Tag Archive for: Straumssel

Straumssel

Gengið var frá Straumi áleiðis upp í Straumssel eftir Straumsgötu. Straumstíg var síðan fylgt upp hraunið til suðurs vestan við hlaðinn túngarð Þorbjarnastaða.

Fornasels-, Gjáselsstígur.

Fornasels-, Gjáselsstígur og Straumsselsstígur eystri.

Í lýsingum er talað um tvær götur upp í Straumssel. Straumsgatan liggur frá Straumi að vestanverðu til suðurs, skammt austan við Straumsréttina. Frá götunni liggur stígur, hér nefndur Straumsstígur, yfir Alfaraleiðina austan Draugadala, upp í gegnum Seljahraunið og áfram upp í gegnum Mjósundið. Gatan fylgir vestanverðu Gráhelluhrauninu og Draughólshrauni, upp með vestanverðum Straumsselshöfða og upp í Straumssel að vestanverðu. Auðvelt er að rekja þessa götu upp frá Straumi þar sem hún liggur til suðurs austan Straumsréttar og undir Reykjanesbrautina og áfram til suðvesturs. Ofan við Mjósundið hverfur stígurinn á kafla undir kjarr, sem hefur gróið þar vel upp, en kemur fljótlega aftur í ljós skammt sunnar.

Straumsselsstígsins er getið í örnefnalýsingu. Hann liggur til suðurs vestan Sölvhóls og áfram fast við vestanverðan túngarð Þorbjarnastaða. Grunsemdir eru um að þessi stígur, sem síðan liggur beint út frá Þorbjarnastaðartúninu til suðurs og áfram upp í Gjársel og Fornasel, sem voru sel frá Þorbjarnastöðum og hugsanlega Lambhaga, hafi fyrrum verið forn gata þaðan, enda greinilega mikið genginn, bæði af mönnum og skepnum. Þessi sel lögðust af fyrr en Straumsselið. Túngarðurinn var hlaðinn um og eftir 1900 og þá hafði selsbúskapur í Hraunum lagst af.

Straumssel

Straumsselsvarða.

Þess vegna er ekki hlið á garðinum þar sem selsstígurinn mætir túninu. Eystri selstígurinn er merktur að hluta.
Þessi selsstígur liggur til suðsuðausturs vestan við Stekkinn sunnan Þorbjarnastaða, yfir Mið-Seljahraunið (þau eru fjögur á þessu svæði), framhjá Miðmundarhæð (á hægri hönd), um “grennsta” haftið á Seljahrauni og áfram til suðausturs austan Grenigjáa, upp með Eystri Tobbuklettum, um Flárnar, meðfram austanverðu Draughólshrauni og upp meðfram Jónshöfða. Stígurinn hlykkjast um hraunið og er ýmist í landi Þorbjarnastaða eða Straums. Nokkuð neðan við Laufhöfða eru gatnamót. Þar beygir Straumsselsstígur til suðurs þar sem hann liggur um Katlana. Skammt þar austan við er Kápuhellir, í landi Þorbjarnarstaða. Norðan undir Straumsselshöfða beygir stígurinn til vesturs og kemur vestan og sunnan hans upp í selið. Reyndar skiptist gatan undir norðurhorni höfðans, en þaðan liggur gata áleiðis að Straumsselshæð og inn í selið að norðaustanverðu.

Straumsselsstígur

Straumsselsstígur.

Á leiðinni sást vel yfir að Tobbuklettum og vörðu við Grenigjár, en í þeim er nokkuð stór rétt innan hraunhólaþyrpingar. Selsstígurinn er vel markaður í klöppina á kafla, einkum neðst í Flánum. Einnig er hægt að komast inn á hann eftir stíg af Gerðarstíg, sem er austastur þessara stíga. Hann liggur til suðurs austast í Seljahraununum.
Fyrir ofan Straumssel er Straumsselshæð og á henni Straumsselshæðarvarða. Ofar og sunnar eru Stórhæðir. Efst austan til er Fremstihöfði en í suðvestur sér í hæstu hæð Gömluþúfu. Í því er Gömluþúfugrenið.
Sunnarlega í Straumselshöfða er Höfðavatnsstæðið, uppi á hól. Þar á sumrum var drykkur fyrir tvo smala og hunda þeirra.

Straumsselsstígur vestari

Skotbyrgi við vestari Straumsselsstíg.

Straumsselið er eitt hið merkilegasta á Reykjanesskaganum. Seltætturnar eru í Straumselstúni. Þarna stóð bær fram á síðustu öld, sem Guðmundur Tjörvi lét reisa. Bærinn brann síðan. Áður var faðir hans, Guðmundur (sonur Krýsuvíkur-Gvendar) um tíma skógarvörður í Almenningum og hélt þá til í selinu.
Seltúnsgarðar liggja um nokkurn hluta túnsins. Fjárhús eru hér innangarðs sem og Selsgarðurinn, matjurtargarður. Vatnsstæði er í skúta norðan við þær, Selsbrunnurinn. Hlaðin hestarétt er vestan við Selstúnið.
Í Straumsseli var búið stundum á 19. öldi. Síðast á árunum 1890-1895. Bæjarhúsin eyddust af bruna og hefur ekki verið búið þar síðan. “Í suðri sést í Hafurbjarnaholt, kennt við Björn Gnúps-Bárðarson, Hafur-Björn, sem samninginn gerði við bergbúann forðum. Gerðu þeir helmingaskipti í fjáreign. Segir sagan að þá hafi komið hafur og hrútur í féð og var þá sem tvö höfuð væru á hverri skepnu. Gerðist Björn þá fjárríkasti bóndi á Suðurnesjum”.

Straumsselsstígur

Straumselsstígur vestari.

Seltúngarðar liggja um nokkurn hluta túnsins. Fjárhús eru innangarðs. Selsgarðurinn um seltóftirnar var matjurtargarður.
Ofan og austan við Straunmsselið er Straumsselshæð. Sunnan í henni er Straumsselshæðarskjólið.
Straumsstígurinn kemur í selið ofan við hestaréttina. Líklega hefur hún verið notuð af hestafólki, t.d. þeim sem þurftu að hitta Guðmund skógarvörð í Straumsseli á meðan hrístakan stóð yfir. Einnig hefur heimilisfólk í selinu notað hesta t.a.m. til vöruflutninga.
Hin gatan, Straumsselsstígur, sem nú er stikuð, hefur frekar verið farin af gangandi fólki, ef þetta er yfirhöfuð mannagata því ekki er ólíklegt að ætla að hún hafi sennilegast verið notuð sem búsmalagata. Ekki er t.d. að sjá gamlar vörður við hana eða „hnoðaða“ steina í götunni, eins og eftir skeifur, sem jafnan sjást í selgötunum vörðulausu.

Förnugötur

Straumsselsstígur/Fornugötur.

Björn Bjarnason frá Grafarholti fjallar um gamlar götur í Árbók fornl.fél. 1914. “Um notkun fornveganna má fræðast af rúnum þeim, sem hestafæturnir hafa rist á jörðina, þar sem tönn tímans eigi hefir til fulls afmáð þær eða útskafið, og sumstaðar hjálpa örnefnin til að skilja. Greinilegastar eru rúnir þessar sem spor í klappir, gatnafjöldi í grónu valllendi, sem ekki hefir legið undir árensli, og troðningar í móum. Þó þeir sé grónir aftur sjást göturnar af því, að þar eru geilarnar dýpri og beinni í sömu stefnu, en annarsstaðar. Í melum og lausagrjótsholtum má einnig finna fornvegina, stundum sem laut eða skoru, en þó einkum með því að athuga grjótið. Í götunni er það troðið, máðar af því nybbur líkt og brimsorfnu grjóti. Af því stafa litaskifti, sem sjást á því, þar sem umferð hefir verið, þó hún sé hætt fyrir löngu.“

Suður frá garði frá selinu liggur Straumshellnastígur, suður að Straumshellum nyrðri, miðja vegu milli Gömluþúfu og Straumssels. Þaðan liggur stígur í Straumshellana syðri. Hér voru allgóð fjárskjól og hafði Tjörvi þarna fé. Við syðri hellana er Gerðið, sem notað var til samrekstar.

Straumssel

Straumssel – selið.

Norðan við neðri hellana er gott varðað vatnsstæði í hraunkvos. Í neðri hellunum er rúmgóður fjárhellir utan í holti og snýr opið til vesturs. Hlaðið er framan við munnann. [Skammt sunnan við opið mótar vel fyrir miklum hleðslum við op. Hleðslurnar eru fallnar og hafði lokast fyrir opið, en hefur nú verið opnað á ný. Þarna mun vera op á öðrum fjárhelli, sem langur gangur átti að hafa verið inn í].

Neðri-straumsselshellar

Neðri-Straumselshellar.

Í efri hellunum er rúmgóður fjárhellir og vel manngengur. Hlaðið er fyrir munnann, en hellisopið er innan við fallega hlaðið gerði í hraunbala. Ofan við gerðið að norðanverðu er hlaðið byrgi eftir refaskyttu, sem Jónas Bjarnason og félagar hlóðu eftir miðja 20. öld, væntanlega úr grjóti réttarinnar.
Vestari selsstígnum var fylgt úr hlaði. Hann liggur til suðurs út frá bænum og beygir síðan til vesturs og loks til norðurs. Stígurinn til vesturs yfir að Óttarsstaðarseli þverar hann vestan við selið. Stígurinnn er vel markaður í landið og er augljós uns hann mætir eystri stígnum norðan við selið.
Straumsselsstígnum var fylgt til norðurs vestan Straumsselshöfða og yfir á Straumsselsstíginn, sem síðan var rakin niður að Þorbjarnastöðum.

Verklag í seli.

Straumssel

Vatnsból skammt sunn-an Straumssels.

Efitt er að finna ritaðar lýsingar á verklagi því er viðhaft var í seljum á Reykjanesi. Tiltækar lýsingar eru þó í flestu samhljóða. Þótt víst megi telja að verklagið hafi tekið einhverjum breytingum í gegnum aldirnar má því eins víst vera að það hafi þó lítið breyst í grundvallaratriðum. Til að gefa einhverja innsýn í verklagið er vitnað hér í grein Ólafs Þ. Kristjánssonar, fyrrverandi skólastjóra Flensborgarskóla og kennara höfundar, sem hann ritaði árið 1978 í Ársrit Sögufélags Ísfirðinga um selsbúskap í Holtaseli í Önundarfirði, og í handriti Sigurlínu Sigtryggsdóttur, Æsustöðum í Eyjafirði, er nefnist “Upp til selja”.

Straumssel

Straumssel – brunnur.

Ólafur virðist hafa leitað eftir og safnað fróðleik um verklag í seljum, “en það er með Holtasel eins og fleiri sel á landinu að næsta lítið er vitað um hvernig vinnubrögðum þar var háttað og yfirleitt hvernig selið var hagnýtt”. Hann skrifaði þó eftirfarandi eftir Ágústi Guðmundssyni, bónda á Sæbóli á Ingjaldssandi, það sem hann hafði eftir móður sinni, Guðrúnu Sakaríasdóttur (hún var í Holti um 1870) um Holtasel: “2-3 stúlkur voru í selinu að jafnaði. Kýrnar voru mjólkaðar fyrst, og var það oftast búið þegar féð kom. Ein stúlkan fór að öllum jafnaði þegar búið var að mjólka kýrnar og ærnar fyrri mjölt til þess að setja mjólkina, en hinar mjólkuðu eftirmjölt. Smérið var flutt heim í krókum, en skyrið einu sinni í viku í strokkum. Drukkurinn var fluttur heim í tvíbytnum að vetrinum, dreginn á sleða”.
Þorkell Guðmundsson, heimildamaður Ólafs lýsir selsbúskapnum svo: “Eftir fráfærur voru ærnar reknar fram í Holtasel. Yfirleitt var ekki setið hjá ánum nema kannski einn dag, heldur var þeim smalað allan fráfærutímann.

Straumssel

Straumssel – selstaðan.

Eftir mjaltir kvölds og morgna voru þær reknar fram á Heiðará á Mjóadal. Ekki er bema 7-8 mínútna gangur frá selinu fram að Heiðará eða tæplega það….”. Smalinn var vakinn kl. 3-4 á nóttunni til smalamennskunnar og einnig var farið að smala um svipað leyti, kl. 3-4, að degi til. Smalinn hélt alltaf til í selinu.
Venjulega voru 3 stúlkur í selinu, selráðskonan og 2 mjaltakonur. Selráðskonan annaðist matseld og mjólkina, renndi trogum og sá um smjörgerðina, en undanrennan var daglega flutt heim að Holti í tveimur 80 marka (40 lítra) kútum og þar var skyrið búið til. Dallur með dagssmjörinu var reiddur ofan á milli á hestunum.

Straumssel

Straumssel – garður.

Selkonurnar fóru oft heim að Holti á daginn til þess að þurrka og raka þegar svo stóð á, en voru alltaf í selinu yfir nóttina.
Í sláttarlok flutti svo fólkið úr selinu heim að Holti og tók ærnar með sér. Eftir þann tíma munu þær ekki hafa verið mjólkaðar nema einu sinni á dag. Kýr voru aldrei hafðar í selinu á æskuárum Þorkels”.
Sigurlína lýsir Hvassafellsseli og segir “mislangt í hinum ýmsu byggðarlögum síðan búsmali í seljum lagðist af. Hann hafi varað einna lengst í Eyjafirði.
Fyrsta verk í selinu var að sópa og hreinsa hátt og lágt og þvo og sjóða öll ílát. Hvassafellssel var hlaðið að mestu úr grjóti. Var það baðstofa, búr og eldhús, mjólkurbúr og skyrbúr… Voru um 120-140 ær í kvíum. Í selinu voru líka 4-5 kýr. Lágu þær úti, en voru mjólkaðar á kvíabóli. Tvær stúlkur mjólkuðu kvíærnar og kýrnar og gerðu skyr og smjör úr mjólkinni. Var flutt heim úr selinu þrisvar í viku á þremur hestum í hvert sinn. Sóttu vinnumennirnir í Hvassafelli fram í selið og komu með þurrt sauðatað á hestunum til eldiviðar.

Straumssel

Efri-Straumsselshellar.

Venjulega stóð seltíminn yfir í mánuð til fimm vikur. Var oft glatt á hjalla í seljunum, þó mikið væri að gera. Var oft um helgar, þegar gestkvæmt var, slegið í leiki úti á sléttum velli og jafnvel glímt af konum sem körlum, því að á þeim tímum voru sumar stúlkur svo leiknar í glímum, að piltarnir máttu vara sig. Þegar komið var heim með mjólkurföngin úr selinu, var skyrið látið í stór keröld eða sái, en smjörinu drepið í hálftunnur og hvort tveggja geymt til vetrar, það sem gekk af daglegri notkun.
Mjög þótti það áríðandi að hafa trúa og ötula selsmala. Ærnar máttu helst ekki missa máls, en svo var það kallað, er vantaði af ánum til að mjalta. En nú eru kvíarnar og selin hrunin og fólkið horfið þaðan. Flest ungt fólk elst nú upp við léttari og betri lífsskilyrði, sem betur fer, en áður þekktist”.

Seljabúskapur.

Straumssel

Í Straumsseli – varða.

Um selsbúskap (úr bókinni Íslenskir þjóðhættir eftir séra Jónas Jónasson):
“Alsiða var það fyrrum, einkum þar sem þröngt var um haga heim um sig, og þurfti ekki til, að hafa búsmala í seli á sumrum frá fráfærum og til tvímánaða eða til þess er nálega 16 vikur voru af sumri. Selin voru byggð til dala eða svo langt frá bæjum, að náðist til betri og kjarnmeiri haga en heima fyrir var að fá. Þangað var farið með allan ásauð og stundum flestar kýrnar. Í selinu var jafnan einn kvenmaður, selmatseljan (selráðskona), og ef fé var mjög margt, hafði hún með sér eina eða tvær unglingsstúlkur. Svo var smali, sem fylgdi fénu úr kvíunum og var yfir því nótt og dag. Ekki var mulið undir smalann í seljunum stundum. Var ekki dæmalaust, að honum væri ætlað að skala strokkinn, á meðan mjaltarkonur mjöltuðu ærnar. Þótti þá vel úr rætast, ef nokkurn veginn félli saman, að strokkurinn væri skilinn og lokið væri mjöltunum. Af því er talshátturinn; “Það stenst á endum strokkur og mjaltir”.

Straumssel

Straumssel – tilgáta.

Sagt var og, að ráðskonur hefðu haft það til, að binda strokkinn upp á bakið á smalanum við smalamennsku og láta hann hlaupa með hann, og hafi skilist þannig smjörið. En ósennilegt er, að þetta hafi verið gert, síst almennt.
Selin voru venjulega þrjú hús; mjólkurhús og selbaðstofa og eldhús til hliðar eða frálaust. Oft voru og selið í beitarhúsum, ef þau voru langt frá bænum. Kvíar voru og til að mjalta í ærnar og kofi handa kúm, ef þær voru hafðar í selinu. Selmatseljan hafði nóg að starfa; að mjalta ærnar, setja mjólkina og hirða hana, búa í stokkinn og strokka hann, búa út smjörið, flóa mjólkina og gera úr henni skyr. Mjólkin var hleypt í skyr í kössum með loki. Voru þeir háir og mjóir, líkir venjulegu kofforti, og mátuleg klyf, er þeir voru fullir; þeir voru kallaðir selskrínur. Bóndinn heima eða einhver annar á bænum hafði það starf á hendi, að flytja heim úr selinu annan eða þriðja hvern dag, eftir því sem á stóð. Var skyrinu steypt í keröld heima og safnað til vetrar (söfnuðurinn).

Straumssel

Straumssel – Neðri-Straumsselshellar.

Smalamaður fylgdi ánum nótt og dag, eða þá að hann fylgdi þeim á daginn, en lét þær leika lausar á nóttunni. Stundum eða sumsstaðar var þeim og sleppt í bæði mál og þá smalað kvöld og morgna. Mikið var undir því komið, að smalinn væri góður. Alltaf átti smalinn að vera kominn með ærnar í sama mund í kvíabólið kvöld og morgna, og vandist hann furðanlega á það, þó að ekki hefði hann úr í vasanum. Oftast voru unglingar hafðir við smalamennsku, og var þeim oft ætlað miklu meora en þeim var treystamdi til, því að þeim er var ekki hlíft, þó að þeir væru bæði ungir og pasturlitlir. Illt áttu þeir oft í meira lagi, er þeir áttu að fylgja fénu nótt og dag og tíð var stirð, rigningar og slagviðri. Þá byggðu þeir sér hús; byrgi eða smalabyrgi, á þeim stöðum, er fénu var mest haldið til haga, og voru þeir þar inni, þegar illt var eða þeir máttu sofna. Ærið voru þessi byrgi smá og lítilfjörleg, en þó skárri en úti.

Straumssel

Smalaskjól við Efri-Straumsselhella.

Þegar komið var fram yfir fardaga, var farið að stía. Til þess var notaður stekkur, einhverskonar rétt, hæfilega stór fyrir ærnar. Í stekknum var kró, lambakró. Lömbin voru tínd úr stekknum og látin inn í króna. Það var gert seint á kvöldin, svo sem stundu fyrir lágnætti, og látið sitja svo um nóttina, þangað til um miðjan morgun daginn eftir. Þá var aftur farið í stekkinn og lömbunum hleypt saman við ærnar.
Eftir Jónsmessuna komu svo fráfærurnar. Þá voru ærnar reknar heim af stekknum og ekki hleypt til lambanna framar, heldur voru þær mjólkaðar fyrst í kvíunum og reknar síðan í haga og setið þar yfir þeim.
Heldur hefir vistin verið einmannaleg fyrir selmatseljuna, þótt mikið hefði hún að gera, enda komst hjátrúin þar að, sem eðlilegt var á þeim tímum. Mörg selmatseljan komst í tæri við huldumenn og urðu þungaðar við þeim; ólu þær svo börnin í seljunum, og veitti maðurinn þeim þar alla aðstoð, svo að einskis varð vart; tók hann svo barnið með sér og ól það upp í álfheimum.

Straumssel

Straumssel – Efri-Straumsselhellar.

En hann gat ekki gleymt ástmeynni úr selinu, og kom oftast einhvern tíma löngu síðar, þegar sonur þeirra var orðinn fullorðinn og selmatseljan gift kona fyrir löngu, og birtist henni til þess að endurnýja fornar ástir. En þeir samfundir verða báðum jafnan að bana. Eru margar þær harmasögur til. Stundum ólu þær börn í seljunum og báru út, og er því víða óhreint hjá gömlum seljum. Aftur er þess sjaldan getið, að útilegumenn hafi komist í tæri við selráðskonur.

Straumssel

Í helli vipð Efri-Straumsselhella.

Svo er að sjá, að selfarir hafi mjög verið farnar að leggjast niður, þegar kom fram á 18. öldina og eymd og ódugnaður landsmanna var kominn á hæsta stig. Gaf þá konungur út lagaboð 24. febr. 1754 að skipa öllum bændum að hafa í seli, að minnsta kosti átta vikna tíma, frá því er átta vikur væru af sumri til tvímánaðar. Lítið mun það lagaboð hafa á unnið, enda var þá landið í kaldakoli af harðindum, fé fallið og fólk að deyja úr harðrétti; og svo kom fjárkláðinn mikli rétt á eftir. Þó var mjög víða haft í seli langt fram á 19. öld, þar sem lítið var um sumarhaga heima, þangað til fólkseklan neyddi menn til að hætta við selfarir og jafnvel fráfærur á síðustu áratugunum.

Straumsselsstígur vestari

Vestari Straumsselsstígur.

Selfara er víða getið, bæði í fornsögum vorum og lögum; má af því ráða, að sá siður hefir flust hingað frá Noregi og orðið hér að fastri venju. Selvenjur hafa þá verið hina sömu og á síðari tímum, nema skyr stundum verið flutt heim í húðum, skyrkyllum eða kollum í krókum, sbr. Njálu.
Ísland hefir alla tíð verið gott sauðland, enda er þess víða getið í fornritum og sögnum, að menn hafi verið fjármargir mjög, enda gekk þá fé sjálfala í skógum, meðan þeir voru óhöggnir á landi hér. En auðvitað var hvorki hús né hey handa þessum fjárfjölda, enda hrundi það niður, þegar harðindin dundu yfir. Fram á 19. öld var það víða enn siður á Suðurlandi, að ekki voru hús yfir sauði, önnur en jötulausar fjárborgir”.

Fornaselsstígur

Fornaselsstígur.

Einkenni seljannna á Reykjanesskaganum.

Sel á Reykjanesi eru í sumu frábrugðin seljum annars staðar á landinu. Víða utan þess voru þau oft höfð upp til dala eða upp undir hlíðum fjarri bæjum. Flest seljanna á Reykjanesi eru u.þ.b. í einnar til tveggja klukkustunda göngufjarlægð frá bænum, sem þau voru frá. Það var talið til kosta að hafa fjarlægðina ekki of mikla eins og t.d. í Grindavíkurselin á Selsvöllum. Yfirleitt voru selin í útjaðri jarðanna eða í óskiptu landi þar sem annað hvort var sæmilegt vatnsstæði eða brunnur. Flest seljanna eru norðvestan til undir hæð eða brekku í skjóli fyrir ríkjandi rigningarátt, þ.e. suðaustanáttinni. Má í því sambandi nefna Oddafellselin, Hvassahraunsselið, Flekkuvíkurselið, Fornasel (Litlasel), Nýjasel, Brunnastaðasel, Gjásel og Arahnúkasel. Yfirleitt hafa selstóftirnar sömu einkenni og önnur sel á landinu, þ.e. samliggjandi baðstofu og búr, en eldhúsið sér.

Straumssel

Straumssel – gerði.

Í mörgum seljanna má sjá misgamlar tóftir, s.s. á Selsvöllum og í Hraunsseli vestan við Núpshlíðarhás. Hið síðarnefnda lagðist reyndar af síðast selja á Reykjanesi, eða árið 1914. Í lýsingu Þorvaldar Thorodsen um ferð hans um Suðurland árið 1883 virðist Hraunssel og Selsvallaselin þá þegar hafa verið aflögð . Þau gætu þó hafa verið endurreist síðar sbr. skrif Guðrúnar Ólafsdóttur um Grindavíkurselin.
Í Andvara, tímariti Hins ísl. þjóðvinafélags, 1884, er sagt frá ferðum á Suðurlandi sumarið 1883 eftir Þorvald Thoroddsen, bls. 48. Þar segir m.a.: “Komum við fyrst að Hraunsseli; það er nú í rústum… Selsvellir eru stórar grassléttur norður með hálsinum… Þar hefir áður verið sel frá Stað í Grindavík, en er nú af tekið; nú hafa menn þar nokkurs konar afrétt…”.

Straumssel

Hellir við Efri-Straumsselshella.

Geirs Bachmanns segir í Lýsingu Grindavíkursóknar 1840-41 bæi í Grindavík þá hafa selstöður á Selsvöllum. Í Lýsingu Árna Helgasonar á Garðaprestakalli 1842 kemur fram að Garðar hafi haft “pening í seli til 1832”. Önnur sel þar hafi verið aflögð fyrir meira en hálfri öld.
Í “Frásögur um Fornaldaleifar”, útg. af Stofnun Árna Magnússonar, 1983, eru birtar skýrslur presta o.fl. af íslenskum fornminjum til dönsku fornleifanefndarinnar á árunum 1817-1823 . Hvorki er minnst á sel í Gullbringu- og Kjósarsýslu né í Árnessýslu (Ölfusi) í skrifum til nefndarinnar. Bendir það til þess að selin hafi þá verið í “eðlilegri” notkun á þeim tíma, nýlega aflögð eða að þau sel, sem vitað var um, en lagst af, hafi ekki verið það gömul að þau hafi talist til fornminja. Hafi svo verið getur ein skýringin verið sú að búsetuminjar eða minjar tengdar atvinnuháttum hafi ekki verið taldar til fornleifa, enda var lítið skrifað um slíkt til nefndarinnar. Hafa ber í huga að sel geta hafa lagst af um tíma, en síðan verið endurreist um sinn.

Straumssel

Eystri-Straumsselsstígur (Fornaselsstígur).

En af framangreindum gögnum að dæma virðist selbúskapur á Reykjanesi að mestu hafa lagst af um og eftir miðja 19. öld; fyrr í Garðasókn en t.d. í Grindavíkursókn þar sem hann tíðkaðist enn um 1840, en selin verið í rústum árið 1883 þegar Þorvald Thoroddsen var þar á ferð. Ef taka á mið af núverandi tóftum selja á Reykjanesi eru þau líka að sjá heillegastar á Selsvöllum og í Þrengslum (Hraunssel). Einnig í Vífilsstaðaseli og Herdísarvíkurseli, Knarrarnesseli, Brunnastaðaseli og Straumsseli. Hins vegar eru seltóftir í Selvogsheiði og í Hafnaheiði greinilega mun eldri. Þá má sjá enn eldri tóftir innan um nýrri sel, s.s. Fornasel við Brunntorfur, Lónakotssel, Fornasel (Litlasel), Hlöðunessel, Baðsvallasel og Selöldusel.
Tóftir seljanna eru greinilega misgamlar. Ekki er vitað til þess að þær hafi verið aldursgreindar, en þó hefur Bjarni Einarsson, fornleifafræðingur, grafið í Fornasel vestan við Brunntorfur og taldi hann af niðurstöðum kolefnamælinga að dæma að það sel væri frá 14. eða 15. öld.

Straumssel

Straumssel – stekkur.

Við þessi gömlu sel eru yfirleitt hlaðnir tvöfaldir stekkir og einfaldar kvíar. Vatnsstæðin eru í hraunskálum eða á klapparhólum. Nokkur dæmi eru um allnokkur sel þar sem frá varð að hverfa fyrr en ætlað var vegna vatnsskorts. Lækir eru fáir á landssvæðinu. Auk Selsvallalækjar er lækur í Króksmýri norðan Vigdísavallar, á Bleikingsvöllum suðaustan þeirra, í Sogunum sunnan Trölladyngju, Kaldá við Kaldársel og síðan Vestri- og Eystri-lækur í Krýsuvík. Sumstaðar er þó stutt í lítil vötn í gígum og skálum. Annars staðar var erfiðara um slíkt, s.s. í Lónakotsseli og í seljunum í Vatnsleysustrandarheiðinni. Aðstæður gætu þó hafa breyst frá því sem áður var. Þannig er t.d. sagt frá læk og jafnvel fossi fram af Stóru Aragjá ofan við hið sérstaka Gjásel. Það er sérstakt af því leyti að í því eru 7-8 samliggjandi raðhús í svo til beinni röð. Tveir stekkir eru við selið, en þeir gefa oft til kynna fjölda selja á hverjum stað. Þannig eru sel frá þremur bæjum í Brunnastaðaseli, fjögur í Knarrarnesseli, tvö í Flekkuvíkurseli.

Straumssel

Eitt opanna við Neðri-Straumselshella.

Selin á Selsvöllum hafa nokkra sérstöðu því þar munu hafa verið sel frá svo til öllum Grindavíkurbæjunum eftir að Baðsvallaselið norðan Þorbjarnarfells lagðist af vegna ofbeitar. Þar má sjá tóttir a.m.k. þriggja selja. Við mörg seljanna, einkum hraunsseljanna, eru fjárskjól með fyrirhleðslum, stundum fleiri en eitt, s.s. í Óttarstaðaseli og Straumsseli. Stundum eru skjólin nokkuð frá seljunum, s.s. fjárskjólið í Brunntorfum, en það hefur líklega upphaflega verið frá Fornaseli ofan við Gjásel.
Enn eitt einkenni selja á Reykjanesi er nálægð fjárborga og/eða fjárskjóla. Eftir skoðun á yfir 70 fjárborgum á svæðinu er að sjá sem sumar þeirra séu beinlínis byggðar með afstöðu seljanna í huga, s.s. Djúpudalaborgin í Selvogi. Hún er í nálægð við Nesselið austan við Hellisþúfu, auk þess sem efst í Hnúkunum hafa fundist tóftir, sem líklegast hafa verið fornt sel. Þær hafa ekki verið rannsakaðar og hafa reyndar hvorki verið skráðar né er þeirra getið í örnefnalýsingum. Við þær tóftir er hol hraunbóla, hraunsskúti, sem notaður hefur verið til skjóls eða annarra þarfa. Þannig háttar einnig til við Litlalandssel ofan við Ölfus.

Straumssel

Hleðslur í Efri-Straumsselshellum .

Hellar hafa víða og verið nýttir til skjóls, en selin norðaustan við Vörðufell ofan við Strandarhæð, sem greinilega eru mjög gömul, t.d. Eimuból (sel Selvogsmanna voru gjarnan nefnd ból, sbr. Þorkelsgerðisból og Bjarnastaðaból nestan undir Hnúkum). Í því er hlaðinn stekkur inni í víðri hraunrás. Skammt vestar eru tóftir og miklar niðurgönguhleðslur við stóran hraunhelli. Innst í hellissalnum er aðeins eitt bein, en annars er ekkert annað á sléttu gólfinu.
Merkilegur hellir, sem Guðmundur Brynjar Þorsteinsson frá Þorlákshöfn fann nýlega, hefur gengið undir nafninu “Bólið”. Alls óljóst er til hverra nota hann var eða ætlaður. Tóftirnar við hellinn eru heldur ekki til í örnefnalýsingum svo vitað sé. Sama á við tóft við gömlu Selvogsgötuna á milli Strandardals og Strandarhæðar. Þar er tóft og hlaðinn stekkur. Einnig suðaustan undir Svörtubjörgum. Þar er greinilegt sel með nokkrum rústum, löngum stekk, kví og fjárskjóli. Inni í því eru hleðslur.

Straumssel

Í Neðri-Straumselshellum.

Reyndar hefur Selvogsheiðin lítt verið könnuð með tilliti til hugsanlegra fornleifa. Þórarinn bóndi Snorrason á Vogsósum taldi að selið undir Svörtubjörgum hafi heitið Staðarsel og verið fráfærusel þar sem lömbin voru færð frá og aðskilin frá ánum. Hann mundi þá ekki eftir því fyrr en farið var að spyrja hann um rústirnar, sem sumar eru mjög vel greinilegar. Líklegra er að þarna sé annað hvort komið sel frá Strönd, “Strandarsel”, því bæði hefur það verið í landi kirkjujarðarinnar Strandar og auk þess hefur það verið allveglegt á meðan var, eða frá landnámsbænum Hlíð við Hlíðarvatn, sem er þarna nokkru vestar. Vestan við selið eru a.m.k. þrjár fjárborgir; Hlíðarborg, Valgarðsborg og  Borgarskarðsborg. Sunnan þeirra er Vogsósasel og vestan þess “Borgirnar þrjár”; þ.e. þrjár hlaðnar fjárborgir á hól skammt austan Hlíðarvatns. Við Eimuból má sjá tóftir Vindássels, en enn austar eru Þorkelsgerðisból og Bjarnastaðaból, hvorutveggja vegleg sel með mörgum tóftum. Þegar leitað var að síðastnefndu seljunum var farið eftir örnefnaskrám úr Ölfusi og ábendingum fróðra manna, s.s. Kristófers Bjarnasonar, kirkjuvarðar í Strandarkirkju, en samkæmt því átti Bjarnastaðasel að vera skammt frá klöppinni “Fótalaus”, þar sem klappað er LM (landamerki) Ness og Bjarnastaða. Selið er hins vegar mun ofar undir Hnúkabrekkunum og er Þorkelsgerðisból þar skammt (10 mín) vestsuðvestar.

Straumsgata

Straumsgatan.

Við Kaldársel eru nokkrir fjárhellar og hlaðinn bálkur í einum þeirra. Í Setbergsseli er fjárhellir með mikilli hleðslu og skiptir önnur honum í tvennt. Að sunnanverðu var Hamarskotssel um tíma. Við Brunnastaðasel er hlaðin kví í gróinni gjá og er hún ennþá nokkuð heilleg. Séstæðastar eru hleðslur niðri í stóra hraunbólu vestan Hellishæðar, sem fyrr voru nefndar. Við munnan er tótt og aðrar skammt austar. Þar eru og hleðslur fyrir hraunrásir. Skammt norðar er Strandarsel [Staðarsel] undir Svörtubjörgum, en að sögn Þórarins Snorrasonar á Vogsósum mun það hafa verið fráfærusel (en annars mun hafa verið fært frá heima við bæ áður en ærnar voru reknar í sel), enda má sjá þess merki á aflöngum stekk sunnan selsins.

Straumssel

Straumssel – Tilgáta ÓSÁ.

Stakkavíkursel er ofan við Grænubrekkur. Við það er opin hraunbóla, líkt og í Hnúkum. Neðan við selið má, ef vel er að gáð, sjá merki enn eldra sels og torfstekkjar. Við nýrra selið er dæmigerður stekkur og hleðslur í fjárskjóli skammt ofan hans. Garðar höfðu í seli í Selgjá og Búrfellsgjá. Heimildir kveða á um að þar hafi verið 11 sel um tíma. Þau munu þó hafa verið aflögð alllöngu áður en Garðar hættu að hafa í seli. Margar minjar eru beggja vegna Selgjárinnar, en færri í Búrfellsgjá. Þar eru og nokkur fjárskjól með veglegum hleðslum. Mestar eru þær í svonefndum Sauðahelli syðri, skammt suðvestan við Selgjána og við Suðurhelli, sunnarlega í gjánni.

Straumssel

Straumssel.

Á Garðaflötum er getið um tóftir og garðveggi í gömlum heimildum og einnig þar má sjá, ef vel er að gáð, tóftir og veggi, greinilega mjög gamalt. Reyndar átti þar að hafa verið bær til forna, skv. sömu heimildum, en líklegra er þó að um selstöðu hafi verið að ræða. Þær tóftir hafa ekki verið kannaðar af fagfólki.

Enn eitt einkenni seljanna eru hinir mörkuðu selsstígar. Víða má sjá þá klappaða í hart bergið eftir klaufir, hófa og fætur liðinna kynslóða. Dýpstar eru göturnar á stígunum vestan Selsvalla, enda hefur umgangur þar greinilega verið mikill um langan tíma. Straumsselsstígur er einnig vel markaður á kafla, en það er áður en hann greinist frá stíg að Gjáseli og Fornaseli, sem eru skammt norðan þess. Víða má rekja þessar götur enn þann dag í dag, en annars staðar eru þær orðnar grónar eða orðnar landeyðingu að bráð, s.s. efst í Vatnsleysstrandarheiðinni.
Þótt sum seljanna hafi ekki verið mjög stór, s.s. Fornasel (Litlasel) ofan Vatnsleysustrandar og Hraunssel undir Löngubrekkum austan Raufarhólshellis, eru tóftirnar bæði lögulegar og vel læsilegar. Í því er flest það sem prýtt getur hefðbundið sel.

Þorbjarnastaðir

Þorbjarnastaðastekkur.

Nýjasel austan Snorrastaðatjarna sem og Snorrastaðasel vestan þeirra hafa og verið lítil sel af ummerkjum að dæma. Svo hefur einnig verið um Hópsselið norðan við Selsháls, Möngusel í Hafnaheiðinni og Stafnessel austan Ósabotna. Kirkjuvogssel í Hafnaheiði hefur hins vegar verið mun stærra, líkt og Vogaselin efst í Vatnsleysustrandarheiði, fast undir Þráinsskyldi.
Merkinesselin í Hafnaheiði voru tvö, hið nýrra og hið eldra, líkt og Vogaselin. Erfitt er að finna eldra selið, en það er mjög gróið, en sandauðn allt um kring. Nýrra selið er mun austar og fallega hlaðið undir gjávegg. Eitt húsanna er enn allheillegt sem og önnur mannvirki. Dæmi eru um að gömul sel hafi orðið framkvæmdum að bráð, s.s. Hraunsholtsselið undir Hádegishól í Garðahrauni, sem nú er í iðnaðarhverfi Garðbæinga á Hraunum.

Einir

Einir við Straumssel.

Í Jarðarbók Árna Magnússonar og Páls Vídalín koma frásagnir af selstöðum sumra bæja á Reykjanesi, en alls ekki allra. Sjá má selja getið í sóknarlýsingum, en þó virðist eins og almennt hafi ekki verið ástæða til að geta þeirra sérstaklega í eldri lýsingum af lands- og búskaparháttum. Reyndar er búskaparháttum yfirleitt lítið lýst í slíkum heimildum eða máldögum. Ein ástæðan gæti verið sú að þeir hafi þótt það sjálfsagðir og á allra vitorði að ekki hafi verið talin ástæða til að geta þeirra sérstaklega. Einungis væri vert að geta þess sem þótti merkilegt sögulega þá er þær voru skrifaðar.

Straumssel

Straumsselið.

Heimildir og sagnir eru af mjög gömlum seljum, en flestar eru þær frá síðari öldum. Vitað er yfirleitt frá hvaða bæjum hvert sel tilheyrði og höfðu sumir saman í seli, s.s. í Knarrarnessi og Brunnastaðaseli, að ekki sé talað um Selsvellina. Margar gamlar beitarhúsatóftir eru og á Reykjanesi, s.s. í Húshöfða norðan Hvaleyrarvatns (Jófríðastaðir), við Ásfjallsrana (Ás) og vestan við Hlíðarvatn (Stakkavík), en ekki er vitað til þess að þau hafi orðið að seljum eða verið notuð sem sel eins og víða annars staðar á landinu. Sel voru frá Hvaleyri og Ási austan við Hvaleyrarvatn og sel frá Stakkavík ofan við Stakkavíkurfjall.

Almenningur

Í Almenningi ofan Straums.

Dæmi eru um sögur úr seljunum, s.s. frá Hvaleyrarseli þar sem nykur átti, skömmu fyrir aldarmótin 1900, að hafa ráðist á og drepið selráðskonuna í fjarveru smalans . Nykurinn átti að fara á milli Hvaleyrarvatns og Urriðavatns (önnur saga segir Lambústjarnar), en frosið þar í hel frostaveturinn mikla árið 1918. A.m.k. sást ekki til hans eftir það. Í Rauðhólsseli undir Rauðhól skammt norðan við Keili var fólki ekki vært eftir tíundu viku sumars vegna draugagangs, en það sel var frá Vatnsleysu .
Tveggja selja er getið í Öskjuhlíð; Reykjavíkurselsins og Hlíðarhúsaselsins og nokkurra undir Selsfjalli við Lækjarbotna. Þar má enn sjá tóftir þessara selja nálægt skátaskálanum, en þær eru þó orðnar ógreinilegar.

Flugmynd

Straumssel – flugmynd.

Víða um land urðu sel að kotbýlum þegar fram liðu stundir. Á Reykjanesi eru líklega einungis þrjú dæmi um að sel hafi orðið að koti, þ.e. í Straumsseli, á Vigdísarvöllum og í Kaldárseli. Bærinn í Straumsseli brann fyrir aldarmótin 1900 og lagðist þá búseta þar niður, en bærinn á Vigdísarvöllum féll að mestu í jarðskjálfta skömmu eftir aldramótin 1900. Þar voru reyndar um tíma tveir bæir. Annar þeirra nefndist Bali og má vel sjá tóftir hans á vestanverðu túninu. Vigdísarvellir var í fyrstu sel frá Krýsuvík, en bæir þar höfðu auk þess í seli undir Selöldu, sbr. sagnir af ræningjunum er komu upp Ræningjastíg og veittust að selráðskonum þar . Um tíma hafi Krýsuvík aðstöðu í Sogaseli, sem síðan fór undir Kálfatjörn. Auk þess er ekki loku fyrir það skotið að einhver Krýsuvíkurbæjanna hafi um tíma nytjað Húshólmann, en inn í hann er greiður og gróinn stígur og ummerki eftir selstöðu norðvestast í hólmanum. Í Kaldárseli var sel framan af og er síðast getið um búsetu Þorsteins Þorsteinssonar þar um aldarmótin 1900, en síðan nýtti Kristmundur Þorleifsson sér fjárskjólin þar um skamman tíma.

Straumssel

Varða við Eystr-Straumsselsstíg.

Oftast bera selin nöfn þeirra bæja, sem gerðu þau út. Flekkuvíkursel var frá Flekkuvík, Hvassahraunssel var frá Hvassahrauni, Óttarstaðasel frá Óttarstöðum o.s.frv. Þó eru dæmi um að selin hafi dregið nöfn sín af staðháttum, s.s. Sogasel í Sogagíg, Selsvallasel af Selsvöllum og Gvendarsel undir Gvendarselshæð af Krýsuvíkur-Gvendi o.s.frv. Hin þrjú svonefndu Fornusel eru væntanlega nefnd svo vegna þess að ekki var ráðið í hvaðan þau höfðu verið gerð út. Þó er líklegt að Fornasel sunnan við Brunntorfur hafi verið frá Þorbjarnastöðum í Hraunum sem og Gjáselið þar skammt norðvestar. Einnig er getið þar um sel frá Lambhaga. Þorbjarnastaðafjárborgin er skammt frá seljunum. Fornasel eða Fornusel (þau eru tvö) undir Sýrholti er hins vegar á huldu, enda virðist vera mjög komin við aldur. Svo virðist sem Þórusel hafi verið þar um tíma, en frásögn af því er óljós. Flestra seljanna er getið í gömlum heimildum og örnefnalýsingum. Nokkur þeirra, a.m.k. þeirra stærstu, má sjá á gömlu kortum, s.s. dönsku herforingjakortunum svonefndu, en annað það er gefur vísbendingu um að sel hafi verið að ræða á tilteknum stöðum eru nafngiftir tengdar þeim, s.s. Selháls, Selshæð, Selsvallafjall, Selsvellir, Selsfjall, Seljahlíð, Selalda, Selstígur og Selshóll.

Straumssel

Varða við Eystri-Straumsselsstíg.

Hlaðin smalabyrgi eru við eða í nágrenni við sum selin eða nátthaga þeim tengdum. Má þar nefna byrgi við Efri-Straumsselshellana, neðan við Stakkavíkursel og við Óttarstaðasel.
Lítið hefur verið fjallað um sel og selbúskap hér á landi þrátt fyrir að hann hafi skipað veigamikinn þátt í atvinnusögu og þjóðlífinu í langan tíma. Egon Hitzler, þýskur fræðmaður, skrifaði bókina “Sel – Untersuchungen zur geschichte des isländschen sennwesens seit der landnahmzeit”, sem gefin var út í Noregi árið 1979. Hann hafði dvalið hér á landi sem styrkþegi við Háskóla Íslands veturinn 1968/69 og notaði það efni í magesterritgerð sína við háskólann í Erlangen-Nürnberg árið 1972. Árin 1974-77 starfaði hann sem sendikennari við Háskóla Íslands og notaði þá tíma til þess að endurskoða, endurbæta og auka við ritgerð sína. Árangurinn liggur fyrir í nefndri bók hans. Bókin, sem er efnismikil um viðfangsefnið, er skipt upp í 8 kafla: Í fyrsta kafla fjallar höfundur m.a. um alþjóðlegar rannsóknir á seljabúskap, heiti og hugtök og fyrri rannsóknir. Í öðrum kafla er fjallað um selin, selhúsin, sel í hellum, seljaþyrpingar, kvíar, sel á eyðibýlum og breyting selja í býli. Í þriðja kafla um skipulag seljabúskaparins, seltímann, selfólkið, búsmalann, selfarir og selgötur, selflutninga og eldivið og vatnsból.

Straumssel

Rétt við Eystri-Straumsselsstíg – Tobburétt austari.

Í fjórða kafla fjallar höfundur um seljabúskap á Íslandi á miðöldum, eðli og þýðing miðaldaheimilda, heimildir frá þjóðveldisöld og heimildir frá 14. og fram á 16. öld.
Fimmti kafli fjallar um seljabúskap á Íslandi fram á byrjun 18. aldar, selstöður í Húnavatns-, Skagafjarðar- og Eyjafjarðarsýslum, útbreiðslu, tegundir og aldur selja og leigusel.
Í sjötta kafla er lýst núverandi aðstæðum í Sauðadal (Hv) og nýtingu hans til seljabúskapar fyrr á tímum, staðhættir og helstu menjar um nýtingu, skiptingu landsins og tilkall til selstaða, heimidlir frá miðöldum og jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns sem og tegundir selstaða og tímabundnar sveiflur í seljabúskapnum.
Í sjöunda kafla er fjallað um upphaf, þróun og hvarf seljabúskapr á Íslandi, upphaf seljabúskapar á landnámsöld og einkenni hans á fyrstu öldum Íslandsbyggðar, seljabúskap og eignaraðild á síðmiðöldum, sveiflur og hnignun seljabúskapar á Íslandi, niðurlagningu seljabúskapar á Íslandi og tilraunir til þess að endurvekja hann og glæða nýju lífi.
Í áttunda og síðasta kaflanum er yfirlit og útsýn, umræður um hugtök, íslenski seljabúskapurinn sem sögulegt fyrirbæri og íslenski seljabúskapurinn og nútíminn.
Loks er viðauki um seljabúskapinn á íslandi um aldamótin 1900 og dagleg störf, íslenskt/þýskt orðasafn um seljabúskap og loks einstakar athugasemdir”.

Heildarfjöldi selja árið 1703.

Straumssel

Fyrirhlesðlur í Efri-Straumsselshellum.

Á vefsíðunni má sjá heildaryfirlit yfir sel, sem skráð hafa verið eða hafa fundist á Reykjanesi. Hægt er að ganga að tóftum þeirra allra, utan þriggja, sem horfin eru (Reykjavíkursel í Ánanaustum, Hraunsholtssel við Flatahraun og Kalmannstjarnarsel undir Stömpum). Þá eru tilgreind selaðstaða á a.m.k. þremur stöðum, sem ekki hefur verið skráð hingað til (við Selöldu, í Húshólma og við Hraunsnes vestan við Lónakot).
Yfirlitið segir til um 139 sel á 102 stöðum. Ef það er borið saman við Jarðabók Páls Vídalíns og Árna Magnússonar frá árinu 1703 kemur í ljós að getið er 63 bæja, sem höfðu selstöðu í Gullbringusýslu, auk þriggja bæja í Ölfusi, sem eru vestan við línu þá sem dregin var, þ.e. Hlíðarenda, Litlalands og Breiðabólstaðar. Ekki er getið selja frá Hrauni og Þorlákshöfn. Innan við 66 sel hafa því verið í notkun á um aldramótin 1700 á þessu svæði, en ekki er getið um önnur jafnmörg.

Hraunin

Gengið um Hraunin.

Margt bendir til að mörg sel hafi verið aflögð þegar upplýsingum var safnað, s.s. Fornusel í Sýrholti. Þá er líklegt að selstaða hafi verið færð til eftir landkostum eða af hagkvæmisástæðum og eldri selin þá yfirgefin. Einhver seljanna gætu hafa verið í notkun um stuttan tíma, en síðan verið aflögð og einnig gætu bændur hafa tekið sig saman um selstöðu, þ.e. að fé (og jafnvel kýr) frá fleiri en einum bæ hafi verið haft í sama selinu. Í heimildum um sel á Reykjanesi virðist lítið hafa verið um kýr í seljum. Ef þær hafa verið þar er þess jafnan getið sérstaklega, s.s. á Selsvöllum og við Snorrastaðatjarnir.
Landfræðilega aðstæður á Nesinu hafa ekki beinlínis þótt heppilegar til kúabeitar. Hins vegar eru nokkur örnefni og mannvirki ekki fjarri bæjum er benda til þess að kúm hefur verið beitt þar um tíma, s.s. Kúadalur við Grindavík og Kúadalur ofan við Brunnastaðahverfið á Vatnsleysuströnd. Þar er hlaðin rétt.

Straumssel

Hreiður við Straumssel.

Í Jarðabókinni er ekki alltaf getið um staðsetningu seljanna, en reynt að lýsa kostum þeirra. Þannig segir frá selstöðu frá Hrauni (Grindavík): “Selstaða langt í frá og þó sæmilega góð”. Þórkötlustaðir eru sagðir brúka selstöðu í Krýsuvíkurlandi [Vigdísarvöllum]. Hóp þurfti að kaupa út selstöðu. Á á “selstöðu í heimalandi”. Ummerki eru eftir hana í Dalnum norðan við Hamranes, en þar má sjá hrunið fjárskjól með hlöðnum inngangi og grasi gríð dalverpi. Hlíðar Dalsins eru grasi grónar og seljalegar á að líta. Krýsuvík er sögð hafa tvær selstöður; “aðra til fjalls en aðra nálægt sjó, báðar merkilega góðar”. Þannig virðist Krýsuvík bæði hafa haft selstöðu á Vigdísarvöllum og líklega austan við Selöldu (eða í Húshólma). Ísólfsskáli á ekki að hafa haft selstöðu, en nafnið Selskál í Fagradalsfjalli bendir til einhverra selnota þar.

Straumssel

Í Straumsseli.

Hóp er sagt hafa þurft að kaupa út selstöðu, en tóftir nýrra sels frá Hópi er norðvestan undir Selshálsi vestan Hagafell. “Gálmatjörn” (Kalmannstjörn) er sögð hafa átt selstöðu, en “nú að mestu eyðilögð fyrir sandi”. Á Stafnesi er ekki minnst á selstöðu, en þó er vitað að bærinn hafði selstöðu skammt ofan við Djúpavog við Ósa. Vindás er sagt eiga “selstöðu í heiðinni”. Stakkavík “á jörðin yfrið erfiða, svo varla er hestum fært á fjöll upp, þarf og vatn til að flytja, nema votviðri gángi því meiri, og er hún fyrir þessara ókosta sakir í margt ár ekki brúkuð”.
Yfirleitt er þess getið að selstaða sé annað hvort vatnslaus eða “stórt mein af vatnsskorti”. Í Jarðabókinni er þess jafnan getið hvort selstaðan hafi haft aðgang að vatni, það slæmt eða alls ekkert. Er að sjá sem vatnið hafi verið ein af forsendunum fyrir vali á góðu selstæði.

Straumssel

Straumssel.

Niðurlag.
Ekki verður sagt með fullkominni vissu hvenær selbúskapur hófst hér á landi, en líklegt má þó telja að hann hafi fylgt fyrstu norrænu ábúendunum hingað til lands í kringum árið 870, en slíkur fjár- og kúabúskapur mun hafa verið vel þekktur í Noregi og á Suðureyjum á þeim tíma. Þó svo að sum mannvirkin, einkum fjárborgirnar, hafi fyrirmynd af írskum eða jafnvel skoskum hringlaga mannvirkjum, sbr. fjárborgina í Óbrennishólma í Ögmundarhrauni, er erfitt um sannanir í þeim efnum. Aðalatriðið er þó að selbúskapur var hluti af atvinnusögu landsins frá öndverðu og fram að aldarmótunum 1900, en um það leyti lögðust slíkir búskaparhættir af á Reykjanesi. Selbúskapurinn er því hluti af þjóðlífi og atvinnusögu landsins í u.þ.b. eittþúsund ár.

Straumssel

Straumssel.

Ástæða er til að varðveita og halda á lofti þessum þætti búskaparháttanna þar sem allt snérist um að halda lífi í sauðkindinni svo sauðkindin gæti haldið lífi í landsmönnum. Hinar fjölmörgu minjar og selsmannvirki á Reykjanesi bera þess glöggt vitni.
Guðrún Sveinbjarnardóttir ritaði grein í Acta Archaeologica 62 árið 1991, sérhefti um rannsóknir á Norður Atlantshafssvæðinu. Þar fjallar hún um einstök sel í Eyjafjallasveit, Skagafirði og Berufirði í tengslum við önnur verkefni. Hún kemst að þeirri niðurstöðu að sel á Íslandi hafi sérkenni sem eru ekki endilega þau sömu og sel frá heimalandi landnámsmanna, Noregi. Meginmunurinn er sennilega vegna ólíks landslags sem kröfðust ólíks skipulags. Af athugun hennar sé ljóst að meiri rannsóknar er þörf á seljum á Íslandi, bæði fornleifafræðilega og fornfræðilegra.
Sjá Myndir.

Heimildir m.a.:
-Örnefnastofnun.
-Gísli Sigurðsson.

Straumssel

Straumsselsvarða.

Straumssel

Almenningsskógur er gamalt heiti hraunasvæðisins suður og vestur af Straumsvík. Þetta var úthagi Hraunajarðanna sem voru í eigu kirkjunnar en komust í konungseign við siðaskiptin 1550. Þessar jarðir voru allar seldar um og eftir 1830 og eftir það voru þær í eigu bænda þar til búskapur lagðist að mestu af u.þ.b. 100 árum seinna.

Almenningur

Almenningur – leiðir.

Á meðan jarðirnar voru í eigu kirkjunnar og konungs gátu íbúar á suðvesturhorni landsins nýtt Almenningsskóg til beitar og þeir fóru þangað til að höggva skóg til kolagerðar. Þegar litla ísöld gekk í garð upp úr 1450 tók að kólna verulega á Íslandi og víðar í norðurhöfum og hratt gekk á skóglendi þar sem viðar- og skógarhögg jókst til muna. Þegar fram í sótti var ekki mikið um stærri tré því þau voru tekin fyrst og með tímanum var lítið annað eftir en nýgræðingur og hverskonar runnagróður, sem var jafnan nefndur einu nafni hrís.

Almenningur

Í Almenningi ofan Straums.

Gegndarlaust hrístaka og skógarhögg gekk nærri gróðrinum í Almenningi og var svo komið um 1700 að varla var lengur hægt að tala um að hrís væri nægjanlegt og skógurinn sem svo hafði verið kallaður var að mestu eyddur. Samt sem áður var haldið áfram að ganga á takmörkuð gæði landsins með sauðfjárbeit og kolagerð. Fyrir kom að tré og runnar voru rifin upp með rótum, sérstaklega næst bæjum en ekki síður upp til fjalla þar sem mest hætta var á uppblæstri. Hirðstjóri konungs lagði álögur á alla bændur sem bjuggu nærri Bessastöðum og þurftu þeir að skaffa einn til tvo hríshesta á ári hverju og stærri jarðirnar þurftu auk þess að útvega einn eða tvo stórviði árlega.

Almenningur

Gengið um Almenning í Hraunum.

Meginhluti hraunmassans ofan Hraunabæjanna er kominn frá Hrútagjárdyngju, nefndur Almenningur og tilheyrði í eina tíð Hraunabæjunum sem voru með fram strandlengjunni milli Straumsvíkur og Vatnsleysuvíkur. Almenningu var beitiland þessara jarða og þar áttu þær skógarítak og sóttu sér eldivið um margra alda skeið. Samkvæmt því sem næst verður komist máttu flestir íbúar Álftaneshrepps hins forna sækja sér hrís í Almenningsskóga á meðan jarðirnar tilheyrðu kaþólsku kirkjunni og seinna Danakonungi. Þessar jarðir voru seldar um og eftir 1830 og þar með féll almannarétturinn til þeirra sem eignuðust jarðirnar, eða svo töldu þeir sem keyptu jarðirnar af ríkisvaldinu.

Straumsselsstígur

Straumsselsstígur (Fornaselsstígur) í Hraunum..

Almenningsnafnið hélst samt sem áður áfram og vísar til þess tíma þegar svo til hver sem var gat nýtt hlunnindin. Bændur og búalið sótti sér skógarvið til húsbygginga á meðan skógurinn gaf eitthvað af sér en eftir að kólna fór verulega á landinu um og eftir 1600 gekk hratt á stærstu trén. Þegar Árni Magnússon og Páll Vídalín unnu Jarðabókartal sitt árið 1703 var mjög farið að sneiðast um skógarvið og hrísrif orðið býsna erfitt í Almenningi enda kvörtuðu bændur mjög undan kröfum hirðstjóra konungs á Bessastöðum um skil á stórviði og hrísknippum til yfirvaldsins.

Straumssel

Gengið um Straumssel.

Þegar Hraunajarðirnar voru seldar hver af annarri úr konungseign voru heimalönd þeirra skilgreind og miðuðust við landsvæði sem náði þó nokkuð suður fyrir selin. Eigendur jarðanna lögðu ríka áherslu á að verja heimalönd sín og bönnuðu hverskonar nytjar svo sem veiði, hrísrif og beit í úthaganum í löndum sínum.

Straumssel

Straumssel – tilgáta.

Ekki fóru allir eftir þessu og töldu sumir að sú hefð að sækja hrís í Almenning og að beita sauðfé þar væri ofar eignarréttinum. Gengu klögumál á víxl þar til sýslumaður kynnti vilja konungs í þessu efni. Landsmenn áttu að leggjast á eitt um að verja þá skóga sem eftir voru í landinu en ekki halda áfram að eyða þeim. Skógarhögg og hrísrif mátti aðeins stunda samkvæmt sérstöku leyfi og undir eftirliti umsjónarmanna skógarhöggs sem konungur lét skipa víða um land.

Straumssel

Straumssel – tilgáta.

Guðmundur Guðmundsson bóndi var skipaður umsjónarmaður skógarhöggs í Álftaneshreppi um miðja 19. öld. Guðmundur bjó ásamt Katrínu Guðmundsdóttur eiginkonu sinni í Straumsseli og átti fremur auðvelt með að fylgjast með því sem fram fór í Almenningi. Sýslumaður undirritaði reglur um skógarhögg í vitna viðurvist á manntalsþingi í Görðum og skipaði Guðmund í embættið á sama tíma.

Straumssel

Efri-Straumsselshellar.

Guðmundur keypti Straum og hálfa Óttarsstaði árið 1849 með gögnum og gæðum og ítökum og öllum herlegheitum sem jörðunum fylgdu og höfðu og fylgt til sjós og lands. Guðmundur kaus að byggja sér bú í Straumsseli og lýsa staðinn lögbýli. Straumur var í ábúð og leiguliðinn mótmælti því harðlega að Guðmundur gerði Straumssel að lögbýli sínu. Áður hafði Guðmundur átt Lambhaga og hluta Þorbjarnarstaða en seldi hvoru tveggja 31. maí 1848 til Eyjólfs Péturssonar. Guðmundur fékk sínu framgengt en sat ekki Straumssel lengi heldur byggði það leiguliðum og settist að á Setbergi.

Efri-Straumsselshellar

Straumselshellar syðri.

Guðmundur skógarvörður varð ekki langlífur. Hann lést 44 ára gamall árið 1855 að Setbergi. Guðmundur Tjörvi sonur hans var aðeins fimm ára gamall, en tók eignir föður síns í arf eftir. Katrín móðir Guðmundar Tjörva og ekkja Guðmundar skógarvarðar giftist stuttu seinna Guðmundi Símonarsyni og bjuggu þau fyrst á Setbergi. Þau tóku við búskap í Straumi þegar jörðin losnaði úr ábúð og bjuggu myndarbúi fram undir aldamótin 1900. Að þeim látnum tók Guðmundur Tjörvi við jörðinni, en hann hafði í raun réttri verið bóndi þar um árabil enda móðir hans og fósturfaðir komin nokkuð við aldur er þau féllu frá.

Litli-Lambhagi

Eldhús við Litla-Lambhaga.

Guðmundur Tjörvi var dugnaðarbóndi, sem átti um hundrað fjár og stækkaði túnin umhverfis Straum. Hann fór í mikla útgræðslu, byggði fjárhús í Fjárhússkarði við Brunntjörn, hljóð Tjörvagerði nálægt Þýskubúð og Gerðið suður af Straumsseli. Þegar ellin fór að gera vart við sig ákvað hann að bregða búi þar sem hann átti enga afkomendur og systur hans höfðu ekki heldur komið neinum börnum á legg, enda gengu þær ekki allar heilar til skógar. Hann seldi Bjarna Bjarnasyni Straum árið 1918. Tveimur árum seinna keypti Bjarni Þorbjarnarstaði ásamt Stóra- og Litla Lambhaga til að eiga möguleika á að fá nægan heyfeng fyrir bústofn sinn.

Bjarni Bjarnason

Bjarni Bjarnason.

Þegar gamli Straumsbærinn brann árið 1925 var ráðist í að reisa nýtt og veglegt hús úr steinsteypu. Þetta var með stærri húsum á landinu og var það tilbúið árið 1926 og stendur enn. Guðjón Samúelsson húsameistari ríkisins teiknaði húsið sem er í svipuðum stíl og Korpúlfsstaðir og Héraðsskólahúsið á Laugavatni.

Bjarni var íþróttakennari við Barnaskóla Hafnarfjarðar frá 1912 en tók við skólastjórn 1915. Hélt hann þeirri stöðu til 1929 er hann var skipaður skólastjóri Héraðsskólans á Laugarvatni. Bjarni var maður framfara og var annálaður dugnaðarforkur. Hann átti eina af fyrstu bifreiðunum sem komu til landsins og ók daglega milli Straums og Hafnarfjarðar. Bjarni átti drjúgan þátt í að ákveðið var að byggja veglegt steinsteypt skólahús í Hraungerðistúninu við Hamarskotslæk árið 1927 þar sem Barnaskólinn (Menntasetrið við Lækinn var til húsa þar til hann flutti í nýtt hús á Hörðuvöllum.

Straumur

Straumur.

Þegar Bjarni var fluttur alfarinn austur að Laugarvatni reyndi hann að selja Straum, Lambhaga og Þorbjarnarstaði. Það gekk ekki og er sennilegasta ástæðan sú að kreppa skall á um þessar mundir og á sama tíma voru búskaparhættir að breytast verulega hér á landi.

Straumur

Straumur 1930.

Bjarni ákvað því að halda búskapnum í Straumi óbreyttum um sinn og fékk bústjóra til að flytja í Straum og annast búreksturinn. Þegar mæðuveiki kom upp á suðvesturhorni landsins um 1937-38 varð að fella bústofn Bjarna og þar með var engin þörf lengur fyrir bústjóra. Þorbjörg Þorkelsdóttir eiginkona Bjarna leigði KFUK í Reykjavík Straumshúsið fyrir lágt verð sumarið 1938. Næstu árin fékk KFUK húsið til afnota og hélst þessi tilhögun til ársins 1946. Straumur var sumardvalarstaður fyrir stúlkur á vegum KFUK en Vindáshlíð tók við þessu hlutverki árið 1949.

Kapelluhraun

Skógrækt ríkisins fór illa með lfyrrum land Straums í Kapelluhrauni.

Bjarni leitaði stöðugt að kaupanda að Straumi, Þorbjarnarstöðum og Lambhaga en lítið þokaðist, enda voru Hraunin farin í eyði áður en fyrri heimsstyrjöldin brast á. Hann leitaði til ýmissa aðila, þar á meðal Hákonar Bjarnasonar skógræktarstjóra sem þótti koma til greina að Skógrækt ríkisins eignaðist jörðina, en vildi lítið sem ekkert greiða fyrir hana.

Brunntorfur

Í Brunntorfum.

Sumarið 1944 var bundist fastmælum að Skógrækt ríkisins keypti nokkurn hluta af löndum Straums og Þorbjarnarstaða, en staðreyndin var sú að Bjarni gaf því sem næst þennan hluta jarðar sinnar. Samkvæmt frétt sem birtist í Vísi 14. desember 1944 var um kjarri vaxin hraun að ræða sem ætlunin var að kaupa fyrst og fremst til þess að sjá hversu miklum þroska trjágróður gæti náð á þessum stað. Reykjanesskaginn var illa farinn vegna óhóflegrar beitar og voru miklar vonir bundnar við að auka mætti gróður til verulegra muna með því að friða landið að hluta eða öllu leyti.

Tjörvagerði

Tjörvagerði.

Vorið 1948 var gengið frá jarðakaupum Skógræktar ríkisins á 600 ha landi í Almenningi úr landi Straums og Þorbjarnarstaða. Sama vor plöntuðu starfsmenn Skógræktarinnar út 1000 sitkagreniplöntum í Almenningi í upplandi Þorbjarnarstaða í um 50 metra hæð yfir sjávarmáli nærri Fornaseli (ofan við Brunntorfur). Vorið 1954 var landsvæðið girt af með 6 km langri girðingu til að vernda barrtrén sem búið var að gróðursetja og til að sjá hvernig sjálfgræðslu lands í hrauninu miðaði ef það væri beitarfriðað.

Þorbjarnastaðarauðimelur

Í Þorbjarnastaðarauðamel.

Bjarni Bjarnason afsalaði Skógrækt ríkisins landinu sem hann seldi árinu áður með bréfi sem var dagsett 16. febrúar 1949. Þar segir: ,,…Þann hluta …sem liggur milli þjóðveganna til Krýsuvíkur og Keflavíkur, frá norðurbrún Nýjahrauns og að landamerkjum Straums og Óttarsstaða, með gögnum og gæðum og án allra kvaða. – Undanskilið gjöfinni er norðausturhorn landsins (neðsti hluti Nýjahrauns), frá vörðu vestarlega á Rauðamelshólum og línum dregnum frá henni, annars vegar hornrétt á Krýsuvíkurveg, en hins vegar í beina stefnu á Reykjanesbraut á hábrún Nýjahrauns, ofan Þorbjarnarstaða og Litla-Lambhaga.

Straumur

Fjárskjól við Tjörvagerði.

Sama dag seldi Bjarni landspilduna sem hann undanskildi til Hákons Bjarnasonar skógræktarstjóra ríkisins. Spildan markaðist af ,,Reykjanesbraut að vestan, að norðan af landamerkjum Hvaleyrar og áðurnefndra jarða, og að öðru leyti af línum dregnum úr vörðu á Rauðamelshólum, eins og nánar er tiltekið í afsali mínu til Skógræktar ríkisins, dagsettu í dag.”
Hákon Bjarnason gaf Landgræðslusjóði þessa landspildu til eignar 7. febrúar 1967, að undanskildu túni Þorbjarnarstaða og 100 metra spildu í allar áttir frá túngarðinum.

Árið 1955 gerði Hafnarfjarðarbær makaskiptasamning við Skógrækt ríkisins um viðbótarhluta úr landi Straums. Þann 7. apríl 1994 afsalaði Landgræðslusjóður öllu landi sínu í Straumi til Hafnarfjarðar en það var 223,6 ha að stærð. Ríkissjóður, fyrir hönd Skógræktar ríkisins, seldi Íslenska álfélaginu Straumi, austan Reykjanesbrautar, u.þ.b. 220 ha, 30. nóvember 2001. Undanskilið var í sölunni land Tjarnarhóls, Gerðis og Þorbjarnarstaða.

Brunntorfur

Skógrækt í Brunntorfum.

Vorið 1956 tóku nokkrir einstaklingar við skógræktarsvæðinu í Almenningi og var litið á þetta sem tilraunareit. Landsvæðið sem var lagt undir verkefnið spannaði 140 ha. hrauns, annarsvegar ágætlega gróið beitiland í Almenningi og hinsvegar brunahraun sem var hluti Nýjahrauns sem rann um 1151. Hafist var handa við að girða landið og hófst útplöntun um 1960. Þeir sem tóku stærsta hluta svæðisins í fóstur voru Björn Þorsteinsson sagnfræðingur, Þorbjörn Sigurgeirsson prófessor, Broddi Jóhannesson skólastjóri Kennaraskólans og Marteinn Björnsson. Fengu þeir plöntur og áburð frá Skógrækt ríkisins en önnuðust sjálfir útplöntun með fjölskyldum sínum og vinum. Á næstu árum bættust Kristinn Skæringsson frá Landgræðslu ríkisins og Arngrímur Ísberg í hópinn. Þessir menn kölluðu sig Landvinningarflokkinn sín á milli.

Þorbjarnastaðir

Þorbjarnastaðir – tilgáta ÓSÁ.

Gróskumikill barrskógur er nú á þessu 50 ha landi og víða orðinn svo þéttur að full ástæða er til að ráðast í grisjunarvinnu. Sjálfsánar furur og greni er víða að sjá og landið nánast sjalfbært að þessu leyti. Kjarrlendi í Almenningi hefur jafnframt tekið verulega við sér eftir að sauðfjárbeit var að mestu útrýmt á þessum slóðum. Víðáttumiklir birki- og víðiflákar breiða úr sér og inn á milli má finna stór birkitré. Allvíða eru einirunnar en lynggróður og mosi þekja stærsta hluta Almennings. Þetta er fyrirtaks útivistarsvæði og spennandi gönguland með miklu meiri gróðri en hægt er að ímynda sér og ótrúlega margbreytilegum hraundröngum, klettum, hæðum, hólum, flatlendi, kötlum, gjótum og jarðföllum.

Óttarsstaðasel

Óttarsstaðasel – tilgáta.

Minjar frá þeirri tíð þegar búskapur var stundaður á Hraunabýlunum finnast út um allan Almenning. Gjásel, Fornasel, Straumssel, Óttarstaðasel og Lónakotssel eru í Almenningi miðjum og allt um kring eru grjóthleðslur sem voru fyrrum stekkir, kvíar, fyrirhlaðnir fjárhellar og skjól, eða skotbyrgi, réttir, vörður og hvaðeina sem tilheyrði gamla bændasamfélaginu. Þessutan liggja þarna þvers og kruss fornar götur, alfaraleiðir og innansveitarleiðir, smalaslóðar og fjárgötur sem enn markar fyrir þó svo að gróðurinn sé í óða önn að fela forðum gengin spor.

Heimild m.a.:
http://www.hraunavinir.net/almenningur/#more-1075

Straumssel

Straumssel og nágrenni – uppdráttur ÓSÁ.

Brunntorfur

Í Þjóðviljanum helgina 23.-24. ágúst 1980 var viðtal við Björn Þorsteinsson undir fyrirsögninni „Landvinningar á Reykjanesi“ um unaðsreiti og löglausan sauðfjárbúskap:

Fornasel

Hér reyndar um Fornasel ofan við Brunntorfur að ræða.

„Reykjanesskaginn hefur jafnan búið yfir mestu aðdráttarafli allra héraða á Íslandi. Björn Þorsteinsson prófessor hefur um áratugaskeið stundað skógrækt í Straumsheiðinni ásamt nokkrum öðrum áhugamönnum um landgræðslu. Þar heitir í Straumsseli. Björn telur Reykjanesskagann vera hið mesta gósenland vegna margvíslegra landkosta og vill friða hann fyrir sauðfé og láta úthluta fólki þar ræktunarlöndum. Við áttum samtal við Björn fyrir skemmstu og þar útlistaði hann sjónarmið sín.
— Já, Reykjanesskaginn hefur jafnan búið yfir mestu aðdráttarafli allra héraða á Íslandi. — Eftir rækilega rannsókn á landkostum sló fyrsti landnámsmaðurinn tjöldum til frambúðar í Reykjavík. Þar var mikið undirlendi, varp- og akureyjar, þar var hægt að rækta bygg og brugga, góð fiskimið, laxár, veiðivötn, selalátur, hvalreki og geirfuglabyggðir skammt undan og fuglabjörg, góðar hafnir, heitar laugar og talsverður reki. Auk þess var beitiland sem aldrei brást á Reykjanesskaga.

Björn Þorsteinsson

Björn Þorsteinsson í Brunntorfum.

Skaginn var skógi vaxinn og þar gekk sauðfé sjálfala frá upphafi vega uns Herdísarvíkur-Surtla féll fyrir hundum og mönnum árið 1952 að mig minnir, sællar minningar. Hvergi var öllum þessum gæðum hlaðið jafn ríkulega á eitt hérað og af því býr þar nú nálega helmingur þjóðarinnar. Skaginn var síðar nefndur Gullbringusýsla, en það mun afbökun. Dönsku umboðsmennirnir hafa kallað Bessastaðaumboðið: Den guld indbringende syssel.
Menn sóttu hingað á Inn- og Suðurnes frá upphafi vega, keyptu sér land eða hótuðu hernaði fengju þeir ekki jarðnæði. Eyvindur í Kvíguvogum hrökklaðist t.d. til Heiðarbæjar undan Hrolleifi Einarssyni Ölvissonar barnakarls. Hér urðu menn að bindast samtökum, stofna til þinghalds og stjórngæslu til þess að verjast hvers konar ágangi. Upphafs allsherjarríkis mun að leita á Þingnesi við Elliðavatn.

Fornasel

Þetta er vatnsstæðið í Fornaseli.

Blm.: Voru ekki útvegsbændur á Reykjanesskaga einhverjir ríkustu menn landsins hér fyrrum?
— Jú, fiskimiðin hafa verið svo stórgjöful við Reykjanes að þar hafa jafnan verið einhverjar bestu verstöðvar landsins. Allt frá því á 15. öld hafa stórveldi glímt um Reykjanesskaga. Ég vil einnig bæta því við að jarðhitinn á Reykjanesskaga er ómældur og lítið nýttur enn. Garðbæingar ættu að vita að laug var í Hliðstúni, en hefur aðeins komið upp síðustu aldir á blásandi fjöru. Volgra var norðan til við Arnarnesi undan Gvendarbrunni, en á Reykjanesskaga heitir fersk uppspretta Gvendarbrunnur. Um skagann liggja mörk skaparans milli austurs og vesturs. Þar skiptir hann veröldinni með eldsprungu sem er nú einna virkust norður í Gjástykki.
Brunntorfur—Skaginn er í rauninni ein af tilraunastöðvum skaparans í landasmíð. Þar æfir hann tilvonandi arkitekta sköpunarverksins áður en hann felur þeim stærri verkefni annars staðar í geimnum.
Þar er hvert náttúruundur öðru meira. Eitt er Kleifarvatn, ævintýravatn, sem menn nýta ekki til neinnar hlítar af því að í því er flóð og fjara, en láðst hefur að binda vatnsborðið. Það er auðgert með um 4 km skurði, en að honum gerðum opnast ómældir möguleikar til fiskræktar og annarrar ræktunar, búsetu og siglinga.
Blm.: Nú er Reykjanesskagi í vitund margra heldur hrjóstrugur. Ert þú á annarri skoðun?
— Já, skaginn er í raun mjög frjósamur, en gróðri var eytt þar gegndarlaust á 19. öld. Eftir 1820 hefur engin stórplága geisað hér landi og sveitirnar yfirfylltust af fólki. Þá flýði það hrönnum til verstöðva og á Vatnsleysuströnd komst fólksfjöldinn upp í um 650 manns árið 1870. Þá var gróðri skagans eytt svo að hann hefur staðið rúinn og eyddur eftir. Ég tel að mikill orkusparnaður yrði að því að veita ræktunarfúsu fólki landspildur á skaganum gegn ræktunarskyldu. Á þann hátt væri hægt að breyta skaganum í sígrænan gróðurreit á 10-15 árum. Fólk við Faxaflóa þarf ekki að æða norður í Aðaldal til þess að tjalda á hrauni. Skaginn er mjög fagur og fjölbreyttur og sökum orkukreppu er brýnt að Faxaflóaþjóðin kynnist því að þar eru dásemdir tilverunnar engu minni enn annars staðar á landinu.

Blm.: — Og því vilt sem sagt friða Reykjanesskaga fyrir sauðfé?
— Já, með því og að úthluta fólki þar ræktunarlöndum vinnst þrennt: Fólki hættir að leiðast, orkuvandinn leysist því að menn losna við að flýja austur á Hérað eða til sólarlanda sér til afþreyingar og nytjaskógar og unaðsreitir munu prýða Reykjanesskagann. Síðast en ekki síst er óhemjukostnaði við girðingar létt af ræktunarmönnum.

Hraunin

Hraunin ofan Straumsvíkur.

Blm.: Hafið þið Straumsheiðingjar orðið fyrir tjóni af völdum sauðfjár í landi ykkar?
— Við erum líklega búnir að planta um hundrað þúsund trjáplöntum síðan við byrjuðum og þó að girðingin sé tvöföld, bæði gaddavír og vírnet, er tjónið ómælt. Það þarf ekki nema eina kind að brjótast inn til að valda miklum skaða. Ísland var og er eignarréttarins land. Hingað komu menn til þess að eignast land og hér voru engir frumbyggjar fyrir, —landið var numið til séreignar, en með því er ekki sagt að eignarrétturinn sé svo heilagur að leggja þurfi í auðn hans vegna heil héröð. Ég tel að eigendur sauðfjár eigi að gæta eigna sinna í heldum girðingum. Þeir eiga að vera ábyrgir fyrir tjóni sem rollurnar valda hjá öðrum. — Það þættu skrýtin lög í landi ef innbrotsþjófar gætu afsakað gerðir sínar með því að læsingar væru ekki nægilega traustar. Hér hafa hirðingjasjónarmið ríkt um aldir og sauðfé verið friðheilagt enda hefur gróðurlendi eyðst  jafnt og þétt eins og hjá öðrum hirðingjum. Mál er að linni og gróðurinn verði friðhelgur.

Hraunin

Hraunin ofan Straumsvíkur.

Blm.: Hvað er til ráða? Hvernig á að breyta alda gamalli hefð?
— Í lögum er og hefur verið um aldir ákvæði um ítölu, ítölu búfjár í haga. — Ítala er ákvörðun eða öllu heldur áætlun um það hve margt búfé hver og einn megi hafa í sameiginlegu beitilandi. Ítala er leyfður fjöldi búfjár frá hverjum nytjanda beitar í sameiginlegt land. Nú mun um þriðjungi fullorðins sauðfjár ofaukið í haga hér á landi. Þennan bústofn verður að skera niður. Enginn, hvorki stétt manna né einstaklingur á minnsta rétt á því að eyða lífríki landsins, leggja gróðurlendi í auðn. Ítöluákvæðinu var framfylgt allstrangt oft á tíðum fram á öld véltækni og fóðurbætis, en eftir það hefur allt gengið úr skorðum. Vistfræðingar okkar eiga að vita nú orðið nákvæmlega hvað hektari gróðurlendis ber af búfé, og auðvitað þolir landið misjafnlega mikið eftir aðstæðum og gróðurfari. Þeir eiga að stjórna ítölu í landið undir forystu landgræðslustjóra með aðstoð stjórnvalda. Allt annað er stjórnleysi eða anarkismi. Útgerðarmenn verða að leggja skipum sínum af því að vernda þarf fiskistofna. Á sama hátt verða bændur að takmarka búsmala sinn af því að vernda þarf gróðurlendi. Landeyðing er höfuðglæpur og íslenskur sauðfjárbúskapur er víða vélvædd rányrkja.

Brunntorfur

Fjárskjólið í Brunntorfum.

Líttu á Grafninginn og uppsveitir Rangárvalla- og Árnessýslu, svo að dæmi séu tekin. Ég veit að núverandi landgræðslustjóri, Sveinn Runólfsson, hefur beitt ítöluákvæðum til þess að draga úr ofbeit á einstökum svæðum en gróðurlendur eru samt á undanhaldi og því má alls ekki una. Menn hafa verið að amast við sumarbústöðum borgarbúa á ýmsum forsendum en þeim fylgir gróður, sauðfjárbúskap og auðn.
Ingvi Þorsteinsson sagði í Þjóðviljanum fyrir hálfum mánuði að Grænland væri ekki ofbeitt enda fallþungi dilka þar meiri en hér. Þetta stafar ekki af framsýni bænda þar í sveitum, heldur af því að þeir setja enn á guð og gaddinn og horfalla árlega, gjörfelldu 1968 og rollubúskapurinn hangir þar á horriminni. Þeir eru litlir ræktunarmenn, en hér er heyöflunin vélvædd og þar með er haldið lífi í hundruðum þúsunda sauðfjár á vetrum og þeim sleppt á úthagann þessa fáu mánuði, sem hér er þíð jörð.
Ef náttúran fær að vera í friði ríkir oftast einhvers konar jafnvægi innan hennar. Nútímabúskapur hefur rofið þetta jafnvægi hjá okkur. Hér eru milljarðar greiddir í verðbætur til bænda til þess að þeir geti eytt landinu, en aðrir milljarðar eru greiddir í landgræðslusjóð. — Þessi háttur skipulagsmála var eitt sinn kenndur við Bakkabræður.
Stórsektir þarf að leggja við landeyðingu — í stað þess að nú er hún verðlaunuð.

Fornasel

Í Fornaseli (Brunnseli?).

Blm.: Þú minntist eitt sinn á það við mig að stofna þyrfti landvinningafélag til þess að herja á auðnirnar, endurheimta þær í ríki gróðursins. Hefurðu gert eitthvað í þeim málum.
— Ég er orðinn ónýtur í öllu félagsstarfi. Hins vegar þykir mér tímabært að gera menningarbyltingu á Íslandi. Hér verða menn að hverfa frá hirðingjamenningu og taka upp ræktunarmenningu. Þeir verða að hætta að trúa á heilaga sauði, og hver maður verður að vera ábyrgur fyrir eigum sínum og þar með sauðkindum, sem valda mér og öðrum óbætanlegu tjóni. Hirðingjar hafa ávallt skilið eftir sig sviðið land, hvort sem þeir búa austur í Mongólíu, suður í Arabíu eða norður á Íslandi.
Blm.: Eiga þá sauðfjáreigendur að girða af sauði sína?
Björn: Í ræktunarlöndum í grennd við þéttbýli á sauðfé ekki að líðast. Það er ómannlegt að leggja þá byrði á ræktunarmenn að girða af hvern skika vegna þess að nokkrir sauðfjárdýrkendur hafa það sér til dundurs að halda skemmdarvörgum til beitar í löndum þeirra. Allir sem vilja rækta land eiga að geta fengið erfðafestuskika að kostnaðarlausu gegn ræktunarskyldu á friðuðu landi. Erfðafestan á að falla úr gildi og landið að ganga aftur til fyrri eiganda, ef ræktunarskyldunni er ekki fullnægt.
Blm.: Þetta hljómar vel, en ríki og bæjarfélög eiga fæst mikið land til slíkra hluta.
Björn: Ef menn nýta ekki landið, eins og t.a.m. Reykjanesskagann, á ríkið að gera slík svæði upptæk til handa þeim, sem eru fúsir til þess að rækta þau. — Hér hefur ræktunarmálum verið mjög litið sinnt. Engin fræðsla er um þau mál innan hefðbundins skólakerfis. Eitt hið fyrsta sem gera þarf er að fræða fólk um það, hvernig hægt er að rækta landið. Ég get best borið um það sjálfur, að vanþekking mín á ræktunarmálum hefur verið mér dýr. —

Fornasel

„Brunnurinn“ (vatnsstæðið) í Fornaseli (Brunnseli?).

Ræktunarfræðsla þarf að verða kjörsvið í öllum skólum. Þar á fólk að geta fræðst um undirstöðuatriði í garðrækt, ylrækt, trjárækt og skipulagningu garða og gróðursvæða, og margt annað kæmi til álita, ef mannafli og fræðslu væri til.
Hér er garðyrkjuskóli og útskrifar ágætlega menntað fólk, en þetta ágæta fólk fær mér vitanlega enga þjálfun í því að miðla öðrum af þekkingu sinni, kenna fræði sín. Þekking á lífríkinu í kringum okkur er hverjum manni dýrmætt veganesti. Fræðsla í margs konar náttúrufræðum hlýtur að vaxa í framtíðinni. Ræktunarfræðsla er mikið og vanrækt mál. — Það er ekki á okkar færi að fjalla um það sem skyldi. Menningarbylting verður að vera mjög róttæk ef hún á að standa undir nafni. – G.Fr

Rétt er að geta þess að sel það er fjallað er um í greininni er ekki Straumssel, heldur Fornasel ofan við Brunntorfur (sjá m.a. mynd af vatnsstæðinu við Fornasel, sem sagt er að sé við Straumssel). Fornasel er ofan við Gjásel (þessum seljum er stundum ruglað saman í skrifum), en það hefur einnig verið nefnt „Brunnsel“, sbr. „Brunntorfur“. Straumssel er mun vestar, í svonefnum Almenningum. – aths. ÓSÁ.

Heimild:
-Þjóðviljinn – 191.-192. tölublað (23.08.1980); Viðtal við Björn Þorsteinsson um unaðsreiti og löglausan sauðfjárbúskap á Reykjanesi, bls. 12-13.

Brunntorfur

Í Brunntorfum.

Straumssel

Straumsselið er merkilegt – ekki síst í sögulegu samhengi Almennings. Það er einn merkilegasti fornminjastaðurinn í Almenningi. Þar í kring eru nú [2014] minjar sem ekki hafa verið skrásettar. Má þar nefna seltóftirnar sjálfar, sem eru nokkru ofan við bæjartóftir þær er nefndar eru til sögunnar hér á eftir (og sjást að ofan).

Straumssel

Straumssel. Tóftir af húsi skógarvarðarins efst til vinstri.

Straumssel var á sínum tíma ekki bara sel heldur lögbýli frá 1849 þegar Guðmundur Guðmundsson sem var konungsskipaður umsjónarmaður skógarhöggs settist þar að. Búið var í Straumsseli fram undir aldamótin 1900 þegar bæjarhúsin brunnu.

Straumssel

Straumssel – tilgáta.

Straumssel er með stærri seljum í Hraunum. Þar var ágætis húsakostur fyrir aldamótin 1900 eins og tóftirnar bera með sér. Guðmundur Guðmundsson sem keypti jörðina af Páli Árnasyni setti byggð í Straumsseli 1849, en hafði þá búið þar í tvö ár. Fyrsta árið  bjó hann í selinu ásamt föður sínum, Guðmundi Bjarnasyni, sem var oft nefndur KrýsuvíkurGvendur. Þeir bjuggu stutt í selinu því Guðmundur Bjarnason  andaðsti aldraður maður í Lambhaga vorið 1848 og Guðmundur sonur hans nokkrum árum seinna á Setbergi. Guðmundur Guðmundsson var settur skógarvörður í Almenningi og taldi auðveldast að sinna starfi sínu frá Straumsseli.

Straumssel

Straumssel.

Bjarni Einarsson leiguliði Guðmundar og ábúandi í Straumi klagaði búsetuna í selinu til yfirvalda þar sem honum þótti það skerðing á fornum rétti sínum. Guðmundur lofaði að fjölga ekki býlum í Straumslandi á meðan Bjarni byggi þar. Bjarni gekkst við sáttinni að því tilskildu að bygging hins gamla Straumssels væri sér með öllu óviðkomandi skyldu yfirvöld kæra.

straumssel-gardar

Byggt var vandað bæjarhús og var föst búseta  í Straumsseli í ein 40 ár með hléum enda vatnsstæði lélegt og erfið búsetuskilyrði. Meðal ábúenda í selinu voru hjónin Kolfinna Jónsdóttir og Sigurður Halldórsson sem bjuggu þar 1850-1860, er þau fluttu þau inn í Hafnarfjörð. Þessi hjón bjuggu síðan í Kolfinnubæ sem stóð þar sem Strandgata 41 er nú. Farnaðist þeim vel á þeim áratug sem þau bjuggu í Straumsseli þó kjörin hefðu verið kröpp. Sonur þeirra Bjarni fæddist í Straumsseli árið 1857. Talið er að síðast hafi verið búið í selinu 1890-1895. Jón Þorsteinsson bjó þar síðastur allra, en hann fórst þegar bærinn brann og eftir það var ekki byggt upp aftur í Straumsseli.

Á einum stað í Almenningi voru hugsanleg landamerki Ölfuss og Seltjarnarneshreppsins gamla, er varðan talin vera mjög merkileg, ef hún telst vera landamerkjavarða. Á ofanverðum Skorási er landamerkjavarða [-vörður] milli Hafnarfjarðar og Hvassahrauns, sem er þá líka merkjavarða á milli sveitarfélaganna Hafnarfjarðar og Vatnsleysustrandar. Telja ber að vörður hafi almennt mikið minjagildi – og sama gildir um hlaðna garða við selin.

Fornasels-, Gjáselsstígur.

Fornasels-, Gjáselsstígur.

Stundum er sagt að viðkomandi varða sé illa hlaðin, sennilega endurhlaðin eða nýleg varða. Um þetta má segja að ekki er hægt að bera saman þjóðleiðavörðurnar sem voru gerðar samkvæmt konungsskipun á seinni hluta 19. aldar og eru mjög vandaðar og nokkuð svipaðar að gerð.

Hafurbjarnarholt

Hafurbjarnarholt – varða.

Þessar vörður voru lögvörður og áttu að hafa ákveðið útlit og standa lengi. Vörðurnar í Almenningi eru af nokkrum tegundum og auðþekkjanlegar. Þær eru aldrei mjög vandaðar og alls ekki í líkingu við þjóðleiðavörðurnar. Lesa má þó úr vörðunum hvaða merkingu þær höfðu m.t.t. til tilgangs. Búlduleit varða sem er eins og heysáta, lítil eða stór, vísar nánast alltaf á fjárhelli, skúta eða fyrirhlaðið skjól. Uppmjóar vörður vísa á sel, eða staði þar sem hrís (eldiviður) var geymt. Lágar vörður sem eru bara nokkrir steinar vísa á innansveitar leiðir, t.d. leiðirnar í selin, í stekkina, réttirnar eða eitthvað ámóta.  Tveir steinar á þremur stöðum benda á gömul greni. Á nokkrum stöðum eru voldugri vörður, eins og við Straumsselsstíginn austari, en sá stígur var á sínum  tíma nytjaleið út frá Fornaselsstíg  og Gjásselstíg.

Straumssel

Straumssel – brunnurinn.

Landamerkjavörðurnar milli Hraunajarðanna eru oft með uppmjóum steini í toppinn eða einum stórum steini sem er miklu stærri en hinir sem mynda grunninn. Svo eru hleðslur sem líta út eins og vörður en eru í rauninni skotbyrgi sem notuð voru þegar legið var fyrir ref, því hann ógnaði mjög sauðfénu sem var á útibeit allt árið. Eina slíka má sjá við Straumsselstíginn (vestari) er liggur upp með vestanverðu Draughólshrauninu. Á þeirri leið er t.d. Straumsselsstígsskjólið.

Fornasel

Fornasel – tilgáta.

Selstígur sá, sem á seinni tímum hefur verið nefndur „Straumsselsstígur“ er í raun Fornaselsstígur og síðar Gjáarselsstígur, eins og fyrr sagði. Afleggjari af honum liggur upp í Straumssel ofan við Flár. Varða er á mótunum. Þessi selsstígur er allur innan fyrrum landamarka Þorbjarnarstaða.
Straumsselsstígurinn liggur hins vegar um Straumslandið vestan Draughólshrauns – beint í Straumsselið fyrrum. Hann er miklu mun greiðfærari en „tvíburabróður“ hans í austri. – og vel varðaður allt upp að „millumstíg“ Straumssels og Óttarsstaðasels.

Straumssel

Straumsselsvarðan.

 

Straumssel

Gengið var eftir vestari selsgötunni að Straumsseli.

Almenningur

Neðri-Straumsselshellar.

Komið var við í nátthaganum vestan stígsins, en þar eru miklar hleðslur á milli hraunhóla. Þegar komið var upp í selið voru skoðaðir garðar umhverfis stóru tóttirnar, sem virðast vera frá gamla bænum er brann seint á 19. öld. Brunnurinn var hálffullur af vatni, en hann er í holu við norðurhorn tóttanna. Augljóst er að botn holunnar hefur verið þétt með torfi, því í öðrum nálægum hraungjótum drýpur vatn niður í hraunið. Skoðuð var tótt suðaustan við megintóttirnar. Líklegt er að þar sé gamla selstóttin. Gamall brunnur er vestan við tóttirnar og hleðslur við hann.

Straumssel

Straumssel – selið.

Að þessari tótt kemur eystri selsstígurinn frá Gjáselsstíg. Frá henni liggur einnig stígur upp í Neðri-Straumsselshella og Efri-Straumsselhella. Báðir þessir hellar voru skoðaðir enn á ný. Gerðið umhverfis efri hellinn hefur verið endurhlaðið og breytt frá upphaflegri gerð. Líklega hefur aðstaðan þar verið notuð sem rétt eða nátthagi um tíma.
Efri-Straumsselshellar

Efri-Straumsselshellar.

Þorbjarnastaðir

Gengið var um Brunntorfur að Þorbjarnastaðafjárborginni í Kapelluhrauni, upp í Fornasel og Gjásel í Almenningum, yfir í Straumssel, Óttarstaðasel og Lónakotssel, niður í Óttarstaðafjárborgina, um Alfaraleið að Gvendarbrunni og áfram niður að Þorbjarnastöðum.

Þorbjarnastaðir

Þorbjarnastaðir.

Getgátum hefur verið leitt að nafninu Brunntorfur. Á sumum kortum er það skráð Brundtorfur, þ.e. tengist brundtíð. Brunntorfur hefur skírskotun til brunns eða vatns á svæðinu, sem reyndar er ekkert á þessu svæði. Þriðja skýringin er að þar hafi átt að standa Bruntorfur, sbr. Brunatorfur eða Brunahraun. Hins vegar er í Brunntorfum rúmgott fjárskjól, sem ekki ólíklega hefur verið fyrir sauði.

Þorbjarnastaðaborgin stendur á jarðri Kapelluhrauns. Hún er fallega og vandlega hlaðin úr hraungrýti af börnum Þorbjarnarstaðahjóna um aldamótin 1900.

Víða í hrauninu má sjá mannvirki er tengst hafa fjárbúskapnum fyrrum, en þessi fjárborg er mest þeirra.

Þorbjarnarstaðaborg

Þorbjarnarstaðaborg.

Fornasel er á grónum hraunhól suðvestan við Þorbjarnarstaðaborgina. Ofan við selið er há varða á hraunhól. Stórt og gott vatnsstæði er við seltóftirnar. Bjarni Einarsson, fornleifafræðingur gróf í tóftirnar fyrir stuttu síðan. Taldi hann þær vera frá því á 14. eða 15. öld.
Gjásel er einnig á grónum hraunhól, norðvestan við Fornasel. Lægð er við tóftirnar, sem að öllum líkindum hefur verið vatnsbólið. Norðan undir hæðinni er hlaðinn stekkur í skjóli.

Fornasel

Fornasel – tóft.

Stefnan var tekin til vesturs, yfir að Straumsseli. Varða á hól vísar leiðina að selinu. Þegar komið var yfir hólinn blöstu tóftir og garðar við. Straumselið var nokkuð stór því þar byggðist upp bær, sem búið var í um tíma. Seltóftirnar sjálfar er suðaustan við bæjartóftirnar. Þar við er stekkur. Vatnsbólið er norðan við megintóftirnar, við vörslugarðinn. Í kringum Straumssel eru allnokkur mannvirki, tengd búskapnum, s.s. Neðri-Straumsselshellar og Efri-Straumsselshellar. Straumsselið hefur GPS-staðsetningapunkt, sem auðvelt er að leggja á minnið, eða 6401000-2201000.

Óttarsstaðasel

Óttarsstaðasel.

Gengið var yfir í Óttarstaðasel og síðan Lónakotssel. Stígur er á milli seljanna og er u.þ.b. 20 mínútna gangur á milli hvers þeirra. Mannvirki eru allnokkur, s.s. fjárskjól, stekkir, nátthagar og vatnsstæði.
Haldið var norður Lónakotsselsstíg, gengið yfir að Óttarstaðafjárborginni. Fjárborgin er stundum nefnd Kristrúnarborg eftir Kristrúnu Sveinsdóttur frá Óttarstöðum, sem hlóð hana ásamt vinnumanni sínum, Guðmundi Sveinssyni, um 1870.
Alfarleiðin var gengin til austurs, framhjá Gvendarbrunni að Þorbjarnastöðum.

Óttarsstaðaborg

Óttarsstaðaborg.

Straumsselsstígur vestari

Gengið var að þessu sinni í Straumssel frá Þorbjarnarstaða-Rauðamel, en þaðan er styst í selið, u.þ.b. 20 mínútna ganga. Straumsselsstígurinn liggur upp í hraunið vestan við Þorbjarnarsstaði og sést hann glögglega frá Reykjanesbrautinni. Hann liggur yfir Alfararleiðina, suður á milli Stekkjarhólanna, um skarð í Jónasarhól og upp Seljahraunið og áfram skammt frá Toppuklettum. Í þeim er hlaðið gerði. Þar taka Flárnar við allt upp undir Jónshöfða, yfir úfið hraun, Katlana, og á Straumsselshöfða. Þá sést heim að Straumsseli.

Straumssel

Straumssel – bær skógavarðarins.

Að þessu sinni var gengið upp fyrir Rauðamelsgryfjurnar, upp með hraunkantinum og yfir tiltölulega slétt gróið hraun þangað til komið var inn á Gjáarselsstíg. Honum var fylgt að hraunkanti uns hann beygir til suðausturs. Þar hægra megin við stíginn er lítil varða. Farið var út af stígnum við vörðuna og beygt eftir stíg til suðurs. Stígurinn er vel greinilegur ef vel er að gáð, en litlar vörður á hólum hingað og þangað geta auðveldlega afvegaleitt fólk á þessari leið. Stígurinn liggur bestu leiðina upp og í gegnum hraunið. Hún er mjög greiðfær, en auðvelt er að láta glepjast af leið. Stígurinn liggur svo til beint að Straumsseli, en skömmu áður en komið er að því beygir hann til suðausturs og síðan til suðurs þannig að komið er að selinu úr norðaustri. Að þessu sinni skein sólin á tóttirnar og garðana í kring þegar komið var að því. Keilir reis tignarlegur í bakgrunni.

Straumssel

Neðri-Straumsselshellar.

Straumssel er merkur staður. Það hefur upphaflega verið sel frá Straumi, en selið síðan þróast í bæ. Tóttirnar bera þess merki. Þær eru stærri og rúmbetri en í öðrum seljum á Reykjanesi. Garðar eru allt í kringum túnin og er fallega hlaðinn stekkur sunnan við tóttirnar. Vatnsstæði er í skúta norðan við þær. Í Straumsseli var búið stundum á 19. öldi. Síðast á árunum 1890-1895. Bæjarhúsin eyddust af bruna og hefur ekki verið búið þar síðan.
Í suðri sést í Hafurbjarnaholt, kennt við Björn Gnúps-Bárðarson, Hafur-Björn, sem samninginn gerði við bergbúann forðum. Gerðu þeir helmingaskipti í fjáreign. Segir sagan að þá hafi komið hafur og hrútur í féð og var þá sem tvö höfuð væru á hverri skepnu. Gerðist Björn þá fjárríkasti bóndi á Suðurnesjum.

Straumssel

Straumssel – Efri-Straumselshellar.

Eftir stutta dvöl í Straumsseli var haldið áfram til suðausturs upp frá selinu. Eftir um sjö mínútna gang var komið í Straumsselshella-neðri. Þetta er rúmgóður fjárhellir utan í holti og snýr opið til vesturs.
Áfram var haldið upp hraunið til suðausturs. Þegar komið var upp á brúnina eftir um fimm mínútna gang var komið í Straumsselshella-efri. Þeir eru rúmgóður fjárhellir og vel manngengur.

Straumssel

Straumssel – Efri-Straumselsshellar.

Hlaðið er fyrir munnan, en hellisopið er innan við fallega hlaðið gerði í hraunbala. Það var um tíma notað sem rétt. Ofan við gerðið að norðanverðu er hlaðið byrgi eftir refaskyttu. Í suðri blasir Gamlaþúfa við. Deilt hefur verið um hvort hún eða Markhelluhóll, sem er allnokkru sunnar, eigi að marka lendur aðliggjandi jarða.

Straumssel

Straumssel – Efri-Straumselshellar.

Gengið var allt í kringum Straumsselið og umhverfi þess skoðað. Síðan var haldið til baka eftir stígnum. Gangan tók um 1 og ½ klst í einstaklega fallegu veðri.
Sjá meira MÉR og HÉR.

Straumssel

Straumselsvarða.

Straumssel

Gengið var frá Óttarsstaðafjárborginni (Kristrúnarfjárborg), hlaðin um 1870, yfir á Alfaraleið og upp í Brennisel.

Brennisel

Brennisel.

Brenniselshæð er þar nefnd skv. heimildum og sjá má selið í hraunkvos. Um erð að ræða tóft og fallega hlaðið skjól. Hlaðið er fyrir fjárskjól skammt austar. Norðan við Brenniselið eru enn eldri minjar um kolagerð. Þar smá sjá hlaðinn vegg í skjóli við hraunhærð. Gróið er yfir hleðsluna, en ef vel er að gáð má sjá móta fyrir henni.
Frá Brenniselinu, sem auðkennt er með vörðu ofan við það, var gengið að Álfakirkjunni og fjárskjólið undir henni skoðað. Um er að ræða tignarlega klofkletta. Undir þeim er skjól og hleðslur fyrir. Það var trú Hraunamanna að Álfakirkjan væri helgasti staður álfanna í Hraunum. Þá trúðu þeir því að álfarnir héldu verndarhendi yfir fénu er leitaði skjóls í skjólinu.

Bekkjaskúti

Bekkjaskúti.

Haldið var yfir hraunið og að Bekkjaskúta utan í jarðfalli skammt vestan við Óttarsstaðasel og þaðan í Sveinsskúta skammt ofar. Frá honum var stígnum fylgt að Norðurhelli og í Óttarsstaðasel. Litið var á tóftir selsins og brunnstæðið vestan selsins, stekkinn, Þúfhólsskútann, Nátthagann og Rauðhólsskúta áður en stefnan var tekin austur yfir hraunið að Efri-Straumsselhellum.
Efri-Straumsselshellar eru með miklum hleðslum umhverfis. Smalabyrgi er ofan á holtinu. Hlaðið er um opið á hellinum, sem er allrúmgóður, en einhvern tímann hefur gerðinu verið breytt í rétt.

Efri-Straumsselshellar

Efri-Straumsselshellar.

Frá Efri-Straumsselshellum var gengið norður að Neðri-Straumsselhellum og síðan niður í Straumssel. Hellarnir eru rúmgóð fjárskjól. Skammt ofan neðri hellanna er forvitnileg hleðsla, sennilega fallin hleðsla um op í enn eitt fjárskjólið. Þarf að skoðast betur síðar.
Ljóst er að stóra tóftin í Straumsseli, sem talin er hafa verið selið er líkast til af gamla bænum, sem búið var í er hann barnn skömmu fyrir aldamótin 1900. Straumsselið er skammt sunnar og sést það vel ef að er gáð. Vestan þess er gamall brunnur. Núverandi brunnur er hins vegar norðan við bæinn og var gott vatn í honum.
Frá Straumsseli var haldið norðvestur yfir brunahraunið og það skoðað, m.a. myndalegt jarðfall norðan selsins. Í botni þess vex falleg burknaþyrping.
Frábært veður.

Óttarsstaðasel

Óttarsstaðasel.

Straumssel

Eftirfarandi er byggt á lýsingu Gísla Sigurðssonar um Straumssel:
“Gengið var í Straumssel frá Þorbjarnarstaða-Rauðamel, en þaðan er styst í selið, u.þ.b. 20 mínútna ganga. Straumsselsstígurinn austari liggur upp með Þorbjarnarstöðum Straumssel-222að austanverðu, suður á milli Stekkjarhólanna, um skarð í Jónasarhól, yfir Seljahraunið og upp í Toppukletta. Þar taka lárnar við allt upp undir Jónshöfða, yfir úfið hraun, Katlana, og á Straumsselshöfða. Þá sést að Straumsseli.
En að þessu sinni var gengið upp fyrir Rauðamelsgryfjurnar, upp með hraunkantinum og yfir tiltölulega slétt gróið hraun þangað til komið var inn á Gjáarselsstíg. Honum var fylgt að hraunkanti uns hann beygir til suðausturs. Þar hægra megin við stíginn er lítil varða. Farið var út af stígnum við vörðuna og beygt eftir stíg til

Straumssel

Straumssel – tilgáta.

suðurs. Stígurinn er vel greinilegur ef vel er að gáð, en litlar vörður á hólum hingað og þangað geta auðveldlega afvegaleitt fólk á þessari leið. Stígurinn liggur bestu leiðina upp og í gegnum hraunið. Hún er mjög greiðfær, en auðvelt er að láta glepjast af leið. Stígurinn liggur svo til beint að Straumsseli, en skömmu áður en komið er að því beygir hann til suðausturs og síðan til suðurs þannig að komið er að selinu úr norðaustri. Að þessu sinni skein sólin á tóttirnar og garðana í kring þegar komið var að því. Keilir reis tignarlegur í bakgrunni.

Straumssel-223

Op með fyrirhleðslu ofan við Neðri-Straumsselsfjárhella.

Straumssel er merkur staður. Það hefur upphaflega verið sel frá Straumi, en selið síðan þróast í bæ. Ber það þess merki. Þær eru stærri og rúmbetri en í öðrum seljum á Reykjanesi. Garðar eru allt í kringum túnin og er fallega hlaðinn stekkur sunnan við tóttirnar. Vatnsstæði er í skúta norðan við þær. Í Straumsseli var búið stundum á 19. öldi. Síðast á árunum 1890-1895.
Guðmundur Guðmundsson keypti Straumsjörðina af Páli Árnasyni sem hafði keypt hana 1839 af konungssjóði. Leigði hann heimajörðina en stofnaði sjálfur nýtt lögbýli. Guðmundur var gerður að skógarverði í Almenningi og settist að í Straumsseli um 1847. Hjá honum var faðir hans Guðmundur Bjarnason, oft nefndur Krýsuvíkur-Gvendur. Hann andaðist aldraður maður í Lambhaga vorið 1848, en Guðmundur skógarvörður andaðist fimm árum síðar í selinu, nánar tiltekið 1853. Þegar hann gerði Straumssel að bústað sínum klagaði leiguliði hans í Straumi búsetuna til sýslumanns.

Straumssel

Straumsselið gamla.

Leiguliðinn var Bjarni Einarsson útvegsbóndi sem hafði búið þar allt frá því jörðin var í konungseigu. Honum þótti það vera skerðing á fornum rétti landseta að skipta jörðinni upp með þessum hætti. Guðmundur lofaði að fjölga ekki býlum í Straumslandi meðan Bjarni byggi þar. Bjarni gekk að sáttinni að því tilskyldu að bygging hins gamla Straumssels væri sér með öllu óviðkomandi, skyldu yfirvöld kæra búsetuna. Föst búseta var í Straumsseli í ein 40 ár með hléum, enda vatnsstæði lélegt og erfið búsetuskilyrði. Meðal ábúenda í selinu voru hjónin Kolfinna Jónsdóttir og Siguður Halldórsson sem bjuggu þar á tímabilinu 1853-1863. Bæjarhúsin eyddust af bruna og hefur ekki verið búið þar síðan.

Efri-Straumsselshellar

Efri-Straumsselshellar.

Í suðri sést í Hafurbjarnaholt, kennt við Björn Gnúps-Bárðarson, Hafur-Björn, sem samninginn gerði við bergbúann forðum. Gerðu þeir helmingaskipti í fjáreign. Segir sagan að þá hafi komið hafur og hrútur í féð og var þá sem tvö höfuð væru á hverri skepnu. Gerðist Björn þá fjárríkasti bóndi á Suðurnesjum”.

Almenningur

Neðri-Straumsselshellar.

Eftir stutta dvöl í Straumsseli var haldið áfram til suðausturs upp frá selinu. Eftir um sjö mínútna gang var komið í Straumsselshella- neðri. Þetta er rúmgóður fjárhellir utan í holti og snýr opið til vesturs. Hlaðið er framan við munnann. [Skammt sunnan við opið mótar vel fyrir miklum hleðslum við op. Hleðslurnar eru fallnar og hafa lokað fyrir opið. Þarna mun vera op á öðrum fjárhelli, sem langur gangur átti að hafa verið inn í]. Áfram var haldið upp hraunið til suðausturs. Þegar komið var upp á brúnina eftir um fimm mínútna gang var komið í Straumselshella-efri. Þeir eru rúmgóður fjárhellir og vel manngengur. Hlaðið er fyrir munnan, en hellisopið er innan við fallega hlaðið gerði í hraunbala. Ofan við gerðið að norðanverðu er hlaðið byrgi. Í suðri blasir Gamlaþúfa við. Deilt hefur verið um hvort hún eða Markhelluhóll, sem er allnokkru sunnar, eigi að marka lendur aðliggjandi jarða.
Gengið var allt í kringum Straumsselið og umhverfi þess skoðað. Síðan var haldið til baka eftir vestari selsstígnum.
Frábært veður. Gangan tók um 1 og ½ klst.

Straumssel

Straumssel – uppdráttur ÓSÁ.

 

Straumssel

Gengið var um þvottastíginn að tóttum Þorbjarnastaða (fóru í eyði um 1939) og þaðan að Þorbjarnastaðaréttinni undir hraunhól sunnan við bæinn. Um er að ræða stóra hlaðna rúningsrétt. Í henni er heilleg lambakró.

Straumsselsstígur

Straumsselsstígur – Fornasels- og Gjáselsstígur.

Gengið var um Kúadal og áfram inn á eystri Straumsselsstíg (sem er reyndar eldri selstígur að Gjáseli og Fornaseli frá Þorbjarnastöðum).
Um miðja vegu að selinu var ákveðið að halda til vesturs út af honum og kanna hraunsvæðið. Þar inn á milli hólahyrpingar var komið að stórumhlöðnum nátthaga – Toppuklettum (Tobbuklettum). Eftir að punktur hafði verið tekinn þar var haldið í selið um Flárnar. Upp frá því var leitað Neðri-Straumsselshella. Þeir eru nokkuð sunnan selsins, hlaðinn gangur og nokkuð stór fjárhellir.
Eftir að hafa skoðað hellinn var Efri-Straumsselshella leitað og fundust þeir enn á ný nokkur ofar. Þeir eru þarna í lægð í Almenningum og er stór fjárhellir innan af henni. Hlaðið er í kringum opið, auk þess sem fyllt er að bakdyrum. Í kringum lægðina er hlaðinn garður. Upp af honum að norðanverðu er hlaðið byrgi, sem Jónas Bjarnason hlóð er hann var á refaveiðum á þessu svæði. Efri-Straumsselshellar voru notaðir sem nátthagi og síðan rétt undir hið síðasta og bera hleðslunar þess glögg merki.

Straumsselshellar

Í Efri-Straumselsshellum.

Þegar FERLIR kom síðast í Efri-Straumsselshella var þar greinilegt krafs eftir ref. Haldið var áfram norðvestur að Stóra-Fjárskjóli. Þar er hlaðið fyrir aflangan skúta. Þá var gengið að Óttastaðaseli og umhverfi þess skoðað áður en haldið var til norðurs eftir hrauninu. Á leiðinni var m.a. skoðað hlaðið refaskyttuskjól á neðsta hluta Straumsselsstígs.
Frábært veður.

Straumssel

Straumssel.