Þorbjarnastaðaborg – Fornasel – Gjásel
Gengið var til vesturs frá hliði við Krýsuvíkurveg að skógræktarsvæði SR skammt sunnan við rallykrossbrautina.
Eftir u.þ.b. 10 mín. göngu eftir ruddri braut var beygt til suðurs inn á rudda braut áleiðis að Brunntorfum. Hægra megin við enda hennar, á mosahraunkantinum, er Þorbjarnarstaðafjárborgin, hlaðin af börnum Þorbjarnarstaðahjóna um aldamótin 1900. Greinilegt er að borgin hefur átt að verða topphlaðinn líkt og Djúpudalaborgin ofan við Selvog. Hætt hefur verið við hleðsluna í miðja kafi því með henni að utanverðu liggja steinar sem og í hrúgum allt í kring.
Varða er á holtinu sunnan borgarinnar. Frá henni eru vörður í suðaustur og einnig til suðvesturs, að Fornaseli.
Þegar þeim er fylgt í u.þ.b. 15 mín. er komið að uppréttum steini í vörðu, sem stendur hátt á kletti. Norðvestan hans er Fornasel. Þarna eru nokkrar tóttir, sumar frá því um 1500.
Aðaltóttin er hæst á hæð og við það gott vatnsstæði. Þá eru tóttir bæði norðan og vestan við aðaltóttina. Stekkur er í lægð sunnan við hana. Einnig er að sjá að nálæg jarðföll hafi verið notuð í tenglsum við seljabúskapinn.
Í norðvestur frá Fornaseli, í ca. 15 mín., er Gjásel. Það er einnig á hól skammt utan við skógræktargirðinguna. Breið varða er á hól norðaustan selsins. Það er nokkuð stór tvískipt tótt og er vatnssvæðið þétt norðvestan við hana. Það þornar í þurrkum. Norðan selsins, undir hraunhól, er hlaðinn stekkur undan skúta. Ef gengið er frá vörðunni norðaustan selsins sjást vörður í norðaustri. Næsta er á sprungubarmi og önnur á hól. Frá henni sést vel yfir að veginum í gegnum skógræktarsvæðið og því auðvelt að fylgja honum til baka að upphafsreit. Hraunið þarna er mjög gróið og því mikilvægt að fylgja hæðum og gæta þess að fara ofan við skógræktina sjálfa þegar þegar gengið er á milli seljanna.
Frábært veður.