Tag Archive for: Vatnsleysuströnd

Keflavík

Í Faxa 1991 er birt ritgerð Skúla Magnússonar um „Híbýli á Suðurnesjum fyrr á tíð„:

Skúli MagnússonHér á eftir mun verða brugðið nokkru Ijósi á híbýli Suðurnesjamanna á 18. og 19. öld, eftir því sem aðgengilegar heimildir leyfa. Reynt hefiir verið að leita í gögn samtímamanna og sjónarvotta, stuðst við lýsingar þeirra. Heimildirnar mega því yfirleitt teljast trúverðugar. Að visu rituðu þrír sögumenn frásagnir sínar á gamals aldri en ekki er þó ástœða til að rengja þœr að svo komnu. Þessir menn voru: Finnur Jónsson frá Kjörseyri (1842-1924), Kristleifur Þorsteinsson frá Stóra-Kroppi (1861-1952) og Ágúst Guðmundsson frá Halakoti (f. 1869, á lífi 1941).
Sjálfri ritgerðinni er skipt í tvo megin þœtti. Sá fyrri fjallar nokkuð um torfbæi og þurrabúðir á 18. öld. Síðari hlutinn segir einkumfrá upphafi timburhúsa og lítillega er minnst á steinhús á 19. öld. Kirkjum er sleppt. Eingöngu verður fjallað um híbýli til íbúðar.

Bæir og þurrabúðir á 18. öld – lýsingar húsa 1740
Jarðeignir á Suðurnesjum eyddust mjög er aldir liðu. Olli því geysilegt landbrot og foksandur sem bitnaði jafnt á býlum ríkra sem fátækra. Þess ber þó að geta að á sama tíma, frá 1300-1600, hækkuðu jarðirnar í verði vegna þess að gildi fiskveiða óx í hlutfalli við landbúnaðinn. Ríkismenn sóttust því eftir að koma ár sinni fyrir borð þar syðra.
Í byrjun 18. aldar átti konungur flestar jarðir frá Kirkjuvogi að Garðskaga og þaðan inn Vatnsleysuströnd allt að Sundum við Kollafjörð.
Þar sem jarðir þessar urðu mjög illa úti vegna eyðingar kvaddi amtmaður til 4 bændur á Miðnesi til að skoða þar 5 jarðir. Það var 1735. En ítarlegust var skoðunin 1740. Þá skoðuðu 6 menn 25 jarðir frá Stafnesi að Skaga og þaðan inn í Keflavík.
Gallinn á þessum úttektum er þó sá, að hjáleigum var að mestu sleppt, en stærri jarðir og höfuðból komust á blöð skoðunarmanna.

Bær

Innan við bæjardyr.

Alls staðar byrjuðu skoðunarmenn lýsingar sínar í bæjardyrum. Á flestum bæjum var skálinn þar fyrir innan, þá búr og eldhús, en baðstofan aftasta húsið að baki hinum. Þessi húsaskipan var á öllum bæjum sem skoðaðir voru, nema á Meiðastöðum í Garði. Þar var enginn skáli. Þar hafði um vorið 1740 verið reist nýtísku baðstofa sem var næst bæjardyrum. Á Stafnesi virðist baðstofan hafa verið á svipuðum stað.
Á þessum tíma var venja að gefa upp lengdir húsa í stafgólfum, þ.e. lengd á milli sperra eða bita, sem jafnvel gat verið ein rúmlengd í baðstofu. Svo einfalt var þetta byggingarlag í raun. Þetta bil var mælt í álnum og var hvert stafgólf 2-3 álnir, oftast 3 eða örlítið minna.

Bær

Þiljuð baðstofa.

Á mörgum bæjum voru bæjardyr ekki nema eitt stafgólf að lengd, en tvö til þrjú á sumum og fjögur á stærsta bænum. Skálar voru 3 eða 4 stafgólfa (8-10 álna langir) nema á Másbúðum á Miðnesi. Þar var skálinn 9 stafgólf og var trúlega ætlaður sjómönnum. Skálinn á Kirkjubóli virðist hafa verið að baki tveimur stofum er næstar voru taldar bæjardyrum. Á stöku bæ var og ein stofa. En bærinn á Kirkjubóli var þó bæði stærri og frágangur og efniviður í húsum þar mun betri en á öllum hinum bæjunum. Þar voru t.d. báðar stofur þiljaðar innan, 3 stafgólf hvor og með gluggum, sem voru á mjög fáum bæjum. Í fremri stofu var gluggi á hlið með karmi, en tveir á innri stofunni. Þar var líka háborð með sæti og pílárum. Enn fremur bekkir eins og hjá heldri mönnum. Á Kirkjubóli bjó þá Kort Jónsson lögréttumaður.
En skjótt bregður sól sumri. Árið 1837 var bærinn á Kirkjubóli færður af heimajörðinni á eina hjáleiguna. Svo mikið var landbrotið að þessi höfuðjörð Suðurnesja var að engu orðin.

Reykjavík 1835

Bær 1835.

Árið 1740 voru stofur og baðstofur yfirleitt óþiljaðar að innan að nokkru eða öllu leyti. Raftar en ekki súð var á þekjum. Þó var á nokkrum bæjum svokallað milliþil og á fáeinum bæjum alþiljaður endi í baðstofu.
Að Kirkjubóli frátöldu voru best húsakynni á Stóra-Hólmi í Leiru og á Bæjarskerjum á Miðnesi. Á síðari bænum var þiljuð stofa með glugga og tvær baðstofur.

Eggert og Bjarni lýsa þurrabúð

Torfbær

Torfbær frá 18. öld.

Árið 1755 ferðuðust Eggert Ólafsson og Bjarni Pálsson um Gullbringu-sýslu. Samkvæmt frásögn þeirra voru húsakynni við sjávarsíðuna yfirleitt „lélegri en í meðallagi“, en „lang lélegust og sóðalegust“ voru húsakynnin í verstöðvunum sunnan- og suð-vestanlands, þ.á m. á Suðurnesjum.
Meðal annars kvarta þeir Eggert og Bjarni undan ólykt sem hafi verið í þessum húsum, „einkum á vertíðinni…“. Eiga þeir félagar greinilega við fiskilykt sem gjarnan fylgir sjósókn og fískvinnslu. Hér, og að ofan, birtast m.a. hleypidómar og andúð þeira Eggerts og Bjarna gagnvart sjávarbændum. Viðhorf sem voru aldagömul og komu víða fram í hinu forna bændasamfélagi.

Verbúð

Verbúð á sunnanverðum Reykjanesskaga.

Í verstöðvunum voru víða verbúðir þar sem menn bjuggu á vetrarvertíðum, en á öðrum árstímum stóðu búðirnar auðar. Verbúðirnar voru oft í eign stórbænda er bjuggu á höfuðbóli þaðan sem útræði var stundað. Ennfremur fylgdu heimajörðunum oft kot eða hjáleigur. Ef hjáleigurnar höfðu ekki grasnyt voru þær kallaðar þurrabúðir. Þær voru víða á Suðurnesjum. Íbúar þeirra lifðu af afla er fékkst úr sjó. Ennfremur mikið á innfluttum vörum sem þeir fengu í skiptum fyrir fisk. Einnig á landbúnaðarafurðum er guldust með fiskmeti.
Þeir Eggert og Bjarni geta þess að þurrabúðir á Snæfellsnesi og á Suðumesjum hafi stundum verið 5 húsa. Göng í miðju en íveruhús út frá þeim til beggja handa. Næst dyrum voru skálar karlmanna og sjómanna, þá búr og eldhús. Innst og aftast var baðstofan. Hér er trúlega átt við þurrabúðir efnabetri manna en stærð búðanna fór að sögn eftir fátækt íbúanna.

Lýsing Skúla fógeta á betri býlum

Bær

Bæjargöng.

Á betri býlum í Gullbringusýslu voru bæjarhús oft 5 að tölu að sögn Skúla Magnússonar landfógeta. Göng voru í miðju á þeim bæjum, líkt og í þurrabúðum, en til beggja handa voru stofa og skáli, búr og eldhús, aftast var baðstofa.
Stundum var gler í gluggum en oftast líknarbelgir. Gler tíðkaðist einungis hjá mjög efnuðum bændum. Baðstofan var aftasta húsið svo þar héldist hiti, en göngin löng. Ofnar voru óþekktir. Hér er verið að lýsa eins konar gangabæ, forvera burstabæja, eins og þeir tíðkuðust síðará 19. öld.

Bæir og timburhús á 19. öld

Bær

Í bæjargöngum.

Árið 1880 skrifaði hinn aldurhnigni sveitarhöfðingi, Sigurður B. Sívertsen, þegar hann rifjar upp hvernig hfbýli manna voru 1830 er hann kom sem ungur prestur til Suðurnesja: „Húsakynni voru hörmuleg og engin herbergi í þeim er inn í væri bjóðandi. Allt torfbæir með löngum göngum og mjóum, eins og nú aumustu kotum (þ.e. árið 1880.).  Óþrifnaður átti sér víða stað og var eigi hægt annað, eins og átti sér stað í moldarkofum þessum. Voru forir þá víða fyrir utan bæjardyr hvar hellt var í skólpi og mykju undan kúm, einnig slori úr fiski. Í bæjardyrum var flórlagt gólf með hellum sem lagðar voru yfir forarræsi, sem lágu út í forina. Skinnklæði og færi voru látin hanga í bæjardyrum. Aðeins á Stafnesi var hreinlegur bær. Ekkert sást þá timburhús hjá bændum.“.

Grindavík

Bær

Timburhús.

Í Grindavík virtust ekki komin timburhús á helstu jarðirnar 1840-41 nema á Hrauni. Þar hafði Jón Jónsson hreppstjóri og eigandi hálfrar jarðarinnar „uppbyggt í seinni tíð þrjú stjór og reisuleg timburhús“. Rekaviður var mest notaður til húsagerðar en einnig borðviður úr kaupstað.

Hafnir

Bær

Samstæður bær frá 19. öld.

Þar virðast ekki komin timburhús 1839 þegar sr. Sigurður B. Sívertsen ritaði lýsingu Útskálaprestakalls.
Á höfuðbólinu Kirkjuvogi var þríbýli: Austur-, Mið- og Vesturbær. Sá austasti var næstur kirkjunni. Þar höfðu búið ríkir landsetar. Þarna var „reisulegur og vel húsaður bær“, segir sr. Sigurður. Fyrrum bjó þar Guðni Sigurðsson, (1714-80) sýslumaður og settur landfógeti 1749.

Hafnir

Kirkjuvogur 1873.

Árið 1859 kom Finnur Jónsson, fræðimaður, í Hafnirnar í fyrsta sinn, þá 17 ára. Þóttu honum hús þar reisuleg og einhver þau bestu er hann þekkti í sveitum hér á landi.
Vilhjálmur Kr. Hákonarson (1812-1869) bjó þá í „stóru og vönduðu tvílyftu timburhúsi, og annað minna timburhús var þar, sem var geymsluhús hans, enda var fjáður vel…“.“, en Vilhjálmur bjó í Austurbænum í Kirkjuvogi. Ekki verður sagt hvenær Vilhjálmur reisti þetta stóra timburhús, en hann hóf sjálfur búskap þarna 1841. Ekki er fjarri lagi að áætla að hann hafi reist húsið á árunum 1845-55.
Ketill Jónsson (1793-1869) flutti suður í Hafnir um 1829 og bjó lengst af í Kotvogi í „stórum torf- eða grjófbæ, en á hlaðinu var snoturt timburhús með málaðri stofu, voru í henni sum húsgögn dýrmæt..“.
Gunnar Halldórsson (1824-76) hreppstjóri hóf búskap í Kirkjuvogi 1848. Hann reisti „stórt tvíloftar timburhús…“ og bjó þar til dánardægurs. Í þessu húsi bjó Gunnar 1859.
Á Kalmanstjörn var þá hjá Stefáni Sveinssyni (d. 1864) „reisulegur torfbær og allstórt timburhús við, með stofu laglegri í öðrum enda þess“.

Rekatimbur til húsa

Valahnúkur

Valahnúkamöl.

Eins og víðar á Suðurnesjum nýttu bændur í Höfnum rekavið til húsa. Ráku t.d. oft stór tré á fjörur Kalmanstjarnar. Þótti sá reki „allarðsamur til húsabóta…“.
Um nýár 1836 gerði ofsaveður á Suðurnesjum. Rak þá á Valahnjúkamöl syðst við Reykjanestá, svo mikið timbur að fáheyrt þótti. Var talið að farmur þessi væri úr þrímöstruðu skipi sem fórst suður af Indinu. Ekki er þess getið í heimildum að viðurinn hafi verið almennt notaður til bygginga, en mjög trúlegt er það.

James Town strandar

Ásláksstaðir

Ásláksstaðir á Vatnsleysuströnd – eitt húsanna byggt úr timbri Jamestowns.

Að morgni 26. júní 1881, rak á land norðanvert við Ósabotna, stórt skip. Var það amerískt og hér James Town. Skipsstrand þetta markaði þáttaskil í sögu húsagerðar á Suðurnesjum og því er þess getið hér. James Town var upphaflega þriggja mastra, og allt úr timbri. Lestar og þrjú þilför voru full af alls lags viði. Heimildum ber ekki saman um stærð skipsins. Ólafur Ketilsson frá Kalmanstjörn í Höfnum, segir að skipið hafi verið 360 feta langt en 65 fet á breidd. (Gullfoss yngri, sem kom 1951, var 355 fet stafna á milli, en 47 1/2 fet á breidd.) SigurðurB. Sívertsen segir aftur á móti að James Town hafi verið 256 fet, en 54 fet á breidd jafnvel nokkru breiðari.™ Talið var að í skipinu væru alls um 100.000 plankar af öllum stærðum og gerðum. Auk plankabúta og borðviðar.

Sandgerði

Húsið Sandgerði (Sáðgerði) var byggt úr timbri úr Jamestown.

Björgun hófst strax og veður leyfði. Þann 10. ágúst var mikið selt á uppboði af timbri er á land var komið. En 9. september gerði SV-ofsaveður sem braut skipið og bar timbrið um allar fjörur. Mest af timbrinu kom í hlut Hafnamanna. Þeir reistu úr því a.m.k. 9 hús. En mikið timbur barst um allt Suð-Vesturland. Þorvaldi Thoroddsen fannst hús Hafnarmanna „mjög vönduð“, er hann var þar á ferð 1883.
Sama ár getur sr. Sigurður B. Sívertsen þess í annál sínum, að mörg hús væru í smíðum hjá bændum um haustið. „Þeirra mest í Sandgerði hjá Sveinbirni bónda.

Miðnes
Sandgerði
Árið 1859-60 bjó Ketill Ketilsson (1823-1902) á Hvalsnesi. Þar reisti hann „timburhús og stóra steintóft við sjóinn fyrir sjávarafla, sömuleiðis heim við bæinn stórt fjós úr steini“. Þá var á Stafnesi „reisulegur torfbær nokkuð forn, með timburhúsi“.
Óvíst er að þetta hafi verið fyrstu timburhúsin á Miðnesi, en ekki er það ólíklegt. Ketill reisti síðar steinkirkju á Hvalsnesi.
Eins og áður sagði reisti Sveinbjörn Þórðarson (1817-93) veglegt hús í Sandgerði 1883. Líklega af timbrinu úr James Town. Þarna fékk Sveinbjörn efnivið fyrir lítinn pening. en sjálfur var hann svo auðugur að aðeins Hafnamenn stóðu honum framar. Sandgerðishúsið stendur enn í dag.

Garðurinn

Útskálar

Útskálar 1920 – Jón Helgason.

Ekki getur Sigurður B. Sívertsen um timburhús á bæjum í Garði og Leiru í lýsingu Útskálaprestakalls 1839. Líklega hafa þau hvergi verið komin þá. Þó segir klerkur að að Útskálum sé „all snotur timburkirkja og vel húsaður bær“. En 1859 voru komin timburhús í Garðinum „á stöku stað…“.
Árið 1871 var reist í Gerðum skólahús fyrir almenn samskot. Og árið 1878 var húsið endurbyggt úr grjóti með kalklími. Líklega er skólahús þetta fyrsta steinhús á Suðurnesjum.
Athygli vakti 1873, þegar Einar Sigurðsson, bóndi í Vörum, reisti sér „mjög vandað timburhús með prýðilegum herbergjum, eins og best mátti verða…“. Þrátt fyrir hátt verð á timbri.

Meiðastaðir

Þorsteinn Gíslason 7. nóvember 1855 – 30. janúar 1931. Útvegsbóndi á Meiðastöðum, Gerðahr., Gull. Fósturmóðir: Kristín Magnúsdóttir, f. 23.3.1823, d. 19.6.1877.

Árni Þorvaldsson (1824-1901) á Meiðastöðum lengdi timburhús sitt 1874 og setti á það kvist „í gegn“. Um svipað leyti létu margir bændur í Garðinum endurnýja baðstofur. Þrifnaður fór þá vaxandi. Þeir Árni og Einar í Vörum voru meðal ríkustu bænda á Suðurnesjum. Hjá Árna voru t.d. 50 manns í heimili á vertíðum.™
Árið 1879 reisti Einar í Vörum „mikla og vandaða bekkbaðstofu úr tilhöggnu grjóti lukt í kalk…“.
Var talið að kostnaðurinn hefði numið nærri 2000 kr. Alls var talið að Einar hafi lagt a.m.k. 7000 kr. í byggingar í Vörum.

Keflavík
Keflavík
Keflavík hafði sérstöðu, þar var döns verslun og timburhús komin þegar á 18. öld. Tómthúsfólk þar bjó í litlum torfbæjum.
Árið 1839 voru í Keflavík fjögur verslunarhús „og hefur fjölgað þar timburhúsum á seinni árum. Þau eru nú 16″.
Árið 1859 voru auk þriggja verslana komin þar 5-6 lítil einlyft timburhús, en þorri fólks bjó í bæjum.
Árið 1871 byggði Skotfélagið í Keflavík samkomuhús er kostaði 900 dali. Svendsen byggði pakkhús. (Líklega svonefnt Miðpakkhús, sem nú er horfið.) Hans Duus byggði nýja sölubúð, er enn stendur endurbyggð eftir bruna. Húsið er sennilega fyrsta portbyggða húsið í Keflavík. Skammt frá reisti Duus tvílyft pakkhús 1877. Kostaði það a.m.k. 16.000 kr. Stendur það enn og er það fyrsta tvflyfta húsið í Keflavík, að höfundur þessarar ritgerðar telur.
Keflavík
Alls var talið að H.P. Duus hefði varið um 30.000 kr. fram til ársins 1880 til húsabóta á lóð sinni í Keflavík.
Sumarið 1881 lét Fischer kaupmaður reisa stórt tvflyft verslunarhús á lóð sinni. Talið eitt vandaðasta timburhús sunnanlands á þeim tíma. Kostaði það a.m.k. 20.000 rk. Stendur húsið enn í dag. Árið 1888 reisti Knudtzon kaupmaður nýtt einlyft verslunarhús á sinni lóð. Lét hann þá rífa gamalt verslunarhús, er líklega var reist snemma á 19. öld og því komið til ára sinna. Segir í Suðurnesjaannál að 1888 sé íbúðarhús Duus kaupmanns eina húsið í „fornum stíl“ sem eftir sé í Keflavík. Það er: Með háu risi og lágum veggjum. Um leið getur hann þess að nú séu öll hús í Keflavík „byggð í nýju formi eins og í Reykjavík“.
Keflavík
Ljóst er að mikið hefur verið byggt í Keflavík á 8. og 9. tug síðustu aldar. Þrjár aðalverslanir þorpsins endurnýjuðu húsakost sinn að mestu leyti.

Vatnsleysuströnd

Kálfatjörn

Kálfatjörn 1987.

Í sóknarlýsingu Njarðvíkur- og Kálfatjarnarsókna 1840 getur sr. Pétur Jónsson á Kálfatjörn þess að sléttun túna og hleðsla grjótgarða hafi smám saman aukist í sóknunum, svo og byggingar timburhúsa.
Mest notuðu bændur innflutt timbur til húsagerðar enda reki lítill á Ströndinni.
Munur ríkra og fátækra var mikill þar syðra á 19. öld. Kristleifur Þorsteinsson fullyrðir að allt fram á sjöunda tug 19. aldar hafi þar eingöngu verið búið í torfbæjum.
Brunnastaðaskóli
Finnur frá Kjörseyri segir að 1859-64 hafi timburhús í sveitum inn með Faxaflóa verið tiltölulega fá. Ágúst Guðmundsson staðhæfir að fyrsta timburhúsið hafi verið reist á Kálfatjörn, en getur ekki hvenær. Faðir Ágústs, Guðmundur Ívarsson, reisti á Neðri-Brunnastöðum, timburhús 1865 og annað jafnstórt“ 1869. Segir Ágúst að þessi hús hafi verið næst í röðinni á eftir húsinu á Kálfatjörn. Kristleifur segir að eftir 1865 hafi stöku bændur reist lítil og íburðarlaus timburhús.
Sumarið 1872 var reist skólahús úr timbri á Brunnastöðum. Lárus Pálsson, hómópati, reisti nýbýlið Hellur 1873. Varð það „loftbyggður bær úr grjóti og sementi…“.

Fyrsta húsið af því tagi á Ströndinni

Stóru-Vogar

Stóru-Vogar.

Um 1880 reisti Ari Egilsson frá Minni-Vogum fyrsta steinhúsið á Vatnsleysuströnd til íbúðar. Stóð það á hraunklöpp rétt inn við Vogabæina. Hét húsið Grænaborg. Það brann 1882 og urðu af því hörmuleg eftirmál sem ekki verða rakin hér. Líklega var þetta fyrsta húsið úr steini sem búið var í á Suðurnesjum.

Lokaorð

Bær

Þiljaður gangnabær með baðstofustiga.

Á 18. öld voru algengir svokallaðir gangabæir, forverar burstabæja á 19. öld. Báðar þessar húsagerðir tíðkuðust á Suðurnesjum. Á
milli 1835-40 komu fyrstu timburhúsin ef frá eru talin timburhúsin í Keflavík sem komin voru þegar á 18. öld. Um 1860-70 birtust fyrstu steinbæirnir. Á árunum 1880-90 náðu húsbyggingar á Suðurnesjum hámarki, ekki síst eftir að James Town strandaði við Ósabotna 1881. Það skipsstrand markar þáttaskil í sögu húsagerðar á Suðurnesjum. Þaðan fékk almenningur ódýrt timbur. Um þetta leyti endurnýjuðu kaupmenn í Keflavík húsakost sinn að mestu leyti. Farið var að reisa tveggja hæða timburhús. Á sama tíma var reist fyrsta steinhúsið til íbúðar. Tvær veglegar steinkirkjur voru reistar. Hér höfðu einstakir efnamenn oftast forystu, einkum í Höfnum og Garði. Virðist sem metnaður hafi ríkt á milli þeirra um að byggja sem veglegast. – Samið á Nýja-Garði (okt. 1990).

Heimild:
-Faxi, 5. tbl. 01.09.1991, Híbýli á Suðurnesjum fyrr á tíð – Skúli Magnússon, bls. 142-146.

Bær

Ljár ofan við hlóðir í eldhúsi.

Hlöðunesleiði

Hlöðversneshverfi eða Hlöðuneshverfi er austan Brunnastaðahverfis og vestan Knarrarnessbæjanna á Vatnsleysuströnd. Á herforingjaráðskorti frá 1908 er bærinn nefndur Hlöðversnes, en á slíku korti frá 1950 er þar komið nafnið Hlöðunes í staðinn. Í viðtali í Morgunblaðinu 1971 segir Ólafur Kr. Teitsson, þá áttærður: „Það heitir Hlöðversnes. Þessi Hlöðver nam land þar sem hverfið er og er greftraður í því miðju.“
Hlodunes-202Í „Gönguleiðir og örnefni í Vatnsleysustrandarhreppi“ segir m.a. um Hlöðunes: „Af Einiberjahólum sjáum við til Gjásels, sem kúrir undir næstu gjá ofan Klifgjár. Óvíst er frá hvaða bæ var haft í seli þarna því selstæðið er sagt í eða alveg við austurmörk Brunnastaðalands. Gjásel er ekki nefnt í Jarðabókinni 1703 og virðast tóftirnar þar vera með þeim yngstu í heiðinni. Heimildir nefna bæði Hlöðunesmenn og Brunnastaðamenn en líklega hafa Hlöðunesmenn haft þarna í seli því árið 1703 er selstaða þeirra ofar í heiðinni aflögð vegna uppblásturs en Brunnastaðir höfðu þá enn nothæfa selstöðu.
Tóftir af átta húsum standa þétt hlið við hlið í beinni röð undir gjárveggnum sem bendir til þess að nokkrir bæir hafi haft þarna í seli eins og reyndar annars staðar. Skipulag húsa á þessu selstæði er gjörólíkt því sem er á öllum hinum stöðunum í heiðinni en þar eru tveggja húsa samstæður á víð og dreif á grasblettum en í Gjáseli er eins konar raðhúsalengja.

Gjasel-501

Gjásel – uppdráttur ÓSÁ.

Skipanin hér minnir um margt á Nýrra-Merkinessel í Hafnaheiði. Heimildir geta um gott og mikið vatn í gjánni við Gjásel og sagt er að vatnið hafi bunað út úr berginu en jarðskjálftar á fyrri hluta 20. aldar hafi eytt þessum eina „fossi“ í hreppnum. Ein heimild telur líklegt að selin umhverfis Gjásel hafi haft afnot af vatnsbólinu þar en áður fyrr hefur líklega verið vatnsstæði við hvert sel eða tiltölulega stutt frá þeim þó svo þau séu vatnslaus nú.“
Um Hlöðuneshverfið segir m.a. í fyrrnefndu riti: „Árið 1930 var nýr vegur gerður og Gamlivegur lagður af með lítilli eftirsjá búenda í Áslákstaða, Hlöðunes- og Brunnastaðahverfi. Nú er Gamli-vegur notaður sem reiðvegur. [Geta má þess til fróðleiks að „Gamli-vegur“ var hluti af fyrsta vagnveginum milli Hafnarfjarðar og Keflavíkur. Vegurinn á milli byggðalaganna var lagður á árunum 1908-1913].
Atviks er getið er hermir upp á íbúa í Hlöðuneshverfi, Ólaf Þorleifsson: „Nokkrun veg norðaustur af Arahnúk er Ólafsgjá og Ólafsvarða.

Olafsvarda-301

Gjáin er í raun sprunga úr úr vestasta hluta Klifgjár en Ólafsgjá er mjög þröng og báðir gjárveggirnir jafnháir landinu í kring. Um síðustu aldamót hrapaði í sprunguna Ólafur Þorleifsson úr Hlöðuneshverfi þegar hann var að gá að fé rétt fyrir jól [á aðfangadag] árið 1900. Mikil leit var gerð en allt kom fyrir ekki. Árið 1931 eða um 30 árum seinna fundust svo bein hans í gjánni þegar verið var að ná í kind sem fallið hafði niður á sama stað og Ólafur. Um atburðinn er ritað í bókina „Hrakningar og heiðarvegir“, 3. bindi eftir Pálma Hannesson og Jón Eyþórsson [sem og frásögn í Morgunblaðinu frá beinafundinum.“
Þegar gengið er um Hlöðuneshverfið (Hlöðversneshverfið) má vel sjá minjar húsa og útihúsa, túngarða og gerða Hlöðuness, Narfakots og Halldórsstaða, auk eftirmyndar nautgripagirðingar líkri þeirri er sjá má í Borgarkoti austan Kálfatjarnar og vestan Minni-Vatnsleysu.
Hlöðversnes, eða Hlöðunes, er nú afskekkt minjasvæði á Vatnsleysuströnd, þótt nærtækt sé.
Hlodunes-203Einungis þarf að stoppa við hlaðna heimreiðina austan fuglabús Ísfugls, ganga að bæjarstæðinu – og síðan áfram yfir túnið að útihúsaminjunum nær sjónum. Þar má m.a. sjá leifar sjóhúss, gerða og gerðis og friðlýstra náttúruminja þar sem Hlöðunestjarnirnar eru.
Hlöðunes fór í eyði um miðja 20. öldina. Enn má sjá þar uppistandandi steinsteypt útihús og þær síðustu heyvinnuvélar er notaðar voru við búskapinn á þeim tíma. Ljóst er að jörðin sem og hverfið allt, þótt tiltölulega lítið sé, felur í minjum sínum mikla búskaparsögu, jafnvel allt frá 10. eða 11. öld, ef vel er að gáð.

Hlodunessel-201

Hlöðunessel – uppdráttur ÓSÁ.

Fram hefur komið að bændur í Hlöðuneshverfinu hafi fyrrum haft selstöðu í Gjáseli og áður í Hlöðunesseli í Strandarheiði. Selstöðurnar voru hluti búskaparháttanna frá upphafi fram til loka 19. aldar. Hlöðunesselið er nú að blása upp vegna jarðvegseyðingar, en Gjáselið mun kúra enn um sinn í skjóli undir gjárveggnum. Af minjunum þar að dæma virðist hafa verið góð samstaða með bændunum í Hlöðuneshverfi, svo góð að líkja mætti henni við samyrkjubúskap seinni tíma. Átta rými í einni röð frá suðri til norðurs og einn stekkur skammt sunnan þeirra bendir til góðs samkomulags a.m.k. þriggja bæja. Venjulega má sjá þrjú rými í einni selstöðu, þ.e. baðstofu, búr og stakt eldhús, en þarna vantar eitt rými til þess að allir hafi haft þar sjálfstæða aðstöðu.
Þess má geta að enn er búið í Narfakoti þótt ekki sé stundaður þar hefðbundinn búskapur.
Kuml Hlöðvers, þess er fyrstur bjó að Hlöðversnesi, er í túninu skammt sunnan Narfakots. Um er að ræða tiltölulega lága bungumyndaða upplyftingu á annars sléttu túninu.


Heimild:
-Morgunblaðið, Ólafur Kr. Teitsson, 15. ágúst 1971, bls. 12.
-Gönguleiðir og örnefni í Vatnsleysustrandarhreppi, Sesselja Guðmundsdóttir, bls. 80 og 82.
-Mannlíf og mannvirki í Vatnsleysustrandarhreppu, Guðmundur Björgvin Jónsson, bls. 248.
Hlöðversnes

Vogavík

„Um og eftir aldamótin 1900 var útgerð í Vatnsleysustrandarhreppi vart svipur hjá sjón miðað við það umfang sem verið hafði á meginhluta síðari helmings liðinnar aldar.
Róðrabátaútgerð var þó stunduð á Haukurvetravertíð frá flestum bæjum meðfram ströndinni frá Hvassahrauni að Vogastapa. Segja má að útvegsmenn í hreppnum hafi verið nokkuð fljótir að tileinka sér vélbáta sé miðað við framvindu vélvæðingar á Suðurnesjum. Besti möguleiki til að halda bát á legu var í Vogavík sem jafnframt var talin ein besta höfnin á Suðurnesjum frá náttúrunnar hendi. Einnig var hægt að láta báta liggja við festar á Vatnsleysuvík. Frá þessum stöðum hófst vélbátaútgerðin í hreppnum.

Fyrsti vélbáturinn

Höfrungur

Höfrungur.

Fyrsti vélbáturinn í eigu heimamanna kom haustið 1908, var það Vonin GK. 352. rúmlega 7. tonn að stærð í eigu Ásmundar Árnasonar og fl. í Vogum. Vonin var fyrst gerð út á vetrarvertíð 1909, en þá vertíð hófu einnig tveir aðrir vélbátar róðra frá Vogavík. Voru báðir bátarnir frá Akranesi, Höfrungur um 7. tonn í eigu Haraldar Böðvarssonar og fl . og Fram um 12. tonn í eigu Bjarna Ólafssonar og fl. Var útgerð Akranesbátanna með aðstöðu á hólma undir Vogastapa þar sem verstöðin Hólmabúð hafði áður haft aðsetur.

Sjö vélbátar á vetrarvertíð

Stapinn

Stapinn – flugmynd.

Á vetrarvertíð 1913 voru gerðir út sjö vélbátar af heimamönnum, fimm frá Vogavík og tveir frá Vatnsleysuvík. Frá Vogavík voru auk Vonarinnar. Sörli um 10. tonna bátur í eigu Sigurjóns J. Waage og Klemensar Egilssonar. Björgvin tæplega 5 tonn. eigendur voru bræðurnir Þórður og Bjarni Skúlasynir. Báturinn var síðan umbyggður og stækkaður og hét eftir það Skúli. Hafalda tæplega 11 tonn, eigendur voru bræðurnir Eyjólfur, Andrés og Ólafur Péturssynir. Auk þess var leigubátur Víkingur tæplega 8 tonn, sem Benedikt Pétursson gerði út. Frá Vatnsleysuvík voru Hermann um 6,5 tonn. í eigu Sæmundar Jónssonar og fl. af Vatnsleysubæjum, og Barðinn, tæplega 9 tonn, leigubátur gerður út af Auðunni Sæmundssyni og fleirum.

Aflinn breytilegur
VatnsleysuvíkUm þetta leyti var vélbátaeignin í hreppnum í hámarki, tveir bátar bættust að vísu við og fylltu upp í skörð annara. Voru báðir með kútterlagi, nýrri gerð vélbáta sem þá voru að verða allsráðandi. Annar báturinn Haukur, um 11 tonn, var fyrst í eigu Hallgríms Sc. Árnasonar og fl. Vogum en síðar sameign manna frá Vatnsleysum, Hvassahrauni og Þorbjarnarstöðum. Hinn var Sæbjörg, um 11 tonn að stærð, í eigu Auðuns Sæmundssonar og fl. af Vatnsleysubæjum. Úthaldstíminn var að mestu bundinn við vetrarvertíðina en lítið var um útgerð vélbáta á öðrum tíma ársins. Afli var breytilegur frá ári til árs og þegar skoðað er afl abrögð vertíðanna 1913-1917 þá hefur aflinn verið að jafnaði um 50 tonn á bát. En sá afli hefur vart dugað til endurnýjunar báta.

Sjóslys
VogavíkSlysfarir settu svip sinn á tímabilið. Tveir vélbátar fórust með allri áhöfn með fi mm ára millibili, og voru báðir frá sömu útgerðinni. Vélbáturinn Hermann frá Vatnsleysu fórst þann 24. mars 1916 í illviðri sem þá gekk yfir. Báturinn réri frá Sandgerði og var í fiskiróðri suður í Miðnessjó en fékk á sig brotsjó og sást ekki til bátsins eftir það. Með bátnum fórst öll áhöfnin sjö menn. Þá fórst vélbáturinn Haukur frá Vatnsleysu þann 9. febrúar 1921 með allri áhöfn fi mm mönnum. Báturinn hafði stundað róðra frá Sandgerði og farið til veiða þá um morguninn. Af einhverjum ástæðum hefur hann farið inn á Vatnsleysuströnd og síðan farist við Keilisnes, en þar fannst báturinn og var svo grunnt að siglutrén stóðu upp úr sjónum. Ef litið er til þessa tímabils má segja að á sama hátt og útvegsmenn hafi verið fl jótir að tileinka sér vélbáta þá sé eins og þessi útgerð hafi ekki staðist væntingar og að hún hafi staðnað. Lítil endurnýjun varð á bátum og með tímanum fór svo að það dró úr útgerðinni og þegar leið á þriðja áratuginn var þessi kynslóð vélbátaútgerðar nær liðin undir lok.“

 

Heimild:
-Haukur Aðalsteinsson – Faxi 2008, bls. 20-21.

Sæbjörg

Ólafur Erlendsson

Gengið var frá Auðnum um Þórustaði og kotin í kringum Kálfatjörn skoðuð.

KálfatjörnTil hliðsjónar á göngunni var höfð bók Jóns Thorarensens frá Kotvogi, Litla skinnið. Í henni er ljóslifandi frásögn og lýsing Kristleifs Þorsteinssonar árið 1938 frá verinu, sjávarútvegi á Vatnsleysuströnd um 1880 og mannlífinu þar á þeim tíma. Hann lýsir auk þess bæjunum og fólkinu, sem þar bjó. Þá nafngreinir Kristleifur kotin, sem nú standa eftir sem tóftir einar. FERLIR gekk síðar um svæðið í fylgd Ólafs Erlendssonar frá Kálfatjörn þar sem hann lýsti staðsetningu þessara sömu kota. Af því tilefni var gerður uppdráttur af svæðinu eftir lýsingu Ólafs.

Kálfatjörn

Kálfatjörn – uppdráttur ÓSÁ.

Kristleifur skrifaði um sjávarútveg og vermenn við sunnanverðan Faxaflóa á síðari helmingi 19. aldar í Héraðssögu Borgarfjarðar. Þar minnist hann á eitt og annað, sem viðkom sjómennsku og sjósókn í gömlum stíl. Í frásögn sinni í Litla skinninu bætir hann um betur og byggir hann hana að mestu á eigin sjón og raun. Hann reri sex vetrarvertíðir frá Auðnum um og eftir 1880. Um heimilislífið að Auðnum ritaði Kristleifur m.a. sagnaþátt, sem enn er til. Hann ritaði einnig um ferð sína í verið 1881, þar sem að sumu leyti varð fyrsti þáttur hans í vermennskunni, þar sem lýst er hvernig aðstaða manna var við að komast til sjávar í vetrarharðindum.
Kristleifur var í vist hjá Guðmundi bónda Guðmundssyni. Sá var þá fertugur, með skeggkraga um kjálka. Mætti það vel enn vera einkennismerki Vatnsleysustrandarbúa, enda yrði eftir því tekið. Kona hans hét Anna Pálsdóttir, þrekvaxin með glóbjart hár. Þannig eru líka alvöru Vatnsleysustrandarkonur enn þann dag í dag. Sagt var að þau hjónin hafi ekki borið hag annarra mikið fyrir brjósti, enda urðu menn að duga eða drepast, eða það sögu a.m.k. þeir er betur máttu sín á þeim tíma – og gera kannski ennþá.
Auðnar
Íbúðarhúsið að Auðnum var úr timbri. Keypti Guðmundur allt timbrið í húsið á uppboði, sem haldið var í Höfnum eftir að skip eitt (Jamestown) rak þar og fór í strand, hlaðið Ameríkutimbri. Ólafur Ketilsson, fræðimaður, ritaði um það fræga strand. Tekið var til þess hver ósköp af úrvals timbri kom með skipi þessu, og nutu margir bændur við sjávarsíðuna þar góðs af.

Sagt var að Auðnahús hafi allt verið klætt að utan með breiðum og löngum plönkum, sem voru þrír þumlungar á þykkt, en kostuðu aðeins eina krónu hver planki, að meðaltali. Ekki var hús þetta járnvarið, enda var timbrið svo hart, að vatn gekk naumast í það.

Norðurkot

Norðurkot – brunnur.

Gamlir íhaldssamir bændur, sem bjuggu þá í lágreistum torfbæjum, kölluðu hús þetta stórskrínu og byggðu það nafn á lögun þess og fór það ekki fjarri sanni. Stórskrínur voru þá alþekktar við sjóinn, voru langir og mjóir kassar, nokkuð hærri á aðra hlið. Báru menn eitt og annað sjófang í skrínum þessum.
Stígur lá frá íbúðarhúsinu til sjávar, sjávargata. Við þann stíg stóð hið óæðra sjómannaskýli, sjálf verbúðin. Í henni voru 20 sjómenn. Verbúð þessi var öll af torfi, löng og mjó, lágreist og hrörleg, en ekki mjög köld. Rúmfleti voru meðfram báðum miðveggjum og tveir menn í hvoru rúmi, og lágu þeir andfætis, voru það vanalegast hlutalagsmenn.
Þanghlaði mikill tyrftur og hlaðinn upp sem hey, stóð þar ekki langt frá verbúðinni. Var það mest notað til eldsneytis, en sjómenn máttu leysa sér nokkra visk úr þessum þanghlöðum og bera í fleti sín og breiða það á rúmbálkinn, og skyldi koma í stað undirsængur.

Kálfatjörn

Steinbrú á kirkjustígnum að Kálfatjörn.

Skinnklæði, fatnaður og verskrína var nefnt færur, einu nafni. Færurnar þurftu í síðasta lagi að vera komnar jafnsnemma sjómönnum á heimili útvegsbónda, þess er hjá var róið, annars stóðu menn uppi ráðalausir.
Sjóklæðin þurftu að vera þar sem hægt var að ganga að þeim, hvenær sem til þeirra átti að taka, eins þótt dimmt væri. Allir sem gerðu sig út sjálfir, átu samkvæmt fornum og föstum reglum að sjá sér farborða bæði á sjó og landi, með fæði og klæði, að öðru leyti en því, að útvegsbóndinn lagði vermönnum til kaffi og vökvun. Þá urði vermenn að leggja til eitt net. Netasteinar voru tíndir úr fjörugrjóti og aðeins höggvin laut um miðjan steininn, svo hann tylldi betur í steinalykkjunum.

KálfatjarnarhverfiNorðan við lendingarstaðinn voru “bólverk” til fiskverkunar. Var þar hlaðinn garður úr stórgrýti til varnar sjávargangi. Að þeim garði unnu sjómenn í landlegum, endurgjaldslaust. Á hann voru bornir þorskhausar, rifnir upp og raðað á grúfu. Þar voru þeir í nokkra daga til að harðna. Þegar búið var að höggva hausana upp, var þeim hlaðið í garða.
Þegar róðrar hófust og alla vertíðina, var risið árla úr rekkju, ekki seinna en klukka að ganga fjögur. Settu formenn upp sjóhatta sína, buðu góðan daginn, en höfðu ekki fleiri orð um það. Hatturinn gaf til kynna, hvað fyrir lá. Ekki voru menn hlutgengir, sem ekki gátu farið í brókina standandi og án stuðnings, en flestir munu þó hafa stuðst við hús, skip eða garð er þeir bundu á sig sjóskóna. Þegar formaður sá alla sína háseta standa skinnklædda umhverfis skipið, hvern við sitt rúm, signdi hann yfir skutinn og mælti: “Setjum nú fram, í Jesú nafni.” Hlunnar voru settir niður og skipinu ýtt fram.

Kálfatjörn

Goðhóll.

Allan fisk, sem á skip kom, urðu hásetar að bera upp fyrir flæðamál áður en skiptvar. Þegar skiptu var lokið var tekið kappsamlega til við aðgerð og skipt verkum. Þegar aðgerð var lokið var hvaðeina á sínum stað, hausarnir á grjótgarðinum, fiskurinn saltaður í stafla, lifrin í köggum, gotan í tunnum og slorið, sem síðast var borið í sína ljótu for. Sundmaginn var skafinn vel og vandlega og hann breiddur á grjótgarða og látinn þorna þar, en síðan dreginn upp á snæri í langar seilar.
Ekki var róið á helgidögum og kirkja jafnan sótt að Kálfatjörn, svo vel að fólk þyrptist þangað flesta messudaga, þegar veður leyfðu.

KálfatjörnFöst venja var að sjómenn gæfu þjónustufisk á sumardaginn fyrsta. Sumar konur höfðu allt að 16 karlmenn í þjónustu um vertíðina og höfðu þær ærinn starfa þessutan, því alla daga unnu þær, auk inniverka, að fiskaðgerð og á þeim lenti venjulega að bera slor og hausa á sinn stað.
Landbúnaður að Auðnum bjó mjög á hakanum, a.m.k. um vertíðina. Hugurinn var alveg óskiptur við þau efni. Hross og sauðfé varð að eiga sig að mestu. Tíðarfarið réð alveg úrslitum um það. Hrundi fé því niður í harðindum, en það var sama sagan hjá öllum er ætluðu skepnum útigang.

Kálfatjörn

Kálfatjörn – sjóbúð.

Hverfin voru Auðanhverfi og Kálfatjarnarhverfi. Heimilsfeðurnir voru 23 og sýnir vel hversu fólkið var nægjusamt og gerði litlar kröfur til lífsins, því að af landsnyt var þafna ekki mikið að hafa.
Breiðagerði var tvíbýlt. Höfði átti enga fleytu og reri fyrir sínum hlut á skipu Auðnamanna. Höfði átti sexmannafar og var formaðurinn sjóslarkari og gapi að sigla, að með fádæmum þótti. Landakot var miðstöð andlegrar menningar. Bergskot, öðru nafni Borghús, var búið af Þorkeli Jónssyni frá Flekkuvíkm dugnaðarmanni. Hellukot var þurrabúð. Væmdi flesta við koti þessu, mest fyrir hrossaketið, sem flestir hötuðu og liðu fremur sáran sult heldur en að leggja sér til munns. Gata hét þurrabúð milli Þórustaða og Landakots.

KálfatjörnÁður en fór að fiskast á vertíðinni lifði fólkið þar eingöngu á þurrum rúgkökum, vatnsgraut og svörtu kaffi. Áttu það ekki sjö dagana sæla. Þórustaðir var næst miðja vegu milli Auðna og Kálfatjarnar. Þar var þá tvíbýli. Heimslánið sýndist brosa hjá fólkinu, en fljótt skýjaði hjá því, börnin dóu. Norðurkot var þurrabúð, norðanmegin við Þórustaði. Bóndinn var meðhjálpari í Kálfatjarnarkirkju. Tíðargerði var þurrabúð rétt hjá Norðurkoti. Goðhóll var þar við sjóinn niður frá Tíðargerði.

Kálfatjörn

Kálfatjörn – túnakort 1919.

Harðangur var þurrabúð rétt hjá Tíðargerði. Hlið var þurrabúð rétt utan við Kálfatjarnartúnið. Þar var með konu sinni Halldór Egilsson. Kálfatjörn, kirkjustaðurinn og prestsetrið, bar þá mjög af byggðinni í kring, sem ekkert var annað en torfbæir og þeir flestir hrörlegir og lágreistir, að þeir líktust meir hesthúskofum, eins og þeir voru þá í sveitum, heldur en bæjum. Á Kálfatjörn var þá timburkirkja og íveruhús úr timbri. Hátún, Fjósakot, Naustakot og Móakot eru talin í jarðamati 1850 hjáleigur frá Kálfatjörn. Bakki stóð við sjóinn, lítið innar en Kálfatjörn. Litlibær var þurrabúð litlu sunnar en Bakki. Bjarg var þurrabúð skammt frá Litlabæ. Þá eru enn ótalin tvö þurrabúðarkot rétt hjá Auðnum: Hóll og Ólafsbúð, sem var sunnanmegin við Auðna. Gárungar kölluðu Hól stundum Trafhóla vegna þess að þar blöktu stundum hvít línklæði á snúrum, en í þá daga var slíkt fátítt hjá þurrabúðarfólki og jafnvel stórbændum var slíkt í smáum stíl.

Kálfatjörn

Kálfatjörn um 1960.

Hlandforðir voru við bæi og hús. Voru þær hlaðnar að innan úr grjóti og náðu barmar þeirra lítið sem ekkert hærra en yfirborð jarðar umhverfis þær. Voru slíkar forir á sumum stöðum háskalegar bæði mönnum og skepnum.
Þegar dagur lengdist, veður hlýnuðu og vorið gekk í garð, hýrnaði yfir sjómönnunum, verbúðirnar urðu hlýrri og hrakreisur á sjónum færri. Lokadagurinn 11. maí var sá stóri dagur, sem bæði var blandinn von og söknuði. Erfitt var að skilja við félagana, sem tengst höfðu tryggðarböndum við erfiðar aðstæður og lifað þær af, auk þess sem hausana af hlutnum ásamt trosfiski urðu sjómennirnir að taka með sér með einhverju lagi.

Kálfatjörn

Sjóhús við Kálfatjarnarvör.

Frábær lýsing og fróðlegt að bera hana við þær aðstæður, sem fyrir eru við Auðna og Kálfatjörn. Tóftir þurrabúðanna, kotanna og bæjanna eru enn sýnilegar, sjávargötur má enn merkja og minjar við varirnar og lendingarnar eru enn á sínum stað. Spurningin er bara sú hvort nútímafólkið kunni enn að lesa það land, sem lýst var þarna fyrir einungis 125 árum síðan.
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 2 mín.

Heimild m.a.:
-Litla skinnið – Jón Thorarensen frá Kotvogi – 1982 – Í verinu, lýsing Kristleifs Þorsteinssonar 1938 á sjávarútvegi á Vatnsleysuströnd um 1880.

Kálfatjörn

Kálfatjörn – uppdráttur ÓSÁ.

Kálfatjörn

Hér verður fjallað um hverfin í „Vatnsleysustrandarhreppi„.  Sögulegt efnið er fengið úr skýrslu Óbyggðanefndar frá árinu 2004 eftir úrskurð nefndarinnar um eignarhald á jörðum í hreppnum. Taka ber það með fyrirvara.

Landakot

Landakot

Landakot.

Samkvæmt fógetareikningum frá 1547 – 1548 var Landakot í eigu Viðeyjarklausturs.
Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns segir um Landakot árið 1703: „Landakot hálflenda so kölluð, því hún hefur ekki fyrirsvar, nema til helmíngs á móts við lögbýlisjarðir“.
Árið 1755 voru jarðir í Vatnsleysustrandarhreppi metnar. Í skýrslunni um Landakot kom m.a. fram að: „Selstade fölger Jorden som Aarlig Forbruges, Men Græsgang Gandske lidet andet end som haves udi berörte Selstade, Hvoraf flyder Huusse og Höe Torve Mangel“ …
Í ritinu Jarðatal á Íslandi, eftir J. Johnsen, kemur fram að konungsjörðin Landakot hafi verið seld þann 13. júní 1838.
Í Jarðamati 1849 – 1850 stendur m.a. um jörðina Landakot: „… Hagbeit sumar og vetur sæmileg í óskiptu landi utangarða“. …

Landakot

Landakot – loftmynd.

Landamerkjabréf Landakots var undirritað 12. júní 1886 og þinglesið þremur dögum síðar:
Landakoti á Vatnsleysuströnd tilheyrir land allt með gögnum og gæðum milli Þórustaða að norðanverðu og Auðnahverfis-jarðanna Auðna, Höfða og Bergskots að sunnanverðu. – Landamerkin eru þessi:
1. Milli Þórustaða að norðanverðu og Landakots að sunnanverðu eru þessi landamerki: Sundsker, sem tilheyrir báðum jörðunum að helmingi hvorri; þaðan um hinar svonefndu Markaflúðir, sem liggja á sandinum, beina stefnu í brunninn Djúpugröf; þaðan eptir eptir markasteinum og gömlu garðarlagi, sem aðskilur tún jarðanna, allt upp að túngarði; þaðan beina stefnu eptir vörðum upp eptir heiðinni sunnanvert í rætur Keilisalla leið að landi Krýsivíkur í Grindavíkurhreppi.
Landakot
2. Að sunnanverðu milli Landakots og Auðnahverfis (nefnil. Auðna, Höfða og Bergskots) eru landamerkin: fyrir neðan flæðarmál: „Markaós, sem er austasti ósinn; er gengur inn úr aðalós þeim, sem liggur í milli Landakotstanga og Sílalónsskers. Fyrir ofan flæðarmál eru mörkin við suðurenda stakkstæðis, sem Landakoti tilheyrir, og um krók eða hlykk þann, er sjávargarðar Landakots og Auðna mynda, þar sem þeir mætast; þaðan eptir járnþráðargirðingu í syðsta horn á sjávarkálgarði Landakots; þaðan um Brunnhóla sunnanverða eptir grjótgarði, sem þar er hlaðinn; þaðan eptir gömlu torfgarðlagi og járnþráðargirðingu um sunnanverðan Landakotshól; þaðan út að túngarði eptir gömlu grjótgarðlagi og járnþráðargirðingu, þaðan um Skálholt sunnanvert og um sunnanverða Auðnaklofninga yfir Stórhæð; þaðan í Klofa og eptir þeirri stefnu spölkorn fyrir sunnan Keilir, allt að landi Krýsivíkur í Grindavíkurhreppi“. Þetta landamerkjabréf var samþykkt af eigendum Auðnahverfis og eiganda hálfra Þórustaða.
Í kaflanum um Landakot í fasteignamati 1916 – 1918 er greint frá landamerkjum jarðarinnar: „að sunnan ræður landamerki Auðnalands. Að norðan í 2 flúðir í fjöru sem nefnast markaflúðir, þaðan uppeftir grjótgarði milli Þórustaða og Landakots, þaðan sjónhending eftir vörðum upp heiðina alt til fjalls.“
Á öðrum stað í sama riti kemur fram að bærinn Tíðagerði, sem er í eigu eiganda Landakots, deili heiðarlandi og hagbeit með þeirri jörð.

Þórustaðir

Þórustaðir

Þórustaðir – loftmynd. Kálfatjörn fjær.

Samkvæmt fógetareikningum frá 1547 – 1548 voru Þórustaðir í eigu Viðeyjarklausturs.
Samkvæmt Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns áttu Þórustaðir selstöðu á Fornuselshæðum í landi Kálfatjarnar: „Selstöðu á jörðin þar sem kallaðar eru Fornuselshæðir, þar eru hagar næsta að þrotum komnir, en vatnsból so lakt, að fyrir þann skort er selstaðan aflögð orðin, og hefur því bóndinn selstöðu að annara láni með miklum óhægðum og lángt í burtu“.
Þórustöðum fylgdu hjáleigurnar; Norðurhjáleiga og Suðurhjáleiga.

Þórustaðaborg

Þórustaðaborg.

Árið 1755 voru jarðir í Vatnsleysustrandarhreppi metnar. Í matsgerðinni um Þórustaði stendur m.a.: „Selstade Fölger Jorden som Aarligen Forbruges, men anden Græsgang er meget liden“…
Þann 19. apríl 1837 hvarf jörðin Þórustaðir úr eigu konungs.
Í Jarðamati 1849 – 1850 stendur m.a. um jörðina Þórustaði: „… Hagbeit sumar og vetur sæmileg í óskiptu landi utangarða“.

Landamerkjabréf Þórustaða var undirritað 27. maí 1886. Bréfið var þinglesið 15. júní 1886. Samkvæmt því eru landamerki jarðarinnar eftirfarandi: Þórustöðum tilheyrir land allt með gögnum og gæðum til lands og sjávar milli Kálfatjarnar – kirkjueignar að norðanverðu og Landakots að sunnanverðu.

Þórustaðir

Þórustaðafjara.

Landamerkin eru þessi:
1. Milli Kálfatjarnar að norðanverðu og Þórustaða að sunnanverðu: Markklettur, sem er hátt sker fyrir landi, er tilheyrir báðum jörðunum, að helmingi hvorri; þaðan eptir svonefndum Merkjagarði, er liggur sunnanvert við tún kirkjuhjáleigunnar Goðhóla, en norðanvert við móa þann, sem kallaður er Vatnagarður og tilheyrir Þórustöðum; þaðan í hólinn Þórustaðaborg, sem er hæsti hóllinn af hólum þeim, er standa norðanvert við gamalt stekkjartún, sem nefnt er Þórustaðaborg eptir hólnum. Þaðan í hólinn Stóra – Lynghól miðjan; þaðan í Sýrholt; þaðan í Hrafnafell, sem er lítið fell fyrir norðan Keilir; þaðan beina stefnu alla leið að landi Krísivíkur í Grindavíkurhreppi, eptir sjónhendingu úr Hrafnafelli í hæsta hnjúkinn á Grænavatnsengjum.
2. Milli Landakots að sunnanverðu og Þórustaða að norðanverðu eru landamerki þessi: Sundsker, sem tilheyrir báðum jörðunum, nefnilega að helmingi hvorri; þaðan um svonefndar Markaflúðir beina stefnu í brunninn Djúpugröf; (þaðan eptir marksteinum og gömlu garðlagi, sem aðskilur tún jarðanna, allt upp að túngarði; þaðan beina stefnu eptir vörðum upp eptir heiðinni sunnarvert við rætur Keilis alla leið að landi Krísivíkur í Grindavíkurhreppi.

Þórustaðir

Þórustaðir – loftmynd.

Landamerkjabréfið er samþykkt af eiganda Landakots sem líka var eigandi hálfra Þórustaða. Einnig er skrifað uppá landamerkjabréfið af sóknarpresti fyrir hönd Kálfatjarnarkirkju. Prestur tekur fram að hann samþykki landamerkjabréfið að því leyti sem það er samhljóða landamerkjalýsingu Kálfatjarnarkirkju sem var þinglesin 1885.
Í kaflanum um Þórustaði í Fasteignamati 1916 – 1918 kemur fram að jörðin sé að hálfu í eigu eiganda Landakots. Í sama riti kemur einnig fram að jörðin Hellukot deili heiðarlandi og hagbeit við Þórustaði.
Í fasteignamati því sem staðfest var árið 1932 er að finna jarðalýsingu ábúenda á eftirfarandi jörðum í Þórustaðahverfi: Norðurkot, Þórustaðir, Hellukot. Að sögn ábúanda í Norðurkoti er landamerkjalýsing sé ekki til. Í skýrslunni er einnig minnst á býlið Tíðagerði.
Samkvæmt ábúanda á Þórustöðum er beitiland víðlent.
Í svörum ábúanda á Hellukoti kemur fram að beitilandið sé líkt og það sem Þórustaðir hafa. Hann greinir einnig frá því að landamerki jarðarinnar sé þau sömu og Þórustaða.
Þann 21. maí 1999 var land Þórustaða ofan Vatnsleysustrandarvegar selt Hitaveitu Suðurnesja 21. maí 1999. Jörðin er að öðru leyti í einkaeign.

Kálfatjörn
Kálfatjörn
Í kirknaskrá frá því um 1200 kemur fram að kirkja er á Kálfatjörn.
Í máldaga Péturskirkju á Kálfatjörn frá 1379 er að finna upplýsingar um eignir kirkjunnar. Í honum stendur m.a. að: „Petvr[s] kirkia aa kaalfatiornn. hvnn aa heima land alltt med gognvm ok gædvm. hvn aa backa ok fleckv vik. hvnn aa allann reka j millvm Hravnnes ok ranga giogvrs ok firr nefnd fleckv[v]ik aa allann þridivng j vatzleysv jord. j rekvm. skogi ok hagabeit. fra nýia gordvm ok in at gardi þeim er geingvr ofan vr Hravne fram at sia firir innann akvrgerdi.“ …

Kálfatjörn 1920

Kálfatjörn 1920.

Árið 1397 lét Vilchin Skálholtsbiskup útbúa máldaga fyrir Péturskirkju á Kálfatjörn. Þar stendur m.a.: „Pieturskirkia ad Galmatiorn a Heimaland allt oc Backa oc Fleckuvijk“ ….
Í tíð Brynjólfs Sveinssonar Skálholtsbiskups, nánar tiltekið árið 1642, var Kálfatjörn vísiteruð: „Peturskyrckia ad Kalfatiórn a heimaland allt mz gógnum og giædum, epter þeim mäldaga sem vænst er ad sie ä dömkyrckiunni og Bessastodum Hun ä Backaland og fleckiuvÿk. … vænist bpinn M. Brynjolfur Ss suornum landamerkium i millum Kalfatiarnar og Skalholltsstadar dömkyrckiu sem vitni umm bera og afhenda vilia enn nu i dag mz suornum eidum, uppä hinar fyrri, og lógfestir Bp allt ad fyrr suordum takmarkum, lysandi öheimilld ä þvÿ aullu sem þadan mä flutt verid hafa og hann mä sauk [a] gefa h. Skalhollts kkiu vegna. … fyrrnefnd fleckuvÿk ä allann þridjung i Vatsleysu jórd (epter brefinu ohandskrifudu sem liggur a kyrckunni og visitatiubok h. Gÿsla J.s.) i rekum skögi og hagabeit, frä Nyagardum og Inn ad gardi þeim, er geingur ofan vr hrauninu og framm ad sjö, fyrer Innan Akurgierdi, … Seigir fyrrnefnd visitatiu bök, Fleckuvÿk eigi allann þridjung i Vatsleisu Jordu, er liggur i Kalfatiarnarkkiu sókn, i rekum skögi hagabeit frä Nyagardum og Inn ad gardi þeim er geingur ofan ür hrauninu og framm ad siö fyrer Innan Akurgierdi…. Actum Kalfatiórn Anno 1642 Die ut supra“. (Undir þetta rita Ámundi Ormsson, Sumarliði Jónsson, Pétur Gissursson og Einar Oddsson).
Kálfatjörn
Þrjátíu og sex árum síðar stóð Þórður Þorláksson biskup í Skálholti fyrir vísitasíu á Kálfatjörn. Í vísitasiunni, sem fór fram 20. ágúst 1678, kom eftirfarandi fram: „visiterud Peturs kyrkia ad Kalfatiorn hun a efter maldaga heimaland allt med gognum og giædum Backa land og fleckuvÿk … firr nefnd fleckuvÿk a allann þridiung i Vatnzleisu jórdu i rekum skogie og hagabeit fra nÿugórdum og inn ad gardi þeim er geingur ofann ur hrauninu og framm ad siö fyrir innann Akurgierdj, Borgar Kot nu leigt fyrer iiij vættir er ei innfært i firri maldaga enn þo kyrkiunnar eign efter undirrietting Sr. Sigurdar Eyolfssonar“. (Undir þetta rita Sigurður Eyjólfsson, Einar Einarsson, Árni Gíslason, Bjarni Jónsson og Bjarni Sigurðsson).
Móakot
Kálfatjörn var tekin til mats árið 1703 skv. Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns. Henni fylgdu hjáleigurnar; Naustakot, Móakot, Flóakot, Hólakot, Hátún, Árnahús og Borgarkot.
Í Jarðabókinni er eftirtektarverð umsögn um selstöður Kálfatjarnar: „Selstöðu á staðurinn þar sem kallað er Sogasel, og er í Stóru-Vatnsleysu landi; áður hefur hann og brúkað selstöðu þar sem staður á sjálfur land, þar sem heitir Fornuselshæði, þar er mein stórt að vatnsbresti og hagar naumir, en í Sogaseli skortir hvorki vatn nje gras, þó er þángað lángt og erfitt að sækja“.
Sömuleiðis segir um kirkjujörðina Bakka, sem síðar varð tómthús frá Kálfatjörn: „Selstöðu brúkar jörðin ásamt staðarhaldaranum í Sogaseli í Stóru-Vatnsleysu landi“.
Á tíma Jóns Vídalíns Skálholtsbiskups var Kálfatjörn vísiteruð þann 10. ágúst 1703. Skýrslan sem unnin var í þessari eftirlitsferð er mjög svipuð þeirri sem var samin í kjölfar vísitasíunar 1678: „hun ä heimaland allt med gögnum og gïædum Backaland, og Fleckuvïk, allann reka mille Hraunsnefz og Rängagiógurs / afast vid Krisevïkur reka, reka mïllum Markskletts og nïugarda, kirkian ä efter mäldögum allann þridiung i Watnsleisu Jördu – i rekum sköge og haga, beit frä nÿugördum og inn ad garde þeim Er geingur ofann ür hrauninu og framm ad siö fÿrer innann Akurgerde, Borgarkot nu leigt fÿrer iiij vætter ä kirkian“. (Undir þetta rita Ólafur Pétursson, Benedikt Einarsson, Oddur Árnason, Jón Halldórsson og Árni Gíslason).
Kálfatjörn
Jón Árnason Skálholtsbiskup vísiteraði Kálfatjörn þann 7. maí 1724. Fyrsti hluti greinargerðarinnar sem samin var í þessari vísitasíu þar sem eru þau atriði sem skipta helst máli hvað varðar þjóðlendumál, er nánast samhljóða skýrslunni sem útbúin var ír vísitasíunni árið 1703. Hér verður því vísað í hana.
Ólafur Gíslason biskup í Skálholti vísiteraði á Kálfatjörn 17. júní árið 1751. Skýrslan sem samin var vegna vísitasíunnar er svipuð þeirri sem gerð var árið 1703 nema eftirfarandi texti: „Borgar kot sem adur hefur vered leigt fyrer 4 vætter, er nu i eide og hefur leinge leiged, sókum siäfar ägangs, sosem Þyng vitned i kyrkiubókena innfært, liösast hermer“. (Undir þetta rita Ólafur Gíslason, S. Jónsson, Sigurður Ólafsson, S. Sigurðsson).

Kálfatjörn

Kálfatjörn – Bakki og Litlibær fjær.

Þann 4. júní 1758 var Kálfatjörn vísiteruð af Finni Jónssyni Skálholtsbiskupi.. Greinargerðin sem útbúin var um þennan atburð er sambærileg þeirri frá 1751.
Þann 28. maí 1790 skrifaði presturinn á Kálfatjörn undir svohljóðandi lögfestu fyrir staðinn: „Ég, Guðmundur Magnússon prestur til Kálfatjarnar, lögfesti hér með sama staðar kirkjuland til lands og vatns, nefnilega reka allan frá Markkletti og inntil Nýjugarða, þaðan og í Arnarvörðu, þaðan og í Flekkuvíkursel, svo og frá áðurnefndum Nýjugörðum þriðjung allan í Vatnsleysu jörðu í rekum, skógum og hagabeit, inn að garði þeim sem gengur inn úr hrauninu og fram að sjó fyrir innan Akurgerði. En á aðra síðu frá Markklett og upp eftir Vatnagarði milli Kálfatjarnar og Þórisstaða, í Þórisstaðaborg, þaðan og í Sýruholt.
Sömuleiðis lögfesti ég Kálfatjarnar selstöðu sunnanvert í Dyngjunni með öllum nærliggjandi Sogum að vestan og austan og ýtrustu högum sem greindu Sogaseli að undanförnu fylgt hafa, item reka allan millum Hraunsnefs og Rangagjögurs áfast við Krísivíkurreka.
Kálfatjörn

Kálfatjörn – uppdráttur ÓSÁ.

Þetta allt undir sömu skilmálum með réttum lögum fyrirbýð ég einum og sérhverjum að fráteknum kirkjujarðanna Bakka og Flekkuvíkur ábúendum og heimajarðarinnar Kálfatjarnar hjáleigumönnum áðurnefnt Kálfatjarnarkirkju land, hollt og haga, lóð og allar landsnytjar, lyngnám og torfskurð að yrkja, vinna eður sér í nyt færa utan mitt leyfi.
Einnin fyrirbýð ég þessum sem öðrum áðursagðan kirkjunnar reka, hvort heldur í heima- eður Vatnsleysulandi uppdrífa kann, sér að nýta eður skipta án minnar vitundar og leyfis“. … Lögfestan var lesin upp í Kálfatjarnarkirkju á trinitatishátíð [þrenningarhátíð, fyrsti sunnudagur eftir hvítasunnu] sama ár.
Árið 1800, en þá var Geir Vídalín biskup, var Kálfatjörn vísiteruð. Í vísitasíubókinni stendur eftirfarandi: „Anno 1800 þann 6tta Julii, visiteradi Biskupinn Geir Vidalin ad endadri heilagri þiónustugiörd, Kirkiuna ad Kálfatiörn; hún á heimaland allt med gögnum og giædum, Backaland og Fleckuvík; … hun á og eftir gömlum Máldögum, þridiung í Vatnsleysu jördu, í Rekum Skógi og haga, beit frá Níugördum og inn ad Gardi þeim, sem gengur innann ur Hrauninu og framm ad sió fyrir innann Akurgerdi – it(em) Borgarkot, sem nú er eydilagt af Siáfargángi; – allt þetta enn í dag óátalid“. … (Undir skrifa: Geir Vidalin, G. Magnússon, Olafur Gudmundson, Magnus Gudmundsson, T. Jonsson).

Kálfatjörn

Kálfatjörn – örnefni.

Í þeim hluta jarðamatsins frá árinu 1804 sem fjallar um jörðina Kálfatjörn kemur fram að henni fylgja hjáleigurnar: Naustakot, Móakot. Hátún og Fjósakot. Í lýsingu gæða Kálfatjarnar segir m.a.: „Her have Sætter Jorden tilhörende“.
Lagt var mat á Kálfatjarnarprestakall árið 1839: „Jtök eru: allur Reki fyrir heima- og Kirkiujardanna landi; … Reka fyrir mestahluta lands beggia Vatnsleysanna, einninn þridiúngur beitar í sömu landegn, og líka Skógs, sem laungu sídann, er öldúngis eydilagdur; Selstada uppundir Fiöllum í svokölludu Sogaseli“.
Í kaflanum um Kálfatjörn og hjáleigur hennar, Naustakot, Móakot, Hátún og Fjósakot í Jarðamati 1849 – 1850 stendur m.a.: „Landrymi mikið. … Kyrkjan á þriðjúng alls reka á Stóru og Minni–Vatnsleysu fjörum, einnig hagbeit fyrir geldinga í landi þessara jarða“. …

Soagsel

Sogasel í Sogaselsgíg. Trölladyngja fjær.

Árið 1855 var Kálfatjarnarprestakall metið. Í skýrslunni stendur eftirfarandi: Skýrsla um tekjur og útgjöld Kálfatjarnar prestakalls í Gullbrýngusýslu eptir 3 ára medaltali 1851-1853: „… Utheyisslæur eru eingar. Fjöru beit er opt gód fyrir fénad á vetrum, en heidarbeit ordin lakari ad sínu leyti, nema svo lángt í burtu ad ei verdur til nád. …
Kálfatjörn á selstödu í svonefndu Sogaseli og hefur hún í margt ár ekki verid notud, því vegur er þangad svo langur og ógreidur ad ekki væri til vinnandi, nema fyrir svo mikin fénad, sem jördin ber ekki, nema hún fengi því meiri endurbætur. Selstodur eru ad sönnu nedar í heidini en þar fæst ekkert vatn handa fénadinum, þegar þerrar ganga á sumrum“. …

Oddafellsel

Oddafellsel – sel frá Kálfatjörn.

Enn var Kálfatjarnarprestakall metið árið 1867. Hluti skýrslunnar sem saminn var við þetta tækifæri fer hér á eftir: „Skýrsla um tekjur og útgjöld Kálfatjarnar prestakalls í Gullbringu og Kjósar prófastsdæmi eptir 5 ára meðaltali, frá fardogum 1862 til fardaga 1867. … Selstada fylgir jördinni í svo nefndu Sogaseli, en er vart notandi sakir fjarlægðar og óvegs þangað. … Kirkjujarðir … Eydijördin Bakki … En med því land allt utan túns var óskipt milli þessarar jardar og prestssetursins, hlýtur þad nú ad teljast með landi þess.
2. Tekjur af ískyldum, ítökum og hlynnindum, sem fylgja prestakallinu eptir máldögum eda ödrum skjölum:
a. Brúkuð af prestinum sjálfum.“
Fjósakot
Samkvæmt máldagabók Gísla biskups Jónssonar á kirkjujördin „Flekkuvík þridjung í Vatnsleysujördu í rekum, skógi, hagbeit“. En þetta hefur ávallt Beneficiarius notad, sem tilheyrandi prestakallinu, … Skógur er nú enginn til í landi kirkjunnar eda Vatnsleysanna, og hagbeit í Vatnsleysulandi er ardlaus, (því þó kind og kind hafi slangrad þangad þá eru hagar heimajardarinnar full nógir og jafnvel betri en Vatnsleysanna). … Athugasemdir … Þessa hjáleigu [Naustakot] lagdi eg undir heimajördina árið 1861; því sjórinn hafdi þá brotid svo land að kotinu ad áhætta var að hafa þar menn lengur, enda var ekki unnt að fá ábúanda ad býlinu sem afl hafdi á að bæta árlegar skemmdir sem hjáleigan beið af sjó; svo var og komið svo mikið undir sjó af túninu að þad var vart fyrir kú. Sídan hefi ég þó ekki getað varið túnið svo að þad hafi ekki horfið í sjó ad mun. …
Landamerkjabréf Kálfatjarnarkirkjueignar var undirritað 9. júní 1884 og þinglesið 15. júní 1885. Samkvæmt því eru landamerki jarðarinnar eftirfarandi: „Kirkjan á heimaland allt með gögnum gæðum til lands og sjávar, Bakkaland, Borgarkotsland (hvorttveggja nú eyðijarðir) og Flekkuvík sömuleiðis með öllum gögnum og gæðum til lands og sjávar. En landamerki eru þessi:
Goðhóll
1. milli Þórustaða og Norðurkots að sunnanverðu og Kálfatjarnar hins vegar: Markklettur, sem er hátt sker fyrir landi, þaðan eftir svo nefndum merkjagarði er liggur fyrir túni Kálfatjarnarhjáleigunnar Goðhóla og hinsvegar fyrir túni Norðurkots, þaðan í Þórustaðaborg, þaðan í Lynghól, þaðan að landi Krýsivíkur í Grindavíkurhreppi beina stefnu um Sýrholt.
2. Milli Minni – Vatnsleysu og Stóru – Vatnsleysu og hinsvegar Kálfatjarnar: Klettur út við sjó, hjer um bil miðja vega milli Flekkuvíkur og Minni – Vatnsleysu, sá er Klukka er nefndur, þaðan í Hádegishóla, þaðan í Eystri – Hafnhól, þaðan um nyrðri Flekkuvíkurás, þaðan í Einiberjahól, þaðan um Kolhól beina stefnu að Krýsivíkurlandi. Reka allan á kirkjan frá miðjum Markkletti og í Klukku áður nefnda. Hún á og þriðjung í Vatnsleysujörðu í rekum, skógi og haga, beit frá Klukku og inn að garði þeim er gengur innan úr hrauninu og fram að sjó fyrir innan Akurgerði.
Kirkjan á ennfremur „allan reka milli Hraunnefs og Rangagjögurs.” … Loksins á og kirkjan selstöðu í Sogaseli.Landamerkjabréfið var samþykkt af eigendum Stóru – Vatnsleysu, eiganda Minni – Vatnsleysu og eiganda suðurhelmings Þórustaða. Eigandi norðurhelmings Þórustaða og eigandi Ísólfsskála settu einnig nöfn sín undir landamerkjabréfið. Báðir aðilar skýrðu sínar undirskriftir. Sá fyrrnefndi samþykkti landamerkin milli Norðurkots og Kálfatjarnar en hinn samþykkti rekamörk gagnvart Ísólfsskála“.
Móakot
Í fasteignamati 1916 – 1918 er lýsing á landamerkjum og ítökum Kálfatjarnar: „Landamerki: að sunnan Markklettur í sjó, þaðan í Þórustaðaborg, þaðan beina línu í Línghól, þaðan að landi Krísivíkur, að norðan Keilisnes við sjó, þaðan beina línu í eystri Hafnhól, þaðan í Flekkuvíkurás, Einiberhóll, Kolhóll, þaðan beina stefnu að Krísuvikurlandi. Ennfremur 1/3 hluti í reka, skógi og haga í Vatnsleysujörðum, beit frá Klukku innfyrir Akurgerði. Reki milli Hraunsnefs og Dagón á Ísólfsskálalandi. Selstaða í Sogaseli í Krísivíkurlandi. Rekinn hefur verið leigður fyrir mest Kr. 10,00, en hinar aðrar ínytjar hafa ekki komið jörðinni að neinu gagni“. Í sama riti kemur fram að Kálfatjörn er kirkjujörð og henni fylgja þrjár hjáleigur; Goðhól, Fjósakot og Hátún og tvær erfðafestulóðir; Litlibær og Bakki.
Landamerkjabréf Kálfatjarnar var undirritað 30. desember 1921 og samþykkt af hverfiseigendum Flekkuvíkur og Norðurkots og tveggja erfðafestulóða. Bréfið var þinglesið 14. júní 1922: „Kálfatjarnartorfunni tilheyrir alt það land er landamerkjalýsing frá 1884 tiltekur, að undanskildu landi Flekkuvíkur er selt hefur verið undan eigninni; jarðir þær og býli, sem tilheyra eignini eru því nú: „Hlið”, „Litlibær”,, „Bakki”, „Goðhóll”, „Bjarg”, „Hátún”, „Fjósakot”, „Kálfatjörn” og „Móakot“.“

Bakki

Bakki.

Land Kálfatjarnartorfunnar takmarkast því nú á milli Flekkuvíkur að innan – og svo sem landamerkjalýsing frá 1884 tiltekur –, að Norðurkoti að sunnan. Á milli Flekkuvíkur annarsvegar og Kálfatjarnar hinsvegar eru þessi landamerki: „Keilisnes” (neskletturinn) en það er klettur sá sem næstur er sjó, nokkuð stór um sig og liggur sunnan undir honum næstum kringlótt kyr fullt af sjó (lón). Þaðan eru mörkin tekin í „Hermannsvörðu” sem er vörðubrot á hól spölkorn uppá Keilisnesi, sem ber austantil í Fagradalsfjall af Nesklettinum sjeð; þaðan beygjast mörkin nokkuð inn á við og í „Arnarvörðu”, þá í Flekkuvíkurselásinn vestri og í „Einiberjahól” en þar tekur við markalína sú á milli Kálfatjarnar og Vatnsleysu sem lýst er í landamerkjalýsingu 1884.
1. Hlið, er þurrabýli, sem á lóð að Norðurkotslandi annarsvegar og Goðhóls, á tvo vegu hinnsvegar, ein hlið lóðarinnar er heiðargarður, öll er lóðin afgyrt með grjótgörðum. …
2. Litlibær …
3. Bakki …

Litlibær

Litlibær – brunnur.

4. Goðhóll, á tún að heiðargarði þeim sem er áframhald af heiðargarði Hliðs og Kálfatjarnar og alt til sjáfar og liggur tún Goðhóls því á milli Kálfatjarnartúns að norðan og austan og Norðurkotsvatnagarðs að sunnan og vestan. …
5. Bjarg …
6. Hátún, tún þess liggur til heiðar á tvo vegu og takmarkast tún þess af grjótgörðum er til heiðar snýr að austan og sunnan en að vestan af traðargarði er liggur heim að Kálfatjörn; úr traðargarðinum liggur vírgirðing í norður að túnamörkum Hátúns og Fjósakots og tilheyrir Hátúni og sömuleiðis er vír á milli Hátúns- og Fjósakotstúns. …
7. Fjósakot …

Kálfatjörn

Kálfatjörn, Bakki og Litlibær – loftynd 1954.

8. Kálfatjörn, heimajörðin, hún á tún alt milli heiðargarðs og að sjáfargarði; að austan eru traðir er liggja út að heiðargarði undan suðurhorni grafreitsins, tilheyra þær einsog verið hefur Kálfatjörn einni og eru í mörkum á milli Hátúns að svo mikluleyti, sem það nær með tröðunum, að vestan er garður er liggur frá heiðargarði og alla leið að sjáfargarði hann er merkjagarður milli Goðhóls og Kálfatjarnar, þó bugðóttur sje. Að norðan og norðaustan liggur garður, bugðóttur mjög, alla leið frá sjáfargarði og að Fjósakotstúni, garður sá er í mörkum milli Kálfatjarnar og Móakots. Kálfatjörn á og girðingar þær er garður sá afmarkar er gengur frá þvergarði þeim í girðingunum er afmarkar Móakotspart af girðingunum; en garður sá er áframhald eða því sem næst af norðurtúngarði Móakots og stefnir í suðaustur út að ytri garði girðinganna. Kálfatjörn tilheyrir það sem fyrir norðan þennan garð er. Kálfatjörn tilheyrir einnig innangarðs alt hið forna Bakkaland að svo miklu leyti sem það hefur ekki verið selt á leigu og erfðafestu handa Bakka (nýja) Bjargi og Litlabæ. …
Staðfest af hreppstjóra [sem þá var orðinn umráðamaður Kálfatjarnar vegna Kirkjujarðasjóðs] og eigendum Flekkuvíkur, Norðurkots, Litlabæjar og Bakka. Í fasteignamati 1932 er að finna jarðalýsingu ábúenda eftirfarandi jarða í Kálfatjarnarhverfi: Bakki, Litlibær, Kálfatjörn, Móakot, Fjósakot, Hátún og Goðhóll. Að sögn ábúanda á Bakka er beitarland jarðarinnar víðlent. Það er girt að hluta með vír. Í skýrslunni kemur einnig fram að landamerki jarðarinnar séu ekki skýr sem stendur.

Kálfatjörn

Kálfatjörn – loftmynd 1954.

9. Móakot. Í svörum ábúanda á Litlabæ kemur fram að býlið sé erfðafesta úr Kálfatjörn. Samkvæmt ábúanda á Kálfatjörn er beitiland jarðarinnar nokkuð víðlent. Hann segir einnig að sauðfjárbeit sé til heiðar. Einnig nefnir hann að tún, og nokkuð af beitarlandi sé girt með grjótgörðum og vír. Í skýrslunni kemur einnig fram að jörðin á 1/3 í reka, skógi og beit í Vatnsleysujörðum. Þessi hlunnindi hafa lítið verið notuð að undanförnu að sögn ábúandans. Hann minnist einnig á að ekki alls fyrir löngu hafi reki á Selatöngum verið tekinn undan jörðinni. Ábúandi á Goðhóli nefnir að landamerki jarðarinnar séu þinglesin.
Vatnsleysustrandarhreppur keypti Kálfatjörn af jarðadeild landbúnaðarráðuneytisins 27. ágúst 2001 með því skilyrði að niðurstaða óbyggðanefndar og/eða dómstóla varðandi landamerki og mörk gagnvart þjóðlendum yrði á ábyrgð kaupanda.
Landið ofan Vatnsleysustrandarvegar var selt Hitaveitu Suðurnesja af Vatnleysustrandarhreppi 28. desember 2001. Það land takmarkast að norðan af merkjum Flekkuvíkur að Einiberjahóli, en síðan Vatnsleysu, að austan af merkjum Krýsuvíkur (suðausturátt), að sunnanverðu af mörkum Þórustaða, að vestanverðu af gamla Vatnsleysustrandarveginum.

Flekkuvík

Flekkuvík

Flekkuvík – túnakort 1919.

Í máldaga Péturskirkju á Kálfatjörn frá 1379 er að finna upplýsingar um eignir kirkjunnar. Í honum stendur m.a. að: „Petvr[s] kirkia aa kaalfatiornn. hvnn aa heima land alltt med gognvm ok gædvm. hvn aa backa ok fleckv vik“. …
Árið 1397 lét Vilchin Skálholtsbiskup útbúa máldaga fyrir Péturskirkju á Kálfatjörn. Þar stendur m.a.: „Pieturskirkia ad Galmatiorn a Heimaland allt oc Backa oc Fleckuvijk“ ….

Flekkavíkursel

Flekkavíkursel.

Í Gíslamáldögum frá 1570 og síðar segir um Kálfatjarnarkirkju: „hun ä Fleckuvijk. … fijrrnefnd Fleckuvijk ä allann thridiung i Vatzleijsu Jordu er liggur i Kälfatiarnar kirkiusokn. i rekum. sköge. Hagabeit. frä nijagørdum. og Jnn ad garde theim er geingur ofann [eitt handrit segir: innan] vr hraunenu og fram ad siö fijrer Jnnan Akurgierde“.
Flekkuvík er ávallt talin meðal eigna Kálfatjarnarkirkju í visitasíum biskupa.

Borgarkot

Borgarkot – uppdráttur.

Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns segir varðandi selstöðu Flekkuvíkur: „Selstöðu á jörðin og brúkar þar sem heitir Flekkuvíkursel, eru þar hagar viðsæmandi, en stórt mein að vatnsleysi, og báglegt eldiviðartak“.
Ráðherra Íslands seldi Flekkuvík í tvennu lagi 31. ágúst 1909. Í virðingargerð frá 21. maí s.á. segir m.a.: „Utan túns land er talið að fylgi allri jörðinni frá landamerkjunum í milli Flekkuvíkur og Minni-Vatnsleysu að austan, vestur í hinn svo nefnda Keilisnesklett“.

Flekkuvík

Flekkuvík – loftmynd 1954.

Hins vegar er landamerkjunum lýst þannig í matsgerð austurhlutans sama dag sem er í sérstöku skjali: „Landamerki Flekkuvíkur eru frá MinniVatnsleysu landi að austanverðu, alt vestur í hinn svo nefnda Keilisnessklett, þaða upp Neshólana um Arnarvörðu, um sunnanvert Flekkuvíkursel, beina stefnu til fjalls, alla leið að Krýsivíkurlandi., og tilhyeyra austurhelmingnum afnotin af nefndu utantúnslandi að hálfu í móti vesturhálflendunni“.

Flekkuvík

Flekkuvík.

Landamerkjabréf Kálfatjarnar var undirritað 30. desember 1921 og samþykkt af hverfiseigendum Flekkuvíkur og Norðurkots og tveggja erfðafestulóða. Bréfið var þinglesið 14. júní 1922. Í því segir m.a. eftirfarandi: „Á milli Flekkuvíkur annarsvegar og Kálfatjarnar hinsvegar eru þessi landamerki: „Keilisnes” (neskletturinn) en það er klettur sá sem næstur er sjó, nokkuð stór um sig og liggur sunnan undir honum næstum kringlótt kyr fullt af sjó (lón). Þaðan eru mörkin tekin í „Hermannsvörðu” sem er vörðubrot á hól spölkorn uppá Keilisnesi, sem ber austantil í Fagradalsfjall af Nesklettinum sjeð; þaðan beygjast mörkin nokkuð inn á við og í „Arnarvörðu”, þá í Flekkuvíkurselásinn vestri og í „Einiberjahól” en þar tekur við markalína sú á milli Kálfatjarnar og Vatnsleysu sem lýst er í landamerkjalýsingu 1884“.
Staðfest af hreppstjóra og eigendum Flekkuvíkur, Norðurkots, Litlabæjar og Bakka.
Í þinglýsingarvottorðum sem gefin voru út 2. júní 2004 kemur fram að jörðin Flekkuvík sé komin í eigu Fjársýslu ríkisins.

Stóra – og Minni – Vatnsleysa

Vatnsleysa

Vatnsleysa – loftmynd 1954.

Í máldaga Vatnsleysukirkju á Vatnsleysuströnd frá 1269 stendur eftirfarandi: „Allra heilagra kirkia a vatnslavsv a fimtan hvndrad j heima lande…
Í máldaga Péturskirkju á Kálfatjörn frá 1379 er að finna upplýsingar um eignir kirkjunnar. Í honum stendur m.a. að: „Petvr[s] kirkia aa kaalfatiornn. … hvn aa backa ok fleckv vik. … firr nefnd fleckv[v]ik aa allann þridivng j vatzleysv jord. j rekvm. skogi ok hagabeit. fra nýia gordvm ok in at gardi þeim er geingvr ofan vr Hravne fram at sia firir innann akvrgerdi“. …
Þann 28. apríl 1479 vottuðu tveir aðilar skriflega að þeir, ásamt öðrum, hefðu heyrt eiginkonu fyrrum eiganda jarðarinnar Vatnsleysu lýsa því yfir að: „… kirkian kryssvvik ætti þar j xc“ …
Árið 1525 ákvað Ögmundur Pálsson, biskup í Skálholti, að Krýsuvíkurkirkja skyldi selja eignarhlut sinn í Vatnsleysulandi til Viðeyjarklausturs.

Vatnsleysa

Stóra-Vatnsleysa. Tóftir kirkju og kotbýlis.

Samkvæmt fógetareikningum frá 1547 – 1548 voru Stóra– og Minni–Vatnsleysa í eigu Viðeyjarklausturs.
Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns árið 1703 nefnir Sogasel í landi Stóru-Vatnsleysu, sem notað sé frá Kálfatjörn og kirkjujörðinni Bakka. Sömuleiðis lögfestir Guðmundur Magnússon Sogasel árið 1790, sbr. lögfestu Kálfatjarnarkirkju hér að framan varðandi Kálfatjörn: „Sömuleiðis lögfesti ég Kálfatjarnar selstöðu sunnanvert í Dyngjunni með öllum nærliggjandi Sogum að vestan og austan og ýtrustu högum sem greindu Sogaseli að undanförnu fylgt hafa,“ … Hins vegar áttu Vatnsleysurnar, Minni og Stóra, hvor sína selstöðuna samkvæmt Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns árið 1703: Minni-Vatnsleysa: „Selstöðu segja menn jörðin eigi þar sem heitir Oddafell, og er þángað bæði lángt og erfitt að sækja, eru þar hjálplegir hagar og vatn nægilegt“.

Rauðhólssel

Rauðhólssel.

Stóra-Vatnsleysa: „Selstöðu á jörðin þar sem heitir Rauðhólssel, eru þar hagar viðsæmandi, en stórt mein á vatnsskorti“.
Í Jarðabókinni kemur fram að Stóra Vatnsleysu fylgi hjáleigurnar Vatnsleysukot, Akurgerði og þrjár ónefndar hjáleigur.
J. Johnsen minnist á það í bók sinni, Jarðatal á Íslandi, að konungsjarðirnar Stóra–og Minni Vatnsleysa hafi verið seldar þann 13. júní 1838.

Minni-Vatnsleysa

Minni-Vatnsleysa.

Nokkur munur er á gæðum Stóru–og Minni–Vatnsleysu samkvæmt Jarðamati 1849 – 1850. Í kaflanum um Stóru–Vatnsleysu í Fasteignamati árins 1849 stendur m.a. að landrými sé talsvert. Í þeim hluta Jarðamats 1849 sem fjallar um Litlu–Vatnsleysu stendur hinsvegar að landrými sé nokkurt.
Í landamerkjabréfi Kálfatjarnar frá 9. júní 1884, sem eigendur Vatnsleysannasamþykktu er mörkum milli Kálfatjarnartorfu og Vatnsleysanna lýst þannig.

Oddafellssel

Oddafellssel.

Milli Minni – Vatnsleysu og Stóru – Vatnsleysu og hinsvegar Kálfatjarnar: „Klettur út við sjó, hjer um bil miðja vega milli Flekkuvíkur og Minni–Vatnsleysu, sá er Klukka er nefndur, þaðan í Hádegishóla, þaðan í Eystri–Hafnhól, þaðan um nyrðri Flekkuvíkurás, þaðan í Einiberjahól, þaðan um Kolhól beina stefnu að Krýsivíkurlandi. Reka allan á kirkjan frá miðjum Markkletti og í Klukku áður nefnda. Hún á og þriðjung í Vatnsleysujörðu í rekum, skógi og haga, beit frá Klukku og inn að „garði þeim er gengur innan úr hrauninu og fram að sjó fyrir innan Akurgerði.”
Kirkjan á ennfremur „allan reka milli Hraunnefs og Rangagjögurs. … Loksins á og kirkjan selstöðu í Sogaseli“.

Snókafell

Snókafell.

Landamerkjabréf varðandi landamerki milli Hvassahrauns og sameignarjarðanna Stóru – Vatnsleysu og Minni – Vatnsleysu var undirritað 15. júní 1889 og samþykkt af búendum Hvassahrauns. Bréfið var þinglesið 17. júní 1889: „Úr Innra hraunshorninu í Fögruvík, og þaðan í afstapaþúfu, og þaðan beina stefnu í Snókafell, og úr Snókafelli beina stefnu í Krýsuvíkurland“.
Samkvæmt fasteignamati 1916 – 1918 er þrjár jarðir á Vatnsleysulandi; Stóra – og Minni – Vatnsleysa og grasbýlið Miðengi. Jarðirnar deila með sér heiðarlandi og hagbeit. Í kaflanum um Stóru – Vatnsleysu er greint frá landamerkjum: „Landamerki eru milli Flekkuvíkur og Vatnsleysu úr Klukku við sjó, þaðan beint í litla Hafnhól um Vatnsleysuselás, þaðan í stóra Kolhól, þaðan í Hrafnafell, þaðan að Krýsuvíkurlandi, þá norður með Krýsuvíkurlandi. – Milli Hvassahrauns og Vatnsleysu er Klettur innan til við Fögruvík, þaðan í Afstapaþúfu þaðan í Snókafell, það<an> að Krýsuvíkurl<andi>“.

Afstapavarða

Afstapavarða.

Í fasteignamati 1932 er að finna lýsingu ábúenda á jörðinni Stóru–og Minni Vatnsleysu. Í skýrslu ábúendanna á Stóru – Vatnsleysu kemur m.a. fram að beitarlandið sé mikið og gott alla leið frá bænum og upp að Krýsuvíkurlandi. Þar kemur líka fram að túnið sé allt girt og að jörðin eigi rétt til upprekstrar í afrétt sem sé sveitareign. Einnig segir að landamerki sé skýr og þinglesin. Ábúendur jarðarinnar halda að á henni séu hverir.
Í greinargerð þeirra sem búa á Minni–Vatnsleysu stendur m.a. að beitarlandið sé víðlent. Þar kemur einnig fram að tún jarðarinnar sé girt með grjóti og vír og að jörðin eigi rétt til upprekstrar í afrétt sem sé sveitareign. Í skýrslunni stendur einnig að jörðin eigi hveri með Stóru – Vatnsleysu og að landamerki séu þinglesin og ágreiningslaus.

Eigandi Stóru-Vatnsleysu, Sæmundur Á. Þórðarson, skrifaði landbúnaðarráðuneytinu bréf 18. september 1996 þar sem hann gerði þá kröfu vegna Vatnsleysujarðanna að mörkum móti Krýsuvík yrði breytt. Vildi hann að merkin „verði miðuð við línu dregna af Grænavatnseggjum beina stefnu í Markhellu, háan Bréfinu fylgdi „Greinargerð um Krýsuvíkurbréfið”, sem Sæmundur skrifaði 17. september 1996. Þar bar hann Krýsuvíkurbréfið saman við önnur landamerkjabréfi og fleiri heimildir og taldi hann Árna Gíslason í Krýsuvík hafa leikið á þá sem undirrituðu bréfin athugasemdalaust.
Áður var minnst á bréf sem Sæmundur Þórðarson á Stóru – Vatnsleysu skrifaði landbúnaðarráðuneytinu þann 18. september 1996 varðandi landamerki Vatnsleysujarðanna og Krýsuvíkur.

Stóra-Vatnsleysa

Stóra-Vatnsleysa.

Sæmundur virðist hafa síðar skipt um skoðun því að í ódagsettri greinargerð um framkvæmdir á Stóru – Vatnsleysu [mun hafa verið skrifuð árið 2004] kemur Sæmundur með aðra ábendingu varðandi mörk Krýsuvíkur og Vatnsleysustrandarjarða: Í landamerkjabréfi Krýsuvíkur standi: „að vestan: sjónhending úr Dagon (= Raufarkletti), sem er klettur við flæðarmál á Selatöngum í Trölladyngjufjallsrætur að vestan sem er útbrunnið eldfjall …” Ef þarna stæði „í vesturrætur Grænudyngju” yrðu mörkin hárrétt, en Trölladyngja og Grænadyngja séu þarna hlið við hlið. E.t.v. hafi Krýsuvíkureigandi skrifað rangt örnefni sem öðrum hafi yfirsést að leiðrétta. Einnig segir Sæmundur varðandi merkjalýsingu Ísólfsskála þar sem nefnd er „sama sjónhending austur Selsvallafjall að landamerkjum Krýsuvíkur”, að það sanni að línan liggi upp á Selsvallafjall enda eru gamlar heimildir um að hornmark strandajarða að suð-vestan hafi verið um Framfell, öðru nafni Vesturfell sem er inn á miðju Selsvallarfjalli þar sem það er breiðast, vestur af Vigdísarvöllum.

Keilir

Vegur að Höskuldarvöllum. Keilir fjær.

Samkvæmt þessari greinargerð Sæmundar hóf Stóru-Vatnsleysubóndi vegagerð til Höskuldarvalla og Eldborgar (gjallgígs NA af Trölladyngju) árið 1947. Á sama tíma voru Höskuldarvellir girtir af og var ræktað innan girðingar um 100 ha tún, en stórt bú var á Stóru-Vatnsleysu. Laxeldisstöð var byggð á Stóru-Vatnsleysu á árunum 1987-1990 og stóð til að virkja háhitasvæðið við Höskuldarvelli, Eldborg og Sogin. Orkustofnun var fengin til þess að gera umfangsmiklar rannsóknir á Trölladyngjusvæðinu auk rannsókna á magni og gæðum grunnvatns í landi Vatnsleysujarða. Rannsóknirnar hafi að mestu verið greiddar af eigendum Vatnsleysujarða, en þeir hafi jafnframt átt 49% í laxeldisstöðinni sem greiddi nokkurn hluta rannsóknarkostnaðarins. Sæmundur nefnir nokkra aðila, sem tekið hafi jarðefni í landi Stóru-Vatnsleysu, en segir ekki hvar. Raunar segir hann að allt frá því vegagerðin að Höskuldarvöllum hófst árið 1947 hafi verið tekið efni úr Eldborg ásamt bólstrabergi úr Rauðhólsfellunum.

Hvassahraun

Hvassahraun

Hvassahraun – loftmynd 2019.

Í máldagaskrá um eignir kirkju og staðar í Viðey sem ársett hefur verið til um 1234 segir: „Magnvs biskvp gaf til staðar hinn siavnda lvt hvalreka ov viðreka j Hvassarauns landi“.
Samkvæmt fógetareikningum frá 1547 – 1548 var hálft Hvassahraun í eigu Viðeyjarklausturs.
Í jarðaskiptagjörningi sem Páll Stígsson hirðstjóri, fyrir hönd konungs, átti við Gísla biskup Jónsson, fyrir hönd Skálholtsstól, og fram fór að Bessastöðum 27. september 1563 eignaðist konungur hinn helming jarðarinnar sem sögð var 10 hundruð að dýrleika.

Hvassahraunssel

Hvassahraunssel.

Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns segir m.a. um hlunnindi jarðarinnar árið 1703: „Selstöðu á jörðin þar sem heitir Hvassahraunssel; hagar eru þar sæmilegir en vatnsból brestur til stórmeina. Rifhrís til kolgjörðar á jörðin í heimalandi, og líður hún á því hrísrifi stóran ágáng af Stærri og Minni Vatnsleysum, ábúendum og hjáleigumönnum. Annars brúkar jörðin þetta hrís til að fæða kvikfjenað í heyskorti“. Hvassahrauni fylgja þá þrjár hjáleigur. Ein kallast Þoroddskot en hinar bera ekki nöfn.
Í jarðamati árið 1804 kemur fram að hjáleigan Hvassahraunskot tilheyrir jörðinni Hvassahrauni.
Jörðin Hvassahraun hvarf úr konungseigu þann 19. apríl 1837.

Hvassahraun

Hvassahraun – uppdráttur ÓSÁ.

Í Jarðamati 1849 – 1850 er kafli um Hvassahraun með Hvassahraunskoti og Sónghól. Í honum stendur m.a.: „Landrými mikið. Talsverður skógur“.
Landamerkjabréf milli Hvassahrauns og Lónakots var undirritað 7. júní 1890. Bréfið var þinglesið 16. júní 1890. Samkvæmt því eru landamerki jarðarinnar eftirfarandi: „Merkin byrja í svonefndum markakletti við sjóinn, austanvert við Hraunsnes, úr markakletti í Skógarhól, úr Skógarhól í Stóragrænhól, úr Stóragrænhól í hólbrunnsvörðu, úr hólbrunnsvörðu í Skorásvörðu, úr Skorásvörðu í Miðkrossstapa, sem er hornmark á Lónakotslandi“.

Hvassahraun

Hvassahraun.

Nokkrum dögum síðar eða 13. júní 1890 var landamerkjabréf milli Hvassahrauns, Lónakots og Óttarsstaða undirritað. Það var samþykkt af fulltrúum Óttarsstaða og Lónakots. Bréfið var þinglesið 16. júní 1890: „Merkin byrja í svonefndum markaklett við sjóinn austanvert við Hraunsnes úr markaklett í Skógarhól, úr Skógarhól í Stóragrænhól úr Stóragrænhól í Hólbrunnsvörðu úr hólbrunnsvörðu í Skorásvörðu úr Skorásvörðu í Miðkrossstapa, sem er hornmark á Lónakotslandi, svo heldur áfram sömu stefnu millum Hvassahrauns og Óttarstaða úr Miðkrossstapa í Klofningsklett með vörðu hjá sunnanvert við Einirhól, úr Klofningsklett í búðarvatnsstæði úr búðarvatnsstæði í Markhelluhól, sem er hornmark frá Hvassahrauni, Óttarstöðum og Krýsuvík með áklöppuðum stöfunum Hvass., Óttas. og Kr.vík“.

Skorásvarða

Skorásvarða, landamerki Hvassahrauns og Lónakots.

Í kaflanum um Hvassahraun (austurbær) í fasteignamati 1916 – 1918 er greint frá landamerkjum jarðarinnar: „Landamerki að sunnan: sjá landamerki Vatnsleysu [Milli Hvassahrauns og Vatnsleysu er klettur innan til við Fögruvík, þaðan í Afstapaþúfu þaðan í Snókafell, það<an> að Krýsuvíkurl<andi>.] Að norðan, Hraunsnesvarða við sjó, þaðan í marka vörðu, þaðan í vörðu á Krossstapa, þaðan sömu stefnu til Krýsuvíkurland<s>“. Í sama riti kemur fram að Hvassahraunsbýlin, austur – og vesturbær, deila heiðalandi og hagbeit.
Í þeim hluta fasteignamats 1932 sem fjallar um lýsingu ábúenda á jörðinni Hvassahrauni kemur fram að beitiland jarðarinnar sé víðlent og skjólgott. Þar kemur líka fram að jörðin þurfi ekkert upprekstrarland því hún hafi það sjálf.

Sjá meira um hverfin á Vatnsleysuströnd HÉR.

Heimild:
Úrskurður Óbyggðanefndar 2004 – Grindavík og Vatnsleysuströnd.

Krossstapar

Mið-Krossstapar.

Auðnaborg

Hér verður fjallað um hverfin í „Vatnsleysustrandarhreppi„.  Sögulegt efnið er fengið úr skýrslu Óbyggðanefndar frá árinu 2004 eftir úrskurð nefndarinnar um eignarhald á jörðum í hreppnum. Taka þarf það með fyrirvara.

Brunnastaðahverfi

Efri-Brunnastaðir

Brunnastaðir.

Í skrá um kvikfé og leigumála á jörðum Viðeyjarklausturs frá árinu 1395 kemur fram að klaustrið á jörð sem kallast Brunnastaðir.
Samkvæmt fógetareikningum frá 1547 – 1548 voru Brunnastaðir í eigu Viðeyjarklausturs.
Samkvæmt Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns árið 1703 fylgdu Brunnastöðum hjáleigurnar Halakot, Brunnastaðakot, Stöðlakot, Tangabúð, Skjaldarkot, Traðarkot (Fjósahjáleiga), Vesturhús (Stephanarkot), Naustakot, Austurhús og Suðurhús. Fimm síðustu hjáleigurnar voru í eyði þegar Árni og Páll sömdu skýrslu sína. Í greinargerð þeirra stendur eftirfarandi: „Selstöðu hefur jörðin við fjallgarð, eru þar hagar litlir, en vatnsskortur að miklu meini, þegar þerrar gánga. … Skóg til kolgjörðar brúkar jörðin í almenningum. … Lýngrif og hríssrif lítið lángt til að sækja hefur jörðin, og þó ekki fyrir utan stóran ágreining við Vogamenn“.

Brunnastaðahverfi
Árið 1755 létu opinberir aðilar meta jarðir í Vatnsleysustrandarhreppi. Í skýrslu þeirri sem var unnin um Brunnastaði stóð meðal annars.: „… Jorden fölger Selstade til Malke Qvæget, som Aarligen kand forbruges, mens underrettes at dend er Bleven meget slet, udeen Vand og neppelig Værd med Umage at forbruges. Anden Græsgang eller Fædrift fölger Jorden noget liden, Nemlig i mellem Brynnestad og Woge hvor Torvskiæren haver været hidintil forbrugt,“ …. (Með Brunnastöðum eru þá taldar hjáleigurnar Brunnastaðakot, Naustakot, Skjaldakot, Austurkot, Tangabúð og Halakot og 2 – 3 hjáleigur í eyði).
Þann 17. maí 1786 hvarf jörðin Brunnastaðir úr eigu konungs.

Efri-Brunnastaðir

Í kaflanum um Brunnastaði í jarðamati 1804 kemur fram að fylgja hjáleigurnar Halakot, Suðurkot, Austurkot, Naustakot og Skjaldarkot.
Í kaflanum um Brunnastaði og hjáleigurnar: Halakot, Suðurkot, Austurkot, Naustakot, Skjaldarkot og Traðarkot í Jarðamati 1849 – 1850 kemur fram að landrými jarðarinnar sé talsvert.
Landamerkjabréf Brunnastaðahverfis gagnvart Hlöðunesi og Vogum var undirritað 22. maí 1890. Bréfið var þinglesið 16. júní 1890: Landamerki milli Hlöðunes og Brunnastaðahverfisins eru úr Markakletti sem stendur ofarlega í fjöru fyrir innan Skjaldakot, uppá uppmjóa þúfu sem stendur á klöpp að innanverðu við túngarðinn í Skjaldakoti, þaðan beina línu í aðra þúfu líka hinni í laginu sem stendur nokkru ofar, þaðan beina línu norðanhallt við Brunnastaðasel og svo þaðan beina línu til fjalls, svo langt sem Vatnsleysustrandarhrepps er talið. Landamerki milli Brunnastaðahverfisins, Norður- og Suðurvoganna eru: Úr dýpsta ós sem til sjáfar fellur í djúpavogi, uppí vörðu sem stendur fyrir sunnan presthóla, þaðan beina línu í vörðu sem stendur á Hrafnagjá og kölluð er leifur Þórður, þaðan í markhól og þaðan beina línu uppí fjall, svo langt sem Vatnsleysustrandarhreppsland er talið. Undir landamerkjabréfið skrifa Teitur Þórðarson og Björn Einarsson fyrir Hlöðuneshverfi og Klemens Egilsson og Guðm. J. Waage fyrir Norður og Suður–Voga.

Brunnastaðir

Brunnastaðir.

Í köflum þeim sem fjalla um Brunnastaðahverfið124 í fasteignamati 1916–1918 stendur að tún og garðar séu úrskift, en að heiðarland og hagbeit séu í sameign Brunnastaðahverfisjarðanna.
Annað landamerkjabréf er samið fyrir Brunnastaðahverfi árið 1921. Það er undirritað 20. desember það ár og fært í landamerkjabók 7. mars 1922. Þetta landamerkjabréf er aðeins um landið næst bæjunum en ekki heiðarlandið sem er í óskiptri sameign. Í því kemur fram að: „enginn ágreiningur á milli jarða, hvorki með tún- nje fjörumörk. En landamerkji milli „hverfa” vísast til sýslubókanna frá 16. júní 1890; þá gjörð landamerkji milli Voga, Brunnastaða- og Hlöðuneshverfis, eftir samkomulagi þáverandi hlutaðeigenda“.

Neðri-Brunnastaðir

Neðri-Brunnastaðir 1928.

Landamerkjabréfið er vottað af: Ágústi Guðmundssyni, Halakoti, Símoni Símonarsyni, Skólanum, Gísla Eiríkssyni, Naustakoti, Helga Jónssyni og Guðjóni Péturssyni, Brunnastöðum Gunnari Gíslasyni, Skjaldarkoti, Kristjáni Hannessyni, Grund, Þórdísi Guðmundsdóttur, Traðarkoti og Bjargmundi Hannessyni, Suðurkoti.
Í fasteignamati 1932 er að finna lýsingar ábúenda eftirfarandi jarða í Brunnastaðahverfi: Skjaldarkot, Traðarkot, Austurkot, Neðri–Brunnastaðir, Efri–Brunnastaðir, Suðurkot I og II, Naustakot og Halakot.

Skjaldarkot

Skjaldarkot.

Í kaflanum um Skjaldarkot segir að landamerkjalýsing sé til og enginn ágreiningur sé um hana.
Samkvæmt skýrslunni um Traðarkot hefur jörðin ekki afréttarland. Hvað landamerki varðar er vísað til þeirrar landamerkjalýsingar sem hefur verið gerð fyrir hverfið í heild sinni.

Brunnastaðir

Brunnastaðir – loftmynd 1954.

Í kaflanum um Austurkot kemur fram að beitiland jarðarinnar sé í meðallagi víðlent. Jörðin á sameiginleg landamerki [með öðrum jörðum Brunnastaðahverfisins] og eru þau ágreiningslaus.
Samkvæmt jarðalýsingu Neðri – Brunnastaða er enginn ágreiningur er um landamerki jarðarinnar.
Efri – Brunnastaðir hafa í meðallagi víðlent beitiland. Enginn ágreiningur er um landamerki jarðarinnar.

Suðurkot

Suðurkot.

Í skýrslunni um Suðurkot kemur fram að jörðin eigi rétt til upprekstar á landi sem sé í eigu jarðanna í Brunnastaðahverfinu. Enginn ágreiningur er um landamerkin.
Að sögn ábúanda á Suðurkoti II er enginn ágreiningur um landamerki jarðarinnar.
Á meðal þess sem kemur fram í kaflanum um Naustakot er að heiðarland sé í sameign við aðrar jarðir í hreppnum og að landamerki séu ágreiningslaus.
Í þinglýsingarvottorðum sem gefin voru út í júní 2004 kemur fram að í Brunnastaðahverfinu séu: Skjaldarkot, Traðarkot, Austurkot, Neðri-Brunnastaðir, Efri-Brunnastaðir, Suðurkot, Naustakot og Halakot.

Hlöðuneshverfi

Hlöðuneshverfi
Þann 9. september 1447 seldi Viðeyjarklaustur fjórar jarðir. Kaupandinn greiddi fyrir þær með fjórum jörðum er voru í hans eigu. Ein þeirra jarða sem klaustrið eignaðist í þessum viðskiptum var Hlöðunes.
Samkvæmt fógetareikningum frá 1547 – 1548 var Hlöðunes í eigu Viðeyjarklausturs.
Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns árið 1703 segir eftirfarandi um Hlöðunesi: „Selstöðu á jörðin þar sem heitir Hlöðunesskinn, og eru þar hagar bjarglegir en vatnsból í lakasta máta, so orðið hefur fyrir vatnsskort að flytja heim úr selinu“.
Hlöðunesi fylgdi hjáleigan Hlöðuneskot.

Hlöðunes

Hlöðunes 1939.

Árið 1755 fór fram mat á jörðum í Vatnsleysustrandarhreppi. Í greinargerðinni sem var skrifuð um jörðina Hlöðunes stóð m.a.: „Selstade op til Fields fölger með Jorden som Aarligen kand Forbruges, Mens Fæedrivt og Græsgang for Heste og Studer meget lidt, undtagen hvis som kand erholdes udi Bermelte Selstade, og ude een Moe Sydvest fra Tunet“ …
J. Johnsen minnist á það í bók sinni, Jarðatal á Íslandi, að konungsjörðin Hlöðunes hafi verið seld þann 19. apríl 1837.
Eigandi hálfs austurhluta Hlöðuness seldi eign sína þann 17. júní 1839.
Samkvæmt afsalsbréfinu þá var hér um að ræða bæ, útmælt tún og túngarð. Í skjalinu kemur einnig fram að eignir og ítök til lands og vatns, sem eru tún og úthagar til fjalls og fjöru, og veiða- og rekahlunnindi hafi fylgt með í sölunni.

Hlöðunes

Hlöðunes – túnakort 1919.

Í Jarðamati 1849 – 1850 stendur eftirfarandi um jörðina Hlöðunes og býlin Hlöðuneskot og Vesturkot: „Sumar- og vetrarbeit allgóð í óskiptu landi utangarða“.
Þann 25. nóvember 1869 seldi eigandi Hlöðuneskots bóndanum á Minni–Vatnsleysu jörðina. Í afsalsbréfinu kemur fram að jörðin er seld með: „öllum þeim húsum og byggingum, eignum og ítökum, til sjós og lands, er … fylgt hefur og fylgja ber til ystu ummerkja, að afsöluðum öllum óðals og innlausnarrjétti frá minni og erfingja minna hálfu“ … .

Hlöðunes

Hlöðunes.

Landamerkjabréf Hlöðunesshverfis gagnvart Brunnastöðum og Ásláksstöðum var undirritað 22. maí 1890. Bréfið var þinglesið 16. júní 1890: „Milli Hlöðunes og Brunnastaðahverfa: frá svokölluðum markakletti, sem stendur ofarlega í fjöru skammt fyrir innan Skjaldakot beina línu uppí uppmjóa þúfu er stendur á klöpp innan vert við túngarðinn í Skjaldakoti, þaðan beina línu í aðra þúfu líka hinni síðastnefndu í laginu, sem er nokkrum föðmum ofar og þaðan beina línu norðanvert við Brunnastaðasel til fjalls svo langt, sem land Vatnsleysustrandarhrepps nær. Milli Hlöðunes og Ásláksstaðahverfis frá ós þeim sem lengst skerst uppí land innúr svokölluðu Álfasundi, þaðan beina línu í svokallaðan Álfhól, þaðan beina línu í hól sem stendur fyrir sunnan Arnarbæli, þaðan beina línu sunnan til við Ásláksstaðaholt uppí Hrafnshóla og þaðan beina línu sunnan til við gamla Hlöðunes<s>el til fjalls svo langt sem land Vatnsleysustrandarhrepps nær“. Þetta landamerkjabréf var samþykkt af eigendum og ábúendum Brunnastaðahverfis og Ásláksstaðahverfis.

Hlöðunessel

Hlöðunessel.

Í þeim hluta fasteignamats Gullbringu- og Kjósarsýslu 1916 – 1918 sem fjallar um jörðina Hlöðuness er að finna landamerkjalýsingu fyrir hverfið. Hún er samhljóða þeim hluta landamerkjabréfsins frá 22. maí 1890 sem fjallar um landamerki milli Hlöðuness og Brunnastaðahverfa. Í köflunum um Hlöðunes og býlin Halldórsstaði og Narfakot í sama riti kemur fram að tún og matjurtagarðar séu úrskift en heiðarland og hagbeit í félagi.

Narfakot

Narfakot – Altlagerðistangaviti fjær.

Í upphafi þriðja áratugar síðustu aldar var samið annað landamerkjabréf fyrir Hlöðuneshverfi sem nær til túna og fjöru. Það var undirritað 27. desember 1921 og innritað í landamerkjabók 12. janúar 1922. Þar kemur m.a. fram að: Landamerkjalýsing þessi innibindur Hlöðuneshverfi í Vatnsleysustrandarhreppi; Hlöðunes, Halldórsstaði, Narfakot og Miðhús, sem takmarkast af Brunnastaðahverfi að sunnan og Ásláksstaðahverfi að norðan (innan) samkvæmt landamerkjalýsing útgefin og þinglesinni 1890 og athugasemdarlaust undirskrifaðri af öllum hlutaðeigendum, bæði hvað fjöru og heiðarmörk snertir en áðurnefnd merkjalýsing, tekur ekki neitt til um túnmörk innan hverfis, en þau eru sem hjer segir: …Eigendur Halldórsstaða og Miðhúsa auk eiganda Hlöðuness og umboðsmanns eiganda Narfakots skrifuðu undir landamerkjabréfið.
Í Fasteignamati 1932 er að finna lýsingar á jörðum í Hlöðunesshverfi: Halldórsstöðum, Narfakoti og Hlöðunesi. Í skýrslunni um Halldórsstaði segir að heiðarland sé óskipt og að landamerki jarðarinnar séu ágreiningslaus og þinglesin.

Ásláksstaðahverfi

Ásláksstaðahverfi
Þann 9. september 1447 seldi Viðeyjarklaustur fjórar jarðir. Kaupandinn greiddi fyrir þær með fjórum jörðum er voru í hans eigu. Ein þeirra jarða sem klaustrið eignaðist í þessum viðskiptum var Ásláksstaðir.
Samkvæmt fógetareikningum frá 1547 – 1548 voru Stóru– og Minni–Ásláksstaðir í eigu Viðeyjarklausturs.
Ásláksstaðahverfið var metið árið 1703. Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns kemur fram að Stóru Ásláksstaðir eigi hjáleiguna Atlagerði. Þar stendur einnig eftirfarandi: „Selstöðu á jörðin frí þar sem heita Knararness sel, og eru þar hagar í lakasta máta en vatnsbrestur til stórmeina. … Skóg til kolgjörðar brúkar jörðin i almenningum frí“.
Í greinargerð sem var unnin um jarðir í Vatnsleysustrandarhreppi árið 1755 eru kaflar um bæði Stóru– og Minni–Ásláksstaði. Um Stóru – Ásláksstaði segir m.a.: „… Selstade Fölger Jorden som Aarlig kand forbruges, mens Græsgang og Fædrift til liden nytte, uden hvis som er at faae paa bemelte Selstade“ …

Knarrarnessel

Ásláksstaðasel í Knarrarnesseli. Uppdáttur ÓSÁ.

Í kaflanum um Minni–Ásláksstaði stendur m.a.: „… Selstade til Malke Qvæg fölger Jorden som Aarligen forbruges, Mens Græsgang eller Fædrivt icke meget andet end som paa Berörte Selstade og hvad der kand være i fælles. Fædrivten med Store Axlestade efter foranförte,“ …
Jörðin Ásláksstaðir hvarf úr eigu konungs þann 7. ágúst 1813.
Eitt af því sem sagt er um Innri – Ásláksstaði í Jarðamati 1849-1850 er: „Sumar og vetrarbeit lítil í óskiptu landi“.
Í Fasteignamati árins 1849 segir um Ytri – Ásláksstaði: „Utangarða óskipt lóð“.
Í þeim köflum í fasteignamati 1916 – 1918 sem fjalla um jarðirnar í Ásláksstaðahverfinu, Ytri – og Innri Ásláksstaði og Sjónarhól, kemur fram að tún og matjurtagarðar þeirra séu úrskipt en að heiðarland og hagbeit séu í sameign jarðanna þriggja.

Móakot

Móakot og Móakotsbrunnur.

Landamerkjabréf Ásláksstaðahverfis var undirritað 31. desember 1921. Bréfið var fært í landamerkjabók Gullbringu- og Kjósarsýslu þann 7. mars 1922: Landamerkjalýsing þessi, innibindur Ásláksstaðahverfi en það eru þessar jarðir og býli: Sjónarhóll, Innri – Ásláksstaðir, Hallandi (Nýjibær), Ytri-Ásláksstaðir og Móakot. Ásláksstaðahverfi, tilheyrir land alt, girt og ógirt á milli Hlöðunes-hverfis, að sunnan og Knarraness að innan, svo langt til heiðar eða fjalls, sem land Vatnsleysustrandarhrepps nær. Að sunnan, milli Hlöðuneshverfis annarsvegar og Ásláksstaðahverfis hinsvegar (að innan) eru þessi landamerki: Álfasund frá ós þeim sem lengst skerst uppí land, úr Álfasundi og ræður framhald á þeim ós einnig mörkum á milli hverfanna, alla leið til sjáfar fram um fjöru; í Álfshól beina stefnu í Hól, sem stendur fyrir sunnan Arnarbæli sunnan til við Ásláksstaðaholt í Hrafnshóla sunnan til við gamla Hlöðunes<sel> til fjalls. Að innan, milli (Sjónarhóls) Ásláksstaðahverfis að sunnan og Knarrarness að innan, eru þessi landa- og fjörumerki: úr ós upp eftir fjöru í klöpp er liggur í svonefndum girðingum hjer um bil til miðsvæðis ofan til við flæðarmál, þaðan sunnantil við svo nefnda Digruvörðu fyrir sunnan Hellur (bæinn) beint í Knarranessholt þaðan í Eldborgargreni, þaðan beint í Krýsuvíkurland. Hversu sunnanhöll við markalínuna að Digruvarða og Knarrarnesholt eru sjest þegar bein lína er dregin frá Klöppinni í Eldborgargren. Austast í Ásláksstaðahverfi að Knarranesmörkum innan girðingar og fjöru liggur:

Ásláksstaðir

Sjónarhóll. Ásláksstaðir og Móakot fjær.

1. Sjónarhóll: Tún hans takmarkast af heiðargarði, alla leið frá túni Ytri-Ásláksstaða og austur að garði þeim er liggur í norður, fyrir austurkanti Sjónarhóls-túns á milli þess og girðinga þeirra, er honum tilheyra og eru þar heiðar og sjáfarmegin afgirtar með görðum og gaddavír og ná næstum, þó ekki alveg að mörkum Knarrarrnes og Ásláksstaðahverfis. Austast í girðingum þessum er nýbýlið Garðhús með þurrabúðar útmæling; matjurtagarð á býli þetta fyrir neðan eða sjáfarmegin við girðingarnar og annan fyrir ofan þær, lóð býlis þessa er eign Sjónarhóls ásamt girðingunum. Að norðan liggur tún Sjónarhóls alt að sjó; að vestan takmarkast það af grjótgarði, sem er á milli Hallanda og Sjónarhólstúns og liggur hann að austurhorni á matjurtagarði þeim, sem er eign Ytri – Ásláksstaða, eftir garðsvegg þessum meðan hann nær yfir Traðargötu á milli bæanna eftir vírgirðingu, sem kemur dálítið vestar, en í beinni línu eftir þeim mörkum sem áður er lýst og liggur með dálitlum boga, út að heiðargarði túnanna, í stóran stein merktan M. … … [Framhaldslýsingar eiga eingöngu við heimalönd innan garðs.] …Utangarðs er heyðarland alt óskift og tilheyrir eftir hundraðshlutföllum innanhverfis. Þess skal loks getið að árið 1918 var selt með samningi útgefnum og þinglesnum það ár lóðarspilda undir vitanum og í kringum hann.
Þetta landamerkjabréf er vottað af bændunum á Knarrarnessbæjunum að áður sé lesið milli hverfa.

Ásláksstaðir

Nýibær (Hallandi).

Í fasteignamati 1932 er að finna jarðalýsingar ábúenda Sjónarhóls, Ytri–Ásláksstaða, Nýjabæjar og Móakots.
Í skýrslunni um Sjónarhól kemur fram að beitiland býlisins sé frekar þröngt en skjólgott. Sjónarhóll hefur allt sitt upprekstrarland á heimalandi. Landamerki jarðarinnar eru óumdeild.
Í svörum ábúanda á Ytri–Ásláksstöðum kemur fram að landamerkin séu ekki vafalaus.
Í spurningalistanum sem ábúandi á Nýjabæ fyllti út kemur fram að beitiland Nýjabæjar sé víðlent og að landamerkjalýsing sé til.
Að sögn ábúanda í Móakoti eru landamerki ágreiningslaus.
Í þinglýsingarvottorði frá 26. maí 2004 kemur fram að Sjónarhóll sé í eigu nokkurra aðila..
Þann 14. júní 2004 var gefið út þinglýsingarvottorð fyrir jörðina Ásláksstaði.

Knarrarnes

Stóra-Knarrarnes

Stóra-Knarrarnes.

Þann 9. september 1447 seldi Viðeyjarklaustur fjórar jarðir. Kaupandinn greiddi fyrir þær með fjórum jörðum er voru í hans eigu. Ein þeirra jarða sem klaustrið eignaðist í þessum viðskiptum var Knarrarnes.
Samkvæmt fógetareikningum frá 1547 – 1548 var Stóra– og Minna–Knarrarnes í eigu Viðeyjarklausturs.
Lagt var mat á Knarrarnesjarðirnar árið 1703. Í Jarðabók Árna og Páls stendur eftirfarandi um Litla – Knarrarnes: „Selstöðu á jörðin þar sem heitir Knararness sel, og eru þar hagar í lakasta máta, en vatnsból brestur til stórmeina. … Skóg til kolgjörðar á jörðin frí í almenningum“.

Knarrarnessel

Knarrarnessel – vatnsstæði. Selstaðan ofar.

Í kaflanum um Stóra–Knarrarnes kemur eftirfarandi fram: „Selstaða þar sem heitir Knararness sel; eru hagar litlir mjög, en vatnsskortur til stórmeina, so að selstöðuna hafa menn næsta því forlátið, og kaupir bóndinn nokkrum sinnum selstöðu í fjarlægð. Skóg til kolgjörðar brúkar jörðin í almenningum“.
Eftirfarandi texta er að finna í mati sem unnið var um býlið Stóra–Knarrarnes árið 1755: „Selstade Fölger som Aarlig forbruges, Mens Græsgang og Fædrift til liden nytte undtagen Bemeldte Selstade, Hvor udjnden der er störste mangel paa Huusse og Höe Torv Skiæren uden giærde“…
Í ritinu Jarðatal á Íslandi, eftir J. Johnsen, kemur fram að konungsjörðin Stærra–Knarrarnes hafi verið seld þann 19. apríl 1837.
Þann 13. júní 1838 hvarf jörðin Minna – Knarrarnes úr eigu konungs.
Í umfjölluninni um Stóra – Knarrarnes í Jarðamati 1849 – 1850 kemur m.a. fram að: „Hagbeit sumar og vetur rír í óskiptu landi utangarða“. …

Minna-Knarrarnes

Minna-Knarrarnes.

Í kafla þeim sem helgaður er Litla–Knarrarnesi í Jarðamati 1849 – 1850 stendur m.a. að: „… Sumar og vetrarbeit lítil í óskiptu landi utangarða“. … Landamerkjabréf Knarrarness var undirritað 11. júní 1886 og þinglesið fjórum dögum síðar:
Landamerkjalýsing þessi innibindur jarðirnar Stóra-Knararnes og Minna-Knararnes og eru mörkin þessi:
1. Að austanverðu milli Stóra – Knararness að vestan og Breiðagerðis að austan: Frá Selskeri sem er lítið sker milli skerjanna Söðuls og Þríhyrnings, upp eptir maðkasandinum, í Duggusker, þannig, að tveir þriðjungar þess eru eign Stóra – Knararness; þaðan í neðri enda svo nefnds Merkjagarðs, er liggur fyrir austurenda Stóra–Knararnesstúns, og er garður þessi í mörkum það sem hann nær, upp að túngarði; þaðan í nyrðri (eystri) Geldingahól, þaðan um nyrðri Keilisbróður beint að landi Krýsivíkur.
Einungis frá þeim enda Merkjagarðs, er til heiðar snýr, er heiðin óskipt land, er eigendur Knarrarnesja eiga saman eptir jarðarhundraða tiltölu. En túnmörkeru:
a) milli austurparts og vesturparts Stóra–Knarrarness: Úr ós við Fjöruvatnsgranda austanverðan allt upp í Skeljavík; þaðan í tvær þúfur á Knarranesshöfða er bera skulu hvora í aðra og þá eptir garðlagi og götu milli túnanna heim að bæ og um bæinn, eptir tröðinni út að túngarðahliði.
b) Milli Stóra – Knarrarness og Minna – Knarrarness. Úr syðra parti Vörðuskers (2/3 þess er eign Stóra–Knarrarness) beint eptir fjörunum í Markaklöpp; þaðan í Krosshóla í túni, og eptir garðlagi því, er þaðan liggur suður og upp tún út að túngarði.

Eldborgargren

Eldborgargren.

2. Að vestanverðu milli Knarrarness og Ásláksstaða: Úr ós eptir fjöru í Klöpp, er liggur í svo nefndum girðingum hjer um bil miðsvæðis, ofan til við flæðarmál, þaðan sunnan til við svo nefnda Digruvörðufyrir sunnan Hellur (bæinn) beint í Knarranessholt sunnanhalt, þaðan í Eldborgargren, þaðan beint í Krýsuvíkurland. Hversu sunnanhöll við markalínuna að Digravarða og Knarrarnessholt eru, sjest, þegar bein lína er dregin frá Klöppinni í Eldborgargren. Bréfið var samþykkt af fjórum mönnum, eigendum Breiðagerðis og Innri-Ásláksstaða.
Í lok bréfsins bæta eigendur vesturparts Stóra Knarrarness og ¾ Minna Knarrarness við athugasemd: „Við Sigurður Gíslason og Stefán Jónsson erum samþykkir mörkunum að sunnan, en ekki að innan“.
Í kaflanum um Minna – Knarrarnes í Fasteignamati 1916 – 1918 koma fram upplýsingar um landamerki: „Landamerki milli Áslaksstaða og Knarrarnes eru við sjó er steinn á Klapparhorni við svonefndar girðingar í svokallaðan Markhól þaðan beina línu til heiðar í stóra hrút fyrir norðan Hagafell þaðan norður í Litla-Hrút, þaðan í innri Geldingahól, þaðan niður í merkisgarð, þaðan í svonefndan Selastein í fjöru“.
Í köflunum um Minna – Knarrarnes og hinar tvær jarðirnar í Knarrarneshverfinu, Stóra–Knarrarnes (tvær hálflendur með sama nafni) í sama riti kemur fram að tún og matjurtagarðar séu úrskift en heiðarland og hagbeit séu í félagi jarðanna þriggja.

Eldborg

Eldborg ofan Knarrarnessels.

Í maí 1920 gáfu nokkrir aðilar út yfirlýsingu um afnot á hluta lands Knarrarness: „Vjer undirritaðir eigendur og ábúendur jarðanna: Knarrarnes, Breiðagerði, Auðnar, Landakot, Þórustaðir og Kálfatjörn, allar í Vatnsleysustrandarhreppi í Gullbringusýslu, lýsum því yfir með skjali þessu að vjer í samráði við hreppsnefnd Vatnsleysustrandarhrepps, fyrirbjóðum innbyggendum Grindavíkurhrepps, innan Gullbringusýslu, öll afnot af landi því, er, samkvæmt landamerkjalýsing fyrir Knarranesi, þinglesin á manntalsþingi Vatnsleysustrandar- og Grindavíkurhrepps 1887, sem eru: „Þaðan sunnan til við svonefnda digruvörðu fyrir sunnan Hellur (bæinn) beint í Knarrarnessholt sunnanhalt, þaðan í Eldborgargren, þaðan beint í Krýsuvíkurland. Hversu sunnahöll við markalínuna að Digurvarða og Knarranessholt eru, sjest, þegar bein lína er dregin frá klöppinni (í fjörunni) í Eldborgargren….”“

Stóra-Knarrarnes

Stóra-Knarrarnes.

Allt það land sem fyrir innan þessa línu er, eða er milli hennar og Krýsivíkurlands, teljum vjer eign áðurnefndra jarða sbr. landamerkjalýsingar fyrir öllum áðurnefndum jörðum, þinglesnar á báðum stöðunum 1886 og 1887 og undirskrifaðar af Árna sál. Gíslasyni í Krýsuvík 1891. Undir þessa yfirlýsingu skrifa; Sæmundur Kr. Klemensson fyrir hönd skólanefndarinnar, eigendur Knarrarnesjanna, umboðsmaður alls Breiðagerðisins og viss hluta Auðnahverfis, Þórarinn Einarsson [Bergskoti], Benedikt Þorláksson [Höfða], eigandi nokkurs hluta Þórustaða og hreppsnefndaroddvitinn.

Stóra-Knarrarnes

Tóftir Stóra-Knarrarness.

Þann 31. maí 1920 var haldið manntalsþing í Grindavíkurhreppi. Á því þingi mótmælti Hafliði Magnússon, bóndi á Hrauni, landamerkjalýsingu fyrir Auðnahverfi í Vatnsleysustrandarhreppi, dagsettri 12. júní 1886, og yfirlýsingu um landamerki fyrir jarðirnar Knarrarnes, Breiðagerði, Auðna, Landakot, Þórustaði og Kálfatjörn sem gefin var út í maí 1920, en þessi skjöl voru þinglesin á manntalsþinginu. Hafliði greindi einnig frá því hver hann teldi landamerki Hrauns og Þórkötlustaða þar sem þau liggja að landi Strandahrepps eiga að vera: „Lína tekin úr Sogaselsdal beint vestur í Kálffell og þaðan beina línu í þúfuna á litla Skógfelli“. Fram kom í máli Hafliða að þessum landamerkjum hefði áður verið lýst á manntalsþingi í Grindavík hinn 12. október 1889.
Í fasteignamati 1932 er að finna jarðalýsingu ábúenda á eftirfarandi jörðum í Knarrarneshverfi; Stóra–Knarrarnes I, Stóra–Knarrarnes II (Austurbær) og Minna–Knarrarnes.
Að sögn ábúanda á Stóra–Knarrarnesi er beitilandið víðlent. Hann greinir einnig frá því að jörðin eigi sameiginlegt beitiland við hálflenduna [Stóra–Knarrarnes II] og Minna–Knarrarnes. Einnig nefnir hann að landamerki séu þinglesin og enginn ágreiningur sé um þau.
Samkvæmt upplýsingum ábúanda á Stóra–Knarrarnesi II (Austurbæ) er beitiland býlisins nægilegt. Einnig nefnir hann í skýrslu sinni að jörðin eigi rétt til upprekstrar í afrétt. Landamerki jarðarinnar eru ágreiningslaus.
Í svörum ábúanda á Minna – Knarrarnesi kemur fram að beitilandið sé fremur þröngt.
Af þinglýsingarvottorðum dagsettum 15. og 21. júní 2004 má ráða að í Knarrarnestorfunni séu; Minna–Knarrarnes, Stóra–Knarrarnes I og Stóra–Knarrarnes

Breiðagerði

Breiðagerði

Breiðagerði – túnakort 1919.

Þann 9. september 1447 seldi Viðeyjarklaustur fjórar jarðir. Kaupandinn greiddi fyrir þær með fjórum jörðum er voru í hans eigu. Ein þeirra jarða sem klaustrið eignaðist í þessum viðskiptum var jörðin Breiðagerði.
Þann 13. september árið 1500 áttu sér stað eigendaskipti á jörðinni Breiðagerði. Henni fylgdu öll gögn og gæði.
Viðeyjarklaustur eignaðist jörðina aftur 30. maí 1501.
Samkvæmt fógetareikningum frá 1547 – 1548 var Breiðagerði í eigu Viðeyjarklausturs.
Árið 1703 var jörðin Breiðagerði metin. Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns segir Selstöðu brúkar jörðin þar sem kallað er Knararness sel, eru þar hagar mjög litlir og vatnsbrestur til stórmeina. … Skóg til kolgjörðar brúkar jörðin frí í almenningum.

Breiðagerði

Tóft við Breiðagerði.

Í opinberri skýrslu sem gerð var um jarðir í Vatnsleysustrandarhreppi árið 1755 stendur eftirfarandi um býlið Breiðagerði: „… Selstade Fölger Jorden som aarlig forbruges, Mens Græsgang og Fædrift undtagen bemelte Selstade icke til nogen betydelig nytte, hvoraf flyder huse og Höe torves Mangel“…
Í Jarðamatinu 1849 – 1850 segir m.a. um jörðina Breiðagerði: „Hagbeit sæmileg sumar og vetur í óskiptu landi utangarða“. …
J. Johnsen minnist á það í bók sinni, Jarðatal á Íslandi, að konungsjörðin Breiðagerði hafi verið seld þann 2. maí 1827.

Breiðagerði

Breiðagerðishverfið.

Landamerkjabréf Breiðagerðis var undirritað 11. júní 1886 og þinglesið fjórum dögum síðar: Landamerkin eru þessi: Breiðagerði tilheyrir land allt með gögnum og gæðum til lands og sjáfar milli Bergskots, Höfða og Auðna að norðanverðu og Stóra–Knarrarness að sunnanverðu. Landamerkin eru þessi:
1. Milli Bergskots, Höfða og Auðna að norðanverðu og Breiðagerðis að sunnanverðu: Lendingarósinn, sem liggur út frá lendingum Bergskots og Breiðagerðis, sunnanvert við Bláklett, sem er hár klettur fyrir norðan og utan Bergskots-lendinguna. Frá flæðarmáli til heiðar liggja mörkin eptir beinni stefnu úr Blákletti, norðanvert við efri Sundvörðuna um Þúfuhól þann, er hún stendur á, skammt fyrir austan tómthúsið Hól; þaðan eptir vörðum upp heiðina, milli Auðna – Klofninga og Breiðagerðis – Skjólgarðs, spölkorn fyrir norðan nyrðri Keilisbróðir, allt að landi Krýsuvíkur í Grindavíkurhreppi.

Ásláksstaðasel

Ásláksstaðasel.

2. Milli Stóra – Knaraness að sunnanverðu og Breiðagerðis að norðanverðu eru þessi landamerki: Selsker, sem er lítið sker milli skerjanna Söðuls og Þríhyrnings; þaðan upp eptir maðkasandinum í sprungu, sem er nokkru norðar en í miðju Dugguskeri, sem er stórt sker á sandinum milli Knaraness og Breiðagerðis: – Stóra–Knararnesi tilheyrir því tveir þriðjungar af Dugguskeri, en Breiðagerði einn þriðjungur. Úr þessari sprungu liggja mörkin beint í litla klöpp, sem er í flæðarmáli við neðri enda merkjagarðsins, er liggur fyrir austurenda Stóra – Knararnesstúnsins frá sjó upp að túngarði, og eptir þessum merkjagarði meðan hann nær til, en frá efri enda hans liggja mörkin í nyrðri Geldingahól; þaðan í nyrðri Keilisbróðir og eptir þeirri stefnu alla leið að landi Krýsivíkur í Grindavíkurhreppi.
Landamerkin eru samþykkt af eigendum Auðnahverfis og umráðamanni Stóra-Knarrarness.

Breiðagerði

Breiðagerði – innsiglingarvarða ofan við vörina.

Í kaflanum um Breiðagerði í fasteignamati 1916 – 1918 stendur að heiðarland og hagbeit séu í félagi við nágrannajarðir.
Í fasteignamati 1932 er að finna lýsingu ábúanda Breiðagerðis á jörðinni. Í henni kemur fram að tún eru girt af með grjótgarði og beitiland með gaddavír. Þar stendur einnig að jörðin eigi óskipt beitiland og að þar sé talsvert af grjóti sem nota megi sem byggingaefni. Landamerki Breiðagerðis eru ágreiningslaus. Jörðin fylgir Auðnum.
Vatnsleysustrandarhreppur seldi Hitaveitu Suðurnesja land ofan Vatnsleysustrandarvegar (gamla þjóðvegarins) sem tilheyrt hafði jörðinni Breiðagerði þann 1. september 2004. Landið afmarkaðist af Knarrarnesi til suðvesturs, Auðnahverfi til norðausturs, en heiðarmörk til suðausturs liggja móti landi Krýsuvíkur.

Auðnahverfi

Vatnsleysubæir
Samkvæmt fógetareikningum frá 1547 – 1548 voru Auðnir í eigu Viðeyjarklausturs.
Auðnir voru metnar árið 1703. Þeim fylgdu hjáleigurnar Auðnahjáleiga, Lönd, Hjáleiga og Hólmsteinshús. Í Jarðabók Árna og Páls stendur eftirfarandi: „Selstöðu á jörðin og brúkar þar sem kallað er Auðnasel, þar eru hagar nýtandi, en vatnsskortur til stórmeina margoft. … Skóg til kolgjörðar brúkar jörðin í almenningum“.
Í Jarðabókinni kemur fram að jörðin Landakot sé hálflenda Auðna og er selstaða ekki nefnd við þá jörð.
Árið 1755 var lagt mat á jörðina Auðna. Í þeirri úttekt kom m.a. fram að: „Jorden Fölger Selstade sem Aarlige Forbruges, mens udmark meget slet hvoraf fölger Torveskiærs Mangel at dæcke med Husse og Höe, hvis Aarssage Torvet er skaaren jnden Gierdes Tunet til Störste Bedervelse“… Í jarðamati árið 1804 kemur fram að Auðnum fylgir hjáleigan Auðnakot.
Jörðin Auðnar hvarf úr eigu konungs þann 19. apríl 1837.

Breiðagerðissel - Auðnasel

Auðnasel – Uppdráttur ÓSÁ.

Í kaflanum um Auðna, með hjáleigunni Bergskoti, í Jarðamati 1849-1850 kemur m.a. eftirfarandi fram: „Nokkur hagbeit sumar og vetur í óskiptu landi utangarða“.
Landamerkjabréf Auðnahverfis var undirritað 12. júní 1886 og þinglesið þremur dögum síðar: Landamerkjalýsing þessi innibindur jarðirnar Auðna (norður- og suður-part heimajarðarinnar), Höfða og Bergskot. Eiga þessar jarðir land allt með gögnum og gæðum til lands og sjávar milli Landakots að norðanverðu og Breiðagerðis að sunnanverðu. Fjörunni er skipt í spildur með hverri jörð fyrir sig; sömuleiðis eru tún jarðanna aðgreind hvert frá öðru, ýmist með grjótgörðum eða járnþráðargirðingum, en heiðarland allt milli Landakots og Breiðagerðis tilheyrir þessum þrem jörðum sameiginlega og ber hverri jörð af því eptir hundraðatölu hennar.

Höfði

Höfði.

1. Að norðanverðu milli Auðnahverfis og Landakots eru landamerki þessi: Fyrir neðan flæðarmál: Markaós, sem er austasti ósinn, er skerst inn úr aðalós þeim, er liggur inn á milli Landakotstanga og Sílalónsskers. Fyrir ofan flæðarmál eru mörkin við suðurenda stakkstæðis, sem Landakoti tilheyrir og um krók þann, er sjávargarðar Landakots og Auðna mynda, þar sem þeir mætast; þaðan eptir járnþráðargirðingu í syðsta horn á sjávarkálgarði Landakots, þaðan um Brunnhóla eptir grjótgarði; þaðan eptir gömlu torf-garðlagi og járnþráðargirðingu um sunnanverðan Landakotshól; þaðan út að túngarði eptir gömlu grjótgarðlagi og járnþráðargirðingu; þaðan um Skálholt sunnanvert og um sunnanverða Auðna – Klofninga yfir Stórhæð; þaðan í Klofa og eptir þeirri stefnu spölkorn fyrir sunnan Keilir allt að landi Krýsivíkur í Grindavíkurhreppi.

Auðnar

Auðnar – túnakort 1919.

2. Að sunnanverðu milli Auðnahverfis og Breiðagerðis eru þessi landamerki: Lendingarósinn sem liggur út frá lendingum Bergskots og Breiðagerðis fyrir sunnan Bláklett. Frá flæðarmáli liggja mörkin eptir beinni stefnu úr Blákletti í Þúfuhól þann, sem efri Sundvarðan stendur á, skammt fyrir austan tómthúsið „Hól”. Úr Þúfuhól þessum liggja mörkin beint eptir vörðum upp heiðina milli Auðna – Klofninga og Breiðagerðis – Skjólgarðs spölkorn fyrir norðan nyrðri Keilisbróðir (Litla hrút) alla leið að landi Krísivíkur í Þetta landamerkjabréf var samþykkt af eiganda Landakots.
Í fasteignamati 1916 – 1918 er greint frá landamerkjum Auðna: Landamerki að sunnan við Auðnahverfi er norðan við Breiðagerði. Lendingarósinn sem liggur út frá lendingu Bergskots og Breiðagerðis, fyrir sunnan Bláklett. Frá flæðarmáli liggja mörkin eftir beinni stefnu úr Blákletti í Þúfuhól, þann sem efri sundvarðan stendur á, skamt fyrir austan tómthúsið Hól. Úr Þúfuhól þessum liggja mörkin beint eftir vörðum upp heiðina milli Auðnaklofninga og Breiðagerðis-skjólgarðs, spölkorn fyrir norðan nyrðri Keilisbróðir, Litla hrút alla leið að landi Krýsivíkur í Grindavíkurhreppi.

Auðnaborg

Auðnaborg.

Að norðanverðu við Auðnahverfi og milli Landakots eru mörkin þessi. Fyrir neðan flæðarmál Markaós, sem er austasti ósinn, skerst innúr aðalós þeim, er liggur á milli Landakotstanga og Sílalónsskers. Fyrir ofan flæðarmál eru mörkin við suðurenda stakkstæðis, sem Landakoti til heyrir og um Krók þann, er sjávargarður Landakots og Auðna mynda, þar sem þeir mætast. Þaðan eftir járnþráðargirðingu í syðsta horn á sjávarkálgarði Landakots; þaðan um Brunnhóla eftir grjótgarði; þaðan eftir gömlu torfgarðlagi og járnþráðargirðingu um sunnanverðan Landakotshól; þaðan út að túngarði eftir gömlu grjótgarðlagi og járnþráðargirðingu. Þaðan um Skálholt sunnanvert og um sunnanverða Auðnaklofninga yfir Stórhæð; þaðan í Klofa og eftir stefnu þeirri, spölkorn fyrir sunnan Keilir, alt að landi Krýsuvíkur í Grindavíkurhreppi.

Auðnasel

Auðnasel.

Í sama riti kemur fram að býlin í Auðnahverfi, Auðnir, Bergskot og Höfði, hafa sameiginlegt heiðarland og hagbeit.
Í kaupsamningi sem gerður var 1. nóvember 2001 var hluti Bergskots og Höfða í óskiptri sameign Auðnahverfis (Auðnir ekki aðilar samnings) seldur Hitaveitu Suðurnesja. Hið óskipta land markast af merkjum Landakots að norðan, Breiðagerðis að sunnan og Krýsuvíkur að austanverðu (suðausturátt). Að vestanverðu af Reykjanesbraut.
Í þinglýsingarvottorði fyrir Auðna, dagsettu 15. júní 2004, kemur fram að úr landi Auðna hafa verið seldar eða leigðar lóðir undir loðdýrabú og sumarbústaði. Jörðin virðist að öðru leyti haldast.

Sjá meira um hverfin á Vatnsleysutrönd HÉR.

Heimild:
Úrskurður Óbyggðanefndar 2004 – Grindavík og Vatnsleysuströnd.

Brunnastaðasel

Brunnastaðasel – uppdráttur ÓSÁ.

 

Hraun

Hér verður fjallað um „Landnám á Reykjanessskaga“ út frá upplýsingum teknum saman af Óbyggðanefnd árið 2004 vegna úrskurðar nefndarinnar í málum Grindavíkur og Vatnsleysustrandar.

Landnáma

Landnáma – endurgerð.

Landnámabók getur ýmissa manna, sem námu land á þessu svæði. Fyrstur landnámsmanna var Ingólfur Arnarson: „En Ingólfr nam land milli Ölfusár ok Hvalfjarðar fyrir útan Brynjudalsá, milli ok Öxarár, ok öll nes út“.
Um landnám á því svæði, sem Grindavíkurhreppur náði yfir, ber Landnámugerðum ekki saman að öllu leyti: „Þórir haustmyrkr nam Selvág ok Krýsuvík, en Heggr son hans bjó at Vági.
En um várit eptir fóru þeir Molda-Gnúpr vestr í Grindavík ok staðfestisk þar; … Björn [Molda-Gnúpsson] fór í Grindavík ok staðfestisk þar“.
Þórir haustmyrkur nemur því austasta hlutann af því svæði sem hér er til umfjöllunar.

Hóp

Hóp; fornar minjar – uppdráttur ÓSÁ.

Molda-Gnúpr hafði numið Álftaver en hrakist þaðan undan jarðeldum vestur til Höfðabrekku og lent þar í ófriði og vígaferlum. Sturlubók segir Molda-Gnúp hafa flutt til Grindavíkur með sonum sínum, en samkvæmt Hauksbók féll Molda-Gnúpur ásamt sonum sínum tveimur, en Björn sonur hans hafi hefnt föður síns og bræðra og farið síðan í Grindavík.
Mörk landnáma Þóris haustmyrkurs og Molda-Gnúpssona eru ekki nefnd í Landnámu. Því segir Haraldur Matthíasson, að um vesturmörk landnáms Þóris sé það eitt vitað að þau séu fyrir utan Krýsuvík. Á þessu svæði hafa orðið miklar landbreytingar vegna eldgosa og gróðureyðingar. Athugandi er að landamerki Krýsuvíkur og Ísólfsskála eru vestan við Ögmundarhraun, sem Jón Jónsson jarðfræðingur telur hafa runnið um 1040 en Haukur Jóhannesson jarðfræðingur telur frá árinu 1151.

Gufuskálar

Gufuskálar – óskilgreindar tóftir á hól.

Landnám Molda-Gnúpssona er talið hafa náð til Reykjaness, en þar tók við landnám Herjólfs Báðarsonar frænda og fóstbróður Ingólfs Arnarsonar.
Landnámabók getur tveggja manna sem námu Vatnsleysuströnd [?], Steinunnar gömlu, frændkonu Ingólfs Arnarsonar, og Eyvindar frænda og fóstra Steinunnar: „Steinuðr en gamla frændkona Ingólfs, fór til Íslands ok var með Ingólfi enn fyrsta vetr. Hann bauð at gefa henni Rosmhvalanes allt fyrir útan Hvassahraun, en hon gaf fyrir heklu flekkótta ok vildi kaup kalla; henni þótti þat óhættara við riptingum“.
Steinunnr hin gamla, frændkona Ingólfs, fór til Íslands ok var með honum hinn fyrsta vetr. Hann bauð at gefa henni Rosmhvalanes allt fyrir útan Hvassahraun, en hon <gaf fyrir> heklu flekkótta enska ok vildi kaup kalla; henni þótt þat óhættara við riptingum.

Hvassahraun

Hvassahraun – uppdráttur ÓSÁ.

Eyvindr hét maðr, frændi Steinunnar og fóstri; honum gaf hon land milli Kvíguvágabjarga og Hvassahrauns. Eyvindur var síðar neyddur til landaskipta við Hrolleif Einarsson, Ölvissonar barnakarls, en landnámsmörk virðast hafa haldist. Kvíguvágar nefnast nú Vogar og Kvíguvágabjörg Vogastapi. Landnám Eyvindar er talið ná inn til Hvassahrauns, en Hvassahraunsbærinn tilheyrir Vatnsleysustrandarhreppi, en næsta landnám er frá Hvassahrauni: „Ásbjörn Özurarson, bróðurson Ingólfs, nam land milli Hraunholtslækjar ok Hvassahrauns, Álptanes allt, ok bjó á Skúlastöðum“.

Grindavíkurhreppur – Lýsing Grindavíkursóknar

Framfell

Framfell – forn varða. Selvellir fjær.

Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns er lýsing á landkostum í Grindavík: „Um alla þessa sveit er það að nótera að með því hjer er so víða neyðarlegur grasbrestur á túnum og haga, þá fæðist hjer kvikfjenaður, bæði naut og sauðir, mikinn part á fjöru, sölvum og murukjarna. Þar með kappkostar fólk að draga til sín á haustin ofan úr heiðum hrís og lýng so mikið sem hvör megnar, og á þessu helst peníngurinn við lífið og gjörir gagn, þó heybjörg sé lítil, og er ekki kvikfjenaðurinn á þenna framflutníng settur í þessari jarðabók“.

Vesturfell

Vesturfell frá Vigdísarvöllum.

Í „Lýsingu Grindavíkursóknar 1840 – 1841“ eftir Geir Bachmann, sem skráð er í verki Landnám Ingólfs, stendur eftirfarandi um sóknarmörkin: „Að norðanverðu við núnefnda markalínu (þ.e. úr Stapafelli í Fagradalshagafell), eiga Njarðvíkingar og Vogamenn land móts við Grindvíkinga að sunnan. Enn eru takmörk sóknarinnar sjónhending fjallasýn úr Fagradalshagafelli til austurs landsuðurs í enn eitt fell, Hraunsselsvatnsfell, aftur í sömu átt þaðan í Framfell, en á Vigdísarvöllum Vesturfell kallað, og er þá að norðan og landnorðanverðu Strandarmanna land og hinn svo nefndi Almenningur. Úr Vesturfelli beygjast mörk sóknarinnar til suðurs réttsuðurs, niður í Hamradal kallaðan, og þaðan beint í Núphlíð, hvaðan þau eru sjónhending yfir ófæruhraun á Selatanga. – Vegalengdin úr Vesturfelli suður á Selatanga er á að gizka 2 mílur, ef beint yrði farið. Á móts við Grindvíkinga að vestan eiga Krýsuvíkingar land að austanverðu við síðst nefnd mörk úr Framfelli. Á Selatöngum er drangi eða klettur í fjörunni, Dagon kallaður, og skilur hann bæði land og reka Krýsu- og Grindavíkur“.

Hraun

Hraun

Hraun – forn signingafontur frá fv. kirkju nær.

Hrauns er fyrst getið í rekaskrá Skálholtsstaðar frá því um 1270.
Máldagi Viðeyjarklausturs frá því um 1284 sem greinir frá ítökum í annarra manna jarðir er varðveittur í þremur gerðum. Í b-gerðinni stendur: „Savda hofnn j hravnslandi j grindavik. j c. gielldings. hvsrvm fiarmanni vit þridia mann þott þurfi. kietil ok elldivid og blondv leigvlaust. … Samvidvnnar skog j hravnvm vt fra hvaleyri. jtem skogar toptt j selvikar skogvm“.
Í c-gerðinni segir: „Saudhøfnn j hrauns land j Grindavijk hundrad Gielldingz. hüsrüm farmonnum vid þridia mann þo þurfe. kietil ok elldevid og blöndv leigulaust. … Samvidunar skog j hraunum ut fra Hvaleyri. jtem Skogartuptt j Selvikar skogie“.

Hraunssel

Hraunssel.

Samkvæmt Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns, sem gerð var árið 1703 fyrir Grindavíkurhrepp, má ætla að Hraun hafi átt selstöðu í eigin landi: „Selstaða lángt í frá og þó sæmilega góð“.
Í ritinu Jarðatal á Íslandi, eftir J. Johnsen, kemur fram að stólsjörðin Hraun hafi verið seld 8. ágúst 1787.
Í kaflanum um Hraun í Jarðamati 1849-1850 stendur m.a.: „Landrymi mikið, en landið uppblásið. Sumarbeit góð í seli upp til fjalla. Vetrarhagar lángt frá og rírir“…

Selsvallafjall

Selsvallafjall.

Landamerkjabréf Hrauns var samið 12. október 1889 og þinglesið 20. júní 1890: „Í miðjum „marka-bás“í fjöru er mark á klöpp, er aðskilur land jarðarinnar frá landi jarðarinnar Þorkötlustaða, þaðan liggja mörkin til heiðar vestan til við „Húsafell“ og yfir „Vatnsheiði“, þaðan sem sjónhending ræður að Vatnskötlum, fyrir norðan Fagradals-fjall, þaðan til austurs á Selsvallafjall, uppaf „Sogasels-dal“, þá eptir Selsvalla-fjalli, til suðurs, samhliða landamerkjum jarðarinnar „Krýsuvíkur“ þar til að mið suður-öxl á Borgarfjalli ber í merktan klett við götuna á „móklettum“, skal sú sjónhending ráða merkjum frá landi jarðarinnar „Ísólfsskála“, þaðan til suðurs fram yfir festargnípu í fjöru. Einkennismark marksteinanna er L.M. er þýðir landamerki. Lýsing þessi var samþykkt af eigendum og umráðamönnum Ísólfsskála, Klappar, hálfs vesturbæjarins og miðbæjarins á Þorkötlustöðum, Kálfatjarnarkirkjulands og óstaðsetts vesturbæjar“. [líklega er átt við vesturbæ á Þorkötlustöðum].

Selsvellir

Sel á vestanverðum Selsvöllum.

Fyrir neðan ofannefndar undirskriftir stendur eftirfarandi: „Hinsvegar tilgreind landamerki jarðarinnar Hrauns í Grindavík samþykkjast hjermeð að því leyti sem þau ekki koma í bága við landamerkjalýsingu Krýsuvíkur, sem naumast getur hugsast, þar sem allir þrír eigendur Hrauns hafa samþykkt og undirskrifað hana óbreytta“. Undir þennan texta skrifar Á. Gíslason, Krýsuvík 17. júní 1890.
Á manntalsþingi fyrir Grindavíkurhrepp sem haldið var 1. júní árið 1900 var þinglesið skjal frá eigendum og ábúendum jarðarinnar Hrauns. Í skjalinu kom fram að fyrrnefndir aðilar hefðu ákveðið að banna allskonar landrif í landareign jarðarinnar, að undanskildum mosa. Bannið skyldi taka gildi sama dag og skjalið var þinglesið þ.e. 1. júní.

Sloki

Slokahraun – Slokatá fremst t.h. og fornir fiskigarðar nær. Hraun að handan.

Í greinargerð í fasteignamati Gullbringusýslu 1916 – 1918 er greint frá landamerkjum jarðarinnar Hrauns: „Landamerki að vestanverðu, svonefndur markabás á Slokatá þaðan beina línu vestan í vatnsheiði [fell yfirstrikað] í Kálffell, þaðan í vatnskatla (steinker) fyrir norðan Fagradalsfjall, þaðan að Sogaseli fyrir norðan Selsvelli í Selsvalla fjalli, þaðan til suður eftir háfjallinu í göngumannaskarð á Núphlíd, þaðan í götuna hjá móklettum, þaðan yfir há – Festarfjall á sjó út. Þar kemur einnig fram að útengi sé ekkert og að útbeit sé fjalllendi“.
Í maí 1920 gáfu umráðamenn eftirtalinna jarða á Vatnsleysuströnd yfirlýsingu um afnot á landi ofan jarðanna:

Eldborgargren

Eldborgargreni.

„Vjer undirritaðir eigendur og ábúendur jarðanna: Knarrarnes, Breiðagerði, Auðnar, Landakot, Þórustaðir og Kálfatjörn, allar í Vatnsleysustrandarhreppi í Gullbringusýslu, lýsum því yfir með skjali þessu að vjer í samráði við hreppsnefnd Vatnsleysustrandarhrepps, fyrirbjóðum innbyggendum Grindavíkurhrepps, innan Gullbringusýslu, öll afnot af landi því, er, samkvæmt landamerkjalýsing fyrir Knarranesi, þinglesin á manntalsþingi Vatnsleysustrandar- og Grindavíkurhrepps 1887, sem eru: „Þaðan sunnan til við svonefnda digruvörðu fyrir sunnan Hellur (bæinn) beint í Knarrarnessholt sunnanhalt, þaðan í Eldborgargren, þaðan beint í Krýsuvíkurland. Hversu sunnahöll við markalínuna að Digurvarða og Knarranessholt eru, sjest, þegar bein lína er dregin frá klöppinni (í fjörunni) í Eldborgargren“….
Allt það land sem fyrir innan þessa línu er, eða er milli hennar og Krýsivíkurlands, teljum vjer eign áðurnefndra jarða sbr. landamerkjalýsingar fyrir öllum áðurnefndum jörðum, þinglesnar á báðum stöðunum 1886 og 1887 og undirskrifaðar af Árna sál. Gíslasyni í Krýsuvík 1891“.

Kálffell

Í Kálffelli.

Þann 31. maí 1920 var haldið manntalsþing í Grindavíkurhreppi. Á því þingi mótmælti Hafliði Magnússon, bóndi á Hrauni, landamerkjalýsingu fyrir Auðnahverfi í Vatnsleysustrandarhreppi, dagsettri 12. júní 1886, og yfirlýsingunni um landamerki fyrir jarðirnar Knarrarnes, Breiðagerði, Auðna, Landakot, Þórustaði og Kálfatjörn sem gefin var út í maí 1920, en þessi skjöl voru þinglesin á manntalsþinginu. Hafliði greindi einnig frá því hver hann teldi landamerki Hrauns og Þórkötlustaða þar sem þau liggja að landi Strandahrepps eiga að vera: „Lína tekin úr Sogaselsdal beint vestur í Kálffell og þaðan beina línu í þúfuna á Litla Skógfelli“.
Fram kom í máli Hafliða að þessum landamerkjum hefði áður verið lýst á manntalsþingi í Grindavík hinn 12. október 1889.
Í þeim hluta fasteignamatsins 1932 sem fjallar um jörðina Hraun stendur m.a. að beitiland hennar sé víðlent og skjólsælt. Deilur séu um landamerki milli eiganda og Vatnsleysustrandarhrepps.

Heimild:
Úrskurður Óbyggðanefndar 2004 – Grindavík og Vatnsleysuströnd.

Hraun

Hraun.

Krýsuvík

Hér verður fjallað um „Krýsuvík“ út frá samantekt Óbyggðanefndar frá árinu 2004 um úrskurð vegna Grindavíkur og Vatnsleysustrandar. Samantektin felur í sér gagnlegar heimildir um búsetu í Krýsuvík sem og mörk jarðarinnar.

Í kirknaskrá frá árinu 1200 kemur fram að kirkja sé í Krýsuvík.

Krýsuvík

Krýsuvík 1810.

Í máldaga Krýsuvíkur frá því um 1275 segir að kirkjan eigi: „…heimaland alltt. Herdijsarvijk. ix. mæla land a þorkotlustödum“.
Í máldaga Krýsuvíkur frá því um 1307 segir að kirkjan eigi: „…heimaland allt. Herdysarvijk. ix. mæla land aa þorkotlustodum“.
Máldagi frá 1367 er samhljóða, sbr. Íslenzkt fornbréfasafn, III. b. s. 222.
Í máldaga Krýsuvíkurkirkju frá 1375 kemur fram að henni hafi verið ánafnaður fjórðungspartur í jörðinni Vatnsleysu [ekki kemur fram við hvaða Vatnsleysu er átt en ljóst er af öðrum heimildum að það er sú á Vatnsleysuströnd].

Í visitasíu sem gerð var í Krýsuvík árið 1395 stendur eftirfarandi: „… Reiknadist svo micid goss kirkiunnar j Krýsuvijk ad auk fornra maldaga vc. portio vmm .ij. är hälf .xiiij. alin“ …
Máldagi frá því um 1477 er samhljóða máldagnum frá 1375, sbr. Íslenzkt fornbréfasafn, VI. b. s. 124.

Krýsuvík

Krýsuvík 1887.

Þann 28. apríl 1479 vottuðu tveir aðilar skriflega að þeir, ásamt öðrum, hefðu heyrt eiginkonu fyrrum eiganda jarðarinnar Vatnsleysu lýsa því yfir að: „… kirkian kryssvvik ætti þar j xc“ …
Árið 1525 ákvað Ögmundur Pálsson, biskup í Skálholti, að Krýsuvíkurkirkja skyldi selja eignarhlut sinn í Vatnsleysulandi til Viðeyjarklausturs.
Máldagi frá 1553-54 var samhljóða þeim fyrrum, sbr. Íslenzkt, XII. b. s. 662.
Þann 27. september 1563 á Bessastöðum var sóknarkirkja í Krýsuvík lögð niður að beiðni Gísla biskups Jónssonar.
Í Gíslamáldögum frá 1570 og síðar segir að kirkjan í Krýsuvík eigi: „…heimaland alltt. Herdijsarvijk. ix mælaland ä Thorkøtlustödum.”

Fjallið eina

Fjallið eina.

Í kjölfar þess að ágreiningur reis um landamerki Krýsuvíkur í upphafi 17. aldar vitnuðu nokkrir aðilar um merkin síðla árs 1603 og snemma árs 1604. Tvö vitni gáfu samhljóða lýsingu á landamerkjum Krýsuvíkur sem byggð var á vitnisburði þriðja manns53 26. desember 1603. Lýsing vitnanna var svohljóðandi: „… Krýsuvík ætti austur frá sér allt land að Skildi og þaðan sjónhending suður í sjó í þann stein sem stendur fyrir vestan þann hellir sem er framan í berginu við vatnsstæði eður leirtjörn, hvör leirtjörn þó uppþornar stundum, og aftur sjónhending úr Skildi í miðjan Breiðdal og vestur í Markrakkagil. Úr Markrakkagili og vestur yfir Sliturin fyrir norðan Fjallið eina. Þaðan sjónhending og í Dyngju, úr Dyngju og fram eftir miðjum Selsvallahálsi, úr hálsinum og suður í Raufarklett við Selatanga“. Tveir menn gáfu nánast samhljóða vitnisburð. Sá vitnisburður var efnislega á þessa leið: „Krýsuvík á land allt að steini þeim sem stendur uppá fjallinu hjá Skildi og sjónhending þaðan suður í sjó. Síðan sjónhending úr Skildi og í miðjan Breiðdal, úr Breiðdal og vestur í Markrakkagil, úr Markrakkagili og vestur yfir Sliturin fyrir norðan Fjallið eina.

Trölladyngja

Trölladyngja og Sogaselsgígur nær.

Þaðan sjónhending og í Dyngju, úr Dyngju og fram eftir Selsvallarhálsi [annar aðilinn segir Selsvallarhálsi en hinn segir Selsvallakálfi] og suður í Raufarklett sem stendur við Seltanga“.
Samkvæmt einu vitnanna: „á Krýsuvík austur frá sér land allt að Skildi og þaðan sjónhending suður í sjó“. Sem staðfestingu á framburði sínum greindi vitnið frá því að það hefði eitt sitt heyrt menn segja að: „… Krýsuvík ætti land allt austur yfir haan54 hraun hvert hraun að liggur fyrir austan Geitahlíð“.
Sjötta vitnið greindi frá því að það kannaðist ekki við annað en að: „Krýsuvík ætti land allt austur á eystri hraunsbrún á hrauni því sem liggur fyrir austan Hlíðarhorn“. Til þess að styrkja frásögn sína greindi vitnið frá því að það hefði heyrt að á þeim tíma sem séra Guðmundur hélt Krýsuvíkurstað hefði það verið almæli allra manna að hraunið væri Krýsuvíkureign með réttu.
Að sögn sjöunda vitnisins átti Krýsuvík: „… land allt að steini þeim sem stendur uppá fjallinu hjá Skildi og þaðan sjónhending suður í sjó“.

Sýslusteinn

Sýslusteinn (Steinninn).

Vitnið kvaðst einnig hafa heyrt að: „… Krýsuvík ætti land allt að Skildi og sjónhending suður í sjó í þann stein sem stendur fyrir vestan þann hellir sem er framan í berginu við vatnsstæði, hvert vatnsstæði, eður leirtjörn þó upp þornar á sumarið, og ættu þessir sömu steinar að standast á“.
Einnig hafði vitnið heyrt að: „… það hefði ætíð verið almæli allra manna, að selstaða ætti að leggjast frá Krísivík til Herdísarvíkur en frá Herdísarvík skyldi koma skipstaða“.
Árið 1629 er vottað, að árið 1621 hafi Skálholtsbiskupi verið afhentir vitnisburðir þriggja vitna. Eru þeir meðal kirkjuskjala Staðar í Grindavík og hljóða svo: „… að Krísivík … ætti austur frá sér land allt að Skildi og þaðan sjónhending austur í sjó í þann stein sem stendur fyrir vestan þann hellir sem er framan í berginu við vatnsstæði eður leirtjörn, hvör leirtjörn þó uppþornar stundum. Og aftur sjónhending úr Skildi í miðjan Leirdal vestur í Markagil, úr Markagili vestur yfir Slitrin fyrir norðan Fjallið eina, þaðan sjónhending og í Dyngju, úr Dyngju þeirri og frameftir miðjum Selsvallahálsi, úr hálsinum og suður í Raufarklett við Selatanga“.

Krýsuvík

Krýsuvík 1910.

Í tíð Brynjólfs Sveinssonar Skálholtsbiskups, nánar tiltekið árið 1642, var jörðin Krýsuvík vísiteruð. Hluti skýrslunnar sem unnin var eftir vísitasíuna fer hér á eftir: „Mariukyrkia ad Krÿsivÿk ä ad mäldógum heimaland allt Herdïsar vÿk 9 mæla land ad Þorkótlustodum … För þetta alltt framm i Krÿsivÿk Anno 1642“. (Undir þetta rita Þorsteinn Erlingsson, Hallur Árnason, Pétur Gissursson og Stefán Ólafsson).
Þrjátíu og sex árum eftir að Brynjólfur Sveinsson stóð fyrir vísitasíu í Krýsuvík var kirkjan vísiteruð af nýjum biskupi. Þá var Þórður Þorláksson biskup í Skálholti. Í vísitasíunni, sem fór fram 28. ágúst 1678, kom eftirfarandi fram: „… Mariæ kkia ad Krysivÿk hefur att ad fomngilldu … heima land allt Herdÿsarvyk …et, Enn er nu eigninn óll kominn undir Skalhollts domkkiu og henni til dæmd af hófudzmannj Pälj Stïgssyni og hr. Gisla Jonssyni med tilftardömi, huad þessi kyrkia hefur framar átt i rekum og i sókum utvysa maldagar sem eru i Skalholltj“. (Undir þetta rita Bjarni Jónsson, Eiríkur Magnússon, Bjarni Sigurðsson, Jón Jónsson og Árni Gíslason).
Jörðin Krýsuvík var metin árið 1703. Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns kemur fram að Krýsuvík eigi hjáleigurnar Nýjabæ, Litla – Nýjabæ, Norðurhjáleigu, Suðurhjáleigu og Austurhús. Þar stendur einnig eftirfarandi: „Skógur lítill þó til kolagjörðar fyrir ábúendur og líka að nokkru leyti til eldiviðar. Afrjett fyrir jaðarinnar pening nægileg, en er þó öngvum burtu ljeð“.

Krýsuvíkursel

Krýsuvíkursel við Selöldu.

Í kaflanum um Austurhús kemur eftirfarandi fram: „Selstöður tvær á jörðin, aðra til fjalls en aðra nálægt sjó, báðar merkilega góðar. Og mega þær nýta hjáleigumenn og bóndi“.
Í Jarðabók Árna og Páls stendur eftirfarandi um Þórkötlustaði: „Selstöðu brúkar jörðin og hefur lengi brúkað í Krýsivíkurlandi, þar sem heitir á Vigdísarvöllum, segja menn að selstaðan sje ljeð frá Krýsivík, en Krýsivík aftur ljeð skipstaða fyrir Þorkötlustaða landi. Er selstaðan að sönnu góð, en miklega lángt og erfitt til að sækja“.
Á tíma Jóns Vídalíns Skálholtsbiskups var Krýsuvík vísiteruð á nýjan leik 18. ágúst 1703. Í vísitasíubókinni er ekki að finna neinar gagnlegar upplýsingar.

Herdísarvík

Herdísarvík.

Jón Árnason Skálholtsbiskup vísiteraði Krýsuvík þann 8. maí 1723. Í vísitasíunni er staðfest það sem fram kom í vísitasíunni árið 1642 um jarðeignir Krýsuvíkur: „Anno ut supra þann 8. Maji var visiterud kirkiann ad Krysuvik. Hún ä epter visitatiu herra Gisla Jónssonar heimaland allt, Herdysarvik, ix mäla land ä Þorkótlustódum“ … (Undir þetta rita Halldór Einarsson, Arngrímur Bjarnason, Jón Magnússon, Ólafur Gissursson og Jón Bjarnason).
Rúmum 28 árum síðar, nánar tiltekið þann 10. júní árið 1751, var Krýsuvík vísiteruð af Ólafi Gíslasyni biskupi í Skálholti. Í visitazíunni er minnst á jarðeignir sem voru einnig í eigu Krýsuvíkur er vísitasíur voru gerðar þar árin 1642 og 1723 þ.e.: „… heimaland allt, Herdysarvÿk, 9 mæla land ad Þorkótlustodum“ … (Undir þetta rita Ólafur Gíslason, Sigurður Sigurðsson, Sigurður Ólafsson, Magnús Jónsson, Jón Sigmundsson).
Þann 28. maí 1758 var Krýsuvík vísiteruð af .Finni Jónssyni Skálholtsbiskupi Í vísitasíubókinni stendur eftirfarandi: „… visiterud kkian að Krysuvik Hun á efter þeim gomlu maldogium heimaland allt enn nu orden stols Jord. Efter Vilchins maldaga a hun, alla Herdysarvyk, ix mæla lands a Þorkotlustódum … Enn efter maldaga Gísla bps. á hun Herdysarvyk og ix mäla land á Þorkotlustodum …” (Undir þetta rita Finnur Jónsson, Jón Magnússon, Jón Sigmundsson og Sigurður Sæmundsson).

Mígandagróf

Mígandagröf.

J. Johnsen minnist á það í bók sinni, Jarðatal á Íslandi, að stólsjörðin Krýsuvík hafi verið seld þann 8. ágúst 1787. Þann 26. júní 1790 er gefinn vitnisburður um landamerki Krýsuvíkur. Þar greinir sá sem skrifar undir lýsinguna frá því að hann hafi: „… heyrt af vissum mönnum, sem hér í Krísivík hafa verið, um landamerki þau, sem heyrt hafa henni, Krísivík, til, eru svoleiðis: Úr Raufarklett á Selatöngum og í Trölladyngju, úr Trölladyngju og í Gráhellu, úr Gráhellu og í Markrakkagil, úr Markrakkagili og Mígandagröf á fjalli, úr Mígandagröf á fjalli og í stein á Herdísarvíkurfjalli, úr þeim steini og á Seljabótarnef við sjó“. Landamerkjalýsing þessi er staðfest af tveimur mönnum.
Um mitt ár 1800, en þá var Geir Vídalín biskup, var Krýsuvík vísiteruð. Í greinargerðinni sem samin var vegna þessarar eftirlitsferðar kemur eftirfarandi fram: „Anno 1800 þann 1sta Julii, visiteradi Biskupinn Geir Vidalin Kirkiuna ad Krysevík; hun hefur ad fornu átt heimaland allt, sídann var hun i meir enn 200 ár, Skálhollts Biskupsstolls, égn, og er nu loks, asamt ödrum Biskupstólsins fastégnum, ásamt jördinni, af Kongl. Hátign burtuseld, svo hun er nu bónda egn – hún á alla Herdisarvik, ix Mælira lands á Þorkötlustodum“ … (Undir skrifa: Arne Nathanaelss., Geir Vidalin, B. Sveinson, Gudmundur Þorsteinsson).

Krýsuvík

Krýsuvík seinni tíma – uppdráttur ÓSÁ.

Í kaflanum um Krýsuvík með hjáleigunum Suðurkoti, Norðurkoti, Stóra–Nýjabæ og Litla–Nýjabæ í jarðamati 1804 stendur að: „Jorden har god Udegang for Faar og Heste, af de sidste indtages nogle fra Fremmede mod Betaling 1 rdlr. aarlig. Tillige ejer den Sætter til Fiælds, hvoraf for nærværende, ogsaa 2 andre Jorde betjene sig, mod Betaling 20 al. aarlig af hver. Endelig findes her en god Svovelmine som dog ej benyttes, da ureenset Svovel ikke finder Afsætning, og kan dette derfore ikke evalueres“.
Í athugasemdum um Krýsuvík segir, sem gilda mun um sýsluna í heild: „Paa Grund af at Udegang for Beder i Almindelighed her i Sysselet saa god, at disse Kreature, de fleste Vintere (undertiden endog Faar og Lam) blot eller da for det meste leve ved at gaae ude, haves desuden de færreste Stæder i nogen betydelig Mængde, uden hvor Udegangen er fortrinlig god, saa formeenes Nedsættelse af denne Herlighed ikke fornöden, uden i Fölge særdeles Omstændigheder, der da paa vedkommende Stæder skal blive anmærket“.

Vigdísarvellir

Vigdísarvellir.

Þann 12. ágúst 1838 seldi Erlendur Jónsson á Brunnastöðum P.C. Knudtzon jörðina Krýsuvík. Henni fylgdu hjáleigurnar Stóri – Nýibær, Litli – Nýibær, Norðurkot, Suðurkot, Austurhús og Vesturhús og tvær nýlendur; Vigdísarvellir og Garðshorn.
Árið 1839 settist Einar Þórðarson að á nýbýlinu Bala sem var nálægt bænum Vigdísarvöllum en þar bjó bóndinn Jón Þorsteinsson. Hann var ósáttur við veru Einars á Bala og þann 20. maí 1840 samdist þeim Einari um að sá síðarnefndi myndi flytja frá Bala á næstu fardögum.
Bali er þó talinn meðal hjáleigna Krýsuvíkur í Jarðatali Johnsens og Nýrri jarðabók eins og síðar verður nefnt en ekki hefur verið kannað í sóknarmannatölum hvernig búsetu var háttað þar.
Í sýslu- og sóknarlýsingum Árnessýslu er að finna lýsingu Páls Melsted, frá árinu 1842, á mörkum Árnessýslu annarsvegar og Gullbringu- og Kjósasýslu hinsvegar: „Sá syðsti punktur takmarkanna millum Árness- og Gullbringusýslu eru þeir svonefndu Sýsl[u]steinar undir Geitahlíð millum bæjanna Herdísarvíkur, sem heyrir til Árnessýslu og Krýsivíkur, sem tilheyrir Gullbringusýslu. Frá Sýslusteinum ganga sýslutakmörkin beina stefnu yfir fjallið nálægt Vífilfelli til ens stóra steins austan undir Lyklafelli, sem nefnist Sýslusteinn; þaðan beina stefnu í Borgarhóla á Mosfellsheiði; þaðan í Syðri – Moldbrekkur; þaðan í Rjúpnagil millum bæjanna Stardals í Kjósar- og Stíflisdals í Árnessýslu: þaðan í vörðu, sem hlaðin er á Stóra – Sauðafelli; þaðan í Sýsluhólma í Stóru – Laxá; þaðan í Steinkirkju; þaðan í Súlur“.

Garðar

Garðar um 1900.

Í lýsingu Garðaprestakalls í ritinu Landnám Ingólfs, Sýslulýsingar og sóknalýsingar, stendur eftirfarandi: Hverjir bæir eiga selstöður etc? Svar: Ég veit ekki nema það, að Garðar eiga selstöðu í því svokallaða Kirkjulandi, sem liggur fyrir ofan byggðina, frá Elliðavatns- og Vatnsendalandi, suður að Krýsuvíkurlandi og upp undir fjöllin. Hitt veit ég og, að nú brúkar enginn hér selstöður og séu Garðar undanteknir, sem höfðu pening í seli til 1832, hafa ei selstöður héðan verið brúkaðar í næstliðin 50 til 60 ár.
Samkvæmt bókinni Jarðatal á Íslandi, sem gefin var út 1847, fylgja Krýsuvík sjö hjáleigur Suðurkot, Norðurkot, Stóri – og Litli – Nýibær, Vigdísarvellir, Bali og Lækur.
Í Jarðamati 1849–1850 er kafli um Krýsuvík og hjáleigurnar, Suðurkot, Norðurkot, Stóra – Nýjabæ, Litla – Nýjabæ, Vigdísarvelli, Bala, Læk og Fitjar. Þar stendur m.a.: „Landrými mjög mikið. … Skógarló. Talsverður brennusteinn. … Jörðin að flestum ínytjum mjög örðug og fólksfrek, þareð þær liggja langt frá og eru sumar sameinaðar lífshættu“.
Í afsals- og veðmálabók Gullbringu- og Kjósarsýslu frá árunum 1848 – 1862 kemur fram að eigandi hálfrar Krýsuvíkur hafi leigt Jóni Hjaltalín námarétt og gefið byggingarleyfi þann 13. september 1851. Þar kemur einnig fram að þann 30. september 1858 selja eigendur Krýsuvíkur Joseph William Busby esq.brennisteinsnámur í landi Krýsuvíkurtorfu og Herdísarvíkur og að eigandi hálfrar Krýsuvíkur og Herdísarvíkur hafi heitið því þann 4. september 1858 að selja Jóni Hjaltalín námuréttindi.

Krýsuvík

Krýsuvík – brennisteinsnámur; Nicholas Pocock 1791.

Manntalsþing var haldið í Innri – Njarðvík þann 20. júní árið 1859. Þar var auglýst samningi sem Sverrir Eiríksson í Krýsuvík hafði gert við dr. Jón Hjaltalín þann 4. september 1858 um að Sverrir seldi Jóni sinn helming úr Krýsuvíkurtorfunni ef leyfi fengist ekki til þess að selja sérstaklega undan jörðinni brennisteinsnámur þær sem þar voru.
Á manntalsþinginu var einnig þinglýst afsalsbréfum sem eigendur Krýsuvíkur, S. Sivertsen og Sverrir Eiríksson, gáfu út síðla árs 1858. Í þeim kemur fram að þeir selji Joseph William Busby Esq. allar námur í Krýsuvíkurlandi.
Í bókinni „Ný jarðabók fyrir Ísland” frá árinu 1861 kemur fram að Krýsuvík fylgi átta hjáleigur; Suðurkot, Norðurkot, Stóri- og Litli – Nýibær, Vigdísarvellir, Bali, Lækur og Fitjar.

Krýsuvík

Krýsuvík – brennisteinsnámur; Nicholas Pocock 1791.

Í byrjun janúar 1870 sendi sýslumaðurinn í Gullbringu- og Kjósarsýslu hreppstjóra Vatnsleysustrandarhrepps fyrirspurn um það hvort að tiltekin maður, sem sýslumaðurinn taldi búsettan á Vigdísarvöllum, væri heimilisfastur í Vatnsleysustrandarhreppi. Ástæða fyrirspurnarinnar var sú að téður maður hafði neitað að greiða tíund í Grindavík á þeirri forsendu að hann hefði greitt hana í Vatnsleysustrandarhreppi. Í svarbréfi til sýslumannsins greindi hreppstjórinn frá því að hann teldi manninn heimilisfastan á Vatnsleysuströnd, þó hann flytti sig og fé sitt um sumartímann á Vigdísarvelli, líkt og þegar Grindavíkurmenn hefðu í seli á Selsvöllum.

Stóribolli

Kóngsfell / Konungsfell / Stóri-Bolli.

Í byrjun 8. áratugar 19. aldar reis upp ágreiningur milli Þorkels Bjarnasonar á Mosfelli, vegna Mosfellskirkju, og Ófeigs Vigfússonar á Nesjum í Grafningi um landamerki þessara tveggja jarða á Mosfellsheiðinni. Málið fór fyrir dóm og voru þar lögð fram margvísleg gögn. Þann 22. september 1873 var vitnisburður Árna Björnssonar, frá 9. september 1869, um sýslumörk milli Gullbringu- og Kjósarsýslu samhliða Borgarfjarðarsýslu annars vegar og Árnessýslu hins vegar lagður fram: „Sýslusteinn í Krýsuvíkurbergi. Þaðan fjöll norður í hæst Vífilfell, þá yfir Lyklafell, Borgarhóla og í Rjúpnagil,“ …

Sýslusteinn

Sýslusteinn suðaustan Lyklafells.

Þá voru einnig lagðir fram vitnisburðir Ingimundar Gíslasonar, frá 29. júlí 1869, og Guðmundar Jakobssonar, frá 26. apríl 1871, um mörk Árnes- og Gullbringusýslu (og Kjósarsýslu).
Í vitnisburði Ingimundar stóð eftirfarandi: „Sýslusteinn í Krýsuvíkurbergi. Þaðan fjöll norður í Kóngs fell. Þá yfir Likla fell, (hvar stór steinn stendur norðanvert við fellið sem þeir kölluðu alt til sýslustein.)“ …
Í vitnisburði Guðmundar kom eftirfarandi fram: … endamork, að sunnan, væri i svo kallaðan sislu stein, undir geitahlið, og beina stefnu eftir há fiöllum til Norðurs, sem þá væri um hærst Vifil fell …
Samningur milli eigenda Krýsuvíkur og Herdísarvíkur og Patersons um námur frá 2. desember 1871 var þinglesinn þann 20. júní 1877.

Seljabót

Seljabót undir Seljabótarnefi.

Þann 20. nóvember 1886 var skrifað undir landamerkjalýsingu jarðarinnar Herdísarvíkur. Lýsingunni var þinglýst 3. júní 1889: „Maríu kirkja í Krýsuvík á í Arnessýslu samkvæmt máldögum jörðina Herdísarvík“.
Landamerki Herdísarvíkur eru þau er nú skal greina: … að vestanverðu, milli Herdísarvíkur og Krýsuvíkur ræður mörkum stefnulína frá áður nefndu Kongsfelli í Seljabótarnef lágan hraunhnúk, vestast í Seljabót, við sjó fram. –
Kirkjan á … sömuleiðis allar landsnytjar innan hjer taldra ummerkja, með þeim takmörkunum, er síðar greinir (sbr. No 2). …
Landamerkjabréf Krýsuvíkur var undirritað 14. maí 1890 og þinglesið 20. júní s.á.:

Dágon

Dágon á Selatöngum.

1. að vestan: sjónhending úr Dagon (= Raufarkletti), sem er klettur við flæðarmál á Selatöngum í Trölladyngjufjallsrætur að vestan, sem er útbrunnið eldfjall norðanvert í Vesturhálsi; þaðan bein stefna í Markhelluhól háan steindranga við Búðarvatnsstæði.
2. að norðan: úr Markhelluhól sjónhending, norðanvert við Fjallið Eina, í Melrakkagil (= Markrakkagil) í Undirhlíðum og þaðan sama sjónhending að vesturmörkum Herdísarvíkur, eða sýslumörkum Gullbringu- og Árnessýslu.
3. að austan: samþykkt og þinglýst vesturmörk Herdísarvíkur, s: [þ.e.] sjónhending úr Kongsfelli sem er lág mosavaxin eldborg umhverfis djúpan gíg, á hægri hönd við þjóðveginn úr Selvogi til Hafnarfjarðar, örskammt frá veginum, í Seljabótarnef, klett við sjó fram.
4. að sunnan nær landið allt að sjó.

Sogasel

Sogasel.

Í landamerkjabréfinu kemur einnig fram hver hafi verið ítök kirkjunnar. Einnig er greint frá því í landamerkjabréfinu að Strandarkirkja og Kálfatjarnarkirkja eigi ítök í landi kirkjunnar, þar á meðal mánaðarselsátur í Sogum, sunnanvert við Trölladyngju, samkvæmt munnmælum og vitnisburði kunnugra manna, eign Kálfatjarnarkirkju, og að allar brennisteinsnámur á Krýsuvíkur- og Herdísarvíkurlandi séu í eigu útlendinga. Þar stendur einnig: „Þess skal hjer getið, að ýmsir eigna kirkjunni talsvert meira land, sem jeg ekki finn ástæðu til að taka til greina, geti hlutaðeigendur orðið ásáttir um landamerki þau, sem hjer eru talin“.
Landamerkjabréfið er samþykkt af eigendum Ísólfsskála, Hrauns og Vatnsleysulands, eigendum og umboðsmönnum Knarrarnesja og Ásláksstaða, eigendum og umráðamönnum Brunnastaðatorfu, eiganda Þórustaða og Landakots og eiganda og umboðsmanni Auðnahverfis og 1/3 Breiðagerðis auk umboðsmanns skólasjóðsins. Það er einnig samþykkt af forráðamönnum Óttarsstaða og Strandarkirkju og umboðsmanni Hlöðunesstorfu svo og Garðapresti. Nokkrir þeirra sem skrifuðu undir gerðu athugasemdir við landamerkjabréfið. Umboðsmaður jarðanna Staðar og Húsatópta skrifaði: „Hinsvegar skráðum landamerkjum Krýsuvíkur verð jeg að mótmæla hvað 1. tölulið snertir um sjónhending úr Dagon í Trölladyngju fjallsrætur að vestan þar jeg hefi aldrei annað heyrt frekar, en Krýsuvík ætti land úr Dagon, eptir Núpshlíð og vesturfjallgarði áfram N – austur eptir, en að öðru leyti hefi jeg ekki að athuga nema óráðið mun um rjetta þekkingu á „Markhellu” að vestanverðu“.

Markhelluhóll

Markhelluhóll við Búðarvatnsstæðið.

Eftirfarandi athugasemd kom frá eigendum og umboðsmönnum Hvassahrauns: „Sem eigendur og umboðsmenn Hvassahraunshverfis leyfum við oss að gjöra þá athugasemd við framanskráð landamerki að í staðinn fyrir „Markhellu” sje settur „Markhelluhóll”. Að öðru leyti samþykkt“.
Fjárráðandi Kálfatjarnarkirkjulands lét líka skrá niður athugasemd: „Framanskráðu landamerkjaskjali er jeg samþykkur sem fjárráðandi Kálfatjarnarkirkjulands, að undanskildum tölulið 2. í ítökum Kirkjunnar þ.e. Krýsuvíkurkirkju, þar eð Kálfatjarnarkirkju er í máldögum eignaður allur reki á Selatöngum; mótmæli eg þessvegna nefndum tölulið 2“.
Í lok landamerkjabréfsins er eftirfarandi athugasemd: „Af ókunnugleik mínum hef jeg látið sýna landamerkjalýsingu þessa sumum, sem engan eignarrjett hafa yfir landi við landamerkin að vestan (jeg vildi vera viss um að engum yrði sleppt, sem land ætti að), t.d. Grindavíkurpresti, eigendum Brunnastaðatorfunnar o.fl., svo ekki verður af undirskriptunum einum ráðið, að hinir undirskrifaðir eigi allir land að landamerkjum Krýsuvíkur, og verður það bezt sjeð á merkjalýsingum þeirra þegar þær koma í ljós, svo hinar óþörfu undirskriptir þurfa engan vafa eða misskilning að gjöra. Á. Gíslason.

Markhelluhóll

Markhella.

Landamerkjabréf fyrir Garða var undirritað 7. júní 1890 og þinglýst tveimur dögum síðar. Í því kemur eftirfarandi fram: „þaðan til austurs landsuðurs í miðt Húsfell, úr miðju Húsfelli beint til suðurs í efri Strandartorfu, þaðan beint í (suður) Markraka í Dauðadölum, þaðan til vesturs í Melrakkaskarð (Vatnsskarð, Markrakagil) í Undirhlíðum, sem er norðanvert við Fjallið Eina, þaðan til norðurs ofanvert við Hvaleyrar- og Áslönd í Steinhús“.
Á hreppsnefndarfundi Grindavíkurhrepps, sem haldinn var 9. mars 1895, var ákveðið að hafna kröfu eiganda og ábúanda Krýsuvíkur um að hrossa- og sauðfjáreigendur í Grindavík greiddu sér hagatoll fyrir sumarbeit í Krýsuvíkurlandareign. Rökin fyrir þessari ákvörðun voru þau að sárafátt fé Grindvíkinga hefði beit í Krýsuvíkurlandi enda hefðu þeir nóg upprekstarland.
Árið 1911 sendu ábúendur Krýsuvíkur hreppsnefnd Grindavíkur bréf þar sem þeir kröfðust greiðslu fyrir sumarbeit í Krýsuvíkurlandi. Þann 25. júní 1911 tók hreppsnefnd Grindavíkur þetta bréf fyrir. Á fundinum kom fram óánægja með kröfuna því að Grindvíkingar hefðu í mörg ár hjálpað Krýsuvíkingum við smölun vor og haust og sú aðstoð hlyti að teljast nægileg greiðsla fyrir sumarbeitina. Eftir að hafa rætt málið komust nefndarmenn að þeirri niðurstöðu að þeir væru tilbúnir að greiða fyrir beitina en þá myndi hreppurinn líka draga úr þjónustu sinni. Hreppsnefndarmenn voru tilbúnir að greiða ábúendum Krýsuvíkur 50 kr, en þá myndi falla niður hjálp við haustsmölun, eða 30 kr auk aðstoðar við smölun á Vigdísarvöllum.

Krýsuvík

Stóri Nýibær í Krýsuvík.

Í fylgiskjali nr. 8. b. með hreppsreikningi 1910 – 1911 kemur fram greiðsla fyrir sumarbeit í Krýsuvík, 50 kr.
Í þeim hluta fasteignamats Gullbringu- og Kjósarsýslu 1916 – 1918 sem fjallar um jörðina Krýsuvík kemur fram að útbeit sé heiðarland og hraun og að jörðinni fylgi hjáleigan Stóri – Nýibær.
Fasteignabók 1921 minnist ekki á að Krýsuvík fylgi nein hjáleiga þótt enn hafi verið búið í Stóra-Nýjabæ.
Í kaflanum um Krýsuvík í fasteignamati árið 1932 kemur m.a. fram að þar sé ekkert beitarland nema heimaland jarðarinnar. Þar segir einnig að á jörðinni sé góð mótekja og að þar séu hverir og jarðhiti. Einnig kemur þar fram að landamerki séu ágreiningslaus.
Í fasteignamati 1932 er sérkafli um jörðina Stóra–Nýjabæ sem er hjáleiga frá Krýsuvík. Meðal þess sem þar er greint frá er að býlið hafi ekkert upprekstrarland enda hafi jörðin næg beitilönd. Þar kemur einnig fram að býlið hafi mótak og að hverir séu í landi jarðarinnar. Síðan segir að býlið hafi eggjatekju og fuglaveiði á litlum parti í Krýsuvíkurbjargi. Í kaflanum er einnig greint frá því að býlið hafi óskipt beitiland við Krýsuvík og að merki séu glögg á engjum og túnum. Stóri–Nýibær hefur engin ítök og landamerki býlisins eru óumdeild.

Seltún

Seltún 1977.

Íslenska ríkinu var heimilað með lögum nr. 11 1936 að taka jarðirnar Krýsuvík og Stóra-Nýjabæ eignarnámi. Var skipuð sérstök matsnefnd til þess að ákvarða bætur. Skilaði nefndin matsgerð dagsettri 4. nóvember 1936. Í matsgerðinni er litið til landamerkjaskrár 14. maí 1890 og segir nefndin landamerkin virðast ágreiningslaus.
Um jörðina segir nefndin: „Jörðinni Krýsuvík hafa fyrrum fylgt 7 hjáleigur (sbr. Jarðatal Johnsens bls. 84), en allar hafa þær verið lagðar undir aðaljörðina, nema Stóri-Nýjabær, sem verið hefur í sjálfstæðri byggingu fram á síðustu ár, en er nú í eyði, eins og segja má, að sjálft aðalbólið, Krýsuvík, sé líka.

Austurengjar

Stöðull á Austurengjum.

Um óræktanlegt land Krýsuvíkur segir: „Það er, sem fyrr er sagt, að miklu leyti fjöll, hraun og sandar“. [Áður sagt í matsgerðinni að það yrði aðeins notað sem afréttarland]. En það er þó víða dágott sauðland, enda hafa ábúendur á jörðum þessum verið sauðmargir löngum, miðað við það, sem hér á landi hefur tíðkazt. En auk fjár ábúenda Krýsuvíkurtorfunnar hafa víst ýms eða flest byggðarlög þar syðra haft not landsins til sumarhaga fyrir sauðfé sitt, enda er svo látið um mælt í 1. málsgr. 2. gr. laga nr. 11/1936, að afhenda skuli Gullbringusýslu lítt ræktanlegt beitiland jarðanna sem afréttarland fyrir sauðfé, þegar ríkið hafi tekið lönd þessi eignarnámi. Óræktanlega eða lítt ræktanlega land jarðanna er því vitanlega nokkurs virði. Það, sem næst Krýsuvík og Stóra-Nýjabæ liggur, en það virðist vera gott sauðland víða, mundi að sjálfsögðu verða notað til vetrar- vor- og hausthaga fé því, er nytjendur þeirrar byggðar, sem þar mundi rísa upp, kynnu að hafa. En það af landi þessu, sem fjær liggur, til upprekstrarlands fyrir sauðfé ýmsra hreppa Gullbringusýslu. Það er um þenna hluta lands Krýsuvíkurtorfunnar sem önnur gögn hennar, að erfitt er að ákveða verð þess. En kunnugt er það, að upprekstrarlönd hafa verið seld hér á landi fyrir meðaljarðir eftir því, sem þá tíðkaðist, og þekkir einn okkar undirritaðra slíkt dæmi. Þess skal getið, að Vigdísarvellir eru hér með taldir. Er þar að vísu gamalt túnstæði, talið 5 ha., en annars er þar ekki eða lítt ræktunarhæft land. Óræktanlega eða lítt ræktanlega landið þykir mega áætla 5000,00 -fimm þúsund- króna virði. Matsnefndin ákvað landamerki land þess, sem selja skyldi Hafnarfjarðarbæjar, á fundi 1. maí 1939 og var það selt samkvæmt þeim mörkum árið 1941.

Vesturengjar

Vesturengjar.

Þann 15. maí árið 1939 hafnaði sýslunefnd Gullbringusýslu beiðni Ingólfs Sigurjónssonar á Jófríðarstöðum um að fá að leigja land á gamla túninu á Vigdísarvöllum undir nýbýli. Rök sýslunefndarinnar voru þau að ekki væri hægt að minnka landið sem sýslunni væri ætlað til sauðfjárbeitar úr Krýsuvíkur- og Nýjabæjarlandi.
Þann 20. febrúar 1941 seldi ríkissjóður Hafnarfjarðarkaupstað hluta af landi jarðarinnar Krýsuvíkur og Stóra–Nýjabæjar (Krýsuvíkurtorfunni). Hið selda land afmarkaðist af eftirfarandi landamerkjum: „Að vestan, beina stefnu í norður úr Hælsvík í Borgarhól, þar sem hann er hæstur, úr Borgarhóli eftir Sveifluhálsi í vestustu vík Kleifarvatns, að ber í ysta odda Hvammholtstanga. Að norðan ræður Kleifarvatn, í syðsta odda víkur þeirrar, er gengur úr vatninu vestan við Geithöfða og að austan þaðan beina stefnu í rjettvísandi suður til sjávar, í Keflavík. Að sunnan ræður sjór þó þannig, að óhindraður umferðarrréttur áskilst Gullbringusýslu fyrir búpening og til annarar umferðar, um svæði upp frá sjó, er sé a.m.k. 60 metrar á breidd, enda séu engar girðingar eða umferðarhindranir á þeirri leið. Hafnarfjarðarkaupstaður fékk einnig eignarráð yfir hitaveituréttindum í allri Krýsuvíkurtorfunni og aðstöðu til að notfæra sér þau, líka afnot af Kleifarvatni, svo og allan veiðirétt í vatninu. Hann mátti þó ekki setja girðingar meðfram vatninu nema fyrir sínu landi“.

Krýsuvík

Krýsuvík – tóftir brennisteinsnámsins í Hveradal.

Einnig fékk Hafnarfjörður í hendur þau réttindi og skyldur sem fylgdu ítökum Krýsuvíkurtorfunnar í annarra manna löndum og ítökum annarra í löndum Krýsuvíkurtorfunnar. Þessu ákvæði fylgdi sú undantekning að eigandi námuréttinda á landssvæðinu hélt sinni eign og átti hann samkvæmt afsalsbréfinu að hafa óhindraðan umferðar- og afnotarétt af hinu afmarkaða svæði Hafnarfjarðarkaupstaðar. Í afsalsbréfinu kemur einnig fram að ríkissjóður skyldi hafa rétt til að kaupa síðar þau hitaréttindi, sem hann kynni að þurfa í sambandi við námurekstur eða annað, og Hafnarfjarðarkaupstaður þyrfti ekki á að halda til sinna þarfa.
Landbúnaðarráðherra skrifaði þann 29. september 1941 undir afsalsbréf þar sem hann, fyrir hönd ríkisins, seldi sýslusjóði Gullbringusýslu allt lítt ræktanlegt beitiland jarðanna Krýsuvíkur og Stóra – Nýjabæjar (Krýsuvíkurtorfan) til sumarbeitar fyrir sauðfé. Undanskilið sölunni var land það sem ríkið hafi selt Hafnarfjarðarkaupstað þann 20. febrúar sama ár.
Kaupunum fylgdu heldur ekki önnur afnot af svæðinu, ítök og hlunnindi. Þeir sem áttu þau gæði höfðu samkvæmt afsalsbréfinu rétt á óhindruðum umferðarrétti á svæðinu og aðstöðu til að notfæra sér þau.

Markrakagil

Markrakagil.

Í Fasteignabók 1942-1943 er Krýsuvík með Stóra-Nýjabæ sögð í eign og ábúð eign Hafnarfjarðarbæjar, en beitilandið eign sýslunnar [þ. e. Gullbringusýslu].
Í lögum nr. 31 1959 um breytingu á lögum nr. 33 1929 um bæjarstjórn í Hafnarfirði. Í 1. grein er lýst takmörkum kaupstaðarsvæðisins: … 10. Þá lína í markaþúfu við gömlu sandgryfjurnar. 11. Þaðan í Lækjarbotna. 12. Þá í Gráhellu. 13. Þaðan í miðjan Ketshelli. 14. Eftir Selvogsmanna- eða Grindaskarðavegi í Kaplatór (Strandartorfur). 15. Þaðan bein lína í Markraka. 16. Þaðan bein lína um Melrakkagil (Markrakagil) að Krýsuvíkurvegi. 17. Meðfram Krýsuvíkurvegi, þar til kemur að norðurbrún Kapelluhrauns. …
Á sjöunda áratug síðustu aldar reis upp ágreiningur um norðurmörk Krýsuvíkurlands og suðurmörk Hafnafjarðarbæjar. Í þessu máli tókust á annars vegar Jarðeignadeild ríkisins og Gullbringusýsla og hins vegar Hafnarfjarðarbær. Deila þessi fór fyrir landamerkjadóm Gullbringu- og Kjósarsýslu sem kvað upp dóm sinn 14. desember 1971. Niðurstaða dómsins var eftirfarandi:

Kóngsfell

Litla-Kóngsfell nær, Miðbolli fjær.

Norðurmörk jarðarinnar Krýsuvíkur í Grindavíkurhreppi skulu vera þessi: „Bein lína frá vörðu á Markhelluhól …. um punktinn M á uppdrætti af landinu, sem fylgir dómnum [fylgir ekki með], … að vesturmörkum Herdísarvíkur eða sýslumörkum Gullbringu- og Árnessýslu.
Suðurmörk lands Hafnarfjarðarkaupstaðar skulu vera þessi: Bein lína frá punkti D á meðfylgjandi uppdrætti af landinu [fylgir ekki með], … í punktinn M … og fylgja mörkin þaðan markalínu Krýsuvíkur að Krýsuvíkurvegi. …”
Í greinargerð sem samin var af sýslumanninum í Keflavík þann 25. júní 1979 kemur fram að svokallað Seljabótarnef á sunnanverðu Reykjanesinu er ekki þar sem menn höfðu talið. Þessi uppgötvun gerir það að verkum að fjörumörk Gullbringu- og Árnessýslu og jarðanna Krýsuvíkur og Herdísarvíkur færast til en þau voru bæði miðuð við Seljabótarnefið í landamerkjalýsingum. Í greinargerðinni kom einnig fram að árið 1832 ákváðu sýslumenn Árnes- og Gullbringusýslna að svokallaður Sýslusteinn væri merki milli sýslanna tveggja.

Markhella

Markhelluhóll – áletrun.

Þann 25. janúar 1980 var útbúið landamerkjabréf þar sem skráð voru mörk Árnessýslu og Grindavíkur. Mörk jarðanna Krýsuvík og Herdísarvík falla saman við þessi mörk. Samkvæmt bréfinu eru landamerkin eftirfarandi: „Mörk milli Árnessýslu og lögsagnarumdæmis Grindavíkurkaupstaðar eru bein lína úr hápunkti Litla Kóngsfells sunnan við Grindaskörð í Sýslustein undir Geitahlíðum og önnur bein lína úr Sýslusteini til sjávar um hraunstrýtu á Seljabótarnefi“.
Athugasemdir hafa verið gerðar um svokallaða Markhellu/Markhelluhól sem minnst er á í landamerkjabréfum Krýsuvíkur, Hvassahrauns og Óttarsstaða frá árinu 1890: „Sem eigendur og umboðsmenn Hvassahraunshverfisins leyfum við oss að gjöra þá athugasemd við framanskráð landamerki að í staðinn fyrir „Markhellu” sjé settur Markhelluhóll. Að öðru leyti samþykkt“. Þetta undirskrifa Einar Þorláksson og Sigurmundur Sigurðsson.
Setninguna „… Markhelluhól, háan steindranga við Búðarvatnsstæði.” Ca. km fyrir ofan vatnsstæðið er trúlega hinn eini sanni

Markhelluhóll

Búðarvatnsstæði og Markhelluhóll. Á honum er mosavaxin varða.

Markhelluhóll og á landakortum síðustu ára eru mörkin um hann. Á hólnum er varða og stendur hann rétt ofan við djúpa en þrönga gjá og eru stafirnir sem getið er um í landamerkjabréfi Óttastaða – Hvassahrauns meitlaðir stórum stöfum á hólklöppina sem snýr til norðausturs. Það er merkilegt hvað stafirnir eru greinilegir ennþá og vel getur verið að þeir hafi verið skýrðir upp einhverntíman á þessari öld.
Steindranginn sem nefndur er í lýsingunni er til þarna í nágrenninu og er hann spöl neðan og vestan við hólinn út í illfæru og grófu apalhrauni. Rétt við steindranginn er gömul mosagróin varða, há og mikil um sig, hlaðin úr stórum hraunhellum. Í lýsingunni hefur því verið blandað saman í eitt mark, hólnum og drangnum og eins gæti hugsast, að mörkin hafi einhverntímann legið neðar, þe.a.s um drangann en ekki hólinn. Hvassahraunsbændur gerðu sér grein fyrir því, við undirskrift bréfsins) að hægt var að ruglast á þessu tvennu og lögðu áheyrslu á örnefnið Markhelluhól sem er drjúgum ofar….

Heimild:
Úrskurður Óbyggðanefndar 2004 – Grindavík og Vatnsleysuströnd.

Krýsuvík

Krýsuvík 2020.

Rauðhólssel

Hér veður fjallað um „Seljabúskap á Suðurnesjum„. Upplýsingarnar eru fengnar úr skýrslu Óbyggðanefndar frá árin 2004 um úrskurði Grindavíkur- og Vatnsleysustrandarlands.

Selsvellir

Selsvellir – tóftir.

Í lýsingu Skúla Magnússonar á Gullbringu- og Kjósarsýslu árið 1781 er í XI. kafla fjallað um hverja kirkjusókn fyrir sig og m.a. fjallað um tölu og ásigkomulag bújarða. Um Krýsuvík segir m.a.: „Bær þessi er tvær mílur frá lendingarstað sínum og telst því fremur sveitajörð en sjávar. Landrými er mikið; … Jörðin er vel fallin til sauðfjárræktar og til mikils sauðfjárbótabús með yfir 1000 sauðfjár.
Um Staðarsókn í Grindavík segir Skúli Magnússon árið 1781: „Þarna eru býlin fast með ströndinni, og liggur ekkert engi eða slægjuland undir þau nema túnin ein, sem er eigi unnt að auka, … En 2 mílur í norðaustur frá byggðarlaginu, inni á milli fjallanna, eru góðir hagar. Hafa menn þar selstöður. En eigi eru þar skilyrði fyrir nýbýli“.

Kirkjuvogssel

Kirkjuvogssel.

Skúli Magnússon tekur fram um Kirkjuvogssókn árið 1781 að selstöður séu 1 1/2 mílu norðaustur frá bæjunum, en engar selstöður séu í Hvalsness- og Útskálasóknum. Hins vegar eru taldar selstöður í Njarðvíkursókn. Um Kálfatjarnarsókn segir Skúli: „Frá flestum bæjum eru selstöður uppi til fjalla. Í sókninni er hvergi hagfelldur staður til nýbýla, en eitthvert hið bezta land til sauðfjárræktar, það er ég hefi séð á Íslandi, á fjögra mílna svæði samhliða bæjunum. Á breiddina nær það svæði 2 mílur frá sjónum upp að háfjöllunum, sem greina Gullbringusýslu frá Árnesssýslu. Þannig tekur svæði þetta yfir 8. fermílur“.
Geir Bachmann, prestur á Stað í Grindavík, samdi sóknalýsingu Staðarsóknar í Grindavík árin 1840-1841. Þar segir hann eftirfarandi um selstöðu Staðar: „Eftir jarðabókinni 1760 á Staður selstöðu á Selsvöllum, þó það nú sýnist orðið almennings selstaða úr allri Grindavík“.

Selsvellir

Selsvellir – tóftir.

Geir fjallar síðar nánar um selstöður í Staðarsókn í svari við 31. spurningu sóknarlýsinganna (selstöðum): „Þess er áður getið, að Staður eigi selstöðu á Selsvöllum. Selsvellir eru héðan í landnorður upp í fellum, og er Keilir, þegar í sel þetta er komið, rétt í útnorður. Stendur selið í Strandarmannalandi eður fyrir norðan Grindavíkur landamerki. Þar er all-grösugt, en bízt fljótt upp, því allir bæir í sókninni nema Hraun hafa þar í seli, og þó að engu goldið Staðarprestinum. Vilja menn hér gjöra þessa selstöðu almenning, og þyrfti þó ei að vera. Litlu vestar en Selsvellir er selstaða frá Hrauni; hér er árlega haft í seli frá bæ þessum, og eru landamerkin milli seljanna í svo kölluðum Þrengslum. Flestir bæir í Grindavík hafa haft í seli einhver staðar til fjalla; er mér sagt, að vatnsleysi olli því, að allar þær eru afræktar og getur vel verið sannleiki. Sú mun og orsök, að allir hafa þyrpzt á Selsvelli, því þar er dálítill rennandi lækur rétt við selið. … 32. Ekkert er hér afréttarland; allt fé ungt og og gamalt, lömb og sauðir er rekið í selið og þar smalað á hverju máli; lömbin eru kefluð. Þó eru réttir í Stóru-Vogum, sóttar af Ströndinni, Rosmhvalaness-, Hafna- og Grindavíkurhreppum“.

Baðsvallasel

Baðsvallasel.

Síðar átti Geir eftir að kvarta undan ágengni nágranna sinna í sellandi eins og kemur fram í grein Guðrúnar Ólafsdóttur Sel og selstöður í Grindavíkurhreppi sem birtist í afmælisrit Ólafs Hanssonar Söguslóðir árið 1979. Þar segir: „Til enn frekari áréttingar um mikilvægi þessara hlunninda [þ.e. selstöðu Grindvíkinga] má tilfæra bréf frá árinu 1844 frá sr. Geir Bachmann til biskups, þar sem hann kvartar yfir því, að allir nágrannar sínir noti selstöðuna á Selsvöllum án þess að greiða honum leigu fyrir, þótt hún sé sannanlega eign prestssetursins samkvæmt jarðabókinni 1760“. Telur hann, að bændurnir hafi komist upp á að nota selstöðuna, þegar fyrirrennarar hans í prestsembættinu hafi verið svo fénaðarfáir, að þeim hafi ekki þótt svara kostnaði og fyrirhöfn, að viðhalda selhúsum og hafa fólk yfir litlum fénaði og þess vegna leyft öðrum afnot af henni gegn leigu, sem síðan hafi fallið niður vegna hirðuleysis. Nú sé svo komið, að fyrir utan hann, sem hafi byrjað að nota selið 1837, þ. e. tveimur árum eftir að hann fékk brauðið, eigi sex búendur þar selhús og hafi þar allan sinn fénað og taki auk þess sumir fénað af öðrum til göngu og hirðingar. Telur hann, að sumarið áður hafi að minnsta kosti 500 fjár, ungt og gamalt, og 30 nautgripir auk inntökupenings gengið á völlunum og geti menn getið sér þess nærri, að þvílíkur urmull af kúm og kindum geri „ærið usla og jarðnag í beitilands þrengslum”. Vegna hagleysis verði að reka allan fénað, sem tíðum sé kominn í selhagana löngu fyrir fráfærur í 7. viku sumars, heim á miðjum selvinnutímanum, …

Njarðvíkursel

Njarðvíkursel.

Pétur Jónsson, prestur á Kálfatjörn, fjallar lítið um selstöður í lýsingu Njarðvíkur- og Kálfatjarnarsóknar árið 1840. Hann nefnir selstöðu frá Innri-Njarðvík, sem verið hafi við veginn frá Vogum að Grindavík, en síðar segir Pétur um Hvassahraun: „Hér hefir verið selstaða fyrrum eins og á öllum Strandarhrepps lögbýlum, en öll af lögð á seinni tímum; þau hafa öll eður flest vatnslaus verið og staðið hér um í miðri heiði, milli fjalls og fjöru“.
Árni Óla blaðamaður samdi bók sem fjallar um Vatnsleysuströnd og Voga, Strönd og Vogar, og kom út árið 1961. Árni víkur þar á tveimur stöðum að seljum á svæðinu en getur ekki heimilda nema hann vitnar í seinna skiptið til frásagnar Benjamíns Halldórssonar: „Um alla heiðina eru rústir af gömlum seljum, … Flekkuvíkursel lagðist ekki niður fyrr en um 1870, en þá höfðu öll hin selin verið lögð niður fyrir löngu“. …
Hér verða nú taldar seljarústirnar í Vogaheiði og Strandarheiði, og er aðallega stuðzt við frásögn Benjamíns Halldórssonar og lýsingar hans á staðháttum.
1. Selhólar heita skammt fyrir ofan. Voga. …
2. Nýjasel er við Snorrastaðatjarnir ofanverðar. …
3. Þórusel er skammt austur af Vogum. …

Arahnúkasel

Arahnúkasel.

4. Arahnúkssel er hjá Stóru-Aragjá … og er þangað röskur hálfrar stundar gangur frá Vogum. Í Arahnúksseli eru glöggar seltóftir og allstórt seltún þar umhverfis, … Túnið var seinast slegið 1917.
5. Gamla-Vogasel er austast í svonefndu Vogaholti. Þar eru greinilegar seltóftir og nokkuð stórt seltún…
6. Dalsel er í Fagradal við samnefnt fjall. Þar hafa sézt seltóftir til skamms tíma, en Fagridalur er nú uppblásinn fyrir löngu. Dalselið mun hafa verið notað frá Grindavík (Járngerðarstöðum). …
7. Gjásel er um 3/4 klukkustundargang frá Brunnastöðum. Þar eru glöggar seltóftir, en lítið seltún. …
8. Brunnastaðasel er austur af Gamla-Vogaseli. Mitt á milli þessara selja er Markhóll, sem skiptir löndum milli Voga og Brunnastaða. Þarna eru margar og allglöggar seltóftir og allstórt seltún, en ekkert vatn. Þangað mun vera um klukkustundar gangur frá Brunnastöðum. …

Hlöðunessel

Hlöðunessel.

9. Hlöðunessel er austur af Brunnastaðaseli. Þar eru litlar og ógreinilegar seltóftir og lítið seltún. …
10. Knarranessel er norðaustur af Hlöðunesseli, um stundar gang frá Knarrarnesi. … Þarna er stórt seltún og allmikið vatn í nokkuð stóru leirflagi. Í miklum þurrkum hefir vatn þetta þornað, og svo var fyrir 1920, en þá var grafin niður í leirflagið nokkuð djúp hola. Komu menn þar niður á mó, er reyndist góður eldiviður, en mósvæðið takmarkast á alla vegu af hraunklöppum og var mórinn því fljótt upp urinn. …
11. Auðnasel er austur af Knarrarnesseli. Þar eru margar greinilegar seltóftir og allstórt seltún. …
12. Kolgrafaholt heitir um hálfrar stundar gang frá Þórustöðum. … [Árni Óla segir engar seltóftir sjást þarna en virðist giska á að þarna sé selstaða Þórustaða, Fornuselshæðir, sem Jarðabók Árna og Páls nefnir].

Flekkavíkursel

Flekkavíkursel.

13. Flekkuvíkursel eru um 1/2 stundar gang frá Flekkuvík. Þar eru glöggar seltóftir, en ekki margar. Eru þær við berghamar hjá Hrafnagjá, … Í Flekkuvíkurseli er lítið seltún, en nokkrar grasi grónar flatir austur og vestur frá selinu, …
14. Rauðhólssel átti Stóra-Vatnsleysa. Það er við hraunjaðarinn, sem liggur frá Kúagerði, en vestur af Snókafelli, sem er úti í hrauninu. Í Rauðhólsseli eru glöggar seltóftir og allstórt seltún, …
15. Oddafell heitir milli Keilis og Trölladyngju. Þar átti Minni-Vatnsleysa selstöðu. …
16. Sogasel. Það er uppi í Vesturhálsi og í landi Stóru Vatnsleysu, en þar höfðu Kálfatjörn og Bakki selstöðu. Er þangað um 2 1/2 klukkustundar gangur frá Kálfatjörn. …

Sogasel

Sogasel.

17. Hvassahraunssel var vestast í Almenningum. …
Í áðurnefndri grein Guðrúnar Ólafsdóttur frá 1979 er gert ráð fyrir að selstöður, sem Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns nefnir og jarðir í Grindavíkurhreppi nýttu, hafi verið innan marka hreppsins. Miðar Guðrún við kort Landmælinga Íslands, blað 27, Reykjavík, útgefið 1977, og blað 29, Krýsuvík, gefið út 1969. Stangast það á við umsögn Geirs Bachmanns í sóknalýsingunni 1840-1841, sem segir Selsvelli í Strandamannalandi, og greinargerð Sesselju Guðmundsdóttur, sem oft hefur verið vitnað til hér að framan.
Guðrún telur hugsanlegt að ásókn Grindvíkinga í selstöðuna á Selsvöllum megi að einhverju leyti skýra með því að þeir höfðu ekki lengur haft innhlaup í selstöðurnar í Krýsuvíkurlandi eins og var á 18. öld. Þrjú nýbýli hafi risið í Krýsuvíkurlandi á 19. öld, öll í fyrri seljalöndum. Vigdísarvellir og Bali á Vigdísarvöllum og Fitjar í svonefndri Selöldu [sem er utan kröfusvæðis]. Telur hún ólíklegt að Krýsuvíkurbændur hafi leigt út selstöður eftir að þessi býli byggðust.

Þórkötlustaðasel

Þórkötlustaðasel við Vigdísarvelli – uppdráttur ÓSÁ.

Guðrún Ólafsdóttir reynir að tímasetja hvenær selfarir í Grindavíkurhreppi hafi hætt og vitnar til bókar Gísla Brynjólfssonar, „Mannfólk mikilla sæva – Staðhverfingabók” (útgefinni 1973) og Ferðabókar Þorvalds Thoroddsens (útgefinni 1913), en Þorvaldur kom að Hraunseli, Selsvöllum, Baðsvöllum og Vigdísarvöllum árið 1883. Samkvæmt því hefðu selfarir hætt milli 1850 og 1883. En í þjóðháttasöfnun árið 1976, hefði Magnús Hafliðason frá Hrauni (fæddur 1891) sagt foreldra sína haft í seli í Hraunseli og talið að því hefði verið hætt um 1890.
Svo virðist sem Grindvíkingar hafi enn haft í seli um 1870 ef dæma má af bréfum hreppstjóra Vatnsleysustrandarhrepps 15. og 21. janúar 1870, sem telur mann, sem sýslumaður segir búsettan á Vigdísarvöllum, heimilisfastan á Vatnsleysuströnd, þó að hann flytji sig og fé sitt um sumartímann á Vigdísarvelli, líkt og þegar Grindavíkurmenn hafi í seli á Selsvöllum.

Heimild:
Úrskurður Óbyggðanefndar 2004 – Grindavík og Vatnsleysuströnd.

Knarrarnessel

Knarrarnessel – stekkur.

Tóarstígur

Að þessu sinni var Hrístóarstígurinn skoðaður. Áður hafði Tóarsstígurinn verið genginn.
„Austan og neðan við Gráhellu komum við á Tóasstíg. Tóarstíg eða Tóustíg en hann liggur upp í Hristoarstigur-2Tórnar eða Tóurnar eins og málvenja er núorðiðþ Stígurinn var eyðilagður að mestu þegar efni í Reykjanesbrautina var tekið en hluti hans sést þó vel enn þá rétt neðst þar sem hraunið er enn óraskað. Stígurinn kemur svo aftur í ljós fyrir ofan ruðningana.
Tórnar eru nokkrir óbrennishólmar sem ganga í gegnum mitt hraunið til suðsuðausturs. Gróursvæðin hafa líklega heitið Tór, samanber grastó (et.) eða grastór (ft.), en nafnið afbakast í tímans rás. Orðmyndin „Tóin“ verður notuð hér en ekki „Tóan“ en báðar myndirnar koma fyrir í heimildum.
Tórnar eru aðgreindar í Tó eitt, Tó tvö, Tó þrjú, Tó fjögur, Hrístó og Seltó en tvö síðustu nöfnin ná yfir efsta hluta Tónna sem er nokkuð víðáttumikil.
Í Tónnum er fallegur gróður, s.s. brönugrös, blágresi, birkikjarr, víðibrúskar og ýmsar lyngtegundir. Hristoarstigur-3Tó eitt var að mestu eyðilögð þegar Reykjanasbrautin var upphaflega byggð en þó sér hennar enn aðeins stað við norðurenda efnistökusvæðisins. Tó tvö er fallegust nú og í hana göngum við um djúpan og vel markaðan Tóastíg í austurátt þar sem efnistökuruðning-ingnum lýkur. Hlaðnir hraungarðar eru sitt hvorum megin við stíginn þar sem hann liggur niður í tóna og ganga þeir upp í hraunið til beggja átta. Hluti varnargarðsins fór undir ýtutönn við breikkun Reykjanesbrautar. Nú má áhugafólk um söguminjar þakka fyrir að hliðinu sjálfu varð bjargað með snarræði eins náttúrverndarsinnans sem var þarna á vappi þegar jarðýtustjórinn var við það að rústa minjunum – e.t.v. í ógáti.
Mjög líklega hefur töluvert lyng til eldileviðar verið rifið í Tónum og grjótgarðarnir þá verið notaðir til þess að veita „hríshestunum“ aðhald, einnig er mögulegt að þar hafi verið setið yfir fé þó svo að þar sjáist engin smalabyrgi. Í Tó tvö eru þrjú tófugreni.
Nyrst í Tó tvö eru lynglautir umkringdar háum hraunkanti og þar finnum við lítið mosagróið grjótbyrgi sem Vatnsleysubræður hlóðu sé til gamans upp úr 1940. Á byrginu sést glöggt hvað mosinn er fljótur að nema land. Um efsta hluta Tóar tvö liggur línuvegurinn.

Hristoarstigur-4

Tó þrjú er minni en Tó tvö og þar vex meira kjarr í hraunjöðrunum en í neðri tónum. Nyrst í þessari tó er jarðfall sem heitir Tóarker en þar var gott fjárskjól.
Uppi í hrauninu norðaustur af Tó þrjú sjáum við nokkuð háan ílangan og grasi vaxinn hraunhól sem heitir Snókhóll.
Efsta tóin ber í nokkrum heimildum tvö nöfn; neðri hlutinn heitir Hrísató en efri hlutinn Seltó. Í Hrísató er Hrísatóargreni. Líklega dregur tóin nafn af því að þangað hafi verið sóttur eldiviður.
Út úr Hrístó til suðvesturs liggur Hrísatóarstígur. Stígurinn liggur úr tónni og suðvestur yfir hraunið en það er erfitt að koma auga á hann þar þó svo að við upphaf hans sé varða. Það er hægara að finna stíginn af Afstapahraunsjaðrinum vestanverðan og ganga hann síðan til norðausturs.

Rauðhóllsel

Rauðhóllsel.

Þegar ekið er upp Höskuldarvallaveginn er á einum stað, nokkuð ofarlega en þó fyrir neðan Rauðhól, vik inn í hraunkantinn sem nær alveg að veginum og þar er upphaf Hrísatóarstígs mjög greinileg. Menn hafa getið sér til um að líklega hafi búpeningur úr Rauðhólsseli verið rekinn þarna um til beitar í Seltó og af því dragi tóin nafn sitt. Sú tilgáta er afara ólíkleg því langur og torfær vegur er úr selinu í tóna og lítið gagn af því að hafa í seli ef ekki voru hagar á stanum.
Trúlega hefur stígurinn frekar verið notaður af mönnum með hesta til þess að sækja eldivið í tórnar og þá e.t.v. eldivið til notkunar í Rauðhólsseli. ein gæti verið að menn af Ströndinni hafio komið upp Hristoarstigur-5Þórustaðastíg, farið út af honum norðan Keilis og yfir á Hrístóarstíg til eldiviðartöku í Tóunum. Annar stígur sem hér verður kallaður Seltóarstígur (trúlega eingöngu kindargata) liggur úr Seltó og yir Afstapahraunið austanvert en þar er hraunið mjóst og auðveldast yfirferðar ef ekki er farið með snjó.
Í Seltó er tilraunarborhola sem gerð var á uppbyggingartíma fiskeldir í Stóru-Vatnssleysu [1986] og að henni liggur vegruðningur. Vegurinn að borholunni gengur út úr Höskuldarvallavegi aðeins fyrir ofan Hrístóarstíg en fyrir neðan Rauðhól. Svo til beint austur af borholunni er upphaf Seltóarstígs til austurs úr tónni. Nálægt Seltó eru tvö Seltóargreni. Seltóarhraun er slétt og nokkuð víði vaxin hraunspilda sunnan Seltóar. [Í Seltó hefur verið komið fyrir jarðskjálftamælitækjum.]
Upp af Tónum förum við um fjölbreytilegt en á köflum illfær hraun allt að Snókafelli sem er lágt fell upp undir Sóleyjarkrika og Höskuldarvöllum.“
Ruðningurinn var genginn til baka úr Seltó yfir á Höskuldarvallaveg.
Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 1 mín.

Heimild:
-Sesselja Guðmundsdóttir, Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi, b.s 104-106.

Hrístóur

Stígur um Hrístóur í Afstapahrauni.