Færslur

Strýthólahraun

Gengið var um Strýthólahraun.
Strýthólahraun er ekki stórt, en geymir fjölda minja frá fyrrum Strýthólahraun - byrgiútgerðarháttum, líkt og Slokahraun skammt austar. Hraunið er suðaustasti hluti Þórkötlustaðanessins austan við Grindavík. Nesið, tangi út úr Hópsheiðinni, er allt hrauni þakið. Vel má sjá hvernig meginhraunstraumurinn hefur runnið undan hallanum til suðurs af heiðinni frá Sundhnúkagígaröðinni og út í sjó. Hraunáin hefur verið þung því hún hefu rutt afurð sinni til beggja átta og náð að mynda Nesið. Auðvelt er að ganga eftir hrauntröðinni miklu frá ofanverðu nesinu áleiðis að vitanum syðst á Nesinu. Heimildir segja að sumt bendi til, að hraun þetta sé að minnsta kosti að einhverju leyti runnið eftir landnámsöld (sbr. Árb. Fornl.fél. 1903, 47), en aldursgreining á því hefur gefið til kynna að það hafi runnið fyrir u.þ.b. 2400 árum (Jón Jónsson). Þetta er sama hraunið og myndaði hraunlendi það, sem Grindavíkur (Járngerðarstaðahverfið) stendur nú á. Hvorki er minnst á minjarnar í Strýthólahrauni í örnefnalýsingum né í fornleifaskráningum.
Byrgi í StýthólahrauniÍ örnefnalýsingum má lesa eftirfarandi um Þórkötlustaðanesið: “Í nesinu er viti, sem nefndur er Þorkötlustaðaviti. Austur af vitanum er hóll, sem heitir Leiftrunarhóll. Vestur af honum og austur af vitanum eru tveir hólar, sem heita Strýthólar. Milli þeirra og vitans er Tófuflatarhóll. Alllangt norður af vitanum er hár hraunhóll, sem heitir Gjáhóll. Suðaustur af vitanum er Stóra-Látraflöt, en Litla-Látraflöt er austar og liggur að Strýthólum. Þar austar er Leiftrunarhóllinn, og fram af honum er Stekkjarfjara. Við Leiftrunarhól er tangi, sem heitir Nestá. Upp af Stekkjarfjörunni er grasblettur nefndur Stekkjartún. Þá er komið að vík, sem heitir Drift, aðrir segja Dríli. Inn frá henni heita Þorkötlustaðavarir.”
Byrgi í StýthólahrauniÖnnur lýsing segir: “Vestan við vita sem er í nesinu og heitir Hópsviti er vatnsgjá niður við sjávarkampinn. Þar beint niður undan í flæðarmálinu er stór steinn. Hann heitir Markasteinn og skilur hann lönd Þórkötlustaða og Hóps. Í hann eru klöppuð tákn L.M. um landamerki. Suðaustur af vitanum er grasflöt niður við kampinn; Stóra-Látraflöt, að mestu komin undir kamp. Austur af vitanum er grasi vaxinn hóll, nokkuð stór með grasflöt norður af; Tófuflatarhóll. Þar var tófugreni fyrr á tímum. Niður undan honum austan til var Litla-Látraflöt. Hún er nú komin undir grjót úr kampinum.

Strýthóll

Strýthóll-ytri.

Austan við Tófuflatarhól eru Strýthólar. Vestri-Strýthóll með tveimur þúfum en Eystri-Strýthóll niður við kampinn. Útfiri er töluvert og heitir fjaran Látur. Selalátur var þar áður fyrr. Hóll var fram undan Tófuflatarhól; Þanghóll, en hann er nú kominn undir kampinn. Hann skipti reka. Fyrir vestan eru Kotalátur. Þar eiga Einland, Buðlunga og Klöpp reka. Austan Þanghóls eru Austurbæjarlátur). Austast í Nesinu að framanverðu er smátangi sem heitir Nestá.
Byrgi í StýthólahrauniNorður af Nestá er stór hóll á kampinum; Leiftrunarhóll. Norður af honum er Stekkatún sem nær að Flæðitjörn. Hún er ofan við sjávarkampinn. Niður undan og norðan Leiftrunarhóls er Stekkjarfjara. Látragötur eru slóðar úr vesturenda Stekkatúns fram í Látur. Við enda Stekkjarfjöru er klettur í fjöruborðinu og er sem sker um flóð. Hann heitir Driti.” Hér er Dríli nefndur Driti, Þórkötlustaðaviti nefndur Hópsviti þótt hann standi í Þórkötlustaðalandi og Strýthólarnir orðnir tveir. Ætlunin var þó einungis að beina athyglinu að samnefndu hrauni.

Strýthólahraun

Strýthólahraun – byrgi.

Athyglisvert verður að telja að í hvorugri örnefnalýsingunni eru nefndar minjar í Strýthólahrauni. Þó má sjá þar örnefnið Látragötur, sem verða að teljast til minja. Þær götur má enn rekja frá norðanverðum hraunkantinum og með honum vestanverðum með stefnu á vitann.
Í austanverðu Strýthólahrauni eru minjar fleiri en 40 fiskbyrgja. Byrgin eru eldri en aðrar þær minjar útgerðar á Nesinu, sem sjá má ofan við bryggjuna austan við nefndar Flæðitjarnir, þar sem áður voru Þórkötlustaðavarir, enda vinnsla fiskjarins önnur áður fyrr. Tengdar minjar má þó sjá ofar á Nesinu, gegnt bryggjusvæðinu. Einnig skammt vestan við bryggjuna, en þar eru að öllum líkindum elstu mannvistarleifarnar á svæðinu, nú grónar og virðast náttúrlegar myndanir.
Uppdráttur af byrgjunum í StrýthólahrauniEn hvað um það – fiskbyrgin fjölmörgu í Strýthólahrauni eru með þeim merkustu sinnar tegundar hér á landi. Þau eru ekki óáþekk þeim er sjá má á Selatöngum, við Nótarhól hjá Ísólfsskála og í Slokahrauni. Þessi byrgi eru þó frábrugðin að því leyti að þau eru bæði mörg mun minni og miklu mun fleiri en annars staðar. Þau eru þó hlaðin með svipuðum hætti. Mörg eru heilleg, en önnur fallin að hluta. Elstu menn á svæðinu muna ekki eftir að hafa orðið varir við byrgin, enda hafa þau sennilega ekki verið í notkun um aldir og falla auk þess vel inn í hraunmyndanirnar svo erfitt er að koma auga á þær við fyrstu sýn.

Þórkötlustaðanes

Þórkötlustaðanes – örnefni.

Flest byrgin eru á hraunhólum og bera því við himinn. Sum eru hringlaga hlaðin á meðan önnur eru ferningar. Sumsstaðar eru dyr, annars staðar bil. Hæstu byrgin eru um 1 m á hæð og þau stærstu u.þ.b. 60 cm á breidd og 240 á lengd. Staðsetningin virðist augljós; byrgin eru austast úfnu hrauninu þar sem auðvelt hefur verið að ná í byggingarefni, en austar er tiltölulega slétt gróðurlendi, sem sennilega hefur gróið upp vegna fiskflutninganna í byrgin.
Byrgin í Strýthólahrauni eru ekki fiskgeymsluhús líkt og sjá má í Sundvörðuhrauni eða við Eldvörp og telja má líklegt að hafi verið með “Staðarhúsið” svonefnda við Þórkötlustaði. Þrjú slík hús má sjá á Selatöngum, þó ekki nákvæmlega sömu gerðar. Byrgin hafa verið þurrkvinnslustaðir ofan og utan við varirnar.
Byrgin eru í raun “hraunhraukar”, sem snjó hefur gjarnan fyrst leyst af þegar sólin skein á vetrarvertíðum.
Byrgi í StrýthólahrauniRekaviðarár, en gnægð rekaviðs má enn sjá þarna innan við sjávarkampinn, hafa líklega verið lagðar yfir “hraukana” og þannig hafa þurrkmöguleikarnir verið margfaldaðir. Ferskvatn er í tjörn við hraunkantinn þar sem gætir flóðs og fjöru. Að forþurrkun lokinni hefur verið mögulegt að taka fiskinn saman með tiltölulega skjótum hætti og koma honum fyrir í byrgjunum, sem varði hann fyrir regni, uns veður gaf aftur færi á áframhaldandi þurrkun milli róðra.
Byrgin í Strýthólahrauni hafa fengið að vera í friði fyrir forvitnum. Mikil aðsókn hefur hins vegar verið í verminjarnar á Strýthólahraun - minjar Selatöngum, svo mikil að sumar liggja undir skemmdum. Gangan að þeim tekur u.þ.b. 12 mín. um lausasand, en gangan að minjunum í Strýthólahrauni tekur u.þ.b. 2 mín. um grónar hraungötur.
Reykjanesskaginn hefur upp á óteljandi menningarverðmæti að bjóða. FERLIR hefur hins vegar í seinni tíð verið að velta fyrir sér tvennu – að fenginni reynslu: Sveitarstjórnarfólk, kjörið og eiginlega ábyrgt forsvarsfólk íbúanna (eigandanna) virðist áhugalaust um þessi tilteknu verðmæti (með örfáum undantekningum þó) og auk þess virðast afkomendurnir (eigendurnir) ekki minna áhugalausir um hið sama – hin áþreifanlegu og sýnilegu tengsl þeirra við upprunann. Hið fáa, sem sýnir einhvern áhuga, sýnir minjunum (verðmætunum) annað hvort virðingu eða hins algert virðingarleysi. Áhugasama fólkið er því beðið að gæta tillitssemi, láta byrgin óhreyfð og í guðanna bænum; EKKI henda rusli á annars ósnert svæðið!

Strýthólahraun

Fiskibyrgi í Strýthólahrauni.

Hinir ráðnu opinberu aðilar, s.s. Fornleifavernd ríkisins og Þjóðminjasafnið undir “meðvitaðri” stjórn menntamálaráðuneytisins, virðast algerlega áhugalausir gagnvart þjóðargersemum sem þessum. Hvers ber þá að vænta af öðrum!
Útvegsminjarnar í Strýthólahrauni við Grindavík eru í rauninni einn verðmætasti ósnerti minjastaður sinnar tegundar á landinu – og jafnvel þótt víða væri leitað. Þar eru ekki eiginlegar verbúðarminjar útstöðvar, enda nálægðin við Hraun og Þórkötlustaðabæina of lítil til þess.

Þórkötlustaðanes

Örnefni ofan bryggjunnar í Þórkötlustaðanesi – uppdráttur ÓSÁ.

Hins vegar mun Skálholtsstóll hafa gert þarna út skip á miðöldum – og jafnvel lengur. Minjar því tengdu gætu leynst í manngerðum grónum hól norðan Strýthólahrauns.
Tækifærið var notað og minjasvæðið rissað upp og myndað.
Frábært veður. Gangan tók 21 mín.

Strýthólahraun

Fiskbyrgi í Strýthólahrauni.

 

Slaga

Gengið var um Skollahraun í blíðskaparveðri. Vestast í hrauninu eru gamlir fiskigarðar og fiskbyrgi frá árabátaútgerðinni við Ísólfsskála.

Ísólfsskáli

Ísólfsskáli – fiskbyrgi við Nótarhól.

Þarna, líkt og í Strýthólahrauni, Slokahrauni, á Selatöngum og í Herdísarvík eru hundruðir metra af þurrkgörðum er liggja um hraunið. Inni á milli má sjá þurrkbyrgin. Erfitt er að koma auga á sum þeirra vegna þess hversu mosavaxin þau eru orðin. Enn einn verstöðvaminjastaðurinn við strönd Reykjanesskagans. Þessar minjar hafa varðveist vel vegna þess hversu fáir hafa vitað af þeim.
Skoðaður var fjárhellir Skálabúa undir öxlinni er liggur suðvestur úr Slögu og síðan kíkt á vatnslind þeirra undir hlíðinni.

Slaga

Slaga.

Slaga er merkilegt jarðfræðifyrirbæri. Undir henni sunnanverði voru fyrrum sjávarhamranir, en nýrra hraun færði hana utar þar sem hún nú er. Á bak við Slögu að norðanverðu er Drykkjasteinsdalur. Dregur dalurinn nafn sitt af Drykkjarsteininum, sem aldrei á að þrjóta vatn í. Hann er við gömlu þjóðleiðina um dalinn austur til Krýsuvíkur.
Síðan var haldið á Núpshlíðarháls þar sem gengið var eftir eldgígaröðinni og skoðaðar hraunæðar og hraunfarvegir.

Stóri-Hamradalur

Stóri-Hamradalur.

Gengið var um Stóra-Hamradal og við norðurenda hans upp á Núpshlíðarhálsinn þar sem útsýni er um bakland Keilis, norður til höfðuborgarsvæðisins og vestur til Grindavíkur. Neðan undir hálsinum kúrði Hraunssel með tóttum og stekkjum. Á bakaleiðinni var gengið að gígunum, sem Ögmundahraun kom úr, dáðst að útsýninu yfir Bleikingsdal og síðan haldið með gígaröðinni til suðurs.
Um var að ræða frábæra göngu í fallegu umhverfi.

Ísólfsskáli

Refagildra Í Skollahrauni við Ísólfsskála.

Selatangar

Hugsandi er Vefrit um fræði og menningu í víðum skilningi. Eftirfarandi grein Lilju Bjarkar Pálsdóttur um “Rannsókn fiskbyrgja á Gufuskálum og Selatöngum“, má lesa á vefsíðu Fornleifastofnunar Íslands. Hér er um úrdrátt að ræða.

Gufuskálar

Gufuskálar – fiskbyrgi.

Við upphaf þeirrar rannsóknar sem hér verður fjallað um voru settar fram ýmsar spurningar sem leitast var við að svara. Spurningarnar voru af ýmsum toga en flestar tengdust mannvirkjunum sjálfum, aldursgreiningu, byggingarforminu og byggingarefninu, fjölda og varðveislu. Auk þess voru almennari spurningar um fiskbyrgi; Hvort þau er að finna víðar en á Gufuskálum og Selatöngum og hvaða heimildir eru um slík mannvirki?

Gufuskálar

Gufuskálar – fiskbyrgi.

Engin samantekt hefur átt sér stað um fjölda byrgja, gerð, ástand og dreifingu þeirra að því er höfundur kemst næst og hefur því land verið lagt undir fót síðustu misseri til að skoða og skrá einkenni hinna ýmsu byrgjastaða. Markmiðið er að skrá sem flestar þyrpingar byrgja og einkenni hvers staðar fyrir sig, ef einhver eru og með því, meðal annars, varpa skýrara ljósi á notkun byrgjanna og þar með framleiðsluaðferðir skreiðar fyrir vélaöld.
Gufuskálabyrgin eru hugsanlega þekktust ásamt byrgjum við Selatanga á Suðurnesjum. Það er erfiðleikum bundið að aldursgreina fiskbyrgin þar sem byggingarefnið gefur ekkert uppi um slíkt. Að vísu eru til aðferðir sem notaðar eru til að aldursgreina skófir og af þeim er nóg á byrgjunum, en sú aðferð er ekki mikið, ef eitthvað, notuð hér á landi. Sú aldursgreiningaraðferð sem mest er notuð, gjóskugreining, dugar ekki á Gufuskálum því ekki finnast nothæf, greinanleg gjóskulög á norðanverðu Snæfellsnesinu.

Selatangar

Selatangar – fiskbyrgi.

Við skráningu byrgjanna fyrir þessa rannsókn var reynt að skipta þeim í aldursflokka eftir ástandi og útliti. Þau sem voru mikið fallin með miklum skófum, mosa- og/eða lyngvaxin voru skráð elst og svo framvegis.
Á hinum endanum voru þau sem stóðu nær alveg heil en þau eru einnig minna yfirvaxin og minna er af skófum á þeim. Með þessari aðferð er hægt að fá einskonar innbyrðis aldursgreiningar, en hún segir að sjálfsögðu ekkert um raunverulega tímasetningu byrgjanna. Því er eðlilegast að reyna að tímasetja þau út frá verstöðinni sem þau tilheyra.
Byrgin  [á Gufuskálum] eru misfallin og sum yfirvaxin gróðri og hafa þau því ekki verið öll í notkun á sama tíma. Elstu byrgin virðast vera á jöðrum minjasvæðisins, þ.e. lengra uppi í hrauninu en einnig fjær verbúðunum/bæjarhólunum.

Selatangar

Selatangar – sjóbúð.

Yngstu byrgin, þ.e. þau sem standa enn vel og eru jafnvel heil, virðast raðast beint fyrir ofan verbúðirnar/bæjarhólana og eru sem næst hraunjaðrinum. Hugsanleg skýring er sú að eftir því sem umsvif minnkuðu hafi umfang svæðisins einnig minnkað og fjarlægari byrgi því orðið óþörf.
Lögun byrgjanna og stærð hefur ráðist af staðsetningu þeirra og byggingarefninu þar sem oft hefur verið notast við hraunkletta og hlaðið utan í þá. Byrgin eru yfirleitt ekki breið en geta hinsvegar verið löng. Ástæðan fyrir því er sennilega sú að þrátt fyrir að óreglulegt hraungrýtið henti vel í hleðslur og festist vel saman, ber það ekki kúpt þakið (borghlaðið) ef breitt er milli langhliðaveggja. Af sömu ástæðu hentar vel að hafa veggina sporöskjulaga eða rúnnaða. Staðsetning byrgjanna er heldur ekki tilviljun. Uppi í hrauninu er byggingarefnið og þar eru hæstu staðirnir þar sem vel blæs svo fiskurinn þornar vel.
Slétt svæði sem finnast við sum byrgin á Gufuskálum eru athyglisverð. Slétt svæði myndast væntanlega við efnistöku fyrir byrgin, en það skýrir þó ekki svæðin að öllu leyti þar sem greinilega hefur verið hlaðið í kringum sum þessara sléttu svæða. Þá er hlutverk grjóthleðslanna utan um sléttu svæðin óljóst. Ef aðeins er verið að bera fisk í byrgin til herslu þarf varla að hlaða garða til varnar búfénaði, þar sem inngangi byrgjanna var lokað og fiskurinn því öruggur. Ef fiskurinn var hinsvegar lagður í kös fyrir utan byrgin líta svæðin öðruvísi út. 

Áhugavert væri að líta undir gróðurþekjuna innan garðanna og sjá hvort merki um fiskvinnslu sé þar að finna. Mögulega kæmi sú vinnsla í ljós með fiskibeinum og lífrænum úrgangi, þ.e. í meiri mæli en myndi myndast við að leggja frá sér fiskböggla á meðan verið væri að koma fisknum hálfþurrum í byrgið. Engir fiskigarðar voru sjáanlegir eða greindir í hrauninu á Gufuskálum. Þeir eru ekki heldur greinilegir við verbúðarhólana eða á flatlendinu fyrir neðan hraunið. Möguleg skýring á þessum afmörkuðu svæðum við byrgin er, að þar hafi verkunin hugsanlega farið fram að miklu leyti og að þessi sléttu vinnusvæði séu í raun kasarreitirnir. Sandfok er og hefur ávallt verið mikið vandamál á þessu svæði og því er kannski líklegt að betra hafi verið að kasa og hálfþurrka fiskinn í hrauninu, hátt yfir sandsvæðinu. Einnig er alls ekki víst að notast hafi verið við fiskigarða á Gufuskálum, heldur einhverskonar hjalla eins og Lúðvík bendir á, en talið er að á Gufuskálum hafi fiskurinn verið hnakkaflattur, þ.e. þurrkaður á rám. Slíkur fiskur þótti heldur síðri en plattfiskurinn sem var þurrkaður á fiskigörðum. Við eitt byrgið leit út sem einhverskonar stoðarpakkning, þ.e. grjót sem notað hefur verið til að styðja við stoð, væri á vinnusvæði utan við inngang. Þetta gæti verið vísbending um lofthjall. Ef slíkir hjallar hafa verið notaðir er ekki líklegt að mikið finnist af þeim eða ummmerkjum eftir þá vegna áðurnefndrar gróðurþekju sem sveipar hraunið. Áhugavert væri þó að kanna svæðið aftur með þessi ummerki í huga.
Það sem einkennir minjarnar á Selatöngum eru hinir mörgu grjóthlöðnu garðar sem tilheyra hverju byrgi. Saman mynda þessir garðar og byrgin flókið kerfi athafnasvæða þar sem fiskverkun af einhverjum toga hefur átt sér stað. Verkunarsvæðin innan garða við byrgin á Selatöngum styðja þá kenningu að vinnusvæði sé að finna við sum byrgin á Gufuskálum. Fiskbyrgjunum í Dritvík svipar mikið til byrgjanna á Selatöngum hvað stærð og hleðslur varðar en auk þess eru greinilegir garðar tengdir byrgjunum og mynda verkunarsvæði.
Margt er þó ólíkt með stöðunum og eru jafnvel byrgin sjálf greinilega öðruvísi. Á Selatöngum eru byrgin hlaðin mikið til úr hraunhellum (þó ekki algilt) og við það líta þau út fyrir að vera mun reglulegri en byrgin á Gufuskálum, sem með sínu óreglulega hraungrýti líta svolítið út eins og þau hafi verið hlaðin í flýti og ekki vandað til verks. Ef betur er að gáð er hleðslan hinsvegar vönduð, þar sem hver steinn skipar mikilvægan sess í hleðslunni, eigi ekki allt að falla saman.
SelatangarLjóst er að mikið verk er eftir ef kanna á fiskbyrgi á Íslandi til hlítar og er þessi rannsókn langt frá því að vera tæmandi. Hinsvegar er ekki síst mikilvægt að skoða minjar sem þessar í ljósi þess að ótrúlega lítil áhersla hefur verið í fornleifafræði á minjar tengdum sjósókn og fiskverkun hér á landi. Þrátt fyrir hversu stór þáttur og mikilvægur sjósókn hefur verið Íslendingum frá upphafi er undarlegt hversu lítið af verbúðum og öðrum sjávarminjum hefur verið rannsakað með fornleifafræðilegum aðferðum. Þónokkuð hefur verið skrifað um efnið og má þar sem dæmi nefna rit Lúðvíks Kristjánssonar Íslenskir sjávarhættir en einnig eru nýlega komin út þrjú bindi Jóns Þ. Þórs, Sjósókn og sjávarfang: Saga sjávarútvegs á Íslandi. Með því að skoða fiskbyrgin er vonast til að upplýsingar um mismunandi verkunaraðferðir milli verstöðva, ef ekki landshluta komi í ljós. Þá gæti fjöldi þeirra og stærðir í tengslum við verstöð gefið vísbendingar um hvort um fisk til heimabrúks er að ræða eða söluvöru og bætt þannig við vitneskju okkar um sjósókn fyrri tíma. Þá væri fróðlegt að athuga hversu mikið magn af flöttum fiski kemst fyrir í meðal byrgi en þannig væri hugsanlega hægt að áætla umfang útgerðarinnar.”

Heimildir:
-Gavin M Lucas. 2009. Samkæmt samtali.
-Magnús Á. Sigurgeirsson. 2009. “Könnun á gjóskulögum“. Fornleifakönnun á verbúðarleifum á Gufuskálum, Snæfellsnesi. Bráðabirgðaskýrsla. Fornleifastofnun Íslands. Reykjavík.
-Lúðvík Kristjánsson. 1982. Íslenzkir sjávarhættir. 2. bindi. Bókaútgáfa Menningarsjóðs. Reykjavík
-Lúðvík Kristjánsson. 1983. Íslenzkir sjávarhættir. 3. bindi. Bókaútgáfa Menningarsjóðs. Reykjavík.
-Lúðvík Kristjánsson. 1985. Íslenzkir sjávarhættir. 4. bindi. Bókaútgáfa Menningarsjóðs. Reykjavík.
-Sigfús M. Johnsen. 1946. Saga Vestmannaeyja. 1.-2. bindi. Ísafoldarverksmiðja hf. Reykjavík.

Aðgengi:
-http://hugsandi.is/articles/rannsokn-fiskbyrgja-a-gufuskalum-og-selatongum/

Nótarhóll

Fiskbyrgi á Nótarhól.

Þórkötlustaðanes

Gengið var um Þórkötlustaðanes undir leiðsögn Péturs Guðjónssonar, en hann er fæddur í einum af þremur bæjum, Höfn, sem voru í Nesinu. Hinir tveir voru Arnarhvol og Þórshamar. Þórshamar stendur að hluta vestan við Flæðitjörnina. Útveggir eru heilir.

Strýthólahraun

Fiskbyrgi í Strýthólahrauni.

Gengið var frá Höfn, sem var sunnan við veginn. Húsið var flutt vestur í hverfi um miðjan fimmta áratug 20. aldar.
Blómatími útgerðar á Þórkötlustaðanesi var á öðrum, þriðja og fjórða áratug aldarinnar. Margir árabátar og síðar vélbátar voru gerðir þaðan út. Sjá má minjar íshúsanna og fiskhúsanna, lifrarbræðslu og salthúss, ráa og reiða.

Þórkötlustaðanes

Bryggjan í Þórkötlustaðanesi.

Bryggjan var byggð um 1930. Gamla vörin er skammt austan hennar. Ofan við vörina má enn sjá járnkengi, stýrislykkju og spil þar ofar. Þegar bátarnir voru dregnir upp var tógið þrætt í kengina, eftir því hvar bátarnir áttu að raðast ofan við kampinn. Áður voru bátarnir drengir á land á kampinn skammt austar, sunnan við lifrabræðsluna, sem síðar varð.
Vestan við Höfn eru allmörg íshús. Margar tóttanna eru mjög heillegar. Á veturna sáust vermenn oft þjóta út eftir að byrjaði að snjóa, rúlluðu upp snóboltum og renndu þeim niður í íshúsin. Þar voru milliþiljuð ker. Í lögin var settur saltblandaður snjór, sem gaf hið besta frost. Í kerjunum var beitan fryst.

Grindavík

Þórkötlustaðanesviti.

Vestan við Flæðitjörnina er húsið Þórshamar. Í kringum húsið er margt minja, s.s. gerði og fjárhús. Sunnan þess, skammt ofan við kampinn, er gömul fjárborg, eldri en aðrar minjar. Borgin gæti þess vegna verið frá tímum Hafur-Björns. Í kringum hana er gerði, Hraunsgerði, og lítil tótt sunnan við hana.

Þórhamar

Þórshamar í Þórkötlustaðanesi.

Vestan við Þórshamar er skrúðgarður, framfararspor þess tíma. Í húsinu bjó vitavörðurinn síðastur manna. Þótti hann furðulegur í háttum – stóð jafnvel nakinn niður á kampi þegar sunnan- og suðvestanáttin var hvað verst og lét hana leika um útlimi. Arinn, sem enn má sjá í húsinu, gerði hann er bæta átti um betur. Milliveggir voru rifnir niður til að auka rýmið, en við það fékk vitavörðurinn steypustykki ofan á sig. Lá hann um stund, en fannst og gert var að sárum hans.

Þórkötlustaðanes

Þórkötlustaðanes – loftmynd.

Enn vestar er Strýtuhraun eða Strýtuhólahraun, nefnt eftir Strýtuhól vestari og Strýtuhól eystri, sem sjá má þarna inn í hrauninu. Í hrauninu eru fjölmörg hlaðin fiskbyrgi og þurrkgarðar. Ná þau svo til frá veginum niður að Leiftrunarhól, sem stendur á sjávarkambinum. Þessi byrgi eru fáum kunn, enda falla þau mjög vel inn í hraunið. Þegar hins vegar er staðið við byrgin sjást þau hvert sem litið er. Norðan vegarins eru hlaðnir þurrkgarðar. Á þessu svæði má auk þess sjá standa undir vindmyllur, heimtraðir, veglegar sundvörður o.fl. o. fl. Þá má sjá, ef grannt er skoðað, mjög gamlar minjar sunnan og vestan við Flæðitjörnina.

Grindavík

Sjóslysaskilti í Þórkötlustaðnesi.

Þórkötlustaðanesið er einstaklega áhugavert til útivistar og ekki síður út frá sögulegum forsendum.
Pétur fylgdi hópnum áfram vestur um Nesið. Vestan við vitan er dalur og í fjörunni undan honum er Markasteinn. Hann skiptir löndum Hóps og Þórkötlustaða. Á steininn er klappað L.M. Benti hann og á sundurlamda skipsskrokka og lýsti ströndum.

Þórkötlustaðanes

Sögu- og minjaskilti í Þórkötlustaðanesi.

Á leiðinni var ekið fram hjá Siggu, vörðu á hól, sem notuð var sem loka vendimið áður en vent var inn í Hópið. Grjótið úr vörðunni var tekið að mestu þegar verið var að tína það undir bryggjurnar. Nauðsynlegt er að endurgera vörðuna á meðan enn er vitað hvar hún var. Norðar eru gamlar sjóbúðir, sem nefndar voru Nesið. Þær verða skoðaðar í annarri ferð sem og þurrkgarðar og þurrkbyrgi, sem sjá má ofar á Hópsnesinu.
Sjá meira um Þórkötlustaðanes undir Lýsingar.

Þórkötlustaðanes

Minjar í Þórkötlustaðanesi – uppdráttur ÓSÁ.

Járngerðarstaðir
Í Landnámu (Sturlubók) er þess getið að Molda-Gnúpur Hróflsson hafi numið Grindavík, líkleg aum 934, og Þórir haustmyrkur Vígbóðsson nam Selvog og Krýsuvík
Synir Molda-Gnúps voru Gnúpur, Björn, Þorsteinn og Þórður. Einkona Gnúps var Arnbjörg Ráðormsdóttir og Björn giftist Jórunni dóttur Arnbjargar og Svertings Hrolleifssonar (á Hrauni). Í annarri útgáfu Landnámu (Hauksbók) segir að Gnúpur hafi fallið ásamt 2 sonum sínum í átökum við Kaplagarða um veturinn. Hinir synirnir; Björn, Þórður og Þorsteinn, hafi hins vegar numið land í Grindavík.

Herósdes

Heródes- letursteinn.

Lítið er vitað um byggð í Grindavík fyrstu 300 árin. Má það teljast eðlilegt því á ofanverðum þeim tíma hefur byggðin líklega tæmst um tíma. Um 1150 byrjaði að gjósa austan við Grindavík og aftur um 1188. Mikið hraun rann. Um svipað leyti byrjaði að gjósa að austanverðu. Um 1211 færist goshrinan nær (Eldvörpin) og enn 1226 þegar Illahraun og Afstapahraun ógna byggðinni. Ekki er ólíklegt að fólk hafi þá verið búið að fá nóg og því flutt sig til öruggari staða, a.m.k. um tíma.
Líklegt má telja að Molda-Gnúpur Hrólfsson, eða synir hans, hafi sest að þar sem nú er Hóp (aðrir nefna Þórkötlustaði). Fyrrnefnda nafnið bendir til þess þar sem bæ sinn í Álftaveri þar veturinn áður hafði hann nefnt Hof er gæti hafa breyst í Hóp eftir að kristni var innleidd. Önnur vísbending eru aðstæður þær, sem verið hafa þar á þeim tíma. Ferskt vatn rann undan klöppunum, en það er óvíða að fá á þessu svæði, nema ef vera skyldi í Gerðisvallabrunnum vestan við Járngerðarstaði. Fjörubeit hefur verið góð, auk þess sem skipalagi hefur hvergi verið betra en í Hópinu.

Grindavík

Grindavík – Grafið inn í Hópið 1939.

Áður en opnað var inn í Hópið var þar fyrir ós, sem hægt var að komast um á flæði. Grasbleðill hefur og verið þarna við ströndina og tiltölulega greiðfært til fjalla þar sem nýleg hraun voru ofar. Ströndin, bæði að austanverðu og vestanverðu hafa verið allt annars eðlis og legið miklu mun lengra inn í skagann. Há björg hafa einkennt austurströndina, en litlar grónar víkur verið á milli Ísólfsskála og Krýsuvíkurbjargs. Gróið hefur verið í hlíðum Þorbjarnarfells (elsta fellið á svæðinu) og því vænlegt til selstöðu.

Hóp

Hóp – tóftir gamla bæjarins.

Synirnir voru fullvaxta er hér var komið sögu. Gnúpur hefur væntanlega fyrst tekið sér kvonfang og þurft búsílag. Hinn veraldarvani Molda-Gnúpur, sem fengið hafði viðurnefni (virðingarheiti) sitt frá fæðingarstað hans í Moldartúni á Norðmæri í Norðmæri í Noregi, hefur væntanlega viljað tryggja land sitt að austan, þar sem búið var í Hlíð við Hlíðarvatn í Selvogi. Hann hefur því væntanlega fengið syni sínum land þar sem áður var við Krýsuvík, á ystu mörkum þess tíma. Ofar er Gnúpshlíðarháls og Gnúpshlíðarhorn syðst. Ögmundarhraun rann síðar yfir byggðina um 1151, en hlífði austasta hluta hennar að hluta. Byggðin þar hafði þá náð að þróast í u.þ.b. 211 ár. Líklega hefur Þórir haustmyrkur og hans afkomendur lagt einhverju af sínu fólki til land vestast á landssvæði sínu, til mótvægis við byggð Grindarvíkurbóndans. Þær minjar, sem nú sjást í Húshólma og Óbrennishólma, gætu verið leifar þeirrar byggðar. Byggðin hefur legið vel við sjósókn, fuglar í björgum og greiðfært hefur verið til upplandsins til hrísöflunar eftir hálsunum.

Hóp

Hóp – gamli bærinn.

Venjan var sú að elsti sonurinn tæki bú eftir föður sinn. Björn hefur því væntanlega verið elstur því ýmislegt bendir til þess að hann hafi tekið við búinu að Hópi eða flust þangað sem nú eru Járngerðarstaðir. Ekki er ósennilegt að í heiðni hafi Björn fengið viðurnefnið Þór, þ.e. elstur og æðstur bræðranna, en með kristninni hafi Hafurs-viðurnefnið orðið ofan á, sbr. draumasögnina um bergbúann og geithafurinn er kom í framhaldi af því til hjarðar Björns. Sagt var að landvættir allir hafi fylgt honum og bræðrum hans til þings og veiða. Fellið Þorbjörn ofan við Grindavík (Hóp) mun heita eftir Hafur-Birni.
Líklegt er að Þórði hafi verið fengið land á austurmörkum hins byggilega hluta landnámsins, þ.e. í Staðahverfi. Þórðarfellið ofan við Staðahverfi gæti bent til þess, en sagt er að fellið hafi verið nefnt eftir honum.

Hóp

Hóp – loftmynd.

Þá er Þorsteinn einn eftir. Þar sem mest land við sjó, þar sem fiskur, fugl, reki, þang og þari þóttu hlunnindi, var að mestu frátekið þegar lengra var litið, var ekki um annað að ræða en líta nær eftir landkostum. Þá komu annað hvort núverandi Járngerðarstaðir eða Þórkötlustaðir til greina. Rannsókn sem gerð var við byggingu hlöðu við Vesturbæ í Þórkötlustaðahverfi, bentu til þess að þar hafi komið upp tóft landnámsskála (Brynjúlfur Jónsson).

Skír skírskotun til sagna, sbr. heiðnar dysjar Járngerðar og Þórkötlu, benda til fornra bæjarstæða á hvorum staðnum fyrir sig. Á báðum þessara staða hafa sjósóknarskilyrði verið góð, en þó mun betri á Þórkötlustöðum. Bæði hefur þar verið afmarkaðra land frá Hópi og nærtækara að sækja búbjörg í björgin þar austan við.

Hóp

Hóp – minjar gamla bæjarins, þ.á.m. hofstóft.

Fiskimiðin leggja og betur við og rekamöguleikar þar hafa verið umtalsverðir. Húsafjall og Fiskidalsfjall ofan við Þórkötlustaði (Hraun), benda einnig til ákjósanlegrar búsetu á því svæði.
Hinar fornu þjóðleiðir, sem sjá má djúpt markaðar í bergið, jafnt frá Hópi, Járngerðarstöðum og Staðahverfi, benda til mikillar umferðar til og að þessum stöðum lengi og alllöngum í gegnum aldirnar. Skógfellahraunið, sem Skógfellastígur ofan við Hóp, liggur um, er einna mest markaður, enda hraunið mun eldra en landnámið.

Þórkötlustaðir

Þórkötlustaðir – flugmynd. Fornaldarskáli er á milli húsanna.

Þórkötlustaðahverfið freistaði Skálholtsstóls þegar á 12. öld. Þar þar var ein mesta útgerð stólsins þegar á 14. öld og í raun undirstaða útflutningsverslunar hans fram eftir öldum.
Járngerðarstaðahverfið byggðist síðast upp fyrir alvöru af hinum þremur hverfum er mynda Grindavík í dag. Ljóst er þó að þar hefur verið orðið mannmargt þegar verslun Þjóðverja og Englendinga stóð sem hæst á 15. og 16. öld. Það var skreiðin, sem í rauninni var bitist um. Hún var svo verðmæt, að Englendingar telja skreiðarfarm geta numið allt að fjórum fimmtu hlutum af verði skips, öllum úthaldskostani þess í Íslandssiglingum og vörufarmi, er það flytur til Íslands.

Strýthólahraun

Strýthólahraun – fiskibyrgi.

Af þessu má sjá að það var til mikil að vinna, bæði hvað snerti verslun og fiskvinnslu. Þar gegndi Grindavík lykilhlutverki lengi vel. Minjar fiskverkunarinnar má sjá á nokkrum stöðum við Grindavík, s.s. á Selatöngum vestan gömlu Krýsuvíkur, Í Skollahrauni austan Ísólfsskála, í Slokahrauni austan Þórkötlustaðahverfis, í Strýthólahrauni á Þórkötlustaðanesi og ofan við Staðarhverfi.
Á Járngerðarstöðum hefur “Tyrkjunum” þótt vænlegt að lenda árið 1627 og þar hóf Einar Einarsson í Garðhúsum verslun sína fyrir 1890, en rekja má upphaf kaupstaðarins til þeirrar verslunar og athafnalífsins í kringum hana. Lengi vel voru aðeins tveir “kaupstaðir” á Reykjanesskaganum, Grindavík og Hafnarfjörður. Tilkoma hafnarinnar í Hópinu árið 1939 hleypti lífi í þorpið og stækkun hafnarinnar þar upp úr 1950 lífi í athafnalífið, en fólksfjölgun og virkt athafnalíf hefur jafnan farið saman í Grindavík í gegnum aldirnar.
Grindavík flaggaði 30 ára kaupstaðarafmæli árið 2004, en bærinn er sá staður á landinu, sem hvað mest ógn hefur staðið af landinu, en getur að sama skapi þakkað farsæld sína hafinu. Nú er bæjarfélagið hins vegar á þeim tímamótum að geta einnig gert innlandið að verðmætum, þ.e. jarðorkuna, náttúruna og hið nýmótaða umhverfi þess. Og ekki má geyma möguleikum ferðaþjónustunnar, en það er sú atvinnugrein, sem er í hvað mestum vexti hér á landi. Útgerðin er ekki síst uppruninn, þ.e. landnámið og sögulegar minjar. Af þeim er Grindavík æði rík.

Hóp

Hóp – uppdráttur ÓSÁ.

Hópsnes

Gengið var austur Hópsnesið frá Nesi og yfir á Þórkötlustaðanes, að þurrkbyrgjunum í Strýthólahrauni vestan við Þórshamar. Í þessari ferð var m.a. ætlunin að rifja upp sjóskaðana, sem orðið hafa á Nesinu sem og fiskverkun fyrri alda, en í Strýthólahrauni má enn sjá minjar hennar.

Strýthólahraun

Strýthólahraun – fiskibyrgi.

En þar sem lágsjávað var og tært vatnið streymdi undan hrauninu í Hópið þar sem fyrrum var vatnslind ábúenda á Hópi og þvotturinn og ullin voru þvegin, var staldrað við og fyrirbærið skoðað nánar. Það heitir Vatnstanginn. Straumurinn var stríður og líklegt má telja að hann hafi áður verið ein helsta ástæða búsetu á Hópi. Hugmyndir manna hafa verið þær að þar hafi einn sona landnámsmannsins Molda-Gnúps Hrólfssonar sest að, eða jafnvel hann sjálfur, við komu sína í Víkina eftir að hafa áður dvalið austar með landinu.
Ofan við Hópið eru gamlar búsetuminjar. Sjá má jarðlægar tóftir og garða í túninu. Þar eru og sundvörður eða innsiglingavörður, vel við haldið. Sú neðri heitir Svíravarða og hin Stamphólsvarða, sem lengra var uppi í landi. Stamphólsgjá er skammt vestan við hana, en sú gjá gekk niður í gegnum Járngerðarstaðahverfið, en hefur nú að mestu verið fyllt upp, nema efsti hluti hennar. Nú er hins vegar búið að skipuleggja nýtt hverfi á gjáarsvæðinu og ekki er ólíklegt, ef byggt verður yfir gjána, að þar kunni eitthvað að gliðna síðar.

Strýthólhraun

Strýthólahraun – fiskibyrgi.

Síra Geir Backman lýsir þessum tveimur vörðum sem og Heiðarvörðunni á Hópsheiði er var mið í Járngerðarstaðasundið ásamt Sundvörðunni er komið var austan að. Sundvarðan var á sjávarkambinum austan við sundið. Allar þessar vörður eru til enn þann dag í dag, en Sundvarðan, sú sem hefur verið næst sjónum, hefur látið mest á sjá.
Hópsnes er nesið milli Hraunsvíkur og Járngerðarstaðavíkur við Grindavík. Að austanverðu heitir það Þorkötlustaðanes. Vitinn, Hópsnesviti, er fremst á Nesinu, en er á Þórkötlustaðanesi. Landamerkin eru u.þ.b. 60 metrum vestan við vitann, í landamerkjastein, sem þar er. Klappað er í hann stafirnir LM og eiga þeir að sýna landamerkin. Hópsnesviti var reistur 1928. Áður en haldið var inn eftir Hópsnesinu til að huga að og rifja upp skipsskaðana var komið við í sjóbúðinni skammt austan við Nes. Hún er á grónum hraunhól við Síkin. Utan við Síkin voru áður sjóbúðir frá Hópi, en þeir fóru forgörðum þegar varnargarðarnir voru reistir. Enn sést þó móta fyrir Hópsvörinni utan við þá, einkum á fjöru.

Þórkötlustaðanes

Þórkötlustaðanes – sundvörður.

Hér fyrr á öldum gátu sjómennirnir, sem fóru í róður að morgni, aldrei verið vissir um að komast heilir og höldnu að landi að kveldi. Enda eru mörg dæmi þessa. Sem betur fer eru einnig mörg dæmi og merkar sagnir um mannbjörg eftir ófarir manna á hafi úti. Veður gátu skipt um snögglega og þótt ekki hafi verið róið langt gat róðurinn að landi bæði tekið langan tíma og verið erfiður. Stundum urðu sjómenn að bregða á það ráð að leita annað en ætlunin var. Þannig gátu sjómenn frá Járngerðarstöðum oft treyst á var í Þórkötlustaðasbótinni þegar þannig skipaðist veður í lofti. Þann 24. mars 1916 fóru t.d. 24 árabátar í róður frá Grindavík að morgni. Óveður skall skyndilega á og komust bátsverjar fjögurra báta ekki að landi. Þeim var hins vegar öllum bjargað, 38 mönnum, af áhöfn kúttersins Esterar frá Reykjavík. Þegar komið var með skipverja að landi þremur dögum síðar urðu miklir fagnaðarfundir í plássinu. Sumir segja það hafi verið sá mesti gleðidagur, sem Grindvíkingar hafi upplifað.

Hóp

Hópsvör – uppdráttur ÓSÁ.

Um árið 1940 lenti Aldan frá Vestmannaeyjum upp á skerjum á Hellinum, en svo nefnist klettahlein, sem gengur fram úr kampinum, skammt austanvið Hópsvörina, og út í sjó. Mannbjörg varð, og báturinn náðist út aftur. Þótti öllum, sem fylgdust með siglingu bátsins, það með ólíkindum. Sigling inn í sundin var vandasöm, og fyrr á tímum fóru sjómenn eftir framangreindum sundvörðum og öðrum leiðarmerkjum á leið sinni inn á þau. En erfitt gat verið að stýra bátum inn þau því mikla þekkingu og reynslu þurfti til þess í vondum veðrum. Dæmi eru um að ekki hafi verið við neitt ráðið og að Ægir hafi annað hvort kastað bátunum upp á sker og strönd eða hreinlega fært þá á kaf. Þannig fylgdust t.d. íbúar Grindavíkur angistafullir og hjálparvana á sjötta áratugnum með því af ströndinni er lítill bátur með þremur mönnum innanborðs á leið inn í Hópið var skyndilega færður í kaf og sjómennirnir drukknuðu svo til fyrir framan nefið á þeim, án þess að það gæti fengið rönd við reist.

Þórkötlustaðanes

Lifrabræðslan á Þórkötlustaðanesi.

Rétt fyrir utan lendinguna á Járngerðarstöðum eru miklir þarar og grynningar, Rif kölluð. Á þeim hafa mörg skip af þeim beðið meira eða minna tjón og margur maður við þau látið lífið. Fyrrum var hættan mikil á leið inn Járngerðarstaðasundið er Svíravarða bar í Stamphólsvörðu. Þá voru þrengslin mest. Þá eru á stjórnborða Manntapaflúð, en Sundboði á bakborða. Aðstæðurnar urðu kannsi ekki síst til þess að álög Járngerðar á sundið, sem lýst er í þjóðsögunni, gengu eftir, en skv. henni áttu tuttugu bátar að farast þar eftir að hún hafði séð á eftir eiginmanni sínum og áhöfn hans í öldurótið.

Þórkötlustaðanes

Bryggjan í Þórkötlustaðanesi.

Austan við Helli eru tveir básar; Heimri-Bás og Syðri-Bás og þar fyrir utan Sölvaklappir, en þar mun hafa verið sölvataka frá Hópi. Fram af klöppunum er klettur, sem Bóla heitir, og upp af honum, uppi á kampinum, var varða, sem kölluð var Sigga og var mið af sjó. Grjótið úr henni var tekið í hafnargarðinn er hann var byggður. Sigga var síðar endurhlaðin af Lionsmönnum í Grindavík, en sjórinn hefur nú fært grjótið úr henni að mestu í lárétta stöðu á ný.

Þegar gengið er austur með Nesinu má sjá nokkur upplýsingaspjöld um strönd á síðustu öld.

Hópsnes

Skipsbrak í Hópsnesi.

Áður en komið er að fyrsta spjaldinu verður fyrir hluti braksins úr Hrafni Sveinbjarnarsyni, sem strandaði þarna utan við 1988. Sagt er að stýrimaðurinn hafi sofnað á leið til lands svo báturinn stýmdi beint upp á ströndina utan við Hellinn, austan við innsiglinguna. Mannbjörg varð, en þegar reyna átti að ná bátunum út gerði vonsku veður með þeim afleiðingum að bátinn tók í tvennt og Ægis spýtti leifunum síðan langt upp á land þar sem þær eru nú. Afl hamsjávarins sést vel á brakinu, þ.e. hvernig hann hefur hnoðað járnið og rifið það í sundur og fært hluta þess langt upp á land, upp fyrir háan malarkampinn.

Grindavík

Sjóslysaskilti í Þórkötlustaðnesi.

Fyrsta spjaldið um skipsskaðana er um Gjafar VE 300. Báturinn fórs þarna fyrir utan 27. febrúar árið 1973. Tólf manna áhöfnin var bjargað frá borði með aðstoð björgunarsveitarinnar Þorbjörns, en saga sveitarinnar gæti verið og verður umfjöllunarefni út af fyrir sig. Fáar sjóbjörgunarsveitir á landinu hafa bjargað jafn mörgum sjómannslífum og sveitin sú.

Næst er skilti um flutningaskipið Mariane Danielsen er fór þarna upp á ströndina í vonsku veðri eftir að hafa siglt út úr Grindavíkurhöfn þann 20. janúar 1989.

Þórkötlustaðanes

Þórkötlustaðanes – brak.

Átta mönnum úr áhöfninni var bjargað í land með aðstoð þyrlu, en yfirmennirnir neituðu að yfirgefa skipið. Þeir voru síðan dregnir í land með aðstoð björgunarstóls daginn eftir.
Vélbátuirnn Grindvíkingur GK 39 fórst þarna utan við 18. janúar 1952. Fimm menn fórust. Lík fjögurra fundust daginn eftir, en lík þess fimmta fanns þar skammt frá daginn eftir. Neðan við kampinn, þar sem báturinn fórst, er langur skerjatangi út í sjó, svonefnd Nestá. Hún fer á kaf í flóðum.
Eldhamar GK 13 lenti uppi í grynningunum þann 22. nóvember 1991. Sjórinn kastaði skipinu fram og til baka uns það steyptist með stefnið niður í djúpa gjá. Af sex skipverjum um borð komst einn lífs af. Þetta óhapp varð neðan við vitann á Nesinu.

Cap Fagnet

Cap Fagnet á starndsstað.

Varðandi strand franska togarans Cap Fagnet, þá strandaði hann 24. mars 1931 við Skarfatanga við Hraun. Allri áhöfninni var bjargað, 38 manns, með fluglínutækjum sem þá voru tiltölulega nýkominn hingað til lands fyrir tilstuðlan Slysavarnafélags Íslands. Var þetta í fyrsta skipti á Íslandi sem fluglínutækin voru notuð hér við land til björgunar. Þarna eru enn ketillinn úr skipinu ásamt tveimur akkerum. Skrúfan af skipinu fyrir utan björgunarsveitarhúsið í Grindavík, minnisvarði um þessa fræknu björgun.
Annar tilgangur göngunnar var að skoða þurrkbyrgin í Strýthólahrauni.
Neðan við Vitann heitir Látur. Þarna var selalátur. Fleiri selanöfn eru á þessum svæði, s.s. Hópslátur og Kotalátur
Suðaustur af vitanum er grasflöt niður við kampinn; Stóra-Látraflöt. Kampurinn hefur nú að mestu þakið hana grjóti. Austur af vitanum er grasi vaxinn hóll; Tófuflatarhóll. Þar var tófugreni. Annað greni má sjá í hrauninu ofan við vestari hlutann af Hrafni Sveinbjarnarsyni. FERLIR merkti það áður en áfram var haldið.

Hópsnes

Upplýsingaskilti í Hópsnesi.

Austan við Tófuflatarhól eru Strýthólar, þ.e. Vestri-Strýthóll, með tveimur þúfum, en Eystri-Strýthóll er skammt austar niður við Kampinn. Austar er Þórkötlustaðabótin. Í henni hafa nokkrir bátar strandað, t.d. frönsk skúta um miðja 19. öld. Áhöfnin gat gengið í land og heim að Einlandi þar sem hún knúði dyra eftir að skipstjórinn hafði fallið í hlandforina framan við bæinn. Flest skipanna, sem þarna hafa strandað, hafa orðið þar til í fjörunni, en sjórinn hefur tekið það til sín, sem skilið hafði verið eftir. Austast, utan við Klöpp, varð eitt af stærstu sjóslysunum. Það var nóttina áður en Aldan rak upp í Nesið að vestanverðu að annan vélbát rak frá Vestmannaeyjum, Þuríði formann, sem einnig varð fyrir vélarbilun í sama veðrinu og rak þarna upp. En þar tóku höfuðskepnurnar öðruvísi á hlutunum. Þegar fólk kom á fætur á Þórkötlustöðum, varð það vart við óeðlilega mikið brak í fjörunni, og þótti all væri mjög maskað niður. Sást þó, að þarna hafði Þuríður formaður rekið upp og hún farist með allri áhöfn.

Blásíðubás

Blásíðubás.

Hinn 8. desember 1923 gerðist það í austan veðri og snjókomu, að þýskur togari strandaði utan við Grindavík. Áhöfnin komst í björgunarbáta og bjargðist í Blásíðubás. Þórkötlustaðanesmenn töldu, að eftir strand þetta hafi komist festa á veiðarfæri þeirra, sem ekki hefði verið þar áður, á leirbotni skammt út af víkinni, og veiðarfærin oft ryðlituð, er þau komu upp.

Hópið

Hópið – Vatnstangi nær.

Strýthólahraun, stundum nefnt Strútuhóalhraun, er nefnt eftir Strýtuhól vestari og Strýtuhól eystri, sem sjá má þarna inn í hrauninu. Í hrauninu eru fjölmörg hlaðin fiskbyrgi og þurrkgarðar. Ná þau svo til frá veginum niður að Leiftrunarhól, sem stendur á sjávarkambinum. Þessi byrgi eru fáum kunn, enda falla þau mjög vel inn í hraunið. Þegar hins vegar er staðið við byrgin sjást þau hvert sem litið er. Þegar staðið var á einum hraunhólnum mátti t.d. telja a.m.k. 14 sýnileg byrgi í hrauninu. Ekki er gott að segja hversu mörg þau eru í heildina. Norðan vegarins eru hlaðnir þurrkgarðar. Á þessu svæði má auk þess sjá standa undir vindmyllur, heimtraðir, veglegar sundvörður o.fl. o. fl. Þá má sjá, ef grannt er skoðað, mjög gamlar minjar sunnan og vestan við Flæðitjörnina.

Grindavík

Grindavík – Hópsnes- og Þórkötlustaðanes.

Þórkötlustaðanesið er einstaklega áhugavert til útivistar og ekki síður út frá sögulegum forsendum. Þurrkbyrgin í Strýthólahrauni eru t.d. engu ómerkilegri en þurrkbyrgin á Selatöngum og e.t.v. ekki yngri en byrgin, sem þar eru. Bændur og sjómenn frá Hrauni réru frá Þórkötlustaðanesinu og eflaust eru byrgi þessi minjar eftir þá. Þau gætu þess vegna, sum a.m.k., verið allt frá þeim tíma er Skálholtsbiskupsstóll gerði út frá sjávarbæjunum við Grindavík, en svæðið var eitt mesta og besta matarforðabúr stólsins um alllangt skeið og ein helsta undirstaðan undir fiskútflutningi hans.

Grindavík

Grindavík – neðri Hópsvarðan.

Fleiri lýsingar af Þórkötlunesinu, t.a.m. svæðinu austan Strýthólahrauns, má sjá á vefsíðunni undir Fróðleikur (Þórkötlustaðanes) þar sem Pétur Guðjónsson, skipstjóri lýsir því, en hann ólst upp í Höfn, einu af þremur húsunum í Þórkötlustaðanesi. Þá er ferð um Nesið lýst í FERLIR-473.
Tvískipt heitið á Nesinu eru líkt og dæmi eru um ýmis fleiri en eitt örnefni á kortum Landmælinga yfir sama stað, kennileiti eða náttúrufyrirbæri. Þannig er Grímmannsfell vestast á Mosfellsheiði jafnframt nefnt Grímarsfell á korti Landmælinga. Nafnaskiptingin kom við sögu dómsmáls á meðal bænda í Mývatnssveit, Hverfell versus Hverfjall, árið 1999, en í honum kemur fram að annað dæmi megi nefna um Hópsnes við Grindavík sem einnig er nefnt Þórkötlustaðanes á korti Landmælinga.

Þórkötlustaðanes

Athafnasvæðið í Nesinu – uppdráttur ÓSÁ.

Reykjanesskaginn býður upp á meira en fagra náttúru og útiveru. Þess má vel geta hér að gangan frá Saltfisksetrinu austur að Herdísarvík skammt austan gömlu bryggjunnar á Þórkötlustaðanesi tekur u.þ.b. 30 mínútur. Farið er um stórbrotið hraunsvæði á vinstri hönd og minjar skipsskaðanna á þá hægri. Þessi leið er, ef vel er á haldið sögulega séð, ein sú magnaðasta á gjörvöllu Reykjanesinu. Og til að skynja áhrifamátt hafsins og smæð mannsins er nóg að stíga upp á kampinn og þenja skynfærin.
Menningararfurinn er afar áhugaverður. Uppruninn og ræturnar eru við fæturna, hvert sem farið er – ekki síst í og við Grindavík.

Heimild m.a.:
-Saga Grindavíkur – Jón Þ. Þór 1994.

Hópsnes

Upplýsingaskilti í Hópsnesi.

Sloki

FERLIR hefur tekið saman myndir af nokkrum fiskibyrgjum og fiskigörðum á Reykjanesskaganum. Um eru að ræða merkar minjar frá fyrri tíð – órjúfandi hluti sjósóknar allt fram á miðja 20. öld.
HÉR má sjá myndasafnið.

Strýthólahraun

Fiskbyrgi í Strýthólahrauni.

Portfolio Items