Færslur

Vogar - skilti

Í Vogum, ofan við innri Vogavíkina, er upplýsingaskilti um Hólmabúðir og Gullkistuna. Á því má lesa eftirfarandi texta:

Hólmabúðir og Gullkistan
VogarÍ Hólmanum hefur eflaust verið veiðistöð um margar aldir en saga þeirrar útgerðar er glötuð. Frá um 1830 þekkja menn hins vegar söguna þegar verstöðin Hólmabúðir rísa. Þá risu hin svokölluðu “anleggshús” sem menn nefndu í daglegu tali salthús og fisktökuhús stórkaupmanna, gróssera á 19. öld. Talið er að hér hafi verið gerðir út 18-20 bátar þegar best lét á 19. öld og sjómenn og landverkafólk verið um 140-150. Ummerki verstöðvanna eru óðum að hverfa þó enn megi sjá leifar af miklum mannvirkjum, húsagrunnum, kálgörðum, upphlöðnum torfveggjum, uppsátur og grjótbyrgjum fremst á Hólmanum þar sem sjómenn hafa salta fisk sinn.
Seinastur með útræði í Hólmanum árið 1910-1012 var Haraldur Böðvarsson. Eftir það flutti hann útgerðina, fyrst til Sandgerðis og síðar til Akraness.
Fiskimiðin undir Vogastapa voru kölluð Gullikistan vegna mikillar og góðrar veiði. Þjóðsagan sefir frá mikilli fiskgengd undir Reykjanesskagann, í göngum sem lágu frá Grindavík og komu upp undan Vogastapa.

Bæirnir undir Vogastapa
Vogar
Undir Vogastapa er lítið undirlendi. Vestast þar sem udirlendið er minnst voru Kerlingabúðir. Þar voru sjóbúðir sem sorfnar hafa verið burt af sjávarróti og landeyðingu. Um Kerlingabúðir eru til þjóðsögur.
Næst kom Stapabúð, síðast í ábúð árið 1896, þá Brekka sem lagðist í eyði árið 1928 og í Hólminum var þurrabúð. Stapabúð og Brekka voru grasbýli og greiddu þau landskuld til Stóru-Voga, er átti landið. Undir Stapanum sést ekki til sólar í 18 vikur.

Pramminn á Langaskeri
Vogar
Pramminn á Langaskeri var hluti af færanlegri höfn bandamanna við innrásina í Normandí í Frakklandi í seinni heimsstyrjöldinni. Tilgangurinn var að auðvelda hraða uppskipun hergagna og herliðs úr stórum herskipum sem ristu djúpt og komust ekki nálægt ströndinni.
Eftir stríðið keypti íslenskur athafnamaður, Óskar Halldórsson, nokkra pramma og lét draga þá hingað til lands. Prammarnir voru notaðir í hafnargerð, þeim var sökkt og fylltir grjóti og steypu.
Vogar

Selhólar

Á vefsíðu Minjastofnunar Íslands 26. mars 2021 árið 2021 er fjallað um “Náttúruvá á Reykjanesi:

Minjastofnun Íslands“Það hefur ekki farið fram hjá neinum að fyrir viku síðan hófst eldgos á Reykjanesi. Starfsmenn Minjastofnunar hafa síðustu vikur unnið að því að taka saman gögn um þekktar minjar á svæðinu og hófst sú vinna eftir að ljóst varð að minjum gæti stafað hætta af yfirvofandi náttúruvá. Í ljós kom að töluverður hluti af þeim minjum sem skráður hefur verið á hættusvæðinu var ekki uppmældur, sem er í dag hluti af þeim gögnum sem þarf að liggja fyrir til þess að fornleifaskráning teljist fullnægjandi samkvæmt þeim stöðlum sem Minjastofnun setur. Því var ákveðið að fara á þessa staði og mæla minjarnar upp, auk þess að taka þar nýjar ljósmyndir sem og drónamyndir ef veður leyfði.

Þegar eldgosið braust út í Geldingadal að kvöldi föstudagsins 19. mars hafði fornleifafræðingum hjá Minjastofnun tekist að heimsækja og mæla upp stóran hluta þeirra minja sem taldar voru í mestri hættu vegna yfirvofandi eldsumbrota. Má þar nefna að meginþorri minja í hættu á Ísólfsskála höfðu verið mældar upp sem og minjar við Keilisveg og fjöldi minja á og við Vogaheiði sunnan Reykjanesbrautar.

Sel á Reykjanesi

Gjásel

“Sel, eða selstöður, voru staðir sem nýttir voru á sumrin – stundum einnig kölluð sumarhús. Þangað var farið með búsmala, kindur og/eða kýr, til að halda þeim frá heimatúnum á meðan grassprettan var sem mest. Í seljum voru skepnurnar mjólkaðar og mjólkin unnin. Einnig eru vísbendingar um að fleiri athafnir hafi farið fram í seljum, s.s. nýting á öðrum auðlindum í umhverfinu. Í seljum voru hús sem hýstu þá sem þar dvöldu auk kvía/aðhalds (til að smala skepnunum í til mjalta); eldhús, geymslur/búr og jafnvel fleiri rými. Venjan var að hver bær ætti sitt sel, þótt stundum hafi þau verið samnýtt, og eru selin því oft nefnd eftir heimabænum. Í góðum seljalöndum má oft finna mörg sel, frá mörgum bæjum en jafnvel einnig frá mismunandi tímum. Seljabúskapur hófst á Íslandi snemma eftir landnám og var stundaður allt til aldamóta 1900, en þó mislengi eftir landshlutum. Seljabúskapur var ekki eingöngu stundaður fyrir efnahagslegan ávinning og betri landnýtingu heldur einnig sem hluti af samfélagslegri hefð sem tekin var að heiman með fyrstu landnámsmönnunum en var haldið við hér í nýju landi. Selin hafa einnig haft pólitíska þýðingu en með þeim gátu menn helgað sér land, jafnvel langt frá bæ og þannig sýnt vald sitt. Seljabúskapur hefur því margar hliðar sem áhugavert er að skoða í samhengi við samfélag, efnahag og landslag hvers svæðis fyrir sig.

Selstöður

Brunnastaðasel
Á Vogaheiði er að finna leifar a.m.k. 20 selja, bæði frá bæjum sunnan- og norðanvert á Reykjanesskaganum. Sum selin eru einföld að gerð og þeim hafa aðeins tilheyrt ein til tvær litlar byggingar en önnur eru stærri og augljóst að þar hefur margvísleg starfsemi farið fram. Vegna þess hve heimahagar við bæi á Vatnsleysuströnd voru almennt rýrir, hefur verið nauðsynlegt að hafa í seli að sumri, þá sérstaklega kýr. Vatnsskortur á heiðinni hefur án vafa aftrað veru selsmala og annarra sem í seli voru en í Jarðabókinni er sagt frá því að fólk hafi þurft að flytja heim úr seli vegna vatnsleysis og uppblásturs. Heimildir eru til um vatnsflutninga á hestum til selja í Hafnahreppi og einnig að bræða hafi þurft snjó úr gjám til að fá vatn. Hið sama hefur án efa átt við um selstöðurnar í Vatnsleysustrandarhreppi þegar þurrviðrasamt var.

Ótrúlegt er að hugsa til þess að í þessu hrjóstruga landslagi sem ríkjandi er á Vogaheiðinni, leynist allur þessi fjöldi af seljum. En þegar betur er að gáð eru þar fjölmargir grænir grasbalar, oft undir hól eða klettabarði á skjólsælum stað. Hér verður skýrt frá nokkrum völdum seljaminjum á svæðinu en ljóst er að af nægu er að taka.

Fornasel

Fornasel – uppdráttur ÓSÁ. Úr BA ritgerð um “Sel vestan Esju”.

Fornasel er lítil selstaða, staðsett rétt um 700 m sunnan við Reykjanesbrautina. Selið stendur á lítilli hæð á grónu svæði. Heimildum ber ekki saman um frá hvaða bæ var haft þarna í seli. Ein heimild segir selið vera frá Þórustöðum en önnur heimild segir selið vera frá Landakoti og að það heiti Litlasel. Fornasels er ekki getið í Jarðabókinni 1703 eða annars sels á þessum slóðum en bókin nefnir þó Fornuselshæðir, sem líklega eru nokkuð ofar í heiðinni. Tóftir selsins standa mót vestri og sjást þar þrjár tóftir, allar vel greinanlegar, auk þess sem ein stök kví stendur litlu neðar. Rétt fyrir ofan hólinn, að austanverðu, er lítið vatnsból með grjóthleðslu í kring.

Knarrarnessel

Knarrarnessel – uppdráttur ÓSÁ. Úr BA ritgerð um “Sel vestan Esju”.

Knarrarnessel er u.þ.b. á miðri Vogaheiðinni, um 2 km suðvestur af Fornaseli. Í Knarrarnesseli er mest flatlendi umhverfis sel miðað við aðrar selstöður á heiðinni. Selstaðan er stórt með mörgum tóftum en líklegt er að flestir bæir í Knarrarnesshverfi hafi haft selstöðu þar og útskýrir það því fjölda bygginga sem þar hefur staðið. Því til stuðnings nefna heimildir að auk Knarrarness hafi Litla-Knarrarnes og Ásláksstaðir haft í seli í selstöðunni. Vatnsból selsins er í hól, um 100 m norðvestan við selið. Þegar loftmynd af svæðinu er skoðuð má sjá hvernig selrústirnar raðast á þennan litla grasbala í auðninni, sem einungis er um 150 m í þvermál.

Gjásel

Gjásel í Vogaheiði – uppdráttur ÓSÁ. Úr BA ritgerð um “Sel vestan Esju”.

Gjásel er staðsett á miðri Vogaheiðinni og rétt ofan við það er Gjáselsgjá. Ekki er vitað með vissu frá hvaða bæ var haft þar í seli en selstaðan er staðsett nálægt austurmörkum Brunnastaðasels. Í sumum heimildum er sagt frá því að selið hafi verið frá Brunnastöðum en aðrar heimildir nefna Hlöðunes í því samhengi. Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá 1703 segir að selstaða Hlöðuness, sem staðsett var ofar í heiðinni, sé aflögð vegna uppblásturs en Brunnastaðir eru þá enn með nothæfa selstöðu. Af því má leiða líkur að Gjásel hafi verið frá Hlöðunesi eftir að Hlöðunessel er lagt af. Stærð Gjásels gæti reyndar bent til þess að fleiri en einn bær hafi haft þar í seli en þar er að finna tóftir af átta húsum sem standa þétt í beinni röð undir gjárveggnum og mælast tóftirnar rúmir 30 m á lengd. Í öðrum seljum á heiðinni eru byggingar yfirleitt í pörum eða í mesta lagi þríhólfa byggingar. Tóftirnar eru vel greinanlegar og veggir enn uppistandandi sem bendir til þess að selið sé í yngra lagi, jafnvel með þeim yngstu á heiðinni.

Selsvellir

Selsvellir – uppdráttur ÓSÁ. Úr BA ritgerð um “Sel vestan Esju”.

Þó að gosið, sem hófst í Geldingadölum að kvöldi 19. mars, hafi enn ekki eyðilagt neinar fornminjar má nefna að vísindamenn telja líklegt að gosið geti verið upphafið að nýju gostímabili. Ef svo reynist vera er nokkuð ljóst að minjar munu áfram vera í hættu og þá á öllu Reykjanesinu. Við mat á fjölda þeirra fornminja, sem settar voru í hættuflokk í tengslum við gosóróann sem hófst í byrjun mars 2021, var stuðst við gögn stofnunarinnar um minjar sem þekktar eru á svæðinu og heimilda hafði verið aflað um. Það er þó alveg ljóst að þau gögn eru ekki tæmandi listi þar sem heildarskráning fornleifa á svæðinu hefur ekki farið fram. Sé einungis talað út frá seljaminjum má nefna að talið er líklegt að á Reykjanesskaga öllu sé að finna minjar um 250 selstaða og eru þá ótaldir allir aðrir minjaflokkar sem á skaganum er að finna. Því er ljóst að mikið verk er fyrir höndum við að rannsaka og skrá þessar minjar, áður en illa fer.”

Framangreindar hugleiðingar Minjastofnunar Íslands eru að mörgu leiti svolítið skondnar og því ástæða til að gera við þær nokkrar athugasemdir:

Reykjanes

Reykjanes – kort frá 1903.

Í fyrsta lagi virðist vera um einhverja hugtakavillu í höfðum starfsfólks Fornleifastofnunar Íslands þegar fjallað er um “Reykjanes”; Reykjanes er einungis ysti hluti Reykjanesskagans. Allt austan þess tilheyrir Skaganum og ber því réttilega að ritast allt slíkt; á “Reykjanesskaganum”.

Sel vestan Esju

Sel vestan Esju. BA-ritgerð frá 1994.

Í öðru lagi hefur vitneskja um selsminjarnar á Reykjanesskaganum ávallt legið fyrir fótum þeirra er hafa haft vilja til að kanna þær. Ekki þurfti eldgos til. Minjastofnun lætur líta svo út að starfsfólkið sé að forskrá óskráðar minjar á svæðinu. Því fer víðs fjarri.

Örnefni og gönguleiðir á Vatnsleysuströnd

Örnefi og gönguleiðir á Vatnsleysuströnd – Sesselja Guðmundsdóttir.

Í þriðja lagi liggur ljóst fyrir að Fornleifastofnun Íslands hefur fram að þessu dregið lappirnar varðandi nauðsynlegar skráningar fornleifa á Reykjanesskaganum, eins og svo margsinnis hefur verið bent á í gegnum tíðina.
Í fjórða lagi eru selin á Reykjanesskaganum ekki “um 250” talsins. Þau eru u.þ.b. 400 talsins.

Sel vestan esju

Sel vestan Esju – BA-ritgerð 2007.

Í fimmta lagi hafa öll sel “Vestan Esju” þegar verið skráð – sjá m.a. fyrirliggjandi BA-ritgerð um sel á vestanverðum Reykjanesskaga. Í þeim skrifum kemur t.d. fram allt framangreint og fjölmargt annað að auki.
Í sjötta lagi er augljóst að starfsfólk Minjastofnunar virðist haldið einhvers konar minnimáttarkennd gagnvart öðrum er best þekkja til svæðisins. A.m.k. hefur það ekki leitað til þeirra er gerst þekkja til þeirra minja er það geymir.

Sýrholt

Sel í Sýrholti (Fornusel).

Í sjöunda lagi er augljóst, m.v. fyrirliggjandi skráningu starfsfólks Minjastofnunar, að margar minjar á svæðinu er ekki að finna í þess skrám. Það þarf því að gera betur.
Í áttunda lagi virðist vera um handahófskennda leit að þegar skráðum fornleifnum hafði verið að ræða. Ekki hafa verið gerðar tilraunir til að leita uppi óskráðar fornleifar, sem víða leynast.
Hægt væri að halda lengi áfram með ábendingar þær er betur mætti fara í framangreindum starfsháttum Minjastofnunar Íslands…

Heimild:
-Minjastofnun Íslands, apríl 2021.

Kolhólssel

Kolhólssel.

Eldborg

Í Náttúrufræðingnum 1983 fjallar Jón Jónsson, jarðfræðingur, um Eldborg undir Trölladyngju, efst í Afstapahrauni, og reynir að áætla aldur hraunsins, sem úr henni rann:

Eldborg

Eldborg – kort.

“Þess skal og getið að gos það er orðið hefur rétt norðan við Trölladyngju og myndað gíginn Eldborg sýnist hafa orðið um líkt leyti og Afstapahraun rann. Ég hef áður talið þetta hraun yngra en Afstapahraun (Jón Jónsson 1978) en ekki treysti ég mér til að telja þá niðurstöðu með öllu ótvíræða. Vel gætu þessi gos bæði hafa verið svo að segja samtímis og mætti þá raunar um það deila hvort um er að ræða eitt gos eða tvö. Einar Gunnlaugsson (1973) fann öskulag ofan við landnámslagið í Hörðuvallaklofa og er líklegt að það sé af þessum slóðum komið. Ekki verður hins vegar í það ráðið hvort það kann að vera úr Eldborg eða öðru eldvarpi í nágrenninu.”

Eldborginni hefur nú verið spillt vegna efnistöku.

Heimild:
-Náttúrufræðingurinn, 1.-4. tbl. 01.05.1983, Eldgos á sögulegum tíma á Reykjanesskaga – Jón Jónsson, bls. 135.

Eldborg

Eldborg undir Dyngju.

Víkingaskip

Í Náttúrufræðingnum 1983 fjallar Jón Jónsson, jarðfræðingur, um aldur Afstapahrauns milli Kúagerðis og Mávahlíða:

Afstapahraun
“Áður hef ég leitt nokkur rök að því (Jón Jónsson 1978) að nafnið á þessu hrauni sé afbökun úr Arnstapa — enda er hitt nafnið lítt skiljanlegt.
Ekkert hefur verið vitað með vissu um aldur þessa hrauns. Þorvaldur Thoroddsen (1925, bls. 187) segir raunar að það sé „in aller Wahrscheinlich nach bei Ausbrúcken in historischer Zeit hervorgebrochen”, en ekki fer hann í þessu eftir öðru en
unglegu útliti hraunsins.
Afstapahraun
Í norðanverðu hrauninu eru nokkrir óbrennishólmar og eftir að athuganir meðfram vesturbrún hraunsins höfðu ekki borið árangur, leituðum við Sigmundur Einarsson jarðfræðingur fyrir okkur nyrst í einum þessara hólma.
Eftir að hafa grafið á nokkrum stöðum við hraunröndina töldum við okkur hafa fundið landnámslagið, sem liggur inn undir hraunið. Þar eð ég var ekki fyllilega ánægður með sniðið fór ég aftur á staðinn og gróf lengra inn undir hraunið. Þar fann ég landnámslagið mjög greinilegt með þess einkennum, ljóst að neðan en dökkt að ofan. Þetta má vel greina á ljósmyndinni (5. mynd) ef hún prentast sæmilega. Þar með er ljóst að Afstapahraun er runnið á sögulegum tíma. Ekki heppnaðist að finna gróðurleifar nothæfar til aldursákvörðunar.”

Afstapahraun

Í Afstapahrauni.

Í Andvara 1884 segir Þorvaldur frá Afstapahrauni í riterð sinni “Ferðir á suðurlandi sumarið 1883”:
“Afstapahraun hefir runnið alveg niður í sjó hjá Kúagerði og armur úr því nærtöluvert til vesturs; mestur hluti þessa hrauns hefir komið frá Trölladyngju, on þó virðist töluvert hafa komið úr gígunum við Máfahlíðar. Upp úr Afstapahrauni ofauverðu stendur einstakt móbergsfell, sem heitir Snókafell. Strandahraun eru þau hraun, sem liggja fyrir vestan Afstapahraun, on hinn eiginlegi Almenningur er á milli Afstapahrauns og Kapelluhrauns.”

Afstapahraunið er víðast hvar ill yfirferðar, einkum að austan-, sunnan- og norðanverðu. Að vestanverðu er það jafnara og greiðara yfirferðar, einkum er kemur norður fyrir Rauðhóla. Tóurnar eru óbrennishólmar í miðju hrauninu – sjá HÉR.

Heimildir:
-Náttúrufræðingurinn, 1.-4. tbl. 01.05.1983, Eldgos á sögulegum tíma á Reykjanesskaga, Jón Jónsson, bls. 134.
-Andvari, 1. tbl. 01.01.1884, Ferðir á suðurlandi sumarið 1883 – Þorvaldur Thoroddsen, bls. 50-51.

Afstapahraun

Afstapahraun – kort.

Selsvellir

Í Faxa 1960 er “Ferðaþáttur III” eftir Hilmar Jónsson. Þar fjallar hann um ferð félaga í Ferðafélagi Keflavíkur á Selsvelli og nágrenni:

Selsvellir
“Eins og lesendum Faxa er kunnugt, var starfsemi Ferðafélags Keflavíkur fremur lítil í fyrra, aðeins ein ferð var farin á vegum félagsins. Nú hefur brugðið mjög til hins betra um hag félagsins. — Þegar þetta er skrifað hafa 5 ferðir verið farnar, en það er einni ferð fleira en gert var ráð fyrir í áætlun F.K. — Eflaust er þessi ágæti árangur mikið veðrinu að þakka, en framhjá hinu verður ekki gengið, að í ár hafa félaginu bætzt starfskraftar, sem ríða baggamuninn. — Á ég þar við smiðina Magnús og Bjarna Jónssyni, að ógleymdum konum þeirra. En á síðasta aðalfundi var Magnús kosinn varaformaður, en Ásta Arnadóttir, kona Bjarna, gjaldkeri. Þetta fólk hefur myndað kjarnann í flestum ferðum félagsins í sumar. Og í fyrstu ferðinni, sem var gönguferð á Trölladyngju og nærliggjandi staði, var Magnús Jónsson leiðsögumaður. Lagt var af stað í þá ferð kl. 8 að morgni hins 6. júní.
Selsvellir
Þátttakendur voru 17. Þykir það mjög gott, jafnvel í höfuðstaðnum, þegar um gönguferð er að ræða. Á Höskuldarvelli vorum við komin um kl. 10, þar var setzt að snæðingi. Þá var hæg gola og leit út fyrir bezta veður. En að hálftíma liðnum var byrjað að rigna og það veðulag hélzt til kvölds. Fyrst var haldið á Selsvelli. — Þrátt fyrir veðrið voru allir í góðu skapi, sérstaklega lá vel á Guðmundi Magnússyni, sem fór með óprenthæfan kveðskap kvenfólkinu til andlegrar uppbyggingar.
Í Árbók F.Í. 1936 skrifar Bjarni Sæmundsson um Suðurnes. Hann segir: „Einn fallegasti staðurinn á suðurkjálkanum, og einn sá, er verðast er að sjá þar, eru Selsvellir, vestan undir algrænni hlíðinni á Selsvallafjalli, sem er miðhlutinn af vestur hálsinum. Þeir byrja, má segja, þegar komið er inn úr þrengslunum og ná „milli hrauns og hlíðar” 2 1/2 km. inn með hálsinum, rennsléttir og grösugir. Tærir lækir úr hlíðinni renna yfir vellina og hverfa svo í hraunið.”
Selsvellir
Fjallasýn er þarna mjög fögur, á aðra hönd er Keilir, en á hina Grænadyngja (393 m.) og Trölladyngja.
Í fjarska eru Fagradalsfjöll, Frá Selsvöllum til Grindavíkur er allgreiðfær leið. Í fyrra gengum við Hafsteinn Magnússon frá Festarfjalli í Grindavík og á Keili. Gallinn var bara sá, að við fórum of nálægt Keflavík og lentum þar af leiðandi utan í aðalfjallgarðinum. Á Selsvöllum eru nokkrar tættur eftir sel frá Grindavík. Í bókinni Útilegumenn og auðar tóttir er frásaga um þjófa þrjá, sem höfðust við á Selsvöllum við Hverinn eina. Þeir voru hengdir samkvæmt Vallaannál 13. júlí 1703.
Frá Selsvöllum fórum við síðan yfir Selsvallaháls og komum á Vigdísarvelli. Þar eru miklar rústir bæði eftir útihús og mannabústaði. Þaðan er nokkur gangur að Djúpavatni. Með í förinni voru þrír ungir piltar, synir Bjarna og Magnúsar, og Jón Eggertsson. Þegar hér er komið sögu höfðu þeir gengið okkur eldra fólkið af sér. Urðum við að hafa hraðann á til að ná þeim, því að þoka var á og villugjarnt fyrir unga menn og ókunnuga. — Frá Djúpavatni var gengið yfir hálsinn frá Grænudyngju, og það verð ég að segja, að sjaldan hefur maður verið fegnari mat sínum en þegar við komum aftur á Höskuldarvelli. Var nú farið að rigna allmikið og ekki til setunnar boðið. Tóku menn það ráð, að ganga niður á veg, þar eð bíllinn, sem skyldi flytja okkur heim, var ekki væntanlegur fyrr en kl. 6.
Lýkur hér með frásögn af þessari ágætu göngu.” – Hilmar Jónsson.

Í Faxa 2008 segir Helga Kristinsdóttir frá “Skátaútilegu á verslunarmannahelgi 1943” upp á Höskuldarvelli og nágrennið skoðað:

Helga Kristinsdóttir“Það var að koma verzlunarmannahelgi og skátafélagið Heiðabúar í Keflavík að fara í útilegu – og nú tók þátt í sinni fyrstu stórútilegu nýlega stofnuð kvennasveit innan félagsins, 3. sveit. Stefnan var tekin á Höskuldarvelli. Bíll var fenginn til að koma hópnum inn í Kúagerði, en ekki man ég, hvernig bíll var notaður að þessu sinni, hvort farið var á tveimur bílum eða farnar tvær ferðir. Oftast var þó farið á vörubílum, og sátu þá allir í hnapp á pallinum og breiddu yfir sig segl til að skýla sér fyrir regni eða ryki, en þá voru vegir malarbornir og holóttir og allt á kafi í ryki, ef þurrkur var.
Þegar komið var í Kúagerði, var eftir 2-3 tíma ganga upp á Höskuldarvelli. Allir urðu að bera farangur sinn, bakpoka, svefnpoka, tjöld, nesti og stundum vatn, en það fór eftir veðurfari. Ekki var talið æskilegt að bera mikið „gos”, því glerið var alltof þungt – þá voru ekki komnar til sögunnar plastflöskur. Oft höfðum við með okkur suðusúkkulaði, sítrónu og rabarbara til að draga úr sárasta þorstanum.
Í þetta skipti var þó hafður svolítið annar háttur á. Á laugardagsmorgninum fóru tveir skátar úr 1. sveit upp á Höskuldarvellit með hesta, klyfjaða tjöldum, mat og matarílátum fyrir þennan 42 manna hóp, sem ætlaði að dvelja á „Völlunum” yfir helgina, 15 skátastúlkur, 19 skátadrengi og 8 gesti. Það voru félagsforinginn, Helgi S. Jónsson, og deildarforinginn, Gunnar Þ. Þorsteinsson, sem stjórnuðu ferðinni. Er gangan hófst meðfram hraunjaðrinum, fór það eftir veðri og vindum, hvað við vorum lengi á göngu, en að þessu sinni sýndu veðurguðirnir okkur sína beztu hlið. Öðru hverju gengum við yfir hraunfláka og eftir kindagötum. Í hrauninu eru ákaflega fallegir, grónir bollar og gjótur, en alltaf varð maður að gæta sín að detta ekki og meiðast.

Höskuldarvellir

Höskuldarvellir og Sóleyjarkriki – horft af Trölladyngju í átt að Kúagerði.

Á þessari göngu var stefnt á smá skarð í Trölladyngju. Gerði maður það, var komið svo til beint á tjaldstað. Af og til var tekin smá hvíld, því þetta gat verið þreytandi ganga, ekki sízt þegar bera þurfti mikinn farangur, auk síns hefðbundna búnaðar, svo sem fána, fánastöng, vatn, ef þurrkar höfðu staðið lengi, eldhústjald, prímus og potta, meðal annars til að elda sameiginlegan hafragraut á morgnana og hita kakó á kvöldin. Ekki mátti heldur gleyma eldsneytinu, olíunni á prímusinn, en allt þetta urðu „kokkarnir”, sem skipaðir voru fyrir hverja útilegu, að sjáum.

Höskuldarvellir

Höskuldarvellir. Trölladyngja fjær.

Þegar komið var á „Vellina”, var mikið áhyggjuefni, hve langt væri nú í vatn, en lækur rennur úr Djúpavatni mislangt eftir völlunum. Fór það eftir veðurfari, hvort hann þornaði upp, en þá þurfti að elta hann langt upp í fjall. Núna reyndist þó allt í lagi, lækurinn rann niður vellina.
Þegar búið var að tjalda og afmarka tjaldbúðir, var liðið að kvöldmat. Þá tóku allir upp nestið sitt og nutu þess að borða. Nestið var oftast grautur, brauð með kæfu eða osti, harðfiskur, soðið kjöt og mjólk. Síðan var farið að huga að varðeldinum, finna stað og eldsneyti.
Aðrir fóru að sækja vatn í kakó og graut, og smávegis fyrir morgunþrifin. Nú var setzt við varðeldinn, sungið, hlegið og sagðar sögur og brandarar, en á eftir var drukkið kakó og borðað kex. Tíminn leið hratt og mál að hvíla sig, því á morgun átti að fara í göngu.

Með sól í hjarta og söng á vörum
við setjumst niður í grænni laut.
Í lágu kjarri við kveikjum eldinn,
kakó hitum og eldum graut.

Hverinn eini

Hverinn eini.

Morguninn rann upp, bjartur og fagur. Fánahylling, hafragrautur, tjaldskoðun og aðrir fastir liðir. Þá var kominn tími til að leggja af stað í gönguferðir. Þeir, sem fóru í styttri gönguna, gengu á Keili, Trölladyngju og Eldborg, en hún er gamall, rauður eldgígur. Mosinn í gígnum var svo þykkur þá, að maður sökk djúpt niður, líkt og verið væri að vaða snjó. Eldborgin er aðeins um 70 fet á hæð. Á milli hennar og Trölladyngju er mikill jarðhiti, og víða gufar úr jörðinni. Þarna á jarðhitasvæðinu var talsvert um svarta snigla, sem gátu orðið upp í 5-7 sentimetrar á lengd.
Þeir, sem fóru í lengri gönguna, gengu meðfram Oddafelli og stefndu á Selsvelli. Í leiðinni var Hverinn eini skoðaður, en hann hefur átt það til að hverfa og koma síðan aftur upp á allt öðrum stað. Eftir góða göngu komum við svo niður á Selsvelli.
Í bók Árna Óla, Strönd og Vogar, er eftirfarandi lýsing doktors Bjarna Sæmundssonar á Selsvöllum:

Selsvellir

Selsvellir – tóftir.

„Einn fallegasti staðurinn á Suðurkjálkanum, og einn sá sem verðast er að sjá þar, eru Selsvellir, vestan undir algrænni hlíðinni á Selsvallafjalli, sem er miðhlutinn af Vesturhálsinum. Þeir ná milli hrauns og hlíðar 2 1/2 km, rennisléttir og vel grösugir. Tveir lækir úr hlíðinni renna yfir vellina og hverfa svo í hraunið. Er þarna mjög kvöldfagurt í góðu veðri, iðjagræn hlíðin á aðra hönd, en opið útsýni til Hraunsels, Vatnsfells, Keilis, Driffells o.fl.”
Þorvaldur Thoroddsen var líka hrifinn af Selsvöllum, er hann kom þangað og gisti þar í tjaldi. Hann sagði, að þar væri fríðara land og byggilegra heldur en víða þar, sem mikil byggð er, nógar slægjur á völlunum og ágæt beit í hálsinum. Hann hélt, að þar mundu vel geta staðið 2-3 bæir.

Vigdísarvellir

Vigdísarvellir [Bali]. Krýsuvíkur-Mælifell fjær.

Þegar við vorum búin að hvíla okkur og næra, héldum við áfram. Nú var farið yfir Núpshlíðarhálsinn og á Vigdísarvelli, en þar var áður búið, eða til ársins 1905, en þá hrundu öll hús eða stórskemmdust í jarðskjálfta. Sá, er þá bjó á Vigdísarvöllum og var síðasti bóndinn þar, hét Bjarni Ívarsson. Flutti hann með fólk og búfénað að Narfakoti í Innri-Njarðvík. Rak hann búsmalann þangað yfir hraun og vegleysur.
Næst var stefnan tekin á Djúpavatn. Þar tengum við okkur fótabað, en vorum vöruð við að vaða of langt útí, því vatnið væri bæði kalt og snardýpkaði. Þarna lukum við nestinu okkar enda veitti ekki af að létta byrðarnar, því hópurinn var nú farinn að þreytast.
Nú var stefnan tekin meðfram Trölladyngju. Á leiðinni var Rauðihver skoðaður og síðan gengið niður á Höskuldarvelli, og þar með var hringnum lokað. Það var þreyttur en glaður hópur, sem skilaði sér í tjaldbúðir, eftir vel heppnaða gönguferð, og við tók bráðskemmtilegur varðeldur, sem stóð til miðnættis, enda þótt bálið væri aðeins ímyndað, því eldiviðurinn var uppurinn – en sólin sló rauðgullnum bjarma sínum á skátana og tjöldin.

Enn logar sólin á Súlnatindi,
og senn fer nóttin um dalsins kinn,
og skuggar lengjast og skátinn þreytist,
hann skríður sæll í pokann sinn.
Og skáta dreymir í værðarvoðum
um varðeld, kakó og nýjan dag.
Af háum hrotum þá titra tjöldin
í takti, einmitt, við þetta lag.

Keilir

Keilir – gestabók.

Talað hafði verið um það um kvöldið, að yrði gott veður með morgninum, væri upplagt fyrir Selsvallafarana að bregða sér á Keili. Morgunninn rann upp með lognblíðu og glampandi sól, svo veðrið gat ekki verið betra. Ekki fóru nú allir í Keilisgönguna. Sumir voru með harðsperrur eða hælsæri og vildu heldur safna kröftum fyrir heimferðina.
Þeir sem fóru, tóku daginn snemma og lögðu upp eftir fánahyllingu og morgunmat. Tveir úr hópnum höfðu þó yfirgefið tjaldbúðirnar strax eftir fótaferð, af því að þeir þurftu að komast fyrri hluta dags til byggða.
Nú þurfti að klöngrast yfir úfið hraunið. Það var alls ekki greiðfært að Keili. Enda þótt fjallið sé ekki ýkja hátt, eða aðeins 375 m, gat verið nokkurt puð að komast upp, því mikið er um skriður, og maður rennur iðulega hálft skref niður fyrir hvert skref upp.

Gunar Eyjólfsson

Gunnar Eyjólfsson, skáti.

Er upp á hátindinn var komið, blasti við okkur skrautlegur kexpakki, með erlendri áprentun. Hvernig í ósköpunum hafði þessi kexpakki komizt upp á tind Keilis óskemmdur og óveðraður? Svona gómsætt gráfíkjukex fékkst ekki í búðum á Íslandi á stríðsárunum. Hafði máski stór fugl frá útlöndum borið hann hingað?
En þegar pakkinn var opnaður, var ekkert kex í honum, aðeins lítill miði, sem á var skrifað: Borðuðum úr pakkanum kl. 11 – Gunni Gerðu og Bötti, en það voru þessir tveir, sem höfðu þurft að flýta sér til byggða. Þeir skruppu þá í leiðinni á Keili til að sitja einir að þessu ófáanlega, gómsæta kexi. Piltarnir eru kunnari nútímafólki sem Gunnar Eyjólfsson leikari og prófessor Þorbjörn Karlsson.
En við nutum útsýnisins yfir Reykjanesskagann og skrifuðum í gestabókina, sem þarna er geymd í vörðu, áður en við héldum niður aftur. Við komumst, án áfalla, í tjaldbúðirnar. Þar beið okkar sætsúpa, sem kokkamir geymdu handa okkur. Við vorum hálfhissa á, hvað þeir ætluðu okkur mikið, því komið var langt framyfir matartíma. En – hvaða bragð var þetta annars af súpunni? Olíubragð? Hvað hafði nú skeð? Og skýringin kom. Prímushausinn hafði stíflazt, og þegar þeir fóru að gera við hann, spýtti hann olíu beint í súpupottinn. Þessvegna fengum við nú svona stóran skammt af súpu. En súpunni voru gerð lítil skil, hún fékk bara að renna beint niður í hraunið, sem væntanlega væri talið mengunarslys nú.
Nú var kominn tími til að taka saman dótið og halda heim. Við þrifum eftir okkur og grófum ruslið, en það var siður hjá okkur, skátunum, að ganga vel frá öllu og valda engum spjöllum.
Nú var haldið af stað heim, eftir mjög góða og skemmtilega helgi, en nokkrir urðu þó eftir til að binda upp á hestana. Svo tóku hestasveinarnir við, og eftir 114 tíma vom þeir búnir að ná hópnum. Þegar við komum svo í Kúagerði, beið okkar bíll (eða bílar) til að koma okkur heim, og þangað komum við svo endurnærð eftir ógleymanlega útileguhelgi.” – Helga Kristinsdóttir .

Heimildir:
-Faxi, 7. tbl. 01.09.1960, Ferðaþáttur III, Hilmar Jónsson, bls. 111-112.
-Faxi. 2. tbl. 01.05.2008, Skátaútilega á verslunarmannahelgi 1943 – Brot úr óbirtri minningabók Helgu Kristinsdóttur, bls. 16-17.

Keilir

Keilir. Driffell t.v. og Oddafell t.h.

Keilir

Gestur Guðfinnsson fjallar um “Kynnisferð á Keili” í Alþýðublaðinu árið 1958″

“Keilir er ekki hátt fjall. Skýjakljúfar New-Yorkborgar myndu bera höfuð og herðar yfir hann ef þeir væru settir niður við hliðina á honum, og meira en það. Flest fjöll í nágrenni Reykjavíkur eru hærri og stærri en hann, samt vita fleiri deili á Keili en öðrum fjöllum, sem sjást af bæjarhlaði Reykvíkinga, hann skipar sitt rúm á Reykjanesskaganum með mikilli prýði, og hræddur er ég um, að margur myndi sakna vinar í stað, ef hann væri horfinn af sjónarsviðinu.

Keilir

Keilir.

Ég hef stundum gert mér það til gamans á ferðalögum suður með sjó að fara óvirðingarorðum um hann, sagt eitthvað á há leið, að svona smáþúst væri tæplega hægt að kalla fjall, þetta væri hálfgerð hundabúfa, sem ekki væri nafn gefandi. Æfinlega hefur einhver ferðafélaganna risið upp til varnar Keili, stundum Suðurnesjamaður, stundum ættingi einhvers Suðurnesjamanns, Jafnvel í þriðja eða fjórða lið, eða þá Reykvíkingur, og mótmælt kröftuglega slíkum svívirðingum, eins og hverju öðru guðlasti, ég veit ekki, hvort sumir fyrirgefa mér ævilangt. Hann virðist eiga mikinn og traustan flokk forsvarsmanna og aðdáenda. Og furðulega margir þykjast eiga Keili.

Keilir

Keilir.

Fjallið mitt, segja þeir, og það er auðheyrt á röddinni, að annað eins fjall muni vandfundið á jarðkringlunni. Ekki veit ég, hvað stjórnarskráin kann að segja um allan þennan eignarrétt. kannski má véfengja hann, kannski er hann líka öllum öðrum eignarrétti æðri og meiri.
En þó að Keilir sé þannig mikils metinn og dáður og eigi ítök í mörgum og margir eigi ítök í honum, þá eru þeir næsta fáir, sem gera sér það ómak að heimsækja þetta fyrirfjall Reykjanesskagans. Þó ber það við. Ekki alls fyrir löngu stefndi Jóhannes Kolbeinsson, hinn vinsæli og vel þekkti fararstjóri Ferðafélags Íslands, þangað liði sínu, tveim tylftum kvenna og karla, í virðingar- og kynningarskyni. Sú heimsókn var mikill sómi fyrir fjallið. Þetta var fríður flokkur og glæsilegur, svo sem vera bar og slíkt fjall á skilið.

Keilir

Keilir – Oddafell nær.

Það var mikið blíðskapar veður þennan dag, logn og sólskin um allar jarðir, sjórinn sléttur og blár bátur á miði. Snæfellsiökull skein í allri sinni dýrð handan við flóann. Meðfram Reykjanesveginum gægðist græn vornálin upp úr hvítum þúfnakollunum. Ekki segir af reisunni fyrr en komið var suður undir Vatnsleysu á Vatnsleysuströnd. Venjan hefur verið að ganga að Keili frá Kúagerði, sem er í vesturjaðri Afstapahrauns. Það er líklega tveggja tíma gangur. Nú hefur verið rudd akbraut af veginum norðan Vatnsleysu alla leið upp á Höskuldarvelli, og styttir það gönguna til muna. Þegar að þessum afleggjara kom, var hann lokaður með digurri járnkeðju, læstri. Sankti-Pétur geymir lykilinn að hinu gullna hliði himnaríkis og hleypir engum óverðugum inn í það dýrðarland, og Pétur er samvizkusemin sjálf.

Keilir

Keilir.

Margar sögur eru sagðar af dyravörzlu Péturs, en aldrei hefur heyrzt, að hann hafi neitað fjallamanni um inngöngu. Bóndinn á Vatnsleysu geymir hins vegar lykilinn að hinum nýja vegi, sem liggur um Afstapahraun á Höskuldarvelli, leiðinni að hinu dýrlega fjalli, Keili. Mér er ekki kunnugt, hvort sömu reglur gilda þarna og hjá Pétri, nema Jóhannes talaði við bóndann og fékk lykilinn, enda var þetta allt réttlátt fólk.
Höskuldarvellir liggja norðvestan undir Trölladyngju. Þar er allmikið gróðurlendi og sauðland gott. Hiti er þarna í jörðu, og leggur víða gufu upp úr hraununum í kring, en heimildir munu vera til um gos á þessum slóð um á 14. öld. Af Höskuldarvöllum er stutt og létt ganga að Keili. Liggur leiðin fyrst yfir lágan hæðarhrygg, Oddsfell, en síðan um mosagróið apalhraun að fjallinu.

Keilir

Á leið á Keili.

Keilir er eins og nafnið bendir til, keilulaga fjall, hæðin er aðeins 379 m. yfir sjávarmál, en varla mikið meira en 250 m., ef miðað er við hraunin í kring. Það er því engin sérstök þrekraun að ganga á fjallið, til þess þarf ekki meiri karlmennsku en guð hefur gefið venjulegu fólki, enda komust allir á tindinn, þó að sumir ættu að vísu dálítið erfitt með pundin sín. Keilir er móbergsfjall með grágrýtishúfu á kollinum, sem hefur eflaust verið honum mikil vörn og hlífiskjöldur gegn eyðingaröflum vatns og veðra. Reykvíkingar þekkja hann bezt í bláma fiarlægðarinnar eða hvítum vetrarlit. Stundum slær á hann rauðleitum bjarma að kvöldlagi. Þá er hann fegurstur. Ásýnd Keilis er eirrauð sem egypzkur píramíði, segir hið góðkunna Suðurnesjaskáld, Kristinn Pétursson, einhversstaðar. Þegar komið er að fjallinu og dýrðarljómi fjarlægðarinnar horfinn, ber aftur á móti mest á gráum og móbrúnum lit, skriður og klettar eru einkenni höfðingjans, gróður fyrirfinnst ekki svo teljandi sé, það verður varla slitið upp strá til að tyggja.

Keilir

Keilir og Keilisbörn, sem sumir nefna Hrafnabjörg.

Af Keili blasir við allur fjallahringurinn umhverfis Faxaflóa. Að þessu sinni var umgjörðin um flóann óvenjulega hvít á að líta og glampandi björt í sólskininu. Hins vegar var næsta umhverfi Keilis, Reykjanesskaginn sjálfur, dálítið harðneskjulegur og dökkur á brún og brá að vanda: gömul eldvörp, dyngjur, og storknuð hraun. Þó má víða sjá gras og gróðurvinjar og mosinn breiðir sig yfir úfin hraunin, mjúkur og þykkur. Í norðaustri, upp af Kaldárbotnum, rís Helgafell og Valahnúkur, þar sem Farfuglar eiga sitt Valaból.

Fjallið eina

Fjallið eina.

Þangað er líklega um fjögra tíma gangur frá Keili. Um það bil miðja vegu milli Keilis og Helgafells er lítið, sérstakt fell, Fjallið eina. Nafnið býr yfir einkennilegum töfrum. Ætli eitthvert gott fyrirtæki í bænum þurfi ekki bráðum á því að halda. Það er sem sé mikið í tízku að klína allskonar örnefnum og fjallaheitum á veitingahús og verzlunarfyrirtæki, jafnvel smá búðarholur og sjoppur eru látnar heita í höfuðið á sögufrægustu stöðum landsins, minna má ekki gagn gera. Þetta er eins og að hafa þjóðsönginn fyrir rokktexta á hlöðuballi. Fjallið eina hefur ennþá sloppið við sæmdina.

Sogasel

Í Sogaseli.

Að lokinni nokkurri viðdvöl á tindi Keilis var haldið að Sogaseli, eyðibýli eða seli, ekki alllangt frá vesturjaðri Trölladyngiu, og etinn dagverður. Það er eitthvert sérkennilegasta bæjarstæði eða bólstaður, sem ég hef séð. Húsin hafa staðið á flötum, grasigrónum gígbotni. Gígurinn er á að gizka eitt til tvö hundruð metrar í þvermáL, hringlagaður, girtur þverhníptum hamravegg á þrjá vegu úr grábrúnu og eldrauðu bergi. Þetta hlýtur að vera sérstaklega skjólsæll og veðursæll staður. Allmiklar húsarústir eru þarna á gígflötinni. Kunnugir þekkja sjálfsagt sögu þessa staðar, en ekki kann ég skil á henni, líklegt má þó teljast, að þarna hafi verið hafður nautpeningur í seli, fremur en að um sjálfstætt býli eða búskap hafi verið að ræða. Einhver skaut fram þeirri spurningu, hvort öruggt væri, að þarna gæti ekki gosið aftur, en enginn hafði bréf upp á það. Búskapurinn í Sogaseli minnir á fuglinn hans Jóns úr Vör, sem gerði sér hreiður í fallbyssukjaftinum. Ekki er mér kunnugt hvenær staðurinn fór í eyði. Líklega hefði slík gestakoma sem þessi þótt tíðindum sæta í Sogaseli á þeim tíma, sem fólk hafði aðsetur þar.
Þegar staðið var upp frá dagverði í Sogaseli, var förinni haldið áfram í litskrúðugri halarófu suður Sogin áleiðis til Krýsuvíkur. Sólin skein á vinalegar hlíðar Grænudyngju, Að baki reis Keilir, einn og sérstæður, og bar við bláa heiðríkju vesturloftsins. Framundan blöstu við hálsar og hraunflákar.
Bráðum mundi leið okkar liggja framhjá Djúpvatni, þar sem nykurinn býr.” – Gestur Guðfinnsson.

Heimild:
-Alþýðublaðið, 106. tbl. 13.05.1958, Kynnisför á Keili, Gestur Guðfinsson, bls. 7.

Sogaselsgígur

Sogaselsgígur.

Vogar

Í Vogum er fróðleiksskilti á Sæmundarnefi sunnan Stóru-Voga. Á því er eftirfarandi texti:

Skipsströnd
Vogar
Í fjörunni út af Sæmundarnefi má finna leifar af tveimur skipum sem strönduðu þar á fyrri hluta 20. aldar.
Við Sandsker út af Sæmundarnefi má sjá kjöl og bönd af seglskipinu Fjallkonunni sem slitnaði upp í Vogavík og rak á land og strandaði í miklu hvassviðri árið 1904. Skipverjum var naumlega bjargað af heimamönnum. Eini staðurinn sem hægt var að koma báti til björgunar á sjó í hvassviðrinu var fyrir sunnan Sæmundarnef. því báru eða drógu heimamenn bát frá Bræðrapartsvörinni, norðan við Sæmundarnefið, eftir túninu og settu á flot sunnan megin við það. Fjallkonan, sem var frá Noregi, var með timburfarm sem fara átti til Hafnarfjarðar. Eftir strandið var timbrinu safnað saman úr fjörunni og selt á uppboði á Krisjánstanga. Mörg hús í hreppnum voru byggð úr þessu strandgóssi. Í kjölfar starndsins hefur verið talað um skerið sem Skútusker.
Vogar
Skammt frá Fjallkonunni, örlítið utar, eru leifar af öðru skipi, Hansaaaag sem strandaði haustið 1937. Í björtu og góðu veðri átti að sigla skipnu inn á Vogavík. Það tók hins vegar niðri á Geldingum (hvirflum) út af Þóruskeri sem er við endann á nuverandi hafnargarði. Þegar skipið losnaði var það dregið upp á Sandsker út af Sæmundanefi.
Hansavaag var gamalt tréskip sem hafi lengi verið notað til flutninga á sandi og steypumöl milli fjarða norðanlands. Hér átti að nota skipið sem fljótandi síldarsöltunarstöð á yfirstandandi síldarvertíð í faxaflóa. Um borð í skipinu var mikið af tómum síldartunnum ásamt stúlkum sem salta áttu síldina. manntjón varð ekki. Skipið var síðar rifið og selt á strandstað.
Vogar

Knarrarneskirkja

Mánudaginn 21. október 2013 birtist stutt frétt á vf.is:
Vill reisa kirkju að Minna Knarrarnesi.

Knarrarneskirkja

Knarrarneskirkja.

Birgir Þórarinsson guðfræðingur og fv. varaþingmaður í Suðurkjördæmi hefur sent umhverfis-og skipulagsnefnd Sveitarfélagsins Voga umsókn um byggingarleyfi fyrir kirkju að Minna-Knarrarnesi samkvæmt aðaluppdráttum Óla Jóhanns Ásmundssonar arkitekts.
Umhverfis- og skipulagsnefnd álítur að byggingin samræmist aðalskipulagi en að liggja þurfi fyrir samþykkt deiliskipulag í samræmi við gildandi aðalskipulag og skipulagslög og skipulagsreglugerð svo unnt sé að veita byggingarleyfi.”

Þriðjudaginn 25. febrúar 2014 birtist eftirfarandi stuttfrétt í sama miðli:
Kirkja verður byggð að Minna-Knarrarnesi.

Knarrarneskirkja

Knarrarneskirkja.

Bæjarráð Voga hefur samþykkt erindi Birgis Þórarinssonar um byggingu 40 fermetra kirkju að Minna-Knarrarnesi. Með bréfi þann 12. febrúar sl. óskar Birgir eftir því að jafnframt að leitað verði eftir meðmælum Skipulagsstofnunar fyrir framkvæmdinni.
Loks kemur fram að stefnt sé að gerð deiliskipulags fyrir Minna-Knarrarnes á næstu mánuðum að ljúka þeirri vinnu innan 1 árs.”

Þegar langt var liðið á lokafrágang byggingarinnar var stefnt að vígslu Knarrarneskirkju sunnudaginn, þann 8. ágúst 2021:
“Kirkjuna reistu hjónin Birgir Þórarinsson og Anna Rut Sverrisdóttir en fyrir sex árum var tekin skóflustunga að þessari bændakirkju, sem er í 19. aldar stíl, í túninu hjá þeim hjónum að Minna-Knarrarnesi á Vatnsleysuströnd.

Draumur að rætast með kirkjunni.

Knarrarneskirkja

Knarrarneskirkja.

Mikið hefur verið lagt í kirkjuna og listmunina sem í henni eru. Altarissteinninn kemur úr fjörunni. „Í Mósesbók eru fyrirmæli um hvernig altari á að vera. Það skal gert úr óhöggnum steini. Ég var í gönguferð hér í fjörunni þegar ég sá þennan stein. Hann höfðaði sérstaklega til mín og passar fullkomlega sem altarissteinn. Það var síðan heljarinnar mál að flytja steininn inn í kirkjuna og koma honum vel fyrir, hann er um 350 kg. Fáeinum mínútum eftir að steinninn var uppsettur gerði jarðskjálfta upp á 5,4. Steininn sakaði þó ekki né þá sex karlmenn sem lyftu honum upp á stall,“ að sögn Birgis. Kirkjuklukkan er rúmlega 100 ára gömul skipsklukka og kirkjugólfið er sömuleiðis úr aldargömlum gólfborðum, sérstaklega unnin fyrir kirkjuna. Yfirsmiður er Ásgeir Þórisson, innréttingar smíðaði Ólafur Sigurjónsson, Forsæti Flóahreppi og arkitekt er Óli Jóhann Ásmundsson.

Knarrarneskirkja

Knarrarneskirkja. Altaristöfluna gerði úrkraínski listaðurinn Andrii Kolalenko.

Birgir leitaði út fyrir landssteinana með gerð listmuna. Þeir eru eftir handverks- og listamenn frá Úkraínu. Má þar nefna altaristöfluna en hún er gerð eftir forskrift Birgis. Predikunarstólinn er sömuleiðis gerður í Úkraínu en hann er eftirgerð af predikunarstól frá árinu 1594 og er á Þjóðminjasafninu. Birgir sá hins vegar alfarið um steinhleðsluna í kringum kirkjuna. „Þetta hefur verið gamall draumur hjá mér, að byggja kirkju í þessum gamla stíl, sameinar líka menntun og áhugamál.“

Knarrarneskirkja

Hjónin Anna Rut Sverrisdóttir og Birgir Þórarinsson (t.h.)  við Knarrarneskirkju.

Knarrarneskirkja var vígð framangreindan dag
“Knarrarneskirkja sem hjónin á Minna-Knarrarnesi, þau Birgir Þórarinsson og Anna Rut Sverrisdóttir, hafa reist á jörð sinni var vígð sem heimiliskirkja síðastliðinn sunnudag. Boðsgestum var stillt í hóf við athöfnina enda samkomutakmarkanir í gildi en athöfnin var einstaklega falleg og tókst vel til.

Knarrarneskirkja

Karl Sigurbjörnsson, biskup, annaðist vígslu Knarrarneskirkju.

Herra Karl Sigurbjörnsson, biskup, vígði kirkjuna og honum til aðstoðar voru séra Kristján Valur Ingólfsson, vígslubiskup, og séra Kjartan Jónsson, sóknarprestur Kálfatjarnarsóknar. Vígslan var hin heilagasta og við athöfnina söng Alexandra Chernyshova, sópransöngkona, úkraínskt þjóðlag en það voru handverks- og listamenn frá Úkraínu sem gerðu altaristöfluna, predikunarstólinn og fleiri muni sem prýða kirkjuna. Davíð Ólafsson, óperusöngvari, söng lagið Þitt lof, ó Drottinn og organisti var Ólafur Sigurjónsson.

Eftir athöfnina buðu hjónin til kaffisamsætis í þurrabúðinni Vík þar sem gleðin var allsráðandi enda ekki á hverjum degi sem jafn glæsileg kirkja sem þessi er vígð á Vatnsleysuströndinni.

Hjónin Anna Rut og Birgir mega vera stolt af þessu framtaki sínu enda Knarrarneskirkja glæsileg og vönduð í alla staði. Birgir sá sjálfur um steinhleðsluna umhverfis kirkjuna, en hefur eflaust fengið góðar ráðleggingar frá eiginkonunni – og allt handverk ber aðkomandi iðnaðar- og handverksmönnum gott vitni um hagleik og alúð.

Knarraneskirkja – Kirkjuvígsla 8. ágúst 2021 – upplýsingabæklingur:

Knarrarneskirkja

Altaristaflan er máluð af úkraínska listamanninum Andrii Kovalenko. Kristur er í miðdepli. Til beggja handa má þekkja andlit, bæði úr fortíð og nútíð. Altarið er náttúrlegur steinn úr Flekkuvíkurfjöru.

“Altari Knarrarneskirkju er óhöggvinn fjörusteinn úr Flekkuvíkurfjöru sem hvílir á traustum tréfótum sem Ólafur Sigurjónsson smíðaði.
Altaristaflan er máluð af úkraínska listamanninum Andrii Kovalenko. Kristur er í miðdepli. Undir mynd hans eru táknmyndir lands og þjóðar. Á vængnum til beggja handa eru fimm ættliðir. Á hægri vængnum má sjá Þórarinn Einarsson, útvegsbónda í sjóklæðum og feðgana Þórarinn Brynjólfsson, Birgi Þórarinsson og Hjalta, yngsta son Birgis. Á vinstri væng er margrét Þórarinsdóttir fyrrum húsfreyja í Knarrarnesi og við hlið hennar Anna Rut Sverrisdóttir núverandi húsfreyja. Þær klæðast báðar íslenskum búningum með gömlu Skálholtskirkju í bakgrunni. Minnir það á íslenska menningu, kirkjusögu og lífshætti fyrri alda. Náttúran birtist okkur í himninum, norðurljósunum, hálendinu, Snæfellsjökli, ölduróti hafsins, bæjartjörninni með lífríki vatnsins og íslenskum jurtum umhverfis.

Knarrarneskirkja

Knarrarneskirkja – prédikunarstóllinn.

Prédikunarstóllinn gerði Mykhalio Kozyr úkraínskur útskurðarmeistari. Hann er eftirgerð prédikunarstóls sem Guðbrandur Hólabiskup Þorláksson lét gera 1594. Stóllinn er á Þjóðminjasafni en var áður í kirkjuni á Fagranesi í Skagafirði og þar áður í Hóladómkirkju. Á spjöldum eru myndir málaðar af Andrii Kovalenko sem sýna guðspjallamennina Jóhannes, Mattheus, Lúkas og Pétur postula sem heldur á lyklum himnaríkis.
Á norðurhlið kirkjunnar er útskorin Kristsmynd, endurgerð af róðukrossinum frá Upsum, sem er ein elsta Kristsmynd á Íslandi, frá því á 11. öld. verkið gerði Mykhalio Kozyr útskurðarmeistari.

Knarrarneskirkja

Knarrarneskirkja – heilagur Nikulás, helgimynd eftir listamanninn Andrii Kovalenko.

Á suðurhlið er helgimynd eftir Andrii Kovalenko og sýnir heilugan Nikulás, sem forðum var verndari sjómanna og sæfarenda. Margar kirkjur við strendur landsins voru helgaðar honum til forna. Myndin er gjöf listamannsins til kirkjunnar.
Kaleikur og patína er gjöf Karls biskups Sigurbjörnssonar til kirkjunnar. Gripina gerði Ólöf Erla Bjarnadóttir, leirlistakona, í tilefni kristnihátíðar á Þingvöllum árið 2000.”

Heimildir:
-https://www.vf.is/frettir/vill-reisa-kirkju-ad-minna-knarrarnesi
-https://www.vf.is/frettir/kirkja-verdur-byggd-ad-minna-knarrarnesi
-https://www.vf.is/mannlif/vigsla-knarrarneskirkju-a-vatnleysustrond
-https://www.vf.is/mannlif/knarrarneskirkja-var-vigd-um-helgina
-Bæklingur með vígsluathöfn Knarrarneskirkju 8. ágúst 2021.
-Birgir Þórarinsson.

Knarrarneskirkja

Knarrarneskirkja. Hluti altarsistöflunnar. Hún endurspeglar íslenska menningu, náttúru og fólk í samspili við trú og kærleika.

Ásláksstaðir

Í bókinni “Mannlíf og mannvirki í Vatnsleysustrandarhreppi” lýsir Guðmundur Björgvin Jónsson (1913-1998) Ásláksstaðahverfi:

Atlagerði (rústir)

Ásláksstaðir

Atlagerði.

Atlagerði er í landi Ásláksstaða sem er móðurjörð þessa hverfis. Bærinn markaði upphaf Gerðistanga, en á þeim tanga stendur Gerðistangaviti, sem áður hét Atlagerðisviti. Vestan við Gerðistanga er Álasund eða Álfasund. Um þessar nafngiftir hefur verið meiningarmunur, en Narfakotsbræður, sem bjuggu allan sinn aldur í nálægð við vitann og gættu hans í áratugi höfðu ekki heyrt annað nafn á sundinu en Álfasund.

Atlagerði

Atlagerði.

Í Atlagerði bjuggu hjónin Ingimundur Ingimundarson, f. 1837 og kona hans, Sigríður Þorkelsdóttir, f. 1845. Ingimundur var fyrsti vitavörður Atlagerðisvita, með sömu kjör og Narfakotsbræður síðar (sjá þar). Ingimundur stundaði sjó ásamt því er til féll í landi. Hann hafði engar landnytjar og greiddi landskuld til Ásláksstaða. Ingimundur og Sigríður voru síðust búendur í Atlagerði. Þeirra börn voru m.a. Þórður, f. 24. mars 1883 er
drukknaði frá unnustu sinni, Pálínu, sem gekk þá með barn þeirra, Þórð. Annar sonur Ingimundar og Sigríðar var Guðmundur, f. 1888, sem drukknaði líka á besta aldri.

Fagurhóll (rústir)

Ásláksstaðir

Fagurhóll.

Fagurhóll var í suðausturhorni Ásláksstaðarjarðar, rétt utan túngarðsins. Hann var jarðlaus. Lítið veit ég um þetta kot, en fyrir aldamótin bjuggu þar hjón, ekki veit ég nafn konunnar, en maður hennar hét Jón. Pau áttu að minnsta kosti einn son, Magnús, og varð hann síðar maður „Gunnu fögru”. Frá Fagurhóli var þessi fjölskylda farin um aldamót, en í staðinn kominn þangað Jón Þórarinsson, f. 1869 og bústýra hans, Ástríður Ólafsdóttir, f. 1877. Móðir Jóns, Ingibjörg Eiríksdóttir, f. 1832, var hjá þeim. Hjá þeim ólst upp Stefán Runólfsson, bróðir Kristmanns, bónda og kennara á Hlöðversnesi (sjá þar). Jón og Ástríður voru fyrst vinnuhjú á Auðnum, hjá Guðmundi Guðmundssyni og trúlofuðust þar, en hófu síðan búskap í Fagurhóli. Hve lengi, svo og hver hefur verið síðasti búandi þar, er mér ekki kunnugt.

Móakot (í eyði)

Ásláksstaðir

Móakot 2021.

Móakot var tómthús frá Ásláksstöðum, en varð síðar grasbýli og um tíma tvíbýli. Það er á suðurhluta Ásláksstaðarjarðar og er nú sameinað aðaljörðinni. Margir hafa verið búendur þar, enda allvel hýst á eldri tíma mælikvarða.

Móakot 1

Ásláksstaðir

Þar bjuggu um aldamótin Bjarni Sigurðsson, f. 1855, og kona hans, Kristín Jónsdóttir frá Móakoti. Bjarni var bróðir Gísla í Minna-Knarrarnesi. Þeirra börn voru: 1) Jón, f. 1890 (dó ungur), 2) Margrét, f. 1891. Hennar maður var Ingvar Gunnarsson, kennari, frá Skjaldarkoti. Þau bjuggu í Hafnarfirði, 3) Sigurður, f. 1893. Kona hans Anna Bjarnadóttir frá Stóru-Vatnsleysu (sjá þar). Sigurður lést á sóttarsæng á besta aldri frá ungri konu og tveim dætrum. Þau bjuggu í Reykjavík. 4) Þórður, f. 11. sept. 1895, d. 3. nóv. 1981. Hann stundaði eigin bílaakstur. Kona hans var Sigríður Ketilsdóttir úr Laugardal, f. 20. apríl 1901. Þau bjuggu í Hafnarfirði.
Síðar bjuggu í Móakoti Jón Hansson og kona hans, Guðrún Árnadóttir, fyrir og um 1929-30. Guðrún var dóttir Árna á Halldórsstöðum.
Þar næst bjuggu þar Guðmundur Hvamms (sjá Hvamm) og kona hans, Filippía Nikulásdóttir. Síðan bjuggu þar ýmsir leiguliðar árlangt eða að sumri til, m.a. bjó þar Stefán Hallsson, kennari með konu sinni, Arnheiði Jónsdóttur, (sjá Vorhús í Vogum).

Móakot 2

Ásláksstaðir

Móakot.


Þar bjuggu Árni Sveinsson, ekkjumaður, f. 1840 og bústýra hans, Margrét Jónsdóttir, f. 1867, (systir Ingibjargar, konu Magnúsar á Innri-Ásláksstöðum). Árni átti son fyrir, Jón, f. 1868, ári yngri en bústýran. Árni og Margrét áttu einn son, Bjarna, er varð maður Ásu Bjarnadóttur frá Vorhúsum (sjá þar). Bjarni var f. 1898 og voru því 30 ár á milli hálfbræðranna. Þegar Árni hætti að búa lagðist Móakot 2 af.

Nýibær (áður Hallandi, nú í eyði)

Ásláksstaðir

Nýibær (Hallandi).

Nýibær í Ásláksstaðarhverfi stendur enn með litlum breytingum síðan árið 1917. Nýjabæjarjörðinni var skipt út úr Ásláksstöðum í upphafi, en var fyrir nokkrum árum, eða um 1970, keypt aftur undir Ásláksstaði.
ÁsláksstaðirUm aldamótin bjó í Nýjabæ Valgerður Grímsdóttir, f. 1850. Maður hennar, Kristján, var þá látinn. Þau höfðu átt dóttur, Guðrúnu, f. 1. ágúst 1872, d. 21. nóv. 1918 (úr spönsku veikinni). Guðrún hafði átt fyrir mann, Konráð Andrésson, f. 17. ágúst 1869, d. 10. sept. 1945. Valgerður Grímsdóttir átti húsið en leigði jörðina af ekkjunni Guðfinnu Halldórsdóttur, er áður hafði búið þar.
Um 1901 fóru Guðrún og Konráð að búa í Nýjabæ ásamt Valgerði, móður Guðrúnar, og höfðu þau jörðina á leigu áfram, en Guðfinna, eigandi jarðarinnar og seinni maður hennar Sigurður Jónsson voru þá húshjón á Auðnum hjá Guðmundi Guðmundssyni (sjá Auðna). Konráð byggði upp Nýjabæ árið 1911 og á meðan var fjölskyldan á loftinu á Ásláksstöðum og þar fæddist yngsta barn þeirra hjóna, Valdimar. Konráð vann hverja þá vinnu er til féll, en leigujörðin gaf aðeins af sér eitt kýrfóður. Hann fór því, eins og margir úr hreppnum á þeim tíma í kaupavinnu, og helst fór hann vestur í Dali, en þaðan var hann ættaður. Fyrstu árin fóru bæði hjónin vestur og þar fæddist fyrsta barn þeirra. Alls eignuðust þau 4 börn: 1) Kristján Níels, f. 1902, skipstjóra, bjó í Ytri-Njarðvík, d. 1985, 2) Guðrúnu, (lést ung), 3) Margréti, f. 1908, býr í Reykjavík, 4) Valdimar, f. 1911 atvinnubílstjóri, býr í Reykjavík.

Ásláksstaðir

Nýibær.

Jarðeigandinn, Guðfinna Halldórsdóttir, og seinni maður hennar, Sigurður Jónsson, vildu fá jörðina til eigin nota árið 1917. Þau voru þá búin að vera í 15 ár húshjón á Auðnum. Þegar Konráð varð að fara frá Nýjabæ, fékk hann inni á næsta bæ, Sjónarhóli, en hann átti Nýjabæjarhúsið og reif það til nota á öðrum stað. Guðfinna og Sigurður urðu því að byggja að nýju upp húsið, líkt og það er í dag. Ekki urðu þau lengi þar, því eftir tvö eða þrjú ár lést Sigurður, um 1919, og varð þá Guðfinna ekkja í annað sinn. Hún ól upp sér óskyldan dreng, Valgeir Jónsson, og fylgdust þau að meðan hún lifði. Guðfinna var mikil hannyrðakona og saumaði fyrir fólk og hafði nóg að gera. Hún seldi Nýjabæ árið 1921 og leigðu sér húsnæði eftir það meðan hún lifði.
ÁsláksstaðirKaupandinn að Nýjabæ var Sigurjón Jónsson, hálfbróðir Davíðs Stefánssonar bónda á Ásláksstöðum. Kona Sigurjóns var Guðlaug Guðjónsdóttir, systir Elísar á Efri-Brunnastöðum (sjá þar). Sigurjón og Guðlaug voru bæði dugleg og ráðdeildarsöm. Hann var lengst af vertíðarmaður í Ytri-Njarðvík, en á sumrin vann hann við búskap og hjá nágrönnum. Sigurjón var ávallt snar í snúningum þegar á þurfti að halda. Þegar Sigurjón lést árið 1955, brá Guðlaug búi og flutti til Keflavíkur og bjó þar til æviloka hjá Svövu dóttur sinni og Gesti tengdasyni sínum. Sigurjón og Guðlaug eignuðust 5 börn: 1) Svövu, bjó í Keflavík (látin), 2) Lilju, býr í Bandaríkjunum, 3) Einar Hallgrím, (lést ungur), 4) Guðjón (lést um tvítugt), 5) Karlottu, bjó í Bandaríkjunum (látin).
Næst Sigurjóni og Guðlaugu komu að Nýjabæ, Guðlaugur og Theódór, sonur hans. Þeir bjuggu þar í fá ár. Síðasti búandi þar var Guðjón Sigurjónsson og kona hans Sigurbjörg Sigurðardóttir. Hún var frá Seyðisfirði og hann var fæddur í Reykjavík, en alinn upp á Marðarnúpi í Ásahreppi í Austur-Húnavatnssýslu. Þau fluttu frá Nýjabæ um 1970 til Ytri-Njarðvíkur. Hann lést árið 1985. Þegar Guðjón fór frá Nýjabæ, seldi hann hreppnum forréttinn sem síðan seldi eigendum Ásláksstaða, og var jörðin þá komin til síns heima þó aldrei hafi farið langt.

Ytri-Ásláksstaðir (tvíbýli fyrir aldamót)

Ásláksstaðir

Ytri-Ásláksstaðir.

Ásláksstaðahúsið sem nú stendur var byggt um 1883-4 úr kjörviði sem seldur var á uppboði úr skipinu James Town, er strandaði í Höfnum og áður er getið um.
Um aldamótin bjuggu á Ytri-Ásláksstöðum Guðmundur Guðmundsson, bóndi, f. 1830 og kona hans, Ingibjörg Bjarnadóttir, f. 1833. Þau voru þar með tvær dætur sínar. Önnur hét Sigríður f. 1861, og var hennar maður Tómás er dó á besta aldri. Þau áttu eina dóttur, Guðbjörgu, f. 1894. Hin dóttir Guðmundar og Ingibjargar var Guðrún, f. 1866. Hún hóf búskap á Ásláksstöðum með Guðjóni J. Waage. (sjá Stóru-Voga). Dóttir þeirra var Ingibjörg Waage, en hún var sjúklingur meiri hluta ævinnar.
Árið 1912-13 voru systurnar, Sigríður og Guðrún Guðmundsdætur, á loftinu á Ásláksstöðum með dætrum sínum, Guðbjörgu og Ingibjörgu, en niðri munu hafa búið leiguliðar, Guðlaugur Hinriksson og kona hans, Guðrún Þórðardóttir. Einnig voru þar hjónin Sigurður Magnússon og kona hans, Kristín.
Fyrir 1920 voru Ásláksstaðir fá ár án búsetu, en þeir voru þá til sölu og var Gísli Eiríksson í Naustakoti umboðsmaður jarðeigenda. Árið 1920 kom kaupandi, Davíð Stefánsson frá Fornahvammi í Borgarfirði og kona hans, Vilborg Jónsdóttir frá Innri-Njarðvík. Höfðu þau búið fáein ár í Fornahvammi. Davíð var hálfbróðir Sigurjóns í Nýjabæ eins og áður er sagt. Hann var búmaður, enda fyrrverandi bóndi í Fornahvammi sem var blómlegt bú þegar best lét. Ekki mun Davíð hafa verið fyrir sjómennsku, en þeim mun meira fyrir landbúnaðinn. Vilborg, kona hans, var dugmikil kona og ráðdeildarsöm. Hún var mjög eftirsótt vegna handavinnu sinnar, en hún hafði numið karlmannafatasaum og lék allt í höndum hennar. Davíð og Vilborg eignuðust 9 börn og urðu flest þeirra fljótt vinnusöm og vel nýt til hvers sem var. Ekki komust þau öll til fullorðinsára. Börn þeirra voru: 1) Steingrímur Axel (lést tveggja ára), 2-3) Friðrik Fjallstað, tvíburi, hinn lést í fæðingu, 4) Guðmundur Lúðvík. Pessi börn fæddust í Fornahvammi, en að Ásláksstöðum fæddust: 5) Margrét Helga, (lést tveggja ára), 6) Helgi Axel, 7) Hafsteinn, rafvirki (látinn), 8) Þórir, rafvirki, 9) Marinó.
Eftir lát Davíðs árið 1959 bjó Vilborg áfram með þeim sonum sínum sem ekki voru þá farnir að heiman, en það voru Lúðvík og Friðrik. Mörg síðustu árin var Vilborg sjúklingur á spítala og lést árið 1985. Bræðurnir hafa haldið við jörð og húsum í eigu dánarbúsins. Nú eru Atlagerði, Móakot og Nýibær komin í eigu Ytri-Ásláksstaða, eins og þeir bæir munu hafa verið fyrr á tímum.

Sjónarhóll (í eyði)

Ásláksstaðir

Sjónarhóll.

Um 1886 byggði Lárus Pálsson „hómapati” Sjónarhól. Hann var fæddur 30. jan. 1842, d. 16. ágúst 1919. Lárus var einn af 23 systkinum frá Arnardranga í Kirkjubæjarhreppi, V-Skaftafellssýslu. Kona hans var Guðrún Þórðardóttir frá Höfða ( sjá Hellna). Árið 1885 keypti Lárus hálfa jörðina Innri-Ásláksstaði og árið 1886 skrifaði hann undir landamerkjasamning milli Ásláksstaðahverfis og Knarrarnesshverfis sem einn landeigandi að hálflendunni Innri-Ásláksstöðum. Lárus byggði nýtt hús austan við Innri-Ásláksstaði og nefndi það Sjónarhól. Það hús var timburhús og allt rúmgott, enda fór fjölskyldan stækkandi. Lárus stundaði útgerð, en mikill tími fór í að sinna sjúklingum með hómapatískum lyfjum og meðferð, enda var hann alþekktur um suðvesturland fyrir lækningar sínar. Lárus bjó á Sjónarhóli til ársins 1889 eða í 12 ár. Hann flutti þá til Reykjavíkur og lést þar árið 1919, 77 ára gamall.
Eftir Lárus komu að Sjónarhóli, Magnús Magnússon, f. 1858 og ráðskona hans, Guðný Bjarnadóttir, f. 1850. Þau voru með fósturbarn, Guðmund Sigmundsson, f. 1895 og einnig fylgdi þeim vinnumaður, Ásmundur Guðmundsson, f. 1878.

Ásláksstaðir

Sjónarhóll.

Síðan komu að Sjónarhóli hjónin Brynjólfur Ólafsson og kona hans, Jónína Jónsdóttir. Þau höfðu byrjað búskap í Reykjavík um 1907 en fluttu að Sjónarhóli um 1910 og bjuggu þar í 15 ár. Brynjólfur stundaði landvinnu og sjómennsku eins og títt var um þær mundir. Man ég hann sem meðalmann á hæð, herðabreiðan með dökkt hár og mikið efrivaraskegg. Sér í lagi bar á honum við kirkjuathafnir því hanri var söngmaður mikill og hafði það embætti að vera forsöngvari í Kálfatjarnarkirkju. Hann hafði mikila rödd og var leiðandi í söngnum.
Þau hjón eignuðust 4 börn: 1) Ólafíu Margréti, f. 1907 í Reykjavík og bjó hún þar síðar (látin), 2) barn er dó ungt , 3) Dagbjörtu f. 1912, bjó í Hafnarfirði (látin), 4) Ragnhildi f. 1917, býr í Reykjavík. Brynjólfur og Jónína ólu upp einn dreng, Svein Samúelsson, bróður Einars er ólst upp í Austurkoti í Vogum.
Árið 1925 var Brynjólfi boðinn kauparéttur að Sjónarhóli. Hafði hreppurinn eignast jörðina og Brynjólfur því verið leiguliði. Brynjólfur hafnaði kaupunum og flutti til Hafnarfjarðar og bjó þar síðan. Kaupandi að Sjónarhóli varð Friðfinnur Stefánsson frá Hafnarfirði (bróðir Gunnlaugs kaupmanns þar). Friðfinnur átti þessa eign ekki lengi, því að á sama ári seldi hann Sjónarhól Magnúsi Jónssyni og Erlendsínu Helgadóttur (sjá Halldórsstaði, Sjónarhól Vogum og Sjónarhól á Vatnsleysuströnd).
Ásláksstaðir
Sjónarhóll þótti góð bújörð og bætti Magnús hana allverulega en lagði einnig sjálfur í útgerð í nokkur ár. Síðar byggði hann nýtt hús árið 1929, það hús sem nú stendur. Reisulegt steinhús sem stendur suðaustur af gamla húsinu sem var orðið 43 ára gamalt og var að lokum notað fyrir gripahús. Smiður að nýja húsinu var Jón Helgason, mágur Magnúsar. Eftir 18 ára búskap Magnúsar á Sjónarhóli, eða árið 1943, seldi hann og var aðalástæðan sú að svokölluð heymæði gerði honum erfitt fyrir að stunda búskap og annað það að börnin voru farin að heiman. Hann var og útslitinn, með ágerandi kölkun í mjöðm sem síðar var reynt að laga í Noregi með litlum árangri. Börn Magnúsar og Erlendsínu voru: 1) Helgi (látinn), 2) Guðjón (lést ungur), 3) Ragnhildur, 4) Guðjón (nýlátinn ), 5) Anna Dagrún, 6) Guðrún Lovísa, 7) Guðlaug (látin), 8) Sigurveig, 9) Þórður, hálfbróðir (Guðríðarson), 10) Sesselja (lést barn). Magnús og Erlendsína fluttu í Voga og byggðu þar annan Sjónarhól. Kaupandi að Sjónarhóli á Vatnsleysuströnd var Vilmundur Jónsson fyrrv. landlæknir og eiga ættingjar hans hann nú.

Innri-Ásláksstaðir (horfnir)

Ásláksstaðir

Ásláksstaðahverfi,

Um aldamótin bjuggu á Innri-Ásláksstöðum Magnús Magnússon, f. 1860, og kona hans, Ingibjörg Jónsdóttir, f. 1860. Þeirra börn voru: 1) Jónína, f. 1888, 2) Vilborg, f. 1891, 3) Magnús, f. 1893, 4) Guðrún, f. 1894, 5) Margrét, f. 1895. Einn son átti Magnús fyrir hjónaband, Sigurð að nafni.
Jónína átti Helga Jónsson frá Nýjabæ hjá Stóru-Vatnsleysu. Helgi fórst með m/b. Hermanni frá Vatnsleysu árið 1916. Vilborg, dóttir Magnúsar, átti Ólaf Teitsson frá Hlöðversnesi og bjuggu þau í Reykjavík. Vilborg var sérstakur velunnari Kálfatjarnarkirkju og gaf henni m.a. altarisdúk. Einn sonur Ólafs og Vilborgar var Eggert prestur á Kvennabrekku í Dölum. Ingibjörg lést á Innri-Ásláksstöðum, en Magnús kvæntist aftur og hét sú kona Eyrún. Átti hún son, Einar Hallgrímsson, er hún hafði með sér.
Magnús og Eyrún bjuggu í nokkur ár á Innri-Ásláksstöðum en fluttu síðan til Hafnarfjarðar og dóu þar. Munu þau hafa verið síðustu búendur á Innri-Ásláksstöðum og lagðist jörðin síðan undir Sjónarhól.”

Vogarétt

Sýsluréttin árið 2022.

Í Örnefnalýsingu fyrir Ásláksstaði segir Gísli Sigurðsson:
“Landamerkjalýsing Ásláksstaðahverfis úr landamerkjabók Gullbringu- og Kjósarsýslu: Landamerkjalýsing þessi innibindur Ásláksstaðahverfi, en það eru þessar jarðir og býli: Sjónarhóll, Innri-Ásláksstaðir, Hallandi (Nýibær), Ytri-Ásláksstaðir og Móakot. Ásláksstaðahverfi tilheyrir land allt, girt og ógirt, á milli Hlöðuneshverfis að sunnan og Knarrarness að innan, svo langt til heiðar eða fjalls, sem land Vatnsleysustrandarhrepps nær.”

Í “Athugasemdum og viðbætum Friðriks og Lúðvíks Davíðssona á Ásláksstöðum” segir um Ásláksstaðasel:

Knarrarnessel

Knarrarnesel – uppdráttur ÓSÁ.

“Ásláksstaðasel á að vera austur af Hlöðunesseli milli þess og Knarrarnessels. Magnús á Sjónarhóli talaði um, að fé væri uppi í Huldum, segir Lúðvík. Friðrik gizkar á, að það séu hólar milli Hrafnagjár og Klifgjár, hægra megin við stíginn yfir Hrafnagjá. Þar er leitótt.”

Knarrarnessel

Knarrarnessel  að baki – vatnsstæði.

Í Jarðabók ÁM og PV árið 1703 segir um selstöðu Stóru Ásláksstaða: “Selstöðu á jörðin frí þar sem heita Knarrarness sel, og eru þar hagar í lakasta máta en vatnsbrestur til stórmeina.”
Um selstöðu Minni Ásláksstaða segir í Jarðabókinni 1703: “Selstöðu á jörðin frí þar sem heita Knarrarness sel og eru þar hagar í lakasta máta, en vatnsból brestur til stórmeina”.

Heimildir:
-Mannlíf og mannvirki í Vatnsleysustrandarhreppi, Ásláksstaðir, Guðmundur Björgvin Jónsson 1913-1998, bls. 261-272.
-Örnefnalýsing – Ásláksstaðahverfi. Gísli Sigurðsson skráði.
-Örnefnalýsing: Athugasemdir og viðbætur Friðriks og Lúðvíks Davíðssona á Ásláksstöðum.
-Jarðabók ÁM og PV 1703, Gullbringusýsla – Vatnsleysustrandarhreppur, Stóru Aslaksstader og Minne Aslaksstader, bls 129-133.

Ásláksstaðir

Ásláksstaði – nokkur örnefni.

Búðarvatnsstæðið

Í Örnefnalýsingu fyrir Krýsuvík segir Þorsteinn Bjarnason frá Háholti m.a. frá Búðarvatnsstæðinu:

Búðarvatnsstæðið

Búðarvatnsstæðið.

“Frá Dagon er landamarkalínan í Núphlíð. Austan í henni, syðst, er Skalli, en austan undir Núphlíð er Sængurkonuhellir. Frá Núphlíð eru landamerki sjónhending í vesturrætur á Trölladyngjum, frá þeim í Markhelluhól við Búðarvatnsstæði. Að norðan eru mörkin sjónhending úr Markhelluhól, norðvestan við Fjallið eina, öðru nafni Eldborgarhellir, í Melrakkagil, sem kemur niður úr Undirhlíðum.”

Búðarvatnsstæðið

Búðarvatnsstæðið.

Í Örnefnalýsingu fyrir Krýsuvík sem Ari Gíslason skráði segir m.a:
“Norður frá Mávahlíðum rís upp Mávahlíðarhnúkur. Héðan til norðausturs liggur leiðin um hraun að Búðarvatnsstæði.”

Merkhella

Markhella – áletrun.

Í skráningu “Menningarminja í Vatnsleysustrandarhreppi”, svæðisskráningu, sem Sædís Gunnarsdóttir skráði árið 2006 segir:
“Búðarvatnsstæði – heimild um vatnsból
Þaðan liggur landamerkjalínan í norður um mitt Búðarvatnsstæði og Búðarhól, sem er Hraunhóll.” segir í örnefnaskrá “Gömul hestagata iggur meðfram hrauninu og við fylgjum henni í austurátt fyrir tunguna og að Búðarvatnsstæðinu. Um vatnsstæðið endilangt liggur gamla sauðfjárveikivarnargirðingin sem hefur vísað okkur veginn hingað til. Vatnsstæðið er nokkuð stórt og virðist hafa verið lagað til af mannahöndum.” “Það kúrir í grasbletti ofan við úfið hraunið og þaðan er útsýnið vítt og fallegt til suðurs og austurs. Örnefnið er sérkennilegt og gæti bent til þess að við vatnsstæðið hafi verið áningarstaður og þá jafnvel yfir nótt, þ.e. einhverskonar “búðir”. Ekki er ólíklegt að þeir sem unnu við kolagerð í Almenningi hafi hafist við tímabundið við Búðarvatnsstæðið og af því sé nafnið dregið.”

Markhella

Markhella – áletrun.

Í Örnefnalýsingu fyrir Hvassahraun eftir lýsingu Gísla Sigurðssonar og upplýsingum, sem Guðmundur Sigurðsson gaf í viðtali á Örnefnastofnun 16. júlí 1980 segir m.a.:
“Er þá komið á Dyngjuháls. Austur af honum eru Mávahlíðar, en þar um liggur landamerkjalínan milli Hvassahraunslands sunnanvert og Krýsuvíkur. Austur af Lambafellum eru Einihlíðar, og vex þar einir. Ofan eða sunnan þeirra er Einihlíðabruni. Sunnan Einihlíða lá landamerkjalína Hvassahrauns og Krýsuvíkur í Markaklett, sem er austur af Búðarvatnsstæði. Hann er nefndur Markhelluhóll í landamerkjalýsingu. Stafirnir Hvassa.- Ótta. – Krv. eru þar markaðir á hellu, sem snýr við norðaustri [hellan snýr reyndar við norðvestri]. Á hólnum er varða, sem mun heita Markhelluhólsvarða. Þaðan liggur landamerkjalínan í norður um mitt Búðarvatnsstæði og Búðarhól, sem er hraunhóll. Þar vestur af er lægð í hrauninu, sem nefnist Helgulaut. Þar hafði kona að nafni Helga orðið úti.”

Í Örnefnalýsingu fyrir Óttarsstaði, lýsingu Gísla Sigurðssonar segir m.a.:

Markhella

Markhella – áletrun.

“Úr Markhelluhól liggur merkjalínan um vestasta hluta Sauðabrekkugjár, en þá um Búðarvatnsstæði, og skiptist það jafnt milli Óttarsstaða og Hvassahrauns. Norður og niður af vatnsstæðinu nefnast Búðarhólar. Mörkin liggja líklega gegnum þá.”

Markhelluhóll

Markhelluhóll við Búðarvatnsstæðið.

Búðarvatnsstæðið er á sléttu hrauni undir nýrri hraunbrún. Á brúninni, á svonefndum Markhelluhól, eru tvær vörður, önnur lítil og hin mosavaxin; greinilega fornar. Um vatnsstæðið lá fyrrum sauðfjárveikigirðing og má enn sjá staura hennar við og í nágrenni við það. Girðingin var þá á mörkum Krýsuvíkur, Hvassahrauns og Óttarsstaða. Hvers vegna framangreindir stafir hafi verið grafnir á steinvegg Markhellu, í eins og hálfs kílómeters fjarlægð frá Búðarvatnsstæðinu til austurs, hefur aldrei verið skýrð að fullu. Ekki er ólíklegt að ætla að einhver á ströndinni hafi látið sér detta í hug að krota nöfnin þarna, enda í skjóli frá mögulegri umferð Krýsuvíkurbænda um ofanverð fáfarin hraunin. Landamerkjalýsingin um Markhelluna á þessum stað kemur a.m.k. ekki heim og saman við fyrri lýsingar.

Heimildir:
-Örnefnalýsing fyrir Krýsuvík – Þorsteinn Bjarnason frá Háholti safnaði og skráði.
-Menningarminjar í Vatnsleysustrandarhreppi, svæðisskráning; Sædis Gunnarsdóttir, 2006.
-Örnefnalýsing fyrir Hvassahraun; lýsing Gísla Sigurðssonar, víða tekin upp orðrétt. Upplýsingar, sem Guðmundur Sigurðsson gaf í viðtali á Örnefnastofnun 16. júlí 1980. Hann hafði áður borið lýsingu Hvassahrauns undir Gústaf Brynjólfsson frá Eyðikotinu. Guðmundur er fæddur á Hvassahrauni árið 1919.
-Örnefnalýsing – Óttarsstaðir; lýsing Gísla Sigurðssonar var borin undir Gústaf Brynjólfsson frá Eyðikoti og síðan samin upp úr henni ný lýsing. Gústaf er fæddur í Reykjavík 1906, en ólst upp í Eyðikotinu í Hraununum og var þar til 1937.

Búðarvatnsstæðið

Búðarvatnsstæðið.