Tag Archive for: Vatnsleysuströnd

Vatnsleysutrönd

Á 20. öldinni urðu miklar breytingar á mannlífi, híbýlum, verfærum og atvinnuháttum á Íslandi.

Ásláksstaðir

Nýibær – Farmal í forgrunni.

Um aldamótin 1900 voru t.d. u.þ.b. helmingur húsa í Reykjavík úr torfi og grjóti, önnur hús voru úr timbri sem og einstaka steinhlaðin. Bílar og dráttarvélar þekktust ekki. Fólk ferðaðist um á milli staða fótgangandi, á hestum eða hestvögnum undir lok aldarinnar. Hér er ætlunin að lýsa u.þ.b. eitt hundrað ára tímabili í aðstæðum og staðháttum á bæjum Vatnsleysutrandar, m.a. með hliðsjón af þeim breytingum sem þar hafa orðið. Til viðmiðunar er t.d. notuð túnakort tveggja bæja; Hlöðuness og Ásláksstaða frá árinu 1919 í samanburði við uppfært túnakort af sömu bæjum árið 2024. Á kortunum má glögglega sjá hinar miklu breytingar sem þar hafa orðið á mannvirkjum á ekki lengri tíma.

Ásláksstaðir

Ásláksstaðir – túnakort 1919.

Haustið 1894 hafði Björn Þorláksson frá Munaðarnesi, Mýrasýslu, farið til Noregs þar sem hann keypti sláttuvél og rakstrarvél fyrir búnaðarskólann á Hvanneyri. Það munu hafa verið fyrstu heyvinnuvélarnar sem komu til landsins. Fyrstu heyvinnuvélarnar, sláttuvélar og síðan rakstrarvélar, bárust hingað rétt fyrir aldamótin 1900 og eftir því sem meira var sléttað af gömlu túnunum og nýræktir bættust við breiddist þessi vélanotkun út. Víða nýttust sláttuvélarnar einnig vel á sléttum engjum.
Þessar nýmóðis vélar var í fyrstu beitt fyrir hesta, en eftir að fyrsta fyrsta dráttarvélin var keypt til landsins vorið 1926 tók hún smátt og smátt við af hestaflinu. Líklega er rakstrarvél það vinnutæki sem hestum var hvað síðast beitt fyrir hérlendis. Með tilkomu dráttarvélanna lærðu bændur í fyrstu að aðlaga gömlu heyvinnuvélarnar að þeim, en upp frá því óx tæknivæðingin hröðum skrefum.

Ásláksstaðir

Ásláksstaðir – uppdráttur 2024; ÓSÁ.

Dráttarvélavæðingin náði þó til fæstra grasbýla og þurrabúða á Vatnsleysutrönd því hvorutveggja fór að mestu í eyði um aldamótin 1900. Eftir tórðu enn stærri býlin í nokkra áratugi og náði einstaka bóndi að eignast Farmal Cup áður en yfir lauk.

Akfær vagnvegur fyrir bifreiðir ofan bæjanna á Vatnsleysutröndinni var lagður á fyrstu áratugum nýrar aldar. Áður byggðust samgöngurnar á slóðum millum bæja eða kirkjugötunni til og frá kirkjum sveitarinnar. Byrjað var á Suðurnesjaveginum frá Reykjavík 1904 og árið 1908 náði hann að Stóru-Vatnsleysu. Árið 1909 var byrjað á veginum frá Keflavík og mættust vegavinnuflokkarnir í Vogum árið 1912. Þá fyrst varð fært hestvögnum alla leið frá Reykjavík tilkeflavíkur. Ári seinna tókst að aka bifreið fyrsta sinni til Keflavíkur. Þar með urðu kaflaskil í samgöngumálum á Íslandi. Fyrsta bifreiðin, semvitað er að fór þessa leið, var fyrsti Fordinn sem kom til landsins 20. júni 1913. Ökumaður og farþegar skyldu bifreiðina eftir í Keflavík og fóru sjóleiðina heim til Reykjavíkur.

Hlöðunes

Hlöðunes – túnakort 1919.

Í bókinni „Frá Suðurnesjum“, útgefin 1960, segir í formála m.a.: „Það mun vera allfast í eðli manna, einkum er þeir taka að reskjast, að líta til baka um farinn veg, staldra við, og rekja í huga sér atvikin, stór og smá. Ganga í anda forna slóð og tína upp brotasilfrin, sem hlaupið var yfir í hugsunarleysi, sem vel má verða öðru fólki, í nútíð og framtíð, til fróðleiks og skemmtunar.
Sú kynslóð, sem nú er á förum, hefir lifað þær mestu breytingar, sem yfir okkar þjóð hafa gengið í efnahags- og menningarlegu tilliti. Því lengra, sem líður frá og meiri breytingar verða, því ótrúlegri verða frásagnir eldri eða látinna manna um það, sem einu sinni var.“

Hlöðunes

Hlöðunes – uppdráttur 2024; ÓSÁ.

Nánast allir bændur á Ströndinni voru útvegsbændur, þ.e. höfðu viðurværi sitt af sjósókn og nokkrar skepnur sér til búbóta. Flestir bæir eða bæjarhverfi höfðu selstöður í ofanverðri heiðinni. Í langflestum tilvikum var um fjársel að ræða, en þau höfðu flest lagst af um og eftir 1870. Eftir það var fært frá heima við bæi.
Á flestum þeirra voru jafnan tvær kýr, nokkrar kindur og einstaka hross. Rafmagn þekktist ekki. Vatn fékkst einungis úr nálægum brunnum og vatnsstæðum.

Við útgerðina voru aðallega notuð sexmannaför eða minni skip. Áttæringar voru þó til á stærri bæjum þar sem gert var út frá heimverum. Útver tíðkuðust ekki á norðuströnd Reykjanesskagans, að Hólminum undir Stapa frátöldum.
Skinnklæði vou alíslensk, gerð úr sauðskinni, kálfskinni og hrosshám. Skinnbrækur til skiptanna, sjóhattar sauaðir úr mjúum striga og olíubornir.

Vogar

Minni-Vogavör.

Í byrjun aldarinnar hófst vélvæðing fiskiskipaflotans með því að setja mótora í báta og kaupa kúttera og gufuknúna togara. Þetta markaði m.a. upphaf atvinnubyltingar á Vatnsleysutrönd og gerði það að verkum að fólk leitaði síður atvinnu hjá einstaka bændum. Býli lögðust af við lát ábúendanna og afkomendurnir fluttust í nærliggjandi þéttbýli.
Í kringum 1920 varð fjöldi þéttbýlisbúa orðinn meiri en sveitafólks, og þessi þróun hélt áfram. Í lok aldarinnar bjuggu rúm 90% Íslendinga í þéttbýli, þar af yfir 60% í Reykjavík og nágrenni.

Hlöðunes

Hlöðunes 2024.

Á 20. öldinni breyttist allt. Atvinnulífið varð vélknúið og lífshættir gerbreyttust á skömmum tíma. Vélvæðing varð upphafið að atvinnubyltingu um land allt. Þá urðu miklar breytingar á húsakostinum. Í byrjun aldarinnar voru torfbæir enn algengir, en smám saman tóku steinhús að ryðja sér til rúms. Með aukinni þéttbýlismyndun urðu timburhús algengari, síðar fjölbýlishús og raðhús. Eftir Jamestown-strandið utan við Hafnir árið 1881 þar sem heill timburfarmur af úrvalsviði rataði í land eftir strand, byggðust upp nokkur timburhús á Ströndinni, t.d. Ytri-Ásláksstaðir. Fyrstu steinsteyptu húsin voru síðan reist um 1928 (s.s. Sjónarhóll og Knarranes).

Halldórsstaðir

Halldórsstaðir 2024.

Bæirnir í Hlöðversneshverfinu fóru flestir í eyði um 1900, s.s. Atlagerði, Gerði og Gerðiskot. Búskap var hætt í Narfakoti um 1920, þótt bærinn væri notaður til búsetu eftir það, Hlöðunes fór í eyði 1959 og Halldórsstaðir um 1960. Í Ásláksstaðahverfinu var búið á Innri-Ásláksstöðum til 1930 og á Ytri-Ásláksstöðum til 1980. Ekki er vitað hvenær Fagurhóll fór í eyði, en það hefur að líkindum verið fyrir 1900. Ábúð í Garðhúsum var hætt um 1920 er fólkið flutti að Móakoti. Þar var búskap hætt um 1925. Á Sjónarhóli, arftaka Innri-Ásláksstaða, var búið fram til 1943, en eftir það var húsið notað sem athvarf.

Hlöðunes

Gömlu Halldórsstaðir 2024.

Til er frásögn kaupamanns sem réðst til vinnu á bæ á Vatnsleysuströnd 1925. Þá var 20. öldin tæplega genginn þar í garð, hvorki hvað varðar húsakost eða verkmenningu snerti. Þarna bjó hann í torfbæ, útihús voru öll úr torfi og grjóti, fjósflórinn hellulagður. Akvegurinn hafði verið aðlagaður bílaumferð, en heimkeyrslur flestar gerðar fyrir vagna. Slegið var með orfi og ljá og heyið rakað, sætt og bundið. Myllusteinn var jafnan við bæjarvegginn. Þjóðlífið var í hnotskurn eins og það hafði verið í þúsund ár.

Ásláksstaðir

Útihús við Móakot 2024.

Kolur voru gerðar til ljósa um aldir, síðar lýsislampar. Eldker voru notuð til að flytja eld og ljós milli bæjarhluta og híbýla. Lýsislampar komu síðan til sögunnar og loks olíuluktir. Steinolíulampinn var fundinn upp 1855 og segja má að hann, ekki stærri en hann var, hafi verið fyrsti boðberi tæknivæðingar heimilanna sem gaf til kynna tæknibyltingu nútímans inn í hið rótgróna bændasamfélag, sem hér hafði þá staðið tiltölulega lítið breytt í þúsund ár.

Ásláksstaðir

Fagurhóll við Ásláksstaði 2024.

Í bók Árna Óla, „Strönd og Vogar“ segir m.a. um Vatnsleysuströnd: „Vatnsleysustrandarhreppur er um staðhætti einkennilegasta sveit hér á landi. Þar eru hvergi kúahagar né slægjur. Byggðin er á örmjórri ræmu með fram sjónum, en þó sundur slitin. Bæirnir hafa verið reistir á hraunbrúninni við sjóinn. Með mikilli atorku og erfiðismunum hefur bændum tekist að rækta þar víðlend tún, breyta hraunjaðrinum við sjóinn í iðgræna gróðurspildu. Þetta eru afrek margra kynslóða, en hlýtur að vekja undrun aðkomumanna, því hvergi á byggðu bóli er land jafn-óaðgengilegt til ræktunar sem hér. Allt var grjót upphaflega, jarðvegur sama sem enginn, og í hafstormum bar sædrifið salt á land, en holskeflur muldu kletta og tættu upp túnjaðrana.

Halldórsstaðir

Gamall Famal við Halldórsstaði 2024.

Þá er þessi litla sveit merkileg fyrir það, að hún var um aldir einhver mesta veiðistöð landsins. Það var á árum hinna opnu skipa. Hver einasti bóndi sveitarinnar var þá útvegsmaður, og sumir áttu margar fleytur. Þeir voru atvinnurekendur í stórum stíl. Á hverri vertíð voru þar álíka margir aðkomumenn og fólk var margt í sveitinni, eða jafnvel fleiri. Menn þessir komu úr innsveitum, norðan úr Skagafirði, austan úr Skaftafellssýslu og af öllu svæðinu þar á milli.“ Vinnuhjú fengu í sumum tilvikum að byggja sér kotbýli í námunda við bæina þar sem það bjó uns jarðnæði losnaði annars staðar.

Vatnsleysuströnd

Vatnsleysuströnd – kort.

Sveitin á Ströndinni tók miklum breytingum á 20. öld. Minningarnar um mannlífið felast nú í skrifum manna eins og Guðmundar Björgvins Jónssonar, Björns Eiríkssonar og Árna Óla, auk leifa mannvirkjanna; hlaðinna garða, brunna, varða, stekkja, nausta, hrófa og sjóhúsa, auk gróinna og samanfallinna veggja híbýlanna sem þar stóðum fyrrum.

Heimildir:
-https://www.landneminn.is/is/namsefni-fyrir-innflytjendur/saga-landafraedi-og-lifsstill
-https://www.thjodminjasafn.is/syningar-vidburdir/grunnsyning/thjod-verdur-til/timabil/1900-2000-leidin-til-samtimans
-Strönd og vogar, 1981, Árni Óla, bls.7.
-Frá Suðurnesjum, frásagnir frá liðinni tíð, 1960, bls. 7.
-Þjóðlíf í Þúund ár, Daniel Bruun, bls. 11.
-Íslensk þjóðmenning, 1987, bls.364.
-Sjósókn, endurminningar Erlends Björnssonar frá Breiðabólstöðum, 1945.
-https://is.wikipedia.org/wiki/Dr%C3%A1ttarv%C3%A9l
-Bjarni Guðmarsson, 1997. Saga Keflavíkur 1890-1920, bls. 25-30.
-Guðmundur Gíslason Hagalín. Að duga eða drepast. Saga Björns Eiríkssonar skipstjóra og bifreiðarstjóra, skráð eftir handriti hans, munnlegri frásögn og fleiri heimildum, bls. 157-158. Hafnarfjörður: Skuggsjá, 1962.

Vatnsleysuströnd

Á Vatnsleysuströnd.

Hólmabúð

Minja- og sögufélag Vatnsleysustrandar gaf árið 2022 út bókina „Út á Brún og önnur mið; útgerðarsaga Vatnsleysustrandarhrepps til 1930„. Höfundur er Haukur Aðalsteinsson. Um er að ræða umfangsmikið ritverk um efnið.

Út á brúnÍ 1. kafla bókarinnar um „Sögusvið og forsögu“ á bls. 15 má lesa eftirfarandi um „Landnámið“:

„Frá því að Ingólfur Arnarsson nam hér land hefur lífsbarátta fólks, í landnámi því sem við hann er kennt, lengst af snúist um sjósókn og fiskveiðar og er byggðamyndun á Suðurnesjum til forna lýsandi dæmi um það. Býli voru öll sett niður við sjávarsíðuna og byggðin því dæmigerð strandbyggð þar sem íbúarnir höfðu viðurværi sitt að mestu af sjávarfangi. Þegar farin er leiðin suður með sjó í hinu forna landnámi Ingólfs og komið nokkuð suður fyrir Straum kemur að mörkum Vatnsleysustrandarhrepps. Í Landnámu segir að efir að Ingólfur nam land vildi hann gefa frændkonu sinni Steinunni gömlu „Rosmhvalanes allt fyrir utan Hvassahraun“, en hún vildi kaup kalla og gaf fyrir heklu eina flekkótta þar sem henni þótti það óhættara við riftingum.
Stóru-VogarAf þessu landnámi sínu gaf Steinunn síðan frænda sínum og fóstra, Eyvindi að nafni, land allt milli Kvíguvogabjargs og Hvassahrauns – afmarkað landsvæði innan landnámsins er síðar arð Vatnsleysustrandarhreppur. Á árinu 1596 voru Njarðvíkurnar sameinaðar hreppnum og voru mörkin þá frá Hraunsnesi við Hvassahraun að og með Vatnsnesi við Keflavík og skiptist í tvær kirkjusóknir, Kálfatjarnarsókn og Njarðvíkursókn, þar til hreppnum var skipt eftir sóknum árið 1889. Þann fyrsta janúar árið 2006 var nafni sveitarfélagsins breytt í Sveitarfélagið Vogar. Hér verður sögusviðið miðað við elstu mörk héraðsins sem jafnframt nær yfir kirkjusókn Kálfatjarnar, svæðið frá Hvassahrauni að Vogastapa.“

Heimild:
-Út á brún – og önnur mið; Útgerðarsaga Vatnsleysustrandarhrepps til 1930, Haukur Aðalsteinsson, Minja- og sögufélag Vatnsleysustrandar gaf út 2022, ritstjóri Jóhann Þ. Guðmundsdóttir.
Tangabúð

Keilir

Sesselja Guðmundsdóttir skrifar um Keili og nágrenni í bók hennar um „Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi (ofan Gamla-Keflavíkurvegarins)„.

Keilir

Keilir – Oddafell nær.

Rétt er að rifja upp að gefnum ástæðum, nú þegar það allt virðist vera að fara á hvolf, a.m.k. skv. umfjöllun fjölmiðla að undanförnu, þrátt fyrir aðrar slíkar þar í gegnum aldirnar. Starfsfólk Veðurstofunnar virðist hafa fengið ný tæki, sem það hefur límt augu sín við – teljandi skjálfta út og suður, án þess að við hin séum nokkurs nærri hvers er að vænta…
Svæðið, sem um er fjallað, geymir ekki einungis dýrmætar jarðminjar frá fyrri jarðsögutímabilum, heldur og miklar menningarminjar, sem flestum „talningarvísindamönnunum“ hversdagsins virðast vera með öllu ómeðvitaðar…

Örnefni og gönguleiðir á Vatnsleysuströnd

„Frá Vestra-Lambafelli höldum við yfir svolítið hraunhaft og komum að Eldborg eða Katli en síðara nafnið er að finna í heimild frá Hvassahrauni. Eldborgin var fallega lagaður gígur um 20 m hár með djúpa og gróna gígskál. Borgin var á náttúruminjaskrá en er þar ekki lengur. Mikið efni hefur verið tekið úr gígnum allt frá því vegur var lagður þarna upp eftir og fram til dagsins í dag. Framkvæmdir við tilraunaborholur á svæðinu hafa tekið sinn toll úr Eldborg og er borgin nú sorglegt merki um aðför að náttúrugersemum. Jarðhiti er í og við borgina. Jón Jónsson jarðfræðingur segir í einni ritsmíð sinni: „Gosið í Eldborg er án efa með þeim síðustu á þessu svœði og sennilega hið síðasta. Það er yngra en Afstapahraun …“ (Jarðfrœðikort af Reykjanesskaga, bls. 170). Hraunið er frá sögulegum tíma eins og fyrr segir.
Eldborgarhraun sem þekur tæplega fimm ferkílómetra rann upp að Lambafellum og síðan áfram norður og niður úr. Hraunið liggur m.a. að Mosum, Snókafelli og Sóleyjakrika (sjá síðar). Sumir kalla fyrrnefnt hraun Lambafellshraun en líklega er réttara að kenna það við Eldborgina sem það kom úr.
Trölladyngja (375 m) heitir vestari hnúkurinn og Grænadyngja (402 m) heitir sá eystri. Í fjallinu hefur fundist silfurberg.

Sesselja Guðmundsdóttir

Sesselja Guðmundsdóttir.

Milli Dyngna er skarð sem skipt er þversum aflágum hálsi og heitir hann líklega Söðull. Örnefnið Folaldadalir eða Folaldadalur hefur heyrst og þá notað um skarðið sjálft en þetta örnefni er einnig á Austurhálsinum. Þarna gæti verið um staðarugling að ræða eða þá hitt að sama örnefnið sé til á báðum hálsunum. Góð uppganga er um grasi grónar brekkur á báða hnúkana úr skarðinu.

Þegar upp er komið sjáum við vítt yfir, sérstaklega þó af Grænudyngju sem ber nafnið með sóma enda hnúkurinn grasi gróinn til efstu hjalla.

Út úr Grænudyngju til norðausturs gengur Dyngjuháls eða Dyngjurani og utan í honum er fjöldi gíga sem sent hafa hraunstrauma langt niður í Almenning.

Trölladyngja

Trölladyngja.

Jónsbrennur heitir hitasvæðið suður og vestur af Eldborg og þar sjáum við töluverða gufu á nokkru svæði. Ekki er vitað frá hvaða manni nafnið er komið. Menjar um gamla tilraunaborholu frá Orkustofnun má sjá ofan Jónsbrenna, fast við norðurrætur Trölladyngju.

Grænadyngja

Grænadyngja. Trölladyngja t.v. Sogin framar.

Næst förum við yfir Höskuldarvelli en það eru stórir vellir fast við vesturrætur Trölladyngju. Vellirnir eru rúmlega kílómetri að lengd en tæpur á breidd. Þeir urðu til við leirframburð Sogalækjar sem kemur úr hitasvæðinu Sogum (sjá síðar) og rennur norður um vellina.

Spákonuvatn

Spákonuvatn – Keilir fjær.

Ekki er vitað við hvaða mann vellirnir eru kenndir en líklega er þetta ævagamalt örnefni.
Sóleyjakriki heitir nyrsti endi vallanna þar sem graslendið teygir sig inn á milli hraunveggjanna langleiðina norður að Snókafelli (147 m). Fellið er landamerkjapunktur Vatnsleysu og Hvassahrauns. Samkvæmt orðabók merkir snókur fjallstindur eða klettastrýta og einnig rani eða tota. Fellið er umkringt hrauni á alla vegu en auðveldast er að komast að því um fjárgötu frá botni Sóleyjakrika. Eldborgarhraun liggur að krikanum að austanverðu en Afstapahraun að honum vestanverðum. Fast vestan við krikann liggur Höskuldarvallavegur sem fyrr er nefndur. Sogalækur hverfur niður í hraunið í Sóleyjakrika og þornar reyndar oftast upp á sumrin á miðjum Höskuldarvöllum.

Sóleyjarkriki

Sóleyjarkriki. Höskuldarvellir nær.

Á seinni hluta 18. aldar var rúmlega 20 hreindýrum sleppt lausum á Reykjanesfjallgarðinn og eftir miðja 19. öldina hafa þau líklega skipt hundruðum og dreifðust um fjöllin allt austur í Olfus. Vesturslóðir hreindýranna voru við og ofan Keilis og á árunum milli 1860-70 sáust, líklega á Höskuldarvöllum, um 35 dýr.

Hreindýr

Hreindýrshorn við Hjartartröð ofan Hafnarfjarðar.

Um aldamótin, eða þegar loks voru sett á lög um algjöra friðun, voru hreindýrin hér í fjöllunum útdauð og þá líklega vegna ofveiði enda veidd án takmarkana eða eftirlits í 33 ár.
Við vesturjaðar Höskuldarvalla er Oddafell sem Þorvaldur Thoroddsen kallar Fjallið eina og er það eina heimildin um þetta nafn á fellinu. Líklega er um nafnarugling að ræða hjá Þorvaldi því Fjallið eina er til á þessum slóðum eða nokkrum kílómetrum norðaustan við Dyngjur. Oddafell er lágt (210 m) en um þriggja kílómetra langt og í austurhlíðum þess, nokkuð sunnarlega, er jarðhiti.

Höskuldarvellir

Höskuldarvellir.

Næst skoðum við tóftirnar af Oddafellsseli sem var frá Minni-Vatnsleysu en það liggur í vesturrótum fellsins skammt fyrir sunnan Höskuldarvallastíg (sjá síðar) þar sem hann beygir út í apalhraunið til vesturs. Þar sjást tvær-þrjár tóftir og einnig kvíahleðslur í hraunjaðrinum rétt sunnan við selið.
Keilir (378 m) er einkennisfjall Reykjanesskagans og fyrrum víðfrægt mið af sjó. Eftirfarandi vísa um Keili er eftir Jón Helgason frá Litlabæ í Vatnsleysustrandarhreppi.

Keilir fríður kennast skal,
knappt þó skrýði runnur,
fagran prýðir fjallasal
fyrr og síðar kunnur.
Þekkti ég siðinn þann afsjón
þekkan liði drengja
Keilir við um flyðrufrón
fiskimiðin tengja.
Sæfarendur reyna rétt
rata’ að lending heilir;
til að benda’ á takmark sett
tryggur stendur Keilir.

Keilir

Keilir. Rauðhólar nær.

Í lýsingu Kálfatjarnarsóknar frá árinu 1840 eftir séra Pétur Jónsson segir að sjófarendur kalli Keili Sykurtopp. Þetta er líklega samlíking við keilulöguð sykurstykki sem menn kölluðu sykurtoppa og voru á markaðnum áður en strásykur kom til sögunnar. Til gamans má geta þess að fjallið sem krýnir innsiglinguna í Rio de Janeiro í Brasilíu heitir Sykurtoppur en það fjall líkist ekki beint „Sykurtoppnum“ okkar. Einnig er til jökulfjall nálægt Syðri-Straumfirði á Grænlandi sem heitir Sykurtoppur.

Keilir

Keilir – séður frá Sogum.

Keilir varð til við gos undir jökli og strýtumynduð lögunin kemur til af gígtappa í honum miðjum sem ver hann veðrun. Fjallið er tiltölulega auðvelt uppgöngu og við pjökkum upp öxlina að austanverðu þar sem þúsundir fóta hafa markað leiðina. Nokkuð ofarlega í Keili er smá torfæra með klungri en stutt þaðan á toppinn. Á hverju ári koma nokkur hundruð manns á Keilistopp og pára nöfn sín í gestabók sem þar er. Það er víðsýnt af Keili og útsýn tilkomumikil til allra átta. Keilir, Höskuldarvellirnir og næsta nágrenni þessara örnefna eru á náttúruminjaskrá.

Oddafellsel

Oddafellssel.

Norðvestan undir Keili eru þrír móbergsstabbar og heitir sá nyrsti Hrafnafell (142 m) og er fellið nefnt í gömlum landamerkjalýsingum. Fellið dregur nafn af hrafnslaupi sem þar var og enn sjást merki um. Stabbarnir hafa verið kallaðir Keilisbörn og virðist það örnefni vera að festast í sessi. Það nafn var ekki notað af heimamönnum fyrrum.
Þorvaldur Thoroddsen notar örnefnið Keilisbörn yfir sömu hnúka í lýsingu sinni og það er einnig á landakorti frá árinu 1910. Á korti Fandmælinga Islands frá árinu 1989 heitir öxl Keilis Hrafnafell sem er jafnrangt. Skilyrðislaust ættu þau örnefni sem eigendur landsins notuðu og fmnast í gömlum landamerkjalýsingum alltaf að vera gildust á kort.

Keilir

Keilir og Keilisbörn, sem sumir nefna Hrafnabjörg.

Í sandhólunum vestur af Keili eru þrjú tófugreni sem kölluð eru Keilisgrenin.
Við austanvert Hrafnafell komu saman a.m.k. tveir stígar frá byggð. Þórustaðastígur er annar þeirra og liggur sá frá Kálfatjarnarhverfi upp heiðina yfir Vesturháls og allt til Vigdísarvalla. Hinn lá upp frá Kúagerði vestan við Afstapahraunið og upp undir Keili, við hann sjást vörðubrot á stöku stað.

Rauðhólssel

Rauðhólssel.

Rauðhólsselsstígur lá frá Vatnsleysubæjum og í fyrstu útgáfu þessarar bókar er það nafin sett á götuna upp með Afstapahraunsjaðrinum frá Kúagerði en það er líklega rangt. Trúlega hefur selstígurinn legið beint frá bæ upp í selið eins og aðrar slíkir í hreppnum, ekki er vel ljóst hvar hann lá en þó hafa fundist ummerki um hann, t.d. fyrir neðan Kolhóla. Fólk frá Minni-Vatnsleysu sem nýtti selstöðu við Oddafell hefur líklega einnig notað Rauðhólsselstíginn upp undir það sel en haldið síðan áfram um nú nafnlausa götu upp heiðina og yfir í Oddafellssel. Leiðin upp frá Kúagerði virðist koma inn á Þórustaðastíginn á milli Grindavíkurgjár og Stóra-Kolhóls (Kolhóls) en þar hafa nýlega fundist einhver gatnamót.

Þórustaðastígur

Þórustaðastígur.

Á korti frá 1936 sést Þórustaðastígur og gatan frá Kúagerði koma saman nokkru norðan Keilis sem stenst miðað við gatnamótin fyrrnefndu. Það er augljóst að töluverð umferð manna hefur verið fyrrum á þessum slóðum, vermenn, fólk á leið til og frá verslunarstöðum, t.d. Straumsvík og Vatnsleysu, fólk að sækja eldivið, fara til og frá seljum o.fl. Af heiðinni yfir hraunið að Oddafelli heitir svo Höskuldarvallastígur eða Oddafellsstígur og var sá notaður fyrrum af selfólki úr Sogaseli (sjá hér á eftir) og Oddafellsseli.
Nú á tímum er hluti hins upprunalega Höskuldarvallastígs genginn af fólki sem fer á Keili. Til þess að finna upphaf núverandi slóða við Oddafell göngum við spölkorn suður með vesturhlíð fellsins þangað til við komum á stíginn sem er mjög greinilegur þar sem hann liggur yfir 7-800 m breitt Höskuldarvallahraun en það liggur milli Oddafells og heiðarinnar austan Keilis.

Björn Gunnlaugsson

Uppdráttur Björns Gunnlaugssonar.

Á seinni tímum hefur gatan færst sunnar í heiðina og liggur nú að uppgöngunni á fjallið. Gamla selgatan er ekki sjáanleg lengur þarna á háheiðinni en þegar komið er spöl inn í hraunið greinist hún fljótlega út úr núverandi Höskuldarvallastíg og stefnir á selstæðið undir Oddafelli.

Breiðagerðisstígur

Breiðagerðisstígur.

Á uppdrættinum frá árinu 1831 eftir Björn Gunnlaugsson er merkt gata frá Breiðagerði og upp heiðina. Sú gata er sett inn á kortið sunnan Keilis að Driffelli og svo áfram sömu leið og Þórustaðastígur. Í fyrstu taldi ég að Björn hefði merkt Þórustaðastíginn rangt inn á kortið (þ.e. sett hann sunnan við Keili) en nú hefur komið í ljós nokkuð glögg vörðuröð, en óljós gata, þarna niður heiðina sunnan og vestan Keilis í átt að Knarrarnesseli. Leiðin er sérkennilega vörðuð með „lykilvörðum“ á áberandi stöðum með löngu millibili en á milli þeirra litlar „þrísteinavörður“. Sumstaðar þar sem „lykilvörðurnar“ eru sjást eins konar hlið á götunni, þ.e. lítil varða andspænis þeirri stóru og nokkrir metrar í millum. Gatan endar að því er virðist við Knarrarnessel þannig að þeir sem notuðu götuna hafa svo haldið áfram selstíginn en sá er óvarðaður að mestu.

Þórustaðastígur

Þórustaðastígur við Selsvelli.

Á síðustu öld fóru bændur úr Brunnastaða-, Ásláksstaða- og Knarrarneshverfi með hrossastóðið til beitar í Fjallið þessa leið en þeir sem innar bjuggu á Ströndinni notuðu Þórustaðastíg. Þessi gata sem og Þórustaðastígur hafa ólíklega verið þjóðleiðir fyrrum heldur eingöngu notaðar af hreppsfólki.

Keilir

Litli-Hrútur; eldgos 2023. Keilir t.v.

Nokkurn spöl suðvestur af Keili, u.þ.b. tvo km, er lítil útgáfa af Keili sem heitir Nyrðri-Keilisbróðir og er annar Keilisbræðra. Þessi „bróðir“ er nefndur í landamerkjabréfum Knarrarness og Breiðagerðis frá árinu 1886.
Heimamenn hafa einnig notað nafnið Litli-Hrútur yfir þennan hnúk, þó sérstaklega í seinni tíð. Grindvíkingar nota örnefnið Litli-Keilir þannig að hnúkurinn ber í raun þrjú nöfn. Yngra fólk hér í hrepp er einnig farið að nota nafnið Litli-Keilir enda er hnúkurinn nefndur svo á mörgum kortum Landmælinga Íslands og gætir þar greinilega áhrifa frá Grindvíkingum. Fyrir neðan Nyrðri-Keilisbróður er Hjálmarsgreni í Hábrúnum en það eru hæstu hjallar gömlu hraundyngjunnar Þráinsskjaldar sem við förum um á eftir.

Knarrarnessel

Knarrarnessel – uppdráttur ÓSÁ.

Nú færum við okkur upp fyrir Oddafell og Höskuldarvelli. Milli Trölladyngju og vallanna lá jeppaslóði fyrrum sem nú er orðinn fólksbílafær með rilkomu rannsóknaborana sem gerðar hafa verið sunnan Höskuldarvalla og við Sogalækinn uppi í hálsinum.

Sog

Sogadalur – Keilir framundan.

Vegurinn liggur upp gjallbrekku sem heitir Sogamelar. Þarna hafa orðið töluverð spjöll og breytingar á annars fallegu landi síðustu árin vegna tilraunanna.
Við höldum upp brekkuna og fylgjum Sogalæknum spöl inn í dalverpi sem heitir Sogaselsdalur eða Sogadalur. Þarna á vinstri hönd er stór gamall gígur sem heitir Sogaselsgígur eða Sogagígur og snýr hann opi til suðurs. Gígurinn er girtur skeifulaga hamrabeltum og mynda veggirnir því gott aðhald fyrir skepnur. Þarna var Sogasel frá Kálfatjarnarhverfi og jafnvel Krýsuvík. Margar kofatóftir eru innst í gígnum og kví undir vestari hamraveggnum.

Soagsel

Sogasel í Sogaselsgíg.

Frá Sogaseli förum við í Sogin, djúp gil sem greina Dyngjurnar frá fjöllunum sunnan til og liggja þau þvert um hálsinn. Á leiðinni sjáum við lítinn leirhver nokkuð hátt uppi í grasbrekku handan við Sogalækinn, skammt fyrir ofan efra borplanið. Fyrir neðan brekkuna eru nokkrir djúpir smágígar.

Sogin

Sogadalur – borplan.

Sogin eru 150-200 m djúp litrík leirgil sem mikill jarðhiti hefur verið í fyrrum og aðeins eimir af enn. Frá Sogum er auðveld uppganga á Grænudyngju. Göngufólk ætti að forðast í lengstu lög að ganga í leirnum þarna því hann hleðst undir grófmunstraða skósólana eins og steypa.
Á hálsinum suður og vestur af Sogum er Spákonuvatn og í misgengi rétt vestur afþví er minna vatn og til eru heimildir um Spákonuvötn og þá Stóra-Spákonuvatn og Litla-Spákonuvatn. Heimild er einnig til um Spákonudali og er þá átt við lægðirnar sem vötnin eru í. Þorvaldur Th. nefnir ekki Spákonuvatn en segir umrætt vatn heita Grænavatn og lýsir ítarlega gígafjöldanum sem liggur niður af vatninu til vesturs. Á landakorti frá árinu 1910 er það sama uppi á teningnum.

Grænavatn

Grænavatn.

Grænavatn, sem er stærra er Spákonuvatn, er til þarna á miðjum Vesturhálsi suður af Spákonuvatni og var fyrst sett inn á kort Landmælinga Íslands árið 1936. Vatnið er líklega í Krýsuvíkurlandi og því ekki talið með örnefnum í hrepps landinu. Stangveiðifélag Hafnarfjarðar hefur gert tilraunir með fiskirækt í Grænavatni.
Suður afSpákonuvatni förum við um móbergshryggi og stapa og hæst ber hvassa tinda sem heita Grænavatnseggjar (332 m). Eggjarnar eru nefndar í landamerkjalýsingu Þórustaða frá 1886.

Ofan og sunnan við Grænavatnseggjar er svo Grænavatn sem fyrr er nefnt.
Af Grænavatnseggjum höldum við svo niður á jafnsléttu aftur og að syðri enda Oddafells en spöl suður af honum er Hverinn eini sem nú er nánast útdauður.

Grænavatnseggjar

FERLIRsfélagar í Grænavatnseggjum.

Hverinn var sá stærsti á Reykjanesskaga fyrir aldamótin síðustu og árið 1888 þegar Þorvaldur Th. ferðaðist um svæðið segir hann hverskálina um 14 fet í þvermál: „… það er sjóðandi leirhver … Í góðu veðri sést gufustrókurinn úrþessum hver langt í burtu, t.d. glögglega frá Reykjavík.“

(Ferðabók I, bls. 181). Upp úr aldamótunum fór hvernum að hraka og árið 1930 var hann aðeins volg tjörn (frásögn heimamanns). Nú er þarna stórt hverahrúðurssvæði með smá dæld í miðið en aðeins til hliðar við það er lítið brennisteinsgufuauga í holu milli steina og á nokkrum stöðum umhverfis stíga daufir strókar til lofts.

Hverinn eini

Hverinn eini – brennisteinn.

Í Ferðabók Eggerts og Bjarna segir: „Hver þessi er kringlóttur og allstór, 7 álnir [1 alin = ca 57 cm] /þvermál og 4 álna djúpur, en nafnið ber aðeins einn hver, hinn stærsti af allmörgum heitum hverum og uppgönguaugum, sem liggja þar í þyrpingu … Hverinn eini ber nafn af því, að hann liggur einn út af fyrir sig.“ Og einnig: „Eitthvert fegursta bergið, sem jarðeldurinn á Suðurlandi hefir eftir sig látið, er lagskiptur, bráðinn sandsteinn. Það af honum, sem við fundum hjá Hvernum eina, er dálítið sérkennilegt tilbrigði.“ Menn segja einnig að „eini“ þýði sá frábæri eða einstaki.

Sagnir eru til um Útilegumannahelli nálægt Hvernum eina og í Vallaannál frá árinu 1703 segir: „… á Vatnsleysuströnd. Þar stálu þeir síðast í Flekkuvík og fóru svo til fjalls upp og allt suður um Selsvöllu; þar tóku þeir sér hœli undir skúta nokkrum, … Leizt þeim þá eigi að vera þar lengur, og fóru norður aptur með fjallinu í helli þann, er skammt er frá hverinum Eini. Voru þar síðan 3 vikur, og tóku 3 sauði þar í hálsunum, ræntu einnig ferðamann, …“.

Hverinn eini

Hverinn eini.

Eins og sést er hverinn þarna nefndur Einir en það nafn sést ekki í öðrum heimildum og gæti verið misritun. Töluverð leit hefur verið gerð að hellinum en án árangurs. Samkvæmt munnmælum er hann lítill og ómerkilegur og sagt er að yfir opið hafi verið lögð hella til þess að forða fé frá því að lenda ofan í honum.

Driffell

Driffell.

Vestur af syðri enda Oddafells er fell úti í hrauninu sem heitir Driffell (254 m). Í fellinu finnst silfurberg og holufyllingar eru þar nokkuð áberandi. Við Driffell að austan og norðan liggur Þórustaðastígur en um hann var féð rekið úr fjallinu á haustin og eins var hestastóð rekið vor og haust um sama veg eins og komið hefur fram. Eins og fyrr segir liggur stígurinn frá Ströndinni upp alla heiðina, fram hjá Hrafnafelli, Keili og Driffelli og síðan upp og yfir hálsinn að Vigdísarvöllum. Þegar farið er um Þórustaðastíg á þessum slóðum þarf aðeins að fara yfir einn apalhrauntaum og liggur sá við Driffell að sunnanverðu.
Melhóll heitir hóll við Þórustaðastíg og stendur hann fast við hraunjaðarinn sem snýr að Keili. Hóllinn er mitt á milli Driffells og Keilis og á gömlum fjallskilaseðlum var mönnum gert að hittast á Melhól og þar var leitum síðan skipt. Nálægt Melhól eru tvö greni, annað er Driffellsgreni en hitt Melhólsgreni.

Trölladyngja

Trölladyngja.

Nafnið Driffell er sérkennilegt og gæti verið komið af nafnorðinu drif, (snjódrífa, fjúk) eða þá af sögninni að drífa eitthvað áfram, reka eitthvað áfram og gæti þá átt við fjárrekstur enda auðveldast að koma fénu yfir úfið hraunið með því að fara Þórustaðastíginn um Driffellsmóana. Á þessum slóðum er stígurinn einnig kallaður Driffellsstígur og hraunið umhverfis fellið Driffellshraun.

Selsvellir

Á Selsvöllum. Moshóll og Keilir fjær.

Við fylgjum stígnum frá Driffelli og yfir að Moshól sem er stór, reglulegur og skeifumyndaður gígur við norðurenda Selsvalla. Mosakápan á austurhlíð hólsins er mjög illa farin eftir hjólför „náttúruníðinga“ sem hafa fundið hjá sér þörf fyrir að aka sem lengst upp í hlíðina. Jón Jónsson jarðfræðingur segir að gosið úr Moshóli hafi líklega verið það síðasta í hrinunni sem myndaði Afstapahraun. Aðeins sunnar er annar svipaður gígur en þó minni. Örnefnið Moshóll er nýtt af nálinni.
Næst komum við að fallegasta gróðursvæðinu á öllum Reykjanesskaganum en það eru Selsvellirnir sem liggja meðfram endilöngu Selsvallafjalli (338 m) að vestanverðu. Fjallið greinist frá Grænavatnseggjum af smá dalverpi eða gili en um það liggur Þórustaðastígurinn upp á fjallið. Vellirnir eru um 2 kílómetrar að lengd en aðeins rúmlega 0,2 á breidd.

Moshóll

Moshóll norðan Selsvalla.

Á Selsvöllum var selstaða frá bæjum í Grindavík og í sóknarlýsingu séra Geirs á Stað frá árinu 1840 er sagt að allir bæir í sókninni nema Hraun hafi þar í seli. Jafnframt segir um sel Staðar í Grindavík: „Stendur selið í Strandarmannalandi, eður fyrir norðan Grindavíkur landamerki.“

Selsvellir

Selsvellir – Selsvallalækur. Moshóll fjær.

Kúalágar heitir lítið dalverpi sem gengur út úr nyrsta hluta Selsvalla að ofanverðu. Á milli Kúalága og Sogalækjar er aragrúi gíga bæði stórra og smárra og þar tala Grindvíkingar um Bergsháls en það er malarhryggur sem gengur út úr Vesturhálsi neðan Grænavatnseggja. Örnefnin í þessum hluta Vatnsleysustrandarhrepps eru að mestu leyti komin frá Grindvíkingum sem eðlilegt er því þarna störfuðu þeir sumarlangt, líklega um aldir. Tveir lækir, Selsvallalækir, renna um vellina en hverfa svo niður í hraunjaðarinn sem afmarkar þá til vesturs. Sá nyrðri kemur úr gili fast sunnan Kúalága en sá syðri rennur fram drjúgum sunnar og nálægt Selsvallaseli. Seltóftirnar kúra í suðvesturhorni vallanna fast við hraunkantinn og þar virðast hafa verið þrjár kofaþyrpingar, líklega frá jafnmörgum bæjum og tvær nokkuð stórar kvíar nálægt þeim. Úti í hrauninu sjálfu fast við fyrrnefndar tóftir er ein kofatóft til og lítil kví á smá grasbletti.

Selsvellir

Á Selsvöllum – seltóft.

Í bréfi frá séra Geir Bachmann á Stað í Grindavík til biskups árið 1844 kemur fram að sumarið áður hafi sjö búendur úr Grindavíkurhreppi í seli á völlunum og að þar hafi þá verið um 500 fjár og 30 nautgripir. Út frá selstæðinu liggur selstígur til Grindavíkur í átt að Hraunsels-Vatnsfelli. Á milli selsins og fellsins sjást djúp hófför í klöppum sem segja okkur að um stíginn hefur verið mikil umferð fyrrum og að hann hafi m.a. verið hluti svonefndra Hálsagatna sem Bjarni Sæmundsson nefnir í skrifum.
Jeppaslóðin liggur með fjallinu og Ijót hjólförin marka endilanga gróðurvinina og þó sérstaklega þar sem lækirnir renna fram. Upp við fjallshlíðina, fast norðan við syðri lækinn, eru eldgamlar tóftir svo grónar að ekki sér í stein og eru þrjár þeirra ofan við vegarslóðann en líklega tvær neðan hans.

Driffell

Driffell.

Fyrir sunnan Selsvelli taka svo Þrengslin við en þau draga nafnið af því að þar er þrengst á milli hrauns og hlíðar. Líklega ná Þrengslin yfir nokkuð langt svæði til suðurs. Í sóknarlýsingunni frá árinu 1840 sem nefnd er hér á undan eru hreppamörkin sögð um Þrengsli og í Framfell (356 m).

Framfell

Framfell. Trölladyngja framundan.

Fellið var kallað Vesturfell af ábúendum Vigdísarvalla en sá bær var austan við Vesturhálsinn. Sóknarlýsingin er eina heimildin um þessi nöfn og e.t.v. væri einhver til með að deila um staðsetningu Framfellsins því annað ámóta fell er þarna rétt austar og innar á hálsinum (285 m). Ef kort og loftmyndir eru skoðaðar með sóknarlýsinguna að leiðarljósi sést þó glöggt að lýsingin á við vestara og fremra fellið, þ.e.a.s. það sem er nær Grindavík. Frá Vigdísarvöllum sést Vesturfell í stefnu 290 gráður eða rétt norðan við hávestur en hinn hnúkurinn sést ekki frá bæjarstæðinu. Á Framfelli er varða.
Nú höldum við eftir fjárgötum vestur með mörkum yfir nokkuð slétta hraunfláka sem heita Skolahraun en flákarnir draga líklega nafn sitt afskollitnum sem á þeim er.

Trölladyngja

Trölladyngja og nágrenni – kort.

Hraunsels-Vatnsfell (261 m) eða Hraunsvatnsfell verður næst á vegi okkar en um það liggja hreppamörkin samkvæmt elstu heimildum. Í toppi fellsins er stór gígur. Nokkur háls gengur út úr fellinu til norðurs og í honum er lítill gígur með vatni og dregur fellið líklega nafn sitt af því.

Hraunsels-Vatnsfell

Vatnsstæði í Hraunssels-Vatnsfelli.

Við gíginn var stór varða sem Ísólfur bóndi á Ísólfsskála við Grindavík hlóð en hún var hrunin að hluta árið 2005. Annað svipað vatnsstæði er þarna skammt frá. Í elstu heimildum er nafn fellsins Hraunsels-Vatnsfell en Hraunssel var í Þrengslum sunnan landamarkanna.
Frá Hraunsels-Vatnsfelli höldum við að Syðri-Keilisbróður (310 m) sem er þá hinn Keilisbróðirinn og eftir elstu heimildum að dæma er þessi bróðir einnig í hreppslandinu. Eins og nyrðri bróðirinn (sem nefndur var í tengslum við Keili) ber þessi hnúkur fleiri nöfn en eitt og hér í hrepp hefur hann einnig verið kallaður Stóri-Hrútur en af Grindvíkingum Litli-Hrútur.

Selsvellir

Selsvellir – uppdráttur ÓSÁ.

Frá Syðri-Keilisbróður göngum við upp á gljúpu mosahraunbunguna Þráinsskjöld (240 m) sem nefnd er í kaflanum Heiðar og hraun. Í toppi Þráinsskjaldar eru nokkrir stórir, djúpir, grasi grónir gígar. Sá stærsti er um 200 m á lengd og tæpir 100 m á breidd og heitir Guðbjargarlág en Grindvíkingar kalla hann Guðrúnarlág.

Fagradals-Vatnsfell

Vatnsból í Fagradals-Vatnsfelli.

Nú hallar undan af Þráinsskildi í átt að Hagafelli (270 m) eða Fagradals-Hagafelli og útsýnið er ótrúlega vítt til þriggja átta. Landamörk hreppsins eru í elstu heimildum sögð í nyrðri rætur fellsins en nýrri heimildir segja þær í Vatnskatla, það eru litlir gígar með vatni í á nyrðri brún Vatnsfells (248 m) eða Fagradals-Vatnsfells. Hér í hreppi voru fell þessi aðeins kölluð Hagafell og Vatnsfell en Grindvíkingar þurftu að aðgreina þau frá öðrum fellum í sínu landi með sömu nöfnum og því skeyttu þeir Fagradals- framan við. Á kortum Landmælinga Íslands gætir áhrifa Grindvíkinga mun meira en heimamanna hvað snertir örnefnin á eða við markalínuna á þessum slóðum.
Fellin tvö, Hagafell og Vatnsfell, eru „samvaxin“ og tengjast Fagradalsfjalli (391 m) til suðvesturs. Hraunstraumur úr Þráinsskildi hefur runnið á milli Fagradalsfjalls og Vatnsfells.

Selsvellir

Selsstígurinn að Selsvöllum.

Hrafnabjörg eða Hrafnaklettar heita klettar sem skaga út úr austurhluta Fagradalsfjalls fyrir ofan Vatnsfell og þeir eru áberandi séðir frá Vogum og Strönd. Þeir voru fiskimið í svokallaðri Gullkistu undir Vogastapa en veiðislóðin var nefnd svo vegna mikillar fiskigengdar fyrr á öldum.

Keilir

Keilir og nágrenni.

Áður en við endum ferðina er sjálfsagt að koma við í Dalsseli í Fagradal en dalurinn liggur í krika við nyrðri rætur Fagradalsfjalls og dregur fjallið nafn sitt af honum. Það gæti verið að Fagridalur og þá einnig hluti fjallsins haft tilheyrt hreppnum fyrir margt löngu og þess vegna fá þessi örnefni að fljóta með í lýsingunni. Í Jarðabók 1703 segir um selstöðu Stóru-Voga: «…aðra vill hún eigna sjer þar sem heitir Fagridalur, en þar um eru misgreiningar, því Járngerðastaðarmenn í Grindavík vilja eigna sér þessa selstöðu.“

Dalssel

Dalssel í Fagradal.

Fagridalur má muna sinn fiífil fegurri því nú er hann lítið annað en moldarflög og stendur að engu leyti undir nafni. Nokkuð djúpur lækjarfarvegur liggur úr fjallinu og niður í „dalinn“ sem er flatlendi með allháum hraun- og gjallkanti við nyrðri brún. Seltóftirnar eru fast við lækjarfarveginn að sunnan, nálægt rótum fjallsins, og þar sjást tvær-þrjár kofatóftir. Líklega hefur verið mjög gott selstæði þarna meðan dalurinn var grösugur og vatn í farveginum. Fagridalur er á náttúruminjaskrá.

Keilir

Keilir – kort.

Rauðgil heitir gil í fjallinu sunnan Fagradals og er kallað svo vegna rauðamels sem þar er. Gilið er sagt á hreppamörkum í markalýsingu Jóns Daníelssonar bónda í Stóru-Vogum.
Hér lýkur ferð okkar um hreppslandið. Við getum líklega verið sammála um það að svæðið sem við fórum um síðast er það fjölbreytilegasta og fallegasta sem til er í Vatnsleysustrandarhreppi og líklega á öllum Reykjanesskaganum.“

Heimild:
-Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi (ofan Gamla-Keflavíkurvegarins, Sesselja Guðmundsdóttir, 2007, bls 123-143.

Fagradalsfjall

Stóri-Hrútur í Fagradalsfjalli.

Bræðrapartur

Guðmundur Björgvin Jónsson skrifaði bókina „Mannlíf og mannvirki í Vatnsleystrandarhreppi“, sem hann gaf út árið 1987. Bókin er merkileg heimild um framangreint í hreppnum.

Formáli
Guðmundur BjörgvinGuðmundur Björgvin er fæddur að Brunnastöðum á Vatnsleysuströnd 1. október 1913, en þar bjuggu þá foreldrar hans, Jón Einarsson útvegsbóndi, d. 1929, og Margrét Pétursdóttir, d. 1918. Hann var því ungur að árum er hann missti móður sína, aðeins 5 ára, og föður sinn á 7. ári. Hann ólst upp hjá móðursystur sinni Guðríði Pétursdóttur að Brekku undir Vogastapa og manni hennar Magnúsi Eyjólfssyni.
Í bók Guðmundar, „Mannlíf og mannvirki í Vatnsleysustrandarhreppi“, sem hann gaf út árið 1987, koma m.a. fram fróðlegar upplýsingar um fólk og aðbúnað þess á Vatnsleysuströndinni fyrrum.

Í Landnámu er sagt frá Steinunni hinni gömlu, er gaf Eyvindi fóstra sínum land milli Hvassahrauns og Kvígu-Vogabjargs og er það land nú nefnt Vatnsleysustrandarhreppur.
Um nafnið Vatnsleysuströnd hefur verið nokkur meiningarmunur. Oftast er nafnið tengt við vatnsleysi, sbr. að varla sjáist rennandi vatn. Önnur skýring er til, sú að vatn renni laust og óbundið neðanjarðar og er hún trúlegri. Vatnið er í miklum mæli flæðandi undir þunnum hraunhjnúp, eftir opnum æðum og sprungum (gjám) frá hálendinu þar til það fellur í sjó fram og er vel greinanlegt meðfram allri strandlengunni í Vatnsleysustrandarhreppi, að vísu einungis á lágum sjó, fjöruvötnum.

Bræðrapartur
Bræðrapartur
Syðsta grasbýlið í Vogum er Bræðrapartur (áður nefnt Krúnutóft) og er hann hluti núr Suðurkots- og Stóru-Vogalandi. Það var og er enn umdeilt hvort það var grasbýli eða með jarðarréttindi, þ.e. afréttar- og beitarréttindi utan heimagirðingar, en um langan tíma hefur það verið rekið sem bújörð og er svo gert enn í dag.
Í þeim tíma er Varnarliðið á Keflavíkurflugvelli fékk skotæfingasvæði til afnota í Vogaheiði um 1960, var deilt um það hvort Bræðrapartur ætti að fá leigugjald í hlutfalli við aðra landeigendur í Vogum, og svo fór að þáverandi ábúandi fékk sinn hlut í landleigunni.
BræðraparturÁrið 1929 byggði Guðmundur Kotsson nýtt hús í Bræðraparti. Eitt var öðru fremur merkilegt við húsið því á því var innsiglingarmerki inn í Vogahöfn. Eftir að Vogavík fékk löggildingu sem höfn árið 1893 voru settir upp tveir staurar um 3 metrar á hæð og stóð annar við suðvesturhornið á Bræðraparti, um 10 metra frá húsinu, en hinn var niður við sjó sunnan við sjávarhúsið. Þessir staurar þurftu að bera saman svo rétt væri siglt inn í höfnina. Í myrkri var ljósker sett á staurana sem sýndu rétta leið. Nokkru eftir að nýja húsið var byggt var ljósker sett í loftglugga er sneri til sjávar og þannig gert að ekki þurfti staurana. Svo þegar húsinu var breytt árið 1947 og sett á það brotið þak, var kvistur settur á á vesturþekjuna og þar í gluggli með ljóskerinu. Þetta þótti nauðsynlegt fyrir skipaferðir, þar til hafnarsvæðið var tekið til endurskoðunar og mælt upp að nýju, Þá kom í ljós að gamla innsiglingaleiðin var talin ónothæf miðað við nýja leið inn í höfnina, er þáverandi vitamálastjóri Axel Sveinsson fann og mældi út. Eftir það voru sett upp ný innsiglingaljós 200 metrum suður af Bræðraparti. Eru það tveir ljósastaurar með sjálfvirku ljósnæmi á 100 metra millibili.

Stóru-Vogar

Í máldaga frá 1367 í Fornbréfasafninu 3. bindi bls. 221 segir: „Maríukirkja og hins heilaga Þorláks biskups í Kvígubogum“, ennfremur segir í bréfi frá 1533, 9. bindi bls. 660, „að Erlendur lögmaður Þorvarðarson hafi slegið prest með könnu til blóðs í hálfkirkjunni í Vogum“.

Stóru-Vogar

Stóru-Vogar 2020.

Trúlega er hér átt við Stóru-Voga og bendir allt til þess að þar hafi verið kirkja fram undir siðaskiptin.
Stóru-Vogarústirnar bera vott um stóran hug og stórverk. Húsið var byggt árið 1871 af Jóni, bróður Magnúsar Waage, og byggingameistari var Sverrir Runólfsson steinsmiður, sá hinn sami er byggði Skólavörðuna í Reykjavík og Þingeyrarkirkju í Austur-Húnavatnssýslu. Allar byggingar Sverris bera vott um vandvirkni vel hugsandi manns. Þess má geta hér að Sverrir gerði tillögu til borgarstjórnar Reykjavíkur árið 1870, um að byggja veitingahús í Tjarnarhólmanum og leggja brú frá Lækjargötu og út í hólmann, en meirihluti í borgarstjórn felldi þá hugmynd Sverris.
Stóru-VogarÞað Stóru-Vogahús, sem áður er getið, var ein hæð og íveruris, en árið 1912 lét Sigurjón J. Waage byggja nýtt hús á sama grunni og var hann kjallari nýja hússins. Hluti grunnsins stendur enn, þó stutt sé orðið í að þetta mikla verk hrynji í sjóinn. Nýja Stóra-Vogahúsið var með glæsilegustu húsum á Suðurnesjum. Smiður þess var Skúli Högnason úr Keflavík. Húsið var rifið árið 1965.
Stóru-Vogar áttu helming Vogalands á móti Minni-Vogum. Um aldamótin 1900 voru nær allar jarðir og tómthús í Suður-Vogum nýttar af Waageættinni eða niðjum Jóns Daníelssonar, föður Magnúsar Waage. Allir Suður-Vogabúendur greiddu landskuld til Stóru-Voga, þar með Stapabúð, Brekka og Hólmabúðir, nema þeir er voru orðnir sjálfseignabændur og höfðu keypt sig úr Stóru-Voga tofunni.
Þegar minnst er á Stóru-Vogaættina, er gjarnan nefndur sem forfaðir hennar Jón Daníelsson „hin ríki og- eða sterki“. Var hann f. 23. mars 1771, d. 16. nóv. 1855.
Í dag á Vatnsleysustrandarhreppur Stóru-Vogajörðina að undanskildum hluta heiðarlands, sem erfingjar Jóns Eyjólfssonar Waage á Seyðisfirði tóku undan við söluna á sínum tíma, og eru eigendur að.

Minni-Vogar
Minni-Vogar

Í Minnivogum bjuggu hjónin Klemens Egilsson, f. 31. okt. 1844, og kona hans Guðrún Þórðardóttir, f. 1846. Klemens var einn af stórbændum hreppsins.

Klemens lét byggja upp Minni-Voga árið 1922, smiður var Þorbjörn Klemensson úr Hafnarfirði. Húsið var byggt sem tvíbýli.

Minni-Vogar

Minni-Vogar. Verkið er eftir B. Hrein Guðmundsson en í eigu Sigríðar Jakobsdóttur.

Klemens Egilsson ýmist keypti eða lét smíða skip, sem m.a. fluttu vörur milli landa. Hann og Sigurjón J. Waage létu smíða dekkbát í Noregi og þegar hann var tilbúinn til afgreiðslu, þá sigldi framleiðandinn honum til Íslands. Þetta skip hét Sörli. Skipstjóri var Sigurjón J. Waage, vélstjóri var Sæmundur Klemensson í Minni-Vogum. Útgerðin gekk vel að jafnaði, en Sörli var brellinn. Hann slitnaði tvívegis frá bátalegunni, í fyrra skiptið náðist hann og var fluttur heim, eins og hver annar strokuhestur, en í seinna skiptið tók breskur togari hann og ætlaði að færa hann til Keflavíkur. Hafði áhöfn togarans bundið dráttartaugina um mastrið og talið það öruggt, en Sörli sökk í þessari ferð. Togarinn dró inn dráttartaugina og mastrið fylgdi með. Það komast til eigendanna og mun nú vera notað fyrir ljósastaur við Vogabryggju.

Austurkot
Austurkot
Í manntali árið 1703 er sagt að búið hafi verið á sitt hvorum helmingi jarðarinnar í Minni-Vogum, eða hálflendum sem þá var kallað. Mun þar átt við tvíbýli, en norðurhverfið allt var var Minni-Voar og því síðan skipt í hálflendur, þannig að Minni-Vogar héldu 2/3 af heildinni og Austurkot 1/3 og er svo enn í dag. Að auki er nokkur hluti landsins beggja eign, s.s. Norðurkot, Grænaborg og óunnið land að mörkum Brunnastaðahverfis.

Norðurkot
Norðurkot
Norðurkot var lítið grasbýli í landi Minni-Voga og Austurkots. Ábúandi þar var Nikulás Jónsson, f. um 1830. Hann var af Stóru-Vogaættinni. Kona hans var Guðrún Gísladóttir frá Kröggólfsstöðum í Ölfushreppi, Árnessýslu.
Nikulás var dugnaðarmaður. Hann átti og gerði út marga báta þegar best lét og gerði einnig út með öðrum, s.s. Klemensi í Minni-Vogum. Hann átti lengi lítinn bát sem hann kallaði Þurfaling, enda var sagt að Nikulás berði lóminn manna best, þó talinn væri ríkur. Hann lét breyta opnu skipi sínu í dekkbát og var sá bátur kallaður Lásabátur.
Norðurkot
Nikurlás lét byggja röð af húsum, þannig að fimm stafnar stóðu fram að hlaði. Þótt ekki sé mér kunnugt um hvenær það var gert, þá tel ég að hann hafi látið gera það eftir að hann efnaðist og þó ekki fyrr en eftir að hann eignaðist sitt fyrsta barn árið 1856. Húsin gætu þá hafa verið reist um 1860. Í rústum þeim sem eftir standa má vel sjá að vandað hefur verið til verksins, því nokkrir veggir standa enn sem nýhlaðnir nema hvað gróður hefur fest rætur á þeim. Hluti húsanna eru þó hruninn fram á sjávarbakkanum. Var því byggt nýtt hús úr timbri árið 1882, (úr James-Town strandinu). Var Nikulás þá um fimmtugt.

Grænaborg
Grænaborg
Grænaborg var byggð árið 1881 í landi Minni-Voga að 2/3 hluta og Austurkots að 1/3 hluta. Húsið byggði Ari Egilsson frá Austurkoti og bróðir Klemensar í Minni-Vogum. Þarna hafði verið bær er Hólkot hét, en hann brann, og eru litlar sagnir til um þann bæ. Grænaborg hefur varla verið byggð á sama stað og Hólkot, því sagnir eru til um að á þessum stað ætti hús að brenna þrisvar.
Ari Egilsson var lærður skipstjóri og stjórnaði bæði eigin skútum og bróður síns og föður frá Minni-Vogum. En stutt var dvölin í þessu vandaða nýja húsi, því það brann voru 1883, þá tveggja ára gamalt. Þá voru þar vermenn auk heimilisfólks og komust allir af, nema ein vinnukona er brann inni.
Grænaborg
Grænuborgartóftin stóð opin í 35 ár, eða til ársins 1816, að Benjamín Halldórsson og kona hans Þuríður Hallgrímsdóttir frá Austurkoti, síðar í Stóra-Knarrarnesi 2, fengu leyfi Klemensar í Minni-Vogum til að byggja upp Grænuborg.
Grænaborg brann síðan þriðja sinni 2002.

Sjá meira HÉR.

Heimild:
-Mannlíf og mannvirki í Vatnsleysustrandarhreppi eftir Guðmund Björgvin Jónsson – útgefið af höfundi 1987.

Grænaborg

Grænaborg brann þriðja sinni árið 2002.

Ásláksstaðir

Guðmundur Björgvin Jónsson skrifaði bókina „Mannlíf og mannvirki í Vatnsleystrandarhreppi„, sem hann gaf út árið 1987. Bókin er merkileg heimild um framangreint í hreppnum.

Formáli
Guðmundur BjörgvinGuðmundur Björgvin er fæddur að Brunnastöðum á Vatnsleysuströnd 1. október 1913, en þar bjuggu þá foreldrar hans, Jón Einarsson útvegsbóndi, d. 1929, og Margrét Pétursdóttir, d. 1918. Hann var því ungur að árum er hann missti móður sína, aðeins 5 ára, og föður sinn á 7. ári. Hann ólst upp hjá móðursystur sinni Guðríði Pétursdóttur að Brekku undir Vogastapa og manni hennar Magnúsi Eyjólfssyni.
Í bók Guðmundar, „Mannlíf og mannvirki í Vatnsleysustrandarhreppi“, sem hann gaf út árið 1987, koma m.a. fram fróðlegar upplýsingar um fólk og aðbúnað þess á Vatnsleysuströndinni fyrrum.

Í Landnámu er sagt frá Steinunni hinni gömlu, er gaf Eyvindi fóstra sínum land milli Hvassahrauns og Kvígu-Vogabjargs og er það land nú nefnt Vatnsleysustrandarhreppur.

Vatnsleysuströnd

Vatnsleysuströnd – kort.

Um nafnið Vatnsleysuströnd hefur verið nokkur meiningarmunur. Oftast er nafnið tengt við vatnsleysi, sbr. að varla sjáist rennandi vatn. Önnur skýring er til, sú að vatn renni laust og óbundið neðanjarðar og er hnún trnúlegri. Vatnið er í miklum mæli flæðandi undir þunnum hraunhjnúp, eftir opnum æðum og sprungum (gjám) frá hálendinu þar til það fellur í sjó fram og er vel greinanlegt meðfram allri strandlengunni í Vatnsleysustrandarhreppi, að vísu einungis á lágum sjó, fjöruvötnum.

Vogar
Vogar
Áður hefur verið fjallað um Stóru- og Minni-Voga.

Brunnastaðahverfi
Brunnastaðahverfi
Þegar haldið er frá Vogum til Brunnastaðahverfis, er farið yfir landamerkjalínu sem staðsett er í Dúpavogi. Þar, sem og víðar, er meiningarmunur um hrein mörk. Í landsmerkjalýsingu milli Minni-Voga, Austurskots og Norðurskots, frá 28. des. 1921, er gert það samkomulag um fjörumörk að Minni-Vogamörk skuli vera frá gömlu byrgi á Vatnsskeri í Djúpavogi.

Vatnsleysuströnd

Vatnsleysuströnd – myndir.

Í öðru landamerkjabréfi nr. 193 frá 22. maí 1890, segir að landamerki milli Brunnastaðahverfis og Norður-Voga og Suður-Voga séu úr dýpsta ós sem til sjávar fellir í Djúpavogi, þaðan upp í vörðu sem stendur fyrir sunnan Presthóla, síðan beina línu í vörðu sem stendur á Hrafnagjá og er kölluð Leifur-Þórður, þaðan í Markhól og síðan í beina línu upp í fjall svo langt sem Vatnsleysustrandarhreppsland er talið ná. Undir þetta skrifa fyrir Brunnastaðahverfi, Jón. J. Breiðfjörð, Guðmundur Ívarsson og Gísli Ívarsson og fyrir Voga, Klemsens Egilsson og Guðmundur J. Waage.

Hrafnagjá

Hrafnagjá.

Þetta var lesið upp á manntalsþingi að Brunnastöðum 16. júní 1890 af Franz Siemens sýslumanni. Þarna er verðugt verkefni sem hreppurinn ætti að hafa forgöngu um að vinn að, með aðilum beggja vegna landamerkjanna, og fá ákveðin óumdeilanleg mörk. Þá er einnig umdeilt hvort dýpsti ís í Djúpavogi hafi meininguna „dýpi“, niður á fastan botn, eða „dýpst“ (lengst) inni í landið. En vitað er að ósar er breytilegir og því varsamt að haf slíkt til viðmiðunar.

Hlöðversnes (Hlöðunes)
Hlöðuneshverfi
Bæði nöfnin virðast notuð nokkuð jant og má sennilega deila um það hvort réttara sé, en ég nota nafnið Hlöðversnes af tvennum orsökum. Í fyrsta lagi er það ritað þannig í kirkjubókum seinni bæina og í öðru lagi tek ég tryggð við nafnið Hlöðver, sem er komið allt frá landnámi og merkings orðsins er „sá sem sigrar, vinnu stríð (orrustur)“.

Ásláksstaðahverfi
Ásláksstaðahverfi
Atlagerði er í landi Ásláksstaða sem er móðurjörð þess hverfis. Bærinn markaðai upphaf Gerðistanga, en á þeim tanga stendur Gerðistangaviti, sem áður hét Atlagerðisviti. Vestan við Gerðistanga er Álasund eða Álfasund. Um þessar nafngiftir hefur verið meiningarmunur, en Narfakostbræður, sem bjuggju allan sinn aldur í nálægð við vitann og gættu hans í áratugi höfðu ekki heyrt annað nafn á sundinu en Álfasund.

Knarrarneshverfi
Knarrarneshverfi
Vík var syðsti bærinn sem komið var að þegar farið var yfir landamerkin milli Ásláksstaðahverfis og Knarraneshverfis.

Auðnahverfi
Auðnahverfi
Nú er komið yfir landamerki á milli Knarrarnesbæja og Auðnahverfis. Verður þá fyrst fyrir jörðin Breiðagerði og láta mun nærri að þar hafi verið þríbýli um aldamót.

Kálfatjarnarhverfi
Kálfatjarnarhverfi
Árið 1834 var lögð niður torfkirkja á Kálfatjörm og byggð þar ný kirkja með timburþili og stóð hún í 20 ár, eða til ársins 18864 og enn var byggð kirkja.

Kálfatjörn

Kálfatjarnarkirkja.

Hana lét séra Stefan Thorrarenssen byggja árið 1863 og var vandað til verksins svo hún stæði sem lengst. Var hún bikuð að utan, en eftir fá ár var hún klædd járni og máluð í ljósum lit. Sú kirkja stóð í 29 ár, en þá var núverandi kirkja byggð og vígð 11. júní 1893.

Frá 1824 til 1893, á 69 árum, voru byggðar fjórar kirkjur á Kálfatjörn. Þá er getið um kirkjur á Kálfatjörn í fornum máldögum og í kirkjuskrá Páls biskups Jónssonar frá árinu 1200. Einnig eru nefndar hálfkirkjur á Vatnsleysuströnd, í Vogum, á Bakka og á Stóru-Vatnsleysu. Þó hér séu ekki taldar upp kirkjur á Kálfatjörn nema frá 1824 þá eru til nokkuð öruggar heimildir um presta staðarins frá 1450 o síðan hafa 18 prestar þjónað staðnum í 536 ár, eða að meðaltali tæp 31 ár hver prestur (þar af einn í eitt ár). Í 93ja ára sögu núverandi kirkju á Kálfatjörn hafa verið 5 prestar.

Innheiðarbæir
Vatnsleysubæir
Nú eru upptaldin öll hverfi á Ströndinni ásamt býlum og því er farið yfir Keilsisnes, sem er austurmörk kirkjujarðarinnar Kálfatjarnar. Þá er komið að innanheiðarbæjunum sem byrja á Flekkuvík að sunnan…. sjá HÉR.

Heimild:
-Mannlíf og mannvirki í Vatnsleysustrandarhreppi eftir Guðmund Björgvin Jónsson – útgefið af höfundi 1987.
-https://baekur.is/bok/000147620/0/360/Mannlif_og_mannvirki_i/?iabr=on#page/Bla%C3%B0s%C3%AD%C3%B0a+168++(172+/+444)/mode/2up
Kálfatjörn

Norðurkot

Skoðað var umhverfi Norðurkots á Vatnsleysuströnd. Ætla mætti af áhuganum að dæma að þar hafi verið um höfuðbýli að ræða, en eittvað öðru nær – og miklu merkilegra. Norðurkot var dæmigert kotbýli frá höfuðbýlinu Þórustöðum. Þrátt fyrir það var á Brunnurstaðnum stofnsettur einn fyrsti barnaskóli landsins, auk þess sem staðurinn á sér bæði fagurt og blómlegt mannlíf frá fyrri tíð. Í Norðurkoti hafa varðveist heillegar grunnhúss- og garðhleðslur dæmigerðs kotbýlis þar sem ábúendur byggðu afkomu sína á sjósókn og dæmigerðu búfjárhaldi;  2 kýr og 12 ær á vetur setjandi. Síðasta íbúðarhúsinu var lyft af grunni sínum árið 2007 og flutt á fyrirhugað húsminjasvæði við Kálfatjörn – á nútímalegan steinsteyptan grunn.
Lýsingu þessa af Norðurkoti sömdu bræðurnir frá Kálfatjörn, Ólafur og Gunnar Erlendssynir. Báðir eru þeir gagnkunnugir í Norðurkoti. Ólafur er fæddur í Tíðagerði 23. október 1916. Hann kemur að Kálfatjörn fjögra ára gamall og elst þar upp til tvítugs. Gunnar er fæddur í Tíðagerði 7. febrúar 1920. Hann flytur að Kálfatjörn nokkurra vikna gamall og hefur búið þar síðan. Þá ræddu þeir bræður við Jón Björnsson frá Norðurkoti og Egil Kristjánsson frá Hliði. Lýsingin er skráð í nóvember 1976. Kristján Eiríksson gekk frá handriti.

Uppdráttur

„Á torfunni milli Kálfatjarnar og Þórustaða eru m.a. tóftir býlanna Hliðs, Tíðargerðis og Norðurkots. Hlið var byggð úr Kálfatjarnarlandi, en Tíðargerði og Norðurkot voru byggð úr Þórustaðalandi og liggur milli þess og Kálfatjarnartorfunnar, eins og fram kemur í landamerkjabréfi. „Örnefni virðast hér heldur fá. Ofan við bæinn, á mörkum milli Þórustaða og Norðurkots, er Tíðhóll. Neðan við bæinn er Stórhóll. Álfabyggð var talin í honum. Vatnagarður nefnist blautlendur mói, sem er neðan Norðurkotstúns; nær hann óslitið ofan kampsins að Goðhólsmörkum. Uppsátrið í Norðurkoti er í svokölluðum Krókavörum. Þær eru  neðan undan bænum, nokkurn veginn miðja vegu milli syðri og nyrðri landamerkja. Þar átti einnig Tíðagerði uppsátur. Framundan vörunum, hið næsta, er dálítið sandlón í skerjaklasanum, upp við kampinn. Þar er kallað Lónið. Framan við Lónið eru allhá þangsker og aðeins eitt mjótt skarð í, og flýtur þar nokkru síðar en í Lónum. Þar kallast Þröskuldur.

Kálfatjörn

Kálfatjörn – túnakort 1919.

Þá tekur Legan við og Kálfatjarnarsund. Þarna við vörina eru skiparéttir og fiskbyrgi, þar á meðal stæðileg tóft mjög vel hlaðin úr löguðu grjóti, lögð í sement. Það var fiskbyrgi.

(Ath.: Naustin voru alltaf á sjávarkampinum, venjulega með hlöðnum veggjum a.m.k. á tvo vegu. Í þau voru skipin sett þegar búizt var við vondu veðri og einnig að lokinni vertíð. Var það kallað að nausta. Stundum voru naustin notuð sem skiparéttir. Þær stóðu þó oftast hærra yfir sjávarmál. Var lögun þeirra svipuð og naustanna. Upphaflega hafa þær líklega verið hlaðnar á þrjá vegu þótt á seinni tíð hafi þær verið alla vega. Í skiparéttunum var bátunum hvolft yfir veturinn.)
Við sjávargötuna, skammt ofan við naustin, var pyttur einn, er Árnapyttur nefnist. Steinsnar norðaustan við bæinn í Norðurkoti stóð býlið Tíðagerði, byggt úr Norðurkotslandi. Því tilheyrði kálgarður neðan við bæinn, allstór.  Skiptist hann að nokkru um klapparbala. Neðan hans var kálgarðurinn kallaður Leynir.
FiskbyrgiTíðagerðistúnið er ofan og austan við bæinn. Um það eru hlaðnir grjótgarðar. Djúp graslaut er rétt norðan við bæjarstæðið í Tíðagerði. Hún var kölluð Lautin. Á klöppinni norðan við Lautina, rétt utan við túngarðinn, er vatnsstæði, Klapparvatnsstæði.
Sunnan við garðinn, sem skilur á milli Norðurkotslands og Goðhóls, neðan Hliðs, eru rústir býlisins Harðangurs. Þar er lítill túnblettur innan garða, sennilega kálgarðar upphaflega.“
Ari Gíslason skráði örnefni í Norðurkoti. „Jörð í eyði, næst við Þórustaði á Vatnsleysuströnd, er í eyði. Uppl. eru frá Erlendi Magnússyni, Kálfatjörn, en er eitthvað málum blandið. Neðan við Tíðhól sem nefndur var hjá Þórustöðum og er mjög nærri merkjum heitir Tíðagerði. Þá er þar frammi í sjó tvö sker sem heita Stóri-Geitill og Litli-Geitill, þessi sker fara í kaf um flóð. Milli þeirra og nafnlausra skerja sem tilheyra Þórustaðatöngum heitir Geitlasund. Þá eru hér þrjár lendingar; Krókar, þar var lent frá norðurbæ Þórustaða, Norðurkoti og Tíðagerði.

Sjávargata

Fram af Markkletti er flúð sem heitir Sigga, í Kálfatjarnarlandi. Goðhóll er í landi Kálfatjarnar, niður af er Goðhólsvör og Goðagljá. Auðnagljá og Þórustaðagljá eru sandpollar þar sem skipin lágu. Hlíð var eyðibýli á merkjum. Vatnsstæðisklöpp er fyrir neðan Tíðagerði, neðst á Vatnagörðum er Árnapyttur. Gljárnar eru framan við hnýflana en fremstur allra hnýfla er Þórustaðahnýfill.
Frá landi skiptast sker í fjóra flokka eftir gerð og lögun. Næst landi eru sker, þau eru allavega löguð. Næst eru flúðir, það eru yfirleitt flöt, mikil um sig og koma upp um fjöru. Hníflar, háir hólmyndaðir, koma upp um fjöru, eru ekki klapparbalar heldur grjót og oft vaxnir geysistórum þönglum (graðhestaþönglum). Boðar eru lengst frá landi, utastir allra, allavega lagaðir og stundum án þess að koma upp úr um stórstraumsfjörur.“

NorðurkotGísli Sigurðsson skráði einnig örnefni í Norðurkoti. „Norðurkoti við Þórustaði tilheyrir land allt innan girðingar sem nær frá Merkjagarði þeim sem er í milli Kálfatjarnar og Tíðagerðis að norðanverðu við hinn svonefnda Vatnagarð, allt suður að vírgirðingu þeirri sem Björn Jónsson hefur sett yfir túnið milli Norðurkots og Austurbæjarparts Þórustaða.
Úr neðri enda girðingar eru mörkin beina stefnu í útnorður niður á sjávarbakkann sem er fyrir neðan, í austurhornið á girðingunni sem þar er á bakkanum, gjörð kringum túnblett sem Eyjólfur á Þórustöðum hefur ræktað þar upp úr gömlum tóftum. Túnmörk þessi stefna beint á Geitil en þannig nefnist útsker sem er norðanvert við Þórustaðatanga.
Innan áðurnefndrar girðingar fylgir túnið og Vatnagarðurinn nefndu býli, Norðurkoti, allt frá túngarði þeim sem hlaðinn er landsunnan megin við býlið, allt beint niður á Sjávarkamp.
NorðurkotSamt er hér frá undanskilið tún það og hússtæði og kálgarður sem útmælt hefur verið býlinu Tíðagerði sem liggur innan fyrrnefndra girðinga og er það á stærð hér um bil 2400 ferfaðmar, fyrir utan útfærslu þá sem síðan var útmæld, landsunnan megin við Tíðagerðistúnið handa því býli.
Í óskiptu heiðalandi utan túns hafa nefnd býli, Norðurkot og Tíðagerði, beitarrétt fyrir fénað sinn sem tiltölu við ¾ hluta Þórustaðatorfunnar. Landamerki þessi eru þannig samin af mér undirskrifuðum eiganda að Norðurkoti, Tíðagerði og Austurbæjarparti Þórustaða – Fjármálaráðuneytið 26.8. 1927.“

Norðurkot

Norðurkot – gamla skólahúsið. -RS

Norðurkot virðist að venjulega hafi verið talið með Þórustöðum og tilheyrði því Norðurkotstún. Á norðurmörkum voru Merkjagarður og Vatnagarður og túnmörk milli Norðurkots og Þórustaða-Austurbæjarparts. Úr þessum túnmörkum með girðingu liggur lína niður á sjávarbakkann við girðingu, kringum túnblett Eyjólfs á Þórustöðum. Túnmörkin stefna síðan í útnorður á Geitil sem ekki mun heyra til býli þessu að neinu leyti. Vatnagarðurinn er talinn fylgja nefndu býli en í honum er Árnapyttur og svo tilheyrir þessu býli Vatnsstæðisklöpp. Norðurkot virðist vera í eyði nú.
Tíðagerði var býli, þurrabúð með Tíðagerðislóð eða Tíðagerðistún. Býlinu fylgdi garður, matjurtagarður, og svo var heiðarlandið óskipt en leyfi til beitar eftir stærð heimalandsins en Tíðagerði átti 2400 ferfaðma land.

Heimildir:
-Örnefnalýsing Ólafs og Gunnars Erlendssonar.
-Örnefnalýsing Ara Gíslasonar.
-Örnefnalýsing Gísla Sigurðssonar.

Norðurkot

Norðurkot

Í bók Guðmundar Björgvins Jónssoar, „Mannlíf og mannvirki í Vatnsleysustrandarhreppi“ má lesa eftirfarandi um gamla skólahúsið í Norðurkoti, sem síðar var híft af stalli og síðan staðsett og endurreist vestan við Kálfatjarnarkirkju í sama hverfi.

Norðurkot

Norðurkot – skólahúsið.

Það var árið 2003 þegar skólahúsið í Norðurkoti stóð enn þar sem það upprunalega var, að Rafn Sigurðsson fór til þess að skrásetja það með myndum áður en “húsið” myndi grotna niður og verða að ónýtum kofahjalli. Það mátti ekki tæpara standa því 2005 var húsið flutt í heilu lagi að Kálfatjörn.

„Norðurkot er hjáleiga úr landi kirkjujarðarinnar Kálfatjarnar.
NorðurkotFyrir aldamótin bjuggu í Norðurkoti hjónin Erlendur Jónsson og kona hans, Oddný Magnúsdóttir. Erlendur var hálfbróðir Helga Sigvaldasonar í Litlabæ. Hjónin í Norðurkoti áttu Ólaf fyrir son, trésmið, er síðar fór til Ameríku og týndist þar fyrir fullt og allt.

Árið 1903 var Norðurkot byggt upp eins og það er í dag. Það var skólanefnd og hreppurinn sem létu gera það og var húsið notað sem skólahús fyrir „Innstrendinga”. Húsið var úr timbri, ein hæð og portris.

Norðurkot

Norðurkot – gamla skólahúsið.

Kennslunni var ætluð neðri hæðin, en risið var hugsað til leigu og í þá íbúð fluttu hjónin Björn Jónsson og kona hans, Halla Matthíasdóttir. Höfðu þau dvalið í gamla bænum í nokkur ár, en Erlendur og Oddný voru farin þegar nýja húsið var byggt. Björn og Halla voru hin skemmtilegustu heim að sækja og var oft komið við í Norðurkoti eftir kirkjuathafnir. Norðurkot var grasbýli, auk þess sem Björn gerði út bát sem ég man að hét Eining. Var sú útgerð smá í sniðum, en bjargaði með öðru. Barnakennsla var aflögð í Norðurkoti árið 1910 og snemma á árinu 1911 keypti Guðmundur í Landakoti Norðurkotið af hreppnum og leigði Birni þá allt húsið.

Norðurkot

Norðurkot – skólahúsið.

Snæbjörn Reynisson, skólastjóri Stóruvogaskóla, segir að fyrsta árið hafi verið nítján börn í skólanum, á aldrinum átta til fjórtán ára, úr Kálfatjarnarhverfi og nágrenni.

Síðasta ári sem kennt var í Norðurkoti voru þrír skólar í Vatnsleysustrandarhreppi. Eftir að skólahald lagðist af var búið í Norðurkoti um tíma, fram á fjórða áratuginn. Síðan hefur það staðið autt eða verið notað sem geymsla. Það voru afkomendur Erlendar Magnússonar, bónda á Kálfatjörn, sem gáfu Minjafélagi Vatnsleysustrandarhrepps Norðurkotshúsið á síðasta ári og stóð félagið fyrir flutningi þess (24. mars 2005) að Kálfatjörn með styrk frá Alþingi og stuðningi verktaka.

Norðurkot

Norðurkot skömmu fyrir flutninginn.

Talsvert átak var að flytja húsið. Þannig þurfti að leggja veg að því svo dráttarbíll og krani kæmust að.

Húsið var sett niður til bráðabirgða við gömlu hlöðuna á Kálfatjörn en það verður sett á grunn á bak við hlöðuna. Birgir Þórarinsson, hjá Minjafélagi Vatnsleysustrandarhrepps, segir að vegna þess hversu langt er síðan búið var í húsinu hafi því lítið verið breytt að innan. Ætlunin sé að koma þar upp safni þar sem saga hússins verði sögð. Þangað verði til dæmis hægt að fara með börn úr grunnskólum og sýna þeim hvernig skólahald fór fram í upphafi síðustu aldar. Ingibjörg Erlendsdóttir frá Kálfatjörn gaf félaginu ýmsa muni sem tengjast skólahaldi og verða þeir notaðir við uppsetningu sýningar í húsinu.“

Sjá meira um Norðurkot HÉR og HÉR.

Heimildir:
-Mannlíf og mannvirki í Vatnsleysustrandarhreppi, Guðmundur Björgvin Jónsson, útg. 1987, bls. 312-315.
-https://icelandphotogallery.com/project/gamla-skolahusid-i-nordurkoti-fyrir-flutning/

 

Norðurkot

Norðurkoti lyft af grunni sínum og síðan flutt að Kálfatjörn.

Móakot

Í bók Guðmundar Björgvins Jónssonar, „Mannlíf og mannvirki í Vatnsleysustrandarhreppi„, segir m.a. frá bæjunum í Ásláksstaðahverfi.

Ytri-Ásláksstaðir

Ytri-Ásláksstaðir

Ytri-Ásláksstaðir.

Ásláksstaðahúsið, sem nú stendur, var byggt um 1883-4 úr kjörviði sem seldur var á uppboði úr skipinu James Town, er strandaði í Höfnum árið 1881.

Lúðvík og Friðrik Davíðssynir eru eigendur að jörðinni og er Atlagerði, Móakot og Nýjibær í eigu Ytri-Ásláksstaða, eins og þeir bæir munu hafa verið fyrr á tímum.

Útihús við eyðibýlið Ásláksstaði á Vatnsleysuströnd brunnu til grunna í eldsvoða þann 16. október 2017 kl. 17:09.

Nú eru Atlagerði, Móakot og Nýibær komin í eigu Ytri-Ásláksstaða, eins og þeir bæir munu hafa verið fyrr á tímum.

Atlagerði

Atlagerði

Atlagerði.

Atlagerði er í landi Ásláksstaða, móðurjörð hvrefisins. Bærinn markaði upphaf Gerðistanga, en á þeim tanga stendur Gerðistangaviti, sem áður hét Atlagerðisviti.

Fagurhóll
Fagurhóll var í suðausturhorni Áslákstaðajarðar, rétt utan túngarðsins. Hann var jarðlaus.

Nýibær

Nýibær

Nýibær (Hallandi).

Nýibær hét áður Hallandi. Tóftir bæjarins sjást enn. hann var byggður 1917. Nýjabæjarjörðinni var skipt út úr Ásláksstöðum í upphafi, en var fyrir nokkrum árum, eða um 1970, keypt aftur undir Ásláksstaði.

Móakot
Móakot var tómthús frá Ásláksstöðum, en varð síðar grasbýli og um tíma tvíbýli. Það er á suðuhluta Ásláksstaðarjarðarinnar og er nú sameinuð aðaljörðinni.

Sjónarhóll

Sjónarhóll

Sjónarhóll. Innri-Ásláksstaðir að baki.

Um 1886 byggði Lárus Pálsson „homapati“ Sjónarhól. Árið 1885 hafði Lárus keypt hálfa jörðina Innri-Ásláksstaði og árið 1886 skrifaði hann undir landamerkjasamning milli Ásláksstaðahverfis og Knarrarnesshverfis sem einn landeigandi hálflendunnar Innri-Ásláksstöðum.

Garðbær

Garðbær. Bær vinnukonu á Sjónarhól, sennilega byggður á tóftum Fagurhóls.

Lárus byggði nýtt hús austan við Innri-Ásláksstaði og nefndi það Sjónarhól. Það hús var timburhús og allt rúmgott. Núverandi steinhús var byggt 1929. Vilmundur Jónsson, fyrrv. landlæknir, keypti Sjónarhól og eiga ættingjar hans hann nú.

Innri-Ásláksstaðir

Innri-Ásláksstaðir

Innri-Ásláksstaðir. Sjónarhóll t.h.

Um aldamótin 1900 bjuggu á Innri Ásláksstöðum Magnús Magnússon og kona hans Ingibjörg Jónsdóttir. Eftir að Magnús brá búi og fluttist til Hafnarfjarðar lagðist jörðin undir Sjónarhól og hús Innri-Ásláksstaða voru eftirleiðis notuð sem útihús.

Heimild:
-Mannlíf og mannvirki í Vatnsleysustrandarhreppi, Guðmundur Björgvin Jónsson, útg. 1987, bls. 261-272.

Ásláksstaðahverfi

Ásláksstaðahverfi.

Hólmsbúð

Í bók Árna Óla „Strönd og Vogar„,- úr sögu einnar sveitar í landnámi Ingólfs Arnarssonar, er fjallað um „Gömlu veiðistöðina“ Hólmabúð undir Stapanum vestan Voga.

Strönd og vogar

Strönd og vogar – Árni Óla.

„Ég fór að skoða Hólmabúðir, hina gömlu veiðistöð undir Vogastapa. Með mér var Egill kennari Hallgrímsson, sem fæddur er og upp alinn í Minni-Vogum og þekkir hvern stein og hverja þúfu þar í grenndinni. Hann man og þá tíma, er aldahvörf urðu í útgerðarháttum hér.
Stóru-VogarVið gengum inn fyrir Vogavíkina, þar sem nefnist Vogasandur. Austan megin víkurinnar blasir þá við hin nýja byggð, þorpið, sem er samvaxið gamla bæjahverfinu. En sá er enn munur á þorpinu og gamla hverfinu, að í hverfinu eru stór tún umhverfis hin nýju hús, er reist hafa verið á jörðunum. Yst á tanganum er svo frystihúsið og sjóbúðir, en fram af þeim hafnargarður og bryggja, sem hreppurinn á. Við bryggjuna eru bundnir nokkrir vélbátar. Hér er nýi tíminn að ryðja sér til rúms.
Hér voru áður tvær jarðir, Stóru-Vogar og Minni-Vogar, og fylgdu þeim nokkrar hjáleigur, og em orðnar að sérstökum býlum sumar, en aðrar hafa lagst niður. Hér er Suðurkot og Nýibær, Hábær (er áður hét Tuðra) og Tumakot, Austurkot og Norðurkot. Þessi „kota“-nöfn eru löngu orðin úrelt, því að hér eru engin kot. En sjálft höfuðbólið Stóru-Vogar, sem mun vera landnámsjörðin Kvíguvogar, hefir lengi staðið í eyði og er nú að hruni komið. Þarna var þó einu sinni hæsta timburhúsið í Vogunum.

Stóru-Vogar

Stóru-Vogar í Vogunum eru með merkilegri minjum. Steinhúsið var byggt 1871 af fyrsta íslenska steinsmiðnum, Sverri Runólfssyni. Sá hinn sami og byggði m.a. sjálfa Skólavörðuna (1868), Þingeyrakirkju (vígð 1877) og steinbrúnna yfir lækinn í Reykjavík (1866). 

En grunnur þess er óbifanlegur. Það eru útveggir steinhúss, sem Jón Magnússon Waage reisti árið 1871 og mun hafa verið fyrsta steinhús, sem íslenskur bóndi lét reisa. Smiðurinn var Sverrir Runólfsson steinhöggvari, og segir í Iðnsögu íslands, að þetta hafi verið eitthvert helsta verk Sverris, og smíðaði hann þó bæði Skólavörðuna í Reykjavík og Þingeyrarkirkju. (Í Iðnsögunni er sú villa, að húsið hafi verið reist í Minni-Vogum). Veggir hússins voru tvíhlaðnir úr hraungrýti, sem lagt var í kalk og er veggjaþykktin 1 al. 6”—1 al. 9”. Loft, gólf og þaksúð var úr plægðum borðum og helluþak á húsinu. Sjórinn er alltaf að brjóta bakkann hjá Stóru-Vogum og er kominn alveg heim að húsinu. Nú seinast hefir hann brotið skarð í sjóvarnargarð, sem þar var gerður, svo að undirstaða hússins er í hættu.
Fram af Austurkoti er tjörn á sjávarbakkanum og grandi fyrir framan.
HómabúðÁ þessum granda stóð áður ein af hjáleigunum og hét Eyrarkot, en grandinn Eyrarkotsbakki. Þar var útræði fyrrum. í tjörninni er stór og grasgefinn hólmi og þar verpur fjöldi af kríum. í miðri byggðinni er hár hóll, sem Arahóll nefnist, og stendur á honum varða mikil, sem heitir Aravarða. Undir hólnum er fagur hvammur, og þar á með tímanum að koma skrúðgarður og skemmtigarður þorpsins. Fram undan er svo Vogavíkin, lygn og svipfríð, og í henni speglast Stapinn með grænum geirum, skriðum og klettabeltum. Hann setur og sinn svip á allt umhverfið. Það er fagurt í Vogum, og hvergi hefi ég séð fegurra sólarlag en þar.

Vogar

Brekkuvörin. Hólmabúð h.m.

Þegar staðið er innan við Vogavíkina, er auðséð, að hér hefir sjórinn brotið mikið land. Er ekki ósennilegt, að í fornöld hafi verið graslendi fyrir botni víkurinnar og út með Stapanum að vestan. En það er þá allt horfið og eftir standa svört sker og tangar. Mestur er Kristjánstangi fyrir miðjum víkurbotninum. Þar stóð einu sinni salthús, og ef til vill hefir verið þar útræði einhvern tíma, en þess sjást nú ekki merki og enginn veit neitt um það að segja. Saltgeymslan hefir ef til vill aðeins verið fyrir Stóru-Voga.
HólmabúðVið höldum nú vestur að Stapa. Á þeirri leið eru réttir þeirra Vogamanna, hlaðnar úr grjóti undir klapparholti nokkru. Þetta eru gömlu réttirnar á Suðurnesjum, og þangað kom fé úr öllum nálægum hreppum og margt fólk, meðan réttadagurinn var einn af hátíðardögum ársins. Skammt fyrir ofan er Suðurnesjavegurinn og liggur upp á Stapann sunnanverðan. Við höldum gamla veginn, sem lá út með Stapanum, og verður þá brátt fyrir okkur dæld eða skarð í Stapann. Þetta er hið alkunna Reiðskarð, þar sem alfaravegurinn lá öldum saman, brattur nokkuð og stundum ófær á vetrum vegna fannkyngi í skarðinu.

Stapinn

Stapabúð.

Utan við skarðið hækkar Stapinn mjög, og með flóði fellur sjór þar upp að honum, svo ekki verður komist nema klöngrast hátt í skriðum. Nú var fjara og leiðin greið. Utan við þessa forvaða er svo komið að Hólmabúðum, sem eru gegnt Vogabæjunum. Hér er enn nokkur undirlendisskák með fram Stapanum. Þar eru háar og grýttar skriður á aðra hönd, með nokkrum grasgeirum á milli, en klettabelti efst í brúnum. Á hina höndina skagar nes út í víkina. Þetta er Hólminn, og hér hefir eflaust verið veiðistöð um margar aldir. Saga þeirrar útgerðar er nú glötuð, nema hvað nokkuð er vitað um sögu Hólmans síðan um 1830—40, að hið svonefnda „anlegg“ rís þar upp. En svo nefndu menn í daglegu tali hús þau, er Knudtzon lét reisa þarna, salthús og fisktökuhús. Knudtzon var aldrei kallaður annað en „gróssérinn“.
HólmabúðMjór tangi tengir Hólminn við land. Þar standa skrokkar af tveimur gömlum vélbátum og hallast hvor upp að öðrum í sameiginlegu umkomuleysi. Þetta voru einu sinni glæsilegar fleytur, sem drógu björg í þjóðarbú, en eru nú ekki annað en tvö útslitin hró, sem lokið hafa ætlunarverki sínu. Og á skeri þar rétt fyrir innan er ferlíki nokkurt, hálft í sjó og hálft uppi á skerinu. Þetta er einn af innrásarprjámum þeim, er bandamenn smíðuðu til þess að flytja á herlið sitt til Frakklands 1944.
En hvernig stendur á því, að slíkt fartæki er komið hér inn á Vogavík? Sú er saga til þess, að Óskar heitinn Halldórsson keypti nokkra af þessum stóru prjámum eftir stríðið og lét draga þá hingað.

Stapi

Stapi – strandaður innrásarprammi.

Síðan hafa þeir allir, nema þessi eini, verið notaðir til hafnargerðar á þann hátt, að þeir hafa verið fylltir með steinsteypu og síðan sökkt sem steinkerjum, þar sem hafnargarðar hafa verið gerðir.
Þegar komið er út í Hólminn, er hann nokkuð stór og hringlaga. Má þar sjá leifar af miklum mannvirkjum. Fyrst er þar grunnur undan stóru húsi, sem líklega hefir verið fisktökuhús og íbúðarhús umsjónarmannsins, sem þarna var. Þetta hús hefir verið um 15 metrar á lengd og breitt að því skapi. Þar hjá er grunnur undan öðru húsi, og þar mun hafa verið salthúsið, sem tók 2000 tunnur af salti. Steinstéttir eru umhverfis þessi hús, en hvort það hafa verið gangstéttir, eða ætlaðar til að breiða á þær fisk, verður ekki sagt.

Hólmabúð

Hólmabúð séð af Stapanum.

Fremst á Hólminum eru rústir af grjótbyrgjum, þar sem vertíðarmenn hafa saltað fisk sinn. Hefir sjórinn brotið nokkuð af þessum byrgjum, svo að nú verður eigi séð, hve mörg þau hafa verið, en heillegar tóftir standa eftir af sumum. Þarna eru og leifar af miklum grjótgörðum. Tvö svæði á stærð við meðalkálgarð eru þar afgirt með grjótgörðum, og getur verið, að annað þeirra hafi verið bátaskýli, og hafi menn dregið inn í það báta sína þegar mjög hvasst var, svo að þá tæki ekki upp. Þessi rétt eða skýli hefir verið rétt við lendinguna innan á Hólmi, en svo var önnur lending utan á honum. Seinustu útgerðarmenn þarna, meðan „anleggið“ var, voru bændur úr Kjós, af Kjalarnesi, Seltjarnarnesi og úr Reykjavík. Er talið, að þeir hafi haft þar 18 báta.

Stapabúð

Stapabúð.

Seinasti „útlendingurinn“, sem gerði þarna út, var Haraldur Böðvarsson kaupmaður á Akranesi. Hann eignaðist fyrsta vélbát sinn, „Höfrung“, árið 1908 og gerði hann út í Vestmannaeyjum á vertíð 1909. Þetta var ekki nema 8 tonna bátur, og Haraldi leist ekki á að hafa hann þar. Og eftir að hafa athugað alla staði hér nærlendis, taldi hann Hólmabúðir á Vogavík heppilegasta útgerðarstaðinn fyrir sig. Þar var gott lægi fyrir litla vélbáta innan við Hólminn, og þar mátti draga þá á land, ef þurfa þótti.

Stapinn

Hólmabúð 2022.

Að vísu var gamla verstöðin komin í eyði fyrir löngu, en hann reisti þarna dálítið hús í félagi við annan útgerðarmann, og gerði síðan út þar í þrjú ár, eða þar til hann fluttist til Sandgerðis með útveg sinn. Tveir af kunnustu útvegsmönnum við Faxaflóa, Geir Zoega og Haraldur Böðvarsson, byrjuðu því báðir útgerð sína í Vogunum.
Þurrabúð rís fyrst í Hólmi 1830. Bjarni Hannesson hét sá, er þar bjó fyrstur. Hann mun hafa dáið um 1844. Kona hans, Valgerður Þórðardóttir, giftist síðan Guðmundi Eysteinssyni, er verið hafði vinnumaður hjá þeim, og voru þau í Hólmabúðum fram til 1848.
Það er á þessu tímabili, að Knudtzon byrjar „anleggið“ þarna. Mun hann hafa haft þar sérstaka afgreiðslumenn, sem ekki hafa dvalist þar nema tíma og tíma. Hólmabúðir munu þá hafa verið orðnar grasbýli. Leggur Knudtzon það undir sig, þegar Guðmundur fór þaðan, og fylgir það síðan stöðinni.

Hólmabúð

Hólmabúð.

Árið 1850 kemur að Hólmabúðum Jón Snorrason dbrm. á Sölvahóli í Reykjavík, og er hann fyrst nefndur verslunarþjónn, en síðar verslunarstjóri. Fær Jón þann vitnisburð, að hann sé „prýðilega að sér og gáfaður dánumaður“. Hann var þarna í sex ár. Næstur honum er Kristján Jónsson, og er hann þar í þrjú ár. Síðan er Guðmundur Magnússon þarna eitt ár.

Stapinn

Hólmabúð.

Árið 1860 koma þau þangað Jón Jónsson prentari, sem kenndur var við Stafn í Reykjavík, og kona hans Sólveig Ottadóttir, Guðmundssonar sýslumanns. Þau eru þar í þrjú ár. Þá tekur við Egill Ásmundsson, en næsta vetur hrapaði hann í Vogastapa og beið bana.
Árið 1864 koma svo Jón Breiðafjörð og Arndís Sigurðardóttir að Hólmabúðum, og var Jón forstjóri stöðvarinnar um 12 ára skeið. Á sama tíma rak hann einnig útgerð fyrir sjálfan sig, og var þarna oft 14 manns í heimili hjá þeim. Vorið 1876 fluttust þau svo að Brunnastöðum, eins og fyrr er getið.

Stapinn

Brekka 2022.

Næsti forstjóri Hólmabúða var Stefán Valdimarsson Ottesen, og gegndi hann því starfi fram til 1882. Þá er mjög farið að draga úr útgerð þarna. Eftir það kom þangað Björn nokkur Guðnason og var þar til ársins 1898. Hann hefir sennilega verið seinasti stöðvarstjóri í Hólmi. Seinasti maður, sem þar bjó, hét Elís Pétursson, og var hann þar aðeins árið. Síðan fara engar sögur af stöðinni, og munu húsin hafa verið rifin um aldamót.
[FERLIR barst síðar eftirfarandi tölvupóstur frá Ferne Gudnason, Mirror, Alberta, Canada: „Thank you for the Information on FERLIR about Hólmabúð which mentions my great grandfather, Bjorn Gudnason who was born in 1834 and moved to Canada in August of 1900 and then returned to Iceland in 1916 and died at Narfakot in December 1916. He is buried at Kalfatjornkirkja.
I have been to  Hólmabúð   twice with Viktor Gudmundson from Vogar as a guide.  It is very emotional to stand on the land where one’s ancestors worked and lived. – Thank you.„]

Hólmabúð

Hólmabúð. Drónamynd Elg.

Á undirlendinu með fram Stapanum eru rústir af tveimur býlum, sem upphaflega voru þurrabúðir, en urðu að grasbýlum. Annað þeirra hét Brekka. Þetta býli reisti Guðmundur Eysteinsson, er hann fór frá Hólmabúðum 1848, og bjó hann þar fram til 1861. Síðan eru þar nokkrir ábúendur skamma hríð, en 1869 flyst þangað Guðmundur Jónsson og bjó þar í full 30 ár og hafði oft húsmennskufólk á vegum sínum. Árið 1899 koma þangað hjónin Pétur Jónsson og Guðlaug Andrésdóttir ásamt sex uppkomnum börnum sínum. Pétur bjó þarna til dauðadags 1916, og var þar þá oft mannmargt. Síðan bjó ekkja hans þar eitt ár, en þá tók við búinu tengdasonur hennar, Magnús Eyjólfsson, og bjó þar fram um 1930, en hafði þó býlið undir miklu lengur. Á Brekku stendur enn stofuveggurinn, hlaðinn forkunnarvel úr grjóti.

Stapakot

Stapabúð.

Kippkomi utar eru rústir hins býlisins, en það hét Stapabúð. Það reisti fyrst Jóhannes nokkur Guðmundsson 1872 og bjó þar tvö ár. Næsti ábúandi, Pétur Andrésson, bjó þar þrjú ár. Þá fluttist þangað ekkja, Herdís Hannesdóttir, ásamt 4 börnum sínum og bjó þar til 1885. Seinustu árin bjó þar á móti henni tengdasonur hennar, Eiríkur Eiríksson, sem var kvæntur Guðlaugu Helgadóttur.

Stapinn

Stapabúð 2022.

Eftir það koma þangað hjón, er bjuggu þar aðeins árið. En síðan flytjast þangað Jón Jónsson og Kristín Illugadóttir og búa þar til ársins 1896. Þegar þau fluttust þaðan, lagðist Stapabúð í eyði, en bóndinn á Brekku mun hafa nytjað tún það, sem þar hafði verið ræktað og mun hafa verið um kýrfóðursvöllur. Á Stapabúð er járnþak baðstofunnar enn uppi hangandi. Hér mótar fyrir gömlum grjótgörðum, og má vera, að sumir af þeim hafi verið gerðir til að þurrka á þeim skreið, því að útræði var hér og á Brekku áður en býlin komu. Hjá Stapabúð eru einnig rústir af saltfiskbyrgjum, en þau hafa ekki verið gerð fyrr en farið var að salta fisk, og saltfiskverkun hófst ekki hér við Faxaflóa fyrr en á árunum 1820—1840. Enn utar með Stapanum eru hinar svonefndu Kerlingabúðir. Þar hefir aldrei verið neitt býli, heldur aðeins sjóbúðir og sést nú lítið af þeim, því að sjór hefir brotið þær að mestu leyti.

Hólmabúð

Hólmabúð. Drónamynd Elg.

Hérna undir Vogastapa, þar sem nú eru aðeins gamlar rústir, hefir sjálfsagt verið mikil verstöð fyrrum, jafnvel allt frá Hrolleifs dögum, því að hér hefir hagað enn betur til um sjósókn heldur en á Gufuskálum, þar sem Steinunn gamla ákvað að vera skyldi vermannastöð frá Hólmi í Leiru.

Kerlingarbúðir

Leifar Kerlingarbúðar undir Stapa.

Vermenn hafa átt hér búðir öldum saman, þó að þeirra sjáist nú engar minjar. Sumar hefir sjórinn tekið, en aðrar hafa breyst með tímanum og grjótið úr þeim notað í nýjar byggingar. Hér hafa verið góðir lendingarstaðir, meðan sjór var sóttur á opnum bátum, og sjaldan brást afli undir Stapanum. Eftir að fyrstu, litlu vélbátarnir komu, var gott vetrarlægi fyrir þá innan við Hólminn. En þegar stóru vélbátarnir komu, þá var þar ekki lengur griðastaður, og þá varð að gera höfn og hafnargarð.
Útgerðarhættir breytast og veiðiskapur breytist. Eitt er víst, að róðrarbátaútgerð hefst ekki aftur, og þess vegna eru nú gömlu varirnar og lendingamar til einskis nýtar. En staðhættir breytast ekki að sama skapi, og enn liggur Vogavík vel við útgerð. Sú útgerð verður mjög breytt frá því sem áður var, og jafnvel frá því sem nú er.

Stapinn

Upplýsingaskilti við Stapann.

Og þá minnist ég fyrsta mannsins, sem hafði hug á því að veiða síld í Faxaflóa til söltunar. Hann átti heima hér í Vogunum og var þarna langt á undan sínum tíma. Það er ekki fyrr en nú á seinni árum, að augu manna hafa opnast fyrir því, að hægt muni að stunda síldveiðar með góðum árangri hér í flóanum. Þar hefir Haraldur Böðvarsson verið brautryðjandi, og get ég ekki stillt mig um að taka hér upp það, sem eftir honum var haft á sjötugsafmæli hans: „Faxasíldin er gullnáma, sem enn hefir ekki verið unnin, nema að nokkru leyti, en enginn vafi er á því, að hún verður drjúg tekjulind fyrir þjóðarbúskapinn í náinni framtíð. Síldina er líklega hægt að veiða flesta mánuði ársins.“
Ég held, að útgerðin í Vogunum eigi eftir að breytast bráðlega, að þar sé ný aldahvörf í aðsigi. Ég held, að Voganir eigi eftir að verða að síldarbæ — stórum síldarbæ.“

Heimild:
-Árni Óla – Strönd og Vogar, úr sögu einnar sveitar í landnámi Ingólfs Arnarssonar, Gömul veiðistöð, Bókaútgáfa Menningarsjóðs, Reykjavík 1961, bls. 152-159.

Hólmabúð

Pramminn innan við Hólmabúð. Drónamynd Elg.

Eiríksvegur

Þorvaldur Örn Árnason skrifaði árið 2024 um „Náttúru- og söguperluna Vatnsleysuströnd„.

Þorvaldur Örn Árnason

Þorvaldur Örn Árnason.

Þeir sem hafa uppgötvað Vatnsleysuströnd vita að hún er perla, bæði hvað náttúru og sögu varðar. Svo er hún aðeins um 20 km frá hvort heldur höfuðborgarsvæðinu eða Keflavíkurflugvelli. Þar eru gömul tún, tjarnir og falleg fjara, ýmist með svörtum klettum, hvítum skeljasandi eða brúnu þangi, og mikið fuglalíf allt árið um kring.

Í þúsund ár var róið til fiskjar úr hverri vör og stutt að sækja. Vegna góðrar bjargar var þéttbýlt á Ströndinni á þess tíma mælikvarða. Lengi vel bjuggu þar fleiri en t.d. í Reykjavík eða Keflavík. Því er þar gríðarmikið af leifum fornra mannvirkja sem unnið er að skráningu á. Þegar gengið er eða hjólað með ströndinni er saga við hvert fótmál og fuglakvak í eyrum. Blómaskeiðið var 19. öldin þegar bændur höfðu sjálfir eignast jarðirnar og fiskaðist oft vel. Þá reis þarna einn elsti barnaskóli landsins sem enn starfar og byggð var vegleg kirkja á Kálfatjörn sem enn þjónar byggðinni.

Kálfatjarnarkirkja

Kálfatjarnarkirkja.

Undir aldamótin 1900 brást fiskurinn með ströndinni og svo lagðist árabátaútgerð af. Þá fækkaði mikið á Vatnsleysuströnd og enn búa þar fáir. Við tók vélbátaútgerð og var höfnin byggð í Vogum og myndaðist þéttbýlið þar. Nú búa rúmlega 1000 manns í Vogum en innan við hundrað á Vatnsleysuströnd.

Í aðalskipulagi Sveitarfélagsins Voga (sem áður hét Vatnsleysustrandarhreppur) er mörkuð stefna um þróun byggðar 2008 – 2028, m.a. á Vatnsleysuströnd. Ströndin skal áfram hafa á sér yfirbragð dreifbýlis en þéttast þó.

Ferlir

FERLIRsfélagar á göngu um Almenningsveginn á Vatnsleysuströnd.

Með sjónum skal vera óbyggt belti sem allir geta notið. Heimilt er að byggja 3 ný hús á hverri jörð til viðbótar þeim sem fyrir eru, ef fyrir liggur deiliskipulag, og skulu þau vera í samræmi við þá byggð sem fyrir er. Um árabil var erfitt að fá leyfi til húsbygginga á Vatnsleysuströnd en er nú auðsótt innan ramma skipulags. Nú geta fleiri sest að í þessu fagra, sögulega umhverfi, byggt ný hús eða gert upp þau eldri eins og sumir hafa þegar gert. Þarna eru tækifæri fyrir aukinn tómstundabúskap, svo sem hesta, kindur og hænsni. Þarna er kominn vísir að gistiþjónustu sem á örugglega framtíð fyrir sér og kunna erlendir gestir vel að meta þetta umhverfi.

Vatnsleysuströnd

Á Vatnsleysuströnd. Sveinn Björnsson, forseti, í heimsókn.

Með þéttari byggð verður auðsóttara að fá lagða hitaveitu og vatnsveitu um alla ströndina. Innan fárra ára mun hjólreiðaleiðin milli Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar og höfuðborgarsvæðisins liggja um Voga og Vatnsleysuströnd sem mun veita nýju blóði í byggðina og ferðaþjónustu þar.

Á Vatnsleysuströnd er Brunnastaðahverfið lítill þéttbýliskjarni og í Breiðagerði sumarhúsahverfi sem munu þróast áfram og þéttast sem slík. Heimilt er að byggja sérstaka golfbyggð að erlendri fyrirmynd í námunda við golfvöllinn á Kálfatjörn. Á að mestu óbyggðu svæði við Keilisnes og Flekkuvík er á skipulagi stór iðnaðarlóð og góð hafnarskilyrði frá náttúrunnar hendi.

Kálfatjörn

Kálfatjörn – Bakki og Litlibær fjær.

Á Vatnsleysuströnd eru 3 stór matvælafyrirtæki: hænsnabú með eggjaframleiðslu, svínabú og bleikjueldi. Það verður því mikið til að eggjum og beikoni á Ströndinni og bleikjan frá Vatnsleysu smakkast ákaflega vel.

Vatnsleysuströnd er strönd tækifæranna. Prófaðu næst þegar þú ekur Reykjanesbrautina að taka smá lykkju á leið þína og aka Vatnsleysuströnd. Það lengir leiðina örlítið en er vel þess virði, ekki síst að kvöldlagi um þetta leyti árs þegar sólin er að setjast á Snæfellsjökul.

-Þorvaldur Örn Árnason
íbúi í Sveitarfélaginu Vogum.

Vatnsleysuströnd

Vatnsleysuströnd – kort.