Tag Archive for: Vatnsleysuströnd

Stapinn

Af Stapadraugnum fara ekki miklar sögur. Sagnir herma að draugurinn hafi haldið sig í Vogastapa sem er milli Innri-Njarðvíkur og Voga á norðanverðum Reykjanesskaga. Hins vegar er ekki greint frá því hvernig hann hafi verið til kominn. Hann var sagður hafa hrellt ferðamenn og farið um þá óblíðum höndum. Í Íslenzkum sagnaþáttum og þjóðsögum sem Guðni Jónsson safnaði saman, er getið um eitt slíkt tilfelli. Sögnin er heldur óljós en atvikið virðist hafa átt sér stað á áttunda áratug 19. aldar.

Stapadraugurinn - eina ljósmyndin, sem náðst hefur af honum

Ónafngreindur maður úr Garði á Reykjanesi fannst nær dauða en lífi á Stapanum. Hann var borinn í Stapakot og var þar nokkurn tíma að jafna sig áður en hann fór heim. Þegar hann var spurður hvað fyrir hann hafði komið togaðist ekki upp úr honum nokkur skýring, en draugnum á Stapanum var kennt um það. Hans er líka getið í þætti af förumanninum Árna funa í sama safni, en ekki nema í framhjáhlaupi.
Að öðru leyti virðist segja heldur fátt af draugsa, en á hinn bóginn eru tvær sagnir um aðra reimleika þarna í grenndinni. Þeim sem ekki trúir á drauga þykir væntanlega fánýtt að velta því fyrir sér hvort það eru aðrar sögur af „sama“ draug, en frásagnirnar gætu samt verið tengdar.
Fyrst ber að nefna Vogadrauginn, sem svo er kallaður. Ólíkt Stapadraugnum státar hann af almennilegri upprunaskýringu og auk þess hélt hann sig á bæjum. Sagan segir að ferðalangur hafi beiðst gistingar í Vogum, en verið úthýst þaðan og lagt leið sína yfir Stapann til Njarðvíkur. Veðrið var heldur misjafnt og maðurinn ferðalúinn og svangur. Morguninn eftir fannst hann svo dauður rétt við Grímshól á Vogastapa. Hann var borinn heim á bæinn þar sem honum hafði verið meinað um gistingu og var grafinn skömmu síðar.
Í kjölfar þessa varð vart reimleika á bænum og héldu menn að afturgangan vildi hefna sín fyrir litla gestrisni húsráðenda. Næstu ábúendur urðu líka varir við draugaganginn. Vomurinn sótti að húsfreyjunni
með svefnóværð mikilli því ekki hafði hún fyrri fest blund á kvöldin í rúminu fyrir ofan mann sinn en hún fór að láta illa í svefninum. Fyrst í stað vakti Jón hana, en jafnskjótt sem hún blundaði aftur kom að henni sama óværðin.
Bóndanum á bænum, Jóni þessum, tókst að reka „næturgestinn“ af höndum þeirra en sá fór ekki langt heldur tók að ásækja bóndann í Tjarnarkoti þarna í nágrenninu. Jón var þá fenginn til að flæma drauginn þaðan líka og fylgdi hann hinum óhreina anda burt frá bænum í Tjarnarkoti og þangað sem nú er búð sú í Vogum sem heitir Tuðra. Þar kom hann honum fyrir og bað hann sökkva þar niður til hins neðsta og versta helvítis þaðan sem hann væri kominn og gjöra aldei framar mein af sér í Vogum.
Upp frá því segir ekki mikið af þessum ógæfusama ferðamanni, nema að ekki þótti alltaf allt með felldu í Tuðru.
Á seinni tímum hafa svo komið til aðrar draugasögur sem tengjast akveginum við Vogastapa. Samkvæmt 
þeim er þar á kreiki bíldraugur. Eftir lýsingum að dæma stendur hann við vegbrúnina og sest inn hjá þeim sem af góðmennsku sinni bjóða honum far. Hins vegar lætur hann ekkert upp um það hvert hann ætlar og þegir þunnu hljóði. Eftir nokkra stund er hann svo horfinn eins og hann hafi gufað upp.
Önnur saga er sú að rétt við Vogastapa hreinlega birtist tveir menn í aftursætum bíla, sitji þar stutta stund í friði og spekt en hverfi svo jafnundarlega og þeir birtust. Þegar Árni Björnsson gaf út Íslenskt vættatal fyrir rúmum tíu árum gat hann þess að Stapadraugurinn hefði hrellt ferðamenn en látið minna á sér kræla eftir að nýja Reykjanesbrautin var lögð. Sennilega hverfur hann þá alveg þegar hún hefur loksins verið tvöfölduð.
Í framangreindu er m.a. vitnað í Guðna Jónsson, Íslenzkir sagnaþættir og þjóðsögur IX, Ísafoldarprentsmiðja hf, Reykjavík, 1951, bls. 25, Árna Björnsson, Íslenskt vættatal, Mál og menning, Reykjavík, 1990, Jón Árnason, Íslenzkar þjóðsögur og ævintýri, Bókaútgáfan Þjóðsaga og Prentsmiðjan Hólar hf. Reykjavík, 1954, I. bindi bls. 378-9, og Sigurð Nordal og Þórberg Þórðarson, Gráskinna hin meiri, Bókaútgáfan Þjóðsaga, Reykjavík, 1962, síðara bindi bls. 217-18.

Heimild:
-visindavefur.hi.is

Stapagata

Stapavegur.

Keilisnes

Ofan við Borgarkot, milli Kálfatjarnar og Keilisnes, frá vestri til austurs, í aflíðandi bogadregna línu frá suðaustanverðum túngarði Bakka og Litlabæjar, og síðan austast í línu til norðurs, er u.þ.b. 1.340 m löng stórgipagirðing, gerð af uppreistu grjóti, ca. 0.60-1.00 m háu með jöfnu millibili. Ofan á og ofarlega til hliðar eru greiptar holur og í þær reknir trétappar.
Storgripagriding-222Margir steinanna eru reyndar fallnir, en auðvelt er að rekja þá í landinu þessa leið.
„Stórgripagirðing-una tel ég ekki eldri en frá seinni hluta 19. aldar. Á Viðeyjarklaustur-stímum voru  hungraðir stráklingar notaðir sem fjáryfirsetur. Því ekki til nautayfirsetu á Keilisnesi?  Skynsamlegt er að nota til samarburðar  á stórgripaveldi Kálfatjarnar  og nautaeldistíma Viðeyjarklausturs á Mosfellsheiði, en þar gengu naut frjáls en voru rekin til slátrunar í Marardal við Hengil en þar sést enn til mannvirkja varðandi það (sem og áreiðanlegar ritheimildir).
Tel að ef skoðuð er búfjársaga Færeyja mætti finna álíka Stórgripagirðingu og hér er til umfjöllunar.
Storgripagirding-223Skynsamlegt er að horfa vítt til veggja hvað varðar söguskoðun – og láta skynsemi  ráða en ekki óskhyggju.
Líklega hefur Stórgripagirðingin á Keilisnesi verið  byggð af  stórhugamönnum í lok 19. aldar (flott að ná í vír úr Jamestown-strandinu í Höfnum fyrir lítinn pening og fá ríkisstyrk  út á framkvæmdina),  en aldrei nýst sem slík,  nema fyrir kýrnar á Kálfatjörn sem voru tiltölulega fáar og þurftu enganveginn alla Stórgripagirð-inguna,  nema fyrir það að auðveldara var að ná þeim saman að kvöldi til mjalta.  Vinnan við að safna og reisa steinana hefur ekki verðið mikið verk á þeim tímum, menn notuðu vogarafl samhliða mannafli eins og sést víða í Íslandsögunni. Til samanburðar  má nefna alla túngarða Kálfatjarnar þess tíma.
Storgripagirding-225Nútímamenn gera oft lítið úr verkhyggju og mannafli fyrri tíma.“
Ljóst er að girðingin er yngri en túngarðurinn ofan Bakka og Litlabæjar því ekkert grjót úr girðingunni næst honum hefur verið tekið í vegginn. Þá væri tiltölulega auðvelt að aldursgreina einn trétappa eða fleiri og fá þannig áætlaðan aldur girðingarinnar. Ástand þeirra gefa vísbendingu um að girðingin hafi verið seinna tíma mannvirki, að öllum líkindum frá Kálfatjörn. Enda ólíklegt að til hefðu verið nægilega löng reipi til verskins fyrir þann tíma. Skammt austar, vestan Minni-Vatnsleysu, má sjá hliðstætt mannvirki. Í stað trétappanna voru þar notaðir steypustyrktarteinar.
Þorvaldur Örn Árnason, kennari í Stóru-Vogaskóla benti FERLIR á eftirfarandi:

Þorvaldur Örn Árnason

Þorvaldur Örn Árnason við stórgripagirðinguna ofan Borgarkots.

„Ég las í nýútkominni bók um Jamestown-strandið í höfnum að bændur á Vatnsleysuströnd hefðu keypt þar vír og rakið upp í þætti og notað í girðingar.
Við Heiða skoðuðum og tókum myndir 2012 af fornri stórgripagirðingu við Kálfatjörn og Keilisnes. Nú legg ég saman 2 + 2 og fæ út að þarna hafi menn notað vír úr Jamestown – og það fyrir aldamótin 1900!
Á bls.37 í bók Halldórs Svavarssonar, Strand Jamestowns, segir frá vírum og köðlum sem mikið var af. Þar segir:
„Ólafur Ketilsson sagði að faðir sinn hefði keypt allan vírinn og megnið af tóginu sem hann seldi síðan að mestu. Útvegsbændur keyptu tógið og notuðu meðal annars í netateina, stjórafæri og landfestar. Vírinn seldi hann til bænda í Vatnsleysustrandarhreppi sem einkum nýttu hann í túgirðingar. Þetta voru fyrstu vírgirðingarnar í Gullbringusýslu og sennilega á öllu landinu. Þeir Vatnsleysustrandarmenn röktu vírana upp, líklegt að þeir hafi verið þriggja eða fjögurra þátta og hver þáttur snúinn saman af mörgum grennri vírum. Með upprakningunni fengu þeir mjög langan einþættan vír. Eftir þetta var talað um að öll tún á Vatnsleysuströnd væru afgirt með vír.““

Heimild:
-Sesselja Guðmundsdóttir.
-Þorvaldur Örn Árnason.

Borgarkot

Trétappi og lykkja í einum steini stórgripagirðingarinnar ofan Borgarkots.

Hverinn eini

Ætlunin var að skoða bæði skjól, sem útilegumenn kunna að hafa hafst við í sunnan Selsvalla á 17. öld sem og „helli“, sem þeir dvöldust í norðan Selsvalla. Hvorutveggja er til í skráðum heimildum og hefur að geyma mannvistarleifar. Í leiðinni var og ætlunin að skoða hinar gömlu götur er liggja að og frá Selsvöllum, selsrústirnar á völlunum og Hverinn eina, en upplýsingar liggja fyrir um brennisteinsnám þar á 17. öld.

Selsvallaselsstígur

Selsvallaselsstígur.

Þegar á upphafsstað var komið sást hvar vegur hafði verið lagður upp hraunhlíðina ofan við núverandi borholusvæði undir Sogunum. Vélarhljóð bárust ofan úr Sogunum. Hvorutveggja, augnstungan í hlíðinni og hávaðinn í annars órsökuðu umhverfinu þar fyrir ofan, særðu hjörtu þeirra sem hafa haft samúð með landinu, sem fóstrað hefur fóður forfeðrana frá upphafi.
Gengið var suður með vestanverðum hlíðum Núpshlíðarháls og inn á Selsvelli, framhjá virku jarðhitasvæði undir Trölladyngju og fallegu smávatni í jarðfalli. Þarna hafði áður verið hinn ágætasti jarðvatnsvarmi, líkt og í Grjótagjá við Mývatn. Við norðanverða Selsvelli birtist Kúadalur fyrst sjónum manna, síðan nyrðri Selsvallalækurinn og Moshóll á hægri hönd, fallegur gígur, sem margir framkvæmdarmenn hafa haft augastað á, þ.e. efnislega. Hóllinn geymir einn fallegasta gjallgíg landsins.
Gengið var inn með ónafngreindum fjöllum austanverðra Selsvalla, að rústunum undir Selsvallafjalli. Þær eru allnokkrar. Ekki er með öllu útilokað að sú stærsta hafi á einhverju tímaskeiði geymt kot eða bæ, enda hefur þarna verið álitleg beit og vænlegar sláttulendur. Suðvestar eru rústir seljanna á Selsvöllum. Áður hafði virst sem gata lægi þar frá eldri rústunum niður að þeim nýrri, en þegar betur var að gáð kom í ljós að þarna var um að ræða eldri farvegi Selsvallalækjarins syðri. Hann kemur þarna niður úr gili og hefur leikið sér vítt og breytt um vellina á löngum tíma. Sjá má ummerki eftir lækinn til vesturs en síðan til norðurs á nokkrum stöðum.

Selsvellir

Tóft á Selsvöllum.

Rústirnar á suðvestanverðum Selsvöllum er enn samar við sig; Vogaréttin á sínum stað og hinn fallegi stekkur sunnar. Þarna eru tóftir þriggja selja. Eitt þeirra mun hafa verið frá Stað, en hin voru einnig frá Grindavíkurstórbýlunum tveimur; Járngerðarstöðum og Þórkötlustöðum. Stekkirnir eru jafn margir selstöðunum. Sá þriðji er vestan vallanna, skammt norðan selstóftanna.
Undir hraunhól er op. Ferðin var m.a. farin til að kanna þar inn undir. Við eftirgrennslan kom í ljós að lágur skúti lá þarna undir seltóftina er stóð henni næst. Talsverður jarðvegur hefur sest að á botninum og ekki var að sjá neinar mannvistarleifar í skútanum.
Annar skúti, svipaður, var sunnan við hraunhólinn. Ekki voru mannvistarleifar heldur í honum. Útilegumenn héldu til á þessum slóðum á 17. öld. Þeir áttu að hafa verið þrír saman. Í báðum skútunum var nægilegt svefnrými fyrir þá alla þrjá.
Gömlu alfaraleiðinni (selsgötunni) var fylgt til vesturs. Hún greinist miðja vegu í hrauninu milli Selsvalla og Hraunsels-Vatnsfells, en á því er vatnstæði. Sumsstaðar er gatan grópuð djúpt í klöppina.
Í´“Útilegumönnum og auðum tóftum“ segir m.a. að “um aldamótin 1700 var hörmungatíð hér á landi. Þjóðin var orðin mergsogin af alls konar álögum og langvarandi kúgun einokunarverslunarinnar. Hún mátti því ekki við neinu. En verstu árin voru tugtímabilið 1693-1703.
Hekla byrjaði að gjósa. Jarðskjálftar fylgdu í kjölfarið. Fiskur brást algjörlega. Kom því mikið los á fólk, og voru rán og stuldir í öllum sveitum, en þó mest sunnanlands. Hafís rak að landinu. Voru þá hafþök svo að segja hringinn í kringum landið. Í Faxaflóa lá ísinn fram yfir vertíðarlok. Fjárfellir var víða um land og útigangshross hrundu niður. Fólk féll úr hungri. Árið 1703 létust 30 á Suðurnesjum. Allt var etið sem tönn á festi. Fólkið við sjóinn lifði á fjörugrösum og þangi, en í sveitum við fjallagrös, rætur og söl. Sumir átu hesta, skinn og skóbætur steiktar. Fundust og þeir, sem átu hesta, hunda og hrafna.

Selsvellir

Leitað að mögulegu útilegumannaskjóli.

Var þá þjófaöld mikil, stuldir og rán, svo að menn gátu trautt haldið sínu. Veturinn 1701 voru til dæmis hýddir og markaðir nær 20 þjófar í Árnessýslu. Fóru þá þjófar að leggjast út víða um land. Er getið um tvo útileguþjófa á Suðurnesjum; annar var hengdur, en hinn slapp.
Þannig var þá ástandið á Íslandi þegar sagan hefst af útileguþjófunum á Reykjanesi. Maður er nefndur Jón Þórðarson frá Eystri-Hrepp. 1701 tók hann sig upp og fór á vergang. Fyrst slóst í för með honum unglingspiltur, Gísli Oddsson og síðan landshornamaður, Jón Þorláksson og var úr Landeyjum. Fóru þeir alla leið suður á Vatnsleysuströnd. Þar stálu þeir síðast frá Jóni Árnasyni í Flekkuvík, en áður höfðu þeir stolið á 14 bæjum á leið sinni.

Í Flekkuvík náðu þeir í 8 hákarlslykkjur, þrjá fiska, eina duggarasokka, kýrlær og hálstrefil. Með þennan feng og það sem þeim hafði áður áskotnast fóru þeir upp um heiði og allt suður um Selsvöllu og voru ákveðnir í því að leggjast út og lifa á stuldum. Var nú komið fram á vor og tíðarfar gott, svo að allt var á gróanda og fé þar um allan afréttinn. Munu þeir hafa búist við því að geta náð í nóg sauðakjöt til matar sér.

Selsvellir

Rétt á Selsvöllum.

Skammt sunnan Selsvöllu fundu þeir skúta nokkurn og hreiðruðu þar um sig. Er nú ekki gott að segja, hvort þeir hafa verið staðháttum þarna kunnugir, en heldur var óvarlegt að setjast þarna að, því að staðurinn var á alfaraleið á þeim dögum. Má þó vera, að þeir hafi valdið hann af ásettu ráði til þess að eiga hægara með að sitja fyrir ferðamönnum, eins og síðar kom fram.
Ekki höfðu þeir hafst lengi við þarna, er Hallur Sigmundsson bóndi á Ísólfsskála varð þeirra var. Þótti honum þetta illir gestir og ekki tilhlökkunarefni að hafa þá í nábýli við sig. Ekki tók hann þó það ráð að segja til þeirra, heldur fór á fund þeirra og átaldi þá fyrir að hafa sest þarna að. Kallaði hann það hið mesta óráð fyrir þá, því að byggðarmenn mundu brátt verða þeirra varir og veita þeim aðgöngu. En þar sem hann var einn, en þeir þrír, mun honum ekki hafa litist ráðlegt að hafa í hótunum við þá. Skildi með þeim óhappalaust.
Þeim útilegumönnum mun nú ekki hafa litist á að vera þarna lengur, því að vel gat svo farið, að Hallur vísaði á felustað þeirra. Tóku þeir sig því upp og fluttu sig lengra norður með fjallinu og settust að í helli, sem var skammt frá Hvernum eina, en hann er í hrauninu milli Selsvalla og Höskuldarvalla, eða vestur af Trölladyngju. Var hellir þessi betri en hinn fyrri, en skammt frá alfaravegi sem hinn. Vatn er þarna ekkert, og hafa þeir því annaðhvort orðið að sækja það norður í Sog eða þá suður á Selsvöllu. Lítið hefur verið þarna um eldsneyti, varla annað en mosi, en vera má, að þeir hafi soðið mat sinn við hverahita, því að ýmsir hverir eru á þessum slóðum.

Hverinn eini

Hverinn eini.

Einn góðan veðurdag, skömmu eftir að þeir höfðu sest þarna að, fór þar um veginn ferðamaður austan úr Flóa í Árnessýslu, er Bárður hét Gunnarsson. Átti hann sér einskis ills von og vissi ekki fyrri til en þrír stigamenn settust að honum. Rændu þeir af honum tveimur ljáum, hettu, vetrungsskinni, buxum, sjóskóm, fernum skæðum og einhverju felira. Komst Bárður svo frá þeim slyppur og snauður.
Þrjár vikur voru útilegumenninir þarna og rændu auk þess á þeim tíma þremur sauðum til matar sér.
Sjálfsagt hefir Bárður ekki sagt sínar farir sléttar, er hann kom til mannabyggða, því að brátt fréttist það, hverjir óaldarmenn væru komnir þar í sveit. Jón í Flekkuvík, sem fyrstur hafði orðið fyrir barðinu á þeim, tók sér þá fyrir hendur að safna liði og veita þeim aðför. Urðu þeir tólf saman og höfðu tvær byssur og eitthvað fleira vopna.
Var þetta viku fyrir Alþingi. Fór nú þessi hópur til fjalla og kom að hellinum svo að útilegumenn voru þar allir inni. Jón skoraði á þá til útgöngu og að gefast upp, en þeir svöruðu engu. Þá greip Jón til byssu sinnar og kallaði hátt, að allir skyldu skjóta inn í hellinn. Gerði hann það til þess að hræða þá og láta þá halda að allir væru þeir vopnaðir byssum, þótt byssunar væru ekki nema tvær. Skaut svo Jón inn í hellinn og hæfði hettuna á höfði Jóns Þorlákssonar, svo að hún fauk af honum, en maninn sakaði ekki. Þá guggnuðu þeir útilegumenn, er þeir sáu hver alvara var hér á ferðum, og gáfust upp. Voru þeir því næst fluttir til Bessastaða.
Jón Eyjólfsson vicelögmaður í Nesi var þá sýslumaður í Gullbringusýslu, og kom það í hans hlut að rannsaka má útilegumannanna.

Keilir

Keilir.

Þingaði Jón í málum þeirra í Kópavogi, en dómsmálabækur Jóns frá þeim árum eru nú glataðar, og er því ekki hægt að vita, hvað fleira hefir komið þar fram en hermt er í annálum og Alþingisbókum. En séra Eyjólfur á Völlum, sonur Jóns vicelögmanns, hefir sagt allskilmerkilega frá þessu, og mátti hann manna best um það vita, því að hann átti þá heima í Nesi við Seltjörn hjá föður sínum.
Degi áður en Jón kvæði upp dóm yfir þeim félögum, braust Jón Þorláksson úr járnum á Bessastöðum. Náðist hann aftur, en með hverjum hætti það hefir verið er ekki vitað. Dómur var kveðinn upp yfir þeim hinn 6. júlí, og síðan voru þeir fluttir til Alþingis. Höfðu þeir þá ekki verið nema 3 daga í haldi á Bessastöðum. Auk þeirra þjófnaða, sem að framan getur, sannaðist á þá, að þeir hefðu stolið 65 sauðum og eigi minna en 7 fjórðungum af smjöri auk “aðskiljanlegra hluta ætra og óætra”.
Jónarnir báðir voru hengdir, en Gísla Oddsyni vægðu þeir, vegna þess hve ungur hann var og hann hafði aldrei verið dæmdur fyrr. Þarna mátti því sjá á sólkskinsdegi tvo útilegumenn af Reykjanesi, hangandi í gálgum á Alþingi, einum helgasta stað þjóðarinnar til merkis um þá óstjórn, sem hafði komið Íslandi á kaldan klaka.“
Stefnan var tekin til norðurs yfir frosið mosahraunið. Þetta er hraunssvæði, sem að öllu jöfnu er ekki gengið, enda þykkur mosi víðast hvar á hraunþekjunni. Margir smáskútar er þarna í hrauninu, en enginn þeirra sýnilega með mannvistarleifum í.
Sagnir eru til um útilegumannahelli nálægt Hvernum eina, norðan selsvalla. Ólafur Briem segir í bókinni Útilegumenn á Reykjanesfjallgarði frá þremur þjófum, sem getið er um í Vallnaannál 1703: …”á Vatnsleysuströnd. Þar stálu þeir síðast í Flekkuvík og fóru svo til fjalls upp og allt suður um Selsvöllu, þar tóku þeir sér hæli undir skúta nokkrum…. Leist þeim eigi að vera þar lengur og fóru norður með fjallinu í helli þann, er skammt er frá Hverinum eini. Voru þar síðan þrjár vikur og tóku þrjá sauði þar í hálsinum, rændu ferðamenn….” Leit hefur verið gerð að hellinum, en hella er sögð hafa verið lögð yfir op hans til að varna því að sauðfé félli þar niður um.

Hverinn eini

Vatnsstæði við Hverinn eina.

Stefnan var tekin á Þórustaðastíginn er liggur þarna í gegnum hraunið frá suðurenda Driffells og yfir að suðurenda Moshóls við norðanverða Selsvelli. Við hann var gerð leit að hugsanlegum skútum, en engir fundust með mannvistarleifum í. Jarðfall hefur hrunið niður norðan Moshóls og þar skammt norðar er gat niður í jörðina. Hvorutveggja var skoðað gaumgæfilega. Gatið skilaði einum árangri, en nánari skoðun á jarðfallinu gæti hugsanlega skilað einhverri niðurstöðu. Gróið er í botninn og steinar, sem ekki hafa ratað þangað að sjálfsdáðum, eru í jöðrum. Þetta þarf að skoða nánar við tækifæri.

Þá var stefnan tekin eftir selsstígnum norðan Selsvalla að Hvernum eina. Fréttir höfðu borist um það á göngunni að einhverju sinni hefði Hverinn eini verið notaður til brennisteinsnáms.
Í Landfræðissögu Íslands, bindi II, bls. 84-94, fjallar Þorvaldur Thoroddsen um Gísla Magnússon sýslumann Rangvellinga frá 1659. Gísli var einnig nefndur Vísi-Gísli sökum kunnáttu sinnar. Hann var hinn fyrsti lærði náttúrufræðingur á Íslandi og fór vítt um landið til þess að rannsaka steina og málma. Árið 1647 fékk Gísli á alþingi einkaleyfi til brennisteinsnáms.
Á bls. 87-88 segir „ Í bréfi dagsettu á Bessastöðum 4. sept. 1619 (það ár getur reyndar ekki staðiðst þar sem Gísli var ekki fæddur fyrr enn 1621, ártalið hlýtur að vera einhverntíma í kringum 1650) ritar Gísli Magnússon Birni syni sínum, er þá var við nám í Kaupmannahöfn, á þessa leið: „Þann brennistein, sem hér er að fá, hefi ég látið upptaka í sumar, sem er fáeinar lestir, svo sem fyrir lítið skip barlestarkorn; ég hefi látið leita í öllum Suðurfjöllum, ég hefi látið leita hjá Keilir og Móhálsum og var þar ei nema á 12 hesta að fá, item hefi ég látið leita á Reykjum í þeim öllum fjöllum, einnig í Henglafjöllum …“
Jóhanna og Viktor úr Vogunum, sem voru með í göngunni töldu víst að þar sem Gísli segist hafa látið leita „hjá Keilir“ og fengið einhver brennistein, geta verið í Hvernum eina, enda um fáa eða enga aðra staði er að ræða. Ummerki í hvernum eru líka þess eðlis, eins og brotist hafi verið niður eftir æðinni. Þar með er Hverinn eini ekki eingöngu náttúruminjar heldur einnig orðin sögulegar minjar.

Selsvellir

Rétt á Selsvöllum.

Þegar komið var að Hvernum eina sást vel hvernig svæðið umhverfis hans hafði verið nýtt í framangreindum tilgangi. Verkamenn höfðu brotið sér leið niður eftir brennisteinskjarnanum og kastað „hratinu“ til hliðar og framan við hverinn.
Brennisteinn var fluttur út frá Íslandi allt frá 14. öld en hann var nauðsynlegur til púðurgerðar og því gat brennisteinsnám verið arðvænlegt. Konungur áttaði sig á þessu snemma og reyndi mikið að ná undir sig einkarétti á þessari verslun. Bændur áttu brennisteinsnámurnar og unnu í þeim en vinnslan fór þó aðeins fram hluta af ári þar sem vinnuaflið var bundið við landbúnaðarstörf mikinn hluta ársins og hefur það væntanlega komið í veg fyrir að hægt væri að gera brennisteinsvinnslu að arðvænlegum iðnaði.
Á miðöldum var íslenski brennisteinninn notaður til hernaðar og var einkum eftirsóttur á 15. og 16. öld þegar farið var að nota byssupúður en brennisteinn var einmitt nauðsynlegur til púðurgerðar þar sem honum var blandað saman við saltpétur og kol. Brennisteinn var útflutningsvara frá 14. öld en segja má að blómatími brennisteinsverslunar hér á landi hafi verið á 15. og 16. öld. Nokkuð var um brennistein á Íslandi en svo virðist sem brennisteinsvinnsla hafi hafist snemma hér á landi en elsta heimild um brennisteinsnám er frá 1279.
Brennisteininn er að finna á háhitasvæðum og var hann grafinn úr jörðu. Niels Horrebow, erlendur ferðamaður á Íslandi á 18. öld, lýsti aðförunum við moksturinn svona:
„Þegar heitt er í veðri þola menn ekki að vinna að brennisteinsgreftrinum á daginn. Þá er unnið á nóttunni, sem á sumrin er nægilega björt til þess. Menn þeir, sem að greftrinum eru, vefja vaðmálsdruslum um skó sína. því að annars myndu þeir brenna þegar í stað, en brennisteinninn er svo heitur, þegar hann kemur úr jörðinni að ekki er unnt að snerta á honum, en hann kólnar fljótt.“

Hverinn eini

Hverinn eini.

Brennisteinninn, sem grafinn var upp hér á landi, innihélt um 14-22% óhreinindi og þurfti því að hreinsa hann. Fyrr á öldum var hann þó fluttur út óhreinsaður en árið 1753 var á vegum Innréttinganna reist hreinsunarverk í Krísuvík og árið 1762 á Húsavík. Samkvæmt skýrslu voru um 72,5 tonn af brennisteini frá Krísuvík flutt út á árunum 1755-1763 á vegum Innréttinganna sem fengið höfðu einkaleyfi til að vinna og hreinsa brennistein um 1752.
Brennisteinninn var hreinsaður með vatni og lýsi og hann síðan bræddur í járnpotti sem yfirleitt var hitaður upp með mó. Einn slíkan ofan má finna í Brennisteinsfjöllum. Gæta þurfti þess að hita pottinn ekki um of því þá gufaði brennisteinninn upp. Við bræðsluna flutu óhreinindi og lýsi, sem notað var við bræðsluna, ofan á brennisteininum, sem fleytt var af með járnspaða. Brennisteininum var síðan hellt ofan í eikarmót gegnum síu og honum síðan raðað ofan í tunnur til útflutnings.
Verslun með brennistein gat verið arðbær en svo virðist sem bæði kirkju- og konungsvald hafi áttað sig á þessu snemma enda reyndu þau mikið til að afla sér einkaréttar á verslun með brennistein. Landið varð snemma frægt fyrir þetta gula efni en í tilraunum Danakonunga fyrr á öldum til þess að veðsetja landið var talinn mikill kostur að landið væri ríkt af brennisteini. Árið 1560 náði konungur undir sig brennisteinsversluninni en hagnaður hans af þeirri verslun fyrsta árið var nokkur. Hagnaðurinn fór síðan minnkandi og mátti m.a. kenna um lágu verði á brennisteini erlendis. Á fyrri hluta 18. aldar lifnaði þó aftur yfir brennisteinsversluninni en árið 1852 var ákveðið að hvíla brennisteinsnámurnar þar sem búið var að fara illa með þær og vinna í þeim í langan tíma en brennisteinninn hafði í raun ekki fengið að endurnýja sig. Undir lok 19. aldar var nokkur brennisteinsvinnsla í Krýsuvík.
Vitað er með vissu að síðast var numinn brennisteinn í Hvernum eina snemma árs 2006. Þá var og gerð tilraun til að baka þar hverabrauð með misjöfnum árangri. Í það skiptið var þó bætt um betur og braut etið þar jöfnum höndum með smérbræðingi.
Gufuhver sá er sagður var einn sá stærsti hér á landi og mun hafa sést vel frá höfuðborginni um tíma, en dó um 1918, var norðan við Hverinn eina. Svæðið allt ber vott um hverinn og er hið ágætasta minnismerki um það sem einu sinni var, en dó. Öllu ásættanlegra er að horfa á, finna og skynja það sem hefur dáið af sjálfsdáðum en allt það sem deytt er vísvitandi af fáfróðri mannskepnunni.
Loks var haldið eftir fyrrnefndum selsstíg norður með austanverðu Oddafelli og stefnan tekin á upphafsstað.
Gangan tók 3 klst og 3 mín. Frábært veður.

Heimildir m.a.:
-Árni Óla – Frásagnir – þjóðlífsmyndir frá ýmsum tímum – 1955.
-Landfræðissaga Íslands, bindi II, bls. 84-94, frá 1659.
-www.idan.is

Melhóll

Melhóll við Selsvelli.

 

Póstlúður

Í tveimur tölublöðum Faxa áriðð 1978 segir Guðsteinn Einarsson frá Grindavík frá „Einari pósti Árnasyni„:

Einar póstur gekk undir meiri þunga en hann gat lyft með handleggjunum

Guðsteinn Einarsson

Guðsteinn Einarsson.

„Einar Árnason f. 31. des. 1851, skírður 2. jan. 1852 í heimahúsum. Foreldrar hans voru Árni Jónsson og Helga Einarsdóttir búandi hjón í Vesturkoti.
Einar missti föður sinn 4 ára gamall, því að Árni dó 23. apríl 1856 þá talinn 36 ára gamall tómthúsmaður á Miðengi.
Helga giftist aftur 29. jan. 1859 þá 34 ára. Seinni maður hennar var Guðmundur Hannesson bóndi í Breiðagerði,
29 ára. Þau voru gefin saman í Kálfatjarnarkirkju.
Einar Árnason var fermdur á Trinitatis 1867. Og fær þá þessa umsögn hjá presti sínum, sr. Stefáni Thorarensen: „Lestur og kunnátta sæmileg. Skilningur daufur. Hegðun góð“.
Einar fluttist með móður sinni og stjúpa frá Breiðagerði að Vigdísarvöllum árið 1870.
Fyrir og upp úr síðustu aldamótum var hér á landi til nokkuð af fólki sem var talið sérkennilegt, þ.e. að það batt ekki sína bagga þeim hnútum er almennt gerðist.
Vitanlega var þetta mestmegnis það sem kallað er förufólk, þ.e. það flakkar bæ frá bæ og lifði á því sem því var gefið hverju sinni. Á þessu rjátli sínu, einsamalt að jafnaði, hefir það sennilega aldrei náð hugsunarhætti hins almenna borgara og þannig orðið einhvers konar utangarðs-manneskjur.
Mér duttu þessar manneskjur í hug í sambandi við skoðanakönnun „Vikunnar“ nú fyrir skömmu, þar sem segir frá skoðunum ungs fólks. Eitt af því sem þar kemur fram, er orðrétt: „Nú er svo komið, að allir skólar eru orðnir fullir af meðalmönnum.“

Grindavík

Grindavík 1925.

Vonandi verkar þetta þannig að þetta utangarðs-fólk aldamótanna sem ég var að geta um, nái meðalmennskunni, en vonandi standa þó topparnir upp úr. Í þessu sambandi datt mér í hug sérkennilegur maður, sem fyrst og fremst var bundinn við Grindavík, en almenningur nú mun ekki kannast við og gekk undir nafninu: Einar póstur. Það skal tekið fram, að hér er ekki um að ræða ævisögu Einars pósts, heldur minningar mínar eins og þær eru frá barnæsku til fullorðins manns, svo og sögusagnir sem í mér hafa loðað, frá árum Einars hér í Grindavík.
Upphaf Einars pósts mun það, að hann var fæddur á Vatnsleysuströnd, af hjónum sem hétu Helga og Árni. Föður sinn mun Einar hafa misst mjög ungur og stóð þá móðir hans uppi með 6 börn, öll ung.
Krýsuvík 1998
Á þeim tímum þýddi slíkt yfirleitt að fjölskyldum var sundrað og börnin boðin upp til lægst bjóðandi framfærslu, en fljótlega kom til maður sem giftist ekkjunni og tók hann jafnframt að sér framfærslu barnanna. Maður þessi var annálaður dugnaðarmaður, en jafnframt mjög harður við alla sér undirgefna, svo að segja mætti sögur af, en þessi lýsing ætti að nægja til að gera megi ráð fyrir að þessi fósturbörn hafi ekki alltaf átt sjö dagana sæla.
Nú var það Einar póstur, sem ég ætlaði að segja frá og verður þá fyrst að byrja á vaxtarlagi hans. Hann mun hafa verið um 150 cm á hæð, bolurinn eðlilega stór, höfuðið mjög stórt, en sá líkamshluti, er vantaði vöxtinn, var fæturnir. Klofið á Einari var ekki meira en í hné á meðal manni, en aftur á móti var hann svo handleggjalangur að hendurnar virtust koma við hnén á honum er hann bar á börum.
Vöxtur Einars mun kallaður dvergvöxtur nú til dags og efa ég ekki að það hafi verið beinkröm á uppvaxtarárunum sem hefur framkallað þennan vöxt.

Krýsuvík

Krýsuvíkurbærinn um 1914.

Um tvítugsaldur mun Einar hafa ráðist vinnumaður að Krýsuvík til Árna sýslumanns. Ekkert hefi ég heyrt um vinnu hans þar annað en að vori og sumri hafi hann að mestu gætt engjanna í Krýsuvík. Þrátt fyrir lélegan líkamsvöxt, lítur út fyrir að karlinn í Einari hafi verið fullgildur til kvenna, því í Krýsuvík er sagt að hann hafi verið trúlofaður vinnukonu að nafni Kristín og frá þeim tíma er fyrsta sérkennilega orðatiltækið sem ég hefi heyrt frá þeim tíma, en það átti að hafa verið þegar Kristín sveik hann, að eftir á hafi Einar sagt frá því þannig: „Hún sveik mig á mánudaginn í tólftu, helvítis mellan þessi“, og frá þeim tíma er vísa sem eignuð var Stefáni Stefánssyni, sem lengi gekk undir nafninu „túlkur“. Einhverntíma er Einar kom seinna heim en búist var við, kvað hann:
Nú er hann Einar durgur dauður,
dúkasólin grætur hann.
Kúfur er hinn eini auður
er hún Stína erfa kann.

Ísólfsskáli

Ísólfsskáli.

Um 1880 er svo Einar kominn að Ísólfsskála til móður sinnar og fósturföður, sem þar bjuggu þá. Þá var á Ísólfsskála vinnukona sem Katrín hét, Þorkelsdóttir, og þar hitti Einar sína ektakvinnu, sem seinna varð.
Katrín þessi mun hafa verið ættuð úr Grindavík, en það sérstaka við þessi hjón var, að þau virtust sköpuð í sama farið, hvað hæð og vexti við kom. Með þeim var sem sagt fullkominn hjónasvipur. Ég varð nú ekki svo frægur að sjá uppi klobbann á Kötu, enda pínupilsin ekki komin til sögunnar, en segja mætti mér að fæturnir hefðu ekki haft eðlilega lengd frekar en á Einari.
Árið 1890 strandaði „Fransari“, þ.e. þrísigld skonnorta. Þau fóru í stórum flotum með fram ströndum landsins og fiskuðu á færi. Þetta skip hafði siglt upp í Hraunsand í góðu veðri seint í aprílmánuði. Mannbjörg varð. Leki mun hafa komist að skipinu. Skipshöfnin mun hafa unnið nokkuð að björgun úr skipinu og því verið þar nokkurn tíma.

Hraun - kort

Hraun í Grindavík – uppdráttur ÓSÁ. Á kortinu má sjá Hrauntún.

Skipsstrand þótti ætíð athyglisvert og var því mjög fylgst með því frá nærliggjandi stöðum. Einar og Kata munu hafa komið þar á Hraunssand meðan Fransararnir dvöldu þar og frá þeim tíma er þetta haft eftir Einari um Kötu: „Þegar ég og Fransararnir hlupu á eftir henni austur um allan Sand, mikið anskoti var skepnan fljót.“
Eitthvað mun hafa dregist frá því að talið var að Einar og Kata væru að draga sig saman og þar til þau urðu hjón og einhver sem spurt hafði Einar um, hvað giftingu þeirra liði, hafði hann svarað svo: „Ég væri löngu giftur henni, ef ekki væri á henni anskotans hausinn.“. Þetta mun hafa verið í sambandi við að talið var að hún hefði geitur.

Einar póstur

Einar póstur.

Fljótlega eftir þetta munu þau hafa gift sig og hófu búskap í þurrabúð sem þá var kölluð svo, á Hrauni og hét það Hrauntún. Frá þeim tíma er þau bjuggu í Hrauntúni hefi ég heyrt að þá hafi Kata lagst á sæng til að eiga barn og eftir að ljósmóðirin hafði verið sótt og ekkert barnið kom, að þá hafi Einar sagt: „Ætli væri ekki reynandi að gefa henni lútsterkt baunakaffi til að snerpa á henni.“ Hvað sem kaffinu leið mun ekkert barnið hafa komið, en talið var að barnið hefði visnað upp með móðurinni. Í Hrauntúni og Melbæ munu þau Einar og Kata hafa búið hér í Grindavík, en árið 1910 munu þau hafa flutt til Keflavíkur.
Katrín ÞorkelsdóttirFrá búskaparárum þeirra í Grindavík hefi ég heyrt ýmislegt sem farið hefur í millum þeirra hjóna og virðist Einar þá farinn að beita sérstökum orðaforða og að kasta fram vísum. Þau hjón munu hafa haft skap stórt, þótt lítil væru og eitt sinn hafði Einar átt að segja við Kötu sína í orðasennu: „Farðu í hurðarlaust helvíti, hornafullt af skónálum, helvítis árans pístólan þín.“

Á þessum árum, sennilega 1905 eða 1906, gerist Einar póstur frá Keflavík, um Hafnir, Grindavík, Krýsuvík, Selvog, Þorlákshöfn og Eyrarbakka. Það má heita ótrúlegt að hann gæti þetta, þar sem pósturinn var talinn vera um 100 pund með útbúnaði, þegar lagt var af stað frá Keflavík, en það var þó staðreynd að þetta gat Einar og mun hafa byggst á því, að hann var skrokksterkur, þ.e. að hann gat staðið undir og gengið undir meiri þunga en hann gat lyft með handleggjunum. Um þessa eiginleika sagði faðir minn sögu af honum.

Einarsbúð

Einarsbúð t.v.

Pabbi var oft vor og haust við afgreiðslu í búð Einars í Garðhúsum og einhverju sinni hafði Einar póstur komið að fá einn hundrað punda poka af rúgmjöli. Pabbi sagðist hafa tekið pokann úr bing og kippt honum að tunnu sem höfð var til að ganga frá pokunum á bakið, því allt var borið á bakinu þá.
Nú, þegar Einar tók við pokanum gat hann aðeins draujað honum eftir gólfinu, en ekki lyft upp á tunnuna. Hann spurði hvort ekki ætti að skipta pokanum í tvennt og fara með í tveim ferðum. Nei, hafði Einar sagt, ég er góður ef þú hjálpar mér að koma honum á bakið.
Þegar það var búið, dáðist pabbi mikið að, hvað Einar var léttfetalegur með pokann á bakinu, þegar hann labbaði austur garðana, eftir að hafa séð hann glíma við pokann inni.
Einar mun ekki hafa þótt gengur í skipsrúm og segir sig því sjálft að tekjur munu hafa verið af skornum skammti hjá þeim hjónum og fátækt mikil, en til að halda sér uppi í erfiðleikunum mun Einar hafa haft einhverja hörku við tilveruna og er þetta til sannindamerkis um það: Einhverju sinni er Einar kom úr póstferð, hafði Kata farið að telja upp hvað blessað fólkið hafði gefið þeim. Þegar Einar hafði hlýtt á upptalningu Kötu, hafði hann sagt: „Ég held það sé rétt til þess, fyrst það getur það.“ Kata hafði sagt: „Mikil ósköp eru að heyra til þín, maður, en Einar svarað: „Ég sný ekki aftur með það, ég held það sé rétt til þess, fyrst það getur það.“

Reykjanesviti

Reykjanesviti í byggingu.

Árið 1907 skeður svo það að fólk hér í Grindavík og jafnvel um allan Reykjanesskagann fær peninga í hendurnar fyrir vinnu sína. Þetta var í sambandi við að á því ári var Reykjanesviti byggður. Sennilega hefir þessi nýbreytni leyst úr læðingi það bezta sem í hverjum einstaklingi bjó. Einar póstur var þarna í vinnu á milli póstferða og einmitt þarna komu fram tvær vísur hjá Einari, sem næstar munu því að þola bragarreglur. Sú fyrri var svona:

Þorsteinn hvíti þar með ýtum gengur.
Oft hjá Dísu una kann,
ekki tala ég meira um hann.

Þórkötlustaðir

Einland í Grindavík.

Þessi Þorsteinn var Steini í Einlandi og munu allir eldri Grindvíkingar muna eftir honum, en Dísa var vinnukona á Stað hjá séra Brynjólfi Gunnarssyni.
Önnur vísa Einars frá vitabyggingunni og sú er meiri eftirköst hafði fyrir hann, var um mann úr Höfnum. Sá hét Ketill Magnússon og er vísan svona:

Ketill Magnús kallaður
kempan magtar stinna
Einu sinni á ævinni
hann ætlaði að fara að vinna.

Þetta þótti hitta, þannig að Ketill Magnús þessi hafi þótt heldur sérhlífinn við vinnu, en eftirköstin voru þau, að faðir Ketils Magnússonar var vel hagmæltur og sá gerði brag um Einar póst, svohljóðandi:

Þá Friðrik kóngur sigldi um sæ
og sá til Grindavíkur,
leit hann mann einn, langt frá bæ.
á leið til Keflavíkur.
„Cristiansen minn komdu hér“
kallaði sjóli glaður,
„líttu á hvernig labba fer
líkur dvergi maður.“
Christiansen með kíkirinn
kíminn glotti og sagði:
„Þetta er putti pósturinn
með prakkara látbragði.“
Ólafur með stóran staf
stendur upp úr fönnum,
en putti fer á kolsvart kaf
og kallast burt frá mönnum.
Póststjórninni skrifa skal
og skýra frá því betur,
ég held það mesta heimskuhjal
að hafa putta í vetur.
Eftirlaunin enginn fær
Einar þó að deyi,
en Ólafur í rósum rær,
svo raunum léttir eigi.

„Við köllum þetta hér í Keflavík, hús, en ekki bæ“, sagði Einar póstur við Grindvíkinginn
Keflavík
Ég man fyrst eftir Einari árin 1906 eða 1907, því hann kom alltaf að Húsatóftum þar sem ég er uppalinn. Raunverulega voru það hátíðisdagar, því Einar opnaði alltaf blaðatöskuna og skildi eftir öll blöð í Staðarhverfið, sérstaklega minnist ég blaðanna Lögbergs og Heimskringlu, sem pabba voru send öll póstár Einars, en í þeim voru mjög spennandi neðanmálssögur.
Þegar Einar var í póstferð, var full múndering hans blaðataska úr sverum striga, spennt um axlir og náði niður á rass á Einari, þá tösku mátti opna og skilja eftir blöð á viðkomandi bæi — 2. bréfataska, hana mátti ekki opna nema á bréfhirðingastöðum — 3. var lúður og þótti okkur strákunum það mikill merkisgripur og venjulega fengum við lúðurinn lánaðan til að blása í, en leyfðum okkur ekki að leita eftir að fá hann fyrri en farið var að bera á borð fyrir Einar og helst að hann væri byrjaður að borða.
Ég tel rétt að minnast á eina sérstaka minningu um Einar póst frá þessum árum, sem sýnir hvað lífsbaráttan var hörð, miðað við daginn í dag og einnig að Einar karlinn hefir ekki legið á liði sínu til sjálfsbjargar. Árið 1910 var kirkjan á Stað rifin. Hún var úr timbri og það var allt selt á uppboði. Á uppboðinu keypti Einar 10 eða 12 borð. Þau voru l0 eða 12″ og 8-12 fet á lengd.
Einar póstur.
Sem fyrri er sagt, fluttust þau Einar og Kata til Keflavíkur 1909 eða ’10 og árið 1910 var Einar farinn að byggja í Keflavík og borð þau er hann keypti úr Staðarkirkju, bar hann fyrst upp að Húsatóftum og geymdi þar og bar þau síðantvö og tvö til Keflavíkur, þegar hann var að koma að austan úr póstferðum. Ég og bróðir minn, Jón, minnumst þess, þegar Einar labbaði með borðin norður göturnar á Keflavíkurvegi, frá Húsatóftum. Göturnar voru um hnédjúpar meðalmanni, svo ekkert sást, nema borðin sem vögguðu sitt á hvað.
Niðurstaðan að áreynslu Einars varð svo sú, að hann kom húsi yfir sig og Kötu í Keflavík. Keflvíkingar voru á þeim tímum orðlagðir fyrirnafnagiftir og vitanlega var hús þeirra nefnt „Pósthús“. Með sínu pósthúsi fékk Einar um 3600 ferm. lóð og var eignalóð.
Einn öflugur peningamaður í Keflavík náði lóðinni undir sig, en hún er nú talin á 5-6 hundr. kr. ferm., svo hefði Einar lifað 40-50 árum lengur, hefði hann verið orðinn milljóneri. Í sambandi við hús Einars í Keflavík, hefi ég heyrt þessa frásögn: Grindvíkingur einn hitti Einar hjá húsi sínu eftir að það var byggt. Þeir hófu tal saman og þar kom að Grindvíkingurinn spurði Einar hvort þetta væri bærinn hans. Einar hafði svarað: Við köllum þetta hér í Keflavík hús, en ekki bæ.
Hér kemur svo síðasti kafli minn um Einar póst og hann er um það, þegar ég kynntist honum persónulega. Það gerðist þegar Grindavíkurvegurinn var lagður árin 1914 til 1917. Við vorum þar báðir öll árin, ég stráklingur, en Einar vitanlega fullorðinn.

Einar var ræðinn og laginn

Grindavíkurvegir

Ein búð vegagerðarmannanna við gamla Grindavíkurveginn á Gíghæð.

Ég var hestasmali fyrsta sumarið, fór á fætur um 5 að morgni og átti að skila hestunum kl 7, þegar vinna byrjaði. Kl. 1 var skipt um hesta aftur. Þá voru morgunhestar fluttir, en kl. 2-3 átti það að vera búið og þá átti hestasmali að vinna til kvölds.
Einar póstur var venjulega látinn bera á börum á móti strákum og hann var sá sem ég bar venjulega á móti í þessum vinnutíma mínum. Einar var ræðinn og nokkuð laginn að segja frá, enda kunnugur langt út yfir það umhverfi, sem ég þekkti þá, en það sem mest sat í mér og gerði það að verkum að ég, stráklingurinn, fékk mig lítið til að gera grín að Einari að einhverju sinni er hann var að segja frá sínum uppvexti, endaði hann frásögu sína með þeim orðum, sem ég gleymi aldrei, en þau voru: „Ég ætla bara að segja þér það, að ég á engan þann óvin, að ég óski honum þess að búa við, það er ég átti í uppvextinum.“

Ég vinn það ekki fyrir heilagan anda…

Grindavíkurvegur

Búðastaður vegagerðarmanna við gerð Grindavíkurvegarins 1918 í Hrossabrekkum.

Öll árin í veginum var Einar í sér tjaldi, sýndist víst ekki heppilegt að hann væri innan um aðra sökum sinna sérkenna, en það vildi svo til, að hann var með í því tjaldi, sem ég var í þrjú seinni sumurin, svo ég vissi þess vegna svo vel hvað Einari leið. Öll haustin í veginum enduðu eins hjá Einari, þannig að þegar fór að gera rigningar, var ekki unnið í fasta rigningu, aðeins þegar gekk á skúrum, en Sigurgeir verkstjóri gekk eftir því, að allir væru í galla, þegar skúraveður var komið, en þá sagði Einar: „Það er enginn verri þótt hann vökni“. En þegar bleytur voru búnar að ganga nokkra daga og einar orðinn gegndrepa og allt í kringum hann í tjaldinu, þá var viðkvæði Einars: „Ég vinn það ekki fyrir heilagan anda að láta drepa mig“, og þar með var hann farinn. Sigurgeir sagði að svona hefði gengið öll sumur í restinni og Einar var alltaf farinn áður en vinnan raunverulega hætti.

Nokkur skáldaandi var yfir
Einari þarna í vegavinnunni, en
því miður man ég ekki nema
tvær vísur hans frá þessum
tíma. Þær eru svona:
Mangi langi, mjór og krangalegur
hleypur Voga horskur til,
hann í sogar veðrið sig.

Hin er svona:
Fjandans eru faularnir,
fullir með svik og pretti,
allir standa aularnir
undir sama kletti.

Stundum rann svona skáldskapur upp úr Einari, en vitanlega sat lítið af því eftir í manni.

Andskotinn hossi þér á hrossherðablaði

Kúadalur

Kúadalur í Grindavík.

Einar kom að jafnaði til að drekka kaffi í okkar tjaldi, því það var hitað fyrir allann hópinn og tvennt sem Einar sagði upp úr eins manns hljóði eða án þess að viðræður hefðu sveigt að því. Annað var að upp úr þögn sagði Einar: „Einu sinni var maður á Skálanum, sem ég réði við“. Við getum gert okkur í hugarlund að á bak við þessi fáu orð, sé raunverulega heil æfisaga lítilmagnans, sem undir niðri hafi fundið sitt getuleysi í sambandi við alla sem hann hafði umgengist. Hitt var eins til komið, að upp úr þögn sagði Einar: „Margt er það í koti karls, sem kóngs er ekki í ranni, og tvenn á ég hnífapörin.“ Þetta sýnir vitanlega takmarkalausa sjálfsánægju með sitt litla og má vera, að það hafi verið eitt af því sem gat haldið svona fólki uppi í lífsbaráttunni.
Síðasta minningin sem ég á af Einari pósti, frá vegavinnunni gerðist i Kúadal, rétt við Grindavík. Þá var Einar að fara vegna rigninga, eins og áður er sagt og hann var að labba af stað með sínar pjönkur á bakinu. Ég var að bera grjót á börum með stráki, sem nokkuð hafði strítt Einari. Þegar Einar fór framhjá, kallaði ég hvort hann ætlaði ekki að kveðja.
Jú, sagði Einar og kom og tók í hendina á mér, með viðeigandi formúlu, en labbaði svo af stað án þess að kveðja hinn, sem spurði þá hvort hann ætlaði ekki að kveðja sig líka, en þá svaraði Einar: „Nei, andskotinn hossi þér á hrossherðablaði helvítis árans kvikindið þitt.“
Þetta eru eiginlega síðustu kynni mín af Einari pósti. Hann mun hafa dáið einhverntíma milli 1920 og 1930, en hans ektakvinna dó á Karlsskála í Grindavík um 1934.“ – Guðsteinn Einarsson

Guðmundur Björgvin Jónsson segir frá Einari og hans fólki í bók hans „Mannlíf og mannvirki í Vatnsleysustrandarhreppi“

Suðurkot í Vogum

Suðurkot

Suðurkot í Vogum.

Eftir aldamótin lét Benedikt [Pétursson] byggja upp gamla bæinn og var sá notaður til ársins 1927. Þá lét hann byggja það Suðurkot er nú stendur. Smiður að því húsi var Þorsteinn Árnason húsasmíðameistari úr Keflavík. Um 1930 fór að draga úr umsvifum Benedikts, enda var hann þá orðinn 63 ára. Þó hafði hann vertíðamenn í skipsrúmi hjá öðrum útgerðarmönnum, m.a. sjómann frá Skagaströnd, Kristmund Jakobsson ekkjumann, 34 ára. Árið 1944 hætti Benedikt búskap og tóku þá Guðrúnu dóttir hans og Kristmundur við og bjuggu þau í sambýli uns Kristmundur lést árið 1976. Guðrún bjó ein í nokkur ár eða þar til hún fór á elliheimilið Garðvang árið 1979 og þar er hún enn. Kristmundur vann síðustu árin, meðan heilsan leyfði, hjá íslenskum Aðalverktökum á Keflavíkurflugvelli. Húsið Suðurkot var selt aðkomnufólki árið 1980.

Vigdísarvellir

Vigdísarvellir – Krýsuvíkur-Mælifell fjær.

Börn Benedikts og Sigríðar: 1) Guðrún Kristín, 2) Jón Gestur (látinn), einnig ólu þau upp Guðmund Marijón Jónsson sem var sonur Jóns Þorkelssonar og Mörtu Sigurðardóttur frá Flekkuvík.
Sigríður, kona Benedikts, var sem áður segir frá Vigdísarvöllum. Þar var selstaða frá fornu fari, en um 1830 var þar reist nýbýli og var það í byggð fram yfir aldamót. Þar var einnig hjáleiga er Bali hét. Um 1870 flutti Guðmundur Hannesson bóndi í Breiðagerði á Vatnsleysuströnd, að Vigdísarvöllum með konu sinni Helgu Einarsdóttur. Þau voru þá nýgift og hún með 6 börn í ómegð frá fyrra hjónabandi. Eftir ár fluttu þau frá Vigdísarvöllum og að Ísólfsskála. Einar Árnason, sonur Helgu, kallaður Einar póstur, var vel þekktur í Grindavík og víðar um Suðurnes, fyrir dugnað þrátt fyrir að hann var ekki vaxinn eins og fólk er flest, og nokkuð sérkennilegur í háttum.
Að Vigdísarvöllum kom Sigríður Brynjólfsdóttir frá Árbæ í Landssveit, þá 14 ára, til föður síns, er þá bjó þar með þriðju konu sinni, og hafði hann átt dreng og stúlku með hverri. Hversu lengi hann bjó þar er mér ekki kunnugt. Síðasti ábúandi á Vigdísarvöllum mun hafa verið Ívar nokkur. Ég þekkti tvo syni hans, Bjarna, er réri margar vertíðir frá Vogum og víðar og hinn var Oddur, sem var lengi póstmeistari í Hafnarfirði og vel þekktur þar.

Heimildir:
-Faxi, 1. tbl. 01.01.1978, Einar póstur… – Guðsteinn Einarsson, bls. 16-18.
-Faxi, 2. tbl. 01.03.1978, Við köllum þetta hér í Keflavík hús…-Guðsteinn Einarsson, bls. 16-17.
-Mannlíf og mannvirki í Vatnsleysustrandarhreppi, Guðmundur Björgvin Jónsson, bls. 40-41.
-Mannlíf og mannvirki í Vatnsleysustrandarhreppu, Guðmundur Björgvin Jónsson, bls. 248.
Faxi 1978

Hlöðunesrétt

Í bók Guðmundar Björgvins Jónssonar, „Mannlíf og mannvirki í Vatnsleysustrandarhreppi“ fjallar hann m.a. um Hlöðunesrétt, lögrétt Vatnsleysustrandarhrepps; öðru nafni Vogarétt eða Strandarrétt:

Hlöðunesrétt

Hlöðunesrétt vígð árið 1956.

„Fyrir ofan Hlöðversneshverfi er samkomuhúsið Kirkjuhvoll (sjá U.M.F.Þróttur). Nokkuð fyrir ofan Kirkjuhvol er fjárrétt. Það er hin gamla Vogarétt sem áður var staðsett á milli Vogabyggðar og Vogastapa. Þessi nýja rétt er reyndar enn kölluð Vogarétt þó hún sé á ströndinni. Gamla Vogaréttin var lögrétt eins og sú nýja sem byggð var árið 1956. Réttin hefur einnig verið nefnd „Hlöðunesrétt“ og „Strandarrétt“.

Vogarétt

Garður við Vogarétt – hlaðið úr holsteini.

Skammt neðan við  Hlöðunesréttina stendur opið hlaðið lítið hús úr holsteini (sandsteini) er bar nafnið Garður, sem lítt hefur verið getið í heimildum.
Lögrétt þýðir aðalskilarétt fjár (sbr. orðabók Árna Björnssonar frá 1979).

Hlöðunesrétt

Hlöðunesrétt.

Í lögrétt skal fara fram löglegt uppboð óskilafénaðar sem kemur í hana frá hinum ýmsu aukaréttum í sýslunni. Hefur opinber embættismaður á vegum viðkomandi sýslumanns það starf að bjóða upp féð.

Hlöðunesrétt

Hlöðunesrétt 1982.

Árið 1956 var samþykkt af sveitastjórn að byggð skyldi ný lögrétt á nýjum stað og voru kosnir þrír menn til að kanna hvernig staðið skyldi að framkvæmdinni. Þeir voru; Guðmundur í. Ágústsson, þáverandi hreppsnefndarmaður, Sigurjón Sigurðsson, Traðarkoti og Þórður Jónasson á Stóru-Vatnsleysu. Þessir menn fóru um sveitir suðvestanlands og könnuðu kosti og galla margra rétta, til að sameina það besta í eina nýja lögrétt fyrir Vatnsleysustrandarhrepp.

Vogarétt

Hlöðunesrétt árið 2022.

Réttin var hlaðin úr sandsteini (holsteini) og við hana er mjög góð aðstaða fyrir fjárflutningabíla.
Þórður Jónasson bóndi á Stóru-Vatnsleysu sá um byggingaframkvæmdir ásamt aðstoðarmönnum. Gekk verkið vel og var réttin vígð árið 1956 með mikilli viðhöfn.“

Heimild:
-Mannlíf og mannvirki í Vatnsleysustrandarhreppi, Guðmundur Björgvin Jónsson, bls. 247-248.

Hlöðunesrétt

Hlöðunesrétt.

Grænuborgarrétt

Þegar FERLIR reyndi að leita upplýsinga um fjárrétt undir Stapanum kom upp „Brekkurétt„. Ljóst er að réttin var þarna, neðan við Stapabúð og að sú búð lagðist í eyði á undan Brekkubænum þar skammt austar. Réttarinnar er hvorki getið í Örnefnalýsingu Gísla Sigurðssonar fyrir Stóru-Voga né í umfjöllun Sunnudagsblaðs Tímans 1964 um helstu minjastaði vestan Voga. Þar segir: „Brekka, reist árið 1848, hélzt í byggð fram um 1930, en þá flutti síðasti búandinn þaðan og reisti sér hús í Vogum. Það er fyrsta „þurrabúðin” sem rís þar í hverfinu á þessari öld. Stapabúð, reist 1872. Þar var búið til 1896, og hefur búðin hangið uppi að nokkru til skamms tíma. Kerlingabúðir voru nokkru utar.“

Stapabúð

Stapabúð. Þarna sést „Brekkurétt“ á sjávarkampinum neðan við matjurtargarðinn norðan við húsin.

Það liðu því 34 ár á millum ábúnaðar Stapabúðar og Brekku, þ.e. eftir að Stapabúð fór í eyði. Í hugum Vogabúa þess tíma var Brekkuréttinn undir Stapanum neðan við fyrrum Stapabúð. Réttin sú gæti upphaflega heitið „Stapabúðarétt“, en hennar er hvergi getið í heimildum. Þó má sjá hana á ljósmynd frá Stapabúð fyrir árið 1896. „Brekkuréttar“ er ekki getið í „Aðalfornleifaskráningu fornleifa í Sveitarfélaginu Vogum – áfangaskýrsla III, Fornleifastofnun Íslands 2006.“

Brekkurétt

Í „Brekkurétt“.

Í Örnefnalýsingu Gísla Sigurðssonar fyrir Stóru-Voga er, sem fyrr sagði, ekki getið um „Brekkuréttir, en hann getur þar um Vogaréttir: „Upp af Heljarstíg, vestanvert við Kvennagönguskarð, eru Háhólar. Vestast undir Kvíguvogabjörgum er Mölvík og Hólanef þar litlu austar og þar enn austar er svo Skollanef, út þangað teygir sig gróðurlendisræma. Þar innan við eru svo ystu verbúðirnar og nefndust Kerlingarbúðir. Heita þær svo vegna þess að útróðramenn er þar voru tóku kerlingu er hjá þeim var matselja, drápu hana og notuðu í beitu. Einn mannanna vildi ekki taka þátt í ódæði þessu. Áður en vermenn þessir reru síðasta róðurinn birtist hún manni þessum í draumi og bað hann að róa ekki þennan róður. Gerði hann sér upp veiki og lá eftir. Vermennirnir drukknuðu allir í þessum róðri. Þannig hefndi kerling þessa verknaðar. Framundan eru svo Kerlingarbúðarvarir, voru þær allgóðar lendingar. Næst þar fyrir innan var svo Stapabúð, stóð í Stapabúðartúni og er lítið eftir af því en Stapabúðarvarir voru þar framundan. Þá er Sandvík og Sandvíksvör, var þar allgóð lending.

Brekka

Brekka undir Stapa 1928. Stapabúð, innar, í eyði.

Þá kom Brekka í Brekkutúni er náði allt upp í Eggjar. Þarna var lengst byggð undir Stapanum. Fram undan var Brekkulón og Brekkulónsvarir eða Brekkuvarir. Fram undan Brekku var tangi nefndur Hólmur og þar var Hólmsbúð og framundan henni Hólmsbúðarvör. Langasker innan við Brekkulóð, en svo var Brekkutúnið kallað, var svo Kristjánstangi. Fremst á honum var Brimarhólmur og þar fram af Brimarhólmstangi og fram í tanganum Tangavör eða Brimhólmstangavör.

Vogaréttin

Vogarétt – loftmynd 1954.

Tvö vik voru þarna, nefndust Moldir og greindust í Stóru-Moldu og Litlu-Moldu. Stakksfjörður heitir fjörðurinn milli Brunnastaðatanga og Hólmsbergs. Inn úr honum liggja Vogarnir milli Eyrartanga að utan og Kvíguvogastapa að sunnan. Aðalbýli Voganna eru Stóru-Vogar en upprunalegasta nafnið mun vera Kvíguvogar. Úr Stóru-Voga landi byggjast síðan Minni-Vogar. Síðar byggðust svo hjáleigur og báru ýmiskonar nöfn. Vestast voru Stapakot, Brekka og Hólmur sem áður eru nefndar. Þessar hjáleigur eru víða nefndar… Þá munu Snorrastaðir hafa verið ein hjáleigan en talið er að þeir hafi farið í eyði í eldsumbrotum á 13. öld en þá voru uppi miklir eldar á Reykjanesi.

Upp af Moldu voru Vogaréttir. Voru þar lögréttir fyrir Strandar-, Rosmhvalanes-, Hafna- og Grindavíkurfjárbændur. Innan við, þar nokkru sunnar, eru vegamót Almenningsvegarins, Gamla- og Skógfellavegar eða Grindavíkurvegar. Hvergi er þarna getið um Brekkurétt.

Voagrétt

Vogarétt – uppdráttur ÓSÁ.

Í „Deiliskráningu fornleifa í Vogavík, Vogum á Vatnsleysuströnd (Fornleifastofnun Íslands 2014) segir m.a. um Vogaréttina: „Vogaréttir heimild um rétt 63°58.369N 22°23.552V. Upp af Moldu eru Vogaréttir. Voru þar lögréttir fyrir Strandar- Rosmhvalanes- Hafnar- og Grindavíkurfjárbændur,“ segir í örnefnaskrá. Samkvæmt Sesselju G. Guðmundsdóttur sést ekki til réttarinnar þar sem grjót úr henni var tekið og sett í sjóvarnargarð. Viktor Guðmundsson telur að réttin hafi staðið við austurhorn stórs bragga í norðvesturhorni afgirtrar lóðar fiskeldisins. Skátamót voru haldin þarna um 1974-1975, var þá hægt að sjá neðstu steinanna í hleðslunni, annars hafði grjótið verið tekið til hafnargerðarinnar.
Réttin stóð þar sem nú er lóð fiskeldisstöðvar á flatlendi skammt suðvestur af ströndinni.

Vogarétt

Vogaréttin – mynd Sigurðar Inga Jónssonar, sem staðsetur réttina fyrrverandi af nákvæmni á núverandi lóð Stofnfisks.

Upplýsingar um rétta staðsetningu réttarinnar bárust eftir að vettvangsvinnu lauk og var staðurinn því ekki skoðaður á vettvangi en líkur eru til þess að lítið sem ekkert sjáist til minja um réttina. Farið var aftur á vettvang veturinn 2014 þegar unnin var deiliskráning á lóð Stofnfisks og umhverfis hana vegna breytinga á aðalskipulagi og þá var staðurinn skoðaður þar sem réttin var. Engin ummerki sjást um réttina vegna bygginga og annarra mannvirkja í tengslum við starfsemi Stofnfisks.“

Vogarétt

Kristjánstangi – uppdráttur (úr fornleifaskráningu fyrir Vogavík).  Fyrrum rétt eða fjárborg?

Enn ein réttin á þessu svæði var á Kristjánstanga. Hennar er getið í Fornleifaskráningu fornleifa í Vogavík á Vatnsleysuströnd, Fornleifastofnun Íslands 2014. Þar segir m.a.: „Eftir að vettvangsvinnu við aðalskráningu lauk árið 2008 benti Viktor Guðmundsson, heimildamaður, skráningarmönnum á hringlaga hleðslu í fjörunni á Kristjánstanga auk fleiri hleðslna sem eru að koma undan sjávarbakkanum. Hleðslurnar eru um 785 m suðvestan við Stóru-Voga. 2014: Farið var aftur á vettvang þegar unnin var deiliskráning á lóð Stofnfisks og umhverfis hana vegna breytinga á aðalskipulagi og þá voru þessar minjar skoðaðar á vettvangi.
Minjarnar eru á grýttu svæði í fjörunni sunnan við flatar og sléttar klappir. Sjór gengur yfir svæðið og brýtur stöðugt af sjávarbakkanum.
Viktor Guðmundsson gaf eftirfarandi upplýsingar um minjarnar: Hringlaga hleðslan er um 11 m í þvermál, grjóthlaðin. Veggir hennar eru um 1,4 m á þykkt. Rétt austan við þessa hleðslu eru aðrar hleðslur að koma undan bakkanum og fast við þær hleðslur hefur hugsanlega verið vör. Landbrot hefur verið þarna undanfarin ár og gætu þessar hleðslur eyðilagst á skömmum tíma.

Kristjánstangi

Hleðslur í fjöruborðinu á Kristjánstanga.

Ekki er ljóst hvers konar mannvirki/mannvirkjum þessar hleðslur hafa tilheyrt en líklegt er að þau hafi tengst útgerð og fiskverkun. Hlutverk hringhleðslunnar er einnig óútskýrt. Ef til vill hefur hún líka verið í tengslum við útgerð en það kann að vera að þetta séu leifar af stæðilegri fjárborg. Ekki er þá ólíklegt að eftir að hún féll úr notkun hafi grjótið úr henni sem ekki var gróið við svörðinn verið endurnýtt í hleðslur. Það grjót sem skilið var eftir hefur nú komið í ljós þegar sjórinn hefur hreinsað allan jarðveg ofan af því. Stórhætta er vegna landsbrots.

Og þá að Grænuborgarréttinni. Í Örnefnalýsingu GS fyrir Stóru-Voga segir m.a.: „Austur af Búðarvör taka við Minni-Vogafjörur, Ytri- sem ná að Grænuborgartöngum. Frá Búðinni lá einnig Grænuborgarkampur alla leið að Vesturtúngarði og bak við kampinn, Grænuborgarstígur, allt heim í Vesturhlið á Grænuborgartúngarði sem er grjótgarður vestan og sunnan túnsins. Grænaborg stendur á bæjarhólnum en í suðurtúninu er klapparhóll sem heitir Latur. Austan Grænuborgarhúss í Grænuborgartúni er Grænuborgarbrunnur og Brunngatan þaðan og heim til húss. Sjávargatan liggur heiman að niður á kampinn en þar er Grænuborgarnaust og Grænuborgarvör. Á kampinum er Sjávarbyrgið eða Grænuborgarbyrgi. Grænuborgarós liggur vestan Grænuborgartanga og fram af ósnum eru Ósskerin. Í tanganum er Grænuborgarlón. Hnallsker er hérna fram af og Manndrápssker, er líklegt að þar hafi orðið mannskaði þó þar um sé engin sögn.

Grænuborgarrétt

Grænuborgarrétt.

Frá Grænuborgarvör liggja Austurkotsfjörur allt út undir Djúpaós. Þar taka við Minni-Vogafjörur, Eystri- allt að Syðrirás. Yst í Djúpaós er Dýpstiós. Nokkru innar er Vatnasker, þar upp af eru Vatnsskersbúðir og Vatnsskersbúðarvör. Einnig Djúpavogsvör. Austan við hólmana sem Vatnsskersbúðir eru á er svo Innrirás og skerst hún nokkru lengra inn í landið en Syðrirás. Frá Grænuborgarvör og allt inn að Syðrirás var á sjávarkampinum sjóvarnargarður. Var hans oft ærin þörf því í háflæðum rann sjórinn inn yfir Austurtúnið og var þá ekki lítið verk að hreinsa allt grjót og þara af túninu. Þar sem sjóvarnargarðurinn og suðurtúngarðurinn komu saman var Grænuborgartúngarðshliðið, eystra. Ofan eða sunnan suðurtúngarðs var Grænuborgarrétt. Var hún vorrétt þeirra Vogamanna. Spölkorn sunnar lá Almannavegurinn, Gamli- og þó hann sé nú ekki farinn sést hans glögg merki. Vestasti hluti Vatnsleysustrandarheiðar sem er í Stóru-Voga landi nefnist Vogaheiði“.
Ólíklegt er að „Grænaborgarréttin“ hafi verið vorrétt Vogamanna, líkt og að framan segir. „Réttin“ ber þess öll merki að hafa verið heimastekkur þar sem fært var frá eftir að selstöður í heiðinni lögðust af.

Grænuborgarrétt

Grænuborgarrétt.

Í Fornleifaskráningu í landi Minni-Voga og Austurkots (Fornleifastofnun Íslands 2006, bls. 11) segir: „Grænuborgarrétt hleðsla rétt 63°59.401N 22°23.077V – Ofan eða sunnan Suðurtúngarðs var Grænuborgarrétt. Var hún Vorrétt þeirra Vogamanna.“ segir í örnefnaskrá. Réttin er um 70 m norðvestur af vörðu. Réttin sem er hlaðin utan í nokkuð háan hól, stendur í gróinni kvos umkringd grýttum hólkollum.
Réttin er 15 x 11 m að stærð og er grjóthlaðin. Hún er aflöng, snýr norður-suður og skipist í þrjú hólf. Um miðjan vesturvegg hleðslunnar er lítið hólf, um 2×2 mað utanmáli. Út frá því er hleðsla sem skiptir réttinni í tvennt. op er í norðvesturhorni réttarinnar. Frá opinu liggur um 10 m hlaðinn grjótgarður sem sveigir fyrst til VNV en síðan til vestur og hefur líklega verið byggður til að auðvelda innrekstur í réttina. Hleðsluhæð réttarinnar er mest um 0,6 m og í veggjum sjást 4-5 umför af grjóti.
Hættumat: hætta, vegna framkvæmda.“

Brunnastaðarétt

Brunnastaðarétt 2022.

Brunnastaðarétt á Vatnsleysuströnd er hvergi getið í heimildum. Hún sést þó vel á loftmynd frá árinu 1954. Í „Aðalfornleifaskráningu fornleifa í Sveitarfélaginu Vogum – áfangaskýrslu III (Fornleifastofnun Íslands 2006)“ er getið um fornleifar í Brunnastaðahverfi, en réttin sú kemur þar hvergi við sögu. Út frá loftmyndinni frá 1954 ná staðsetja réttina og við athugun Ferlirs á vettvangi mátti glögglega slá leifar hennar, sbr. meðfylgjandi drónamynd.

Brunnastaðarétt

Brunnastaðarétt 1954 – uppdráttur ÓSÁ.

Af framangreindu má sjá að hvorki er hægt að treysta á Örnefnalýsingar né fornleifaskráningar þegar fornleifar eru annars vegar. Jafnan eru þær síðarnefndu byggðar á þeim fyrrnefndu, en þess minni áhersla jafnan lögð á að leita uppi minjar að fenginni reynslu á fæti hverju sinni…

Heimildir:
-Örnefnalýsing Gísla Sigurðssonar fyrir Stóru-Voga.
-Tíminn Sunnudagsblað 20. sept. 1964, bls. 883.
-Fornleifaskráning í landi Minni-Voga og Austurkots, Fornleifastofnun Íslands 2006, bls. 11.
-Deiliskráning fornleifa í Vogavík, Vogum á Vatnsleysuströnd, Fornleifastofnun Íslands 2014.
-Aðalfornleifaskráning fornleifa í Sveitarfélaginu Vogum – áfangaskýrsla III, Fornleifastofnun Íslands 2006.

Brunnastaðarétt

Brunnastaðarétt – fyrr og nú.

Bieringstangi

Árni Óla fjallar um „Tanga-Hvíting“ í bók sinni „Strönd og Vogar„:

Strönd og Vogar„Sú er sögn, að eitt sinn hafi komið erlent skip til Voga, seint á vetri eða að vorlagi. Var þá harðindatíð og frost mikil, svo allar fjörur voru sem klakabólstur og lagís víða með ströndum fram. Þrír menn af skipi þessu ætluðu að fara inn á Bieringstanga. Gengu þeir á skipsbátinn og reru inn eftir. En fram undan tanganum lentu þeir í lagíshröngli. Munu þeir ekki hafa verið ís vanir, enda fór svo, að bátnum hvolfdi og drukknaði einn þeirra.
Þessi maður gekk þegar aftur og gerði af sér ýmsan óskunda á tanganum og voru menn hræddir við hann. Var hann kallaður Tanga-Hvítingur, vegna þess að hann var með hvíta húfu á kolli. Mun og ekki hafa verið trútt um, að menn héldi að hann drægi að sér fleiri sjódauða menn, og að draugarnir yrði margir um skeið.
Símon Dalaskáld reri margar vertíðir syðra og mun það hafa verið veturinn 1865, eða þar um bil, að hann reri á Bieringstanga, og mun þá hafa verið á útgerð Bjama á Esjubergi. Þótti þá draugagangur þar með meira móti. Út af því orkti Símon „Rímur af Bieringsborgar-bardaga“. Þær sem til í Landsbókasafni, en þó eigi heilar, því að 14 vísur vantar framan af fyrstu rímu, en alls voru rímurnar átta. Símon gerir þar draugana að Tyrkjum, er komið hafi á flota miklum til að herja á „Bieringsborg“. En kempurnar, sem fyrir voru, lögðu til orustu við þá.
Fyrir þeim voru tveir konungar, Magnús á Lykkju á Kjalarnesi og Bjarni á Esjubergi, en hinn þriðji var hersir, Þórður Þórðarson frá Kistufelli. Þar sem og nefndir synir Magnúsar, Tómas og Eyjólfur.

Þessir höfðu mikla makt,
málma tamir sköllum.
Borgin stóð með býsna prakt
blómlegum á völlum.
Um þann tíma ekki rór
— eyddist friður blíður —
upp á ríki Strandar stór
stríddi Tyrkjalýður.

BieringstangiOrustan varð hin grimmasta og er getið margra manna, er vel gengu fram, svo sem Erlings hreppstjóra á Geitabergi, afa Ásmundar Gestssonar kennara, Halldórs frá Kollafirði, Þorsteins frá Þúfnalandi, Þórðar frá Snartarstöðum. Símon kemur þar og sjálfur við sögu. Taldi hann fyrst úr að barizt væri, en er orustan var sem mannskæðust, varð hann hræddur:

„Ekkert stendur illum fjendum mót,
föllum vér í banabað,
bölvað er að vita það.“
Síðan kastar sverði hastarlega,
og af klökkum öldujó
ofan sökk í djúpan sjó.

Bieringstangi

Bieringstangi – tóft.

Gat hann þó svamlað til lands, en vermenn unnu frægan sigur á illþýðinu.
Eigi lauk þó draugaganginum á Bieringstanga með þessu. Tanga-Hvítingur var þar enn á sveimi og gerði mönnum glettur. Vildu menn þó fegnir losna við hann. Eitt sinn skaut Gunnar bóndi í Halakoti silfurhnapp á hann, og var það talið óyggjandi, ef um venjulega drauga var að ræða. Hvíting mun og hafa brugðið illilega er hann fékk í sig silfurhnappinn, því að hann sundraðist við það í tómar eldglæringar. En svo skreið hann saman aftur og hélt uppteknum hætti allt fram um 1890. En þá hvarf hann.“

Heimild:
-Strönd og Vogar – Árni Óla, Tanga-Hvítingur, 1961, bls. 266.

Bieringstangi

Bieringstangi – uppdráttur ÓSÁ.

Eiríksvegur

Gengið var að Staðarstekk uppi á Strandarheiði, yfir að Vatnsleysustekk og síðan upp að Vatnaborg. Eftir að hafa skoðað borgina og vatnsstæðið, sem hún dregur nafn sitt af, var haldið niður að Stóru-Vatnsleysu og letursteinninn þar í túninu barinn augum.

Vatnsleysustekkur

Vatnsleysustekkur.

Staðarstekkur er norðan við Staðarborgina á Strandarheiði. Væntanlega hefur þarna verið um heimastekk að ræða. Talsverðar vangaveltur hafa verið um og rannsóknir hafa verið gerðar á því hversu löng stekkjargatan hafi verið. Hvað sem öllum niðurstöðum líður í metrum talið er og verður líklegasta svarið alltaf það að vegalengdin hefur ávallt verið fjarlægðin milli bæjar og stekks á hverjum stað. Í þessu tilviki hefur vegalengdin verið u.þ.b. 1000 metrar.

Stóra-Vatnsleysa

Stóra-Vatnsleysa – letursteinn.

Vatnsleysustekkur er rétt vestan Hrafnagjár til norðurs. Hann er í lítilli kvos fast við og neðan Eiríksvegar. Hann liggur frá þráðbeinn frá Akursgerðisbökkum og þaðan yfir holt og hæðir. Vegurinn er nefndur eftir verkstjóra vegagerðamannanna, sem hét Eiríkur Ásmundsson frá Gróta í Reykjavík (1840-1893), en Eiríkur þessi stjórnaði m.a. fyrstu akvegagerð um Kamba.

Ekkert farartæki hefur hingað til nýtt sér “samgöngubótina” því vegargerðin dagaði uppi í Flekkuvíkurheiðinni einhvern tímann fyrir aldamótin 1900. Almenningsvegur liggur svo til samsíða Eiríksvegi á þessum slóðum ýmist ofan eða neðan hans.

Sraðarstekkur

Staðarstekkur.

Stefnan var tekin austur og upp heiðina, yfir Reykjanesbrautina. Skammt ofan við brautina er Vatnaborgin, neðst í hæðinni sem liggur suðvestur af Kúagerði. Vatnsstæði er þar í grasbala. Sunnan við vatnsstæðið er lágur hóll með miklu grjóti og veggjabrotum og þar hefur verið fjárborg fyrrum, Vatnaborgin. Borgin er hringlaga, 10-12 m í þvermál, og innan í grjóthringnum eru hleðslur. Líklega hefur verið stekkur þarna eftir að borgin sjálf lagðist af, enda geta heimildir um Vatnsbergsrétt og Vatnsbergsstekk og einnig Vatnsberg og Vatnaberg. Líklega er örnefnið Vatnaborg það eina rétta yfir hólinn og nafnið jafnframt tengt vatnsstæðinu, sem þarna er.

Vatnaborg

Vatnaborg – uppdráttur ÓSÁ.

Þá var haldið á til baka niður heiðina, áleiðis að Stóru-Vatnsleysu. Þar var litið að letursteinn þann er Sæmundur bóndi hafði bent á og beðið FERLIR að ráða í.

Vatnaborg

Vatnaborg.

Á steininum eru hástafirnir GI er bindast saman með krossmarki. Þar til hliðar er ártal. Sæmundur taldi að steinninn gæti tengst kapellu eða kirkju, sem verið hafði á Vatnsleysu fyrr á öldum, en hún var einmitt sögð hafa staðið þar skammt frá, sem steinninn er nú.
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 2 mín.

Heimildir m.a.:
-Örnefni og gönguleiðir á Vatnsleysuströnd – Sesselja. G. Guðmundsdóttir – 1995.

Sraðarstekkur

Staðarstekkur.

Suðurkot

Í „Strönd og Vogar“ getur Árni Óla um „Álagablett“ við Suðurkot í Brunnastaðahverfi á vatnsleysuströnd:

Brunnastaðahverfi

„Í túni eystri hálflendunnar í Suðurkoti í Brunnastaðahverfi er stór hóll, sem kallaður er Þerrir. Honum fylgdi sú sögn, að þar ætti álfar heima, og þess vegna mætti aldrei slá hólkollinn. Ef það var gert, átti bóndinn að verða fyrir einhverju óhappi. Munu flestir bændur hafa virt þessi álög, því að engin dæmi vissu menn þess að hólkollurinn hefði verið sleginn.
Um 1890 flytur á þennan part maður, sem Hannes Hannesson hét, og tók hann þar við einu kúgildi. Fyrsta sumarið, sem hann var þama, mun grasspretta hafa verið lítil. Þóttist hann því nauðbeygður til þess að slá hólinn og gerði það.

Þerrir

Þerrir.

Á þessum árum var það venja að kýmar af mörgum bæjum voru reknar í einum hóp á haga, langt uppi í heiði, og skiptust bændur á um að láta reka þær. Seint um sumarið var að venju verið að reka kýmar, en sá, sem rak þær, tekur þá eftir því, að kýr Hannesar í Suðurkoti er eitthvað undarleg. Og allt í einu tekur hún sig bölvandi út úr hópnum og ræðst á þúfu nokkra, eins og hún væri blótneyti. Reif hún og tætti alla þúfuna sundur með hornunum, en féll því næst niður steindauð.
Ýmsir settu þetta í samband við það, að álögin á Þerri höfðu verið lítilsvirt, og aldrei sló Hannes hólinn upp frá því.“ — (B. H.)

Brunnastaðir

Brunnastaðahverfi.

Í Örnefnalýsingur Gísla Sigurðssonar fyrir Brunnastaði segir: „Í Suðurkotstúni eru nokkrir hólar, svo sem: Langhóll og Þerrar, tveir hólar, Stóri-Þerrir og Minni-Þerrir og svo er Pelaflöt. Nafnið er tilkomið vegna þessa að maður nokkur seldi flötina fyrir einn pela af brennivíni“.

Í Örnefnalýsing Ara Gíslasonar fyrir Brunnastaði segir: „Upp frá því er Suðurkot og þar fyrir neðan garðinn er hóll sem heitir Þerrir. Langur og stór hóll hér austur af bæ heitir Langhóll“.

 Sigurjón Sigurðsson í Traðarkoti skráði Örnefnalýsingu fyrir Suðurkot: „Á honum stóð gamli Suðurkotsbærinn. Norðan við hann var Norðurkálgarðurinn, nú uppgróinn. Alveg við hann að norðanverðu er hár hóll“, Þerrishóllinn.

Heimildir:
-Strönd og vogar – Árni Óla, Álagablettur, 1961, bls. 262.
-Örnefnalýsing Gísa Sigurðssonar fyrir Brunnastaði.
-Örnefnalýsing Ara Gíslasonar fyrir Brunnastaði.
-Örnefnalýsing Sigurjóns Sigurðssonar fyrir Suðurkot.

Brunnastaðahverfi

Brunnastaðahverfi.

Bieringstangi

Árni Óla skrifaði bókina „Strönd og Vogar“ 1961. Í bókinni fjallar Árni m.a. um „Bieringstanga“ og nágrenni hans á Vatnsleysuströnd:

„Hann [Bieringstangi] er fyrir sunnan Brunnastaðahverfið, og mun þar hafa verið útræði afar lengi. Vörin þar var hin stærsta á Ströndinni og hlaðnir kampar beggja vegna við hana fram í sjó. Var norðurkampurinn meiri og mátti lenda við hann bátum til uppskipunar.

Bieringstangi

Eldhús á Bieringstanga.

Sumarið 1844 giftust þau Þórunn Hallgrímsdóttir, systir Egils í Minni-Vogum, og Andrés Gottfred Pétursson, og voru gefin saman af séra Sveinbimi Hallgrímssyni, er þá var aðstoðarprestur að Kálfatjörn. Segir hann í kirkjubókinni um brúðguðmann, að hann sé „fisktökumaður á Tangabúðum hjá Brunnastöðum“.
Þá hafa verið komin þar salthús og fisktökuhús. Seinna fékk þessi útgerðarstöð nafnið Bieringstangi og var kennd við Móritz W. Biering, er seinast var kaupmaður í Reykjavík og drukknaði á skipi sínu undan Mýrum í nóvember 1857. Hann var fyrst verzlunarstjóri Flensborgarverzlunar í Keflavík 1837—1842. Er því líklegast, að sú verzlun hafi látið reisa salthúsin tvö, sem á Tanganum voru. Þau voru smíðuð úr 1 3/4 þml. borðum með síum milli samskeyta, og var það gamalt byggingarlag. Á loftum þeirra voru verbúðir. Nú var það málvenja að kenna verzlanir við verzlunarstjórana, og hefir Flensborgarverzlunin í Keflavík sennilega verið kölluð „Bieringsverzlun“, meðan hann stýrði henni, og þá eðlilegt að búðirnar drægi nafn af honum.

Bieringstangi

Bieringstangi – áletrun á sjávarklöpp.

Annars var þessi verzlun lögð niður 1842, og varð Biering þá forstjóri Flensborgarverzlunar í Reykjavík og keypti hana 1850. Mun hann þá enn hafa rekið útgerðarstöðina á Tanganum, og má því vera, að hann hafi ekki verið kallaður Bieringstangi fyrr en Biering eignaðist verzlunina. Umhverfis þessa stöð risu svo upp tómthúsmannabýlin Vorhús, Hausthús, Töðugerði og Grund. Þarna var gert út fram um seinustu aldamót. Seinasti útgerðarmaður á þessum stað var Magnús Torfason, kallaður „dent“, ættaður frá Naustakoti. Hann svaf sjálfur uppi á lofti í annarri búðinni, en sjómenn hans á lofti hinnar búðarinnar. Magnús var snyrtimenni mikið og kunnur framreiðslumaður í veizlum í Reykjavík. Hann reri aldrei sjálfur. Seinasti formaður hans var Hallgrímur, sonur Andrésar Gottfreds Péturssonar. Þarna var og önnur útgerðarstöð, sem nefnd var Klapparholt. Var vör hennar skammt fyrir vestan Tangavörina. Þar gengu jafnan 4-5 skip. Þar gerði Þórður Guðmundsson á Hálsi út og hafði umsjón með salthúsi, er þar var.
Ég lét nú í ljós, að mig langaði til þess að skoða Bieringstanga. Þeir bræður, Árni hreppstjóri og Egill kennari, kváðu velkomið að fylgja mér þangað.
Bieringstangi
Við gengum svo fyrst niður að vörinni, sem Egill gamli Hallgrímsson, afi þeirra, hafði látið ryðja, og hlaðið öfluga grjótgarða beggja vegna langt út í sjó til að skýla henni. Þarna í vörinni höfðu þeir haft uppsátur báta sinna feðgarnir, hann og Klemens, og síðar þeir Klemens og Hallgrímur mágur hans. Fyrir ofan á sjávarkambinum áttu þeir sína sjóbúðina hvor og var nokkurt bil á milli þeirra. En þar höfðu þeir gert öflugan skjólvegg, svo að milli búðanna mynduðust skjólkvíar, sem voru ágætt athafnasvæði. Á sjávarkambinum höfðu þeir gert fiskreita, og þar var einnig lifrarbræðsluhús. Nú er þetta allt horfið, nema vörin og grunnar húsanna.

Grænaborg

Grænaborg brann þriðja sinni árið 2002.

Við höldum svo inn með sjónum, fram hjá Grænuborg og inn á Bieringstanga. Er það alllöng leið, enda er þá komið inn í Brunnastaðahverfi. Landslag er þama breytilegt, hraunhólar og klappir með grónum dældum á milli og mýrarsundum sums staðar. Að vestanverðu á tanganum hefir stöðin verið. Sér þar enn steyptan botn úr salthúsi og móta fyrir grunni annars húss, og sums staðar eru leifar af grjótbyrgjum, þar sem fiskur var saltaður. Byrgi þessi voru ekki stór, hlaðin tóft úr tómu grjóti allhá, og síðan flatreft yfir. Niðri á sjávarkambinum voru fiskreitarnir, en þeirra sér nú ekki stað, nema hvað grjótið er þar, og hefir sjórinn brotið það upp og hlaðið því allavega.

Bieringstangi

Bieringstangi – uppdráttur ÓSÁ.

Skammt frá stöðinni eru rústir býlanna Vorhúsa, Hvamms, Hausthúsa og Klapparholts, og umhverfis þau ræktaðir túnblettir. Þarna var byggð nokkuð fram á þessa öld, en nú er allt komið í eyði. Einhver einkennileg kennd grípur mann, þegar reikað er um þennan grýtta sjávartanga, þar sem einu sinni var fjörugt athafnalíf, en nú ekki annað en vesalar rústir. Þessi staður er eitt af talandi táknum breyttra atvinnuhátta og að nú er komin ný öld.
Við fórum aðra leið til baka, gengum upp á gamla veginn, sem var þjóðbraut frá landnámstíð og fram til 1912, þegar akvegurinn kom í stað hennar. Frost og regn, snjór og leysingar hafa farið ómjúkum höndum um gamla veginn, svo að varla sést móta fyrir honum. Og þó eru enn uppi menn, sem muna það, þegar stórar skreiðarlestir þræddu þennan veg dag eftir dag. Svo skammt er milli gamla tímans og nýja tímans, — og gamli vegurinn hvarf með gamla tímanum.

Bieringstangi

Magnús Ágústsson og Haukur Aðalsteinsson við skipsflak á Bieringstanga.

Fleiri útróðrastöðvar voru þarna, svo sem Kristjánstangi. Þar var saltgeymsla, en ekki fisktaka. Í Eyrarkoti, sem var niðri við sjóinn fram af Vogum, voru einnig viðleguskip. Í Minni-Vogum hóf Geir Zoega farsælan útgerðarferil sinn.
Mælt er, að bændum þar syðra hafi þótt orðið nokkuð þröngt fyrir dyrum hjá sér um 1876, er svo margir „útlendingar“ höfðust þar við á vertíðinni. Segir sagan, að bændur á Strönd, Vogum og Njarðvíkum hafi þá tekið sig saman um að leigja ekki uppsátur og upp úr því hefði svo Reykvíkingar og Seltirningar flutt sig suður í Leiru og Garð. Þessu ber vel saman við skrárnar um spítalafiskinn, því að þá fækkar aðkomubátum þarna óðfluga. Árið 1879 eru þar ekki taldir nema 10 „útlendingar“ og árið 1880 eru þeir aðeins sex.“

Heimild:
-Strönd og Vogar – Árni Óla, Hólmabúðir og Bieringstangi, 1961, bls. 168-173.

Vorhúsbrunnur

Vorhúsabrunnur.