Tag Archive for: Vatnsleysuströnd

Hólmur

Í BS ritgerð Gunnars Óla Guðjónssonar í maí 2011 um „Verbúðarsafn við Voga á Vatnsleysuströnd„, sem skrifuð var í Landbúnaðarháskóla Íslands, má m.a. lesa eftirfarandi fróðleik um verstöðvar og aðbúnað í verum með áherslu á svæðið í kringum Stapann við Voga.

Verstöðvar

Verstöðvar á Suðvesturlandi.

Öll hin gömlu ver eru nú horfin. Gunnar leggur t.d. til endurgerð vers á svæðinu í ljósi sögunnar. Sambærilega tillögu má finna annars staðar á vefsíðunni þar sem lagt er til að slíkt mannvirki verði endurgert í umdæmi Grindavíkur.

Verbúð

Verðbúð síðari tíma.

„Verstöðvum á Íslandi má skipa í fjóra flokka. Frá heimvörum réru menn frá vör er var í nánd við bæinn. Í margbýli var venja að bændur sameinuðust um heimvör og gerðu þá út saman. Eins og nafnið gefur til kynna, voru útverin andstæða við heimverin. Benda heimildir til þess að útverin hafi snemma komið til sögunnar en m.a. er talað um veiðistöðvar í þjóðveldisaldarritum. Það tíðkaðist í útverum að menn dveldust þar á meðan vertíð stóð. Í upphafi voru verbúðirnar ekki rismiklar, aðeins tóftir sem tjaldað var yfir. Tímar liðu og verbúðirnar fóru smám saman að minna meira á hýbýli manna þar sem fólk gat hafist við allan ársins hring (Lúðvík Kristjánsson, 1982).

Aðbúnaður í verum

Stapabúð

Stapabúð undir Stapa.

Í blönduðum verum og heimverum tíðkaðist að vermenn gistu á bæjunum í kring eða bændur sáu um að útvega gististað. Í útverum voru hinsvegar sérstakar verbúðir. Stærð búðarinnar fór eftir gerð skipsins sem gert var út í verstöðinni. Tíðkaðist að ein skipshöfn hefði eina verbúð útaf fyrir sig. Veggir verbúðarinnar voru hlaðnir úr torfi og grjóti. Þakið var úr sperrum og yfir þær lagt torf. Dyr voru ýmist á gafli eða hlið. Eini gluggi verbúðarinnar var skjár á þaki eða þá yfir dyrum.

Þorlákshöfn

Verbúð í Þorlákshöfn.

Byggingarlag verðbúðar líktist útihúsum á sveitabæjum. Í flestum tilvikum voru stutt göng inn af dyrum. Inn af þeim tók við aðalvistarveran sem var sjálf búðin, þar sem verbúðarmenn höfðust við. Ekki var verbúðin hólfuð niður, heldur opin og rúmstæðin gerð úr torfi og grjóti meðfram veggjum.
Í stærri verbúðum var oft autt rúm innaf búðinni og kallaðist kór.

Verbúðarmenn deildu rúmum eða bálki eins og það var kallað. Var það í höndum formanns að velja hvaða tveir og tveir menn lágu saman. Þeir skiptu svo með sér verkum, hvort sem það var að sækja vatn, eldivið eða sjá um lampann í verbúðinni. Önnur tilfallandi verk voru t.d. að elda mat og hita kaffi í morgunsárið. Kjásarhaldari var sá sem tæmdi hlandkoppa verbúðarmanna.

Selatangar

Selatangar – verbúð.

Til þess að komast að í verbúð, varð að fylgja mönnum ákveðinn skammtur af fæði. Reglur voru þær að hverjum manni yrði að fylgja kjöt, rúgur, feitmeti, harðfiskur og sýra. Þessi kostur var kallaður mata. Yfir daginn fengu verbúðarmenn eina heita máltíð, soðninguna. Áður en farið var á sjó fengu verbúðarmenn sér að éta en ekki tíðkaðist að taka með fóður í róðra, nema þá einn blöndukút með sýru. Eftir túr, þegar búið var að draga bát í land beið þeirra saðning, var það í hlutverki fanggæslunnar að matreiða hana. Er menn höfðu étið nægju sína var gengið frá skipinu og aflanum. Fanggæslan var kona sem þjónustaði vermenn. Hún þvoði þvott, bjó um rúm, sá um matseld og þreif. Á Suðurnesjum voru þessar konur nefndar hlutakonur (Lúðvík Kristjánsson, 1983).

Vermaður

Vermaður í sjóklæðum.

Vermenn klæddust skinnklæðum sem hlífðarfatnaði. Í Íslenskum sjávarháttum III, segir Lúðvík Kristjánsson svo frá að tíðkast hafi að kenna piltum að sauma sér klæði úr skinni strax að lokinni fermingu. Þó svo að konur hafi fengist við skinn má víst telja að það hafi verið karlmannsverk. Í fötin var brúkað sauðskinn en nautshúð í skógerð, þó kom fyrir að skór væru gerðir úr hákarlaskráp, þá ef hann fékkst. Um sjóklæðin má segja að þau hafi verið stakkur sem náði niður á mið læri og brækurnar best heppnaðar ef náðu þær upp undir hendur. Þó voru til margvíslegar gerðir af sjóbuxum sem kallaður voru nöfnum eins og skóbrók, ilbrók og sólabrók. Saumaðir voru leðurskór við skóbrókina en ilbrókin saumuð saman að neðan á meðan sólabrókinni var hafður sóli í stað skós. Sjóskór voru svo notaðir við sólabrækur sem og ilbrækur. Skinnklæðum varð að halda mjúkum og voðfelldum, til þess voru þau reglulega mökuð feiti. Í verkið notuðu menn lifur og til að ná sem bestum árangri varð hún að vera ný og mátti helst ekki vera mjög feit.

Vermaður

Skinnbrækur vermanns.

Bestu útkomuna fengu menn ef þeir komust yfir skötulifur, en hrálýsi var notað í hallæri og þótti ekki eins gott. Svo má geta þess að selspik þótti skila góðum árangri. Eftir að klæðin höfðu verið mökuð voru þau samanbrotin og sett undir farg í rúman sólarhring. Eftir það voru þau þurrkuð í tvo þrjá daga. Uppúr 1870 fóru menn að leggja skinnklæðum sínum og með tímanum hurfu þau úr sögunni. Í staðinn komust í tísku olíustakkar og klæði úr öðrum efnum. Í köldum veðrum og vistarverum voru vettlingar ómissandi og tíðkaðist að vermenn kæmu með nokkur pör með sér. Við róður þófnuðu vettlingar eins og svo var kallað og urðu vel rónir vettlingar næsta vatnsheldir. Á höfði í róðri, báru menn hettu en síðar kom hattur til sögunnar. Algengt var að sjóhattar væru innfluttir og framleiddir úr lérefti (Lúðvík Kristjánsson, 1983).

Saga og búseta

Stapi

Stapinn – Brekka t.v. og Hólmabúð fjær.

Þegar gengið er niður bratta, hlykkjótta götuna niður Brekkuskarðið birtist fyrir augum manns Hólmabúðir. Greinilegt er að hér hefur verið mikið líf og hér hefur eflaust verið veiðistöð um margar aldir, en saga þeirra er nú glötuð. Þó nokkuð er þó vitað um sögu Hólmans síðan 1830-1940, þegar hið svonefnda anlegg rís. Anlegg var það sem menn nefndu salthúsið og fiskitökuhúsið sem P. Chr. Kundtzon lét reisa. (Árni Óla, 1961) Á loftum þessara húsa munu hafa verið bækistöðvar aðkomusjómanna, en sjálfir gerðu þeir sér grjótbyrgi þar sem fiskurinn var saltaður. Saltið fengu þeir aðflutt á skútum á sumrin, á sama tíma og fiskurinn var sóttur.

Stapi

Stapi – strandaður innrásarprammi.

Á svæðinu er skrokkur af innrásarpramma sem bandamenn smíðuðu til þess að flytja herlið sitt til Frakklands. Þegar komið er út í Hólmann er hann nokkuð stór og hringlaga og þar má finna margar leifar af mannvirkjum fyrri tíma. Fyrst er þar grunnur undan stóru húsi, sem líklega hefur verið fiskitökuhús og íbúðarhús umsjónarmannsins sem þar var. Þetta hús hefur verið um 15 metrar á lengd og breidd. Þar hjá er grunnur undan öðru húsi og þar mun hafa verið salthúsið, sem tók 2000 tunnur af salti. Steinstéttir eru umhverfis þessi hús sem gætu hafa verið nýttar til þess að breiða út fisk.

Stapi

Brekkuvör – Hólmurinn fjær t.h.

Fremst á Hólminum eru rústir af grjótbyrgjum, þar sem vertíðarmenn hafa saltað fisk sinn. Hefur sjórinn brotið nokkuð af þessum byrgjum niður í gegn um tíðina og ekki er hægt að sjá hve mörg þau hafa verið, en þó standa heillegar tóftir af sumum. Þarna er að finna leifar af miklum grjótgörðum. Tvö svæði á stærð við meðal kálgarð eru þar afgirt með grjótgörðum, sem gætu hafa verið nýtt sem bátaskýli, en þangað höfðu bátar verið dregnir inn í skjól þegar illa viðraði. Þessi rétt eða skýli hafa verið rétt við lendinguna innan á Hólmanum, en síðan var önnur lending utan á honum.

Hólmur

Hólmurinn.

Seinustu útgerðarmenn á svæðinu á meðan anleggið var og hét, voru bændur úr Kjós, af Kjalarnesi, Seltjarnarnesi og úr Reykjavík (Árni Óla, 1961). Það er talið að þeir hafi gert út á 18 bátum á þeim tíma og ef áætlað er að jafnaði séu um sjö menn á hverju skipi verða það 126 manns. Síðan má telja landverkafólk og má ætla að þegar mest var hafi verið þarna á bilinu 140-150 manns (Guðmundur Björgvin Jónsson, 1987)

Hólmur

Hólmurinn.

Þurrabúð rís fyrst í Hólmi árið 1830. Bjarni Hannesson hét sá er þar bjó fyrstur, en hann lést árið 1844. Kona hans, Valgerður Þórðardóttir, giftist síðan Guðmundi Eysteinssyni sem var vinnumaður hjá þeim og bjuggu þau í Hólmabúðum fram til ársins 1848. Það er á þessum tíma sem Knudtzon byrjar að byggja anleggið og leggur hann undir sig Hólmabúðir eftir að Guðmundur fer þaðan. Á þessum tíma tóku kaupmenn að hugsa um að tryggja sér þann mikla fisk sem barst að landi á Suðurnesjunum og greiddu þeir mönnum utan af landi sem vildu gera út á vertíð, en mynd 20 sýnir verstöðvar á suð-vesturlandi.

Hólmur

Hólmurinn.

Vorið 1876 fluttist Stefán Valdimarsson Ottesen í Hólmabúðir og bjó þar til 1882. Þá var mjög farið að draga úr útgerð á svæðinu og árið 1898 tók við Björn Guðnason og var væntanlega seinasti stöðvarstjóri í Hólmi. Seinasti maður sem þar bjó, var Elís Pétursson og var hann þar í aðeins eitt ár, en eftir þann tíma fara engar sögur af stöðinni og munu húsin hafa verið rifin um aldamót, efnið flutt í burtu og eftir stóðu grunnar og hálfhrunin fiskbyrgi. (Guðmundur Björgvin Jónsson, 1987)

Stapi

Stapinn – Brekkutóftir og Hólmurinn.

Seinasti aðkomumaðurinn, eða útlendingurinn eins og þeir voru kallaðir í Vogum, sem gerði út frá Hólminum var Haraldur Böðvarsson, kaupmaður á Akranesi. Hann eignaðist fyrsta vélbát sinn Höfrung árið 1908 og gerði hann út frá Vestmannaeyjum. Þetta var 8 tonna bátur og Haraldi leist ekki á að gera út þaðan, en taldi hann Hólmabúðir henta vel sem útgerðarstað fyrir sig. Þar var gott lægi fyrir litla vélbáta innan við Hólminn og ef illa viðraði var hægt að draga bátinn á land. Þegar Haraldur flutti var gamla verstöðin komin í eyði fyrir löngu, en þar reisti hann og stundaði útgerð í þrjú ár, en flutti síðan til Sandgerðis.

Stapi

Brekka undir Stapa; minjar.

Á undirlendinu meðfram Stapanum eru rústir af tveimur býlum sem upphaflega voru þurrabúðir, en urðu að grasbýlum. Annað þeirra hét Brekka sem var reist af Guðmundi Eysteinssyni þegar hann fór frá Hólmabúðum árið 1848 og bjó hann þar fram til 1861. Eftir það voru þó nokkrir ábúendur sem stöldruðu við í stuttan tíma, áður en Guðmundur Jónsson fluttist þangað árið 1869 og bjó þar í 30 ár.

Brekka

Brekka udir Vogastapa.

Árið 1899 komu þangað hjónin Pétur Jónsson og Guðlaug Andrésdóttir ásamt sex börnum sínum. Pétur bjó í Brekku til dauðadags árið 1916 og ekkja hans bjó þar eitt ár eftir dauða hans, en þá tók tengdasonur hennar Magnús Eyjólfsson við búinu og bjó þar til ársins 1930. Greinilega má sjá vel hlaðinn stofuvegg bæjarins uppistandandi. (Árni Óla, 1961)“
(Brekka fór í eyði 1928 og íbúðarhúsið flutt í Voga.)

Heimild:
-Gunnar Óli Guðjónsson, BS – ritgerð; Maí 2011. Verbúðarsafn við Voga á Vatnsleysuströnd, Umhverfisskipulag – Landbúnaðarháskóli Íslands.

Stapi

Stapabúð undir Vogastapa.

Minna-Knarrarnes

„Í túni eystri hálflendunnar í Suðurkoti í Brunnastaðahverfi er stór hóll, sem kallaður er Þerrir. Honum fylgdi sú sögn, að þar ættu álfar heima, og þess vegna mætti aldrei slá hólkollinn. Ef það var gert, átti bóndinn að verða fyrir einhverju óhappi. Munu flestir bændur hafa virt þessi álög, því engin dæmi vissu menn þess að hólkollurinn hefði verið sleginn.

Suðurkot

Um 1890 flytur á þennan part maður, sem Hannes Hannesson hét, og tók hann þar við einu kúgildi. Fyrsta sumarið, sem hann var þarna, mun grasspretta hafa verið lítil. Þóttist hann þá nauðbeygður til þess að slá hólinn og gerði það.
Á þessum árum var venja að kýrnar af mörgum bæjum voru reknar í einum hóp á haga langt uppi í heiði, og skiptust bændur á um að reka kýrnar, en sá, sem rak þær, tekur þá eftir því, að kýr Hannesar í Suðurkoti er eitthvað undarleg. Og allt í einu tekur hún sig bölvandi út úr hópnum og ræðst á þúfu nokkra, eins og hún væri blótneyti. Reif hún og tætti alla þúfuna sundur með hornunum, en féll því næst niður steindauð.
BrandsleiðiÝmsir settu þetta í samband við það, að álögin á Þerri höfðu verið lítilsvirt, og aldrei sló Hannes hólinn upp frá því. – (B.H.)
Í örnefnalýsingu fyrir Brunnastaði segir m.a.: „Upp af Töðugerði, upp við veg, er stór hóll með pöllum að sunnan. Þessi hóll heitir Grænhóll. Austan við hann, neðan Gamlavegar og Lambskinnshóls er síðar getur, heitir Tvívörðulágar. Upp af Halakoti er hóll í túni sem heitir Boghóll og nyrsti bletturinn þar í túninu heitir Fimmálnatún. Þá er næst skólajörðin og þar er gamalt eyðibýli sem heitir Kothús, þetta er suður af skólahúsinu. Þá er hér norðar og niður við sjó svonefnt Naustakot. Upp frá því er Suðurkot og þar fyrir neðan garðinn er hóll sem heitir Þerrir. Langur og stór hóll hér austur af bæ heitir Langhóll.“
NónhóllLárus Kristmundsson á Brunnastöðum kannaðist aðspurður strax við álagahólinn. Í stað þess að ganga að hólnum, hélt hann sig innan dyra, gekk út að glugga á herbergi á vesturhlið Brunnastaða og benti: „Þarna er Þerrir. Hann mátti aldrei slá. Handan hólsins eru tóftir Suðurkots“. Þegar að var komið var engar mannvistarleifar að sjá á hólnum, en suðvestan við hann mótar enn fyrir tóftum Suðurkots. Kotið hefur haft tvö þil mót vestri og umhverfis hefur verið túngarður. Hluti hans sést enn. Merkileg fornleif í ljósi sögunnar – en vanvirt.
GrásteinnSú er sögn að bærinn Hlöðunes hafi upphaflega heitið Hlöðvisnes og kenndur við þann, er þar byggði fyrstur manna. Þar í túninu á þessi Hlöðvir að vera heygður og heitir þar enn Hlöðvishaugur. 

Brandsleiði er í túninu á Litla-Knarrarnesi, en engar sagnir eru til um það, og vita menn því ekki, af hverju það hefir fengið nafn sitt. En fornt mun það vera.“
Í örnefnalýsingu fyrir Knarrarnes segir m.a.: „Vík var þurrabúð, syðst í túni Minna-Knararness. Hún fór í eyði laust eftir síðustu aldamót. Nónhóll er fyrir sunnan Vík. Í honum er klettur, sem heitir Grásteinn. Nónhóll er eyktarmark frá Minna-Knarrarnesi.

Brandsleiði

Brandsleiði. Lambúshóll fjær.

Lambhúshóll er austan við Vík og austur af honum er Brandsleiði, aflöng þúfa eins og leiði. Sögn er engin til um það. Í kringum Brandsleiði heitir Brandsgerði. Helgavöllur er á milli Brandsgerðis og sjávar.“
Birgir Þórarinsson, staðarhaldari að Minna-Knarrarnesi, kannaðist aðspurður strax við Brandsleiði. Hann sagði Benjamín Eiríksson, sem var í sveit á Knarrarnesi árið 1917, segja frá leiðinu. Að því sögðu gekk hann suður fyrir Minna-Knarrarnes, upp á svonefnt Brandsgerði. Þar í miðju gerðinu var óslegið þýfi; Brandsleiði. Leiðið var óslegið á annars vel slengnu gerðinu. Suðvestar er Lambúshól og sunnan hans má sjá Digravörðu (líklegt hádegismark) og innsiglingarvörðu vestar. Hvorutveggja væru ágæt myndefni í dagsbirtu, en þegar hér var komið var henni verulega farið að halla. Lesendur eru því beðnir velvirðingar á myndgæðunum.

Kirkjugatan

Þá gekk Birgir óhikað að Nónhól suðvestan við núverandi bæjarhús. Birgir sagði gamla bæjarhólin hafa verið norðan við núverandi íbúðarhús. Bæjarhóllin var augljós. Útnorðan hans mótaði fyrir heimatúngarði og að sunnan er hlaðinn garður umhverfis gamlan matjurtargarð. Hvarvetna eru minjar og örnefni um fornbýlisháttu.
Aftan við bæjarhólin, fast við matjurtargarðinn norðvestanverðan, má enn sjá móta fyrir gömlu kirkjugötunni, sem lá með ströndinni og þræddi svo til alla bæina áleiðis að Kálfatjarnarkirkju. Það væri gustukaverk að rekja götuna frá Vogum að bæjarstæðunum að kirkjustaðnum í einhverri FERLIRsferðinni. Af fyrri ferðum um svæðið má telja ljóst að gatan er víða greinileg á köflum þótt henni hafi verið raskað þess á millum.
Frabært veður. Gangan tók 1 klst og 1 mín.

Heimild:
Árni Óla – Strönd og vogar, 1961.

Þerrir

Gvendarsel

Ákveðið var að skoða a.m.k. þrjú sel á Reykjanesi. Fyrir valinu urðu Vífilsstaðasel, Gvendarsel og Flekkuvíkursel. Þessi sel eru ekki beinlínis hvert ofan í öðru, en eiga það öll sameiginlegt að tiltölulega stutt er að ganga í þau frá vegi.

Flekkuvíkursel

Flekkuvíkursel – uppdráttur ÓSÁ.

Ekið var upp línuveginn í Vífilsstaðahlíð og spölkorn inn fyrir háhæðina. Vífilsstaðaselið er skammt innan við Vífilsstaðahlíðina þar sem hún er hæst á milli og vestan við Grunnuvötn. Á kortum er það sýnt norðar og vinstra megin við línuveginn, en er í raun hægra megin í grasigróinni hvilft inni á milli holta, opinni til norðvesturs. Tóftirnar eru norðaustan undir holtinu. Svo virðist sem kví hafi verið sunnan við þær. Ofan og norðar við tóftirnar er hlaðinn stekkur. Vel gróið er í hvilftinni. Selstígurinn lá frá Vífilsstöðum um Ljósukollulág þarna skammt norðvestan í hlíðinni. Þá má einnig sjá götu niður og norður frá Gunnuvötunum, í lægðinni milli Vífilsstaðahlíðar og Sandhlíðar að austanverðu.
Þá var haldið að Gvendarseli utan í Gvendarselshæðum suðaustan við Kaldársel. Ekið var eftir línuvegi frá Bláfjallavegi og inn með hæðunum að vestanverðu, ofan Undirhlíða. Gvendaselsgígar eru norðar.
Gömul gata liggur frá Kaldárseli um Kúadal og Kýrskarð, upp með norðanverðri Gvendarselshæð og áfram til suðurs með henni austanverðri, Um Slysadal, Leirdal og Fagradal.

Gvendarsel

Gvendarsel í Gvendarselshæðum ofan Kaldársels.

Selið er vestan í hæðinni, undir háum klettavegg þar sem hann er hæstur. Klettur slútir þar fram og myndar þak á eina tóftina. Þar mun hafa verið svonefndur Gvendarhellir. Önnur tóft er skammt ofar undir veggnum. Á bak við og inn á milli er skarð í klettana og er hleðsla í enda þess. Vestan við selið er hlaðinn stekkur að hluta. Þeir, sem skrifað hafa um Gvendarsel, hafa álitið að þar hafi í rauninni aldrei verið sel, enda “engin merki þess.” Ef draga á ályktun af tóftunum er líklegt að annað hvort hafi staðið til að hafa þarna selstöðu eða að hún hafi verið þar í skamman tíma. Afstaða tóftanna er sú sama og í flestumöðrum seljum á Reykjanesskaganum. Talið er að nafngiftin sé Guðmundar Símonarsonar, bónda á Setbergi, fósturfaðir Guðmundar Tjörva Guðmundsssonar síðar bónda í Straumi.

Vífilsstaðasel

Vífilsstaðasel – uppdráttur ÓSÁ.

Loks var haldið að Flekkuvíkurseli ofan við Hrafnhóla á Vatnsleysuströnd. Farið var eftir línuveginum vestan Afstapahrauns. Selið er undir og norðan við ás, Seláss eða Flekkavíkuseláss í u.þ.b. 5 mínútna gang frá línuveginum á móts við Bræðravörðurnar þar norðan við veginn. Þessar vörður eru hægra megin þegar línuvegurinn er ekinn til vesturs. Þetta eru tvær stórar vörður, sem standa mjög þétt saman. Bræður sjást mjög vel ffá Reykjanesbraut þegar ekið er upp hæðina suður frá Kúagerði. Frá selinu eru vörðurnar í stefnu á Stóra-Hrafnhól en hann stendur rétt neðan við brautina (hægra megin). Um er að ræða miklar tóftir á nokkrum stöðum. Við selið að ofanverðu og inn í holtið skerast grasbollar beggja vegna.

Flekkuvíkursel

Flekkuvíkursel.

Ásinn greinist samkvæmt gömum landamerkjalýsingum í Vestri-Flekkuvíkuselás og Nyrði-Flekkuvíkurselsás. Á vesturásnum er Selásvarða, önnur varða er á miðhluta hans og sú þriðja á nyrðri endanum. Norðan ássins rétt neðan við vatnsbólið eru þrjár gamlar tóftir og há grasivaxin grjóthrúga, líklega mjög gömul húsatóft.
Vatnsstæðið er á ásnum ofan og norðan við þær. Norðan við tóftirnar er hlaðinn stekkur. Austan við stekkinn er greinilega mjög gömul tóft. Enn austar, í hraunhólsbolla, eru hleðslur, líklega stekkur. Gæti verið frá gamla selinu, sem er þar skammt norðar. Talið er að síðast hafi verið haft í seli þarna um 1891 eða ’92. Líklegt er þó að selið hafi staðið upp enn um sinn og menn og fé leitað þar skjóls, eða þangað til það hrundi endanlega veturinn 1916.
Veður var frábært þennan dag – sól og blíða.

Heimildir m.a.:
-Örnefni og gönguleiðir á Vatnsleysuströnd – Sesselja G. Guðmundsdóttir – 1995.
-Íslandskort 1942.

Vífilsstaðasel

Vífilsstaðasel – uppdráttur ÓSÁ.

Flekkuvík

Brunnar eru bæði vestan og norðan við Flekkuvíkurhúsið. Nyrðri brunnurinn er sjávarmegin við húsið. Hann er dýpri og virðist nýrri.

Flekkuvík

Flekkuleiði.

Hinn brunnurinn er suðaustan við húsið, í túninu nálægt gömlu heimreiðinni. Túnið er að mestu sunnan og ofan við húsið. Syðst í því, svo til alveg undir túngarðinum ofanverðum er Flekkuleiði; lágur gróinn hóll, einn af nokkrum. Á leiðinu er “rúnasteinn”, sem segir að þar “Hvíli Flekka”. Í raun er um 16. eða 17 aldar leturstein að ræða skv. áliti sérfræðinga. Sagan segir að Flekka, norsk landnámskona, sem áður byggði Flekkuvík, hafi viljað láta grafa sig í jarðri túnsins þar sem hún hefði útsýni yfir innsiglinguna að bænum. Þar mun hún hvíla, blessunin.
Ekki er ólíklegt að ætla að Flekka hafi verið grafinn á ystu mörkum hins ræktaða lands á þeim tíma, m.a. til að vernda það fyrir hugsanlegum yfirgangi þeirra, sem á eftir kynnu að koma, en miklir fólksflutningar voru til landsins á landnámsöld og landamörk því fljót að breytast.
Rúnasteinn Flekku er einn af a.m.k. þremur á Reykjanesskaganum.
Árni Óla (1961) fjallar m.a. um letursteininn á Flekkuleiði „Rúnasteinn í Flekkuvík„, í bókinni Strönd og Vogar. Úr sögu einnar sveitar í landnámi Ingólfs Arnarsonar, Reykjavík, bls. 207-215.

Flekkuvík

Brunnur í Flekkuvík.

Keilir

Keilir er einkennisfjall á vestanverðum Reykjanesskaganum. Fjallið, sem er strýtulaga, sést vel víða frá, t.d. frá ásum höfuðborgarsvæðisins, Ströndinni og Rosmhvalanesi. Það er formfagurt og minnir að mörgu leyti á eldkeilu. Hvers vegna fjallið varð nefnt í karlkyni er mörgum hulið. Eðlilegra heiti á því hefði verið Keila.

Keilir

Keilir varð til við gos undir jökli á ísöld. Hann er því að mestu úr móbergi, 379 m.y.s. Strýtumyndunin er til komin vegna gígtappa eða bergstands á fjallinu miðju. Gígtappinn er að að mestu úr basalti/bólstrabergi og veðrast því síður en móbergið, sem er samanþétt öskumyndun undir þrýstingi. Auk þess ver móbergið kjarnan þótt vindum. Vatni og frosti hefur þó smám saman tekist að flytja efni af efstu brúnum fjallsins niður með hlíðum þess og myndað strýtuna, sem nú má sjá.
Líkt og gott útsýni er að Keili er ekki síðra útsýnið ofan frá honum – til allra átta.
Þetta formfagra fjall varð til, sem fyrr sagði, við gos á sprungu undir jökli á ísöld. Upphaflega hefur Keilir því verið hluti móbergshryggjar í tengslum við Fagradalsfjall og Festisfjall, sem eyddist með árunum af völdum veðrunar og huldist nýrri hraunum þannig að eftir stendur fjallið. Þráinsskjöldurinn hefur t.a.m. hulið hluta þeirra, en þó má enn sjá suma fyrrum

Keilir

Keilir.

hæstu hluta gossprungunnar; Litla-Keili, Litla-Hrút og fjöllin suðvestan við þá. Strýtumynduð lögun Keilis gefur til kynna að gosið hafi á sínum tíma ekki náð að bræða gat í jökulhvelfinguna og mynda hraun.
Frá því sjósókn hófst á norðanverðum Reykjanesskaga hefur Keilir verið notaður til að marka mið sjómanna. Þannig má sjá að margar innsiglingavörður í varir og lendingar á norðan- og vestanverðum Reykjanesskaganum hafa fyrrum haft vísan á Keili.
Fjallið er eitt af þeim fjöllum sem heilla og seiða göngumenn til sín enda vekur það jafnan athygli fyrir fegurð sína og einstæða staðsetningu. Göngutími á fjallið er um 2-3 klst ef lagt er afs tað frá norðanverðu Oddafelli eða frá Rauðhól skammt norðvestar. Hækkunin er um 250 metrar.
Til að komast að keili er ekið af Reykjanesbraut skammt vestan við Kúagerði, en þar eru mislæg gatnmót Vatnsleysustrandarvegar. Greiðfært er öllum bílum um Afstapahraun að Höskuldarvöllum.
Gott er að ganga á fjallið þó bratt sé en vissara er að fara varlega. Auðfarið er upp því myndast hefur greinilegur

Keilir

Keilir – handan hraunsins.

göngustígur eiginlega allt frá Oddafelli og upp á tind. Uppi á fjallinu gestabók í sérhönnuðum standi og á honum stendur að Alcan hafi gefið hann.
Móbergsfjöll myndast við gos undir jökli, í sjó eða vatni. Meðan vatnsþrýstingur er nægur yfir eldstöðinni hleðst upp bólstraberg. Ljúki gosi á þessu stigi verður til bólstrabergshryggur, dæmi: Sigalda. Haldi gosið áfram, minnkar vatnsdýpið vegna upphleðslu gosefna undir yfirborði vatnsins/jökulsins og tekur þá fyrir bólstrabergsmyndun enda er vatnsþrýstingur þá ekki nægur til að halda vatnsgufu og gosgufum niðri. Gosvirkni breytist þá í þeytigos. Ofan á bólstrabergið leggst því gjóska sem er ýmist úr vikri, ösku eða brotabergi. Ef gosið hættir á þessu stigi verða til móbergshryggir, dæmi: Sveifluháls, eða keilulaga móbergsfjöll líkt og Keilir (ef um gos á kringlóttu gosopi eða stuttri sprungu er að ræða). Haldi gosið enn áfram, hlaðast gígrimar upp úr vatnsborðinu og vatn nær þá ekki lengur að komast í snertingu við bergkvikuna og snöggkæla hana og valda þeytigosi. Tekur þá að mestu fyrir myndun lausra gosefna og hraun fer að renna úr gígnum. Séu gígrimarnir umflotnir vatni, fyllir hraunið undir sig upp að vatnsborði með skálögðuð bólstra- og gjalllagi sem hraunhella leggst síðan ofan á.

Keilir

Keilir.

Heimildir m.a.:
– http://www.landvernd.is/arfjalla2002/fjall_14.html

Keilir

Auðnaborg

Menningarminjar á Reykjanesskaganum komu til umræðu meðal tveggja manna.
Annar hafði gengið um og kynnt sér svæðið og taldi sig vita nokkurn veginn hvað það hefði að geyma. Hinn hafi ferðast um það vítt og breytt á bíl og taldi Líklega sundvarða á Skálholtisig einnig vita ýmislegt. Verulegur munur var þó á þekkingu þeirra hvað varðar úrval og staðsetningu minjanna. Sá akandi hafði séð kirkjur, vörður og jafnvel rústir, en sá gangandi hafi séð fornar götur, falin fjárskjól, seltóftir, réttir, stekki, sæluhús, hella, brunna, varir, verbúðir o.fl. er verða fyrir fótum fólks og lýsa búsetusögunni um langa tíð.
Ákveðið var að taka fyrir svæði valið af handahófi. Kíkt var á neðanverða Strandarheiði ofan Breiðagerðishverfis. Báðir mennirnir sögðust hafa komið þangað, sá gangandi til að skoða Staðarborgina og hinn akandi á leið í Voga. Hvorugur sögðust hafa tekið eftir minjum á þessu tiltekna svæði, enda einstaklega eyðilegt á að líta.
Lagt var af stað ofan við heimreiðina að Breiðagerðisbæjunum. Þar liggur stígur upp í heiðina. Sunnan hans er gróin tvískipt tóft á klapparhól. Hleðslur eru í syðri hluta tóftarinnar, en nyrðri hlutinn virðist hafa verið sporöskjulaga gerði. Að öllum líkindum hefur þarna verið lítið fjárhús eða sauðakofi.

Auðnaborg

Auðnaborg.

Beint að augum, með stefnu á Keili, er gróinn hóll. Sunnan í honum er Auðnaborg. En stígurinn lá hins vegar áleiðis að Skálholti, stórum en lágum og flötum klapparhól. Uppi á hólnum eru þrjár vörður; líklega landamerki. Sú norðaustasta er greinilega hlaðin úr eldra mannvirki. Grunnur af ferkantaðri hleðslu er umhverfis vörðuna, en norðan hennar eru leifar af skýli. Nafnið á holtinu gæti hafa verið vegna þess. Kannski að menn hafi hist þar og skálað eða skýlið hafi verið skáli í einhverjum tilgangi. Þá er ekki útilokað (og reyndar sennilegt) að þarna hafi verið skál til kolagerðar, sbr. Odd Oddsson: „Einhverntíma á stekktíðinni á vorin, í logni og þurviðri, voru kurlin brennd til kola. Á háum stað og þurrum var gerð skálmynduð gryfja, kolagröfin“. Við slíkar grafir voru oft skjól því kolavinnslan gat tekið tíma og ávallt varð maður að vaka yfir henni á meðan eldað var. Utan í klapparhólnum austanverðum mótar fyrir lítilli tóft. Norðvestan í holtinu er gróinn hóll. Í honum má sjá hleðslu. Líklega var þarna um að ræða efri sundvörðuna inn í vörina neðan Breiðagerðis. Hún er greinilega hlaðin með stefnu í Keili. Á lágum klapparrana austan við holtið er hlaðið byrgi refaskyttu.
Fjárhústóft ofan BreiðagerðisOfar eru grónir hólar; Vatnshólar. Suðvestan þeirra eru einnig gróinn hóll. Þegar nær var komið sáust hleðslur réttar sunnan hólsins og grónar tóftir uppi á honum. Þarna var Auðnaborgin; almenningur og tveir dilkar austan hans. Tóftirnar uppi á hólnum gætu hafa tengst réttinni eða borginni, sem þarna var og staðurinn dregur nafn sitt af. Skammt vestar eru leifar af stekk. Breiðagerðisstígurinn lá upp með Auðnaborg með stefnu á Keili. Enn sést móta fyrir honum á köflum. M.a. má sjá vörðu við hann millum borgarinnar og fjárhústóftarinnar fyrstnefndu.
Þessi stutti hringur tók u.þ.b. 30 mín og 03 sek. í frábæru veðri.
Ljóst er að það getur ýmislegt leynst á „eyðilegu“ svæði. Eftir gönguna voru báðir jafn undrandi. Kannski þetta hafi ekki verið alveg sanngjarnt gagnvart þessum tveimur „ferðalöngum“ því í rauninni er sama hvar stigið er niður á Reykjanesskagann – þar má alltaf finna einhverjar minjar – ef vel er að gáð.
Leifar skála á Skálholti?

Kálfatjörn

Árna Óla fjallar um leturstein í bók sinni „Strönd og Vogar“ (1961) í hlaðinni brú gamla Kirkjuveginum vestan Kálfatjarnar (bls. 230-232). Þar segir hann m.a.: „Fyrir sunnan eða vestan Kálfatjörn er farvegur, sem nefnist Rás…

Kálfatjörn

Kirkjubrúin við Kálfatjörn.

Yfir Rásina hefur verið hlaðin göngubrú úr grjóti, svo að menn gæti komizt þar yfir þurrum fótum. Sjálfsagt hefir brú þessi fyrst og fremst verið gerð sem kirkjuvegur, enda var hún oft farin allt fram að þeim tíma er þjóðvegurinn kom. En svo mjó er brúin, að ólíklegt er, að hægt hafi verið að bera líkkistu þar yfir. – Á einn allstóran stein í brú þessari er höggvið ártalið 1790, og má telja víst, að brúin hafi verið gerð það árið. Má þá vera að Bjarni Eyjólfsson hafi líka höggvið þetta ártal“ (sjá: Stóra-Knarrarnes – letursteinn).

Kálfatjörn

Kálfatjörn – letursteinn í brúnni.

FERLIR skoðaði nefndan ártalsstein í brúnni. Hún hefur greinilega verið hluti af gamalli götu frá Kálfatjörn að vesturbæjunum og öfugt. Gengið er yfir brúna suðaustan við Hlið, um garðana þar. Svo virtist sem letursteinnin geti verið „hornsteinn“ í brúna, en einnig hefur verið talið að steinninn hafi síðan verið notaður sem „skósteinn“, þ.e. kirkjugestir hafi skipt þar um skó á leið sinni að og frá kirkju; farið þar í betri skóna og úr þeim aftur að lokinni messu. Sambærileg frásögn er til um „skóstein“ eða „skóklöpp“ við Strandarkirkju, nánar tiltekið við gömlu kirkjugötuna að Vogsósum. Enn sést móta fyrir þeirri götu, auk þess sem hún er vörðuð vestan „Strandargarðs“ eða „Fornagarðs“, eins og hann hefur jafnan verið nefndur í seinni tíð. Talið er að garðurinn sé frá því um 1000.

Kálfatjörn

Ártal í steini á Kirkjubrú Kálfartjarnarkirkju.

Ártalssteinninn í gömlu brúnni við Kálfatjörn virðist, ef vel er að gáð, hafa áletrunina A° 1790. Svo er að sjá að næst aftasti tölustafurinn sé 9 og virðist hann greinilegur og, ef vel er gaumgæft, vera stærri en hinir.
Þarna utan garðs á Kálfatjörn er því að finna enn eina fornleifina á Reykjanesskaganum.
Áhugavert væri að gera uppdrátt af öllum minjum á Kálfatjarnarsvæðinu og staðsetja hann síðan á aðgengilegum stað á svæðinu.

Kálfatjörn

Kirkjubrúin við Kálfatjörn.

Stóra-Knarrarnes
Í bók Árna Óla, „Strönd og Vogar„, úgt. 1961, er m.a. fjallað um leturstein hjá Stóra-Knarrarnesi á Vatnseysuströnd (bls. 216-229). Benjamín Halldórsson benti Árna Óla á steinninn í samtali, sem þeir áttu saman í herbergi 402 á Hrafnistu, dvalaraheimili aldraðra sjómanna, þ.e. „grágrýtisstein með áletrun“.

Knarrarnes

Árni Óla heimsótti síðan Ólaf Pétursson, bónda á Stóra-Knarrarnesi, sem vísaði á steininn við garðshliðið. Um var að ræða jarðfastan grágrýtisstein, um metri á lengd og toppmyndaður. Steinninn var allur þakinn skófum, sem voru samlitar honum. „Með aðgæzlu mátti þó lesa upphaf fyrstu línu: „17 HVNDRVD…“ og svo nafnið „HIARNE EIOLFSSON“ í neðstu línu. En þar á milli sá aðeins móta fyrir staf og staf“.
Í manntalinu 1703 er Bjarnir Eyjólfsson sagður búa að Stóra-Knarrarnesi, sem þá var einbýli.
Árni taldi sig loks hefa getað lesið eftirfarandi áletrun af steininum:

Knarrarnessteinninn17 HVNDRVD SEIAST
AR SEN ÞO FIOGUR RI
ETT I VON SO ÞA CIORDE
SEM HIER STAAR SA HIET
BIARNE EIOLFSSON.

Gísli Sigurðsson í Minni-Knarrarnesi hafði heyrt þetta vers í æsku sinni (f. 1850-60). Vísan hafi verið svona:

17 hundruð segjast ár,
senn þó fjögur rétt í von,
svo þá gjörði sem hér stár
sá hét Bjarni Eyjólfsson.

Áletrun þessi mun því vera um 300 ára gömul. Árið 1707 bjó Bjarni þessi enn á Stóra-Knarrarnesi, skv. þinggjaldabók, og ekki er ólíklegt að hann hafi einnig búið þar árið sem ártalið var klappað í „brúarsteininn“ (1790) á gamla kirkjuveginum vestan Kálfatjarnar (sjá Kálfatjörn – letursteinn (A°1790)).

Stóra-Knarrarnes

Stóra-Knarrarnes.

 

Stóra-Vatnsleysa

Tekið var hús á Sæmundi bónda á Stóru-Vatnsleysu á Vatnseysuströnd. Hann var úti við þegar FERLIR bar að garði. Sæmundur hafði beðið FERLIR um að reyna að leysa þá torráðnu gátu að lesa úr fornri áletrun á stökum steini í túninu, en það hafði engum tekist til þessa (svo hann vissi til a.m.k.).

Stóra-Vatnsleysa

Letursteinn við Stóru-Vatnsleysu.

Byrjað var að skoða letursteininn, sem er í túninu suðaustan við bæinn. Í fyrstu virtist áletrunin torráðin og í rauninni óskiljanleg, en þegar gengið var handan við steininn, varð lausnin augljós. Steininum virtist hafa verið velt um koll og áletrunin því óljós. Að þessu staðfestu komu í ljós klappaðir stafir; GI er sameinast með krossmarki að ofanverðu. Til hliðar, hægra megin að ofan, er ártalið 1643 eða 1649. Enn hefur ekki verið fundið út hvert tilefni áletrunarinnar var. Þetta gæti verið legsteinn. Sæmundur sagði að þarna hefði fyrrum verið kirkja (kirkja allrarheilagrarmessu), sem getið er um í annálum árið 1262. Henni hafi verið þjónað frá Kálfatjörn og bar prestinum að messa þar annan hvern helgidag – að minnsta kosti.

Vatnsleysa

Grafsteinn við Stóru-Vatnsleysu, skammt austan við fyrrum sögusviðið. Búið að velta steininum. Sæmundur fylgist með.

Sæmundur dró fram gögn máli sínu til stuðnings. Hann sagði bæ hafa verið byggðan á rústum kirkjunnar, en sagan segir að þar hafi fólki ekki orðið vært vegna draugagangs. Kvað svo rammt að honum að hurðir hafi ekki tollað á hjörum. Bærinn var yfirgefinn og hann síðan rifinn. Ekki væri ólíklegt að þarna væri grafreitur og að steinninn voru einu sýnilegu ummerkin eftir hann.
Sæmundur kvaðst muna að þegar grafið var fyrir núverandi húsi hafi verið komið niður á hlaðinn kjallara, u.þ.b. 130 cm háan, en húsið hafi þá verið byggt nálægt fimm metrum norðar. Það stæði á ísaldarkampinum og þá hafi grafreiturinn og kirkjan einnig verið á honum þarna suður af húsinu. Hvað væri undir veginum að bænum vissi enginn, en hann hefði að hluta verið lagður ofan á jarðveginn, sem þá var.

Vatnsleysa

Áletrun á steininum.

Sæmundur var með gömul landamerkjakort. Kort frá 1906 sýndi landamerki Stóru-Vatnsleysu í Markhelluhól, sem er um 900 metrum ofan við Markhelluna við Búðarvatnsstæðið. Á Markhelluhól væru áletranir þriggja jarða, sem þar koma saman, en einhverra hluta hefðu landamerkin verið færð ofar. Sá, sem skráði lýsinguna, virðist þó hafa reiknað með “Markhellunni við Búðavatnsstæðið” (klettur, sem girðingarhornið kemur saman í við Búðarvatnsstæðið) því þannig eru mörkin skráð. Frá Markhelluhól liggja mörkin, skv. kortinu um Hörðuvallaklofa og um Grænavatnseggjar og áfram um Núpshlíðarhálsinn að Selvsvallafjalli. Þar mun hafa verið varða, en einhver ýtt henni fram af brúninni. Sjá mætti ummerki eftir hana ef vel væri að gáð.

Litla-Vatnsleysa

Stórgripagirðing við Litlu-Vatnsleysu.

Bað Sæmundur FERLIR um að líta eftir ummerkjunum næst þegar farið væri á Selsvallafjall. Þarna hafi verið gömul leið, sem þeir hafi oft farið fyrrum, eða a.m.k. tvisvar á ári, þ.e. upp með Sogseli, upp með Spákonuvatni og eftir hálsinum. Ofan við Spákonuvatn væri nær tveggja metra há klettur og væri hann á landamerkjunum. Önnur kort, s.s. frá 1892, kveða á um mörkin í Trölladyngjuöxlinni og þaðan yfir á Selsvallafjall, en einhverra hluta vegna hefði komist inn lýsing einhvers staðar, sennilega frá Kálfatjörn, að mörkin væru í vörðu á Oddafelli og eftir götu á fellinu. Þar væri um misskilning að ræða. Fremrahorn (Fremstahorn) á Selsvalafjalli hafi verið nefnt Vesturhorn frá Vigdísarvöllum, en ofan við það hafi varðan átt að vera,
Sæmundur sagði Stóru-Vatnsleysu hafa haft í seli í Rauðhól, en Minni-Vatnsleysa hafi haft í seli undir Oddafelli. Þar hefði verið vatn úr Sogalæk, en vatnsskortur hefði háð selsstöðunni við Rauðhól.

Vatnsleysa

Stóra-Vatnsleysa. Tóftir kirkju og kotbýlis.

Aðspurður kvaðst hann ekki hafa orðið var við skúta í Skógarnefi og hefði hann þó gengið nokkrum sinnum um það svæði við leitir. Greni væru hins vegar nokkur þarna í hraununum.
Sæmundur sagði að Akurgerði hafi verið hjáleiga í Kúagerði frá Stóru-Vatnsleysu. Afstaðahraunið hafi runnið yfir jörðina og bæinn skömmu eftir fyrstu árþúsundamótin. Þarna hlyti að áður að hafa verið sléttlent og talsverður gróður.
Skoðuð var áletrun (SJ-1888-ME) í Hrafnagjá norðvestan við Stóru-Vatnsleysuhúsið. Áletrunin er til minningar um Magnús nokkrun frá Stóru-Vatnsleysu er þarna hafði jafnan afdrep við drykkju sína. Segir sagan að þar hafi og barn komið undir, eins og svo víða annar staðar í sveitinni. Hið sérstæða við staðinn er að hann er á innanverðum gjárbakka, en ekki utanverðum.

Magnúsarsæti

Magnúsarsæti.

Lambafellsklofi
Gengið var um Lambafellsklofa og Einihlíðar er liggja suðaustan við Mosa. Þetta eru lágar en gróðurríkar hlíðar sem snúa mót vestri [útnorðri] og liggja millum Lambafells og Mávahlíða.
Í LambafellsklofaEinihlíðabruni er ofan við Einihlíðar og á tveimur stöðum fellur hraunið í fossum niður hlíðarnar og sameinast þar öðrum hraunum, s.s. Eldborgarhrauni. Í ferðinni var og ætlunin að skoða svæðið vestan Mávahlíða. Leiðin lá m.a. yfir gróið snæviþakið hraun sem á ættir sínar að rekja til Krýsuvíkurelda 1150 – 1188. Ljóst er að þarna er enn víða að finna hita skammt undir yfirborðinu því á köflum var alger snjóleysa.
„Að Hvassahrauni liggur Vatnsleysa til vesturs, hafið til norðurs, Lónakot og Óttarsstaðir til austurs og Krýsuvík til suðurs. Hvassahrauns er getið í heimildum allt frá fyrri hluta 13. aldar.
Samkvæmt landamerkjabréfi Hvassahrauns og Vatnsleysu, dags. 15. júní 1889 og þingl. 17. júní 1889 eru merki Hvassahrauns til vesturs sögð frá ,,..Innra hraunshorninu í Fögruvík, og þaðan í Afstapaþúfu, og þaðan beina stefnu í Snókafell, og úr Snókafelli beina stefnu í Krýsuvíkurland.” Landamerkjabréfið er áritað vegna Hvassahrauns og Vatnsleysu. Merkjum er lýst með sambærilegum hætti í gerðabók
fasteignamats 1916-1918 og þar segir að merki milli Hvassahrauns og Vatnsleysu séu miðuð við ,,… Klettur innan til við Fögruvík, þaðan í Afstapaþúfu þaðan í Snókafell, það að Krýsuvíkurl.” Síðasta örnefnið sem er tiltekið áður en línan er dregin að Krýsuvíkurlandi er Snókafell. Fellið liggur fyrir norðan Eldborgarhraun og er því nokkru fyrir neðan mörk Krýsuvíkur.
Afstapahraunið nýrra kom upp í sömu goshrinu og Nýjahraun/Bruninn (Kapelluhraun) og Ögmundarhraun (1151-1188). Fremst á því trjónir nú EinihlíðarAfstapavarðan.
„Einihlíðar liggja suðaustan við Mosa. Þetta eru lágar en gróðurríkar hlíðar sem snúa mót vestri [útnorðri] og liggja langleiðina suður að Lambafellum. Hægast er að finna Bögguklett frá Einihlíðum. Einihlíðabruni er ofan við einihlíðar og á tveimur stöðum fellur hraunið í fossum niður hlíðarnar og sameinast þar örðum hraunum, s.s. Eldborgarhrauni.“
Landsvæðið sem um ræðir er mjög flatt, láglent og einsleitt og er þakið misgömlum hraunlögum. Í hraunbreiðunum er nokkuð um dældir og skúta. Nyrst á landsvæðinu er mosavaxið Rjúpnadalshraun og liggur torfær Afstapahraunbreiðan vestan þess. Fyrir miðju landsvæðisins er Geldingahraun (einnig nefnt Afstapahraunið eldra, en rani þess nær alla leið niður í Selhraunin ofan við Gerði í Hraunum). Þar fyrir sunnan er hraunbreiða sem kallast Dyngnahraun/Dyngjuhraun og er hún nokkuð úfin. Norðaustarlega á Dyngnahrauni er stórt og rennislétt mosasvæði með nokkrum hólum eða klettum sem standa upp úr því og kallast þetta svæði Mosar. Sunnan Mosa liggja Einihlíðar en það eru lágar, langar en gróðurríkar hlíðar. Lambafell eru tvö fell, Eystra-Lambafell (182 m) og Vestra-Lambafell (162 m) og standa þessi tvö fell upp úr hraunbreiðunni. Um 2 km norðan Vestra-Lambafells stendur ávallt og gróðurlítið Snókafellið (143 m).

Einihlíðakarl

Ferðin hófst „við Afstapaþúfuna fremst á Afstapahrauni en þúfan er þar sem raninn er hæstur fast ofan við Reykjanesbraut og Kúagerði. Þúfan er á mörkum Hvassahrauns og Vatnsleysu. Árin 1953-4 lagði Þórður Jónasson (1895-1959) bóndi á Stóru-Vatnsleysu um 9 kílómetra langan Höskuldarvallarveg frá Kúagerði upp allt afstapahraun og að Höskuldarvöllum. Þórður hóf ræktun þar með stórt kúabú í huga en entist ekki aldur til þess að ljúka þeim áformum.“ Illu heilli var ofaníburðurinn í veginn tekið úr Rauðhólum (við Höskuldarvallaveg) og Eldborginni undir Trölladyngju. Um var að ræða eitt mesta umhverfisslys þess tíma.
Frá Eldborginni var gengið til norðurs áleiðis með austanverðu Eystra-Lambafelli, klofað upp á það og haldið sem leið lá niður misgengisgjána í því miðju. Bólstar í bergi eru þar óvíða greinilegri. Í Einihlíðum vakti steinkarl yfir undirlendinu.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 3 mín.
Heimildir m.a.:
-SGG – Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi – 2007.

Trölladyngja