Þingvellir

Gengið var um Langastíg niður í Stekkjargjá á Þingvöllum.
Ætlunin var að ganga um gjána milli Öxarárfoss að Leirum, þ.e. Stekkjargjá og Snókagjá. Þótt auðvelt sé að ganga syðri hlutann, þ.e. milli Langistígurfossins og Langastígs-
uppgöngunnar, er að sama skapi erfitt að ganga gjána þaðan að Leirum vegna hruns og stórra steina. Svæðið er þó kærkomið fyrir þá sem vilja upplifa landrekið í reynd því það er óvíða áþreifanlegra en einmitt þarna. Þá eru menningarminjarnar margar í Stekkjargjá – ef vel er að gáð; búðir, garðar, stígar og stekkir. Þá eru Gálgar, forn aftökustaður.
Árið 1912 setti þýski veðurfræðingurinn Alfred Wegener fram vísindalega kenningu til þess að útskýra landrekið. Hann hélt því fram að meginlöndin flytu á undirlagi sínu og gætu því flust úr stað. Hann taldi að meginlöndin hefðu verið ein heild, Pangea (al-álfa) fyrir um 200 milljónum ára. Þessi álfa hefði síðan brotnað upp, fyrst í tvennt, nyðri hluta (Laurasíu) og syðri hluta (Gondwanaland). Síðan klofnuðu þessi meginlönd enn frekar og bútana rak í sundur þangað til núverandi landskipan var náð.
Samkvæmt jarðfræðikenningum reka Norður-Ameríku og Evrasíuflekarnir hvor frá öðrum á Þingvöllum. Plötuskilin afmarkast af gjám sem liggja frá Reykjanesi og norðaustur um land. Segja má að Reykjaneshryggurinn (Mið-Atlantshafs-hryggurinn) „gangi” á land á Reykjanesi. Hann markar skil þessara tveggja fleka. Austurhluti landsins er á Evrasíuflekanum og vesturhlutinn á Norður-Ameríkuflekanum. Skilin milli þeirra birtast ýmist sem opnar sprungur og gjár eða sem sem gígaraðir. Þau eru einna greinilegust í gjánum á Þingvöllum.

Stekkur

Það er varla hægt að útskýra jarðfræðilega sögu staðarins í stuttu máli. Hér mætast Evrópu- og Ameríkuplatan, hægt er að segja að maður standi með annan fótinn í Ameríku og hinn í Evrópu (sem er auðvitað bara plat). Áhugavert er að vita til þess að hugsa til þess að í árhundruð þjónuðu Þingvellir hlutverki sínu sem Alþingi landsmanna. Þarna hittist alþýða landsins kvað upp dóma og festi lög. Hvort sem að maður hefur áhuga á sögu, jarðfræði eða hvorugu þá eru Þingvellir staður sem vert er að sækja heim.

Jarðsaga Þingvallasvæðisins
“Á seinasta jökulskeiði lá þykkur jökull yfir öllu landinu sem var meira en 1000 m. þykkur þegar kaldast var. Undir jökulskildinum voru eldsumbrot sem mynduðu móberg.
Sum þessara eldgosa náðu að bræða sig í gegnum jökulskjöldinn og enduðu í hraunrennsli. Önnur bræddu einungis hvelfingu undir ísnum og mynduðu móbergsfjöll eða langa móbergshryggi.
Fyrir um 18.000 árum hlýnaði, jökulinn tók að leysa og hann hopaði smám saman inn í landið. Fyrsti vísirinn að Þingvallavatni kom fram fyrir 12000 árum. Þá lá jökultunga í Þingvallalægðinni og jökullón myndaðist syðst í henni, upp við Grafningsfjöllin. Þingvallavatn varð síðan til þegar jökullinn hopaði enn lengra norður og vatn frá honum safnaðist í lægðina.
Undan jöklinum komu í ljós mismunandi gerðir móbergsfjalla sem myndast höfðu við eldsumbrot undir ísfarginu.
Fyrir um 10.000 árum er jökullinn hafði nálgast núverandi stöðu, hófust mikil dyngjugos. Þá myndaðist Skjaldbreiður ein fallegasta dyngja landsins og um svipað leyti dyngjan sunnan við Hrafnabjörg sem Þingvallahraunið rann frá.
BúðTalið er að gosin sem mynduðu dyngjurnar hafi staðið í áratugi. Hraunin tóku fyrir yfirborðsrennsli jökulvatns suður Þingvallalægðina. Allt vatn norðan frá hvarf í hraunið og kom undan því sem tært lindarvatn.
Hraun úr dyngjunni sunnan við Hrafnabjörg rann langt út í Þingvallavatn og lokaði fyrir afrennsli þess við Sogshorn svo vatnsborðið hækkaði en jafnframt minnkaði það mikið því hraunið fyllti það að stórum hluta. Hraunið sléttaði í svip yfir Þingvallalægðina en landsig og sprunguhreyfingar héldu áfram og gjárnar endurnýjuðust og má nú virða fyrir sér innri gerð hraunsins í gjáveggjunum.
Fyrir rúmum 3000 árum opnaðist 8 km löng gossprunga norðaustan við Hrafnabjörg og myndaði Þjófahraun. Hraunið breiddist út austan við Tindaskaga en álma úr því rann vestur af norðan við Hrafnabjörg.
Seinast gaus í Þingvallalægðinni fyrir 2000 árum. Gossprungan sem þá opnaðist er norðaustan við Hengil. Þá rann Nesjahraun í Grafningi og öskugígurinn Sandey reis upp af botni Þingvallavatns.
Eldvirkni hefur nú legið niðri á Þingvallasvæðinu í meir en 2000 ár, en ljóst er að einhverntímann í framtíðinni munu hraun aftur renna.”

Flekahreyfingar

Þingvellir

Þingvellir – Snókagjá.

“Þingvallasvæðið tengist eldgosa- og sprungubeltinu sem liggur þvert yfir Ísland. Það er hluti flekaskila Atlantshafshryggjarins sem liggja norðan úr Íshafi og suður eftir öllu Atlantshafi.
Sigdældin er hluti af virku eldgosa- og sprungusvæði sem nær utan frá Reykjanesi norður í Langjökul. Ytri mörk þess eru við Súlnaberg í Botnssúlum og austur á Lyngdalsheiði og Laugarvatnsfjalli. Á Suðurlandi jagast flekarnir hvor framhjá öðrum en á Þingvöllum færast þeir í sundur og spilda á milli sígur. Fjarri flekaskilunum er hreyfingin jöfn, 2 cm á ári en á þeim sjálfum safnar bergið spennu á löngum tíma sem síðan losnar í umbrotahrinum þegar brotamörkum er náð. Síðast gekk slík umbrotahrina yfir Þingvallasvæðið vorið 1789. Þá gekk 10 daga jarðskjálftahrina yfir Þingvelli. Við það seig landið milli Almannagjár og Hrafnagjár um tæpa 2 m, mest í sigdældinni miðri.
Á þeim tíma sem liðinn er síðan hraunið rann nemur landsig um gjárnar samanlagt um 40 metrum en gliðnum um 70 metrum. Telja má víst að landslag á þingstaðnum sé talsvert breytt nú frá Búðþví sem var þegar þinginu var valinn staður.
Hið stöðuga landsig hefur valdið ágangi vatns upp í þinghelgina. Frá því að Alþingi var stofnað árið 930 má gera ráð fyrir að sigið nemi upp undir 4 metrum.
Vatnságangur og landsig hafði áhrif á þingstörfin en talið er að Þingvallakirkja hafi verið flutt á 16. öld þangað sem hún er nú. Lögrétta var færð úr stað 1594 því þá hafði hún einangrast á hólma í Öxará.
Við landsigið 1789 fór nokkuð af túni á Þingvöllum undir vatn, gjár opnuðust í og kringum túnið svo ekki var óhult fyrir gripi, og almenningsvegurinn yfir Öxarárósinn og meðfram Hallinum fór á kaf.  Þinghald var í kjölfarið lagt niður á Þingvöllum og flutt til Reykjavíkur.
Í Vatnskoti nærri miðri sigdældinni hefur landsigið 1789 mælst um 2 og hálfur metri. Þar fór stór hluti af túninu undir vatn. Land mun halda áfram að síga á Þingvöllum með fyrirsjáanlegum ágangi vatnsins og árinnar á bakkana og þingstaðinn forna en enginn veit hversu langt er þar til næsta umbrotahrina skellur á með tilheyrandi landsigi.”
Sjá meira um Þingvelli HÉR, HÉR, HÉR, HÉR, HÉR, HÉR og HÉR.
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 2 mín.

Heimild:
-www.thingvellir.is/

Þingvellir

Stekkjagjá.