Færslur

Hallgrímshella
Í ferð FERLIRs um Básenda nýlega kom fram í viðræðum við Jón Ben Guðjónsson, bónda á Stafnesi, að hann myndi vel eftir Hallgrímshellunni svonefndu, sem var fyrrum á eða við svonefnda Prestsklöpp norðan við Þórshöfn.
“Ég man vel eftir þessari hellu. Hún var við vörðu á Prestsklöppinni þar sem prestar, og þar á meðal sr. Hallgrímur Pétursson, var sagður hafa beðið sjófars yfir Ósana til að geta þjónustað Hafnafólkið. Hella þessi var þríhyrningslöguð, ekki stærri en svo að hægt var að taka hana í fangið. Áletrunin HPS var í hellunni og ógreinilegt ártal; 163?. Tilgreindur lögreglumaður á Keflavíkurflugvelli gæti vitað eitthvað hvað varð um helluna, en hann var kunnugur á þessum slóðum. Það eru liðin a.m.k. 30 ár síðan ég sá helluna síðast. Mig grunar að hellan hafi komist inn í geymslur Þjóðminjasafnsins og “týnst” þar.”

HallgrímshellaÞað kom fram hjá Jóni Ben að sennilega ætti Jón Ásmundsson í Sandgerði gamla ljósmynd af Hallgrímshellu, sem hann mun hafa tekið fyrir ca. 40 árum.
Eftirfarandi erindi var sent til Sigurbjörns Hallssonar, lögreglumanns á Keflavíkurflugvelli:
“Við félagarnir höfum um nokkurt skeið leitað svonefndrar “Hallgrímshellu”, sem var á Prestsklöpp milli Þórshafnar og Básenda. Hellan, sem var þríhyrningslaga og ekki stærri en svo að hægt var að taka hana í fangið, var með áletruninni HPS (Hallgrímur Pétursson). Steinn þessi var lengi í vörðu á klöppinni. Hún sást síðast fyrir u.þ.b. 15 árum. Ljósmynd er til af hellunni, auk þess sem Stafnesbændur vissu af henni þarna. Getur verið að þú vitir eitthvað hvað varð um nefnda hellu?”
Sigurbjörn hafði þegar samband og sagðist vel muna eftir þessari hellu. Hún hefði verið stutt frá gömlu hestagötunni, legið þar. Á helluna hafi verið áletrað HPS og óljóst ártal frá 17. öld. Sjálfur hefði hann ekki séð helluna í fjölda ára, en hefði heyrt að einhver hefði tekið hana til handargagns. Sigurbjörn benti á að hugsanlega gæti Arnbjörn Eiríksson á Nýlendu III við Stafnes vitað hver það hefði verið.
Arnbjörn sagðist aðspurður vel muna eftir Hallgrímshellunni. Hana hefði hann hins vegar ekki séð í ein 20 ár. Hann hefði heyrt að einhver hefði tekið hana og komið henni fyrir á einhverju safni. Hver það var vissi hann ekki og ekki heldur á hvaða safn henni hefði verið fyrir komið. Að hans mati hefði hellan átt að vera þarna áfram, eða þá í Hvalsneskirkju því það hafi verið trú manna að áletrunin tengdist sr. Hallgrími Péturssyni og ferðum hans milli Hvalsness, Hafna og Njarðvíkur.
Þjóðminjasafni Íslands var sent samhljóða fyrirspurn og Sigurbirni með viðbótinni: “Getur verið að hún hafi ratað inn í geymslur Þjóðminjasafnsins?”

HallgrímshellaÍ framhaldi af fyrirspurninni var hringt í forstöðumann “gripadeildar” þess, Lilju Árnadóttur, en að sögn veit hún manna best hvort og hvar hver gripur er í geymslunum. Lilja brást vel við. Hún sagðist reyndar hvorki hafa séð né heyrt af hellunni, en myndi leita og spyrjast fyrir um hana. Síðan myndi hún hafa samband.
Í millitíðinni var haft samband við Reyni Sveinsson í Sandgerði. Hann kannaðist við Hallgrímshelluna, en ekki hvar hún gæti verið niður kominn. Hann gat þó vísað á Jón Ásmundsson, múrararameistara í Sandgerði. Jón Borgarsson í Höfnum gæti hugsanlega vitað eitthvað um helluna því hann hefði m.a. unnið þarna um tíma. Jón var staddur út í Luxemborg. Hann sagðist hafa unnið þarna um tíma, en aldrei séð þessa hellu. Hins vegar hefði hann séð báða festarkengina við Þórshöfn – þar sitt hvoru megin. Þá þyrfti að skoða nánar. Auk þess væri nokkurt brak úr Jamestown þar nálægt.
Aðspurður sagðist Jón ekki hafa tekið nefnda ljósmynd, en hann hefði verið með félaga sínum, Berent Sveinbjörnssyni, við Stafnes árið 1963 eða ’64 og þá hefði Berent tekið mynd af hellunni.
Berent, sem er búsettur í Hafnarfirði, sagðist eiga myndina og hefði reyndar verið að skoða hana og sýna kunningja sínum fyrir nokkrum dögum. Hann skyldi góðfúslega lána hana í þágu leitarinnar að eindurheimtingu hellunnar. Berent sagðist muna vel eftir hellunni. Á henni hafi verið áletrun sem fyrr hefur verið lýst. kömmu síðar kom Berent færandi hendi, með myndina ásamt mynd af skátaflokknum Stafnbúum, sem var á leið þar umrætt sinn, en þá var myndin tekin, í ágústmánuði 1964. Berent kvaðst muna að hellan hafi legið uppi á á öðrum steinum svo til beint fyrir neðan stóru skermana utan við Stafnes (sem nú er búið að rífa).
Lilja hjá Þjóðminjasafninu hafði samband og viti menn – og konur; hellan er í vörslu safnsins. Lilja kvað “umrædda hellu vera í safninu. Var bara spurning um að setjast niður í ró og
fletta í Sarpi. Hún hefur númer 1974 -120.

“Þungur steinn aflangur sem í er klappað stöfunum HPS og beint þar fyrir aftan er klappað ártalið 1628. Steinn þessi var rétt vestan við Þórshöfn norðan Ósabotna, fast við gamla veginn. Menn hafa viljað halda, að Hallgrímur Pétursson hafi klappað þarna fangamark sitt, en hann kom ekki að Hvalsnesi fyrr en 1644 og er aðeins 14 ára árið 1628.””

Lilja kvaðst myndi staðsetja steininn í safninu og hafa síðan samband. Á ljósmyndinni virðist vera skrifað ártalið 163? svo gaumgæfa þarf þetta nánar, gæti verið 1638, en þá var Hallgrímur 24 ára.

Hallgrímshella

Hallgrímshellan skoðuð í geymslu Þjóðminjasafnsins.

Melabergsgata

Ætlunin var að skoða hugsanlegar minjar á afgirtu svæði innan Keflavíkurflugvallar. Svæðið er að mestu óraskað og ættu þar jafnvel að vera minjar frá bæjarkjörnunum vestan Sandgerðis, s.s. selstöður, þjóðleiðir, vörður, skjól o.fl. Af loftmynd að dæma virðist á svæðinu og vera gatnamót gömlu Hvalsnes-/Melabergsleiðarinnar og gamallar götu milli Hafnavegar og Sandgerðis.

Göngusvæðið

Þegar FERLIR leitaði eftir því við fulltrúa öryggissviðs Flugmálastjórnar á Keflavíkurflugvelli að fá heimild til að ganga um afgirt norðursvæðið, sem nú flokkast sem flugöryggissvæði, en var áður ytra varnarsvæði NATO, voru viðbrögðin strax mjög jákvæð þrátt fyrir að afar ströng skilyrði er gilda um aðgang utanaðkomandi að því. Eftir að tímasetningin hafði verið ákveðin var safnast saman við aðalhliðið inn á svæðið. Skömmu síðar mætti starfsmaður stjórnarinnar á vettvang og opnaði, hleypti þátttakendum inn fyrir og lokaði á eftir þeim. Áætlað hafði verið að leit á svæðinu innan girðingarinnar tæki u.þ.b. þrjár klukkustundir. Svæðið hafði reyndar áður verið skoðað.
Byrjað var á því að ganga yfir að Margvörðum á Margvörðuhól. Hóllinn sá er rétt innan girðingarinnar að austanverðu. Þar kemur gamla Hvalsnesleiðin/Melabergsgatan upp frá Ró[sa]selsvötunum ofan við Keflavík, fer undir girðinguna og liðast síðan í suðlægan sveig til vesturs innan varnargirðingarinnar, áleiðis að sunnanverðum Melabergsvötnum.

Kaupmannsvarðan

Gatan er mjög greinilega mörkuð í móann og víða hefur verið kastað drjúgum upp úr henni. Kaupmannsvarðan svonefnda setur óneitanlega svip á staðinn.
Frá Margvörðum liggur einig vörðuð gata í sömu átt, áleiðis að norðanverðum Melabergsvötnum. Göturnar koma saman vestan vatnanna. Þó svo að Hvalsnesleiðin/Melabergsgatan frá Hvalsnesi að Melabergsvötnum beri þess glögg merki að hafa verið endurbætt sem hestvagnavegur hverfur sú endurgerð við norðvestanverð Vötnin. Engin ummerki eru heldur eftir slíka umferð í móanum milli hinnar þráðbeinu vörðuleiðar, þ.e. milli norðanverða Melabergsvatna og Margvarða. Vörðurnar á leiðinni standa hins vegar heilar, flestar a.m.k. Þetta bendir til þess að um hafi verið að ræða endurbætur á gömlu þjóðleiðinni um það leyti er þær reyndust óþarfar.

Hvalsnesleiðin/Melabergsgatan

Nokkur önnur slík dæmi má finna á Reykjanesskaganum, s.s. á Skipsstíg, Árnastíg og Alfaraleiðinni (Almenningsleiðarhlutanum). Þess vegna má ætla að vörðurnar hafi verið reistar um og skömmu eftir aldamótin 1900. Þær eru líka óvenju heillegar, þótt mosavaxnar séu mót austri. Tilkoma varnargirðingarinnar á fimmta áratug síðustu aldar gæti hafa stuðlað að varðveislu þeirra og girðingin þar með risið undir nafni (því varla hefur hún þjónað öðrum tilgangi þennan tíma að fenginni reynslu). Hafa ber í huga að gömlum vörðum hefur stafað fimmföld hætta; jarðskjálftum, ágangi skepna, skemmdarfýsn manna, frostveðrun og þyngdarlögmálinu. Áhrif þeirra margfaldast gjarnan eftir því sem tímalengdin er meiri. Girðingin hefur dregið úr ásókn manna og annarra skepna og þannig verulega líkur á röskun. Jarðskjálftaáhrif eru jafnan lítil á svæðinu svo langvarandi áhrif frostverkunnar og þyngdarlögmálsins eru þau einu sem eftir standa. Þar af virðist áhrif þyngdarlögmálsins hafa verið lítil sem engin því vel hefur verið vandað til verksins í hvíetna.

Fallin varða

Þegar gömlu Hvalsnesleiðinni/Melabergsgötunni var fylgt frá Margvörðum áleiðis að vestanverðri varnargirðingunni mátti sjá fallnar vörður sunnan hennar með reglulegu millibili. Auk þess að vera vel mörkuð í móann hafði leiðin verið vandlega vörðuð. Í raun þarf engan að undra hvers vegna. Hvalsnesprestakalli var um tíma þjónað frá Njarðvíkum og jafnvel Grindavík. Þá var aðalverslunarhöfnin um tíma á Básendum utan við Stafnes. Hún færðist síðan til Keflavíkur eftir Básendaflóðið 1799. Margmenni var í verum á hverfunum á vestanverðu Rosmhvalanesi, s.s. Stafneshverfi, Hvalnsneshverfi, Fuglavíkurhverfi og Bæjarskershverfi, auk Sandgerðis. Hreppsstjórinn í hreppnum bjó um tíma í Fuglavík, auk þess sem, núverandi “hreppsstjóri” gætir svæðisins sem hinn besti haukur. Gatnamót mátti sjá á leiðinni þegar hún hafði verið gengin 2/3. Af loftmynd að dæma mátti ætla að þarna hefði fyrrum verið leið milli Hafnavegar norðan Ósabotna og Sandgerðis (eða Fuglavíkur/Bæjarskers).

Vatnshólavarða

Við eftirgrennslan mátti sjá vörður sunnan götunnar. Þær lágu að þotubyrgjum NATO, sem varað hafði verið við að nálgast um of. Í ljós kom að “gatan” á loftmyndinni var samfelld tréstauralína, sem legið hafði á ská niður heiðina. Staurarnir héngu flestir uppi, en verulega skakkir orðnir.
Utan í neðsta holtinu innan varnargirðingarinnar var varða og hlaðið lítið gerði. Frá því var stefnan tekin til norðurs, áleiðis að Vatnshólavörðunni. Hún hefur fyrrum verið bæði breið og há; augljóst leiðarmerki.
Í örnefnalýsingu fyrir Fuglavík segir um þetta svæði: “Rétt ofan við veginn er grjóthæð ílöng, sem heitir Dagmálahæð. Suður frá henni ofan við veg, Neðri-Stekkur og Efri-Stekkur. Langt uppi í haglendinu eru Selhólar, sem lentu í flugvallarlandinu. Ofan við veginn eru rústir eftir nýbýlið Hóla, sem brann. Vatnagarðar er dældin suður af vatninu. Þar hefur verið býli. Markahóll er grasi gróinn hóll upp í heiði á merkjum móti Melabergi. Vatnshólavarða er í brún frá bæ séð. Þar eru margir hólar, Vatnshólar, og draga nafn af Melabergsvötnum.”
Minjar símansTvær stauralínur liggja þarna um svæðið. Báðar hafa þær borið uppi símalínur millum miklvægra leiða á tímum hersetunnar. Frágangur þeirra bendir til tímasetningar í byrjun sjötta áratugs síðustu aldar. Nú hangir engin lína uppi, en staurarnir eru bæði misvísandi (í eiginlegri merkingu) og fagurfræðilegur vitnisburður (í óeiginlegri merkingu) um það sem var.
Þegar skoðuð er örnefnalýsing fyrir  Melaberg, þ.e. viðbót við lýsingu Magnúsar Þórarinssonar, má sjá eftirfarandi: “Til heiðarinnar langt ofan við bæ er svonefnd Grænalág. Austur af bæ norðaustur af Grænulág eru Syðri-Smérklettur og Nyrðri-Smérklettur. Suður af þeim eru tjarnir, sem heita Melabergsvötn. Þar norðaustur af eru Efrivötn. Þau þorna á sumrin. Þar áfram í sömu stefnu eru Brúsastaðir. Þetta er smáholt, en fékk þetta nafn fyrir löngu, af því að þar var maður á ferð með glerbrúsa. Þá er Ólafsvarða. Með gamla veginum ofan við Melabergsvötn er Neðri-Glæsir. Það er varða á hól. Þar rétt ofar er önnur, sem heitir Efri-Glæsir. Þar austur af eru Margvörður, og spotta suðaustur af Glæsi er mýrkenndur mói á sléttri flöt, sem heitir Melabergsengi. Innan við Margvörður er Kaupmannsvarða, sem er við krossgötur rétt hjá flugvellinum.”

Selvarða

Það má til tíðinda telja að hvergi er minnst á Hvalsnesleiðina/Melabergsgötuna í örnefnalýsingu fyrir Melaberg. Ekkert er heldur um Hvalsnesleiðina í örnefnalýsingu fyrir Hvalsnes. Ástæðan gæti verið sú að frásegjendum hefur þótt svo sjálfsagt að leiðin væri á hvers manns vitorði að ekki hafi verið talin ástæða til að geta hennar sérstaklega. Svo mun og hafa verið fyrrum í fornritum og frásögnum fólks að sjaldan var því lýst er þótt þá bæði sjálfsagt og hefðbundið.
Gengið var yfir að Vatnshólavörðunni og stefnan síðan tekin af henni á vörðu vestan við Fuglavíkursel. Þaðan sást vel til selvörðunnar á Selhólum.
Þegar Fuglavíkurselið var gaumgæft mátti sjá vatnsstæði bæði norðvestan og suðaustan við það. Selið sjálft, sem er mjög gróið, er ólíkt flestum öðrum hinna 250 selstöðva á Reykjanesskaganum (fyrrum landnámi Ingólfs).

Varða á efri Hvalsnesleiðinni

Leifar þriggja húsa eru í selstöðunni. Millum þeirra er hringlaga gerði líku fjárborg. Norðaustar eru hleðslur. Önnur, sú sem er fjær, gæti verið smalaskjól. Frá því er ágætt útsýni yfir efri vatnsstæðið, hugsanlegan nátthaga. Hin gæti hafa verið skjól fyrir refaskyttu í heiðinni, með efasemdum þó, því hleðslurnar voru óvenjumikið mosavaxnar.
Selvarðan er augljós og stendur enn að hálfu leyti. Selstígurinn er hins vegar óljós. Bæði vegna þess og vegna þess að hvorki er getið um eða hafa fundist aðrar selstöður í Miðnesheiðinni, þrátt fyrir margbæi, en Stafnessel ofan við norðanverða Ósabotna, má draga þá ályktun að þarna (í Fuglavíkurseli) hafi verið sameiginleg selstaða fyrir bæina neðan við ströndina (Hvalsneshverfi, Fuglavíkurhverfi og Bæjarskershverfi). Gerðið, sem er óvenju stórt af stekk að vera, gæti og bent til þess. Þá er aðgengi að vatni óvíða í heiðinni, en þarna var hægt að ganga að því sem vísu. Norðurvatnsstæðið var t.d. fullt þótt flest öll önnur væru upp þornuð á þessum tíma. Sveppur dró að sér athyglina.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 3 mín. Flugmálastjórn á Keflavíkurflugvelli er sérstakleg þökkuð góð viðbrög og sanngjörn viðleytni til sögu- og minjaframlags á svæðinu.

Heimildir m.a.:
-Örnefnalýsing fyrir Fuglavík.
-Örnefnalýsing fyrir Melaberg.
-Örnefnalýsing fyrir Hvalsnes.

Vatnshólavarða

Stafnesheiði

Fulltrúi FERLIRs mætti nýlega (sept. 2009) í enn einn tímann í fornleifafræði í Háskóla Íslands.
Umskipti hafa orðið á kennurum í faginu. Kennarinn nú, annar af tveimur (reyndur Vörðubrotfornleifafræðingur), lagði sérstaka áherslu á að “menn ættu að tjá sig um það sem þeir hefðu vit á, en þegja um það sem þeir hefðu minna vit á”. Orðunum var beint til hinna 11 nemenda, sem voru þarna á þessari stundu saman komnir á aldrinum 20-55 ára. Mörg spurningarmerki kviknuðu, en elsti (og reyndasti) nemandinn (að sjálfsögðu frá FERLIR), lét sér hvergi bregða því augljóst var að fullyrðingin átti ekki við hann. 
Veturinn framundan á háskólavígstöðvunum lofaði greinilega góðu fyrir FERLIRshugann.
Hverfum aftur til fortíðar. Eftir nýlega ferð FERLIRs með Jóni Ben Guðjónssyni að svonefndum Grjótgarði (Skjólgarður – Pétursvarða), þar sem m.a. var gengið fram á óútskýrt vörðubrot á klapparhæð ofarlega í Stafnesheiði, vaknaði áhugi hans á að kanna heiðina nánar m.t.t. frekari ummerkja fyrri tíðar.
HleðslurJón sagðist oft hafa farið um heiðina sem barn og unglingur í leit að fé því þarna hefðu á sumrum á fyrri hluta 20. aldar gengið hátt á fjórða þúsund fjár. Þótt svæðið virtist nú vera eyðilegt á að líta var þar fyrir gróðurþekja. Börðin hefðu t.a.m. náð honum í axlir, en þau hefðu smám saman fokið út í buskann, einkum að vetrarlagi. Þeir komu tímar að varla var útgengt á Stafnesi vegna moldar- og sandoks af heiðinni. Hún hefði án vafa verið gróðurmikil á landnámsöld og löngum eftir það, enda undirbergið augsýnilega fornt [um er að ræða elsta berg Reykjanesskagans], en með miklum og stöðugum ágangi manna og búfénaðar hefði roföflunum verið gert auðvelt um vik – líkt og nú má sjá afleiðingarnar af.

Systur

Jón sagðist hafa fyrir nokkrum góðvirðisdögum hafa að ákveðnu tilfefni gengið upp að fyrrnefndu vörðubroti í heiðinni, staðnæmst og hugleitt bæði aðstæður fyrrum og ferðamöguleika fólks á þeim tímum. Þá hafi vaknað hjá honum sú vitund, sem hann hafði reyndar áður grunað, að fyrrum hafi eðlilega legið (nú óþekktar) leiðir millum hverfiskjarnanna í Keflavík, Njarðvíkum og Höfnum (Grindavík) og hins forna verslunarstaðar á Básendum. Þegar hann hafi skoðað aðstæður nánar, metið möguleika og gengið að vörðu við hugsanlega upphafsleið [nú norðvestan bílastæðis á Ósabotnavegi] komu í ljós Systurvísbendingar um a.m.k. þrjár fornar leiðir.
Á þeim öllum eru vörðubrot (a.m.k. 20 talsins) er gætu gefið leiðina til kynna (þrátt fyrir gróðureyðinguna). Jón hafði skilmerkilega sett vörðubrotin á blað, en ætlunin er að ganga leiðirnar hverja um sig fljótlega og reyna að staðfesta þær sem slíkar (sjá FERLIR-birtist síðar).
Við nánari skoðun kom í ljós að athuganir Jóns virtust bæði skynsamar og eiga við rök að styðjast.
Þegar skoðuð var ein örnefnalýsing af þremur [Ara Gíslasonar eftir Metúsalem Jónssyni] af Stafnesi mátti lesa eftirfarandi: “Þá er að bregða sér upp í heiðina. Á Flötunum fyrrnefndu er svo nefnd Urðarvarða, og ofan túns er Heiðarvarða.
Stafnessel IIBeint upp af túni eins og 1 km
 er varða á leið til Hafna. Hún heitir Pétursvarða og stendur þar á klettasyllu. Þar til austurs er garðbrot fyrir fé, nefnt Skjólgarður. En niðri við Flatirnar er vik, sem fellur upp í og er nefnt Fagradalsvik. Þar upp frá er Fagridalur, sem nú hefur verið girtur af. Hér nokkuð austar upp frá sjó, suður frá Draughól, eru klettar tveir allháir og nokkurra faðma breitt sund á milli. Heitir þetta Gálgaklettar. Þar norður af er há klöpp, sem heitir Kiðaberg. Við Skjólgarðinn fyrrnefnda er komið upp fyrir hraunbeltið. Er þá fátt um nöfn. Heitir það Neðri-Mosar og Efri-Mosar, aðskilið af grjótbelti. Kiðaberg er há klöpp, sem fyrr var nefnd. Skammt suður og upp af Gálgum er fyrst hóll. Í honum er gren, sem heitir Kollóttagren. Allmikið sunnar er Þórshöfn, sem fyrr getur, og er þar mjór og langur bás inn í hraunið. Þangað fóru kaupskip hér fyrr. Sunnar var grasi vaxinn tangi, nefndur Þórshafnarbali. Nú er hann horfinn. Þar austar er Hvalvík, og upp af henni er hnúkur eða klettur nefndur Æsuberg (nefnt svo 1703).

Vörðubrot

Skammt suður og upp frá Gálga eru lágar klappir nefndar Klofningar. Þar suður og upp af Þórshöfn er einstök varða á klöpp, Mjóavarða, sem var innsiglingarmerki á Þórshöfn. Suðaustur af henni eru svo tvær vörður á klöpp, sem nefndar eru Systur. Þar austur af eru Stórubjörg, og austan þeirra er gamalt sel, sem heitir Stafnessel. Hraunið upp af Gálgunum er nefnt Gálgahraun. Utan við Djúpavog meðfram voginum er svonefnt Illaklif. Torfmýrar hafa verið til hér í hlíðinni, en það, sem hæst ber hér upp af, heitir Háaleiti og er nú komið undir flugvöllinn.”

 

Stafnes

Stafnes – heiðarvegirnir.

Athugun Jóns leiddu m.a. til staðfestingar á örnefnunum Systur. Þær eru þó ekki “suðaustur” af Þórsmörk heldur norðaustan við hana. Jón sagði að honum hefði verið gert grein fyrir að fyrrnefndar “Systur” væru þarna vestan við ætlaðar seltættur. Við þær væru hleðslur á tveimur stöðum og fyrrum skjólsæll hvammur á millum. Enn austar, innan varnargirðingar, væru líklega minjar um enn eitt Stafnesselið.
Ábendingar Jóns eru sérstaklega áhugaverðar, bæði vegna ummerkjanna (s.s. vörðubrotanna) og vegna þess að framangreindar minjar virðast bara alls ekki hafa ratað inn í fornleifaskráningarskýrslur af svæðinu. Til gamans má geta þess að t.d. vörðurnar “Systur” hafa ekki áður ratað inn á Netið öðru fólki til upplýsinga og fróðleiks.
Ælunin er að ganga Stafnesheiðina með Jóni Ben spjaldanna á millum fljótlega.
Frábært veður.

Heimildir m.a.:
-Örnefnalýsing fyrir Stafnes – Ari Gíslason skráði eftir Metúsalem Jónssyni.

Stafnes

Jón Ben. á Stafnesi við Loddubrunninn.

Básendar

Á Básendum fundust nýlega áletranir frá því á 17. öld. Ætlunin var að fara þangað við hagstæðar aðstæður fljóðs og fjöru og vöðluvaða út í hólma og sker með það fyrir augum að líta þar á áletranir á klöppum. Einnig var ætlunin að leita að hugsanlega fleiri áletrunum í skerinu. Það er ekki heiglum hent að vaða út í sker og feta þara á hálum klöppum, en FERLIRsfélagar láta sér fátt fyrir brjósti brenna. Með í för var G. Sigurbergsson, en hann hafði komið auga á þessar áletranir af tilviljun fyrir nokkru síðan og tók þá m.a. meðfylgjandi myndir.

Básendar

Á leiðinni út að Básendum eru tveir myndarlegir grónir hólar á leiðinni á hægri hönd. Sá eystri er Stóri-Básendahóll og sá vestari Litli-Básendahóll.
Nafnið Básendar er ekki vafalaust. Kemur það fyrir í þremur myndum; Bátsenda (danskir skrifuðu það Botsendar), Bátsandar og loks Básendar (eða Bassendar). Nafnið kemur fyrst fyrir í Fornbréfasafninu 1484. Þar er ritað “Bátsendum”.
Básendar urðu verslunar- og útgerðarstaður strax á 15. öld. Framan af voru þeir í eigu Viðeyjarklausturs en eftir siðaskiptin tók konungsvaldið útgerðina í sinar hendur og máði hún hámarki að fyrstu tugum 18. aldar en um þær mundir voru konungsbátar í Gullbringusýslu milli 80 og 100 talsins. Rekstur konungsútgerðarinnar var þó ekki burðugri en svo að árið 1769 var hún lögð niður. Enn um sinn héldu þó danskir einokunarmenn áfram að stunda verslun frá staðnum og voru margir þeirra afar illa þokkaðir. Í kvæðinu Básendapundarinn eftir Grím Thomsen segir frá útistöðum Skúla fógeta við einn slíkan.
Básendar Í fornleifaskráningu um Básenda segir m.a. að “í Stafnesslandi, á hraunnefi milli tveggja víka sunnarlega á vestanverðu Miðnesi sunnar en Stafnes, heita Básendar. Þar var ein af höfnum einokunarverslunar Dana og náði verslunarsvæðið yfir Hafnir, Stafnes og Miðnes. Aðfaranótt 9. janúar 1799 gerði óveður usla allt frá Þjórsá og vestur um Seltjarnarnes, kirkjur fuku, skip brotnuðu, jarðir í Staðarsveit urðu óbyggilegar og Seltjarnarnes varð eyja í flóðinu. Grótta á Seltjarnarnesi varð að eyju til frambúðar en áður var hún landfastur tangi. Á Básendum gerði flóðið þó líklega mestan usla. Flest ef ekki öll hús kaupstaðarins sópuðust burt, roskin og veikburða kona drukknaði en annað heimilisfólk bjargaðist við illan leik. Atburður þessi hefur síðan verið kallaður Básendaflóðið.
Höfnin á Básendum var lón mjótt og langt inn í Brenntorfuvíkina. Skipaleiðin inn í leguna var nokkuð löng, fyrst bein sigling á Gálga, en síðan var vent í vinkil til vinstri með stefnu á vörðu utan við hólana og rennan tekin til norðurs milli skerja og inní höfnina. Þar voru skipin svínbundin, ýmist á ytri höfninni eða innri höfninni. Á teikningu frá 18, öld má sjá bæði siglingaleiðina sem og staðsetningu festarhringjanna í landi.

Á Básendum má einnig enn sjá leifar kaupstaðarins, þ.á.m. minjar um landfestar, varir, fiskbyrgi og verslunar- og birgðahús auk búsetuminja. Þar standa ágætlega varðveittar leifar af rétt, hlöðu og fjósi. Einnig má finna þar leifar garðs sem hlaðinn var í hálfhring utan um verslunarstaðinn. Samanburður heimilda og húsaleifa á vettvangi bendir til að fjórar rústir geti verið leifar lifrarbræðsluhúss, skemmu, lýsisbúðar og vörugeymslu. Loks skal getið kaupstaðavegarins. Hann er nær því óskertur frá Kirkjuvogi heim að Básendum. Minjagildi hans er verulegt, ekki einungis vegna þess að fáar ef nokkrar fornar leiðir eru svo stórkostlega vel varðveittar, heldur er hann sýnilegur í landinu með upphækkuðum brúnum og vel til gönguferða fallinn.”

Básendar

Básendar komu við sögu í aðdraganda Grindavíkurstríðsins, eða Fimmta þorskastríðsins, eins og það er stundum nefnt.
Árið 1480 kom stórt þýskt vöruflutningaskip og lá við landfestar við Straumsvík. Sex ensk herskip komu og tóku skipið, fluttu það út og seldu áhöfnina m.a. í ánauð. Englendingar fluttu sig til Grindavíkur, en Þjóðverjar til Básenda. Sú regla gilti að sú áhöfn sem fyrst kom að höfn að voru átti einkaaðstöðu þar það sumarið. Upp spratt verslunarstétt, nefnd “verslunarduggarar”. Þeir fóru að sigla til Íslands, ekki bara yfir sumarmánuðina, heldur alveg fram í nóvember. Íslendingar unnu hjá þeim og sáum um veiðar og vinnslu aflans, t.d. í Grindavík, á Básendum og í Hafnarfirði.
Eftir að Englendingar byrjuðu að sigla hingað komu þeir sér upp umboðsmönnum. Í Grindavík var það Marteinn Einarsson frá Stað. Stjórnaði hann verslun Englendinga hér. Systir hans var gift Englendingi. Lærði Marteinn m.a. listmálun í Englandi. Eftir að Þjóðverjar lögðu undir sig Hafnarfjörð fóru þeir að herja á Englendinga annars staðar, t.d. á Básendum við Stafnes (sem hét Starrnes til forna).
Hinrik VIII. var við völd í Englandi. Aðalhafnir Englendinga voru á Básendum og í Grindavík. Þegar Þjóðverjar komu til landsins 2. apríl 1532 fóru þeir ekki til Grindavíkur heldur inn á Básenda. Fyrirliði þeirra, Ludtkin Smith, hafði sagst ætla að vinna eina höfn af Englendingum, en hann mun hafa verið skyldur fyrirliða þeim er enskir hertóku við Straumsvík og færðu í þrældóm. Samkvæmt reglunni átti hann rétt á aðstöðunni (fyrstur að vori).

Básendar Básendar var aðalhöfnin á Romshvalanesi. Keflavík var ekki einu sinni orðið þorp. Skömmu síðar komu Englendingar að Básendum, réru í land og báðu um að fá að hafa þar aðstöðu. Ludtkin hafnaði beiðni þeirra, sagðist ætla að bíða eftir væntanlegu öðru þýsku skipi þangað. Englendingar virtust taka þessu furðu vel og réru til baka út í skip sitt. Skömmu síðar kom annað enskt skip þar að. Þá breyttist framkoma Englendinganna gagnvart Þjóðverjum. Annað skipið sigldi inn í höfnina og réðst á Þjóðverjana. Héldu Englendingar að þeir hefðu í fullu tré við þá. En þeir vissu ekki eitt, Bróðir Ludtkins, Hans Smith, hafði haft vetursetu á Básendum, varðveitt fiskistafla, sem ætlunin var að flytja út að vori, og vingast við heimamenn. Þegar Þjóðverjar sáu hvert stefndi, söfnuðu þeir liði, aðallega Íslendingum, og mikil orrusta verður með fylkingunum. Þjóðverjum og Íslendingum tókst að gersigra Englendinga. Öðru skipinu var sökkt, en Þjóðverjar náðu hinu.
Þótt nú sé fátt á Bátsendum (Básendum) er sýnt getur augljóslega aðstæður þar þennan örlagaríka dag árið 1799 má þó enn sjá ýmislegt ef vel er að gáð. Brunnurinn er t.d. ofan við það sem húsin stóðu, sökkla timburhúsanna má sjá þar, tóftir ofan við vörina, festarkengina frá tímum konungsverslunarinnar og Brennuhól (Brenntorfuna) þar sem eldur var kynntur til leiðsagnar sjófarendum, auk þess sem aðstæður við Bátsenda gefa fólki mynd af því hvernig gæti hafa verið umhorfs þarna fyrr á öldum þegar umsvifin voru hvað mest. Garðar eru hlaðnir utan og ofan við Básenda um túnbleðla, þar er nokkuð heilleg hlaðin rétt og tóftir má sjá nálægt brunninum.
Básendar Tóftir síðasta Básendabæjarins eða sjóbúðarinnar, sem líklegra er, sést enn fremst á tanganum austan Brennitorfuvíkur og neðan hennar er lendingin. Til skamms tíma mátti í henni sjá för eftir kili árabátanna, sem þar voru dregnir upp.
Skoðaðar voru fundamental kaupmannshússins, leifar lýsisbræðslunnar, réttin, sem er nýlegra mannvirki, brunnurinn og garðarnir umhverfis. Þá var litið á Brennitorfuhól, eða Brennihól eins og hann var einnig nefndur. Á honum var tandrað bál þegar rökkvað var orðið og ekki allir bátar komnir inn til lendingar. Draughóll er skammt sunnar. Á honum er talið að hafi verið dys, en það mun ókannað.
Þar sem staðið er á flóraðri stétt sölubúðarinnar á Básendum, sem enn sést, má vel gera sér grein fyrir hvernig þarna var umhorfs fyrr á öldum. Húsið hefur verið í vinkil, fremur lítið. Vestan við það hefur vöruhúsið staðið. Sér þar fyrir grunni, um 20 m á lengd og 12-15 m á breidd. stærra hús. Austan við sölubúðina hefur kaupmannshúsið staðið staðið, en framan og til hliðar við húsin hefur lýsisbræðslan verið. Planið framan við húsin er flórað og sést drjúgur hluti þess enn. Ljóst er að mikill umgangur hefur verið um planið, enda vel máð. Neðan þess er vik í klappirnar, rétt sunnan festarkengs, sem þar er. Annar kengur var í klöpp skammt vestar, en virðist nú horfinn. Hugsanlega er þarna um að ræða leifar lendingar smærri báta, sem ferjað hafa varning að og frá kaupskipinu, sem bundið var í innri víkinni, neðan verslunarhúsin. Léttari varningur hefur væntanlega verið dregin í land á lyftuböndum.

Básendar Sjóbúðin vestast á tanganum virðist í fljóti bragði hafa verið bær, en það getur þó varla verið. Til hliðar við búðina, sem hefur staðið með gaflinn mót hafi (vestri), eru afhýsi, líklega notuð til geymslu varnings og veiðarfæra. Ólíklegt er að áhafnir hafi haldið til í búðinni, en hún mun þó líklega hafa hafst þar við á meðan róðralotur stóðu yfir, en þess á milli dvalið heima hjá sér eða á nærliggjandi bæjum.
Norðaustar er hlaðinn rétt eða kálgarður með hesthúsi að baki, en hlöðuveggir eru þar laust norðvestan við. Austan við brunninn hefur verið kálgarður, tvíhlaðinn úr úrvalsgrjóti. Frá þessum stað má sjá að kaupstaðurinn hefur verið alveg afgirtur að sjó. Fiskabyrgi, lítil og kringlótt eða sporlaga, úr einhlöðnu grjóti, hafa verið á klettum og hólum víðsvegar að ofanverðu.
Mikið útræði var lengi á Stafnesi og nærliggjandi bæjum, enda stutt á miðin. Vörin er beint fyrir neðan sjóbúðina. Um aldamótin 1900 er því lýst að þar hafi mátt sjá merki eftir kjöl bátanna, sem þar voru dregnir upp.
Þegar Básendar eru gaumgæfðir út frá minjunum, örnefnum og aðstæðum vakna þeir ósjálfrátt til lífsins og auðvelt er að gera sér í hugarlund hvernig mannlífið, sjósóknin og verslunin hafa gengið fyrir sig þótt ekki séu þar enn heil hús eða búðir.
Vöruhúsið á Básendum var flutt til Keflavíkur árið 1800 og stóð við Hafnargötuna sunnan við Norðfjörðsgötu og kallað Svarta pakkhúsið.
Ætlunin er að fara fljótlega aftur að Básendum og gaumgæfa skerin.
Frábært veður.

Básendar

Básendar – letur.

Geirfugl

FERLIRsfélagar voru á leið í Sandgerði og áttu stutt eftir ófarið þegar maður má segja hljóp í veg fyrir bíl þeirra. Maðurinn baðaði út öllum öngum og virtist hrópa: “Hann er ekki dauður. Hann er ekki dauður”. Allir önduðu léttar.

Geirfugl

Geirfuglinn í Sandgerðisfjöru.

Maðurinn benti áleiðis niður í fjöru. Stigið var út og maðurinn eltur. Þar staðnæmdist hann og benti á eitthvað sem virtist fugl. “Sjáið”, sagði hann og benti af enn meiri ákveðni. Myndavél var brugðið á loft og smellt af, en við það virtist fuglinn taka viðbragð og hvarf sjónum áhorfenda. Skv. síðustu rannsóknum eru fuglar taldir heyra 200 sinnum betur en menn. Mun það m.a. hjálpa þeim að rata langar leiðir. Eldey er hins vegar ekki svo langt frá Sandgerði.

“Nei”, það getur ekki verið, sagði hver ofan í annan. Síðasti geirfuglinn var drepinn í júní árið 1844 í Eldey. Síðan hefur hvorki sést slíkur fugl hér við land né annars staðar. Nema kannski sá uppstoppaði, sem keyptur var dýrum dómi (9.000 sterlingspund) til landsins frá Englandi árið 1971.
Geirfuglinn var um 75 cm á hæð á meðan hann var og lifði. Þessi var stór, a.m.k. 75 cm. Hann átti að vera frændi álkunnar. Þessi var mjög álkulegur á að líta.
Ákveðið var að koma við í Fræðasetrinu og bera málið undir Reyni Sveinsson, sem fylgist vel með öllu.

Reynir Sveinsson

Reynir Sveinsson.

Reynir sagðist aðspurður ekki alveg getað neitað því að hafa heyrt menn, sem höfðu það eftir öðrum, einkum upp á síðkastið, að þeir hefðu talið sig hafa séð geirfugl við Sandgerði, en sjálfur sagðist hann ekki hafa séð neinn slíkan. Nú myndi hann hins vegar gefa því mun betri gaum en áður því gaman væri að berja fuglinn augum ef hann væri þarna einhver staðar. Það væri þó ekki útilokað að einhver hefði tekið hann fyrir geirfugl því hann ætti tíðgengið um svæðið.
Og hver segir að eitthvað sé alveg útdautt þótt það hafi ekki sést um langan tíma. Ekki er alveg útilokað að einhver heppinn, sem á leið um fjörur Sandgerðis á næstunni berji eitthvað augum, sem ekki hefur sést alllangt.

Annars er hin opinbera saga geirfuglsins eftirfarandi:
Geirfuglinn (Pinguinus impennis) var ákaflega algengur á Norður-Atlantshafi fyrr á öldum, meðal annars undan ströndum Íslands, Færeyja og Grænlands, á nyrstu eyjum Bretlandseyja og við Noreg og Kanada. Talið er að geirfuglar hafi verið margar milljónir áður en menn fóru að veiða hann í stórum stíl, en ekki er þó alveg ljóst hve stór stofninn var hér við land.

Geirfugl

Geirfugl – teikning.

Upp úr 1800 fór heldur betur að halla undan fæti hjá geirfuglinum sökum ofveiði. Aðallega voru það sjómenn sem veiddu hann á löngum veiðiferðum sínum á þessum slóðum enda var geirfuglinn stór og kjötmikill og auðveldur viðureignar enda ófleygur. Geirfuglinn var einnig veiddur vegna fjaðranna sem voru notaðar í fatnað.
Geirfuglinn var mjög stór fugl, rúmir 70 sentímetrar á lengd og langstærsti fuglinn í ættinni Alcae eða svartfuglaætt. Ýmsar aðrar tegundir í þessari ætt eru algengar hér á landi í fuglabjörgum allt í kringum landið eins og álka (Alca torda), langvía (Uria aalga), stuttnefja (Uria lomvia) og lundi (Fratercula arctica).
Ofveiði er sem fyrr segir meginástæða þess að geirfuglinn dó út en síðustu tveir fuglarnir voru veiddir í Eldey þann 4. júní 1844 þegar þrír íslenskir sjómenn, Sigurður Ísleifsson, Ketill Ketilsson og Jón Brandsson, voru beðnir um að safna nokkrum eintökum fyrir danska náttúrugripasafnarann Carl Siemsen. Þeir Jón Brandsson og Sigurður Ísleifsson fundu fljótt sinn fuglinn hvor og drápu en Ketill kom til baka tómhentur enda voru þá síðustu tveir geirfuglarnir fallnir í valinn og þar með lokið sögu þessara mörgæsa norðurhafanna. Sorgarsagan um örlög geirfuglsins staðfestir það að stjórnlausar veiðar geta þurrkað út tegundir á mjög skömmum tíma.

En nú virðist ekki öll von úti ef marka má nýlegar sagnir úr Sandgerði.

Geirfugl

Geirfugl á Reykjanesi.

 

Þórshöfn

Gengið var að Hunangshellunni er tengist þjóðsögunni um finngálknið (Rauðskinna) og viðureign mannanna við það. Á hellunni, sem er orðin nokkuð gróin, er vörðubrot. Ekki langt frá því lá alllangt etinn fugl (ekki ólíklegt að það geti verið eftir finngálknið forðum).

Hafnarvegur

Hafnarvegur.

Hafnagötunni gömlu var fylgt spölkorn til norðurs, en stefnan síðan tekin óhikað til norðvesturs, yfir móana, framhjá nokkrum vörðum og að áberandi vörðu ofan Djúpavogs. Ef spara á langan útidúr er nauðsynlegt að taka mið af henni því annars þarf að krækja fyrir nefndan Djúpavog, sem er alllangur.

Hunangshella

Hunangshella.

Við Djúpavog eru tóftir, brunnur, gerði o.fl., líkt og út á Selshellunni skammt sunnar. Einnig er tóft efst á austurbakkanum á móts við miðjan voginn. Gengið var upp eftir voginum og gömlu götunni fylgt, Ósabotnagötunni (Kaupstaðaleiðinni). Stafnesselið hefur skv. heimildum verið sagt týnt, en FERLIR gekk samt sem áður hiklaust fram á það. Tóftirnar eru á grónu barði á efstu hæð, líkt og títt var um selstöður fyrrum.
Kaupstaðaleiðin er falleg vagngata á melhálsi upp af Djúpavogi, en gamla þjóðleiðin liggur sunnar, að Gamla-Kirkjuvogi. Enn önnur leið, greinilega minn farin, liggur frá Djúpavogstóftunum og rétt ofan við strönina að Gamla-Kirkjuvogi. Þar á leiðinni er slétt flöt og gerði. Liggur veggur þess út í sjó, en land mun hafa sigið þarna verulega á umliðnum öldum (nokkra millimetra á ári skv. mælingum).

Gamli-Kirkjuvogur

Manngerður hóll (dys?) við Gamla-Kirkjuvog.

Gamli-Kirkjuvogur er sagður vera mjög gamall, forveri bæjanna handan Ósa. Sumir segja það þar hafi verið landnámsjörð. Sjá má þar tóftir, garða, gerði o.fl. og virðast þær allar mjög komnar við aldur. Mörg dæmi eru um að leiðsögumenn hafi farið um þetta svæði og kynnt Djúpavogsminjarnar sem Gamla-Kirkjuvog. Um hefur verið að ræða útræði og ekki er með öllu útilokað að það hafi tengst gamla býlinu með einhverjum hætti.

 Ósar

Steinhjartað í Ósum.

Gengið var yfir að Þórsmörk, en Þórshöfn var verslunarstaður Þjóðverja á 15. og 16. öld. Á leiðinni þangað var gengið fram á merkilegt náttúrfyrirbæri. Í einni klöppinni var rauðleit hola og var líkt og hún gréti. Fyrirbærið var nefnt steinhjarta. Vatnið í henni gæti verið allra meina bót. Við Þórshöfn er m.a. letrað á klappir, m.a. “HP” (Hallgrímur Pétursson?). Þar fyrir utan kom timburflutningaskipið Jamestown upp áður fyrr, mannlaust, en fullhlaðið timbri. Segja má að flest merkilegri hús á Reykjanesskaganum og jafnvel víðar hafi verið byggð úr því timbri. (Sjá meira HÉR). Sum standa enn.

Kaupstaðagatan

Kaupstaðagatan norðan Ósa.

Gengið var yfir melholtin vestan Þórshafnar, framhjá Básendum og yfir að Stafnesi með viðkomu í Gálgum.
Rösk ganga með milliliðalausa sjávaranganinnöndun svo til alla leiðina. Gangan tók 3 klst og 2 mín. Frábært veður.

Gamli Kirkjuvogur

Gamli Kirkjuvogur og nágrenni – uppdráttur ÓSÁ.

 

Árnarétt

Á Miðnesheiði ofan millum Garðs og Sandgerðis er mikið hringlaga hlaðið mannvirki úr grjóti, u.þ.b. 1 mannhæðar hátt. Veggurinn er um meter á þykkt og innanmálið um 9 metrar. Þetta er Árnarétt eða Árnaborg, eins og hún hefur stundum verið nefnd.

Árnarétt

Árnarétt/Árnaborg.

Árnarétt var reist af Árna Þorvaldssyni sem fæddist 24. maí 1824 í Stóra-Nýjabæ í Krýsuvík. Voru foreldrar hans merkisbóndinn Þorvaldur Oddsson og kona hans, Margrét Ólafsdóttir, en þau fluttust síðar að Stóra-Hólmi í Leiru. Árni hóf fyrst búskap á Stóra-Hólmi, en fluttist að Meiðastöðum laust eftir 1850 og gerðist þar mikill athafnamaður. Hafði hann þar gott bú, en rak jafnframt mikla útgerð. Séra Sigruður Sívertsen segir svo um Árna: “Er hann mestur útvegsmaður á Suðurnesjum, gerir út sex skip og heldur milli 20-30 sjómenn, svo að fólksfjöldi á bæ hans verður 50 manns.”
Árið 1884 fluttist Árni með fjölskyldu síðan að Innra-Hólmi hjá Akranesi og þótti skarð fyrir skildi í Garðinum við brottför hans þaðan.
Árni Þorvaldsson lést 3. nóvember 1901.

Heimild:
-Guðmundur Garðarsson.

Árnarétt

Árnarétt.

Másbúðarhólmi

“Um jörðina Másbúðir fyrir norðan Hvalnes segir Jarðabók: „Túnið fordjarfast stórkostlega af sands- og sjávargangi, og hefur sjórinn síðustu sjötíu árin (þ. e. frá því um 1630 til 1700) brotið sig gegnum túnið á tvo vegu, þar sem áður var svarðfast land, svo nú stendur bærinn á umflotinni eyju, og fer þetta landbrot árlega í vöxt, svo þar er ekki fært yfir í stórstraumsflæði nema um brú, sem sjórinn brýtur um vetur.”

Masbudarholmi-321

Másbúðir entust þó lengur en á horfðist, því að það var ekki fyrr en um 56 árum eftir að Jarðabók er tekin saman, að bæinn tók af, að því er séra Sigurður B. Sívertsen segir, er getur um viðburðinn 80 árum síðar. Land Másbúða heyrir nú undir Nes (eða Nesjar), er áður var hjáleiga, og myndi Másbúða-nafnið gleymt, ef ekki væri þarna sund og lítill hólmi, er enn heita Másbúð.”

Másbúðir hefir jörð heitið, skamt frá Melabergi. Var hún 35 hndr. að dýrleika og „stóð fram við sjó, en vegna sjávarágangs var bærinn fluttur í hjáleiguna, sem þá hét Nes eða Nesjar, fyrir 80 árum (þ.e. um 1760); er nú svo nefndur Másbúðahólmi, þar sem bærinn áður stóð, orðinn umflotinn sjó.”

“Másbúðir hét bær skamt fyrir utan Hvalsnes. Sagt er að þ.að hafi verið landnámsjörð og borið nafn at landnámsmanninum, er Már hafi heitið; hafi sú jörð átt mikið land og eigi hvað minst út til sjávar frá bænum. En svo hafi sjór smámsaman gengið á landið og loks brotið alt af heim undir bæ. Hafi eigandinn þá flúið þaðan (eða flutt sig) að Nesjum. Hann hét Erlendur Jónsson og var 41 árs 1758. Bærinn Másbúðir stóð á hól; lagðist hann því ekki af þá þegar; var þar kot og verstaða, því þaðan var gott útræði, En á síðustu áratugum 19. aldar brauzt sjórinn kringum hólinn, svo að síðan er hann umflotinn hólmi nema um fjöru. Þá lagðist verstaðan af, en býli hélzt þar þó fram að aldamótum 1900. Þá flúði kotbóndinn þaðan undan sjógangi. Er þar nú eyðihólmi; sjást að eins rústir kotsins og dálítill túnblettur í kring uppi á hólnum.”

Masbudarholmi-bru

“Másbúðir eru að finna á litlu skeri á Suðurnesjum, nánar tiltekið á Miðnesi. Þar eru að finna fornar búðir sem voru eitt sinn miklar sjóbúðir. Úttekt var gerð þann 31. maí 1740 á Másbúðum og öðrum konungsjörðum. Þar segir: „Á mörgum bæjum eru dyrnar ekki nema 1 stafgólf, 2 og 3 á sumum og 4 á stærsta bænum. Skálarnir eru 3 eða 4 stafgólf (8-10 áln. ) nema á Másbúðum, þar 9 stafgólf (líklega fyrir sjómenn, þótt rúm séu ekki nefnd), …“
Árið 1799 voru Másbúðir komnar í eyði líkt og gerðist oft með konungsjarðir í harðræðisárum. Síðasti ábúandi á Másbúðum bjó þar á árunum 1884 – 1895 og hét Jón Jónsson.

Fyrsti byssubardagi Íslands
Másbúðir koma fram í sögunni um Dráp Kristjáns skrifara (sjá Kirkjuból). Það sem vantar í þá sögu er að þegar norðanmennirnir voru búnir að drepa Kristján héldu þeir um Suðurnesin til þess að drepa eftirlegumenn hans. Tveir þeirra voru á Másbúðum. Annar þeirra hét Pétur og eftir þennan dag var hann kallaður Másbúða-Pétur. Hann er talinn hafa verið með fyrsta byssubardaga Íslands þegar hann „lét baun í byssu sína og skaut með henni einn af norðanmönnum, en komst síðan undan til Skálholts“.”

Heimildir:
-Náttúrufræðingurinn, 17. árg. 1947, 2. tbl., bls. 60.
-Vísir, 9. júlí 1938, bls. 3.
-Árbók Hins íslenska forleifafélags, 18. árg. 1903, bls. 38-39.
-http://minjarihaettu.wordpress.com/fornleifar/masbudarholmi/saga/Masbudir-pan

Hvalsnes

Gengið var með Jóni Ben Guðjónssyni, bónda á Stafnesi, um norðanvert Starfneshverfið. Ætlunin var m.a. að reyna að rekja gömlu kirkjugötuna millum Safnesbæjanna og Hvalsneskirkju (Hvalsneshverfis) og skoða gamlar minjar á leiðinni. Áður hafði verið gengið um vestan og sunnanvert Stafnes,sem og Básenda í Stafneslandi.
SvæðiðJón sagði að elsti bærinn á Stafnesi hafi sennilega verið þar sem nú má sjá tóftir Vallarhúsa skammt norðvestan við núverandi íbúðarhús. Gamli Stafnesbærinn (timburhús) hafi hins vegar staðið þar sem nú er bílastæði norðan við íbúðarhúsið. Vestan þess hafi verið fjós, en í það hafi verið grafið þegar mjólkurhús var byggt við nýja fjósið, sem enn stendur. Flór hafi legið til vesturs, en suðvestan við gamla bæinn hafi brunnurinn verið. Umleikis hafi verið mikill túngarður. Hann hafi legið með hæðinni að suðaustanverðu við íbúðarhúsið, yfir núverandi veg til norðurs, síðan til vesturs og aftur til suðurs vestar. Þegar Jón var að slá fyrrum hafi hann iðulega komið niður á steinaraðir úr garðinum, en nú er einungis að sjá þar sléttan grasvöll.
Við Stafnes eru víða sléttaðir grashólar í túnum. Þarna var áður fjöldinn allur af gömlum bæjarrústum. Má það eðlilegt kalla, að eitthvað sjáist af rústum, því 10 voru hjáleigurnar, sem Stafnesi fylgdu 1703, og auk þess 12 eyðihjáleigur og búðir, allar taldar með nafni í jarðabók. Þó eru nokkur nefnd nú, sem ekki eru þar talin; hafa líklega  verið byggð síðar, en þó fyrir löngu í eyði komin. Frægustu hjáleigurnar m.t.t. skráðra þjóðsagna og eftirminnilegra atburða eru Lodda, Þemba og Básendar.
Ein er til þjóðasaga um Stafnesbónda er birtist í Rauðskinnu, en hvort hún er sönn eður ei skal ósagt látið: “Eftir að mislingarnir gengu hér á landi á 19. öld, var oft mikið um flökkulýð og ölmusumenn, er fóru víða um land, og var meðal annars mikið um þá á Suðurnesjum. Komu þeir tíðast á ríkisheimilin og varð oft mikill átroðningur að þeim og misjafnar viðtökur hjá bændum, því að sumir vildu venja förumenn þessa af komum sínum.
Í þá tíð bjó á Stafnesi ríkisbóndi nokkur; ekki er hér getið nafns hans. Það bar til eitt haustkvöld um réttir, að barið var að dyrum á Stafnesi. Fór bóndi til dyra. Úti stóð lítill drenghnokki og bað hann að gefa sér brauðbita. Tók bóndi þegjandi í hönd drengsins og leiddi hann í úthýsi nokkurt, leysti niður um hann og hýddi duglega og sagði honum að því búnu að hafa sig á brott. Hvarf drengurinn grátandi út í myrkrið, og skildi þannig með þeim. Gekk bóndi síðan til baðstofu og varð enginn annar í bænum var við atburð þennan.
Leið nú haustið. En seint á jólaföstunni var enn barið að dyrum á Stafnesi á vökunni. Tvær stúlkur voru frammi í bænum að mala korn og gengu þær til dyra. Dimmt var mjög úti, en þó sáu þær, að kona ein stóð úti fyrir. Biður hún stúlkurnar að skila til húsbóndans, að hún vilji hafa tal af honum. Þær fara inn og flytja bónda tíðindin. Segir þá húsfreyja þeim að fara í humátt á eftir bónda og vita, hvert erindi kona þessi eigi við mann sinn. Þær gera svo, en er þær koma fram að bæjardyrunum, virðist þeim allt útlit konunnar gjörbreytt orðið, og hún vera hin ferlegasta ásýndum og afmynduð af reiði. Hún virðir bónda eigi viðlits, snýr vanga að honum og segir:

Nýlendubrunnur

“Ekki þarf eg að þakka, en fleirum skal sárna en þeim, sem húðstrýktir eru,”
– og gengur því næst burt. Bóndi sneri þegar aftur til baðstofu og var þá fölur sem nár. Biður húsfreyja þá stúlkurnar að fara og ná í konu þessa og biðja hana í guðs bænum að tala við sig. Stúlkurnar fara og sjá þær hilla undir konuna norður á túninu. Þær hlaupa á eftir henni og ná henni loks og færa henni orð húsfreyju. En hún er ákaflega fasmikil, lítur ekki við þeim og segir:
“Eg hef skilað erindinu,” – og endurtekur það.
Stúlkurnar þorðu eigi lengur að fást við hana og hlupu skelkaðar heim.
– Líður nú fram yfir jól, fram á þorra, og allt er tíðindalaust. Í þorrabyrjun gerði ógæftir miklar, útsynning og brim. Rak þá á Stafnesi tré eitt mikið. Fór húsbóndi með vinnumenn sína til að bjarga trénu frá sjó. En svo vildi til, er þeir veltu upp trénu, að annar endi þess kom dálítið við hné bónda og meiddi hann eitthvað, en eigi svo, að hann gæti ekki gengið heim. En daginn eftir klæðist bóndi ekki og liggur upp frá því rúmfastur í samfleytt 17 ár í hnémeiðsi þessu. Að því búnu komst hann á fætur aftur alheill og óhaltur. Var það ætlun manna, að kona sú, er fyrr var frá sagt, myndi hafa lagt á hann þjáningar þessar fyrir meðferðina á drengnum.”

Nýlenda

Um Þembu segir sagan m.a.: “Fram að aldamótunum 1800 voru Básendar ein helzta verzlunarstöð danskra einokunarkaupmanna á landi hér. Básendar lágu undir höfuðbólið Stafnes. Ein af hjáleigunum frá Stafnesi hét þemba. Var það lítið kot og afgjaldið goldið að Básendum inn í reikning heimabóndans.
Þegar saga þessi gerðist, þá bjó maður sá í Þembu, er Narfi hét. Narfi þessi var allur vel á sig kominn, gleðimaður, kvæðamaður, dróst oft að drykk og laus var í honum hornriðinn. Hann var hrókur alls fagnaðar í veizlum og á mannamótum. Eins og aðrir leiguliðar þá hann atvinnu sína aðra en sjóróðra af Básendakaupmönnum, og tók þar jafnan mikið út af brennivíni. Söfnuðust oft að Þembu kunningjar hans og vermenn; var þar þá oft glatt á hjalla og fast drukkið. Einn kaupmanna hafði konu sína jafnan með sér að Básendum og dvaldist hún þar með honum. Var hún fríð kona og glaðvær, þótti henni Narfi bera af öðrum mönnum og sýndi honum meiri vinsemd en góðu hófi þótti gegna.

Þemba

Fór svo að lokum, að kaupmanni þótti nóg um dálæti það, sem hún hafði á Narfa. Var það orsök þess, að Narfa var byggt út af kotinu og flæmdur loks burt frá Stafnesi. Þóttist Narfi vita, hvaðan sú alda var runnin og lagði upp frá því mikla fæð á Básendakaupmann.
Næsta vor var þemba byggð manni einum dönskum, er vera skyldi aðstoðarmaður þeirra Básendakaupmanna. Eigi linnti drykkju og söng í Þembu, þó að Narfi væri farinn, og voru það nú Danir, sem höfðu þar drykkjusamkomur og ýmsan gleðskap. En það er frá Narfa að segja, að hann fluttist suður til Kirkjuvogs í Höfnum og dó þar snögglega eftir skamma dvöl. Var hann jarðsunginn þar. Narfi hafði átt góðhest einn steingráan, bæði fljótan og vakran. Hafði sá margan golþeysinginn farið, þegar jörð var setzt á vorum. Þennan hest hafði Narfi neyðzt til að slá af, þegar hann var hrakinn frá Þembu.
Á þrettánda dag jóla, vetur þann, er Narfi andaðist, voru Danir saman komnir í Þembu til drykkju. Þetta sama kvöld Balabrunnurbar svo við í Kirkjuvogi, að stúlka nokkur gekk út í vökulok. Úti var veður mjög skuggalegt, en þó nokkur birta af tungli, útsuðurhiminninn sundurtættur af kolsvörtum skýjabólstrum með ljósum glufum á milli og urgur mikill í sjó. Varð þá stúlkunni litið til kirkjugarðsins. Sér hún þar standa mann nokkurn, er styður sig við apalgráan hest og heyrir hann kveða vísu þessa við raust:
Þembu að eg þeysi af stað,
þar er mitt eftirlæti.
Hleypi eg dyn því hófakyn
hefi eg á fæti,
hefi eg létt á fæti.
Vindur hann sér á bak hestinum og tók sá sprettinn, en hvorki heyrði hún jódyn né sá spor hans. Varð stúlkunni óglatt við sýn þessa og hljóp inn og sagði frá því, er fyrir hana hafði borið. Nú víkur sögunni að Þembu. Þar voru, sem fyrr segir, gleðilæti mikil.

Balabrunnur

Er leið á kvöldið, urðu menn snögglega varir við, að kuldagust lagði um skálann og fylgdi því óþefur nokkur. Og er þeir litast um, sjá þeir, að ókenndur maður er kominn í hópinn. Hefur sá gripið eina brennivínsflöskuna og ber hana að vitum sér. Maður sá var bleikur sem bast, beinaber og brúnaþungur; glotti hann svo, að þeim stóð stuggur af. Rann þá nokkuð af þeim ölvíman. Varð kaupmaður fyrstur til að spyrja, hver hann væri. Svarar þá aðkomumaður:
Hér er kominn Narfi,
hann hraktir þú frá starfi.
Fölur er nú minn farfi,
falli yfir þig stjarfi.
Bregður þá svo við, að kaupmaður féll sem dauður væri á gólfið, og í sama bili sýndist þeim, er inni voru, veggurinn opnast að baki Narfa og hann hverfa þar út. Stumra þeir yfir kaupmanni, en geta ekki vakið hann af dvalanum. Var hann færður heim að Básendum og hugðu hann allir dauðan. Lá hann lengi í dái þessu, en raknaði þó um síðir við, en aldrei varð hann samur maður eftir þetta.”

Hólakotsbrunnur

Um Loddu segir sagan: “Stafnes á Rosmhvalanesi var fyrrum höfuðból og sýslumannssetur fyrir Gullbringur. Var þaðan útræði mikið og mjög var sótt þaðan til Geirfuglaskers á fyrri öldum. Lágu 24 hjáleigur undir Stafnesbóndann og auk þess var Básendakaupstaðurinn í landi hans. Hétu hjáleigur þessar ýmsum nöfnum og voru sum þeirra harla einkennileg, svo sem Refshalakot, Gosa, Hattakollur, þemba og Lodda.
Hjáleiga sú, sem næst var Básendum, hét Lodda. Hét hún upphaflega Lúðvíksstofa, en síðar breyttist nafnið í Loddustofu og Loddu. Var kot þetta í byggð fram á miðja 19. öld. Loddu fylgdi grasnyt fyrrum og voru leigur goldnar með þremur vættum fiska að Básendum í reikning heimabóndans. Í fyrri daga bjó einhverju sinni í Loddu maður sá, er Bergþór hét. Var ætt hans austan úr Biskupstungum. Hann var maður með sínu lagi og hafði mikla náttúru til hafsins. Kona hans hét Þorkatla. Voru þau hjón einyrkjar, lítt fjáð, en veitul mjög og gestrisin. Var það venja bónda að bregða skjótt við, er gest bar að garði, og taka á móti þeim, er kom, í bæjardyrunum og leiða jafnskjótt til baðstofu, og var á ekkert dregið undan af því, sem ætilegt var í kotinu. Var orðtak þeirra hjóna jafnan þetta: “Lítið en ljúft er veitt í Loddu.”
GlaumbæjarhóllBergþór reri á skipi heimabóndans ýmist sem konungsmaður eða hlutamaður. Einu sinni á vertíð var það dag einn, að lengi var setið á færum í kulda, því að dráttur var sæmilegur og vilja varð vart öðru hvoru. En er á daginn leið, tók að hvessa og fengu þeir brátt hinn versta barning heim. En nokkru síðar fékk Bergþór tak mikið og lagðist í rekkju. Var það með þeim býsnum, að hann lá dauður innan þriggja nátta. Hörmuðu menn dauða hans, því að hann var greiðamaður hinn mesti og vinsæll af öllum. Hélt Þorkatla ekkja hans kotið það sem eftir var vetrar og fram að fardögum. Var svo Lodda í eyði um sumarið.
En svo bar til, þegar liðið var sumar fram yfir höfuðdag, að maður einn úr Grindavík kom síðla dags út að Básendum. Varð hann of seinn til að ná tali af kaupmönnum, og gengur því í áttina heim að Loddu og hyggst að leita þar gistingar. Sér hann þá mann standa þar í bæjardyrunum. Býst hann þá við, að menn hafi þar séð til ferða sinna, og húsbóndinn muni bíða í dyrunum til þess að leiða hann til baðstofu og veita honum húsaskjól.
Greikkar hann því sporið og er brátt kominn heim undir hlaðvarpann. Sér hann, að maður sá, er Gamla Hólakotdyra gætir, er í selskinns-vesti með silfurhnöppum og skóm með hvítum ristarþvengjum. Þá er hann kemur að bæjardyrunum, heilsar hann manni þessum, en hann tekur eigi kveðju hans, heldur snýr sér óðara við og bandar til hans hendinni að fylgja sér inn göngin til stofu, og gerir gesturinn það. Þá er þeir koma inn göngin, spyr komumaður þann, er á undan gekk, hvort hann ráði þar ekki húsum. Svaraði þá maðurinn honum með vísu þessari:
Eg bý í Loddu, ljúfurinn,
löng eru göng og steinar,
stígðu innar, stúfurinn,
stofuna enginn meinar,
dyrnar eru á dráttunum
dregnar upp á náttunum,
brátt mér einar,
brátt mér opnast einar.

Jón á Stafnesstekk

Sér þá gesturinn grjótvegginn opnast í göngunum og bónda hverfa þar inn. Greip þá gestinn slík ofsahræðsla, að hann óð út úr bænum og hljóp sem fætur toguðu heim að Stafnesi, og vakti þar fólk allt með höggum miklum. Tókst von bráðar að sefa hann svo, að hann sagði upp alla sögu. Bar þá heimamönnum saman um það, að þarna hefði Bergþór verið kominn og viljað sýna fyrri gestrisni sína. Síðar var Lodda byggð aftur og bar þá minna á reimleikum upp frá því.”
Enn eitt býlið eigi skammt frá hét Refshalakot. Um það segir sagan: “Stafnes á Rosmhvalanesi var fyrrum mikil jörð og sýslumannssetur fyrir Gullbringur. Var þaðan útræði mikið og mjög var sótt þaðan í Geirfuglasker á fyrri öldum. Lágu 24 hjáleigur undir Stafnessbóndann, auk Bátsenda er einnig voru í landi hans.
Þá er Stafnes varð kóngsjörð urðu hjáleigubændurnir fyrir ýmsum kvöðum af hendi Bessastaðamanna. Urðu þeir að annast flutninga frá Bátsendakaupmönnum til Bessastaða endurgjaldslaust og fæða sig að auki.

Leifar af rétt

Ein af hjáleigum Stafnessbóndans hét Refshalakot; var þar lítilfjörleg grasnyt og afgjaldið goldið í fiski. Sagt er að eitt sinn hafi búið maður sá í Refshalakoti er Þórólfur hét. Var hann vanur og veðurglöggur formaður, harðgerr mjög og stórlyndur, ef því var að skipta. Eigi hafði hann búið lengi í Refshalakoti er úfar risu milli hans og Stafnessbóndans út af leigunum. Galt Þórólfur venjulegar leigur eftir kotið en heimabóndi sagði að fylgja ætti þurr og vel verkaður þanghestur að auki. Eigi vildi Þórólfur ganga að því.
Eitt sinn er Þórólfur var að heiman, skrapp Stafnessbóndinn heim að Refshalakoti og lét greipar sópa um þangbirgðir þær er voru í kotinu. Kom Þórólfur nokkuru síðar heim; sárnaði honum mjög tiltæki bónda en fékkst þó eigi neitt frekar um það.
Haust eitt, nokkuru eftir Mikaelsmessu, vildu Bátsendakaupmenn flytja ýmsar vörur til Bessastaða og heimtu þá sem fyrr leiguliðana í för þessa. Skyldi Þórólfur vera formaðurinn. Morgun þann, er fara átti, vaknar Þórólfur snemma; var þá andi af vestri, móða á jöklinum, og þyngsli mikil í sjó. Þótti Þórólfi illt útlit og vildi hvergi fara en þorði þó eigi annað en hlýða, sökum ofríkis og hótana kaupmanna.

Ögmundargerði

Var þá settur fram teinæringur einn mikill, er staðið hafði í naustum frá vertíðarlokum og gisnað nokkuð af sól um sumarið. Var nú borinn flutningur á skip og héldu þeir að því búnu af stað. Voru á skipi þessu margir leiguliðar Stafnessbóndans og þénarar kaupmanna. Var skipið lítt búið seglum og er inn fyrir Skaga kom, gjörði ofsarok af norðvestri, svo að þá hrakti inn allan Garðsjó og bar þá loks undir Vogastapa og týndist skipið þar með öllu. En nóttina eftir gerðust reimleikar miklir hjá kaupmönnum á Bátsendum. Voru einkum mikil brögð að því í verzlunarhúsunum og var bæði lýsi og brennivíni spillt, skreið hent víðsvegar og leirkönnur brotnar úr búðarhillum. Voru svo mikil brögð að þessu að menn héldust eigi við í búðunum er rökkva tók.
VörðubrotÞóttust menn sjá að þar væri kominn Þórólfur formaður. Sótti hann að einum kaupmanna svo mikið að vaka varð yfir honum á nóttum; var oft slegið blautum sjóvettling í rúm hans og þótti þeim sem sáu formann hann skælbrosa um leið og hann gekk út.
Þá bjó í loddustofu maður sá, er Brandur hét. Var Lodda ein af hjáleigunum frá Stafnesi. Brandur þessi var risi mikill og hraustmenni, óþjáll og stirðlyndur en ótrauður til allra verka ef “betaling var í boði”. Höfðu þeir dönsku beyg af honum vegna afls hans og slapp hann því við ýmsa snúninga og kvaðir hjá þeim. Mann þennan fékk nú hinn áður nefndi kaupmaður til að vaka hjá sér.

Kirkjugatan

Kemur Brandur til kaupmanns um kvöldið; er honum vísað til rúms eins í svefnstofu kaupmanns, og skyldi hann halda vörð þaðan um nóttina. Háttar kaupmaður snemma og sofnar þegar. En er liðið er nokkuð fram yfir miðnætti heyrir Brandur frammi í bænum umferð og núningshljóð, eins og þá menn ganga snúðugast skinnklæddir; nálgast þetta svefnstofu kaupmanns; en jafnframt finnur Brandur, að úr sér dregur mátt allan og stenst það svo á að þegar lokið er upp hurðinni að svefnstofunni er Brandur orðinn svo aflvana að hann má sig hvergi hræra né gefa hljóð frá sér.

Stafnes

Loddubrunnur.

Birta var mjög dauf en þó sér hann að inn kemur Þórólfur formaður; er hann ófrýnn mjög og alskinnklæddur; heyrir Brandur gutla í brók hans og leka niður af honum bleytuna; jafnframt finnur Brandur lýsislykt og reykjarlykt, því að formaður hafði hengt skinnklæði sín í eldhús til verkunar en tekið þau niður daginn sem fara skyldi til Bessastaða. Sér Brandur að formaður hefur sjóvettling í hendi, rennblautan og heldur í totuna og gengur rakleitt að rúmi kaupmanns og slær hann rokna kjaftshögg með blautum laskanum. Hrökk þá kaupmaður upp með hljóðum miklum en svo var þá af Brandi dregið að hann gat enga björg sér veitt fyrr en kveikt hafði verið ljós og hann hafði jafnað sig.
Þaut hann þá heim til sín og fékkst eigi til að vera stundinni lengur, hvorki með loforðum né hótunum. Lifði ljós það sem eftir var nætur og var svefninn lítill hjá kaupmanni. Sótti formaður áfram að kaupmanni, þótt viðskipta þeirra sé eigi frekar getið.
Kvöld eitt kom að Bátsendum maður innan frá Kirkjubóli; var þá þénari einn sendur út í búðirnar að mæla honum brennivín. En er þangað kom heyrir hann hávaða mikinn; lýkur hann þá upp gluggahlera einum og sér þá að búðin er full af skinnklæddum mönnum og allt er þar á ferð og flugi en einn manninn sér hann handleika “hevert” einn mikinn og sí og æ stinga honum ofan í eina ámuna og heyrði hann jafnframt kveðnar þessar hendingar:
Drekkjum og dýfum
þeim dönsku í djúp,
dáum ekki, drengir,
þeirra dyggðahjúp.
Fór maðurinn sem skjótast af glugganum og var ekki til brennivínsins tekið það kvöldið. Nokkru síðar kom dugga ein Kirkjugatanað Bátsendum; var þá verzlunarhúsunum lokað og Danir allir fóru á brott um veturinn.
En er fram á jólaföstuna leið sáu menn sem gengu til skipa á nóttu reyki mikla frá eldhúsi Stafnessbóndans og jafnframt tóku heimamenn þeir á Stafnesi er til róðra gengu á nóttu að heyra snark mikið er fram til eldhússins kom. Logaði þá eldur glatt í hlóðum og var þang vel að borið en ekkert var yfir eldinum né maður nokkur sjáanlegur. Gekk þetta nokkrar nætur og voru svo mikil brögð að eyðslunni að þangbirgðir allar virtust ætla að ganga til þurrðar. Lét bóndi þá vaka í bænum; bar þá eigi neitt til tíðinda í eldhúsinu, en í þangkofanum heyrðist skrjáf mikið, sem gengið væri eftir þangköstunum og nýju þangi væri hlaðið ofan á þá og troðið duglega innundir súðirnar, lamið saman reipahögldum og fleira.
Nokkru síðar bar svo til að kona ein af næsta bæ kom að Stafnesi; dvaldist henni lengi fram eftir kvöldinu og fór þaðan eigi fyrr en í vökulok. Þegar hún var komin út fyrir túngarðinn, sér hún mann einn koma móti sér, sem henni virtist teyma hest með böggum.
HvalsneskirkjaSnjór hafði verið í nokkra daga en nýlega hlánað, svo að krap var mikið á jörðu og skreipt í spori. Miðar manni þessum drjúgum í áttina til hennar og finnst henni það furðu sæta, hve lítið ganghljóð hún heyrir til þeirra félaga. Víkur hún því úr vegi fyrir þeim.
Sér hún þá, að maður þessi er skinnklæddur og þunglamalegur mjög í gangi, svo sem væri hann brókarfullur; slamsast hann áfram og heggur með höfðinu í hverju spori, en skepnu þá, er hann teymir, getur hún ekki greint, en henni sýnist hún vera múlbundin með reiptagli og á baki hennar er heljarstór reiðingur og reiðir maðurinn á honum tvo þá ferlegustu þangbagga, er konan hafði nokkurn tíma séð og marrar gríðar mikið í silunum. En um leið og maður þessi fer fram hjá henni, heyrir hún, að hann kveður vísu þessa með gömlu kvæðalagi:
Frá Refshalakoti eg reidda tel
reipafylli þanga,
brenni nú og braki vel
blöðkuklóin langa.
Endurtekur hann síðustu hendingarnar svo lengi sem konan heyrir til og sér hún það síðast til hans að hann hverfur heim að Stafnesi.
RekiNótt þessa var eigi vakað á Stafnesi, en er heimamenn reru, þá logaði eldur í hlóðum sem fyrr. Brá bóndi sé þá daginn eftir inn að Bæjarskerjum og var hann þar allan daginn. Morguninn eftir lét hann með birtu heimamenn sína binda hverja einustu þangkló, sem til var á Stafnesi og reiða heim til ekkjunnar í Refshalakoti; jafnframt lét hann ætíð á vökunni hita eldhússskörunginn og gera með honum hvítglóandi krossmark milli hlóðarsteinanna og mátti enginn ganga til eldhúss eftir það. Hurfu skjótt öll undur við þessar aðgerðir bónda; en talið var að hann hefði þar fylgt ráðum Bæjarskerjabóndans. En aldrei var goldinn þanghestur frá Refshalakoti eftir það.”

Magnús Þórarinsson lýsir Stafnesi og örnefnum þar í „Leiðir, lendingar og örnefni á Miðnesi; Stafnes“, í ritinu Frá Suðurnesjum er birtist árið 1960. Frásagnir frá liðinni tíð, “Syðsta örnefni í Hvalsneslandi var Mjósund. Er þá komið að landareign Stafness og Stafneshverfis.
Jón á StafnesiÁ góðu og gömlu, sjómannamáli bátverjanna á opnum áraskipum var öll hin stóra vík frá Ærhólmum að Stafnesrifi kölluð einu nafni, Hólakotsbót. Á henni eru eftirtalin örnefni: Landamerki milli Hvalsnes og Stafneshverfis eru í viki einu litlu sunnan við Ærhólma; heitir það Mjósund, stundum kallað Skiptivik. Á bakkanum er lítill grasblettur, sem heitir Ögmundargerði, og þar sunnan við er gamalt byrgisbrot, sem er kallað Stafnesstekkur. Víkin sunnan við Stekkinn heitir Stafnesvík. Sunnan við er Glaumbæjarvík, og skilur smágrjótrani víkurnar. Á bakkanum fyrir ofan er hóll grasi gróinn, sem heitir Glaumbæjarhóll, það er gömul rúst. Sunnan við Glaumbæjarvík er Glaumbæjarrif, öðru nafni Kúarif, í fjörunni. Sunnan við Kúarif er Nýlenduvík; nær hún suður að Hliðhólsklöpp, sem er í sjávarmáli niður af hliðinu á túngarðinum norðan við gamla Hólakot, ætíð nefnt af umfarendum „Hólakotshliðið“. Fram af Hliðhólsklöppum eru Selatangar. Það eru nokkur smásker í röð, sem koma upp úr um fjöru; þar á meðal eru Skjöldusker og Kringlótta-Sker. Sunnan við allt þetta, sem nú hefir nefnt verið, er nafnlaus fjara suður að svo nefndum Hólakotshól, en það, er gömul rúst á sjávarbakkanum, niður af Hólakoti, sem var nyrzti bær í Stafneshverfi og nyrzta túnið, en bærinn hefir staðið í eyði um allmörg ár. Öll túnin í Stafneshverfi eru samliggjandi flatneskja, en sundur greind með gaddavír á stólpum. Þess má geta um víkur þær, sem kenndar eru við Glaumbæ, og Nýlendu, að þarna var rekafjara þeirra og þangtekja, enda voru þetta gamlar hjáleigur frá Stafnesi.”
Gengið var eftir gömlu kirkjugötunni og m.a. kíkt á gömlu bæina. Þegar staðnæmstvar við Nýlendu vakti Jón athygli á heillegum hleðslum norðan við núverandi íbúðarhús og vestan við skemmu norðan þess. Þarna sagði Jón að sjá mættu leifar af gamla Nýlendubænum. Innan við vegginn hafi verið rými, ca. 2-3 metrar á breidd. Afi hans, Eiífur Ólafsson frá Ölfusi, og amma, Margrét Benediktsdóttir úr Rangárvallasýslu, eiginkona hans, hefðu haft þarna afdrep í gamla torfbænum, sem hafði þó bárujárnsþak. Þau fluttu frá Hólakotinu nær á stríðsárunum seinni, en síðan hefðu þau flutt til Reykjavíkur (1947). Jón mundi vel eftir bænum, sem þarna stóð; með gluggum mót vestri.
Gamla kirkjugatan lá rétt neðanvið bæinn. Hún hafði áður legið frá Básendum ofan við Glaumbæ Sólalagiðog síðan um um Glaumbæjarhliðið áleiðis yfir að Nýlendubrunni, neðan við garða bæjarins sem og Bala og Hólakots. Fast og ofan við Glaumbæjarhliðið hafi verið hænsnakofi, sem enn má sjá leifar af.
Hér að framan eru gjarnan tilgreindir brunnar bæjanna. Hafa ber í huga að brunnarnir – er geymdu “lifsins viðurværi” – eru jafnan ein gleggsta staðfesting á til vist þeirra fyrrum.
Fast við Bala að suðvestanverðu var Litlibær. Þar er nú einungis gróinn hóll, óljós. Vestar er Balabrunnur.
Hólakotið yngra er norðan Bala. Vestan þess er Hólakotsbrunnur. Jón sagaði kirkjugötuna hafa legið til norðurs með vestanverðum görðunum. Norðan Bala hefur túngarðurinn verið sléttaður, en gatan lá með honum utanverðum.
Utar voru skoðaðar leifar af gamla Hólakoti, sem nú eru fast fram á sjávarbakkanum. Garður hefur legið upp frá því norðanverðu sem mætt hefur fyrrnefndum garði norðan hins nýrra Hólakots. Nýrra kotið hefur verið fært ofar í landið, enda sjórinn nú kominn að rótum þess gamla. Jón sagði að sjórinn hefði brotið mikið af landinu á hans lífstíð.
VitinnKomið var við í Ögmundargerði, sem var nyrsta kotbýlið í Stafneslandi mót Hvalsnesi. Tóftirnar eru óljósar, en þó með staðfestu minjagildi. Skammt utar er Hólakotsstekkur, af sumum nefndur Stafnesstekkur. Um er að ræða sandopinn hól, en í honum má þó sjá leifar af hleðslum stekksins, með op mót norðnorðvestri.
Jón sagði að þarna skammt frá, við enda girðingar mót kampinum, væri áletrunin LM. Sjórinn hefði hins vegar kast grótið yfir áletrunina svo nú væri u.þ.b. einn meter af grjóti niður á hana.
Þar sem kirkjugatan lá til norðurs á merkjum hverfanna var vörðubrot. Frá því var gatan sérstaklega augljós um holtið. Handan þess mátti sjá gatnamót. Með því að fylgja götunni áleiðis að Hvalsnesi mátti áætla legu hennar að kirkjustaðum. Hafa ber í huga að gamla kirkjan að Hvalsnesi stóð nánast í miðjum núverandi kirkjugarði. Hvalsneskirkja var hins vegar reist utan garðs.
Frábært veður.

Heimildir m.a.:
-Jón Ben Guðjónsson, bóndi að Stafnesi.
-Magnús Þórarinsson, „Leiðir, lendingar og örnefni á Miðnesi; Stafnes“, Frá Suðurnesjum er birtist árið 1960. Frásagnir frá liðinni tíð, Félag Suðurnesjamanna í Reykjavík, Hafnarfirði, 1960, bls. 151 –165.
-Rauðskinna I, 26.
-Rauðskinna I, 62.
-Rauðskinna I, 64.
-Gráskinna I, 201.

Stafnes

Stafnes – kirkjugatan. ÓSÁ.

Gálgaklettar

Gálgaklettar eru á yfir 100 stöðum á landinu. Flest örnefnin tengjast aftökum eða aftökustöðum, hvort sem slíkar hafi farið þar fram eða ekki. Ofan við Stafnes er einn slíkur; Gálgar; tvær klettaborgir með u.þ.b. 6 metra bili á millum þeirra. Á skilti við klettaborgirnar má lesa eftirfarandi: “Við erum stödd við Gálgakletta (sem einnig [eru] nefndir Gálgar í landi Stafness, en örnefnið og munnmæli í sveitinni benda til að hér hafi menn verið hengdir til forna. Hér upp af heitir Gálgahraun.
SkiltiÁ Stafnesi er þekkt örnefnið Lögrétta, þar er hugsanlegt að sakamenn hafi verið dæmdir. En sögnin hermir að tré hafi verið lagt á milli klettanna og þeir hengdir þar á, sem Básendamenn greindi á við, en Básendar eru rösklega stundarfjórðungs gang héðan í austur [á að vera vestur]. Líkum hinna hengdu á að hafa verið kastað í gjótu undir öðrum klettinum og grjót borið að. [Ekki er líklegt að gjóta hafi verið þar á sandvindsorfnum hraunmelnum, en holu hefði auðvellega mátt grafa við klettinn].
Hvorki eru þekktar skjalfestar heimildir um að menn hafi verið réttaðir á þessum stað né mannabein eða annað sem styður sögnina, en bilið milli klettanna sýnist og breitt til þess að unnt sé að leggja gálgatré á milli þeirra. Einhver hinna þröngu sprungna getur þó komið til álita í þessu sambandi. [Hér gleymist að gálgar hafi ekki endilega þurft að vera úr þvertrjám milli kletta.

Gálgaklettar

Gálgaklettar ofan Stafness.

Líkams- og dauðarefsingar voru í lög leiddar á Íslandi á 13. öld. Líflátsaðferðirnar voru henging, hálshögg, drekking og brenna. Líkamlegar hegningar aðrar voru umfram allt hýðingar, en einnig brennimerking, og stundum voru menn handhöggnir, klipnir með glóandi töngum eða útlimir þeirra marðir áður en þeir voru teknir af lífi.
Dauðarefsing var afnumin úr lögum árið 1928 og heimild til hýðingar 1940 – en þá hafði þessum viðurlögum ekki verið beitt lengi. Síðasta aftakan fór fram 1830.
Stjórnarskrá Íslands bannar að dauðarefsing verði aftur tekin upp.”
Á vestari klettinum er grasi gróinn hóll. Ætla mætti að þarna hafi annað hvort verið dys, sem gróið hefur yfir, eða stór varða; kennileiti af sjó. Ekki er vitað til þess að rannsókn hafi farið fram á “mannvirkinu”.
Gálgar