Í 101. kafla Landnámu (Sturlubók) er sagt frá Steinuði (Steinunni) er síðar nam land á Rosmhvalanesi; „Steinuður hin gamla, frændkona Ingólfs, fór til Íslands og var með Ingólfi hinn fyrsta vetur. Hann bauð að gefa henni Rosmhvalanes allt fyrir utan Hvassahraun, en hún gaf fyrir heklu flekkótta og vildi kaup kalla; henni þótti það óhættara við riftingum“. Þá segir jafnframt að „Eyvindur hét maður, frændi Steinunnar og fóstri; honum gaf hún land milli Kvíguvogabjarga og Hvassahrauns. Hans son var Egill, faðir Þórarins, föður Sigmundar, föður Þórörnu, móður Þorbjarnar í Krýsuvík“.
Steinunn gamla, sem svo var nefnd, gæti hafa búið á eyjunum við Skotland eða dvalið þar – til þess bendir nafnið Njáll á öðrum syni hennar og heklan sem hún galt með fyrir land Ingólfs. Annar sonur hennar hét Arnórr. Maður Steinunnar var Herlaugur Kveldúlfsson, sagður bróðir Skalla-Gríms, og virðist hann hafa verið látinn er hún kom til Íslands. Mikil vígsár voru þá í Noregi. Í það minnsta kom hún án hans til landsins. Trúlega hefur Steinunn numið land sitt hér frá u.þ.b. 880-891, sennilegast þó um 890, því líklegt má telja að Ingólfur hafi látist á bilinu 900-905. Hann fór nokkrar ferðir til Noregs eftir að hann settist að í Reykjavík um 874 og trúlega hefur Steinunn fylgt honum til baka í einhverri þeirra því talið er að eiginmaður hennar hafi verið drepinn af mönnum Haraldar hárfagra ásamt frændum hans um 890. Ingólfur var einmitt staddur á heimaslóðum sínum í Fjörðum í Noregi um 890 eða 891. Kveld-Úlfur fluttist búferlum um þetta leyti (891), en lést á leiðinni til Íslands, þá orðinn gamall maður.
Þegar hingað til lands var komið fékk Steinunn Rosmhvalanesið í skiptum fyrir hekluna. Gufi Ketilsson af Akranesi hafði freistast til að setjast að í Gufunesi í landi Ingólfs í Reykjavík (Þórðarbók/Melabók Landnámu) en í óþökk landnámsmannsins. Þetta hefur væntanlega verið fyrir 900. Eftir að Ingólfur hafði rekið Gufa á brott fór hann á Rosmhvalanes og vildi taka sér bólfestu á Gufuskálum í Leiru en þau Steinunn „keyptu saman“ að hann færi þaðan á brott og vermannastöð yrði þar ávallt frá Hólmi. Samkvæmt þessu hefur Steinunn þá enn verið lifandi.
Eftir landakaupin ól Steinunn upp frænda sinn, Eyvind og gaf honum síðan hluta úr landnámi sínu, landið frá Hvassahrauni að Vogastapa, innsta hlutann af hinu forna Rosmhvalanesi sem á 9. öld náði þá líka yfir Vatnsleysuströndina sem kom í hlut Eyvindar er bjó í Vogum. Hann fluttist að Bæjarskerjum að lokum, eins og fram kemur í Landnámu. Vilja sumir meina að þar hafi Steinunn þá búið fyrrum.
Byggð hefur hafist á austanverðu Rosmhvalanesi með því að menn reru þaðan til fiskjar í byrjun. Um það vitna Gufuskálar, Miðskálar og Útskálar í Garði. Upp frá því hafa síðan jarðir byggst. Af Egilssögu að merkja hefur Rosmhvalanesið verið allbyggt nálægt 939. Ljóst er þó að ysti hluti Nessins innan Skagagarðsins virðist hafa byggst síðast enda var erfiðast að sækja þaðan sjó vegna skjóleysis við landið. Nokkur rök eru þess vegna til að þær jarðir sem bestar höfðu lendingar hafi byggst allsnemma og ekki var verra ef sæmilegt vatnsból voru nærri slíkum jörðum. Ein af slíkum jörðum var Hólmur í Leiru. Þar virðist hafa verið greiðara að ná í vatn en víða annars staðar á svæðinu. Í fjörunni undan Gufuskálum var og er enn sístreymandi vatn, volgt en ekki kalt, og hefur því ekki frosið á vetrum. Á landnámsöld hefur vatnið e.t.v. verið heitara og á stigið upp af því gufa. Sennilega hefur útstreymi þetta staðið ofar í fjörunni svo greiðara var að komast að því en er í dag. Ljóst er að í vatnsleysinu á Suðurnesjum var aðgangur að slíku vatni allt árið gulls í gildi. [Rétt er að geta þess að vatn hefur víða verið að finna á Suðurnesjum. Þess bera bæði kaldavermsl og vatnsstæði glögg merki. Eitt slíkt, hlaðið umhverfis, er t.a.m. ofan við Gufuskála og annað ofan við Hólm, auk þess tjarnir voru ofan strandar utan Bergvíkur].
Aðgangur að nægu vatni gat því verið full ástæða til að ábúandi á Hólmi gerði allt sem í hans valdi stóð til að hindra fasta búsetu á Gufuskálum. Þetta gætu því verið allgóð rök fyrir því hvers vegna Steinunn „keypti“ Gufu brott af staðnum. [Það að Steinunn hafi þurft að „kaupa“ hann úr landnámi sínu, bendir til þess að Ingólfur hafi annað hvort ekki verið til staðar eða að hún hafi ekki sest þar að fyrr en um 900]. Efamál er hvort bátalending hafi fyrrum verið betri á Gufuskálum en á Hólmi, en nú er þar ólíku saman að jafna, enda þéttist byggðin síðar mest um Hólm. Ýmislegt bendir til þess að upplýsingar í Melabók um Gufu Ketilsson séu réttar og að Steinunn hafi kannski ekki búið ýkja langt frá Gufuskálum, jafnvel þar til að byrja með.
[Við þetta má bæta að utan við núverandi íbúðarhús á Hólmi, nálægt hinu gamla bæjarstæði, er bátslaga blettur með grjóti umgerðis. Blettur þessi var lengi vel afgirtur og mátti aldrei hrófla við honum, ella hlytist verra af].
Heimild m.a.:
-Landnáma (Sturlubók).
-Skúli Magnússon – Faxi, 3. tbl. 2007, bls. 15.