Tag Archive for: Suðurnesjabær

Thermopylae

Í Sjómannablaðinu Víkingur 1973 er fjallar Skúli Magnússon um „Skipsstrand við Básenda árið 1881„:

„Flestir hafa hugmynd um að strönd Reykjanesskaga er mjög skerjótt og hættuleg skipum. Þau hafa ekki svo fá farist við þessa strönd þar sem úthafsaldan brotnar án afláts. Hér á eftir mun fara frásögn af einu skipsstrandinu er átti sér stað á Reykjanesskaga, nánar tiltekið skammt sunnan við Básenda, nálægt Þórshöfn, sem er smá vík eða vogur er skerst inn í landið, rétt utan við Ósabotna, þar sem þorpið Hafnir er.

Jamestown

Strandsstaður Jamestown, skammt v.m. við Hestaklett.

Um Básenda er það að segja að þar var til forna kaupstaður og sér þess enn sæmileg merki. Smá tanga er þar skagar út í sjóinn eru búðatóftir og forn garðbrot, þar munu húsin í verzlunarstaðnum hafa staðið. Ennfremur má sjá einn járnpolla allmikinn og sveran þar sem hann stendur uppúr klöppinni og kemur á þurrt við fjöru. Annar slíkur mun hafa verið hinum megin við víkina en nú sjást engin merki eftir hann lengur. Um Básenda hefur margt verið skráð og skilmerkilegust er frásögn sú er á sínum tíma birtist í Blöndu, tímariti Sögufélagsins. Þar segir gjörla frá ofviðri því er grandaði kaupstaðnum að fullu og öllu. Átti þetta sér stað í janúarbyrjun árið 1799. Eftir þetta hófst aldrei framar verzlun á þessum sögufræga stað, Keflavík varð aðalverzlunarstaður okkar Suðurnesjamanna og hefur verið alla tíð síðan.

Þórshöfn

Þórshöfn – loftmynd.

Víkin Þórshöfn var einnig notuð til kaupskapar. Hennar er getið í sögu einokunarverzlunarinnr eftir Jón Aðils. Var verzlað þar á tímum hinnar illræmdu umdæmaverzlunar eða jafnvel fyrr, um 1500 eða þar um bil. Hafa þar vafalaust verið Þjóðverjar á ferð eða Englendingar.
Sama er uppá teningnum um Keflavík, þar hófst verzlun sennilega um svipað leyti, kannski fyrr, en um það höfum við nú engar áreiðanlegar heimildir. Þó er til eitt örnefni á Vatnsnesi við Keflavík, er það Þýzkavör, og liggur hún í Vatnsnesvík, sem er suður af sjálfri Keflavíkinni, en Vatnsnes liggur á milli. Höfnin er í dag í Vatnsnesvík.

Básendar

Básendar – uppdráttur ÓSÁ.

Árin um og eftir 1880 munu verða minnisstæð í Íslandssögunni fyrir þrennt, hallæri, ísa og Vesturheimsferðir. Sumir lögðu árar í bát og létu ginnast af gylliboðum hinna kanadísku agenta, um allslags dásemdir í Vesturheimi, hinni nýju og framfarasinnuðu veröld, því þar hafði hvorki verið aðall, kóngar, né kirkjuveldi til að drepa niður framfaraviðleitni samfélagsins. En margir þraukuðu samt enn á gamla Fróni og aðrir sneru úr dýrðinni vestra og settust aftur að í landinu.
Fáir munu hafa farið vestur úr Keflavík og frá Suðurnesjum, það var sjávarútvegurinn sem hélt líftórunni í mönnum, og sem dæmi um það má nefna að í hallærum inni í landi streymdi fólk til sjávarbyggðanna í leit að mat og skjóli. Hér má því segja að sjórinn hafi gefið vel þó hins verði ekki síður getið að hann tók sinn skatt af auðæfum sínum.

Sigurður B. Sívertsen

Sigurður B. Sívertsen.

Eftirfarandi ritar merkisklerkurinn og fræðimaðurinn sr. Sigurður Br. Sívertsen í Suðurnesjaannál sinn árið 1881: „Fór nú sjóinn óðum að leggja, með því líka, að stórar íshellur bárust að landi að ofan og innan. Var nú gengið yfir Stakksfjörð fyrir utan Keflavík og inn að Keilisnesi á Vatnsleysuströnd, og hefi ég ekki lesið, að slíkt hafi viðborið, síðan árið 1699. Sjófuglar fundust dauðir með sjónum.
Ekki veit ég hvort nógar matvörur hafi flutzt til landsins, a.m.k. var svo á Norðurlandi, að þangað barst lítil sem engin björg frá útlöndum enda allt ófært af hafís, sem lá inn á fjörðum fram eftir öllu sumri. Sama hlýtur að hafa verið hér Sunnanlands, eftir því sem annállinn segir. Og um timburflutninginn veit ég lítið með vissu, en allavega skeði nú atburður, sem átti eftir að hleypa mönnum nokkuð upp hér á Rosmhvalanesi, en það var skipsstrand. Mun ég hér eftir tína sitthvað uppúr Suðurnesjaannál varðandi strand þetta, því það er merkilegt fyrir byggingasögu okkar Suðurnesjamanna.
Árið 1881 segir sr. Sigurður í annál sínum (Suðurnesjaannáli er prentaður í Rauðskinnu VII-VIII heftum og kom út 1953):

Jamestown

Jamestown.

„Með stórtíðindum má á þessu ári telja þann viðburð, að sunnudagsmorguninn 26. júní, rak að landi afarstórt farmskip, hlaðið af trjáviði, nálægt Þórshöfn á Suðurnesjum (skammt sunnan við Básenda) og stóð þar á flúð eða skeri, mannlaust, þrímastrað með þrem þilförum. Hafði þriðja mastrið verið höggvið í sundur áður en skipsfólkið hafði farið af því, að líkindum um leið og það hefir á hliðina farið, en svo var allt stórkostlegt á tröllskipi þessu, að allri furðu gengndi, og svo að menn höfðu eigið trúað,
ef menn hefðu eigi séð. Eftir því sem ég hefi komizt næst, var lengd þessa skips 128 álnir, og á breidd 27 álnir (allt að 30 álnir).
Möstrin tveir feðmingar að digurð, akkerin á að gizka, hver af þremur 1000 skippund, eða 3000.
Hið fjórða var lítið. Hver hlekkur í akkeriskeðjunni var 1 fjórðungur. Káetan á efsta þilfari var svo stór, að rúmað gat 200 manns tilborðs. Mátti sjá, að húsið hefir í upphafi verið mjög skrautlegt, en rúið og ruplað hefir það verið af öllum húsbúnaði að innan. Aðeins mátti sjá, að í því hafi verið 12 smærri herbergi, en milligjörð öll brotin. Dýpt skipsins frá efsta þilfari allt að 20 álnir. Segl voru engin, en þau slitur af þeim, sem fundust, og kaðlar, var allt fúið.
S

James Town

James Town, nýlenda landnema við Jamesá í Ameríku 1607.

amt er óvíst, hve lengi það hefur verið í sjó eða hvenær því hefur borist á. En að því var komist, að skipið hefir verið frá Boston í Ameríku, og heitir það „James Town“, sem líka er staðarnafn all nærri Boston. Skipið var fermt eintómum plönkum af allri lengd, en svo vel var í það raðað eða frá gengið og skorðað, að járnkarla þurfti að nota til að losa um það.

Hestaklettur

Hestaklettur – Hafnir að handan.

Þegar þetta tröllskip barst þarna að landi, þar sem svo var brimasamt og illt við að eiga, hugðu menn úr þessum og nærliggjandi hreppum, að óhugsandi og ógjörlegt væri að eiga nokkuð við uppskipun og björgun að svo stöddu, og gerðu sér líka þær vonir, að sýslumaður mundi í einu boði, selja þetta mikla rekald.
Fyrir því að þetta mætti álítast vonarpening, hugðu margir að geta hlotið hin beztu kaup, ef allir fjórir næstu hreppar gengju í félag undir eins manns ábyrgð, og var af öllum kosinn til þess kaupmaður Duus í Keflavík. En nú brást þeim illa sú ætlun sín, og máttu þó sjálfum sér um kenna eða hreppstjóranum, eftir áeggjan annarra, því þegar vandræði eða ráðaleysi viðkomanda bárust héðan, hófst félag eitt í Reykjavík, og tókst á hendur að fengnu einkaleyfi frá amtmanni, að bjarga eða skipa upp svo miklu af trjáfarmi þessum, sem framast væri þeim mögulegt, mót 2/3 fyrir fyrirhöfn og ómak.
Tóku þeir þegar til óspilltra mála, sem svo ágætlega vel hepnaðist þeim, að þeir, eftir hart nær þriggja vikna vinnu, voru búnir að skipa í land mest öllum farmi af efsta þilfari sem eftir ágizkun mun hafa orðið 15.000 plankar.

James Town

Frá James Town í Ameríku.

Frá upphafi og leikslokum með fleiru hér að lútandi skal seinna verða nákvæmar sagt.
Þegar seinna var brotið upp milliþilfarið, sem innihélt ekki minni trjávið en hið efra, og ekki þótti sjá högg á vatni, þó haldið væri með kappi áfram uppskipunni, var enn að nýju fengið amtsleyfi fyrir héraðsmenn að skipa nú upp til helminga, en þó að margar hendur ynnu hér að úr fjórum nærliggjandi hreppum, var ekki búið að ljúka uppskipuninni af milliþilfari, þegar sýslumaður hélt uppboð, miðvikudaginn þann 10. ágúst.

Duus

Duus – bryggjuhús.

Varð hið vægasta verð að kalla mátti gjafverð á öllum plönkum og timbri. Taldist svo til, að hver planki seldist á 50 aura, 6 álna, eða 8 aura alinin, en þó tók út yfir góðkaupin, þegar skipið með fullri hleðslu á neðsta þilfari með fullum farmi o.s.frv. seldist fyrir 330 krónur, en fyrir þá skuld var ekki boðið hærra, að hlutaðeigandi félagsmenn voru búnir að semja sín á milli, ekki aðeins að ljúka ekki upp munni sínum, heldur stuðla til með samtökum, og sjá um, að aðrir spilltu ekki góðum málum. Varð svo herra Duus hæstbjóðandi eftir áðurgjörðum samningi.

Kaupstaðavegurinn

Kaupstaðavegurinn, vagnvegurinn, ofan Ósa – að Jamestownsrekanum.

Hér á eftir fóru menn úr öllum áttum á skipum, og í flotum að ná heim til sín hinu keypta timbri, en þó að veðurblíðan héldist áfram, var þó minna en helmingur ósóttur. Því næst fóru allir úr öllum hreppum að vinna að uppskipun á því, sem hafði orðið eftir á miðþilfari, en þó að allvel gengi, hugðu flestir, að ekki væri hugsandi að halda áfram með neðsta þilfar, ef veður breyttist. En þá bar svo við, að mánudaginn þann 9. sept. gekk í landsunnan sterkviðri og stórbrim um stórstraumsflóð, svo að allur skipsskrokkurinn liðaðist í sundur á þremur tímum, og bárust að landi plankar og skipsflekar. Var það ógrynni og feikn saman komið, að meira var en nokkurn tíma fyrir uppboðið.

Jamestown

Jamestown – opinber auglýsing um strandið.

Eins og þetta mikla strand er og verður fáheyrt, ekki aðeins hér sunnanlands, heldur í landssögunni, að annað eins timbur hafi komið á einn stað af einu skipi, eins og þetta, má kalla hið mesta happ fyrir öll Suðurnes og nærliggjandi hreppa, sem Drottinn allsherjar rétt hefir mönnum upp í hendur án mikillar fyrirhafnar eða kostnaðar, og án þess að neinar slysfarir hafi þar af orsakast eða tjón. Eins yrði það
óafmáanlegur blettur eða svívirðing í sögu Suðurnesja, ef menn skyldu á endanum ekki koma sér saman um réttsýn skipti meðal félagsmanna sín á milli“.
Þetta hefur sr. Sigurður að segja um þessa stóru skútu. Síðar við sama ár í annál sínum (1881) segir klerkur:

Garður

Unuhús í Garði, eitt margra húsa byggt upp úr standgóssi Jamestown.

„Eftir að félagsmenn hins strandaða skips, James Town, höfðu lengi verið búnir að vinna að uppburði timbursins af skipinu, voru þá í nóvember tekin fyrir skiptin í 4 aðalhluti eins og til stóð og fóru þó ekki eins og til var ætlast skiptin fram á þeim helmingi skipsins, sem þessum hrepp var fyrirhugað, því að vissir menn vildu þar öllu ráða, svo að óánægja varð af, þó að allt væri íátið kyrrt liggja, með því að allir félagsmenn, fengu svo mikið í sinn hlut, að þeim mátti nægja, og ekki fyrir neinn ójöfnuð annarra þess vert að láta verða úr misklíð. Plankarnir töldust í allt rúm 16000, svo að í hvern fjórða part komu 4000. Skipsflekum var eigi skipt, sem mjög mikill slægur var í, en voru þó komnir uppá þurrt land, og einn þeirra, önnur hliðin, var mæld 40 fet á lengd.“ Það kom sér mjög vel fyrir alþýðu manna, hve ódýrt timbur var úr skipinu, eða 50 aura plankinn. Með því móti gátu margir fengið gnótt viðar og notað til margs konar smíða og bygginga.

Óttarsstaðir

Óttarsstaðir eystri, byggðir að hluta úr rekaviði  úr Jamestown.

T.d. getur prestur þess í annálum, að timbrið hafi mjög víða verið notað í húsbyggingar. Og víst er, að mörg hús hér í Keflavík voru byggð úr timbrinu úr James Town. Sum þeirra eru nú horfin af sjónarsviðinu, önnur allmikið breytt frá fyrri tíð.
Meðal húsa hér að lútandi má nefna Þorvarðarhús, sem stendur svo til óbreytt hið ytra. Hús Þórðar héraðslæknis Thoroddsen (sem stóð hér við Hafnargötu) var víst líka byggt úr timbri hins strandaða skips. Þórður var fyrsti læknir sem settist að hér í Keflavík og var upphafsmaður að mörgu, t. d. aðaldriffjöðrin í stúkunni Vonin nr 15, stofnaði Kaupfélag Rosmhvalaneshrepps árið 1889, stofnaði sparisjóð Rosmhvalaneshvepps um 1890. Á Thoroddsensheimilinu ríkti mikill menningarbragur. Því má við bæta að Emil pianóleikari er einmitt sonur Þórðar, og er fæddur hér í Keflavík. Sjálft Thoroddsenshús mun hafa verið rifið að mestu um 1930 er Eyjólfur Ásberg byggði hús sitt á sama stað við Hafnargötu. Þar varð síðar greiðasala, verzlun og bakarí.

Sandgerði

Húsið Sandgerði (Sáðgerði) var byggt úr timbri úr Jamestown.

En það var ýmislegt fleira, er leiddi af strandi James Town, en annállinn fræðir okkur um. Um það mál fáum við nokkra vitneskju í blaðinu Þjóðólfi, vorið og sumarið 1884, en þá var Jón Ólafsson, alþingismaður, ritstjóri blaðsins.
Svo er mál með vexti, að í 7. og 8. tölublöðum Þjóðólfs þetta ár, ræðir Guðmundur Guðmundsson, bóndi og hreppstjóri í Landakoti á Vatnsleysuströnd um fiskveiðasamþykktina fyrir Faxaflóa. Þeir Útskálafélagar, prestarnir Sigurður og Helgi Sívertsen, senda Guðmundi síðan svargrein í 9. tbl. sama blaðs. Ekki ætla ég samt að ræða það mál nánar hér, enda er það tómt persónulegt pex. (Síðar getur samt svo verið að ég muni gera hér fiskveiðasamþykktir að umtalsefni, en ennþá hef ég þó ekki nægar heimildir undir höndum varðandi það efni). En málið var þar með ekki úr sögunni.
Í 11. tölubl. Suðra, sem Gestur Pálsson var ritstjóri fyrir, svara „nokkrir íbúar Rosmhvalaneshrepps“ greinum Guðmundar, svo hann neyðist til að taka aftur til pennans og svara, enda var dróttað að honum persónulega í grein þessari. Við skulum nú grípa niður í svargreinar Guðmundar frá Landakoti, en þær birtust í 20. og 33. tbl. Þjóðólfs. Ræðir þar um strand skipsins James Town.

Stafnes

Stafnes – uppdráttur ÓSÁ.

Í 20. tbl. er inngangur eftir ritstjórann (J.Ó.) með fyrirsögninni: „Uppljóstur á stórþjófnaði“. Ræðir þar um fyrri greinar Guðmundar og þeirra Útskálafeðga og allt það persónulega pex, sem þar birtist. Síðan segir: „Þegar vér nú tökum eftirfylgjandi svargrein frá hr. Guðmundi Guðmundsyni, þá er það af því, að hér er orðið um alveg nýtt mál að ræða — það mál, sem ekki má þegjandi niður falla.
Þegar eins merkur maður og hr. Guðmundur ber fram svo stórvægilega sakargift um stórþjófnað, þá er sú sakargift svo vaxin, að yfirvöld geta ekki og mega ekki ganga þegjandi fram hjá henni — og gjöra það nú vonandi því síður, sem orðrómurinn um þetta athæfi er fyrir löngu hljóðbær orðinn“.
Jamestown
Þá kemur grein Guðmundar sem hefur að inngangi: „Þann ég kalla að þekkja lítt þekkir ei sjálfan sig“. Hann skýrir nú frá því, að „nokkrir íbúar Rosmhvalaneshrepps“ hafi í Suðra svarað greinum sínum er birtust í Þjóðólfi. Síðan segir orðrétt: „Þeir minnast, þessir göfugu greinasmiðir, á félagseignina í James Fown (?) er þeir nefna svo, það er líklega timbrið á Stafnesfjörum, sem þeir meina, þó skipsnafnið sé ekki sem allra réttast (okkur mun vera hollast að gefa okkur ekki mikið út í það að rita ensku, samt hafa aðrir sett ,,T“, þar sem þeir setja „F“ í skipsnafnið) og lítur helzt út fyrir að þeir vilji telja lesendum Suðra trú um, að ég hafi við það tækifæri sýnt mig í óráðvendni, og jafnvel komið einhverjum kunningjum mínum til að vera mér til aðstoðar í því. Þessu ætla ég ekki að svara með öðru en því, að segja söguna svo sanna og rétta, sem mér er unnt, en sannanir fyrir henni mun ég geta framlagt síðar, ef með þarf, þó ég, að líkindum ekki sæki þær í uppboðsbók Rosmhvalaneshrepps….“ .

Jamestown

Ankeri Jamestown í Höfnum.

Þá getur Guðmundur um það, að menn úr Höfnum hafi verið viðstaddir er hann kom að ná í sinn ákveðin timburpart og hafi hann sagt á þá leið við þá, að þeir vissu að hann ætlaði að taka nokkrar spýtur til að fylla þilskip sitt er hann var þangað (að Þórshöfn) kominn á. Hann skyldi greiða andvirði þeirra seinna við tækifæri. Þetta tóku allir gott og gilt og Guðmundur hélt heim með farminn.
Eftir þessa frásögn sína segir Guðmundur: „En ef íbúar Rosmhvalaneshrepps (að undanskildum Keflavíkurmönnum) eiga jafnhægt með að gjöra grein fyrir, að allar aðferðir þeirra á Stafnesfjörum þessi ár hafi verið leyfilegar og lögmætar, eins og mér veitir hægt að sanna framanritaða sögu mína, þá er of miklu upp á þá logið. Að þessir piltar skuli vera svo fífldjarfir að minnast á samvizku í plankamálinu, það er hrein furða, hún hefur þó að líkindum ekki ónáðað þá eða sveitunga þeirra suma hverja í undanfarin 2 ár, en máske hún sé að bregða blundi hjá einhverjum þeirra. Gott ef svo væri“.
Og litlu síðar kemur þetta:

Jamestown

Jamestown – silfurberg.

„Skal ég þá leyfa mér að spyrja þá (þ. e. íbúa Rosmhvalaneshrepps) að, hverja skilagrein þeir hafi gjört fyrir koparhúð þeirri sem þeir heimildarlaust bæði nótt og dag rifu utan af skipsflekunum? Hafa þeir samkvæmt áskorun og skipun þeirra manna, sem áttu koparinn með þeim, skilað honum á þá staði, sem þeim var boðið?“
Guðmundur getur þess að þeir Strandarmenn hafi ekkert fengið af koparnum, sem þeir þó áttu að fá í sinn hlut, svo sem aðrir þeir, er unnu að björgun timbursins úr skipinu.
Enn segir Guðmundur: Timburhvarfið ætla ég sem minnst að minnast að tala um í þetta sinn, það tekur svo út yfir allan ósóma, að flestir, sem kunnugir eru því máli, þykjast vissir um, að síðan Suðurland byggist muni ekki hér í sýslu hafa verið framin annar eins stórþjófnaður og sá, sem þessi ár hefir átt sér stað þar syðra, og ef íbúar Rosmhvalaneshrepps vilja brýna okkur Strandarmenn, þá er ekki víst að við þurfum að hafa fyrir að tína saman tvo eða þrjá gemsa þaðan úr hreppnum, sem yfirvaldið þyrfti og ætti að ná í lagðinn á, það er ekki ómögulegt, úr því tveir eða þrír væru handsamaðir, að hópurinn kynni að stækka“.
Og að endingu segir Guðmundur þessi orð í grein sinni: Vilji íbúar Rosmhvalaneshrepps róta betur upp í þeim saur, sem þeir eru nú byrjaðir að moka, þá vildi ég með aðstoð kunnugra manna vera þeim til liðveizlu, en ekki get ég að því gjört, þó af honum leggi fýlu.“

Útskálar

Útskálar 1920 – Jón Helgason.

Enn er málinu þó ekki lokið, því í Þjóðólfi, 12. júlí 1884, ymprar ritstjórinn, Jón Ólafsson, enn á því að rannsókn þurfi endilega að fara fram á málinu. En Guðmundur í Landakoti ritar ein grein enn og er það svar við grein sem Jón ritaði í blað sitt 12. ágúst þar sem hann segir að Guðmundur sé of hægur á sér að birta ástæðurnar fyrir þjófnaðium. Guðmundur tekur það fram eins og til að forða frekari misskilningi að þeir Útskálafeðgar, Helgi Sívertsen og faðir hans, sr. Sigurður, séu ekkert við málið riðnir, og sömuleiðis Keflvíkingar en það tekur hann reyndar fram áður.. .
Landakot
Guðmundur segir svo í grein sinni (12. júlí í 33. tbl.): „Síðasta og 3. ástæðan (þ.e. fyrir því að hann birtir ekki sannanir fyrr í málinu) er sú, að ég vissi til þess, að einn heiðvirðasti maðurinn þar í Rosmhvalaneshreppi, sá, sem mest hafði að segja yfir félagseigninni, lét í fyrra sumar semja kæru eður kvörtun til sýslumanns út af timbur- og koparmissinum, bjóst ég því við að réttarrannsókn yrði þá og þegar hafin, og að opinber málssókn mundi, þegar minnst varði, gjósa upp, en verkanirnar af áminnstri kæru hefi ég ekki orðið var við. Ég held helzt að hún hafi aldrei komizt til sýslumannsins“.
Og að endingu segir Guðmundur: „Aðaltilgangur minn var aldrei sá, að verða þess valdandi að nokkur maður þar syðra yrði sakfelldur, en ég þykist hafa unnið Rosmhvalahreppi gott verk og þarft, ef þeir menn, sem oftast hafa unnið sér óráðvendisorð við hvert strand, sem þar hefur komið fyrir, bæta nú svo ráð sitt, fyrir þá hreyfingu, sem komin er á málið út af grein minni, að þeir framvegis leitist við að sýna sig, sem heiðvirða og vandaða menn við slík tækifæri. Þá hefi ég náð tilgangi mínum, og þá vona ég að allir þar í hreppi, sem nokkurs meta gott mannorð, þakki mér fyrir þetta nauðsynlega og holla læknislyf, þó sumum þyki það súrt á bragðið“. Svo mörg voru orð Guðmundar í Landakoti.
Lýkur hér með að segja frá strandi þessu þó hins vegar viðbúið sé að hér hafi ekki öll kurl um þetta mál til grafar komið.“

Í Eyjafréttum 2017 tók Ómar Garðarsson viðtal við Theódór Ólafsson undir fyrirsögninni „Akkeriskeðjur úr bandarísku skipi sem rak á land enduðu sem legufæri í Eyjum„:

Jamestown

Jamestown – keðjuminningin í Vestmannaeyjum. Kári Bjarnarson og Theódór Ólafsson.

„Þann níunda september 1919 skrifar Þorvaldur Bjarnason, Höfnum á Reykjanesi bréf til hafnarnefndar Vestmannaeyja og segist hafa til sölu akkeri og keðjur sem séu mjög hentug sem öflug legufæri. „Keðjan er að stærð, hver hlekkur tólf þumlungar að lengd og sjö að breidd og lengd keðjunnar er ellefu liðir,“ segir í bréfinu þar sem kemur fram að akkerið sé um tvö tonn að þyngd. Verðið er 450 krónur á lið eða 5950 krónur þar sem keðjan var niðurkomin við Hafnir. Eftir bréfa- og skeytasendingar var niðurstaðan sú að keðjan var keypt til Eyja og var hún notuð sem legufæri í áratugi en akkerið var ekki keypt.
Þetta á sér merkilega forsögu því keðjan er úr bandarísku skipi sem rak mannlaust um Norður Atlantshaf og strandaði að lokum þann 26. júní 1881 á milli Hestakletts og Þórshafnar í Rosmhvalaneshreppi, síðar Miðneshreppi á Suðurnesjum. Það var, samkvæmt seinni tíma mælingum um fjögur þúsund tonn og að líkindum meðal stærstu skipa sem komið höfðu til Íslands á þeim tíma.

Áhugi Theódórs vaknar
Jamestown
Þessa sögu þekkja fáir betur en Theódór Ólafsson, vélstjóri og fyrrum útgerðarmaður á Sæbjörgu VE. Hefur Theódór aflað sér gagna um skipið, sögu þess og örlög. Líka hvað varð um akkeriskeðjurnar sem hafa enst ótrúlega vel. Skipið flutti verðmætan timburfarm frá Bandaríkjunum sem átti að fara til Liverpool á Englandi en lenti í aftakaveðri undan vesturströnd Írlands. Skemmdist mikið og var skipverjum bjargað um borð í annað skip og settir á land í Glasgow í Skotlandi. Jamestown rak stjórnlaust um Norður Atlantshafið í fjóra mánuði þangað til það strandaði við Ísland.
Ein ástæðan fyrir áhuga Theódórs á Jamestown er tenging hans við Stafnes og að hluti akkeriskeðjunnar hafnaði í Vestmannaeyjum.
„Teddi hefur ekki setið auðum höndum þótt hann sé hættur að vinna. Hann hefur lagst í ýmiss konar grúsk,“ segir Sigurgeir Jónsson um Theódór í viðtali sem hann tók við hann og birtist í Fréttum. Þá hafði hann barist við krabbamein í tvö ár. Lýsir hann því einnig hvernig kona hans, Margrét Sigurbjörnsdóttir sem er frá Stafnesi, stóð við hlið hans í veikindunum og greinilegt að hann kann að meta það. Tilheyrði fjaran þar sem Jamestown strandaði Stafnesbæjunum og er Margrét frá Vestur Stafnesi.

Jamestown var alvöru skip

Jamestown

Eyjahöfnin – Bólið 1930.

„Í þessum veikindum mínum átti ég oft erfitt með svefn og fór þá að láta hugann reika, ekki síst að hugsa um þau skipsströnd sem ég hef sjálfur lent í og kannski ekki síður öðrum skipsströndum. Fór síðan að lesa mér til um hin ýmsu strönd. Þar á meðal skipsströnd við Stafnesið, úti fyrir æskuheimili Margrétar. Þar strandaði t.d. Jón forseti, fyrsti togarinn í eigu Íslendinga og fórust fimmtán skipverjar en tíu tókst að bjarga. Sigurbjörn, faðir Margrétar, var einn af björgunarmönnum þar,“ segir Theódór.
En svo var það eitt skipsstrand sem vakti sérstaka athygli mína. Það var þegar ameríska skútan Jamestown strandaði ekki langt frá Stafnesi árið 1881. Þessar amerísku skútur voru flutningaskip, stærstu skútur í heimi og hétu allar eftir bandarískum borgum. Þessi skúta var, samkvæmt okkar mælingum í dag, um 2000 tonn, var hundrað metra löng og 16 metra breið. Í henni voru fjögur þilför og fjögur möstur, sem sagt alvöru skip.
Jamestown fór frá Bandaríkjunum á leið til Englands, fullhlaðið af smíðatimbri sem átti að fara í undirstöður fyrir járnbrautarteina.

Silfurgrjót

Silfurgrjót.

Áður hafði skipið verið ballestað með silfurgrýti. Þegar skipið átti eftir um 600 mílur í Írland lenti það í ofsaveðri og stýrisbúnaður þess brotnaði. Lítið gufuskip gerði tilraunir til að taka Jamestown í tog en þær tilraunir mistókust þar sem tógið slitnaði alltaf. Þá var ákveðið að áhöfnin yfirgæfi skipið. Þetta gerðist í mars 1881 og síðan rak skipið stjórnlaust norður eftir Atlantshafi, upp að Íslandsströndum, fyrir Reykjanes og strandaði.“
Meira að segja Eyjamenn nutu góðs af rekanum. Þannig lýsir Theódór þessari síðustu ferð þessa glæsilega skips, Jamestown sem strandaði á Hestakletti þann 17. júní 1881, mannlaust. Varð að vonum uppi fótur og fit á Stafnesbæjunum. Hafist var handa við að koma timbrinu í land og gekk það vel um sumarið eða þar til gerði stórviðri um haustið og skipið brotnaði. Mikið af timbri rak á land víðs vegar um land, m.a. í Vestmannaeyjum og Þorsteinn Jónsson í Laufási minnist í bók sinni á plankarekadaginn mikla. „Ég held að flest hús í Sandgerði á þessum tíma hafi verið byggð úr timbri úr Jamestown og mörg hús í öðrum byggðarlögum. Og þegar ráðist var í endurbætur á Menntaskólanum í Reykjavík, árið 1883, þá var notað timbur úr þessum farmi,“ segir Teddi.

Mikil vinna

Kaupstaðavegurinn

Kaupstaðavegurinn ofan Gamla-Kirkjuvogs.

Landeigendur vildu eigna sér strandið og stóðu forráðamenn hreppsins fyrir því en landsstjórnin var á öðru máli og yfirtók skipið og það sem í því var. „Hún útvegaði menn, vélstjóra, vélsmið og mann sem sá um peningamálin og þrír komu af svæðinu. Þeir leigðu litla skútu og vildu fá fleira fólk í nágrenninu til að koma að verkinu með sér. Það var ekki tilbúið fyrr en því var lofað vikulegri greiðslu í gulli í hverri viku. Þá slógu menn til, enda ekki algengt að fá greitt í peningum á þessu árum,“ segir Theódór.
Skútan er fyllt af viði og siglt til Reykjavíkur en verkinu er haldið áfram og því sem kom úr skipinu staflað í stæður uppi á landi. „Þannig gekk þetta en að lokum voru stæðurnar boðnar upp og gat hver sem er keypt. Það nýttu sér margir sem þarna bjuggu.“
Þarna er akkerið og keðjurnar komnar við sögu því eitt þeirra var fest í landi og keðjan strekt til að varna því að skipið losnaði af strandstað. Það hafði þó lítið að segja í stórviðrinu þegar það brotnaði um haustið.
Það er svo 38 árum síðar að maður sem var unglingur þegar Jamestown strandaði sagðist muna hvar keðjan lá og vildi ná henni upp. Hann hafði ekki leyfi en keypti keðjurnar í sjónum á tvær krónur af ríkisstjórninni. „Hann hét Sigurður og smíðaður var fleki sem notaður var við að ná keðjunum upp. Á hverri stórstraumsfjöru var farið niður að keðjunni og hún fest við flekann sem var svo dreginn á land á flóðinu. Þannig tóku þeir einn og einn lið í einu,“ segir Theódór.

Keðjurnar góðu

Jamestown

Jamestown – ankerið í Höfnum.

Það líða fjörtíu ár og aftur kemur Jamestown við sögu í Vestmannaeyjum og nú eru það akkeriskeðjan sem Vestmannaeyjahöfn keypti. Mikil vandræði voru með báta í höfninni og oft skaðar þegar aldan gekk óbrotin inn höfnina. Þorsteinn í Laufási var þá í hafnarstjórn og frétti að því að akkeriskeðjan úr Jamestown væri enn um borð í skipinu á strandstað. Hann fór til Sandgerðis og keypti keðjurnar en ekki akkerið sem heimamenn vildu einnig selja Eyjamönnum. Minna akkerið stendur nú við kirkjuna í Höfnum en stóra akkerið er í Sandgerði.
En aðalerindi Þorsteins var að festa kaup á akkeriskeðjunni úr Jamestown sem hann gerði. Dugði hún í þrjár lagnir og gátu 50 til 60 bátar legið við hana.

Hluti af sögunni
Keðjurnar luku sínu hlutverki og Theódór Ólafsson, vélstjóri og fyrrum útgerðarmaður lagðist í grúsk þegar hann kom í land.
Þegar dýpkun hófst í höfninni voru þær teknar upp. Ekki var hugað að því að hér væru merkar sögulegar minjar og lágu keðjurnar lengi vel uppi við Sorpu. Þær týndu tölunni þegar útgerðarmenn fóru að nota hlekkina til að þyngja flottroll. Eftir að Theódór fór að kanna sögu þeirra fann hann þrjá hlekki við FES-ið sem eru til skrauts í garði hans í Bessahrauninu.
„Þetta er stokkakeðja og hlekkirnir eru sjö kg að þyngd. Aftur á móti voru endahlekkirnir mun stærri og þyngri, eða um 50 kg. Hvað merkilegast finnst mér, hvað þeir eru enn heillegir og óskemmdir, eftir að hafa legið í 40 ár í sjó við Stafnesið og síðan í 50 ár í höfninni í Vestmannaeyjum. En ég vil endilega að þeir sem enn eru með þessa hlekki í fórum sínum sjái um að koma þeim á viðeigandi stað. Þeir eiga heima í Sandgerði, til minja um þetta strand og svo auðvitað líka á Byggðasafninu í Vestmannaeyjum, en ekki í ruslahaugum einhvers staðar,“ segir Teddi um þetta áhugamál sitt og greinilegt að hugur fylgir máli. Sérstaka athygli hans hefur vakið endingin á keðjunni og að þeir skuli enn vera heilir og engin tæring sjáanleg.

Mikill happafengur

Óttarsstaðir

Óttarsstaðir.

Skipið þótti mikill happafengur á Íslandi enda erfitt að verða sér úti um timbur hérlendis. Voru plankarnir notaðir í brúargerð og húsagerð og enn stendur að minnsta kosti eitt hús sem smíðað er úr viði úr Jamestown, húsið Efra Sandgerði, heimili Lionsklúbbsins í Sandgerði. Einnig var „gamla“ húsið að Krókskoti í Sandgerði byggt úr Jamestown timbri. Timbrið úr því húsi var síðan notað í „nýja“ húsið að Krókskoti og stendur það enn þá.
Árið 2002 fannst annað akkeri skipsins undan Höfnum, og hinn 24. júní 2008 var það híft upp af meðlimum umhverfisverndarsamtakanna Blái Herinn og því komið fyrir við húsið Efra Sandgerði. Áður hafði hitt akkerið fundist og er það fyrir utan kirkjuna í Höfnum. Þetta kemur fram í grein eftir Leó M. Jónsson sem birtist upphaflega í tímaritinu Skildi 2001. Segir að við nánari skoðun kom í ljós að skipið, sem mun hafa verið um 4000 tonn á núverandi mælikvarða og því engin smásmíði, – líklega með allra stærstu skipum sem til Íslands höfðu komið fram að því.

Með stærstu seglskipum

Jamestown

Jamestown.

Í annálum er Jamestown talið amerískt skip, sagt vera líklegast frá Boston. Af lýsingu á stærð þess að dæma hefur það verið með stærstu seglskipum á sinni tíð, um eða yfir 100 m á lengd og um 16 m á breidd, til samanburðar má hafa að venjulegur fótboltavöllur mun vera 90 til 100 m á lengd.
Jamestown var smíðað í Richmond og hleypt af stokkunum í nóvember 1879 og, að sögn Dan Conlin, er það horfið af skránni yfir amerísk og erlend skip upp úr 1880 og fyrir 1884. Hann segir að fjöldi smærri seglskipa hafi borið nafnið Jamestown eða James Town og verið á skrá um þetta leyti en hægt sé að útiloka þau öll þar sem ekkert þeirra hafi verið yfir 200 tonnum að stærð og öll styttri en 100 fet. Dan sagðist einnig hafa athugað skipaskrá Lloyds (Lloyd’s Register of Shipping) frá þessum tíma og ekki fundið þar neitt annað skip jafnstórt og Jamestown frá Richmond.

Glæsilegustu skipin á höfunum

Jamestown

Jamestown.

Stóru seglskipin sem voru í langferðum á milli heimsálfa á 19. öld og fram yfir 1900 voru tilkomumikil sjón á höfunum þar sem þau skriðu undir fullum seglum, iðulega framúr gufuskipum. Frægust langferðaskipanna voru bresku Cutty Sark og Thermopylae (sem fór á 28 dögum frá Newcastle á Englandi til Shanghai í Kína – met sem stóð lengi) en þau voru rétt innan við 1000 tonn að stærð (þess tíma mæling) og þau amerísku ,,Yankee clippers“ á borð við Young America og hið fræga breska Lightning (kennt við Macey) sem fór reglulega með póst á milli Bretlands og Ástralíu árum saman.“

Í Útvarpinu, Sumarmálum á Rás 1 árið 2020, er fjallað um „Mörg hús á Íslandi smíðuð úr mannlausu draugaskipi“ í viðtali við Tómas Knútsson:

Jamestown

Ólafur Ketilsson.

„Ferðin átti að vera sú síðasta sem skipstjórinn færi með skipinu og tók hann því dóttur sína með sér. Lokaferðin reyndist mikil sneypuför. „Þetta var svona Titanic-dæmi,“ segir Tómas Knútsson um Jamestown-strandið. Mannlaust skipið rak á land við Hafnir á Reykjanesskaga árið 1881.
Þann 26. júní árið 1881 varð sá óvenjulegi atburður í Höfnum á Reykjanesskaga stórt og voldugt seglskip rak þar á land í aftakaveðri. Jamestown hafði rekið um höfin í fjóra mánuði og var mannlaust. Það reyndist að miklu leyti gæfa fyrir Íslendinga að skipið skyldi reka á fjörur landsins því það var smekkfullt af brúklegum harðviði sem átti eftir að nýtast landsmönnum til bygginga næstu árin.

„Þetta er guðsgjöf, allt þetta timbur“

Jamestown

Jamestown – ankeri.

Jamestown var með stærri seglskipum sem smíðuð höfðu verið á þessum tíma. Það var drekkhlaðið af viði og var á leið til Englands til að setja viðinn undir járnbrautarteina. Skipið lagði af stað með farminn frá Ameríku og var búið að vera í vandræðum þegar það lendir í miklu óviðri á Norður-Atlantshafi með þeim afleiðingum að stýrið brotnar. „Þá kemur skip og bjargar áhöfninni en svo er meiningin að bjarga skipinu en þá finnur enginn skipið,“ segir Tómas Knútsson sem er í hópi áhugafólks um Jamestown-strandið. Þegar skipið loks fannst við Íslandsstrendur hafði það eigrað stefnu- og mannlaust um höfin mánuðum saman. „Svo gerir suðvestan hvell og skipið mölbrotnar og rekur á land svo það var hægt að bjarga öllu úr skipinu sem var nýtt til agna,“ segir Tómas. „Þetta var náttúrulega guðsgjöf, allt þetta timbur.“

Dóttir skipstjórans með í för
Skipið var mannlaust því áhöfninni var bjargað við illan leik. Ferðin átti að vera sú síðasta sem skipstjórinn færi með skipinu og tók hann dóttur sína með sér. Lokaferðin reyndist svo mun ævintýralegri en skipstjórinn hafði viljað. „Þetta var svona Titanic-dæmi. Þetta voru endalokin hjá þessu stóra mikla fyrirtæki sem skipstjórinn hafði unnið fyrir alla sína ævi og þá fer hann í svona sneypuför,“ segir Tómas.

Svíta skipstjórans varð predikunarstóll í Hvalneskirkju

Hvalsnes

Hvalsneskirkja.

Áhugahópurinn sem hefur einbeitt sér að örlögum skipsins síðustu ár hittist tvisvar, þrisvar á ári og hefur haldið tvær sýningar þar sem munir úr skipinu sem fundist hafa í hafinu eru til sýnis. „Við höfum látið Byggðasafnið hafa þetta allt saman eins og til dæmis seglvindu, svaka flott hjól og svo er akkerið.“

Hópurinn hefur staðið í ströngu við það síðustu ár að kortleggja þau hús á Íslandi sem byggð hafa verið úr timbri úr skipinu. „Gröndalshús í Reykjavík er eitt og brúargólfið í Elliðárbrúnni,“ segir Tómas. „Þetta fór um allt Suðurland og Suðurnes, það eru nokkur hús í Keflavík, nokkur í Sandgerði, eitt hús í Höfnum, einhver í Hafnarfirði, Vatnleysuströnd og það er eitthvað í Grindavík líka. Predikunarstóllinn í Hvalsneskirkju er úr mahóní sem kom úr svítu skipstjórans.“

Heimildir:
-Sjómannablaðið Víkingur, 3. tbl. 01.03.1973, Skipsstrand við Básenda árið 1881 – Skúli Magnússon, bls. 68-71.
-Eyjafréttir, 23. tbl. 08.06.2017, Akkeriskeðjur úr bandarísku skipi sem rak á land enduðu sem legufæri í Eyjum – viðtal við Theódór Ólafsson, bls. 22-23.
-https://www.ruv.is/frett/2020/08/09/morg-hus-a-islandi-smidud-ur-mannlausu-draugaskipi

Ásláksstaðir

Ásláksstaðir á Vatnsleysuströnd – eitt húsanna byggt úr timbri Jamestowns.

Draughóll

Sæmundur Einarsson (1765-1826) var ættaður af Suðurlandi. Hann vígðist 1790 og gegndi preststörfum á Kjalarnesþingum. Stóradal og Ásum, en 1812 fékk hann Útskála, sem hann  hélt til æviloka.

Garður

Letursteinn.

Í Fornleifaskýrslu 18. júlí 1817, nr. 4, lýsir hann Útskálum. Nefnir hann til sögunnar Másleiði við Hvalsnes, Flankaleiði, Kistugerði og leturstein þar hjá.  Auk þess nefnir hann rúnastein norðanhalt við landamerkin milli Kirkjubóls og Útskála þar sem standa tilteknir stafir. Auk þess ferhyrndan stein við túngarðshliðið á Stóra-Hólmi.

FERLIR leitaði lengi að og skoðaði framangreinda rúnasteina. Steinninn á mörkum Kirkjubóls og Útskála var löngum álitinn tengjast eftirmálum af drápi Jóns Arasonar árið 1550. Var talið að þarna hafi einhverjir aðfararmanna hans verið drepnir og síðan komið fyrir. Tveir hólar eru á Garðskaga, Draughóll og Skagahóll. Er steinninn utan í þeim fyrrnefnda og með þeirri áletrun er Sæmundur lýsir 1817. Nokkurn tíma tók að finna staðinn. Mörkin liggja þarna skammt vestar um gamlan hlaðinn garð. M er klappað á stein í fjörunni þar sem garðurinn endar. Letursteini þessum, líkt og 80 öðrum letursteinum á Reykjanesskaganum, hefur lítill sómi verið sýndur þrátt fyrir væntanlega merkilega sögu – hver svo sem hún er.

Heimild:
-Frásögur um fornaldarleifar 1817-1823, fyrri hluti, Sveinbjörn Rafnsson bjó til prentunar. SÁM 1983, bls. 235.

Garður

Garður.

 

Bæjarsker

Við Bæjarsker utan við Sandgerði eru Bæjarsker, Lönd og Bárugerði svo einhverja bæjanna sé getið.
BæjarskerÞessir gömlu bæir og leifar þeirra hafa þegar látið mjög á sjá, ekki síst vegna þess að þarna er um að ræða fyrirhugað byggingarsvæði Sandgerðis. Tökum t.a.m. eina tegund búsetuminjanna; garðana, sem enn eru greinanlegir.
Í örnefnaskrá segir: „Milli Sandgerðis- og Bæjarskershverfis eru, ofan við sandinn, stórar og fallegar sléttar flatir, kallaðar Löndin. Neðri hluti Landanna var að eyðast af sjávarágangi og hreinum uppblæstri. Fyrir nokkrum árum var girt fyrir Löndin skammt fyrir ofan sjávarmál. Er þar nú að gróa upp fagurt landsvæði, en til nokkurrar óprýði eru gömlu rofin, sem upp úr standa. Vegurinn með Miðnesi liggur um Löndin; eru nú risnar upp margar byggingar báðum megin við veginn og Löndin óðum að byggjast, en þar var ekkert býli um aldamótin.
BæjarskerEinn garðurinn liggur meðfram austuhlið skipulagssvæðsins á um 450 m kafla. Við vesturhlið húsanna Miðtún 2-4 er hann aðeins sýnilegur á 12 m kafla, en síðan er hann hulinn að mestu vegna jarðfyllingar sem komið hefur til við byggingu húsanna sem standa við Miðtún. Hann kemur svo aftur greinilega í ljós við Miðtún 12 sem er syðsta húsið, og er síðan mjög greinilegur neðan undan túninu á Býjaskeri. Hæð hleðslanna í garðinum er nyrst um 0.60 m en hann er allt að 1.50 m þar sem hann er hæstur. Ofan á garðinum er svo 0.40-1 m hár graskantur. Heimildir um garðinn er ekki að finna í Örnefnaskrá, en í viðtali við Halldóru Ingibjörnsdóttir á Flankastöðum telur hún að garðhleðslan sé ævaforn.
Vörslugarður er vestan við lóðir að Miðtúni 4-6. Garðurinn liggur suðvestur-norðuraustur, er um 15 m langur, og nokkuð óreglulegur í landinu. Hleðsluhæð er um 0.35 m. Garðurinn hefur trúlega verið hærri upphaflega.

Bæjarsker

Í viðtali við Halldóru sagði hún að grjót meðal annars úr þessum görðum hefði verið selt þegar framkvæmdir voru vegna hafnargerðar í Sandgerði fyrr á árum. Heimildir um garðinn er ekki að finna í Örnefnaskrá.
Sandvarnargarður var neðanvert til að hefta sandfok. Staðsetningin er n: 64,01,906 v: 22,42,647 Hættumat: Þar sem garðurinn er hlaðinn árið 1936 telst hann ekki fornleif samkvæmt þjóðminjalögum. Garðurinn liggur norður-suður frá suðurhluta hafnarinnar og út á sléttlendið út frá húsinu sem einu sinni var refabú. Garðurinn er um 500 m langur og all verulegur. Hleðslur garðsins eru allt að 1 m á hæð og 1 m á breidd. Þá hefur verið hlaðin utan í garðinn tvíhólfa tóft. Heimildir um garðinn er ekki að finna í Örnefnaskrá. Í viðtali við Halldóru sagði hún að garður þessi hafi verið hlaðinn árið 1936 til að hefta sandfok yfir svæðið sem þarna er austur og suður af.

Heimildir m.a.:
-Magnús Þórarinsson: „Leiðir, lendingar og örnefni á Miðnesi; – Melaberg“.
-Frá Suðurnesjum. Frásagnir frá liðinni tíð, Félag Suðurnesjamanna í Reykjavík, 1960, bls. 118-123.
Býjasker

Sandgerðissel
Athygli FERLIRs hafði fyrir nokkrum árum verið vakin á svonefndri „Grænulaut“ ofan við Sandgerði. Sá, sem það gerði, sagðist hafa leikið sér þar sem barn. Eftirtektarvert hefði verið að svæði í lautinni, sem raunar er aflíðandi breitt gróið gil, hefði jafnan grænkað fyrr á vorin en önnur svæði í nágrenninu.
SelstaðanLýsingin vakti strax forvitni því hér var komin vísbending um að þarna kynnu að leynast gamlar tóftir; beitarhús, kot eða jafnvel gömul selstaða.
Í gamalli lýsingu á Sandgerði segir m.a.: „Sandgerðisvík skerst inn í vestanvert Rosmhvalanes. Víkin afmarkast að sunnan og vestan af skerjaklasa sem nefnist einu nafni Bæjarskerseyri. Landið umhverfis Sandgerði er láglendi og að austan er Miðnesheiði, víða grýtt og gróðurlítil. Minjar eftir mikinn uppblástur sjást víða, stór rofabörð, sem sýna að fyrrum var jarðvegur mun meiri í heiðinni en nú er. Nú er sauðfjárhald að mestu afnumið en landið friðað. Norðan Sandgerðis eru Flankastaðir. Þar myndaðist snemma byggðarhverfi. En með vaxandi byggð hefur Sandgerði náð þangað og er nú skammt á milli hverfa. Að sunnan liggur land Bæjarskerja að Sandgerði. Seinustu árin hefur byggðin í Sandgerði teygt sig þangað og nú eru þessi gömlu hverfi sambyggð. Sjávarströndin er lág, víða sendin og mjög skerjótt. Sandfok herjaði áður á byggðina og eyðilagði oft fisk sem breiddur var til þurrkunar. En á árunum 1930-1950 var gert stórátak í baráttunni gegn sandfokinu og það heft með melgresi. Landbrot hefur verið geysimikið á Miðnesi. Sést það á hinu mikla útfirri meðfram landinu, t.d. fram undan Kirkjubóli skammt norðan Flankastaða.“

Tóftir

Um bæinn Sandgerði segir í sömu lýsingu: „Um 1935 var steyptur mikill sjóvarnargarður fyrir landi Sandgerðis. Bærinn Sandgerði stóð við litla tjörn norðan til í hverfinu sem myndaðist snemma upp af Sandgerðisvörinni. Er tjörnin kennd við bæinn og heitir Sandgerðistjörn. Á seinni hluta síðustu aldar var byggt stórt timburhús í stað gamla Sandgerðisbæjarins. Stendur húsið enn á tjarnarbakkanum. Þar bjó Sveinbjörn Þórðarson og seinna sonur hans, Einar. En þeir feðgar voru eigendur Sandgerðis.“
Í örnefnalýsingu fyrir Sandgerði segir m.a. um kotin: „Hjáleigur 1703 eru nefndar Bakkakot, sem einnig er til 1847; Krókskot, er einnig til enn; Landakot, er einnig til enn; Tjarnarkot, er einnig til enn; Harðhaus og Gata munu horfin. Stöðulkot var komið í eyði 1703, svo og Bakkabúð og Helgakot. Sums staðar er sagt frá því, að Sandgerði hafi heitið Sáðgerði. Má og sjá merki akurlanda í landi jarðarinnar.“

Tóftin

Þá segir í annarri örnefnalýsingu: „Í Sandgerðistúni útnorður frá Krókskoti suður af Sandgerðisbæ er stór hóll, grasi vaxinn, sem heitir Álfhóll. Á þessum hól eru rústir. Þetta er allmikið suður af Sandgerðisbæ. Þar upp af eru Uppsalir. Þar er sagt að hafi verið 18 hurðir á járnum. Þar voru rústir, sem nú hefur verið byggt á. Það er norðaustur frá Krókskoti. Þar er nú verið að byggja upp af Uppsölum, ofan við grænan hól, sem heitir Oddstóft. Þar suður af er gil eða melur, sem heitir Gulllág, líkast því að það sé farvegur eftir vatn og hafi runnið í sjó sunnan við Krókskot. Þar upp af, en ofan grjóthola, er varða, sem heitir Kríuvarða. Upp af henni er töluverður dalur með vatni í á vetrum og heitir Leirdalur.“
Álfhóll var talinn bústaður álfa og fullyrt var að þar hrektist aldrei hey. Gvendartóft er skammt frá Oddstóft, ofar í heiðinni, og var hún kennd við Guðmund í Tjarnarkoti.
Hvort fyrstnefnd tóft hafi verið svonefnd Gvendartóft eða Oddstóft er erfitt að segja nokkuð til um. Þó er það ósennilegt.
FuglTóftin í Grænulaut er aflöng með þremur rýmum. Hún er of lítil til að geta hafa verið bær og tæplega nógu stór til að geta hafa verið kot, en hæfileg sem selstaða. Miðað við stærð rýma og skipulag þeirra gæti þarna hafa verið sel frá Sandgerði (Sáðgerði). Fjórða rýmið, aflangt, vestast gæti þá hafa verið stekkur undir selhúsinu.
Auðvitað gæti þarna hafa byggst upp örkot eða önnur nytsöm mannvirki um skamman tíma, en þegar horft er til aðstæðna má leiða að því líkum að þarna hafi verið selstaða fyrrum. Reyndar er ekki minnst á selstöðu frá Sáðgerði í Jarðabókinni 1703, en það segir þó lítið um fyrri not.
Grasgróningar eru þarna í skjóli og lægðum, en hvergi er ræktaðan blett að finna. Það styrkir tilgátuna um selstöðu svo ofarlega í heiðinni.
Tóftin er í skjóli fyrir austanáttinni. Neðan við þær hefur runnið lækur fram á sumarið. Neðan við þær hafa myndast tjarnir, ákjósanlegar til beitar. Tóftin sjálf er gróin, en þó má sjá í henni grjóthleðslur í veggjum og lögun rýma. Lítill ágangur hefur verið á tóftina í seinni tíð.
Ef um selstöðu hefur verið að ræða er hún sambærileg við það sem sjá má í Bæjarskersseli undir Álaborginni og Fuglavíkurseli í Miðnesheiði, undir Selhólum. Hvalsnesselin tvö hafa enn ekki verið skoðuð, en það verður gert fljótlega.
Þarna gæti verið komin 253. selstaðan í fyrrum landnámi Ingólfs. Annars væri forvitnilegt að glugga í fornleifaskráningu, sem unnin var fyrir Sandgerðisbæ v/nýbyggingarsvæðis ofan bæjarins. Hún var lögð fram á fundi byggingarnefndar bæjarins 21. maí 2008.
Frábært veður. Gangan tók 12. mínútur.
Heimildir m.a.:
-Reynir Sveinsson.
-Jarðabók 1703.
-Örnefnalýsingar fyrir Sandgerði.

Efra-Sandgerði

Gufuskálar

Í Faxa 1999 fjallar Skúli Magnússon um Gufuskála í Leiru þar sem hann reynir að geta sér til um nafngiftina:

Gufuskálar

Gufuskálar – lind.

„Í Landnámu er alþekkt sögn um Ketil gufu, sem flæktist á milli staða við Faxaflóa og á Vesturlandi, sem hafa gufu að forlið í nafni.
Ekki er ljóst hvað vakað hefur fyrir skrásetjurum Landnámabókar með sögninni. Helst virðist svo að þeir séu að reyna að skýra tilurð staðarnafnanna með þessum forlið, með manns eða auknefninu gufu. Þar af leiðandi er mjög varasamt að treysta nokkuð á sannleiksgildi sagnarinnar og eins lfklegt að Ketill gufa hafi aldrei í Leiruna stigið fæti. Raunar tengjast KATLAR eldamennsku og GUFU en hvort í sögninni leynist um leið orðaleikur eða kímni fullyrði ég ekkert um. Þó má vera að hér sé á ferðinni gamansemi Landnámu skrásetjara.

Gufuskálar

Gufuskálar – tóftir ofan við Gufuskálavörina.

Þórhallur Vilmundarson hefur, sem kunnugt er, fyrir löngu sýnt fram á, að mörg nöfn landnámsmanna, sem menn töldu að hefðu verið til, væru tilbúin, dregin af staðháttum, en staðir ekki nefndir eftir mönnum jafnmikið og talið var. Leitaði Þórhallur þar annarra skýringa, m. a. í staðháttum í náttúrufari. Ef ég man rétt taldi hann gufuforliðinn í nafninu Gufuskálum, dreginn af sjóroki og ágjöf.
Einu sinni, þegar við Ólafur frá Litla-Hólmi, vorum á ferð úti í Leiru, lögðum við leið okkar niður að Gufuskálum. Fórum við þar niður í fjöru og þar sýndi Ólafur mér hvar allvolgt eða heitt vatn vall undan klöppunum niður í fjöruna. Gat hann þess að fyrrum hefði verið þveginn eða skolaður þvottur þarna. Þó var vatnið ekki svo heitt að úr því ryki. Þetta er hins vegar á fárra vitorði og hefur ef til vill alltaf verið sökum þess, að heita vatnið er neðan flóðmarks og fer á kaf á flóði.

Gufuskálar

Gufuskálar – hleðslur ofan við Gufuskálavör.

Þetta leiðir hugann að nafninu Gufuskálum og hvernig umhorfs var þar fyrrum. Var þar við landnám, 870-900, svo mikill hiti að úr vatninu rauk? Varð heitt vatn þama ef til vill til þess að fommenn komu sér þar snemma upp verbúð eða viðlegu til fiskjar? Er ef til vill kjarni sannleiks í sögn Landnámu um að Steinunn gamla hafi haft þar útræði? Ekki er ólíklegt að á Gufuskálum hafi verið búið fyrr en til að mynda á Hólmi í Leiru, vegna hitans, hafi hann verið meiri á þeirrí tíð.
Í öllu eldiviðarleysinu fyrrum, einkum þegar leið fram um landnám, var sírennandi heitt vatn, sem von er, almesta nauðsyn á köldum vetrum, ekki síst í verstöð þar sem kaldir og hraktir menn tóku oft lendingu.
Aldrei hefur það verið kannað, svo ég viti, hvort og hve mikið af heitu vatni mætti finna á Gufuskálum. Ef til vill gæfi slík rannsókn einhverja vísbendingu um hvernig ástand þar var í vatnsmálum við upphaf landnáms.“ – Skúli Magnússon

Gufuskála er getið í gömlum heimildum:

Gufuskálar

Gufuskálar – óskilgreindar tóftir á hól.

Jarðarinnar er getið á skrá um rekaskipti á Rosmhvalanesi frá um 1270: „…vt j tyslinga stein Gvfvskalar eigv þadann vt til midvarar j midskala…“ DI II, 77.
Þá er hennar getið í afgjaldareikningi Eggerts fógeta Hannessonar frá 1552 og í jarðaskiptabréfi hirðstjóra fyrir hönd konungs við Skálholtsstól frá 1563, DI XIV, 420, 156.
Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín frá 1703 nefnir tvær nafnlausar hjáleigur á jörðinni. JÁM III, 99. 1703: „Fóðrast kann iii kýr. … Skóg til kolgjörðar hefur jörðin í almenníngum. Torfrista og stúnga engin nema í grýttri jörðu valla nýtandi. Eldiviðartak lítið af fjöruþángi. Lýngrif lítilfjörlegt. Fjörugrasatekja nokkur. Rekavon nær engin. Heimræði árið um kríng… Lendíng slæm um stórstraum. Tún eru grýtt og uppblásin til þriðjúnga. Engjar eru öngvar. Hagar eru mjög litlir vetur og sumar. Vatnsból í lakasta máta og þrýtur bæði sumur og vetur.“ JÁM III, 98-99.
1703, jarðardýrleiki óviss. Konungseign. JÁM III, 98-99. 1847, 33 1/3 hdr. Konungseign. JJ,88. Jarðarinnar er getið í Þórðarbók Landnámu: „Gufi hét annarr son Ketils. Hann vildi byggja í Nesi en Ingólfr rak hann á brutt þaðan; þá fór hann á Rosmhvalanes og vildi byggja á Gufuskálum…“ ÍF I, 66 nm og í Sturlubók Landnámu: „Ketill tók Rosmhvalnes; sat hann enn fyrsta vetr at Gufuskálum“ ÍF I, 166. Þá er hennar getið í Egilssögu: „Ketill gufa kom til Íslands, þá er land var mjök byggt; hann var inn fyrsta vetr at Gufuskálum á Rosmhvalanesi.“ ÍF II, 240.
Túnakort 1919: Gufuskálar: Tún 2,8 teigar, kálgarðar 930 m2. Vesturkot: Tún 0,9 teigar, kálgarðar 900 m2.

Heimild:
-Faxi, 3. tbl. 01.10.1999, Gufuskálar í Leiru, Skúli Magnússon, bls. 63.
Gufuskálar.

Prestsvarða

Í Faxa 1999 er fjallað um „Prestsvörðuna“ – vörðu séra Sigurðar Br. Sívertsen Útskálaprests (1837-1887) austarlega í Miðnesheiði, ofan Leiru:

Sel

Heimildir eru um Sel frá 14. öld og var það lengst af kirkjujörð auk þess sem útræði var mikið úr Selsvör, enda upphaflega um sel frá Víkurbænum að ræða. Bærinn var síðar oft nefndur Stóra-Sel. Steinbær var reistur þar árið 1884 sem stendur enn. Uppdráttur Hoffgards frá árinu 1715 sýnir m.a. Sel enda eitt af höfuðbýlum á þessu svæði og prestsetur. Nýlegar fornleifarannsóknir sýna að undir steinbænum eru leifar af torfbæ. Selsbærinn stóð þar sem í dag er Holtsgata 41b.

„Sr. Sigurður Brynjólfsson Sívertsen var fæddur hinn 2.11.1808 í litla prestseturskotinu að Seli við Reykjavík. Hann var sonur prestshjónanna sr. Brynjólfs Sigurðssonar og Steinunnar Helgadóttur. Sigurður flutti ungur að árum eða 18 ára í Garðinn. Hann gekk í Bessastaðaskóla og með honum voru margir merkir menn eins og Tómas Sæmundsson og Jónas Hallgrímsson sem síðar urðu Fjölnismenn. Á þessum tíma var Grímur Thomsen þar væntanlega að leika sér þá 9 ára gamall. Einnig má nefna að á þessum tíma var þar Sveinbjörn Egilsson úr Innri-Njarðvík, ásamt dr. Hallgrími Scheving málasnillingi. Allir þessir menn settu svip á Íslandssöguna.

Sigurður B. Sívertsen

Sigurður B. Sívertsen.

Sigurður vígðist sem aðstoðarprestur til föður síns þann 18.09.1831 þá 23 ára. Gekk Sigurður að eiga unnustu sína Helgu Helgadóttur þann 5. júní 1833. Árið 1837 þann 1. mars fékk sr. Sigurður Útskálaprestakall en þá hafði faðir hans sagt því lausu, en hann andaðist stuttu seinna. Þar átti hann eftir að þjóna næstu 50 árin. Þannig þjónaði hann sem prestur í 54 ár samfleytt.
Sr. Sigurður var merkur maður, hann skrifaði mikið og þekktasta ritverk hans er án efa héraðslýsing Útskálaprestakalls. Hann kom á fót barnaskóla, byggði kirkju og gaf til fátækra. Sr. Sigurður andaðist í hárri elli þá orðinn blindur.

Garðsstígur

Á gangi um Garðsstíg.

22. janúar árið 1876 var sr. Sigurður Br. Sívertsen á heimleið [á Garðsstíg] eftir að hafa skírt barn í Keflavík. Veðrið var afar slæmt, eins og það hafði reyndar verið allan þennan mánuð. Yfir landið gekk slæmt landsynningsveður með mikilli rigningu, upp úr útsynnings éljagangi og frosti. Eflir að hafa borist áfram dálítinn spöl varð Sigurður viðskila við samferðamenn sína. Hann hafði einnig misst hest sinn og lét því fyrirberast í heiðinni. En þannig segir sr. Sigurður sjálfur frá: „Sunnudaginn 2. janúar 1876 gjörði mesta ofsaveður ú landsunnan, sem varaði alla nóttina. Fuku skip og brotnuðu. Annað veður þvílík datt á laugardagskvöldið, þann 22. janúar, með fjarskalegri rigningu upp úr útsynnings éljugangi og frosti: Þá um kvöldið, er ég kom frá Keflavík, er ég skírt hafði þar barn, varð ég viðskila við samferðamann minn við Bergsenda, en af því að ég sá ekki lengur til vegar, fór ég afleiðis suður fyrir veginn fyrir ofan Leiru. Treysti ég mér þá ekki til að halda áfram, ef ég kynni að villast suður í heiði. Var og hesturinn hlaupinn frá mér. Lagðist ég þá niður og ætlaði að láta fyrirberast, en um nóttina var gerð leit að mér af sóknarfólki mínu, fyrir tilstilli sonur míns. Leið svo hin óttalegu nótt, að enginn gat mig hitt, þar til um morguninn, að tveir heimamenn mínir hittu mig og var ég enn með rœnu og nokkru fjöri, þó að nokkuð vœri af mér dregið.

Prestsvarða

Prestsvarðan.

Hugði enginn maður, að ég þá nótt mundi hafa afborið lífið, og var það auðsjáanlega drottins almœttis dásemdarverk, að ég skildi lifa svo lengi í því veðri, en mér leið vel og mér fannst eins og yfir mér hefði verið tjaldað, og vissulega var ég undir hlífðartjaldi með föðurlegri varðveizlu. Guði sé lof fyrir þessa lífgjöf. Þetta tilfelli í lífi mínu vil ég ekki gleyma að minnast á og gefa Guði dýrðina.“
Nokkru eftir þennan atburð lét séra Sigurður hlaða upp vörðu á þessum stað. Eins og sjá má nú er nokkuð mikið hrunið úr vörðunni. Ekki veit ég hvenær hrunið hefur úr henni en samkvæmt skrifum Tryggva Ófeigssonar fyrrum útgerðarmanns var varðan heil um 1920. Varðan er og hefur verið ferstrend eins og margar grjótvörður. Þegar varðan var heil var hún frábrugðin öðrum vörðum á þann hátt að á þeirri hlið sem sneri í austur var allstór flöt hella sem í er höggvið er sálmavers.
Það eru rúm tuttugu ár síðan að ég kom fyrst að þessari vörðu. Þá hafði mágur minn og ég gert nokkra leit að henni en án árangurs. Þegar við komum hér að þessari hálfhrundu vörðu ákváðum við að setjast niður og hvíla okkur aðeins. Þá dettur mér allt í einu í hug að velta við stórum steini sem lá þarna eins og á grúfu. Þegar við veltum honum við sáum við að hér var kominn steinninn með sálmaversinu á. Við hlóðum því nokkrum steinum í pall og settum steininn þar sem hann er nú. Versið á steininum er og var þá ill læsilegt, en seinna um veturinn fór ég og makaði snjó í steininn og var þá betur hægt að greina hvað á honum stendur. Á steininum virðist standa:
1876 21.JAN Í FRIDI LEGST ÉG
FYRIR Í FRIDI ER ÉG ÞVÍ ÞÚ
EINN DROTTINN ERT ÞAÐ SEM
LÆTUR MIG BÚA ÓHULTAN Í NÁÐUM.
Útskálakirkja
Þetta vers er greinilega úr Davíðsálmi 4. kafla 9. vers: „Í friði leggst ég til hvíldar og sofna, því að þú, Drottinn, lætur mig búa óhultan í náðum.“ Það skemmtilegasta við þessa sögu er það að mágur minn sr. Hjörtur Magni Jóhannsson sem þá var nemandi við Fjölbrautaskóla Suðurnesja vígðist síðar sem prestur að Útskálum.
Eins og fyrr segir var sr. Sigurður Br. Sívertsen merkur maður. Hann hafði meðal annars forgöngu að söfnun til að koma á fót barnaskóla, sjálfur gaf hann 1200 krónur og gaf árlegt tillegg eftir það. Hann gaf mikla peninga til fátækra. Hann styrkti efnilega unglinga til framhaldsmenntunar. Hann lét reisa nýja kirkju árið 1861, kirkjan kostaði 3450 krónur, og sr. Sigurður borgaði sjálfur 632 krónur. Þá gaf hann kirkjunni altaristöflu, og fleiri hluti. Hann stundaði líka lækningar, keypti mikið af meðulum og ferðaðist um prestakallið og veitti fólki hjálp og meðul án endurgjalds. Hann vann að miklum jarðarbótum og var veitt sérstök viðurkenning fyrir það. Sr. Sigurður skrifaði margt og mikið, sumt af því hefur komist á prent en mest liggur í handritum á landsbókasafninu. Sr.
Sigurði var veitt heiðursmerki frá konungi fyrir atorku og menningarforystu. Hann keypti 25 lesta þiljubát frá Sarpsborg í Noregi í félagi við þrjá aðra menn en það ævintýri gekk illa og tapaði hann miklu á því.

Sigurður B. Sívertsen

Endurminningar Sigurðar B. Sívertsen frá 1758, útgefnar 1841.

Árið 1868 vígðist sonur sr. Sigurðar, sr. Sigurður Sívertsen yngri til aðstoðarprests hjá föður sínum. Hann lést úr taugaveiki aðeins rúmum mánuði eftir að hann tók vígslu. Það varð þeim hjónum mikill missir því vonir voru bundnar við að hann tæki við brauðinu eftir daga föður síns. Sjö árum eftir að sr. Sigurður hafði misst son sinn, vígðist til hans aðstoðarprestur, systursonur hans sr. Brynjólfur Gunnarsson.
Árið 1886 fær sr. Sigurður embættisbréf frá biskup þess efnis að hann skuli tafarlaust segja Útskálaprestakalli lausu og sækja um lausn frá prestsþjónustu. Þótt svo að hinum aldna presti hafi grunað að svo gæti farið að hann yrði neyddur til að segja embættinu lausu kom þetta sem reiðarslag. Sr. Sigurði fannst þetta óþarfa harðræði yfirstjórnar, hann var sár og honum fannst að sér vegið. Hann batt miklar vonir við að aðstoðarpresturinn sr. Brynjólfur Gunnarsson tæki við af honum. Í vitnisburði um sr. Brynjólf segir: Hann var lipur kennimaður, stillingarmaður og hugljúfi hvers manns, sómamaður í öllum greinum og ljós í dagfari. Það virðist einhver kirkju- og/eða landsmálapólitík hafa ráðið því hvemig fór. Því sr. Brynjólfur sækir um brauðið eftir að hafa þjónað prestakallinu sem aðstoðarprestur í 10 ár og með meðmæli flestra sóknarbarna. En brauðið fékk sr. Jens Pálsson þá prestur á Þingvöllum.

Sigurður B. Sívertsen

Skrif Sigurðar B. Sívertsen í bók útg, 1841.

Um haustið er sr. Jens settur í embætti. Daginn eftir er kirkja og staðurinn tekin út. Í þeirri úttekt fannst afhendandi presti mikill ójöfnuður og á sig hallað. Ekki gekk saman með þeim prestum að sá gamli fengi neitt að hafa af jörðinni eftirleiðis. Hann fékk að halda til í húsum sínum, en eftirlaun hans skyldu renna upp í skuld. Fór því þannig að sr. Jens Pálsson fékk bæði brauðið, búið og Þingvelli til næstu fardaga.
Þetta sama haust, þegar sr. Sigurður var orðinn embættislaus, einangraður og jarðnæðislaus, fékk hann óþekkta, illkynja veiki í höfuðið með miklum þrautum og andlitsbólgum og lá oft þungt haldinn. Þann 4. febrúar 1887 gekk hann síðasta skipti að rúmi sínu með þessum orðum: Þótt þú deyðir mig Drottinn þá skal ég samt vona á þig.
Hann lést þann 24. maí 1887, hálfu ári eftir að hann lél formlega af embætti. Hann var jarðsettur í Útskálakirkjugarði 10. júní að viðstöddum miklum mannfjölda, um 600-700 manns. Yfir moldun hans töluðu þrír prestar, þeir sr. Þórarinn Böðvarsson prófastur, sr. Oddur V. Gíslason prestur í Grindavík og sr. Brynjólfur Gunnarsson aðstoðarprestur hans. En sóknarpresturinn sr. Jens Pálsson var fjarverandi en hann stóð þá í flutningum frá Þingvöllum. Helga, kona sr. Sigurðar lést úr mislingum árið 1882.“
Ragnar Snær Karlsson tók saman.

Heimild:
-Faxi, 3. tbl. 01.10.1999, Prestasvarðan, bls. 56-57.
-Undir Garðskagavita, Gunnar M. Magnússon, Ægisútgáfan 1963. Árbók Suðunesja. 1986-1987.

Útskálar

Útskálar 1920 – teikning; Jón Helgason.

Gufuskálar

Brynjúlfur Jónsson segir m.a. frá Gufuskálum í Leiru í Árbók Hins íslenska fornleifafélags 1903 undir fyrirsögninni „Rannsókn í Gullbringusýslu og Árnessýslu sumarið 1902„:

„Gufuskálar

Gufusálar

Gufuskálar – brunnur.

Miðskálar og Útskálar eru nefndir í fornum rekaskrám Rosmhvalaness, svo og Miðskálaós og Útskálaós. Miðskálar eru einnig nefndir Miðskálagarður, sem mun eiga að merkja heimajörð með hjáleigum. Í óprentuðu riti eftir séra Sigurð B. Sivertsen á Útskálum hefi eg séð það, að bærinn á Miðskálum heiti nú í Vörum og Miðskálaós Varaós, en Útskálaós Króksós. Sr. S. B. S. getur þess til, að þessir þrennir »skálar«, svo skamt hver frá öðrum, hafi í fyrslu verið eitt land með einu nafni (Gufuskálar), en skifzt fyrst í 3 jarðir, er allar hafi haldið nafninu, en hinar yngri verið aðgreindar með afstöðuorði framanvið nafnið (Mið-Gufuskálar, Út-Gufuskálar), en svo hafi nöfnin verið stytt í framburðinum er frá leið.

Gufuskálar

Gufuskálar – óskilgreindar tóftir ofan sjávarsíðunnar.

Þessi tilgáta gerir ráð fyrir því, að bygð á Gufuskálum hafi eigi lagzt niður, þó Ketill gufa færi þaðan, heldur hafi landeigandi þá sezt að í »skálum« hans, og er ekkert á móti því. Það gerir tilgátuna sennilegri, að samskonar tilfelli hefir átt sér stað með Arnarbæli undir Eyjafjöllum. Úr þeirri jörð hafa verið bygðar jarðirnar: Mið-Arnarbæli og Yzta-Arnarbæli, en nöfnin síðar orðið að: Miðbæli og Yztabæli. Fleiri dæmi lík þessu mun mega finna. Eg vil nú bæta þeirri tilgátu við, að Miðskálagarður hafi í fyrstu verið haft um Miðskála sem hjából, en smámsaman verið látið ná yfir alt það hverfi, sem þar myndaðist.
Nafnið hafi svo í daglegu tali verið stytt og að eins nefnt: Garðurinn.
Miðskálanafnið hafi síðan týnzt, en nafnið: »Garðurinn« haldist, og loks náð bæði yfir Miðskálahverfi (nú Inn-Garðinn) og Útskálahverfi (nú Út-Garðinn). — Rit séra Sigurðar er að mörgu fróðlegt, sem von er af
slíkum fræðimanni. Ætti Landsbókasafnið að eignast það.“

Í Faxa 1968 er grein eftir Ólaf B. Björnsson; „Þar fékk margur sigg á lófa„:

Gufuskálar

Gufuskálar – óskilgreindar tóftir ofan sjávarsíðunnar.

„Lengi fara litlar sögur a£ Leirunni, enda er hún ekki nema lítill hluti úr stórum hreppi. Þar búa fáir bændur og þar eru ekki margar góðjarðir, en þar hefur lengi þótt útræði gott. Þegar á landnámsöld koma þó við sögu Gufuskálar og Hólmur, og er líklegt, að þar hafi búið Steinunn gamla, frændkona Ingólfs landnámsmanns. Um hana eru ekki margar línur í Landnámu. Þó opna þessi fáu orð fyrir manni heilan heim um þessa konu. Hún hefur verið veraldarvön, óvenjulega hyggin og framsýn. Um hana segir svo í Landnámu:
„Steinunn (Steinunn) hin gamla, frændkona Ingólfs fór til Íslands ok var með Ingólfi inn fyrsta vetur. Hann bauð að gefa henni Rosmhvalanes allt fyrir utan Hvassahraun. En hún gaf honum fyrir heklu flekkótta enska og vildi kaup kalla. Henni þótti það óhættara við riftingum. Steinunni hafði átt Herlaugr bróðir Skalla-Gríms. Þeirra synir voru Njáll og Arnórr“.

Gufuskálar

Gufuskálar

Gufuskálar – óskilgreindar tóftir ofan sjávarsíðunnar.

Jörðin er þá kóngsins eign. Í landsskuld greiðir ábúandinn 10 vættir af fiski í kaupstað. Henni fylgja tvö kvígildi, og leigur af þeim verður ábúandinn einnig að gjalda með fiski, en auk þess að leggja sjálfur við til húsabóta. Einnig verður hann að yngja kúgildin upp. Enn er sú kvöð ábúandans, hann verður að lána mann á kóngsskip um vertíð.
„Heimræði er árið um kring og ganga skip ábúandans að hentugleikum. Inntökuskip eru mjög sjaldan, nema kóngsskip. Þau hafa stundum gengið eitt og það oftast, sjaldan tvö, og ekki stærri en sex manna far, og það undirgiftarlaust.
Verbúð fylgir kóngsskipunum fyrir fimm menn, henni viðheldur ábúandinn. Lending slæm um stórstraum“. Þessari jörð fylgja tvær hjáleigur.“

Í Lesbók Morgunblaðsins 1966 fjallar G.Br. um „Leiruna“:

Gufuskálar

Gufuskálar – óskilgreindar tóftir á hól.

„Gufuskálar eru landnámsjörð Ketils gufu Örlygssonar. En ekki átti það fyrir honum að liggja, eða fólki hans, að setja svip sinn á byggðina í Leirunni. Frá honum segir svo í Egilssögu:
Ketill gufa kom til Íslands, þá er land var mjög byggt. Hann var hinn fyrsta vetur að Gufuskálum á Rosmhvalanesi. Ketill hafði komið vestan um haf af Írlandi. Hann hafði með sér þræla marga írska.
Lönd voru öll byggð á Rosmhvalanesi þann tíma. Réðst Ketill því þaðan á brott og inn í Nes og sat annan vetur á Gufunesi og fékk þar engan ráðstafa. Síðan fór hann í Borgarfjörð og sat þar hinn þriðja vetur. Ketill gufa fór síðan vestur í Breiðafjörð og staðfestist í Þorskafirði.“

Í Faxa 1999 skrifar Skúli Magnússon um „Gufuskála í Leiru„:

Gufuskálar

Gufuskálar – óskilgreindar tóftir á hól.

„Í Landnámu er alþekkt sögn um Ketil gufu, sem flæktist á milli staða við Faxaflóa og á Vesturlandi, sem hafa gufu að forlið í nafni.
Ekki er ljóst hvað vakað hefur fyrir skrásetjurum Landnámabókar með sögninni. Helst virðist svo að þeir séu að reyna að skýra tilurð staðarnafnanna með þessum forlið, með manns eða auknefninu gufu. Þar af leiðandi er mjög varasamt að treysta nokkuð á sannleiksgildi sagnarinnar og eins lfklegt að Ketill gufa hafi aldrei í Leiruna stigið fæti. Raunar tengjast „katlar“ eldamennsku og „gufu“ en hvort í sögninni leynist um leið orðaleikur eða kímni fullyrði ég ekki um. Þó má vera að hér sé á ferðinni gamansemi Landnámu skrásetjara.

Gufuskálar

Gufuskálar – hleðslur ofan við Gufuskálavör.

Þórhallur Vilmundarson hefur, sem kunnugt er, fyrir löngu sýnt fram á, að mörg nöfn landnámsmanna, sem menn töldu að hefðu verið til, væru tilbúin, dregin af staðháttum, en staðir ekki nefndir eftir mönnum jafnmikið og talið var. Leitaði Þórhallur þar annarra skýringa, m. a. í staðháttum í náttúrufari. Ef ég man rétt taldi hann gufuforliðinn í nafninu Gufuskálum, dreginn af sjóroki og ágjöf.
Einu sinni, þegar við Ólafur frá Litla-Hólmi, vorum á ferð úti í Leiru, lögðum við leið okkar niður að Gufuskálum. Fórum við þar niður í fjöru og þar sýndi Ólafur mér hvar allvolgt eða heitt vatn vall undan klöppunum niður í fjöruna. Gat hann þess að fyrrum hefði verið þveginn eða skolaður þvottur þarna. Þó var vatnið ekki svo heitt að úr því ryki. Þetta er hins vegar á fárra vitorði og hefur ef til vill alltaf verið sökum þess, að heita vatnið er neðan flóðmarks og fer á kaf á flóði.
Gufuskálar.Þetta leiðir hugann að nafninu Gufuskálum og hvernig umhorfs var þar fyrrum. Var þar við landnám, 870-900, svo mikill hiti að úr vatninu rauk? Varð heitt vatn þarna ef til vill til þess að fommenn komu sér þar snemma upp verbúð eða viðlegu til fiskjar? Er ef til vill kjarni sannleiks í sögn Landnámu um að Steinunn gamla hafi haft þar útræði? Ekki er ólíklegt að á Gufuskálum hafi verið búið fyrr en til að mynda á Hólmi í Leiru, vegna hitans, hafi hann verið meiri á þeirri tíð.
Í öllu eldiviðarleysinu fyrrum, einkum þegar leið fram um landnám, var sírennandi heitt vatn, sem von er, almesta nauðsyn á köldum vetrum, ekki síst í verstöð þar sem kaldir og hraktir menn tóku oft lendingu.
Aldrei hefur það verið kannað, svo ég viti, hvort og hve mikið af heitu vatni mætti finna á Gufuskálum. Ef til vill gæfi slík rannsókn einhverja vísbendingu um hvernig ástand þar var í vatnsmálum við upphaf landnáms. – Skúli Magnússon.“

Í Faxa 1979 segir Njáll Benediktsson frá „Sögnum af Suðurnesjum„, nýútkominni bók Guðmundar Á. Finnbogasonar:

Gufuskálar

Gufuskálar – tóftir ofan við Gufuskálavörina.

„Sagnir af Suðurnesjum heitir ný bók eftir Guðmund Á. Finnbogason frá Hvoli í Innri-Njarðvík. Kom hún út fyrir síðustu jól, útg. er Setberg.
Guðmundur rifjar upp gamlar minningar um menn og málefni sem eru kryddaðar notalegri kímni. Það verður enginn svikinn af þessari bók, enda finnst í henni mikill fróðleikur og grunur minn er margir bíði með eftirvæntingu eftir meiru frá Guðmundi og má hann ekki gleyma kviðlingum.
Guðmundur segir í bók sinni m.a. frá Símoni Sigurðssyni og Þórdísi Ófeigsdóttur, konu hans, sem bjuggu í Kóngsgerði í Leiru 1860. Guðmundur yrkir um Símon:

Lítið oft þó léti í maga
lundu glaða Símon bar.
Fátæktina festi á snaga
fór að semja skrítlurnar.
Hafinn yfir heimsins gengi
hungur basl og mæðustand.
Grannur sló á gamans strengi
gullu hljómarvítt um land.
Það er besti auður öllum
andanns gull sem verða kann.
Mikið ofar matardöllum
marga gleði Símon fann.

Með þessum vísum lýsir Guðmundur Símoni best.

Gufuskálar

Gufuskálar – Hausthús.

Þegar ég var að vaxa úr grasi í Garðinum heyrði ég marga brandara hafða eftir Símoni og lifa þeir enn á vörum manna. Skulu nokkrir þeirra sagðir hér eins og ég man þá best.
Árið 1860 búa í Kóngsgerði í Leiru Símon Sigurðsson, 34 ára ættaður úr Sigluvíkursókn og kona hans Þórdís Ófeigsdóttir, 31 árs, ættuð úr Njarðvíkursókn. Eitt barn var hjá þeim þá, Sigurður 3 ára.
Árið 1860 er kaupmaður í Keflavík sem hét Pétur Duus, 65 ára. Símon átti oft erindi í verslun Duus enda líka byttan þar á stokkum en Símoni þótti sopinn góður. Símon þótti orðheppinn og fljótur til svara og margir brandarar eftir honum hafðir sem flestir eru gleymdir, þó skal rifja upp nokkra: Kóngsgerði var talið til tómthúsa en þó mun hafa verið þar smá túnblettur.

Gufuskálar

Gufuskálar – Vesturkot.

Eitt sumar voru þau hjón að taka saman heytugguna vildi Símon leggja lítið undir sátuna til þess að fá hana sem hæsta. Svo kom að því að Símon náði í stiga og rétti Þórdís honum heytugguna. Þegar allt heyið var svo komið í sátuna fer Símon upp á hana og kallar: „Er logn á jörðu Þórdís mín“. Með þessu vildi Símon láta það út ganga að í Kóngsgerði væru há hey.
Eitt vor var Símon að þurrka vertíðarfiskinn sinn á klöppunum fyrir neðan Kóngsgerði. Staflaði hann fiskinum í stakk rétt fyrir ofan flóðfarið en um nóttina gerði austan strekkings vind með nokkrum sjógangi og fór allur staflinn í sjóinn. Morguninn eftir kemur nágranni Símonar á gluggann til hans og segir að allur fiskurinn sé kominn í sjóinn en Símon rís upp með hægð og segir: „Hann átti með það blessaður sjórinn, hann var úr honum hvort sem var“, og Símon lagði sig til svefns aftur. – Njáll Benediktsson.“

Í Faxa 1991 fjallar Njáll benediktsson um „Mannlíf í Leiru„:

„Nú höldum við í norður og komum í Gufuskálaland, það var kallað Út-Leira.

Gufuskálar

Gufuskálar – Vesturkot.

Við komum í Gufuskála, þar býr Eyjólfur Eyjólfsson húsbóndi 51 árs, Sigrún Halldórsdóttir kona hans 47 ára, Halldóra Eyjólfsdóttir dóttir þeirra 16 ára, Björn Eyjólfsson sonur þeirra 12 ára, Ingibjörg Eyjdlfsddttir dóttir þeirra 5 ára, Sigrún Oddleif Eyjólfsdóttir dóttir þeirra 3 ára, Guðjón Jónsson hjú þeirra 27 ára, Sigurður Guðmundsson hjú 65 ára, Elfn Magnúsdóttir hjú þeirra 55 ára, Eyjólfur Eyjólfsson sonur hjónanna 13 ára. Þá er haldið í norðvestur og komið að Vesturkoti, þar býr Eggert Einarsson húsbóndi og sjómaður 56 ára, Þóra Þorsteinsdóttir kona hans 63 ára, Þorsteinn Eggertsson sonur þeirra 33 ára, Björn Eggertsson sonur þeirra 30 ára, Þorgerður Eggertsdóttir dóttir hjónanna 22 ára, Jón Jónsson leigjandi, sjómaður 64 ára, Eiríkur Þorsteinsson sjómaður 59 ára, Guðmundur Guðmundsson sjómaður 39 ára. Nú höldum við niður að sjó, þar stóð Hausthús, fallegur bær með blóm í haga. Þar býr Jósep Oddsson húsbóndi og sjómaður 46 ára, Gróa Jónsdóttir kona hans 33 ára, Jósepína Jósepsdóttir dóttir hans 11 ára, Jónína Halldóra Jósepsdóttir dóttir þeirra 7 ára, Ólafur Jósepsson sonur þeirra 3 ára, Oddný Jósepsdóttir dóttir þeirra 1 árs. Fyrir vestan Hausthús er Kóngsgerði, þar býr Þórarinn Eyjólfsson húsbóndi 39 ára, Sigríður Arnadóttir kona hans 43 ára, Ingibjörg Þórarinsdóttir dóttir hans 11 ára, Guðrún Þórarinsdóttir dóttir hans 10 ára, Guðbjörn Þórarinsson sonur þeirra 8 ára, Katrín Árnea Þórarinsdóttir dóttir þeirra 6 ára, Eyjólfur Þórarinsson sonur þeirra 4 ára, Helgi Þórarinsson sonur þeirra 1 árs. Þá höfum við gengið Leiruna á enda.“

Í Lesbók Morgunblaðsins, Jólalesbók 1984, segir Guðmundur Á. Finnbogason frá „Leirunni„:

Gufuskálar

Gufuskálar – lindin.

„Landnám Steinunnar gömluLeiran var á landnámsöld einn þeirra staða við sunnanverðan Faxaflóa, sem Ingólfur landnámsmaður Arnarson skenkti Steinunni gömlu frænku sinni. Hún hafði átt Herlaug bróður Skalla-Gríms, sem land nam á Mýrum og hún bjó í Leiru, þar sem hét Hólmur og síðar Stóri-Hólmur eða Stokkhólmur. Síðan fer engum sögum af búskap í Leiru þar til 1703, að manntalið fór fram, en þá voru 4 býli í Leiru og íbúar samtals 51.“

Í ferð FERLIRs um Gufuskála nýlega komu í ljós nánast jarðlægar tóftir, auk tóftir nafngreindra bæja, á a.m.k. tveimur stöðum, en hvorugra er getið í örnefnalýsingum. Annað tóftarsvæðið er skammt ofan varanna og hitt á grónum hól miðja vegu ofarlega. Þar eru augljós merki skála. Skammt vestar er greinilega forn vatnslind, umhlaðin.

Heimildir:
-Árbók Hins íslenska fornleifafélags 01.01.1903, Rannsókn í Gullbringusýslu og Árnessýslu sumarið 1902, Brynjúlfur Jónsson, bls. 35.
-Faxi, 9. tbl. 01.11.1968, Þar fékk margur sigg á lófa, Ólafur B. Björnsson, bls. 166.
-Lesbók Morgunblaðsins, 40. tbl. 12.11.1966, Leiran, G.Br. bls. 14.
-Faxi, 3. tbl. 01.10.1999, Gufuskálar í Leiru, Skúli Magnússon, bls. 63.
-Faxi, 2. tbl. 01.05.1979, Sagnir af Suðurnesjum, Njáll Benediktsson, bls. 22.
-Faxi, 4. tbl. 01.06.1991, Mannlíf í Leiru, Njáll Benediktsson, bls. 128.
-Lesbók Morgunblaðsins, 34. tbl. Jólalesbók 22. 12. 1984, Leiran, Guðmundur A. Finnbogason, bls. 33.

Gufuskálar

Gufuskálar – Kóngsgerði.

Stafnes

Í Faxa 1993 er sagt frá gamalli sögn um Stafnes undir fyrirsögninni „Þú skalt Stafur heita og nesið Stafnes„:

Faxi 1993„Mælt er, að til forna hafi verið 24 hjáleigur og tómthús á Stafnesstorfunni. Taldi Jón Jónsson hreppstjóri frá Fuglavík, sem síðast bjó í Glaumbæ við Stafnes, mjög glöggur maður og fróður um margt, upp 14 af hjáleigum þessum, sem nú hafa verið fjölda mörg ár í eyði, og voru þær þessar: Nes, Hólmi (tvíbýli), Sandhús, Garðar, Rif, Refshalakot, Gosa, Hattakollur, Sveinshöfði, Vallarhús, Halakot, Lodda og Þemba.
Kvaðst hann á yngri árum sínum hafa heyrt fleiri bæjamöfn nefnd, en ekki muna þau. Sum af býlum þessum voru með vissu grasbýli frá Stafnesi, en þó flest þurrabúðir. Fiskveiðar munu óvíða hafa verið stundaðar með meiri dugnaði og betri hagnaði en frá Stafnesi, enda er þaðan örskammt að sækja á fiskimiðin. Fiskur var þá almennt hertur eða þá kasaður, svo sem skata og hákarl. Var fiskurinn hertur í grjótbyrgjum, sem byggð voru hingað og þangað upp um hraun, og sést þeirra víða merki enn í dag.
Stafnes
Á Stafnesi eru nú þessi býli: Stafnes, Glaumbær, Nýlenda, Bali, Litlibær, Hólakot og Grund, og eru hér talin 21 alls, ef byggð hinna síðarnefndu býla er svo gömul sem hinna. Er þá ekki nema þremur fátt í þá tölu, sem hin forna sögusögn greinir.
Svo er sagt, að endur fyrir löngu hét Stafnes ekki því nafni, heldur aðeins Nes. En sú saga er til þess, að nafnið breyttist, er hér fer á eftir, og er hún skráð eftir því, sem sagði Jón fyrrum hreppstjóri í Fuglavík árið 1888, og var hann þá um áttrætt.

Stafnesviti

Stafnesviti.

Í fyrndinni bjó maður nokkur í Nesi, og mun bærinn þá hafa staðið, þar sem nú er kallað Urð, og er þar nú rif, sem kemur aðeins upp með hálfföllnum sjó. Maður þessi var orðinn gamall og blindur, þegar þessi saga gerðist. Hann átti tvo sonu, er stunduðu sjómennsku og reru til fiskjar frá Nesi.

Einn dag að áliðnum vetri, er þeir voru á sjó að vanda, brimaði snögglega svo mikið, að ólendandi var talið. gerðist gamli maðurinn órór, gekk til smíðahúss og tegldi þar staf einn eða kelli, en bað vinnukonur sínar að vera á höttunum og tjá sér, hvers þær yrðu áskynja úm afdrif skipsins.
Um miðjan dag kemur ein þeirra inn til hans og segir, að ekki muni lengur þurfa að bíða þess, að synir hans lendi, því að þær stúlkurnar höfðu horft á þá bræður leggja í sundið, en þá hafði Boðinn komið og fallið á bátinn flatan; hafði honum þá þegar hvolft og hann borist upp á skerið. Gamla manninum sást lítt bregða og svo var að sjá, sem honum kæmi þetta ekki á óvart. Bað hann stúlkuna að koma aftur til smíðahússins eftir litla stund, og þá tvær saman.
Þegar stúlkumar komu til karls, hafði hann lokið við að smíða stafprik sitt, svo sem honum líkaði. Var stafurinn ekki mikill, en haglega gerður og með útskurði allmiklum.

Stafnes

Stafnes.

Stakk hann stafnum niður með vestisboðang sínum og biður stúlkurnar að leiða sig fram á nesið, þar sem Boðinn falli á land, segir þeim að leiða sig svo nærri sjónum, sem frekast sé fært og láta sig vita nákvæmlega, þegar Boðinn falli hæst á land við fætur sér.

Stafnes

Á Stafnesi.

Gera þær nú, sem karl leggur fyrir, og þegar Boðinn rís hæst, tvíhendir karl stafinn á loft, keyrir hann í ölduna og mælir: „Héðan í frá skaltu Stafur heita og nesið Stafnes. Aldrei skaltu framar mönnum að tjóni verða, sé rétt sundleið farin, og leiðið mig nú heim“.
Það fylgir sögu þessari, að ummæli karls hafi orðið að áhrínsorðum, því að í manna minnum hafi engir menn frá Stafnesi farist á sundinu, þó að jafnan hafi þaðan sjór verið sóttur djarflega og stundum brimað snögglega.
Á þeim tímum, er konungsútgerðin stóð í sem mestum blóma, fórst þó eitt skip þama með 20 manna áhöfn, en þeir voru komnir langt inn fyrir aðalsundið og boðann Staf. Hafði skipið ekki farið rétta sundleið og steytti á skeri því, sem Brúnkolla heitir, á gjánni rétt framan við aðallendinguna.“ – Eftir heimildum frá Vilhjálmi Kr. Hákonarsyni frá Stafnesi. – Rauskinna.

Stafnes

Stafnesviti.

Í Árbók Hins íslenska fornleifafélags 1923 skrifar Hannes Þorsteinsson um „Rannsókn og leiðréttingar á nokkrum bæjanöfnum á Íslandi“, þ.á.m. Stafnes:

Stafnes

Stafnes – örnefni. ÓSÁ.

„Starnes (Stafnes). Stafnes í A. M. og síðan, en Starnes í fjölda fornbréfa frá 1270 og fram á 17. öld eða lengur, og vafalaust hið rétta, upphaflega nafn; er og enn nefnt svo hjá A. M. (í jarðabókinni í Rangárvallasýslu undir Nefsholt). Stiernes nefnist jörðin í Jarðab. Bockholts c. 1600 (A. M. 459 fol.), og eru það leifar af hinum gamla framburði, en Starnes beinlínis í Jb. Jens Söffrenssonar 1639 (A. M. 460 fol.). í ritgerð eptir séra Sigurð Br. Sívertsen á Útskálum er þess getið, að á þeim slóðum hafi verið stör mikil, þótt nú 8é eydd. Starnes verður því að teljast sem aðalnafn, en Stafnes sem varanafn, þótt það reyndar ætti að falla alveg burtu.“

Heimildir:
-Faxi, 2. tbl. 01.02.1993, Gömul sögn um Stanes – „Þú skalt Stafur heita og nesið Stafnes“, Vilhjálmur Kr. Hákonarson, Stafnesi, bls. 57.
-Árbók Hins íslenska fornleifafélags 01.01.1923, Hannes Þorsteinsson – Rannsókn og leiðréttingar á nokkrum bæjanöfnum á Íslandi. Tileinkað minningu séra Guðmundar prófasts Helgasonar. Bls. 30.

Stafnes

Stafnes – örnefni. ÓSÁ.

Leiran

Í Lesbók Jólalesbókar Morgunblaðsins 1984 segir Guðmundur A. Finnbogason frá „Leirunni„:

Morgunblaðið

Jólalesbók Morgunblaðsins árið 1984.

„Sjávarpláss á Suðurnesjum, sem eitt sinn slagaði uppí Keflavík — þyrping fátæklegra býla með ofurlitlar grasnytjar, en lífsbjörgin kom umfram allt úr sjónum. Nú býr þar enginn, — bærinn á Stórhólmi stendur einn eftir, en þotur koma í lágflug inn yfir þessa grænu vin, þar sem Suðurnesjamenn koma nú saman í frístundum til að leika golf.
Þegar nútímafólk ekur veginn úr Keflavík og vestur í Garð eða útá Garðskaga blasir Leiran við á hægri hönd. Hér var áður fyrr sjávarpláss með útræði og mörgum smábýlum, sem stóðu á undirlendinu, sem verður þarna. Nú er fátt til minja um þá hörðu lífsbaráttu, sem þar var lifað. Engin kot standa þar lengur; ekki heldur bátar í vörum, en þess í stað má sjá vel búna kylfinga leika kúlum sínum fram og aftur um golfvöllinn, sem Keflvíkingar hafa lagt og ræktað með miklum glæsibrag í Leirunni. Þetta er tímanna tákn. Þar fyrir er óþarft að gleymist, að í sumum af þessum lágu kotum, sem nú sést ekkert eftir af, uxu dugandi menn úr grasi: Tryggvi Ófeigsson útgerðarmaður til dæmis og bræður hans. Menn komu þangað langt að fótgangandi til sjóróðra og fátæktin var fylginautur þeirra sem kusu sér búsetu þar.
Sjaldan er logn í Leiru — og þegar hann blæs að norðan, hellast brimskaflarnir uppá klappirnar og inní vörina og sýna hvað lendingin gat verið varasöm. Um miðja síðustu öld voru meira en 100 manns, sem töldust eiga heimili í Leiru og kotin stóðu engan veginn öll á graslendinu hjá Stóra-Hólmi, heldur á víð og dreif um grýtta fláka, sem verða vestur af Leirunni og standa tóftirnar eftir. Af lífsbaráttunni þar fara litlar sögur.

Landnám Steinunnar gömlu
Leiran
Leiran var á landnámsöld einn þeirra staða við sunnanverðan Faxaflóa, sem Ingólfur landnámsmaður Arnarson skenkti Steinunni gömlu frænku sinni. Hún hafði átt Herlaug bróður Skalla-Gríms, sem land nam á Mýrum og hún bjó í Leiru, þar sem hét Hólmur og síðar Stóri-Hólmur eða Stokkhólmur.

Stóri-Hólmur

Stóri-Hólmur.

Síðan fer engum sógum af búskap í Leiru þar til 1703, að manntalið fór fram, en þá voru 4 býli í Leiru og íbúar samtals 51. Á Stóra-Hólmi tóldust 23 til heimilis; þar af fern hjón í húsmennsku. Á Litla-Hólmi voru 6 manns í heimili, sjö í Hrúðunesi og 15 á Gufuskálum. Í bændatali á Suðurnesjum 1735 eru skráðir 6 bændur í Leiru, en 13 býli voru þar árið 1801 og íbúarnir 74. Eitthvað hefur árferðið í Leiru ekki verið sem best á fyrriparti síðustu aldar, því býlum fór fækkandi og voru aðeins 6 eftir í byggð árið 1836. Þá brá svo við, að nýtt líf færðist í plássið; býlin urðu 12 og íbúarnir 82. Þessi býli voru í byggð: Hrúðunes (heimajörð), Melbær (tómthús), Stóri-Hólmur (heimajörð), Ráðagerði, Garðhús, Kötluhóll, Nýlenda, Bakkakot og Litli-Hólmur, er öll voru hjáleigur frá Stóra-Hólmi, Gufuskálar (heimajörð) og Vestur-kot, hjáleiga frá Gufuskálum.
Stóri-Hómlur
Fjölmennasta heimilið var sem áður Stóri-Hólmur. Tíu árum síðar hafði íbúum í Leirunni fjölgað og voru þeir nú orðnir 103 og nú voru bæjarnöfnin orðin 13 og tvö þeirra ný, Krossabrekka skammt frá Nýlendu og Kóngsgerði skammt frá Gufuskálum.

Leiran

Hrúðurnesbrunnur.

Næstu árin stendur íbúatalan í Leirunni næstum í stað frá því sem hún var 1845. Voru tveir búendur á sumum býlunum og enn var mannflest á Stóra-Hólmi.
Árið 1855 voru Keflavíkurbúar 153 að tölu og höfðu þá 47 manns yfir Leirubúa. Upp frá því fer Keflvíkingum fækkandi en Leirubúum fjölgandi. Árið 1870 eru Keflvíkingar 130 en Leirumenn 138 og þá voru bændabýlin í Leirunni 16 að tölu frá Hólmsbergi talið út Leiruna.
Á Hólmsbergi (Leirubergi) hafa með vissu 15 manns orðið úti á tímabilinu 1785 til 1894, í allflestum tilfellum karlmenn, sem voru á ferð frá Keflavík út í Leiru eða Garð að kvöld- eða næturlagi, oft í vondum veðrum og margir undir áhrifum áfengis.
Þegar ég var unglingur heyrði ég um það talað að reimt væri í Berginu og eitthvað hefur hinn landsþekkti Símon Dalaskáld vitað um draugana á Hólmsbergi, eða Leirubergi er hann nefnir svo. Bendir eftirfarandi vísa hans til þess.
Þó að æði eldingar
og ramskæðir smádjöflar
ég mun hræðast ekki þar
úti á svæði Leirunnar.

Nær allir áttu fleytur
Leiran
Leiran var á sínu blómaskeiði eitt af allra bestu fiskiþorpum við sunnanverðan Faxaflóa. Þaðan var róið sem víða annars staðar svo til árið um kring. Vetrarvertiðirnar voru þó almesti sjósóknartíminn og oftast allra besti fiskitíminn.

Leiran

Leiran – Gamli barnaskólinn.

Úr Leirunni var oft á tíðum hægt að sækja til fiskjar á bæði borð, þegar frá landi var á flot komið og þá ekki síður mátti sækja fram af landsteinunum út í Leirusjóinn, sem einatt var gjöfull þegar netafiskur gekk inn á grunnmiðin á vetrarvertíðum frá mars til maí. Eins gátu Leirumenn sótt innar í Flóann, inn á Njarðvíkurleir og Njarðvíkurbrúnir, inn undir Stapa, Voga og Strandarbrúnir. Var það helst þegar fiskur var genginn hjá í Leirusjó og lagstur þar inn á leir og brúnum. Svo var það Garðsjórinn, hinn næstum því ótæmandi aflasjóður (áður en erlendu togararnir komu), er einatt mátti leita til jafnt vetur, sumar, vor og haust.

LeiranHann hafði oftast eitthvað gott að gefa bótt misjafnt væri að magni. Voru gæðin einatt þau sömu, glæný ýsa, koli, lúða, steinbítur og svo framvegis.
Á árabilinu 1631 til 1910 hafa svo vitað sé 14 skip og bátar farist er gengu úr Leirunni.

Leiran

Litla-Hólmsvör.

Á þessum fleytum fórust 68 menn, þar af tvær konur. 23 menn fórust á þessu tímabili af Gufuskálaskipunum, 15 af Litla-Hólmsskipunum og 8 af Stóra-Hólmsskipunum en færri af öðrum. Leirubændur og hjáleigumenn áttu nær allir árafleytur til sjósóknar — þó ekki allir vertíðarskip. Voru þeir er smærri fleyturnar áttu þá vetrarvertíðarsjómenn á stærri skipunum. Einstöku réru þó árið um kring á sínum bátum, 2—4 manna förum.
Innnesingar voru þeir nefndir er komu suður í Leiru í byrjun vetrarvertíðar með skipshafnir sínar til að róa þaðan. Það mun hafa verið á síðustu tugum sl. aldar, að stærri útvegsskip af Álftanesi og Seltjarnarnesi fóru að heiman suður í Leiru. Þar var oft á tíðum meiri aflavon og styttra að sækja á fiskimiðin. Þessir bændur áttu sín fiskibyrgi og sumir verbúðir í Leirunni (ef verbúðir skyldi kalla). Sumir hverjir fengu inni með sig og sína skipshöfn á bæjunum þar í Leirunni. Meðal þeirra er hýstu Innnesinga á vetrarvertíð voru hjónin í Ráðagerði, þau Gísli Halldórsson og Elsa Dórothea Jónsdóttir, foreldrar hins landsþekkta hagyrðings Ísleifs Gíslasonar, kaupmanns á Sauðárkróki.

Sofið á þangi milli rúmanna
Leiran
Dóróthea Gísladóttir, dóttir þeirra hjóna, sem fæddist í Ráðagerði 1886 og ólst þar upp, varð háöldruð kona, dó á miðjum tíræðisaldri, gáfuð og minnug. Hún sagði mér að þegar hún var telpa í foreldrahúsum hefði skipshöfn af Innnesjum haft viðlegu á heimili foreldra hennar í Ráðagerði. Þar svaf heimilisfólkið í baðstofu í rúmum sitt til hvorrar handar en dálítið gangpláss á milli rúmanna. Á því gangplássi- fékk aðkomuskipshöfnin svefnpláss. Ekki var um annað pláss að ræða á þeim bæ. Þang var látið á gólfið á milli rúmanna. Sváfu sjómennirnir á þanginu en höfðu teppi eða brekán ofan á sér. Á daginn var svo þanginu ýtt með fótunum undir rúmin — tekið svo fram að nýju á kvöldin.

Leiran

Leiran – uppdráttur ÓSÁ.

Stóra-Hólmsbændur fengu oft góða hrognkelsaveiði í Hólmósnum. Þar fékkst og síld í lagnet. Allur reki undir Hólmsberginu tilheyrði Stóra-Hólmi. Var Helguvík besti rekastaðurinn. Rak þar oft mikið á stríðsárunum og lengur. Fuglatekja var og nokkur í berginu — mest svartfugl.

Leiran

Leiran – örnefni; ÓSÁ.

Árið 1930 voru aðeins 5 bændabýli eftir í Leirunni í byggð, en það voru: Bakkakot, Litli-Hólmur, Stóri-Hólmur, Lindarbær og Vesturkot og íbúarnir alls ekki nema 33. Síðan fór býlunum enn fækkandi þar til eftir var orðið aðeins eitt. Var það hið forna býli Stóri-Hólmur er þar stóð enn í byggð 1960.
Síðasti bóndinn í Leirunni bjó á Stóra-Hólmi sem og hinn fyrsti. Aldir, ár og dagar voru á milli Steinunnar gömlu sem fyrst var ábúandi og Kjartans Bjarnasonar sem var þeirra síðastur og margt hafði gerst í Leirunni á því tímabili, bæði til sjós og lands og aldrei fékk hún Steinunn að fylgjast með golfmóti á heimatúninu sínu.
Kjartan Bjarnason síðasti bóndinn á Stóra-Hólmi er Dýrfirðingur að ætt og er nú 86 ára að aldri. Hann og kona hans tóku við búskap á jörðinni 1936 og bjuggu góðu búi í röska tvo áratugi.
Í dag eiga tveir synir Kjartans heima á Stóra-Hólmi en hafa engan búskap þar.“

Heimild:
-Lesbók Morgunblaðsins, 34. tbl. Jólalesbók 22.12.1984, Leiran, Guðmundur A. Finnbogason, bls. 33-34.
Leiran

Brúin

Í Brúnni árið 1930 er fjallað um „Skipströnd í Hafnahreppi árin 1800-1930„. Frásögnin er hluti greinar Ólafs Ketilssonar í Höfnum í Ægi sama ár. Þar eru tíunduð skipströndin á nefndu tímabili, en í Brúnni er einungis fjallað um þann hluta er lítur að strandi Jamestown:

Brúin„[Í síðustu tölublöð „Ægis“ (Ægir 01.11.1930 og 01.12.1930) skrifar Ólafur Ketilsson, hreppstjóri að Óslandi í Höfnum, langa og mjög fróðlega grein um skipströnd í Hafnahreppi á síðustu 130 árum. Er greinin bráðskemtilega skrifuð, svo sem Ólafs er von og vísa, því að hann segir manna best frá. Leyfir Brúin sjer að birta hjer kafla úr greininni. Er hann um 4. strandið, „Jamestown“ eða „stóra strandið“, sem Ólafur kallar].

Vorið 1881, á hvítasunnumorgun, rak á land norðanvert við Kirkjuvogssund, geysilega stórt skip, í hafrótar-vestanroki. Var sjáanlegt, meðan skipið var að veltast í brimgarðinurri, að það myndi mannlaust með öllu.
Ekki var hægt að komast út í skipið þrjá fyrstu dagana eftir að það strandaði, fyrir brimi. Þegar skipið strandaði, lá á „Þórshöfn“ skamt þar frá, er skipið strandaði, danskt kaupskip frá H. P. Duusverslun í Keflavík. Skipstjórinn hjet Petersen; sagði hann okkur strax sem skipið var strandað, að það væri ameríkst timburskip, fult stafna á milli af tómum plönkum, og 3500 tonn að stærð. Var svo að heyra sem skipstjóri væri nákunnugur skipinu, því hann sagði okkur líka nákvæmlega um allan útbúnað á því ofan dekks, sem allt stóð heima, er komið var um borð í skipið. Hefir skipstjóri sennilega verið búinn að hitta skipið í hafi, áður en að það strandaði hjer við land.

Jamestown

Skip líkt og Jamestown.

Á fjórða degi var sjór loks orðinn það dauður, að komist varð um borð, og er óhætt að fullyrða að mörgum manninum var orðið meir en mál að komast um borð í báknið! Og aldrei gleymi jeg þeirri stund, þegar jeg, 16 ára unglingur, stóð í fyrsta sinni inni á þilfari „Jamestown“, og horfði undrandi og hugfanginn á þetta 60 faðma skipsbákn! Set jeg hjer stutta lýsingu af „Jamestown“, hinu stærsta skipi, sem strandað hefir við Ísland, síðan landið byggðist.
„Jamestown“ var þrímastraður barkur, og eins og áður er sagt, nákvæmlega 60 faðmar á lengd, en um breidd þess man jeg ekki með vissu, en það var jafnbreitt og franska skútan var löng, sem um sumarið var höfð til að flytja planka úr því. Þrjú þilför voru í skipinu, og óskiftur geimur hver lest, og hver lest troðin eins og síld í tunnu, af tómum plönkum, og enn pá eftir 50 ár blasir við augum mínum hinn óskaplegi geimur, efsta lestin, pegar búið er loks að tæma hana, 60 faðma langa og hátt á þriðju mannhæð á dýpt, má af því nokkurn veginn gera sjer grein fyrjr, hver kynstur hafi rúmast í öllum þessum geim, af plönkum.

Óttarsstaðir

Óttarsstaðir eystri í Hraunum voru byggðir úr timbri Jamestown.

Tveir stórir salir voru á efsta þilfari; var annar salurinn miðskips, en hinn millum aftasta og mið siglutrjes, var aftari salurinn hið mesta skrauthýsi, eða rjettara sagt, hafði verið, því búið var að brjóta þar allt og bramla, sennilega bæði af manna- og náttúrunnar völdum, en fyrir aftan öftustu siglu, var hálfdekk, sem tæplega var manngengt undir, hefir að öllum líkindum verið forðabúr [skipsins, því þar var að finna ýmislegt matarkyns, svínsflesk, nautakjöt m.m., og hrannir af spítnabraki, póleruðu mahoní, bæði í útskornum rósum og þiljum, sem borist höfðu þangað úr salnum, og auk þess voru þar kynstrin öll bæði af skrám, lömum og skrúfum, sem allt var úr kopar. 6 herbergi höfðu verið sitt til hvorrar hliðar í salnum, sennilega allt svefnherbergi, en allt var það orðið brotið að mestu, en mátti þó sjá, að öll höfðu herbergin verið mjög skrautleg, því útskornar, póleraðar mahoní-rósir á millum bita og mahoníþiljur voru sumsstaðar óbrotnar, en flest voru þó skilrúm millum herbergjanna brotin að meiru eða minnu. Fremri salurinn var að öllu íburðarminni, en var þó að nokkru leyti skift í svefnherhergi, en ekki líkt því eins vönduð, og sjáanlegt var að borðsalur hafði verið í öðrum enda salsins, þó ekkert fyndist þar af borðbúnaði, eða neitt því, sem verðmæti væri í.

Jamestown

Hafnir og nágrenni – kort,

Af öllu því tröllasmíði, sem sjá mátti á skipi þessu, var þó þrent sem mesta undrun mína vakti, — fyrst miðsiglutrjeð, tveir feðmingar að gildleika, með 18 afar sverum járngjörðum, annað undirbugspjótið, sem kallað er, 36 þml. ákant, og það þriðja, stýrislykkjurnar (3) úr kopar, en hvað þær hver um sig voru þungar, get jeg ekki gert neina ágiskun um, en jeg vil þó geta þess, að einn sunnudag fórum við Eiríkur sál. bróðir minn, ásamt þriðja manni, til þess að reyna að ná efstu lykkjunni, því hún hjekk á einum nagla, og því að kalla mátti laus úr sæti sínu (stýrið var brotið af). — Bundum við afarsverum nýjum kaðli í lykkjugatið, en vorum þeir aular að hafa dálítinn slaka á kaðlinum, svo þegar við loksins vorum búnir að losa naglann, og vega hann úr sætinu (falsinu), þá purpaði hún kaðalinn eins og brent brjef hefði verið, um leið og hún hrökk niður, og munaði minnstu að hún mjelaði bátinn, sem við vorum í.
Sægur af fólki, hvaðanæfa af landinu, kom um sumarið til þess að að skoða þetta skipsbákn, og mátti stundum heyra óp og vein, og guð almáttugur! þegar verið var að drösla kvenfólkinu upp þennan 17 tröppu riðlandi stiga, sem náði upp að öldustokkskipsins.

Jamestown

Annað ankeri ásamt keðju við Kirkjuvogskirkju í Höfnum.

Eftir að „Jamestown“ strandaði og ráðstöfun hafði verið gerð til þess af landshöfðingja, Hilmar Finsen, að fara að bjarga til lands plönkunum, neituðu Suðurnesjabændur algerlega að hreyfa hönd að björgun, töldu það alveg óvinnandi verk, en vildu hins vegar fá skipið keypt með öllu, eins og það stóð. En er því var neitað, buðu sig fram til að bjarga úr skipinu þrír menn í Reykjavík, þeir kaupmennirnir Páll sál. Eggerz og Jón sál. Vídalín og Sigurður Jónsson járnsmiður, sem ennþá er á lífi, nú á níræðisaldri. Komu þeir hingað á strandstaðinn snemma í júnímánuði á franskri skútu (Loggortu); var skipstjóri Ólafur Benediktsson Waage. Fengu þeir fjelagar mikið af verkafólki hjer, því þeir buðu óvenjulega hátt kaup í duglega menn, 25 aura um tímann! 3 kr. um daginn fyrir 12 tíma þrælkun; þótti það óheyrilega hátt kaup, og alt borgað í skíru gulli og silfri, á hverju laugardagskveldi!

Hestaklettur

Hestaklettur – strandstaður Jamestown.

Keflavíkurkaupmennirnir voru ekki í þann tíð vanir að borga verkafólki í gulli og silfri vinnu sína, heldur í uppskrúfuðum vörum, þurrum og blautum! Var þessari nýjung um greiðslu verkkaups tekið með hinum mesta fögnuði af Suðurnesjabúum, og margur sá maðurinn, sem átti laglegan skilding um haustið í kistuhandraðanum, því í þá daga þektust ekki tálsnörur nútímans bíóin, kaffihúsin m. m., sem nú tæma vasa verkamannsins verkalaunum sínum!
Hvað margir „Loggortu“-farmar af plönkum voru fluttir til Reykjavíkur man jeg ekki með vissu, en jafnaðarlega var verið i tvo daga að ferma skútuna, og svo aðra tvo daga að flytja í land í stórum ílotum, því öllu var skipað í land upp á helming. Þegar kom fram í júlímánuð fóru bændur líka að bjarga upp á helming, voru þá oft fra 12 — 20 plankar á hvern mann, í helmingaskiftum, og stundum var það mikið meira, sem hver maður hafði í sinn hlut eftir daginn, þegar svo stóð á að sunnan stormur var, því þá var plönkunum dyngt í sjóinn og látnir reka til lands, frá 600 — 800 st. í einu! Í júlímánaðarlok var loksins efsta lestin tæmd af timbrinu.

Kaupstaðavegurinn

Kaupstaðavegurinn (vagnvegurinn) ofan Ósa. Hefur eflaust tengst strandinu mikla skammt vestar.

Í tvo mánuði voru fleiri tugir manna að tæma eina skipslest og þó þrásinnis fleygt i sjóinn mörg hundruð plönkum á dag! Það ætti að gefa nútíðarmanninum nokkurn veginn ljósa hugmynd um hver ógrynni af plönkum hafi verið í öllum (3) lestum skipsins.
Þegar efsta lestin var tæmd, var fyrsta uppboðið haldið, var sjávarströndin á fleiri hundruð faðma svæði þá ein óslitin plankahrúga. Voru í hverju númeri frá 10 — 20 plankar. Voru plankarnir 6—9 ál. langir, en 3 1/2 tom. þykkir, og af mismunandi breidd, 6—11 tom.
Kristján sál. Jónsson, hæstarjettardómari, var þá sýslumaður í Gullbringusýslu, og hjelt hann fyrsta uppboðið. Stóð uppboðið í tvo daga; var verð á plönkunum 25 — 50 au. og mundu það þykja góð timburkaup nú.

Jamestown

Jamestown – auglýsing.

Að plankauppboðinu loknu, var sjóboðið haldið. Keypti faðir minn möstrin og alla kaðla (vantinn) og víra m. m. á 24 kr., en í skipið sjálft með öllu timbri sem í því var í mið- og neðslu lest, var hæstbjóðandi H. P. Duus, kaupmaður í Keflavík, fyrir kr. 300,00, er hann bauð í það fyrir föður minn og aðra Suðurnesjabændur, en kom þar aldrei nálægt eftir uppboðið.
Strax eftir uppboðið var byrjað að skipa upp úr skipinu aftur og því haldið áfram stanslaust til 10. sept., en þá kom suðvestanrok með stórbrimi og klofnaði skipið þá í tvennt og rak hver spíta til lands. Var stórfengleg sjón að sjá allan þann flota, þegar hann kom að landi, mundi engum manni hafa dottið í hug, ef ekki hefði vitað, að öll sú plankabreiða væri úr einu skipi, og þó var búið að taka meiri partinn úr miðlestinni og alt úr efstu lestum er skipið brotnaði.
Jeg minnist pess, að þegar skipið var nýstrandað, kom til föður míns maður, sem hjet Sölvi Sölvason, og lengi var búinn að vera í siglingum. Sagði hann föður mínum, að hann þyrði að taka 18 sextíu lesta skonnortufarma úr skipinu, en faðir minn taldi það þá öfgar einar. En það hefði verið áhættulaust að tvöfalda þá tölu. Alt var skipið eirslegið í sjó og koparseymt og voru það laglegir koparboltar, sem gengu í gegnum botnrangirnar. Sendi faðir minn mörg þúsund kgr. til Englands af kopar. Það eina; sem tapaðist og aldrei sást, var afturstafn skipsins með stýrislykkjunum. Hefir það sennilega sokkið sökum þyngslanna af lykkjunum.
Hver kynstur að sumir af Suðurnesjabændum söfnuðu að sjer af plönkunum, má meðal annars marka af því, að faðir minn seldi í einu til Jóhanns nokkurs snikkara á Eyrarbakka 1200 st. og sá ekki á eftir, að á hefði verið tekið.

Silfurgrjót

Silfurgrjót.

Þegar leið á sumarið fór að kvisast að ballest skipsins væri afarmikils virði, jafnvel meira verðmæti en skipið sjálft með öllum farminum. Um nýjársleytið kom svo fyrirspurn til föður míns frá landshöfðingja um hvað orðið hefði af ballestinni og hvort ekki væri hægt ennþá að bjarga henni, því hún (ballestin) hefði verið auðæfi mikil, óhreinsað silfurgrjót frá Mexico. Hleypti pessi fregn heldur en ekki púðri í okkur strákana og var ekki dregið á langinn að fara og slæða botninn á strandstaðnum. En allir þessir silfurloftkastalar okkar hrundu og urðu að engu, þó við værum að slæða dag eftir dag, fengum við aldrei einn einasta mola og gátum aldrei sjeð einn einasta stein í botninum þó við sæjum vel í botn.

Jamestown

Þrímastra skip líkt og Jamestown.

Vorið eftir kom svo Sigurður Jónsson, járnsmiður, sem áður er nefndur, í sömu erindagerðum og var jeg oft með honum við að slæða, en það fór á sömu leið. Við höfðum erfiðið og ekkert annað. Sennilega hefir svo farið, að þegar skipið brotnaði, hefir botninn sogast fram í briminu og hvolft þar úr sjer á leirbotni áður en botninn rak til lands. Hinsvegar alveg óskiljanlegt, að í þau 50 ár, sem liðin eru síðan að skipið strandaði, skuli aldrei einn moli hafa borist til lands í öllum þeim hafrótum, sem komið hafa í þessi 50 ár. Það eina, sem mjer er kunnugt um að náðst hafi af ballestinni, er einn hnullungsmoli, sem Sigurður sál. Ólafsson, bóndi í Merkinesi, náði. Skreið hann eitthvað niður með afturstafni skipsins og fann þá þennan mola.
Var Sigurður mikill járnsmiður sem kunnugt er. Fór hann með molann í smiðju sína og bræddi úr silfrið, en hve mikið hann fjekk af silfri veit jeg ekki, því jeg sá það aldrei.
Jeg hefi orðið nokkuð langorður um þetta stóra strand, þó ótalmargt sje enn þá ósagt, en sökum þess að mjer er ekki kunnugt um að nokkur maður, alt til þessa, hafi skrifað einn sögulegan staf strandinu viðvíkjandi, þá hefi jeg ekki viljað láta undir höfuð leggjast að skrásetja það helsta um þetta mikla strand, svo að jafn-stórmerkur viðburður ekki týndist algerlega úr annálum Íslands.
Einkennileg tilviljun má það kallast, að tvö alstærstu timburströndin, sem borið hefir að ströndum þessa lands skuli hafa lent í Hafnahreppi“.

Heimildir:
-Brúin, 97. tbl. 31.12.1930, Skipströnd í Hafnahreppi árin 1800-1930, bls. 1-4.
-Ægir, 11. tbl. 01.11.1930, Skipströnd í Hafnahreppi árin 1800-1930, Ólafur Ketilsson, bls. 137-240.
-Ægir, 12. tbl. 01.12.1930, Skipströnd í Hafnahreppi árin 1800-1930, Ólafur Ketilsson, bls. 273-277.

Hafnir

Hafnir um og eftir 1900.