Tag Archive for: Suðurnesjabær

Einstæðingur

Í örnefnalýsingu fyrir Bæjarsker er getið um Einstæðing. En hvað eða hver er Einstæðingur? Löngum var vafi á hver eða hvar hann (það) væri. Sumir töldu hann vera í landi Bæjarskerja, en aðrir að hann væri í Leirunni. Hvað, sem öðru leið, Einstæðingsmelur, átti að vera þar í kring, eins og segir í fyrrnefndri skrá.
FuglavíkurleiðEinstæðingur gat verið stakur hóll eða klapparhæð á Miðnesheiðinni ofan Bæjarskerja. Þar sem Einstæðings er getið í örnefnalýsingu fyrir Bæjarsker mátti telja ólíklegt að hann væri að finna í Leirunni. Ekkert slíkt örnefni er skráð þar skv. heimildum.
Örnefnið „Einstæðingur“ er til sem stakt fjall norðan við Dyngufjöll. Samheitið gat því verið um stakan hól í heiðinni.
Lykillinn að lausninni lá hjá Sigurði Eiríkssyni í Norðurkoti í Fuglavíkurhverfi, skammt utan við Bæjarskershverfið vestan Sandgerðis. Sigurður er manna fróðastur um örnefni og minjar á svæðinu.
Einstæðingur er (var) varða á stökum hóll á Einstæðingsmel við hina gömlu Sandgerðisgötu milli SanÁðdgerðis og Grófarinnar í Keflavík. Varðan hafði bæði hafði sokkið í jarðveg og fallið um sjálfa sig í tímans rás. Hún var því nánast horfin sjónum. Einstæðingur hafði þó fyrrum verið áberandi kennileiti á gatnamótum þar sem Fuglavíkurleið kom inn á Sandgerðisgötuna skammt norðan Gotuvörðu.
Sigurður hafði áður rakið Fuglavíkurleiðina millum Fuglavíkurhverfis og Sandgerðisgötu. Síðarnefnda gatan hafði greinilega verið fjölfarin og því vel vörðuð á milli byggðalaganna. Fuglavíkurleiðin hafði einnig verið vörðuð, en flestar vörðurnar eru nú fallnar. Brotin má þó enn sjá við hana ef vel er að gáð.
Fuglavíkurleiðin liggur frá Fuglavík um tún Norðurkots, upp á lágar brúnir þar sem senn má sjá tóft hænsahúss Hóla og síðar Norðurkots. Ofar er gatan vel greinileg um móa og mela, yfir Háamel og framhjá Folaldatjörn. Að vísu þarf glögg götuauga til að fylgja henni alla leið að Einstæðing, en með gaumgæfni gæti það tekist. Síðasta spölnum að vörðunni góðu hefur nú verið spillt með efnistöku og ruslaurðun, en varðan á hólnum hefur fyrrum verið hið ágætasta leiðarljós vegfarendum um götuna – sem og 

Guðmundur

Einstæðingur er nú því varðan hefur verið endurhlaðin með reisn. Verkið vann Guðmundur Sigurbergsson, frændi (friend) Sigurðar í Norðurkoti.
Það hafði lengi verið draumur Sigurðar og Guðmundar að endurreisa Einstæðing. Fyrir skömmu lét Guðmundur verða að því. Hann tók gamla vörðubrotið upp, kannaði fótamennt og lögun þeirrar gömlu, safnaði viðbótarfóðri og lét til skarar skríða – endurhlóð vörðuna.
Ekki þarf að taka fram að hér er um einstaklega virðingarvert framtak að ræða. Endurvakið hefur verið að frumkvæði einstaklinga eitt af merkilegri kennileitum ferðalanga fyrri tíðar um Miðnesheiði, a.m.k. þeirra er leið áttu til og frá Fuglavíkurbæja. Hafa ber í huga að heiðin, þótt hvorki væri há né löng, var löngum torfær því fátt var um kennileiti. Vörðurnar gátu þá skipt sköpum. Má t.a.m. nefna að á 40 ára tímabili á 19. öld urðu 60 manns úti á heiðinni, þ.e. að jafnaði  einn og hálfur maður á ári hverju.
EinstæðingurGuðmundur Sigurbergsson, búandi í Keflavík með ábúð í Fjörukoti, hefur ásamt Sigurði hlaðið upp nokkrar vörður á svæðinu, s.s. Efri-Dauðsmannsvörðuna neðan við Draugaskörð á Sandgerðisgötunni gömlu, Gotuvörðuna við Sandgerðisgötuna ofan Einstæðings og endurbætt lykilvörðu Sandgerðisgötu neðan Einstæðings, skammt ofan við Grímsvörður. Allar eru vörðurnar nú aðdráttarafl ferðamanna og áhugafólks um gönguleiðir ofan Sandgerðis.
Auðvitað ætti ekki að þurfa frumkvæði áhugasamra einstaklinga til að endurreisa jafnmerkilegt kennileiti og Einstæðing. Sérhvert sveitarfélag, hvort sem það er á Suðurnesjum eða annars staðar á landinu, ætti að sýna þessari tegund minja a.m.k. þá virðingu sem þeim ber – þótt ekki væri fyrir annað en söguna og mikilvægis þeirra fyrrum.

Heimildir m.a.:
-Örnefnalýsing fyrir Bæjarsker.
-Sigurður Eiríksson í Norðurkoti, f.d. 08.09.1929.
-Guðmundur Sigurbergsson
.

Fuglavíkurleið

Staldrað viðð Folaldatjörn.

 

Garður

Um er að ræða 12 síðna greinargerð þar sem fjallað er um kuml eða fornmannagrafir í Garði en hún fylgdi jafnframt tillögu að fornleifarannsókn á þeim og umsókn um styrki til að standa straum af kostnaði við grunnrannsóknir.
Kuml-201Kuml eru einstakar fornleifar frá fyrstu tíð Íslandsbyggðar. Þau eru meðal helstu heimilda okkar um landnámsmennina og samfélagsgerð þeirra tíma. Oft hefur það háð kumlarannsóknum á Íslandi að þau finnast við rask eða uppblástur. Ýmist hafa þau spillst við það og/eða fornleifafræðingar verið undir tímapressu við vettvangsrannsókn vegna framkvæmda.
Reykjanesskaginn er ríkur af fornleifum og benda ýmsar sagnir, örnefni og ekki síst hleðslur eða þústir til heiðinna grafa. Þó hafa kuml á svæðinu ekki frekar en aðrar fornleifar notið verðskuldaðrar athygli fræðimanna til þessa. Áhugamenn um fornleifar, leikir og lærðir, hafa á undanförnum árum gengið víða um Reykjanes, safnað upplýsingum og skráð fornleifar. FERLIR, sem upphaflega var ferðahópur rannsóknarlögreglumanna, hefur lagt drjúgan skerf til þess verks. Í ferðum sínum um Garð hafa félagar í  hópnum m.a. fundið þrjá afar áhugaverða staði þar sem eru vísbendingar um kuml. Staðirnir eru 1) meint gröf landnámskonunnar Steinunnar gömlu og fornmannagröf í landi Stóra Hólms,
 fornmannagröf í Garði, landi „Bræðraborgar“, og  letursteinn, auk 3) fornmannagrafar í Kistugerði á Rafnkelsstöðum.
Fornleifar hafa ekki fundist á Rafnkelsstöðum sem gefa til kynna að þar sé um kuml að ræða, þótt þjóðsagan segi frá fornmannagröf og að í henni sé gullkista. Verður því ekki frekar um Rafnkelsstaði fjallað hér. Aftur á móti er að finna fornleifar á Stóra Hólmi og í landi Bræðraborgar, sem skýrsluhöfundar hafa sérstakan áhuga á að kanna með fornleifarannsókn hvort séu kuml eða önnur mannvirki. Í landi Bræðraborgar er líka að finna leturstein sem stendur rétt við ætlaðan haug og  hefur hann aldrei verið rannsakaður; Þórgunnur Snædal rúnasérfræðingur hefur lýst sig reiðubúna að rannsaka áletrunina á steininum.
Í greinargerðinni er fjallað um hvern fr
amangreindra staða fyrir sig og gerð grein fyrir markmiðum með fyrirhugaðri rannsókn.

Garður

Garður.

 

 

Sigurður K. Eiríksson, bóndi í Norðurkoti í Fuglavíkurhverfi utan við Sandgerði á utanverðum Reykjanesskaganum, er á níræðisaldri. Honum er ýmislegt til lista lagt.
Siggi-2Auk þess að verja æðarvarpið fyrir varginum með nýstárlegum aðferðum hefur hann m.a. dundað sér við að tálga eftirmyndir af fuglum í smækkaðri mynd. Þó hafa a.m.k. tvö verka hans fengið að njóta stærðarinnar, en það eru geirfuglar, sem hann hefur unnið nokkuð nákvæmar eftirmyndir af. Hafði hann m.a. geirfuglseintakið fræga á Náttúrufræðisafninu sem fyrirmynd.
„Fuglar náttúrunnar hafa verið mér hugleiknir, allt frá því að ég  var barn“, sagði Sigurður þegar hann var spurður um þennan áhuga á fuglum, „geirfuglinn sem mennirnir náðu reyndar að gera aldauðan hér ekki langt undan, er einn af þeim. Geirfuglinn er nú minnisvarði um hvernig á ekki að standa að verki þegar náttúran og lifandi verur eru annars vegar“.

Siggi-3

Þegar Sigurður var spurður að því hvernig honum litist á að sýna fuglana svaraði hann: „Æi, verður þetta þá bara ekki eins og vitlausa umfjöllunin um hina geirfuglana tvo, listaverkin úti á Reykjanesi og úti við Skildingarnes. En hvernig er svo sem hægt að gera eftirmyndir af fugli öðruvísi en hann er, eða var í þessu tilviki?“
Sigurður er jafnvígur á tré og járn svo það er fátt sem hann getur ekki búið til. Ef fólk á erindi um Stafnesveginn milli Sandgerðis og Ósabotna er tilvalið að sækja Sigurð heim og fá að skoða fuglana sem og hið áhugaverða umhverfi sem þar er að finna.

Sigurður Eiríksson

Sigurður Eiríksson með geirfuglana.

 

Leiran

Gengið var um Leiruna.
Leiran, milli Keflavíkur og Garðs, er einkar áhugaverð fyrir margra hluta sakir. Fyrst má nefna að Brunnurflest kennileiti fyrrum búsetu útsvegsbændasamfélags eitt þúsund ára hefur verið svo að segja þurrkað út með þegjandi sam-komulagi athafnamanna, þ.e. golfvallagerð, þrátt fyrir fjölmargar undirliggjandi búsetuminjar sem og örnefni á svæðinu kveði á um annað.
Nefna má að Leiran fóstraði og brauðfæddi eitt fjölmennasta mannsamfélag á Suðurnesju um tíma og eiga margt manna og kvenna uppruna sinn þangað að rekja.

Rosmhvalaneshreppur var væntanlega til frá upphafi hreppaskipunar við lögtöku tíundarlaga 1097, þar til farið var að breyta skipun og mörkum þessara sveitarfélaga á ofanverðri 19. öld. Rosmhvalaneshreppur átti Njarðvíkurjarðirnar, en missti þær úr sínu umdæmi 1596. Hreppurinn náði yfir allan ytri hluta Reykjanesskagans og átti land að Hafnarhreppi og Grindvíkurhreppi að austan og Vatnsleysu-strandarhreppi að norðan.
HrúðurnesvörÁrið 1886 breyttist hreppaskipanin á Reykjanesskaga með þeim hætti, að hinum forna Rosmhvalaneshreppi var skipt í tvennt og nýr hreppur stofnaður. Hann hlaut nafnið Miðneshreppur og náði yfir ysta hluta skagans vestan Hafnarhrepps. Innri hlutinn náði yfir Keflavík, Leiru og Garðinn, að mörkum Útskála og Kirkjubólshverfis og hélt sínu forna nafni. Þegar Miðneshreppur hlaut kaupstaðaréttindi 3. desember 1990 var hann nefndur Sandgerði.
Keflavíkurkauptún komst fljótt í landþröng, enda Keflavíkurjörðin afar smá og var þá brugðið á það ráð árið 1891 að löggilda hluta af landi Njarðvíkurhrepps sem verslunarlóð Keflavíkurkauptúns og eftir það var kauptúnið í raun í tveimur hreppum.
MelbærÞann 15. júní 1908 var sýslumanninum í Gullbringu- og Kjósarsýslu sent bréf frá stjórnarráði Íslands um breytingu á takmörkum Rosmhvalaneshrepps og Njarðvíkurhrepps. Í því kom m.a.. fram, að Njarðvíkurhreppur ásamt landi jarðarinnar Keflavíkur skuli vera hreppur útaf fyrir sig, er nefnast ætti Keflavíkurhreppur og Rosmhvalaneshreppur að fráskilinni jörðinni og kauptúninu Keflavík skuli vera sjálfstæður hreppur og heita Gerðahreppur.
Takmörk hins nýja Keflavíkurhrepps voru þáverandi takmörk Njarðvíkurhrepps og gagnvart Gerðahreppi, landamerki jarðarinnar Keflavíkur. Hélst friður um þau mörk í nærfellt 6 áratugi eða þar til 14. maí 1966, að samþykkt voru lög frá Alþingi, þar sem hreppamörk Gerðahrepps og Keflavíkur voru færð til norðurs og dregin frá Hólmbergsvita í háspennulínu ofan þjóðvegar. Nafni Gerðahrepps var breytt í Sveitarfélagið Garð þann 27. janúar 2004.
GuðrúnarkotÞegar jarðabókin var tekin saman árið 1703 voru alls sextán jarðir í byggð í Garði og Leiru auk Útskála. Jarðirnar voru þessar: Hrúðurnes, Stórihólmur, Litlihólmur, Gufuskálar, Meiðastaðir, Ívarshús, Kothús, Varir, Brekka, Skeggjastaðir, Gauksstaðir, Gerðar, Miðhús, Lambastaðir, Rafnkelsstaðir og Krókur og að auki er getið hinna fornu Heiðarhúsa, sem stóð á heiðinni upp af Meiðastöðum og Rafnkelsstöðum, og enn má sjá leifar af. Heiðarhús varð klausturseign og síðar konungs, líkt og flestar jarðirnar á svæðinu. Síðar fór hún í eyði, en var nýtt frá nærliggjandi jörðum.
BergvíkurvörMörk Sveitafélagsins Garður liggja frá Garðskagatá um Skálareyki og um fríhöfn flug- stöðvar-byggingarinnar á Keflavíkurflugvelli. Eystri mörk liggja frá flugstöðvar-byggingunni að mörkum heiðinnar fyrir ofan Sandgerði og þaðan í vitann á Hellisgnípu. Margt norðan við þessa línu er í rauninni stórmerkilegt, ef vel er gaumgæft. Táknrænt er að kirkjugarður Keflvíkinga skuli vera á mörkunum – og rúmlega það. Hluti hans teigir sig inn fyrir mörk Garðs, en það er í raun lýsandi dæmi um mikinn og jafnan áhuga sunnanmanna á landssvæðinu þar fyrir norðan. Má nefna golfvöllinn nýjastan í því sambandi, en áður útræðið. Haga fyrir hross sín sækja Keflvíkingar og til Garðs.
BergvíkurbrunnurTöluverðar breytingar hafa síðustu áratugi átt sér stað í Garðinum. Leiran er komin í eyði og á landi landnámsjarðarinnar Stóra-Hólms er nú með betri golfvöllum landsins. Golfararnir mættu af og til staldra við af og til milli högga og íhuga um stund hina merkilegu sögu svæðisins fyrrum.

Leiran mun hafa dregið nafn sitt af leirunni með lágri ströndinni milli Hólmsbergs og Rafnkelsstaðabergs. Í dag er hún að mestu horfin, en hærri bakkar komnir í hennar stað. Bæði hefur gróið land sumstaðar náð lengra út (sbr. Leiruhólma, sem eitt sinn var útgerðarstaður), en sjór brotið það smám saman líkt og annars staðar á Suðurnesjum, og auk þess hefur bökkum, sem draga nöfn sín af einstökum bæjum næst ströndinni, verið hlaðið upp ofan hennar og tún ræktuð efra.
HólmsbergÞað er samdóma álit eldri manna að sandstrandir og leirur hafa verið á undanhaldi með ströndum Faxaflóa á síðastliðnum áratugum, enda mikill sandur verið tekinn víða til húsbygginga í langa tíð.  Í Leiru og Garði, ystu byggð Reykjanesskagans, hafa minjar, sem voru svo algengar hér áður fyrr, og þóttu bæði svo sjálfsagðar og eðlilegar, að ekki tók að minnast á þær í annálum eða sérstökum lýsingum, fengið að vera óáreittar. Einkum er þær að finna í Út-Leirunni, ofan og innan við Réttarholt sem og vestan við íþóttahúsið í Garði. Þessar minjar eru og verða dýrmætari eftir því sem tíminn líður. Líta má á þær sem verðmæti komandi kynslóða.
KortÁttir í Leiru og Garði voru jafnan einungis tvær; inn og út. Þannig var Leirunni jafnan skipt upp í Innleiru (Hólmshverfið) og Útleiru (Gufuskálahverfið) og Garði var skipt upp í Inn-Garð (Rafnkelsstaðir og Meiðastaðir) og Út-Garð (Útskálar, Miðhús og Lambastaðir með Mið-Garð eða Gerðahverfið á milli. Hefur þetta sennilega verið gert til einföldunar því ströndin liggur milli átta; norðvestur og suðaustur. Líklega hefur fólki fundist lítt ágreiningslaust að ákveða mörk áttanna (vestur og norður annars vegar og austur og suður hins vegar) hverju sinni, og því einfaldað þau til ágreiningsléttingar. Víða má sjá á letri hvernig íbúar á tilteknum svæðum hafa komið sér saman um viðurkennd viðmið á meðan aðkomufólk virtist hafa notað sín eigin. Þannig hefur á stundum komið upp misskilningur um leiðir og staðsetningar, allt eftir því hver um fjallar.

GapastokkurÞótt byggðin hafi hörfað úr Leirunni hefur byggðin í Gerðalandi á hinn bóginn vaxið ört og þar er nú myndarlegt þéttbýli. Fyrr á tímum var oft mikið fjölmenni í Garðinum þó landrými væri ekki mikið og hjáleigur margar sem fylgdu aðalbýlum. Gegnum aldirnar hefur verið mikil sjósókn frá Garðinum enda stutt á fengsæl fiskimið. Árið 1780 voru taldir 120 manns í Garði en þá voru 288 heimilisfastir í Útskálasókn.
Um aldamótin 1900 voru eftirfarandi bæir syðst í Leirunni, auk hjáleiga og tómthúsa. Innsta húsið í Inn-Leiru hét Bergvík. Bergvík var samheiti á bæjum þeim, er mynduðu hálfhring eða skeifu umhverfis geysimikinn mel innst undir Ritunýpu, sem er vestasta nýpan af fjórum á leiðinni til Keflavíkur. Býlin í Bergvík voru nefnd eftir eigendum sínum eða ábúendum, s.s. Einarskot, Brandskot eða Margrétarkot, Guðrúnarkot, Pálsbær og Bakki.
TóftFraman af var ekkert hugsað um ræktun í Bergvík, nema ef vera skyldi hjá einum bónda. Hann hafði töluvert af kindum og ræktaði stóran túnblett fyrir framan hjá sér. Setti þessi ræktun hans vinanlegan svip á umhverfið. Tóku aðrir upp eftir honum að rækta bletti hjá sér, einkum kálgarða og smá túnskákir framan við húsin. Grjótmelurinn við Bergvík hefur á seinni árum verið hagnýttur sem steypuefni í Garðinum og Keflavík. Þangað var t.d. sótt byggingarefni í Garðskagavita.

ÁlfakirkjanHólmsberg endar til norðurs í Berghólum. Hóllinn næstur Bergvíkurtúninu, beint upp af svonefndum Gónhól, var nefndur Gapastokkur. Talið er að strákar hafi farið djarflega framan í honum og sýnt það gapaskap þegar þeir voru að klifra. Huldufólkstrú lá á þessum hól. Hann er hár og klettóttur sjávarmegin og illfær. Þóttust menn oft heyra mannamál og áraglamur niðurundan hólnum, einkum að kvöld- og næturlagi. A.m.k. þrjár tóftir eru á og utan í Gapastokk. Austsuðaustur af Gapastokk er stór ílangur klettur, sem er eins og hús í laginu. Svolítill hnúður er á norðvesturenda hans. Steinn þessi var nefndur Álfakirkja. Gamalt fjárskjól er norðvestast á Berghólum, fast við gömlu götuna til Keflavíkur. Stóravör var beint niðurundan Gónhól.

GapastokkurNorður af Bergvík var Grænigarður eystri og vestari og þá Lindarbær. Vatnsbrunnurinn, fallega hlaðinn, er í Dalnum. Í leysingum fór Línlækur þar niður um. Í Dalnum var stundum þveginn þvottur. Af því dregur Línlækur nafn sitt og eftir vatnsbólinu heitir Lindarbær. Norðar með sjónum var Melbæjarbakki og norðar Melbær, steinsnar frá Bakka. Upp úr torfbænum að Melbæ var byggt timburhús, portbyggt með íbúðarlofti. Í þetta nýja hús var sett eldavél, niðurmúruð eins og þær tíðkuðust fyrst eftir að þær tóku að flytjast hingað til lands. Þóttu þær all nýstárlegar og hinir mestu kjörgripir, enda var þá strax farið að baka í þeim brauð og „bakkelsi“. Mun þetta hafa verið fyrsta „Maskínan“, sem kom í Leiruna, að sögn Þorbjargar Sigmundsdóttur, sem ólst upp frá fjögurra aldri að Efra-Hrúðurnesi í Leiru (fædd 15. okt. 1878).
Sundvarðan„Myndi þetta þó þykja þröngur kostur nú til dags og ófýsileg lífskjör, en samt er gagnlegt og lærdómsríkt fyrir nútímafólk, sem flestir hlutir eru lagðir upp í hendurnar á, að hyggja að þeim stórstígu breytingum til bættra lífskjara, sem orðið hafa á síðar aldarhelmingi (20. aldar).“
Það mikla og raunalega atvik skeði milli jóla og nýárs aldamótaárið, að eldur kom upp í Melbæ að í ofsaroki að næturlagi og brann þar allt sem brunnið gat og þar á meðal 2 kýr í fjósinu. Mannskaði varð þó ekki og bjargðist fólkið allt, fyrst og fremst fyrir dugnað húsbóndans og áræði, en við björgunarstarfið skaðbrenndist hann bæði á höndum og andliti. Dóttir hjónanna brenndist einnig mjög mikið.
Stóri-HólmurUtan og suðvestan við Melbæ var Efra- og Neðra-Hrúðurnes, sem drógu nöfn sín af hólmanum þar utan við; Hrúðurhólma. Hann var hinum megin við svokallað Hólmasund, sem var þrautalending í Leiru og mátti lenda þar í öllum áttum, nema norðanátt. Í þeirri átt gat sundið verið stórhættulegt. Á seinni huta 19. aldar fórst þar skip af Seltjarnarnesi. Formaðurinn hét Loftur frá Bollagörðum og var nýkvæntur dóttur Guðmundar frá Nesi þegar þetta gerðist. Skammt frá var Efra-Hrúðurnes. Norðvestar var Garðhús. Fyrir neðan Garðhús stóð Ráðagerði, stórt timburhús með háu risi. Það stóð næst Hrúðurnesjabæjunum. Vestar var býlið Kötluhóll. Þá kom Stóri-Hólmur.

Á göngu um Leiru var tækifærið notað til að rifja upp sögu og sjósókn í Garði (Inn- og Út-Leiru og -Garði).
Guðmundur A. Finnbogason segir frá Leirunni í Lesbók Morgunblaðsins; „Leiran slagaði eitt sinn upp í Keflavík. Hún var þyrping fátæklegra býla með ofurlitlar grasnytjar, en lífsbjörgin kom umfram allt upp úr sjónum. Nú býr þar enginn, bærinn á Stórhólmi stendur einn eftir, en þotur koma í lágflug inn yfir þessa grænu vin, þar sem Suðurnesjamenn koma nú saman í frístundum og leika golf. Leiran var á landnámsöld einn þeirra staða við sunnanverðan Faxaflóa sem Ingólfur landnámsmaður Arnarson skenkti Steinunni gömlu frænku sinni. Hún hafði átt Herlaug bróður Skalla-Gríms, sem nam land á Mýrum og hún bjó í Leiru eða sem hét Hólmur og síðar Stóri-Hólmur eða Stokkhólmur.
MyndSíðan fer engum sögum af búskap í Leiru þar til 1703, að manntal fór fram, en þá voru 4 býli í Leiru og íbúar um 51. Á Stóra-Hólmi töldust 26 til heimilis, 6 á Litla-Hólmi, 7 í Hrúðurnesi og 15 á Gufuskálum. Þrettán býli voru orðin í Leirunni árið 1801 og íbúarnir 74. Þeim hafði fækkað niður í 6 árið 1836. Eftir það færðist nýtt líf yfir plássið og býlin urðu 12 og íbúarnir 82. Árið 1870 eru Leirumenn orðnir 138 og býlin orðin 16. Árið 1950 voru aðeins 5 býli eftir í Leirunni og árið 1960 stóð Stóri-Hólmur þar einn eftir.
Leiran var á sínu blómaskeiði eitt af allra bestu fiskiþorpum við sunnanverðan Faxaflóa. Þar var róið sem víða annars staðar svo til árið um kring. Vetrarvertíðir voru þó almesti sjósóknatíminn og oftast allra besti fiskitíminn. Úr Leirunni var oft hægt að sækja til fiskar á bæði borð, þegar frá landi var komið.
SkjöldurÁ árabilinu 1631 til 1910 hafa svo vitað sé 14 skip og bátar farist er gengu úr Leirunni. Af þessum fleytum fórust 68 menn, þar af tvær konur. 23 menn fórust á þessu tímabili af Gufusskálaskipunum, 15 af Litla-Hólmsskipunum og 8 af Stóra-Hólmsskipunum, en færri af öðrum.
Innnesingar voru þeir nefndir er komu suður í Leiru í byrjun vetrarvertíðar með skipshafnir sínar til að róa þaðan.“ Ofan við Hólm eru rústir Steina, en þar vilja sumir meina að Steinunn gamla hafi búið.
Í Hauksbók Landnámu og Sturlubók Landnámu er kveðið á um að Steinunn gamla hafi fengið Rosmhvalanesið í kaup við Ingólf frænda sinn. Hún bjó í Hólmi. Herjólfur Bárðason fékk land hjá Ingólfi milli Vogs og Reykjaness og er talið að hann hafi haft bú í Gamla-Kirkjuvogi við Ósabotna utanverða. Lönd Steinunnar og Herjólfs lágu því saman við Ósabotna. Land Steinunnar náði að Hvassahrauni, en hún gaf frænda sínum Eyvindi land á milli þess og Kvíguvogsbjarga þar sem líklega hefur verið miðað við Innri-Skoru.

HorftFyrir norðan Kötluhól stóð Stór-Hólmsbaðstofan. Neðar er Stóra-Hólmshúsið. Vestan við Stóra-Hólm er bátslaga óræktarsvæði. Hleðsla hefur verið og er umhverfis og lengi vel var bletturinn girtur af. Sú sögn var um blett þennan að þar væri fornmaður grafinn og honum mætti ekki raska. Sumir segja að þar hafi Hólmkell, fornmaður, verið grafinn með haugfé sínu, en ekki er vitað til þess að gengið hafi verið úr skugga um það. Sigurður B. Sívertsen, prestur á Útskálum segir frá þessu í lýsingu Útskálaprestakalls árið 1839 að svo hafi verið mælt að á Stóra-Hólmi „hafi byggt fornmaður nokkur, sem Hólmkell hafi heitið og skal vera heygður þar í túninu.“ Ofar var annar hóll, nú sléttaður. Þar vilja kunnugir meina að hafi verið dys Steinunnar landnámskonu.
HiðTvær tóftir eru við Gapastokk. Líklegt má því telja að hann hafi gegnt veigameiru hlutverki fyrrum en hér hefur verið greint frá.
Til gamans, svona í lokin, var fróðlegt að fylgjast með atferli aðdáenda golfvallarins; hver og einn einasti hafði allan tímann „fógusinn“ á lítilli kúlu, sem hann ýmist sló frá sér að dró, en enginn virtist hafa áhuga á minjagildi svæðisins m.t.t. þess fólks er þar bjó – og dó.
Með svolítilli hugsun og nærgætni mætti svo auðveldalega sameina annars vegar nútímaáhugaefnin og tengslin við fortíðina.
Uppdráttur og staðsetning bæja og örnefna er byggður á nokkrum slíkum frá því á 20. öld sem og viðtölum við kunnuga (sjá meira síðar). Má þar nefna loftmyndaörnefni Ófeigs J. Ófeigssonar frá 1987, en hún hangir nú upp á vegg í Golfskálanum í Leiru.
Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 1 mín.
HólmsbergLeiran

Gufuskálar

Gengið var um Gufuskála á Rosmhvalanesi, milli Rafnkelsstaða og Hólms (Litla-Hólms).
Í Örnefnalýsingu yfir Gufuskála segir m.a.: „Að vestanverðu við jörðina, við land Rafnkelsstaða, eru Lindlandamerki jarðarinnar í svokallaða Grænugróf vestan til á miðju Rafnkelsstaðabergi. Úr Grænugróf í, merktan með LM [ML], stóran stein, er liggur við aukaveginn. Þaðan beina sjónhendingu i Hríshalavörðu. Þaðan sjónhending suður heiði og í svokallaðar Þrívörður. Þar endar land jarðarinnar, heiðarmegin. Úr Þrívörðum aptur sjónhending beina leið til sjáfar í miðjar Sjálfkvíar. Þaðan sjónhending fram í fjöru í merktan stóran stein í svokölluðum Þyrsklingasteinum. Þaðan í sjó fram.
Gufuskálar og afbýli þeirrar jarðar tilheyra Leirunni og voru stundum nefnd Útleira. Algengara var þó að tala um Gufuskálahverfi.
Sjálfkvíar eru bás inn í klettana, sem eru nokkuð háir þar í kring. Stundum flæddi fé í Sjálfkvíum þegar stórstreymt var.
GrunnurDálítið skarð inn í klettana, a.m.k. 100 föðmum norðan við Sjálfkvíar, er kallað Kista. Þar fellur sjór alveg í berg.
Vatnagarðar eru skammt norðan við Kistu. Eru það tvö lítil dalverpi, nokkuð breið og gengur klettahóll á milli þeirra og skiptir þeim í Ytri-Vatnagarð og Innri-Vatnagarð . Ytri-Vatnagarður gengur upp í túnið á Gufuskálum að austan.
Frá Innri-Vatnagarði miðjum liggur rif í boga til austurs og beygir að landi að klöppum vestan við Litla-Hólmsvör. Á þessu rifi, beint fram undan Sjálfkvíum, eru nokkrir stórir steinar, nefndir Þyrsklingasteinar, og er einn sínu stærstur. Steinar þessir eru alltaf upp úr á fjöru. Oft réru menn fram fyrir þyrsklingasteina og drógu þaraþyrskling, Var það kallað að róa út í Þarann. –

Brunnur

Rifið var stundum nefnt Þyrsklingasteinarif eftir Steinunum. Innan við rifið er stórt lón, Sjálfkvíalón.
Túnið er nokkuð stórt og er hlaðinn grjótgarður allt umhverfis það.
Gamli bærinn stóð aðeins austar en í miðju túni – á sama stað og bærinn stendur nú. Það er efst á háum hól, sem ýmist er nefndur Hóllinn eða Gufuskálahóll. Af honum hallar mjög norður. Hóllinn mun að mestu leyti vera forn öskuhaugur. Fjós og hlaða var sambyggt gamla bænum að vestan.
Fram á Hólnum, neðan við hlöðuna, var kálgarður, nefndur Hólgarður. Hann var vestan við brunngötuna. Annar kálagarður var framan við sjálf bæjarhúsin og þriðji kálgarðurinn var vestan við bæinn.
KastalahliðFrá bænum lá sjávargata skáhallt útávið – niður að lendingu. Steinaröð var sín hvoru megin hennar.
Brunnur var beint niður af bænum, ofan til á svonefndum Klöppum en þær náðu út að lendingunni. Áðurnefnd brunngata lá frá bæ og niður að honum. Í austanátt og brimi fylltist brunnurinn af sjó og þangi. Árið 1937 gerði Guðbjörn nýjan brunn ofan (vestan) við kálgarðinn, sem var vestan við bæinn.
Háar klappir í túninu ofan við bæinn heita Kastali. Kastalahlið var á túngarðinum ofan hans. Hér áður lá heimreiðin frá því – niður sunnan við Kastalann. Síðar lá hún yfir Kastalann og svo var í ungdæmi Guðbjörns. – Seinna gerði Guðbjörn nýja heimreið vestan Kastala. Var það bílfær vegur.
Í túni Gufuskála voru þessi kot: Vesturkot var Hausthúseinum 250 föðmum norðvestur frá bænum. Það hafði tveggja kúa gras úr túni Gufuskála. í túninu, mitt á milli Vesturkots og Gufuskála, er lítill hóll, sem heitir Lénharður.
Hausthús ft. voru tómthús u.þ.b. 60-70 föðmum austur af Vesturkoti. Hausthús fóru í eyði um 1913-14. Síðasti ábúandi þar var Einar Eyjólfsson.
Kúamói lá niður frá túngarði – vestan við Vesturkot. Tómthúsið Kóngsgerði var vestan við Kúamóa. Það var norðvestur af Hausthúsum. Dálítið gerði var í kringum kotið og þaðan var konungsútgerð á tímabili. Mun gerðið af því hafa fengið nafn sitt. Kóngsgerði fór í eyði árið 1915. Þar bjó síðast faðir Guðbjörns, Þórarinn Eyjólfsson. Túnið sunnan við bæinn á Gufuskálum var nefnt Suðurtún og Vesturtún vestan bæjar.
SteinnVörin (lendingin) er niður af Hólnum, austan til fyrir miðju túni. Inn í hana var ein renna, en hún víkkaði ofan til. Stundum voru allt upp í sjö skip í Gufuskálavör á vetrarvertíð.
Mest var útgerðin frá Gufuskálum, en einnig mikil frá Vesturkoti. Þá gerðu Innnesingar út frá Gufuskálum á vetrarvertíðum og lágu þeir þá við og héldu til á Gufuskálum.
Kóngsgerðisvör var beint niður af Kóngsgerði. Hún var fallin saman og hætt að nota hana þegar Símon og Guðbjörn mundu fyrst eftir.
Fyrir norðvestan (utan) Kóngsgerðisvör skiptast á einlægar klappir og stórgrýti. Yzt upp af þessu stórgrýti liggur túngarðurinn, hlaðinn úr grjóti. Utan hans byrjar Hrafnkelsstaðaberg. Það er jafnt og slétt alveg út í Grænugróf, en utan hennar hækkar bergið lítið eitt í landi Hrafnkelsstaða. Innan við Grænugróf er nær alls staðar hægt að komast upp og niður Grænagrófbergið, en það er um tvær mannhæðir á því svæði.
Upp af Grænugróf er Elínarstekkur, oftast nefndur Ellustekkur. Hann er u.þ.b. 10 m ofan við þjóðveginn (núverandi) út í Garð. Þar eru gróin stekkjarbrot.
Sunnan við Gufuskála, utan túns, er holt sem kallast Hádegisholt. Það nær frá merkjunum upp af Sjálfkvíum og út á móts við Innri-Vatnagarð (þ.e. ofan hans). Á því var varða og var hádegi miðað á henni.
Upp frá túni er landið flatt og hrjóstrugt, mest grjótmelar og klapparholt . Á því svæði er Vatnshóll, klapparhæð. Eru þar tvær vatnsskálar ofan í klöpp, sem rigningarvatn safnast í og var kúm brynnt í þessum skálum þegar hægt var.
Vatnshóll er suðvestur af Kastala, Hleðslaeinum 30 föðmum fyrir ofan þjóðveginn (núverandi). Sunnanvert, ofan við þetta svæði, eru löng holt, nokkuð há, sem liggja frá norðvestri til suðausturs. Þau kallast Langholt ft. Sandmelur skilur þau í sundur í Ytra-Langholt og Innra-Langholt. Innra-Langholt tilheyrir allt Innleiru. Merki munu liggja yfir melinn á milli þeirra. Vörður eru á báðum Langholtum, lítil á Ytra-Langholti, en stór og mikil á því innra. Þær eru kallaðar Langholtsvörður. Það var gömul trú, að einhverjar vættir væru í Langholtum: Illvættur í Ytra-Langholti, en hollvættur í Innra-Langholti.“ Á vesturhluta Langholts var 1793 hlaðin varða, nefnd Ranglát. Var hún merki þess hvar mætti leggja línu.
Ranglát„Þrívörður eru þrjár og sjást þær vel í suðvestur frá Ytra-Langholti.
Hríshólavarða er í stefnu vestsuðvestur frá Ellustekk og eru merki í hana eins og áður segir. Klapparhólar eru í kringum hana og stendur hún á einum slíkum. Þeir kallast Hríshólar. – Gamlar götur út í Garð lágu neðan við Langholt og Hríshólavörðu. Götur þessar voru nefndar Efrivegur. Hrafnkelsstaðaberg var í framburði Hrakkelsstaðaberg. Það er einnig nefnt Rafnkelsstaðaberg, en það mun yngra.“
Við Gufuskála er vatnsstæði á Kastala og falleg lind með hleðslum í norðan þess. Áletrunin við Grænugróf er ML. Í grófinni er gömul hringlaga hleðsla, líklega brunnur. Gæti líka hafa verið refagildra.
GufuskálarNafnið er talið vera komið frá landnámsmanninum Katli Gufu Örlygssyni, en hann og menn hans munu hafa sest að á Gufuskálum, en þurftu að hverfa þaðan vegna ósættis við landeigandann, Steinunni gömlu. Í Egils-sögu segir: „Ketill gufa kom til Íslands þá er land var mjög byggt. Hann var hinn fyrsta vetur að Gufuskálum á Rosmhvalanesi. Ketill hafði komið vestan um haf af Írlandi. Hann hafði með sér þræla marga írska. Lönd voru öll byggð á Rosmhvalanesi þann tíma. Réðst Ketill því þaðan í brott og inn á Nes og sat annan vetur á Gufunesi og fékk þar engan ráðstafa…“
Talsverð ummerki eru enn eftir konungsútgerðina í og við Kóngsgerðið. Þar hefur t.d. verið hlaðinn kjallari undir timburhús, hlaðinn niðurgengdur brunnur við hliðina og gerði allt umleikis.
„Verslunarhafar voru af þrenns konar tagi: Einstakir kaupmenn, verslunarfélög og ríkisverslun (konungsverslun). Framan af var einungis um að ræða verslun einstakra kaupmanna eða verslunarfélaga. En árið 1759 hófst konungsverslun sem stóð í fimm ár. Tók þá, árið 1764, aftur við félagaverslun, er Almenna verslunarfélagið tók að sér verslunina og hafði hana til 1774. Eftir það var óslitið konungsverslun fram til 1787 er einokunarverslunin var lögð niður.“ En konungsverslunni fylgdi einnig „konungsútgerð“.
KóngsgerðiÁ Stafnesi var t.d. ein mesta konungsútgerð á Miðnesi frá því fyrir 16. öld og fram um miðja 18. öld. Árið 1548 eru í skilagrein Kristjáns skrifara talin upp á staðnum fimm skip í eigu konungs; einn tólfæringur, tveir teinæringar og tveir áttæringar, en með tímanum minnkuðu skipin og undir lokin voru tvíæringar orðnir algengastir á Miðnesi. Auk konungs gerðu útvegsbændur báta sína út frá Stafnesi, eins og kauphöfninni Básendum lítt sunnan við.
Í Másbúðarhólma voru mikilvægar bækistöðvar konungsútgerðarinnar og eru þar enn miklar verminjar. Í Njarðvíkum var Konungsútgerð þar fram til 1769.
Um 1550-1760 var konungsútgerð á Básendum, en hún var bæði í Vestmannaeyjum og á Suðurnesjum. Ástæðan var mikil fiskimið út frá þessum landssvæðum. Konungsútgerðin var mikil tekjulind fyrir krúnuna. Aðallega var stunduð skreiðarverkun. Þegar útgerðin lagðist af seldu Danir skip sín. Dreifðust þau um Vesturlandið; flest fóru þó til Keflavíkur, Njarðvíkur og Hafnarfjarðar. Má segja að íslensk þilskipaútgerð hafi komið í staðinn fyrir konungsútgerðina.
FjárborginSigurður B. Sívertssen, prestur, bjó á Gufuskálum 1833, en tók við Útskálum af föður sínum 1. mars 1837.
Ofan við Sjálfkvíar fann FERLIR hringlaga fjárborg. Norðar er Hádegisholt. Varða er nyrst á holtinu, eyktarmark frá Gufuskálum. Utan garðs að sunnanverðu er ferningslaga tóft.
Þegar Lénharður var skoðaður kom í ljós forn gróin tóft, sennilega skáli. Þar gæti hafa verið viststaður Ketils gufu og manna hans þá er þeir dvöldu veturlangt að Gufuskálum. Lind er skammt neðan við hólinn að vestanverðu. Hún kemur undan lágum klöppur og er lindin hlaðinn að hluta. Dýptin er um 1 m.
Tóftir Vesturkots eru miklar. Bæði eru tóftir gamla bæjarins heillegar sem og hlaðinn grunn undir timburhús, sem þar hefur staðið við garðinn og heimreiðina. Garður liggur síðan á ská niður að sjávargarði. Í honum var tómthúsið Hausthús, sem enn sjást tóftir af.
Ofar er svo Kóngsgerðið.
Ofan við Gufuskálavör má sjá hringlaga hleðslu þar sem togspilið var staðsett. Skammt austar eru grónar tóftir sjávarhúss.
Vesturkot
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 2 mín.

Heimild:
-Örnefnalýsing fyrir Gufuskála (ÖÍ).
http://www.archives.is/index.php?node=324

Landamerkin

Skagagarður

Gengið var um ofanverðan Inn-Garð. Ætlunin var m.a. að skoða Elínarstekk (Ellustekk), tóftir Heiðarhúss, Árnaborgina og ganga um Langholtin að Prestsvörðunni ofan við Leiru.

Garður

Árnarétt.

Elínarstekkur er rétt ofan við Garðveg skammt innan við Garð. Skúli Magnússon segir um Elínarstekkk (Ellustekk) í Faxa, október 1999:
„Skammt ofan við þjóðveginn í gegnum Leiruna er lítill grasi gróinn hóll eða þúfa, sem kölluð er Elínarstekkur (Ellustekkur). Það var að sögn heygð Elín, niðursetningur frá Gufuskálum, sem dó á dularfullan hátt á 18. öld.
Sögu þessa og staðsetningu stekksins hef ég eftir ábendingum Ólafs Sigurjónssonar frá Litla-Hólmi.
Þegar bílvegur var lagður um Leiruna, um og eftir 1920, var honum valið stæði ofan við byggðina, skammt austan við Elínarstekk. Þessi vegur var síðan breikkaður, eins og fleiri þjóðvegir á árum seinni heimstyrjaldarinnar, og náði þá uppundir stekkinn.
Það var sumarið 1787 að Elín Stefánsdóttir, blásnauður niðursetningur á Gufuskálum, fannst örend í snærisspotta í hjalli þar skammt frá bænum. Vegna deilna hennar og vinnumanns, þar á bænum, þótti dauði hennar ekki einleikinn.
Haldgóðar vísbendingar fengust þó ekki um að Elín hafi verið myrt, þrátt fyrir réttarhöld. Þess vegna var talið að hún hefði tekið líf sitt í skyndilegu æði, sem að hefði borið um nótt.
Elín var því, samkvæmt kirkju- og landslögum, heygð utan vígðrar moldar og var holað niður utan túngarðs í Leirunni, í sauðfjárstekk frá bænum á Gufuskálum.

Garður

Heiðarhús.

Láti Elínar og aðdraganda þess, svo og hulun líks hennar og frágangi þess, er lýst í Dóma- og þingbókum Gullbringusýslu. Óttuðust grafarnir að Elín gengi aftur og skáru höfuð hennar af um hálsinn, lögði líkið á grúfu, en lögðu höfuðið við þjóhnappana. Átti það að tryggja að hún lægi kyrr.
Fyrir meðferðina á líkinu hlutu mennirnir dóma og ákúrur yfirvalda. En aldrei fórum neinum sögum af ókyrrleika sem eignaður var þessari ólánsömu konu.
Heimildarmaður minn, Ólafur Sigurjónsson, kallaði stekkinn aldrei annað en Elínarstekk, en í heimildum Jóns Helgasonar í Sunnudagsblaði Tímans 9. febr. 1969, bls. 108-112, virðist hann nefndur Gufuskálastekkur og hefur það að öllum líkindum verið upprunalegt nafn hans. Eftir greftrun Elínar hefur nafn stekksins breyst en hið eldra heiti líklega fallið úr daglegu máli og gleymst.“

Langholtsvarða

Langholtsvarða.

Efri vegur liggur við Langholtin við Hríshólavörðu. Varðan sést vel ofan við Ellustekk. Gengið var upp að tóftum Heiðarhúss ofar í heiðinni. Þar móta fyrir húsum og görðum. Í Þjóðsögum Jón Árnasonar segir að; „Það er í munnmælum haft að Heiðarhús sem eru spölkorn fyrir ofan Inngarðinn hafi í fornöld verið mesti stórbær svo að þar væru þrjátíu hurðir á hjörum, en hafi aflagt fyrir reimleika sakir. Var sá draugur nefndur Heiðarhúsadraugur. Skyldi einn þar búandi maurapúki peningaauðugur hafa gengið aftur til skildinganna. Þókti þar ekki viðvært lengi fram eftir jafnvel þó þar séu tún hin beztu. Sigurður og Svanhildur kona hans bjuggu í Heiðarhúsum um 1805. Svanhildur var talin forneskjukerling. Sigurður reri þar í Garðinum sem fleiri og kom oft seint heim á kvöldin frá sjónum. Einu sinni seint um kvöld er Svanhildur sat inni, en Sigurður var ekki kominn frá sjónum, var kallað á gluggann hjá henni: „Ég vil mitt.“ Þá svaraði hún: „Taktu þitt og farð’ í burtu.“ Svo fóru leikar að þeim þókti þar svo óskemmtilegt að þau fóru þaðan.“

Garður

Hríshólavarða.

Enn ofar í heiðinni er Árnarétt, heilleg og fallega hlaðin. Hún var skilarétt. Réttina byggði Árni Þorvaldsson, sem hér var stórbóndi áður fyrr. Réttin er skemmtileg í annars kennilausalitlu landslaginu og víðast hvar mannhæðar há.
Neðar eru löng holt; Ytra-Langholt og Innra-Langholt. Innra-Langholt tilheyrir allt Innleiru. Syðst á því er mikil varða; Ranglát. Ásgeir M. Hjálmarsson í Garði sagði vörðuna hafa verið reista af opinberum aðilum, en ekki er vitað hvenær það var. Hún átti að þjóna þeim tilgangi að það var dregin lína úr henni yfir flóann í eitthvað kennileiti upp í Hvalfirði. Þetta var einskonar landhelgislína þannig að bátar úr byggðalögum fyrir sunnan hana máttu ekki fara norður fyrir hana, sama gilti fyrir báta sem voru gerðir út frá Garði, þeir máttu ekki fara suður fyrir línuna. Menn voru mjög ósáttir við þetta, því var varðan jafnan nefnd Ranglát.
Á holtunum eru vörður; Langholtsvörður. Það er gömul trú, að einhverjir vættir væru í Langholtum: Illvættur í Ytra-Langholti, en hollvættur í Innra-Langholti. Þrívörðurnar sjást vel í suðvestur frá Ytra-Langholti. Hríshólavarða er í stefnu vestsuðvestur frá Ellustekk (Elínarstekk). Hún stendur á Hríshólum. Gamlar götur út úr Garði lágu neðan við Langholt og Hríshólavörðu. Þær nefndust Efrivegur. Neðrivegur lá ofan við Leirubæina. Enn sést móta fyrir götum þessum.
Haldið var eftir Efra-vegi að Prestsvörðu ofan við Leiru. Hún var endurhlaðin ekki alls fyrir löngu. Við hana er slétt hella með áletrun.

Garður

Ellustekkur.

Í Rauðskinnu segir frá Prestsvörðunni: „Í heiðinni skammt fyrir ofan Leiru er mannhæðar há grjótvarða sem alltaf var nefnd Prestsvarða. Sagt var, að síra Sigurður Sívertsen (1808-1887), sem prestur var á Útskálum fyrrum, hafi einhverju sinni verið þarna á ferð að vetrarlagi. Kom hann úr Keflavík og ætlaði heim til sín að Útskálum. Talið var að leiðin væri tveggja tíma gangur eða meira eftir þeim vegi sem þá var farinn. En við lestagang voru allar vegalengdir miðaðar á þeim tímum. Þegar prestur kom út á móts við miðja Leiru villtist hann af leið. Fannst honum líðan sín þannig að hann treystist ekki til þess að halda áfram ferðinni. Prestur tók það ráð að leggjast fyrir og vera kyrr alla nóttina. Nokkru síðar lét síra Sigurður hlaða upp vörðu á þessum stað. Var hún ferstrend eins og margar grjótvörður. En eitt var það, sem gerði hana frábrugðna öðrum vörðum. Á hlið þeirri sem að austri snéri var allstór flöt hella sem á var höggvið sálmavers.“
Sálmaversið á hellunni er 4. Davíðs Sálmur 8. vers. („Í friði leggst ég til hvíldar og sofna, því að þú, Drottinn, lætur mig búa óhultan í náðum“).
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 2 mín.

Garður

Fornmannaleiði í Garði.

Garðsskagaviti

18. Keflavík – Garður

Í Garðinum var m.a. fylgst með Prestsvörðunni ofan við Leiru, sagð frá mannlífinu þar, Gufuskálar kynntir til sögunnar sem og Ellustekkur, komið við í Kisturgerði, bent á hinar 14 varir milli Rafnkelsstaða og Garðskaga, kíkt inn í keramikfabrikuna, fornmannleiðið barið augum og letursteinninn þar, staldrað við Skagagarðinn og minjasafnið á Garðskaga skoðað.
Í Sandgerði var m.a. saga Skagagarðsins rakin, atburðirnir að Kirkjubóli, bæði er varðaði Jón Gerekkson og Kristján skrifara í framhaldi af aftöku Jóns Arnasonar, biskups, kumlin á Hafurbjarnarstöðum kynnt, Vikivakakvöld á Flankastöðum, Efra-Sandgerði (elsta uppistandandi hús í bænum – 1883), komið við í Fræðasetrinu, einstök hús einblínd, fjallað um uppbyggingu miðbæjarins, Sandgerðisvita 1908 og viðbót ofan á hann 1944, komið við í kertagerð og keramikgalleríum, Sandgerðishverfin sjö tíunduð (Kirkjubólshverfið, Flankastaðahverfið, Sandgerðishverfið, Býjaskerjahverfið, Fuglavíkurhverfið, sagt frá skipssköðum og mannfórnum til sjós, Hvalsneshverfið og Stafneshverfið), komið við í Hvalsneskirkju og saga kirkjunnar rakin, haldið að Stafnesi og saga þess sögð ásamt lýsingum á umhverfi Básenda, Gálga, Þórshafnar og Ósabotna. Þá var sagt frá Hvalsnesgötunni til Keflavíkur, villum fólks á Miðnesheiðinni og helstu mannvirkjum á henni, svo eittvað sé nefnt.

Saga Garðs
Byggðarlag á nyrsta odda Reykjanesskagans, þó aðeins með austurströndinni sem veit inn að Faxaflóa. Garðurinn nær frá Rafnkelsstaðabergi að innanverðu og út á Skagatá þar sem vitinn stendur. Í daglegu tali er honum skipt í inn- og út-Garð en milli þeirra er Gerðahverfið. Þar er allstór þéttbýliskjarni er tók að myndast skömmu eftir síðustu aldarmót. T.d. má telja 14 varir milli Rafnkelsstaða og Garðaskaga, s.s. Kópu og Vararós.

Garðurinn er í Sveitarfélaginu Garði. Mörkin liggja frá Garðskagatá um Skálareykjar að flugstöðvarbyggingunni á Keflavíkurflugvelli. Eystri mörk liggja frá flugstöðvarbyggingunni að mörkum heiðinnar fyrir ofan Sandgerði og þaðan í vitann á Hellisgnípu. Garðurinn dregur nafn af Skagagarði.
Það var löngum mikið um manninn en árið 1703 voru alls 185 heimilisfastir í Garðinum.
Gegnum aldirnar hefur óefað verið mikið útræði í Garði enda stutt á fengsæl fiskimið. Þaðan munu venjulega hafa gengið 50-60 skip á vetrartíð en yfir 100 skip úr allri Útskálasókn þegar best lét. Margt aðkomumanna stundaði sjó úr Garðinum og komu þeir úr öllum landshlutum. Árið 1780 voru taldir 120 manns í Garði en þá voru 288 manns heimilisfastir í Útskálasókn. Á vertíðinni þetta ár voru gerðir út í skókninni 9 sexæringar, 25 fjögurra manna för og 21 tveggja manna far, alls 55 skip auk þess tveir aðkomubátar.
Hafnarskilyrði voru slæm rétt eins og í dag. Það fórust 76 manns úr Garðinum á árunum 1664-1695 í sjólslysum.
Á fyrri hluta þessarar aldar tóku opnir vélbátar að ryðja áraskipunum úr vegi. Fyrsti trillubáturinn kom í Garðinn 1922. Þegar þilfarsbátarnir komu til sögunnar minnkaði atvinnan í Garðinum því Garðmenn áttu ekki nógu stóra og góða bryggju fyrir slíka báta. Árið 1910 var Gerðahreppur fjölmennasta sveitafélgið á Suðurnesjum með 647 íbúa en minnkaði niður í 396 á fjórum áratugum.

Með bættum samgöngum tóku Garðmenn að flytja fisk af bátum sínum, sem gerðir voru út í öðrum byggðarlögum, til verkunar heima fyrir. Á kreppuárunum eftir 1930 jukust fiskflutningar í Garðinn og var hann verkaður þar til útflutnings. Alls var þurrkað á um 30 reitum þegar best lét og á árunum 1938-1939 var þurrkuð um 9 þúsund skippund af fiski í hreppum.
Þrátt fyrir þetta fækkaði fólki í Garðinum á þessu tímabili, en það var ekki fyrr en árið 1943 að fólksflóttinn stöðvaðist þegar Hraðfrystihús Gerðabátanna tók til starfa og eftir það kom hvert frystihúsið af öðru til starfa og á árunum 1950-1960 voru yfir 20 fiskverkunarstöðvar.
Rafvæðing hófs í Garðinum 1933 og var orka fyrst frá ljósavélum. Vindstöðvar urðu mjög algengar um tíma en rafmagn frá Sogsvirkjunum var leitt um Garðinn 1946. Holræsi var leitt um byggðina á árunum 1950-1960.

Gerðaskóli er einn elsti skóli á landinu en hann var stofnaður 1872 af séra Sigurði Sívertsen.
Stúkan framför var stofnuð1889 og reistu félagar hennar samkomuhúsið í Garði. Kvenfélag var stofnað í Garðinum 1917. Ungmennafélagið Garðar var stofnað 1932 en það hefur ekki verið starfandi um langa hríð. Íþróttafélagið Víðir var stofnað 1936. Verkalýðsfélagið í Garðinum var stofnað 1937. Tónlistafélag Gerðahrepps var stofnað 1979.

Garðskagaviti
Ysti hluti skagans sem gengur til norðurs af vestanverðu Reykjanesi. Viti var fyrst reistur á Garðskagatá 1897 en áður hafði verið þar leiðarmerki, varða frá 1847, með ljóskeri frá 1884. Nýr viti var byggður 1944. Gamli vitinn var notaður sem flugathugunarstöð á vegum Náttúrufræðarstofnunar Íslands á árunum 1962-1978.

Sunnudaginn 17. ágúst sl. var haldið upp á 100 ára afmæli Garðskagavita. Siglingastofnun og Gerðahreppur stóðu sameiginlega að því að bjóða almenningi að koma og skoða vitana og Byggðasafn Gerðahrepps. Gefinn var út bæklingur af þessu tilefni um vitana og í honum er einnig umfjöllun um byggðasafnið. Talið er að um 600-700 manns hafi komið þennan dag út á Garðskaga í ágætu veðri. Slysavarnarfélagskonur buðu gestum upp á kaffi og meðlæti í vitavarðarhúsinu. Aðsókn var fram úr björtustu vonum aðstandenda.

Starfsmenn Siglingastofnunar eru nýlega búnir að gera upp eldri vitann. Einnig er búið að helluleggja göngustíga á svæðinu. Svæðið er því allt til fyrirmyndar og Garðskagavita sómi sýndur á aldarafmælinu.

Útskálakirkja
Kirkjan að Útskálum var reist árið 1861 að frumkvæði sóknarprestsins síra Sigurðar B. Sívertsen (1808-1887). Árið 1907 heyrðu Hvalsnes-, Njarðvíkur- og Kirkjuvogssóknir til Útskálaprestakalls og hélst sú skipan fram til ársins 1952.
Útskálakirkja er byggð úr timbri og járnvarin. Árið 1975 var forkirkjan stækkuð og komið þar fyrir snyrtiherbergjum, geymslu og skrúðhúsi. Að innan er kirkjan máluð og skreytt af Áka Granz, málarameistara, hann skýrði jafnframt upp gamla skrautmálningu sem nær var horfin. Prédikunarstóll kirkjunnar var keyptur úr Dómkirkjunni í Reykjavík árið 1886. Altaristaflan sýnir boðun Maríu, stór mynd, gefin kirkjunni árið 1878.

Aðrir staðir áhugaverðir staðir:
-Kistugerði
-Draughóll
-Fornmannaleiði
-Gufuskálar
-Vatnagarður
-Leiran
-Prestsvarða
-Skagagarðurinn

-http://www.gerdahreppur.is

Leiran

Eftirfarandi frásögn um „Leiruna“ eftir Guðmund A. Finnbogason birtist í Lesbók Morgunblaðsins árið 1984:
leiran-332„Þegar nútímafólk ekur veginn úr Keflavík og vestur í Garð eða útá Garðskaga blasir Leiran við á hægri hönd. Hér var áður fyrr sjávarpláss með útræði og mörgum smábýlum, sem stóðu á undirlendinu, sem verður þarna. Nú er fátt til minja um þá hörðu lifsbaráttu, sem þar var lifað. Engin kot standa þar lengur; ekki heldur bátar í vörum, en þess í stað má sjá vel búna kylfinga leika kúlum sínum fram og aftur um golfvöllinn, sem Keflvíkingar hafa lagt og ræktað með miklum glæsibrag í Leirunni. Þetta er tímanna tákn. Þar fyrir er óþarft að gleymist, að í sumum af þessum lágu kotum, sem nú sést ekkert eftir af, uxu dugandi menn úr grasi: Tryggvi Ófeigsson útgerðarmaður til dæmis og bræður hans. Menn komu þangað langt að fótgangandi til sjóróðra og fátæktin var fylginautur þeirra sem kusu sér búsetu þar.
Sjaldan er logn í Leiru — og þegar hann blæs að norðan, hellast brimskaflarnir uppá klappirnar og inní vörina og sýna hvað lendingin gat verið varasöm. Um miðja síðustu öld voru meira en 100 manns, sem töldust eiga heimili í Leiru og kotin stóðu engan veginn öll á graslendinu hjá Stóra-Hólmi, heldur á víð og dreif um grýtta fláka, sem verða vestur af Leirunni og standa tóftirnar eftir. Af lífsbaráttunni þar fara litlar sögur.
Leiran var á landnámsöld einn þeirra staða við sunnanverðan Faxaflóa, sem Ingólfur landnámsmaður Arnarson skenkti Steinunni gömlu frænku sinni.
leiran-333Hún hafði átt Herlaug bróður Skalla-Gríms, sem land nam á Mýrum og hún bjó í Leiru, þar sem hét Hólmur og síðar Stóri-Hólmur eða Stokkhólmur. Síðan fer engum sógum af búskap í Leiru þar til 1703, að manntalið fór fram, en þá voru 4 býli í Leiru og íbúar samtals 51. Á Stóra-Hólmi tóldust 23 til heimilis; þar af fern hjón í húsmennsku. Á Litla-Hóimi voru 6 manns í heimili, sjö í Hrúðunesi og 15 á Gufuskálum. Í bændatali á Suðurnesjum 1735 eru skráðir 6 bændur í Leiru, en 13 býli voru þar árið 1801 og íbúarnir 74. Eitthvað hefur árferðið í Leiru ekki verið sem best á fyrriparti síðustu aldar, því býlum fór fækkandi og voru aðeins 6 eftir í byggð árið 1836. Þá brá svo við, að nýtt líf færðist í plássið; býlin urðu 12 og íbúarnir 82. Þessi býli voru í byggð: Hrúðunes (heimajörð), Melbær (tómthús), Stóri-Hólmur (heimajörð), Ráðagerði, Garðhús, Kötluhóll, Nýlenda, Bakkakot og Litli-Hólmur, er öll voru hjáleigur frá Stóra-Hólmi, Gufuskálar (heimajörð) og Vestur-Leiran, kot, hjáleiga frá Gufuskálum. Fjölmennasta heimilið var sem áður Stóri-Hólmur.
Tíu árum síðar hafði íbúum í Leirunni leiran-334fjölgað og voru þeir nú orðnir 103 og nú voru bæjarnöfnin orðin 13 og tvö þeirra ný, Krossabrekka skammt frá Nýlendu og Kóngsgerði skammt frá Gufuskálum. Næstu árin stendur íbúatalan í Leirunni næstum í stað frá því sem hún var 1845. Voru tveir búendur á sumum býlunum og enn var mannflest á Stóra-Hólmi. Árið 1855 voru Keflavíkurbúar 153 að tölu og höfðu þá 47 manns yfir Leirubúa. Upp frá því fer Keflvíkingum fækkandi en Leirubúum fjölgandi. Árið 1870 eru Keflvíkingar 130 en Leirumenn 138 og þá voru bændabýlin í Leirunni 16 að tölu frá Hólmsbergi talið út Leiruna.
Á Hólmsbergi (Leirubergi) hafa með vissu 15 manns orðið úti á tímabilinu 1785 til 1894, í allflestum tilfellum karlmenn, sem voru á ferð frá Keflavík út í Leiru eða Garð að kvöld- eða næturlagi, oft í vondum veðrum og margir undir áhrifum áfengis. Þegar ég var unglingur heyrði ég um það talað að reimt væri í Berginu og eitthvað hefur hinn landsþekkti Símon Dalaskáld vitað um draugana á Hólmsbergi, eða Leirubergi er hann nefnir svo. Bendir eftirfarandi vísa hans til þess. Þó að æði eldingar og ramskæðir smádjöflar ég mun hræðast ekki þar úti á svæði Leirunnar.
Leiran var á sínu blómaskeiði eitt af allra bestu fiskiþorpum við sunnanverðan Faxaflóa. Þaðan var róið sem víða annars staðar svo til árið um kring. Vetrarvertíðirnar voru þó almesti sjósóknartíminn og oftast allra besti fiskitíminn.
leiran-336Úr Leirunni var oft á tíðum hægt að sækja til fiskjar á bæði borð, þegar frá landi var á flot komið og þá ekki síður mátti sækja fram af landsteinunum út í Leirusjóinn, sem einatt var gjöfull þegar netafiskur gekk inn á grunnmiðin á vetrarvertíðum frá mars til maí. Eins gátu Leirumenn sótt innar í Flóann, inn á Njarðvíkurleir og Njarðvíkurbrúnir, inn undir Stapa, Voga og Strandarbrúnir. Var það helst þegar fiskur var genginn hjá í Leirusjó og lagstur þar inn á leir og brúnum. Svo var það Garðsjórinn, hinn næstum því ótæmandi aflasjóður (áður en erlendu togararnir komu), er einatt mátti leita til jafnt vetur, sumar, vor og haust. Hann hafði oftast eitthvað gott að gefa bótt misjafnt væri að magni. Voru gæðin einatt þau sömu, glæný ýsa, koli, lúða, steinbítur og svo framvegis.
Á árabilinu 1631 til 1910 hafa svo vitað sé 14 skip og bátar farist er gengu úr Leirunni. Á þessum fleytum fórust 68 menn, þar af tvær konur. 23 menn fórust á þessu tímabili af Gufuskálaskipunum, 15 af Litla-Hólmsskipunum og 8 af Stóra-Hólmsskipunum en færri af öðrum. Leirubændur og hjáleigumenn áttu nær allir árafleytur til sjósóknar — þó ekki allir vertíðarskip. Voru þeir er smærri fleyturnar áttu þá vetrarvertíðarsjómenn á stærri skipunum. Einstöku réru þó árið um kring á sínum bátum, 2—4 manna förum.
leiran-337Innnesingar voru þeir nefndir er komu suður í Leiru í byrjun vetrarvertíðar með skipshafnir sínar til að róa þaðan. Það mun hafa verið á síðustu tugum sl. aldar, að stærri útvegsskip af Álftanesi og Seltjarnarnesi fóru að heiman suður í Leiru. Þar var oft á tíðum meiri aflavon og styttra að sækja á fiskimiðin. Þessir bændur áttu sín fiskibyrgi og sumir verbúðir í Leirunni (ef verbúðir skyldi kalla). Sumir hverjir fengu inni með sig og sína skipshöfn á bæjunum þar í Leirunni. Meðal þeirra er hýstu Innnesinga á vetrarvertíð voru hjónin í Ráðagerði, þau Gísli Halldórsson og Elsa Dórothea Jónsdóttir, foreldrar hins landsþekkta hagyrðings Ísleifs Gíslasonar, kaupmanns á Sauðárkróki.
Dóróthea Gísladóttir, dóttir þeirra hjóna, sem fæddist í Ráðagerði 1886 og ólst þar upp, varð háöldruð kona, dó á miðjum tíræðisaldri, gáfuð og minnug. Hún sagði mér að þegar hún var telpa í foreldrahúsum hefði skipshöfn af Innnesjum haft viðlegu á heimili foreldra hennar í Ráðagerði. Þar svaf heimilisfólkið í baðstofu í rúmum sitt til hvorrar handar en dálítið gangpláss á milli rúmanna. Á því gangplássi- fékk aðkomuskipshöfnin svefnpláss. Ekki var um annað pláss að ræða á þeim bæ. leiran-338
Þang var látið á gólfið á milli rúmanna. Sváfu sjómennirnir á þanginu en höfðu teppi eða brekán ofan á sér. Á daginn var svo þanginu ýtt með fótunum undir rúmin — tekið svo fram að nýju á kvöldin.
Stóra-Hólmsbændur fengu oft góða hrognkelsaveiði í Hólmósnum. Þar fékkst og síld í lagnet. Allur reki undir Hólmsberginu tilheyrði Stóra-Hólmi. Var Helguvík besti rekastaðurinn. Rak þar oft mikið á stríðsárunum og lengur. Fuglatekja var og nokkur í berginu — mest svartfugl. Árið 1930 voru aðeins 5 bændabýli eftir í Leirunni í byggð, en það voru: Bakkakot, Litli-Hólmur, Stóri-Hólmur, Lindarbær og Vesturkot og íbúarnir alls ekki nema 33. Síðan fór býlunum enn fækkandi þar til eftir var orðið aðeins eitt. Var það hið forna býli Stóri-Hólmur er þar stóð enn í byggð 1960.
Síðasti bóndinn í Leirunni bjó á Stóra-Hólmi sem og hinn fyrsti. Aldir, ár og dagar voru á milli Steinunnar gömlu sem fyrst var ábúandi og Kjartans Bjarnasonar sem var þeirra síðastur og margt hafði gerst í Leirunni á því tímabili, bæði til sjós og lands og aldrei fékk hún Steinunn að fylgjast með golfmóti á heimatúninu sínu. Kjartan Bjarnason síðasti bóndinn á Stóra-Hólmi er Dýrfirðingur að ætt og er nú 86 ára að aldri. Hann og kona hans tóku við búskap á jörðinni 1936 og bjuggu góðu búi í röska tvo áratugi.
Í dag eiga tveir synir Kjartans heima á Stóra-Hólmi en hafa engan búskap þar.“

Heimild:
-Lesbók Morgunblaðsins, 22. desember 1984, bls. 33.

Stóri-Hólmur

Stóri-Hólmur.

Sandgerði

19. Garður – Sandgerði

Staðhættir
Sandgerðisvík skerst inn í vestanvert Rosmhvalanes. Víkin afmarkast að sunnan og vestan af skerjaklasa sem nefnist einu nafni Bæjarskerseyri. Landið umhverfis Sandgerði er láglendi og að austan er Miðnesheiði, víða grýtt og gróðurlítil. Minjar eftir mikinn uppblástur sjást víða, stór rofabörð, sem sýna að fyrrum var jarðvegur mun meiri í heiðinni en nú er. Nú er sauðfjárhald að mestu afnumið en landið friðað. Norðan Sandgerðis eru Flankastaðir. Þar myndaðist snemma byggðarhverfi. En með vaxandi byggð hefur Sandgerði náð þangað og er nú skammt á milli hverfa. Að sunnan liggur land Bæjarskerja að Sandgerði. Seinustu árin hefur byggðin í Sandgerði teygt sig þangað og nú eru þessi gömlu hverfi sambyggð. Sjávarströndin er lág, víða sendin og mjög skerjótt. Sandfok herjaði áður á byggðina og eyðilagði oft fisk sem breiddur var til þurrkunar. En á árunum 1930-1950 var gert stórátak í baráttunni gegn sandfokinu og það heft með melgresi. Landbrot hefur verið geysimikið á Miðnesi. Sést það á hinu mikla útfirri meðfram landinu, t.d. fram undan Kirkjubóli skammt norðan Flankastaða

Bærinn Sandgerði
Um 1935 var steyptur mikill sjóvarnargarður fyrir landi Sandgerðis. Bærinn Sandgerði (1883) stóð við litla tjörn norðan til í hverfinu sem myndaðist snemma upp af Sandgerðisvörinni. Er tjörnin kennd við bæinn og heitir Sandgerðistjörn. Á seinni hluta síðustu aldar var byggt stórt timburhús í stað gamla Sandgerðisbæjarins. Stendur húsið enn á tjarnarbakkanum. Þar bjó Sveinbjörn Þórðarson og seinna sonur hans, Einar. En þeir feðgar voru eigendur Sandgerðis.

Sandgerðisvör
Sandgerðisvör var við svokallaðan Hamar, þar sem nú er aðalgarður hafnarinnar. Til að komast inn á Sandgerðisvík þarf að fara í gegnum Hamarssund, en það er norðan við Bæjarskerseyri. Sundið er fremur þröngt og getur verið vandratað fyrir ókunnuga. Eru um 800 metrar frá mynni sundsins að höfninni sjálfri. Á tímum árabáta var sund þetta þrautarsund. Það var notað við landtöku þegar önnur sund lokuðust vegna brims og urðu ófær bátum.

Sandgerði telst ekki til stærri bæja landsins með rúml. 1.400 íbúa en margt bendir til þess að bærinn hafi samt sem áður alla burði til að verða í fremstu röð sveitarfélaga á landinu. Sandgerði er fyrst og fremst útgerðarbær og er ánægjulegt að segja frá því að stöðugt er verið að bæta hafnaraðstöðuna og búa í haginn fyrir þau útgerðarfyrirtæki sem hér starfa.

Fræðasetrið Rannsóknarstöðin NáttúrustofanÍ Sandgerði er starfrækt Botndýrarannsóknarstöðin BioIce og þar stunda virtir fræðimenn, innlendir og erlendir, botndýrarannsóknir. Náttúrustofa Reykjaness starfar þar undir sama þaki og hafa þessi fyrirtæki gefið bæjarfélaginu nýjan og ferskan blæ. Ekkert eitt verkefni hefur haft eins mikil áhrif á stöðu bæjarfélagsins út á við. Gestum sem heimsækja Fræðasetrið fjölgar stöðugt. Stórir hópar, innlendir jafnt sem erlendir heimsækja setrið árið um kring, kynna sér starfsemi þess og skoða þar m.a. uppstoppuð sjávardýr og fugla.
Undanfarin ár hefur Sandgerði tekið örum breytingum sem hafa miðað að því að gera bæjarfélagið betra og þjónustuvænna til að búa í. Má þar m.a. nefna byggingu þjónustuíbúða fyrir eldri borgara, stækkun grunnskólans og leikskólans, bætt aðstaða við sundlaugina, stækkun á anddyri íþróttahússins. Risin er ný og glæsileg verslun og mikið átak hefur verið gert í umhverfismálum. Margt fleira mætti nefna, eins og t.d. að tekin hefur verið ákvörðun um að reisa myndarlegan miðbæjarkjarna í samvinnu við Búmenn, þar sem gert er ráð fyrir ráðhúsi, íbúðum og þjónustufyrirtækjum í hjarta bæjarins til hagsbóta fyrir bæjarbúa. Sú framkvæmd mun gera bæinn fegurri og meira aðlaðandi og auðvelda íbúunum að sækja alla þjónustu.

Félagslíf æskulýðsins
Skýjaborg er félagsheimili æskulýðsins, og þar fer fram blómlegt og uppbyggjandi félagsstarf þar sem unga fólkið nýtur sín undir leiðsögn fagfólks. Mikil rækt hefur verið lögð við tónlistina og unglingarnir tekið þátt í söngvakeppnum og náð verulega góðum árangri. Einnig hefur verið kennd fatahönnun í grunnskólanum og í framhaldi af því hefur starfsfólk Skýjaborgar aðstoðað hina ungu hönnuði við að taka þátt í hönnunarsamkeppni þar sem árangur hefur einnig verið frábær.
Í tengslum við Skýjaborg er svo mjög góð útivistaraðstaða ásamt fótboltavelli þar sem fram fara heimaleikir Reynis í Sandgerði. Körfuboltinn er einnig öflugur og keppt er bæði í meistaraflokki og yngri flokkum en æfingar eru stundaðar í hinu glæsilega íþróttahúsi bæjarins.
Í sundlauginni sem tengist íþróttahúsinu stunda yngri krakkarnir sundæfingar. Búið er að lagfæra umhverfi laugarinnar og koma fyrir vaðpolli fyrir yngstu börnin. Þar hefur verið sett upp nýtt gufubað og einnig stendur til að stækka og dýpka sjálfa sundlaugina. Þegar þeim framkvæmdum er lokið verður öll aðstaða þar til fyrirmyndar.
Aðrir áhugaverðir staðir eru Ný-Vídd; listagallerí þar sem áhugafólk um listsköpun hefur vinnuaðstöðu og í sama húsi er kertaverksmiðjan Jöklaljós sem framleiðir kerti af öllum stærðum og gerðum. Loks má nefna Púlsinn, sem er nýr staður, en þar er boðið upp á nám í leiklist, jóga, leikfimi og ýmsu öðru áhugaverðu.
Ýmislegt fleira er í boði fyrir unga sem aldna, s.s. kór- og kirkjustarf, skátar, unglingadeild björgunarsveitarinnar, golfkennsla o.fl.
Eldri borgarar
Í Miðhúsum eru íbúðir eldri borgara. Þar er einnig blómlegt félagslíf við hæfi. Íbúðirnar sem eru nýjar og glæsilega voru byggðar af byggingafyrirtækinu Búmönnum. Má segja að þar sé bæði hátt til lofts og vítt til veggja og hafa íbúar þar sannarlega kunnað að búa híbýli sín á smekklegan hátt.

Bókasafn
Sandgerðisbær á myndarlegt bókasafn sem er til húsa í grunnskólanum. Þar sameinast skólabókasafnið og bæjarbókasafnið og nýtast bæði söfnin íbúum á öllum aldri.
Höfnin
Hafnarframkvæmdir hafa verið miklar og má þar nefna dýpkun innan hafnar, bygging varnargarðs og miklar fyllingar við norðurbryggju. Varanlegt slitlag hefur verið lagt á alla norðurbryggju með nýjum kanttrjám. Einnig hefur norðurbryggjan verið lengd og hafnarsvæðið verið stækkað til mikilla muna frá því sem áður var. Á hafnarsvæðinu og í tengslum við það hafa risið nokkur fyrirtæki í glæsilegum byggingum. Þar má nefna Fiskmarkað Suðurnesja, og fiskvinnslufyrirtækin Tros og Ný-fisk ásamt fleiri fyrirtækjum.

Álög
Vart er hægt að hugsa sér stórfenglegri sýn en þá sem blasir við þegar keyrt er inn í Sandgerði. Þar mætast himinn og haf og útsynningurinn lemur skerjagarðinn með brimföldum sem tóna við hið fagra listaverk Álög sem stendur við innkeyrsluna í bæinn. Verkið er eftir listakonuna Steinunni Þórarinsdóttur og þar gefur að líta þrjár rústfríar öldur sem tákna að hafið er eilíft en maðurinn sem stendur þar hjá er úr pottstáli því hann er forgengilegur. Verkið var sett upp á 100 ára afmæli Miðneshrepps 1986 til minningar um látna sjómenn.

Hunangshella
Hunangshella er löng klöpp á þjóðveginum norðan við Ósabotna. Sagan segir að eitt sinn hafi þar hreiðrað um sig finngálkn ( afkvæmi tófu og kattar) og varnað ferðamönnum vegar. Dýrið var afar styggt en loks tókst að skjóta það meðan það sleikti upp hunang sem hellt hafði verið yfir helluna.

Þórshöfn
Þórshöfn var helsti verslunarstaður Þjóðverja á 15. og 16. öld og sló þar stundum í brýnu milli þeirra og Englendinga. Með einokunarversluninni minnkaði mikilvægi Þórshafnar og lagðist hún af sem verslunarstaður. Á 19. öld hófust skipakomur þangað á nýjan leik og sóttu heimamenn það fast að hún yrði gerð að löggiltum verslunarstað en án árangurs.
Árið 1881 strandaði rétt hjá Þórshöfn enska vöruflutningaskipið Jamestown. Skipið var eitt allra stærsta seglskip sinnar tíðar, meira en 100 metra langt og 20 metra breitt og er eitt af tröllauknum akkerum þess varðveitt í Höfnum. Farmurinn var afar verðmætur því lestar skipsins voru fullar af úrvals timbri. Efra Sandgerði sem er elsta húsið í Sandgerði er byggt úr þessu timbri. Sögur segja þó að ballest skipsins hafi verið öllu verðmætari því hún hafi verið mexikóskt silfurgrýti. Ef til vill liggur því verðmætur silfursjóður á hafsbotni í Ósum.

Básendar / Gálgar
Básendar urðu verslunar- og útgerðarstaður strax á 15. öld. Framan af voru þeir í eigu Viðeyjarklausturs en eftir siðaskiptin tók konungsvaldið útgerðina í sinar hendur og máði hún hámarki að fyrstu tugum 18. aldar en um þær mundir voru konungsbátar í Gullbringusýslu milli 80 og 100 talsins. Rekstur konungsútgerðarinnar var þó ekki burðugri en svo að árið 1769 var hún lögð niður.
Enn um sinn héldu þó danskir einokunarmenn áfram að stunda verslun frá staðnum og voru margir þeirra afar illa þokkaðir. Í kvæðinu Básendapundarinn eftir Grím Thomsen segir frá útistöðum Skúla fógeta við einn slíkan. Verslun lagðist af á Básendum eftir gríðarlegt sjávarflóð aðfaranótt 9. janúar 1799, þar sem kaupmaðurinn á staðnum misti allar eigur sínar og ein kona drukknaði.

Gálgar nefnast tveir háir klettar skammt fyrir ofan gönguleiðina. Milli þeirra er nokkurra faðma breitt sund sem ævagamlar sagnir herma að sakamenn hafi verið hengdir í. EF þetta á við rök að styðjast, má gera ráð fyrir að á næstu grösum hafi verið héraðsþing til forna.

Stafnes
Stafnes var fjölmennasta verstöð Suðurnesja á 17. og 18. öld, enda var það ásamt Vestmannaeyjum miðstöð konungsútgerðarinnar. Áfram var róið af kappi frá Stafnesi fram undir miðja þessa öld, þrátt fyrir fjölmörg háskaleg sker sem grandað hafa ófáum skipum og bátum. Meðal skipa sem strönduðu var togarinn Jón forseti sem fórst þar árið 1928, en til þess slyss má rekja stofnun slysavarnardeildarinnar Sigurvonar í Sandgerði.Â

Hvalsnes
Hvalsnes hefur frá fornu fari verið kirkjustaður. Þar hafa setið ýmsir þekktir prestar en frægastur er þó vafalaust Hallgrímur Pétursson. Í kirkjunni er varðveittur legsteinn Steinunnar Hallgrímsdóttur sem talið er að skáldið haf sjálft höggvið. Núverandi kirkja var vígð árið 1887 og er einhver allra fegursta steinkirkja landsins. Fyrir byggingu hennar stóð Ketill Ketilsson hreppstjóri í Höfnum en altaristaflan er eftir Sigurð Guðmundsson málara.

Melaberg
Á Melabergi bjó samkvæmt þjóðsögunni fátæk ekkja ásamt syni sínum. Eitt sinn henti soninn það ólán að verða strandaglópur við eggjatínslu í Geirfuglaskeri og tókst ekki að bjarga honum fyrr en ári síðar. Allt var á huldu um hvað á daga mannsins hefði drifið á eyjunni, uns álfkona nokkur gaf sig fram við messu í Hvalsneskirkju og vildi kenn honum barn sitt. Maðurinn sór fyrir að vera faðir barnsins en við það féllu á hann álög huldukonunnar svo hann steyptist í hafið og breyttist í rauðhöfða illhveli. Hvalur þessi grandaði mörgum bátum, uns fjölkunnugur maður náði með göldrum að hrekja hann inn Hvalfjörð og upp í Hvalvatn, en þar hafa fundist hvalbein sem menn höfðu til sannindamerkis um söguna.
Neðan Melabergs er Lindarsandur, en þar kemur upp ferskt vatn undan klöppunum.

Másbúðarhólmi
Í Másbúðarhólma voru mikilvægar bækistöðvar konungsútgerðarinnar og eru þar enn miklar verminjar. Másbúðir voru einnig vetvangur fyrsta byssubardaga Íslandssögunnar árið 1551. Þá sóttu norðlenskir hefnendur að tveimur fylgdarsveinum Kristjáns skrifara, drápu annan en hinn slap eftir að hafa skotið einn norðanmanna á flóttanum.

Fuglavík
Fuglavík var fyrr á tímum stórt útgerðarhverfi og voru þar einkum vermenn frá öðrum landshornum. Samhliða fiskveiðunum var þar mikil sölvatekja en Íslendingar treystu um aldir mjög á söl, bæði til manneldis og sem skepnufóður.

Sandgerði
Sandgerði er með elstu höfuðbólum á Suðurnesjum. Þaðan hefur alla tíð verið stunduð mikil útgerð enda Sandgerði einhver mikilvægasta verstöð landsins, á sama tíma og dró úr mikilvægi flestra annarra verstöðva á Rosmhvalsnesi.
Árið 1990 fékk Sandgerði kaupstaðarréttindi og er með yngstu kaupstöðum landsins.

Bæjarsker
Bæjarsker er ef til vill elsta höfuðból Suðurnesja en margt bendir til þess að þar hafi búið Steinunn gamla, sem Ingólfur Arnarson gaf mestallan norðanverðan Reykjanesskaga. Væntanlega hefur Steinunn stundað útgerð af kappi, en Bæjarskerseyrin þótti lengi ein besta veiðistöð Suðurnesja. Landbrot vegna ágangs sjávar hefur þó leikið eyrina grátt og eftir ofsaflóð veturinn 1769 og síðar Básendaflóðið 1799 hnignaði útgerð þar mjög.

Flankastaðir
Að Flankastöðum voru fyrr á tímum haldnir vikivakar og jólagleði. Ýmsir kirkjunnar þjónar höfðu horn í síðu þessara dans- og gleðisamkoma sem þeir töldu ýta undir drykkjuskap og lauslæti. Voru þessar samkomur því bannaðar um 1745. Var því spáð að prestinum Árna Hallvarðssyni ætti eftir að hefnast fyrir tiltækið og gekk það eftir þegar hann drukknaði á voveiflegan hátt.

Kirkjuból
Kirkjuból var forðum þar sem nú heitir Gamlaból. Þar var áður höfðingjasetur og vetvangur sögulegra atburða. Árið 1433 gerðist það að hópur manna úr lífverði Jóns Gerrekssonar Skálholtsbiskups, undir forystu Magnúsar kæmeistara,bryta í Skálholti, brenndi bæinn til ösku. Með því vildu þeir hefna fyrir niðurlægingu Magnúsar, en heimasætan á bænum , Margrét slap þó úr eldinum ein manna og sór þess dýran eið að giftast hverjum þeim manni er kæmi fram hefndum. Sá maður reyndist vera Þorvarður Loftsson höfðingjasonur frá Möðruvöllum. Árið 1551 dró svo aftur til tíðinda að Kirkjubóli, en þá hefndu norðlenskir vermenn aftöku Jóns Arasonar Hólabiskups árið áður. Fóru þeir fjölmennu liði að umboðsmanni konungs, Kristjáni skrifara og mönnum hans,myrtu alla og svívirtu líkin. Því næst héldu þeir út á Álftanes, handsömuðu böðulinn sem tekið hafði biskupinn af lífi og neyddu hann til þess að drekka bráðið blý. Tókst danska konungsveldinu að koma lögum yfir fæsta þessara manna.

Skagagarðurinn

Skagagarðurinn forni sést enn skammt norð-austur af Kolbeinsstöðum. Garðurinn er sennilega frá 10. öld og girti nyrsta hluta Rosmhvalsness frá öðrum hlutum Reykjanesskaga. Garðurinn er aðlíðandi norðanmeginn en hár og lóðréttur til suðurs, enda hefur honum væntanlega verið ætlað að halda sauðfé frá miklum kornökrum sem voru nyrst á skaganum.

Hafurbjarnastaðir
Að Hafurbjarnarstöðum hefur verið bær allt frá landnámsöld. Þar fannst árið 1868 kumlateigur úr heiðni sem telja verður einn merkasta fornleifafund Íslandssögunnar, en dr. Kristján Eldjárn lauk rannsóknum á honum árið 1947. Í teignum voru bein sjö eða átta manna auk ýmissa gripa. Heillegasta beinagrindin er varðveitt í glerkassa á Þjóðminjasafni Íslands eins og margir munu kannast við.

-www.sandgerdi.is

Hvalsnes

Hvalsneskirkja.

Hvalsnesgata

Gengið var frá íþróttahúsi Íþróttaakademíunnar í Ytri-Njarðvík og upp að sýnilegum enda Hvalsnesvegar (-götu) ofan byggðarinnar suðaustan Ró(sa)selsvatna (-tjarna). Þar má sjá hvar hún liggur upp holtið og síðan áfram upp Miðnesheiðina. Ætlunin var að fylgja götunni alla leið að Hvalsnesi, en millum þessara staða lá aðalleiðin fyrr á öldum, eða þar til sjálfrennireiðin gerði kröfu til breyttra og betri vega skömmu eftir fyrsta áratug 20. aldar. Gatan er vörðuð að hluta. Flestar vörðurnar eru fallnar, en þó má enn sjá heilar vörður, einkum á svæðinu innan varnargirðingar Atlantshafsbandalagsins, sem reyndar hvarf á braut tveimur dögum fyrir gönguna. Um er að ræða miðhluti þessarar leiðar sem hefur verið afgirt allt frá stríðsárunum. Reyndar eru það fleira en vörður á leiðinni er geyma fyrrum mannvistarleifar, eins og koma átti betur í ljós í ferðinni.
Sigurði Eiríkssyni í Norðurkoti var sérstaklega boðið að ganga með hópum, en hann hefur ekki gengið leiðina um langan aldur, eða frá því að hún varð afgirt.
Þessi gamla þjóðleið er sérstök, bæði vegna þess að varnargirðingin hefur bjargað vörðunum (á vetrarleiðinni) frá því að verða teknar undir bryggjur eða önnur mannvirki sem og vegna þess að hún (sumarleiðin) sést enn glögglega í móunum. Fuglavíkuselið er við leiðina sem og gróin fjárborg við selið. Þetta eru mannvirki, sem gleymst hafa á tiltölulega skömmum tíma. Leiðin, sem og aðrar á Miðnesheiði, voru villugjarnar. Á þeim fórust t.a.m. 60 á 40 ára tímabili á fyrri hluta 19. aldar. Vörður (dauðsmannsvörður) eru við gömlu leiðirnar er bera þessu vitni.

Melabergsvötn

Melabergsvötn.

Gangan í gegnum nyrsta hluta varnarsvæðisins, frá suðri til norðurs, tók u.þ.b. klukkustund með stoppi í Fuglavíkuseli. Vatnshólavarðan er eitt helsta kennileitið á leiðinni, há og mikil sundvarða ofan við Stafnes. Hún er innan girðingarinnar, en nokkuð utan og norðan leiðarinnar.
Gatan liðast um heiðina og er mjög vel greinileg. Við hana eru fallnar vörður (vinstra megin). Um miðja vegu, þar sem heiðin rís hæst, er vörðuð leið svo til beint að augum, með stefnu á Hvalsnes. Vörðurnar eru heilar, sem fyrr segir, en ekki er að sjá götu á milli þeirra. Skýringin mun vera sú að vörðuleiðinni var jafnan fylgt að vetrarlagi þegar snjór huldi gömlu götuna og jafnframt jörð. Annars var gamla gatan fetuð sem leið lá.
Keflavík byggðist upp við Grófina. Upp frá henni liggja gamlar leiðir til nágrannabyggðalaganna vestan og norðan á Nesinu. Ofan við Grófina er Keflavíkurborgin vestan Garðstís og Sandgerðisgötu og Rósasel er við Rósaselsvötn, stundum nefnd Róselsvötn. Tóftirnar eru norðvestan við vötnin eru enn vel greinilegar. Við vötnin er nú að vaxa upp allnokkur skógur, en gæta þarf vara á að planta ekki nýgræðingum í tóftirnar sjálfar. Þegar FERLIR var þar á ferð fyrir nokkrum árum var duglegt fólk að planta trjám. Aðspurt um tóftir selsins kváði það við – hafði aldrei heyrt slíkt nefnt og „hafði þó plantað þarna hundruðum trjáa“. Sel vissi fólkið ekki hvað var, enda kannski skiljanlegt því það var allt fætt eftir að selstöður lögðust af á Suðurnesjum (um 1870). Þá virðast tóftirnar við vötnin hafa fallið í gleymsku, sbr. eftirfarandi um Róselsvötn og nágrenni þeirra er má finna í „Örnefni við Keflavík á Rosmhvalanesi (Suðurnesjum), [Vélritað upp úr ritinu Faxa 1967 (janúar hefti ?) af Skúla Þór Magnússyni], eftir Ragnar Guðleifsson kennara í Keflavík:

Fuglavíkursel

Fuglavíkursel.

„Róselsvötn heita einu nafni tjarnir tvær skammt ofan við Keflavíkurkaupstað, annað vatnið er innan flugvallargirðingarinnar. Þangað er nú byggðin sem óðast að teygjast. „Vötnin“ eru tjarnir kallaðar í daglegu tali manna á milli í bænum, og börn og unglingar greina á milli „Stóru-Vatna“ og „Litlu-Vatna“. Hin síðari tjörn er utan við flugvallargirðinguna og þornar hún upp í þurrkum á sumrin. Fyrri tjörnin er aftur á móti alltaf með vatni í. Nokkuð gras er á bökkum „Stóru-Vatna“ og eins vex einhvers konar vatnagróður í sjálfu vatninu. (Það skal tekið fram að þó tjarnir þessar séu aðeins tvær eru þær nefndar í fleirtölu þó ekki sé átt við nema aðra þeirra). Áður fyrr var tekinn þarna mór og hann fluttur niður í Keflavík, jafnt af konum sem körlum. Eftir því sem ég veit bezt var þar síðast grafinn mór í kolaskortinum í stríðinu 1914-18. Um nafngift vatnanna er það helzt að segja að það (Róselsvötn) felur í sér að þar hefur verið sel. Segir frá því í hinum óprentaða hluta Suðurnesjaannáls Sigurðar Sívertsens að Stóri-Hólmur í Leiru hafi haft þar í seli til forna líklega á 18. öld og fyrr. Mér vitanlega eru engar rústir sjáanlegar af kofum á staðnum en vera má að það leynist innan um þúfur og steina sem þar eru á víð og dreif. Róselsvötn eru vestur af Keflavík.“
Tóftir Rós(a)sels er norðvestan við vötnin, þrískipt. Þær falla inn í landslagið, en þó er tiltölulega auðvelt að koma auga á þau ef eftir er leitað. Líklegra má telja að nafngiftin Rósel hafi verið sú rétta, enda hefur þarna verið fremur rólegt fyrrum, andstætt því sem nú gengur og gerist í námunda alþjóðaflugvallarins á Rosmhvalanesi.
Til fróðleiks og upplýsinga um upphaf skógræktarinnar við Rósaselsvötn má geta þess að á 125. löggjafarþingi 1999–2000 fluttu nokkir þingmenn þingsályktunartillögu um Suðurnesjaskóga, landshlutabundið verkefni um landgræðslu og skógrækt á Suðurnesjum. Einn flutningsmannanna var Kristján Pálsson, núverandi framkvæmdarstjóri Ferðamálasamataka Suðurnesja. Í tillögunni segir m.a. að „Alþingi ályktar að beina því til landbúnaðarráðherra að skipa starfshóp til að undirbúa stofnun landshlutabundins verkefnis til landgræðslu og skógræktar á Suðurnesjum.“ Greinargerð fylgir. Í henni segir að „endurheimt gróðurs sem þakti Ísland við landnám er markmið sem stefnt hefur verið að síðustu áratugi. Ráðist hefur verið í mörg verkefni til að ná því og er árangur víða góður. Þekktust þeirra eru Hallormsstaðarskógur og nú á síðari árum landshlutabundin skógræktarverkefni eins og Suðurlandsskógar, Norðurlandsskógar, Vesturlandsskógar, Skjólskógar o.fl. Uppgræðsla Landgræðslu ríkisins hefur einnig verið mjög árangursrík eins og sést á Suðurlandi og víðar. Með öflugu starfi stofnana og einstakra skógræktarfélaga víðs vegar um landið hefur verið sýnt fram á að mögulegt er að græða landið og rækta skóga við mjög erfiðar aðstæður nánast hvar sem er.
Á Suðurnesjum hefur gróðureyðing verið mikil frá landnámi, sérstaklega síðustu tvöhundruð árin. Heimildir segja frá því að kotbændur á Suðurnesjum voru látnir greiða hrístoll til Bessastaða. Sú staðreynd sýnir að hrís (trjágróður) þreifst á Suðurnesjum. Vindar þar geta orðið sterkir og þar sem úthafsaldan brotnar á ströndinni verður oft sjórok sem leggur yfir stóran hluta skagans. Aðstæður af þessu tagi samfara litlu skjóli leiða til þess að uppblástur jarðvegs verður hraður og uppgræðsla erfið. Fá láglendissvæði á landinu eru jafnilla leikin og Suðurnesin, þrátt fyrir friðun síðustu ár. Gríðarleg jarðvegsrýrnun háir verulega landgræðslu og skógrækt sem gengur hægt þrátt fyrir öflugt starf Suðurnesjamanna. Mikill berangur skýrir einnig erfiðleika á þessu sviði. Aðstæðurnar kalla því á sérstakt átak.
Landsvæðið sem græða þarf upp til að ná þeirri gróðurþekju sem áður var á Suðurnesjum nemur tugum þúsunda hektara að stærð. Jafnframt yrðu ræktuð skjólbelti, kjarrgróður og nytjaskógar, allt eftir aðstæðum.
Undanfari skógræktar er landgræðsla á örfoka svæðum. Að áliti sérfræðinga eru margar tegundir vel fallnar til uppgræðslu á Suðurnesjum, t.d. gæti melgresi dugað vel á foksandinum vestast á Reykjanesi. Aðrar tegundir, svo sem beringspuntur, snarrót, túnvingull og vallarsveifgras, eru taldar duga vel á mela, með áburðargjöf.
Nokkur skógarbelti eru nú þegar á Suðurnesjum og má þar nefna helst Sólbrekkuskóg, reit við Háabjalla og Selskóg ásamt tilraunareitum við Rósaselsvötn, Voga og víðar. Mikil reynsla hefur fengist síðustu ár í skógrækt á Suðurnesjum og því er nokkuð vitað um hvaða trjátegundir duga þar best. Vestast er helst litið til ræktunar loðvíðis, alaskavíðis, jörfavíðis, tröllavíðis og sitkagrenis. Af lauftrjám kemur íslenskt birki þar helst til greina, enda mjög harðgert. Austar á skaganum koma margar tegundir til greina, einkum stafafura, blágreni og alaskaösp.
Á Suðurnesjunum einum má græða upp land sem nemur tugum þúsunda hektara. Því er augljóst að auðvelt verður að rækta upp nægjanlegt land þar til að binda kolvetni úr öllum bílum Suðurnesjamanna, um 10.000 talsins. Í loftslagssáttmálanum eru ekki settar takmarkanir á leiðir til að binda koltvísýring í lífræn efni. Landgræðsla og skógrækt gætu nýst okkur í þessum tilgangi, ef samningar um það nást, og dygðu til að binda allan koltvísýring frá bílum og bátaflota landsmanna ef vel væri á málum haldið. Að mati flutningsmanna eru slík verkefni með arðbærustu sóknarfærum sem völ er á.“
Skógræktin við Rósaselsvötn er í umsjón Skógræktarfélags Suðurnesja. Í Vatnsholti hefur félagið stundað skógrækt síðan
1948.
Trjám hafði verið plantað í gömlu götuna, annað hvort vegna þess að skógræktarfólkið vissi ekki að þetta væri gata eða vegna þess að þarna hafi verið skjól að finna fyrir litlar trjáplöntur. Þær þyrfti að færa.

Hvalsnesgatan

Hvalsnesgata ofan Reykjanesbæjar.

Hvalsnesleiðin liðast áfram áleiðis yfir Miðnesheiði. Hún fer undir veginn suðaustan við hringtorgið að Leifsstöð og liggur síðan áfram til norðurs norðan þess. Á leiðinni má sjá vörðubrot og tóft (vinstra megin). Hún er nokkuð stór, en einföld. Tóftarinnar er ekki getið í örnefnalýsingum. Hún gæti hafa verið beitarhús, en sennilegra er þó að þarna hafi verið sæluhús um skamma hríð. Staðurinn er nokkurn veginn miðja vegu milli Grófarinnar og Melabergs. Fjölmargir er ferðuðust um götuna urðu úti á leiðinni, en auk þess var þarna um „prestsstíg“ að ræða því Hallgrímur Pétursson bjó t.a.m. um stund á Bolafæti í Ytri-Njarðvík, en þjónaði í Hvalsnesi. Tóftir Bolafótar eru nú komnar undir athafnasvæði slippstöðvarinnar. Þá er ekki útilokað að „tóftin“ geti verið rask eftir kanann frá fyrstu tíð, en hann hefur rótað víðar í heiðinni.
Skammt ofar er táknrænn „minnisvarði“; hlaðið skjól refaskyttu eða herdáta við æfingar með flugstöð Leifs Eiríkssonar, hlið landsins að umheiminum, í bakgrunni.
Enn ofar er hóll, sem hlíft hefur verið á námusvæði. Vestan hans er nýlega hlaðin „gatvarða“ – falleg sem slík, eftirlíking vörðunnar við rekagötuna vestan Selatanga og gatvörðunarr á Prestshól (Prestshæð) við Prestastíg milli Hundadals og Húsatófta.
Og þá var komið að fyrstu alvarlegu hindruninni á leiðinni – varnargirðingunni….
Sótt hafði verið um leyfi til að fá að fara inn fyrir varnargirðinguna. Sýslumaður á Keflavíkurflugvelli framsendi erindið til næstráðanda. Svar barst innan stundar frá daglegum stjórnanda almennrar lögreglu á Keflavíkurflugvelli: „Sýslumaður sendi mér erindi þitt varðandi gönguna frá Reykjanesbæ til og um Hvalsnes. Ég er búinn að hafa samband við Varnarliðið og leyfið er veitt frá báðum aðilum.“ Gangan í „gegnum girðinguna“ var því farin með leyfi viðkomandi yfirvalda á varnarsvæðinu.

Rósel

Rósel við Róselsvötn.

Bandaríski sjóherinn sendi fyrstu hermennina til Íslands árið 1941 samkvæmt samningi milli ríkisstjórnar Íslands, Bretlands og BNA. Hann tók við hlutverki brezka setuliðsins, sem hernam Ísland 10. maí 1940. Auk varnarhlutverksins byggði sjóherinn Keflavíkurflugvöll sem eldsneytisflugvöll fyrir fraktflug milli BNA og Evrópu.
Að lokinni síðari heimsstyrjöldinni yfirgaf setuliðið landið í samræmi við upprunalega samninginn við íslenzk yfirvöld. Nýr samningur milli BNA og Íslands var undirritaður 1946. Hann kvað á um áframhaldandi veru herliðs bandamanna í landinu. BNA samþykktu að annast allt viðhald flugvallarins. Aðild Íslands að NATO árið 1949 var ekki bundin stofnun íslenzks hers eða veru erlends herliðs í landinu á friðartímum.
Kalda stríðið við Sovétríkin og vaxandi spenna í heiminum réðu stefnu íslenzkra ráðamanna um veru herliðsins í varnarstöðinni. Þeir komust að þeirri niðurstöðu, að aðildin að NATO væri ekki nægileg vörn fyrir landið ein og sér og að beiðni NATO sömdu þeir við BNA um að taka að sér varnir landsins. Varnarliðið var í fremstu víglínu kalda stríðsins frá upphafi til enda (1951-1989) og fékk viðurkenningu fyrir veigamikið hlutverk sitt.
Aðalhlutverk varnarliðsins er að reka og halda við flugvellinum og búnaði hans. Önnur verkefni eru mismunandi eftir ákvörðun ríkisstjórnar og herráðs BNA og yfirmanns hersins hérlendis.
Þann 22. apríl 2006 hélt Árni Björnsson erindi á nokkurs konar herkveðjuhátíð í Ránni í Keflavík. Þar sagði hann m.a.:
„Það kom fólki nokkuð í opna skjöldu, þegar bandaríski herinn kom hingað í annað sinn fyrir rúmlega hálfri öld, að hann var af opinberri hálfu ævinlega nefndur „varnarlið“. Gamli herinn hafði jafnan verið nefndur „setulið“ eða bara herinn.
Þetta var augljóslega sálræn herkænska. Það átti að innræta þjóðinni smám saman, að hér væri um varnarlið að ræða. Þess var stranglega gætt, að yfirvöld notuðu ekki annað orð, til dæmis ekki í útvarpinu. Bílar hersins voru einnig merktir VL.
Ég veit ekki til, að á því hafi verið gerð nein könnun, en ég hygg samt að sálfræðihernaðurinn hafi skilað þeim árangri, að meginhluti þjóðarinnar hafi vanist þessu orði og kveinki sér ekkert við að nota það.
Íslenskir athafnamenn, eða gróðapungar, ef við viljum vera dónaleg, þeir höfðu komist rækilega á bragðið á hernámsárunum. Aldrei áður hafði „litli athafnamaðurinn“ komist í aðrar eins kræsingar. Fjöldi þessara útsjónarsömu harkara missti drjúgan spón úr aski sínum, þegar gamli herinn fór, þótt fáeinir fengju svolitlar sporslur hjá bandaríska flugfélaginu, sem rak Keflavíkurflugvöll frá 1946. Þessar sporslur sýndu þó, hvaða framtíðarmöguleikar væru í stöðunni, ef þangað kæmi alvöru herstöð. Það var augljós og glæsileg hagnaðarvon fyrir ótalda íslenska verktaka fólgin í draumsýninni um nýja hersetu. Og þetta fólk, fólkið sem vill koma sér áfram, þetta voru upp til hópa kjósendur og stuðningsmenn Sjálfstæðisflokksins. Það væri vanmat á þessu fólki að reikna ekki með, að það hefði viðrað sjónarmið sín við einhverja þá sem áttu innangengt hjá forystu flokkanna.
Það væri þó ósannlegt að nefna einungis svonefnda athafnamenn sem þrýstihóp til að bregðast vel við málaleitunum Bandaríkjanna um herstöðvar. Atvinnuleysi varð töluvert fyrstu árin eftir að gamla herliðið fór burt, þótt það yrði aldrei neitt líkt því sem verið hafði á kreppuárunum fyrir stríð. En nú voru íslenskir verkamenn orðnir betra vanir en áður. Í hálfan áratug hafði atvinnuleysi varla þekkst. Ekkert er voðalegra en atvinnuleysi, segja þeir sem reynt hafa. Flestir vilja hafa atvinnu, hvaðan sem hún kemur.
Ég man eftir frænda mínum í vegavinnunni, sem var bóndi á veturna og vörubílstjóri á sumrin. Hann var ekki í vafa um að við ættum að fara að ráðum Jónasar frá Hriflu og láta Kanann fá land undir herstöðvar og reyna að græða á því. Þeir voru þó fáir, sem voru svona hreinskilnir. Flestum fannst þægilegra að vísa í hugsanlega árásarhættu. Því er ekki heldur að leyna, að verkalýðshreyfingin sem heild var allan tímann heldur lin í andstöðunni við herinn, þótt einstakir forystumenn gætu verið einarðir. En verkafólk var áreiðanlega með annað en árásarhættu bak við eyrað.
Stórefling verktakastarfsemi var einmitt það sem gerðist, fljótlega eftir að herinn kom. Fjöldi sjálfstæðra iðnaðarmanna, smiða, múrara, málmiðnaðarmanna og rafvirkja auk ýmissa spekúlanta bast samtökum í fyrirtæki, sem hét Sameinaðir verktakar og tóku brátt að sér margvíslegar framkvæmdir fyrir herinn. Auk þess kom að kökunni Reginn, sem var fyrirtæki á vegum Sambands íslenskra samvinnufélaga, og þar með hafði Framsókn hlotið sinn skerf. Loks kom sjálft ríkið í spilið, og úr öllu þessu urðu til Íslenskir aðalverktakar sem fengu innan skamms einkaleyfi til framkvæmda fyrir herinn.
Íslensku iðnaðarmennir í Sameinuðum verktökum höfðu fram til þessa flestir verið rétt sæmilega bjargálna, áttu kannski eigin íbúð og lítinn bíl, en ekki mikið fram yfir það. Þetta voru yfirleitt ágætis menn og höfðu alltaf verið bráðduglegir og vinnusamir. Með uppgripunum fyrir herinn urðu margir þeirra sterkefnaðir á nokkrum árum, og þeim eiginlega sjálfum að óvörum. Þeir hafa látið að sér kveða á ýmsum sviðum atvinnulífsins og ekki endilega til óþurftar. Og því má vissulega segja, að herinn hafi ekki verið hér alveg til einskis.
Það bar nokkuð mikið á Kanaútvarpinu fyrstu árin eftir að hann kom og síðan Kanasjónvarpinu um og uppúr 1960. En eftir að þeirri stöð var lokað hafa bein áhrif hersins verið hverfandi. Sá ameríkanismi, sem mikið er talað um og vissulega getur verið nokkuð yfirþyrmandi, hann er kominn eftir öðrum leiðum, og hann er raunar sá sami um allan heim. Maður finnur hann hvar sem komið er, hvort sem þar hefur verið bandarísk herseta eða ekki, jafnvel austur í Kína.
En snúum okkur aftur að orðinu „varnarlið“ og þeim breyttu tímum sem menn eru að tala um. Vissulega eru breyttir tímar, en öllum ætti samt að vera ljóst, að orðið varnarlið var ævinlega algert rangnefni, ef átt var við varnir Íslands.
Þetta er alltof langt og flókið mál til að brjóta til mergjar hér og nú. Gáið að því hvar hagsmunirnir liggja. Annars vegar hafði nefnilega það sama gerst í Bandaríkjunum og á Íslandi við stríðslokin, aðeins í þúsundfalt stærri stíl. Framleiðsla þeirra, sem höfðu skaffað hernum vopn og vistir í stríðinu, hún tók að dragast óbærilega saman. Það þurfti nýja stríðshættu til að almenningur féllist á nýja skattheimtu til hernaðaþarfa, svo að þessi risavaxna framleiðsla gæti aftur farið í gang. Og það hefði blátt áfram ekki verið hagkvæmt að ljóstra upp um hernaðarlegan vanmátt Sovétríkjanna.
Hinsvegar gat víða verið þörf fyrir bandarískar herstöðvar til að gæta raunverulegra eða bara hugsanlegra hagsmuna bandarískra fyrirtækja, sem eðli málsins samkvæmt hljóta hvarvetna að reyna að ná fótfestu. Hinir breyttu tímar felast í því að, að hagsmunir bandarískra fyrirtækja í Mið–Austurlöndum sitja nú um stundir í algjöru fyrirrúmi.
Og að lokum eitt af háðkvæðahlutum Böðvars Guðmundssonar – er lýsa kann ástandinu á Suðurnesjum við „varnarliðs“komuna:

Þess vegna er þjóðin mín sæl.
Nokkrir kotungar suður með sjó
höfðu sífellt af baslinu nóg.
Þeir bjuggu í gjótum með blöðrur á fótum
og bátarnir láku og týndist úr nótum.

Og allt var að fara til andskotans bara
og eldur í hlóðunum dó.
Þessir kotungar blésu í kaun
og þeir keifuðu vegalaus hraun,
höfðu ekkert að fela og engu að stela
og örbirgðin lagði að hjörtunum þela.

En kvöld nokkurt brá þeim því Kaninn stóð hjá þeim
og karlarnir skildu ekki baun.
Þessir kotungar suður með sjó
hafa síðan af lífsgæðum nóg.

Með gleði í taugum og glampa í augum
þeir grafa og róta í verndarans haugum.
Og hamingjudaga þeir heim til sín draga
af haugunum sokk eða skó.

Þar sem áður var lambagraslaut
er nú lífvænleg flugvélarbraut.
Þar sem stígur var tregur er steinsteypuvegur
og standardinn er ekki óbjörgulegur
því amrískir hemenn og íslenskir vermenn
eta nú samskonar graut.“

Þegar komið er upp fyrir Margvörðuholtið, undir girðinguna, beygir gatan áleiðis til vesturs. „Innan við Margvörður er Kaupmannsvarðan (vestan götunnar með bendil til austurs, aðrar vörður við vetrargötuna benda til vesturs), sem er við krossgötur rétt hjá flugvellinum.“ Þarna eru sem sagt krossgötur; annars vegar hinnar gömlu hlykkjóttu götu Hvalsnesleiðar og hins vegar annarrar vel varðaðrar götu – svo til beint að augum. Leiðirnar koma síðan saman að nýju skammt innan nyrðri girðingarinnar, ofan Melabergsvatna. Ástæðan er sú að vestari leiðin liggur í krók til vesturs, en liggur síðan á ný til norðausturs ofan vatnanna. Þar eru því önnur gatnamót. Miðsvæðis er Fuglavíkurselið, skammt austan austari (vörðuðu) leiðarinnar. Af nafngift fyrstu vörðunnar á hinni beinu vörðuðu leið yfir háheiðina að dæma mætti ætla að kaupmaðurinn, væntanlega í Keflavík, hafi látið hlaða vörðurnar til öryggis vegfarendum á hinni válegu norðurleið.
Vörðu virðist vanta í röðina norðan Kaupmannsvörðunnar. Ef vel er að gáð má sjá hvar löng flöt klöpp hefur áður verið reist þar á millum upp á endann með góðum stuðningi, en síðan lagst út af.
Hvalsnesleiðin tengist að nokkru leyti sögunni af Rauðhöfða. Í sögunni (reyndar eru til nokkrar útgáfur) um Rauðhöfða segir frá því að „í fornöld var það mjög tíðkað á Suðurnesjum að fara út í Geirfuglasker til að sækja þangað bæði fugl og egg. Þóttu þær ferðir jafnan hættulegar og varð að sæta til þeirra góðu veðri því bæði eru skerin langt undan landi og svo er líka mjög brimsamt við þau.
Einu sinni sem oftar fór skip eitt út í Geirfuglasker; geymdu sumir skips, en sumir fóru upp í skerin eftir eggjum. Ókyrrði þá sjóinn fljótt svo þeir urðu að fara burtu fyrr en þeir hefðu viljað. Komust eggjatökumennirnir með illan leik upp í skipið allir nema einn. Hann kom seinastur ofan úr skerinu því hann hafði farið lengst og hugsað að ekki mundi liggja svo mikið á. Hann var sonur og fyrirvinna ekkju nokkurrar sem bjó á Melabergi í Hvalsnessókn, og var hinn ötulasti maður og á bezta aldri (sumir nefna manninn Helga). Þegar nú maðurinn kom niður að skipinu þá var hafrótið orðið svo fjarskalegt við skerið að honum varð ekki náð út í skipið hversu mjög sem þar var leitað lags við. Urðu skipverjar að fara burtu við svo búið og töldu þeir manninn af með öllu nema hans yrði bráðlega vitjað. Héldu þeir svo í land og sögðu hvar komið var og átti nú að fara í skerin og vitja mannsins hvenær sem þar gæfist færi á. En eftir þetta varð aldrei framar komizt út í skerin um sumarið fyrir brimi og stórviðrum. Var þá hætt með öllu að hugsa til manns þessa framar eða leiða sér í hug að hann mundi nokkurn tíma sjást lifandi framar.
Nú leið og beið þangað til sumarið eftir. Þá fóru Nesjamenn á skipi út í Geirfuglasker eins og þeir voru vanir. Þegar eggjatökumennirnir komu upp í skerið urðu þeir hissa, þegar þeir sáu þar mann á gangi þar sem þeir áttu sér hér engra manna von. Maðurinn gekk til þeirra og þekktu þeir þar Melabergsmanninn sem eftir hafði orðið sumarið áður í skerinu.
Gekk það öldungis yfir þá og þóttust sjá að þetta væri ekki einleikið. Forvitnaði þá nú heldur en ekki að vita hvernig á þessu öllu stæði. En maðurinn sagði þeim óljóst frá því sem þeir spurðu, en í skerinu sagðist hann alltaf hafa verið og hefði þar ekki væst um sig. Samt bað hann á að flytja sig í land og gjörðu þeir það fúslega. Var Melabergsmaðurinn hinn glaðasti, en þó fremur fátalaður. Þegar í land kom varð þar hinn mesti fagnaðarfundur og þótti öllum þessi atburður allur undrum gegna, og enga glögga grein vildi maðurinn gjöra um veru sína í skerinu.
Nú leið enn og beið og var hætt að tala um nýlundu þessa. En seint um sumarið, einn góðan veðurdag þegar messað var á Hvalsnesi, varð sá atburður sem alla kynjaði á. Við kirkjuna var fjöldi fólks og þar á meðal Melabergsmaðurinn. En þegar fólkið kom út (aðrir segja inn í kirkjuna og láta allan atburðinn fara fram fyrir messu) úr kirkjunni stóð uppbúin vagga við kirkjudyrnar og lá ungbarn í vöggunni. Ofan á vöggunni lá dýrindisábreiða sem enginn þekkti hvað í var. Á þetta varð öllum starsýnt mjög og enginn leiddi sig að vöggunni eða barninu og enginn lézt þar vita nein deili á. Nú kemur prestur út úr kirkjunni; sér hann vögguna og barnið og furðar á þessu öllu ekki síður en aðra. Spyr hann þá hvort viti nokkur deili á vöggunni og barninu eða hver með það hafi komið eða hvort nokkur vilji að hann skíri barnið. En enginn lézt vita neitt um þetta og enginn þóttist hirða um að hann skírði barnið. En af því presti þótti allur atburður með Melabergsmanninn kynlegur spurði hann hann ítarlegar um allt þetta en aðra, en maðurinn brást þurrlega við og sagðist ekkert vita um vögguna né barnið enda skipti hann sér öldungis ekkert um hvorugt.
En í því bili sem maðurinn sagði þetta stóð þar kvenmaður hjá þeim fríð sýnum og fönguleg, en æði svipmikil. Hún þreif ábreiðuna af vöggunni, snaraði henni inn í kirkjuna og segir:
„Ekki skal kirkjan gjalda.“
Síðan víkur hún sér að Melabergsmanninum og segir við hann mjög reiðulega:
„En þú skalt verða að hinu versta (argasta) illhveli í sjó.“
Greip hún þá vögguna með barninu og hvarf með allt saman og sást ekki síðan. – Presturinn tók ábreiðuna og lét gjöra úr henni altarisklæði handa kirkjunni, og hefur það verið þar til skamms tíma og þótt hin mesta gersemi.
Nú víkur sögunni til Melabergsmannsins. Honum brá svo við orð hinnar ókunnugu konu að hann tók undir eins á rás frá kirkjunni og heim til sín. Ekki stóð hann þar við, heldur æddi sem vitstola norður eftir þangað til hann kom fram á Hólmsberg sem er fyrir vestan Keflavík, en berg það er fram við sjó, býsna hátt og þverhnípt. Þegar hann kom fram á bergsbrúnina staldraði hann við. Varð hann þá allt í einu svo stór og þrútinn að bergið sprakk undir fótum honum og hljóp fram klettur mikill úr hamrinum. Stakkst maðurinn þar fram af í sjóinn og varð í sama augnabragði að feikilega stórum hvalfiski með rauðan haus því maðurinn hafði haft rauða húfu eða hettu á höfðinu þegar hann brást í hvalslíkið. Af þessu var hann síðan kallaður Rauðhöfði. En kletturinn sem fram hljóp með hann í sjóinn stendur enn fram í sjónum austarlega undir Keflavíkurbergi og er kallaður Stakkur.
Það er sumra manna sögn, að nú hafi það komið upp á Melabergi eftir móður mannsins að hann hefði sagzt hafa dvalið um veturinn í skerinu (skerið var síðan kallað Helgasker) í álfabæ einum í góðu yfirlæti. Hefðu þar allir verið sér vel, en þó hefði hann ekki geta fest þar yndi. Fyrst þegar hann hefði orðið eftir af lagsmönnum sínum í skerinu hefði hann gengið um skerið í eins konar örvilnan og verið að hugsa um að steypa sér í sjóinn og drekkja sér til að stytta hörmungar sínar. En þá sagði hann að til sín hefði komið stúlka fríð og falleg og boðið sér veturvist og sagt að hún væri ein af álfafólki því sem ætti heima í Geirfuglaskeri. Þetta þá hann, en vegna óyndis fékk hann heimfararleyfi sumarið eftir. Þá sagði hann að álfastúlkan hefði sagzt ganga með barni hans og skyldi hann muna sig um að láta skíra það ef hún kæmi því til kirkju þar sem hann væri viðstaddur, en ef hann gjörði það ekki mundi hann gjalda þess grimmilega.
Sumir segja að maðurinn hafi sagt móður sinni frá þessu einhvern tíma einslega um sumarið; sumir segja að han hafi gjört það um leið og hann gekk um á Melabergi frá kirkjunni seinast, en sumir segja að hann hafi sagt það einhverjum trúnaðarmanni sínum öðrum. En ekki er þess getið hvers vegna hann brá út af skipun álfkonunnar með barnsskírnina.
En nú víkur aftur sögunni til Rauðhöfða. Hann tók sér aðsetur í Faxaflóa og grandaði þar mönnum og skipum svo engum var óhætt í sjó milli Reykjaness og Akraness. Varð það fjarskinn allur sem hann gjörði illt af sér í skipsköðum og manntjóni, en enginn gat að gjört eða stökkt óvætti þessum burtu, og áttu margir um sárt að binda af hans völdum þó ekki séu þeir nafngreindir neinir sem hann drap eða tölu hafi verið á þá komið. Upp á síðkastið fór hann að halda til á firðinum milli Akraness og Kjalarness og er sá fjörður því síðan kallaður Hvalfjörður.
Þá bjó gamall prestur í Saurbæ á Hvalfjarðarströnd; hann var blindur, en þó ern að öðru leyti. Hann átti tvo syni og eina dóttur. Voru systkini þessi öll uppkomin þegar hér var komið sögunni og hin efnilegustu og ann faðir þeirra þeim mjög. Prestur var forn í skapi og vissi jafnlangt nefi sínu. Synir hans reru oft út á fjörðinn á báti til fiskjar. En einu sinni urðu þeir fyrir Rauðhöfða og drekkti hann þeim báðum. Presturinn faðir þeirra heyrði að synir sínir væru drukknaðir og svo af hvers völdum. Féllst honum mikið um sonamissinn.
Litlu síðar einn góðan veðurdag biður hann dóttur sína að koma og leiða sig niður að firðinum sem er þaðan ekki alllangt frá bænum. Hún gjörir svo, en prestur tekur sér staf í hönd. Staulast hann nú með tilhjálp dóttur sinnar ofan að sjónum og setur stafinn fram undan sér út í flæðarmálið og styðst svo fram á hann. Spyr hann þá dóttur sína hvernig sjórinn líti út. Hún segir hann vera spegilfagran og sléttan. Að lítilli stundu liðinni spyr karl aftur hvernig sjórinn líti út. Stúlkan segir að utan fjörðinn sjái hún koma kolsvarta rák líkt og stórfiskavaður ösli inn fjörðinn. Og þegar hún sagði rák þessa komna nærri á móts við þau biður prestur hana leiða sig inn með fjörunni og gjörir hún það. Var röstin jafnan á móts við þau og gekk það uns komið var inn í fjarðarbotn. En þegar grynna fór sá stúlkan að röstin stóð af ákaflega stórum hval sem synti beint inn eftir firðinum eins og hann væri rekinn eða teymdur. Þegar fjörðinn þraut og þar kom að sem Botnsá kemur í hann bað klerkur dóttur sína að leiða sig upp með ánni að vestanverðu. Hún gjörði það og staulaðist karlinn upp fjallshlíðina með ánni, en hvalurinn öslaði einatt hér um bil jafnframt þeim upp eftir ánni sjálfri, og var honum það þó örðugt mjög sökum vatnsleysis.
En þegar inn kom í gljúfrið sem áin rennur um fram af Botnsheiði þá urðu þrengslin svo mikil að allt skalf við þegar hvalurinn ruddist áfram, en þegar hann fór upp fossinn hristist jörðin umhverfis eins og í mesta jarðskjálfta. Af því dregur fossinn nafn og heitir síðan Glymur og hæðirnar fyrir ofan Glym eru síðan kallaðar Skjálfandahæðir. En ekki hætti prestur fyrr en hann kom hvalnum alla leið upp í vatn það sem Botnsá kemur úr og síðan er kallað Hvalvatn.
Fell eitt er hjá vatninu og dregur það einnig nafn af atburði þessum og er kallað Hvalfell. Þegar Rauðhöfði kom í vatnið sprakk hann af áreynslunni að komast upp þangað og hefur síðan ekki orðið vart við hann, en fundist hafa hvalbein mjög stór-kostleg við vatnið og þykir það vera sögu þessari til sannindamerkis. – En þegar prestur var búinn að koma hvalnum fyrir í vatninu staulaðist hann heim aftur með dóttur sinni og þökkuðu honum allir vel fyrir viðvikið.“
Í sögunni um Faxa, sem er um sama efni, segir að „þegar upp komust svik mannsins varð hann óður og steypti sér í sjóinn og breyttist í hrosshveli og kölluðu menn hann Faxa. Af því nafni dregur Faxaflói nafn sitt. Drap tvo syni manns er kunni jafnlangt nefi sínu. Var Faxi rekinn í Hvalvatn þar sem síðan fundust hvalbein til sannindamerkis um þessa atburði.“
Vatnshólavarða sést í vestri, bæði há og stór. Í viðbótarörnefnalýsingu fyrir Fuglavík skráða eftir Sigurði Jónssyni kemur m.a. eftirfarandi fram um Vatnshólavörðu, selstöðu og fleira í Miðnesheiði: „Langt uppi í haglendinu eru Selhólar, sem lentu í flugvallarlandinu. Markahóll er grasi gróinn hóll upp í heiði á merkjum móti Melabergi. Vatnshólavarða er í brún frá bæ séð. Þar eru margir hólar, Vatnshólar, og draga nafn af Melabergsvötnum.“ Varðan er m.a. mið inn í Má

Melaberg

Tóft við Melaberg.

sbúðarvör; í Másbúðarvörðug Vatnshólavörðu í Keili.
Melabergsleiðin (Hvalsnesgatan) innan varnarsvæðisins er vel vörðuð þegar komið er upp að og fyrir ofan Melabergsvötn. Þar taka við Efrivötn, mun minni, en ofan við þau þarf að fara í gegnum gat á varnargirðingunni. Venjulega er gatið lokað, en af og til reynist það opið. Annað gat er á girðingunni efra, þ.e. á henni austanverðri. Það er þó oftar lokað en hið neðra.
Götunni var fylgt með augunum þar sem hún liðast upp eftir heiðinni. Norðan við hana er vetrarleiðin, vel vörðuð óröskuðum vörðum.
Austar blasir Vatnshólavarða við. Hún var mun hærri hér áður fyrr, enda lengi notuð sem siglingarvarða í Másbúðarsundið og sem mið af sjó.
Norðar sjást Selhólar, en vestur undan þeim eru tóftir, Fuglavíkursel, sem og gróin fjárborg. Glæsir er ofar og austar, oft nefndur Efri-Glæsir. Neðri-Glæsir mun vera skammt neðar. Þeir, sem fara þurftu um heiðina, töldu sig stundum verða var við draugagang við Glæsi, og sumir beinlínis lögðu lykkju á leið sína til að forðast staðinn, einkum eftir að rökkva tók. Nafnið er til komið eftir að maður, sem átti leið um, lenti þar í miklum ljósagangi.
Á leiðinni, skammt vestan Melabergsvatna, eru hólar að norðanverðu. Þeir heita Smjerhólar. Ofar eru Melabergsvötnin. Þar segir sagan að Tómas nokkur frá Bursthúsum hafi drukknað er hann var að fara yfir brú á vötnunum á 17. öld. Tómasarhóll heitir hóll með fuglaþúfu á nokkur norðaustar í heiðinni, skammt frá horni varnargirðingarinnar. Óvíst er þó að sá hóll tengist atburðinum þótt um sama nafn sé um að ræða.
Norðan við Tómasarhól sést í helsta kennileitið í Miðnesheiði ofan við Norðurkot; Efrivörðu. Sigurður Eiríksson í Norðurkoti hefur hlaðið vörðuna upp ásamt kunningja sínum Guðmundi Sigurbergssyni. Þeir hafa og hlaðið upp nokkrar aðrar nafnkunnar vörður í heiðinni.
Önnur varða, sem þeir hlóðu upp, er Dauðsmannsvarða, sem er allnokkru austar, fast utan við varnargirðinguna. Sú varða tengist sögn um mann frá Bæjarskeri, sem varð þar úti eins og svo margir aðrir á leið þeirra frá kaupmanninum í Keflavík. Milli þessara varða er Reykhóll.
Skammt ofan Melabergsvatna er Ólafsvarða. Ólafsvarða er kennd við Ólaf nokkurn, sem varð þar úti. Margar skráðar heimildir eru til um mannskaða á Miðsnesheiði. Má nefna að á u.þ.b. 40 ára tímabili á 19. öld urðu þar um 60 menn úti á leið þeirra um heiðina.
Leiðin liggur yfir að því er virðist gamlan árfarveg, svonefnda Melabergsá. Utan við hana eru nokkrir steina á lágu hloti. Í lýsingu Magnúsar Þórarinssonar: „Leiðir, lendingar og örnefni á Miðnesi; – Melaberg“, Frá Suðurnesjum. Frásagnir frá liðinni tíð, sem Félag Suðurnesjamanna gaf út í í Reykjavík, 1960, bls. 131-133, segir m.a. um neðanvert svæðið nálægt Melabergi: „Upp af Skjólgarðsbökkum, norðan við Melabergsá ofanverða, eru tveir stórir klettar með 3—4 faðma millibili; heita þeir Melabergsbræður, en í daglegu tali stytt í „Bræður“. Um 20—30 föðmum austar er einn steinn af sömu stærð og líkri lögun; heitir hann Smali.
Milli þessara einstæðu kletta eru nokkrir tugir smærri steina, sem eru öðru vísi en annað grjót á þessum slóðum. Þeir eru sléttir, ljósir að lit, líkir að stærð og lægri í vesturendann. Ef á að lýsa þeim nánar, þarf að hafa sömu aðferð og þegar skoðað er gott málverk, en það er: að vera í hæfilegri fjarlægð og horfa á þá frá réttri hlið.
Bezt er að standa spölkorn fyrir sunnan þá eða suðaustan og hugsa sér Suðurnesjaveðráttu, útsynning með hryðjum eða éljum. Er þá ekki öðru líkara en að þarna sé fjárhópur og snúi allar „kindurnar“ í veðrið og séu að bíta. Enda segir gamla sögnin, að Melabergsbræður, ásamt með sauðamanni og búsmala, hafi þarna dagað uppi um eina fagra sólarupprás einhvern tíma í fyrndinni.
Margar og miklar sögur hafa gengið frá Melabergi og Melabergsmönnum; eru nokkrar þeirra skráðar í þjóðsögum. Það var í munnmælum, á unglingsárum mínum, að Melaberg hafi einhvern tíma áður verið stórbýli með 50 hurðir á járnum, aðrir sögðu 80 og einstöku maður komst upp í hundrað. Enginn hefir þó getað sagt, hvar þennan fróðleik er að finna. Það kynni þá helzt hafa verið á búskapartíma þeirra, er nú standa sem steinar og heita Melabergsbræður. Kongl. Majestat keypti eitt sinn Melaberg af Guðmundi nokkrum. Varla hefir það verið stórbóndi, fyrst titillinn er ekki annar en „nokkrum“, því titlum og kenninöfnum var vel haldið til haga fyrr á tímum, enda jörðin þá einkum keypt til þess að vera bithagi fyrir Lönd og Másbúðir. Sögurnar frá Melabergi eru ærið þjóðsagnakenndar og bera það raunar með sér að vera hugarfóstur eitt og ekkert annað.“

Áður en komið er niður á núverandi þjóðveg að Stafnesi má sjá tóftir húsa vestan við grashæðir. Um eru að ræða fjárhús frá Lindarbæ, sem var áður bær norðvestan Melabergs.
Þegar komið er norður fyrir Stafnesveg liggur gamla gatan þar til vetsurs, áleiðis að Hvalsnesi. Hún sést vel í móanum til að byrja með, en síðan taka við nýlegri garðar og ræktuð tún. Þar hverfur hún undir hvorutveggja. Það er því ekki um annað en að ganga ofan (utan) garða það sem eftir er leiðarinnar.
Hvalsnes er bær og kirkjustaður milli Sandgerðis og Stafness. Hvalsnes var fyrrum prestssetur og útkirkjur í Kirkjuvogi og Innri-Njarðvík. Hvalsnesprestakall var lagt niður 1811 og Hvalsnes og Kirkjuvogskirkjur lagðar til Útskála. Á Hvalsnesi var kirkja helguð guði Maríu guðsmóður, Ólafi konungi og, heilagri Katrínu og öllum guðs heilögum mönnum. Núverandi kirkja var reist á árunum 1886-1887 og vígð á jóladag 1887. Hún er hlaðinn úr tilhöggnum steini. Steinsmiðurinn var Magnús Magnússon múrari í Garði, en hann féll frá áður en verkinu lauk, drukknaði í Varaós ásamt tveim mönnum er þeir voru að koma Reykjavík 20. mars 1887. Þá tók við Stefán Egilsson múrari í Reykjavík og lauk hann verkinu. Yfir trésmíðinni var Magnús Ólafsson úr Reykjavík. Það var Ketill Ketilsson í Kotvogi sem lét reisa kirkjuna. Frægastur prestur á Hvalsnesi er sennilega Hallgrímur Pétursson. Hvalsneskirkja var vel byggð og hefur fengið gott viðhald með gagngerum endurbótum. Traustleg og tignarleg er hún þar sem hún rís með sínum fagurhlöðnu veggjum og ber hátt í Hvalsnestúni. Sú er trú á kirkjunni að aldrei farist skip á Hvalsnessundi fyrir opnum kirkjudyrum.
Í Hvalsneshverfi voru áður fyrr í byggð 6-7 bæir með 30-40 manns og langtum fleiri á vertíðum. Hvalsnesvör var mikill útgerðarstaður. Reru þaðan skip frá 5 bæjum og þar voru mörg og myndarleg sjávarhús.
Hvalsnesvegurinn er mjög falleg gönguleið af gamalli þjóðleið að vera. Hún er heil langleiðina milli Hvalsness og að byggðinni ofan Keflavíkur að undanskildum stuttum köflum næst Hvalsnesi og neðan Melabergsvatna. Mikilvægt er að vernda það sem eftir er af götunni og gera hana aðgengilega leið fyrir áhugasamt fólk. Það tekur t.d. ekki nema 1 1/2 – 2 klst að ganga frá Keflavík að Hvalsnesi, ef op væri á varnargirðingunni. Ekki er óeðlilegt að á hana verði sett opnanlegt (læst) hlið, sem hægt væri að fá aðgang af sérstökum tilefni. Góð kvöldganga, með sólina í fangið, og kvöldroðann framundan gæti orðið eftirmynnileg ferð um þetta annars kennilausalitla heiðarsvæði. Þó má af framangreindri lýsingu sjá að ýmislegt ber þar fyrir augu, sem vert er að gaumgæfa betur, gatan sjálf, seltóftir, vörður, sagnarík holt, vötn og þjóðsagnakenndir staðir.
Frábært veður. Gangan tók 4 klst og 4 mín.

Heimildir m.a.:
-http://fridur.is/safn/285
-nat.is
-Sigurður Eiríksson, Norðurkoti.
-Magnús Þórarinsson: „Leiðir, lendingar og örnefni á Miðnesi; – Melaberg“, Frá Suðurnesjum. Frásagnir frá liðinni tíð, Félag Suðurnesjamanna í Reykjavík, 1960, bls. 131-133.
-Örnefnaskrár fyrir Fuglavík, Melaberg, Hvalsnes og Keflavík.
-Örnefni við Keflavík á Rosmhvalanesi (Suðurnesjum), [Vélritað upp úr ritinu Faxa 1967 (janúar hefti ?) af Skúla Þór Magnússyni], eftir Ragnar Guðleifsson kennara í Keflavík.
-Árbók FÍ. 1984, bls. 35.

Hvalsnesleið

Hvalsnesleið.