Tag Archive for: Vogar

Eiríksvegur

Hér er ætlunin að fylgja Almenningsveginum frá Kúagerði í Voga. Stuðst verður m.a. við lýsingu Sesselju Guðmundsdóttur í bókinni „Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi“ er endurútgefin var út árið 2007. Um er að ræða nákvæmasta rit um örnefni, vettvangsferðir og sagnir á svæðinu. Auk þess er stuðst við handrit Erlendar Magnússonar á Kálfatjörn þar sem hann lýsir Almenningsveginum svo allri leiðinni frá Reykjavík til Njarðvíkur, sem hann fór margoft.
BergþórsvarðaÞegar leiðin var gengin að þessu sinni, frá norðri til suðurs – og til baka (svona til að bera saman smáatriðin), kom ýmislegt áhugavert í ljós. Við meginleiðirnar liggja hliðarleiðir. Til dæmis má ætla að Almenningsvegurinn hafi fyrrum legið eins og hann liggur nú frá Kúagerði, með Arnarvörðu, niður að Kálfatjörn og áfram með Arnarbæli niður að Vogabæjum. Á þessari leið er hann lítt lagaður að öðru en því sem þótti allra nauðsynlegast. Vörður (vörðubrot) eru fáar, en fjölgar er nær dregur endimörkum hans beggja vegna. Út úr Almenningsvegi hefur þróast „Hestaslóð“, hestvagnsgata. Lagfæringar á veginum er allt frá Kúagerði að Bergþórsvörðu. Frá henni hefur verið lagður, annað hvort nýr vegur eða eldri vegur endurbættur, að Flekkuvíkurstíg (Refshalastíg).

Almenningsvegur

Almenningsvegur – Arnarhóll.

Í örnefnalýsingu fyrir Flekkuvík er þar getið um „Almenningsgötur“ er bendir til þess að þær hafi verið fleiri en ein á þessum slóðum, sem þær og eru. Gata liggur frá Bergþórsvörðu til norðurs, um náttúrulega steinbrú á Hrafnagjá og síðan áfram uns sést heim að Flekkuvík. Þar beygir gatan vestur heiðina, en Flekkuvíkurstígurinn liðast niður heiðina heim að bæjum. Efri hluti götunnar gæti hafa verið Flekkuvíkurstígur. Hestvagnsgatan er frá Kúagerði að Vatnsleysu. Þar hefur hún beygt áleiðis heim að bæ og kemur aftur í ljós á milli og sunnan bæjanna. Þaðan er stutt að gatnamótum Flekkuvíkurstígs.

Almenningsvegur

Almenningsvegur – ofan Kálfatjarnar.

Önnur gata, ólöguð, liggur svolítið upp fyrir Bergþórsvörðu og beygir þar einnig til norðurs, yfir hlaðna brú á Hrafnagjá. Þaðan er gatan óljós, en lengra má sjá hvar hún beygir um 90° til vesturs, áleiðis upp heiðina að Arnarvörðu, sem fyrr er nefnt. Þótt Almenningsvegurinn aðskiljist Eiríksvegi að mestu leyti frá Kúagerði að Bergþóruvörðu má ætla, af landfræðilegum aðstæðum, að Eiríksvegur hafi verið lagður ofan á Almenningsleiðina á þessum kafla því þar sem sá fyrrnefndi endar í Flekkuvíkurheiðinni heldur sá síðarnefndi áfram upp hana að Arnarvörðu. Þetta virðist flókið, en ef eftirfarandi skýringarmynd er skoðuð af götum í heiðinni ætti þetta að vera svolítið augljósara hvað framhaldið varðar.
Göngusvæðið

Ferðin hófts i Kúagerði; á Akurgerðisbökkum. „Sagnir eru til um að Akurgerði hafi forðum verið í Kúagerði. Fjórir vegir frá mismunandi tímum liggja um [Vatnsleysustrandar]hreppinn endilangan. Sá nýjasti og jafnframt efsti er línuvegur sem gerður var árið 1992 og fylgir hann rafmagnslínu frá Fitjum í Njarðvík að Hamranesi í Hafnarfjarðarlandi. Vegurinn er lokaður almennri umferð. Reykjanesbraut var gerð á árunum 1960-64 og fyrsti hluti tvöföldunar hennar var tekinn í notkun árið 2004 og enn er verið að vinna við breikkun, þ.e. árið 2007.
SkeifubrotGamli-Keflavíkurvegurinn eða Strandarvegur var lagður á árunum 1906-’12 og lá hluti hans allfjarri byggðinni á sunnanverðri Ströndinni en um 1930 var sá partur færður neðar. Gamli-Keflavíkurvegurinn var í upphafi hestvagnavegur og mátti sjá langar vagna- og skreiðarlestir liðast eftir veginum en 1917 tók
u bílarnir við. Hér suður um Strönd og að Vogum verður nafnið Strandarvegur haft yfir Gamla-Keflavíkurveginn. Reiðvegur liggur og með Strandarveginum frá Vatnsleysu og suður í Voga (en hann verður ekki hafður í hávegum hér).“

Kúagerði

Kúagerði 1912.

Ef staðnæmst er við Kúagerði má sjá hvar Eiríksvegur liggur frá Akursgerðisflötum sem og Almenningsvegurinn. Við framangreindar götur á Ströndinni má bæta Kirkjugötunni er lá samfelldur um bæjartraðirnar. Kirkjubrúin sunnan Kálfatjarnar er á þeirri leið.
„Almenningsvegurinn er elsta sjáanlega samgönguleiðin um hreppinn og liggur víðast hvar tiltölulega stutt frá byggð, þó yfirleitt ofan við Gamla-Keflavíkurveginn og innarlega í Hvassahraunslandi einnig ofan Reykjanesbrautar. Í lýsingu Péturs Jónssonar af Kálfatjarnar- og Njarðavíkursókn frá árinu 1840 er leiðinni lýst svohljóðandi: „Vegur liggur gegnum heiðina frá Stóru-Vogum beint að Breiðagerði, svo með bæjum við túngarða inn fyrir Kálfatjörn, aftur þaðan frá gegnum heiðina inn hjá Vatnsleysu.“ Almenningsvegurinn er til hliðar og sunnan við Eiríksveginn á þessum kafla.
SkeifaBátar voru notaðir en hestar til fólks- og vöruflutninga hér í sveit á öldum áður og margar heimildir bera vitni um.
Nafnið Almenningsvegur, yfir gömlu þjóðleiðina, virðist hafa verið notað af Voga- og Vatnsleysustrandarbúum og trúlega líka búendum utar á skaganum því þar sem vegurinn liggur um Hvassahraunsland og innar er hann frekar kallaður Alfaraleiðin. Nafnið sem við notum hér suður frá gæti tengst því að um veginn fóru Suðurnesjamenn um aldir til eldiviðartöku og kolagerðar í Almenning en það er kjarrsvæðið milli Afstapahrauns og Kapelluhrauns, ofarlega. Björn Gunnlaugsson, fyrsti íslenski kortagerðarmaðurinn, setur Almenningsveginn inn á kort árið 1831, en á kortum sem gerð hafa verið eftir það er hann ekki skráður
.“
Hverfum nú aftur til upphafsstaðar. „Við höldum nú í vesturátt frá Kúagerði meðfram Strandarvegi sem lá áður um Vatnsleysu og áfram (nú er búið að byggja brú og hringtorg aðeins sunnar á brautinni. Eftir u.þ.b. 400 m komum við að litlum uppmjóum hól með hundaþúfu fast við veginn sem heitir Tittlingahóll. Ein heimild segir hólinn hafa í upphafi heitað Þyrsklingahól en nafnið afbakast í tímans rás. Víða við sjó hjá Vatnsleysu einkennast hólarnir af háum „hundaþúfum“.
AlmenningsvegurNeðan vegar sjáum við Steinkeravík (Stekkjarvík) og upp af henni komum við fyrst á Almenningsveginn. Fyrrum kölluðu sumir hreppsbúar Almenningsveginn Einingaveg og kom það líklega til af því að í landamerkjalýsingu Jóns Daníelssonar í Stóru-Vogum frá árinu 1840 er eyða í handritinu fyrir framan orðið „…eningsveginn“. Einhverjum hefur sennilega þótt hægast að túlka þetta hálfa orð sem einingaveginn og þannig er það örnefni komið til.
Á
 þessum slóðum sjáum við annað sýnishorn af vegagerð fyrri tíma en það er Eiríksvegur og liggur vegarstæðið þráðbeint frá Akurgerðisbökkum, en þeir eru neðan og vestan við Kúagerði, og áfram vestur yfir holt og hæðir. Vegurinn er nefndur eftir verkstjóranum sem hét Eiríkur Ásmundsson (1840-1893) frá Grjóta í Reykjavík en Eiríkur þessi stjórnaði m.a. fyrsta akvegargerð um Kamba. Eiríksvegur er 3-4 m breiður og í honum er mikið af grjóthnullungum. Ekkert farartæki hefur hingað til nýtt sér „samgöngubótina“ því vegargerðin dagaði uppi í Flekkuvíkurheiðinni einhvern tímann fyrir síðustu aldamót. Almenningsvegurinn liggur svo til samsíða Eiríksvegi á þessum slóðum, ýmist ofan eða neðan hans, og á kafla liggja allir þrír vegirnir samsíða, Strandarvegur neðstur, svo Almenninsgvegur og Eiríksvegur efstur.

Almenningsvegur

Á Almenningsvegi.

Neðri-Grænhóll er u.þ.b. miðja vegu milli Strandarvegar og Reykjanesbrautar, vestur af afleggjarnum að háspennutengingu fiskeldistöðvarinnar á Vatnsleysu. Efri-Grænhóll er ofan við brautina.
Ofan við Strandarveg á móts við Stóru-Vatnsleysu er túnblettur og suðvestan hans er mikil varða um sig en að nokkru leyti hrunin sem heitir Bergþórsvarða eða Svartavarða. Varðan hefur líklega verið innsiglingarvarða fremur en mið. Suðuaustur og upp af Bergþórsvörðu er svo Slakkinn, mosalægð sem gengur upp undir Reykjanesbraut og um hann liggur nýja tengibrautin frá hringtorginu til Strandarinnar.
Digravarða og Digravörðulágar eru örnefni á þessum slóðum og líklega er Digravarða spöl sunnan við Bergþórsvörðu, á hól sem er vel gróinn í toppinn. Varðan hefur verið mikil um sig fyrrum en er nú aðeins grjóthrúga. Fyrir ofan Digruvörðu eru Digruvörðulágar.“

Vatnsleysuströnd

Almenningsvegur – Eiríksvegur ofan Vatnsleysu.

Nefnd Digravarða sést tæpast nú orðið. Við Bergþórsvörðu beygir Almenningsvegurinn um 90° til norðurs. Þar hefur og nýr vegur (hugsanlega ofan í gamlan) verið lagður. Sá vegur liggur norðlægar með beina stefnu á Hrafnagjá. Á henni, þar sem vegurinn liggur yfir gjána, er náttúruleg steinbrú. Þaðan í frá er vegurinn augljós að Flekkuvíkurstíg (Refshalastíg), (sjá síðar).
Eiríksvegurinn liggur hins vegar þarna áfram upp upp með hólnum norðanverðum – áðeiðis upp í Flekkuvíkurheiði, langleiðina að Þrívörðuhól. Almenningsvegurinn (eystri) liggur hins vegar til norðurs skammt ofan við Bergþórsvörðu, á brú yfir Hrafnagjá skammt sunnan „hestvagnsgötunnar“. Skammt norðar beygir gatan um 90° til vesturs og liðast þaðan upp heiðina áleiðis að Arnarvörðu. Norðan Bergþórsvörðu er Almenningsvegurinn tvískiptur. Skýringin gæti verið þróun vegarins frá því að vera göngu- og hestagata yfir í að verða hestvagnagata. Þarna gæti hafa verið tenging við veg frá Vatnsleysu, en tenging inn á hestvagnagötuna (vestari götuna) er norðar, ofan túngarðs. Til gaman má geta þess að á báðum götunum mátti sjá leifar af skeifum. Hér á eftir er efri (eystri) leiðinni lýst.
BrúNæst liggur leið okkar um Hafnhóla. Suðvestur frá Bergþórsvörðu er hár og mikill hóll, nokkuð kúptur, sem heitir Litli-Hafnhóll, Neðri-Hafnhóll eða Eystri-Hafnhóll og við hann er loftnetsmastur og sjálfvirk veðurstöð. Sunnar og fast við Reykjanesbrautina að neðanverðu er svo Stóri-Hafnhóll, Efri-Hafnhóll eða Syðri-Hafnhóll. Jón Helgason (1895-1986) ömmubróðir minn sem alinn er upp í Litlabæ á Strönd sagði mér að sá hóllinn sem heitir Litli-Hafnhóll hafi heitið Stóri-Hafnhóll, og öfugt, því hann hafi sýnist stærri frá sjó.
Nú förum við yfir Hrafnagjá og þá rétt austan við afleggjarann að Minni-Vatnsleysu. Gjáin liggur niður um tún Stóru-Vatnsleysu og þar í sjó fram. Margir telja þessa gjá framhald hinnar eiginlegu Hrafnagjár sem er ofan og innan við Voga, en samkvæmt loftmynd og öðrum athugunum er svo ekki.

Arnarvarða

Rétt vestan gjárinnar komum við að Vatnsleysustekk í lítilli kvos fast við og neðan Eiríksvegar en stuttu ofan við nýju tengibrautina. Eiríksvegargerðarmenn hafa látið óhreyft grjótið í stekknum sem segir okkur að líklega hafi hann verið í notkun þegar vinnan stóð yfir.“ Ekki er þó með öllu útilokað að eitthvert heimilisfólk að Vatnsleysu hafi meinað vegagerðarmönnum að hrófla við stekknum, enda hafi það haft taugar til hans frá fyrri tíð. Dæmi eru um að öðrum mannvirkjum í Vatnsleysulandi hafi verið hlíft þrátt fyrir að notkun þeirra hafi þá verið hætt.

Almenningsvegur

Almenningsvegur – refaskyttubyrgi.

„Á móts við Flekkuvíkurafleggjarann hefur lítið grjótbyrgi verið byggt ofan í Almenninsgvegi en á þessum slóðum er sá vegur u.þ.b. 50 m fyrir ofan Strandarveg. Nú hækkar landið aðeins og til vinstri handar er rismikil og falleg hólaþyrping sem ber við himinn, heita þar Miðmundahólar og ofan þeirra Miðmundalágar. Hólarnir eru ekki eyktarmark frá Flekkuvík sem mætti ætla við fyrstu sýn né heldur eyktarmark frá öðrum bæjum í grennd að því er virðist.
Á háheiðinni norðvestur af Miðmundahólum og nær Strandarveginum, er Arnarvarða eða hluti hennar á hól en við hólinn norðanverðan liggur Almenningsvegurinn. Arnarvarða er á mörkum Flekkuvíkur og Kálfatjarnar.“

Braggagrunnur

Þegar komið er upp að Arnarvörðu má sjá yfir gjörvalla heiðina. Ætla mætti að hér hafi tilgangum um verið náð með „ofanleiðinni“, en að sjálfsögðu hlýtur hann að hafa verið allt annar. Ef skoðaðar eru loftmyndir af svæðinu má ætla að í raunþrátt fyrir nokkra hækkun, hafi þessi „úrleið“ ekki verið lengri svo nokkru nemi. „Vestari leiðin“ liggur þó betur við fæti, liggur neðar og er greiðfærari. Hún liggur neðan við Stúlknabyrgi, en við nánari skoðun virðist þar hafa verið um „sæluhús“ eða skjól að ræða á leiðinni. Nafnið er vel við hæfi.

Almenningavegur

Almenningsvegur genginn.

Tvívörðuhóll heitir hóll rétt niður og vestur af Arnarvörðu fast við Strandarveginn og vestan undir honum er Miðmundastekkur sem líklega er frá Flekkuvík. Á hól upp af og við Tvívörðuhól er braggagrunnur ef einni varðstöð stríðsáranna og að henni liggur greinilegur vegarslóði. Tvívörðuhæð er hæðin kölluð en Tvívörður voru neðan Strandarvegar.
Suður af Tvívörðuhól sjáum við klapparhryggi með grasrindum utan í sem hita Löngubrekkur. Þesar slóðir eru kallaðar Hæðin en á há Hæðinni er Stefánsvarða neðan vegar. Stefánsvarðan er eitt helsta kennileitið á leiðinni. Varðan er óvenjuheilleg og stendur skammt neðan þjóðvegarins á hæstu hæðinni norðan Kálfatjarnar, eða öllu heldur austan Litlabæjar. Varðan er nánar tiltekið á há Hæðinni norðan Vatnsleysustrandarvegar.

Árnavarða

Almenningsvegurinn lá um Hæðina skammt sunnan við vörðuna og má enn sjá móta fyrir honum á köflum. Varða þessi er kennd við Stefán Pálsson útgerðarmann á Stóru-Vatnsleysu. Stefán Pálsson fæddist í Hvassahrauni 5. febrúar 1838. Hann giftist 24. nóvember 1865 Guðrúnu Gísladóttur, þá 40 ára ekkju. Þau bjuggu á Minni-Vatnsleysu og síðan, að því er virðist, á Stóru-Vatnsleysu. Vegagerðarmenn er unnu við gerð þjóðvegarins ofan Strandarbæjanna í byrjun 20. aldar rifu vörðuna eins og svo margar aðrar á þessum slóðum og notuðu grjótið sem kanthleðslur í nýja veginn. Eftir að hæðin hafði verið vörðulaus í u.þ.b. hálfa öld tóku þeir Jón Helgason og Magnús sonur hans sig til árið 1970 og endurhlóðu vörðuna. Í stein í vörðunni mót austri er klappað nafnið Stefánsvarða. Magnús var um skeið minjavörður í Byggðasafni Hafnarfjarðar og skrifaði margar fróðleikslýsingar um mannlífið þar fyrrum, s.s. „Byggð í byrjun aldar.“ Til fróðleiks má geta þess að Magnús sótti áður steininn í vörðuna heim að gamla bænum á Minni-Vatnsleysu og markaði sjálfur áletrunina í hann til minningar um nefndan Stefán.“

Vatnsleysuströnd

Almenningsvegur – Eiríksvegur ofan Vatnsleysu.

Hér „vatnar undir“ lýsinguna. Verið var að rekja „eystri“ leiðina um Almenningsveg, en hér er allt í einu komið niður á „vestari“ leiðina, þ.e. hestvagnagötuna. Ástæðan er líklega sú að hvorutveggja er Almenningsvegur, frá mismunandi tímum. Skammt frá má sjá leifar af fyrstu vegagerð Strandarvegar, sem síðan hefur verðu færður skammt ofar.
Arnarvarðarleiðin, þótt hún virðist lengri í fyrstu, en einstaklega áhugaverð. Frá henni er hið ágætasta útsýn um gjörvalla Vatnsleysustrandarheiði. Ætla mó þá að ferðalangar fyrrum hafi ekki verið að leita eftir slíkum hughrifum á erfiðri þjólðeið millum áfangastaða.

Almenningsvegur

Vegur ofan Arnarvörðu.

Líklegt má telja ef nágrenni Arnarvörðu er skoðað nánar megi þar finna leiðir upp frá henni að áfangastöðum ofar í heiðinni.
Tveir hólar eru neðan við vörðuna; Stefánshólar. Norðan undir þeim nyrðri er Borgarkotsstekkur. Aðeins vestar en Löngubrekkur er svo klapparhóll, brattur að norðanverðu, sem heitir Grjóthóll. Á þessu svæði er Almenningsvegurinn frekar óljós.“ Aftur er hér aftur horfið til „vestari leiðar“ Almenningsvegar. Hún sameinast vestari leiðinni neðan undir Hæðinni. Engin ummerki um hana er að sjá vestar, ofan núverandi Strandarvegarm enda má ætla að leiðin hafi fyrrum legið áleiðis niður að Kálfatjörn.
GamlivegurFast ofan og austan við Kálfatjarnarvegamót er Prestsvarða sem ein heimild kallar Staðarvörðu og í henni neðarlega er steinn sem vísar á kirkjustaðinn. Suðaustur af vörðunni er langur klapparhóll með lítilli grjótþúst á og heitir hann Klifflatarhóll en fyrir austan og ofan hann er nokkuð stór þúfumói sem kallast klifflatir.“ Reyndar eru engin ummerki eftir Almenningsveginn (eystri) á þessum slóðum. Líklegra er að hann hafi sameinast vestari götunni undir Hæðinni og legið með henni að garðhliði Kálfatjarnar.
Þegar skoðaðar eru aðstæður austan og vestan Kálfatjarnar má glögglega sjá hvar leiðir hafa legið að höfuðbýlinu. Hlið er á grjótgarði að vestanverðu þar sem Almenningsvegurinn hefur legið að. Vestan hans sést í hestvagnagötuna ofan suðurgarðs Kálfatjarnar. Þar liggur hún áleiðis upp með ofanverðum túnum Þórustaða, ofan við Þórustaðaréttina. Enda segir í sóknarlýsingunni frá 1840 að vegurinn hafi legið þarna ofan túngarða.
ÁsláksstaðastekkurÞórustaðarstígur liggur frá túngirðingu Þórustaða, u.þ.b. 200 m norðan afleggjarans að bænum og allt upp að ufir fjallgarðinn (Vesturháls). Stígurinn er ógreinilegur fast við og ofan Strandarvegar. Skammt ofar við götuna er Þórustaðaborg. Stígurinn var einnig kallaður Kúastígur á þessu bili því kúm var beitt við borgina á sumrin. Þórustaðaborgi hefur upphaflega verið fjárborg, en fjárborgum var stundum breytt í stekki eða aðrar byggingar sem hentuðu búskaparháttum hvers tíma og það virðist hafa verið gert þarna.
Stuttu ofan og á móti Landakoti er breitt og flatt holt sem heitir Skálholt og um það eru mörk Landakots og Auðna. Á Skálholti eru a.m.k. þrjár vörður og leifar af litlu grjótbyrgi með vörðu í. Upp og suður af Skálholti er Auðnaborg í grasmóa s
unnin í hól. Þar er nokkuð heilleg fjárrétt með stórum almenningi og tveimur dilkum er uppi á hólnum við réttina eru rústir af tveimur kofum. Lítill stekkur er rétt neðan og vestan við borgina en engar heimildir eru til um nafn hans.“
VarðaRétt ofan við syðstu sumarbústaðina í Breiðagerði er nokkuð áberandi varða og fast neðan hennar komum við á „Hestaslóðina“ sem svo var nefnd. Þetta er nokkuð breiður vegur, flórlagður á köflum og hefur verið lagður með hestvagnanotkun í huga. Almenningsvegurinn er að mestu horfinn á þessu svæði vegna nýrri tíma framkvæmda.
Hér í krappri beygju Strandarvegar erum við komin að Gamlavegi en hann liggur frá Breiðagerði svo til beint yfir heiðina og mætir bílveginum aftur nokkuð sunnan Brunnastaðahverfis. Víða er um kílómeters leið frá bæjum að Gamlavegi sem þótti langt enda um klappir og holt að fara, oft með þungar byrðar. Bændur höfðu þar hver sitt hlið og brúapall og á einstaka stað má enn sjá merki um hlið og götur frá veginum í átt til bæja. Strandarbændur undu ekki vegarstæðinu og  börðust hart fyrir vegi nær byggðinni. Árið 1930 var, eins og fyrr segir, nýr vegur gerður og Gamlivegur lagur af með lítilli eftirsjá búenda í Áslákstaða-, Hlöðunes- og Brunnastaðahverfi. Nú er Gamlivegur notaður sem reiðvegur.“
StúlknabyrgiGamlivegur er að sjálfsögðu fyrrum hluti Gamla-Keflavíkurvegar (Strandarvegar). Líklegt má telja að hann hafi verið lagður yfir „hestvagnsgötuna“. Út frá henni liggur síðan gamli Almenningsvegurinn upp heiðina áleiðis að Arnarbæli.
„Vatnsleysustarndarrétt eða Strandarrétt stendur á sléttu klapparholti vestan Árnastekks. R
éttin var hlaðin úr múrestinum og var vígð árið 1956, en fyrir þann tíma var lögrétt hreppsins í Vogalandi suður undir Vogastapa. Fast við réttina að austanverðu stóð Ásláksstaðarétt en grjótið úr henni var notað í vegarlagningu. Fyrir ofan Strandarrétt standa tvær háreistar vörður þétt saman en þær hlóðu sér til gamans tveir vikapiltar á Sjónarhóli fyrir fáum áratugum.
Hér er mjög erfitt að rekja Almenningsveginn en þegar sunnar dregur verður hann greinilegri.

Friggjargras

Rétt sunnan og ofan við vegamót Gamlavegar og Strandarvegar í Breiðagerði er Krummhóll með uppmjórri vörðu á og í framhaldi og upp af honum kemur svo Borg en það er langt holt nokkuð gróið og þar gæti hafa verið fjárborg fyrrum. Ofarlega í holtinu eru rústir af beitarhúsum. Aðeins neðar er greinilega nýrri fjárhústóft. Rétt ofan og austan við efri rústirnar er lítið vatnsstæði í klöpp, vel falið í viki undir lágum hólum. Ofan og austan við Borg er stekkur sem heitir Litlistekkur.
Vatnshólar heita tveir hólar fast ofan Gamlavegar beint suður af Árnastekk. Suðvestur af Rauðstekk eru fallegustu og grónustu hólar heiðarinnar en þeir heita Arnarbæli eða Arnarbælishólar. Hólarnbir eru mjög áberandi og sjást víða að Stuttu ofna og sunnan við Arnarbæli er Ásláksstaðastekkur í Kúadal, heillegar hleðslur.“
Við Arnarbæli greinist Almenningsvegur; annars vegar vestur fyrir hólana og hins vegar austur fyrir þá. Austari gatan er greinilegri. Líklega hefur Kúadalur verið talinn álitlegri áningastaður áður en lokaáfanganum var náð niður að Vogum.
„Slysabeyja er á mótum Gamlavegar og Strandarvegar. Þegar Gamli-Keflavíkurvegurinn var aðalsamgönguæð Suðurnesjabúa ultu bílar oft í þessari hættulegu beygju og af því degur hún nafnið. Syðst við Slysabeygju að ofanverðu er hóll sem heitir Lúsaborg. Heimild er til um Lúsaborgarvörðu en engar hleðslur eru sjáaanlegar þarna og engar sagnir til um borg á þessum stað.

Almenningsvegur

Fast upp af Stekkholti eru tveir Presthólar. Sigurjón Sigurðsson (1902-1987) frá Traðarkoti segir í örnefnalýsingu af Brunnastaðalandi: „Sagt er, að þeir fragi nafn sitt af því, að einhvern tíma hafi hóllinn (hólarnir) staðið opinn og sést inn í hann (þá) og hafi prestur í fullum skrúða staðið þar fyrir altari.“
Milli Presthólanna liggur Almenningsvegurinn og er mjög greinilegur þar og því tiltölulega auðvelt a rekja sig eftir honum frá hólunum og suður í Voga. Gatan hefur verið vörðuð á þessum kafla fyrrum en nú standa aðeins lágreistar grjóthrúgur eftir. Sumstaðar hverfur hún alveg í grjótmela og moldarflög en annarsstaðar, t.d. austan við Presthóla, sjást djúp hófaför í klöppunum.“
Reyndar sjást engin fá hófaförin þarna, en af verksummerkjum að dæma má telja augljóst að þarna hafi gatan legið.

Almenningsvegur

Almenningsvegur.

Nú erum við komin á Hæðina við Voga þar sem Strandarvegur gengur út úr Vogaafleggjara. Ef grannt er leitað má finna syðsta hluta Almenningsvegar þar sem Hæðina þrýtur til austurs og þá sitt hvoru megin Strandarvegar.“
Reynt hefur verið að lýsa Almenningsveginum á Ströndinni af tímafrekri nákvæmni. Eflaust mun, við nákvæmari skoðun, koma í ljós einhverjar hjáleiðir, sem ekki hafa verið nefndar.
Í Ísafold, 11. okt. 1890, má lesa eftirfarandi:
Þegar Hraununum sleppir, kemur Vatnsleysuheiði. Yfir hana mestalla hefir verið lagður upphækkaður vegur, en hann er nú orðinn því nær ófarandi, og miklum mun verri en gamli vegurinn var. Þessi upphækkaði vegur er í daglegu tal oft kallaður Vatnleysu(heiðar)brú, en af sumum „Svívirðingin“, og þykir bera það nafn með rentu; það er sama smiðsmarkið á henni og Svínahraunsveginum gamla, og þarf þá ekki lengra til að jafna.
Þessi upphækkaði vegur stefnir frá Kúagerði til Kálfatjarnar, og er honum sleppir, þá tekur við Varðahinn gamli vegur suður með bæjunum á Vatnsleysuströnd; þessi gamli vegur er
allgóður á sumrum, enda er hann oftast vel ruddur; en á vorum og haustum, þegar bleyta og leysingar eru, er hann mjög illur yfirferðar, liggur sá vegur allt suður að Vogastapa og
lengra ætla ég ekki að fara að sinni. Hvað skal nú gjöra við þennan veg? Eins og er, er illa við hann unandi. Ég skal leyfa mér að láta í ljósi skoðun mína um það; það fara svo margir þennan veg, að vonandi er, að einhverjir fleiri en ég skýri frá, hvernig þeir álíti þessu best í lag hrundið.
Sá vegur liggur vestur
Ströndina, og ef menn ætla t. a. m. suður í Voga eða þaðan af lengra, þá er það sá afarkrókur, að ríða niður á Ströndina, að ég er viss um, að það nemur fullum þriðjungi, móti því að fara beint úr Kúagerði á Reiðskarð (upp Vogastapa).

Strandarvegur

Strandarvegur.

Strandarmenn mundu þá halda við gamla veginum sem hreppsvegi. En eigi að halda við hinum gamla vegi sem sýsluvegi, þá mundi sú aðgjörð, sem hann þarfnast, ef hann á að geta kallast viðunanlegur, dragast að verðinu til hátt upp í það, sem nýr vegur, beint frá Kúagerði á Reiðskarð, mundi kosta.
Sumir berja því við, að með slíku fyrirkomulagi þyrfti svo víða að leggja vegi frá Ströndinni upp á sýsluveginn. Þetta fæ ég ekki séð að sé nauðsynlegt. Sá, sem ætlar að koma við
á Ströndinni, ríður hreppsveginn; en ætli maður beint frá Kúagerði suður, án þess að eiga erindi á Ströndina, þá fer maður sýsluveginn. Ritað á Fidesmessu 1890. Vegfarandi.“
Gatnakerfi Vatnsleysustrandar verður gefinn nánari gaumur á næstunni. Hér var um að leiða lokaáfanga á 1200. FERLIRsáfanganum á Reykjanesskaganum.
Frábært veður. Gangan tók 6 klst og 6 mín.

Heimild m.a.:
-Sesselja Guðmundsdóttir – Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi 2007.
Ísafold, 11. okt. 1890, 17. árg., 82. tbl.
-Erlendur Magnússon, Kálfatjörn – handrit

Horft.

Stapagata

Stapagata er gömul gata er liggur ofan við Stapann milli Voga og Innri-Njarðvíkur. Gatan er vel greinileg og gaman að ganga hana. Á leiðinni er m.a. Grímshóll þar sem gerðist sagan af vermanninum og huldumanninum í hólnum.

Reiðskarð

Reiðskarð.

Eftirfarandi saga segir af Jóni Jónssyni frá Landakoti á Vatnsleysuströnd og Þorbjörgu Ásbjarnardóttur úr Innri-Njarðvík er þau voru að draga sig saman. Fóru þau oft fundaferðir hvort til annars. Eitt sinn, í síðari hluta ágústmánaðar, skrapp Þorbjörg að Landkoti. Tekið var að bregða birtu þegar hún kom að Vogastapa á heimleið. Þar er farið upp Stapann um svokallað Reiðskarð. Var það alltaf farið, áður en akvegurinn var lagður nokkru austar í Stapanum. Skarðið var mjög bratt og sendið, og teymdu vegfarendur oft reiðhesta sína upp úr því og niður úr.
Þegar Þorbjörg var að leggja á skarðið, verður henni það fyrir að óska sér, að hún hefði nú samfylgd yfir Stapann. Það er rösk fimm kílómetra leið og þótti óhreint í skuggsýnu, og nú var farið að skyggja.
Rétt í þessu verður Þorbjörgu litið upp eftir skarðinu. Sér hún þá, hvar þrjár verur er að þokast upp eftir, 50 til 60 metra fyrir framan hana.

Stapagata

Stapagata ofan Reiðskarðs.

Fremst gengur kona, á eftir henni kýr, sem konan teymir, og á eftir kúnni labbar hundur. Konan er klædd eins og þá tíðkaðist um sveitakonur, hafi til dæmdis hyrnu á herðum. Kýrin var kjöldótt og hundurinn flekkóttur. Fannst Þorbjörgu ekkert óeðllegt við þetta. Hún kallar til konunnar: “Kona, eigum við ekki að verða samferða?” En konan lét sem hún heyrði ekki. Þorbjörg kallar aftur: “Kona, eigum við ekki að verða samferða yfir Stapann?”. En það fer sem fyrr, konan ansar ekki. Þegar hún er komin upp á skarðsbrúnina kallar Þorbjörg til hennar ennþá einu sinni. Þá lítur konan við og glottir til hennar. Í þeim svifum hverfur hún fyrir brúnina með kúna og hundinn.

Stapagata

Stapavegur.

Þegar upp úr skarðinu kom, gerðist gatan mjög niðurgrafin, svo að götubrúnirnar tóku meðalmanni í öxl. Þar var og mikil bugða á henni. Ekkert sá Þorbjörg til konunnar, þegar hún kom upp á skarðsbrúnina. Gerir húnsér þá í hugarlund, að hún sé niðri í götuskorningnum hinum megin við bugðuna, því henni datt ekki enn í hug, að þetta væri allt með felldu.
Hún steig nú á bak hestinum og hyggst ná konunni handan við bugðuna. En þegar þangað er komið, sér hún enga lifandi veru. Dettur henni þá í hug að konan hafi vikið út af götunni og haldið niður að bæ, sem hét Brekka og stóð norðvestan undir Stapanum.

Stapagata

Stapagata.

Snýr Þorbjörg hestinum á leið þangað og að stíg, sem lá niður að Brekku og kallaður var Kvennagönguskarð. En þar var ekkert kvikt að sjá.

Þá fyrst rann það upp fyrir henni, að þessar verur gátu ekki verið af okkar heimi, enda lá það nú í augum uppi, að ef konan hefði verið mennsk, myndi hún hafa gengið götuna, sem lá undir Stapanum heim að Brekku, því það er venjuleg leið, í stað þess að taka á sig krók upp í Stapann og klöngrast þaðan ógreiðari veg niður að bænum.
Setti beyg að Þorbjörgu, sló hún í hestinn og reið í einum spretti heim í Innri Njarðvík.
Reykjanesið er sagnakennt umhverfi.

(Ritað eftir frásögn Ásbjörns Ó. Jónssonar 1961).

Stapagata

Gengið um Stapagötu.

Spákonuvatn

Í Andvara 1884 er hluti Ferðabókar Þorvaldar Thoroddsonar þar sem segir frá „Ferðum á Suðurlandi sumarið 1883„. En fyrst svolítið um höfundinn:

Þorvaldur Thoroddsen

Þorvaldur Thoroddsen; 1855-1921.

„Þorvaldur Thoroddsen er fyrsti Íslendingurinn sem lagði jarðfræði fyrir sig í námi og starfi. Hann varð heimsfrægur fyrir rannsóknir sínar á jarðrænni gerð Íslands og þeim ferlum sem þar eru virk. Hann er með mikilvirkustu rithöfundum Íslandssögunnar og í raun landkönnuður Íslands, enda skoðaði hann landið allt að kalla, vítt og breitt, og snúast flest hans skrif um það og náttúrur þess. Fáir munu fyrr en á geimtækniöld hafa ferðast svo vítt um landið og haft jafn víða yfirsýn um það og hann hafði. Fáir hafa líka ritað meira um það en hann. Hjátrúar- og hindurvitnalaus ferðaðist hann á hestum um landið hátt og lágt sumar eftir sumar þegar fólk trúði því býsna almennt að hálendi landsins byggðu fjandsamlegir útilegumenn og þegar mestu harðindaár Íslandssögunnar réðu færð og veðrum.

Þorvaldur fæddist í Flatey á Breiðafirði 1855 og lést í Kaupmannahöfn 1921. Foreldrar hans voru Jón Thoroddsen (1818-1868) skáld og sýslumaður og kona hans Kristín Ólína Þorvaldsdóttir (1833-1879). Á bak við þau bæði eru ættir athafna- og dugnaðarmanna sem hafa haft áhrif á Íslandssöguna.

Þorvaldur Thoroddsen

Þorvaldur Thoroddsen – Lýsing Íslands.

Þorvaldur lærði undirstöðufög í heimahúsum, en ellefu ára gamall fór hann frá foreldrum sínum til Jóns Árnasonar stiftsbókavarðar og konu hans í Reykjavík til þess að búa sig undir skóla. Þorvaldur kom í Lærða skólann 13 ára gamall árið 1868 og varð þaðan stúdent árið 1875. Hann útskrifaðist með 2. einkunn, næstlægstur sinna félaga, og þótti aldrei sérstakur námsmaður í þeim skóla. Fyrir því er þekkt ástæða sem ekki lýtur að skorti á námsgáfum.

Þorvaldur varð kennari í nýstofnuðum Möðruvallaskóla árið 1880 og var þar til 1884. Hann var kennari við Lærða skólann frá 1885 til 1895. Árin 1884-1885 var hann á ferðalagi erlendis til náms og gagnasöfnunar og hann var aftur erlendis 1892-1893, þá orðinn vel þekktur fræðimaður. Árið 1895 flutti Þorvaldur alfarinn til Kaupmannahafnar og sat þar við fræðastörf og skriftir það sem eftir var ævinnar.
Þorvaldur ThoroddsenÞorvaldur notaði sumrin á milli kennslumissera til rannsókna og fór í kerfisbundna leiðangra um landið allt á árunum 1882-1898.
Úr þessum rannsóknum kom aragrúi ritgerða og bóka sem lýstu og útskýrðu landið og náttúrur þess. Segja má að landið hafi verið óþekkt jarðfræðilega þegar hann byrjaði, aðeins til fáeinar greinargerðir á víð og dreif eftir hina og þessa, mest útlendinga og mest ómenntaða menn á sviði jarðfræði. Þegar hann lauk sínum skrifum var til heildarmynd svo glögg og yfirgripsmikil að enginn jarðfræðingur sem unnið hefur á Íslandi hefur komist hjá því að fara í fótspor hans og byggja á þeirri frumþekkingu sem hann dró saman. Hann var ekki sérfræðingur með þröngt áhugasvið heldur víðsýnn fræðimaður og landkönnuður sem las alla þá náttúru sem fyrir augun bar og gerði grein fyrir henni.

Þorvaldur ThorodddsenRitstörf Þorvaldar voru með eindæmum mikil og margbreytileg, allt frá stuttum athugasemdum upp í fjögurra binda stórvirki. Landfræðisagan kom í fjórum bindum á árunum 1892-1904 og er nú nýlega endurútgefin (2003-2009), þýsk útgáfa af sama verki kom út í tveimur bindum 1897-1898, Landskjálftar á Íslandi í tveimur hlutum 1899 og 1905, endurbætt 2. útgáfa af Lýsingu Íslands kom út árið 1900, jarðfræðikort af Íslandi í kvarðanum 1:600.000 frá árinu 1901, Island, Grundriss der Geographie und Geologie ásamt nýrri útgáfu af jarðfræðikortinu í kvarðanum 1:750.000 kom út 1906, og stórlega endurbætt Lýsing Íslands í tveimur bindum árin 1908 og 1911 og tvö viðbótarbindi um landbúnað á Íslandi á árunum 1917-1922.

Ferðabókin kom út í fjórum bindum árin 1913-1915 og aftur 1958-1960, Árferði á Íslandi 1915-16 og þriðja útgáfan af stuttu Íslandslýsingunni árið 1919 og fleira mætti telja.
Þorvaldur ThoroddsenÁ árunum 1909-1912 ritaði hann einnig hið mikla verk sitt um íslensk eldfjöll, Geschichte der Isländischen Vulkane, sem þó kom ekki út fyrr en að honum látnum. Auk þessara bókverka komu á þessum árum ótal greinar, stuttar og langar, í ýmsum blöðum og tímaritum, íslenskum og erlendum, alþýðlegum og hávísindalegum, um ýmis efni, langflest náttúrufræðileg.
Ísland er ólíkt öðrum löndum og því var Þorvaldur að fást við annað en fræðimenn á sama sviði erlendis. Fyrir vikið er afar margt í skrifum hans sem ekki finnst annars staðar á prenti á þessum tímum. Hann varð enda heimsfrægur fyrir störf sín og mun frægari erlendis en samtímamenn hans hér heima gerðu sér grein fyrir. Dagblöð allt frá New York til Moskvu sögðu frá ferðum hans og uppgötvunum. Honum hlotnuðust líka ótal viðurkenningar erlendis fyrir framlag sitt. Þar á meðal eru viðurkenningar frá virtustu vísindafélögum og akademíum beggja vegna Atlantshafs. Ein þessara viðurkenninga er Dalyorðan frá ameríska landfræðifélaginu sem jafnað hefur verið til Nóbelsverðlauna, sem ekki eru veitt fyrir jarðvísindi. Hér heima var honum lítill sómi sýndur.“

Í „Ferðum á Suðurlandi 1883“ segir m.a. um Trölladyngjusvæðið:
Andvari„Úr Grindavík fórum við austur á við fram hjá Hrauni, upp háls hjá Festarfjalli og að Ísólfsskála. Móberg er hjer í fjöllunum, en þó víða dálítil dólerít-lög ofan á. Festarfjall gengur þverhnýpt fram í sjö; austan við það er Ísólfsskáli. mjög afskekktur bær, og taka við hraun rjett fyrir austin túnið. Þau hraun hafa runnið úr gígum vestan við Núpshlíðarháls. Frá Ísólfsskála riðum við upp á Selvelli við Núpshlíðarháls.
Á leiðinni er á einum stað á hálsi nokkru fyrir austan Ísólfsskála svo kallaður Drykkjarsteinn. Það er stór móbergsteinn með djúpum holum í; sezt þar stundum vatn í holurnar, og er það kærkomið ferðamönnum í sumarhita. Við riðum yfir sljettuna vestan við Núpshlíðarháls; er hún öll þakin hrauni: hraun þetta hefir komið úr mörgum gígum, sem eru ofarlega og neðarlega við hálsinn; fellur það niður að sjó milli Núpshlíðarháls og Mælifells vestra, og eru þar í því tveir breiðir hraunfossar, áður en það kemur niður á ströndina; breiðist það síðan út vestur að Ísólfsskála og austur undir Selatanga; en þar hefir Ögmundarhraun runnið yfir það.

 

Frykkjarsteinn

Drykkjarsteinn.

Fram með vesturhlíðum Núpshlíðarháls er víðast mjög grösugt og fallegt land milli hrauns og fjalls. Komum við fyrst að Hraunsseli; það er nú í rústum, en ágætt gras er í kring og dálítil vatnsdeiglu í klettunum fyrir ofan. Rjett fyrir norðan þetta sel hafa nokkrir hraunlækir streymt út úr hlíðinni niður í aðalhraunið, en eigi eru þar verulegir gígir; hraunið hefir beinlínis gubbast út um sprungu í fjallinu. Alla leið norður á Selvelli eru stórir gígir í röð í hrauninu fyrir neðan hálsinn.

Selsvellir

Selsvellir – seljatóftir.

Selvellir eru stórar grassljettur norður með hálsinum norðanverðum, allt norður fyrir Trölladyngju; er þar ágætt haglendi og vatn nóg: lækur, sem fellur úr hálsinum niður undir hraunin. Þar hefir áður verið sel frá Stað í Grindavík, en er nú af tekið; nú hafa menn þar nokkurs konar afrjett, og reka þangað fje og hesta, enda er þar fríðara land og byggilegra, en víða þar, sem mikil byggð er; væri þar nóg land fyrir 2-3 bæi, því bæði eru slægjur nógar á völlunum og ágæt beit í hálsinum.
Við settumst að hjá læknum á Selvöllum, bjuggum þar sem bezt um tjald vort og dvöldum þar nokkra daga, til þess að skoða hraunin og fjöllin í kring.

Oddafell

Oddafell – Keilir fjær. Þorvaldur nefnir Oddafellið „Fjallið eina“.

Fyrir vestan Selvelli eru tvö fjöll eða hálsar; heitir annar Driffell, en nokkru neðar er »Fjallið eina«.

Mitt á milli Driffells og Trölladyngju, sem er á norðurendanum á Núpshlíðarhálsi, er »Hverinn eini«, mitt út í stóru hrauni norður af gömlum gíg, og suður af „Fjallinu eina“. Í hrauninu er kringlótt skál, 14 fet að þvermáli; í henni er hverinn; það er sjóðandi leirhver.

Hverinn eini

Hverinn eini.

Í botninum liggja hraunbjörg; milli þeirra koma upp gufumekkir, og í kring um þau er bláleitur leirgrautur; sýður og orgar í jörðinni, þegar gufurnar þjóta upp um leðjuna. Hraunsteinarnir eru dálítið sundurjetnir af hinum súru hveragufum og hjer og hvar sjást dálitlir brennisteinsblettir. Hjer um bil 3—4 faðma fyrir norðan »Hverinn eina« er gömul hverahrúðursbreiða; þar er nú enginn hiti; en áður hafa heitar vatnsgufur komið upp um 4 eða 5 op; hverahrúðrið er smágjört, í flögum, og dálítið af sundursoðnum leir og brennisteini innan um hrúðrið; breiðan er 130 fet frá norðri til suðurs, og 150 fet frá austri til vesturs. Úr »Hvernum eina« leggur stækustu brennisteinsfýlu, svo mjer ætlaði að verða óglatt, er jeg stóð á barmi hans. í góðu veðri sjest gufustrókurinn úr þessum hver langt í burtu.

Keilir

Keilir.

Frá Selvöllum fórum við upp á Keilir (1239′); fórum fram hjá Driffelli yfir mikil og úfin hraun, og var þar víða illt að fara. Tilsýndar gætu menn ímyndað sjer eptir löguninni á Keilir, að hann væri gamalt eldfjall, en svo er eigi; hann hefir aldrei gosið; hann er móbergsstrýta með dólerít-klöppum efst uppi.

Keilir

Keilir.

Keilir er strýtumyndaður og mjög brattur ; norður úr honum gengur þó öxl eða rani, svo þar er bezt að komast upp. Litlir mórauðir móbergstindar standa fyrir norðan rætur hans, og eru kallaðir Keilisbörn. Við göngum upp öxlina. Hún er miklu dökkleitari en bergið í kring, af því að hún er mestmegnis úr kolsvörtum hraunmolum þegar ofar dregur verður miklu brattara; þar er lausaskriða ofan á, en sumstaðar sljettar móbergsklappir; þó má nokkurn veginn festa fót á þeim, því smáir hraunmolar standa út úr móberginu eins og oddar og gera það hrufótt. Gekk nokkuð örðugt að sneiða sig upp skriðurnar og móbergsklappirnar, en þegar kom upp á dólerít-klappirnar var það allt ljettara.

Trölladyngja

Gömul FERLIRsmynd tekin við Trölladyngju. Keilir fjær.

Efst er Keilir lítill um sig, og er þar lítill flatur kringlóttur melur, og varða á melnum, sem líklega hefir verið byggð þegar strandmælingarnar voru gjörðar. Móbergið í Keilir er mjög einkennilegt og óvanalega ljett; kemur það af því, að í því eru víða vikurmolar í stað basaltkenndra hraunmola, sem optast eru í móbergi.

Trölladyngja

Trölladyngja, Selsvellir nær.

Keilir stendur einstakur upp úr afarmikilli hraunbungu, sem hefst uppi við Fagradalsfjall, en hallast jafnt og þjett niður að sjó; úr Njarðvík og af Suðurnesjum sjest þessi hraunbunga glöggt, því þaðan tekur rönd hennar sig upp yfir lægri hraunin, sem utar eru á nesinu.

Af Keilir gjörði jeg ýmsar mælingar. Þaðan er bezta útsjón yfir Reykjanesskagann, Innnes og Faxaflóa; sjest þaðan allt frá Eldey og austur í Kálfstinda. þaðan sjest vel, að Strandahraunin gömlu koma úr krikunum uppi við Fagradalsfjöll, en eigi varð jeg þar var við gígi.

Víkingaskip

Í Afstapahrauni.

Sumir kalla hraunin vestur af Keilir Þráinskjölds- eða Þráinskallahraun. Nýleg hraun hafa á einum stað fallið frá Fagradalsfjöllum vestan við gömlu hraunin, er Keilir stendur á; ná þau að vestan hjer um bil saman við Eldvarpahraun, en hafa fallið niður fyrir Vogastapavatn að austan. Dálítill hver sjest í hrauninu fyrir ofan Vogastapavatn; gufustrókur stóð þar beint upp í loptið. Ágætlega sást yfir hraunin hjá Selvöllum, Trölladyngjuhraunin og hraunin frá Undirhlíðum og Mávahlíðum. Afstapahraun hefir runnið alveg niður í sjó hjá Kúagerði og armur úr því nær töluvert til vesturs; mestur hluti þessa hrauns hefir komið frá Trölladyngju, en þó virðist töluvert hafa komið úr gígunum við Máfahlíðar. Upp úr Afstapahrauni ofauverðu stendur einstakt móbergsfell, sem heitir Snókafell. Strandahraun eru þau hraun, sem liggja fyrir vestan Afstapahraun, en hinn eiginlegi Almenningur er á milli Afstapahrauns og Kapelluhrauns.

Driffell

Driffell. Trölladyngja fjær.

Almenningshraun eru afargömul og líklega komin undan Máfahlíðum, Undirhlíðum og ef til vill nokkuð úr Trölladyngju. Milli Keilis og Trölladyngju eru tvö fell, sem áður var getið um, Driffell sunnar og vestar, en „Fjallið eina« norðar.

Keilir

Keilir – Oddafell  („Fjallið eina“) nær.

„Fjallið eina“ er mjög langur, en lágur háls, rjett við Dyngju, og graslendi á milli og dálítil gömul hraun. Úr ýmsum gígum við Selvelli hefir hraun runnið norður á við milli »Fjallsins eina« og Driffells, og milli Driffells og Keilis eru þau bæði nýleg og úfin; koma þau svo saman við Afstapahraun og önnur eldri Dyngjuhraun; verður þar allt í graut, svo eigi er hægt að greina sundur, því allt er umturnað og öfugt, þar sem öll þessi hraun koma saman. Við norðurendann á Driffelli hefir hraunröndin sprungið frá, er það rann, og standa þar sljéttar hraunhellur 2—3 mannhæðir á hæð, reistar á rönd, þráðbeint upp í loptið. Sum hraunin úr gígunum við Selvelli hafa runnið suður á við niður að Selatöngum, eins og fyrr er getið.

Selsvellir

Moshóll á Selsvöllum. Driffell og Keilir fjær.

Daginn eptir að við gengum upp á Keilir var veðrið svo illt á Selvöllum, að eigi var hundi út sigandi, óg næstu nótt á eptir var svo mikið hvassviðri og húðarigning, að tjaldið ætlaði um koll, og oss kom ekki dúr á auga.

Sogaselsgígur

Sogaselsgígur – Trölladyngja fjær.

Þar við bættist, að vætan varð svo mikil alstaðar, að hvergi var hægt að fá þurran blett til að liggja á, því jörðin saug í sig vatnið eins og svampur, og urðum við allir gagndrepa, þrátt fyrir regnföt og annan umbúnað. Þegar veður er svo, er eigi hægt að rannsaka eða mæla, og sáum við oss því ekki annað fært, en að ílýja til byggða. Húðarigning var, þegar við fórum af stað, og svartaþoka í hálsinum; klöngruðumst við þó upp hálsinn, þó illt væri að koma hestunum, og komumst eptir nokkra hrakninga á stíg niður að Vigdísarvöllum; fórum við síðan yfir Sveifluháls Hettuveg að Krýsuvík. Vegur þessi er mjög brattur og liggur hátt. Þar eru enn þá efst í hálsinum ýmsar hveraleifar, sundursoðinn jarðvegur og brennisteinsblandinn á stöku stað. Dvöldum við síðan nokkra daga í Krýsuvík hjá Árna sýslumanni í góðu yfirlæti.

Hettustígur

Hettuvegur.

Áður en jeg fór af Selvöllum hafði jeg skoðað nokkuð af Trölladyngju, og nú fór jeg nokkrar ferðir þangað frá Krýsuvík, þegar veðrið var orðið bærilegt, og mældi þar og skoðaði eins nákvæmlega og jeg gat; fjallið er þess vort, því það er eitt með meiri eldfjöllum á Íslandi.

Trölladyngja

Trölladyngja nyrst á Núpshlíðarhálsi.

Núpshlíðarháls, sem opt hefir verið nefndur, er hjer um bil 2 mílur á lengd, og gengur frá suðvestri til norðausturs nærri niður að sjó upp af Selatöngum, og nær norður undir Undirhlíðar, hjer um bil jafnlangt og Sveifluháls. Háls þessi er allur úr móbergi, allhár, víðast 12—1300 fet og sumstaðar hærri; ofan á honum eru víðast 2 jafnhliða hryggir, með mörgum kömbum og nybbum, tindum og skörðum. Við háls þennan hafa orðið mikil eldsumbrot, og eru langar gígaraðir beggja megin. Nyrzti endinn á Núphlíðarhálsi klýfst í sundur í tvær álmur og er Trölladyngja á vestari álmunni.

Trölladyngja

Mávahlíðar fyrir miðju – Trölladyngja og Grænadyngja fjær. Mávahlíðahnúkur t.v.

Framhald af eystri álmunni eru Máfahlíðar, og eru þær nokkurs konar hjalli niður af Undirhlíðum, sem ganga norður og austur frá endanum á Sveifluhálsi; þó eru á Máfahlíðum dálitlir hvassir móbergstindar. Dalurinn milli Núphlíðarháls og Sveifluháls er fullur af hraunum, og hafa þau öll komið upp að vestanverðu úr gígum, sem annaðhvort eru utan í hálsinum eða rjett fyrir neðan hann; úr Sveifluhálsi hafa hvergi hraun runnið, og par eru engir gígir nema nokkrir mjög gamlir allra syðst í honum.

Mávahlíðar

Mávahlíðar.

Undan Mávahlíðum hafa mikil hraun runnið, og eru flest nýleg og mjög ill yfirferðar eða því nær ófær gangandi mönnum. Rjett fyrir neðan efsta toppinn á Mávahlíðum er stór gígur, allur sundurtættur af eldsumbrotum, og hlaðinn upp úr stórum hraunstykkjum; hallinn á þessum gíg er um 30°, en hæðin að eins 73 fet; hraunin frá Máfahlíðum hafa runnið vestur á við í mörgum breiðum kvíslum niður í Dyngjuhraunin og saman við efsta hlutann af Afstapahrauni ; í hraunum þessum eru víða stórar sprungur og djúpar; var ís í botninum á sumum. Dalurinn milli Núphlíðarháls og Sveiflubáls er mjög mjór rjett fyrir ofan Vigdísarvelli, því að þar slaga álmur úr Núphlíðarhálsi og smáfell út í dalinn; fyrir neðan þessi fell eru ýmsir gamlir smá-gígir og stdrar raðir af nýrri gígum, sem Ögmundarhraun hefir runnið úr, og skal þess síðar getið.

Eldborg

Eldborg norðan Trölladyngja. Lambafell fjær.

Trölladyngja er stór hnúður á endanum á Núphlíðarhálsi, eins og fyrr var sagt; er lægð mcð mörgum dalverpum í hálsinn fyrir sunnan Dyngjuna og má ríða þar yfir frá Djúpavatni, sem er austan við hálsinn, og yfir á vellina fyrir austan Fjallið eina.

Sogin

Sogin.

Í lægðinni eru 4—500 feta djúp gil, sem eru kölluð Sog; skiptast þau í tvö aðaldrög að ofan og mörg smærri efst, en sameinast niður að sljettunni gagnvart Fjallinu eina; í giljum þessum er lílið vatn, en þau hafa samt grafið sig svo djúpt niður í móbergið; hefir þar áður verið fjarskalegur jarðhiti, því allt er þar sundursoðið af hveragufum, og er móbergið í hlíðum þeirra orðið að eintómum leir, sem víðast er rauður, en sumstaðar eru aðrir litir, hvítir, gulir og bláir.

Trölladyngja

Gígur vestan Trölladyngju.

Enginn er þar jarðhiti nú svo nefna megi; jeg sá að eins á einum stað neðst í grófinni 3 litla reyki koma út úr berginu. Sunnan við Sogin uppi á fjallinu rjett fyrir ofan þau er leirhver utan í barði; þar bullar rauðleit leðja upp úr mörgum smáholum; hiti er þar 78° C. Í „Fjallinu eina“ beint á móti Sogum hefir og verið jarðhiti, því þar sjest upplitað og sundur soðið móberg, og gufar upp úr hrauninu fyrir neðan. Uppi á fjallinu suður af leirhverunum, er jeg síðast nefndi, er vatn í dálítilli hvylft og er kallað Grænavatn.

Trölladyngja

Trölladyngja og nágrenni.

Hin eiginlega Dyngja er fyrir norðan Sogin; eru á henni tveir hnúkar úr móbergi, hinn eystri breiður um sig og kollóttur, en hinn vestari hvass og miklu brattari; djúp rauf er á milli hnúkanna norður úr. Norður af eystri hnúknum gengur langur rani, og úr honum hafa mestu gosin orðið; utan í röndinni á rananum vestanverðum er röð af fjarskalegum gígum. Hefir raninn klofnað að endilöngu og gígirnir myndazt í sprungunni; sjest sprungan sumstaðar í móberginu og hallast hraunhrúgur gíganna upp að eystri vegg hennar. Tveir syðstu gígirnir eru langstærstir: hinn syðsti 236 fet á hæð yfir hraunið fyrir vestan, og hallast 34°, en úr því taka við margsamtvinnaðir gígir norður úr, milli 20 og 30 að tölu.

Sogagígur

Sogagígur.

Vestur af gígaröðinni er snarbratt, og hefir hraunið fallið niður í samanhangandi fossi, fyrst úr sprungunni og síðan úr gígunum, er þeir voru myndaðir. Hraunið hefir verið svo seigt og runnið svo hægt úr sumum af minni gígunum, að þeir eru eins og gleraðir pottar með sívölum sljettum röndum; sumstaðar eru eins og stampar af steyptu járni. Fyrir neðan gígaröðina að vestan er lóng sprunga og hefir líka runnið úr henni seigfljótandi hraunleðja, svo barmar hennar eru allir gleraðir af þunnum og þjettum hraunskánum. Uppi í raufinni milli eystri og vestari hnúksins eru og gígir.

Trölladyngja

Gígur suðvestan Trölladyngju.

Úr öllum þessum gígum hefir komið afarmikið hraunflóð, og eru það upptök Afstapahraunsins, sem hraunin frá Máfahlíðum hafa síðan runnið saman við. Hraunið allt vestan við Dyngjuranann hefir sokkið við gosið líkloga 100—200 fet. Beint norður af vestari Dyngjuhnúknum er stór mjög gamall rauður gígur, rúm 70 fet á hæð (halli 25°). Sunnan við þennan gíg, milli hans og vestari hnúksins, er töluverður hiti í hrauninu; koma vatnsgufur þar upp um ótal göt; er hitinn þar víðast 40—60° C, en í einu opi voru 78°. Fyrir vestan vestari hnúkinn eru sljettir vellir yfir að Fjallinu eina, og eru þeir áframhald af Selvöllum; þeim megin eru nokkrir smágígir gamlir utan í bnúknum, sem hraun hefir runnið úr, og sumstaðar hefir það spýtzt úr sprungunum án þess gígir mynduðust. Móbergið í endanum á vesturhnúknum hefir á einum stað sprungið í sundur, og stendur sú sprunga lóðrjett á eldsprungunni í eystri rananum, en ekkert hraun hefir þar upp komið.

Sogin

Sogin. Keilir fjær.

Elztu gosin, sem orðið hafa úr Trölladyngju, hafa komið sunnar, rjett við Sogin, enda er þar utan í hlíðunum sá urmull af gömlum stórum gígum, að varla verður tölu á komið. Hafa eldsprungurnar myndazt hver við hliðina á annari, og verið svo þjett, að gígirnir virðast standa í hrúgum; en þó má sjá hina vanalegu stefnu frá norðaustri til suðvesturs, þegar vel er að gáð.

Trölladyngja

Gígur suðvestan Trölladyngju.

Fyrir norðan vesturendann á Sogunum niður undir jafnsljettu er ein gígahrúgan; þar eru að minnsta kosti 30 gígir, en allir svo gamlir, grónir mosa og fallnir saman, að illt er að greina hina smærri. Einn hinn stærsti er neðst við Sogalækinn; hann er opinn til suðurs og eins og skeifa í lögun og í botni hans stór grasi vaxinn völlur. Fyrir sunnan lækinn, ofan frá Grænavatni niður á jafnsljettu og suður með fjalli, suður að hrygg, sem gengur út úr Núphlíðarhálsi vestur undinn Hverinn eina, er mesta mergð af gígum (að minnsta kosti 80—100 að tölu).

Trölladyngja

Gígur suðvestan Trölladyngju.

Þeir eru í mörgum röðum utan í hlíðinni og sumir geysistórir. Nyrzt og hæst upp í hlíðinni, við neðri rönd Grænavatns, er einn af stærstu gígunum; hann er að eins hjer um bil 40 fet hærra upp að ofan en yfirborð vatnsins, en hjer um hil 300 fet er hann á hæð að neðanverðu niður að jafnsljettu; hryggur skiptir gíg þessum í tvennt; hann er 140 fet á dýpt og 1700 fet að ummáli. Fyrir neðan hann, rjett niður á jafnsljettu, er kringlóttur „sandgígur, flatvaxinn (halli 2—3°), og lágur, en mjög stór ummáls (2400 fet).

Grænavatn

Grænavatn á Núpshlíðarhálsi.

Í kringum þessa stóru gígi og suður af þeim er mesti sægur af smærri gígum; þó þeir sjeu eigi mjög stórir í samanburði við þessa, þá eru þeir þó allmerkilegir að mörgu leyti, sumir snarbrattir að innan, aðrir eins og skálar og bollar. Syðsti gígurinn rjett við Selvelli er langstærstur; stendur önnur hlið hans utan í hlíðinni, en hin niðri á völlum; hann er aflangur og opinn í báða enda og yfir 3000 fet að ummáli; innan í honum hafa margir smærri gígir myndazt. Norður af þessum stóra gíg sitja margir smáir utan í hlíðinni, eins og vasar.

Fagradalsfjall

Fagradalsfjall. Nauthólar nær.

Þess er nokkrum sinnum getið í annálum, að Trölladyngjur hafi gosið ; en optast er gosið að eins nefnt, án þess frekari frásögn sje um það, og verður þá eigi sjeð, hvort átt er við þessar Trölladyngjur eða eldfjall með sama nafni í Ódáðahrauni: en hvergi er beinlínis sagt, að Trölladyngjur í Ódáðahrauni hafi gosið; verður eigi skorið úr þessu fyrr en þetta eldfjall er skoðað, en það hefir enginn enn þá gjört, enda er enginn hægðarleikur að komast þangað. Getið er um fimm gos í Trölladyngjum, fyrst 1151. fá segir svo: „Var eldur í Trölladyngjum, húsrið og manndauði“.

Trölladyngja

Moshóll við Selsvelli. Trölladyngja fjær.

Ár 1188 »eldsuppkoma í Trölladyngjum« (Ísl. ann. bls. 76).

Ár 1340 segir Gísli biskup Oddsson, að eldur hafi verið í Trölladyngjum, og að hraun hafi hlaupið þaðan og niður í Selvog. Að hraun hafi runnið úr Trölladyngju niður í Selvog, er ómögulegt, því tveir háir fjallgarðar eru á milli; hefir þetta verið sagt af ókunnugleika þeirra, er skrifsettu þetta; hraun þetta kom úr eldgígum í Brennisteinsfjöllum, sem fyrr er getið. Í Flateyjarannál er getið um eldgos úr Trölladyngjum 1360, »ok eyddust margir bæir í Mýrdal af öskufalli, en vikurinn rak allt vestur á Mýrar, en sá eldinn af Snjófellsnesi«.

Selvogsgata

Selvogsgata. Bláfeldur fjær. Honum hefur oftlega verið kenndur við „Trölladyngju“ í fornum sögnum.

Mikil líkindi eru til, að hjer sje átt við Trölladyngju á Reykjanesi. Veturinn 1389—90 var víða eldur uppi á Íslandi; þá brann Hekla. Síðujökull og Trölladyngja; segir Espólín (Árbækur I, bls. 110) að Trölladyngja hafi hrunnið allt suður í sjó og að Selvogi. Hjer or sama villan og við gosið 1340, nefnilega, að brunnið hafi að Selvogi. Vera má að þá hafi brunnið gígirnir, sem ná frá Trölladyngju og allt suður undir sjó vestan við Núphlíðarháls, og hraunið myndazt, er fallið hefir þar niður austan við Ísólfsskála.

Trölladyngja

Fíflvallafjall, Mávahlíðar, Grænadyngja og Trölladyngja.

Eitthvað er blandað málum með þessi Trölladyngjugos flest, og hefir það komið af ókunnugleika annálaritaranna; fjöllin hjer syðra eru öll svo eldbrunnin, og hjer eru svo margir gígir, að menn hafa eigi getað greint sundur hina einstöku gosstaði, og hafa öræfin og hraunin þó líklega verið byggðamönnum í kring lítt kunn, og svo er enn.

Eldborg

Eldborg undir Trölladyngju.

Á hraununum við Trölladyngju er auðsjeð, að sjálf Dyngjan hefir eigi gosið opt síðan land byggðist; hið eina hraun, sem nokkuð kveður að, og auðsjeð er að paðan hefir komið síðan á landnámstíð, er Afstapahraun; aptur hafa þaðan komið mörg og mikil gos áður. Í fjöllunum í kring, hæði í Mávahlíð og Núphlíðarhálsi, hefir og eflaust gosið síðan land byggðist.“

Heimild:
-Andvari, 1. tbl. 01.01.1884, Ferðir á Suðurlandi sumarið 1883, Þorvaldur Thoroddsen, bls. 47-57.
-https://www.visindavefur.is/svar.php?id=58559

Trölladyngja

Trölladyngja. Vættur fjallanna nær.

Sogin

„Reykjanesfólkvangur“ hefur verið með kennitöluna 581280-0419 og póstfang að Borgartúni 12-14, 105 Reykjavík í tæplega hálfa öld. Fulltrúar Reykjavíkur áttu á sínum tíma frumkvæði að stofnun fólkvangsins. Nú virðist ætla að verða breyting þar á.

Reykjanesfólkvangur

Reykjanesfólkvangur.

Þann 19. apríl 2024 birtist frétt í Fjarðarfréttum undir fyrirsögninni; „Sveitarfélög á leið út úr samstarfi um Reykjanesfólkvang„.
Þar segir m.a. að „Stjórn Reykjanesfólkvangs fjallaði á síðasta fundi sínum um stöðuna sem er komin upp við úrsögn Reykjavíkurborgar úr fólkvanginum. Á fundinum kom fram að einnig Reykjanesbær teldi það ekki þjóna tilgangi né hag sveitarfélagsins að vera inni og muni því segja sig úr fólkvanginum. Bæjarráð Voga hefur lagt til við bæjarstjórn að Sveitarfélagið Vogar fari að fordæmi Reykjavíkurborgar og segi sig frá þátttöku í Reykjanesfólkvangi. Þá kom fram að Seltjarnarnes hefði ekki tekið formlega ákvörðun en líklega yrði úrsögn niðurstaðan.

Reykjanesfólkvangur

Reykjanesfólkvangur – kort.

Fram kom að Reykjavík stefni á að ganga út 30. júní 2024 og greiða þá hálft gjald fyrir 2024 sem lokagreiðslu. Miðað við núverandi inneign í sjóði, og að Garðabær, Hafnarfjörður og Grindavík haldi áfram og að hin sveitarfélögin greiði að minnsta kosti hálft gjald þá kemur fram að mögulegt væri reka fólkvanginn út árið 2024 með sama hætti og fram að þessu. Einnig að svigrúm gæfist til að ákveða framtíðarfyrirkomulag.
Fyrir liggur að verkefni í Seltúni hafa vaxið mikið og tekið æ meiri tíma landvarðar og þarf að mati stjórnarinnar að taka það upp við Hafnarfjarðarbæ hvernig bregðast ætti við því. Einnig var nefnt að lista þyrfti upp verkefni landvarðar ef til þess kæmi að fela þyrfti nýjum aðila landvörsluna.“

Bláfjalla- og Reykjanesfólkvangur

Bláfjalla- og Reykjanesfólkvangur.

Eins og margir íbúar Reykjanesskagans vita er „Reykjanesfólkvangur ekki á Reykjanesi.
Fólkvangurinn er á sunnanverðum Reykjanesskaga og nær milli Vesturháls í vestri og að sýslumörkum Árnessýslu í austri og niður að sjó. Norðan megin liggja mörk hans meðfram Heiðmörk og Bláfjallafólkvangi. Að honum standa 8 sveitarfélög; Reykjavík, Seltjarnarnes, Kópavogur, Garðabær, Hafnarfjörður, Grindavík, Vogar og Reykjanesbær. Fólkvangurinn er um 300 km2 að stærð, langstærsta friðlýsta svæðið sinnar tegundar. Þar er meiri gróður en víðast hvar annars staðar á Reykjanesskaga og er landið kjörið til útivistar og náttúruskoðunar.

Krýsuvík

Krýsuvík seinni tíma – uppdráttur ÓSÁ.

Innan fólkvangsins eru þessir helstu staðir Krýsuvík, Seltún, Kleifarvatn, Grænavatn, Krýsuvíkurberg, Vesturháls (Núpshlíðarháls) og Austurháls (Sveifluháls), Búrfell og Búrfellsgjá, Stóra-Eldborg og Brennisteinsfjöll. Upp á hálsunum eru nokkur smá vötn, Grænavatn, Gestsstaðavatn, Arnarvatn og Spákonuvatn. Í Djúpavatni er silungsveiði eins og í Kleifarvatni. Möguleikar til gönguferða í fólkvanginum eru nánast ótakmarkaðar.

Stærð fólkvangsins er 29.262,7 ha., þ.e. er um 300 km2 að stærð, langstærsta friðlýsta svæðið sinnar tegundar hér á landi.

Reykjanesfólkvangur var stofnaður sem fólkvangur með auglýsingu í Stj.tíð. B, nr. 520/1975 sbr. „Auglýsingu um fólkvang á Reykjanesi„:
Að tillögu borgarstjórnar Reykjavíkur, bæjarstjórna Kópavogs, Seltjarnarness, Hafnarfjarðar, Keflavíkur og Grindavíkur, hreppsnefnda Garðahrepps, Njarðvíkurhrepps og Selvogshrepps hefur [Umhverfisstofnun] ákveðið að stofna fólkvang á Reykjanesskaga skv. 26. gr. laga nr. 47/1971.

Reykjanesfólkvangur

Reykjanesfólkvangur – friðlýsing.

Takmörk svæðisins eru sem hér segir:
Lína dregin frá punkti í Heiðmerkurgirðingu undir Vífilsstaðahlíð (X-hnit 689007.0 m.) í punkt á mörkum Garðahrepps og Hafnarfjarðar við Kershelli. Þaðan eftir þeim mörkun inn fyrir sumarbústaðahverfi í Sléttuhlíð á hæð er Klifsholt heitir, þaðan beint í Steinshús sem er glöggt og gamalt eyktarmark. Frá Steinshúsi liggur línan beint í norðurhorn Skógræktargirðingarinnar undir Undirhlíðum. Síðan eftir norðvesturhlið girðingarinnar að suðurhorni hennar. Þaðan beint í punkt á mörkum Hafnarfjarðar- og Grindavíkurbæjar undir Markargili með X-hnit 692297.0 m. Síðan eftir mörkum í Markhelluhól.

Markhella

Markhella.

Frá Markhelluhól stefna mörkin til suðurs eftir mörkum Vatnsleysustrandarhrepps eins og þau eru sýnd á korti gefnu út af U.S. Army Corps of Engineers og Landmælingum Íslands (mælikv. 1:50000), í punkt á þeim mörkum sem er suður af Höskuldarvöllum og austur af Oddafelli, X-hnit 701782.0 m og Y-hnit 388243.0 m. Þaðan beina línu undir Núpshlíðarháls í punkt vestan við Núpshlíð, X-hnit 707653.0m, Y-hnit 379312.0m. Frá þeim punkti beint í Dágon sem er klettur á Seltöngum við sjó fram vestan við Krýsuvíkurberg. Að austanverðu fylgja mörkin sýslumörkum úr Seljabót um Sýslustein og þangað norður sem markalína fólkvangsins í Bláfjöllum sker sýslumörk, þaðan norðvestur eftir mörkum þess fólkvangs í horn Heiðmerkurgirðingar við Kolhól og síðan réttsælis eftir Heiðmerkurgirðingunni að upphafspunkti lýsingar þessarar.

Hraunhóll

Hraunhóll – varða á mörkum Reykjanesfólksvangs.

Um fólkvanginn gilda eftirtaldar reglur:
1. Fótgangandi fólki er heimil för um allt svæðið og má ekki hindra slíka för með girðingu nema stigar til yfirferðar séu með hæfilegu millibili. Reiðgötum má ekki loka með girðingum. Þessi ákvæði eiga þó ekki við girðingar um vatnsból og ræktað land enda er umferð óheimil innan slíkra girðinga. Á skógræktargirðingu skulu einungis vera stigar.

Seltún

Seltún – orkuvinnsla.

2. Allt jarðrask er bannað innan fólkvangsins nema leyfi [Umhverfisstofnunar] komi til. Undanskilin er hagnýting jarðhita, t.d. í Krýsuvík, og mannvirkjagerð í því sambandi, sbr. þó 29. gr. laga nr. 47/1971. Jafnframt verði ekki haggað þar eðlilegri nýtingu til búrekstrar, réttur til beitar er ekki skertur innan fólkvangsins og áskilinn er í Krýsuvík réttur til starfsemi í almannaþágu (svo sem heilsuhæli, skólar, gistihús o.þ.u.l.).
Skipulegur námurekstur, sem rekinn er innan fólkvangsins þegar auglýsing þessi verður birt í Stjórnartíðindum, má þó haldast, enda sé umgengni í samræmi við 18. gr. laga nr. 47/197.
Tekið er fram af hálfu sveitarfélaganna allra að með stofnun fólkvangsins telja þau ekki á neinn hátt raskað eignarrétti að landi því sem fólkvangurinn tekur til.
Vafi er talinn leika á hver séu mörk Grindavíkurkaupstaðar og Vatnsleysustrandarhrepps. Þegar úr þessum vafa hefur verið skorið með samkomulagi eða dómi verða mörk fólkvangsins færð til í samræmi við það.

Trölladyngja

Trölladyngja á Reykjanesskaga.

Samvinnunefnd sveitarfélaganna allra fer með stjórn fólkvangsins og er hún skipuð einum fullrúa frá hverjum aðila.
Ráðuneytið er samþykkt stofnun fólkvangsins og tekur stofnun hans gildi við birtingu þessarar auglýsingar í Stjórnartíðindum. – Menntamálaráðuneytið, 1. desember 1975 – Vilhjálmur Hjálmarsson.

Árið 2011 var auglýst breyting á framangreindri auglýsingu:

Búrfell

Búrfell í Garðabæ.

Á eftir 1. mgr. auglýsingarinnar kemur ný málsgrein sem orðist svo: „Umhverfisráðherra hefur ennfremur að tillögu borgarstjórnar Reykjavíkur, bæjarstjórna Kópavogs, Hafnarfjarðar, Garðabæjar, Seltjarnarness, Reykjanesbæjar og Grindavíkur ákveðið að Sveitarfélagið Vogar verði einnig aðili að stofnun og rekstri fólkvangs á Reykjanesi með þeim skuldbindingum sem í því felast, þ. á m. hafi fulltrúa í samvinnunefnd sveitarfélaganna um stjórn fólkvangsins“. – Umhverfisráðuneytinu, 6. desember 2011 – Svandís Svavarsdóttir.

Sog

Í Sogum.

Reykjanesfólkvangur er:
• Fólkvangur sem samkvæmt samkvæmt náttúruverndarlögum er friðlýst sem útivistarsvæði í samvinnu við hlutaðeigandi sveitarfélög. Fólkvangar eru stofnaðir að frumkvæði sveitarfélaga og sjá þau einnig um reksturinn. Tilgangurinn með fólkvöngum er að tryggja almenningi aðgang að svæðum til þess að njóta útivistar.“
• Var stofnaður 1975 – Með undanþágu vegna jarðvarmanýtingar.

Spákonuvatn

Spákonuvatn – Keilir fjær.

• Fólkvangur í lögsögu Garðabæjar Grindavíkur og Hafnarfjarðar. Stærsti hluti fólkvangsins er í umdæmi Grindavíkur.
• Samstarf sveitarfélaga, sem nú standa að rekstri hans, eru Reykjavík, Seltjarnarnes, Kópavogur, Garðabær, Hafnarfjörður, Grindavík, Vogar og Reykjanesbær.

Arnarvatn

Arnarvatn á Sveifluhálsi.

Í fundargerð stjórnar Reykjanesfólksvangs þann 3. feb. 2021 segir:
Fundurinn var fjarfundur kl. 16.00
Mættir: Líf Magneudóttir, formaður, Andri Steinn Hilmarsson, Þorvaldur Örn Árnason, Þórður Ingi Bjarnason, Jóna Sæmundsdóttir, Sigurgestur Guðlaugsson, Guðmundur Grétar Karlsson og
Steinunn Árnadóttir.
Einnig sátu fundinn Óskar Sævarsson, René Biazone og Þórólfur Jónsson sem ritaði fundargerð.

Kleifarvatn

Kleifarvatn.

„Þetta gerðist:
1. Starfið í fólkvanginum 2020
Rætt um það helsta í starfsemi fólkvangsins á síðasta ári (ÓS). Mikið af Íslendingum á ferðinni. Mikið álag í vor sem var ekki gott fyrir svæðið. Rúturnar vantaði en mikil umferð bílaleigubíla í sumar. Nýtt salernishús sett upp í vor. Vinnuhópur kom í 2 vikur á vegum Umhverfisstofnunar. Unnið var við Eldborg í samvinnu við skipulagssvið Grindavíkur, loka slóða og afmarka bílastæði.

Krýsuvíkurberg

Krýsuvíkurberg – Eystri-Lækur fellur fram af berginu, nafnlaus.

Sinna þurfti kvikmyndaverkefni. Í jarðskjálftanum í okt. urðu skemmdir á Djúpavatnsleið. Einnig hrundi fylla úr Krýsuvíkurbjargi og komu sprungur. Sett var bráðabirgðalokun. Bláfjallavegi verið lokað en samt hægt að komast fram hjá. Þarf að klára frágang á bílastæði. Dreift var moltuefni í fólkvanginum sem var plastmengað á vegum Terra í samvinnu við Gróður fyrir fólk. Fara þarf betur yfir.
Skýrsla landvarðar verður lokið fyrir næsta fund.
Fundi slitið 17:20.“

Valahnúkar

Valahnúkar og Helgafell.

Í fundargerð stjórnarinnar 24. apríl 2023 segir:
Mættir: Kristinn Jón Ólafsson, Stella Stefánsdóttir, Ásrún Kristinsdóttir (fyrir Sigurveigu M. Önundardóttur), Sverrir B. Magnússon, Ingimar Ingimarsson.
Einnig sátu fundinn René Biasone UST, Óskar Sævarsson landvörður og Þórólfur Jónsson sem ritaði fundargerð.

Sveifluháls

Sveifluháls.

„Þetta gerðist:
1. Yfirferð um landvörslu
• Óskar Sævarsson kom á fundinn og kynnti helstu verkefni landvarðar.
• Samningur hefur verið um landvörslu frá 15. apríl til 1. nóv. ár hvert.
• Mikil aukning varð á fjölda ferðamanna 2019 og er ekkert lát á því. Það sést skýrt í talningum Ferðamálastofu sem er með teljara í Seltúni.

Helgadalur

Helgadalur – Rauðshellir.

• Undanfarin ár hefur landvörður þurft að sinna mörgum verkefnum utan hefðbundins tímabils, t.d. kvikmyndaverkefni, viðvarandi ferðamannastraumur, eldgos o.fl., og því hefur verið greidd viðbótargreiðsla.

Seltún

Seltún.

• Landvörður er tilbúinn til að sinna verkefnum áfram á þessu ári.
• Stjórnin samþykkti að gera samning við landvörð á sömu nótum og verið hefur að teknu tilliti til verðlagshækkunar.

2. Aðkoma Umhverfisstofnunar (UST)
• René Biasone fór yfir lagalega umgjörð Reykjanesfólkvangs, aðkomu UST sem m.a. gerir ástandsskoðun á friðlýstum svæðum og tekur saman í skýrslu árlega. Þar kemur m.a. fram slæmt ástand á Djúpavatnsleið.

Stóra-Eldborg

Stóra-Eldborg og Geitahlíð.

• Samkvæmt náttúruverndarlögum gerir UST stjórnunar- og verndaráætlanir fyrir friðlýst svæði, en ekki hefur farið af stað vinna fyrir Reykjanesfólkvang. Stjórnin hefur áður skorað á UST að hefja slíka vinnu og var samþykkt að senda fyrirspurn til UST um
hvenær hægt verði að hefja vinnu við og ljúka stjórnunar- og verndaráætlun fyrir fólkvanginn.

3. Áform Reykjavíkur
• Kjörnir fulltrúar Reykjavíkur hafa tekið ákvörðun um að skoða grundvöll þess að Reykjavík dragi sig út úr rekstri Reykjanesfólkvangs frá árinu 2024.

Vetrarblóm

Vetrarblóm við Kleifarvatn.

• Rætt var um hvort að fólkvangurinn eða hlutar hans ættu að falla í annan friðlýsingarflokk, jafnvel að verða þjóðgarður eða eitthvað annað fyrirkomulag. Rifjað var upp samtal við Reykjanes Geopark sem laut að því að skoða samstarf á sínum tíma.
• Ákveðið var að stjórnarmenn opnuðu samtal hver í sínu sveitarfélagi um ofangreint og kalla eftir kynningu á Reykjanes Geopark.

Fundi slitið 17:30. Stefnt á að næsti fundur yrði í Grindavík seinni hluta maí.“

Í „Lögum um náttúruvernd“ segir m.a. um landverði: „Á náttúruverndarsvæðum starfa landverðir og aðrir starfsmenn. Hlutverk landvarða er m.a. að sjá um eftirlit og fræðslu.
Umhverfisráðherra setur í reglugerð, að fengnum tillögum Náttúruverndar ríkisins, nánari ákvæði um menntun og starfsskyldur þeirra sem starfa á náttúruverndarsvæðum.“

Selatangar

Gengið um Selatanga á afmælishátíð Grindavíkur 2009.

Um Samvinnunefnd um rekstur fólkvangs segir í sömu lögum: „Sveitarfélög, sem standa að rekstri fólkvangs, skulu stofna með sér samvinnunefnd sem starfar í samráði við Náttúruvernd ríkisins. Í samvinnusamningi skal kveðið á um fjölda nefndarmanna og starfshætti nefndarinnar. Ef ekki er öðruvísi ákveðið ræður afl atkvæða. Þegar um er að ræða atriði sem hafa sérstakan kostnað í för með sér fer þó um atkvæðisrétt eftir greiðsluhlutföllum aðila, sbr. 56. gr.“

Húshólmi

Húshólmi – skáli.

Líklega færi vel á því að þau sveitarfélög, sem eftir verða, þ.e. Garðabær, Hafnarfjörður og Grindavík er munu annast rekstur „Reykjanesskagafólkvangs“ skipi nýja samvinnunefnd, skipaða einum fulltrúa frá hverju sveitarfélagi, nefndarmenn verði ólaunaðir en hafi bæði áhuga og sérþekkingu á fólkvanginum sem slíkum. Fjárveitingum og styrkjum verði varið til landvörslu, einstakra uppbyggjandi verkefna og kynningar á gildi svæðisins.

Sjá meira um Reykjanesfólkvang HÉR, HÉR, HÉR og HÉR.

Kringlóttagjá

Kringlóttagjá.

Kolhólasel

Gengið var suður Rauðhólsselsstíg frá Vatnaborginni norðvestan við Gráhellu vestan Afstapahrauns. Þegar komið var fyrir Hraunsnefið var stefnan tekin til suðsuðvesturs, í áttina að Kolhólaseli.

Keilir

Keilir.

Gamalli götu var fylgt austan Einiberjahóls á Efri-Heiði. Eftir u.þ.b. klukkustundar gang var komið að Kolhólagjá. Skammt sunnan (ofan) við gjána eru hólar með grasi grónum hliðum. Norðaustan undir þeim næst efsta í suðvestri er Kolhólaselið. Tóftirnar hafa verið kunnar, en ekki var vitað um sel eða örnefni því tengdu á þessum slóðum. Landið er í Vatnsleysulandi svo líklegt má telja að selstaðan hafi tilheyrt henni. Kolhóll er allnokkru ofar og þá Hrosshóll áður en komið er upp að Keili.

Vatnaborg

Vatnaborg.

Vatnaborgin er skammt fyrir ofan Reykjanesbrautina. Hún er 10-12 m í þvermál og innan í grjóthringnum eru hleðslur. Líklega hefur verið stekkur þarna eftir að borgin sjálf lagðist af enda geta heimildir um Vatnsbergsrétt og Vatnsbergsstekk og einnig Vatnsberg og Vatnaberg. Líklega er örnefnið Vatnaborg það eina rétta yfir hólinn og nafnið jafnframt tengt vatnsstæðinu, sem þarna er skammt austar.

Kolhólasel

Kolhólasel.

Einiberjahóll er hornmark jarðanna Kálfatjarnar, Flekkuvíkur og Vatnsleysu. Litlu ofan við hólinn er Grindavíkurgjáin. Ofan hennar tekur við mosalægð en síðan hækkar landið í átt til Keilis. Á þessu svæði er Vatnsleysuheiðin kölluð Efri-Heiði. Þegar komið var yfir Kolhólagjá taka við nokkuð áberandi klapparásar með djúpum grasbollum milli þeirra. Sunnan við ásana er kúptur og hár hóll og norðaustan undir honum er fyrrnefndar seltóftir, í stórri gróinni lægð. Reyndar getur verið nokkrum erfiðleikum háð að finna minjarnar.

Kolhólastígur

Kolhólastígur.

Fimm greinilegar, þrískiptar og afmarkaðar tóftir eru undir brekkunni. Sagnir munu vera til um kolagrafir þarna, en hólarnir á þessu svæði munu heita Kolhólar og grasrindirnar Kolhólalágar. Ein tóftin, tvískipt, er austan undir brekkunni. Önnur tví eða þrískipt tóft er norðan undir henni og austan hennar er greinilegur stekkur. Húsaskipan eru dæmigerð fyrir selshús á Reykjanesskaganum. Í langflestum seljanna 140, sem finna má á skaganum, eru þrjár vistarverur; búr og svefnaðstaða annars vegar og eldhús hins vegar. Sameiginlegur inngangur er í hinar fyrrnefndu og sérinngangur í eldhúsið. Hefur það verið gert af eðlilegum ástæðum.

Kolholasel-21

Kolhólasel – uppdráttur ÓSÁ.

Ef ekki hefur verið kolasel þarna má vel ímynda sér selráðskonuna, sem hafði öll völd í selinu yfir sumarið, hagræða sér í vistarverunni að loknu dagsverki. Hún hefur tekið daginn snemma, smalinn verið kominn með ærnar úr nátthaganum og hún fært hverja á fætur aðra í kvína til mjalta. Ef einhverja vantaði að morgni var alveg eins líklegt að hann fengi að „eta skömm sína“, þ.e. matarskammtur hans var skorinn við trog þann daginn. Það hefur verið erfitt að vera smali í seli, en samt minnast flestir, sem það voru, þeirra daga með söknuði. Smalinn hefur verið látinn aðstoða við að færa frá og gæta þess vandlega að ekki færi dropi til spillis. Að mjöltum loknum hefur selráðskonan hafist handa við mjólkurvinnsluna og látið smalann hamast við strokkinn. Hleypa hefur þurft undan, skekja smérskökuna, grysja skyrið og búa um allt vel og vandlega í búrinu svo hægt hafi verið að afhenda húsbóndanum afurðirnar skammlaust er hann kæmi í sína reglulegu vitjun til mjólkumatsins og afhenti fiskskammtinn til selsins. Áður en hann kvaddi kyssti hann selráðskonuna að skilnaði, en stundum var sagt að „útilegumenn“ eða jafnvel „huldumenn“ hefðu komist í þær bæru þær ávöxt eftir selsveruna.

Kolhólasel

Tóft í Kolhólaseli.

Svæðið í kringum Kolhólaselið var gaumgæft og kannað hvort þar kynnu að leynast fleiri minjar, en svo reyndist ekki vera. Fallin varða er á hól norðvestan við selið, en selsstígurinn liggur austan við hana. Erfitt var að finna hugsanlegt vatnsstæði nálægt selinu, en tveir staðir komu til greina, þ.e. klapparholtin umhverfis eða sjálf Kolhólagjáin.
Drjúgan veg frá Kolhólum, eða um miðja vegu að Keili, er Stóri-Kolhóll eða Kolhóll, eins og hann er nefndur í landamerkjalýsingum Kálfatjarnar og Vatnsleysu og liggur Þórustaðastígurinn fast við hann að vestanverðu. Ofan í miðjan hólinn er djúp og mikil skál og dregur hóllinn líklega nafn sitt af því að í skálinni hafi fyrrum verið gert til kola. Fyrir ofan Kolhól er svo Keilisvarðan, en hún stendur við Þórustaðastíginn.

Strandarheiði

Strandarheiði – vörðukort (ÁH).

Áberandi gata liggur upp og niður frá Selinu. Henni var fylgt til norðurs. Liggur hún niður heiðina nokkuð austan við Þórustaðastíg, en nær samhliða. Þegar komið var yfir Grindavíkurgjá beygði gatan meir til austurs, með stefnu á Djúpadal við Brennihóla. Á sléttlendinu sunnan við Djúpadal virðast hafa verið vatnsstæði, en þaðan er gatan óljósari til norðurs.
Þegar komið var norður fyri Brennihóla mátti sjá hleðslur á einum klapparhólnum. Ein þeirra var greinilega byrgi refskyttu. Frá því var auðvelt að fylgjast með tófuferðum ofar í heiðinni, ekki síst við möguleg vatnsstæði við selsstíginn, ofan við Djúpudali.
Þegar FERLIR fór upp í Kolhólasel frá Vatnsleysuströnd árið 2012, eftir níu ára fjarveru, var m.a. ætlunin að skoða hvort þar kynni að vera eitthvað „nýtt“ að finna, þ.e. eitthvað sem hafði yfirsést í fyrri ferð. Enda kom í ljós að svo var.

Kolhólasel

Í Kohólaseli.

Tveir mosavaxnir stekkir og garður komu í ljós norðan við tóftirnar, sem fyrir voru. Þetta segir lærðum og reyndum einungis eitt; það er aldrei of lengi leitað á svæðum sem þarf að fornleifaskrá. Sá tími, sem nú er veittur til slíkra verka, er margsannanlega allt of skammur og því hætta á að merkilegar minjar glatist beinlínis vegna þessa.
Að þessu sinni var haldið áfram upp í Kolhól og han skoðaður nánar. Greinilega er að þarna er um örvarp að ræða en ekki fornleif. Örvarp er svo nefnt þegar náttúrulegum aðstæðum er gefið örnefni er ætla megi að kynni að eiga uppruna sinn í fornleifastað. Hér er um samlíkingu að ræða, líkt og Brunnhóll neðan við Lónakotssel. Þar er um að ræða stórt jarðfall er líkist stækkaðri mynd af brunni.
Gangan tók 2 klst og 2 mín. Frábært veður. (Sjá meira undir Kolhólaselsstígur).

Heimild m.a.:
Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi – Sesselja G. Guðmundsdóttir- 1995.

Kolhólasel

Kolhólaselið.

Trölladyngja

       Árni Óla skrifar um „Trölladyngju og nágrenni“ í í Lesbók Morgunblaðsins árið 1944:

Trölladyngja
„Þar sem jeg ólst upp hefði það þótt meira en lítil skömm, og talið bera vott um sjerstaka fáfræði og heimsku, ef einhver kunni ekki nöfn á öllum þeim fjöllum og kennileitum, sem blöstu við frá bæ hans. Frá Reykjavík blasir við víður, margbreytilegur og fagur fjallahringur. En hversu margir eru þeir Reykvíkingar sem kunna skil á nöfnum allra þeirri fjalla er hjeðan sjást“.

Trölladyngja

Trölladyngja.

-Jeg býst við því að þeir sjeu sorglega fáir. Og sumir þekkja víst ekki með nafni önnur fjöll en Esjuna, og máske Keili, vegna þess hvað hann blasir vel við og menn komast trauðlega hjá því að veita honum athygli. Hjer skal nú ekki reynt að bæta úr þessu, en geta má hins, að fyrir nokkrum árum ljet Ferðafjelag Íslands setja upp útsýnisskjöld á Valhúsahæð, og eru þar áletraðar upplýsingar um örnefni á flestum þeim stöðum, er þaðan sjást. Undanfarin ár hefir ekki verið greiður aðgangur að þessum útsýnisskildi, en nú fer það að lagast, og er þess þá að vænta, að margir leggi þangað leið sína, til þess að afla sjer þeirrar fræðslu, sem þeir ef til vill fyrirverða sig fyrir að leita hjá öðrum, vegna þess að enn eimir eftir af þeim hugsunarhætti, að vanvirða sje að vera svo fáfróður að þekkja ekki næsta umhverfi.

Trölladyngjusvæðið

Trölladyngjusvæðið – loftmynd.

Ef maður er staddur eitthvert góðviðriskvöld á Skólavörðuhæð, Rauðarárholti eða Öskjuhlíð, og horfir til suðvesturs og vesturs, blasa þar við mörg lág fjöll. Mest ber á Keili, en vestur undan honum sjer á Keilisbræður og Fagradalsfjall. Sunnan við Keili sjest fjallaþyrping og undir þeim margir reykir af jarðhita. Þarna er Trölladyngja og Mávahlíðar og bera saman, þótt nokkurt bil sje á milli þeirra. Þar fyrir sunnan sjest Sveifluháls, sem nær frá Vatnsskarði suður með öllu Kleifarvatni og  lengra vestur.
Rjett fyrir vestan Trölladyngju er annað fjall, sem nefnist Grænadyngja. Það sjest ekki héðan. Á milli Dyngjanna er skarð, sem nefnist Sog. Vestur af Grænudyngju er Núpshlíðarháls og er hann jafn langur Sveifluhálsi og honum áþekkur um hæð. En ofan á honum eru tveir hryggir með mörgum tindum og skörðum.

Trölladyngja

Trölladyngja nyrst á Núpshlíðarhálsi.

Við háls þennan hafa orðið mikil eldsumbrot og eru þar langar gígaraðir beggja vegna. Yfirleitt er allur þessi fjallaklasi gamlar og stórfenglegar eldstöðvar. Austan undir rana, sem gengur suður úr Trölladyngju eru stórir goskatlar, 20—30 talsins. —
Skammt þar frá er sjerstakur eldgígur einn, rauðleitur og brattur, um 70 fet á hæð. Rjett við Sog er ótölulegur fjöldi eldgíga og eru sumir stórir, allt að 600 metrum ummáls eða meira. Í Mávahlíðum eru líka sundur tættir gígar. Úr öllum þessum gosstöðvum hafa komið ægileg hraun, sem runnið hafa ýmist norðaustur eða suðvestur, norður að sjó milli Vatnsleysu og Hafnarfjarðar, og suður að sjó milli Selatanga og Ísólfsskála. Er víða hraun ofan á hrauni. Yngstu hraunin eru ekki gömul, því að þarna hefir gosið nokkrum sinnum síðan á landnámsöld.

Höskuldarvellir


Höskuldarvellir.

Eru til nokkrar heimildir í annálum um gosin. Árið 1151 „var eldur í Trölladyngju, húsrið og manndauði“. Annað gos var 1188. Þriðja gosið 1360 og „rak þá vikurinn allt vestur á Mýrar, en sá eldinn af Snæfellsnesi“. Á árunum 1389—’90 voru ógurleg eldgos hjer á landi. Þá brann Hekla, Síðujökull, Trölladyngja- og fleiri fjöll; segir Espholin að Trölladyngja hafi brunnið suður í sjó og að Selvogi, en það er sýnilega rangt, því að hraun frá Trölladyngju hafa ekki komist að Selvogi, þar sem hár fjallgarður er á milli. Seinustu sagnir um gos í Trölladyngju eru frá árunum 1510.

Að morgni sunnudagsins 16. júlí lagði á stað frá Reykjavík hópur manna, sem ætlaði að ganga að Keili og Trölladyngju. Var farið hjeðan í bíl vestur á Vatnsleysuströnd, vestur undir Stóru-Vatnsleysu. Þaðan var svo gangan hafin beina stefnu á Keili, en þangað er 10—12 km. leið yfir Strandarheiði.

Trölladyngja

Trölladyngja – herforingjaráðskort.

Þegar litið er á uppdrátt herforingjaráðsins af þessum slóðum, verður ekki betur sjeð, en hjer sje allt gróðurlaust, hraun og sandar yfir allt og varla neins staðar grænan blett að finna.
En þessu er ekki þann veg farið.  Strandarheiðin er talsvert gróin, og hvergi nærri jafn ömurleg eins og hún sýnist vera á kortinu. Þar er alls konar lyng, fjalldrapi, vallgresi, heiðarblóm margskonar. Þar eru grænar lautir, og í sprungum er víða fjölbreyttur gróður. Eru þarna góðir sauðfjárhagar. Leiðin suður að Keili er öll á fótinn, jafnt og þjett. Hvergi eru brekkur, heldur jafn aflíðandi, og verður maður þess varla var hvað landið hækkar, en þó er hæð þess orðin um 170 metrar þegar suður og vestur undir Keili kemur.

Sogin


FERLIRsfélagi á hverasvæðinu neðan við Sogin.

Ekki er dauflegt þarna í heiðinni, síður en svo. Þar ómar allt um kring söngur heiðarfugla, sem hafa valið sjer bústaði í móunum. Þar eru lóur og spóar, steindeplar og sólskríkjur. Þar eru líka kjóar, og mávar og hrafnar eru þar á flökti að leita sjer ætis. Við gengum fram á lóuhreiður með 3 eggjum. Hún hefir orðið seint fyrir.
Skammt þar frá flögraði rjúpa og barmaði sjer, hefir annað hvort átt þar helunguð egg í hreiðri eða litla unga. Þetta er ekki sagt til þess að gera heiðina að einhverjum dásemdastað. En það er sagt vegna þess, að manni hlýnar ósjálfrátt um hjartarætur þegar maður hittir gróið land, þar sem maður hjelt áður að væri eyðimörk, engum byggileg nema refum og minkum. Og vel á minnst, minkur var þarna uppi á háheiði, og smaug niður í holu þegar að honum var komið. Sennilega hefir hann lifað þarna í vor á eggjum og fugli og máske líka gert sjer dagamun með því að ráðast á unglömb.

Selsvellir

Selin á Selsvöllum.

Austan að Strandarheiði heitir Afstapahraun. Það hefir komið upp í eldgígum fram hjá Núpshlíðarhálsi. Rennur það fyrst í mjóum straum milli Keilis og Oddafells, sem er langur og hár melur (220 m.) vestan við Dyngjurnar. En þegar kemur norður með Oddafelli, breiðir það úr sjer og norðan við melinn sveigir það austur og fellur saman við Dyngjuhraun, og ná þau þaðan fram til sjávar.

Keilir

Keilir – Oddafell nær.

Það er gaman að ganga með hraungarðinum að vestan. Eru þar víða grösugar dældir og bollar, en hraungarðurinn úfinn og grettur á aðra hönd, með alls konar furðumyndum, sprungum, gjótum, hellum og ranghölum. Mikill grámosi er í hrauninu, en gróður enginn. Er það mjög illt yfirferðar, og geta menn misstigið sig þar illilega og lent í huldum sprungum og gjótum. Við fundum veg yfir það, ef veg skyldi kalla, og komumst yfir á rindann, sem gengur norður úr Oddafelli. Blasti þá við einkennileg sjón í þessari auðn, víðir, grænir og eggsljettir vellir. sem náðu utan úr kverkinni milli Afstapahrauns og Dyngjuhrauns, up p að Trölladyngju og suður milli hennar og Oddafells. Þarna var fjöldi hesta og sauðfjár á beit. Var því einna líkast sem þarna hefði opnast fyrir okkur hinn fagri og gróðursæli Árdalur, sem Jón lærði kvað um. Þessi grassljetta heitir Höskuldarvellir, umgirt hrauni, fjöllum, eldgígum og gufuhverum.


Syðst í skarðinu milli Trölladyngju og Oddafells sáum við reyki mikla og stefndum þangað. Þar hefir dálítil hrauntunga runnið fram niður að völlunum og rýkur víða upp úr hrauninu. Hitinn er á allstóru svæði og þótt ekki sjáist rjúka er mosinn í hrauninu alls staðar volgur. Í miðri hrauntungunni er kringlótt jarðfall og þar er hitinn einna mestur. Eru tveir leirhverir í botni jarðfallsins, annar með stálgráum leir, en hinn með hvítum. En út úr brúnum jarðfallsins koma gufur og virðist hitinn þar meiri heldur en í sjálfum gígnum. Í gegn um gufuhvininn heyrast dynkir nokkrir með stuttu millibili. Stafa þeir sjálfsagt frá einhverjum hver sem er inni í hrauninu og sjest ekki.

Trölladyngja

Trölladyngja.

Sje haldið vestur með fjallinu, slitnar hraunið og koma þar aftur grænir vellir, þó ekki jafn víðlendir og Höskuldarvellir. Þeir heita Seljavellir og hefir þar verið haft í seli til forna. Annað sel hefir verið við rætur Trölladyngju. Hjet það, Sogasel og dró nafn sitt af grafningnum þar fyrir vestan. Ekki sá jeg tættur þess, en þær mun þó unnt að finna.
Vestur af Seljavöllum tekur enn við hraun, og úti í því er Hverinn eini. Er það sjóðandi leirhver og leggur þaðan megna brennisteinsfýlu.

Hverinn eini

Hverinn eini.

Eggert Ólafsson segir um þennan hver, að hann hafi allt af verið, að flytja sig, en nú mun hann lengi hafa verið á sama stað. Er hann í jarðfalli og eru í botni þess hraunbjörg, sundursoðin af hveragufum, en á milli þeirra er bláleit leðja sem sýður og bullar og hvín. Rjett fyrir norðan hverinn er hverahrúðursbreiða, og mundi þá hverinn hafa verið þar áður. Um þennan hver var því trúað áður að þar hefðist við furðufuglar, sem kallaðir voru hverafuglar. Er þeim svo lýst, að þeir hafi verið kolsvartir, fiðurlausir og með litla vængi. Hverafugla er víða getið, en hvergi í leirhver, nema á þessum eina stað.

Sogin

Sogin.

Á Trölladyngju eru tveir háir hnúkar úr móbergi og eru þeir mjög ólíkir, því að sá vestari er brattur og hvass, en hinn breiður og kollóttur. Eru þeir alla vega sorfnir og nagaðir af frosti, vatni og vindi, stallalausir og eins og þeir hafi verið steyptir upphaflega. Er furða hvað gróður hefir náð að festa þar rætur, því að grænar tungur teygja sig upp eftir þeim. Eins er nokkur gróður fyrir vestan þá og upp með Soginu. Þar rekst maður á rennandi vatn, en það er sjaldgæft á Reykjanesskaga.
Dálítill lækur kemur hoppandi niður úr Soginu og á hann upptök sín í vatni, sem er á bak við Grænudyngju og heitir Djúpavatn. Þar er og tjörn dálítið norðar. Er þessa getið hjer vegna þess hvað það er sjaldgæft að hitta vatn á þessum útskaga. Lækurinn er eflaust teljandi vatnsfall í vorleysingum. Má sjá það á því, að hann hefir rutt sjer farveg norður endilanga Höskuldarvöllu, en nú var svo lítið í honum, að hann komst aðeins niður úr hlíðinni og hvarf þar í hraunið. Í honum er tært og svalandi vatn.

Sogasel

Sogasel.

Norðan undir Trölladyngju koma heitar gufur upp úr hrauninu á nokkrum stöðum, og þar fyrir norðan, austast á völlunum, eru nokkrir leirhverir. Hjer er því um allstórt jarðhitasvæði að ræða, en engin not er hægt að hafa af þeim hita. Það er tæplega að ferðamenn geti soðið mat sinn þarna eins og er. En sjálfsagt væri hægt að handsama þarna hitaorku, ef borað væri niður úr hrauninu. Þó mun það eiga langt í land vegna þess hvað staðurinn er afskekktur.

Sogasel

Sogasel undir Trölladyngju – fornleifar.

En hitt þykir mjer líklegt, að fólk muni fara að venja komur sínar á þessar slóðir, þegar fram líða stundir, og dvelja þar dögum saman í tjöldum. Hefir staðurinn öll skilyrði til þess að vera eftirsóttur af dvalargestum. Þarna er stórbrotið landslag og fjölbreytni í náttúru óvenju mikil, hrikaleg hraun og klungur, fögur og há fjöll með víðu útsýni. grænar brekkur og grónir vellir, lækur í gili og mjúkur mosi til að hafa í hvílubeði í tjaldi. Og svo eru þarna stórkostlegar gosstöðvar, sem nábúum er varla vansalaust að hafa ekki kynst, svo mjög sem þær hafa sett svip á Reykjanesskaga, og eru auk þess eitt hið mesta náttúruundur í nágrenni Reykjavíkur.
Jeg fullyrði, að það er meira gaman að því að skoða Trölladyngju, fjöllin þar og umhverfið, heldur en sjálft Reykjanes.“

Heimild:
-Lesbók Morgunblaðsins – 29. tölublað (20.08.1944), Árni Óla; Trölladyngja, bls. 369-373.

Trölladyngja

Trölladyngja og Sogaselsgígur nær.

Flekkuvíkursel

Ætlunin var að skoða dæmigert sel á Reykjanesskaganum, eitt af u.þ.b. 400 slíkum, sem FERLIR hefur skoðað hingað til í hinu upprunalega landnámi Ingólfs fyrrum. 

Tvöfaldur stekkur í Flekkuvíkurseli

Flekkuvíkurselið hefur að geyma húsaleifar typískrar húsaskipan seinni tíma selja á Skaganum sem og öll tilheyrandi mannvirki; stekk, kví, vatnsstæði, selstíg og selvörðu auk eldri selminja, sumar hverjar m.a.s. torráðnar. Auk þess eru í selstöðunni leifar eldri selja. Þá er staðsetningin t.a.m. dæmigerð fyrir sel á norðanverðum Reykjanesskaga, þ.e. í skjóli fyrir austanáttinni.
Þegar komið var upp í Vatnsleysuheiðina var selstígnum fylgt upp í Flekkuvíkursel. Tvær áberandi vörður, Bræður, hlið við hlið, eru í heiðinni. „Þær nefnast Bróðir nyrðri og Bróðir syðri“, segir í örnefnaskrá.
Selstaðan er í grónum hvammi. Í honum eru tvö sel, annað yngra. Skammt norðar, einnig í skjóli undir klapparhæð, er þriðja selið. Sjá má þrjá stekki ef vel er að gáð, en það bendir til þess að selstöðurnar í Flekkuvíkurseli hafi verið a.m.k. þrjár, ekki allar endilega frá sama tíma.
Vatnsstæðið í FlekkuvíkurseliÞannig er miðselið greinilega yngst og sennilega það sel er lagðist síðast af rétt fyrir 1880.
Í Jarðabókinni 1703 segir m.a. um Flekkuvík: „Jarðadýrleiki óviss, Kálfatjarnarkirkjueign. Þetta ár eru hjáleigurnar Sigurðarhjáleiga, Blíðheimur, Péturskot, Refshali og Úlfshjáleiga. Þessar [hjáleigur] eru með vissu taldar. Vatnagarður syðst … og Tröð.“
Tvíbýli var á jörðinni og var Vesturbær í eyði frá 1935, austurbær frá 1959. Einnig eru óljósar sagnir um tvö býli,  sem hétu Holt og Járnshaus, skv. örnefnalýsingu.

Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín frá 1703 segir: “Selstöðu á jörðin og brúkar þar sem heitir Flekkuvíkursel, eru þar hagar viðsæmandi, en stórt mein að vatnsleysi, og báglegt eldiviðartak.” “Vestan eða suðvestan undir honum er Flekkuvíkursel og er það í landi Kálftjarnar,” segir í örnefnaskrá GE. “Þar rétt hjá er Selstígurinn beint suður í Flekkuvíkursel.
Norðurstekkurinn í FlekkuvíkurseliÞað stendur í Seltúninu og eru þar allmiklar rústir greinilegar. Þar var haft í seli fram til 1845. .. Þegar haft var í seli var búsmalinn rekinn til vatns í Kúagerði, 40 mínútna leið fram og til baka.” segir í örnefnaskrá Flekkuvíkur. “Enn ofar, vestan undir klapparási, er Flekkuvíkursel. Þar er allstór mói í kringum selið, er nefnist Seltún. Amma Ólafs [Erlendssonar], Herdís Jónsdóttir frá Flekkuvík, kom í selið sem barn og voru þá bæði smali og selráðskona þar. Það hefur verið á milli 1860-70, en Herdís var fædd 1858. Þarna sjást rústir allmargra kofa.” segir í örnefnaskrá Kálfatjarnar. Síðasta selið sem fór í eyði í sveitinni, um 1879.
“Drjúgan spöl suðaustan Kolgrafarholt og Kirkholts en norðaustan Sýrholts er Flekkuvíkursel. Selið stendur nokkuð fyrir neðan Grindavíkurgjá og er háa, nafnlausa, varðan ofan og austan Auðnasels, í suðurstefnu frá Flekkuvíkurseli. Um hálftíma gangur er milli Auðnasels og Flekkuvíkursels. Í selinu sjást sex kofatóftir og kví. Vatnsstæðið er í klapparholu uppi á ásnum norðan tóftanna og fáeinir steinar við það.”
Kolagröf? í FlekkuvíkurseliFERLIR hefur nokkrum sinnum komið í Flekkuvíkursel. Í einni af fyrri lýsingunum segir: “Á leiðinni til baka niður heiðina var komið við í Kolhól og Kolgrafarhólum í leiðinni niður að Flekkuvíkurseli. Það er suðaustan Kolgrafarholts og Kirkholts en norðaustan Sýrholts. Selið stendur nokkuð fyrir neðan Grindavíkurgjá og er háa, nafnlausa, varðan ofan og austan Auðnasels í suðurstefnu frá Flekkuvíkurseli. Um hálftíma gangur er milli Auðnasels og Flekkuvíkursels. Í selinu sjást sex kofatóftir og kví. Vatnsstæði er í klapparholu uppi á ásunum norðan kofatóftanna og fáeinir steinar við það. Ásarnir, sem selið stendur við, heita Vestri-Flekkuvíkurselás og Nyrðri-Flekkuvíkurselás. Á vesturásnum er Selásvarða, önnur varða er á miðhluta hans og sú þriðja á nyrðri endanum. Norðan ássins, rétt neðan við vatnsbólið, eru þrjár gamlar tóftir og há grasivaxin grjóthrúga, líklega mjög gömul húsatóft. Norðan Flekkuvíkursels, mitt á milli selsins og Reykjanesbrautar, eru tvær stórar vörður er standa mjög þétt saman. Þær heita Bræður.” Auk framangreinds má geta þess að í Seltúninu eru leifar eldri selja á tveimur stöðum, auk leifar af eldri stekk.
Yngsta tóftin í FlekkuvíkurseliAllnokkrar vörður eru ofan og umhverfis Flekkuvíkursel. Í örnefnalýsingu segir að: “Selás eða Flekkuvíkurselás heitir langt klapparholt við selið að ofanverðu og inn í holtið skerast grasbollar beggja vegna. Ásinn greinist samkvæmt gömlum landamerkjalýsingum í Vestur-Flekkuvíkurselás og Nyrðri-Flekkuvíkurselás. Á vesturásnum er Selásvarða, önnur varða er á miðhluta hans og sú þriðja á nyrðri endanum.”
Þegar selstöðurnar þrjár eru skoðaðar má sjá þrjú rými í sérhverri þeirra, dæmifert fyrir sel frá upphafi á Reykjanesskgagnum. Vestasta selið liggur svo til þvert á Vestari-Flekkuvíkurselás. Tóftirnar eru nokkuð reglulegar og ágætur vitnisburður um sel frá miðtímabili seljabúskaparins hér á landi. Þá var að komast skipulegri mynd á húsaskipanina. Rýmin eru í einfaldri röð og má vel greina hvar eldhús, baðstofa og búr hafa verið í húsaskipaninni. Tóftirnar eru grónar, en standa vel.
Selið skammt norðar eru miklu mun reglulegra og heillegra. Í því er miðhúsið heillegast; baðstofan. Í því sjást hleðslur í innanverðum veggjum. Dyr eru mót suðvestri. Veggirnir standa grónir.
Selvarða á Vestari-FlekkuvíkurselásnumStekkirnir gefa jafnan til kynna hversu margar selstöður hafa verið í hverju seli. Einungis einn stekkur virðist vera framan við framangreind tvö sel. Ef vel er að gáð má sjá að nýrri stekkur hefur verið hlaðinn upp úr eldri stekk. Fótstykki gamla stekksins sést norðan og austan við nýrri stekkinn, nú nær gróið yfir hann.
Vatnsstæðið sést enn á Nyrðri-Flekkuvíkurselásnum, norðavestan undir vörðubroti, sem þar er.
Nyrsta selið er líklega elst. Í því eru smæstu rýmin. Gengið hefur verið inn í baðstofuna og búrið frá sama stað; þ.e. búrið til suðurs og baðstofuna til austurs. Eldhúsið er rétt norðan við baðstofuna. Tóftirnar eru grónar. Stekkurinn frá þessu seli er í gróinni kvos skammt norðvestar.
Þegar selstöðurnar voru gistaðar í austanáttinni mátti vel finna hvers vegna þeim var valin þessi staðsetning.

Flekkuvíkursel

Flekkuvíkursel – tóft; sennilega kolagröf.

Ein tóft, stök, skammt norðan nyrstu selstöðunnar, hefur vakið vangaveltur. Nú var hún gaumgæfð bæði vel og vandlega. Niðurstaðan er að þarna hafi verið kolagröf. Í tóftinni má sjá ferkantaðar hleðslur og virðist hafa verið hróflað að hleðlsunni. Það verður að þykja eðlilegt þarna því undir er slétt hraunhella í allar áttir. Sennilega má finna undir gröfinni gat á hraunhellunni. Hlaðið hefur verið upp með gatinu og þá myndast þetta mannvirki, sem virðast þá vera leifar fyrrum kolagerðar í heiðinni, sem áður var skógi vaxin. Kolagröfin er við hliðina á elsta selinu í Flekkuvíkurselstöðunni og verður því að teljast til eldri minja – og þar með sérstaklega áhugaverð fornleif.
Sjá MYNDIR frá Flekkuvíkurseli.
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 2 mín.

Flekkuvíkursel

Flekkuvíkursel – uppdráttur ÓSÁ.

 

Bieringstangi

Gengið var niður að Halakoti. Þar voru bræðurnir Magnús og Ragnar Ágústssynir úti við. Þeir sýndu þátttakendum gamla bátinn frá Halakoti sem er geymdur þar í skemmu, hann var smíðaður árið 1908 og er vel sjófær. Þaðan var haldið út á Bieringstanga og gengið fram hjá bænum Töðugerði í leiðinni. Þar var tvíbýli fyrir 1900; Suður og Norðurbær. Hann lagðist í eyði rétt eftir aldamótin.

Bieringstangi

Grund – brunnur.

Við Grund á Bieringstanga tók Magnús aftur á móti þátttakendum og sýndi þeim bæinn Grund og fleiri minjar þar á staðnum. Á Bieringstanga var mikil útgerð áður fyrr. Þar var t.d. mikil sjóbúð og salthús. Magnús bendi einnig á letursteinn í fjörunni þar fyrir neðan. Þar virtist vera eitthvert fangamark hoggið þar í klöpp, ómögulegt reyndist að lesa í það að þessu sinni.
Þaðan var haldið að Vorhúsum. Þar var tvíbýlt; Austur og Vesturbær. Við Vorhús er fallegur brunnur. Á Klapparholti þar skammt fyrir ofan var sjóbúð.

Bieringstangi

Bieringstangi – tóftir.

Gengið var að Hausthúsum og rústirnar þar barðar augum og svo haldið áfram að Hvammi. Þar hafa verið tveir brunnar. Í Djúpavogi eru hverfamörk Brunnastaðahverfis og Voga.

Grænaborg

Grænaborg.

Komið var við að Grænuborg. Grænaborg var byggð árið 1881. Húsið byggði Ari Egilsson frá Austurkoti. Þarna hafði áður verið bær er Hólakot hét, en hann brann, og eru litlar sagnir til um hann. Grænaborg hefur varla verið byggð á sama stað og Hólakot, því sagnir voru til um að á þessum stað ætti hús að brenna þrisvar. Líklega hefur Ari þekkt þessa sögu og flutt til hússtæðið og nefnd húsið Grænuborg en ekki Hólakot. Tveim árum síðar eða 1883 brann svo Grænaborg.

Arahólavarða

Arahólsvarða.

Allir komust af nema ein vinnukona er brann inni. Grænaborg var ekki byggð upp aftur fyrr en 1916 og endurbætt 1932. Þar brann svo aftur í árslok 2002.

Gengið á Arahól að Arahólsvörðu. Arahólsvörðuna lét Hallgrímur Scheving reisa árið 1890. Hallgrímur fékk vinnumann í Minni-Vogum til að byggja vörðuna. Sá hét Sveinbjörn Stefánsson. Tilgangurinn er ekki ljós nema þá sem prýði fyrir plássið.
Frá Arahól héldu þátttakendur í kaffi að Sólbergi. Þar var borið á borð dýrindis kaffi og nýbakað rúgbrauð.
Veður var einstaklega gott, sól og blíða – gerist varla betra.
Gangan tók 1 klst og 1 mín.

Bieringstangi

Bieringstangi – uppdráttur ÓSÁ.

Borgarkot

Borgarkot er á Vatnsleysuströnd, austan Litlabæjar og Bakka, milli Réttartanga og Keilisness. Tóftir kotsins eru á sjávarbakkanum, en sjórinn er smám saman að draga þær til sín. Hlaðinn vörslugarður, jarðlægur, er landmegin við tóftirnar. Gerði er við hann austanverðan. Austan við tóftirnar er stór hlaðinn krossgarður, sem minkaveiðimenn hafa rutt um koll, en þarna með ströndinni má víða sjá götur eftir minkinn. Hlaðið gerði (rétt eða nátthagi) er suðvestan við tóftirnar. Vestan við það er vatnsstæði. Í örnefnalýsingu er það nefnt Vatnssteinar, en kunnugir nefna það Vaðsteina. Í því þrýtur sjaldan vatn.

Borgarkot

Borgarkot – uppdráttur ÓSÁ.

Eftir Breiðufit er röð stöpla (steina) stórgripagirðingar er liggja frá Litlabæ að landamörkum Flekkuvíkur, beygir til norðurs skammt vestan Hermannavörðu og endar niður við sjávarbakkann. Í hverjum steini eru tveir trétappar. Ofan við girðinguna er hlaðin refagildra. Önnur slík er innan girðingarinnar nokkru vestar. Hlaðin rétt er milli Bakka og Borgarkots, önnur ofar og austar og enn ein, minni, skammt frá (líklega þó gerði undir hraunhól).
Borgarkot var, líkt og svo margar jarðir á norðanverðu Reykjanesinu, eign Viðeyjarklausturs og gerð út þaðan. Á tímabilinu 1200-1750 voru misjafnlega stöndug býli dreifð um landsvæðið þar sem nú er Reykjavíkurborg. Bændur á höfuðbólinu Vík (Reykjavík) stunduðu hefðbundinn búskap og reru til fiskjar. Framan af tímabilinu er fátt skrifað um Víkurbændur en í heimildum frá síðmiðöldum kemur fram að þar hafi jafnan búið heldri bændur, hreppstjórar og lögréttumenn, þó að ekki teldist býlið til helstu höfðingjasetra. Víkurkirkja stóð, gegnt bæjarhúsum, þar sem nú er Bæjarfógetagarður við Aðalstræti. Kirkja mun hafa staðið í Vík a.m.k. frá því um 1200, sennilega miklu fyrr.
Að síðasta sjálfseignarbóndanum í Vík látnum, snemma á 17. öld, var jörðin keypt undir konung en þungamiðja valds og verslunar hafði þá smám saman færst að sunnanverðum Faxaflóa. Kirkja og konungsvald höfðu eignast þar margar jarðir en Bessastaðir urðu aðsetur hirðstjóra konungs árið 1346.
Rétt eða gerði suðaustan við BorgarkotKlaustur af Ágústínusarreglu var stofnað í Viðey árið 1226 og átti það eftir að vaxa og dafna að veraldlegum auði næstu aldir og verða eitt ríkasta klaustur landsins. Klausturkirkjan var helguð Maríu mey og sungu Viðeyjarmunkar þar tíðir sínar dag hvern. Í klaustrinu var ágætur bókakostur og voru þar iðkuð klausturleg fræði og skrifaðar bækur. Á síðmiðöldum, a.m.k., er líklegt að straumur pílagríma hafi legið til Viðeyjarklausturs á helstu hátíðisdögum kirkjuársins.
Eftir að siðbreyting gekk í garð í Danmörku tók Diðrik af Minden, umboðsmaður hirðstjóra konungs á Íslandi, Viðeyjarklaustur á hvítasunnudag 1539. Menn hans létu greipar sópa og misþyrmdu munkunum. Eftir að siðbreytingin gekk endanlega í garð á Íslandi 1550 var klausturlíf í Viðey lagt af og jarðeignir klaustursins komust í eigu konungs. Eftir það var rekið bú frá Bessastöðum og síðar holdsveikrahæli í Viðey.
kot.

Borgarkot

Borgarkot – réttin ofan Réttartanga, austan Borgarkot.

Gengið var til austurs frá Bakka, áleiðis yfir að Borgarkoti. Við fyrsta fet stóð jakobsfífill upp úr lyngi umvafinn smjörvíði. Þetta lofaði góðu. Þarna var og blóðberg, lyng og tröllasúra innan um gras og lágvaxinn grávíði. Friggjargras, hvítmura, kornsúra, gulmara og lyfjagras, tágamura, geldingahnappur og týsfjóla. Í rauninni var alltaf eitthvað að sjá, hvert sem litið var. Svæðið var greinilega miklu mun fjölbreyttara en reiknað hafði verið með. Þar fyrir utan hýsti það allar hinar algengu blómategundir, s.s. sóleyjar, fífla, fífu, brönugras, gullkoll, umfeðmingsgras og annað það er sést svo til alls staðar á Reykjanesskaganum. Stelkur lét ófriðlega, enda varptíminn í hámarki.
Tóftir í BorgarkotiÞegar komið var niður í fjöru greip minkur, högni eða læða, alla athyglina. Þetta var brúnt, þvengmjótt, kvikyndi. Hann kom í humáttina ekki langt frá, staðnæmdist af og til og leit í kringum sig. Þá snéri hann allt í einu við og skellti sér út í þangsjóinn. Þar fyrir utan voru nokkrar kollur með unga. Honum skaut upp af og til, en loks hvarf hann alveg sjónum viðstaddra. Fuglarnir höfðu greinilega orðið hans varir því þeir syntu með unga sína lengra frá landi. Á landklöppunum speglaðist fagurgrænn mosaþarinn í pollunum með bleikmynstraða polla innan um. Meistaraleg litasamsetning hjá meistaranum.
Þang og þari, skeljar, kuðungar, krabbar og annað, sem fjaran geymir var svo til við hvert fótmál. Handgert flotholt úr stórum vikursteini, koddi, fótbolti og hvalbein – höfuðkúpa af háhyrningi. Af nógu var að taka. Í fjörunni þarf greinilega engum að láta sér leiðast – alltaf ber eitthvað nýtt fyrir augu, sama hvert litið er. Sjórinn var ládauður, en sjávarloftið er alltaf jafn svalandi.

Borgarkot

Helgahús – fjárhús vestan Borgarkots.

Gengið var yfir að tóftum Borgarkots, skoðaður stóri krossgarðurinn, sem minkaveiðimenn hafa nær lagt við jörðu, jarðlægir garðar, hlaðin refagildra og vatnsstæði. Lóan lét vel í sér heyra sem og þrællinn hennar. Tjaldur tipplaði á nálægum hólum og mikið var af sólskríkju á svæðinu. Gengið var vestur með stórgripagirðingunni og einn steinninn í henni skoðaður. Göt höfðu verið höggvin eða boruð í hvern stein og trétappar reknir í þau. Tapparnir stóðu síðan út úr steinunum og á þá var hengdur þráður til að varna því að stórgripir færu út fyrir það svæði, sem þeim var ætlað.
Steinar í nautgripagirðingunni ofan BorgarkotsGirðing þessi eru stórir uppstandandi steinar með reglulegu millibili alveg að landamerkum Flekkuvíkur í austri. Margir þeirra eru nú fallnir á hliðina. Girðingin beygir að vísu í tvígang á leiðinni lítilsháttar til norðurs, en neðan við Hermannavörðuna á landmerkjunum liggur hún í beina stefnu niður að sjávarmáli. Á einum stað, skammt vestan Vatnssteina (Vaðssteina), liggur þvergirðing milli hennar og sjávar. Í sérhvern stein hafa verið höggvin eða boruð tvö göt, annað efst og hitt skammt neðar. Í þessi göt hafa verið reknir trétappar. Á trétappana hafa verið hengdir strengir, girðing, sem hefur átt að halda gripunum innan hennar. Víða eru steinarnir fallnir niður, en sumir hafa verið reistir við á ný, svona til að hægt væri að gera grein fyrir stefnunni. Annars er merkilegt að sjá hvernig stóreflis steinum hefur verið velt úr sessi sínum.
Gerð þessarar steinagirðingar hefur kostað mikla vinnu á sínum tíma. Færa og flytja hefur þurft þessa stóru steina um set og reisa þá upp á endann, gera í þá götin og negla í þá teglurnar.

Borgarkot

Borgarkot – trétappi í steini í girðingunni.

Hvorki er vitað með vissu um aldur girðingarnar né í hvaða tilgangi hún var reist. Þó má álykta að girðingin hafi verið gerð til að halda fyrrgreindum stórgripum, annað hvort frá Viðey eða Krýsuvík. Þá er ekki með öllu útilokað að girðingin geti verið eitthvað yngri. HÉR má sjá nánari umfjöllun um nefnda girðingu.
Ólafur Erlendsson frá Kálfatjörn minnist ekki þessar girðingar og hennar er ekki getið í örnefnalýsingum af svæðinu. Fróðlegt væri að heyra frá öðrum, sem kunna skil á tilvist þessarar girðingar. Hliðstæð girðing er norðan og vestan við Minni-Vatnsleysu – og jafnvel víðar.

Tóftir Borgarkots eru nú að mestu að hverfa í sjóinn. Sjá má mun á þeim frá ári til árs. Tóftir eru þó svolítið ofan bakkans.

Borgarkot

Borgarkot – krossgarður.

Þá er hlaðinn krosskjólgarður skammt austan þeirra, en tóftirnar eru umlyktar af hlöðnum görðum, nú að mestu jarðlægum.
Móarnir ofan Borgarkots geyma fjölmargar jurtir. Á einum stað mátti t.d. sjá þyrpingu af skarlatbikurum, sumir með gró. Neðan girðingar er Kálfatjarnarvatnsstæðið, en það var nú þurrt. Ofan við vatnsstæðið er gamalt hlaðið gerði eða rétt utan í hól.

Borgarkot

Réttartangi – skotbyrgi er á tanganum (t.v.) og réttin er h.m. við hann.

Í gömlum heimildum er getið um rétt á Réttartanga, sem nú á að vera alveg horfin. Þessi rétt er beint ofan við Réttartanga og nokkuð heilleg. Austan við það er hlaðinn garður í hálfbeygju til norðurs.

Borgarkot

Borgarkot.

Borgarkot mun hafa farið í eyði á 18. öld. Tildrög þess munu hafa verið þau,að eitt sinn þegar Flekkuvíkurbóndi fór til kirkju á aðfangadagskvöld kom hann að bóndanum í Borgarkoti þar sem hann var að skera sauð frá honum. Varð það til þess að honum var komið undir mannahendur og lagðist býlið í eyði eftir það. Reyndar er talið að sauðurinn sem bóndinn í Borgarkoti skar, hafi verið sauður prestsins á Kálfatjörn, en ekki bóndans í Flekkuvík. Viðeyjaklaustur mun hafa haft þarna sauði forðum. Síðan mun Kálfatjörn hafa haft skipti á selsstöðu í Sogagíg við Krýsuvík, sem fékk í staðinn að halda sauði við Borgarkot.
Kirkjugatan frá Kálfatjörn um Borgarkot og FlekkuvíkÞarna eru merkilegar og allmiklar minjar, greinilega mjög gamlar. Bogadregnir garðar eru mikið til sokknir í jarðveginn, en þó má víða sjá móta fyrir þeim. Innan garðs eru tóttir á a.m.k. þremur stöðu, Tvær samliggjandi tóttir eru alveg í fjörukambinum og er sjórinn þegar búinn að brjóta niður hluta af þeim. Önnur tótt er ofan þeirra og enn önnur á fjörukambinum skammt austar. Austan hennar er stór krossgarður, Skjólgarður. Umhverfis hann landmeginn er gerði eða gamlar réttir.

Borgarkot

Borgarkot – refagildra.

Austar er hár hóll, Á honum má sjá leifarnar af Hermannavörðunni, sem danskir hermenn er unnu við landmælingar, hlóðu, en minnkaveiðimenn hafa einnig rutt um koll. Fornleifavernd ríkisins virðist ekki standa sína plikt á þessu landssvæði.
Vestast sést kirkjugatan vel í móanum – skammt ofan grjótgarðs Bakka. Þar lét stelkurinn öllum illum látum í sólblikinu.
Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 1 mín.

Borgarkot

Nautgripagirðingin ofan við Borgarkot.

 

Gvendarborg

Gengið var um Hvassahraunsland, að Hjallhólum, Hjallahólsskúti var skoðaður, og síðan haldið suður yfir Reykjanesbrautina, yfir á Strokkamela, skoðuð hraundrýli, sem þar eru, og litið niður í brugghelli.

Hvassahraun

Hvassahraun – brugghellir.

Þaðan var haldið yfir Gráhelluhraunið, gengið vestur um það að Gráhelluhelli og síðan upp Þráinsskjaldarhraun að Gvendarborg. Síðan var gengið spölkorn til baka yfir á Rauðhólsstíg og síðan norður hann áleiðis að Reykjanesbraut. Skömmu áður en komið var að brautinni við Kúagerði var beygt til vesturs og haldið að Vatnsstæðinu og staðnæmst við Vatnaborg.
Hjallhólar heita hólar innan við Vatnsgjárnar og liggur Reykjanesbrautin um þá. Í Hjallhólum er Hjallhólaskúti og var hann notaður sem fjárskjól, en skútinn er milli veganna og sést op hans frá Reykjanesbrautinni. Ekki er vitað með vissu af hverju Hjallhólanafnið er tilkomið, en ein heimild telur líklegt að í skútanum hafi verið geymdur fiskur eða annað matarkyns því þar sáust til skamms tíma naglar eða krókar upp undir hellisopinu.

Hjallhólaskúti

Hjallhólaskúti.

Sunnan við Reykjanesbrautina heitir hraunsléttan Strokkamelur eða Strokksmelur. Hraundrýli, sem á honum er, draga líklega nafn sitt af lögun gíganna, sem líta út eins og smjörstrokkar. Nýrri heimildir kalla gígana Hvassahraunsgíga eða Hvassahraunskatla og er katlanafnið notað í Náttúruminjaskrá. Þeir eru ekki ólíkir gervigígunum (Tröllabörnum) undir Lögbrergsbrekku eða í Hnúkum, nema hvað þeir eru minni í sniðum.

Fast við Strokkamelin að suðvestan er djúpur hellir eða jarðfall og var til skamms tíma girðing umhverfis opið svo kindur hröpuðu ekki það niður. Í hellinum eru grjóthleðslur, en niður í hann er aðeins hægt að komast með því að síga eða nota stiga. Sagt er að hellirinn hafi verið notaður til landasuðu á bannárunum. Frásagnir eru til um ákafa leit yfirvaldsins (Björns Blöndal) að hellinum, en hann reyndist torfundinn. Ofan og sunnan Strokkamels eru Rjúpnadalir. Flatahraun er á milli þess og Afstapahrauns.

Hvassahraun

Hraunketill á Strokkamelum.

Gengið var í gegnum Afstapahraun til vesturs. Var þá komið niður í svonefnda Tóu eitt. Gengið var upp úr henni um Tóustíg, yfir hlaðinn garð í vesturkanti tóunnar og yfir að tungu í vesturkanti hraunsins er nefnist Gráhella. Hún var notuð sem mið af sjó. Í Gráhellukantinum að neðanverðu er lítill skúti, sem heitir Gráhelluhellir.

Gvendarborg

Gvendarborg.

Á nokkuð háu klapparholti upp og suðaustur af Djúpadal, en suður af Hraunsnefi, er hálfhrunin fjárborg, Gvendarborg. Borgina hlóð Guðmundur Hannesson er seinast bjó á Ísólfsskála, en hann var fæddur árið 1830 og bjó m.a. í Breiðagerði á Ströndinni. Guðmundur er sagður hafa skotið síðasta hreindýrið á Reykjanesskaganum um aldamótin 1900.
Haldið var spölkorn til baka, sem fyrr sagði, og Rauðhólsstígnum fyglt áleiðis að Kúagerði. Skammt áður en komið var þangað niður eftir var beygt til vesturs, áleiðis að Vatnaborginni.

Vatnaborg

Vatnsbergsstekkur/Vatnaborg. Uppdráttur ÓSÁ.

Rétt suðvestur af Kúagerði, sunnan Reykjanesbrautar, er vatnsstæði í grasbala. Sunnan við vatnsstæðið er lágur hóll með miklu grjóti og veggjabrotum og þar hefur verið stór fjárborg fyrrum, Vatnaborg.

Vatnaborg

Vatnaborg.

Borgin er hringlaga, 10-12 m í þvermál, og innan í grjóthringnum eru hleðslur. Líklega hefur verið stekkur þarna eftir að borgin sjálf lagðist af, enda geta heimildir um Vatnsbergsrétt og Vatnsbergsstekk og einnig Vatnsberg og Vatnaberg. Líklega er örnefnið Vatnaborg það eina rétta yfir hólinn og nafnið jafnframt tengt vatnsstæðinu, sem þarna er.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 3 mín.

Heimild m.a.
-Örnefni og gönguleiðir á Vatnsleysuströnd – Sesselja G. Guðmundsdóttir.

Hvassahraun

Hvassahraun.