Færslur

Kálfatjörn

Kálfatjörn – kirkjur
Upphaflega voru þrjár kirkjur í hreppnum, hálfkirkjur í Kvíguvogum (Vogum) og Vatnsleysu, en aðalkirkja á Kálfatjörn sem líklega hefur verið kirkjustaður frá upphafi kristins siðar hér á landi. Kálfatjörn 1936Hálfkirkjurnar hafa lagst niður fyrir löngu, líklega um siðaskipti. Aðalkirkjan á upphaflega að hafa staðið á Bakka en vegna landbrots af sjávargangi var hún flutt að Kálfatjörn. Fram til 1824 var torfkirkja á Kálfatjörn. Var þá reist ný kirkja með torfveggjum, en timburþaki. Rigningarvatn rann þó af þakinu inn í kirkjuna svo innviðir hennar að sunnanverðu fúnuðu. Varð kirkjan því endingarlítil. Árið 1844 var komin þar timburkirkja sem ekki heldur stóðst tímans tönn, var rifin og ný timburkirkja reist á árunum 1863-64. Kirkjan sem nú stendur var reist árið 1893 og er með stærstu sveitakirkjum landsins.

Kálfatjörn á 50 ára afmæli kirkjunnar, 1943
KálfatjörnKringum stórjarðir og kirkjustaði mynduðust oft hverfi af smábýlum (kot), sem fengu kýrgrasvöll (túnblett). Þau sem ekki nutu þeirra hlunninda voru kölluð þurrabúðir eða tómthús. Smábýli í landi Kálfatjarnar voru Fjósakot, Móakot, Hátún, Goðhóll og Naustakot og utan golfvallarsvæðis Hlið, Litlibær, Bakki, Bjarg, Borgarkot, Hólakot, Árnahús og Bakkakrókur.
Hlutverk grjóthleðslanna var að verja túnin ágangi búfjár. Heiðargarðurinn náði utan um stóran hluta hverfisins og var ætlað það hlutverk að verja túnin þeim megin er að heiðinni snúa. Sum kotanna höfðu svo grjóthleðslur um sína túnparta. Grjóthleðslur við og utan um kotbýlin sjálf voru svo í flest öllum tilfellum til að verja matjurtagarða. Gamla sjóvarnargarða til varnar túnum má líka finna í Kálfatjarnarhverfi.

Hluti Kálfatjarnar hverfis

Kálfatjörn

Bændur í Kálfatjarnarlandi nýttu vel það sem fjaran gaf. Hverju býli var úthlutað dálitlum fjöruparti, þar sem skera mátti þang sem notað var til eldiviðar. Um réttaleytið að hausti var þangið skorið og breitt til þerris á kampana og garða. Einnig var hirt og þurrkað það þang sem rak á fjörur utan þess tíma sem þangað var.

Lýsingar á landamerkjum milli fjöruparta kunna mönnum að þykja smásmugulegar í dag en það gat verið um 1-2 mánaða eldsneyti að ræða hvort þessi grandinn eða skerið tilheyrði býlinu eða ekki.
HeiðargarðurBærinn á Kálfatjörn stóð því sem næst í miðju túni á allstórum bala vestan kirkjunnar. Allt umhverfis kirkjuna er grafreiturinn eða kirkjugarðurinn, þó aðallega norðan og austan megin. Umhverfis grafreitinn er hlaðinn garður úr grjóti og sniddu sem hefur þjónað því tvíþætta hlutverki að verja grafreitinn ágangi búfjár, en einnig og ekki síður sem aðhald og brún þeirrar moldarfyllingar, sem gera þurfti sökum þess hversu jarðvegurinn er grunnur.

Golfvöllurinn fyrr og nú

Gjáarvatnsstæðið

Á Hátúnshæðinni hefst golfhringurinn. Slegið er með og yfir Heiðargarðinn, hægra megin við Fjósakot á Margrétarflöt en svo hét og heitir túnið austan við kotið. Fjósakot sem var með hæstu bæjarstæðum allra bæja í Vatnsleysu- strandarhreppi var lítið grasbýli frá kirkjujörðinni og fór í eyði um 1920. Þar sér nú aðeins í grjóthrúgur en moldin úr rústunum var tekin til uppfyllingar í grafreit á Kálfatjörn. Fyrsta og áttunda flötin liggja við svonefndar Kotagirðingar. En Kotagirðingar Móakots og Fjósakots voru hlaðnir garðar umhverfis dálitla móa, er næstir voru túnum, ætlaðir til kúabeitar.

Austan við rauða teiginn á braut 2 við Heiðargarðinn er vatnsstæði í sprungu á Stóru-Klöpp, kallast vatnsstæðið Gjáin eða Gjáarvatnsstæði. Skammt suðvestur frá því, nær Fjósakoti, var fiskbyrgi, kallað Baráttubyrgi. Þar sér nú aðeins í undirstöðuna en gróið stæðið í kringum er eflaust vegna þess fiskúrgangs sem fallið hefur til og verið góður áburður.

Kálfatjörn

Kálfatjarnarkirkja.

Slegið er yfir þar sem Heiðargarðurinn lá og er flötin nú þar sem áður var grýtt moldarflag. Við teiginn á braut 3 á klöpp er stórgrýtt hrúga, líklegast einhver hleðsla, við hestaslóð sem lá þarna fyrir löngu síðan og sést móta vel fyrir. Hestaslóðin lá upp með Hátúnshæðinni að sunnanverðu, við klöppina og þaðan inn eftir að Stefánsvörðu. Nú hefur breytt nýting á landi máð þessi ummerki að hluta.
Braut 4 öll liggur vel fyrir ofan Heiðargarðinn o.þ.a.l athafnasvæði bóndans hér áður fyrr sem var í fjörunni og á túnum. Því er lítið um örnefni á brautinni því eðlilega tengjast þau þeim svæðum þar sem mest var starfað. Fuglalíf er fjölskrúðugt við brautina einkum kríuvarp.

Bærinn Goðhóll fór í eyði 1933
BaráttubyrgiðÞegar farið er yfir Goðhólsrásina og Heiðargarðinn á braut 5 er komið á stórt tún sem heitir Land, einnig kallað Suðurtún, slétt og hólalaust fyrir utan eina hólbungu, allmikla um sig sem heitir Hallshóll. Hóllinn skilur að Landið og Naustakotstúnið. Sagt var að alltaf gerði rigningu þegar búið var að slá Hallshól. Um mitt Landið lá Kirkjugatan frá Hliði til Kálfatjarnar. Rétt ofan við götuna lá grjótstétt þvert yfir Goðhólstúnið kölluð Kirkjubrú. Líklegt er að Kirkjubrúin hafi verið gerð til þess að auðvelda kirkjufólki för yfir Goðhólsrásina sem gat orðið hinn versti farartálmi í leysingum. Aftur er slegið yfir Heiðargarðinn og á Goðhólstúnið.
ÚtihúsÁ klapparhól nyrst í túninu er Sundvarðan sem notuð var sem mið í Keili og gaf til kynna að rétt væri róið um Kálfatjarnarsund fyrir Markklettinn inná Leguna. Þar mátti láta litla dekkbáta liggja.

Úr Legunni var svo róið uppí Kálfatjarnarvör. Flötin liggur fyrir norðan Goðhól, við eitt útihúsanna. Goðhóll stóð á mörgum hólum, sem einu nafni heita Goðhólar. Goðhóll sem fór í eyði árið 1933 var tómthús frá kirkjujörðinni en hafði grasnyt. Þar mun síðast hafa verið búið í torfbaðstofu í Vatnsleysustrandarhreppi. Á kampinum fyrir neðan flötina má svo sjá grunn af uppsátrinu, þar sem bátarnir voru teknir á land, skiparéttinni og neðar í fjörunni er Goðhólsvör.

Byrgið (sjávarhús Kálfatjarnar)
GoðhóllÁ sjötta teig er gott útsýni yfir það athafnasvæði er tengdist sjávarútvegi á Kálfatjörn. Þar má sjá hæstan og mestan Markklett sem var landamerki milli Þórustaða og Kálfatjarnar. Við enda sjóvarnargarðsins við teig var sjávarbyrgi Kálfatjarnar. Þar norður af er Snoppa (Hausaklöpp) þar sem þorskhausar voru hertir. Í Naustakoti (í byggð 1703) voru fjárhús eftir búsetu. Sunnan við Naustakot var fjárrétt og fast við hana að sunnan grasigróið gerði, kallað Hausarétt. Þar voru þurrkaðir þorskhausar í seinni tíð uns það lagðist niður með öllu á árum seinni heimsstyrjaldarinnar. Næst kampinum, mun lægra en túnið umhverfis, er Síkið sem nær suður undir Sjávargötu. Í Síkið flæddi sjór í miklum flóðum um Rásina allt uppí Kálfatjarnarbrunn. Fast sunnan við Kálfatjörnina er Sjóbúðin.
SjávarbyrgiðÞar eru rústir sjóbúðar er séra Stefán Thorarensen lét byggja, er hann var prestur og bóndi á Kálfatjörn 1857-1886. Sagt var að sjóbúð þessi rúmaði tvær skipshafnir, alls 16 menn. Þar mun býlið Hólkot (Hóll) hafa staðið en síðast er getið um búsetu þar í lok 17. aldar. Í seinni tíð mun búðin hafa verið notuð sem fjárhús. Aftur er leikið á Landinu og þegar á flöt er komið má finna lága hleðslu austan megin við hana sem eru leyfar af Hestarétt þar sem kirkjugestir geymdu hesta sína.

Krosshóll
Teigurinn á brau 7 er þar sem Hátún stóð. Slegið er yfir Austurtún að grjótgörðum þeim er umlykja Móakotstúnið. Áður en farið er yfir garðinn, sunnarlega í Króknum er dálítil lægð eða pollur sem var kallaður Víti. Þar mun býlið Árnahús líklega hafa staðið nærri en gárungarnir svo fært nafnið af pollinum yfir á kotið eins og sögnin um biskup og séra Hallgrím Pétursson bendir til.

Bærinn Móakot

Móakot

Sagt er, að Brynjólfur biskup hafi eitt sinn vísiterað á Kálfatjörn og haft spurnir af manni er bjó þar í þurrabúð í túninu, Árnahúsi (Víti). Ekki þótti hann kirkjurækinn og réri til fiskjar á helgidögum. Biskup hafði tal af honum og fylgir það sögunni, að hann hafi veitt honum leyfi til þessara helgidagsbrota, er honum varð ljós fátækt hans og ómegð. Er séra Hallgrímur frétti þetta, orti hann:

Golfið„Biskupinn blessar hjalla
bila ei upp frá því,
krosshús og kirkjur allar
og karlinn, sem býr Víti í.“

Sunnan við tóftirnar af Móakoti er langur og hár hóll, Klapparhóll. Þar var talið að mikið af huldufólki byggi og því var hann einnig kallaður Álfhóll. Móakot var grasbýli frá kirkjujörðinni og fór í eyði um 1950. Hverju sem það sætti var orðrómur um að enginn mætti búa þar lengur en í 9 ár. Nær sjó er svo Móakotstjörn sem var mýrartjörn. Í fjörunni neðan flatarinnar er Móakotsklöpp sem áður var landföst en þar eru fjörumörk Kálfatjarnar og Móakots.
Þegar horft er af Móakotsbakka til sjávar er stórt lón út af kampinum sem heitir Búðarlón og grandarnir sitt hvoru megin við, þara vaxnir, Búðarlónsgrandinn Syðri og Búðarlónsgrandinn Nyrðri. Slegið er yfir Móakotstún, á flötina nálægt þar sem Kotagirðingar voru.

Harðhaus
KálfatjörnFjölmörg örnefni önnur eru á Kálfatjörn. Nafnið Harðhaus er t.d. til komið vegna þess hve illa hóllinn fór með ljá bónda á Kálfatjörn í seinni tíð. Í miðju Hátúnstúni sem girt var grjótgörðum stóð Hátún sem var grasbýli frá kirkjujörðinni en fór í eyði um 1920. Árið 1941 var þar byggður sumarbústaður en föst búseta tekin upp um 1960. Innan garðs eru t.a.m. Hátúnshóll og Hátúnsflöt. Litlu sunnar við flötina liggur Heiðargarðurinn sem áður hefur verið minnst á.

Heimild:
-www.gvsgolf.is

Kálfatjarnarkirkja

Stefánsvarða

Gengið var frá Stefánsvörðu á Stefánsvörðuhólum áleiðis niður að Borgarkoti vestan Keilisness. Skammt norðan vörðunnar var komið að tvískiptum gömlum stekk, Borgarkotsstekk, í graslægð. Á bökkunum sáust leifar af gömlum garði. Norðaustan við stekkinn eru gróin svæði, en nokkuð uppblásin.

Borgarkot

Breiðufit – girðingasteinar ofan Borgarkots.

Gengið var norðnorðvestur í átt að Helgahúsi ofan við Breiðufit (Réttartanga). Á leiðinni var gengið þvert á gamla stógripagirðingu. Enn má sjá steinaröðina liggja þar til austurs og vesturs. Í hvern steinn eru klöppuð tvö göt; annað ofan á og hinn á hliðina. Í götin voru reknir trétappar og á tappana strengd bönd. Neðan girðingar er Kálfatjarnarvatnsstæðið, en það var nú þurrt. Skammt austan þess, norður undir grasi grónum klapparhól, var fallegt vatnsstæði, Vatnssteinar (Vaðssteinar). Í því var vatn. Ofan við vatnsstæðið er gamalt hlaðið gerði eða rétt utan í hól. Í gömlum heimildum er getið um rétt á Réttartanga, sem nú á að vera alveg horfin. Þessi rétt er beint ofan við Réttartanga og nokkuð heilleg. Austan við það er hlaðinn garður í hálfbeygju til norðurs.

Norðar er Borgarkot. Það mun hafa farið í eyði á 18. öld. Tildrög þess munu hafa verið þau, að eitt sinn þegar Flekkuvíkurbóndi fór til kirkju á aðfangadagskvöld kom hann að bóndanum í Borgarkoti þar sem hann var að skera sauð frá honum. Varð það til þess að honum var komið undir mannahendur og lagðist býlið í eyði eftir það. Reyndar er talið að sauðurinn sem bóndinn í Borgarkoti skar, hafi verið sauður prestsins á Kálfatjörn, en ekki bóndans í Flekkuvík.

Borgarkot

Borgarkot – refagildra.

Viðeyjaklaustur mun hafa haft þarna sauði forðum. Síðan mun Kálfatjörn hafa haft skipti á selsstöðu í Sogagíg við Krýsuvík, sem fékk í staðinn að halda sauði við Borgarkot. Þarna eru merkilegar og allmiklar minjar, greinilega mjög gamlar. Bogadregnir garðar eru mikið til sokknir í jarðveginn, en þó má víða sjá móta fyrir þeim. Innan garðs eru tóttir á a.m.k. þremur stöðu, Tvær samliggjandi tóttir eru alveg í fjörukambinum og er sjórinn þegar búinn að brjóta niður hluta af þeim. Önnur tótt er ofan þeirra og enn önnur á fjörukambinum skammt austar.

Borgarkot

Borgarkot – krossgarður.

Austan hennar er stór krossgarður, Skjólgarður. Umhverfis hann landmeginn er gerði eða gamlar réttir. Minnkaveiðimenn munu hafa rutt honum að mestu um koll, en þó sést enn móta vel fyrir honum á kambinum. Neðan tóttanna er Borgarkotsvörin, en ofan við hana lá dauður háhyrningur – nægt kjöt í margar grillveislur.

Borgarkot

Vatnssteinar – vatnsstæði við Borgarkot.

Austar er hár hóll, Á honum má sjá leifarnar af Hermannavörðunni, sem danskir hermenn er unnu við landmælingar, hlóðu, en minnkaveiðimenn ruddu síðar um koll.
Ofan við Borgarkotstúnið er varða á hól. Beint upp af henni, sunnan girðingar, sem þar er, er hlaðin refagildra.
Ætlunin er að fara fljótlega aftur á þetta svæði því bæði gleymdust skriffæri til uppdráttagerðar og gps-tækið til að staðsetja vatnsstæðin sem og refagildruna. Samt sem áður var gerður bráðabirgðauppdráttur af svæðinu með aðstoð bíllykils og pappaspjalds. Þarna er greinlega um að ræða stórlega vanmetið svæði. Miklar minjar eru við Borgarkot og einnig allt í kring.
Veður var frábært – hiti, sól og þægilegur andvari. Gangan tók u.þ.b. klukkustund.

Borgarkot

Borgarkot – uppdráttur ÓSÁ.

Gvendarborg

Sesselja G. Guðmundsdóttir hefur endurútgefið bók sína “Örnefni og gönguleiðir á Vatnsleysustrandar-hreppi” frá árinu 1995.
Gamla bókinBókin var löngu uppseld, enda einungis gefin út í 500 eintökum. Það var Lionsklúbburinn Keilir, sem stuðlai að hinu merka framtaki – líkt og nú. “Gamla” bókin var 152 bls. með fallegum ljósmyndum og upplýsandi örnefnakortum af Vogaheiði og Strandaheiði. Með nýju bókinni (útg. 2007) hefur Sesselja bætt um betur; endurbætt og staðfært kortin og fjölgað ljósmyndum af merkilegum stöðum, sem eru fjölmargir á landssvæðinu ofan Voga og Vatnsleysustrandar. Nýja bókin er 184 bls, aukin og endurbætt. Hún er ágætur vitnisburður um dugnað, elju og þrautseiglu manneskju er þykir bæði mjög vænt um landið sitt og uppruna og jafnframt vilja til að miðla eftirlifandi kynslóðum af forsögunni og áþreifanlegum menningararfi – sem verður dýrmætari með hverju árinu sem líður.
Nýja bókin hefur verið gefin út í 1000 eintökum og ef að líkum lætur munu þau eintök verða fljót að fangast fegnum aðdáendum útivistar og fróðleiks. Með nýju bókinni hefur höfundinum tekist að nálgast viðfangsefnið enn frekar – líkt og sjá má á kápumyndinni.
Bók Sesselju fæst bæði hjá henni sem og í öllum betri bókaverslunum landsins, einkum á Reykjanesskaganum – næst Vogum á Vatnsleysuströnd.

Örnefndi og gönguleiðir í Vatnsleysstrandarhreppi

Örnefndi og gönguleiðir í Vatnsleysstrandarhreppi – II.

 

Flekkuvíkursel

Gengið var frá Hafnhólum við Reykjanesbrautina með stefnu í Flekkuvíkursel. Tekið var mið af vörðunum Bræður, sem sjást vel frá brautinni. Nafngiftin hefur verið óljós fram að þessu. Skammt norðan við vörðurnar er hlaðið byrgi á hól. Byrgið er greinilega hlaðið með það fyrir augum að veita skjól úr suðri. Skýringin á því kom í ljós síðar.

Flekkuvíkursel

Bræður.

Frá Bræðrum sést vel að Flekkuvíkurseli í suðri. Um 10 mínútna gangur er að því frá vörðunum. Selið sjálft er undir löngu holti, Flekkuvíkurselási. Á því er varða, Selásvarða. Annars eru sjánlegar vörður á holtum þarna allt í kring, átta talsins. Í selinu má vel greina 8 tóttir. Stekkur er undir holtinu skammt sunnar, en vestan við selið eru hleðslur er gætu verið rétt og eldra gerði. Vel gróið er í kringum selið, Seltúnið. Norðan við selið er klapparhóll. Í kvos norður undir norðurholtinu er hlaðin kví. Norðan þess eru þrjár tóttir er benda til þess að þar hafi verið minna sel. Norðan þess er u.þ.b. metershár hóll með hleðslum. Talsverð landeyðing er í kringum hann, en þarna gæti hafa verið stekkur, lítil borg eða hlaðið hús. Hugsanlega gæti þetta hafa verið sel frá öðrum Flekkuvíkurbæjanna, en Flekkuvík skiptist í Austurbæ og Vesturbæ, auk þess sem bærinn Refshali (Rifshali) var býli þar í túnkróknum (fór í eyði 1920). Tvær varir voru t.a.m. í Flekkuvík; Austurbæjarvör og Vesturbæjarvör. Flekkuvíkursel var reyndar fyrrum í landi Kálfatjarnar svo annað selið gæti líka hafa verið nýtt frá einhverjum Kálfatjarnarbæjanna, s.s. Naustakoti, Móakoti, Fjósakoti, Hátúni, Hliði, Goðhóli, Bakka, Bjargi, Króki eða Borgarkoti [B.S. ritgerð Oddgeirs Arnarssonar 1998].

Flekkuvíkursel

Flekkuvíkursel.

Skýringin á vörðunum tveimur, “Bræðrum”, gæti mögulega verið sú að þarna hafi verið tvö sel frá sitthvorum Flekkuvíkurbænum eða öðrum bæjum. (Ekki verri en en hver önnur). Nyrðri rústirnar gætu einnig hafa verið sel frá Vatnsleysu því landamerki Vatnsleysu og Flekkuvíkur eru í vörðu á Nyrðri Selásnum [S.G.]. Úr því verður þessu verður þó sennilega aldrei skorið með vissu.

Flekkuvíkursel

Í Flekkuvíkurseli.

Talsvert norðan við selið er klapparhóll. Á honum virðast vera þrjár fallnar vörður, en þegar betur er að gáð er líklegt að þarna hafi áður verið hlaðnar refagildrur. Hrúgurnar eru þannig í laginu. Svo virðist sem reynt hafi verið að lagfæra eina þeirra. “Gildrur” þessar eru í beinni sjónlínu á byrgið, sem komið var að á leið í Flekkuvíkursel. Þarna hjá gætu hafa verið greni áður fyrr, sem bæði hefur verið reynt að vinna með gildrum, sem virðast hafa verið nokkuð algengar á Reykjanesi, og skotvopnum. Þegar gengið var frá hólnum að byrginu var t.d. komið að nýdýrgrafinni, rúmgóðri og djúpri, holu í móanum.
Veður var frábært – sól og lygna. Gangan tók 1 og ½ klst. Tækifærið var notað og Flekkuvíkurselið rissað upp.

Flekkuvíkursel

Flekkuvíkursel.

Hvassahraun

Gengið var frá Hvassahrauni. Veður var ekki bara ágætt – það var frábært, logn, hiti og sól. Gengið var eftir stíg, sem liggur til suðurs sunnan Reykjanesbrautar. Stígurinn liggur áfram til suðurs skammt austan við Brugghellinn. Í botni hellisins, beint undir opinu, er ferköntuð upphækkun, sbr. meðfylgjandi mynd. Í botninum var vatn, u.þ.b. fet á dýpt. Gólfið er flórað að hluta svo ganga megi þurrum fótum í hluta hellisns, sem er í rauninni stór rúmgóð hvelfing, um sex metrar á dýpt.

Hvassahraun

Brugghellir ofan Hvassahrauns.

Stígnum var fylgt áfram suður Rjúpnadalshraun og áfram til suðurs í jarði Flatahrauns. Stígurinn gerðist greinilegri eftir því sem ofar dró. Haldið var yfir línuveginn vestan Öskjuholts, áfram upp í Bælin og alveg upp í Höfða. Við efsta hólinn, Sauðhól, var snúið við, en frá honum sést vel til suðurs upp í tiltölulega slétt og víðfeðmt hraunið. Suðvestan í hólnum er Sauðhólsbyrgið. Veðrið var svo gott þarna að því miður gleymdist að taka GPS-punkt á byrgið.

Nú var snúið til norðurs með sólina á bakborða. Fallegt útsýni var niður að Öskjuholti og áfram upp að Brennhólum. Þegar komið var að Öskjuholti úr þessari átt blasti Öskjuholtsbyrgið við sunnan undir holtinu. Opið er tiltölulega lítið þar sem það er þarna í lyngi vöxnum bakkanum. Það er hlaðið, en fyrir innan er mjög rúmgott fjárskjól, enda greinilega mikið notað. Holtið sjálft er klofið eftir endilöngu með mikilli gjá. Annar klapparhóll, en minni, er austan við holtið.

Hvassahraun

Öskjuholtsskúti.

Gengið var til norðurs, upp að Smalaskála. Þar eru vel grónar lægðir og mörg náttúrleg skjól. Efst á Smalaskála er Smalaskálavarða. Gott útsýni er frá henni niður að Hvassahrauni. Í suðsuðaustri sést í háa vörðu á hæð, Jónsvörðu. Húner nokkurs konar “vendivarða” þegar farið er upp í Hvassahraunssel. Í henni er steinn, sem bendir til austurs, en frá henni er enga vörðu að sjá. Ef hins vegar er gengið frá henni til austurs kemur Hvassahraunsselsvarðan fljótlega í ljós. Norðvestan við hana er selið undir holti.
Sunnan við Smalaskála er náttúrlegt skjól undir hæð, mjög góður hellisskúti með tiltölulega litlu opi. Vel gróið er í kring. Ef smalaskáli ætti að vera í Smalskála þá væri þetta staðurinn. Skammt norðnorðvestan við það er lítið, en djúpt, jarðfall. Í því lá dauð rolla, enn í reifum.
Vestan í Smalaskála er lítið gat, en fyrir innan er rúmgóður skúti, sem greinilega hefur verið notaður sem fjárskjól. Allt í kring er vel gróið. Skammt norðan við hrygginn, sem fjárskjólið er í, er gat, u.þ.b. 5 metrar á dýpt. Ummálið er ca. 2×2 metrar. Við það er lítil varða.
Á smáhól norðan við Smalaskála er grönn og nokkuð há varða. Leitað var í kringum vörðuna, en ekkert markvert fannst. Útsýni er frá henni að Virkishólum og er varðan sennilega greinilegust þar. Hins vegar ber þessa vörðu í Smalaskálavörðuna þegar komið er neðan að austan Bláberjahryggjar. Við hana er gata. Götunni var fylgt til norðurs og var þá komið inn á nokkuð áberandi götu, sem kom að austan ofan við Virkishóla. Gengið var eftir götunni til vesturs. Sást hún vel í kvöldsólinni þangað til hún fór undir nýju Reykjabrautina gegnt gatnamótunum að Hvassahrauni.
Frábært veður.

Öskjuholtsskúti

Í Öskjuholtsskúta.

Skógarnefsgata

Þegar gengið var upp fyrir Hvassahraunssel sást hvar forn gata lá upp í hraunið, til austurs áleiðis að Skógarnefi. Götunni var fylgt eftir frá tveimur vörðum í jaðri gamla Afstapahraunsins. Nánar að gáð sást hvar eldri gata lá á milli varðanna í sömu stefnu.
SkogarnefsgataGatan, sem eftirleiðis verður nefnd Skógarnefsgata (af skiljanlegum ástæðum því hún hefur augsýnilega verið notuð til að sækja hrís og annan eldivið upp í Skógarnef alveg framundir aldamótin 1900 (og jafnvel lengur)) lá mjög greinileg í gegnum hraunið og upp í Nefið. Önnur svipuð gata liggur yfir hraunið nokkru norðar og svo virðist sem þær komi saman sem ein nálægt vörðunum fyrrnefndu.
Sambærilegar götur má sjá bæði upp úr Straumsseli og Óttarsstaðaseli og jafnvel víðar. Eftir að hafa skoðað Skógarnefið, kíkt á Skógarnefnsskúta og vatnsstæðið þar, var gatan fetuð til baka yfir gamla Afstapahraun, framhjá vörðunum og áfram til vesturs, fyrir ofan og norðan Snjódali og að Hvassahraunsseli að sunnanverðu. Á leiðinni var m.a. gengið fram á fallega hlaðið byrgi refaskyttu og tóftir smalaskála í nátthaga. Þar drupu einiber af hverri grein sem hvergi annars staðar.
Þegar Hvassahraunssel var skoðað, enn og aftur, komu í ljós tóftir á mjög gamalli selstöðu ekki allfjarri þeim, sem hvað greinilegastar eru í dag.
Loks var Hvassahraunsselsstígurinn vestari fetaður niður fyrir Virkishóla.
RefaskyttubyrgiLjóst má vera að selstígurinn hefur verið notaður sem fyrri hluti Skógarnefsgötunnar, sem liggur upp frá selinu og hefur verið allvel greiðfær. Ekki er ólíklegt að Skógarnefnsskúti hafi verið skjól fyrir fólk við hrístöku í Nefinu og það nýtt sér vatnsstæðið til viðurværis. Enn hafa ekki fundist kolagrafir á þessu svæði, en hin forna seltóft í Hvassahraunsseli gefur þó tilefni til að ætla að hún hefi verið nýtt til slíkra verka því útlit og gerð hennar svipar mjög til þeirra er sjá má við Kolgrafaholt.
Frábært veður. Gangan tók 4 klst og 4 mín.

Skógarnef

Skógarnefsskúti.

 

Bakki

Í Aðalskráningu fornleifa í Sveitarfélaginu Vogum – Áfangaskýrsla I, árið 2011 er fjallað um jörðina Bakka (Litlabæ og Bjarg). Þar segir m.a.:

Bakki

Bakki

Bakki , Bjarg og Litlibær- lofmynd 1954.

1703 var jarðadýrleiki óviss, Kálfatjarnarkirkjueign. Bakkakrókur eyðihjáleiga 1703. [1379]: Kirkjan á Kálfatjörn á jarðirnar Bakka og Flekkuvík. (DI III 340) [1477]: Kirkjan á Kálfatjörn á jarðirnar Bakka og Flekkuvík. (DI VI, 124). Bjarg var tómthús frá Kálfatjörn en fór í eyði 1934 og sameinaðist Bakka. Litlibær var tómthús í upphafi (fyrir 1884), en síðar grasbýli frá kirkjujörðinni Kálfatjörn. (GJ: Mannlíf og mannvirki, 333-340). Bakki (nýi) fór í eyði árið 1963 (Ö-Kálfatjarnarhverfi, 10). “Það mun rétt vera að núverandi Bakki sé þriðji bústaðurinn sem vitað er um þar. Fyrsti Bakki er kominn út í sjó út, annar Bakki er rústir á sjávarkambinum, en sá þriðji var byggður svo langt frá sjó að ekki mun þurfa að hopa með hann fyrir ágangi sjávar á næstunni” (GJ:Mannlíf og mannvirki, 337). “Sagnir eru um, að aðalkirkjan hafi upphaflega staðið á Bakka er þá stóð fram við sjóinn. En vegna landbrots af sjávargangi hafi hún verið flutt að Kálfatjörn” (ÁÓ: Strönd og Vogar, 183).

Bakki

Bakki 2020.

1703: “Túnin fordjarfast af sands og sjáfarágángi árlega meir og meir, og þarf ábúandinn með kostnaði og ómaki sandinn af að moka og burt að færa. Engjar eru ongvar. Útihagar lakir um sumar, um vetur nær öngvir, nema fjaran.” JÁM III, 146. 1919: Tún 1,5 teigar, 760m2. “Norðan eða innan Móakots og Kotagirðingar, þar sem nú eru býlin Bakki og Litlibær ásamt því landi öðru, sem innan Heiðargarðs er frá Móakotsmörkum, var um langan aldur kúabeit frá Kálfatjörn, kölluð Kálfatjarnargirðingar. En þetta hafa áður verið tún og beitarland Bakka hins forna býlis, er þar var, en lagðist í eyði vegna sjávarágangs og lagðist þá undir Kálfatjörn” (Ö-Kálfatjarnarhverfi, 9). Eftir að bærinn á Bakka var síðast fluttur vegna sjávarágangs árið 1904 fékk ábúandi smám saman útmælt land og ræktaði tún allt frá sjó að Heiðargarði (Ö-Kálfatjarnarhverfi, 10).

Bakki

Túngarður ofan Bjargs.

Óljóst er hversu mikið land hefur upphaflega tilheyrt jörðinni Bakka. Í örnefnaskrá Kálfatjarnar (4) segir að Kálfatjörn tilheyri “innangarðs allt hið forna Bakkaland að svo miklu leyti, sem það hefur ekki verið selt á leigu og erfðafestu handa Bakka (Nýja), Bjargi og Litlabæ.” Líklegt er að Bakka hafi að fornu a.m.k. tilheyrt land frá Bakkarkóki að túnmörkum Nýja-Bakka á móti Kálfatjörn. Einnig eru líkur til þess að jörðin hafi átt land áfram upp í heiðina eins og flestir aðrir bæir á ströndinni.

“Niður við sjó eru varir nefndar Bakkavarir verstu lendingar á allri ströndinni, þar oft brim og ólendandi, þar innaf eru tóftir eftir kot sem hét Bakki er svo var flutt undan sjó þar sem nú er bærinn við sjóinn,” segir í örnefnaskrá Bakka, Móakots og Bjargs. “Á Gamla-Bakka mun þó fljótlega hafa verið tekin upp búseta á ný, en þá líklega sem tómthús. En víst er um það, að á ofanverðri 19. öld var myndarlega húsað á Bakka. Þar var loftbaðstofa og einnig voru þar allstórir kálgarðar og túnblettir. Gamli-Bakki, en svo eru rústirnar kallaðar, stóð á sjávarbakkanum nokkuð miðsvæðis, upp af Bakkatöngum […]. Nálægt síðustu aldamótum var sjór farin að brjóta svo nálægt bænum, að ekki þótti annað fært en flytja hann frá sjónum,” segir í örnefnaskrá Kálfatjarnarhverfis. Í bók Guðmundar Björgvins Jónssonar, Mannlíf og mannvirki, segir: “Bakki var grasbýli frá kirkjujörðinni Kálfatjörn. […] Það mun rétt vera að núverandi Bakki sé þriðji bústaðurinn sem vitað er um þar. Fyrsti Bakki er kominn í sjó út, annar Bakki er rústir af sjávarkampinum, en sá þriðji var byggður svo langt frá sjó að ekki mun þurfa að hopa með hann fyrir ágangi sjávar á næstunni.”

Bakki

Bjarg.

Gamli-Bakki er 200 m suðaustan við núverandi bæjarstæði Bakka. Á túnakorti má sjá ýmis garðlög, hús og húsaleifar þar sem Gamli-Bakki stóð. Suðvestan við gamla bæjarstæðið var ræktað út tún eftir að bærinn var fluttur árið 1904 og tilheyrði það tún Bjargi. Gamli-Bakki er fast norðvestan við Bakkatjörn. Sumt af því sem er á túnakortinu er horfið vegna ágangs sjávar og vegna fjörugrjóts sem borist hefur upp á bakkann og hylur e.t.v. sumar minjarnar.
Gamli-Bakki stendur fram á sjávarbakka. Í fjörunni til norðurs og norðvesturs er klapparfjara en sunnan við hann er Bakkatjörn. Grasi gróið er allt í kringum minjarnar og grýtt.

Kirkja

Litlibær

Tóftir Gamla-Bakka.

Í bók Árna Óla, Strönd og vogar, segir: “Sagnir eru um, að aðalkirkjan hafi upphaflega staðið á Bakka er þá stóð fram við sjóinn. En vegna landbrots af sjávargangi hafi hún verið flutt að Kálfatjörn. En þar sem Bakki stóð áður sé nú grængolandi sjór. […] Aðfaranótt 3. febrúar 1779 gerði mikið sjávarflóð og skemmdist Bakki þá svo að hann var í eyði það ár, en grasbýli sem hét Naustakot tók alveg af.” Ef kirkja hefur verið á Bakka er líklegt að hún hafi staðið þar sem elsta þekkta bæjarstæðið var en það er nú komið út á sjó og löngu horfið og því ólíklegt að nokkrar leifar kirkju eða krikjugarðs kunni að koma í leitirnar héðan í frá, nema að kirkjan hafi fylgt bænum eftir að hann var fluttur á bæjarstæði en engar sagnir eru um slíkt. Ennfremur er erfitt að fullyrða nokkuð um að kirkja hafi verið á Bakka þar sem engar fornar heimildir eru til um hana.

Gamli-Bakki

Bakki

Gamli-Bakki; uppdráttur.

“Niður við sjó eru varir nefndar Bakkavarir verstu lendingar á allri ströndinni, þar oft brim og ólendandi, þar innaf eru tóftir eftir kot sem hét Bakki er svo var flutt undan sjó þar sem nú er bærinn við sjóinn,” segir í örnefnaskrá Bakka, Móakots og Bjargs. “Á Gamla-Bakka mun þó fljótlega hafa verið tekin upp búseta á ný, en þá líklega sem tómthús. En víst er um það, að á ofanverðri 19. öld var myndarlega húsað á Bakka. Þar var loftbaðstofa og einnig voru þar allstórir kálgarðar og túnblettir. Gamli-Bakki, en svo eru rústirnar kallaðar, stóð á sjávarbakkanum nokkuð miðsvæðis, upp af Bakkatöngum […] Nálægt síðustu aldamótum var sjór farinn að brjóta svo nálægt bænum, að ekki þótti annað fært en flytja hann frá sjónum,” segir í örnefnaskrá Kálfatjarnarhverfis. Í bók Guðmundar Björgvins Jónssonar, Mannlíf og mannvirki, segir: “Bakki var grasbýli frá kirkjujörðinni Kálfatjörn. […] Það mun rétt vera að núverandi Bakki sé þriðji bústaðurinn sem vitað er um þar.

Bakki

Gamli-Bakki – bæjarhóll.

Fyrsti Bakki er kominn í sjó út, annar Bakki er rústir af sjávarkampinum, en sá þriðji var byggður svo langt frá sjó að ekki mun þurfa að hopa með hann fyrir ágangi sjávar á næstunni.” Á sama stað kemur fram að bærinn var byggður fyrir 1850. Þar var tómthús fram til 1900 en þá var ræktað þar upp. Núverandi bæjarstæði Bakka er um 200 m suðaustan við Gamla-Bakka.
Íbúðarhúsið á Bakka og útihús standa í sléttum túnbletti og lítill garður er í kringum húsið. Ekki eru nein merki um bæjarhól á núverandi bæjarstæði Bakka eða uppsöfnun mannvistarleifa. Íbúðarhúsið er bárujárnsklætt timburhús frá 1904 og sambyggt því er steypt yngra hús, heldur minna, óvíst er hvenær það var reist. Bæði húsin eru með ris undir súð og kvistur er til suðvesturs á risi bárujárnshússins. Saman eru húsin um 9×5 m að stærð, snúa suðvestur-norðaustur en eldra húsið er um 5×5 m og það yngra 4×5 m að stærð. Um 4 m eru upp í mæni á yngra húsinu en um 5 m á því eldra. Dyr eru á miðri norðausturhlið yngra hússins og á norðvesturgafli þess. Ekki eru dyr á eldra húsi nema inn í það yngra á norðausturvegg. Ekki er að sjá eldri byggingaleifar á hlaðinu. Um 6 m vestan við íbúðarhús er bárujárnsklætt útihús með þrjár burstir, það er um 16×11 m að stærð fyrir utan lítið gróðurhús sem byggt hefur verið við suðvesturenda þess. Húsið snýr norðaustur-suðvestur.

Bakki (elsta bæjarstæði)
“Það mun rétt vera að núverandi Bakki sé þriðji bústaðurinn sem vitað er um þar. Fyrsti Bakki er kominn út í sjó, annar Bakki er rústir á sjávarkambinum, en sá þriðji var byggður svo langt frá sjó að ekki mun þarfa að hopa með hann fyrir ágangi sjávar á næstunni.”
Ekki sést til fornleifa.

Naustin

Bakki

Bakki – Naustin; uppdráttur.

“Bakkavarir voru hér við Bakkakampinn en eftir honum lá Bakka-Sjávargarðurinn, Bakka-Naust og Bakka-Skiparétt,” segir í örnefnaskrá Kálfatjarnar.
“Um 80 m sunnan við rústir Gamla-Bakka er Bakkavör ásamt skiparétt og sjávarhúsum. Í Bakkavör eiga einnig Litlibær, Móakot, Fjósakot og Hátún uppsátur.
Örstutt upp frá Naustunum var býlið Bjarg […],” segir í örnefnaskrá Kálfatjarnarhverfis. Samkvæmt túnakorti frá 1919 voru ýmis mannvirki niður við sjó, um 150 m norðvestan við Bakka og 60 m SSV við Gamla-Bakka. Þau eru skráð hér sem ein minjaheild auk annarra minja sem eru á svæðinu en ekki eru á túnakorti.

Bakkavör

Bakki

Bakki – vörin.

Vörin er milli tveggja klappa, um 5×5 m að innanmáli. Upp af vörinni er slétt klöpp og á henni nokkuð af lausu fjörugrjóti. Ekki er ljóst hvort vörin er alveg náttúruleg eða mannaverk. Þó má vel sjá merki þess að vörin hafi verið rudd, auk þess sjá má járnkengi í klöpp ofan hennar.
Samkvæmt Jarðabók Árna og Páls var árið 1703 heimræði og ágæt lending á Bakka. “Niður við sjó eru varir nefndar Bakkavarir verstu lendingar á allri ströndinni, þar oft brim og ólendandi, þar innaf eru tóftir eftir kot sem hét Bakki er svo var flutt undan sjó þar sem nú er bærinn við sjóinn,” segir í örnefnaskrá Bakka, Móakots og Bjargs. “Um 80 m sunnan við rústir Gamla-Bakka er Bakkavör ásamt skiparétt og sjávarhúsum. Í Bakkavör eiga einnig Litlibær, Móakot, Fjósakot og Hátún uppsátur,” segir í örnefnaskrá Kálfatjarnarhverfis. Bakkavör er um 85 m suðvestan við Gamla-Bakka. Vörin er í stórgrýttri klapparfjöru. Ofan við vörina til suðausturs eru hlaðnir steinveggir og steypt hús undir bárujárnsþaki.

Bakkakrókur

Bakki

Bakki – Heiðargarður.

Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín frá 1703 segir: “Backakrokur, eyðihjáleiga, hefur í eyði legið yfir fjörutíu ár. […] Nú brúkar ábúandinn grasnytina, og má ei að skaðlausu missa.” “Til suðurs með sjónum, stuttan spöl, var garður hlaðinn frá Garðsendanum [enda Heiðargarðs og síðan þvert út fjöruna í stóra og háa klöpp, er Garðsendaklöpp nefnist.

Litlibær

Litlibær, Bjarg og Bakki – uppdráttur ÓSÁ.

Þarna í girðingakróknum eru rústir bæjar er Krókur nefndist eða Bakkakrókur. Þarna hafa húsakynni verið lítil, máski upphaflega sjóbúð. Bakkakrókur fór í eyði 1660,” segir í örnefnaskrá. Bakkakrókur er 300 m austan við Gamla-Bakka og 10 m vestan við norðurenda Heiðargarðs. Tóftin er í túni umkringdu hrauni og mólendi. Grýtt fjara með svörtum klöppum og ljósum skeljasandi er skammt frá.
Nú sést aðeins ein tóft á þessum stað.

Litlabær

Bakki

Bakki og Litlibær.

“Litlibær stóð í Litlabæjartúni eða Litlubæjarlóð. Þar var rétt hjá Litlabæjartjörn,” segir í örnefnaskrá. Í bók Guðmundar Björgvins Jónssonar, Mannlíf og mannvirki, segir: “Litlibær var tómthús í upphafi, en síðar grasbýli frá kirkjujörðinni Kálfatjörn. […] Helgi byggði upp Litlabæ úr torfbæ í timburhús árið 1906.” Þar kemur einnig fram að býlið hafi verið byggt fyrir 1884. Húsið sem stendur nú var byggt 1934 og notað sem sumarbústaður.

Heimildir:
-Aðalskráning fornleifa í Sveitarfélaginu Vogum – Áfangaskýrsla I, Fornleifastofnun Íslands, Reykjavík 2011.
-Kálfatjörn, örnefnalýsing – Ari Gíslason skráði.
-Kálfatjörn, örnefnalýsing – Gísli Sigurðsson skráði.
-“Menningarminjar í Vatnsleysustrandarhreppi – Svæðisskráning” eftir Svandísi Gunnarsdóttur.
-Örnefnalýsing Kristjáns Eiríkssonar um Kálfatjörn og kot þess, skráð eftir Ólafi Erlendssyni og Gunnari Erlendssyni 18.11.1976.
-Oddgeir Arnarsson – Örnefni í Kálfatjarnarhverfi og Flekkuvík í Vatnsleystrandarhreppi, ritgerð 1998.
-Guðmundur Björgvin Jónsson, Mannlíf og mannvirki á Vatnsleysuströnd.

Litlibær

Bakki, Bjarg og Litlibær – túnakort 1919.

Borgarkot

Borgarkot er býli, sem Viðeyjarklaustur hafði umráð yfir, milli Kálfatjarnar og Flekkuvíkur. Tóftir sjóbúðanna sjást enn en sjórinn er að brjóta þær smám saman.

Borgarkot

Stórgripagirðing við Borgarkot.

Krýsvíkingar fengu að hafa kálfa og nautgripi í Borgarkoti gegn afnotum Viðeyjarklausturs að verstöð Krýsvíkinga, sennilega að Selatöngum. Einnig hafi Viðeyjarklaustur gripi sína í Borgarkoti. Girðingin er sennilega vegna þeirra – stórgripagirðing. Hún náði fá Kálfatjörn yfir að landamerkjum Flæekkuvíkur neðan Hermannavörðu. Þar beygir hún til strandar. Önnur sambærileg girðing er vestan Litlu-Vatnsleysu. Í steinana beggja vegna eru grópuð tvö göt og í þau reknir trétappar. Á þessa tappa voru hengdar taugar til að varna stórgripum ferð um upplandið. Ekkert virðist hafa verið vitað um girðingar þessar þótt ótrúlegt sé, en svo virðist vera um margt á Reykjanesskaganum. Honum hefur lítill gaumur verið gefinn.

Valdimar Samúelsson hafði samband við FERLIR eftir að hafa séð myndir af steinum með götununum á við Borgarkot.

Borgarkot

Stórgripagirðing við Borgarkot.

“Ég var ekki lengi að ákveða að fara eftir að ég sá þessar holur en fór um Borgarkotsland og sá töluvert meira af steinum þar á meðal einn sem hefir verið settur upp á annan.
Þessir steinar eru svörun á því sem ég hef verið að leita að en þarna voru mjög greinilegar þríhyrningslagaðar holur ásamt venjulegum holum en auðvitað voru sumar eyddar af veðri. Þér að sega þá freistaðist ég til að taka tappa út þrem holum en setti þá í aftur.

Þetta er því fyrsta sönnun fyrir því að þessar þríhyrnings löguðu holur í S-Dakota hafa líkan annarstaðar, en við erum búinn að leita um allt, þá á ég við reynt að fá upplýsingar um sambærilegar holur í öðru en skipafestarholur og eða skipasteinum, en í öllum Norðurlöndum eru engar að finna.

Borgarkot

Borgarkot – stórgripagirðing.

Á Grænlandi finnast skipafestarholur þríhyrningslagaðar en þær eru sverari og dýpri en þessar, einnig í Hudson Bay, held við Nelson-ánna, en það er álitið að menn hafi farið þar upp og endað í Winnipegvatn, síðan niður Rauðá, en þá eru þeir komnir á þetta holusvæði. Svæðið í S-Dakota heitir Whetstone Valley og eru svona steinamerkingar í steinum og bergi við ár og læki um allan dalinn.”

Spurning er hvort Íslendingur, sem farið hafi til Ameríku, en komið aftur, hafi gert þessar holur og notað steinana í girðingu hér.

Nú er bara að fá upplýsingar um hversu gömul götin eru í Ameríku og í hvaða tilgangi þau voru gerð.

Borgarkot

Borgarkot – uppdráttur ÓSÁ.

Keilisnes

Keilisnes er nes milli Flekkuvíkur og Kálfatjarnar. Flestum núlifandi er það ferskast í minni vegna umræðna um væntingabyggingu álvers á síðasta árattug er gufaði upp jafnskjótt og hún hafði kviknað.
Efst á nesinu, skammt frá gamla þjóðveginum, er varða sem Stefánsvarða heitir, á hæð sem við hana er kennd.  Þaðan er mikið útsýni yfir Faxaflóa. Örn Arnarson skáld lýsir siglingu Stjána bláa fyrir Keilisnes í örlagaþrungnasta minnigarkvæði sem ort hefur verið um íslenskan sjómann:

Í FlekkuvíkÆsivindur lotugangur
Löðri siglum hærra blés
Söng í reipum. Sauð á keipum.
Sá í grænan vegg til hlés.
Stjáni blái strengdi klóna,
Stýrði fyrir Keilisnes.

Ríkið á þarna landið. Fjárfest hafði verið í því eftir að vonarblær lék um byggingu álversins. Hugmyndir eru nú um það í bæjarstjórn Voga að falla frá því að skilgreina svæðið sem iðnaðarsvæði. Keilisnes kemur og til greina sem nýr staður undir álver Alcans í kjölfar þess að Hafnfirðingar felldu stækkun álversins í Straumsvík. Bæjaryfirvöld í Vogum á Vatnsleysuströnd íhuga hins vegar að falla frá því að skilgreina svæðið sem iðnaðarsvæði.
Hafnfirðingar höfnuðu því að álverið í Straumsvík yrði stækkað í 460.000 tonna ársframleiðslu, í atkvæðagreiðslu á dögunum. Síðan hefur komið fram að hægt er að stækka álverið í Straumsvík umtalsvert á núverandi lóð þess. Þá hefur einnig komið fram að kostnaður álversins vegna hugsanlegrar stækkunar sé þegar kominn yfir miljarð króna og spurning hvort stjórnendur fyrirtækisins vilji nýta þá fjármuni eða hætta rekstri hér og tapa þeim peningum alveg. Haft var eftir Gunnari Guðlaugssyni, sem líka leysir Rannveigu Rist af hólmi, í fréttum Stöðvar tvö að hugmyndin um Keilisnes væri góð. Gunnar I. Birgisson, bæjarstjóri í Kópavogi og stjórnarmanni í Alcan, sagði í fréttum stöðvarinnar að Keilisnes væri einn möguleikanna. Nýjustu fréttir gefa Hafnfirðingum þó von um að álverið verði um kyrrt á sínum stað næstu nálæga áratugina.”

Coot

Keilisnesið er í Flekkuvíkurlandi. “Ríkið á land á Keilisnesi, sem fyrr sagði, og eignaðist það raunar vegna hugmynda um álver á nesinu, á tímum Viðeyjarstjórnarinnar. Lóðin þar er skilgreind sem iðnaðarlóð í aðalskipulagi Voga á Vatnsleysuströnd. Róbert Ragnarsson, bæjarstjóri í Vogum, segir að verið sé að endurskoða aðalskipulagið og að það hafi komið til tals í bæjarstjórn, að falla frá því að skilgreina svæðið sem iðnaðarsvæði. Það verði þó ekki gert án samráðs við landeigandann. Fram kom í könnun Gallups að meirihluti landsmanna vill gera hlé á stóriðju næstu fimm árin; 2/3 kvenna og helmingur karla. Jón Sigurðsson, iðnaðarráðherra og formaður Framsóknarflokksins, hefur sagt að ekki sé farsælt að stíga á bremsuna í þessum efnum.” Þótt afstaða formannsins hafi verið raunhæf með hliðsjón af þróun þjóðarbúskapsins virtist hún úr takt við viðhorfs fólks er bar umhyggju fyrir náttúru og umhverfi landsins.
Á Keilisnesi dagaði fyrsti togari Íslendinga, Coot, uppi.
“Í marsmánuði (þann 6. mars) árið 1905 kom fyrsti togarinn í eigu Íslendinga, sem stofnað höfðu Fiskiveiðahlutafélag Faxaflóa árinu áður, til heimahafnar í Hafnarfirði. Skipið var breskur gufutogari sem hét Coot, þ.e. blesönd, en skipið var smíðað í Glasgow árið 1892 og mældist 141,5 brl. Útgerðin gekk brösuglega í fyrstu en síðan batnaði afkoman og síðustu árin var ágætis hagnaður af útgerð togarans, en skipið strandaði í desember 1908 við Keilisnes og náðist ekki á flot aftur. Togarinn Coot var ekki stórt skip, jafnvel á sínum tíma, og var ekki eiginlegur úthafstogari heldur ætlaður til veiða á innsævi og veiddi hann því aðallega í Faxaflóanum.

Frímerki

Togarinn gekk fyrir gufuaflsvél. Sá sem stuðlaði að því að Coot var keyptur til Íslands var útgerðarmaðurinn Einar Þorgilsson. Landsmenn vildu banna botnvörpur en svartsýni þeirra hvarf þegar þeir sáu hvað útgerðin gekk vel.
Á Coot var tólf manna áhöfn, allt Íslendingar. Útgerðin gekk oftast vel og skilaði miklum hagnaði til eigendanna.  Erfiðlega gekk að gera togarann út fyrsta árið en betur þegar á leið og útgerðin skilaði miklum hagnaði eða alveg þangað til Coot strandaði við Keilisnes árið 1908, en það urðu endalok útgerðarinnar. Nú eru engin ummerki eftir strandið á Ströndinni, en ketillinn úr togaranum var tekin þaðan og settur upp við minjasafnið í Hafnarfirði.
Næst á eftir Coot kom togarinn Jón forseti árið 1907.  Hann var á vegum útgerðarfélagsins Alliance.  Eftir það kom hver togarinn á fætur öðrum til landsins og árið 1912 voru þeir orðnir tuttugu talsins á öllu landinu.  Ketillinn
Í lýsingu Gullbringu- og Kjósarsýslu eftir Skúla Magnússon er fjallað um Kálfatjarnarsókn. Þar eru sagðar 18 jarðir og eigi konungur 15 þeirra, en hinar 3 á Kálfatjarnarprestakall. “Mannfjöldi var árið 1703 [er] 401, en árið 1781 464. Engjar eru sagðar engar og eigi annar heyskapur en sá er fæst af túnunum og er ekki hægt að stækka þau. Frá flestum bæjum eru selstöður upp til fjalla. Í sókninni er hvergi hagfelldur staður til nýbýla, en eitthvert hið besta land til sauðfjárræktar, þar er Skúli hefur séð á Íslandi á fjögurra mílna svæði samhliða bæjunum. Á breiddina nær það svæði 2 mílur (danskar) frá sjónum upp að háfjöllunum sem greina Gullbringusýslu frá Árnessýslu. Þannig tekur þetta svæði yfir 8 fermílur.
Segir svo að á milli Kálfatjarnarsóknar og Garðasóknar sé hálent hraunsvæði, sem Almenningur nefnist. Er það 2 mílur að breidd og þriggja mílna langt frá sjónum upp að fjöllunum. Landslag og gróður er þar með sama hætti, sem fyrr segir um Kálfatjarnarþingsókn; þó er þarna meira smáhrís og lyng. Undir þessu hrauni er bærinn Lónakot, sem eyddist fyrir skömmu af sjávargangi (það er að sjóflóð árið 1776 reif bæði burtu grassvörðinn af túninu og fyllti húsin og vörina grjóti og möl).”
Meira er fjallað um Vatnsleysustrandarbæi, minjar og sagnir annars staðar á vefsíðunni.
Ásláksstaðir

Litlibær

Skoðuð var gömul stórgripagirðing austan Litlabæjar. Gengin var Gamlivegur (kirkjuvegurinn) í áttina að Keilisnesi og litið á stöplana. Þeir liggja í um 1.340 m aflíðandi bogadregna línu frá vestri, túngarði Bakka og Litlabæjar, til austurs og austast til norðurs að sjó.

Borgarkot

Girðingarsteinn við Borgarkot.

Um 10 metrar eru á milli steinstöpla og er höggnar tvær holur í hvern stein, önnur ofan á og hin á suðurhliðina. Í þessar holur voru látnir stuttir tréstaurar og upp á þá væntanlega þrætt band á milli þeirra. Girðingin hefur verið til að varna stógripum göngu sunnar en bónda þótti við hæfi.
Steinar þessir eru fyrir margra hluta sakir merkilegir. Þeim er raðað í beina röð langa leið, í þá höggin tvö göt hvern og í götin reknir trétappar. Sennilega þekkjast fáir slíkir hér á landi, a.m.k. ekki á Reykjanesskaganum.
Girðingin er yngri en suðaustanverður túngarðurinn á Bakka og Litlabæ því ella hefði grjótið úr henni næst veggnum verið tekið í hann. Auðveldlega væri hægt að aldursgreina einn trétappann eða fleiri og komast á nálgunaraldri þeirra. En hvað sem öllum ágiskunum um aldur líður er hér um að ræða merkilegt mannvirki.

Þorvaldur Örn Árnason

Þorvaldur Örn Árnason við stórgripagirðinguna ofan Borgarkots.

Þorvaldur Örn Árnason, kennari við Stóru-Vogaskóla, sendi FERLIR eftirfarandi fróðleik:
“Ég las í nýútkominni bók um Jamestown-strandið í höfnum að bændur á Vatnsleysuströnd hefðu keypt þar vír og rakið upp í þætti og notað í girðingar.
Við Heiða skoðuðum og tókum myndir 2012 af fornri stórgripagirðingu við Kálfatjörn og Keilisnes. Nú legg ég saman 2 + 2 og fæ út að þarna hafi menn notað vír úr Jamestown – og það fyrir aldamótin 1900!
Á bls.37 í bók Halldórs Svavarssonar, Strand Jamestowns, segir frá vírum og köðlum sem mikið var af. Þar segir:
“Ólafur Ketilsson sagði að faðir sinn hefði keypt allan vírinn og megnið af tóginu sem hann seldi síðan að mestu. Útvegsbændur keyptu tógið og notuðu meðal annars í netateina, stjórafæri og landfestar. Vírinn seldi hann til bænda í Vatnsleysustrandarhreppi sem einkum nýttu hann í túgirðingar. Þetta voru fyrstu vírgirðingarnar í Gullbringusýslu og sennilega á öllu landinu. Þeir Vatnsleysustrandarmenn röktu vírana upp, líklegt að þeir hafi verið þriggja eða fjögurra þátta og hver þáttur snúinn saman af mörgum grennri vírum. Með upprakningunni fengu þeir mjög langan einþættan vír. Eftir þetta var talað um að öll tún á Vatnsleysuströnd væru afgirt með vír.””

Borgarkot

Þorvaldur Örn við einn stein stórgripagirðingarinnar. Sjá má trétappa með járnlykkju í steininum.