Þingvellir

Í Fréttablaðinu 24. maí 2007 voru eftirfarandi fróðleikur um Þingvallabæinn:

“Á nítjándu öld stóð gangabær þar sem Þingvallabær stendur núna. Burstir hússins og framhliðin sneru til suðurs að Þingvallavatni.

Þingvallabærinn 1894

Á nítjándu öld stóð gangabær þar sem Þingvallabær stendur núna. Burstir hússins og framhliðin sneru til suðurs að Þingvallavatni. Núverandi Þingvallabær var byggður árið 1930 en Guðjón Samúelsson teiknaði bæinn og sneri honum þannig að framhlið og megininngangur snúa á móti Almannagjá.
Í tengslum við Alþingishátíðina 1930 voru miklar framkvæmdir á Þingvöllum. Byggingar voru rifnar, endurbyggðar og færðar til. Hótel Valhöll var flutt frá Köstulum fyrir norðan Öxará suður yfir ána á núverandi stað, og síðar hefur hótelið verið stækkað og endurbyggt. Konungshúsið, sem var reist árið 1907 sem bústaður fyrir Friðrik VII á Efri Völlum fyrir neðan Öxarárfoss, var flutt yfir Öxará og sett niður skammt fyrir sunnan núverandi staðsetningu Hótels Valhallar [brann árið 2009]. Konungshúsið varð síðan sumardvalarstaður forsætisráðherra. Konungshúsið brann í eldsvoða aðfaranótt 10. júlí 1970 og fórust þar forsætisráðherra Íslands, Bjarni Benediktsson, Sigríður Björnsdóttir, kona hans, og dóttursonur þeirra.
Þingvallabærinn í dagEftir brunann var ákveðið að byggja tvær burstir við Þingvallabæinn en fyrir voru þrjár nyrstu bu
rstirnar. Síðan 1974 hefur forsætisráðherra haft opinberan sumardvalarstað í Þingvallabænum og getur hann nýtt hann við opinberar móttökur og einnig í einkaerindum. Breytingar urðu árið 2000 þegar föst búseta prests lagðist niður á Þingvallabænum. Forsætisráðherra tók þá yfir fjórar burstir en sú fimmta, sem er næst kirkjunni, er nýtt af þjóðgarðsverði en þar er einnig aðstaða fyrir prest og gesti kirkjunnar. Við þessa breytingu voru einnig gerðar breytingar á herbergjaskipan og nýtist húsið nú vel fyrir móttökur og fundi.”
Við þetta má bæta að á Þingvöllum við Öxará endurspeglast mikil saga. Er leið á landnámsöld um 870-930) fóru menn að huga að formlegri stjórnskipan. Alþingi kom fyrst saman á Þingvöllum 930. Á þjóðveldisöld (930-1262) fór Alþingi með löggjafarvald  og æðsta dómsvald á Íslandi. Lögberg var miðdepill Alþingis. Þar fór kristnitakan frá árið 1000. Með lögtöku lögbókarinnar Járnsíðu 1271-1273 hvarf Lögberg úr sögunni.
Eftir að Íslendingar sóru Danakonungi hollustueiða 1662 og samþykktu einveldi hans hurfu síðustu leifar af sjálfstjórn landsmanna. Dómstörf voru unnin áfram á Þingvöllum til 1798.
Stærsti viðburður íslenskrar sögu á síðari öldum varð svo á Lögbergi 17. júní 1944 er hið íslenska lýðveldi var stofnað.
Þjóðgarðurinn á Þingvöllum var stofnaður með lögum árið 1930.

Þingvellir

Þingvellir 1867.