Tag Archive for: Suðurnesjabær

Keflavíkurflugvöllur

Eftirfarandi „Tilkynning frá ríkisstjórninni“ birtist í Morgunblaðinu árið 1942:

Keflavíkurflugvöllur

Keflavíkurflugvöllur, vígsla.

„Í því skyni að ameríska hernum megi takast að verja Ísland og draga sem mest úr áhættu landsmanna, er aðeins takmörkuð umferð leyfð um svæði það á Reykjanesi, sem sýnt er á hjer birtum uppdrætti.
Á Reykjanesi norðvestanverðu alt það svæði, sem afmarkast af línu dreginni yfir nesið, og liggur hún þannig; hefst í Litlu-Sandvík og liggur þaðan austur á við h.u.b. 6.3 km. til staðar, sem liggur um 1 km. í suður frá Sandfellshæð, þaðan í norðaustlæga átt h.u.b. 13 km. vegalengd upp á brún hæðar þeirrar, er nefnist Litla-Skógfell, þaðan í norður átt h.u.b. 6.3 km. vegalengd til strandarinnar skamt innan við Grímshól á Vogastapa.
Land það, sem aðeins takmörkuð umferð er leyfð um, skal ekki taka yfir Innri Njarðvík, Ytri Njarðvík, Keflavík, Leiru, Garð, Sandgerði, Hvalsnes, Stafnes, Hafnir, nje heldur tiltekin landsvæði ræktuð eða umbætt og eru þau sýnd utan merkjalínu greinds svæðis á áðurgreindum uppdrætti.
Auk þess eru neðangreindir vegir innan svæðis umferðatakmörkunarinnar undanskildir takmörkuninni, svo sem sýnt er á uppdrættinum, sem hjer er prentaður með:
1. Vegurinn um Njarðvíkur, Keflavík, Leiru. Garð, Sandgerði og Stafnes.
2. Vegurinn frá Innri-Njarðvík til Hafna.
3. Vegurinn til Grindavíkur.
Landamerki þessara kauptúna og svæða verða auðkend með staurum máluðum rauðum og hvítum.

BANNSVÆÐI
Bannsvaedi-221Allir þeir staðir, þar sem tæki eru sett upp, mannvirki reist eða hernaðarstörf framkvæmd, innan þess svæðis, sem aðeins takmörkuð umferð er leyfð um, eða eru afgritir og merktir sem slíkir, eru bannsvæði.
Íslendingar mega ekki fara inn á áðurnefnd svæði, sem bönnuð eru eða leyft takmörkuð umferð um, nema þeir hafi í höndum tilhlýðileg vegabrjef. Vegabrjef samþykt af íslensku ríkisstjórninni fást, þegar um þau er beðið hjá bæjarfógetanum í Hafnarfirði og lögreglustjóranum í Keflavík og munu þeir leiðbeina umsækjanda til hlutaðeigandi ameríks starfsmanns. Umsókninni skulu fylgja tvær myndir af umsækjanda, 5×5 cm. á stærð. Umsóknin skal tilgreina þann sjerstaka hluta takmarkaðs eða bannaðs svæðis, sem umsækjandinn óskar að fara um, og sömuleiðis á hvaða tíma eða tímum og í hverjum tilgangi hann hygst að fara þar um. Sá sem fer um takmarkaða eða bannaða svæðið skal ávalt bera á sjer vegabrjef sitt.
Engar ljósmyndavjelar eða myndatökuáhöld má fara með inn á takmarkað eða bannað svæði nje geyma þar.
Vegabrjef þurfa Íslendingar ekki til þess að ferðast um neðangreinda vegi:
1. Veginn um Njarðvíkur, Keflavík, Leiru, Garð, Sandgerði og Stafnes.
2. Veginn frá Innri-Njarðvík til Hafna.
3. Veginn til Grindavíkur.
Þar sem vegir þessir liggja um þau svæði, sem umferð er takmörkuð um, er frjáls að fara um veginn, en hvorki má farartæki nje maður staðnæmast þar nje dvelja.
Íslenskar flugvjelar mega ekki fljúga yfir áðurgreind svæði, sem umferð er takmörkuð um, og eigi nær þeim en í 24 km. fjarlægð. – Reykjavík 18. maí 1942.“

Heimild:
-Morgunblaðið 21. maí 1942, bls. 6

Keflavíkurflugvöllur

Keflavíkurflugvöllur.

Sandgerðisvegur
Ferðamálasamtök Suðurnesja hefur gefið út gönguleiðabækling fyrir gömlu leiðina, Sandgerðisveg, milli Sandgerðis og Grófarinnar í Keflavík.
BæklingurNágrenni Sandgerðar hefur upp á fjölmargt að bjóða eins og kemur fram hér á vefsíðunni, hvort sem um er að ræða sögu, náttúru og umhverfi. Í bæklingnum er fróðleikur um framangreint er nýtist útivistarfólki, sem hefur áhuga á að ganga þessa gömlu leið, sem enn sést víða í móanum. Við hana eru enn heilar og fallnar vörður er gefa hana til kynna. Sögulegir staðir eru tilgreindir við númeraðar stikur er marka leiðina með jöfnu millibili svo auðvelt er fyrir hvern og einn að átta sig á aðstæðum og umhverfi.
Í bígerð er að gefa út fleiri sambærilega bæklinga um aðrar þekktar leiðir á Reykjanesskaga, s.s. Garðsveg, Skipsstíg, Árnastíg, Hvalsnesveg o.fl.
Garðsstígur
Ferðamálasamtök Suðurnesja hefur gefið út gönguleiðabækling fyrir gömlu leiðina, Garðsstíg, milli Garðs og Grófarinnar í Keflavík.
GarðsstígurNágrenni Garðs hefur upp á fjölmargt að bjóða eins og kemur fram hér á vefsíðunni, hvort sem um er að ræða sögu, náttúru og umhverfi. Í bæklingnum er fróðleikur um framangreint er nýtist útivistarfólki, sem hefur áhuga á að ganga þessa gömlu leið, sem enn sést víða í móanum. Við hana eru enn heilar og fallnar vörður er gefa hana til kynna. Sögulegir staðir eru tilgreindir við númeraðar stikur er marka leiðina með jöfnu millibili svo auðvelt er fyrir hvern og einn að átta sig á aðstæðum og umhverfi.
Í bígerð er að gefa út fleiri sambærilega bæklinga um aðrar þekktar leiðir á Reykjanesskaga, s.s. um Skipsstíg, Árnastíg, Sandgerðisveg og Hvalsnesleið.
Básendar

Í Blöndu 1927 er m.a. fjallað um Básenda, ysta básinn vestast á norðanverðu Reykjanesinu:
„Nafnið er ekki vafalaust. Kemur það fyrir á voru máti í þremur myndum: 1. Bátsendar, 2. Bátsandar, notað jafnframt, og nú optast í ritum síðustu áratuga, 3. Básendar (eða Bassendar), sést að eins í

Básendar

Básendar – bærinn.

gömlum og góðum heimildum. (Fornbrs. VIII, 97 (1506), Jarðabók A.M. n03 (opt Bassendar), og í manntalinu fyr á sama ári. Svo og á ýmsum stöðum i kirkjubókum Hvalsnessóknar frá 18. öld. Í elztu heimild: Fbrs. VIII, 13, (1484), er þó ritað „Bátsendum“). — Það er í góðu samræmi við landslagið frá fyrstu byggð. Verður því að teljast réttara og betra en hin fyrri nöfnin, og vegna þess er nafnið ritað þannig í grein þessari. Í fjórða lagi sést nafnið í fjölda bréfa í Þjóðskjalasafninu í Reykjavík, optast á dönsku: Bosand (Bosenes-Havn, -Köbsted, -Distrikt). „Baadsende“ sést varla nema í Ferðabók Eggerts Ólafssonar (þýðing). Nafnið kemur aldrei fyrir — svo eg viti — í fornsagnaritum vorum, annálum eða öðrum heimildum, fyr en í Fornbréfasafninu 1484.
basendar - brunnurHánesið allt, og að vísu suðurhallandi þess, hefur verið að blása og brotna um margar aldir, af lyngrifi og eldfjallasandi —. Nú er þó aptur farið að gróa upp frá byggðinni, og að sunnan frá „Ósabotnum“. Norðan við voginn, utar miðju, stóð gamli Kirkjuvogur o. fl. bæir. Hann eyðilagðist á 16. öld. Þaðan hefur blásturinn gengið út eptir nesinu, allt beim að túni á Stafnesi — fyrir 200 árum eða meira. Nú er þarna gróðurlaust hraun, og örfoka að mestu leyti.
Þórshöfn er bás annar, sunnar á nesinu, við Kirkjuvogsósa. Komu þar opt seglskip á 19. öld með vörur. En mótorbátar hafa hleypt þar inn og hreinsað sig fratn á síðustu ár. Þaðan frá í s.s.v. eru ekki færri en 5 nafngreindir básar, er marka landið að Reykjanesi (Kerlingarbás, Kirkjuvogsbás, Blasíusbás o. s. frv. — Blanda II. 50). En að norðan við Básenda er enginn slíkur bás á Miðnesinu. Bás(a)endar er því réttnefni (sbr. t. d. Skálaholt).
basendar - uppdrattur IIILeifar mannvirkja sjást enn miklar á Básendum (skoðað 1919). Kotbær hefur staðið vestast
á rimanum. Má greina þar 5 sambyggðar kofatættur, þó að nokkru sé gróið yfir þær. Aust-suðaustur frá bænum — 28 m. — hefur staðið vöruhús mikið. Sér þar fyrir grunni 20 m. á lengd frá suðri til norðurs og 12 — 15 m. á breidd, máske raeð gangstétt. Annar húsgrunnur er 10 m. austar (9X6 m). Mun þar hafa verið sölubúðin. En hússtæðis kaupmanns þætti mér líklegast að leita enn austar, í sömu röð. Þar er nú grastorfa yfir. Norður af þessum stað er garðlagabrot, með kotatóptum við norðurhlið. Og enn — 24 m. norðaustar — kálgarður eða rétt (um 180 m), með hesthúsi (? 7X3), geymslu (7X4) og fjósi (5X3) að baki, en hlöðuveggir 2 (4X3) eru þar laust norðvestan við. Hús þessi hafa staðið hæst og norðaustur á rimanum. Í lægðinni fyrnefndu — 100 m. austar – er vel upp hlaðinn brunnur, fullur af sandi. Og enn, 20 m. til austurs, hefur verið kálgarður í ágætu skjóli. Grastorfa er nú yfir mestum hluta hans; samt sér á tvíhlaðinn garðinn, af úrvalsgrjóti, og mjótt hlið við norðvestur hornið. Efsta flóðfar, er neðan við garð þennan, og upp í öðrum garði stærri, eða túngerði þar dálítið norðvestar. Á þessum stað má sjá það, að kaupstaðurinn hefur verið alveg afgirtur (tún?) að sjó, bæði vestur og suður. Fiskabyrgi, lítil og kringlótt eða sporlaga, úr einhlöðnu grjóti, hafa verið þar á klettum og hólum víðsvegar að ofanverðu. Þar hefur fiskurinn verið hengdur á rár og hertur. Garðlagabrot sjást hér líka á mörgum stöðum — eins og um öll Suðurnes — 2, 3 grjótlög, til að þurka á þang í eldinn, og fiskæti líka fyr á öldum.

basendar - festarhringur - II

Í þangivaxinni klöpp, 42 m. niður frá suðvesturhorni húsgrunnsins mikla, er járnkall vel gildur (15 sm. á þykkt og 30 sm. á hæð, með broti af hring í gati) greyptur og tinsteyptur við klöppina). Þetta var hestasteinninn á hlaðinu, fyrir stjórnborða-beizli. Annar slíkur er dálítið utar, niður undan koxinu, og 2 eða fleiri festarhringir þar á móti, í klöppum við suðurhlið skipalegunnar.
En merkustu notin voru þó af þessari góðu hafskipalegu, og verzluninni, sem telja má víst, að þar hafi optast verið rekin í rúmar 3 aldir (1484—1800), og sennilega enn fyr á öldum líka. Mun þá og hafa verið siglt á fleiri Bása, og verzlað á Básum — þó Básendar yrðu löngum hlutskarpastir.“

Heimild:
-Blanda, 3. bindi 1924-1927, 7.-10. hefti, bls. 46-50.

Básendar

Básendar.

Básendar

Í Faxa árið 1948 eru skrif séra Jóns Thorarensens um „Bátsenda„:

„Bátsendar hjá Stafnesi eiga sér einkennilega sögu. Þeir hafa eflaust á fyrri öldum verið notaðir til útróðra, en nafnkunnastir voru þeir fyrir hina dönsku einokunarverzlun, sem rekin var þar í þrjár aldir, frá 1484—1799.

Jón Thorarnesen

Jón Thorarensen.

Fyrst er getið um enska kaupmenn á Bátsendum. Árið 1484 gerði fulltrúi Danakonungs upptækt skip og vörur af Englendingum á Bátsendum, en þeir vildu hafa íriðsamlega verzlun við Íslendinga.

Árið 1491 sló í harða brýnu á milli Englendinga og Þjóðverja útaf Bátsendum, og 1506 eru Englendingar þar í friði með verzlun sína samkvæmt leyfi, er Þorvarður lögmaður Erlendsson í Selvogi gaf þeim.

En 1518 var friðurinn úti milli Þjóðverja og Englendinga út af Bátsendum, Grindavík og Hafnarfirði, og varð bardagi loks milli þeirra í Hafnarfirði, sem endaði með því að Þjóðverjar héldu velli og náðu þessum verzlunarstöðum af Englendingum. Eftir þennan bardaga voru Þjóðverjar öllu ráðandi á Bátsendum, og þegar þýzka útgerðin var mest, höfðu Þjóðverjar þar syðra 45 fiskiskip.

En Kristján þriðji lét gera einn eldhúsdag að þessu öllu og ræna öllum skipum af Þjóðverjum 1543, og 20 árum síðar rændi konungur eða sló eign sinni á allar útvegsjarðir kringum Bátsenda, og öllum afla var upp frá því í tvær aldir rúmlega skipað að Bátsendum, í sjóð konungs. En þrátt fyrir það, að Danir rændu hinum þýsku skipum tókst þeim seint að ná Bátsendum frá Þjóðverjum, því um miðja 16. öld höfðu þeir tuttugu skip þar syðra, en Danir einungis tvö.
Árið 1548 ætlaði danskt skip að sigla inn til Bátsenda, en þýzkt skip var þar fyrir, og flæmdu þeir það danska burt.

Bátsendar

Bátsendar 1083. Garðar fremst. Fjærst má sjá tóft torfbæjarins.

Árið 1640 byrja svo Danir einokunarverzlun sína með fullum krafti á Bátsendum, og þar varð aðalverzlun danska valdsins á þessum slóðum, þar til sjórinn batt enda á allt saman þann 9. jan. 1799, en þá gekk fárviðri með stórflóðum um aJlt Suðuriand, og eyðilögðust þá nótt 187 skip á Suðurlandi. Kirkjan á Hvalsnesi fauk, og skemmdir urðu miklar víðar. Á Eyrarbakka týndust 9 nautgripir, 63 hross og 58 kindur. Seltjarnarnes varð að eyju í flóðinu svo ekki varð komizt tíl Reykjavíkur. Og á Bátsendum eyðilagðist allt. Allur kaupstaðurinn eyðilagðist, en kona ein drukknaði.

Básendar 1726

Básendahöfn 1726. Keflavíkurhöfn ofar.

Þær byggingar, sem eyðilögðust voru þessar. Sölubúðin; íbúðarhús danska kaupmannsins; lýsisbúðin; lifrarbræðslan; íslenzkur torfbær, sem var 5 kofar litlir og urðu þeir allir ein grjóthrúga eftir flóðið; stórt vöruhús, og svo hrundu að mestu vörugeyrnsla, lítið fjós, hlaða og skemma, auk þesss tapaði kaupmaður 6 manna fari, 4ra manna fari, 2ja manna fari og norskri skektu. Sjórinn komst 164 faðma upp fyrir efsta húsið á Bátsendum.

Hinrik Hansen hét síðasti kaupmaðurinn á Bátsendum. Hann segir frá því í skýrslu, sem hann gaf, að um nóttina, aðfaranótt þess 9. jan., hafi hann, kona hans, 4 börn og vinnukona vaknað við það að brakaði í öllu verzlunarhúsnu, og skellir heyrðust eins og grjóti væri kastað á húsið, og þegar hann fór á fætur og lauk upp útidyrum, brauzt sjór inn á þau með afli og fyllti öll herbergi. Flýðu þau þá upp á loft og hírðust þar til kl. 7 um morguninn, að þau brutu þakgluggann og óðu upp að fjósinu, sem hærra stóð. Óðu þau í gegn um borðvið, planka, búsáhöld og vörur, sem allt flaut þar í einum graut. En þegar þau komu að fjósinu hrundi það litlu síðar, þá flýðu þau til hlöðunnar, en um líkt leyti sópaðist þakið af henni. Þá lagði þetta fólk af stað hálf nakið í roki og kulda í áttina heim að Loddu sem var næsta hjáleiga, og komst það þangað eftir mestu þrautir.

Básendar

Básendar – uppdráttur ÓSÁ.

Gömul kona, er var í íslenzka torfbænum á Bátsendum fórst í flóðinu.

Hinrik Hansen var kaupmaður á Bátsendum frá 1788 og til þess síðasta. Hann kom ungur til Íslands, 16 ára, og eignaðist íslenzka konu. Hann átti íbúðarhús á Bátsendum, sem eg hefi minnst á og bjó þar allt árið, hann var orðinn efnaður maður, en missti aleigu sína á einni nóttu og allt óvátryggt eins og geta má nærri. Bar hann sig upp við kóng, en fékk bæði sein og vond svör.

Hinrik Hansen dó í Keflavík 11. okt. 1802, 53 ára gamall, og var jarðsunginn að Útskálum 18. s.m. Þó að Hinrik Hansen væri danskur einokunarkaupmaður, þá hafði hann það það fram yfir aðra starfsbræður sína, sem fyrr höfðu verið þar, að hann kvæntist íslenzkri konu, og var á Bátsendum allt árið, en danskir kaupmenn voru oft vanir að fara á haustin til Danmerkur og loka verzlunarhúsunum og láta sér á sama standa, þó að Íslendingar yrðu að svelta heilu hungri á vetrum.

Básendar

Básendar 1983. Stafnesbærinn fjærst. Garður við Kaupmannshúsið.

Það er ekki að ástæðulausu, þó að einkennilegar tilfinningar vakni hjá mönnum, er þeir koma suður fyrir Stafnes, þar sem Bátsendakaupstaðurinn stóð.

Fyrir 148 árum var þar kaupstaður, sem sopaðist burtu á einni nóttu. Eg held, að enginn blettur á Íslandi eigi sér jafn einkennilega sögu. Þar sem nú eru berar klappir og brimbarðir hnullungar, þar á sama stað var einu sinni líf og fjör og fjögur tungumál: íslenzka, danska, enska og þýzka, hafa verið töluð þar fyrr á tímum. Mörg verzlunarhús voru þar og útvegsbændur komu í stórum hópum að leggja inn fisk sinn og taka út. Ungar og fallegar heimasætur að kaupa sér silkiefni í skrauttreyjur við upphluti og skautbúning.

Básendar

Básendar – Brennitorfuvík.

Karlarnir drukku þar brennivín bjartar jónsmessunætur og báru saman hjá hver öðrum vertíðaraflann, og hresstu sig eftir fiskflutningana og uppskipunina. Þangað kom líka oft maður einn, sem var stór, þrekinn og kraftalegur, með stórgert og svipmikið andlit, svartur á brún og brá og bað um úttekt. Þetta var sóknarpresturinn á Hvalsnesi, Hallgrímur Pétursson. En það var hvorttveggja, að hann gat ekki stært sig af búskap og af því að leggja miklar afurðir inn, og svo var líka hitt, að sýslumaðurinn á Stafnesi var óvinur hans, sem spillti fyrir honum á Bátsendum, svo hann hefur eflaust oft farið þaðan með þungum hug. Þess vegna sagði hann:
Mannleg aðstoð er misjafnt trygg
margir fá slíkt að reyna,
trúskaparlundin laus og stygg
leið gengur eigi beina.
Veltur á ýmsa hlið um hrygg
hamingjulánið eina.

Básendar

Básendar – húsgrunnur.

Já, það mátti segja, á Bátsendum, þar valt hamingjan oft um hrygg fyrir Íslendingum. En í frægustu bók heimsins standa þessi orð: Þeir síðustu munu verða fyrstir. Suðurnesin, sem áður voru heimkynni einokunar og kúgunar, hafa orðið fyrir gjörbreytingu og endurreisn. Frá þeim streymir nú árlega ógrynni auðs í þjóðarbúið, og flestir aðrir landshlutar munu hverfa í skugga þeirra stórfelldu mannvirkja og framkvæmda í sambandi við atvinnulífið, sem þar verða að veruleika á komandi tímum.“

Heimild:
-Faxi, 1. tbl. 01.01.1948, Bátsendar – séra Jón Thorarensen, bls. 3-4.

Básendar

Frá Básendum.

Leiran

Njáll Benediktsson skrifar um „Mannlíf í Leiru“ í Faxa árið 1991:

„Kæri lesandi Faxa, ég undirritaður hef verið beðinn um að rifja upp manntal í Leiru um aldamótin 1900 og hef ég tekið árið 1901 og byrja í Inn-Leiru eins og hún var kölluð.

Leiran

Leiran – örnefni; ÓSÁ.

Innsta húsið hét Bergvík, þar stóð tveggja hæða hús á steinhlöðnum kjallara sem var íbúðarhæfur. Í Bergvík bjuggu fjórar fjölskyldur. Í 1. býli bjó Pétur Pétursson húsbóndi og sjómaður 52 ára, Hallbera Sveinsdóttir kona hans 69 ára, Helga Guðmundsdóttir hjú þeirra 52 ára. f 2. býli Guðrún Guðmundsdóttir húsráðandi 48 ára, Pétur Pétursson sonur húsmóður 17 ára, Sveinsína Pétursdóttir dóttir húsmóður 21 árs, Guðmundur Pétursson sonur húsmóður 14 ára. Í býli 3 þar bjó Árni Sæmundsson húsbóndi og sjómaður 54 ára, Margrét Bjarnadóttir bústýra 59 ára, Hlaðgerður Bjarnadóttir tökubarn 8 ára. Í 4. býli bjó Ólafur Erlendsson húsbóndi og sjómaður 61 árs, Þuríður Eyjólfsdóttir kona hans 51 árs, Kristín Bjarnadóttir tökubam 14 ára.

Leiran

Bergvíkurbrunnur.

Nú höldum við í vestur og komum að Grænagarði, þar býr Jóhann Sigmundsson húsbóndi og sjómaður 37 ára, Þuríður Sigmundsdóttir kona hans 24 ára, Sigmundur Jóhannsson sonur þeirra 4 ára, Pétur Jóhannsson sonur þeirra á fyrsta ári, Kristín Brandsdóttir gestur 63 ára.
Við höldum áfram í vestur og komum í Melshús, þar býr Guðmundur Símonarson húsbóndi og sjómaður 42 ára, Margrét Símonardóttir húsmóðir bústýra 44 ára, Símon Guðmundsson sonur húsbænda 13 ára, Guðrún Jóhanna Guðmundsdóttir dóttir þeirra 5 ára, Brynjólfur Magnússon leigjandi bamaskólakennari 40 ára.

Leiran

Hrúðurnesbrunnur. Stóri-Hólmur að handan.

Við komum svo að Lindarbæ þar býr Björn Sturlaugsson húsbóndi og sjómaður 49 ára, Guðrún Erlendsdóttir húsmóðir og bústýra 53 ára, Kristinn Árnason tökudrengur 12 ára.
Nú förum við í austur niður í dalinn eins og hann var kallaður og komum að vatnsbrunni. Hann var hringhlaðinn úr tilhöggnu grjóti átján feta djúpur, mikið meistaraverk. Nú hafa félagar úr Golfklúbbi Suðurnesja byggt yfir þennan brunn, gott verk sem ber að þakka.
Við höldum áfram í norður meðfram sjónum og komum á Melbæjarbakka, þar býr Jóhann Jónsson húsbóndi og sjómaður 33 ára, Ragnhildur Pétursdóttir kona hans 23 ára, Guðrún Oktavía Jóhannsdóttir dóttir þeirra 2 ára, Jenný Dagbjört Jóhannsdóttir á fyrsta ári.

Leiran

Leiran – örnefni á loftmynd.

Við höldum áfram í norður og komum að Melbæ, þar var mikið mannlíf. Þar býr Jón Bjarnason húsbóndi og sjómaður 33 ára, Margrét Ingjaldsdóttir kona hans 29 ára, Sólmundur Jónsson sonur hjónanna 7 ára, Bjarni Pétur Jónsson sonur þeirra 5 ára, Guðrún Jónsdóttir dóttir þeirra 2 ára, Jónína Margrét Jónsdóttir dóttir þeirra á fyrsta ári, Þuríður Jónsdóttir 79 ára lifir af styrk frá ættingjum sínum, Þuríður Bjarnadóttir 41 árs hjú þeirra.
Við höldum áfram í suðvestur og komum að neðra Hrúðurnesi. Þar býr Helgi Árnason húsbóndi, sjómaður og trésmiður 40 ára, Þorbjörg Sigmundsdóttir kona hans 23 ára, Björg Einarsdóttir hjú þeirra 19 ára, Gísli Jónsson sjómaður 66 ára.

Leiran

Leiran 2005 – loftmynd.

Við komum að Efri Hrúðurnesi, þar býr Sigmundur Jónsson húsbóndi og sjómaður 53 ára, Guðríður Ólafsdóttir kona hans 55 ára, Sigurjón Jónsson skjólstæðingur þeirra 11 ára.
Við höldum áfram í norðverstur og komum í Garðhús, þar býr Guðni Jónsson húsbóndi og sjómaður 55 ára, Ástríður Gísladóttir kona hans 54 ára, Sigurður Sigurðsson skjólstæðingur þeirra 11 ára, Þorsteinn Bjarnason sjómaður 71 árs.
Fyrir neðan Garðhús stóð Ráðagerði, stórt timburhús með háu risi, þar býr Jón Jónsson húsbóndi 54 ára, Jóhanna Jónsdóttir kona hans 44 ára, Jóhannes Jónsson 12 ára sonur þeirra, Rannveig Jónsdóttir 10 ára dóttir þeirra, Jóhann Jónsson hjú þeirra 22 ára, Þuríður Jónsdóttir hjú þeirra 21 árs, Vilmundína Lárusdóttir tökubarn á fyrsta ári, Elsa Dórothea 61 árs húskona lifir á eigum sínum, Gísli Halldórsson sjómaður 61 árs.
Leiran
Nú höldum við vestur og komum að býlinu Kötluhól, þar býr Jóhann Vilhjálmsson húsbóndi og sjómaður 50 ára, Margrét Steinsdóttir kona hans 52 ára, Svandís Vigfúsdóttir 14 ára tökubarn, Hallmundur Eyjólfsson 8 ára uppeldissonur.
Fyrir norðan Kötluhól stóð Stór-Hólmsbaðstofan að falli komin, þar býr Sveinn Helgason húsbóndi og sjómaður 46 ára, Þórey Guðmundsdóttir kona hans 49 ára, Helgi Sveinsson sonur þeirra 16 ára, Anna Sveinsdóttir dóttir þeirra 14 ára, Jón Helgason Sveinsson sonur þeirra 10 ára, Guðrún Helga Sveinsdóttir dóttir þeirra 5 ára, Þórunn Kristín Sigríður Antonsdóttir tökubarn 2 ára, Jón Oddsson húsbóndi 46 ára, Guðleif Oddsdóttir bústýra 28 ára, Jónína Guðleif Jónsdóttir dóttir þeirra 4 ára.
Leiran
Við höldum áfram og komum að bænum Nýlendu, þar býr Einar Eyjólfsson húsbóndi, háseti á opnum bát, 49 ára, Valgerður Jónsdóttir kona hans 54 ára, Gústaf Gíslason uppeldissonur þeirra 9 ára.
Fyrir ofan Nýlendu stóð bærinn Rófa, þar býr Einar Jónsson húsbóndi, háseti á opnum bát, 46 ára, Helga Jónsdóttir húsmóðir, bústýra 49 ára, Guðbjörg Einarsdóttir dóttir þeirra 23 ára, Jakobína Rögnvaldsdóttir tökubarn 5 ára. Næst eru það Steinar, þar býr Ólafur Bjarnason húsbóndi, formaður á opnum bát, 50 ára, Hallbera Helgadóttir húsmóðir, bústýra 55 ára, Bergsteinn Bergsteinsson tökudrengur 13 ára.
Nú förum við í austur niður að sjó, þar stóð Bakkakot, stórt timburhús á tveimur hæðum, þar býr Eiríkur Torfason húsbóndi og formaður á opnu skipi, tré- og járnsmiður 42 ára, Sigríður Stefánsdóttir kona hans 33 ára, Leifur Eiríksson sonur þeirra 3 ára, Guðrún Jónína Lilja Eiríksdóttir dóttir þeirra 1 árs, Helga Högnadóttir hjú þeirra 44 ára, Guðrún Einarsdóttir hjú þeirra 17 ára, Jón Högnason leigjandi, háseti á fiskiskipi 24 ára, Stefán Sigurfinnsson sonur húsfreyju 13 ára, Stefán Pálsson leigjandi lifir af eigum sínum 62 ára.
Litli-Hólmur
Þá höldum við í vestur og komum að Litla-Hólmi, þar var hlaðinn vararkampur úr stóru grjóti sem var einn og hálfur meter á hæð. Það var hægt að landa fiski við vararkampinn við hálffallinn sjó, það var mikil framför í gamla daga. Á Litla-Hólmi býr Geir Guðmundur Guðmundsson húsbóndi og vefari 57 ára, Ingunn Vigfúsdóttir kona hans 40 ára, Helga Geirsdóttir dóttir þeirra 10 ára.
Þá komum við að Litlahólmskoti, þar býr Halldóra Þorleifsdóttir húsmóðir, lifir á handavinnu 59 ára. Það má geta þess að árið 1890 eru skráðir heimilisfastir menn í Litla-Hólmskoti 14 menn.
Nú höldum við í norður og komum í Gufuskálaland, það var kallað Út-Leira.

Gufuskálar

Gufuskálar – uppdráttur ÓSÁ.

Við komum í Gufuskála, þar býr Eyjólfur Eyjólfsson húsbóndi 51 árs, Sigrún Halldórsdóttir kona hans 47 ára, Halldóra Eyjólfsdóttir dóttir þeirra 16 ára, Björn Eyjólfsson sonur þeirra 12 ára, Ingibjörg Eyjólfsdóttir dóttir þeirra 5 ára, Sigrún Oddleif Eyjólfsdóttir dóttir þeirra 3 ára, Guðjón Jónsson hjú þeirra 27 ára, Sigurður Guðmundsson hjú 65 ára, Elín Magnúsdóttir hjú þeirra 55 ára, Eyjólfur Eyjólfsson sonur hjónanna 13 ára.
Þá er haldið í norðvestur og komið að Vesturkoti, þar býr Eggert Einarsson húsbóndi og sjómaður 56 ára, Þóra Þorsteinsdóttir kona hans 63 ára, Þorsteinn Eggertsson sonur þeirra 33 ára, Björn Eggertsson sonur þeirra 30 ára, Þorgerður Eggertsdóttir dóttir hjónanna 22 ára, Jón Jónsson leigjandi, sjómaður 64 ára, Eiríkur Þorsteinsson sjómaður 59 ára, Guðmundur Guðmundsson sjómaður 39 ára.

Gufuskálar

Gufuskálar – Vesturkot.

Nú höldum við niður að sjó, þar stóð Hausthús, fallegur bær með blóm í haga. Þar býr Jósep Oddsson húsbóndi og sjómaður 46 ára, Gróa Jónsdóttir kona hans 33 ára, Jósepína Jósepsdóttir dóttir hans 11 ára, Jónína Halldóra Jósepsdóttir dóttir þeirra 7 ára, Ólafur Jósepsson sonur þeirra 3 ára, Oddný Jósepsdóttir dóttir þeirra 1 árs.
Fyrir vestan Hausthús er Kóngsgerði, þar býr Þórarinn Eyjólfsson húsbóndi 39 ára, Sigríður Arnadóttir kona hans 43 ára, Ingibjörg Þórarinsdóttir dóttir hans 11 ára, Guðrún Þórarinsdóttir dóttir hans 10 ára, Guðbjörn Þórarinsson sonur þeirra 8 ára, Katrín Árnea Þórarinsdóttir dóttir þeirra 6 ára, Eyjólfur Þórarinsson sonur þeirra 4 ára, Helgi Þórarinsson sonur þeirra 1 árs.
Þá höfum við gengið Leiruna á enda.“ – Heimildir eru kirkjubækur Útskála; Njáll Benediktsson, Garði, skráði.

Heimild:
-Faxi, 4. tbl. 01.06.1991, Mannlíf í Leiru- Njáll Benediktsson, bls. 126-128.

Leiran

Leiran – uppdráttur ÓSÁ.

Vatnshólavarða

Gengið var eftir Melabergsleið (Hvalsnesleið), upp að Vatnshólavörðu og síðan var leiðinni fylgt áfram um Miðnesheiðina að hringtorginu austan við Leifsstöð.

Melaberg

Melaberg.

Vatnshólavarðan sést vel frá Melabergsvötum. Þegar komið var framhjá þeim blasti Leifsstöðin við – inngöngudyr ferðamanna til Íslands. Á leiðinni var tækifærið notað og vöngum velt yfir stöðu og framtíð ferðaþjónustunnar á svæðinu.
Undanfarin ár hefur ferðamönnum fjölgað verulega hér á landi. Fjöldi þeirra er nú um 360.000 á ársgrundvelli og hefur verið að fjölga um 12-14% að jafnaði á milli ára. Ekki er því langt að bíða þangað til fjöldi þeirra verður kominn í milljónamarkið. Áður en það verður þurfa hagsmunaðilar ferðaþjónustunnar þó væntanlega að vera búnir að ákveða hvernig þeir vilja stýra ferðamennskunni og ferðum gestanna hér um land með hliðsjón að undirbúningi á einstökum svæðum.

Keflavíkurflugvöllur

Keflavíkuflugvöllur.

Í ljósi breytinga í atvinnumálum og nær ótæmandi möguleikum á Suðurnesjum er ljóst að mikilvægt er að stuðla að eflingu atvinnulífsins t.d. með verulega aukinni þjónustu. Það er m.a. hægt að gera með því að nýta þá ótrúlegu kosti sem svæðið býður upp á. Aðstaðan er einnig mjög góð til fiskeldis, og svo er nauðsynlegt að hlúa að þeirri starfsemi sem fyrir er, þ.á.m. sjávarútvegi og iðnaði. Til að mæta samdrætti í starfsemi á Keflavíkurflugvelli þarf að skapa ný störf í öðrum greinum, einkum iðnaði og þjónustu, ekki síst ferðaþjónustugreinum.

Melabergsleið

Melabergsleið – vörður.

Eitt af forgangsverkefnunum er að að skapa Suðurnesjum jákvæða ímynd í hugum fólks og nýta vel þá kosti sem svæðið hefur upp á bjóða, s.s. alþjóðaflugvöllinn og nágrenni hans, orkulindir til iðnaðarframleiðslu, ágæta hafnaraðstöðu og hina einstöku sagnfræðilegu, náttúru- og jarðfræðilegu möguleika til að stórefla ferðaþjónustu, helsta vaxtarbroddinn í íslensku atvinnulífi.
Hingað til hefur mikið verið fjallað um vilja til aðgerða. Sumu hefur og verið komið í framkvæmd. Í skýrslum, sem gerðar hafa verið og gefnar út á undanförnum árum um þetta efni, má t.d. lesa um;
a) hugleiðingar Samgönguráðuneytisins frá árinu 2002 þar sem fjallað er um framtíðarsýn í íslenskri ferðaþjónustu og m.a. fjallað um ímynd Íslands, umhverfismál, gæða- og öryggismál, menntamál, samgöngumál, byggðamál, skipulag ferðamála, rekstrarumhverfi og markaðsmál. Þá segir að meginþættir ferðaþjónustu séu fjórir: ferðafólkið, fyrirtæki og stofnanir, opinber þjónusta og áfangastaðurinn. Hugmyndafræði sjálfbærrar þróunnar er lögð til grundvallar framtíðarsýninni.

Brimketill

Brimketill.

b) efni Ferðamálaráðs Íslands 2002 um Auðlindina Ísland með hliðsjón af ferðaþjónustusvæðum þar sem markaðssvæðin eru skilgreind, sérstaða þeirra dregin fram, teknar saman fyrirliggjandi upplýsingar, seglar skilgreindir og tillögur gerðar.
c) framsetningu Samgönguráðuneytisins um íslenska strandmenningu árið 2004 þar sem er fjallað um gæðaferðaþjónustu, markaðsrannsóknir og frumkvöðlastarf.
d) fróðleik frá samgönguráðuneytsiins um menningartengda ferðaþjónustu 2002 þar sem er fjallað um íslenska menningu og ferðaþjónustu sem og nútímamenningu Íslendinga og nauðsyn stefnumörkunar.
e) tillögur samgönguráðuneytisins um stefnumörkun íslenskrar ferðaþjónustu 1996 þar sem er kannað með áhuga og möguleika hinna einstöku þjóða að nýta sér Ísland sem ferðamannaland.
f) og einnig má sjá rit frá ferðamálaráðstefnu Reykjavíkurborgar 2004 þar sem ræddir voru styrkleikar og veikleikar Reykjavíkur skilgreindir og gerðar tillögur um markaðassetningu borgarinnar til ferðamanna.

Melabergsvegur

Melabergsvegur.

En svo virðist sem eitt nærtækasta, en jafnframt eitt áhugaverðasta ferðamannasvæðið (a.m.k. fyrir Íslendinga), hafi orðið mikið til útundan, þ.e. Suðurnesin og Reykjanesskaginn allur. Yfirleitt er getið um að þar sé „útsýni mikið og fagurt“, þar megi finna „áhugaverða staði“ og eru þrír slíkir jafnan nefndir til sögunnar, þ.e. Svartsengi, Bláa lónið og Reykjanesviti. Jafnframt að á svæðinu sé fuglalíf og strandir.
Í raun býður svæðið upp á allflest það sem aðrir landshlutar hafa upp á að bjóða, hvort sem lýtur að jarðfræði, náttúru, menningu eða sögu. Dvalartími útlendinga er að styttast og margir koma hingað í öðrum tilgangi en áður, þ.e. til ráðstefnu eða fundarhalda eða í viðskiptaerindum. Þetta fólk þarf oft að bíða hálfan eða heilan dag eftir flugi. Hvaða svæði er þá nærtækara til að nota því til handa en Suðurnesin? Þar er hægt að fara í stuttar ferðir, hvort sem er akandi eða gangandi, skoða fallega hraunhella, þjóðsagnakennda staði, ómótstæðilega náttúru, fuglabjörg, minjar frá upphafi búsetu, nútímahraun, gamlar leiðir markaðar í bergið, eldgíga, atvinnu- og byggðasöguna, verstöðvar, sjóslys, drauga- og huldufólksstaði og svona mætti lengi telja – eða einfaldlega njóta útiveru í fallegu umhverfi. Þá eru afþreyingarmöguleikar sennilega hvergi meiri en á þessu svæði.
En þetta er s.s. allt vitað – og meira til – og eflaust munu hlutaðeigandi aðilar ætla að nýta sér þetta allt til handa framtíðargestunum að utan sem og landsmönnum öllum.
Umhverfið rann saman við vangavelturnar og ferðahugleiðingarnar á leiðinni, en veðrið var frábært.
Gangan tók 1 klst og 11 mín.

Reykjanes

Á Reykjanesi.

Hvalsneskirkja

Freyja Jónsdóttir skrifði um „Hvalsneskirkju“ í Dag árið 1999:
Hvalsneskirkja-221„Á Hvalsnesi hóf Hallgrímur Pétursson prestskap sinn og þar missti hann Steinunni dóttur sína.
Hvalsnes er á vestanverðum Reykjanesskaga, sunnar á strandlengjunni en Sandgerði. Þar var fyrst byggð kirkja 1370 sem vígð var sama ár. Þá átti kirkjan sjö kvígildi, fjórðung í heimalandi og jörð í Norður-Nesjum. Á sextándu öld lagðist sú jörð í eyði vegna uppblásturs. Hallgrímur Pétursson var þjónandi prestur á Hvalsnesi eftir að hann tók prestsvígslu, áður en hann fluttist að Saurbæ á Hvalfjarðarströnd. Hallgrímur var fæddur 1614. Ekki er vitað hvort hann fæddist á Hólum í Hjaltadal eða á einhverjum öðrum bæ þar i dalnum. Faðir hans var Pétur Guðmundsson, sonur velefnaðs bónda í Gröf á Höfðaströnd. Pétur og biskupinn á Hólum, Guðbrandur Þorláksson, voru bræðrasynir. Hallgrímur bróðir Péturs tók við búi í Gröf eftir föður þeirra en Pétur gerðist hringjari í Hólakirkju. Sagan lýsir honum sem atkvæðalitlum manni sem hafi fengið hringjarastarfið fyrir ættar sakir. Sólveig hét kona hans og er lítið um hana vítað. Hallgrímur Pétursson ólst upp á Hólum og var settur til mennta en hætti í skóla og fór til Danmerkur. Talið er að Hallgrímur hafi verið við járnsmíðanám þegar fundi hans og Brynjólf Sveinssonar biskups bar saman.

Tyrkja-Gudda.

Tyrkja Gudda – málverk efir Jóhannes S. Kjarval.

Fyrir áeggjan biskupsins fór Hallgrímur í Vor Frue skóla í Kaupmannahöfn. Árið 1636 kom nokkuð af því fólki sem Tyrkir hertóku hér á landi árið l627, til Kaupmannahafnar. Meðal þeirra var Guðríður Símonardóttir sem Tyrkir rændu í Vestmannaeyjum. Hallgrímur og Guðríður feldu hugi saman og vorið eftir, segir sagan að Hallgrímur hafi hætt í skóla til þess að fara með Guðríði heim til Íslands. Eftir að Hallgrímur og Guðríður höfði háð harða baráttu fyrir lífsafkomu sinni í nokkur ár var Hallgrímur vígður til Hvalsnesprestakalls. Vel er hægt að ímynda sér að þá hafi þau talið að allir erfiðleikar væru að baki en svo var þó ekki. Á Hvalsnesi misstu þau Guðríður og Hallgrímur Steinunni dóttur sína nokkurra ára gamla. Steinunn hvílir í Hvalsneskirkjugarði og er ekki lengur vitað hvar leiðið hennar er í garðinum. Steinn sem var á leiði hennar er nú geymdur í kór kirkjunnar á Hvalsnesi en hann fannst í stéttinni fyrir framan kirkjuna. Talið er að Hallgrímur hafi sjálfur höggvið nafn dóttur sinnar í steininn. Talsverð leit hafði verið gerð að bautasteini Steinunnar en án árangurs þar til kirkjustéttin var endurbyggð 1964 að steinninn fannst í gömlu stéttinni. Útfarasálminn „Allt eins og blómstrið eina“, sem enn er sunginn við jarðarfarir, orti Hallgrímur vegna fráfalls Steinunnar. Hann sendi Ragnheiði Brynjólfsdóttur í Skálholti sálminn þegar hún lá banaleguna.
Hvalsneskirkja-222Áður en steinkirkjan var byggð á Hvalsnesi var þar timburkirkja sem Ketill Ketilsson stórbóndi í Kotvogi lét byggja árið 1864. Margar tilgátur eru til um það af hverju hann réðist í að byggja steinkirkjuna og rífa timburkirkjuna sem aðeins var tuttugu og tveggja ára gömul og þótti á þeim tíma hið veglegasta hús. Timburkirkjan sem Ketill lét byggja var inni í kirkjugarðinum en steinkirkjan stendur fyrir utan garðinn.
Saga er til um að þak timburkirkjunnar hafi lekið og Ketill, sem hefur verið maður stórtækur, ákveðið að byggja nýja kirkju frekar en gera við þakið. En sjálfsagt hefur fleira komið til eins og að Katli hafi þótt kirkjan of lítil. Einhverju sinni á hvítasunnudag var hann við fermingarguðsþjónustu í Hvalsneskirkju. Mikill mannfjöldi sótti kirkjuna þennan dag og komust ekki allir inn og stóðu nokkrir úti. Hafði Ketill þá á orði að ekki gæti hann til þess vitað að fólk, sem vildi hlýða á messu, hefði ekki þak yfir höfuðið. Bygging Hvalsneskirkju hófst árið 1886 og var kirkjan vígð á jóladag 1887. Séra Jens Pálsson sóknarprestur vígði kirkjuna. Kirkjan er hlaðin úr tilhöggnum steini sem fleygaður var úr klöppinni við túngarðinn. Grjótið var síðan dregið á hestum og tilhöggvið með hamri og meitli á byggingarstað. Súlur í kór og ýmislegt annað tréverk er gert úr rekavið úr fjörum í nágrenninu. Einnig var efni í bygginguna fengið úr Duusverslun í Keflavík. Ketill fékk Magnús hvalsneskirkja-223Magnússon múrara, frá Gaukstöðum í Garði til að taka steinverkið í kirkjubyggingunni að sér. En Magnús fórst með fiskibát frá Gerðum, þegar hann var í róðri, áður en kirkjubyggingunni var lokið. Stefán Eggertsson múrari í Reykjavík tók við verkinu og lauk því. Yfirsmiður við kirkjubygginguna var Magnús Ólafsson, trésmíðameistari í Reykjavík. Magnús var fæddur 20. júlí 1840 á Berjanesi, Vestur-Landeyjum. Foreldrar Magnúsar voru: Magnús Ólafsson, bóndi á Efstu-Grund, fæddur 1797, dáinn 2. mars 1879 og Oddný Jakobsdóttir, fædd 1798 í Eyvindarhólasókn, dáin 9. júní 1884. Magnús lærði steinsmíði hjá Birni Guðmundssyni og vann við byggingu Alþingishússins. Hann hlóð veggi Innri-Njarðvíkurkirkju og var langt komin með að hlaða veggi Hvalsneskirkju þegar hann drukknaði. Í bæklingi um kirkjuna sem sóknarnefnd Hvalsneskirkju gaf út er sagt frá því að smíði predikunarstólsins hafi verið byggingarmönnum áhyggjuefni þar sem þeir óttuðust að fá ekki nægilega gott efni í smíði hans. Þá rak á fjöru mahoní tré mikið sem stóllinn var smíðaður úr. Jafnt að utan sem innan er kirkjan ákaflega falleg og vel við haldið. Við allar endurbætur hefur verið Iagt kapp á að kirkjan héldi sínu upprunalega útliti. Ketill Ketilsson yngri í Kotvogi, átti Hvalsnestorfuna árið 1904. Þá voru gerðar talsverðar endurbætur á kirkjunni og lokið við að mála hana að innan en hún hafði ekki verið máluð strax. Árið 1919 gaf Ketill öllum ábúendum á Hvalsnestorfunni kost á að kaupa ábýlisjarðir sínar með samsvarandi hlut í kirkjunni, en kirkjan hafði verið bændakirkja en rekin af söfnuðinum, og var það til ársins 1942 þegar eigendur hennar óskuðu eftir því að hún yrði safnaðarkirkja.
Þegar Hvalsneskirkja var byggð var hún ekki einangruð og það var ekki fyrr en árið 1945 sem það var gert. Tíu árum síðar var rafmagn sett í kirkjuna, hún raflýst og hituð upp með rafmagni.
hvalsneskirkja-225Altarið er frá 1867 og altaristaflan sem er frá svipuðum tíma er mikið listaverk. Hún sýnir upprisuna og er máluð af Sigurði Guðmundssyni. Minni kirkjuklukkan er frá 1820, einnig silfurkaleikur og korpóralklútur. Tinskál sem kirkjan á er með ártalinu 1824 og skírnarfrontur sem merkileg saga fylgir, að Erlendur Guðmundsson bóndi á Stafnesi hafi smíðað hann og gefið þáverandi kirkju á Hvalnesi. Erlendur var rúmliggjandi þegar hann vann verkið og segir sagan að hann hafi verið lamaður frá mitti en eftir að hann hafði lokið smíðinni og fært kirkjunni gripinn hafi hann komist á fætur.
Stærri kirkjuklukkan, er gjöf frá sóknarbörnum 1874. Árið 1945 voru miklar endurbætur gerðar á kirkjunni sem Guðjón Samúelsson hafði yfirumsjón með. Að innan er kirkjan máluð og skreytt af Aka Grans, málarameistara í Keflavík. Yfir kirkjudyrunum er bogadregin gluggi úr ópalgleri með helgimynd. Unnur Ólafsdóttir listakona, dótturdóttir Ketils þess er kirkjuna byggði, hefur gefið kirkjunni fagra muni sem hún hefur unnið sjálf. Þar má meðal annars nefna hökul úr rauðu ullarklæði sem er skreyttur með íslenskum steinum, einnig altarisklæði og íslenska fána. Þessar gjafir fékk kirkjan frá Unni á árunum 1964 til 1971.
Vigdís Ketilsdóttir frá Kotvogi gaf kirkjunni Guðbrandsbiblíu. Kirkjan á fjóra brúðarstóla sem henni voru gefnir þegar hún var nýbyggð. Pípuorgel var vígt og tekið í notkun 1985 en það var keypt fyrir framlög og gjafafé. Presturinn á Útskálum þjónar kirkjunni.

Hvalsneskirkja

Minnismerki um Hallgrím Pétursson við Hvalsneskirkju.

Hvalsneskirkja er merkileg bygging og ekki síst fyrir það að þar var fyrsta kirkja sem mesta trúarskáld Íslendinga Hallgrímur Pétursson þjónaði. Árið 1811 var Hvalsnesprestakall lagt niður og sóknin lögð undir Útskála.
Suðurnesjamönnum þótti langur vegur að sækja kirkju og sóttu um til konungs að kirkjan mætti byggjast upp að nýju. Konungur leyfði það og var kirkjan upp byggð að heita mátti á kostnað ábúenda 1820. Þá voru í sókninni tvö hundruð manns og þrjátíu ábúendur. Í lýsingu sem séra Sigurður Sívertsen gerði um Hvalsnesið segir: „Á Hvalsnesi er mikið tún, hólótt og greiðfært að mestu. Þar er útræði, all gott sund, sem Hvalsnessund kallast, nema í hafáttum. Lítið er um haglendi utan túns, því heiðin fyrir innan er uppblásin, og er að mestu leyti grjót- og sandmelar; þó hafnast þar vel sauðfé og er þar á vetrum einkar góð fjara fyrir útigangsskepnur.“ Hvalsnes var á þessum tíma eign konungs, en óvisst um jarðardýrleika. Næsti bær sunnan við Hvalsnes er Stafnnes.
Heimildir eru frá Þjóðskjalasafni lýsing Útskálaprestakalls 1839 eftir séra Sigurð B. Sívertsen og samantekt úr sögu kirkjunnar sem Iðunn G. Gísladóttir tók saman.“

Heimild:
-Dagur 14. ágúst 1999, bls. 1 og 3.

Hvalsneskirkja

Hvalsneskirkja.

Hvalsnessteinninn

Fyrirspurn hafði verið send fulltrúa Þjóðminjasafns Íslands varðandi rúnasteininn á Hvalsnesi.
UtskálasteinninnEftirfarandi svar barst um hæl: „Rúnasteinarnir frá Hvalsnesi eru í vörslu Þjóðminjasafnsins. Líklega eru þeir í geymslu safnsins í Dugguvogi (fremur en í Vesturvör). Það gæti verið dálítið maus að komast að þeim. Þeir hafa skráningarnúmerin Þjms. 10929 (aldur: 1450-1500) og Þjms. 5637 (aldur: 1475-1500). Hægt er að lesa um þá í Árbók Hins ísl. fornleifafélags 2000-2001 bls. 12.“ Jafnframt er getið um rúnastein frá Útskálum (og fyrr hefur verið fjallað um).
Steinninn, sem fjallað var um í Árbókinni 1908 hefur skv. þessu númerið 5637 hjá Þjms. Jafnframt fylgdi eftirfarandi ábending: „
Þú ættir að hafa samband við Þórgunni Snædal, rúnafræðing. Mér þykir líklegt að hún geti sagt þér allt sem hægt er að vita um þá og gæti líka átt myndir af þeim.“
Rúnasteinn

Haft var samband við Þórgunni. Hún svaraði um hæl: „Allir rúnalegsteinar í vörslu Þjóðminjasafns hafa verið, og eru vonandi enn, í geymslu Þjóðminjasafnsins í Dugguvogi, en þar skoðaði ég þá 1997-98. Því miður var þeim staflað upp í hyllur og erfitt að komast að þeim og nærri ógerlegt að mynda þá. Þess vegna eru svona fáar myndir í skránni minni í Árbók. Ég hef lengi ætlað að fara aftur í Dugguvoginn og reyna að mynda steinana með stafrænni myndavél, en ekki komið því í verk ennþá. Hugsanlega á ég lélega slidesmynd af Hvalsnesbrotunum sem ég gæti skannað og sent, ég skal athuga það, annars er mynd af þeim í Bæksteds Islands Runeindskrifter.
YngraMér virðist tímasetning Bæsteds til loka 15. aldar eða um 1500 geta vel staðist, enda er meirihlutinn af rúnalegsteinunum frá seinni hluta 14. aldar til upphafs 16. aldar.“
Engar ljósmyndir bárust, en finna mátti myndir af framangreindum steinum á vefsíðunni –http://www.arild-hauge.com/islandruner.htm

Í grein Þórgunnar Snæland, „Rúnaristur á Íslandi“, sem birtist í árbók Hins ísl. fornleifafélags 2000-2001, bls. 12, segir m.a. um nefnda rúnasteina á Hvalsnesi:

Hvalsnes 1 (Þjms. 10929); hraungrýti, L.65 cm, B. 39 cm, Þ. 24 cm, RH. 6 cm: „her : huilir : margr…“ – Hér hvílir Margrét. Steinninn fannst í Hvalsneskirkjugarði, ekki er vitað hvenær. eins og steinarnir frá Útskálum var hann sendur til Odnordisk Museum í Kaupmannahöfn 1843 og kom á Þjóðminjasafn 1930. Tímasetning í IR (Anders Bæksted: Islands Runeindskrifter. Bibliotheca Arnamagnsæana. Vol. 2, 1942): 1450-1500.
Um er að ræða legstein. Kross er höggvinn á steininn og inn í „langtréð“ er áletrunin greypt. Síðasta rúnin er eins konar bindirún.

Hvalsnes 2 (Þjms. 5637); grágrýti, L. 118 cm, B. 40 cm. Þ. 7-30 cm, RH. 9-14 cm: „her hu—r : ingibrig: -of-s : doter“EldraHér hvílir Ingibjörg (?) Loftsdóttir. Steinninn, sem er í tveimur brotum, fannst laust eftir aldamótin 1900, kom á Þjóðminjasafn 1908þ Tímasetning í IR: 1475-1500.Â

Um nefndan Anders Bæksted segir Þórgunnur m.a. (bls. 8-9): „Bæksted ferðaðist um Ísland og skoðaði rúnaristur árin 1937, 1938 og 1939. Því miður kom heimsstyrjöldin í veg fyrir að hann fengi lokið verkinu sem skyldi. Hann fékk ekki nauðsynleg gögn frá Íslandi og áform hans að birta rúnaristurnar í samvinnu við þáverandi þjóðminjavörð, Matthías Þórðarson, sem var manna fróðastur um íslenskar rúnaristur, fóru út um þúfur.
Þrátt fyrir erfiðar kringumstæður er IR (Islands Rundeindskrifter) gerð af þeirri vandvirkni og umhyggju um smáatriði sem setur svip á allt sem Anders Bæksted skrifaði um rúnir, en þar má m.a. nefna doktorsritgerð hans Maalruner og Troldruner (1952).

Flekkuvíkursteinninn

Í IR (bls. 13-70) rekur hann sögu og þróun íslenska rúnastafrófsins sem eðilega er mjög skylt norska rúnaletrinu. Hann aldursgreinir rúnalegsteinana út frá rúnagerðunum og málinu, að svo miklu leyti sem það er hægt.“ Á eldri steina er ritað með örðum hætti en þá yngri. „Þessi tímasetning er þó ekki alltaf áreiðanleg, á mörgum steinum blandast eldri og yngri rúnagerðir.
Aldursgreining er að sjálfsögðu einföld ef nöfnin á steinunum eru þekkt úr öðrum heimildum, en það á við um þriðjung steinanna. Ljóst er að flestir steinanna eru frá 15. og 16. öld.“

Fulltrúa Þjms var send eftirfarandi svar: „Þakka skjót svör – Í grein ÞS í Árbókinni 200-2001, bls. 12, er lítið um steinana sjálfa (sendi ÞS þó fyrirspurn með von um meiri fróðleik v/letrið, hugsanlegan aldur og myndir).
Ef það væri ekki óþarfa fyrirhöfn væri áhugavert að fá að skoða umrædda steina (aðallega þó 5637), sem eru í vörslu Þjms. og jafnvel mynda.“ Ekki var hægt að verða við þeirri beiðni fyrr en með vorinu (skrifað í janúar).

„Óðinn var guð menntamannsins. Hann er hinn forni guð sem tók hina dauðu til sín. Athöfnin að hengja glæpamenn er án vafa sprottin frá dýrkun hans. Þegar líður á víkingaöldina er hann í auknum mæli tekinn upp af skáldum og konungum. Óðinn er sagður hafa fundið upp rúnaletrið eftir að hafa hangið öfugur upp í tré í níu daga og níu nætur. Þetta klingir nokkrum bjöllum, heilaga talan níu og heilaga gjörðin að hanga. Samkvæmt goðsögunum þá er það með þessu móti sem Óðinn uppgötvar galdra. En er það hið eina sem rúnaletur gengur út á? Alþýða manna tengdi þetta við galdra enda gat hún ekki lesið skriftina. Skáld, konungar, höfðingjar og annað yfirstéttarfólk, þeir sem tilbáðu Óðinn voru þeir sem notuðu rúnaletur Óðins til Kistugerðissteinninnsamskipta. Honum er einnig þakkað fyrir að hafa komið með skáldskapinn, en hann rænir einmitt skáldskaparmiðinum af jötnum. Það er algengt í frásögnum fornmanna að skáld þurfi að verða drukkinn til að komast í rétt ástand til að yrkja. Margir telja að það sé arfur af því annarlega ástandi sem sjamaninn þarf að vera í, til þess að geta séð um athöfnina.“

Rúnir eru elsta form skrifleturs meðal germanskra þjóða. Orðið rún getur merkt leyndarmál, einkamál eða vísdómur. Til eru tvær gerðir af rúnakerfum. Eldra kerfið hefur 24 rúnir og var notað frá 2. öld e. Kr. fram til þeirrar áttundu. Þá var tekið upp nýtt rúnakerfi með 16 rúnum. Yngri rúnirnar hafa aðeins fundist á Norðurlöndum og á Bretlandi.
Á Víkingaöld notuðu menn rúnaletur og var letrið rist á horn, tré og steina. Íslenskar rúnaristur hafa fundist á legsteinum frá 1300-1700. Textar í rúnaletri voru ekki mjög langir Draughólssteinninnenda gat verið seinlegt að rista þá. Rúnaletrið var einfalt og sumir stafir gátu táknað meira en eitt hljóð. Rúnastafrófið er nefnt fúþark eftir fyrstu sex stöfunum.

En hver var Margrét? Og hver var Ingibjörg? Var Ingibjörg systir Þorvarðar Loftssonar? Og var þetta Margrét sú er kom við sögu í máli Jóns Gerrekssonar Skálholtsbiskups?. Samkvæmt þeirri frásögn girntist brytinn í Skálholti, Magnús kæmeistari, heimasætuna á Kirkjubóli, Margréti Vigfúsdóttur Hólm en bróðir hennar var Ívar Vigfússon Hólm, hirðstjóri konungs. Magnús þessi var af sumum talinn launsonur Jóns biskups og veitti forystu lífvarðasveit hans.
Margrét, … sem talin var einhver bestur kvenkostur á Íslandi“, hryggbraut hann hins vegar og hugðist Magnús leita hefnda. Hann fór að Kirkjubóli, a.m.k. samkv. skáldsögu Jóns Björnssonar; „Jón Gerreksson“. Hann fór að Kirkjubóli í skjóli nætur og brenndi bæinn til grunna, en drap Ívar þegar hann freistaði útgöngu.
HaugbúasteinninnMargrét náði að forða sér með því að grafa göng með skærum sínum og flýja í skjóli reyksins. Sór hún þess dýran eið að eiga þann mann sem næði að hefna bróður síns.
Þar sem Margrét flúði land strax eftir ódæðið hlaut hefndin að koma niður á Jóni Gerrekssyni og kom hún í hlut Þorvarðar Loftssonar, höfðingja frá Mörðuvöllum í Eyjafirði, er hann átti Jóni grátt að gjalda vegna fyrri misgjörða. Jón Gerreksson var aflífaður árið 1433. Veittu höfðingjar úr Eyjafirði og Skagafirði honum aðför í Skálholti, drápu sveina hans sem í náðist, settu Jón í poka og drekktu honum í Brúará.
Þremur árum síðar gekk Þorvarður að eiga Margréti og eignuðust þau börn og buru.

Hvað sem öllum vangveltum líður hefur þarna verið um vel settar konur að ræða í báðum tilvikum, auk þess sem áætlaður aldur rúnasteinanna í Hvalsnesi passa við þann tíma er þær Margrét og Ingibjörg voru uppi. Leturgerð rúnasteinanna virðist vera frá svipuðu tímabili svo ólíklegt má telja að þær skyldkonur hafi átt margar nöfnur á þeim tíma, er þær voru og hétu í Hvalsnessókn. Hafa ber þó í huga þann möguleika að rúnasteinarnir kunni að vera eldri en fyrrgreind aldursákvörðun gefur til kynna. Líklegt má telja að grafsteinar hafi ekki verið teknir úr kirkjugarðinum á Hvalsnesi til nota í kirkjugarðsgarðinn nema þeir hafi verið þess mun eldri og grafirnar fyrir löngu grónar upp og gleymdar. Þá hefur grafreiturinn á Hvalsnesi áreiðanlega verið færður nokkrum sinnum og grjót úr eldri görðum verið tekið og nýtt í hleðslur, enda vel til þess fallið. Vegna aldurs áletranna og úreldis þeirra hefur grjótið verið hætt að þjóna fyrra hlutverki sínu og því verið endurnýtt til nauðsynlegri þarfa.

Geymslan

Rúnir og aðrar áletranir á grjóti hefur áreiðanlega varðveist misvel á ýmsum tímum. Þannig má telja að áletrun, sem hefur umverpst jarðvegi og legið í jörðu hafi varðveist betur en sú er hefur staðið berskjölduð andspænis veðrun; regni og vindum, jafnvel um aldir. Sú fyrrnefnda gæti síðan hafa verið færð upp á yfirborðið, uppgötvuð skömmu síðar, tekin til handargangs og flutt undir þak. Ástandið á mismunandi áletrunum rúnasteina segir því lítið til um aldurinn, en leturgerðin gæti þó gert það, sbr. fyrri umfjöllun og tilvísanir. Hafa ber þó huga að rúnasteinar hafa verið gerðir á seinni tímum, löngu eftir að leturtegundin var aflögð. Eina áreiðanlega vísbendingin um aldur rúna er sú að slíkir steinar geta varla talist eldri en upphafið á notkun letursins segir til um.

Gaman hefði verið ef ofangreindar vangaveltur um þær Margréti og Ingibjörgu hefðu gengið upp, en þær gera það ekki ef tekið er mið af upplýsingum Íslendingabókar. Skv. henni mun Margrét hafa verið á Möðruvöllum fyrir norðan og Þorvarður átti ekki systur að nafni Ingibjörg. Þorvarður átti hins vegar jörð á Reykjanesskaganum, þ.e. Strönd í Selvogi.

Fleiri rúnasteinar eru á Reykjanesskaganum, s.s. í Garði (haugur fornmannsins), við Draughól, í Kistugerði og í Flekkuvík. Aflangur rúnasteinn, sem vera átti við „Kéblavíkurveginn“ ofan við túngarðinn á Hólmi, hefur hins vegar enn ekki komið í leitirnar þrátt fyrir eftirgrennslan.
Framangreindda rúnasteina ætti að varðveita á þeim stöðum sem tilefni þeirra og áverkan varð til enda hluti af menningarafleifð svæðanna. Þeir koma að engu gagni lokaðir inni í óhentugu geymsluplássi sem ekkert hefur að gera með tilvist þeirra.

Heimild:
-Árbók Hins ísl. fornleifafélags 200-2001, Þórgunnur Snædal, Rúnaristur á Íslandi, bls. 5-66.
-Saga Garðs, bls. 94.
-Annálar 1400-1800, I. og III. bindi, Hið íslenska bókmenntafélag 1922-‘ 38.
-www.hugi.is
-http://www.arild-hauge.com/islandruner.htm

Hallgrímshella

Hallgrímshellan.

 

Hvalsneskirkja

Í Árbók Hins íslenska fornleifafélags 1908 fjallar Matthías Þórðarson m.a. um nýfundinn rúnastein á Hvalsnesi undir framangeindri fyrirsögn (Nýfundinn rúnasteinn á Hvalsnesi).
Í dag er ekki vitað um rúnastein á Hvalsnesi. Hvar er þá þessi merkilegi steinn sem fyrrverandi þjóðminjavörður taldi ástæðu til að geta sérstaklega um í Hvalsnesárbókinni?
„Á skrásetningarferð minni um Suðurnes í ágústmánuði í sumar var mér sagt til tveggja rúnasteinsbrota á Hvalsnesi. Athugaði ég brotin (28. ágúst) og virtist mér þau vera úr sitt hvorum steini, svo ólík voru þau að sjá bæði að rúnalagi og allri gerð. Annað lá úti undir kirkjugarðsveggnum að sunnanverðu, fyrir utan hann; er það aftar hluti steinsins. Hitt var í hleðslunni í norð-vesturvegg kirkjugarðsins að innanverðu og sást á þá hlið sem rúnirnar voru á. efni beggja brotanna er grágrýti (dolerit) og er það brotið, sem í hleðslunni var, orðið eytt og  veðurbarið; hefði það verið hér mörg ár enn, var fyrirsjáanlegt að allt verk hefði eyðst af því.“
Þá getur Matthías um forgengileika grjótsins og að „allt letur er horfið af þeim á fám árum“ þótt víða megi enn sjá grafsteina allt frá 16. og 17. öld í kirkjugörðum.
Hvalsneskirkjugarður„Bæði brotin eru nú komin á Forngripasafnið, og er ég sá alla lögun þeirra og gat lagt þau saman, sá ég brátt, að þau áttu saman og að lítið vantaði í steininn. Lengd steinsins er nú á efri hlið 117 sm., en endafletirnir eru skáhallir og er neðri hlið steinsins um 9 sm. lengri. Að framan er steinninn 40 sm. að breidd, efri hliðin, en hann er allur mjórri í aftari endann, aftast um 20 sm. Efri röndin, sú er frá veit, er um 28 sm. að breidd, en þeim megin, sem að snýr, er steinninn aðeins 7 sm. að þykkt. Steinninn hefir verið lítið eitt lengri og hefir brotnað af áletruninni.
Sú hlið steinsins, er áletrunin er á, er allvel slétt af náttúrunni og virðist ekki hafa verið jöfnuð af mannavöldum; dálítið er hún hvelfd inn. Steinninn má heita fremur vel valinn og hefir aflaust verið lagður, en ekki reistur, á leiðið. Á fremri enda steinsins hefir verið höggvinn út upphækkaður kross, en mjög lágt upphækkaður (um 3-4 mm.) og höggvið einungis meðfram álmunum og um 4 sm. út frá þeim.“
ÁletruninÞá er rúnum þeim er mynda nafn á steininum lýst og reynt að ráða í þær. „Áletrunin er því í heild sinni þannig: hér hv[íe]r ingibrig [l]ofs dóter, þ.e. -Hér hvílir Ingibjörg Loftsdóttir-„.
Ekki er vitað hverjum steinninn heyrði. „Það er eftirtektarvert, að einn legsteinn er kunnur héðan frá Hvalsnesi áður, og af lýsingu dr. Kr. Kålunds af honum í „Isl. fortidslævninger“ (Kbh. 1882; bls. 46) sést, að hann mmuni vera ekki ósvipaður þessum að ýmsu leyti. ennfremur ber þess að geta, að 2 rúnasteinar eru komnir frá Útskálum, næsta kirkjustað, sjá „Isl. fortidsl.“, bls. 43-35; hvergi annars staðar hafa fundist ráunasteinar í Gullbringu, Kjósar- og Árnessýslu. Þessir þrír rúnasteinar frá Útskálum og Hvalsnesi, sem Kålund lýsir, flæktust til Kaupmannahafnar árið 1844; Hoppe stiftamtmaður sendi þá til forngripasafns Dana (nationalmusæet). Þar er og 4. íslenski rúnasteinninn; hann sendi þangað sama árið síra Ólafur Sívertsen í Flatey, og er hann úr Gufudalskirkjugarði.“
Fyrirspurn hefur verið lögð fram til Þjóðminjasafnsins um steininn frá Hvalsnesi. Fróðlegt verður að sjá hvernig hann lítur út, ef hann þá kemur í leitirnar.

Heimild:
-Árbók Hins ísl. forleifafélags 1908, Matthías Þórðarson, bls. 48-52.

Hvalsneskirkja

Hvalsneskirkja.