Eftirfarandi frásögn um „Grindavík“ birtist í Alþýðublaðiðinu 22. mars árið 1964:
„Sunnan á Reykjanesskaganum er Nestota, tvínefnd, heitir Hópsnes vestan megin og Þórkötlunes austan megin. Grindavíkin er slitin sundur af þessu nesi. Á því sjálfu er engin byggð, hins vegar eru hverfin beggja vegna við og sést ekki á milli. Í krikanum austan nessins er Þórkötlustaðahverfi, sem nú hefur séð sitt fegursta, en byggð er þar óðum að leggjast af. Vestan megin þar sem heitir Hópsnes er aðalbyggðin og nefnist Járngerðarstaðahverfi. Lengra vesturfrá er enn vogur í víkina, þar sem heitir á Stað. Þar var áður fyrr eitt hverfið enn og nefnist það Staðarhverfi. Útræði var frá öllum hverfunum, en hefur aðeins haldizt frá Járngerðarstaða-hverfinu þar sem hafnarskilyrði eru illskást.
Þegar maður kemur í gegnum skarðið [Selháls], sem er á milli Þorbjarnarfells og Hagafells, er sú hugsun einhvernvegin fjarri, að blómskilja legt þorp með peningareyk og véla skellum blasi allt í einu við augum. Úfið apalhraunið hefur heltekið svo skilningarvitin, að maður er blátt áfram hættur að trúa á tilvist heiðarlegs gróðurs og hvítra snoturra einbýlishúsa. Grindavíkin er því bæði óvænt og skemmtileg tilbreyting fyrir augað.
Landnáma segir að synir Molda-Gnúps hafi numið land í Grindavík. Reyndar er helzt á henni að skilja að karlinn hafi verið með þeim og hafi þeir feðgar hrakizt í Kúvík alla þessa leið austan úr Álftaveri efiir að hraun eyddi fyrir þeim byggð og þeir lentu í slagsmálum og manndrápum austur í sýslum. Þarna hafa þeir svo að líkindum setzt á friðarstól, enda komnir úr kallfæri við náungann og bergþursar urðu ekki vopnbitnir. Hins vegar er sagt að Björn Molda-Gnúpsson hafi samið við þurs einn um kynbætur á geitafé sínu og orðið ríkur af. Grindavík er þannig vagga búfjárkynbóta á Íslandi. Mönnum þykir einsætt að víkin dragi nafn af hvalfiski þeim, sem Færeyingar kalla grind en Íslendingar uppnefnt og kallað marsvín.
Eins og allir vita fer grindin í stórum vöðum og á það til að ana á land og fjára þar uppi. Líka er hægt að reka vöðurnar eins og fjárhóp inn á víkur og loka fyrir þeim undankomuleiðinni. Undan Grindavík eru góð síldarmið og loðnugöngur stórar á vertíð. Trúlegt er að hvalurinn hafi sótt í hnossgætið og ýmist álpazt á land í víkinni, eða verið rekinn. Gaman væri að geta sér þess til, að Molda-Gnúpssynir hafi búið við, konuríki, eins og margir þeir, sem miklir eru fyrir sér útífrá. Þeir hafi þessvegna kallað bæi sína eftir eiginkonunum, Járngerði og Þórkötlu og viljað með því blíðka skap þeirra, enda er hljómur nafnanna ekki beinlínis blíðlegur.
Útræði hefur verið í Grindavík frá ómunatíð. Opin skip reru frá öllum hverfunum, líklega flest frá Þórkötlustöðum, því þar var þraut að lenda ef brimaði, en segja má að sjór deyi aldrei við ströndina enda er næsta fastaland í hásuðri sjálft Suðurheimskautið. Það hefur því verið harðsótt úr Grindavík og ef allt lokaðist þar af brimi er líka hætt við að Eyrarbakki, Stokkseyri og Þorlákshöfn hafi verið ófær, og allir vita hvernig innsiglingin til Vestmannaeyja er í stórviðrum. Þannig urðu formenn að horfast í augu við þann möguleika í hvert sinn sem þeir fóru í róður, að ná aldrei landi. En til mikils var að vinna, því undan lélegustu höfnum landsins eru einmitt beztu fiskimiðin á Selvogsbanka, í Grindavíkursjó og í kringum Vestmannaeyjar. Þessar aðstæður hljóta að hafa skapað æðrulausa manngerð og bænheita. Enn eimir eftir af þessu hjá sjómönnum í aðalverstöðvum landsins, þeir eru flestir forlagatrúar. Og mannfólkið skrimti aldirnar af á skreið og þorskhausum, sem þessir menn sóttu út í tvísýnuna.
Enn er sóttur sjór frá Grindavík og nú eingöngu frá Járngerðarstaða-hverfinu. Þar heftur verið gerð höfn með því að grafa rennu inn í Hópið, sem vesturhlið nessins ber nafn af. Inni í þyí hafa svo verið gerðar bryggjur, þ.e.a.s. einn megingarður og tvær bryggjur út úr honum. Þrengsli eru óskapleg við þennan eina garð. Bátarnir liggja í margfaldri tröð í innri krikanum, því þeim ytri er venjulega haldið fyrir landanir, nema þegar landlega er. Nú róa 50 bátar, stórir og smáir frá Grindavík og þangað sækir mikill fjöldi aðkomubáta til að landa á bíla, sem síðan aka með fiskinn til Keflavíkur eða Reykjavíkur. Sundið úti á víkinni er hreint af skerjum, en bátarnir verða að þræða álinn að rennunni í Hópið. Þreföld innsiglingarmerki auðvelda landtökuna.
Auðskilið er að helzta áhugamál Grindvíkinga sé bætt hafnaraðstaða.
Bátarnir verða stærri og rúmfrekari, þeim, fjölgar og ásókn aðkomubáta til umlöndunar er mikil, einkum þegar mikið fæst af góðum fiski í hringnót eins og nú á sér stað. Þá munar miklu fyrir bátana að koma fiskinum af sér sem næst miðunum og þó á þeim stað sem vel liggur við flutningum til vinnsluhúsanna við Faxa flóa. Þessi ásókn hefur einkum bitnað á Þorlákshöfn og Grindavík nú í vetur.
Og máli málanna er sinnt í Grindavík. Þegar hefur verið hafinn undirbúningur að uppfyllingu út í Hópið. Markað hefur verið fyrir henni með garði, sem er landfastur í báða enda og er aðeins eftir að fylla upp í lónið, sem innan hans er. Því næst er ætlunin að dýpka Hópið, sem mun vera auðvelt vegna hagstæðs botnlags og svo stálþil rekið niður með uppfyllingunni og mikið viðlegu pláss myndast. Leikmanni virðist í fljótu bragði, að hafnarbætur í Grindavík séu tiltölulega auðveldar ef miðað er við það sem ráðizt hefur verið í sums staðar annars staðar. Grindvíkingar vona að þessu verki verði haldið áfram í sumar og lokið við það fyrir næstu vetrarvertíð.
Upp af bryggjunni stendur Hraðfrystihús Grindavíkur, beitingaskúrar og hjállar alls konar. Einnig fiskimjölsverksmiðja, aðgerðarhús og salthús. Vinna er mikil, enda er landað 350-600 tonnum af fiski á sólarhring. en íbúar þorpsins ekki nema 840. Þeim fer að vísu fjölgandi, en fjölgunin takmarkast af húsasmíðum því húsnæðisskortur er óskaplegur eins og í öllum uppgangsplássum. Mikill fjöldi Skagstrendinga hefur sótt til Grindavíkur hin seinni ár, ýmist til vertíðarstarfa, eða fastrar búsetu. Kunnugir segja að svipmót sé með þessum tveim stöðum, þótt þeir séu sitt í hvorum landsfjórðungi.
Áður fyrr var lendingin vestan við Hópið og enn stendur þar niðri á bakkanum þyrping gamalla húsa, m. a. verzlunarhús frá danskri tíð. Á sjávarbakkanum standa nú uppi nótabátar, en mikill földi af þeim liggur í vanhirðu í flestum eða öllum útgerðarplássum landsins. Stokkaðar lóðir hanga til þerris utan á bátunum. Raunar hanga þær hvar sem hægt er að tylla þeim upp, því línuvertíð er nýlokið, en þar er sérkennilegt að sjá gamla nótabáta tjaldaða með snyrtilega stokkuðum lóðum. Niður af kambinum er gamla lendingin eins og fyrr segir. Talið er, að oþin áraskip hafi gengið frá Grindavík allt til ársins 1930. Varirnar eru tvær og heita Norðurvör og Suðurvör. Seinustu árin var komin þar steinsteypt renna með föstum hlunnum, til að draga bátana á upp á kamb. Áður en lent var, hafði fiskurinn verið dreginn upp á band og áður en báturinn kenndi grunns, urðu mennirnir að stökkva útbyrðis og halda honum fríum meðan fiskböndunum var kastað upp, eða þau borin á bakinu upp á kambinn. Þegar svo búið var að létta bálinn var hann settur með aðstoð handvindu í landi.
Allt til stríðsáranna var líka lending í Þórkötlustaða-hverfinu. Hún var svipuð hinni, sem að framan er lýst, nema hafði það fram yfir að bryggjustúfur hafði vorið gerður samhliða vörinni. Uppi á Kambinum má enn sjá handvinduna, sem notuð var við setningu bátanna og einnig er þar ryðguð vinda, sem knúin var af mótor. Hún kom ekki til sögunnar fyrr en allra síðustu árin. Þórkötlustaðalendingin er alllangt utan við aðalþorpið og ofan við hana hafa verið nokkur hús. Þau hafa nú ýmist verið brotin niður eða færð í burtu. Það eina sem minnir á forna frægð Þórkötlustaða-hverfisins eru gapandi tóttir, steinsteypt vörin og bryggju stúfurinn. Reyndar er enn starfrækt frystihús í hverfinu, en allan fisk til þess verður að flytja að vestan úr Járngerðarstaða-hverfinu. Það er mikið byggt í Grindavík. Hraunið er smám saman að láta undan mannanna verkum. Jarðýturnar slétta úfnasta yfirborðið og brunagjallið er hið ákjósanlegasta undirlag.
Barnaskólinn var byggður árið 1947 og er nú orðinn of lítill. Eins og hægt er að skilja á framansögðu byggja Grindvíkingar allt sitt á sjónum og fiskinum, sem í honum er. Að vísu er þar enn nokkur sauðfjárbúskapur, sem stundaður er í hjáverkum, en geit fé það, sem Björn landnámsmaður kom sér upp og kynbætti með aðstoð trölla mun nú útdautt. Iðnaður er enginn, nema þær löggiltu iðngreinar, sem nauðsynlegar eru til útgerðarrekstursins og þjónustu við almenning.
Undir kvöldið löbbum við niður að höfninni í fylgd með Svavari Árnasyni oddvita. Hann hefur verið hjálplegur með upplýsingar og sýnt okkur það markverðasta í þorpinu.
Allir eru að vinna. Eina fólkið sem er á ferli utan vinnustaða, eru húsmæður hlaðnar matvöru, og börn. Bátarnir eru farnir að koma að og við förum um borð í Hrafn Sveinbjarnarson III. nýjasta og fullkomnasta bát þeirra Grindvíkinga. Hann hefur fengið um 10 tonn í netin og löndun er í fuílum gangi. Björgvin Gunnarsson skipstjóri er á stjórnpalli og lítur eftir verkinu. Hann er ungur maður að sjá, en hann er líka aflakóngurinn á vetrarsíldveiðunum hér við suðvesturlandið. Varð hæstur með rúmar 30.000 tunnur. Björgvin segir að auðvitað langi sig á þorskanótina í uppgripin, en útgerðin á bara enga slíka nót. Hann er mjög ánægður með bátinn enda er þetta stórglæsileg fleyta eins og allir nýju bátarnir. Það þarf ekki annað en að líta út úr höfninni, til að sjá bátana, þar sem þeiar eru að draga netin. Miðin eru uppi í landssteinum. Austur með landinu, inni á svolítilli vík má telja 10 hringnótabáta að veiðum. Þeir eru mjög grunnt. Það kom líka á daginn að einmitt þetta kvöld og nóttina eftir var óhemju magni af fiski landað í Grindavík.
Þegar við förum er háflæði og sjórinn í Hópinu spegilsléttur. Þorbjarnarfell vakir yfir borpinu og til austurs blasa við fjöllin sunnan í Sveifluhálsi. Festarfjall er næst, þverskorin hamraveggur ofan frá og niður i sjó. Vegurinn til Krýsuvíkur liggur yfir þetta fjall og ofan af hálsinum er hægt að sjá út allt Reykjanes og alla leið til Eldeyjar þegar skyggni er gott. Mann langar ósjálfrátt til að koma til Grindavíkur og skoða meira.“
Árið 1975 skrifaði Jón Jónsson, jarðfræðingur, um hraunin ofan Grindavíkur, einkum Sundhnúkahraunin er urðu til á nánast sömu sprungureininni með u.þ.b. 3000 ára tímabili: „Hraun við Grindavík – Norðaustur af Grindavík hefur gosið á sprungu og hefur hraun þaðan flætt í sjó fram og myndað Þórkötlustaðanes. Hluti af hrauni því hefur runnið út á gróna gjallhóla vestan undir Svartsengisfelli.
Hraun eru allt umhverfis Grindavík, þorpið stendur á hrauni og á beinlínis hrauni tilveru sína að þakka, eins og hér mun verða sýnt fram á. Sundhnúkahraun og Sundhnúkur.
Hluti af hrauninu ofan við Grindavík, milli Járngerðarstaðahverfis og Þorbjarnarfells, ber nafnið Klifhólahraun. Frá Melhól er verulegur hluti hrauns þess, er Klifhólahraun er nefnt, án efa komið, því að hólarnir eru endinn á langri gígaröð.
Gígaröð sú, sem Sundhnúkahraun er komið úr, byrjar suðvestan undir Hagafelli. Þar eru nokkrir gígir í röð, og er, eða öllu heldur var, einn þeirra mestur, því að nú hefur hann verið um langan tíma notaður sem náma fyrir rauðamöl, og er því farinn að láta á sjá. Þaðan liggur svo röð af smágígum upp suðvesturhlíðina á Hagafelli og eru þar snotrar hrauntraðir, sem sýna, að þarna hefur verið hraunfoss. Úr ofangreindum gígum er meginhluti þess hrauns kominn, sem á kortinu ber nafnið Klifhólahraun.
Gígaröðin er svo lítt áberandi á kafla norðan undir Gálgaklettum, en þeir eru misgengi, sem stefnir eins og gígaröðin frá suðvestri til norðausturs. Hún er þar á kafla tvískipt og stefna hennar lítið eitt óregluleg, gígirnir smáir og hraunhellan, sem myndazt hefur kringum þá á sléttunni norðan við Gálgakletta, vafalaust þunn. Frá þessum gígum hefur hraun runnið í þrjár áttir, til austurs norðan við Gálgakletta, til suðvesturs eins og áður er nefnt og loks til norðvesturs og norðurs. Örmjór hraunfoss hefur fallið niður á Selháls, þar sem vegurinn liggur nú, en numið þar staðar. Hefur hraunið runnið þar út á jarðhitasvæði, sem virkt hefur verið, þegar hraunið rann og væntanlega nokkru eftir það. Verður vikið að því síðar.
Allbreiður hraunfoss hefur svo fallið norður af fellinu og runnið út á forna gjallgígi, sem þar eru fyrir. Er vegurinn skorinn gegn um nyrzta hluta þessarar hrauntungu. Verður nánar greint frá þessu svæði síðar.
Nokkurn spöl norðaustur af Hagafelli verður gígaröðin öllu fyrirferðarmeiri. Rísa þar háir gígir og nefnist Sundhnúkur sá þeirra, er hæst ber. Frá þessari gígaþyrpingu hefur meginhraunflóð það, er til suðurs rann, komið. Það hefur fallið eftir dalnum, sem verður milli Vatnsheiðar, sem er dyngja, og Hagafells. Það hefur fyllt dalinn hlíða milli og fallið beint í sjó fram og myndar þar um 2 km langan og rúmlega 1 km breiðan tanga, Þórkötlustaðanes, en vestan undir honum er vík sú, er Grindavík heitir og hefur frá fyrstu tíð verið ein mesta verstöð þessa lands. Tilveru sína á víkin hrauninu að þakka, því að án þess væru þar engin hafnarskilyrði. Svo vikið sé að nafninu Sundhnúkur, hefur Ísleifur Jónsson, verkfræðingur, bent mér á, að nafnið muni vera komið af því, að hnúkurinn hafi verið notaður sem leiðarmerki fyrir siglingu inn sundið inn á höfnina í Grindavík. Nokkru norðan við Sundhnúk verður skarð í gígaröðina á ný, en norðar tekur hún sig upp aftur og heldur eftir það beinu striki að heita má austur að Stóra Skógfelli. Þessi kafli gígaraðarinnar er annar sá mesti hvað hraunrennsli snertir. Er ljóst, að hraunrennsli hefur að mestu verið bundið við ákveðna kafla gígaraðarinnar, og hefur hún því naumast verið virk öll nema rétt í byrjun gossins og sennilega um mjög stuttan tíma. Virðist þetta eiga almennt við um sprungugos (Jónsson 1970).
Frá þessum kafla gígaraðarinnar — kannski væri réttara að kalla það gígaraðir — hafa hraunstraumar fallið til norðurs og austurs, auk þess sem þaðan hafa hraun runnið niður í áðurnefndan dal milli Hagafells og Vatnsheiðar saman við hraunin úr Sundhnúkagígunum.
Mikill hraunstraumur hefur fallið til norðurs frá þessum gígum, runnið vestur með Svartsengisfelli að norðan, og þekur allstórt svæði vestur af því, langleiðina norður að Eldvörpum. Þar hverfur það undir Illahraun, sem því er yngra. Hraunin úr Eldvörpum, Illahraun og hraun úr stórum nafnlausum gíg suðvestur af Þórðarfelli eru samtímamyndun, en ekki verða hér raktar sannanir fyrir því. Þessi hraunstraumur hefur fyllt skarðið milli Svartsengisfells og Stóra Skógfells. Virðist hraunið þar mjög þykkt, annan. Geta má þess, að þrjár gossprungur eru í Stóra Skógfelli og stefna allar eins. Sjálft fellið er úr bólstrabergi. Til suðurs og suðausturs hefur hraunið náð lengst í mjóum tanga, sem liggur meðfram Vatnsheiðar-dyngjunni að austan. Mikill hraunfláki er milli ofangreindrar gígaraðar, Vatnsheiðar og Fagradalsfjalls. Ganga þau hraun undir nafninu Dalahraun (Bárðarson 1929), en aðeins lítill hluti þeirra er kominn úr því gosi, sem hér um ræðir. Það er hins vegar ljóst, að áður hefur gosið á sprungu, sem er lítið eitt til hliðar við Sundhnúka-sprunguna. Sumt af þessum hraunum á rætur að rekja til hennar, nokkuð til Vatnsheiðardyngjunnar og enn nokkur hluti til fornra eldstöðva norðaustan undir Hrafnshlíð. Loks má vel vera, að fleiri eldstöðvar séu faldar undir þessum hraunum. Það er greinilegt, að þarna hafa mörg gos átt sér stað frá því að ísöld lauk.
Yngsta hraunið á þessu svæði er það, sem komið er úr Sundhnúkagígnum, en það þekur ekki stórt svæði þarna austan til og hefur víðast hvar ekki runnið langt til suðurs frá eldvörpunum. Það er því mun minna, en virðast kann við fyrstu sýn.
Við suðurhornið á Stóra Skógfelli er gígaröðin lítið eitt hliðruð til suðausturs og stefnan breytist um hér um bil 7° til suðurs. Hraunið hefur runnið báðum megin við Stóra Skógfell, en nær þó ekki saman norðan þess. Milli Stóra Skógfells og Litla Skógfells eru mörk hraunsins sums staðar óljós, enda koma þar fyrir eldri hraun og eldstöðvar auk þeirra, sem eru í Stóra Skógfelli sjálíu og áður er getið. Suðurbrún hraunsins er víða óljós, enda svo skammt frá eldvörpunum, að hraunið hefur verið mjög heitt og því náð að renna í mjög þunnum straumum. Nú er það gróið mosa og mörk þess víða hulin. Að þessu leyti verður kort af hraunröndinni ekki hárnákvæmt.
Fremur lítið hraun hefur runnið lir gígaröðinni eftir að kemur austur fyrir Stóra Skógfell. Gígirnir eru litlir, mest í þráðbeinni röð, sem heita má að sé óslitin úr því. Smáhraunspýja hefur runnið norður eftir vestanhallt við Litla Skógfell, en ekki náð alla leið norður á móts við það. Gígaröðin endar svo í smágígum, sem liggja upp í brekkurnar, suðaustur af Litla Skógfelli, en þær brekkur eru raunar hluti af dyngjunni miklu, sem er við norðausturhornið á Fagradalsfjalli. í heild er gígaröðin um 8,5 km á lengd.
Nokkru norðan við austurenda gíganna er Kálffell. Það eru gígahrúgöld, ekki sérlega stór, og hefur hraun frá þeim runnið norðvestur og norður. Þessi eldvörp eru eldri en Sundhnúkahraun. Guðmundur G. Bárðarson (1929) er fyrstur til að nefna þessa eldstöð. Eldri gígaröð. Engum efa er það bundið, að áður hefur gosið svo til á sömu sprungu. Gígir eru suðvestan í Hagafelli aðeins austan við Sundhnúkagígina, og stefnir sú gígaröð alveg eins og þeir.
Suðaustur af Stóra Skógfelli sér á stóran gjallgíg, sem opinn hefur verið til suðausturs. Hann er lítið eitt austan við Sundhnúkagígina og einmitt þar, sem sú gígaröð hreytir nokkuð um stefnu. Um 1,5 km austar er svo annar stór ösku- og gjallgígur og er gígaröðin fast við hann að norðan. Gígur þessi er líka eldri. Báðir eru þeir að nokkru leyti færðir í kaf í yngri hraun. Hraunflákinn vestur af Fagradalsfjalli virðist að mestu leyti vera kominn úr þessari eldri gígaröð, en þó eru þar fleiri eldstöðvar. Hraunin á þessu svæði ganga undir nafninu Dalahraun. Hraun frá Vatnsheiðardyngjunni hafa og náð alllangt þarna austur, því að þau koma fram í bollum í yngri hraununum, þar sem þau hafa ekki náð að renna yfir. Eftir þessu að dæma eru bæði gosin á Sundhnúkasprungunum yngri en dyngjugosin, sem skópu Vatnsheiði og Fagradalsdyngju. Loks endar þessi eldri gígaröð í litlum gjall- og klepragígum utan í vesturhlíð Fagradalsdyngju nokkur hundruð metrum sunnar en austustu gígirnir í Sundhnúkaröndinni, sem áður er getið.
Hvenær rann hraunið?
Þess er getið hér að framan, að hraunfoss frá gígnum vestan við Gálgakletta hafi fallið vestur, eða réttara norðvestur af Hagafelli. Blasir þessi hraunfoss við, þegar komið er suður yfir hraunið við vesturhornið á Svartsengisfelli. Þessi hraunspýja hefur runnið út á forna gjallhóla vestan undir fellinu. Þar er það mjög þunnt, og hefur það verið skorið sundur við rauðmalarnám og vegagerð. Kemur þá í ljós, að hólar þessir hafa verið grónir, þegar hraunið rann.
Leifar þess gróðurs má nú finna sem viðarkol undir hrauninu. Mest eru það smágreinar og stofnar, líklega af víði, lyngi og ef til vill fjalldrapa og birki. Jarðvegslagið hefur verið örþunnt, líkt og það er víða á gjallhólum ennþá. Viðarbútarnir eru sjaldan meira en 2—3 mm í þvermál. Þessar jurtaleifar hafa nú verið aldursákvarðaðar með C14-aðferð. Hefur dr. Ingrid U. Olsson á Rannsóknarstofnun Uppsalaháskóla gert það. Samkvæmt niðurstöðum af þeirri rannsókn eru jurtaleifarnar 2420 ± 100 C14 ára gamlar, talið frá árinu 1950, og hraunið hefur því runnið tæpum 500 árum fyrir upphaf okkar tímatals.
Bergsprungur.
Í hraunum kringum Grindavík er mikið um sprungur og gjár, en einkum eru þær áberandi í hinum eldri hraunum og í móbergsfjöllunum. Er Þorbjarnarfell ljósasta dæmið um það. Í Sundhnúkahraununum ber lítið á sprungum yfirleitt og bendir það til, að fremur hægfara breytingar séu þar eða þá, og það virðist fullt eins líklegt, að þær séu bundnar ákveðnum tímabilum. Má telja sennilegt, að hreyfingar þessar eigi sér aðallega stað samfara jarðskjálftum. Má í því sambandi minna á jarðskjálftana á Reykjanesi 30. september 1967.
Vestur af Svartsengisfelli má, ef vel er að gætt, sjá fyrir sprungum í þessu tiltölulega unga hrauni. Þær eru í beinu framhaldi af sprungum, er ganga í gegnum Þorbjarnarfell. Rétt við eina þeirra er jarðhitastaður sá, sem jafnan er kenndur við Svartsengi.
Ummyndun og jarðhiti.
Eins og áður var getið um, er jarðhiti í hrauninu vestur af Svartsengisfelli. Þar hefur mælzt yfir 60° hiti. Engum efa er bundið, að allstór hver hlýtur að vera þarna undir hrauninu, því líklegt má telja, að vart séu minna en 20—30 m niður á grunnvatnsborð á þessum stað. Við hagstæð veðurskilyrði, logn og nálægt 0°C má sjá gufur leggja upp úr hraununum víðs vegar á þessu svæði. Eru þær í áberandi beinum línum, sem sýnir, að þær eru bundnar við sprungur í berggrunni þeim, sem Sundhnúkahraun og önnur hraun hafa runnið yfir.
Rétt austan við veginn norðan í Selhálsi hefur hraunið runnið út á svæði, sem er mjög ummyndað af jarðhita. Það er athyglisvert, að hraunið sjálft er þarna líka nokkuð ummyndað, en það sýnir, að þarna hefur verið virkur jarðhiti, eftir að hraunið rann, þ. e. fyrir eitthvað skemur en um það bil 2400 árum.
Ummyndun eftir jarðhita er þarna víða í kring, bæði í Þorbjarnarfelli og Svartsengisfelli. Sömuleiðis er mikil jarðhitaummyndun í austustu gígunum í Eldvörpum við hina fornu slóð milli Njarðvíkur og Grindavíkur. Boranir þær, sem gerðar voru á þessum stað 1971, hafa staðfest, að þarna er um háhitasvæði að ræða.
Ef marka má af ummyndun, og eins því á hve stóru svæði vart verður við gufur í hraununum við hagstæð skilyrði, þá er svæðið ekki lítið. Eftir er nú að kanna takmörk þess.“
Í Náttúrufræðingnum 1973 skrifar Jón Jónsson um sama efni: „Gígaröðin í Sundhnúkum gaus fyrir 2400 árum, en þá varð Þórkötlustaðanes til og Grindavík skapaðist. Gígaröð þessi er um 8 km löng og á þeirri sprungugrein hefur áður gosið.
Sé gengið norðan fellsins, er vert að veita því athygli hvað gróður breytist þegar kemur austur fyrir gilið, sem er upp af samkomustaðnum gamla. Vestan gilsins er fellið gróið upp eftir hlíðinni og þar grænkar fyrr á vorin. Þetta stafar af jarðhita og gilið er tengt sprungu og ummyndun af jarðhita er þar mikil. Á háfellinu er myndarlegur gígur og frá honum hafa hraun runnið og þekja fjallið.
Austan við Sundhnúkahraunið tekur Vatnsheiði við. Það er hraunskjöldur (dyngja) eða hraun skildir öllu heldur, því gosopin eru fleiri en eitt. Nyrsti skjöldurinn er þó þeirra mestur en hraunið er pikrít, mjög ólívínauðugt berg, sem sums staðar er nærri grænt af ólívínkristöllum, en þeir eru mjög dreifðir um bergið. Vatnsheiði er eldri en sprunguhraunin í kring og hverfur því hraunið úr dyngjunum undir þau. Dyngjuhraunin hafa verið þunnfljótandi, heit og talið er að þau komi djúpt úr jörðu, jafnvel neðan úr möttli.
Fagradalsfjall er stapi og gígurinn er á norðurhorni þess og er all myndarlegur. Hraunborð er svo ofan á fjallinu og hallar borðinu til suðurs. Er talið líklegt að jökull hafi haldið að á báðar hliðar þegar komið var á lokastig gossins og þannig markað hrauninu rás svo úr verði þríhyrningur. Syðst á fjallinu eru yngri (nútíma) gígar og hraun í og við lítinn sigdal (snoturt umhverfi, góður hvíldarstaður). Slaga.
Sunnanfrá séð er Slaga mest áhugaverð. Neðst ofan við skriðurnar koma fram gráir stuðlabergshamrar (grágrýti). Að ofan eru þeir rispaðir af jökli (sést ekki nema upp sé klifrað, varúð, grjóthrun getur átt sér stað). Ofan á þessu kemur svört brotabergskennd gosmyndun, sem þó er yngri en jökull sá er heflaði grágrýtið. Aðrennslisæð þessarar gosmyndunar má sjá norðaustan til í brúninni, ljósgrá brík, gangur, skerst þar upp í brún og fleiri gangar, þunnir, eru þarna. Á síðjökultíma hefur sjór fallið upp að fjallinu. Hraun hafa þarna og nokkuð austar eftir skapað væna sneið af nýju landi.“
Margar frásagnir eru til um slysfarir utan við Hópsnes og Þórkötlustaðanes. Hér á eftir er t.d. sagt frá því er þilskipið Hákon strandaði:
„Þilskipið „Hákon“ strandar í Grindavík – Menn komust af.
Þann 10. þessa mán. var fiskiskipið Hákon“ hjeðan úr Rvík á leið heim af veiðum sunnan fyrir land. Um nóttina gerði, eins og kunnugt er, grenjandi norðanbyl, mestu stórhríðina, sem hjer hefir komið sunnanlands um mörg ár.
Á sunnudagsmorguninn um kl. 9, kendi „Hákon“ grunns. Var svartabylir, og vissu skipverjar ekki fyr en þeir voru strandaðir skamt frá Hrauni, insta bæ í Grindavfk, rjett fyrir austan Þórkötlustaðanes. Steytti skipið á skeri og kom strax sjór í það. Engin tiltök fanst skipverja að komast í land, því brim var mikið, en sást þó óglögt fyrir hríðarbylnum. Lögðu þeir því í skipsbátinn, 21 að tölu, og reyndu að komast vestur með landi. Tókst þeim það. Og eftir um klukkustunda ferð í stórhríð og brimi, lentu þeir upp á líf og dauða í bás einum hjá litla vitanum á Reykjanesi, og komust heilu og höldnu í land. Þaðan fóru þeir gangandi heim að Reykjanesi til vitavarðar. Var þar vel tekið á móti þeim. En þeir voru allmjög þjakaðir, blautir og kaldir, því sumir höfðu verið verjulausir. Á mánudagsnóttina voru þeir hjá vitaverði, en fóru daginn eftir til Grindavíkur til þess að líta á skipið. Skipið var mölbrotið þegar á fyrsta degi, og hefir því ekki náðst út.“
Árið 1926 varð til önnur umfjöllun af öllu alvarlegra sjóslysi austan við innsiglinguna í Hópið: „Bátur úr Grindavík fórst við innsiglingunni í fyrrakvöld – 5 manna áhöfn hans drukknaði.
Í fyrrakvöld var þriðja sjóslysið í mánuðinum. Vélbáturinn Grindvíkingur frá Grindavík fórst og með honum áhöfn hans, fimm menn, allir á bezta aldursskeiði, Þrjú börn misstu föður sinn í þessu sviplega slysi, tveir voru fjölskyldumenn og einn heitbundinn. Allir áttu þeir foreldra á lífi. Fjórir mannanna voru úr Grindavík, en sá fimmti af Vestfjörðum.
Skipverjar á Grindvíking voru Jóhann Magnússon, skipstjóri, 24 ára. — Hann lætur eftir sig eitt barn og foreldra átti hann á lífi. Hermann Kristinsson, 1. vélstjóri, 23 ára. — Hann lætur eftir sig unnustu og foreldra. Þorvaldur Kristjánsson, stýrimaður, 25 ára. — Hann lætur eftir sig konu og tvö börn ung, Sigfús Bergmann Árnason, háseti. — Átti foreldra á lífi. Hann var 36 ára. Valgeir Jónsson, háseti. Ættaður af Vestfjörðum. Annað hvort úr Aðalvík eða af Ströndum.
Bátar úr Grindavík voru allir á sjó er veðrið skall á. Þeir, sem komu í höfn, komu að landi milli klukkan fjögur og 6,30. Um klukkan sjö, sást bátur við Þórkötlustaðarnes, en það er við innsiglinguna í Grindavíkurhöfn. Á þilfari höfðu skipverjar kynnt bál, er gaf til kynna að báturinn væri í nauðum staddur.
Í landi var brugðið skjótt við og þrátt fyrir hríð og mikla ófærð komst björgunarsveitin út í nesið. Þá var þar engan bát að sjá. Þá þegar um kvöldið var gengið á fjörur og um miðnætti tók ýmislegt brak að reka á land. Það reyndist vera úr Grindvíkingi. Í allan gærdag var að reka úr bátnum. Í gærkvöldi hafði eitt lík rekið.
Grindvíkingur var 65 rúmlesta skip. Var byggður á Akranesi árið 1945. Hlutafélagið Ingólfur átti bátinn. Voru þeir aðilar að) félaginu bæði skipstjóri og fyrsti vélstjóri.
Vegurinn til Grindavíkur var illfær í gær. Í hinu harmi lostna sjávarþorpi var ekkert rafmagn og þaðan símasambandslaust bæði við Reykjavík og ýmsar sveitir.“
Heimildir:
-Alþýðublaðið, 22. mars 1964, bls. 8-10.
-Náttúrufræðingurinn, Jón Jónsson, Aldur hrauna, 45. árg. 1. tbl. 1975-1976, bls. 27.
-Náttúrufræðingurinn, 43. árg., 3.-4. tbl., 1973, Jón Jónsson, Sundhnúkahraun við Grindavík, bls. 145-153.
-Morgunblaðið 3. maí 1991, Jón Jónsson, bls. 25.
-Ísafold, 15. maí. 1926, bls. 3.
-Morgunblaðið, 20. janúar 1952, bls. 20.