Færslur

Jón forseti

Í Sunnudagsblaði Tímans árið 1967 má lesa eftirfarandi um strand Jóns forseta við Stafnes. Það er einn skipverjanna, Gunnlaugur Jónsson, sem segir frá:

Morgunblaðið birti veðurhorfur á sunnudeginum 26. febrúar, 1928: Snarpur sunnan og suðaustan. Hlókuveður.
Niðamyrkur var og stríð gola úr landsuðri. Jón forseti hefur verið tvo sólarhringa á veiðum í Jökuldjúpi og stefnir nú fyrir Reykjanesskaga.
Jon forseti - 221— Ég á vakt klukkan þrjú um nóttina, og halla mér því eftir kvöldsnæðing. Eftir fjögurra stunda væran svefn vakna ég snögglega við feiknlega skruðninga og bresti. Skipið nötrar, og skerandi málmhljóð nístir merg og bein. Mér verður þegar ljóst, að við höfum steytt á rifi. Ég snarast fram úr kojunni, þríf stígvélin og kemst í þau með erfiðismunum. Allt hrikktir og skipið skelfur, svo að varla er stætt. Í óðafári böðlast ég upp á dekk og sé, að skipið er við klettótta strönd og skammt undan klýfur vitageisli myrkrið. Allt um kring rísa og falla ógnvænlegir boðar, lemja utan skipið og kasta því til á grjótinu. Ég sé ekki yfir sjóina, og er þó lágfjara.
Ég staulaðist aftur þilfarið, og við áhafnarmenn tökum tal saman í brúnni. Skipið hefur rekizt á svonefnt Stafnesrif. Ljósgeislarnir koma frá vitanum í Stafnesi, en til lands eru um það bil þrjú hundruð og fimmtíu faðmar. Fyrir innan rifið er hyldjúpt lón, Hólakotsbót, og er þar stilltur sjór, þótt rifið sjálft sé umleikið hvæsandi brimgarði. Allir erum við vongóðir um að ná landi, komi björgunarsveitir fljótt á vettvang. Sent hefur verið neyðarkall, og er nú ekki um annað að ræða en að bíða, herða upp hugann og vera bjartsýnn.
Skipið er alónýtt. Fyrsti meistari segir mér, að stórt bjarg hafi skorizt inn í vélarúmið og megi geta nærri, hvað fylgt hafi á eftir. Nokkrir skipverja láta þau orð falla, hvort ekki sé reynandi að setja út bjargbátinn, og þykir mönnum sjálfsagt að fara til þessa. En þá er fjarað svo út, að báturinn lendir í urðargrjóti og spænist sundur undan boðunum. Megum við lofa guð og lukkuna, að enginn skyldi álpast strax í bátinn, því það hefði orðið hvers manns bani.
— Segðu mér Gunnlaugur, hvers vegna strandaði Jón forseti við Stafnes í hægu veðri og tiltölulega góðu skyggni?
— Þar voru óheilladísir að verki. Maðurinn við stýrið tók stefnu beint í klettana og hefur trúlega haldið, að Stafnesviti væri Reykjanesviti. Mér dettur engin önnur skýring í hug.
— Var skipstjóri ekki í brúnni?
— Nei. Magnús blundaði í klefa sínum, en hásetar á vakt höfðu sagt honum af Garðskagavita, og hann var í þann veg að fara upp. Að vísu er skipstjórans að tilkynna stefnubreytingu, en maðurinn við stýri átti að þekkja siglingaleiðina fyrir Reykjanesskaga svo vel, að hann gerði ekki skyssu eins og þessa. Ég man ljóslega, að Magnús sagði við okkur í brúnni: „Ég skil ekki í manninum.” Hann var fátalaður eftir það.

Stafnes

Stafnes.

Jón forseti tók niðri um klukkan eitt á mánudagsnóttina tuttugasta og sjöunda febrúar, og barst váfregnin þegar til fjölmargra skipa, er á siglingu voru undan Suðvesturlandi. Tryggvi gamli, skipstjóri Kristján Schram, var næstur slysstaðnum, og kom hann þangað fyrstur klukkan sex um morguninn. Áhöfn Tryggva gamla sá þó ekki Jón forseta fyrr en klukkan hálf átta, og þá virtust engir vera þar ofan þilja. Hallaðist skipið mikið á bakborða og dundu á því sjóirnir.
Óheillatíðindi fara sem eldur á akri, og leið ekki langur tími, unz stjórnarmönnum h.f. Alliance í Reykjavík var tilkynnt um strandið. Þegar í stað byrjaði björgunarsveit undir forystu Halldórs Kr. Þorsteinssonar og Jóns Sigurðssonar ferð sína að Stafnesi. Var komizt á bifreiðum til Fuglavíkur, en þaðan var drjúg klukkustundar reið í Stafnesfjörur og torleiði mikið. Lauk ferðinni árla morguns hjá Stafnesi, og voru þá fyrir utan rifið þessi skip: Tryggvi gamli sem áður getur, Ver og Hafsteinn, og skömmu síðar komu Þór og Gylfi.
Veðurlag hélzt óbreytt, sunnanátt og hláka. Í Jóni forseta er vistin slæm. Enn grúfir vetrarmyrkrið yfir, og nú fellur að. Æsist brimrótið. Nær helmingur skipverja er í lúkarnum, en hinir standa í brúnni, þeirra á meðal Gunnlaugur.
— Ég er ekki rór, hvað sem veldur, og sný mér því að skipstjóranum og segi í hugsunarleysi: Ég held ég fari fram í til karlanna. Honum hnykkir við þessi orð. Hann lítur á mig hvasseygur og svarar þykkjuþungur: Nei, Gunnlaugur, þú verður hér kyrr. Ég fyrirbýð ykkur að brjótast á milli. Boðarnir eru svo slæmir. Mér þykir illt að hlýða banni Magnúsar, en læt þó talið niður falla og þoka mér frá honum. Er ég kominn að brúardyrunum, þegar mér heyrist rödd hvísla í síbylju: Þú ferð, þú ferð, þú ferð, þú ferð, . . . , og ég læðist út, í senn fífldjarfur og hikandi. Sjóirnir hafa magnazt, þrymja, svella og brotna á þilfarinu. Skipinu hallar, og er enginn hægðarleikur að beita sér til gangs. Ég gríp báðum höndum í ljósastagið, og með herkjum get ég þannig þumlungað mig fram í lúkarinn. Í lúkarnum er líðan allra góð. Þar er þurrt, og karlarnir í óða önn að búa um föggur sínar niður í poka og bera þá upp á hvalbak. Ég fer að dæmi þeirra. Nú birtir af degi. Komið er háflóð. Við verðum nauðugir að hreiðra um okkur á hvalbaknum og sláum þar utan yfir okkur trossu. Nokkrir fara í reiðann, en af þeim, sem eftir voru í brúnni, hafast þrír við uppi á stýrishúsinu. Brimið er geigvænlegt. Við á hvalbaknum erum betur settir en brúarmenn, þar eð við sjáum, hvað brotunum líður. Þeir snúa hins vegar í þau bökum og horfa gegnt okkur.

Stafnes

Stafnes – örnefni. ÓSÁ.

Líður svo af morguninn. Um klukkan tíu æðir válegur boði og feiknmikill að skipinu, og við öskrum til brúarmanna, að þeir skuli vera reiðubúnir, gefum bendingar og pötum út í loftið. Ef til vill hafa þeir ekki haft auga með okkur. Sjórinn brotnar tvisvar áður en hann skellur á skipinu, og ekki að síður rífur hann skorsteininn hálfan af, mélar brúna og tekur sjö menn út. Frá okkur hrekur einn mann, en við náum honum aftur inn. Þessi atburður dregur úr mörgum kjark um stund, og lífsvon, sem okkur hefur fylgt fram til þessa, virðist stunum jafnvel skopleg bjartsýni. Ég hugsa sem svo, að nú sé annað hvort líf eða dauði á næsta leyti og valið sé ekki mitt, en ég geti reynt að þrauka. Að þrauka og þrauka, að vilja ekki deyja, að þrauka, það er okkar hlutur. Sökum boðafalla er óhægt að dveljast lengur á hvalbaknum, og raða menn sér í reiðann. Er hann þröngskipaður svo hátt sem komizt verður. Förin í reiðann er flestum sæmilega greið, nema hvað þann, sem lestina rekur, hrifsar holskefla útbyrðis, og getum við enga hjálp honum veitt. Þetta er harðger maður, flugsyndur, og grípur hann þegar sundtök í átt til lands, en svo er straumur í Bótinni stríður, að félaga okkar hrekur andviðris á haf út, og eru dagar hans taldir.
Stafnes - 221Skipið sígur nú að framan og vagar á grjótinu. Stundum leggst reiðinn niður í urðina, og allir hljótum við einhver meiðsli. Ber ég þessa enn merki í andliti. Sérhvert skipti, sem reiðinn sígur, tauta ég við sjálfan mig: Nú fer mastrið, nú fer það, og þú ert dauður, karl minn, steindauður. — En Forsetinn reisir sig ætíð upp milli brotanna, og ekki lætur mastrið undan sjóganginum.
Nú tekur að falla út. Lægir brimrótið. Við sjáum tvo menn liggja á brúarvængnum, og þeir ríghalda sér, unz sjódrykkja ríður þeim að fullu. Greipar opnast, og tveimur skolar út í kalda röstina. Við hinir eigum að þrauka, og við skulum þrauka. Skip, sem á vettvangi voru, gátu lítið gert til björgunar. Hellt var niður lýsi og olíu í sjóinn, en brimið var meira en svo, að þessi austur kæmi nokkrum að haldi. Tóku þá skipverjar að slæða eftir líkum þeirra, sem útbyrðis höfðu fallið af Jóni forseta. Björgunarsveitin í landi fékk léðan áttæring og tvær skektur frá Stafnesi. Skyldi áttæringurinn liggja í landfestum, en smábátarnir notast sem dragferjur, ef takast mætti að koma línu út í hið strandaða skip. Tilraunir í þá átt báru þó engan árangur, og um hríð var lítil bjargvon. Strandfregnin birtist í glugga Morgunblaðsins árla dags, og dreif þangað múg manns. Sló óhug á Reykvíkinga við þessi sorgartíðindi, og í veðursæld vetrarins sáust engir brosa, nema börn. Var mánudegi þessum líkt við sjöunda apríl, árið nítján hundruð og sex, þegar drukknuðu nær sjötíu menn í Faxaflóa, tuttugu þeirra fyrir augum bæjarbúa hjá Engey og Viðey. Nú var Jón forseti, minnsta skip íslenzka togaraflotans, ofarlega í allra huga, og milli vonar og ótta biðu menn nýrra fregna af ættingjum, ástvinum og kunningjum, nýrra tíðinda frá Stafnesi.
Miðdegi. — Í reiðanum sjáum við, að áttæringur liggur fyrir landi, hjá honum tveir smábátar, og hafa björgunarmenn bundið átta lóðabelgi á aðra skektuna. Líður og bíður, og lánast þeim ekki að senda út línu til okkar í flakinu. Höfum við flestir glatað nær allri von um björgun úr landi. Þykir okkur einsætt, að viljum við lifa hljótum við að varpa okkur til sunds, kafa undir ólögin og reyna þannig að komast í ládeyðu. Að vísu skortir suma næga sundfimi en við erum þá dauðir hvort sem er. Ekki dettur mér í hug nokkurt líf, en ég er eigi að síður rólegur, og engin flýgur að mér hræðsla.

Jón forseti

Jón forseti.

Meðan við ráðgumst um þetta okkar á milli, rek ég augun í baujuræfil, sem hangir við mastrið. Eru af baujunni bæði sköftin, en kaðalhönkin virðist mér óröskuð. Ég lít upp til næsta manns og spyr, hvort ekki sé unnt að koma út baujunni í þeirri von að hana beri að bátunum inn á lónið. Nú sé fjara, brimrótiS stilltara en fyrr um daginn, og straumur ekki landstæður. Með aðgæzlu megi fikra sig að borðstokknum og fleygja út baujunni. Tillögu þessari er slælega tekið í fyrstu. En eftir stundarkorn kallar einhver til mín: Gunnlaugur, við skulum reyna þetta með baujuna. — Er hinar hafizt handa, og innan varpa ég baujunni út fyrir, hverfur og henni skýtur upp. Á baujunni hefur enginn augun, þar sem hana hrekur að lóninu og eftir fylgir visin líftaug þrettán manna. Fjöregg mitt er gúmmíbelgur, eymdarlegur gúmmíbelgur. Öldurnar henda honum milli sín, og stundum eins og þær vilji spotta mennina í reiðanum, geri leik að því að færa baujuna á kaf og halda henni þar lengi, svo að dauðans angist grípur alla. — Skorðast hún föst í grjótinu — Slitnar reipið? —Ber brimið hana til baka? — Skyldi reipið rekjast sundur á enda?
— Nær það nógu langt? — Tekst það? — Eða?
Enginn er til svars. í reiðanum ríkir þögn, og ekkert hljóð berst okkur til eyrna utan hryglandi hvæs boðanna. Það tekst. Ég setti líf mitt að veði fyrir einn gúmmíbelg, og aldrei hefur mér þótt jafn vænt um nokkurn dauðan hlut og þennan vesæla belg, þegar björgunarmennirnir slæða hann til sín í bátana. Nú birtir yfir svip okkar. Við höfum þraukað, og þetta eru launin. Í reipið er bundin taug, taugin fest í skektuna með lóðabelgjunum átta, og drögum við hana svo nærri flakinu sem vogandi þykir. Og þá er komið að hinum fyrstu að fara í bátinn. Einn okkar skipsfélaga i reiðanum er fátækur barnamaður, og finnst öllum miklu varða, að hann nái landi heilu og höldnu. Við segjum honum að varpa sér fyrstum í skektuna, en hann þvertekur fyrir það og svarar þrásinnis: „Ég fer næst, ég fer næst. Mér þykir ennþá af mikil ólga.” Ég legg fast að manninum að yfirgefa flakið, en hann skeytir því engu og neitar sem áður. Ekki dugir að þjarka um þetta lengi, og annar maður hendir sér fyrstur útbyrðis. Hann er vel syndur, kafar undir
ólögin og kemst í bátinn. Næsti maður hverfur í brimið, hefur trúlega fengið krampa, og þá hikum við hinir um stund, svo að skektan er dregin strax að áttæringnum. Klukkan er fjögur. Lánast hefur að bjarga einum. Aftur togum við kænuna til okkar, en hún ee oftast í kafi og þung í drætti. Fara nú þrír úr reiðanum í skektuna, en þá brotnar stefnið við skipshlið, og slitnar samtímis taugin, sem höldum við í hinir. Björgunarmenn sjá þegar, hvað orðið hefur, og draga bátinn rösklega að landi, en við, skipsfélagar, sem eftir eru, hefjum leit að öðru dufli að binda við kaðalreipið og láta það reka inn á lónið. Að drjúgri stundu liðinni ber leitin árangur, og sagan endurtekur sig. Við togum til okkar nýja skektu, og komast nú fimm menn frá flakinu, þeirra á meðal ég sjálfur. Ég hef drukkið mikinn sjó og er vinglaður, svo að ég veiti því tæpast athygli, þegar björgunarmenn lyfta mér úr bátnum og ég er leiddur upp ströndina, en þar bíður okkar Helgi Guðmundsson, læknir í Keflavík og gerir að sárum manna.
Nú rökkvar óðum, enda liðið á sjötta tímann. Eru þrír skipverja eftir í reiðanum, og gengur þeim illa að draga skektuna að flakinu og halda henni þar kyrri í brimrótinu, sem æsist fremur en stillist. Fer svo að lokum, að dráttartaugin brestur, og er þá öll bjargvon úti, nema þessum þremur takist að synda í land. 

Jón forseti

Jón forseti á strandstað.

Tveir varpa sér fyrir borð, en hinn fátæka barnamann, sem áður kom við sögu, skortir áræði til sunds, og verður hann um kyrrt í reiðanum. Mennirnir tveir synda hins vegar lengi og knálega, og kemst annar í skektuna, og er hún dregin að áttæringnum. Náð er hinum nokkru síðar, og er þá svo af honum dregið, að hann deyr, þrátt fyrir lífgunartilraunir læknis. Vonlaust er nú talið, að bjarga megi þeim, sem í flakinu dvelur, og lætur sveitin af frekari björgunartilraunum. Henni eiga tíu menn líf sitt að launa, og er björgun þeirra mikið þrekvirki við slíkar aðstæður sem hjá Stafnesi.
Um kvöldið sigldu öll skip frá slysstaðnum, nema hvað strandgæzluskipinu Óðni var haldið í námunda við rifið um nóttina. Beindu skipverjar kastljósum að mastrinu á Jóni forseta, en þar lét hinn fátæki barnamaður fyrir berast og hreyfði sig hvergi. Klukkan tíu á mánudagskvöld kom Tryggvi gamli með lík fimm manna til Reykjavíkur. Þeim var þegar ekið í líkhús og um þau búið sem hæfa þótti.

Jón forseti

Jón forseti.

Nóttin hin næsta varð mörgum beizk og bitur, og mun þarflaust að lýsa hér tilfinningum þeirra, sem á bak sáu nánustu samferðamönnum og ástvinum. Svo er ritað í grein í Morgunblaðinu hinn fyrsta marz: En Reykvíkingar sýndu sorgbitnum samúð þá, og svo hygg jeg að enn muni verða. Því svo er háttað með okkur hjer í borginni, að þó við aðra stundina rífumst og bítumst, sem gráir seppar eða gaddhestar um illt fóður, þá kennum við samúðar hver með öðrum, þegar þungar raunir steðja að bræðrum vorum og systrum. Sýna Reykvíkingar þá oft í orði og verki, að það er sannur vitnisburður um þá, að þeir mega ekkert aumt sjá eða bágt heyra. Skipbrotsmenn sofa í Stafnesbænum þessa döpru nótt.
— Ég vakna árla morguns, og er þá vonlega velktur mjög og blámarinn innanvert á lærunum, en get þó skreiðzt á fætur. Geislarnir frá Óðni lýsa upp svefnstofuna, og kemur mér þá félagi okkar, barnamaðurinn, í hug. Þykir mér sjálfsagt að reyna að klöngrast niður að ströndinni og kanna, hvernig honum reiði af i flakinu. Förum við tveir, en hinir átta geta sig lítið hreyft sökum meiðsla. Vindur er snarpari en daginn áður og hafrótið meira. Þegar við göngum ofan í klettana, sjáum við félaga okkar í mastrinu. Lítur svo út, sem hann hafi bundið sig, því hann hreyfir einungis höfuðið og bifast hvergi, þótt flakið vagi á rifinu, Óefað er honum ekki lífs auðið. Í flæðarmálinu r

ekumst við á lík af einum skipverja. Hann hefur verið ásamt okkur í þrjá daga, og við þekkjum hann lítið.
Um klukkan átta stöndum við aftur hjá Stafnesbænum, og sjáum þá, að holskefla liðar flakið sundur, mastrið fellur, og innan stundar, sleikir hrá dagskíma bera klöppina.

Jón forseti

Jón forseti.

Hinn tuttugasta og áttunda febrúar birtust í Morgunblaðinu nöfn og heimilisföng þeirra, sem björguðust:
Bjarni Brandsson, bátsmaður, Selbrekkum.
Magnús Jónsson, Hverfisgötu 96.
Pétur Pétursson, Laugavegi 76.
Sigurður Bjarnason, Selbrekkum.
Kristinn Guðjónsson, Selbrekkum.
Steingrímur Einarsson, Framnesvegi.
Gunnlaugur Jónsson, Króki, Kjalarnesi.
Steinþór Bjarnason, Ölafsvík.
Frímann Helgason, Vík, Mýrdal.
Ólafur I. Árnason Bergþórugötu 16.
Fimmtán menn fórust á Stafnesrifi, og var hinn elzti fjörutíu og sjö ára að aldri, en tveir hinir yngstu sautján ára. Sjö hinna látnu voru kvæntir, og létu þeir eftir sig þrjátíu og fjögur börn, en bryti á Jóni forseta drukknaði ásamt átján ára syni sínum, sem var elztur níu systkina. Í Reykjavík var þegar efnt til samskota að styrkja föðurlaus heimili, og var fyrsta framlagið frá h.f. Alliance, fimmtán þúsund krónur.
Hinn áttunda marz voru tíu skipverja bornir til grafar, en þá voru fimm lík enn ófundin. Var útför allra gerð frá Fríkirkjunni, og mun það vera fjölmennust helgiathöfn á Íslandi fyrr og síðar. Sóttu hana sex til sjö þúsund manns, og náði líkfylgdin frá kirkjunni sjálfri í miðja Suðurgötu. Í gamla kirkjugarðinum í Reykjavík biðu níu opnar grafir. Hin níunda beið föður og sonar – jöm.”

Sjá umfjöllun RÚV af strandi Jóns forseta HÉR.

Heimild:

-Tíminn Sunnudagsblað, 2. júlí 1967, bls. 564-569.

Stafnes

Á Stafnesi.

Kistugerði

Vestan við Rafnkelsstaði í Garði er Kisturgerði.

Kistugerði

Kistugerði.

Þar segir þjóðsagan að sé fornmanngröf og í henni gullkista. Gerðið er í rauninni pollur undir klapparvegg, grænlitur. Reyndar eru áhöld um að staðsetningu gerðisins. Sumir telja það uppi á klöppunum og skammt utar, en skv. sögunni á að vera letursteinn með rúnum við það. Sá steinn er nokkru neðar og norðar, við gerðið undir berghömrunum. Þjóðsagan segir að fjársjóður Rafnkels hafi verið grafinn með honum þarna í gerðinu. Reyni einhver að grafa hann upp mun þeim hinum sama sýnast bærinn standa í ljósum logum. Sagan er svipuð sögunni um fjársjóðinn í Silfru við Járngerðarstaði í Grindavík og fleiri álíka.
Einhverjir munu hafa viljað leita fjársjóðsins fyrir nokkrum árum með stórtækum tækjum. Við það valt letursteinninn, sem verið hafði við gröfina, niður hallann og staðnæmst þar sem hann nú er, skammt ofan við ströndina.
Erfitt er að lesa út úr rúnunum á steininum, en þær eru svipaðar og á álagsteininum Heródesi við Grindavík.

Kistugerði

Letursteinn við Kistugerði.

Prestsvarðan

Í Rauðskinnu segir frá Prestsvörðunni: “Í heiðinni skammt fyrir ofan Leiru er mannhæðar há grjótvarða sem alltaf var nefnd Prestsvarða. Sagt var, að síra PrestsvarðaSigurður Sívertsen (1808-1887), sem prestur var á Útskálum fyrrum, hafi einhverju sinni verið þarna á ferð að vetrarlagi. Kom hann úr Keflavík og ætlaði heim til sín að Útskálum. Talið var að leiðin væri tveggja tíma gangur eða meira eftir þeim vegi sem þá var farinn. En við lestagang voru allar vegalengdir miðaðar á þeim tímum. Þegar prestur kom út á móts við miðja Leiru villtist hann af leið. Fannst honum líðan sín þannig að hann treystist ekki til þess að halda áfram ferðinni. Prestur tók það ráð að leggjast fyrir og vera kyrr alla nóttina. Nokkru síðar lét síra Sigurður hlaða upp vörðu á þessum stað. Var hún ferstrend eins og margar grjótvörður. En eitt var það, sem gerði hana frábrugðna öðrum vörðum. Á hlið þeirri sem að austri snéri var allstór flöt hella sem á var höggvið sálmavers.”
Varðan var hlaðin upp fyrir stuttu, letursteinninn hreinsaður og honum komið aftur fyrir á sínum stað við vörðuna – þar sem hann er í dag.
Sálmaversið á hellunni er 4. Davíðs Sálmur 8. vers. (“Í friði leggst ég til hvíldar og sofna, því að þú, Drottinn, lætur mig búa óhultan í náðum”). Ártalið er 1876.

-Rauðskinna II 295.

Prestsvarða

Prestsvarða.

Skagagarðurinn

Við Skagagarðinn í Garði (Suðurnesjabæ) er meðfylgjandi skilti við minnismerki um garðinn:

Skagagarður

Skagagarðurinn – minnismerki.

SkagagarðurSkagagarðurSkagagarðurSkagagarðurSkagagarður

Skagagarður

Skagagarðurinn.

Skagagarður

Skagagarðurinn.

Skálareykir

Skálareykir. 

Fuglavík

Í Árbók Hins íslenska Fornleifafélags (1903), fyrir nálægt einni öld síðan, segir Brynjúlfur Jónsson m.a. frá letursteini í Fuglavík (bls. 38). Brynjúlfur frá Minna-Núpi ferðaðist um Reykjanesskagann fyrir og um aldamótin 1900 og skráði og skoðaði það sem teljast mátti til fornleifa. Þessi steinn var ein þeirra.

Fuglavík

Fuglavíkursteinninn í stéttinni.

Í 17. lið upptalningar hans segir m.a.: “Í Fuglavík er brunnur með fersku vatni, og er það fágætt á Suðurnesjum, að vatn hafi ekki sjókeim, eða smakki af seltu. Brunnurinn var áður á hlaðinu, en er nú innanbæjar, síðan timburhús var byggt og sett framar en bærinn var áður. Brunninum fylgir sú sögn, að útlendur maður, Pípin að nafni, hafi grafið hann, og höggvið ártalið á hellustein, sem hann setti hjá brunninum. Steinninn er nú í bæjarstéttinni, og sér enn gjörla á honum ártalið 1538.”
FERLIR hafði samband við Sigurður Eiríksson í Norðurkoti. Hann sagðist ekki hafa heyrt um stein þennan en myndi setja sig í samband við nágranna sinn og húsráðanda í Fuglavík, Jónínu Bergmann.

Fuglavík

Fuglavíkursteinninn.

Jónína hafði ekki heyrt um steininn, en var reiðubúin til að skyggnast eftir honum. Henni fannst þetta mjög áhugavert. Eftir þrjár vikur hafði Sigurður samband og kvað Jónínu hafa fundið steininn.
FERLIR fór umsvifalaust á staðinn. Jónína sagðist hafa leitað að steininum af og til. Hún hefði sópað stéttina norðvestan við húsið og jafnvel reynt að moka ofan af einhverjum steinanna. En þegar hún hafi komið út þennan morgun hafi hún rekið tá í ójöfnu í gömlu bæjarstéttinni. Reyndist þar undir vera steinn. Jónína sópaði af steininum og viti menn – í ljós kom áletrun; ártal. Við nánari skoðun sáust vel tölustafirnir 158, en aftasti tölustafurinn var óljós. Hann gæti þess vegna verið 1 eða 4 – og allt þar á milli. Þarna var þó að öllum líkindum kominn fyrrnefndur steinn, sem tekinn hafði verið úr brunninum og komið fyrir í stéttinni, með u.þ.b. 420 ára gamalli áletruninni. Hér er því um að ræða elsta einstaka ártalsletursteininn, sem enn er vitað um á Reykjanesskaganum. Til eru þó eldri áletranir á klöppum, s.s. við Básenda.
Letursteinninn var tekinn upp úr stéttinni, sem hefur reyndar undanfarin ár þjónað sem bílastæði við nýja húsið, og færður til hliðar við hana, örskammt þar frá, sem hann fannst. Þar er hann aðgengilegur og minnir á uppruna sinn.

Fuglavík

Fuglavíkurhverfi – örnefnakort Sigurðar Eiríkssonar.

Gerðakot

Magnús Grímsson segir í ritgerð sinni “Fornminjar á Reykjanesskaga” frá tveimur kumlum, sem fundust að Gerðakoti skammt SV Hvalsness árið 1854.
Gerdakot-2Nýbýlið virðist hafa verið byggt á lágum hól, sem að öllum líkindum hefur verið og er kumlateigur. Húsið stóð þangað til annað nýrra var byggt skammt NA. Það var timburhús á steyptum kjallara. Það hús var síðan flutt til Keflavíkur, sem það er enn (Sigurður Eiríksson í Noðurkoti).
Í “Kuml og haugfé” er m.a. fjallað um fundinn á nefndum tveimur mannsbeinagrindum árið 1854 að Gerðakoti í Miðneshreppi. Þar segir m.a.: “Gerðakot er SV frá Hvalsnesi, nær sjó. Nafn bæjarins bendir til að hann sé ekki forn. Þar fundust tvær mannsbeinagrindur 1854 er verið var að grafa fyrir húsi (nýbýli) Finnendur hafa lýst fundinum vo vel að þar er engu við að bæta, og eru lýsingarnar birtar hér orðréttar;
Gerdakot-31. kuml. “Hinn 10. d. maím. í vor var ég undirskrifaður að grafa niður í sléttan hól að Gerðakoti. Þegar ég var kominn niður hér um bil 1 1/2 alin (um 95 sm), fann ég höfuðkúpu af manni í svörtu sandlagi, leitaði svo betur fyrir mér og fann von bráðara hálsliðina, sem rétt voru áfastir við höfuðkúpuna; lá beinagrindin frá landsuðri til útnorðurs.. hnífskaft og var járnryð á öðrum endanum..” Undir þetta ritar Brynjólfur Jónsson frá Klöpp.
2. kuml. “Nokkru vestar en þau bein lágu, sem nú var lýst, fann ég undirskrifaður 13. d. maím. í voru mannsbein, er svo lágu, að höfuðið sneri til útnorðurs og fótleggirnir í landsuður, með þeim umbúnaði að hellur  voru á rönd resitar til beggja hliða og hellulag ofan á..” Undir þetta ritar Jón Jónsson frá Gerðakoti.
Gerdakot-4“Heimilt virðast telja legstaði þessa með fornum kumlum, bæði vegna hnífsins (er svo virðist verið hafa) og umbúnaðar líkanna. Komlin snúa sitt á hvað og því varla gerð samtímis. Bendir það til kumlateigs, en síður að hé rhafi verið grafin lík af einhverri tilviljun. Lega líksins í 1. kumli  minnir á legu í 1. kumli á Hafurbjarnarstöðum. hellulagningin í 2. kumli er einnig eins og í barnskumlinu þar.”
Í Ingólfi 29.07.1854 má auk framangreinds sjá eftirfarandi frá útgefanda: “Viðvíkjandi beinafundi þessum hefur presturinn, sjera Sigurður að Útskálum, látið í ljósi það álit sitt, að bein þessi muni vera þeirra manna, sem árið 1551 voru drepnir af Norðlendingum í hefnd eptir Jón Arason, því svo stendur, að þeir hafi drepið alls 14 á Suðurnesjum, auk þeirra, sem þeir drápu á Kyrkjubóli; en úr dysi þeirra þar [við Hafurbjarnarstaði], segir hann, að uppblásin bein hafi verið tekin á fyrstu árum sínum og flutt að Útskálum.”

Heimildir:
-Kuml og haugfé, Kristján Eldjárn, 2. útgáfa 2000, bls. 94.
-Ingólfur 1854, Beinafundur á Suðurnesjum, bls. 131-32.
-Magnús Grímsson, Fornminjar á Reykjanesskaga, Landnám Ingólfs II, bls. 253-54.

Hvalsnes

Hvalsnes.

Efra-Sandgerði

Efra-Sandgerði er elsta íbúðarhúsið í Sandgerði.  Nýlega komu snillingarnir í Lions, þeir Gunnar og Eðvarð, upp glæsilegu skilti við innkeyrsluna að húsinu. Á skiltinu er sögð saga hússins. Sagan ætti ekki að framhjá neinum því hún er sú sama á bak og fyrir:

Efra-Sandgerði

Textinn á skiltinu við Efra-Sandgerði.

Efra-Sandgerði

Myndatexti á skiltinu við Efra-Sandgerði.

Efra-Sandgerði

Efra-Sandgerði og nágrenni (mynd Reynir Sveinsson).

Efra-Sandgerði

Efra-Sandgerði (mynd Reynir Sveinsson).

Efra-Sandgerði

Skiltið við Efra-Sandgerði – framhlíð.

Efra-Sandgerði

Skiltið við Efra-Sandgerði – bakhlið.

Efra-Sandgerði

Efra-Sandgerði.

Efra-Sandgerði

Efra-Sandgerði.

Hafurbjarnastaðir

Kristján Eldjárn ritaði tólf minjaþætti í “Stakir steinar“, sem gefin var úr árið 1956.
Einn þátturinn ber yfirskriftina “Smásaga um tvær nælur – og þrjár þó”. Í honum er m.a. lýst staðsetningu á kumlum þeim sem fundust við Hafurbjarnarstaði á Rosmhvalanesi og hafa að hluta verið til sýnis undir gleri í gólfi II. hæðar á meginsýningu Þjóðminjasafnsins frá 1. september 2004, en þá var hin nýja grunnsýning opnuð í safninu um menningu og sögu á Íslandi í 1200 ár. Greinin fjallar þó aðallega um þríblaða nælu, sem fannst á einu kumlanna.
Í bók sinni “Kuml og haugfé úr heiðnum sið á Íslandi”, bls. 94 (2000 útgáfunni), segir Kristján frá fundinum við Hafurbjarnarstaði:

Hafurbjarnastaðir

Hafurbjarnastaðir – loftmynd.

“Um þennan merka fornleifafund hef ég áður ritað rækilega (Árbók 1943-48, bls. 108 o.áfr.) og reyni því að vera mjög stuttorður hér. Kumlateigurinn var í fjörufoksandi miklum, rétt norðan við túnið á Hafurbjarnarstöðum. Sigurður B. Sívertsen, prestur á Útskálum, hermir að uppblásin bein úr kumlunum hafi verið færð í kirkjugarð þar um 1828. “Þar fannst og silfurhringur með gömlu verki líkt og á mörgum steyptum beltispörum.”
Veturinn 1868 blés kumlin en meira, og gerði þá Ólafur bóndi Sveinsson skýrslu til Forngripasafnsins um það sem í ljós kom. Síðan hafa bein fundist þarna öðru hverju, en rækilega eftirlit gerðum við Jón Steffensen á staðnum 1947.”

Þjóðminjasafn

Beinagrind í Þjóðminjasafninu – fannst við Hafurbjarnastaði.

Við leit fundust 9 kuml. Haugfé fannst aðallega í þremur þeirra. Þríblaðanælan fannst í því fyrsta. Það kuml var “rétt innan við Skagagarðinn mikla sem gengur í sjó framhjá Hafurbjarnarstöðum”.
Auk nælunnar fannst í kumlinu hringprjón, hnífur, kambur, tveir einkennilegir steinar, þrjár stórar kúskeljar og járnmolar. Sverð af S-gerð, spjót, skjaldarbóla. kambur, öxi af K-gerð, járnketill og heinbrýni er bæmi um haugfé í þriðja kumlinu. Af þessu má sjá að kona hefur verið í því fyrrnefnda, en karl í því síðarnefnda.
“Kumlateigurinn á Hafurbjarnarstöðum er með honum merkustu sem fundist hefur hér á landi, þrátt fyrir eyðilegginguna sem á honum hefur orðið af völdum náttúrunnar.”
Í “Stakir steinar” segir Kristján m.a.: Rétt hjá bænum [Hafurbjarnarstöðum] liggur hinn miklu Skagagarður, sem eitt sinn girti af skagatána og skaðinn dregur nafn af nú. Öll strandlengjan er þarna kafin ljósum skeljasandi, sem fýkur til og frá og veldur spjöllum á breiðu belti.

Þjóðminjasafn

Bein og munir í Þjóðminjasafni frá Hafurbjarnastöðum

Snemma á 19. öld eða fyrr fór fornan kumlateig að blása upp úr sandinum rétt innan við garðinn, norður af bæ á Hafurbjarnarstöðum. Héldu menn, að þarna væru fundin bein Kristján skrifara og hans fylgjara, sem Norðlendingar drápu á Kirkjubóli 1551 í hefnda skyni fyrir aftöku Jóns biskups Arasonar og sona hans. Í útsynningsveðrum veturinn 1868 ágerðist þessi uppblástur stórkostlega og beraði margar grafir…
Kumlateigurinn gæti verið ættargrafreitur Hafur-Bjarnar Molda-Gnúpssonar, sem frá er sagt í Landnámu. Hafurbjarnarstaðir eru líklega kenndir við hann. Molda-Gnúpur faðir hans nam fyrst land í Álftaveri, en settist síðar að í Grindavík.
Merkasti gripur baugfjárins er bonsnælan. Hún er í lögun sem þrjár geilsastæðar tungur, alþekkt lag á norrænum skrautnælum frá víkingaöld eða söguöld… Þríblaðanælur þekkjast hundruðum ef ekki þúsundum saman meðal norrænna forngripa frá 9. öld og þó einkum 10. öld. Augljóst er, að konur þeirra tíma hafa haft þær í hávegum og málmsmiðir drjúga atvinnu af smíði þeirra.

Hafurbjarnastaðir

Mundir frá Hafurbjarnastöðum.

Á Þjóðminjasafninu eru varðveittar níu þríblaðanælur, sem fundizt hafa hér á landi, skreyttar ýmsu flúri. Landnámskonur þær, sem nokkurs voru megandi, hafa margar hverjar orið þríblaðanælur í kyrtli sínum. Á 10. öld hafa íslenskar konur áreiðanlega lagt metnað sinn í að eignast slíka gripi, er svo mjög voru í tízku í grannlöndunum. En í lok þeirrar aldar eða um það leyti sem land kristnaðist, hefur skeið þeirraverið runnið, þær hafa ekki verið í tízku fram yfir aldamótin 1000. Allar íslenskar þríðblaðanælur mega því kallast frá 10. öld.”
Svipuð næla fannst við Hól í Útmannasveit. Lengri geta vegalengdir ekki verið millum staða hér á landi. Enn önnur fannst í uppgrefti í Hjaltlandi, sem gæti sagt nokkuð til um upprunann.

Hafurbjarnastaðir

Hafurbjarnastaðir – merki um friðlýsar minjar.

Kumlteigurinn sést enn norðan við Hafurbjarnarstaði. En lítið virðist hafa verið gert af því að leita bænahúss eða kirkju í nálægð við hann. Forvitnilegar tóftir, jarðlægar, má greina sunnan og suðaustan við hann. Einnig fornt garðlag skammt norðar og suðvestar. Áhugavert væri að skoða þessar minjar með hliðsjón af kumlteigunum fyrrum, en fjöldi þeirra benda til að ekki hafi verið um einstaka gröf eða grafir að ræða, heldur skipulegt grafsvæði – og þá væntanlega með tilheyrandi mannvirkjum. Fleiri kuml gætu verið á svæðinu en þau sem blésu upp á sínum tíma. Þau gætu varpað skærara ljósi á aldur kumlasvæðisins í heild.
Þar sem Þjóðminjasafnið telur sig mikils af njótandi Hafurbjarnarkumlanna gólfumlögðu mætti telja bæði eðlilegt og sjálfsagt að upprunalegum vettvangi þeirra væri meiri gaumur gefinn en raun ber vitni – t.d. með skipulegum rannsóknum.

Heimild:
-Kristján Eldjárn – Stakir steinar – Tólf minjaþættir, 1956, bls. 28-34.
-Kristján Eldjárn – Kuml og haugfé – úr heiðnum sið á Íslandi – 2000, bls. 94-98 og 277-78 og 366-7.

Húsfreyjan

Hallgrímshella

SG tók eftirfarandi saman um “Hallgrímshelluna”, byggt á heimildum og umfjöllun um helluna. Þar kemur m.a. fram að HPS-steinninn, sem nú er í geymslu Þjms. þarf ekki endilega að vera Hallgrímshella sú, sem um er getið í heimildum. Nafnið gæti einnig átt við um bungulaga klapparhæð, en nafnið síðan hafa færst yfir á nálægan ártalsssteininn – eða öfugt. Aðrar heimildir kveða á um að ártalssteinninn hafi verið í vörðu á Hallgrímshellu (Prestaklöpp). Spurningin er því; hvort kom á undan, eggið eða hænan.

Þórshöfn

Áletrun, HP, á klöpp við Þórshöfn.

“Í Árbók hins Ísl. Fornleifafélags árið 1903 er grein e. Brynjúlf Jónsson frá Minna-Núpi og þar segir: „Milli Básenda og Þórshafnar var mér vísað á vörðubrot, er steinn væri í með áhöggnu fangamerki Hallgríms Péturssonar og ártali. Það er og svo; fangmarkið er HP; en ártalið er 1728.“

(Jón Dan á Stafnesi segir 2005: “Hallgrímshellan” var í vörðubroti á Prestsklöpp.” Flest það sem Brynjúlfur safnaði á Reykjanesi fékk hann frá heimafólki. Allflest skoðaði hann sjálfur með eigin augum og skráði. Mest af því sem hann skráði virðist hafa verið rétt staðsett sem og rétt skráð. Brynjúlfur vandaði sig mjög, en hann skráði m.a. þjóðsögur fyrir Jón Árnason, auk þess sem hann skráði til birtingar sögur, sem hann heyrði er hann dvaldi t.d. á vertíð hjá bóndanum í Klöpp í Grindavík (Guðmundi Jónssyni) fyrir aldamótin 1900. Hvernig hann fékk ártalið 17 hundruð er ekki gott að segja. Það gæti bent til þess að hann hafi ekki séð steininn sjálfur).

Ósar

Varða við Ósa.

Eftirfarandi er í endurriti frá Örnefnastofnun Íslands. Ritað eftir segulbandsupptöku, sem Guðleifur Sigurjónsson tók upp á heimili Guðm. Guðm. bónda (eldri) á Bala 24. nóv. 1986, en Guðmundur var fæddur 30. okt.árið 1902 og varð ca 95 ára gamall: „Annars var slóði hér suður með sjónum, og það er hérna á leiðinni, skammt fyrir utan Þórshöfn, hérna nær. Það er svona klapparbunga, sem er kölluð Hallgrímshella, og þar liggur vegaslóði, sem að hefur verið farinn einhverntíma, en hann er kominn undir sjó. Sjórinn gengur bara orðið yfir hann núna, en það sést fyrir því. Þegar farið er niður af þessari klapparbungu, þá sést slóði, og þar er vörðubrot og það er auðséð, að þessi vegur sem var nú farinn hérna seinna sem ég man eftir, að hann liggur mikið ofar í hrauninu heldur en þetta er. Og við þetta vörðubrot sem þarna er, þegar farið er niður af þessari klapparbungu. Þar var steinn og á honum stóð H.P.S. 1628, En það er búið að taka þennan stein, en hvert hann er kominn, það get ég ekki vitað. Ég hef verið að halda spurnum fyrir um hann, en einskis orðið vís, meira að segja ekki hjá þjóðminjaverði. Hvort setuliðið hefur tekið hann?. Hann er búinn að vera þarna síðan þetta var sett á hann.“

Hallgrímshella

Hallgrímshellan.

(Í skráningu Þjóðminjasafnsins um “Hallgrímshelluna” segir m.a. “Þungur steinn aflangur sem í er klappað stöfunum HPS og beint þar fyrir aftan er klappað ártalið 1628. Steinn þessi var rétt vestan við Þórshöfn norðan Ósabotna, fast við gamla veginn. Menn hafa viljað halda, að Hallgrímur Pétursson hafi klappað þarna fangamark sitt, en hann kom ekki að Hvalsnesi fyrr en 1644 og er aðeins 14 ára árið 1628.” Gripurinn hefur númerið 1974-120 í safninu.)

(Ljóst er að margir vegslóðar lágu jafnan næst ströndinni, en sjórinn braut þá jafnan undir sig. Nýir slóðar voru því gerðir ofan strandar jafnóðum. Klapparbungan “Hallgrímshella” hefur verið fyrir ofan gamlan vegslóða, en ofan hennar hefur annar myndast. Það passar við aðstæður nú því Guðmundur á Bala fór með FERLIRsfélögum að klapparbungu neðan núverandi “Gamlavegar” þegar hann var að leita að áletrunarsteininum. Þá sást enn móta fyrir hluta að gamalli götu neðan “hellunnar”. Letursteinninn átti þá að vera á bungunni (væntanlega í vörðu). Það hafa því verið óljós nafnaskil milli bungunnar og vörðunnar (letursteinsins). Þess vegna gæti bungan alveg eins hafa dregið nafn sitt af letursteininum í vörðunni. Letursteinninn gæti einnig hafa verið í vörðu við gamla leið nær sjónum, en verið bjargað og færð ofar, yfir á holtið þar sem hún var 1974. Þá var hún ekki í neinni vörðu).

Ósar

Varða við gömlu Kaupstaðagötuna.

Næst kemur í sama viðtali við Guðmund:
„Ég var að halda að þetta gæti verið eftir Hallgrím Pétursson, því að hann átti nú leið þarna um þegar hann þjónaði Höfnunum, því að þessi Hallgrímshella hefur sennilega verið einhverskonar áningarstaður á leiðinni. Nú hann mynnist á hana hann Jón heitinn Thorarensen í bókinni Útnesjamenn. Ég veit nú ekkert meira um þetta, en ártalið passar víst ekki, því að hann hefði þá ekki átt að verna nema 14 ára. Hann var fæddur 1614. En ártalið var greinilegt á steininum 16Z8, fyrst kom 16, þá Z í staðinn fyrir 2, og svo 8. Þá erum við komnir suður í Þórshöfn, þar er ósköpin öll af allra handa nöfnum á klöppunum fyrir ofan Þórshöfn, alveg skelfing.“

Svo kemur aðeins meira um Hallgrímshelluna: „. . . Skarfurð byrjar þarna fyrir utan þessa klapparbungu sem ég sagði þér um Hallgrímshelluna, en Hallgrímshella er rétt fyrir sunnan og ofan, fyrir endann á Skarfurð þar sem hún endar, því þetta er langur kampur, Skarfurðin, hún nær alla leið undir Djúpuvík . . . “

(Þessi athugasemd um tölustafinn 2 á letursteininum á vel rétt á sér því hann líkist meira bókstafnum Z. Jón Thorarsensen gæti ruglað fólk í rýminu með skáldsögugerð sinni, en skáldsögu má aldrei taka til jafns við “skráðar heimildir” sbr. meðfylgjandi).

Hallgrímshella

Hallgrímshellan.

Í bókinni Útnesjamenn (skáldsögu) segir:„ Milli Grímvarar [Bárðarvarar, innsk.SG] og Útsala [Hvalsness, innsk. SG] er lág og hrjóstrug heiði, það er Tangaheiðin (Miðnesheiðin, innsk.SG). Hún er bungumynduð og ber hæst um miðbikið. Þar er á staðnum kúpt blágrýtishella, Hallgrímshellan. Við suðurenda hennar var djúpur, grasi gróinn bolli fyrrum, sem nú er löngu eyddur og uppblásinn.“ „ þegar þeir eru komnir að Hallgrímshellunni, heyrði sýslumaður til mannaferða nokkuð suður á heiðinni; …. “ Það var nokkuð áliðið dags, er hann lagði aftur af stað frá Útsölum. Hann fór aftur upp Tangaheiðina og stefndi til Hallgrímshellunnar. Þegar hann nálgaðist heiðarbunguna, blasti við honum mikið víðsýni. . .
Þegar Þorkell nálgaðist Hallgrímshelluna reikaði hugur hans til liðna tímans. Þar við helluna höfðu þau Ásdís bundizt heitum, og sameinuð sigruðu þau alla erfiðleika.“

(Ekki er víst að Jón Thorarensen hafi verið meðvitaður um letursteinininn og vörðuna. Einnig gæti varðan þá hafa verið fallin og letursteinninn legið einn og yfirgefinn eftir um skeið, án þess að nokkur gæfi honum gaum, umkomulaus (skáldsagnalegt)…).

Í Fornleifaskrá Miðnesheiðar eftir Ragnheiði Traustadóttur árið 2000 segir á bls. 24-25: „S-181039-40-6…
Tegund og hlutverk: Fangamark…
Heiti: „Hallgrímshella“…
Lega: 21:42:29.75—- 63:57:12.76
..Staðhættir og lýsing: Í ritgerð Brynjúlfs Jónssonar frá Minna-Núpi um Miðnesheiðina 1903 segir: „ Milli Básenda ….. og Þórshafnar …. “ Sjá tilvitnun hér ofar í skrif séra Brynjúlfs.
Svo segir Ragnheiður Traustadóttir: „Ritaðar heimildir geta ekki um heitið „Hallgrímshella“ sem menn eru teknir að kalla stein þennan. Engar vísbendingar fundust um aðrar mannvistarleifar en brýnt er að forvörður meti hvort og þá til hverra aðgerða þufi að grípa til þess að bjarga þessari áletrun frá glötun.
Hættumat: Hætta vegna veðrunar.“

Ósar

Ósar.

(Skráningin er í heild tekin með fyrirvara.
Uppgefnir GPS-punktar passa ekki – eiga sennilega að vera: 63571276 – 22422975, þ.e. 1 breytist í 2 í 21422975 (J.G. og V.G) því þá passar staðsetningin við HP-áletrunina ofan við Þórshöfn. Hitt hnitið er í Heiðinni há. Þá hafa rústir Gamla-Kirkjuvogs færst austar, eða í Djúpavog, en þar eru einnig tóftir o.fl.)

Hér koma mínar niðurstöður (S.G.), við fyrstu sýn:
a) Brynjólfur frá M-Núpi virðist fyrstur setja á prent villu varðandi letursteininn í vörðubrotinu með því að sleppa ESS-inu í skrifum sínum og hann nefnir ekki Hallgrímshelluna einu orði! Brynjólfur virðist hafa fengið fræið um Hallgríms Péturssonarletursteininn frá heimamönnum. Engin vafi er á því í mínum huga eftir lestur þessara heimilda að Hallgrímshellan er nokkur klöpp en ekki letursteinn. Nafn hennar þarf alls ekki að tengjast HPSletursteininum sem á henni var í eða við vörðubrot og við elstu þjóðleiðina (3 þjóðleiðir misgamlar eru þarna hver ofan annarrar). Enda segir Guðmundur greinilega að vörðubrotið og letursteinninn sé NEÐAN (nær sjó) Hallgrímshellunnar.

Ósar

Utan við Ósa.

(Reyndar nefndir Brynjúlfur bæði stein og vörðu, áletrun og ártal. Hann hefur varla komist hjá því því steinninn mun hafa verið þarna frá því um fyrri hlutar 17. aldar og því vel kunnur heimafólki. Brynjúlfur sleppir hins vegar ESS-inu, en hann hefur varla talið ástæðu til að gefa hellunni nafn, enda hefur hún (í vörðu) varla haft sérstakt nafn á þessum tíma (aldamótin 1900). Hann setur það sem hann telur réttast á prent, væntanlegast til að varðveitast.
Elsta þjóðleiðin er ekki til þegar Brynjúlfur er þarna, ekki heldur sú næstelsta. Sjórinn er búinn að margtaka til sín gamlar þjóðleiðir, enda má með réttu fullyrða að hann taki þarna til sín u.þ.b. 50 metra af landi á einni mannsævi (skv. upplýsingum heimamanna). Einungis frá því að elstu núlifandi menn voru ungir á þessu svæði hefur ströndin gjörbreyst, sbr. viðtöl við þá).

b) Séra Jón Thorarensen styður þetta með klöppina Hallgrímshellu margsinnis í bók sinni en nefnir ekki letursteininn.

(Séra Jón styður í rauninni ekki neitt með skáldsögu sinni því skáldsaga er eitt og nákvæm heimildarskráning annað. “Heimild” skáldsögunnar segir því í rauninni ekki neitt um sögulegar staðreyndir. Hún lýsir einungis frásagnalist og efnisumfjöllun höfundar, stundum þó með vísan til ónákvæmra staðhátta).
Ágætt dæmi um sambærilega tilfærslu á heitum er Hunangshellan. Þjóðsagan segir hana slétta grágrýtisklöpp fyrir Ósabotnum, en saga, sem um hana fjallar og landamerkjalýsing nefna vörðuna á hellunni “Hunangshellu”. Um er að ræða markavörðu, en mörk Sandgerðis (nú) og Hafna (nú) liggja einmitt um Hunangshelluna. Á henni (klöppinni) er einmitt fallin varða. Milli Hunangshellu og Hallgrímshellu eru Litla- og Stóra-Selhella, sléttir tangar við Djúpavog.

Þórshöfn

Þórshöfn.

c) Árið 1986 styður Guðm. á Bala þetta um að letursteinninn á Hallgrímshellunni, þ.e. að hann tengist séra Hallgrími og ósköp skiljanlegt því Brynjúlfur setur þetta á prent árið 1903 í virtu tímariti. Guðmundur heldur því alls ekki fram að Hallgrímshellan sé letursteinn!

(Brynjúlfur setur þetta fram með bestu vitund. Guðmundur á Bala hefur væntanlega orðið efins því búið var að fjarlægja letursteininn 12 árum fyrir viðtalið (1974)).

d) Ragnheiður Traustadóttir „finnur “ og staðsetur Hallgrímshelluna með fangamarkinu HP og nefnir að: „Ritaðar heimildir geti ekki um heitið ”Hallgrímshella”.

(Ragnheiður er einungis að vitna í Brynjúlf – aðrar heimildir virðist hún ekki hafa. Hún veit ekki að leita beri frekari heimilda í gagnasafni (viðtalasafni) Örnefnastofnunar, enda byggir hún einungis á skráðum heimildum og hafði bæði lítinn tíma til verksins og lítið fjármagn (að eigin sögn). Heimildir virðast mjög af skornum skammti á þessu svæði, sbr. framangreint, sem og reyndar heimildir um annað gamalt á Suðurnesjum. Hér á Ragnheiður sennilega við “Hallgrímshelluna við Þórshöfn, en hnitið hennar (lagfært) gefur vísbendingu um staðsetningu áletrunarinnar til kynna).

Hallgrímshella

Hallgrímshellan.

(Í rauninni segir ekkert um það að “Hallgrímshellan” og letursteinninn séu ekki eitt og hið sama. Sumar ritaðar heimildir styðja sagnir um “letursteinn í vörðu”, á klapparholti (Prestaklöpp), aðrar að “Hallgrímshellan” hafi verið klapparbunga. Hvort kom á undan; hænan eða eggið? Það er spurningin?

Þess má geta að Jón Ben á Stafnesi sagði nýlega, sem fyrr sagði, í eftirfarandi viðtali um “Hallgrímshelluna”: “Ég man vel eftir þessari hellu. Hún var í vörðu á Prestaklöpp þar sem prestar, og þar á meðal sr. Hallgrímur Pétursson, var sagður hafa beðið sjófars yfir Ósana til að geta þjónustað Hafnafólkið.”

Heimildir m.a.:
-Árbók hins Ísl. Fornleifafélags árið 1903 er grein e. Brynjúlf Jónsson frá Minna-Núpi.
-Endurrit frá Örnefnastofnun Íslands, ritað eftir segulbandsupptöku, sem Guðleifur Sigurjónsson tók upp á heimili Guðm. Guðm. bónda (eldri) á Bala 24. nóv. 1986, en Guðmundur var fæddur 30. okt.á rið 1902.
-Fornleifaskrá Miðnesheiðar e. Ragnheiði Traustadóttur árið 2000 .
-Viðtal við Jón Ben á Stafnesi 2005.

Hallgrímshella

Hallgrímshellan í Þjóðminjasafninu.

Hvalsneskirkja

Í Alþýðublaðinu 13. október 1964 birtist eftirfarandi frétt eftir OÓ: “Fundinn er við Hvalsnesskirkju legsteinn Steinunnar dóttur Hallgríms Péturssonar. Steinn þessi hefur verið týndur í hátt á aðra öld, þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir til að hafa upp á honum.”
HvalsneskirkjaSíðan segir frá því hvernig bóndinn á Bala, Guðmundur Guðmundsson, formaður sóknarnefndar Hvalsnessóknar hafi verið að vinna við að steypa stétt upp að kirkjunni og ætlað að fjarlægja steina sem standa myndu upp úr steypunni. Byrjar hann á steini sem stóð við norð(vestur)- horn kirkjunnar og ætlar að velta honum við og nota í uppfyllingu undir steypuna. Kemur þá í ljós, að letur var á steininum, vel læsilegt. Lét hann Gísla [Guðmundson] kirkjuhaldara þegar vita af fundinum, sem við nánari athugun sá að hér var um að ræða legstein Steinunnar Hallgrímsdóttur”.
Steinn SteinunnarÍ greininni kemur fram að menn hafi vitað um tilvist þessa steins því um hann hafi verið heimildir í gömlum skrifum en þó var ekki vitað hvar hann var fyrr en hann kom upp í tengslum við kirkjubyggingu í Hvalsnesi árið 1820. Síðan hafi hann glatast á ný og hvorki Brynjólfur Jónsson frá Minna-Núpi, né Matthías Þórðarson þjóðminjavörður fundið hann þrátt fyrir ítrekaða leit í byrjun þessarar aldar. ãÁreiðanlega hafa þeir báðir gengið á honum” segir svo, “því hann er búinn að liggja á hvolfi fyrir utan kirkjudyrnar síðan hún var byggð fyrir 77 árum [1887].” Síðan heldur greinarhöfundur áfram: “Legsteinninn er gerður úr sléttri grásteinshellu sem sennilega hefur verið um 70 sm. á kant en höggvið hefur verið utan af honum svo hann félli betur í hleðsluna sem hann var notaður í. Við þessar lagfæringar skemmdist letur steinsins nokkuð, en enn er vel læsilegt:
STEINU
HALLGRIM
DOTTI
164…”
Niðurlag greinarinnar er eftirfarandi: “Talið er líklegt að séra Hallgrímur hafi sjálfur höggvið þennan stein. Hann þjónaði í Hvalsnesi í 7 ár, frá 1644 til «51, hefur Steinunn því bæði fæðst og látist þar, en hún var þriggja og hálfs árs gömul er hún dó. Var hún mjög efnilegt barn og tregaði faðir hennar hana mikið og orti eftir hana tvenn eftirmæli.”

Hvalsneskirkja

Það er þyngd steinsins og stafagerðin sem grípa mann sterkustum tökum. Er það á eins manns færi að lyfta honum?
Vegna þeirrar greinar sem hér birtist hafði ég samband við Sigurbjörn Stefánsson bónda í Nesjum í Hvalsneshverfi til þess að kanna hvort fyrir lægju upplýsingar um þyngd steinsins. Þær voru ekki haldbærar en sóknarnefndarformaðurinn, Reynir Sveinsson, bauðst til þess að ganga úr skugga um það. Hann fór síðan með baðvigtina sína til kirkju og lyfti steininum með aðstoð Bryndísar Gunnarsdóttur sóknarnefndarkonu upp á vogina. Steinninn reyndist vera 110 kg. Og þyngri var hann, áður en höggvið var af honum til þess að hann yrði þénugri sem gangstéttarhella.
Hallgrímur PéturssonÞað var víst enginn aukvisi sem valdi þessa voldugu grjóthellu og bar heim í smiðju og síðan að gröf barnsins eftir að hafa meitlað í hana nafn litlu dóttur sinnar og dánarár. STEINUNN HALLGRÍMSDÓTTIR 1649. Það er eins og heljarafl sorgarinnar hafi gert manninn tröllsterkan. Hallgrímur hefur verið um það bil 35 ára og heimildir segja að hann hafi verið stór vexti. Því má vel hugsa sér að þessi fyrrverandi járnsmíðanemi og sjómaður hafi verið rammur að afli. Gróf stafagerðin er síðan til vitnis um að þarna var ekki vanur steinsmiður að verki heldur faðir barnsins að tjá sorg sína og missi í vanmætti sínum.
Maður sér fyrir sér frumstæð verkfæri hins fátæka prests, heyrir glamur af hamri og meitli, sér tár hrökkva í grátt rykið, sér hann hagræða hellunni á gröf síns eftirlætis og yndis, og ljóðið og steinninn verða eitt, allt eins og Snorri orðaði það. Ljóðið munu margir lesendur Bautasteins kannast við. 

Steinunn

Eftirmælin, sem í raun eru tvenn og vefast saman í eitt máttugt harmljóð, dótturtorrek, eftir þessa litlu stúlku sem Hallgrímur segir með eigin orðum að hafi verið svo næm skynsöm, ljúf í lyndi.
Steinunn mín litla hvílist nú, skrifar hann til að sefa sorg sína.
Og úr ljóði Hallgríms fást þær upplýsingar að hún hafi aðeins verið þriggja og hálfs árs þegar hún dó. Hálft fjórða ár alls var ævi, eigi þó fullkomin, segir pabbi hennar.
Það er mikið haft við svo lítið barn að yrkja eftir það dýr ljóð og leggja stein á gröf þess á tímum, þegar barnadauði var daglegt brauð hinna fátæku og sneyddi ekki heldur hjá húsum hinna ríku. Það bendir til þess að Steinunn Hallgrímsdóttir hafi verið einstaklega efnilegt og heillandi barn ellegar faðir hennar óvenjulegur maður. Og auðvitað var umræddur faðir óvenjulegur maður. Og konan hans, móðir barnsins, átti að baki óvenjulega ævi. Hún hafði lent í herleiðingunni miklu til Alsír 1627 í Tyrkjaráninu svokallaða og var ein örfárra sem áttu afturkvæmt. Fundum þeirra bar saman í Kaupmannahöfn haustið 1636 og er ekki ætlunin að rekja langa sögu þeirra hér. Þó er rétt að minna á að fyrstu sjö búskaparár sín bjuggu þau við fátækt og allsleysi á Suðurnesjum þar til Hallgrímur var vígður til prests í Hvalsnesi þrítugur að aldri.

Heimild:
-Steinunn Jóhannesdóttir, rithöfundur.

Hvalsneskirkja