Tag Archive for: strand

Hraun

Þann 24. mars 2006 voru 75 ár síðan björgunarsveitin Þorbjörn bjargaði 38 manna áhöfn togarans Cap Fagnets undan Hraunsfjöru. Þá var fluglínutæki fyrst notuð til björgunar hér á landi.

Cap Fagnet

Cap Fagnet.

Fljótlega eftir stofnun Slysavarnafélags Íslands árið 1928 var hafist handa við stofnun slysavarnadeilda og björgunarsveita víða um land og voru fluglínutækin fyrstu eiginlegu björgunartæki margra þeirra. Fluglínutæki er búnaður til bjargar mönnum úr strönduðum skipum og kom fyrst fram á sjónarsviðið í Bretlandi í kringum 1850 í þeirri mynd sem við þekkjum í dag.
Aðfaranótt 24. mars 1931 strandaði franski síðutogarinn Cap Fagnet á Hraunsfjörum austan Grindavíkur. Um borð var 38 manna áhöfn. Slæmt veður var þegar togarinn strandaði og ljóst að ekki væri unnt að yfirgefa skipið á björgunarbátum togarans.

Cap Fagnet

Björgun við Cap Fagnet.

Slysavarnadeildin Þorbjörn í Grindavík, sem stofnuð hafði verið tæpum fimm mánuðum áður, brást skjótt við og tókst að bjarga allri áhöfn togarans með hinum nýja björgunarbúnaði. Björgunin markaði ákveðin tímamót og færði mönnum heim sannindi þess hversu öflug björgunartæki fluglínutækin voru og flýtti mjög fyrir útbreiðslu þeirra. Alls eiga vel á þriðja þúsund íslenskir og erlendir sjómenn fluglínutækjunum og björgunarsveitum á Íslandi líf sitt að launa.
Síðast voru fluglínutæki notuð við björgun þegar línuskipið Núpur BA strandaði við Patreksfjörð í nóvember 2001. Björgunarsveitirnar Blakkur og Tálkni björguðu þá 14 manna áhöfn skipsins. Á síðustu árum hefur skipsströndum fækkað mikið, sem betur fer, og fluglínutækin því sjaldnar notuð við björgun. Þá hafa þyrlur og björgunarskip komið oftar að björgun úr strönduðum skipum og bátum, enda öflug björgunartæki.
Þrátt fyrir þetta eru fluglínutækin mikilvægur björgunarbúnaður og langt því frá að vera úrelt. Slæm veður geta gert þyrlur ónothæfar við björgun og þá geta fluglínutækin skipt sköpum.

Heimild:
www.grindavik.is

Áhöfnin

Áhöfnin á Cap Fagnet sem bjargað var.

Clam

Við strönd Reykjaness, báðum megin nessins, hafa orðið mörg og mikil sjóslys á umliðnum öldum, ekki síst þeirri tuttugustu. Við Reykjanesið strandaði m.a. eitt af stærstu skipum sem strandað hefur við Ísland, olíuskipið Clam.
Það var 28. febrúar árið 1950. Skipið varð vélarvana eftir að hafa Clam á strandsstaðrekið upp í fjöru í Reykjavík og var á leið til útlanda, dregið af dráttarbáti, sem það slitnaði frá í ofsaveðri. Þarna fórust 27 manns en 23 tókst að bjarga.
Slysið var þétt upp við hamravegginn sunnan Valahnúks. Um borð voru 50 manns, helmingur Kínverjar og helmingur Englendingar. Hluti áhafnarinnar fór í björgunarbáta, en hluti var um kyrrt í skipinu. Allir sem fóru í björgunarbáta fórust, en hinum var öllum bjargað af björgunarsveitinni Þorbirni frá Grindavík, en skipið brotnaði í spón á staðnum innan skamms. Þessi atburður var rótin að skáldsögunni Strandið eftir Hannes Sigfússon, en hann var einmitt á Reykjanesvita þegar þessir atburðir gerðust.
Víkur nú sögunni að upphafinu. Þann 21. febrúar 1950 rak breska olíuskipið Clam á land við Köllunarklett í Reykjavík og laskaðist nokkuð. Að morgni 28. febrúar var það í togi á leið til Cardiff í Bretlandi til viðgerðar þegar það slitnaði frá dráttarbátnum. Skipið rak stjórnlaust að landi og strandaði, miðja vegu milli gamla og nýja Reykjanesvitans og því sem næst fremst á nesinu. Yfirmenn voru allir enskir en undirmenn flestir af kínversku bergi brotnir. Við strandið greip mikil skelfing um sig meðal kínversku skipverjanna og þustu allmargir til (31 maður, þar af 5 Bretar) og reyndu að bjargast á land í tveimur björgunarbátum. Afleiðingarnar urðu sorgleg endalok 27 manna sem fórust er bátunum Clam á strandsstaðhvolfdi. Aðeins fjórum var bjargað á land. Þeim 19 mönnum, sem eftir urðu um borð í Clam, var bjargað nokkru síðar án teljandi erfiðleika. Viku síðar fundu menn níu lík rekin, um það bil einn kílómetra frá sjálfum strandstaðnum. Þau voru flutt til Reykjavíkur og komið fyrir í Fossvogskapellu. Þar sem líkin reyndust óþekkjanleg, var tæknideild rannsóknarlögreglunnar beðin um aðstoð. Var þá haft í huga að ef til vill yrði hægt að ná fingraförum af líkunum, en fingraför voru til af allri áhöfninni í spjaldskrám skipafélagsins. Rannsókn tæknideildarmanna varð til þess, að fimm líkanna þekktust aftur. Fingraförin sem tekin voru af hinum látnu voru send til Englands þar sem samanburður fór fram. Þetta er í fyrsta skipti sem aðstoð við slíka rannsókn er framkvæmd hérlendis. Bretar heiðruðu Axel Helgason fyrir ómetanlegt starf við þessa rannsókn.
Ýmislegt var hirt úr skipunu áður en grimmur sjórinn á þessum slóðum tók það sem eftir var. Sigurjón Ólafsson, vitavörður í Reykjanesvita, sem hafði komið á slysstað og tekið þátt í björgunaraðgerðunum, náði t.a.m. fágætri kommóðu úr skipinu. Hún var síðar (árið 2005) afhent Byggðasafni Kommóða úr ClamReykjanesbæjar. Kommóðan kom til safnsins frá Ólafi syni Sigurjóns.
Björgunarsveit Grindavíkur undir stjórn Tómasar Þorvaldssonar, bjargaði 19 mannanna með því að skjóta línu út í skipið. Líklegt er talið að bjarga hefði mátt flestum ef ekki öllum úr áhöfninni ef þeir hefðu beðið í skipinu í stað þess að freista þess að ná landi í björgunarbátunum. Fimmtán lík rak á land og voru þau jarðsett í Fossvogskirkjugarði.
Ekki er óeðlilegt að einhverjar spurningar kynnu að vakna um það hvernig stæði á því að 50 manns hafi verið um borð í vélarvana skipi í drætti frá Íslandi til Bretlands á þessum tíma??? Ekki er vitað til þess að þeirri spurningu hafi nokkurn tímann verið svarað – enda kannski aldrei lögð fram!

Heimild:
-http://www.logreglan.is/default.asp?cat_id=660
-http://www.wikipedia.org/wiki/Reykjanes+clam+reykjanes
-http://www.rnb.is/clam+reykjanes
-Ljósmynd 2; í eigu Sævars Jóhannessonar, rannsóknarlögreglumanns í Reykjavík.

Reykjanes

Reykjanes – JÓH.

Hans Hedtoft

Í Morgunblaðinu árið 1959 er sagt frá bjarghring úr Hans Hedtoft er rak í Grindavík, en farið hafði farist við Grænland fyrr á árinu:
Hans Hedtoft„Aðfaranótt miðvikudags rak bjarghring úr danska Grænlandsfarinu Hans Hedtoft á land í Grindavík. Mun ekkert annað hafa fundizt svo öruggt sé úr Grænlandsfarinu, sem fórst með farþegum og allri áhöfn [95 manns] SA af Hvarfi á Grænlandi 31. janúar sl. vetur. Er bjarghringurinn óskemmdur og greinilega merktur Hans Hedtoft, Köbenhavn. Er Magnús Hafliðason bóndi á Hrauni, sem er austasti bær í Þórkötlustaðahverfi í Grindavík, kom út á miðvikudagsmorgun og niður á tún, sá hann hvar glampaði á eitthvað hvítt úti í fjörunni. Um nóttina hafði verið mikið rok á suðaustan og brim, en um morguninn var komið logn. Gekk hann út með fjörunni og fann óskemmdan bjarghring uppi í malarkambinum.

magnus haflida-221

Tók hann hring inn heim með sér og um kvöldið hafði hann orð á því við Árna Eiríksson, bílstjóra á áætlunarbíl Grindvíkinga, að hann hefði fundið hring merktan Köbenhavn. Árni athugaði hringinn nánar og sá að hann var af Hans Hedtofi. Er hann kom til Reykjavíkur í gær, gerði hann Henry Hálfdánarsyni, framkvæmdastjóra Slysavarnafélags-ins aðvart. Hringdi Henry til Magnúsar bónda og bað hann um að halda á hringnum með sér er hann kæmi næst í bæinn. Sennilega leystur frá skipinu eins og áður er getið, sér nær ekkert á bjarghringnum þó hann hafi hrakizt i sjó í 9 mánuði. Svolitlar skellur eru komnar í rauða litinn, en áletrunin er alveg óskemmd og greinileg. Á tveimur stöðum er eins og eitthvað hafi höggvizt í hringinn og aðeins er að byrja að koma skeljungur á kaðalinn, sem er alveg heill. Enginn spotti er i hringnum og tóið hvergi slitið, svo engu er líkara en að hringurinn hafi verið leystur af skipinu, en ekki slitnað frá því.
Fréttamaður Mbl. átti í gær tal við Magnús bónda á Hrauni. Hann er 68 ára gamall, fæddur og uppalinn á Hrauni og því oft búinn að ganga f jöruna neðan við bæinn. Sagði hann að þar ræki oft ýmislegt, einkum hefði borizt mikið dót á land þar á stríðsárunum, enda væri þetta fyrir opnu hafi. Sagði Magnús að þarna ræki oft brot úr bjarghringum, en þeir ‘væru oftast of illa farnir til að þekkjast.

hans hedtoft - hringur

Við hliðina á hringnum af Hans Hedtoft lá einmitt eitt slíkt brot.
Bjarghringir eru ákaflega léttir og telur Magnús líklegt að hringurinn af Hans Hedtoft hafi borizt fyrir vindi, fyrst suðurum undan norðanáttinni í vetur. þá upp undir Suðurlandið í vestanáttinni og loks hafi honum skolað upp í Grindavík undan suðaustanrokinu, sem staðið hefur nú um langan tíma. Annars er ómögulegt að segja hvað svona léttir, fljótandi hlutir geta flækst, sagði Magnús að lokum.“
Bjarghringurinn nú er varðveittur í kapellunni í Qaqortog eða Julianehåb á Grænlandi.

Heimild:
-Morgunblaðið 9. október 1959, bls. 24.

Hans Hedtoft

Hans Hedtoft.

Jónsbásar

Eftirfarandi er úr erindi Sigrúnar Jónsdóttur Franklín, sem hún hélt á Sagnakvöldi í Saltfisksetrinu 16. ferb. 2006 og nefndist „Sök bítur sekan„:

Staður

Klukknaportið í Staðarkirkjugarði.

Við strandlengjuna austast í landi Húsatótta skammt utan við Hvalvíkina eru Jónsbásaklettar en þar strandaði breski togarinn Anlaby 14. janúar 1902 og fórust allir sem á honum voru, 11 manns. Skipstjóri á Anlaby var Svíinn Carl August Nilson, og var þetta fyrsta ferð hans til Íslands að aflokinni fangelsisvist, sem honum var gert að afplána fyrir aðförina frægu að Hannesi Hafstein og mönnum hans á Dýrafirði árið 1899. Af þessum atburðum og af Carl Nilson spunnust margar sögur sem ég ætla að segja ykkur frá hér í kvöld og þá einkum þær sögur sem tengjast Grindavík og lítið hafa verið í sviðsljósinu fram til þessa. Við öflun heimilda styðst ég aðallega við kaflann frá Valahnúk til Seljabótar sem Guðsteinn Einarsson skrifaði í bókina Frá Suðurnesjum og kemur inn á þennan atburð og Staðhverfingabókina, Mannfólk mikilla sæva sem séra Gísli Brynjólfsson skrifaði. Feður beggja þessa höfunda koma við sögu. Faðir Guðsteins var Einar hreppstjóri á Húsatóftum og foreldrar séra Gísla voru séra Brynjólfur á Stað og frú Helga Ketilsdóttir.

Staður

Staðarströndin.

Árið 1999 þegar 100 ár voru liðin frá ódæðisverkinu á Dýrafirði var þess minnst þar og reistur minnisvarði um þá þrjá menn sem fórust í aðförinni. Eins var minnst á þetta ódæðisverk í fjölmiðlum 2004 þegar 100 ár voru liðin frá því að Íslendingar fengu heimastjórn og Hannes Hafsteinn varð fyrsti ráðherra Íslands. En fæstir þekkja söguna eftir að Carl Nilson kemur aftur til Íslands og ætlar að hefna sín á Íslendingum að talið var.Fyrir þá sem þekkja ekki fyrri söguna þá ætla ég í stuttu máli að rifja upp atburðinn á Dýrafirði. Carl Nilson var þá skipstjóri á breskum togara Royalist. Hann var við botnvörpuveiðar innan landhelgi, sem þá var 3 mílur, á miðjum Dýrafirði. Hannes sem þá var sýslumaður Norður-Ísfirðinga fór ásamt 5 öðrum til að ráðast til uppgöngu í togarann. Á þeim tíma voru varnir Íslendinga í landhelgismálum litlar og Englendingar notfærðu sér það. Nilson á að hafa komið til verslunarstjórans á Þingeyri nokkrum dögum áður og tekið út varning og ætlaði að borga síðar sem hann gerði ekki. Hann málaði yfir nafnið á togaranum Royalist svo aðeins sást oyalist til þess að blekkja menn. Skipsmenn á Royalist slepptu togvírnum að talið var þannig að báturinn sem Hannes var á hvolfdi og þeir lentu í sjónum og þrír drukknuðu en Hannesi ásamt tveimur öðrum var bjargað á síðustu stundu. Ekki samt að talið var fyrr en að menn í landi sem að sáu aðfarirnar með sjónauka réru að togaranum komu að. Sjónauki þessi er nú geymdur á Byggðasafninu á Ísafirði og kallaður lífgjafi Hannesar. Báturinn sem þeir Hannes voru á nefnist Ingjaldur og var síðast þegar ég vissi á sjóminjasafninu í Hafnarfirði. Um borð í Royalist var sjómaður frá Keflavík. Eftir atvikið sigldu þeir til Keflavíkur áður en þeir héldu til Englands og talið er að sjómaðurinn hafi tekið með sér fjölskyldu sína og flutt út. Nilson var síðan um haustið aftur tekinn við landhelgisbrot þá við Jótlandsskaga.
Hann var færður til Kaupmannahafnar. Fyrir tilviljun var póstbáturinn Laura sem var í ferðum milli Íslands og Danmerkur þar á ferð og Tryggvi Gunnarsson, bankastjóri sem var um borð í áttaði sig á því að um sama skipstjóra var að ræða og í atvikinu á Dýrafirði. Nilson var dæmdur í fangelsisvist fyrir atburðinn á Dýrafirði en óljóst er hvort hann sat af sér dóminn eða ekki.

Jónsbásar

Jónsbásar.

Tveimur árum síðar var hann á leið til Íslands á nýjan leik er hann strandar við Jónsbáskletta við Grindavík. Svo sem oft vill vera í sambandi við voveifleg slys, varð nokkuð til af draumum og fyrirbærum í sambandi við strand þetta. Merkastur þótti draumur frú Helgu Ketilsdóttur, konu séra Brynjólfs Gunnarssonar, prests á Stað, sem hana hafði dreymt nokkru fyrir hátíðar, áður en strandið varð, og hún sagt hann þá strax. Draumurinn var þannig að henni fannt að knúð væri dyra og 10 menn báðu um gistingu á Stað. Eitthvað leist henni illa á að hýsa svona stóran hóp og færðust undan því. En þeir sóttu fast á og svöruðu henni að Einar Jónsson hreppstjóri á Húsatóftum myndi sjá um þá. En þannig vildi til að Einar hreppstjóri sá um alla björgun og einnig um útför mannanna í Staðarkirkjugarði.

Enginn vissi þegar skipið fór upp. Sá sem fyrstur varð þess áskynja, var Björn, Sigurðsson vinnumaður í Garðhúsum. Hann var að ganga til kinda þegar hann sá rekald og dauðan mann. Talið var að han hafi verið með lífsmarki er í land kom, því hann lá ofan við flæðarmálið. Björn lét Einar hreppstjóra strax vita.

Staður

Jónsbás.

Helgi Gamalíelsson á Stað sagði að eftir ákveðna átt eins og var í þessu tilviki þá höfðu Staðhverfingar það til siðs að ganga á reka. Þennan dag var leiðindaveður og af einhverri ástæðu var það ekki gert en það hefði ef til vill geta orðið manninum til lífs. Höfðu Staðhverfingar það á samviskunni og fyrir vikið var ekki mikið talað um þennan atburð.

Úr skipinu rak 10 lík á rúmri viku en eitt líkið fannst ekki og var það talið vera af Nilson skipstjóra. Líkin voru flutt í Staðarkirkju og búið um þau þar og leitað eftir öllu til að bera kennsl á þau. Einn morguninn kom maður til Einars hreppstjóra, Bjarni frá Bergskoti; hann tjáði Einari að þá nótt hefði sig dreymt sama drauminn aftur og aftur, og þótti honum maður koma til sín og biðja sig að fara til hreppstjóra og segja honum að hann vildi fá aftur það sem hafði verið tekið frá sér og hann sé norðast í kórnum. Einar tók drauminn bókstaflega þvi einmitt hafði verið tekinn hringur af því líki sem utast var í kórnum í kirkjunni og var hann látinn á hann aftur.

Anlaby

Brak úr Alnaby ofan Jónsbáss.

Eitt fyrirbæri var sett í samband við strand þetta. Tveir ungir menn áttu þá heima á Húsatóftum. Þeir voru vanir að fara á kvöldin til fuglaveiða á báti út í Flæðikletta. Eitt skiptið heyra þeir undarlegt hljóð og þeir veltu því fyrir sér hvort að selir mundu geta hljóðað svona. En varla höfðu þeir sleppt orðinu er upphófst óskaplega langdregið og ámátlegt hljóð. Þeir flýttu sér í land og fóru aldrei út í Flæðikletta að kvöldlagi eftir þetta. Þetta fyrirbæri var sett í sambandi við Anlaby strandið og kallað ”náhljóð”.

Annað fyrirbæri var einnig sett í samband við strandið. Eitt kvöldið var Júlíus Einarsson frá Garðhúsum að fara að finna heitmey sína Vilborgu, dóttur presthjónanna síra Brynjólfs og frú Helgu Ketilsdóttur og var Júlíus ríðandi á þeirri leið. Þegar hann var kominn út fyrir síkið fyrir neðan og vestan túnið á Járngerðarstöðum nam hesturinn staðar, og var ekki unnt að koma honum úr sporunum, hvernig sem hann reyndi. Hesturinn gerði ekki annað en að prjóna og ganga aftur á bak. Hann stökk af baki og teymdi hestinn á eftir sér. Varð honum litið til hægri handar og sá þar gríðar stóran mann sem ógnaði honum eins og hann hygðist reka hann í sjóinn. Júlíus blótaði manninum og stóð honum mikill stuggur af honum. Maðurinn fylgdi honum mest alla leiðina en hvarf svo skammt austan við túnið á Stað. Júlíus var náfölur og brugðið við þennan atburð er hann kom á Stað. Flestum kom saman um að tengja þennan förumann við skipstrandið.

Staður

Klukka Anlaby í klukkuportinu.

Nilson gerði vart við sig á eftirminnilegan en jafnframt gleðilegri hátt. Þennan vetur 1902 eftir skipstrandið var vinnukona á Stað, sem ekki fór ein saman. Hana fór að dreyma Nilson, sem lét það ótvírætt í ljós að hann vildi vera hjá henni. Var ekki um að villast að hann var að vitja nafns. Vinnukonan ól son og hann var látinn heita Karl Nilson og fæddist á Stað 31. júlí 1902 og foreldrar hans voru Jón Tómasson og Guðbjörg Ásgrímsdóttir. Karl hinn íslenski var gæfumaður að því að ég best veit.

Flakið af Anlaby sást lengi út af Jónsbásklettum. Nú er það horfið með öllu nema ketillinn sem kemur upp úr við útsog á stórstraumsfjöru. Við útfarir í Staðarkirkjugarði er ennþá hringt úr skipsklukkunni úr Anlaby. Klukknaportið er nýuppgert og sómir sér vel í garðinum. Eins og þið hafið heyrt þá hafa ótrúlegar margar sögur spunnist út frá Nilson skipstjóra bæði við atburðinn á Dýrafirði og hér við Grindavík ég vona að þið hafið haft gagn og gaman af þessari samantekt.
Nilson átti ekki afturkvæmt til Íslands og má segja að hann hafi fengið makleg málagjöld er brimaldan við Jónsbáskletta söng honum sitt dánarlag og sannast þar máltækið sök bítur sekan í bókstaflegri merkingu.
Í ævisögu Hannesar Hafsteins (eldri útgáfu) vitnar höfundurinn, Kristján Albertsson. til skrifa í Lögréttu 1933 þar sem hann sgeir að „eitt lík rak höfuðlaust, og var talið vera Nilson; „hafði sennilega hákarl klippt af honum hausinn, en almenningur lagði út sem „æ´ðri stjórn“, og með réttu.“
Þessi saga Nilsons varð yrkisefni Jóns Trausta er hann orti kvæðiðVendetta en það þýðir blóðhefnd þ.e.a. vættirnir hefndu fyrir ódæðisverkið.
Að lokum flutti Áki Erlingsson ljóðið Vendetta er fjallar um atburðinn á Dýrafirði.

Togari

Svipaður togari og Alnaby.

Jón Baldvinsson

Þann 31. mars árið 1955, klukkan tæplega 4 um nóttina, strandaði togarinn Jón Baldvinsson, rétt hjá Reykjanesvita. Loftskeytastöðin í Reykjavík heyrði strax neyðarkall togarans og tilkynnti það til skrifstofustjóra Slysavarnarfélagsins, sem þegar vakti vitavörðinn á Reykjanesvita, Sigurjón Ólafsson, og kallaði einnig til björgunarsveitina í Grindavík.
Jón Baldvinsson á strandstaðUm kl. 5 var vitavörðurinn kominn á strandstaðinn. Reyndist togarinn vera strandaður skammt undir  svokölluðu Hrafnkelsstaðarbergi sem er skammt suður af Reykjanesvita. Tilkynnti Sigurjón Ólafsson vitavörður Slysavarnarfélaginu strax um hvar skipið væri strandað, og einnig að skipbrotsmenn væru búnir að skjóta línu í land. Um kl. 7 kom björgunarsveitin úr Grindavík á strandastaðinn, eftir mjög erfiða ferð, þar sem vegurinn út á Reykjanes var nærri ófær, en björgunarmennirnir voru ekki fyrr komnir á strandstað, en að þeir hófu björgunarstarfið, og kl. 07:30 var fyrsti skipbrotsmaðurinn dreginn á land. Jafnhliða því að Grindvíkingar voru búnir að búa sig af stað, fóru tveir menn úr björgunarsveitinni í Reykjavík áleiðis á strandstað. Um kl. 9 f.h. var búið að bjarga öllum skipbrotsmönnunum, 52 að tölu, og var hægt að fylgjast með björguninni vegna talstöðvarinnar. Strax eftir að búið var að bjarga skipbrotsmönnunum, var farið með þá heim í vitavarðarbústaðinn, þar sem vitavarðarhjónin höfðu mat og drykk á reiðum höndum, en Bæjarútgerð Reykjavíkur hafði sent matvæli til þeirra hjóna. Slysavarnarfélag Íslands sendi björgunarbifreið sína, ásamt fleiri bifreiðum, til að sækja skipbrotsmennina.

Jón Baldvinsson

Jón Baldvinsson – bjarghringur.

Þetta er stærzta björgun áhafnar úr einu skipi, sem framkvæmd hefur verið af björgunarsveit Slysavarnarfélags Íslands. Stærzta björgun áður var, er 38 mönnum var bjargað af franska togaranum Cap Fagnet, sem strandaði á Hraunsfjörum nálægt Grindavík 24. mars 1931. Einnig þá var björgunarsveitin í Grindavík að verki og hefur engin önnur björgunarsveit félagsins bjargað jafn mörgum mannslífum og þessi frækna sveit, enda hvergi á landinu strandað fleiri skip en í námunda við Reykjanes.

Heimild:
-Árbók Slysavarnarfélags Íslands 1955-1956.Jón Baldvin

Thermopylae

Í Sjómannablaðinu Víkingur 1973 er fjallar Skúli Magnússon um „Skipsstrand við Básenda árið 1881„:

„Flestir hafa hugmynd um að strönd Reykjanesskaga er mjög skerjótt og hættuleg skipum. Þau hafa ekki svo fá farist við þessa strönd þar sem úthafsaldan brotnar án afláts. Hér á eftir mun fara frásögn af einu skipsstrandinu er átti sér stað á Reykjanesskaga, nánar tiltekið skammt sunnan við Básenda, nálægt Þórshöfn, sem er smá vík eða vogur er skerst inn í landið, rétt utan við Ósabotna, þar sem þorpið Hafnir er.

Jamestown

Strandsstaður Jamestown, skammt v.m. við Hestaklett.

Um Básenda er það að segja að þar var til forna kaupstaður og sér þess enn sæmileg merki. Smá tanga er þar skagar út í sjóinn eru búðatóftir og forn garðbrot, þar munu húsin í verzlunarstaðnum hafa staðið. Ennfremur má sjá einn járnpolla allmikinn og sveran þar sem hann stendur uppúr klöppinni og kemur á þurrt við fjöru. Annar slíkur mun hafa verið hinum megin við víkina en nú sjást engin merki eftir hann lengur. Um Básenda hefur margt verið skráð og skilmerkilegust er frásögn sú er á sínum tíma birtist í Blöndu, tímariti Sögufélagsins. Þar segir gjörla frá ofviðri því er grandaði kaupstaðnum að fullu og öllu. Átti þetta sér stað í janúarbyrjun árið 1799. Eftir þetta hófst aldrei framar verzlun á þessum sögufræga stað, Keflavík varð aðalverzlunarstaður okkar Suðurnesjamanna og hefur verið alla tíð síðan.

Þórshöfn

Þórshöfn – loftmynd.

Víkin Þórshöfn var einnig notuð til kaupskapar. Hennar er getið í sögu einokunarverzlunarinnr eftir Jón Aðils. Var verzlað þar á tímum hinnar illræmdu umdæmaverzlunar eða jafnvel fyrr, um 1500 eða þar um bil. Hafa þar vafalaust verið Þjóðverjar á ferð eða Englendingar.
Sama er uppá teningnum um Keflavík, þar hófst verzlun sennilega um svipað leyti, kannski fyrr, en um það höfum við nú engar áreiðanlegar heimildir. Þó er til eitt örnefni á Vatnsnesi við Keflavík, er það Þýzkavör, og liggur hún í Vatnsnesvík, sem er suður af sjálfri Keflavíkinni, en Vatnsnes liggur á milli. Höfnin er í dag í Vatnsnesvík.

Básendar

Básendar – uppdráttur ÓSÁ.

Árin um og eftir 1880 munu verða minnisstæð í Íslandssögunni fyrir þrennt, hallæri, ísa og Vesturheimsferðir. Sumir lögðu árar í bát og létu ginnast af gylliboðum hinna kanadísku agenta, um allslags dásemdir í Vesturheimi, hinni nýju og framfarasinnuðu veröld, því þar hafði hvorki verið aðall, kóngar, né kirkjuveldi til að drepa niður framfaraviðleitni samfélagsins. En margir þraukuðu samt enn á gamla Fróni og aðrir sneru úr dýrðinni vestra og settust aftur að í landinu.
Fáir munu hafa farið vestur úr Keflavík og frá Suðurnesjum, það var sjávarútvegurinn sem hélt líftórunni í mönnum, og sem dæmi um það má nefna að í hallærum inni í landi streymdi fólk til sjávarbyggðanna í leit að mat og skjóli. Hér má því segja að sjórinn hafi gefið vel þó hins verði ekki síður getið að hann tók sinn skatt af auðæfum sínum.

Sigurður B. Sívertsen

Sigurður B. Sívertsen.

Eftirfarandi ritar merkisklerkurinn og fræðimaðurinn sr. Sigurður Br. Sívertsen í Suðurnesjaannál sinn árið 1881: „Fór nú sjóinn óðum að leggja, með því líka, að stórar íshellur bárust að landi að ofan og innan. Var nú gengið yfir Stakksfjörð fyrir utan Keflavík og inn að Keilisnesi á Vatnsleysuströnd, og hefi ég ekki lesið, að slíkt hafi viðborið, síðan árið 1699. Sjófuglar fundust dauðir með sjónum.
Ekki veit ég hvort nógar matvörur hafi flutzt til landsins, a.m.k. var svo á Norðurlandi, að þangað barst lítil sem engin björg frá útlöndum enda allt ófært af hafís, sem lá inn á fjörðum fram eftir öllu sumri. Sama hlýtur að hafa verið hér Sunnanlands, eftir því sem annállinn segir. Og um timburflutninginn veit ég lítið með vissu, en allavega skeði nú atburður, sem átti eftir að hleypa mönnum nokkuð upp hér á Rosmhvalanesi, en það var skipsstrand. Mun ég hér eftir tína sitthvað uppúr Suðurnesjaannál varðandi strand þetta, því það er merkilegt fyrir byggingasögu okkar Suðurnesjamanna.
Árið 1881 segir sr. Sigurður í annál sínum (Suðurnesjaannáli er prentaður í Rauðskinnu VII-VIII heftum og kom út 1953):

Jamestown

Jamestown.

„Með stórtíðindum má á þessu ári telja þann viðburð, að sunnudagsmorguninn 26. júní, rak að landi afarstórt farmskip, hlaðið af trjáviði, nálægt Þórshöfn á Suðurnesjum (skammt sunnan við Básenda) og stóð þar á flúð eða skeri, mannlaust, þrímastrað með þrem þilförum. Hafði þriðja mastrið verið höggvið í sundur áður en skipsfólkið hafði farið af því, að líkindum um leið og það hefir á hliðina farið, en svo var allt stórkostlegt á tröllskipi þessu, að allri furðu gengndi, og svo að menn höfðu eigið trúað,
ef menn hefðu eigi séð. Eftir því sem ég hefi komizt næst, var lengd þessa skips 128 álnir, og á breidd 27 álnir (allt að 30 álnir).
Möstrin tveir feðmingar að digurð, akkerin á að gizka, hver af þremur 1000 skippund, eða 3000.
Hið fjórða var lítið. Hver hlekkur í akkeriskeðjunni var 1 fjórðungur. Káetan á efsta þilfari var svo stór, að rúmað gat 200 manns tilborðs. Mátti sjá, að húsið hefir í upphafi verið mjög skrautlegt, en rúið og ruplað hefir það verið af öllum húsbúnaði að innan. Aðeins mátti sjá, að í því hafi verið 12 smærri herbergi, en milligjörð öll brotin. Dýpt skipsins frá efsta þilfari allt að 20 álnir. Segl voru engin, en þau slitur af þeim, sem fundust, og kaðlar, var allt fúið.
S

James Town

James Town, nýlenda landnema við Jamesá í Ameríku 1607.

amt er óvíst, hve lengi það hefur verið í sjó eða hvenær því hefur borist á. En að því var komist, að skipið hefir verið frá Boston í Ameríku, og heitir það „James Town“, sem líka er staðarnafn all nærri Boston. Skipið var fermt eintómum plönkum af allri lengd, en svo vel var í það raðað eða frá gengið og skorðað, að járnkarla þurfti að nota til að losa um það.

Hestaklettur

Hestaklettur – Hafnir að handan.

Þegar þetta tröllskip barst þarna að landi, þar sem svo var brimasamt og illt við að eiga, hugðu menn úr þessum og nærliggjandi hreppum, að óhugsandi og ógjörlegt væri að eiga nokkuð við uppskipun og björgun að svo stöddu, og gerðu sér líka þær vonir, að sýslumaður mundi í einu boði, selja þetta mikla rekald.
Fyrir því að þetta mætti álítast vonarpening, hugðu margir að geta hlotið hin beztu kaup, ef allir fjórir næstu hreppar gengju í félag undir eins manns ábyrgð, og var af öllum kosinn til þess kaupmaður Duus í Keflavík. En nú brást þeim illa sú ætlun sín, og máttu þó sjálfum sér um kenna eða hreppstjóranum, eftir áeggjan annarra, því þegar vandræði eða ráðaleysi viðkomanda bárust héðan, hófst félag eitt í Reykjavík, og tókst á hendur að fengnu einkaleyfi frá amtmanni, að bjarga eða skipa upp svo miklu af trjáfarmi þessum, sem framast væri þeim mögulegt, mót 2/3 fyrir fyrirhöfn og ómak.
Tóku þeir þegar til óspilltra mála, sem svo ágætlega vel hepnaðist þeim, að þeir, eftir hart nær þriggja vikna vinnu, voru búnir að skipa í land mest öllum farmi af efsta þilfari sem eftir ágizkun mun hafa orðið 15.000 plankar.

James Town

Frá James Town í Ameríku.

Frá upphafi og leikslokum með fleiru hér að lútandi skal seinna verða nákvæmar sagt.
Þegar seinna var brotið upp milliþilfarið, sem innihélt ekki minni trjávið en hið efra, og ekki þótti sjá högg á vatni, þó haldið væri með kappi áfram uppskipunni, var enn að nýju fengið amtsleyfi fyrir héraðsmenn að skipa nú upp til helminga, en þó að margar hendur ynnu hér að úr fjórum nærliggjandi hreppum, var ekki búið að ljúka uppskipuninni af milliþilfari, þegar sýslumaður hélt uppboð, miðvikudaginn þann 10. ágúst.

Duus

Duus – bryggjuhús.

Varð hið vægasta verð að kalla mátti gjafverð á öllum plönkum og timbri. Taldist svo til, að hver planki seldist á 50 aura, 6 álna, eða 8 aura alinin, en þó tók út yfir góðkaupin, þegar skipið með fullri hleðslu á neðsta þilfari með fullum farmi o.s.frv. seldist fyrir 330 krónur, en fyrir þá skuld var ekki boðið hærra, að hlutaðeigandi félagsmenn voru búnir að semja sín á milli, ekki aðeins að ljúka ekki upp munni sínum, heldur stuðla til með samtökum, og sjá um, að aðrir spilltu ekki góðum málum. Varð svo herra Duus hæstbjóðandi eftir áðurgjörðum samningi.

Kaupstaðavegurinn

Kaupstaðavegurinn, vagnvegurinn, ofan Ósa – að Jamestownsrekanum.

Hér á eftir fóru menn úr öllum áttum á skipum, og í flotum að ná heim til sín hinu keypta timbri, en þó að veðurblíðan héldist áfram, var þó minna en helmingur ósóttur. Því næst fóru allir úr öllum hreppum að vinna að uppskipun á því, sem hafði orðið eftir á miðþilfari, en þó að allvel gengi, hugðu flestir, að ekki væri hugsandi að halda áfram með neðsta þilfar, ef veður breyttist. En þá bar svo við, að mánudaginn þann 9. sept. gekk í landsunnan sterkviðri og stórbrim um stórstraumsflóð, svo að allur skipsskrokkurinn liðaðist í sundur á þremur tímum, og bárust að landi plankar og skipsflekar. Var það ógrynni og feikn saman komið, að meira var en nokkurn tíma fyrir uppboðið.

Jamestown

Jamestown – opinber auglýsing um strandið.

Eins og þetta mikla strand er og verður fáheyrt, ekki aðeins hér sunnanlands, heldur í landssögunni, að annað eins timbur hafi komið á einn stað af einu skipi, eins og þetta, má kalla hið mesta happ fyrir öll Suðurnes og nærliggjandi hreppa, sem Drottinn allsherjar rétt hefir mönnum upp í hendur án mikillar fyrirhafnar eða kostnaðar, og án þess að neinar slysfarir hafi þar af orsakast eða tjón. Eins yrði það
óafmáanlegur blettur eða svívirðing í sögu Suðurnesja, ef menn skyldu á endanum ekki koma sér saman um réttsýn skipti meðal félagsmanna sín á milli“.
Þetta hefur sr. Sigurður að segja um þessa stóru skútu. Síðar við sama ár í annál sínum (1881) segir klerkur:

Garður

Unuhús í Garði, eitt margra húsa byggt upp úr standgóssi Jamestown.

„Eftir að félagsmenn hins strandaða skips, James Town, höfðu lengi verið búnir að vinna að uppburði timbursins af skipinu, voru þá í nóvember tekin fyrir skiptin í 4 aðalhluti eins og til stóð og fóru þó ekki eins og til var ætlast skiptin fram á þeim helmingi skipsins, sem þessum hrepp var fyrirhugað, því að vissir menn vildu þar öllu ráða, svo að óánægja varð af, þó að allt væri íátið kyrrt liggja, með því að allir félagsmenn, fengu svo mikið í sinn hlut, að þeim mátti nægja, og ekki fyrir neinn ójöfnuð annarra þess vert að láta verða úr misklíð. Plankarnir töldust í allt rúm 16000, svo að í hvern fjórða part komu 4000. Skipsflekum var eigi skipt, sem mjög mikill slægur var í, en voru þó komnir uppá þurrt land, og einn þeirra, önnur hliðin, var mæld 40 fet á lengd.“ Það kom sér mjög vel fyrir alþýðu manna, hve ódýrt timbur var úr skipinu, eða 50 aura plankinn. Með því móti gátu margir fengið gnótt viðar og notað til margs konar smíða og bygginga.

Óttarsstaðir

Óttarsstaðir eystri, byggðir að hluta úr rekaviði  úr Jamestown.

T.d. getur prestur þess í annálum, að timbrið hafi mjög víða verið notað í húsbyggingar. Og víst er, að mörg hús hér í Keflavík voru byggð úr timbrinu úr James Town. Sum þeirra eru nú horfin af sjónarsviðinu, önnur allmikið breytt frá fyrri tíð.
Meðal húsa hér að lútandi má nefna Þorvarðarhús, sem stendur svo til óbreytt hið ytra. Hús Þórðar héraðslæknis Thoroddsen (sem stóð hér við Hafnargötu) var víst líka byggt úr timbri hins strandaða skips. Þórður var fyrsti læknir sem settist að hér í Keflavík og var upphafsmaður að mörgu, t. d. aðaldriffjöðrin í stúkunni Vonin nr 15, stofnaði Kaupfélag Rosmhvalaneshrepps árið 1889, stofnaði sparisjóð Rosmhvalaneshvepps um 1890. Á Thoroddsensheimilinu ríkti mikill menningarbragur. Því má við bæta að Emil pianóleikari er einmitt sonur Þórðar, og er fæddur hér í Keflavík. Sjálft Thoroddsenshús mun hafa verið rifið að mestu um 1930 er Eyjólfur Ásberg byggði hús sitt á sama stað við Hafnargötu. Þar varð síðar greiðasala, verzlun og bakarí.

Sandgerði

Húsið Sandgerði (Sáðgerði) var byggt úr timbri úr Jamestown.

En það var ýmislegt fleira, er leiddi af strandi James Town, en annállinn fræðir okkur um. Um það mál fáum við nokkra vitneskju í blaðinu Þjóðólfi, vorið og sumarið 1884, en þá var Jón Ólafsson, alþingismaður, ritstjóri blaðsins.
Svo er mál með vexti, að í 7. og 8. tölublöðum Þjóðólfs þetta ár, ræðir Guðmundur Guðmundsson, bóndi og hreppstjóri í Landakoti á Vatnsleysuströnd um fiskveiðasamþykktina fyrir Faxaflóa. Þeir Útskálafélagar, prestarnir Sigurður og Helgi Sívertsen, senda Guðmundi síðan svargrein í 9. tbl. sama blaðs. Ekki ætla ég samt að ræða það mál nánar hér, enda er það tómt persónulegt pex. (Síðar getur samt svo verið að ég muni gera hér fiskveiðasamþykktir að umtalsefni, en ennþá hef ég þó ekki nægar heimildir undir höndum varðandi það efni). En málið var þar með ekki úr sögunni.
Í 11. tölubl. Suðra, sem Gestur Pálsson var ritstjóri fyrir, svara „nokkrir íbúar Rosmhvalaneshrepps“ greinum Guðmundar, svo hann neyðist til að taka aftur til pennans og svara, enda var dróttað að honum persónulega í grein þessari. Við skulum nú grípa niður í svargreinar Guðmundar frá Landakoti, en þær birtust í 20. og 33. tbl. Þjóðólfs. Ræðir þar um strand skipsins James Town.

Stafnes

Stafnes – uppdráttur ÓSÁ.

Í 20. tbl. er inngangur eftir ritstjórann (J.Ó.) með fyrirsögninni: „Uppljóstur á stórþjófnaði“. Ræðir þar um fyrri greinar Guðmundar og þeirra Útskálafeðga og allt það persónulega pex, sem þar birtist. Síðan segir: „Þegar vér nú tökum eftirfylgjandi svargrein frá hr. Guðmundi Guðmundsyni, þá er það af því, að hér er orðið um alveg nýtt mál að ræða — það mál, sem ekki má þegjandi niður falla.
Þegar eins merkur maður og hr. Guðmundur ber fram svo stórvægilega sakargift um stórþjófnað, þá er sú sakargift svo vaxin, að yfirvöld geta ekki og mega ekki ganga þegjandi fram hjá henni — og gjöra það nú vonandi því síður, sem orðrómurinn um þetta athæfi er fyrir löngu hljóðbær orðinn“.
Jamestown
Þá kemur grein Guðmundar sem hefur að inngangi: „Þann ég kalla að þekkja lítt þekkir ei sjálfan sig“. Hann skýrir nú frá því, að „nokkrir íbúar Rosmhvalaneshrepps“ hafi í Suðra svarað greinum sínum er birtust í Þjóðólfi. Síðan segir orðrétt: „Þeir minnast, þessir göfugu greinasmiðir, á félagseignina í James Fown (?) er þeir nefna svo, það er líklega timbrið á Stafnesfjörum, sem þeir meina, þó skipsnafnið sé ekki sem allra réttast (okkur mun vera hollast að gefa okkur ekki mikið út í það að rita ensku, samt hafa aðrir sett ,,T“, þar sem þeir setja „F“ í skipsnafnið) og lítur helzt út fyrir að þeir vilji telja lesendum Suðra trú um, að ég hafi við það tækifæri sýnt mig í óráðvendni, og jafnvel komið einhverjum kunningjum mínum til að vera mér til aðstoðar í því. Þessu ætla ég ekki að svara með öðru en því, að segja söguna svo sanna og rétta, sem mér er unnt, en sannanir fyrir henni mun ég geta framlagt síðar, ef með þarf, þó ég, að líkindum ekki sæki þær í uppboðsbók Rosmhvalaneshrepps….“ .

Jamestown

Ankeri Jamestown í Höfnum.

Þá getur Guðmundur um það, að menn úr Höfnum hafi verið viðstaddir er hann kom að ná í sinn ákveðin timburpart og hafi hann sagt á þá leið við þá, að þeir vissu að hann ætlaði að taka nokkrar spýtur til að fylla þilskip sitt er hann var þangað (að Þórshöfn) kominn á. Hann skyldi greiða andvirði þeirra seinna við tækifæri. Þetta tóku allir gott og gilt og Guðmundur hélt heim með farminn.
Eftir þessa frásögn sína segir Guðmundur: „En ef íbúar Rosmhvalaneshrepps (að undanskildum Keflavíkurmönnum) eiga jafnhægt með að gjöra grein fyrir, að allar aðferðir þeirra á Stafnesfjörum þessi ár hafi verið leyfilegar og lögmætar, eins og mér veitir hægt að sanna framanritaða sögu mína, þá er of miklu upp á þá logið. Að þessir piltar skuli vera svo fífldjarfir að minnast á samvizku í plankamálinu, það er hrein furða, hún hefur þó að líkindum ekki ónáðað þá eða sveitunga þeirra suma hverja í undanfarin 2 ár, en máske hún sé að bregða blundi hjá einhverjum þeirra. Gott ef svo væri“.
Og litlu síðar kemur þetta:

Jamestown

Jamestown – silfurberg.

„Skal ég þá leyfa mér að spyrja þá (þ. e. íbúa Rosmhvalaneshrepps) að, hverja skilagrein þeir hafi gjört fyrir koparhúð þeirri sem þeir heimildarlaust bæði nótt og dag rifu utan af skipsflekunum? Hafa þeir samkvæmt áskorun og skipun þeirra manna, sem áttu koparinn með þeim, skilað honum á þá staði, sem þeim var boðið?“
Guðmundur getur þess að þeir Strandarmenn hafi ekkert fengið af koparnum, sem þeir þó áttu að fá í sinn hlut, svo sem aðrir þeir, er unnu að björgun timbursins úr skipinu.
Enn segir Guðmundur: Timburhvarfið ætla ég sem minnst að minnast að tala um í þetta sinn, það tekur svo út yfir allan ósóma, að flestir, sem kunnugir eru því máli, þykjast vissir um, að síðan Suðurland byggist muni ekki hér í sýslu hafa verið framin annar eins stórþjófnaður og sá, sem þessi ár hefir átt sér stað þar syðra, og ef íbúar Rosmhvalaneshrepps vilja brýna okkur Strandarmenn, þá er ekki víst að við þurfum að hafa fyrir að tína saman tvo eða þrjá gemsa þaðan úr hreppnum, sem yfirvaldið þyrfti og ætti að ná í lagðinn á, það er ekki ómögulegt, úr því tveir eða þrír væru handsamaðir, að hópurinn kynni að stækka“.
Og að endingu segir Guðmundur þessi orð í grein sinni: Vilji íbúar Rosmhvalaneshrepps róta betur upp í þeim saur, sem þeir eru nú byrjaðir að moka, þá vildi ég með aðstoð kunnugra manna vera þeim til liðveizlu, en ekki get ég að því gjört, þó af honum leggi fýlu.“

Útskálar

Útskálar 1920 – Jón Helgason.

Enn er málinu þó ekki lokið, því í Þjóðólfi, 12. júlí 1884, ymprar ritstjórinn, Jón Ólafsson, enn á því að rannsókn þurfi endilega að fara fram á málinu. En Guðmundur í Landakoti ritar ein grein enn og er það svar við grein sem Jón ritaði í blað sitt 12. ágúst þar sem hann segir að Guðmundur sé of hægur á sér að birta ástæðurnar fyrir þjófnaðium. Guðmundur tekur það fram eins og til að forða frekari misskilningi að þeir Útskálafeðgar, Helgi Sívertsen og faðir hans, sr. Sigurður, séu ekkert við málið riðnir, og sömuleiðis Keflvíkingar en það tekur hann reyndar fram áður.. .
Landakot
Guðmundur segir svo í grein sinni (12. júlí í 33. tbl.): „Síðasta og 3. ástæðan (þ.e. fyrir því að hann birtir ekki sannanir fyrr í málinu) er sú, að ég vissi til þess, að einn heiðvirðasti maðurinn þar í Rosmhvalaneshreppi, sá, sem mest hafði að segja yfir félagseigninni, lét í fyrra sumar semja kæru eður kvörtun til sýslumanns út af timbur- og koparmissinum, bjóst ég því við að réttarrannsókn yrði þá og þegar hafin, og að opinber málssókn mundi, þegar minnst varði, gjósa upp, en verkanirnar af áminnstri kæru hefi ég ekki orðið var við. Ég held helzt að hún hafi aldrei komizt til sýslumannsins“.
Og að endingu segir Guðmundur: „Aðaltilgangur minn var aldrei sá, að verða þess valdandi að nokkur maður þar syðra yrði sakfelldur, en ég þykist hafa unnið Rosmhvalahreppi gott verk og þarft, ef þeir menn, sem oftast hafa unnið sér óráðvendisorð við hvert strand, sem þar hefur komið fyrir, bæta nú svo ráð sitt, fyrir þá hreyfingu, sem komin er á málið út af grein minni, að þeir framvegis leitist við að sýna sig, sem heiðvirða og vandaða menn við slík tækifæri. Þá hefi ég náð tilgangi mínum, og þá vona ég að allir þar í hreppi, sem nokkurs meta gott mannorð, þakki mér fyrir þetta nauðsynlega og holla læknislyf, þó sumum þyki það súrt á bragðið“. Svo mörg voru orð Guðmundar í Landakoti.
Lýkur hér með að segja frá strandi þessu þó hins vegar viðbúið sé að hér hafi ekki öll kurl um þetta mál til grafar komið.“

Í Eyjafréttum 2017 tók Ómar Garðarsson viðtal við Theódór Ólafsson undir fyrirsögninni „Akkeriskeðjur úr bandarísku skipi sem rak á land enduðu sem legufæri í Eyjum„:

Jamestown

Jamestown – keðjuminningin í Vestmannaeyjum. Kári Bjarnarson og Theódór Ólafsson.

„Þann níunda september 1919 skrifar Þorvaldur Bjarnason, Höfnum á Reykjanesi bréf til hafnarnefndar Vestmannaeyja og segist hafa til sölu akkeri og keðjur sem séu mjög hentug sem öflug legufæri. „Keðjan er að stærð, hver hlekkur tólf þumlungar að lengd og sjö að breidd og lengd keðjunnar er ellefu liðir,“ segir í bréfinu þar sem kemur fram að akkerið sé um tvö tonn að þyngd. Verðið er 450 krónur á lið eða 5950 krónur þar sem keðjan var niðurkomin við Hafnir. Eftir bréfa- og skeytasendingar var niðurstaðan sú að keðjan var keypt til Eyja og var hún notuð sem legufæri í áratugi en akkerið var ekki keypt.
Þetta á sér merkilega forsögu því keðjan er úr bandarísku skipi sem rak mannlaust um Norður Atlantshaf og strandaði að lokum þann 26. júní 1881 á milli Hestakletts og Þórshafnar í Rosmhvalaneshreppi, síðar Miðneshreppi á Suðurnesjum. Það var, samkvæmt seinni tíma mælingum um fjögur þúsund tonn og að líkindum meðal stærstu skipa sem komið höfðu til Íslands á þeim tíma.

Áhugi Theódórs vaknar
Jamestown
Þessa sögu þekkja fáir betur en Theódór Ólafsson, vélstjóri og fyrrum útgerðarmaður á Sæbjörgu VE. Hefur Theódór aflað sér gagna um skipið, sögu þess og örlög. Líka hvað varð um akkeriskeðjurnar sem hafa enst ótrúlega vel. Skipið flutti verðmætan timburfarm frá Bandaríkjunum sem átti að fara til Liverpool á Englandi en lenti í aftakaveðri undan vesturströnd Írlands. Skemmdist mikið og var skipverjum bjargað um borð í annað skip og settir á land í Glasgow í Skotlandi. Jamestown rak stjórnlaust um Norður Atlantshafið í fjóra mánuði þangað til það strandaði við Ísland.
Ein ástæðan fyrir áhuga Theódórs á Jamestown er tenging hans við Stafnes og að hluti akkeriskeðjunnar hafnaði í Vestmannaeyjum.
„Teddi hefur ekki setið auðum höndum þótt hann sé hættur að vinna. Hann hefur lagst í ýmiss konar grúsk,“ segir Sigurgeir Jónsson um Theódór í viðtali sem hann tók við hann og birtist í Fréttum. Þá hafði hann barist við krabbamein í tvö ár. Lýsir hann því einnig hvernig kona hans, Margrét Sigurbjörnsdóttir sem er frá Stafnesi, stóð við hlið hans í veikindunum og greinilegt að hann kann að meta það. Tilheyrði fjaran þar sem Jamestown strandaði Stafnesbæjunum og er Margrét frá Vestur Stafnesi.

Jamestown var alvöru skip

Jamestown

Eyjahöfnin – Bólið 1930.

„Í þessum veikindum mínum átti ég oft erfitt með svefn og fór þá að láta hugann reika, ekki síst að hugsa um þau skipsströnd sem ég hef sjálfur lent í og kannski ekki síður öðrum skipsströndum. Fór síðan að lesa mér til um hin ýmsu strönd. Þar á meðal skipsströnd við Stafnesið, úti fyrir æskuheimili Margrétar. Þar strandaði t.d. Jón forseti, fyrsti togarinn í eigu Íslendinga og fórust fimmtán skipverjar en tíu tókst að bjarga. Sigurbjörn, faðir Margrétar, var einn af björgunarmönnum þar,“ segir Theódór.
En svo var það eitt skipsstrand sem vakti sérstaka athygli mína. Það var þegar ameríska skútan Jamestown strandaði ekki langt frá Stafnesi árið 1881. Þessar amerísku skútur voru flutningaskip, stærstu skútur í heimi og hétu allar eftir bandarískum borgum. Þessi skúta var, samkvæmt okkar mælingum í dag, um 2000 tonn, var hundrað metra löng og 16 metra breið. Í henni voru fjögur þilför og fjögur möstur, sem sagt alvöru skip.
Jamestown fór frá Bandaríkjunum á leið til Englands, fullhlaðið af smíðatimbri sem átti að fara í undirstöður fyrir járnbrautarteina.

Silfurgrjót

Silfurgrjót.

Áður hafði skipið verið ballestað með silfurgrýti. Þegar skipið átti eftir um 600 mílur í Írland lenti það í ofsaveðri og stýrisbúnaður þess brotnaði. Lítið gufuskip gerði tilraunir til að taka Jamestown í tog en þær tilraunir mistókust þar sem tógið slitnaði alltaf. Þá var ákveðið að áhöfnin yfirgæfi skipið. Þetta gerðist í mars 1881 og síðan rak skipið stjórnlaust norður eftir Atlantshafi, upp að Íslandsströndum, fyrir Reykjanes og strandaði.“
Meira að segja Eyjamenn nutu góðs af rekanum. Þannig lýsir Theódór þessari síðustu ferð þessa glæsilega skips, Jamestown sem strandaði á Hestakletti þann 17. júní 1881, mannlaust. Varð að vonum uppi fótur og fit á Stafnesbæjunum. Hafist var handa við að koma timbrinu í land og gekk það vel um sumarið eða þar til gerði stórviðri um haustið og skipið brotnaði. Mikið af timbri rak á land víðs vegar um land, m.a. í Vestmannaeyjum og Þorsteinn Jónsson í Laufási minnist í bók sinni á plankarekadaginn mikla. „Ég held að flest hús í Sandgerði á þessum tíma hafi verið byggð úr timbri úr Jamestown og mörg hús í öðrum byggðarlögum. Og þegar ráðist var í endurbætur á Menntaskólanum í Reykjavík, árið 1883, þá var notað timbur úr þessum farmi,“ segir Teddi.

Mikil vinna

Kaupstaðavegurinn

Kaupstaðavegurinn ofan Gamla-Kirkjuvogs.

Landeigendur vildu eigna sér strandið og stóðu forráðamenn hreppsins fyrir því en landsstjórnin var á öðru máli og yfirtók skipið og það sem í því var. „Hún útvegaði menn, vélstjóra, vélsmið og mann sem sá um peningamálin og þrír komu af svæðinu. Þeir leigðu litla skútu og vildu fá fleira fólk í nágrenninu til að koma að verkinu með sér. Það var ekki tilbúið fyrr en því var lofað vikulegri greiðslu í gulli í hverri viku. Þá slógu menn til, enda ekki algengt að fá greitt í peningum á þessu árum,“ segir Theódór.
Skútan er fyllt af viði og siglt til Reykjavíkur en verkinu er haldið áfram og því sem kom úr skipinu staflað í stæður uppi á landi. „Þannig gekk þetta en að lokum voru stæðurnar boðnar upp og gat hver sem er keypt. Það nýttu sér margir sem þarna bjuggu.“
Þarna er akkerið og keðjurnar komnar við sögu því eitt þeirra var fest í landi og keðjan strekt til að varna því að skipið losnaði af strandstað. Það hafði þó lítið að segja í stórviðrinu þegar það brotnaði um haustið.
Það er svo 38 árum síðar að maður sem var unglingur þegar Jamestown strandaði sagðist muna hvar keðjan lá og vildi ná henni upp. Hann hafði ekki leyfi en keypti keðjurnar í sjónum á tvær krónur af ríkisstjórninni. „Hann hét Sigurður og smíðaður var fleki sem notaður var við að ná keðjunum upp. Á hverri stórstraumsfjöru var farið niður að keðjunni og hún fest við flekann sem var svo dreginn á land á flóðinu. Þannig tóku þeir einn og einn lið í einu,“ segir Theódór.

Keðjurnar góðu

Jamestown

Jamestown – ankerið í Höfnum.

Það líða fjörtíu ár og aftur kemur Jamestown við sögu í Vestmannaeyjum og nú eru það akkeriskeðjan sem Vestmannaeyjahöfn keypti. Mikil vandræði voru með báta í höfninni og oft skaðar þegar aldan gekk óbrotin inn höfnina. Þorsteinn í Laufási var þá í hafnarstjórn og frétti að því að akkeriskeðjan úr Jamestown væri enn um borð í skipinu á strandstað. Hann fór til Sandgerðis og keypti keðjurnar en ekki akkerið sem heimamenn vildu einnig selja Eyjamönnum. Minna akkerið stendur nú við kirkjuna í Höfnum en stóra akkerið er í Sandgerði.
En aðalerindi Þorsteins var að festa kaup á akkeriskeðjunni úr Jamestown sem hann gerði. Dugði hún í þrjár lagnir og gátu 50 til 60 bátar legið við hana.

Hluti af sögunni
Keðjurnar luku sínu hlutverki og Theódór Ólafsson, vélstjóri og fyrrum útgerðarmaður lagðist í grúsk þegar hann kom í land.
Þegar dýpkun hófst í höfninni voru þær teknar upp. Ekki var hugað að því að hér væru merkar sögulegar minjar og lágu keðjurnar lengi vel uppi við Sorpu. Þær týndu tölunni þegar útgerðarmenn fóru að nota hlekkina til að þyngja flottroll. Eftir að Theódór fór að kanna sögu þeirra fann hann þrjá hlekki við FES-ið sem eru til skrauts í garði hans í Bessahrauninu.
„Þetta er stokkakeðja og hlekkirnir eru sjö kg að þyngd. Aftur á móti voru endahlekkirnir mun stærri og þyngri, eða um 50 kg. Hvað merkilegast finnst mér, hvað þeir eru enn heillegir og óskemmdir, eftir að hafa legið í 40 ár í sjó við Stafnesið og síðan í 50 ár í höfninni í Vestmannaeyjum. En ég vil endilega að þeir sem enn eru með þessa hlekki í fórum sínum sjái um að koma þeim á viðeigandi stað. Þeir eiga heima í Sandgerði, til minja um þetta strand og svo auðvitað líka á Byggðasafninu í Vestmannaeyjum, en ekki í ruslahaugum einhvers staðar,“ segir Teddi um þetta áhugamál sitt og greinilegt að hugur fylgir máli. Sérstaka athygli hans hefur vakið endingin á keðjunni og að þeir skuli enn vera heilir og engin tæring sjáanleg.

Mikill happafengur

Óttarsstaðir

Óttarsstaðir.

Skipið þótti mikill happafengur á Íslandi enda erfitt að verða sér úti um timbur hérlendis. Voru plankarnir notaðir í brúargerð og húsagerð og enn stendur að minnsta kosti eitt hús sem smíðað er úr viði úr Jamestown, húsið Efra Sandgerði, heimili Lionsklúbbsins í Sandgerði. Einnig var „gamla“ húsið að Krókskoti í Sandgerði byggt úr Jamestown timbri. Timbrið úr því húsi var síðan notað í „nýja“ húsið að Krókskoti og stendur það enn þá.
Árið 2002 fannst annað akkeri skipsins undan Höfnum, og hinn 24. júní 2008 var það híft upp af meðlimum umhverfisverndarsamtakanna Blái Herinn og því komið fyrir við húsið Efra Sandgerði. Áður hafði hitt akkerið fundist og er það fyrir utan kirkjuna í Höfnum. Þetta kemur fram í grein eftir Leó M. Jónsson sem birtist upphaflega í tímaritinu Skildi 2001. Segir að við nánari skoðun kom í ljós að skipið, sem mun hafa verið um 4000 tonn á núverandi mælikvarða og því engin smásmíði, – líklega með allra stærstu skipum sem til Íslands höfðu komið fram að því.

Með stærstu seglskipum

Jamestown

Jamestown.

Í annálum er Jamestown talið amerískt skip, sagt vera líklegast frá Boston. Af lýsingu á stærð þess að dæma hefur það verið með stærstu seglskipum á sinni tíð, um eða yfir 100 m á lengd og um 16 m á breidd, til samanburðar má hafa að venjulegur fótboltavöllur mun vera 90 til 100 m á lengd.
Jamestown var smíðað í Richmond og hleypt af stokkunum í nóvember 1879 og, að sögn Dan Conlin, er það horfið af skránni yfir amerísk og erlend skip upp úr 1880 og fyrir 1884. Hann segir að fjöldi smærri seglskipa hafi borið nafnið Jamestown eða James Town og verið á skrá um þetta leyti en hægt sé að útiloka þau öll þar sem ekkert þeirra hafi verið yfir 200 tonnum að stærð og öll styttri en 100 fet. Dan sagðist einnig hafa athugað skipaskrá Lloyds (Lloyd’s Register of Shipping) frá þessum tíma og ekki fundið þar neitt annað skip jafnstórt og Jamestown frá Richmond.

Glæsilegustu skipin á höfunum

Jamestown

Jamestown.

Stóru seglskipin sem voru í langferðum á milli heimsálfa á 19. öld og fram yfir 1900 voru tilkomumikil sjón á höfunum þar sem þau skriðu undir fullum seglum, iðulega framúr gufuskipum. Frægust langferðaskipanna voru bresku Cutty Sark og Thermopylae (sem fór á 28 dögum frá Newcastle á Englandi til Shanghai í Kína – met sem stóð lengi) en þau voru rétt innan við 1000 tonn að stærð (þess tíma mæling) og þau amerísku ,,Yankee clippers“ á borð við Young America og hið fræga breska Lightning (kennt við Macey) sem fór reglulega með póst á milli Bretlands og Ástralíu árum saman.“

Í Útvarpinu, Sumarmálum á Rás 1 árið 2020, er fjallað um „Mörg hús á Íslandi smíðuð úr mannlausu draugaskipi“ í viðtali við Tómas Knútsson:

Jamestown

Ólafur Ketilsson.

„Ferðin átti að vera sú síðasta sem skipstjórinn færi með skipinu og tók hann því dóttur sína með sér. Lokaferðin reyndist mikil sneypuför. „Þetta var svona Titanic-dæmi,“ segir Tómas Knútsson um Jamestown-strandið. Mannlaust skipið rak á land við Hafnir á Reykjanesskaga árið 1881.
Þann 26. júní árið 1881 varð sá óvenjulegi atburður í Höfnum á Reykjanesskaga stórt og voldugt seglskip rak þar á land í aftakaveðri. Jamestown hafði rekið um höfin í fjóra mánuði og var mannlaust. Það reyndist að miklu leyti gæfa fyrir Íslendinga að skipið skyldi reka á fjörur landsins því það var smekkfullt af brúklegum harðviði sem átti eftir að nýtast landsmönnum til bygginga næstu árin.

„Þetta er guðsgjöf, allt þetta timbur“

Jamestown

Jamestown – ankeri.

Jamestown var með stærri seglskipum sem smíðuð höfðu verið á þessum tíma. Það var drekkhlaðið af viði og var á leið til Englands til að setja viðinn undir járnbrautarteina. Skipið lagði af stað með farminn frá Ameríku og var búið að vera í vandræðum þegar það lendir í miklu óviðri á Norður-Atlantshafi með þeim afleiðingum að stýrið brotnar. „Þá kemur skip og bjargar áhöfninni en svo er meiningin að bjarga skipinu en þá finnur enginn skipið,“ segir Tómas Knútsson sem er í hópi áhugafólks um Jamestown-strandið. Þegar skipið loks fannst við Íslandsstrendur hafði það eigrað stefnu- og mannlaust um höfin mánuðum saman. „Svo gerir suðvestan hvell og skipið mölbrotnar og rekur á land svo það var hægt að bjarga öllu úr skipinu sem var nýtt til agna,“ segir Tómas. „Þetta var náttúrulega guðsgjöf, allt þetta timbur.“

Dóttir skipstjórans með í för
Skipið var mannlaust því áhöfninni var bjargað við illan leik. Ferðin átti að vera sú síðasta sem skipstjórinn færi með skipinu og tók hann dóttur sína með sér. Lokaferðin reyndist svo mun ævintýralegri en skipstjórinn hafði viljað. „Þetta var svona Titanic-dæmi. Þetta voru endalokin hjá þessu stóra mikla fyrirtæki sem skipstjórinn hafði unnið fyrir alla sína ævi og þá fer hann í svona sneypuför,“ segir Tómas.

Svíta skipstjórans varð predikunarstóll í Hvalneskirkju

Hvalsnes

Hvalsneskirkja.

Áhugahópurinn sem hefur einbeitt sér að örlögum skipsins síðustu ár hittist tvisvar, þrisvar á ári og hefur haldið tvær sýningar þar sem munir úr skipinu sem fundist hafa í hafinu eru til sýnis. „Við höfum látið Byggðasafnið hafa þetta allt saman eins og til dæmis seglvindu, svaka flott hjól og svo er akkerið.“

Hópurinn hefur staðið í ströngu við það síðustu ár að kortleggja þau hús á Íslandi sem byggð hafa verið úr timbri úr skipinu. „Gröndalshús í Reykjavík er eitt og brúargólfið í Elliðárbrúnni,“ segir Tómas. „Þetta fór um allt Suðurland og Suðurnes, það eru nokkur hús í Keflavík, nokkur í Sandgerði, eitt hús í Höfnum, einhver í Hafnarfirði, Vatnleysuströnd og það er eitthvað í Grindavík líka. Predikunarstóllinn í Hvalsneskirkju er úr mahóní sem kom úr svítu skipstjórans.“

Heimildir:
-Sjómannablaðið Víkingur, 3. tbl. 01.03.1973, Skipsstrand við Básenda árið 1881 – Skúli Magnússon, bls. 68-71.
-Eyjafréttir, 23. tbl. 08.06.2017, Akkeriskeðjur úr bandarísku skipi sem rak á land enduðu sem legufæri í Eyjum – viðtal við Theódór Ólafsson, bls. 22-23.
-https://www.ruv.is/frett/2020/08/09/morg-hus-a-islandi-smidud-ur-mannlausu-draugaskipi

Ásláksstaðir

Ásláksstaðir á Vatnsleysuströnd – eitt húsanna byggt úr timbri Jamestowns.

Strandarkirkja

Í Lesbók Mbl 20. febr. 1993 ritar Konráð Bjarnason grein,  „Sending af hafi jarðskjálftasumarið 1896„. Greinin fjallar m.a. um hús í Selvogi, sem voru byggð úr einstakri himnasendingu – strandreka. Konráð var áður búsettur í Hafnarfirði, ættfræðingur og fræðimaður, en hefur leitað heimaslóðanna á efri árum.

Arnarbæli

„Þann 13. nóv. sl. gaf að líta eftirfarandi fyrirsögn og frétt í MBl: „Prestsbústaðurinn á Arnarbæli í Ölfusi var brenndur til grunna fyrir skömmu. Það voru slökkviliðsmenn í Þorlákshöfn sem stóðu að brunanum og notuðu tækifærið til æfinga í slökkvistörfunum. Eldurinn sást víða að enda stóð húsið á hæð og var hið reisulegasta. Það var byggt upp úr aldamótunum síðustu og var tvílyft hús á háum grunni.“ Svo mörg voru þau orð. Ekki svo ókunnugleg þó í ljósi reynslunnar síðustu aldarmisserin.
Á náttúruhamfaraárinu 1896 riðu skelfingar yfir að kvöldi hins 26. ágúst með ógurlegum jarðskjálfta er lét eftir sig í fyrstu lotu mörg hundruð hruninna bæja, einkum í uppsveitum Rangár- og Árnesþings. ekki var þetta nóg því nýjar skelfingar dundu yfir Skeið, Holt og Flóa, en minni háttar í Ölfussveit.. Um kl 2 aðfaranótt sunnudagsins 6. september reið yfir Ölfussveit voðalegur kippur sem felldi til grunna 24 bæi og 20 stórskemmdust. Meðal þeirra bæja var prestsetursbærinn að Arnarbæli.“
NeshúsUm þetta leyti strandaði skip utan við Selvog. Nær hádegi hafði drifið að strandstað flestalla vinnufæra menn í byggðalaginu, en þeir voru allmargir um þessar mundir. Það bakti mikla forvitni Selvogsmanna á leið til strandsstaðar með hvaða hætti strand þetta hafði borið að í nær dauðum sjó og góðviðri… að þessu sinni var sýnt að ævintýri hafði gerst á strandstað. Skip hafði komið af hafi undir fullum seglum hlaðið unnum góðviði til húsagerðar fyrir hina fjölmörgu nærsveitunga er stóðu yfir föllnum bæjarhúsum sínum niður í grunn sinn. Skipverjar gengu nær þurrum fótum til lands eftir flúðum er komu upp á fjöru…
Þegar Gísli hreppstjóri hafði rætt við skipsstjóra farskipsins var Selvogsmönnum sagt eftirfarandi: Skipið hét „Andrés“ og var frá Mandal í Noregi, á leið til Reykjavíkur með timburfarm til húsagerðar þar. Var þetta stórfarmur af unnum við, einkum panelefni. Þegar skipið nálgaðist Ísland kom mikill leki að því sem jókst og varð óstöðvandi þrátt fyrir að handdælur væru nýttar til hins ýtrasta. Skipverjar voru komnir að niðurlotum þegar þeir voru á móts við Selvog og vonlaust að n´fyrir Reykjanes. Tók skipstjóri til þess örþrifaráðs að sigla skipi sínu á grunn með stefnumið á Strandarkirkju þar sem sjór sýndist kyrrastur. Háflæði var og kenndi skipið grunns á flúðunum vestanmegin Strandarsunds.“
HlíðarendiByrjað var á því að færa skipshöfnina til lands og hlúa að henni. Þá tóku við björgunaraðgerðir farmsins. „Farmur á þilfari var fyrst borinn upp fyrir fjörukamb vestan Vindásbæjarrústa. Þar voru einkum tré er voru borin á öxlum tveggja manna. Þá komu plankar sem tveir báru og smáplankar, gólfborð, skífuborð, listar og mikið magn af plægðum viði eða panel. Svo virðist sem mestum hluta farmsins hafi verið bjargað óskemmdum á fyrstu dögum eftir strandið vegna þess hversu ládautt var. Á sama tíma var einnig bjargað silgingarbúnaði, áhöldum, tækjum og kosti. Honum uppborna viðarfarmi var staflað í aðgreind búnt eftir tegundum og síðan breitt yfir hann. Nokkuð af viði laskaðist í strandinu og var því safnað í hrúgur og selt samkvæmt sölunúmeri eins og annar viður. Hið verst farna fékk söluheitið hrak.“

Hlíðarendi í Selvogi - sögufrægt mannvirki

Uppboðið á varningnum var haldið 5. nóvember 1896. „Þegar uppboðsþing var sett var ljóst að fjölmargir væntanlegir kaupendur voru mættir á uppboðsstað. Þeir hafa komið úr mörgum hreppum Árnessýslu og víðar að en flestir úr Ölfushreppi. Þeir hafa þegar kynnt sér það sem í boði var og við blasti á malarkambi. Þeri hafa komist að raun um að hér var í boði nýr girnilegur húsbyggingarviður unninn til uppbyggingar á hærri, rýmri og betri húsakosti, en dreifbýlisfólk hafði átt að venjast hingað til. Timbrið var auk þess líklegt til að standa af sér eyðingaröfl þau er nýgengin voru yfir. Þeir sem komnir voru á strandstað með það í huga að byggja hús, allt að tveggja hæða, hafa tekið með sér smið og vinnumenn. Og þeir væntu þess óefað að gera góð kaup á rekafjörunni… Þeir sem stórtækastir voru á uppboðinu, sem stóð í tvo daga, voru stórhúsbyggjendurnir Þorbjörn í Nesi í Selvogi, séra Ólafur í Arnarbæli, Jón hrepstjóri á Hlíðarenda og Jakob í Auðsholti…“ Þessi menn byggðu tvílyft hús úr nefndum húsagerðarviði. „Hús þessi vitnuðu um stórhug og metnað byggjenda sinna og gegndu menningarhlutverki hvert á sínum stað. Þau eru nú fallin, utan eitt, Hlíðarendahús.

Heimild:
-Konráð  Bjarnason – Sending af hafi jarðskjálftasumarið 1896 – Lesbók MBL 20. febr. 1993.

Selvogur - örnefna- og minjakort

Selvogur – örnefna- og minjakort – ÓSÁ.

Hópsnes

Gengið var austur Hópsnesið frá Nesi og yfir á Þórkötlustaðanes, að þurrkbyrgjunum í Strýthólahrauni vestan við Þórshamar. Í þessari ferð var m.a. ætlunin að rifja upp sjóskaðana, sem orðið hafa á Nesinu sem og fiskverkun fyrri alda, en í Strýthólahrauni má enn sjá minjar hennar.

Strýthólahraun

Strýthólahraun – fiskibyrgi.

En þar sem lágsjávað var og tært vatnið streymdi undan hrauninu í Hópið þar sem fyrrum var vatnslind ábúenda á Hópi og þvotturinn og ullin voru þvegin, var staldrað við og fyrirbærið skoðað nánar. Það heitir Vatnstanginn. Straumurinn var stríður og líklegt má telja að hann hafi áður verið ein helsta ástæða búsetu á Hópi. Hugmyndir manna hafa verið þær að þar hafi einn sona landnámsmannsins Molda-Gnúps Hrólfssonar sest að, eða jafnvel hann sjálfur, við komu sína í Víkina eftir að hafa áður dvalið austar með landinu.
Ofan við Hópið eru gamlar búsetuminjar. Sjá má jarðlægar tóftir og garða í túninu. Þar eru og sundvörður eða innsiglingavörður, vel við haldið. Sú neðri heitir Svíravarða og hin Stamphólsvarða, sem lengra var uppi í landi. Stamphólsgjá er skammt vestan við hana, en sú gjá gekk niður í gegnum Járngerðarstaðahverfið, en hefur nú að mestu verið fyllt upp, nema efsti hluti hennar. Nú er hins vegar búið að skipuleggja nýtt hverfi á gjáarsvæðinu og ekki er ólíklegt, ef byggt verður yfir gjána, að þar kunni eitthvað að gliðna síðar.

Strýthólhraun

Strýthólahraun – fiskibyrgi.

Síra Geir Backman lýsir þessum tveimur vörðum sem og Heiðarvörðunni á Hópsheiði er var mið í Járngerðarstaðasundið ásamt Sundvörðunni er komið var austan að. Sundvarðan var á sjávarkambinum austan við sundið. Allar þessar vörður eru til enn þann dag í dag, en Sundvarðan, sú sem hefur verið næst sjónum, hefur látið mest á sjá.
Hópsnes er nesið milli Hraunsvíkur og Járngerðarstaðavíkur við Grindavík. Að austanverðu heitir það Þorkötlustaðanes. Vitinn, Hópsnesviti, er fremst á Nesinu, en er á Þórkötlustaðanesi. Landamerkin eru u.þ.b. 60 metrum vestan við vitann, í landamerkjastein, sem þar er. Klappað er í hann stafirnir LM og eiga þeir að sýna landamerkin. Hópsnesviti var reistur 1928. Áður en haldið var inn eftir Hópsnesinu til að huga að og rifja upp skipsskaðana var komið við í sjóbúðinni skammt austan við Nes. Hún er á grónum hraunhól við Síkin. Utan við Síkin voru áður sjóbúðir frá Hópi, en þeir fóru forgörðum þegar varnargarðarnir voru reistir. Enn sést þó móta fyrir Hópsvörinni utan við þá, einkum á fjöru.

Þórkötlustaðanes

Þórkötlustaðanes – sundvörður.

Hér fyrr á öldum gátu sjómennirnir, sem fóru í róður að morgni, aldrei verið vissir um að komast heilir og höldnu að landi að kveldi. Enda eru mörg dæmi þessa. Sem betur fer eru einnig mörg dæmi og merkar sagnir um mannbjörg eftir ófarir manna á hafi úti. Veður gátu skipt um snögglega og þótt ekki hafi verið róið langt gat róðurinn að landi bæði tekið langan tíma og verið erfiður. Stundum urðu sjómenn að bregða á það ráð að leita annað en ætlunin var. Þannig gátu sjómenn frá Járngerðarstöðum oft treyst á var í Þórkötlustaðasbótinni þegar þannig skipaðist veður í lofti. Þann 24. mars 1916 fóru t.d. 24 árabátar í róður frá Grindavík að morgni. Óveður skall skyndilega á og komust bátsverjar fjögurra báta ekki að landi. Þeim var hins vegar öllum bjargað, 38 mönnum, af áhöfn kúttersins Esterar frá Reykjavík. Þegar komið var með skipverja að landi þremur dögum síðar urðu miklir fagnaðarfundir í plássinu. Sumir segja það hafi verið sá mesti gleðidagur, sem Grindvíkingar hafi upplifað.

Hóp

Hópsvör – uppdráttur ÓSÁ.

Um árið 1940 lenti Aldan frá Vestmannaeyjum upp á skerjum á Hellinum, en svo nefnist klettahlein, sem gengur fram úr kampinum, skammt austanvið Hópsvörina, og út í sjó. Mannbjörg varð, og báturinn náðist út aftur. Þótti öllum, sem fylgdust með siglingu bátsins, það með ólíkindum. Sigling inn í sundin var vandasöm, og fyrr á tímum fóru sjómenn eftir framangreindum sundvörðum og öðrum leiðarmerkjum á leið sinni inn á þau. En erfitt gat verið að stýra bátum inn þau því mikla þekkingu og reynslu þurfti til þess í vondum veðrum. Dæmi eru um að ekki hafi verið við neitt ráðið og að Ægir hafi annað hvort kastað bátunum upp á sker og strönd eða hreinlega fært þá á kaf. Þannig fylgdust t.d. íbúar Grindavíkur angistafullir og hjálparvana á sjötta áratugnum með því af ströndinni er lítill bátur með þremur mönnum innanborðs á leið inn í Hópið var skyndilega færður í kaf og sjómennirnir drukknuðu svo til fyrir framan nefið á þeim, án þess að það gæti fengið rönd við reist.

Þórkötlustaðanes

Lifrabræðslan á Þórkötlustaðanesi.

Rétt fyrir utan lendinguna á Járngerðarstöðum eru miklir þarar og grynningar, Rif kölluð. Á þeim hafa mörg skip af þeim beðið meira eða minna tjón og margur maður við þau látið lífið. Fyrrum var hættan mikil á leið inn Járngerðarstaðasundið er Svíravarða bar í Stamphólsvörðu. Þá voru þrengslin mest. Þá eru á stjórnborða Manntapaflúð, en Sundboði á bakborða. Aðstæðurnar urðu kannsi ekki síst til þess að álög Járngerðar á sundið, sem lýst er í þjóðsögunni, gengu eftir, en skv. henni áttu tuttugu bátar að farast þar eftir að hún hafði séð á eftir eiginmanni sínum og áhöfn hans í öldurótið.

Þórkötlustaðanes

Bryggjan í Þórkötlustaðanesi.

Austan við Helli eru tveir básar; Heimri-Bás og Syðri-Bás og þar fyrir utan Sölvaklappir, en þar mun hafa verið sölvataka frá Hópi. Fram af klöppunum er klettur, sem Bóla heitir, og upp af honum, uppi á kampinum, var varða, sem kölluð var Sigga og var mið af sjó. Grjótið úr henni var tekið í hafnargarðinn er hann var byggður. Sigga var síðar endurhlaðin af Lionsmönnum í Grindavík, en sjórinn hefur nú fært grjótið úr henni að mestu í lárétta stöðu á ný.

Þegar gengið er austur með Nesinu má sjá nokkur upplýsingaspjöld um strönd á síðustu öld.

Hópsnes

Skipsbrak í Hópsnesi.

Áður en komið er að fyrsta spjaldinu verður fyrir hluti braksins úr Hrafni Sveinbjarnarsyni, sem strandaði þarna utan við 1988. Sagt er að stýrimaðurinn hafi sofnað á leið til lands svo báturinn stýmdi beint upp á ströndina utan við Hellinn, austan við innsiglinguna. Mannbjörg varð, en þegar reyna átti að ná bátunum út gerði vonsku veður með þeim afleiðingum að bátinn tók í tvennt og Ægis spýtti leifunum síðan langt upp á land þar sem þær eru nú. Afl hamsjávarins sést vel á brakinu, þ.e. hvernig hann hefur hnoðað járnið og rifið það í sundur og fært hluta þess langt upp á land, upp fyrir háan malarkampinn.

Grindavík

Sjóslysaskilti í Þórkötlustaðnesi.

Fyrsta spjaldið um skipsskaðana er um Gjafar VE 300. Báturinn fórs þarna fyrir utan 27. febrúar árið 1973. Tólf manna áhöfnin var bjargað frá borði með aðstoð björgunarsveitarinnar Þorbjörns, en saga sveitarinnar gæti verið og verður umfjöllunarefni út af fyrir sig. Fáar sjóbjörgunarsveitir á landinu hafa bjargað jafn mörgum sjómannslífum og sveitin sú.

Næst er skilti um flutningaskipið Mariane Danielsen er fór þarna upp á ströndina í vonsku veðri eftir að hafa siglt út úr Grindavíkurhöfn þann 20. janúar 1989.

Þórkötlustaðanes

Þórkötlustaðanes – brak.

Átta mönnum úr áhöfninni var bjargað í land með aðstoð þyrlu, en yfirmennirnir neituðu að yfirgefa skipið. Þeir voru síðan dregnir í land með aðstoð björgunarstóls daginn eftir.
Vélbátuirnn Grindvíkingur GK 39 fórst þarna utan við 18. janúar 1952. Fimm menn fórust. Lík fjögurra fundust daginn eftir, en lík þess fimmta fanns þar skammt frá daginn eftir. Neðan við kampinn, þar sem báturinn fórst, er langur skerjatangi út í sjó, svonefnd Nestá. Hún fer á kaf í flóðum.
Eldhamar GK 13 lenti uppi í grynningunum þann 22. nóvember 1991. Sjórinn kastaði skipinu fram og til baka uns það steyptist með stefnið niður í djúpa gjá. Af sex skipverjum um borð komst einn lífs af. Þetta óhapp varð neðan við vitann á Nesinu.

Cap Fagnet

Cap Fagnet á starndsstað.

Varðandi strand franska togarans Cap Fagnet, þá strandaði hann 24. mars 1931 við Skarfatanga við Hraun. Allri áhöfninni var bjargað, 38 manns, með fluglínutækjum sem þá voru tiltölulega nýkominn hingað til lands fyrir tilstuðlan Slysavarnafélags Íslands. Var þetta í fyrsta skipti á Íslandi sem fluglínutækin voru notuð hér við land til björgunar. Þarna eru enn ketillinn úr skipinu ásamt tveimur akkerum. Skrúfan af skipinu fyrir utan björgunarsveitarhúsið í Grindavík, minnisvarði um þessa fræknu björgun.
Annar tilgangur göngunnar var að skoða þurrkbyrgin í Strýthólahrauni.
Neðan við Vitann heitir Látur. Þarna var selalátur. Fleiri selanöfn eru á þessum svæði, s.s. Hópslátur og Kotalátur
Suðaustur af vitanum er grasflöt niður við kampinn; Stóra-Látraflöt. Kampurinn hefur nú að mestu þakið hana grjóti. Austur af vitanum er grasi vaxinn hóll; Tófuflatarhóll. Þar var tófugreni. Annað greni má sjá í hrauninu ofan við vestari hlutann af Hrafni Sveinbjarnarsyni. FERLIR merkti það áður en áfram var haldið.

Hópsnes

Upplýsingaskilti í Hópsnesi.

Austan við Tófuflatarhól eru Strýthólar, þ.e. Vestri-Strýthóll, með tveimur þúfum, en Eystri-Strýthóll er skammt austar niður við Kampinn. Austar er Þórkötlustaðabótin. Í henni hafa nokkrir bátar strandað, t.d. frönsk skúta um miðja 19. öld. Áhöfnin gat gengið í land og heim að Einlandi þar sem hún knúði dyra eftir að skipstjórinn hafði fallið í hlandforina framan við bæinn. Flest skipanna, sem þarna hafa strandað, hafa orðið þar til í fjörunni, en sjórinn hefur tekið það til sín, sem skilið hafði verið eftir. Austast, utan við Klöpp, varð eitt af stærstu sjóslysunum. Það var nóttina áður en Aldan rak upp í Nesið að vestanverðu að annan vélbát rak frá Vestmannaeyjum, Þuríði formann, sem einnig varð fyrir vélarbilun í sama veðrinu og rak þarna upp. En þar tóku höfuðskepnurnar öðruvísi á hlutunum. Þegar fólk kom á fætur á Þórkötlustöðum, varð það vart við óeðlilega mikið brak í fjörunni, og þótti all væri mjög maskað niður. Sást þó, að þarna hafði Þuríður formaður rekið upp og hún farist með allri áhöfn.

Blásíðubás

Blásíðubás.

Hinn 8. desember 1923 gerðist það í austan veðri og snjókomu, að þýskur togari strandaði utan við Grindavík. Áhöfnin komst í björgunarbáta og bjargðist í Blásíðubás. Þórkötlustaðanesmenn töldu, að eftir strand þetta hafi komist festa á veiðarfæri þeirra, sem ekki hefði verið þar áður, á leirbotni skammt út af víkinni, og veiðarfærin oft ryðlituð, er þau komu upp.

Hópið

Hópið – Vatnstangi nær.

Strýthólahraun, stundum nefnt Strútuhóalhraun, er nefnt eftir Strýtuhól vestari og Strýtuhól eystri, sem sjá má þarna inn í hrauninu. Í hrauninu eru fjölmörg hlaðin fiskbyrgi og þurrkgarðar. Ná þau svo til frá veginum niður að Leiftrunarhól, sem stendur á sjávarkambinum. Þessi byrgi eru fáum kunn, enda falla þau mjög vel inn í hraunið. Þegar hins vegar er staðið við byrgin sjást þau hvert sem litið er. Þegar staðið var á einum hraunhólnum mátti t.d. telja a.m.k. 14 sýnileg byrgi í hrauninu. Ekki er gott að segja hversu mörg þau eru í heildina. Norðan vegarins eru hlaðnir þurrkgarðar. Á þessu svæði má auk þess sjá standa undir vindmyllur, heimtraðir, veglegar sundvörður o.fl. o. fl. Þá má sjá, ef grannt er skoðað, mjög gamlar minjar sunnan og vestan við Flæðitjörnina.

Grindavík

Grindavík – Hópsnes- og Þórkötlustaðanes.

Þórkötlustaðanesið er einstaklega áhugavert til útivistar og ekki síður út frá sögulegum forsendum. Þurrkbyrgin í Strýthólahrauni eru t.d. engu ómerkilegri en þurrkbyrgin á Selatöngum og e.t.v. ekki yngri en byrgin, sem þar eru. Bændur og sjómenn frá Hrauni réru frá Þórkötlustaðanesinu og eflaust eru byrgi þessi minjar eftir þá. Þau gætu þess vegna, sum a.m.k., verið allt frá þeim tíma er Skálholtsbiskupsstóll gerði út frá sjávarbæjunum við Grindavík, en svæðið var eitt mesta og besta matarforðabúr stólsins um alllangt skeið og ein helsta undirstaðan undir fiskútflutningi hans.

Grindavík

Grindavík – neðri Hópsvarðan.

Fleiri lýsingar af Þórkötlunesinu, t.a.m. svæðinu austan Strýthólahrauns, má sjá á vefsíðunni undir Fróðleikur (Þórkötlustaðanes) þar sem Pétur Guðjónsson, skipstjóri lýsir því, en hann ólst upp í Höfn, einu af þremur húsunum í Þórkötlustaðanesi. Þá er ferð um Nesið lýst í FERLIR-473.
Tvískipt heitið á Nesinu eru líkt og dæmi eru um ýmis fleiri en eitt örnefni á kortum Landmælinga yfir sama stað, kennileiti eða náttúrufyrirbæri. Þannig er Grímmannsfell vestast á Mosfellsheiði jafnframt nefnt Grímarsfell á korti Landmælinga. Nafnaskiptingin kom við sögu dómsmáls á meðal bænda í Mývatnssveit, Hverfell versus Hverfjall, árið 1999, en í honum kemur fram að annað dæmi megi nefna um Hópsnes við Grindavík sem einnig er nefnt Þórkötlustaðanes á korti Landmælinga.

Þórkötlustaðanes

Athafnasvæðið í Nesinu – uppdráttur ÓSÁ.

Reykjanesskaginn býður upp á meira en fagra náttúru og útiveru. Þess má vel geta hér að gangan frá Saltfisksetrinu austur að Herdísarvík skammt austan gömlu bryggjunnar á Þórkötlustaðanesi tekur u.þ.b. 30 mínútur. Farið er um stórbrotið hraunsvæði á vinstri hönd og minjar skipsskaðanna á þá hægri. Þessi leið er, ef vel er á haldið sögulega séð, ein sú magnaðasta á gjörvöllu Reykjanesinu. Og til að skynja áhrifamátt hafsins og smæð mannsins er nóg að stíga upp á kampinn og þenja skynfærin.
Menningararfurinn er afar áhugaverður. Uppruninn og ræturnar eru við fæturna, hvert sem farið er – ekki síst í og við Grindavík.

Heimild m.a.:
-Saga Grindavíkur – Jón Þ. Þór 1994.

Hópsnes

Upplýsingaskilti í Hópsnesi.

Jón Baldvinsson

Í Fálkanum 1955 er eftirfarandi frásögn af strandi togarand Jóns Baldvinssonar við Hrafnkelsstaðabergi á Reykjanesi:

Jon Bald

„Aðfaranótt fimmtudagsins 31. mars [1955] strandaði togarinn Jón Baldvinsson við Reykjanes og gjöreyðilagðist. Björgunarsveit slysavarnardeildarinnar „Þorbjörns“ í Grindavík bjargaði allri áhöfn skipsins, 42 mönnum. Með þessu er enn á ný höggvið skarð í hinn íslenska togaraflota á þessum vetri, þó að svo giftusamlega tækist til, að manntjón yrði ekkert við skipsskaða þennan. Togarinn var að koma af Selvogsbanka með talsvert af saltfiski innanborðs og ætlaði að fara vestur á Eldeyjarbanka eða vestur undir Jökul.

Nokkru fyrir klukkan fjögur um nóttina strandaði togarinn og sendi út neyðarskeyti. Var björgunarsveit Slysavarnadeildarinnar „Þorbjörns“ í Grindavík kvödd á vettvang, en á strandstaðinn er 10—15 kílómetra leið, sem víða er mjög seinfarin. Vitavörðurinn á Reykjanesi, Sigurjón Ólafsson, hafði séð neyðarblys frá skipinu, og varð hann fyrstur á strandstaðinn. Togarinn hafði siglt upp í brimgarðinn undir Hrafnkelsstaðabergi, rétt hjá litla vitanum á Reykjanesi, en skammt þar frá strandaði olíuskipið Clam, eins og mönnum er ennþá í fersku minni.
áhöfninNokkru fyrir klukkan 7 um morguninn var björgunarsveitin komin á strandstaðinn, og kl. 20 mín. fyrir 9 var búið að bjarga allri áhöfninni í land. Skipstjórinn, Þórður Hjörleifsson, fór síðastur frá borði. Björgunarstarfið gekk mjög greiðlega og áfallalaust, enda er sveitin skipuð vönum björgunarmönnum. Formaður hennar er Tómas Þorvaldsson, en Sigurður Þorleifsson er formaður Slysavarnadeildarinnar „Þorbjörns“.
Skipbrotsmenn nutu hinnar bestu aðhlynningar hjá vitavarðarhjónunum á Reykjanesi, og þegar til Grindavíkur kom, bauð kvenfélagið á staðnum öllum til hádegisverðar. Að því búnu héldu skipbrotsmennirnir til Reykjavíkur.
Þegar þetta er ritað, standa sjópróf enn yfir, svo að ekki er fullvíst um orsök slyssins.“

Heimild:
-Fálkinn, 28. árg.,14. tbl. (08.04.1955).

Jón Baldvinsson

Jón Baldvinsson – björgunarhringur.

Brúin

Í Brúnni árið 1930 er fjallað um „Skipströnd í Hafnahreppi árin 1800-1930„. Frásögnin er hluti greinar Ólafs Ketilssonar í Höfnum í Ægi sama ár. Þar eru tíunduð skipströndin á nefndu tímabili, en í Brúnni er einungis fjallað um þann hluta er lítur að strandi Jamestown:

Brúin„[Í síðustu tölublöð „Ægis“ (Ægir 01.11.1930 og 01.12.1930) skrifar Ólafur Ketilsson, hreppstjóri að Óslandi í Höfnum, langa og mjög fróðlega grein um skipströnd í Hafnahreppi á síðustu 130 árum. Er greinin bráðskemtilega skrifuð, svo sem Ólafs er von og vísa, því að hann segir manna best frá. Leyfir Brúin sjer að birta hjer kafla úr greininni. Er hann um 4. strandið, „Jamestown“ eða „stóra strandið“, sem Ólafur kallar].

Vorið 1881, á hvítasunnumorgun, rak á land norðanvert við Kirkjuvogssund, geysilega stórt skip, í hafrótar-vestanroki. Var sjáanlegt, meðan skipið var að veltast í brimgarðinurri, að það myndi mannlaust með öllu.
Ekki var hægt að komast út í skipið þrjá fyrstu dagana eftir að það strandaði, fyrir brimi. Þegar skipið strandaði, lá á „Þórshöfn“ skamt þar frá, er skipið strandaði, danskt kaupskip frá H. P. Duusverslun í Keflavík. Skipstjórinn hjet Petersen; sagði hann okkur strax sem skipið var strandað, að það væri ameríkst timburskip, fult stafna á milli af tómum plönkum, og 3500 tonn að stærð. Var svo að heyra sem skipstjóri væri nákunnugur skipinu, því hann sagði okkur líka nákvæmlega um allan útbúnað á því ofan dekks, sem allt stóð heima, er komið var um borð í skipið. Hefir skipstjóri sennilega verið búinn að hitta skipið í hafi, áður en að það strandaði hjer við land.

Jamestown

Skip líkt og Jamestown.

Á fjórða degi var sjór loks orðinn það dauður, að komist varð um borð, og er óhætt að fullyrða að mörgum manninum var orðið meir en mál að komast um borð í báknið! Og aldrei gleymi jeg þeirri stund, þegar jeg, 16 ára unglingur, stóð í fyrsta sinni inni á þilfari „Jamestown“, og horfði undrandi og hugfanginn á þetta 60 faðma skipsbákn! Set jeg hjer stutta lýsingu af „Jamestown“, hinu stærsta skipi, sem strandað hefir við Ísland, síðan landið byggðist.
„Jamestown“ var þrímastraður barkur, og eins og áður er sagt, nákvæmlega 60 faðmar á lengd, en um breidd þess man jeg ekki með vissu, en það var jafnbreitt og franska skútan var löng, sem um sumarið var höfð til að flytja planka úr því. Þrjú þilför voru í skipinu, og óskiftur geimur hver lest, og hver lest troðin eins og síld í tunnu, af tómum plönkum, og enn pá eftir 50 ár blasir við augum mínum hinn óskaplegi geimur, efsta lestin, pegar búið er loks að tæma hana, 60 faðma langa og hátt á þriðju mannhæð á dýpt, má af því nokkurn veginn gera sjer grein fyrjr, hver kynstur hafi rúmast í öllum þessum geim, af plönkum.

Óttarsstaðir

Óttarsstaðir eystri í Hraunum voru byggðir úr timbri Jamestown.

Tveir stórir salir voru á efsta þilfari; var annar salurinn miðskips, en hinn millum aftasta og mið siglutrjes, var aftari salurinn hið mesta skrauthýsi, eða rjettara sagt, hafði verið, því búið var að brjóta þar allt og bramla, sennilega bæði af manna- og náttúrunnar völdum, en fyrir aftan öftustu siglu, var hálfdekk, sem tæplega var manngengt undir, hefir að öllum líkindum verið forðabúr [skipsins, því þar var að finna ýmislegt matarkyns, svínsflesk, nautakjöt m.m., og hrannir af spítnabraki, póleruðu mahoní, bæði í útskornum rósum og þiljum, sem borist höfðu þangað úr salnum, og auk þess voru þar kynstrin öll bæði af skrám, lömum og skrúfum, sem allt var úr kopar. 6 herbergi höfðu verið sitt til hvorrar hliðar í salnum, sennilega allt svefnherbergi, en allt var það orðið brotið að mestu, en mátti þó sjá, að öll höfðu herbergin verið mjög skrautleg, því útskornar, póleraðar mahoní-rósir á millum bita og mahoníþiljur voru sumsstaðar óbrotnar, en flest voru þó skilrúm millum herbergjanna brotin að meiru eða minnu. Fremri salurinn var að öllu íburðarminni, en var þó að nokkru leyti skift í svefnherhergi, en ekki líkt því eins vönduð, og sjáanlegt var að borðsalur hafði verið í öðrum enda salsins, þó ekkert fyndist þar af borðbúnaði, eða neitt því, sem verðmæti væri í.

Jamestown

Hafnir og nágrenni – kort,

Af öllu því tröllasmíði, sem sjá mátti á skipi þessu, var þó þrent sem mesta undrun mína vakti, — fyrst miðsiglutrjeð, tveir feðmingar að gildleika, með 18 afar sverum járngjörðum, annað undirbugspjótið, sem kallað er, 36 þml. ákant, og það þriðja, stýrislykkjurnar (3) úr kopar, en hvað þær hver um sig voru þungar, get jeg ekki gert neina ágiskun um, en jeg vil þó geta þess, að einn sunnudag fórum við Eiríkur sál. bróðir minn, ásamt þriðja manni, til þess að reyna að ná efstu lykkjunni, því hún hjekk á einum nagla, og því að kalla mátti laus úr sæti sínu (stýrið var brotið af). — Bundum við afarsverum nýjum kaðli í lykkjugatið, en vorum þeir aular að hafa dálítinn slaka á kaðlinum, svo þegar við loksins vorum búnir að losa naglann, og vega hann úr sætinu (falsinu), þá purpaði hún kaðalinn eins og brent brjef hefði verið, um leið og hún hrökk niður, og munaði minnstu að hún mjelaði bátinn, sem við vorum í.
Sægur af fólki, hvaðanæfa af landinu, kom um sumarið til þess að að skoða þetta skipsbákn, og mátti stundum heyra óp og vein, og guð almáttugur! þegar verið var að drösla kvenfólkinu upp þennan 17 tröppu riðlandi stiga, sem náði upp að öldustokkskipsins.

Jamestown

Annað ankeri ásamt keðju við Kirkjuvogskirkju í Höfnum.

Eftir að „Jamestown“ strandaði og ráðstöfun hafði verið gerð til þess af landshöfðingja, Hilmar Finsen, að fara að bjarga til lands plönkunum, neituðu Suðurnesjabændur algerlega að hreyfa hönd að björgun, töldu það alveg óvinnandi verk, en vildu hins vegar fá skipið keypt með öllu, eins og það stóð. En er því var neitað, buðu sig fram til að bjarga úr skipinu þrír menn í Reykjavík, þeir kaupmennirnir Páll sál. Eggerz og Jón sál. Vídalín og Sigurður Jónsson járnsmiður, sem ennþá er á lífi, nú á níræðisaldri. Komu þeir hingað á strandstaðinn snemma í júnímánuði á franskri skútu (Loggortu); var skipstjóri Ólafur Benediktsson Waage. Fengu þeir fjelagar mikið af verkafólki hjer, því þeir buðu óvenjulega hátt kaup í duglega menn, 25 aura um tímann! 3 kr. um daginn fyrir 12 tíma þrælkun; þótti það óheyrilega hátt kaup, og alt borgað í skíru gulli og silfri, á hverju laugardagskveldi!

Hestaklettur

Hestaklettur – strandstaður Jamestown.

Keflavíkurkaupmennirnir voru ekki í þann tíð vanir að borga verkafólki í gulli og silfri vinnu sína, heldur í uppskrúfuðum vörum, þurrum og blautum! Var þessari nýjung um greiðslu verkkaups tekið með hinum mesta fögnuði af Suðurnesjabúum, og margur sá maðurinn, sem átti laglegan skilding um haustið í kistuhandraðanum, því í þá daga þektust ekki tálsnörur nútímans bíóin, kaffihúsin m. m., sem nú tæma vasa verkamannsins verkalaunum sínum!
Hvað margir „Loggortu“-farmar af plönkum voru fluttir til Reykjavíkur man jeg ekki með vissu, en jafnaðarlega var verið i tvo daga að ferma skútuna, og svo aðra tvo daga að flytja í land í stórum ílotum, því öllu var skipað í land upp á helming. Þegar kom fram í júlímánuð fóru bændur líka að bjarga upp á helming, voru þá oft fra 12 — 20 plankar á hvern mann, í helmingaskiftum, og stundum var það mikið meira, sem hver maður hafði í sinn hlut eftir daginn, þegar svo stóð á að sunnan stormur var, því þá var plönkunum dyngt í sjóinn og látnir reka til lands, frá 600 — 800 st. í einu! Í júlímánaðarlok var loksins efsta lestin tæmd af timbrinu.

Kaupstaðavegurinn

Kaupstaðavegurinn (vagnvegurinn) ofan Ósa. Hefur eflaust tengst strandinu mikla skammt vestar.

Í tvo mánuði voru fleiri tugir manna að tæma eina skipslest og þó þrásinnis fleygt i sjóinn mörg hundruð plönkum á dag! Það ætti að gefa nútíðarmanninum nokkurn veginn ljósa hugmynd um hver ógrynni af plönkum hafi verið í öllum (3) lestum skipsins.
Þegar efsta lestin var tæmd, var fyrsta uppboðið haldið, var sjávarströndin á fleiri hundruð faðma svæði þá ein óslitin plankahrúga. Voru í hverju númeri frá 10 — 20 plankar. Voru plankarnir 6—9 ál. langir, en 3 1/2 tom. þykkir, og af mismunandi breidd, 6—11 tom.
Kristján sál. Jónsson, hæstarjettardómari, var þá sýslumaður í Gullbringusýslu, og hjelt hann fyrsta uppboðið. Stóð uppboðið í tvo daga; var verð á plönkunum 25 — 50 au. og mundu það þykja góð timburkaup nú.

Jamestown

Jamestown – auglýsing.

Að plankauppboðinu loknu, var sjóboðið haldið. Keypti faðir minn möstrin og alla kaðla (vantinn) og víra m. m. á 24 kr., en í skipið sjálft með öllu timbri sem í því var í mið- og neðslu lest, var hæstbjóðandi H. P. Duus, kaupmaður í Keflavík, fyrir kr. 300,00, er hann bauð í það fyrir föður minn og aðra Suðurnesjabændur, en kom þar aldrei nálægt eftir uppboðið.
Strax eftir uppboðið var byrjað að skipa upp úr skipinu aftur og því haldið áfram stanslaust til 10. sept., en þá kom suðvestanrok með stórbrimi og klofnaði skipið þá í tvennt og rak hver spíta til lands. Var stórfengleg sjón að sjá allan þann flota, þegar hann kom að landi, mundi engum manni hafa dottið í hug, ef ekki hefði vitað, að öll sú plankabreiða væri úr einu skipi, og þó var búið að taka meiri partinn úr miðlestinni og alt úr efstu lestum er skipið brotnaði.
Jeg minnist pess, að þegar skipið var nýstrandað, kom til föður míns maður, sem hjet Sölvi Sölvason, og lengi var búinn að vera í siglingum. Sagði hann föður mínum, að hann þyrði að taka 18 sextíu lesta skonnortufarma úr skipinu, en faðir minn taldi það þá öfgar einar. En það hefði verið áhættulaust að tvöfalda þá tölu. Alt var skipið eirslegið í sjó og koparseymt og voru það laglegir koparboltar, sem gengu í gegnum botnrangirnar. Sendi faðir minn mörg þúsund kgr. til Englands af kopar. Það eina; sem tapaðist og aldrei sást, var afturstafn skipsins með stýrislykkjunum. Hefir það sennilega sokkið sökum þyngslanna af lykkjunum.
Hver kynstur að sumir af Suðurnesjabændum söfnuðu að sjer af plönkunum, má meðal annars marka af því, að faðir minn seldi í einu til Jóhanns nokkurs snikkara á Eyrarbakka 1200 st. og sá ekki á eftir, að á hefði verið tekið.

Silfurgrjót

Silfurgrjót.

Þegar leið á sumarið fór að kvisast að ballest skipsins væri afarmikils virði, jafnvel meira verðmæti en skipið sjálft með öllum farminum. Um nýjársleytið kom svo fyrirspurn til föður míns frá landshöfðingja um hvað orðið hefði af ballestinni og hvort ekki væri hægt ennþá að bjarga henni, því hún (ballestin) hefði verið auðæfi mikil, óhreinsað silfurgrjót frá Mexico. Hleypti pessi fregn heldur en ekki púðri í okkur strákana og var ekki dregið á langinn að fara og slæða botninn á strandstaðnum. En allir þessir silfurloftkastalar okkar hrundu og urðu að engu, þó við værum að slæða dag eftir dag, fengum við aldrei einn einasta mola og gátum aldrei sjeð einn einasta stein í botninum þó við sæjum vel í botn.

Jamestown

Þrímastra skip líkt og Jamestown.

Vorið eftir kom svo Sigurður Jónsson, járnsmiður, sem áður er nefndur, í sömu erindagerðum og var jeg oft með honum við að slæða, en það fór á sömu leið. Við höfðum erfiðið og ekkert annað. Sennilega hefir svo farið, að þegar skipið brotnaði, hefir botninn sogast fram í briminu og hvolft þar úr sjer á leirbotni áður en botninn rak til lands. Hinsvegar alveg óskiljanlegt, að í þau 50 ár, sem liðin eru síðan að skipið strandaði, skuli aldrei einn moli hafa borist til lands í öllum þeim hafrótum, sem komið hafa í þessi 50 ár. Það eina, sem mjer er kunnugt um að náðst hafi af ballestinni, er einn hnullungsmoli, sem Sigurður sál. Ólafsson, bóndi í Merkinesi, náði. Skreið hann eitthvað niður með afturstafni skipsins og fann þá þennan mola.
Var Sigurður mikill járnsmiður sem kunnugt er. Fór hann með molann í smiðju sína og bræddi úr silfrið, en hve mikið hann fjekk af silfri veit jeg ekki, því jeg sá það aldrei.
Jeg hefi orðið nokkuð langorður um þetta stóra strand, þó ótalmargt sje enn þá ósagt, en sökum þess að mjer er ekki kunnugt um að nokkur maður, alt til þessa, hafi skrifað einn sögulegan staf strandinu viðvíkjandi, þá hefi jeg ekki viljað láta undir höfuð leggjast að skrásetja það helsta um þetta mikla strand, svo að jafn-stórmerkur viðburður ekki týndist algerlega úr annálum Íslands.
Einkennileg tilviljun má það kallast, að tvö alstærstu timburströndin, sem borið hefir að ströndum þessa lands skuli hafa lent í Hafnahreppi“.

Heimildir:
-Brúin, 97. tbl. 31.12.1930, Skipströnd í Hafnahreppi árin 1800-1930, bls. 1-4.
-Ægir, 11. tbl. 01.11.1930, Skipströnd í Hafnahreppi árin 1800-1930, Ólafur Ketilsson, bls. 137-240.
-Ægir, 12. tbl. 01.12.1930, Skipströnd í Hafnahreppi árin 1800-1930, Ólafur Ketilsson, bls. 273-277.

Hafnir

Hafnir um og eftir 1900.