Tag Archive for: Vatnsleysuströnd

Trölladyngja

Ólafur Jónsson skrifaði um „Trölladyngjur“ í Náttúrufræðinginn árið 1941. Trölladyngjur eru tvær á landinu, önnur norðan Vatnajökuls og hin ofan Vatnsleysustrandar. Hér er grein Ólafs lítillega stytt:

Trölladyngja

Trölladyngja nyrst á Núpshlíðarhálsi.

„Íslenzkir annálar og árbækur geta 6 sinnum eldgosa í Trölladyngjum, en þar sem fjöll með þessu nafni eru tvö á landi hér, annað í Ódáðahrauni, hitt á Reykjanesskaga, hafa fræðimenn ekki orðið á eitt sáttir um það, hvoru beri að telja þessi gos. Trölladyngja í Ódáðahrauni er hraunbunga mikil í suðurhluta hraunsins, formfögur og regluleg. Trölladyngja á Reykjanesi er röð af óreglulegum móbergshnjúkum, skammt vestur af Sveifluhálsi.
Þorvaldur Thoroddsen telur líklegt, að Trölladyngjugosin hafi orðið í Trölladyngju á Reykjanesi og nágrenni hennar, því Trölladyngja í Ódáðahrauni hafi ekki gosið síðan land byggðist. Þó viðurkennir hann, að Trölladyngja á Reykjanesi hafi tæplega gosið nema einu sinni síðan á landnámstíð, en hyggur að önnur gos þar í nágrenninu hafi verið við hana kennd. Rök þessi eru ákaflega veik, því með sama rétti má segja, að gos í nágrenni Trölladyngju í Ódáðahrauni hafi verið við hana kennd, en þess mun þó ekki við þurfa, því hægt er að færa sterk rök að því, að gos þessi, flest eða öll, hafi orðið í Trölladyngjum í Ódáðahrauni. Það, sem fyrst vekur athygli við rannsókn þessa máls, er sú staðreynd, að tvö fjöll, gerólík að uppruna og útliti, bera sama nafnið. Þetta er vafalaust mjög sjaldgæft, þegar um forn nöfn er að ræða og getur aðeins byggst á því, að þeir, sem nöfnin gáfu, hafi lagt ólíkan skilning í nafnið. Nú er aðeins notuð eintölumynd nafnsins; hvort fjallið sem í, hlut á, en í eldri ritum er fleirtölumyndin langalgengust og er það réttmætt, þegar Trölladyngja á Reykjanesi á í hlut, því hún er ekkert einstakt fjall, heldur safn af óreglulegum hnjúkum, en jafn fráleitt væri að tala um reglulegt og einstakt fjall í fleirtölu, eins og Trölladyngju í Ódáðahrauni. Þetta hvorutveggja stangast svo óþægilega, að varla getur dulizt, að eitthvað sé nú orðið bogið við notkun þessara örnefna.

Trölladyngja

Trölladyngja norðan Vatnajökuls.

Á uppdrætti Knopfs af Íslandi frá 1734, og kortum þeim, sem gerð eru eftir honum í ferðabókum ýmsum, sjáum við, að Trölladyngjur í Ódáðahrauni eru ýmist sýndar, sem mikið óreglulegt fjall, eða þyrping af fjöllum, skammt suðvestur af Herðubreið. Á uppdrætti Björns Gunnlaugssonar, frá 1844, er hraunbungan Trölladyngja nefnd Skjaldbreiður eða Trölladyngja, en milli Herðubreiðar og Bláfjalls eru Dyngjufjöll hin nyrðri, eða Trölladyngjur. Þessi fjöll munu nú heita Herðubreiðarfjöll.

Björn Gunnlaugsson

Björn Gunnlaugsson.

Í bók Kaalunds (Bidrag til en historisk-topografisk Beskrivelse af Island) er kort af Þingeyjarsýslu, gert eftir uppdrætti Björns Gunnlaugssonar, með leiðréttingum Prof. Jonstrups frá 1876. Þar eru Dyngjufjöll syðri og Dyngjufjöll nyrðri nefnd einu nafni Trölladyngjur. Sé þetta rétt, er fullt samræmi fengið. Þessar stóru fjallþyrpingar eru einmitt safn af óreglulegum hæðum og hnjúkum, eins og Trölladyngja á Reykjanesi, og þess vegna er vel til fundið að nota fleirtölumynd nafnsins og nefna þær Trölladyngjur. Það er auðgert að finna þessari skoðun stuðning í ýmsum heimildum.
Í bók Eggerts Ólafssonar frá 1751, (Disquisitio antiquario etc.) stendur þessi klausa, eftir að rætt hefir verið um Herðubreið: „Ekki langt þaðan liggur vatn (Lacus), sömuleiðis eldspúandi, Trölladyngjur, nefndar svo af þeim öskuhæðum, sem í því og kringum það rísa.“ Lýsing þessi er að vísu öfgakennd, en getur þó á vissan hátt átt við Dyngjufjöll. Austan við fjöllin hefir til skamms tíma verið stórt vatn, Dyngjuvatn, sem nú er horfið. Líklega hafa menn haft veður af þessu vatni og sett gosin í samband við það. Það er að minnsta kosti ljóst, af þessari lýsingu, að á tíð Eggerts, eru þyrpingar af hólum og hæðum nefndar dyngjur.

Björn Gunnlaugsson

Björn Gunnlaugsson – kort af svæðinu norðan Vatnajökuls 1831.

Þyngri á metunum verður þó lýsingin á Trölladyngjum í Ódáðahrauni í ferðabók þeirra Eggerts Ólafssonar og Bjarna Pálssonar frá 1772 (Reise igennem Island, bls. 752). Þar segir, er lokið hefir verið að lýsa Herðubreið: „Trolddynger er derimod et lavt Bjerg med nogle og især 3de Afdelinger og forbrændte Spidser, men rundagtige Knolde der imellem.“ (Trölladyngjur eru hins vegar lágt fjall, er skiptist í nokkra en aðallega 3 hluta, með brunatindum og ávölum hæðum á milli.) Þetta er lýsing sjónarvotta á Trölladyngjum og getur hún prýðilega átt við Dyngjufjöll.

Björn Gunnlaugsson

Björn Gunnlaugsson – kort af Trölladyngju á Reykjanesskaga 1831.

Níutíu árum síðar lýsa þeir Preyer og Zirkel Trölladyngju mjög á sama veg og þeir Eggert og Bjarni gerðu. Í bók þeirra (Reise nach Island) segir svo: „Trölladyngja zwischen dem Ódáðahraun und dem Vatnajökull gelegen, ein nicht besonders hoher Berg mit drei Hauptgipfeln“. (Trölladyngja milli Ódáðahrauns og Vatnajökuls, ekki mjög hátt fjall með þrem aðaltindum). Bezta heimildin um það, að Dyngjufjöll og Trölladyngjur séu eitt og sama, er ritgerð Jónasar Hallgrímssonar frá 1839, „De islandske Vulkaner“ (Rit J.H., IV., bls. 163). Þar segir svo: „Inde i Landet, syd for Myvatnsfjældene findes en stor Bjærgklynge, som af Myvatnsbeboerne kaldes Dyngjufjöll, men den hedder ogsaa Trölladyngjur og har en Række af Vulkaner, som har avgivet Materialet til en stor Del af Ódáðahraun o.s.v.“ (Inn til landsins, sunnan við Mývatnsfjöllin, er mikil fjallþyrping, sem Mývetningar nefna Dyngjufjöll, en hún heitir líka Trölladyngjur. Þar eru margar gosstöðvar, sem hafa lagt til efnið í mikinn hluta Ódáðahrauns.) Þessi frásögn sýnir, að um 1840 er Trölladyngjunafnið ennþá loðandi við Dyngjufjöll, en það síðara þó orðið algengara, að minnsta kosti sums staðar.

Eggert og Bjarni

Eggert og Bjarni – Íslandskort þeirra um 1770.

Að lokum skal þess getið, sem séra Sigurður Gunnarsson segir um þetta í grein sinni: „Miðlandsöræfi Íslands“ (Norðanfari, 16. ár, bls. 28). Hann telur örnefni í Ódáðahrauni þannig, að fyrst sé Trölladyngja skammt frá jöklinum, þá Dyngjufjöll með Dyngjufjalladal eða Öskjunni. Síðan segir orðrétt: „Norðanmegin ganga út frá þessu hraunfjallahálendi hæðir miklar- og fjalldyngjuklasar, vestur og norðvestur af Herðubreið. Þar eru Trölladyngjur eða Dyngjufjöll hin ytri og engin mjög há eða þá nokkuru lægri en hraunfjöllin innfrá“. Þessi frásögn sýnir prýðilega þann rugling, sem kominn er á örnefnin. Trölladyngjur heita nú bara Dyngjufjöll. Trölladyngjunafnið hefir klofnað í tvennt, eintölumynd, sem hefir færzt suður á hraunbungu, sem áður hét Skjaldbreiður, og fleirtölumynd, sem flutzt hefir norður í Herðubreiðarfjöll.

Eggert og Bjarni

Eggert og Bjarni – kort þeirra af norðanverðum Vatnajökli.

Það er því líkast, sem þessi örnefnaflutningar haldist í hendur með mælingum og rannsókn á landinu og er slíkt skiljanlegt. Alþýða manna lét sig öræfin, sem lágu utan við takmörk afréttanna, litlu skipta, og auðvitað hafa þessi örnefni verið orðin á talsverðu reiki, þegar fræðimennirnir komu til skjalanna. Rannsóknir og mælingar landsins þarfnast fastra örnefna og hefir því gömlu örnefnunum, sem orðin voru á reiki, verið slengt niður eftir ágizkun, eða að minnsta kosti án ýtarlegrar rannsóknar. Þetta er í raun og veru ekki verra en viðgengizt hefir fram á þennan dag. Erlendir og innlendir fræðimenn og ferðalangar fara fram og aftur um óbyggðir landsins og ausa örnefnum, af miklu örlæti, á báðar hendur. Sum þessi örnefni eru jafnvel útlend eða þá mjög vanhugsuð og ósmekkleg. Önnur lenda á stóðum, sem áður höfðu prýðileg nöfn, og getur það kostað töluverða fyrirhöfn að losna aftur við þessi uppnefni.

Eggert og Bjarni

Eggerts og Bjarni – kort þeirra af Reykjanesskaga um 1770.

Af framanrituðu má draga þá ályktun og telja fullvíst, að Dyngjufjöll hafi heitið Trölladyngjur og mun enginn, sem þar er kunnugur, vilja neita því, að þau hafi gosið oft síðan land byggðist. Það var Thoroddsen líka fullkomlega ljóst og má því furðulegt kalla, að hann, sem var kunnari gömlum heimildum en flestir aðrir, skyldi ekki koma auga á örnafnaflutning þann, sem þarna hefir átt sér stað. Líklega hafa Herðubreiðarfjöll líka verið kölluð dyngjur, því svo virðist, sem það hafi verið málvenja að nefna þyrpingar af óreglulegum móbergsfjöllum dyngjur eða fjalldyngjur. Nú hefir þetta heiti algerlega skipt um merkingu, svo það er notað um regluleg einstök bungumynduð eldfjöll, sem sameiginlegt, fræðilegt nafn, ekki aðeins í íslenzkum fræðum, heldur líka í sumum erlendum jarðfræðiritum.

Trölladyngja

Trölladyngja og Dyngjufjöll.

Trölladyngja hefir líklega ekki gosið eftir að sögur hófust, en Trölladyngjur, þ.e. Dyngjufjöll, hafa vafalaust gosið oft eftir að landið byggðist. Þótt það sé merkilegt, að Thoroddsen skyldi ekki sjá þetta, þá er það ennþá furðulegra, að Jónas Hallgrímsson, sem vissi að Dyngjufjöll voru sama og Trölladyngjur, skuli fullyrða, að öll Trölladyngjugosin hafi verið á Reykjanesi. Þessa niðurstöðu reynir hann að byggja á frásögnum annálanna af gosunum, en tekst ákaflega óhönduglega og virðast mér rök hans stundum sanna alveg hið gagnstæða. Vil ég nú rekja ummæli annálanna um þessi gos og draga af þeim þær ályktanir, sem auðið er.

Trölladyngja

Trölladyngja á Reykjanesskaga.

1. Árið 1151 er í fyrsta sinn getið um gos í Trölladyngjum (Isl. ann.). Frásögnin er mjög stuttorð og hljóðar svo: „Eldur í Trölladyngjum. Húsrið og mannskaði.“ Hannes Finnsson segir í ritgerðinni Mannfækkun á Íslandi af hallærum, (Lærdómslistafélagsrit 1793) að Trölladyngjur hafi gosið 1152 og nefnir eftirfarandi vetur sóttarvetur. Jónas Hallgrímsson telur (Rit J. H. IV. bls. 164) að klausan: „Húsrið og manndauði“, sé óræk sönnun þess, að gosið hafi verið í suðvesturhluta landsins, því þeim gosum fylgi mestir landskjálftar og óhollnusta. Þessi rök eru ákaflega hæpin. Í hinni fáorðu frásögn þarf ekkert beint samband að vera milli setninganna: „Eldur í Trölladyngjum“ og „Húsrið og manndauði.“ Landskjálfti og manndauði hafa oft gert usla hér á landi, þótt ekki hafi valdið eldgos, og óhollusta og tjón af gosum mun venjulega hafa farið meira eftir því, hvort um öskugos eða hraungos var að ræða, heldur en hinu, hvar á landinu gosin voru. Frásögnin er ákaflega fáorð, sem bendir til þess, að gosið hafi verið fjarri mannabyggðum og því lítið um það vitað. Það er ósennilegt, að ekki hefði verið sagt fleira frá gosi á Reykjanesi, eða einhver örnefni nefnd í sambandi við það. Mér virðist því sennilegast, að gos þetta hafi verið í Trölladyngjum í Ódáðahrauni.

Trölladyngja

Trölladyngja norðan Vatnajökuls ofar, Urðarháls og gígur neðar.

2. Árið 1188 segir svo (Isl. ann.): „Eldsuppkoma í Trölladyngjum“. Lengri er frásögn þessi ekki og því ósennilegt, að gos þetta hafi verið á Reykjanesi.
3. Árið 1340 hefjast hér mikil eldgos. Um það segir Annáll Gísla Oddssonar (Analium in islandia farago. Islandica vol. X), það, sem hér fer á eftir í íslenzkri þýðingu: „Á árunum 1340 og tveimur eftirfylgjandi tók fjallið Hekla að brenna í sjötta sinn með hræðilegum dunum og dynkjum. Sömuleiðis fjallið Lómagnúpur. Jafnframt kastaði úr sér byrðinni annað fjall nokkurt, Trölladyngjur, allt til hafsins hjá héraði því við sjóinn, sem nefnt er Selvogur. Sömuleiðis var skaginn Reykjanes meira en hálfur eyddur eldi og sjást merki hans í opnu hafi, háir drangar þar úti, kallast Eldeyjar (eða eins og hinir gömlu segja Drifarsteinn. Sömuleiðis Geirfuglasker þar sem flestir steinar til þessa sjást vera útbrunnir. Á sama tíma brann einnig fjall á suðurhluta Íslands, Síðujökull og mörg önnur fjöll eyðandi heil héruð, einhverju sinni einnig í hafinu eldur brennandi auðsénn, og hin logandi fjöll steyptust frá meginlandinu fram í sjó. Slíkar breytingar á þeim tíma, sénar á Íslandi, höfðu í för með sér ósambærilegt tjón fyrir landið, og hefir það aldrei beðið þess bætur.“ Ég tek hér alla þessa klausu til samanburðar við annað gosár, sem sagt verður frá hér á eftir og ranglega hefir verið talið eitt hið mesta gosár hér á landi.

Trölladyngja

Trölladyngja norðan Vatnajökuls.

Thoroddsen sá aldrei Annál Gísla Oddssonar, sem var geymdur í Englandi, en hafði fréttir af honum. Í Lýsing Íslands (II., bls. 125) heldur hann, að hér sé átt við gos í Brennisteinsfjöllum, því auðvitað hafi hraun frá Trölladyngju ekki getað runnið yfir tvo fjallgarða, niður í Selvog. Á öðrum stað (De Gesch. d. isl. Vulk., bls. 185) gizkar hann á, að Ögmundarhraun, vestan við Krýsuvík, hafi runnið þetta ár, en það hraun er hvorki runnið úr Trölladyngju né niður í Selvog.

Trölladyngja

Trölladyngja norðan Vatnajökuls.

Jónas Hallgrímsson fer aðra leið; hann heldur því fram, að frásögn annálsins sanni, að Trölladyngjur hafi verið samnefni fyrir mörg fjöll, líka fjöllin upp úr Selvogi, en færir engin rök fyrir þessu, og vitanlega nær þetta engri átt.
Frásögn Gísla Oddssonar er þannig, að mjög örðugt er að sanna við hvorar Trölladyngjurnar er átt, en þó virðist mér allt eins mikið styðja þá skoðun, að átt sé við Trölladyngjur í Ódáðahrauni. Orðalagið: „Kastaði úr sér byrðinni“ gæti átt við ösku- eða vikurgos, og má þá skilja frásögnina þannig, að aska hafi borizt allt suður í Selvog. Ég veit ekki hvort nokkuð bendir til þess, að Trölladyngja á Reykjanesi hafi gosið vikri, en ef svo hefði verið, gat það varla verið í frásögur færandi, þótt vikurinn bærist í Selvog. Frásögnin er öll ruglingsleg og hlaupið úr einu í annað; gæti vel verið, að frásögnin hefði eitthvað brjálazt í meðferð, ef við t.d. setjum orðin: „Hraun rann“ á undan setningunni: „allt til hafsins“ þá hefir Selvogur sitt gos, óháð Trölladyngju og er það sízt meiri skáldskapur, heldur en tilgátur þeirra Jónasar og Thoroddsens.

Trölladynggja

Trölladyngja norðan Vatnajökuls – hraun.

Það vekur líka grunsemd um, að gos þetta hafi ekki verið á Reykjanesi, hve ókunnuglega er frá því sagt. Frá gosunum á Reykjanesskaganum er sagt af miklu meiri kunnugleik, og mætti því halda, að annálshöfundurinn hafi ekki verið eins ókunnugur á Reykjanesi og ætla mætti af frásögninni af Trölladyngjugosinu. Öll væru þessi rök þó veigalítil á báðar hliðar, ef ekki væri fleira við að styðjast, en nú vill svo vel til, að frá þessum gosum er skýrt á öðrum stað (Isl. ann.). Þar segir svo um árið 1341: „Eldur í Heklufjalli með svo miklu sandfoki um vorið, að dó fénaður, naut og sauðir, um Rangárvelli eyddust nálægt 5 hreppar, annar eldur í Hnappavallajökli, þriðji í Herðubreið yfir Fljótsdalshéraði og vóru allir jafnsnemma uppi. Eldsuppkoma með þeim fádæmum, að eyddust margar nálægar sveitir. Öskufall um Borgarfjörð og Skaga svo fénaður féll og hvarvetna þar á milli.“

Trölladyngja

Trölladyngja á Núpshlíðarhálsi.

Hér er sagt frá gosi í Herðubreið. Auðvitað hefir Herðubreið ekki gosið svona seint, en vel gat gosið borið svo við, eða verið í nágrenni Herðubreiðar og var þá eðlilegt að kenna það við þetta nafnkunna fjall. Heklugos hafa ekki öll verið í Heklu sjálfri og Kröflugosin 1725—30 voru ekki í Kröflu, heldur í nágrenni hennar. Sennilegt er, að þetta Herðubreiðargos hafi verið í Herðubreiðarfjöllum, en þau hafa vafalaust verið nefnd dyngjur og ef til vill Trölladyngjur ytri og getur þá vel staðizt, að gosið sé ýmist talið í Herðubreið eða Trölladyngjum. Svo er ekki heldur ósennilegt, að samtímis gosi í Herðubreiðarfjöllum, hafi gosið í Trölladyngjum, þ.e. Dyngjufjöllum. Árið 1875 gýs til dæmis bæði í Dyngjufjöllum og í Sveinagjá, sem er miklu norðar á öræfunum. Öll þrjú gosin, sem Isl. ann. segja frá 1341, hafa líklega verið ösku- eða vikurgos. Heklugosið gerði mestan usla um Rangárvelli, en langsennilegast er, að askan, sem féll um Borgarfjörð og Skaga og allt þar á milli, hafi komið frá Trölladyngjum í Ódáðahrauni. Að öllu þessu athuguðu, er það ákaflega sennilegt, að Trölladyngjur í Ódáðahrauni hafi gosið 1340 eða 1341, að minnsta kosti má fullyrða, að þessi ár hafi gosið einhversstaðar í nágrenni þeirra.

Trölladyngja

Trölladyngja og Grænadyngja á Núpshlíðarhálsi. Spákonuvatn og Sesseljupollur fyrir miðri mynd.

4. íslenzkir annálar skýra frá mikilli eldsuppkomu í Trölladyngjum á tímabilinu 1354—1360, en frásagnirnar um gos þetta eru mjög á reiki og ónákvæmar og hafa gefið tilefni til ýmiskonar ágizkana. Tel ég því rétt að rekja hér umsagnir heimildanna hverja fyrir sig. Skálholtsannáll 1354 segir svo: „Eldsuppkoma í Trölladyngjum og eyddust margir bæir í Mýdal af öskufallinu, en vikurinn rak vestur á Mýrar og sá eldinn af Snæfellsnesi.“
Gottskálksannáll 1357: „Eldsuppkoma í Trölladyngjum, leiddi þar af ógnir miklar og dunur stórar, öskufall svo mikið að nær alla bæi eyddi í Mýdalnum og víða þar nálægt gerði mikinn skaða. Vikurreki svo mikill austan til, að út frá Stað á Snæfellsnesi rak vikurinn og enn utar.“ Flateyjarannáll 1360: „Eldsuppkoma í Trölladyngjum og eyddust margir bæir í Mýdal af öskufalli, en vikurinn rak allt vestur á Mýrar, en sá eldinn af Snæfellsnesi. Mannfall við Mývatn, hálfur 9 tugur manns í þremur kirkjusóknum.“

Björn Gunnlaugsson

Björn Gunnlaugsson – kort af Reykjanesskaga 1831.

Í Árbókum Espólíns 1354 stendur þetta: „Þá var eldur uppi í Trölladyngjum, eyðilögðust margir bæir í Mýdal af öskufalli og sá eldinn af Snjófellsnesi“, og ennfremur 1360: „Þá var eldur uppi í Trölladyngjum.“
Hannes Finnsson segir um árið 1357 í grein sinni: Mannfækkun af hallærum o.s.frv.: „Var eldsuppkoma í Trölladyngjum, eyddust margir bæir í Mýdal af öskufalli og sá eldinn af Snæfellsnesi,“ og um árið 1360: „Mannfall mikið við Mývatn í harðrétti dóu þar um 170 manneskjur.“
Hér eru þá taldar þær heimildir, sem við höfum um þetta gos, og mun mörgum virðast, að örðugt sé að finna þann samnefnara, sem öll þessi brot gangi upp í. Jónas Hallgrímsson segir, að þar sem vikur hafi rekið á Mýrum og eldarnir sézt af Snæfellsnesi, sé það augljóst, að gos þetta hafi verið á Reykjanesi. Með Mýdalinn er hann í nokkurum vanda, en hyggur þó, að það sé misritun fyrir Mýrdal, en þar sem sá dalur hafi oft orðið fyrir þungum búsifjum af völdum eldgosa, hafi annálsritarinn, vegna landfræðilegrar fákænsku, sett þetta gos í samband við hann (Rit J. H., IV., bls. 165—166). Thoroddsen segir, að hér sé að líkindum átt við Trölladyngju á Reykjanesi, en ef til vill hafi samtímis verið eldur uppi í Austurjöklum. Báðir telja þeir, Jónas og Thoroddsen, að eldgosið hafi orðið árið 1360.

Jónas Hallgrímsson

Jónas Hallgrímsson.

Ég vil strax taka það fram, að mér virðast öll rök hníga í þá átt, að gos þetta hafi verið í Trölladyngjum í Ódáðahrauni. Þegar skýrt er frá eins miklu gosi, eins og ætla má, að þetta hafi verið, gat það ekki verið neitt tiltökumál, þótt eldar sæjust á Snæfellsnesi og vikur ræki á Mýrum, ef gosið var á Reykjanesi. Hins vegar var það í frásögur færandi, ef gosið var inn í Ódáðahrauni. Þetta er einmitt tekið fram til þess að gefa frásögninni kraft og sýna, hve stórfenglegt gosið var. Það eru nokkur dæmi til þess, að vikurhrannir hafa rekið óraleiðir með ströndum landsins og leiftur frá sumum eldgosum sést um land allt.
Auðsjáanlega styðjast flestar þessar frásagnir við sameiginlega heimild, en þess vegna er einkennilegt, hve tímasetningin er ósamhljóða. Þó gæti þetta verið gostímabil og eldarnir verið uppi öðru hvoru allt tímabilið, en einhverntíma á þessu tímabili hefir komið mikið vikurgos, sem svo er mismunandi árfært af höfundum annálanna. Nafnið Mýdalur er vafalaust sótt í sameiginlega heimild. Hugsanlegt er, að það sé misritun fyrir Mýrdal og vel gat gosmökk frá Dyngjufjöllum lagt þannig, að mest tjón yrði í Mýrdal, en sennilegasta skýringin er, að með Mýdal sé átt við byggðina kringum Mývatn, en vegna ókunnugleika hefir annálsritarinn haldið, að vatnið lægi í dal og gefið dalnum nafn. Þá er líka fengin góð skýring á mannfalli því við Mývatn, sem Flateyjarannáll skýrir frá, en Hannes Finnsson telur þar hálfu meira. Aðeins með þessari skýringu er hægt að láta frásagnirnar allar falla í ljúfa löð.
5. Þá er komið að árinu 1390, sem talið hefir verið mjög mikið gosár, en um öll þau gos, að Heklugosinu undanskildu, er Espólín einn til frásagnar (Árb. Esp.). Frásögn Espólíns hljóðar svo: „Logaði Hekla með miklum undrum og Lómagnúpur og Trölladyngja, allt suður í sjó og vestur að Selvogi og allt Reykjanes, brann þar hálft og stendur þar eftir í sjó fram Dýptarsker og Fuglasker og er það allt eldbrunnið grjót síðan, einnig logaði Síðujökull og mörg önnur fjöll og sveitir heilar eyddust af eldgangi.“ Espólín segir ennfremur, að eldurinn hafi haldizt í Heklu og fleiri jöklum hinn sami árið eftir.

Trölladyngja

Trölladyngja norðan Vatnajökuls – gígurinn.

Engum getur dulizt, að hér er á ferðinni frásögn Gísla Oddssonar af eldgosunum 1340. Isl. ann. nefna aðeins Heklugos þetta ár (1390), en engin önnur. Það er því augljóst, að frásögn þessi er komin á rangan stað hjá Espólín og er vafalaust mislestri á ártölum um að kenna. Við getum því með góðri samvizku strikað út eitt mesta gosárið í sögu landsins. Mér hefir verið þetta ljóst alllengi og sé, að Matthías Þórðarson þjóðskjalavörður hefir komizt að sömu niðurstöðu. (Athugas. við Rit J. H. IV., bls. 314—315). Nauðsynlegt er að benda sem rækilegast á þessa villu, sem gengur í gegnum flest eða öll meginrit okkar um jarðelda, og er meðal annars tekin athugasemdalaust upp í Sögu Íslendinga í Vesturheimi, sem er nýútkomin.

Trölladyngja

Trölladyngja norðan Vatnajökuls.

6. Árið 1510 segir Biskupsannáll, að eldur hafi verið uppi bæði í Trölladyngjum og Herðubreið (Safn. t, s. Isl. I., bls, 44), Engin ástæða er til að rengja þetta, þótt aðrar heimildir geti þess eigi. Af því má ráða, að gos þessi hafi verið fjarri mannabyggðum og ekki valdið tjóni. Samtímis er mikið Heklugos, sem vitanlega dró að sér mesta athygli. Þá eru Trölladyngjugosin talin og er hér litlu við að bæta.
Þó má geta þess, að þeir Eggert og Bjarni telja, í ferðabók sinni, Trölladyngjur og Herðubreið í Ódáðahrauni, mikil eldfjöll: „Der har sprudet en forfærdelig Ild i gamle Dage.“ Þetta hefðu þeir tæplega gert, ef ekki hefðu farið sögur af gosum þessara fjalla.

Eggert og Bjarni

Eggert og Bjarni – kort um 1770.

Við megum ekki gleyma því, að þeir Eggert og Bjarni eru um 200 árum nær hinum sögulegu frásögnum um þessi gos heldur en við og gátu því betur dæmt um þetta. Það væri líka dálítið kynlegt, ef Trölladyngjur á Reykjanesi hefðu gosið hvað eftir annað, á tímabilinu 1150—1510, en svo hætt með öllu, en Dyngjufjöll, sem nú gjósa með litlu millibili og öll bera augljós merki eldsumbrota frá fyrri tímum, hefðu aldrei bært á sér allan þennan tíma svo í frásögur þætti færandi.

Trölladyngja

Trölladyngja og Sogaselsgígur nær.

Þótt Þorv. Thoroddsen hallist á þá sveif, að Trölladyngjugosin hafi verið á Reykjanesi, þá gerir hann það auðsjáanlega hikandi og ég hygg, hann hefði litið öðruvísi á það mál, ef honum hefði verið ljóst, að Trölladyngjur í Ódáðahrauni voru sama og Dyngjufjöll. Ég tel þetta mikilsvert atriði og hefi álitið rétt að benda rækilega á það, þótt ég telji ekki æskilegt, að nöfnum verði breytt á ný í hið upprunalega horf á þessum slóðum.
Sumum kann að virðast, að ekki skipti miklu máli í hvorri Trölladyngjunni gos þessi hafi verið, en þetta skiptir einmitt miklu máli. Það hefir nokkura almenna sögulega þýðingu og getur haft verulega þýðingu fyrir jarðfræði landsins, og auk þess er ætíð skylt að leita hins rétta og hafa það er réttara reynist.“

Heimild:
-Náttúrufræðingurinn, 1.-2. tbl. 01.04.1941, Trölladyngjur – Ólafur Jónsson, bls. 76-88.

Eldborg

Eldborg undir Trölladyngju í dag.

Vogaheiði
Haldið var inn á og upp Vogaheiði með það fyrir augum að skoða og rissa upp selin, sem þar eru sunnan Knarrarnessels.
BrunnastaðaselNýjaselsballi (af sumum í seinni tíð nefndur Níelsbjalli) liggur út úr efstu tveimur Snorrastaðatjörnunum til norðurs. Bjallinn er nokkuð langt grágrýtisholt, sem sker sig svolítið úr umhverfinu, og því í rauninni ekki eiginlegur bjalli. Hann dregur nafn sitt af litlu seli, sem staðið hefur rétt norðaustan við bjallann. Þar eru tóftir af Nýjaseli og kúra þær í lægð undir lágum gjárvegg, sem snýr til norðurs. Þegar farið er um Skógfellaveginn er selstæðið skammt austan við götuna. Á efri gjárbarminum þarna rétt við selið eru þrjár „hundaþúfur“ með stuttu millibili. Selið hefur tilheyrt bændum í Vogum og líklega byggst eftir að selstaða lagðist af ofar í heiðinni eða þá að þarna hafi eingöngu verið kúasel. Rétt norður af selinu eru grasgefnir hólar, sem gætu heitið Selhólar, en heimildir eru til um það örnefni á þessum slóðum.
Í Nýjaseli eru þrjár tóftir. Miðtófin er þremur rýmum og er sennilega hluti hennar stekkur eða kví. Tóftirnar sunnan og norðan við hana eru eitt rými hvor, nokkurn veginn jafn stórar. Þarna eru því dæmigerðar selstóftir frá fyrri tíð. Þær eru fremur litlar, en á skjólgóðum stað undir lágum hamrabakkanum, ekki svo langt frá norðurenda Snorrastaðatjarna. Aðskildar tóftirnar, og hversu lítil húsin eru, benda til þess að þara hafi verið kúasel, sem fyrr segir.
Snorrastaðasel er norðvestan tjarnanna. Ein heimild er til um selið sem segir að það hafi verið frá bæjum í Vogum. Í því eru einnig þrjár kofatóftir. Selið er einnig nálægt byggð og við vatn er bendir til að í þeim hafi eingöngu verið hafðar kýr. Tóftirnar voru ekki heimsóttar að þessu sinni, en verða rissaðar upp fljótlega.
GjáselHuldugjá er næsta gjá ofan við Nýjaselsbjalla. Huldur nefnast svæðið milli Hrafnagjár, sem er næst Reykjanesbrautinni að ofanverðu, og Huldugjár. Tvær skýringar hafa verið gefnar á nafninu. Önnur er sú að vegna þess að Huldur er jarðsig milli Hrafnagjár og Huldugjár (gjáveggirnir snúa andspænis hvor öðrum) er allt á „huldu“ um það sem fjær er, Hitt er þó líklegra að nafnið Huldur komi til af því að austast á svæðinu eru margar litlar, en djúpar sprungur, sem geta verið varasamar ef snjór liggur yfir og því er unnt að tala um „huldar hættur“ á þessum slóðum.
Á Huldugjárbarmi er Pétursborg, fyrrum sauðabyrgi frá Tumakoti í Vogum, nefnt eftir Pétri Andréssyni, bónda þar (1839-1904), en hann er sagður hafa hlaðið borgina. Hún er sporöskjulöguð og austurveggurinn er hrauninn að mestu. Lengd borgarinnar er 6-7 m, breidd 4-5 m, veggþykkt um 50 cm, hæð um 180 cm og dyr snúa í suðaustur. Við Pétursborg að austanverðu eru tvær gamlar fjárhústóftir og ein nokkuð nýrri aðeins ofar.
Fjárhústóftirnar eru enn nokkuð greinilegar. Grjót hefur verið í útveggjum og sést það vel ó tóftunum. Hleðslurnar gefa vel stærð húsanna til kynna sem og legu þeirra. Efsta tóftin er ofan við borgina og snýr dyraopi til suðausturs. Austasta tóftin snýr dyraopi til suðvesturs og miðtóftin, milli hennar og borgarinnar, virðist hafa snúið dyrum til suðausturs. Allnokkur gróðureyðing er þarna, en tóftarsvæðið hefur haldið sér nokkurn veginn vegna tóftanna.
Norðaustur og upp af Pétursborg, en rétt neðan Litlu-Aragjár, er Hólasel eða Hólssel á milli þriggja hóla. Þar eru nokkuð heillegar hleðslur á grasbletti og einnig þvert á sprungu, sem liggur gegnum einn hólinn. Þarna hefur ólíklega verið sel, enda engar húsarústir sjáanlegar – eða hvað?
Hlöðunessel
Ef vel er að gáð má sjá að þarna gæti hafa verið selstaða um skamman tíma. Hleðslurnar benda til stekks og að öllum líkindum hefur sprungan verið notuð sem skjól, hlaðið til endana og reft yfir. Ólíklegt má telja að selið hafi verið notað um langt skeið.
Næsta gjá fyrir ofan Litlu-Aragjá er Stóra-Aragjá. Þarna er bergveggurinn hæstur. Nefnist hann Arahnúkur. Hann sést vel af Vogastapa og víðar. Undir Arahnúk er Arahnúkssel eða Arasel. Í Jarðabók 1703 er ekki getið um þetta sel, en það kom fyrir að selstaða var færð neðar í heiðina eftir því sem vatnið minnkaði og gróðrinn eyddist.
Arahnúkaselstæðið er fallegt og grösugt í góðu skjóli við gjárvegginn. Þar má sjá tíu kofatóftir ásamt kví. Sagt er að bletturinn hafi síðast verið sleginn árið 1917. Ekkert vatnsból finnst við selið og líklega hefur vatn verið sótt í Snorrastaðatjarnir. Stór varða er á gjárbarminum skammt sunnan við selið og önnur minni (og nýrri) skammt austar.
Tóftirnar geyma fimm hús með átta til tíu kofa tóftum, sem fyrr segir. Kvíin, eða öllu heldur stekkur er undir hamraveggnum skammt suðvestan við tóftaþyrpinguna, sem er nokkurn veginn í beina línu undir veggnum. Eitt húsanna, tvískipt, stendur þá framar, lengra frá veggnum. Af ummerkjum að dæma virðast þrjár selstöður hafa verið í selinu. Stekkurinn er enda óvenjustór og er líklegt að hann hafi verið samnýttur. Svo er að sjá að þrjú hólf hafi verið í honum, auk safnhólfsins.
Í bergveggnum á Arahnúk er hrafnsóðal og þar er sem uppgangan er á hnúkinn er Araselsgrenið. Svo virðist sem refurinn lifi þar enn góðu lífi því rjúpufiður á á víð og dreif ofan gjárinnar.
Vogheiði heitir svæðið einu nafni ofan Voga allt frá Gamla-Keflavíkurveginum upp úr og inn að landamörkum grannjarðanna. Vogaholtið er hins vegar á austurmörkum þess.
Í því er Jóhannesarvarða, er vestur undir Holtsgjá, aðeins norðan við austur frá Brandsgjá en v-n-v Vogasels. Í raun er Jóhannesarvarða á milli Arahnjúkssels og Vogasels. Varðan stendur hátt utan í litlum, en háum, klapparhól. Það eina sem vitað er um Jóhannesarvörðu er að þar hefði maður orðið úti.
Nýjasel
Utan í Vogaholtinu að norðaustanverðu er Gamla-Vogasel eða Gömlu-Vogasel. Þar má sjá þrjár gamalgrónar tóftir og eina nýlega rétt fyrir ofan uppblásna kvos sem heitir Vogaselsdalur. Í Jarðabókinni 1703 segir að þarna hafi Stóru- og Minni-Vogar í seli. Ekkert vatnsból hefur fundist við Gamla-Vogasel. Norður af selinu er Vogaselsdalsgrenið og inn í „dalnum“ eru þrjú greni sem heita Dalsbotnsgrenin.
Tóftirnar á neðra svæðinu, í jaðri Vogaselsdals, sem nú er að verða jarðvegseyðingunni að bráð, mótar fyrir einu húsi með tveimur rýmum, auk þess það þriðja virðist óljóst austan þess. Þarna er greinilega um mjög gamlar tóftir að ræða, enda að mestu orðnar jarðlægar.
Efri tóftirnar, ofar í holtinu til suðausturs, geyma hús á þremur stöðum. Það nyrsta er tvískipt. Miðhúsið er byggt að hluta til í hól og er erfitt að greina útlínur þess svo vel sé. Efsta tóftin er fast undir háum kletti. Mikið er gróið í kringum hana og er ekki ólíklegt að húsið hafi verið stærra, en virðist. Austan efstu tóftarinnar er hlaðinn tvískiptur stekkur og sést lega hans vel.
Norðan við Gamla-Vogasel er Brunnastaðsel undir Brunnastaðaselsgjá. Um 15. mín. gangur er milli seljanna. Á efri gjárbarminum fyrir ofan selið er Brunnastaðaselsvarða. Heimildir eru til um Brunnastaðaselsvatnsstæði ofan ogs unnan selsins, en það hefur ekki fundist enn svo óyggjandi sé.
Selstæðið er stórt og fallegt, snýr í norðvestur, og blasir við af Reykjanesbrautinni þegar ekið er um Stapann og inn úr (frá Reykjanesbæ til Voga). Af seljunum í heiðinni er Brunnastaðasel fjærst bygðinni. Upp undir gjánni eru nokkrar gamalgrónar tóftir, en aðeins norðar og neðar á grasblettinum eru tvær til þrjár nýrri. Í þröngri gjánni er lítil kví, óskemmd með öllu og hafa gjárveggirnir verið notaðir sem aðhald þegar ærnar voru reknar inn á mjaltartíma.
Tóftirnar undir hlíðinni, næst gjánni geyma þrjú hús. Tvö þeirra eru tvískipt og virðist kví vera við suðurenda þess efra. Milli þessara húsa er hús með einu rými. Vestan vestasta hússins er stekkur. Ytri tóftirnar eru tvískipt hús og þriðja rýmið er hlaðið reglulega úr grjóti aftan (norðan) við húsið. Lítill hóll er norðaustan við tóftirnar og er hlaðið gerði eða kví vestan undir honum, í skjóli fyrir austanáttinni.
Pétursborg
Enn má sjá talsvert grjót í innveggjum húsanna í Brunnastaðaseli. Veggir standa yfirleitt vel og eru u.þ.b. 120 cm á hæð. Kvíin í gjánni er heilleg og hefur varðveist vel.
Brunnastaðaselsstígur lá frá bæ í selið. Milli Brunnastaðasels og Gamla-Vogasels er Markhóll, sem skiptir löndum Brunnastaða og Voga. Um tvo hóla er að ræða. Sennilega er sá efri (með vörðu á) endamörk, en sá neðri hinn eiginlegi Markhóll. Neðan hans er Markhólsgrenið.
Í Brúnum ofan og austan við Brunnastaðasel er Hemphóll eða Hemphólar, en þar áður fyrr áður smalar úr Brunnastaðahverfi um leið og skipt var í leitir. Hemphóllinn er mjög áberandi séður frá Kúagerði og á honum er varða. Heimild frá Grindavík segir hólinn heita Stóruvörðu. Sagt er að prestar Kálfatjarnarsóknar og Staðarsóknar í Grindavík hafi átt sameiginlega hempu og að hún hafi verið sótt á hólinn fyrir messu á hvorum stað og vegna þess sé nafnið Hemphóll tilkomið. Hemphólsvatnsstæðið er lítill mýrarpollur rétt austur af hólnum.
Brunnastaðaselsgjá er efsta gjáin, sem eitthvað kveður að í heiðinni og liggur hún í sveig langt inn úr. Nokkuð inn með gjánni frá Brunnastaðaseli og neðan hennar er Hlöðuneskinn, en aðeins ein heimild er til um þetta örnefni (Jarðabókin 1703). Hlöðuneskinn er nokkuð brött brekka eða brekkur, sem liggja frá gjánni til norðurs og eru þar sundurgrafnar af moldargiljum, sem myndast hafa við framrás vatns.
Undir Hlöðuneskinn í lægð mót austri standa leifar Gamla-Hlöðunessels eða Hlöðunessels. Þar eru tvær gamlar tóftir, en túnið er svo til horfið vegna uppblásturs sem er mikil þarna. Í Jarðabókinni 1703 segir að selið í Hlöðuneskinn sé aflagt vegna vatnsskorts. Ekkert vatnsból er sjáanlegt við selið.
Vogasel
Vestari tóftin virðist hafa verið óskipt hús, sem bendir til þess að hún sé mjög gömul. Austan hennar, samsíða, er tvískiptur stekkur, nokkuð stór.
Enn má sjá móta fyrir grjóthleðslum þátt þær séu nú vel grónar og næstum jarðlægar, líkt og húsatóftin.
Neðan af Vatnsleysustrandarheiði sést vel til Gjásels, austan og sunnan við Knarrarnessel. Síðarnefnda selið er ofan við Klifgjá, en hið fyrrnefnda kúrir undir næstu gjá fyrir ofan Klifgjá, stundum nefnd Gjárselsgjá. Óvíst er frá hvaða bæ haft var í seli þarna því selstæðið er sagt í eða alveg við austurmörk Brunnastaðasels.
Gjásel er ekki nefnt í Jarðabókinni 1703 og virðast tóftirnar þar vera með þeim yngstu í heiðinni. Heimildir nefna bæði Hlöðunesmenn og Brunnastaðamenn, en líklega hafa Hlöðunesmenn haft þarna í seli því árið 1703 er selstaða þeirra ofar í heiðinni aflögð vegna uppblásturs, en Brunnastaðir höfðu þá enn nothæfa selstöðu.
Tóftir húsanna standa þétt hlið við hlið í beinni röð undir gjárveggnum, sem bendir til þess að nokkrir bæir hafi haft þarna í seli. Heimildir geta um gott og mikið vatn í gjánni við Gjásel og sagt er að vatnið hafi bunað út úr berginu, en jarðskjálftar á fyrri hluta síðustu aldar hafi eytt þessum eina „fossi“ í hreppnum. Ein heikmild telur líklegt að selin umhverfis Gjásel hafi haft afnot af vatnsbólinu þar en áður fyrr hefur líklega verið vatnsstæði við hvert sel eða tiltölulega stutt frá þeim þó svo þau séu svo til vatnslaus nú.
Um er að ræða fjögur hús í selinu og stekk skammt sunnar. Hann er orðinn nokkuð óljós, en tóftirnar hafa varðveist vel. Húsin er öll í einni röð undir gjárveggnum, sem fyrr segir. Nyrsta húsið er utan í þrískiptu húsi. Hin húsin eru tvískipt með nokkuð stórum rýmum (af seljum að vera). Það bendir til þess að þau séu ekki mjög gömul miðað við sum önnur selin í heiðinni.
Arahnúkasel
Sjá má grjót í innveggjum. Vel gróið er í kringum tóftirnar og er selstaðan mjög vel greinileg þegar komið er að henni neðanfrá. Gjáselið er eitt hið fallegasta í heiðinni.
Gjáselsgjá og eins og aðrar gjár í heiðinni opnast þessi og lokast á víxl. Suðvestar er Holtsgjá, sem tengist að einhverju leyti Gjáselsgjá. Frá Gjáseli sést vel yfir til Knarrarnessels norðar í heiðinni.
Nokkurn veg norðvestur frá Arahnúk er Ólafsgjá og Ólafsvarða. Gjáin er í raun sprunga út úr vestasta hluta Klifgjár, en Ólafsgjá er mjög þröng og báðir veggir eru jafnháir landinu í kring. Hún sæist ekki fyrr en komi er að henni ef ekki væri varðan við hana. Um aldamótin 1900 hrapaði Ólafur Þorleifsson, bóndi úr Hlöðuneshverfi, þegar hann var að huga að fé rétt fyrir jól. Mikil leit var gerð að honum, en allt kom fyrir ekki. Árið 1931, eða um 30 árum seinna, fundust svo bein hans í gjánni þegar verið var að sækja kind, sem fallið hafði niður í sprunguna á nákvæmlega sama stað og Ólafur. Um atburðinn er ritað í bókinni Hrakningar og heiðarvegir, 3. bindi, eftir Pálma Hannesson og Jón Eyþórsson.
Í rauninni ætti óvant göngufólk ekki að fara eitt um Vogaheiðina – allra síst að vetrarlagi er snjór þekur jörð – því víða leynast sprungur og djúpar gjár opinberast oft skyndilega framundan, án minnsta fyrirvara. Það er a.m.k. mikilvægt að vera vel vakandi á göngum á þessu svæði. Þarna eru augun mikilvægasta skilningavitið.
Frábært veður. Fuglasöngur í heiði. Gangan tók 3 klst og 33 mín.Heimild m.a.:
Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi – SG – 1995

Pétursborg

Pétursborg.

Jóhannesarvarða

Jóhannesarvarða er vestur undir Holtsgjá í Vogaholti, aðeins norðan við austur frá Brandsgjá en v-n-v Vogasels. Í raun er Jóhannesarvarða á milli Arahnjúkssels og Vogasels.

Jóhannesarvarða

Jóhannesarvarða.

Þegar Sesselja Guðmundsdóttir ritaði bók sína „Örnefni og Gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi“ (1995) getur hún um Jóhannesarvörðu eða Jónasarvörðu. Erfitt sé að hendar reiður á hvort nafnið er réttara. Sagnir hermi að þarna hafi orðið úti maður, en engin nánari deili virtust finnast á þeim sögum.
„Svo var ég svo heppin þegar ég var að skoða ættfræði Krýsuvíkur-Gvendar hér um árið í Þjóðskjalasafni að ég rakst á kirkjubókarheimild um greftrunina. Man bara hvað ég varð frá mér numin þegar ég fann, óvænt, skrif um lát og greftrun þessa manns. Því varðan hafði kallað fram spurningar. En og aftur kom í ljós að sögusagnir fara nærri sannleikanum þrátt fyrir aldir!“

Heimild:
-Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi – SG (1995).

Jóhannesarvarða

Jóhannesarvarða.

Ólafsvarða
Nokkurn veg norðvestur frá Arahnúk er Ólafsgjá og Ólafsvarða. Gjáin er í raun sprunga út úr vestasta hluta Klifgjár, millum hennar og Stóru-Aragjár, en Ólafsgjá er mjög þröng og báðir veggir eru jafnháir landinu í kring, ólík hinum. Hún sést ekki fyrr en komi er að henni ef ekki væri varðan við hana.
Ólafsvarða

Ólafsvarða.

Um aldamótin 1900 (21. desember) hrapaði Ólafur Þorleifsson, bóndi úr Hlöðuneshverfi, þegar hann var að huga að fé rétt fyrir jól. Mikil leit var gerð að honum, en allt kom fyrir ekki. Árið 1931, eða um 30 árum seinna, fundust svo bein hans í gjánni þegar verið var að sækja kind, sem fallið hafði niður í sprunguna á nákvæmlega sama stað og Ólafur. Um atburðinn er ritað í bókinni Hrakningar og heiðarvegir, 3. bindi, eftir Pálma Hannesson og Jón Eyþórsson. Einnig var fjallað ítarlega um atburðinn og eftirmálann í Lesbók Morgunblaðsins fyrir nokkrum árum.
Í rauninni ætti óvant göngufólk ekki að fara eitt um Vogaheiðina – allra síst að vetrarlagi er snjór þekur jörð – því víða leynast sprungur og djúpar gjár opinberast oft skyndilega framundan, án minnsta fyrirvara. Það er a.m.k. mikilvægt að vera vel vakandi á göngum á þessu svæði. Þarna, sem og svo víða annars staðar, eru augun mikilvægasta skilningavitið. 

Heimild:
-Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi – SG (1995).

Ólafsgjá

Ólafsgjá.

Alfaraleiðin

Alfaraleiðin er elsta kunna samgönguleiðin milli Útnesja og Innnesja Reykjanesskagans.
Um Alafaraleiðina fóru Alfaraleidin-27allir fólks- og vöruflutningar fyrr á öldum. Vermenn sem fóru um norðanverðan skagann fylgdu þessari götu á ferðum sínum í og úr verinu. Bændur og kaupmenn, ferðamenn og vinnuhjú fylgdu þessum fjölfarna götuslóða allt þar til Gamlivegur, fyrsti vagnfæri Suðurnesjavegurinn var lagður um 1900. Þá lagðist Alfaraleiðin af. Allflestar aðgengilegar vörður voru rifnar niður af vegagerðarmönnum og leiðin gleymdist smám saman. Hluti leiðarinnar hefur orðið nútímanum að bráð, farið  undir golfvöll, lent undir Reykjanesbrautinni á stöku stað og horfið að hluta þegar mikil efnistaka átti sér stað í Kapelluhrauni á sjötta og sjöunda áratug 20. aldar. Víða er þessi leið að gróa upp og hverfa en þó getur glöggt fólk auðveldlega fetað sig eftir Alfaraleiðinni með því að leggja sig örlítið fram og fylgja þeim vörðum sem enn standa og skýrum kennileitum.

Sudurgata-221

Leiðin lá frá botni Hafnarfjarðar þar sem Hafnarfjarðarkirkja sem stendur á Hamarskotsmöl. Þar eru ekki lengur nein merki um þessa fornu leið. Mannvirki, gatnagerð og umbreytingar sem fylgt hafa uppbyggingu bæjarins hafa fyrir löngu eytt öllum minjum um hana. Það eina sem er eftir er nafnið Suðurgata sem minnir á forna tíma. Þessi sama gata nefndist áður fyrr Suðurvegur. Þegar komið er upp steyptar tröppur, þar sem áður var Illabrekka, er brún Vesturhamars og þar liggur Suðurgatan að mestu á sama stað og gamli Suðurvegurinn var. Gamla leiðin lá sniðhalt framhjá Kaldárbrunni áleiðis að gömlu Flensborg við Ásbúðarlæk.

Alfaraleidin-25

Þessi leið er ekki lengur fær en hægt er að fara niður af Suðurgötunni um Flensborgarstíg, mjóan og beinan stíg sem liggur að Íshúsi Hafnarfjarðar. Farið er yfir Strandgötuna og stefnt á Hvaleyrabraut og henni fylgt að Hvaleyri. Gamla leiðin lá yfir Ásbúðarlæk á vaði, framhjá Ásbúð, gamalli verbúð frá Ási sem var í landi Ófriðarstaða. Stefnt var yfir ásinn ofan Óseyrartúngarðs að Skiphóli, sem var áberandi kennileiti á móts við þann stað þar sem seinna var Lýsi og mjöl. Norður frá Skiphól lá eyrarsker þar sem Eyrarskersgarður eða syðri hafnargarðurinn var lagður eftir seinni heimstyrjöld.

Alfaraleidin-26

Fylgt er Hvaleyrarbraut og farið vestur með Hvaleyrarlóni eða Hvaleyrartjörn og stefnt á bátaskýlin neðan undir Sandskörðum við lónið. Þar er hægt að fara gömlu leiðina upp Sandbrekkur, slakkann milli Hvaleyrarholts og Suðurtúngarðs en svo nefndist vörslugarður Hvaleyrartúnsins sem enn sést. Þegar komið er efst í Sandskörðin blasir Flókavarða við á vinstri hönd, eftirlíking norsku Flókavörðunnar í Smjörsundi, en þaðan lagði Hrafna-Flóki upp í för sína til Íslands. Farið er framhjá golfskála Keilis, niður í Stóru Sandvík, þar sem Sædýrasafnið var til húsa. Norðarlega í fjörunni eru Hvaleyrarklettar, en vestar eru Þvottaklettar þar sem Hvaleyrakonur skoluðu léreft sín í ómenguðu jarðvatni sem rennur úr Kaldárbotnum í sjó fram, og þurrkuðu þvottinn á klettunum. Þarna er nú golfvöllur en hægt að fylgja göngustíg nærri fjörunni. Vestan Þvottakletta var Litla Sandvík og ofan klettanna var Hvaleyrarsandur eða Sandurinn sem er alveg horfinn vegna æfingasvæðis golfara. Þarna var mikill fjörusandur sem seldur var sem pússningasandur þegar Hafnarfjarðarbær byggðist sem hraðast uppúr miðri 20. öldinni. Mjög gekk á þennan sand og var lítið eftir af honum þegar Sædýrasafnið var sett þarna á laggirnar í lok sjöunda áratugar 20. aldar.
Alfaraleiðin liggur fram hjá byggingum sem hýstu hluta Sædýrasafnsins en tilheyra nú golfklúbbnum Alfaraleidin-34Keili. Framundan blasir strítumynduð varða [landamerki] við sjónum í vesturátt. Stendur hún á áberandi hraunklöpp um miðbik nýjasta áfanga golfvallar Keilis sem tekinn í notkun 1996. Leiðin lá skáhalt yfir völlinn og stefndi í næstu vörðu sem er suðvestar og nær Reykjanesbraut. Vörður þessar vísa veginn og þegar komið er yfir golfvöllinn er slóðinni fylgt þar sem hún stefnir til suðvesturs undir Reykjanesbrautina. Handan brautarinnar stendur þriðja varðan nærri austurjaðri Nýjahrauns eða Brunans, en nyrsti hlutinn nefnist Kapelluhraun. Þar sem farið var upp á Kapelluhraunið var Stóravarða eystri sem vísaði á Brunaskarð eystra, austurmörk slóðans í gegnum þetta illvíga hraun sem eitt sinn var.

Alfaraleidin-28

Gatan sést ekki lengur í Kapelluhrauni nema á u.þ.b. 10 m kafla við kapelluna því stórvirkar vinnuvélar hafa eytt þeirri merku vegaframkvæmd sem þarna var unnin fyrir margt löngu. Ekki er vitað hvenær gatan í gegnum Nýjahraun var rudd, en það hefur trúlega átt sér stað seint á 12. öld eða snemma á 13. öld. Nýjahraun rann í miklum eldsumbrotum sem áttu sér stað 1151 úr gígaröð í Undirhlíðum. Hefur hraunið tálmað för manna í útverin á Vatnsleysuströnd og Suðurnesjum, sem voru flest í eigum biskupsstólsins í Skálholti, kirkna og klaustra. Viðeyjarklaustur átti Hvaleyri og er hægt að ímynda sér að leiguliðar klaustursins sem byggðu Hvaleyri fyrir 7 öldum hafi verið skikkaðir til að ryðja braut í gegnum eldhraunið  og opna leiðina milli verstöðvanna og Innnesjanna. Það eina sem vitnar um þessa miklu framkvæmd er kapelluhóllinn sem stendur eins og illa gerður hlutur í sköfnu og sléttuðu hrauninu. Á þessum hól stendur húslaga rúst sem er um 2m x 2,2m í ummál og opnast til vesturs eins og kirkja. Þetta eru taldar vera leifar kapellu heilagrar Barböru. Kristján Eldjárn þjóðminjavörður fann lítið leirlíkneski heilagrar Barböru við fornleifauppgröft í kapellunni árið 1950 og hefur hún verið friðlýst síðan 1955.
Alfaraleidin-29Frá kapellunni lá slóðin til suðvesturs nokkru sunnan við skúrbyggingu sem er nærri vesturbrún Kapelluhrauns. Farið er sunnan við hrauntappa sem enn stendur uppúr berangrinu og niður af Brunanum um Brunaskarð vestra, sem ekki sést móta fyrir lengur, en þar birtist Alfararleiðin á nýjan leik sunnan við Gerðið. Liggur nú leiðin að suðurenda Gerðis- og Þorbjarnarstaðatjarna. Syðst í Þorbjarnarstaðatjörn er fallega hlaðinn hringlaga brunnur þar sem íbúar Þorbjarnarstaða sóttu  drykkjarvatn um aldir. Út í tjörnina liggur upphlaðið spor í framhaldi af Brunngötunni sem hefst við traðarhlið Þorbjarnarstaða. Á þessum stað er tjörnin réttilega kölluð Brunntjörn, ein margra slíkra sem finna má í Hraunum og allar með samskonar nafn. Fram undan hrauninu seytlar fram ferskvatn í suðurjaðri tjarnarinnar þar sem brunnurinn er. Mun vatnið eiga upptök sín í Undihlíðum og Kaldárbotnum.
Alfaraleidin-30Alfaraleiðin liggur sunnan tjarnarinnar framhjá myndarlegum hraunhólum sem nefnast Hólar. Þar sem fyrrum stóð varða, en hún var rifin í byrjun 20. aldar. Farið er yfir Stekkagötuna sem liggur með austurtúngarð Þorbjarnarstaða í áttina að Stekknum undir Stekkahæðinni eystri, einnig nefnd Hádegishæð enda eyktarmarki frá Gerðinu, en þar var Hádegisvarða.
Liggur Stekkagatan framhjá Stekknum og Stekkahæð vestri, suður með Hólunum yfir í Selhraun og áfram suður í Straumssel. Alfararleiðin er mjög greinileg þar sem farið er yfir Stekkagötuna og stefnan tekin á Miðmundarhæðarvörðu sem stendur á háum klapparhól Miðmundarhæð. Vestan hæðarinnar er þvergata sem nefnist Hraungata eða Hraunavegur, sem er ennfremur hluti Straumsgötu sem liggur frá Hraunabæjunum um skarð áleiðis að Skotbyrginu sunnan þess, áfram suður í Grenigjár og þaðan suður í Katla og Straumssel. Hraungatan liggur um skarð sem blasir við á vinstri hönd í suðurátt. Vestan skarðsins er lítil varða og vörðulagaður steinn austan þess.
Alfaraleidin-36Enn vestar er önnur varða, nokkuð stærri sem vísar á Mosastíginn. Alfaraleiðinni er fylgt til vestur en hún er mjög greinileg á þessum slóðum. Þegar lengra er komið verður gatan krókótt þar sem hún þræðist um skorninga á milli hraunstrauma. Þessi kafli nefnist Draugadalir og vestar eru Þrengslin. Á móts við miðja Draugadali er áberandi varða á vinstri hönd.  Þegar komið er vestur úr Þrengslum ber þriðju vörðuna við himinn. Framundan er Gvendarbrunnshæð og er stefnan tekin á hana. Slóðanum er fylgt, þar sem hann liggur um þrjá metra frá hæðinni, þar til komið er að sléttri grasi gróinni klöpp með holu í miðjunni. Þetta er Gvendarbrunnur sem aldrei þrýtur. Brunnurinn er á mörkum tveggja jarða, því um hann miðjan eru landamerki milli Óttarsstaða og Straums. Hér er gott að staldra við um stund og hvílast rétt eins og gert hefur verið öldum saman. Gott skjól er í nálægu fjárskjóli, Óttarsstaðahelli, fyrir flestum veðrum ef á þarf að halda.

Alfaraleidin-32

Þegar förinni er haldið áfram eftir slóðinni til vesturs er innan skamms komið að enn einni hliðargötunni sem sker Alfaraleiðina. Litlar vörður á sitthvora hönd sem vísa á Skógargötuna eða Rauðamelsstíg sem lá frá bænum Óttarsstöðum í norðri, milli Rauðamelanna sem nú eru horfnir. Þar sem þessi áberandi kennileiti voru áður er djúpur gígur í jörðina sem sker gamla Keflavíkurveginn í sundur. Hefur jarðvatn náð að mynda tjörn í botni námunnar sem nefnist Rauðamelstjörn. Skógargatan hét áður Óttarsstaðaselsstígur því hún liggur yfir Seljahraun og Mjósund um hlaðið á Óttarsstaðaseli og þaðan áfram suður að Hrúthólma yfir á Krýsuvíkurleið nærri Sveifluhálsi.
Alfaraleiðin er skýrt mörkuð í hraunið og stefnt er á krókóttar hrauntraðir, sem eru minni í sniðum en Draugadalir. Þegar komið er út úr þeim  blasa Löngubrekkur við á hægri hönd, grasi og kjarri vaxnar brekkur sem eru syðst í allmikilli hraunhæð, Smalaskálahæð. Brekkurnar eru áberandi í landslaginu og mynda hraunvegg. Efst í suðurhluta hæðarinnar Alfaraleidin-33er löng og mikil sprunga, Löngubrekkugjá einnig nefnd Hrafnagjá því þar verpur hrafninn jafnan á vorin. Þegar komið er vestur fyrir þessa hæð liggur hliðarleið til norðurs í áttina að Kristrúnarborg eða Óttarsstaðaborg sem blasir við við á hægri hönd. Þetta er falleg lítil fjárborg sem Kristrún Sveinsdóttir húsfreyja á Óttarsstöðum hlóð ásamt vinnumanni sínum um 1865-70. Vert er að staldra við og skoða Smalaskálahæð nánar. Ástæðan fyrir hinni miklu Löngubrekkugjá skýrist þegar gengið er fram á djúpt jarðfall vestast í hæðinn, sem nefnist Smalaskálaker. Á botni þess er gjallhaugur þar sem myndlistarmaðurinn Hreinn Friðfinnsson, félagi í SÚM hópnum, reisti lítið hús árið 1974, sem nú er horfið. Húsið kallaðist Slunkaríki og tengist Sóloni sem bjó á Ísafirði snemma á 20. öld. Hann var sérkennilegur fyrir margra hluta sakir, en einkum vegna þess að hann byggði hús á röngunni. Sólon lét bárujárnið snúa inn og veggfóðrið út eins Þorbergur Þórðarson lýsir í bók sinni Íslenskum aðli. 

Gvendarbrunnur-21

Ef Alfaraleiðinni er fylgt áfram þar sem vikið var af henni við Smalaskálahæð, þá er framundan stakur hraunhóll sem minnir á höfuðfat. Farið er framhjá þessum hól á nokkuð greinilegum slóða og má sjá vörðubrot á stöku stað. Leiðin verður brátt óglögg vegna gróðurs og þessvegna getur verið erfitt að fylgja henni, enda sjást ekki mörg kennileiti sem hægt er að styðjast við. Haldið er áfram þar til fer að halla til vestnorðvesturs og lækkar þá landið smám saman. Á vinstri hönd má sjá Taglhæð, nokkuð sérstakan hraunhól, síðan er tiltölulega slétt hraun sem nefnist Sprengilendi.

Alfaraleid-4

Framundan er hæðótt hraunlandslag með einstökum vörðum sem hverfa síðan alveg þegar nær dregur Reykjanesbrautinni. Virkishólar eru sunnan Alfaraleiðarinnar sem stefnir nú að Hvassahrauni. Gatan sést mjög vel áður en komið er að undirgöngunum. Skynsamlegt er að fara í gegnum göngin undir Reykjanesbraut og stefna eftir gamla Keflavíkurveginum að Hvassahraunsrétt. Ofan hennar sést gatan enn mjög vel. Þegar þangað er komið hættir þessi þjóðleið að kallast Alfararleið og heitir eftir það Almenningsleið. Þeirri leið verður ekki lýst nánar, en hún liggur nærri sjónum framhjá Kúagerði, nokkurn vegin með veginum út á Vatnsleysuströnd, um Voga og Vogastapa og Innri Njarðvik, Fitjar, Ytri Njarðvík til Keflavíkur og þaðan suður í Sandgerði.
Kaflinn frá Hamarskotslæk í Hafnarfirði að Stekknum ofan Þorbjarnarstaða er 6.2 km.
Gangan tók 2 klst og 2 mín. Frábært veður.

Heimildir m.a.:
-hraunavinir.net

Hvaleyri

Hvaleyri við Hafnarfjörð.

Eldborg

Ætlunin var að ganga spölkorn eftir hinni gömlu og djúpt mörkuðu þjóðleið er lá eftir endilöngum Reykjanesskaganum um Mosa og framhjá Eldborg undir Trölladyngju. Skammt frá götunni leyndist m.a. skjól með mannvistarleifum (fyrirhleðslu) og e.t.v. einhverju fleira.

Hálsagötur - djúpt markaðar

Sesselja Guðmundsdóttir frá Brekku undir Vogastapa (Kvíguvogastapa) er mannakvenna fróðust um uppland Vatnsleysustrandar-hrepps. Fróðleikur hennar hefur m.a. birst í bók hennar „Örnefni og göngurleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi“ (1995), sem löngu er uppseld, en hefur nú verið endurútgefin (2007). Hún hefur m.a. skoðað Hálsagöturnar, þjóðleið til og frá Grindavík fyrr á öldum, sem og mögulegan „Selsvallaveg“ er gæti hafa verið hluti þeirra. Hún sendi eftirfarandi:
Í fundargerð sýslunefndar Gullbringusýslu frá árinu 1898 er beint spurningu til sýslumanns, hvort sýslunefndinni beri að halda við Selsvallavegi. Á þessum tíma voru nýleg lög um vegi og þeir skilgreindir í þeim eftir mikilvægi.  Þarna virðist eitthvað óljóst hver beri ábyrgð á Selsvallavegi, og Báruskjól í Eldborgarhraunieða hvort Landssjóður eigi að kosta hann.
Líklega er þarna um að ræða Hálsagötur sem Bj. Sæm. (1867-1940) kallar svo. Í Árbók FÍ. 1936 skrifar Bjarni:  ‘’Úr Víkinni [Grindavík] er farið’’ inn’’ í eða ‘’upp’’ í Fjall: Móhálsa …’’  ‘’… Af Krísuvíkurveginum er önnur leið ‘’inn í Fjall’’; er þá farið t.v. út af honum í Litla-Leirdal, inn með Bratthálsi, um Einihlíðasund, upp með Sandfelli sunnanverðu, yfir Skolahraun, yfir að Vesturhálsinum, og ’’ inn’’ Þrengslin, inn á Selsvelli. Þaðan má svo halda áfram inn með hálsinum, inn á Höskuldarvelli, undir Trölladyngju, fram hjá hinum lágvöxnu Lambafelllum, niður Dyngnahraun, og Almenning, niður á þjóðveginn nálægt Straum, eða fara niður hjá Keili, niður með Afstapahrauni á þjóðveginn innan við Vatnsleysu..’’  Þarna er Bjarni að fjalla um vegi um aldamótin og þá nálægt ártalinu úr sýlsunefndarfundargerðinni um Selsvallaveg.
Hér fjallar Bjarni um götu inn á Þrengslin og þá ruddu götuna sem er frekar nær Hraunsseli en Selsvallaseli en ekki þá með hófförunum sem vísar til Selsvallaselja. Spurning hvað hluti götunnar hefur verið kallaður Selsvallavegur?  Samkv. neðanverðum sýsluskjölum  er Selsvallavegur ekki þjóðvegur árið 1866 en einvher vafi um hann sem slíka árið 1898!  Reyndar skrýtið að enginn þjóðvegur er til frá Grindavík og inn úr samkv. þessu!  Virðist hafa gleymst!“
Hálsagötur - unnar að hlutaHálsagötur virðast hafa legið með Dyngjum og yfir Bergshálsinn en ekki með Oddafellinu við Hverinn eina. Og þá var ekki um annað að ræða en að halda enn og aftur af stað.
Gengið var frá Eldborg undir Trölladyngju eftir götu er gæti vel hafa verið hluti af fyrrgreindri Hálsagötuleið. Þegar komið var að Lambafellinu norðaustanverðu sást gatan þar sem hún liggur inn í hraunið til norðausturs. Þar virðist gatan hafa verið unnin á stuttum kafla, líklega með það fyrir augum að gera hana akfæra. Skammt austar eru gatnamót; annars vegar götu er liggur upp að norðanverðu Fíflvallafjalli og hins vegar þeirri götu er gengið hafði verið inn á. Gatamótin gætu verið tilkominn vegna sameiginlegra hagsmuna, en ekki einungis vegna þess að þarna hafi menn viljað geta beygt til öndverðra átta. Menn, sem komu frá Grindavík, höfðu t.a.m. engan hag af því að að beygja til hægri og feta götuna þaðan til Krýsuvíkur. Krýsvíkingar höfðu að sama skapi engan hag af því að fara þessa leið til Grindavíkur. Þarna fóru því annars vegar menn á leið til og frá Grindavík og hins vegar menn til og frá Krýsuvík um Hraunin og vestan þeirra.
Í leiðinni var skyggnst eftir „Báruskúta“ í Eldborgarhrauni austan Afstapahrauns, milli þess og Mosa. Hann kom fljótlega í ljós í hrauninu skammt ofan við Mosana. Fyrir skúta eru manngerð hleðsla. Þarna gætu refaskyttur eða hreindýraeftirförumenn hafa legið fyrrum.
Þá var komið niður á Mosana. Að þessu sinni var haldið til norðurs með vestanverðri hraunröndinni, inn fyrir Klöppuð HálsagataBöggukletta, að þeim stað er gatan er hvað mörkuðust í hraunklöppina norðan þeirrra. Ljóst er að þarna hefur verið mikið umferð um aldir.
Í bakaleiðinni var komið við í Bögguklettum. Um er að ræða einstaka klettastanda þars em sjá má hvernig nýrra hraun hefur runnið þunnfljótandi úr nýrra gosi yfir eldra hraun og smurt sig upp á sprungna klettarhæðaveggina. Síðan hefur hrauneðjan sjatnað og skilið eftir þunna skán á eldra berginu, sem enn má berja augum.
Þegar beinni götu hafði verið fylgt til baka yfir Mosana og upp á Eldborgarhraunið á nýjan leik, komu í ljós gatnamót nokkru norðan Lambafellsins. Sú gata var fetuð upp að ofanverðum hlíðum suðvestan Einihlíða. Gatan er mjög slétt og greiðfær á kafla, en torfærari annars staðar. Líklega er hér um að ræða „stytting“ kunnugra er leið áttu til og frá Krýsuvík til Hrauna vestan Garðahrepps (Hafnarfjarðar) og áður hefur verið lýst. Reikna má með að enn ein gatan geti leynst nokkru norðar og nær Einihlíðum, en góð og greinileg gata er austan þeirra. Liggur sú gata að Búðarvatnsstæðinu.
Í hraunum Reykjanesskagans eru mikil gatnakerfi frá liðnum öldum.
Gangan tók 4 klst og 4 mín. Frábært veður.

Heimild m.a.:
-Þjóðskjalasafn Íslands. Sýsluskjöl Gullbr.sýslu. Vatnsleysustr.hr. Hreppsskjöl II. Þjóðvegir 1862-1870. (SG).

Bögguklettar

Bögguklettar.

 

 

 

 

Eiríksvegur

Eftirfarandi lýsing á leiðinni milli Reykjavíkur og Voga birtist frá vegfarenda í Ísafold árið 1890 undir fyrirsögninni „Sýsluvegurinn frá Reykjavík suður að Vogastapa“. Nefnir hann „Eiríksveginn“ svonefnda á Vatnsleysu- og Flekkuvíkurheiði „Vatnsleysuheiðarbrú“ eða „Svívirðinginn“ öðru nafni.
Alfaraleiðin vestan Kapelluhrauns„Ég las um daginn í Ísafold um póstveginn í Árnessýslu; og datt mér þá í hug, að einnig mætti rita fáein orð um sýsluveginn frá Reykjavík suður í sýsluna. Ég ætla þá að fara úr Reykjavík suður eftir, og geta um ýmislegt, sem fyrir augun ber, hvað veginn snertir.
Þegar maður kemur niður í Fossvog, verða fyrir manni rásirnar þar. Þær eru að vísu þannig á sumrum, að fáum ókunnugum mundi til hugar koma, að við þær væri neitt að athuga; en á vetrum í leysingum verða þær lítt færar eða stundum ófærar.
Þá kemur Fossvogslækur, lækur þessi, sem er á sumrum ekki nema ofurlítil spræna, verður stundum á vetrum svo, að naumast verður yfir hann komist, og það ber við, að hann verður með öllu ófær.
Vegurinn upp Kópavogsháls er óhæfilega brattur, lítt fær með vagn, en vagnvegur á vegurinn milli Rvíkur og Hafnarfjarðar að verða úr þessu. Með því að sneiða hálsins lítið eitt utar, má fá hann mjög hallalítinn.
Þegar kemur suður að Kópavogi, kemur ein torfæran, þótt stutt sé; hún er rétt við landnorðurhornið á túngarðinum í Kópavogi; þar eru götutroðningar, djúpir mjög, og verður þar á vetrum kafhlaup, þegar snjóþyngsli eru. Þá kemur brúin yfir Kópavogslæk. Að henni er mesta vegarbót, og er furða, að hún skyldi ekki vera á komin fyrir mörgum tugum ára; en trén í henni eru mikils til of veik; brúin skelfur undan gangandi manni, hvað þá heldur þegar hún er riðin.
Þá er nú úr því brýr yfir lækina, og vegur all góður þangað til kemur suður í Hafnarfjörð.
AlfaraleiðinÞar er vegurinn lagður yfir Hamarinn hér um bil þar sem hann er brattastur; en auk þess er vegur þessi óruddur, ekkert í hann borið, og er hann fullur af lausu grjóti, og má það kallast hættulegt að ríða hann ofan að norðanverðu; í sunnanverðum Hamrinum neðst er sjórinn búinn að taka burtu hleðsluna úr veginum, og er honum því einnig hætta búin úr þeirri átt. Svo er þess að gæta, að rétt við endann á veginum er skipa-uppsátur þeirra manna, er búa þar í grennd. Af því, að sjórinn gengur þar rétt upp að veginum, standa skipin svo hátt, að ókunnugum mönnum, sem í myrkri fara um veginn, getur verið af þeim hætta búin; skipa-uppsátur er ekkert annað til þar í grennd.
Svo kemur nú suður undir Flensborg. Þar standa þilskip, og liggja járnkeðjur af þeim yfir þveran veginn, og er furða, að ekki skuli oft hafa hlotist slys af þeim. En þess ber að geta, að þar er enginn vegur lagður, nema hvað hrossin hafa unnið þar að vegavinnu. Flensborgarskóli á þar lóðina, sem skipin standa á, og leigir þar uppsátrið, og tekur 10 kr. fyrir hvert skip yfir veturinn. Ef skipin mega ekki hafa þar landfestar, þá er ekki til neins að ljá manni uppsátur; hafa þar að undanförnu legið 4 skip á vetrum; gjaldið eftir þau eru þá 40 kr., eður sama sem að skólaeignin sé 1000 kr. meira virði en ella. Eitt af tvennu er: annaðhvort verður að banna að hafa þar skipauppsátur, eða að leggja veginn annarsstaðar.
En látum oss halda lengra.
Um stórstraumsflóð flæðir alveg upp undir túngarðinn í Flensborg, og verða menn þá að ríða sjóinn fram með garðinum, oft talsvert djúpt, og auk þess er þar mjög grýtt, svo að þar er mjög illt yfirferðar.

Almenningsvegur

En þá tekur ekki betra við, þegar Ásbúðarmegin kemur; þar er hár bakki, sem upp verður að klöngrast; vinnist sú þraut, þá tekur við dý, sem hver hestur liggur í.
Þegar búið er að draga þá upp úr því, er haldið suður Hvaleyrarholt. Þetta holt hefur ekki verið rutt í ár, og er það mjög seinfarið. En þegar kemur suður fyrir sandskörðin sunnanvert við Hvaleyrartjörn, þá liggur vegurinn svo lágt, að þar flóir yfir í stórstraumum.
Svo koma nú Hraunin, þ. e. Gráhelluhraun, Kapelluhraun, Almenningur og Afstapahraun. Um veginn gegnum þau ætla ég ekki að tala; hann er alkunnur, og líklega ekki þeirrar núlifandi kynslóðar meðfæri að bæta hann svo, að nokkru nemi; þó ætti það að vera vinnandi vegur, að ryðja veginn gegnum þau árlega; þegar það er gjört, er þó ólíku betra að fara yfir þau, heldur en þegar vegurinn er fullur af lausu grjóti og steinvölum.

Vatnsleysuheiðarbrú

Þegar Hraununum sleppir, kemur Vatnsleysuheiði. Yfir hana mestalla hefir verið lagður upphækkaður vegur, en hann er nú orðinn því nær ófarandi, og miklum mun verri en gamli vegurinn var. Þessi upphækkaði vegur er í daglegu tal oft kallaður Vatnleysu(heiðar)brú, en af sumum „Svívirðingin“, og þykir bera það nafn með rentu; það er sama smiðs-markið á henni og Svínahraunsveginum gamla, og þarf þá ekki lengra til að jafna.
Þessi upphækkaði vegur stefnir frá Kúagerði til Kálfatjarnar, og er honum sleppir, þá tekur við hinn gamli vegur suður með bæjunum á Vatnsleysuströnd; þessi gamli vegur er allgóður á sumrum, enda er hann oftast vel ruddur; en á vorum og haustum, þegar bleyta og leysingar eru, er hann mjög illur yfirferðar, liggur sá vegur allt suður að Vogastapa og lengra ætla ég ekki að fara að sinni.
Hvað skal nú gjöra við þennan veg? Eins og er, er illa við hann unandi.
Ég skal leyfa mér að láta í ljósi skoðun mína um það; það fara svo margir þennan veg, að vonandi er, að einhverjir fleiri en ég skýri frá, hvernig þeir álíti þessu best í lag hrundið.
Í Fossvogi má ef til vill leggja veginn fyrir ofan rásirnar allar, nema hina syðstu; hana þarf að brúa.
Fossvogslæk ber brýna nauðsyn til að brúa, og það sem allra fyrst, og væri það lítill kostnaður.
AlmenningsvegurGötutroðningana við Kópavogstún verður að brúa, og viðrist það auðgjört.
Kópavogslækjarbrúna þarf að athuga; það er of seint að gjöra það eftir að slys er búið að ljótast af því, hversu veikgjörð hún er. Í öllu falli væri nauðsynlegt að láta áreiðanlega menn, sem vita hafa á því, dæma um það, hvort henni sé treystandi eins og hún er.
Veginn yfir Hamarinn í Hafnarfirði, þar sem hann er, ætti alveg að leggja niður. Þar sem hann liggur upp Hamarinn, er mikils til of bratt; það er ógjörningur, og líklega heldur engin lagaheimild til, að vísa mönnum burtu með skip sín, sem uppsátur hafa rétt fyrir sunnan Hamarinn, en skipa-uppsátur þar og vegur geta ekki samrýmst. Sama er að segja um þilskipa-uppsátrið hjá Flensborg; annaðhvort er, að banna skólanum að hafa þar uppsátur, eða að leggja af sýsluveginn þar fram hjá. Og þegar þess er gætt, að vegurinn þar er afar-illa lagður, þ. e. undirorpinn sjávargangi, og menn verða að sæta sjávarföllum til að komast hann, þá virðist lítil eftirsjón í honum þar sem hann er.
En hvar ætti þá að leggja hann?
Hann ætti að leggjast sunnar upp Hamarinn en nú er, fyrir ofan bæinn „á Hamri“ neðan til í Jófríðarstaðaholti, fyrir sunnan Ásbúð og svo suður Hvaleyrarholt hér um bil beina stefnu á Hjörskot. Það, sem ynnist við að leggja veginn þannig, hjá því sem nú er, mundi verða: vegurinn upp Hamarinn yrði ekki eins brattur, hann yrði ekki undirorpinn sjávargangi; vegfarendum yrði engin hætta búin af bátum, sem nú standa því nær yfir þveran veginn; skólaeigninni í Flensborg yrði ekki meinað að hafa þann hag af þilskipa-uppsátri, sem hingað til hefir oftast samsvarað vöxtum af 1000 krónum; menn kæmust hjá hinni afarillu torfæru hjá Ásbúð, og um stórstraumsflóð þyrfti ekki að klifra upp sandskörðin hjá Hvaleyri.

Reiðskarð

Veginn suður Hraunin ætti sannarlega að ryðja á hverju ári; minna má það ekki vera; hann er full-illur samt.
Af hinum upphækkaða vegi suður Strandarheiði (eða Vatnsleysu-heiði), þar sem hann nú er, ætti sýslunefndin alls ekki að skipta sér. Sá vegur liggur vestur Ströndina, og ef menn ætla t. a. m. suður í Voga eða þaðan af lengra, þá er það sá afarkrókur, að ríða niður á Ströndina, að ég er viss um, að það nemur fullum þriðjungi, móti því að fara beint úr Kúagerði á Reiðskarð (upp Vogastapa). Strandarmenn mundu þá halda við gamla veginum sem hreppsvegi. En eigi að halda við hinum gamla vegi sem sýsluvegi, þá mundi sú aðgjörð, sem hann þarfnast, ef hann á að geta kallast viðunanlegur, dragast að verðinu til hátt upp í það, sem nýr vegur, beint frá Kúagerði á Reiðskarð, mundi kosta.
Sumir berja því við, að með slíku fyrirkomulagi þyrfti svo víða að leggja vegi frá Ströndinni upp á sýsluveginn. Þetta fæ ég ekki séð að sé nauðsynlegt. Sá, sem ætlar að koma við á Ströndinni, ríður hreppsveginn; en ætli maður beint frá Kúagerði suður, án þess að eiga erindi á Ströndina, þá fer maður sýsluveginn.
Ritað á Fidesmessu 1890.“

Heimild:
-Ísafold, 11. okt. 1890, 17. árg., 82. tbl., forsíða: Sýsluvegurinn frá Reykjavík suður að Vogastapa.
http://www.vegagerdin.is/um-vegagerdina/sagan/sogulegar-upplysingar/1890/nr/249

Eiríksvegur

Eiríksvegur.

Kúagerði

Þeir, sem fara um Reykjanesbrautina, veita gjarnan reglulega hlaðinni vörðu athygli þar sem hún stendur við Vatnsleysuvíkina ofan við Kúagerði, norðan brautarinnar.

Kúagerði

Varðan í Kúagerði.

Varða þessi var hlaðin að frumkvæði Áhugahóps um bætta umferðarmenningu í byrjun sumars 1990 til minningar um þá sem látist höfðu eða slasast alvarlega í umferðinni á Reykjanesbrautinni. Þessi kafli brautarinnar hafði sérstaklega háa slysatíðni og þess vegna var ákveðið að hlaða vörðuna þarna – bæði til minningar um þá látnu og jafnframt öðrum vegfarendum til áminningar um að fara gætilega. Það var hleðslumaður úr Hafnarfirði, sem hlóð mannvirkið, fyrir lítið.
Í Kúagerði voru fyrrum tveir bæir, að talið er, Kúagerði og Akurgerði. Síðarnefndi bærinn fór undir hraun er Afstapahraunið nýrra rann frá Trölladyngjusvæðinu og niður í víkina á 12. öld. Sá fyrrnefndi var þarna einungis um skamman tíma.
Gróinn hóll er skammt utar með ströndinni, ofan við víkina. Nefnist hann Fagurhóll og Akurgerðisbakkar innan hans. Almenningsvegurinn gamli lá þarna um Kúagerði og sést reyndar enn ef vel er að gáð.
Kúagerði var frægur áningarstaður áður, gott vatn í tjörninni og nógir hagar í kring.

Heimild:
-Ragnheiður Davíðsdóttir – meðlimur í ÁBU.

Kúagerði

Kúagerði.

Gjásel

Haldið var inn á og upp Vogaheiði með það fyrir augum að skoða og rissa upp selin, sem þar eru sunnan Knarrarnessels.

Brunnastaðasel

Brunnastaðasel – uppdráttur ÓSÁ.

Nýjaselsballi (af sumum í seinni tíð nefndur Níelsbjalli) liggur út úr efstu tveimur Snorrastaðatjörnunum til norðurs. Bjallinn er nokkuð langt grágrýtisholt, sem sker sig svolítið úr umhverfinu, og því í rauninni ekki eiginlegur bjalli. Hann dregur nafn sitt af litlu seli, sem staðið hefur rétt norðaustan við bjallann. Þar eru tóftir af Nýjaseli og kúra þær í lægð undir lágum gjárvegg, sem snýr til norðurs. Þegar farið er um Skógfellaveginn er selstæðið skammt austan við götuna. Á efri gjárbarminum þarna rétt við selið eru þrjár „hundaþúfur“ með stuttu millibili. Selið hefur tilheyrt bændum í Vogum og líklega byggst eftir að selstaða lagðist af ofar í heiðinni eða þá að þarna hafi eingöngu verið kúasel. Rétt norður af selinu eru grasgefnir hólar, sem gætu heitið Selhólar, en heimildir eru til um það örnefni á þessum slóðum.
Í Nýjaseli eru þrjár tóftir. Miðtófin er þremur rýmum og er sennilega hluti hennar stekkur eða kví. Tóftirnar sunnan og norðan við hana eru eitt rými hvor, nokkurn veginn jafn stórar. Þarna eru því dæmigerðar selstóftir frá fyrri tíð. Þær eru fremur litlar, en á skjólgóðum stað undir lágum hamrabakkanum, ekki svo langt frá norðurenda Snorrastaðatjarna. Aðskildar tóftirnar, og hversu lítil húsin eru, benda til þess að þara hafi verið kúasel, sem fyrr segir.
Snorrastaðasel er norðvestan tjarnanna. Ein heimild er til um selið sem segir að það hafi verið frá bæjum í Vogum. Í því eru einnig þrjár kofatóftir. Selið er einnig nálægt byggð og við vatn er bendir til að í þeim hafi eingöngu verið hafðar kýr. Tóftirnar voru ekki heimsóttar að þessu sinni, en verða rissaðar upp fljótlega.
Huldugjá er næsta gjá ofan við Nýjaselsbjalla. Huldur nefnast svæðið milli Hrafnagjár, sem er næst Reykjanesbrautinni að ofanverðu, og Huldugjár. Tvær skýringar hafa verið gefnar á nafninu. Önnur er sú að vegna þess að Huldur er jarðsig milli Hrafnagjár og Huldugjár (gjáveggirnir snúa andspænis hvor öðrum) er allt á „huldu“ um það sem fjær er, Hitt er þó líklegra að nafnið Huldur komi til af því að austast á svæðinu eru margar litlar, en djúpar sprungur, sem geta verið varasamar ef snjór liggur yfir og því er unnt að tala um „huldar hættur“ á þessum slóðum.
Á Huldugjárbarmi er Pétursborg, fyrrum sauðabyrgi frá Tumakoti í Vogum, nefnt eftir Pétri Andréssyni, bónda þar (1839-1904), en hann er sagður hafa hlaðið borgina. Hún er sporöskjulöguð og austurveggurinn er hrauninn að mestu. Lengd borgarinnar er 6-7 m, breidd 4-5 m, veggþykkt um 50 cm, hæð um 180 cm og dyr snúa í suðaustur. Við Pétursborg að austanverðu eru tvær gamlar fjárhústóftir og ein nokkuð nýrri aðeins ofar.

Gjásel

Gjásel – uppdráttur ÓSÁ.

Fjárhústóftirnar eru enn nokkuð greinilegar. Grjót hefur verið í útveggjum og sést það vel ó tóftunum. Hleðslurnar gefa vel stærð húsanna til kynna sem og legu þeirra. Efsta tóftin er ofan við borgina og snýr dyraopi til suðausturs. Austasta tóftin snýr dyraopi til suðvesturs og miðtóftin, milli hennar og borgarinnar, virðist hafa snúið dyrum til suðausturs. Allnokkur gróðureyðing er þarna, en tóftarsvæðið hefur haldið sér nokkurn veginn vegna tóftanna.

Norðaustur og upp af Pétursborg, en rétt neðan Litlu-Aragjár, er Hólasel eða Hólssel á milli þriggja hóla. Þar eru nokkuð heillegar hleðslur á grasbletti og einnig þvert á sprungu, sem liggur gegnum einn hólinn. Þarna hefur ólíklega verið sel, enda engar húsarústir sjáanlegar – eða hvað?
Ef vel er að gáð má sjá að þarna gæti hafa verið selstaða um skamman tíma. Hleðslurnar benda til stekks og að öllum líkindum hefur sprungan verið notuð sem skjól, hlaðið til endana og reft yfir. Ólíklegt má telja að selið hafi verið notað um langt skeið.
Næsta gjá fyrir ofan Litlu-Aragjá er Stóra-Aragjá. Þarna er bergveggurinn hæstur. Nefnist hann Arahnúkur. Hann sést vel af Vogastapa og víðar. Undir Arahnúk er Arahnúkssel eða Arasel. Í Jarðabók 1703 er ekki getið um þetta sel, en það kom fyrir að selstaða var færð neðar í heiðina eftir því sem vatnið minnkaði og gróðrinn eyddist.
Arahnúkaselstæðið er fallegt og grösugt í góðu skjóli við gjárvegginn. Þar má sjá tíu kofatóftir ásamt kví. Sagt er að bletturinn hafi síðast verið sleginn árið 1917. Ekkert vatnsból finnst við selið og líklega hefur vatn verið sótt í Snorrastaðatjarnir. Stór varða er á gjárbarminum skammt sunnan við selið og önnur minni (og nýrri) skammt austar.
Tóftirnar geyma fimm hús með átta til tíu kofa tóftum, sem fyrr segir. Kvíin, eða öllu heldur stekkur er undir hamraveggnum skammt suðvestan við tóftaþyrpinguna, sem er nokkurn veginn í beina línu undir veggnum. Eitt húsanna, tvískipt, stendur þá framar, lengra frá veggnum. Af ummerkjum að dæma virðast þrjár selstöður hafa verið í selinu. Stekkurinn er enda óvenjustór og er líklegt að hann hafi verið samnýttur. Svo er að sjá að þrjú hólf hafi verið í honum, auk safnhólfsins.

Hlöðunessel

Hlöðunessel – uppdráttur ÓSÁ.

Í bergveggnum á Arahnúk er hrafnsóðal og þar er sem uppgangan er á hnúkinn er Araselsgrenið. Svo virðist sem refurinn lifi þar enn góðu lífi því rjúpufiður á á víð og dreif ofan gjárinnar.
Vogheiði heitir svæðið einu nafni ofan Voga allt frá Gamla-Keflavíkurveginum upp úr og inn að landamörkum grannjarðanna. Vogaholtið er hins vegar á austurmörkum þess.
Í því er Jóhannesarvarða, er vestur undir Holtsgjá, aðeins norðan við austur frá Brandsgjá en v-n-v Vogasels. Í raun er Jóhannesarvarða á milli Arahnjúkssels og Vogasels. Varðan stendur hátt utan í litlum, en háum, klapparhól. Það eina sem vitað er um Jóhannesarvörðu er að þar hefði maður orðið úti.
Utan í Vogaholtinu að norðaustanverðu er Gamla-Vogasel eða Gömlu-Vogasel. Þar má sjá þrjár gamalgrónar tóftir og eina nýlega rétt fyrir ofan uppblásna kvos sem heitir Vogaselsdalur. Í Jarðabókinni 1703 segir að þarna hafi Stóru- og Minni-Vogar í seli. Ekkert vatnsból hefur fundist við Gamla-Vogasel. Norður af selinu er Vogaselsdalsgrenið og inn í „dalnum“ eru þrjú greni sem heita Dalsbotnsgrenin.

Tóftirnar á neðra svæðinu, í jaðri Vogaselsdals, sem nú er að verða jarðvegseyðingunni að bráð, mótar fyrir einu húsi með tveimur rýmum, auk þess það þriðja virðist óljóst austan þess. Þarna er greinilega um mjög gamlar tóftir að ræða, enda að mestu orðnar jarðlægar.
Efri tóftirnar, ofar í holtinu til suðausturs, geyma hús á þremur stöðum. Það nyrsta er tvískipt. Miðhúsið er byggt að hluta til í hól og er erfitt að greina útlínur þess svo vel sé. Efsta tóftin er fast undir háum kletti. Mikið er gróið í kringum hana og er ekki ólíklegt að húsið hafi verið stærra, en virðist. Austan efstu tóftarinnar er hlaðinn tvískiptur stekkur og sést lega hans vel.
Norðan við Gamla-Vogasel er Brunnastaðsel undir Brunnastaðaselsgjá. Um 15. mín. gangur er milli seljanna. Á efri gjárbarminum fyrir ofan selið er Brunnastaðaselsvarða. Heimildir eru til um Brunnastaðaselsvatnsstæði ofan ogs unnan selsins, en það hefur ekki fundist enn svo óyggjandi sé.

Nýjasel

Nýjasel – uppdráttur ÓSÁ.

Selstæðið er stórt og fallegt, snýr í norðvestur, og blasir við af Reykjanesbrautinni þegar ekið er um Stapann og inn úr (frá Reykjanesbæ til Voga). Af seljunum í heiðinni er Brunnastaðasel fjærst bygðinni. Upp undir gjánni eru nokkrar gamalgrónar tóftir, en aðeins norðar og neðar á grasblettinum eru tvær til þrjár nýrri. Í þröngri gjánni er lítil kví, óskemmd með öllu og hafa gjárveggirnir verið notaðir sem aðhald þegar ærnar voru reknar inn á mjaltartíma.
Tóftirnar undir hlíðinni, næst gjánni geyma þrjú hús. Tvö þeirra eru tvískipt og virðist kví vera við suðurenda þess efra. Milli þessara húsa er hús með einu rými. Vestan vestasta hússins er stekkur. Ytri tóftirnar eru tvískipt hús og þriðja rýmið er hlaðið reglulega úr grjóti aftan (norðan) við húsið. Lítill hóll er norðaustan við tóftirnar og er hlaðið gerði eða kví vestan undir honum, í skjóli fyrir austanáttinni.
Enn má sjá talsvert grjót í innveggjum húsanna í Brunnastaðaseli. Veggir standa yfirleitt vel og eru u.þ.b. 120 cm á hæð. Kvíin í gjánni er heilleg og hefur varðveist vel.
Brunnastaðaselsstígur lá frá bæ í selið. Milli Brunnastaðasels og Gamla-Vogasels er Markhóll, sem skiptir löndum Brunnastaða og Voga. Um tvo hóla er að ræða. Sennilega er sá efri (með vörðu á) endamörk, en sá neðri hinn eiginlegi Markhóll. Neðan hans er Markhólsgrenið.
Í Brúnum ofan og austan við Brunnastaðasel er Hemphóll eða Hemphólar, en þar áður fyrr áður smalar úr Brunnastaðahverfi um leið og skipt var í leitir. Hemphóllinn er mjög áberandi séður frá Kúagerði og á honum er varða. Heimild frá Grindavík segir hólinn heita Stóruvörðu. Sagt er að prestar Kálfatjarnarsóknar og Staðarsóknar í Grindavík hafi átt sameiginlega hempu og að hún hafi verið sótt á hólinn fyrir messu á hvorum stað og vegna þess sé nafnið Hemphóll tilkomið. Hemphólsvatnsstæðið er lítill mýrarpollur rétt austur af hólnum.

Pétursborg

Pétursborg – uppdráttur ÓSÁ.

Brunnastaðaselsgjá er efsta gjáin, sem eitthvað kveður að í heiðinni og liggur hún í sveig langt inn úr. Nokkuð inn með gjánni frá Brunnastaðaseli og neðan hennar er Hlöðuneskinn, en aðeins ein heimild er til um þetta örnefni (Jarðabókin 1703). Hlöðuneskinn er nokkuð brött brekka eða brekkur, sem liggja frá gjánni til norðurs og eru þar sundurgrafnar af moldargiljum, sem myndast hafa við framrás vatns.
Undir Hlöðuneskinn í lægð mót austri standa leifar Gamla-Hlöðunessels eða Hlöðunessels. Þar eru tvær gamlar tóftir, en túnið er svo til horfið vegna uppblásturs sem er mikil þarna. Í Jarðabókinni 1703 segir að selið í Hlöðuneskinn sé aflagt vegna vatnsskorts. Ekkert vatnsból er sjáanlegt við selið.
Vestari tóftin virðist hafa verið óskipt hús, sem bendir til þess að hún sé mjög gömul. Austan hennar, samsíða, er tvískiptur stekkur, nokkuð stór.
Enn má sjá móta fyrir grjóthleðslum þátt þær séu nú vel grónar og næstum jarðlægar, líkt og húsatóftin.
Neðan af Vatnsleysustrandarheiði sést vel til Gjásels, austan og sunnan við Knarrarnessel. Síðarnefnda selið er ofan við Klifgjá, en hið fyrrnefnda kúrir undir næstu gjá fyrir ofan Klifgjá, stundum nefnd Gjárselsgjá. Óvíst er frá hvaða bæ haft var í seli þarna því selstæðið er sagt í eða alveg við austurmörk Brunnastaðasels.

Vogasel

Vogasel – uppdráttur ÓSÁ.

Gjásel er ekki nefnt í Jarðabókinni 1703 og virðast tóftirnar þar vera með þeim yngstu í heiðinni. Heimildir nefna bæði Hlöðunesmenn og Brunnastaðamenn, en líklega hafa Hlöðunesmenn haft þarna í seli því árið 1703 er selstaða þeirra ofar í heiðinni aflögð vegna uppblásturs, en Brunnastaðir höfðu þá enn nothæfa selstöðu.
Tóftir húsanna standa þétt hlið við hlið í beinni röð undir gjárveggnum, sem bendir til þess að nokkrir bæir hafi haft þarna í seli. Heimildir geta um gott og mikið vatn í gjánni við Gjásel og sagt er að vatnið hafi bunað út úr berginu, en jarðskjálftar á fyrri hluta síðustu aldar hafi eytt þessum eina „fossi“ í hreppnum. Ein heikmild telur líklegt að selin umhverfis Gjásel hafi haft afnot af vatnsbólinu þar en áður fyrr hefur líklega verið vatnsstæði við hvert sel eða tiltölulega stutt frá þeim þó svo þau séu svo til vatnslaus nú.

Um er að ræða fjögur hús í selinu og stekk skammt sunnar. Hann er orðinn nokkuð óljós, en tóftirnar hafa varðveist vel. Húsin er öll í einni röð undir gjárveggnum, sem fyrr segir. Nyrsta húsið er utan í þrískiptu húsi. Hin húsin eru tvískipt með nokkuð stórum rýmum (af seljum að vera). Það bendir til þess að þau séu ekki mjög gömul miðað við sum önnur selin í heiðinni.

Arahnúkasel

Arahnúkasel – uppdráttur ÓSÁ.

Sjá má grjót í innveggjum. Vel gróið er í kringum tóftirnar og er selstaðan mjög vel greinileg þegar komið er að henni neðanfrá. Gjáselið er eitt hið fallegasta í heiðinni.
Gjáselsgjá og eins og aðrar gjár í heiðinni opnast þessi og lokast á víxl. Suðvestar er Holtsgjá, sem tengist að einhverju leyti Gjáselsgjá. Frá Gjáseli sést vel yfir til Knarrarnessels norðar í heiðinni.
Nokkurn veg norðvestur frá Arahnúk er Ólafsgjá og Ólafsvarða. Gjáin er í raun sprunga út úr vestasta hluta Klifgjár, en Ólafsgjá er mjög þröng og báðir veggir eru jafnháir landinu í kring. Hún sæist ekki fyrr en komi er að henni ef ekki væri varðan við hana. Um aldamótin 1900 hrapaði Ólafur Þorleifsson, bóndi úr Hlöðuneshverfi, þegar hann var að huga að fé rétt fyrir jól. Mikil leit var gerð að honum, en allt kom fyrir ekki. Árið 1931, eða um 30 árum seinna, fundust svo bein hans í gjánni þegar verið var að sækja kind, sem fallið hafði niður í sprunguna á nákvæmlega sama stað og Ólafur. Um atburðinn er ritað í bókinni Hrakningar og heiðarvegir, 3. bindi, eftir Pálma Hannesson og Jón Eyþórsson.
Í rauninni ætti óvant göngufólk ekki að fara eitt um Vogaheiðina – allra síst að vetrarlagi er snjór þekur jörð – því víða leynast sprungur og djúpar gjár opinberast oft skyndilega framundan, án minnsta fyrirvara. Það er a.m.k. mikilvægt að vera vel vakandi á göngum á þessu svæði. Þarna eru augun mikilvægasta skilningavitið.
Frábært veður. Fuglasöngur í heiði. Gangan tók 3 klst og 33 mín.

Heimild m.a.:
-Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi – SG – 1995.

Brunnastadassel-202

Brunnastaðasel.

 

Knarrarnessel

Knarrarnessel er nokkurn spöl ofan Klifgjár. Þar er flatlendast miðað við önnur selstæði á Vatnsleysustrandarheiðinni (Strandarheiðinni). Selstígurinn er ekki augljós frá Klifgjánni og upp í selið, en hann liggur fast við Knarrarnesselsvatnsstæðið, sem er um 100 metrum neðan og norðan við nyrstu tóftirnar. Þar er oftast vatn enda vatnsstæði þetta með þeim stærstu í heiðinni.

Knarrarnessel

Knarrarnessel.

Selstæðið er stórt með mörgum tóftum. Þar má finna átta slíkar, misjafnlega stórar og margflóknar. Þrjá hlaðna stekki er að sjá í selstöðunni. Fjöldi stekkja benda jafnan til fjölda selja á viðkomandi svæði. Hins vegar má geta þess að stekkir virðast ekki alltaf augljósir. Þannig má ætla að enn einn stekkurinn hafi fylgt austustu tóftunum þremur. Þær eru í grónum krika ofan við hinatr tóftirnar. Sjá má móta fyrir hleðslu milli tveggja húsa, en alls eru rýmin í þeim fimm að tölu. Tvær tóftanna eru nokkuð heillegar og jafnvel sjá hveru stór rýmin hafa verið. Í nyrstu tóftinni mældust innanrýmin 140×280. Það er svipað hlutfall og í öðrum rýmum annarra tófta, ekki einungis í þessu seli heldur og fleirum. Ein tóftin, sú syðsta í vestanverðri selstöðunni, er greinilega stærst umfangs. Hún hefur verið með fleiri rýmum en hinar, líklega einum fjórum, en það er óalgengt í seljum á Reykjanesskaganum, sem jafnan hefur þrjú slík, þ.e. eldhúsið með sérinngangi og búr og svefnaðstöðu með sameiginlegum inngangi.

Knarrarnessel

Knarrarnessel – stekkur.

Því, sem hér er lýst, er einungis ályktun út frá því sem sést á yfirborðinu, en ef grafið yrði í rústirnar gæti ýmislegt annað komið í ljós, s.s. tengsl einstakra rýma innbyrðis. Stekkirnir eru svipaðir að gerð, tvö hólf. Þó má sjá móta fyrir bogadreginni hleðslu við endann á vestasta stekknum. Hlaðin kví er skammt norðan við selstæðið. Líklega höfðu flestir bæir í Knarrarnesshverfi selstöðu þarna og í heimildum er getið um Litla-Knarrarnessel og Ásláksstaðasel á þessum stað. Rétt fyrir ofan selið er nokkuð stór gjá sem snýr bergvegg til sjávar og er Gjáselsgjá framhald hennar til suðvesturs. Þegar bornar eru saman selstöður í landnámi Ingólfs sést að Vatnsleysuströnd og Grindavík hafa nokkra sérstöðu varðandi sel því þar er mörgum bæjum hrúgað saman á einn stað en svo virðist ekki vera annarsstaðar, hvorki á Rosmhvalanesi, Höfnum, né Hraunabæjum og ekki að sjá slíkt í Kjósarsýslu.
Nýleg lambaspörð voru í einni tóftinni (í apríl).

Breiðagerðisslakki

Brak á slysstað ofan Breiðagerðisslakka.

Norðaustur af selinu er flak úr þýskri Junkers könnunarherflugvél. Hún varð fyrir skotárás bandarískrar orrustuflugvélar í april 1943. Þrír fórust en loftskeytamaðurinn komst lífs af í fallhlíf. Hann var fyrsti þýski flugliðinn, sem bjargaðist úr flugvél sem skotin var niður yfir Íslandi og jafnframt sá fyrsti sem Bandaríkjamenn tóku höndum í Seinni heimstyrjödlinni. Sjá má merkingar á einstökum hlutum.
Auðnasel er norðaustur af Knarrrarnesseli, innan við slakkann, Breiðagerðisslakka, sem þýska flugvélin hrapaði í og er um 20. mín. gangur milli seljanna.

Breiðagerðissel - Auðnasel

Auðnasel – Uppdráttur ÓSÁ.

Selið liggur suðvestur við hæð eina, sem heitir Sýrholt. Margar tóftir eru þar mismikið grónar, en þarna var haft í seli frá bæjum í Auðnahverfi, s.s. Auðnum, Höfða og Breiðagerði. Á hæsta hólnum í seltúninu er varða. Vatnsstæði hefur ekki fundist við selið, en heimildir segja það vera norðvestur af því, nokkurn spöl neðan þess, og sunnan við háan og brattan klapparhól.

Tóftir í Auðnaseli eru á fjórum stöðum. Líklega eru þó austari tóftirnar tvær huti af sama selinu. Fjórða tóftin gæti mögulega verið tyrfður tvískiptur stekkur, en tveir aðrir, hlaðnir stekkir eru skammt norðar. Á tveimur stöðum við selstöðuna eru göt undir klapparhæðum. Svo virðist sem hleðslur séu niðri í þeim, en gróið er yfir þær að mestu.

Fornusel

Fornusel í Sýrholti – uppdráttur ÓSÁ.

Klofinn klapparhæð er vestan við selstöðuna, en ekki er að sjá hleðslur í henni. Vel hefði mátt nýta hana sem nátthaga og er ekki óliklegt að það hafi verið gert.

Fornuselshæða er getið í Jarðabókinni 1703 og þá þar sem Kálfatjörn og Þórustaðir höfðu í seli áður en þeir bæir fengu selstöðu í Sogaseli. Líklega eru Fornuselshæðir þær sömu og nefnt hefur verið Sýrholt. Þar eru fornar tóftir á a.m.k. tveimur stöðum, auk stekkst í gjá.
Hrafnslaupur er í Klifgjá neðan Auðnasels.
Strokkar heita klapparhæðir ofan Reykjanesbrautar. Í austurátt frá Strokkum er lítið selstæði, sem heitir Fornasel. Ein heimild segir það vera frá Þórustöðum, en önnur heimild segir að selið gæti heitið Litlasel og vera frá Landakoti. Í Jarðabókinni 1703 er ekki getið um Fornasel eða annaðs el á þessum slóðum, en bókin nefnir Fornuselshæðir, sem eru líklega nokkuð ofar í heiðinni, sbr. framangreint.

Fornasel

Fornassel – uppdráttur ÓSÁ.

Fornasel sést vel frá Reykjanesbrautinni, enda ekki langt ofan við hana. Sennilega er það eitt aðgengilegasta selið á Reykjanesskaganum – eitt hið minnsta, en jafnframt eitt hið fallegasta. Hæð (sem áreiðanlega hefur heitið eitthvað fyrrum) skilur að tóftir selstöðunnar. Þær eru annars vegar sunnan við hana og hins vegar norðan við hana. Á milli er vatnsstæðið.
Sunnanverðar tóftirnar eru umfangsmeiri. Þær eru vel grónar, en þó má ennþá sjá móta fyrir tveimur rýmum og því þriðja skammt sunnar. Líklegt er að þar hafi eldhúsið verið. Austan við tóftirnar er skeifulaga gerði, huganlega nátthagi.
Vatnsbólið hefur verið bæði áreiðanlegt og gott. Hlaðið hefur verið umhverfis það og sést enn móta fyrir hleðslunum austan þess og norðan.

Knarrarnessel

Knarrarnessel – uppdráttur ÓSÁ.

Norðaustan við vatnsstæðið er tvískipt tóft, að öllum líkindum stekkur. Hann er mjög gróinn og ber merki húss, en ólíklegt er að svo hafi verið.
Fróðlegt er að skoða, bera saman og greina hinar ýmsu selstöður á Reykjanesskagnum, en FERLIR hefur nú skoðað 145 slíkar. Selin hafa ekki öll verið nýtt á sama tíma, en telja má, miðað við heimildir, að um helmingur þeirra hafi jafnan verið í notkun að jafnaði. Eldri selstöður voru gerðar upp aftur og aftur og síðan ný reist að teknu tilliti til nýrra krafna og aukins rýmis, enda verður að telja mjög líklegt að haft hafi verið í seli hér á landi allt frá fyrstu búsetu og þangað til selsbúskapurinn lagðist af að mestu skömmu fyrir aldamótin 1900. Merki um slíkt má sjá í nokkrum seljanna. Þannig má og sjá, miðað við stærð rýma og gerð seljanna, hvaða sel hafi verið í notkun á svipuðum tíma. Elstu selin eru greinilega einföldust að allri gerð, en seinni tíma selin eru formlegri og rýmin stærri.

Heimild m.a.:
-Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi – SG – 1995

Knarrarnessel

Knarrarnessel – vatnsstæðið.