fljótt verið að hlaða skipið, en mér varð töluvert kalt svona votum. Þegar komið var til lands aftur, hafði ég orð á því við formanninn, að bezt væri að ég yrði eftir í landi með manninum, sem bar upp fyrri farminn, því að þá hitnaði mér og allt hefði beztu endalok. Og það varð úr, að ég varð eftir og fór að bera upp og lyfti félagi minn á mig byrðunum, en hann lyfti sjálfur á sig, því að hann var heilhentur. Ég fór þrjár ferðir í brókinni, þá var mér farið að hitna og fór svo úr henni, en var í skinnstakknum. Þetta hafði góðan enda, mér varð ekkert meint við, en svona lagað þyrfti ég ekki að bjóða mér nú á dögum. Við vorum margir vel upp aldir á þeim dögum ungu mennninir og klæddir hlýjum íslenzkum ullarfötum, sem við hjálpuðum til að vinna sjálfir, að minnsta kosti margir. Oftast yar ég búinn að sitja í vefstól frá því á jólaföstu og þar til ég fór í útver, og svo var um fleiri, sem ég þekkti. Svo reri ég daglega eftir þetta meðan gæftir héldust, en eins og ég hefi áður sagt, stóð mesta fiskiríið eina viku eða vel það.
Svo er ekki meira markvert að segja af þessari vertíð, það gekk allt sinn vanagang, vertíðarnar voru flestar líkar hver annarri. Það var oftast nóg að gera seinni partinn þegar fisklaust var orðið við að herða og hagræða harðfiskinum.

Herdísaarvík

Herdísarvík um 1900.

Um þessar mundir verður vart breytinga í Herdísarvík. Bjarni Hannesson deyr, sem var þaf bóndi- og formaður lengi. Þá bætist við skip frá Hjálmholti í Flóa. Formaður á því var Sveinbjörn Ólafsson frá Hjálmholti, og annað úr Selvogi, formaður Guðmundur Sigurðsson. Auk þessara tveggja voru þar þá formenn: Guðmundur Jónsson, sem kenndur var við Hlíð í Selvogi, ættaður frá Keldum á Rangárvöllum, bjó tæp 40 ár í Nýja-bæ við Krýsuvík. Kona hans er Kristín Bjarnadóttir frá Herdísarvík. Búa nú í Hafnarfirði. 4. formaður Jóhann Níelsson, 5. Nikulás Erlendsson, 6. Björn Eyjólfsson, 7. Ingimundur Jónsson.

Herdísarvík

Herdísarvík. Gamli bærinn framar.

Nú er næsta vertíð eftir frostavertíðina. Þá var byrjað með handfæri, og skyldi nú fiska með sama lagi og síðast liðna vertíð, en það brást. Það var verið með færi nokkra daga og fiskaðist lítið sem ekkert. Svo er það einn dag, að allir eru á sjó og ekkert fékkst — 2—3 í hlut. En svo er það rétt fyrir hádegi þenna dag, að eitt skipið tekur sig upp og fer í land, mig minnir það væri Guðmundur Jónsson. Hann fór í land til að reyna að beita línu með slógi og hrognum úr þessum fiskum, sem þeir drógu á færin. Hann rær svo aftur og leggur línuna, en það kom heldur skriður á hina, þegar þeir sáu að fiskur kom á hverju járni þegar hann fór að draga línuna. Það ruku „allir“ í land og beittu línu og reru út aftur og fengu hleðslu. Svo stóð hlaðfiski meðan gaf, ég man ekki hvað það voru margir dagar. Nú var fiskurinn lifrarminni og rýrari en vertíðina næstu á undan, en það mun hafa náðst líkt fiskatal, og segir svo ekki meira af þessari vertíð.

Herdísarvík

Herdísarvík.

Þá ætla ég að segja dálítið frá vertíðinni 1895. Þá var ég með Birni Eyjólfssyni, það var síðasta vertíðin, sem ég reri í Herdísarvík og sú sjöunda. Björn hafði alltaf verið þar hæstur með hlut. Nú var hann orðinn heilsulaus, en það var samt betra að hafa hann með á sjóinn. Einu sinni gat hann ekki farið með okkur á sjó í 3 daga, og var þá einn hásetinn formaður, en þá daga gekk ekki vel að fiska. Svo hresstist Björn aftur og tók við formennsku, en hann kom eftir þetta alltaf ríðandi á hesti til skips heiman frá bænum, en verbúðirnar voru skammt frá þar, sem skipin stóðu. Svo hjálpuðum við honum eða réttara sagt létum hann upp í skipið á þurru áður en við settum á flot, svo stýrði hann og sagði fyrir og réði sjóferðinni. Það fiskaðist töluvert þessa vertíð framan af á vanalegum miðum, og um miðjan marz var frekar gott fiskirí.

Herdísarvík

Herdísarvík.

Svo kom 16. marz, sá eftirminnilegi dagur. Gott veður um morguninn og enda allan daginn. Allir réru. Svo komu skipin að nokkuð snemma; ég man ekki hvað klukkan var. Björn kom með þeim fyrstu og um sama leyti önnur skip.

Seilað

Seilar í vör.

Það var seilað og lítið staðið við í landi. Björn hafðði það lag, að láta okkur vera til skiptis í landi, að bera upp fiskinn, og þennan dag var komið að mér, og skyldi ég bera upp og annar með mér, og svo gerðu hinir líka; þeir skildu eftir menn í landi. Þegar við rérum í land, var komin töluvert þykk alda í sjóinn. Um sama leyti og þessi 5 skip voru að fara, komu þau tvö, sem eftir voru, og þau fóru ekki út aftur, því það brimaði svo fljótt, að það varð ófært að heita mátti á svipstundu. Þennan dag nauðlentu í Þorlákshöfn um 60 róðrarskip af Eyrarbakka, Stokkseyri og Loftsstöðum. Þar var þá hvergi lendandi fyrir brimi. Selvogsskipin lentu við illan leik í Selvognum. Barst þar einu skipi á í lendingunni, og drukknaði einn maður. Það var eina manntjónið, sem af brimi þessu hlauzt, og þótti það sérstakt lán, að það varð ekki meira, eins og á stóð þá.
Formenn á skipunum, sem landi náðu þennan dag, voru Guðmundur Jónsson og Ingimundur Jónsson, en skipin átti Sólveig Eyjólfsdóttir, sem þá bjó ekkja í Herdísarvík. Þegar hin skipin 5, sem úti voru, leituðu lands, var komið stórveltubrim, svo að þau lögðu öll frá, settu upp segl og sigldu til hafs.

Það sáust nokkrar franskar skonnortur úti fyrir, og skipin héldu til þeirra. Tvær voru næstar, og komu skipin fyrst öll að annarri, og Frakkar fóru að taka á móti þeim, en Björn sá, að þarna yrði þröngt fyrir skip og menn, og þó verst fyrir skipin, svona mörg aftan í einu stórskipi, og fór í annað, sem var skammt frá. Þar var þeim vel tekið og skipið sett aftan í skonnortuna.

Herdísarvík

Herdísarvík – sjóbúðirnar.

Skipið, sem Björn komst í hélt sér við á seglum um nóttina og sigldi svo með róðrarskipið austur og inn á leið þar til komið var hér um bil móts við Herdísarvík, þá var brimið lægt, og leiðin fær inn, og Björn lenti heilu og höldnu fyrir hádegi. Skonnortan, sem hafði fjögur skipin, sigldi vestur fyrir Reykjanes og missti tvö skip aftan úr sér undan Grindavík og hin tvö í Reykjanesröst. Skilaði svo af sér öllum mönnunum í Höfnunum, og komu þeir gangandi til Herdísarvíkur eftir nokkra daga. Þetta var mikið tjón fyrir þá, sem áttu skipin, sem töpuðust. Það voru fengin lánuð eða leigð skip austur á Eyrarbakka og flutt til Herdísarvíkur, svo hægt væri að halda áfram róðrum.

Herdísarvík

Herdísarvík – sjóbúðir.

Skipin töpuðust ekki öll. Þau, sem slitnuðu aftan úr skonnortunni undan Grindavík, sáust þaðan, þegar birti af degi, og Grindvíkingar sóttu þau, og voru þau óskemmd. Annað var skip Nikulásar Erlendssonar; það keyptu Grindvíkingar. Hitt var skip Guðmundar Sigurðssonar og var flutt til Herdísarvíkur aftur. Hin tvö klofnuðu í Reykjanesröst, Hjálmholtsskipið og Krýsuvíkurskipið, Þorlákshafnar og Selvogs.

Róður

Róður – Bjarni Jónsson.

Nú fóru skipin úr Herdísarvík að róa austur á Forir; en þá var ekki hægt að fara nema einn róður á dag; en þá var línan beht á sjó, ef ekki fékkst nóg í skipið í kastinu. Svona langan veg var ekki hægt að fara, nema gott sjóveður væri. Það var svo langt og erfitt, ef norðaustan vindur var, að komast þangað austur eftir, því að oftast er þarna með suðurströndinni einstreymis vesturfall eða straumur. Við fengum þarna töluverðan afla.
— Alltaf var Birni heldur að versna, en þó var hann formaður okkar vertíðina út. Það var dæmafátt, að svona veikur maður færi á sjó dag eftir dag. Það mátti segja um hann, að þar væri verið að til hinztu stundar. Hann lézt 3. júní um vorið, og mun banamein hans hafa verið krabbamein. Björn Eyjólfsson hafði verið sjósóknari mikill um sína daga. Var lengi formaður í Þorlákshöfn, í Vogum við Faxar flóa, og síðast í Herdísarvík, þar sem hann hvíldist eftir vel unnið starf. Hann var líka skipasmiður og hafði smíðað fjölda róðrarskipa, stór og smá. Svo þegar ekki var trésmíði, þá var hann í smiðju við járnsmíði, og þar mátti sjá röskleg og lagleg handtök, á meðan hann hafði heilsu.

Herdísarvík

Herdísarvík – sjóbúðir.

Með svona mönnum eins og Birni, höfðu verið margir dugnaðarsjómenn, frá því að hann byrjaði sjómennsku á unglingsárum til þess síðasta. Það hefir verið mikils virði í peningalegu tilliti, sem Björn flutti í land á sinni löngu formannstíð, náttúrlega með hjálp háseta sinna; — en það er ekki sama, hver ræður á sjó.

Verstöð

Báti ýtt úr vör – Bjarni Jónsson.

Ég ætla að greina hér frá atviki, sem sýnir sjósókn Björns nokkrum vertíðum áður en síðast segir frá. Þá réri hann einskipa; hinum þótti ekki fært, og var víst ekki álitlegt. Þá réri ég hjá Nikulási. Björn réri þessa vertíð tvisvar einskipa, og í báðum róðrum fiskaði hann veL Í annað skiptið brimaði meðan hann var úti, og það var mikið brim þegar hann fór. Þegar sást til hans koma, þá skinnklæddu sig allar skipshafnir, sem í landi voru, til þess að taka á móti honum. Þegar hann sá fólkið í fjörunni, hleypti hann upp á hæsta sjó, og skipið var tekið með öllu saman, fiski og mönnum, og drifið upp, svo brimið næði því ekki. Svo var stanzað og farið að tala við karlana, og allir voru glaðir og kátir yfir að allt skyldi fara vel. Við sem í landi vorum, urðum hálfsmeikir um skip og menn í svona miklu brimi.
Það var oft mikið um hval á þessum árum. Man ég þó sérstaklega eftir einni vertíð, sem óvenjulega mikið var af honum. Sáum við þá stundum stórar vöður af hval skammt þar frá, sem við lágum við færin. Þá var það stundum, ef fiskur var tregur, að Björn Eyjólfsson tók sig upp og kippti rétt að hvalagerinu og dró þar nógan fisk.

Ég réri hjá Nikulási, þegar þetta var, en honum var hálfilla við að vera nærri stórfiskavöðum og notaði ekki þessa aðferð, og það gerðu held ég ekki aðrir en Björn.
Ekki var Björn aðgerðarlaus þegar legið var yfir fiski. Færi hans var alltaf úti, og hann dró manna mest á skipi sínu. Einu sinni var talað um, að hann myndi hafa dregið nærri því helminginn af fiski þeim sem á skip kom, en þá fékk hann 20 í hlut. Þetta hefir kannske ekki verið bókstaflega rétt, en það sýndi hvaða álit haft var á dugnaði hans. Einu sinni síðustu vertíðina, sem hann lifði, 1895, var sótt austur í Forir eins og fyrr er ritað.

Verbúð

Verbúðir – Bjarni Jónsson.

Það var einn laugardagsmorgun norðaustan stormur, og var að sjá sandrok austur á sandi fyrir neðan Selvogsheiði, svo það þýddi ekki að leggja á stað austur í Forir, svo þeir fóru út í leirinn, skammt út fyrir sundið um morguninn, allir nema Björn af því að laugardagur var til að afbleyta línuna. Svo klukkan 10 fyrir hádegi voru þeir komnir aftur. En rétt umsama leyti sást ekkert sandrok austur á sandi, því þá var að lægja vindinn. Rétt í þessum svifum kemur þá félagi okkar inn í búðina og segir að Björn sé að koma ríðandi ofan eftir frá bænum.
Björn hafði þá séð að veður fór batnandi, enda verið að bíða eftir því. Svo var lagt á stað og gekk vel. Við fengum bezta veður og vorum víst 12— 13 tíma í túrnum gg lentum í myrkti um kvöldið. Svo á sunnudaginn fórum við að slægja og fletja fiskinn. Svona túrar þóttu góðir í þá daga. —Við sjómenn í Herdísarvik, sem áttum heima í Ölfusi og Flóa, fórum vanalega heim einu sinni á vertíð, og helzt um bænadagana eða páskana. Það var eina vertíð (þá reri ég hjá Nikulási) að við fórum nokkuð margir á miðvikudaginn fyrir skírdag, því að þá var ekki sjóveður. Það þekktist ekki í þá daga að róið væri á helgum dögum, þó var nú brugðið út af því í þetta sinn, því þegar við komum til Herdísarvíkur um kvöldið á föstudaginn langa, þá voru þeir að gera að fiski, sem ekki fóru heim, þeir höfðu sameinað sig og róið þremur skipum og fiskað töluvert. Við gátum lítið sagt við þessu, þó þótti okkur þetta atvik leiðinlegt, og töluvert undarlegt, af því að þetta var alveg nýtt fyrirbrigði, að róa á helgum degi.

Herdísarvík

Herdísarvík – fiskigarðar.

Svo kemur atvik fyrir haustið eftir, sem lyfti undir þjóðtrúna, eða þessa vanalegu trú fólksins í þá daga, og sem máske er til enn. Það sem vildi til haustið eftir var það að tvö af þessum skipum, sem róið var á föstudaginn langa, fuku og brotnuðu. Skipin voru höfð í veggjahárri rétt og bundin niður á hvolfi, tog í þeirri rétt voru hin skipin líka en þau sakaði ekki. Í Herdísarvík er mikið hvassviðri, þegar hann er hánorðan, þá stendur veðrið af fjallinu, og eru þá feikna sviptir, sem allt rifa upp sem ekki er reglulega gengið frá.

Kerlingarskarð

Kerlingarskarð framundan.

Þegar vetrarvertið var úti, fóru oft margir okkar til Faxaflóa, til að róa þar á vorvertíðinni. Við lögðum af stað 10.—11. maí með pjönkur okkar á bakinu. Fórum upp svokallað Mosaskarð, og svo beina línu yfir Lönguhlíðarfjall, og niður Kerlingarskarð, og fyrir vestan Helgafell, um Vífilstaði til Reykjavíkur.

Brennisteinsfjöll

Brennisteinsfjöll – Mosaskarð neðst t.v.

Þetta var 7—8 tíma gangur ef gott færi var en um þetta leyti árs var oft ófærð á fjallinu. — Þá var ekki atvinnuleysi, ég held að orðið atvinnuleysi hafi ekki verið til, og ekki einu sinni í Reykjavík, enda var Reykjavík ekki stór bær þá.
Nú eru vertíðarhugleiðingar mínar frá Herdísarvík að þrotum komnar. Eftir þetta réri ég á Eyrarbakka, og fór svo til austfjarða laust eftir aldamótin, og segir ekki af því í þetta sinn, og víst aldrei, nema þetta: að ég var þá 24 ára að aldri til 55 ára alltaf á sjó mikið til af árinu, á ýmsum förum og fleytum, róðraskipum, kútterum, vélbátum, fiskveiðaskipinu Súlunni samfleytt í 9 mánuði. Og fyrir innan 24 ára aldur á vetrar- og vorvertíðum við róðra á áraskipum eins og fyr er ritað. Þessum fyrnefndu árum var ég 16 úthöld, sumar og haust formaður hjá Konráði Hjálmarssyni í Mjóafirði. Ef ég færi að skrifa um öll þessi ár, allt miðbik ævinar yrði það stór bók, sem sagt heil ævisaga. Ég er ekki fær til þess – og kemur því ekki til mála.

Greni

Grenið í Lönguhlíðum.

Að lokum ætla ég að gjöra svolítinn útúrdúr og segja frá refaveiðum. Vorið 1894 var ég vormaður í Herdísarvík. Fór ekki þaðan um lokin. Var við fiskverkun og smalamennsku, en svo þurfti líka að veiða refi alveg eins og þorsk, því refir eru slæðir í sauðfé. Það fannst refagreni í Herdísarvíkurlandi um vorið. Þá bjó á Vogsósum Þórður Eyjólfsson, ættaður frá Grímslæk í Ölfusi, síðar kenndur við Vindheima. Hann var refaskytta í Selvogshreppi. Þórður var látinn vita af gneninu, og svo fór hann tilbúinn til að liggja við það. Ábúandi í Herdísarvík átti að láta mann með skyttunni, svo ég var látinn fara með nesti og nýja skó.

Lyngskjöldur

Lyngskjöldur – þrætugrenið.

Grenið var uppi í Lönguhlíðarfjalli í norðaustur af Geitahlíð. Þegar við komum að greninu, sá Þórður fljótt hvar aðaldyrnar voru, sem refahjónin gengu helzt um. Svo fundum við okkur stað í leyni, en sáum þó til dyranna. Þegar við vorum búnir að liggja þarna eins hálfan tíma, kom refurinn út úr greninu og Þórður hleypti af byssunni og rebbi steinlá. Stór og mikill grár refur. Svo lágum við áfram, í tvö dægur, og sáum aldrei læðuna eða heyrðum í henni. Svo fórum við heim, og Þórður fór til Vogsósa, svo kom hann aftur eftir tvo daga. Þá sagði hann að bezt væri að nesta sig vel, því nú bjóst hann við að verða lengi, 5—7 dægur, því að nú skyldi til skarar skriða við grenlæðuna. Við fórum með dýraboga og yrðling, sem Þórður hafði veitt á öðru greni, og skyldi kvelja hann til þess að narra læðuna að. Svo var hann með línu, öngla og hrátt kjöt til að beita fyrir yrðlingana, sem enn voru í greninu. Þegar við vorum búnir að liggja og sitja langan tíma heyrðum við læðuna gagga og orga langt frá. Þórður sagði, að hún hefði ekki að greninu komið síðan refurinn var skotinn, og væri nú júgrið farið að harðna. Hann sagði mér að kvelja yrðlinginn, sem við vorum með, það þótti mér leitt verk. Svo fórum við að veiða yrðlingana, sem inni voru í greninu, og náðum 5, enn ekki sást læðan enn, við heyrðum oft í henni, og heldur var hún að færa sig nær.
Þarna lágum við í fimm dægur í seinna sinnið. Var nú Þórði farin að þykja löng biðin. Lítið var sofið, við reyndum þó að sofna til skiftis. Þegar langt var liðið á fimmta dægur segir Þórður við mig, að ég skuli liggja kyr, og láta lítið bera á mér. Hann kvaðst ætla að ganga í kring og vita hvað hann sjái. Svo ligg ég nokkuð langan tíma, þangað til ég heyri skot, svo ligg ég enn litla stund, þá kemur Þórður með læðuna dauða. Hann hafði þá mætt henni á bak við stóran klett og var þá ekki lengi að miða á hana, og hún lá. Nú var Þórður búinn að vinna grenið, 2 dýr og 5 hvolpa. Svo var haldið heim.“

Heimild:
-Alþýðublaðið – Sunnudagsblað, 40. tbl. 05.10.1939, Verbúðalíf í Herdísarvík og Selvogi, Einar Þorsteinnson frá Hreiðuborg, bls. 4-5 og 8.
-Alþýðublaðið – Sunnudagsblað, 41. tbl. 08.10.1939, Verbúðalíf í Herdísarvík og Selvogi, Einar Þorsteinsson frá Hreiðuborg, bls. 4-5.

Herdísarvík

Herdísarvík – uppdráttur ÓSÁ.