Tag Archive for: Suðurnesjabær

Gufuskálar

Í 101. kafla Landnámu (Sturlubók) er sagt frá Steinuði (Steinunni) er síðar nam land á Rosmhvalanesi; „Steinuður hin gamla, frændkona Ingólfs, fór til Íslands og var með Ingólfi hinn fyrsta vetur. Hann bauð að gefa henni Rosmhvalanes allt fyrir utan Hvassahraun, en hún gaf fyrir heklu flekkótta og vildi kaup kalla; henni þótti það óhættara við riftingum“. Þá segir jafnframt að „Eyvindur hét maður, frændi Steinunnar og fóstri; honum gaf hún land milli Kvíguvogabjarga og Hvassahrauns. Hans son var Egill, faðir Þórarins, föður Sigmundar, föður Þórörnu, móður Þorbjarnar í Krýsuvík“.
Hólmur - fornmannaleiði fremst?Steinunn gamla, sem svo var nefnd, gæti hafa búið á eyjunum við Skotland eða dvalið þar – til þess bendir nafnið Njáll á öðrum syni hennar og heklan sem hún galt með fyrir land Ingólfs. Annar sonur hennar hét Arnórr. Maður Steinunnar var Herlaugur Kveldúlfsson, sagður bróðir Skalla-Gríms, og virðist hann hafa verið látinn er hún kom til Íslands. Mikil vígsár voru þá í Noregi. Í það minnsta kom hún án hans til landsins. Trúlega hefur Steinunn numið land sitt hér fr
á u.þ.b. 880-891, sennilegast þó um 890, því líklegt má telja að Ingólfur hafi látist á bilinu 900-905. Hann fór nokkrar ferðir til Noregs eftir að hann settist að í Reykjavík um 874 og trúlega hefur Steinunn fylgt honum til baka í einhverri þeirra því talið er að eiginmaður hennar hafi verið drepinn af mönnum Haraldar hárfagra ásamt frændum hans um 890. Ingólfur var einmitt staddur á heimaslóðum sínum í Fjörðum í Noregi um 890 eða 891. Kveld-Úlfur fluttist búferlum um þetta leyti (891), en lést á leiðinni til Íslands, þá orðinn gamall maður.
Þegar hingað til lands var komið fékk Steinunn Rosmhvalanesið í skiptum fyrir hekluna. Gufi Ketilsson af Akranesi hafði freist
ast til að setjast að í Gufunesi í landi Ingólfs í Reykjavík (Þórðarbók/Melabók Landnámu) en í óþökk landnámsmannsins. Þetta hefur væntanlega verið fyrir 900. Eftir að Ingólfur hafði rekið Gufa á brott fór hann á Rosmhvalanes og vildi taka sér bólfestu á Gufuskálum í Leiru en þau Steinunn „keyptu saman“ að hann færi þaðan á brott og vermannastöð yrði þar ávallt frá Hólmi. Samkvæmt þessu hefur Steinunn þá enn verið lifandi.
Eftir landakaupin ól Steinunn upp frænda sinn, Eyvind og gaf honum síðan hluta úr landnámi sínu, landið frá Hvassahrauni að Vogastapa, innsta hlutann af hinu forna Rosmhvalanesi sem á 9. öld náði þá líka yfir Vatnsleysuströndina sem kom í hlut Eyvindar er bjó í Vogum. Hann fluttist að Bæjarskerjum að lokum, eins og fram kemur í Landnámu. Vilja sumir meina að þar hafi Steinunn þá búið fyrrum.
Byggð hefur hafist á austanverðu Rosmhvalanesi með því að menn reru þaðan til fiskjar í byrjun. Um það vitna Gufuskálar, Miðskálar og Útskálar í Garði. Upp frá því hafa síðan jarðir byggst. Af Egilssögu að merkja hefur Rosmhvalanesið verið allbyggt nálægt 939. Ljóst er þó að ysti hluti Nessins innan Skagagarðsins virðist hafa byggst síðast enda var erfiðast að sækja þaðan sjó vegna skjóleysis við landið. Nokkur rök eru þess vegna til að þær jarðir sem bestar höfðu lendingar hafi byggst allsnemma og ekki var verra ef sæmilegt vatnsból voru nærri slíkum jörðum. Ein af slíkum jörðum var Hólmur í Leiru. Þar virðist hafa verið greiðara að ná í vatn en víða annars staðar á svæðinu. Í fjörunni undan Gufuskálum var og er enn sístreymandi vatn, volgt en ekki kalt, og hefur því ekki frosið á vetrum. Á landnámsöld hefur vatnið e.t.v. verið heitara og á stigið upp af því gufa. Sennilega hefur útstreymi þetta staðið ofar í fjörunni svo greiðara var að komast að því en er í dag. Ljóst er að í vatnsleysinu á Suðurnesjum var aðgangur að slíku vatni allt árið gulls í gildi. [Rétt er að geta þess að vatn hefur víða verið að finna á Suðurnesjum. Þess bera bæði kaldavermsl og vatnsstæði glögg merki. Eitt slíkt, hlaðið umhverfis, er t.a.m. ofan við Gufuskála og annað ofan við Hólm, auk þess tjarnir voru ofan strandar utan Bergvíkur].
VatnsstæðiAðgangur að nægu vatni gat því verið full ástæða til að ábúandi á Hólmi gerði allt sem í hans valdi stóð til að hindra fasta búsetu á Gufuskálum. Þetta gætu því verið allgóð rök fyrir því hvers vegna Steinunn „keypti“ Gufu brott af staðnum. [Það að Steinunn hafi þurft að „kaupa“ hann úr landnámi sínu, bendir til þess að Ingólfur hafi annað hvort ekki verið til staðar eða að hún hafi ekki sest þar að fyrr en um 900]. Efamál er hvort bátalending hafi fyrrum verið betri á Gufuskálum en á Hólmi, en nú er þar ólíku saman að jafna, enda þéttist byggðin síðar mest um Hólm. Ýmislegt bendir til þess að upplýsingar í Melabók um Gufu Ketilsson séu réttar og að Steinunn hafi kannski ekki búið ýkja langt frá Gufuskálum, jafnvel þar til að byrja með.
[Við þetta má bæta að utan við núverandi íbúðarhús á Hólmi, nálægt hinu gamla bæjarstæði, er bátslaga blettur með grjóti umgerðis. Blettur þessi var lengi vel afgirtur og mátti aldrei hrófla við honum, ella hlytist verra af].

Heimild m.a.:
-Landnáma (Sturlubók).
-Skúli Magnússon – Faxi, 3. tbl. 2007, bls. 15.

Þórshöfn

Haldið var í Þórshöfn. Leitað var tveggja festarhringja. Ofan við Þórshöfn, þann gamla verslunarstað, eru auk þess áletranir á klöppum, m.a. skammstöfunin HP. Nýlega hafði fundist þarna nokkurt brak úr Jamestown, sem strandaði utan við Hestaklett 1881, en einnig hafa menn talið sig hafa fundið silfurberg, sem átti að hafa verið ballest skipsins.

Þórshöfn

Áletrun á klöpp við Þórshöfn.

Til að komast sem fyrirhafnarminnst á vettvang og nýta tímann sem best var á kosið var sótt um leyfi til að fara um varnarsvæðið og af því niður að gömlu höfninni, um svonefnt Dei-five-svæði. Höfnin er við austanverða Ósa þar niðurundan er fyrrum var athafnasvæði sjóhersins. Skammt norðar voru hinir eftirminnilegu radarskermar og það ekki af minni gerðinni.
Góðfúslegt leyfi fékkst til að fara um varnarsvæðið. Hlið var opnað og farartálmar voru dregnir til hliðar. Leiðin var greið. Tíminn nýttist vel til leitarinnar sem og að skoða næsta nágrenni.
Svæðið er í rauninni utan varnarsvæðisins. Gamall vegur liggur frá Hafnavegi upp að svæðinu, en þar er lokað hlið, einhverra hluta vegna. Ef einhver svolítil hugsunarglóra væri í huga einhvers, sem gerði sér grein fyrir útivistarmöguleikum svæðisins, myndi sá hinn sami biðja um að lás af hliðinu yrði fjarlægður og svæðið um leið gert aðgengilegt áhugasömu fólki.
Áletranir eru á klöppum austan við Þórshöfn. M.a. er þar áletrunin HP á sléttri jarðfastri klöpp undir klapparholti. Sumir vilja halda því fram að sammstöfunin eigi við Hallgrim Pétursson, prest í Hvalsnesi er einnig þjónaði Höfnum um tíma (eftir 1644). Skammstöfunin er á miðri jarðfastri klöpp utan í jökulsorfnu klapparholti. Umhverfis áletrunina eru síðan aðrar skammstafanir og jafnvel ártöl. Ofan við hlöppina eru áletrnir og útflúr. Til hliðar eru nýrri áletranir, m.a. frá 20. öld.

Þórshöfn

Áletranir á klöpp við Þórshöfn.

Gengið var út með víkinni beggja vegna og festarhringjanna leitað. En þrátt fyrir útfjöru fundust hringirnir ekki. Jón Borgarson í Höfnum kvaðst hafa siglt þangað yfir fyrir nokkrum árum og þá m.a. litið festarhringina augum. Næsta skref verður að fara með Jóni í Þórshöfnina og skoða hringina.
Vestan þræsingur stóð inn í Ósana og því auðvelt að ímynda sér við hvaða aðstæður þurfti að takast á við er koma þurfi vélavana skipunum inn fyrir skerjagarðinn og inn í örugga höfnina í Þórshöfn. Utan hennar var hvítfyssandi öldurótið, en innan var lygna og angurværð. Auðvelt var að sjá fyrir sér hversu góð Þórshöfn var skipum hér fyrr á öldum.
Þórshöfn var helsti verslunarstaður Þjóðverja á 15. og 16. öld og sló þar stundum í brýnu milli þeirra og Englendinga. Með einokunarversluninni minnkaði mikilvægi Þórshafnar og lagðist hún af sem verslunarstaður. Á 19. öld hófust skipakomur þangað á nýjan leik og sóttu heimamenn það fast að hún yrði gerð að löggiltum verslunarstað en án árangurs. Sendu verslanir í Keflavík oft skip sín þangað með salt, timbur og aðra þungavöru en tóku í staðinn fisk af bændum á Miðnsesi og í Höfnum. Í byrjun 20. aldar fór skipakomum að fækka til Þórshafnar, enda tók Sandgerði þá við hlutverki verslunarstaðar á Miðnesi.

Hestaklettur

Hestaklettur.

Árið 1881 strandaði rétt hjá Þórshöfn enska vöruflutningaskipið Jamestown. Skipið var eitt allra stærsta seglskip sinnar tíðar, meira en 100 metra langt og 20 metra breitt og er eitt af tröllauknum akkerum þess varðveitt í Höfnum. Farmurinn var afar verðmætur því lestar skipsins voru fullar af úrvals timbri. Efra Sandgerði sem er elsta húsið í Sandgerði er byggt úr þessu timbri. Sögur segja þó að ballest skipsins hafi verið öllu verðmætari því hún hafi verið mexikóskt silfurgrýti. Ef til vill liggur því verðmætur silfursjóður á hafsbotni í Ósum.
Á morgni hvítasunnudags, 26. júní árið 1881 brá mönnum í Höfnum á Suðurnesjum í brún; heljarstórt seglskip hafði strandað við Hvalsnes á milli Hestakletts og Þórshafnar gegnt Kotvogi í Kirkjuvogshverfi. Þeir sem fyrstir komu á vettvang sáu að skipið var mannlaust og auðséð að það hafði verið lengi á reki því seglbúnaður þess og reiði var horfinn að mestu leyti.
Við nánari skoðun kom í ljós að skipið, sem mun hafa verið um 4000 tonn á núverandi mælikvarða og því engin smásmíði, – líklega með allra stærstu skipum sem til Íslands höfðu komið fram að því. Skipið var fullhlaðið borðviði af mismunandi tegundum, m.a. harðviði og allt kjörviður.
Í Suðurnesjaannál Sigurðar Sívertsen er m.a. fjallað um þetta strand. Þar er þess geta hve vel hafi verið um farminn búið og greinilega unnið af mikilli verkþekkingu. Þar segir m.a. að tekist hafi að bjarga miklu af farmi Jamestown og hafi timbrið verið notað til húsbygginga, ekki einungis á Suðurnesjum, en þar má enn sjá hús sem byggð voru úr þessu efni, heldur einnig austur um sveitir. Menn af Suðurnesjum mynduðu með sér félag um kaup á strandgóssinu og tókst að semja við sýslumann um kaupin. Eftir óveður nokkrum dögum eftir strandið brotnaði skipið í spón og hvarf. Það er til marks um veðurfar og sjólag við strönd Hafnahrepps að þetta stóra skip mölbrotnaði á fáum dögum eftir að hafa , eins og seinna kemur í ljós, verið á reki stjórnlaust á Norður-Atlantshafinu um 4ra mánaða skeið.

Gamli-kirkjuvogur

Kaupstaðagatan.

Í bókum má finna frásögn Ólafs Ketilssonar á Kalmannstjörn, hreppstjóra í Höfnum af strandi Jamestown. Þar nefnir hann þennan einkennilega stein sem hafi verið barlest skipsins og gerir því skóna að þetta hafi hugsanlega verið silfur. Í Bath Daily Times mánudaginn 21. nóvember 1881 er enn fjallað um Jamestown. Þar segir: ,, Svo virðist sem frægð Jamestown ætli engan enda að taka. Í tímaritinu Maine Mining Journal segir að fyrsta framleiðsla af málmgrýti frá námunni á Deer Isle hafi skrautlegan feril að baki og hafi endað á óvæntum stað. Málmgrýtið hafi Jamestown tekið sem barlest þegar það hélt til Swansee (svo !) í Englandi með timburfarm fyrir nærri ári. Járngrýtið er líklega enn í greypum þessa ólánsfleys þar sem það bar beinin.“ Það sem er örugglega rétt í þessu, og ber saman við blaðagreinar frá þessum tíma, er að barlestin var málmgrýti frá Deer Isle-námunni. Ástæða þess að einhvern grunaði að um silfur hefði verið að ræða er líklega vegna þess að saman við hefur verið svokallaður ,,klinker“ sem myndast í málbræðsluofnum. Þar með telst kenningin um silfurbarlestina afsönnuð.
Til að nýta tímann, og hið frábæra veður, sem allra best var gengið yfir að Stafnesseli, yfir á gamla Kaupstaðarveginn ofan Illaklifs, en upp á það liggur gata frá rústunum vestan Djúpavogs. Sú gata heldur áfram niður að rústum Gamla-Kirkjuvogs. Ýmislegt forvitnilegt bar þar fyrir augu, ekki síst varða sú er stendur nyrst og norðan rústanna. Neðan undir rústunum er hringlaga gerði, sem nú fer jafnan undir sjó á háflæði. Í Gamla-Kirkjuvogi kennir ýmssa grasa.
Reyndar er Gamli-Kirkjuvogur merktur á kortum norðan við Djúpavog og þar hafa verið gerðar fornleifaskráningar, enda kannski ekki óeðlilegt því þar er rústir að finna. Þær rústir bera þó fremur keim af skammæru útræði en langtíma búsetu. Hins vegar eru miklar rústir sunnan Skotbakka, bæði hús og garðar. Bæjarhóll trjónir efst á rústarsvæðinu og ofan við hann mikil varða. Utan um hana hefur verið allnokkur hleðsla. Líklegra má telja að þarna hafi verið hinn gamli Kirkjuvogur er tilgreindur er í gömlum heimildum og janvel kirkjugarður. Ofan hans er Stafnessel. Í einni heimild er selið sagt mun ofar í heiðinni, en það verður að teljast varhugaverð ályktun.

Gamli-Kirkjuvogur

Gerði við Gamla-Kirkjuvog.

Gengið var um Síðutanga og reyna átti að komast út í Einbúa og Vörðuhólma, en það tókst ekki. Ekki verður komist út í hólmann nema á bát. Líklegt má telja að úti í honum geti verið einhverjar rústir. Hólminn hefur fyrrum verið landfastur. Vestast á honum er stór varða, sem sá hluti hólmans tekur nafn af. Hestaklettur er þar utar. Hann er skammt fyrir innan skerjagarðinn svo ekki brýtur á honum, en utar er iðandi sjórinn.
Norðan og landmegin við Einbúa er Torfan; allvel gróin. Vestan hennar er Hvalvík. Ætlunin var að reyna að finna „steinhjarta“ það á klöpp er fannst forðum, en ljóst er að ekki verður gengið að því gefnu.
Þegar horft var yfir að Höfnum frá Torfunni sást vel í Veggina; skerjaklasa, vestan við Eyjuna svonefndu. Innar eru Ósarnir; lygnir og öruggir þeim er þangað rötuðu.
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 2 mín.
Sjá MYNDIR.

Heimildir m.a.:
1) Leó M. Jónsson f. 1942 í Reykjavík. Skrifað haustið 2000.
2) sr. Sigurður Brynjólfsson Sívertsen (1808-1887). Suðurnesjaannáll hans er m.a. prentaður í Rauðskinnu hinni nýrri (III). Höf. sr. Jón Thorarensen.
3) Faxi. Tímarit útgefið af Málfundafélaginu Faxa í Keflavík. 4) Ólafur Ketilsson frá Kalmanstjörn í Höfnum. f. 1864, d. 1947. Hreppstjóri Hafnahrepps í um 40 ár.

Gamli Kirkjuvogur

Gamli Kirkjuvogur – uppdráttur ÓSÁ.

Kirkjuvogskirkja

Gott er að hefja gönguna við vitann á Stafnesi, þar sem Reykjanesskaginn skagar lengst til vesturs. Gengið er með ströndinni til suðurs. Á þessari leið eru margir áhugaverðir staðir að skoða. Fjaran er mjög falleg með öllu sínu lífríki. Þegar gengið hefur verið um 1 km er komið fram á nokkrar tóftir í þyrpingu, þar voru Básendar, verslunar- og útgerðarstaður á 15.öld. Verslun lagðist þar af eftir mikið sjávarflóð aðfararnótt 9. janúar 1799, þá missti kaupmaðurinn á staðnum allar eigur sínar og ein kona drukknaði. Áfram er gengið með ströndinni. Gálgar nefnast tveir háir klettar um 1 km suður af Básendum örlítið ofar í heiðinni, en á milli þeirra er nokkurra faðma breitt sund. Gamlar sagnir herma að sakamenn hafi verið hengdir þar og ef það á við rök að styðjast, má gera ráð fyrir að í nágrenninu hafi verið héraðsþing til forna.

Stafnesviti

Stafnesviti.

Margar víkur og vogar ganga inn í skagann á þessu svæði og þótti bátalægi þar gott fyrr á öldum. Einna þekktust er Þórshöfn, sem var einn helsti verslunarstaður Þjóðverja á 15. og 16. öld og sló þar stundum í brýnu milli þeirra og Englendinga. Með einokunarversluninni minnkaði mikilvægi Þórshafnar og lagðist hún þá af sem verslunarstaður. Á 19. öld hófust skipakomur þangað á nýjan leik og sóttu heimamenn það fast að hún yrði gerð að löggiltum verslunarstað en af því varð ekki.
Næsta vík við Þórshöfn nefnist Hvalvík þar má sjá hólma úti í sjó sem nefnist Hvalvíkurhólmi.

Þegar komið er lengra inn í Ósana er komið að tóftum sem nefnast Gamli Kirkjuvogur, forn kirkjujörð sem talin er hafa farið í eyði á 16.öld, hugsanlegt er að það hafi verið landnámsjörð Herjólfs Bárðarsonar.

Gamli Kirkjuvogur

Gamli Kirkjuvogur – uppdráttur ÓSÁ.

Mikill og djúpur vogur gengur inn í landið þegar komið er enn innar og nefnist Djúpivogur. Þegar komið er fyrir Djúpavog er gengið fyrir Seljavog sem er öllu styttri. Á milli Djúpavogs og Seljavogs má sjá virðulegann klett uppi í heiðinni sem nefnist Hestaskjól. Þegar komið er fyrir Seljavog taka við margir litlir vogar sem nefnast Stóruselhelluvogur, Litluselhelluvogur og Brunnvogur, þar sveigir gangan til vesturs í átt að Höfnum.

Hafnir
HafnirUm miðja 18.öld hófst uppgangstími í Höfnum sem stóð fram á öndverða 20.öld. Á þessu tímabili bjuggu stöndugir útvegsbændur stórbúi í Kotvogi og Kirkjuvogi, þeir ráku þar mikla útgerð stórra áraskipa og húsuðu bæi sína með þeim hætti, að ekki var reisulegra um að litast í öðrum plássum. Á þessu tímabili fjölgaði fólki stöðugt í Höfnum, og margir fluttust þangað úr öðrum byggðarlögum á Reykajnesi. En blómaskeiðið tók enda þegar að ný tækni tók að riðja sér til rúms í íslenskum sjávarútvegi. Vélbátarnir þurftu betri hafnarskilyrði og meiri þjónustu en áraskipin, en þar stóðu Hafnarmenn höllum fæti. Þess vegna dróst útgerðin saman í Höfnunum á meðan að hún efldist annarsstaðar á svæðinu, í kjölfarið fór fólki að fækka. Má segja að Hafnir hafi orðið fórnarlamb vélvæðingar.

Margt áhugavert er að skoða í Höfnum:

Hafnir

Hafnir – uppgröftur.

• Fornleifauppgröft, árið 2002 fundust leifar af landnámsskála á túninu fyrir aftan Kirkjuvogskirkju. Við rannsóknir kom í ljós að þessi bústaður er frá því fyrir árið 900.
Í Landnámu segir að Herjólfur Bárðarson, frændi og fóstbróðir Ingólfs Arnarssonar hafi fengið land á milli „Vágs ok Reykjaness,“ sem þýðir líklegast að Herjólfur hafi átt land frá Ósum í Höfnum og alveg að Reykjanestá. Vegna þessara tengsla við orðið „vágr“ og nálægðar skálans við Kirkjuvogskirkju, Kirkjuvog og Kotvog var ákveðið að kalla bæjarstæðið Vog.
• Ankeri sem stendur á túni á móts við kirkjuna en það er úr skipi sem nefndist Jamestown sem rak inn Ósabotna árið 1881 eftir að áhöfnin hafði yfirgefið það úti á Atlantshafi, skipið var álíka stórt og fótboltavöllur, skipið var þríþilfarað, fullt af eðalvið og öðrum verðmætum. Varð þessi fengur til þess að farið var að byggja timburhús í Gulbringusýslu.

Jamestown

Annað ankeri Jamestown í Höfnum.

• Kirkjan í Höfnum var byggð af óðalsbóndanum í Kotvogi Vilhjálmi K. Hákonarsyni árið 1861 og er elsta kirkja á Suðurnesjum. Altaristöfluna málaði Sigurður Guðmundsson árið 1865. Kirkju á þessum stað er fyrst getið á ofanverðri 14.öld, en áður hafði kirkja verið norðan Ósabotna í Vogi (gamla Kirkjuvogi), gæti hafa verið þar fram á 16.öld.
Óhætt er að ætla sér 6-7 klst í þessa göngu.

Heimildir:
-www.sandgerdi.is ,Jón Þ. Þór, Hafnir á Reykjanesi.
-Skoðum kirkjur á Reykjanesi (bæklingur).

Kotvogur

Kotvogur í Höfnum.

Básendar

Farið var aftur á Básenda. Ljóst var að þar hlyti að vera mun meira að sjá en talið hafði verið í fyrstu. Reyna átti að leita að áletrunum er kynnu að leynast þar víða á klöppum úti í skerjum, en auk þess var litið á nokkra festarhringi og kengi í klöppum, sem nú eru í skerjum, en voru þó enn á 18. öldinni hluti af fastalandinu. Með í för var G. Sigurbergsson, en hann hefur áður borið fyrrnefndar áletranir augum.

Básendar

Svæðið hlýtur augljóslega að vera forvitnilegur vettvangur fornleifafræðinga því bæði á Básendum og í næsta nágrenni, Þórshöfn, er að finna áhugaverðar fornminjar, bæði áletranir og arfleið verslunarsögunar sem og einstaka þátta Íslandssögunnar. Í Þórshöfn var verslunarstaður. Þar eru áletranir frá þeim tíma og þar fyrir utan rak upp timburflutningaskipið Jamestown árið 1881.
Nefndar áletranir eru í Arnbjargarhólma. Á háhólmanum mátti bæði lesa skrifstafi og ártöl á klöppunum, en auk þess, þegar vel var leitað, mátti sjá slíkar áletranir á lausum steinum, sem virtust hafa verið á hólmanum áður fyrr, er hann var landfastur og væntanlega gróinn vel, en skolast til þegar sjórinn náði að aðskilja hann fastalandinu og leika frjálslegar um hólmann.
Í ljós kom að á einum lausa steininum stóð nafnið „BERTELANDERS“ og ártalið 1700. Á öðrum lausum steini var m.a. áletrað MVL og XX þar sem ör lá upp frá ártalinu 1590. Á klöppum mátti bæði lesa bókstafi er virtust vera upphafsstafir manna og ártöl, s.s. 1640, 1650, 1651 og 1694. Þessar áletranir á þessum stað benda til þess að þarna hafi verið athafnasvæði verslunar danskra kaupmanna, en þeir höfðu höfnina eftir 1602 út af fyrir sig. Þjóðverjar og Englendingar kepptust um hana fram yfir 1532 (Grindarvíkurstríðið) svo áletrunin Bertelanders gæti verið eftir einhvern kaupmanninn á Endunum eða hugsanlega nafn á skipi hans. Fróðlegt væri fyrir sagnfræðinga að reyna að grafa eitthvað upp um þetta.

Líklegt má telja að fleiri áletranir og ártöl kunni að leynast við Básenda er kunna að varpa ljósi á veru framangreindra á staðnum í gegnum aldirnar.
Básendar Samkvæmt gömlum uppdrætti af Básendahöfninni voru kaupskipin svínbundin (þríbundin) bæði á innri höfninni í Brennitorfuvík og á ytri höfninni. Samkvæmt teikningunni eiga að vera a.m.k. sex festahringir í klöppunum við Básenda.
Jón Ben Guðjónsson, eldri bróðirinn Stafnesbænda, sagðist hafa séð a.m.k. sjö festarkengi í og við höfnina. Sá sjöundi væri í skeri norðan við Básendatangann.
Við skoðun á vettvangi kom eftirfarandi í ljós: Þrír kengir eru í austanverðum Arnbjargarhólma. Sá syðsti er dýpstur. Í honum er hringur. Sá í miðið stendur hærra, á klöpp undir steini. Í honum er hringur. Nyrsti kengurinn er yst á skerinu. Í hann vantar hringinn.
Básendamegin, vestan við tóftirnar af verslunarstaðnum, eru tveir kengir. Annar, sá syðri er beint fyrir vestan þar sam kaupmannshúsið stóð. Sjá má grunn þess og stéttina framan við útidyrnar. Næsti grunnur er sunnar og austar. Á honum mótar einnig fyrir lítilli stétt þar sem dyrnar voru. Þriðja húsið var enn sunnar og austar. Að því liggur flóraður stígur upp frá flóruðu athafnasvæði ofan við höfnina. Hinn kengurinn er skammt norðar og mun neðar. Hann sést einungis á stórstraumsfjöru og þá helst um það leyti er flæðir frá. Í honum er hringur.
Þá er hringur úti í skeri, vestast í því, beint norður af víkinni. Í honum er hringur.
Á fyrrnefndum uppdrætti af höfninni sést vel innsiglingarleiðin; beint til suðurs vestan Básenda með stefnu á Gálga. Þegar komið var upp undir land var stefnan tekin til austurs innan skerja á Stóra Básendahól. Þá var komið inn á ytri höfnina. Beint á móti innri höfninni í Brennitorfuvíkinni er Brennitorfan. Á henni eru hleðslur þar sem sagnir kveða á um brennur þegar skyggja tók. Segja má að á hólnum hafi verið með fyrstu vitum hér á landi.

Básendar Í viðræðum við Leif Ölver Guðjónsson, yngri bóndabróðurinn á Stafnesi, kom fram að dýpið innan skerjanna er um 20-30 metrar, þó grynnst næst skerjunum. Einhverju sinni hafi verið kafað í víkinni og þá komið í ljós flök af tveimur verslunarskipum frá þeim tíma er Þjóðverjar og Englendingar nýttu höfnina. Á að hafa komið til átaka millum þeirra með þeim afleiðingum að skipum var sökkt. Liggja þau þarna á hafsbotni og mátti greina a.m.k. nokkrar fallbyssu á botninum. Sjór væri hins vegar ókyrr á þessum slóðum og umtalsverðir straumar. Þó bæri við stilltari sjór og þá væri lag að skoða þetta nánar, ef vilji væri fyrir hendi. Eitt slíkt fallstykki hefði skolað á land nokkru utar fyrir nokkrum árum og væri það nú við bæinn Nýlendu III utan við Stafnes. Tækifærið var notað í bakaleiðinni og fallstykkið skoðað. Lítið fer fyrir því þar sem það stendur við bæinn með skotstefnu til vesturs. Þarna er um greinilega fallbyssu af skipi að ræða. Á Nýlendu býr Arnbjörn Eiríksson. Hann sagði fallstykkið vera úr Jamestown, sem strandaði utan við Þórshöfn. Gripurinn hafi verið þarna heima við svo lengi sem hann myndi eftir sér, eða í 50 ár a.m.k.

Trébátsflak er ofan við Arnbjargarhólma. Að sögn Ölvers er það af bátnum Vörður ÞH er strandaði í Stóru Sandvík um 1960. Bátinn rak út þar sem hann klofnaði í tvennt. Rak annan helminginn þarna upp og sá sjórinn til þess að hann yrði þar fólki til sýnis um ókomin ár.

Básendar Ofan við Stafnes vakti athygli FERLIRsfélaga fjöldi grjóbyrgja, flest fallin. Jón Ben sagði það gömul fiskbyrgi. Þau væru sennilega þarna samtals á milli 30 og 40 talsins. Þarna hafi verið verkaður og þurrkaður fiskur Stafnesbænda um aldir. Svæðið er tiltölulega afmarkað og ætti að hafa varðveislugildi sem slíkt. Um aldamótin 1900 voru u.þ.b. 30 bæir á Stafnesi.
Aðspurður um Hallgrímshelluna svonefndu, sem FERLIRsfélagar hafa leitað að og m.a. notið ábendinga Guðmundar frá Bala á Stafnesi (sjá aðra FERLIRslýsingu), sagði Jón Ben eftirfarandi:
„Ég man vel eftir þessari hellu. Hún var í vörðu á Prestsklöpp þar sem prestar, og þar á meðal sr. Hallgrímur Pétursson, var sagður hafa beðið sjófars yfir Ósana til að geta þjónusta Hafnafólkið. Prestsklöpp var einnig nefnd Hallgrímshella. Hella þessi var þríhyrningslöguð, ekki stærri en svo að hægt var að taka hana í fangið. Áletrunin HPS var í hellunni og ógreinilegt ártal; 163?. Tilgreindur lögreglumaður á Keflavíkurflugvelli mun hafa bent einhverjum á helluna á sínum tíma. Síðan eru liðin a.m.k. 30 ár. Mig grunar að hellan hafi komist inn í geymslur Þjóðminjasafnsins og „gleymst“ þar.“
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 33 mín.

Letursteinn

Hallgrímshella

Í ferð FERLIRs um Básenda nýlega kom fram í viðræðum við Jón Ben Guðjónsson, bónda á Stafnesi, að hann myndi vel eftir Hallgrímshellunni svonefndu, sem var fyrrum á eða við svonefnda Prestsklöpp norðan við Þórshöfn.

Presthóll

Presthóll – loftmynd.

„Ég man vel eftir þessari hellu. Hún var við vörðu á Prestsklöppinni þar sem prestar, og þar á meðal sr. Hallgrímur Pétursson, var sagður hafa beðið sjófars yfir Ósana til að geta þjónustað Hafnafólkið. Hella þessi var þríhyrningslöguð, ekki stærri en svo að hægt var að taka hana í fangið. Áletrunin HPS var í hellunni og ógreinilegt ártal; 163?. Tilgreindur lögreglumaður á Keflavíkurflugvelli gæti vitað eitthvað hvað varð um helluna, en hann var kunnugur á þessum slóðum. Það eru liðin a.m.k. 30 ár síðan ég sá helluna síðast. Mig grunar að hellan hafi komist inn í geymslur Þjóðminjasafnsins og „týnst“ þar.“

Hallgrímshella

Hallgrímshellan á vettvangi 1964.

Það kom fram hjá Jóni Ben að sennilega ætti Jón Ásmundsson í Sandgerði gamla ljósmynd af Hallgrímshellu, sem hann mun hafa tekið fyrir ca. 40 árum.
Eftirfarandi erindi var sent til Sigurbjörns Hallssonar, lögreglumanns á Keflavíkurflugvelli:
„Við félagarnir höfum um nokkurt skeið leitað svonefndrar „Hallgrímshellu“, sem var á Prestsklöpp milli Þórshafnar og Básenda. Hellan, sem var þríhyrningslaga og ekki stærri en svo að hægt var að taka hana í fangið, var með áletruninni HPS (Hallgrímur Pétursson). Steinn þessi var lengi í vörðu á klöppinni. Hún sást síðast fyrir u.þ.b. 15 árum. Ljósmynd er til af hellunni, auk þess sem Stafnesbændur vissu af henni þarna. Getur verið að þú vitir eitthvað hvað varð um nefnda hellu?“

Kaupstaðagata

Kaupsstaðagatan norðan Ósa.

Sigurbjörn hafði þegar samband og sagðist vel muna eftir þessari hellu. Hún hefði verið stutt frá gömlu hestagötunni, legið þar. Á helluna hafi verið áletrað HPS og óljóst ártal frá 17. öld. Sjálfur hefði hann ekki séð helluna í fjölda ára, en hefði heyrt að einhver hefði tekið hana til handargagns. Sigurbjörn benti á að hugsanlega gæti Arnbjörn Eiríksson á Nýlendu III við Stafnes vitað hver það hefði verið.
Arnbjörn sagðist aðspurður vel muna eftir Hallgrímshellunni. Hana hefði hann hins vegar ekki séð í ein 20 ár. Hann hefði heyrt að einhver hefði tekið hana og komið henni fyrir á einhverju safni. Hver það var vissi hann ekki og ekki heldur á hvaða safn henni hefði verið fyrir komið. Að hans mati hefði hellan átt að vera þarna áfram, eða þá í Hvalsneskirkju því það hafi verið trú manna að áletrunin tengdist sr. Hallgrími Péturssyni og ferðum hans milli Hvalsness, Hafna og Njarðvíkur.
Þjóðminjasafni Íslands var sent samhljóða fyrirspurn og Sigurbirni með viðbótinni: „Getur verið að hún hafi ratað inn í geymslur Þjóðminjasafnsins?“

Hallgrímshella

Stafnbúar og Berent 1964 við Ósa.

Í framhaldi af fyrirspurninni var hringt í forstöðumann „gripadeildar“ þess, Lilju Árnadóttur, en að sögn veit hún manna best hvort og hvar hver gripur er í geymslunum. Lilja brást vel við. Hún sagðist reyndar hvorki hafa séð né heyrt af hellunni, en myndi leita og spyrjast fyrir um hana. Síðan myndi hún hafa samband.
Í millitíðinni var haft samband við Reyni Sveinsson í Sandgerði. Hann kannaðist við Hallgrímshelluna, en ekki hvar hún gæti verið niður kominn. Hann gat þó vísað á Jón Ásmundsson, múrararameistara í Sandgerði. Jón Borgarsson í Höfnum gæti hugsanlega vitað eitthvað um helluna því hann hefði m.a. unnið þarna um tíma. Jón var staddur út í Luxemborg. Hann sagðist hafa unnið þarna um tíma, en aldrei séð þessa hellu. Hins vegar hefði hann séð báða festarkengina við Þórshöfn – þar sitt hvoru megin. Þá þyrfti að skoða nánar. Auk þess væri nokkurt brak úr Jamestown þar nálægt.

Berent Sveinbjörnsson

Berent Sveinbjörnsson.

Aðspurður sagðist Jón ekki hafa tekið nefnda ljósmynd, en hann hefði verið með félaga sínum, Berent Sveinbjörnssyni, við Stafnes árið 1963 eða ’64 og þá hefði Berent tekið mynd af hellunni.
Berent, sem er búsettur í Hafnarfirði, sagðist eiga myndina og hefði reyndar verið að skoða hana og sýna kunningja sínum fyrir nokkrum dögum. Hann skyldi góðfúslega lána hana í þágu leitarinnar að endurheimtingu hellunnar. Berent sagðist muna vel eftir hellunni. Á henni hafi verið áletrun sem fyrr hefur verið lýst. kömmu síðar kom Berent færandi hendi, með myndina ásamt mynd af skátaflokknum Stafnbúum, sem var á leið þar umrætt sinn, en þá var myndin tekin, í ágústmánuði 1964. Berent kvaðst muna að hellan hafi legið uppi á á öðrum steinum svo til beint fyrir neðan stóru skermana utan við Stafnes (sem nú er búið að rífa).
Lilja hjá Þjóðminjasafninu hafði samband og viti menn – og konur; hellan er í vörslu safnsins. Lilja kvað „umrædda hellu vera í safninu. Var bara spurning um að setjast niður í ró og fletta í Sarpi. Hún hefur númer 1974 -120.

Hallgrímshellan

„Hallgrímshellan“ í geymslum Þjóðminjasafnsins.

„Þungur steinn aflangur sem í er klappað stöfunum HPS og beint þar fyrir aftan er klappað ártalið 1628. Steinn þessi var rétt vestan við Þórshöfn norðan Ósabotna, fast við gamla veginn. Menn hafa viljað halda, að Hallgrímur Pétursson hafi klappað þarna fangamark sitt, en hann kom ekki að Hvalsnesi fyrr en 1644 og er aðeins 14 ára árið 1628.““

Lilja kvaðst myndi staðsetja steininn í safninu og hafa síðan samband. Á ljósmyndinni virðist vera skrifað ártalið 163? svo gaumgæfa þarf þetta nánar, gæti verið 1638, en þá var Hallgrímur 24 ára.

Hallgrímshella

Hallgrímshellan skoðuð í geymslu Þjóðminjasafnsins.

Melabergsgata

Ætlunin var að skoða hugsanlegar minjar á afgirtu svæði innan Keflavíkurflugvallar. Svæðið er að mestu óraskað og ættu þar jafnvel að vera minjar frá bæjarkjörnunum vestan Sandgerðis, s.s. selstöður, þjóðleiðir, vörður, skjól o.fl. Af loftmynd að dæma virðist á svæðinu og vera gatnamót gömlu Hvalsnes-/Melabergsleiðarinnar og gamallar götu milli Hafnavegar og Sandgerðis.

Göngusvæðið

Þegar FERLIR leitaði eftir því við fulltrúa öryggissviðs Flugmálastjórnar á Keflavíkurflugvelli að fá heimild til að ganga um afgirt norðursvæðið, sem nú flokkast sem flugöryggissvæði, en var áður ytra varnarsvæði NATO, voru viðbrögðin strax mjög jákvæð þrátt fyrir að afar ströng skilyrði er gilda um aðgang utanaðkomandi að því. Eftir að tímasetningin hafði verið ákveðin var safnast saman við aðalhliðið inn á svæðið. Skömmu síðar mætti starfsmaður stjórnarinnar á vettvang og opnaði, hleypti þátttakendum inn fyrir og lokaði á eftir þeim. Áætlað hafði verið að leit á svæðinu innan girðingarinnar tæki u.þ.b. þrjár klukkustundir. Svæðið hafði reyndar áður verið skoðað.
Byrjað var á því að ganga yfir að Margvörðum á Margvörðuhól. Hóllinn sá er rétt innan girðingarinnar að austanverðu. Þar kemur gamla Hvalsnesleiðin/Melabergsgatan upp frá Ró[sa]selsvötunum ofan við Keflavík, fer undir girðinguna og liðast síðan í suðlægan sveig til vesturs innan varnargirðingarinnar, áleiðis að sunnanverðum Melabergsvötnum.

Kaupmannsvarðan

Gatan er mjög greinilega mörkuð í móann og víða hefur verið kastað drjúgum upp úr henni. Kaupmannsvarðan svonefnda setur óneitanlega svip á staðinn.
Frá Margvörðum liggur einig vörðuð gata í sömu átt, áleiðis að norðanverðum Melabergsvötnum. Göturnar koma saman vestan vatnanna. Þó svo að Hvalsnesleiðin/Melabergsgatan frá Hvalsnesi að Melabergsvötnum beri þess glögg merki að hafa verið endurbætt sem hestvagnavegur hverfur sú endurgerð við norðvestanverð Vötnin. Engin ummerki eru heldur eftir slíka umferð í móanum milli hinnar þráðbeinu vörðuleiðar, þ.e. milli norðanverða Melabergsvatna og Margvarða. Vörðurnar á leiðinni standa hins vegar heilar, flestar a.m.k. Þetta bendir til þess að um hafi verið að ræða endurbætur á gömlu þjóðleiðinni um það leyti er þær reyndust óþarfar.

Hvalsnesleiðin/Melabergsgatan

Nokkur önnur slík dæmi má finna á Reykjanesskaganum, s.s. á Skipsstíg, Árnastíg og Alfaraleiðinni (Almenningsleiðarhlutanum). Þess vegna má ætla að vörðurnar hafi verið reistar um og skömmu eftir aldamótin 1900. Þær eru líka óvenju heillegar, þótt mosavaxnar séu mót austri. Tilkoma varnargirðingarinnar á fimmta áratug síðustu aldar gæti hafa stuðlað að varðveislu þeirra og girðingin þar með risið undir nafni (því varla hefur hún þjónað öðrum tilgangi þennan tíma að fenginni reynslu). Hafa ber í huga að gömlum vörðum hefur stafað fimmföld hætta; jarðskjálftum, ágangi skepna, skemmdarfýsn manna, frostveðrun og þyngdarlögmálinu. Áhrif þeirra margfaldast gjarnan eftir því sem tímalengdin er meiri. Girðingin hefur dregið úr ásókn manna og annarra skepna og þannig verulega líkur á röskun. Jarðskjálftaáhrif eru jafnan lítil á svæðinu svo langvarandi áhrif frostverkunnar og þyngdarlögmálsins eru þau einu sem eftir standa. Þar af virðist áhrif þyngdarlögmálsins hafa verið lítil sem engin því vel hefur verið vandað til verksins í hvíetna.

Fallin varða

Þegar gömlu Hvalsnesleiðinni/Melabergsgötunni var fylgt frá Margvörðum áleiðis að vestanverðri varnargirðingunni mátti sjá fallnar vörður sunnan hennar með reglulegu millibili. Auk þess að vera vel mörkuð í móann hafði leiðin verið vandlega vörðuð. Í raun þarf engan að undra hvers vegna. Hvalsnesprestakalli var um tíma þjónað frá Njarðvíkum og jafnvel Grindavík. Þá var aðalverslunarhöfnin um tíma á Básendum utan við Stafnes. Hún færðist síðan til Keflavíkur eftir Básendaflóðið 1799. Margmenni var í verum á hverfunum á vestanverðu Rosmhvalanesi, s.s. Stafneshverfi, Hvalnsneshverfi, Fuglavíkurhverfi og Bæjarskershverfi, auk Sandgerðis. Hreppsstjórinn í hreppnum bjó um tíma í Fuglavík, auk þess sem, núverandi „hreppsstjóri“ gætir svæðisins sem hinn besti haukur. Gatnamót mátti sjá á leiðinni þegar hún hafði verið gengin 2/3. Af loftmynd að dæma mátti ætla að þarna hefði fyrrum verið leið milli Hafnavegar norðan Ósabotna og Sandgerðis (eða Fuglavíkur/Bæjarskers).

Vatnshólavarða

Við eftirgrennslan mátti sjá vörður sunnan götunnar. Þær lágu að þotubyrgjum NATO, sem varað hafði verið við að nálgast um of. Í ljós kom að „gatan“ á loftmyndinni var samfelld tréstauralína, sem legið hafði á ská niður heiðina. Staurarnir héngu flestir uppi, en verulega skakkir orðnir.
Utan í neðsta holtinu innan varnargirðingarinnar var varða og hlaðið lítið gerði. Frá því var stefnan tekin til norðurs, áleiðis að Vatnshólavörðunni. Hún hefur fyrrum verið bæði breið og há; augljóst leiðarmerki.
Í örnefnalýsingu fyrir Fuglavík segir um þetta svæði: „Rétt ofan við veginn er grjóthæð ílöng, sem heitir Dagmálahæð. Suður frá henni ofan við veg, Neðri-Stekkur og Efri-Stekkur. Langt uppi í haglendinu eru Selhólar, sem lentu í flugvallarlandinu. Ofan við veginn eru rústir eftir nýbýlið Hóla, sem brann. Vatnagarðar er dældin suður af vatninu. Þar hefur verið býli. Markahóll er grasi gróinn hóll upp í heiði á merkjum móti Melabergi. Vatnshólavarða er í brún frá bæ séð. Þar eru margir hólar, Vatnshólar, og draga nafn af Melabergsvötnum.“
Minjar símansTvær stauralínur liggja þarna um svæðið. Báðar hafa þær borið uppi símalínur millum miklvægra leiða á tímum hersetunnar. Frágangur þeirra bendir til tímasetningar í byrjun sjötta áratugs síðustu aldar. Nú hangir engin lína uppi, en staurarnir eru bæði misvísandi (í eiginlegri merkingu) og fagurfræðilegur vitnisburður (í óeiginlegri merkingu) um það sem var.
Þegar skoðuð er örnefnalýsing fyrir  Melaberg, þ.e. viðbót við lýsingu Magnúsar Þórarinssonar, má sjá eftirfarandi: „Til heiðarinnar langt ofan við bæ er svonefnd Grænalág. Austur af bæ norðaustur af Grænulág eru Syðri-Smérklettur og Nyrðri-Smérklettur. Suður af þeim eru tjarnir, sem heita Melabergsvötn. Þar norðaustur af eru Efrivötn. Þau þorna á sumrin. Þar áfram í sömu stefnu eru Brúsastaðir. Þetta er smáholt, en fékk þetta nafn fyrir löngu, af því að þar var maður á ferð með glerbrúsa. Þá er Ólafsvarða. Með gamla veginum ofan við Melabergsvötn er Neðri-Glæsir. Það er varða á hól. Þar rétt ofar er önnur, sem heitir Efri-Glæsir. Þar austur af eru Margvörður, og spotta suðaustur af Glæsi er mýrkenndur mói á sléttri flöt, sem heitir Melabergsengi. Innan við Margvörður er Kaupmannsvarða, sem er við krossgötur rétt hjá flugvellinum.“

Selvarða

Það má til tíðinda telja að hvergi er minnst á Hvalsnesleiðina/Melabergsgötuna í örnefnalýsingu fyrir Melaberg. Ekkert er heldur um Hvalsnesleiðina í örnefnalýsingu fyrir Hvalsnes. Ástæðan gæti verið sú að frásegjendum hefur þótt svo sjálfsagt að leiðin væri á hvers manns vitorði að ekki hafi verið talin ástæða til að geta hennar sérstaklega. Svo mun og hafa verið fyrrum í fornritum og frásögnum fólks að sjaldan var því lýst er þótt þá bæði sjálfsagt og hefðbundið.
Gengið var yfir að Vatnshólavörðunni og stefnan síðan tekin af henni á vörðu vestan við Fuglavíkursel. Þaðan sást vel til selvörðunnar á Selhólum.
Þegar Fuglavíkurselið var gaumgæft mátti sjá vatnsstæði bæði norðvestan og suðaustan við það. Selið sjálft, sem er mjög gróið, er ólíkt flestum öðrum hinna 250 selstöðva á Reykjanesskaganum (fyrrum landnámi Ingólfs).

Varða á efri Hvalsnesleiðinni

Leifar þriggja húsa eru í selstöðunni. Millum þeirra er hringlaga gerði líku fjárborg. Norðaustar eru hleðslur. Önnur, sú sem er fjær, gæti verið smalaskjól. Frá því er ágætt útsýni yfir efri vatnsstæðið, hugsanlegan nátthaga. Hin gæti hafa verið skjól fyrir refaskyttu í heiðinni, með efasemdum þó, því hleðslurnar voru óvenjumikið mosavaxnar.
Selvarðan er augljós og stendur enn að hálfu leyti. Selstígurinn er hins vegar óljós. Bæði vegna þess og vegna þess að hvorki er getið um eða hafa fundist aðrar selstöður í Miðnesheiðinni, þrátt fyrir margbæi, en Stafnessel ofan við norðanverða Ósabotna, má draga þá ályktun að þarna (í Fuglavíkurseli) hafi verið sameiginleg selstaða fyrir bæina neðan við ströndina (Hvalsneshverfi, Fuglavíkurhverfi og Bæjarskershverfi). Gerðið, sem er óvenju stórt af stekk að vera, gæti og bent til þess. Þá er aðgengi að vatni óvíða í heiðinni, en þarna var hægt að ganga að því sem vísu. Norðurvatnsstæðið var t.d. fullt þótt flest öll önnur væru upp þornuð á þessum tíma. Sveppur dró að sér athyglina.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 3 mín. Flugmálastjórn á Keflavíkurflugvelli er sérstakleg þökkuð góð viðbrög og sanngjörn viðleytni til sögu- og minjaframlags á svæðinu.

Heimildir m.a.:
-Örnefnalýsing fyrir Fuglavík.
-Örnefnalýsing fyrir Melaberg.
-Örnefnalýsing fyrir Hvalsnes.

Vatnshólavarða

Stafnesheiði

Fulltrúi FERLIRs mætti nýlega (sept. 2009) í enn einn tímann í fornleifafræði í Háskóla Íslands.
Umskipti hafa orðið á kennurum í faginu. Kennarinn nú, annar af tveimur (reyndur Vörðubrotfornleifafræðingur), lagði sérstaka áherslu á að „menn ættu að tjá sig um það sem þeir hefðu vit á, en þegja um það sem þeir hefðu minna vit á“. Orðunum var beint til hinna 11 nemenda, sem voru þarna á þessari stundu saman komnir á aldrinum 20-55 ára. Mörg spurningarmerki kviknuðu, en elsti (og reyndasti) nemandinn (að sjálfsögðu frá FERLIR), lét sér hvergi bregða því augljóst var að fullyrðingin átti ekki við hann. 
Veturinn framundan á háskólavígstöðvunum lofaði greinilega góðu fyrir FERLIRshugann.
Hverfum aftur til fortíðar. Eftir nýlega ferð FERLIRs með Jóni Ben Guðjónssyni að svonefndum Grjótgarði (Skjólgarður – Pétursvarða), þar sem m.a. var gengið fram á óútskýrt vörðubrot á klapparhæð ofarlega í Stafnesheiði, vaknaði áhugi hans á að kanna heiðina nánar m.t.t. frekari ummerkja fyrri tíðar.
HleðslurJón sagðist oft hafa farið um heiðina sem barn og unglingur í leit að fé því þarna hefðu á sumrum á fyrri hluta 20. aldar gengið hátt á fjórða þúsund fjár. Þótt svæðið virtist nú vera eyðilegt á að líta var þar fyrir gróðurþekja. Börðin hefðu t.a.m. náð honum í axlir, en þau hefðu smám saman fokið út í buskann, einkum að vetrarlagi. Þeir komu tímar að varla var útgengt á Stafnesi vegna moldar- og sandoks af heiðinni. Hún hefði án vafa verið gróðurmikil á landnámsöld og löngum eftir það, enda undirbergið augsýnilega fornt [um er að ræða elsta berg Reykjanesskagans], en með miklum og stöðugum ágangi manna og búfénaðar hefði roföflunum verið gert auðvelt um vik – líkt og nú má sjá afleiðingarnar af.

Systur

Jón sagðist hafa fyrir nokkrum góðvirðisdögum hafa að ákveðnu tilfefni gengið upp að fyrrnefndu vörðubroti í heiðinni, staðnæmst og hugleitt bæði aðstæður fyrrum og ferðamöguleika fólks á þeim tímum. Þá hafi vaknað hjá honum sú vitund, sem hann hafði reyndar áður grunað, að fyrrum hafi eðlilega legið (nú óþekktar) leiðir millum hverfiskjarnanna í Keflavík, Njarðvíkum og Höfnum (Grindavík) og hins forna verslunarstaðar á Básendum. Þegar hann hafi skoðað aðstæður nánar, metið möguleika og gengið að vörðu við hugsanlega upphafsleið [nú norðvestan bílastæðis á Ósabotnavegi] komu í ljós Systurvísbendingar um a.m.k. þrjár fornar leiðir.
Á þeim öllum eru vörðubrot (a.m.k. 20 talsins) er gætu gefið leiðina til kynna (þrátt fyrir gróðureyðinguna). Jón hafði skilmerkilega sett vörðubrotin á blað, en ætlunin er að ganga leiðirnar hverja um sig fljótlega og reyna að staðfesta þær sem slíkar (sjá FERLIR-birtist síðar).
Við nánari skoðun kom í ljós að athuganir Jóns virtust bæði skynsamar og eiga við rök að styðjast.
Þegar skoðuð var ein örnefnalýsing af þremur [Ara Gíslasonar eftir Metúsalem Jónssyni] af Stafnesi mátti lesa eftirfarandi: „Þá er að bregða sér upp í heiðina. Á Flötunum fyrrnefndu er svo nefnd Urðarvarða, og ofan túns er Heiðarvarða.
Stafnessel IIBeint upp af túni eins og 1 km
 er varða á leið til Hafna. Hún heitir Pétursvarða og stendur þar á klettasyllu. Þar til austurs er garðbrot fyrir fé, nefnt Skjólgarður. En niðri við Flatirnar er vik, sem fellur upp í og er nefnt Fagradalsvik. Þar upp frá er Fagridalur, sem nú hefur verið girtur af. Hér nokkuð austar upp frá sjó, suður frá Draughól, eru klettar tveir allháir og nokkurra faðma breitt sund á milli. Heitir þetta Gálgaklettar. Þar norður af er há klöpp, sem heitir Kiðaberg. Við Skjólgarðinn fyrrnefnda er komið upp fyrir hraunbeltið. Er þá fátt um nöfn. Heitir það Neðri-Mosar og Efri-Mosar, aðskilið af grjótbelti. Kiðaberg er há klöpp, sem fyrr var nefnd. Skammt suður og upp af Gálgum er fyrst hóll. Í honum er gren, sem heitir Kollóttagren. Allmikið sunnar er Þórshöfn, sem fyrr getur, og er þar mjór og langur bás inn í hraunið. Þangað fóru kaupskip hér fyrr. Sunnar var grasi vaxinn tangi, nefndur Þórshafnarbali. Nú er hann horfinn. Þar austar er Hvalvík, og upp af henni er hnúkur eða klettur nefndur Æsuberg (nefnt svo 1703).

Vörðubrot

Skammt suður og upp frá Gálga eru lágar klappir nefndar Klofningar. Þar suður og upp af Þórshöfn er einstök varða á klöpp, Mjóavarða, sem var innsiglingarmerki á Þórshöfn. Suðaustur af henni eru svo tvær vörður á klöpp, sem nefndar eru Systur. Þar austur af eru Stórubjörg, og austan þeirra er gamalt sel, sem heitir Stafnessel. Hraunið upp af Gálgunum er nefnt Gálgahraun. Utan við Djúpavog meðfram voginum er svonefnt Illaklif. Torfmýrar hafa verið til hér í hlíðinni, en það, sem hæst ber hér upp af, heitir Háaleiti og er nú komið undir flugvöllinn.“

 

Stafnes

Stafnes – heiðarvegirnir.

Athugun Jóns leiddu m.a. til staðfestingar á örnefnunum Systur. Þær eru þó ekki „suðaustur“ af Þórsmörk heldur norðaustan við hana. Jón sagði að honum hefði verið gert grein fyrir að fyrrnefndar „Systur“ væru þarna vestan við ætlaðar seltættur. Við þær væru hleðslur á tveimur stöðum og fyrrum skjólsæll hvammur á millum. Enn austar, innan varnargirðingar, væru líklega minjar um enn eitt Stafnesselið.
Ábendingar Jóns eru sérstaklega áhugaverðar, bæði vegna ummerkjanna (s.s. vörðubrotanna) og vegna þess að framangreindar minjar virðast bara alls ekki hafa ratað inn í fornleifaskráningarskýrslur af svæðinu. Til gamans má geta þess að t.d. vörðurnar „Systur“ hafa ekki áður ratað inn á Netið öðru fólki til upplýsinga og fróðleiks.
Ælunin er að ganga Stafnesheiðina með Jóni Ben spjaldanna á millum fljótlega.
Frábært veður.

Heimildir m.a.:
-Örnefnalýsing fyrir Stafnes – Ari Gíslason skráði eftir Metúsalem Jónssyni.

Stafnes

Jón Ben. á Stafnesi við Loddubrunninn.

Básendar

Á Básendum fundust nýlega áletranir frá því á 17. öld. Ætlunin var að fara þangað við hagstæðar aðstæður fljóðs og fjöru og vöðluvaða út í hólma og sker með það fyrir augum að líta þar á áletranir á klöppum. Einnig var ætlunin að leita að hugsanlega fleiri áletrunum í skerinu. Það er ekki heiglum hent að vaða út í sker og feta þara á hálum klöppum, en FERLIRsfélagar láta sér fátt fyrir brjósti brenna. Með í för var G. Sigurbergsson, en hann hafði komið auga á þessar áletranir af tilviljun fyrir nokkru síðan og tók þá m.a. meðfylgjandi myndir.

Básendar

Á leiðinni út að Básendum eru tveir myndarlegir grónir hólar á leiðinni á hægri hönd. Sá eystri er Stóri-Básendahóll og sá vestari Litli-Básendahóll.
Nafnið Básendar er ekki vafalaust. Kemur það fyrir í þremur myndum; Bátsenda (danskir skrifuðu það Botsendar), Bátsandar og loks Básendar (eða Bassendar). Nafnið kemur fyrst fyrir í Fornbréfasafninu 1484. Þar er ritað „Bátsendum“.
Básendar urðu verslunar- og útgerðarstaður strax á 15. öld. Framan af voru þeir í eigu Viðeyjarklausturs en eftir siðaskiptin tók konungsvaldið útgerðina í sinar hendur og máði hún hámarki að fyrstu tugum 18. aldar en um þær mundir voru konungsbátar í Gullbringusýslu milli 80 og 100 talsins. Rekstur konungsútgerðarinnar var þó ekki burðugri en svo að árið 1769 var hún lögð niður. Enn um sinn héldu þó danskir einokunarmenn áfram að stunda verslun frá staðnum og voru margir þeirra afar illa þokkaðir. Í kvæðinu Básendapundarinn eftir Grím Thomsen segir frá útistöðum Skúla fógeta við einn slíkan.
Básendar Í fornleifaskráningu um Básenda segir m.a. að „í Stafnesslandi, á hraunnefi milli tveggja víka sunnarlega á vestanverðu Miðnesi sunnar en Stafnes, heita Básendar. Þar var ein af höfnum einokunarverslunar Dana og náði verslunarsvæðið yfir Hafnir, Stafnes og Miðnes. Aðfaranótt 9. janúar 1799 gerði óveður usla allt frá Þjórsá og vestur um Seltjarnarnes, kirkjur fuku, skip brotnuðu, jarðir í Staðarsveit urðu óbyggilegar og Seltjarnarnes varð eyja í flóðinu. Grótta á Seltjarnarnesi varð að eyju til frambúðar en áður var hún landfastur tangi. Á Básendum gerði flóðið þó líklega mestan usla. Flest ef ekki öll hús kaupstaðarins sópuðust burt, roskin og veikburða kona drukknaði en annað heimilisfólk bjargaðist við illan leik. Atburður þessi hefur síðan verið kallaður Básendaflóðið.
Höfnin á Básendum var lón mjótt og langt inn í Brenntorfuvíkina. Skipaleiðin inn í leguna var nokkuð löng, fyrst bein sigling á Gálga, en síðan var vent í vinkil til vinstri með stefnu á vörðu utan við hólana og rennan tekin til norðurs milli skerja og inní höfnina. Þar voru skipin svínbundin, ýmist á ytri höfninni eða innri höfninni. Á teikningu frá 18, öld má sjá bæði siglingaleiðina sem og staðsetningu festarhringjanna í landi.

Á Básendum má einnig enn sjá leifar kaupstaðarins, þ.á.m. minjar um landfestar, varir, fiskbyrgi og verslunar- og birgðahús auk búsetuminja. Þar standa ágætlega varðveittar leifar af rétt, hlöðu og fjósi. Einnig má finna þar leifar garðs sem hlaðinn var í hálfhring utan um verslunarstaðinn. Samanburður heimilda og húsaleifa á vettvangi bendir til að fjórar rústir geti verið leifar lifrarbræðsluhúss, skemmu, lýsisbúðar og vörugeymslu. Loks skal getið kaupstaðavegarins. Hann er nær því óskertur frá Kirkjuvogi heim að Básendum. Minjagildi hans er verulegt, ekki einungis vegna þess að fáar ef nokkrar fornar leiðir eru svo stórkostlega vel varðveittar, heldur er hann sýnilegur í landinu með upphækkuðum brúnum og vel til gönguferða fallinn.“

Básendar

Básendar komu við sögu í aðdraganda Grindavíkurstríðsins, eða Fimmta þorskastríðsins, eins og það er stundum nefnt.
Árið 1480 kom stórt þýskt vöruflutningaskip og lá við landfestar við Straumsvík. Sex ensk herskip komu og tóku skipið, fluttu það út og seldu áhöfnina m.a. í ánauð. Englendingar fluttu sig til Grindavíkur, en Þjóðverjar til Básenda. Sú regla gilti að sú áhöfn sem fyrst kom að höfn að voru átti einkaaðstöðu þar það sumarið. Upp spratt verslunarstétt, nefnd “verslunarduggarar”. Þeir fóru að sigla til Íslands, ekki bara yfir sumarmánuðina, heldur alveg fram í nóvember. Íslendingar unnu hjá þeim og sáum um veiðar og vinnslu aflans, t.d. í Grindavík, á Básendum og í Hafnarfirði.
Eftir að Englendingar byrjuðu að sigla hingað komu þeir sér upp umboðsmönnum. Í Grindavík var það Marteinn Einarsson frá Stað. Stjórnaði hann verslun Englendinga hér. Systir hans var gift Englendingi. Lærði Marteinn m.a. listmálun í Englandi. Eftir að Þjóðverjar lögðu undir sig Hafnarfjörð fóru þeir að herja á Englendinga annars staðar, t.d. á Básendum við Stafnes (sem hét Starrnes til forna).
Hinrik VIII. var við völd í Englandi. Aðalhafnir Englendinga voru á Básendum og í Grindavík. Þegar Þjóðverjar komu til landsins 2. apríl 1532 fóru þeir ekki til Grindavíkur heldur inn á Básenda. Fyrirliði þeirra, Ludtkin Smith, hafði sagst ætla að vinna eina höfn af Englendingum, en hann mun hafa verið skyldur fyrirliða þeim er enskir hertóku við Straumsvík og færðu í þrældóm. Samkvæmt reglunni átti hann rétt á aðstöðunni (fyrstur að vori).

Básendar Básendar var aðalhöfnin á Romshvalanesi. Keflavík var ekki einu sinni orðið þorp. Skömmu síðar komu Englendingar að Básendum, réru í land og báðu um að fá að hafa þar aðstöðu. Ludtkin hafnaði beiðni þeirra, sagðist ætla að bíða eftir væntanlegu öðru þýsku skipi þangað. Englendingar virtust taka þessu furðu vel og réru til baka út í skip sitt. Skömmu síðar kom annað enskt skip þar að. Þá breyttist framkoma Englendinganna gagnvart Þjóðverjum. Annað skipið sigldi inn í höfnina og réðst á Þjóðverjana. Héldu Englendingar að þeir hefðu í fullu tré við þá. En þeir vissu ekki eitt, Bróðir Ludtkins, Hans Smith, hafði haft vetursetu á Básendum, varðveitt fiskistafla, sem ætlunin var að flytja út að vori, og vingast við heimamenn. Þegar Þjóðverjar sáu hvert stefndi, söfnuðu þeir liði, aðallega Íslendingum, og mikil orrusta verður með fylkingunum. Þjóðverjum og Íslendingum tókst að gersigra Englendinga. Öðru skipinu var sökkt, en Þjóðverjar náðu hinu.
Þótt nú sé fátt á Bátsendum (Básendum) er sýnt getur augljóslega aðstæður þar þennan örlagaríka dag árið 1799 má þó enn sjá ýmislegt ef vel er að gáð. Brunnurinn er t.d. ofan við það sem húsin stóðu, sökkla timburhúsanna má sjá þar, tóftir ofan við vörina, festarkengina frá tímum konungsverslunarinnar og Brennuhól (Brenntorfuna) þar sem eldur var kynntur til leiðsagnar sjófarendum, auk þess sem aðstæður við Bátsenda gefa fólki mynd af því hvernig gæti hafa verið umhorfs þarna fyrr á öldum þegar umsvifin voru hvað mest. Garðar eru hlaðnir utan og ofan við Básenda um túnbleðla, þar er nokkuð heilleg hlaðin rétt og tóftir má sjá nálægt brunninum.
Básendar Tóftir síðasta Básendabæjarins eða sjóbúðarinnar, sem líklegra er, sést enn fremst á tanganum austan Brennitorfuvíkur og neðan hennar er lendingin. Til skamms tíma mátti í henni sjá för eftir kili árabátanna, sem þar voru dregnir upp.
Skoðaðar voru fundamental kaupmannshússins, leifar lýsisbræðslunnar, réttin, sem er nýlegra mannvirki, brunnurinn og garðarnir umhverfis. Þá var litið á Brennitorfuhól, eða Brennihól eins og hann var einnig nefndur. Á honum var tandrað bál þegar rökkvað var orðið og ekki allir bátar komnir inn til lendingar. Draughóll er skammt sunnar. Á honum er talið að hafi verið dys, en það mun ókannað.
Þar sem staðið er á flóraðri stétt sölubúðarinnar á Básendum, sem enn sést, má vel gera sér grein fyrir hvernig þarna var umhorfs fyrr á öldum. Húsið hefur verið í vinkil, fremur lítið. Vestan við það hefur vöruhúsið staðið. Sér þar fyrir grunni, um 20 m á lengd og 12-15 m á breidd. stærra hús. Austan við sölubúðina hefur kaupmannshúsið staðið staðið, en framan og til hliðar við húsin hefur lýsisbræðslan verið. Planið framan við húsin er flórað og sést drjúgur hluti þess enn. Ljóst er að mikill umgangur hefur verið um planið, enda vel máð. Neðan þess er vik í klappirnar, rétt sunnan festarkengs, sem þar er. Annar kengur var í klöpp skammt vestar, en virðist nú horfinn. Hugsanlega er þarna um að ræða leifar lendingar smærri báta, sem ferjað hafa varning að og frá kaupskipinu, sem bundið var í innri víkinni, neðan verslunarhúsin. Léttari varningur hefur væntanlega verið dregin í land á lyftuböndum.

Básendar Sjóbúðin vestast á tanganum virðist í fljóti bragði hafa verið bær, en það getur þó varla verið. Til hliðar við búðina, sem hefur staðið með gaflinn mót hafi (vestri), eru afhýsi, líklega notuð til geymslu varnings og veiðarfæra. Ólíklegt er að áhafnir hafi haldið til í búðinni, en hún mun þó líklega hafa hafst þar við á meðan róðralotur stóðu yfir, en þess á milli dvalið heima hjá sér eða á nærliggjandi bæjum.
Norðaustar er hlaðinn rétt eða kálgarður með hesthúsi að baki, en hlöðuveggir eru þar laust norðvestan við. Austan við brunninn hefur verið kálgarður, tvíhlaðinn úr úrvalsgrjóti. Frá þessum stað má sjá að kaupstaðurinn hefur verið alveg afgirtur að sjó. Fiskabyrgi, lítil og kringlótt eða sporlaga, úr einhlöðnu grjóti, hafa verið á klettum og hólum víðsvegar að ofanverðu.
Mikið útræði var lengi á Stafnesi og nærliggjandi bæjum, enda stutt á miðin. Vörin er beint fyrir neðan sjóbúðina. Um aldamótin 1900 er því lýst að þar hafi mátt sjá merki eftir kjöl bátanna, sem þar voru dregnir upp.
Þegar Básendar eru gaumgæfðir út frá minjunum, örnefnum og aðstæðum vakna þeir ósjálfrátt til lífsins og auðvelt er að gera sér í hugarlund hvernig mannlífið, sjósóknin og verslunin hafa gengið fyrir sig þótt ekki séu þar enn heil hús eða búðir.
Vöruhúsið á Básendum var flutt til Keflavíkur árið 1800 og stóð við Hafnargötuna sunnan við Norðfjörðsgötu og kallað Svarta pakkhúsið.
Ætlunin er að fara fljótlega aftur að Básendum og gaumgæfa skerin.
Frábært veður.

Básendar

Básendar – letur.

Geirfugl

FERLIRsfélagar voru á leið í Sandgerði og áttu stutt eftir ófarið þegar maður má segja hljóp í veg fyrir bíl þeirra. Maðurinn baðaði út öllum öngum og virtist hrópa: „Hann er ekki dauður. Hann er ekki dauður“. Allir önduðu léttar.

Geirfugl

Geirfuglinn í Sandgerðisfjöru.

Maðurinn benti áleiðis niður í fjöru. Stigið var út og maðurinn eltur. Þar staðnæmdist hann og benti á eitthvað sem virtist fugl. „Sjáið“, sagði hann og benti af enn meiri ákveðni. Myndavél var brugðið á loft og smellt af, en við það virtist fuglinn taka viðbragð og hvarf sjónum áhorfenda. Skv. síðustu rannsóknum eru fuglar taldir heyra 200 sinnum betur en menn. Mun það m.a. hjálpa þeim að rata langar leiðir. Eldey er hins vegar ekki svo langt frá Sandgerði.

„Nei“, það getur ekki verið, sagði hver ofan í annan. Síðasti geirfuglinn var drepinn í júní árið 1844 í Eldey. Síðan hefur hvorki sést slíkur fugl hér við land né annars staðar. Nema kannski sá uppstoppaði, sem keyptur var dýrum dómi (9.000 sterlingspund) til landsins frá Englandi árið 1971.
Geirfuglinn var um 75 cm á hæð á meðan hann var og lifði. Þessi var stór, a.m.k. 75 cm. Hann átti að vera frændi álkunnar. Þessi var mjög álkulegur á að líta.
Ákveðið var að koma við í Fræðasetrinu og bera málið undir Reyni Sveinsson, sem fylgist vel með öllu.

Reynir Sveinsson

Reynir Sveinsson.

Reynir sagðist aðspurður ekki alveg getað neitað því að hafa heyrt menn, sem höfðu það eftir öðrum, einkum upp á síðkastið, að þeir hefðu talið sig hafa séð geirfugl við Sandgerði, en sjálfur sagðist hann ekki hafa séð neinn slíkan. Nú myndi hann hins vegar gefa því mun betri gaum en áður því gaman væri að berja fuglinn augum ef hann væri þarna einhver staðar. Það væri þó ekki útilokað að einhver hefði tekið hann fyrir geirfugl því hann ætti tíðgengið um svæðið.
Og hver segir að eitthvað sé alveg útdautt þótt það hafi ekki sést um langan tíma. Ekki er alveg útilokað að einhver heppinn, sem á leið um fjörur Sandgerðis á næstunni berji eitthvað augum, sem ekki hefur sést alllangt.

Annars er hin opinbera saga geirfuglsins eftirfarandi:
Geirfuglinn (Pinguinus impennis) var ákaflega algengur á Norður-Atlantshafi fyrr á öldum, meðal annars undan ströndum Íslands, Færeyja og Grænlands, á nyrstu eyjum Bretlandseyja og við Noreg og Kanada. Talið er að geirfuglar hafi verið margar milljónir áður en menn fóru að veiða hann í stórum stíl, en ekki er þó alveg ljóst hve stór stofninn var hér við land.

Geirfugl

Geirfugl – teikning.

Upp úr 1800 fór heldur betur að halla undan fæti hjá geirfuglinum sökum ofveiði. Aðallega voru það sjómenn sem veiddu hann á löngum veiðiferðum sínum á þessum slóðum enda var geirfuglinn stór og kjötmikill og auðveldur viðureignar enda ófleygur. Geirfuglinn var einnig veiddur vegna fjaðranna sem voru notaðar í fatnað.
Geirfuglinn var mjög stór fugl, rúmir 70 sentímetrar á lengd og langstærsti fuglinn í ættinni Alcae eða svartfuglaætt. Ýmsar aðrar tegundir í þessari ætt eru algengar hér á landi í fuglabjörgum allt í kringum landið eins og álka (Alca torda), langvía (Uria aalga), stuttnefja (Uria lomvia) og lundi (Fratercula arctica).
Ofveiði er sem fyrr segir meginástæða þess að geirfuglinn dó út en síðustu tveir fuglarnir voru veiddir í Eldey þann 4. júní 1844 þegar þrír íslenskir sjómenn, Sigurður Ísleifsson, Ketill Ketilsson og Jón Brandsson, voru beðnir um að safna nokkrum eintökum fyrir danska náttúrugripasafnarann Carl Siemsen. Þeir Jón Brandsson og Sigurður Ísleifsson fundu fljótt sinn fuglinn hvor og drápu en Ketill kom til baka tómhentur enda voru þá síðustu tveir geirfuglarnir fallnir í valinn og þar með lokið sögu þessara mörgæsa norðurhafanna. Sorgarsagan um örlög geirfuglsins staðfestir það að stjórnlausar veiðar geta þurrkað út tegundir á mjög skömmum tíma.

En nú virðist ekki öll von úti ef marka má nýlegar sagnir úr Sandgerði.

Geirfugl

Geirfugl á Reykjanesi.

 

Þórshöfn

Gengið var að Hunangshellunni er tengist þjóðsögunni um finngálknið (Rauðskinna) og viðureign mannanna við það. Á hellunni, sem er orðin nokkuð gróin, er vörðubrot. Ekki langt frá því lá alllangt etinn fugl (ekki ólíklegt að það geti verið eftir finngálknið forðum).

Hafnarvegur

Hafnarvegur.

Hafnagötunni gömlu var fylgt spölkorn til norðurs, en stefnan síðan tekin óhikað til norðvesturs, yfir móana, framhjá nokkrum vörðum og að áberandi vörðu ofan Djúpavogs. Ef spara á langan útidúr er nauðsynlegt að taka mið af henni því annars þarf að krækja fyrir nefndan Djúpavog, sem er alllangur.

Hunangshella

Hunangshella.

Við Djúpavog eru tóftir, brunnur, gerði o.fl., líkt og út á Selshellunni skammt sunnar. Einnig er tóft efst á austurbakkanum á móts við miðjan voginn. Gengið var upp eftir voginum og gömlu götunni fylgt, Ósabotnagötunni (Kaupstaðaleiðinni). Stafnesselið hefur skv. heimildum verið sagt týnt, en FERLIR gekk samt sem áður hiklaust fram á það. Tóftirnar eru á grónu barði á efstu hæð, líkt og títt var um selstöður fyrrum.
Kaupstaðaleiðin er falleg vagngata á melhálsi upp af Djúpavogi, en gamla þjóðleiðin liggur sunnar, að Gamla-Kirkjuvogi. Enn önnur leið, greinilega minn farin, liggur frá Djúpavogstóftunum og rétt ofan við strönina að Gamla-Kirkjuvogi. Þar á leiðinni er slétt flöt og gerði. Liggur veggur þess út í sjó, en land mun hafa sigið þarna verulega á umliðnum öldum (nokkra millimetra á ári skv. mælingum).

Gamli-Kirkjuvogur

Manngerður hóll (dys?) við Gamla-Kirkjuvog.

Gamli-Kirkjuvogur er sagður vera mjög gamall, forveri bæjanna handan Ósa. Sumir segja það þar hafi verið landnámsjörð. Sjá má þar tóftir, garða, gerði o.fl. og virðast þær allar mjög komnar við aldur. Mörg dæmi eru um að leiðsögumenn hafi farið um þetta svæði og kynnt Djúpavogsminjarnar sem Gamla-Kirkjuvog. Um hefur verið að ræða útræði og ekki er með öllu útilokað að það hafi tengst gamla býlinu með einhverjum hætti.

 Ósar

Steinhjartað í Ósum.

Gengið var yfir að Þórsmörk, en Þórshöfn var verslunarstaður Þjóðverja á 15. og 16. öld. Á leiðinni þangað var gengið fram á merkilegt náttúrfyrirbæri. Í einni klöppinni var rauðleit hola og var líkt og hún gréti. Fyrirbærið var nefnt steinhjarta. Vatnið í henni gæti verið allra meina bót. Við Þórshöfn er m.a. letrað á klappir, m.a. „HP“ (Hallgrímur Pétursson?). Þar fyrir utan kom timburflutningaskipið Jamestown upp áður fyrr, mannlaust, en fullhlaðið timbri. Segja má að flest merkilegri hús á Reykjanesskaganum og jafnvel víðar hafi verið byggð úr því timbri. (Sjá meira HÉR). Sum standa enn.

Kaupstaðagatan

Kaupstaðagatan norðan Ósa.

Gengið var yfir melholtin vestan Þórshafnar, framhjá Básendum og yfir að Stafnesi með viðkomu í Gálgum.
Rösk ganga með milliliðalausa sjávaranganinnöndun svo til alla leiðina. Gangan tók 3 klst og 2 mín. Frábært veður.

Gamli Kirkjuvogur

Gamli Kirkjuvogur og nágrenni – uppdráttur ÓSÁ.