Tag Archive for: Vogar

Skógfellavegur

Hér verður fjallað um heimildir um svonefndan „Suðurnesjaalmenning„. Umfjöllunin er byggð á skýrslu Óbyggðanefndar um Grindavík og Vatnsleysustrandarhrepp árið 2004.

Trölladyngja

Trölladyngja og nágrenni.

Í greinargerð Þjóðskjalasafns Íslands má lesa eftirfarandi: „Í hinni prentuðu gerð Jarðabókar Árna Magnússonar og Páls Vídalíns er aftan við umfjöllunina um Vatnsleysustrandarhrepp neðanmálsgrein sem hefst á þessum orðum: Í Jarðabókinni er seðill og á honum þetta, sem á hjer við: „Það sem Suðurnesjamenn kalla Almenníng tekur til suður við Hvassahrauns land og Trölladyngjur, gengur so norður eftir fyrir ofan lönd allra Hraunabæjanna og endast so norðan til, þar sem hann mætir Ásslandi,““ … Eftir orðanna hljóðan virðist sem Almenningurinn takmarkist af landi Hvassahrauns og Trölladyngjum og sé því ekki innan Vatnsleysustrandarhrepps.
Í greinargerð Þjóðskjalasafnsins er vakin sérstök athygli á því hvaða jarðir á Suðurnesjum hafi átt rétt til kolgerðar í „almenníngi” eða „almenningum” og vísað til orðalags í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá árinu 1703. Í Grindavíkurhreppi séu það Ísólfsskáli, Hraun, Þorkötlustaðir, Hóp, Járngerðarstaðir, Húsatóftir og Staður, þ.e. allar jarðir í hreppnum, hvort sem þær töldust eign Skálholtsstóls eða konungs, nema Krýsuvík, sem hafði eigin skóg en um það segir: „Skógur lítill þó til kolagjörðar fyrir ábúendur og líka að nokkru leyti til eldiviðar.“ … Öll hlunnindi jarðarinnar, sem áður eru upptalin, mega hjáleigumenn allir nýta sjer hvör eftir efli og nauðsyn, nema reka einn; …

Fuglavíkursel

Fuglavíkursel í Miðnesheiði.

Í Hafnahreppi voru byggðar jarðir annað hvort í einkaeign eða eign Kirkjuvogskirkju. Engin þeirra átti rétt til kolagerðar. Í Rosmhvalanesshreppi voru langflestar jarðir í eigu konungs; í byggð voru: Stafnes, Hvalsnes, Bursthús, Lönd, Másbúðir, Fúlavík (nú Fuglavík), Býarsker, Fitjar, Þórustaðir, Kirkjuból, Hafurbjarnarstaðir, Kolbeinsstaðir, Lambastaðir, Miðhús, Gerðar, Skúlahús, Gauksstaðir, Skeggjastaðir, Brekka, Varir, Kothús, Ívarshús, Meiðastaðir, Gufuskálar, Litli-Hólmur, Hrúðurnes, Stóri-Hólmur og Keflavík. Þær eru allar taldar brúka eða hafa skóg í almenningum til kolagerðar, nema Bursthús, Fitjar, Lambastaðir og Skúlahús, þar sem slíkt er ekki nefnt. Hins vegar eru kolskógarréttindi ekki nefnd við þær jarðir sem voru í einkaeign og voru: Uppsalir, Sandgerði, Flankastaðir, Krókur og Rafnkelsstaðir. Útskálar, sem voru staður (beneficium), eru ekki heldur með slík réttindi.

Kolhólssel

Kolhólssel í Vatnsleysuheiði.

Konungur átti allar jarðir í Vatnsleysustrandarhreppi, nema Kálfatjörn, Bakka og Flekkuvík, sem voru eign Kálfatjarnarkirkju. Allar jarðir í hreppnum brúkuðu skóg til kolgerðar í almenningi/almenningum nema Hvassahraun, sem átti skóg: „Rifhrís til kolgjörðar á jörðin í heimalandi, og líður hún á því hrísrifi stóran ágáng af Stærri og Minni Vatnsleysum, ábúendum og hjáleigumönnum. Annars brúkar jöðin þetta hrís til að fæða kvikfjenað í heyskorti“. Raunar höfðu Stóruvogar átt skóg, sem þá var eyddur: „Skóg hefur jörðin átt til forna til kolgjörðar naumlega, nú er hann fyrir löngu so eyddur, að þar er valla rifhrís að fá, sem þjena megi so styrkur heiti til eldiviðar. Og hefur hún að frjálsu kolgjörð í almenníngum“.

Kolhóll

Stóri-Kolhóll í Vatnsleysuheiði

Jarðir þær, sem konungur átti á Suðurnesjum, höfðu áður verið í eigu Viðeyjarklausturs, sem konungur sló eign sinni á, eða Skálholtsstóls. Hafði Skálholtsbiskup verið látinn skipta á jörðum við konungsvaldið með hirðstjórabréfi 27. september 1563.

Grindavík

Grindavík – Hópsnes- og Þórkötlustaðanes sem og Suðurnesjaalmenningur fyrrum.

Eins og áður var nefnt getur Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns þess ekki, að þær fáu jarðir, sem voru í einkaeign á Suðurnesjum, ættu rétt til kolagerðar í almenningi, ekki heldur Útskálar.
Í lýsingu Grindavíkursóknar 1840-1841 telur séra Geir Bachmann Almenning vera mjög víðtækan. Hann segir í lýsingu sinni á hraunum í Grindavík: „Það er að segja um öll þau hraun, sem finnast í Grindavík, að þau eru til samans tekin angar eða afleiðingar af þeim svo kallaða Almenningi fyrir sunnan Hafnarfjörð og ofan Vatnsleysuströnd“.
Síðar segir Geir: „Þess er áður getið, að hraun þau, sem í sókn þessari eru séu afleiðingar af Almenningnum. Hann liggur, sem kunnugt er, milli fjalls og sjóar, suður alla Vatnsleysuströnd, fyrir ofan Vogana, Vogastapa og Njarðvíkur. … [Geir telur hraunin sem liggja vestur í Hafnir og suður í Grindavík til Almenningsins]“. … Þá er ennþá einn angi Almenningsins, sem skerst út úr fyrir sunnan Stóra-Skógfell, milli Svartsengis og Þorbjarnarfells að norðan, en Húsafells að sunnanverðu. Liggur sá armurinn fram í Þorkötlustaðanes.Ekki hefur fundist annar staður þar sem Almenningnum er svo lýst. Geir Bachmann var tiltölulega nýkominn til Staðarprestakalls, fékk kallið árið 1835, en hafði raunar dvalið í Keflavík frá árinu 1832.

Kolbeinshæðarskjól

Kolbeinshæðarskjól.

Í kjölfar þess að stiftamtmaðurinn á Íslandi komst að þeirri niðurstöðu að Almenningsskógarnir á Álftanesi væri ennþá í eigu danska konungsins skipaði hann svo fyrir að farin yrði skoðunarferð um svæðið til þess að kanna hvað af almenningnum væri beitarland og hvað skógland þannig að ákvarða mætti hvaða hluta hans hægt væri að friða. Áreiðin fór fram 2. júní 1848. Samkvæmt henni voru mörk skógarlandsins: „ad nedan byrjar þad nyrdst vid Kolbeinshæd, gengur svo til vesturs nidur ad Markhólum fyrir nordan Lónakotssel, hvar skógurinn endar mót sudri. Þó gengur skógartúnga þríhyrndt nidur frá Alfaraveginum. Hennar botn eda breidd er ad ofan, og gengur frá Laungubrekkum til sudurs ad Markhólum. Spordur skógarspildu þessarar endar í útnordri vid Brunnhólavördu skamt fyrir ofan Lónakot. ad nordan. gengur skógarlandid frá Kolbeinshæd til Landsudurs lángs med Kapelluhrauni og brunanum upp ad Stórhöfdastíg, þadan til sudurs í Fremstahöfda lángs med brunanum sudur ad „fjallinu eina” þadan til vesturs og útnordurs í krókum og hlikkjum alt nidur ad Markhólum. Alt þetta land, sem álítst ad vera 1 ferhyrnings míla ad stærd, vidurkenna allir þeir, sem mætt hafa, ad kallad sé med adalnafni (Generelt) Almenníngur. Landid er alt skógi vaxid, og er skógurinn ad nordann og ad ofan vída ílla högginn… Gjördarmannanna álit og meining er, ad sú nýnefnda skógarspilda upp frá Lónakoti ad alfaraveginum hljóti ad vera beitarland bædi vegna nærlægdar þess vid Lónakot og Ottarstadi, og líka hins, ad þetta skógarland er í sjálfu sér lítilfjörlegt. Þarámóti finna þeir ei ástædu til ad skipta hinu ödru hér ad framan tilgreinda skógarlandi í tvent, … Land þad alt beri ad álíta sem skóg, er frida beri….

Brennisel

Brennisel í Almenningum.

Eigendurnir af jördunum Þorbjarnastödum, Straumi, Ottarstödum og Lónakoti samt af Hvassahrauni athugudu ad selstöður þeirra lægju í því að framan tiltekna skógarlandi, og ad þar hefdi verið frá alda ödli, þótt med millibilum, haft í seli frá tedum jördum einsog þeir hefdu beitt fé sínu í þessu tilgreinda landi og yrkt þar skóg. Þeir geima ser því rett sinn í þessu tilliti um leid og þeir framleggja eitt bréf til Sýsslumannsins [í Gullbringu- og Kjósarsýslu]“ … Bréfið hefst á tilvísun í tilkynningu hans til eigenda Hraunajarða um áreiðina.
Síðan segir: „þar óckur eru ofann nemdar jarder seldar undann tekníngarlaust med öllumm Herlogheitumm gögnumm og gjædumm til ytstu Landa merki, ljka Sagdar ockar kaupenda, fullkomnasta eign þadann í fra – undann fillum vid því ecke hier underskrifader menn, ad begiöra af vidkomande Sýslumanne í sínu lögsagnar ummdæmi ad Seiga ockur enn Hrauna jarda landi Sem bruna Hraun Halda þad land kallast ad ödru nafne Almenníngur alt nidur ad sjó“. …. Einnig var framlagt bréf frá prestinum í Garðaprestakalli þar sem hann minnir á að nokkrum jörðum tengdum því sé í Jarðabókinni frá 1760 eignað skógarhögg í Almenningnum.

Draughólshraun

Í Almenningum.

Stuttu eftir að áreiðargjörðin fór fram voru tveir vitnisburðir um landamerki Hraunajarða skráðir niður. Sá fyrri var saminn þann 5. júní 1848 að beiðni eigenda Hraunajarða en þeir vildu fá upplýsingar um hvað ákveðnir aðilar vissu um eignir Hraunajarða og notkun þeirra. Samkvæmt vitnunum var það land sem afmarkaðist af svokölluðu brunahrauni áður fyrr kallað Hrauna pláss eða Almenningur. Það land höfðu allar Hraunajarðir nýtt sér. Hver jörð hafði sitt svæði samkvæmt ákveðnum landamerkjum.
Seinni vitnisburðurinn var saminn degi seinna að undirlagi Guðmundar Guðmundssonar, bónda í Litla – Lambhaga, eiganda jarðarinnar Straums. Í honum greina vitni frá því hvað þeim hafi verið sagt varðandi landamerki jarðarinnar og notkun ábúenda á henni. Þessi lýsing fer hér á eftir: „Landa mörk höfumm vid heirt ad væru þesse – ad nordann vid sio – úr Briniolfs skarde í Hádeigeshæd frá Straume ur Hadeig<is>hæd í þufu á austur enda midmunda hæd fra Þorbiarnarstödumm þadann beina stebnu uppa Hafurbiarnar Holt af þúfu á Hafurbiarnar Holte í Heimsta Höfda beint upp í bruna – ad sunnann – fra bruna firer ofann raud Hóla í nordasta Hraunhol beinastebnu í þufu á eiólfs hól sem er [sem er verður helzt lesið úr þessu orði] firer ofann steinhus þadann í nordur enda gvendarbrun<n>s Hædar So í nónhól af nonhól í Skip Hól þadann í markhól firer ofann vatna skier vid sjo“.

Fjallið eina

Fjallið eina.

Þann 7. júní samdi Guðmundur Guðmundsson bréf til sýslumannsins í Gullbringu– og Kjósarsýslu. Þar kemur fram að hann hafi haft samband við stiftamtmanninn sem hafi hvatt hann til þess að sýna sýslumanninum vitnisburðina tvo þannig að hann gæti kynnt sér þá áður en hann léti skoðunargerðina frá 2. júní frá sér fara. Í bréfinu kemur einnig fram að eigendur Hraunajarða telja sig eiga landsvæði það sem er afmarkað af brunahrauninu og að þeir vilji að skóglendi þeirra á landspildunni verði friðað.
Þremur dögum eftir að Guðmundur samdi bréfið til sýslumannsins, nánar tiltekið 10. júní, bað sá síðarnefndi stiftamtmanninn um að svara því hvort að fyrirhuguð friðlýsing almenningsskóga Álftaness gæti haft áhrif á nýtingarmöguleika Hraunajarða á því landi sem eigendur þeirra teldu sig eiga þar.

Stórhöfðastígur

Stórhöfðastígur.

Þann 19. júní 1848 voru almenningsskógar Álftaness gerðir að friðlýstu svæði og öðrum en ábúendum Hraunajarða bannað nýta landið. Með yfirlýsingunni fylgdi lýsing á mörkum hins friðlýsta svæðis: „að neðan frá Kolbeinshæð alt suður að Markhólum að norðan frá Kolbeinshæð með Kapelluhrauni og brunanum að Stórhöfðastíg, þaðan til suðurs – í Fremstahöfða langs með brunanum suður að Fjallinu eina, þaðan til vesturs og útnorðurs niður að Markhólum“.

Markraki

Markraki – markavarða.

Þann 21. júní 1849 samdi umsjónarmaður almennings Álftaness greinargerð um umsjónarsvæði sitt. Í henni var m.a. lýsing á þessu svæði: „Fyrst milli Garðakirkju fjall<l>lands, ur steinhusi suður í Markagil á Marraka eður undirhlíðum þaðan á Hæðstaholt, á Dauðadölum á annan vegur Dauðadölum norður í Húsfell af Húsfelli upp á Þríhnjuka þaðan á suðurenda Blafells, á milli afrjetta Alptanes og se<l>tjarnarneshreppa. A milli Gullbríngu og Arnessyslna af Bláfjöllum vestur á Kistufell. A milli Alptaneshrepps og almennings og Krísivíkur lands af Kistufelli niður á syðra Horn á Fagradals-brún þaðan í Marrakagil, so í þúfu á fjallinu eina þaðan í Helguflöt norðaná Buðarhólum. A milli jarðanna Heimalands og afrjettar af Buðarhólum eptir Buðarhólagjá, þaðan aptur í Steinhús“. …
Í yfirlýsingum dagsettum 12. og 24. júní 1865 kemur fram að umboðsmenn Hraunajarða hafi ákveðið að banna notkun á skógi þessara jarða. Samkvæmt yfirlýsingunni frá 24. júní liggur skógurinn fyrir neðan hinn svokallaða Almenning eftir þeim landamerkjum sem voru ákveðin við áreiðargjörð árið 1848. Yfirlýsingin frá 24. júní var þinglesin tveimur dögum síðar.

Snókalönd

Snókalönd – varða.

Hinn 12. september 1874 var, að beiðni Árna bónda Hildibrandssonar í Hafnarfirði, gerð áreið á landamerki Hraunajarða og Almenningsskógana til að ákveða landamerki milli þessara staða. Áreiðarmenn urðu sammála um að: „bein stefna af kletti þeim, er liggur næst fyrir ofan Snókalönd, á Stórasteini, þaðan á Eyólfsbala og þaðan í Háholt sem liggur nálægt landamerkjum Hvassahrauns og Lónakots, [Yfirstrikun] væri sanngjarnlegust og réttust landamerki milli Almenningsskógar og Hraunjarða“. Til glöggvari auðkenningar hlóðu áreiðarmenn vörðu á Eyólfsbala, og aðra ofaná Stórastein. En fremur eru [yfirstrikun] 2 vörður í beinni stefnu milli Stórasteins og klettsins hjá Snókalöndum, er áður var getið. Þá kom og áreiðarmönnum saman um, að bezt væri að hlaða vörðu á þennan stein hjá Snókalöndum, til þess að landamerki yrðu sem glöggvust og lofaði herra Árni Hildibrandsson að sjá um að það yrði gjört.

Litla-Skógfell

Litla-Skógfell.

Þann 29. júní 1875 var áreiðargjörðin á landamerki Hraunajarða, sem farin var í september árið áður, þinglesin á manntalsþingi Álftanesshrepps.
Svo virðist sem Óbyggðanefndinni hafi eitthvað skolast af leið er hún fjallaði um „Suðurnesjaalmenning. Tilgangurinn virtist vera að fjalla um svæðið ofan Grindavíkur og vestan Vatnsleysustrandar, þ.á.m. land Njarðvíkur og svæðið ofan Hafna. Það virðist hafa mistekist, ef marka á framangreinda lýsingu. Nokkur örnefni um skóg eru á því svæði, s.s. Litla- og Stóra-Skógfell og Skóghæð. Aftur á móti eru framkomnar upplýsingar ávallt vel þegnar, þótt þær fjalli ekki beint um upphaflega viðfangsefnið.

Heimild:
Úrskurður Óbyggðanefndar 2004 – Grindavík og Vatnsleysuströnd.

Straumssel

Í Straumsseli – tóftum húss skógarvarðarins, sem ætlað var að gæta að Almenningsskógum Hraunajarðanna í Garðalandi.

Efri-Brunnastaðir

Fyrrum var réttað í Brunnastaðarétt á Vatnsleysuströnd. Réttin sést vel á loftmynd frá árinu 1954, en í dag (2021) er hún horfin af yfirborði jarðar.
Í Úrskurði Óbyggðanefndar árið 2004 var lögð fram lýsing Sæmundar Þórðarsonar á Stóru – Vatnsleysu á smalamennskum á Vatnsleysuströnd og Vogum sem stjórnað var af hreppsnefnd. Þar lýsir Sæmundur bæði Brunnastaðaréttinni og réttinni á Vigdísarvöllum:

Brunnastaðarétt

Brunnastaðarétt 1954 – uppdráttur ÓSÁ.

„Lýsingin er dagsett 27. október en án ártals. Segir hann bændur hafa smalað sjálfir heimalönd í Vatnsleysustrandarhreppi í sex einingum:
1. Hvassahraun (Hvassahraunsmenn smöluðu að Markhellu).
2. Vatnsleysubæir og Flekkuvík (í fyrstu rétt smalaðir Höskuldarvellir, farið upp Sog og vestur með Spákonuvatni og sigin norðan í Grænavatnseggjum og niður austan við Driffell og niður með Hrafnafelli, um Kolhól, Einiberjahól og Austari-Hrafnhól. Senda varð tvo menn til að smala tór sem liggja upp eftir Afstapahrauni, allt til Sóleyjarkrika. Með Flekkuvíkurmönnum var farið upp í Flekkuvíkursel og smalaður þríhyrningur, sem myndaðist milli Vatnsleysumanna og Kálfatjarnar- og Þórustaðamanna, milli Hafnhóla og Prestsborgar (Staðarborgar) og Keilisness. Þess hafi verið gætt að vera samsíða Kálfatjarnar-, Þórustaða-, Landakots og Auðnamönnum við smölun).

Vigdísarvallarétt

Vigdisarvallarétt – uppdráttur ÓSÁ.

3. Kálfatjörn, Þórustaðir, Landakot og Auðnar (Sæmundur nefnir það Þórustaðaleit en ekki hve langt þeir hafi smalað).
4. Knarrarnes.
5. Hlöðunes og Brunnastaðahverfi.
6. Vogar. (Sæmundur nefnir ekki hvert menn á svæðum 4 – 6 hafi smalað). Eftir að bílfært varð á Höskuldarvelli og upp í Eldborg og Sog hafi smalar verið fluttir á bílum upp eftir, og hafi allir nýtt sér það nema Brunnastaða- og Vogamenn. Á síðari árum hafi Brunnastaðamenn farið á bílum frá Ísólfsskála að Litlahrút og smalað þaðan til Brunnastaðaréttar. Smalamennskur í Krýsuvík hafi verið samstarfsverkefni Vatnsleysustrandarmanna og Grindvíkinga, réttað á Vigdísarvöllum á sumrum en rekið til Grindavíkur á haustum.
Höskuldarvellir og Sóleyjarkriki hafi verið lífæð beitar yfir sumartímann, jafnvel þótt stór hluti hafi verið í rækt og þar heyjað. Þar hafi alltaf verið rennandi vatn.“

Heimild m.a.:
-Úrskurður Óbyggðanefndar – mál nr. 1/2004; Grindavík og Vatnsleysuströnd.

Brunnastaðarétt

Brunnastaðarétt – fyrr og nú.

Öskjuholtsskjól

Gengið var frá Reykjanesbraut upp að Virkishólum og Grænudölum þar sem Loftskúti var skoðaður.

Loftsskúti

Loftsskúti.

Virkishólarnir sjást vel frá Reykjanesbrautinni skammt ofan við og norðan nýju gatnamótanna að Hvassahrauni. Þeir standa þrír saman og eru áberandi klettahólar með djúpum sprungum þvert og endilangt. Á milli þeirra er jarðfall með fyrirhleðslum, sem nefnist Virkið og var notað til þess að hleypa til í um fengitímann. Virkið er vel gróið og við norðurenda þess, þar sem gengið er niður í jarðfallið, eru hleðslur með brún þess.

Virkishólar

Virkið í Virkishólum.

Austur af Virkishólum eru Grænudalir, sem sumar heimildir kalla Grendali. Dalirnir eru djúpir kjarr- og grasbollar í klettásum, en slíkt landslag er einkennandi fyrir Hvassahraunslandið. Á einum hraunhólnum er varða, sem heitir Grænadalsvarða og við þennan hól sunnanverðan er fjárskjól með hleðslum, sem heitir Grænudalahellir eða Loftskúti. Op þess snýr í suðurátt. Sumir segja að menn frá Hvassahrauni hafi geymt rjúpur sínar í skútanum er þeir voru við veiðar uppi í hrauninu að vetrarlagi.

Hvassahraun

Smalaskáli.

Loks var gengið til vesturs norðan línuvegarins að svonefndum Bláberjakletti. Þetta er fallegur strýtumyndaður klapparhóll, en í kringum hann eru gras- og lynglautir, sem eiga að hafa gefið af sér ófá bláberin. Hóllinn er klofinn eftir endilöngu í skeifu og hægt að ganga í gegnum klofann. Að sunnanverðu er hóllinn bogadreginn og bak hans nokkuð slétt.
Ofar er Smalaskáli með fallegu fjárskjóli og sunnan hans er Öskjuholt, einnig með fallegu fjárskjóli.
Gengið var norður að Virkishólum og að upphafsstað. Hraunið þarna er mjög auðvelt yfirverðar, nokkuð slétt þótt mishæðótt sé með fallegum jarðföllum og vel gróið.
Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 1 mín.

Heimild m.a.:
-Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi – Sesselja G. Guðmundsdóttir.

Fjárskjól

Fjárskjól í Öskjuholti.

Rauðhólssel

Gengið var frá Höskuldarvallavegi, til suðurs með gígum og yfir að Rauðhól, að Rauðhólsseli. Að því búnu var gengið um norðanverðan Þráinsskjól að Þórustaðastíg og skoðuð ummerki í heiðinni norðan Keilis.

Rauðhólssel

Rauðhólssel – uppdráttur.

Eins og svo víða á Reykjanesskaganum hafa sammsýnir menn dundað við að krafla utan af fallegum hraungígum og eldvörpum. Þannig hefur smám saman verið grafið utan af fallegum mosavöxnum hraunhól stutt sunnan við veginn upp að Höskuldarvöllum. Stígur liggur með austanverðum hólnum, áleiðis yfir að Rauðhól. Norðvestan við hólinn, undir hraunbakka Þráinsskjaldarhrauns, eru tóftir Rauðhólssels. Minni-Vatnsleysa hafði selstöðu undir Oddafelli, en þangað var bæði langt og erfitt að sækja. Stóra-Vatnsleysa hafði hins vegar í seli undir Rauðhól þar sem heitir Rauðhólssel. Þar voru hagar sæmilegir, en stórt mein af vatnsleysi.

Rauðhólssel

Rauðhólssel – Rauðhóll.

Gengið var upp með Rauðhól, ofan hraunskila, en nýrra hraun hefur runnið að því eldra að austanverðu. Stíg var fylgt áleiðis að Keili, en þegar komið var á Þórustaðastíg var honum fylgt áleiðis niður heiðina.
Þráinsskjöldur er stór hraunbunga norðaustan af Fagradalsfjalls. Litlar minjar eldsumbrota eru í hvirfli hennar, en geysimikil hraun hafa runnið til suðurs, vesturs og þó miklu mest til norðurs. Hraunið rann kringum Keili og Keilisbörn og færði Litla Keili næstum í kaf. Þessar hraunbreiður heita einu nafni Þráinsskjaldarhraun og ná austan frá Vatnsleysuvík vestur að Vogastapa. Þannig stendur öll byggð í Vogum og Vatnsleysuströnd í þessu hrauni.

Kolhóll

Stóri-Kolhóll.

Talið er að Þráinsskjaldarhraun hafi runnið fyrir um 9000 árum. Þráinsskjöldur er einna mikilvirkasta eldstöðin á öllum Reykjanesskaga.
Gengið var vestur fyrir Keili og skoðuð gömul gata, sem þar liggur á ská upp heiðina. Gatan liggur austur með sunnanverðu fjallinu, en þegar komið er vestar niður í heiðina virðist gatan hverfa í gróðureyðinguna.
Skammt norðar var Kolhóll sem og Stóri-Kolhóll. Gengið var að honum og síðan beygt var frá honum til norðurs og gengið yfir hraunið að upphafsstað.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 33 mín.

Rauðhólssel

Rauðhólssel.

Vífilsstaðasel

Eftirfarandi er úr erindi ÓSÁ um sel og selstöður á Vatnsleysustrandareheiði, sem flutt var á Sagnakvöldi í Kálfatjarnarkirkju 19. janúar 2006:

Gjásel Ætlunin er að reyna að gefa svolitla innsýn í 10 alda sögu seljanna ofan við Kálfatjörn og Ströndina á innan við 20 mínútum. Stikklað verður á stóru.
Byggðin á Vatnsleysuströnd var frá upphafi svo til öll með sjávarsíðunni. Útvegsbændurnir höfðu fjárbúskap samhliða útvegum. Fá býlin höfðu kýr og þá yfirleitt fáar. Bændur stærri og landmeiri bæja höfðu fé sitt í seli yfir sumarið. Selin voru í jaðri jarðanna til að nýta mætti landið sem best, þ.e. hlífa heimatúnum, sem almennt voru lítil, og heimahögum, en beittu úthagann. Lífið á Ströndinni hér áður fyrr, eins og svo víða annars staðar á Reykjanesskaganum, snerist fyrst og fremst um fisk og fé. Fólkið hélt lífinu í fénu og féð hélt lífinu í fólkinu. Erfiðara var að ganga að fiskinum vísum.
Á Reykjanesi, sem telur í dag um 168 sýnilegar selstöður, þ.e. á milli Suðurlandsvegar og Stampa yst á Reykjanesi, voru selin tímabundar nytjaútstöðvar útvegsbændanna með ströndinni.
Samkvæmt jarðabókinni 1703 voru þá a.m.k. 18 sel og selstöður í notkun frá Vatnsleysustrandarbæjunum. Það hefur því oft verið talsvert líf í heiðinni, eða um 40-60 manns að staðaldri yfir sumarmánuðina.
Mjög lítið hefur verið skrifað um sel og selsbúskap hér á landi og nær ekkert á þessu svæði. Ástæðan er fyrst og fremst sú að yfirleitt var ekki skrifað um það sem þótti bæði eðlilegt og sjálfsagt í daglegu lífi fólks. Þannig var t.d. ekki skrifað um það hvernig hin fornu handrit, hin dýrmæta arfleið, voru gerð eða hvað þurfti að gera til að koma texta á bókfell. Eftir standa ósögð orðin og lýsingarnar – líkt og selstóftirnar í heiðinni. Á sama hátt skiptu afurðir seljanna meiru en hvernig þær urðu til. Við vitum líka hverjar afurðinar voru og ef seljabúskapurinn stæði okkur ekki svo nálægt í tíma og raun ber vitni væri harla fátt vitað um hvernig hann hafi verið í framkvæmd. Á sama hátt og handritin eru áþreifanlegur vottur handbragðsins fyrrum tengja minjar seljanna okkur beint við þá gömlu búskaparhætti, sem þar tíðkuðust í gegnum aldir.
Í heimildum um sel segir m.a. á einum stað: “Í seljum þessum störfuðu venjulega 2-3 menn; selsmalinn og selráðskonan og oft einn unglingur þeim til aðstoðar, ýmist piltur eða stúlka. Áður fyrr voru þar gerðir úr mjólkinni, ostar, skyr, smjör og sýra….sótt var í selið tvisvar í viku; skyr, mysa og smjör og flutt heim á hestum”.
Fé yfirleitt haft í seli yfir sumarið, venjulega frá 6. – 16. viku sumars. en í þá tíð var árdagatalið miðað við meginárstíðarnar, sumar og vetur. Vegna ótíðar gat seljatíðin færst til um viku eða svo.
Selja er stundum getið í örnefnalýsingum, s.s. þessi af Hvassahraunsseli: “Heiman úr Tröðum liggur troðningur suður um Hellur, suður á hraunið. Það er Hvassahraunsselsstígur eða Selsstígur. Stígur þessi lá áfram suður hraun allt til Krýsuvíkur. Upp af Brennhólum er Hálfnaðarhæð. Þar er hálfnuð leið frá bænum í Selið. Þá tekur við sunnar nokkuð Selskrínshæð og þar sunnar er Viðunarhóll, skógi eða hrísi vaxinn. Þá er komið í Selið eða Hvassahraunssel, sem er vestan undir Selásum. Veggirnir standa enn nokkurn veginn uppi, og gróður er þar í kring. Vatnsbólið er undir skúta, eiginlega beint austur af Selinu, og er erfitt að finna það.”
Brunnaselstöðunni er t.d. lýst svo árið 1703: ”….Selstöðu hefur jörðin við fjallgarð, er þar hagar litlir, en vatnsskortur að miklu meini, þegar þerrar gánga”. Þessi heimild segir okkur margt um erfiða búskaparhætti og ástand gróðursins í heiðinni á þessum tíma. í Brunnastaðaseli hafa þá verið 30-40 kindur og er það hreint ekki lítið.
Oft bera selin nöfn þeirra bæja, sem gerðu þau út. Flekkuvíkursel var frá Flekkuvík og Hvassahraunssel var frá Hvassahrauni o.s.frv. Þó eru dæmi um að selin hafi dregið nöfn sín af staðháttum, s.s. Sogasel í Sogagíg og Selsvallasel af Selsvöllum, eða öfugt, þ.e. örnefnin er tilkomin vegna seljanna.
Í örnefnaslýsing segir og um Flekkuvíkursel: „Gunnar og Ólafur Erlendssynir nefna Flekkuvíkursel í örnefnaskrá árið 1976 og segja: “Herdís Jónsdóttir frá Flekkuvík, f: 1858, kom í selið sem barn og voru þar þá bæði smali og selráðskona. Í selinu voru þá eingöngu hafðar kindur”.
Auk þess sem flestra seljanna er getið í gömlum heimildum og örnefnalýsingum má sjá nokkur þeirra, a.m.k. þeirra stærstu, á gömlum kortum, s.s. dönsku herforingjakortunum svonefndu, en annað það er gefur vísbendingu um að sel hafi verið að ræða á tilteknum stöðum eru nafngiftir tengdar þeim, s.s. Selháls, Selshæð, Selsvallafjall, Selsvellir, Selsfjall, Seljahlíð, Selalda, Selstígur og Selshóll.
Stekkur í Brunnastaðaseli – Á Reykjanesskaganum var selið og önnur mannvirki í seli oftast í skjóli fyrir austanáttinni, rigningaráttinni, þ.e. í skjóli við hól, hæð eða gjábakka mót vestri.
Samkvæmt jarðabókinni 1703 voru þá a.m.k. 18 sel og sennilega fleiri selstöður í notkun frá Vatnsleysustrandar-bæjunum. Það hefur því oft verið talsvert líf í heiðinni, eða um 40-60 manns að staðaldri yfir sumarmánuðina.
Það virðist vera ríkjandi viðhorf meðal fólks að “minjar hér á landi séu bæði óskýrar og óskiljanlegar. En er það svo í raun?
Í ljóðinu fylgd eftir Guðmund Böðvarsson er getið um sel; “En frammi á fjöllum háum – fjarri sævi bláum – sefur gamalt sel”. Þessar línur geta vel átt við selin á Vatnleysustrandarheiðinni.
Sögur tengdar seljafólkinu eru nokkrar til, þá aðallega tengdar barnshafnandi seljamatsseljum eftir að huldumenn eða útilegumenn komust í tæri við þær. Þá gleymdist oft að bóndinn á bænum fór reglulega upp í selið á tveggja eða þriggja daga fresti til að sækja afurðirnar og færa þangað matarkyns, talsverður samgangur var á milli seljanna og auk þess var nokkur umferð fólks um heiðina yfir sumartímann, á leið hingað og þangað um Innnesin og Útnesin. Ekki fóru allir Almenningsleiðina.
Sigurlín Sigtryggsdóttir lýsir í handritinu “Upp til selja” lífi smala í seli í Eyjafirði:
“Mjög þótti það áríðandi að hafa trúa og ötula selsmala. Ærnar máttu helst ekki missa máls, en svo var það kallað, er vantaði af ánum til að mjalta. Vantaði á fékk smalinn að eta skömmina.
Smalinn var vakinn kl. 3-4 á nóttunni til smalamennskunnar og einnig var farið að smala um svipað leyti, kl. 3-4, að degi til. Smalinn hélt alltaf til í selinu.
Smalastarfið var erfitt, en samt minnast þeir margir hverjir starfans með lotningu og telja það jafnvel ánægjulegustu reynslu lífs síns.
“Áhugi fólks á minjum kviknar fyrst eftir að grafið hefur verið í þær”. “Rannsóknir virkja staði” sagði kennari minn í fornleifafræði við Háskólann okkur í tíma í gær. Þetta er að sumu leyti rétt, eins og dæmin sanna.
Sagt hefur verið að til þess að áhugi annarra á menningu svæðis vakni þurfi áhugi heimamanna á henni að vera fyrir hendi.
Þegar staðið er í tóftum fornra selja og horft á húsin, stekkinn, kvína, vatnsbólið, nátthagann og gömlu göturnar má vel sjá selsráðskonuna mjólka ærnar og vinna mjólkina, smalann færa féð frá og að seli kvölds og morgna, bóndann koma með viðurværi og færa nytjarnar til bæjar, heyra hávært jarmið við fráfærurnar og ímynda sér kyrrðina í heiðinni á fögrum og björtum sumarkvöldum.
Sagt hefur verið um hin fornu handrit: “Þessar minjar á að umgangast með tilhlýðilegri virðingu og hátíðlegu fasi, helst í sparifötunum”. Hvers vegna ekki minjarnar líka?
Í og við hvert sel má sjá selsstíg, selsvörðu, þrískipt hús (eldhús-íverustað og búr, stekk, kví, skjól, vatnsstæði/brunn, nátthaga, fjárskjól og mikinn gróanda.
Selstígurinn lá upp frá bænum að selinu. Hann var venjulega u.þ.b. Klukkustundar langur, stundum styttri, stundum lengri. Stundum markaður í klöppina.
Ágætt dæmi m draugagang í seli er Rauðhólssel. Í lýsingu þess segir að fyrir hafi komið að horfið hafi verið fyrr úr selinu en ætlað var vegna draugagangs, en líklegt er þó að vatnsskortur aðallástæðan.
Selsbúskapurinn leggst af á ofanverðri 19. öld. Ástæðan er ekki ein heldur nokkrar; fólki tók að fækka á einstökum bæjum, aukin áhersla var lögð á útveg, kýr voru nyjaðar í auknum mæli líkt og féð áður, þ.e. unnir ostar, smér og aðrar afurðir, og breytingar urðu á samfélagsmyndinni. „Um miðja 19. öld breyttist útgerð í Vogum og á Vatnsleysuströnd sem og víðasthvar annars staðar. Áður höfðu þar nær eingöngu verið smáfleytur, en nú koma stærri skip. Þeir sem eignuðust þessi skip fóru að græða á tá og fingri og brátt risu þarna upp nokkrir útvegsmenn sem báru höfuð og herðar yfir fjöldann.“ Féð var nýtt heima við framan af sumri, en síðan rekið á afrétt til sumarbeitar, en smalað að hausti.

Selsvellir

Á Selsvöllum.

Síðast mun hafa verið haft í seli á Skaganum árið 1914. Í dag má sjá móta fyrir 43 selstöðum í 26 seljum í heiðinni. Sum þeirra eru mun eldri en frá 1703.
Heiðin lítur öðruvísi út í dag en hún gerði þegar selsbúskapurinn var í sem mestum blóma. Telja má víst að landsnámsmenn hafi komið með selsbúskaparhættina með sér frá Noregi og haldið þeim þegar hingað var komið að teknu tilliti til aðstæðna hér. Þau munu skv. því hafa verið við lýði hér í um 1000 ára skeið. Selsbúskapurinn hefur því verið stór þáttur í búskaparháttum þessa landsvæðis, en er nú að mestu gleymdur. Hins vegar eru minjar seljanna enn vel sýnilegar í heiðinni og standa þar sem minnismerki um hið liðna – fortíðina – sem við þurfum að geta borið virðingu fyrir. Þau tala máli fólksins, forfeðra okkar og mæðra, sem hér bjó, stritaði og dó, en skyldu eftir sig dýrmæta arfleið – okkur.
Kannski verður einhvern tímann grafið í selstóftir í Strandarheiðinni og áhugi fólks vakinn á tilvist og hlutverki þeirra í fyrrum búskaparháttum svæðisins – fornleifin virkjuð, eins og kennarinn sagði. Hver veit?

[Erindið byggðist upp á myndasýningu].

Selsvellir

Selsvellir – uppdráttur ÓSÁ.

Vogar

Kristjánstangi skagar út í Vogavíkina sunnan Voga. Ofan hans er tjörn sem gengur inn úr Síkinu svonefnda. Kallast hún Síkistjörn. Ofan við tjörnina er hesthúsahverfi.
Gerði á KristjánstangaÍ örnefnalýsingu Ara Gíslasonar fyrir Voga segir m.a. um þetta svæði: „Nú er að halda áfram með sjó og neðan við þjóðveg. Þegar komið er inn fyrir Brekkulón er þar tangi sem heitir Kristjánstangi þar var einnig útgerð áður fyrr. Inn í þennan tanga, tvö smávik inn í fjöruna, þau eru nafnlaus, nema af sjó hafa þau nöfn og eru þá nefnd Litla-Molda og Stóra-Molda. Upp af Moldunum er svo fjárrétt, Vogafjárrétt sem er reyndar niður fallin. Tangi gengur fram af Kristjánstanga og heitir þar Svartiklettur, er það eins með hann og Moldurnar að hann heitir það af sjó en öðru nafni heitir hann Brimarhólmur og sker fram af honum heitir Brimarhólmstangar en þarna eru nokkur sker. Hóll er á Kristjánstanga sem heitir Guðnýjarhóll þar eru skemmtanir stundum haldnar. Norðan við Kristjánstangann heitir Síki, þetta er rás úr tjörn sem er þar fyrir ofan. Þar upp af tanganum er svo upp undir vegi holt með rústum á, þarna var býli sem hét Steinsholt, svo er þar hóll með rústum sem heitir Sandhóll. Innan við Síkið og Kristjánstanga tekur við svonefndur Vogasandur.“
Í örnefnalýsingu Gísla Sigurðssonar segir: „Langasker innan við Brekkulóð, en svo var Brekkutúnið kallað, var svo Kristjánstangi. Fremst á honum var Brimarhólmur og þar fram af Brimarhólmstangi og fram í tanganum Tangavör eða Brimhólmstangavör. Tvö vik voru þarna, nefndust Moldir og greindust í Stóru-Moldu og Litlu-Moldu.“
Garður á KristjánstangaÁ aðalskipulags-uppdrætti Voga er örnefnið Andrésarborg ofan við Kristjánstanga. Einu tóftirnar sem þar sjást er hlaðin gróin gerði á hól og hlaðin smátóft. Niður undir bakkanum, skammt sunnar, má sjá hringlaga hleðslur, sem sjórinn hefur verið að taka til sín smám saman, og a.m.k. tveir garðar út frá henni og utan hennar skammt suðvestar. Þegar Viktor Guðmundsson, Vogamaður nr. 1, var spurður um nefnda borg, svaraði hann: „Andrés í Nýjabæ var með hænur í tóttunum á hólnum. Andrésarborg var tóttin kölluð. Hvaðan borgarnafnið er komið veit ég ekki.“
Viktor hafði vísað FERLIR á hringlaga gerðið framan við Kristjánstanga sem og veggina, sem þar eru og hleðslur lítillar tóttar sem stendur undan bakkanum. Beint neðan við hana er gömul vör; Kristjánstangavörin. Þegar umhverfið er skoðað gagnrýnum augum er augljóst að landið hefur tekið verulegum breytingum á umliðnum öldum og áratugum. Bæði hefur sjórinn verið að brjóta smám saman af ströndinni og auk þess hefur landið lækkað þarna frá því sem áður var. Fyrrnefndur Brimahólmur hefur áreiðanlega verið landfastur sem og Svartiklettur.
Ljóst er að á Kristjánstanga var útræði á tímum árabátanna, áður en útgerð hófst í Hólminum (Hólmabúðum) framan við Brekku undir Stapanum. Litlar heimildir eru hins vegar til um útgerðina þar, líkt og reyndar um aðra sambærilega útgerðarstaði á Reykjanesskaganum.
VörVogaréttin fyrrnefnda var, að sögn, þar sem fiskeldisstöðin skammt sunnan Kristjánstanga er nú. Henni hefur nú verið raskað með öllu.  Erfitt er að gera sér í hugarlund hvaða hlutverki leifarnar undan Kristjánstanga hafa þjónað fyrrum. Hringlaga gerðið, ca. 9 m í ummál, hefur verið vandlega hlaðið. Neðsta steinaröðin sést enn. Veggbreiddin hefur verið um 1 1/2 m. Út frá því hefur legið garður til suðvesturs og annar samhliða honum sunnar. Þarna gæti hafa verið geymslusvæði innan gerðisins tilheyrandi útgerðinni og garðarnir þurrkgarðar, en þarna gæti samnefnd Vogarétt einnig hafa verið fyrrum og nefndar Moldir þá verið tvö smávik framar í fjörunni. Þegar horft er á umhverfið þeim augum er slíkt alls ekki útilokað.
Hvað sem framangreindu líður er ljóst að ástæða er til að skoða Kristjánstangann og minjanar þar mun nánar. Augljóst er að verulegar minjar kunna að leynast undir sandinum ofan strandarinnar þegar tekið er mið af þeim minjum sem þegar sjást í sjávarmálinu.
Frábært veður. Gangan tók 25 mín.

Heimildir m.a.:
-Örnefnalýsingar AG og GS fyrir Voga.
-Viktor Guðmundsson.

Vogarétt

Vogarétt – uppdráttur (úr fornleifaskráningu fyrir Vogavík).

 

Kálfatjörn

Eftirfarandi er úr erindi Sigrúnar Jónsdóttur Franklín á Sagnakvöldi í Kálfatjarnarkirkju þann 19. janúar 2006 – „Munir og minjar á Kálfatjörn og nágrenni og sagnir þeim tengdar„.

Kálfatjörn „Ég býð ykkur hjartanlega velkomin á sagnakvöld í Kálfatjarnarkirkju sem haldið er á vegum leiðsögumanna Reykjaness ses og í samvinnu við Minjafélag Vatnsleysustrandar og Mark – Hús ehf.
Í kvöld munum við bjóða ykkur upp á sögulegan fróðleik og að því loknu er kaffi í boði í þjónustuhúsinu hér við hliðina. Við áætlum að dagskráin taki tæplega tvær klukkustundir hér í kirkjunni og endi í þjónustuhúsinu.
Ég ætla að segja ykkur frá helstu munum og minjum hér á Kálfatjörn og hér í kring og sögnum þeim tengdum.

Camp Dailey

Viktor Guðmundsson leiðsegir.

Viktor Guðmundsson er innfæddur Vogamaður. Hann mun segja okkur frá fræknum formönnum sem voru uppi á síðari hluta 19. aldar þegar útvegurinn var í miklum blóma hér á Ströndinni og íbúafjöldinn tvöfaldaðist yfir vetrarvertíðina. Ómar Smári Ármannsson er vel þekktur en hann er mikill göngugarpur og er búinn að þræða Suðurnesin fram og aftur og kynna sér margar minjar og skrá þær og mynda og hægt er lesa um ferðir hans á vefslóðinni FERLIR. Hann ætlar í kvöld að segja okkur frá seljabúskap sem var mikið stundaður hér fyrr á öldum og sýna okkur myndir af minjum sem enn má sjá frá þeim búskap.

Þorvaldur Örn Árnason

Þorvaldur Örn Árnason.

Þorvaldur Örn Árnason er Vogamaður og mikill náttúruunnandi. Hann ætlar að fá okkur til að taka lagið á milli atriða og spila undir á gítar. Snæbjörn Reynisson, Vogamaður, mun segja nokkur orð fyrir hönd minjafélagsins.
Eins og þið sjáið þá ákváðum við að vera dálítið þjóðleg í kvöld og klæðumst því íslenskum lopapeysum bæði gamaldags þ.e. hnepptum og beinum og nýmóðins með rennilás og aðskornum. Íslensku peysurnar eru gott dæmi um það hvernig hið gamla getur orðið nýmóðins en það er kannski það sem við viljum koma áleiðis til ykkar í kvöld þ.e að minna ykkur á allar þeir verðmætu minjar og sagnir sem til eru á þessu svæði í von um að þær megi varðveitast og verða að nýjum fróðleik fyrir þá sem á eftir koma.

Norðurkot Hér á Kálfatjörn eru margar minjar og sagnir þeim tengdar. Hér hafa margir fróðir og merkir menn búið og sem betur fer er ýmislegt sem hefur varðveist bæði ritað og hljóðritað. Í efni mínu um muni og minjar á Kálfatjörn og sagnir þeim tengdar styðst ég aðallega við heimildir s.s.:

1. Erindi sem Erlendur Magnússon á Kálfatjörn flutti þegar kirkjan átti 50 ára afmæli og birt var í riti sem gefið var út í tilefni af 100 ára afmæli kirkjunnar, 11. júní 1993.
2. Lýsingu á örnefnum í Kálfatjarnarhverfi sem Örnefnastofnun safnaði og höfundar eru synir Erlendar þeir Gunnar og Ólafur Erlendssynir.
3. Fróðleik frá þeim systrum Ingibjörgu og Herdísi Erlendsdóttur sem ég kynntist og þær miðluðu mér.

Kálfatjörn 1978

Kálfatjörn 1978.

Allt þetta fróða fólk er nú því miður látið og hvílir hér í garðinum utan einn bróðirinn Ólafur Erlendsson sem er vel hress og verður níræður á þessu ári. Ég ræddi við hann og tók samtalið upp til varðveislu. Einnig fræddi sonur Ingibjargar, Friðrik H. Ólafsson mig en hann er hér fæddur og alinn upp.
Kálfatjarnarkirkja og næsta nágrenni.
Árið 1200 er fyrst getið kirkju hér og þá í sambandi við rekamörk kirkjunnar. Telja má víst að þá hafi kirkja verið búin að standa hér um nokkurt skeið, því þegar eftir kristnitökuna voru kirkjur reistar í flestum byggðarlögum landsins.
KálfatjörnKirkjustaðurinn getur því verið mjög gamall en með fullri vissu um 800 ára gamall. 1397-1450 er Kálfatjarnarkirkja nefnd Péturskirkja í kaþólskri tíð tileinkuð Pétri postula. Margir prestar hafa setið á Kálfatjörn og ætla ég ekki að fara út í alla þá sögu en nefna þó séra Stefán Thorarensen sem er hér prestur til 1886, í 29 ár. Hann var mikið sálmaskáld og sálmaþýðandi eins og sjá má í sálmabókum en mjög sálmar eru eignaðir honum. Séra Árni Þorsteinsson sat í 33 ár eða til 1919. Hann var síðasti presturinn sem sat hér á Kálfatjörn, því Kálfatjarnarsókn lagðist til Garðaprestakalls 1907.

Kálfatjörn

Kálfatjörn – túnakort 1919 sett ofan á loftmynd. ÓSÁ

Í þau tæp 500 ár sem Kálfatjörn var prestsetur er getið að 15 prestar hafi setið hér og þeir þjónað til jafnaðar 34 ár. Það segir heilmikið um hversu gott brauð þetta hefur verið. Því prestar fóru ekki að fá laun frá ríkinu fyrr en seint á 19.öld en fyrir þann tíma var það jörðin og hlunnindi hennar sem skiptu máli hversu efnaðir prestar urðu. Kirkjan sem var á undan þessari var byggð 1863, og því aðeins 30 ára gömul þegar þessi var byggð. Mun hún hafa verið of lítil fyrir söfnuðinn sem var á þeim tíma 6-700 manns og 10-12 hundruð á vertíðinni.

Goðhóll

Hinn 15. maí 1892 eru fermd 25 börn í kirkjunni og daginn eftir er byrjað að rífa hana og hafist handa við byggingu nýrrar kirkju. Sjálfboðaliðsvinna kom þá þegar til sögunnar og var mjög mikil. Fyrir byggingu grunnsins stóð Magnús Árnason steinsmiður. Hann bjó þá í hreppnum í Holti í Hlöðuneshverfi. Er grunnurinn hið mesta snilldarverk enda var það haft eftir yfirsmið kirkjunnar Guðmundi Jakobssyni að hann hefði ekki reist hús á jafnréttum grunni, sem þessum. Allt efni kirkjunnar var flutt á dekkskipi og skipað upp hér, á árabátum, öllum unum við, en stórtré lögð á fleka og róin til lands, aðrir tóku svo við og báru upp hingað heim og var mikið kapp í mönnum að verkið gengi fljótt og vel fyrir sig. Þá voru eigi bílar til að létta og flýta ferðum.

Kálfatjörn

Kálfatjarnarkirkja 1930.

Þegar farið var að höggva til grindina kom í ljós að efni vantaði í fótstykki forkirkjunnar þrátt fyrir að allt hafi verið mjög nákvæmlega útreiknað áður en bygging hófst. Þótti það bagalegt og til tafar, því til að fá þetta efni þurfti að manna skip með 8-10 mönnum og fara til Reykjavíkur til að fá það. En þá kemur frétt um að stórt tré hafi rekið á fjörur kirkjunnar, inn á svokölluðum Réttum. Reyndist tré þetta vera “kjölsvín” úr skipi og mældist 8 x 9 tommur að gildleika og 34 feta langt. Var tréð því svo mátulegt í þau 3 stykki sem vantaði að hvorki þurfti af að taka né við að bæta, en einn kantur forkirkjunnar kom af sjálfu sér frá aðalkirkjunni. Eins og Erlendur Magnússon orðaði svo vel í afmæliserni sínu í tilefni af tímmtíu ara afmæli korkjunnar var þarna komið „fótstykki frá kirkjunni sjálfri til að reisa hinn mikla og glæsilega turn kirkjunnar og eins og kjölsvínið” tengir aðalgrind skipsins innviðum við stofntré þess kjölinn, eins tengdi það nú saman aðalkirkju og forkirkju sem gefur hverri kirkju hinn glæsilega og tilkomumikla svip. Kirkjan var síðan vígð 11. júni 1893.
Kálfatjörn Aðalsmiðir kirkjunnar voru Guðmundur Jakobsson er teiknaði hana og var yfirsmiður og Sigurjón Jónsson kennari hér við barnaskólann sem einnig var lærður trésmiður. Allt sem rennt var, svo sem pílárar og ljósaliljur gerði Þorkell Jónsson frá Flekkuvík þá bóndi í Móakoti, hér í Kálfatjarnarhverfi. En þá þekktist ekki nein vélarvinna og tiltölulega lítið flutt inn af unnum við og megnið því handunnið og er því um feiknaverk að ræða. Kirkjuna málaði danskur málari, búsettur í Reykjavík, Bertelsen að nafni og málningin á inniveggjunum hefur varðveist fram á þennan dag í yfir 100 ár.

Kálfatjarnarkirkja

Kálfatjarnarkirkja – altaristafla og málning.

Fyrir utan smá lagfæringar sem gerðar voru við fordyr kirkjunnar en það verk unnu hagleiksmennirnir Jón og Gréta er gistu hér á Kálfatjörn hjá Herdísi Erlendsdóttur meðan á verkinu stóð. Þetta er eina heildar verkið að ég held sem varðveist hefur eftir Bertelsen málara. Hann virðist hafa málað kirkjuna á Akranesi af gömlum myndum af dæma og Iðnó en á báðum stöðunum hefur verið málað yfir og verkið það ekki varðveist eins vel og hér. Hingað komu menn fyrir nokkrum árum síðan og skoðuðu verkið en þá voru þeir að gera upp Iðnó en þar fundust einmitt brot af málningarverki Bertelsen þegar þeir rifu niður veggpappír og þeir vildu reyna að mála Iðnó í sömu mynd aftur eins og Bertelsen hafði málað forðum.
Ýmsir aðrir munir í kirkjunni eiga sér sögu, altaristaflan er eftirmynd Sigurðar málara af upprisunni en fleiri slíkar eru til s.s. í Dómkirkjunni, Hvalsneskirkju og á fleiri stöðum.

Kalfatjorn - hestasteinn

Ýmsir munir hafa verið gefnir kirkjunni s.s skírnarfonturinn, ljósastikan úr birki, ikoninn altarisklæði og dúkur, hökull o.fl. oft til minningar um látna ættingja. Fyrir 1935 var turn kirkjunnar öðruvísi en nú er en þá var hann áttstrendur og þótti mjög fallegur. Söfnuðurinn vildi fá að halda sínum gamla og vinsæla turni, en húsameistari ríkisins og biskup lögðust móti því og því var honum breytt eins og hann er í dag. Hér rétt innan kirkjugarðshliðsins er steinn með bolla í sem að Ólafur Erlendsson segir að hafi áður verið undir vegg á tröðinni sem lá upp fyrir garð. Kristján Eldjárn þá þjóðminjavörður taldi hann vera frá kaþólskri tíð og kirkjugestir ef til vill signt sig áður en þeir fóru í kirkju.

Kálfatjörn

Kálfatjörn – Móakot; uppdráttur.

Annar steinn, hestasteinninn, er/var á móts við Hátún þ.e. við afleggjarann að kirkjunni hann er með tveimur götum og líklega til að binda hesta við. [Steinn þessi hvarf, en eftir umfjölluna var honum skilað á sinn stað aftur og stendur nú austan megin við heimreiðina að kirkjunni]. Norðan megin við kirkjuna er stór forláta steinhella frá 1669 yfir Erlendi Jónssyni lögréttumanni. sem Björn Th Björnsson, listfræðingur telur vera eftir steinasmiðinn mikla Þorkel Arngrímsson guðsþénara á Görðum á Álftanesi. Verk hans má einnig sjá í kirkjugarðinum á Görðum og á Þingvöllum. Fyrir framan skálann er steinn með ártalinu A°1674 og fannst hér í fjörunni en hann hefur líklega verið við eina sjóbúðina. Gegnt kirkjunni í vestur var prestsetrið til margra ára og eftir að það var aflagt eða frá 1920 bjó Erlendur Magnússon, oddviti og útvegsbóndi og Kristín Gunnarsdóttir og börn þeirra á Kálfatjörn. Heimili þeirra var opið prestum og öllum kirkjugestum til ýmissa verka.

Kálfatjörn

Kálfatjörn 2023. Bjarg fjær.

Systkinin tóku síðan við og tóku á móti gestum og gangandi alla sína búskapartíð eða þar til að Kálfatjarnarhúsið brann í nóvember árið 1998. Hlaðan er talin vera yfir 200 ára gömul og steinhleðslan einstök, tvöföld þ.e. ytri og innri steinhleðsla og loftbil á milli. Hún hefur haldist vel fyrir utan eitt hornið en upphaflega bakkaði olíubíll á það og síðan einhverjir aðrir og við það riðlaðist hleðslan. Erlendur smíðaði kvist á þakið og fjós við sem nú hefur verið rifið. Hlaðan var í notkun alla tíð fram til ársins 1999.

Kalfatjarnarkirkja

Ólafur Erlendsson telur að tréverkið þ.e. bitarnir inni í hlöðunni séu úr Jamestown en það skip rak á hafi úti fyrir Ameríku í 3 ár áður en það strandaði við Þórshöfn nálægt Höfnum árið 1881. Skipið var talið vera á við fótboltavöll á stærð og svo stórt að önnur skip gátu ekki dregið það að landi og bjargað því. Um borð í skipinu var mikill timburfarmur sem átti að fara í járnbrautargerð. Farmurinn kom sér vel á Suðurnesjum og voru mörg hús smíðuð úr viðnum og enn má sjá nokkur þeirra uppistandandi. Hlaðan þótti mikil bygging á sínum tíma og var nefnd Skjaldbreið. Hlaðan er nú í umsjá minjafélagsins. Fyrir vestan hlöðuna má sjá móta fyrir sjávargötu sem liggur niður í naustin og lendinguna. Við hana er mjög hagalega hlaðinn djúpur brunnur sem talinn er vera með elstu brunnum á ströndinni.

Kálfatjörn

Kálfatjarnarbrunnur.

Skammt fyrir neðan brunninn lá rásin sem alltaf var full af vatni en tæmst hefur á síðustu árum. Yfir hana sést greinilega steinhleðsla frá fornri tíð. Rásin kom ofan úr heiði og tók oft í sundur veginn eftir að hann kom og bar þá með sér möl sem enn má sjá en rásin hélt síðan áfram niður eftir Goðhólstúninu sem er vestan við Kálfatjarnartúnið en beygði síðan norður neðan Hallhóls og endaði í Kálfatjarnarsíkinu en þaðan rann hún bæði í Kálfatjörnina og út í sjó. Enn sér móta fyrir affallinu. Stundum snéri þetta við á stórstraumsflóði og í vestanátt en þá flæddi inní síkið og jafnvel upp um öll tún. Kálfatjarnarkirkja stóð á hól og stundum var hún eins og á miðri eyju.
Munnmæli herma að fyrrum hafi kirkjan staðið nær sjónum en síðar verið flutt ofar vegna ágangs sjávar og gætu því minjar frá fyrri tíð verið í Kálfatjarnartúninu. Húsið sem stendur neðan við hlöðuna er Norðurkot en það hús stóð aðeins sunnar á Ströndinni og var flutt hingað fyrir stuttu. Í þessu húsi var skóli um tíma eða á árunum frá 1900 – 1911.
KálfatjörnNýstofnað minjafélag Vatnsleysustrandar fékk húsið að gjöf frá afkomendum Erlendar og Kristínar auk ýmissa muna sem þau höfðu geymt þar og segja sögu svæðisins. Tóftirnar sunnan við hina eiginlegu Kálfatjörn sem bærinn dró nafn sitt af eru minjar um sjóbúð sem reist var í tíð Stefáns Thorarenssen og Ólafur lýsti fyrir mér að ömmubróðir hans mundi eftir því að hún rúmaði tvær áhafnir eða um 16 manns. Erlendur á Kálfatjörn var umhugað um að varveita allar minjar og þegar háspennulínan var lögð um túnið á Kálfatjörn notuðu línumenn allt grjót sem komið hafði upp úr túninu til að púkka með staurana og voru byrjaðir að rífa niður steinhleðslur úr sjóbúðinni þegar hann náði að stöðva þá. Hann vildi ekki heldur að þeir tækju steinahrúgurnar því þær voru minjar um hvað fólkið lagði á sig.

Kálfatjörn

Kálfatjörn – sjóhús.

Nær sjónum eru tóftir af tveimur fjárhúsum og standa þær við Naustakotstjörn og þar hefur Naustakotsbærinn verið og líklega farið vegna ágangs sjávar. Vestan við Naustakot og Kálfatjarnartúnið eru tóftir Goðhóls en þar var búið í torfbæ til ársins 1933. Þar má vel sjá hvernig fólk lifði í byrjun tuttugustu aldar en þar eru tóftir baðstofu og fjósið við hliðina og þar er fjárhús og garðar í kringum kálgarðinn og kartöflubeðin. Goðhólsjörðin afmarkast greinilega af hlöðnum görðum. Á miðjum vestari garðinum eru tóftir bæjarins í Hliði en þar í gegn lá kirkjugatan svokallaða sem að allir kirkjugestir fóru til messu og þar má sjá steinhleðslu yfir rásina sem áður hefur verið nefnd og þar má jafnframt finna klappaðan stein með ártalinu A°1790. Sagnir eru um að allir hafi stoppað í Hliði og fengið sér í nefið og rabbað um landsins gagn og nauðsynjar og jafnvel farið í kirkjufötin þar. Kirkjustígurinn heldur síðan áfram út eftir ströndinn í gegnum Tíðagerði og Norðurkot.
Kálfatjörn Mjög víða eru garðar og vörður og merkar minjar sem tengjast útvegi og gömlum búskaparháttum á Vatnsleysuströnd og gæti ég haldið lengi áfram að segja frá þeim og ýmsu öðru en það verður að bíða betri tíma. Fyrirhugað er að leiðsögumenn bjóði upp á gönguferð í sumar um svæðið og skoða minjarnar. Ég hef nú í þessum pistli mínum tekið saman helstu þætti um muni og minjar á Kálfatjörn. Kirkjan var eins og áður hefur komið fram byggð á árunum 1991-1993 en það voru harðræðisárin sem stór hluti landsmanna flúði til Ameríku. Kirkjubyggingin hefur því verið þrekvirki þess tíma.
Von mín er sú að hið nýja minjafélag með hjálp sóknarbarna og annarra velunnara megi eiga þess kost að varðveita muni og minjar og sagnir þeim tengdar og koma Kálfatjarnarkirkjustaðnum til vegs og virðingar á ný eins og hann var um aldir.
Við lokin hér í kirkjunni vil ég fyrir hönd okkar leiðsögumanna þakka öllum fyrir komuna og Minjafélaginu fyrir samvinnuna og Mark-Hús ehf sem er byggingarfyritæki og eiganda þess Markúsi, sem er nýr landeigandi hér á Vatnsleysuströnd og styrkti okkur, Þorvaldi fyrir sönginn og Jóhanni kirkjuhaldara fyrir greiðviknina. Einnig börnum Oktavíu og Helgu Ragnarsdætra fyrir auglýsingaútburðinn sem og þeim systrum fyrir kaffiveitingarnar. Gjörið svo vel að ganga yfir í þjónustuhúsið og þiggja kaffisopa.“

-Framangreint er úr erindi SFJ á Sagnakvöld í Kálfatjarnarkirkju 19. jan. ´06.

Kálfatjörn

Kálfatjörn.

Kálfatjörn
Eftirfarandi er úr erindi Viktors Guðmundssonar, leiðsögumanns, á sagnakvöldi í Kálfatjarnarkirkju þann 19. janúar 2006.
Vatnsleysuströnd„Um miðja 19. öld breyttist útgerð í Vogum og á Vatnsleysuströnd. Áður höfðu þar nær eingöngu verið smáfleytur, tveggja manna för en nú koma stærri skip, sexæringar og áttæringar til sögunar. Þeir sem eignuðust þessi skip fóru að græða á tá og fingri og brátt risu þarna upp nokkrir útvegsmenn sem báru höfuð og herðar yfir fjöldann.“

Í Æskuminningum sínum segir Kristinn P. Briem (barnabarn Guðmundar á Auðnum) svo frá;
„Í prestþjónustubók Kálfatjarnarkirkju fyrir árið 1854 er greint frá fermingu barna. Prestur var séra Jakob Guðmundsson. Þá voru fermdir sjö piltar og sex stúlkur á Kálfatjörn. Eru drengirnir hafðir sér og stúlkurnar sér, og börnunum raðað í bókina eftir kunnáttu. Drengja megin eru þessir þrír piltar efstir:
1. Sæmundur Jónsson, Stapakoti, fæddur 21. ágúst 1840 (síðar bóndi á Minni-Vatnsleysu). Hefur góðar gáfur. Kann og skilur prýðilega. Siðferðisgóður. Les prýðilega.
2. Guðmundur Guðmundsson, Minni-Vatnsleysu, fæddur 30. nóvember 1839, (síðar bóndi á Auðnum). Allgóðar gáfur. Kann vel. Skilur rétt vel. Les dável. Skikkanlegur og ráðsettur unglingur.
3. Guðmundur Ívarsson, Skjaldarkoti, fæddur 21. desember 1838. Allgóðar gáfur. Kann sæmilega. Skilur vel. Les rétt vel. Skikkanlegur.
Auðnar
Þessir þrír piltar urðu síðar mestu aflamenn á Vatnsleysuströnd. Bestir formenn og mestir aflamenn urðu þeir Guðmundarnir. Hvor var öðrum meiri í þessu efni, vil ég ekki leggja dóm á, og líklega mun erfitt að skera úr því. Kristleifur Þorsteinsson, sem reri nokkrar vetrarvertíðir á útvegi Guðmundar á Auðnum, segir að ekki hafi mátt á milli sjá, hvor væri betri formaður Guðmundur Guðmundsson á Auðnum eða Guðmundur Ívarsson frá Skjaldarkoti. Hann segir þá báða mestu aflaklær, en gerir ekki upp á milli þeirra. … Líklega væri réttast að segja að þeir Guðmundarnir hafi verið nokkuð jafnir að formannshæfileikum og ómögulegt að vita með vissu hvor aflaði meira. En í einu þótti Guðmundur á Auðnum standa ýmsum framar. Var það í reglusemi með útveginn og hirðingu veiðarfæra. Sæmundur Jónsson á Minni-Vatnsleysu stóð þeim nöfnum næstur á Vatnsleysuströndinni með aflabrögð en var ekki talinn ná þeim, hvorki með fiskiafla eða formennskuhæfileika.“

Kálfatjörn

Í bók sinni Þættir af Suðurnesjum segir Ágúst Guðmundsson, sonur Guðmundar Ívarssonar svo frá; „Þeir voru víst með réttu taldir stærstu útgerðarmenn í þessari sveit Guðmundur á Auðnum og Guðmundur Ívarsson og víst var að árlega voru hæstir hlutir hjá þeim og formönnum þeirra. Þó mun Guðmundur Ívarsson oft hafa haft betri hlut, en metnaður mun hafa verið með afla á milli þeirra.“

Nú skal segja nokkur orð um Guðmund Ívarsson, stuðst við bók Ágústar.
„Guðmundur Ívarsson var meðalmaður á hæð og svaraði sér vel, kvikur á fæti og gekk venjulega hart. Hann var svarthærður með kragaskegg. Ennið var í meðallagi hátt, skarpar augnabýr, lítið eitt bogadregnar. Augun dökk og lágu djúpt í höfðinu, beint nef og hækkaði upp að framan, kringluleitur í andliti,en hvítleitur með skarpa og reglulega andlitsdrætti.“
Guðmundur Ívarsson elst upp í Skjaldarkoti, og var oft kendur við þann bæ, flyst síðan að Neðri-Brunnastöðum og hefur búskap þar. Reisir timburhús á Brunnastöðum 1865 talið með fyrstu timburhúsum í hreppnum. Þá er Guðmundur 27 ára.
Hann byrjaði fomennsku 18 ára og gerði út árlega 2-7 skip á vetrarvertíð, sem hann átti sjálfur.Guðmundur Ívarsson átti Valdimar stærsta róðrarskipið, sem þá gekk við Faxaflóa.
Var það teinæringur 42 fet (uþb. 13m) milli stafna og bar 1100 af netfiski uþb 8,5 tonn
Átti hann haffært þilskip (46 tonna) Lovísu hálft á móti Agli Hallgrímssyni Austurkoti.

Viktor GuðmundssonÁgúst Guðmundur segir eftirfarandi sögu í bók sinni: „Tvo vetur fór Guðmundur Ívarsson suður á Miðnes með þorrakomu og lá við á Hvalsnesi. Var hann þá á 10-rónu skipi með 18 menn. Þá var fiskað á bera öngla og handfæri á Suðurnesjum. Þarna hélt hann sig fram undir netavertíðina, sem byrjaði í miðgóu, eða 14.mars.
Fyrri veturinn fékk hann mikinn fisk þarna suður frá en seinni veturinn hömluðu ógæftir og stóð í mörkum að honum gæfi heim fyrir netavertíðina.
Á sunnudaginn í miðgóu var í þetta sinn messað á Hvalsnesi. Var þá vestanstormur en brim heldur að lægja. Segir Guðmundur Ívarsson þá við menn sína: Nú skulum við allir ganga til kirkju og mun ég sitja þar kyrr þangað til að prestur hefur blessað yfir söfnuðinn. Þá mun ég ganga út og líta eftir brimi og vindi og gefa ykkur bendingu, ef fært er. Skuluð þið þá allir koma fljótt. – Gekk þetta allt eftir umtali og álítur hann sundið fært, þó að vindur væri hvass. Þeir voru fljótir að búa sig og stóð það á að prestur var að ganga úr kirkju og þeir að komast undir segl. En þegar séra Sigurður kemur á Útskálahlað voru þeir komnir inn á Leirusjó og sagðist hann þó hafa riðið hart. Heyrði ég Sigmund Andrésson segja að það hafi hann mestan gang vitað á skipi þar sem hann hafi verið innan borðs enda voru þeir ekki fullar tvær klst. frá Hvalsnesi inn í Brunnastaðasund. Man ég vel, hve kátir þeir voru yfir því að vera komnir heim, en uggvænleg þótti þeim þá aldan á Suðurnesjasjónum og gangurinn á skipinu. Ekki hafði gefið á sjó næsta hálfan mánuð af Miðnesi. En hér fyrir innan Skagann var metafli í þorskanetin.
Svona var það þá, og svo er það enn að oft er gott að vera fljótur til hugsana og framkvæmda ef það er af viti stofnað og réttri útsjón.“

KálfatjörnNæst ætla ég að segja nokkur orð um Guðmund Guðmundsson í Auðnum (Guðmundur ríki).
Kristin P. Briem lýsir Guðmundi svo: „Guðmudur á Auðnum var vel meðalmaður á hæð, nokkuð þrekinn, beinvaxinn og herðabreiður. Vel vaxinn og fríður sýnum. Svartur á hár og skegg, hafði kragaskegg eins og þá tíðkaðist. Frekar breiðleitur í andliti. Hann var prúður í framkomu og höfðinglegur í sjón, aðgætinn í orðum og vandaði orð sín svo, að vel mátti taka til greina og athyglis það sem hann sagði.“
Guðmundur er barn þegar hann kemur á Minni-Vatnsleysu með móður sinni, þar elst Guðmundur upp og byrjar sýna útgerð. Um 17 ára aldur kaupir Guðmundur sinn fyrsta bát.
Hefur Guðmundur sinn búskap í Miðengi við Vatnsleysur og eykur skipastól sinn.
Árið 1866 flytur Guðmundur að Auðnum, hafði keypt hálfa jörðina ári áður, þá 26 ára gamall.
Þegar best lét gerði Guðmundur út 5 sex-manna för og 2 áttæringa, var sjálfur formaður á öðrum áttæringnum. Guðmundur lét smíða haffært þilskip í Noregi sem hét Auður, (18 tonn). Kostaði skip þetta 7000 kr. sem jafngilti verði 17 sex manna fara.
Árið 1894 fékk Guðmundur heiðurslaun úr styrktarsjóði Kristjáns IX fyrir framkvæmdir á jörðinni. Ekki tókst mér að finna neina sjóferða lýsingu með Guðmundi, hef því eftir stutta frásögn eftir Kristinn P. Briem.
„Einu sinni komum við Guðmundur ríðandi innan úr Reykjavík og var Guðmundur við skál, eins og oftast, þegar hann kom úr kaupstað. Komun við í Hvassahraun til Þórunnar Einarsdóttur, sem þar bjó, en hún var frænka konu Guðmundar. Þegar kaffið var komið á borðið, þá sest Þórunn niður hjá okkur og fer að tala við Guðmund. Hún segir: „Nú er verið að tala um að hætta að flytja inn áfenga drykki. Það verður mikil blessun, ef áfengisbannið kemst á. Þá sér maður þig aldrei drukkinn, Guðmundur minn.“ Guðmundur svarar: „Ekki er það nú víst. Áður en bannið skellur á, þá ætla ég að kaupa 10 tunnur af brennivíni og hafa á stokkunum heima.“ Þórunni brá dálítið við þetta og svarar snöggt: „Nei, það veit ég að þú gerir ekki Guðmundur.“ Guðmundur svarar: „Jú, víst geri ég það.“ Féll svo tal um þetta efni niður, en ég þekkti Guðmund nógu vel til þess að vita, að hann mundi aldrei láta sér detta í hug að safna að sér áfengisbirgðum.“
Þá fjallaði Viktor m.a. um samanburð á þessum tveimur heimilum svo sem fjölda í heimili, hjáleigum og hvorir höfðu hag af öðrum. Stikaði hann t.a.m. kirkjugólfið þegar hann lýsti lengd Valdimars og bað Magnús í Halakoti að standa upp þegar hann lýsti Guðmundi Ívarssyni, svo eitthvað sé nefnt. Ekki var annað að sjá en þarna væri lifandi eftirmynd afa hans komin.

Heimildir m.a.:
-Ágúst Guðmundsson Halakoti. Þættir af Suðurnesjum. Bókaútgáfan Edda Akureyri 1942.
-Árni Óla. Strönd og Vogar. Bókaútgáfa Menningarsjóðs 1961.
Guðmundur B. Jónsson. Mannlíf og mannvirki í Vatnsleysustrandarhreppi. Útg. af höfundi 1987.
-Haukur Aðalsteinsson. Árbók Suðurnesja 1994 og 1998.
-Kristinn P. Briem. Æskuminningar frá Vatnsleysuströnd. Heimdragi. Iðunn Reykjavík 1967.
-Kristleifur Þorsteinsson. Litla skinnið. Nesjaútgáfan Reykjavík 1982.
-Kristleifur Þorsteinsson. Rauðskinna I og II, Sagnaþættir af Vatnsleysuströnd. Bókaútg. Þjóðsaga 1971.

Bieringstangi

Bieringstangi – uppdráttur ÓSÁ.

 

Kálfatjörn

Í Faxa árið 2000 er frásögn séra Péturs Jónssonar á „Lýsingum Njarðvíkursóknar og Kálfatjarnarsóknar árið 1840„:

„Takmörk Njarðvíkursóknar að utanverðu er skurður eður dæld, sem liggur beint frá heiði, rétt við höndlunarstaðinn Keflavík, ofan að sjó; frá hans efri enda upp í heiðina að Gömlu-Þúfu á svokölluðu Háaleiti, af hverju sjá má umhverfis á þrjá vegu í sjó; frá Gömlu-Þúfu sjónhending í Kirkjuvogsklofninga, sem eru frá Háaleiti að sjá milli dagmála og hádegisstaðar. Sunnanverð takmörk hennar frá Kirkjuvogsklofningum ná upp í Stapafellsgjá, sem er í dagmálastað frá Klofningunum; að innan og austanverðu er Innri-Skora á Vogastapa hér um bil miðjum, er liggur ofan að sjó.

Njarðvíkur

Njarðvíkur um 1910.

Nefndur Stapi mun fyrrum hafa fengið Gullkistu heiti af því mikla fiskiríi, er tíðkað var á færi á hrauninu þar rétt upp undir í útilegum á nóttum. Þessi mishái heiðarmúli (Stapinn) liggur milli Stapakots í Njarðvík innri og Voga (gömlu Kvíguvoga) með þverhníptum hömrum, sem taka nokkuð mislangt fram að sjó. Nes eru hér ekki utan Stutti-Tangi, sem kallast Vatnsnes, á hverjum samnefndur bær stendur, norðvestasti eður yzti bær í Njarðvíkursókn. Þar fyrir sunnan skerzt inn vík, hér um stutt íslenzk hálf vika, að svo kölluðu Klapparnefi í ytra Njarðvíkurhverfi og nærfellt að sömu lengd; sker hún sig aftur milli Ytri- og Innri-Njarðvíkur inn í landið. Af gömlum eldgosum eru hraun hér sýnileg, sums staðar með hólum og lágum á milli, í hverjum er sums staðar nokkurt gras, lyng og mosi. Hvergi er rennandi vatn, en brunnar grafnir, víðast slæmir og saltir.

Njarðvík

Njarðvík 1950. Vatnsnes fremst og Grindavíkurfjöllin fjærst.

Að norðanverðu við nefnda vík, milli Ytri- og Innri-Njarðvíkur myndast nes, er kallast Hákotstangar, er ná að lítilli vík, er kallast Kopa, sem er lending milli Stapakots og Stapans. Fiskiskútur ogjafnvel stærri skipgeta legið á Njarðvíkurvík; þó mun þar vart trygg höfn.
Lendingar og varir hefir náttúran og menn svo tilbúið, að víðasteru vel brúkanlegar. Grynningar og sker eru hér ekki til greina að taka utan Eyland, sem ekki sést utan með stórstraumsfjöru; norðar en á miðri vík, líka upp undir landi, Skarfasker utan Klapparnefið og Fitjar- og Steinbogasker sunnan, á hverju sauðkindur stundum flæða.
Hvassir vindar ganga hér oft af norðri, landsuðri og vestri. Snjóar og einkum stórrigningar eru tíðar af þessum áttum; skruggur á stundum, ekki síður á vetrum en sumrum, en sjaldnast skaðlegar.

Þurrabúð

Þurrabúð á fyrri hluta 19. aldar á Reykjanesskaganum.

Fiskiveiðar eru hér stundaðar oftast ár út og ár inn, en í marz og aprílmánuðum brúkast mest netaveiðar, því um þær mundir gengur sá fiskur inn með landi, sem nefnist netafiskur. Þjóðvegir liggja Iangsetis yfir sóknina og krossgötur hér og hvar, sem árlega eru ruddir og hreinsaðir. Fyrir nokkrum árum síðan er betri og beinni vegur lagður eftir Stapanum framarlega í stað þess fyrri, sem ofar lá eftir heiðinni, lengri, verri og villugjarnari, einkum á vetrum. Graslítill áfangastaður fyrir lestamenn er á millum Njarðvíkanna, á svo nefndum Njarðvíkurfitjum.
Annexkirkjan frá Kálfatjörn er á heimabænum í Innri-Njarðvík; þar er venjulegt að embætta 3ja hvern helgidag á sumrum, en 4ða hvern á vetrum. Þessi kirkja var árið 1811 lögð til Kálfatjarnar, þó framar presti þar til kostnaðar en ábata. Fiskitökuhús kauphöndlandi manna eru fyrir nærverandi tíð 3 í Ytri-Njarðvík og 2 í Innri.

Verbúð

Verbúð fyrrum.

Bjargræðisvegur er mest og bezt sjávarafli; hann er og framar öðru stundaður. Búfénaður er yfir höfuð lítt ræktaður, þar hey er ekki utan litlar töður til gjafar á vetrum, og því útigangsskepnur í fári, þá fjörur Ieggja af ísum og tekur fyrir jörð í heiðinni. Útfærsla túna, sléttun þeirra, steingarða byggingar kringum þau og timburhúsa uppkoma hefir smám saman aukizt; kályrkja er og svo ræktuð með allgóðri heppni víða hvar. Eldsneyti yfir höfuð er slæmt af sjávarþangi og öðrum óhroða. Sumarvinnan til lands er fiskverkun, túnrækt og húsbyggingar, sláttur byrjar vanalegast 14 vikur af sumri og endast oft í 18.-19. viku.
Margir menn eru hagir á járn og stunda nokkrir með fram skipa-, báta og annað smíði. Vetrarvinna er mest hampspuni til sjóarútvegs, fyrir utan annað ýmislegt, er fyrir fellur. Til skemmtunar á vetrarkvöldum er sums staðar iðkaður rímnakveðskapur, en þó meira fornsögulestur. Uppfræðing, áðferði og trúrækni fólks virðist fremur yfir höfuð á góðum vegi og heldur fara batnandi í sumu. Þénustusemi, greiðvikni og hjálp við aðra algeng.
Fólksfjöldi hefir undanfarin ár aukizt, mest fyrir tómthúsabyggingar.

Njarðvík

Innri Njarðvík fyrrum – Áki Grenz.

Höfuðbæir í Njarðvíkum eru tveir, Innri- og Ytri-Njarðvík; hinir eru afbýli, hjáleigur og kot.
Kirkjan í Njarðvík, orðin altimburkirkja, á ekkert utan það hún stendur, þar hún fékk ekki kirkjurétt fyrri en í Jóns biskups Vídalíns tíð, og Njarðvíkur áttu áður kirkjusókn yfir heiði, suður í Hafnir; varð fyrst annexía frá Hvalsnesi og þar eftir að Kálfatjörn. Keflavíkurhöndlunarstaður átti fyrrum kirkjusókn að Njarðvík, stuttan og góðan veg, en nú að Útskálum, að sögn fyrir eftirleitni prests þar. Kauphöndlun Njarðvíkinga er mest í Keflavík.
Alls staðar liggja kýr inni á sumrum um nætur. Margir menn eru skrifandi og sums staðar kvenfólk; nokkrir finnast, sem bera skyn á einfaldar lækningar, margar lagnar nærkonur, þó ekki yfirheyrðar. Sjúkdómar eru helztir: Á börnum oft andarteppuhósti, fullorðnum iktsýki almenn, sumir eru brjóstveikir, fáeinir holdsveikir.

Njarðvíkursel

Njarðvíkursel við Seltjörn.

Frá Innri-Njarðvík var selstaðs við veginn, er liggur frá Vogum að Grindavík; þar er lítið vatn skammt frá, er heitir Seljavatn. Þar í er hólmi með litlu kríu- og andavarpi. Þessi selstaða, sem er í hrauninu upp frá Stapanum, er nú sökum peningafæðar aflögð.
Fyrir innan áður nefnda Innri-Skoru á Stapanum byrjar Stóru-Vogaland og takmörk Kálfatjarnarsóknar. Inn af Stapanum, eru 4ur skörð. Það syðsta heitir Reiðskarð, bratt upp; þar eftir er alfaravegur, sem stundum er ófær af fönn á vetrum; hin þrjú, hvert vestar af öðru að sjó, eru gengin. Á innri parti Stapans er hæsta hæð hans, sem kallast Grímshóll, og á henni stór varð. Þar er mjög víðsýnt í allar áttir. Strax við Stapann að innan er Vogavík, er vegna sandgrunns tengist hvað af öðrum upp með Stapanum. Við sjóinn rétt við Stapann, vestan víkina, em Hólmabúðir, sem sjómenn róa frá og höndlunarmenn hafa fiskitökuhús; framundan Vogunum á víkinni er bezta skipalega fyrir stór og smá skip og trygg höfn fyrir öllum vindum utan vestan-útnorðan. Þar norðanleguna er Þórusker, er fer í kaf með stórstraumsflóðum; norður frá því skammt em smásker. Norðan vfkina er bærinn Stóru-Vogar og Vogahverfi; norðar em Minni-Vogar. Gengur svo ströndin í þá átt að Brunnastöðum; á þeim vegi em 3 fiskitökuhús og 1 milli Stóm-Voga og Stapans, fyrir víkurbotninum, á litlu nesi, hvar og tjárréttarmynd er, að hverri sækja á haustum Strandar-, Rosmhvalaness-, Hafna- og Grindavíkurhreppar.

Brunnastaðir

Brunnastaðir – loftmynd 1954.

Framundan Brunnastöðum og samnefndu hverfi eru tangar og grynningar nokkuð fram í sjó; þó er lending þar góð kunnugum. Eftir sömu stefnu mæta Hlöðunesstangar framundan Hlöðunessbæ, innar Atlagerðistangar framundan Ásláksstöðum. Innan þá er nokkuð stórt sker, sem kallast Svartasker; þar fyrir innan skerst inn vík ei mjög stór, kölluð Breiðagerðisvík. Svo er ströndin nær því jöfn og beygist heldur til landnorðurs, allt inn í svo kallað Keilisnes, sem er skammt innan Kálfatjörn. Á öllum þessum vegi grunnleið með ströndinni, frá Þóruskeri í Vogum inn að Keilisnesi, er mjög brimsamt, meðboðum, nöggum, hnýflum, flúðum og smáskerjum. Innan Keilisnesness gengur inn breið vík, kallast Vatnsleysuvík; hún er full vika sjóar á breidd inn að Hraunsnesi, sem er takmark milli Kálfatjarnar og Garðasóknar við sjó; víkin er nær því eins löng inn í landið og hún er breið til.

Kúagerði

Kúagerði.

Sunnan til við hana er Flekkuvík, Kálfatjarnarkirkjujörð, austar lítið er Minni- og Stóra-Vatnsleysa; fram undan þeirri minni eru grynningar, sem kallast Vatnsleysueyri. Hún er þangi vaxin, og yfir hana hylur með hverri flæði, nokkuð stór um sig og hættuleg ókunnugum; verður að miða inn hjá henni leiðina, eins og víðast er tilfellið í lendingar á Ströndinni. Fyrir botni víkurinnar er sagt verið hafi bær, er heitir Akurgerði; innar er Kúagerði. Þar í er tjörn í nokkuð djúpri dæld, sem minnkar með fjöru, en vex með flóði; þar hjá er alfaravegur gegnum brunahraun.
Innar eru gömul Sellátur, en löngu síðan af; þar skammt frá er Hvassahraun og samnefnt hverfis, innsti sóknarbær, lítið innar er áður nefnt Hraunsnes.
Þessi einajörð íbáðum sóknunum, sem útgjöra hreppinn, hefir allgóðan skóg, sem heldur er í rénun. Hér hefir verið selstaða fyrrum eins og á öllum Strandarhreppslögbýlum, en öll af lögð á seinni tímum; þau hafa öll eður flest vatnslaus verið og staðið hér um í miðri heiði, milli fjalls og fjöru.

Fagridalur

Í Fagridal.

Fjallgarðurinn liggur frá austri til vesturs, allt frá Grafningsfjöllum að Fagradalsfjalli, sem eiginlega endar hann; upp undan Stóru-Vogum hér og hvar eru smáskörð í hann. Vestur frá Fagradalsfjalli eru í hrauninu tvö lág fell, Stóra- og Litla-Skógfell, vestar er Sýlingarfjall, svo Þorbjarnarfell, svo lengra vestur Þórðarfell og loksins Stapafell, áfast við Súlufjall, sem er það vestasta ofan Stapann, hér um bil í austur að sjá frá Kirkjuvogi í Höfnum.
Í Fagradalsfjalli er samnefndur dalur, fyrrum fagur, en nú að mestu stórgrýttur af skriðum og graslítill; innar er Hagafell með sæmilegum grasbrekkum. Nokkuð innar er hár fjalltindur, er kallast Keilir, sem sjófarendur kalla Sykurtopp. Fyrir innan hann er skarð í fjöllin, þar fyrir innan gamalt eldfjall, sem heitir Trölladyngjur, sem spúð hafa nýju hrauni ofan á það eldra á 13. eður 14. öld. Þetta nýrra hraun er tómur apall og bruni, víða með grasmosa, hvar ekki sést eitt grasstrá; einn armur þess hefir hlaupið fram í sjó sunnan Hvassahraun.

Hrafnagjá

Hrafnagjá.

Milli Vatnsleysanna liggur gjá frá sjó, skáhallt eftir endilangri heiði, allt suður í sjó á Reykjanesi. Þar hún er mjóst, má stíga yfir hana, en er sums staðar óyfirfærileg; hún kallast Hrafnagjá. Ofar í heiðinni er Klifgjá, enn ofar Grindavíkurgjá og efst næst fjöllum tvær Kolhólagjár; er það menn vita, allar þessar byrja norður í heiði og enda í Skógfellshrauni. Margaraðrar fleiri gjár og holur eru um hraunin, sem ekki er nafn gefið. í svo kölluðu Vogaholti eru sæmilegir hagar og sums staðar í heiðinni. Margslags lyngtegundir gefast og hátt í henni víðir. Vegur liggur gegnum heiðina frá Stóru-Vogum beint að Breiðagerði, svo með bæjum við túngarða inn fyrir Kálfatjörn, aftur þaðan frá gegnum heiðina inn hjá Vatnsleysu.

Sandakravegur

Sandakravegur.

Norðan til við Stapann liggur vegur upp í heiðina austur, er kallast Sandakravegur. Á þeim vegi mætast ofan Stapann 3 tjamir, sem heita Snorrastaðatjamir, hvar bær eftir munnmælum skal hafa staðið í fornöld; þær eru eiginlega vatnsgjár, og þar skyldi fiskur hafa haft undirgang frá Grindavík gegnum út fyrir Stapa á hraunið, hvar nú ekki merkist á þessum tímum.
Fiskimið eru rétt ótal djúpt og grunnt með allri sjósíðunni, engin sérleg hákarlamið; þó em fáir lagvaðir brúkaðir.
Úr Kálfatjarnarsókn sækja innbúar verzlun framar til Hafnarfjarðar en Keflavíkur. Helztu bæir eru Stóru-Vogar, Brunnastaðir, Hlöðunes, Ásláksstaðir, Auðnar, Þórustaðir, Kálfatjörn, Stóra-Vatnsleysa og Hvassahraun, og líka mætti telja Minni-Voga.

Trölladyngja

Trölladyngja. Hverasvæði ofan Oddafells.

Í fjöllunum er helzt að sögn hraungrýti og mógrýti, en sjóklappir víða af stuðlabergi. Frá Kálfatjörn eru Dyngjur að sjá, þá sól er kl. 9, Keilir kl. 10, Fagradalsfjalls innri endi kl. 12.
Sjórinn brýtur víða af túnum og landi og ber upp á sand og grjót, og grynningar aukast.

Kálfatjörn

Yfir höfuð er sama að segja um upplýsingu, siðferði, atvinnuveg og annað í þessari sókn sem hinni, utan að hér er minni þorskanetabrúkun, en meiri hrognkelsa og færafiskirí um vertíð. Til húsabygginga er brúkað nokkurt rekatimbur, en meira af útlenzku, þar óvíða er reki til hlítar. Á Kálfatjörn er nýbyggð altimburkirkja.
Þetta er það helzta, sem ég get frá skýrt. Svohljóðandi bréf, dagsett á Kálfatjörn 24. febrúar 1840, hefur síra Pétur sent Finni Magnússyni með sóknarlýsingu sinni: „Þar ég ekki fékk því við komið að senda með haustskipum þá hér með fylgjandi skýrslu, læt ég hana nú fara í von um, að hún komist með póstskipi. – Ég bið yður og, háttvirtu félagsbræður, að virða vel, þó hún sé ekki svo fullkomin sem skyldi, og taka viljann fyrir verkið“. – P. Johnson

Síra Pétur Jónsson er þjónaði Kálfatjarnarprestakalli 1826 -1851

Kálfatjörn

Kálfatjörn – loftmynd 1954.

Í íslenskum Æviskrám segir svo um höfund þessarar lýsingar, síra Pétur Jónsson.
„Hann var sonur síra Jóns Magnússonar á Vesturhópshólum og síðar á Borg, og ólst upp við mikla fátækt. Hann fór í skóla 17 ára að aldri og var þar 7 vetur svo, aðfaðir hans þurfti ekki að kosta hann, heldur kom hann heim hvert vor með nokkuð af ölmusu sinni óeyddri; svo hart lagði hann að sér að styrkja foreldra sína. Vorið 1802 átti hann að útskrifast, en eftir beiðni hans var honum veitt leyfi til þess að vera eitt ár enn í skóla. Um seinan komu honum þau tíðindi, að Hólaskóli væri lagður niður 1802, og að piltar yrðu nú að ljúka námi íReykjavíkurskóla. Hefði hann vitað það í tíma, mundi hann ekki hafa sótt um leyfið, enda sagði hann oft, að þess hefði hann mest iðrast. Hann úrskrifaðist úr Hólavallarskóla 1803 með þeim vitnisburði, að hann sé ágætum gáfum gæddur, en þó einkum þroskaðri greind og farsælu minni, og hafi á þessu eina ári tekið undramiklum framförum í lærdómi, þrátt fyrir nokkurn heilsubrest.

Kálfatjörn

Ártal í steini á Kirkjubrú Kálfartjarnarkirkju.

Hann vígðist aðstoðarprestur fóður síns 1808 og kvæntist áríð eftir Ingibjörgu Jónsdóttur í Hjörsey, Egilssonar. Hún veiktist hastarlega 1820 og var veik á sál og líkama upp frá því til dauðadags og nær alltaf rúmliggjandi.
Þegar síra Pétur kom til Kálfatjarnar, var hann svo blásnauður, að hann flutti allt sitt á 2 hestum. En fátæktinni þyngri var þó heilsuleysi konunnar. Varð hann á hverju kvöldi að kveða hana í værð eins og barn, og marga nótt varð hann að vaka yfir henni til morguns. En hann unni henni svo mjög, að fyrir hana vildi hann allt á sig leggja, vökur, hungur og nekt. Konan dó 1860 og höfðu þau þá verið í hjónabandi í rúm 50 ár, en ekki átt börn.
Síra Pétur afsalaði sér Kálfatjörn 1851, þá 73 ára gamall. Hann fluttist nú að Móakoti, fékk það eftirgjaldslaust og 1/3 fastra tekna brauðsins. Árni stiftprófastur Helgason mat síra Pétur jafnan mikils og útvegaði honum nú 50 rdl. árlegan styrk hjá stjórninni og auk þess nokkum styrk hjá Synodus. Þó veitti síra Pétur hörmulega í Móakoti, og sá þess varla stað þótt sóknarmenn gæfu honum oft stórgjafir, þegar hann átti bágast. Sumarið 1860 fór hann aftur að Kálfatjörn og naut þar húsaskjóls og aðhlynningar eftir það. Var hann þá þrotinn að kröftum og heilsu, maður á níræðis aldri, sem mestan hluta ævi sinnar hafði búið við eymd og skort. Hann fékk slag 8. desember 1864 og andaðist 8. janúar 1865. Við jarðarför hans vom rúmlega 200 manns, margir langt að komnir og má af því marka vinsældir hans. Einhver seinustu orð hans á banasænginni voru þau, að hann bað sóknarprestinn að muna sig um að láta sig hvíla sem næst „elskunni sinni“ í gröfinni. Og í Kálfatjarnarkirkjugarði hvíla þau hlið við hlið.
Síra Pétur var hinn mesti reglumaður í embætti, kennimaður góður og lét sér mjög annt um barnafræðslu. Veðurbækur hélt hann í samfleytt 50 ár. „Hann var merkur maður og valinkunnur“.“

Heimild:
-Faxi, 1. tbl. 01.04.2000, Lýsingar Njarðvíkursóknar og Kálfatjarnarsóknar árið 1840 – séra Pétur Jónsson, bls. 12-14.

Vatnsleysuströnd

Vatnsleysuströnd.

Vatnsleysa

Í „Þjóðsögum um Suðurnes„, sem Hildur Harðardóttir hefur tekið saman er að finna söguna „Draugagangur á Stóru-Vatnsleysu“.
Skammt sunnan við bæinn á Stóru-Vatnsleysu eru minjar af bæ, sem byggður var ofan á hálfkirkju, sem þar var. Sæmundur á Vatnsleysu staðfesti þessa frásögn þegar FERLIRsfélagar heimsóttu hann einn daginn. Gekk hann með þeim um sögusviðið:

Draugagangur á Stóru-Vatnsleysu

Vatnsleysa

Stóra-Vatnsleysa. Tóftir sögusviðsins – kirkjan og bærinn fyrrum.

„Það mun hafa verið nálægt 1850, sem Jón nokkur fór að byggja sér nýjan bæ á Stóru-Vatnsleysu. Hann gróf fyrir kjallara, en þegar komið var nokkuð langt niður, fundust mannabein mörg. Gamlir menn þóttust þá hafa heyrt þess getið að fyrrum hefði bænahús verið á Stóru-Vatnsleysu og var þess því getið til að kirkjugarður eða grafreitur mundi hafa verið þar, sem nú átti að byggja bæinn. Jóni var ráðlagt að hætta við að byggja á þessum stað; því sinnti hann ekki, en hann hætti við að grafa kjallarann.

Stóra-Vatnsleysa

Stóra-Vatnsleysa 1935.

Svo var bærinn byggður og var á þeim tíma ekki annar skrautlegri hér í hreppi. Það var loft í honum öllum og undir því voru afþiljuð tvö herbergi, sitt í hvorum enda. Fólkið allt svaf uppi á loftinu. Eina nótt um vorið vaknaði allt fólkið (nema húsbóndinn) við það að hurðunum að herbergjunum niðri var skellt svo hart, að bærinn skalf allur.
Gömul kona, Ingveldur að nafni, var þar þá vinnukona og hefur hún sagt þessa sögu. Ekki kvaðst hún hafa orðið vör við annað undarlegt á meðan hún var þar, en fyrrnefnda hurðaskelli, en ýmsa fleiri kynjaviðburði heyrði fólk sagða úr þessum bæ; þar á meðal var sá, að kona af næsta bæ gekk einu sinni um albjartan dag fram hjá stofugluggunum og leit inn um þá, um leið og hún ætlaði framhjá; sá hún þá sex menn sitja þar inni við borðið, og þekkti engan þeirra.

Stóra-Vatnsleysa

Letursteinn í fyrrum grafreit við Stóru-Vatnsleysu – á hvolfi.

Jón nokkur var vinnumaður á þessum bæ hjá nafna sínum þau ár, sem bærinn var byggður. Einhverju sinni þegar mikið gekk á niðri fór hann ofan í stigann um bjarta sumarnótt; en hann sneri fljótt við aftur, því hann sagði að sér hefði sýnst allur bærinn niðri, og göngin, svo langt sem hann sá, svo troðfull af fólki, er hann þekkti ekki, að hvergi var hægt að smjúga út né inn.

Stóra-Vatnsleysa

Stóra-Vatnsleysa.

Húsbóndinn sjálfur varð aldrei neins var, og trúði því engu af því, sem fólk hans sagði honum um þessa fyrirburði í bæ hans; taldi hann það allt hérvillu og eintómar ýkjur. En á fyrsta eða öðru ári, er hann var á bænum, veiktist hann af einhverri óþekkjanlegri veiki, sem hann þjáðist af í fimm ár eða lengur. – Þá flutti hann burt úr bænum, af því hann þóttist viss um að hann fengi ekki heilsuna aftur, ef hann væri þar, enda batnaði honum nokkrum árum eftir að hann flutti úr bænum, þó hann væri fremur veiklulegur lengst af æfinni. Guðmundur bóndi á Auðnum ólst upp á næsta bæ við Stóru-Vatnsleysu; hann var kominn yfir tvítugt, þegar Jón byggði bæ sinn.

Stóra-Vatnsleysa

Stóra-Vatnsleysa. Sögusviðið merkt með gulum hring.

Með Guðmundi reri vinnumaður frá bænum, að nafni Magnús, þá orðinn gamall, fámálugur og dulur. Karlinn vildi lítið um þessa atburði tala, en sagði honum
þó, að eina nótt sem hann vaknaði í rúminu, tók hann hendinni uppfyrir sig; þreifaði hann þá á alsberum, ísköldum mannsskrokk, sem lá fyrir ofan hann í rúminu.
Ekkert gaf karl sig að þessum lagsmanni sínum, en fór að sofa aftur. Þegar hann vaknaði um morguninn til að klæðast var þar enginn.

Vatnsleysa

Vatnsleysa – túnakort 1919.

„Varð þér ekki bilt við?“ spurði Guðmundur. „Ekki svo mjög,“ svaraði hann.
„Maður er orðinn þessu svo vanur,“ bætti hann við. Guðmundur sagði að bær Jóns hafi staðið í eyði, mannlaus, eftir að Jón flutti úr honum, að minnsta kosti eitt ár.
Sú saga gekk, að ferðamaður, einn eða fleiri, hefðu um sumarnótt gengið um hlaðið á Stóru-Vatnsleysu; hefðu þá þrír menn staðið þar á stéttinni fyrir framan bæ Jóns; hafði einn þeirra haldið á öxi, annar á atgeir, og þriðji á hríslu; tveir voru fulltíða menn, en sá, sem á hríslunni hélt, var unglingur.“

Heimild:
-Þjóðsögur um Suðurnes, Hildur Harðardóttir, Draugagangur á Stóru-Vatnsleysu – ÞJÓÐTRÚ 171.

Vatnsleysa

Vatnsleysa – örnefni.