Tag Archive for: Vatnsleysuströnd

Kolhólasel

Ákveðið var að reyna að rekja stíg, sem fannst nýlega þegar farið var í Kolhólassel undir Kolhólum.

Kolhólastígur

Kolhólastígur.

Stígur lá til norðurs úr selinu og niður Efri-Heiði í Vatnsleysuheiði. Nú átti að kanna hversu langt upp fyrir selið hægt væri að rekja stíginn og einnig hversu nálægt Vatnsleysu hann lægi. Heyrst hafði af svonefnum Höskuldarvallastíg er liggja átti upp heiðina og upp á Höskuldarvelli. Þegar Þórður Jónason, bóndi á Stóru-Vatnsleysu, hugðist leggja veg upp á Höskuldarvelli hafði hann augastað á hinni gömlu leið, um Efri-Heiði ofan Grindavíkurgjár og áfram yfir Kolhólagjár. Hann ákvað hins vegar (1953-’54) að leggja veginn um Afstapahraun frá Kúagerði. Hann hóf ræktun á Höskuldarvöllum með stórt kúabú í huga, en entist ekki aldur til þess að ljúka þeim áformum.
Reynt var að finna norðurenda stígsins norðan Reykjanesbrautar. Byrjað var að því að skoða tvær heillegar vörður og hálfri betur, en sennilega eru það markavörður við Flekkuvíkurland. Skammt austar er gróinn hóll. Á honum er fallin varða, sennilega sundvarða. Hana ber í aðra, stóra, á hól sunnan við Reykjanesbraut. Skammt austan við hana er lítil varða á hól, vestan hóls með hlöðnu byrgi refaskyttu.
Ákveðið var að byrja við uppþornuð vatnsstæði ofan við Brennhóla. Syðst í þeim eru Djúpidalur, áberandi gróin skeifulaga hvylft. Þar ofar eru vatnsstæðin. Ofan við þau er stígurinn áberandi í móanum. Honum var fylgt áleiðis upp í Kolhólaselið. Litlar vörður eru við stíginn, sumar fallnar. Vörðurnar, mannanna verk, benda til þess að stígurinn hafi haft ákveðinn tilgang.

Kolhólasel

Kolhólasel.

Stígurinn lá um brú á Kolhólagjám og upp í selið. Þar hélt hann spölkorn áfram vestan við það, beygði til vesturs og sameinaðist öðrum stíg þar skammt ofan við gjárnar. Líklega liggur hann áfram til vesturs og sameinast Þórustaðastíg, sem liggur þarna skammt vestar, áleiðis upp að Kolhól. Á honum er varða. Í honum miðjum er djúp skál. Talið er að í henni hafi verið unnin kol fyrrum.
Gengið var til norðurs frá Kolhólagjám og niður að Grindavíkurgjá. Við austurenda hennar er varða. Haldið var inn á selsstí
ginn og honum fylgt niður að fyrrnefndum vatnsstæðum ofan við Djúpadal. Þar fannst stígurinn á ný þar sem hann liggur austan við vatnsstæðin og liðast niður með austanverðum Brennhólum. Tvær litlar vörður er á hólunum, líkt og annars staðar við stíginn. Þær eru allar austan við hann.

Norðan við Brennhóla hverfur stígurinn, nema á u.þ.b. 20 m kafla vestan þeirra. Hann kemur síðan aftur í ljós við

Kolhólasel

Kolhólasel – stekkur.

vörðu á hól skammt norðar. Þar er hann áberandi niður móann. Vörðubrot er við hann á lágum klapparhól. Stígurinn endar loks skammt ofan við hin nýju undirgöng á Reykjanesbraut vestan Kúagerðis. Þar var rekinn niður tréhæll – stígnum til staðfestingar. Eflaust hefur ekki einn einasti, er skráði fornleifar við hina nýju Reykjanesbraut, látið sér detta í huga að þarna kynni að vera forn selstígur áður en vegurinn var lagður. Hins vegar gæti sá, sem er sæmilega vel að sér í umhverfi og sögu Reykjanesskagans, vitað að stígar hljóta að hafa legið að þeim u.þ.b. 250 selstöðum, sem enn má sjá leifar af á skaganum.
Nefndur selsstígur liggur vel við landinu. Þótt eftir sé að rekja hann að Vatnsleysu norðan Reykjanesbrautar er ljóst að hann hefur legið eðlilegustu leið með grónum hraunkantinum frá heimabæjunum og síðan tekið hentuga stefnu upp heiðina. Líklegt má telja að þar nyrst við hraunkantinn, skammt vestan Kúagerðis, séu gatnamót Kolhólastígs og Rauðhólastígs, en Rauðhólasel var einnig frá Vatnsleysu, ofar og austar en Kolhólasel. Líklegt má telja að hið síðarnefnda sé mun eldra og að bæði tilvist þess sem og stígurinn hafi fyrir löngu tapast úr munnmælum.

Kolhólasel

Í Kolhólaseli.

Fróðlegt væri að gefa sér tíma og skoða hinar fornu leiðir í heiðinni, bæði austan og vestan Þórustaðastígs. Norðvestan við Keili mótar t.d. vel fyrir mikið farinni götu, sennilega svonefndri leið um Brúnir. Norðaustan við stíginn mótar og fyrir götum, sem fróðlegt væri að reyna að skilgreina. Sennilega verður þó seint hægt að fá fram nöfn þeirra með óyggandi hætti.

Til fróðleiks væri gaman að velta fyrir sér hversu selstígurinn hafi verið langur á Reykjanesskaganum hér áður fyrr, líkt og vangaveltur fornleifafræðinga um lengd stekksstígsins (stekksgötunnar) almennt hefur verið hér á landi. Í stuttu máli er niðurstaðan þessi: Á Reykjanesskaganum (landnámi Ingólfs) eru þekktar 252 selstöður. Selsstígar þeirra eru mislangir. Meðaltal selstígsins hefur þó að jafnaði verið um 6 km langur.

Sogaselsgígur

Sogaselsgígur.

Yfirleitt voru u.þ.b. 1-2 klst gangur frá bæ að seli á Reykjanesskaganum. Það eru 4-8 km. Lengra var frá bæjum í Grindavík eftir að selsstaðan færðist frá Baðsvöllum inn á Selsvelli. Hraunsselið, sem síðast lagðist af á landssvæðinu (1914), er í rauninni dæmigert fyrir fyrrnefnan selsstíg. Syttra var þó í sum önnur sel, t.d. í Stakkavíkursel og Hlíðarsel. Krýsuvíkurbæirnir áttu mislangt í sel, allt frá Selöldu í suðri til Sogasels í norðri. Síðastnefnda selstaðan féll síðar til Kálfatjarnar í skiptum fyrir hlunnindi.

Brunnastaðasel

Brunnastaðasel.

Sel og selstöður hafa verið vanmetin í sögu Reykjanesskagans. Ástæðan er fyrst og fremst sú að lítið sem ekkert hefur verið skrifað um þann þátt búskaparsögunnar. Skýringin á því er að ekki var talin ástæða til að skrifa um það sem sjálfsagt þótti. Seljabúskapurinn var stundaður hér á landi fram undir aldamótin 1900. Prestar, annálahöfundar eða ferðamenn töldu ekki ástæðu til að minnast á hvað fólk borðaði, hverju það klæddist eða hvert lífsviðurværi þess væri. Þess vegna er lítið sem ekkert til um fyrrnefnt sem og það sem skiptir afkomendurnar hvað mestu máli – hið daglega líf og sjálfsagða strit forfeðranna.
Þegar selstígarnir af Ströndinni og frá Grindavík eru skoðaðir er ljóst að lengri leiðirnar tóku gjarnan mið af áberandi kennileitum, s.s. hæðum og fjöllum. Þannig er t.d. Keilir augljóst göngumið, líkt og Trölladyngja og Selsvallafjall ofan við Sogin.
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 22 mín.

Heimild m.a.:
-Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi – Sesselja G. Guðmundsdóttir – 1995.

Kolhólaselsstígur

Kolhólastígur.

Keilir

Gengið var um svæðið umleikis Höskuldarvelli.
Trolladyngja-32Í bók Árna Óla , „Strönd og Vogar – úr sögu einnar sveitar í landnámi Ingólfs Arnarssonar“, er m.a. fjallað um eldfjöll og örnefni á Reykjanesskaga.
„Vatnsleysuströndin hefur ekki af mörgum fjöllum að státa, en þau eru þeim mun merkilegri. Þar er Keilir og þar er Vesturháls eða Trölladyngjur, einhverjar merkustu eldstöðvar hér á landi. Guðmundur G. Bárðarson jarðfræðingur, sem manna mest hefur rannsakað Reykjanesskaga, taldi að hann mundi vera yngsti skagi á Íslandi og skapaður af eldgosum. Hann telur skagann því mjög girnilegan til fróðleiks fyrir eldfjallafræðinga. Hér sé svo að segja allar gerðir eldfjalla, gíga og yngri eldmyndana, sem finnist á Íslandi. Móbergsfjöllin hafi jafnvel myndazt við eldgos. Og Þorvaldur Thoroddsen sagði um eldgígana hjá vestanverðum Núpshlíðarhálsi, að þær gosstöðvar væri mjög merkilegar, því að þær sýni augljóslega hvernig eldgos verða, og hvergi sjáist neitt þessu líkt á Íslandi, og þótt víðar væri leitað.

Nupshlidarhals-41

Tveir brattir og langir hálsar liggja samhliða um miðjan Reykjanesskaga, og eru einu nafnir nefndir Móhálsar. En til aðgreiningar voru þeir kallaðir Austurháls og Vesturháls. Nú er Austurhálsinn alltaf kallaður Sveifluháls, og sunnan að honum er Kleifarvatn og Krýsuvík. Vesturhálsinn er eins og ey í ólgandi hraunhafi, en hefir það til síns ágætis, að hann er grösugur og víða eru þar tjarnir og lækir, en slíkt er mjög fátítt á Reykjanesskaga. Hann mun upprunalega hafa verið kallaður einu nafni Trölladyngjur, en nú heitir hann ýmsum nöfnum. Nyrzt á honum eru tvö mikil fjöll, Trölladyngja (375 m) og Grænadyngja (393 m). Trölladyngja er hvass tindur og blasir við í suðri frá Reykjavík. Í kyrru veðri má þar oft sjá reyki mikla, enda er þar mikill jarðhiti, hverir margir og gufur upp úr hrauninu.

Selsvellir-91

Grænadyngja er aftur á móti kollótt og auðvelt að ganga á hana. Þaðan er mjög vítt útsýni. Sér vestur á Eldey og austur til Kálfstinda, en Reykjanesskaginn blasir allur við og má glögglega greina upptök hinna ýmsu hraunelfa og hvernig þær hafa ruðzt hver ofan á aðra. Fyrir sunnan Dyngjurnar er skarð í hálsinn og heitir Sog, og er þar 400-500 feta djúpt gil. Þar fyrir sunnan hækkar svo hálsinn aftur og kallast þar Grænavatnseggjar, hvass fjallshryggur. Þar fyrir sunnan heitir svo Selsvallafjall og Núpshlíðarháls og nær hann vestur í Ögmundarhraun.
Flest hraunin á Reykjanesskaga hafa runnið fyrir landnámstíð. Þó geta annálar þess nokkrum sinnum, að eldur hafi verið uppi í Trölladyngjum, svo sem 1151, 1188, 1340, 1360, 1389-90 og 1510.
Selsvellir-92Um gosið 1340 segir Gísli biskup Oddsson, að þá „spjó Trölladyngja úr sér allt til hafs við sjávarsveit þá, er kölluð er Selvogur”. Margir hafa dregið í efa, að þetta geti verið rétt, því að hraun úr Trölladyngju hafi ekki getað runnið niður í Selvog, þar sem há fjöll sé á milli. Þessir menn hafa rígbundið sig við örnefnin Trölladyngju og Selvog, eins og þau eru nú notuð, en gá ekki að því, að þau voru yfirgripsmeiri forðum.
Þá var allur Vesturháls nefndur Trölladyngja, en „í Selvogi” mun hafa verið kölluð ströndin þaðan og vestur að Selatöngum. Þetta var upphaflega eitt landnám. Þórir haustmyrkur nam þetta svæði allt, setti Hegg son sinn niður í Vogi (sem nú kallast Selvogur), en bjó sjálfur í Krýsuvík. Bær hans mun hafa staðið þar sem nú heitir Húshólmi niðri undir Hælsvík.

Greanadyngja-21

Þennan bæ tók Ögmundarhraun af þegar það rann fram, og í óbrennishólmanum Húshólma má enn sjá veggi og bæjarrústir koma fram undan hrauninu. Er það full sönnun þess, að hraunið hafi runnið eftir landnámstíð og tekið þarna af bæ, sem oft er nefndur „gamla Krýsuvík”. Í hólmanum er á einum stað nefndur Kirkjuflötur og bendir til þess að þarna hafi verið kirkja. Þar er og glöggur garður um 900 fet á lengd. Eftir þetta hraunflóð halda menn að bærinn hafi verið fluttur upp til fjallanna, þar sem hann stóð síðan og kallaðist Krýsuvík.
Ögmundarhraun er komið úr nær 100 eldgígum hjá suðurendanum á Núpshlíðarhálsi. Bæði Jónas Hallgrímsson og Þorvaldur Thoroddsen hafa komizt að þeirri niðurstöðu, að hraun þetta hafi runnið 1340. Er því hér um að ræða sama hraunið sem Gísli biskup Oddsson segir að „runnið hafi til hafs við sjávarsveit þá, er kallast Selvogur”. Verður þá allt auðskilið. Selvogsnafnið hefir náð yfir alla ströndina í landnámi Þóris haustmyrkurs.

Nupshlidarhals-93

Margir staðir hér á landi eru kenndir við tröll, og svo var einnig í Noregi. Má því vera að sum nöfnin hafi landnámsmenn flutt með sér hingað. Um uppruna nafnsins Trölladyngja vita menn ekkert, má vera að mönum hafi þótt „dyngjan” svo ferleg, að hún hæfði tröllum einum. Vera má og, að menn, sem aldrei höfðu séð eldgos fyrr en þeir komu hingað, hafi haldið að á eldstöðvunum byggi einhverjar vættir og fest trú á hin reykspúandi fjöll.
Landnáma getur þess um Hafurbjörn Molda-Gnúpsson (þeir námu Grindavík), að hann dreymdi að bergbúi kæmi að honum og byði að gera félag við hann, og þá Björn það. Bergbúar geta verið með ýmsum hætti. Sumir bergbúar voru landvættir. Það er dálítið einkennilegt, að Landnáma getur hvergi landvætta nema á Reykjanesskaga, og segir: „Það sá ófresk kona, að landvættir fylgdu Hafurbirni þá er hann fór til þings, en Þorsteini og Þórði bræðrum hans til veiða og fiski.” Því má vera, að Hafurbjörn hafi talið, að bergbúi sá, er hann gerði félag við, hafi verið landvættur og átt heima í Trölladyngju.
Trolladyngja-21Snorri Sturluson segir frá því í Heimskringlu, að Haraldur Gormsson Danakonungur þóttist þurfa að hefna sín á Íslendingum vegna þess að þeir höfðu orkt um hann níðvísu á nef hvert. Sendi kóngur til Íslands fjölkunnugan mann í hvalslíki til njósna. En hann komst hvergi á land fyrir landvættum. Þegar hann ætlaði seinast að ganga á land á Víkarsskeiði, þá „kom í mót honum bergrisi og hafði járnstaf í hendi, og bar höfuðið hærra en fjöllin, og margir aðrir jötnar með honum”. Þetta voru landvættir. Bergbúinn mikli, sem fyrir þeim var, skyldi þó aldrei vera sá, sem Trölladyngja er við kennd, Hafurbjörn bónda dreymdi, og nú er í skjaldarmerki Íslands?
Vatnsleysubændur hafa nýlega gert akfæran veg að Trölladyngju og er hann um 10 km. Er þá fyrst komið á Höskuldarvelli, en það er einhver stærsti óbrennishólminn á Reykjanesskaga. Er þar vítt graslendi, sem nær frá Trölladyngju langt út í Afstapahraun, eða er þó öllu heldur tunga milli þess og Dyngjuhrauns.“
Lambafell-41Keilir er áberandi kennileiti á Reykjanesskaganum ofan Vatnsleysustrandar. Í nálægð hans eru fleiri fjöll, gígar, lækir, hverir, hraun, vötn og víðáttumiklir vellir. Þar má líka sjá fornminjar eins og seljarústir og gamlar götur sem sumar hverjar eru vel markaðar af hestum og mönnum. Vegurinn af Reykjanesbraut um Afstapahraun upp á Höskuldarvelli er ca. 9 km. Hraunið þekur um 22 ferkm. Áhöld hafa verið um aldur þess, en líklega er það svolítið eldra en Ögmundarhraun (1151). Norðaustan Rauðhóla (þess stærsta) er gömul selstaða frá Vatnsleysu. Aðeins ofan við Rauðhóla er svo Snókafell á vinstri hönd.
Þegar upp úr hrauninu kemur blasir sem Keilir (378 m) við sem og Trölladyngjan (375 m) á hina. Grænadyngja (402 m) stendur að baki systur sinni. Í hlíðunum beggja vegna Trölladyngju eru ótal gígar sem sent hafa hraunstrauma langt niður um heiðina.

Lamb-23

Á milli liggja svo hinir víðáttumiklu Höskuldarvellir sem Sogalækur rennur um allt yfir í Sóleyjakrika sem teygir sig norður í átt að Snókafelli. Vestan við vellina liggur Oddafell sem er langur og mjór melhryggur. Dyngjurnar tvær eru í Núphlíðarhálsi (Vesturhálsi) sem er um 13 km langur og liggur samsíða Sveifluhálsi (Austurhálsi) að vestanverðu. Á milli þessara móbergshálsa er svo Móhálsadalur með Djúpavatni, Krókamýri og Vigdísarvelli.
Höskuldarvallastígur (7-800 m) liggur frá Oddafellinu yfir Afstapahraun áleiðis að Keili. Uppgangan á fjallið er augljós og greið hér að austanverðu en þegar nálgast tindinn er klungur á smákafla. Af tindi Keilis er ágætt útsýni yfir um Reykjanesskagann. Suður af sést til sjávar utan við Ögmundarhraun en nær liggja Selsvellir. Mest áberandi fjöll í klasanum vestur af Núphlíðarhálsi eru Stóri-Hrútur, Kistufell og Fagradalsfjall. Dyngjan Þráinskjöldur sem fyrir 10.000 árum spjó hrauninu sem Voga- og Vatnsleysu-strandarbyggð liggur í vestri.

Lamb-24

Frá Keilisrótum liggur Þórustaðastígur fram hjá Melhóli og í átt að Driffelli. Stígurinn liggur frá byggð á Vatnsleysuströnd og allt að Vigdísarvöllum og var töluvert notaður fram eftir nýliðinni öld. Stór, fallegur, gígur við norðurenda Selsvalla heitir Moshóll (nýlegt örnefni) og talið er að gosið úr honum sé það síðasta í hrinunni sem myndaði Afstapahraunið. Selsvallaselin nýrri leiggja suðvestan í Völlunum, fast við hraunkantinn og þar virðast hafa verið a.m.k. þrjá kofaþyrpingar og tvær nokkuð stórar kvíar nálægt þeim. Í bréfi frá séra Geir Bachmann Staðarpresti til biskups árið 1844 kemur fram að sumarið áður hafi sjö búendur úr Grindavíkurhreppi í seli á völlunum og að þar hafi þá verið um 500 fjár og 30 nautgripir. Út frá selstæðinu liggur selstígurinn til Grindavíkur í átt að Hraunsels-Vatnsfelli. Eldri þyrping seltófta eru austan til á Völlunum. Norðan Selsvalla er Hverinn eini. Hann var sá stærsti á Reykjanesskaga um aldamótin 1900 og þegar Þorvaldur Thoroddsen ferðaðist um svæðið árið 1888 sagði hann hveraskálina um 14 fet í þvermál, “ …sjóðandi leirhver. Í góðu veðri sést gufustrókurinn úr þessum hver langt í burtu, t. d. glögglega úr Reykjavík.“ Sogaselin kúra í Sogaselsgíg handan við Sogalækinn. Gígurinn er girtur skeifulaga hamrabelti og myndar því gott aðhald fyrir skepnur. Í Sogaseli höfðu bændur í Kálfatjarnarhverfi á Vatnsleysuströnd selstöðu. Utan við gígin eru einnig tóftir, líklega leifar af selstöðu frá Krýsuvík.

Hverinn eini - 41

Uppi í Sogunum  er mikil litadýrð; jarðhiti og leirmyndanir. Á milli Dyngna er Söðull, sem er lágur háls sem þverar skarðið milli fjallanna. Þegar upp úr Sogum er komið eru grasi grónar brekkur beggja vegna og hæg gata allt niður á hraunið norðvestan Dyngjuhálsins. Handan við Dyngjurnar stendur svo Eldborg (eldra örnefni er Ketill), fyrrum falleg en nú í rúst eftir margra ára efnistöku. Fyrir spjöllin var gígurinn um 20 m hár og gígskálin djúp og nokkuð gróin. Jón Jónsson jarðfræðingur segir í einni ritsmíð sinni: ‚‚Gosið í Eldborg er án efa með þeim síðustu á þessu svæði og sennilega það síðasta. Það er yngra en Afstapahraun.“ Afstapahraunið er frá sögulegum tíma eins og nefnt var hér á undan. Töluverður jarðhiti er í og við Eldborgina og heitir hitasvæðið rétt suðvestur af henni Jónsbrennur. [Líklega nær nafnið yfir afmarkaða gígaþyrpingu vestan í Dyngjurana.]

Sog-59

Um Eldborgarhraunið liggur slóð austur með gígnum og norður að Vestra-Lambafelli sem umlukið er hraunum úr borginni. Við norðurenda þess liggja göng beint inn í fjallið. Þetta er hin misgengið Lambafellsgjá. Gjáinn er manngeng. Bólstrabergsveggir á báðar hendur eru 20-25 m háir. Gjáin gengur inn í mitt fellið og er mjög þröng neðst eða 1-3 m á breidd en víkkar þegar ofar dregur. Lengd sprungunnar er um 150 m og fyrstu metrana göngum við á jafnsléttu en svo tekur við grjót- og moldarskriða (stundum snjóskafl). Við hinn endann er komið upp á fellið með útsýni að Eldborginni, Trölladyngju og Keili.
Hoskuldarv-25

Norður af liggja Einihlíðarnar og rétt vestan þeirra Mosastígur sem lá um Mosana og síðan niður að Hraunabæjum sunnan Hafnarfjarðar. Stígurinn var einn angi „gatnakerfis“ um hálsana sem nefnt var Hálsagötur fyrrum en um þær fór fólk úr aðligggjandi byggðum svo sem Krýsuvík, Vigdísarvöllum, Selatöngum (ver), Grindavík, Suðurnesjum, Vatnsleysuströnd, Hraunum og Hafnarfirði. Til austurs sjáum við svo Mávahlíðar, gamla gígaröð, en til vesturs liggur úfið Eldborgarhraunið allt að Snókafelli. Endur fyrir löngu hefði mátt sjá hreindýrahjarðir á þessum slóðum því á seinni hluta 18. aldar var rúmlega 20 hreindýrum sleppt lausum á Reykjanesfjallgarð og eftir miðja 19. öldina hafa þau líklega skipt hundruðum og dreifðust um hálsana hér og allt austur í Ölfus. Vesturslóðir þeirra voru við og ofan Keilis og á árunum milli 1860 og 70 sáust á þessu svæði um 35 dýr. Um aldamótin 1900 voru öll hreindýrin hér suðvestanlands útdauð og þá líklega vegna ofveiði.
Í bakaleiðinni var gengið að Eldborginni og framhjá Jónsbrennum.
Frábært veður. Gangan tók 4 klst og 4 mín.

Heimildir m.a.:
-Árni Óla, „STRÖND OG VOGAR – ÚR SÖGU EINNAR SVEITAR Í LANDNÁMI INGÓLFS ARNARSONAR” – Bókaútgáfa Menningarsjóðs gaf út árið 1961.
-Fréttaveitan, 164. Tölublað – 9. ágúst 2001 – 8. árgangur.
-Laugardaginn 11. ágúst, 2001 – Menningarblað/Lesbók.

Hoskuldarv-26

Lóa

Gengið var niður að Halakoti. Þar bar svo skemmtilega til að Magnús Ágústsson frá Halakoti var að renna í hlað. Hann þekkir svo til hverja þúfu í Brunnastaðahverfinu.

Bieringstangi

Bátshræ á Bieringstanga.

Magnús lýsti staðháttum við Halakot, Halakotsvörinni, Brunnastaðabótinni, Bieringstanga o.fl. Magnúsi varð 81. daginn eftir.
Eftir stutta viðkomu á Brunnastöðum þar sem rætt var við Eggert Kristmundsson var gengið að Skjaldarkoti, eyðibýli skammt norðan við Brunnastaði. Þar eru heillegar tóttir og garðar. Komið var við í Narfakoti, en þar vestan við eru mjög fallegar og heillegar tóttir. Narfakotsbrunnurinn er austan við bæjarhúsið.
Gengið var út á Atlagerðistanga og komið við í Móakoti, Ásláksstöðum og Nýjabæ og ferðin enduð við Knarrarnes. Þar fyrir neðan er fallegur hjallur og norðan við Stóra-Knarrarnes eru gömlu bæjarhúsin, mjög fallega flóruð stétt og brunnur.
Öll ströndin er einstaklega tilkomumikil, fjölmargar tóttir, varir, bátaréttir, skjól, minjar og margt að sjá.
Verðið var eins og best verður á kosið – bjart og hlýtt. Gangan tók um 4 klst.

Hlöðunes

Tóftir við Hlöðunes.

Stóra-Vatnsleysa

Tekið var hús á Sæmundi bónda á Stóru-Vatnsleysu á Vatnsleysuströnd. Komið var kvöld. Suðaustan andvari strauk kinn. Sæmundur hafði beðið FERLIR um að reyna að leysa þá torráðnu gátu að lesa úr fornri áletrun á stökum steini í túninu, en það hafði engum tekist til þessa (svo hann vissi til a.m.k.).
LetursteinninnÞegar komið var út á hlaðið benti Sæmundur á hól í suðvestri og sagði: „Þetta er nónhóll“. Þá sneri hann sé 47° til suðurs og bætti við: „Og þarna er hádegishóll – á bak við húsin“. Hóll sá lá sunnanlægt við Keili. „Annars var venjulega miðað við Keili þegar bent var á suðrið“. Enda munaði þar litlu. Líklega hefur viðmiðið verið þvert á útnorður frá Vatnsleysu.
Þegar komið var örskammt suður fyrir núverandi íbúðarhús benti Sæmundur á hleðslur og sagði að þarna væri talið að hefði fyrrum verið kirkja (kirkja allrarheilagrarmessu), sem getið er um í annálum árið 1262. Henni hafi verið þjónað frá Kálfatjörn og bar prestinum að messa þar annan hvern helgidag – að minnsta kosti. Kirkjugatan millum jarðanna gæfi það og til kynna. Sæmundur dró fram gögn máli sínu til stuðnings. Hann sagði bæ hafa verið byggðan á rústum kirkjunnar, en sagan segir að þar hafi fólki ekki orðið vært vegna draugagangs. Kvað svo rammt að honum að hurðir hafi ekki tollað á hjörum. Bærinn var þá yfirgefinn og hann síðan rifinn. Kirkjan hefur skv. þessu staðið á hæsta hólmum ofan við Vatnsleysuvíkina. Austan við hæðina hallar hún undan. Líklegt er að þar hafi veirð kirkjugarður forðum. A.m.k. er letursteinn þar staðfestur vottur um slíkt.
Steinn þessi er stór grágrýtissteinn, sjávarbarinn. Hann er ca. 80 c, hár, 100 cm breiður og 40 cm þykkur. Skýringin á hvers vegna svona stórt lábarið grjót hafi verið langt uppi á landi kom síðar. Ekki væri ólíklegt að þarna væri grafreitur og að steinninn voru einu sýnilegu ummerkin eftir hann.
Byrjað var að skoða letursteininn, sem nú er þarna í túninu suðaustan við bæinn. Í fyrstu virtist áletrunin torráðin og í rauninni óskiljanleg, en þegar gengið var handan við steininn, varð lausnin augljós. Steininum virtist hafa verið velt um koll og áletrunin því óljós. Að þessu staðfestu komu í ljós klappaðir stafir; GI er sameinast með krossmarki að ofanverðu. Til hliðar, hægra megin að ofan, er ártalið 1643 eða 1649.

Áletrun

Enn hefur ekki verið fundið út hvert tilefni áletrunarinnar var. Þetta gæti verið legsteinn, sem fyrr sagði. Steinninn er ólíklega á upprunalegum stað því undir er klöpp, þótt gróið hafi yfir. Norðvestan við steininn eru að því er virðist leifar grjótgarðs. Sæmundur sagði þetta vera úrkast úr túninu. Ofan úrkastsins gæti kirkjugarðurinn hafa verið. Letursteinninn hefur því verið í honum, vel áberandi er hann stóð upp á rönd, en af sömu ástæðu og aðrir steinar verið færðir til í eina samfellu svo hægt væri að nýta svæðið sem slægju. Fyrr á árum þurfti að nýta sérhvern blettur með stækkandi stórgripabúum.
Þarna undir eru því bæði leifar af kirkju frá 13. öld og grafreitur. Letursteinninn bendir til þess. Steinninn er það þungur að hefur ekki verið færður langa vegarlengd með fyrri tíma tækjabúnaði.
Sæmundur kvaðst muna að þegar grafið var fyrir núverandi húsi hafi verið komið niður á hlaðinn kjallara, u.þ.b. 130 cm háan, en húsið hafi þá verið byggt nálægt fimm metrum norðar. Það stæði á ísaldarkampinum og þá hafi grafreiturinn og kirkjan einnig verið á honum þarna suður af húsinu. Hvað væri undir veginum að bænum vissi enginn, en hann hefði að hluta verið lagður ofan á jarðveginn, sem þá var. Þar væri skýringin komin á hinu lábarða grjóti svona langt uppi í landinu. Landið hafi legið lægra fyrrum er ísaldarjökullinn þrýsti því niður, en er hann hopaði lyftist landið og meðlagið sömuleiðis (þ.m. sjávargrýtið).
LetursteinnHafist var handa við að reisa letursteininn upp eins og honum hafði verið komið fyrir upphaflega. Með tveimur járnkörlum og jafnmörgum kraftakörlum vana gamalli áreynsluhefð tókst smám saman með lagni að lóðrétta láréttliggjandi letursteinninn. Þegar hann féll við, var sem ásýnd hans opinberaðist.
Áletrunin er ekki nákvæmlega efst og fyrir miðju steinsins, en ef grannt er skoðað má sjá að krossinn hefur verið gerður miðsvæðis. Gé-ið vinstra megin er stærra en I-ið hægra megin svo hlutföllin hafa eðlilega raskast miðað við miðjusetninguna.
Þegar steinninn hafði verið færður í rétta stöðu kom í ljós að fallegt listaverk er efst á honum hægra megin, ofan við ártalið, líkast fugli. Ef skoðaðir eru legsteinar í kirkjugörðum nú til dags má einmitt sjá fuglastyttur ofan á þeim. Hér gæti verið um samsvörun að ræða – 365 ára gamla.
Aðspurður um fleiri fornminjar í nágrenninu sagði Sæmundur þær vera fáar núorðið. Í norðaustri frá kirkjunni eru tún. Þar voru fyrrum nokkur kot, en þegar túnin voru sléttuð á fyrri hluta 20. aldar, auk þess sem ágangur sjávar hafi gert það nauðsynlegt, hefði öllu verið nýtilegu ýtt niður að ströndinni með það að markmiði að hindra frekari landeyðingu. Þar með hefðu leifar kotanna með öllu tilheyrandi þurrkast út á svæðinu.
Sæmundi var vinsamlegast bent á að nú mætti ekki, skv. þjóðminjalögum, raska neinu innan 20 metra radíus frá letursteininum. Hann sagði það nú lítið mál; „steinninn hefði áður verið færður svo líta mætti á staðsetninguna nú sem geymslustað fyrir hann – ef þurfa þætti“.

Vatnsleysa

Vatnsleysa – loftmynd; yfirlagt túnakort frá 1919, auk annarra bæja og vara.

Í samtali við Sæmund komu fram upplýsingar um „holustein“ ofan á jarðfastri klöpp á hugsanlegum óþekktum mörkum Ísólfsskála og Hrauns á Núpshlíðarhálsi. Lýsingin passar vel við landamerkjalýsingu Ísólfsskála. Ætlunin er að skoða vettvanginn fljótlega.
Sæmundur sagðist ekki vita að letursteininn hafi verið skráðan em „fornleif“. Honum var heldur ekki kunnugt um að fornleifayfirvöld landsins hefðu yfirleitt haft nokkurn áhuga á honum sem slíkum. Að bænum hafi fyrir einhverju sinni komið fornleifafræðingur. Sá hafi gengið um svæðið, staðnæmst stuttu austan við bæinn, bent til norðurs á hlaðna bátarétt, sem þar er og sagt: „Ég skrái þetta, það er augljóslega meira en hundrað ára“. „Þá hlýt ég að vera mun eldri en ég er“, svaraði Sæmundur, „því ég tók þátt í að hlaða þetta þegar ég var kominn fram yfir tvítugt“. Ekki er gott að segja hvort mannvirkið hafi ratað inn á fornleifaskrá eða ekki.
Frábært veður.

Letursteinninn

Norðurkot

Gengið var með frískum hóp um Kálfatjörn. Ein í hópnum hafði verið svo forsjál að fá léðan lykil af Kálfatjarnarkirkju. Eftir að hafa lokið upp kirkjudyrum var þátttakendum boðið inn fyrir. Þar rakti hlutaðeigandi það helsta sem fyrir augu bar, s.s. hina sérstöku málningarvinnu dansksins Bertelsens, sem enst hefur í meira en öld, og rennismíði Þorkels Jónsson, ábúandi í Móakoti, auk þess sem hún lýsti einstökum munum.
Fram kom að Kálfatjarnarkirkja var helguð kalfatjornPétri postula, en elstu haldbærar heimildir um kirkjuna eru í fornum máldögum og kirkjuskrá Páls biskups Jónssonar frá árinu 1200. Kirkjan var einnig nefn Maríukirkja og kirkja hins heilaga Þorláks biskups í Vogum fyrir 1367. Síðasti staðarprestur á Kálfatjörn var séra Árni Þorsteinsson, en eftir að hann lést árið 1920 tók við jörðinni Erlendur Magnússon frá Tíðargerði og kona hans Kristín Gunnarsdóttir frá Skjaldarkoti. Þau hófu búskap í Tíðargerði en fluttu að Kálfatjörn 1920 og bjuggu þar allan sinn búskap eða allt til ársins 1975. Erlendur var fyrsti og eini kirkjubóndinn á Kálfatjörn. Synir þeirra hóna voru Magnús, Ólafur, Gunnar og Erlendur og dæturnar hétu Herdís og Ingibjörg. Herdís bjó áfram á Kálfatjörn eða þangað til íbúðarhúsið brann með dularfullum hætti.
Efst á kirkjuturninum er ártalið 1893, en það er smíðaár timburkirkjunnar, sem nú stendur. Teiknari og yfirsmiður var Guðmundur Jakobsson, en við grunnbygginguna vann Magnús Árnason steinsmiður frá Holti, viðurkenndur hagleiksmaður. Kirkjan var reist á 14 mánuðum, en þá var kirkjuturninn öðruvísi útlits en nú er.

Kálfatjörn

Kálfatjörn – ártalssteinn úr sjóbúð.

Þá var gengið niður með hinni aldargömlu hlöðu á kirkjuhlaðinu, framhjá tóttum fjóssins, hinu botnlauslausa Víti og Hólkoti, niður með Kálfatjörn með sjóbúðina á vinstri hönd og síðan áfram til vesturs með ströndinni. Þar var gamla bátagerðið skoðað ásamt fjárhúsunum og Hausaréttinni. Á steinum réttargarðsins voru áberandi hvítar og gular skófir. Einn þátttakenda kunni eðlilega skýringu á því, en hún var eftirfarandi í mjög styttri útgáfu: Bóndakona týndi snældu, en gat ekki endurheimt hana nema greiða fyrir hana með mikið af graut. Dugði það ekki til og þurfti því að taparinn enn og aftur að punga út stiga til viðbótar svo þyggjandinn gæti komið umframgrautnum til Maríu meyjar. Á leiðinni þangað með grautinn hrapaði sá ferðaglaði og lenti að lokum á jörðinni. Hvítu og gulu skófirnar á grjótinu eru síðan ævarandi merki um heilaslettur hlutaðeigandi og grautinn góða“. Engin ástæða er til að draga þessa sögu í efa frekar en margar aðrar.

Kálfatjörn

Kálfatjörn – skósteinn með ártali.

Gengið var upp að Goðhól og húsin þar skoðuð sem og garðar og annað markvert. Haldið var yfir að Norðurkoti, litið á hlaðinn brunninn og síðan kíkt inn í gamla skólahúsið. Þar voru gömlu kennslubækurnar enn á borðum, bæði orðsins bækur svo og draumabækur unga fjósamannsins. Fengin var að tímabundnu láni handskrifuð Kennsluritgerð Ingibjargar Erlendsdóttur frá árinu 1942 um „nokkra meginþætti í stjórn og starfi barnaskóla“. Ritgerðin skiptist í: I. Inngang og uppeldi, II. Tilgangur skóla, III. Stjórn skóla, IV. Niðurskipan skólastarfsins, V. Refsingar, V. Kennsla og kennsluaðferðir, VII. Námið og gildi þess og VIII. Kennarinn og hlutverk hans. Tilefnið var notað og lesin hluti ritgerðarinnar, en hún verður tölvuritfærð fljótlega og send viðkomandi til gagns og gamans. Ritgerð þessi hefur aldrei áður birst á prenti – sjá HÉR.
Gengið var niður gamla flóraða götu með garðinum að Norðurkotsbyrginu á sjávarkambinum. Þar mun hafa verið salthús. Síðan var ströndin gengin til vesturs og fjaran skoðuð. Komið var að völundar spili í fjörunni og síðan tók fagurhvít sandfjara við, sbr. meðfylgjandi mynd. Staðnæmst var í fjörunni neðan við Landakot, litið á Landakotsbrunninn og síðan gengið var til baka með ofanverðri ströndinni. M.a. var litið á leturssteininn [A° 1690] í kirkjubrúnni á gömlu kirkjugötunni að Kálfatjarnarkirkju og Landabrunninn, hið forna þvottastæði Kálfatjarnarfólksins. Kvenkrían lét í sér heyra að venju á meðan karlkrían tók lífinu með stóískri ró. Golfararnir voru hljóðlátari en jafnan. Þekktu kannski orðið söguna og tilurð vallarins.
Veður var frábært – logn og sól.

Kálfatjörn

Kálfatjörn – uppdráttur ÓSÁ.

Vogavík

Eftirfarandi frásögn Pálma Hannessonar um hvarf Ólafs Þorleifssonar frá Miðhúsum á Vatnsleysuströnd árið 1900 birtist í Faxa árið 1968:
olafsvarda-501„Á Vatnsleysuströnd ganga hraun út í sjó, sem kunnugt er, og liggur byggðin fast með sjónum fram. Áður fyrr, meðan sjór var sóttur á opnum bátum, var þar fjölbýlt mjög og útróður mikill. Nú er þar færra um, en þó allþéttbýlt, og standa bæirnir í hverfum, samtýnis. Suður frá byggðinni heitir Strandarheiði, flatlendi mikið, er hallar hægt til norðurs, frá Fagradalsfjalli að sjó. Öll er hún hraunum hulin, en hraunin forn og víða grasi gróin eða lyngi. Fyrrum óx þar einir til mikilla muna, en hrísrif var stundað frá flestum bæjum á Ströndinni, því að lítið féll þar til af eldiviði, og eyddist þá einirinn. Vestan við Strandarheiði heitir Vogaheiði eftir Vogum (Kvíguvogum). Gjár og hraunsprungur eru víða á heiðinni. Snúa þær allar frá suðvestri til norðausturs, og hefur landið sigið um sumar þeirra. Hrafnagjá heitir sú, er næst verður byggðinni, og er hún mest. Sunnan við hana er Huldugjá, þá Klyfgjá, sú er hér hefur fengið nafn sitt, en kunnugir telja þó, að það muni stafa frá hrísflutningum þeim, er áður getur.

olafsvarda-502

Sauðland er gott á Strandarheiði, og gengur fé þar úti framan af vetri, þegar tíð er góð, en vitja verður þess öðru hverju, einkum ef áfelli gerir, og er þá oft smalað til heimalanda eða húsa.
Árið 1900 bjó sá maður að Miðhúsum í Hlöðuneshverfi, er Ólafur hét Þorleifsson. Kona hans hét Valgerður Bjarnadóttir, og áttu þau tvö börn ung. Ólafur var nær fertugu, er hér var komið, fæddur 10. júlí 1861 að Austurkoti í Brunnastaðahverfi og alinn þar upp hjá móður sinni, Valgerði Guðnadóttur, er talin var merkiskona, en föður sinn missti hann árið 1896.
Laugardaginn 22. des. þetta ár bjóst Ólafur til heimanferðar til þess að leita kinda, er hann átti uppi í heiði, Vogaheiði eða Strandarheiði, og bjóst hann við að þurfa að fara allt upp að Fagradalsfjalli, en þangað er talinn þriggja stunda gangur. Lagði Ólafur af stað um dagmálabil. Var þá útsynningsstormur og éljagangur, en snjór talsverður á jörðu.

olafsvarda-503

Þegar leið á daginn, harðnaði veðrið, og var þó ratljóst talið til kvölds. Uggðu menn því eigi um Ólaf, enda var hann gagnkunnugur á heiðunum og talinn mikill dugnaðarmaður. Leið svo dagurinn. En um kvöldið, er bóndi var eigi kominn, þótti sýnt, að honum hefði hlekkzt á með einhverjum hætti. Var þá sent til Teits, bónda á Hlöðunesi, bróður Ólafs, og Jóns Jónssonar Breiðfjörð, hreppstjóra á Brunnastöðum. Teitur brá við skjótt, sendi í liðsbón um alla sveitina og varð vel til manna. Næsta morgun í dögun var hafin leit með 30—40 manns, er þeir Teitur og Jón hreppstjóri stjórnuðu. Daginn áður höfðu Vogamenn verið í samalamennsku uppi á Vogaheiði. Kom það nú upp, að þeir hefðu séð til Ólafs um hádegisbil hjá Kálffelli, en svo nefndist hóll sunnanvert á heiðinni skammt frá Fagradalsfjalli. Héldu nú sumir leitarmanna þangað, en hinum var skipað í flokka, og leituðu þeir heiðarnar báðar frá bæjum suður að Fagradalsfjalli. Hjá Kálffelli fundust för Ólafs. Hafði hann setzt þar niður og skotið undir sig staf sínum til þess að blotna ekki. Síðan var slóðin rakin um sinn, en með því að Vogamenn höfðu lagt þarna leið sína sama dag, reyndist eigi unnt að halda henni til lengdar, hversu mjög sem reynt var, og höfðu þeir bræður Ólafs, Teitur og Kristinn, lagt sig mjög í líma um það. Veður var gott þenna dag, og þótti leitast vel, en allt kom það fyrir ekki. Næsta dag, sem var aðfangadagur jóla, var leitað að nýju og enn milli jóla og nýárs tvo daga í röð hið minnsta, en ekki urðu menn neins vísari að heldur um afdrif Ólafs. Hitt var af líkum ráðið, að hann hefði villzt og orðið úti, þótt undarlegt þætti. Eitthvað mun hafa verið leitað meira, einkum næsta vor, er snjóa leysti, en allt var það unnið fyrir gýg sem fyrr. Leið svo tími fram, og fyrntist smátt og smátt yfir atburði þessa, eins og gengur. Hvarf Ólafs Þorleifssonar virtist mundu verða eitt þeirra leyndarmála hins óbyggða auðnageims, sem aldrei verður uppvíst um, en hverfa óráðin í fjarska tímans.
Þannig liðu þrír áratugir. Aldamótakynslóðin týndi tölunni, og miklar breytingar urðu á högum manna, ekki sízt á Vatnsleysuströnd, þar sem hinn forni bátaútvegur lagðist niður að mestu. Þá var svo til einhvern dag á öndverðri jólaföstu árið 1930, að fé var smalað um Stkalffell-501randarheiði.
Að áliðnum degi voru þar þrír menn á ferð með kindahóp, er þeir ráku heim á leið. En er þeir voru komnir að Klyfgjá, vildi svo til, að þrjár kindur hrukku ofan í hraunsprungu, sem verður skammt frá aðalgjánni. Sprunga þessi er um 50 metra löng og á að gizka alin á breidd, þar sem kindurnar fóru niður, en barmar þverbrattir og ókleifir með öllu. Dagur var liðinn að kvöldi, og gátu þeir félagar ekkert að gert til þess að ná fénu að sinni. Var það því ráð þeirra, að hlaða vörðu við sprunguna. Síðan héldu þeir heim.
Daginn eftir fóru þeir félagar aftur upp að gjánni og höfðu með sér vænan kaðal og annað, er með þurfti. Einn þeirra, Rafn Símonarson frá Austurkoti, seig í sprunguna, og reyndist hún 30 metra djúp, þar sem kindurnar höfðu fallið í hana. Hafði ein þeirra rotazt, en hinar voru lifandi og náðust upp jafngóðar. En nokkrir vafningar urðu þó við þetta allt, svo að Rafni vannst tóm til að kanna sprunguna. Kemur hann þá auga á stafbrot, er stóð upp úr rifu ofarlega í sprungunni, og þykir honum augljóst, að það hljóti að vera þangað komið af mannavöldum.

kalffell-502

Litast hann nú betur um og finnur þá annað stafbrot neðar. Rafn hafði heyrt um hvarf Ólafs Þorleifssonar og kemur nú í hug, að hér muni vera stafur hans í tvennu lagi og muni þá eigi langt að leita hinzta náttstaðar sjálfs hans. En snjór var fallinn í sprunguna, og þótti Rafni því örvænt um, fleira fyndist þar um sinn. Hirti hann því stafbrotin, og héldu þeir félagar heim við svo búið.
Í þennan tíma bjó Agúst Guðmundsson að Halakoti, fróður maður og langminnugur. Kom Rafn að máli við hann um kvöldið og spurði, hvort hann myndi eftir stafnum, sem Ólafur í Miðkoti hafði átt og haft með sér, þegar hann varð úti. Ágúst lýsti stafnum þegar, og bar lýsingunni saman við brotin, sem Rafn hafði fundið. Þótti þá sýnt, að Ólafur hefði fallið í sprunguna um kvöldið í útsynningsbylnum, verið á réttri leið og kominn miðja vegu heim frá Fagradalsfjalli. Var nú ekki meira að gert um sinn. En um vorið, þegar leyst hafði snjó úr gjám, var þar til tekið, sem fyrr var frá horfið. Fóru þá fjórir menn af Vatnsleysuströnd suður að Klyfgjá, og var Rafn Símonarson einn þeirra.
Seig hann í hraunsprunguna sem fyrr og fann þar á snös eða olafsvarda-504stalli skammt niður frá brún bein Ólafs Þorleifssonar og fötin, sem hann hafði verið í. Annar lærleggurinn var brotinn en fætur og fótleggir höfðu fallið lengra niður í sprunguna. Rafn tíndi nú saman beinin og lét þau í kassa, en þeir félagar fluttu þau síðan heim að Austurkoti. Þannig komust leifar Ólafs Þorleifssonar heim á æskuheimili hans eftir 30 ára töf. Var nú gerð lítil kista að beinunum, en að því búnu voru þau jarðsett að Kálfatjarnarkirkju. Margt var um þetta talað, eins og vænta má. Enginn veit þó með vissu, hvernig endadægur Ólafs Þorleifssonar hafi að höndum borið, nema hvað augljóst er, að hann hefur fallið í sprunguna hjá Klyfgjá. Hitt var helzt af líkum ráðið, að hann hefði ekki hrapað til botns, heldur stöðvazt á stallinum, þar sem beinin fundust, reynt síðan að vega sig upp á stafnum með því að skorða hann um sprunguna þvera, en stafurinn þá stokkið í tvennt, enda var hann ekki sterkur. Þá, fremur en í fyrri byltunni, virðist hann hafa lærbrotnað, þótt hvort tveggja sé að vísu til. En úr því að svo var komið, voru sundin lokuð, Ætla má, að Ólafur hafi þá setzt á stallinn og beðið þess, er verða vildi. Löng og dapurleg hefur sú vist að vísu orðið slösuðum manni, unz óminni dauðans kom yfir hann.
Það var haft eftir manni einum, sem var í leitinni að Ólafi árið 1900, að þeir félagar nokkrir hefðu farið fast við endann á sprungunni, en engin missmíð séð þar og ekkert heyrt, er vakti athygli þeirra. Kallað hefðu þeir þó öðru hverju. Saga þessi er skráð að mestu eftir heimildum frá Ágústi Guðmundssyni í Halakoti á Vatnsleysuströnd.“ Pálmi Hannesson rektor.

Heimild:
-Faxi, 28. árg. 1968, bls. 219-221.

Ólafsvarða

Ólafsvarða.

Eiríksvegur

Í örnefnaskrá og öðrum heimildum úr Vatnsleysustrandarhreppi er Almenningsvegurinn nefndur og er þá átt við þjóðleiðina sem lá úr Vogum (sem og öðrum byggðum sunnar) og inn í Hafnarfjörð. Hér er vegurinn rakinn frá Vogum í Kúagerði, þ.e. þann hluta var nefndur Almenningsvegur eða Menningsvegur, en vegurinn var vestari hluti Alfaraleiðarinnar gömlu millum Innnesja og Útnesja. Alfaraleiðin var sá hluti vegarins jafnan nefndur er lá milli Kúagerðis og Hvaleyrar í Hafnarfirði.
ArnarbælisstekkurVið fylgjum Almenningsveginum eftir endilöngum Vatnsleysustrandarhreppi frá Hæðinni við Voga og eins langt inn úr og hægt er. Ferðin hefst við vegamótin Vogar-Vatnsleysuströnd og  þaðan er stefna götunnar til norðausturs á Presthóla, tvo ílanga hóla sem ber við himin og liggur hún á milli þeirra. Vegna þess hve gatan er óljós að Presthólunum er best að staðsetja hólana frá Hæðinni áður en lagt er upp. Stekkjarholt er rétt neðan Neðra-Presthóls en Brunnastaðalangholt suðaustan við þá.
Vegurinn var í eina tíð vel varðaður og enn má sjá vörðubrot á þessum fyrsta hluta leiðarinnar með tiltölulega stuttu millibili ef vel er að gáð. Fólk ætti að huga að því ef það er óvisst um götuna, en veit nokkurn veginn stefnuna að undantekningalítið má finna hana aftur við hóla þar sem eitthvert graslendi er og á það sama við um flestar gamlar götur sem liggja að hluta um grjótmela og moldarflög.
Á milli Presthólanna er gatan djúp og augljós og skammt austan þeirra sjást hófför í klöppum. Frá hólunum liggur Gamli vegurleiðin svo í stefnu á Arnarbælið sem er að margra mati stærsti og fallegasti hóllinn í heiðinni. Gatan liggur fast við hólinn að ofanverðu og er mjög greinileg þar. Arnarbælið er grasi vaxið og ágætur áningarstaður fyrir göngufólk en vatn er þar ekkert frekar en annars staðar á þessum slóðum. Undir Arnarbæli er „Arnarbælisstekkur“. Frá Arnarbæli til Breiðagerðis er vegurinn mjög óljós og að mestu óvarðaður svo erfitt getur verið að rekja hann síðasta spölinn niður í Breiðagerði.
Ofan Breiðagerðis þar sem Gamlivegur og núverandi Strandarvegur koma saman má sjá vísi að vegagerð fyrri tíma, þ.e. flórlagða götu sem stundum var nefnd Hestaslóðin og gæti verið að sú slóð hafi verið lögð ofan á Almenningsveginn. Gott er að fylgja Hestaslóðinni inn á móts við Kálfatjarnarafleggjarann.
Á köflum allt inn að Prestsvörðu sem stendur rétt ofan og austan afleggjarans er gatan grjótfyllt milli klappa, þ.e. flórlögð svæði sem nú eru mosagróin að mestu.
Austan vörðunnar hækkar landið dálítið og þar heitir Hæðin. Frá götunni á þessum slóðum sjáum við annað veifið í Staðarborgina, stóra  grjóthlaðna fjárborg í StaðarborgKálfartjarnarheiði. Á leiðinni upp hæðina er hætta á að tapa götunni endrum og sinnum enda engar vörður sjáanlegar sem gætu vísað veginn. Neðan við Strandarveginn innst á Hæðinni er Stefánsvarða, falleg og reisuleg, kennd við Stefán Pálsson útgerðarmannn á Stóru-Vatnsleysu (f.1838). Varðan var endurhlaðin árið 1970 af Jóni Helgasyni frá Litlabæ og syni hans Magnúsi. Á stein í vörðunni er klappað nafnið Stefánsvarða. Varðan stendur við gamla götu sem virðist vera frá svipuðum tíma og Almenningsvegurinn og liggur hún neðar og nær bæjum allt frá Vatnsleysu og að Kálfatjörn og hefur  líklega verið meira notuð af heimafólki en hinum almenna vegfarenda. Hólarnir tveir neðan við vörðuna heita Stefánsvörðuhólar, norðan undir nyrðri hólnum er Borgarkotsstekkur.

Almenningsvegur

Almenningsvegur


Þegar komið er upp á Hæðina er auðvelt að rekja sig eftir götunni sem liðast á milli hóla skammt ofan Strandarvegarins. Innri hæðin á þessum slóðum heitir Tvívörðuhæð og gengur Strandarvegurinn í gegn um hana en dálítill slakki skilur á milli hæðanna tveggja.
Haldið er áfram eftir Almenningsveginum og rétt austan Tvívörðuhæðar er Arnarvarða. Varðan sjálf er nú grjóthrúga en hóllinn sker sig nokkuð úr umhverfinu og liggur djúp gatan fast við hann að norðanverðu.  Nær bílveginum er Tvívörðuhóll og lítill stekkur vestan undir honum.

Almenningavegur

Almenningsvegur genginn.

Frá Arnarvörðu er vítt útsýni yfir heiðina og niður til Strandarinnar. Upp undir Reykjanesbraut sjást Hafnhólarnir tveir, Litli- og Stóri-, er sá síðarnefndi í stefnu á Keili séður frá Arnarvörðu. Nær er svo nokkur hæð sem heitir Þorsteinsskáli, er hún í stefnu á Þorbjarnarfell við Grindavík. Suðvestan Þorsteinsskála sést Staðarborgin á sléttlendi. Rétt sunnan við Arnarvörðu er langur klapparhryggur sem heitir Löngubrekkur.
Nú hallar undan fæti og gatan er augljós austur af Arnarvörðu. Á móts við gamla Flekkuvíkurafleggjarann liggur Almenningsvegurinn um 50 m fyrir ofan Strandarveginn, þar er lítið grjótbyrgi sem hlaðið hefur verið við veginn. Á þessum slóðum, rétt ofan hans, er gömul vegagerð sem heitir Eiríksvegur og liggur hann frá Kúagerði og endar í Flekkurvíkurheiðinni. Við breikkun Reykjanesbrautar færðist Strandarvegurinn ofar í heiðina með tilheyrandi hringtorgi að brautinni en þessi lýsing miðar við Strandarveginn eins og hann lá fyrir breytingarnar.
Stuttu innan grjótbyrgisins er farið yfir Hrafnagjá, þrönga misgengissprungu sem gengur niður um tún Stóru VatnsleysustekkurVatnsleysu og í sjó fram. Rétt vestan gjárinnar og neðan Eiríksvegar er komið að Vatnsleysustekk. Á þessum slóðum er erfitt að fylgja götunni og virðist sem Eiríksvegur liggi yfir hana á köflum. Ofan vegar við Stóru Vatnsleysu er túnblettur og ofan hans liggur Eiríksvegur og Almenningsvegurinn hlið við hlið.
Nú hallar aðeins undan fæti og slóðinn nálgast Strandveginn aftur og þar hverfur hann og Eiríksvegur undir afleggjarann að rafstöð fiskeldisstöðvarinnar við Vatnsleysu. Innar, á móts við Steinkeravík (Stekkjarvík), sem er austan stöðvarinnar liggja vegirnir þrír þétt hlið við hlið og er Almenningsvegurinn í miðjunni.
Fagurhóll heitir hóll niður við sjóinn innan víkurinnar og á móts við hann liggja vegirnir tveir undir Strandarveginn, Almenningsvegurinn þó aðeins innar. Áfram er haldið veginn um Akurgerðisbakka en sjórinn hefur sýnt bökkunum töluverðan ágang og næst Afstapahrauninu hverfur hann undir malarkamb en kemur svo aftur í ljós í Kúagerði. Kúagerði var frægur áningarstaður áður, gott vatn í tjörninni og nógir hagar um kring. Þarna liggur Almenningsvegurinn fast við fjörukambinn og myndar nokkuð grasi gróna rönd, kögraða hraungrýti, en þegar komið er að tjörninni hverfur gatan undir umrótið sem varð við byggingu Reykjanesbrautar. Sjá framhaldið HÉR.

Heimild m.a:
-Sesselja Guðmundsdóttir – Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi – 2007

Kort

Vegir á Vatnsleysuströnd – G. Ben ’93

 

Alfaraleiðin

Hér er Alfaraleiðin rakin frá Kúagerði að Þorbjarnarstöðum í Hraunum við Hafnarfjörð. Þetta er austari hluti Almenningsvegarins frá Vogum, gamla þjóðleiðin millum Innnesja og Útnesja.
UpphafNæst er haldið frá Kúagerði upp fyrir Reykjanesbrautina og að austurjaðri Afstapahraunsins en þar mátti rekja götuna áfram en líklega er hún nú horfin undir nýbreikkaða brautina. Rétt við gamla Keflavíkurveginn á móts við Hvassahraun er Hvassahraunsrétt og þar finnst gatan aftur ofan vegarins. Hún liðast upp hólaklasann á milli Gamla-Keflavíkurvegarins og Reykjanesbrautarinnar. Innan við hólana hverfur hún síðan undir brautina rétt áður en vegirnir fara að liggja alveg samhliða austan Hvassahraunsbæjarr. Há uppfylling er þar sem Almenningsvegurinn kemur undan brautinni og þar er gatan mjög greinileg en vörður eru engar við hana á þessu svæði.
Handan Reykjanesbrautar kemur gatan í ljós skammt norðvestan við bifreiðaplan austan mislægra gatnamóta. Þar er hún vel greinileg, en vanrækt hefur verið að merkja „upphaf“ hennar þar. Þarna er kjörinn upphafsstaður ef fólk vill ganga leiðina áleiðis til Hafnarfjarðar, enda um þægilega göngu að ræða, ca. 1 1/2 – 3 klst.
Framundan er nokkuð hæðótt og gróið hraun þar sem vörður sjást  á stangli við götuna. Áberandi varða á hæð hægra megin götunnar er framundan. Þegar innar dregur liggur hún um nokkuð slétta, vörðulausa hraunfláka sem nefnast Sprengilendi. Í fyrstu er leiðin óljós en þegar komið er hálfa leið yfir „sléttuna“ skýrist hún verulega og hófför fara að sjást í klöppunum. Gatan liggur ofarlega á þessu svæði en þó aldrei meira en 3-400 m frá Reykjanesbrautinni. Varða er úleiðis hægra megin. Um er að ræða gamla hlaðna refagildru.

AlfaraleiðinInnan við Sprengilendið liggur slóðinn ofan við mjög klofinn og sérkennilegan hraunhól en ofan götunnar og hólsins er hæð sem heitir Taglhæð og á henni er merktur jarðsímastrengur. Þarna sveigir Almenningsvegurinn til austurs, hækkar dálítið og fjarlægist Reykjanesbrautina til muna. Næst er haldið yfir kennileitalítið svæði um nokkurn veg. Framundan til hægri við götuna og aðeins ofar er mjög sérkennilegur, stakur klettahóll sem er eins og hetta í laginu. Þessi hóll er mjög áberandi séður frá Reykjanesbrautinni þó hann sé ekki stór. Hér sjást lítil og fá vörðubrot við götuna. Nú fer útsýnið að víkka til muna og fljótlega sést í stóra sprungna klapparhæð í austurátt sem nefnist Smalaskálahæð[ir] og klapparhól í framhaldi af henni til suðurs. Stefna götunnar er fast hægra megin við hólinn í stefnu sem næst á Vífilfellið. Neðar sést í Kristrúnarborg, fallega heillega fjárborg frá Óttarsstöðum sem sögð er hlaðin um 1870 af Kristrúnu Sveinsdóttur húsfreyju á Óttarsstöðum og vinnumanni hennar. Handan borgarinnar er svo Smalaskálhæðir með fallegum jarðföllum sem gaman er að skoða. Í suðaustri sést varða í allnokkurri fjarlægð. Þar er selsvarðan ofan Lónakotssels. Selstígurinn liggur þarna yfir Alfaraleiðina þar sem tvær vörður eru við veginn.
Gvendarbrunnshæð heitir næsta hæð en sveigt er upp fyrir hana og farið um Löngubrekkur sem liggja utan í hæðinni ofanverðri. Nú sést í fjárskjól, Gvendarbrunnshæðarskjól, með hleðslum við op og er hellirinn í hæðinni við götuna. Fast austan við fjárskjólið er svo Gvendarbrunnurinn, gott vatnsból í klöpp en um brunninn þveran liggur gömul fjárgirðing á mörkum Straums og Óttarsstaða. Austar er komið að hárri og uppmjórri vörðu en hún er sú fyrsta af nokkrum fallegum vörðum sem standa við götuna frá Gvendarbrunnshæð að Kapelluhrauni. Nú taka Þrengslin við en þar liggur hún þröngt á milli hárra hraunhóla. Næsta kennileiti er hár og brattur klapparhóll með rismikilli vörðu sem sést víða að. Þar skammt frá liggur Rauðamelsstígur (Skógargatan/Óttarsstaðaselsstígurinn) yfir veginn. Norðar liggur svo vestari Straumsselsstígur yfir götuna, skammt vestan Miðmundarhæðar. Á hæðinni er há varða, Miðmundarvarða, eyktarmark frá Þorbjarnarstöðum. Neðan við Alfaraleidin-37hæðina er gatan mjög greinileg en frá hólnum uns hún hverfur loks undir háan hraunkantinn spöl fyrir ofan Gerði (starfsmannahús á vegum álversins). Þar  sem gatan lá upp á hraunið hét Brunaskarð syðra en það er nú með öllu horfið vegna rasks.
Framundan eru svo brunaruðningarnir á móts við álverið og að sjálfsögðu sést engin gata þar fyrr en komið er að Kapellunni sem stendur á hraunhól í miðju umrótinu rétt ofan við Reykjanesbrautina beint á móti álverinu. Kapellan er friðlýst lítið grjótbyrgi úr hraunhellum og snúa dyrnar í suðvestur en veggirnir eru tæplega mannhæðar háir. Kapellan er tileinkuð heilagri Barböru, dýrðlingi úr kaþólskum sið. Fyrir innan Kapelluna og allt til Hafnarfjarðar er gatan óljós eða með öllu horfin, en norðan Reykjanesbrautar, austan álversins, sést hún liðast um Hellnahraunið áleiðis að Hvaleyri. Þar er nú golfvöllur og stendur ein varðan innan um flatirnar. Skammt innan og norðan við hana stendur há og reisuleg markavarða.
Sjá MYNDIR.

Heimild m.a:
-Sesselja Guðmundsdóttir – Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi.

Ferðalangar

Almenningur

Þær jarðir innan staðarmarka Hafnarfjarðar suð-vestur af kaupstaðnum voru nefndar áður einu nafni Hraun(a)jarðir, vestan Straumsvíkur, nú helsta kennileitis svæðisins. Minna fer nú fyrir minjum og rústum gömlu bæjanna. Þetta voru jarðirnar Stóri-Lambhagi, Þorbjarnarstaðir, Straumur, Óttarsstaðir, Lónakot og Svínakot. Jörðin Hvassahraun var ein af Hraun(a)-jörðunum, en hún var í Vatnsleysustrandarhreppi. Þessar jarðir voru allar í eigu Viðeyjarklausturs um tíma og urðu því kóngsjarðir með siðaskiptunum 1550. Ofan við jarðirnar (sunnan) er stór almenningur þar sem þessar jarðir áttu ítök, sem gert er grein fyrir í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns.

Straumssel

Straumssel.

“Eftir að kóngsjarðirnar í Hraununum höfðu verið seldar á árunum 1837-39 – Lambhagi var þó seldur 1827- reis fljótt upp ágreiningur um eignarheimildir á hinum svonefnda Almenningi. Eftir að þeir Magnús Árnason, Guðmundur Eyjólfsson, líklega í Stóra Lambhaga og Guðmundur Guðmundsson, þá á Þorbjarnarstöðum, höfðu skrifað stiftamtmanni 29. 10. 1847, fyrirskipaði hann sýslumanni að rannsaka málið. Stiftamtmaður taldi, að hugsanlegt væri, að Almenningurinn væri eftir sem áður kóngsland, þar sem jarðirnar í Álftaneshreppi ættu ítök þar til viðarhöggs og kolagjörðar, sbr. Kópíubók í Þjskjs. Samkvæmt þessu boðaði sýslumaður bréflega og með auglýsingu 18.5. 1848 til áreiðar, er fram átti að fara 2.6. þ.á., sbr. Kópíubók nr. 767-69. Áreiðin fór fram á tilsettum tíma og var gerðin bókuð í aukadómsmálabók, nú á Þjskjs. Gögnin voru send amtinu 10.6. (nr. 784). Amtið svaraði 15.6. og leyfði þá Hraunbæjarmönnum einum afnot óskert, sbr. Kópíubækur.

Í Straumsseli

Gerði í Straumsseli.

Í samræmi við þetta tilkynnti sýslumaður friðlýsingu skógarins innan tiltekinna marka 19.6. (nr. 789). Friðlýsingin var svo birt á manntalsþingi í Görðum næsta dag, 20.6. 1848, samkvæmt þingbók. En 24.1. 1849 tilkynnti sýslumaður stiftamtmanni, að það myndi ekki vera nauðsynlegt að láta Hraunabændur fá ný bréf fyrir jörðum sínum (nr. 930). Á manntalsþingi í Görðum 22.6.1849 birti sýslumaður auglýsingu Guðmundar Guðmundssonar “sem umsjónarmanns Almenningsskógarins viðvíkjandi takmörkun þessa skógarlands, reglulegri yrkingu sama og fleiru,” samkvæmt þingbók, en sjálf auglýsingin er færð í afsalsbréfabók Ltr. C no. 81.

Laufhöfðavarða

Laufhöfðavarða.

Sama dag voru samþykktar lögfestur Guðmundar fyrir jörðunum Óttarsstöðum og Straumi, Ltr. C no. 81 og 82.” Í skoðunar- og áreiðargerðinni er mörkum lýst með þessum hætti: “Að neðan byrjar það nyrst við Kolbeinshæð, gengur svo til vesturs niður að Markhólum fyrir neðan Lónakotssel, hvar skógurinn endar á móti suðri. Þó gengur skógartunga þríhyrnt niður frá alfaraveginum. Hennar botn eða breidd er að ofan og gengur frá Löngubrekkum til suðurs að Markhólum. Sporður skógarspildu þessarar endar í útnorðri við Brunnhólavörðu skammt fyrir ofan Lónakot. Að norðan gengur skógarlandið frá Kolbeinshæð til landsuðurs langs með Kaphelluhrauni og Brunanum upp að Stórhöfðastíg, þaðan til suðurs í Fremstahöfða langs með Brunanum suður að Fjallinu eina, þaðan til vesturs og útnorðurs í krókum og hlykkjum allt niður að Markhólum. Allt þetta land sem álíst að vera ein fermíla að stærð viðurkenna allir þeir sem mætt hafa að kallað sé með aðalnafni (gamalt) Almenningur.” Ein dönsk fermíla er nú ca. 7,5 x 7,5 km eða ca. 56 ferkílómetrar. Sá hluti sem er innan staðarmarka Hafnarfjarðar er 29,71 ferkílómetri.

Hvassahraunssel

Hvassahraunssel.

Töluverður hluti almenningsins er einnig innan staðarmarka Vatnsleysustrandarhrepps, aðallega upp af Hvassahrauni. Haft er í huga að almenningurinn verði skilgreindur með þeim hætti að hann fari með engu móti inn á eignarlönd Hraunjarðanna, sem eru eins og fram hefur komið Lónakot, Óttarsstaðir, Straumur, Stóri-Lambhagi, Þorbjarnarstaðir og Svínakot, heldur væri hann allur sunnan jarðanna. Í því sambandi má nefna aðalmenningur er í skoðunar- og álitsgjörðinni frá 2. júní 1848 sagður ná að Brunnhólavörðu sem er skammt fyrir ofan Lónakot. Í staðinn er almenningurinn skilgreindur varlega á þessu svæði og látið nægja að fara með norð-vesturmörk almenningsins að alfaraveginum sem er töluvert sunnan Brunnhólavörðu. Getið er um Markhóla í skoðunar- og áreiðargjörðinni. Þrír Markhólar eru í almenningnum, einn neðan Lónakotssels, annar nálægt Óttarsstöðum og sá þriðji við Straum. Þess ber að geta að Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá því um 1700 staðfestir að um gamlan almenning er að ræða. Verður nánar gerð grein fyrir því ígreinargerðinni sem síðar verður lögð fram. Merkjalýsing frá punkti í Markrakagil (Markagil), sem er í samræmi við varakröfu ríkisins, tekur mið af merkjalýsingu Garðakirkjulands samkvæmt landamerkjabréfi nr. 154, sem Þórarinn Böðvarsson prófastur í Görðum undirritaði 7. júní 1890 og þinglesið var á manntalsþingi í Görðum hinn 9. júní 1890, sbr. 3. lið. Verður nánari grein gerð fyrir lýsingunni í greinargerð. Landamerkjalýsingar á Hraunjörðunum sem þinglýst var 9. júní 1890 eru sérstaklega milli jarðanna.

Skjól við Gömlu-þúfu

Skjól við Gömlu-Þúfu.

Í þessum lýsingum er farið langt út fyrir hin eiginlegu eignarréttindi jarðanna til suðurs. Þessar landamerkjalýsingar eru milli eigenda Hraunajarðanna, þær eru einhliða gerðar og ekki samþykktar af öðrum aðilum sem tengjast málinu og hagsmuna hafa að gæta svo sem ríkinu og sveitarfélaginu. Hafnarfjarðarbær er þeirrar skoðunar að umræddur almenningur sé landsvæði utan eignarlanda þó að einstaklingar eða lögaðilar kunni að eiga þar takmörkuð eignar-réttindi. Þær landamerkjaskrár sem gerðar voru á milli Hraunajarðanna og þinglýst var 9. júní 1890 og miðuðu við að afmarka þær jarðir breyta því engu um ofangreind mörk milli Hraunjarðanna annars vegar og almenningsins hins vegar. Að því leyti sem þær ná yfir almenninginn voru þær einungis gerðar að nafninu til, þar sem þær eru án samþykktar allra hlutaðeigandi. Landamerkjabréfin frá 1890 breyta því ekki efni þeirrar skoðunar- og áreiðargerðar frá 1848 sem gerð var með samþykki allra hutaðeigandi og fela því enn síður í sér sönnun um beinan eignarrétt yfir því landi sem fyrr var afmarkað sem almenningur. Gildi þessara landamerkjabréfa nær því eingöngu til marka milli Hraunjarðanna. Ljóst er að menn máttu ekki einhliða auka við land sitt eða annan rétt umfram það sem verið hafði. Tilvist þessara landamerkjabréfa breyta því engu um mörk almenningsins sem ákveðin voru með skoðunar- og áreiðargerðinni 2. júní 1848.
Þó að stiftamtmaður hafi heimilað Hraunabæjarmönnum einum afnot af almenningnum árið 1848 veitti það þeim ekki rétt til þess að útvíkka mörk jarða sinna með þeim hætti sem þeir gera með þeim samningum sín í milli sem þinglýst var 9. júní 1890.

Réttarklettar

Rétt við Réttarkletta.

Þessir þinglýstu samningar breyta engu um eignarheimildir eigenda Hraunjarðanna. Hafnarfjarðarbæ finnst rétt að þegar komi fram að þetta land sen ríkið gerir kröfu um að verði úrskurðað sem þjóðlenda er framtíðarbyggingarland bæjarins og litið er svo á að bærinn muni fá þetta land sem er innan staðarmarka Hafnarfjarðarbæjar frá ríkinu sem byggingarland. Rökin bæjarins fyrir því eru: 1) Með lögunum um þjóðlendur o.fl. nr. 58/1998 er ekki gert ráð fyrir því að skerða hagsmuni sveitarfélaga til lands, sem þýðir að land sem er á láglendi, nálægt þéttri byggð og er á skipulagi sem byggingarland sveitarfélags verður það áfram þrátt fyrir gildistöku nefndra laga um þjóðlendur. Þegar litið er til efnis laganna, greinargerðarinnar með frumvarpinu og umræðna á Alþingi er alveg ljóst að það samrýmist ekki nefndum lögum um þjóðlendur nr. 58/1998 að meina Hafnarfjarðarbæ að skipuleggja þetta land sem byggingarland. 2) Með samningi 28. apríl 1964 höfðu Hafnarfjörður og Garðahreppur (nú Garðabær) makaskipti á löndum. Í hlut Hafnarfjarðar kom sá hluti Garðahrepps sem lá sunnan við Hafnarfjörð. Þar var um að ræða umræddan almenning. Á móti féll Hafnarfjörður frá leigurétti sínum á ræktunarspildum úr landi jarðeignadeildar ríkisins á Hraunsholti og við Arnarnes samkvæmt leigusamningi, dagsettum 14. nóv. 1940.

Straumsvík

Straumsvík.

Í framhaldi þessara makaskipta samþykkti Alþingi frumvarp til laga um lögsagnarumdæmi Hafnarfjarðar og breyttust lögsagnarumdæmi sveitarfélaganna tveggja í samræmi við þennan makaskiptasamning. Samþykkti ríkið því með þeim lögum þennan makaskiptasamning sveitarfélaganna. Fær Hafnarfjörður skv. því almenninginn sem framtíðarbyggingarland og Garðabær, Hraunsholtið og Arnarnesmýrina sem Garðabær hefur nú úthlutað að stærstum hluta undir byggingarlóðir. 3) Hafnarfjarðarbær hefur þegar skipulagt þetta umrædda landsvæði að hluta sem byggingarland og hafa atvinnuhús verið byggð nyrst á þessu landi, eða því landi sem næst er álverinu í Straumsvík. Þetta land hefur að öðru leyti verið skipulagt, sbr. meðfylgjandi skipulagsuppdrátt fyrir aðalskipulag Hafnarfjarðar 1995 til 2015.
Þetta landsvæði ofan (sunnan) við Straumsvík er, eins og þegar hefur komið fram, framtíðarbyggingarland Hafnarfjarðar. Framlögð skjöl: 1) Uppdráttur 2) Staðfest ljósrit af samningi milli Hafnarfjarðar og Garðabæjar dags. 28. apríl 1964 3) Aðalskipulagsuppdráttur fyrir Hafnarfjörð 1995-2015.
Hér er orðið fullljóst að markmið Hafnarfjarðarbæjar er að byggja þar sem nú er óraskað hraunið í Almenningi.
Sjá MYNDIR.

Heimild:
-Óbyggðanefnd.
-Guðmundur Benediktsson hrl. f.h. Hafnarfjarðarbæjar.
-Magnúsar Más Lárussonar fyrrverandi rektors Háskóla Íslands um merki Krýsuvíkurlands. bls. 26.

Í Almenningi

Í Almenningi.

Fuglaþúfa
Gengið var um Flekkuvíkurheiði um Miðmundarhóla, Arnarvörðu, Tvívörðuhól og áfram niður og norðvestur heiðina áleiðis að Réttartöngum vestan Keilisness. Gróðureyðingin er nokkur á heiðinni, en þó má víða sjá geldingarhnapp, blóðberg og lambagras vera að festa rætur í moldardældum á vindsorfnum melum. Það sem vekur mesta athygli á þessu svæði eru reglulegar fuglaþúfur, háar og stæðilegar. Þær gefa til kynna að þarna hafi verið kjörlendi mófugla um allnokkurt skeið. Þúfurnar hafa löngum verið yfirlitsstaðir spóa, kjóa, stelks, tjalds og smærri fugla, en auk þess hefur mávurinn nýtt sér aðstöðuna í heiðinni. Stundum hafa þúfur þessar verið nefndar hundaþúfur af einhverri ástæðu.

Keilisnes

Keilisnes – fornleifayfirlit.

Hundaþúfur voru vel kunnar víða. Sennilega er nafnið til komið vegna merkingaráráttu hunda, en fuglaþúfur eru oft hæstu og jafnvel einu kennileitin í móum og á heiðum.
Miðmundarhólar eru skammt ofan við afleggjarann að Flekkuvík. Þetta er rismikil og falleg hólaþyrping er ber við himinn. Hólarnir eru líklega eyktarmark frá Flekkuvíkurbæjum og ofan þeirra eru Miðmundarlágar. Í þeim er Mundastekkur. Á háheiðinni norðvestur af Miðmundarhólum, nær Strandarveginum, er Arnarvarða, eða hluti hennar, á hól, en við hólinn norðanverðan liggur gamli Almenningsvegurinn. Arnarvarða er á mörkum Flekkuvíkur og Kálftjarnar.

Fuglaþúfa

Fuglaþúfa.

Tvívörðuhóll heitir hóllinn rétt niður og vestur af Arnarvörðu, fast við Strandarveginn. Vestan undir honum er Mundastekkur, sem líklega er frá Flekkuvík. Á hól fast upp af og við Tvívörðuhól er braggagrunnur af einni varðstöð stríðsáranna og að henni liggur greinilegur vegarslóði. Tvívörðuhæð er hæðin þarna kölluð, en Tvívörður voru neðan Strandarvegar. Skammt vestan Tvívörðuhóls eru fallnar hleðslur á tveimur stöðum á lágum klapparhól. Þar sem hæðin er hæst skammt vestar er kallað Hæðin. Á henni er Stefánsvarða, neðan vegar. Í línu til norðurs austan í Hæðinni eru þrjár lágar hæðir. Á hverri þeirra eru fallegar fuglaþúfur. Í línu við þær er hrunin varða á lágri klapparhæð. Hún er í línu við aðra vörðu á hæð ofan Strandarvegar með stefnu í Flekkuvíkurvörina. Keilisnesið er ysta nesið til norðurs, en Réttartangar eru vestar, skammt austan við tóftir Borgarkots.

Fuglaþúfa

Fuglaþúfa.

Í skýrslu, sem Jóhann Óli Hilmarsson vann fyrir Hönnun h.f. í mars 2001, „Fuglalíf við Reykjanesbrautina“, segir m.a. að „geta má eins náttúrufyrirbæris, sem tengist fuglum og er alláberandi víða á vegarstæðinu. Þetta eru fuglaþúfur (sbr. Guðrún Á. Jónsdóttir 2001). Fuglaþúfur einkenna íslenskt landslag og þekkjast hvergi annars staðar svo nokkru nemi. Ekki hefur
verið gerð nein sérstök úttekt á þeim við Reykjanesbraut, dreifingu né öðru, en þær eru sérstaklega áberandi nærri Vogaafleggjara, þar sem ein umferðarbrúin mun rísa.“
Skýrslan fjallar m.a. um fuglalíf á svæðinu, fugla í útrýmingarhættu og fjölda fugla á ákveðnum stöðum. Þá er ljóst að ástæða hefur verið til að tiltaka fuglaþúfur sérstaklega, sem aftur bendir til sérstöðu, eða öllu heldur ásýnd þeirra á heildarmynd umhverfisins á þessu svæði.

Keilisnes

Keilisnes – fuglaþúfa.

Til fróðleiks er þess getið að færuskrúfur vex oft í skjóli fuglnaþúfna. Hann er útbreiddur um allt land, þó algengari á Norðurlandi en á Suðurlandi. Hæruskrúfurinn vex gjarnan á jarðvegsþöktum klettum eða steinum, oft við vörður eða fuglaþúfur. Héluvorblóm vex þar einnig. Það er smávaxin jurt með hélugrá stofnblöð, vegna stjörnuhára sem þekja yfirborð blaðanna. Það vex mjög strjált um landið og vex gjarnan uppi á hæðum, hólkollum eða fjöllum, oft við vörður eða fuglaþúfur.
Í nefndri skýrslu kemur fram að „á válista eru skráðir þeir varpfuglar, sem eru í hættu af ýmsum ástæðum
(Náttúrufræðistofnun 2000). Ernir urpu fyrrum í Arnarkletti í Vatnsleysuvík og Afstapahraun mun hafa heitið Arnstapahraun fram eftir 18. öld, þegar nafn þess breyttist. Ekki er nákvæmlega vitað hvar Arnstapinn var og hvort hann stendur enn (Haukur Jóhannesson og Kristinn Haukur Skarphéðinsson, munnl. uppl.). Ernir hafa smátt og smátt verið að nema land á gömlum varpstöðum og hafa sést á allra síðustu árum, m.a. í
Kúagerði, en sennilega er óróleiki of mikill á þessum slóðum fyrir hina styggu fugla.

Borgarkot

Borgarkot – rétt.

Hrafnar verpa á nokkrum stöðum nærri Reykjanesbraut. Sá staður sem næstur er brautinni er Virkishólar. Tvö hrafnasetur eru í Hrafnagjá og tvö í Vogastapa. (Kristinn H. Skarphéðinsson o.fl. 1990).
Aðrar válistategundir, sem nefndar hafa verið hér á undan á hugsanlegu áhrifasvæði Reykjanesbrautar eru himbrimi, grágæs, fálki, fjöruspói og svartbakur. Ekki þykir ástæða til að hafa sérstakar áhyggjur af þessum fuglum.“

Borgarkot

Borgarkot – refagildra.

Ljóst er að vargurinn hefur tekið sér örugga bólfestu í heiðinni ofan við Borgarkot. Leifar af tveimur hlöðnum refagildrum gefa tilefni til að íhuga hvort ekki væri ástæða til að gefa skolla gamla á nýjan leik tímabundinn séns á svæðinu.
Heiðin ofan við Keilisnes virðist hrá og líflaus, en sá sem gengur um hana að kvöldlagi í sól og stillu verður annarrar skoðunar.
Við Borgarkot eru fjölmargar minjar og sumar hverjar einstakar.
Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 11 mín.

Heimild m.a.:
-http://216.239.59.104/search?
-Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi – Sesselja G. Guðmundsdóttir – 1995.
-http://www.natmus.is/thjodminjar/

Borgarkot

Borgarkot – uppdráttur ÓSÁ.