Færslur

Kálfatjörn

Á Kálfatjörn, þar sem íbúðarhúsið stóð er tvískipt skilti. Á öðru þeirra er fjallað um túnakort og minjar og á hinu um Kálfatjörn. Á með má lesa eftirfarandi texta:

Kirkjur á Kálfatjörn

Kálfatjörn 1920

Kálfatjörn 1920.

Í máldaga (skrá um eignir kirkju) Páls Jónssonar Skálholtsbiskups frá því um 1200 er getið um kirkju á Bakka. En vegna landbrots af sjávargangi hafi hún verið flutt að Kálfatjörn þar sem til eru heimildir um kirkju frá 1450. Fram til 1824 var torfkirkja á Kálfatjörn. Var þá reist ný kirkja með tofveggjum, en timburþaki. Sú kirkja sdtóð í 20 ár. Aftur var byggð timburkirkja sem stóð önnur 20 ár. Árið 1864 var byggð kirkja sem stóð uns smíði núverandi kirkkju hófst á vormánuðum 1892. Kirkjan var vígð þann 11. júni 1893. Kálfatjörn var prestsetur allt til ásrins 1919.

Núverandi kirkja
Kálfatjarnarkirkja
Bygging núverandi kirkju gekk afar vel. Allt efni til kirkjunnar var flutt hingað á dekkskipi og skipað upp á árabátum. verkið tók um það 14 mánuði. Kirkjan er byggð úr timbri á hlöðnum grunni. Kirkjusmiður var Guðmundur Jakobsson, byggingameistari, sem nait aðstoðar Sigurjóns Jónssonar trésmiðs. Steinsmiðurinn frá Holti á Vatnsleysuströnd, Magnús Árnason, hlóð grunninn. Pílára á svalarbrúnum og í altarisgrindum ásamt ýmsum útskurði annaðist Þorkell Jónsson, bóndi í Móakoti á Vatnsleysuströnd. þegar allri trésmíði var lokið kom danski málarinn Nicolaj Sofus Bertelssen og málaði kirkjuna að innan og hefur því verki verið vel við haldið alla tíð. Hann málaði einni innviði Dímkirkunnar í Reykjavík.

Kálfatjörn

Kálfatjörn um 1960.

Árið 1935 var kirkjuturninn endurbyggður vegna vatnsskemda. Nokkuð var deilt um breytinguna sem gerð var á turninum og breytti um leið öllu útliti kirkjunnar eins og sjá má á myndum. Meirihluti sóknarbarna vildi fá samskonar turn og var í upphafi, en fjármálasjónarmiðin réðu og fékk kirkjan þann turn sem hún nú ber. Söngloft er vestantil í kirkjunni og út með hliðunum eru svalir. Hin síðari ár hefur kirkjan talsvert verið endurbætt að innan og utan. Kirkjan rúmar um 15o manns.

Kirkjugarður

Kálfatjörn

Kálfatjarnarkirkja og kirkjugarðurinn. Bakki og Litlibær fjær.

Kirkjugarðurinn er hlaðinn úr grjóti og sniddu sem hefur þjónað því tíþætta hlutverki í gegnum tíðina að verja kirkjugarðinn ágangi búfjár, og sem aðhald og brún þeirrar moldarfyllingar, sem gera þurfti sökum þess hversu jarðvegurjnn er grunnur.

Kirkjumunir
Kálfatjarnarkirkja
Altaristöfluna gerði Sigurður Guðmundsson málari og er hún eftirmynd altaristöflunnar í Dómkirkjunni í Reykjavík. Rétt innan kirkjugarðshliðsins er steinn með bolla í sem talinn er vera frá kaþólskri tíð. Þar hafa kirkjugestir ef til vill signt sig áður en þeir gengu til kirkju. Pípuorgel var keypt í kirkjuna 1985. Skírnarfont, hökla, altarisklæði, sálmanúmeratöflur ásamt spjöldum, andvirði nýrra kirkjubekkja og ótal margt fleira hefur kirkjunni verið gefið í gegnum tíðina.

Prestar á Kálfatjörn
Nokkuð er vitað um þá presta sem sátu staðinn og þjóðnuðu frá 15. öld. Nafnkunnastur þeirra presta er þjónuðu á Kálfatjörn er séra Stefán Thorarnesen sálmaskáld og þýðandi. Aðrir prestar sem vitað er um eru:

Þorsteinn um 1450
Ásbjörn djákni Grímsson óvíst hvenær
Bjarni óvíst hvenær
ormur Egilsson 1580-1623
Ámundir Ormsson 1623-1670
Sigurður Eyjólfsson 1670-1689
Oddur Árnason 1689-1705
Jón Ólafsson 1705-1745
Sigurður Jónsson 1746-1786
Guðmundur Magnússon 1786-1808
Guðmudur Böðvarsson 1809-1826
Pétur Jónsson 1826-1851
Jakob Guðmundsson 1851-1857
Stefán Thorarensen 1857-1886
Árni Þorsteinsson 1886-1919
Árni Björnsson 1919-1930
Ólafur Stephensen 1931-1932
Garðar Þorsteinsson 1932-1966
Bragi Friðriksson 1966-1997
Gunnlaugur Garðarsson 1988-1991
Bjarni Þór Bjarnason 1991-1999
Hans markús Hafsteinsson 1997-2002
Friðrik J. Hjartar 1999-2002
Carlos Ari Ferrer 2002-2007
Bára Friðriksdóttir 2007-2012
Kjartan Jónsson 2012-

Mannvistarleifar
Kálfatjörn
Byggingar sem voru hversdagslegar fyrir hundrað árum eru nú orðnar minjar um horfna lífshætti. Skilningur hefur vaknað á nauðsyn þess aðs krá upplýsingar um slíkar minjar og vernda þær sem eftir eru fyrir komandi kynslóðir. Túnakortin frá 1919 eftir Vigfús Guðmundsson fræðimann sýna glögglega hvernig landnýtingu var háttað. Þar má sjá þyrpingu bæjarhúsa með kálgarða (kg) í kring. Einnig má sjá skiptingu túna og fjöruparta milli bæja, gönguslóða, brunna, lendingar í fjörum og fleira.

Hlið

Kálfatjörn

Ártal í steini á Kirkjubrúnni.

Hlið var tómthús frá Kálfatjörn, með kálgarð og lítinn túnblett. Þar lagðist búskapur niður 1923. Við Hlið lá Kirkjugatan svokallaða sem kirkjugestir fóru um á leið til messu. Þar var grjóti hrúgað þvert yfir Goðhólarásina sem kölluð var Kirkjubrú og átti að auðvelda kirkjugestum för yfir rásina sem gat orðið hinn mesti farartálmi í leysingum á vorin.

Goðhóll

Goðhóll
Goðhóll var tómthús frá Kálfatjörn, en hafði grasnyt. Goðhóll fór í eyði árið 1933. Þar mun síðast hafa verið búið í torfbaðstofu í Vatnsleysustrandarhreppi. Bæjarhúsin eru greinileg og vel uppistandandi.

Kálfatjörn
Kálfatjörn
Gegnt kirkjunni í vestur var prestsetrið. Eftir að það var aflagt árið 1919 bjuggu Erlendur Magnússon, oddviti og útvegsbóndi og Kristín Gunnarsdóttir með börn sín. Heimili þeirra var opið prestum og öllum kirkjugestum til ýmissa verka. Systkinin tóku síðan við búskapnum af forledrum sínum og bjuggu þar alla sína búskapartíð. Kjálfatjarnarhúsið brann í nóvember 1998.

Skjaldbreið

Skjaldbreið við Kálfatjörn.

Skjaldbreið, hlaðan norðvestan við bæinn, mun hafa verið reist um 1850. Í áranna rás hefur útlit hlöðunnar breyst. Í vonskuveðri árið 2007 fauk þakið af henni. Hlaðan var í notkun alla tíð fram til ársins 1999. Talið er að tréverkið, þ.e. bitarnir inni í hlöðunni séu úr Jamestown, mannlausu skipi sem strandaði í Höfnum árið 1881, fullt af viði. Nú hefur Minjafélag Vatnsleysustrandar látið gera hlöðuna upp, lík og sjá má á meðfylgjandi mynd.

Hátún

Kálfatjörn

Hátún.

Hátún sem var grasbýli frá kirkjujörðinni fór í eyði 1920 en föst búseta var tekin upp aftur um 1960. Í millitíðinni var þar sumarbústaður. Öll bæjarhúsin hafa verið jöfnuð við jörðu fyrir utan hleðslur kálgarða sem sjást enn. Um tíma bjuggu ungverskir flóttamenn í Hátúni.

Fjósakot

Fjósakot
Fjósakot var grasbýli frá Kálfatjörn og fór í eyði 1920. Bærinn stóð á stórum hóli í miðju túni og var talinn með hæstu bæjarstæðum allra bæja í Vatnsleysustrandarhreppi. Þar sér nú aðeins í grjóthrúgur en moldin úr rústunum var tekin til uppfyllingar í kirkjugarðinn á Kálfatjörn.

Móakot
Móakot
Móakot var grasbýli frá Kálfatjörn sem fór í eyði um 1940. Árið 1920 voru husakynnin í Móakoti orðin léleg. Þegar séra Árni Þorsteinsson andaðist árið 1919 var hús það er hann bjó í á Kálfatjörn rifið og Móakot byggt upp úr því efni. Sunnan við bæjartóftirnar er langur hár hóll, er nefnist Klapparhóll, oft kallaður Álfhóll því trúa lá á að þar byggi huldufólk.

Bjarg

Bjarg

Bjarg.

Bjarg var tómtús frá kálfatjörm með kálgarð og dálítinn túnblett. Bærinn fór í eyði árið 1934. Árið 1910 fluttu að Bjargi ung hjón, Ingimundur Guðmundsson, frá næsta bæ, bakka og Abigael Halldórsdóttir frá Hóli við Öndunarfjörð. Ingimundur var mikill hagleiksmaður sem lýst er í ljóðlínum Jóns Helgasonar frá Litlabæ:

Ef ár þurfti’ að smíða’ eða oka í hrip,
upp-hressa bæ eða gera við skip
– þó væru’ei laun nema’ þakka —
járnklæða þak eða járnskóa hest,
þá jafnan var viðkvæðið: “Það er vist best
að biðja hann Munda á Bakka”.

Bakki
Bakki
Aldamótin 1990 var Bakki sagður tómthús frá kirkjujörðinni. Ekki leið þó á löngu þar til ábúandinn, Bjargmundur Guðmundsson, bróðir Ingimundar, var búinn að rækta svo umhverfis Bakka að úr varð góð grasjörð. Eftir það var Bakki skráður grasbýli. Þeir bræður á Bakka og Bjargi voru samhentir og gerðu vel að jörðum sínum, þó kirkjujarðir væru. Þrívegis svo vitað sé hefur Bakki verið fluttur vegna ágangs sjávar. Fysri Bakki er kominn útí sjó, annar Bakki er í dag rústir á sjávarkambinum og núverandi Bakki sem fluttur var árið 1904 stendur vel uppí túni.

Litlibær

Kálfatjörn

Vanræktur hestasteinn við Kálfatjörn.

Litlibær var tómthús í upphafi en síðar grasbýli frá Kálfatjörn þegar leyfi fékkst frá prestinum á Kálfatjörn til að rækta tún norður og austur af bænum. Litlibær var byggður úr tofbæ í timburhús árið 1906. Það timburhús var flutt og endurbyggt við Hverfisgötu í Hafnarfirði. Grunnur Litlabæjarhússins stóð í 13 ár eða þar til Ingimundur á Bjargi byggði þar nýtt íbúðarhús 1934 og fluttist þangað frá Bjargi.

Kálfatjörn

Kálfatjörn – skilti.

Selhólar

Á vefsíðu Minjastofnunar Íslands 26. mars 2021 árið 2021 er fjallað um “Náttúruvá á Reykjanesi:

Minjastofnun Íslands“Það hefur ekki farið fram hjá neinum að fyrir viku síðan hófst eldgos á Reykjanesi. Starfsmenn Minjastofnunar hafa síðustu vikur unnið að því að taka saman gögn um þekktar minjar á svæðinu og hófst sú vinna eftir að ljóst varð að minjum gæti stafað hætta af yfirvofandi náttúruvá. Í ljós kom að töluverður hluti af þeim minjum sem skráður hefur verið á hættusvæðinu var ekki uppmældur, sem er í dag hluti af þeim gögnum sem þarf að liggja fyrir til þess að fornleifaskráning teljist fullnægjandi samkvæmt þeim stöðlum sem Minjastofnun setur. Því var ákveðið að fara á þessa staði og mæla minjarnar upp, auk þess að taka þar nýjar ljósmyndir sem og drónamyndir ef veður leyfði.

Þegar eldgosið braust út í Geldingadal að kvöldi föstudagsins 19. mars hafði fornleifafræðingum hjá Minjastofnun tekist að heimsækja og mæla upp stóran hluta þeirra minja sem taldar voru í mestri hættu vegna yfirvofandi eldsumbrota. Má þar nefna að meginþorri minja í hættu á Ísólfsskála höfðu verið mældar upp sem og minjar við Keilisveg og fjöldi minja á og við Vogaheiði sunnan Reykjanesbrautar.

Sel á Reykjanesi

Gjásel

“Sel, eða selstöður, voru staðir sem nýttir voru á sumrin – stundum einnig kölluð sumarhús. Þangað var farið með búsmala, kindur og/eða kýr, til að halda þeim frá heimatúnum á meðan grassprettan var sem mest. Í seljum voru skepnurnar mjólkaðar og mjólkin unnin. Einnig eru vísbendingar um að fleiri athafnir hafi farið fram í seljum, s.s. nýting á öðrum auðlindum í umhverfinu. Í seljum voru hús sem hýstu þá sem þar dvöldu auk kvía/aðhalds (til að smala skepnunum í til mjalta); eldhús, geymslur/búr og jafnvel fleiri rými. Venjan var að hver bær ætti sitt sel, þótt stundum hafi þau verið samnýtt, og eru selin því oft nefnd eftir heimabænum. Í góðum seljalöndum má oft finna mörg sel, frá mörgum bæjum en jafnvel einnig frá mismunandi tímum. Seljabúskapur hófst á Íslandi snemma eftir landnám og var stundaður allt til aldamóta 1900, en þó mislengi eftir landshlutum. Seljabúskapur var ekki eingöngu stundaður fyrir efnahagslegan ávinning og betri landnýtingu heldur einnig sem hluti af samfélagslegri hefð sem tekin var að heiman með fyrstu landnámsmönnunum en var haldið við hér í nýju landi. Selin hafa einnig haft pólitíska þýðingu en með þeim gátu menn helgað sér land, jafnvel langt frá bæ og þannig sýnt vald sitt. Seljabúskapur hefur því margar hliðar sem áhugavert er að skoða í samhengi við samfélag, efnahag og landslag hvers svæðis fyrir sig.

Selstöður

Brunnastaðasel
Á Vogaheiði er að finna leifar a.m.k. 20 selja, bæði frá bæjum sunnan- og norðanvert á Reykjanesskaganum. Sum selin eru einföld að gerð og þeim hafa aðeins tilheyrt ein til tvær litlar byggingar en önnur eru stærri og augljóst að þar hefur margvísleg starfsemi farið fram. Vegna þess hve heimahagar við bæi á Vatnsleysuströnd voru almennt rýrir, hefur verið nauðsynlegt að hafa í seli að sumri, þá sérstaklega kýr. Vatnsskortur á heiðinni hefur án vafa aftrað veru selsmala og annarra sem í seli voru en í Jarðabókinni er sagt frá því að fólk hafi þurft að flytja heim úr seli vegna vatnsleysis og uppblásturs. Heimildir eru til um vatnsflutninga á hestum til selja í Hafnahreppi og einnig að bræða hafi þurft snjó úr gjám til að fá vatn. Hið sama hefur án efa átt við um selstöðurnar í Vatnsleysustrandarhreppi þegar þurrviðrasamt var.

Ótrúlegt er að hugsa til þess að í þessu hrjóstruga landslagi sem ríkjandi er á Vogaheiðinni, leynist allur þessi fjöldi af seljum. En þegar betur er að gáð eru þar fjölmargir grænir grasbalar, oft undir hól eða klettabarði á skjólsælum stað. Hér verður skýrt frá nokkrum völdum seljaminjum á svæðinu en ljóst er að af nægu er að taka.

Fornasel

Fornasel – uppdráttur ÓSÁ. Úr BA ritgerð um “Sel vestan Esju”.

Fornasel er lítil selstaða, staðsett rétt um 700 m sunnan við Reykjanesbrautina. Selið stendur á lítilli hæð á grónu svæði. Heimildum ber ekki saman um frá hvaða bæ var haft þarna í seli. Ein heimild segir selið vera frá Þórustöðum en önnur heimild segir selið vera frá Landakoti og að það heiti Litlasel. Fornasels er ekki getið í Jarðabókinni 1703 eða annars sels á þessum slóðum en bókin nefnir þó Fornuselshæðir, sem líklega eru nokkuð ofar í heiðinni. Tóftir selsins standa mót vestri og sjást þar þrjár tóftir, allar vel greinanlegar, auk þess sem ein stök kví stendur litlu neðar. Rétt fyrir ofan hólinn, að austanverðu, er lítið vatnsból með grjóthleðslu í kring.

Knarrarnessel

Knarrarnessel – uppdráttur ÓSÁ. Úr BA ritgerð um “Sel vestan Esju”.

Knarrarnessel er u.þ.b. á miðri Vogaheiðinni, um 2 km suðvestur af Fornaseli. Í Knarrarnesseli er mest flatlendi umhverfis sel miðað við aðrar selstöður á heiðinni. Selstaðan er stórt með mörgum tóftum en líklegt er að flestir bæir í Knarrarnesshverfi hafi haft selstöðu þar og útskýrir það því fjölda bygginga sem þar hefur staðið. Því til stuðnings nefna heimildir að auk Knarrarness hafi Litla-Knarrarnes og Ásláksstaðir haft í seli í selstöðunni. Vatnsból selsins er í hól, um 100 m norðvestan við selið. Þegar loftmynd af svæðinu er skoðuð má sjá hvernig selrústirnar raðast á þennan litla grasbala í auðninni, sem einungis er um 150 m í þvermál.

Gjásel

Gjásel í Vogaheiði – uppdráttur ÓSÁ. Úr BA ritgerð um “Sel vestan Esju”.

Gjásel er staðsett á miðri Vogaheiðinni og rétt ofan við það er Gjáselsgjá. Ekki er vitað með vissu frá hvaða bæ var haft þar í seli en selstaðan er staðsett nálægt austurmörkum Brunnastaðasels. Í sumum heimildum er sagt frá því að selið hafi verið frá Brunnastöðum en aðrar heimildir nefna Hlöðunes í því samhengi. Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá 1703 segir að selstaða Hlöðuness, sem staðsett var ofar í heiðinni, sé aflögð vegna uppblásturs en Brunnastaðir eru þá enn með nothæfa selstöðu. Af því má leiða líkur að Gjásel hafi verið frá Hlöðunesi eftir að Hlöðunessel er lagt af. Stærð Gjásels gæti reyndar bent til þess að fleiri en einn bær hafi haft þar í seli en þar er að finna tóftir af átta húsum sem standa þétt í beinni röð undir gjárveggnum og mælast tóftirnar rúmir 30 m á lengd. Í öðrum seljum á heiðinni eru byggingar yfirleitt í pörum eða í mesta lagi þríhólfa byggingar. Tóftirnar eru vel greinanlegar og veggir enn uppistandandi sem bendir til þess að selið sé í yngra lagi, jafnvel með þeim yngstu á heiðinni.

Selsvellir

Selsvellir – uppdráttur ÓSÁ. Úr BA ritgerð um “Sel vestan Esju”.

Þó að gosið, sem hófst í Geldingadölum að kvöldi 19. mars, hafi enn ekki eyðilagt neinar fornminjar má nefna að vísindamenn telja líklegt að gosið geti verið upphafið að nýju gostímabili. Ef svo reynist vera er nokkuð ljóst að minjar munu áfram vera í hættu og þá á öllu Reykjanesinu. Við mat á fjölda þeirra fornminja, sem settar voru í hættuflokk í tengslum við gosóróann sem hófst í byrjun mars 2021, var stuðst við gögn stofnunarinnar um minjar sem þekktar eru á svæðinu og heimilda hafði verið aflað um. Það er þó alveg ljóst að þau gögn eru ekki tæmandi listi þar sem heildarskráning fornleifa á svæðinu hefur ekki farið fram. Sé einungis talað út frá seljaminjum má nefna að talið er líklegt að á Reykjanesskaga öllu sé að finna minjar um 250 selstaða og eru þá ótaldir allir aðrir minjaflokkar sem á skaganum er að finna. Því er ljóst að mikið verk er fyrir höndum við að rannsaka og skrá þessar minjar, áður en illa fer.”

Framangreindar hugleiðingar Minjastofnunar Íslands eru að mörgu leiti svolítið skondnar og því ástæða til að gera við þær nokkrar athugasemdir:

Reykjanes

Reykjanes – kort frá 1903.

Í fyrsta lagi virðist vera um einhverja hugtakavillu í höfðum starfsfólks Fornleifastofnunar Íslands þegar fjallað er um “Reykjanes”; Reykjanes er einungis ysti hluti Reykjanesskagans. Allt austan þess tilheyrir Skaganum og ber því réttilega að ritast allt slíkt; á “Reykjanesskaganum”.

Sel vestan Esju

Sel vestan Esju. BA-ritgerð frá 1994.

Í öðru lagi hefur vitneskja um selsminjarnar á Reykjanesskaganum ávallt legið fyrir fótum þeirra er hafa haft vilja til að kanna þær. Ekki þurfti eldgos til. Minjastofnun lætur líta svo út að starfsfólkið sé að forskrá óskráðar minjar á svæðinu. Því fer víðs fjarri.

Örnefni og gönguleiðir á Vatnsleysuströnd

Örnefi og gönguleiðir á Vatnsleysuströnd – Sesselja Guðmundsdóttir.

Í þriðja lagi liggur ljóst fyrir að Fornleifastofnun Íslands hefur fram að þessu dregið lappirnar varðandi nauðsynlegar skráningar fornleifa á Reykjanesskaganum, eins og svo margsinnis hefur verið bent á í gegnum tíðina.
Í fjórða lagi eru selin á Reykjanesskaganum ekki “um 250” talsins. Þau eru u.þ.b. 400 talsins.

Sel vestan esju

Sel vestan Esju – BA-ritgerð 2007.

Í fimmta lagi hafa öll sel “Vestan Esju” þegar verið skráð – sjá m.a. fyrirliggjandi BA-ritgerð um sel á vestanverðum Reykjanesskaga. Í þeim skrifum kemur t.d. fram allt framangreint og fjölmargt annað að auki.
Í sjötta lagi er augljóst að starfsfólk Minjastofnunar virðist haldið einhvers konar minnimáttarkennd gagnvart öðrum er best þekkja til svæðisins. A.m.k. hefur það ekki leitað til þeirra er gerst þekkja til þeirra minja er það geymir.

Sýrholt

Sel í Sýrholti (Fornusel).

Í sjöunda lagi er augljóst, m.v. fyrirliggjandi skráningu starfsfólks Minjastofnunar, að margar minjar á svæðinu er ekki að finna í þess skrám. Það þarf því að gera betur.
Í áttunda lagi virðist vera um handahófskennda leit að þegar skráðum fornleifnum hafði verið að ræða. Ekki hafa verið gerðar tilraunir til að leita uppi óskráðar fornleifar, sem víða leynast.
Hægt væri að halda lengi áfram með ábendingar þær er betur mætti fara í framangreindum starfsháttum Minjastofnunar Íslands…

Heimild:
-Minjastofnun Íslands, apríl 2021.

Kolhólssel

Kolhólssel.

Eldborg

Í Náttúrufræðingnum 1983 fjallar Jón Jónsson, jarðfræðingur, um Eldborg undir Trölladyngju, efst í Afstapahrauni, og reynir að áætla aldur hraunsins, sem úr henni rann:

Eldborg

Eldborg – kort.

“Þess skal og getið að gos það er orðið hefur rétt norðan við Trölladyngju og myndað gíginn Eldborg sýnist hafa orðið um líkt leyti og Afstapahraun rann. Ég hef áður talið þetta hraun yngra en Afstapahraun (Jón Jónsson 1978) en ekki treysti ég mér til að telja þá niðurstöðu með öllu ótvíræða. Vel gætu þessi gos bæði hafa verið svo að segja samtímis og mætti þá raunar um það deila hvort um er að ræða eitt gos eða tvö. Einar Gunnlaugsson (1973) fann öskulag ofan við landnámslagið í Hörðuvallaklofa og er líklegt að það sé af þessum slóðum komið. Ekki verður hins vegar í það ráðið hvort það kann að vera úr Eldborg eða öðru eldvarpi í nágrenninu.”

Eldborginni hefur nú verið spillt vegna efnistöku.

Heimild:
-Náttúrufræðingurinn, 1.-4. tbl. 01.05.1983, Eldgos á sögulegum tíma á Reykjanesskaga – Jón Jónsson, bls. 135.

Eldborg

Eldborg undir Dyngju.

Víkingaskip

Í Náttúrufræðingnum 1983 fjallar Jón Jónsson, jarðfræðingur, um aldur Afstapahrauns milli Kúagerðis og Mávahlíða:

Afstapahraun
“Áður hef ég leitt nokkur rök að því (Jón Jónsson 1978) að nafnið á þessu hrauni sé afbökun úr Arnstapa — enda er hitt nafnið lítt skiljanlegt.
Ekkert hefur verið vitað með vissu um aldur þessa hrauns. Þorvaldur Thoroddsen (1925, bls. 187) segir raunar að það sé „in aller Wahrscheinlich nach bei Ausbrúcken in historischer Zeit hervorgebrochen”, en ekki fer hann í þessu eftir öðru en
unglegu útliti hraunsins.
Afstapahraun
Í norðanverðu hrauninu eru nokkrir óbrennishólmar og eftir að athuganir meðfram vesturbrún hraunsins höfðu ekki borið árangur, leituðum við Sigmundur Einarsson jarðfræðingur fyrir okkur nyrst í einum þessara hólma.
Eftir að hafa grafið á nokkrum stöðum við hraunröndina töldum við okkur hafa fundið landnámslagið, sem liggur inn undir hraunið. Þar eð ég var ekki fyllilega ánægður með sniðið fór ég aftur á staðinn og gróf lengra inn undir hraunið. Þar fann ég landnámslagið mjög greinilegt með þess einkennum, ljóst að neðan en dökkt að ofan. Þetta má vel greina á ljósmyndinni (5. mynd) ef hún prentast sæmilega. Þar með er ljóst að Afstapahraun er runnið á sögulegum tíma. Ekki heppnaðist að finna gróðurleifar nothæfar til aldursákvörðunar.”

Afstapahraun

Í Afstapahrauni.

Í Andvara 1884 segir Þorvaldur frá Afstapahrauni í riterð sinni “Ferðir á suðurlandi sumarið 1883”:
“Afstapahraun hefir runnið alveg niður í sjó hjá Kúagerði og armur úr því nærtöluvert til vesturs; mestur hluti þessa hrauns hefir komið frá Trölladyngju, on þó virðist töluvert hafa komið úr gígunum við Máfahlíðar. Upp úr Afstapahrauni ofauverðu stendur einstakt móbergsfell, sem heitir Snókafell. Strandahraun eru þau hraun, sem liggja fyrir vestan Afstapahraun, on hinn eiginlegi Almenningur er á milli Afstapahrauns og Kapelluhrauns.”

Afstapahraunið er víðast hvar ill yfirferðar, einkum að austan-, sunnan- og norðanverðu. Að vestanverðu er það jafnara og greiðara yfirferðar, einkum er kemur norður fyrir Rauðhóla. Tóurnar eru óbrennishólmar í miðju hrauninu – sjá HÉR.

Heimildir:
-Náttúrufræðingurinn, 1.-4. tbl. 01.05.1983, Eldgos á sögulegum tíma á Reykjanesskaga, Jón Jónsson, bls. 134.
-Andvari, 1. tbl. 01.01.1884, Ferðir á suðurlandi sumarið 1883 – Þorvaldur Thoroddsen, bls. 50-51.

Afstapahraun

Afstapahraun – kort.

Keilir

Gestur Guðfinnsson fjallar um “Kynnisferð á Keili” í Alþýðublaðinu árið 1958″

“Keilir er ekki hátt fjall. Skýjakljúfar New-Yorkborgar myndu bera höfuð og herðar yfir hann ef þeir væru settir niður við hliðina á honum, og meira en það. Flest fjöll í nágrenni Reykjavíkur eru hærri og stærri en hann, samt vita fleiri deili á Keili en öðrum fjöllum, sem sjást af bæjarhlaði Reykvíkinga, hann skipar sitt rúm á Reykjanesskaganum með mikilli prýði, og hræddur er ég um, að margur myndi sakna vinar í stað, ef hann væri horfinn af sjónarsviðinu.

Keilir

Keilir.

Ég hef stundum gert mér það til gamans á ferðalögum suður með sjó að fara óvirðingarorðum um hann, sagt eitthvað á há leið, að svona smáþúst væri tæplega hægt að kalla fjall, þetta væri hálfgerð hundabúfa, sem ekki væri nafn gefandi. Æfinlega hefur einhver ferðafélaganna risið upp til varnar Keili, stundum Suðurnesjamaður, stundum ættingi einhvers Suðurnesjamanns, Jafnvel í þriðja eða fjórða lið, eða þá Reykvíkingur, og mótmælt kröftuglega slíkum svívirðingum, eins og hverju öðru guðlasti, ég veit ekki, hvort sumir fyrirgefa mér ævilangt. Hann virðist eiga mikinn og traustan flokk forsvarsmanna og aðdáenda. Og furðulega margir þykjast eiga Keili.

Keilir

Keilir.

Fjallið mitt, segja þeir, og það er auðheyrt á röddinni, að annað eins fjall muni vandfundið á jarðkringlunni. Ekki veit ég, hvað stjórnarskráin kann að segja um allan þennan eignarrétt. kannski má véfengja hann, kannski er hann líka öllum öðrum eignarrétti æðri og meiri.
En þó að Keilir sé þannig mikils metinn og dáður og eigi ítök í mörgum og margir eigi ítök í honum, þá eru þeir næsta fáir, sem gera sér það ómak að heimsækja þetta fyrirfjall Reykjanesskagans. Þó ber það við. Ekki alls fyrir löngu stefndi Jóhannes Kolbeinsson, hinn vinsæli og vel þekkti fararstjóri Ferðafélags Íslands, þangað liði sínu, tveim tylftum kvenna og karla, í virðingar- og kynningarskyni. Sú heimsókn var mikill sómi fyrir fjallið. Þetta var fríður flokkur og glæsilegur, svo sem vera bar og slíkt fjall á skilið.

Keilir

Keilir – Oddafell nær.

Það var mikið blíðskapar veður þennan dag, logn og sólskin um allar jarðir, sjórinn sléttur og blár bátur á miði. Snæfellsiökull skein í allri sinni dýrð handan við flóann. Meðfram Reykjanesveginum gægðist græn vornálin upp úr hvítum þúfnakollunum. Ekki segir af reisunni fyrr en komið var suður undir Vatnsleysu á Vatnsleysuströnd. Venjan hefur verið að ganga að Keili frá Kúagerði, sem er í vesturjaðri Afstapahrauns. Það er líklega tveggja tíma gangur. Nú hefur verið rudd akbraut af veginum norðan Vatnsleysu alla leið upp á Höskuldarvelli, og styttir það gönguna til muna. Þegar að þessum afleggjara kom, var hann lokaður með digurri járnkeðju, læstri. Sankti-Pétur geymir lykilinn að hinu gullna hliði himnaríkis og hleypir engum óverðugum inn í það dýrðarland, og Pétur er samvizkusemin sjálf.

Keilir

Keilir.

Margar sögur eru sagðar af dyravörzlu Péturs, en aldrei hefur heyrzt, að hann hafi neitað fjallamanni um inngöngu. Bóndinn á Vatnsleysu geymir hins vegar lykilinn að hinum nýja vegi, sem liggur um Afstapahraun á Höskuldarvelli, leiðinni að hinu dýrlega fjalli, Keili. Mér er ekki kunnugt, hvort sömu reglur gilda þarna og hjá Pétri, nema Jóhannes talaði við bóndann og fékk lykilinn, enda var þetta allt réttlátt fólk.
Höskuldarvellir liggja norðvestan undir Trölladyngju. Þar er allmikið gróðurlendi og sauðland gott. Hiti er þarna í jörðu, og leggur víða gufu upp úr hraununum í kring, en heimildir munu vera til um gos á þessum slóð um á 14. öld. Af Höskuldarvöllum er stutt og létt ganga að Keili. Liggur leiðin fyrst yfir lágan hæðarhrygg, Oddsfell, en síðan um mosagróið apalhraun að fjallinu.

Keilir

Á leið á Keili.

Keilir er eins og nafnið bendir til, keilulaga fjall, hæðin er aðeins 379 m. yfir sjávarmál, en varla mikið meira en 250 m., ef miðað er við hraunin í kring. Það er því engin sérstök þrekraun að ganga á fjallið, til þess þarf ekki meiri karlmennsku en guð hefur gefið venjulegu fólki, enda komust allir á tindinn, þó að sumir ættu að vísu dálítið erfitt með pundin sín. Keilir er móbergsfjall með grágrýtishúfu á kollinum, sem hefur eflaust verið honum mikil vörn og hlífiskjöldur gegn eyðingaröflum vatns og veðra. Reykvíkingar þekkja hann bezt í bláma fiarlægðarinnar eða hvítum vetrarlit. Stundum slær á hann rauðleitum bjarma að kvöldlagi. Þá er hann fegurstur. Ásýnd Keilis er eirrauð sem egypzkur píramíði, segir hið góðkunna Suðurnesjaskáld, Kristinn Pétursson, einhversstaðar. Þegar komið er að fjallinu og dýrðarljómi fjarlægðarinnar horfinn, ber aftur á móti mest á gráum og móbrúnum lit, skriður og klettar eru einkenni höfðingjans, gróður fyrirfinnst ekki svo teljandi sé, það verður varla slitið upp strá til að tyggja.

Keilir

Keilir og Keilisbörn, sem sumir nefna Hrafnabjörg.

Af Keili blasir við allur fjallahringurinn umhverfis Faxaflóa. Að þessu sinni var umgjörðin um flóann óvenjulega hvít á að líta og glampandi björt í sólskininu. Hins vegar var næsta umhverfi Keilis, Reykjanesskaginn sjálfur, dálítið harðneskjulegur og dökkur á brún og brá að vanda: gömul eldvörp, dyngjur, og storknuð hraun. Þó má víða sjá gras og gróðurvinjar og mosinn breiðir sig yfir úfin hraunin, mjúkur og þykkur. Í norðaustri, upp af Kaldárbotnum, rís Helgafell og Valahnúkur, þar sem Farfuglar eiga sitt Valaból.

Fjallið eina

Fjallið eina.

Þangað er líklega um fjögra tíma gangur frá Keili. Um það bil miðja vegu milli Keilis og Helgafells er lítið, sérstakt fell, Fjallið eina. Nafnið býr yfir einkennilegum töfrum. Ætli eitthvert gott fyrirtæki í bænum þurfi ekki bráðum á því að halda. Það er sem sé mikið í tízku að klína allskonar örnefnum og fjallaheitum á veitingahús og verzlunarfyrirtæki, jafnvel smá búðarholur og sjoppur eru látnar heita í höfuðið á sögufrægustu stöðum landsins, minna má ekki gagn gera. Þetta er eins og að hafa þjóðsönginn fyrir rokktexta á hlöðuballi. Fjallið eina hefur ennþá sloppið við sæmdina.

Sogasel

Í Sogaseli.

Að lokinni nokkurri viðdvöl á tindi Keilis var haldið að Sogaseli, eyðibýli eða seli, ekki alllangt frá vesturjaðri Trölladyngiu, og etinn dagverður. Það er eitthvert sérkennilegasta bæjarstæði eða bólstaður, sem ég hef séð. Húsin hafa staðið á flötum, grasigrónum gígbotni. Gígurinn er á að gizka eitt til tvö hundruð metrar í þvermáL, hringlagaður, girtur þverhníptum hamravegg á þrjá vegu úr grábrúnu og eldrauðu bergi. Þetta hlýtur að vera sérstaklega skjólsæll og veðursæll staður. Allmiklar húsarústir eru þarna á gígflötinni. Kunnugir þekkja sjálfsagt sögu þessa staðar, en ekki kann ég skil á henni, líklegt má þó teljast, að þarna hafi verið hafður nautpeningur í seli, fremur en að um sjálfstætt býli eða búskap hafi verið að ræða. Einhver skaut fram þeirri spurningu, hvort öruggt væri, að þarna gæti ekki gosið aftur, en enginn hafði bréf upp á það. Búskapurinn í Sogaseli minnir á fuglinn hans Jóns úr Vör, sem gerði sér hreiður í fallbyssukjaftinum. Ekki er mér kunnugt hvenær staðurinn fór í eyði. Líklega hefði slík gestakoma sem þessi þótt tíðindum sæta í Sogaseli á þeim tíma, sem fólk hafði aðsetur þar.
Þegar staðið var upp frá dagverði í Sogaseli, var förinni haldið áfram í litskrúðugri halarófu suður Sogin áleiðis til Krýsuvíkur. Sólin skein á vinalegar hlíðar Grænudyngju, Að baki reis Keilir, einn og sérstæður, og bar við bláa heiðríkju vesturloftsins. Framundan blöstu við hálsar og hraunflákar.
Bráðum mundi leið okkar liggja framhjá Djúpvatni, þar sem nykurinn býr.” – Gestur Guðfinnsson.

Heimild:
-Alþýðublaðið, 106. tbl. 13.05.1958, Kynnisför á Keili, Gestur Guðfinsson, bls. 7.

Sogaselsgígur

Sogaselsgígur.

Knarrarneskirkja

Mánudaginn 21. október 2013 birtist stutt frétt á vf.is:
Vill reisa kirkju að Minna Knarrarnesi.

Knarrarneskirkja

Knarrarneskirkja.

Birgir Þórarinsson guðfræðingur og fv. varaþingmaður í Suðurkjördæmi hefur sent umhverfis-og skipulagsnefnd Sveitarfélagsins Voga umsókn um byggingarleyfi fyrir kirkju að Minna-Knarrarnesi samkvæmt aðaluppdráttum Óla Jóhanns Ásmundssonar arkitekts.
Umhverfis- og skipulagsnefnd álítur að byggingin samræmist aðalskipulagi en að liggja þurfi fyrir samþykkt deiliskipulag í samræmi við gildandi aðalskipulag og skipulagslög og skipulagsreglugerð svo unnt sé að veita byggingarleyfi.”

Þriðjudaginn 25. febrúar 2014 birtist eftirfarandi stuttfrétt í sama miðli:
Kirkja verður byggð að Minna-Knarrarnesi.

Knarrarneskirkja

Knarrarneskirkja.

Bæjarráð Voga hefur samþykkt erindi Birgis Þórarinssonar um byggingu 40 fermetra kirkju að Minna-Knarrarnesi. Með bréfi þann 12. febrúar sl. óskar Birgir eftir því að jafnframt að leitað verði eftir meðmælum Skipulagsstofnunar fyrir framkvæmdinni.
Loks kemur fram að stefnt sé að gerð deiliskipulags fyrir Minna-Knarrarnes á næstu mánuðum að ljúka þeirri vinnu innan 1 árs.”

Þegar langt var liðið á lokafrágang byggingarinnar var stefnt að vígslu Knarrarneskirkju sunnudaginn, þann 8. ágúst 2021:
“Kirkjuna reistu hjónin Birgir Þórarinsson og Anna Rut Sverrisdóttir en fyrir sex árum var tekin skóflustunga að þessari bændakirkju, sem er í 19. aldar stíl, í túninu hjá þeim hjónum að Minna-Knarrarnesi á Vatnsleysuströnd.

Draumur að rætast með kirkjunni.

Knarrarneskirkja

Knarrarneskirkja.

Mikið hefur verið lagt í kirkjuna og listmunina sem í henni eru. Altarissteinninn kemur úr fjörunni. „Í Mósesbók eru fyrirmæli um hvernig altari á að vera. Það skal gert úr óhöggnum steini. Ég var í gönguferð hér í fjörunni þegar ég sá þennan stein. Hann höfðaði sérstaklega til mín og passar fullkomlega sem altarissteinn. Það var síðan heljarinnar mál að flytja steininn inn í kirkjuna og koma honum vel fyrir, hann er um 350 kg. Fáeinum mínútum eftir að steinninn var uppsettur gerði jarðskjálfta upp á 5,4. Steininn sakaði þó ekki né þá sex karlmenn sem lyftu honum upp á stall,“ að sögn Birgis. Kirkjuklukkan er rúmlega 100 ára gömul skipsklukka og kirkjugólfið er sömuleiðis úr aldargömlum gólfborðum, sérstaklega unnin fyrir kirkjuna. Yfirsmiður er Ásgeir Þórisson, innréttingar smíðaði Ólafur Sigurjónsson, Forsæti Flóahreppi og arkitekt er Óli Jóhann Ásmundsson.

Knarrarneskirkja

Knarrarneskirkja. Altaristöfluna gerði úrkraínski listaðurinn Andrii Kolalenko.

Birgir leitaði út fyrir landssteinana með gerð listmuna. Þeir eru eftir handverks- og listamenn frá Úkraínu. Má þar nefna altaristöfluna en hún er gerð eftir forskrift Birgis. Predikunarstólinn er sömuleiðis gerður í Úkraínu en hann er eftirgerð af predikunarstól frá árinu 1594 og er á Þjóðminjasafninu. Birgir sá hins vegar alfarið um steinhleðsluna í kringum kirkjuna. „Þetta hefur verið gamall draumur hjá mér, að byggja kirkju í þessum gamla stíl, sameinar líka menntun og áhugamál.“

Knarrarneskirkja

Hjónin Anna Rut Sverrisdóttir og Birgir Þórarinsson (t.h.)  við Knarrarneskirkju.

Knarrarneskirkja var vígð framangreindan dag
“Knarrarneskirkja sem hjónin á Minna-Knarrarnesi, þau Birgir Þórarinsson og Anna Rut Sverrisdóttir, hafa reist á jörð sinni var vígð sem heimiliskirkja síðastliðinn sunnudag. Boðsgestum var stillt í hóf við athöfnina enda samkomutakmarkanir í gildi en athöfnin var einstaklega falleg og tókst vel til.

Knarrarneskirkja

Karl Sigurbjörnsson, biskup, annaðist vígslu Knarrarneskirkju.

Herra Karl Sigurbjörnsson, biskup, vígði kirkjuna og honum til aðstoðar voru séra Kristján Valur Ingólfsson, vígslubiskup, og séra Kjartan Jónsson, sóknarprestur Kálfatjarnarsóknar. Vígslan var hin heilagasta og við athöfnina söng Alexandra Chernyshova, sópransöngkona, úkraínskt þjóðlag en það voru handverks- og listamenn frá Úkraínu sem gerðu altaristöfluna, predikunarstólinn og fleiri muni sem prýða kirkjuna. Davíð Ólafsson, óperusöngvari, söng lagið Þitt lof, ó Drottinn og organisti var Ólafur Sigurjónsson.

Eftir athöfnina buðu hjónin til kaffisamsætis í þurrabúðinni Vík þar sem gleðin var allsráðandi enda ekki á hverjum degi sem jafn glæsileg kirkja sem þessi er vígð á Vatnsleysuströndinni.

Hjónin Anna Rut og Birgir mega vera stolt af þessu framtaki sínu enda Knarrarneskirkja glæsileg og vönduð í alla staði. Birgir sá sjálfur um steinhleðsluna umhverfis kirkjuna, en hefur eflaust fengið góðar ráðleggingar frá eiginkonunni – og allt handverk ber aðkomandi iðnaðar- og handverksmönnum gott vitni um hagleik og alúð.

Knarraneskirkja – Kirkjuvígsla 8. ágúst 2021 – upplýsingabæklingur:

Knarrarneskirkja

Altaristaflan er máluð af úkraínska listamanninum Andrii Kovalenko. Kristur er í miðdepli. Til beggja handa má þekkja andlit, bæði úr fortíð og nútíð. Altarið er náttúrlegur steinn úr Flekkuvíkurfjöru.

“Altari Knarrarneskirkju er óhöggvinn fjörusteinn úr Flekkuvíkurfjöru sem hvílir á traustum tréfótum sem Ólafur Sigurjónsson smíðaði.
Altaristaflan er máluð af úkraínska listamanninum Andrii Kovalenko. Kristur er í miðdepli. Undir mynd hans eru táknmyndir lands og þjóðar. Á vængnum til beggja handa eru fimm ættliðir. Á hægri vængnum má sjá Þórarinn Einarsson, útvegsbónda í sjóklæðum og feðgana Þórarinn Brynjólfsson, Birgi Þórarinsson og Hjalta, yngsta son Birgis. Á vinstri væng er margrét Þórarinsdóttir fyrrum húsfreyja í Knarrarnesi og við hlið hennar Anna Rut Sverrisdóttir núverandi húsfreyja. Þær klæðast báðar íslenskum búningum með gömlu Skálholtskirkju í bakgrunni. Minnir það á íslenska menningu, kirkjusögu og lífshætti fyrri alda. Náttúran birtist okkur í himninum, norðurljósunum, hálendinu, Snæfellsjökli, ölduróti hafsins, bæjartjörninni með lífríki vatnsins og íslenskum jurtum umhverfis.

Knarrarneskirkja

Knarrarneskirkja – prédikunarstóllinn.

Prédikunarstóllinn gerði Mykhalio Kozyr úkraínskur útskurðarmeistari. Hann er eftirgerð prédikunarstóls sem Guðbrandur Hólabiskup Þorláksson lét gera 1594. Stóllinn er á Þjóðminjasafni en var áður í kirkjuni á Fagranesi í Skagafirði og þar áður í Hóladómkirkju. Á spjöldum eru myndir málaðar af Andrii Kovalenko sem sýna guðspjallamennina Jóhannes, Mattheus, Lúkas og Pétur postula sem heldur á lyklum himnaríkis.
Á norðurhlið kirkjunnar er útskorin Kristsmynd, endurgerð af róðukrossinum frá Upsum, sem er ein elsta Kristsmynd á Íslandi, frá því á 11. öld. verkið gerði Mykhalio Kozyr útskurðarmeistari.

Knarrarneskirkja

Knarrarneskirkja – heilagur Nikulás, helgimynd eftir listamanninn Andrii Kovalenko.

Á suðurhlið er helgimynd eftir Andrii Kovalenko og sýnir heilugan Nikulás, sem forðum var verndari sjómanna og sæfarenda. Margar kirkjur við strendur landsins voru helgaðar honum til forna. Myndin er gjöf listamannsins til kirkjunnar.
Kaleikur og patína er gjöf Karls biskups Sigurbjörnssonar til kirkjunnar. Gripina gerði Ólöf Erla Bjarnadóttir, leirlistakona, í tilefni kristnihátíðar á Þingvöllum árið 2000.”

Heimildir:
-https://www.vf.is/frettir/vill-reisa-kirkju-ad-minna-knarrarnesi
-https://www.vf.is/frettir/kirkja-verdur-byggd-ad-minna-knarrarnesi
-https://www.vf.is/mannlif/vigsla-knarrarneskirkju-a-vatnleysustrond
-https://www.vf.is/mannlif/knarrarneskirkja-var-vigd-um-helgina
-Bæklingur með vígsluathöfn Knarrarneskirkju 8. ágúst 2021.
-Birgir Þórarinsson.

Knarrarneskirkja

Knarrarneskirkja. Hluti altarsistöflunnar. Hún endurspeglar íslenska menningu, náttúru og fólk í samspili við trú og kærleika.

Ásláksstaðir

Í bókinni “Mannlíf og mannvirki í Vatnsleysustrandarhreppi” lýsir Guðmundur Björgvin Jónsson (1913-1998) Ásláksstaðahverfi:

Atlagerði (rústir)

Ásláksstaðir

Atlagerði.

Atlagerði er í landi Ásláksstaða sem er móðurjörð þessa hverfis. Bærinn markaði upphaf Gerðistanga, en á þeim tanga stendur Gerðistangaviti, sem áður hét Atlagerðisviti. Vestan við Gerðistanga er Álasund eða Álfasund. Um þessar nafngiftir hefur verið meiningarmunur, en Narfakotsbræður, sem bjuggu allan sinn aldur í nálægð við vitann og gættu hans í áratugi höfðu ekki heyrt annað nafn á sundinu en Álfasund.

Atlagerði

Atlagerði.

Í Atlagerði bjuggu hjónin Ingimundur Ingimundarson, f. 1837 og kona hans, Sigríður Þorkelsdóttir, f. 1845. Ingimundur var fyrsti vitavörður Atlagerðisvita, með sömu kjör og Narfakotsbræður síðar (sjá þar). Ingimundur stundaði sjó ásamt því er til féll í landi. Hann hafði engar landnytjar og greiddi landskuld til Ásláksstaða. Ingimundur og Sigríður voru síðust búendur í Atlagerði. Þeirra börn voru m.a. Þórður, f. 24. mars 1883 er
drukknaði frá unnustu sinni, Pálínu, sem gekk þá með barn þeirra, Þórð. Annar sonur Ingimundar og Sigríðar var Guðmundur, f. 1888, sem drukknaði líka á besta aldri.

Fagurhóll (rústir)

Ásláksstaðir

Fagurhóll.

Fagurhóll var í suðausturhorni Ásláksstaðarjarðar, rétt utan túngarðsins. Hann var jarðlaus. Lítið veit ég um þetta kot, en fyrir aldamótin bjuggu þar hjón, ekki veit ég nafn konunnar, en maður hennar hét Jón. Pau áttu að minnsta kosti einn son, Magnús, og varð hann síðar maður „Gunnu fögru”. Frá Fagurhóli var þessi fjölskylda farin um aldamót, en í staðinn kominn þangað Jón Þórarinsson, f. 1869 og bústýra hans, Ástríður Ólafsdóttir, f. 1877. Móðir Jóns, Ingibjörg Eiríksdóttir, f. 1832, var hjá þeim. Hjá þeim ólst upp Stefán Runólfsson, bróðir Kristmanns, bónda og kennara á Hlöðversnesi (sjá þar). Jón og Ástríður voru fyrst vinnuhjú á Auðnum, hjá Guðmundi Guðmundssyni og trúlofuðust þar, en hófu síðan búskap í Fagurhóli. Hve lengi, svo og hver hefur verið síðasti búandi þar, er mér ekki kunnugt.

Móakot (í eyði)

Ásláksstaðir

Móakot 2021.

Móakot var tómthús frá Ásláksstöðum, en varð síðar grasbýli og um tíma tvíbýli. Það er á suðurhluta Ásláksstaðarjarðar og er nú sameinað aðaljörðinni. Margir hafa verið búendur þar, enda allvel hýst á eldri tíma mælikvarða.

Móakot 1

Ásláksstaðir

Þar bjuggu um aldamótin Bjarni Sigurðsson, f. 1855, og kona hans, Kristín Jónsdóttir frá Móakoti. Bjarni var bróðir Gísla í Minna-Knarrarnesi. Þeirra börn voru: 1) Jón, f. 1890 (dó ungur), 2) Margrét, f. 1891. Hennar maður var Ingvar Gunnarsson, kennari, frá Skjaldarkoti. Þau bjuggu í Hafnarfirði, 3) Sigurður, f. 1893. Kona hans Anna Bjarnadóttir frá Stóru-Vatnsleysu (sjá þar). Sigurður lést á sóttarsæng á besta aldri frá ungri konu og tveim dætrum. Þau bjuggu í Reykjavík. 4) Þórður, f. 11. sept. 1895, d. 3. nóv. 1981. Hann stundaði eigin bílaakstur. Kona hans var Sigríður Ketilsdóttir úr Laugardal, f. 20. apríl 1901. Þau bjuggu í Hafnarfirði.
Síðar bjuggu í Móakoti Jón Hansson og kona hans, Guðrún Árnadóttir, fyrir og um 1929-30. Guðrún var dóttir Árna á Halldórsstöðum.
Þar næst bjuggu þar Guðmundur Hvamms (sjá Hvamm) og kona hans, Filippía Nikulásdóttir. Síðan bjuggu þar ýmsir leiguliðar árlangt eða að sumri til, m.a. bjó þar Stefán Hallsson, kennari með konu sinni, Arnheiði Jónsdóttur, (sjá Vorhús í Vogum).

Móakot 2

Ásláksstaðir

Móakot.


Þar bjuggu Árni Sveinsson, ekkjumaður, f. 1840 og bústýra hans, Margrét Jónsdóttir, f. 1867, (systir Ingibjargar, konu Magnúsar á Innri-Ásláksstöðum). Árni átti son fyrir, Jón, f. 1868, ári yngri en bústýran. Árni og Margrét áttu einn son, Bjarna, er varð maður Ásu Bjarnadóttur frá Vorhúsum (sjá þar). Bjarni var f. 1898 og voru því 30 ár á milli hálfbræðranna. Þegar Árni hætti að búa lagðist Móakot 2 af.

Nýibær (áður Hallandi, nú í eyði)

Ásláksstaðir

Nýibær (Hallandi).

Nýibær í Ásláksstaðarhverfi stendur enn með litlum breytingum síðan árið 1917. Nýjabæjarjörðinni var skipt út úr Ásláksstöðum í upphafi, en var fyrir nokkrum árum, eða um 1970, keypt aftur undir Ásláksstaði.
ÁsláksstaðirUm aldamótin bjó í Nýjabæ Valgerður Grímsdóttir, f. 1850. Maður hennar, Kristján, var þá látinn. Þau höfðu átt dóttur, Guðrúnu, f. 1. ágúst 1872, d. 21. nóv. 1918 (úr spönsku veikinni). Guðrún hafði átt fyrir mann, Konráð Andrésson, f. 17. ágúst 1869, d. 10. sept. 1945. Valgerður Grímsdóttir átti húsið en leigði jörðina af ekkjunni Guðfinnu Halldórsdóttur, er áður hafði búið þar.
Um 1901 fóru Guðrún og Konráð að búa í Nýjabæ ásamt Valgerði, móður Guðrúnar, og höfðu þau jörðina á leigu áfram, en Guðfinna, eigandi jarðarinnar og seinni maður hennar Sigurður Jónsson voru þá húshjón á Auðnum hjá Guðmundi Guðmundssyni (sjá Auðna). Konráð byggði upp Nýjabæ árið 1911 og á meðan var fjölskyldan á loftinu á Ásláksstöðum og þar fæddist yngsta barn þeirra hjóna, Valdimar. Konráð vann hverja þá vinnu er til féll, en leigujörðin gaf aðeins af sér eitt kýrfóður. Hann fór því, eins og margir úr hreppnum á þeim tíma í kaupavinnu, og helst fór hann vestur í Dali, en þaðan var hann ættaður. Fyrstu árin fóru bæði hjónin vestur og þar fæddist fyrsta barn þeirra. Alls eignuðust þau 4 börn: 1) Kristján Níels, f. 1902, skipstjóra, bjó í Ytri-Njarðvík, d. 1985, 2) Guðrúnu, (lést ung), 3) Margréti, f. 1908, býr í Reykjavík, 4) Valdimar, f. 1911 atvinnubílstjóri, býr í Reykjavík.

Ásláksstaðir

Nýibær.

Jarðeigandinn, Guðfinna Halldórsdóttir, og seinni maður hennar, Sigurður Jónsson, vildu fá jörðina til eigin nota árið 1917. Þau voru þá búin að vera í 15 ár húshjón á Auðnum. Þegar Konráð varð að fara frá Nýjabæ, fékk hann inni á næsta bæ, Sjónarhóli, en hann átti Nýjabæjarhúsið og reif það til nota á öðrum stað. Guðfinna og Sigurður urðu því að byggja að nýju upp húsið, líkt og það er í dag. Ekki urðu þau lengi þar, því eftir tvö eða þrjú ár lést Sigurður, um 1919, og varð þá Guðfinna ekkja í annað sinn. Hún ól upp sér óskyldan dreng, Valgeir Jónsson, og fylgdust þau að meðan hún lifði. Guðfinna var mikil hannyrðakona og saumaði fyrir fólk og hafði nóg að gera. Hún seldi Nýjabæ árið 1921 og leigðu sér húsnæði eftir það meðan hún lifði.
ÁsláksstaðirKaupandinn að Nýjabæ var Sigurjón Jónsson, hálfbróðir Davíðs Stefánssonar bónda á Ásláksstöðum. Kona Sigurjóns var Guðlaug Guðjónsdóttir, systir Elísar á Efri-Brunnastöðum (sjá þar). Sigurjón og Guðlaug voru bæði dugleg og ráðdeildarsöm. Hann var lengst af vertíðarmaður í Ytri-Njarðvík, en á sumrin vann hann við búskap og hjá nágrönnum. Sigurjón var ávallt snar í snúningum þegar á þurfti að halda. Þegar Sigurjón lést árið 1955, brá Guðlaug búi og flutti til Keflavíkur og bjó þar til æviloka hjá Svövu dóttur sinni og Gesti tengdasyni sínum. Sigurjón og Guðlaug eignuðust 5 börn: 1) Svövu, bjó í Keflavík (látin), 2) Lilju, býr í Bandaríkjunum, 3) Einar Hallgrím, (lést ungur), 4) Guðjón (lést um tvítugt), 5) Karlottu, bjó í Bandaríkjunum (látin).
Næst Sigurjóni og Guðlaugu komu að Nýjabæ, Guðlaugur og Theódór, sonur hans. Þeir bjuggu þar í fá ár. Síðasti búandi þar var Guðjón Sigurjónsson og kona hans Sigurbjörg Sigurðardóttir. Hún var frá Seyðisfirði og hann var fæddur í Reykjavík, en alinn upp á Marðarnúpi í Ásahreppi í Austur-Húnavatnssýslu. Þau fluttu frá Nýjabæ um 1970 til Ytri-Njarðvíkur. Hann lést árið 1985. Þegar Guðjón fór frá Nýjabæ, seldi hann hreppnum forréttinn sem síðan seldi eigendum Ásláksstaða, og var jörðin þá komin til síns heima þó aldrei hafi farið langt.

Ytri-Ásláksstaðir (tvíbýli fyrir aldamót)

Ásláksstaðir

Ytri-Ásláksstaðir.

Ásláksstaðahúsið sem nú stendur var byggt um 1883-4 úr kjörviði sem seldur var á uppboði úr skipinu James Town, er strandaði í Höfnum og áður er getið um.
Um aldamótin bjuggu á Ytri-Ásláksstöðum Guðmundur Guðmundsson, bóndi, f. 1830 og kona hans, Ingibjörg Bjarnadóttir, f. 1833. Þau voru þar með tvær dætur sínar. Önnur hét Sigríður f. 1861, og var hennar maður Tómás er dó á besta aldri. Þau áttu eina dóttur, Guðbjörgu, f. 1894. Hin dóttir Guðmundar og Ingibjargar var Guðrún, f. 1866. Hún hóf búskap á Ásláksstöðum með Guðjóni J. Waage. (sjá Stóru-Voga). Dóttir þeirra var Ingibjörg Waage, en hún var sjúklingur meiri hluta ævinnar.
Árið 1912-13 voru systurnar, Sigríður og Guðrún Guðmundsdætur, á loftinu á Ásláksstöðum með dætrum sínum, Guðbjörgu og Ingibjörgu, en niðri munu hafa búið leiguliðar, Guðlaugur Hinriksson og kona hans, Guðrún Þórðardóttir. Einnig voru þar hjónin Sigurður Magnússon og kona hans, Kristín.
Fyrir 1920 voru Ásláksstaðir fá ár án búsetu, en þeir voru þá til sölu og var Gísli Eiríksson í Naustakoti umboðsmaður jarðeigenda. Árið 1920 kom kaupandi, Davíð Stefánsson frá Fornahvammi í Borgarfirði og kona hans, Vilborg Jónsdóttir frá Innri-Njarðvík. Höfðu þau búið fáein ár í Fornahvammi. Davíð var hálfbróðir Sigurjóns í Nýjabæ eins og áður er sagt. Hann var búmaður, enda fyrrverandi bóndi í Fornahvammi sem var blómlegt bú þegar best lét. Ekki mun Davíð hafa verið fyrir sjómennsku, en þeim mun meira fyrir landbúnaðinn. Vilborg, kona hans, var dugmikil kona og ráðdeildarsöm. Hún var mjög eftirsótt vegna handavinnu sinnar, en hún hafði numið karlmannafatasaum og lék allt í höndum hennar. Davíð og Vilborg eignuðust 9 börn og urðu flest þeirra fljótt vinnusöm og vel nýt til hvers sem var. Ekki komust þau öll til fullorðinsára. Börn þeirra voru: 1) Steingrímur Axel (lést tveggja ára), 2-3) Friðrik Fjallstað, tvíburi, hinn lést í fæðingu, 4) Guðmundur Lúðvík. Pessi börn fæddust í Fornahvammi, en að Ásláksstöðum fæddust: 5) Margrét Helga, (lést tveggja ára), 6) Helgi Axel, 7) Hafsteinn, rafvirki (látinn), 8) Þórir, rafvirki, 9) Marinó.
Eftir lát Davíðs árið 1959 bjó Vilborg áfram með þeim sonum sínum sem ekki voru þá farnir að heiman, en það voru Lúðvík og Friðrik. Mörg síðustu árin var Vilborg sjúklingur á spítala og lést árið 1985. Bræðurnir hafa haldið við jörð og húsum í eigu dánarbúsins. Nú eru Atlagerði, Móakot og Nýibær komin í eigu Ytri-Ásláksstaða, eins og þeir bæir munu hafa verið fyrr á tímum.

Sjónarhóll (í eyði)

Ásláksstaðir

Sjónarhóll.

Um 1886 byggði Lárus Pálsson „hómapati” Sjónarhól. Hann var fæddur 30. jan. 1842, d. 16. ágúst 1919. Lárus var einn af 23 systkinum frá Arnardranga í Kirkjubæjarhreppi, V-Skaftafellssýslu. Kona hans var Guðrún Þórðardóttir frá Höfða ( sjá Hellna). Árið 1885 keypti Lárus hálfa jörðina Innri-Ásláksstaði og árið 1886 skrifaði hann undir landamerkjasamning milli Ásláksstaðahverfis og Knarrarnesshverfis sem einn landeigandi að hálflendunni Innri-Ásláksstöðum. Lárus byggði nýtt hús austan við Innri-Ásláksstaði og nefndi það Sjónarhól. Það hús var timburhús og allt rúmgott, enda fór fjölskyldan stækkandi. Lárus stundaði útgerð, en mikill tími fór í að sinna sjúklingum með hómapatískum lyfjum og meðferð, enda var hann alþekktur um suðvesturland fyrir lækningar sínar. Lárus bjó á Sjónarhóli til ársins 1889 eða í 12 ár. Hann flutti þá til Reykjavíkur og lést þar árið 1919, 77 ára gamall.
Eftir Lárus komu að Sjónarhóli, Magnús Magnússon, f. 1858 og ráðskona hans, Guðný Bjarnadóttir, f. 1850. Þau voru með fósturbarn, Guðmund Sigmundsson, f. 1895 og einnig fylgdi þeim vinnumaður, Ásmundur Guðmundsson, f. 1878.

Ásláksstaðir

Sjónarhóll.

Síðan komu að Sjónarhóli hjónin Brynjólfur Ólafsson og kona hans, Jónína Jónsdóttir. Þau höfðu byrjað búskap í Reykjavík um 1907 en fluttu að Sjónarhóli um 1910 og bjuggu þar í 15 ár. Brynjólfur stundaði landvinnu og sjómennsku eins og títt var um þær mundir. Man ég hann sem meðalmann á hæð, herðabreiðan með dökkt hár og mikið efrivaraskegg. Sér í lagi bar á honum við kirkjuathafnir því hanri var söngmaður mikill og hafði það embætti að vera forsöngvari í Kálfatjarnarkirkju. Hann hafði mikila rödd og var leiðandi í söngnum.
Þau hjón eignuðust 4 börn: 1) Ólafíu Margréti, f. 1907 í Reykjavík og bjó hún þar síðar (látin), 2) barn er dó ungt , 3) Dagbjörtu f. 1912, bjó í Hafnarfirði (látin), 4) Ragnhildi f. 1917, býr í Reykjavík. Brynjólfur og Jónína ólu upp einn dreng, Svein Samúelsson, bróður Einars er ólst upp í Austurkoti í Vogum.
Árið 1925 var Brynjólfi boðinn kauparéttur að Sjónarhóli. Hafði hreppurinn eignast jörðina og Brynjólfur því verið leiguliði. Brynjólfur hafnaði kaupunum og flutti til Hafnarfjarðar og bjó þar síðan. Kaupandi að Sjónarhóli varð Friðfinnur Stefánsson frá Hafnarfirði (bróðir Gunnlaugs kaupmanns þar). Friðfinnur átti þessa eign ekki lengi, því að á sama ári seldi hann Sjónarhól Magnúsi Jónssyni og Erlendsínu Helgadóttur (sjá Halldórsstaði, Sjónarhól Vogum og Sjónarhól á Vatnsleysuströnd).
Ásláksstaðir
Sjónarhóll þótti góð bújörð og bætti Magnús hana allverulega en lagði einnig sjálfur í útgerð í nokkur ár. Síðar byggði hann nýtt hús árið 1929, það hús sem nú stendur. Reisulegt steinhús sem stendur suðaustur af gamla húsinu sem var orðið 43 ára gamalt og var að lokum notað fyrir gripahús. Smiður að nýja húsinu var Jón Helgason, mágur Magnúsar. Eftir 18 ára búskap Magnúsar á Sjónarhóli, eða árið 1943, seldi hann og var aðalástæðan sú að svokölluð heymæði gerði honum erfitt fyrir að stunda búskap og annað það að börnin voru farin að heiman. Hann var og útslitinn, með ágerandi kölkun í mjöðm sem síðar var reynt að laga í Noregi með litlum árangri. Börn Magnúsar og Erlendsínu voru: 1) Helgi (látinn), 2) Guðjón (lést ungur), 3) Ragnhildur, 4) Guðjón (nýlátinn ), 5) Anna Dagrún, 6) Guðrún Lovísa, 7) Guðlaug (látin), 8) Sigurveig, 9) Þórður, hálfbróðir (Guðríðarson), 10) Sesselja (lést barn). Magnús og Erlendsína fluttu í Voga og byggðu þar annan Sjónarhól. Kaupandi að Sjónarhóli á Vatnsleysuströnd var Vilmundur Jónsson fyrrv. landlæknir og eiga ættingjar hans hann nú.

Innri-Ásláksstaðir (horfnir)

Ásláksstaðir

Ásláksstaðahverfi,

Um aldamótin bjuggu á Innri-Ásláksstöðum Magnús Magnússon, f. 1860, og kona hans, Ingibjörg Jónsdóttir, f. 1860. Þeirra börn voru: 1) Jónína, f. 1888, 2) Vilborg, f. 1891, 3) Magnús, f. 1893, 4) Guðrún, f. 1894, 5) Margrét, f. 1895. Einn son átti Magnús fyrir hjónaband, Sigurð að nafni.
Jónína átti Helga Jónsson frá Nýjabæ hjá Stóru-Vatnsleysu. Helgi fórst með m/b. Hermanni frá Vatnsleysu árið 1916. Vilborg, dóttir Magnúsar, átti Ólaf Teitsson frá Hlöðversnesi og bjuggu þau í Reykjavík. Vilborg var sérstakur velunnari Kálfatjarnarkirkju og gaf henni m.a. altarisdúk. Einn sonur Ólafs og Vilborgar var Eggert prestur á Kvennabrekku í Dölum. Ingibjörg lést á Innri-Ásláksstöðum, en Magnús kvæntist aftur og hét sú kona Eyrún. Átti hún son, Einar Hallgrímsson, er hún hafði með sér.
Magnús og Eyrún bjuggu í nokkur ár á Innri-Ásláksstöðum en fluttu síðan til Hafnarfjarðar og dóu þar. Munu þau hafa verið síðustu búendur á Innri-Ásláksstöðum og lagðist jörðin síðan undir Sjónarhól.”

Vogarétt

Sýsluréttin árið 2022.

Í Örnefnalýsingu fyrir Ásláksstaði segir Gísli Sigurðsson:
“Landamerkjalýsing Ásláksstaðahverfis úr landamerkjabók Gullbringu- og Kjósarsýslu: Landamerkjalýsing þessi innibindur Ásláksstaðahverfi, en það eru þessar jarðir og býli: Sjónarhóll, Innri-Ásláksstaðir, Hallandi (Nýibær), Ytri-Ásláksstaðir og Móakot. Ásláksstaðahverfi tilheyrir land allt, girt og ógirt, á milli Hlöðuneshverfis að sunnan og Knarrarness að innan, svo langt til heiðar eða fjalls, sem land Vatnsleysustrandarhrepps nær.”

Í “Athugasemdum og viðbætum Friðriks og Lúðvíks Davíðssona á Ásláksstöðum” segir um Ásláksstaðasel:

Knarrarnessel

Knarrarnesel – uppdráttur ÓSÁ.

“Ásláksstaðasel á að vera austur af Hlöðunesseli milli þess og Knarrarnessels. Magnús á Sjónarhóli talaði um, að fé væri uppi í Huldum, segir Lúðvík. Friðrik gizkar á, að það séu hólar milli Hrafnagjár og Klifgjár, hægra megin við stíginn yfir Hrafnagjá. Þar er leitótt.”

Knarrarnessel

Knarrarnessel  að baki – vatnsstæði.

Í Jarðabók ÁM og PV árið 1703 segir um selstöðu Stóru Ásláksstaða: “Selstöðu á jörðin frí þar sem heita Knarrarness sel, og eru þar hagar í lakasta máta en vatnsbrestur til stórmeina.”
Um selstöðu Minni Ásláksstaða segir í Jarðabókinni 1703: “Selstöðu á jörðin frí þar sem heita Knarrarness sel og eru þar hagar í lakasta máta, en vatnsból brestur til stórmeina”.

Heimildir:
-Mannlíf og mannvirki í Vatnsleysustrandarhreppi, Ásláksstaðir, Guðmundur Björgvin Jónsson 1913-1998, bls. 261-272.
-Örnefnalýsing – Ásláksstaðahverfi. Gísli Sigurðsson skráði.
-Örnefnalýsing: Athugasemdir og viðbætur Friðriks og Lúðvíks Davíðssona á Ásláksstöðum.
-Jarðabók ÁM og PV 1703, Gullbringusýsla – Vatnsleysustrandarhreppur, Stóru Aslaksstader og Minne Aslaksstader, bls 129-133.

Ásláksstaðir

Ásláksstaði – nokkur örnefni.

Þráinsskjöldur

Í Wikipedia er fjallað um Þráinsskjöld á Reykjanesskaga:

Þráinsskjöldur

Þráinsskjöldur – gígurinn.

“Þráinsskjöldur er geysi mikil hraunbunga norðaustan undir Fagradalsfjalli á utanverðum Reykjanesskaga. Eldgígurinn er hraunfylltur og mjög ógreinilegur en frá honum hefur runnið mikið hraun, Þráinsskjaldarhraun, sem þekur meira og minna allt land frá Fagradalsfjalli og til strandar í norðri. Það myndar ströndina alla utan frá Vogastapa og inn að Vatnsleysuvík. Nokkur móbergsfjöll standa upp úr hrauninu svo sem Keilir og Keilisbörn, Litli Keilir og Litli Hrútur. Þráinsskjöldur er dyngja, þ.e. eldstöð af svipaðri gerð og Skjaldbreiður, en vegna landslagsáhrifa hefur hann ekki náð að verða reglulegt hringmyndað eldfjall. Hraunið hefur komið upp um einn hringmyndaðan gíg eins og í flestum dyngjum. Úlit hraunsins og hraunstraumanna í því bendir til þess að kvikan sem upp kom hafi verið þunnfljótandi og gosið virðist hafa staðið lengi. Á þeim langa tíma sem liðinn er síðan hraunið rann hafa myndast mikil misgengi, sprungur og gjár í því.

Þráinsskjöldur

Þráinsskjöldur og dyngjur Reykjanessagans fyrir u.þ.b. 6000 árum.

Örnefnið Þráinsskjöldur er gamalt heiti á hraununum upp af Vatnsleysuströndinni og er nefnt í Ferðabók Eggerts Ólafssonar og Bjarna Pálssonar. Jón Jónsson jarðfræðingur gróf það úr gleymsku þegar hann kortlagði hraun Reykjanesskagans og notaði það yfir eldstöðina í heild. Þráinsskjöldur er því strangt til tekið eldfjall þótt fáir myndu vilja kalla þennan lága og flata hraunskjöld fjall. Hæstu nibbur á gígbörmum ná 238 m y.s.

ÞráinsskjaldarhraunÞráinsskjaldarhraun er stærsta hraunið á utanverðum Reykjanesskaga, flatarmál þess er um 135 km². Sjór hefur staðið allnokkru lægra við ströndina þegar hraunið rann en hann gerir nú. Hraunið nær víða einn til tvo km út fyrir ströndina. Talið er að flatarmál þess neðansjávar sé um 11 km². Heildarflaratmálið er því 146 km². Rúmmál hraunsins hefur verið áætlað rúmir 5 km³. Vogar og byggðin á Vatnsleysuströnd er á hrauninu. Þráinsskjaldarhraun er meðal elstu hrauna á Reykjanesskaga, það rann í ísaldarlok, á sama tíma og ísaldarjökullinn var að hopa af skaganum. Sýnilegt er að eftir að hraunið rann hefur jökullinn vaxið á ný og flætt út á austasta hluta þess en síðan hopað fljótt til baka og hörfað inn til lands. Aldursgreiningar á skeljum í sjávarseti undir hrauninu sýna að það er um 14.100 ára.”

Tilvísanir:
-Kristján Sæmundsson 1995. Um aldur stóru dyngnanna á utanverðum Reykjanesskaga. Í: Björn Hróarsson, Dagur Jónsson og Sigurður Sveinn Jónsson (ritstj.). Eyjar í eldhafi. Safn greina um náttúrufræði til heiðurs -Jóni Jónssyni jarðfræðingi. Gott mál hf. Reykjavík, bls. 165-172.
-Kristján Sæmundsson og Magnús Á. Sigurgeirsson. Reykjanesskagi. Í: Júlíus Sólnes (ritstj.) Náttúruvá á Íslandi. Eldgos og jarðskjálftar. Viðlagatrygging Íslands/Háskólaútgáfan, bls. 379-401.
-Kristján Sæmundsson, Haukur Jóhannesson, Árni Hjartarson, Sigurður Garðar Kristinsson og Magnús Á. Sigurgeirsson 2010. Jarðfræðikort af Suðvesturlandi 1:100.000. Íslenskar orkurannsóknir.
-Jón Jónsson 1978. Jarðfræðikort af Reykjanesskaga. Skýringar við Jarðfræðikort. OS-JHD-7831, Orkustofnun.

Olivin

Ólinvínþóleiít.

Í Náttúrufræðingnum 1984 fjallar Sveinn P. Jakobsson um “Íslenskar bergtegundir II – Ólinvínþóleiít”:
“Í fyrstu greininni um íslenskar bergtegundir (Sveinn P. Jakobsson 1983) var fjallað um pikrít, upphafslegustu bergtegund þóleiísku bergraðarinnar. Nú er röðin komin að ólivínþóleiíti, sem er náskylt pikríti, en langtum algengara. Ólivínþóleiít er meðal þeirra bergtegunda sem nefndar hafa verið einu nafni basalt (blágrýti), aðrar basalt-tegundir eru þóleiít, „millibasalt” (hálf-alkalískt basalt) og alkalíólivínbasalt. Önnur nöfn hafa að vísu verið notuð um afbrigði basalts, svo sem grágrýti og kvarsþóleiít, en þau eru óþörf og í sumum tilvikum villandi. Verður nánar að því vikið síðar.

olivin

Ólinvínþóleiít.

Ólivínþóleiít er gráleit bergtegund, nokkuð breytileg að lit, en oftast grádökkgrá. Við ummyndun dökknar bergið og verður brúngrátt eða brúnsvart. Það er einkenni á ólivínþóleiíti, að það er mjög blöðrótt, en blöðrurnar eru yfirleitt smáar. Ólivínþóleiít er fín- til millikorna, þannig að einstakir kristallar bergsins eru greinanlegir með berum augum. Þó er þetta breytilegt og hefur áhrif á lit bergsins. Því smærri sem kornin eru, þeim mun dekkra er bergið. Ólivínþóleiít er þunnfljótandi við rennsli, og virðist allajafna storkna í helluhraun, en þau eru byggð upp af þunnum (oft 0,2-2 m á þykkt), óreglulegum hraunlögum, líkt og sjá má á veggjum Almannagjár við Þingvöll.

Þráinsskjöldur

Þráinsskjöldur.

Þráinsskjaldarhraun á Reykjanesskaga, skal hér tekið sem dæmi um ólivínþóleiít-bergmyndun, en það er norðantil á skaganum og nær óslitið frá Vatnsleysuvík að Vogastapa (Jón Jónsson 1978). Þráinsskjöldur er dyngjuhraun (hraunskjöldur) og hefur runnið frá stórum gíg sem er norðaustan undir Fagradalsfjalli. Hraunið, sem er dæmigert helluhraun, er um 130 km2 og er þannig eitt stærsta hraunið á Reykjanesskaga. Sé gert ráð fyrir að meðalþykkt sé 40 m, þá er rúmmál þess 5,2 km3. Þótt hraunið sé þannig mjög mikið, þá benda athuganir til þess að það sé allt mjög svipað að samsetningu. Víða er gott að ná sýni úr hrauninu í gjám og sprungum og einnig á nokkrum stöðum meðfram Reykjanesbraut.
Þessar steintegundir mynda Þráinsskjaldarhraun: Dílar (kristallar, sem skera sig úr að stærð og oftast eru sjáanlegir með berum augum) eru ólivín (grængult, Fo 80-85), með litlum innlyksum af krómspínli.
FlekaskilÓlivínþóleiít eins og það sem hér er lýst er algengt í miðgosbeltinu, og mest allt það berg sem hingað til hefur verið kallað grágrýti er sennilega ólivínþóleiít. Nafnið ólivínþóleiít höfðar til þess, að hér er um að ræða ólivínríkt þóleiít, og er fyrst notað hér á landi í núverandi merkingu af Carmichael (1964). Nafnið þóleiít er nú á tímum notað um basalt sem inniheldurpyroxen-tegundirnar ágít og pígeonít, en lítið eða ekkert ólivín.

Ólivínþóleiít, og þóleiít, eru langalgengustu bergtegundir landsins. Þóleiískt berg er að finna í miðgosbeltinu sem liggur um Reykjanesskagann, Langjökuls- og Hofsjökulssvæðin, um norðvesturhluta Vatnajökuls og þaðan norður í sjó. Allt basalt sem hefur myndast á þessum svæðum á nútíma og á jökultíma er annaðhvort ólivínþóleiít eða þóleiít (Sveinn P. Jakobsson 1972). Í hliðargosbeltunum er hinsvegar alkalískt berg. Einnig er talið, að allt basalt í jarðmyndunum sem eru eldri en u. þ. b. 2 milljónir ára, sé annaðhvort ólivínþóleiít eða þóleiít.

Í gosbeltunum og við þau eru það einkum stóru hraundyngjurnar sem eru af ólivínþóleiítgerð. Auk Þráinsskjaldar má í Reykjanes-Langjökulsbeltinu benda á Selvogsheiði, Borgarhóla á Mosfellsheiði, Reykjavíkurgrágrýtið, Lyngdalsheiði, Skjaldbreið, Skálpanes og Kjalhraun. Í norðurgosbeltinu eru Trölladyngja, Vaðalda, Kollóttadyngja, Grjótháls, Þeistareykjabunga og ýmsar fleiri dyngjur. Þessar dyngjur eru flestar taldar hafa myndast í einu gosi, hver fyrir sig. Þarna er oft um mikið magn gosefna að ræða; þannig er talið að við gosið í Skjaldbreið hafi myndast um 17 km3 hrauns (Guðmundur Kjartansson 1967).
Eins og gefur að skilja, hefur mikið verið fjallað um uppruna ólivínþóleiíts. Tilraunir sýna, að auk pikríts og skyldra bergtegunda, þá geti ólivínþóleiít einnig myndast við hlutbráðnun á möttulberginu peridótít. Nokkuð greinir menn á um á hvaða dýpi þetta gerist, en oftast er talað um 10-60 km undir yfirborði jarðar.
Hvað varðar uppruna ólivínþóleiíts á Íslandi, telja margir líklegt, að það myndist beint við hlutbráðnun á möttulefni á tiltölulega litlu dýpi undir miðgosbeltinu, (sjá t. d., O’Nions og Karl Grönvold 1973, og Níels Óskarsson o. fl. 1982). Einnig hafa verið leiddar líkur að því að það hafi þróast úr pikríti í kvikuhólfum í jarðskorpunni, einkum við hlutkristöllun (Sveinn P. Jakobsson o. fl. 1978).”

Tilvísanir:
-Carmichael, I. S. E. 1964. The petrology of Thingmúli, a Tertiary volcano in eastern Iceland. — J. Petrol. 5: 435-460.
-Guðmundur Kjartansson. 1967. Rúmmál hraundyngna. – Náttúrufræðingurinn 37: 125.
-Jón Jónsson. 1978. Jarðfræðikort af Reykjanesskaga. – Orkustofnun OSJHD 7831: 303 bls. og 21 kortblað.
-Kristján Sæmundsson. 1980. Outline of the geology of Iceland. – Jökull 29: 7 – 28.
-Níels Óskarsson, Guðmundur E. Sigvaldason & Sigurður Steinþórsson. 1982. A dynamic model of rift zone petrogenesis and the regional petrology of Iceland. – J. Petrol. 23: 28-74. -O’Nions, R. K. & Karl Grönvold. 1973.
-Petrogenetic relationship of acid and basic rocks in Iceland. Sr-isotopes and rare-earth elements in late and postglacial volcanics. – Earth Planet. Sci. Letters 19: 397-409.
-Sveinn P. Jakobsson. 1972. Chemistry and distribution pattern Of Recent basaltic rocks in Iceland. – Lithos 5: 365-386.
-Sveinn P. Jakobsson, Jón Jónsson & Shido, F. 1978. Petrology of the western Reykjanes Penisula, Iceland.- J. Petrol. 19: 669-705.
-Sveinn P. Jakobsson. 1979. Petrology of Recent basalts of the Eastern Voicanic Zone, Iceland. – Acta Naturalia Islandica 26: 103 bls.
-Sveinn P. Jakobsson. 1983. íslenskar bergtegundir I. Pikrít (óseanít). – Náttúrufræðingurinn 52: 80-85.

Þráinsskjöldur

Þráinsskjöldur – gígurinn.

Á Vísindavefnum er fjallað um örnefnin Þráinsskjöldur og Þráinsskjaldarhraun?
“Þráinsskjaldarhraun er mikið í fréttum þessa dagana vegna jarðhræringa á Reykjanesskaga, ásamt Fagradalsfjalli, Keili, Litla-Hrút, Krýsuvík, Brennisteinsfjöllum og fleiri góðum örnefnum.
Heitið virðist sett saman úr þremur hlutum: Þráinn, skjöldur og hraun. Það síðastnefnda er auðskiljanlegt. Skjöldur er svo þekkt í örnefnum til að lýsa dyngjulaga fjöllum, samanber Lyngskjöld á sunnanverðum Reykjanesskaga og hina alkunnu Skjaldbreiði norðan við Þingvallavatn. Hins vegar er ekkert vitað um Þráin. Hver var Þráinn? Hvað var Þráinn? Var Þráinn yfirleitt til?

Örnefnaskrár fyrir svæðið á Reykjanesskaganum kannast ekki við Þráinsskjöld og heimamenn kalla svæðið Heiðina.

Þráinsskjöldur

Þráinsskjöldur.

Örnefnin Þráinsskjöldur og Þráinsskjaldarhraun eiga sér ekki forna sögu eins og mörg önnur íslensk örnefni. Þau koma ekki fyrir í Landnámu eða Íslendingabók Ara fróða, á þau er ekki minnst í Íslendingasögunum og þjóðsögurnar eru sömuleiðis þöglar. Þau koma í raun fyrst fyrir í ferðabók Eggerts Ólafssonar og Bjarna Pálssonar frá miðri 18. öld. Þar segir: „Skolahraun er ævagamalt hraun, sem liggur vest-suðvestur af fjallinu Keili og niður til strandar, þar sem það heitir Þráinskjöldshraun.“ Góðri öld síðar segir Þorvaldur Thoroddsen í sinni ferðabók: „Sumir kalla hraunin vestur af Keili Þráinskjölds- eða Þráinskallahraun.“ Af orðum Eggerts og Bjarna er svo að sjá heitið hafi einkum átt við hraunið nær sjó í norðri en Þorvaldur virðist nota það í víðari skilningi, svipað og nú er gert.
Örnefnaskrár fyrir þetta svæði á Reykjanesskaganum kannast sömuleiðis ekki við Þráinsskjöld. Sesselja G. Guðmundsdóttir sem er heimakona úr Vogunum og hefur kannað þetta svæði mikið, bæði á bók og fæti, segir að heimamenn hafi aldrei kallað þetta svæði annað en Heiðina og náði það nafn allt frá sjó í norðri og suður í Reykjanesfjallgarð.
Örnefnið hefur væntanlega fest í sessi með skrifum jarðfræðinga um svæðið á 20. öldinni en fyrir þann tíma hafa verið áhöld um hvort það var yfirleitt notað af heimamönnum eða hversu vítt það náði. Nafnið er því ófyrirsegjanlegt eins og skjálftarnir sem skekja það nú.”

Þráinsskjöldur

Þráinsskjöldur og nágrenni að sunnanverðu.

Á vef Árnastofnunar er spurt: “Hvaða örnefni er rétt? – Nokkur orð um notkun og heimildir örnefna á Reykjanesskaga.
“Athygli landsmanna (og heimsfjölmiðla) beinist um þessar mundir að Reykjanesskaga þar sem jarðskjálftavirkni er enn mikil og kvikugangur er að myndast á svæðinu sem afmarkast af Fagradalsfjalli og Keili (sjá kort Veðurstofu Íslands 10. mars 2021 hér). Um þetta svæði skrifaði jarðfræðingurinn Jón Jónsson að „Samspil orsaka til breytinga á afstöðu láðs og lagar er afar flókið og ljóst er að kyrrstaða er hér ekki ráðandi“ (Árbók Ferðafélags Íslands 1984, bls. 76).

Meðal þeirra örnefna sem vakið hafa athygli eru Þráinsskjöldur og Þráinsskjaldarhraun. Eins og áður hefur verið bent á (sjá hér) er hvergi að finna í heimildum skýringu á því hver þessi Þráinn var, sem skjöldurinn er kenndur við, og þar af leiðandi ekki gott að segja hversu gamalt örnefnið er. Karlmannsnafnið Þráinn er þekkt bæði í Njáls sögu og Landnámabók en samkvæmt bókinni Nöfn Íslendinga kemur nafnið ekki aftur fyrir sem eiginnafn fyrr en á 19. öld. Í manntali fyrir árið 1910 voru tveir karlar með þessu nafni (annar í Barðastrandarsýslu en hinn í Þingeyjarsýslum). Á árunum 1921–1950 báru 86 drengir nafnið Þráinn og í þjóðskrá 1. janúar 2008 voru 160 karlar skráðir með nafnið sem einnefni eða fyrra nafn, en 34 að seinna nafni (bls. 647).

Í Ferðabók Eggerts Ólafssonar og Bjarna Pálssonar er heitið á hrauninu talið upp ásamt öðrum hraunum í Gullbringusýslu:

Ögmundarhraun

Ögmundarhraun og nágrenni.

„Helztu hraunbreiðurnar í Gullbringusýsla heita: Ögmundarhraun, skammt frá Krýsuvík. Það er ungt hraun og mjög ljótt. Djúpadalshraun, hinum megin Selvogsheiðar. Herdísarvíkurhraun á Selvogsheiði. Skolahraun (Skúlahraun?) er ævagamalt hraun, sem liggur vest-suðvestur af fjallinu Keili og niður til strandar, þar sem það heitir Þráinsskjöldshraun (eða Þráinskallahraun, Þ[orvaldur] Th[oroddsen]). Báðum megin Hafnarfjarðar eru ljótir hraunaflákar, Garðahraun að norðanverðu, en Vatnsleysuhraun að sunnan“ (bls. 198).

Þessi tilvísun í Ferðabókina gefur ekki hvað síst góða hugmynd um flækjurnar sem koma oft fyrir þegar upphaf og saga örnefna er rakin, t.d. varðandi stafsetningu þeirra, mismunandi nafngiftir eða orðmyndir og staðsetningu. Þorvaldur Thoroddsen getur þess að hraunið sé kallað Þráinskjöldshraun eða Þráinskallahraun af sumum (Ferðabók, bls. 182). Þess ber að geta að Þráinsskallahraun er orðmyndin sem finna má í örnefnaskrá eftir skrásetjarann Þorstein Bjarnason frá Háholti (fæddur 1900) þar sem örnefni í óbyggðinni vestur og norður frá Grindavík eru tekin saman (Lbs 2857 4to og afrit í örnefnasafni Árnastofnunar en handritið var ekki sett saman fyrr en árið 1944 þegar Landsbókasafnið fékk það að gjöf). Einnig er þessa mynd orðsins að finna í örnefnalýsingum t.d. fyrir bæinn Hraun í Grindavíkurhreppi.
Sesselja G. Guðmundsdóttir bendir á í riti sínu Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi að örnefnin Þráinsskjöldur og Þráinsskjaldarhraun hafi ekki þekkst í sveitinni og að „menn hér í hreppi töluðu einfaldlega um Heiðina (með stórum staf)“ (2. útgáfa, 2007, bls. 28–29).

Oft er það þannig að ekki er hægt að segja með vissu hvaða útgáfa örnefnis er ‚rétt‘ – rithættir og málvenjur eru ekki alltaf í samræmi og geta breyst í tímans rás. Örnefni eru lifandi fyrirbæri: breytileikinn er meðal þeirra einkenna sem athyglisvert er að skoða. Þau færast til – stundum vegna misskilnings, eins og virðist hafa gerst með örnefni á svæðinu sem vísa í aðra lægri hnjúka: Litli-Keilir, Nyrðri-Keilisbróðir, Syðri-Keilisbróðir, Keilisbörn, Litli-Hrútur og Stóri-Hrútur. Heimildum ber ekki saman um hvort Litli-Keilir sé sama kennileiti og Nyrðri-Keilisbróðir og/eða Litli-Hrútur. Eins og Sesselja bendir á er notkun þessara örnefna og kennileitanna sem þau vísa til mismunandi eftir því hvaðan heimamenn koma (t.d. frá Vatnsleysuströnd eða Grindavík) og hvaða kynslóðum þeir tilheyra (bls. 132, 141).

Keilir

Keilir.

Keilir er þó engum ókunnugur. Hann hefur verið notaður sem kennileiti í aldanna rás af sjófarendum (Íslendingum sem útlendingum – sem kölluðu fjallið Sykurtopp samkvæmt Sýslu- og sóknalýsingum fyrir Gullbringu- og Kjósarsýslu, bls. 109) til að finna fiskimið og rata, eins og Jón Helgason frá Litlabæ í Vatnsleysustrandarhreppi kvað:
Sæfarendur reyna rétt / rata‘ að lending heilir; / til að benda‘ á takmark sett / tryggur stendur Keilir‘. (Tilvísun fengin úr bókinni Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi, bls. 128.).”

Heimildir:
-https://is.wikipedia.org/wiki/%C3%9Er%C3%A1insskj%C3%B6ldur
-Náttúrufræðingurinn, 1.-2. tbl. 01.04.1984, Íslenskar bergtegundir II – Ólinvínþóleiít, Sveinn P. Jakobsson, bls. 13-17.
-https://www.visindavefur.is/svar.php?id=81334
-https://arnastofnun.is/is/utgafa-og-gagnasofn/pistlar/hvada-ornefni-er-rett-nokkur-ord-um-notkun-og-heimildir-ornefna
-Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi, Sesselja Guðmundsdóttir, bls. 128.

Þráinsskjöldur

Þráinsskjöldur og aðrar dyngjur Reykjanesskagans.

Keilir

Eftirfarandi er frásögn Sesselju Guðmundsdóttur í Lesbók Morgunblaðsins árið 2001 af umhverfi Keilis; einkennisfjalls Reykjanesskagans:
Afstapahraun-901“Umhverfis Keili eru fjöll, gígar, lækir, hverir, hraun, vötn og víðáttumiklir vellir. Þar getum við líka séð fornminjar eins og seljarústir og gamlar götur sem sumar hverjar eru vel markaðar af hestum og mönnum. Við beygjum af Reykjanesbrautinni rétt sunnan Kúagerðis við skilti sem vísar á Keili. Vegurinn (ca 9 km) liggur upp í gegnum úfið Afstapahraunið sem rann á 14. öld og þekur um 22 ferkm. Eftir að hafa ekið nokkra kílómetra sjáum við fjóra Rauðhóla á hægri hönd og norðaustan undir þeim stærsta er gömul selstaða frá Vatnsleysu.
Graenadyngja-901Aðeins ofan við Rauðhóla er svo Snókafell á vinstri hönd. Þegar upp úr hrauninu kemur blasir við eitt og annað fallegt, svo sem Keilir (378 m) með sínar mjúku línur á aðra hönd en hvöss Trölladyngjan (375 m) á hina. Frá okkar sjónarhorni felur sig svo Grænadyngja (402 m) að baki systur sinnar. Í hlíðunum beggja vegna Trölladyngju eru ótal gígar sem sent hafa hraunstrauma langt niður um heiðina. Á milli liggja svo hinir víðáttumiklu Höskuldarvellir sem Sogalækur rennur um allt yfir í Sóleyjakrika sem teygir sig norður í átt að Snókafelli. Vestan við vellina liggur Oddafell sem er langur og mjór melhryggur. Dyngjurnar tvær eru í Núphlíðarhálsi (Vesturhálsi) sem er um 13 km langur og liggur samsíða Sveifluhálsi (Austurhálsi) að vestanverðu. Á milli þessara móbergshálsa er svo Móhálsadalur með Djúpavatni, Vigdísarvelli og mörgu öðru skoðunarverðu.
Hoskuldarvellir-901Við leggjum bílnum við norðvesturhorn vallanna, reimum skóna þétt og höldum nokkurn spöl upp með Oddafellinu að vestanverðu. Fyrr en varir komum við að stíg yfir Afstapahraunið sem heitir Höskuldarvallastígur (7–800 m). Eftir að úfnu hrauninu sleppir tekur við heiðarland allt að Keili. Uppgangan á fjallið er augljós og greið hér að austanverðu en þegar nálgast tindinn er klungur á smákafla. Þegar upp er komið leitum við að „lognblettinum“ sem, svo til undantekningarlaust, má finna á þessum litla kolli þó svo eitthvað blási um og upp hlíðarnar. Þar má þröngt sitja á sléttum mel og nú er lag að Sog-901draga upp nestisboxin og brúsana. Af tindi Keilis sjáum við Reykjanesskagann breiða úr sér suður, austur og vestur úr. Suður af sést til sjávar utan við Ögmundarhraun en nær okkur liggja Selsvellir. Mest áberandi fjöll í klasanum vestur af Núphlíðarhálsi eru Stóri-Hrútur, Kistufell og Fagradalsfjall. Gufustrókarnir úr Svartsengisorkuverinu og Reykjaneshverunum stíga til lofts og utar rís Eldey úr hafi. Nær okkur, í sömu átt, er gamla dyngjan Þráinskjöldur sem fyrir 10.000 árum spjó hrauninu sem Voga- og Vatnsleysustrandar-byggð stendur á. Svo fylgjum við sjóndeildarhringnum áfram réttsælis og lítum flatt Miðnesið, síðan Faxaflóann og fallegan Snæfellsjökulinn og loks allan fjallgarðinn til norðurs og austurs, meira að segja Baulu (934 m) í Borgarfirði ef vel er að gáð. Þarna fyrir fótum okkar liggur svo Straumsvíkin og Reykjavíkin, og, og, …Við skrifum nöfnin okkar í gestabókina áður en við höldum niður af toppnum. Á fjallinu hefur verið gestabók síðan árið 1976 og sem dæmi um gestaganginn voru 116 nöfn skráð í bókina á einni viku nú í byrjun sumars.
Selsvellir-901Frá Keilisrótum þrömmum við svo um Þórustaðastíg fram hjá Melhóli og í átt að Driffelli. Stígurinn liggur frá byggð á Vatnsleysuströnd og allt að Vigdísarvöllum og var töluvert notaður fram eftir nýliðinni öld. Viðnorðurenda fellsins er hár og stórbrotinn hraunkantur sem gaman er að skoða á leið okkar austur og suður með fellinu. Þegar við komum á móts við stóra gíginn við norðurenda Selsvalla, en þeir liggja suður af Höskuldarvöllum eins og fyrr segir, förum við yfir hraunhaft sem mótað er af umferð hesta og manna. Stóri, fallegi, gígurinn heitir Moshóll (nýlegt örnefni) og talið er að gosið úr honum sé það síðasta í hrinunni sem myndaði Afstapahraunið. Við hættum nú að fylgja Þórustaðastígnum sem liggur þarna þvert yfir á Selsvallafjall en göngum heldur suður að Selsvallaseli. Rústirnar kúra í suðvesturhorni vallanna fast við hraunkantinn og þar virðast hafa verið a.m.k. þrjá kofaþyrpingar og tvær nokkuð stórar kvíar nálægt þeim. Í bréfi frá séra eir Bachmann Staðarpresti til biskups árið 1844 kemur fram að sumarið áður hafi sjö búendur úr Grindavíkurhreppi í seli á völlunum og að þar hafi þá verið um Selsvellir-906500 fjár og 30 nautgripir. Út frá selstæðinu liggur selstígurinn til Grindavíkur í átt að Hraunsels-Vatnsfelli.
Við höldum nú til baka að Moshóli en í leiðinni lítum við aðeins á eldgamlar tóftir upp við fjallsræturnar, þær liggja fast norðan við syðri lækinn sem rennur um Selsvellina. Frá Moshóli göngum við svo yfir okkuð greiðfært hraun norður að Hvernum eina sem nú er nánast útdauður. Hverinn var sá stærsti á Reykjanesskaga um aldamótin 1900 og þegar Þorvaldur Thoroddsen ferðaðist um svæðið árið 1888 sagði hann hveraskálina um 14 fet í þvermál, „…sjóðandi leirhver. Í góðu veðri sést gufustrókurinn úr þessum hver langt í burtu, t. d. glögglega úr Reykjavík.“ Frá Hvernum eina stikum við svo yfir hraunið og upp í gígskreytta fjallshlíðina fyrir ofan nýju hitaveituborholuna og fylgjum Sogalæknum upp að Sogaseli sem liggur Hverinneini-901fast norðan við lækinn. Selrústirnar eru inni í mjög fallegum, stórum, gömlum gíg sem heitir Sogaselsgígur eða Sogagígur og snýr hann opi til suðurs. Gígurinn er girtur skeifulaga hamrabelti og myndar því gott aðhald fyrir skepnur. Í Sogaseli höfðu bændur í Kálfatjarnarhverfi á Vatnsleysuströnd og jafnvel úr Krýsuvík selstöðu og þar sjást margar kofatóftir og kví undir vestari hamraveggnum.
Frá Sogaselsgígnum fylgjum við svo læknum áfram inn í Sogin sem eru djúp gil sem aðgreina Dyngjurnar frá fjöllunum sunnan til. Mikil litadýrð er í Sogunum og jarðhiti hefur verið mikil þar fyrrum og sést eima af enn. Frá Sogum gætum við svo gengið upp á Grænudyngju og litið ofan af henni yfir Móhálsadal, Djúpavatn og Sveifluháls en við kjósum heldur lægri veg og förum milli trolladyngja-901Dyngna um Söðul sem er lágur háls sem þverar skarðið milli fjallanna. Þegar upp úr Sogum er komið eru grasi grónar brekkur beggja vegna og hæg gata allt niður á hraunið norðvestan Dyngjuhálsins. Þarna til vinstri handar stendur svo Eldborg (eldra örnefni er Ketill), fyrrum falleg en nú í rúst eftir margra ára efnistöku. Fyrir spjöllin var gígurinn um 20 m hár og gígskálin djúp og nokkuð gróin. Jón Jónsson jarðfræðingur segir í einni ritsmíð sinni: ‚‚Gosið í Eldborg er án efa með þeim síðustu á þessu svæði og sennilega það síðasta. Það er yngra en Afstapahraun.“ Afstapahraunið er frá sögulegum tíma eins og nefnt var hér á undan. Töluverður jarðhiti er í og við Eldborgina og heitir hitasvæðið rétt suðvestur af henni Jónsbrennur. Nú göngum við á Eldborgarhrauninu um slóð sem liggur austur með gígnum og norður að Vestra-Lambafelli sem umlukið er hraunum úr borginni. Við höldum vestur með fellinu að norðurenda þess og þar göngum við skyndilega inn í ævintýralegt umhverfi, fyrst verða fyrir dökkir klettar og síðan göng beint inn í fjallið. Þetta er hin stórbrotna Lambafellsgjá og dulúð fellsins hvetur okkur til þess að ganga inn í risastórt anddyrið. Það er vel ratljóst inn í fellinu því langt fyrir ofan okkar þröngvar dagsljósið sér niður bólstrabergsveggina sem eru 20–25 m háir. Gjáin gengur inn í mitt fellið og er mjög þröng neðst eða 1–3 m á breidd en víkkar þegar ofar dregur. Lengd sprungunnar er um 150 m og fyrstu metrana göngum við á jafnsléttu en lambagja-901svo tekur við grjót- og moldarskriða (stundum snjóskafl) sem leiðir okkur upp úr „álfheimum“ og á lítinn grasblett sem gott er að hvílast á. Á meðan við maulum úr nestisboxunum skoðum við umhverfið frá þessum notalega stað á fellinu miðju.Þarna norður af liggja Einihlíðarnar og rétt vestan þeirra Mosastígur sem lá um Mosana og síðan niður að Hraunabæjum sunnan Hafnarfjarðar. Stígurinn var einn angi „gatnakerfis“ um hálsana sem nefnt var Hálsagötur fyrrum en um þær fór fólk úr aðligggjandi byggðum svo sem Krísuvík, Vigdísarvöllum, Selatöngum (ver), Grindavík, Suðurnesjum, Vatnsleysuströnd, Hraunum og Hafnarfirði. Til austurs sjáum við svo Mávahlíðar, gamla gígaröð, en til vesturs liggur úfið Eldborgarhraunið allt að Snókafelli sem við ókum hjá á leiðinni hingað upp eftir. Endur fyrir löngu hefðum við getað séð hreindýrahjarðir á þessum slóðum því á seinni hluta 18. aldar var rúmlega 20 hreindýrum sleppt lausum á Reykjanesfjallgarð og eftir miðja 19. öldina hafa þau líklega skipt hundruðum og dreifðust um hálsana hér og allt austur í Ölfus. Vesturslóðir þeirra voru við og ofan Keilis og á árunum milli 1860 og 70 sáust á þessu svæði um 35 dýr. Um aldamótin 1900 voru öll hreindýrin hér suðvestanlands útdauð og þá líklega vegna ofveiði.
Við ljúkum þessum skemmtilega hring um Keilis- og Dyngjusvæðið með því að ganga götuna til baka að Eldborginni sem vissulega man sinn fífil fegurri.”

Heimild:
-Lesbók Morgunblaðsins, Umhverfis Keili, Sesselja Guðmundsdóttir, 11. ágúst 2001, bls. 10.

Keilir

Keilir.

Keilir

Sesselja Guðmundsdóttir skrifar um Keili og nágrenni í bók hennar um “Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi (ofan Gamla-Keflavíkurvegarins)”.
Rétt er að rifja upp að gefnum ástæðum, nú þegar það allt virðist vera að fara á hvolf, a.m.k. skv. umfjöllun fjölmiðla að undanförnu, þrátt fyrir aðrar slíkar þar í gegnum aldirnar. Starfsfólk Veðurstofunnar virðist hafa fengið ný tæki, sem það hefur límt augu sín við – teljandi skjálfta út og suður, án þess að við hin séum nokkurs nærri hvers er að vænta…
Svæðið, sem um er fjallað, geymir ekki einungis dýrmætar jarðminjar frá fyrri jarðsögutímabilum, heldur og miklar menningarminjar, sem flestum “talningarvísindamönnunum” hversdagsins virðast vera með öllu ómeðvitaðar…

Örnefni og gönguleiðir á Vatnsleysuströnd

“Frá Vestra-Lambafelli höldum við yfir svolítið hraunhaft og komum að Eldborg eða Katli en síðara nafnið er að finna í heimild frá Hvassahrauni. Eldborgin var fallega lagaður gígur um 20 m hár með djúpa og gróna gígskál. Borgin var á náttúruminjaskrá en er þar ekki lengur. Mikið efni hefur verið tekið úr gígnum allt frá því vegur var lagður þarna upp eftir og fram til dagsins í dag. Framkvæmdir við tilraunaborholur á svæðinu hafa tekið sinn toll úr Eldborg og er borgin nú sorglegt merki um aðför að náttúrugersemum. Jarðhiti er í og við borgina. Jón Jónsson jarðfræðingur segir í einni ritsmíð sinni: „Gosið í Eldborg er án efa með þeim síðustu á þessu svœði og sennilega hið síðasta. Það er yngra en Afstapahraun …” (Jarðfrœðikort af Reykjanesskaga, bls. 170). Hraunið er frá sögulegum tíma eins og fyrr segir.
Eldborgarhraun sem þekur tæplega fimm ferkílómetra rann upp að Lambafellum og síðan áfram norður og niður úr. Hraunið liggur m.a. að Mosum, Snókafelli og Sóleyjakrika (sjá síðar). Sumir kalla fyrrnefnt hraun Lambafellshraun en líklega er réttara að kenna það við Eldborgina sem það kom úr.
Trölladyngja (375 m) heitir vestari hnúkurinn og Grænadyngja (402 m) heitir sá eystri. Í fjallinu hefur fundist silfurberg.

Sesselja Guðmundsdóttir

Sesselja Guðmundsdóttir.

Milli Dyngna er skarð sem skipt er þversum aflágum hálsi og heitir hann líklega Söðull. Örnefnið Folaldadalir eða Folaldadalur hefur heyrst og þá notað um skarðið sjálft en þetta örnefni er einnig á Austurhálsinum. Þarna gæti verið um staðarugling að ræða eða þá hitt að sama örnefnið sé til á báðum hálsunum. Góð uppganga er um grasi grónar brekkur á báða hnúkana úr skarðinu.

Trölladyngja

Trölladyngja.

Þegar upp er komið sjáum við vítt yfir, sérstaklega þó af Grænudyngju sem ber nafnið með sóma enda hnúkurinn grasi gróinn til efstu hjalla.

Út úr Grænudyngju til norðausturs gengur Dyngjuháls eða Dyngjurani og utan í honum er fjöldi gíga sem sent hafa hraunstrauma langt niður í Almenning.
Jónsbrennur heitir hitasvæðið suður og vestur af Eldborg og þar sjáum við töluverða gufu á nokkru svæði. Ekki er vitað frá hvaða manni nafnið er komið. Menjar um gamla tilraunaborholu frá Orkustofnun má sjá ofan Jónsbrenna, fast við norðurrætur Trölladyngju.

Grænadyngja

Grænadyngja. Trölladyngja t.v. Sogin framar.

Næst förum við yfir Höskuldarvelli en það eru stórir vellir fast við vesturrætur Trölladyngju. Vellirnir eru rúmlega kílómetri að lengd en tæpur á breidd. Þeir urðu til við leirframburð Sogalækjar sem kemur úr hitasvæðinu Sogum (sjá síðar) og rennur norður um vellina. Ekki er vitað við hvaða mann vellirnir eru kenndir en líklega er þetta ævagamalt örnefni.
Sóleyjakriki heitir nyrsti endi vallanna þar sem graslendið teygir sig inn á milli hraunveggjanna langleiðina norður að Snókafelli (147 m). Fellið er landamerkjapunktur Vatnsleysu og Hvassahrauns. Samkvæmt orðabók merkir snókur fjallstindur eða klettastrýta og einnig rani eða tota. Fellið er umkringt hrauni á alla vegu en auðveldast er að komast að því um fjárgötu frá botni Sóleyjakrika. Eldborgarhraun liggur að krikanum að austanverðu en Afstapahraun að honum vestanverðum. Fast vestan við krikann liggur Höskuldarvallavegur sem fyrr er nefndur. Sogalækur hverfur niður í hraunið í Sóleyjakrika og þornar reyndar oftast upp á sumrin á miðjum Höskuldarvöllum.

Sóleyjarkriki

Sóleyjarkriki. Höskuldarvellir nær.

Á seinni hluta 18. aldar var rúmlega 20 hreindýrum sleppt lausum á Reykjanesfjallgarðinn og eftir miðja 19. öldina hafa þau líklega skipt hundruðum og dreifðust um fjöllin allt austur í Olfus. Vesturslóðir hreindýranna voru við og ofan Keilis og á árunum milli 1860-70 sáust, líklega á Höskuldarvöllum, um 35 dýr. Um aldamótin, eða þegar loks voru sett á lög um algjöra friðun, voru hreindýrin hér í fjöllunum útdauð og þá líklega vegna ofveiði enda veidd án takmarkana eða eftirlits í 33 ár.
Við vesturjaðar Höskuldarvalla er Oddafell sem Þorvaldur Thoroddsen kallar Fjallið eina og er það eina heimildin um þetta nafn á fellinu. Líklega er um nafnarugling að ræða hjá Þorvaldi því Fjallið eina er til á þessum slóðum eða nokkrum kílómetrum norðaustan við Dyngjur. Oddafell er lágt (210 m) en um þriggja kílómetra langt og í austurhlíðum þess, nokkuð sunnarlega, er jarðhiti.

Höskuldarvellir

Höskuldarvellir.

Næst skoðum við tóftirnar af Oddafellsseli sem var frá Minni-Vatnsleysu en það liggur í vesturrótum fellsins skammt fyrir sunnan Höskuldarvallastíg (sjá síðar) þar sem hann beygir út í apalhraunið til vesturs. Þar sjást tvær-þrjár tóftir og einnig kvíahleðslur í hraunjaðrinum rétt sunnan við selið.
Keilir (378 m) er einkennisfjall Reykjanesskagans og fyrrum víðfrægt mið af sjó. Eftirfarandi vísa um Keili er eftir Jón Helgason frá Litlabæ í Vatnsleysustrandarhreppi.

Keilir fríður kennast skal,
knappt þó skrýði runnur,
fagran prýðir fjallasal
fyrr og síðar kunnur.
Þekkti ég siðinn þann afsjón
þekkan liði drengja
Keilir við um flyðrufrón
fiskimiðin tengja.
Sæfarendur reyna rétt
rata’ að lending heilir;
til að benda’ á takmark sett
tryggur stendur Keilir.

Keilir

Keilir. Rauðhólar nær.

Í lýsingu Kálfatjarnarsóknar frá árinu 1840 eftir séra Pétur Jónsson segir að sjófarendur kalli Keili Sykurtopp. Þetta er líklega samlíking við keilulöguð sykurstykki sem menn kölluðu sykurtoppa og voru á markaðnum áður en strásykur kom til sögunnar. Til gamans má geta þess að fjallið sem krýnir innsiglinguna í Rio de Janeiro í Brasilíu heitir Sykurtoppur en það fjall líkist ekki beint „Sykurtoppnum“ okkar. Einnig er til jökulfjall nálægt Syðri-Straumfirði á Grænlandi sem heitir Sykurtoppur.
Keilir varð til við gos undir jökli og strýtumynduð lögunin kemur til af gígtappa í honum miðjum sem ver hann veðrun. Fjallið er tiltölulega auðvelt uppgöngu og við pjökkum upp öxlina að austanverðu þar sem þúsundir fóta hafa markað leiðina. Nokkuð ofarlega í Keili er smá torfæra með klungri en stutt þaðan á toppinn. Á hverju ári koma nokkur hundruð manns á Keilistopp og pára nöfn sín í gestabók sem þar er. Það er víðsýnt af Keili og útsýn tilkomumikil til allra átta. Keilir, Höskuldarvellirnir og næsta nágrenni þessara örnefna eru á náttúruminjaskrá.

Oddafellsel

Oddafellssel.

Norðvestan undir Keili eru þrír móbergsstabbar og heitir sá nyrsti Hrafnafell (142 m) og er fellið nefnt í gömlum landamerkjalýsingum. Fellið dregur nafn af hrafnslaupi sem þar var og enn sjást merki um. Stabbarnir hafa verið kallaðir Keilisbörn og virðist það örnefni vera að festast í sessi. Það nafn var ekki notað af heimamönnum fyrrum.
Þorvaldur Thoroddsen notar örnefnið Keilisbörn yfir sömu hnúka í lýsingu sinni og það er einnig á landakorti frá árinu 1910. Á korti Fandmælinga Islands frá árinu 1989 heitir öxl Keilis Hrafnafell sem er jafnrangt. Skilyrðislaust ættu þau örnefni sem eigendur landsins notuðu og fmnast í gömlum landamerkjalýsingum alltaf að vera gildust á kort.

Keilir

Keilir og Keilisbörn, sem sumir nefna Hrafnabjörg.

Í sandhólunum vestur af Keili eru þrjú tófugreni sem kölluð eru Keilisgrenin.
Við austanvert Hrafnafell komu saman a.m.k. tveir stígar frá byggð. Þórustaðastígur er annar þeirra og liggur sá frá Kálfatjarnarhverfi upp heiðina yfir Vesturháls og allt til Vigdísarvalla. Hinn lá upp frá Kúagerði vestan við Afstapahraunið og upp undir Keili, við hann sjást vörðubrot á stöku stað. Rauðhólsselsstígur lá frá Vatnsleysubæjum og í fyrstu útgáfu þessarar bókar er það nafin sett á götuna upp með Afstapahraunsjaðrinum frá Kúagerði en það er líklega rangt. Trúlega hefur selstígurinn legið beint frá bæ upp í selið eins og aðrar slíkir í hreppnum, ekki er vel ljóst hvar hann lá en þó hafa fundist ummerki um hann, t.d. fyrir neðan Kolhóla. Fólk frá Minni-Vatnsleysu sem nýtti selstöðu við Oddafell hefur líklega einnig notað Rauðhólsselstíginn upp undir það sel en haldið síðan áfram um nú nafnlausa götu upp heiðina og yfir í Oddafellssel. Leiðin upp frá Kúagerði virðist koma inn á Þórustaðastíginn á milli Grindavíkurgjár og Stóra-Kolhóls (Kolhóls) en þar hafa nýlega fundist einhver gatnamót. Á korti frá 1936 sést Þórustaðastígur og gatan frá Kúagerði koma saman nokkru norðan Keilis sem stenst miðað við gatnamótin fyrrnefndu. Það er augljóst að töluverð umferð manna hefur verið fyrrum á þessum slóðum, vermenn, fólk á leið til og frá verslunarstöðum, t.d. Straumsvík og Vatnsleysu, fólk að sækja eldivið, fara til og frá seljum o.fl. Af heiðinni yfir hraunið að Oddafelli heitir svo Höskuldarvallastígur eða Oddafellsstígur og var sá notaður fyrrum af selfólki úr Sogaseli (sjá hér á eftir) og Oddafellsseli.
Nú á tímum er hluti hins upprunalega Höskuldarvallastígs genginn af fólki sem fer á Keili. Til þess að finna upphaf núverandi slóða við Oddafell göngum við spölkorn suður með vesturhlíð fellsins þangað til við komum á stíginn sem er mjög greinilegur þar sem hann liggur yfir 7-800 m breitt Höskuldarvallahraun en það liggur milli Oddafells og heiðarinnar austan Keilis.

Björn Gunnlaugsson

Uppdráttur Björns Gunnlaugssonar.

Á seinni tímum hefur gatan færst sunnar í heiðina og liggur nú að uppgöngunni á fjallið. Gamla selgatan er ekki sjáanleg lengur þarna á háheiðinni en þegar komið er spöl inn í hraunið greinist hún fljótlega út úr núverandi Höskuldarvallastíg og stefnir á selstæðið undir Oddafelli. Á uppdrættinum frá árinu 1831 eftir Björn Gunnlaugsson er merkt gata frá Breiðagerði og upp heiðina. Sú gata er sett inn á kortið sunnan Keilis að Driffelli og svo áfram sömu leið og Þórustaðastígur. Í fyrstu taldi ég að Björn hefði merkt Þórustaðastíginn rangt inn á kortið (þ.e. sett hann sunnan við Keili) en nú hefur komið í ljós nokkuð glögg vörðuröð, en óljós gata, þarna niður heiðina sunnan og vestan Keilis í átt að Knarrarnesseli. Leiðin er sérkennilega vörðuð með „lykilvörðum“ á áberandi stöðum með löngu millibili en á milli þeirra litlar „þrísteinavörður“. Sumstaðar þar sem „lykilvörðurnar“ eru sjást eins konar hlið á götunni, þ.e. lítil varða andspænis þeirri stóru og nokkrir metrar í millum. Gatan endar að því er virðist við Knarrarnessel þannig að þeir sem notuðu götuna hafa svo haldið áfram selstíginn en sá er óvarðaður að mestu.

Þórustaðastígur

Þórustaðastígur við Selsvelli.

Á síðustu öld fóru bændur úr Brunnastaða-, Ásláksstaða- og Knarrarneshverfi með hrossastóðið til beitar í Fjallið þessa leið en þeir sem innar bjuggu á Ströndinni notuðu Þórustaðastíg. Þessi gata sem og Þórustaðastígur hafa ólíklega verið þjóðleiðir fyrrum heldur eingöngu notaðar af hreppsfólki. Nokkurn spöl suðvestur af Keili, u.þ.b. tvo km, er lítil útgáfa af Keili sem heitir Nyrðri-Keilisbróðir og er annar Keilisbræðra. Þessi „bróðir“ er nefndur í landamerkjabréfum Knarrarness og Breiðagerðis frá árinu 1886.
Heimamenn hafa einnig notað nafnið Litli-Hrútur yfir þennan hnúk, þó sérstaklega í seinni tíð. Grindvíkingar nota örnefnið Litli-Keilir þannig að hnúkurinn ber í raun þrjú nöfn. Yngra fólk hér í hrepp er einnig farið að nota nafnið Litli-Keilir enda er hnúkurinn nefndur svo á mörgum kortum Landmælinga Íslands og gætir þar greinilega áhrifa frá Grindvíkingum. Fyrir neðan Nyrðri-Keilisbróður er Hjálmarsgreni í Hábrúnum en það eru hæstu hjallar gömlu hraundyngjunnar Þráinsskjaldar sem við förum um á eftir.

Knarrarnessel

Knarrarnessel – uppdráttur ÓSÁ.

Nú færum við okkur upp fyrir Oddafell og Höskuldarvelli. Milli Trölladyngju og vallanna 1á jeppaslóði fyrrum sem nú er orðinn fólksbílafær með rilkomu rannsóknaborana sem gerðar hafa verið sunnan Höskuldarvalla og við Sogalækinn uppi í hálsinum. Vegurinn liggur upp gjallbrekku sem heitir Sogamelar. Þarna hafa orðið töluverð spjöll og breytingar á annars fallegu landi síðustu árin vegna tilraunanna.
Við höldum upp brekkuna og fylgjum Sogalæknum spöl inn í dalverpi sem heitir Sogaselsdalur eða Sogadalur. Þarna á vinstri hönd er stór gamall gígur sem heitir Sogaselsgígur eða Sogagígur og snýr hann opi til suðurs. Gígurinn er girtur skeifulaga hamrabeltum og mynda veggirnir því gott aðhald fyrir skepnur. Þarna var Sogasel frá Kálfatjarnarhverfi og jafnvel Krýsuvík. Margar kofatóftir eru innst í gígnum og kví undir vestari hamraveggnum.
Sogagígur
Frá Sogaseli förum við í Sogin, djúp gil sem greina Dyngjurnar frá fjöllunum sunnan til og liggja þau þvert um hálsinn. Á leiðinni sjáum við lítinn leirhver nokkuð hátt uppi í grasbrekku handan við Sogalækinn, skammt fyrir ofan efra borplanið. Fyrir neðan brekkuna eru nokkrir djúpir smágígar. Sogin eru 150-200 m djúp litrík leirgil sem mikill jarðhiti hefur verið í fyrrum og aðeins eimir af enn. Frá Sogum er auðveld uppganga á Grænudyngju. Göngufólk ætti að forðast í lengstu lög að ganga í leirnum þarna því hann hleðst undir grófmunstraða skósólana eins og steypa.
Á hálsinum suður og vestur af Sogum er Spákonuvatn og í misgengi rétt vestur afþví er minna vatn og til eru heimildir um Spákonuvötn og þá Stóra-Spákonuvatn og Litla-Spákonuvatn. Heimild er einnig til um Spákonudali og er þá átt við lægðirnar sem vötnin eru í. Þorvaldur Th. nefnir ekki Spákonuvatn en segir umrætt vatn heita Grænavatn og lýsir ítarlega gígafjöldanum sem liggur niður af vatninu til vesturs. Á landakorti frá árinu 1910 er það sama uppi á teningnum.
Grænavatn, sem er stærra er Spákonuvatn, er til þarna á miðjum Vesturhálsi suður af Spákonuvatni og var fyrst sett inn á kort Landmælinga Islands árið 1936. Vatnið er líklega í Krýsuvíkurlandi og því ekki talið með örnefnum í hrepps landinu. Stangveiðifélag Hafnarfjarðar hefur gert tilraunir með fiskirækt í Grænavatni.
Suður afSpákonuvatni förum við um móbergshryggi og stapa og hæst ber hvassa tinda sem heita Grænavatnseggjar (332 m). Eggjarnar eru nefndar í landamerkjalýsingu Þórustaða frá 1886.

Grænavatnseggjar

FERLIRsfélagar í Grænavatnseggjum.

Ofan og sunnan við Grænavatnseggjar er svo Grænavatn sem fyrr er nefnt.
Af Grænavatnseggjum höldum við svo niður á jafnsléttu aftur og að syðri enda Oddafells en spöl suður af honum er Hverinn eini sem nú er nánast útdauður. Hverinn var sá stærsti á Reykjanesskaga fyrir aldamótin síðustu og árið 1888 þegar Þorvaldur Th. ferðaðist um svæðið segir hann hverskálina um 14 fet í þvermál: „… það er sjóðandi leirhver … Í góðu veðri sést gufustrókurinn úrþessum hver langt í burtu, t.d. glögglega frá Reykjavík.“

(Ferðabók I, bls. 181). Upp úr aldamótunum fór hvernum að hraka og árið 1930 var hann aðeins volg tjörn (frásögn heimamanns). Nú er þarna stórt hverahrúðurssvæði með smá dæld í miðið en aðeins til hliðar við það er lítið brennisteinsgufuauga í holu milli steina og á nokkrum stöðum umhverfis stíga daufir strókar til lofts.

Í Ferðabók Eggerts og Bjarna segir: „Hverþessi er kringlóttur og allstór, 7 álnir [1 alin = ca 57 cm] /þvermál og 4 álna djúpur, en nafnið ber aðeins einn hver, hinn steersti afallmörgum heitum hverum og uppgönguaugum, sem liggja þar í þyrpingu … Hverinn eini ber nafn afþví, að hann liggur einn út afjyrir sig.“ Og einnig: „Eitthvert fegursta bergið, sem jarðeldurinn á Suðurlandi hefir eftir sig látið, er lagskiptur, bráðinn sandsteinn. Það af honum, sem við fundum hjá Hvernum eina, er dálítið sérkennilegt tilbrigði.“ Menn segja einnig að „eini“ þýði sá frábæri eða einstaki.

Hverinn eini

Hverinn eini.

Sagnir eru til um Útilegumannahelli nálægt Hvernum eina og í Vallaannál frá árinu 1703 segir: „… á Vatnsleysuströnd. Þar stálu þeir síðast í Flekkuvík og fóru svo til fjalls upp og allt suður um Selsvöllu; þar tóku þeir sér hœli undir skúta nokkrum, … Leizt þeim þá eigi að vera þar lengur, og fóru norður aptur með fjallinu í helli þann, er skammt er frá hverinum Eini. Voru þar síðan 3 vikur, og tóku 3 sauði þar í hálsunum, ræntu einnig ferðamann, …”. Eins og sést er hverinn þarna nefndur Einir en það nafn sést ekki í öðrum heimildum og gæti verið misritun. Töluverð leit hefur verið gerð að hellinum en án árangurs. Samkvæmt munnmælum er hann lítill og ómerkilegur og sagt er að yfir opið hafi verið lögð hella til þess að forða fé frá því að lenda ofan í honum.
Vestur af syðri enda Oddafells er fell úti í hrauninu sem heitir Driffell (254 m). Í fellinu finnst silfurberg og holufyllingar eru þar nokkuð áberandi. Við Driffell að austan og norðan liggur Þórustaðastígur en um hann var féð rekið úr fjallinu á haustin og eins var hestastóð rekið vor og haust um sama veg eins og komið hefur fram. Eins og fyrr segir liggur stígurinn frá Ströndinni upp alla heiðina, fram hjá Hrafnafelli, Keili og Driffelli og síðan upp og yfir hálsinn að Vigdísarvöllum. Þegar farið er um Þórustaðastíg á þessum slóðum þarf aðeins að fara yfir einn apalhrauntaum og liggur sá við Driffell að sunnanverðu.
Melhóll heitir hóll við Þórustaðastíg og stendur hann fast við hraunjaðarinn sem snýr að Keili. Hóllinn er mitt á milli Driffells og Keilis og á gömlum fjallskilaseðlum var mönnum gert að hittast á Melhól og þar var leitum síðan skipt. Nálægt Melhól eru tvö greni, annað er Driffellsgreni en hitt Melhólsgreni.

Trölladyngja

Trölladyngja.

Nafnið Driffell er sérkennilegt og gæti verið komið af nafnorðinu drif, (snjódrífa, fjúk) eða þá af sögninni að drífa eitthvað áfram, reka eitthvað áfram og gæti þá átt við fjárrekstur enda auðveldast að koma fénu yfir úfið hraunið með því að fara Þórustaðastíginn um Driffellsmóana. A þessum slóðum er stígurinn einnig kallaður Driffellsstígur og hraunið umhverfis fellið Driffellshraun.
Við fylgjum stígnum frá Driffelli og yfir að Moshól sem er stór, reglulegur og skeifumyndaður gígur við norðurenda Selsvalla. Mosakápan á austurhlíð hólsins er mjög illa farin eftir hjólför „náttúruníðinga“ sem hafa fundið hjá sér þörf fyrir að aka sem lengst upp í hlíðina. Jón Jónsson jarðfræðingur segir að gosið úr Moshóli hafi líklega verið það síðasta í hrinunni sem myndaði Afstapahraun. Aðeins sunnar er annar svipaður gígur en þó minni. Örnefnið Moshóll er nýtt af nálinni.
Næst komum við að fallegasta gróðursvæðinu á öllum Reykjanesskaganum en það eru Selsvellirnir sem liggja meðfram endilöngu Selsvallafjalli (338 m) að vestanverðu. Fjallið greinist frá Grænavatnseggjum af smá dalverpi eða gili en um það liggur Þórustaðastígurinn upp á fjallið. Vellirnir eru um 2 kílómetrar að lengd en aðeins rúmlega 0,2 á breidd.

Moshóll

Moshóll norðan Selsvalla.

Á Selsvöllum var selstaða frá bæjum í Grindavík og í sóknarlýsingu séra Geirs á Stað frá árinu 1840 er sagt að allir bæir í sókninni nema Hraun hafi þar í seli. Jafnframt segir um sel Staðar í Grindavík: „Stendur selið í Strandarmannalandi, eður fyrir norðan Grindavíkur landamerki.“
Kúalágar heitir lítið dalverpi sem gengur út úr nyrsta hluta Selsvalla að ofanverðu. A milli Kúalága og Sogalækjar er aragrúi gíga bæði stórra og smárra og þar tala Grindvíkingar um Bergsháls en það er malarhryggur sem gengur út úr Vesturhálsi neðan Grænavatnseggja. Ornefnin í þessum hluta Vatnsleysustrandarhrepps eru að mestu leyti komin frá Grindvíkingum sem eðlilegt er því þarna störfuðu þeir sumarlangt, líklega um aldir. Tveir lækir, Selsvallalækir, renna um vellina en hverfa svo niður í hraunjaðarinn sem afmarkar þá til vesturs. Sá nyrðri kemur úr gili fast sunnan Kúalága en sá syðri rennur fram drjúgum sunnar og nálægt Selsvallaseli. Seltóftirnar kúra í suðvesturhorni vallanna fast við hraunkantinn og þar virðast hafa verið þrjár kofaþyrpingar, líklega frá jafnmörgum bæjum og tvær nokkuð stórar kvíar nálægt þeim. Úti í hrauninu sjálfu fast við fyrrnefndar tóftir er ein kofatóft til og lítil kví á smá grasbletti. Í bréfi frá séra Geir Bachmann á Stað í Grindavík til biskups árið 1844 kemur fram að sumarið áður hafi sjö búendur úr Grindavíkurhreppi í seli á völlunum og að þar hafi þá verið um 500 fjár og 30 nautgripir. Út frá selstæðinu liggur selstígur til Grindavíkur í átt að Hraunsels-Vatnsfelli (sjá síðar). Á milli selsins og fellsins sjást djúp hófför í klöppum sem segja okkur að um stíginn hefur verið mikil umferð fyrrum og að hann hafi m.a. verið hluti svonefndra Hálsagatna sem Bjarni Sæmundsson nefnir í skrifum.
Jeppaslóðin liggur með fjallinu og Ijót hjólförin marka endilanga gróðurvinina og þó sérstaklega þar sem lækirnir renna fram. Upp við fjallshlíðina, fast norðan við syðri lækinn, eru eldgamlar tóftir svo grónar að ekki sér í stein og eru þrjár þeirra ofan við vegarslóðann en líklega tvær neðan hans.

Driffell

Driffell.

Fyrir sunnan Selsvelli taka svo Þrengslin við en þau draga nafnið af því að þar er þrengst á milli hrauns og hlíðar. Líklega ná Þrengslin yfir nokkuð langt svæði til suðurs. Í sóknarlýsingunni frá árinu 1840 sem nefnd er hér á undan eru hreppamörkin sögð um Þrengsli og í Framfell (356 m). Fellið var kallað Vesturfell af ábúendum Vigdísarvalla en sá bær var austan við Vesturhálsinn. Sóknarlýsingin er eina heimildin um þessi nöfn og e.t.v. væri einhver til með að deila um staðsetningu Framfellsins því annað ámóta fell er þarna rétt austar og innar á hálsinum (285 m). Ef kort og loftmyndir eru skoðaðar með sóknarlýsinguna að leiðarljósi sést þó glöggt að lýsingin á við vestara og fremra fellið, þ.e.a.s. það sem er nær Grindavík. Frá Vigdísarvöllum sést Vesturfell í stefnu 290 gráður eða rétt norðan við hávestur en hinn hnúkurinn sést ekki frá bæjarstæðinu. Á Framfelli er varða.
Nú höldum við eftir fjárgötum vestur með mörkum yfir nokkuð slétta hraunfláka sem heita Skolahraun en flákarnir draga líklega nafn sitt afskollitnum sem á þeim er.

Trölladyngja

Trölladyngja og nágrenni – kort.

Hraunsels-Vatnsfell (261 m) eða Hraunsvatnsfell verður næst á vegi okkar en um það liggja hreppamörkin samkvæmt elstu heimildum. Í toppi fellsins er stór gígur. Nokkur háls gengur út úr fellinu til norðurs og í honum er lítill gígur með vatni og dregur fellið líklega nafn sitt af því. Við gíginn var stór varða sem Ísólfur bóndi á Ísólfsskála við Grindavík hlóð en hún var hrunin að hluta árið 2005. Annað svipað vatnsstæði er þarna skammt frá. Í elstu heimildum er nafn fellsins Hraunsels-Vatnsfell en Hraunssel var í Þrengslum sunnan landamarkanna.
Frá Hraunsels-Vatnsfelli höldum við að Syðri-Keilisbróður (310 m) sem er þá hinn Keilisbróðirinn og eftir elstu heimildum að dæma er þessi bróðir einnig í hreppslandinu. Eins og nyrðri bróðirinn (sem nefndur var í tengslum við Keili) ber þessi hnúkur fleiri nöfn en eitt og hér í hrepp hefur hann einnig verið kallaður Stóri-Hrútur en af Grindvíkingum Litli-Hrútur.

Selsvellir

Selsvellir – uppdráttur ÓSÁ.

Frá Syðri-Keilisbróður göngum við upp á gljúpu mosahraunbunguna Þráinsskjöld (240 m) sem nefnd er í kaflanum Heiðar og hraun. Í toppi Þráinsskjaldar eru nokkrir stórir, djúpir, grasi grónir gígar. Sá stærsti er um 200 m á lengd og tæpir 100 m á breidd og heitir Guðbjargarlág en Grindvíkingar kalla hann Guðrúnarlág.
Nú hallar undan af Þráinsskildi í átt að Hagafelli (270 m) eða Fagradals-Hagafelli og útsýnið er ótrúlega vítt til þriggja átta. Landamörk hreppsins eru í elstu heimildum sögð í nyrðri rætur fellsins en nýrri heimildir segja þær í Vatnskatla, það eru litlir gígar með vatni í á nyrðri brún Vatnsfells (248 m) eða Fagradals-Vatnsfells. Hér í hreppi voru fell þessi aðeins kölluð Hagafell og Vatnsfell en Grindvíkingar þurftu að aðgreina þau frá öðrum fellum í sínu landi með sömu nöfnum og því skeyttu þeir Fagradals- framan við. Á kortum Landmælinga Íslands gætir áhrifa Grindvíkinga mun meira en heimamanna hvað snertir örnefnin á eða við markalínuna á þessum slóðum.
Fellin tvö, Hagafell og Vatnsfell, eru „samvaxin“ og tengjast Fagradalsfjalli (391 m) til suðvesturs. Hraunstraumur úr Þráinsskildi hefur runnið á milli Fagradalsfjalls og Vatnsfells.

Selsvellir

Selsstígurinn að Selsvöllum.

Hrafnabjörg eða Hrafnaklettar heita klettar sem skaga út úr austurhluta Fagradalsfjalls fyrir ofan Vatnsfell og þeir eru áberandi séðir frá Vogum og Strönd. Þeir voru fiskimið í svokallaðri Gullkistu undir Vogastapa en veiðislóðin var nefnd svo vegna mikillar fiskigengdar fyrr á öldum.
Áður en við endum ferðina er sjálfsagt að koma við í Dalsseli í Fagradal en dalurinn liggur í krika við nyrðri rætur Fagradalsfjalls og dregur fjallið nafn sitt af honum. Það gæti verið að Fagridalur og þá einnig hluti fjallsins haft tilheyrt hreppnum fyrir margt löngu og þess vegna fá þessi örnefni að fljóta með í lýsingunni. Í Jarðabók 1703 segir um selstöðu Stóru-Voga: «…aðra vill hún eigna sjer þar sem heitir Fagridalur, en þar um eru misgreiningar, því Járngerðastaðarmenn í Grindavík vilja eigna sér þessa selstöðu.“

Dalssel

Dalssel í Fagradal.

Fagridalur má muna sinn fiífil fegurri því nú er hann lítið annað en moldarflög og stendur að engu leyti undir nafni. Nokkuð djúpur lækjarfarvegur liggur úr fjallinu og niður í „dalinn” sem er flatlendi með allháum hraun- og gjallkanti við nyrðri brún. Seltóftirnar eru fast við lækjarfarveginn að sunnan, nálægt rótum fjallsins, og þar sjást tvær-þrjár kofatóftir. Líklega hefur verið mjög gott selstæði þarna meðan dalurinn var grösugur og vatn í farveginum. Fagridalur er á náttúruminjaskrá.

Keilir

Keilir – kort.

Rauðgil heitir gil í fjallinu sunnan Fagradals og er kallað svo vegna rauðamels sem þar er. Gilið er sagt á hreppamörkum í markalýsingu Jóns Daníelssonar bónda í Stóru-Vogum.
Hér lýkur ferð okkar um hreppslandið. Við getum líklega verið sammála um það að svæðið sem við fórum um síðast er það fjölbreytilegasta og fallegasta sem til er í Vatnsleysustrandarhreppi og líklega á öllum Reykjanesskaganum.”

Heimild:
-Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi (ofan Gamla-Keflavíkurvegarins, Sesselja Guðmundsdóttir, 2007, bls 123-143.

Fagradalsfjall

Stóri-Hrútur í Fagradalsfjalli.