Ætlunin var að skoða MIð-Garð, þ.e. miðhluta sveitarfélagsins Garðs. Áður hafði verið litið á minjar í Út-Garði og Inn-Garði. Svona til upprifjunar má geta þess að á Rosmhvalanesi og jafnvel víðar var hugtakið „út“ var jafnan notað fyrir höfuðáttina norður og hugtakið „inn“ að sama skapi fyrir suðurstefnuna.
Á landakortum af Mið-Garði má sjá Útskála í vestri, þá Miðhús, Krók, Sólbakka, Krókvelli og Gerðar. Þegar örnefnalýsingar af svæðinu voru skoðaðar mátti sjá sem fyrr Útskála, Miðhús og Krók, Krókvöll, Nýlendu, Akurhús, Lónshús og Gerðar. Þegar jarðabækur og sóknarlýsingar voru skoðaðar komu hins vegar í ljós bæjarnöfnin Útskálar, Teigur, Vegamót, Bali, Smærnavellir (Smærnavöllur), Lykkja, Settubær, Einarshús Vorhús, Miðengi, Gerðar, Valbraut, Fjósin, Glaumbær, Unuhús, Skúlhús, Auðunnarbær, Nielsarbær, Bakki, Sólbakki, Garðar, Vatnagarðar og Grund. Við þessa bæi voru útihús, brunnar, garðar og annað er til þurfti.
Ákveðið var að ganga svæðið bæði m.t.t. skráðra og óskráðra minja. Segjast verður eins og er að fjölmargt óvænt bar þá á fjörur leiðangursmanna.
Í örnefnalýsiingu fyrir Gerðar segir Ari Gíslason m.a.: „Býli það, sem hreppurinn dregur nafn af, er næst sunnan við Krók og Smærnavöll. 1703 eru þar tvær hjáleigur í byggð, og Skúlahús eru þar þá nýbyggð úr eyði. Upplýsingar um örnefni gaf Sveinn Árnason.
Árið 1840 er talað um, að Gerðar séu falleg jörð og mikið útræði. Fram af Gerðum er hólmi sá, sem Gerðahólmi heitir. Hann er nú sker, en er álitið, að hann hafi fyrr verið gróið land. Innan við hólmann er svonefnd Gerðaröst. Vestan hólmans er Biskupsós. Þar upp frá eru Gerðabakkar. Frá landi er hér Króksrif, er nær út að Gerðahólmanum. Þá kemur beygja á ströndina, og gerist hún meira suðlæg. Þar heitir Gerðaurð. Fyrir um 60 árum var hún að nokkru grasi gróin.
Fyrir ofan kampinn og Gerðabakkana tekur við síki, sem er framhald af Krókasíki, og eru hér sem tvö smávötn, Innrasíki og Ytrasíki. Neðan við síkin móti Króki heitir Jaðar.“
Hér er einungis getið um að Síkin hafi verið tvö. Í dag eru þau hins vegar þrjú.
„Í túninu næst sjávargarði utan heimagötu heitir Nýjatún. Það er útgræðsla. Nær bæ heim að vír [vör?] er Kirkjuflöt. Milli þeirra var svæði, sem nefnt var Laut, en landmegin við þetta allt var nefnt Undirlendi. Sjávarmegin var svæði, sem kallað var Skákir, þar sem nú eru fiskihús og athafnasvæði fiskútgerðarinnar. Þar upp af eru bæði Vorhús og Mjósund, sem hvort tveggja var býli, en nú í eyði. Upp af þeim er skólinn í Gerðum nú reistur. Svæði frá bæ og upp að vegi er það, sem einu nafni er nefnt Gerðar. Ofan við þjóðveginn að sjá í Ósvörðuna frá bæ heitir Gerðastekkur.“
Næstu bæjarleifar við Vorhús eru Miðengi og Einarshús. Líklegt má telja að nöfn bæjanna hafi breyst í gegnum tíðina; allt eftir ábúendum á hverjum tíma. Þannig gæti framangreint Mjósund hafa um tíma heitið Miðengi. Við tóftirnar er Miðengisbrunnur. Á honum er steypt lok svo ætla má að Miðengisnafnið hafi komið á eftir Mjóhúsanafninu. Annars má lengi velta þessum hlutum fyrir sér – þ.e. hvort hafi komið á undan; hænan eða eggið. Einarshús virðist hafa verið seinna tíma ábrúkun.
Gerðarbrunnurinn er með steyptu loki líkt og Miðengisbrunnurinn. Líklega eru þeir frá svipuðum tíma. Á hinum síðarnefnda er þess getið að hann hafi verið gjörður 1937.
Þann 3. júní 1978 bar Sigríður Jóhannsdóttir lýsingu Ara Gíslasonar undir Halldór Þorsteinsson í Vörum, og gerði hann þá fáeinar athugasemdir, sem hér fara á eftir. „Skúlahús kallar hann Skúlhús. Þau voru skammt þar frá, sem gamli skólinn er, þó fjær honum en Fjósar (hús). Skólahús þetta var hið fyrsta á Suðurnesjum. Þórarinn prófastur Böðvarsson í Görðum hafði gert sr. Sigurði B. Sívertsen orð um að safna fé til skólabyggingar og ætlaðist til, að húsið yrði reist á Álftanesi. En þess í stað lét sr. Sigurður reisa það í Gerðum. Þetta hefur líklega verið kringum 1880. Seinna var skólinn fluttur að Útskálum. Þá keyptu góðtemplarar gamla skólahúsið í Gerðum og hefur það því verið nefnt „Gamli templarinn“.
Og þá aftur að Síkjunum, sem eru einkennisstaðir Garðs: „Nöfnin Innrasíki og Ytrasíki þekkir Halldór ekki, en vel getur verið, að heimamenn hafi haft þau nöfn um Síkið svonefnda, sem liggur frá Gerðum að Útskálum. Venjulega er það greint í Gerðasíki, Krókasíki og Útskálasíki. Gerðabakkar eru sjávarbakkinn fyrir neðan Síkið. Þar var áður bær, sem líklega hefur heitið Bakki. Aðeins utar var Vatnagarður, stór jörð, nú komin í eyði, en bærinn stendur enn uppi.“
Og þá aftur að Gerðum: „Af hverju heitir Garðurinn Garður? Á seinni hluta 18. aldar myndast þéttbýliskjarni á sjávarkampinum fyrir neðan Útskálasíki. Þessir bæir hétu; 1890 alls: Vatnagarður, Garðurinn, í Görðunum, Garðsauki alls manns 28. Þessi þéttbýliskjarni var kallaður í Görðunum. Innnesjamenn, sem fóru út á Skaga, sögðu, að þeir færu út í Garð eða út í Garða. Af þessu held eg að nafnið Garður hafi komið.
Auk þessa var grjót- og malarrif vestanmegin við Útskálaós. Þetta rif var grasi gróið og hátt. Það var kallað Garður á 13. öld, og mun sjórinn hafa verið kallaður Garðsjór af því nafni, enda mikill fiskur oft þar fyrir framan.
Heitið Biskupsós hefur valdið vangaveltum. Í örnefnalýsingu segir um það: „Árið 1340 býr á Útskálum Bjarni Guttormsson og kona hans, Ingibjörg. Hinn 17. desember árið 1340 er Bjarni staddur í Skálholti. Hefur hann komið þangað á fund Jóns biskups Indriðasonar til að gera við hann samning. Leggur Bjarni til Skálholtsstaðar fjórðung úr Útskálalandi með hlunnindum og öllum akurlöndum, er Bjarni hafði keypt til Útskála, og til viðbótar einn karfa með akkerum, rá og reiða og báti.
Sömuleiðis gefa þau hjón, Bjarni og Ingibjörg, annan fjórðung nefndrar jarðar til kirkju og hinum heilaga Pétri postula og heilögum Þorláki til ævinlegrar eignar með öllum þeim hlutum og hlunnindum, er þar til liggja og legið hafa að fornu og nýju. Þar með er Skálholtsbiskupi veitt aðstaða til útgerðar frá Útskálum. Það er vitað, að mannskaðar hafa verið í ósnum, og kannski hefur það verið nokkur vörn að skíra hann Biskupsós. Hann hefur líka verið kallaður Útskálaós og siðar Króksós.“
Um Krókvöll skrifaði Kristján Eiríksson: „Heimildarmaður: Þorbergur Guðmundsson, f. 18. sept. 1888 á Valdastöðum í Kjós og alinn þar upp fram undir tvítugt. Þorbergur flytur í Auðunsbæ á Gerðabakka vorið 1911 og var þar eitt ár. Síðan flutti hann í Jaðar, tómthús á Gerðabakka, í landi Gerða. Þar var Þorbergur þar til hann flutti að Bræðraborg rétt fyrir 1940. Þar bjó hann til 1961, en þá flutti hann til Reykjavíkur.
Krókvöllur er næst fyrir utan Smærnavöll og næst fyrir ofan Krók.
Íbúðarhúsið stendur sem næst neðst í túninu, en túnið nær upp að vegi og austur að Smærnavallatúni. Íbúðarhúsið er nær því á sama stað og gamli bærinn stóð áður.
Fjós og hlaða voru örskammt norðaustan við íbúðarhúsið, og fiskhús voru upp við veginn, alveg suður við merki milli Smærnavallar og Krókvallar. Þar var einnig stakkstæði.
Smærnavallatún tók við neðan við tún Krókvallar nema alveg yzt, þar lá það að Krókstúni. Grjótgarður skildi þessi tún að.
Krókvöllur á óskipt land við aðrar jarðir í Garði ofan vegar, í Heiðinni.
Krókvallarmenn reru af Bakkanum, þ.e. Gerðabakka (sjá lýsingu Smærnavallar).“
Um Miðhús og Krók segir: „Sjálfstæð býli næst sunnan við Útskálahverfið, tvær jarðir, sem taldar eru með Útgarðinum. Þar var með Krókshjáleiga og svo tvær hjáleigur, sem eru nafnlausar 1703. Upplýsingar eru hér frá Torfa í Miðhúsum og svo frá Gísla Sighvatssyni á Sólbakka. Sólbakki er nýtt nafn á Króki.
Naustarif er hér fyrir neðan, og lendingin er inn úr Króksós. Þar eru tvær varir, sem heita Miðhúsavör og Króksvör, sem er innst undan Útskálum. Króksós er mjór, en lónið sjálft er allbreitt og nær út að Naustarifi. Neðan bæjar, ofan við kampinn, er nefnt Miðhúsasíki, og áframhald af því er Krókssíki. Neðan við bæinn á merkjum móti Útskálum er Miðhúsahóll. Krókur var gamla býlið, en svo var Sólbakki byggður úr því. Hér fyrir ofan Krók er býli, sem nefnt var Króksvöllur. Þar fyrir neðan og innan var býlið, sem nefnt var Lykkja, en þar hafa ekki fundizt merki eftir býli.
Neðan við síkið niður. Við sjó er nefnt Gerðabakkar. Býlin hétu eftir mönnum. Sólbakki var færður vegna sjávarágangs. Fyrir ofan Krók heitir Grund. Þar var býli áður; nú er þar steinahrúga.
Við innri enda Króksóss er Manntapaflúð. Þar innar er mjó renna, sem heitir Biskupsós. Svo er rif áfram inn undir Gerðahólma, sem nefnt er Króksrif. Þar átti Smærnavöllur fjöru. Krókvöllur var byggður úr Króki. Þar er í móa hús, sem heitir Bræðraborg. En Krókvöllur nær upp að vegi. Innan við veg eru Grundargerði.
Þorbergur Guðmundssongaf upplýsingar um að land þetta hét Vegamót. Þar ofar var Bali, og neðst niðri á Gerðabökkum fyrrnefndu voru býli. Þar voru svo merkin þvert yfir móti Gerðum.“ Annað nafn á Smærnavöllum virðist hafa verið Bræðraborg.
Miðhús og Krókur eru skráð sem önnur býli sbr. „athugasemdir Torfa Sigurjónssonar við skrá Ara Gíslasonar. Miðhús er nálægt miðjum Gerðahreppi, en þaðan telst Útgarður og út úr. Smærnavellir hét það, sem nú heitir Bræðraborg. Útskálavör er niður undan skúrum nokkrum, aðeins innan við Útskála. Fara þurfti inn um Króksós til að komast í hana.
Síkin (Miðhúsasíki og Krókssíki) eru tjarnir eða lón, sem þorna mikið til upp að sumrinu. Miðhúsahóll er þar sem fjósið er nú. Þar var gamla húsið, mikið og stórt, sem rifið var nærri aldamótum.
Gísli Sighvatsson kallaði húsið sitt Sólbakka, en býlið hét áður Krókur. Krókvöllur var byggður úr Króknum nærri aldamótum. Gerðabakkar (-bakki) eru milli Króks og Gerða.“
Um Nýlendu, Akurhús og Lónshús skrifaði Ari Gíslason: „Jarðir eða býli næst sunnan við Lambastaði. Upplýsingar um þetta svæði eru frá Þorláki Benediktssyni í Akurhúsum. Lónshús og Akurhús eru 1703 talin með Útskálum sem hjáleigur.
Engan mann hitti ég í Lónshúsum, enda mun þar vera landlítið og fátt örnefna. Frá Lónshúsahliði ræður merkjum að norðanverðu Lambastaðatúngarður. Hjáleigan Lónshús er kennd við Lón, en það var önnur vörin, sem lá fyrir hinu forna Útskálalandi. Á Naustarifi er sagt að hafi verið bær sá, er Naust hét. Var það þríbýlisjörð, er eyðilagðist að öllu leyti 1782. Upp frá Lónshúsum er Nýlenda. Sjávarmegin við Akurhús er svæði, sem nær inn í Útskálaland, og heitir það Sandaflatir. Nýibær er hjáleiga frá Útskálum og er upp við veg upp af Akurhúsum. Undan Akurhúsum strandaði þýzkur togari á gamlaárskvöld 1928.
Þá var Útskálakirkja uppljómuð. Skipstjórinn hélt þetta annan togara og ætlaði að leggjast upp að honum. Á Sandaflötum voru taldir 13 eða fleiri götutroðningar, sem búizt er við, að hafi legið að hofinu. Gamall grjótgarður er á merkjum, rétt vestur af Akurhúsum.“
Og þá svolítið um sjálfa Útskála: „Kirkjustaður í Gerðahreppi næst sunnan við Akurhús. Upplýsingar eru fengnar hér og þar. Aðallega eru það konur tvær, sem mig vantar nafn á, svo og Þorlákur Benediktsson að Akurhúsum. Einnig Oddur Jónsson í Presthúsum.
Verða nú taldar upp hinar fornu hjáleigur Útskála, er áður voru 12, en 1840 voru þær taldar 7. Svæði þetta er það, sem kallað er Útgarður.
1. Lónshús, nefnd 1703 og æ síðan, er hér fyrr talin sér með Akurhúsum og Nýlendu.
2. Akurhús, nefnd 1703 og æ síðan, er hér talin fyrr með Lónshúsum og Nýlendu.
3. Nýibær, er nefnd 1703 og æ síðan, er upp við veg ofan við Akurhús.
4. Móakot, er nefnd 1703 og æ síðan.
5. Presthús, er nefnd 1703 og æ síðan. Talið er, að þau hafi verið byggð yfir prestsekkjur frá Útskálum.
6. Garðhús, er nefnd 1703 og æ síðan.
7. Nafnlaus hjáleiga heima við bæ, er nefnd 1703, veit ekki um hana nú.
8. Vatnagarðar, er nefnd 1703 og 1861, síðan ekki.
9. Naust, er nefnd 1703, þar var þá þríbýli. Það er þessi jörð, sem talin er að hafa verið á Naustarifi, eða réttara, að Naustarif séu leifar strandarinnar.
Tvær hjáleigur eru enn, sem ekki er vitað hvar voru:
10. Blómsturvellir eða Snorrakot, komið í eyði 1703.
11. Hesthús, í eyði.
Naust hafa fyrr verið nefnd sem býli, en er nú horfið í sjó. Heitir þar nú Naustarif, þar sem bær þessi var, en nú brýtur á því sem þaragarði fyrir framan land og fer í kaf um öll flóð. Fyrr var talað um Lónsós og Lónið, sem er fram undan Akurhúsum. Hér er svo hin lendingin í Útskálalandi landmegin við Naustarif og heitir Króksós. Innan við ósinn er svonefnd Manntapaflúð, sem ekki mun tilheyra Útskálalandi. Þegar kemur svo upp á land, heita þar Sandsflatir fyrir neðan bæ inn með sjó, og svo er þar garður, sem nefndur er Langigarður. Hefur hann verið hlaðinn til varnar. Innan við þessar flatir er Útskálasíki. Neðan síkis á kampinum voru býli, nokkrar hjáleigur. Þar er hlið á garðinum, sem nefnt er Naustahlið. Við það er gamalt kot, nefnt Naustakot. Niður undan kirkjugarðinum eru rústir, sem nefndar eru Vatnagarðar. Upp af Sandaflötum, vestan eða réttara norðan Útskála, eru Fjósaflatir.
Upp undir vegi, utan við götuna niður að Útskálum, eru Presthús, sem fyrr var getið, og þar innar var svo Garðhús, ofan við þjóðveginn. Svo er Sóltún, og móti Garðhúsum er Nýjaland. Ofan við veginn austan við Nýjabæ er Steinsholt . Þar eru rústir og kálgarðsrústir.
Þá er komið upp fyrir veg. Má þá geta þess, að Útskálar eiga allt land vestan vegar norður úr. Garðskagi er hið gamla nafn á nyrzta hluta skagans, reyndar alveg þvert yfir. Mun það vera leifar frá því, að hér var afgirt land, akurreinar. Lokaðist það af svonefndum Skagagarði, sem hlaðinn var frá túngarði Útskála og þvert yfir tána yfir í túngarðinn á Kirkjubóli. Sér leifar hans hér og hvar enn. Á Skaganum, sem er flatlendur, eru svo fá merki. Eru þar þó tveir smáhólar, Skagahóll, sem er á merkjum móti Lambastöðum, og sunnan hans er annar hóll, sem heitir Draughóll. Þaðan til suðvesturs eru Skálareykir.
Skálareykir eru gamlar bæjarrústir fast við miðjan Skagagarð. Þar sér fyrir túngarði og húsarústum (1840). Næsta hús við vitabústaðinn, rétt við Draughól, er býli, er heitir Hólabrekka. Skálareykja finnst ekki getið, hvorki 1703 né 1847. Eru til ýmsar tilgátur um býli þetta, m.a. að Ketill gufa hafi byggt skála,annan að Gufuskálum og annan að Útskálum. Svo var byggður nýr bær, þar sem reykirnir sáust frá báðum hinum skálunum, og því nefndur Skálareykir. önnur segir, að þar sjáist merki og, að þar hafi verið draugagangur, er setti bæinn í eyði, en trúlegra er, að það hafi verið vatnsskortur og fjarlægð frá sjó.
Í athugasemdum Sigurbergs H. Þorleifssonar segir m.a.: „Hjá Vatnagarði, líklega í austur þaðan, var hjáleiga, sem nefndist Garðar. Sigurbergur man eftir þessu koti í byggð. Þar bjó ekkja, þegar hann var drengur. Stekkjarkot var fyrir ofan Presthús, en það var komið í eyði, þegar Sigurbergur mundi fyrst eftir. Líklega sjást rústir beggja þessara kota enn. Skálareykir munu vera til suðausturs frá Draughól, en ekki suðvesturs. Yfirleitt er Sigurbergur ekki alveg sáttur við áttamiðanir í skránni.
Í skrána vantar allar upplýsingar um þinghúsið, sem stóð skammt frá Draughól og var notað fyrir hinn forna Rosmhvalanesshrepp. Hins vegar er getið um það í minnisblöðum Dagbjartar Jónsdóttur. Þar segir, að varðan, sem hlaðin var á þinghússtæðinu, eftir að húsið var rifið, hafi alltaf verið kölluð Siggavarða, en ekki Þingvarða, eins og til var ætlazt. En Sigurbergur segir, að hún hafi ávallt verið kölluð Þingvarða í daglegu tali, svo lengi sem hann man.“
Þegar gengið var um miðsvæði Garðs komu í ljós allnokkrar minjar, sem hvergi virðast hafa verið skráðar eða þeirra getið í heimildum. Ljóst er að gera þarf átak í að skrá og korleggja sýnilegar minjar í Garði því þær fela enn í sér löngu, en langa, sögu um búskap í Rosmhvalaneshreppi hinum forna. Í raun má segja að Garður feli sér eitt samfelld búsetuminjasvæði fyrri tíma hér á landi og ætti því að friðlýsa sem ómetanlegt sögusvið horfinna kynslóða.
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 22 mín.
Heimildir:
-Örnefnalýsingar fyrir Útskála, Miðhús, Krók, Gerðar, Nýlendu, Akuhús og Lónshús.
-Jarðabókin 1703.
-Viðtöl við heimafólk.
Garður – fornleifauppgröftur.